text
stringlengths
0
993k
Fyrir um áratug setti Arna Valsdóttir , kennari og brautarstjóri listnámsbrautar VMA , fram hugtakið „ víðhygli “ sem hún taldi og telur enn að eigi mun betur við um fjölmarga þá einstaklinga sem hafi verið greindir með „ athyglisbrest “ . Arna hefur starfað við kennslu á þriðja áratug á öllum skólastigum og hefur því kynnst fjölbreyttu litrófi mannlífsins frá ýmsum hliðum . Meðal annars segist hún hafa margoft komist að raun um að nemendur sem hafi fengið þá greiningu að vera með athyglisbrest hafi reynst vera rólegir og yfirvegaðir í áföngum í listnámi þar sem fengist er við sköpun eða skapandi aðferðir af ýmsu tagi . Og margir af þessum einstaklingum segir Arna að hafi fundið sína fjöl í listnámi og búi yfir hæfileikum sem öðrum séu ekki gefnir . Arna segist þekkja fjölmörg dæmi um þetta og það hafi styrkt sig í því að hugtakið „ athyglisbrestur “ gefi alranga mynd af viðkomandi einstaklingum og sé um leið neikvætt . Út frá þessu varð nýyrðið „ víðhygli “ til , sem að mati Örnu segir til um hæfni þessara einstaklinga til þess að tengja saman ólíka hluti og um leið sé hugtakið jákvætt . „ Það er mín reynsla að þessir krakkar hafa ákveðna hæfileika til þess að hugsa abstrakt til þess að ná ákveðnu mynstri og þeir hafa oft mjög mikla athygli í sinni sköpun . Þeir vita nákvæmlega hvað þeim þykir athyglisvert og því er mörgum þeirra erfitt þegar einhverjir aðrir segja hvað þeim eigi að finnast athyglisvert . Það getur orðið til þess að loka á það sem þessir nemendur eru að hugsa um og þar með missa þeir þráðinn . Þessi ungmenni eru víðhugul en eru ekki með athyglisbrest . Þetta vil ég leyfa mér að segja vegna þess að ég hef í gegnum tíðina margoft orðið vitni að þessu í minni kennslu í listnámi og sköpun af ýmsum toga , “ segir Arna Valsdóttir .
Hús vikunnar : Sláturhús KEA á Oddeyrartanga Hús vikunnar : Sláturhús KEA á Oddeyrartanga Sláturhús KEA á Oddeyrartanga , nú Norðlenska Sjálfsagt eru fáir sem tengja iðnaðarhverfi við sögufrægar eða merkar og glæsilegar byggingar . En það vill nú svo til að í rótgrónum iðnaðarhverfunum leynast oftar en ekki miklar perlur byggingar - og iðnaðarsögunnar sem eiga fullt erindi til varðveislu og skoðunnar þó fegurðar - og skrautgildið sé e.t.v. ekki endilega í fyrirrúmi . Neðan Hjalteyrargötu , austast á Oddeyrinni er gamalgróið iðnaðarsvæði . Þar hafa síðustu áratugina verið athafnasvæði ÚA , Strýtu , fóðurvörudeildar KEA ( nú Bústólpa ) svo fáein stór nöfn iðnaðarsögu Akureyrar séu nefnd að ógleymdri Kjötiðnaðarstöð KEA sem síðar varð Norðlenska . En þar berum við niður í þessari færslu . En húsið á myndinni , Gamla Sláturhúsið , er ein elsta byggingin á svæði Norðlenska á Oddeyrartanga . Sláturhúsið var reist árið 1928 og er eitt af stórvirkjum byggingarmeistarans Sveinbjarnar Jónssonar , en hann teiknaði húsið og hafði umsjón með byggingu þess . Húsið er steinsteypt og fylgir sögunni að sandurinn í húsið var fenginn af hafsbotni . Var danskt dæluskip , Uffe , notað til verksins . Húsið er 25 metrar á breidd og hæð upp á gafl um 10 m skv. teikningum , en þær er að finna á bls. 87 í bókinni Byggingarmeistari í stein og stál . Eins og oft tíðkaðist á iðnaðarhúsum á fyrstu tugum 20. aldarinnar voru gluggar með margskiptum rúðum og bogadregnir og á teikningum er stór bogadregin skrautrúða fremst á húsinu fyrir miðju , og sjá má móta fyrir henni á myndinni . Húsið var eitt stærsta og fullkomnasta sláturhús landsins á þeim tíma , búið nýjustu og fullkomnustu tækni og var um áratugaskeið eitt það fullkomnasta . Enn er húsið í fullri notkun hjá Norðlenska þó ekki sé slátrað þar lengur . Líklega er þetta einhverskonar vinnslusalur í dag en húsið er ekki mikið breytt að utan frá fyrstu gerð , þó það sé nú orðið hluti af stærri húsasamstæðu . Húsið virðist í góðri hirðu . Ekki veit ég hvort húsið njóti friðunar en ég hefði sagt að auðvitað ætti svo að vera . Ég tók meðfylgjandi mynd á léttri sunnudagsgöngu um Eyrina þann 18.11. 2012 . Heimildir : Friðrik Olgeirsson , Halldór Reynisson , Magnús Guðmundsson . 1996 . Byggingameistari í stein og stál . Reykjavík : Fjölvi .
„ Afskaplega væri nú gott að geta hlegið að öllum mistökum lífsins . Sumum má strax hlæja að . Öðrum eftir á . Enn önnur verða bara ekki fyndin . Þau eru og verða neyðarleg . Þannig mistök gerðum við hjá Símanum þegar við ávörpuðum ykkur íbúa Sauðárkróks rangt í dreifibréfi sem barst inn á heimilin á dögunum . Það eina sem við getum gert er viðurkenna mistökin og að segja : Við biðjumst afsökunar . “ Svona hljómar póstur sem barst fréttavefnum feyki.is á Sauðárkróki í morgun . Sagt var frá því í gær að Sauðkrækingar hefðu verið mjög ósáttir við að vera ávarpaðir Sauðkræklingar í dreifibréfi sem Síminn sendi á heimili þar í bæ til að kynna ljósnetþjónustu sína . Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir , upplýsingafulltrúi Símans vildi auðmjúk biðja Króksara nær og fjær afsökunar á þessum leiðu mistökum og fékk hún hjálp sr. Hjálmars Jónssonar fyrrum prest á Króknum til að færa afsökunarorðin í bundið mál . Afturkalla ávarpið , af iðrun rétt að springa . Afsökunar ykkur bið alla Sauðkrækinga .
Jonna ( Jónborg Sigurðardóttir ) opnar sýninguna Lollipop í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri , laugardaginn 9. mars kl. 14 . Á sýningunni sýnir Jonna drauminn um Lollipop og örsögur Jonnu . Hún segir þetta um sýninguna : „ Einu sinni var stelpa með klamidíu í hjartanu . Hún leitað í óhefðbundnar lækningar og gat skrifað meinið út “ . Jonna er fædd árið 1966 og útskrifaðist úr málunardeild Myndlistarskólans á Akureyri vorið 1995 og lærði fatahönnun í Mode og Design skolen í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan um vetur 2011 . Jonna hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið nokkrar einkasýningar . Mjólkurbúðin er opin laugardaga og sunnudaga kl. 14 - 18 á meðan sýningin prýðir salinn .
„ Við ætlum að opna vinnustofur okkar fyrir gestum og gangandi fimmtudaginn 7. mars 2013 , kl. 16 - 20 . Fyrir einum mánuði vorum við með opnar vinnustofur og það tókst afar vel og mæltist svo vel fyrir að við stefnum á að gera þetta að mánaðarlegum viðburði . Nú þegar hafa nokkrar vinnustofur og einstaklingar bæst í hópinn , “ segir Hlynur Hallsson listamaður sem ásamt konu sinni , Kristínu Þóru , rekur verslunina Flóru í Hafnarstræti 90 þar sem áður var Frúin í Hamborg . Opnar vinnustofur verða hjá eftirtöldum listamönnum : Kaupvangsstræti 12 . Listasafnshúsið / gengið inn úr portinu fyrir ofan , baka til : Ólafur Sveinsson myndlistarmaður G. Rúnar Guðnason myndlistarmaður og Hallgrímur Ingólfsson myndlistarmaður Freyja Reynisdóttir myndlistarnemi , Gunnhildur Helgadóttir myndlistarnemi og Karólína Baldvinsdóttir myndlistarnemi
Bandaríski ferðamaðurinn Link Kokiri dvaldist í Grímsey á dögunum og kunni vel við sig . Svo vel reyndar að hann synti allsnakinn í sjónum við eyna : “ Ég gat ekki sleppt því tækifæri að synda í sjónum norður fyrir heimskautsbauginn , “ svarar Link þegar starfsmaður Akureyrarbæjar spurði hann um uppátækið . “ Ég og nokkrir vinir mínir gerðum með okkur samning um að synda allsnaktir utandyra a.m.k. einu sinni í mánuði allt árið um kring . Það var því upplagt að stinga sér til sunds við Grímsey og ég fann mér góðan stað norðan við eyna . Mér fannst sjórinn ekki það kaldur og naut mín vel þarna ofan í . Þetta var algjörlega hápunktur dvalar minnar á Íslandi ! “ Link Kokiri er tryggingastærðfræðingur sem er búsettur í borginni Ann Arbor í Michigan í Bandaríkjunum og er þetta í fyrsta sinn sem hann heimsækir Ísland . „ Mér fannst frábært í Grímsey en ég kom þangað ásamt tveimur vinum mínum sem ég kynntist á Íslandi . Þetta er mjög falleg eyja og við gengum hringinn í kringum hana á einum degi sem var ákaflega skemmtilegt . Það var reyndar ekki sársaukalaust fyrir mig að komast til Grímseyjar því ég varð mjög sjóveikur á leiðinni með Sæfara en það var algjörlega þess virði , ” segir ævintýramaðurinn Link Kokiri .
Langanesbyggð reynir nú í annað sinn að fá risahöfn og alþjóðaflugvöll inn á aðalskipulag en Skipulagsstofnun lagðist gegn því í fyrra og taldi áformin þá ekki raunhæf . Ráðamenn Langanesbyggðar ætla samfélaginu þar engin smáræðis umsvif í framtíðinni . Í Gunnólfsvík eru þeir búnir að láta teikna langstærstu höfn á Íslandi , með allt að tíu kílómetra viðleguköntum . Við Þórshöfn gera þeir ráð fyrir að flugvöllurinn verði stækkaður svo mikið að hann verði sá næststærsti á landinu , á eftir Keflavíkurflugvelli .
Sparisjóðir á Norð-Austurlandi íhuga sameiningu Sparisjóðir á Norð-Austurlandi íhuga sameiningu Stjórnendur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis íhuga sameiningu . Sameiningarviðræður eru nú í gangi en ef af verður munu sparisjóðirnir sameinast síðar á þessu ári . Frá þessu segir á Rúv.is Að sögn Ara Teitssonar , stjórnarformanns Sparisjóðs Suður-Þingeyinga , hefur sameining sparisjóðanna tveggja verið rædd af og til undanfarin ár en það er þó ekki fyrr en nýlega að formlegar samningaviðræður hófust . Að hans sögn er mikilvægt að öflug bankaþjónusta í höndum heimamanna sé í héraðinu enda mikil uppbygging fyrirhuguð á svæðinu . „ Það háir bæði okkur og Sparisjóði Þórshafnar að við erum það smá að við eigum erftitt með að þjóna ýmsum þeim fyrirtækjum sem starfa á svæðinu og við viljum gjarnan getað þjónað fleirum og verið traustari bakhjarl í héraði eins og sparisjóðir eiga að vera , “ segir Ari Teitsson .
Aðeins einn lögreglumaður á vakt á öllu Norð-austurlandi Aðeins einn lögreglumaður á vakt á öllu Norð-austurlandi Í kvöld er einn lögreglumaður á vakt á Norðaustur-landi á svæði sem spannar frá Víkurskarði og austur á Bakkafjörð . „ Ég er eini lögreglumaðurinn á vakt í Þingeyjarsýslu . Og það eru ekki til peningar til að leysa menn af . Ef að ég myndi veikjast þá yrði bara lokað . Þá yrðu menn bara ræstir út ef upp kæmu neyðartilvik , “ segir lögreglumaður á vakt á Húsavík í samtali við visir.is Vegna niðurskurðar vantar í tvær stöður hjá lögreglunni á norðausturlandi , annars vegar á Þórshöfn og hins vegar á Húsavík . Í ofanálag við það hefur einni lögreglustöð verið lokað á Raufarhöfn . Þar að auki hefur vantað mann í eina stöðu vegna veikinda síðastliðinn mánuð . Ekki er til fjármagn til að ráða afleysingamenn og því er einn maður á vakt á kvöldum sem venjulega hefðu verið þrír , einn á Þórshöfn og tveir í Húsavík . Um þessar mundir eru þúsundir ferðamanna á svæðinu , ef ekki tugþúsundir . „ Það eru 160 km austur á Bakkafjörð sem þýðir að við værum komnir þangað í neyðarakstri eftir klukkutíma og tuttugu mínútur , “ segir hann og bætir við að mögulega yrði þá maður kallaður út frá Vopnafirði , en hann yrði engu að síður 40 mínútur á leiðinni .
Frá árinu 1994 hefur íbúum á Raufarhöfn fækkað um rúman helming og er það ein mesta hlutfallslega íbúafækkun sem orðið hefur á landinu á þessu tímabili . Mest hefur fækkað í yngri aldurshópunum . Frá þessu var sagt á vef Rúv í dag . Á tímabilinu hefur Raufarhafnarbúum fækkað úr á fjórða hundrað íbúa í 185 . Fækkunin skýrist að miklu leyti af fækkun starfa í sjávarútvegi ásamt lélegum vegsamgöngum , sem hafa þó batnað mikið með lagningu vegar um Hófaskarð . Í samtali við Rúv segir Bergur Elías Ágústsson , sveitarstjóri í Norðurþingi enga einfalda lausn við fækkuninnien sóknarfæri séu í ferðamennsku því Melrakkasléttan og svæðið í kringum Raufarhöfn sé einstakt og þar er til að mynda fjölskrúðugt fuglalíf .
Höskuldur Þór Þórhallsson , þingmaður Norðausturkjördæmis , missti bílprófið í átta mánuði fyrir skemmstu eftir að hann var tekinn ölvaður á bíl sínum . Hann virtist koma hreint fram . Baðst afsökunar og sagði að sér þætti leitt að hafa orðið uppvís að dómgreindarskorti . Ekki varð annað séð en að þingmaðurinn væri heill og sannur í ósigri sínum . Var bent á að í svona tilvikum skiptu atvikin sjálf jafnvel minna máli en viðbrögðin . Hefur Höskuldur Þór verið kallaður hetja að stíga fram og segja frá brotinu . Eflaust á þingmaðurinn allt gott skilið en aðrir kostir , s.s. þöggun og leynd hefðu þó líklega verið ófærir . Það er erfitt að starfa fyrir hið víðfeðma kjördæmi Norðausturkjördæmi nema fara akandi milli svæða . En nú þegar málið er opinbert geta vinir og ættingjar Höskuldar hjálpað honum við skutl hingað og þangað án þess að nokkur spyrji spurninga . Í Reykjavík hefur hann dregið fram reiðhjólið sitt , það er gott og blessað . Tilefni þessarar vangaveltu er þó ekki brot Höskuldar sem slíkt heldur viðbrögðin í samfélaginu eftir að málið varð opinbert . Mátti víða heyra og sjá að með því að segja fréttir um ölvunarmálið og spyrja þingmanninn spurninga væru blaðamenn að róta í einkamáli . Öllum gat orðið á . Punktur og basta . Þannig var umræðan að þróast á samskiptasíðu á Facebook en bar þá að í umræðunni lögreglumann nokkurn úr Þingeyjarsýslu . Hann benti á að ef hann hefði sjálfur orðið uppvís að ölvunarakstri og ökuleyfissviptingu hefði hann misst starf sitt samstundis . Og þar er kominn kjarni að leiðaraskrifum dagsins . Það að stórum hluta þjóðarinnar þyki það svívirðilegt fréttaefni að þingmaður árið 2012 missi bílpróf vegna ölvunar ( um 1 prómill í blóði þarf til að fá 8 mánaða sviptingu ) segir ákveðna sögu . Starfsmaðurinn á planinu , löggan sem framkvæmir vilja þingmannsins , skal rekinn umsvifalaust ef hann ekur ölvaður bíl og ógnar þar með sínu umhverfi , en lögfræðingurinn og löggjafinn , þingmaðurinn geðþekki og drengurinn góði Höskuldur Þór , skal fremur njóta friðhelgi . Hvers vegna þykir sjálfsagt að lögga skuli rekin fyrir ölvunarbrot sitt en þingmaður sem jafnframt er löggjafi skuli njóta friðhelgi ? Hér er ekki lagt mat á hvort krafa um afsögn Höskuldar er réttmæt . En það þarf að spyrja þeirrar spurningar og hefur hún ekkert að gera með góða drengi eða ekki . Í löndunum í kring eru víða gerðar meiri kröfur til siðferðis og löghlýðni þingmanna en annarra . En sumir Íslendingar vilja endalaust kyssa vöndinn .
Á þjóðhátíðardaginn gengu ótal ungmenni , glöð og frjáls , inn í Íþróttahöllina þar sem að þau settu upp hvíta kolla . Full eftirvæntingar . Full af knýjandi þrá til að hlaupa út í lífið . Foreldrar og aðstandendur sátu úti í sal . Stolt af sínu fólki . Klöppuðu sér á bakið fyrir vel unnin störf sem uppalendur og leiðsögufólk . En voru líka hugsi yfir því hvort sú veröld sem þau hefðu skapað þessu unga þróttmikla fólki væri heimur mennsku . Heimur sem stýrist ekki af valdatafli og spuna . Heimur þar sem að þekking er notuð til framþróunar og mannúðar en ekki sem valdatæki . Því þekking er vald og þeim sem yfir henni búa er í lófa lagið að nýta hana til góðra verka eða til þess að ná fram sínum eigin hagsmunum . Jafnvel til þess að ná fram hinu síðarnefnda undir yfirskini mannúðar og almannahagsmuna . Það að hafa áhrif á það sem að aðrir gera virðist flókið að útskýra en er í raun sáraeinfalt ; segjum að ég ætli að fara í fjallgöngu með fjölskylduna , en þau vilja frekar fara í sund . Þetta var ekki alveg það sem ég hafði hugsað mér . Að ná toppi fjallsins hefur verið markmið mitt lengi og þetta er einmitt rétti dagurinn . Aðrir í fjölskyldunni eru mér ekki sammála og segja að sundferðir séu miklu betri heilsubót og mun skemmtilegri en fjallganga . Ég læt hinsvegar ekki segjast og vitna í allskyns upplýsingar sem mér hafa áskotnast um drukknanir í sundlaugum og skaðsemi klór . Segist jafnvel hafa lesið það í Lifandi Vísindum eða á Wikipedia . Þessar upplýsingar hafa aðrir í fjölskyldunni ekki rekist á – og því virðist ég hafa meiri þekkingu á málinu en þau . Þess vegna ákveða þau að láta af hugmyndum um stórhættulega og heilsuspillandi sundferð og koma með mér í fjallgöngu . Mér hefur því tekist , í krafti þekkingar , að hafa áhrif á það sem að þau gera . Og skiptir þá engu hvort að þau langaði öll að standa á toppi fjallsins , eða bara mig ! Þeir sem búa yfir þekkingu hafa ákveðið vald . En það er ekki alltaf sem að valdinu er beitt á þann hátt sem að lýst er hér að ofan ; með beinum hætti . Með valdbeitingu má einnig fá fólk til að sannfæra sjálft sig og breyta í takt við þá sannfæringu . Upplýsingarnar sem búa að baki sannfæringunni eru „ þarna úti “ og virðast því allskostar órækar og ekki bundnar sérstökum hagsmunum . Ég man þegar að aðferðir sem þessar voru plat , en nú er það kallað spuni . Forsetakosningar eru á næsta leyti og það er spunnið sem aldrei fyrr . Á snældu skaltu stinga þig ! Sú tegund spuna sem mestum árangri hefur náð er fólgin í því að koma af stað sögum sem eru til þess fallnar að segja í hálfum hljóðum við kaffiborðið . Sögum af lífeyrisgreiðslum , fæðingarorlofi eða ímynduðum bakhjörlum . Af hverju ? Jú , vegna þess að yfirleitt treystir fólk þeim sem það drekkur kaffi með og hefur enga ástæðu til að véfengja sem það segir . Þau sem taka þátt í að koma slíkum „ upplýsingum “ sem eru „ á allra vitorði “ áleiðis leggja ekkert til málanna , heldur eru verkfæri . Liggur betur fyrir þjóðinni , sem barðist fyrir sjálfstæði , að vera verkfæri eða ganga til verka ? Ganga hreint og beint til heiðarlegra verka ? Mun fólkið í landinu segja skilið við ómennskuna og velja mennskuna ? Ég trúi því að hvítu kollarnir í Höllinni – að fólkið í landinu – geti þann fyrsta júlí gengið um í heimi mennsku vegna þess að daginn áður gengu þau til verka . Því það er – eftir allt – þó nokkuð í þjóðina spunnið !
Hreint ævintýri hefur verið að ganga um götur miðbæjarins á Akureyri undanfarið . Samstillt átak 70 listamanna undir stjórn Hannesar Sigurðssonar sjónlistastjóra hefur lyft yfirbragði bæjarins á þann hátt að litadýrð og ráðgátur mæta íbúum og ferðamönnum hvert sem litið er . Kjólarnir yfir Gilinu eru blaktandi hamingja og ótal fleira mætti nefna og reyndar nær átakið víðar en um miðbæinn . Fjöldi listaverka er í vatnaparadísinni Sundlaug Akureyrar og þótt allir séu ekki á eitt sáttir um hvað sé list og hvað smekkleg framsetning eða ekki , hafa skapast umræður í heitu pottunum sem leysa úr læðingi dýrmæta orku . Akureyri er jaðar jaðarsins þegar kemur að heimslíkaninu og er því ekki sjálfgefið að halda bænum aðlaðandi sem búsetukosti . Opinber byggðaumræða hefur ekki heldur hjálpað . Land tækifæranna er samkvæmt fréttum á suðvesturhorninu en sérvitringar og minnipokamenn híma á jaðri jaðarsins . Meinlausir og duglegir í besta falli . Myndir af börnum úti á landi snæðandi ís á heitum sumardegi eiga ekki greiðan aðgang að fjölmiðlum með höfuðstöðvar á Reykjavíkursvæðinu . Þegar kemur að því að birta myndmál af lífsgæðum í sjónvarpsfréttum sjáum við nánast alltaf bara myndir af ánægðu fólki með ís á Austurvelli . Þar brosa börnin . Úti á landi eru hins vegar allir að biðja Guð um meiri fisk og stóriðju , ef marka má fréttir sumra fjölmiðla . Það sjónarhorn hefur verið ráðandi að líf landsbyggðar og dauði snúist um atvinnu . Þó sýna rannsóknir að atvinna og menntamál eru aðeins tveir þættir af mörgum mikilvægum þegar fólk velur sér búsetu . Stórfyrirtæki sem segjast ætla að hjálpa Íslendingum eru jafnan ekki drifin áfram af annarri hugsjón en gróða og alþjóðlegt vandamál er einnig að fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn eru í vaxandi mæli undirsátar auðvaldsins . Margir vilja trúa því að spilling þrífist síður þar sem aldrei sést neinn borða ís í sjónvarpinu en slík hugsun stenst enga skoðun . Auðræðið stingur sér alls staðar niður og þess vegna er mikilvægt að íbúar í hvaða samfélagi sem er hafi tækifæri og kjark til að hjóla í vald , hvort sem það er menningarlegt , efnahagslegt eða sjórnmálalegt . Lykillinn að því er virkt lýðræði og gagnrýnin , ögrandi og skapandi hugsun sem listamönnum er gjarnan töm . Auralausa listafólkið sem hengdi í sjálfboðavinnu upp listaverk að nóttu sem degi í Gilinu á meiri þátt í að gera bæinn að aðlaðandi búsetuvalkosti en allar heimsins stóriðjur .
Það er staðföst trú mín að börn eigi ekki að hafa takmarkalausan aðgang að tölvu ( flest af því sem ég segi gildir að sjálfsögðu líka um sjónvarp og snjallsíma ) . Krakkar hafi annað og mikilvægara við tíma sinn að gera . Topp tíu listi yfir það sem börnin þín ættu að gera áður en kemur að daglegu ( d ) rápi í tölvunni . Vertu úti . Það er gott . Lestu allt sem að kjafti kemur . Heimsæktu ömmu þína og biddu hana að kenna þér að baka pönnukökur . Skrifaðu sögu og gefðu pabba þínum í afmælisgjöf . Safnaðu krökkunum í hverfinu saman og farið í fótbolta . Lærðu heima og njóttu þess . Skúraðu , settu í þvottavél ; foreldrar þínir eru ekki þjónustufólk . Safnaðu uppáhaldslögunum þínum á geisladisk og gefðu mömmu þinni . Bjóddu 10 vinum þínum í bíó heima ; fáðu mömmu og pabba til að poppa . Taktu fram trivial pursuit , tafl , spilastokk eða leggðu kapal . Tölvur eru annars dásamlegar . Þar má rýna í gömul Njáluhandrit , horfa á Charlie Chaplin á youtube og lesa Baggalútinn sinn . Þú getur lært japönsku , badminton og útsaum . Fyrir flesta krakka ( og fullorðna reyndar líka ) er netið hins vegar kexskápur fullur af oreokexi , hob-nobs , homeblesti , ískexi , nutella og rískubbum . Menn sækja víst lítið í hnetur , lýsi og sellerí . Við kennarar sjáum afleiðingarnar af hömlulausu kexáti síðustu 10 - 15 ára . Í framhaldsskólum fjölgar þeim stöðugt sem eiga í erfiðleikum með lestur . Hér er ég ekki að tala um þá sem glíma við lesblindu og annað slíkt . Nei , þetta eru krakkarnir sem hafa nánast ekkert lesið og eru hæglæsir af æfingaleysi einu saman . Þetta er ekki bara tæknilegt vandamál . Margir af þessum krökkum er fá-vísir . Ekki misskilja mig , þetta eru greindir krakkar en í suma vantar blaðsíður og fleiri fleiri kafla í bókinni sem kalla mætti Menningarlæsi . Þetta að vita að Halldór Laxness fékk Nóbelinn 1955 , og að Vigdís Finnbogadóttir tók við af Kristjáni Eldjárn og að maður eigi að þakka fyrir matinn . Sonur minn fer í 4. bekk á næsta ári og þá byrjar ballið . Ekki veit ég hvað veldur því að foreldrar senda börnin sín ekki í vistun þegar þau eru komin í fjórða bekk . Kannski er það stemningin í barnahópnum , kannski snýst þetta um peninga . Mér leiðist allavega sú tilhugsun að vita af 2 - 4 vinum vafrandi á milli húsa . „ Hér kemst maður í kexskápinn , hér kemst maður auðveldlega í tölvu , hér getur maður horft á sjónvarpið “ . Það má alltaf finna smugu . Vill einhver segja mér af hverju börn á aldrinum 9 - 16 eru ekki í skólanum frá 8 - 4 við nám , leik og íþróttir ? Á síðustu árum hef ég hitt töluvert af foreldrum sem sjá eftir því að hafa ekki gripið í taumana er kom að tölvunotkun barns og síðar unglings . Skoðum þetta aðeins . Það getur verið ansi þægilegt að planta krakkanum niður fyrir framan tölvu og sjónvarp þar sem hann hefur ofan af fyrir sér . En þetta færðu í bakið áður en langt um líður . Tölvan kennir manni ekki það sem skiptir mestu máli : Íslenska ( málvitund ) Samlíðan Nú koma eflaust mörg ykkar af fjöllum og ég heyri mótbárur sumra félaga minna sem benda mér á allt hið dásamlega sem netið hefur upp á að bjóða . Þið vitið : selleríið , hneturnar og það en flestir vita að tölvunotkun barna og unglinga snýst að mestu um afþreyingu og samskipti við jafnaldra . Maður vaknar ekki upp 18 ára gamall með heilbrigða skynsemi , sterka málvitund , slatta af réttlætiskennd . Þetta lærist með reynslu , samskiptum við fjölbreyttan hóp fólks á ýmsum aldri , lestri bóka ( hér á ég við texta á hvaða formi sem er ) . Mig langaði að skrifa þessa grein til að vara ykkur við – til að geta sagt : „ Ég sagði ykkur það . Því þið megið vita að kálfar launa aldrei ofeldið og þegar börnin standa sveitt upp frá tölvunum um tvítugt og fara að skynja að eitthvað vantar – hverjir verða þá rukkaðir ? „ Af hverju ólstu mig ekki betur upp “ ? Ha ?
Kennari við minn gamla menntaskóla skrifar grein sem flýgur vængjum þöndum um netheima þessa dagana . Greinin er hér . Kjarni greinarinnar er þessi : Börn sem horfa of mikið á sjónvarp eða nota tölvur og síma fara á mis við mikilvægustu uppeldisþættina ( t.d. skynsemi , samskipti , frumkvæði , málvitund og samlíðan ) . Auðvitað eru allar öfgar slæmar og ekkert óhóf er gott . Hinsvegar er ágætt að staldra við þegar maður er , eins og þessi ágæti kennari , farinn að hafa á hafa áhyggjur af auðveldu aðgengi barna sem verða fyrir tækniskömmtun heima að tækjum hjá vinum og bekkjarfélögum . Því miður er það svo að það hugarfar sem er til grundvallar greininni er bæði rangt , ófrumlegt og gamaldags . Netið á Íslandi er ekki nema álíka gamalt og sæmilega stálpaður táningur . Fyrstu árin var netið hægvirkt og ægilega dýrt . Það þurfti að hringja í netþjónustuna úr heimasíma ( stundum milli landssvæða sem kostaði enn meira ) . Á þeim tímum var nauðsynlegt að skammta netnotkun . Bæði vegna kostnaðar og þess , að meðan maður var á netinu var heimasíminn á tali og farsímar enn ekki í almennri notkun . Það má líkja þessu við árdaga útvarpsins , þegar kaupa þurfti rafhlöður og lampa fyrir stórfé – sem varð til þess að fólk safnaðist saman fyrir framan viðtækin og hlustaði þegjandi á tiltekna þætti og gætti þess að slökkva sem allra fyrst aftur . Smám saman losaði tækniþróun okkur undan þeim hömlum sem fylgdu frumdögum útvarpsins . Þar kom að ekki aðeins var hægt að láta útvarpstæki ganga dag og nótt án þess að hafa tiltakanlegar áhyggjur af kostnaði og endingu , heldur gat hver fjölskyldumeðlimur jafnvel haft aðgang að sínu einkatæki , hvort sem um var að ræða útvarp , segulband eða plötuspilara . Vissulega tapaðist við það notalega kósístemmningin sem fylgt hafði hörgulhlustuninni og viðhorf þeirra eldri sem þurftu að horfa upp á ungdóminn hverfa inn í ógeðfelldan tónlistarheim ungdómsins kemur skýrt fram í neikvæðu tuðorði sem notað var um þennan snara þátt í sjálfsmynd unglinga : síbylja . Raunar má finna ótal pexgreinar í blöðum frá fyrri áratugum sem efnislega og hugmyndalega eru samkynja greininni um börnið og kexið . Hér má sjá tuðgrein úr Helgarpóstinum frá árinu 1988 þar sem talað er nokkuð háðulega um stelpur sem ákváðu að leika sér og hafa það „ næs “ í skíðabrekkum um páskana í stað þess að „ hafa trúarlegt innihald páskanna í hávegum , sækja kirkju og rækta fjölskylduna í samræmi við það . “ Á þessum tíma var hin veraldlega páskahátíð á frumstigum , fólk fór í utanlandsferðir og hafði það gott en þjóðarsálin var þjökuð af samviskubiti yfir því að skemmta sér þegar hún ætti að vera uppfull af trúarlegri andakt . Einhverjir sátu bara heima og horfðu á sjónvarp eða hlustuðu á útvarp . Í greininni er það afgreitt þannig : „ Ekki er útilokað að síbylja eða sápulöður hinnar frjálsu fjölmiðlunar bjargi einhverjum frá þessu árvissa páskaþunglyndi . “ Um svipað leyti og þjóðin fór í kaupstað og keypti rándýrar rafhlöður í útvarpstækin var bókaeign að verða almenn . Frændi minn , sem ég hef áður talað aðeins um hérna , fæddist mjög líkamlega fatlaður en var kennt að lesa . Hann var næstum alveg blindur en ef hann sat úti í glugga með nefbroddinn ofan í bókinni gat hann lesið venjulegar bækur sem barn . Um tíu ára aldur var hann búinn með allan bókakost heimilisins hvort sem um var að ræða Dickens eða Biblíuna . Og þá las hann bara allt dótið aftur . Þessi lestrarárátta fór í taugarnar á samferðamönnunum sem álitu það hina mestu hind að erfiða úti á túni meðan birtu naut . Hann var meira að segja flengdur í þeirri von að rofaði til í kollinum á honum . Bækur voru ekki einkafyrirbæri á Íslandi fyrr en nokkuð nýlega . Þær fáu bækur sem til voru varðveitti húsbóndinn og skammtaði hinum af í kvöldlestrum . Sú hugmynd að börn hefðu óheftan aðgang að bókum þótti fráleit . Og þetta mikla aðgengi eyðilagði vafalaust samverustundina sem kvöldvakan var . Jafnvel í dag liggja hjón í einni sæng og yrða ekki hvort á annað en eru niðursokkin hvort í sína bók . Nokkuð sem auðvelt er að álykta sem svo að sé hnignunarmerki ef miðað er við kvöldvökur . Eins og með tónlistina kom að því að framleiddar voru bækur sérstaklega með börn í huga . Þær fóru í taugarnar á mörgum – sérstaklega svokallaðar teiknimyndasögur . Unglingabókmenntir blossuðu upp og reyndust sumar vera argasta klám . Ég veit ekki hvort menn hafi haldið uppi massívum vörnum eða reynt mikið að skammta bækur ofan í ungdóminn – en allar slíkar tilraunir voru dæmdar til að mistakast . Þess má geta að frændi minn varð ekki ónýtari en svo af þessum bóklestri öllum að hann varð sá fyrsti í minni fjölskyldu til að ljúka háskólaprófi í háa herrans tíð . Og mér mikilvæg fyrirmynd að því leyti þegar kom að því sama nokkrum áratugum seinna . Í minni ætt var hin mesta dygð að vera heiðarlegur og dugandi – og vinna . Ég þekki engan ungling sem misnotar frelsi sitt til lestrar eða hlustunar á tónlist . Heimurinn hefur einfaldlega lagað sig að þessum nýju möguleikum og börn sem alast upp við frelsið verða að mönnum alveg eins og allir aðrir . Það er frekar að börn séu hvatt til þess að nýta sér miðlana því þeir reynast hafa margvíslegan ávinning – sem íhaldskólfar fyrri ára áttuðu sig ekki á . Heimurinn er nú fyrir nokkru kominn á þann stað að við höfum aðgang að samskiptaneti allan sólarhringinn . Börnum og unglingum verður ekki haldið frá þessum veruleika , sama hvað þeir eldri reyna . Það er sömuleiðis fráleitt að halda að þessi nýja tækni muni skaða mannlífið verulega , hvað þá ónýta samskiptahæfni , málvitund og skynsemi . Við erum stödd í miðju breytingarferli . Notkun tækninnar er enn að mótast af möguleikunum og er sumpart dálítið einhæf ennþá . Það mun lagast með áframhaldandi notkun . Það sem er algjörlega á tæru er að allir bardagar sem hafa það að markmiði að „ skammta “ tæknina eru dæmdir til að tapast og óþarfir . Við höfum séð þetta sjálf í Norðlingaskóla . Við höfum notað tölvur mikið árum saman . Nemendur hafa ýmist getað unnið í þeim heima , fengið tölvur í skólanum eða , nú nýlega , fengið spjaldtölvur frá skólanum til afnota heima og í skóla . Það er greinilegur munur á nemendum sem hafa spjaldtölvur til afnota allan daginn og þeim sem þurfa að panta tölvur . Það er viðvarandi vandamál hjá þeim sem búa við tölvuskömmtun að þeir reyna að hanga í tölvunum heilu dagana . Vinna jafnvel hægt eða alls ekki til að geta pantað tölvu í næstu vinnulotu líka . Þeir sem hafa spjaldtölvur til afnota allan daginn eiga ekki í neinum vandræðum , almennt og yfirleitt , með að leggja þær frá sér og gera eitthvað annað . Nemendurnir eru löngu hættir að mikla fyrir sér tæknina og taka henni sem sjálfsögðum hlut – og því fylgir að þeir fá leið á henni . Síðast þegar ég þurfti að hafa afskipti af nemanda sem var í spjaldtölvu þegar hann átti að vera að gera annað kom í ljós að nemandinn var að lesa bók af skjánum og gat ekki hætt . Eins er það með feisbúkk og annað sem „ glepur . “ Þeir nemendur sem „ alist “ hafa upp við að það sé sjálfsagt að nota tæknina ( þ.m.t. feisbúkk ) og þeir hvattir til þess uppgötva furðu fljótt að aðdráttarafl þess er ofmetið og hætta að hanga þar inni . Það kemur ekki annað til greina en að viðurkenna að tæknin er komin til að vera . Og hún er í fullri notkun . Foreldrar sem ætla að líta á tæknina sem vandamál og miðla því hugarfari til barna sinna eru að gera mistök . Þeir eiga að líta á tæknina sem sjálfsagðan og eðlilegan hlut , hafa temmilegan áhuga á rafrænum áhugamálum barna sinna en gefa þeim persónulegt svigrúm – og fyrst og fremst – halda áfram að bjóða upp á samveru og aðra valkosti . Barn sem ekki upplifir pressu á tölvunotkun sinni fagnar tækifæri til að spila eða föndra eða gera eitthvað annað skemmtilegt . Að lokum : börn eru ekki fávís þótt þau séu ekki með „ frasa “ á hreinu sem við hin ólumst upp við . Þau eru hafsjór af fróðleik . Sá fróðleikur er bara barna - og unglingamiðaður í mörgum tilfellum . En þetta er gjald þess að umbera sjálfstæða tilvist barna - og unglingamenningar . Við hin eldri þurfum að sætta okkur við það að þeir yngri nemi annað en við . Og það er sömuleiðis þvæla að ungdómurinn í dag sé illa læs . Hann er öðruvísi læs . Það má vissulega efla hefðbundið læsi sem er alls ekki nógu gott . Það verður best gert með betri nýtingu tækninnar . En börnin í dag eru læs á ýmislegt sem við erum algjörlega ólæs á . Fljótaskrift netsins hefur breytt ritun og lestri . Þá hefur bæst ný vídd við textann með nýtingu mynda , allt frá brosköllum til hreyfanlegra gif-mynda . Allt kallar þetta á læsi og ritunarhæfni sem á tíðum er frábærlega hugmyndarík .
Þegar maður hefur undið eilítið ofan af sér í sumarfríinu , er hættur að gæla við hugmyndina um að maður sé upphaf og endir kristni í landinu , þá er hægt að fara að einbeita sér að því sem máli skiptir , sem er að hvílast og uppbyggjast . Fyrst þurfa hjónin náttúrulega að ræða væntingar sínar til frísins , sem í mínu tilfelli voru þær að ég fengi kaffi í rúmið hvern einasta morgun á meðan eiginmaðurinn bað þess að ekki yrðu gerðar brjóstmyndir af okkur fyrir höfuðstöðvar mastercard . Að þeim umræðum loknum , eftir að hafa synt nakin í vestfirskum sjó , í vitfirringu þess sem uppgötvar lítið netsamband og eina sjónvarpsstöð , tók ég til við að vinna á staflanum sem beið mín af skáldverkum . Og þvílík sæla , að vakna til þess eins að dreka lútsterkt kaffi og lesa um heim handan orða . Að sex skáldverkum lesnum mátti ég þakka fyrir að börnin voru ekki komin með næringarskort og eiginmaðurinn farinn að gelta með hundinum , því þegar maður nær þessum lestakti þá er erfitt að hætta . Það er eins og maður komist í einhvers konar vímu eða sogist frá raunveruleikanum þar sem ekkert er til nema sagan og þú . Frábærir höfundar fá mann til að tengjast persónunum tilfinningaböndum , hugsaðu þér hvað það eru miklir töframenn sem geta skrifað slíkan texta , texta sem kallar fram mannleg viðbrögð líkt og samúð , réttlætiskennd , reiði , væntumþykju , gleði og sorg . Rithöfundar eru eiginlega svona tilfinningalegir einkaþjálfarar , þeir láta þig pumpa kenndir sem þú annað hvort vissir ekki af eða gefur þér ekki tíma til að rækta . Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að stéttarfélög greiði niður bókakaup eins og líkamsræktarkort af því að bækur eru bæði græðandi og þær efla líka tilfinningagreind , þær geta meira að segja komið í veg fyrir stórslys í mannlegum samskiptum og unnið á kvíða og þunglyndi . Góðar skáldsögur verða nefnilega aldrei til í einhvers konar tómarúmi , þær verða til fyrir reynslu sem hefur kostað höfundinn eitthvað , jafnvel heilsu eða ástvin . Hugsaðu þér hvaða gagn Halldór Laxnes hefur gert þegar hann skrifaðu um kynferðislega misnotkun í bók sinni Sölku Völku sem kom út árið 1931 og 32 , hugsaðu þér opinberunina fyrir kvenkyns lesendur á þeim tíma sem lifðu við slíka ógn , sem töldu sér jafnvel trú um að þjáningar þeirra væru einskis virði , að ofbeldið væri þeirra hlutskipti og það með réttu , í bókinni er þeirra reynslu lýst þannig að viðbjóður höfundar dylst engum . Í þessu fríi las ég aðallega bækur eftir kvenhöfunda , ég las t.d. Afleggjarann eftir Auði Övu Ólafsdóttur , yndislega sögu um leitina að tilgangi lífsins , um fegurð mannlegra tengsla í margskonar myndum , ég las fyrstu bók Unnar Birnu Karlsdóttur sem kom út á dögunum og nefnist : Það kemur alltaf nýr dagur , sú bók fjallar um konu sem reynir að ná áttum eftir sársaukafullan skilnað og leitar uppruna síns til þess , það var t.d. margt í þeirri bók sem fólk á slíkum tímamótum getur leitað huggunar í , þar er baráttu lýst sem margir eru að heyja í einsemd sinni og trúa einmitt ekki að það komi aftur nýr dagur . Svo las ég líka Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson , þar lýsir hann mannlífi í íslensku sjávarþorpi , ástum , sorgum , gleði , sigrum og vonbrigðum á fallegan og manneskjulegan hátt eins og honum einum er lagið , þar fór manni einmitt að þykja vænt um sumar persónur á meðan aðrar fylltu hjartað gremju . Þó að vöðvarnir slappist kannski í kyrrstöðu þess sem gleypir í sig sex bækur og skolar niður með sterku kaffi , þá má ekki gleyma því að andinn eflist og sjónsviðið víkkar . Tímanum er aldrei illa varið í lestur skáldsagna eða annarra bókmennta , það er raunverulega menntandi að lesa . Rithöfundar eru ekki bara rithöfundar , þeir eru líka sálfræðingar , prestar , uppeldisfræðingar og fjölskylduráðgjafar , rithöfundar eru ekki bara listamenn , heldur stétt sem getur orðið mjög þjóðhagslega hagkvæm sé litið til allra þeirra þátta er hvíla á herðum manneskjunnar , af því að það er bara svo flókið að vera manneskja . Ekki satt ?
Það kom mér á óvart hversu margir fundu sig knúna til að svara grein minni Börn og kex um daginn . Vangaveltur mínar snérust nefnilega að mestu um alkunn sannindi – að ég hélt – alkunn sannindi meðal kennara ; það lítur ekki vel út með læsi ( í víðasta skilningi ) hjá krökkunum okkar og það er margt í tölvuheimum sem er ekki við barna hæfi . Ég upplifði mig dálítið eins og lækni sem skrifar grein árið 2012 og lýsir yfir áhyggjum af offitu barna og margir koma af fjöllum : „ Ha , offita ? Hvaða rugl er þetta . Ég er ekki feitur , ég þekki engan feitan . Þú ert bara að mála skrattann á vegginn . Þú getur bara sjálfur verið feitur , já og leiðinlegur . “ Það er auðvelt að stytta greinina niður í tvær málsgreinar . Vissulega verður hún ekki spennandi aflestrar en það er erfiðara að snúa út úr henni . Of mörg börn og unglingar eyða of miklum tíma í óþroskavænlega afþreyingu á Netinu , í tölvum og skyldum tækjum . Þetta grefur undan lífsleikni þeirra og hefur slæm áhrif á skólastarf . Rannsóknir sýna að því meiri tíma sem börn eyða í tölvuleiki þeim mun verr gengur þeim í skóla ( sjá til dæmis „ Boys adrift “ eftir Leonard Sax ) . Sumir nemenda minna elska tölvuna sína og eru eins og fiskar í vatni í heimi tölvuleikjanna . Við tökum stundum snarpar umræður um kosti og galla þessa heims og oftar en ekki endar þetta í varnarstöðunni sígildu : „ Heldurðu að við breytumst í fjöldamorðingja við að spila ofbeldisleiki , ha ? “ Það er hressandi til þess að vita að þessi krakkar eru skólaðir í íslenskri umræðuhefð sem snýst oftar en ekki um skotgrafahernað og útúrsnúninga . Ef ég svaraði í sömu mynt – sem vandaður kennari gerir ekki – segði ég : „ Nei , auðvitað breytist þið ekki í manndrápsvélar en mikið óskaplega verðið þið flatir og áhugalausir . “ ( já , í karlkyni ) . Sem kennari á ég í ásthatursambandi við tölvuna og Netið . Það er magnað að geta sýnt efni af Youtube á stóru tjaldi , fundið gamla frétt á timarit.is o.s.frv. en ókostirnir vega þyngra . Það er svo mikill órói í krökkunum . Sumir eru eins og fíklar að pukrast með snjallsíma í kjöltunni og þeir eiga erfitt með að njóta stundarinnar . Besti kennari í heimi getur búist við að halda athygli nemenda í 12 mínútur . Ansi margir nemendur þurfa að taka sér tak með hjálp foreldranna . Framhaldsskólinn eins og ég upplifi hann er mun betri nú en fyrir 20 árum . Kennsluhættir eru fjölbreyttari , áherslur skynsamlegri og meira lagt upp úr stöðugu vinnuframlagi en utanbókarlærdómi fyrir stórt lokapróf . Nú er komið að ykkur . Alltof margir nemendur vinna of mikið með skólanum og eyða of miklum tíma í afþreyingu . Margir hafa verið á annarri plánetu alla nóttina eða staðið í bardögum eða horft á heila seríu af Friends áður en í skólann er komið . Það er fúlt að kenna fyrir daufum eyrum . Það er þetta rof á milli skóla og reynsluheims unglinga sem þarf að skoða . Þessi tvíhyggja sem byggir á því að maður læri í skólanum og slappi af heima ; að það sé leiðinlegt í skólanum . Ég er stundum spurður : „ Fyrst nemendur standa sig svona illa af hverju ekki bara að fella þá ? “ Þeir falla . Brottfall er gríðarlega mikið í íslenskum framhaldsskólum . En það er ekki mikið mál að fá fimm . Fimm er helmingurinn . Helmings vinnuframlag ; mánudagur , þriðjudagur og fram að hádegi á miðvikudag . Og ég hef það á tilfinningunni að mun fleiri toppnemendur hangi i fimmunni heldur en áður . Það er gjaldið sem þeir eru tilbúnir að borga fyrir líf í sýndarveruleika . Og allir vita ( er það ekki ? ) að það hefur orðið bakslag í jafnréttisbaráttunni . Kvenfyrirlitningin . Hvaðan kemur hún ? Bara einhvers staðar frá ? Einn vinsælasti tölvuleikur í heimi heitir Grand Theft Auto . Vissuð þið að persónan fær stig fyrir að sofa hjá vændiskonu og drepa hana síðan ? Þetta er allt sýnt . Og þegar þú ert staddur í myrku herbergi með heyrnartól , 40 tommu skjá og besta hljóð sem völ á er þetta EKKI það sama og að hlusta á Bítlaplötur á hæsta styrk foreldrum sínum til ama . Það er munur á „ She loves you , yeah yeah “ og að saga útlimi af vændiskonu með vélsög . Alltof margir strákar eyða tíma sínum í leiki sem þennan og margir foreldrar halda að þetta sé eitthvað lögguogbófa-dæmi eins og þeir léku sér sjálfir í . Hér er hins vegar hreinræktaður sadismi á ferðinni og ískalt mannhatur . Stelpur virðast fæstar hafa áhuga á sömu groddalegu leikjunum og strákarnir en það er full ástæða til að ræða þeirra tölvu - og netvenjur . Konur birtast nánast bara sem kynverur á hvíta tjaldinu og skjánum og þetta er þrælsmitandi . Útlitsdýrkun sumra stelpna á ekkert skylt við tilraunir með varalit og meik síðustu 100 árin . Líkaminn skal vera hárlaus , líka fyrir sunnan miðju og upp er risinn bransi sem breytir börmum eins og ekkert sé . Einhverjir sem gerðu athugasemd við fyrri greinina vilja afgreiða mig sem gamaldags siðapostula , forræðishyggjupésa en heimurinn er ekki eins og hann var og sagan endurtekur sig ekki . Ég vil árétta eitt : Eftir 18 ára aldur höfum við nánast fullt frelsi til að ganga hverja þá villugötu sem okkur sýnist en fram að því er það skylda samfélagsins að reyna að hafa jákvæð áhrif á atferli , viðhorf og gildismat . Og miðla því skásta í menningunni . Skólinn bjargar ekki neinum . Við kennum og leiðbeinum og bjóðum upp á nám og erum öll af vilja gerð en samfélagið verður allt að koma að uppeldi barnanna . Það er ekki nóg að lesa bara í skólanum , að hugsa bara í skólanum , að gera bara eitthvað uppbyggilegt í skólanum . Það er eins og að hreyfa sig bara í leikfimi . Og íþróttakennarinn fær skömm í hattinn fyrir að koma krökkunum ekki í form . Við sem einstaklingar getum ekki firrt okkur ábyrgð og sett allt okkar traust á endalausar forvarnir og þjóðarátak um vímulaus og fitusnauð Íslönd framtíðar . Það hefur lítið að segja svona eitt og sér að smala liðinu á sal á tveggja vikna fresti á 14 ára skólagöngu og sitja undir powerpointsjói og haka við vandamálin ( einelti , rasismi , offita , tölvufíkn , áfengi , eiturlyf , kynferðislegt ofbeldi , umhverfisvernd o.s.frv. ) Bæklingar , vefsíður og segulspjöld á ísskápa hafa lítið að segja . Menntaskólakrakkar eru komnir með upp í kok af forvörnum . Þeir hlusta ekki og dettur ekki til hugar að taka þessa skilaboð til sín . Stundum er því slengt fram með nettum pirringi að foreldrar beri einir ábyrgð á uppeldi barna sinna . Þetta væri kannski aðeins auðveldara ef afþreyingar - og markaðsöflin græfu ekki endalaust undan því góða starfi sem víða fer fram á heimilum og í skólum . Fyrir utan alla nýju miðlana þá mættu dagblöðin til dæmis fara á undan með góðu fordæmi . Þau eru flest eins og undarleg blanda af lýðheilsustofnun , Séð og Heyrt og bónusbæklingi . Umfjöllun um nýjustu offiturannsóknir á vinstri opnu og einhver frægur í snakkauglýsingu á þeirri hægri . Þessi tvískinnungur gegnsýrir allt samfélagið . Og hvað er til ráða ? Ætli það virki ekki best að ræða saman hávaðalaust . Arnar Már Arngrímsson Höfundur er menntaskólakennari
Búum okkur til viðurværi sjálf og sköpum okkar eigin tækifæri Búum okkur til viðurværi sjálf og sköpum okkar eigin tækifæri Götulistahátíðin Hafurtask á Akureyri 20. - 25. ágúst Hugmyndin að Hafurtaski kviknaði á milli tveggja vina í lest á leiðinni frá Helsingjaborgar til Kaupmannahafnar sumarið 2011 . Þessir tveir vinir , skólasystkini úr Menntaskólanum á Akureyri , bæði rétt skriðin yfir tvítuginn , voru jafnframt stofnmeðlimir Leikhópsins Þykistu og höfðu þegar hér kemur við sögu erindrekast í tvær vikur í borg Hamlets á alþjóðlegu götulistahátíðinni Passage 11. „ Afhverju gerum við þetta ekki heima ? “ „ Gerum það “ Með vindinn í fangið og heimsyfirráð á to-do listanum gengu vinirnir inn á næsta fund Leikhópsins Þykistu þar sem hugmyndin að Götulistahátíð á Akureyri sumarið 2012 skyldi seld hinum meðlimunum . Neistar kviknuðu , stormar geisuðu í höfðum , pennar hripuðu og fólk sló sér á lær . Ákveðið var að láta slag standa og láta áherslur þessa stærsta verkefnis Leikhópsins hingað til endurspegla tilgang og markmið Þykistu – að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að læra , skapa og koma sér og verkum sínum á framfæri . Verkefnið fékk nafnið „ Götulistahátíðin Hafurtask “ og áhersla lögð á sviðslistir utan sviðs – allt hafurtask ungra Akureyringa skal borið út á götur og sýnt hverjum sjáandi . Gréta Kristín Ómarsdóttir og Svava Björk Ólafsdóttir tóku að sér framkvæmdastjórn Hafurtasks og hafa leitt vagninn síðan . Gengið var á náðir Menningarráðs Eyþings og Evrópu Unga fólksins til að fjármagna verkefnið – og Þykista fékk skjól yfir höfuðstorma sína og athvarf til athafna í Ungmennahúsinu í Rósenborg , Menningarhúsinu Hofi og Tónlistarskólanum á Akureyri . Ráðnir voru fimm faglærðir snillingar til að annast listasmiðjur sem verða dagana 20. - 25. ágúst – þar sem öllum á aldrinum 15 til 30 ára er boðið að skrá sig til leiks og taka þátt í því að búa til sýningar fyrir Götulistahátíðina Hafurtask . Þessir snillingar eru Arna Valsdóttir með RÖDD Í RÝMI – safaríka , leikræna raddgjörningasmiðju . Anna Richardsdóttir með DANS INN ÚT – einlæga og orkumikla dansspunasmiðju . Guðrún Daníelsdóttir ( Garún ) með RÁÐGÁTULEIKHÚS – krefjandi og krassandi leiklistarsmiðju Heimir Ingimarsson með HLJÓÐAKÓRINN – nýstárlega og lærdómsríka kórasmiðju Ragnar J. Ragnarsson ( Humi ) með TÓNSJEIK – sjúklega grúvaða og skemmtilega tónlistarspunasmiðju . Upplýsingar og skráning í smiðjurnar er enn í gangi á hafurtask.is Að mati Þykistu hefur ungmenni Akureyrar lengi vantað opinn vettvang eins og Götulistahátíðina Hafurtask – þar sem ekki einungis er boðið upp á tækifæri til að drekka í sig þekkingu , efla færni sína og víkka sjóndeildarhringinn undir handleiðslu fagfólks – heldur gefst ungu fólki einnig færi á að sýna sig og sanna á eigin forsendum . Öllum ungmennum stendur til boða að koma fram á Hafurtaski , sér að kostnaðarlausu – hvort sem þau tilheyra formlegum hóp , óformlegum eða engum hóp . Þykista aðstoðar alla hópa við kynningar og undirbúning sinna atriða . Þegar hafa skráð atriði Nemendafélag TónAK , Hjólabrettafélag Akureyrar , Fjöllistahópurinn Fönix , Lopabandið , Eikverjar og margir , margir fleiri – Bæði einstaklingar og hópar . Þetta er einstakt tækifæri fyrir upprennandi listafólk Norðurlands og ómetanleg reynsla sem hlýst af þátttöku . Götulistahátíðin Hafurtask 25. ágúst verður allsherjar uppskeruhátíð hæfileika , sköpunar og metnaðar ungs fólks á Akureyri og öllum er boðið að mæta til veislunnar . Gréta Kristín Ómarsdóttir , einn aðstandenda Hafurtasks .
Ég á ekki bíl og þarf því að reiða mig á tvo jafnfljóta , strætó eða “ Svörtu þrumuna ” sem er hjólið mitt . Ég bý á Akureyri og þeir sem hafa átt leið hér um vita að hér er alls ekki jafnslétt en bærinn er byggður í fjallshlíð . Einn daginn eftir krefjandi skóladag ákvað ég að ganga í matvörubúð . Ýmislegt var farið að vanta á heimilinu og það var ágætis veður . Himinn var heiður , veðrið var milt og hálka á stígum sem ætlaði aldrei að fara . Niður brekkuna þramma ég og vonast til að komast heil á höldnu á leiðarenda . Versla ég svo það helsta og deili því á milli tveggja haldapoka . Það er betra að dreifa þyngdinni . Ég set á mig heyrnartólin sem eru tengd við litla útvarpið mitt og geng af stað upp brekkuna . Kófsveitt með þunga skólatösku , sitthvorn haldapokann og syngjandi upphátt er ég að gefast upp í miðri brekkunni . Allt í einu heyri ég að það er verið að bíba á mig . Ég hugsa hvað gengur á ? Tek af mér heyrnatólin og geng að bílnum . Þar situr elskuleg eldri kona sem segir : “ Hæ , ég sá að þú ert með svo þunga poka , má bjóða þér far ? ” Mér bregður svo að ég fer að skælbrosa og svara : “ Nei , nei , ég sé í húsið mitt , þetta eru bara sirka hundrað metrar , það tekur því ekki . ” Hún spyr þá : „ Ertu alveg viss ? Þetta er ekkert mál . ” Ég þáði farið ekki , en eftir á að hyggja hefði ég átt að gera það , þá hefði ég kannski fengið að vita nafnið á þessari yndislegu konu . Það er ekki oft sem maður verður vitni að góðverki , en ég hef sjálf reynt að gera eitt góðverk á viku á nýju ári . Kannski er það áramótaheit þessarar konu líka ? Elsku kona . Góðverk þitt yljaði mér um hjartarætur og sýndi mér að manngæskan er enn til staðar . Takk . Kristín Einarsdóttir Höfundur er nemi í fjölmiðlunarfræði við Háskólann á Akureyri .
Stundum fallast manni hendur . Það er svo margt í umhverfinu sem þarfnast skoðunar en á sama tíma er blaðamannastéttin fámenn og lífvænleiki fjölmiðla að nokkru leyti bundinn því að vera hress og fjalla bara um krútt . Þversögn samfélagsins er að þótt við efumst ekki um mikilvægi þess að taka á spillingu , fordómum , mismunun , fátækt og óréttlæti spyr bæjarsálin gjarnan þegar „ neikvæð “ fréttaumfjöllun á sér stað : „ Þarf alltaf að velta sér upp úr soranum ? “ Akureyri vikublað hefur stundum skapað gárur í hinu friðsæla norðri með fréttum blaðsins . Það hefur leitt til umræðu um lögmæti héraðsmiðla til að fjalla um viðkvæm mál . Í síðustu viku var birt umfjöllun um meint vændi á Akureyri . Í rafrænu ummælakerfi blaðsins fór mesta púðrið í að gera grín að þeim sem neyðast til að selja líkama sinn . Um kaupendurna , um að til væri hópur karlmanna ( að langmestu leyti ) sem teldi það ekki eftir sér að kaupa vændisþjónustu ( sem þó er ekki bara siðlaust heldur refsivert ) féllu engin ummæli . Það kann að segja meira um samfélagið en þá sem selja líkama sína vegnar neyðar . Efnisgreining myndi sýna að langstærstur hluti af innihaldi Akureyrar vikublaðs fjallar um manneskjuna , menninguna , allt það góða og uppbyggilega sem á sér stað í ágætum samfélögum norðlenskum , en það breytir ekki því að Akureyri vikublað leitast við að miðla gagnrýni þegar þess er þörf . Fyrir vikið fáum við áhöfn blaðsins stundum að heyra að „ sorinn virðist okkur hugleikinn “ . Því var góð tilbreyting fyrir aðstandendur blaðsins að lesa hrós vikunnar sem hið merkilega menningarframtak Grenndargralið á Akureyri kastaði út fyrir nokkrum dögum , en svo segir á heimasíðu Grenndargralsins : „ Gral vikunnar fær Akureyri-vikublað . Blaðið hefur frá því í nóvember 2011 birt reglulega greinar eftir grunnskólanemendur á Akureyri , ýmist í blaðinu sjálfu , netútgáfu eða hvoru tveggja . Greinarnar eru orðnar tæplega tuttugu talsins og hafa vakið nokkra athygli . Ekki hefur tíðkast að rödd unglinga heyrist með þessum hætti í fjölmiðlum . Því gætti ákveðins óöryggis við upphaf vegferðarinnar . Nú , rúmu ári síðar , hafa greinaskrif grunnskólanemenda vonandi fest sig í sessi og eðli málsins samkvæmt á Akureyri-vikublað stóran þátt í því . Krakkarnir hafa öðlast sjálfstraust og sjá að þeir eiga erindi inn á þennan vettvang ekki síður en þeir sem eldri eru . Með framtaki sínu hefur Akureyri-vikublað opnað leið fyrir unga fólkið til að koma skoðunum sínum á framfæri og þannig lagt sitt af mörkum við að efla menningu heimabyggðar . “ Við þökkum hrósið en það eru krakkarnir sjálfir sem eiga mesta hrósið skilið .
Um daginn sat ég með kaffibolla og renndi hugsunarlaust yfir Fésbókina . Augun staðnæmdust við mynd af gamalli konu og í flæðinu sem skapast milli svefns og nægrar koffeininntöku renndi ég augunum yfir textann . Þetta var þessi dæmigerði texti sem vinsælt er að deila . Textinn fjallaði um konu sem hafði alltaf átt sér þann draum að fara í háskólanám . Þegar ellin færðist yfir og hún var orðin gömul kona hætti hún að láta sig dreyma , tók stökkið og innritaði sig í háskóla . Eins og í öllum fallegum sögum þá fór allt vel . Konan brilleraði í náminu , eignaðist marga vini og enginn var ósnortinn af þessum aldraða , djarfa og hugvitssama samnemanda . Og endirinn er dramatískur . Hetjan okkar rétt sleppur fyrir horn , því viku eftir útskrift er hún öll . Sagan er ágætis skemmtun og felur í sér þessa almennu „ ekki-geyma-lífið-þar-til-það-er-orðið-of-seint ” speki . Þið vitið – þessar krúttlegu , en oft óraunhæfu , áminningar um að losa um ; dansa , finna blómailminn , elska morgnana og svona . Alveg hreint ágætis áminning fyrir okkur venjulega fólkið sem á þann kost að dansa milli uppþvottavélarinnar , vinnunnar , leikskólans og matvörubúðarinnar . Eða skakklappast , öllu heldur , á hálkubunkunum eins og tíðarfarið hefur verið . Og elska að finna ilminn af kúkableiu í morgunsárið ( „ I love the smell of napalm in the morning ! ” ) . Burtséð frá skemmtuninni og vel meintum hvatningarorðum þá var eitthvað í þessari tilteknu sögu sem hitti mig fyrir . Kannski var það ónóg inntaka af koffeini , kannski almenn væmni í morgunsárið eða kannski vegna þess að sjálf sat ég – miðaldra konan – á kaffistofu Háskóla Íslands . Innan um fólk sem átti alla framtíðina fyrir sér , núna þegar ég var um það bil hálfnuð með mína . Þarna var , þrátt fyrir allt að finna nokkuð gagnlegan sannleik . Við eldumst . Það er ekkert mál ! Að grunnþörfum sinntum má gera ráð fyrir því að það gerist nokkuð sjálfkrafa . Jafnvel uppi í sófa með poppi og góðri ræmu ! Þannig má hafa það bara nokkuð gott . Og er ekki einmitt alltaf verið að hvetja ungt fólk til þess ? Að koma sér vel fyrir ? Klára þetta og hitt sem fyrst – svo það geti farið að „ hafa það gott ” ? Svo það geti siglt lygnan sjó – þar sem bátnum er aldrei ruggað . Svo það geti elst uppi í sófa með poppi og góðri ræmu . Það er hægt að eldast með öryggið á oddinum – án þess að eiga það á hættu að taka eitt einasta feilspor . Það er hægt að eldast með því að kúra uppi í sófa . Það er ekkert mál ! Næsta afmælisdag erum við öll ári eldri , hvort sem það er 18 eða 98 ára . En markmiðið er kannski ekki bara að eldast , heldur að eldast OG þroskast . Alltaf ! Að þróast fram á veginn ; að takast á við breytingar , bjóða breytingum heim , leggja inn í lífsbankann – bæði innra með sér og til samfélagsins . Að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að kúra með tígrisdýri felur í sér þróun ; að fullorðnast , að þroskast . Til þess þarf víst að yfirgefa lygna sjóinn rétt við heimahöfnina og sigla út á hafið þar sem allra veðra er von . Árin eru fastur taktur . Reglulega mun eitt bætast við – sama hvað .
Koma hefði mátt í veg fyrir andlát manns á Kópaskeri þegar hann varð úti að loknu þorrablóti . Þetta segir lögreglumaður á Þórshöfn . Hann segir algjört ófremdarástand ríkja í löggæslu - og heilbrigðismálum á norðausturhorni landsins . Mannmargar samkomur fari nú fram í dreifðum byggðum án þess að lögregla hafi tök á að gæta öryggis borgara með viðhlítandi hætti . Í lok janúar varð fertugur maður úti rétt fyrir utan heimili sitt á Kópaskeri . Jón Stefánsson , lögreglumaður á Þórshöfn , segist ekki í vafa um að bjarga hefði mátt lífi mannsins ef lögregla hefði haft tök á að vera á staðnum þetta kvöld . Lögregla eigi að gæta borgara á mannmörgum samkomum eins og þorrablótum en þetta sama kvöld hafi verið þorrablót á Húsavík sem lögreglumenn þar hafi þurft að sinna og sjálfur hafi hann verið einn á vakt vegna fjölmenns þorrablóts á Þórshöfn . Vegna niðurskurðar og undirmönnunar í löggæslu hafi því enginn lögreglumaður komist á blótið á Kópaskeri . „ Við lögreglumenn höfum rætt það og erum 99% vissir á því að maðurinn hefði aldrei dáið ef löggæsla hefði verið á staðnum . Þarna var slæmt veður og í slíkum tilfellum aðstoðar lögregla fólk að komast heim . Við erum í bílnum , við erum á ferðinni , keyrum um götur og fylgjumst með . Þessi maður hefði aldrei farið fram hjá okkur ef við hefðum verið þarna , við hefðum fundið hann , “ segir Jón . Hann segir að viðvarandi ástand bjóði frekari slysum heim . Vandinn einskorðist ekki við norðausturhornið þótt þar ríki sérstakt ófremdarástand . Krafan sé aukið fjármagn , fleiri lögreglu - og læknastörf og aukin virðing fyrir íbúum dreifðra byggða . Sjá bls. 2 í blaði vikunnar
Vefurinn inniheldur fréttir , mannlífsumfjöllun og aðsendar greinar og það fer fram gróskumikil umræða um samfélagsmál . Nýtt efni er sett inn á vefinn oft á dag enda er það mikilvæg þjónusta við lesendur . Gögn og tölfræði um norðlenska netmiðla má skoða hér , og niðurstöður mælinga síðustu viku má sjá hér ( uppfært á mánudegi ) . Hafðu samband Sigþór Hólm sér um auglýsingasölu á vefnum . Netfangið er [email protected] og síminn 566-8700 . Smelltu á myndina til að skoða þau svæði sem í boði eru Nánari upplýsingar um svæðin Hæð Svæði 1 ofan við aðalvalmynd vefsins og birtist á öllum síðum Svæði 2 skyscraper sem liggur til hliðar við meginmál vefsins , hann er kjurr á sínum stað þó notandinn skruni niður , og birtist á öllum síðum . Svæði 3 stórt svæði í stóra hliðarbarnum hægra megin við meginmálið . Birtist á öllum síðum . Svæði 4 banner sem liggur undir tveimur nýjustu fréttunum á forsíðunni , og undir meginmálstexta inni á fréttunum sjálfum . Svæði 5 í vinstri hliðarbar á vefnum og birtist á öllum síðum . * stjörnumerktum stærðum er hægt að breyta ef þörf krefur Sæktu photoshop sniðmát / template hér Það getur flýtt fyrir að fá sniðmát af auglýsingunum ef þú vilt búa þína eigin auglýsingu til í photoshop . Gjörðu svo vel .
Félagarnir saman á með allt lék í lyndi Í yfirlýsingu sem N3 plötusnúðar sendu frá sér nú í kvöld kemur fram að Dynheimaballið um næstu verslunarmannahelgi sé í uppnámi vegna samstarfsörðugleika N3 plötusnúða við Hólmar Svansson og Þórhall Jónsson en saman hafa þeir staðið fyrir hinum vinsælu Dynheimaböllum í Sjallanum . N3 plötusnúðar eru félagarnir Davíð Rúnar Gunnarsson , Sigurður Rúnar Marinósson og Pétur Guðjónsson sem allir voru á sínum tíma plötusnúðar á unglingaskemmtistaðnum Dynheimum á níunda áratug síðustu aldar . Yfirlýsingin hljóðar svo í heild sinni : Undanfarin ár höfum við haldið nostalgíuböll , þar sem fólk gleðst saman og miklir endurfundir heilu árganganna eiga sér stað . Þessir dansleikir hafa verið haldnir undir nafninu Dynheimaball . Fyrir þessa dansleiki höfum við sameinað krafta okkur við Hólmar Svansson og Þórhall Jónsson sem eru gamlir Dynheimaplötusnúðar . Nú stendur yfir undirbúningur á Dynheimaballi fyrir næstu verslunarmannahelgi , sem er fimmta verslunarmannahelgin í röð sem við höldum þetta ball . Og þar sem fólkið sem var í Dynheimum eldist þá vildum við taka næsta skref . Hingað til hefur verið 30 ára aldurstakmark á Dynheimaböllin en í ár vildum við breyta því . Hugmyndin sem við lögðum fram var að skipta Dynheimaballinu á tvo dansleiki sitt hvort kvöldið um versló . Á föstudagskvöldinum vildum við hafa 25 ára aldurstakmark og spila 90 ´ s tónlist . Á laugardagskvöldinu vildum við hafa sömu tónlist og hefur verið með 35 ára aldurstakmarki . Í hádeginu í dag , 18. júní kynntum við þessa hugmynd fyrir þeim Hólmari og Þórhalli . Eftir stuttar útskýringar á hugmyndinni greip Þórhallur fram í fyrir okkur og sagði að svona yrði þetta ekki . Við reyndum í vinsemd að útskýra þetta en allt kom fyrir ekki . Hólmar og Þórhallur ruku þá á dyr og sögðust vera hættir að starfa með okkur , þeir myndu bara gera þetta sjálfir . Þess vegna sjáum við okkur knúna til að senda frá okkur þessa yfirlýsingu . N3 plötusnúðar eru upphafsmenn af Dynheimaböllum í þeirri mynd sem þau eru . Þrátt fyrir að Hólmar og Þórhallur hafi spilað í Dynheimum í gamla daga þá eru breyttir tímar og þeir trúlega hættir að skilja út á hvað þetta gengur sökum aldurs . Við lýsum því hér með yfir að VIÐ munum halda Dynheimaball í ár og verður það haldið á tveimur kvöldum , föstudagskvöldinu og laugardagskvöldinu um verslunarmannahelgina . Öll önnur auglýst Dynheimakvöld eru vörusvik . Með vinsemd og virðingu : N3 plötusnúðar : Davíð Rúnar Gunnarsson , Sigurður Rúnar Marinósson og Pétur Guðjónsson Sérstaklega mælir Lonely Planet með Jarðböðunum við Mývatn í stað Bláa lónsins Í dag var birtur listi yfir þá tíu staði í Evrópu sem ferðahandbókaútgefandinn Lonely Planet mælir með . Þar var Norðurland í þriðja sæti á eftir borginni Búdapest í Ungverjalandi og borginni Porto ásamt Douro dal í Portúgal . Sagt er frá vinsældum Íslands sem áfangastaðar ferðamanna en þar sem Lonely Planet reynir iðulega að benda sínum lesendum á áhugaverða staði þar sem ekki er mikið um ferðamenn er fólki ráðlagt að fara lengra en á suðurlandið til að njóta norðurljósa á Akureyri og skoða hraunbreiður , „ fossa eins og þú hefur ekki getað ímyndað þér þá , hestaferðir og frábæra hvalaskoðun frá Húsavík . Sérstaklega er svo bent á Jarðböðin við Mývatn sem sé „ mini útgáfa “ af Bláa lóninu – án ferðamannanna . Þessi tilnefning mun án efa hafa mikla þýðingu fyrir markaðssetningu Norðurlands sem ferðamannastaðar . Kynjajafnrétti er eitt af grundvallaratriðum Evrópusamrunans og þarf að samþætta það inn í öll stefnumarkmið ESB og hefur Evrópusambandið haft töluverð áhrif á þróun jafnréttismála innan aðildarríkja sinna . Agnès Hubert , sérfræðingur um jafnréttismál innan ESB , heldur erindi á opnum fundi á Hótel KEA fimmtudaginn 20. júní kl. 12 - 13. „ Flestir eru sammála um að ESB hafi haft mikil áhrif á þróun jafnréttismála í aðildarríkjum ESB , en krafan um launajafnrétti hefur verið til staðar í sáttmálum sambandsins frá árinu 1958 og frá þeim tíma hefur ESB markvisst þróað stefnu um jafnréttismál kynjanna , “ segir í fréttatilkynningu um fundinn . Agnés Hubert heldur því fram að kynjajafnrétti hafi verið mikilvægur þáttur í samruna Evrópu og sé jafnvel enn mikilvægari nú en áður ef horft er til þeirra efnahagslegu , félagslegu og pólitísku áskorana sem ESB stendur frammi fyrir . Í erindinu verður fjallað um hvernig áhrif frá stofnunum , háskólasamfélaginu og fleiri aðilum hafa mótað stefnu ESB í jafnréttismálum , helstu skref sem hafa verið tekin innan hennar og árangurinn metinn . Agnès Hubert er hagfræðingur og stjórnmálafræðingur og starfar við stefnumótun í Evrópumálum hjá framkvæmdastjórn ESB . Hún hefur einnig starfað sem sérfræðingur hjá Evrópuþinginu og sem blaðamaður með efnahagsmál sem sérsvið . Fundurinn er öllum opinn og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta . Tjaldafjölskyldan við Háskólann á Akureyri . Mynd af vef skólans Tjaldapar hefur sl. 15 ár haldið til á þaki Háskólans á Akureyri og nú spókar parið sig ásamt ungum sínum í grasinu við skólann . Á vef Háskólans er eftirfarandi frásögn og myndir : Að venju gleður tjaldurinn starfsfólk Háskólans á Akureyri . Árleg heimsókn og sumardvöl tjaldapars háskólans stendur nú yfir og í fyrstu héldu menn að einungis tveir ungar hefðu komið úr eggi að þessu sinni . Laugardaginn 15. júní , sama dag og brautskráning fór fram við HA , sást til unga sem hafði látið sig vaða niður af þakinu og var með öðru foreldri sínu í ormaleit í runnabeði á meðan annar sást kúra sig enn uppi á þaki . En annað koma á daginn , því það eru þrír ungar sem fylgja foreldrum sínum um lóðir háskólans og náðist þessi mynd af fjölskyldunni við kennslustund í ætisleit . Eitthvað fældust nú greyin á meðan starfsfólk E-húss fylgdist með fjölskyldunni út um gluggann og náðist markaðs - og kynningarstjóri á mynd þar sem hún hljóp um með myndavél . Þrátt fyrir að vera í nokkurs konar felubúningi urðu fuglarnir hennar varir og spöruðu ekki varúðarköllin . Parið byrjaði búskap á þakinu fyrir rúmum 15 árum og fylgist starfsfólk jafnan spennt með þegar foreldrarnir útskrifa ungviðið um mitt sumar , ýta þeim fram af þakinu og út í hinn stóra heim . Tjaldurinn heldur sig yfirleitt nálægt sjó , enda vaðfugl en hann fúlsar þó ekki við hagfelldum aðstæðum inn til landsins á borð við húsþakið á Háskólanum á Akureyri . Tjaldurinn er einkvænisfugl og getur orðið meira en þrjátíu ára gamall . Það er því aldrei að vita hversu lengi parið mun sækja háskólann heim , nema einhver unganna taki við og viðhaldi hefðinni . ] ] p = 17770 Nú finnst mér alveg kominn tími á að færa mig yfir Gleránna en Þorpið hefur e.t.v. orðið dálítið útundan hjá mér . Í Glerárþorpi er fjöldi gamalla og sögufrægra bygginga ekkert síður en sunnan ár . Nú eru það nokkur eldri hús við Höfðahlíð . HátúnFyrsta húsið í þessari umfjöllun er Hátún en það stendur við Höfðahlíð 4 . Hátún er byggt 1926 , einlyft steinsteypuhús með lágu risi á lágum kjallara . Alla tíð hefur húsið verið íbúðarhús og trúlega hafa einhverjar fleiri byggingar fylgt í upphafi ( útihús e.t.v. ) en það er þá allt löngu horfið . Gatan Áshlíð byggðist norður frá húsinu uppúr 1965 . Húsið og allt umhverfi þess hefur verið tekið vel í gegn síðustu ár , byggt við að norðanverðu og einnig byggður stæðilegur bílskúr austan við . Allar hafa þessar endurbætur heppnast vel , húsið lítur vel út og til mikillar prýði í Höfðahlíðinni . SólvangurHöfðahlíðin tekur sveigju upp hjá Ásnum , að því að heita má samsíða Gleránni . Á gilbarminum ofan gömlu brúarinnar , á mótum Höfðahlíðar og Lönguhlíðar og Háhlíðar stendur Sólvangur . Er það steinsteypt hús frá 1944 , undir áhrifum frá funkis-stíl . ( Ekki tel ég þó útilokað að húsið sé byggt úr r-steini . ) Það er með lágu skúrþaki og sennilega eru bílskúr á bakhlið og sólskáli á suðurhlið seinni tíma viðbyggingar . Sólvangur stendur á vel gróinni lóð , þarna eru mikil lerki - og birkitré áberandi og um hásumarið er húsið að heita má hálffalið undir lauf - og barrskrúði . Sólvangur Gamli GlerárskóliBeint á móti Sólvangi , uppi á hól undir Ásnum , við Háhlíð stendur Gamli Glerárskóli . Það er einlyft steinsteypt bygging með söðulþaki , byggð 1938 . Var húsið byggt sem skólahús fyrir Glerárþorp en skólahald hafði þá verið um 30 ára skeið í Ósi við Sandgerðisbót . Þetta hús var ein allra stærsta og veglegasta bygging Glerárþorps á sínum tíma - en húsið var notað til skólahalds allt til 1974 er Glerárskóli ( nýi ) var reistur , um 100 metra norðvestan við þetta hús . Þá var farið að fjölga all verulega í Glerárþorpi frá því sem var 1938 , margar stórar íbúðablokkir komnar og Holtahverfi u.þ.b. fullbyggt . Það sem helst setur svip á húsið eru stórir og miklir gluggar sem snúa á móti suðri og því hefur væntanlega verið mjög bjart í kennslustofunum . Eftir að húsið lauk hlutverki sínu sem skólahús var þarna m.a. um langt skeið leikskóli en nú er þarna dagvistunarheimilið Árholt . Svo er annað sem ég er duglegur að koma að í hvert skipti sem ég fjalla um Þorpið , að mér finnst stórlega vanta sögurit um Glerárþorp á borð við t.d. Húsakönnunarbækur sem til eru um Oddeyrina og Innbæinn . Bók þar sem hægt væri að fletta upp á hverju gömlu býli og þar kæmi fram byggingarár , hver byggði og “ létt ” söguágrip . Eitt er víst að sú bók myndi verða í miklu uppáhaldi hjá mér . Þessa dagana eru margar hendur á lofti við undirbúning á stórviðburði í menningarlífi Akureyringa en það er opnun á tíu listsýningum í sjö sýningarrýmum í og við Listagilið á Akureyri . Stóri dagurinn verður laugardaginn 22. júní en það er listamaðurinn Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sem í tilefni af fimmtugasta afmælisdegi sínum mun opnar tíu listsýningar í Listasafninu , Ketilhúsi , Deiglunni , Mjólkurbúðinni , Populus Tremula , sal Myndlistarfélagsins og Flóru sem staðsett er í Hafnarstræti 90. „ Samhliða opnun sýninganna verður boðið til mikils fagnaðar í Listagilinu þar sem vel verður veitt . Gleðin verður við völd og listagyðjurnar heiðraðar með sjónlist , tónlist , gjörningum o.fl . Viðburður þessi verður að teljast einstakur þar sem ekki er vitað til þess að nokkru sinni áður hafi einn listamaður sýnt samtímis á jafn mörgum stöðum , “ segir í kynningu frá Sjónlistamiðstöðinni . Sýningarnar , sem unnar eru með þátttöku fjölda listamanna af svæðinu , marka hápunktinn í dagskrá Sjónlistamiðstöðvarinnar á árinu 2013 og eru hluti af endapunkti verkefnisins Réttardagur 50 sýninga röð , sem staðið hefur yfir , á vegum Aðalheiðar , síðan 23. júní 2008 . Umfjöllunarefni sýninganna er íslenska sauðkindin og menning henni tengd þar sem markmiðið er að byggja brú milli listsköpunar og raunveruleikans með samstarfi við fjölda skapandi fólks . Að mati Aðalheiðar eru listir sá samfélagsspegill sem nauðsynlegur er til eflingar og afreka , ekki síður en nýsköpun og uppfinningar . Með því að túlka bændasamfélagið og þann óendanlega mannauð sem við höfum yfir að ráða vonast hún til að opna fyrir flóðgáttir hugmynda og færa áhorfandann nær hamingjunni . Reynir Albert Þórólfsson , starfsmaður Sjónlistamiðstöðvarinnar , tók þessar myndir af undirbúningi herlegheitanna . Nú er einni af stærstu ferðamannahelgunum á Akureyri lokið en mikið af gestum sóttu bæinn heim bæði í tengslum við Bíladaga sem haldnir eru á vegum Bílaklúbbs Akureyrar og Shell en ekki síður í tengslum við útskrift í Menntaskólanum á Akureyri en hefð er fyrir því að stúdentar frá MA sæki Akureyri heim um þessa helgi . Daníel Guðjónsson hjá Lögreglunni á Akureyri segir helgina heilt yfir hafa gengið vel . „ Það komu engin stórmál upp , engin alvarleg líkamsárás , engin nauðgun tilkynnt og engin stórfelld eignaspjöll . Það var hins vegar mikil ölvun í bænum en með góðri löggæslu tókst okkur að halda öllu í skefjum . “ Daníel segir íbúa Akureyrar hafa kvartað þónokkuð yfir hávaða í bílaumferð seint á kvöldin og nóttunni . „ Það er erfitt að ráða við þetta spól á götum og plönum út um allan bæ , við getum bara ekki verið allsstaðar og þeir sem ætla sér að spóla þeir fylgjast bara með því hvar við erum . Það er mjög hljóðbært á kyrrum góðviðrisnóttum eins og nú um helgina og þá veldur þetta íbúum enn meiri ama . “ Daníel segir þó hafa orðið mikla breytingu til batnaðar eftir að dagskrá Bíladaganna færðist upp á svæði Bílaklúbbsins . „ Það er ekkert verið að spóla á daginn eins og áður var , og svo sjáum við líka mikinn mun á því að ölvun er ekki lengur áberandi yfir daginn eins og var fyrir nokkrum árum . Það eru færri að sækja hátíðina , nú eru það bílaáhugamenn sem eru að sækja þennan viðburð en ekki eins mikið af fólki sem er að sækjast eftir útihátíðarstemmningunni . Við sjáum mikinn mun á yfirbragðinu nú frá því fyrir nokkrum árum og þetta er góð þróun . “ Hér má sjá myndband sem Fjölnir Örn tók á drift-keppninni á Bíladögum Kátir A úrslita hestar og knapar í töltkeppninni í Afmælis-mótaröðinni . Mynd : Ólafur Ólafsson Nú á 85 ára afmælisári Léttis verður mikið um að vera og þessa dagana er í gangi mótaröð sem nefnist afmælismót Léttis . Keppt var í tölti 13. júní sl og þann 25. júní verður 100 metra skeið og gæðingaskeið og svo verður keppt í fjórgangi þann 27. júní . Mótaröðin endar svo á keppni í fimmgangi 4. júlí nk. „ Á þessum mótum ætlum við að rifja upp sögu félagsins á milli atriða og í pásum . Í töltkeppninni var farið yfir stofnendur Léttis , formenn , heiðursfélaga og gull / silfurmerkishafa , “ segir á vefsíðu Léttis . En hluta sögunnar og lista yfir formenn , heiðursfélaga og merkishafa er hægt að finna á vefsíðunni . 18 - 23. júlí verður haldið Íslandsmót yngri flokka og er stjórn Léttis á fullu við að undirbúa það . „ Hlakkar okkur mikið til að fá í heimsókn til okkar framtíðarknapa landsins og eigum við von á hörku keppni , “ segir á vef Léttis . Skáning er hafin á Íslandsmótið í veflæga mótakerfinu Sportfeng og er fólk hvatt til að skrá á mótið áður en ferðalög hefjast . Á Akureyrarvöku í lok ágúst ætla Léttisfélagar að vera sýnilegir og taka þátt í menningarviðburðum á vegum bæjarins . „ Hestamannafélagið Léttir var stofnað 5. nóvember 1928 og munum við því halda veglega uppskeru og afmælishátíð í kringum þá dagssetningu . Þar munum við halda áfram með upprifjunina og sýna gamlar myndir ásamt fleiru skemmtilegu og er undirbúningur fyrir hátíðina hafinn “ . Við afhendingu hinnar íslensku fálkaorðu í dag Akureyringurinn Jóna Berta Jónsdóttir , fyrrverandi matráðskona , var meðal þeirra níu sem Forseti Íslands sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag . Hlaut Jóna Berta riddarakross fyrir störf sín að mannúðarmálum . Á hátíðarfundi bæjarstjórnar Akureyrar þann 29. ágúst sl. var Jónu Bertu veitt heiðursviðurkenning í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins . Af því tilefni rakti Eiríkur Björn Björgvinsson , bæjarstjóri , sögu Jónu Bertu í stuttu máli og hljómaði hún svo : „ Jóna Berta Jónsdóttir er fædd við Strandgötuna hér á Akureyri þann 6. október 1931 . Hún er dóttir hjónanna Jóns Guðjónssonar bakarameistara sem starfaði í yfir 40 ár hjá Brauðgerð Kristjáns Jónssonar og Ingibjargar Þórhannesdóttur húsmóður . Jóna Berta missti móður sína þegar hún var aðeins 9 ára gömul en eignaðist síðar að stjúpmóður Þorgerði Einarsdóttur húsmóður og verkakonu . Alsystkini Jónu Bertu eru ; Kristbjörn en hann fórst með Súlunni EA og Stella sem býr hér á Akureyri . Hálfsystir hennar er Hrafnhildur Jónsdóttir og fóstursystir Gréta Óskarsdóttir . Börn Jónu Bertu eru Þorgerður Jóna , Guðmundur Jóhann og Sigurður Hrafn . Jóna Berta lauk skyldunámi og fór snemma að vinna fyrir sér . Þegar Jóna Berta var 15 ára smitaðist hún af berklum og dvaldi með hléum á Kristneshæli næstu 11 ár en hún var síðasti sjúklingurinn á Íslandi sem fékk þá læknismeðferð “ að vera hogginn ” sem var ein þeirra aðferða sem notuð var fyrir komu nýrra lyfja gegn þessum illvíga sjúkdómi . Eftir að Jóna Berta náði heilsu starfaði hún hjá Sambandsverksmiðjunum í 35 ár , á FSA við ummönnun og sem matráðskona . Jóna Berta sinnti félagsstörfum fyrir Einingu-Iðju og Samband íslenskra berklasjúklinga , SÍBS . Þekktust er Jóna Berta fyrir störf sín fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar í um 30 ár og þar af í yfir 20 ár sem formaður nefndarinnar . Akureyringar og Norðlendingar hafa áður þakkað og heiðrað Jónu Bertu fyrir hennar framlag því hún var kjörin Norðurlendingur ársins árið 2007 “ . Aðrir sem hlutu fálkaorðuna í dag voru : Árni Bergmann rithöfundur , Reykjavík , riddarakross fyrir framlag til bókmennta og menningar Gísli B. Björnsson grafískur hönnuður og fyrrverandi skólastjóri , Reykjavík , riddarakross fyrir brautryðjendastarf í íslenskri grafík og framlag til menntunar hönnuða Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskólans Sæbjargar , Reykjavík , riddarakross fyrir framlag til öryggismála sjómanna Kristín Steinsdóttir formaður Rithöfundasambands Íslands , Reykjavík , riddarakross fyrir framlag til íslenskra bókmennta Kristján Ottósson blikksmiðameistari og framkvæmdastjóri Lagnafélags Íslands , Reykjavík , riddarakross fyrir forystu í lagnamálum Óli H. Þórðarson fyrrverandi framkvæmdastjóri Umferðarráðs , Reykjavík , riddarakross fyrir framlag til öryggismála og umferðarmenningar Sigrún Einarsdóttir glerlistamaður , Kjalarnesi , riddarakross fyrir framlag til eflingar íslenskrar glerlistar Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir , Reykjavík , riddarakross fyrir forystu á vettvangi líknarmeðferðar Hildur Eir Bolladóttir Gleðilegan þjóðhátíðardag kæru vinir . Í fljótu bragði man ég ekki til þess að hafa fundist sautjándi júní neitt sérstaklega skemmtilegur dagur , þegar ég lít til baka finnst mér eins og það hafi oftast rignt eða a.m.k. verið ansi kalt í veðri , gott ef það snjóaði ekki á sautjánda júní árið 1992 þegar ég var nýbúin að kaupa mér fyrstu hælaskó ævi minnar og ætlaði að spóka mig um á Sauðárkróki eins og alvöru dama , keypti þá meira að segja í Kaupfélagi Skagfirðinga . Nú nú og hver man ekki árið 2000 , þá kom bara heill suðurlandsskjálfti með tilheyrandi skelfingu . Svo man ég líka eitt hörmungaratvik , það var örugglega á sautjánda júní árið 1986 , ég var átta ára og mamma búin að dubba mig upp í ægilega fínan Laura Ingalls kjól með hvítri blúndusvuntu og hvítar sokkabuxur og ég var að hlaupa á eftir blöðru hérna í miðbænum á Akureyri og datt og það kom gat á sokkubuxurnar og ég hruflaði mig þannig að blóðtaumurinn lak niður sköflunginn og smitaðist í hvítu svuntuna og ég var ekki lengur eins og persóna úr Húsinu á sléttunni heldur úr bíómyndinni the Exorsist , þetta var mjög dramatískt , en auðvitað samt ekki á pari við suðurlandsskjálfta . Svo man ég líka sautjánda júní í Reykjavík með frumburðinn lítinn í vagni og við foreldrarnir ægilega blankir námsmenn og þurftum í alvöru að velta fyrir okkur hvort við ættum að kaupa rándýra helíumblöðru handa drengnum og borða þá hafragraut í kvöldmatinn eða flýta okkur bara með hann grenjandi heim og borða frekar hamborgara og franskar . Völdum síðan að kaupa blöðruna , minnir að við höfum samt ekki verið alveg sammála í þeirri ákvörðun . Og svo var blessað barnið bara þriggja ára með hor og og missti takið á blöðrunni svo hún sveif upp í himininn hærra en Hallgrímskirkjuturn , en drengurinn fór ekkert að gráta heldur öskraði eins og stunginn grís þegar Bósi Ljósár blöðrukall fjarlægðist eiganda sinn án þess að eiga nokkra einustu ofurkrafta í pokahorninu og við hlupum heim með barnið og töluðumst ekki við það sem eftir var kvöldsins . Já ég man marga svona sautjánda júní daga . En bíðið nú við , það er ekki eins og allar dramatískar stundir lífsins hafi einungis átt sér stað á sautjánda júní og dramatískari hafa þær jú orðið víða en þær sem hér eru tíundaðar . Getur verið að sautjándi júní sé svo mikilvægur dagur í sjálfsvitund okkar að maður muni næstum allt sem þá hefur gerst og jafnvel veðurfar tuttugu ár aftur í tímann ? Já ég held það , töfrar þessa dags eru fólgnir í því að við eigum hann öll saman , óháð pólík , trú , heilsufari , efnahag , kyni , kynhneigð , kynþætti osfrv . Ef við á annað borð búum á þessu landi , þá eigum við þennan dag með þjóð okkar og það er ótrúlega magnað og minnisvert . Og það að við skulum ár eftir ár safnast saman til að fagna sjálfstæði okkar sem þjóðar með því að kaupa rándýrar helíumblöðrur eða Candy floss , það er ótrúlega mikilvægt vegna þess að það er þegjandi samkomulag okkar allra um að við komum hvert öðru við , séum alvöru samfélag , þjóð sem deilir kjörum . Já það er ætíð sautjándi júní um allt land , því megum við aldrei gleyma . Sautjándi júní er og verður áttaviti okkar heim til þeirra gilda sem grundvalla lýðræðisþjóðfélag . Þau gildi snúast um jafnrétti kynjanna , ekki í orði heldur á borði , þau snúast um að náttúruauðlindir séu metnar sem sameiginlegur arfur okkar allra , arfur sem á að ganga til komandi kynslóða , þeirra sem munu síðar halda upp á þennan dag með Candy floss og helíumblöðrum og vonsviknum barnabörnum í kerru . Það eru gildi sem snúast um að bjóða nýja Íslendinga velkomna til þessa lands með forvitni og kærleiksríka afskiptasemi að leiðarljósi , það eru gildi sem snúast um að hlúa að börnum og ungmennum þessa lands og spara hvergi í umönnun þeirra og menntun , það eru gildi sem snúast um að efla menningu og listir og sjá tækifæri í leiðum sem bjóða ekki upp á skjótfenginn gróða . Það eru gildi sem snúast um að hlúa að og nostra við lífið og hugsa hvert skref , því þá verður lífið að Lystigarði eins og þeim er við njótum hér í dag , blómlegt og fagurt . Hildur Eir Bolladóttirj Hugleiðing flutt á hátíðarsamkomu í Lystigarðinum á Akureyri
Guðbrandur Siglaugsson , skáld og tónlistarmaður mun lesa upp úr nýjustu bók sinni Þúfnatali í Flóru , Hafnarstræti 90 á Akureyri fimmtudaginn 20. júní kl. 17:45 . Þúfnatal er 12. ljóðabók Guðbrands og kom út fyrr á þessu ári hjá Uppheimum . „ Guðbrandur Siglaugsson býr að afar persónulegu og heillandi ljóðmáli sem nýtur sín til fulls í þessari nýju bók og gestir Flóru fá að njóta þess á fimmtudaginn , “ segir í tilkynningu um viðburðinn . Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir . Flóra er verslun , viðburðarstaður og vinnustofur og menningardagskrá Flóru hlaut styrk úr Menningarsjóði Akureyrar á þessu ári . Í yfirlýsingu sem N3 plötusnúðar sendu frá sér nú í kvöld kemur fram að Dynheimaballið um næstu verslunarmannahelgi sé í uppnámi vegna samstarfsörðugleika N3 plötusnúða við Hólmar Svansson og Þórhall Jónsson en saman hafa þeir staðið fyrir hinum vinsælu Dynheimaböllum í Sjallanum . N3 plötusnúðar eru félagarnir Davíð Rúnar Gunnarsson , Sigurður Rúnar Marinósson og Pétur Guðjónsson sem allir voru á sínum tíma plötusnúðar á unglingaskemmtistaðnum Dynheimum á níunda áratug síðustu aldar . Yfirlýsingin hljóðar svo í heild sinni : Undanfarin ár höfum við haldið nostalgíuböll , þar sem fólk gleðst saman og miklir endurfundir heilu árganganna eiga sér stað . Og þar sem fólkið sem var í Dynheimum eldist þá vildum við taka næsta skref . Hingað til hefur verið 30 ára aldurstakmark á Dynheimaböllin en í ár vildum við breyta því . Eftir stuttar útskýringar á hugmyndinni greip Þórhallur fram í fyrir okkur og sagði að svona yrði þetta ekki . Við reyndum í vinsemd að útskýra þetta en allt kom fyrir ekki . Hólmar og Þórhallur ruku þá á dyr og sögðust vera hættir að starfa með okkur , þeir myndu bara gera þetta sjálfir . Með vinsemd og virðingu : N3 plötusnúðar : Davíð Rúnar Gunnarsson , Sigurður Rúnar Marinósson og Pétur Guðjónsson Sérstaklega mælir Lonely Planet með Jarðböðunum við Mývatn í stað Bláa lónsins Í dag var birtur listi yfir þá tíu staði í Evrópu sem ferðahandbókaútgefandinn Lonely Planet mælir með . Þessi tilnefning mun án efa hafa mikla þýðingu fyrir markaðssetningu Norðurlands sem ferðamannastaðar . Hún hefur einnig starfað sem sérfræðingur hjá Evrópuþinginu og sem blaðamaður með efnahagsmál sem sérsvið . Fundurinn er öllum opinn og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta . Laugardaginn 15. júní , sama dag og brautskráning fór fram við HA , sást til unga sem hafði látið sig vaða niður af þakinu og var með öðru foreldri sínu í ormaleit í runnabeði á meðan annar sást kúra sig enn uppi á þaki . En annað koma á daginn , því það eru þrír ungar sem fylgja foreldrum sínum um lóðir háskólans og náðist þessi mynd af fjölskyldunni við kennslustund í ætisleit . Eitthvað fældust nú greyin á meðan starfsfólk E-húss fylgdist með fjölskyldunni út um gluggann og náðist markaðs - og kynningarstjóri á mynd þar sem hún hljóp um með myndavél . Tjaldurinn er einkvænisfugl og getur orðið meira en þrjátíu ára gamall . Það er því aldrei að vita hversu lengi parið mun sækja háskólann heim , nema einhver unganna taki við og viðhaldi hefðinni . ] ] Hátún er byggt 1926 , einlyft steinsteypuhús með lágu risi á lágum kjallara . Alla tíð hefur húsið verið íbúðarhús og trúlega hafa einhverjar fleiri byggingar fylgt í upphafi ( útihús e.t.v. ) en það er þá allt löngu horfið . Er það steinsteypt hús frá 1944 , undir áhrifum frá funkis-stíl . Það er einlyft steinsteypt bygging með söðulþaki , byggð 1938 . Var húsið byggt sem skólahús fyrir Glerárþorp en skólahald hafði þá verið um 30 ára skeið í Ósi við Sandgerðisbót . Þetta hús var ein allra stærsta og veglegasta bygging Glerárþorps á sínum tíma - en húsið var notað til skólahalds allt til 1974 er Glerárskóli ( nýi ) var reistur , um 100 metra norðvestan við þetta hús . Svo er annað sem ég er duglegur að koma að í hvert skipti sem ég fjalla um Þorpið , að mér finnst stórlega vanta sögurit um Glerárþorp á borð við t.d. Húsakönnunarbækur sem til eru um Oddeyrina og Innbæinn . Bók þar sem hægt væri að fletta upp á hverju gömlu býli og þar kæmi fram byggingarár , hver byggði og “ létt ” söguágrip . Eitt er víst að sú bók myndi verða í miklu uppáhaldi hjá mér . Þessa dagana eru margar hendur á lofti við undirbúning á stórviðburði í menningarlífi Akureyringa en það er opnun á tíu listsýningum í sjö sýningarrýmum í og við Listagilið á Akureyri . Stóri dagurinn verður laugardaginn 22. júní en það er listamaðurinn Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sem í tilefni af fimmtugasta afmælisdegi sínum mun opnar tíu listsýningar í Listasafninu , Ketilhúsi , Deiglunni , Mjólkurbúðinni , Populus Tremula , sal Myndlistarfélagsins og Flóru sem staðsett er í Hafnarstræti 90 . Athygli vekur að opnunin er kl. 22 um kvöldið . „ Samhliða opnun sýninganna verður boðið til mikils fagnaðar í Listagilinu þar sem vel verður veitt . Gleðin verður við völd og listagyðjurnar heiðraðar með sjónlist , tónlist , gjörningum o.fl . Með því að túlka bændasamfélagið og þann óendanlega mannauð sem við höfum yfir að ráða vonast hún til að opna fyrir flóðgáttir hugmynda og færa áhorfandann nær hamingjunni . Reynir Albert Þórólfsson , starfsmaður Sjónlistamiðstöðvarinnar , tók þessar myndir af undirbúningi herlegheitanna . Það var hins vegar mikil ölvun í bænum en með góðri löggæslu tókst okkur að halda öllu í skefjum . “ Daníel segir íbúa Akureyrar hafa kvartað þónokkuð yfir hávaða í bílaumferð seint á kvöldin og nóttunni . „ Það er erfitt að ráða við þetta spól á götum og plönum út um allan bæ , við getum bara ekki verið allsstaðar og þeir sem ætla sér að spóla þeir fylgjast bara með því hvar við erum . Við sjáum mikinn mun á yfirbragðinu nú frá því fyrir nokkrum árum og þetta er góð þróun . “ Hér má sjá myndband sem Fjölnir Örn tók á drift-keppninni á Bíladögum Kátir A úrslita hestar og knapar í töltkeppninni í Afmælis-mótaröðinni . 18 - 23. júlí verður haldið Íslandsmót yngri flokka og er stjórn Léttis á fullu við að undirbúa það . „ Þar munum við halda áfram með upprifjunina og sýna gamlar myndir ásamt fleiru skemmtilegu og er undirbúningur fyrir hátíðina hafinn “ . Við afhendingu hinnar íslensku fálkaorðu í dag Akureyringurinn Jóna Berta Jónsdóttir , fyrrverandi matráðskona , var meðal þeirra níu sem Forseti Íslands sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag . Hún er dóttir hjónanna Jóns Guðjónssonar bakarameistara sem starfaði í yfir 40 ár hjá Brauðgerð Kristjáns Jónssonar og Ingibjargar Þórhannesdóttur húsmóður . Jóna Berta missti móður sína þegar hún var aðeins 9 ára gömul en eignaðist síðar að stjúpmóður Þorgerði Einarsdóttur húsmóður og verkakonu . Alsystkini Jónu Bertu eru ; Kristbjörn en hann fórst með Súlunni EA og Stella sem býr hér á Akureyri . Eftir að Jóna Berta náði heilsu starfaði hún hjá Sambandsverksmiðjunum í 35 ár , á FSA við ummönnun og sem matráðskona . Jóna Berta sinnti félagsstörfum fyrir Einingu-Iðju og Samband íslenskra berklasjúklinga , SÍBS . Þekktust er Jóna Berta fyrir störf sín fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar í um 30 ár og þar af í yfir 20 ár sem formaður nefndarinnar . Akureyringar og Norðlendingar hafa áður þakkað og heiðrað Jónu Bertu fyrir hennar framlag því hún var kjörin Norðurlendingur ársins árið 2007 “ . Aðrir sem hlutu fálkaorðuna í dag voru : Árni Bergmann rithöfundur , Reykjavík , riddarakross fyrir framlag til bókmennta og menningar Gísli B. Björnsson grafískur hönnuður og fyrrverandi skólastjóri , Reykjavík , riddarakross fyrir brautryðjendastarf í íslenskri grafík og framlag til menntunar hönnuða Hilmar Snorrason skólastjóri Slysavarnaskólans Sæbjargar , Reykjavík , riddarakross fyrir framlag til öryggismála sjómanna Kristín Steinsdóttir formaður Rithöfundasambands Íslands , Reykjavík , riddarakross fyrir framlag til íslenskra bókmennta Kristján Ottósson blikksmiðameistari og framkvæmdastjóri Lagnafélags Íslands , Reykjavík , riddarakross fyrir forystu í lagnamálum Óli H. Þórðarson fyrrverandi framkvæmdastjóri Umferðarráðs , Reykjavík , riddarakross fyrir framlag til öryggismála og umferðarmenningar Sigrún Einarsdóttir glerlistamaður , Kjalarnesi , riddarakross fyrir framlag til eflingar íslenskrar glerlistar Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir , Reykjavík , riddarakross fyrir forystu á vettvangi líknarmeðferðar
Vefmiðillinn akureyrivikublad.is er stofnaður 1. apríl 2012 og er í nánu samstarfi við blaðið Akureyri vikublað sem gefið er út af Fótspori ehf og ritstýrt af Birni Þorlákssyni . Eigendur vefmiðilsins eru Sóley Björk Stefánsdóttir ( kt : 090773-3489 ) og Völundur Jónsson ( kt : 060484-2959 ) Ritstjóri er Sóley Björk Stefánsdóttir Efnistök vefmiðilsins eru þríþætt : Blaðamaður Akureyrar vikublaðs sér um fréttaöflun og úrvinnslu að mestu leyti . Aðsendar greinar geta birst bæði í Akureyri vikublaði og vefmiðlinum . Annað efni er unnið af eða er á ábyrgð ritstjóra vefmiðilsins . Vefmiðillinn er rekinn af þeirri samfélagslegu hugsjón að bæta aðgengi bæjarbúa að fjölbreytilegum upplýsingum sem þá varða og hvetja til umræðu um málefni bæjarins og bæjarbúa . Allar tekjur miðilsins koma af sölu auglýsinga . Ekki er tekið við auglýsingum sem ganga gegn lögum s.s. með vísun í áfengi . Ritstjóri miðilsins er fjölmiðlafræðingur , lauk stúdentsprófi af listnámsbraut Borgarholtsskóla , með margmiðlunarhönnun sem kjörsvið ( 2002 ) , B.A. gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri ( 2009 ) og kennslufræði til kennsluréttinda frá Háskólanum á Akureyri ( 2011 ) .
p = 2582 Innri kyrrð og djúpslökun . Hlutlaust hugarástand er heilandi og endurnærandi fyrir líkama , huga og sál . Við gerum kundalini jógaæfingasett og hugleiðslu ásamt djúpri slökun . Kennt í Orkulundi 30. júni kl. 10 - 12 . Verð 2.000 , - kr . Í kjölfarið verður 30 mínútna kyrrðar - og heilunarstund þar sem fólk getur komið og þegið einingarblessun . Setið er á stól og færir einingarblessun þig nær varanlegri gleði og friði i eigin [...] ] ] > Innri kyrrð og djúpslökun . Hlutlaust hugarástand er heilandi og endurnærandi fyrir líkama , huga og sál . Við gerum kundalini jógaæfingasett og hugleiðslu ásamt djúpri slökun . Kennt í Orkulundi 30. júni kl. 10 - 12 . Verð 2.000 , - kr . Í kjölfarið verður 30 mínútna kyrrðar - og heilunarstund þar sem fólk getur komið og þegið einingarblessun . Setið er á stól og færir einingarblessun þig nær varanlegri gleði og friði i eigin lífi . Hún miðar að því að tengja þig við þinn innri helga kjarna . Aðgangur ókeypis . Skráning og nánari upplýsingar : Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir Kundalini jógakennari og jógískur ráðgjafi s : 862-3700 / [email protected] . ] ] p = 2589 Einingarblessun – aðgangur ókeypis . Orkulundi 24. júní kl 21:45 - 22:15 . Blessunin veitir mörgum skýrari sýn og upplifun á kærleika , gleði og innri friði . Hún hjálpar til við að leysa upp neikvæð mynstur og áföll sem við geymum í frumum og orkukerfi okkar og stuðlar að tilfinningalegri og líkamlegri heilun . Orkan sem flæðir í gegn í einingarblessun hefur áhrif á [...] ] ] > Blessunin veitir mörgum skýrari sýn og upplifun á kærleika , gleði og innri friði . Hún hjálpar til við að leysa upp neikvæð mynstur og áföll sem við geymum í frumum og orkukerfi okkar og stuðlar að tilfinningalegri og líkamlegri heilun . Orkan sem flæðir í gegn í einingarblessun hefur áhrif á 16 stöðvar í heilanum sem stjórna tilfinningum eins og gleði , kærleika , ótta , hatri o.s.frv . Við einingarblessun styrkjast jákvæðar tilfinningar og áhrif neikvæðra tilfinninga verða minni . Blessunin fer þannig fram að hendur þess er hana veitir eru lagðar létt á höfuðið þess er þiggur . Upplifun fólks af athöfninni , getur verið mjög sterk , fíngerð , eða jafnvel ekki fundist fyrr en eftir nokkra daga . Sumir finna líkt og náladoða á höfðinu , sælutilfinningu eða að hugurinn sé þægilega tómur og aðrir jafnvel ekki neitt . Einingarathöfn tilheyrir ekki neinum trúarbrögðum eða heimspeki . Hún hjálpar okkur að upplifa tengingu okkar við hið helga . ] ] p = 2579 Rödd sálarinnar , að hlusta á og þekkja sinn innri sannleika . Ég fjalla um efnið út frá jógískum fræðum . Við gerum kundalini jógaæfingasett og hugleiðslu ásamt djúpri slökun . Kennt í Orkulundi 24. júní kl. 20 - 21:30 . Verð 2.000 , - kr . Í kjölfarið verður 30 mínútna kyrrðar - og heilunarstund þar sem fólk getur komið og þegið einingarblessun . Setið er á stól og færir einingarblessun þig nær varanlegri gleði og [...] ] ] > Rödd sálarinnar , að hlusta á og þekkja sinn innri sannleika . Ég fjalla um efnið út frá jógískum fræðum . Við gerum kundalini jógaæfingasett og hugleiðslu ásamt djúpri slökun . Kennt í Orkulundi 24. júní kl. 20 - 21:30 . Verð 2.000 , - kr . Í kjölfarið verður 30 mínútna kyrrðar - og heilunarstund þar sem fólk getur komið og þegið einingarblessun . Setið er á stól og færir einingarblessun þig nær varanlegri gleði og friði i eigin lífi . Hún miðar að því að tengja þig við þinn innri helga kjarna . Aðgangur ókeypis . Skráning og nánari upplýsingar : Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir Kundalini jógakennari og jógískur ráðgjafi s : 862-3700 / [email protected] . ] ] p = 2401 Gönguhugleiðslunámskeið í Kjarnaskógi . Kenndar verðar 2 gönguhugleiðslur og frætt um áhrif þeirra á líkama , huga og sál . Hittumst við Sólrúið á efra planinu . 24. júní kl. 13 - 14:30 . Verð 2.000 , - kr . Í kjölfarið verður 30 mínútna kyrrðar - og heilunarstund þar sem fólk getur komið og þegið einingarblessun . Setið er á stól og færir einingarblessun þig nær varanlegri gleði og friði i eigin lífi . [...] ] ] > Gönguhugleiðslunámskeið í Kjarnaskógi . Kenndar verðar 2 gönguhugleiðslur og frætt um áhrif þeirra á líkama , huga og sál . Hittumst við Sólrúið á efra planinu . 24. júní kl. 13 - 14:30 . Verð 2.000 , - kr . Í kjölfarið verður 30 mínútna kyrrðar - og heilunarstund þar sem fólk getur komið og þegið einingarblessun . Setið er á stól og færir einingarblessun þig nær varanlegri gleði og friði i eigin lífi . Hún miðar að því að tengja þig við þinn innri helga kjarna . Aðgangur ókeypis . Skráning og nánari upplýsingar : Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir Kundalini jógakennari og jógískur ráðgjafi s : 862-3700 / [email protected] . ] ] p = 2591 Einingarblessun – aðgangur ókeypis . Orkulundi 20. júní kl 12:15 - 12:45 Blessunin veitir mörgum skýrari sýn og upplifun á kærleika , gleði og innri friði . Hún hjálpar til við að leysa upp neikvæð mynstur og áföll sem við geymum í frumum og orkukerfi okkar og stuðlar að tilfinningalegri og líkamlegri heilun . Orkan sem flæðir í gegn í einingarblessun hefur áhrif á [...] ] ] > Blessunin veitir mörgum skýrari sýn og upplifun á kærleika , gleði og innri friði . Hún hjálpar til við að leysa upp neikvæð mynstur og áföll sem við geymum í frumum og orkukerfi okkar og stuðlar að tilfinningalegri og líkamlegri heilun . Orkan sem flæðir í gegn í einingarblessun hefur áhrif á 16 stöðvar í heilanum sem stjórna tilfinningum eins og gleði , kærleika , ótta , hatri o.s.frv . Við einingarblessun styrkjast jákvæðar tilfinningar og áhrif neikvæðra tilfinninga verða minni . Blessunin fer þannig fram að hendur þess er hana veitir eru lagðar létt á höfuðið þess er þiggur . Upplifun fólks af athöfninni , getur verið mjög sterk , fíngerð , eða jafnvel ekki fundist fyrr en eftir nokkra daga . Sumir finna líkt og náladoða á höfðinu , sælutilfinningu eða að hugurinn sé þægilega tómur og aðrir jafnvel ekki neitt . Einingarathöfn tilheyrir ekki neinum trúarbrögðum eða heimspeki . Hún hjálpar okkur að upplifa tengingu okkar við hið helga . ] ] p = 2578 Einingarblessun – aðgangur ókeypis . Orkulundi 9. júní kl 12:15 - 12:45 . Blessunin veitir mörgum skýrari sýn og upplifun á kærleika , gleði og innri friði . Hún hjálpar til við að leysa upp neikvæð mynstur og áföll sem við geymum í frumum og orkukerfi okkar og stuðlar að tilfinningalegri og líkamlegri heilun . Orkan sem flæðir í gegn í einingarblessun hefur áhrif á [...] ] ] > Blessunin veitir mörgum skýrari sýn og upplifun á kærleika , gleði og innri friði . Hún hjálpar til við að leysa upp neikvæð mynstur og áföll sem við geymum í frumum og orkukerfi okkar og stuðlar að tilfinningalegri og líkamlegri heilun . Orkan sem flæðir í gegn í einingarblessun hefur áhrif á 16 stöðvar í heilanum sem stjórna tilfinningum eins og gleði , kærleika , ótta , hatri o.s.frv . Við einingarblessun styrkjast jákvæðar tilfinningar og áhrif neikvæðra tilfinninga verða minni . Blessunin fer þannig fram að hendur þess er hana veitir eru lagðar létt á höfuðið þess er þiggur . Upplifun fólks af athöfninni , getur verið mjög sterk , fíngerð , eða jafnvel ekki fundist fyrr en eftir nokkra daga . Sumir finna líkt og náladoða á höfðinu , sælutilfinningu eða að hugurinn sé þægilega tómur og aðrir jafnvel ekki neitt . Einingarathöfn tilheyrir ekki neinum trúarbrögðum eða heimspeki . Hún hjálpar okkur að upplifa tengingu okkar við hið helga . ] ] p = 2573 Allsnægtir efnis og anda . Fjallað er um hugmyndir Yogi Bhajan um allsnægtir og hvernig sé best að nálgast það í okkar lífi . Við gerum kundalini jógaæfingasett og hugleiðslu ásamt djúpri slökun . Kennt í Orkulundi 9. júní kl. 10 - 12 . Verð 2.000 , - kr . Í kjölfarið verður 30 mínútna kyrrðar - og heilunarstund þar sem fólk getur komið og þegið einingarblessun . Setið er á stól og færir [...] ] ] > Allsnægtir efnis og anda . Fjallað er um hugmyndir Yogi Bhajan um allsnægtir og hvernig sé best að nálgast það í okkar lífi . Við gerum kundalini jógaæfingasett og hugleiðslu ásamt djúpri slökun . Kennt í Orkulundi 9. júní kl. 10 - 12 . Verð 2.000 , - kr . Í kjölfarið verður 30 mínútna kyrrðar - og heilunarstund þar sem fólk getur komið og þegið einingarblessun . Setið er á stól og færir einingarblessun þig nær varanlegri gleði og friði i eigin lífi . Hún miðar að því að tengja þig við þinn innri helga kjarna . Aðgangur ókeypis . ] ] p = 2465 Föstudaginn 8. júní kl. 20 verða haldnir svakalegir tribute tónleikar , Elton John til heiðurs . Fluttar verða sígildar perlur sem og nokkur minna þekkt lög . Hljómsveitina skipa : Axel Ingi Árnason – Píanó og söngur Andri Kristinsson – Gítar Gunnar Sigfús Björnsson – Bassi Emil Þorri Emilsson – Slagverk ásamt fleirum Tónleikarnir verða í Laugarborg við Hrafnagil [...] ] ] > Föstudaginn 8. júní kl. 20 verða haldnir svakalegir tribute tónleikar , Elton John til heiðurs . Fluttar verða sígildar perlur sem og nokkur minna þekkt lög . Tónleikarnir verða í Laugarborg við Hrafnagil í Eyjafjarðarsveit . Kaffi verður í boði en aðra drykki þarf fólk að koma með sjálft .
Með hjálp erfðavenjanna tekst okkur að halda einingu í deildinni . Einnig minna þær okkur á að einbeita okkur að tilgangi samtakanna . Sú deild sem ekki fer eftir erfðavenjunum getur átt á hættu að lenda í árekstrum eða gera mistök sem geta komið í veg fyrir að félagar njóti þeirrar hjálpar sem svo fjölmargir hafa fengið hjá Al-Anon . Við sækjum Al-Anon og Alateen fundi til að fá umhyggju , skilning og von . Bataleiðin hjálpar okkur að líta inn á við og taka ábyrgð á okkur sjálfum , lagfæra viðhorf okkar og setja líf okkar í hendur æðri máttar . Við getum ekki nálgast Al-Anon bataleiðina annarsstaðar og þegar við komum á fundi reiknum við með að heyra einungis um hana . Þegar aðferðum Al-Anon er beitt styrkir það einingu og sátt deildarinnar og hjálpar okkur að halda batasamfélaginu jákvæðu og heilbrigðu til frambúðar . Reynslan innan deildanna sýnir að eining okkar byggist á því að við förum eftir erfðavenjunum . Erfðavenjurnar tólf 1 . Sameiginleg velferð okkar situr í fyrirrúmi . Bati hvers og eins byggist á einingu samtakanna . 2 . Hver deild hefur aðeins einn leiðtoga - algóðan guð , eins og hann birtist í deildarsamviskunni . Fyrirsvarsmenn okkar eru aðeins þjónar sem við treystum , ekki stjórnendur . 3 . Aðstandendur alkóhólista mega því aðeins nefna sig Al-Anon fjölskyldudeild að þeir komi saman til sameiginlegrar hjálpar og með því skilyrði að þeir komi saman í þeim tilgangi einum . Til þess að gerast Al-Anon félagi þarf aðeins eitt , að ættingi eða vinur hafi átt eða eigi í vanda vegna alkóhólisma . 4 . Sérhver deild ætti að vera sjálfráða nema í málefnum sem snerta aðrar deildir eða Al-Anon og AA samtökin í heild . 5 . Al-Anon fjölskyldudeildirnar hafa aðeins einn tilgang , að hjálpa fjölskyldum alkóhólista . Það gerum við með því að tileinka okkur tólf reynsluspor AA samtakanna , auðsýna alkóhólistunum okkar skilning og hvatningu , bjóða velkomnar og hughreysta fjölskyldur alkóhólista . 6 . Al-Anon fjölskyldudeildir ættu aldrei að standa að , leggja fé til , eða lána nafn sitt neinum utanaðkomandi samtökum til þess að fjármunir , eignir eða upphefð fjarlægi okkur ekki frá upphaflegum andlegum tilgangi okkar . Þó að við séum sjálfstæð heild , skyldum við ávallt vera fús til samvinnu við AA-samtökin . 7 . Sérhver deild ætti að vera algjörlega á eigin framfæri og hafna utanaðkomandi framlögum . 8 . Tólfta-spors starf Al-Anon ætti ávallt að vera í höndum áhugamanna en þjónustumiðstöðvar okkar mega ráða starfskrafta . 9 . Deildirnar , sem slíkar , ætti aldrei að skipuleggja , en við getum myndað þjónusturáð eða nefndir , sem ábyrgar eru gagnvart þeim , sem þær þjóna . 10 . Al-Anon fjölskyldudeildirnar taka enga afstöðu til utanaðkomandi málefna , þess vegna ætti aldrei að blanda nafni okkar í opinber deilumál . 11 . Stefna okkar í kynningarmálum byggist á aðlöðun fremur en áróðri og skyldum við ætíð varðveita eigin nafnleynd í fjölmiðlum . Sérstaklega skyldum við gæta nafnleyndar allra AA félaga . 12 . Nafnleynd er hinn andlegi grundvöllur allra erfðavenja okkar og minnir okkur ætíð á að setja málefni og markmið ofar einstaklingum .
Hverjir eru félagar í Al-Anon fjölskyldudeildunum og af hverju eru þeir það ? Al-Anon félagar eru allskyns fólk úr öllum stéttum , trúfélögum og kynþáttum ; eiginkonur , eiginmenn , ástvinir , systur , bræður , börn og foreldrar alkóhólista . Engu skiptir hvernig sambandi okkar við alkóhólistann var eða er . Það sem skiptir máli er að við erum tengd ákveðnum böndum ; við erum fullviss þess að líf okkar hefur orðið fyrir áhrifum af drykkju annarra . Við hittumst til þess að deila reynslu okkar , styrk og von . Eru Al-Anon samtökin trúarlegs eðlis ? Al-Anon er andleg samtök , ekki trúarleg . Trúlausir jafnt sem trúaðir eru velkomnir og við leggjum áherslu á að ræða ekki sértæk umræðuefni trúarlegs eðlis . Al-Anon leiðin er byggð á þeirri andlegu hugmynd að við getum treyst á mátt okkur æðri , okkur til hjálpar við lausn vandamála og til að tryggja okkur hugarró . Við höfum algert frelsi til þess að skilgreina í hverju þessu máttur felst og með okkar eigin orðum . Bjóða Al-Anon samtökin upp á ráðgjafa eða meðferð ? Al-Anon og Alateen deildirnar eru sjálfshjálparleið þar sem gagnkvæmur stuðningur félaga er í boði og úrval lesefnis sem styrkir félaga í leit sinni að betri líðan . Mælir Al-Anon með ákveðnum meðferðarúrræðum ? Við erum ekki fagfólk og mælum því ekki með neinum tegunda hjálpar utan Al-Anon leiðarinnar . Með því að deila okkar eigin reynslu og styrk geta félagar öðlast innsýn sem gagnast þeim í því að fást við eigin kringumstæður . Hvernig veit ég hvort Al-Anon aðferðin hentar mér ? Hér er spurningalisti sem getur hjálpað þér að glöggva þig á því hvort þú eigir erindi á Al-Anon fundi . Verður sagt frá því að ég hafi komið á fundinn ? Nafnleyndin er algert grundvallaratriði í Al-Anon bataleiðinni . Hún tryggir félögum öruggan stað til þess að deila reynslu sinni . Við notum eingöngu fornöfn eða gælunöfn félaga . Við ræðum ekki um fólkið sem við sjáum eða endurtökum það sem við heyrum . Við stöndum vörð um nafnleynd allra Al-Anon , Alateen , AA-félaga jafnt sem fjölskyldumeðlima og vina sem við gætum minnst á fundum . Hver er ábyrgur fyrir deildinni ? Við öll . Við veljum félaga í þjónustuhlutverk í deildinni , allt frá þremur upp í tvö ár í senn . Ein bataleiðanna er að þjóna í Al-Anon fjölskyldudeildunum t.d. félagar bjóðast til að leiða fundi , undirbúa fundi , raða upp lesefni og sinna öðrum þörfum deildarinnar . Reyndir félagar leiða t.d. fundi á stofnunum , nýliðafundi , sporafundi og gerast trúnaðarmenn . Einnig taka þeir þátt í starfi á landsvísu . Eru aðrar deildir eins og þessi ? Deildin okkar er ein þúsunda Al-Anon deilda í meira en 110 löndum víðs vegar um heim . Á Íslandi fylgja flestar deildir sama fundarfyrirkomulagi og Al-Anon deildir í öðrum löndum . Áherslumunur getur verið milli deilda og sumar deildir eru t.d. karla eða konudeildir . Einnig eru sumar deildir með fast fundaefni en aðrar frjálst . Deildirnar skiptast síðan í þrjú svæði á landsvísu . Á svæðisfundum ræða fulltrúar deildanna þau mál sem varða vöxt deilanna og sameinast um sameiginleg markmið . Svæðisfundir eru opnir öllum félögum sem áhuga hafa á því að gefa af sér til samtakanna eða til að fræðast meira um samtökin . Hvað kostar þetta allt ? Engra beinna félagsgjalda er krafist af félögum Al-Anon eða Alateen deildanna . Í flestum deildum eru körfur látnar ganga á fundum . Við setjum í þær frjálst framlag , það sem við getum látið af hendi rakna . Peningarnir eru notaðir til að greiða húsaleigu , kaupa samþykkt Al-Anon lesefni fyrir deildina , kaupa veitingar og fl . Það sem af gengur er nýtt í sameiginlegan rekstur allra deildanna á þjónustuskrifstofu samtakanna , útgáfu á lesefni á íslensku , til kynninga og reksturs þessarar vefsíðu . Hvað geri ég nú ? Okkur hefur fundist gagnlegt að : Verða okkur út um fundarskrá Mæta reglulega á fundi og spjalla við hvort annað fyrir og eftir fundi . Skiptast á símanúmerum og netföngum . Að nokkrum tíma liðnum langar þig e.t.v. að biðja einhvern reyndan félaga að vera trúnaðarmanninn þinn . Trúnaðarmenn eru til staðar fyrir þig á milli funda . Trúnaðarmaðurinn þinn er þinn sérstaki vinur , sem þú getur haldið áfram að ræða við um innstu tilfinningar þínar og líðan , í fullum trúnaði . Lesa Al-Anon og Alateen bækur , bæklinga , tímaritið Forum , veftímaritið Hlekkinn og ýmis erlend fréttabréf Al-Anon og Alateen . Ef þú hefur enn spurningar , vertu óhrædd / ur að spyrja . Komdu endilega á fund . Við bjóðum þér vináttu okkar og skilning . Í byrjun er mjög gott að fara á nýliðafundi ef boðið er upp á þá í þínu byggðarlagi . Þessi texti er byggður m.a. á bæklingnum S - 4 For The Newcomer , P24 / 27 Service Manual og reynslu íslenskra félaga Öll réttindi áskilin . Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti , vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram , á nokkru formi eða með nokkurri aðferð ( rafrænni , vélrænni , með ljósritun , upptöku eða á annan hátt ) , án þess að geta heimilda www.al-anon.is .
Nýliðafundir eru sex vikur í senn sem má byrja á að mæta á hvenær sem er . Þú þarft ekki að tilkynna þig , bara að mæta . Það kostar ekki neitt en frjáls framlög eru vel þeginn . Þetta eru smærri fundir þar sem skýrt er frá starfsemi Al-Anon fjölskyldudeildanna , reyndir félagar segja reynslusögu sína og frá því hvernig Al-Anon og Alateen aðferðin hefur gagnast þeim . Aðrar deildir sem eru ekki með sérstaka nýliðafundi bjóða nýliðum upp á að ræða við valda félaga eftir almennan fund . Nýliðafundir eru að jafnaði 30 - 45 mínútur að lengd og eru hjá mörgum deildum á undan almennum fundi . Við mælum eindregið með því að þú mætir einnig í allavega sex skipti á almenna fundi áður en þú gerir upp hug þinn um hvort þessi sjálfshjálparaðferð hentar þér . Í fyrstu getur verið mjög erfitt að takast á við hluti sem legið hafa í þagnargildi jafnvel áratugum saman . En ástandið er ekki vonlaust . Þúsundir fólks um allan heim hafa öðlast hjálp og aukna hugarró með því að sækja Al-Anon fundi og að lesa Al-Anon lesefni . staðsetning : m á n u d a g u r Ísafjörður Safnaðarheimili Árbæjarkirkju ( að neðan ) við Rofabæ
Öll þjónusta ( 12. spor ) er jafn mikilvæg . Ef samtökin eru sterkt og heilbrigt batasamfélag þá skapast grundvöllur fyrir góðum bata félaganna . Allir félagar geta stuðlað að sterkum og trúverðugum samtökum með því að flytja öðrum þennan boðskap og taka þátt í tólfta spors starfi . Hér að neðan koma koma nokkrar tillögur sem sem sýna fram á fjölbreytni tólfta spors starfs . borga í pottinn ( frjáls framlög , þakklætisvottur fyrir tilvist samtakanna ) mæta og taka þátt í samviskufundum deildarinnar , vera trúnaðarmaður vera þjónustutrúnaðarmaður ( leiða annan í gegnum þjónustuhlutverk sem þú kannt ) tjá sig á fundum , leiða fundi , finna leiðara sýna nýliðum athygli og tala við þá taka að sér hlutverk í deildinni t.d. ( ritari , gjaldkeri , bókafulltrúi , deildarfulltrúi ) , bjóða símanúmerið sitt , fylgja nýliðum á fyrstu fundi auglýsa deildina sína vel í nærliggjandi búðum , sundlauginn og heilsugæslunni fara með kynningar á heilsugæslur , í skóla o.fl. leiða nýliðafundi , sporafundi og erfðavenjufundi kynna samþykkt lesefni og nota það til að leiða fundi Á svæðinu : mæta á svæðisfundi og taka þátt í samvisku svæðisins , aðstoða við svæðisfund ( kaffi , tiltekt , auglýsa , bóksala o.fl. ) , deildin þín hýsir svæðisfund taka að sér hlutverk á svæðinu ( svæðisfulltrúi , gjaldkeri , ritari o.fl. ) tjá sig á fundum , svara neyðarsíma , taka þátt í SOS-hóp , aðstoða við kynningarstarf ( t.d. VOG , fangelsi o.fl. ) , vera Alateen-trúnaðarmaður ræða um samtökin við aðra þar sem við á ( aðlöðun fremur en áróður ) taka aðra deild í fóstur t.d. nýja deild eða deild sem er orðin fámenn Á landsvísu : starfa í nefnd t.d.almannatengslanefnd , útgáfunefnd , Alateen nefnd , ráðstefnunefnd þjónusta á ráðstefnu , vera á tólfta spors lista skrifstofunnar ( svara tólfta spors bréfum , símtölum og vera trúnaðarmanneskja fyrir fólk úti á landi þar sem ekki eru fundir ) skrifa reynslusögu á Hlekkinn Allt starf innan Al-Anon fjölskyldudeildanna er unnið í sjálfboðaliðavinnu . Hjá Al-Anon og Alateen köllum við það að taka þátt í þjónustu . Þjónustan er hluti af andlegum meginreglum Al-Anon . Í tólfta og seinasta reynslusporinu segir : Við fundum að sá árangur sem náðist , með hjálp reynslusporanna , var andleg vakning og þess vegna reyndum við að flytja öðrum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi . Við tökum þátt í þjónustunni til þess að sýna þakklæti okkar í verki fyrir þau nýju og breyttu lífsviðhorf sem við höfum öðlast í Al-Anon og Alateen . Ný lífsviðhorf sem leitt hafa til andlegs bata , breyttrar hegðunar og æðruleysis . Með því að taka þátt í þjónustunni þá tryggjum við að samtökin verði áfram til staðar fyrir þá aðstandendur sem þurfa á hjálp að halda . Þátttakan styrkir líka okkar eigin bata og viðheldur honum . Félagar sem hafa tekið þátt í þjónustu eru sammála um að hún eflir einnig persónulega ábyrgð og er gullið tækifæri til þess að kynnast erfðavenjunum sem eru mikilvægur hlekkur í meginreglum Al-Anon bataleiðarinnar . Innra starf Al-Anon á Íslandi fer fram í deildunum , á svæðunum og í landsþjónustunni .
Allt frá stofnun 1951 hafa Al-Anon fjölskyldudeildanna gefið út meira 100 bækur og bæklingar í einum tilgangi : að hjálpa fjölskyldum og vinum að ná bata frá áhrifunum af drykkju annarrar manneskju . Bækur og bæklingar geta styrkt bata okkar en það kemur ekki í staðinn fyrir þá hjálp sem fæst á Al-Anon fundum og þann bata sem gerist þegar bataleiðinni í heild er beitt . Skilningur og virkni Al-Anon lesefnis er mest þegar það er notað í sameiningu með öðrum verkfærum bataleiðarinnar , s.s. fundarsókn . Við vekjum líka athygli á Hlekknum , veftímariti Al-Anon á Íslandi . Þar er að finna reynslusögur sem félagar hafa sent inn . Allir sem reynt hafa Al-Anon bataleiðina geta sent inn sögu sína og þannig deilt með okkur hinum reynslu sinni , styrk og von . Einnig er hægt að gerast áskrifandi að Hlekknum og fá senda tilkynningu í hvert sinn sem nýju efni er bætt við . Sendu okkur þína reynslusögu á [email protected] . Hvernig get ég eignast lesefni ? Hægt er að fara á skrifstofu samtakanna á opnunartíma og kaupa lesefni gegn staðgreiðslu ( debet eða kredit ) . Félagar geta líka beðið bókaveru sinnar deildar að vera með ákveðið lesefni til sölu og þá geta þeir keypt það á sínum reglulega fundi . Einnig er hægt að panta lesefni með tölvupósti ( [email protected] ) eða með því að fylla út pöntunarform hér á vefsíðunni . Kynning á nýjustu Al-Anon bókinni á íslensku : Al-Anon leiðin - fyrir fjölskyldur og vini alkóhólista Bókin kom í fyrst skipti út á íslensku í Mars 2012 og hefur verið mjög vinsæl . Hún fjallar á aðgengilegan og yfirgripsmikinn hátt um undirstöðuþætti bataleiðarinnar og er því tilvalin fyrir nýliða . Í bókinni er stuttar en hnitmiðaðar lýsingar á Sporunum , Erfðavenjunum og Þjónustuhugtökunum sem og slagorðunum . Bókin inniheldur auk þess reynslusögur frá félögum . Kilja með atriðisorðaskrá , 416 síður . Verð kr. 5.800 . Pöntunarnúmer : B - 22 . Mig langar að panta þessa bók . Hvernig fer ég að ? Skráðu sendingarupplýsingar ásamt nafn og númer bókar hérna ( pöntunarform ) Fjölskyldusjúkdómurinn alkóhólismi Okkar þáttur Við byrjum að vakna til vitundar með því að fræðast um fjölskyldusjúkdóminn alkóhólisma . Allir sem eiga í alkóhólísku sambandi , jafnt vinir , vinnufélagar , fjölskyldumeðlimir sem og alkóhólistinn sjálfur gegna sínu hlutverki í gangverki þessa sjúkdóms . Ef eitthvað á að breytast verðum við að reyna að átta okkur á því hver þáttur okkar hefur verið . Almennt má segja að alkóhólistar aðhafist og við sem erum í tengslum við þá bregðumst við . Virkur alkóhólisti verður drukkinn , hagar sér á fáránlegan eða óábyrgan hátt og dregur að sér alla athyglina . Þeir sem í kringum hann eru bregðast við drykkjunni og afleiðingum hennar . Drukkinn alkóhólisti hefur ekki áhyggjur af þeim vandamálum sem gerðir hans valda ; það sjá aðstandendur hans um . Við teljum að við verðum að axla ábyrgðina á því að gera fyrir alkóhólistann það sem hann virðist ófær eða áhugalaus um að gera fyrir sig sjálfur . Við byrjum að vakna til vitundar með því að fræðast um fjölskyldusjúkdóminn alkóhólisma . Allir sem eiga í alkóhólísku sambandi , jafnt vinir , vinnufélagar , fjölskyldumeðlimir sem og alkóhólistinn sjálfur gegna sínu hlutverki í gangverki þessa sjúkdóms . Ef eitthvað á að breytast verðum við að reyna að átta okkur á því hver þáttur okkar hefur verið . Almennt má segja að alkóhólistar aðhafist og við sem erum í tengslum við þá bregðumst við . Virkur alkóhólisti verður drukkinn , hagar sér á fáránlegan eða óábyrgan hátt og dregur að sér alla athyglina . Þeir sem í kringum hann eru bregðast við drykkjunni og afleiðingum hennar . Drukkinn alkóhólisti hefur ekki áhyggjur af þeim vandamálum sem gerðir hans valda ; það sjá aðstandendur hans um . Við teljum að við verðum að axla ábyrgðina á því að gera fyrir alkóhólistann það sem hann virðist ófær eða áhugalaus um að gera fyrir sig sjálfur . Í fyrstu eru mörg okkar virkilega áhyggjufull og er umhugað um það eitt að hjálpa ættingja eða vini sem líður greinilega ekki vel . En eftir því sem á líður og ástandið versnar æ meir hættum við að gera okkur grein fyrir því að við eigum val í stöðunni . Í raun voru valkostir sumra okkar ákaflega takmarkaðir . Þeim okkar sem ólust upp við alkóhólisma eða hafa orðið fyrir ofbeldi kann að hafa fundist þau neydd til að sjá um ýmislegt fyrir hönd alkóhólistans til þess að tryggja eigið öryggi . Á endanum hefur flestum okkar fundist við skuldbundin að koma til hjálpar , hvort sem við vildum það sjálf eður ei , jafnvel í þeim tilvikum þegar enga brýna neyð hefur borið til . Alkóhólistinn verður æ meira ósjálfbjarga . Eftir nokkra hríð er okkur fyrirmunað að láta hann sofa af sér einn vinnudaginn enn án þess að hringja og tilkynna að hann sé veikur eða hunsa enn einu sinni tilkynningar um innistæðulausar færslur . Það fer að verða betra að sitja heima heldur en hætta enn einu sinni á niðurlægingu á almannafæri . Og mörg okkar þola ekki spennuna sem því fylgir að bíða þess að afleiðingar drykkjunnar komi í ljós ; okkur finnst við vera tilneydd að grípa inn í . Alkóhólistar aðhafast og við bregðumst við . Enginn getur sagt alkóhólistanum neitt – hann , eða hún , ræður förinni í einu og öllu . Alkóhólið ýtir undir og ýkir sjálfstraust og vellíðan alkóhólistans og fær hann til að haga sér eins og lítinn guð sem ávallt hefur svör á reiðum höndum . Um leið kemst hann í æ meiri mótsögn við sjálfan sig . Við bregðumst við með því að rífast og reyna að fá hann til að horfa á hlutina af meira raunsæi . Okkur verður lífsnauðsynlegt að sanna að við höfum rétt fyrir okkur . Við höldum áfram að réttlæta afstöðu okkar eftir því sem fram líða stundir en ofsi alkóhólistans kemur okkur samt til að efast um okkur sjálf og skynjun okkar á veruleikanum . Ef alkóhólistinn segir að drykkjan sé okkur að kenna vegna þess að við séum of hávær eða óhlýðin finnst okkur við vera nauðbeygð til að vera yfirmáta hljóðlát og hlýðin jafnt að nóttu sem degi , burtséð frá því hvað það kann að kosta okkur . Með tímanum verðum við óöruggari um okkur eftir því sem alkóhólistinn virðist öruggari með sig . Við förum að samsinna því sem sagt er jafnvel þótt við vitum að það sé rangt . Við gerum hvaðeina sem af okkur er krafist til þess að forðast ágreining , því við vitum að okkur tekst hvort sem er aldrei að hafa betur í rifrildum né sannfæra alkóhólistann um að við höfum á réttu að standa . Við töpum hæfileikanum til að segja „ nei . “ Sama gildir þegar alkóhólistarnir í lífi okkar gefa loforð sem þeir geta ekki staðið við . Þeir lofa því til dæmis að missa ekki framar af fótboltaleik hjá krökkunum , viðskiptafundi eða stefnumóti á veitingahúsi . Þeir sverja að þeir muni ekki verða fullir aftur , vera að heiman alla nóttina , né verða ofbeldisfullir . Eða þá að þeir lofa að beita viljastyrk . Þeir skipta yfir í bjór í þeirri trú að hann hafi ekki jafn mikið vald yfir þeim og sterkt vín . Eða fjarlægja allt vín af heimilinu , til þess eins að sjúkdómurinn knýi þá til að til að finna eitthvað áfengt og láta sig hafa það að drekka spritt eða hóstasaft . Og við bregðumst við , enn og aftur . Við gleymum þeim hundruðum skipta sem ekki hefur verið staðið við gefin loforð og trúum því að alkóhólistinn geti í raun og veru stjórnað drykkju sinni . Við ákveðum að héðan í frá verði allt öðruvísi en áður – og betra ! Við afneitum því sem reynslan hefur kennt okkur og treystum á þessi nýju loforð af öllu hjarta . Við komum okkur í þá aðstöðu að verða nær óhjákvæmilega fyrir vonbrigðum . Og þegar alkóhólistanum tekst ekki að stjórna alkóhólismanum , sjúkdómi sem er alls ekki á hans valdi að ná stjórn á , verðum við miður okkar og fyllumst gremju og bræði . Við sjáum okkur sjálf sem hjálparvana fórnarlömb og okkur yfirsést að við höfum gefið kost á okkur í það hlutverk með því að velja að trúa af öllu hjarta á það sem við máttum vita af reynslunni að myndi tæplega geta staðist . Þau okkar sem hafa ekki verið samvistum við alkóhólista í mörg ár geta samt sem áður haldið áfram að bregðast við alkóhólísku hegðunarmynstri . Lágt sjálfsmat , afleiðing fyrri mistaka og misnotkunar eða vanrækslu viðhelst óbreytt . Við leitum til fólks sem ekki er til staðar fyrir okkur eftir þeirri ást og athygli sem okkur hlotnaðist ekki í fortíðinni . Við forðumst árekstra en nú við vinnuveitendur , aðra ættingja eða fólk í valdastöðum , í stað alkóhólistans áður . Eða við leitum uppi ágreining í þeirri trú að sókn sé besta vörnin . Ef við skynjum að átök séu framundan leiðum við athygli fólks að öðru og efnum til rifrildis um einhver önnur mál . Mörg okkar eru svo vön að lifa við stöðuga ringulreið og hættuástand að við vitum ekki hvað við eigum af okkur að gera þegar allt er með kyrrum kjörum . Afleiðingarnar eru þær að þegar allt gengur vel völdum við uppnámi og eyðileggjum þannig fyrir okkur sjálfum . Það veldur okkur vissulega vanlíðan en að minnsta kosti vitum við hvernig við eigum að haga okkur í slíkum kringumstæðum . Við getum líka haldið áfram þráhyggjuhegðun af ýmsu tagi , án þess að hafa hugmynd um hvað kveikir hana með okkur . Aðferðirnar sem við þróuðum til að komast af á meðan við vorum í návígi við sjúkdóminn eru orðnar að lífsmáta . Hugsanlega hefur það aldrei hvarflað að okkur að hægt væri að lifa lífinu á nokkurn annan veg . Þetta mynstur viðhelst einnig þótt alkóhólistinn verði allsgáður . Mörg okkar hafa séð ástvini sem eru hættir að drekka fara á „ þurrafyllirí “ en það þýðir að þeir virðast haga sér um tíma á nákvæmlega sama hátt og á meðan þeir voru virkir í drykkjunni . Að sjálfsögðu fara mörg okkar um leið ofan í sömu gömlu hjólförin . Jafnvel þótt ástvinur okkar sé til fyrirmyndar á batagöngu sinni getur óttinn um að hann byrji að drekka á ný , löngun okkar til að stýra bataferlinu , óleyst ágreiningsmál frá drykkjuárunum og lífsstíls - eða persónuleikabreytingar samhliða batanum kallað fram óheilbrigð viðbrögð hjá okkur sem er annt um alkóhólista á batavegi . Sjúkdómurinn og áhrif hans hverfa ekki þótt alkóhólistinn hætti að drekka . Ef við , vinir og ættingjar alkóhólista , kjósum ekki að leita okkur bata mun gangverk sjúkdómsins halda áfram að ráða ríkjum í samböndum okkar .
Í fimmtán látlausum orðum fyrsta sporsins felst mikil lífsspeki . Hægt væri að skrifa margar bækur um þá uppgjöf sem fyrstu sex orðin leggja til : ,, Við viðurkenndum vanmátt okkar gegn áfengi . ” Næstu níu orðin tákna viðurkenningu okkar á því að við höfum ekki enn lært að fást skynsamlega við okkar mál : ,, ... okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi . ” Fyrsta sporið býr okkur undir nýtt líf sem við getum því aðeins öðlast að við sleppum tökunum á því sem við getum ekki stjórnað . Að við tökumst á hendur , einn dag í einu , hið geysistóra verkefni að koma reglu á líf okkar með breyttum hugsunarhætti . Þegar ég segist ætla að fela guði allan minn vanda þýðir það ekki að ég geti skotið mér undan ábyrgð . Mér hafa verið gefnir sérstakir eiginleikar til að stjórna lífi mínu og frjáls vilji til að beita þeim . Þessir eiginleikar eru dómgreind , skynsemi , góður ásetningur og hæfileiki til að draga ályktanir . Ef til vill stafar vandi minn af því að ég hef misnotað þessa eiginleika . Dómgreindin getur hafa brenglast af reiði og skynsemin af því ég hef ekki skoðað vandamálin af fullri hreinskilni . Góður ásetningur getur farið forgörðum ef við getum ekki umborið bresti annarra . Hæfileikinn til að álykta getur sljóvgast þegar okkur mistekst að skilja okkur frá tilfinningalegri hlið vandamálsins . Þegar ég hef sökkt mér niður í Al-Anon hugmyndafræðina í leit minni að hugarró finnst mér ég þurfa að skilja mínar innstu hvatir og ástæður fyrir gerðum mínum og bæta úr því sem stendur mér fyrir þrifum . Leitin að sjálfsskilningi er nokkuð sem er erfitt , ef ekki ómögulegt að ljúka til fulls . En við getum lært mikið um okkur sjálf ef við höfum þann kjark sem þarf til að horfast í augu við okkar eigin raunverulega tilgang , án sjálfsblekkingar . Við getum það , ef við látum ekki óþægilega sektarkennd dylja þá góðu eiginleika sem við verðum að þekkja og byggja á í framtíðinni . Sporin tólf eru safn andlegrar visku sem víkkar og eykur skilning okkar þegar við meðtökum þau eitt af öðru . Það er þó eitt spor sem varpar sérstöku ljósi á öll hin og við ættum því , allt frá upphafi , að hugleiða það á hverjum degi . Þetta er ellefta sporið sem fjallar um bæn og hugleiðslu . Hugleiðsla er hin hljóðláta og staðfasta beiting hugans til djúprar íhugunar , andlegra sanninda . Tilgangur hennar er að sveigja hugann frá þeim vandamálum sem við blasa , lyfta huga okkar yfir þau umkvörtunarefni og þá óánægju sem mengar hugsunina . Í tólfta sporinu er kynnt síðasta áhrifaríka andlega leiðin sem okkur getur hlotnast ef við lifum samkvæmt lífsmáta Al-Anon . ,, Við fundum að sá árangur sem náðist , með hjálp reynslusporanna , var andleg vakning og þess vegna reyndum við að flytja öðrum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi . ” Hin andlega vakning færir okkur vitneskju um að við séum ekki ein og hjálparvana ; við höfum numið vissan sannleik , sem við getum nú flutt öðrum þeim til hjálpar . ELLEFTA SPORIÐ er afar sérstakt spor . Ég kunni vel að meta það um leið og ég heyrði það fyrst . Áður en ég kom inn í Al-Anon hafði ég fengið áhuga á austrænum trúarbrögðum . Mér geðjaðist að hugmyndinni um hugleiðslu . En þó virtust allar tilraunir mínar til að hugleiða mistakast . Ég gat ekki haldið kyrrð í huganum í meira en hálfa mínútu . Þar sem mér tókst það ekki í fyrstu tilraun taldi ég mig vonlausa og gafst upp .
Hver er tilgangurinn með slagorðunum og æðruleysisbæninni ? Slagorðin og æðruleysisbænin styrkja traust okkar á æðri mátt til andlegs vaxtar . Þegar við setjum slagorðin og æðruleysisbænina í samhengi við Al-Anon bataleiðina hjálpa þau okkur að takast á við dagleg persónuleg vandamál . Slagorðin er hægt að nota á fjölmargan hátt í dagsins önn : Hugleiða eða iðka tiltekið slagorð í heila viku Hafa þau upp á vegg eða í gemsanum Hugleiða hvernig við notum þau til að takast á við daglega lífið Þau eru frábært fundarefni Lesefni um slagorðin : B - 6 , Einn dagur í einu í Al-Anon B - 24 , Leiðir til bata Slagorð Al-Anon Hafðu það einfalt Þegar lífið virðist óviðráðanlegt og ruglingslegt hentar best að beita einföldum aðferðum og þetta slagorð minnir okkur á að flækja málin ekki ómeðvitað með því að reyna að sjá fyrir allt það sem gæti farið úrskeiðis til að vera viðbúin því . Þegar við höfum það einfalt reynum við að taka hlutunum eins og þeir eru í stað þess að velta því fyrir okkur hvað , ef til vill og kannski gæti orðið , ef þetta eða hitt væri svona eða hinsegin . Það minnir okkur á að flækja málin ekki frekar eða taka ekki meira að okkur en við getum ráðið við og að okkur gangi betur ef við einföldum markmið okkar . Að við getum slakað á , verið mildari við okkur sjálf og treyst því að ef við setjum annan fótinn fram fyrir hinn til skiptis komumst við á áfangastað . Einfaldlega skref fyrir skref . Nema fyrir náð guðs Þetta slagorð sem er stytting á máltækinu Þar gengi ég , nema fyrir náð guðs , minnir okkur á að ef ekki væri fyrir náð okkar æðri máttar værum við í sporum þeirra sem okkur hættir til að gagnrýna og álasa . Það segir okkur að það sé ekki okkar að dæma og við getum ekki vitað hvað aðrir eru að kljást við . Með því að vera langrækin , hefnigjörn , uppfull af ásökunum og gremju eyðum við miklum tíma sem við gætum annars notað til að þroska með okkur þakklæti fyrir það góða sem okkur hefur verið gefið og við spyrjum okkur í hvað við viljum eyða kröftum okkar . Lifðu og leyfðu öðrum að lifa Margir aðstandendur einbeita sér að síðari hluta þessa slagorðs þegar þeir byrja batagöngu sína . Við notum þetta slagorð til að minna okkur á að annað fólk á rétt á sínu lífi , rétt á að taka eigin ákvarðanir og taka afleiðingum þeirra , bæði góðum og slæmum . Með því að stíga til hliðar og leyfa öðrum að vera þeir sjálfir án okkar íhlutunar sýnum við þeim , og okkur virðingu og losum okkur við alls kyns byrðar sem okkur var aldrei ætlað að bera . Með því gefst okkur tækifæri til að skoða okkur sjálf og snúa okkur að fyrri hluta slagorðsins : Lifðu ! Við sem búum eða höfum búið við alkóhólisma höfum oft verið heltekin af annarra vandamálum og lífi og vanrækt okkur sjálf líkamlega og andlega . Þetta slagorð hvetur okkur til að snúa okkur að því að rækta okkur sjálf og sinna okkar eigin lífi og þörfum . Al-Anon bataleiðin , trúnaðarmenn og aðrir Al-Anon félagar geta hjálpað okkur til að finna leiðir til þess . Við eigum rétt á að lifa og sýna okkur sjálfum virðingu . Byrjaðu á byrjuninni Þetta slagorð hvetur okkur til að gefa okkur tíma til að forgangsraða . Í óreiðu alkóhólískra kringumstæðna höfum við vanist því að bregðast við háværustu kröfunum og þess vegna sést okkur oft yfir alvarlegar kringumstæður og hljóðlátar en mikilvægar þarfir okkar sjálfra . Þetta slagorð hjálpar okkur að átta okkur á því hvaða kosti við eigum , hvað við eigum að setja í forgang og að lifa með þeim ákvörðunum sem við tökum . Dagurinn í dag Með því að lifa í dag og leggja fortíð og framtíð til hliðar virðast þau verkefni sem okkur hafa fundist óframkvæmanleg , viðráðanlegri . Við áttum okkur á því að ekki þarf endilega að leysa úr öllum ágreiningsefnum á stundinni og fyrir fullt og allt . Með því að lifa daginn í dag getum við breytt okkur sjálfum örlítið og kannað nýja möguleika . Megi það byrja hjá mér Við erum ábyrg fyrir okkar eigin breytni , tilfinningum , líðan og hegðun . Slagorðið Megi það byrja hjá mérminnir okkur á að bíða ekki eftir að aðrir breytist og að við réttlætum ekki slæma hegðun okkar með því að aðrir hegði sér illa eða komi illa fram við okkur . Að við séu ekki vansæl af því aðrir geri okkur ekki hamingjusöm heldur eigum við að hefjast handa og uppfylla okkar þarfir sjálf . Erum við að leggja eitthvað jákvætt af mörkum til þess sem fram fer eða stöndum við bara hjá og gagnrýnum aðra fyrir að hlutirnir séu ekki í lagi . Breytum við því sem við getur breytt eða ætlumst við til að aðrir sjái um alla hluti . Hversu mikilvægt er það ? Hvert okkar ákveður fyrir sig hvað skiptir okkur mestu máli í lífinu en flest erum við sammála um að okkur hættir til að komast í uppnám yfir því sem litlu máli skiptir . Þetta slagorð minnir okkur á að rifja upp hvað það er sem hefur mest gildi í lífinu . Kostar það okkur æðruleysið að einhver sagði óvingjarnleg orð við okkur eða að við gleymdum einhverju sem við ætluðum okkur að gera ? Hvað er svo mikilvægt að það sé fimm mínútna virði af óhamingju og vansæld ? Og það sem er mikilvægt , Hversu mikilvægt er það , í dag ? Hugsaðu Slagorðið Hugsaðu minnir okkur á að í stað þess að bregðast ósjálfrátt við getum við staldrað við , hugsað og valið það sem okkur er fyrir bestu . Í stað þess að bregðast við ögrunum og erfiðleikum með látum , hávaða , tárum , píslarvætti , sjálfsásökunum , niðurrifs hugsunum eða hverju því sem við höfum tamið okkur í alkóhólísku umhverfi getum við tekið meðvitaða ákvörðun um eigin hegðun og reynt að átta okkur á muninum á úlfalda og mýflugu . Einn dagur í einu Meðan við rýnum í það ókomna og reynum að sjá fyrir atburði og samskipti í framtíðinni til að vera viðbúin öllu því sem mögulega getur komið upp á missum við af möguleikum dagsins í dag . Framtíðin er ekki innan seilingar og flestum okkar gengur betur að takast á við verkefni jafnt sem kvíða einn dag í einu . Með því að nýta daginn í dag sem best getum við búið okkur undir það sem morgundagurinn ber í skauti sér en við erum engu betur undir það búin að takast á við erfiðleika í framtíðinni þó við sóum deginum í dag í að hafa áhyggjur af morgundeginum . Erfiðleikar og sársauki í framtíðinni verður hvorki meiri né minni þó við veltum okkur upp úr áhyggjum yfir þeim í dag , við drögum aðeins þjáningar okkar á langinn . Með því að lifa einn dag í einu gefst okkur kostur á að skipta óviðráðanlegum verkefnum niður í smærri og viðráðanlegri hluta og reynt að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og gleði . Hafðu hugann opinn Þegar við höfum hugann opinn erum við tilbúin að veita athygli visku sem getur leynst þar sem við eigum síst von á . Hún getur jafnt leynst í orðum gamalreyndra Al-Anon félaga , nýliðanna , lítils barns eða í röfli einhvers sem okkur líkar alls ekki við . Með því að hafa hugann opinn útilokum við ekki hjálp , hvaðan sem hún berst . Góðir hlutir gerast hægt / Með hægðinni hefst það Flest höfum við reynt að knýja fram úrlausnir með góðu eða illu og við höfum gripið til ótrúlegustu aðgerða bara til að gera eitthvað . Þetta slagorð segir okkur að okkur geti miðað áfram þó við förum okkur hægt og stundum sé jafnvel árangursríkast að gera ekkert . Þar sem harkan hefur ekki dugað gerir hægðin það oftar en ekki . Slepptu tökunum og leyfðu guði Í óreiðu alkóhólískra kringumstæðna höfum við treyst á okkar eigin mátt og viljastyrk við að reyna að stjórna því sem ekki er hægt að stjórna . Þetta slagorð minnir okkur á að treysta á mátt okkur æðri . Þegar við sleppum tökunum og leyfum guði , sleppum við tökunum á vandamálunum , þráhyggjunni og þörfinni á að hafa stjórn á öllum aðstæðum . Við víkjum við úr vegi og opnum leið fyrir hjálpinni sem við þurfum á að halda . Byggt á bókunum B - 22 How Al-Anon Works , B - 6 Einn dagur í einu í Al-Anon Öll réttindi áskilin . Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti , vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram , á nokkru formi eða með nokkurri aðferð ( rafrænni , vélrænni , með ljósritun , upptöku eða á annan hátt ) , án þess að geta heimilda www.al-anon.is .
Þjónustuhugtökin eru oft kölluð best varðveitta leyndarmál Al-Anon en þau sýna hvernig Al-Anon félagar geta beitt andlegum aðferðum bataleiðarinnar í samskiptum við aðra í landsþjónustunni . Hvenær sem við tökum þátt í þjónustunni þá styrkjum við og aukum eigin bata . Við erum einstaklingar og höfum ólíkar hugmyndir um hvernig megi leysa okkar sameiginlegu vandamál . Okkur tekst að komast að ákvörðunum sem allir geta sætt sig við , með því að skiptast á hugmyndum , kynna okkur aðra möguleika , leita leiðsagnar æðri máttar og nota þjónustuhugtökin . Þjónustuhugtökin sýna okkur fram á skynsamlegar og heilbrigðar aðferðir til að komast að ákvörðunum sem varða aðra . Engin samtök geta lifað af , nema fyrir hendi sú skýr mörk ábyrgðar , skýr viðmið hvað varðar alla ákvarðanatöku og framkvæmd ákvarðana þegar þær hafa verið teknar . Margir Al-Anon félagar hafa komist að raun um að þjónustuhugtökin má einnig nýta utan samtakanna s.s. á vinnustað og á heimilum . Lesefni um þjónustuhugtökin : Þjónustuhugtökin eru til leiðbeiningar um hvernig Al-Anon fjölskyldudeildirnar starfa í heild sem samtök . Þau eru lýðræðislegur grunnur þar sem er gætt jafnræðis á milli Al-Anon deilda . Þjónustuhugtökin tólf 1 . Endanleg ábyrgð og forræði alþjóðaþjónustu Al-Anon er í höndum Al-Anon deilda . 2 . Al-Anon fjölskyldudeildirnar hafa falið ráðstefnu og þjónustugeira hennar fullt stjórnunar - og framkvæmdavald . 3 . Rétturinn til ákvarðana er forsenda áhrifamikillar forystu . 4 . Þátttaka er lykillinn að jafnvægi . 5 . Áfrýjunar - og bænarskrárrétturinn verndar minnihlutann og tryggir að álit hans heyrist . 6 . Ráðstefnan viðurkennir að stjórnunarleg ábyrgð sé fyrst og fremst í höndum fulltrúa stjórnarnefndarinnar . 7 . Réttur fulltrúa stjórnarnefndarinnar ákvarðast af lögum en réttur ráðstefnunnar er byggður á erfðavenjum .
Öll réttindi áskilin . Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti , vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram , á nokkru formi eða með nokkurri aðferð ( rafrænni , vélrænni , með ljósritun , upptöku eða á annan hátt ) , án þess að geta heimilda www.al-anon.is .
Alateen er fyrir unglinga sem hafa orðið fyrir áhrifum af drykkju annarra . Allir unglingar á aldrinum 13 - 18 ára sem eru aðstandendur alkóhólista eru velkomnir á Alateen fundi ! Alateen , sem er hluti af fjölskyldudeildum Al-Anon eru samtök unglinga sem hafa orðið fyrir áhrifum af drykkju ættingja eða náins vinar . Við hjálpum hvert öðru með því að deila reynslu okkar , styrk og vonum . Við trúum því að alkóhólismi sé fjölskyldusjúkdómur af því að hann hefur tilfinningaleg og oft líkamleg áhrif á alla meðlimi fjölskyldunnar . Þrátt fyrir það að við getum ekki breytt eða stjórnað foreldrum , vinum eða systkinum okkar þá getum við skilið okkur frá vandamálum þeirra og þrátt fyrir það þótt vænt um þau . Við ræðum ekki trúmál og erum óháð öllum utanaðkomandi samtökum . Eigin vandamál eru eina umræðuefni okkar . Við gætum þess að virða alltaf nafnleynd hvers annars og allra Al-Anon og AA félaga . Með því að tileinka okkur reynslusporin tólf öðlumst við vitrænan , tilfinningalegan og andlegan þroska . Við verðum alltaf þakklát Alateen fyrir að beina okkur á þessa frábæru , heilbrigðu leið til að lifa eftir og njóta . Hvernig urðu Alateen deildirnar til ? Alateen var stofnað árið 1957 í Bandaríkjunum af unglingsstráknum Bob og fimm öðrum ungmennum . Bob átti föður sem var í AA og móður í Al-Anon og vildi fá sömu hjálp og þau höfðu fengið í sínum samtökum . Al-Anon samtökin studdu við bakið á Alateen og Alateen varð hluti af Al-Anon . Alateen alþjóðanefndin var stofnuð 1959 og sendur var spurningalisti til allra Alateen deilda og út frá því var dregin upp meginstefna Alateen . Fyrsta bók Alateen : Alateen : Hope for Children of Alcoholics kom út 1973 . Síðan hefur verið gefið út töluvert af Alateen lesefni . Alateen óx hratt og í dag eru yfir 2700 deildir um allan heim þar sem ungt fólk hjálpar hvert öðru að takast á við þau áhrif sem drykkja annarrar manneskju hefur á líf þeirra . Í dag er ein Alateen deildir starfandi á Íslandi sem fundar einu sinni í viku , miðvikudaga kl. 21:00 .
Í Alateen lesefninu má finna ýmislegt fróðlegt fyrir alla þá sem hafa orðið fyrir áhrifum af drykkju annarrar manneskju . Í bókum og bæklingum eru meðal annars sögur Alateen félaga sem lýsa reynslu sinni og þeirri hjálp sem Alateen sjálfshjálparleiðin veitir . Frá Alateen félögum : Reynslan sýnir okkur að lestur á Alateen bókum og bæklingum hjálpar okkur að takast á við vandamálin og styrkir okkur í að skapa okkur betri framtíð . Á Al-Anon og Alateen fundum eru oft bækur og bæklingar til sölu .
Slagorðin eru stuttar og hnitmiðaðar setningar sem hjálpa okkur í Alateen . Með því að lesa reynslusögurnar sérðu líka hvernig aðrir krakkar hafa nýtt sér þau til að takast á við lífið . Lifðu og leyfðu öðrum að lifa : Til að fá sem mest út úr lífi þínu skaltu ekki dæma eða setja út á aðra eða yfirhöfuð skipta þér að því hvað þeir eru að gera . Þá hefurðu líka meiri t + ima til að pæla í þér og því sem þú vilt gera ; 0 ) Byrjum á byrjuninni : Gerðu fyrst það sem skiptir mestu máli – þú kemur meiru í verk . Þetta er frábær aðferð til að skipuleggja tíma þinn og orku . Hugsaðu : Staldraðu við áður en þú segir eða framkvæmir það fyrsta sem kemur í huga þér . HUGSAÐU um leiðir til að bæta þig . HUGSAÐU áður en þú tekur ákvarðanir . Með hægðinni hefst það : Of mikill hraði veldur yfirleitt klúðri og óþarfa fyrirhöfn . SLAKAÐU á , losaðu þig við æðibunugang og æsing . Slepptu tökunum og leyfðu guði : Þú getur ekki lagað allt sem er að í heiminum eða hjá fjölskyldu þinni og vinum . SLEPPTU TÖKUNUM ! Æðri máttur getur ekki sinnt sínu ef við erum fyrir honum . Einn dagur í einu : Dagurinn í dag er mikilvægasti dagurinn í lífi þínu . Nýttu þér hann . Gleymdu gærdeginum – og ekki hafa áhyggjur af því sem gæti gerst á morgun . Guð gefi méræðruleysi til að sætta mig við það , sem ég fæ ekki breytt kjark til að breyta því , sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli Sendið okkur endilega línu um hvernig þið notið slagorðin og æðruleysisbænina til þess að hjálpa ykkur [email protected] Það væri líka frábært að fá myndir ( teiknaðar , málaðar , tölvugerðar ) til þess að gera síðuna ykkar flottari . Ef þið sendið ljósmyndir þá mega ekki vera nein þekkjanleg andlit því við verðum að passa upp á nafnleyndina . Myndir á tölvutæku er best að hafa í . jpeg , . png , . gif eða . bmp . Athugið að við birtum ekki myndir sem hafa verið notaðar á öðrum vefsíðum .
Byrjaðu á því að kynna þér alkóhólisma . Það mun hjálpa þér að skilja hvernig sjúkdómurinn er . Lestu Alateen og Al-Anon lesefni . Það er hægt að fá lesefnislista frá Al-Anon skrifstofunni eða kíkja á lesefnislistann á síðunni . Taktu þátt í Alateen eða Al-Anon deild og stundaðu fundi reglulega .
Hvar getur alkóhólistinn leitað sér hjálpar ? Það eru margir staðir þar sem alkóhólistinn getur leitað sér hjálpar . Ein þekktasta hjálparaðferðin er AA ( Alcoholics Anonymous ) . Alkóhólistar í bata segja að mestar líkur á árangri í AA eru þegar alkóhólistinn er tilbúinn til að biðja um hjálp og þiggja hana .
Það bráðvantar Al-Anon félaga til þess að taka þátt í þessu starfi . Einnig sárvantar þýðendur til þess að þýða Alateen lesefni yfir á íslensku . Okkur vantar félaga sem hafa góð tök bæði á íslensku og ensku máli . Ef þið viljið bjóða ykkur fram þá hafið samband á [email protected] . Félagar óskast til þess að halda utan um þessa Alateen vefsíðu , fara með kynningar í félagsmiðstöðvar og fleira . Áhugasamir hafi samband við skrifstofu Al-Anon . Verklýsing Alateen nefndar Verklýsing um starfshætti nefnda Alateen nefnd Alateen nefnd er ein af fastanefndum Al-Anon samtakanna og hluti af þjónustu-uppbyggingu Al-Anon á Íslandi . Hlutverk nefndarinnar er að halda utan um Alateen starf á landinu öllu og styðja við bakið á því . Síðustu árin hafa störf nefndarinnar snúist að mestu um þær Alateen deildir sem eru starfandi . Nefndin hefur til dæmis þýtt Alateen lesefni á íslensku til birtingar á heimasíðu Al-Anon og bæklinga . Auk þess hefur nefndin staðið fyrir kynningum á Alateen úti í samfélaginu . Sérhver Alateen-deild þarf að hafa tvo trúnaðarmenn . Alateen trúnaðarmenn eru bundnir af trúnaði gagnvart unglingunum samkvæmt 12. erfðavenjunni um leið hafa þeir tilkynningarskyldu skv. barnaverndarlögum . Trúnaðarmenn séu leiðbeinandi um að eðlileg mörk varðandi hegðun og fundarefni séu haldin . Trúnaðarmaðurinn er virkur í deildinni , leiðbeinir og deilir þekkingu sinni á reynslusporunum tólf og erfðavenjunum en stjórnar ekki . Alateen-félagar geta líka óskað þess að eignast persónulegan trúnaðarmann sem getur verið annað hvort félagi í Alateen eða Al-Anon . Trúnaðarmennska í Alateen er virkilega gefandi 12. spors starf sem dýpkar batann og gefur nýja sýn á það hvernig Al-Anon / Alateen bataleiðin bætir líf okkar . Allir Alateen trúnaðarmenn eru hluti af Alateen nefndinni sem fundar reglulega . Al-Anon og AA félagar í Al-Anon sem hafa verið styttra en í tvö ár í samtökunum geta tekið þátt í starfi nefndinni t.d. í kynningum og þýðingum á lesefni . Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfi nefndarinnar eða gerast trúnaðarmenn á Alateen fundum vinsamlegast sendið póst á [email protected]
Hlekkurinn er veftímarit Al-Anon samtakanna á Íslandi og er ætlað að vera vettvangur samskipta fyrir samtökin í heild . Í Hlekknum birtast fréttir og tilkynningar frá deildum , svæðum , landsþjónustu , skrifstofu og erlendis frá sem kynna þá þjónustu sem fer þar fram . Úr bókum og öðru lesefni samtakanna eru birtir valdir kaflar og úrdrættir og síðast en ekki síst eru reynslusögur félaga . Eða með öðrum orðum , allt það sem að gagni gæti komið við batagöngu ykkar sem hafa orðið fyrir áhrifum af fjölskyldusjúkdómnum alkóhólisma . Hér geta félagar deilt reynslu , styrk og von líkt og þeir gera á fundum . En athugið þó að það efni sem hér er birt lýsir þeirra eigin persónulegu reynslu og skoðunum og má ekki eigna Al-Anon samtökunum í heild . Birting á efni frá félögum sem birtist hér gefur ekki til kynna samþykki samtakanna né Hlekksins á því . Þess er þó ávallt gætt að það efni sem er birt samrýmist boðskap og meginreglum Al-Anon samtakanna . ,, Taktu það sem þér geðjast að en láttu annað liggja á milli hluta " Hlekkurinn áður og nú Fyrstu áratugina kom Hlekkurinn út á pappír tvisvar til sex sinnum á ári . Deildir og félagar voru áskrifendur . Efni í honum var notað m.a. til leiða fundi . Talað var um Hlekkinn sem fund í farteskinu . En árið 2001 þegar vefsíða samtakanna var sett upp fyrst , var ákveðið að færa hann í núverandi horf . Öll réttindi áskilin . Þessa vefsíðu má ekki afrita með neinum hætti , vista inn í kerfi þar sem unnt er að sækja hann eða senda áfram , á nokkru formi eða með nokkurri aðferð ( rafrænni , vélrænni , með ljósritun , upptöku eða á annan hátt ) , án þess að heimilda sé getið og vitnað í vefsíðuna .
Hér geta allir skráð sig sem áhuga hafa á því að fá tölvupóst í hvert sinn sem ný tilkynning , frétt eða reynslusaga kemur inn á Hlekkinn veftímarit Al-Anon samtakanna á Íslandi . Einu upplýsingarnar sem þú þarft að láta af hendi eru netfang og fornafn . Gerast áskrifandi að Hlekknum . Nafnleyndin er að sjálfssögðu höfð í heiðri við umsjón áskriftarskráarinnar . Þér er frjálst að lesa upp á fundum og kynna efni Hlekksins fyrir öðrum félögum og aðstandendum alkóhólista , svo framarlega að þú getir þess að þú hafir fengið efnið á vefsíðunni . Ritstjórn Hlekksins er þó skylt að benda þér á að reynslusögur félaga endurspegla einungis þeirra reynsluheim og er ekki hægt að heimfæra jafnt upp á alla aðstandendur . Við birtum reynslusögur félaga svo framarlega að þær deili reynslu , styrk og von sem getur nýst öðrum . Mörg aðildarlanda Al-Anon samtakanna á heimsvísu gefa líka út tímarit , ýmist á prenti eða á vef . Áhugavert er að kynna sér áherslur og batagöngu Al-Anon félaga um víða veröld . Mjög auðvelt er gerast áskrifandi að Forum sem WSO alþjóðaskrifstofan gefur út . Við hvetjum félaga sem hafa góða enskukunnáttu til þess að gerast áskrifendur að Forum . Ítalir gefa t.d. út Inncontro , Ástralir Australink og Bretar og Írar ; News and Views . Kíkið endilega á vefsíður Al-Anon landa og gáið hvort þær bjóða upp á áskrift á því máli sem ykkur hugnast . Einnig þætti okkur gaman að fá að vita um fleiri tíma - eða vefrit gefin út í fleiri löndum . Vinsamlegast sendið slóðina , nafnið eða netfangið á [email protected] . Eins og er þá er það spænska það tungumál sem flestir Al-Anon félagar tala . Alþjóðasamtökin gefa út lesefni á ensku , spænsku og frönsku . Hafirðu áhuga á að láta panta fyrir þig lesefni á spænsku eða frönsku hafðu þá endilega samband viðskrifstofuna okkar . ( [email protected] )
Undir krækjunni Frá félögum eru birtar frásagnir Al-Anon félaga en í þeim deila þeir reynslu , styrk og von . Reynslusinni af því að takast á við afleiðingar fjölskyldusjúkdómsins alkóhólisma . Styrknumsem félagar hafa sótt til samtakanna , í fundina , lesefnið og þjónustuna . Voninnisem þeir hafa öðlast um hamingjuríkara líf við það að feta Al-Anon bataleiðina . Þetta efni er ýmist þýtt eða kemur frá íslenskum Al-Anon félögum . Ritstjórn Hlekksins vill hvetja félaga til að senda inn reynslusögur sínar . Lengd pistlanna getur verið frá nokkrum línum upp í eitt til eitt og hálft A 4 blað og félagar þurfa ekki að hafa áhyggjur af uppsetningu , stafsetningu eða málfræðinni . Ritstjórn tekur að sér að fara yfir og ganga frá efninu til netútgáfu . Ekkert efni frá félögum fer þó á Hlekkinn án þess að viðkomandi sé búnir að lesa yfir og samþykkja þær breytingar sem gerðar eru . Ritstjórn Hlekksins ber ábyrgð á öllu því efni sem hér er birt og gætir þess að það sé í anda meginreglna Al-Anon og stangist ekki á við erfðavenjurnar tólf . Ef þú félagi góður hefur áhuga á að deila reynslu þinni með öðrum þá ekki hika við að senda okkur línu á [email protected] Yfirlýsing Al-Anon : Megi það byrja hjá mér ! Þegar einhver , einvers staðar , leitar eftir hjálp , megi hönd Al-Anon og Alateenávallt vera til staðar
Ég hef ekki verið í Al-anon lengi . Rétt rúma þrjá mánuði . En þessir þrír mánuðir eru dýrmætari fyrir mig en mig hefði nokkurn tíman geta grunað . Ég held að ég hafi alltaf verið frekar stjórnsöm , alveg síðan ég man eftir mér , allavega var mér sagt um daginn að ég hefði fæðst stjórnsöm . Sem er kannski allt í lagi og það hefur nú alveg hjálpað mér helling líka . Spurningin er bara kann ég að stjórna stjórnsemini ?? Eins fáránlega og það nú hljómar . Ég ætlaði aldrei í Al-anon , mér fannst það eitthvað það vitlausasta sem nokkur gat gert . Að fara í gegnum einhvern 12 spor , til hvers ? Getur fólk ekki bara tekið á sér sjálft og hjálpað sér án þess að fara í gegnum einhver 12 spor ? Þetta var hugsun mín og ég þakka fyrir það á hverjum degi að þessi hugsun hefur breyst þvílíkt . Ég fann botninn minn . Þegar ég var á mínum botni talaði ég við góða konu og sagði henni frá hvernig ástandið væri búið að vera . Hún sagði við mig , “ þú ert heppin , heppin að ganga í gegnum þetta ” . Ég er nú ekki ofbeldishneigð manneskja , en mig langaði að kýla hana . Var hún ekki að hlusta á það sem ég sagði ? Heyrði hún ekki um það hvernig ég væri búin að vera að ganga í gegnum helvíti með alkahólistann í mínu lífi ? Ég gat ekki séð að ég væri neitt séstaklega heppin með það . Þá sagði hún við mig : “ þú sérð það bara seinna ” . Og þar með var því samtali lokið . Eins reið og bitur og ég var þá hugsaði ég nú samt rosalega mikið um þetta . Er ég heppin ? Gat ekki séð það samt . Einn daginn vaknaði ég og hugsaði mig vel um hvort mér vildi ég alvöruni líða svona . Ég áttaði mig á því að hugsanlega gat ég ráðið því hvernig mér leið . Ég settist við tölvuna og googlaði æðruleysisbænina . Ég hafði marg oft lesið æðruleysisbænina og hún hreyfði aldrei neitt séstaklega við mér . Mér fannst þetta nú bara einhverjir stafir á blaði sem væru ekki neitt merkilegir . En í þetta skiptið gerðist eitthvað . Ég las bænina og ég fann eitthvað . Fann eitthvað inn í mér sem skynjaði bænina . Þarna varð ég fyrir einhverskonar upplifun . Upplifun sem ég verð æfinlega þakklát fyrir . Daginn eftir dreif ég mig á Al-anon fund . Ég fór á nýliðafund og hélt að ég yrði ekki deginum eldri þetta tók svo á . Allir að tala um tilfinningar sínar , allir svo opnir og það sem kom mest á óvart , ég tengdi við sögurnar . Eins erfiður og mér fannst þessi fundur þá ákvað ég nú samt að fara á fleiri . Loksins kom að því að ég þorði aðeins að tjá mig á einum nýliðafundinum . Leið og ég byrjaði að tala hélt ég að ég myndi deyja . Ég roðnaði í klessu og hélt ég væri bara komin með hita ! Eftir þennan fund hugsaði ég , okei , ég get ekkert talað á svona fundum ég roðna bara og verð geðveikt asnaleg og fólk bara heldur að ég sé einhver fábjáni . Þá tók ég ákvörðun um að ég skyldi bara hlusta það sem eftir var . Fljótlega langaði mig nú samt að tala , ég hugsaði mig um hvernig ég ætti eiginlega að gera það , jáá !! Ég meika mig bara geðveikt mikið ! . Þá sér enginn hvað ég er asnaleg þótt ég roðni . En ég gerði það nú ekki heldur fór bara á fleiri fundi . Eftir því sem ég fór á fleiri fundi þá fattaði ég það að við erum öll þarna á sömu forsendum , allir hafa einhvetíman verið nýjir , hræddir , rauðir og sveittir . Og öllum er alveg sama . Al-anon félögum mínum er alveg sama þó ég roðni , svitni , stami eða gráti . Fólkið er komið þarna saman til að hjálpa öðrum og fá hjálp . Ég fór að hugsa þetta aðeins út frá sjálfri mér og þegar einhver er að tala sem að roðnar , fer að gráta eða stamar af hræðislu , hugsa ég ekki , hey hvað er að þessum ... heldur vá ! Hvað þessi er hugrakkur , vá hvað þessi er flottur að geta miðlað reynslu sinni , tilfinningum og löngunum með okkur hinum . Hann er að hjálpa okkur og sjálfum sér um leið . Þegar allt þetta rann upp fyrir mér , hvað ég á góða félaga í Al-anon , þá sá ég það . Ég er heppin . Eins mikið og mig langaði að kýla þessa ofur jákvæðu konu sem sagði að ég væri svo heppin , þá sá ég það þarna . Með því að fara á minn botn þá varð ég heppin , ég fann Al-anon og fyrir það á ég engin orð sem geta þakkað fyrir það nógu mikið . Reynsla mín af Al-anon hefur breytt mér og bætt mig . Ég þori kannski bráðum að fara að tjá mig aðeins meira . Því allir þurfa að tjá sig , en það er líka allt í lagi að það taki tíma . En ég segi það bara enn og aftur , ég er heppin og ég er þakklát . Kærleikurinn sem á sér stað á Al-anon fundum er ólýsanlegur . Mig langar aðeins að deila því með ykkur hvað þessi bataleið í Al-Anon hefur hjálpað mér óendanlega mikið að fá svo miklu meira út úr lífinu . Fyrir um það bil 3 árum fór ég á minn fyrsta Al-Anon fund og ég fór á þennan fund til að leita lausna . Helst lausn á því hvernig ég ætti að bjarga málum fjölskyldunnar . Mamma og pabbi voru ósátt , ég bjó erlendis og bróðir minn líka og systir mín var eina barnið sem var heima . Ég tók mikla ábyrgð á málum foreldra minna og mætti á þennan fund til að fá leiðbeiningar um það hvernig ég gæti bjargað fjölskyldunni , svo ætlaði ég bara að klæða mig í súpermann búninginn og fljúga heim og redda málunum . Ég gægðist fram á tröppurnar á bak við pilsfald móður minnar þar sem ég horfði á tvö lögreglumenn halda föður mínum á milli sín . Hann var afar illa til fara , blóðugur , óhreinn og angaði af vínanda , virtist reiður , barðist um og reyndi að losa sig sem gekk ekki í þetta sinn . Þeir spurðu hvort móðir mín vildi fá hann inn eða hvort þeir ættu að taka hann með sér aftur . Hún bað þá að fara með hann og við það ærðist faðir minn enn frekar . Stóri bróðir minn tók við áfengisflösku af hendi lögreglumannsins og fleygði henni út á nærliggjandi brunn þar sem hún brotnaði með hvelli í þann mund sem lögreglubíllinn ók á braut . Á þessari stundu ( þá 6 ára ) tók ég ákvörðun fyrir lífstíð ,, ég ætla aldrei að drekka “ , hét ævarandi aðskilnaði mínum við áfengi . Heftið okkar Leiðsögn til bata skiptist í sex kafla og þar gefst okkur tækifæri til að gera persónulega úttekt á viðhorfum , ábyrgð , sjálfsmati , ást , þroska og skapgerðareinkennum okkar . Áður hafa verið birtast hér á síðunni reynslusögur um viðhorf og ábyrgð . Hér kemur reynslusaga um ást . Ég minnist þess ekki að einhver hafi sagt við mig í mínum uppvexti að hann elskaði mig eða þætti vænt um mig og sjaldan var ég föðmuð eða tekin í fangið , en ég fékk að heyra að ég væri dugleg og gott að treysta mér . Með þetta úr fortíðinni var frekar erfitt að svara spurningum um ástina – elskaði ég mig ? Nei , en við það að vinna sporin fyrst sjálf , og smá með mínum æðri mætti , með félögum í deildinni og síðan þegar félagi bað mig að fara með sér skriflega í fjórða spor Al-Anon – Uppgjör ( Leiðsögn til bata P - 5 ) opnuðust nýjar víddir í mínu lífi .
Þegar ég kom fyrst í Al-Anon var ég óttasleginn , óöruggur og átti erfitt með að treysta öðru fólki . Ég fann fljótt að ég átti heima í þessum félagsskap og smám saman fór ég að treysta því að það sem væri sagt á fundum og félaga í milli færi ekki lengra . Það kom að því að ég varð tilbúinn til að vinna sporin með aðstoð trúnaðarmanns . Afraksturinn af þeirri vinnu var að ég varð óhræddur , fullur sjálfstraust og var tilbúinn til að takast á við lífið og tilveruna í blíðu og stríðu . Ég hafði ávalt verið mjög reiður út í föður minn , alkóhólistann og setti ávalt sjúkdóminn alkóhólisma og persónuna í sama bás . Eftir að hafa unnið sporin sá ég að þetta voru 2 aðskilin mál . Hegðun föður míns litaðist af sjúkdómnum einsog hegðun mín litaðist af fjölskyldusjúkdómnum alkóhólisma . Ég ákvað því að aðskilja föður minn og sjúkdóminn . Ég heimsótti hann og kom fram við hann einsog föður , þrátt fyrir sjúkdóminn . Það var mikið frelsi fólgið í því að geta sleppt tökum á reiðinni , sem hafði verið til staðar í alltof mörg ár , og sett kærleika í staðinn . Þetta var stórt skref í mínum bata . Ég varð fær um að eiga samskipti við föður minn án þess að lifa stöðugt í fortíðinni . Samskiptin voru hér og nú og byggðust á stöðu okkar hvors um sig eins og hún var þann daginn , en ekki á því sem hafði gerst fyrir löngu síðan . Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um viðhorfsbreytingu hjá mér sem ég er ævinlega þakklátur fyrir . Faðir minn lifði ekki í mörg ár eftir þessi endurnýjuðu kynni okkar og ég er þakklátur Al-Anon fyrir þessa góðu gjöf . Ég geri mitt besta til að gefa eins og mér var gefið .
Tilvalið hefti fyrir 4. spors vinnu , bæði fyrir hópa og einstaklinga Á íslensku : 1.100 kr . Við aðstandendur erum oftar en ekki mjög upptekin að alkóhólistunum hvort þeir fari í meðferð , sæki AA fundi , fái sér trúnaðarmann , taki sporin o.s.fv . En við gleymum að líta í eigin barm , hvað gerum við þegar við komum í Al-Anon og fáum það einstaka tækifæri að vinna eftir Al-Anon leiðinni . Erum við að mæta á fundi í hverri viku , lesa , vinna og notfæra okkur ; slagorðin , lesefnið , sporin , erfðavenjurnar , þjónustuhugtökin , taka að okkur þjónustu í deildinni eða fyrir samtökin o.s.fv. ? Eða tökum við bara búta hér og þar en sinnum ekki til fullnustu öllum þáttunum ? Að vinna sporin er eitt og að tileinka sér þau er annað . Reynslan hefur sýnt að flestir félagar hafa byrjað á að vinna fyrstu þrjú sporin , helmingur þeirra sem hafa lokið við þau , heltast úr lestinni við fjórða til sjötta spor , einn þriðji heldur áfram við sjöunda til níunda spor og aðeins örfáir sem ljúka við tíunda og tólfta spor . Hver er ástæðan ? Í lesefni Al-Anon samtakanna er að finna margvíslegt efni um reynslusporin tólf og til að forðast misskilning þá nota Al-Anon félagar ekki lesefni AA samtakanna í sinni sporavinnu þó svo að Al-Anon samtökin hafi fengið sporin að láni frá AA samtökunum . Í Leiðsögn til bata fæst einstakt tækifæri til að vinna ítarlega í 4. sporinu . Fáanleg á skrifstofunni og í deildum .
Svæðisfundur Norðaustur-svæðis verður á Siglufirði 11. júní 2012 Svæðisfundur / Vorfundur Norðaustur-svæðisins verður haldinn á Siglufirði í húsnæði Rauða krossins , Aðalgötu 32 , efri hæð 11. júní 2012 kl. 18:00 . Á fundinum verður Landþjónusturáðstefnan 2012 kynnt fyrir félögum og kosnir þrír fulltrúar svæðisins á ráðstefnuna . Á fundinum verður einnig kjörinn Svæðisfulltrúi . Svæðin þurfa að skila inn fyrirspurnum og tillögum frá deildum vegna Landsþjónusturáðstefnunnar fyrir 1. júlí næstkomandi og er svæðisfundurinn vettvangur svæðisins til að leggja fram tillögur og fyrirspurnir í þeim tilgangi .
Á fundum og í þjónustu Al-Anon samtakanna er eingöngu stuðst við ráðstefnusamþykkt lesefni sem er merkt með merki samtakanna og textanum ,, ráðstefnusamþykkt lesefni " ( CAL ) . Þetta þýðir að fyrir útgáfu hefur efnið farið í gegnum ákveðið ferli innan samtakanna þar sem það hefur verið skoðað með tilliti til erfðavenja og meginreglna Al-Anon . Þetta efni er skrifað af Al-Anon félögum , samþykkt af Al-Anon félögum , er fyrir Al-Anon félaga og er skrifað frá sjónarhorni Al-Anon samtakanna . Á bernskuárum Al-Anon samtakanna áður en Alþjóðaþjónusturáðstefnan ( WSC ) var stofnuð skrifuðu og dreifðu margar deildir sínu eigin lesefni . Þetta efni var jafn misjafnt og þeir sem skrifuðu . Sumt endurspeglaði sjónarmið Al-Anon , annað ekki og á árunum 1962 til 1965 var samþykkt á Alþjóðaþjónusturáðstefnu Al-Anon að eingöngu yrði notast við ráðstefnusamþykkt lesefni . Þetta styrkir einingu samtakanna og að boðskapurinn verði skýr og sjálfum sér samkvæmur . Af hverju getum við ekki notað hvaða lesefni sem er á fundum ? Al-Anon og Alateen ráðstefnusamþykkt lesefni , Hlekkurinn ( vefrit Al-Anon á Íslandi ) og The Forum ( tímarit samtakanna á heimsvísu ) er það sem mælst er til að sé notað á Al ‑ Anon og Alateen fundum . Okkur finnst lesefnið ásamt reynslu félaganna það besta fyrir nýliðann svo hann þrói með sér jákvæða sýn á fjölskyldusjúkdóminn alkóhólisma . Al-Anon og Alateen lesefni er samþykkt af Alþjóðaráðstefnu okkar þar sem það endurspeglar bataleiðina bæði í hugmynd og framkvæmd . Persónuleg reynsla sem endurspeglast í The Forum og Hlekknum hjálpar okkur að skilja hvernig öðrum hefur tekist að tileinka sér bataleiðina . Það er mjög misjafnt hvort eða hvernig ,, utanaðkomandi " lesefni lýsir boðskap Al-Anon . Notkun á því á fundum getur leitt til klofnings og haft áhrif á einingu deildanna og það getur sérstaklega ruglað nýliðann í ríminu . Með því að nota eingöngu ráðstefnusamþykkt Al-Anon lesefni á fundum tryggjum við einingu og framtíð samtakanna . Al-Anon félagar geta gengið að því vísu að hvar í heiminum sem þeir fara á fund verði ómengaður boðskapur Al-Anon um von og hjálp til staðar . Þegar við þroskumst í Al-Anon eru minni líkur á að við verðum rugluð og yfirkomin af utanaðkomandi lesefni . Félagar eru þó hvattir til að lesa allt sem þeir finna um málefnið í sínum eigin tíma . Hinsvegar eru fundirnir of mikilvægir til að eyða tímanum í umræður um bækur , myndir , bæklinga eða eitthvað annað sem ekki tengist Al-Anon , hversu mikið sem slíkt hefur nýst einu eða mörgum okkar . Allar nánari upplýsingar um ráðstefnusamþykkt lesefni þar á meðal um hvernig félagar geti lagt sitt af mörkum til útgáfu lesefnis , er að finna í bæklingnum Hvers vegna ráðstefnusamþykkt lesefni ( pdf . ) Ef Al-Anon þríhyrninginn er ekki að finna á lesefninu þá er það ekki samþykkt lesefni . Rafrænir Al-Anon fundir þurfa að fá leyfi til þess að nota ráðstefnusamþykkt lesefni á opnum vefsíðum . Leiðarljós fyrir gerð útdrátta og endurprentunar er fáanlegt frá Alþjóðaþjónustuskrifstofunni ( WSO ) . Fyrsta erfðavenjan : Sameiginleg velferð okkar situr í fyrirrúmi . Bati hvers og eins Fjórða erfðavenjan : Sérhver deild ætti að vera sjálfráða nema í málefnum sem snerta aðrar deildir eða Al-Anon og AA samtökin í heild .
Vinsamlegast sendið tölvupóst ávefumsjón ef vefsíðann virkar ekki sem skildi . Ef ekki er hægt að prenta út þá gæti verið að það þurfi af afvirkja pop-up blocker á vafranum þínum . Vefsíðan er smíðuð fyrir Internet Explorer . Ef Firefox eða Safari eru notaðir þá getur verið að útlit eða innihald vefjarins skili sér ekki fullkomlega . Vonandi getum við aðlagað síðuna öðrum vöfrum í framtíðinni . Ef þú hefur hugmyndir sem gætu gert vefsíðuna skilvirkari eða tillögur að efni sem mætti bæta við , hafðu þá samband við vefstjóra í tölvupóst vefumsjón . Ef þú vilt hrósa síðunni , hafður þá endilega samband við vefstjóra . Ef þú vilt kvarta , þá mælum við með að þú leggir það fyrir æðri mátt . Allar hugmyndir og tillögur eru vel þegnar .
Það er nú bara þannig með alla hluti , já . Þeir sem vinna mestu handavinnuna , þeir sjást ekki mikið svona þegar á tónleika er komið . Að setja upp hátíð eins og Aldrei fór ég suður krefst margra handa vinnu og þetta er ekki bara að dilla sér fyrir framan svið . Ég skrapp í heimsókn í KNH skemmuna til að reyna að átta mig á öllu því sem fer fram fyrir tónleika og vá , þetta er ekkert smotterí . Það þarf að hugsa um húsnæðið , þrífa og ganga frá . Svo þarf að pæla sviðið , græjurnar , ljósin og allt umhverfið . Setja þetta svo allt saman og fá þetta til að virka . Ómar Helga og Siggi Ómars stjórnuðu upsettningu sviðs og palla fyrir alla , hljóðmenn og videokamerukalla / konur . Með bros á vör , Ómar sagði að það dygði ekkert minna en heilt rækjutroll til skrauts í ár ! Venni í Stuð ehf og Exton mennirnir voru þarna á fullu að setja saman sounddraslið , ljósashowið og það allt saman sem ég kann varla að tala um . Sá ekki Önna Páls , en hann er nú alltaf þarna líka . Og fullt af ísfirskum púkum að hjálpa til , þetta er alvöru ! Kukl menn voru mættir á svæðið með magnað hjólhýsi til að koma þessu nú öllu út á netið . Svo voru Veraldarvinir með ísafjarðarvininn Ásgeir Guðmundsson ( Geira síðhærða ) í fararbroddi á leiðinni til að hjálpa til líka , komu alla leið frá Reykjavík til að vinna sjálfboðavinnu ! Tók smá myndasyrpu af þessu hörkuduglega fólki , kíkið . Það er gott að búa á Ísafirði - respect !
Nú er níundu Aldrei fór ég suður lokið og þvílíkur fjöldi hefur ekki sést áður á hátíðinni . Það var það okkur mikil ánægja að sjá að gestirnir okkar skemmtu sér bæði vel og fallega . Við erum frekar montin af því að 18 af þeim 32 böndum sem komu fram á hátíðinni í ár eru að fullu eða einhverjum hluta mönnuð af Vestfirðingum . Þetta sýnir okkur að það er ekki bara mikið af tónlistarfólki hér fyrir vestan heldur er ansi mikið af mjög góðu tónlistarfólki hér fyrir vestan ! : ) Ég gæti tekið nokkra daga í það að telja upp alla þá sem aðstoðuðu okkur við að gera hátíðina að því sem hún var en hættan er alltaf sú að gleyma einhverjum , því vil ég bara segja eitt stórt TAKK við alla þá sem hjálpuðu og metum við þessa aðstoð mjög mikils . Svo einfalt er það að án ykkar hefðum við aldrei getað massað þessa hátíð ! Takk kærlega fyrir allt og við hlökkum til að sjá ykkur að ári !
Dr. Gunni ætlar að reka sögu íslenskrar dægurtónlistar í Edinborgarhúsinu í kvöld 5. apríl á milli kl. 20 - 22 . Dr. Gunni rekur þar sögu dægurtónlistar á Íslandi í máli , músík og myndum frá því á 19. öld til okkar daga . Hann byggir fyrirlesturinn á samnefndri bók sem kemur út í haust . Þetta ætlar Dr. Gunni að gera fyrir 0 krónur og er að sjálfsögðu frítt inn , í anda Aldrei fór ég suður ! Er þetta hluti af atburðaröðinni Tónlistin frá ýmsum hliðum sem Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar og Fræðslumiðstöð Vestfjarða gangast fyrir . Stuð að eilífu - Missir ekki af því ! Á eftir því , kl : 22 munu nokkrir landsþekktir skemmtikraftar stíga á stokk og framleiða músík , fyndni og annað bland í Krúsinni . Verður þetta flott upphitun fyrir morgundaginn , og stuðmarkið sett hátt . Þar munu meðal annars koma fram Anna Svava , Arnar Arnarson og Hugleikur Dagsson . Lára Rúnars spilar svo nokkur lög og mun þetta verða undir handleiðslu Sigurjóns Kjartanssonar . Einnig munu " lókal " gæjar koma þarna fram en þeir Pétur Magnússon ( Fallegi smiðurinn ) og Hálfdán Bjarlki ( Háli Slick ) ætla að láta ljós sitt skína , fyrir okkur hin .
Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður blæs nú í herlúðra og slær til hátíðar í tíunda skipti á Ísafirði um páskana . Engan bilbug er á hátíðarhöldurum að finna og svo virðist sem áhugi fólks á hátíðinni vaxi og dafni og færir það aðstandendum baráttuhug í brjóst . Hátíðin fer fram , eins og síðustu ár í flennistórri skemmu við Grænagarð , föstudaginn 29. mars og laugardaginn 30. mars . Fjölmargir tónlistarmenn hafa stigið á stokk síðustu níu ár , bæði landsþekktir og ungir sem aldnir heimamenn . Upp á samskonar blöndu verður boðið í ár en hátíðarhaldarar hrósa miklu happi að njóta þvílíkrar velvildar frá öllu því tónlistarfólki sem þeir hafa leitað til og sóst hafa eftir því að heimsækja hátíðina . Nú hefur uppstillinganefnd hátíðarinnar í ár lokið sínum starfa og dagskráin tilbúin . Hér fyrir neðan tilkynnist um fyrstu sveitirnar en hér er um að ræða fyrsta þriðjung þeirra listamanna sem taka munu þátt í Aldrei fór ég suður 2013 . Frekari fregna er svo að vænta á næstu dögum . Tónlistarmaðurinn Borko og skósveinar hans áttu eina að plötum ársins á síðasta ári , Born to be free þar sem dansleikur í Félagsheimilinu í Hnífsdal er meðal yrkisefna . Borko á sér hliðarsjálf , kennarann Björn Kristjánsson , sem býr með Birnu konu sinni og Hjalta syni þeirra á Drangsnesi á Ströndum . Borko er góðkuninngi hátíðarinnar , hefur komið nokkrum sinnum áður og nú síðast með hljómsveitinni FM Belfast fyrir tveimur árum . Við bjóðum strákana í Borko velkomna á Aldrei 2013 ! Á kontor stjórnarformanns Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðarinnar við Ísafjarðarhöfn komu í heimsókn snemma í vor , kokhraustir og vígreifir drengir úr Grunnskólanum á Ísafirði . Ekki höfðu þeir nokkurt erindi hafnsögulegs eðlis né voru þeir að forvitnast um komu skemmtiferðaskipa . Þetta voru strákarnir í Duro sem voru mættir til að tilkynna þátttöku sína á Aldrei fór ég suður , ekki sóttust þeir eftir því heldur boðuðu þeir einfaldlega komu sína . Þegar þeir voru inntir eftir því hvað þeir ætla að spila sögðu þeir eftirfarandi ; " … hva , þetta er bara svona alternative rokk . Er það ekki bara nett eða … ? " Það er mikill spenningur í herbúðum okkar fyrir Duro . Öðlingurinn Árni Grétar er frá Tálknafirði en býr í Reykjavík og er einn af helstu sendiherrum danstónlistarsenunnar þar í bæ . Hann er meðal stofnenda plötuútgáfunnar Möller records og undir merkjum Futuregrapher hefur hann slegið í gegn ekki eingöngu fyrir æpandi dansvæna takta , heldur einnig fyrir húrrandi frábæra sviðsframkomu . Futuregrapher mun eflaust trylla lýðinn á hátíðinni í ár . Við hlökkum til . Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðson gaf út sína þriðju sólóplötu á síðasta ári , Þar sem himinn ber við haf , og hafa nokkur þeirra laga náð himinháum vinsældum . Og skal engan undra því Jónas er einn af liprustu lagasmiðum okkar tíma og svo er leitun af ljúfari sálum . Okkur er einkar ljúft að taka á móti Jónasi í ár og meðreiðarsveinum hans . " Viljiði heyra ROKK ? Viljið þið heyra BILLÝ ? Viljið þið heyra ROKKABILLÝ ? " Það eru sannarlega frábær tíðindi að loks skuli töffarinn Langi Seli heiðra Vestfirðinga með nærveru sinni um komandi páska . Leðurjakki , gallabuxur , brilljantín og þeirra kántrýskotna hillbillýpönk mun svo sannarlega eiga uppá pallborðið hjá rokkabillý þyrstum gestum Aldrei fór ég suður og það verður enginn svikinn af skemmtun þeirra félaga ; Sela , Jóni Skugga og Erik Quik . Vinsamlegast pússið skóna ! Hljómsveitin Oyama er frekar ný hljómsveit og er af mörgum talin ein af mest spennandi hljómsveitum hér heima í dag . Hún varð til úr nokkrum hljómsveitum , Sudden Weather Change , My Slumbering Napoleon , We painted the walls og Swords of Chaos . Oyama spilar melódískt gítarrokk þar sem raddir söngvarana Júlíu og Úlfs njóta sín til hins ýtrasta . Það er frábært að gestir Aldrei fór eg suður fái að kynnast þessari efnilegu sveit sem þegar er farin að spila á erlendri grundu . Hljómsveitin Prinspóló er byggð í kringum prinsinn sjálfan , Svavar Pétur Eysteinsson . Hann mun ferðast með hirð sína á hátíðina í ár en önnur plata Prinspóló mun mögulega líta dagsins ljós í sumar . Hin konunglega hirð prinsins samanstendur m.a. á Berglindi hljómborðsprinsessu , Benna Hemm Hemm , trommaranum Kristjáni Frey , Loja gítarleikara og Bjössa slagverksleikara . Prinspóló verða í tipptoppstandi og við getum ekki beðið . Tríóið Ylja hefur vakið mikla athygli upp á síðkastið . Þau gáfu út sína fyrstu plötu á síðasta ári og naut hún mikillar hylli . Tríóið er skipað þeim Guðnýju , Bjartey og Smára " Tarfi " . Þau eiga ættir sínar að rekja til Patreksfjarðar , þá sú staðreynd sé ekki í frásögur færandi , þá erum við afar glöð að fá frábæra fulltrúa frá frændum okkar á sunnanverðum kjálkanum . Nú síðast fréttist af þeim á balli á Bessastöðum þar sem íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent , ísfirska rithöfundinum Eiríki Norðdahl . Ylja spila þjóðlagaskotið kassagítarpopp kryddað með blúsuðum kjöltugítar , nú koma þau galvösk í heimsókn á Adrei fór ég suður og bræða vafalaust hörðustu sjómenn í landi .
Á aðalfundi Aleflis 27. apríl s.l. voru samþykktar lagabreytingar sem snúa að 1. - 4. grein laga Aleflis . Fleiri mál voru ekki á dagskrá en framhaldsaðalfundur verður haldinn í haust . Sjá nánar í fundargerð . Nýju lögin verða birt í heild sinni innan tíðar . Stjórn Aleflis sendi út á haustmánuðum beiðni til stjórnunareininganna að þær sendu athugasemdir og ábendingar um það sem betur má fara í hinum mismunandi starfsþáttum Alephs og á Gegni.is Ýmsar ábendingar komu bæði ítrekun á fyrri ábendingum og einnig ný atriði .
v = 3.0.5
p = 701 Upptaka af fyrirlestrum á árlegri notendaráðstefnu Aleflis sem haldin var 27. apríl í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu er nú aðgengileg á vefnum . ] ] p = 694 Á aðalfundi Aleflis 27. apríl s.l. voru samþykktar lagabreytingar sem snúa að 1. - 4. grein laga Aleflis . Fleiri mál voru ekki á dagskrá en framhaldsaðalfundur verður haldinn í haust . Sjá nánar í fundargerð . Nýju lögin verða birt í heild sinni innan tíðar . p = 562 Á aðalfundi Aleflis föstudaginn 27. maí síðastliðinn var kosin ný lagabreytinganefnd , en hún mun verða við störf við enduskoðun á lögum félagsins komandi ár . p = 559 Aðalfundur Aleflis var haldinn föstudaginn 27. maí . Fundargerð frá honum mun birtast innan tíðar og skýrslur stjórnunareininga eru nú þegar komnar á vefinn . Samráðsfundur stjórnar Aleflis og stjórnar Landskerfis bókasafna var haldinn miðvikudaginn 25. maí og notendaráðstefna félagsins verður haldin í haust eins og áður hefur komið fram . ] ] p = 548 Árlegur fundur fulltrúaráðs sem er einnig aðalfundur félagsins verður haldinn í fundarsal í húsnæði Orkustofnunar , föstudaginn 27. maí 2011 , kl. 10.00 . Notendaráðstefnu Aleflis hefur verið frestað fram á haust . p = 243 Alefli hefur tekið í notkun nýjan vef . Hér munu fundargerðir , upptökur frá fyrirlestrum og fréttir birtast . p = 241 Glærur og upptökur frá árlegri notendaráðstefna Aleflis sem haldin var 28. maí í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu eru nú aðgengilegar á vefnum . ] ] p = 239 Árleg notendaráðstefna Aleflis verður haldin föstudaginn 28. maí næstkomandi í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu . ] ] p = 235 Stjórn Aleflis sendi út á haustmánuðum beiðni til stjórnunareininganna að þær sendu athugasemdir og ábendingar um það sem betur má fara í hinum mismunandi starfsþáttum Alephs og á Gegni.is Ýmsar ábendingar komu bæði ítrekun á fyrri ábendingum og einnig ný atriði . ] ] p = 233 Samráðsfundur Aleflis , Landskerfis bókasafna og Skráningarráðs Gegnis var haldinn 1. desember 2009 .
Aðalfundur fulltrúaráðs Aleflis 2009 Haldinn í fundarsal Landsbókasafns Háskólabókasafns 8. maí 2009 kl. 10 - 12 Andrea Jóhannsdóttir setti fundinn og skipaði Þórhildi Sigurðardóttur fundarstjóra . Mættir : Andrea Jóhannsdóttir , Rósa S. Jónsdóttir , Ásdís H. Hafstað , Kolbrún Erla Pétursdóttir , Margrét Björnsdóttir , Helga Kristín Gunnarsdóttir , Þórhildur S. Sigurðardóttir , Sigrún Ingimarsdóttir , Margrét R. Gísladóttir , Nanna Þóra Áskelsdóttir , Lísa Z. Valdimarsdóttir , Sunna Njálsdóttir . Þ.e. fulltrúar fyrir allar stjórnunareiningar nema ICE 57 og ICE 59. 1 . Skýrsla stjórnar . Andrea Jóhannsdóttir , formaður flutti skýrsluna og gerði grein fyrir starfinu frá síðasta aðalfundi ( fylgiskjal á vef Aleflis ) . 2 . Skýrsla gjaldkera . Rósa Jónsdóttir lagði fram rekstrarreikning Aleflis . ( fylgiskjal á vef Aleflis ) . 4 . Kosning stjórnar . Andrea Jóhannsdóttir ( ICE 51 ) og Anna Margrét Birgisdóttir ( AUS 50 ) gengu úr stjórn . Tillögur höfðu komið um að Lísa Z. Valdimarsdóttir ( ICE 51 ) og Margrét Gísladóttir ( SUD 50 ) kæmu í þeirra stað og var það samþykkt . Rósa S. Jónsdóttir ( ICE 56 ) og Ásdís H. Hafstað ( ICE 53 ) verða áfram í stjórn næsta ár . 5 . Önnur mál : a . Tilnefning í skráningarráð : Þóra Sigurbjörnsdóttir , Anna Sveinsdóttir og Gunnhildur Loftsdóttir . Tilnefningin var samþykkt . b . Skýrslur stjórnunareininga : Gerð var grein fyrir skýrslum eftirtalinna stjórnunareininga en skýrslurnar í heild sinni verða birtar á vef Aleflis : ICE 53 Almennings - og framhaldsskólabókasöfn á höfuðborgarsvæðinu , Ásdís H. Hafstað AUS 50 Austurland , Kolbrún Erla Pétursdóttir ICE 55 Grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu , Margrét Björnsdóttir ICE 51 Háskólabókasöfn , Andrea Jóhannsdóttir ICE 50 Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Landspítali , Helga Kristín Gunnarsdóttir ICE 52 Bókasafn Menntavísindasviðs , Þórhildur S. Sigurðardóttir NOR 50 Norðurland , Sigrún Ingimarsdóttir ICE 56 Sérfræðisöfn , Rósa S. Jónsdóttir SUD 50 Suðurland og Reykjanes , Margrét Gísladóttir VES 50 Vesturland og Vestfirðir , Nanna Þóra Áskelsdóttir Skýrslur bárust ekki frá ICE 57 Stjórnsýslusöfn og ICE 59 Fyrirtæki , stofnanir og félög . Nokkrar umræður urðu í kjölfar skýrslana m.a um skráningu gjafa , fyrirkomulagi á rukki sagt var frá kennsluforritinu Camtasia og fram kom ósk um barnvæna útgáfu á Gegnir.is . Formaður þakkaði stjórnarmönnum samstarfið á liðnum árum , bauð nýja stjórnarmenn velkomna og þakkaði fundarmönnum góða fundarsetu .
1 . Notendaráðstefna IGELU Sigrún og Sveinbjörg sögðu frá Igelu notendaráðtefnunni sem haldin var í Helsinki 7. - 9. September 2009 . “ Unified Resource Management System ” vísar til þess að URM er hugsað fyrir fjölbreytilegan safnkost bókasafna nútímans s.s. prentað , rafrænt og stafrænt efni . Bókasafnakerfi framtíðarinnar hjá Ex Libris verður bakvinnslukerfið URM ætlað starfsmönnum safna , og notendaviðmótið Primo ( research and discovery ) ætlað endanotendum bókasafna . URM er enn í þróun hjá Ex Libris . Ýmsir rýnihópar eru starfandi hjá Ex Libris vegna þróunar URM og er Sveinbjörg í rýnihóp um samlög ( consortium ) . 2 . Primo , Samþætt leitargátt fyrir Ísland Sveinbjörg sagði frá Primo sem er hugbúnaður sem notaður verður til að koma upp Samþættri leitargátt fyrir Ísland , og fyrirhuguðum kaupum á Primo . Með fyrsta áfanga að Samþættri leitargátt fyrir Ísland verður hægt að leita samtímis í gengum eina vefgátt , Primo , í Gegni og í fyrirliggjandi stafrænu íslensku efni . Stjórn Landskerfisins hefur tekið ákvörðun um kaup á Primo en ekki er búið að skrifa undir samning , verður það gert á næstu dögum . Fjármögnun kaupanna kemur úr afskriftasjóði félagsins og tækjabúnaðurinn verður leigður . Starfsmönnum Landskerfis verður fjölgað um 0.75 stöðugildi frá og með hausti 2010 . Gjaldskrá Landskerfis helst óbreytt og þjónusta verður aukin . Gert er ráð fyrir stofnkostnaði , ca 30 milljónir og að viðbótar rekstarkostnaður félagsins verði 8 milljónir á ári . Innleiðing hefst 2010 og gert er ráð fyrir að kerfið líti dagsins ljós í beta útgáfu í byrjun árs 2011 . Gagnasöfn í landsaðgangi og séráskriftir bókasafna verða ekki með í fyrsta áfanga verkefnisins . . 3 . Athugasemdir frá notendum Stjórn Aleflis sendi út á haustmánuðum beiðni til stjórnunareininganna að þær sendu athugasemdir og ábendingar um það sem betur má fara í hinum mismunandi starfsþáttum Alephs og á Gegni.is Ýmsar ábendingar komu bæði ítrekun á fyrri ábendingum og einnig ný atriði . Rósa fór yfir lista með þessum atriðum og svöruðu fulltrúar Landskerfis og skráningarráðs fyrir þau atriði sem viðkom þeirra sérsviði . Listinn með athugasemdum og svörum Landskerfis og skráningarráðs mun verða birtur ásamt fundargerð á vef Aleflis síðar . 4 . Fréttir af starfsemi Landskerfis bókasafna Indexering - Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning vegna indexeringar á t.d. rafrænu efni og ritröðum . Áætlað er að indexa fljótlega en eftir það verður rafrænt efni bæði leitarhæft og sýnilegt . Lagfæring á bókfræðigrunni – Sigrún sagði frá því að til stendur að laga vélrænt bókfræðigrunninn . Verður það mikill vinnusparnaður og gæði gagnagrunnsins aukast . Helstu atriðin sem lagfærð verða : lagfæringar og viðbætur í sviðum 007 og 008 , óþarfa sviðum verður eytt , eyðing DOB hala og samræming á forsögnum tegundar efnis . Nýr millisafnalánaþáttur – Sigrún greindi frá því að vinna við að taka í notkun nýja útgáfu ( 18 . Útgáfu ) að millisafnalánaþættinum hefjist í desember 2009 . Þau söfn sem notað hafa millisafnalánaþáttin koma að vinnunni . Þessi útgáfa er mun betri en fyrri útgáfur t.d meiri sveigjanleiki , öll söfn geta verið millisafnalánasöfn og auðvelt er að skilgreina eftir aðstæðum á hverjum stað . Áætlað er að það taki fjóra mánuði að innleiða þennan þátt . Mikilvægt að ljúka því áður en 20 . Útgáfa Aleph verður sett upp . Innleiðing SFX Classic krækjukerfisins – Sveinbjörg Öflugra krækjukerfi fyrir Landsaðgang og háskólasamfélagið á Íslandi hefur nú verið tekið í gagnið , en það nefnist SFX Classic og tók við af SFX Express . Innleiðingin er samstarfsverkefni Landsaðgangs að rafrænum gagnasöfnum og Landskerfis bókasafna . Enn eru nokkrir hnökrar á kerfinu þar sem nokkur gagnasöfn í landsaðgangi hafa ekki virkjað sfx-ið hjá sér . Stefnt er að því að kerfið virki eins og það á að gera fyrir lok árs . Aðgerðir til að bæta hraða Gegnis – Sveinbjörg Mikil vinna hefur verið lögð í að finna lausn á orsökum hægagangs í kerfinu . Tillaga að lausn vegna hægagangs í útlánaþætti er fundin og er hún í prófun . Ex Libris er ekki búið að ákveða hvort hægt verður að virkja lagfæringuna í þjónustupakka í 18. útgáfunni eða hvort bíða verður eftir 20. útgáfunni , sem væri verri kostur fyrir notendur sem bíða lausnar á þessum vanda . Vonast er til þess að þessi mál skýrist á næstu vikum . Fleira ekki rætt . Fundi slitið kl. 16.30
Rósa er búin að senda fyrirspurn til Sveinbjargar hjá Landskerfið að hún stingi upp á fundartíma fyrir árlegan samráðsfund starfsmanna Landskerfis , skráningarráðs og stjórnar Aleflis . Stjórnin setur saman form eða skema til þess að færa inn ábendingar og athugasemdir . Einnig fer stjórnin yfir skýrslur stjórnunareininganna frá aðalfundi og safnar saman þeim ábendingum sem þar koma fram . Stefnt er að því að ljúka þessari undirbúningsvinnu fyrir 1. Október . Þegar dagsetning samráðsfundar er komin sendir stjórnin tilmæli til fulltrúa stjórnunareininga að þau safni saman ábendingum frá sínum hópi í meðfylgjandi form . Stjórnin mun svo vinna úr innsendum gögnum og koma á framfæri á samráðsfundinum . Mikilvægt að senda fréttir og fundargerðir bæði á póstlista Vöndu og á heimasíðu Aleflis . Stefnt er að því að ( sam ) vinna stjórnar verði mestmegnis yfir netið á næstunni en næsti formlegi fundur verði haldinn þegar nær dregur samráðsfundinum .
Félagið heitir Alefli og er samstarfsvettvangur notenda Aleph-bókasafnakerfisins á Íslandi . Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík . Hlutverk félagsins er : a ) að miðla reynslu milli safna og vera málsvari notenda kerfisins , b ) að samhæfa óskir og kröfur á hendur Landskerfi bókasafna hf. og framleiðendum Aleph-kerfisins og forgangsraða þeim , c ) að fylgjast með og hafa áhrif á þróun kerfisins , d ) að vera tengiliður við erlend notendafélög Aleph , einkum önnur norræn félög . Öll söfn sem nota Aleph-kerfið á Íslandi eru aðilar að félaginu . Fulltrúaráð Aleflis er skipað einum fulltrúa frá hverri stjórnunareiningu , eins og þær eru myndaðar af Landskerfi bókasafna hf . Stjórnunareiningarnar skulu tilnefna fulltrúa sinn og einn til vara einum mánuði fyrir fulltrúaráðsfund hvert ár . Hver eining hefur eitt atkvæði óháð umfangi eða stærð . Fulltrúaráð skal halda fund minnst árlega . Fulltrúaráð kýs þriggja manna stjórn og einn til vara úr sínum hópi . Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn , tveir aðalmenn annað árið og einn aðalmaður og einn varamaður hitt árið . Aðalmenn og varamenn mega sitja í tvö kjörtímabil samfellt . Leitast skal við að stjórnina skipi fulltrúar ólíkra safnategunda . Stjórnin skiptir með sér verkum . Stjórnin getur kallað áheyrnarfulltrúa frá Landskerfi bókasafna hf. á fundi ef hún telur þess þörf . Verksvið stjórnar er : a ) að skipa starfshópa um ýmis verkefni ef þurfa þykir og að tilnefna fulltrúa í fagráð , nefndir og hópa , b ) að gera tillögur um fræðslu fyrir notendur í samvinnu við Landskerfi bókasafna hf. , c ) að skipuleggja árlegan fund fulltrúaráðs sem einnig er aðalfundur félagsins ; hann skal haldinn fyrir 15. maí ár hvert , d ) að fara með málefni félagsins milli aðalfunda í samræmi við lög og samþykktir þess . Notendaráðstefnur skal halda í tengslum við ársfundi fulltrúaráðs . Breytingartillögur á lögum félagsins má aðeins bera fram á aðalfundi og skulu þær hafa borist stjórn fyrir 1. apríl . Félaginu má aðeins slíta á aðalfundi ef 2/3 fundarmanna samþykkja . Eignir félagsins skulu renna til bókasafns - og upplýsingafræði við Háskóla Íslands .
Í lögum Aleflis – notendafélags Gegnis , í 4. gr. undir lið III . Stjórn segir eftirfarandi : „ Fulltrúaráð Aleflis er skipað einum fulltrúa frá hverri stjórnunareiningu , eins og þær eru myndaðar af Landskerfi bókasafna hf . Stjórnunareiningar skulu tilnefna fulltrúa sinn einum mánuði fyrir fulltrúaráðsfund hvert ár . Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn , tveir aðalmenn annað árið og einn aðalmaður og einn varamaður hitt árið . Leitast skal við að stjórnina skipi fulltrúar ólíkra safnategunda . Stjórnin skiptir með sér verkum . “ Tilnefning fulltrúa : 1 . Stjórnunareiningar tilnefna fulltrúa sinn einum mánuði fyrir fulltrúaráðsfund / aðalfund Aleflis ár hvert eins og segir í lögum Aleflis – notendafélags Gegnis . 2 . Stjórnunareiningar skipti út fulltrúa sínum í fulltrúaráði eins oft og þurfa þykir . Mælst er til þess að þeir sitji í a.m.k. tvö ár til að tryggja að þekking og reynsla nái að byggjast upp í ráðinu áður en nýr fulltrúi er skipaður . Hlutverk fulltrúa í fulltrúaráði Aleflis er að : 1 . Vera tengiliður notenda við stjórn Aleflis og Landskerfis bókasafna hf. t.d með því að : koma með ábendingar um efni á stjórnarfund 2 . Miðla upplýsingum til notenda innan stjórnunareiningar t.d. með því að ; koma á fót póstlistum innan stjórnunareiningar 3 . Boða og halda fundi innan stjórnunareiningar svo oft sem tilefni gefst til en þó ekki sjaldnar en einu sinni á ári t.d. fyrir aðalfund Aleflis þar sem tilnefndur er fulltrúi í fulltrúaráðið . 4 . Halda fundargerðir og senda til stjórnar Aleflis . 5 . Skila skýrslu um starfsemi stjórnunareiningar til stjórnar Aleflis fyrir aðalfund ár hvert . Hlutverk stjórnar Aleflis við fulltrúaráð er að : 1 . Miðla upplýsingum um starfsemina t.d. með því að : senda tilkynningar til fulltrúa um nýtt efni á vef Aleflis senda út dagskrá stjórnarfunda hvetja fulltrúa til að senda inn ábendingar og tillögur að efni sem taka má fyrir á fundum stjórnar kalla eftir tillögum um lagabreytingar sex vikum fyrir aðalfund Aleflis
Átakið „ Allir vinna “ hefur verið framlengt til 1. janúar 2014 . Endurgreiðsla virðisaukaskatts verður áfram 100% á árinu 2013 en heimild til lækkunar tekjuskattsstofns hefur verið felld niður eins og árið 2012 . Með allt uppi á borðinu færðu virðisaukaskattinn endurgreiddan Það er einfalt að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskattsins . Farðu inn á www.skattur.is , skráðu þig inn og fylltu út eyðublaðið „ beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts . “ Halda þarf til haga frumritum af öllum reikningum sem greiddir hafa verið vegna vinnu á byggingarstað . Reikningarnir þurfa að vera sundurliðaðir í efniskostnað annars vegar og vinnukostnað hins vegar . Reikningum og staðfestingu á að þeir hafi verið greiddir er síðan skilað til ríkisskattstjóra sem endurgreiðir virðisaukaskattinn .
Búið til ótrúlega einfalda og fallega Cake Pops - Myndband Helga Jónsdóttir sendi okkur hlekk á þetta frábæra myndband á YouTube . Lærið að búa til Cake Pops á nokkrum mínútum ! Þið finnið uppskriftina og aðferðina frá Helgu fyrir neðan myndbandið . Uppskrift og leiðbeiningar frá Helgu : Cake pops ( kökur á sleikjópinnum ) Bakið súkkulaðiköku , má vera Betty Crocker eða eitthvað annað pakkadeig . T.d. er mjög gott pakkadeigið sem er selt í Nóatúni á 299 krónur . Látið kökuna kólna alveg . Bakið helst daginn áður en á að búa til pinnana . Myljið kökuna vel niður og hrærið kremi saman við hana . Ef notað er hvíta kremið frá Betty Crocker þá er það ca ¾ úr dósinni sem er hrært saman við einfalda uppskrift . Einnig hægt að blanda saman við þetta súkkulaðismjörinu Nutella eða hvaða bragði sem maður vill . Kremið er hnoðað saman við deigið þar til það blandast allt vel saman . Þá eru mótaðar kúlur ( ég vigtaði þetta til að fá allar kúlurnar jafnar og setti um 25 grömm í hverja kúlu ) . Þegar búið er að móta kúlurnar þá er þetta sett inn í frysti í um 15 mínútur eða í ísskáp og þá a.m.k í klukkustund . Svo er hægt að bræða hvaða súkkulaði sem maður vill og setja utan um kökurnar og dýfa svo í skrautsykur eða kókosmjöl eða hvað sem er . Ef engin prik eru notuð kallast kúlurnar Cake Balls . Ef kúlurnar eru settar á prik er talað um Cake Pops . Best er að byrja á að stinga pinnanum sjálfum í súkkulaðið og svo inn í miðja köku ( gott að klára allar kökurnar svoleiðis áður en byrjað er að dýfa kökunum ofan í ) . Síðan er best að nota prikin til að halda í þegar dýft er ofan í súkkulaðið . Mjög einföld og flott lausn í t.d. barnaafmæli ef maður vill gera eitthvað svona öðruvísi . Þegar súkkulaðið er sett á þá þarf helst að nota eitthvað til að halda prikunum uppréttum svo súkkulaðið verði fallegt . Ég notaði gamla hillu sem ég boraði göt í til að stinga pinnunum þegar ég var búin að setja súkkulaðið .
Hitið ofninn í 180 gráður . Setjið smjörpappír á 2 - 3 plötur og setjið til hliðar . Blandið saman hveiti , lyftidufti , matarsóda og salti í skál og leggið til hliðar . Undirbúið snickers með því að setja sleikjóprik inn að miðju og setjið þau inn í frysti til að harðna á meðan deigið er búið til . Setjið smjör , sykur og púðursykur í hrærivélaskál og blandið vel saman þar til orðið létt . Bætið þá hnetusmjörinu saman við og hrærið vel saman . Þá er eggið og vanillusykurinn settur út í og að lokum hveitiblandan . Hana þarf að hræra vel þar til hliðarnar á skálinni eru orðnar hreinar og allt hefur blandast vel saman . Skiptið deiginu í 13 jafna hluta ( eða þann fjölda sem þið ætlið að gera ) . Ég vigtaði deigið til að fá allt jafn stórt og vigtaði þá 50 grömm af deigi fyrir hvert stykki og mér finnst það heldur stórt . Mætti vera aðeins minna og skera þá hvert snickers í 4 - 5 hluta í staðinn . Búið til kúlur úr deiginu og fletjið svo út á milli handanna . Setjið snickers-ið í miðjuna á deginu og vefjið deiginu utan um þannig að hvergi sjáist í snickers-ið . Vefjið vel í kringum sleikjóprikið . Rúllið þessu svo á milli handanna þannig að kökurnar verði eins og maisstöngull og leggið á bökunarplötu . Það þarf að passa að hafa þetta ekki of þétt á plötunni þar sem deigið rennur aðeins út þegar það bakast . Bakað í 14 - 16 mínútur við 180 gráður . Það þarf að vinna þetta svolítið hratt til að snickers-ið haldist frosið þegar það fer inn í ofninn . Annars vill það leka út fyrir deigið en það er líka allt í lagi ef það gerist . Smakkast alveg eins . Ég sprautaði rjómasúkkulaði utan á þegar kökurnar voru orðnar kaldar en það er valkvæmt .
Allt í köku er sérvöruverslun með gott úrval vara til kökuskreytinga , sykurmassaskreytinga , konfektgerðar og silíkonmótagerðar . Hugmyndin að Allt í köku varð til þegar ég prófaði fyrst að nota sykurmassa til þess að skreyta kökur . Eftir það var ekki aftur snúið . Ég fékk brennandi áhuga á öllu sem viðkemur kökuskreytingum og konfektgerð . Ég vildi alltaf prófa eitthvað nýtt í hvert skipti sem ég gerði köku , en það var erfitt að nálgast áhöld , mót og hráefni til þess að gefa hugarfluginu lausan tauminn . Þar sem ég var að ljúka meistaranámi í Háskóla Íslands vann ég að hugmyndinni í nokkra mánuði áður en fyrirtækið varð til . Ég fór á risa kökuskreytingasýningu í Bandaríkjunum þar sem ég fór á fjölda námskeiða og sá allt það nýjasta í bransanum . Þar kynntist ég ótrúlega skemmtilegu og frábæru fólki sem ég lærði mikið af . Það sem kom mér kannski mest á óvart á sýningunni er hvað kökuskreytingasamfélagið úti byggir mikið á því að deila upplýsingum . ' Sharing and Caring' eru einkunnarorð kökuskreytingameistara ! Ég var alveg heilluð af þessu hlýja andrúmslofti og hversu tilbúnir allir voru til þess að deila öllu sem þeir vissu . Ég fann strax að ég vildi verða hluti af þessari heild . Í upphafi átti Allt í köku aðeins að vera á netinu . Þegar hugmyndin þróaðist aðeins fann ég að netverslun myndi ekki þjóna þörfum viðskiptavina minna að fullu . Vörurnar sem við seljum eru aðeins hluti af því virði sem við bjóðum . Mikil áhersla er lögð á að veita framúrskarandi þjónustu og stuðning við notkun varanna . Allar vörurnar sem við seljum eru matvælavottaðar og framleiddar af sérhæfðum fyrirtækjum sem leggja mikið upp úr gæðum og fallegri vöru . Ég hefði aldrei getað opnað Allt í köku nema fyrir tilstilli fjölskyldu minnar og vina sem studdu mig alla leið . Ég vil þakka systur minni , Katrínu Ösp , sérstaklega fyrir allar andvökunæturnar , alla aðstoðina og vinnugleðina . Ég vonast til þess að sjá sem flesta í verslun okkar í Ármúla 23 , 108 Reykjavík . Allar okkar vörur eru á heimasíðunni okkar og þeir sem sjá sér ekki fært að koma við í versluninni okkar geta fengið allar upplýsingar í síma 567-9911 eða í tölvupósti , [email protected] . Við tökum við öllum greiðslukortum og sendum vörur út á land .
Skírnarskraut ! Barn búið til í silíkonmóti Það er ótrúlega auðvelt að búa til sykurmassaskraut með hjálp silíkonmótanna ! Mótin þola allt frá -60°C til +230°C og það festist ekkert við þau . Það þarf að frysta massann í mótinu til þess að ná barninu úr því án þess að það afmótist . Hér sjáið þið hvernig silíkonmótin eru notuð fyrir gum paste / sykurmassa . Sléttið botn barnsins með fingrunum . Hér er líka gott að nota svolítið palmín . Setjið mótið í frysti í um klukkustund , eða þar til sykurmassinn er orðinn alveg harður . Flettið mótinu utan af barninu . Barnið losnar mjög auðveldlega á meðan það er frosið . Ég mun svo fljótlega sýna hvernig barnið er klætt í skírnarkjól ! Það er langbest að setja öll silíkonmótin í frysti áður en massinn er tekinn úr þeim . Hins vegar er hægt að losa einfalda hluti eins og skeljar úr mótinu strax án þess að frysta það . Það gefur þó besta raun að setja þau í frysti . Þegar sykurmassinn er tekinn úr mótinu myndast örlítið hrím utan á sykurmassanum . Ekki hafa áhyggjur af því , það lagast fljótt ef hlutirnir eru látnir anda ( ekki setja þá í lokuð ílát á meðan þeir þorna aðeins ) .
Málningin er 100% matvæli og því má borða hana . Málningin er sérstaklega blönduð til notkunar á sykurmassa og gum paste og gefur fallegan gjáa . Hristið og hrærið vel fyrir notkun og á meðan málað er . Það má fara nokkrar umferðir en leyfið hverri umferð að þorna á milli . Notið ávallt hreinan pensil til þess að málningin blandist ekki öðrum efnum . Það er gott að nota lítinn málningarbakka til þess að setja ekki pensilinn margsinnis ofan í dósina .
Súkkulaðismjörkrem frá CK Products . Tilbúið til notkunar og auðvelt að lita með gellitum og bragðbæta með sterku bragðefnunum frá LorAnn Oils . Það er mjög gott að hræra aðeins upp í kreminu fyrir notkun , en það má einnig nota það án þess að hræra það .
Það er mjög auðvelt að búa til matvælavottuð silíkonmót með Silicone Plastique mótunarefninu . Efnið kemur í tveimur hlutum , 50 gr. af bláu og 50 gr. af hvítu efni . Efnin herðast ekki fyrr en þeim er blandað saman . Efnin eru í sitthvorum litnum svo það er auðvelt að sjá hvenær þau hafa blandast fullkomlega . Hér finnur þú leiðbeiningar um hvernig Silicone Plastique mótaefnið er notað .
Þriðjudaginn 11. september 2012 verður skreytinganámskeið haldið í Allt í köku . Námskeiðið hefst klukkan 19:00 og mun standa í um 3 til 4 klukkustundir . Á námskeiðinu munum við búa til ýmsar sykurmassaskreytingar , m.a. rósir og liljur og við kennum hvernig á að nota mót til þess að búa til skreytingar fyrir hin ýmsu tilefni . Auk þess munum við sýna hvernig er hægt að nota sykurmassa til þess að skreyta smákökur og hvernig við bragðbætum sykurmassa . Við munum fara yfir áhöld sem gott er að nota við skreytingar og sýna hvernig hvert og eitt þeirra virkar . Hver þátttakandi fær 6 bollakökur til þess að setja skreytingarnar á sem hann tekur svo með sér heim . Við notum SatinIce sykurmassa og Gum Paste á námskeiðinu og ég útskýri muninn á efnunum og hvenær skal nota Gum Paste í stað sykurmassa . Það er ekki nauðsynlegt að kunna að búa til sykurmassa né hafa nokkra reynslu af notkun hans . Námskeiðshaldari er Kristín Eik Gústafsdóttir , eigandi Allt í köku . Námskeiðið kostar 9.000 krónur og það komast 14 manns á námskeið í einu .
Þriðjudaginn 18. september og fimmtudaginn 20. september 2012 verður sprautunámskeið haldið í Allt í köku . Þetta er tveggja daga námskeið frá 19:00 - 22:00 báða dagana . Á námskeiðinu munum við kenna ýmsar sprautaðar skreytingar með Royal Icing og smjörkremi . Kenndar verða mismunandi aðferðir , farið yfir mismunandi stúta og þéttleika kremsins fyrir ólíkar skreytingar . Við munum m.a. kenna Royal Icing rósir , sólblóm , smáblóm , strengjavinnu , nokkrar tegundir blúnduborða og margt fleira . Við munum einnig gera flóknari smjörkremsskreytingar á bollakökur og skreyta smákökur með kremi og massa . Það er ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af því að sprauta . Hver þátttakandi fær 6 bollakökur til þess að setja skreytingarnar á sem hann tekur svo með sér heim á fimmtudeginum . Námskeiðshaldari er Katrín Ösp Gústafsdóttir . Námskeiðið kostar 15.900 krónur og það komast 14 manns á námskeið í einu .
Sugarflair gellitirnir eru mjög sterkir og flottir litir . Þeir eru misþykkir , allt frá því að vera mjúkt gel yfir í að vera eins og þykkt krem . Það þarf afar lítið af þeim til þess að fá sterkan lit og þá má nota í smjörkrem , glassúr , frosting krem , royal icing , sykurmassa , gum paste , deig og margt fleira . Það má einnig mála með litunum með því að þynna þá út með vatni , alkóhóli eðahvítum gellit frá Americolor . Sugarflair er afar virtur matarlitaframleiðandi í Bretlandi . Allir Sugarflair litirnir eru hnetu - , glúten - og fitulausir og innihalda engin erfðabreytt matvæli . Þeir henta fyrir grænmetisætur og eru Kosher vottaðir .
Samhæfingarstöð Almannavarna óskar landsmönnum öllum gleðilegs sumars . Að sögn vettvangsstjórnar á Hvolsvelli hefur nóttin verið mjög róleg . Rétt fyrir kl. 01:00 í nótt varð örlítil aukning á vatnsrennsli í Markarfljóti og barst nokkur krapi með en þegar leið að morgni hafði vatnsmagn ekki aukist frekar í ánni . Frá eldstöðvunum má þó enn finna markvissan takt umbrotanna . Vetur og sumar frusu saman undir Eyjafjöllum og er nú mikill snjór og hálka á veginum austan við Markarfljót . Má í dag búast við öskufalli í grennd við eldstöðina og vestur af henni . Í tilefni sumardagsins fyrsta verður í dag opið hús og veisla í Heimalandi frá kl. 11 - 17 . Verða veitingar í boði SS , Emmess ís og Ölgerðarinnar . Rangárvallasýsludeild Rauða Krossins sér um að halda utan um samkomuna líkt og undanfarna daga í Heimalandi Í dag verða kl. 08:00 áframhaldandi upplýsingafundir sérfræðinga í upplýsingamiðstöðvunum í Skógarhlíð og í Hvoli á Hvolsvelli . Þóranna Pálsdóttir veðurfræðingur og Steinunn S. Jakobsdóttir , jarðeðlisfræðingur verða á fundinum í Skógarhlíð en fulltrúi Jarðvísindastofnunar HÍ , verður á fundinum á Hvoli .
Fjölmennir íbúafundir á Hvolsvelli vegna eldgossins Um 150 manns komu á íbúafund á Hvolsvelli í gærkvöldi . Þar var farið yfir ýmis málefni tengd gosinu í Eyjafjallajökli . Magnús Tumi Guðmundsson frá Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands fór yfir þróun gossins og var með nýjar tölur um magn gjósku í gosinu . Nú hafa komið um 300 milljón rúmmetrar af gjósku frá Eyjafjallajökli og til viðmiðunar má nefna að í Kötlugosinu 1918 komu 700 milljón rúmmetra af gjósku frá því gosi . Hreinn Haraldsson vegamálstjóri gerði grein fyrir skemmdum á vegum og varnargörðum , jafnfram því sem hann kynnti famkvæmdaáætlun Vegagerðarinnar um lagfæringu , uppbyggingu og styrkingu á vegum á svæðinu . Við Svaðbælisá er vinna hafin í farvegi árinnar og búið að hanna endurbætur á varnargörðum . Í júlí er fyrirhugað að komið verði bundið slitlag á þjóðveg 1 , þar sem vegurinn var rofinn vegna flóðanna í kjölfar eldgossins . Næstu verkefni verða styrkingar varnargarða við Markarfljót og hefst vinna við það í næstu viku . Ása Atladóttir og Þórólfur Guðnason frá sóttvarnalækni fjölluðu um áhrif öskufalls á heilsu og notkun hlífðarbúnaðar . Þar kom fram að aska sem er á jörðinni hefur meiri áhrif á börn en fullorðna . Þorsteinn Jóhannsson frá Umhverfisstofnun fjallaði um svifryksmengunina á öskufallssvæðinu og gaf einfaldar viðmiðanir um notkun hlífarbúnaðar og leiðbeiningar um þrif á ösku innanhúss . Flestir sem tóku til máls eftir framsöguerindin lýstu yfir ánægju með fundinn og töldu gagnlegt að halda fund sem þennan . Þá var upplýsingafundur á pólsku fyrr um daginn , þar sem sérfræðingar fluttu erindi og svöruðu spurningum en meðal þess sem spurt var um voru rýmingar , flóð og áhrif ösku á heilsufar . Á fundinn mættu um 40 manns .
Ísland tekur þátt í samstarfi Evrópusambandsins og EFTA um almannavarnir . Ísland , Noregur og Liechtenstein eru með sérstakan samning sem tengist starfsemi og verkefnum Evrópusambandsins í almannavörnum . Eitt þessara Evrópusambandsverkefna er “ The Community Mechanism for Civil Protection ” sem miðar að því að samhæfa aðgerðir , auðvelda samstarf og sinna aðstoðarbeiðnum aðildarlandanna í almannavörnum þegar hamafarir dynja yfir , með gagnkvæmri aðstoð aðildarríkjanna og þriðja ríkis ( utan ESB ) . Aðildarríkin leggja til úrræði sem hægt er að nýta í hættuástandi og hamförum . Neyðarvakt er allan sólarhringinn í neyðarsamhæfingarstöð sambandsins MIC ( Monitoring and Information Centre ) sem staðsett er í Brussel . Ríki , sem þarfnast aðstoðar vegna hamfara hvort sem er innan bandalagsins eða utan , geta sent MIC aðstoðarbeiðni . MIC sendir beiðnir á aðildarlöndin sem finna úrræði sem henta . Við samskipti milli ríkja er notað samskiptakerfið CECIS ( Common Emergency Communication and Information System ) sem tryggir beina upplýsingagjöf milli MIC og þátttöku ríkja . Evrópusambandið leggur mikið upp úr því að styrkja getu aðildarríkjanna við að takast á við hættuástand , hvort sem um er að ræða náttúruvá , tæknivá eða önnur váverk t.d. af mannavöldum . Gert hefur verið átak í almannavörnum innan sambandsins með áherslu á samhæfingarþáttinn . Þá eru haldnar æfingar , vinnubúðir og námskeið á vegum verkefnisins til að auka færni viðbragðsaðila
Ríkissafn langt hækkaði um 2,7% á fyrri helmingi ársins . Verðbótaþáttur skýrir að stærstum hluta hækkunina á tímabilinu en örlítið gengistap var á skuldabréfum í eigu safnsins vegna hækkunar á ávöxtunarkröfu langra verðtryggðra íbúða - og ríkisskuldabréfa . Lesa meira Ríkissafn stutt hækkaði um 4,2% á árinu , mest vegna gengisbreytinga styttri ríkisskuldabréfa á markaði á árinu , þrátt fyrir stýrivaxtahækkanir . Ávöxtun stuttra ríkisskuldabréfa hefur verið í kringum 3,5% til 4,5% nafnávöxtun sem er í samræmi við ávöxtun safnsins . Ríkissafn stutt lækkaði um 1,7% vegna gengishækkana styttri ríkisskuldabréfa á markaði á fyrri helmingi ársins , þrátt fyrir stýrivaxtahækkanir á sama tímabili . Telja má að gengishækkun skuldabréfanna sé vegna mikils áhuga erlendra fjárfesta en þeir juku við sig í styttri ríkisskuldabréfum á fyrri helmingi ársins . Lesa meira
Ársfundur Almenna lífeyrissjóðsins var haldinn á Grand Hótel Reykjavík 26. apríl 2012 . Á fundinum lauk kjörtímabili Páls Ásgeirs Pálssonar , Vilhelmínu Haraldsdóttur og Eiríks Þorbjörnssonar en ekkert þeirra gaf kost á sér áfram til stjórnarsetu . Á fundinum var einnig kosinn einn aðalmaður til eins árs í staðinn fyrir Oddgeir Ágúst Ottesen sem sagði af sér í ágúst 2011 . Í staðinn voru Andrés Magnússon , Ástríður Jóhannesdóttir og Hrönn Sveinsdóttir kosin í aðalstjórn og Ingvar Baldursson og Ólafur H. Jónsson í varastjórn .
Almenni lífeyrissjóðurinn hefur ásamt fjórtán öðrum lífeyrissjóðum samið við Glitni hf. um uppgjör skulda og krafna . Undir samkomulagið falla allar kröfur aðila , þar með taldar kröfur vegna gjaldmiðlavarnasamninga sem gerðir voru til að draga úr gengisáhættu í eignasöfnum lífeyrissjóðanna . Ágreiningskrafa um víkjandi skuldabréf útgefið af Glitni í mars 2008 er undanskilin . Lífeyrissjóðir vilja að Glitnir viðurkenni skuldabréfið sem almenna kröfu á grundvelli þess að bankinn hafi ekki veitt réttar upplýsingar við útgáfu bréfsins . Samkomulag er um að vísa ágreiningnum til dómstóla . Samkvæmt samningnum verður endanleg greiðsla Almenna lífeyrissjóðsins til Glitnis vegna gjaldeyrisvarnarsamninganna 1,9 milljarður en greiðslan verður óveruleg ef lífeyrissjóðir vinna málaferli vegna víkjandi skuldabréfs . Í uppgjöri sjóðsins er í varúðarskyni gert ráð fyrir fullri greiðslu til Glitnis . Samningur lífeyrissjóða og Glitnis felur í sér að báðir aðilar falla frá ýtrustu kröfum og því lækkar bókfært tap Almenna lífeyrissjóðsins vegna gjaldeyrisvarnarsamninga um þriðjung . Áhrifin eru mest í blönduðum verðbréfasöfnum sem fjárfesta í erlendum verðbréfum . Samningurinn hefur jákvæð áhrif á eftirfarandi ávöxtunarleiðir . Ávöxtunarleið Hlutfall erlendra eigna í % Gengisbreyting 22.5 . í % Samtryggingarsjóður Með samkomulaginu hefur óvissu um eignamat í blönduðum verðbréfasöfnum verið eytt að mestu . Eignir þeirra eru vel dreifðar á lönd , atvinnugreinar og eignaflokka og því eru söfnin góður kostur fyrir langtímasparnað .
Almenni lífeyrissjóðurinn efnir til fundar fyrir sjóðfélaga um ávöxtun séreignarsparnaðar . • Hvernig eiga sjóðfélagar að ávaxta inneign sína og iðgjöld ? • Hvaða ávöxtunarleiðir eru í boði ? Hver hefur ávöxtunin verið ? Á fundinum mun sjóðstjórar og ráðgjafar fara yfir ávöxtunarleiðir sjóðsins og veita ráð um ávöxtun séreignarsparnaðar . Fundurinn verður haldinn í fundarherbergi sjóðsins í Borgartúni 25 , 5. hæð og verður boðið upp á samlokur . Áhugasamir geta skráð þátttöku hér . Breyting á ávöxtunarleiðFrá því í október 2008 hafa iðgjöld í séreignarsjóð verið greidd í Innlánasafn . Nú hefur verið ákveðið að breyta ráðstöfun iðgjalda frá 1.7.2012 í samræmi við fyrra val sjóðfélaga . Þeir sem vilja geta áfram greitt iðgjöld í Innlánasafnið . Nánari upplýsingar má lesa hér .
Þann 1. júlí 2012 féll úr gildi ákvörðun stjórnar um að greiða öll séreignariðgjöld í Innlánasafn . Á tímabilinu 2. október 2008 til 30. júní 2012 voru iðgjöld í séreignarsjóð greidd í Innlánasafn nema sjóðfélagar óskuðu eftir annarri ráðstöfun . Þessi ráðstöfun var gerð vegna óvissu um eignamat eftir efnahagshrunið 2008 en var felld úr gildi þann 1. júlí 2012 , sjá frétt frá 8. júní 2012 . Breytingin var vel kynnt fyrir sjóðfélögum , m.a. með bréfi til allra virkra sjóðfélaga í Innlánasafni og á sjóðfélagafundi sem var haldinn 19. júní sl . Í séreignarsjóði geta sjóðfélagar valið á milli sex ávöxtunarleiða fyrir viðbótarlífeyrissparnað hjá Almenna lífeyrissjóðnum . Sjóðfélagar geta hvenær sem valið þá leið sem hentar best ef þeir skipta um skoðun . Þeir sjóðfélagar sem t.d. vilja halda áfram að greiða í Innlánasafnið geta hvenær sem er beðið um breytingu á ráðstöfun iðgjalda . Á heimsíðu sjóðsins eru ítarlegar upplýsingar um ávöxtunarleiðirnar auk þess sem ráðgjafar sjóðsins eru tilbúnir að veita nánari upplýsingar og taka á móti sjóðfélögum sem vilja ræða málin .
Hér getur þú skráð þig á póstlista Almenna lífeyrissjóðsins . Netpósturinn er einföld og skemmtileg leið til að flytja sjóðfélögum Almenna lífeyrissjóðsins nýjustu fréttirnar af starfsemi og árangri sjóðsins , kynningu á nýrri þjónustu ásamt ráðgjöf sem nýtist sjóðfélögum við ákvarðanir í lífeyrismálum . Öll álit og greiningar fram settar í póstinum eru skoðanir sjóðsins á því augnabliki sem þær eru skrifaðar en geta breyst án fyrirvara . Almenni lífeyrissjóðurinn ábyrgist að upplýsingar um skráningu verða ekki undir neinum kringumstæðum látnar þriðja aðila í té . Pósturinn er sendur nokkrum sinnum á ári .
1. grein . Nafn sjóðs , heimili og skipulag 1.1 Heiti sjóðsins er ALMENNI LÍFEYRISSJÓÐURINN . Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík . 1.2 Í Almenna lífeyrissjóðnum geta sjóðfélagar greitt bæði í séreignarsjóð og samtryggingarsjóð og er rekstur þeirra fjárhagslega aðskilinn . Í séreignarsjóðnum eru iðgjöld færð á sérreikning sjóðfélaga samanber skilmála í 3. kafla samþykktanna . Með greiðslum í samtryggingarsjóð ávinna sjóðfélagar sér lífeyrisréttindi samanber skilmála í 4. kafla samþykktanna . 2.1 Hlutverk sjóðsins er að taka við iðgjöldum sjóðfélaga og ávaxta þau til þess að tryggja sjóðfélögum og mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt þeim reglum sem hér fara á eftir . 2.2 Hlutverk sjóðsins er að taka við iðgjöldum sjóðfélaga og tryggja þeim lágmarkstryggingavernd skv. lögum nr. 129 / 1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða . Ennfremur að taka við viðbótariðgjöldum til þess að sjóðfélagar geti aukið lífeyrisréttindi sín . 2.3 Maki samkvæmt samþykktum þessum telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga , staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga , enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans . Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili , eru samvistum , eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár . Með börnum er í samþykktum þessum átt við börn og kjörbörn sjóðfélaga , einnig stjúp - og fósturbörn sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti síðustu tvö árin fyrir andlát hans . 3. grein . Aðild 3.1 Aðild að sjóðnum er öllum opin . Jafnframt er sjóðurinn starfsgreinasjóður arkitekta , leiðsögumanna , lækna , tónlistarmanna og tæknifræðinga . 3.2 Allir geta greitt viðbótariðgjöld í sjóðinn . 3.3 Þeir , sem vilja gerast sjóðfélagar , skulu afhenda stjórn sjóðsins skriflega inntökubeiðni og felst í henni yfirlýsing um að þeir vilji hlíta samþykktum sjóðsins . 3.4 Þeir , sem eiga inneign í séreignarsjóði eða réttindi í samtryggingarsjóði , teljast sjóðfélagar . Þeir sem njóta elli - eða örorkulífeyris úr sjóðnum , teljast sjóðfélagar . 3.5 Aðild að sjóðnum fellur niður ef sjóðfélagi hefur fengið greidd réttindi eða inneign greidda að fullu eða við að þau flytjast samkvæmt samskiptareglum lífeyrissjóða í annan lífeyrissjóð . 4.1 Sjóðfélagar tryggja sér lágmarkstryggingavernd samkvæmt lögum nr. 129 / 1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða með greiðslu lágmarksiðgjalds í Almenna lífeyrissjóðinn . Lágmarksiðgjald skal vera 12% af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu , starf og þjónustu , samkvæmt skilgreiningu sömu laga . Af lágmarksiðgjaldi greiðast 67% í samtryggingarsjóð . Fjárhæð viðbótariðgjalds í séreignarsjóð er frjáls . Sjóðfélagar skulu sækja um greiðslu viðbótariðgjalds til samtryggingarsjóðs sbr. grein 21.1 . 4.2 Gerist maður sjóðfélagi í þessum sjóði , sem verið hefur sjóðfélagi í öðrum lífeyrissjóði , er stjórn sjóðsins heimilt að taka við sem eingreiðslu því fé er hann kann að fá útborgað úr þeim sjóði sem hann flyst úr . 4.3 Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum launþega eftir af launum hans og standa sjóðnum skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldahluta sbr. 7. grein laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða . Gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar er 10. dagur næsta mánaðar . Sjóðfélaga ber að fylgjast með að iðgjaldagreiðslur berist sjóðnum . Ef sjóðfélagi tilkynnir ekki sjóðnum um vangoldin lífeyrisiðgjöld ber hann kostnað og áhættu af innheimtu vangoldinna lífeyrisiðgjalda sem fallið hafa í gjalddaga 19 mánuðum fyrir frestdag eða fyrr . 4.4 Lífeyrissjóðnum er heimilt að reikna dráttarvexti á iðgjöld sem eru greidd eftir eindaga sem er síðasti dagur næsta mánaðar eftir launatímabil . Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga til greiðsludags .
2. kafli . Stjórn , ársfundur og fjárfestingarheimildir 5. grein . Stjórn 5.1 Stjórn sjóðsins skal skipuð sex sjóðfélögum kjörnum á ársfundi til þriggja ára í senn . Varamenn í stjórn eru þrír sjóðfélagar kosnir af sjóðfélögum . Að jafnaði skulu ár hvert kosnir tveir sjóðfélagar á ársfundi og einn til vara . Framboðum til stjórnar ( aðalmenn ) skal skila viku fyrir ársfund til stjórnar sjóðsins . Stjórnarmenn skulu kosnir með meirihlutakosningu . Ef kjósa á einn frambjóðanda fer öll inneign sjóðfélaga á þann frambjóðanda . Ef kjósa skal tvo stjórnarmenn getur sjóðfélagi merkt við tvo frambjóðendur og fá þeir þá báðir alla inneign sjóðfélagans . Varamenn skulu kosnir í sérstakri kosningu þegar kjör aðalstjórnarmanna hefur farið fram . Varamenn skulu boðaðir í fjarveru stjórnarmanna í þeirri röð sem þeir voru kosnir . Varamenn hafa eingöngu atkvæðisrétt þegar þeir sitja sem aðalmenn . Stjórnarmaður má sitja í stjórn sjóðsins í allt að 12 ár . 5.2 Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi , lögráða og fjár síns ráðandi og uppfylla að öðru leyti skilyrði 31. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129 / 1997 . Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins ber ábyrgð á starfsemi sjóðsins í samræmi við lög nr. 129 / 1997 , reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins . Stjórnin setur sér starfsreglur og gerir tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins á ársfundi . Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans og fjallar um allar meiriháttar ákvarðanir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi . Hún ræður framkvæmdastjóra , ákveður laun hans og önnur starfskjör og setur honum starfsreglur . Stjórnin ræður forstöðumann endurskoðunardeildar eða semur við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila um að annast innra eftirlit . Semji stjórn við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila má ekki semja við endurskoðunarfélag sem endurskoðar ársreikning sjóðsins . Stjórn sjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu hans , setja reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar um rekstur , iðgjöld , réttindaávinnslu og ráðstöfun eigna sjóðsins . Þá skal stjórnin setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti lífeyrissjóðsins , stjórnar hans og starfsmanna og fá þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu . Stjórnin veitir og afturkallar prókúruumboð til handa framkvæmdastjóra og öðrum starfsmönnum . 5.3 Stjórn sjóðsins skal kjósa sér formann og skipta með sér verkum að öðru leyti . Formaður kveður til stjórnarfundar og skal fund halda ef einhver stjórnarmanna krefst þess . Um það , sem gerist á stjórnarfundum , skal haldin gerðabók sem undirrituð skal af þeim er fundinn sitja . 5.4 Stjórn sjóðsins er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund . Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka nema allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið sé þess kostur . Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum . 5.5 Stjórn sjóðsins kemur fram fyrir hönd sjóðsins og skuldbindur hann . Stjórnin getur veitt stjórnarmönnum eða öðrum heimild til þess að skuldbinda sjóðinn , sbr. 29. grein . 5.6 Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins hefur heimild til að bjóða fulltrúum hópa sjóðfélaga að sitja stjórnarfundi sem áheyrnarfulltrúar með málfrelsi og tillögurétt . 5.7 Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins er launuð og ákveður ársfundur stjórnarlaun fyrir liðið starfsár . 5.8 Bráðabirgðaákvæði sem gildir til ársfundar árið 2011 . Við sameiningu Lífeyrissjóðs lækna og Almenna lífeyrissjóðsins þann 1. janúar 2006 skal stjórn Almenna lífeyrissjóðsins skipuð níu aðalmönnum og fjórum varamönnum úr stjórnum hinna sameinuðu lífeyrissjóða . Úr stjórn Lífeyrissjóðs lækna koma tveir stjórnarmenn tilnefndir af Læknafélagi Íslands á ársfundi 2003 og einn kosinn á ársfundi 2003 . Úr varastjórn kemur einn varamaður tilnefndur af Læknafélagi Íslands á ársfundi 2003 skv. ákvörðun stjórnar Læknafélags Íslands . Stjórn Lífeyrissjóðs lækna var tilnefnd / kosin til þriggja ára og sitja stjórnarmenn úr Lífeyrissjóði lækna í stjórn sameinaðs sjóðs til ársfundar 2006 . Úr stjórn Almenna lífeyrissjóðsins koma tveir stjórnarmenn sem kosnir voru á ársfundi 2004 og tveir kosnir á ársfundi 2005 . Auk þess kemur einn stjórnarmaður sem tilnefndur var af Íslandsbanka 2004 og annar tilnefndur 2005 . Úr varastjórn kemur einn stjórnarmaður kosinn á ársfundi 2004 og annar kosinn 2005 , auk eins sem tilnefndur er af Íslandsbanka 2005 . Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins var tilnefnd / kosin til tveggja ára og sitja stjórnarmenn úr Almenna lífeyrissjóðnum í stjórn sameinaðs sjóðs til ársfunda 2006 og 2007 eftir því hvenær þeir voru kosnir / tilnefndir . Á ársfundi sjóðsins 2006 skal kjósa tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn til tveggja ára og einn aðalmann í stjórn til þriggja ára . Jafnframt tilnefnir þá stjórn Íslandsbanka einn aðalmann í stjórn til þriggja ára og Læknafélag Íslands tilnefnir einn aðalmann í stjórn til tveggja ára og einn aðalmann og einn varamann í stjórn til þriggja ára . Á ársfundi sjóðsins 2007 skal kjósa tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn til þriggja ára og jafnframt tilnefnir stjórn Íslandsbanka einn aðalmann og einn varamann í stjórn til þriggja ára . Á ársfundi sjóðsins 2008 skal kjósa þrjá aðalmenn og einn varamann í stjórn til þriggja ára . Á ársfundi sjóðsins 2009 skal kjósa tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn til þriggja ára . Á fundinum skal einnig kjósa einn stjórnarmann og einn varamann til eins árs í staðinn fyrir fulltrúa Íslandsbanka sem voru tilnefndir á ársfundi 2007 en hætta á ársfundi 2009 . Eftir það gildir ákvæði gr. 5.1 . Tafla yfir kjör og tilnefningu aðalstjórnar og varastjórnar samkvæmt bráðabirgðaákvæði þessu fylgir samþykktum þessum sem fylgiskjal I. 5.9 Bráðabirgðaákvæði sem gildir til ársfundar árið 2015 . Ákvæði um hámarksstjórnarsetu í grein 5.1 . gildir frá 1. janúar 2003 6. grein . Ársreikningur og endurskoðun 6.1 Reikningsár sjóðsins er almanaksárið . 6.2 Ársfundur kýs endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til að endurskoða ársreikning lífeyrissjóðsins . Eftirlit með starfsemi sjóðsins fer eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 129 / 1997 . 6.3 Stjórnin semur ársreikning fyrir lok marsmánaðar næsta árs eftir reikningsárið . Skal ársreikningur liggja frammi á skrifstofu sjóðsins til athugunar fyrir sjóðfélaga . Ársreikningur skal einnig sendur Fjármálaeftirlitinu . 6.4 Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju , svo og samkvæmt reglum er kunna að verða settar um ársreikning lífeyrissjóða . Endurskoðendur skulu staðfesta með áritun á ársreikninginn að reikningurinn og bókhald sjóðsins , sem hann er byggður á sé fært eftir viðurkenndum bókhaldsreglum , svo og að öll ráðstöfun á fé sjóðsins sé í samræmi við ákvæði þessara samþykkta . 6.5 Stjórn sjóðsins skal á fyrsta fundi sínum eftir ársfund skipa þriggja manna endurskoðunarnefnd til eins árs í samræmi við 108. gr. a laga nr. 3 / 2006 um ársreikninga . Endurskoðunarnefndin leitast við að tryggja áreiðanleika ársreikninga og annarra fjármálaupplýsinga ásamt óhæði endurskoðenda sjóðsins . Hlutverk nefndarinnar er eftirfarandi : 1 . Eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila . 2 . Eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits einingarinnar , innri endurskoðun , ef við á , og áhættustýringu . 3 . Eftirlit með endurskoðun ársreiknings og samstæðureiknings einingarinnar . 4 . Mat á óhæði endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis og eftirlit með öðrum störfum endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis . 5 . Setja fram tillögu til stjórnar um val á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki . 7. grein . Ársfundur og aðrir sjóðfélagafundir 7.1 Skylt er stjórn sjóðsins að boða til ársfundar sjóðfélaga einu sinni á ári í mars eða apríl . 7.2 Stjórnin skal boða ársfundinn með minnst 14 daga fyrirvara með bréfi eða á annan sannanlegan hátt . Í fundarboði skal geta dagskrár . Ársfundur er löglegur sé löglega til hans boðað . 7.3 Á ársfundi skal stjórn Almenna lífeyrissjóðsins gefa skýrslu um störf sín á liðnu starfsári og um hag sjóðsins . Þá skulu á ársfundi kjörnir þeir trúnaðarmenn sjóðsins , sem gert er ráð fyrir í samþykktum þessum . Dagskrá ársfundar skal vera sem hér segir . Skýrsla stjórnar . Staðfesting ársreiknings liðins starfsárs og kynning á tryggingafræðilegu uppgjöri samtryggingarsjóðs . Kynning á fjárfestingarstefnu . Tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins , ef þær liggja fyrir sbr. 8. gr . Kosning stjórnar . Kosning endurskoðenda eða endurskoðunarfélags . Ákvörðun um laun stjórnar . Önnur mál . 7.4 Aðra sjóðfélagafundi skal halda þegar stjórn telur ástæðu til eða 3% sjóðfélaga krefjast þess . Slíka sjóðfélagafundi skal boða á sama hátt og ársfund . 7.5 Sjóðfélagafundur er lögmætur , sé löglega til hans boðað . 7.6 Sjóðfélagafundur hefur heimild til að breyta samþykktum sjóðsins . 8. grein . Breyting á samþykktum og atkvæðisréttur á sjóðfélagafundum 8.1 Tillögur til breytinga á samþykktum skulu hafa borist stjórn sjóðsins einum mánuði fyrir ársfund / sjóðfélagafund og ber að geta þeirra í fundarboði . 8.2 Samþykktum þessum má breyta með samþykki 2/3 greiddra atkvæða . Sjóðfélagar sem eiga inneign í séreignarsjóði hafa einir atkvæðisrétt um 3. kafla samþykktanna . Sjóðfélagar sem eiga réttindi í samtryggingarsjóði hafa einir atkvæðisrétt um 4. og 6. kafla samþykktanna . Atkvæðisréttur sjóðfélaga reiknast eftir inneign þeirra í séreignarsjóði og / eða hlutfallslegri inneign í samtryggingarsjóði ( hlutfallsleg skipting eigna miðað við áfallin réttindi ) miðað við næstliðin áramót . Hámarksatkvæðisréttur skal miðast við 50.000.000 kr. inneign . Fjárhæðin er verðtryggð og breytist árlega í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 239,0 stig í janúar 2005 . 8.3 . Ef sjóðfélagi getur ekki mætt á sjóðfélagafund vegna veikinda eða annarra lögmætra forfalla getur hann gefið öðrum umboð til að fara með atkvæðisrétt sinn . Umboðið þarf að vera skriflegt og vottfest af tveimur vitundarvottum og bundið við tiltekinn fund . 9.1 Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu . Stjórnin skal ávaxta fé sjóðsins með tilliti til heimilda í VII. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129 / 1997 með síðari breytingum . 9.2 Stjórn er óheimilt að tilnefna fulltrúa í stjórn hlutafélaga sem lífeyrissjóðurinn á hlut í og taka þátt í stjórnarkjöri nema brýn nauðsyn krefur vegna hagsmuna sjóðsins og stjórn sjóðsins samþykkir . 9.3 Stjórn skal útbúa sérstakar reglur um lán til sjóðfélaga .
26.1 Stjórn er skylt að upplýsa sjóðfélaga um iðgjaldagreiðslur , inneign þeirra í séreignarsjóði , áunnin réttindi þeirra í samtryggingarsjóði og inneign og réttindi miðað við áframhaldandi greiðslur með því að senda yfirlit a.m.k. tvisvar á ári . Með yfirlitum um iðgjaldagreiðslur skal fylgja áskorun til sjóðfélaga um að gera án tafar athugasemdir ef sannanlega innheimt iðgjöld hafa ekki borist sjóðnum Jafnframt skulu fylgja með yfirlitum upplýsingar um breytingar á samþykktum , rekstur , fjárhagsstöðu og eignir Almenna lífeyrissjóðsins . Ef lífeyrissjóðurinn getur tryggt sjóðfélögum aðgang að ofangreindum upplýsingum á læstu vefsvæði í gegnum notendanafn og lykilorð má sjóðfélagi afþakka heimsend yfirlit . 27. grein . Flutningur réttinda til annarra lífeyrissjóða 27.1 Heimilt er stjórn að flytja réttindi einstakra sjóðfélaga sem þess óska úr samtryggingarsjóði yfir til annars löglegs lífeyrissjóðs þegar að töku lífeyris kemur . Ennfremur er heimilt að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara þegar þeir flytjast úr landi enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að . Flutt réttindi skulu miðast við niðurstöðu síðasta tryggingaruppgjör sjóðins þannig að flutningur réttinda sé gerður á tryggingafræðilega réttum forsendum . 28. grein . Gerðardómur 28.1 Vilji sjóðfélagi ekki una úrskurði sjóðstjórnar í máli er hann hefur skotið til hennar getur hann vísað því til gerðardóms sem skipaður skal þremur mönnum , einum tilnefndum af viðkomandi sjóðfélaga , einum tilnefndum af Almenna lífeyrissjóðnum og oddamanni tilnefndum af Fjármálaeftirlitinu . Úrskurður gerðardóms er bindandi fyrir báða aðila . Málskostnaði skal skipt milli málsaðila eftir mati dómsins , en þó skal sjóðfélagi ekki greiða meira en sem nemur einum þriðja hluta málskostnaðar . Um málsmeðferð fyrir gerðardómnum fer samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma . 29.1 Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og fer í því efni eftir ákvæðum laga og samþykkta sjóðsins og þeirri stefnu og fyrirmælum , sem stjórn sjóðsins hefur gefið . Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins . 29.2 Ákvarðanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar skal framkvæmdastjóri aðeins taka á grundvelli sérstakrar ákvörðunar stjórnar eða samkvæmt áætlun sem samþykkt hefur verið af stjórninni . Sé ekki unnt að bera meiriháttar ákvarðanir undir stjórnarfund skal haft samráð við formann og varaformann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum . Slíkar ákvarðanir skal síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi . 29.3 Allar meiriháttar breytingar á skipulagi sjóðsins , innra eftirliti , bókhaldi og reikningsskilum , skal framkvæmdastjóri aðeins gera að höfðu samráði við stjórn , og að fengnu samþykki hennar . 29.4 Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að bókhald sjóðsins sé fært í samræmi við lög og viðurkenndar venjur . Honum ber einnig að fylgja þeirri fjárfestingarstefnu og þeim útlánareglum sem stjórnin setur . Á reglubundnum stjórnarfundum skal framkvæmdastjóri leggja fram yfirlit um fjárfestingar , rekstur og efnahag sjóðsins . Framkvæmdastjóri skal veita stjórn og endurskoðendum allar þær upplýsingar um hag og starfsemi sjóðsins sem þeir óska . Bráðabirgðaákvæði við breytingu á samþykktum 26. apríl 2007 Í framhaldi af tryggingafræðilegri athugun á fjárhag lífeyrisdeildar miðað við 31.12.2006 og með vísan í grein 17.1 í samþykktum sjóðsins skulu réttindi í lífeyrisdeild hækkuð hlutfallslega um 4,0% miðað við áunnin réttindi 31.12.2006 . Áunnin og flutt lífeyrisréttindi í tryggingadeild skulu hækka um sama hlutfall . Bráðabirgðaákvæði við breytingu á samþykktum 29. janúar 2009 Lífeyrisdeild er heimilt að hafa 15% mun á milli eigna og áætlaðra skuldbindinga vegna tryggingafræðilegrar athugunar í árslok 2008 án þess að breyta réttindum . Bráðabirgðaákvæði við breytingu á samþykktum 10. mars 2009 Í framhaldi af tryggingafræðilegri athugun á fjárhag lífeyrisdeildar miðað við 31.12.2008 og með vísan í grein 17.1 í samþykktum sjóðsins skulu réttindi í lífeyrisdeild lækkuð hlutfallslega um 10% frá og með 1. apríl 2008 . Bráðabirgðaákvæði við breytingu á samþykktum 29. október 2009 Deildir samtryggingarsjóðs Almenna lífeyrissjóðsins ( eftirlaunadeild , tryggingadeild og lífeyrisdeild ) sameinast 31. desember 2009 í eina deild sem greiðir lífeyri samkvæmt 4. kafla samþykkta sjóðsins . Réttindi sjóðfélaga í sameinuðum samtryggingarsjóði verða eftirfarandi : 1 . Ellilífeyrisréttindi sjóðfélaga í samtryggingarsjóði vegna iðgjalda á tímabilinu 1.1.2006 til 31.12.2009 verða endurreiknuð samkvæmt réttindatöflu örorku vegna elli - og örorkuréttinda á hverjum tíma . 2 . Eftirlaunasjóðir 1. janúar 2006 í eftirlaunadeild breytast í ævilöng ellilífeyrisréttindi frá 70 ára aldri 3 . Endurreiknuð og áunnin ellilífeyrisréttindi 31.12.2009 lækka um 10% . 4 . Áunnin tryggingaréttindi 1. janúar 2006 eru flutt örorku - , maka - og fjölskyldulífeyrisréttindi ( þar með talin sérstök líftrygging lækna ) ásamt eftirlaunasjóðum í eftirlaunadeild sem eru skráðir á nafn sjóðfélaga . Áunnu tryggingaréttindin lækka um 10% en breytast að öðru leyti ekki . Barnalífeyrisréttindi breytast ekki . 5 . Réttindi ellilífeyrisþega sem hafa hafið töku ellilifeyris á tímabilinu frá 1. janúar 2006 til 31.12.2009 verða endurreiknuð samkvæmt liðum 1 og 2 og leiðrétt ef endurreiknuð réttindi reynast hærri heldur en áður úrskurðaður lífeyrir . 6 . Lífeyrisréttindum í árslok 2009 verður síðan breytt hlutfallslega jafnt á ársfundi á árinu 2010 þannig að staða samtryggingarsjóðs verði í jafnvægi í árslok 2009 samkvæmt niðurstöðu tryggingafræðilegrar athugunar miðað við 31. desember 2009 . Breytingar á samþykktum þessum voru samþykktar á sjóðfélagafundi 29. október 2009 og taka gildi um leið og fjármálaráðuneytið hefur staðfest samþykktirnar . Breytingar á ákvæðum 16.4 , 17.1 til 17.10 , 18.1 til 18.4 , 19.1 , 19.3 , 19.12 , 20.1 , 21.3 , 24.1 , 25.4 , 25.5 og bráðabirgðaákvæði 29. október 2009 taka gildi 31. desember 2009 en þangað til gilda ákvæðin eins og þau eru í samþykktum sjóðsins sem voru samþykktar á ársfundi sjóðsins 10. mars 2009 . Bráðabirgðaákvæði við breytingu á samþykktum 29. apríl 2010 Í framhaldi af tryggingafræðilegri athugun á fjárhag samtryggingarsjóðs miðað við 31.12.2009 og með vísan í grein 24.1 í samþykktum sjóðsins skulu lífeyrisréttindi lækkuð hlutfallslega um 16,7% frá og með 1. júní 2010 . Breytingatillaga frá stjórn Almenna lífeyrissjóðsins við tillögu 3 . Bráðabirgðaákvæði við breytingu á samþykktum 29. apríl 2010 Í framhaldi af tryggingafræðilegri athugun á fjárhag samtryggingarsjóðs miðað við 31.12.2009 og með vísan í grein 24.1 í samþykktum sjóðsins skulu lífeyrisréttindi lækkuð hlutfallslega um 12% 16,7% frá og með 1. júní 2010 . Bráðabirgðaákvæði við breytingu á samþykktum 28. apríl 2011 Í framhaldi af tryggingafræðilegri athugun á fjárhag samtryggingarsjóðs og með vísan í grein 24.1 í samþykktum sjóðsins skulu lífeyrisréttindi sjóðfélaga miðað við 31.12.2010 lækkuð hlutfallslega um 2,5% frá og fyrsta degi næsta mánaðar eftir að fjármálaráðuneyti staðfestir samþykktir sjóðsins . Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins skal í október láta framkvæma tryggingafræðilega athugun miðað við 30.09.2011 . Sýni athugunin að áunnin skuldbinding sé meira en 7,5% hærri en eignir skulu lífeyrisréttindi sjóðfélaga miðað við 31.12.2010 lækkuð hlutfallslega um 2,5% frá og með 1. nóvember 2011 .
Fyrir þá sem vilja bara ríkisskuldabréf og þola litlar sveiflur í ávöxtun Ráðgjöf Ráðgjöf Almenna lífeyrissjóðsins er að blönduð og vel dreifð verðbréfasöfn séu góður kostur fyrir lífeyrissparnað og skili góðri áhættudreifingu og bestu ávöxtuninni til lengri tíma litið . Við mælum með Ævileiðinni en þá flyst inneign milli Ævisafna I , II og III eftir aldri sjóðfélaga . Ríkissöfnin og Innlánasafnið eru mikilvæg viðbót sem valkostir fyrir sjóðfélaga . Mikil eftirspurn er eftir innlánum og öruggum skuldabréfum og hefur sjóðurinn brugðist við með því að bjóða sjóðfélögum að fjárfesta í innlánum og ríkisskuldabréfum með sjóðnum . Eignir ávöxtunarleiða geta verið aðrar en langtíma fjárfestingarstefna vegna markaðsaðstæðna . Sjóðfélagar eru hvattir til að kynna sér upplýsingar um núverandi eignasamsetningu á upplýsingasíðum hverrar ávöxtunarleiðar . Fjárfestingu í verðbréfum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta . Verðbréf geta hækkað eða lækkað í verði vegna markaðsaðstæðna , efnahagsástands og greiðslufalls útgefanda . Blönduð verðbréfasöfn fjárfesta í erlendum verðbréfum . Verðmæti erlendra verðbréfa í íslenskum krónum breytist daglega vegna breytinga á gengi gjaldmiðla . Ávöxtun í fortíð er hvorki vísbending um né trygging fyrir ávöxtun í framtíð . Sparnaðarmarkmið , fjárhagsstaða sjóðfélaga og viðhorf til áhættu eru mismunandi . Sjóðfélögum er bent á að hafa samband við ráðgjafa sjóðsins og kynna sér vel ávöxtunarleiðir sjóðsins . Sjóðfélagar eru hvattir til að kynna sér fjárfestingarstefnu sjóðsins sem lesa má hér . Markaðsáhætta Er áhættan á miklum sveiflum í ávöxtun vegna breytinga á verðmæti eigna . Eignir geta hækkað og lækkað í verði vegna markaðsastæðna , efnhagsástands og flökti á gengi gjaldmiðla . Safn með litla markaðsáhættu sveiflast lítið en safn með mikla áhættu sveiflast mikið . Skuldaraáhætta er sú áhætta að fjárfesting tapist vegna gjaldþrots útgefanda verðbréfs eða þess sem á að inna af hendi greiðslu . Skuldaraáhætta er mismikil meðal útgefenda . Skuldaraáhætta er talin lítil ef skuldabréf er með ríkisábyrgð . Skuldaraáhætta er meiri ef um skuldabréf fyrirtækja er að ræða . Skuldaraáhætta minnkar með auknum fjölda útgefenda í söfnum .
Saga Almenna lífeyrissjóðsins nær yfir marga áratugi og eru rætur hans bæði langar og traustar . Í raun samanstendur sjóðurinn af átta lífeyrissjóðum sem hafa sameinast en á mismunandi tímum . Þeir lífeyrissjóðir sem hafa sameinast í Almenna lífeyrissjóðinn eru ALVÍB ( Almennur lífeyrissjóður VÍB ) , Lífeyrissjóður arkitekta , Lífeyrissjóður starfsmanna SÍF , Lífeyrissjóður FÍH , Lífeyrissjóður Félags leiðsögumanna , Lífeyrissjóður lækna og Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands . Almenni lífeyrissjóðurinn er opinn fyrir alla en sjóðurinn er jafnframt starfsgreinasjóður arkitekta , lækna , leiðsögumanna , hljómlistarmanna og tæknifræðinga . Nokkur mikilvæg skref í þróun Almenna lífeyrissjóðsins : 1965 : Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands stofnaðir 1967 : Lífeyrissjóður arkitekta og Lífeyrissjóður lækna stofnaðir 1968 : Lífeyrissjóður starfsfólks SÍF , LSÍF stofnaður 1970 : Lífeyrissjóður FÍH stofnaður 1977 : Lífeyrissjóður Félags leiðsögumanna , LFL , stofnaður 1990 : ALVÍB , Almenni lífeyrissjóður VÍB , stofnaður 1995 : ALVÍB og Lífeyrissjóður Félags leiðsögumanna sameinast undir nafni ALVÍB 1996 : ALVÍB og Lífeyrissjóður FÍH sameinast undir nafni ALVÍB 1997 : ALVÍB og Lífeyrissjóður starfsmanna SÍF sameinast undir nafni ALVÍB 1998 : Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands og Lífeyrissjóður arkitekta sameinast og stofna Lífeyrissjóð arkitekta og tæknifræðinga , LAT ALVÍB býður sjóðfélögum að velja milli mismunandi verðbréfasafna og kynnir Ævileiðina . Ævisöfn I-III stofnuð 1999 : ALVÍB stofnar samtryggingarsjóð 2000 : Lífeyrissjóður lækna breytir yfir í aldurstengt réttindakerfi 2002 : ALVÍB stofnar Ævisafn IV2003 : ALVÍB og LAT sameinast og stofna Almenna lífeyrissjóðinn 2006 : Lífeyrissjóður lækna og Almenni lífeyrissjóðurinn sameinast undir nafni Almenna lífeyrissjóðsins
Hér geta sjóðfélagar sent fyrirspurnir til starfsmanna sjóðsins . Merktu við flokk og skráðu efni fyrirspurnar þinnar hér að neðan . Mikilvægt er að þú skráir símanúmer þitt og netfang til að við getum svarað fyrirspurn þinni . Leitast er við að svara öllum fyrirspurnum samdægurs . Þú getur einnig kannað hvort svörin er að finna í Spurt og svarað , þar sem skráð eru svör við nokkrum algengum spurningum sem borist hafa frá sjóðfélögum .
Breytilegir vextir eða fastir vextir , sjá vaxtakjör til hliðar Hægt að greiða inn á lánið hvenær sem er Ekkert uppgreiðslugjald Lán með jöfnum afborgunum Lán með jöfnum greiðslum Lán með jöfnum afborgunum Hentar þeim sem ráða við hærri greiðslubyrði Hagstæðari til lengri tíma en jafngreiðslulán Þegar lán eru með jöfnum afborgunum þá er höfuðstólnum dreift jafnt á fjölda afborgana en vextir eru greiddir til viðbótar . Þá greiðir lántakandi hærri heildargreiðslur til að byrja með en síðan lækkar heildargreiðslan eftir því sem vextir af höfuðstól lækka . Hægt er að velja á milli fastra vaxta eða breytilegra vaxta . Ath. ekki er gert ráð fyrir verðbólgu Lán með jöfnum greiðslum ( annuitets lán ) Hentar þeim sem kjósa jafna greiðslubyrði allan lánstímann Hentar þeim sem vilja lægri greiðslubyrði í upphafi Með jafngreiðsluláni greiðir lántakandinn alltaf sömu upphæði á hverjum gjalddaga , en greiðir hinsvegar mismunandi hlutfall vaxta og höfuðstóls . Til að byrja með er hlutfall vaxta mjög hátt en smátt og smátt eykst hlutfall höfuðstóls eftir því sem líður á lánstímann . Hægt er að velja á milli fastra vaxta eða breytilegra vaxta .
Með umsókninni þurfa að fylgja eftirfarandi upplýsingar um húsnæðið . Nýtt veðbókarvottorð . Greiðslumat frá viðskiptabanka eða sparisjóði Afrit af síðustu greiðslukvittunum af þeim lánum sem hvíla á undan Afrit af þinglýstum kaupsamningi hafi eignin skipt um eigendur á síðustu þremur árum . Fasteignamat eða verðmat frá löggiltum fasteignasala ( í samráði við starfsmenn sjóðsins ) . Lántakandi greiðir kostnað við sölumatið . Upplýsingar um brunabótamat . Afrit af skilmálum fyrir viðbótarbrunatryggingu . Í skilmálum tryggingarinnar þarf að koma fram að ekki sé heimilt að breyta tryggingunni nema með samþykki Almenna lífeyrissjóðsins . Húseignir í smíðum þurfa að vera komnar með fokheldisvottorð ásamt smíðatryggingu og kvittun fyrir greiðslu gatnagerðargjalda . Ef sótt er um lán með veði í sumarhúsi skulu fylgja sömu upplýsingar og farið er fram á hér að ofan en til viðbótar er farið fram á eftirfarandi gögn : Verðmat frá fasteignasala sem sjóðurinn viðurkennir þarf alltaf að fylgja umsóknum auk staðfestingar fasteignasalans um að hann hafi farið á staðinn og skoðað aðstæður . Staðfesting á að sumarhús sé tryggt gegn tjóni , öðru en brunatjóni . Almenni lífeyrissjóðurinn áskilur sér rétt að óska eftir öðru verðmati frá löggiltum fasteignasala sem sjóðurinn tilnefnir . Ef verðmat sem fylgir með umsókn er 20% hærra en fasteignamatið fer sjóðurinn alltaf fram á annað sölumat frá fasteignasala sem sjóðurinn tilnefnir . Sjóðurinn áskilur sér rétt til að fá annað verðmat frá löggiltum fasteignasala , sem sjóðurinn tilnefnir . Lántaki greiðir kostnað við eitt sölumat . Lántakanda ber að leggja fram yfirlit yfir skuldastöðu í lánastofnunum auk afrits af skattframtali , óski sjóðurinn eftir því . Komi í ljós að skuldastaða sé með þeim hætti að vafi leiki á greiðsluhæfi lántakanda getur sjóðurinn lækkað umbeðna lánsfjárhæð eða hafnað lánveitingu . Umsókn ásamt fylgiskjölum á að skila á skrifstofu Almenna lífeyrissjóðsins , Borgartúni 25 , Reykjavík . Gera má ráð fyrir að afgreiðsla lánsumsókna taki um viku , þó svo að leitast verði við að afgreiða umsóknir innan þriggja daga .
Iðgjaldagreiðslur : Iðgjöld má greiða inn á reikning sjúkrasjóðsins hjá Íslandsbanka : 513-26-9994 • Gjalddagi - 10. dagur næsta mánaðar eftir launatímabil • Eindagi - Síðasti dagur næsta mánaðar eftir launatímabil Leiðsögumenn Almenni lífeyrissjóðurinn tekur við eftirfarandi iðgjöldum fyrir Félag leiðsögumanna sem stofnaður var árið 1977 . Iðgjöldin skal greiða með iðgjöldum í Almenna lífeyrissjóðinn . • Félagsgjald er 1% af launum • Sjúkrasjóður er 1,5% af launum • Endurmenntunargjald er 0,25% af launum Skilagreinar til Almenna lífeyrissjóðsins Launagreiðendur geta sent skilagreinar til sjóðsins ýmist með rafrænum hætti , með tölvupósti eða á pappír .
Barnalífeyrir er greiddur með börnum sem óvinnufær eða látinn sjóðfélagi hefur haft á framfæri Barnalífeyrir er greiddur til 20 ára aldurs barns Fjárhæð með hverju barni var kr. 25.718 í febrúar 2009 Inneign í séreignarsjóði skiptist á milli maka og barna skv. erfðalögum , þ.e. 1/3 inneignar skiptist milli barna ef erfðaskrá hefur ekki verið gerð Barnalífeyrir er greiddur með börnum og kjörbörnum látins sjóðfélaga til 20 ára aldurs barns . Barnalífeyrir er greiddur ef sjóðfélaginn hafði greitt iðgjald í að minnsta kosti 24 mánuði síðustu 36 mánuðina fyrir andlát , notið elli - eða örorkulífeyris við andlátið eða öðlast rétt til framreiknings . Litið er á stjúpbörn og fósturbörn sem börn sjóðfélagans enda hafi hann framfært þau um árabil . Sama rétt eiga börn örorkulífeyrisþega sem öðlast hefur rétt til framreiknings . Veiti fráfall eða örorka sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði er barnalífeyrir úr Almenna lífeyrissjóðnum þá bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til hans . Barnalífeyrir er föst fjárhæð á mánuði sem er verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs . Eigi barn látins sjóðfélaga hvorki foreldri né kjörforeldri á lífi er greiddur tvöfaldur barnalífeyrir .
Hvaða ávöxtunarleið á ég að velja fyrir lífeyrissparnaðinn minn ? Hvaða leið get ég valið sem skilar góðri ávöxtun án þess að taka of mikla áhættu ? Val á ávöxtunarleið er ein mikilvægasta ákvörðunin sem þarf að taka varðandi eftirlauna-sparnað . Ákvörðunin getur haft afgerandi áhrif á afkomu okkar á stórum hluta ævinnar . Þess vegna borgar sig að vanda hana vel og gefa sér tíma til að velja ávöxtunarleið og vörsluaðila . Það er ekki hægt að komast hjá því að taka einhverja áhættu með sparnaðinn sinn . Hins vegar er hægt stýra áhættunni með því að velja fjárfestingarstefnu sem tekur mið af eigin áhættuþoli á hverjum tíma . Einnig er hægt að draga úr áhættu með því að velja öruggari sparnaðarform sem að öðru jöfnu gefa þá minni ávöxtun . Áhætta getur verið tvenns konar . Markaðsáhætta er hættan á sveiflum í ávöxtun vegna breytinga á verðmæti eigna . Eignir geta hækkað og lækkað í verði vegna markaðsaðstæðna , efnahagsástands og flökti á gengi gjaldmiðla . Markaðsáhætta minnkar eftir því sem sparnaðartími er lengri því þá minnka áhrif einstakra sveiflna og jafnast út með tímabilum hárrar og lágrar ávöxtunar . Skuldaraáhætta er hættan á að eignir tapist vegna greiðsluerfiðleika eða gjaldþrots útgefanda . Skuldabréf með litla skuldaraáhættu er t.d. skuldabréf með ríkissábyrgð eða aðra sambærilega tryggingu . Skuldaraáhætta minnkar með fjölda útgefenda og dreifingu á margar atvinnugreinar eða lönd . Sagan segir að verðbréf eru besti kosturinn fyrir langtímasparnað . Eðli verðbréfa er að verð þeirra sveiflast eftir markaðsaðstæðum hverju sinni en til lengri tíma litið hækka verðbréf að jafnaði í verði . Verðbreytingar eru mismunandi miklar eftir tegundum verðbréfa en almennt má segja að því meiri sem sveiflurnar eru því hærri verður ávöxtunin . Hlutabréf sveiflast mest í verði en hafa sögulega gefið hæstu ávöxtunina . Skuldabréf sveiflast minna í verði en hafa sögulega gefið tiltölulega stöðuga og jafna ávöxtun . Innlánsreikningar banka og sparisjóða sveiflast ekki í verði . Höfuðstóllinn breytist ekkert þótt breytingar verði á markaðsvöxtum . Höfuðstóll verðtryggðra innlánsreikninga getur þó bæði hækkað og lækkað eftir því hvort verðbólga eða verðhjöðnun á sér stað . Ráðgjöf Almenna lífeyrissjóðsins er að blönduð og vel dreifð verðbréfasöfn séu góður kostur fyrir lífeyrissparnað og skili bestu ávöxtuninni til lengri tíma og áhættudreifingu . Hér koma nokkur góð ráð til að hafa í huga við val á ávöxtunarleið . Veldu ávöxtunarleið eftir aldri eða áætluðum sparnaðartíma . Almennt má segja að því lengri tími sem er til stefnu þeim mun meiri markaðsáhættu sé hægt að taka og öfugt . Sá sem sparar til lengri tíma getur haft hátt vægi hlutabréfa og langra skuldabréfa . Veldu ávöxtunarleið sem hentar þér . Ef þú þolir illa sveiflur veldu þá ávöxtunarleið sem sveiflast lítið , t.d. stutt skuldabréf og innlán . En þá þarf að hafa í huga að gera ekki of miklar væntingar um ávöxtun . Gættu að áhættudreifingu til að draga úr skuldaraáhættu . Best er að fjárfesta í blönduðum verðbréfasöfnum ( með hlutabréfum , skuldabréfum og innlánum ) og dreifa áhættunni innan hvers verðbréfaflokks með því að fjárfesta í mörgum löndum , atvinnugreinum og hjá mörgum útgefendum . Veldu ávöxtunarleiðir með lágan kostnað . Kostnaður dregst frá ávöxtun og hefur því áhrif á uppsöfnun sparnaðar til langs tíma . Þegar peningar eru ávaxtaðir til eftirlaunaáranna eru margir möguleikar í boði . Það borgar sig að vanda sig við val á ávöxtunarleiðum og fylgjast síðan með og yfirfara eignirnar með reglulegu millibili . Í Almenna lífeyrissjóðnum geta sjóðfélagar valið á milli sjö ávöxtunarleiða fyrir viðbótarlífeyrissparnað með mismunandi ávöxtun og áhættu . Sjóðfélagar geta valið fleiri en eina ávöxtunarleið og geta einnig breytt um leiðir síðar ef þeir skipta um skoðun . Kosturinn við að greiða viðbótarsparnað í Almenna lífeyrissjóðinn er lágur kostnaður en sjóðurinn býður sjóðfélögum að fjárfesta með sjóðnum á sömu kjörum og lífeyrissjóðurinn . Almenni lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á að veita sjóðfélögum greinargóðar upplýsingar um inneign í séreignarsjóði og lífeyrisréttindi á læstum sjóðfélagavef . Einnig að veita ítarlegar upplýsingar um fjárfestingarstefnu og um eignir ávöxtunarleiða á opnum vef sjóðsins . Sjóðurinn reiknar daglegt gengi á ávöxtunarleiðir en þannig geta sjóðfélagar fylgst með inneign sinni og ávöxtun . Smelltu hér ef þú vilt panta upplýsingafund með ráðgjafa .
Get ég tekið lán til langs tíma ? Hvað þarf að hafa í huga þegar tekið er lán til langs tíma ? Að taka lán er eðlilegur hlutur af fjármálum einstaklinga og fyrirtækja . Tilgangurinn er yfirleitt að eignast hluti , sem eru nauðsynlegir fyrir heimili og rekstur , t.d. húsnæði , og greiða fyrir af tekjum framtíðarinnar . Að taka lán er mikil ákvörðun . Lán kosta og draga úr ráðstöfunartekjum . Með því að taka lán skuldbindur lántaki sig til að greiða af láninu í langan tíma hvernig sem árar . Lántakinn þarf að vera tilbúinn að þola sveiflur í greiðslubyrði og í tekjum og gjöldum heimilisins . Þegar tekin eru langtímalán þurfa lántakendur yfirleitt að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu lánsins . Einstaklingar setja oftast fasteign heimilisins að veði . Greiðslufall getur því haft alvarlegar afleiðingar fyrir heimilið . Gefðu þér góðan tíma ef þú þarft eða ert að hugsa um að taka lán . Hér koma nokkur góð ráð til að hafa í huga . Spurðu þig hvort þú þurfir að taka lán . Reyndu að forðast að skuldbinda þig til að greiða af lánum til langs tíma og er gott að miða við að búið sé að greiða af láninu þegar á eftirlaun er komið . Taktu ekki lán nema það sé nauðsynlegt og þú ert viss um að geta endurgreitt það . Ef þú tekur lán , reyndu þá að komast af með eins lága fjárhæð og þú treystir þér til . Kannaðu kostnað við lántöku . Hvaða vextir eru greiddir og hver er annar lántökukostnaður ? Ef lán er með breytilegum vöxtum eða verðtryggingu , skoðaðu þá sögulega vexti og verðbólgu . Reynslan segir okkur að sagan endurtekur sig . Reiknaðu áætlaða greiðslubyrði lánsins . Reiknaðu miðað við núverandi verðlag en á löngum tíma má gera ráð fyrir að launa - og verðbólguþróun haldist í hendur ( sagan segir reyndar að laun hækki meira en verðlag á löngum tíma ) . Til skamms tíma geta hins vegar orðið frávik og því skaltu einnig reikna greiðslubyrðina miðað við sögulega verðbólgu . Skoðaðu hvaða áhrif lántakan hefur á framfærslu og greiðslugetu . Þú verður að geta staðið við þá skuldbindingu að greiða af láninu þrátt fyrir erfiðleika vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði , launalækkunar eða vegna þess að annar kostnaður hækki . Kannaðu hvort þú getir greitt lánið upp fyrr . Hvað kostar það ? Það er afar mikilvægt að geta greitt upp lán ef aðstæður breytast . Hjá lífeyrissjóðum er yfirleitt ekkert uppgreiðslugjald og hjá öðrum lánastofnunum er fyrirkomulagið breytilegt . Göran Person , forsætisráðherra Svíþjóðar 1996 - 2006 , sagði eitt sinn að sá sem skuldar væri ekki frjáls . Það er mikið til í þessum orðum og alveg sérstaklega ef skuldir eru mjög miklar . Hófleg lántaka er þó eðlilegur hluti af fjármálum einstaklinga og getur bætt lífsgæði . Skuldir eru miklar ef greiðslubyrði lána er farin að vega mjög þungt af ráðstöfunartekjum og svo þungt að illa getur farið ef forsendur breytast . Ágæt viðmiðun er að greiðslubyrði verði aldrei meiri en 15% - 20% af heildartekjum . Almenni býður sjóðfélögum sínum hagstæð lán gegn fasteignaveði . Hægt er að velja milli verðtryggðra lána með breytilegum eða föstum vöxtum . Á heimasíðu sjóðsins er reiknivél til að reikna greiðslubyrði lána miðað við mismunandi forsendur .
Af hverju á ég að skoða kostnað við val á vörsluaðila og ávöxtunarleið fyrir lífeyris-sparnaðinn minn ? Á ég ekki að bara að velja þann aðila sem sýnir hæstu ávöxtunina ? Kostnaður dregst frá ávöxtun og hefur því áhrif á uppsöfnun sparnaðar . Á löngum tíma getur munað mjög miklu . Rannsóknir sýna að kostnaður hefur afgerandi áhrif þegar árangur við ávöxtun fjármuna er borinn saman . Þess vegna er nauðynlegt að bera saman kostnað og þóknanir hjá vörsluaðilum . Kostnaði við sparnað má skipta í tvo flokka : rekstrarkostnað og veltukostnað . Rekstrarkostnaður er sú þóknun sem vörsluaðilar taka fyrir að geyma sparnað og annast hann . Dæmi um rekstrarkostnað eru umsýslulaun sjóða , þóknun fyrir fjárvörslu , eignastýringarkostnaður og innheimtukostnaður . Veltukostnaður er kostnaður sem fellur til við hreyfingar eða eignabreytingar , t.d. kostnaðurinn við að kaupa og selja verðbréf eða innleysa bankainnstæður eða inneign í sjóðum . Myndin fyrir neðan sýnir dæmi um áhrif rekstrarkostnaðar á 10.000 kr. inngreiðslu . Í dæminu er reiknað verðmæti inngreiðslu án ávöxtunar á sparnaðartíma að frádegnum rekstrarkostnaði miðað við mismunandi kostnaðarhlutfall . Þannig lækkar inngreiðsla um 18% á 20 árum ef kostnaðarhlutfallið er 1% , um 12% ef kostnaður er 0,65% og um 7% ef kostnaður er 0,35% . ( Smelltu á mynd til að stækka ) Áður en vörsluaðili fyrir lífeyrissparnað eða annan sparnað er valinn er nauðsynlegt að afla sér upplýsinga um þær þóknanir sem hann tekur . Óskaðu eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnað hjá vörsluaðila . Hvaða þóknun tekur vörsluaðili fyrir að geyma sparnaðinn þinn ? Spyrðu um kostnað í undirliggjandi sjóðum . Ef vörsluaðili fjárfestir í sjóðum borgar sig að vita hver umsjónarlaun í viðkomandi sjóðum eru . Mundu að þau dragast frá ávöxtun . Spyrðu um veltukostnað . Er tekið upphafsgjald þegar sparnaður er lagður fyrir ? Hvað kostar að gera eignabreytingar hjá vörsluaðila ? Hvað kostar að færa sparnaðinn til annars vörsluaðila ? Og kostar eitthvað að leysa sparnaðinn út í starfslok ? Ef ráðgjafi eða sölumaður geta ekki veitt fullnægjandi svör um rekstrarkostnað og annan kostnað er best að sleppa því að skipta við viðkomandi aðila . Það á að vera grundvallar-sjónarmið við að gæta fjármuna annarra aðila að fara vel með fé og geta veitt nákvæmar upplýsingar um kostnaðinn . Kostnaður við ávöxtun og eignastýringu er óhjákvæmilegur . Við greiðum fyrir þjónustu fjármálafyrirtækja og sjóða en kostnaðurinn er misjafn milli vörsluaðila . Þess vegna er bráðnauðsynlegt að bera saman kostnað og þóknanir hjá vörsluaðilum . Það eykur samkeppni milli þeirra sem kemur neytendum til góða . Kostnaðaraðhaldið knýr vörsluaðilana til að leita leiða til að hagræða og gera þjónustuna meira virði fyrir neytendur . Kosturinn við að greiða viðbótarsparnað í Almenna lífeyrissjóðinn er lágur kostnaður . Markmið Almenna lífeyrissjóðsins er að halda kostnaði í lágmarki til þess að sem mest af ávöxtun skili sér til sjóðfélaga . Við vinnum bara fyrir sjóðfélaga og enginn milliliður fær arð fyrir rekstur sjóðsins . Á heimsíðunni okkar getur þú reiknað hvaða áhrif kostnaður hefur á ávöxtun .
Hvernig á ég að undirbúa mig ef ég hyggst hætta að vinna innan fárra ára ? Er orðið of seint að gera ráðstafanir til auka eftirlaunin ? Besta og auðveldasta leiðin til að tryggja góð eftirlaun er að byrja að undirbúa sig tímanlega . Afkoma á eftirlaunaárunum ræðst yfirleitt mest af því hversu duglegir einstaklingar eru að leggja fyrir á starfsævinni . Því fyrr sem fólk byrjar að undirbúa sig því minna þarf að leggja fyrir í einu og því meiri vextir safnast . Flestir byrja þó fyrir alvöru að huga að tekjum á eftirlaunaárunum 5 til 10 árum fyrir starfslok . Þegar svo stutt er í starfslok hefur svigrúm til að gera ráðstafanir sem auka eftirlaunin minnkað en þó er ýmislegt hægt að gera sem skiptir máli . Ef þú hefur ekki þegar gert áætlun um eftirlaunasparnað skaltu byrja á því . Safnaðu upplýsingum um áunnin eftirlaunaréttindi í þeim lífeyrissjóðum sem þú hefur greitt í og áætlaðu hvað þú munir bæta við með áframhaldandi greiðslum til starfsloka . Reiknaðu hvað viðbótarsparnaður bætir miklu við . Kannaðu hvaða eftirlaunagreiðslum þú mátt eiga von á frá Tryggingastofnun . Ef þér finnst áætluð eftirlaun vera of lág þarf að bretta upp ermar . Þú getur bætt við eftirlaunin með því auka sparnað eða nýta eignir betur . Nýttu þér heimildir til viðbótarlífeyrissparnaðar eins og hægt er og bættu svo við reglulegum sparnaði til viðbótar ef þarf . Farðu yfir skuldir þínar og alveg sérstaklega langtímaskuldir sem verða að öðru óbreyttu ekki greiddar upp áður en vinnu lýkur . E.t.v. er uppgreiðsla skulda hagstæðasti sparnaður sem þú átt völ á . Skoðaðu hvort þú getir minnkað við þig eignir til þess að auka tekjur og minnka gjöld . Oft má t.d. fá ágæta fjárhæð í milli þegar skipt er á stórri og lítilli íbúð og þetta fé er hægt að ávaxta vel , t.d. í ríkisskuldabréfum . Hugaðu að samsetningu sparifjár og reyndu að draga úr áhættu vegna verðsveiflna . Á eftirlaunaárunum er markmiðið ekki að fá hæstu ávöxtun , heldur að draga úr sveiflum og fá jafna og stöðuga ávöxtun . Því markmiði er hægt að ná með því að geyma stærstan hluta sparnaðarins í stuttum skuldabréfum , víxlum og á innlánsreikningum . Við mælum með að einstaklingar hefji eignabreytingar og aðlögun 5 til 10 árum áður en vinnu lýkur . Íslendingar eru lánsamir að eiga gott lífeyriskerfi sem tryggir lágmarkslífeyri . Með ráðdeild og viðbótarsparnaði er hægt að bæta við eftirlaunin og hér , eins og svo oft áður , gildir að ,, hver er sinnar gæfu smiður . “ Jákvætt hugarfar hjálpar alltaf . Framundan eru spennandi ár sem eiga að vera skemmtileg , sérstaklega ef heilsan og fjármálin eru í lagi . Rannsóknir hafa sýnt að jákvætt viðhorf hefur góð áhrif á heilsuna og létt lund lengir lífið . Settu stefnuna á að eftirlaunaárin verði bestu ár ævinnar og reyndu að skipuleggja undirbúninginn og aðlögun að nýju lífi með nægum frítíma með það að leiðarljósi . Í Almenna lífeyrissjóðnum geta sjóðfélagar valið á milli sjö ávöxtunarleiða fyrir viðbótarlífeyrissparnað með mismunandi ávöxtun og áhættu . Almenni býður m.a. ávöxtunarleiðir sem fjárfesta að mestu í skuldabréfum og innlánum . Sjóðfélagar hafa aðgang að upplýsingum um lífeyrisréttindi og inneign í séreignarsjóði á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins . Á honum getur séð þú séð upplýsingar um núverandi stöðu og áætlað eftirlaun þegar vinnu lýkur . Þú getur líka skilgreint markmið og reiknað hvað þarf að spara til að ná þeim .
Er hagstætt fyrir þá sem eiga laust fé að greiða upp lán ? Er uppgreiðsla lána góður ávöxtunarkostur ? Margir eiga hefðbundinn sparnað samhliða því sem þeir skulda húsnæðislán og önnur lán . Með hefðbundnum sparnaði er átt við sparnað sem er lagður fyrir af tekjum eftir skatta . Lífeyrissparnaður er hins vegar lagður fyrir óskattlagður en við úttekt er greiddur tekjuskattur . Eigendur hefðbundins sparnaðar greiða fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum en lífeyrissparnaður er undanþeginn fjármagnstekjuskatti . Í þessari grein er fjallað um hefðbundinn sparnað . Það er á allan hátt eðlilegt að eiga sparnað samhliða því að skulda . Flestir fjármagna íbúðarkaup að hluta með langtímalánum enda eru kaup á fasteign yfirleitt mjög stór fjárfesting sem ætlað er að endast í langan tíma . Eftir lántöku er hluta af tekjum varið til að greiða niður lánin þar til þau eru uppgreidd . Ef einstaklingar eiga tekjuafgang er hann lagður fyrir eða notaður í aðrar fjárfestingar eða neyslu . Stundum greiða menn sparnað inn á lán eða greiða upp lán en algengast er að einstaklingar fylgi upphaflegri áætlun og greiði af lánum á gjalddögum . Það er alltaf góður kostur að greiða upp lán og losna þannig undan skuldbindingu um að greiða af lánum í framtíðinni , hvernig sem árar . Ef greiðslubyrði lána er ekki of íþyngjandi eða ef einstaklingar geta ávaxtað sparnað á betri kjörum en vextir á lánum kann að vera betra að fylgja upphaflegri áætlun og leggja fyrir samhliða því að skulda . Eftir efnahagshrunið 2008 og upptöku gjaldeyrishafta í kjölfarið hefur fjárfestingarkostum fyrir sparnað hins vegar fækkað verulega auk þess sem vextir hafa lækkað og fjármagnstekjuskattur hækkað úr 10% af vaxtatekjum í 20% . Af þeim sökum má segja að uppgreiðsla lána sé orðin mun álitlegri kostur en áður . ( Smelltu á mynd til að stækka ) Við mat á því hvort hagstætt sé að greiða upp lán er gott að hafa eftirfarandi í huga . Spyrðu þig fyrst hvort þú getir greitt upp lán . Má heimilið við því að missa sparnað sem getur verið gott að grípa til ef útgjöld verða á einhverju tímabili meiri en tekjur ? Getur þú tekið nýtt lán ef á þarf að halda ? Kannaðu hvað kostar að greiða upp lán . Skoðaðu líka hvað kostar að taka nýtt lán ef aðstæður breytast í framtíðinni . Safnaðu saman upplýsingum um vaxtakjör af lánum sem þú skuldar . Ef vextir á láni eru í kringum 4% þarf sparnaður að skila um 1% hærri ávöxtun eða nálægt 5% til þess að það borgi sig að eiga sparnað samhliða því að skulda . Slíka ávöxtun er erfitt að fá í lokuðu hagkerfi . Skoðaðu hvaða ávöxtunarkostir eru í boði ? Hver er vænt ávöxtun þeirra og áhætta ? Að öllu jöfnu skila ávöxtunarleiðir með meiri áhættu hærri ávöxtun til langs tíma . Hafðu í huga að uppgreiðsla lána er áhættulaus fjárfesting í samanburði við aðra ávöxtunarkosti . Allir þurfa að eiga varasjóð til að grípa til ef þeir verða fyrir áföllum . Það fer eftir aðstæðum hjá hverjum og einum hvað varasjóðurinn þarf að vera stór en til viðmiðunar er oft nefnt að varasjóður þurfi að vera fjárhæð nálægt þriggja til níu mánaða launum . Þeir sem þurfa að sjá fyrir stórri fjölskyldu eða skulda mikið þurfa stærri varasjóð en þeir sem búa einir eða skulda lítið . Við ákvörðun um uppgreiðslu lána þarf að gæta að því að ganga ekki á varasjóðinn eða getu heimilisins til að mæta fjárhagslegum áföllum . Sé varasjóður til staðar og / eða einstaklingur á möguleika á að taka nýtt lán , ef á þarf að halda , getur verið skynsamlegt að greiða lán og slá þannig tvær flugur í einu höggi , velja góðan ávöxtunarkost og draga úr fjárhagslegum skuldbindingum . Þá er lán að greiða lán . Sjóðfélagar í Almenna geta hvenær sem er greitt inn á lán frá sjóðnum eða greitt þau upp án uppgreiðslugjalds . Hafðu samband við ráðgjafa okkar til að fá nánari upplýsingar . Á heimasíðu sjóðsins er reiknivél til að reikna greiðslubyrði lána miðað við mismunandi forsendur .
Hver er langtímaávöxtun skuldabréfa og hlutabréfa ? Hvaða verðbréf gefa hæstu ávöxtunina ? Margir líkja eftirlaunasparnaði við langhlaup . Eftirlaunasjóður byggist upp með reglulegum sparnaði á löngum tíma en í langhlaupi eykur hlaupari hraðann jafnt og þétt á leið sinni að marki . Langhlaupari þarf að skipuleggja hlaupið fyrirfram og ákveða hversu hratt hann hleypur í byrjun , hvernig hann eykur hraðann og loks hvenær hann tekur endasprett . Í hlaupinu sjálfu þarf hann að vera viðbúinn að breyta um áætlun en þarf samt að vera íhaldssamur því breyting getur leitt til þess að hann nái lakari árangri . Eftirlaunasparnaður er langtímasparnaður og um hann gilda svipuð sjónarmið . Best er að setja sér markmið í upphafi og gera áætlun til að ná þeim . Í henni þarf að ákveða hversu mikið þarf að leggja fyrir og hvenær . Til viðbótar er æskilegt að ákveða fjárfestingarstefnu eða í hvaða verðbréfum á að fjárfesta . Áætlunin þarf að vera varfærin og raunhæf þannig að fjárfestirinn geti staðið við hana . Svissneski bankinn Credit Suisse hefur nýlega gefið út árbók með upplýsingum um langtímaávöxtun í 19 löndum á árunum 1900 til 2009 eða í 110 ár . Það er mjög fróðlegt að skoða ávöxtun í svo langan tíma vegna þess að ávöxtun er sveiflukennd og alveg sérstaklega ávöxtun hlutabréfa . Sagan segir að það koma alltaf tímabil með óvenjulegri ávöxtun sem geta varað lengi . Töflunar og myndin sýna yfirlit um langtímaávöxtun í nokkrum löndum ( ávöxtun í heimamynt hvers lands , heimur í USD ) . ( Smelltu á mynd til að stækka ) Langtímasparnaður er tækifæri að því leyti að fjárfestar geta notað sparnaðarform sem sveiflast í verði en gefa góða ávöxtun til langs tíma . Sagan sýnir afdráttarlaust að hlutabréf skila hæstu ávöxtuninni á löngum tíma . Hér koma nokkur góð ráð fyrir langtímasparnað . Fjárfestu í hlutabréfum til að tryggja góða ávöxtun til langs tíma . Lágmarkseignartími er 5 ár og eftir því sem tíminn er lengri er hægt að hafa vægi hlutabréfa hærra . Byggðu upp hlutabréfasafn í áföngum á löngum tíma . Þannig minnkar þú áhættu af því að kaupa þegar verð er hátt . Að sama skapi borgar sig að minnka hlutabréfaeign í áföngum . Fjárfestu í mörgum félögum til að draga úr áhættu tengdum einstökum fyrirtækjum . Best er að fjárfesta í hlutabréfasafni sem fjárfestir í mörgum löndum og dreifir fjárfestingunni á margar atvinnugreinar . Gættu að kostnaði því hann dregst frá ávöxtun . Ef þú fjárfestir í sjóðum skaltu kynna þér hvaða kostnaður er greiddur fyrir eignastýringu og umsjón . Æskilegt er að hafa vægi svokallaðra markaðstengdra sjóða ( vísitölusjóða ) hátt í hlutabréfasöfnum . Markaðstengdir sjóðir fjárfesta í sömu hlutföllum og hlutabréfavísitölur og tryggja þannig góða eignadreifingu auk þess sem kostnaður er yfirleitt lágur í slíkum sjóðum . Sagan segir einnig að á löngum tíma skila markaðstengdir sjóðir oftast hærri ávöxtun en flestir sjóðir sem byggja á virkri stýringu . Á löngum tíma munar mjög miklu um hvert prósent í ávöxtun . Þess vegna skiptir miklu máli að nýta tækifærið sem felst í löngum sparnaðartíma eftirlaunasparnaðar . Myndin fyrir neðan sýnir þetta vel en hún sýnir hvernig ein eining sem fjárfest var í safni hlutabréfa og skuldabréfa frá 19 löndum ávaxtaðist á 109 ára tímabili . ( Smelltu á mynd til að stækka ) Þrátt fyrir yfirburði hlutabréfa sem ávöxtunarkostur fyrir langtímasparnað er nauðsynlegt að dreifa áhættunni og fjárfesta einnig í skuldabréfum . Verðbreytingar hlutabréfa eru oft mjög miklar og geta varað lengi , jafnvel 10 til 20 ár . Enginn fjárfestir til 110 ára og þrátt fyrir að sparnaðartími eftirlaunasjóðs sé oft mjög langur geta lækkanir á verði hlutabréfa haft slæm áhrif á eftirlaunasjóðinn , sérstaklega ef það gerist á seinni árum starfsævinnar . Þess vegna er einnig skynsamlegt að draga úr vægi hlutabréfa með aldrinum . Vegna gjaldeyrishafta á Íslandi eftir efnahagshrunið 2008 og 2009 og fárra hlutafélaga á markaði eru fjárfestingatækifæri í hlutabréfum á Íslandi takmörkuð . Nokkrir séreignarsjóðir bjóða þó sjóðfélögum sínum að fjárfesta í blönduðum söfnum sem eiga hlutabréf . Emil Zátopek var frægur tékkneskur langhlaupari sem vann þrjár gullmedalíur á Ólympíuleikunum í Helsinki árið 1952 . Hann vann gull í 5.000 metra og 10.000 metra hlaupum og þriðja gullið þegar hann ákvað á síðustu stundu að taka þátt í maraþonhlaupi . Emil gaf oft góð ráð til annarra hlaupara og eitt þeirra var að reyna að vera afslappaður á meðan þeir væru að hlaupa . Hann ráðlagði hlaupurum að nudda reglulega saman fingurbroddum þumalfingurs og vísifingurs eða löngutangar því það myndi hjálpa að hafa hendur og axlir slakar . Fjárfestar þurfa líka að geta slakað á þrátt fyrir sveiflur á mörkuðum . Það getur verið erfitt og sennilega dugar ráðið hans Emils Zátopek ekki , nema ef þeir hafa valið sér fjárfestingarstefnu eftir ávöxtunartíma og gætt þess að hafa góða eignadreifingu . Hvernig getur Almenni aðstoðað þig ? Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um lífeyrisréttindi . Á stöðufundinum er farið yfir réttindin sjóðfélaga og bent á leiðir til að bæta við eftirlaunin og verjast áföllum vegna örorku eða fráfalls . Þú getur pantað stöðufund hér . Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú fylgst með inneign í séreignarsjóði og réttindum í samtryggingarsjóði . Á sjóðfélagavefnum hefur þú aðgang að Lyklinum sem er lífeyrisreiknivél með ráðgjöf . Þar getur þú skráð lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóðum og fylgst þannig með hvernig gengur að safna upp eftirlaunum og ná markmiðum um tekjur í starfslok . Þar finnur þú einnig ráðleggingar um viðbótartryggingar og getur sótt um líf - og heilsutryggingar hjá Sjóvá .
Hvaða lífeyri greiða lífeyrissjóðir ef sjóðfélagar verða óvinnufærir vegna sjúkdóma eða slysa ? Borgar sig fyrir sjóðfélaga að bæta við sig tryggingum ? Örorkulífeyrir lífeyrissjóða er besta og ódýrasta tryggingin gegn tekjumissi vegna örorku sem völ er á . Ef sjóðfélagar missa starfsorku sína vegna slysa eða sjúkdóma greiða sjóðirnir örorkulífeyri til æviloka ( örorkulífeyrir breytist í ellilífeyri þegar sjóðfélagar ná eftirlaunaaldri ) . Örorka og óvinnufærni er algengari en flestir halda . Sem dæmi má nefna að að þrjátíu konur og tuttugu karlar af hverjum þúsund á aldrinum 35 ára eru öryrkjar . Af þeim sem eru vinnufærir 35 ára verða 29% kvenna óvinnufærar fyrir 65 ára aldur og 23% karla . Örorkutíðnin hækkar með aldrinum . Fjárhæð örorkulífeyris er miðuð við áunnin ellilífeyrisréttindi en virkir sjóðfélagar fá framreikning sem þýðir að þeir fá örorkulífeyri eins og þeir hefðu greitt iðgjöld af meðallaunum síðustu þriggja ára fyrir orkutap til eftirlaunaaldurs . Skilyrði fyrir framreikningi eru mismunandi en yfirleitt er örorkulífeyrir framreiknaður ef sjóðfélaginn hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili , í þrjú af síðustu fjórum árum og ef hann hefur ekki misst starfsorkuna vegna ofnotkunar áfengis , lyfja eða fíkniefna . Örorkulífeyrisþegar fá einnig greiddan barnalífeyri með hverju barni undir 18 ára aldri ( 20 ára hjá Almenna lífeyrissjóðnum ) frá þeim sjóði sem þeir greiddu síðast til ( þurfa að hafa verið virkir greiðendur fyrir orkutap ) . ( Smelltu á mynd til að stækka ) Sjóðfélagi fær greiddan örorkulífeyri ef hann verður fyrir tekjumissi vegna slyss eða sjúkdóms sem skerðir getu hans til að gegna því starfi sem veitti honum aðild að lífeyrissjóðnum en að þremur árum liðnum er miðað við hæfni hans til almennra starfa . Hjá flestum lífeyrissjóðum er miðað við að orkutapið sé 50% eða meira og að sjóðfélaginn hafi greitt í lífeyrissjóð í að minnsta kosti tvö ár . Fullur örorkulífeyrir er greiddur m.v. 100% örorku en lífeyris ¬ greiðslur eru hlutfallslegar ef orkutapið er á bilinu 50% til 100% . Örorkulífeyrir getur aldrei orðið hærri en tekjumissirinn sem sjóðfélaginn hefur orðið fyrir . Örorkulífeyrir lækkar eða fellur niður ef örorkan minnkar eða hverfur . Áunnin réttindi geymast ef sjóðfélagi hættir að greiða í lífeyrissjóð , til dæmis ef hann skiptir um vinnu og um lífeyrissjóð í leiðinni eða ef hann má og tekur ákvörðun um að skipta um lífeyrissjóð . Ef hann verður öryrki seinna á ævinni á hann rétt á örorkulífeyri hjá fyrri sjóðum sem miðast þá við áunnin réttindi eingöngu . Til að koma í veg fyrir að framreikningsréttindi glatist þegar einstaklingar skipta um lífeyrissjóð hafa sjóðirnir gert með sér samkomulag til að koma í veg fyrir réttindatap og um skipti á framreikningi ef sjóðfélagi verður öryrki fyrstu árin eftir að hann skiptir um lífeyrissjóð . Allir verða fyrir áföllum um ævina . Stundum hafa þau áhrif á fjármálin og það þarf að gera ráð fyrir því og gera ráðstafanir til þess að draga úr afleiðingum þeirra . Hér koma nokkrar ráðleggingar um ráðstafanir til að draga úr tekjumissi vegna örorku . Tryggðu þig sérstaklega fyrstu árin á vinnumarkaði . Þeir sem eru að hefja störf á vinnumarkaði þurfa að gera sérstakar ráðstafanir fyrstu árin því það tekur nýja sjóðfélaga yfirleitt þrjú ár að öðlast rétt á framreiknuðum réttindum . Þetta þýðir að ungt fólk sem er að hefja störf á vinnumarkaði er í raun án örorkutryggingar fyrstu árin á vinnumarkaði . Tímabundin fjarvera af vinnumarkaði kallar á ráðstafanir . Þeir sem hverfa tímabundið af vinnumarkaði , t.d. vegna barneignarleyfis , atvinnuleysis eða náms , ættu að kynna sér hvaða áhrif tímabundin fjarvera hefur á lífeyrisréttindin . Ef tekjur minnka eða falla niður vegna fjarveru lækka framreikningsréttindi eða falla niður . Þegar sjóðfélagi hefur störf aftur tekur sex mánuði að öðlast framreikningsrétt að nýju . Þar sem framreikningur tekur mið af meðallaunum síðustu þriggja ára tekur allt að þrjú ár að ná aftur fullum framreikningsrétti . Hjá ungu fólki vega framreikningsréttindi mjög þungt og þess vegna er mjög áríðandi að huga að áhrifum breyttra aðstæðna á örorkulífeyri og gera ráðstafanir til að tryggja sig á annan hátt . Þekktu hvernig þú ert tryggður vegna örorku . Kynntu þér hvaða réttindi þú átt í lífeyrissjóðum og bætur persónutrygginga sem þú hefur keypt eða nýtur með öðrum hætti . Ákvæði um örorkulífeyri eru breytileg milli lífeyrissjóða og þess vegna er mikilvægt að sjóðfélagar kynni sér hvaða reglur gilda í þeim sjóðum sem þeir greiða í eða hafa greitt í á starfsævinni . Besta heimildin eru samþykktir viðkomandi lífeyrissjóða . Skoðaðu hvort þú þurfir meiri tryggingar . Þrátt fyrir full lífeyrissjóðsréttindi má halda því fram að flestir hafi þörf fyrir viðbótarörorkutryggingar sem hægt er að kaupa hjá tryggingafélögum . Örorkulífeyrir lífeyrissjóða er í flestum tilvikum nálægt 40% - 50% af launum en yfirleitt er mælt með því að örorkubætur séu á bilinu 60% til 70% af launum . Tryggingaþörf einstaklinga er mismunandi vegna ólíkra fjölskylduaðstæðna og fjárhagsskuldbindinga . Almennt má segja að tryggingaþörfin sé meiri eftir því sem fleiri einstaklingar eru á heimilinu og eftir því sem skuldir eru meiri . Ef tekjur lækka eða falla niður vegna starfsorkumissis þarf áfram að framfleyta heimilinu og greiða af skuldum . Lífið heldur áfram og þokkalegur fjárhagur hjálpar til við að venjast nýjum aðstæðum og getur jafnvel skipt sköpum um lífsgæði í framtíðinni . Þú getur pantað stöðufund hér . Á sjóðfélagavef Almenna lífeyrissjóðsins getur þú séð hvaða áfallalífeyri sjóðurinn greiðir við starfsorkumissi eða fráfall . Í Lyklinum ( reiknivél með ráðgjöf ) sem er aðgengilegur á sjóðfélagavefnum finnur þú ráðleggingar um viðbótartryggingar og þar getur þú sótt um líf - og heilsutryggingar hjá Sjóvá .