source
stringlengths 710
1.19M
|
---|
Öll svæðisfélög landssambands smábátaeigenda hafa fellt kjarasamning smábátaeigenda og sjómannasamtakanna. Svæðisfélögin eru 15 talsins, nú síðast felldu Krókur í Barðastrandasýslu og Farsæll í Vestmannaeyjum samninginn.
Arthur Bogason, formaður landssambands smábátaeigenda, segir samningsaðila þurfa að setjast aftur að samningaborðinu á næstu dögum. Laga þurfi nokkur atriði áður en hægt verði að semja.
Fyrr í dag var greint frá því að Smábátafélagið Krókur í Barðastrandasýslu hafi fellt kjarasamning landsambands smábátaeigenda og sjómannasamtaka á Patreksfirði á laugardag. Sama dag var haldinn fundur hjá Farsæli, félagi smábátaeigenda í Vestmannaeyjum sem sömuleiðis felldi kjarasamninginn. Þar með hafa öll 15 svæðisfélög landsambandsins fellt samninginn en Arthur Bogason, formaður landsambandsins segir fyrst og fremst tvö atriði standa í smábátaeigendum. Annarsvegar eru það ákvæði um svokallaða skiptingu þar sem fjallað er um lágmarksprósentuhlut milli áhafnarmeðlima og svo tryggingapakka þar sem fjallað er um tryggingu launa áhafnarmeðlima. Smábátaeigendur telja sig ekki geta staðið við þessa liði óbreytta samkvæmt núverandi kjarasamningi. Arthur segir að nú myndu samningsaðilar væntanlega setjast aftur að samningaborðum á næstu dögum en ljóst væri að laga þyrfti áðurnefnd atriði áður en samið yrði að nýju.
En það voru ekki aðeins kjarasamningar sem voru á döfinni hjá félagi smábátaeigenda í Vestmannaeyjum. Áhyggjur eru miklar af snurvoðaveiðum eða dragnótaveiðum í fjörunni við suðurströndina. Bent var á að sandsílastofninn sé að hverfa á þessu svæði sem hafi slæmar afleiðingar fyrir bæði aðrar fisktegundir og fuglategundir. Fundurinn krefst þess að snurvoðaveiðar verði a.m.k. færðar 6 sjómílur frá landi. |
„Mér líður ógeðslega illa - persónan sem ég var er bara horfin," sagði Guðlaug Matthildur Rögnvaldsdóttir, unnusta Hannesar Þórs Helgasonar, við vitnaleiðslur í héraðsdómi í morgun. Guðlaug Matthildur, sem kölluð er Hildur, var niðurlút þegar hún gekk inn í dómssalinn.
Hún sagði að aðkoman þegar að hún gekk inn á heimili þeirra Hannesar eftir að morðið var framið sé föst í huga sér. Hún eigi erfitt með svefn og hafi lítið getað borðað eftir morðið. Hún segist hafa hætt í skóla vegna morðsins og hafi ekki getað fengið af sér að vinna vegna þess að hún sofi svo lítið. Sér þyki óþægilegt að vera í kringum marga.
Hildur var spurð að því hvernig hún hefði brugðist við þegar að Gunnar Rúnar setti ástarjátningu frá sér á YouTube. „Ég talaði ekki við hann í langan tíma því mér fannst það svo skrýtið ," sagði Hildur þá. Síðan hafi hún hugsað með sér að svona væri Gunnar Rúnar bara. Hún hafi því ákveðið að taka hann í sátt, en sagt honum að taka myndskeiðið af netinu.
Hildur sagði að Gunnar Rúnar hefði yfirleitt átt frumkvæði að samskiptum þeirra tveggja. En þó hafi komið fyrir að hún hafi átt frumkvæði að samskiptum þeirra. „Ég hélt að hann væri félagi minn," sagði hún. Eftir réttarhöldin gekk Hildur niðurlút að dyrum réttarsalarins. Henni var þá boðið að fara út úr salnum í gegnum hliðardyr sem hún þáði. |
Í Íslandssögunni er níundi nóvember dagur Gúttóslagsins. Árið var 1932 og fimmti hver maður atvinnulaus. Lækka átti kaup um þriðjung og stéttaátök brutust út í uppþoti á bæjarstjórnarfundi í Reykjavík þar sem kauplækkun var til afgreiðslu og síðar götubardagar. Yfir 20 lögregluþjónar særðust og verkamenn virtust hafa Reykjavík á valdi sínu.
Árið 1989 var Berlínarmúrinn brotinn niður á sama degi og alþýða manna sprangaði frjáls milli austurs og vesturs. Þessa ánægjulega atburðar hefur rækilega verið minnst síðustu vikur og mánuði í flestum fjölmiðlum. Það er hins vegar visst tómahljóð í fögnuði yfir falli Berlínarmúrsins, þegar hvergi er minnst á annan múr sem stendur og er margfalt lengri og þrisvar sinnum hærri en Berlínarmúrinn var.
Það er aðskilnaðarmúrinn í Palestínu sem Ísraelsstjórn heldur áfram að lengja og stækka, þrátt fyrir úrskurð alþjóðadómstólsins í Haag í júlí 2004. Þá var múrinn dæmdur ólögmætur, Ísraelsstjórn gert að rífa hann og bæta Palestínumönnum tjón sem múrinn hefur valdið.
Aðskilnaðarmúrinn er reistur á landi Palestínumanna en fer ekki eftir landamærum. Með byggingu hans eru Palestínumenn lokaðir inni, lokaðir hver frá öðrum, lokaðir frá sínu ræktarlandi, lokaðir frá ættingjum og vinum, lokaðir frá sjúkrahúsum og skólum. Síðan ræðst herinn inn á þessi innilokuðu svæði, drepur fólk og fangelsar. Landtökuliðið gengur oft enn lengra í árásum á palestínsku íbúana í skjóli hersins. Smám saman er byggðum á Vesturbakkanum breytt í útrýmingarbúðir eins og búið er að gera Gaza-svæðið.
Það er ekki á valdi Palestínumanna að rífa múrinn. Það hvílir á hverri einustu aðildarþjóð Sameinuðu þjóðanna að knýja á Ísraelsstjórn að fara að alþjóðalögum. Ísland er ekki undanskilið í þeim efnum. Það þarf sameiginlegt átak í öllum löndum til að brjóta ísraelsku aðskilnaðarstefnuna á bak aftur, rétt eins og gert var gagnvart Suður-Afríku.
Fögnum falli Berlínarmúrsins, en minnumst þess að annar múr, ekki síður óhugnanlegur, er veruleiki sem blasir við íbúum Vesturbakkans og Jerúsalem.
Í vikunni frá 9.-16. nóvember mun alþjóðleg samstöðuhreyfing efna til ýmissa atburða gegn múrnum og umsátrinu um Gaza. Leggjum okkar af mörkum.
Höfundur er læknir og formaður Félagsins Ísland-Palestína. |
Jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga virðist í rénum. Á sólarhring hafa mælst þar 500 skjálftar, jafn mikið og alla jafna mælist á landinu öllu og hafinu í kring á einni viku. Fáir skjálftar hafa verið í Mýrdalsjökli í dag en þar varð skjálfti af stærðinni 4,5 um tíuleytið í gærkvöld.
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár á Veðurstofu Íslands: Það er ekki oft sem við fáum svona stóra skjálfta. Þó í fyrra, að þá mældust tveir skjálftar af þessari stærð, 4,5, 29. ágúst og við þurftum að fara dálítið mörg ár aftur til að sjá eitthvað svipað. Við í rauninni sjáum engin önnur merki um neinar breytingar þarna. Við reyndar fengum tilkynningu núna í morgun um að það væri fnykur af Múlakvísl en árnar virðast ekkert hafa breyst neitt mikið eða neitt annað sem að við sjáum í okkar gögnum.
Mikið hefur dregið úr skjálftavirkninni sem hófst í gærmorgun á Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga norðaustur af Grindavík en stærstu skjálftarnir í gær mældust 4,1 og 3,9.
Kristín Jónsdóttir: Í rauninni frá miðnætti hafa mælst um 100 skjálftar. Í gær mældust, sko, 400 skjálftar, þannig að við erum komin, sko, vel yfir 500 skjálfta í þessari hrinu sem að segir okkur það náttúrulega að þetta er öflug hrina, þetta eru 500 skjálftar, það er svona álíka og við mælum á einni viku á öllu landinu og fyrir utan land.
Kristín segir að skjálftarnir á Reykjanesskaga í gær beri bæði merki flekahreyfinga og eins sé kvika þarna líka að hafa áhrif.
Kristín Jónsdóttir: Við megum ekki gleyma því að kvika er stór hluti, og kvikuhreyfingar eru stór hluti af þeirri skjálftavirkni sem við mælum yfirleitt á Íslandi og það er bara lítið lítið brot af þessari kviku sem kemst einhvern tímann upp á yfirborðið.
Þórdís Arnljótsdóttir: Og verður að eldgosi?
Kristín Jónsdóttir: Og verður að eldgosi, já. |
„Íslenska geðveikin gerir andstæðinginn aðeins hræddari við okkur“, segir Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska handboltalandsliðsins á HM í Katar.
Markverðirnir Björgvin Páll Gústafsson og Aron Rafn Eðvarðsson þurfa að vera í stuði annað kvöld ætli Íslendingar sér að vinna Svía. Björgvin Páll segist til í slaginn.
„Ég er tilbúinn og síðustu æfingar hafa gengið vel. Æfingaleikirnir í byrjun janúar voru svona og svona en við erum vel stemmdir. Við förum í alla leiki til að vinna, 2 stig annað kvöld er markmiðið og það skiptir ekki máli hvort við verjum 10 eða 20 skot, bara að við vinnum leikinn. Markmiðið er að komast upp úr riðlinum og því er leikurinn við Svía lykilleikur. Þeir eru kannski betri en við á pappírunum en við þurfum bara að snúa við úrslitunum úr síðasta æfingaleik. Sigur í leiknum gerir framhaldið mjög spennandi“.
Björgvin segist vera búinn að stúdera sænsku skytturnar. „Kim Andersson er einn besti handboltamaður heims og hann er sá leikmaður sem við þurfum að varast hvað mest. Svíar eiga marga góða leikmenn en úrslitin velta mest á okkur sjálfum," segir Björgvin Páll.
„Ef geðsýkin er í gangi og menn eru með íslenska hjartað og tilbúnir að lemja frá sér þá getur allt gerst. Við spilum „agressífa“ vörn og erum með þessa íslensku geðveiki og hún gerir liðin kannski aðeins hræddari við okkur. Ef kveikt er á henni og gaurarnir frammi eru eins og þeir eru oftast þá fæ ég nokkra fría bolta til að blaka fram“, segir Björgvin Páll og telur niður fyrir fyrsta leikinn annað kvöld.
Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebookog Snapchat (notendanafn: sport365). |
Það er stundum sagt að þeir gagnrýni mest, sem gera minnst. Eflaust á þetta við um mig, en nú ætla ég samt að senda ykkur tóninn. Ég er ekki ánægð með blaðið eins og það er, og hefur verið allt frá því ég man fyrst eftir því. Furðulegt annars að hafa ekki sagt það fyrr. Blaðið er, eins og félagið, sem gefur það út: dauf glansmynd. Þar er svo til aldrei tekið á þeim málefnum, sem verða að teljast stórvægileg fyrir hjúkrunarstéttina. Blaðið segir frá ýmsum fundum, lýsir dagskrá þeirra, telur upp hverjir hafi haft sig í að leggja eitthvað til málanna, en segir aldrei hvað hafi komið fram í þeim efnum. Það sama er að segja um frásagnir af mótum hjúkrunarkvenna og þingum sem haldin hafa verið erlendis. Þá er gerð grein fyrir þátttakendum, upptalning á þeim málefnaflokkum sem til umræðu hafa verið, en sjaldan nokkrar niðurstöður birtar og þar af leiðandi ekki tekin afstaða til nokkurs hlutar í því sambandi… Nú, alls konar smælki er í blaðinu, s. s. skrýtlur, hjúskapartilkynningar, spakmæli, málshættir o. fl. En látum það vera. Íslenzkar hjúkrunarkonur tala helzt ekki um annað en það, sem gott er og fagurt. Á félagsfundi komum við prúðbúnar með blítt bros á vör og hlökkum til að hitta gamlar skólasystur og drekka með þeim kaffi. Og kannski ef við erum heppnar, hlusta á ferðasögur. Var einhver að ræða um málefnalegar umræður? Verði ekki stefnubreyting hjá blaðinu frá því sem nú er, þrátt fyrir öll óþægindi sem af því kunna að hljótast, þá legg ég til að útgáfa blaðsins verði lögð niður, en þess í stað keyptir lampar handa okkur öllum. (Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands, 4 tbl. 1970, Pósthólfið, Ingibjörg Helgadóttir) Faraldsfræðilegar rannsóknir gefa til kynna hið fjórða í röð heilsufarsvandamála sem að milli 3 til 12% ungmenna sýni mörg einkenni Algengi þunglyndis er talið ára unglinga hafa greinst með klíniskt þunglyndi vera að aukast (8, 9). Í rannsókn Lewinsohn o. fl. |
Dómstóll í Noregi dæmdi í morgun 36 ára karlmann í sautján ára fangelsi fyrir morðið á hinum 49 ára Nils Olav Bakken í september 2016. Bakken fannst látinn og lík hans illa brennt á skógarvegi í sveitarfélaginu Søndre Land, um hundrað kílómetrum norður af Ósló.
Dómstóllinn (Eidsivating lagmannsrett) mildaði þar með dóm þingréttarins yfir Odd Raymond Olsen úr tuttugu árum í sautján. Verdens Gang greinir frá þessu.
Málið vakti mikla athygli í Noregi á sínum tíma, en lögregla handtók þrjá vegna málsins tveimur mánuðum eftir að lík Bakken fannst.
Mæðgin, 44 ára kona og tvítugur sonur hennar, voru einnig ákærð í málinu en voru bæði sýknuð af ákæru um morð. Þau voru hins vegar fundin sek af ákæru um líkamsárás og hlaut móðirin tveggja ára dóm en sonurinn fimm ára.
Var á lífi þegar kveikt var í honum
Í dómsgögnum kemur fram að rannsókn hafi leitt í ljós að Bakken hafi verið ráðinn bani á sama stað og lík hans fannst. Þá hafi hann verið á lífi þegar kveikt var í honum og lést hann af völdum blæðingar og brunasára.
Í dómsorðum kemur fram að morðið hafi verið skipulagt og að um aftöku á varnarlausri manneskju hafi verið að ræða.
Konan viðurkenndi að þrímenningarnir hafa ætlað sér að ganga á Bakken vegna ásakana um að hann hafi brotið á manneskju sem tengdist þeim. |
Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra lagði til í haust að skoðað yrði hvort ákvæði um hlutlaga refsiábyrgð yrði bætt inn í almenn hegningarlög. Ákvæðið tæki til dauðsfalla sem rekja mætti til mistaka í heilbrigðisþjónustu. Ábyrgðin væri þá hjá stjórnendum og stofnendum fremur en einstaklingum.
Kristján Þór Júlíusson segir að honum hafi verið brugðið þegar ákveðið var að ákæra hjúkrunarfræðing fyrir manndráp af gáleysi. Starfshópurinn hafi verið settur á fót í framhaldi af því.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra: Mér þótti bara málin ekki stefna í rétta, réttan veg, að við værum farin að lenda í þessari stöðu að einstakur starfsmaður væri gerður ábyrgur fyrir tilviki sem þessu. Ég tel miklu eðlilegra að það ríki um það aðrar reglur heldur en þær og þess vegna var þessi starfshópur settur á laggirnar.
Starfshópurinn gerir fjölmargar tillögur, meðal annars um að skýrt verði nánar í lögum hvaða óvæntu dauðsföll beri að tilkynna til lögreglu og samræmt skráningarkerfi slíkra mála fyrir allt landið. Mikilvægasta tillagan að mati heilbriðgisráðherra snýr þó að svokallaðri [...] refsiábyrgð og fjallar um ábyrgð stofnana og stjórnenda í slíkum málum.
Kristján Þór Júlíusson: Þær eru allar mjög mikilvægar en sú sem kannski stendur upp úr er sú hvernig verði farið með þessa sameiginlegu hlutlægu refsiábyrgð sem að innanríkisráðuneytinu var ætlað að fara yfir.
Kristján segir að málið sé flókið og það sé verið að fjalla um atvik í heilbrigðisþjónustu sem ekki séu af yfirlögðu ráði og á ábyrgð einstaklinga.
Kristján Þór Júlíusson: Vissulega kunna að koma upp einhver slík tilvik, en það er bara, um þau erum við ekki að ræða hér, þar sem er um hreina og klára bara saknæma háttsemi að ræða, en sem betur fer er því ekki til að dreifa. |
Kim Jong-Il, leiðtogi Norður Kóreu, hélt í dag heim frá Kína þar sem hann sat fundi með ráðamönnum. Hann er talinn hafa beðið þá um aðstoð við að koma yngsta syni sínum til valda í sinn stað. Kínversk yfirvöld verjast allra fregna af heimsókninni en ekki var hægt að fela mörg hundruð manna fylgdarlið Kims eða yfirdrifna öryggisgæslu hersins.
Yngsti sonur Kims heitir Kim Jong-Un og er sagður hafa verið við hlið föður síns þegar hann gekk á fund kínverskra ráðamanna í gær. Tilefni fundanna var því sennilega að kynna Kim hinn yngri fyrir æðstu mönnum í kínversku ríkisstjórninni en Kínverjar eru helsti bakhjarl Norður Kóreumanna.
Svo gæti farið að Kim Jong-Il þarfnaðist stuðnings Kínverja til að koma yngsta syninum til valda. Leiðtoginn er við slæma heilsu eftir að hann fékk heilablóðfall fyrir tveimur árum og fréttaskýrendur segja hann vilja að sonurinn taki við innan tveggja ára. Gríðarleg áróðursherferð hefur verið sett af stað í Norður Kóreu til að gera Kim Jong-Un goðsagnakenndan í hugum almennings, líkt og gert var áður en Kim Jong-Il tók við af föður sínum.
Kim Jong-Un er hins vegar ekki talinn njóta trausts meðal æðstu yfirmanna hersins. Sumir þeirra eru sagðir vilja binda enda á fjölskylduveldið sem þykir minna meira á hefðir kóngafólks en kommúnistaríkja.
Hafi feðgarnir hlotið blessun kínverskra ráðamanna má þó gera ráð fyrir því að það hafi úrslitaáhrif og Kim Jong-Un verði næsti leiðtogi Norður Kóreu innan tveggja ára. |
Það lítur út fyrir að komið verði ágætis áramótaveður áður en nýtt ár gengur í garð í nótt, miðað við spá Veðurstofu Íslands - í það minnsta fyrir þá sem vilja sjá brennur og skotelda.
Kröpp lægð gekk inn á Vesturland í nótt og hún heldur áfram för sinni til austurs í dag, gamlársdag. Lægðinni fylgir norðanstormur eða -rok með snjókomu og blindhríð á norðanverðu landinu í dag, en slyddu eða rigning með köflum syðra.
Fyrst rauk hann upp á Vestfjörðum í nótt, en á Suðvestulandi og Norðurlandi vestra í morgunsárið. Eftir hádegi mun stormurinn einnig láta að sér kveða fyrir austan, en þá fer veðrið að ganga niður vestan til. Þeir sem hyggja á ferðalög í dag ættu því að fylgjast vel með veðurspám og færð.
Það lægir hægt og bítandi þegar líður á, léttir til og kólnar seinni partinn. Þegar gamlárskvöld gengur í garð verður yfirleitt komið ágætis áramótaveður, að minnsta kosti fyrir þá vilja sjá brennur og skotelda.
Fyrsti dagur ársins 2019 hefst með rólegheitum, stillum og björtum himni en hörkufrosti, ekki síst í innsveitum. Þegar líða fer að daginn hvessi af suðaustri og hlýnar og fer að rigna sunnan- og vestanlands með kvöldinu. Dagana þar á eftir ríkja síðan mildar sunnanáttir með vætu, einkum sunnan og vestan til. |
Korkur: manager
Titill: Demo
Höf.: [Notanda eytt]
Dags.: 1. mars 2003 19:07:20
Skoðað: 223
Ég ætla að segja nokkra hluti sem ég er óánægður með í þessu demo-i.
1.Þegar maður er að fara að keppa í deildinni og sér alla leikina sem eru að fara að byrja þá er einginn takki sem lætur mann fara beint inní stöðuna í deildinni.
2. Back takkinn er ekki lengur niðri heldur uppí vinstra horninu.
3. Þegar maður er að keppa leik þá er ekki hægt að ýta á liðið sitt uppi þar sem staðan sést og fara þannig í tactics.
4. þegar maður fer í tactics þá stendur hvaða stöðu mennirnir spila í stað fyrir condition eins og í gamla leiknum
5. kannski geri ég ekki einhverja villu en ég fæ aldrei fréttir um það þegar mennirnir mínir meiðast.
6. Þegar þú ert t.d. í tactics valmyndinni og velur confirm þá þarf að ýta á yes á miðjum skjánum í stað sama stað og confirm í gamla leiknum.
Þetta eru sona óþarfa böggandi breytingar
annars er margt gott í þessu demo-i líka
1. 2D vélin er mesta snilld sem ég veit um
2. það eru miklu meiri möguleikar þegar maður er að kaupa menn.
3. Þægilegri einkunnagjöf og m.fl.
Í heild er þetta kannski ágætt fyrsta demo en ég vona aðleikurinn verði mikið betri en þetta demo
---
Svör
---
Höf.: pires
Dags.: 1. mars 2003 23:17:52
Atkvæði: 0
sko…
1 og 2 er eitthvað sem á eftir að laga í viðmótinu og SI vita af (og það hefur alltaf verið back takki uppi… og líka niðri reyndar :þ )
3. Skiptir það einhverju máli? Þú ýtir bara á niðri í hægra horninu…
4. Til þess að sjá condition-ið þá ferðu í view - condition
5. Þetta er galli sem SI vita af.
6. Er sammála þér þarna… frekar óþarft en myndi seint gera leikinn lélegri… alla vega hef ég ekkert verið að reyta af mér hárið út af þessu sko ;)
<br><br>
<b>Tilvitnun:</b><br><hr><i>'They're the second best team in the world, and there's no higher praise than that.' - <b>Kevin Keegan</b></i><br><hr>
<i>Anyway the wind blows…</i
---
|
Hinn stórkostlegi grín-dávaldur Sailesh kemur hingað til lands 30.janúar 2020 og heldur eina risasýningu í Laugardalshöll í samstarfi við FM957 og San Miguel.
Sailesh heldur á sama tíma upp á að 15 ár eru liðin frá því að hann kom fyrst til Íslands og sló svo eftirminnilega í gegn hjá þjóðinni.
Sailesh kemur með nýja sýningu sem byggð er á gömlum grunni en þessi sýning er grófari, fyndnari og meira extreme þar sem allt er látið flakka.
Sýningin í Laugardalshöll verður bönnuð innan 18 ára og verður takmarkað magn miða í boði.
Miðasalan á midi.is hefst í dag, fimmtudaginn 12. nóvember á slaginu 12:00.
Sailesh er meðal annars frægur fyrir að geta látið fólk fá fullnægingu með því einu að taka í höndina á því. Hefur sýningum hans verið hælt á hvert reipi af fjölmiðlum út um allan heim sem nýrri tegund af skemmtun.
Sýningin, sem stendur yfir í tvo og hálfan tíma með hléi, er uppfull af ótrúlegum uppákomum þar sem áhorfendur verða að stjörnum sýningarinnar fyrir framan vini og vandamenn sem gráta af hlátri við að sjá félaga sína fara á kostum á sviðinu. Plötusnúður er hluti af sýningunni og spilar dúndurtónlist á réttu stöðunum og flytur þar með brandarana á næsta stig. Krafturinn og stemningin meðal áhorfenda er slík að margir hafa líkt sýningum Sailesh við magnaða rokktónleika.
Umsagnir um sýninguna
Það kemur því ekki á óvart að Sailesh er vinsælasti og eftirsóttasti dávaldurinn í heiminum þessar mundir . Hin virta tónlistarstöð MTV kallaði hann „fyndnasta óritskoðaða dávald jarðar.“
„Sailesh er fyndnasti og dónalegasti dávaldur heims Fyndnasti óritskoðaði dávaldurinn á jörðinni.“ – MTV Europe.
„Sjúklega fyndin sýning! Ég hef ekki hlegið svona mikið í mörg ár.“ – R.R., Miami Herald.
„Taktu með þér vasaklút og hreinar nærbuxur. Ég lofa því að þú munt gráta af hlátri og það eru góðar líkur á því þú missir þvag að auki.“ – P.V, Arizona Daily Star.„ Ég hló eins og brjálæðingur. Fór aftur á sýninguna - og hló eins og geðsjúklingur. Drottinn minn dýri, ég hef aldrei lent í öðru eins.“ – M.R., Reno Gazette-Journal
„Hvergi í heiminum færðu annan eins skammt af bröndurum á 2,5 klukkustundum. Kraftmikil og sjúklega fyndin sýning!“ – B.W., Appollo Guide
Sailesh ferðast stanslaust með sýningu sína um víða veröld allt árið um kring.
Æviágrip Sailesh
Sailesh fæddist á eyjunni Fiji en ólst upp í Kanada. Fyrir um 20 árum kynntist hann einum þekktasta dávaldi þess tíma og fór í læri hjá honum. Sailesh hafði mikinn áhuga á því að brjóta upp gamla þekkta formið og gera eitthvað miklu meira krassandi með því að færa ótæmandi möguleika dáleiðslunnar inn í nútímann. Hann skráði sig í American Institution of Hypnotherapy í Kaliforníu þar sem hann lærði í tvö ár og útskrifaðist með gráðu í dáleiðslu.
Fyrir nokkrum árum lágu leiðir Sailesh og Peter Kas hjá Metropolis Agency síðan saman og þróuðu þeir núverandi sýningu. Þeir vildu sjá aukinn kraft, meiri hlátur og ögra áhorfendum meira en eldri dávaldar og hefur þetta framtak þeirra slegið í gegn og þykja sýningar hans ótrúlega skemmtilegar og fyndnar.
Miðasalan á midi.is hefst í dag, fimmtudaginn 12. nóvember á slaginu 12:00. |
Baráttujaxlinn, laga- og textahöfundurinn Stella Hauks lést í síðasta mánuði en í dag komu vinir hennar og aðdáendur saman á Obladí í Reykjavík til að minnast hennar. Stella tók virkan þátt í kjarabaráttu fiskverkakvenna og stóð í víglínunni í baráttu samkynhneigðra en var öllu hlédrægari þegar kom að listsköpun hennar.
Stella Hauksdóttir fæddist árið 1953 og hefði orðið 62 ára í nóvember á þessu ári en hún lést í Vestmannaeyjum hinn 17. janúar síðast liðinn. Hún var alla tíð mikil baráttukona og var meðal annars formaður verkakvennafélagsins Snót í Vestmannaeyjum þar sem hún beitti sér af fullri hörku. Hún var líka í fremstu víglínu í baráttunni fyrir réttindum samkynhneigðra löngu áður en nokkur gleðiganga var til og gekk þar svipugöngin og mætti miklu mótlæti en hún var líka laga og textahöfundur og gaf út nokkrar plötur. Sumir tónlistarmenn og textahöfundar fara í gegnum allan sinn feril í frægðarljóma þó þeir eigi kannski ekki endilega fyrir því með hæfileikum sínum en Stella Hauksdóttir var ein af þeim sem söng sín ljóð í skugganum. Stella var vinamörg og átti marga góða að í tónlistarheiminum sem lögðu henni lið á hljómplötum hennar og fluttu ljóð hennar og lög einnig á eigin vegum.
Egill Ólafsson, tónlistarmaður: Stella var margslungin textahöfundur en það var alltaf baráttuandinn sem að sveif yfir vötnunum og við lítum á það orðið í dag sem allt of sjálfsagðan hlut. Það þurfti baráttu til þess að berjast fyrir þó þeim kjörum sem við höfum og réttindum og Stella var þar.
Guðmundur Haukur Jónsson, sonur Stellu, Andrea Gylfa, Tómas Tómasson og fleiri sungu og léku Stellu til heiðurs í dag og Andrea Jónsdóttir spilaði plötur hennar sem rötuðu ekki á vinsældarlista en aðdáendur hennar elskuðu.
Egill Ólafsson: Mér fannst oft eins og hún væri að biðjast afsökunar á sér en hún þurfti það ekki. Það er þarna mikil tilfinning og hvað á ég að segja, hún hefur þetta.
Heimir Már Pétursson: Einlægni?
Egill Ólafsson: ... Og einlægni, já. |
Sakharov er vel að friðarverðlaunum Nóbels kominn. Þessi sovézki kjarneðlisfræðingur nýtur virðingar um heim allan vegna baráttu sinnar fyrir frelsi og mannréttindum í heimalandi sínu. Hann hefur staðið sig eins og hetja gagnvart alráðu og illúðlegu stjórnkerfi Sovétríkjanna og fært mörgum löndum sínum von um, að mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna komist um síðir til framkvæmda í Sovétríkjunum.
Val Sakharovs er mikill sigur fyrir raddir frelsis og mannréttinda um heim allan. Það er mikill sigur fyrir stofnskrá og mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna. Það er tímabært mótvægi gegn vaxandi harðstjórn og grimmd stjórnvalda víðs vegar á jörðinni. Það er ennfremur þörf áminning þeim, sem telja hinar gömlu, frjálslyndu hugsjónir Vesturlanda úreltar í heimi ríkisdýrkunar og aflsmunardýrkunar.
Íslendingum er vel kunnugt um hinar erfiðu aðstæður Sakharovs og skoðanabræðra hans í Sovétríkjunum. Við fyrirlítum þá dýrkun alræðis og aflsmunar, sem meðal annars kemur fram í banninu við því, að faðir Valdimars Ashkenazy fái að heimsækja son sinn á Íslandi. Við dáumst að þeim mönnum, sem þora að opna munninn við slíkar aðstæður.
Jafnframt vonum við, að Nóbelsverðlaun Sakharovs verði honum ekki til aukinna óþæginda heima fyrir. Stjórn Sovétríkjanna mundi vaxa í áliti, ef hún léti þetta val sér að kenningu verða og gerði hvort tveggja í senn að auka mannréttindi í ríki sínu og að leyfa Sakharov að fara til Osló til að taka við verðlaununum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið |
Skúli Mogensen, fyrrum forstjóri WOW air, segist þakklátur fjölskyldu sinni í viðtali í Fréttablaðinu í dag. Hann hafi orðið líkamlega og andlega gjaldþrota í kjölfar falls flugfélagsins og þakkar fjölskyldu sinni fyrir að hafa komið í veg fyrir að hann legðist í langvarandi þunglyndi.
Athafnamaðurinn hefur staðið fyrir uppbyggingu í Hvammsvík í Kjósarhreppi ásamt konu sinni, Grímu Björgu Thorarensen, og foreldrum sínum. Skúli hyggst selja lóðir undir heilsárshús og opna sjóböð á landinu.
Skúli segir Grímu hafa staðið með sér í gegnum erfiða tíma og hvatt hann til verka í Hvammsvíkinni. Að sögn Skúla kynntust þau Gríma þegar allt lék í lyndi en þegar þunglyndið sótti að honum í kjölfar falls flugfélagsins bauð hann Grímu að fara frá sér.
„Hún hefur verið ótrúlega sterk og staðið við hlið mér eins og klettur. Ég er óendanlega þakklátur fyrir hennar stuðning og ást, að ekki sé talað um strákana okkar tvo sem við eigum núna saman, Jaka sem er eins og hálfs árs og mánaðargamlan bróður hans,“ segir Skúli í viðtali við Fréttablaðið.
Uppbyggingu miðar áfram en hugurinn enn við flugið
Skúli segir uppbygginguna í Hvammsvík ganga vel og að þau hjónin gangi í öll möguleg störf í sveitinni. Hugurinn er þó enn við flugið en það er draumurinn að gera öllum kleift að ferðast.
„Við Gríma erum rétt að byrja okkar ævintýri. Hún hefur mátt þola umtalið, allt frá því við byrjuðum saman, sem auðvitað vakti athygli vegna 20 ára aldursmunar. Og vel að merkja, hún var alltof ung í huga mér í fyrstu, enda féll ég ekki fyrir henni fyrr en mörgum árum eftir fyrstu kynni, þegar hún hafði sem flugfreyja hjá WOW elt drauma sína út fyrir landsteinana og lagt stund á nám í innanhússhönnun."
Tapaði átta milljörðum við fall WOW
WOW hætti starfsemi sinni í þann 28. mars 2018 eftir langan aðdraganda. Um ellefu hundruð starfsmenn félagsins misstu vinnuna í kjölfar fallsins en Skúli segist hafa sokkið djúpt í andlegri líðan. Skúli tapaði þar að auki fjórum milljörðum með falli WOW og skuldaði fjóra til viðbótar. Hann er enn að greiða niður skuldirnar, meðal annars með sölu jarða, fasteigna og listaverka, að því er segir í Fréttablaðinu. |
Ákærudómstóll í Alabama í Bandaríkjunum gaf út ákæru fyrir manndráp á hendur 27 ára gamalli konu sem missti fóstur þegar hún var skotin í magann. Mál á hendur konunni sem skaut hana var fellt niður.
Marshae Jones var komin fimm mánuði á leið þegar hún lenti í rifrildi við aðra konu fyrir utan lágvöruverðsverslun í Birmingham í desember. Lögreglan segir að rifrildið hafi snúist um barnsföður hennar. Því lauk með því að Ebony Jemison, 23 ára gömul kona, skaut Jones í magann. Jones lifði af en fóstrið ekki, að sögn Washington Post.
Engin ákæra var gefin út á hendur Jemison sem var upphaflega sökuð um manndráp. Lögreglan hélt því fram að Jones hafi átt upptökin að rifrildinu. Jemison hafi skotið Jones í sjálfsvörn. Fóstrið væri eina raunverulega fórnarlambið í málinu.
„Það var móðir barnsins [svo] sem hóf og hélt rifrildinu áfram sem leiddi til dauða ófædds barns hennar,“ sagði Danny Reid, liðsforingi í lögreglunni við staðarfréttasíðuna AL.com.
Nú hefur Jones verið ákærð fyrir manndráp og verður fangelsuð nema hún greiði 50.000 dollara í tryggingu, rúmar 6,2 milljónir íslenskra króna.
Reid heldur því fram að fóstrið hafi verið dregið óviljandi inn í rifrildið og að það hafi verið á ábyrgð móður þess að verja það.
Mál Jones hefur vakið reiði samtaka sem berjast fyrir rétti kvenna til þungunarrofs. Ríkisþing Alabama samþykkti nýlega afturhaldssömustu þungunarrofslög Bandaríkjanna. Samtökin telja að lögin geti haft áhrif á önnur sakamál sem tengjast ekki þungunarrofi.
Amanda Reyes, framkvæmdastjóri Yellowhammer-sjóðsins, segir að Alabama-ríki sýni með ákærunni að það líti svo á að eina hlutverk óléttra kvenna sé að eignast lifandi barn og að allt sem hún kynni að gera sem gæti komið í veg fyrir það sé glæpsamlegt.
„Á morgun verður það önnur svört kona, kannski fyrir að fá sér drykk á meðan hún er ólétt. Og eftir það, önnur, fyrir að fá ekki viðunandi meðgöngumeðferð,“ segir Reyes. |
Tíminn er eins og vatnið, og vatnið er kalt og djúpt eins og vitund mín sjálfs. Og tíminn er eins og mynd, sem er máluð af vatninu og mér til hálfs. Og tíminn og vatnið renna veglaust til þurrðar inn í vitund mín sjálfs.
Bundið mál og óbundið
Þessi upphafserindi Tímans og vatnsins, höfuðkvæðis Steins Steinarr, eru göldrótt og allt kvæðið. Galdurinn er sá, að textinn er bæði bundinn og óbundinn. Það er enginn vandi að yrkja kvæði. En það er galdur að yrkja kvæði eftir réttum bragreglum og leyfa því samt að hljóma eins og hversdagslegt spjall um daginn og veginn. Þá list kunni Steinn Steinarr. Tónskáldin Atli Heimir Sveinsson og Jón Ásgeirsson hafa báðir samið tónverk við Tímann og vatnið, öll erindin 21. Bæði verkin eru til á samnefndum diskum.
Og svo er annar galdur í kvæðinu, sem Guðmundur Ólafsson hagfræðingur lýsti svo listilega í vor sem leið í Kiljunni, menningarþætti Egils Helgasonar blaðamanns í ríkissjónvarpinu. Guðmundur lýsti þar Tímanum og vatninu sem ástríðufullu ástarkvæði. Sá skilningur er nýr fyrir mörgum, jafnvel þótt þeir hafi kunnað kvæðið utan bókar í hálfa öld eða lengur. Skáldskapur kallar stundum á skýringar, sem geta opnað lesandanum nýjar gættir og glugga. Þetta vita margir um músík: þeir hlýða á lærða fyrirlestra um tónlist og tónfræði, þar sem til dæmis strengjakvartettar Beethovens eru brotnir til mergjar takt fyrir takt og nótu fyrir nótu með nákvæmum skýringum í sögulegu og ævisögulegu samhengi. Fátt veit ég sjálfur skemmtilegra, en það er annað mál.
Hitt er sjaldgæfara, að kveðskapur sé fluttur með skýringum línu fyrir línu eins og Guðmundur Ólafsson gerði í Kiljunni (sjá notendur.hi.is/lobbi/). Bókmenntafræðingar líta sumir svo á, að öllum skýringum við skáldskap sé ofaukið, kvæði skáldanna skýri sig sjálf. En það er ekki örlát skoðun eins og skýringar Guðmundar við Tímann og vatnið vitna um. Guðmundur gæti með líku lagi, býst ég við, opnað kvæði Einars Benediktssonar fyrir Íslendingum eða að minnsta kosti þeim hluta þjóðarinnar, sem finnast kvæði Einars torskilin. Torræð kvæði er hægt að skilja á ýmsa vegu. Góðir kennarar og kvæðamenn eins og Guðmundur Ólafsson geta lýst upp leiðina. Ísland á mörg góð skáld, dauð og lifandi.
Næsti bær við Stein
Þórarinn Eldjárn er á okkar dögum næsti bær við Stein Steinarr eins og Kvæðasafn hans, sem kom út 2008 mikið að vöxtum, vitnar um. Í skáldskap Þórarins rennur bundið mál og óbundið víða út í eitt. Saumurinn sést hvergi. Þannig hljómar til dæmis kvæði Þórarins Vont og gott:
„Það er svo vont að liggja á köldum klaka kalinn í gegn og skjálfa allur og braka. Hugsa bara þetta: - Svaka svaka svakalega er vont að liggja á klaka. Það er svo gott að liggja í mjúkum mosa mæna upp í himininn og brosa. Hugsa bara þetta: - Rosa rosa rosalega er gott að liggja í mosa."
Takið eftir, hvernig textinn flýtur. Þetta er óbundið mál, létt og leikandi, en samt rígbundið, enda hefur Tryggvi M. Baldvinsson tónskáld samið svellandi tangó við kvæðið. Þetta skemmtilega lag Tryggva og tíu önnur lög hans við kvæði Þórarins Eldjárn auk laga við ljóð níu annarra skálda er að finna á diskinum Gömul ljósmynd, sönglög eftir Tryggva M. Baldvinsson (12 tónar, 2006). Mæli einnig með honum. Auk Tryggva hafa tónskáldin Jóhann G. Jóhannsson, Jóhann Helgason og nú síðast Haukur Tómasson allir gefið út sérlega diska með lögum við ljóð Þórarins.
Sum kvæði Þórarins eru bundin að hætti gömlu skáldanna og sóma sér vel í þeim flokki án þess að hljóma eins og símtöl í hæsta gæðaflokki. Önnur eru óbundin eins og til dæmis Sameining:
„Tilkynnt hefur verið að Litlisannleikur hf. og Hálfsannleikur ehf. hafi nú sameinast undir nafninu Stórisannleikur ohf. Einfarinn sf. boðar jafnframt til hópferðar í innlönd. Hvað sem því líður er það staðföst ákvörðun okkar hjá Perluþjónustunni að láta ekki deigan síga og sækja nú æ fastar á djúpið. Við verðum áfram með besta svínafóðrið."
Tökum að endingu eitt kvæði enn eftir Þórarin Eldjárn, Eðlisfræði:
„Afstæðiskenningu Einsteins trúi ég ekki læt mér hana í léttu rúmi liggja enda fráleitt að við hinir vantrúuðu þurfum að axla sönnunarbyrðina. Af skammtakenningunni þoldi ég ekki einu sinni minnsta skammtinn tregðulögmálið sá til þess. Með árunum aðhyllist ég hinsvegar æ meir gangteoríu Jóns Á. Bjarnasonar og nýt þess að mega sanna hana sem oftast við mismunandi aðstæður." |
Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis segir viðbrögð stjórnarandstöðu við því að kalla stjórnlagaráð saman á ný vera storm í vatnsglasi. Því andmælir stjórnarandstaðan af fullri hörku og segir allt ferlið óljóst og málið hafi ekki verið tilbúið til afgreiðslu frá Alþingi.
Alþingi samþykkti í gær með 30 atkvæðum gegn 15 tillögu Þórs Saari um meðferð frumvarps stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá og breytingartillögu við hana. Samþykkt var að boða stjórnlagaráð til fjögurra daga fundar í mars. Nú er komið í ljós að formaður ráðsins getur ekki mætt á þann fund og aðrir úr stjórnlagaráði hafa lýst yfir efasemdum um þátttöku í starfi ráðsins í mars. Hart var deilt um þetta á Alþingi í dag.
„Í ljósi þess verður maður að líta svo á að málið hafi ekki verið tilbúið til afgreiðslu hér í þinginu í gær og í fyrradag,“ sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. „Alþingi Íslendinga hefur talað í þessu máli og gert ályktun sem forseti þingsins fullvissaði okkur í forsætisnefnd um áðan að ekkert stæði annað til en að fylgja,“ sagði Álfheiður Ingadóttir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði málsmeðferðina aðeins snúast um pólitík. „Það kemur sífellt betur í ljós það sem varað hefur við í þessu máli, hversu illa hefur verið á því haldið. Um það snýst þetta, vinnulagið.“
Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, vísaði gagnrýni á bug, ekkert væri óljóst og auðveldlega mætti breyta dagsetningum þegar stjórnlagaráð verði boðað á ný svo sem flestir komist. „Þetta er bara stormur í vatnsglasi, af því að stjórnarandstaðan hefur ekkert annað að gera.“ |
Keppt verður á nýrri braut í Formúlu 1 um helgina, Losail International brautinni sem er staðsett rétt fyrir utan höfuðborg Katar, Doha.
Ökuþórar fengu í morgun sitt fyrsta tækifæri til þess að æfa á brautinni og Kristján Einar segir brautina krefjandi. ,,Þetta er erfið braut fyrir framúrakstur þannig að tímatakan á morgun mun skipta miklu máli."
Brautin er 5.4 kílómetrar að lengd, hún er hröð og miðlungs- og hraðar beygjur eru ráðandi. Beini kafli brautarinnar er rúmur kílómetri að lengd.
Max Verstappen, ökuþór Red Bull Racing á æfingu í morgun
GettyImages
Yfirburðir Mercedes voru algjörir um síðustu helgi er Sir Lewis Hamilton hrósaði sigri og náði að saxa á forystu Max Verstappen, ökuþórs Red Bull Racing á toppi stigakeppni ökuþóra. Aðeins fjórtán stig skilja kappana að.
,,Heilt á litið með tilliti til þess hvernig þetta er að þróast eftir þessa sturlun um síðustu helgi verður mjög áhugavert að fá aðra keppni bara strax núna um helgina," segir Kristján Einar, umsjónarmaður Formúlunnar og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn í samtali við Fréttablaðið í dag.
Frá því í kappakstrinum í Brasilíu um síðustu helgi hefur atvik sem átti sér stað milli Verstappen og Hamilton verið í skoðun. Hamilton reyndi framúrakstur á Verstappen sem ákvað að loka á hann með þeim afleiðingum að þeir enduðu báðir utan brautar um stund.
Hamilton hafði betur um síðustu helgi
GettyImages
FIA staðfesti fyrr í dag að þeir ætli ekki að aðhafast neitt frekar í kjölfar atviksins. ,,Með því eru í raun búið að færa línuna á því hvað má og hvað má ekki í baráttu milli ökuþóra. Mjög líklega í framhaldinu munum við því fá að sjá harðari baráttu inni á brautinni," sagði Kristján Einar í samtali við Fréttablaðið.
Kristján segir erfitt að ráða í keppni helgarinnar og hvort brautin henti Red Bull eða Mercedes Betur. ,,Fyrirfram átti ég von á því að þetta væri braut sem myndi henta Red Bull Racing mun betur heldur en Mercedes. Í morgun voru Red Bull hraðari en þetta er orðið þannig að bilið á milli þessara liða er það lítið að það er nánast ekkert sem skilur liðin að. Ég hallast að Red Bull sigri um helgina," segir Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinní samtali við Fréttablaðið.
Sjá einnig
Aðeins tveir hafa keyrt braut helgarinnar í Katar |
Háhyrningarnir sem höfðu þvælst inn í Ísafjarðarhöfn virðast hafa komist aftur á haf út í háflóði seint í gærkvöldi. Vísindamenn höfðu áhyggjur af því að háhyrningarnir kynnu að vera í sjálfheldu í höfninni.
„Þessar aðstæður svipa mjög til sambærilegra aðstæðna þar sem háhyrningar hafa lent í sjálfheldu,“ stóð í færslu Háskólaseturs Vestfjarða á Facebook í gær. Því var ákveðið að vakta dýrin vel og skrá hegðun þeirra. Háhyrningarnir sáust fyrst í Ísafjarðarhöfn snemma á föstudagsmorgun.
Í dag hefur síðan ekkert sést til þeirra. „Það lítur út fyrir að háhyrningarnir á Pollinum hafi komist út á háflóði seint í gærkvöldi,“ segir í nýrri færslu háskólasetursins. „Vöktun hófst í birtingu og hefur ekkert sést til dýranna í allan morgun. Við vonum það besta og að hvalirnir séu komnir heilu og höldnu á haf út.“
Nefndur Aldrei
Alls voru háhyrningarnir fimm saman og tókst dýraverndarsamtökunum „Orca Guardians Iceland“ að bera kennsl á fjóra þeirra. Þeirra á meðal var kýr sem hafði hlotið enska nafnið Delusion og kom í ljós að fimmta dýrið væri kálfurinn hennar. Samtökin gáfu honum nafnið Aldrei í dag en Ísfirðingar höfðu stungið upp á nafninu. Hann er þannig nefndur í höfuðið á Ísfirsku tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður, sem hefði undir eðlilegum kringumstæðum verið haldin nú yfir páskana.
The orcas have left the harbour area in Isafjörður, and to celebrate a happy outcome, the youngest calf in the group has...
Posted by Orca Guardians Iceland on Sunday, 4 April 2021 |
Enginn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær, á sjálfum þjóðhátíðardeginum.
Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á síðunni Covid.is. Síðan er nú uppfærð einungis á mánudögum og fimmtudögum, en þar sem gærdagurinn var rauður dagur var síðan upp í dag, föstudag.
Ekki greindist neinn heldur 16. júní, en þrír greindust innanlands þann 15. júní, líkt og greint var frá á miðvikudag.
Í einangrun eru nú 22, en þeir voru 30 á sunnudag. Í sóttkví er 41, en voru 57 á sunnudag. 1.466 eru í skimunarsóttkví. Einn er nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19, sami fjöldi og á sunnudag.
Fimm greindust á landamærum í gær, þar sem einn var með virkt smit í fyrri landamæraskimun, einn mældist með mótefni, en niðurstöðu mótefnamælingar er beðið í tilfelli þriggja.
153.725 eru nú fullbólusettir hér á landi, 52,1 prósent íbúa sextán ára og eldri, og er bólusetning hafin hjá 85.089 til viðbótar, eða 28,8 prósent íbúa sextán ára og eldri. Þá hafa 2,2 prósent fengið Covid-19 og/eða eru með mótefni til staðar.
6.627 hafa nú greinst með kórónuveiruna hér á landi frá upphafi faraldursins í febrúar á síðasta ári. Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru þrjátíu látin.
Alls var tekið 131 einkennasýni hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu í gær. Þá voru 2750 sýni tekin á landamærunum eða í seinni landamæraskimun og 743 í svokallaðri sóttkvíar- og handahófsskimun.
Fréttin hefur verið uppfærð. |
Óvenju öflugt eldgos hófst í Grímsvötnum í gærkvöldi. Nú rétt fyrir fréttir náði Kristján Már Unnarsson tali af Magnúsi Tuma Guðmundssyni, prófessor þegar hann var að leggja af stað upp í flugferð yfir eldstöðvarnar.
Kristján Már Unnarsson: Hvað vitið þið um gosið á þessari stundu?
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor: Ja það byrjaði um tíuleytið í gærkvöldi og það er í Grímsvötnum eða rétt við Grímsvötn og nú það verður vart við gosmökk upp úr ellefu og nokkru síðar er hann kominn í allt að 13 kílómetra hæð og 13 kílómetra gosmökkur það segir okkur að þetta gos hefur í nótt verið töluvert kröftugra heldur en gosið í Grímsvötnum fyrir 6 árum, 1998. Þannig að þetta virðist vera töluvert öflugra gos, þá náði gosmökkur ekki nema 10 kílómetra hæð.
Kristján Már: Miðað við til dæmis gosið í Gjálp þarna áður, er þetta jafnvel svo stórt?
Magnús Tumi Guðmundsson: Það er ómögulegt að segja, ég á nú ekki von á því ef þetta er venjulegt Grímsvatnagos að það verði í líkingu við það. En það sem við þó vitum að ef að gosmökkurinn hefur farið þetta átt að þá er þetta gos öflugra heldur en síðasta Grímsvatnagos. Síðan verður bara framtíðin að, svona næstu dagar að skera úr um hvernig þessu vindur fram og svo eigum við eftir að staðsetja nákvæmlega hvar í vötnunum eða við vötnin þetta gos er.
Kristján Már: Nú er hlaup í gangi úr Skeiðará. Hvaða áhrif hefur þetta gos á það hlaup?
Magnús Tumi Guðmundsson: Það er, virðist nú að minnsta kosti ekki hafa haft stór áhrif á það fram að þessu en það er ekki auðvelt um að segja. Ef þetta er inni í vötnunum mun það ekki hafa mikil áhrif en þó kannski aðeins þrýsta upp rennslinu. Ef það er fyrir norðan vötnin þá getur það haft meiri áhrif en þetta skýrist nú allt á næstu klukkustundum skulum við vona.
Kristján Már: Er líklegt að þetta verði langt gos?
Magnús Tumi Guðmundsson: Það er erfitt um að segja, algengt er að Grímsvatnagos séu ein, tvær vikur eða eitthvað svoleiðis en það er, það getur orðið lengra, þau hafa verið lengri sum þeirra.
Kristján Már: Getum við búist við öskufalli í byggð?
Magnús Tumi Guðmundsson: Já við getum gert það en það verður, bara næstu dagar munu og klukkustundir og dagar munu skera úr um það.
Kristján Már: Eru einhverjar líkur á því að mannvirki, til dæmis á Skeiðarársandi séu í hættu?
Magnús Tumi Guðmundsson: Það er erfitt um að segja, það er nú svona líklegra að svo sé ekki en við verðum bara að sjá hverju fram vindur.
Það er búið að vera þungskýjað yfir eldstöðvunum í gærkvöldi og í nótt en menn eru að gera sér vonir um það að það muni hugsanlega létta til þá núna í morgunsárið og jafnvel þegar það fer að líða á daginn. |
Aron Már Ólafsson fékk mikið lof fyrir leik sinn í annarri þáttaröð Ófærðar sem var sýnd skömmu eftir áramót. Hann lék ungan samkynhneigðan mann, Víking, sem glímir við erfiða fjölskyldusögu og áföll.„ Þetta var ótrúlega gott hlutverk, ég var heppinn að hafa náð að lenda því. Þetta var vissulega krefjandi hlutverk. Að fá að prófa að leika með atvinnuleikurum og fá góða leikstjórn. Mér var hent út í djúpu laugina. Fór beint frá því að leika með samnemendum mínum í þetta,“ segir Aron Már.
Aron Már stundar leiklist í Listaháskóla Íslands og mun útskrifast með BA-gráðu í vor.
Það hlýtur að vera kostur að geta fengið svona tækifæri snemma á ferlinum?
„Já, eins og margir segja í gamni. Það er auðvelt að vera heimsfrægur á Íslandi. Það getur verið gott að fá tækifærin snemma en það getur líka verið slæmt. Það fer líklega eftir því hvort þú ert tilbúinn og hvort hlutverkið er gott, “ segir Aron Már. „Samfélag okkar er lítið og tækifærin mörg. Ef maður vill líta út fyrir landsteinana þá er gott að búa að þessari reynslu að hafa leikið stór hlutverk í kvikmyndum og á sviði.“
Aron Már er í stífu æfingaferli í Borgarleikhúsinu þegar blaðamaður nær tali af honum. Hann fer með eitt aðalhlutverkanna í Kæru Jelenu, verki eftir Ljúdmílu Razumovskaju sem hefur farið sigurför um heiminn frá því það var skrifað árið 1980. Verkið var sett á svið í Þjóðleikhúsinu fyrir tæpum 30 árum í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur sem Kristín Eiríksdóttir skáld hefur fært nær okkur í stað og tíma. Sjokkerandi verk„Leikritið fjallar í stuttu máli um fjóra nemendur sem koma að kvöldi til kennara síns. Þau krefjast svolítils af henni og meira segi ég ekki,“ segir hann og hlær og vill alls ekki gefa söguþráðinn upp til þeirra sem eru að sjá verkið í fyrsta sinn.
Verkið hefur verið sett nokkrum sinnum á fjalir íslenskra leikhúsa og þykir höfða til ungs fólks. „Verkið var síðast sett upp í stóru leikhúsunum á tíunda áratugnum. Anna Kristín Arngrímsdóttir lék Jelenu, en nemendurnir voru leiknir af Baltasar Kormáki, Halldóru Björnsdóttur, Hilmari Jónssyni og Ingvari E. Sigurðssyni. En það er gaman að segja frá því að ég lék í Kæru Jelenu í Verslunarskólanum. Fór reyndar með annað hlutverk þá, mér finnst það ótrúlega skemmtilegt. Verkið á erindi í dag eins og áður en það spyr grundvallarspurninga um okkur og mannseðlið.“
Aron Már leikur í sinni fyrstu sýningu í atvinnuleikhúsi.
Borgarleikhúsið
Útvarpsstöð í vexti
Aron Már er einn stofnenda hins nýja Útvarps 101. „Ég er einn eigenda en hef verið of upptekinn í leikhúsinu til að sinna stöðinni. Hún er reyndar í góðum höndum félaga minna. Ég kem sterkur inn þegar hægist um hjá mér. Daginn sem við opnuðum stöðina höfðum við unnið að því að stofna hana í algjörri leynd. Því það var gat á markaðnum. Við vildum huga betur að menningu og ungu fólki. Í einu orði þá snýst Útvarp 101 um menningu. Við erum náttúrulega með frábæran tónlistarstjóra, sem er Logi Pedro. Vikulega er haldinn fundur þar sem er farið yfir allt sem er í deiglunni. Hvað er nýtt? Hvað er áhugavert og þarf að fara í spilun. Við erum alveg á tánum. Og munum á næstunni kynna næsta skref, ég hlakka til þegar ég má segja frá því,“ segir Aron Már og lætur ekkert uppi þrátt fyrir mikinn þrýsting.
Stressandi og stórt skref
Í haust leikur Aron Már Shakespeare í Þjóðleikhúsinu í verkinu Shakespeare in Love í leikstjórn Selmu Björnsdóttur. Verkið verður frumsýnt í október á stóra sviðinu. Það er byggt á samnefndri kvikmynd sem fékk sjö Óskarsverðlaun árið 1998 þar sem Gwyneth Paltrow og Joseph Fiennes fóru með aðalhlutverk. Leikgerðin hefur verið vinsæl á West End í London síðustu fimm ár. Á móti Aroni Má leikur Lára Jóhanna Jónsdóttir.„ Já, ég svík lit og fer yfir í Þjóðleikhúsið,“ segir Aron Már í gamni. „En þetta er gríðarlegt stökk. Að fara af litla sviðinu yfir á stóra svið Þjóðleikhússins. Litla sviðið hér er reyndar frábært. Mér finnst nálægðin góð, mér finnst ég umkringdur og það er þægilegt. En það er mjög stressandi að vera að fara að leika aðalhlutverk á stóra sviðinu. Ég ætla ekki að reyna að ljúga því að ég er mjög stressaður. Þetta er krefjandi en góð áskorun. Og ég er reyndar svolítið fyrir það að vera hent kútalausum í djúpu laugina.“
Föðurhlutverkið mikilvægast
„Mikilvægasta hlutverkið er nú samt föðurhlutverkið,“ segir Aron Már. Hann og kærasta hans, Hildur Skúladóttir, eignuðust son í janúar á síðasta ári.„ Lífið er gott. Hann er kominn á leikskóla og er á ungbarnadeild. Við vorum að flytja á Laufásveg og hann fer á Laufásborg. Það er allt að smella. Konan mín er að sækja um í meistaranám í sálfræði og starfar sem flugfreyja. Hún er ótrúlega hæfileikarík og ég er alla daga mjög stoltur af henni,“ segir Aron Már. Hvernig gengur ykkur að máta þetta saman, leikaralífið og fluglífið?„ Það fer ágætlega saman. Þegar hún er að fljúga er ég oft svolítið laus á daginn og á ofsalega góðan tíma með syni mínum. Ómetanlegur tími, finnst mér. Leikaralífið, það er reyndar svolítið skrýtið líf.
Og allt öðruvísi en á setti í kvikmyndum. Þú þarft að muna allan textann þinn. Allar línurnar. Alltaf að grufla og grafa og í konstant sambandi við leikstjórann og samleikara þína. Maður er að hnoða leir. En í bíó getur þú dútlað þér,“ segir Aron Már.
Lánaðar tilfinningar
Góður leikari þarf að vera í góðu sambandi við tilfinningar sínar. Hefur ferlið sem þú varst í hjálpað þér?„ Það er munur á því að tala um eigin tilfinningar og tilfinningar á sviði. Tilfinningar á sviði eru lánaðar tilfinningar og maður þarf af bestu getu að skilja þarna á milli. Þetta er jafnvægi sem maður þarf að finna. Maður þarf að passa upp á sig.“„ Þetta er eins og pípulögn, þú þarft bara að vita hvernig þú skrúfar frá. Ég er enn að læra þetta. Finna mitt tilfinningaróf á sviði. Þegar maður upplifir tilfinningar, ef maður er sannur í sínu, þá koma þær bara yfir mann. En þegar maður fer á svið þá þarf maður að geta stjórnað þessu. Að geta, í hvaða ástandi sem er, skilið á milli.“ |
Þetta hefur verið vika hægagangsins. Þessi gangtegund á ekkert skylt við hestamennsku heldur snýst um þá stórbrotnu yfirlýsingu stjórnarinnar að núna verði hægt á viðræðunum við ESB um aðild. Alþingi samþykkti að sækja um aðild að ESB sumarið 2009. Mörgum finnst að vísu ganghraðinn í viðræðunum hafa verið með þeim hætti að erfitt sé að hægja á því sem sé nánast í kyrrstöðu. Vandinn í þessu öllu saman hefur verið sá að Vinstri grænir eru með aðildarumsókn en hins vegar á móti aðild. Vandinn er líka sá að í viðræðunum við ESB var byrjað á vitleysum enda; litlu málunum frekar en þeim stóru; sjávarútvegi og landbúnaði.
Vinstri grænir sögðu nei í kosningunum vorið 2009 en meintu já til að komast í ríkisstjórn. Þeir hafa sagt já allt kjörtímabilið en núna nálgast kosningar og þá segja þeir aftur nei en meina hins vegar já ef það er spurning um að komast aftur í ríkisstjórn með Samfylkingu. Þeir trúlofuðust ESB sumarið 2009 en hafa sagst ætla að segja nei þegar upp að altarinu kemur – líkt og Julia Roberts í kvikmyndinni Runaway Bride.
Núna vilja Vinstri grænir hægja á trúlofuninni við ESB, þ.e. hægja aðeins á ástinni. Þetta er aðeins of mikil ást svona rétt fyrir kosningarnar þar sem erfitt verður fyrir Vinstri græna að rökstyðja stuðning sinn við aðildarumsóknina - en þeir eru þegar byrjaðir að hylja slóðina.
Össur tekur undir kröfuna um hægagang og segir að ESB eigi ekki að vera bitbein svona rétt fyrir kosningar. Þetta er að vísu sami Össur og sagði um áramótin að aldrei væri eins brýnt að nota tímann vel í viðræðunum eftir áramótin.
Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að hægja á aðildarviðræðum og bíða með að taka upp erfiðustu kaflana, þ.e. um sjávarútveg og landbúnað, er til að friðþægja Vinstri græna.
Hægagangurinn kostulegi hefur hins vegar hleypt illu blóði í Samfylkingarfólk. Valgerður Bjarnadóttir þingmaður sagði þessa stórkostlegu setningu: „Það er verið að hægja á þessu en vinnan heldur áfram. Það verður engin önnur breyting ef breytingu skyldi kalla.“
Núna rífast Samfylking og Vinstri grænir um hvað sé hægagangur og hvað sé ekki hægagangur.
Samhliða hægaganginum ákváðu Vinstri grænir að reka Jón Bjarnason úr utanríkismálanefnd Alþingis og setja Þuríði Bachmann þar í staðinn. Skömmu fyrir jól myndaði Jón Bjarnason meirihluta í utanríkisnefnd Alþingis með leiðtogum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins um að gera hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Þetta afstaða Jóns Bjarnasonar - sem er í takt við það sem Vinstri grænir lofuðu í síðustu kosningabaráttu, þ.e. að vera á móti aðild - kostuðu hann hins vegar sætið í nefndinni. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að ríkisstjórnin hefði sprungið hefði tillaga þessa efnis frá meirihluta utanríkismálanefndar náð fram að ganga.
Þetta segir auðvitað allt um ástandið á stjórnarheimilinu. Stjórnin er fallin en heldur sér á floti með því að forðast atkvæðagreiðslur á þingi. Það var þá.
BREYTINGASTJÓRNUN-TRÚLOFUN Í SAMRUNUM FYRIRTÆKJA
Í stjórnun er mikið rætt um breytingastjórnun. Hún snýst um að stjórna breytingum, eins og samruna og yfirtöku fyrirtækja. Lögð er áhersla á að ef samruni eigi að skila árangri þurfi starfsmenn að vera virkjaðir til þátttöku, upplýstir um hvaða markmiðum sé stefnt að og hafðir með í ráðum.
Til eru tvær aðferðir við að sameina fyrirtæki. Trúlofun kemur við sögu í þeim báðum.
Önnur gengur út á að gera með sér samkomulag um að hefja viðræður, þreifa á púlsinum um ýmis sker sem líklegt er að steiti ekki á, eins og húsnæði, bókhaldskerfi, viðskiptabanka, millistjórnendur, bílaflota, starfsmenn á gólfi og svo framvegis. Þegar þetta hefur náðst er komið að stóru stundinni, jafnvel eftir margra vikna viðræður; verðmeta hvort fyrirtækið fyrir sig. Hver eiga skiptihlutföllin að vera í samrunanum? 55-45, 60-40, 51-49? Þetta er auðvitað stærsta málið en það er geymt þar til síðast. Ósætti um þetta þýðir slit. Samruninn er þá farinn út um þúfur og hugsanlega voru viðmælendur búnir að draga hvorn annan á asnaeyrunum allan tíman. Trúlofun slitið. Ekkert brúðkaup.
Hin aðferðin gengur út á að forráðamenn fyrirtækja hittast og byrja fyrst á aðalatriðinu; verðmatinu á hvoru fyrirtæki fyrir sig. Ef ekki gengur saman um það þarf ekki að ræða málið frekar. Ef hins vegar næst samkomulag um verðmat og skiptihlutföll í upphafi eru trúlofunarhringarnir settir upp. Eftir það er byrjað að ræða minni atriði, eins og bókhaldskerfi, húsnæðismál, lykilstarfsmenn, hvaða eignir eigi að selja og þar fram eftir götunum áður en upp að altarinu er gengið. Auðvitað getur slitnað upp úr trúlofuninni vegna þessara svonefndu minni mála sem reynast í samningalotunni verða að stórmálum.
Varaðandi aðildarumsóknina að ESB völdu Íslendingar að fara fyrri leiðina í samningalotunni. Velja minni málin fyrst - og bíða með sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál.
Það er erfitt að átta sig á þessari trúlofun.
Núna á að hægja á ástinni og taka niður hringana við ESB fram að kosningum. Kosningar eru eftir nokkrar vikur þar sem flestir flokkanna vilja hætta eða gera hlé á viðræðunum. Á sama tíma sýna kannanir að það skiptist nokkuð jafnt á með fólki hvort það vilji halda áfram eða hætta – en þrátt fyrir það segjast ca. 65% ekki vilja ganga í ESB-hjónbandið þegar upp að altarinu er komið.
Það verður seint sagt að þetta sé venjulegt tilhugalíf – ég tala nú ekki um þegar það er með markvissum hægagangi.
Jón G. Hauksson
[email protected] |
„Ég ætla ekki að gera lítið úr Guðjóni Pétri en stundum finnst mér „hæpið“ ansi mikið um hann,“ segir Sigurvin Ólafsson, en miðjumaðurinn Guðjón Pétur Lýðsson var til umræðu í Pepsi Max-stúkunni í gærkvöld.
Guðjón Pétur fór að láni til Stjörnunnar frá Breiðabliki á dögunum og þar með er hann með 12 félagaskipti skráð á árunum 2007 til 2020. Hann kom inn á sem varamaður gegn Val á sunnudag.
„Maður hlýtur að velta fyrir sér; af hverju þrífst hann ekki lengur en eitt ár að meðaltali í liði?“ spurði Sigurvin þá Þorkel Mána Pétursson og Guðmund Benediktsson.
„Guðjón Pétur er þeirrar skoðunar að ef hann er kominn á varamannabekkinn þá er þjálfarinn bara vitleysingur. Þá er hann bara farinn,“ sagði Máni léttur í bragði. Sigurvin sagði stundum fullmikið gert úr hæfileikum þessa 32 ára gamla leikmanns:
„Af hverju er það alltaf þannig þegar hann fer á milli liða að það er talað um að einn besti miðjumaður landsins sé að skipta um lið? Ég missti pínulítið mögulega af öllum hans bestu leikjum,“ sagði Sigurvin, og bætti við: „Ég ætla ekki að gera lítið úr Guðjóni Pétri Lýðssyni. Mér finnst hann góður leikmaður. En stundum finnst mér „hæpið“ ansi mikið um hann.“
Guðmundur sagðist telja að Óskar Hrafn Þorvaldsson hefði alveg viljað hafa Guðjón Pétur áfram í leikmannahópi Breiðabliks, þó á þeim forsendum að hann væri ekki fyrsti maður inn á miðjuna hjá liðinu.
„En er hann bara eins og einhver „bully“ í bekknum? Í hverju einasta liði er alltaf einhver ósáttur við að vera á bekknum, það er bara eðlilegt. Vonandi er það þannig í öllum liðum. Er það bara óþolandi að hafa hann á bekknum í liðinu hjá sér? Verður bara allt ómögulegt?“ spurði Sigurvin.
„Ég held að það verði ekkert ómögulegt í leikmannahópnum en þjálfararnir eiga kannski mjög erfitt með það margir hverjir að þola það að einhverju leyti,“ svaraði Máni.
Sigurvin furðaði sig einnig á því að Guðjón Pétur skyldi fara til Stjörnunnar fyrst hann vildi eiga greiðari leið í byrjunarlið. „Ég næ ekki alveg þessum skiptum. Í fyrsta lagi því að Óskar Hrafn ætli að lána leikmann í lið sem hefur ekki tapað leik. Það finnst mér mjög sérstakt,“ sagði Sigurvin og benti jafnframt á að Guðjón Pétur virtist nú koma í leikmannahóp þar sem að miðjan væri fullskipuð.
„Það er augljóst finnst mér að Guðjón Pétur hefur ekki viljað fara í neitt annað lið en Stjörnuna og Óskar Hrafn hefur viljað losna við hann úr leikmannahópnum,“ sagði Máni, og Guðmundur benti á að Guðjón Pétur hefði sagt nei við því að fara til Víkings eða Fjölnis, og jafnvel HK einnig.
Máni sagði komu Guðjóns Péturs í Garðabæinn kærkomna fyrir Stjörnuna, eftir margar misheppnaðar tilraunir félagsins til að fá hann í gegnum árin:
„Guðjón er með gott hugarfar. Hann er „winner“ inni á vellinum, nennir engu kjaftæði og hækkar tempóið á æfingum. Ég held að þetta hafi verið algjörlega málið fyrir Stjörnuna. Ef það er eitthvað sem vantaði hjá Stjörnunni er það einhverjir dólgar. Þeir hafa ekki verið þarna síðan að Garðar Jó fór – menn sem geta hækkað tempóið, gert aðra í kringum sig betri og gargað aðeins á þá.“ |
Ævintýralegu ferðalagi Hafmeyjunnar, höggmyndar Nínu Sæmundsson, sem hefur staðið í rúmlega hálfa öld er að ljúka. Segja má að saga styttunnar sé þar með komin heilan hring.
Fá íslensk listaverk eiga sér jafn dramatíska sögu og Hafmeyjan. Nína vann frummynd hennar í gifs á 6. áratug síðustu aldar, en hún eyðilagðist á leið frá Kaliforníu til Flórens. Nína gerði því nýja. Eftir henni var steypt höggmynd úr málmi sem komið var fyrir í Reykjavíkurtjörn. Þar var hún óáreitt í hálft ár eða þar til hún var sprengd í tætlur á nýársnótt árið 1960. Sökudólgurinn hefur aldrei fundist.
Ekki var þó öll nótt úti. Stytta eftir frummyndinni fannst nefnilega í garði vinkonu Nínu í Kaliforníu fyrir rúmum áratug. Sú er úr gipsi og var komið fyrir á Akranesi, þar sem hún er enn. Höggmynd úr bronsi eftir henni hefur hins vegar staðið fyrir utan verslunarmiðstöðina Smáralind í þrettán ár.
Þetta reyndist nú ekki vera lokastaðsetning styttunnar, sem fór aftur á flakk og er nú loksins, eftir áratug í Kópavogi, að komast á sinn gamla stað við tjörnina í Reykjavík.
Stjórnarformaður Smáralindar gaf borgarstjóra styttuna í dag, og verður henni komið fyrir í nýjum höggmyndagarði listakvenna í Hljómskálagarðinum.
„Þetta er ákaflega ánægjulegur dagur í dag, þegar hafmeyjan snýr aftur. Það er verið að biðja borgarbúa afsökunar á því illvirki sem enginn, sem er hér í dag, bar nokkra ábyrgð á þannig að mér finnst full ástæða til að gleðjast yfir þessu,“ segir Hrafnhildur Schram listfræðingur. |
Rafmyntir á borð við Bitcoin eru algjört eyðingarafl að mati Andra Snæs Magnasonar rithöfunds. Hann vill að orkumálastjóri beiti sér fyrir því á heimsvísu að rafmyntir verði bannaðar. Þannig sé hægt að spara gríðarlega orku sem sé ella sóað.
Guðni A. Jóhannessen, orkumálastjóri, og Andri Snær hafa tekist á um umhverfismál í skoðanapistlum að undanförnu. Í jólahugvekju til starfsmanna Orkustofnunar talaði Guðni um „fólk sem hatar rafmagn“ og svaraði Andri Snær Guðna í pistli í Kjarnanum í gær undir yfirskriftinni „Þegar orkumálastjóri trollaði jólin“.
Andri Snær var gestur á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi um pistil sinn og pistil Guðna. Meðal þess sem bar á góma voru rafmynt á borð við Bitcon sem skotið hafa upp kollinum á undanförnum árum. Andri Snær er ekki hrifinn af rafmyntum og segir þær fela í sér gríðarlega orkusóun.
„Svo sjáum við eitthvað fyrirbæri sem allt í einu verður til fyrir nokkrum árum eins og rafmyntir. Einhverjum snillingi datt í hug að til þess að búa til sýndarmynd þyrfti orkufreka reikniaðferð til þess að finna þessa mynt. Þessi bóla, alheimsbóla, hefur sogað til sín nánast alla umframorku og í rauninni nánast núllað út allar framfarir í hreinni orku, uppsetningu á vindmyllum og sólarorku á síðustu árum, bara þessi Bitcoin-bóla,“ sagði Andri Snær.
Vinnslan mjög orkufrek
Í stuttu máli byggir útgáfa rafmynta á borð við Bitcoin á hinni svokölluðu kubbakeðjutækni (e. blockchain technology). Um er að ræða eins konar dreifða skrá þar sem hægt er að sannreyna að allar upplýsingar innan hennar séu sannar og réttar. Þeim sem útvega nauðsynlegan tækjabúnað, oft á tíðum mörg þúsundir skjákorta og annan tölvubúnað, með mikla reiknigetu til að leysa flóknar stærðfræðiformúlur, er launað með nýjum rafmyntum.
Vinnslan er hins vegar afar orkufrek en gagnaverum hér á landi, þar sem grafið er eftir rafmyntum, hefur fjölgað mjög á undanförnum árum og meira segja skotið upp á ólíklegustu stöðum. Reiknað er með að gröftur eftir rafmyntum hér á landi noti meiri orku en öll heimili landsins til samans. Á heimsvísu er áætlað að heildarorkuþörf Bitcoin-námugraftar sé 22 terawatt-stundur, sem jafngildir allri orkuþörf Írlands á einu
„Þar einmitt varð til óendanleg eftirspurn á ákveðnum tíma. Mikið af því sem hefur verið virkjað á síðustu árum hefur einmitt farið í það hérlendis. Það eru einhverjar 100-150 megawött hér sem fara í að leita að einhverju sem er ekki neitt. Eitthvað sem er bara einhver sýndarveruleiki,“ sagði Andri Snær.
Leggur til að orkumálastjóri beiti sér fyrir banni á Bitcoin-vinnslu
Segir Andri Snær að mikilvægt sé fyrir samfélög að standa í lappirnar gegn fyrirbærum á borð við Bitcoin og láta ekki undan kröfum um að virkja allt sem hægt sé að virkja fyrir skammtímagróða. Það sé ekki hlutverk landsmanna að fullnýta landið og jafn vel þó að rafmyntabólan springi muni alltaf eitthvða nýtt koma til þar sem krafa er gerð um að virkja til að auka orkuframleiðslu landsins.
„Jú, við getum verið ofsalega gjafmild og látið af okkar einstæðu náttúru. Þessar bólur munu koma alla öldina. Það kemur upp eitthvað sem er svo stórt á heimsvísu að það getur gleypt okkur á fimm árum. Við eigum einhverjar fjórar til fimm ár eftir sem einhver burður í. Það mun koma einhver svona 100 terawatta bóla í heiminum sem okkur verður allt í einu sagt að við verðum að stökkva á,“ sagði Andri Snær.
Hvatti hann Guðna orkumálastjóra til þess að nýta krafta sína á heimsvísu til þess að koma í veg fyrir að frekari orku væri sóað í vinnslu rafmynta. Þannig mætti spara orkuna sem fer í það í verkefni sem eru nytsamleg, án þess að virkja þurfi allt sem rennur eða brenna kol til að framleiða rafmagn á heimsvísu.
„Við gætum gengið fram fyrir skjöldu og við gætum hreinlega bara bannað Bitcoin-námur vegna þess að þetta er algjört eyðingarafl um allan heim, í Kína, í Bandaríkjunum og alls staðar er þetta að soga til sín orku og einhverra hluta vegna hefur þetta verið leyft.“ |
Út er komin bókin Útistöður eftir Margréti Tryggvadóttir, bókmenntafræðing og fyrrverandi alþingismann Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar í Suðurkjördæmi.
Í bókinni segir Margrét frá reynslu sinni og atburðum eins og hún upplifði þá á árinum 2009 – 2013. Lesendum er boðið með í pólitíska óvissuferð þar sem þeir fá að kynnast bæði því besta og versta sem íslensk stjórnmál hafa upp á að bjóða.
Flestir gerðu sér grein fyrir að það væri hálfgerður sjálfsmorðsleiðangur að fara út í stjórnmál eftir hrunið. Verkefnin voru svo risavaxin að ljóst var í upphafi að ekki tækist að greiða úr þeim öllum á einu kjörtímabili. Það var síður fyrirsjáanlegt hve þinginu gekk illa að vinna saman, hvernig það tapaði sér aftur og aftur í barnalegum leikjum sem snérust ekki um að byggja upp og gera samfélagið betra heldur hnekkja á andstæðingnum í leiknum. Í upphafi kjörtímabilsins tókust menn á í pontu en voru svo félagar í matsalnum en undir lokin ríkti stríðsástand þar sem engu var vægt og raunveruleg illindi voru manna á milli. Svo hægt sé að vinda ofan af því og taka upp betri vinnubrögð í þinginu verðum við að skilja hvernig þetta gat orðið svona.
Upplausn hefur einkennt stjórnmál á Íslandi síðustu árin. Flokkakerfið er að molna og nýjar víglínur að myndast. Mörkin á milli vinstri og hægri eru óskýrari og baráttan stendur um eitthvað allt annað. Stundum virðast menn bara vera að kljást af gömlum vana. Það eru ekki bara gömlu flokkarnir sem eru að molna. Upplausnarástand hefur líka ríkt innan nýju stjórnmálaaflanna, allavega sumra. Eftir á að hyggja var Borgarahreyfingin dæmd til að springa í loft upp, til stofnunar hennar var ekki vandað í upphafi enda tíminn af skornum skammti. Auk þess kom þar saman allt reiðasta fólkið á Íslandi. Margt af því sem á eftir kom gekk einnig brösulega en annað vel og af því er mikilvægt að draga lærdóm.
Bókin er 533 síður og fæst í öllum helstu bókaverslunum.
Fréttatilkynning |
Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) vann varnarsigur með kjarasamningnum sem undirritaður var við Icelandair í nótt, að mati formanns fyrrnefnda félagsins. Um sé að ræða „risastórt“ skref fyrir stéttina en hagræðingarkröfur Icelandair hafi verið miklar.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir formaður FFÍ segir í samtali við fréttastofu að það sé mikill léttir að hafa náð að skrifa undir kjarasamning eftir „mjög þungar og flóknar“ kjaraviðræður síðustu vikna.
„Hagræðingarkrafa frá félaginu var mjög mikil og við vorum reiðubúin að veita eftirgjafir til að koma til móts við félagið á þessum erfiðu tímum og í rauninni sýnum þannig í verki að flugfreyjur og -þjónar félagsins eru tilbúin að leggja sitt af mörkum,“ segir Guðlaug.
„Það er hins vegar ákveðinn varnarsigur að við stóðum vörð um starfsöryggi stéttarinnar, sem var búið að taka út í fyrri tilboðum frá félaginu, og við erum mjög stolt af því í dag.“
Guðlaug segir ekki tímabært að fara nánar ofan í saumana á umræddum atriðum sem ekki gætti í fyrri tilboðum frá félaginu.
„Það eru kannski einstök ákvæði í kjarasamningi sem hefðu breytt starfsöryggi stéttarinnar, sem er ekki hægt að fara alveg ofan í kjölinn á því. En þetta er í rauninni risastórt fyrir stéttina og þeir sem starfa eftir skilja út á hvað málið gengur.“
Með samningnum koma flugfreyjur til móts kröfur Icelandair og taka m.a. á sig aukið vinnuframlag, líkt og fram kom í máli Boga Nils Bogasonar forstjóra í samtali við fréttastofu nú fyrir hádegi.
„Það er aukið vinnuframlag og eftirgjafir á ýmsum atriðum,“ segir Guðlaug. Hún kveðst ekki ætla að ræða einstök atriði samningsins nánar fyrr en búið er að kynna hann fyrir félagsmönnum. Kynningarfundir þess efnis verða haldnir á morgun og svo gerir Guðlaug ráð fyrir að niðurstaða úr atkvæðagreiðslu liggi fyrir í lok næstu viku. Þá segir hún viðtökurnar við fregnum næturinnar meðal félagsmanna hafa verið góðar.
„Miðað við þær kveðjur sem okkur hafa borist í morgun þá veit ég, og fullyrði, að hópurinn er þakklátur fyrir að við séum með undirritaðan samning og svo bara þarf tíminn að leiða það í ljós hvað hver og einn velur sér að gera. En ég hef trú á því að við séum búin að ná fram því sem hægt var að ná fram og félagsmenn okkar meta það.“ |
Korkur: spunaspil
Titill: Er að selja D&D bækur
Höf.: Vayyitzer
Dags.: 10. júní 2008 13:00:46
Skoðað: 455
Þessar bækur eru til sölu sem ein heild, verðhugmynd sirka 50þús. þær eru allar í mjög góðu ásigkomulagi.
Er alltaf í síma 8919269
Magnús Þór Guðmundsson
Complete Warrior
Complete Adventurer
Complete Arcane
Complete Divine
Races of Stone
Races of the Wild
Savage Species
Book of Exhalted Deeds
Book of Vile Darkness
Deities and Demigods
Manual of the Planes
Hordes of the Abyss
Fiend Folio
Monster Manual II
Draconomicon
Epic Level Handbook
Weapons of Legacy
Arms and Equipment Guide
Planar Handbook
Ghostwalk
Forgotten Realms Bækur:
Serpent Kingdoms
Unapprochable East
Power of Faerun
Champions of Valor
City of Splendors – Waterdeep
Lords of Darkness
Silver Marches
Underdark
Faiths and Pantheons
Player’s Guide to Faerun
Shining South
Forgotten Realms Campaign Setting
Monsters of Faerun
Magic of Faerun
Lost Empires of Faerun
Races of Faerun
Bætt við 12. júní 2008 - 21:47
Þessar bækur eru þegar seldar:
Book of Exhalted Deeds
Book of Vile Darkness
Draconomicon
Arms and Equipment Guide
Hordes of the Abyss
Bækurnar seljast á 1400 stakar, endilega ef þið hafið áhuga hringið í númerið sem ég gef upp hérna að ofan, ég kemst ekki oft hingað inn og get þar með ekki lofað skjótum svörum við fyrirspurnum hér. Ég skal aftur á móti uppfæra þetta eins oft og ég get til að þið hafið uppfærðann lista yfir bækurnar sem eru eftir.
---
Svör
---
Höf.: Swooper
Dags.: 12. júní 2008 14:48:35
Atkvæði: 0
4th Edition: Bringing down the price of
real
D&D since last Friday. :p
---
Höf.: Vayyitzer
Dags.: 12. júní 2008 14:51:12
Atkvæði: 0
Hehehe, hafðu engar áhyggjur ég er með backup plan, ef það er djöfuls crap þá hélt ég eftir players handbook, monster manual, dm guide og psyonics handbook. Þannig að ég brendi ekki allar brýr.
Bætt við 12. júní 2008 - 14:57
Ég á líka þrenn ævintýri sem er alltaf gaman að grípa í af og til, The Witchfire trilogy, the temple of elemental evil og síðan the world largest dungeon. þannig að ég er alveg vel settur ennþá.
---
Höf.: Swooper
Dags.: 12. júní 2008 14:52:49
Atkvæði: 0
Tók einmitt eftir því að core-ið vantaði :p Hefði tekið MM1 líka annars, hef aldrei átt 3.5 útgáfuna af henni.
---
Höf.: Vayyitzer
Dags.: 12. júní 2008 14:54:56
Atkvæði: 0
Ef þú villt þá get ég alveg hent henni með, það eiga hana svo margir í vinahópnum að ég ætti að höndla hluti þó hana vantaði?
---
Höf.: Swooper
Dags.: 12. júní 2008 15:00:26
Atkvæði: 0
Kúl, ég er til.
(Svo fer Nexus pottþétt að losa sig við 3.5 bækur á undir 1400 kall stykkið eftir nokkra daga >_< )
---
Höf.: Vayyitzer
Dags.: 12. júní 2008 15:04:26
Atkvæði: 0
Hehe yub, ég fór þangað um daginn og fékk að hengja upp auglýsingu, þá var gaurinn sem var að afgreiða voðalega mikið eitthvað að reina að draga úr þessu hjá mér, var eitthvað að röfla um að það væri alveg spurning hver færi að kaupa þetta fyrst að nýja væri að koma og dæmi.. Öruglega bara af því að þeir eru að fara að losa sig við sitt.
---
Höf.: Vayyitzer
Dags.: 12. júní 2008 15:11:23
Atkvæði: 0
En bara spurning, afhverju hefur þú aldrei spilað í FR eða örðum svoleiðis heimum? Er bara forvitinn af því að ég datt sjálfur alveg inn í það og hef verið fastur þar í mörg ár, það er fyrst núna sem ég er að ná að slíta mig frá því. Mér hefur alltaf fundist svo skemtilegar sögurnar í því og skemtilegustu bækur af þessu öllu fynst mér vera magic of fairun og faiths and phanteons (tek það samt fram að það er alls ekki tengt stötunum á guðunum sem mér finst fáránlegt, það er hvort sem er ómögulegt að drepa helvítin)
---
|
Biðlistar koma til með að lengjast enn frekar og deildum þarf að loka vegna uppsagna lækna við bæklunarskurðdeild Landspítalans, segir umsjónardeildarlæknir skurðsviðs spítalans. Hann segir að óánægja og gremja fari vaxandi á meðal lækna spítalans vegna mikils álags.
Allir deildarlæknar á bæklunarskurðdeild Landspítalans hafa sagt upp störfum á síðustu mánuðum. Hjörtur Brynjólfsson, umsjónardeildarlæknir skurðsviðs Landspítalans í Fossvogi segir að við blasi að í mars verði einungis aðstoðarlæknir og læknanemi að störfum á deildinni, en skipulagið geri ráð fyrir sex almennum læknum auk læknakandidats. Hann segir að gríðarlegt álag hafi verið á deildinni vegna þess hversu undirmönnuð hún sé, menn hafi að lokum einfaldlega gefist upp og sagt upp störfum.
Hjörtur segir að afleiðingarnar verði líklega þær að göngudeild verði lögð af og að loka þurfi annarri deildinni, en til sviðsins teljast bæklunarskurðdeild og tauga- og heilaskurðdeild. Biðlistar muni lengjast og það verði mun meira álag á þau úrræði sem séu til staðar og það sé hætt við að það komi niður á sjúklingum.
Hjörtur segir að vegna álags leiti menn frekar í störf hjá heilsugæslunni úti á landi eða fari til útlanda. Þá sé einnig mikil óánægja með kjör lækna, en þar sé svarið að það sé einfaldlega ekki til peningur í pyngjunni. Læknar séu mjög óánægðir með kjörin eins þau séu núna og hafi í raun rýrnað á undanförnum árum, miðað við allar aðrar stéttir.
Hjörtur segist ekki sjá fyrir sér að staðan lagist neitt á næstunni og svipað vandamál blasi við á fleiri deildum.„ Ég veit af mikilli óánægju innan margra sviða innan spítalans, en þá sérstaklega hvað varðar lyflæknissvið þar sem hefur verið mjög mikið álag,“ segir Hjörtur. |
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hittust á fundi í Hvíta húsinu í dag þar sem þeir lögðu áherslu á traust samband þjóðanna tveggja. Venju samkvæmt fengu fjölmiðlar að mynda þá tvo á skrifstofu forsetans þar sem þeir tókust í hendur - í nítján sekúndur.
Fjölmiðlar vestanhafs hafa gert sér töluverðan mat úr þessu og ekki síður viðbrögðum Abe sem virðist ranghvolfa í sér augunum eftir þetta uppátæki Trumps. „Ert með sterkar hendur,“ heyrist Bandaríkjaforseti segja um leið og hann kveður fjölmiðlanna.
People are laughing over the Japanese Prime Ministers face after a “weird" handshake with Trump https://t.co/ETuxbJLlkb pic.twitter.com/6wPfTjQJYZ
- BuzzFeed (@BuzzFeed) February 10, 2017
So, Trump's handshake with the Japanese PM got pretty weird https://t.co/Z6xptNQjco pic.twitter.com/CZqPJ9cyc2
- Huffington Post (@HuffingtonPost) February 10, 2017
Á vef Politico segir að þetta hafi ekki verið eina vandræðalega uppákoman í heimsókn Abe. Trump hafi til að mynda tekið á móti japanska forsætisráðherranum í anddyri Vesturálfunnar. Þar hafi þeir faðmað hvorn annan, síðan tekist í hendur og síðan faðmast aftur. „Það virtist koma svolítið á óvart því Trump virtist óundirbúin fyrir seinna faðmlagið,“ skrifar Politco.
Trump sagði aftur á móti að þetta hefði verið til marks um vináttu þeirra tveggja. „Við tókumst fyrst í hendur og féllumst síðan í faðma af því að okkur leið þannig.“ Gert er ráð fyrir að Abe og Trump leiki saman golf um helgina á einum af völlum Trumps. |
Danir voru sigursælir á badmintonkeppni Reykjavíkurleikanna um helgina en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og gefur stig á heimslista. Rúmlega 100 erlendir gestir tóku þátt frá 24 löndum og hafa aldrei verið fleiri í 18 ára sögu mótsins
Lengst Íslendinga komust þau Daníel Thomsen og Margrét Jóhannsdóttir en þau féllu úr keppni í átta liða úrslitum eftir harða baráttu við skoskt par.
Milan Ludik frá Tékklandi sigraði í einliðaleik karla. Hann spilaði gegn Matthias Almer Austurríki í úrslitum og fór leikurinn 21/9 og 21/19. Ludik var einnig með í fyrra en féll þá út í undanúrslitum. Í samtali eftir leik sagðist hann vonast til að vinna landsmót Tékka um næstu helgi en heldur svo áfram að ferðast um Evrópu til að safna stigum til að komast á Ólympíuleikana 2016 eins og svo margir aðrir þátttakendur á mótinu um helgina.
Mette Poulsen frá Danmörku sigraði Nanna Vainio frá Finnlandi í úrslitaleik í einliðaleik kvenna. Búist var við mjög jöfnum leik en Mette mætti mun ákveðnari til leiks og vann með miklum yfirburðum 21-11 og 21-9. Í undanúrslitum lagði hún silfurverðlaunahafann frá því í fyrra, Akvile Stapusaityte frá Litháen.
Martin Campbell og Patrick Machough frá Skotlandi unnu Frederik Aalestrup og Kasper Dinesen frá Danmörku í úrslitum í tvíliðaleik karla. Skotarnir finna sig greinilega vel hér á landi því þeir unnu einnig árið 2014 og fengu silfurverðlaun árið 2012.
Í úrslitum í tvíliðaleik kvenna mættust tvö dönsk pör, Lena Grebak og Maria Helsbol annarsvegar og Emilie Juul Moller og Cecille Sentow hinsvegar. Þær fyrrnefndu sigruðu samlöndur sínar örugglega 21-13 og 21-12. Athygli vakti hvað dönsku tvíliðaleikspör kvenna stóðu sig vel en öll pörin í bæði undanúrslitum og úrslitum voru dönsk.
Úrslitin í tvenndarleik voru einnig dönsk en þar mættust Nicklas Mathiasen og Cecilie Bjergen þeim Lasse Moelhede og Trine Villadsen. Nicklas og Cecilie sigruðu nokkuð örugglega 21-11 og 21-15 en þau voru í öðru sæti á mótinu í fyrra.
Á YouTube rás Badmintonsambands Íslands má finna viðtöl og klippur úr leikjum allra sigurvegara mótsins ásamt fleiru áhugaverðu efni. |
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hyggst leggja fram frumvarp á þessu þingi um að bannað verði að spila happdrætti á netinu. Samhliða því verður komið á fót happdrættisstofu sem á að hafa eftirlit með starfsemi happdrættanna.
Þetta kom fram á opnum nefndarfundi í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem innanríkisráðherra fór yfir þau mál sem hann hyggst leggja fyrir þingið í vetur. Eitt frumvarpið er ný lög um happdrætti.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra: Þar er verið að leggja til að sett verði á laggirnar happdrættisstofa sem fylgist með þessum stóriðnaði sem hér er sem eru happdrættismálin, auk þess sem að í bígerð er lög um bann við spilun á netinu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, hnaut um þessa stofnun.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks: Er það ný stofnun? Og eru menn þá að setja fjármagn og forgangsraða í ráðuneytinu sem að er algjörlega vanbúið varðandi fjárframlög til lögreglunnar og ætla menn þá að forgangsraða til happdrættisstofu umfram lögreglunnar?
Ögmundur svaraði því til að happdrættisstofan leysti af hólmi nefndir sem væru starfandi innan ráðuneytisins og gert væri ráð fyrir því að stofnunin væri fjármögnuð með framlagi frá fyrirtækjunum sem stundi happdrættisstarfsemi. Þetta sé byggt á lögum frá Noregi.
Ögmundur Jónasson: Við erum að reyna að gera þetta í góðu samstarfi við happdrættis- og spilafélögin, við erum að reyna að gera það. Þetta er ekki þvert á þeirra vilja, alls ekki.
En fleiri þingmenn en Þorgerður Katrín lýstu yfir áhyggjum af löggæslunni. Ögmundur hyggst aftur leggja fram tillögu um fækkun lögregluumdæma úr 24 niður í 8 og að það taki gildi árið 2015. Gagnrýnt var meðal annars að ekkert lægi fyrir um hverju það skilaði, hvorki í þjónustu né kostnaði. |
Noregur lagði Frakkland í úrslitaleik Evrópumótsins í handbolta í Danmörku. Eftir spennandi leik vann Noregur 22-20 og er Evrópumeistari kvenna í áttunda sinn.
Það gaf góð fyrirheit fyrir leikinn að Noregur og Frakkland eru bæði bestur varnar- og sóknarlið EM í ár. Þjóðirnar mættust í sjötta sinn á EM í handbolta í dag en í fyrsta sinn í úrslitarimmunni, þrátt fyrir að annað hvort liðanna hafi spilað 12 af 14 úrslitaleikjum sögunnar á EM.
Síðast þegar liðin mættust á stórmóti var það í úrslitaleik HM 2017 þar sem Frakkar höfðu betur og þær frönsku byrjuðu betur í dag. Norðmenn gerðu mörg mistök í upphafi leiks og Frakkar nýtt það til að komast í 4-2. Þá vaknaði norska liðið hins vegar. Silje Solberg varði allt hvað af tók í markinu og sóknin hrökk í gang. Noregur skoraði fimm mörk í röð og sneri leiknum. Mest voru þær fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik en fjórum mörkum munaði í leikhléi, 14-10.
Frakkar hertu svo heldur betur á vörn sinni í seinni hálfleik. Cleopatre Darleux kom í mark þeirra og lokaði markinu. Noregur skoraði aðeins 3 mörk á fyrstu 20 mínútum seinni hálfleiks og Frakkar náðu að jafna metin í 17-17 og komust svo yfir skömmu fyrir leikslok, 19-18. Norðmenn áttu hins vegar meira á tankinum í lokin og sigldu sigrinum í hús, 22-20.
Noregur er því Evrópumeistari í áttunda sinn en í fyrsta sinn síðan 2016. Þórir Hergeirsson stýrði norska liðinu til Evrópumeistaratitils í fjórða sinn og er þetta sjöunda stórmótið sem leiðir Noregs til sigurs á. |
Landspítali – háskólasjúkrahús er einn stærsti vinnustaður á Íslandi með yfir 4.600 starfsmenn. Stór hluti starfsmanna er sérfræðimenntaður hvort sem um er að ræða lækna, hjúkrunarfræðinga, lífeindafræðinga, líffræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfara, sálfræðinga, félagsfræðinga, eðlisfræðinga eða verkfræðinga. Landspítalinn er jafnframt ein stærsta mennta- og vísindastofnun landsins með yfir 1.300 nemendur, þar af marga í rannsóknartengdu framhaldsnámi.
Spítalinn er því órjúfanlegur þáttur í háskóla- og þekkingarsamfélaginu og framlag hans er stór þáttur í styrk Háskóla Íslands á alþjóðavettvangi. Á undaförnum árum hafa tengsl spítalans við Háskólann í Reykjavík og aðrar rannsóknastofnanir einnig eflst mikið. Nærtæk dæmi er öflugt samstarf Landspítalans við Hjartavernd og Íslenska erfðagreiningu. Það er hins vegar engum vafa undirorpið að spítalinn er fyrst og fremst sjúkrahús fyrir alla landsmenn.
Almenningur reiðir sig á sérfræðiþekkingu starfsmanna og þá aðstöðu sem spítalinn býr yfir. Þetta er svo sem ekki ný vitneskja þar sem óteljandi hetjudáðir eru unnar innan spítalans sem margir þekkja af eigin raun eða gegnum ættingja.
Til að viðhalda og auka færni sérfræðinga hvort sem er í tengslum við greiningu, meðhöndlun eða lækningu sjúkdóma þá er nauðsynlegt að stunda rannsóknir og þekkingarsköpun. Margir sérfræðingar sem ráða sig til starfa á háskólasjúkrahúsi gera það vegna væntinga um að geta stundað rannsóknir samhliða klínískum störfum sínum. Þær framfarir sem orðið hafa í meðferð sjúkdóma eiga oftar en ekki uppruna sinn í samstarfi grunnvísindamanna og klínískra sérfræðinga.
Staðreyndin er sú að fólk lifir almennt mun lengur í dag en fyrir nokkrum áratugum vegna árangurs í rannsóknum og flutnings á þeirri þekkingu sem verður til yfir í klínísk störf og meðferðir á sjúklingum.
Öflugt þekkingarfyrirtæki
Í allri umfjöllun um spítalann þessi misserin er lítið rætt hversu öflugt þekkingarfyrirtæki spítalinn er. Það liggur í eðli allra háskólasjúkrahúsa að þar fari fram grunnrannsóknir og nýsköpun og er Landspítalinn engin undantekning þar á.
Á spítalanum eru stundaðar fjölbreytilegar rannsóknir, grunnrannsóknir á sjúkdómum, faralds- og lýðheilsurannsóknir og klínískar rannsóknir. Jafnframt er öflugur jarðvegur í hugbúnaðar- og tækniþróun sem skapar þekkingu sem nýtist innan sem utan spítalans. Sum þessara rannsóknaverkefna eru þess eðlis að það verða til einkaleyfi og sprotafyrirtæki sem efla atvinnu og stuðla þannig að auknum hagvexti í þjóðfélaginu.
Það er því nauðsynlegt að minna á að þegar Landspítalinn lætur á sjá eins og raun ber vitni og klínísk starfsemi hans molnar niður vegna ófullnægjandi húsakosts, tækjakosts og lágra launa þá er einnig önnur birtingarmynd – þekking- og nýsköpun – sem grotnar niður. Þetta mun leiða til fjárhagslegs- og þekkingarlegs taps.
Það tekur langan tíma að byggja upp þekkingu og nýsköpun en að sama skapi tekur það skamman tíma að brjóta það niður með óafturkræfum afleiðingum fyrir samfélagið innan sem utan spítalans. |
Stjórn Existu ætlar að freista þess að rifta tilteknum gjörningum sem fyrrverandi eigendur og stjórnendur félagsins framkvæmdu. Ágúst og Lýður Guðmundssynir, fyrrverandi aðaleigendur Existu, munu ekki eiga neitt í félaginu í framtíðinni.
Í byrjun mars samþykkti meirihluti kröfuhafa Bakkavarar nauðasamninga félagsins og voru einungis 2% þeirra á móti. Hefðu nauðasamningar verið felldir hefði móðurfélag Bakkavarar farið í þrot og lán til rekstrarfélaga erlendis verið gjaldfelld. Við það hefði Bakkavararveldið hrunið og ekkert fengist upp í skuldir sem nema rúmum 60 milljörðum króna. Þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir hættu svo í stjórn Existu á framhaldsaðalfundi félagsins sem haldinn var í lok apríl. Forstjórar félagsins létu einnig af störfum. Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að kröfuhafar muni fá á bilinu 7% til rúmlega 50% krafna sinna greiddar á næstu 10-20 árum og að 10% krafna verði breytt í verðlaust hlutafé verði nauðasamningur samþykktur. Helstur kröfuhafar eru lífeyrissjóðir, ásamt skilanefndum Glitnis og Kaupþings, Íslandsbanka, Arion-banka, Landsbankanum, MP banka og sparisjóðunum. Í trúnaðargögnum Viðskiptablaðsins kemur einnig fram að þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, fyrrverandi aðaleigendur félagsins munu ekki eiga neitt í félaginu í framtíðinni. Exista á 100% hlut í Skiptum, móðurfélagi Símans, Lýsingu, VÍS og Lífís. Í gögnunum kemur fram að Skipti og Lýsing séu verulega skuldsett og því lítið verðmæti fólgið í hlutafé þeirra sem stendur. Búist er við að afstaða kröfuhafa gagnvart nauðasamningsfrumvarpinu muni liggja fyrir á allra næstu dögum. |
Tæplega níu hundruð þúsund krónum í peningum var stolið í síðustu viku úr Samkaupum í Búðardal. Engar upplýsingar hafa fengist frá lögreglu um þjófnaðinn. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hurfu peningarnir úr Samkaupum á tímabilinu frá því eftir lokun seint á sunnudagskvöld þar til verslunin var opnuð að morgni mánudags. Sérstakt er við málið að ekki virðist hafa verið brotist inn heldur hafi þjófurinn einfaldlega hleypt sér inn með lykli.
Mikill þagnarhjúpur umlykur málavexti enn sem komið er. Rannsóknardeild lögreglunnar á Akranesi fer með rannsókn málsins en ekki fékkst viðtal við liðsmenn deildarinnar í gærkvöldi. Almennir lögreglumenn sem rætt var við sögðust ekkert geta sagt um framgang rannsóknarinnar. Starfsmaður Samkaupa í Búðardal sagðist sömuleiðis ekkert hafa um málið að segja og vísaði á aðalskrifstofu fyrirtækisins í Reykjanesbæ.
„Það er svo margt einkennilegt við þetta. Þess vegna viljum við að lögreglan fái frið til að vinna í málinu,“ segir Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa, sem aðspurður játar að um algerlega einstakt mál sé að ræða í sögu Samkaupa.
Þar sem svo virðist sem þjófurinn hafi einfaldlega haft lykil að versluninni beinist grunur að þeim sem þar hafa lyklavöld. Málið er því sérstaklega viðkvæmt í svo litlum bæ eins og Búðardalur er. „Allt svona er leiðinlegt í fámenni,“ segir Ómar en bendir um leið á að ekki sé vitað hver þjófurinn sé. „Samgöngur eru góðar og það er mikið af fólki á ferðinni á þjóðvegum þannig að það er ekkert hægt að fullyrða í þessu.“
Ómar segir að peningarnir sem stolið var hafi verið sala helgarinnar. Féð hafi verið geymt í læstu peningahólfi. „Þar sem aðstaða er til, eins og á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, er náttúrulega verið að nota öryggisþjónustu til peningaflutninga. Á minni stöðum úti á landi er ekki boðið upp á slíkt,“ segir Ómar sem vill ekki svara því hvort peningaþjófurinn hafi sést í eftirlitsmyndavélunum sem eru á staðnum.
„Lögreglan er að rannsaka málið og það er best að segja sem minnst á meðan,“ ítrekar hann og útskýrir að ekki sé ástæða til að fjalla um málið í fjölmiðlum á meðan ekki sé vitað hvað gerðist. „Það er spurning hverju það skilar til bæjarbúa á meðan við vitum ekki meira. Þetta er bara ákveðin varkárni hjá okkur.“
[email protected] |
Rennisléttar skellur í nýlögðu malbiki geta reynst mótorhjólamönnum stórhættulegar. Njáll Gunnlaugsson, ökukennari og formaður Sniglanna, segist fá hland fyrir hjartað þegar hann ekur yfir skemmdirnar. Ástandið er líklega verst á Hafnarfjarðarveginum undir Hamraborg í Kópavogi. Vegagerðin ætlar að bregðast við vandanum þar á næstu dögum.
Það hefur mikið borið á malbikunartækjum á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Miklum fjármunum hefur verið varið til malbikunar og viðhalds, sér í lagi á stofnbrautum. Nokkuð hefur borið á skemmdum í nýlögðu malbikinu, löngum sléttum köflum, sem geta verið mjög varasamir, sérstaklega fyrir ökumenn mótorhjóla. „Við sjáum þetta víða í sumar, þetta er til dæmis við Sæbrautina við Súðavog, Miklubrautinni nálægt Grensás og hérna í gilinu hérna fyrir aftan okkur til að nefna nokkra staði, allt svona staðir sem eru skeinuhættir fyrir bifhjólafólk, bremsukaflar við umferðarljós og hérna á áttatíu svæði þannig að okkur líst illa á þetta,“ segir Njáll.
Vegagerðin hefur sett upp viðvörunarskilti við Hamraborg í Kópavogi þar sem þessar skemmdir eru mjög áberandi. Fyrir tveimur árum var gripið til þess að fræsa ofan af nýlögðu malbiki suður Hafnarfjarðarveginn vegna skemmda eins og þessara. Njáll segir þetta slæma meðferð á fjármunum skattborgara og geti reynst stórhættulegt. „Ég skal bara segja það sem reyndur bifhjólamaður, maður fær hland fyrir hjartað þegar maður sér þetta birtast fyrir framan sig. Þetta er náttúrulega bara slétt yfirborð, eins og spegill og veitir náttúrulega miklu minna veggrip og það er það sem við erum hrædd við.“
Birkir Hrafn Jóakimsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, segir að þetta sé mikil nákvæmnisvinna og ýmislegt geti farið úrskeiðis. „Þetta er svona fín lína sem er verið að dansa til að auka slit og viðnám gegn þungri umferð. Þarna sérstaklega í Kópavogsgjánni hefur þetta farið aðeins yfir og þar af leiðandi pumpast bikið upp en veldur því að við erum frekar þar, öruggu megin í bikmagninu til að fá ekki brotholur og steinlos og þess háttar en þetta er bagalegt fyrir, eins og þú sagðir hjólreiðamenn og bifhjólamenn,“ segir Birkir.
Birkir segir að þetta geti verið mjög hættulegt bæði ökumönnum bíla og bifhjóla. „Í Kópavoginum höfum við sett upp skilti til að vara við þessu og stefnan er að gera eitthvað í þessu fyrir eða eftir helgi,“ þá verði líklega fræst þunnt lag af efsta lagi malbiksins. |
Heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) námu rúmum 1,6 milljarði króna í febrúar . Þar af voru tæplega 1,4 milljarðar króna vegna almennra lána og um 250 milljónir vegna annarra lána. Heildarútlán sjóðsins lækkuðu því um 24% á milli mánaða. Meðalútlán almennra lána voru um 9 milljónir króna í febrúar sem er tæplega 22% hækkun frá fyrra mánuði.
Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu ÍLS fyrir febrúar. Þar segir að þann 22. febrúar hélt Íbúðalánasjóður fyrsta útboð íbúðabréfa á árinu 2010.
Í kjölfar útboðsins lækkuðu útlánavextir sjóðsins um 0,05% og tók vaxtabreytingin gildi þann 23. febrúar. Útlánavextir íbúðalána eftir vaxtabreytinguna eru því 4,50% með uppgreiðsluákvæði og 5,00% án uppgreiðsluákvæðis.
Stjórn Íbúðalánasjóðs lagði til við félags-og tryggingamálaráðherra að vaxtaálag sjóðsins yrði hækkað um 0,20% og féllst ráðherra á þá tillögu. Við breytinguna verður vaxtaálag vegna rekstrar 0,30%, vegna útlánaáhættu 0,35% og vegna uppgreiðsluáhættu 0,50%.
Heildarvelta íbúðabréfa nam rúmum 56 milljörðum króna í febrúar samanborið við tæpan 81 milljarð í sama mánuði á árinu 2009. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkaði nokkuð í febrúar eða um 17 -24 punkta eftir flokkum.
Þann 1. febrúar barst tilkynning frá Íbúðalánasjóði til Kauphallar þess efnis að matsfyrirtækið Standard & Poor's hefði greint frá því þann 29. janúar að það hefði haldið lánshæfismati Íbúðalánasjóðs áfram á athugunarlista með neikvæðum vísbendingum. Er það gert í samræmi við lánshæfismat ríkissjóðs Íslands.
Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu tæpum 8,7 milljörðum króna í febrúar og voru afborganir að mestum hluta vegna íbúðabréfa. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í febrúar námu ríflega 900 milljónum króna. |
Verð á hótelgistingu gæti lækkað á næstunni þar sem herbergjum mun fjölga talsvert á næstu árum á sama tíma og ferðamönnum fækkar og nýting mun dragast saman. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Íslandsbanka á ferðaþjónustunni. Greining Íslandsbanka gaf í morgun út úttekt á ferðaþjónustu á Íslandi en í henni eru dregnar saman rekstrarniðurstöður ársins 2017. Elvar Orri Hreinsson sem vann greininguna, bendir á að þá hafi fyrst hægt á fjölgun ferðamanna í núverandi uppsveiflu og tekjuvexti greinarinnar. Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka: Og því hefur svona virðist vera ekki hafa verið mætt nægjanlega vel með kostnaðarhagræðingu innan greinarinnar og niðurstaðan því svona versnandi rekstrarniðurstöður þvert yfir sviðið. Samkvæmt skýrslunni er mikið um ósjálfbæran rekstur í greininni þar sem tæplega helmingur fyrirtækja skilar tapi. Hlutfallið er hæst hjá minni fyrirtækjum á landsbyggðinni. Elvar Orri Hreinson: Þar eru þá tækifærin og svigrúmið meira til þess að ráðast í hagræðingaraðgerðir, sameiningar á fyrirtækjum með það fyrir augum að ná fram auknu hagræði og draga þannig úr fjölda þessara fyrirtækja sem að eru í ósjálfbærum taprekstri. Greining Íslandsbanka áætlar að um 1.300 ný hótelherbergi verði til á næstu þremur árum. Áætluð fjárfesting vegna þessa nemur um 61 milljarð króna. Ferðamönnum er hins vegar að fækka og gerir farþegaspá Isavia t.d. ráð fyrir 9% samdrætti á árinu. Talið er að þetta gæti leitt til lakari nýtingar og lægra verðs. Verð á hótelherbergjum hefur verið það hæsta á alþjóðavísu hér á landi og hefur til að mynda hækkað um 60% frá árinu 2011 á meðan það stóð í stað hjá hótelum innan Evrópu að meðaltali. Elvar Orri Hreinson: Þetta ætti náttúrulega að óbreyttu að leiða til þess að hótelin horfi til þess að lækka verð til þess að þá halda nýtingunni á viðunandi stað. |
Boeing 737 Max þotur Icelandair hafa reynst sparneytnari og langdrægari en upphaflegir útreikningar gerðu ráð fyrir. Þetta þýðir að tegundin nýtist til fjarlægari áfangastaða, eins og Seattle, og um leið minnkar þörfin á að kaupa langdrægari Airbus þotur.
Þegar stjórn Icelandair ákvað árið 2012 að endurnýja flugflotann með 737 Max-þotum voru enn fjögur ár í fyrsta flug vélarinnar en fyrir lágu útreikningar um að þær yrðu 23 prósent sparneytnari en Boeing 757 þoturnar. Núna þegar reynsla er komin á rekstur þeirra sér flugrekstrarstjórinn að vélarnar eru mun hagkvæmari.
„Reyndin er sú að þær eru 27 prósent hagkvæmari hvað varðar eldsneyti, sem er klárlega mjög ánægjulegt fyrir fyrirtækið,“ segir Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
Hann segir fjögur prósent skipta miklu máli, fyrir bæði eldsneytiskostnað og kolefnisspor.
„Eldsneytisreikningur fyrirtækisins í fullum rekstri, eins og það var 2019, telur tugi milljarða á ársgrundvelli. Ég held að það hafi verið í kringum tuttugu milljarðar, ef ég man rétt.“
Þessi fjögur prósent þýða jafnframt að flugvélin er fjórum prósentum langdrægari og nýtist þar með á fleiri áfangastaði félagsins eins og Orlando og Seattle en aðeins Portland er fjarlægari.
„Við höfum reiknað Maxinn inn þannig að hann geti flogið á Orlando. Ég hugsa að við komum nú ekki til með að nota hann samt sem áður á Orlando þar sem flutningar eru yfirleitt talsvert miklir á þeirri leið.
En til dæmis Seattle. Við ætluðum ekki að nota Maxinn á Seattle. En sjáum fram á að hann kemur til með að þjónusta þeirri leið mjög vel,“ segir Haukur.
Fyrir covid-kreppuna var Icelandair alvarlega að skoða kaup á langdrægari Airbus A321 þotum sem forstjóri Icelandair sagði fyrir tveimur árum að væru bestar til að leysa 757-vélarnar af hólmi. Með nýjar upplýsingar um getu Maxanna er orðið minna aðkallandi að endurnýja flotann með nýrri tegund.
„Við sáum það út, þegar við skoðuðum þetta á sínum tíma, að Maxinn væri betri kostur. Og ég held að hann sé að sýna það í rauninni. Og hvort að við förum í ákvörðunartöku á næstu tveimur til þremur árum varðandi frekari endurnýjun á flotanum, það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það,“ segir flugrekstrarstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: |
Íslendingum fjölgaði meira en ferðamönnum á gististöðum landsins í fyrsta sinn frá 2010. 4,5 gistinætur í heildina.
Gistinóttum Íslendinga á hótelum hér á landi fjölgaði mun meira á síðasta ári en erlendra ferðamanna, sem er í fyrsta sinn síðan árið 2010 sem ferðamönnunum fjölgaði ekki meira að því er segir í nýrri Hagsjá Landsbankans.
Á því ári fækkaði reyndar gistinóttum erlendra ferðamanna um 1,9% en um 1,4% fækkun varð á gistinóttum Íslendinga. Á síðasta ári nam fjöldi gistinátta á hótelum hér á landi tæplega 4,5 milljónum, og jókst fjöldinn um 4,6% milli ára.
Fjöldi gistinátta útlendinga nam rúmlega 4 milljónum og jókst hann um 3,8% milli ára. Gistinætur Íslendinga námu 456 þúsund og fjölgaði um 11,8% milli ára, og er vægi Íslendinga í heildargistifjöldanum nú yfir tíunda hluta á ný, eftir lækkun síðustu ára.
Hlutfall Íslendinga í heildargistináttafjöldanum var í kringum fjórðungur á árunum fyrir síðustu aldamót en hefur almennt séð leitað niður á við síðan.
Þróunin mismunandi
Eins og gefur að skilja var þróun gistinátta, bæði innlendra og erlendra gesta, mjög mismunandi eftir landsvæðum á síðasta ári. Mest var aukningin á Vesturlandi og Vestfjörðum, eða 29,2%. Næstmesta aukningin var á Suðurlandi, 15,5%, en þar fjölgaði gistináttunum um 120 þúsund sem er 61% af heildarfjölgun gistinátta yfir landið í heild.
Mesti samdrátturinn var á Austurlandi, 5,4%, en einnig mældist lítilsháttar samdráttur á höfuðborgarsvæðinu, -0,2%. Þetta var fyrsta árið síðan 2010 sem samdráttur mældist á þessum tveimur svæðum.
Kýpverjum fjölgaði mest
Ef fjölgun gistinátta er skoðuð eftir þjóðernum sést að af 47 þjóðum sem skoðaðar eru fjölgaði þeim frá 32 þeirra, en fækkaði frá 15. Mest fjölgun var frá Kýpur, eða 67% á milli ára, næst mest frá Lúxemborg, eða um tæp 50%.
Þessar og aðrar þjóðir sem fjölgaði mikið vega þó mjög lítið í heildarfjöldanum, ef frá eru taldir Bandaríkjamenn, en þeim fjölgaði um 20,5% og stóðu þeir undir 1,1 milljón gistinátta á síðasta ári hér á landi, sem er 26,3% allra gistináttanna.
Gistinóttum Kínverja fjölgaði svo um 37,2% milli ára og námu rúmlega 202 þúsund, sem er 4,7% af heildarfjöldanum. Á sama tíma fjölgaði þó komum þeirra hingað einungis um 4,1% svo fjöldi gistinátta á hvern hefur aukist töluvert.
Herbergjanýtingin minnkaði þar sem hún er best
Meðalherbergjanýting minnkaði yfir landið í heild, eða úr 72,2% í 69,2%, en hún batnaði alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi, þar sem hún er best og næstbest. Fór hún annars vegar úr 84,4% niður í 79,4% og hins vegar úr 65,7% niður í 64%.
Nýtingin batnaði hins vegar mest á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem tekin eru saman, eða úr 48,9% í 52%, en næstmesti batinn var á Austfjörðum, úr 37,7% í 40%.
Þegar Vestfirðir eru flokkaðir frá Vesturlandi sést, eins og gefur að skilja að árstíðasveiflan á Vestfjörðum er mun meiri en á Vesturlandi, þannig eru að meðaltali 8 sinnum fleiri gistinætur á Vestfjörðum yfir sumarmánuðina en aðra mánuði, en þrisvar sinnum fleiri á sama tíma á Vesturlandi miðað við aðra mánuði. |
Það var skemmtileg stemning í hinu árlega hófi Íþróttasambands fatlaðra þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir góðan árangur á árinu.
Byrjað var á því að veita Hvataverðlaun ÍF og þau hlaut að þessu sinni Helga Olsen, kennari og skautaþjálfari. Hún byrjaði að vinna með Íþróttasambandi fatlaðra árið 2005 er hún tók að sér þjálfun keppenda í listhlaupi á skautum fyrir alþjóðaleika Special Olympics í Japan.
Hún hefur leitt skautastarf fyrir fatlaða á Íslandi og starfar nú hjá skautadeild Aspar. Í gegnum skautastarfið hafa fjölmargir Íslendingar fengið tækifæri til þátttöku á mótum bæði innanlands sem og erlendis.
Jón Margeir fékk skjöldinn
Afreksskjöld ÍF fékk síðan sundkappinn Jón Margeir Sverrisson. Skjöldinn fær Jón Margeir fyrir sitt framlag til íþrótta fatlaðra en hann hætti eftir Ólympíumótið í Ríó og ætlar að snúa sér að annarri íþróttaiðkun.
Jón Margeir átti glæsilegan feril í lauginni en hápunkturinn kom klárlega á Ólympíumótinu í London árið 2012. Þá vann Jón Margeir til gullverðlauna og setti heimsmet í 200 metra skriðsundi í flokki S14 sem er flokkur þroskahamlaðra.
Sonja best hjá konunum
Íþróttakona ársins er sundkonan Sonja Sigurðardóttir en hún var að hljóta nafnbótina í þriðja sinn á ferlinum. Hún var einnig íþróttakona ársins árin 2008 og 2009.
Sonja setti Íslandsmet í 50 metra baksundi á Ólympíumóti fatlaðra í Ríó. Þar komst hún í úrslit og hafnaði í áttunda sæti. Sonja tók einnig þátt á Evrópumeistaramótinu og opna þýska meistaramótinu.
„Það er mjög skemmtilegt að vinna þennan bikar,“ segir Sonja brosmild en hún var ánægð með árið hjá sér. Sérstaklega með Ólympíumótið í Ríó.
„Ég var mjög ánægð með árið. Fór á þessi þrjú mót en náði toppnum í Ríó. Ég var ánægð með allt í Ríó, umhverfið, og mér leið mjög vel þar. Allir í hjólastólum og enginn að horfa á mig af því að ég væri öðruvísi.“
Sonja er búin að vera í sundinu í nítján ár en hún er alls ekkert á þeim buxunum að hætta á næstunni.
„Ég mun halda eitthvað áfram. Kristín Rós [Hákonardóttir] var að synda í 20 ár minnir mig. Ég er alls ekkert á því að hætta strax. Á næsta ári fer ég á heimsmeistaramótið og þar er stefnan að toppa sjálfa mig eins og ég gerði í Ríó.“
Helgi aftur bestur
Helgi Sveinsson spjótkastari var svo útnefndur íþróttakarl ársins en þetta er annað árið í röð sem hann hlýtur þessa nafnbót og í þriðja sinn alls. Helgi varð Evrópumeistari á árinu. Helgi tók svo þátt á Ólympíumóti fatlaðra, setti Ólympíumet en hafnaði að lokum í fimmta sæti. Búið var að sameina nokkra flokka í spjótkastinu fyrir leikana og árangur Helga í hans flokki var framúrskarandi.
„Svona nafnbót skiptir gríðarlegu máli og gaman að fá æðstu nafnbótina í flokki fatlaðra. Það er stefnan á hverju ári að ná sem bestum árangri,“ segir Helgi kátur en hann var ánægður með árið hjá sér.
„Ég var ósáttur eftir Ólympíumetið en þegar ég lít yfir heildina get ég ekki verið annað en ánægður með þetta. Ég varð Evrópumeistari, setti nýtt Ólympíumótsmet og er sá eini í mínum fötlunarflokki sem komst í úrslit í spjótkastskeppninni. Þetta hefur breyst svolítið mikið við þessa sameiningu. Ég er að keppa við stráka sem eru minna fatlaðir en ég og þetta var því mjög gott.“
Helgi er æfa af krafti þessa dagana og á nýju ári bíða nýjar áskoranir.
„Það er HM í London þar sem Ólympíumótið var 2012. Það verður gaman að mæta á þann völl aftur og gera enn betur en síðast. Ég er ekkert á því að fara að hætta. Á meðan skrokkurinn er í lagi og löngunin er svona mikil þá ætla ég að halda áfram. Ég held áfram þar til ég get ekki meir,“ segir Helgi og hlær við. |
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið aðhafðist ekkert í tólf ár vegna eftirlitsleysis með vistvænum landbúnaðarafurðum því það gleymdist að úthluta málinu í ráðuneytinu. Ráðherra mun funda í vikunni með hagsmunaaðilum til meta hvort ástæða sé til að fella reglugerð um merkingarnar úr gildi.
Skilyrðum reglugerðar um vistvænan landbúnað hefur ekki verið fylgt um tólf ára skeið eins og Fréttablaðið greindifrá hinn 27. júní síðastliðinn. Þrátt fyrir það merkja flestir grænmetisbændur vörur sínar með merkingum um að vörurnar séu vistvænar „landbúnaðarafurðir.“
Margir neytendur taka ákvarðanir um kaup á vörum m.a. á grundvelli merkinga af þessu tagi. Neytendur eiga því að geta treyst því að eitthvað sé á bak við merkingarnar, þ.e. að þær séu eitthvað annað en þýðingarlaus límmiði. Þess vegna þykir það með nokkrum ólíkindum að í tólf ár hafi ekkert eftirlit verið með framleiðendum sem merkja vörur sínar með vottun um að þær séu vistvænar til að athuga hvort svo sé raunin.
Ráðuneytið hélt ekki skrár og gerði ekki athugasemdir
Auk þess að hafa ekkert eftirlit með vottuninni hélt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið engar skrár yfir þá sem höfðu fengið hana. Þá gerði ráðuneytið engar athugasemdir við að búvöruframleiðendur merktu vörur sínar með merkingunni.
„Í upphafi fór þessi reglugerð, sem sett var árið 1998, ágætlega af stað en síðan hafa menn ekki sinnt eftirlitinu á neinum stöðum sérstaklega. Eins og ég hef sagt áður er það merkingarlaus reglugerð sem ekki er fylgt eftir. Það er því til skoðunar í ráðuneytinu að fella hana út eða virkja eftirlit á grundvelli hennar. Við ætlum að funda með hagsmunaaðilum um málið. Ef hún á að vera til áfram þá þarf auðvitað að breyta henni og setja upp eðlilegt eftirlit þannig að hún hafi einhvern tilgang,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Fundurinn sem sem ráðherrann er að vísa til verður í þessari viku og í kjölfarið hyggst hann taka ákvörðun um framhaldið. Sigurður Ingi, sem hefur verið í embætti sjávarútvegs- og landbúnarráðherra í rúmt ár segir að í raun hafi allir sofnað á verðinum. Svo virðist sem gleymst hafi að úthluta málinu í ráðuneytinu eftir árið 2002. Þá hafi ekki verið leitað eftir því að virkja eftirlitið allan þennan tíma og því hafi það ekki verið til staðar. |
Skákheimurinn hristist þessa dagana eftir að komust upp um svindl hjá lettneskum stórmeistara í skák. Þetta var ekki bara einhver skákmaður heldur einn af þeim sextíu bestu í heimi.
Hinn 58 ára gamli Igors Rausis sást nefnilega vera í símanum á klósettinu. Seinna fannst líka síminn sem hann notaði.
Alþjóða skáksambandið gaf út yfirlýsingu í framhaldinu þar sem sagt var að sambandið hefði úrskurðað skákmann á mótinu í keppnisbann.
Igors Rausis viðurkenndi brot sín og segist núna vera búinn að leggja taflmennina á hilluna.
Fólk hafði lengi grunað Igors Rausis um svindl og það var þess vegna sem einhver fylgdi honum eftir inn á klósettið og tók síðan mynd af því þegar hann tók upp símann. Chess.com sagði einnig frá því að sími hafi fundist á klósettinu sem Rausis notaði þegar hann var að keppa á Opna Strasbourg mótinu í skák.
Igors Rausis hefur verið stórmeistari í skák frá árinu 1992 og er með 2686 elóstig. Hann var síðast í 53. sæti á heimslistanum. Rausis var líka langelstur í hópi bestu skákmanna heims en hann er sjö árum eldri en sá næsti inn á heimslistanum.
Emil Sutovsky, framkvæmdastjóri Alþjóða skáksambandsins, sagði að sambandið hafi lengi grunað Igors Rausis um svindl og að þetta hafi jafnframt aðeins verið fyrsta skrefið af mörgum í baráttunni gegn svindli í skákheiminum.
Það sem þótti grunsamlegt við frammistöðu Igors Rausis við taflborðið var að hann hafði hækkað sig um 200 elóstig á síðustu árum eftir að hafa verið fastur í 2500 elóstigum í áratug eða meira. |
Um tuttugu lögregluþjónar voru staddir á Kárahnjúkum um hádegisbilið í gær en þá rann út fresturinn sem mótmælendur höfðu til þess að ganga frá og taka saman föggur sínar að sögn Helga Jenssonar, fulltrúa sýslumannsins á Seyðisfirði. Síðasta tjaldið féll hins vegar ekki fyrr en síðdegis án þess að til átaka kæmi milli mótmælenda og lögreglu.
Lögregla skildi við mótmælendurna um leið og þeir komu í hlaðið á Vaði í Skriðdal hjá Guðmundi Árnasyni bónda og formanns Félags um verndun hálendis Austurlands.
"Það var nú eiginlega bara af mannúðarástæðum sem ég bauð þeim að koma til mín," segir Guðmundur. "Kirkjan var búin hrekja þau í burtu sem samrýmist nú ekki kenningum biblíunnar. Þannig að ég ákvað að bjóða þeim að vera hérna á túninu hjá mér."
Um níutíu mínútna akstur er frá Vaði til Kárahnúka.
Áfram verður hert löggæsla við Kárahnjúka að sögn Helga en lögreglumönnum á Egilsstöðum hefur borist liðsstyrkur frá Ríkislögreglustjóra. Þá komu lögregluþjónar frá Eskifirði að löggæslunni við Kárahnjúka í gær.
Þremur Bretum, sem handteknir voru í átökunum við Kárahnjúka aðfaranótt þriðjudags, var sleppt í fyrrakvöld eftir að í ljós kom að Útlendingastofnun taldi ekki ástæðu til þess að vísa þeim úr landi. Fólkið fór aftur upp að Kárahnjúkum eftir að þeim var sleppt að sögn Gísla M. Auðbergssonar, sem skipaður hefur verið verjandi þeirra.
Gísli fór að Kárahnjúkum í gær og fundaði með mótmælendum sem hann telur hafa verið þrjátíu til fjörutíu talsins. "Ég fór yfir lögfræðilega hlið málsins með hópnum," segir Gísli.
Mótmælendahópurinn samanstendur að mestu af Englendingum og Skotum en auk þess voru á svæðinu nokkrir Íslendingar. Ekki er um skipulögð samtök að ræða að sögn Birgittu heldur einstaklingsframtak hvers og eins. |
Guðrún Ósk Ámundadóttir er hætt sem þjálfari ríkjandi bikarmeistara Skallagríms í körfubolta kvenna. Þar með er sem stendur engin kona aðalþjálfari í efstu deild í körfubolta.
Áður hafði Ólöf Helga Pálsdóttir hætt eftir að hafa stýrt Grindavík upp í efstu deild en við starfi hennar tók Þorleifur Ólafsson og gerði samning til þriggja ára. Skallagrímur hefur aftur á móti ekki tilkynnt um arftaka Guðrúnar.
Undir stjórn Guðrúnar endaði Skallagrímur í 6. sæti af átta liðum í Dominos-deildinni í vetur, með 16 stig líkt og Breiðablik sem endaði sæti ofar.
Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Guðrún það ógleymanlegt að hafa tekið þátt í að endurreisa kvennalið í Borgarnesi og skila bikarmeistaratitli í heimabæinn sinn, eins og hún gerði árið 2019. Á næstu leiktíð verði hún hins vegar meðal áhorfenda, í fyrsta sinn í tuttugu ár.
„Í síðustu viku tók ég þá erfiðu ákvörðun að gefa ekki kost á mér sem þjálfari kvennaliðs Skallagríms fyrir næsta tímabil. Það verður skrítin tilfinning að taka þátt sem áhorfandi á pöllunum í fyrsta sinn í tæp 20 ár,“ skrifaði Guðrún og bætti við:
„Síðustu ár hafa átt sérstakan stað í mínu hjarta, fyrst sem leikmaður og síðar sem aðalþjálfari liðsins. Að hafa tekið þátt í að endurreisa kvennalið í Borgarnesi og skila bikarmeistaratitli heim er ógleymanleg upplifun. Ég vil þakka öllum leikmönnum og stuðningsmönnum fyrir frábæran tíma ásamt stjórn Skallagríms fyrir það traust sem þau hafa sýnt mér.
Takk fyrir mig og áfram Skallagrímur!!“ |
Stór alþjóðleg Metoo ráðstefna sem hófst í gær stendur enn yfir hér á landi. Hvað bar hæst á ráðstefnunni í dag? Á ráðstefnunni var rætt hvers vegna þessi bylgja náði svona miklum hæðum árið 2017 og hvers vegna áhrifin voru svo ólík eftir samfélagshópum. Hefur sjónum sérstaklega verið beint að konum af erlendum uppruna og þeirra stöðu velt upp. Birgir Olgeirsson: Hvaða ljósi varpaði metoo bylgjan á stöðu kvenna af erlendum uppruna á Íslandi? Tatjana Latinovic, formaður kvenréttindafélagsins: Hún varpaði því ljósi og hún sýndi það að það er ennþá langt í land að ná fullkomnu jafnrétti í þessu landi, sem við þó teljum okkur vera fremst og við erum fremst í jafnréttismálum í heiminum. En það sem metoo sýndi hér á landi, sem er jafnframt eina tilfellið þar sem við vitum af því að erlendar konur hafi komið saman, að staða þeirra sé miklu verri heldur en íslenskra kynsystra. Birgir: Hvaða úrbætur sérð þú fyrir þér varðandi stöðu kvenna af erlendum uppruna hér á landi? Tatjana Latinovic: Í fyrsta lagi þurfum við að tala um jafnrétti á víðari grunni. Það sem ég myndi vilja sjá er að allar aðgerðir stjórnvalda og allt sem við gerum hér á landi í þágu jafnréttis taki mið af því að hér býr ekki bara einsleitur hópur heldur býr allskonar fólk hér sem er með ólíkar þarfir. |
Nýliðarnir í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Þór Akureyri og Víkingur Ólafsvík, töpuðu leikjum sínum í þriðju umferð deildarinnar í kvöld.
Þór mætti KR í Vesturbæ og unnu KR-ingar öruggan 3-0 sigur með mörkum frá Baldri Sigurðssyni, Gary Martin og Þorsteini Má Ragnarssyni.
Víkingar tóku á móti Keflavík á Ólafsvíkurvelli og máttu þola 3-1 tap. Jóhann B. Guðmundsson skoraði tvö mörk fyrir Keflavík og Magnús Þórir Matthíasson eitt mark en Björn Pálsson gerði mark Ólsara.
Valur og Fram skildu jöfn 1-1 á Hlíðarenda. Hólmbert Aron Friðjónsson kom Fram yfir í fyrri hálfleik en Haukur Páll Sigurðsson jafnaði fyrir Val í upphafi þess síðari.
Breiðablik lagði ÍA 4-1 á Kópavogsvelli. Eggert Kári Karlsson náði forystu fyrir Skagamenn í fyrri hálfleik en Elfar Árni Aðalsteinsson, Nichlas Rohde, Ellert Hreinsson og Elfar Árni Aðalsteinsson skoruðu allir fyrir Blika á síðustu sjö mínútum leiksins og tryggðu liðinu ótrúlegan sigur.
Stjarnan sigraði Fylki 1-0 í Árbænum. Kennie Chopart gerði sigurmark Stjörnumanna undir lok leiksins.
Loks gerðu FH og ÍBV 1-1 jafntefli í Kaplakrika. Atli Guðnason kom FH yfir eftir hálftímaleik en Víðir Þorvarðarson jafnaði fyrir Eyjamenn skömmu fyrir leikhlé.
KR hefur unnið alla leiki sína í deildinni og er á toppnum með níu stig en Valur, ÍBV og FH hafa öll sjö stig. Breiðablik og Stjarnan koma næst með sex stig, Fram hefur fimm stig, Keflavík þrjú stig og Fylkir eitt stig en ÍA, Þór og Víkingur Ólafsvík eru á botninum án stiga. |
Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi, snýst hart gegn því að tvær mögulegar virkjanir verði sýndar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar, en Samfylkingin myndar meirihluta í sveitarstjórn með Framsóknarflokki. Anna Kristín hvetur Skagfirðinga til að mótmæla kröftuglega.
Meirihluti sveitarstjórnar samþykkti í gær að sýna á aðalskipulagi tvær mögulegar virkjanir, Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun. Ljóst er að málið er mjög viðkvæmt heima í héraði og jafnvel innan meirihlutans. Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmaður Samfylkingar, sat í bæjarstjórn Sauðárkróks í 12 ár og hún var alfarið á móti virkjun fallvatnanna í Skagafirði.
Anna Kristín Gunnarsdóttir, alþingismaður: Þessi samþykkt hún er að setja í hendur á okkur Skagfirðingum að segja álit okkar á þessum virkjunarkostum og nú er það undir okkur komið sem að erum á móti því að þessum fallvötnum verði spillt, eins og virkjun hefur í för með sér, að láta skoðanir okkar í ljós og rökstyðja þær, þannig að það verði komið í veg fyrir það að þetta komist inn á samþykkt aðalskipulags.
Með öðrum orðum, Anna Kristín hvetur íbúa Skagafjarðar til að mótmæla auglýsingu sveitarfélagsins um aðalskipulagið. Hún telur víst að stór hluti Samfylkingarfólks í Skagafirði sé á móti virkjun fallvatnanna. En hvernig stendur þá á því að sveitarstjórnarmenn Samfylkingar í Skagafirði samþykkja að sýna mögulegar virkjanir?
Anna Kristín Gunnarsdóttir: Ég held að það sé nú á almanna vitorði að það er mikill áhugi meðal sumra framsóknarmanna að virkja þarna og ég hygg að það hafi orðið að samkomulagi við meirihlutamyndun að þetta færi inn á tillögu að skipulagi með því fororði að þetta fari þá í góða kynningu og tillit yrði tekið til skoðana þeirra sem að létu hana í ljósi.
Meira um virkjanamál í Skagafirði í Speglinum eftir fréttir. |
Verkefni rannsóknarnefnda verða skilgreind betur í upphafi en áður til að koma í veg fyrir að þau dragist á langinn og kostnaður fari úr böndum. Þetta er markmiðið með lagabreytingu sem forsætisnefnd hyggst leggja til.
Rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna hefur enn ekki verið skipuð þrátt fyrir að Alþingi hafi ályktað um stofnun hennar í nóvember 2012. Ástæðan er sú að þingmenn vildu bíða þar til búið væri að meta reynsluna af starfi fyrri nefnda. Rannsóknir þeirra urðu mun tímafrekari og dýrari en ráð var fyrir gert. Nú er endurmati forsætisnefndar Alþingis á störfum rannsóknarnefnda að ljúka. „Já, ég lít þannig á að við séum að nálgast endapunktinn í þeim efnum. Við erum ekki alveg búin að ná til lands,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, um endurskoðunina sem hefur staðið yfir frá upphafi kjörtímabils. Þar hafi áhersla verið lögð á að draga lærdóm af störfum rannsóknarnefndanna þriggja sem Alþingi skipaði eftir hrun.
„Það er eitt og annað þar sem við teljum að megi lagfæra til þess að bæði vinnan verði skilvirkari og sömuleiðis að það verði frá upphafi hægt að ná utan um kostnað og þess háttar hluta og tímalengd vinnunnar,“ segir Einar. Lagt verður upp með að skipuleggja verkefnið betur áður en rannsóknarnefndir taka til starfa og ná þannig betur utan um viðfangsefnið, verktíma og kostnað.
Einar segir að stefnt sé á að setja þrenn ný heildarlög á komandi vetri; um rannsóknarnefndirnar, um umboðsmann Alþingis og um Ríkisendurskoðun. Unnið er að frumvarpi um umboðsmann en frumvarp um Ríkisendurskoðun sem forseti Alþingis mælti fyrir í fyrra náði ekki fram að ganga, það verður lagt fram óbreytt í haust. |
Ég hafði verið að leita að borðskreytingu eða kassa undir borðskreytingu í töluverðan tíma, en aldrei fundið. Eða réttara sagt, ég fann einn í Hagkaup en þegar ég fór daginn eftir og ætlaði að grípa hann þá var hann horfinn, lexían fyrir þann daginn var „aldrei láta góð kaup bíða.“
Þannig að ég hugsaði að fyrst að ég fæ þetta hvergi, þá geri ég þetta bara sjálf. Ég átti þessa risa íspinna úr Tiger og þessar glasamottur úr Rúmfatalagernum, ég átti gráa og hvíta málningu, íspinna í dúkkustærð, og fullt af trélími - allt sem ég þurfti.
Ég byrjaði á því að klippa stóru íspinnana til og mála þá og glasamotturnar gráar.
Svo þurrmálaði ég þær hliðar hvítar sem myndu snúa út og væru sýnileg.
Svo var komið að þolinmæðinni, trélíminu og dúkku íspinnunum. Ég raðaði öllu upp, setti trélím á brúnirnar, þrýsti þeim saman, setti svo aðeins meira trélím á litlu íspinnana og raðaði þeim ofan á brúnirnar til að festa allt enn betur saman.
Svo þegar þetta var allt þornað og fast saman þá límdi ég kassann sjálfan saman.
Ég hafði engar áhyggjur yfir því að hann væri ekki fallegur að innan, vegna þess að það mun ekki sjást þegar ég verð búin að skreyta hann. Og talandi um að skreyta kassann, í næstu viku þá fáið þið að sjá hvað ég útbjó sem skraut. Spennandi ekki satt? |
Krossá er illfær eftir vatnsveður tveggja haustlægða á jafnmörgum sólarhringum. Skálaverðir í Langadal gerðu við glugga í skála Ferðafélags Íslands í gærkvöld og þar varð ekki frekara tjón þó hvasst væri í nótt.
Þrjár rúður brotnuðu í skála Ferðafélagsins í Langadal í fyrrinótt, þegar grjót fauk af aurum Krossár. Að auki brotnuðu allar rúður nema framrúðan í jeppa við skálann og á dráttarvél Ferðafélagsins. Dráttarvélin er notuð til að aðstoða rútur og jeppa yfir Krossá og nálægar ár þegar þörf er á. Vélinni var ekið til viðgerðar á Hvolsvelli í gær og nýtist því ekki nú, þegar vötn hafa vaxið mjög á svæðinu. Í Húsadal fauk einnig allstórt vinnutjald hátt í loft upp og er ónýtt.
Krossá hefur aukist mjög í vatnsveðrinu og er nú illfær, bæði við Langadal og Húsadal. Ferðamenn í Þórsmörk komast í Bása yfir göngubrú yfir Krossá við Langadal, en verða þó að vaða að brúnni þegar svo mikið er í ánni. "Krossá er nú aðeins fær mjög vel útbúnum bílum og þrautreyndum bílstjórum", segir Atli Pálsson skálavörður í Langadal. Hann segir að gluggum sem brotnuðu hafi verið lokað með krossviði í gærkvöld. "Hér var hvasst og rigning í nótt, en ekki nærri eins hvasst og í fyrrinótt", segir hann. Þverár Krossár, Hvanná og Steinholtsá, hafa einnig vaxið mikið og eru aðeins færar vel útbúnum bílum. |
Matvælastofnun lét skjóta 29 kindur í Loðmundarfirði á laugardag og telur að engar kindur séu nú eftir í firðinum. Féð var án fóðurs og umhirðu í firðinum. Eftirlitsmaður segir aðstæður þar erfiðar, allt á kafi í lausamjöll. Lömbin hafi verið horuð og allt að 10 kílóa snjókögglar fastir í ullinni. Verulega mikið hefði kostað að ná kindunum til byggða.
Illa gekk að smala fé úr Loðmundarfirði í haust og undanfarin ár hafa kindur frá Seyðisfirði komist í Loðmundarfjörð eftir smölun. Í vetur var ástandið óvenju slæmt og margoft farið að sækja fé. Bændur fengu frest til 1. febrúar til að ljúka smölun, þeir fóru skömmu síðar í fjörðinn með aðstoð varðskips í enn eina smölunina og náðust 80 kindur aðallega frá Selsstöðum í Seyðisfirði. Vitað var að hátt í 30 kindur urðu eftir og í eftirlitsferð sem farin var á laugardag var ákveðið að fella féð.
Allt á kafi í firðinum
Þorsteinn Bergsson, eftirlitsmaður Matvælastofnunar, segir að mjög snjóþungt hafi verið í firðinum og ekki séð á dökkan díl. Yngstu kindurnar hafi verið horaðar og sumar hafi dragnast með þunga snjóköggla í ullinni og eina fennt í kaf. „Það er nú þannig að í þessum lögum er kveðið á um að ef ekki sé hægt ná kindunum án verulegs kostnaðar þá eigi að aflífa þær. Það er alveg ljóst að aðstæður í firðinum voru þannig. Það var metersdjúp lausamjöll yfir öllu. Öllum firðinum alveg út að sjó. Kostnaður við að ná þessu lifandi úr firðinum hefði orðið meiri en verulegur,“ segir Þorsteinn.
Lagaskylda að grípa til aðgerða
Ekki hafi komið til greina að leyfa kindinum að vera í firðinum. „Það var haldinn fundur fyrir rúmri viku með sveitarfélögum á svæðinu og fulltrúum Matvælastofnunar. Þetta hefur verið ófremdarástand í mjög mörg ár. Það hefur verið fé á útigangi í Loðmundarfirði án alls eftirlits og oft mjög illa haldið. Nú eru í gildi ög um dýravelferð frá 2013 númer 55 og við ákváðum að þetta stæðist þau lög alls ekki og við yrðum hreinlega að gera eitthvað í þessu.“
Hræin sett í stórsekki og skilin eftir
29 kindur voru felldar og hræin skilin eftir. Þorsteinn segir að ómögulegt hafi verið að koma með þau til byggða. „Allavega ekki við þessar aðstæður því það mátti nú þakka fyrir að við kæmumst sjálfir til byggða. Það er bratt upp úr firðinum og sleðarnir gegnu illa í þessari miklu lausamjöll. Þannig að það hefði ekki verið hægt að draga neitt á eftir sér það er alveg ljóst. En við gegnum eins snyrtilega og við gátum frá hræjunum, við vorum með stórsekki með okkur og gegnum frá hræjunum í fjórum slíkum. Bundum vel fyrir og skildum eftir. Borgarfjarðarhreppur hefur svo gengist inn á að ná þessu og koma í förgun um leið og hægt er. En við þessar aðstæður hefði slíkt verið ómögulegt,“ segir Þorsteinn Bergsson, eftirlitsmaður Matvælastofnunar í Austurumdæmi.
Tilkynning Matvælastofnunar
Matvælastofnun sendi í morgun frá sér svohljóðandi tilkynningu vegna málsins.
„Um síðustu helgi var farinn leiðangur í Loðmundarfjörð til að ná því sem eftir var af fé sem hefur verið í lausagöngu í firðinum, án eftirlits og fóðrunar. Tuttugu og níu kindur fundust og voru þær allar felldar.
Ástand fjárins var breytilegt. Flest var horað, enda beit lítil. Margar kindurnar voru styggar og margreyfaðar sem gefur til kynna að þær hafi gengið lausar um einhvern tíma. Sumar ærnar voru lembdar.
Átján af þeim 29 kindum sem fundust voru frá einum bæ, ein frá öðrum bæ og 10 voru ómerktar.
Matvælastofnun hefur margsinnis haft afskipti af öðru búinu á undanförnum árum. Kröfur stofnunarinnar um úrbætur hafa ekki verið virtar að fullu og hefur fé frá bænum fundist í Loðmundarfirði að vetrarlagi. Umráðamanni dýranna var veittur frestur til 1. febrúar sl. til að endurheimta fé sitt úr firðinum, sem hann gerði að hluta.
Matvælastofnun sinnir eftirliti með velferð dýra en ábyrgð á fjallskilum liggur hjá sveitarfélögum. Rætt var um ástandið á fundi Matvælastofnunar og sveitarstjórna Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs í byrjun mánaðar þar sem aðgerðir voru skipulagðar.
Fimm manna hópur fór í Loðmundarfjörð laugardaginn 10. mars. Hann var skipaður dýraeftirlitsmanni Matvælastofnunar og fjórum aðstoðarmönnum. Skyggni var gott en þó er ekki hægt að útiloka að fleira fé leynist í firðinum. Var það mat viðstaddra að ómögulegt væri að sækja féð og var það fellt á grundvelli 7. gr. laga um velferð dýra.
Í reglugerð um velferð sauðfjár segir m.a. að:
Óheimilt sé að hafa fé á útigangi á vetrum þar sem ekki verði komið við fóðrun og eðlilegu reglubundnu eftirliti.
Umráðamanni sauðfjár eða geitfjár beri að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum dýrum og öllum þeim stöðum þar sem þau er haldin.
Tryggja skuli velferð allra dýra með því að líta reglulega til með þeim og bæta úr því sem ábótavant er.
Daglegt eftirlit skal haft með sauðfé og geitfé á húsi. Sérstakt og tíðara eftirlit skal haft með nýfæddu, sjúku og slösuðu fé. Sama á við um ær og huðnur nálægt burði. Fé sem haldið er úti yfir vetur skal haft í fjárheldum girðingum þannig að eftirlit sé framkvæmanlegt fram yfir sauðburð.
Fé skuli haldið hreinu og það rúið a.m.k. einu sinni á ári. Þegar fé er rúið að vetri til skal það hýst í skjólgóðri byggingu, þess gætt að það ofkælist ekki og skal einnig tryggt að fóðrun þess sé góð.“ |
Guðlaugur Þór Þórðarson segir að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sé alveg úti á túni í yfirlýsingum sínum um Íslendinga. Hann furðar sig á að gömul vinaþjóð skuli koma fram með þessum hætti.
Ríkisstjórn Íslands fundaði linnulaust í allan morgun ásamt efnahagsráðgjöfum og forstjóra fjármálaeftirlitsins. Breski sendiherrann ásamt föruneyti bættist í hópinn laust undir hádegi. Menn leggja nú allt kapp á að leysa milliríkjadeiluna við Breta þrátt fyrir að ýmsum sé enn heitt í hamsi vegna framgöngu Brown forsætisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra: Mér finnst Gordon Brown vera algerlega úti á túni í þessu máli því að eins og ég segi það koma oft upp deilur á milli þjóða, það er eðlilegasta mál og til þess eru menn með utanríkisþjónustu, sendiráð og bein samskipti á milli aðila og það eru gríðarleg vonbrigði að sjá hvernig að þessi vinaþjóð okkar til margra áratuga og alda skuli vera að haga sér gegn okkur þegar að við erum í þessari stöðu sem við erum í.
Menntamálaráðherra telur deilurnar byggðar á misskilningi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra: Ég held frekar að það sé eitthvað samskiptaleysi milli Darling og Brown heldur en síðan þegar uppi er staðið milli íslenskra stjórnvalda og Breta, ég tek undir það sem að forsætisráðherra hefur sagt að það þarf að leysa þetta á diplómatískum nótum. |
Vestmannaeyjar fá til sín handboltahátíð í mars en Handknattleiksamband Íslands hefur ákveðið að undankeppni HM 20 ára landsliðs kvenna fara fram í Eyjum.
Hér erum við að tala um stelpur sem eru fæddar 1998 og síðar. Íslenska liðið mætir þar Þýskalandi, Makedóníu og Litháen en sigurvegarinn tryggir sér farseðil á HM í Ungverjalandi sem fram fer 1. til 15. júlí.
Í íslenska liðinu eru efnilegustu handboltakonur landsins sem margar hverjar hafa slegið í gegn í Olísdeildinni.
Þjálfarar íslenska liðsins eru margreyndir afreksþjálfarar, þau Stefán Arnarson og Hrafnhildur Skúladóttir. Hrafnhildur þjálfar einmitt kvennalið ÍBV í dag en Stefán er þjálfari Fram.
Þau Stefán og Hrafnhildur unnu marga titla saman hjá Val.
Það á eftir að velja liðið en stelpurnar fá tækifæri til að sýna sig og sanna á næstu vikum.
Að sögn þjálfara liðsins í fréttatilkynningu frá HSÍ er mikið gleðiefni að fá að halda keppnina í Vestmannaeyjum sem gerir möguleika liðsins á móti sterkum andstæðingum meiri en minni.
Þýskaland og Makedónía voru bæði í lokakeppninni á síðasta Evrópumóti sem haldin var í Slóveníu, þar hafnaði hið geysisterka þýska lið í 5. sæti en Makedónía í 16. sæti.
Tímasetningar leikja eru eftirfarandi:
23. mars
Þýskaland – Litháen kl. 17.00.
Makedónía – Ísland kl. 19.00.
24. mars
Litháen – Makedónía kl. 14.00.
Ísland – Þýskaland kl. 16.00.
25. mars
Makedónía – Þýskaland kl. 10.30.
Ísland – Litháen kl. 12.30. |
Ætla má að islenskir skattgreiðendur muni þurfa að greiða 150 milljarða vegna skulda gamla Landsbanka í tengslum við Icesave-reikningana. Þetta kemur fram í nefndaráliti utanríkisnefndar vegna þingsályktunartillögu vegna málsins.
Í álitinu kemur fram að utanríkisnefnd hafi kynnt sér eigna- og skuldastöðu gamla Landsbanka Íslands, væntanlegar kröfur tryggingarsjóðsins á hann og hvað mætti gera ráð fyrir að fengist upp í þær kröfur við sölu á eignum bankans. Mikil óvissa sé enn um það virði sem fáist fyrir eignirnar en á grundvelli upplýsinga frá skilanefnd Landsbanka Íslands megi áætla að um 150 milljarðar króna geti staðið út af að því ferli loknu. Þessi niðurstaða sé þó háð mikilli óvissu. Sá möguleiki séfyrir hendi að eignir Landsbankans dugi fyrir forgangskröfum þannig að ekkert falli á ríkissjóð.
„Niðurstaða um þetta atriði ræðst fyrst og fremst af tvennu. Annars vegar af endanlegu virði eigna gamla Landsbankans, en talið er að hámarksverðmæti fáist fyrir þær með því að selja þær ekki að svo stöddu. Er gert ráð fyrir að eignirnar verði varðveittar í gamla Landsbankanum í u.þ.b. 3 ár. Hins vegar ræðst niðurstaðan af þeim samningum sem hér er leitað heimildar til að gera," segir í nefndaráliti utanríkisnefndar. Þá kemur fram í álitinu að afar ólíklegt sé að reyna muni á Tryggingarsjóð innstæðueigenda vegna Kaupþings og Glitnis. |
Heilbrigðisráðherra segir almennar úrbætur á hjúkrunarrými fyrir aldraða á döfinni á höfuðborgarsvæðinu en framkvæmdir við Sólvang í Hafnarfirði sé hins vegar ekki á dagskrá fyrr en árið 2008. Sem stendur sé ekki svigrúm í ráðuneytinu til þess að ráðast í viðbyggingar á Sólvangi.
Í skýrslu um aðstæður aldraðra á Sólvangi í Hafnarfirði, sem fréttastofa Sjónvarps hefur greint frá, kemur fram að íbúar heimilisins búa við mikil þrengsli. Þeir hafa helmingi minna rými til umráða en kröfur heilbrigðisráðuneytisins segja til um.
Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra (B): Við höfum verið með Sólvang á dagskrá og vonandi verður hægt að fara í framkvæmdir þar á næstu árum. Hins vegar höfum við einbeitt okkur að því núna að stytta þann biðlista sem er hér á Reykjavíkursvæðinu og erum nýbúin að skrifa undir samning um hjúkrunarheimili upp á 120 rými.
Jón segir þetta bæta úr brýnni þörf á höfuðborgarsvæðinu sem aldraðir í Hafnarfirði munu njóta góðs af, en vissulega þurfi að bæta aðstöðuna á Sólvangi, en hvenær?
Jón Kristjánsson: Ja við höfum nú verið með það á dagskrá hjá Framkvæmdasjóði aldraðra en það er 2008 ef ég man rétt sem að við höfum það í, miðað við núverandi, miðað við núverandi svigrúm okkar.
Aðspurður um hvað standi í vegi fyrir því að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði annist þessa þjónustu samkvæmt samningi, eins og þau hafa farið fram á, segir Jón:
Jón Kristjánsson: En ég á ekki von á að Hafnarfjörður geri þjónustusamning um þetta án þess að bæta inn í þann samning verulegum fjármunum.
Sigríður Margrét Guðmundsdóttir: Og þið eruð ekki tilbúin til að gera það hjá ríkinu?
Jón Kristjánsson: Ja við höfum ekki haft svigrúm til þess hér í ráðuneytinu.
Jón segir þjónustusamninginn við Reykjavíkurborg byggjast á því að borgin greiði um 30% af kostnaði við fyrirhugaða byggingu hjúkrunarrýma. Þetta er helmingi meira en lögbundið framlag sveitarfélaga, sem er 15% af byggingarkostnaði. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði sagði í samtali við fréttastofu í dag að aldrei hafi farið fram neinar viðræður um slíka aðkomu Hafnarfjarðarkaupstaðar. |
Um tvö hundruð mótmælendur voru á götum miðborgar Kaupmannahafnar í gær þar sem forstjórar stórfyrirtækja funduðu um loftslagsmál. Fundur þeirra var ekki á opinberri dagskrá loftslagsráðstefnunnar en tengdur henni, líkt og fjöldi annarra. Mótmælendur börðu bumbur og hrópuðu að forstjórunum.
Lögreglan hafði mikinn viðbúnað eins og hún reyndar hefur haft alla vikuna. Fjörutíu mótmælendur voru handteknir. Engar fregnir höfðu borist af ofbeldisverkum, en Henrik Moeller Nielsen, talsmaður lögreglunnar, sagði að fólkið hefði verið handtekið til að fyrirbyggja ofbeldi. Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur fengið auknar heimildir til handtöku í tengslum við ráðstefnuna. Þá hefur hún komið fyrir búrum í Valby, úthverfi Kaupmannahafnar, þar sem koma má fyrir 346 föngum.
Fjöldi viðburða hefur verið í tengslum við ráðstefnuna, bæði á vegum skipuleggjenda og almennings. Fólk hefur nýtt sér athyglina til ýmissa mótmæla, bæði tengdum loftslagsmálum og öðrum, svo sem herferð í Afganistan. Mótmælin hafa gengið átakalaust fyrir sig hingað til.
Í dag er boðað til svokallaðs alþjóðadags aðgerða og er búist við allt að 60 þúsund manns í göngu sem leggur upp frá Kristjánsborg klukkan 13, að staðartíma. Gengið verður að Bella Center, þar sem ráðstefnan fer fram. Yfirvöld eru við öllu búin, en gangan á að vera friðsöm. Á morgun er boðað til annarrar göngu, sem líklega verður fámennari, en ekki er eins víst að hún verði friðsöm.
Allt er enn í járnum á ráðstefnunni sjálfri og deila Bandaríkjamenn og Kínverjar ákaft um hvernig fylgst verður með útblæstri gróðurhúsalofttegunda í mismunandi löndum. Nokkuð er deilt um kostnað, en nefnt hefur verið að langtímakostnaður við að verja þróunarríki fyrir áhrifum hlýnunar jarðar geti hlaupið á 100 milljörðum evra árlega, um 18.300 milljörðum íslenskra króna að núvirði.
[email protected] |
Stjórnvöld hafa ekki staðið við gefin loforð um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Þetta segir framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Hann segir mörg störf þess eðlis að hagkvæmara sé að vinna þau á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.
Í byggðaáætlunum síðustu ára hefur verið lögð áhersla á að opinberum störfum verði dreift um landið og að Eyjafjarðarsvæðið verði eflt til mótvægis við höfuðborgarsvæðið. Opinberum störfum hefur þó ekki fjölgað á svæðinu í samræmi við það sem stefnt var að.
Magnús Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar: Ef við hefðum átt að halda í við þróunina eins og hún hefur verið á höfuðborgarsvæðinu þá hefði störfum hér átt að fjölga um 300 frá árinu 2000 en þeim hefur fjölgað um 100, á sama tíma hefur þeim fjölgað um 3000 á höfuðborgarsvæðinu.
Lang stærsti hluti þessara hundrað starfa er til kominn vegna Háskólans á Akureyri eða í kringum 80 störf. Magnús segir að þó erfitt gæti reynst að flytja sum störf út fyrir höfuðborgarsvæðið þá séu mörg þeirra þess eðlis að mun hagkvæmara sé að vinna þau úti á landi og nefnir í því sambandi að fjarvinnsla bankanna hafi í auknum mæli verið flutt út á landi.
Magnús Þór Ásgeirsson: Að stór hluti starfa ríkisstofnanna eru þess eðlis að það er hægt að vinna þau hvar sem er.
Stundum hefur tregðu í embættismannakerfinu verið kennt um hversu illa gengur að flytja störf út á land. Nýlegar rannsóknir benda hins vegar til þess að embættismenn séu almennt jákvæðir gagnvart flutningi. En má þá segja að byggðarstefna stjórnvalda hafi brugðist?
Magnús Þór Ásgeirsson: Þessi ríkisstjórn og margar, margar á undan hafa haft fögur fyrirheit í byggðarmálum og þetta kemur auðvitað inn á það þannig að já það má segja að byggðarstefnan hafi brugðist. |
Þórdís Harpa Lárusdóttir flugfreyja ætlar að bjóða fjölskyldunni uppá þennan ljúffenga morgunverð um páskana.
"Þessi réttur er í miklu uppáhaldi hjá okkur, frábært að gera hann á góðum páskamorgni í náttfötunum, sósan er líka svo fallega páskagul á litinn. Svo heitir sonur minn líka Benedikt þannig að þessi réttur stendur okkur mjög nærri."
Eggin hans Benedikts fyrir 4
fyrir 4
4 Egg
Ca 2-3 msk edik
3 eggjarauður
250 gr smjör
Klípa af blautum kjötkrafti(ég nota Oswald og finnst hann bestur, fæst í Fjarðarkaupum)
Safi úr ca hálfri lítilli sítrónu
Þykkar sneiðar af góðri reyktri skinku
Gott súrdeigsbrauð
Vatn sett í góðan pott, edikið sett út í og vatnið látið ná léttri suðu. Eggin eru svo brotin beint yfir létt sjóðandi edikvatnið, eitt í einu, (passa að gefa þeim hvert sitt pláss) leyfa þeim að malla í vatninu í ca 3 min,eða þangað til að það er ca hálfsoðið, mér finnst best að hafa rauðuna lina. Taka eggin upp úr vatninu með gataspaða, þannig að allt vatnið renni af þeim.
Smjörið er brætt í litlum potti með kjötktraftinum (á að vera heitt en ekki sjóðandi) eggjarauðurnar þeyttar, kjötkraftssmjörinu með sítrónusafanum bætt varlega útí eggin í mjórri bunu og þeytt áfram, smakkað til og hægt að þynna með meira smjöri eða sítrónusafa eftir vild.
Brauðið er ristað,skinkan steikt og lögð ofan á brauðið, eggin koma þar á eftir, og í lokin sósan sett yfir allt saman. Yndislegt, ljúffengt og gott. |
„Eftir því sem ég best veit þá er það að rísa niðri við höfnina," svaraði Steingrímur J. Sigfússon þegar Pétur H. Blöndal þingmaður benti á að hvergi væri minnst á Tónlistarhúsið í fjárlögum eða fjáraukalögum. Umræða um fjáraukalög fer nú fram á Alþingi. Pétur sagði að það ætti að vera inni í fjáraukalögum líkt og Icesavesamkomulagið.
„Hvar er Tónlistarhúsið í þessu plaggi? Það hefur verið ákveðið að byggja áfram tónlistarhús og eyða í það dýrmætum gjaldeyri og flytja inn erlenda verkamenn, þetta skapar ekki einu sinni atvinnu. Dettur það bara ofan af himnum eða ætlar enginn að borga fyrir það? ," spurði Pétur.
Eftir snaggaralegt svar fjármálaráðherra sagði Pétur það einmitt vera málið.
„Tónlistarhúsið er að rísa og það sjá það allir en enginn virðist ætla að borga fyrir það. Það er ekki orð um þetta í fjárlögum né fjáraukalögum. Það er verið að plata skattgreiðendur framtíðarinnar og það er bannað," sagði Pétur sem ætlar að leggja það til að Tónlistarhúsið, Icesave og fleiri skuldbindingar verði sett inn.
„Og það eru fleiri faldir og duldir hlutir sem koma hvergi fram."
Steingrímur kom síðan aftur upp og sagðist alls ekki hafa ætlað að gera lítið úr málinu með gamansemi. Hann sagði að samningar milli ríkis og borgar varðandi Tónlistarhúsið hefðu verið frágengnir frá tíð fyrri ríkisstjórnar.
„Það var mat aðila fyrr í vetur að það myndi afstýra ennþá meiri hörmungum að klára verkið en að hætta í miðjum klíðum. Einnig áttu sér stað umtalsverðar afskriftir á föstum kostnaði, þannig að verkið fór aftur af stað á nýjum grunni."
Steingrímur sagði það síðan aðra umræðu hvort verkefni sem þessi ættu að vera inni á fjáraukalögum. „Auðvitað er markmiði samt að allt slíkt liggi fyrir og sé uppi á borðum." |
Fyrsti samningafundur Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins var í morgun og því er samningaferlið formlega hafið, segir framkvæmdastjóri SA. Hann segir erfitt að bregðast við kröfugerðum VR og SGS því þeim fylgi ekki kostnaðarmat, en segist vænta þess fljótlega.
Kjarasamningaklukkan tifar. 82 kjarasamningar renna út um áramótin og önnur holskefla kemur í lok mars þegar 152 samningar renna út.
Fjölmennustu stéttarfélögin eða samböndin, VR og Starfsgreinasambandið, eru tilbúin með kröfugerðir, sem ekki eru ólíkar. Samtals eru 92 þúsund manns í SGS og VR og eru þau langstærstur hlutinn af ASÍ, sem í eru um 120 þúsund manns.
„Besti tíminn til þess að hefja samningaviðræður hefði verið fyrir mörgum vikum en næstbesti tíminn er einmitt dagurinn í dag og við hittumst einmitt samninganefnd Starfsgreinasambandsins í morgun þ.a. þetta ferli er komið formlega af stað,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Verið að gera viðræðuáætlanir þannig að í byrjun næstu viku verður ljóst hvenær næst verður hist.
Í kröfugerð VR, sem samþykkt var í gærkvöld, er krafist 42 þúsund króna hækkunar árlega hjá öllum, að lágmarkslaun verði 425 þúsund og að vinnuvikan verði stytt í 35 stundir. Halldór Benjamín segist ekki á þessari stundu vilja bregðast við þessum kröfum
„En ég hins vegar spyr mig þeirrar spurningar hvort að við þurfum ekki að fá kostnaðarmat á þeim kröfugerðum, sem nú eru fram komnar, vegna þess að það hljóta allir að sjá að það er erfitt fyrir atvinnurekendur að bregðast við kröfugerðum, sem ekki er búið að kostnaðarmeta. Og ég geri ráð fyrir að VR og SGS muni stíga fram með það mjög fljótlega.“ |
Vel á þriðja hundrað afbrotamenn bíða nú eftir að geta setið af sér fangelsisdóma hér á landi. Listinn hefur aldrei verið lengri.
Fangelsi landsins eru yfirfull og tvímennt er í fjölmörgum fangaklefum. Ástæðan er einföld, það margir eru dæmdir í fangelsi þessi misserin að fangelsiskerfið hefur ekki við. Afleiðingin er sú að biðin eftir fangelsisvist lengist stöðug. Í byrjun sumar biðu tæplega 200 afbrotamenn eftir að geta hafið afplánun. Þessi listi hefur lengst og bíða 218 brotamenn eftir því að komast í tukthúsið. Listinn hefur aldrei verið lengri. Samanlagt hafa þessir brotamenn verið dæmdir í 123 ára fangelsi. Meðaldómurinn er því tæpir sjö mánuðir. Sá sem lengst hefur beðið var dæmdur til fangavistar í júní 2006. Það hafa því liðið rúm þrjú ár án þess að sá maður hafi tekið út refsingu fyrir sitt afbrot. Rúmlega helmingur þeirra sem bíður eftir að komast í fangelsi hefur hlotið dóma vegna umferðarlagabrota, 22 eru með dóma á bakinu vegna fíkniefnabrota og 14 vegna þjófnaða og auðgunarbrota. Ef listinn yfir þá sem sitja í fangelsi er skoðaður sést að samsetning hans er mjög ólík. Ástæðan er sú að Fangelsismálastofnun forgangsraðar, tekur fyrst inn í fangelsið þá sem taldir eru hættulegir eða líklegir til að brjóta af sér aftur. Þeir sem fremja minniháttar afbrot þurfa því um þessar mundir að bíða mjög lengi eftir að taka út sína refsingu. |
Samtök atvinnulífsins (SA) fagna áformum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og Iceland Healthcare um að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á sjúkrahúsinu að Ásbrú, í Reykjanesbæ. Á sjúkrahúsinu verða þrjár skurðstofur og 35 legurými, þar sem boðið verður upp á sérhæfðar meðferðir fyrir útlendinga.
Í frétt um málið á vefsíðu SA segir að allt að 300 störf muni skapast í tengslum við starfsemina. Gert er ráð fyrir að þjónustuþegar verði um 1.000 talsins fyrsta starfsárið en tvöfaldist síðan á næstu tveimur árum, með árlegum tekjum sem áætlaðar eru um 3,5 milljarðar króna.
Aðeins með sköpun nýrra starfa og aukinni verðmætasköpun er unnt að útrýma atvinnuleysi og tryggja störf fyrir þá sem koma út á vinnumarkaðinn á næstu árum. Meginleiðin til að ná aftur fyrri styrk er að fjárfesta í atvinnulífinu, auka útflutning á vörum og þjónustu, og því eru ofangreind áform verulega jákvæð. Jafnframt er ljóst að Íslendingar standa frammi fyrir fjölmörgum áskorunum í heilbrigðismálum og leita verður allra leiða til hagræðingar og bæta nýtingu fjármuna.
Í nýju riti SA Atvinna fyrir alla - aðgerðaáætlun 2010 um uppbyggingu atvinnulífsins er að finna stefnumörkun Samtaka atvinnulífsins í heilbrigðismálum. Þar kemur m.a. fram að hlutur einkaaðila í veitingu heilbrigðisþjónustu á Íslandi er of lítill en SA leggja áherslu á að unnið verði út frá ábendingum OECD um heilbrigðismál á Íslandi.
Hér á landi er þjónusta í of miklum mæli veitt af dýrum þjónustuaðilum á óþarflega háu tækni- og þjónustustigi, kostnaðarþátttöku er ekki beitt nægilega markvisst og ekki er nægileg samkeppni á milli þjónustuaðila. OECD telur kostnað í íslenska heilbrigðiskerfinu geta lækkað um 1,5% af landsframleiðslu án þess að dregið sé úr þjónustu. |
Nú þegar 2019 er gengið í garð sjáum við marga vini og ættingja fara á samfélagsmiðla til að segja öllum hvernig nýja árið þeirra muni verða og hvaða breytingar þau vilja í sínu lífi. Á sama tíma hafa þegnar út um allan heim horft á leiðtoga sína halda svipaðar ræður um hvaða nýju stefnur ætti að taka. Katrín Jakobsdóttir sagði Íslendingum að stjórnvöld ættu að tryggja kjarabætur fyrir almenning og að við gætum öll lagt okkar af mörkum. Meira að segja Kim Jong Un sat fyrir framan norðurkóresku þjóðina (a.m.k. þeirra fáu sem áttu sjónvarp til að horfa á hann) og talaði um lestarteina milli landamæri Norður- og Suður-Kóreu og möguleika á fund með Donald Trump. Það var hins vegar leiðtogi Kína, Xi Jinping, sem lét langflestum bregða í brún þegar hann minntist á samband Kína við Taívan.
Í raun má segja að þetta hafi litið meira út eins og hótun frekar en ræða. Forsetinn sagði hreint út að Taívan yrði sameinað Kína með einum eða öðrum hætti og áskildi sér rétt til að beita hervaldi. Ávarpið kom í tilefni þess að fjörutíu ár eru liðin frá því að samskipti milli Peking og Taipei fóru að skána. Eftir að kínversku borgarastyrjöldinni lauk árið 1949 flúði þjóðernisher Chang Kai-shek undan kommúnistaher Maó til Taívan og hefur síðan þá haldið sig við óformlegt sjálfstæði undir verndarvæng Bandaríkjahers. Stjórnvöld í Peking hafa áður fyrr notast við slíkan orðaforða þegar kemur að Taívan-deilunni, en þessi ræða gaf frá sér nýjan tón sem sýndi greinilega óþolinmæði leiðtogans.
Af hverju núna?
Stjórnvöld í Peking skrifuðu lög árið 2005 sem sögðu að þau myndu beita hervaldi ef Taívan myndi skyndilega lýsa yfir sjálfstæði. En heimurinn var aðeins öðruvísi þá en hann er í dag. Árið 2005 var efnahags- og hermáttur Kínverja engan veginn þar sem hann er núna og var þjóðin meira að segja ennþá að þiggja mataraðstoð frá Sameinuðu þjóðunum. Almenningur var upptekinn við að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikanna 2008 og afskiptasemi Bandaríkjamanna í öðrum löndum fældi marga frá því að gera eitthvað af sér.
Xi Jinping tók síðan við forsetaembættinu árið 2012 og hefur síðan þá stillt sér upp sem harðstjóra í Kína undir þeim fölsku forsendum að hann sé að berjast gegn spillingu – eitthvað sem kínverska þjóðin var orðin langþreytt á. Einnig er ljóst er að Xi Jinping hyggst stjórna landinu til æviloka, eftir að kínverska þingið samþykkti ályktun sem gaf honum leyfi til þess í fyrra.
Að auki er þjóðernishroki í landinu kominn út í vitleysu, eins og sást í nokkrum kínverskum borgum yfir seinustu jól. Fólk hrópaði setningar eins og: „að Kínverjar haldi upp á jólin er brennandi skömm og árás á kínverska menningu“ og „frekar en að halda upp á afmæli Jesú 25. desember þá ættum við að halda upp á afmæli Maó 26. desember“. Borgin Langfang í Hebei-héraði lagði til dæmis blátt bann við öllum jólaskreytingum og meinaði búðum að selja vörur með jólaþema af einhverju tagi.
Það að kínversk stjórnvöld séu að breytast í Trölla sem stelur jólunum er ekki endilega það sem skiptir mestu máli, en þetta er allt hluti af stærri mynd. Mynd sem inniheldur vaxandi þjóðernishyggju og andúð á útlendingum, aukið harðræði stjórnvalda og minnkandi frelsi hjá þegnum landsins. Kínversk stjórnvöld sýndu það einnig árið 2016 að þau munu ekki hlusta á alþjóðadómstóla þegar kemur að deilum um eyjar í Suður-Kínahafi sem þau gera tilkall til. Bandaríkjastjórn er farin að draga sig meira í hlé þegar kemur að alþjóðamálum og Bretar eru allt of uppteknir af sinni eigin Brexit kássu. Ef til vill hafa kínversk stjórnvöld líka öðlast meira sjálfstraust eftir að hafa séð hversu lítil viðbrögð Rússar fengu eftir sín hernaðarævintýri í Úkraínu undanfarin ár.
Árekstur
Endurinnlimun Hong Kong í Kína árið 1997 átti einnig að vera dæmi um það hvernig tvö ólík kerfi geta lifað í sátt og samlyndi, en undanfarin ár hafa sýnt að Peking hyggst flýta fyrir útrýmingu á lýðræðisréttindum eyjunnar. Mikil mótmæli brutust til dæmis út árið 2014 þegar kommúnistaflokkurinn reyndi að hafa afskipti af kosningum í Hong Kong. Önnur stefna virðist vera: „ef við getum ekki sannfært þá um að vera með okkur í liði, þá einfaldlega kaupum við þá“. Ferðamannastraumur hefur verið mikill til Hong Kong frá meginlandi Kína og er stór hluti af efnahag þeirra nú orðinn háður þeim fjármunum sem flæða þar í gegn.
Mótmæli brutust einnig út í Taívan árið 2014 vegna viðskiptasamnings sem stjórnvöld í Peking vildu undirrita. Samningurinn átti að greiða leið fyrir 80 kínverska þjónustuaðila inn á taívanska markaðinn og fannst mörgum íbúm eyjunnar eins og verið væri að leiða þá í efnahagsgildru Kína í hag. Þar sem forseti Taívan, Tsai Ing-wen hefur sýnt mikinn mótþróa gegn stjórnvöldum í Peking varðandi sameiningu þá er ljóst að þessi nýja ræða Xi Jinping gæti skapað hættulega öryggisklemmu.
Í stuttu máli þá er nýársheit stjórnvalda í Kína ekki að létta sig, heldur að bæta á sig. Bæta á sig stuðningsmönnum, valdastöðum, áhrifum um heiminn og einn daginn – þessari 23 milljón manna eyju sem liggur í 180 km fjarlægð frá ströndum meginlandsins. Sjálfur ætla ég reyndar bara að sleppa áfengisdrykkju í janúar og sjá hvernig gengur að fara oftar í sund – en ekki geta allir verið eins. Á meðan vil ég óska öllum gleðilegs nýs árs, eða eins og við munum kannski þurfa að segja í framtíðinni: 新年快乐 (sjinn nían kú-æ lö). |
Það kom Elsu Nielsen, grafískum hönnuði og myndlistarkonu, á óvart að hún skyldi hljóta útnefningu sem bæjarlistamaður Seltjarnarness í gær en hún er tuttugasti Seltirningurinn sem hlýtur nafnbótina. „Jú, þetta kom á óvart, það er svo mikið menningarlíf úti á Nesi að þetta var alls ekki sjálfgefið. Það er mikill heiður og fjöður í hattinn að fá þessa nafnbót,“ segir hún og brosir.
Hún nefnir að með útnefningunni fái hún vonandi tækifæri til að sinna listinni enn betur. „Mig langar að vinna með börnum og unglingum hér í bænum og miðla til þeirra listinni og með nafnbótinni fæ ég tækifæri til þess. Ég held að það sem ég geri höfði vel til barna og unglinga, þetta verður mjög spennandi og ég hlakka til.“
Stóð við heitið og fékk brons í badminton
Síðasta ár var viðburðaríkt hjá Elsu og mætti segja að allt hafi gengið upp hjá henni. Meðal annars vermdi litabók hennar Íslensk litadýrð efstu sæti bókalista í lok ársins og mörg hundruð manns fylgdust af áhuga með dagbókarfærslum hennar á Instagram og Facebook undir yfirskriftinni #einádag. Hún segir það standa upp úr að hafa náð að standa við áramótaheitið sem hún strengdi í upphafi síðasta árs – að teikna eina mynd á dag.
„Mér skilst að aðeins þrjátíu prósent þeirra sem strengja áramótaheit standi í raun við það,“ segir hún í léttum dúr og bætir við að einnig standi útgáfa litabókarinnar upp úr sem og útgáfa barnabókarinnar Vinabókin sem hún gerði með Jónu Valborgu Árnadóttur.
„Eins fannst mér mjög gaman að fara á heimsmeistaramótið í badminton þó það komi nú listinni ekkert við. Við fórum saman, hópur sem spilar saman tvisvar í viku, á heimsmeistaramótið fyrir 35 ára og eldri sem haldið var í september í Svíþjóð. Þar náði ég þriðja sæti í einliðaleik sem kom mér á óvart og var gaman að rifja upp gamla takta,“ segir Elsa en margir þekkja hana betur fyrir afrek hennar á badmintonsviðinu enda varð hún margsinnis Íslandsmeistari í greininni auk þess að vera fulltrúi Íslands á Ólympíuleikunum í tvígang.
Pínulítil list
Að auki er Elsa einn af fáum frímerkjateiknurum landsins og í fyrra kom út frímerki í tilefni Smáþjóðaleikanna með mynd eftir hana. „Ég hef hannað frímerki síðan um árið 2000. Við erum ekki svo mörg sem fáum að spreyta okkur á því en ég hef náð að halda mig í þeim hópi sem mér finnst mjög skemmtilegt. Þetta er öðruvísi myndskreyting, alveg pínulítið pláss sem þarf að hugsa vel út í. Á þessu ári kemur út eitt frímerki eftir mig í tilefni afmælis Ísafjarðarbæjar.“
Meiri myndlist
Árið 2015 var vissulega ár Elsu og byrjar nýja árið vel hjá henni líka. Hún vann þó ekki eiginlegt áramótaheit um nýliðin áramót. „Það fór mikill tími í síðasta áramótaheit, ég var að reikna það út að það voru líklega um tvö hundruð klukkutímar sem fóru í myndirnar 365. En mig langar að mála meira á árinu, ég hef verið með það í kollinum og best að ég segi það núna svo ég standi við það að ég ætla að mála eina mynd í hverjum mánuði. Það er ekki svo mikið miðað við eina mynd á dag í fyrra, ég hlýt að geta það,“ segir Elsa og hlær.
Hún hefur lengi málað og á að baki margar sýningar á því sviði. Á meðal næstu verkefna er þátttaka í HönnunarMars en þar verður hún með sýningu á Mokkakaffi ásamt hópi listakvenna. „Þar ætlum við að taka fyrir leturgerð á myndrænan hátt. Svo verð ég með dagatalið og eitthvað tengt litlu myndunum líka á HönnunarMars.“
Í tilefni af útnefningu Elsu hefur verið opnuð sýning á öllum dagbókarfærslunum 365 í Galleríi Gróttu og stendur sýningin yfir til 5. febrúar. Hún verður opin í dag á milli klukkan ellefu og fjögur. |
FH komst á topp Pepsi-deildar karla á markatölu eftir 1-2 sigur á Keflavík suður með sjó í kvöld.
Atli Viðar Björnsson kom af bekknum og skoraði sigurmark FH á 74. mínútu en staðan í hálfleik var 1-1.
Keflavík er eitt og yfirgefið á botni deildarinnar og þarf í raun kraftaverk til að bjarga sér frá falli í 1. deild.
Fyrri hálfleikur liðanna var afar dapur ef satt skal segja. Þau fáu færi sem litu dagsins ljós voru eign gestanna úr Hafnarfirði en þeir áttu í vandræðum með að hitta skotum sínum á rammann.
Áhorfendur fengu þó tvö mörk í fyrri hálfleik og það fyrra skoraði Emil Pálsson á 32. mínútu með laglegum skalla eftir góða fyrirgjör Jérémy Serwy. Emill var aleinn í vítateig heimamanna og gat léttilega stýrt boltanum í rólegheitunum framhjá markverði Keflvíkinga.
FH-ingar áttu markið fyllilega skilið enda búnir að vera betri en það er oftast ekki spurt um það í fótbolta, því á 44. mínútu jöfnuðu heimamenn metin.
Magnús Þórir Matthíasson sendi boltann fyrir og Davíð Þór Viðarsson var ansi óheppinn að setja knöttinn í eigið net. Ekki sanngjarnt en það er ekki spurt að því.
Hálfleikurinn leið svo rólega til loka og staðan hnífjöfn.
Svipaða sögu var að segja í seinni hálfleik og þeim fyrri, það er mikil stöðubarátta og þau færi sem litu dagsins ljós komu frá FH. Keflvíkingar reyndu að vera þéttir fyrir og spiluðu ákveðna vörn enda brenndir frá því á móti Víkingum í seinustu umferð.
Einbeitingaleysi gerði þó vart við sig í varnarleik heimamanna eins og svo oft áður í sumar og kostaði það þá allavega eitt stig í kvöld.
Sending kom utan af kanti inn í teig heimamanna þar sem Emil Pálsson náði að skalla boltann aftur fyrir sig og finna Atla Viðar Björnsson á auðum sjó en hann klikkar sjaldan þegar færin eru jafn opin og þetta færi var. Kom markið á 73. mínútu og útlitið mjög dökkt fyrir Keflvíkinga.
Heimamenn í Keflavík reyndu hvað þeir gátu að jafna metin á seinustu mínútunum en þeim varð ekki erindi sem erfiði og stigin þrjú finna leiðina til Hafnarfjarðar.
FH-ingar tylla sér þar með á topp deildarinnar á markatölu en Keflvíkingar eru enn neðstir og þegar níu umferðir eru eftir af Íslandsmótinu þá þurfa þeir heldur betur að fara að bíta í skjaldarrendur svo að þeirra Íslandsmót á næsta ári verði ekki í fyrstu deildinni.
Heimir Guðjónsson: Þetta var hrikalega sterkur sigur
„Mér fannst við sýna ákveðna þolinmæði, þeir lágu mikið til baka en við hefðum mátt opna þá meira í kvöld“, sagði þjálfari FH-inga þegar hann var spurður hvað hans menn hefðu gert rétt í kvöld til að vinna Keflvíkinga.
„Mér fannst við gera nóg, þetta var hrikalega sterkur sigur. Keflvíkingarnir voru ljóngrimmir, eðlilega, komnir nýjir leikmenn og þeir töpuðu illa síðast þannig að við vissum að þetta yrði erfiður leikur og sú var raunin þannig að við erum hæst ánægðir með að landa stigunum.“
Hann var spurður hvort það væri ekki rétt metið hjá blaðamanni að helsta vandamál FH-inga í leiknum hefði verið að hitta á boltanum á rammann.
„Á köflum jú, við fengum ágætis möguleika í kvöld og skoruðum tvö mörk á erfiðum útivelli sem var mjög sterkt.“
Þá var Heimir spurður að því hvort Hafnfirðingar ætluðu að gera eitthvað í félagasskiptaglugganum sem lokar í lok vikunnar.
„Nei ekkert eins og er, Lennon, Doumbia og Guðmann eru allir á leið til baka þannig að við erum ánægðir með hópinn okkar.“
Að lokum var Heimir beðinn um að leggja mat á framhaldið en FH er í hörkubaráttu á toppi deildarinnar og eru efstir eins og er.
„Þetta er jafnt mót þar sem mörg góð lið eru að berjast um Íslandsmeistaratitilinn og við þurfum að halda okkar striki og við notumst við gömlu klisjuna að við tökum bara einn leik í einu.“
Jóhann Birnir Guðmundsson: Mjög fínn leikur hjá okkur en engin stig
„Það er auðvelt að sjá batamerki á liðinu eftir að hafa tapað 7-1 í seinustu umferð. Að mörgu leyti var þetta mjög fínn leikur hjá okkur en engin stig“, voru fyrstu viðbrögð annars þjálfara Keflavíkur eftir leikinn á móti FH í kvöld.
Hvað var það sem Keflvíkingar hefðu þurft að gera betur til að næla sér í allavega eitt stig að mati Jóhanns?
„Varnarlega heilt yfir vorum við að spila mjög vel en í tvö skipti klikkum við en þeir skapa ekki mikið þrátt fyrir að vera meira með boltann. En FH þarf bara tvö færi til að skora tvö mörk og var það nóg í dag. Keflavíkur liðið heilt yfir spilaði mjög vel í dag og seinustu tíu mínúturnar vorum við nánast í sókn allan tímann og nýju leikmennirnir stóðu sig vel eins og allir hinir.“
Jóhann var stuttorður þegar hann var spurður hvort Keflvíkingar væru hættir að versla í félagsskiptaglugganum.
„Ekki endilega. Við erum að skoða einn leikmann en það kemur í ljós.“
Fyrr í dag komu fréttir þess efnis að Richard Arends og Kiko Insa hefðu verið sendir í burtu frá Keflvíkingum og var Jóhann beðinn um að útskýra það aðeins nánar ásamt því að meta framhaldið hjá Keflvíkingum.
„Það hefur bara lítið gengið og það þarf að breyta aðeins til en þannig er bara boltinn. Brekkan var brött fyrir þennan leik og er búin að vera það í langan tíma. Það sem við þurfum að gera er að reyna að hafa gaman að hlutunum og fá gleðina aftur hjá okkur. Mér fannst vera leikgleði hjá okkur í þessum leik og margt jákvætt. Brekkan er vissulega brött en við þurfum að halda áfram.“ |
Mun fleiri tegundir beinfiska (Osteichthyes) en brjóskfiska (Chondrichithyes) eru þekktar í dag í ám, vötnum og heimshöfum jarðarinnar. Rúmlega 20.000 tegundum beinfiska hefur verið lýst en í kringum 800 tegundum brjóskfiska. Beinfiskar eru í raun langstærsti hópur hryggdýra, en næst koma fuglar með um 9.000 tegundir.
Talsverður munur er á mörgum þáttum í líffræði þessara tveggja hópa fiska, enda skildust þeir að þróunarlega fyrir hundruðum milljóna ára. Hér að neðan tel ég upp nokkra mikilvæga þætti sem eru ólíkir meðal hópanna.
Í fyrsta lagi samanstendur stoðgrind beinfiska að langmestu leyti úr beinvef. Stoðgrind brjóskfiska er hins vegar úr brjóski, þó að sumstaðar geti brjóskvefurinn kalkast og minnt mjög á bein. Hann er þó ekki upprunalega bein í þroskunarfræðilegum skilningi.
Í öðru lagi er hafa beinfiskar tálknlok sem þekja tálkngrindina. Þetta þekkist ekki meðal brjóskfiska.
Í þriðja lagi fer frjóvgun fram útvortis meðal beinfiska, með afar fáum undantekningum þó (meðal annars hjá karfanum). Raunin er önnur meðal brjóskfiska; þar verður frjóvgun eggfruma inni í kvið móðurinnar.
Í fjórða lagi hafa brjóskfiskar ekki sundmaga en hann er til staðar hjá beinfiskum með örfáum undantekningum, því það kemur fyrir að sundmaginn þróist úr tegundinni.
Í fimmta lagi er mikill munur á skinni þessara tveggja hópa. Brjóskfiskar, sérstaklega háfiskar, eru með skráp sem er mjög sérstök húðgerð. Hún er alsett litlum örðum sem eru úr tannglerungi. Hins vegar eru beinfiskar með skinn, eða roð eins og það nefnist á beinfiskum, sem alsett er litlum plötum sem nefnast hreistur. Hreistrið er svipað að vefjagerð og uppruna og neglur okkar mannfólksins.
Hér hefur aðeins verið imprað á nokkrum af helstu atriðunum sem ólík eru milli þessara meginhópa fiska. Það væri of langt mál að fjalla á tæmandi hátt um öll þau atriði sem eru ólík milli hópanna, bæði hvað snertir líffærafræðilega og lífeðlisfræðilega þætti, því fjöldi þeirra er umtalsverður. |
Skógræktarfélag Garðabæjar vill að óháður matsmaður verði fenginn til þess að meta tjón sem félagið hlýtur af því að missa land undir golfvöll. Til stendur að stækka völl Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar, GKG, inn í Smalaholt, þar sem rúmlega 30 ára gamall skógur stendur og Skógræktarfélagið hefur byggt upp gönguleiðir.
Upphaflega stóð til að taka 15 hektara af skógi félagsins og var félaginu aðeins boðið 2 hektara lúpínuland í staðinn. Endanlegar stærðir liggja ekki fyrir fyrr en deiliskipulag verður gert og ekki hefur verið ákveðið hvenær jarðýturnar mæti á svæðið.
Ekki hægt að flytja tíu metra tré
„Í mínum huga eru loftslagsmálin það alvarlegasta í þessu. Það er ekki hægt að flytja tíu metra tré á nýjan stað,“ segir Kristrún Sigurðardóttir, formaður félagsins, en það tekur tré mjög langan tíma að fara að skila sínu til loftslagsins. Lítið hafi verið hlustað á athugasemdir félagsins.
Kristrún Sigurðardóttir formaður Skógræktarfélags Garðabæjar.
Mynd/Aðsend
„Eftir athugasemdir okkar var svæðið sem tekið er aðeins minnkað og fært til. Samt verður elsti og gróskumesti skógurinn tekinn,“ segir hún.
Kristrún segir félagið eiga rétt á tugmilljónum króna vegna þessa máls. Það er út frá sams konar málum sem komið hafa upp í nágrannasveitarfélögunum. Í sumum tilfellum hafi verið samið en önnur endað fyrir dómstólum. Bæturnar eru þá metnar út frá fjölda trjáa og stærð þeirra. |
Þegar Haile Kebede kom frá Eþíópíu til Íslands árið 2002 til að taka þátt í námskeiði í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna átti hann ekki von að því að hann myndi snúa hingað aftur til þess að setjast hér að.
„Ég er með BS-próf í rafmagnsverkfræði og kom hingað á vegum orkufyrirtækis sem ég starfaði hjá í höfuðborg Eþíópíu, Addis Ababa. Það var mjög dýrmætt að fá að taka þátt í námskeiðinu. Eþíópía býr yfir miklum möguleikum á nýtingu jarðhita og það var fróðlegt að kynnast þessum málum á Íslandi.“
Haile sneri heim og miðlaði af þekkingu sinni en sneri aftur til Íslands 2003 þar sem örlögin höfðu gripið í taumana. Hér hafði hann nefnilega kynnst Tsgie Yirga. „Við sáumst fyrst í strætó og köstuðum kveðju hvort á annað þar sem við sáum að við vorum bæði frá Eþíópíu. Það er hægt að sjá slíkt á andlitsfallinu,“ útskýra þau.
Það var svo í boði hjá íslenskri konu, sem dvalið hafði langdvölum í Eþíópíu, sem þau Haile sáust aftur og komust að því að þau hefðu bæði búið og starfað í Addis Ababa, ekki langt frá hvort öðru.
Tsgie hafði komið til Íslands árið 2000 og starfað hér sem au pair í sex mánuði. „Ég vann við matreiðslu í norska skólanum í Addis Ababa og frétti af Íslandi og möguleikunum hér hjá trúboðum. Mér leist strax mjög vel á íslenskt samfélag og ákvað að reyna að fá vinnu hér að loknu au pair-starfinu. Ég fékk fljótlega starf við ræstingar í Menntaskólanum í Hamrahlíð og vinn þar enn. Ég elda líka eþíópískan mat fyrir hópa og fyrir afmæli. Mig langar til þess að komast í kokkaskóla en ég var búin að ljúka framhaldsskólanámi heima í Eþíópíu.“
Haile, sem sneri aftur til Íslands til þess að kvænast konunni frá Eþíópíu sem hann hafði kynnst hér, starfar nú við viðgerðir á kaffivélum. „Auðvitað langar mig til þess að starfa við mitt fag hér og vonandi tekst það. En vissulega langar mig líka til þess að nýta þekkingu mína í Eþíópíu,“ segir hann.
Það var meðal annars vegna skólagöngu barnanna sem fjölskyldan ákvað að setjast að á Íslandi. „Við eigum tvö börn, Jóhönnu, sem er 9 ára, og Jónatan, sem er 7 ára. Þau eiga marga vini hér og vilja vera áfram í skólanum sínum á Íslandi. Við verðum þess vegna hér, að minnsta kosti í nokkur ár. Við viljum að þau fái góða menntun,“ segja þau Haile og Tsgie.
Hún tekur sérstaklega fram að þau eigi góða að á Íslandi. „Hér hafa íslenskar fjölskyldur opnað heimili sín fyrir okkur. Það er gott að hafa bakhjarl hér þegar ættingjarnir eru langt í burtu.“ |
Heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, Janet Napolitano, lýsti því yfir síðdegis að versta óveðrið væri yfirstaðið. Veðurstofan segir þó enn hættu á flóðum vegna rigninga. Íbúar ættu því að hafa allan varann á í næstu daga.
Borgarstjóri New York, Michael Bloomberg, hélt blaðamannafund nú fyrir stundu. Þar fór hann yfir helstu afleiðingar fellibylsins Írenu í New York en borgarbúar geta andað léttar þar sem hið versta er yfirstaðið. Rýmingu verður aflétt klukkan 15 að staðartíma, en 370 þúsund íbúm borgarinna var gert að yfirgefa heimili sín í gær.
Bloomberg sagði suma hluta borgarinnar hafa farið illa út úr flóðum vegna óveðursins. Þá bað hann íbúa í nágrenni við Bronx ána að sýna aðgát þar sem áin flæði yfir bakka sína. Yankee leikvangurinn, sem er staðsettur í Bronx hverfinu, hefur orðið fyrir einhverjum skemmdum vegna vatns.
Bloomberg sagði einnig mikið vatn á götum og í undirgöngum í Brooklyn hverfinu. Í fjármálahverfinu á neðri hluta Manhattan flæddi vatn um göturnar og náði fólki upp að hnjám við ströndina. Þó er gert ráð fyrir að viðskipti hefjist í kauphöllinni á Wall Street á morgun.
Starfsmenn borgarinnar hafa þegar hafið hreinsunarstarf, 100 hópar á vegum garðaþjónustu borgarinnar hafa haldið af stað til að hreinsa upp tré og annan gróður sem hefur losnaði í veðrinu en talið er að um 650 tré hafi rifnað upp með rótum í borginni.
Að minnsta kosti tólf hafa látið lífið á austurströnd Bandaríkjanna af völdum fellibylsins Írenu, en hún hefur nú minnkað að styrk og flokkast nú sem ofsaveður.
Flest dauðsföllin voru í Norður-Karólínu þar sem mesta óveðrið var seinni partinn í gær. Bylurinn er nú flokkaður sem ofsaveður, en ekki fellibylur. Um fjórar milljónir manna eru án rafmagns.
Skemmdir af völdum Írenu gætu hlaupið á milljörðum dala, ef ekki tugum milljarða, að sögn Chris Christie ríkisstjóra New Jersey. |
Köngulóin sú getur orðið um 2 sentímetrar á lengd. Á matseðli hennar má meðal annnars finna stór skordýr, mýs og lítil skriðdýr. Hún finnst í norðanverðri Suður-Ameríku, nánar tiltekið í Surinam, Frönsku-Guyana, NA-Venezuela og Norður-Brasilíu. Þessi dýr lifa í regnskógunum við kjörhitastigið 27-30°C. Heildarlengd skrokksins, getur verið allt að 10 sentímetrar. Hún hefur þó einungis fundist innanhús eins og í birgðageymslum því að hún getur ekki lifað af utandyra. Fuglaætuköngulóin er mikill tækifærissinni í fæðuvali, étur allt það sem hún ræður við og er nægilega stórt til að þess að hún verði södd. Stærsta könguló í heimi er að öllum líkindum tegund sem kallast fuglaætuköngulóin (Theraphosa leblondi). Stærsta köngulóin sem lifir á Íslandi er tegund sem heitir Tegenaria saeva á latínu. Þessar köngulær hafa hin síðustu ár orðið mjög vinsæl gæludýr enda geta þær lifað nánast jafnlengi og venjulegir heimiliskettir eða í 15 til 18 ár. Stærsta köngulóartegund í heiminum, fuglaætuköngulóin. Köngulærnar lifa á skógarbotni skóganna, þar sem þær gera sér holur í jörðina og bíða eftir bráð. Myndin er fengin af vefsetrinu hem.passagen.se Hún er innflutt tegund sem berst hingað með vöruflutningagámum. Fuglaætuköngulóin er um 25 sentímetra löng ef lappirnar eru taldar með en sést hefur til köngulóa sem voru allt að um 30 sentímetrar. Svo virðist sem henni hafi tekist að nema hér land með góðum árangri. Henni hefur verið gefið nafnið fraktkönguló á íslensku. |
Ljóst er að töluvert mun hægja á hagvexti vegna gjaldþrots WOW air og að bankarnir verði fyrir „einhverju tjóni“ en ólíklegt er að það eitt raski fjármálastöðugleika. Þetta kom fram á fundi fjármálastöðugleikaráðs í vikunni. Fall flugfélagsins mun þó leiða til meiri samdráttar í ferðaþjónustun en reiknað var með í síðustu fyrirliggjandi spám.
Fjármálaráðherra, forstjóri FME og seðlabankastjóri eru meðal þeirra sem eiga sæti í fjármálastöðugleikaráði. Það kom saman til fundar á þriðjudag og í tilkynningu frá ráðinu segir að fall WOW muni leiða til meiri samdráttar í ferðaþjónustu en reiknað var með í síðustu fyrirliggjandi spám.
Þetta er ekki fyrsta skipti sem fjármálastöðugleikaráð fjallar um WOW. Á fundi þess í október var lögð fram greining sem sýndi að möguleg áföll í flugrekstri myndu ekki ógnað fjármálastöðugleika.
Ráðið segir enn fremur að svigrúm til hagstjórnar að mæta áföllum sé einnig talsvert þar sem afgangur sé á ríkissjóði. Skuldir hins opinbera séu sögulega litlar og stöðugleikaráðið telur vera svigrúm til lækkunar stýrivaxta, ef aðstæður krefja.
Matsfyrirtækið Mood'ys fjallaði einnig um fall WOW og segir að það telji að hin 27 flugfélögin sem fljúgi til Íslands muni að fylla það skarð sem WOW skildi eftir sig að mestu leyti. Áhrifin af falli flugfélagsins verði neikvæð til skamms tíma og það geti dregið úr hagvexti á þessu ári.
Fram kom í fréttum RÚV í gær að Skúli Mogensen, stofnandi flugfélagsins og fyrrum lykilstarfsmenn, leiti nú að fimm milljörðum til að endurreisa flugfélagið.
Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Skúli innan við tvær vikur til að tryggja fjármögnun og fá þá samþykki Samgöngustofu til þess að færa flugrekstrarleyfi WOW yfir á nýja kennitölu. Einna mestu verðmætin í þrotabúinu eru í flugrekstrarbókum sem eru grundvöllur fyrir flugrekstrarleyfi en án þeirra gæti tekið á annað ár að stofna nýtt flugfélag í stað nokkurra vikna sem endurreisn félagsins gæti tekið fáist til þess fjármagn. Þá hefur fréttastofa heimildir fyrir því að fleiri en Skúli hafi sýnt þrotabúinu áhuga. |
Ungmenni sem taka þátt í Háskóla unga fólksins reyndu í dag að átta sig á með hjálp vísindanna hversu mikið C-vítamín er í freyðitöflum og hvernig hægt er að mæla þykkt hára.
Háskóli unga fólksins var settur í morgun og stendur fram á föstudag. Skólinn hefur nú verið starfræktur í þrettán ár. Þar gefst ungmennum á aldrinum 12 til 16 ára tækifæri til að kynnast þeim ótal mörgu fræðigreinum sem kenndar eru við Háskóla Íslands. Að þessu sinni taka um 350 ungmenni þátt og í dag var þeim meðal annars kennt hvernig hægt er að mæla þykkt hára og ýmislegt fleira.
„Við erum líka að finna hérna magn af C-vítamíni í ávaxtasafa og svona freyðitöflu sem að maður setur í vatn,“ segir Katrín Ósk Einarsdóttir sem gerði tilraunir í stofu 210 í VR1 í dag þegar hún sat námskeið í efnafræði.
Kennarinn segir tilraunir sem þessa geta kennt krökkunum ýmislegt.
„Hér held ég að það sé mikilvægt að þau fái að komast inn í þetta umhverfi. Að komast inn á tilraunastofu og fái að nota búnaðinn sem að við erum með og að skilja eftir orð sem að þau þekkja sem eru líka efnafræðiorð. Þannig að þau fara heim með orð eins og C-vítamín, koltívoxíð og vatn og átta sig á því að þetta eru efni sem eru í kringum okkur og efnafræðingar fást við,“ segir Katrín Lilja Sigurðardóttir efnafræðingur. |
Össur Skarphéðinsson alþingismaður, formaður Samfylkingarinnar, er nýbyrjaður að blogga. Er síða hans, sem hér má finna, sambland af texta og tali og er talið skemmtileg nýbreytni. Ekki er ólíklegt að tilefni þess að Össur lætur í sér heyra á netinu sé fyrirhugað formannskjör í Samfylkingunni. Rifjast þá upp að keppinautur hans, Ingbjörg Sólrún Gísladóttir, festi sér fyrir mörgum árum lénið isg.is án þess að nýta sér það og virðist síðan hafa látið það frá sér. Er undarlegt að svo pennafær og framtakssöm kona skuli ekki nota sér persónulega þann vinsæla vettvang sem netið er. Hlýtur það að standa til bóta.
Nokkru áður en Össur kvaddi sér hljóðs á netinu byrjaði Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslyndra að blogga. Hann hafði áður vakið athygli - og hneykslun einhverra - fyrir opinská skrif á spjallvefinn malefnin.com, sem kalla má einhvern lágvaxnasta gróðurinn í skrúðgarði andans í netheimum (svo fengið séu að láni fleyg orð frá fyrri tíð). En á heimasíðunni nýju sýnir Magnús tilþrif og á góð innlegg.
Á undan Össuri og Magnúsi Þór hafa alþingismenn smám saman verið að taka netið í þjónustu sína. Á vef Alþingis má sjá að nú eru þeir orðnir 27 þingmennirnir sem blogga, þar af þrír ráðherrar. Eru sumir mjög duglegir við að uppfæra síðurnar en því miður eru nokkrir svartir sauðir í hópnum sem ekki hafa hreyft við síðum sínum mánuðum og jafnvel árum saman. Verður það að teljast heldur snautleg frammistaða þegar alþingismenn, atvinnumenn í pólitískum málflutningi, eiga í hlut.
Löngu á undan öllum þingmönnum sem nú blogga var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra farinn að skrifa reglulega pistla á netið. Heimasíða hans eru tíu ára um þessar mundir. Má næstum segja að sumir núverandi þingmanna hafi verið með bleyju þegar Björn byrjaði. Og hvað sem mönnum kann að finnast um einstök skrif Björns eða skoðanir verður að viðurkennast að á netinu hefur enginn alþingismanna tærnar þar sem hann hefur hælana. Hann er öflugasti pólitíski bloggarinn í íslenska netheiminum, verðlaunaður af netverjum. Hefur enginn haft jafn mikið úthald og hann. Björn hefur svo að segja birt pistla vikulega eða oftar frá því að hann byrjaði með síðuna sína í febrúar 1995. Þar sem hann hefur jafnan þann hátt á að fjalla um það sem efst er á baugi hverju sinni - og hefur verið einn helsti áhrifa- og valdamaður þjóðarinnar á umræddu tímabili - er vefsíðan hans einnig orðin að merkilegri sögulegri heimild. Auðvelt er að leita að efnisatriðum á síðunni því henni fylgir leitarvél.
Björn ritar um tímamótin í nýjasta pistli sínum og ræðir þá meðal annars viðtökurnar. Hann skrifar: "Heimsóknir á síðuna eru svo margar á þessu árabili, að ég hef engar tölur tiltækar um þær. Ég hef raunar aldrei hampað slíkum tölum, enda eru þær aukaatriði í mínum huga, þegar ég velti gildi síðunnar fyrir mér. Fyrir mig er vefsíðan einstaklega skemmtilegt og þægilegt tæki til að halda skipulega utan um það, sem á henni er að finna, auk þess gefur hún mér tækifæri til að segja skoðun mína á mönnum og málefnum. Pistlarnir eru allir börn síns tíma og ber að skoða þá í ljósi umræðu líðandi stundar á hverjum tíma, í þeim felst viðleitni til að halda fram skoðun og viðhorfi til manna og málefna á rökstuddan hátt".
Og segir síðan: "Fyrir nokkrum árum bauð ég þá þjónustu, að unnt væri að skrá sig á póstlista hjá mér. Nú eru 1179 manns á þeim lista og sendi ég þeim pistlana við útgáfu þeirra. Það er jafnauðvelt að skrá sig á listann og afskrá sig, ég kem þar hvergi nærri."
Í afmælispistlinum gerir Björn Bjarnason síðan þróun íslenskrar umræðuhefðar að umtalsefni. Leyfum við okkur að taka það hér orðrétt upp í von um að lesendur vilji leggja orð í belg:
"Umræðuhefð okkar hefur breyst á þeim 10 árum, sem liðin eru frá því að ég opnaði síðuna. Þótt fleiri raddir heyrist en áður fyrir tilstilli netsins, hefur meiri samþjöppun orðið hér í fjölmiðlun en æskilegt er, og nú er svo komið, að um 70% af markaðnum er á hendi eins aðila, sem auk þess hefur undirtökin í allri smásöluverslun og sterk ítök í fjármálaheiminum, til einföldunar kalla ég þessa fjölmiðla Baugsmiðlana. Víðlesnasta blaðinu er dreift ókeypis inn á hvert heimili. Þegar flokksblöð voru við lýði, gátu menn gengið að því vísu, að þau drægju dám af sjónarmiðum leiðtoga og hagsmunum viðkomandi flokks og í sjálfu sér ekkert við það að athuga. Menn völdu og höfnuðu með áskrift sinni. Hvarvetna er viðurkennt, að sjónarmið eigenda setji svip á fjölmiðla, efnistök, efnisval og skoðanir. Hið sama á auðvitað við hér á landi og barnaskapur eða hræsni, að halda að málum sé öðru vísi háttað. Með þessu er ekki sagt, að eigendur séu að skipta sér af öllu, sem sagt er í miðlum þeirra, en andi þeirra svífur yfir vötnunum. Svonefndir álitsgjafar láta meira að sér kveða en áður og er gjarnan leitað til þeirra í fjölmiðlum, ef mikið þykir við liggja. Þeir eru hins vegar brenndir hinu sama og við allir dauðlegir menn, að skoðanir þeirra eru hvorki betri né verri en rökin, sem þeir færa fyrir þeim. Stundum virkar það á mann á þann veg, þegar kallað er í álitsgjafa til skrafs og ráðagerða, að nú hafi verið ákveðið að skrúfa frá kalda krananum í stað þess heita, því að skoðanirnar eru svo staðlaðar eða mótaðar af pólitískri rétthugsun í umhverfi álitsgjafans, að sjaldan heyrist í raun nokkuð nýtt, vatnið er jafnkalt eða jafnheitt og áður. Frétta – eða blaðamenn, sem eru að skýra fyrir okkur málin, með eigin útlistunum, eru að sjálfsögðu ekki hlutlausir. Galdurinn hjá fjölmiðlum er hins vegar að gefa öllum sjónarmiðum tækifæri en ekki að láta eitt duga. Að þessu leyti hefur þróunin orðið sú, að skoðanir þeirra, sem tjá sig í pistlum og fréttaskýringum, verða sífellt einsleitnari. Í stað skoðana, sem byggðust á ólíkri pólitískri sýn, er leitast við að halda sig við pólitíska rétthugsun, sem verður sífellt þröngsýnni á málefni og ekki síst menn. Fréttir af því, hvílíkur kraftur og vöxtur hefur hlaupið í fjármála- og bankastarfsemi hér, eftir að ríkið sleppti hendi sinni af henni, staðfesta enn hve þungt og erfitt er að njóta sín í samkeppnisrekstri undir handarjaðri ríkisvaldsins. Hið sama sjáum við gerast í háskólastarfsemi, rannsóknum og vísindum. Þar hefur orðið bylting, eftir að tekið var til við að virkja áhuga og snerpu einkaframtaksins á markvissan hátt."
Og Björn lýkur pistlinum með eftirfarandi orðum (sem eru m.a. áhugaverð því þar talar fyrrverandi yfirmaður Ríkisútvarpsins):
"Spyrja má: Er ríkisvaldið í raun að stuðla að bestu þjónustu í fjölmiðlun með því að halda ríkisútvarpinu úti? Hvaða hagsmuni er verið að verja með því að reka ríkisútvarpið? Ég hef ekki verið talsmaður þess, að ríkið drægi sig út úr útvarpsrekstri. Ég tel hins vegar æskilegt að ræða málið, án þess skrúfa til skiptis frá heita og kalda krananum."
Hvað finnst lesendum Vísis um þetta? Orðið er frjálst.
Guðmundur Magnússon [email protected] |
Úr dagbók TJ í Finnstungu/Tryggva í Tungu 1941
Að taka til tófta, stinga út, reisa tað, slóðadraga, gera við slóða og skrifa upp dánarbú eru verkefni sem koma við sögu í tæplega áttræðri dagbók Tryggva afa í Finnstungu.
Í bréfum og dagbókum opnast gluggi til daglegs lífs fyrri tíma, hestur og handafl höfðu ekki enn verið leyst af hólmi, en vélaöld var að ganga í garð. Hún birtist smátt og smátt – eins og okkur virðist lífið hafa gengið fyrir sig, slóðar voru dregnir um tún – í fyrstu af hestum en dráttarvélar voru komnar til sögunnar þegar kynslóð mín – 1945 -'50 – var farin festa augu á daglegum verkum og taka þátt í þeim.
Kúm og kindum var beitt á tún á haustin, síður á vorin þó það væri líka tíðkað, auk þess sem taði og mykju var ekið á völl. Þá var dýrmætt að eiga slóða til að draga um túnið en áður hafði verið handunnið á túnunum, taðinu rakað saman, mulið í taðkvörn og borið á með handafli.
Þeir voru dagbókamenn, Tungufeðgar, Tryggvi f. 1892, sem bóndi varð í Tungu eftir Jónas föður sinn og eins Jónas elsti sonur Tunguhjónanna, f. 1916, en nokkrir dagar frá vorinu 1941 sem Tryggvi greindi frá í dagbók verða rifjaðir upp hér neðar.
Til skýringa:
Börn þeirra Tunguhjóna koma mest við sögu: 1. Jónas 25 ára, 2. Jón 24 ára, 3. Guðmundur nýorðinn 23 og 4. Anna Margrét 21 árs en stúlka frá næsta bæ, Aðalbjörg Þorgrímsdóttir 23 ára er í vinnumennsku þar á heimilinu og dagbókahöfundur nefnir stúlkurnar gjarnan A og A. Hann notar mjög skammstafanir, þegar hann skráir niður vorannirnar – sér og öðrum til minnis.
Umsjónarmaður þjóðvega, Steingrímur Davíðsson skólastjóri á Blönduósi og Hafsteinn oddviti á Gunnsteinsstöðum komu einn daginn til skoða veg og vegarstæði inn Blöndudalinn. Í dalnum var starfandi vegafélag þar sem sveitarmenn lögðu til svo og svo mörg dagsverk hvert sumar og hesta til dráttar.
G.B. er Gunnar Bjarnason, einsetumaður í Ytrakotinu sem hafði af því nytjar ásamt jarðeigendunum, Finnstungumönnum.
Áttræða frænkan á Blönduósi, Anna Jóhannsdóttir frá Mjóadal er dóttir Guðrúnar, systur Jónasar eldri í Finnstungu, og systir Sigurjóns í Blöndudalshólum, amma Sigurgeirs Hannessonar í Stekkjardal, Þormóðar Sigurgeirssonar verkstæðisformanns í Vélsmiðju Húnvetninga og bræðra hans.
Önnur Blönduósferð var gerð þegar Jón Tryggvason hjólaði til Blönduóss á héraðsfund ungmennafélaganna.
Fé og fjós nefnir TJ á fyrsta degi, vill minna á, að málaverkum þurfti einnig að sinna kvölds og morgna, að láta inn fé og gefa eða ganga til þess ef sauðburður var hafinn og fé lá við opið og eins að fara í fjós til að mjólka, gefa hey, fóðurbæti og moka flórinn.
Fremst í dagbókinni er vörubirgðaskrá dagsett 1. maí og þar eru m. a. tilgreind 50 kg af hveitikorni og 25 af möluðu hveitikorni. Af kartöflum voru til 200 kg og af því 100 kg sem ætluð voru til útsæðis, en í dagbókarbrotinu kemur í ljós sala á kartöflum, alls 80 kg, að Vatnshlíð, þremur bæjum fremst í Svartárdal og til BJ.
Maí 1941 Tólf dagar úr dagbók TJ:
Útstunga í Tungu: 3 við það (bræðurnir) – fé og fjós. Hreingerning Tungu 2 við það (Alla og Anna).
Útstunga Kotinu og slóðadraga. Öll 6 við það. Nonni á vörð frá 3, við hin til 6. Hestar 2 dagsverk.
Unnið við tað heima, reisa og taka saman, 4 við það (ég, Jonni, A og A) Mundi herfaði í Kotinu. Nonni til Blönduóss á hjóli.
Steingr. D. og Hafst. komu að líta á veginn. Fór með þeim að Austurhlíð. 20 kg kart. E. Vatnshl.
Slóðadrógum heima 3 (ég, A. og A. og 2 hestadagsv.) Nonni norður á Krók. Jonni tók til tóftar suður frá. Mundi vann á Brandstöðum.
Jonni bar á heima, Alla við hreingerningu, Anna í rúminu. Mundi vann á Brandsstöðum. Nonni vann niður frá. Ég var við uppskrift á db. Sig. Guðm. Hvammi.
Slóðadregið niður frá: 4 (Jonni, Nonni, A og A.) 2 hestadagsv. Við Mundi í túngirðingu heima. 30 kg. kart. Fossum, Stafni, Kúfust.
Slóðadregið og borið á niður frá: 5 (Bræðurnir allir og stúlkur) Smyrill og Y-Brúnn teknir fyrir slóða með, ca. 3 hestadagsverk. Við hjónin forum til Blönduóss. Áttræðisafmæli Önnu Jóh. frænku.
Unnið niðurfrá: 5 (Bræðurnir allir og stúlkur), 2 hestadagsv. Ég lagaði lítið eitt í garðinum heima. Fór um kvöldið að Hólum. Vegafélagsfundur þar.
Nonni með G.B. í girðingunni niður frá. Við hin við samantekningu á eldivið heima. Mundi lagaði slóða. 30 kg. kart. Bj. Jónsson.
Fórum að Bergsstöðum allir 4. Varð lítið úr æfingu, vantaði 5 og 3 illa fyrirkallaðir vegna uppboðs á Mælifelli í gær.
Slóðadregið heima og mokað úr: 4 (Jonni, Mundi og stúlkur), Nonni og ég niðurfrá. Ég í girðingu með Gunnari. Nonni ók af, 1 hestdagsverk niðurfrá, 1 hestdagsverk heima.
Fleira til fróðleiks:
Til hvers karlakór, fyrirlestur IHJ í Hæðargarði í febr. 2016: http://stikill.123.is/blog/2016/02/25/744889/
Minningarhátíð um Jónas Tryggvason í nóv. 2016: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13350
Ingi Heiðmar Jónsson |
Bæjarstjórn Seltjarnarness íhugar þann möguleika að lána ungu fólki í sveitarfélaginu fyrir útborgun í fyrstu íbúð sinni.
Ásgerður segir tillöguna ekki hafa verið rædda formlega í bæjarstjórn en samstaða ríki þó um málið hjá fulltrúum meiri- og minnihluta. Mikið af ungu fólki á Seltjarnarnesi hafi spurst fyrir um hvort sveitarfélagið geti lánað fyrir fyrstu afborgun af íbúð þar sem það komist ekki í gegnum greiðslumat. Seltirningar skoða nú þann möguleika af alvöru og býst Ásgerður við að málið verði formlega rætt í bæjarstjórn á næstu vikum.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness: Auðvitað væri langbest að hérna ríkið myndi endurskoða stöðuna á þessum lánveitingum út frá því að fólk á bara þessa fjármuni ekki og staða fjölskyldunnar er oft það slæm að það er ekki hægt að lána. En sveitarfélögin þurfa líka að skoða hjá sér hvort að þau vilji halda í sína íbúa. Og hvernig gerum við það? Verðum við að fara að taka upp einhverskonar lánakerfi og í samstarfi þá við hvern og með hvaða reglum? Og mér finnst við þurfa að skoða þetta.
Ásgerður vonast til þess að fleiri sveitarfélög skoði þennan möguleika en mikilvægast sé þó að ríkið og bankarnir leysi þann mikla vanda sem ungt fólk í íbúðaleit standi frammi fyrir. Hún segir sveitarfélagið vera reiðubúið að lána því sem nemur fyrstu útborgun.
Ásgerður Halldórsdóttir: Já, við erum að tala um litla íbúð og það sem að fólki hefur vantað þá hafa þau, þeir sem hafa talað við mig nefnt þessa fjárhæð, 4-5 milljónir.
Minnihluti Samfylkingar og Neslistans í bæjarstjórn Seltjarnarness segir í tilkynningu að Ásgerður tali ekki fyrir hönd bæjarstjórnarinnar í málinu. Málið hafi aldrei komið upp og verið rætt, hvorki formlega né óformlega í bæjarstjórn eða nefndum og ráðum sveitarfélagsins. Hvað þá að um það ríki þverpólitísk samstaða. Bæjarfulltrúarnir telji afar óábyrgt að skapa væntingar sem óvíst sé hvort hægt sé að standa við, meðal annars á grundvelli laga um starfsemi sveitarfélaga. |
Hópur sviðs- og deildarstjóra hjá Kópavogsbæ telur sig hafa verið hlunnfarinn um laun upp á hátt í 100 milljónir króna frá árinu 2006 þegar kjararáð fór að úrskurða um laun þeirra. Bæjarstjóri er að skipa starfshóp til að skoða málið nánar.
Meðal starfsmanna hafa vaknað þær spurningar hvort eða hvernig þetta verði leiðrétt, t.d. hvort ekki verður farið lengra aftur í tímann en fjögur ár og hvort leiðréttingin á aðeins að ná til þeirra sem enn eru við störf en ekki þeirra sem nýlega eru hættir vegna aldurs eða hafa skipt um vinnu. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, segir að málið sé komið í ákveðinn farveg.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri: Ja, staðan er einfaldlega sú að ég lagði það til að stofnaður yrði starfshópur þar sem væri einn fulltrúi þessa starfsmannahóps, einn fulltrúi frá bænum og einn oddamaður og starfshópurinn mundi skila af sér niðurstöðu einhvern tímann á næstu misserum og eftir þeim heimildum sem ég fékk frá þeim fundi að þá var það samþykkt.
Gissur Sigurðsson: Snýst þetta kannski um túlkun á niðurstöðu Kjararáðs?
Ármann Kr. Ólafsson: Já, það gerir það því að það er þannig að þegar Kjararáð kveður upp sinn dóm varðandi prósentuhækkanir þá hafa þessir aðilar fengið þær hækkanir, það hefur ekkert vantað upp á þá Hinsvegar eru þarna einhverja bakgrunnsbreytur sem að menn eru að vitna til og það þarf bara að far vel ofan í það mál, hvort að það eigi við í þessu tilviki.
Gissur Sigurðsson: Og mönnum verður þá bætt þetta upp ef að ástæða þykir til?
Ármann Kr. Ólafsson: Já, þetta er nú bara rétt skal vera rétt en menn koma ekki til mín og segjast þurfa 100 milljónir úr bæjarsjóði bara si svona. Ég er vörslumaður og gæslumaður bæjarsjóðs og þess vegna hlýt ég að taka minn tíma í að skoða þetta mál og stíga varlega til jarðar í því. |
forseti (GJóh):
Eins og sjá má af þessu yfirliti, hefur Alþingi það, sem nú lýkur störfum í dag, haft mörg merk og stór mál til meðferðar, enda hefur Alþingi setið lengi að störfum. Til þess liggja eðlilegar ástæður, sem hér verður ekki farið frekar út í.
Ég bendi hér aðeins á nokkur hinna stærri mála, sem afgreidd hafa verið á Alþingi. Samþykkt voru lög um útflutningssjóð o.fl. Sett lög, sem heimila ríkisstjórninni kaup á 15 nýjum togurum og 12 fiskiskipum, 200–250 smálesta hvert, ásamt lántökuheimild fyrir ríkisstj. til þessara skipakaupa. Áætlað er, að hinum nýju togurum og fiskibátum verði ráðstafað til þeirra byggðarlaga, er mesta þörf hafa fyrir aukinn atvinnurekstur á sviði sjávarútvegs og hafa jafnframt vinnslumöguleika í landi. Þá er og gert ráð fyrir því í lögunum, að ríkisstj. sé heimilt að setja á stofn ríkisútgerð togara til atvinnujöfnunar fyrir þau sjávarþorp, sem verst eru á vegi stödd með atvinnu.
Samþykkt voru lög um útflutning sjávarafurða o.fl.
Samþykkt hafa verið lög um landnám, ræktun og byggingar í sveitum.
Samþykkt lög um búfjárrækt.
Endurskoðuð og samþykkt lög um lax- og silungsveiði og fleiri lög viðkomandi landbúnaði, sem ekki vinnst tími til að telja upp.
Þá hafa verið samþykkt ný lög um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til íbúðabygginga o.fl., mikill lagabálkur, þar sem í eru allmörg nýmæli, svo sem um húsnæðismálastofnun ríkisins, byggingarsjóð ríkisins, frjálsan sparnað og skyldusparnað ungs fólks gegn forgangsrétti til lána úr byggingarsjóði til húsbygginga.
Samþykkt hafa verið lög um breytingar á orlofslögunum. Nú fá t.d. hlutarsjómenn fullt orlof, en fengu áður aðeins hálft.
Samþykkt hafa verið lög um heilsuvernd í skólum og samþykktar breytingar á sjúkrahúsalögum.
Samþykkt lög um Háskóla Íslands, þar sem í eru mörg nýmæli frá eldri lögum.
Gerðar hafa verið breytingar á lögum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús og félagsheimilasjóði séð fyrir auknum tekjum. Nú fá verkalýðsfélög og búnaðarfélög beina aðild að félagsheimilasjóði, sem þau höfðu ekki áður. Helmingur af skemmtanaskatti skal nú renna í félagsheimilasjóð í stað 35 af hundraði áður.
Þá hafa verið samþykkt lög um stofnun vísindasjóðs og sjóðnum tryggðar allmiklar tekjur árlega.
Þá hafa verið samþykkt þrjú bankafrumvörp um breytingar á bankalöggjöfinni. Aðalbreytingin er um seðladeild Landsbankans, sem nú verður undir sérstakri stjórn innan Landsbankans. Önnur aðalbreytingin er sú, að Útvegsbankanum h/f skuli breytt í ríkisbanka.
Samþykkt hafa verið lög um skatt á stóreignir. Ég hef hér í sem stytztu máli nefnt nokkur frv., sem Alþingi hefur fjallað um og gert að lögum. Að sjálfsögðu eru fjölmörg önnur mál, sem Alþingi hefur haft til meðferðar og afgreitt sem lög. Einstaka mál hefur dagað uppi, og eru það engin nýmæli í sögu Alþingis.
Ég vil leyfa mér að halda því fram, að eftir þetta þing liggi mikið og merkilegt starf. Það er ósk mín og trú, að störf þessa Alþingis verði landi og þjóð til aukinnar hagsældar og blessunar.
Ég vil þakka öllum hv. alþm. fyrir góða samvinnu og fyrir þá miklu vinnu, sem þeir hafa lagt í störf sín í nefndum og á þingfundum.
Ég þakka hæstv. forsetum fyrir ágæta samvinnu, svo og riturum sameinaðs Alþingis, sem á margan hátt hafa aðstoðað mig við forsetastörfin.
Skrifstofustjóra Alþingis, fulltrúum og öllu starfsfólki þakka ég alla þá aðstoð og fyrirgreiðslu, sem mér hefur verið veitt og ætíð hefur verið í té látin með glöðu geði.
Ég óska hæstv. alþm. alls hins bezta á komandi tímum. Utanbæjarþingmönnum svo og öðrum þeim, sem nú halda heim frá þingi, óska ég góðrar ferðar og heimkomu og að við megum öll heil hittast við setningu næsta Alþingis.
Ég vil leyfa mér, herra forseti, að þakka fyrir hönd þm. góðar óskir forsetans. Einnig þökkum við ánægjulegt samstarf við hann og réttláta fundarstjórn hans. Við óskum honum og ástvinum hans velfarnaðar og vonum, að við megum hitta hann heilan, þegar við komum saman að nýju.
Ég vil leyfa mér að biðja hv. þm. að staðfesta þessi ummæli mín með því að rísa úr sætum. -
Forseti (GJóh):
Ég vil þakka hv. þm. G-K. ummæli hans og árnaðaróskir mér til handa og hv. alþm. fyrir að hafa tekið undir þær og endurtek árnaðaróskir mínar til hv. alþm.
Forseti Íslands (Ásgeir Ásgeirsson)
Hv. alþm. Í dag hefur verið gefið út forsetabréf, sem svo hljóðar:
„Forseti Íslands gerir kunnugt:
Ég hef ákveðið, að Alþingi, 76. löggjafarþingi, skuli slitið í dag, föstudaginn 31. maí 1957.
Mun ég því slíta Alþingi í dag.
Gert að Bessastöðum, 31. maí 1957.
Ásgeir Ásgeirsson.
Hermann Jónasson.
Forsetabréf um þinglausnir.“
Samkvæmt þessu bréfi, sem ég hef nú lesið, lýsi ég yfir því, að þessu þingi, sem nú hefur lokið störfum, er slitið.
Ég óska þingmönnum velfarnaðar, þjóðinni allra heilla og bið þingmenn að minnast fósturjarðar vorrar, Íslands, með því að rísa úr sætum.
Þingheimur stóð upp, og forsætisráðherra, Hermann Jónasson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“
Tók þingheimur undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.
Var síðan af þingi gengið. |
Framkvæmdir við stækkun verslunarmiðstöðvar Glerártorgs á Akureyri hafa verið stöðvaðar. Vinnustöðvunin er tilkomin vegna ágreinings um niðurrif gamals húss.
Óljósar upplýsingar eru um vinnustöðvunina á þessari stundu enda aðilar máls uppteknir á neyðarfundum í þeirri viðleitni að leysa stöðuna. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur ósætti um niðurrif eins hússins á Glerártorgi eða bætur vegna þess orðið til þess að tugir starfsmanna hafa verið aðgerðarlausir í morgun. Loft er sagt lævi blandið á athafnasvæðinu. Stækka á verslunarmiðstöðina Glerártorg um næstum helming og er því um mikla og mannmarga framkvæmd að ræð. Tap verktaka á vinnulausum degi er því verulegt. Málið er á borði skipulagsfulltrúa Akureyrarbæjar, samkvæmt upplýsingum fréttastofu en ekki hefur náðst í hann. Jakob Björnsson hjá félaginu Smáratorgi sem á Glerártorg, sagðist ekki getað tjáð sig um málið að öðru leyti en því að hann staðfesti að öll vinna lægi niðri.
Nú rétt áðan sendi Akureyrarbær frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að samkvæmt nýjum úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála eigi fyrirtækið Svefn og heilsa sem þarna á hús, enn óbein eignaréttindi í lóðinni samkvæmt eldra deiliskipulagi. Byggingaleyfið sé því tímabundið fellt úr gildi meðan sátta er leitað. Fundað verður á morgun vegna málsins en sýnt virðist að framkvæmdir geti ekki hafist á ný fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag. |
Það er alveg ljóst að lýðræðið í Hafnarfjarðarbæ er ekki að virka. Gengið var til sveitarstjórnarkosninga, þar sem Samfylkingunni og Lúðvíki Geirssyni bæjarstjóra var hafnað, en SAMT skulu sömu menn sitja áfram í bæjarstjórn með sama bæjarstjóra. Hvað er það sem oddviti vinstri grænna og Samfylkingin skilja ekki?
Kröfur kjósenda um breytingar Í Hafnarfirði eru skýrar. Kjörsóknin var dræm eins og raun ber vitni - aðeins 65%, auðir seðlar voru óvenju margir og meirihluti Samfylkingar hélt ekki velli! Það var grátbroslegt að fylgjast með sjálfsþægingu Lúðvíks Geirssonar, fyrrverandi og núverandi bæjarstjóra, í kosningabaráttunni, þar sem hann hélt því fram að kosningarnar í Hafnarfirði snerust um hann. Er það ekki mikillæti að halda þessu fram? Verður maður ekki að vona að kjósendur hafi vit til að kjósa um málefnin og árangur bæjarstjórnarinnar? Ef hins vegar kosningar hefðu snúist um hann eins og hann hélt sjálfur fram, þá hlýtur Lúðvík fyrstur manna að viðurkenna að honum hafi skýrt og skorinort verið HAFNAÐ! Hann bauð sig fram í 6. sætið, fékk ekki kosningu og ætti því að detta úr bæjarstjórn.
Í ljósi þessa þá hlýtur maður að spyrja - af hverju kemst Lúðvík í og þiggur bæjarstjórastólinn þrátt fyrir mikið afhroð? Það er líka vert að velta því fyrir sér hvað oddviti vinstri grænna, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, er að hugsa. Af hverju tekur hún ekki bæjarstjórastólinn strax eða lætur hann í hendur þeirra sem hafa verið kosnir til þess? Þarf hún tveggja ára starfskynningu á störfum bæjarstjóra eins og hún hefur haldið fram? Er hún ekki búin að vera í bæjarstjórn í fjögur ár og á því að vera fullkunnugt um það í hverju starf bæjarstjóra felst - að minnsta kosti í grófum dráttum? Ef hún getur ekki lært það á fjórum árum, hvernig getur hún það þá á tveimur? Kannski er hún ekki til þess fallin að taka við þessari stöðu ef hún treystir sér ekki í hana eftir fjögra ára veru í bæjarstjórn. Sérkennileg er einnig sú staða að vinstri grænir skuli hafa aðeins einn bæjarfulltrúa sem kemst í þá oddastöðu að einn af ellefu skuli ráða útkomu bæjarstjórnar? Skynsamlegra hefði verið að ráða ópólitískan bæjarstjóra til að fara þó að minnsta kosti að vilja kjósenda og sýna lýðræðið í verki.
Þegar skoðaður er ferill meirihluta Samfylkingar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eru ýmsar spurningar sem vakna um ákvarðanir og forgangsröðun. Sveitarfélagið hefur aldrei staðið eins illa fjárhagslega og nú í tíð meirihluta Samfylkingar og því er það kostulegt það sem fram kemur í yfirlýsingu nýja meirihlutans: „Nýi meirihlutinn mun leggja ríka áherslu á að … og tryggja um leið ábyrga fjármálastjórnun." Þetta sama fólk og sami bæjarstjóri var við stjórnvölinn áður, en sérstök eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hefur haft fjárhagsstöðu sveitarfélagsins undir eftirliti vegna þess að skuldir og skuldbindingar þykja vera úr hófi fram! Því er ekki annað en hægt að velta fyrir sér hæfi oddvita vinstri grænna sem segir í fréttatíma sjónvarps að vegna þess að sveitarfélagið standi svo illa þurfi að koma til reyndur bæjarstjóri! Sem sagt bæjarstjórinn sem borið hefur ábyrgð á fjárhagsstöðu bæjarins. Hefur hún ekki fylgst með hvað hefur verið að gerast í bæjarstjórninni undanfarin fjögur ár, þar sem hún hefur setið?
Samfylkingin hefur staðið sig hörmulega í ríkisstjórn og hún hefur staðið sig hörmulega í bæjarstjórninni í Hafnarfirði. Meirihlutanum var hafnað og ekki síst bæjarstjóranum. Hvers vegna eru kröfur kjósenda ekki virtar? Er verið að hafa kjósendur að fíflum?
Að lokum verð ég að gera athugasemdir við það að fjölmiðlar hafa ekki séð ástæðu til að fjalla um þennan undarlega gjörning í bæjarmálunum í Hafnarfirði og því hlýtur sú spurning að vakna hvort fjölmiðlar hefðu farið fram með meira offorsi ef umræddur fallisti í bæjarstjórn hefði komið úr röðum Sjálfstæðisflokks en ekki Samfylkingar? |
En ég vil vera vinur þinn vegna þess að það eru allt aðrar skuldbindingar sem fylgja vináttu annars vegar og hjónabandi hins vegar. Ég hef þessa skoðun varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég er sannfærð um að hagsmunir Íslendinga séu best tryggðir utan Evrópusambandsins. Við höldum samt sem áður áfram að vera vinir, góðir vinir, enda erum við hluti af Evrópu og höfum yfirleitt átt mikil og góð samskipti við aðrar Evrópuþjóðir.
Bæta þarf hagstjórnina
Umræðan upp á síðkastið, sem snýr að aðild Íslands að Evrópusambandinu, snýst að stórum hluta um kosti þess að taka upp evru. Aðrir þættir eru látnir liggja á milli hluta í umræðunni. Lítið er rætt um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, lýðræði og auðlindamál en það eru mjög mikilvægir málaflokkar sem ráða miklu um framþróun og framtíð Íslands.
En vindum okkur yfir í gjaldmiðilsmálin. Sumir segja að við getum ekki afnumið verðtrygginguna og bætt hagstjórn landsins nema með því að taka upp annan gjaldmiðil, t.d. evru. Það er einfaldlega ekki rétt. Nýr gjaldmiðill einn og sér lagar ekki hagstjórnina, við þurfum sjálf að breyta henni til hins betra.
Krónan okkar gjaldmiðill
Samráðsnefnd um peningastefnu Íslands komst að þverpólitískri samhljóða niðurstöðu. Grípum niður í frétt fjármálaráðuneytisins frá 16. október 2010:
„Að mati nefndarmanna er ekki hægt að gera ráð fyrir upptöku annarrar myntar á næstu árum. Því er mikilvægt að tryggja trausta peningastefnu með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins. Slíkt er grundvöllur góðrar hagstjórnar óháð fyrirkomulagi gengismála og peningastefnu. Almennt telja nefndarmenn að á næstu árum sé sjálfstæð peningastefna eini valkosturinn og trúverðug hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum sé grundvallaratriði.“
Þetta er skýrt: Sjálfstæð peningastefna er eini kosturinn næstu árin og nauðsynlegt er að vinna innan þess ramma. Og undir þetta kvitta ASÍ, SA og fulltrúar allra stjórnmálaflokka.
Nú hefur verið gert hlé á aðildarviðræðum við ESB. Ný og öflug ríkisstjórn hefur tekið við stjórnartaumunum og bætt hagstjórn er mjög ofarlega á verkefnalista hennar. |
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins býður upp á stroksýnatökur.
Í vor verður þess krafist að búið verði að taka DNA-sýni úr öllum hryssum sem mæta til kynbótadóms. Í fyrstu verður einungis gerð krafa um að búið sé að taka stroksýnið og að það hafi verið skráð í WF. Niðurstöður úr greiningu þurfa ekki að liggja fyrir.
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) býður upp á stroksýnatökur og er hægt að panta sýnatöku hjá eftirtöldum aðilum:
Halla Eygló Sveinsdóttur, sími 516-5024 eða á netfangið [email protected]
Pétur Halldórsson, sími 487-1513/ 862-9322 eða á netfangið [email protected]
Steinunn Anna Halldórsdóttir, sími 516-5045 eða á netfangið [email protected]
Vignir Sigurðsson, sími 516-5047 eða á netfangið [email protected]
Eyþór Einarsson, sími 516-5014 eða á netfangið [email protected]
Kristján Óttar Eymundsson, 516-5032 eða í netfangið [email protected]
Upplýsingar er einnig hægt að fá í síma 516-5000 eða á netfanginu [email protected]
Varðandi stóðhestana er engin breyting frá því sem verið hefur. Ef einhverjir eru ekki með það á hreinu hvaða kröfur eru gerðar varðandi þá er rétt að rifja það upp:
Allir stóðhestar þurfa að vera DNA-greindir og hafa sönnun á ætterni.
Úr öllum stóðhestum fimm vetra og eldri þarf að hafa verið tekið blóðsýni og það skráð í WF. Ekki er nóg að taka stroksýni. Blóðsýni eru geymd en stroksýnum er hent um leið og þau hafa verið greind
Röntgenmynda skal hækilliði allra stóðhesta sem náð hafa fimm vetra aldri. Niðurstöður þurfa að liggja fyrir í WorldFeng áður en hesturinn er skráður á sýningu. Heimilt er að taka myndina á því ári sem hesturinn nær 5 vetra aldri.
Ekki er hægt að skrá hross á kynbótasýningu nema ofantaldar kröfur séu uppfylltar. Hér á heimasíðunni er að finna ýmsan fróðleik varðandi DNA-sýnatökur, kynbótasýningar og hrossarækt almennt. |
Bandaríska leikkonan Shailene Woodley segist aldrei hafa upplifað jafn mikla kyrrð og ró og íslenskri náttúru. Hún segir Ísland eina af fáu stöðum í heiminum þar sem mannfólk og náttúran eru ekki í baráttu um tilverurétt.
Woodley er í dómnefnd alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar Reykjavík International Film Festival sem lýkur á sunnudag. Auk hennar sitja kvikmyndaframleiðendurnir Anne Hubbell og Michael Schültz í dómnefndinni sem mun afhenda bestu mynd hátíðarinnar gullna lundann.
Hún kom til landsins í gær en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hún kemur til Íslands. Fyrir nokkrum árum kom hún til Íslands til að heimsækja vin sinn. Um var að ræða stutta dvöl þar sem hún fór í þyrluskoðunarferð.
„Við sáum landið úr lofti og öll þau ósnortnu víðerni sem það hefur upp á að bjóða,“ segir Woodley. Hún er ekki mikið fyrir að fara á túristastaði og segist vilja fá að upplifa hvert land sem hún heimsækir eins og innfæddir upplifa það.
Ísland einstakt Hún segir það einstaka upplifun að ferðast um Íslands.
„Ég hef orðið þess gæfu njótandi að ferðast víða. Á flestum stöðum líður mér eins og mannfólkið og náttúran séu í baráttu við hvort annað og að mannfólkið eigi erfitt að þrífast í samlyndi við náttúruna.
Ísland var fyrsti staðurinn sem ég hef á ævinni komið til þar sem ég fann fyrir því að ró væri yfir náttúrunni og það væri ekki samkeppni á milli hennar og mannfólksins um yfirráð. Þetta gaf mér mikla orku og ég féll algjörlega fyrir landinu. Þegar ég var á hálendinu fann ég fyrir kyrrð og ró sem ég hafði ekki upplifað annarstaðar.“
Ástæðan fyrir því að hún rataði í dómnefnd RIFF er einföld. Hún var við tökur á myndinni Adrift í fyrra en leikstjóri myndarinnar er Baltasar Kormákur.
„Á meðan við unnum við myndina þá töluðum við frekar oft um Ísland því ég var svo forvitin um landið. Hann stakk því að ég myndi koma á RIFF og við myndum skoða Ísland. Hann hafði svo samband fyrir nokkrum mánuðum og sagði að áhugi væri fyrir því að fá mig í dómnefnd hátíðarinnar og ég sagði umsvifalaust já þrátt fyrir að vita ekki hvernig dagskráin yrði hjá mér í október,“ segir Woodley.
Fer fögrum orðum um Baltasar
Hún fer fögrum orðum um Baltasar sem leikstjóra og segir að hún myndi nánast taka hvaða kvikmyndahlutverki sem er frá honum.
„Með þeirri undantekningu að ég væri örugglega ekki tilbúinn að leika í mynd sem gerist á Everest og ég þyrfti að vera við tökur í snjó allan daginn. Ég er sólarmanneskja,“ segir Woodley og hlær.
Hún segir þau Baltasar vera frekar lík þegar kemur að ást þeirra á náttúrunni.
„Hann er týpan sem hoppar út í sjó á Íslandi á sundskýlunni einni saman, hann er ekki hræddur við að takast á við náttúruna og ég vil trúa því að ég sé svipuð. Að vinna með Balta var svo sérstakt því hann er svo óhræddur við að ganga nógu langt til að ná réttum skotum þar sem náttúrunni er gert jafn hátt undir höfði og aðalpersónunum myndarinnar. Það skín í gegn í myndum hans að náttúran er oftast í aðalhlutverki og fyrir mér var það sérstakt, sérstaklega þar sem við vorum mikið að mynda á sjó. Ég er svo mikið vatnsbarn og því var gaman að hafa leikstjóra sem var óhræddur við að leyfa mér að kafa á miklu dýpi og synda í kraftmiklum öldum,“ segir Woodley.
Segir Baltasar engan einræðisherra Hún segir Baltasar heldur engan einræðisherra, heldur hafi hann leitað eftir áliti annarra á meðan þau tóku upp Adrift.
„Mér leið eins og við værum að gera þessa mynd saman. Hann var engu að síðar leiðtoginn og leiddi okkur óttalaus, ásamt því að sýna kærleik, samkennd og stillingu. Við vorum að vinna við afar erfiðar aðstæður sem hefðu geta haft slæm áhrif á sálarlíf þeirra sem unnu að þessari mynd en hann hélt öllum rólegum og passaði upp á við skemmtum okkur í leiðinni,“ segir Woodley.
Nokkrir Íslendingar störfuðu við gerð myndarinnar en hún segir þetta fyrstu myndina sem hún vinnur að þar sem tökuteymið er ekki bandarískt. Í töluliðinu var fólk frá Nýja Sjálandi, Fíjí, Englandi og Frakklandi.
„Þetta var í fyrsta skiptið sem ég vann við kvikmynd þar sem bandarísk menning var ekki við líði. Ég upplifið því meira frelsi og léttúð, sem er ekki að finna hjá bandarísku kvikmyndagerðarfólki. Bandaríska hugarfarið er svolítið þannig að þú vinnur rosalega mikið og sest síðan í helgan stein en missir þá svolítið tilganginn og veist ekki hvað þú átt að gera við líf þitt. En mér finnst eins og á öðrum stöðum í heiminum þá leggur þú hart að þér en hefur gaman að lífinu í leiðinni. Þar virðist fólk gefa sér tíma til að hafa gaman af tækifærinu sem þú færð. Þetta var mjög áberandi á meðan við unnum að Adrift. Við vorum við tökur í 12 til 14 tíma á dag úti á sjó en það nutu allir hverrar stundir í stað þess að líta á það sem kvöl,“ segir Woodley.
Hún vonast til að fá að skoða Ísland þegar kvikmyndahátíðinni er lokið.
„Ég vil komast út í náttúruna, sjá nokkra hveri og fá að liggja úti í móa,“ segir leikkonan.
Tvívegis tilnefnd til Golden Globe-verðlauna Leikkonan verður 27 ára í nóvember en hún hefur starfað við leiklist frá átta ára aldri. Eftir að hafa leikið nokkur minni hlutverk sló hún í gegn í myndinni The Descendants en hún var tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir leik sinn í þeirri mynd sem skartaði George Clooney í aðalhlutverki.
Á eftir þeirri mynd fylgdu myndirnar Divergant og The Fault in Our Stars sem gerðu hana frekar eftirsótta í Hollywood.
Hún hefur einnig getið sér gott orð fyrir leik í þáttunum Big Little Lies en hún hefur verið tilnefnd til Golden Globe verðlauna fyrir frammistöðu sína í þeim þáttum.
Myndin Adrift er byggð á sannsögulegum atburðum og segir frá ungri konu, Tami Oldham Ashcraft, sem þarf að takast á við mikið mótlæti á Kyrrahafinu eftir að skúta, sem hún og unnusti hennar höfðu tekið að sér að sigla frá Tahíti til San Diego í Bandaríkjunum fyrir eigendur hennar, gjöreyðilagðist í fjórða stigs fellibyl árið 1983. |
Ímyndum okkur hóp einstaklinga á vinnumarkaði sem hefur ekki einungis vinnuskyldum að gegna heldur þurfi líka að sinna t.d. fjölskyldu sinni, húsnæði, heilsu o.s.frv. Atvinnu- og tekjuöryggi þessa hóps er þess vegna mikilvægt til að geta framfleytt sér. Það er þó eitt sem einkennir hópinn sem við erum að ímynda okkur. Ef hann yrði fyrir atvinnumissi hefur hann ekki rétt á að sækja sér fjárhagslega aðstoð. Hópurinn vinnur sér inn réttindi með greiðslu atvinnutryggingagjalds af launum sínum í atvinnuleysistryggingasjóð, en hefur síðan, þegar uppi er staðið, ekki rétt á að sækja sér þau réttindi sem því fylgja. Er það ekki furðulegt?
Það er ekki erfitt að ímynda sér þennan hóp, því hann er að finna í menntastofnunum landsins. Árið 2019 var fjöldi stúdenta í háskólum landsins 19.238 talsins[1], sama ár og Eurostudent VII könnunin var lögð fyrir. Niðurstöður hennar sýna að 71% íslenskra stúdenta vinna samhliða námi, eða um 13.659 stúdentar og er það 3% aukning frá sjöttu umferð EUROSTUDENT frá 2016-2018. Af þeim eru 72% íslenskra stúdenta sem vinna því annars hefðu þeir ekki efni á því að stunda nám. Það gera rúmlega 9.834 stúdenta sem vinna samhliða námi.
Fjölbreytt flóra stúdentahópsins bregður sér því í bæði hlutverk námsfólks og starfskrafts. Þó búa þau ekki við þann rétt að geta sótt um atvinnuleysisbætur missi þau þá vinnu sem borgar fyrir námið. Réttur stúdenta til atvinnuleysisbóta var afnuminn meðfrumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar o.fl. sem lagt var fyrir Alþingi í nóvember, 2009. Fram að 1. janúar 2010, þegar breytingin tók gildi, átti námsfólk rétt á bótum í námshléum til samræmis við áunninn rétt sinn, uppfyllti það almenn skilyrði laganna. Stúdentahreyfingarnar bentu í umsögn sinni við frumvarpið að það yrði að liggja fyrir að námsfólk sem ekki fengi starf á sumrin ættu rétt á félagslegri aðstoð eða námslánum allt árið um kring. Hins vegar hefur hvorki tekist að brúa bilið milli atvinnuleysistryggingakerfisins né stúdentum verið tryggð önnur vernd fjárhagslega. Ef pólitískur vilji væri fyrir hendi væri sagan önnur.
Samkvæmt hóflegum útreikningi með hliðsjón af þróun lágmarkslauna samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 2004, nema atvinnutryggingagjöld stúdenta rúmlega 4,5 milljarða króna frá 2010[2]. Fyrir hönd stúdenta krefst Stúdentaráð Háskóla Íslands þess að stúdentum sé ekki svipt fjárhagslegu öryggi fyrir það eitt að stunda nám. Því stúdentar eru fjárfestingarinnar virði.
Höfundur er lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Greinin er hluti af „Stúdentar ekki betra skilið?“ , herferð Stúdentaráðs um fjárhagslegt öryggi stúdenta til frambúðar.
[1] Sjá gögn um nemendur eftir skólastigi, almennu sviði náms, aldri og kynihjá Hagstofu Íslands
[2] Til að nálgast útreikningin skal hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands |
Allnokkurt öskufall varð austan eldstöðvanna í dag, framan af degi, en askan virðist grófari nú en hún var í gær.
Í gær var öskufallið hérna svo mikið að það var þreifandi myrkur um hádegisbil. Í dag hefur dæmið snúist við, nær er að tala um öskufjúk heldur en öskufall. En askan hefur smeygt sér víða. Veginum milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs var lokað klukkan hálf eitt vegna öskufalls en eftir því sem leið á daginn tók að draga mjög úr því og undir kvöld var því ákveðið að opna veginn aftur. Öskunnar varð víða vart í sveitunum austan gosstöðvanna. Til dæmis í Skaftártungunni.
Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum: Hérna varð mikið öskufall núna á milli, ja svona ellefu og tvö. Það féll heilmikil aska hérna. Mér sýnist að það, ja, það voru allavega tveir millimetrar sem féllu á því tímabili.
Sveinn H. Guðmarsson: Getur þú lýst því hvernig var umhorfs á meðan á þessu stóð?
Gísli Halldór Magnússon: Ja, til að byrja með, þegar þetta kom hérna austur yfir, að þá var, þá varð nú eiginlega bara rokkið um tíma. Það var ekki lesbjart svona í húsum. Alls ekki. Það varð svona hálfrokkið og féll mjög gróf aska, miklu grófari aska en til dæmis í gær.
Í kvöld snýst vindur til norðlægrar áttar og má þá búast við að öskufall verði suður af eldstöðinni. Á morgun er útlit fyrir áframhaldandi norðanátt. |
Erfitt er að átta sig á, hvað ætlast fyrir flestar hinna nýju bjórkráa í landinu, hvort þær séu miðaðar við matargesti eða bjórdrykkjumenn. Þær eru tvíátta sem veitingahús og krár í senn, ekki aðeins til að sýnast fyrir yfirvöldum, heldur virðast þær af misjöfnum mætti reyna að halda úti matreiðslu í hefðbundnum stíl veitingahúsa.
Þetta er ekki auðvelt í framkvæmd, enda virðist ríkja svæðaskipting og tímaskipting milli borðhalds og bjórdrykkju í þessum krám. Góður matur og bjór fara sjaldan saman, svo sem greinilega sést í útlöndum. Fólk fer annaðhvort út til að fá sér kollu eða til að halda sér matarveizlu. Ef það stefnir á bjórinn, lítur það á hugsanlegan snæðing sem nauðsynlegt snarl með bjórnum. Í Bretlandi fá menn sér til dæmis hina kunnu kjöt- og nýrnakássu.
Duus í Fischersund er greinilega að þreifa sig í átt til eiginlegrar bjórkrár. Síðast þegar ég kom þar í hádegi, var búið að setja upp hlaðborð með kæfum, súrmeti og salati, dálítið í átt við það, sem víða má sjá í erlendum bjórkrám. Til viðbótar var svo boðið upp á mjög stuttan, hæfilega stuttan matseðil með sjö réttum í hádeginu og þrettán á kvöldin.
Duus er samt ekki venjuleg bjórkrá að útliti, að minnsta kosti ekki að flatarmáli. Niðri er að vísu kráarsvipur í þröngu skoti, sem rúmar um 30 bjórdrykkjumenn. Uppi er hins vegar langur matsalur, sem rúmar yfir 70 matargesti og lítur út eins og matsalur.
Angurvær eftirsjá
Húsbúnaður er þar svipaður og niðri, en allur þó af vandaðri gerð, einkum borðin. Þau eru gamaldags, úr heilum viði, með tveimur breiðum fótum og trébandi á milli. Við þau eru fallegir pílárastólar í sama dökkbrúna litnum, sem og stiginn upp á hæðina og barskenkirnir tveir með bjórglasarekkum fyrir ofan.
Stoðir og bitar burðarvirkis hins gamla húss sjást greinilega. Á ljósum veggjum eru nokkrir tugir gamalla ljósmynda, flestra frá Reykjavík fyrri tíma. Þeir eru líka prýddir mörgum skipslugtum og nokkrum speglum. Stíllinn er í samræmi við lúið trégólfið og magnar eins konar angurværa eftirsjá fyrri og þá sennilega betri tíma.
Dúklausar borðplötur bera mottur undir diska og á kvöldin kertaljós að auki. Munnþurrkur voru úr nokkurra gramma léttum pappír. Eitt kvöldið sat enn eftir í loftinu bjórfnykur hádegisins. Í hin skiptin var salurinn hreinn og ferskur. Niðursoðinn hávaði var stundum nokkuð hátt stilltur. Minna hefði dugað til að yfirgnæfa drafið í tveimur bjórgestum.
Þjónusta reyndist góð og fremur fagleg í tvö skiptin. Í þriðja sinnið var þó hluta kaffisins hellt á undirskálina. Þjónustan sagði “úps”, en gerði ekkert frekar í málinu, jafnvel þótt munnþurkur gesta séu ekki af þeirri stærðargráðu, að þær nýtist sem pollaþurrkur.
Matseðlarnir voru með tiltölulega einföldum og fljótlegum réttum. Seðlarnir einkenndust af réttum, sem fást í tveimur veitingahúsum af hverjum þremur, svo sem sniglum, laxatvennu, síldarþrennu og djúpsteiktum camembert. Þetta kom ekki á óvart, en hitt kom á óvart, að flest, sem prófað var, reyndist allt að því nærfærnislega eldað, mun betur en í meðal-veitingahúsi.
Ekki fór svo sem fyrir mikilli matreiðslu í rækjuskál með sveppum og kotasælu. En rækjurnar voru ferskar og bragðgóðar og sveppirnir gáfu þeim ekkert eftir. Hvort tveggja var í töluverðu magni og með nær engu gumsi í kring. Ofan á var kotasæla, en ekki sósa.
Soðin ýsa var frekar bragðgóð, ekki eins gífurlega mikið soðin og víða tíðkast hér, borin fram með stinnum, hvítum kartöflum og bræddu smjöri, sem var í sérstakri skál og ekki fljótandi um allt á diskinum eins og víða tíðkast hér.
Kokkurinn virtist hafa meira en í meðallagi gott lag á fiski, því að léttristaður silungur frá Laugarvatni var frekar milt eldaður. Hann var þess vegna bragðgóður, borinn fram í litlu smjöri og steinselju. Að þessu sinni voru hvítu kartöflurnar ofsoðnar, en eins og í hinu tilvikinu var mest af smjörinu borið fram í sérstakri skál.
Piparsteikin hét nautabuff
Nautabuffsteikin var hrásteikt eins og um var beðið. Í henni var gott hráefni, svo að hún var meyr. En hún var allt of mikið pipruð og hefði ef til vill getað gengið sem piparsteik, en um slíkt hafði bara ekki verið beðið. Enn meiri pipar var í sósunni, sem hét raunar piparsósa og var óviðkunnanlega mjölmikil. Með fylgdu ferskir sveppir pönnusteiktir, léttsoðnar gulrætur og brokkál, svo og bökuð kartafla með kotasælu í sárinu.
Hrásalatið með aðalréttunum var ómerkilegt. Það var mestmegnis ísberg, skreytt með einum tómatbáti og líklega verksmiðjuframleiddri eggjasósu. Meiri reisn var yfir brauðkörfunni, sem jafnan var sett á borð. Þar var smjör með mörgum sneiðum af tvenns konar brauði.
Áðurnefnt hlaðborð fól í sér tvenns konar kæfu keimlíka, en frambærilega; ennfremur þrenns konar brauð; fábrotið hrásalat, svo sem hvítkál, tómata, gúrku, sveppi og lauk, einnig ólífur, sýrðar gúrkur og smágúrkur; og loks tvenns konar síld með rúgbrauði. Borðinu fylgdi eggjasósa og hæfilega krydduð kotasæla. Aðgangur að borðinu kostaði 280 krónur.
Bezti rétturinn, sem prófaður var, reyndist vera loftmikil ostaterta með kiwi ofan á, vínberjum til hliðar og þeyttum rjóma í skál. Ég hef satt að segja ekki fengið betri ostatertu hér á landi, ekki einu sinni á dýrum stöðum.
Kaffið var ágætt, ekki borið fram með rjómablandi, heldur hreinum rjóma. En það kostaði líka 60 krónur. Vínlistinn í Duus er sami skrípaleikurinn og í flestum bjórkrám landsins. Þar er Santa Christina eini ljósi punkturinn innan um atriði, sem mundi varða við meiðyrðalög að lýsa nánar.
Ef frá er skilið fremur ódýrt kalda hlaðborðið með kæfunni, er Duus í meðalflokki verðlags veitingahúsa. Þríréttaður matur með hálfri flösku af frambærilegu víni og kaffi kostaði að miðjuverði 1104 krónur að kvöldi og 862 í hádeginu. Þetta er svona svipað og Bixið og heldur ódýrara en Fógetinn og Torfan, sem mega teljast í þessum sama verðflokki.
Ég bjóst ekki við miklu af bjórkrá og var tiltölulega ánægður með útkomuna í Duus. En frá sjónarhóli matargerðarlistar hefur staðurinn ekkert sérstakt fram að færa.
Jónas Kristjánsson
Hádegi:
110 Rjómalöguð blómkálssúpa
160 Gúllassúpa Duus
185 Rækjuskál með sveppum og kotasælu
195 Gratineruð rækjubrauðsneið með salati
280 Paté hlaðborð með súrmeti og salati
245 Síldardiskur að hætti hússins
275 Pönnusteikt smálúða með dillsósu
210 Soðin ýsa með hvítum kartöflum og bræddu smjöri
Kvöld:
265 Ristaðir sniglar á teini með kryddgrjónum
245 Laxatvenna með piparsósu og ristuðu brauði
155 Gúllassúpa Duus
160 Sjávarréttasúpa með rækjumauki
375 Ristuð smálúðuflök a la porteri, hrísgrjón pilau
365 Léttristaður Laugarvatnssilungur með hvítu smjöri
485 Humar og hörpuskelfiskur au gratin og camembert-sósa
465 Sinnepskrydduð lambahryggsneið með ristuðum sveppum og spergilkáli
545 Steiktar grísalundir Grecy með gulrótum og ætiþistilbotnum
665 Nautabuffsteik Duus með humarhölum og rjómapiparsósu
168 Djúpsteiktur camembert með ristuðu brauði
145 Ostaterta sælkerans
125 Rjómaís með kahlúa-líkjör og kiwi
DV |
Það skýrist í dag hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út og hvaða stefnumál verður lögð áhersla á. Dagurinn hófst klukkan níu þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hitti Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Hann mun svo kynna stjórnarsáttmálann síðar í dag. Í kvöld verða svo þingflokksfundir flokkanna haldnir þar sem í ljós kemur hverjir gegna ráðherraembættum. Blaðamannafundur sem boðað hefur verið til að Laugarvatni klukkan 11:15 er í beinni sjónvarpsútsendingu á Vísi.
Uppfært kl. 10:15
Á blaðamannafundi á Bessastöðum sagðist Ólafur Ragnar Grímsson vera glaður og ánægður með að Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki tækist á mynda ríkisstjórn á þetta þó skömmum tíma. Oft hafi þetta tekið lengri tíma. Þá sagðist forsetinn alltaf hafa verið bjartsýnn og lýsti yfir ánægju sinni með forsætisráðherraefnið. Á morgun klukkan 11:00 verður ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar á Bessastöðum. Strax á eftir hefst ríkisráðsfundur nýrrar ríkisstjórnar.
Uppfært klukkan 9:45
Fundi þeirra Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, verðandi forsætisráðherra, er nú lokið. Þeir svöruðu báðir spurningum fréttamanna að loknum fundi.
Sigmundur Davíð mætti á Bessastaði klukkan níu í morgun þar sem hann gerði forsetanum grein fyrir niðurstöðu stjórnarmyndunarviðræðna við Sjálfstæðisflokkinn. Hann heldur svo að Laugarvatni þar sem hann og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, munu kynna niðurstöðurnar fyrir almenningi.
--------------------------------------------------------------
Klukkan 9:13 hafði Sigmundur Davíð mætt á Bessastaði
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og verðandi forsætisráðherra, er mættur til fundar við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, á Bessastöðum. Þar mun hann gera forsetanum grein fyrir niðurstöðu stjórnarmyndunarviðræðna við Sjálfstæðisflokkinn.
Að loknum fundi munu forsetinn og Sigmundur Davíð gera fjölmiðlum grein fyrir fundi sínum. Síðan heldur Sigmundur Davíð að Héraðsskólanum að Laugarvatni þar sem hann og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, munu kynna stjórnarsáttmálann.
Horfa má á blaðamannafund Ólafs Ragnars og Sigmundar Davíðs hér að ofan. |
Eftirlitssveitir Sameinuðu þjóðanna segja stjórnvöld í Mjanmar enn fremja þjóðarmorð á Róhingjum sem eftir eru í landinu. Þá sýni stjórnvöld engan vilja til að virkja raunverulegt lýðræði í landinu. Guardian hefur eftir Marzuki Darusman, yfirmanni eftirlitssveitar SÞ í Mjanmar, að þúsundir Róhingja flýi til Bangladess.
Þær 250 til 400 þúsund Róhingja sem ákváðu að vera eftir hafi búið við ofbeldisverk stjórnarhers Mjanmars, og þurfi að sæta kúgun og hindrunum á hverjum degi. Þjóðarmorð standi í raun enn yfir. Yanghee Lee, sem stýrir rannsóknum á mannréttindum í Mjanmar fyrir hönd SÞ, segir að hún að fjöldi annarra hafi vonast til þess að Aung San Suu Kyi myndi hverfa frá stjórnarháttum fyrri ára, en lítið sem ekkert hafi breyst í landinu frá því hún tók við völdum. Hún segir Suu Kyi vera í algjörri afneitun varðandi grimmdarverk stjórnarhersins gegn Róhingjum.
Darusman bað um fund með Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær, en sex af 15 ríkjanna sem eiga sæti í ráðinu afboðuðu fundinn; Kína, Rússland, Bólivía, Miðbaugs-Gínea, Eþíópía og Kasakstan.
Stjórnarherinn hefur stormað í gegnum þorp Róhingja í Rakhine-héraði Mjanmars í meira en ár. Þeir íbúar sem ekki náðu að flýja voru beittir svívirðilegu ofbeldi, áður en þorp þeirra voru brennd til ösku. Um 700 þúsund þeirra hafa flúið yfir landamærin til Bangladess. |
Mál þetta, sem var dómtekið 29. júlí sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 20. janúar 2021, á hendur Örvari Hlyni Sigurgíslasyni, kt. [...], [...], Akureyri, „fyrir eftirtalin brot:
I. (007- 2020- 59719)
Fyrir umferðarlaga-, ávana- og fíkniefnalaga- og vopnalagabrot, með því að hafa, að kvöldi laugardagsins 10. október 2020, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og lyfja (í blóðsýni sem tekið var í þágu rannsóknar málsins mældist tetrahýdrókannabínól 7,0 ng/ml, amfetamín 120 ng/ml og Klónazepam 9,6 ng/ml. , í þvagsýni mældist amfetamín og tetrahýdrókannabínólsýra), vestur Geirsgötu í Reykjavík þar sem lögregla stöðvaði akstur hans skammt frá Ægisgötu, og með því að hafa í ofangreint sinn, verið með í vörslum sínum í bifreiðinni, 3,25 grömm af amfetamíni, 1,22 grömm af maríhúana, 0,42 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni og 10 stk. af Gabapentin ratiopharm G400 og raflostbyssu.
T eljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 50. gr., 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum og c-lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
II. (316- 2020- 8930)
Fyrir ávana- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 16. október verið með í vörslum sínum 0,91 gramm af maríhúana, þegar lögregla hafði afskipti af honum í íbúð í [...] á Akureyri.
Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að honum verði gert að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 99. og 101. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Jafnframt er þess krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á efnum þeim sem lögregla lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrám nr. 44.677 og 44.712, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á raflostbyssu, sbr. munaskrá 149241, sbr. ákærulið I, sem lögregla lagði hald á, skv. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998, með síðari breytingum.“
Ákæruvaldið leiðrétti ákæru á þann veg að ártal í II. ákærulið er 2020.
Af hálfu ákærða er þess krafist að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að reynslulausn haldist. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar til handa skipuðum verjanda.
Ákærði hefur komið fyrir dóm og játað sök samkvæmt ákæru. Með játningu hans, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, og gögnum málsins, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst að öðru leyti en að Gabapentin ratiopharm G400 er ekki að finna á lista yfir efni sem eru bönnuð á íslensku yfirráðasvæði sbr. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr. reglugerðar um ávana og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001. Verður ákærði ekki sakfelldur fyrir vörslur á því efni. B rot ákærða eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.
Sakaferill ákærða er töluverður og nær aftur til ársins 1994. Hann hefur oftsinnis verið dæmdur fyrir samskonar brot og hann er hér sakfelldur fyrir. Þá hlaut ákærði dóm þann 25. febrúar 2016 fyrir brot gegn valdstjórninni, tilraun til fjárkúgunar, þjófnað og stórfelld eignarspjöll. Var refsing ákveðin 3 ár og 6 mánuðir. Þann 14. júlí 2016 hlaut ákærði dóm fyrir vörslur og sölu fíkniefna og akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti. Refsing samkvæmt þeim dómi var 9 mánaða fangelsi og var ævilöng svipting ökuréttar áréttuð. Þann 22. september 2016 var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 6 mánuði fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti. Ævilöng svipting ökuréttar var áréttuð. Þann 12. janúar 2017 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 6 mánuði fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti. Var ævilöng svipting ökuréttar áréttuð. Að lokum hlaut ákærði dóm þann 3. mars 2017 fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Var refsing ákveðin fangelsi í 6 mánuði og var ævilöng svipting ökuréttar enn áréttuð.
Þann 16. apríl 2020 var ákærða veitt reynslulausn í tvö ár á 901 dags eftirstöðvum refsingar framangreindra fimm dóma. Með brotum þeim sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilyrði reynslulausnarinnar. Í 1. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 kemur fram að ef maður fremur nýtt brot eftir að hann hlýtur reynslulausn, og rannsókn hefst hjá lögreglu gegn honum sem sakborningi fyrir lok reynslutíma, þá ákveði dómstóll refsingu í einu lagi fyrir brot það sem er dæmt um og með hliðsjón af fangelsisrefsingu sem óafplánuð er samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þannig að fangelsi samkvæmt eldri dómi er virt með sama hætti og skilorðsdómur. Í 60. gr. fyrrgreindra laga kemur fram að einkum komi til greina að láta skilorðsdóm haldast ef hið nýja brot hefur ekki verið framið af ásettu ráði eða varði aðeins sektum. Eins og áður greinir hefur ákærði margsinnis hlotið dóm fyrir samskonar brot. Er því ekki annað fært en að taka upp eftirstöðvarnar og dæma með í þessu máli, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga, ogerrefsing ákærða ákveðin í einu lagi, sbr. 60. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing ákærðaákveðstnú fangelsi í 3 ár.
Með vísan til 3. mgr. 99. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 er ævilöng svipting ökuréttar áréttuð.
Að kröfu ákæruvalds, og með vísan til 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 skal ákærði sæta upptöku á þeim efnum er í dómsorði greinir ásamt raflost byssu skv. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Að kröfu ákæruvalds og með vísan til dómsniðurstöðu verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar, þ. m. t. þóknun skipaðs verjanda síns, eins og hún ákveðst í dómsorði að virðisaukaskatti meðtöldum.
Fríða Sigurvaldardóttir aðstoðarmaður dómara kveður upp dóminn.
Ákærði, Logi Atli Bjartmarsson, sæti fangelsi í 3 ár.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Gerð eru upptæk 2,13 grömm af marijúana, 0,42 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni, 3,25 grömm af amfetamíniograflostbyssa.
Ákærði greiði 312.054 krónur í sakarkostnað, þ. m. t. þóknun skipaðs verjanda hans, Ragnar Konráðs Konstantínussonar lögmanns, 94.240 krónur. |
16 ára sonur Johnny Depp og Vanessu Paradis glímir nú við alvarleg veikindi. Paradis mætti þess vegna ekki á frumsýningu nýjustu myndar sinnar á þriðjudag, A Knife In The Heart. Hún hefur þó ekki tjáð sig um það um hvernig veikindi sé að ræða.
Allur leikarahópurinn var saman á frumsýningunni í París en Yann Gonzalez leikstjóri myndarinnar sagði að Paradis væri hjá veikum syni sínum. Samkvæmt franska miðlinum Public sagði hann við blaðamenn:
„Því miður gat Vannessa Paradis ekki verið með okkur hér í kvöld, hún þurfti að vera fjarverandi vegna alvarlegra heilsufarslegra vandamála sonar síns.“
John Christopher Depp III er fæddur árið 2002 og er alltaf kallaður Jack. Lily Rose Depp systir hans veiktist alvarlega árið 2007. Nýrun hennar hættu að virka eftir alvarlega sýkingu og dvaldi hún nokkrar vikur á sjúkrahúsi. Árið 2016 sagði Depp í ræðu að í þrjár vikur hafi hann ekki vitað hvort Lily Rose myndi lifa af.
Depp er í augnablikinu á tónleikaferðalagi með hljómsveit sinni Hollywood Vampires. Hann var myndaður fyrir utan hótel í Þýskalandi í gær svo hugsanlega ætlar hann ekki að vera hjá Jack í þessum veikindum.
Eins og kom fram á Vísi á dögunum er leikarinn sagður einmanna maður á villigötum, í nýju ítarlegu viðtali í tímaritinu Rolling Stone. Þar er einnig talað um að hann sé illa staddur fjárhagslega og standi í lögsókn við fyrrverandi viðskiptastjóra sinn. Hann ræðir einnig um þunglyndi og að á tónleikaferðalaginu hafi hann fengið sér vodka á morgnana og skrifað þangað til augu hans fylltust af tárum og hann sá ekki blaðsíðuna lengur. |
Fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar er meðal fyrirtækja sem bjóða í gámaleigu, flutning og losun fyrir þrjár endurvinnslustöðvar Sorpu en tilboðin verða kynnt í dag. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins á Vélamiðstöðin ehf. lægsta tilboð í verkið fyrir eina af endurvinnslustöðvunum.
Vélamiðstöðin ehf. hét áður Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar en var breytt í einkahlutafélag árið 2002. Stofnendur félagsins og núverandi eigendur eru Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavíkurborg, en Orkuveitan er að langstærstum hluta í eigu Reykjavíkurborgar.
Reykjavíkurborg er ennfremur stærsti í eigandinn í Sorpu sem er byggðasamlag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sú staða er því uppi að fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar býður í verkefni sem Reykjavíkurborg er langstærsti aðilinn að í gegnum eign sína í Sorpu.
Gámaþjónustan hf. er einn þeirra aðila sem buðu í rekstur endurvinnslustöðva Sorpu. Í bréfi til stjórnarmanna í Sorpu spyr Elías Ólafsson, stjórnarformaður Gámaþjónustunnar, hvort það geti talist eðlilegt að aðili í eigu Reykjavíkurborgar bjóði í verk á vegum Sorpu á móti fyrirtækjum á markaðnum.
Við breytingu á rekstrarformi Vélamiðstöðvarinnar, sem samþykkt var í borgarráði 10. september 2002, lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun þar sem þeir áréttuðu að nauðsynlegt væri að móta með skýrum hætti "hvort Vélamiðstöðin ehf. skuli keppa um verkefni á almennum markaði," eins og segir í bókuninni.
"Við höfum ekki haft nein fyrirmæli um að skoða eigendalista þeirra fyrirtækja sem taka þátt í útboði. Það er annarra en stjórnar Sorpu að fjalla um hvort þetta sé eðlilegt," sagði Ögmundur Einarsson, framkvæmdastjóri Sorpu í samtali við Fréttablaðið. Tilboð í þjónustu fyrir endurvinnslustöðvar Sorpu verða gerð opinber í dag klukkan 15 og mun stjórn Sorpu fjalla um tilboðin í kjölfarið.
[email protected] |
Írsk stjórnvöld hafa ákveðið að draga verulega úr aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. Frá og með þriðjudegi í næstu viku má opna verslanir á nýjan leik, sem og hárgreiðslustofur, söfn og bókasöfn svo fátt eitt sé nefnt.
Strangar aðgerðir hafa verið í gildi á Írlandi í næstum sex vikur. Útgöngubann hefur verið í gildi og svo gott sem allt hefur verið lokað fyrir utan skóla og menntastofnanir og þá hafa byggingaframkvæmdir haldið áfram. Frá 1. desember, sem er á þriðjudag, verður almenningi einnig heimilt að sækja kirkju eða aðrar trúarstofnanir og að spila golf og tennis að því er fram kemur í frétt BBC um afléttingu takmarkana.
Áfram verða þó í gildi takmarkanir á landamærum en Írum er ekki ráðlagt að ferðast til útlanda að nauðsynjalausu. Þá taka gildi enn frekari tilslakanir á föstudaginn þegar veitingahúsum og börum, þar sem boðið er upp á mat, verður heimilt að hefja starfsemi á nýjan leik. Knæpur sem ekki selja mat verða hins vegar að vera lokaðar áfram.
Írski landlæknirinn, Tony Holohan hefur varað ríkisstjórnina við því að þriðja bylgja faraldursins gæti orðið jafnvel enn banvænni en síðasta bylgjan. Jafnvel miðað við bjartsýnustu sviðsmyndir geti útbreiðsla veirunnar í janúar verið nógu mikil til að „hafa í för með sér raunverulega og umfangsmikla ógn gagnvart yfirstandandi baráttu um að standa vörð um almannaheilbrigði og viðkvæma hópa, heilbrigðis- og velferðarþjónustu og um menntakerfið,“ segir í bréfi Holohan til ríkisstjórnarinnar sem The Irish Times greinir frá. Þá varar Holohan og viðbragðsteymi írskra heilbrigðisyfirvalda sérstaklega við ferðalögum um landamæri.
Samkvæmt áætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir enn frekari tilslökunum frá 18. desember til 6. janúar en á því tímabili verður fólki heimilt að heimsækja fjölskyldu og vini. Í mesta lagi mega þó koma saman fjölskyldur og vinir af þremur heimilum í einu. Þá er gert ráð fyrir að stjórnvöld muni endurskoða reglur um ferðalög til Norður-Írlands þegar nær dregur 18. desember. |
Ríkissjóður fær 307 milljónir króna í gjöld og greiðslur frá áfengis- og tóbakssölu í Fríhöfninni.
Tæplega 140 milljóna króna hagnaður var af rekstri Fríhafnarinnar í fyrra. Þetta er 64% aukning á milli ára en árið 2011 nam hagnaðurinn 84,6 milljónum króna. Tekjur námu rétt rúmum sjö milljörðum króna sem er rúmlega 13,2% aukning á milli ára. Á sama tíma fjölgaði farþegum um 12,7% sem fóru um flugvöllinn. Erlendum ferðamönnum fjölgaði verulega en Íslendingum fjölgaði um 3,4% á síðasta ári.
Fram kemur í uppgjöri Fríhafnarinnar að hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) nam tæpum 37% meira en árið 2011 þegar rekstrarhagnaður nam 174 milljónum króna. Handbært fé Fríhafnarinnar nam 207 milljónum króna um síðustu áramót og voru heildareignir 1.585 milljónir króna í lok ársins. Skuldir voru 886 milljónir króna um áramótin og eigið fé í lok ársins 699,2 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall Fríhafnarinnar var 44,1% um áramótin síðustu samanborið við 37% í hittifyrra.
Ríkið græðir
Ríkissjóður hagnast á aukinni veltu Fríhafnarinnar í formi opinberra gjalda. Fram kemur í uppgjöri Fríhafnarinnar að gjöld og greiðslur til ríkissjóðs af rekstrinum hafi numið tæpum 400 milljónum króna í fyrra. Það er 12% aukning á milli ára. Mestu munar um áfengis- og tóbaksgjöld, sem námu 307 milljónum króna í fyrra. |
Helgi Jóhannsson sendi inn eftirfarandi grein.
Á fjárhagsáætlun 2020 er reiknað með 125 mkr. í framkvæmdir til að bæta aðgengi að íþróttamiðstöðinni á Siglufirði. Þörf framkvæmd og nauðsynleg.
Í byrjun september 2019 voru kynntar tillögur að þessum framkvæmdum fyrir fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar. Gert er ráð fyrir viðbyggingu sunnan við núverandi sundlaugarbyggingu (sunnan við núverandi búningsklefa ) þar yrði ný móttaka og þar undir nýir búningaklefar. Gert að sjálfsögðu ráð fyrir lyftu og stigum enda þarf að fara niður um 4,3 metra til að komast á gólfhæð íþróttahúss og sundlaugar. Samkvæmt tillögunni er einnig gert ráð fyrir miklum framkvæmdum austan við sundlaugargaflinn. Þar á að koma fyrir heitum og köldum pottum, setlaug og sjóbaðsaðstöðu.
Ég hef velt þessum framkvæmdum töluvert fyrir mér. Því miður hefur skipulags- og umhverfisnefnd ekki enn fengið kynningu á þessum framkvæmdum en það hlýtur að styttast í að lokateikningar verði klárar.
Kannski hafa ýmsir aðrir kostir verið skoðaðir en engar upplýsingar hef ég um það. En skoðum þessar tillögur aðeins betur. Aðalástæða þess að farið er í þessar framkvæmdir er til að bæta aðgengi. Hér er lagt til að byggja tveggja hæða byggingu til þess að færa fólk af götuhæð niður á gólfhæð íþróttahúss og sundlaugar. En væri vert að skoða þann möguleika að færa alla aðkomu að íþróttamiðstöðunni niður fyrir núverandi byggingar?
Ég sé fyrir mér byggingu upp við austurgafl sundlaugarinnar. Í þeirri byggingu yrðu nýjir búningsklefar, móttaka og vöktun starfsmanna. Ofaná þessa byggingu væri svo hægt að hafa glæsilegt setu- og sólbaðssvæði með frábært útsýni í allar áttir. Sunnan við þessa byggingu yrðu svo nýjir pottar. Með þessu móti hefðu starfsmenn góða yfirsýn yfir sundlaug og potta og örstutt í tækjasal og íþróttasalinn.
Öll aðkoma að íþróttamiðstöðinni yrði sunnan frá sem myndi létta mjög mikið á bílastæða vandamálum við Hvanneyrarbraut. Einnig yrði hægt að komast niður með sundlauginni að norðan, gangandi. Reikna má með að breikka þurfi landfyllingu austan við íþróttahúsið og sundlaug. Með þessu móti er öll aðkoma á sömu hæðinni og því mjög gott aðgengi.
Ég hef heyrt að það gæti verið vandamál með ræsið sem liggur í gegnum Hvanneyrarbrautina að líklegt væri að nýja viðbyggingin sunnan sundlaugar lendi beint ofan á henni. Ef það er raunin gæti þessi framkvæmd sem stendur til að fara í orðið mjög dýr og í ljósi þess því ekki að skoða aðra kosti? Kannski var það gert, ég veit það ekki enda sáralítil umræða farið fram um þessa framkvæmd.
Helgi Jóhannsson
Fulltrúi minnihluta H-listann í skipulags- og umhverfisnefnd. |
Verkefnastaðan er góð hjá okkur eins og er, en þó er svigrúm til að bæta við verkefnum,” segir Ólafur Ormsson sviðsstjóri skipaþjónustu Slippsins á Akureyri.
Frystitogarinn Blængur NK 125, sem er í eigu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, kom til viðhalds í Slippnum á Akureyri í lok desember. Meðal verkefna var almálning á skipinu, þ.e.a.s. málning á yfirbyggingu, þilförum, síðum og botni. Veltitankur var smíðaður á skipið og var hann settur upp ásamt tengingum og tilheyrandi stjórnbúnaði. Afgasketill var hreinsaður, ýmis innréttingarvinna í matsal og vistarverum skipverja var framkvæmd auk þess sem búnaður á vinnsluþilfari var yfirfarinn og önnur hefðbundin viðhaldsverkefni kláruð.
Þetta kemur fram í frétt Slippsins.
Að sögn Ólafs Ormssonar sviðsstjóra skipaþjónustu Slippsins gekk verkefnið vel. Það sé augljóst að vilji útgerðarinnar er að halda skipinu vel við, sést það best á útliti og ástandi búnaðar skipsins, að hans sögn.
Eins segir frá því að grænlenska línuskipið Masilik, sem er í eigu Royal Greeland, er farið á veiðar eftir að hafa verið í slipp allan janúarmánuð. Í skipinu var unnið við endurbætur á klæðningum á vinnsludekki og það heilmálað. Skipið var jafnframt öxuldregið, unnið að ýmsum viðhaldsverkum í vélarrúmi auk þess sem akkerishús var lagfært eftir að skipið fékk á sig brot fyrir skemmstu.
„Björg EA 7 er komin til okkar og verður hjá okkur fram í miðjan marsmánuð í reglubundnu viðhaldi auk þess sem nýr lestarbúnaður frá Slippnum verður settur í skipið. Grænlenski togarinn Angunnguaq II kemur í næstu viku en Slippurinn sér um að setja nýja aðalvél í skipið, endurnýja gír og margskonar vélbúnað í vélarrúmi skipsins. Verkefnastaðan er góð hjá okkur eins og er, en þó er svigrúm til að bæta við verkefnum,” segir Ólafur. |
Hæfileikar fólks með einhverfu reynast oft vel við hugbúnaðarprófanir og í annarri nákvæmnisvinnu. Þetta segja forsvarsenn fyrirtækis sem hefur það að markmiði að styrkja og þjálfa fleira fólk með einhverfu út á vinnumarkaðinn.
Eins og sjá má er áhugi á starfi Specialisterne hér á landi mjög mikill en troðfullt var út úr dyrum á opnunarhátíðinni í dag. Markmið Specialisterne, eða sérfræðinganna eins og það myndi útleggjast á íslensku, er að þjálfa sem flest fólk með einhverfu og á einhverfurófi svo það geti nýtt hæfileika sína sem best. Thorkil Sonne er stofnandi fyrirtækisins.
Thorkil Sonne, stofnandi Specialisterne: [talar á dönsku, texta vantar]
Thorkil hefur hlotið ýmiss konar viðurkenningar fyrir starf sitt. Til dæmis var honum veitt sérstök viðurkenning í Danmörku árið 2008 fyrir að hafa fengið svo marga starfsmenn inn í hugbúnaðarfyrirtæki en þá var mikill skortur á fólki með slíka þekkingu.
Thorkil Sonne, stofnandi Specialisterne: [talar á dönsku, texta vantar]
Markmið Specialisterne á Íslandi er að meta og þjálfa 14 til 18 manneskjur á ári og koma þeim í störf.
Bjarni Torfi Álfþórsson, framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi: Fjöldi fyrirtækja hefur lýst áhuga á því að taka fólk í störf frá okkur þannig að við erum full bjartsýni.
Já það er dulítill vandi með texta hjá okkur í kvöld en Thorkil sagðist hafa stofnað fyrirtækið í kjölfar þess að yngsti sonur hans greindist með einhverfu . Sonur hans gæti gert margt þrátt fyrir einhverfuna. |
Áður en gengið er til dagskrár hefst utandagskrárumræða um málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði að beiðni hv. 4. þm. Reykn. , Guðmundar Árna Stefánssonar. Þessi umræða fer fram skv. fyrri mgr. 50. gr. þingskapa, þ.e. hún má standa í allt að hálftíma. Vill forseti benda á að málshefjandi má eigi tala lengur en þrjár mínútur og aðrir eigi lengur en tvær mínútur í senn og enginn oftar en tvisvar.
Hæstv. forseti. Eins og okkur hv. alþm. er kunnugt voru á sl. vori gerðar miklar breytingar á þingsköpum Alþingis sem við sáum fyrir að hefðu breytingar í för með sér á starfsháttum hér. Að vísu hefur það síðan gerst að sumt í framkvæmd þeirra hefur komið okkur stjórnarandstæðingum nokkuð á óvart. Nú gerist það að einn hv. stjórnarþm. kveður sér hljóðs utan dagskrár til þess að ræða við ráðherra sinn. Það er málefni sem við hingað til höfum talið að ætti að ræðast inni á þingflokksfundum. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra hvort við megum reikna með því að í vetur verði þingflokksfundir stjórnarliðsins færðir inn í þingsalinn.
Forseti getur ekki svarað þessum athugasemdum hv. 2. þm. Suðurl. á annan veg en
þann að hann telur það skyldu sína þegar hv. þm. óska eftir því að fá að taka upp mál utan dagskrár, sem eru ofarlega á baugi í þjóðfélaginu hverju sinni, að reyna að verða við þeim óskum í samráði viðkomandi ráðherra eftir því sem tilefni gefast til, án tillits til þess hvort um er að ræða þingmenn stjórnarliðs eða stjórnarandstöðu. Forseti væntir þess að formenn þingflokka haldi áfram að halda sína þingflokksfundi á réttum stöðum en ekki hér í þingsölum.
Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár vegna málefna St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og þeirrar afdráttarlausu viljayfirlýsingar Hafnfirðinga, Garðbæinga og íbúa Bessastaðahrepps sem nú liggur fyrir í þeim efnum. Staðfest eru sjónarmið 10.322 íbúa þessara sveitarfélaga, 18 ára og eldri. Með undirskriftum þeirra er lögð áhersla á að tryggður verði áfram deildaskiptur rekstur sjúkrahússins og þannig að þjónusta verði með sambærilegum hætti og verið hefur. Þessi undirskriftasöfnun fór fram sl. laugardag og sunnudag að tilhlutan 50--60 félagasamtaka í Hafnarfirði og nærsveitum. Af þessum ríflega 10.000 undirskriftum eru alls 8.168 úr Hafnarfirði. Það þýðir að um 8 af hverjum 10 íbúum Hafnarfjarðar hafa undirritað þessa áskorun til Alþingis og ríkisstjórnarinnar.
Ég tel nauðsynlegt að undirstrika alvöru þessa máls hér og nú í þingsölum. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 er gerð tillaga um helmingsniðurskurð á rekstrarfé til St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Nái þær tillögur fram að ganga hefur rekstrargrundvelli sjúkrahússins verið kippt undan því. Hér er með öðrum orðum ekki um að ræða tillögur til sparnaðar eða hagræðingar, heldur áform sem virðast miða að eðlisbreytingu á starfsemi þessarar stofnunar þannig að henni verði breytt í hjúkrunardeild fyrir aldraða langlegusjúklinga. Þeim hugmyndum hefur verið mótmælt af öllum hlutaðeigandi aðilum, bæði fagfólki sem og leikmönnum. Nú síðast með þessum undirskriftum með svo afdráttarlausum og skýlausum hætti.
Sannleikurinn er sá að heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði hefur verið byggð upp markvisst og skipulega á löngum tíma með fagleg sem og fjárhagsleg sjónarmið að leiðarljósi. Þar hefur tekist gott samstarf milli aðila og stofnana í heilbrigðisþjónustu, m.a. milli Sólvangs, sem gegnir mikilvægu hlutverki á sviði öldrunarþjónustu, Hrafnistu, heilsugæslustöðvarinnar, heimahjúkrunar, heimilishjálpar, verndaðra þjónustuíbúða fyrir aldraða og síðast en ekki síst Jósefsspítala sem að mörgu leyti gegnir lykilhlutverki í þessu þéttriðna neti.
Til St. Jósefsspítala hefur löngum verið litið sem fyrirmyndarsjúkrahúss í faglegu sem fjárhagslegu tilliti. Forsvarsmenn St. Jósefsspítala, bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, sem skipa meiri hluta stjórnar sjúkrahússins, sem og Hafnfirðingar almennt eru vissulega reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum til aukins sparnaðar og hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu. Í góðri samvinnu við heilbrigðisyfirvöld í þessu landi er vafalaust hægt að ná landi hvað varðar rekstur St. Jósefsspítala eins og aðrar þjónustustofnanir. Öðru máli gegnir um eðlisbreytingar á starfsemi sjúkrahússins eins og óhjákvæmilegar eru miðað við óbreytt fjárlagafrv. Ekki verður unað við slík og þvílík áform.
Ég spyr því hæstv. heilbrrh. hvort ekki megi treysta því að áfram verði unnið að lausn þessa máls í þeim anda sem ég hef hér áður lýst og sem svo skýlaust kemur fram í þeim undirskriftum sem fyrir liggja og voru afhentar hæstv. forseta þingsins og hæstv. heilbrrh. fyrir nokkrum mínútum.
Menn eiga nefnilega að hreinsa arfann og annað illgresi í garðinum sínum en láta ósnertar eða í besta falli hlúa að rósunum rauðu í fullum blóma.
Virðulegi forseti. Það hafa orðið miklar breytingar í sjúkrahúsþjónustu sl. 10--20 ár. Meðallegutími hefur á þessum tíma lækkað úr 15 dögum og allt ofan í 8--9 daga. Mikið af aðgerðum hefur færst af legudeildum yfir á göngudeildir og af spítölum í læknastofur úti í bæ. Öll tækniþróun er í þá átt að draga úr þörf fyrir almenn sjúkrarými en auka þörfina í staðinn fyrir vistunarrými aldraðra og endurhæfingarpláss.
Það er fyrir löngu orðið tímabært að endurskoða skipulag sjúkrahúsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og fyrrv. heilbrrh. vann m.a. að því. Ég beiti mér fyrir því nú, m.a. vegna
þess að það er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá að þjóðfélagið hefur ekki lengur nægt fé til þess að borga fyrir óbreytta starfsemi og ef ekkert verður að gert mun það verða til þess að menn verða í enn ríkara mæli en nú er orðið að draga úr þeirri þjónustu sem sjúkrahúsakerfið veitir. Nú eru á höfuðborgarsvæðinu 100 sjúkrarúm sem ekki eru í notkun árið um kring og ef heldur fram sem horfir mun þeim fara fjölgandi. Það er því eðlilegt af öllum ástæðum að hugað sé að endurskipulagningu á sjúkrahúsaþjónustunni á höfuðborgarsvæðinu.
St. Jósefsspítali í Hafnarfirði er einn af spítölunum á þessu svæði. Ég hef óskað eftir því að hafa samstarf við forráðamenn þessarar sjúkrastofnunar, eins og annarra á svæðinu, um endurskipulagningu og óskaði eftir því á fundi með þeim að þeir gerðu sjálfir tillögu um breytingar á skipulagi og starfsháttum spítalans. Á fundi sem ég átti með forráðamönnum St. Jósefsspítala fyrir nokkrum dögum féllust þeir á að gera slíkar tillögur og báðu um 10 daga frest til þess að skila þeim. Sá frestur er um það bil að líða. Ég á von á því að eiga fund með forráðamönnum sjúkrahússins innan örfárra daga. Þar vænti ég þess að fá tillögur forráðamanna sjúkrahússins um breytingar á rekstri sjúkrahússins St. Jósefsspítala í Hafnarfirði með það að markmiði að ná góðum árangri í sjúkrahúsarekstri fyrir það fé sem þjóðin getur varið til þeirra hluta.
Ég tel ekki eðlilegt, virðulegi forseti, á þessari stundu að tjá mig frekar um þetta mál. Ég vil eiga samstarf við forráðamenn þessa sjúkrahúss eins og ég á nú samstarf við forráðamenn bæði Landakotsspítala og Borgarspítala um sömu hlutina. Ég vil að St. Jósefsspítali í Hafnarfirði taki fullan þátt í þeirri skipulagsbreytingu sem verið er að gera á höfuðborgarsvæðinu en verði þar ekki einhver afgangsstærð. Til þess að svo geti orðið þurfa stjórnendur spítalans að eiga samvinnu við heilbrrh. Þeir hafa lofast til þess og ég treysti því.
Virðulegi forseti. Það hlýtur öllum að vera ljóst að við stöndum frammi fyrir miklum útgjaldavanda í okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi. Þennan vanda þarf að leysa ef heilbrigðiskerfið á að geta þróast á eðlilegan hátt og veitt þegnunum það öryggi sem við öll kjósum. Þessi vandi verður hins vegar ekki leystur með sífellt meiri samþjöppun stofnana og miðstýringu þannig að í landinu verði aðeins tveir spítalar sem rísi undir nafni og þeir verði ríkisspítalar staðsettir í Reykjavík eins og fram hefur komið í tillögum hæstv. heilbrrh. Sú hagræðing og sá sparnaður sem nauðsynlegur er mun aðeins eiga sér stað með samstarfi sjálfstæðra stofnana sem veita hver annarri aðhald með samanburði og samkeppni.
Mál St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði er um margt sérstætt. Afstaða ráðuneytisins er furðuleg en ráðuneytið lét eins og um ríkisspítala væri að ræða sem það gæti skipað fyrir. En eins og þingheimur veit er spítalinn sameign Hafnfirðinga og ríkisins. Það er því afar undarlegt, svo að jafnvel vekur tortryggni, að ekkert samráð virðist hafa verið haft við bæjarstjórn eða bæjarstjóra fyrr en tilskipun um niðurskurð barst til stjórnenda spítalans. Það er þó ánægjuefni að hæstv. heilbrrh. virðist nú hafa ákveðið að endurskoða fyrri áætlanir og hefur óskað eftir samráði við stjórnendur spítalans. Það ber vott um að barátta stjórnenda spítalans og yfir 10 þúsund Hafnfirðinga, Garðbæinga og íbúa Bessastaðahrepps er að skila árangri.
Það er enda í hæsta máta óeðlilegt að á tímum þegar hagræðing og sparnaður eru hvað nauðsynlegust sé spítalinn sem hvað hagkvæmast er rekinn og einna lengst hefur náð í hagræðingu skorinn niður við trog. Á meðan fá aðrir spítalar 10--15% hækkun á framlögum á milli ára. Það læðist að manni sá grunur að þessari hugmynd hafi skotið upp kollinum á síðustu stundu þegar 120 millj. vantaði upp á að settu marki um niðurskurð væri náð. Að þetta hafi verið eins konar afgangsstærð í bókhaldi ráðuneytisins. En ég ætla að láta hæstv. heilbrrh. vita það hér og nú að Hafnfirðingar, Garðbæingar og íbúar Bessastaðahrepps eru ekki og verða aldrei einhver afgangsstærð og þeirra málstað verður haldið fram við afgreiðslu fjárlaga á Alþingi.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir að taka þetta mál hér upp í framhaldi af þeirri glæsilegu undirskriftasöfnun og þeim einhug sem hefur birst okkur af hálfu íbúa þess svæðis sem hér um ræðir með bréfum til forseta og hæstv. heilbrrh. í dag.
Hin faglega hlið málsins frá heilbrigðissjónarmiði er þannig að ætlunin er að skera niður framlög til þessa spítala úr 223 millj. kr. í 116 millj. kr. Það hefur ekki verið gerð grein fyrir því hvernig þetta á að gerast og ljóst er af undirskriftasöfnuninni og texta hennar að forráðamenn spítalans í Hafnarfirði munu ekki gera tillögu til heilbrrh. um þann niðurskurð sem hann gerir kröfu um. Það er augljóst eftir viðtöl sem ég átti í morgun við forstöðumann St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði að tillögur þeirra munu ganga út á að breyta skipulagi þjónustunnar lítillega og þeir telja að að hámarki sé hægt að spara þarna 20 millj. kr.
Það er þess vegna augljóst mál að það verður aldrei hægt að skera niður á spítalanum með þeim hætti sem heilbrrh. gerir kröfur um. Um það verður a.m.k. aldrei samkomulag. Í fjárlagafrv. stendur að sparnaðurinn á St. Jósefsspítalanum verði því aðeins ákveðinn að um hann verði samkomulag. Og ég vil spyrja hæstv. heilbrrh.: Við hverja hyggst hann gera þetta samkomulag? Mun hann leggja áherslu á að ná þessu samkomulagi við forráðamenn þessa tiltekna spítala?
Ég vil í annan stað spyrja: Takist ekki að ná þessum sparnaði, sem bersýnilega tekst ekki á árinu 1992, hvaðan hyggst ríkisstjórnin taka þá fjármuni sem á vantar til þess að tryggja óbreyttan rekstur spítalans, a.m.k. á fyrri hluta næsta árs? Þetta var heilbrigðishliðin.
Svo er það hin hliðin, að reyta rauðar rósir. Það var tímabær áminning hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni til ríkisstjórnarinnar að menn ættu ekki að vera að reyta mikið af rauðum rósum og reyta frekar upp illgresið. Og þá kem ég að þessu máli. Var þetta mál kynnt í þingflokki Alþfl. þegar fjárlögin voru lögð fyrir? Var þetta mál kynnt í þingflokki Sjálfstfl. þegar fjárlögin voru lögð fyrir? Ég spyr hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Björn Bjarnason: Voru þessi mál kynnt í þessum þingflokkum þegar fjárlagafrv. var lagt fyrir á sínum tíma? Það er algerlega óhjákvæmilegt að þeir svari þessum spurningum og það er sérstaklega óhjákvæmilegt vegna þess að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson vottaði hæstv. utanrrh. sérstakt traust á flokksstjórnarfundi Alþfl. þar sem fjallað var um fjárlögin. Spurning mín er: Var Alþfl. blekktur? Var flokksstjórn Alþfl. blekkt í þessu efni? Það er óhjákvæmilegt að það komi fram.
Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekkert nýtt að deilur komi fram í Alþfl. á þessu þingi eins og hv. þm. Jón Helgason benti á hér áðan. Við munum verða vitni að því oft í vetur. Í útvarpsumræðunum var það þannig
Hv. þm. er löngu kominn fram yfir tímann, ef hann vildi gjöra svo vel og stoppa.
Þessu mun halda áfram með þessum hætti, bæði innan og utan þess tíma, virðulegi forseti, sem þingsköp marka.
Virðulegi forseti. Ég vil svara því strax sem spurt var hér um af síðasta ræðumanni að þessi áform varðandi þennan sérstaka spítala voru kynnt í þingflokkum stjórnarflokka. Ég vil líka nefna það og ítreka að það er áríðandi að menn missi ekki sjónar af þeim áformum um hagræðingu og sparnað í heilbrigðiskerfinu sem okkur er öllum nauðsynlegt að ná fram ef heilbrigðiskerfið á að standast. Hæstv. heilbrrh. hefur þegar beitt sér fyrir aðgerðum varðandi lyfjakostnað. Hann sætti miklum árásum og gagnrýni vegna þeirra aðgerða sinna, meira og minna órökstuddum og úr lagi færðum. Það hefur komið á daginn að heilbrrh. hafði rétt fyrir sér og hefur þegar sparað stórkostlegar fjárhæðir fyrir landsmenn, án þess að tefla hagsmunum sjúklinga í tvísýnu. Nú er komið að því að hagræða á sjúkrahúsum líka og það er nauðsynlegt að líta til sjúkrastofnana hér á svæðinu í heild. Ég hygg að allir sem þekkja til og ræða málið málefnalega átti sig á því að það er óhjákvæmilegt ef ná á fram hagræðingu að horfa til þessara stofnana sem heildar. Ég vek líka athygli á því að hæstv. heilbrrh. lagði sérstaka áherslu á það að hann vildi gera þetta í
góðu samstarfi við hagsmunaaðila hér á svæðinu og ég veit að hann hefur þegar átt viðræður við forráðamenn stóru spítalanna hér og þar eru áform vel á veg komin. En við vitum líka, það þekkja menn, að það er ekkert auðsótt mál eða létt að sameina sjúkrahúsin hér eða ná fram hagræðingu í sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið reynt. Það hefur ekki gengið. En ég vænti þess og hef trú á því að sá maður sem nú gegnir embætti heilbrrh. sýni það að hann nái slíku fram og hann á minn fulla stuðning við það.
Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð sérkennileg staða sem menn standa hér frammi fyrir þegar þeir eru komnir inn á þingflokksfund kratanna í þinginu. Það er hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, samflokksmaður heilbrrh. sem þarf að koma hingað inn til þess að óska eftir liðsinni stjórnarandstöðunnar við að stoppa það mál sem hann segir okkur að hann sé að berjast fyrir að stoppa suður í Hafnarfirði, að St. Jósefsspítali verði tekinn af Hafnfirðingum. Þetta vekur auðvitað upp ákveðnar spurningar og ekki síst í ljósi þess sem forsrh. lýsti hér yfir áðan, að þetta hafi allt saman verið kynnt í þingflokkum stjórnarliðsins. Ég veit ekki betur, a.m.k. horfði maður oft upp á það í sjónvarpinu að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sat þingflokksfundi Alþfl. , og spurningin er þá auðvitað þessi: Vissi hann um þetta? Ég trúi því tæpast að svo sé. Enda ef svo væri þá væri hér um hreint lýðskrum af hans hálfu að ræða gagnvart kjósendum bæjarstjórans í Hafnarfirði. Ég vil hins vegar trúa því að þingmaðurinn sé uppgefinn á því að ná fram sínum sjónarmiðum inn í þingflokki Alþfl. og sé þess vegna kominn inn í þingið til þess að óska liðsinnis stjórnarandstöðunnar í þessum efnum.
Það er rétt hjá hæstv. heilbrrh. að það er nauðsynlegt að taka skipulag heilbrigðisþjónustunnar og sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu til sérstakrar athugunar. Það var gert af fyrrv. heilbrrh. Það voru lagðar fram margar tillögur en því miður strönduðu þær allar á þeim manni sem hérna situr, hæstv. forsrh., sem þá var borgarstjóri í Reykjavík. Fyrir tveimur árum síðan ætlaði þessi maður vitlaus að verða þegar þáv. heilbrrh. lagði fram hér í þinginu frv. til laga um breytingu á heilbrigðisþjónustu, þar sem gert var ráð fyrir því að einn fulltrúi frá ríkinu ætti að setjast í stjórn Borgarspítalans. Hann varði sig með því að það væri verið að stela Borgarspítalanum í Reykjavík af Reykvíkingum með því að setja einn fulltrúa ríkisins inn í stjórn hans. En það var forsenda fyrir því að menn gætu staðið saman um breytingar á skipulagi sjúkrahúsanna í Reykjavík sem er mjög nauðsynlegt.
Það hefur komið hér fram að það eru engin fagleg rök
Að lokum, virðulegi forseti: Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að breyta St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði er ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur tekið, en hún er ekki tekin af vel yfirlögðu ráði. Það er eins og ríkisstjórnin hafi ekki verið allsgáð þegar hún gerði þetta.
Virðulegi forseti. Ég ætla, eins og fleiri hér, að þakka fyrir það að þessi umræða um St. Jósefsspítala skuli koma hér upp. Ég vil hins vegar minna á það að málefni St. Jósefsspítala er ekki einangrað mál, heldur tengist það þeirri umræðu sem nú á sér stað um hagræðingu og niðurskurð í heilbrigðismálum almennt. Þessi breyting sem á að verða, þ.e. niðurskurður á St. Jósefsspítala, er liður í tillögum heilbrrh. og ríkisstjórnar um tilflutning verkefna milli sjúkrastofnana. Það eru uppi hugmyndir um að leggja St. Jósefsspítala niður sem deildaskipt sjúkrahús --- því auðvitað er þetta ekkert annað. Það eru uppi hugmyndir um að leggja Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar niður sem valkost fyrir fæðandi konur. Og það eru uppi hugmyndir um að leggja niður hjúkrunarheimili aldraðra í Hafnarbúðum. Allt eru þetta greinar á sama meiði. Það á með öðrum orðum að leggja niður litlar og svokallaðar ,,óhagkvæmar`` rekstrareiningar. 54 rúma sjúkrahús þykir of lítið, 25 rúma
hjúkrunarheimili þykir of lítið og 10 rúma fæðingarheimili þykir of lítið. En það sem þessar stofnanir eiga sameiginlegt er ekki bara það að vera litlar, heldur eiga þær það líka sameiginlegt að fólki var ekki fyrir alls löngu talin trú um það að framtíð þessara stofnana væri trygg, að ríkið, stóri bróðir, mundi tryggja framtíð þessara stofnana þegar þær flyttust frá sveitarfélögunum að stórum hluta og yfir til ríkisins.
Árið 1987 eignaðist ríkið 85% hlut í St. Jósefsspítala og þá var gerð skrifleg samþykkt um að það yrði í framtíðinni rekið með líku sniði og áður. Ári áður, 1986, seldi Reykjavíkurborg ríkinu Hafnarbúðir og urðu miklar deilur um það í borgarstjórn Reykjavíkur. Rökin, sem við sem börðumst gegn þessari sölu beittum, voru þau að það væri ekki tryggt að þetta yrði áfram hjúkrunarheimili, ef þetta kæmist í hendur ríkisins. Þá gengu menn fram fyrir skjöldu, m.a. núv. forsrh. sem þá var borgarstjóri og taldi að þetta væri hin mesta firra, það væri bara um nýjan rekstraraðila að ræða, það væri eina breytingin og þetta væri tryggt sem hjúkrunarheimili um ókomna framtíð. Nú sjáum við það fimm árum síðar hvernig þau mál hafa farið.
Fyrir rúmu ári stóð mikill styrr um Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar. Þá sögðu margir, þegar þrengt var að því í húsnæðismálum og neðri hæðin leigð fyrir sjálfstætt starfandi lækna, að þetta væri orðin svo lítil rekstrareining að lífdagar heimilisins væru taldir. Þá sögðu meirihlutamenn í borgarstjórn Reykjavíkur að svo væri ekki og konur voru fullvissaðar um að þetta yrði rekið áfram og það gerði m.a. þáv. borgarstjóri og núv. forsrh.
Virðulegi forseti. Ég óttast að í hagræðingarmálunum í sjúkrahúsunum sé einblínt á tölur og oft sjái menn ekki skóginn fyrir trjám. Þetta er ekki bara spurningin um það hvað það kostar að reka stofnanir, heldur líka hvernig gengur að reka þær, hvernig gengur að manna þessar stofnanir og hvernig gengur að halda í fólk.
Virðulegi forseti. Þessi umræða sýnist ekki vera tímabær af þeirri góðu og gildu ástæðu að þrátt fyrir það að tillaga hafi verið gerð af hæstv. heilbrrh. um breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, sem m.a. felur það í sér að St. Jósefsspítali verði ekki deildaskipt sjúkrahús, þá hefur hann jafnframt tekið það skýrt fram að þetta eru engin fyrirmæli eða tilskipanir. Hann hefur lýst sig reiðubúinn til þess að taka upp viðræður við forráðamenn sjúkrahússins um það að þeir leggi fram sínar eigin tillögur um það hvernig þessum sparnaðarmarkmiðum megi ná. Þeim viðræðum er ekki lokið, þær viðræður eru í gangi og það á að bíða einfaldlega eftir því að fagleg umfjöllun um það mál fari fram. Markmiðið með tillögum sem ríkisstjórnin í heild að sjálfsögðu stendur að, á ábyrgð þingflokka hennar, eru þau að ná fram nauðsynlegum sparnaði og hagræðingu í heilbrigðisþjónustu. Það á við um landið allt og það á við um höfuðborgarsvæðið. Og það er ekki gert á kostnað eins né neins vegna þess að hinn kosturinn er sá að ef menn heykjast á þessu þá mun það bitna á öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins, jafnt Hafnfirðingum sem öðrum. Það er alls ekki verið að veitast að hagsmunum Hafnfirðinga af þeirri einföldu ástæðu að hér er um samfellt heilbrigðisþjónustusvæði að ræða. Að sjálfsögðu sækja Hafnfirðingar og njóta þjónustu sjúkrahúsa í Reykjavík og eins er það að menn njóta þjónustu St. Jósefsspítala þótt ekki séu búsettir í Hafnarfirði.
Meginmarkmiðið er það að taka á þeim vanda sem er orðinn vegna þeirrar þróunar sem gerst hefur á 10--15 árum. Það er skortur á hjúkrunarrými fyrir aldrað fólk, en það er offramboð á almennum sjúkrarúmum og það eru tillögur uppi um það að breyta þessu með því að líta á þetta svæði í heild sinni --- og það tekur ekki bara til St. Jósefsspítala, það tekur til viðamikilla skipulagsbreytinga varðandi stóru sjúkrahúsin hér í Reykjavík. Ættu Reykvíkingar að rísa upp á afturfæturna gegn því þegar um er að ræða sjálfsagða, vel rökstudda sparnaðaraðgerð? Í hverra þágu er hún? Hún er í þágu skattgreiðenda, þeirra sem þjónustunnar njóta, hvort sem þeir eru búsettir í einu sveitarfélagi eða öðru.
Um það var spurt hvort þessar tillögur hefðu verið lagðar fram í þingflokkum stjórnarflokkanna. Ég vil láta það koma skýrt fram hér að þessar tillögur voru rækilega ræddar í þingflokki Alþfl. ,
Frú forseti. Mér finnst þetta nokkuð undarleg málsupptekt. Eins og hér hefur verið bent á þá er þetta málefni sem átti að sjálfsögðu að útkljást í þingflokkum stjórnarliðsins og mér finnst það bera vott um nokkurn Pílatusarþvott hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að taka málið upp með þessum hætti sem hann gerir hér við flokksbróður sinn. Hann er einn helsti áhrifamaður Alþfl. , vonarstjarna og væntanlegur formaður þess flokks, og ætti sannarlega að hafa aðstöðu til þess innan Alþfl. að hafa áhrif á stefnuna og koma vitinu fyrir hæstv. heilbrrh., flokksbróður sinn.
Þetta mál kemur til umræðu og kemur hér til kasta Alþingis við afgreiðslu fjárlaga. Við þá afgreiðslu getur þingheimur tryggt áframhaldandi rekstur þessa vel rekna spítala í Hafnarfirði og það er sjálfsagt að gera þá kröfu til þeirra aðila sem hafa þekkingu og skilning á málinu í stjórnarliðinu að þeir taki saman höndum við okkur stjórnarandstæðinga sem höfum þekkingu og skilning á málinu til þess að tryggja áframhaldandi rekstur hins vel rekna sjúkrahúss þarna í Hafnarfirði.
Virðulegi forseti. Formaður Alþfl. heldur áfram að hirta þingmenn sína hér í þingsalnum. Í sjónvarpsumræðunum hirti hann formann þingflokksins fyrir það að vera á móti skólagjöldum og sagði að það væru bara kommúnistar sem væru á móti skólagjöldum. Í dag kemur hann hér upp og hirtir Guðmund Árna Stefánsson og segir að það hafi ekki verið tímabært að biðja um þessa utandagskrárumræðu. Hitt er svo merkilegra að bæði forsrh. og utanrrh. lýsa því hér skýrt yfir að þessar tillögur um að leggja niður St. Jósefsspítala í núverandi mynd hafi rækilega verið ræddar í þingflokki Alþfl. eins og formaður Alþfl. , utanrrh., sagði hér fyrir fáeinum mínútum og það væri á ábyrgð þingflokks Alþfl. , eins og formaður Alþfl. og utanrrh. sagði hér fyrir fáeinum mínútum. Og forsrh. sagði að þessar tillögur hefðu verið kynntar í þingflokkum stjórnarflokkanna, Árni Mathiesen. Hvað átti það þá að þýða fyrir þingmenn stjórnarflokkanna að mæta í Hafnarfirði með okkur hinum og forsvarsmönnum spítalans og forsvarsmönnum Hafnarfjarðarbæjar fyrir nokkrum vikum síðan og þykjast á þeim fundi ekki kannast neitt við neitt, eins og þeir þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl. úr Reykjaneskjördæmi sem hér sitja í salnum og mættu á þessum fundi? Nú segja formenn stjórnarflokkanna: Þið samþykktuð þessa breytingu í þingflokki Sjálfstfl. og þingflokki Alþfl.
Hvers konar hræsni er það eiginlega að vera vikum saman búin að gefa Hafnfirðingum til kynna, Árni Mathiesen og aðrir þingmenn Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi og þingmenn Alþfl. , að þið hafið ekkert um þetta vitað þegar formenn ykkar flokka segja nú hér að þið hafið samþykkt þetta á þingflokksfundunum og berið á þessu fulla ábyrgð. Það kom fram í fjölmiðlum að Guðmundur Árni Stefánsson hefði setið þennan þingflokksfund Alþfl. þar sem þetta var, samkvæmt orðum utanrrh. hér í stólnum, rækilega rætt og samþykkt. Og á flokksstjórnarfundi Alþfl. , eins og hér kom fram, sá hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sérstaka ástæðu til þess að flytja traustsyfirlýsingu á ráðherra Alþfl. vegna fjárlagafrv.
Virðulegi forseti. Það er vont að þingmenn stjórnarflokkanna skuli hafa tekið þátt í þessum blekkingarleik. Ef þeir mótmæla ekki orðum forsrh. og utanrrh. hér úr ræðustól Alþingis, þá stendur það eftir, virðulegi forseti, að þessir þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl.
Ég vil svo að lokum hvetja þingmenn til þess að kynna sér rækilega grein sem birtist í Þjóðviljanum í dag eftir heilsugæslulækni í Hafnarfirði, Guðmund Helga Þórðarson,
þar sem koma fram sterk, fagleg rök fyrir því hvers vegna á að reka St. Jósefsspítala áfram í núverandi mynd.
Virðulegi forseti. Ég vil lýsa undrun minni á þessum umræðum eins og þær eru hér upp settar og mér sýnist vera mikil sýndarmennska sem hér fer fram og leikaraskapur. Eins og réttilega hefur verið bent á er þetta umræða sem hefði betur farið fram fyrr innan stjórnarflokkanna, hefur kannski gert það, það er e.t.v. það versta, hafi hún gert það, þá er hér farið með sýndarmennskuna fram fyrir fjölmiðla í hinu hv. Alþingi.
Málshefjandi talaði um það að hér væri verið að knýja á um eðlisbreytingu á starfsemi og vissulega er það rétt. Það sjá allir menn þegar fjárveitingar eru skornar niður um helming og boðað að gera sjúkrahús að öldrunarstofnun. En það er ekki bara í St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði sem slíkar breytingar eru boðaðar. Það kom fram hér hjá hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörgu Sólrúnu, að það er auðvitað spurning um kerfisbreytingar í heilbrigðisþjónustunni sem hér er verið að leggja til. Þær eru hins vegar ekki nýtt mál á borðum ráðherra og ríkisstjórna, það skal ég vera fyrstur manna til að viðurkenna og taka undir. Það er nauðsynlegt að endurskipuleggja starfsemi ýmissa sjúkrahúsa. En að gera það á þennan hátt, flausturslega og óyfirvegað og boða þar að auki breytingar á smærri sjúkrahúsum eins á Patreksfirði, Blönduósi og Stykkishólmi, án þess að það sé nú ítarlega skýrt í fjárlagafrv. en nefnt í grg., þá sýnist mér að það sé verið að ráðast að stofnunum sem e.t.v. geta gert aðgerðir, og það vitum við að er gert á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði, á ódýrari máta en gert yrði á hinum stóru og dýru stofnunum sem eru sérhæfðar til þess að takast á við stór og vandasöm verkefni. Þar hins vegar álít ég að sé möguleiki að spara. Ég álít að það sé möguleiki að spara mikið með endurskipulagningu sjúkrahúsanna hér í Reykjavík. Það á að gera með því að efla samstarf og samvinnu allra sjúkrahúsanna þriggja. Ég óttast að einnig þar sé hæstv. heilbrrh. á villigötum þegar hann er að tala um sameiningu Landakots og Borgarspítalans sérstaklega og efna til harðvítugrar samkeppni milli þessara tveggja stóru sjúkrahúsa sem þá yrðu til. E.t.v. er vilji sumra starfsmanna Landakotsspítalans til sameiningar við Borgarspítalann að hluta til vegna þess að þar vilja menn viðhalda launakerfi sem ég tel að sé kostnaðarsamt og dýrt fyrir heilbrigðisþjónustuna og ég vara við slíkum hugmyndum.
Virðulegi forseti. Ég vil aðeins undirstrika þá ósk sem hér kom fram, m.a. frá hv. þm. Svavari Gestssyni, að við verðum að fá það á hreint, og spyrja þá tvo ágætu stjórnarliða sem annars vegar hófu umræðuna og hins vegar tóku þátt í henni strax á eftir, hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson og Árna Mathiesen, hvort þetta hafi verið rætt í stjórnarflokkunum við fjárlagagerðina. Hver er þá afstaða þessara ágætu manna til þessa máls? Það finnst mér vera nauðsynlegt að komi fram.
Ég álít svo að það eigi að reyna að tryggja starfsemi St. Jósefsspítalans í svipuðu formi og hún hefur verið vegna þess að þar hefur farið fram nauðsynleg þjónusta á ódýran hátt en ráðast hins vegar að skipulagi sjúkrahúsanna þriggja hér í Reykjavík með sparnaðartilllögur og hagræðingarhugmyndir í huga.
Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. svör hans við spurningu minni sem var í þá veru hvort ekki mætti treysta því að áfram yrði unnið að þessu máli í þeim anda að St. Jósefsspítali bjóði um ókomna tíð upp á sambærilega þjónustu og þar hefur viðgengist. Ég vil í tilefni orða hv. þingmanna hér, um tilefni þessarar umræðu, varpa því fram við hið háa Alþingi hvort það telji það ekki ástæðu umræðu um mikilvægt mál af þessu tagi þegar á ellefta þúsund kjósendur, umboðsmenn þeirra í þessum sal, hafa lýst yfir vilja sínum og skýlausum skoðunum til tiltekinna mála, að það útheimti ekki hálftíma af mikilvægum tíma þingsins. Það var mín hugsun fyrst og síðast og ég læt liggja milli hluta pólitískan bófahasar hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar og einhvers konar samsæriskenningar á þeim væng.
Af því að hér var beint spurt vil ég láta það koma skýlaust fram og þarf auðvitað ekki að segja það að vitaskuld var sá sem þetta mælir á móti öllum lausum og föstum hugmyndum um eðlisbreytingar á starfi Jósefsspítala á öllum stigum og stundum. Meira þarf ekki um þau mál að segja. Efni málsins er St. Jósefsspítali og heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði og á því svæði. Og í tilefni að því að menn hafa hér velt upp þeim punkti að Hafnarfjörður sé hluti af höfuðborgarsvæðinu vil ég minna á að hér í Reykjavík starfar samstarfsnefnd um sjúkrahúsin sem Hafnfirðinar eiga enga aðild að. Ég vil líka minna á að Hafnfirðingar hafa byggt upp sína heilbrigðisþjónustu og það umdæmi allt, Garðabæ og Bessastaðahrepp, algerlega sjálfstæðir. Af hverju á að breyta því núna án þess að nokkur gild rök komi fyrir? Ég minni á að það er vandi hér á ferð í Reykjavík, 100 rúm ónotuð eins og hæstv. heilbrrh. kom inn á. Það er líka vandi hvað varðar langlegudeild fyrir aldraða hér í Reykjavík. Þessi vandamál eru ekki í Hafnarfjarðarumdæmi. Hvers vegna að yfirfæra þau þangað þegar menn vilja þar leggja sitt af mörkum með liðstyrk allra fagmanna, með liðstyrk bæjaryfirvalda og annarra sem hlut eiga að máli? Ég segi enn og aftur: Við skulum fara í nákvæma skoðun á heilbrigðiskerfinu og öðrum þjónustuþáttum sem leiða til hagræðis og sparnaðar en við skulum láta það í friði þar sem hagrætt er og sparað.
Herra forseti. Hér hefur farið fram gagnmerk umræða sem er fyrirboði stærri hluta en svo að ástæða sé að stöðva upplýsingastreymi til þingsins alveg strax. Ég vil vekja athygli á því að forseti hefur reynt að hafa hemil á ræðumönnum með stöðugum bjöllusöng. Að mínu viti hefur sá tími sem bjöllusöngurinn hefur hljómað verið tekinn af rétti þeirra, sem í salnum sitja, til þess að mega gera hér athugasemdir. Því ef þeir ræðumenn sem hér hefðu talað og hefðu hlýtt strax hefði verið möguleiki á að fá svör við sumum þeim spurningum sem hér hafa komið fram. Það er gjörsamlega vonlaust að una því að jafnskýr maður og skarpur til allrar karlmennsku og hv. 17. þm. Reykv. sitji nú límdur við stólinn en svari ekki þeirri einföldu spurningu sem til hans var beint. Var þetta mál tekið fyrir til efnislegrar afgreiðslu í þingflokki Alþfl?
Forseti vill að gefnu tilefni upplýsa hv. 2. þm. Vestf. um það að bæði hann og hv. 17. þm. Reykv., sem hann var að beina orðum sínum til, höfðu beðið um orðið og voru á mælendaskrá. Forseti reynir hins vegar að halda sig við þingsköpin og standa við að þessi umræða standi ekki lengur en hálftíma. Þess vegna hafði forseti tilkynnt að nú væri ekki hægt að gefa fleirum orðið enda hafði þá formaður Alþfl. væntanlega svarað því sem ástæða var til að svara, en það metur forseti að sjálfsögðu ekki. Þess vegna var mælendaskrá lokað. Nú er aðeins eftir einn á mælendaskrá sem er hæstv. heilbrrh.
Virðulegi forseti. Skv. 2. mgr. 56. gr. hinna nýju þingskapalaga er þingmönnum heimilt að kveðja sér hljóðs til andsvara hvenær sem er og bera af sér sakir en þarf þó ekki að vera tilefni að menn þurfi að bera af sér sakir lengur heldur geta menn einungis beðið um orðið til andsvara. Þess vegna hefur auðvitað hv. 17. þm. Reykv. alla möguleika á því að kveðja sér hljóðs skv. 2. mgr. 56. gr. þingskapalaga til andsvara. Og ég bendi svo virðulegum forseta á að síðan er öðrum þingmönnum heimilt að taka þátt í þeirri andsvaraumræðu í allt að 15 mín., 2 mín. á hvern þingmann. Það er ekkert sem útilokar þetta í umræðum utan dagskrár eins og þeim sem nú fara fram.
Virðulegi forseti. Það er mér sannur heiður að verða hér fyrsti þingmaðurinn til þess að notfæra mér þennan nýja rétt þingskapalaga og ég þakka hv. þingmanni Svavari Gestssyni þetta tækifæri sem hann hefur gert mér kleift. Ég vil til endurgjalds lýsa því yfir fyrir þingmanninum að ég er reiðubúinn til að leiða hann og aðra þingmenn Alþb. hvenær sem er um rósagarð Alþfl. Og ég hygg raunar að sá þingmaður, sem ég hef hér ávarpað, hefði gott af því að ég settist niður með honum eitt eftirmiðdegi og færi með honum í gegnum stefnuskrá Alþfl. Ég tel reyndar líka að hann hefði gott af því að ég færi með honum í gegnum sögu Alþb. , sérstaklega mál sem hann drap á hér fyrr í dag, skólagjaldamálið. Hann var raunar þá að tala um ágreining í Alþfl. Getur það verið að þessi þingmaður hafi með þeim hætti verið að reyna að draga fram að það eru nú ekki allir þingmenn Alþb. með hreinan skjöld í því máli? Ég vísa hér til þess að formaður Alþb. er í rauninni sá maður sem hóf umræðu um skólagjöld. Kann að vera að hv. þm. Svavar Gestsson sé með þessum hætti í fyrri ræðu sinni að draga fram ágreining við hann? Ég veit ekki. Hitt er rétt að skýrt komi hér fram til þess að Svavar Gestsson, hv. 9. þm. Reykv., vaði ekki í villu og svíma í þessum málum fremur en öðrum að þetta mál var tekið fyrir og rætt í þingflokki Alþfl. og var kynnt af heilbrrh. og rætt og kynnt af hans hálfu með öðrum atriðum sem hann hugðist koma fram í heilbrigðismálum.
Nú.
Hv. 2. þm. Vestf. kveður sér hljóðs um andsvar. Forseti vill benda á það til skýringar að andsvar er ætlað sem athugasemdir við einstökum ræðum en ekki öðrum andsvörum.
Herra forseti. Þetta er sú gagnmerkasta ræða sem ég hef hlýtt á um heilbrigðismál.
Ég bað um orðið um andsvar.
Forseti hefur nú þegar upplýst það að andsvar er ekki við athugasemdir annarra þingmanna heldur strax á eftir ræðu sem flutt hefur verið.
Virðulegi forseti. Það er hin sérkennilega túlkun forseta á 56. gr. sem var tilefni þess að ég bað um orðið um þingsköp vegna þess að ég tel hana alranga og mjög hættulegt ef sú túlkun festist hér í sessi. Í greininni stendur, með leyfi forseta: ,,Forseti getur leyft þingmönnum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum``, einstökum ræðum, ekki við neinni aðalræðu heldur einstökum ræðum, ,,strax og þær hafa verið fluttar. `` Og ég skal taka það fram að ég bað um orðið meira að segja undir ræðunni til þess að veita andsvar. ,,Skal þá sá er vill svara bera fram ósk um það við forseta. Andvari má einungis beina að máli ræðumanns en ekki öðru andsvari. Hvert andsvar``, hvert andsvar, virðulegi forseti, ,,má ekki taka lengri tíma en tvær mínútur og skal ræðumanni heimilt að svara því á tveimur mínútum. Heimilt er forseta að stytta ræðutíma hvers ræðumanns í þessum umræðum. Enginn má veita andsvar oftar en tvisvar sinnum hverju sinni. Orðaskipti í andsvörum mega ekki standa lengur en í fimmtán mínútur í einu. ``
Virðulegi forseti. Mér sýnist alveg ljóst samkvæmt þessum texta að sá skilningur að einungis sé hægt að heimila einum manni, í þessu tilviki hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, að veita andsvar við ræðu formanns þingflokks Alþfl. sé alls ekki í samræmi við þessa
grein þingskapa. Án þess að ég hafi nokkurn áhuga á að efna hér til einhvers orðaskaks við forseta, þá vil ég biðja forseta í fullri vinsemd að endurskoða túlkun sína á þessari grein.
Forseti vill upplýsa hv. 8. þm. Reykn. um það að það var ekki hennar skoðun að það mætti aðeins einn þingmaður gefa andsvar heldur var forseti að benda á að það er ekki ætlast til samkvæmt þingsköpum að þingmenn geti gefið andsvar við andsvari. Hv. 17. þm. Reykv. var að gefa andsvar.
Virðulegi forseti. Mér sýnist í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa átt sér stað vera til athugunar að endurskipulagning í heilbrigðismálum nái inn á fleiri stofnanir en bara sjúkrahúsin. Sú ástæða, virðulegi forseti, sem er fyrir því að verið er að skoða endurskipulagningu á sjúkrahúsarekstri á Íslandi, er tvíþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða faglega ástæðu. Sú faglega ástæða er að mikil breyting hefur orðið í sjúkrahúsþjónustu sl. 15--20 ár. Það er full ástæða til að skoða skipulag sjúkrahúsþjónustu á Íslandi í ljósi þess. Síðari ástæðan er fjárhagsleg. Hún er sú að í þeirri efnahagskreppu sem við nú lifum höfum við ekki lengur fjármuni til þess að auka við þjónustu eins og við höfum verið að gera á undanförnum árum og til þess að geta varðveitt það þjónustustig sem við höfum í dag verðum við að gera skipulagsbreytingar. Ef við gerum það ekki þá eru ekki nema tveir kostir í boði. Annar er sá að við greiðum verulegan hluta af kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins með erlendum lántökum. Það held ég að menn telji ekki vera rétt. Hinn kosturinn er sá að neyðast til að halda áfram í auknum mæli á þeirri braut sem við höfum verið á, með öðrum orðum að loka stöðugt fleiri sjúkrarúmum. Þau sjúkrarúm sem lokuð eru á Íslandi eru engum til gagns.
Virðulegi forseti. Hæstv. fyrrv. heilbrrh. gerði ítrekaðar tilraunir í þessum efnum m.a. með því að leggja til svokallaðan flatan niðurskurð til sjúkrahúsa víðs vegar um land. Þá risu menn upp til harkalegrar gagnrýni, stjórnendur sjúkrahúsa, og sögðu við hæstv. fyrrv. heilbrrh. að slíkar tillögur væru ástæðulausar, slíkar tillögur væri ekki hægt að framkvæma, menn yrðu að manna sig upp í það og hafa kjark til að benda á tiltekin viðfangsefni sem yrði að breyta. Það erum við að gera nú. Umræddar tillögur í fjárlagafrv. eru að sjálfsögðu tillögur ríkisstjórnar og stjórnarflokka til hv. Alþingis. Það er síðan Alþingi sem þarf að afgreiða málið og þann tíma sem eftir lifir þangað til sú afgreiðsla fer fram verðum við að nýta vel til þess að reyna að ná samkomulagi við stjórnendur sjúkrahúsa um óhjákvæmilegar aðgerðir og ég ítreka, þessar aðgerðir eru óhjákvæmilegar. Við flýjum ekki undan þeirri staðreynd. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, að ég á nú mjög gott samstarf við forsvarsmenn sjúkrahúsanna í Reykjavík um skipulagsbreytingar og óska eftir því að St. Jósefsspítali í Hafnarfirði verði aðili að þeim skipulagsbreytingum. Ég treysti því að forráðamenn spítalans muni innan fárra daga hittast á fundi í heilbrrn. þar sem við munum ræða þeirra eigin tillögu um lausn málsins.
Virðulegi forseti. Ég bar nokkrar spurningar fram fyrir hæstv. heilbrrh. og mér þykir leitt að hann skuli ekki hafa svarað þeim. Ég verð þess vegna að endurtaka þær. Ég spurði í fyrsta lagi hvort það væri meining hans að ganga því aðeins til breytinga á St. Jósefsspítalanum að samkomulag næðist um það við forráðamenn spítalans eins og það er orðað í grg. fjárlagafrv. Í öðru lagi benti ég á að ef þessum sparnaði á að ná sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. þá er bersýnilegt að taka verður til hendinni strax. Það verður ekki gert fyrr en fjárlög hafa verið afgreidd. Það þýðir að þessi nýja starfsemi verður ekki allt næsta ár í gangi. Þess vegna verður kostnaður við spítalann á næsta ári hvað sem öðru líður meiri en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Það er augljóst að þar mun verða miklu meiri kostnaður, upp á nokkra tugi milljóna kr. Hvað hyggst heilbrrh. gera í þeim efnum?
Mér finnst að úr því að við höfum tekið þessa umræðu hér í dag um St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði sé nauðsynlegt að þau atriði komi einnig fram sem ég innti eftir fyrr
í dag. Mér sýndist að heilbrrh. hefði þá tekið eftir spurningum mínum en svo virðist því miður ekki hafa verið og þess vegna neyðist ég til þess að endurtaka þær, virðulegi forseti.
Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ef ég ætlaði nú að lýsa þeirri niðurstöðu sem e.t.v. verður á samningaviðræðum þeim sem eru hafnar, þá væru þær tilgangslausar. Staðreyndin er mjög einföld. Hún er sú að við verðum að miða í heilbrigðismálum sem og öðrum málum við getu þjóðarinnar til að greiða reikninginn. Ef menn ná ekki árangri á einu sviði gæti það kostað okkur það að menn yrðu að ná þeim mun meiri árangri á öðru. Þegar fjárlög verða afgreidd mun niðurstaðan koma í ljós og þá gefst hv. þm. kostur á að ráðstafa atkvæði sínu í samræmi við sína eigin samvisku.
Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir í seinni ræðu sinni að tillögurnar um að leggja niður St. Jósefsspítala í núverandi mynd væru tillögur stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Alþfl. Það er mjög merkileg yfirlýsing í ljósi þess sem sumir þingmenn þessara flokka, t.d. hv. þm. Árni M. Mathiesen, hafa sagt undanfarnar vikur og gefið íbúum Hafnarfjarðar og Garðabæjar og öðrum íbúum Reykjaneskjördæmis í skyn að þeir hefðu hvergi nærri þessu máli komið. Nú hefur heilbrrh., líkt og forsrh. og utanrrh., tekið algerlega af skarið hér og sagt það að tillagan í fjárlagafrv. sé tillaga frá þingflokki Alþfl. og Sjálfstfl.
Þar með liggur það auðvitað fyrir að þetta mál er af öðru tagi en þingmenn þessara tveggja stjórnarflokka hafa látið í veðri vaka í Hafnarfirði og Reykjaneskjördæmi. Að þessu leyti ber að þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir að hafa vakið þessa umræðu hér vegna þess að hún hefur loksins leitt sannleikann í ljós. Hitt er svo vont að hæstv. heilbrrh. skyldi í engu svara spurningum hv. þm. Svavars Gestssonar hér áðan.
Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir frv. til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum nr. 8 frá 1986 sem er á þskj. 2. Flm. þessa frv. eru allir þingmenn Framsfl. Í frv. er lagt til að 104. gr. sveitarstjórnarlaganna orðist svo:
,,Öll sveitarfélög skulu verða aðilar að staðbundnum landshlutasamtökum sveitarfélaga. Starfssvæði þessara samtaka skal miða við núverandi kjördæmi.
Verkefni landshlutasamtaka sveitarfélaga er að vinna að hagsmunamálum íbúa í hverju kjördæmi. Þau skulu gera tillögur um skipulag og uppbyggingu opinberrar þjónustu og ráðstöfun fjárveitinga úr ríkissjóði í hverju kjördæmi um sig. Þau skulu annast önnur þau verkefni sem löggjafarvaldið kann að fela þeim.
Landshlutasamtök halda ársfund og kjósa byggðastjórn að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Kjörgengir í byggðastjórn skulu vera héraðsnefndarfulltrúar og varamenn þeirra. Byggðastjórn skal kjósa fimm til sjö manna byggðaráð úr sínum hópi sem fer með framkvæmdarstjórn landshlutasamtakanna.
Í hverju kjördæmi skal Byggðastofnun falið að hafa frumkvæði að því að koma á fót héraðsmiðstöðvum í samvinnu við heimamenn og aðra aðila er málið varðar og þar skal vera aðsetur byggðastjórnar og byggðaráðs auk fulltrúa ýmissa opinberra aðila, svo sem ráðuneyta og stofnana.
Félmrn. setur með reglugerð nánari ákvæði um landshlutasamtök sveitarfélaga. Hver landshlutasamtök gera sérstaka samþykkt sem staðfest skal af ráðuneytinu.
2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi. ``
Í greinargerð segir m.a.:
,,Frv. þetta er að stofni til samhljóða frv. sem unnið var af nefnd sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar skipaði í byrjun desember 1989 og gera átti tillögu um skipulag Byggðastofnunar og fyrstu aðgerðir í byggðamálum.
Nefndin var skipuð fulltrúum þáv. stjórnarflokka og skilaði áliti 12. febr. 1991. Formaður nefndarinnar var Stefán Guðmundsson alþingismaður en aðrir í nefndinni voru: Ragnar Arnalds alþingismaður, Sighvatur Björgvinsson alþingismaður, Trausti Þorláksson Sigtúni, Öxarfjarðarhreppi, og Zophonías Zophoníasson Blönduósi.
Frv. það var ekki lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi vegna tímaskorts, en birtist sem viðauki 1 við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 64 1. júlí 1985, um Byggðastofnun, sem fyrrv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, lagði fram og varð að lögum nr. 39/1991.
Forsenda þess að þjóð haldi forræði á landi sínu er að hún byggi það og nýti allar auðlindir þess. Jafnvægi í byggð Íslands, þ.e. að þjóðin byggi landið allt og nýti sjálf auðlindir þess, er því forsenda fullveldis þjóðarinnar og óskoraðs forræðis hennar á landi og landgæðum.
Nýjar hugmyndir, sem fram hafa komið í nágrannalöndunum á sviði byggðamála undanfarin ár, hafa einkum byggt á því að styrkja heimaaðila og efla sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Í stað almennra, miðstýrðra aðgerða hafa komið sértækar aðgerðir sem byggja á frumkvæði og ábyrgð heimaaðila. Þeim rökum er einkum beitt að hjá þeim sé sú staðarþekking sem tryggi besta nýtingu fjármuna, auk þess sem heimamenn viti best hvaða verkefni er vert að styðja og forgangsröð þeirra. Þetta á síðan að verða aflvaki aukins hagvaxtar og nýrra atvinnutækifæra.
Að því er varðar framtíðarstefnumótun í byggðamálum má í grófum dráttum segja að stjórnvöld standi frammi fyrir tveimur kostum:
Annars vegar að leggja áherslu á það sem kalla má hefðbundna byggðastefnu, en hún byggir á því að fyrir hendi sé hagvöxtur sem nota má til jöfnunaraðgerða.
Hinn kosturinn, sá sem hér er lagt til að unnið sé eftir og svo mjög hefur einkennt faglega umræðu um byggðamál á seinni árum, byggir hins vegar á þeirri meginforsendu að aukin ábyrgð heimamanna á eigin málum og jafnvægi í byggð sé sá grundvöllur sem þurfi að vera fyrir hendi ef takast eigi að auka hagvöxt í landinu öllu.
Til þess að ná þessu markmiði hafa augu manna einkum beinst að leiðum sem fela í sér að ákvarðanatakan er í auknum mæli færð heim í héruð þar sem heimaaðilar geta sjálfir samræmt aðgerðir í hinum ýmsu málaflokkum og þannig nýtt betur það fjármagn sem til ráðstöfunar er.
Núverandi fyrirkomulag stjórnkerfisins byggir á sterkri miðstýringu og veigalitlum sveitarfélögum. Með því að skipta stjórnkerfinu upp í sérhæfð svið er ætlunin að ná aukinni skilvirkni og hagkvæmari rekstri. Áætlanagerð, ákvarðanataka og framkvæmd fer að mestu fram innan viðkomandi sviðs og hjá fagráðuneytum og fagstofnunum. Heima í héraði er enginn formlegur samstarfsvettvangur fyrir hendi sem myndað getur mótvægi við ríkisvaldið og stofnanir þess sem staðsett er á tiltölulega afmörkuðu landsvæði og dregið úr miðstjórnarhlutverki þess. Möguleikar til raunverulegrar valddreifingar eru því litlir.
Æskilegt er að víkja frá núverandi fyrirkomulagi og flytja ábyrgðina í auknum mæli í hendur heimamanna. Grundvallaratriði í því er að efla kjördæmin stjórnsýslulega og efnahagslega þannig að þau verði fær um að takast á hendur aukin verkefni og meiri ábyrgð á eigin málum.
Í frv. er lagt til að héraðsnefndir skuli mynda byggðastjórnir í hverju kjördæmi sem leysi þau verkefni sem þeim verða falin með lögum. Öllum sveitarfélögum í kjördæminu er skylt að eiga aðild að byggðastjórn. Þannig mynda sveitarfélögin samstarfsvettvang um úrlausn ákveðinna verkefna sem þeim verða falin.
Gert er ráð fyrir að heimamönnum verði falið að ákveða með hvaða hætti kosið verður til byggðastjórna enda geta aðstæður verið mismunandi í einstökum landshlutum. Kjörgengir til setu í byggðastjórn yrðu héraðsnefndarfulltrúar og varamenn. Úr hópi byggðastjórnarmanna skal kosið fimm til sjö manna byggðaráð eftir ákvörðun byggðastjórnar.
Í kjördæmum landsbyggðarinnar verði komið á fót héraðsmiðstöðvum þar sem
byggðastjórn hefði aðsetur auk fulltrúa ýmissa opinberra aðila, svo sem ráðuneyta og stofnana, sem annast mundu stjórnsýsluþjónustu í umdæminu. Lagt er til að Byggðastofnun verði falið að hafa frumkvæði að því að koma á fót héraðsmiðstöðvum í samvinnu við heimamenn og aðra aðila er málið varðar. Að teknu tilliti til íbúafjölda og legu staðanna er eðlilegt að þessar héraðsmiðstöðvar verði á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, í Borgarnesi og Keflavík.
Mikilvægasta markmiðið með starfsemi héraðsmiðstöðva er að tekið verði eins fljótt og kostur er á þeim vandamálum sem upp koma á landsbyggðinni í kjölfar breyttra atvinnuhátta. Þessu markmiði verði m.a. náð með því að stórauka atvinnuþróunarstarf í héruðunum og samræma áætlanagerð þannig að innan hins opinbera verði aðilar að starfa saman og þeim verði gert að skila sameiginlegri áætlun fyrir landshlutann.
Hér er lagt til að farin verði ný leið, leið sem tekur mið af breyttum háttum í þjóðfélaginu og brúar þá gjá sem myndast hefur milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar. Því er skynsamlegast að efla sveitarstjórnarstigið, auka völd og ábyrgð réttkjörinna sveitarstjórnarmanna í stað þess að koma á nýju stjórnstigi.
Hornsteinninn að þessu frv. er að treysta sveitarstjórnarstigið og að sveitarfélögin verði efld, áhrif þeirra og ábyrgð aukin. Jafnframt þessu þarf að koma á auknu samstarfi og samruna sveitarfélaga innan viðkomandi kjördæmis þannig að þau verði betur í stakk búin til að takast á við ný og stærri verkefni en áður, verkefni sem verði flutt frá miðstýrðu og býsna fjarstýrðu kerfi til þeirra sem við eiga að búa. ``
Í athugasemdum við frv. segir svo um 1. gr.:
,,Til þess að unnt sé að efla kjördæmin stjórnsýslulega og efnahagslega og auka þannig ábyrgð og vald heimamanna í eigin málum verður að mynda lögbundinn samstarfsvettvang allra sveitarfélaga í hverju kjördæmi um úrlausn þeirra verkefna sem þeim verða falin. Í 1. mgr. er lagt til að þessi samstarfsvettvangur miðist við núverandi kjördæmi landsins sem staðbundin landshlutasamtök og lögbundið að öll sveitarfélög skuli vera aðilar að þeim.
Verkefni landshlutasamtakanna skv. 2. mgr. skal vera að vinna að hagsmunamálum íbúa viðkomandi kjördæmis með því m.a. að gera tillögur um skipulag opinberra verkefna og þjónustu í héraði, framkvæmdaröð og ráðstöfun fjárveitinga úr ríkissjóði, jafnframt því að gera áætlanir á sviði byggða- og atvinnuþróunar innan þess ramma sem stjórnvöld setja.
Þau verkefni, sem eðlilegt má telja að byggðastjórn fjalli um, eru:
Byggðaáætlanir fyrir landshlutann.
Samgöngumál (hafnir, flugvellir, vegir).
Heilsugæsla og sjúkrahús sveitarfélaga.
Skipulags- og umhverfismál.
Atvinnuþróun og nýsköpun atvinnulífsins, svo sem málefni atvinnuþróunarfélaga.
Löggæsla.
Húsnæðismál, sbr. nýja löggjöf um Húsnæðisstofnun ríkisins.
Málefni framhaldsskóla.
Rekstur fræðsluskrifstofa.
Málefni fatlaðra.
Öll önnur sameiginleg mál ríkis og sveitarfélaga.
Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að landshlutasamtökin haldi ársfund og kjósi sér stjórn, byggðastjórn, að loknum sveitarstjórnarkosningum, og héraðsnefndarmenn og varamenn þeirra séu einir kjörgengir í byggðastjórn. Á þennan hátt er ætlunin að tryggja að í byggðastjórn sitji einstaklingar sem valdir hafa verið til sveitarstjórnarstarfa af íbúunum sjálfum og beri þannig ábyrgð á störfum sínum gagnvart íbúum viðkomandi svæðis. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að heimamönnum verði falið að ákveða með hvaða hætti kosið verður til ársfundar og byggðastjórnar enda geta aðstæður verið mismunandi í einstökum kjördæmum.
Þá er gert ráð fyrir að byggðastjórn kjósi fimm til sjö manna byggðaráð úr sínum hópi sem skal vera framkvæmdaráð byggðastjórnar á svipaðan hátt og bæjarráð er framkvæmdaráð bæjarstjórna í dag. Byggðaráðinu er ætlað að vera skilvirk afgreiðslustofnun og
framkvæmdaaðili á samþykktum byggðastjórnar sem auðvelt eigi með að koma saman og fylgja málum eftir til framkvæmda.
Samkvæmt 4. mgr. er gert ráð fyrir að byggðastjórn og byggðaráð hafi aðsetur á einum ákveðnum stað í hverju kjördæmi, í héraðsmiðstöðvum, þar sem einnig hefðu aðsetur fulltrúar ýmissa opinberra aðila, svo sem ráðuneyta og stofnana, sem annast stjórnsýsluþjónustu í umdæminu. Byggðastofnun verði falið að hafa frumkvæði að því að koma á fót héraðsmiðstöðvum í samvinnu við heimamenn og aðra aðila er málið varðar. Markmiðið með stofnun og starfsemi héraðsmiðstöðva er að tekið verði eins fljótt og kostur er á þeim vandamálum sem upp koma á landsbyggðinni í kjölfar breyttra atvinnuhátta. Með því að mynda miðstöð í hverju kjördæmi fyrir ýmsa opinbera þjónustu fyrir allt kjördæmið þar sem byggðastjórn hefði einnig aðsetur má spara fé með samnýtingu ýmissar aðstöðu og faglærðs starfsfólks sem að auki gerði starfsemi héraðsmiðstöðvanna skilvirkari og auðveldaði aðilum innan kjördæmisins að reka sín erindi.
Samkvæmt 5. mgr. er gert ráð fyrir að félmrn. setji nánari ákvæði um landshlutasamtök sveitarfélaga með reglugerð og einnig að samþykktir, sem landshlutasamtökin skuli gera, skuli samþykktar af félmrn. ``
Virðulegi forseti. Hér eru settar fram mjög róttækar tillögur í byggðamálum sem grundvallast á því að efla kjördæmi stjórnsýslulega og efnahagslega þannig að þau verði færari um að takast á hendur aukin verkefni og meiri ábyrgð eigin mála. Við það atriði hvernig stjórnir kjördæmanna skyldu myndaðar var leitað leiða til að tryggja sem best að jafnræðis- og sanngirnissjónarmiða væri gætt og að þeir sem til starfanna veldust bæru fjárhagslega ábyrgð gagnvart viðkomandi sveitarfélögum. Það má segja að byggðastjórn virki hér mjög hliðstætt og bæjarstjórn gerir og byggðaráð sem bæjarráð. Síðan koma að sjálfsögðu til starfsnefndir sem vinna að hinum ýmsu hagsmuna- og sérmálum viðkomandi kördæma.
Svo að ég nefni dæmi sé ég fyrir mér að menntamálanefndir og samgöngu-, heilbrigðis-, umhverfis- og atvinnumálanefndir kjördæmanna fjalli um uppbyggingu og skipulag hinna ýmsu sérmála viðkomandi kjördæma. Ekki er nokkur efi í mínum huga að með slíku samstarfi er tvímælalaust hægt að ná fram mikilli hagræðingu og aukinni skilvirkni þess fjármagns sem til ráðstöfunar er hverju sinni.
Verkefni byggðastjórnar á m.a. að felast í því að gera tillögur um framkvæmdaröð og skipulag opinberra verkefna í viðkomandi kjördæmum þar sem jafnframt verði gerðar áætlanir á sviði byggða og atvinnuþróunar. Þetta gerist innan þess ramma um markmið og áætlanir sem settur hefur verið af stjórnvöldum. Byggðaráð verði sá aðili í kjördæmi sem ber ábyrgð á því gagnvart ríkisvaldinu að árangur verði í samræmi við þau markmið sem sett hafa verið.
Það er ekki skynsamlegt að vilja hvorki sjá né viðurkenna þann vanda sem við okkur blasir í byggðamálum. Ef árangur á að nást í þessum málum er það frumskilyrði að þekkja vandann og greina hann rétt. Þá er möguleikinn mestur að réttum mótefnum sé hægt að beita. Það þarf engan að undra þótt hrikti í undirstöðum heilla byggðarlaga þegar framleiðslutakmarkanir hafa verið settar á höfuðatvinnuvegi landsbyggðarinnar, bæði sjávarútveg og landbúnað.
Ég vænti þess að umræða um þetta mál geti orðið málefnaleg og umfram allt að alþingismenn átti sig á mikilvægi þess að málið hljóti jákvæða afgreiðslu á þessu þingi. Í dag stöndum við svo sannarlega á krossgötum nýrra leiða í byggðamálum. Það er okkar alþingismanna að velja og varða hina nýju leið.
Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og félmn.
Virðulegi forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Ég get að flestu leyti tekið undir það sem framsögumaður hefur sagt á undan mér, þ.e. að mjög brýnt sé að efla stjórnsýsluna heima fyrir. Ég tel það nauðsynlegt og það hefði átt að gerast mikið fyrr að sú umræða yrði virk á Alþingi.
Fjórðungssamböndin svokölluðu hafa verið starfandi lengi, sum í 40 ár eða lengur. Þau hafa verið samstarfsvettvangur sveitarfélaganna. Þar hefur verið mótuð stefna í mörgum mikilvægum málum sem snerta hagsmuni íbúanna. En löggjafinn hefur þó ekki viðurkennt þau sem löglegt stjórnsýslustig.
Með sveitarstjórnarlögunum 1986 var sú breyting gerð að sýslunefndir voru af lagðar og í stað þeirra skyldu koma héraðsnefndir sem voru þá ekki bundnar við sýslumörk heldur skyldu þær geta verið atvinnuleg, félagsleg og menningarleg heild. Héraðsnefndirnar voru þannig bundnar af því að á svæði hverrar fyrir sig væri hægt að líta sem landfræðilega eina heild, þær væru samstarfsvettvangur sveitarfélaga á tilteknu svæði. Héraðsnefndir hafa síðan verið að taka til starfa og verkefni þeirra verið að smáaukast á undanförnum árum. Yfirleitt lofar starf þeirra góðu um framhaldið. En í því starfi eins og öðru eru fjármunir afl þeirra hluta sem gera skal. Í dag er það þannig að úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fá fjórðungssamböndin, Landshlutasamtök sveitarfélaga, framlag sem ágreiningur er nú orðinn nokkur um hvort eigi að fara þangað eða hvort héraðsnefndirnar eigi að fá það til sinna starfa.
Síðustu árin hafa líka öðru hvoru borist fréttir af því að hrikti í stoðum landshlutasamtakanna. Sum sveitarfélög hafa ýmist sagt sig úr þeim eða hóta því. T.d. mun nefnd vera að skoða hvort leggja eigi Fjórðungssamband Norðlendinga niður eða skipta því í tvennt. Slíkar hræringar eru í fleiri landshlutasamtökum
Þessi tillaga sýnist mér aðallega vera til þess að lögbinda landshlutasamtökin við kjördæmi og tengja þau jafnframt héraðsnefndunum. Talað er um að þau haldi ársfund en það er ekki sagt hvernig eigi að kjósa til þess ársfundar sem síðan á að kjósa byggðastjórn úr hópi héraðsnefndamanna. Það er heldur ekki talað um hvernig hann eigi að vera saman settur. Síðan á byggðastjórnin, sem kosin væri úr hópi héraðsnefndarmanna, að kjósa sér fimm til sjö manna byggðaráð sem færi með framkvæmdastjórn landshlutasamtakanna.
Ég sé ekki alveg á þessu stigi málsins hvaða tilgangi það þjónar að fara nú að lögbinda landshlutasamtökin. Mér er kunnugt um að það hefur verið mikið rætt á undanförnum árum en ekki hefur náðst fram vilji fyrir því í þjóðfélaginu að lögbinda þau. Hins vegar var sú stefna tekin 1986 að setja á stofn héraðsnefndir sem skyldu í raun og veru fara með það sem landshlutasamtökin gera í dag að miklu leyti. A.m.k. var álitið að samstarf innan þeirra mundi þróast með öðrum hætti en verið hefur í fjórðungssamböndunum vegna þess að þau, þ.e. fjórðungssamböndin, væru e.t.v. of stór eining, hagsmunir allra færu þar ekki nægilega saman. Það liggur fyrir að héraðsnefndirnar hafa sums staðar stofnað til samstarfs við aðrar héraðsnefndir um tiltekið verkefni innan landshlutanna og það samstarf mun trúlega aukast. Margir álíta að samstarf innan héraðsnefnda, innan tiltekins svæðis, muni geta leitt til samvinnu sveitarfélaga í ýmsum málum og e.t.v. að þau sameinist síðar. Mér sýnist að verið sé að koma þarna á flóknara kerfi en þörf er á.
Það má líka nefna það að komin er út álitsgerð nefndar sem skipuð var til að vinna að sameiningu sveitarfélaga og fækkun þar með og stækkun. Það nefndarálit hefur ekki verið rætt hér en ég sá reyndar að fyrirspurn er komin fram um það mál í þinginu. Mér sýnist eðlilegt að skoða þær tillögur vel samhliða þessu frv. Ég legg einnig til að þetta frv., sem hér hefur verið lagt fram, verði sent sveitarstjórnum til umsagnar um leið og því verður vísað til félmn. og 2. umr. Ég vitna þar í 2. gr. sveitarstjórnarlaganna frá 1986 þar sem segir að engu málefni sem varða sérstaklega hagsmuni sveitarfélags skal ráðið til lykta án umsagnar sveitarstjórnarinnar. Í sömu sveitarstjórnarlögum er líka sagt í IX. kafla, 97. gr., með leyfi hæstv. forseta:
,,Sveitarfélög geta haft samvinnu sín á milli um framkvæmd einstakra verkefna, á vettvangi héraðsnefnda, byggðasamlaga eða í landshlutasamtökum. ``
Mér sýnist því eðlilegt að skoða þessar tillögur mjög vel samhliða frv. Ég ítreka það að frv. verði sent sveitarstjórnunum til umsagnar áður en frekari umræður fara fram. Hins vegar fagna ég því að þessi mál komast í umræðu á þinginu og ég vænti þess að það verði til þess að finna leið til að draga úr miðstýringu og færa völd og áhrif nær fólkinu.
Herra forseti. Hér er hreyft stóru og mikilvægu máli og á margan hátt róttækar tillögur fram færðar. Þær varða hin stóru mál í okkar samfélagi, þ.e. þróun byggðar í landinu og hvernig auka má þátt heimamanna sem ég er sammála flm. um að er lykilatriði ef menn hafa áhuga á því að snúa hinni óheillavænlegu byggðarþróun við. Ég vil þess vegna í upphafi taka undir það sem segir í grg. um meginmarkmið frv., ,,að það að auka ábyrgð heimamanna á eigin málum og jafnvægi í byggð sé sá grundvöllur sem þurfi að vera fyrir hendi ef takast eigi að auka hagvöxt í landinu öllu. ``
Það eru þó einstaka athugasemdir sem ég vil koma á framfæri í þessari umræðu. Í fyrsta lagi gerir frv. ráð fyrir því að starfssvæði landshlutasamtaka sveitarfélaga, sem gert er ráð fyrir að lögleiða, verði núverandi kjördæmi. Þetta þýðir að hér er verið að gera tillögu um að starfssvæði samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði breytt. Það eru reyndar landshlutasamtök sem spanna tvö kjördæmi, þ.e. Reykjavíkurkjördæmi og hluta af Reykjaneskjördæmi. Þá eru Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum einnig í Reykjaneskjördæmi. Þarna er því raunverulega gengið á hlut heimamanna að ákvarða þau mörk sem landshlutasamtök sveitarfélaga starfa eftir og er það að hluta til þveröfugt við megintilgang frv.
Ég sagði að þetta væru á margan hátt róttækar tillögur. Samt sem áður finnst mér þær ekki nógu róttækar vegna þess að í frv. segir m.a.: ,,Þau skulu gera tillögur um`` --- þ.e. landshlutasamtökin --- ,,skipulag og uppbyggingu opinberrar þjónustu og ráðstöfun fjárveitinga úr ríkissjóði í hverju kjördæmi um sig. ``
Þarna er sagt ,,gera tillögu um`` en ekki ,,ákvarða`` sem ég hefði haldið að væri miklu mun vænlegra ef menn í raun og veru vilja koma valdinu heim í hérað.
Stærsta athugasemd mín við frv. er þó þar sem fjallað er um kosningu til byggðastjórna og byggðaráða. Þar er gert ráð fyrir að eingöngu séu kjörgengir héraðsnefndarfulltrúar. Þetta þýðir, ef við höldum okkur við höfuðborgarsvæðið eða þann hluta Reykjaneskjördæmis sem tilheyrir starfssvæði Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að stærstu kaupstaðir þess eiga ekki, að því að ég best veit, aðild að neinni héraðsnefnd og hefðu þar af leiðandi miðað við frv. ekki neina möguleika á að eiga menn í byggðastjórnum. Hins vegar kemur fram í frv. að öll sveitarfélög eru skuldbundin til þess að vera aðilar að landshlutasamtökum sveitarfélaga. En samkvæmt núverandi sveitarstjórnarlögum er kaupstöðum ekki skylt að eiga aðild að héraðsnefndum, eingöngu heimilt. Þannig er það í dag að margir kaupstaðir, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, eru ekki aðilar að héraðsnefndum. Einnig má nefna Vestmannaeyjakaupstað og Siglufjörð sem ekki eiga aðild að héraðsnefndum. Á Austurlandi eru rétt nokkrir mánuðir síðan síðasti kaupstaðurinn gerðist aðili að héraðsnefnd Múlasýslna. Þetta er aftur á móti hluti af vandamálum vegna þeirra sveitarstjórnarlaga sem sett voru 1986 og er vissulega kominn tími til að menn hugi að breytingum á þeim.
Ég tel miklu mun vænlegra, ef menn vilja í raun gera þá breytingu að auka vald heimamanna, að tryggja lýðræðislega kosningu til þeirra stjórna sem með það vald fara. Ég er hræddur um að ef fyrirkomulag frv. verði samþykkt verði of lítið mark tekið á byggðastjórnunum vegna þess að þar erum við komin, ef við horfum til byggðaráðanna, líklega í fjórða lið frá kjósandanum. Fyrst yrðu sveitarstjórnir kosnar, síðan kjósa sveitarstjórnir héraðsnefndina, síðan á að kjósa úr hópi héraðsnefndanna í byggðastjórnina og síðan á byggðastjórnin að kjósa byggðaráðið. Þarna held ég að vegurinn frá kjósandanum til ákvarðanatökunnar sé heldur langur.
Síðan kemur í frv. um frumkvæði, þ.e. það sem snýr að héraðsmiðstöðvum. Þar vil ég benda á að í raun er farið í öfuga átt miðað við það sem segir í megintilgangi frv. Þar segir: ,,Í hverju kjördæmi skal Byggðastofnun falið að hafa frumkvæði að . . . `` Þarna hefði ég talið eðlilegt að heimamenn hefðu frumkvæði. Það mætti hugsanlega vera frumkvæði með Byggðastofnun, þ.e. að heimamenn og Byggðastofnun hefðu frumkvæði í sameiningu, en alls ekki Byggðastofnun ein sem ætti síðan að hafa samvinnu við heimamenn um héraðsmiðstöðvarnar.
Í grg. er einnig gengið þvert á meginmarkmið frv. þar sem heimamönnum er leiðbeint um hvar þeir eigi að staðsetja héraðsmiðstöðvarnar og taldir upp nokkrir annars ágætir staðir. Varðandi þetta vil ég segja: Við eigum ekki að taka frá heimamönnum rétt til að ákveða staðsetningu vegna þess að það geta verið mjög misjöfn viðhorf í landshlutunum um það hvar hentugast sé að hafa héraðsmiðstöðvarnar. Eða, svo ég vitni til þess landshluta þaðan sem ég kem, þar hafa menn ákveðið að dreifa þessum stofnunum um kjördæmið, á milli staða, vegna þess að menn telja það ekki rétt að auka miðstýringu, hvort heldur hún er á höfuðborgarsvæðinu eða í litlum höfuðborgum í kjördæmunum. Þess vegna segi ég: Það á að láta heimamenn ræða þessi mál og gera þau upp við sig. Þeir hafa líka gott af því að takast á um ákveðin mál eins og staðsetningarmálin vegna þess að það eru þeir sem eiga að nota þjónustuna og þess vegna held ég að þeir hafi miklu mun betri forsendur til þess að taka þessar ákvarðanir.
Rétt undir lok grg. segir: ,,Því er skynsamlegast að efla sveitarstjórnarstigið, auka völd og ábyrgð réttkjörinna sveitarstjórnarmanna í stað þess að koma á nýju stjórnstigi. ``
Það er rétt að með þessu er verið að efla að hluta til sveitarstjórnarstigið, en þarna er líka verið að stíga fyrsta skrefið í átt að nýju stjórnstigi. Ég held að það sé ekki rétt að taka skrefið svona stutt, það eigi í raun að taka skrefið allt og koma á fót nýju stjórnstigi þar sem við færum völdin nær heimafólkinu og gerum þau raunveruleg, en ekki á eingöngu að ýja að ákveðnum völdum og, sem maður óttast helst, að byggðastjórnirnar verði eingöngu umsagnaraðilar og síðan verði niðurstaðan sú að fólkið úti í landshlutunum missi trúna á að við getum fært hin raunverulegu völd út til fólksins því þá er ég hræddur um að verr sé af stað farið en heima setið.
Það er eitt sem nauðsynlegt er að átta sig á þegar þessi mál eru rædd og það er vandamál sem hin nýju sveitarstjórnarlög hafa skapað varðandi héraðsnefndir og landshlutasamtök. Það er mjög misjafnt eftir kjördæmum hvernig þessi mál hafa þróast. Á Austurlandi eru héraðsnefndir tvær. Annars staðar eru þær margar og sums staðar, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu eins og ég sagði áðan, eru margir kaupstaðir utan héraðsnefnda. Það er líka rétt að þetta hefur valdið sumum landshlutasamtökum ákveðnum vandræðum. Við höfum leyst þetta mál þannig á Austfjörðum að við höfum í raun tekið héraðsnefndina og látið hana inn í landshlutasamtökin. T.d. er sameiginleg stjórn fyrir héraðsnefnd Múlasýslna og Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Hins vegar er sérstök héraðsnefnd fyrir Austur-Skaftafellssýslu. Þetta hefur ekki valdið okkur miklum vandræðum vegna þess að við höfum í raun reynt að halda verkefnum héraðsnefndarinnar eins mikið niðri og nokkur kostur er, en þess meira tekið af verkefnum inn til landshlutasamtakanna.
Þessu er ekki þannig farið í öllum kjördæmum og mér er kunnugt um að núverandi fyrirkomulag hefur valdið vandkvæðum víða. Ég held að það sé ljóst að ekki er hægt til frambúðar að búa við hvort tveggja, landshlutasamtök í þeirri mynd sem þau eru í dag og héraðsnefndir. Þess vegna er það auðvitað löggjafans að taka á málinu og þess vegna er þetta frv. brýnt og mjög nauðsynlegt að það fái alvarlega og ítarlega skoðun.
Að lokum vil ég taka undir það og leggja á það áherslu að ég er sammála því meginmarkmiði að við eflum stjórnsýslu heima í héraði en reynum að færa raunveruleg völd en ekki gervivöld til heimahéraðs.
Virðulegi forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um nokkra efnisþætti þessa frv. sem við þingmenn Framsfl. höfum lagt hér fram.
Ég hlýt að fagna því að í grundvallaratriðum hafa þeir ræðumenn sem hér hafa talað verið samþykkir meginstefnu frv. Það er svo aftur annað mál að ýmsir hefðu gjarnan viljað ganga lengra og stíga það skref í einu að við stofnuðum þriðja stjórnsýslustigið með beinni kosningu heima til þess stigs. Ég get tekið undir það að það væri öflugasta aðgerðin í stöðunni í dag, en ég held í þessu máli, sem snertir svo mikið sveitarstjórnirnar úti um allt land, getum við aldrei gengið lengra heldur en vilji þeirra stendur til á hverjum tíma. Því miður er það svo, og það þekkja allir sem hafa kynnt sér málið, að innan raða sveitarstjórnarmanna úti um land hefur verið mjög mikil andstaða við þriðja stjórnsýslustigið. Það er kannski þess vegna öðru fremur sem þessi leið er valin, að fara hér millistig, lögfesta samstarf á kjördæmagrundvelli, þar sem það verða sveitarfélögin sem mynda grunninn að þeirri nýju stjórnsýslueiningu sem þá væri komin fram.
Að mínu mati er margt sem er þess valdandi að sveitarstjórnarmenn hafa ekki verið tilbúnir í þessa umræðu fyrr en í dag, m.a. sú mikla vinna sem unnin var þegar verkaskipting ríkis og sveitarfélaga tók gildi, ef ég man rétt, 1. jan. 1990. Það hefur hins vegar komið strax í ljós að sú skipan er meingölluð. Við vorum rækilega minnt á það, virðulegi forseti, í dag í umræðu um skipan sjúkrahúsmála í Reykjaneskjördæmi eða á höfuðborgarsvæðinu, eftir því sem menn vildu túlka málið í ræðustól fyrr í dag. Við vorum rækilega minnt á ágalla þess kerfis, verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, sem var lögleitt fyrir skömmu. Ég met málið þannig að allir aðilar málsins, að minnsta kosti sveitarfélögin, sjái þá galla sem á þessu kerfi eru.
Það liggur þá kannski beint við að menn spyrji: Er þá ekki hægt að leysa þetta mál í tengslum við þá endurskoðun á stærð og skipan sveitarfélaga sem nú er í gangi? Það er að mínu mati ekki hægt, einfaldlega vegna þess að þar er um að ræða leið sem er allt of seinvirk og eðli málsins samkvæmt tekur mörg ár, ef ekki áratug, að hrinda í framkvæmd. Okkur liggur hins vegar á og þess vegna er bent á þennan millileik.
Stækkun sveitarfélaga getur borið nokkuð skjótan árangur til þess að gera sveitarfélögin betur í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem þau hafa á hendi í dag, grunnskólann, hina félagslegu þjónustu og margt sem því tengist. Þess vegna styð ég það að þeirri vinnu verði hraðað sem mögulegt er. Ef við ætlum hins vegar að fara að koma með einingar, sem geta verið í stakk búnar til þess að taka við nýjum verkefnum, vonandi með fjárhagslegri ábyrgð, af ríkinu, dugir ekkert minna en að gera það á kjördæmagrunni. Þess vegna er að mínu mati mikill misskilningur að álíta að það að stækka sveitarfélag upp í það að þau verði 25 á landinu öllu geti leyst það mál sem við erum hér að ræða.
Ég hef þá komið fram með þau efnislegu atriði sem ég vildi hreyfa hér. Það er kannski eitt í lokin vegna þess sem kom fram í ræðu síðasta ræðumanns varðandi sérstöðu höfuðborgarsvæðisins og Reykjaneskjördæmis. Ég held að menn ættu kannski í framhaldi af þessu að skoða hvort ekki þurfi að setja sérstök lög um málefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og feta þar í fótspor margra nágrannalanda okkar þar sem gilda sérstök lög um höfuðborgina og þá þjónustu sem hún veitir sínum íbúum.
Virðulegi forseti. Í athugasemdum með frv. sem hér er til umræðu kemur fram að tilgangurinn sé að efla kjördæmin stjórnsýslulega og efnahagslega og auka þannig ábyrgð og vald heimamanna í eigin málum. Undir það markmið get ég vissulega tekið. Ég vil jafnframt láta það koma fram að ég tel einnig að eitt brýnasta verkefnið í málefnum landsbyggðarinnar sé að skapa þau skilyrði að sveitarfélögin geti tekið við auknum verkefnum og þjónustu sem nú eru á höfuðborgarsvæðinu og að þau verði flutt út á landsbyggðina.
Ég held að það sé alveg ljóst að núverandi fyrirkomulag stjórnkerfisins er komið í ógöngur. Það byggir í allt of miklum mæli á sterkri miðstýringu og fámennum og vanmegnugum sveitarfélögum eins og raunar kemur fram í grg. með frv. Spurningin er hins vegar hvort sú breyting sem lögð er til í frv. nægir ein og sér til að ná því markmiði sem að er keppt.
Ég tel nauðsynlegt jafnframt að stíga á næstunni stór skref varðandi stækkun sveitarfélaganna. Í því sambandi vil ég nefna það sem fram hefur komið í þessari umræðu, þá vinnu sem undanfarið hefur farið fram á vegum félmrn. varðandi nýja tillögugerð um sameiningu sveitarfélaga en þingmönnum hefur nýverið verið send áfangaskýrsla nefndar sem undanfarið hefur unnið að þessu verkefni.
Ég ætla ekki að ræða það efni sem fram kemur í þeirri skýrslu. Til þess gefst nægur tími síðar á þinginu. Ég vil þó nefna að þar kemur fram t.d., sem ég tel mjög athyglisvert, að almenna reglan er núna að sveitarfélög sem eru með færri en 400--500 íbúa verða að leysa mörg verkefni sín með samstarfi við nágrannasveitarfélögin, en að sveitarfélög sem hafa a.m.k. 800--1000 íbúa geta leyst flest verkefnin sjálf. Í þessari skýrslu kemur fram að hjá sumum fámennum sveitarfélögum, einkum þeim sem liggja nærri þéttbýli, eru samstarfsverkefnin orðin svo mörg að nær engin úrlausnarverkefni eru eftir sem sveitarstjórnin sér um og leysir ein og sér. Dæmi eru um að allt að 70--80% af útgjöldum fámennra sveitarfélaga sé ráðstafað í samstarfsverkefni og því eru nánast engin sjálfstæð verkefni eftir hjá sveitarfélaginu.
Ég held að þau rök sem eru sett fram í þessari skýrslu séu einmitt mjög mikilvæg og sýni fram á að það sé orðið mjög brýnt að efla og stækka sveitarfélögin til þess að þau geti betur þjónað sínum íbúum og séu fær um að taka að sér í auknum mæli verkefni frá ríki yfir til sveitarfélaga og til þess að þjónustu og stofnanir sem er að finna á höfuðborgarsvæðinu sé hægt að færa út á landsbyggðina.
Ég nefni þetta mál sem snertir þá vinnu sem nú er í gangi um skiptingu landsins í sveitarfélög vegna þess að ég tel að þessi mál séu nátengd. Þ.e. þær hugmyndir sem koma fram í frv. því sem hér er til umræðu og hugmyndirnar um róttæka breytingu á skiptingu landsins í sveitarfélög. En ég tel að það frv. sem hér er til umræðu sé jákvætt framlag til þeirrar umræðu sem nauðsynlegt er að fram fari á næstunni um byggðamál.
Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta frv. Það kemur glögglega í ljós að flm. hafa eins og margir áhyggjur af þeirri þróun sem verið hefur á landsbyggðinni undanfarin ár og um alllangan tíma. Þeirra tillaga til þess að sporna við fæti að einhverju leyti er sú að færa sveitarfélögin saman með tilteknum hætti. Eins og hæstv. félmrh. vék hér að áðan eru komnar fram tillögur frá nefnd sem í raun og veru hefur komist að sömu niðurstöðu en telur aðra tillögu betri sem er sú að í stað þess að færa sveitarfélögin saman í gegnum landshlutasamtök verði það gert með beinni sameiningu sveitarfélaga. Báðar þessar leiðir sýnast mér stefna að sama marki, vinna að því að gera þessar félagslegu heildir stærri og kraftmeiri. Ég bendi hins vegar á að það er niðurstaða og álit þeirrar nefndar sem samdi nýútkomna skýrslu fyrir hæstv. ráðherra að hún telur ekki þá leið færa að fækka sveitarfélögum niður í 20--30 á einu bretti. Ég hygg því, og ég deili ekki við nefndarmenn um það eftir að þeir eru búnir að fara um allt land, að það verði of erfitt verkefni að ætla sér að knýja það fram með fortölum og löggjöf.
Ég hygg að við getum samt nálgast þessa æskilegustu niðurstöðu nefndarinnar í gegnum þriðju leiðina, ef svo má orða það. Það væri þá í gegnum héraðsnefndirnar sem eru í dag um 20 talsins. Það eru núna um það bil fimm ár síðan Alþingi breytti lögum þannig að stofnun héraðsnefnda var lögboðin. Þó svo að þær séu raunverulega ekki lögformlegur samstarfsvettvangur sveitarfélaga hefur það samt gerst á þessum fimm árum að þróunin hefur verið sú að sveitarfélögin hafa verið að færa sig saman og taka upp samstarf í gegnum héraðsnefndir. Þetta er þróun sem að mínu viti hefur tekið of langan tíma, en hvað um það. Hún er þrátt fyrir allt komin það langt á veg að hér eru að verða nokkuð burðugar stjórnsýslueiningar.
Ég nefni sem dæmi að á Vestfjörðum eru í raun og veru þrjár héraðsnefndir sem eru nokkuð misjafnlega langt komnar í sínu samstarfi, en mér heyrist að sýnu lengst sé komin héraðsnefnd Vestur-Barðstrendinga og þar eru áform um miklu nánara samstarf. M.a. hef ég heyrt af því að þeir áformi að taka upp samstarf um það að halda innan síns svæðis þeim kvóta sem þar er og jafnvel samstarf líka um að reyna að kaupa inn á svæðið fiskveiðiheimildir.
Ég held að það sem við gerum núna eigum við að byggja á því sem komið er þannig að við fáum sem eðlilegasta þróun í framhaldi af þeim farvegi sem málin eru í í dag. Ég held að við gætum og ættum að skoða það vandlega í athugun á þessu frv. hvort ekki væri farsælt að lögbinda héraðsnefndirnar sem samstarfsvettvang sveitarfélaga og byggja þá framtíð upp í gegnum þær nefndir fremur en landshlutasamtökin sjálf. Ég held að við náum frekar þeim markmiðum sem við stefnum að og þeim markmiðum sem svo ágætlega er lýst í frv. þeirra þingmanna Framsfl.
Þetta vildi ég láta koma fram á þessu stigi en að öðru leyti vísa ég til ræðu hv. 4. þm. Austurl. sem gerði ágætlega skil og grein fyrir okkar afstöðu í því máli.
Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem málið hefur fengið, en vil aðeins víkja að nokkrum atriðum. Það var fyrst það sem kom fram hjá hv. 6 þm. Vestf. um að vísa
málinu til umsagna sveitarstjórna. Auðvitað hefur ekki annað hvarflað að mér en að nefndin geri slíkt. Hún mun örugglega leita umsagna um þetta mál. Ég vil einnig benda á það að þegar þetta mál var hér til umræðu sl. vetur vakti ég einmitt sérstaka athygli á því að það væri kosturinn við að þetta mál væri á ferðinni að það gæfist ráðrúm til þess að ræða þetta úti um allt land. Ég veit til þess að sveitarstjórnir og héraðsnefndir og fjórðungssamböndin hafa tekið þetta mál upp og notað þennan tíma til þess að kynna sér það. En vitaskuld verður þetta mál sent til umsagnar.
Hér kom einnig fram hjá hv. 4. þm. Austurl. að í sambandi við vægi, sem þessar stofnanir okkar hefðu sem við erum að tala um að koma upp, hefðu þær ekki nógu mikla möguleika t.d. í sambandi við framkvæmdafé sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Ég sé það satt að segja svo fyrir mér að einmitt þessar byggðastjórnir okkar hafi mjög mikil áhrif þar á.
Ég sé engan tilgang í því að fjárln. í dag, eins og hún hefur líka starfað undanfarin ár, sé að fjalla um það á hvern hátt skuli skipta vegafé í ákveðinn vegarkafla hér og þar eða til skólamála og hafnamála og ég gæti haldið áfram og farið í gegnum sviðið allt. Mér finnst það fyrst og fremst verkefni okkar sem hér sitjum að einbeita okkur að löggjafarvaldinu sjálfu. Það er fjárln. að koma sér saman um það hvernig fjármagninu er skipt á milli hinna ýmsu kjördæma. Síðan er það einmitt þessara byggðastjórna að skipta því upp innan viðkomandi kjördæmis. Þá reynir á þá menn sem þar sitja að fara nógu vel með það fjármagn þannig að menn nái sem mestu út úr þeim fjárveitingum sem eru hverju sinni.
Við þekkjum það í dag sem höfum verið í þingmennsku í nokkur ár að því miður er það svo að þetta fjármagn er höggvið niður hjá okkur til verkþátta í kjördæmunum svo við náum ekki einu sinni hagkvæmni útboða vegna þess hvað við skiptum þessu takmarkaða fjármagni mikið upp. Ég er sannfærður um að ef þetta væri komið í hendur heimamanna sjálfra, þá næðu menn allt annarri sátt um þessi mál og færu betur með þetta fjármagn en er í dag.
Hv. 4. þm. vék einnig að kosningunum til byggðastjórnarinnar og ég er ekki hissa á því. Þetta var sá punkturinn í þessum tillögum sem við staðnæmdumst hvað mest við því að hér þarf að ná mikilli sátt. Kjördæmin eru mjög misjöfn innbyrðis. Við getum t.d. tekið tvö kjördæmi sem eru Norðurl. e. og Norðurl. v. og séð hversu Akureyri vegur þungt í Norðurl. e. Það er ekki svo afgerandi í Norðurl. v. Þess vegna segi ég það að ég treysti heimamönnum best til þess að ákveða hvernig með þessi mál skuli farið. Fleiri en einn ræðumaður hafa vitnað einmitt til héraðsnefndanna. Héraðsnefndirnar eru nefnilega gott dæmi um þetta. Héraðsnefndirnar hafa komið sér saman og eru að því nú í hinu besta skipulagi. Það hefur ekki verið með miklum skipunum að ofan. Menn hafa lagað sig að umhverfinu. Og ég treysti heimamönnum fyllilega í þessu máli.
Og svo hitt sem kannski vegur ekki síst þungt í þessu máli að við lögðum áherslu á að þeir sem í kjöri verða til byggðastjórnar séu menn sem fólkið hefur sjálft kosið til ábyrgðar í sambandi við sveitarstjórnarmál og hafa verið þar í framboði, þannig að þar geta ekki verið einhverjir aðrir sem komi þar til en séu ekki í neinum tengslum við sveitarstjórnirnar og geti gert stórkostlega fjárbindandi aðgerðir fyrir viðkomandi sveitarfélög. Það fyndist mér sjálfum mjög óeðlilegt. Ekki að það geti ekki verið hinir hæfustu menn, heldur að þá erum við komnir svona nálægt því sem við vorum með í gamla daga í sýslunefndarforminu sem ég man eftir að menn voru nú ekki beint yfir sig hrifnir af. Ég held þess vegna að menn hafi reynt að teygja sig býsna langt í þessu. Þetta er nokkuð rúmt orðað og einmitt í trausti þess að sveitarstjórnarmönnum sjálfum sé mjög treystandi til þess að fara með þessi mál.
Ég þakka einnig hæstv. félmrh. fyrir hennar orð og ég trúi því að hún leggi okkur lið í að koma þessu máli í höfn. Ég hef trú á því að það muni hún gera eftir þeim orðum sem hún lét hér falla. Ég hef þá skoðun að nái þetta mál fram sé það raunverulega grundvöllur fyrir því að árangur verði í því starfi sem hún var að tala um, þ.e. samningu sveitarfélaga. Það sé grundvöllur að því að við getum unnið verulega skipulega að því máli að sameina sveitarfélögin, það sé að okkur takist að koma upp þessu samstarfi sveitarfélaganna bundnu kjördæmunum. Ég held að við þurfum að vinna meira saman og við, eins og réttilega kom fram hjá félmrh. , erum svo smá bundin okkar héruðum eða takmörkuðum svæðum að okkur veitir satt að segja ekki af því að ná saman á kjördæmavísu þannig að við getum gert auknar kröfur til þess að fá aukin verkefni heim í byggðarlögin.
Ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem hér hafa látið í sér heyra og vonast til þess að málið fái góða afgreiðslu.
Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fæðingarorlof, nr. 57 frá 31. mars 1987, sem er á þskj. 17. Flm. þessa frv. eru allar þingkonur Kvennalistans.
1. gr. hljóðar svo:
,,Fyrri mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
Óheimilt er að segja barnshafandi konu upp starfi eða flytja hana til í því nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Einnig er óheimilt að segja foreldri í fæðingarorlofi upp starfi eða flytja það til í því að orlofinu loknu nema gildar ástæður séu fyrir hendi. ``
Í gildandi lögum um fæðingarorlof segir að óheimilt sé að segja upp barnshafandi konu nema gildar ástæður séu fyrir hendi, né heldur foreldri í fæðingarorlofi. Það sem hér er bætt við er að það megi ekki heldur flytja þau til í starfi.
Frv. samhljóða þessu var lagt fram á 113. löggjafarþingi af þeim þingkonum Kvennalistans sem þá voru í Nd. Frv. hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram á ný.
Lenging fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex var mikilvægt skref í þá átt að koma til móts við breyttar þjóðfélagsaðstæður hér á landi og tryggja velferð barna og foreldra þeirra á tímabilinu eftir fæðingu barns.
Nauðsynlegt er að skipan fæðingarorlofsmála sé þannig að tekið sé mið af móður- og fjölskylduhlutverki kvenna sem og þátttöku þeirra í atvinnulífi. Samkvæmt lögum um fæðingarorlof er ekki heimilt að segja barnshafandi konu eða foreldrum í fæðingarorlofi upp starfi nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Í 6. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé, þar sem því verður við komið, að færa barnshafandi konu til í starfi ef það er þess eðlis að heilsu hennar eða fósturs er af því hætta búin. Hins vegar er ekki skýrt kveðið á um það í lögunum að foreldrar geti gengið að sínum störfum að fæðingarorlofi loknu.
Ég er þess fullviss að þegar þessi lög voru sett á sínum tíma var það ætlun löggjafans að foreldrar gætu gengið að sínum fyrri störfum. Því miður hefur það komið fyrir að konum hefur verið ætlað að taka að sér önnur störf en þær voru í þegar þær fóru í fæðingarorlof og voru ráðnar í upphaflega. Þess eru dæmi að konur hafi hafnað slíkum tilflutningi og í kjölfar þess verið sagt upp eða þær hafa kosið að segja upp fremur en að þurfa að sætta sig við að vera fluttar til í starfi.
Í kvennablaðinu Veru frá því í nóvember 1990 er sagt frá reynslu tveggja kvenna sem ekki fengu að hverfa að sínum fyrri störfum eftir að þær komu úr fæðingarorlofi. Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp örstuttan kafla úr umfjöllun Veru, en þar segir:
,,Sögur þeirra eru keimlíkar. Þær eru með svipaða menntun --- önnur með verslunarskólapróf en hin með stúdentspróf úr Verslunarskólanum --- þær gegndu báðar störfum innkaupamanna, eru báðar 31 árs gamlar, voru báðar að eignast sitt fyrsta barn og uppsagnir þeirra bar að með sama hætti. ``
Þegar þær fóru í fæðingarorlof var ekkert sem benti til þess að þær yrðu meðhöndlaðar sem raun bar vitni eftir að þær komu til baka. Önnur kona lýsir fundi sem hún var boðuð á skömmu áður en hún átti að hefja störf á ný. Hún segir svo í Veru, með leyfi forseta:
,,Á þessum fundi tilkynnti hann mér að því miður væri ekkert fyrir mig að gera í
fyrirtækinu. Það væri búið að þrengja þann fjárhagsramma sem hann hefði og hann gæti ekki ráðið mig í þá aðstoðarmannsstöðu sem um var rætt. `` --- En ég get tekið það fram að það var talað um að þegar hún kæmi til baka gæti hún jafnvel fengið betri stöðu sem mundi henta henni betur og ætti raunverulega að gera hana hærra setta en áður. --- ,,Hann sagði reyndar að þeir gætu reynt að finna eitthvað fyrir mig á skrifstofunni. Þegar ég spurði hvað það væri sagði hann að í raun og veru væri ekkert starf laust en það væri verið að athuga það. Síðan talaði hann um að það mundi losna starf á skrifstofunni við að reikna saman einhverjar nótur. Ég hafnaði því þar sem ég hef ekki verið að mennta mig og vinna mig upp í fyrirtækinu til þess að fara í slíkt starf. Enda er þetta starf sem þeir gera sér alveg grein fyrir að maður þiggur ekki. Þetta var bara fyrirsláttur. ``
Þetta segir konan sem þarna um ræðir.
Hin konan segir mjög svipaða sögu í þessu blaði, hún var líka boðuð á fund rétt áður en hún átti að hefja störf á ný eftir fæðingarorlof. Hún segir, með leyfi forseta:
,,Þegar ég kom á fundinn tilkynnti hann mér að það hefði verið ákveðið að flytja mig til í starfi þar sem aðstæður mínar væru breyttar. Ég væri komin með barn og þeir teldu mig þar af leiðandi ekki geta valdið starfinu sem skyldi. Bauð hann mér starf á skrifstofunni við að leggja saman nótur. ``
Því miður þá er mér kunnugt um að þetta eru ekki einu dæmin um það sem ég vil kalla ólöglegar aðgerðir gagnvart konum sem hafa farið í fæðingarorlof.
Til að það sé ekki nokkur vafi á því í lögum og þetta sé mjög skýrt höfum við flm. lagt til að breyta lögunum þannig að það sé skýrt að hvorki megi segja konum upp né heldur að flytja þær til, hvorki í fæðingarorlofi né eftir að foreldri kemur aftur úr fæðingarorlofi. Þess vegna er þetta frv. flutt. Ég vil taka það fram að ég tel það flutt eingöngu til þess að skýra það að þetta sé ótvírætt þó að mér finnist sjálfri að það eigi ekki að vera nokkur vafi á því að þetta sé ekki heimilt.
Ég vil einnig taka það fram að þó að við þingkonur Kvennalistans flytjum þetta litla frv. nú þá þýðir það ekki að við séum að öðru leyti ánægðar með lögin um fæðingarorlof. Það þarf að gera á þeim ýmsar breytingar, t.d. að lengja fæðingarorlofið, breyta greiðslufyrirkomulaginu og ýmislegt fleira. En það bíður síðari tíma.
Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr. - og trn.
Virðulegi forseti. Þar sem ég á sæti í hv. heilbr. - og trn. þingsins þykir mér rétt að gera hér nokkrar athugasemdir. Hér er mælt fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fæðingarorlof nr. 57/1987. Samhljóða frv. var lagt fram á 113. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá. Bæði þessi frv. eru flutt af hv. þm. Kvennalistans.
Í grg. segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
,,Lenging fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex var mikilvægt skref í þá átt að koma til móts við breyttar þjóðfélagsaðstæður hér á landi og tryggja velferð barna og foreldra þeirra á tímabilinu eftir fæðingu barns. ``
Af þessu tilefni þykir mér rétt að vekja athygli á því að hæstv. þáv. heilbr. - og trmrh. Sjálfstfl., Ragnhildur Helgadóttir, beitti sér einmitt fyrir þessari réttarbót.
Þótt það sé að sjálfsögðu mikilvægt að taka mið af móður- og fjölskylduhlutverki kvenna, þá verð ég að viðurkenna að mér er ekki með öllu ljóst hverjar afleiðingar yrðu af lagabreytingum sem þetta frv. mælir fyrir um. Í 6. og 7. gr. núgildandi laga virðist réttur barnshafandi kvenna og foreldra í fæðingarorlofi vera nokkuð tryggur. Þannig hljóðar 6. gr. núgildandi laga: ,,Skylt er, þar sem því verður við komið, að færa barnshafandi konu til í starfi ef það er þess eðlis að heilsu hennar eða fósturs er af því hætta búin, enda verði ekki við komið breytingum á starfsháttum. Slík tilfærsla skal ekki hafa áhrif á launakjör viðkomandi til lækkunar. ``
Og 7. gr. hljóðar þannig:
,,Óheimilt er að segja barnshafandi konu upp starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Sama gildir um foreldra í fæðingarorlofi.
Brjóti atvinnurekandi gegn ákvæði fyrri mgr. skal hann greiða bætur. Við ákvörðun bóta skal m.a. taka mið af ráðningartíma starfsmanns hjá viðkomandi atvinnurekanda. ``
Því frv. sem hér er til umræðu er ætlað að breyta fyrri mgr. 7. gr. á þann hátt að atvinnurekanda sé enn fremur óheimilt að flytja barnshafandi konu til í starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Sama gildi um foreldra í fæðingarorlofi eða eins og segir í seinni málslið 1. gr. frv.: ,,Einnig er óheimilt að segja foreldri í fæðingarorlofi upp starfi eða flytja það til í því að orlofinu loknu nema gildar ástæður séu fyrir hendi. `` --- Athugum sérstaklega þessi orð ,,að orlofinu loknu``. Hvað felst í þessum orðum? Hvað á þetta tímabil að ná langt og hver á að túlka það? Er hér átt við á fyrsta degi eftir að orlofi lýkur eða er það næstu fimm ár?
Ég held að hér gæti komið upp slíkur ágreiningur um túlkun að erfitt yrði að finna lausn á. Þessi framkvæmd yrði tæknilega erfið. Þar að auki kemur e.t.v. til sú hætta að konur yrðu síður ráðnar á vinnumarkaði ef lögin yrðu orðuð á eins fortakslausan hátt og hér er gert ráð fyrir. Það verður að athugast að leikreglur á vinnumarkaði ná til beggja. Það er að vísu rétt að það má ýmislegt segja um framkvæmd og túlkun á lögum og reglum um fæðingarorlof, t.d. varðandi þann mismun sem gerður er á greiðslum til kvenna eftir því hvar þær eru á vinnumarkaði, hvort þær eru opinberir starfsmenn, sem njóta fullra launa, eða á almennum vinnumarkaði þar sem sá réttur er ekki fyrir hendi og greiðslur eru takmarkaðar. En þau ákvæði í fæðingarorlofslögum sem hér eru til umræðu virðast fela í sér nokkuð tryggan rétt fyrir konur. Þannig má t.d. benda á 1. mgr. 7. gr. sem hér var gerð grein fyrir áðan sem kveður á um það að uppsögn sé óheimil nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Það þarf því mikið að koma til þannig að mögulegt sé að réttlæta uppsögn við þessar aðstæður. Að sjálfsögðu er það einnig réttlætismál að slíkt sé rækilega tryggt.
Virðulegi forseti. Þetta mál mun verða skoðað í heilbr. - og trn. þingsins þar sem ég á sæti. Hins vegar þótti mér rétt að vekja athygli á þeirri óvissu sem þetta frv. gæti leitt af sér.
Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þetta frv. sem flutt er af þingkonum Kvennalistans og tek undir þau rök sem hv. flm. hafði hér uppi um mikilvægi þess að skýra lagatextann. Og ég get tekið undir með henni að mér finnst hann ekki nægilega skýr eins og hann er nú í lögunum og veit einnig dæmi eins og hún nefndi hér sem sanna það.
Nú skal ég ekki fullyrða það að hér megi ekki orða eitthvað öðruvísi ef það þykir réttara, en meiningunni sem kom fram í máli flm. er ég algjörlega sammála.
Ég get einnig tekið undir það sem kom fram að lög um fæðingarorlof í heild sinni eru ekki neitt endanlegt plagg að mínu mati og ég tek einnig undir að það skref sem stigið var árið 1987 var stórt og var mikil réttarbót sérstaklega fyrir konur. Það sem er hér til umfjöllunar á aðeins við eina grein laganna og ég vil vegna orða hv. síðasta ræðumanns nefna það að í mínum huga fjallar 6. gr. um þau tilfelli þegar konan óskar sjálf vegna heilsu sinnar eftir að verða flutt í annað starf. En aftur á móti er 7. gr. til þess að tryggja það að vinnuveitandinn noti ekki tækifærið meðan viðkomandi starfsmaður, kona eða karl, er í fæðingarorlofi og færi hann til í starfi að honum forspurðum.
Ég get nefnt það að í tíð fyrrv. heilbrrh., Guðmundar Bjarnasonar, var unnið í nefnd að gerð nýs frv. um fæðingarorlof og það var í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Þar náðist samstaða um tillögur sem því miður komu ekki til þingsins á því þingi en er til í frumvarpsformi og ég vonast til þess að núv. hæstv. heilbrrh. taki þær tillögur til athugunar og við fáum á þessu hv. þingi að fjalla um nýja löggjöf um fæðingarorlof.
Hv. Alþingi hlýtur að þurfa að hafa forgöngu um það hverju sinni að þjóðfélagið sé vinsamlegt í garð fjölgunar þjóðfélagsins, sé vinsamlegt í garð barnshafandi kvenna. Eins og þetta þjóðfélag okkar er orðið í dag þá eru konur svo til allar úti á vinnumarkaði og með því að fæðingarorlof er ekki nema sex mánuðir þá er það ekki nægilega langur tími. Nú er mikið lagt upp úr því að ungbörn fái að njóta móðurmjókur sem lengst og í lengri tíma en sex mánuði. Til þess hlýtur að þurfa að taka tillit þegar samin eru lög um fæðingarorlof.
Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að hafa fleiri orð um þetta frv. en lýsi í öllum aðalatriðum yfir stuðningi við það og þá meiningu sem í því felst.
Virðulegi forseti. Út af meðferð málsins í hv. heilbr. - og trn. vil ég aðeins upplýsa að það er rétt að það liggur fullbúið frv. um breytingu á lögum um fæðingarorlof fyrir í heilbrrn. Við erum að endurskoða það frv. m.a. með tilliti til breyttra aðstæðna og frv. um nýskipan þeirra mála verður væntanlega lagt fram á Alþingi í vetur.
Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kvennalistans fyrir að taka þetta mál hér til umræðu. Málið kemur til þeirrar nefndar sem ég á sæti í og þar munum við væntanlega fara yfir það vandlega. Mér heyrðist á hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur að málið yrði tekið þar til rækilegrar meðferðar og það er vissulega fagnaðarefni að stjórnarþingmenn skuli veita slíkar yfirlýsingar í upphafi þings að frumvörp stjórnarandstöðunnar og tillögur fái rækilega meðferð ekkert síður en það sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn.
Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir lét í ljós þá von að væntanlega kæmi frv. frá ríkisstjórninni um þessi mál. Ég verð að segja alveg eins og er að ég el enga sérstaka von í brjósti um það að ríkisstjórnin komi með betri tillögur um skipan þessara mála en eru í gildandi lögum. Það kæmi mér þá mjög á óvart ef svo yrði miðað við þau tök sem sú ríkisstjórn sem nú situr í landinu hefur yfirleitt haft á heilbrigðis- og tryggingamálum.
Ég vil hins vegar segja út af því frv. sem hv. 3. þm. Norðurl. e., Valgerður Sverrisdóttir, nefndi og rætt var á vegum stjórnarflokka --- ég hygg reyndar bara á vegum ríkisstjórnar síðast, ég hygg að það mál hafi aldrei komið fyrir þingflokka, að ég hafði fyrir mitt leyti mjög alvarlegar athugasemdir við það frv. eins og það lá fyrir og ég tel að á því hafi verið mjög veigamiklir gallar. Hæstv. heilbrrh. orðaði það þannig: Við erum að vinna að lagfæringum eða breytingum á frv., ég man ekki hvernig hann orðaði það nákvæmlega, í heilbrrn. Ég vildi mega leyfa mér að inna hæstv. heilbrrh. eftir því hverjir eru að vinna að þessu og hvort sömu aðilar verða kallaðir til starfa við málið og síðast. Mig minnir að þeir sem kallaðir eru aðilar vinnumarkaðarins hafi unnið að málinu á síðasta kjörtímabili, Alþýðusambandið og e.t.v. fleiri. Vinnuveitendasambandið held ég að hafi verið kallað í þetta líka, án þess að ég vilji fela mín örlög í þeirra hendur. Ég hef lítinn áhuga á því og ekki treysti ég þeim fyrir minni pólitísku afstöðu í þessu máli hvað sem þeir heita þar, aðilar vinnumarkaðarins. Ég mundi vilja leyfa mér að inna hæstv. heilbrrh. að því hverjir eru að vinna að endurmati á þessum málum og jafnvel fyrir mína hönd persónulega bjóða það að hv. heilbr. - og trn. Alþingis taki málið til meðferðar fyrir hæstv. ráðherra og reyni að fara rækilega yfir það þar sem málið er hvort eð er komið inn á okkar borð að frumkvæði hv. þm. Samtaka um kvennalista.
Herra forseti. Hv. heilbr. - og trn. Alþingis mun að sjálfsögðu fá málið til meðferðar þegar heilbrrh. hefur formað sínar tillögur og flutt þær fyrir Alþingi. Það er hinn eðlilegi háttur málsins og auðvitað höfum við þann eðlilega hátt á í lýðræðislegu þjóðþingi. Það tíðkast ekki að menn sendi tillögur inn til Alþingis sem þeir styðja ekki sjálfir. Það held ég að hv. þm. Svavar Gestsson hljóti að gera sér ljóst. Það voru ekki hans vinnubrögð í heilbr. - og trn. né í öðrum ráðuneytum sem hann hefur setið í að senda inn til Alþingis tillögur sem hann ekki studdi sjálfur.
Þeir sem eru að vinna að athugun þessara mála eru að sjálfsögðu starfsmenn míns ráðuneytis og ég sjálfur. Við erum einnig að skoða þar mál sem hafa verið lögð inn til ráðuneytisins og vísað til ríkisstjórnarinnar eins og frv. sem hv. 6. þm. Reykv. flutti á Alþingi í fyrra og var vísað til ríkisstjórnarinnar. Það er að sjálfsögðu í skoðun í þessari yfirferð einnig. Ef hv. þm. Svavar Gestsson vildi láta svo lítið að setja hugmyndir sínar um breytingar á blað og senda það til heilbr. - og trn. þá væri sjálfsagt að skoða þær líka. Það
verður auðvitað að ráðast hvort hann treystir núv. ráðherra og starfsmönnum hans til þess að líta á sínar hugmyndir.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir undirtektir við þetta frv. Ég vil skilja ummæli hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur þannig að hún sé ekki andvíg þessu þó að það hafi ekki verið alveg ljóst af hennar máli.
Það sem hún sagði að væri neikvætt við þetta var að það væri mjög erfitt og gæti orðið vafi á með túlkun. Mætti ekki segja konu upp eða foreldri þegar það kæmi úr fæðingarorlofi, hvenær og hvort mætti þá gera það?
Þetta eru atriði sem ég athugaði sérstaklega við undirbúning frv. vegna þess að auðvitað komu þessar spurningar strax upp. Það er ljóst að réttur til að segja upp starfsmönnum er mjög rúmur hér á landi en atvinnurekandinn hefur hins vegar mjög takmarkaðan rétt til þess að færa fólk til í starfi nema starfið sé sambærilegt. Þess vegna getur atvinnurekandi auðvitað sagt starfsmanni upp um leið og hann kemur úr fæðingarorlofi. Þetta breytir því ekki en uppsagnarfresturinn verður auðvitað að vera eðlilegur og fólk á að geta verið í sínu starfi meðan á þessum uppsagnarfresti stendur.
Ég talaði við fólk sem hafði sérstaklega kynnt sér íslenskan vinnurétt og það taldi að þetta væri ekki hægt að mistúlka, þ.e. að ekki mætti segja fólki upp meðan á fæðingarorlofi stæði, en það gilti auðvitað að það mætti segja því upp eins og öðrum starfsmönnum þegar það kæmi til baka. Þetta orðalag átti að ná yfir það en ef hægt er að finna annað betra orðalag þá er ég að sjálfsögðu ekki andvíg því.
Ég vona að hv. heilbr. - og trn. geti fallist á að þetta sé eðlilegur réttur þeirra sem eru í fæðingarorlofi, bæði kvenna og karla.
Virðulegi forseti. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning, þá átti ég ekki við uppsögnina sjálfa í mínu máli hér áðan, heldur tilfærsluna eins og segir í 1. gr. frv.: ,,Einnig er óheimilt að segja foreldri í fæðingarorlofi upp starfi eða flytja það til í því að orlofinu loknu . . . `` Það sem ég var að velta fyrir mér var: Hvað á þetta tímabil að ná langt? Er það á fyrsta degi eftir að orlofi lýkur sem má ekki flytja foreldri til í starfi eða er það eftir einhver ár?
Að sjálfsögðu vil ég einnig að það komi fram að ég fagna því að hv. þm. ræði hér um reglur og lög um fæðingarorlof. Ég tel það mjög jákvætt. En ég ítreka það að þetta mál verður skoðað nánar í hv. heilbr. - og trn. þingsins. |