text
stringlengths 0
342
|
---|
fullgróinn akur, fagurst engjaval |
þaðan af breiðir hátt í hlíðarslakka |
glitaða blæju, gróna blómum smám. |
Klógulir ernir yfir veiði hlakka, |
því fiskar vaka þar í öllum ám. |
Blikar í lofti birkiþrasta sveimur, |
og skógar glymja, skreyttir reynitrjám. |
Þá er til ferðar fákum snúið tveimur, |
úr rausnargarði háum undir Hlíð, |
þangað sem heyrist öldufalla eimur, |
því atgang þann ei hefta veður blíð, |
sem voldug reisir Rán á Eyjasandi, |
þar sem hún heyir heimsins langa stríð. |
Um trausta strengi liggur fyrir landi |
borðfögur skeið, með bundin segl við rá, |
skínandi trjóna gín mót sjávar grandi. |
Þar eiga tignir tveir að flytjast á, |
bræður, af fögrum fósturjarðar ströndum |
og langa stund ei litið aftur fá, |
fjarlægum ala aldur sinn í löndum, |
útlagar verða, vinar augum fjær. |
Svo hafa forlög fært þeim dóm að höndum. |
Nú er á brautu borinn vigur skær |
frá Hlíðarenda hám, því Gunnar ríður |
atgeirnum beitta búinn. Honum nær |
dreyrrauðum hesti hleypir gumi, fríður |
og bláu saxi gyrður, yfir grund. |
Þar mátti kenna Kolskegg allur lýður. |
Svo fara báðir bræður enn um stund. |
Skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti. |
Kolskeggur starir út á Eyjasund, |
en Gunnar horfir hlíðarbrekku móti. |
Hræðist þá ekki frægðarhetjan góða |
óvina fjöld, þó hörðum dauða hóti. |
"Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða, |
fénaður dreifir sér um græna haga, |
við bleikan akur rósin blikar rjóða. |
Hér vil eg una ævi minnar daga |
alla, sem guð mér sendir. Farðu vel, |
bróðir og vinur!" - Svo er Gunnars saga. |
* |
Því Gunnar vildi heldur bíða hel |
en horfinn vera fósturjarðar ströndum. |
Grimmlegir fjendur, flárri studdir vél, |
fjötruðu góðan dreng í heljar böndum. |
Hugljúfa samt ég sögu Gunnar tel, |
þar sem ég undrast enn á köldum söndum |
lágan að sigra ógnabylgju ólma |
algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma. |
Þar sem að áður akrar huldu völl, |
ólgandi Þverá veltur yfir sanda. |
Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll |
árstrauminn harða fögrum dali granda. |
Flúinn er dvergur, dáin hamratröll, |
dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda. |
En lágum hlífir hulinn verndarkraftur, |
hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur. |
### TIL HERRA PÁLS GAIMARD |
Þú stóðst á tindi Heklu hám |
og horfðir yfir landið fríða, |
þar sem um grænar grundir líða |
skínandi ár að ægi blám. |
En Loki bundinn beið í gjótum |
bjargstuddum undir jökulrótum. - |
Þótti þér ekki Ísland þá |
yfirbragðsmikið til að sjá? |
Þú reiðst um fagran fjalladal |
á fáki vökrum, götu slétta, |
þar sem við búann brattra kletta |
æðandi fossar eiga tal, |
þar sem að una hátt í hlíðum |
hjarðir á beit með lagði síðum. - |
Þótti þér ekki Ísland þá |
íbúum sínum skemmtan ljá? |
Þú komst á breiðan brunageim |
við bjarta vatnið fiskisæla, |
þar sem vér áður áttum hæla |
fólkstjórnarþingi, frægu um heim. |
Nú er þar þrotin þyrping tjalda, |
þögult og dapurt hraunið kalda. - |
Þótti þér ekki Ísland þá, |
alþingi svipt, með hrellda brá? |
Nú heilsar þér á Hafnar slóð |
heiman af Fróni vina flokkur. |
Við vitum glöggt, að anntu okkur, |
frakkneskur maður, frjálsri þjóð, |
því andinn lifir æ hinn sami, |
þótt afl og þroska nauðir lami. |
Menntanna brunni að bergja á |
bezta skal okkur hressing ljá! |
Vísindin efla alla dáð, |
orkuna styrkja, viljann hvessa, |