text
stringlengths
0
2.14k
Hrútur mælti: "Minni mun umbun verða bróðir en skyldi en fá vil eg þér mjöl svo sem þú þarft í bú þitt í vetur.
Síðan réðu þeir skipinu til hlunns og bjuggu um en færðu varning allan vestur í Dala.
Hrútur var heima á Hrútsstöðum til sex vikna.
Þá buggust þeir bræður og Össur með þeim að ríða austur til brúðlaups Hrúts og riðu við sex tigu manna. Þeir riðu þar til er þeir koma austur á Rangárvöllu. Þar var fjöldi fyrirboðsmanna. Skipuðust menn þar í sæti en konur skipuðu pall og var brúðurin heldur döpur. Drekka þeir veisluna og fer hún vel fram. Mörður greiddi út heimanfylgju dóttur sinnar og reið hún vestur með Hrúti. Þau riðu þar til er þau komu heim. Hrútur fékk henni öll ráð í hendur fyrir innan stokk og líkaði það öllum vel. En fátt var um með þeim Hrúti um samfarar og fer svo fram allt til vors.
Og þá er voraði átti Hrútur för í Vestfjörðu að heimta fyrir varning sinn. En áður hann færi heiman talaði Unnur við hann: "Hvort ætlar þú aftur að koma áður menn ríða til þings?"
"Hvað er að því?" segir Hrútur.
"Eg vil ríða til þings," segir hún, "og finna föður minn."
"Svo skal þá vera," sagði hann, "og mun eg ríða til þings með þér."
"Vel er það og," segir hún.
Síðan fór hann heiman og vestur í fjörðu og byggði allt féið og fór þegar vestan.
Og er hann kom heim bjó hann sig þegar til þings og lét ríða með sér alla nábúa sína. Höskuldur reið og, bróðir hans.
Hrútur mælti við konu sína: "Ef þér er jafnmikill hugur á að fara til þings sem þú lést þá bú þú þig og ríð til þings með mér."
Hún bjó sig skjótt og síðan ríða þau uns þau koma til þings.
Unnur gekk til búðar föður síns. Hann fagnaði henni vel en henni var skapþungt nokkuð.
Og er hann fann það mælti hann til hennar: "Séð hefi eg þig með betra bragði eða hvað býr þér í skapi?"
Hún tók að gráta og svaraði engu.
Þá mælti hann við hana: "Til hvers reiðst þú til alþingis ef þú vilt eigi svara mér eða segja mér trúnað þinn eða þykir þér eigi gott vestur þar?"
Hún svaraði: "Gefa mundi eg til alla eigu mína að eg hefði þar aldrei komið."
Mörður mælti: "Þessa má eg skjótt vís verða."
Þá sendi hann mann eftir þeim Hrúti og Höskuldi. Þeir fóru þegar. Og er þeir komu á fund Marðar stóð hann upp í mót þeim og fagnaði þeim vel og bað þá sitja. Töluðu þeir lengi og fór tal þeirra vel.
Þá mælti Mörður til Hrúts: "Hví þykir dóttur minni svo illt vestur þar?"
Hrútur mælti: "Segi hún til ef hún hefir sakagiftir nokkurar við mig."
En þær urðu engar upp bornar við Hrút. Þá lét Hrútur eftir spyrja nábúa sína og heimamenn hversu hann gerði til hennar. Þeir báru honum gott vitni og sögðu hana ráða öllu því er hún vildi.
Mörður mælti: "Heim skalt þú fara og una vel við ráð þitt því að honum ganga öll vitni betur en þér."
Síðan reið Hrútur heim af þingi og kona hans með honum og var nú vel með þeim um sumarið. En þá er vetraði þá dró til vanda um samfarar þeirra og var þess verr er meir leið á vorið.
Hrútur átti enn ferð vestur í fjörðu að fjárreiðum sínum og lýsti yfir því að hann mundi eigi til alþingis ríða. Unnur talaði fátt um. Hrútur fór þá er hann var til þess búinn.
**7. kafli**
Nú líður til þings framan. Unnur talaði við Sigmund Össurarson og spurði ef hann vildi ríða til þings með henni. Hann kveðst eigi ríða mundu ef Hrúti frænda hans þætti verr.
"Því kveð eg þig til," segir hún, "að eg á á þér helst vald allra manna."
Hann svaraði: "Gera mun eg þér kost á þessu. Þú skalt ríða vestur með mér aftur og hafa engi undirmál við Hrút eða mig."
Hún hét því. Síðan ríða þau til þings.
Mörður var á þingi, faðir hennar. Hann tók við henni allvel og bað hana vera í búð sinni meðan þingið væri. Hún gerði svo.
Mörður mælti: "Hvað segir þú mér frá Hrúti félaga þínum?"
Hún svarar: "Gott má eg frá honum segja það allt er honum er sjálfrátt."
Mörður varð hljóður við og mælti: "Það býr þér nú í skapi dóttir að þú vilt að engi viti nema eg og munt þú trúa mér best til úrráða um þitt mál."
Þá gengu þau á tal þar er engir menn heyrðu þeirra viðurmæli.
Þá mælti Mörður til dóttur sinnar: "Seg þú mér nú allt það er á meðal ykkar er og lát þér ekki í augu vaxa."
"Svo mun vera verða," segir hún. "Eg vildi segja skilið við Hrút og má eg segja þér hverja sök eg má helst gefa honum. Hann má ekki hjúskaparfar eiga við mig svo að eg megi njóta hans en hann er að allri náttúru sinn annarri sem hinir vöskustu menn."
"Hversu má svo vera?" segir Mörður, "og seg mér enn gerr."
Hún svarar: "Þegar hann kemur við mig þá er hörund hans svo mikið að hann má ekki eftirlæti hafa við mig en þó höfum við bæði breytni til þess á alla vega að við mættum njótast en það verður ekki. En þó áður við skiljum sýnir hann það af sér að hann er í æði sínu rétt sem aðrir menn."
Mörður mælti: "Vel hefir þú nú gert er þú sagðir mér. Mun eg leggja ráð á með þér það er þér mun duga ef þú kannt með að fara og bregðir þú hvergi af. Nú skalt þú heim ríða fyrst af þingi og mun bóndi þinn heim kominn og taka við þér vel. Þú skalt vera við hann blíð og eftirmál og mun honum þykja góð skipan á komin. Þú skalt enga fáleika á þér sýna. En þá er vorar skalt þú kasta á þig sótt og liggja í rekkju. Hrútur mun engum getum vilja um leiða um sóttarfar þitt og ámæla þér í engu, heldur mun hann biðja að allir geymi þín sem best. Síðan mun hann fara í fjörðu vestur og Sigmundur með honum og mun hann flytja allt fé sitt vestan úr fjörðum og vera í brautu lengi sumars. En þá er menn ríða til þings og allir menn eru riðnir úr Dölum, þeir er ríða ætla, þá skalt þú rísa úr rekkju og kveðja menn til ferðar með þér. En þá er þú ert albúin þá skalt þú ganga til hvílu þinnar og þeir menn með þér sem förunautar þínir eru. Þú skalt nefna votta hjá rekkjustokki bónda þíns og segja skilið við hann lagaskilnaði sem þú mátt framast að alþingismáli réttu og allsherjarlögum. Slíka vottnefnu skalt þú hafa fyrir karldyrum. Síðan ríð þú í braut og ríð Laxárdalsheiði og svo til Holtavörðuheiðar því að þín mun eigi leitað til Hrútafjarðar og ríð þar til er þú kemur til mín og mun eg þá sjá fyrir málinu og skalt þú aldrei síðan koma honum í hendur."
Nú ríður hún heim af þingi og var Hrútur heim kominn og fagnaði henni vel. Hún tók vel máli hans og var við hann blíð og eftirmál. Þeirra samfarar voru góðar þau misseri. En er voraði tók hún sótt og lagðist í rekkju. Hrútur fór í fjörðu vestur og bað henni virkta áður.
Nú er kemur að þingi bjó hún ferð sína í braut og fór með öllu svo sem fyrir var sagt og ríður á þing síðan. Héraðsmenn leituðu hennar og fundu hana eigi.
Mörður tók við dóttur sinni vel og spurði hana hversu hún hefði með farið ráðagerð hans.
"Hvergi hefi eg af brugðið," sagði hún.
Hann gekk til Lögbergs og sagði skilið lagaskilnaði með þeim að Lögbergi.
Þetta gerðu menn að nýjum tíðindum.
Unnur fór heim með föður sínum og kom aldrei vestur þar síðan.
**8. kafli**
Hrútur kom heim og brá mjög í brún er kona hans var í brautu og er þó vel stilltur og var heima öll þau misseri og réðst við engan mann um sitt mál.