Title
stringlengths 15
17
| Keywords
stringlengths 3
238
| Summary
stringlengths 73
7.23k
| Text
stringlengths 125
444k
|
---|---|---|---|
Mál nr. 551/2005 | Líkamsárás Skaðabætur | L var ákærður fyrir tilraun til manndráps, en til vara stórfellda líkamsárás, með því að hafa ráðist á A, fyrrverandi sambúðarkonu sína, á heimili hennar og slegið hana margsinnis í höfuðið með felgulykli. Hlaut hún við það sár á höfði en missti ekki meðvitund og hlaut engin einkenni um heilahristing. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að felgulykillinn væri hvorki eggvopn né af teljandi þyngd og ekki lægju fyrir sérfræðileg gögn um hættuna, sem árás með hann að vopni gat leitt af sér. Þá lágu ekki fyrir nægar upplýsingar um aðstæður á vettvangi svo unnt væri að varpa ljósi á hvort L hefði gengið svo harkalega fram sem aðstæðurnar gáfu færi á. Ennfremur væri ósannað að hann hefði áður hótað að vinna brotaþola mein og þá yrðu ekki dregnar haldbærar ályktanir um ásetning L af háttalagi hans nóttina fyrir árásina eða í framhaldi af henni. Með hliðsjón af þessu þótti varhugavert að telja sannað að hann hafi ætlað að verða A að bana með árás sinni eða að honum hefði átt að vera ljóst að sú gæti orðið afleiðing hennar. Varð brot hans því ekki heimfært til 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, heldur fellt undir 2. mgr. 218. gr. sömu laga í ljósi aðferðarinnar við árásina. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2½ ár auk þess sem hann var dæmdur til að greiða A 700.000 krónur í miskabætur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 800.000 krónur með þeim vöxtum, sem ákveðnir voru í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði krefst þess að refsing, sem honum var gerð í héraðsdómi, verði milduð. I. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefin að sök tilraun til manndráps með því að hafa að morgni 28. ágúst 2005 ráðist á fyrrverandi sambúðarkonu sína, áðurnefnda A, í baðherbergi á heimili hennar og slegið hana margsinnis með felgulykli í höfuðið með þeim afleiðingum að hún hlaut þar fjóra skurði ásamt kúlu, sem var 9 cm að þvermáli, en auk þess fékk hún skurð og mar á hendi og handleggjum. Í ákæru var þessi háttsemi aðallega talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr., en til vara 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Samkvæmt gögnum málsins voru ákærði og A í sambúð til haustsins 2003. Eiga þau tvö börn, sem voru 11 og 14 ára þegar atvik málsins gerðust. Í skýrslum ákærða fyrir dómi og lögreglu bar hann við minnisleysi um margt, sem laut að aðdraganda þessa atviks, svo og um flest, sem varðaði það sem slíkt. Hann greindi þó frá því að hann hafi fengið vitneskju um það síðla kvölds 27. ágúst 2005 að A hafi farið á skemmtistað og skilið börn þeirra eftir ein heima. Hann hafi farið á bifreið sinni að heimili A og komið þangað um kl. 2 um nóttina. Ætlun hans hafi verið að fylgjast með ferðum hennar úr bifreiðinni og komast að raun um hvenær hún kæmi aftur heim. Um kl. 5 hafi hann séð til hennar, þar sem hún gekk sem leið lá fram hjá heimili sínu með karlmanni, en síðan hafi hún komið þangað aftur ein síns liðs um kl. 9. Um atburðina eftir það hafi hann ekki minnst annars en þess að hann hafi verið nærri A, hún hafi öskrað og hann hlaupið frá húsinu blóðugur á höndum, en þá áttað sig á að eitthvað mikið hefði gerst. Hann kvaðst einnig minnast þess að hafa tekið síðan vatnsslöngu við bensínstöð og ekið að malargryfju, þar sem hann hafi ætlað að fyrirfara sér. Fyrir liggur að þar hafi verið komið að ákærða um kl. 11 um morguninn rænulitlum í bifreiðinni, sem þá hafi verið í gangi, en slanga hafi verið leidd inn í hana frá útblástursröri. Samkvæmt framburði A kom hún heim til sín umræddan morgun um kl. 9. Hún hafi farið út í garð með hund, sem hún hafði í gæslu, en gengið að því búnu inn á baðherbergi rétt innan við anddyri hússins. Þar hafi hún skyndilega fengið þungt högg í höfuðið án þess að hafa áður orðið vör mannaferða og um leið heyrt ákærða formæla sér. Hún hafi snúið sér við og séð framan í ákærða, sem hafi látið högg dynja á henni. Hafi hún öskrað á hjálp og náð svo að bíta í ákærða, en við það hafi honum brugðið og henni tekist að komast út úr baðherberginu. Hún hafi síðan hlaupið upp stiga, farið inn í herbergi til dóttur sinnar á efri hæð hússins og beðið hana um að hringja eftir hjálp. Eftir það varð hún ekki frekar vör við ákærða. Lögregla kom á heimili A stuttu síðar og var hún flutt á sjúkrahús. Samkvæmt vottorði læknis um áverka hennar, sem staðfest var fyrir héraðsdómi, missti hún hvorki meðvitund við árásina né bar einkenni um heilahristing og skaddaðist höfuðkúpa hennar ekki. Á hinn bóginn hafi blætt mikið úr sárum á höfði hennar og hún fundið fyrir verkjum þar, svo og í hendi. Í niðurlagi þessa vottorðs sagði að af áverkunum að dæma hafi „mikið afl verið notað og mesta mildi að ekki hlaust af alvarlegri skaði.“ Í frumskýrslu lögreglu um atvik málsins kom fram að blóðblettir hafi verið á hurð, veggjum og gólfi baðherbergisins á heimili A, svo og að felgulykill hafi fundist þar bak við hurðina. Samkvæmt gögnum um rannsókn á felgulyklinum er lengd hans rúmlega 31 cm, þvermál 20 mm og þyngd um 328 g. Áhald þetta er gert úr holu málmröri, sem myndar handfang, sem er um 23 cm að lengd, en bognar síðan í aflíðandi beygju og endar á svokölluðum toppi felgulykilsins. Merki um blóð virðast eingöngu hafa fundist á handfangi felgulykilsins, en á honum var ekki unnt að greina fingraför. Ákærði hefur kannast við að eiga felgulykil eins og þennan, sem hafi verið í bifreið hans umrætt sinn. Hann kvað hjólbarða hafa sprungið á bifreiðinni daginn áður. Hafi hann skilið við þann hjólbarða inni í bifreiðinni ásamt felgulyklinum og tjakki. Þá var þess jafnframt getið í frumskýrslu lögreglunnar að blóðug peysa hafi fundist utan við bifreið ákærða þegar komið var að henni í fyrrnefndri malargryfju. II. Í málinu hefur ákærði ekki neitað því að hafa að morgni 28. ágúst 2005 ráðist á A á heimili hennar og veitt henni þá áverka, sem greinir í ákæru, með felgulykli. Samkvæmt því og eins og málið liggur að öðru leyti fyrir hafa sönnur verið færðar fyrir þessari háttsemi ákærða. Ákærði neitar því á hinn bóginn að hafa búið yfir ásetningi til að bana A á þennan hátt og gert tilraun til þess, svo sem honum er gefið að sök. Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti er af hálfu ákæruvaldsins byggt á því að hjá ákærða hafi vaknað ásetningur til að verða A að bana þegar hann sá til ferða hennar og karlmanns um kl. 5 aðfaranótt 28. ágúst 2005, en þegar ákærði hugðist láta verða af því eftir að hún kom heim til sín um fjórum klukkustundum síðar hafi hann farið úr bifreið sinni með felgulykil að vopni. Við mat á því hvort ákæruvaldinu hafi tekist að sanna gegn neitun ákærða að hann hafi búið yfir þessum ásetningi verður að gæta að því að felgulykillinn er hvorki eggvopn né af teljandi þyngd. Að frátöldu því, sem fram kom í fyrrnefndu áverkavottorði, hafa ekki verið lögð fram sérfræðileg gögn um hættuna, sem árás með felgulyklinum gat leitt af sér, þar á meðal um hvernig hefði þurft að beita honum og af hverju afli til að verða manni að bana, svo og hverju hafi munað miðað við afleiðingar árásarinnar að þannig hefði farið hér. Í málinu er að finna uppdrátt af húsinu, sem A bjó í, og verður ráðið af honum að baðherbergið, þar sem árásin var gerð, sé lítið. Af ljósmyndum, sem lögregla tók við rannsókn málsins, virðist sem hluti herbergisins sé lagður undir sturtuklefa. Að öðru leyti liggja ekki fyrir í gögnum málsins upplýsingar um stærð baðherbergisins og gólfrými, þannig að varpa mætti ljósi á það hvort ákærði hafi gengið svo harkalega fram sem aðstæður þar gáfu færi á. Gegn neitun ákærða hafa ekki verið færðar viðhlítandi sönnur fyrir því að hann hafi á fyrri stigum hótað að vinna A mein, svo sem haldið hefur verið fram af hálfu ákæruvaldsins. Þá verða heldur ekki dregnar haldbærar ályktanir um ásetning ákærða af háttalagi hans nóttina fyrir árásina eða í framhaldi af henni. Að öllu þessu virtu er varhugavert að telja sannað að ákærði hafi haft ásetning til að verða A að bana með árás sinni eða að honum hafi átt að vera ljóst að sú gæti orðið afleiðing árásarinnar. Verður brot hans því ekki heimfært til 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Aðferð ákærða við árásina fellir háttsemi hans undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Af geðrannsókn, sem gerð var á ákærða, og öðrum gögnum málsins er ljóst að hann hafði alið með sér sjúklega afbrýðissemi. Árásin var gerð á heimili fyrrverandi sambúðarkonu hans og barna þeirra. Var hún framin af mikilli heift og án nokkurs tilefnis af hendi annarra. Til þess verður á hinn bóginn að líta að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, sem hér getur skipt máli. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2½ ár, en til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 31. ágúst 2005. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um bætur til A er staðfest, svo og ákvæði hans um sakarkostnað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Lárus Már Hermannsson, sæti fangelsi í 2½ ár, en til frádráttar þeirri refsingu komi gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 31. ágúst 2005. Héraðsdómur skal vera óraskaður um skaðabætur og sakarkostnað. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 519.190 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur. Dómur Héraðsdóms Vesturlands 23. nóvember 2005. Mál þetta, sem dómtekið var 2. nóvember sl., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara 12. október 2005 á hendur Lárusi Má Hermannssyni, [kt.] Y, Borgarnesi, fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa að morgni 28. ágúst 2005, ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína A, [kt.], á heimili hennar að X, Akranesi, og slegið hana margsinnis í höfuðið með felgulykli, í því skyni að ráða henni bana. A hlaut af árás ákærða 4 cm skurð á hvirfli, 4 cm skurð vinstra megin á höfði, 5 cm skurð rétt ofan við hársvörð framan til, 1,5 cm skurð á hvirfli, 9 cm kúlu í þvermál hægra megin á höfði, mar og sár á vinstra handarbaki, marblett á innanverðum vinstri upphandlegg, 4 marbletti á vinstri framhandlegg og marblett á innanverðum hægri framhandlegg. Er háttsemin talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr., sbr. 11. gr. laga 20/1981. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreint brot. A gerir kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 28. ágúst 2005 til 20. október 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann þess að skaðabótakrafa verði lækkuð og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Sunnudaginn 28. ágúst 2005 kl. 8.55 hringdi B í lögregluna á Akranesi og tilkynnti um líkamsárás. Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að B hafi verið í mikilli geðshræringu og gert grein fyrir því að verið væri að ráðast á móður hennar á heimili þeirra að X á Akranesi. Héldu lögreglumenn þegar á staðinn og hittu þar fyrir A. Kemur fram að A hafi verið á efri hæð hússins ásamt börnum sínum þeim B og C. Mikið hafi blætt úr höfði A. Hafi virst sem um marga höfuðáverka væri að ræða. Að sögn A hafi Lárus Már Hermannsson, fyrrverandi sambýlismaður hennar, ráðist á hana og hafi hann barið hana margsinnis í höfuðið með áhaldi. Var hún flutt með hraði á Sjúkrahús Akraness. Í skýrslunni kemur fram að húseignin X sé einbýlishús á tveimur hæðum. Komið sé inn í lítið anddyri en beint á móti útidyrahurðinni sé baðherbergi. Við athugun á vettvangi hafi felgujárnslykill fundist á bak við baðherbergishurðina. Talsvert blóð hafi verið sjáanlegt í baðherberginu og blóðslettur verið á hurð, veggjum og gólfi baðherbergisins. Þá hafi talsvert blóð verið í svefnherbergi á annarri hæð, þar sem lögreglumenn hafi komið að A. Að beiðni A hafi lögreglumenn haft samband við föður ákærða, D. Er rætt hafi verið við D hafi hann upplýst að ákærði væri í annarlegu andlegu ástandi. Ætti hann við erfitt þunglyndi að stríða og hafi honum verið mikið niðri fyrir undanfarna viku. Greindi hann einnig frá því að ákærði hafi á undanförnum árum gert nokkrar tilraunir til sjálfsvígs og taldi því næst öruggt að ákærði myndi gera tilraun til sjálfsvígs að nýju. Í kjölfar yfirlýsinga D um líðan ákærða hóf lögregla leit að honum, m.a. með því að lýsta eftir bifreiðinni MX-561, sem vitað var að ákærði ók. Um kl. 10.20 barst lögreglu tilkynning um að maður væri í andnauð í malarnámu norðan við Hvalfjarðargöng og vaknaði þegar grunur um að um ákærða væri að ræða. Kemur fram að sjúkraflutningamenn hafi fyrstir komið að ákærða þar sem hann hafi setið í framsæti bifreiðarinnar MX-561 sem hafi verið full af reyk. Er sjúkraflutningamenn hafi komið að bifreiðinni hafi ákærði verið búinn að tengja gúmmíslöngu við útblástursrör bifreiðarinnar og leiða hana inn um hliðarrúðu. Hafi ákærði verið fluttur með sjúkrabifreið á Sjúkrahús Akraness til aðhlynningar, en þaðan hafi hann verið fluttur með sjúkrabifreið til Reykjavíkur. Við hlið bifreiðarinnar MX-561 hafi fundist flíspeysa með blóðblettum í. Fritz H. Berndsen yfirlæknir á Sjúkrahúsi Akraness hefur 29. ágúst 2005 ritað vottorð vegna komu A á sjúkrahúsið 28. ágúst 2005. Í vottorðinu kemur fram að hún hafi við komu verið vel áttuð á stað og stund og gefið skýra og góða sögu. Mikið blóð hafi verið framan í henni og á fötum hennar og hafi blóð lekið frá hári og niður. Hafi hún kvartað yfir verk um höfuð og í vinstri hendi. Við skoðun hafi eftirfarandi áverkar komið fram: Skálægur 4ra cm skurður í hvirfli í miðlínu sem blæði úr. 4ra cm langur skurður vinstra megin á höfði sem blæði úr. 5 cm skurður rétt ofan við hársvörð framan til sem blæði úr. 1,5 cm skurður á hvirfli sem blæði úr. Kúla hægra megin á höfði, um 9 cm í þvermál, sem sé aum viðkomu. Á vinstra handarbaki um 6x6 cm stórt mar og grunnt sár í miðju marsins. Eymsli séu við þreifingu yfir handarbeinum. 2 x 2 cm marblettur á vinstri upphandlegg innanverðum. 1,5 x 1,5 cm marblettur á vinstri framhandlegg. Þrír minni marblettir á vinstri framhandlegg. Um 1 cm marblettur á hægri framhandlegg innanverðum. Ekki hafi verið eymsli yfir andlitsbeinum né brjóstholi eða kvið. Taugaskoðun hafi verið eðlileg. Skurðir á höfði hafi verið þvegnir, staðdeyfðir og saumaðir. Teknar hafi verið myndir af höfuðkúpu sem hafi verið eðlilegar, svo og myndir af vinstri hendi sem ekki hafi sýnt brot. Áverkar A hafi samrýmst frásögn hennar af atvikum. Hafi árás beinst að höfði hennar og verið sérstaklega hrottaleg. Af áverkum A að dæma hafi mikið afl verið notað og mesta mildi að ekki hafi alvarlegri skaði hlotist af. Hafi A verið lögð inn á handlækningadeild til eftirlits yfir nóttina. Með vottorði yfirlæknis fylgja myndir er teknar hafa verið á sjúkrahúsinu af áverkum A. Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík fékk til meðferðar felgulykil þann er fannst inni á baðherbergi að X. Í skýrslu deildarinnar frá 16. september 2005 kemur fram að umræddur lykill hafi við mælingu reynst vera 31,4 cm að lengd, 22 mm í þvermál og 328,23 g að þyngd. Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 31. ágúst 2005 var ákærða gert að sæta geðrannsókn. Tómas Zoëga geðlæknir hefur 19. september 2005 ritað geðrannsókn vegna ákærða. Í niðurstöðu kemur fram að fyrir liggi löng saga um áfengismisnotkun af hálfu ákærða og misnotkun á verkjalyfjum. Þá sýni rannsóknin endurtekin þunglyndistímabil með alvarlegum sjálfsvígstilraunum sem oftast virðist tengd áfengisnotkuninni. Ákærði hafi slitið sambúð við sambýliskonu sína fyrir um þremur árum. Langvarandi afbrýðisemi hafi verið af hans hálfu gagnvart fyrrum sambýliskonunni. Þau einkenni hafi magnast mjög mikið upp eftir sambúðarslitin þannig að hann hafi orðið fastur í þráhyggjuhugsun sem snúist um fyrrum sambýliskonuna. Á sama tíma tali hann um að honum þyki mjög vænt um hana og börnin, vilji fá hana til baka, en geri sér jafnframt grein fyrir því að sú hugsun sé óraunhæf þó hann ráði ekki við hana. Í síðasta viðtali geðlæknisins séu hugsanir hans um fyrrverandi sambýliskonuna minnkandi. Ákærði hafi tekið töluvert magn af verkjalyfjum um margra mánaða skeið, en hafi hætt að taka þau tæpum tveim vikum fyrir atburðinn. Hafi hann augljóslega haft töluverð fráhvarfseinkenni í framhaldi af því og mikla vanlíðan og sjálfsvígshugmyndir á köflum. Rétt sé að undirstrika að þegar atburðirnir hafi átt sér stað sé ekkert sem bendi til þess að hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða lyfja. Þrátt fyrir að ákærði sé haldinn hugvilluröskun af afbrýðisemistoga sé ekkert sem bendi til þess að hann sé ekki ábyrgur gerða sinna. Engin merki séu um truflun á hugsun varðandi aðra hluti eða atburði. Sé það mat Tómasar að ákærði sé ekki í bráðri hættu gagnvart sjálfum sér og að hann hafi fullt innsæi í það sem hann hafi gert gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni. Sé hann með samviskubit gagnvart því sem hann hafi gert henni. Mjög mikilvægt sé að hann haldi áfram að fá stuðning og meðferð. Lyfjameðferð hafi hafist á geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss er ákærði hafi dvalið þar síðast og sé mikilvægt að henni verði fylgt eftir og að ákærði verði áfram undir eftirliti og meðferð lækna og sálfræðings. Þráhyggja gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sé enn til staðar en í minna mæli. Hafi hann fullt innsæi í veikleika sinn og eins og málum sé háttað séu ekki líkur á að hún sé í hættu. Þráhyggjan auki enn á nauðsyn þess að hann verði áfram á lyfjum og í meðferð hjá lækni. Sé það mat Tómasar, eftir nákvæma skoðun á gögnum málsins og viðtölum við ákærða, að ekkert bendi til þess að hann hafi að morgni 28. ágúst 2005 verið haldinn geðveiki, andlegum vanþroska, hrörnun, rænuskerðingu eða verið í öðru samsvarandi ástandi sem komi í veg fyrir að hann hafi getað stjórnað gerðum sínum. Þá sé það jafnframt mat Tómasar að ekkert læknisfræðilegt komi í veg fyrir að viðeigandi refsing geti borið árangur gagnvart honum ef sök sannist. Ákærði bar að hann hafi verið á mjög sterkum ,,kódeinlyfjum” vegna bakverkja í um 9 mánuði fyrir atburðinn. Hafi hann ákveðið að hætta allri lyfjaneyslu 14. ágúst 2005 og verið í miklu fráhvarfi eftir það og búið við mikla vanlíðan. Líðanin hafi á köflum verið það slæm að hann hafi verið að því kominn að ,,ganga frá sér.” Hafi hann ekki nema að litlu leyti borðað eða sofið. Þá kvaðst ákærði hafa notað geðlyf síðastliðin fimm ár fyrir atburðinn. Hafi hann einnig hætt allri geðlyfjaneyslu í maí 2005, þvert á álit lækna. Ákærði kvaðst hafa verið heima hjá sér að Y í Borgarnesi að kvöldi laugardagsins 27. ágúst 2005. Hafi hann hringt á heimili A undir miðnætti en þá komist að raun um að A hafi farið út um kvöldið og skilið börn hennar og ákærða ein eftir heima. Deginum á undan hafi hann rætt við A og hún þá sagt honum að hún ætlaði ekki að fara út að skemmta sér þetta kvöld. Er hann hafi rætt þessi efni við A hafi hann verið með börn þeirra í huga. Í símtalinu að kvöldi 27. hafi hann rætt við dóttur sína B og hún sagt að móðir hennar hafi farið út um kvöldmatarleytið og ekki komið heim eftir það. Hún væri þó búin að hringja heim og segja að hún væri á leið á dansleik. Ákærði kvaðst hafa orðið mjög reiður við þetta. Hafi hann ætlað að láta kyrrt liggja og farið inn í rúm. Hann hafi hins vegar ekki getað sofnað. Um kl. 1.30 aðfaranótt laugardagsins hafi hann farið á bifreið sinni MX-561 til Akraness. Hafi hann lagt bifreiðinni á bifreiðastæði gegnt húsinu að X, en þangað hafi hann verið kominn um kl. 2.00 um nóttina. Hafi hann drepið á bifreiðinni. Í henni hafi hann síðan dvalið alla nóttina. Tilgangur hans með för sinni til Akraness hafi verið að fylgjast með ferðum A til að grennslast fyrir um hvenær hún kæmi heim til sín, en hann hafi haft áhyggjur af börnum sínum þar sem mjög margir gangi fram hjá húsi A. Um nóttina hafi talsvert af fólki átt leið fram hjá bifreið ákærða. Um kl. 5.00 um morguninn hafi hann orðið var við A þar sem hún hafi ásamt einhverjum manni gengið fram hjá bifreið ákærða. Ákærði hafi ,,frosið” við þá sýn. Þau hafi haldið áfram fram hjá húsi A og áfram upp [götuna]. Ákærði hafi ákveðið að bíða áfram í bifreiðinni til að sjá hvenær A kæmi heim. Um kl. 9.00 um morguninn hafi ákærði síðan séð til ferða hennar og hafi hún farið heim til sín. Á þeim tíma hafi ákærði verið orðinn kaldur, syfjaður og þreyttur, auk þess að vera í miklu uppnámi eftir að hafa séð A með karlmanni undir morgun. Eftir það kvaðst ákærði ekki muna atvik svo neinu nemi. Kvaðst hann ekki geta sagt til um hvort hann hafi séð A fara inn í húsið. Það sem ákærði myndi væri að hann hafi á einhverjum tíma staðið nærri A og að hún hafi öskrað ,,hættu”. Það næsta er hann myndi væri að hann hafi verið að hlaupa á brott frá húsinu og þá verið blóðugur á höndum. Hafi hann áttað sig á að eitthvað mikið hafi gerst og því verið í mikilli geðshræringu. Kvaðst hann betur hafa áttað sig á því er hann hafi haldið frá húsinu og talið að þau hafi sennilega lent í átökum. Atvik eftir það væru einnig í þoku en hann myndi eftir að hafa verið staddur á þvottaplani við bensínafgreiðslustöð á Akranesi og hafi hann verið að slíta þvottaslöngu af krana. Hafi hann því næst ekið út fyrir bæinn og í fyrstu ætlað að aka til Borgarness. Hann hafi hins vegar haldið áfram ,,suðurfyrir”. Þá atburði myndi hann heldur ekki vel en hann myndi eftir því að hafa verið í malarnámu og að hann myndi eftir ,,einhverju bauki með slönguna.” Síðan myndi hann einhverjar glefsur frá því er hann hafi verið að fara frá Sjúkrahúsinu á Akranesi og úti í sjúkrabifreið. Hafi hann farið á Landspítala háskólasjúkrahús í Fossvogi. Þaðan hafi hann farið á geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Er ákærða var sýndur felgulykill er lögregla lagði hald á að X kvaðst ákærði þekkja lykilinn, en hann væri samskonar og tilheyrði bifreið ákærða. Hafi hann verið að nota lykilinn á laugardeginum en dekk undir bifreið ákærða hafi sprungið. Hafi hann ekki gengið frá lyklinum eftir að hafa skipt um dekk og hafi lykillinn legið ofan á hinu sprungna dekki aftur í bifreiðinni. Bifreiðin sé skutbifreið og opið í farangursgeymsluna innan úr bifreiðinni. Ákærði kvaðst aldrei hafa ætlað að bana A. Kvaðst hann hafa orðið afbrýðisamur gagnvart því að A væri að hitta aðra karlmenn. Hafi einnig gætt afbrýðisemi af hans hálfu á meðan þau hafi verið gift. Eftir skilnað þeirra hafi hann einhverjum sinnum spurt hana að því hvort hún væri með öðrum karlmönnum. Því hafi hún jafnan svarað neitandi. Hafi hann ekki áður fylgst með því hvort hún hitti aðra menn. Eftir þessa atburði og eftir viðræður við lækna hafi honum orðið ljóst að afbrýðisemi hans hafi á tíðum verið sjúkleg. Hafi hann frá því notið lyfjameðferðar gagnvart áráttuhegðun og afbrýðisemi. Kvaðst hann áður hafa reynt sjálfsvíg. Hafi það verið á meðan hann hafi glímt við mikið þunglyndi og verð undir áhrifum lyfja. Kvaðst ákærði fá lyfjagjöf í vist sinni í gæsluvarðhaldi. Gæti hann nú í fyrsta skipti um langa hríð stjórnað hugsunum sínum. Þá sækti hann vikuleg viðtöl hjá sálfræðingum. Er ákærði var inntur eftir því hvort A hafi lagt fram kæru á hendur honum vegna atvika 19. júní 2004 kvaðst ákærði ekki muna eftir þeim atvikum. Hafi hann þá verið búinn að vera í mikilli áfengisneyslu og verið að ,,trappa sig niður” á lyfjum. Myndi hann lítið eftir sér í langan tíma um þetta leyti, en hann hafi síðan farið í áfengismeðferð á Vog. Kvaðst ákærði kannast við að hafa haft í hótunum við A með sms skilaboðum í maí 2004 en hann hafi verið ,,með leiðindi.” Kvaðst hann ekki viss um hvort hann hafi hótað henni lífláti. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa tiltekið sinn í afbrýðisemiskasti slegið höfði hennar við vegg eða fellt hana niður úti á leikvelli. Kvaðst hann kannast við að hafa þá bendlað hana við annan karlmann, en ekki hafa beitt hana ofbeldi í kjölfarið. A kvaðst hafa verið að skemmta sér að kvöldi laugardagsins 27. ágúst 2005 og verið í heimahúsi. Um kl. 8.30 að morgni sunnudagsins hafi verið hringt í síma hennar, en hún ekki séð númerið þar sem sá er hafi hringt hafi verið með númeraleynd. Hringingarnar hafi verið endurteknar tvisvar eða þrisvar sinnum og aldrei verið svarað. Hafi hún þá ákveðið að drífa sig heim og verið komin þangað fyrir kl. 9.00 um morguninn. Hafi hún opnað útidyrahurðina með lykli. Hún hafi hleypt hundi sínum út og bundið hann fastan á bak við húsið. Hafi útihurð verið opin á meðan. Að því búnu hafi hún farið aftur inn í húsið og inn á baðherbergi inn af anddyri. Hafi hún tekið til við að bursta tennur sínar og snúið baki í hurðina og þá fengið högg í höfuðið. Hafi hún verið barin aftur og aftur. Hafi hún náð að snúa sér við og séð að þar hafi ákærði verið á ferð. Hafi hann úthúðað henni og kallað hana ,,helvítis hóru” eða eitthvað í þá áttina. Einnig hafi hann öskrað að hann hafi vitað hvar hún hafi verið og hvað hún hafi verið að gera. Kvaðst A hafa öskrað og reynt að komast út úr baðherberginu. Hafi hún fengið mörg högg í höfuðið en högg hafi hún jafnframt fengið á vinstri höndina er hún hafi reynt að verja sig. Hafi hún ekki náð að opna baðherbergishurðina þar sem ákærði hafi staðið fyrir henni og varnað henni útgöngu. Hafi hún öskrað á hjálp en þá hafi ákærða virst fipast eitthvað og sagt henni að vekja ekki börnin. Kvaðst hún viss um að hún hafi verið að berjast fyrir lífi sínu og náð að bíta ákærða í hönd eða fingur. Í kjölfarið hafi hún náð að opna hurð að baðherberginu, komist út og upp stiga inn í herbergi dóttur sinnar. Hafi hún vakið dótturina og beðið hana um að hringja í neyðarlínuna eftir hjálp. Hafi hún beðið hana um að hringja aftur og aftur þar sem hún hafi óttast að ákærði væri enn í húsinu. Lögregla hafi komið fljótlega og flutt hana á Sjúkrahús Akraness. Mikið hafi blætt úr höfði hennar. Kvaðst A þess viss að ákærði hafi ætlað að drepa hana inni á baðherberginu, en hann hafi verið mjög trylltur í framan. Atlaga hans hafi einnig borið þess merki, en hann hafi barið hana margsinnis í höfuðið með verkfæri. Kvaðst hún aldrei hafa séð það verkfæri er ákærði hafi notast við. A kvaðst hafa búið með ákærða í um tólf ár en þau hafi endanlega skilið að skiptum um tveim árum fyrir atburðinn. Hafi ákærði aldrei sætt sig við sambúðarslitin og það komið fram í hegðun hans, t.d. með ýmiskonar sms símaskilaboðum en í sumum þeirra hafi falist hótanir. Hafi hann hótað að drepa A og alla þá sem kæmu nærri henni. Hafi hann verið mjög afbrýðisamur. Jafnframt hafi verið til staðar nokkurs konar þráhyggja hjá ákærða gagnvart henni allt frá þeim tíma er þau hafi byrjað að búa saman. Á meðan á sambúð þeirra hafi staðið hafi ákærði verið greindur þunglyndur. Hafi hann leitað sér lækninga vegna þess. Þá hafi hann verið lagður inn á geðdeild. Þau hafi á tilteknum tíma slitið samvistir. Þá hafi farið af stað atburðarás þar sem ákærði hafi m.a. gert tilraun til að svipta sig lífi. Kvaðst A hafa lagt fram kæru á hendur ákærða 21. júní 2004. Hafi ákærði farið í áfengismeðferð og verið á leið inn á Vog. Hafi hann óskað eftir því að hún kæmi með ferðatösku til sín. Er hún hafi komið inn hafi ákærði viljað ræða við hana. Hafi hann orðið reiður og æstur og ásakað hana um að hafa verið á stefnumótum með öðrum karlmönnum. Hafi A þá ætlað að fara en ákærði þá slegið hana utanundir. Í kjölfarið hafi hann stigið ofan á bak hennar þar sem hún hafi legið á gólfinu. Hafi hún náð að komast á fætur, bíta ákærða og með því komist undan. Hafi hún nánast hlaupið á svalahurð og komist þannig út úr íbúðinni. Hún hafi náð að henda sér niður af svölum íbúðarinnar, en íbúðin hafi verið á 1. hæð. Hún hafi í kjölfarið farið til lögreglu og ætlað að kæra atburðinn. Eftir athugun hafi hún komist að raun um að ákærði myndi ekki hafa verið dæmdur í fangelsi fyrir árásina og hafi hún því ekki treyst sér til að halda kærunni frammi. Ákærði hafi beðið hana um að draga kæruna til baka og hafi hún gert það. Ákærði hafi þar fyrir utan nokkrum sinnum lagt hendur á sig. Tvisvar sinnum hafi hún leitað á Heilsugæslustöðina í Borgarnesi eftir árásir af hálfu ákærða. Í fyrra sinnið hafi lögregla verið kölluð til og komið henni til hjálpar. Ákærði og hún hafi þá búið að Kveldúlfsgötu í Borgarnesi. Þau hafi komið heim af dansleik og verið komin inn á stigagang í fjölbýlishúsinu. Þá hafi ákærði borið á hana að hún hafi verið að daðra, gripið í hár hennar og skellt höfði hennar utan í vegg. Hafi hún náð að losa sig og hlaupa út úr húsinu. Hafi hún ætlað að komast heim til foreldra ákærða, en er hún hafi verið á leið yfir leikvöll hafi ákærði náð að henda sér á hana og fella hana í malbikið. Í kjölfarið hafi hann ,,lúskrað” á henni. Lögregla hafi komið að en ákærði þá hlaupið á brott. Í seinna skiptið hafi þau komið heim af dansleik. Systur A hafi verið á heimili hennar. Ákærði hafi þá fengið afbrýðisemiskast og borið upp á hana framhjáhald. Hafi hún farið með honum inn í herbergi til að ræða málið en þar inni hafi ákærði slegið hana hnefahögg í andlitið. Hafi hún í kjölfarið leitað á heilsugæslustöðina vegna áverka í andliti. A kvaðst óttast mjög um líf sitt og hafa gert það í langan tíma fyrir atburðinn. Hafi hún í maí 2005 haft uppi kröfu um að sett yrði nálgunarbann á ákærða gagnvart sér. Kvaðst A vera rórri eftir að ákærði hafi verið handtekinn og vistaður í gæsluvarðahaldi á meðan málið væri til meðferðar. Kvaðst hún ekki mundu hafa þorað að dvelja á heimili sínu að öðrum kosti. A kvaðst hafa reynt að ýta atburðum þessum úr minni sínu. Líði henni þó mjög illa eftir þetta og komi atburðirnir upp í huga hennar svo til á hverjum degi. Kvaðst hún óttast þann dag er ákærði yrði látinn laus á ný. Væri markmið hennar að nota tímann vel með börnum sínum á meðan ákærði væri lokaður inni, því hún væri þess fullviss að hann myndi ljúka því verkefni er hann hafi verið byrjaður á, að enda líf hennar. D bar að vikuna fyrir þessa atburði hafi ákærða liðið mjög illa. Hafi hann fengið martraðir, verið óvenjulega dapur, en hann hafi reyndar oft verið þannig að honum hafi liðið illa. Að mati D hafi ákærði verið með þunglyndiseinkenni. Hafi það einkum komið fram við áföll, s.s. sambúðarslitin við A. Hafi ákærði ekki virst geta unnið úr því. Hafi ákærði m.a. sagt D að hann hafi alla tíð verið mjög afbrýðisamur gagnvart því að A hitti aðra menn. Að mati D hafi eitthvað borið á því á sambúðartíma þeirra. Hafi ákærði nánast verið ,,heltekinn af afbrýðisemi”. Hafi ákærði nokkrum sinnum gert tilraunir til sjálfsvígs. Hafi ástand hans reyndar gengið í bylgjum. Hafi hann fengið köst öðru hvoru, en dottið niður þess á milli. Ákærði hafi aldrei viðurkennt lyfjamisnotkun fyrir sér. Hann hafi engu að síður vitað að sonur sinn hafi misnotað lyf. Vandamál ákærða hafi í raun verið tengd því að hann hafi ekki leita sér aðstoðar og þar með viðurkennt fyrir sjálfum sér hver vandi sinn væri. Viðurkenni hann nú í hverju vandamál sín séu fólgin. Ákærði hafi í um tvær vikur fyrir atburðinn búið á heimili D í fjölbýlishúsi að Y í Borgarnesi. Þeir feðgar hafi verið heima að kvöldi laugardagsins 27. ágúst 2005. Eftir miðnættið hafi ákærði farið inn í herbergi sitt. Hafi D staðið í þeirri trú að hann hafi farið að sofa. Fritz H. Berndsen yfirlæknir hefur ritað áverkavottorð vegna A. Kvaðst hann hafa séð af áverkum á höfði A að miklu afli hafi verið beitt við verknaðinn. Áverkarnir hafi verið miklir og skurðir opnast alveg niður að höfuðkúpu. Kvaðst hann telja að A hafi verið sérstaklega lánsöm að látast ekki við atlöguna. Tómas Zoëga geðlæknir kvað ákærða augljóslega hafa misst tök á sér umrætt sinn en bera að hann muni ekkert af því sem hafi gerst. Sé það þekkt, en engu að síður sé erfitt að skýra það. Um geti verið að ræða sálræna þætti sem grafi minningar um atburðinn. Séu því bæði meðvitaðir og ómeðvitaðir þættir sem stjórni því. Samt sem áður sé ekkert sem bendi til að ákærði hafi ekki verið áttaður er atburðir hafi átt sér stað. Ákærði hafi reynt sjálfsvíg eftir atburðinn. Sé líklegt að hann hafi gert sér grein fyrir hvað hann hafi gert og hafi hann verið að bregðast við því. Í flestum tilvikum geti einstaklingar tekist á við afbrýðisemi. Ákærði hafi verið sjúklega afbrýðisamur og þurft á aðstoð að halda. Niðurstaða: Ákærði hefur viðurkennt að hafa farið frá heimili sínu í Borgarnesi, að heimili fyrrum sambýliskonu sinnar A, laust eftir miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 28. ágúst 2005. Hafi hann beðið í bifreið fyrir utan hús hennar að X í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum hennar. Ákærði hafi séð til hennar um kl. 5.00 um nóttina, en þá hafi hún verið í fylgd með karlmanni. Ákærði kveðst hafa ,,frosið” við það. A og samferðamaður hennar hafi gengið fram hjá húsi A og áfram eftir [götunni]. Hafi ákærði beðið áfram í bifreiðinni til um kl. 9.00 um morguninn er A hafi komið heim. Eftir það ber ákærði að hann muni atburði lítið, minnist þess þó að hafa á einhverjum tíma staðið nærri henni þar sem hún hafi öskrað ,,hættu”, og að hafa komið út úr húsinu með hendur blóðugar. A hefur lýst því að hún hafi fyrirvaralaust verið laminn í höfuðið aftanfrá þar sem hún hafi verið að bursta tennur sínar inni á baðherbergi heima hjá sér. Hafi hún ítrekað verið lamin í höfuðið, náð að snúa sér við og þá séð ákærða. Hafi hann öskrað á hana, kallað hana ,,helvítis hóru”, að hann hafi vitað hvar hún hafi verið og hvað hún hafi verið að gera. Hafi hún fengið mörg högg í höfuðið en högg hafi hún jafnframt fengið á vinstri höndina er hún hafi reynt að verja sig. Hafi hún ekki náð að opna baðherbergishurðina þar sem ákærði hafi staðið fyrir henni og varnað henni útgöngu. Hafi hún öskrað á hjálp en þá hafi ákærða virst fipast og sagt henni að vekja ekki börnin. Hefur hún fullyrt að hún hafi verið að berjast fyrir lífi sínu umrætt sinn. Eftir að hafa náð að bíta ákærða í hönd eða fingur hafi hún náð að opna hurð að baðherberginu, komist út og upp stiga inn í herbergi til dóttur sinnar. Áverkavottorð Fritz H. Berndsen yfirlæknis á Sjúkrahúsi Akraness rekur þá áverka er A hlaut þennan morgun. Bar yfirlæknirinn hér fyrir dómi að hann hafi séð af áverkum á höfði A að miklu afli hafi verið beitt við verknaðinn. Áverkarnir hafi verið miklir og skurðir opnast alveg niður að höfuðkúpu. Kvaðst hann telja að A hafi verið sérstaklega lánsöm að látast ekki við atlöguna. Með vísan til afdráttarlauss framburðar A, sem að sínu leyti á einnig stoð í framburði ákærða sjálfs, er að mati dómsins er ekki varhugavert að slá föstu að ákærði hafi valdið A áverkum á höfði með þeim hætti er hún hefur lýst og ákæra miðar við. Lögregla lagði hald á felgujárnslykil inni á baðherbergi að X, en um er að ræða samskonar lykil og ákærði ber að hafi verið í bifreið hans. Verður því slegið föstu að ákærði hafi tekið sér í hendi felgujárnslykil úr bifreið sinni áður en hann fór inn á heimili A og valdið henni áverkunum með lyklinum. Áverkar þeir er ákærði veitti A voru lífsógnandi og verður ekki annað ráðið af vottorði yfirlæknis um áverkana og framburði hans hér fyrir dómi að hending hafi ráðið því að henni var ekki ráðinn bani við atlöguna. Þá verður slegið föstu með framburði ákærða sjálfs, framburði A sem og Tómasar Zoëga geðlæknis, að ákærði hafi verið haldinn sjúklegri afbrýðisemi vegna gruns um að A væri að hitta aðra karlmenn. Verður ekki við annað miðað en að sú afbrýðisemi hafi stjórnað því að hann fór til Akraness umrædda nótt og beið fyrir utan heimili hennar fram undir morgun, allt þar til hann sá hana á gangi með karlmann sér við hlið. Tómas Zoëga hefur borið að ekkert bendi til að ákærði hafi ekki verið áttaður er atburðir hafi átt sér stað og að líklegt sé að hann hafi verið að bregðast við því sem hann hafi gert með tilraun sinni til að svipta sig lífi. Þegar framangreind atriði eru virt og litið er til þess áhalds er ákærði tók sér í hendi áður en hann fór inn í húsið verður ekki við annað miðað en að með ákærða hafi þá búið sá ásetningur að ráða A bana. Veitti hann henni eftirför inn í húsið og fjölmörg högg í óvarið höfuðið með felgulyklinum, um leið og hann varnaði henni för út af baðherberginu. Sú framganga ákærða varðar við 211. gr., sbr. 20. gr., laga nr. 19/1940. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru. Ákærði hefur gengist undir sátt vegna brota á ákvæðum umferðarlaga. Að öðru leyti hefur hann ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Atlaga ákærða gegn A var ófyrirleitin og beindist gegn lífi hennar. Réð tilviljun ein því að ákærði náði ekki markmiði sínu. Á ákærði sér engar málsbætur. Þegar allt þetta er virt og hliðsjón höfð af 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár og sex mánuði. Gæsluvarðhald ákærða frá 31. ágúst 2005 til dómsuppsögu komi til frádráttar refsingu. Ása Ólafsdóttir héraðsdómslögmaður hefur fyrir hönd A krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta. Í kröfunni er vísað til þess að brot ákærða hafi valdið A umtalsverðum miska og miklu líkamlegu tjóni. Um hafi verið að ræða hættulega árás þar sem ákærði hafi ítrekað lagt til höfuðs A með járnáhaldi, án þess að A hafi getað spornað við verknaðinum. Hafi A átt sér einskis ills von þegar atvikið hafi átt sér stað. Hún hafi orðið fyrir töluverðu áfalli við brotið sem leitt hafi til mikils miska. Þá óttist hún um líf sitt og heilsu. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Það er niðurstaða dómsins að atlaga ákærða gagnvart A hafi valdið henni miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 700.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um. Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti sýslumanns um sakarkostnað, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari. Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærði, Lárus Már Hermannsson, sæti fangelsi í 5 ár og sex mánuði. Gæsluvarðhald ákærða frá 31. ágúst 2005 til dómsuppsögu komi til frádráttar refsingu. Ákærði greiði A, [kt.], 700.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 28. ágúst 2005 til 20. október 2005, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði 873.092 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Inga Tryggvasonar héraðsdómslögmanns 487.592 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola Ásu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns 99.600 krónur. |
Mál nr. 232/2001 | Kærumál Dómkvaðning matsmanns Yfirmat | X var sakaður um kynferðisbrot gagnvart drengnum A. Krafðist X þess að fram færi yfirmat á niðurstöðum matsmanns, sem dómkvaddur hafði verið til að gera sálfræðirannsókn á A. Mótmælti Á dómkvaðningu yfirmatsmanna og hélt því fram að lagaskilyrðum fyrir henni væri ekki fullnægt. Talið var að 3. mgr. 65. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 64. gr. laga nr. 91/1991, heimilaði dómkvaðningu yfirmatsmanna og var því fallist á kröfu X. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2001, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að leggja mat á nánar tilgreind atriði í tengslum við mál sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um dómkvaðningu yfirmatsmanna verði hafnað. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Í beiðni um dómkvaðningu þessa dags. 20. febrúar sl., er vísað til 63. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Sú beiðni var lögð fram á dómþingi 23. febrúar sl. og samdægurs var Oddi Erlingsson, sálfræðingur, dómkvaddur til þess starfa. Fyrir dómi í dag hefur hann staðfest matsgerð sína, sálfræðiskýrslu, sem dagsett er 10. apríl sl. Um yfirmat varðandi mats- og skoðunargerðir skv. 63. laga nr. 19/1991 er ekki kveðið sérstaklega á um í þeim lögum, en samkvæmt 3. mgr. 65. gr. þeirra laga skal um mats- og skoðunargerðir farið eftir fyrirmælum laga um meðferð einkamála í héraði eftir því sem við getur átt. Samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði getur aðili krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem áður hafi verið metin. Ekki verður talið að ákvæði 74. gr. a laga nr. 19/1991 standi því í vegi að aðili geti neytt þessa réttar síns. Ber því að fallast á að heimilt sé að krefjast yfirmats í málinu. Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Ú r s k u r ð a r o r ð: Fallist er á kröfu verjanda ákærða um að fram fari yfirmat á niðurstöðum matsmanns. |
Mál nr. 279/1998 | Búmark Fullvirðisréttur Jafnræði Forsenda Sératkvæði | K naut búmarks samkvæmt lögum nr. 95/1981 um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu og sölu á landbúnaðarafurðum o.fl., og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Hann taldi að með breytingu á stjórn landbúnaðarframleiðslunnar sem leiddu af gildistöku laga nr. 46/1985, og reglum settum samkvæmt þeim, hefði framleiðslurétti hans verið raskað með sérstökum hætti og honum mismunað umfram það sem aðrir urðu fyrir. K vísaði einkum til þess að hann hefði flutt nær allt búmark sitt yfir í framleiðslu á nautgripakjöti en þessi réttindi hefðu orðið verðlaus með gildistöku framangreindra reglna. Hafi tilfærsla búmarksins reynst óafturtæk gagnstætt því sem hann hefði vænst. Litið var til þess að búmarki hafði ekki verið úthlutað sem framleiðslurétti heldur hafði það eingöngu verið viðmiðunartala sem skerðing á afurðaverði reiknaðist frá, væri henni beitt, en aldrei hefði komið til þess að búmark væri látið takmarka framleiðslu á nautgripakjöti. Ekki hefði orðið grundvallarbreyting á stjórn búvöruframleiðslunnar um framleiðslu nautgripakjöts. K hefði látið frá sér allar heimildir til framleiðslu mjólkur og hefði því ekki átt rétt að lögum til úthlutunar á slíkum framleiðslurétti. Það hefði ekki breyst með setningu laga nr. 46/1985. K hafi getað haldið áfram framleiðslu án afskipta yfirstjórnar landbúnaðarmála. Var ekki talið að K hefði sýnt fram á að breytt hefði verið á annan hátt gagnvart honum en öðrum eða brotið hefði verið gegn rétti hans. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu af kröfum K staðfest. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason. Áfrýjandi hefur skotið málinu til Hæstaréttar með stefnu 2. júlí 1998. Hann krefst skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 11.565.432 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. júní 1996 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á bótakröfu áfrýjanda ásamt því, að málskostnaður falli niður. Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. I. Mál þetta varðar búskap áfrýjanda og eiginkonu hans á jörðunum Tjarnarlandi og Brúnum í Öngulsstaðahreppi, sem nú tilheyrir Eyjafjarðarsveit, en hann byrjuðu þau árið 1974 á fyrrnefndu jörðinni, þar sem áfrýjandi tók við búi af föður sínum. Var þetta í fyrstu blandað bú og mjólkurframleiðsla meginþátturinn, en einnig höfðu þau nokkuð af sauðfé og geldneytum. Til að efla búskapinn og auka landrými sitt fékk áfrýjandi fljótlega afnot af 2/3 hlutum nágrannajarðarinnar Syðra-Laugalands, sem er ríkiseign og prestssetur. Árið 1979 flutti hann búið þangað og stofnaði nýbýlið Brúnir, eftir að þau hjónin höfðu reist íbúðarhús á landinu. Á sama ári komu til sögunnar nýjar reglur um stjórn búvöruframleiðslu í landinu, sem reistar voru á lögum nr. 15/1979 um breytingu á lögum nr. 101/1966 um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl. Juku fyrrnefndu lögin nýrri 2. gr. a við hin síðarnefndu, er seinna voru endurútgefin sem lög nr. 95/1981 eftir breytingar með lögum nr. 63/1980 og nr. 45/1981. Með ákvæðum hennar var landbúnaðarráðherra heimilað að grípa með reglugerðum til tímabundinna ráðstafana í þeim tilgangi að draga úr framleiðslu á tiltekinni búvöru, svo að hún hæfði innanlandsmarkaði. Mátti meðal annars skerða afurðaverð til hvers framleiðanda frá grundvallarverði vegna þess hluta framleiðslunnar, er færi fram úr ákveðnu viðmiðunarmarki. Með reglugerð nr. 348/1979 og síðan nr. 465/1983 var framleiðsluráði landbúnaðarins falið að ákvarða þetta mark gagnvart hverjum framleiðanda sauðfjár- og nautgripaafurða. Var það skilgreint sem búmark í ærgildisafurðum og skyldi að meginreglu miðast við meðaltalsframleiðslu áranna 1976, 1977 og 1978. Heimilt var eftir lögunum að ákveða sérstaklega rétt þeirra, sem væru að hefja búskap, draga saman framleiðslu eða hætta búskap, og í reglugerðum var kveðið á um tillit til aðsteðjandi vanda einstakra framleiðenda. Búmarkið var frá upphafi ákvarðað fyrir sauðfjárafurðir, mjólkurframleiðslu og nautakjöt, og reyndi þegar á það um fyrrnefndu afurðirnar. Að sögn áfrýjanda áttu þessi nýmæli laga þátt í því, að hann ákvað haustið 1979 að leggja niður mjólkurframleiðslu sem aðalbúgrein og snúa sér í þess stað að nautgripaeldi til kjötframleiðslu. Með búskap sínum á fyrrgreindum viðmiðunarárum taldist hann hafa áunnið sér búmark, er næmi 723 ærgildum, og voru 554 þeirra í mjólk, 70 í sauðfjárafurðum og 99 í nautgripakjöti. Var honum tilkynnt um þetta heildarbúmark með bréfi framleiðsluráðs landbúnaðarins 15. apríl 1980. Í samræmi við umrædda ákvörðun óskaði hann eftir því við ráðið 9. maí sama ár, að búmark hans í mjólk yrði flutt yfir í sauðfé og nautakjötsframleiðslu, án nánari skilgreiningar þar á milli. Kveðst hann hafa ritað bréf sitt með aðstoð nautgriparæktarráðunauts Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Bein gögn um afgreiðslu þessa erindis liggja ekki fyrir, en svo fór, að flutningurinn varð nær eingöngu yfir í nautgripakjöt, þannig að búmark áfrýjanda var ákvarðað 645 ærgildi í þeirri afurð og 78 í sauðfjárafurðum frá og með verðlagsárinu 1980-1981. Í búskap sínum að Brúnum notaðist áfrýjandi í öndverðu við útihús, sem fyrir voru á landinu og leigð frá prestssetrinu tímabundið, og hentuðu þau ekki fyrir mjólkurbú. Skýrir hann ákvörðun sína þannig, að hann hafi viljað hverfa frá mjólkurframleiðslu um sinn, meðan þau hjónin væru að byggja upp eigin húsakost á jörðinni. Hafi ætlun þeirra verið að byggja fyrst lausagöngufjós, sem hannað væri þannig, að því mætti síðar breyta í básafjós. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, sótti hann um lán til þeirrar byggingar árið 1983 eða fyrr, og henni er lýst í umsögn héraðsráðunautar í Eyjafirði frá 15. september 1984 til stofnlánadeildar landbúnaðarins. Tók ráðunauturinn þar fram, að áfrýjandi hygðist breyta búmarki sínu í nautakjöti yfir í mjólk á næstu árum. Af framkvæmdum að byggingunni varð þó ekki að svo stöddu. II. Hinn 1. júlí 1985 voru lög nr. 95/1981 leyst af hólmi með lögum nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Voru ný ákvæði sett um stjórn búvöruframleiðslu í VII. kafla þeirra, þar sem heimilað var meðal annars í a-lið 30. gr. að ákvarða greiðslur fyrir mjólk og sauðfjárafurðir með samningum milli ríkisstjórnarinnar og Stéttarsambands bænda fyrir þeirra hönd. Skyldu þeir lúta að afurðamagni, sem framleiðendum yrði ábyrgst fullt verð fyrir. Einnig var heimilað að ákveða skiptingu eftir héruðum á framleiðslu búvara og veita búnaðarsamböndum aðild að skiptingu hennar milli einstakra framleiðenda. Samkvæmt 35. gr. skyldu ákvarðanir um beitingu þessara heimilda teknar með reglugerð landbúnaðarráðherra, og yrði réttur framleiðenda þar ákveðinn með tilliti til búvöruframleiðslu þeirra á tilteknu tímabili. Mátti þannig miða við annan tíma en þann, sem til hafði verið litið við ákvörðun búmarks. Tekið var fram, að ákveða mætti framleiðendum mismunandi rétt eftir bústærð og aðstöðu, þar á meðal því, hvort þeir væru að byrja búskap eða draga hann saman. Reglugerðir um stjórn mjólkurframleiðslunnar voru síðan gefnar út fyrir hvert verðlagsár, hin fyrsta nr. 37/1986. Í þeim var hugtakið fullvirðisréttur tekið upp sem skilgreining á því framleiðslumagni, er framleiðendur fengju fullt verð fyrir í skjóli fyrrgreindra samninga. Skyldi hann ákveðinn sem heild fyrir landið allt og honum síðan skipt niður, fyrst á einstök héruð eða búmarkssvæði, en síðan milli einstakra framleiðenda. Búmarki manna eftir eldri lögum var ekki breytt að meginstefnu til, og var fullvirðisréttur héraðanna og framleiðenda reiknaður með hliðsjón af því. Hins vegar var tekið fram í nefndri reglugerð, að engum framleiðanda skyldi reiknaður fullvirðisréttur umfram mjólkurframleiðslu hans innan búmarks verðlagsárið 1984-1985, og fólst í því skírskotun til 35. gr. laganna. Hafði sú viðmiðun áhrif á síðari reglur. Hliðstæðar reglugerðir voru gefnar út um fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða, og var hin fyrsta nr. 339/1986. Búvörusamningar á grundvelli laga nr. 46/1985 tóku hins vegar ekki til nautgripakjöts. Var þetta í samhengi við framkvæmd fyrri laga að því leyti, að til þess hafði aldrei komið í raun, að búmarki í þeirri vöru væri beitt til takmörkunar framleiðslu með skerðingu á afurðaverði. Þetta búmark féll því einvörðungu að almennri reglu í E-lið ákvæða til bráðabirgða í hinum nýju lögum, sem kvað svo á, að fyrirmæli um búmark, sem sett hefðu verið eftir lögum nr. 95/1981, skyldu halda gildi sínu þar til þau hefðu sérstaklega verið felld úr gildi eða reglugerð sett um beitingu ákvæða b- og/eða c-liðar 30. gr. laga nr. 46/1985, sbr. 35. gr. laganna. Í reglugerð nr. 339/1986 fyrir verðlagsárið 1986 - 1987 var svo tekið fram, að ákvæði hennar næðu ekki til búmarks vegna framleiðslu nautakjöts. Hélst það í síðari reglugerðum, og sérstök reglugerð um þessa búgrein var ekki sett. Áfrýjandi kveðst eftir þetta hafa litið svo á, að grundvöllur væri brostinn fyrir geldneytarækt af sinni hálfu án stuðnings frá öðrum búskap. Mikið framboð hefði verið á nautakjöti um árið 1985 og undirboð nokkuð farin að tíðkast. Jafnframt mætti vænta erfiðrar samkeppni frá mjólkurbændum, er drýgt gætu eldisaðstöðu sína með afurðum úr þeirri grein. Að auki þyrfti hann að horfast í augu við það, að hús fyrir nautgripi hans væri enn óbyggt. Kveðst hann hafa afráðið að skera niður nautgripastofn sinn vorið 1986. Gerði hann framleiðsluráði landbúnaðarins kunnugt um þetta með bréfi 20. maí sama ár og mæltist til þess, að hann fengi til baka það búmark sitt í mjólk, sem breytt hefði verið yfir í nautakjöt á sínum tíma. Vísaði hann þar einnig til heimilda framleiðnisjóðs landbúnaðarins til kaupa á búmarki í mjólk og gaf til kynna, að afsal til sjóðsins á því búmarki kæmi til álita. Mætti telja sanngjarnt, að hann og aðrir, sem svipað væru staddir, fengju kost á slíkri úrlausn. Þessu erindi hans var ekki svarað, og til þess kom ekki, að hann fengi búmark eða fullvirðisrétt í mjólkurafurðum þá eða síðar. III. Áfrýjandi hélt þó áfram búskap á jörðinni og hugðist reyna að auka við sauðfjárstofn sinn. Hinn 11. ágúst og 27. nóvember 1986 ritaði hann beiðni til Búnaðarsambands Eyjafjarðar um hækkun á fullvirðisrétti sínum í sauðfjárafurðum í allt að 300 ærgildi. Búmark hans í þeirri grein nam 78 ærgildum, sem fyrr segir, og fullvirðisréttur eftir því varð 71,1 ærgildi, þannig að búið var undir lágmarksstærð. Með bréfi sambandsins 14. október sama ár var honum tilkynnt, að færsla á 100 ærgilda búmarki frá nautakjöti í sauðfé hefði verið samþykkt, og þá með tilliti til þess, að mestur hluti búmarks hans hefði verið áunnið búmark í mjólk. Í framhaldi af því var honum ákveðinn aukinn fullvirðisréttur í tveimur áföngum, og náði rétturinn þannig um 142 ærgildum á verðlagsárinu 1988-1989. Á næsta verðlagsári bættist við 13,5 ærgilda fullvirðisréttur, sem áfrýjandi fékk yfirfærðan frá búi föður síns að Tjarnarlandi. Um búskap sinn eftir 1986 skýrir áfrýjandi annars svo frá, að hann hafi í fyrstu stefnt að byggingu húss fyrir 300 fjár, en fengið synjun vegna takmarkaðs framleiðsluréttar. Með auknum fullvirðisrétti hafi hann þó fengið jáyrði stofnlánadeildar, enda hafi hann jafnframt breytt áætlun sinni þannig, að húsið yrði hannað sem nautgripahús að helmingi. Hafi hann byrjað nautgripaeldi að nýju með kaupum á kálfum og tekið húsið í notkun nærri árslokum 1989. Hann hafi síðan stundað sauðfjár- og nautgriparækt að Brúnum næstu árin, en átt í vök að verjast vegna fjárfestingarkostnaðar og annarra orsaka. Meðal annars hafi ráðstafanir af opinberri hálfu til að greiða fyrir samdrætti í mjólkurframleiðslu aukið á erfiðleika hans, þar sem niðurskurður á kúm og kálfum vegna uppkaupa á fullvirðisrétti og annarra aðgerða hafi raskað jafnvægi á markaði fyrir nautgripakjöt. Á árinu 1995 hafi þau hjónin svo brugðið búi, en landeigandi tekið við mannvirkjum þeirra og jarðabótum. IV. Mál þetta var höfðað fyrir héraðsdómi í júní 1996, en síðar var ákveðið að fresta meðferð þess meðan beðið væri úrslita í dómsmálum, er skotið hafði verið til Hæstaréttar sem málum nr. 42/1997 og nr. 43/1997. Lutu þau að búmarki og fullvirðisrétti tveggja bænda með blandaðan búskap, þar sem mjólkurframleiðsla var meginþátturinn. Gengu dómar um þau í Hæstarétti 9. október 1997 (H.1997.2563 og H.1997.2578). Kveðst áfrýjandi draga þá ályktun af þessum dómum, að sig stoði ekki að halda því fram, að ólögmæt breyting hafi orðið á stjórn búvöruframleiðslu í landinu með lögum nr. 46/1985 og reglugerðum samkvæmt þeim, þegar ákvæði um fullvirðisrétt voru tekin upp til viðbótar ákvæðum um búmark framleiðenda. Á hinn bóginn lítur hann svo á, að við framkvæmd reglna um fullvirðisrétt í mjólk og sauðfjárafurðum í skjóli laganna og með afstöðu til búmarks í nautakjöti eftir gildistöku þeirra hafi forsendum að framleiðslurétti hans verið raskað með sérstökum hætti og honum mismunað umfram það, sem aðrir urðu fyrir. Áfrýjandi vísar hér einkum til þess, að við upphaf stjórnar samkvæmt lögum nr. 15/1979 á framleiðslu nautgripa- og sauðfjárafurða hafi mjólkurframleiðsla verið aðalatvinna hans. Að athuguðu máli hafi hann þá kosið að flytja nær allt áunnið búmark sitt í þeirri grein yfir í framleiðslu á nautgripakjöti og fengið til þess samþykki úthlutunaryfirvalda. Þetta hafi hann gert í trausti þess, að um væri að ræða verðmæt réttindi, sem nauðsyn væri að tryggja til að stunda þá búgrein, og fyrir hvatningu af hálfu þeirra opinberu aðila, sem fóru með stjórn búvöruframleiðslunnar. Réttindin hafi hins vegar orðið verðlaus, þegar búmark í greininni hafi í raun verið fellt niður, án þess að bætur eða önnur réttindi kæmu þar á móti. Hafi tilfærsla búmarksins jafnframt reynst óafturtæk eftir árið 1985, gagnstætt því, sem hann hafi vænst í öndverðu. Af þessu hafi hann beðið tjón, er stefnda sé skylt að bæta. Af hálfu stefnda er því eindregið haldið fram, að þessi sjónarmið áfrýjanda fái ekki staðist, eins og rakið er með skýrum hætti í héraðsdómi. V. Búmarki var ekki úthlutað sem framleiðslurétti, heldur var það eingöngu viðmiðunartala, sem skerðing á afurðaverði reiknaðist frá væri henni beitt. Við það gat skapast takmarkaður réttur til handa framleiðendum búvara, sem hafði fjárhagslega þýðingu fyrir þá. Aldrei kom til þess að búmark væri látið takmarka framleiðslu á nautgripakjöti. Búvörusamningar bænda og ríkisstjórnarinnar á grundvelli laga nr. 46/1985 tóku heldur ekki til nautgripakjöts, svo sem að framan greinir. Áttu fyrirmæli um búmark í nautgripakjöti því að halda sér samkvæmt E-lið ákvæða til bráðabirgða í þessum lögum, þar til þau hefðu sérstaklega verið felld úr gildi eða reglugerð sett um framleiðslustjórnun samkvæmt ákvæðum laganna. Reglugerðarákvæði um framleiðslu nautgripakjöts hafa ekki verið sett. Varð því ekki grundvallarbreyting á stjórn búvöruframleiðslunnar að þessu leyti með lögum nr. 46/1985. Áfrýjandi hafði látið frá sér alla heimild til framleiðslu mjólkur árið 1979 og átti því ekki eftir það rétt að lögum til úthlutunar á slíkum framleiðslurétti, svo sem lýst er í forsendum héraðsdóms. Það breyttist ekki við setningu laga nr. 46/1985. Hann gat hins vegar haldið áfram að framleiða nautakjöt án allra afskipta yfirstjórnar landbúnaðarmála. Vera má að markaðsaðstæður hafi breyst eins og hann heldur fram, en í hvatningu yfirstjórnar landbúnaðarmála til að færa búmark yfir í framleiðslu nautakjöts var ekki fólgið loforð um framleiðslustjórnun eða að markaðsaðstæður myndu ekki breytast. Sérstakar aðstæður hans 1979 áttu sinn þátt í því að hann breytti framleiðslu sinni. Þegar framangreint er virt í heild verður ekki á það fallist að áfrýjandi hafi sýnt fram á, að yfirstjórn landbúnaðarmála hafi breytt á annan veg gagnvart honum en öðrum eða brotið gegn rétti hans og að hann eigi af þeim sökum rétt á bótum. Ber af þessum ástæðum og annars með vísun til forsendna héraðsdóms að staðfesta hann. Rétt þykir eftir atvikum, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. I. Óumdeilt er, að meginmarkmið þeirrar framleiðslustjórnunar, sem grundvöllur var að lagður með lögum nr. 15/1979, hafi verið að ná fram samdrætti og hagræðingu í framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða, sem var til muna umfram þarfir innanlandsmarkaðarins. Meðal þess, sem að því gat stuðlað, var aukin áhersla á framleiðslu nautagripakjöts, sem ekki var umfram landsþarfir og ekki stunduð sem sjálfstæð búgrein nema í takmörkuðum mæli. Má á það fallast með áfrýjanda, að gögn málsins gefi til kynna, að yfirvöld landbúnaðarmála hafi hvatt bændur til að hverfa að þessari grein, eftir því sem aðstæður leyfðu. Er erindi framleiðsluráðs landbúnaðarins til bænda frá 3. maí 1982 þá með talið. Það mátti og heita hvatning í sjálfu sér, að láta reglurnar um búmark ná til nautakjöts við hlið hinna afurðanna. Í því fólst fyrirheit um afmörkun og verndun á framleiðsluaðstöðu manna eftir tilteknum forsendum, ef grípa þyrfti til takmarkana vegna þróunar markaðarins. Um leið fólst í reglunum vísbending um, að öflun búmarks væri meðal skilyrða til árangurs í framleiðslunni. Þá mátti ætla, að áhættan af vali á þessari búgrein væri ekki eindregin, þar sem heimilt væri talið að færa búmark milli búgreina, þegar svigrúm væri til, auk þess sem almenn heimild væri til endurskoðunar á búmarki með tilliti til aðstæðna. Um hagi áfrýjanda er það fram komið, að staðið hafi á tímamótum um búskap hans vegna annarra atvika, þegar þessar reglur komu til sögunnar. Hann hafði hug á að færa út kvíarnar og átti kost á auknu jarðnæði að Brúnum. Þess var að vænta, að svigrúm til stækkunar á mjólkurbúi hans eða fjölgunar sauðfjár væri takmarkað, hvort sem litið var til búmarksins eða ekki. Á hinn bóginn má telja ljóst, að honum hafi ekki verið nauðsyn á að söðla um yfir í geldneytarækt, meðal annars vegna þess, að hann hefði áfram getað nýtt hús að Tjarnarlandi til mjólkurframleiðslu. Ætla verður því, að hinar nýju reglur og það atvinnuöryggi, sem í þeim var eða gat verið fólgið, hafi verið meðal helstu forsendna þeirrar ákvörðunar hans, að taka upp framleiðslu nautgripakjöts eina saman, en hún hafði úrslitaþýðingu um búskap þeirra hjóna. Reglurnar voru og forsenda að ákvörðuninni að því leyti, að til þess var ætlast, að hún yrði ekki tekin án ráðstöfunar á því búmarki, sem þau höfðu áunnið sér við aðra framleiðslu. Jafnframt verður að telja það sannað með þeim gögnum, sem fram hafa komið hér fyrir dómi, að áfrýjandi hafi vænst þess að geta horfið aftur að fyrri framleiðslu í einhverjum mæli. Hafi hann ekki síst talið það mikilvægt vegna þess, að nautgriparækt væri áhættuminni meðfram mjólkurframleiðslu en ein sér. Að þessu athuguðu verður á það að fallast, að áfrýjandi hafi mátt líta svo á, að forsendur hafi brostið fyrir umræddri ákvörðun hans, þegar afráðið var að halda framleiðslu nautagripakjöts og búmarki í þeirri grein utan þeirra reglna um stjórn búvöruframleiðslu, sem settar voru á grundvelli 30. gr. og 35. gr. laga nr. 46/1985 og náðu til hinna hefðbundnu búgreina, sem hann hafði stundað í fyrstu. Þá afstöðu mátti meta svo, að þetta búmark hefði misst gildi sitt að miklu eða öllu leyti, þar sem líklegt væri, að takmarkanir á framleiðslu yrðu miðaðar við annað en reynslu áranna 1976 - 1978, ef til þeirra kæmi. Var staða búgreinarinnar þannig önnur en áður, þótt hún lyti ákvæðum laganna um heimildir til afskipta af framleiðslunni, ef efni yrðu síðar til eftir almennum markmiðum þeirra. Afstaða stjórnvalda til búmarks vegna framleiðslu nautakjöts eftir gildistöku laga nr. 46/1985 átti stoð í lögunum og kom að sínu leyti jafnt við alla, sem störfuðu að þeirri framleiðslu án teljandi stuðnings af öðrum búgreinum, eins og áfrýjandi gerði. Stefndi hefur þó ekki hnekkt þeirri fullyrðingu hans, að staða þessara framleiðenda hafi verið erfiðari en hinna, sem einnig stunduðu mjólkurframleiðslu. Um áfrýjanda sjálfan verður ennfremur að horfa sérstaklega til aðdraganda þess, að hann tók upp hina umdeildu búgrein. Telja verður eftir því, sem fyrr var rakið, að trú hans á aukið öryggi nautabænda í skjóli búmarksins hafi beinlínis verið meðal þess, sem þar réði úrslitum, ásamt hvatningu af hálfu stjórnvalda á sviði landbúnaðarmála. Ákvörðun hans um að fella nautgripastofn sinn árið 1986 svaraði þannig til upphafsins, er hann kom honum á fót. Viðurkenna ber, þegar allt þetta er virt, að staða hans sem búvöruframleiðenda á þessum tíma hafi verið með sérstökum hætti, sem stjórnvöldum landbúnaðarmála hafi verið rétt og skylt að taka tillit til eftir heimildum sínum að lögum. II. Framgöngu áfrýjanda á síðastgreindum tíma verður að meta þannig, að hann hafi gert kröfu um að fá aftur búmark sitt í mjólkurafurðum, sem hann hafði látið af hendi. Verður jafnframt á það að fallast, að hún hafi verið réttmæt að undirstöðu til. Hann gat þó ekki ætlast til þess, að krafan yrði tekin til greina umsvifalaust eða að öllu leyti. Varð hann að bera áhættu af fyrra vali sínu á búgrein ásamt hagræðinu, sem því fylgdi. Afstöðu stjórnvalda verður á hinn bóginn að virða svo, að kröfunni hafi ekki verið mætt að neinu leyti, þegar frá er talin fyrrgreind úthlutun á búmarki og fullvirðisrétti í sauðfjárafurðum með aðild Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Í lögum nr. 46/1985 voru þó heimildir til að miða ákvarðanir um framleiðslu við mismunandi aðstöðu manna, að meðtöldum þeim, sem væru að byrja búskap eða hætta honum. Þær heimildir verður meðal annars að skilja svo, að ekki hafi átt að líta á búvöruframleiðslu í þeim greinum, er a-liður 30. gr. laganna náði til, sem lokaðan atvinnuveg. Áfrýjandi hafði af því brýna hagsmuni, að reynt yrði að greiða götu hans. Verður að rekja það til afstöðu og aðgerða stjórnvalda, sem stefndi beri ábyrgð á, að því var ekki sinnt framar en raun reyndist. Hefur stefndi ekki sýnt fram á, að reynt hafi verið að meta þessa hagsmuni með gagngerum hætti í ljósi markmiða laganna og þeirra heildarhagsmuna, sem reglur um stjórn mjólkurframleiðslunnar voru tengdar, eða að þessi úrslit hafi annars ráðist af málefnalegum forsendum. Virðist mismunun gagnvart áfrýjanda þannig hafa átt sér stað. Telja verður því, eins og atvikum er hér háttað, að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda fyrir tjón í atvinnu sinni af völdum þess, að liðsinni var ekki veitt. Af hálfu stefnda er bent á, að kröfugerð áfrýjanda eftir 1986 hafi ekki verið samfelld og hann ekki tæmt öll kæruúrræði, er til álita gætu komið. Eigi að síður sýna gögn málsins, að hann hafi um árabil háð baráttu fyrir leiðréttingu mála sinna og beint um þau ítrekuðum kvörtunum og áskorunum til stjórnvalda. Verður réttur hans ekki talinn fallinn niður fyrir tómlæti. Krafa áfrýjanda um skaðabætur er miðuð við tilgreint markaðsverð á greiðslumarki í mjólk, er sé ígildi búmarksins, sem hann lét af hendi, að teknu tilliti til almennra skerðinga fullvirðisréttar og greiðslumarks á liðnum árum. Á það verður ekki fallist, að hann geti krafist bóta fyrir réttindi að baki fyrra búmarks síns í mjólk með vísan til þess, hvaða verðmæti þau kynnu að hafa við frjálsa ráðstöfun úr hendi hans. Í þess stað verður að reyna að meta áhrif þeirrar röskunar á búskap hans, sem rekja má til afstöðu og aðgerða stjórnvalda í fyrrgreindum efnum, að teknu tilliti til svigrúms þeirra til leiðréttingar. Verður sú röskun ekki talin ná svo langt, að bætur þurfi að koma fyrir það, að búskapurinn var endanlega lagður niður. Um þetta verður að fara að álitum, eins og reifun málsins og atvikum er háttað. Samkvæmt því teldi ég bæturnar hæfilega ákveðnar 3.000.000 krónur, sem stefnda yrði gert að greiða áfrýjanda með dráttarvöxtum frá þingfestingu málsins í héraði, eins og krafist er, ásamt málskostnaði í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 1998. Mál þetta sem dómtekið var þann 11. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi er höfðað með stefnu birtri 27. júní 1996 af Kristjáni H. Theodórssyni, kt. 130949-2319, Beykilundi 2, Akureyri, á hendur landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs Íslands, Arnarhváli, Reykjavík. Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum bætur að fjárhæð 11.565.432 krónur með dráttarvöxtum frá stefnubirtingardegi samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi stefnanda. Af hálfu stefndu er þess aðallega krafist að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla. Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni. Málsatvik eru þau að stefnandi tók við búi föður síns að Tjarnarlandi í Öngulstaðahreppi á árinu 1974. Hann hafði þar blandað bú og framleiddi mjólk, sauðfjárafurðir og nautakjöt. Þar sem jörðin var landlítil varð stefnandi sér úti um stærra jarðnæði að Brúnum og nýtti þar land. Á árinu 1977 reisti hann íbúðarhús að Brúnum og hóf búskap á jörðinni árið 1979. Í málatilbúnaði stefnanda kemur fram að búmark hans hafi verið 723 ærgildi. Það skiptist þannig að hann hafði 554 ærgildi í mjólk, 70 ærgildi í sauðfé og 99 ærgildi í nautakjöti. Þegar stefnandi hóf búskap að Brúnum hætti hann mjólkurframleiðslu og fékk búmark sitt í mjólk flutt í nautakjöt og að nokkru í sauðfé. Búmark hans var áfram 723 ærgildi og skiptist þá þannig að hann hafði 645 ærgildi í nautakjöti og 78 ærgildi í sauðfé. Í bréfi Búnaðarsambands Eyjafjarðar frá 14. október 1986 til stefnanda kemur fram að í tilefni af umsókn hans frá 11. ágúst það ár um tilfærslu á 222 ærgildisafurða búmarki úr nautakjöti í sauðfé hefði verið samþykkt tilfærsla á 100 ærgildisafurða búmarki yfir í sauðfé. Samkvæmt tilkynningu Framleiðsluráðs landbúnaðarins til stefnanda 4. nóvem-ber 1986 var fullvirðisréttur stefnanda ákveðinn 71,1 ærgildi í sauðfé verðlagsárið 1987-1988. Hann fékk til viðbótar 71,9 ærgildi til framleiðslu sauðfjárafurða og var fullvirðisréttur hans því það ár samtals 143 ærgildi samkvæmt tilkynningu Framleiðsluráðs landbúnaðarins frá 7. október 1987. Fullvirðisréttur stefnanda til framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1988-1989 var samkvæmt tilkynningu Framleiðsluráðs landbúnaðarins frá 9. október 1987 samtals 141,7 ærgildi. Stefnandi fékk aldrei fullvirðisrétt til mjólkurframleiðslu. Stefnandi telur að hann hafi öðlast bótarétt á hendur stefndu vegna bótalausrar niðurfellingar búmarks og í framhaldi af því rangrar úthlutunar á fullvirðisrétti við upptöku fullvirðisréttarkerfis í landbúnaði. Öllum kröfum og staðhæfingum stefnanda fyrir bótakröfum er andmælt af hálfu stefndu sem telja enga bótaskyldu vera fyrir hendi. Málsástæður og lagarök stefnanda. Stefnandi telur aðdraganda máls þessa vera þann að hann hafi byrjað búskap á jörðinni Brúnum í Eyjafjarðarsýslu ásamt konu sinni árið 1979. Honum hafi því ekki verið úthlutað búmarki samkvæmt framleiðslu viðmiðunaráranna 1976-1978 en á þeim árum hafi þau hjónin búið á Tjarnarlandi í Öngulstaðahreppi. Áunnið búmark hafi reynst vera 723 ærgildi sem sundurliðast hafi þannig: 554 ærgildi í mjólk, 70 ærgildi í kindakjöti og 99 ærgildi í nautakjöti. Með þessar forsendur hafi stefnandi hafið uppbyggingu búskapar á jörðinni Brúnum. Á þeim árum hafi bændur verið mjög hvattir til að draga úr framleiðslu. Jafnframt hafi legið fyrir að farið var að skerða verð til bænda við uppgjör afurða. Með bréfi til Framleiðsluráðs, dags. 9. maí 1980, hafi stefnandi farið fram á að mjólkurbúmarkið yrði fært í nautakjöt og sauðfé. Samkvæmt úrskurði dagsettum 4. maí 1982 hafi búmark jarðarinnar verið ákveðið 723 ærgildi; 645 ærgildi í nautakjöti og 78 ærgildi í sauðfé. Stefnandi hafi talið að með búmarkinu hafi jörðin áunnið sér réttindi sem hann hafi ekki þurft að hafa áhyggjur af að yrðu skert án bóta. Hann hafi tekið mark á þeim áróðri, sem rekinn hafi verið af Framleiðsluráði og forystumönnum bænda, fyrir samdrætti í framleiðslu kindakjöts- og mjólkurafurða en aukinni framleiðslu á nautakjöti. Með tilkomu fullvirðisréttar hafi búmarkinu verið kippt í burtu og nautakjötsframleiðsla skyndilega gefin frjáls. Forsendur hafi þá brostið fyrir því að búið stæði undir afkomu fjölskyldunnar og nauðsynlegum framkvæmdum á jörðinni. Úrskurður um fullvirðisrétt stefnanda 1986 hafi verið svo: 71,1 ærgildi í sauðfé (skerðing frá búmarki 6,9 ærgildi); 0 ærgildi í nautakjöti (skerðing frá búmarki645 ærgildi). Samtals hafi skerðing á búmarki því verið 651,9 ærgildi. Með úthlutun Búnaðarsambands Eyjafjarðarsýslu hafi stefnandi síðar fengið leiðréttingu samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 445/1986, sbr. bréf dags. 30. sept. 1987. Með bréfi dagsettu 7. október 1987 hafi Framleiðsluráð tilkynnt stefnanda að úthlutunin væri 71,9 ærgildi. Skerðing á búmarki sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir bótalaust með reglugerðum settum á grundvelli búvörulaga nr. 46/1985 hafi því verið 580 ærgildi. Stefnandi kveðst ekki sætta sig við að vera sviptur búmarki sínu bótalaust og í staðinn úthlutað fullvirðisrétti þar sem réttindi hans hafi verið stórlega skert og umfram það sem almennt hafi gerst. Stefnandi kveðst hafa reynt að fá leiðréttingu sinna mála en enginn árangur hafi orðið af þeim tilraunum og því sé málsóknin nauðsynleg. Krafa stefnanda byggir á því að búmark hans í mjólk, sauðfé og síðar nautakjöti hafi verið eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar (áður 67. gr. stjórnarskrár) og verði því ekki fellt niður án bóta. Stefnandi heldur því fram að brotinn hafi verið á sér réttur er búmark til framleiðslu nautakjöts hafi verið fellt niður. Stefnanda hafi ekki verið úthlutað fullvirðisrétti í nautakjöti en fyrir gildistöku búvörulaganna 1985 hafi hann fengið úthlutað búmarki sem hann hafi miðað sínar framleiðsluáætlanir við. Með ákvörðun fullvirðisréttar og afnámi búmarks í nautakjöti hafi fótum verið kippt undan atvinnu- og eignarréttindum hans. Slíka skerðingu eigi að taka með lögum og þar verði að gæta almennra sjónarmiða þegar eignarrétti manna séu settar skorður. Reglugerð nr. 339/1986 hafi ekki haft stoð í settum lögum og telur stefnandi að brotinn hafi verið á sér réttur er búmark til framleiðslu nautakjöts hafi verið fellt niður og búmark til framleiðslu kindakjöts skert en samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 339/1986 taki reglugerðin ekki til búmarks vegna framleiðslu nautakjöts. Búmarki til framleiðslu nautakjöts hafi verið komið á með formlegum hætti á grundvelli laga nr. 95/1981, sbr. lög 46/1985. Í gildistíð laga nr. 15/1979 hafi þegar verið gert ráð fyrir kvóta á framleiðslu nautakjöts. Í umburðarbréfi Framleiðsluráðs til bænda frá 3. maí 1982 hafi bændur verið hvattir til að draga úr framleiðslu mjólkur og kindakjöts en auka framleiðslu nautakjöts. Ýmsir bændu hefðu jafnframt breytt fyrra búmarki til mjólkur- og sauðfjárframleiðslu í nautakjötsbúmark og þar með sinnt hvatningu Framleiðsluráðs í áðurnefndu umburðarbréfi. Stefnandi hafi verið einn af þeim sem treyst hafi á að búmark í nautakjöti væri komið til að vera og hafi hann miðað sínar ráðstafanir í uppbyggingu búrekstrar síns við þá forsendu. Hins vegar hafi framleiðsluréttur í nautakjöti verið gerður verðlaus með skyndiákvörðun löggjafans og stjórnvalda. Tilgangurinn með setningu laga nr. 15/1979 hafi verið sá að draga úr búvöruframleiðslu. Í samræmi við það hafi Framleiðsluráð landbúnaðarins hvatt bændur til samdráttar. Stefnandi hafi verið einn af þeim sem hlýtt hafi þessu kalli. Ekkert hafi verið í reglum sem bent hafi til þess að með því væri hann að svipta jörð sína varanlega framleiðslurétti og rýra með því verðgildi hennar stórlega. Þeir bændur sem ekki hafi orðið við þeirri áskorun að draga úr framleiðslunni hafi hins vegar haldið framleiðslurétti sínum auk þess sem sumir hafi aukið hann. Fullvirðisréttur, og nú greiðslumark, séu fjárhagsleg verðmæti í skilningi eignarréttar. Framleiðslurétturinn gangi kaupum og sölum með löggerningi, eignin sæti fyrningarreglum skattalaga, og verðgildi jarða ráðist af fullvirðisrétti, nú greiðslumarki, þeirra. Eins og löggjafinn hafi staðið að ákvörðun búmarks, með lögum nr. 15/1979, og síðar fullvirðisrétti og greiðslumarki, verði ekki annað séð en bændur hafi orðið að treysta því að með úthlutun búmarks væri kominn grundvöllur fyrir atvinnuréttindum þeirra. Fyrir þessar aðgerðir löggjafans hafi því búmarkið orðið að verðgildi og njóti því verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þótt atvinnuréttindi almennt njóti aðeins verndar 75. gr. stjórnarskrár þá séu atvinnuréttindi sem byggðust á sérstökum samningi við ríkisvaldið eignarréttindi rétthafans og njóti því verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Gæta verði því almennra viðmiða er eignarrétti séu settar slíkar skorður. Eign þessi, þ.e. búmark í nautakjöti, verði ekki felld niður án bóta. Með því að hvetja bændur til að skipta úr búmarki í mjólk og kindakjöti yfir í búmark í nautakjöti, hafi bændur verið sviptir eignarréttindum og jafnframt hafi bændum verið gefnar rangar forsendur til að reka bú sín. Með bótalausri sviptingu á búmarki stefnanda hafi verið brotin gróflega jafnræðisregla stjórnskipunarréttar. Allir menn eigi að vera jafnir fyrir lögunum en það hafi ekki átt sér stað í þessu tilfelli. Á sama tíma og stefnandi hafi verið sviptur sínum rétti bótalaust hafi þeir bændur sloppið, sem hafi verið svo heppnir að fara að engu eftir fyrirmælum stjórnvalda að draga úr framleiðslu verðlagsárið 1984-1985 eða framleiddu jafnvel umfram búmark, en þeir hafi fengið úthlutaðan fullvirðisrétt að fullu miðað við búmark þeirra og á stundum umfram það. Jafnframt hafi þeir bændur sem hafi verið með búmark í mjólk og sauðfjár-framleiðslu öðlast eign er hefði verðgildi, en nautakjötsbúmark hafi verið gert einskis virði á einni nóttu. Þannig hafi þeir bændur hagnast sem ekki hafi farið eftir tilmælum stjórnvalda að breyta búsháttum sínum og fara út í framleiðslu nautakjöts. Jafnframt hafi stjórnvöld úthlutað fullvirðisrétti í sauðfé eftir geðþótta til einstakra bænda á þessum tíma, en stefnandi hafi enga sambærilega úthlutun fengið. Þessi mismunun sé hróplega ósanngjörn og algerlega í andstöðu við tilgang lagasetningar á Íslandi, m.a. um stöðugleika laga og að þau eigi að vera skynsamleg. Þegar stefnandi hafi gert áætlanir um búskap sinn og tekið þá ákvörðun að breyta fyrra búmarki sínu til mjólkurframleiðslu í nautakjötsbúmark hafi það verið grundvallarforsenda hans að framleiðsluréttur hans væri tryggður. Hann hafi verið að hefja búskap þegar framleiðslutakmarkanir hafi verið teknar upp í landbúnaði. Stjórnvöld hafi lofað slíkum aðilum sérstakri meðhöndlun. Við það hafi ekki verið staðið að mati stefnanda. Ef loforð stjórnvalda hefðu staðist hefði stefnandi því í dag greiðslumark í nautakjöti svipað búmarki sínu. Reglur um brostnar forsendur leiði því einnig til þess að stefnandi eigi rétt á bótum úr hendi stefndu. Stefnukrafan er fundin út á eftirfarandi hátt: Stefnandi telur að hann hafi orðið fyrir bótalausri skerðingu á búmarki með reglugerðum settum á grundvelli búvörulaga 46/1985. Skerðingin hafi verið 580 ærgildi í nautakjöti eins og hér að framan hefur komið fram. Bótafjárhæð í nautakjötskvóta sé jafnað við verð á mjólkurkvóta því ljóst sé að þar hefði búmarkið verið ef nautakjötskvóti hefði ekki verið tekinn upp. Frá þessum tíma hafi almennar skerðingar í mjólk verið 4,5% og að teknu tilliti til þess hafi stefnandi tapað 553,9 ærgildum í mjólk. Bótafjárhæðin sé síðan miðuð við meðalverð á greiðslumarki í mjólk á almennum markaði sem sé 120 krónur á hvern lítra mjólkur. Í hverju ærgildi í mjólk séu 174 lítrar. Eitt ærgildi í mjólk, þ.e. 174 lítrar x 120 geri því 20.880 krónur. Stefnufjárhæðin sundurliðist því svo: 553,9 ærgildi í mjólk x 20.880 = 11.565.432 krónur. Samtals hafi því stefnandi orðið fyrir tjóni sem nemi þeirri fjárhæð sem er stefnufjárhæð máls þessa. Varðandi lagarök er byggt á 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944 og einnig er vísað til 75. gr. hennar. Þá er vísað til jafnræðisreglu stjórnskipunar- og stjórnarfarsréttar og til reglna um brostnar forsendur. Byggt er á meginreglu stjórnarfarsréttar um að reglugerðir verði að hafa lagastoð. Varðandi búmark, fullvirðisrétt og greiðslumark er byggt á lögum nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, búvörulögum, sbr. breytingarlög, nú lög nr. 99/1993. Vísað er til laga nr. 75/1981 um tekju- og eignaskatt varðandi fyrningareglur á keyptum framleiðslukvóta. Málskostnaðarkrafan styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. Málsástæður og lagarök stefndu. Af hálfu stefndu er byggt á því að búmarki sem ákvarðað hafi verið samkvæmt heimild í lögum nr. 15/1979, sbr. og lög nr. 45/1981, hafi ekki verið úthlutað sem framleiðslurétti, heldur hafi búmarkið verið viðmiðunartala sem skerðing á afurðaverði hafi reiknast frá, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1983. Sú skerðing hafi verið reiknuð eftirá er ljóst hafi verið hvað hafi verið til skiptanna vegna sölu afurðanna. Reglur um það hafi ekki tryggt fulla greiðslu fyrir framleiðslu upp að búmarki. Um það er af hálfu stefndu vísað til 4. mgr. a liðar 2. gr. reglugerðar nr. 348/1979 og 1. gr., 2. gr. og 8. - 9. gr. reglugerðar nr. 465/1983 og til reglna nr. 174/1986 um uppgjör vegna verðlagsársins 1984-1985. Notkun búmarksins hafi í eðli sínu verið tímabundin, sbr. a lið 2. gr. reglugerðar nr. 348/1979 og 2. gr. reglugerðar nr. 465/1983 og viðmiðunartímabil þess og útreikningur breytingum háður, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 465/1983. Slík viðmiðun í þágu framleiðslustjórnunar skapi ekki sjálfstæð atvinnu- eða eignarréttindi er geti notið verndar 67. eða 69. gr. stjórnarskrár, sbr. nú 72. og 75. gr. hennar. Þá er á því byggt að allar ákvarðanir stefndu er lotið hafi að framleiðslustjórnun í landbúnaði og snert hafi hagsmuni stefnanda hafi verið teknar með lögmætum hætti og engu bótaskyldu tjóni sé fyrir að fara þeim tengdum. Viðurkennt sé að skerða megi fjárhagsleg réttindi er snerti atvinnuréttindi manna án bóta enda sé það gert með heimild í lögum þar sem jafnræðis sé gætt. Ákvarðanir þær er beinlínis hafi falist í lögum nr. 46/1985, eða sem stjórnvöld hafi tekið með heimild í þeim, hafi uppfyllt þessi skilyrði. Rök stefndu fyrir því eru þessi: A. Um nautakjötsbúmark. Lögum samkvæmt hafi engum fullvirðisrétti á grundvelli samningsgerðar við Stéttarsamband bænda getað verið fyrir að fara í þeirri framleiðslugrein. Löggjafinn hafi tekið sjálfur þá ákvörðun, með almennri reglu er tekið hafi jafnt yfir alla sem hafi haft með höndum framleiðslu nautakjöts, að ekki væri heimilt að láta framleiðslustjórnun með verðábyrgðarsamningum taka til nautakjötsframleiðslu, sbr. a lið 30. gr. laganna. Heimildir til framleiðslustjórnunar í þeirri framleiðslugrein hafi því takmarkast við heimildir er kveðið væri á um í b-d liðum 30. gr. Þeim heimildum er í þeim ákvæðum hafi falist til að ákveða nautakjötsframleiðendum skert verð fyrir hluta framleiðslu sinnar hafi ekki verið beitt og í samræmi við það hafi nautakjötsbúmark, sem ákveðið hafi verið samkvæmt reglugerð nr. 465/1983, misst gildi sitt sem tæki til framleiðslustjórnunar og hafi það verið fellt niður, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 339/1986 og E lið ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 46/1985. Sú ákvörðun hafi því átt stoð í lögum og um hafi verið að ræða almenna reglu er tekið hafi jafnt til allra sem eins hafi staðið á um. Þær reglur er lögin hafi kveðið á um að þessu leyti og ákvarðanir á þeim byggðar hafi þannig í hvívetna verið lögmætar og geti ekki stofnað til bótaskyldu gagnvart stefnanda, sbr. og dóma Hæstaréttar frá 9. október 1997 í hliðstæðum málum. B. Reglugerðir nr. 37/1986 og 339/1986 um upptöku fullvirðisréttarkerfis. Í VII. kafla laga nr. 46/1985, sbr. einkum 30. og 35. gr., hafi verið settur fullnægjandi lagarammi um það hvernig ákvarða skyldi fullvirðisrétt hvers framleiðanda. Með reglum er settar hafi verið um fullvirðisrétt í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu í reglugerðum nr. 37/1986 og 339/1986 hafi ekki verið farið út fyrir þau mörk. Reglugerðirnar séu almennar og miði að jafnræði framleiðenda. Þau viðmiðunartímabil sem þar væri byggt á og reglur þeirra um útreikning réttar einstakra framleiðenda, og heimildir samkvæmt þeim til viðbótarúthlutana til einstakra framleiðenda er uppfyllt hafi tiltekin skilyrði, hafi verið lögmætar og hafi ekki brotið í bága við jafnræðisreglur, sbr. áðurnefnda dóma Hæstaréttar frá 9. október 1997. Úthlutun fullvirðisréttar til stefnanda hafi verið í samræmi við þær reglur sem settar hafi verið og hann hafi ekki sýnt fram á að hann hafi ekki notið jafnræðis við þá úthlutun. Ennfremur er byggt á því af hálfu stefndu að hafi einhverjum bótarétti stefnanda verið fyrir að fara sé hann nú löngu fallinn niður fyrir tómlæti eða fyrningu, sbr. 31. gr. laga nr. 46/1985, en nautakjötsbúmark hafi verið fellt niður með reglugerð nr. 339/1986. Loks er byggt á því að forsendur stefnanda um tjón fái engan veginn staðist. Búmark hafi verið ákvarðað vegna samdráttar í útflutningi. Með gildistöku laga nr. 46/1985 hafi útflutningsbætur strax verið skertar um 30% vegna verðlagsársins 1. september 1985-31. ágúst 1986, sbr. 36. gr. og D-lið ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Í stefnu sé ekkert tillit til þess tekið að frá verðlagsárinu 1986 hafi afurðamagn aukist að baki ærgildis í sauðfé úr 16,8 kg í 18,2 kg, né að heildargreiðslumark við upptöku þess verðlagsárið 1992-1993 hafi ekki verið nema u.þ.b. 46% í sauðfé og u.þ.b. 70% í mjólk af því útreiknaða heildarbúmarki, 18.500 tonnum í sauðfé og 143,4 milljón lítra mjólkur, sem hafi verið til staðar við lok búmarkskerfisins. Ekki fái því staðist að stefnandi geti átt rétt til að hlutdeild hans í innanlandsmarkaði, sem greiðslumarksrétturinn sé bundinn við, verði jafnstór og búmark hafi verið. Af hálfu stefnanda sé heldur ekki tekið tillit til þess, er hann beri saman rétt í búmarki og greiðslumarki og ætlað tjón á þeim grundvelli, að framleiðsla innan búmarks í gildistíð laga nr. 95/1981 hafi hvorki gefið fullt grundvallarverð samkvæmt þeim lögum né hafi verið um að ræða staðgreiðslu afurða svo sem skýrt komi fram af reglum nr. 174/1986 um uppgjör búvöruframleiðslu verðlagsárið 1984-1985. Af hálfu stefndu er því haldið fram að fyrir liggi að allar forsendur hafi skort fyrir mjólkurframleiðslu á Brúnum er stefnandi hóf búskap þar og á búskapartíma hans þar. Samkvæmt úrskurði Framleiðsluráðs í október 1980 virtist búmark á Brúnum, sem sé nýbýli úr landi Syðra-Laugalands, alls 723 ærgildi, hafa verið byggt á framleiðslu stefnanda á jörðinni Tjarnarlandi og hafi það verið þannig miðað við framleiðslu á viðmiðunarárunum 1976-1978; mjólk 554 ærgildi, sauðfé 70 ærgildi og nautakjöt 99 ærgildi. Með bréfi til Framleiðsluráðs dagsettu 9. maí 1980 hafi stefnandi tilkynnt að hann hafi flutt frá Laugalandi að Brúnum árið 1979 og að hann hafi alfarið hætt mjólkurframleiðslu. Hann hafi óskað eftir því að halda áunnum kvóta, er ella félli niður, og að allur útreiknaður kvóti í mjólk yrði fluttur yfir á sauðfjár- og nautakjötsframleiðslu. Virtist það í fyrstu hafa verið fært á sauðfjárframleiðsluna, sbr. fskj. með dskj. nr. 7, en að ósk stefnanda sjálfs sem hefði hafið kálfaeldi til slátrunar vegna rýmri markaðsaðstöðu nautgripakjöts, sbr. dskj. nr. 12, hafi því verið breytt þannig að mjólkurkvóti hafi allur, að undanskildum 8 ærgildum, farið yfir í nautakjöt þannig að búmark í því hafi orðið 645 ærgildi. Eins og gögn málsins og yfirlit framleiðsluráðs á dskj. nr. 37 beri með sér hafi stefnandi síðan einbeitt sér að þeirri framleiðslu auk lítilsháttar sauðfjárræktar. Af framlögðum gögnum sé líka ljóst að enginn húsakostur hafi verið eða hefði verið fyrir hendi á Brúnum er fullnægði kröfum til mjólkurframleiðslu. Hafi stefnandi meira að segja þurft að leigja útihús af prestinum á Syðra-Laugalandi til að geta haft með höndum þá framleiðslu sauðfjár- og nautgripakjöts er hann hafi haft búmark í. Gripahús til þeirrar framleiðslu hafi ekki verið reist á Brúnum fyrr en á árinu 1989, sbr. dskj. nr. 33 bls. 2 og 4. Samkvæmt þessu hafi stefnandi hvorki haft neinn húsakost til mjólkurframleiðslu við setningu búvörulaga nr. 46/1985 né hafði hann þá haft slíka framleiðslu með höndum um árabil. Honum hafi síðan verið reiknaður 71,1 ærgilda fullvirðisréttur í sauðfé vegna verðlagsársins 1987-1988 samkvæmt reglugerð nr. 443/1987, byggt á framleiðslu hans árið 1984 sem hafi verið það ár er honum hafi verið hagstæðara af þeim árum er ákvörðun fullvirðisréttar hafi getað tekið mið af, sem hafi verið verðlagsárin 1984 og 1985, en varð 142,1 ærgildi næsta ár á eftir, sbr. dskj. nr. 24 og nr. 37. Engin framleiðslutakmörkun hafi verið við lýði í nautakjötsframleiðslu né verðábyrgð við slíka takmörkun tengd og hafi stefnandi því haft frjálsar hendur í þeirri framleiðslu sinni og sölu á henni. Verði ekki talið að þau sjónarmið sem hér að framan hafa verið rakin eigi að leiða til sýknu af öllum kröfum stefnanda er varakrafa stefndu sú að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar. Í því sambandi er af þeirra hálfu vísað til sjónarmiða er rakin hafa verið hér að framan varðandi meint tjón stefnanda og bótaskyldu. Þá fái útreikningur tjóns, miðað við ætlað meðalverð greiðslumarks í mjólk löngu síðar, sem engum gögnum sé stutt, og krafa á því byggð, ekki staðist að lögum. Kröfum stefnanda um dráttarvexti og upphafstíma þeirra er mótmælt. Öllum kröfum stefnanda er af hálfu stefndu vísað á bug en því er haldið fram af þeirra hálfu að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru tjóni er rakið verði til atvika er kynnu að varða stefndu bótaskyldu að lögum. Þess er krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði til þess litið að stefna sé reist í verulegum atriðum á röngum og haldlausum staðhæfingum og kröfum, sbr. 130. og 131. gr. laga um meðferð einkamála. Niðurstöður. Stefnandi heldur því fram að stjórnvöld hafi hvatt bændur til að draga úr framleiðslu mjólkur og kindakjöts en auka framleiðslu nautakjöts. Hann hafi breytt fyrra búmarki til mjólkur- og sauðfjárframleiðslu í nautakjötsbúmark og þar með sinnt hvatningu Framleiðsluráðs landbúnaðarins í þeim efnum. Stefnandi vísar í því sambandi til umburðarbréfs Framleiðsluráðs frá 3. maí 1982 á dskj. nr. 8. Í bréfi þessu kemur fram að á fundi Framleiðsluráðsins þann 29. apríl það ár hafi verið samþykkt svohljóðandi tillaga: „Framleiðsluráð landbúnaðarins samþykkir að öllum bændum á lögbýlum verði skrifað bréf varðandi búmark í nautakjöti. Í bréfinu verði gerð grein fyrir því að ætla megi að nautakjötsframleiðslan fái hliðstæða meðferð við uppgjör á verðlagsárinu 1. september 1982 til 31. ágúst 1983 eins og sauðfjárafurðir. Skorað verði á framleiðendur að gera Framleiðsluráði skriflega grein fyrir því, hvort þeir muni nýta áunninn búmarksrétt sinn í nautakjöti á næsta ári. Tekið verði fram að svari bændur bréfinu ekki fyrir 1. júlí n.k. verði litið svo á að þeir ætli ekki að nota búmarksrétt sinn og hann falli út til geymslu næsta verðlagsár. Vilji einhverjir framleiðendur fá rýmkaðan rétt til nautakjötsframleiðslu gefi þeir upplýsingar um hvort þeir vilji á móti draga úr kindakjötsframleiðslu eða mjólkurframleiðslu. Að fengnum framangreindum upplýsingum verði búmark í nautakjöti endurskoðað með hliðsjón af vaxandi sölu nautakjöts.“ Þá segir í umburðarbréfinu að eins og bændum hafi áður verið tilkynnt verði nautakjöt sem komi í sláturhús fyrir ágústlok á því ári greitt fullu verði. Bændur væru hvattir til að nota markaðinn á meðan tryggt sé að fullt verði fáist. Búist væri við miklu nautakjöti næsta haust sem gæti leitt til þess að þá þyrfti að beita verðskerðingu við uppgjör. Í bréfinu er skorað á bændur að segja til um það fyrir 1. júlí hvort þeir muni nota framleiðslurétt sinn í nautakjöti. Þeir sem ekki tilkynni fyrir þann tíma megi reikna með að svo verði litið á að þeir noti ekki rétt sinn svo sem segi í framanritaðri tillögu. Rétturinn verði þá geymdur á nafni jarðarinnar til síðari tíma. Síðan segir í umburðarbréfinu að vilji framleiðendur nautakjöts fá rýmkaðan þann framleiðslurétt gegn því að draga saman framleiðslu í kindakjöti eða mjólk, þurfi þeir að sækja sérstaklega um það og taka fram hversu mikinn framleiðslurétt þeir óski eftir að færa á milli búgreina. Þegar efni umburðarbréfs þessa er skoðað verður það hvorki túlkað á þann veg að bændur hafi með því verið hvattir til að draga úr framleiðslu mjólkur og kindakjöts og auka framleiðslu nautakjöts né að þeir hafi verið hvattir til að breyta búmarki til mjólkur og sauðfjárframleiðslu í nautakjötsbúmark eins og stefnandi heldur fram. Eins og fram kemur í bréfinu gátu bændur ákveðið sjálfir hvort þeir vildu nota framleiðslurétt sinn til nautakjötsframleiðslu. Einnig kemur þar fram að bændur gátu sótt um að fá aukinn framleiðslurétt hvað varðaði nautakjöt gegn því að draga úr framleiðslu kindakjöts og mjólkur. Stefnandi telur einnig að með búmarkinu hafi jörð hans áunnið sér réttindi sem ekki verði skert án bóta. Með tilkomu fullvirðisréttar hafi búmarki verið kippt í burtu og nautakjötsframleiðsla gefin frjáls. Réttindi hans hafi þar með verið stórlega skert, umfram almennar skerðingar. Stefnandi kveðst hafa miðað ráðstafanir í uppbyggingu búrekstrar síns við að búmark í nautakjöti væri komið til að vera. Framleiðsluréttur í nautakjöti hafi hins vegar verið gerður verðlaus með skyndiákvörðun löggjafans og stjórnvalda. Með þeim rökum telur stefnandi að stefndu beri að bæta honum tjónið sem hann telur sig hafa orðið fyrir af þessum ástæðum. Í dómum Hæstaréttar frá 9. október 1997 í málum nr. 42/1997 og 43/1997 segir að tilgangur laga nr. 15/1979, um breyting á lögum nr. 101/1966 um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðar-vörum o.fl., hafi verið sá að draga úr framleiðslu búvöru svo að hún hæfði innanlandsmarkaði. Með lögunum var Framleiðsluráði heimilt að beita tímabundnum ráðstöfunum, að fengnu samþykki fulltrúafundar Stéttarsambands bænda og staðfestingu landbúnaðarráðherra, til þess að ná þessum tilgangi en þær ráðstafanir eru taldar í 1. gr. laga nr. 15/1979. Samkvæmt a lið lagagreinarinnar var þannig heimilt að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda þegar búvöruframleiðsla yrði meiri en þörf væri fyrir á innlendum markaði og ekki fengjust viðunandi erlendir markaðir fyrir það sem umfram væri. Var m.a. heimilt í því sambandi að ákveða framleiðendum full grundvallarverð fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það sem umfram væri. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar skyldi landbúnaðarráðherra setja reglugerð um framkvæmd heimilda er fólust í lagagreininni, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins og fulltrúafundar Stéttarsambands bænda. Með reglugerð nr. 348/1979, sem sett var samkvæmt lögum nr. 15/1979, voru Framleiðsluráði landbúnaðarins heimilaðar tilteknar tímabundnar ráðstafanir í samræmi við fyrirmæli laganna. Samkvæmt a lið 2. gr. reglugerðarinnar var þannig heimilt að ákveða mismunandi verð á búvöru til framleiðenda samkvæmt því sem segir í lögunum og hér að framan greinir. Í 2. mgr. sama liðar segir að settur verði kvóti í ærgildisafurðum fyrir framleiðslu sauðfjár- og nautgripaafurða, aðra hvora búgreinina eða báðar, eftir því sem þurfa þyki. Í greinargerð með lögum nr. 15/1979 kemur fram að mikill vandi hafi steðjað að íslenskum landbúnaði vegna framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða umfram það sem seldist á innanlandsmarkaði. Fram kemur einnig að mjög brýnt hafi verið að grípa til aðgerða sem væru til þess fallnar að draga úr framleiðslu. Þær aðgerðir sem frumvarpið gerði ráð fyrir að heimilt yrði að beita væru ætlaðar sem skammtímaaðgerðir þar til fastara skipulag færðist á framleiðslumagn landbúnaðarins í samræmi við þarfir innlends markaðar. Samkvæmt lögum nr. 15/1979 var þannig heimilt að grípa til tímabundinna ráðstafana þegar búvöruframleiðsla yrði meiri en þörf væri fyrir á innlendum markaði og ekki fengjust erlendir markaðir sem viðunandi teldust fyrir það sem umfram væri að mati Framleiðsluráðs og landbúnaðarráðuneytisins. Skyldi að því stefnt með þessum aðgerðum að laga framleiðsluna að þörfum markaðarins. Engar vísbendingar er að finna í gögnum málsins þess efnis að aðstæður sem máli skiptu varðandi stjórnun búvöruframleiðslunnar yrðu óbreyttar til frambúðar. Verður fremur að telja rökréttara að gera hafi mátt ráð fyrir því að þessar aðstæður breyttust. Ekki verður heldur litið svo á að stjórnvöld hafi gefið fyrirheit um hvaða ákvarðanir yrðu teknar í framtíðinni varðandi stjórnun á framleiðslu búvara eða að stefnandi hafi mátt treysta því að þessum aðgerðum yrði beitt áfram án viðeigandi breytinga í samræmi við þann tilgang sem þeim var ætlað að þjóna. Með lögum nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem tóku gildi 1. júlí 1985 og felldu úr gildi fyrri lög um sama efni, var landbúnaðarráðherra veitt heimild til að beita tilteknum ráðstöfunum til að hafa stjórn á framleiðslu búvara þannig að hún yrði í samræmi við tilgang laganna, sbr. 30. gr. þeirra. Tilgangur laganna var m.a. sá að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur, sbr. a lið 1. gr. laganna, og samkvæmt b lið, að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar yrði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggði ávallt nægilegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu. Samkvæmt a lið 1. mgr. 30. gr. laganna var landbúnaðarráðherra heimilt að leita eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Stéttarsamband bænda um magn mjólkur- og sauðfjárafurða sem framleiðendum yrði ábyrgst fullt verð fyrir á samningstímanum. Skyldi ríkissjóður leggja fram fjármagn til að greiða framleiðendum mismun á fullu verði samkvæmt þeim samningum og þess verðs sem fengist fyrir búvörurnar við sölu á innlendum og erlendum mörkuðum. Samkvæmt 35. gr. skyldu ákvarðanir um beitingu þessara og annarra heimilda í VII. kafla laganna teknar með reglugerð þar sem réttur framleiðenda skyldi ákveðinn með tilliti til framleiðslu þeirra á búvöru á tilteknu tímabili. Fullvirðisréttur var í 1. gr. reglugerðar nr. 37/1986 um stjórn mjólkurframleiðslunnar verðlagsárið 1985-1986, sem sett var samkvæmt heimild í ofangreindum lögum, skilgreindur sem það framleiðslumagn sem framleiðandi afhenti til sölu í afurðarstöð og honum væri ábyrgst fullt verð fyrir samkvæmt reglugerðinni. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar skyldi fullvirðisréttur mjólkurframleiðanda það verðlagsár vera margfeldi búmarks hans og fullvirðismarks viðkomandi svæðis en engum framleiðanda skyldi þó reiknaður fullvirðisréttur umfram mjólkurframleiðslu hans innan búmarks verðlagsárið 1984-1985, sbr. a lið greinarinnar. Heimilt var samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar að veita mjólkurframleiðendum, sem uppfylltu tiltekin skilyrði sem þar eru tilgreind, aukinn fullvirðisrétt. Engin sambærileg ákvæði voru í reglugerðinni varðandi kvóta á framleiðslu nautakjöts eins og áður hafði verið í framangreindri reglugerð nr. 348/1979, sbr. 2. mgr. a liðar 2. gr. reglugerðarinnar. Í 10. gr. reglugerðar nr. 339/1986 um búmark og fullvirðisrétt til framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða verðlagsárið 1986-1987, sem einnig var sett samkvæmt lögum nr. 46/1985, segir að reglugerðin taki ekki til búmarks vegna framleiðslu nautakjöts. Samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar skyldi búvöruframleiðanda aðeins reiknaður fullvirðisréttur til mjólkur- og/eða sauðfjárframleiðslu fullnægði hann þeim skilyrðum að hafa búmark í hlutaðeigandi búgrein og að hafa lagt afurðir, mjólk og/eða kindakjöt, inn í afurðarstöð á verðlagsárinu 1985-1986. Stefnandi hafði ekki framleitt mjólk frá árinu 1979 og gat því ekki fengið fullvirðisrétt í mjólk samkvæmt þeim reglum sem hér að framan hafa verið raktar. Ekki hefur annað komið fram í málinu en málefnaleg sjónarmið hafi ráðið þeim ákvörðunum sem þannig voru teknar. Telja verður einnig með vísan til þeirra lagaákvæða sem hér að framan eru tilgreind að ákvarðanir sem teknar voru með nefndum reglugerðum hafi verið í samræmi við fyrirmæli laganna. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu af hálfu stefnanda í tilefni af því að stefndu halda því fram að ekki hafi verið forsendur fyrir mjólkurframleiðslu að Brúnum og engar upplýsingar liggja fyrir um aðstæður þar hvað slíka framleiðslu varðar. Ekki liggja heldur fyrir upplýsingar um hverjar þær ráðstafanir voru sem stefnandi kveðst hafa viðhaft í uppbyggingu búrekstrarins. Með vísan til alls þessa þykja ekki fram komin fullnægjandi lagarök fyrir því að stefnandi hafi öðlast bótarétt á hendur stefndu af þeim ástæðum sem hann tilgreinir í málatilbúnaði sínum. Ber því að sýkna þá af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari. Dómsorð: Stefndu, landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, skulu sýknir vera af kröfum stefnanda, Kristjáns H. Theodórssonar, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 432/2002 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. september 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Varnaraðili hefur viðurkennt að hafa að morgni 2. ágúst 2002 veist að Z, sem var gestkomandi á heimili varnaraðila, og slegið hann margsinnis með álskafti í axlirnar, bakið og síðuna. Þá hefur bróðir varnaraðila, Y, viðurkennt að hafa ásamt varnaraðila ráðist á Z. Viðurkenna þeir jafnframt að hafa þá um morguninn skilið Z eftir í blóði sínu á lóð leikskóla nærri heimili þeirra þar sem hann var algjörlega hulinn runna. Við komu á sjúkrahús var Z, sem var höfuðkúpubrotinn og með fjölmarga áverka á líkama, þar á meðal eftir eggvopn, talinn í bráðri lífshættu. Gekkst hann þegar í stað undir aðgerð vegna þessa, en hefur nú verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Er varnaraðili því grunaður um brot sem kunna að varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, auk 1. mgr. 220. gr. sömu laga. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af því hversu alvarleg brotin eru teljast uppfyllt skilyrði til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, enda geta brotin varðað að lögum 10 ára fangelsi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Laust eftir kl. 11 þann 2. ágúst sl. barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning um að tveir bræður hefðu sést styðja blóðugan og ölvaðan mann við Skeljagranda í Reykjavík. Stuttu síðar kom önnur tilkynning um að tveir menn hefðu ýtt manni yfir grindverk við leikskóla við Rekagranda 14 og taldi tilkynnandi að hugsanlegt væri að um lík væri að ræða. Eftir ábendingu vitna fundu lögreglumenn mikið slasaðan mann á leikskólalóðinni. Reyndist þar vera um að ræða Z. Kærði var handtekinn ásamt bróður sínum, Y, við bensínafgreiðslu við Austurströnd á Seltjarnarnesi kl. 12.36 sama dag í kjölfar árásar á annan mann við verslunarmiðstöðina við Eiðistorg. Lögreglan hefur rætt við nokkur vitni í málinu. Fram kemur hjá þeim að mikil læti hafi borist frá íbúð kærða að [...] aðfaranótt umrædds dags og um morguninn. Telja vitnin að þessi hávaði hafi líkst því að um slagsmál væri að ræða, húsgögn hafi verið færð til og mikil köll og læti hafi borist frá íbúðinni. Eitt vitni, sem fór út úr húsinu snemma morguns, sá blóð á svalargólfi fyrir framan íbúðina. Við vettvangsrannsókn lögreglu í íbúðinni kom í ljós að þar var mikið blóð m.a. á veggjum og gólfum. Skilríki Z fundust í íbúðinni. Vitni, sem þekkir kærða í sjón, hefur borið að það hafi séð kærða og bróður hans henda manni yfir girðingu við lóð leikskólans. Samkvæmt vottorði tveggja lækna og vottorði réttarmeinafræðings var Z höfuðkúpubrotinn og með blæðingu inn á heila við komu á Landspítala og voru áverkarnir svo alvarlegir að þeir hefðu leitt hann til dauða hefði hann ekki komist undir læknishendur svo fljótt sem raunin varð. Þá er í vottorðunum lýst margháttuðum áverkum sem Z hafi verið veittir m.a. með hnífum, eggvopnum og bareflum. Kærði hefur játað að hafa tekið þátt í árásinni á Z og barið hann með álskafti í axlir bak og síðu. Þá hafi þeir bræður farið með Z út úr íbúðinni og hent honum yfir girðingu við leiksvæði í nágrenninu og skilið hann þar eftir. Samkvæmt DNA rannsókn fundust blóðblettir úr Z á fötum kærða og stórutá. Kveðst kærði ekki hafa neina skýringu á því hvernig blóðið hefur borist á hann. Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. október 2002 kl. 16. |
Mál nr. 139/2004 | Skaðabótamál Lögmaður Fyrning Gjafsókn | K leitaði til lögmannsins Þ á árinu 1996 vegna umferðarslyss sem hún hafði lent í á árinu 1987. Af þessu tilefni ritaði Þ tryggingafélaginu S hf. bréf, en aðhafðist síðan ekkert í málinu fyrr en á árinu 1999. Af hálfu S hf. var vísað til þess að krafa K væri fyrnd. Taldi K að hún hafi orðið fyrir tjóni með því að vanræksla Þ hafi leitt til þess að hún hafi orðið af tryggingabótum vegna slyssins. Í máli K á hendur Þ var talið ósannað að K hafi hlotið varanlega örorku í umræddu slysi. Því hafi lögvarin krafa á hendur tryggingafélaginu ekki stofnast. Samkvæmt því væri ekki fyrir hendi tjón sem til álita kæmi að gera Þ bótaskyldan fyrir. Var hann sýknaður af kröfu K. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.978.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júlí 2001 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, svo og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að sýkna beri stefnda af kröfu áfrýjanda þegar af þeirri ástæðu að þar sem ekki hafi stofnast lögvarin krafa áfrýjanda á hendur réttargæslustefnda sé ekkert tjón fyrir hendi sem til álita kemur að gera stefnda bótaskyldan fyrir. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Rétt þykir að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Stefndi, Þórður Heimir Sveinsson, er sýkn af kröfu áfrýjanda, Kolbrúnar Hrundar Sigurgeirsdóttur. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 500.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. mars 2004. Mál þetta, sem dómtekið var 17. f.m., er höfðað 18. apríl 2002 af Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur, Grenimel 1 í Reykjavík, á hendur Þórði Heimi Sveinssyni, nú til heimilis að Hrísalundi 20F á Akureyri. Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara verulegrar lækkunar á dómkröfu stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar. Stefnandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu. I. Stefndi er lögfræðingur og starfaði um tíma sem héraðsdómslögmaður í Reykjavík. Í málinu krefur stefnandi hann um skaðabætur vegna tjóns sem hún kveðst hafa orði fyrir vegna vanrækslu hans við heimtu bóta vegna umferðarslyss sem hún lenti í 12. mars 1987, en þá ók bifreið á hana á Hamrabergi í Hafnarfirði. Stefnandi var þá 9 ára gömul. Samkvæmt gögnum málsins veitti stefnandi stefnda umboð 13. nóvember 1996 til þess að „afla gagna, skattskýrslna, semja um skaðabætur, ljúka við uppgjör og taka á móti greiðslum“ fyrir sína hönd vegna slyssins. Ritaði stefndi réttargæslustefnda bréf vegna málsins 25. nóvember 1996, þar sem fram kom að stefnandi hefði eignast barn 5. sama mánaðar, en hið rétta er að barnið fæddist 27. október. Var í bréfinu áskilinn réttur til að koma að bótakröfum á hendur tryggingafélaginu „vegna mögulegra eftirkasta fæðingar vegna slyssins“. Þá var óskað eftir því að stefnanda yrðu send gögn er vörðuðu málið. Ekkert mun síðan hafa verið aðhafst í málinu af hálfu stefnda gagnvart tryggingafélaginu fyrr en 16. júní 1999, en þann dag var bréfið frá 25. nóvember 1996 sent félaginu að nýju. Í kjölfar þess, eða 25. júní 1999, kynnti tryggingafélagið stefnda þá afstöðu sína að hugsanleg bótakrafa á hendur því væri fyrnd og var þar um vísað til 99. gr. umferðarlaga. Mun stefnandi í framhaldi af þessu hafa leitað til annars lögmanns og falið honum að gæta hagsmuna sinna í málinu. Að tilhlutan þess lögmanns og eftir að tryggingafélagð hafði bréflega tilkynnt honum að bótakrafa á hendur því væri fyrnd mat Atli Þór Ólason læknir varanlega örorku stefnanda vegna slyssins. Komst hann að þeirri niðurstöðu í matsgerð 24. apríl 2001 að stefnandi hafi í slysinu hlotið 5% varanlega örorku. Á grundvelli örorkumatsins var það síðan niðurstaða Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings að höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps á slysdegi og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins næmi samtals 1.878.600 krónum. Þá lagði stefnandi fram kvörtun 15. maí 2000 á hendur stefnda til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. V. kafli laga nr. 77/1998 um lögmenn. Var það niðurstaða nefndarinnar í úrskurði 9. október 2000, að aðgerðarleysi stefnda í hagsmunagæslu fyrir hönd stefnanda „vegna hættu á fyrningu bótakröfu“ hafi verið aðfinnsluvert. Skömmu eftir að framangreind niðurstaða tryggingafræðings lá fyrir veitti stefnandi núverandi lögmanni sínum umboð til að gæta hagsmuna sinna gagnvart stefnda. Ritaði lögmaðurinn stefnda bréf 18. júní 2001 þar sem sett var fram bótakrafa á hendur honum vegna meintrar vanrækslu við hagsmunagæslu í þágu stefnanda gagnvart réttargæslustefnda. Var gerð krafa um það í bréfinu að stefndi greiddi stefnanda bætur í samræmi við niðurstöðu örorkumats og útreikning tryggingafræðings, eða 1.878.600 krónur, og að auki miskabætur að fjárhæð 100.000 krónur. Þá beindi lögmaðurinn kröfu um bætur að réttargæslustefnda með bréfi 23. janúar 2002 og þá á grundvelli starfsábyrgðartryggingar stefnda hjá félaginu. Þeirri kröfu hafnaði tryggingafélagið með bréfi 7. febrúar 2002. Í því kemur fram að stefndi hafi haft starfsábyrgðartryggingu lögmanna hjá félaginu frá 27. nóvember 1995 til 24. nóvember 2000. Samkvæmt skilmálum félagsins taki slík vátrygging ekki til tjóns vegna skaðabótakröfu, sem stofnast hefur gegn vátryggingartaka á vátryggingartímanum, hafi krafan ekki verið tilkynnt félaginu í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok vátryggingar. Innan þessara tímamarka hafi engin bótakrafa komið fram á grundvelli starfsábyrgðartryggingar stefnda hjá félaginu. Þegar af þessari ástæðu bæri að hafna bótakröfu. Mál þetta höfðaði stefnandi svo sem fram er komið 18. apríl 2002. II. Á meðal gagna málsins er vottorð læknis um komu stefnanda á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík 12. mars 1987. Niðurstaða skoðunar og rannsókna sem stefnandi undirgekkst þar var „cliniskt vaxtarlínulos rétt neðan við [vinstri] olnboga og blæðing í [vinstri] olnbogalið“. Meðferð hafi verið fólgin í gipsspelku um vinstri olnboga. Þá hafi verið ákveðið að fylgjast með stefnanda með tilliti til kviðáverka og hafi hún því verið lögð inn á sjúkrahús til næsta morguns. Þessu næst segir svo í vottorðinu: „Þá var hún útskrifuð af gæslud. í góðu standi og kom síðan 3-4 vikum síðar á [endurkomudeild slysadeildar] og var þá fjarlægð gipsspelkan [...]. Hins vegar mun hafa komið í ljós við gipstökuna að hún var með eymsli yfir rófubeini en það var ekki myndað og talið geta hafa verið sprunga en að sögn sjúkl. mun hún hafa lagast fljótlega í rófubeininu.“ Í örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis er gerð grein fyrir efni framangreinds læknisvottorðs. Þá kemur fram í örorkumatinu að í viðtali við Atla Þór hafi stefnandi lýst því að hún hefði haft veruleg óþægindi í rófubeini fyrst eftir slysið og varla getað gengið. Hún hefði einnig átt erfitt með að sitja á stól í skólanum og oft þurft að standa upp í tímum og ganga um. Þannig hefði þetta verið út skólaárið, að minnsta kosti 1987. Óþægindin hefðu síðan minnkað eitthvað, en verið áfram til staðar og versnað þegar frá leið og farið versnandi einkum á síðari árum. Þessu næst segir svo í örorkumatinu: „Kolbrún segir að óþægindin í rófubeini hafi verið til staðar öll hennar skólaár og truflað hana við langar setur. Hún hafi leitað til skólahjúkrunarkonu vegna þessa. Skýrslur skólahjúkrunarkonu fundust ekki þrátt fyrir leit. Í fyrstu meðgöngu hennar á árinu 1996 hafi hún haft aukin óþægindi niður í rófubein og einnig við rembing í fæðingu.“ Í framhaldi af þessu er í örorkumatinu getið um gögn sem matsmaður hafði undir höndum frá kvennadeild Landspítalans og Sólvangi í Hafnarfirði og sem aðallega varða upplýsingar sem skráðar voru í mæðraskrá stefnanda á þessum sjúkrastofnunum í tengslum við meðgöngu og fæðingu árin 1996 og 2000, en stefnandi eignaðist sitt annað barn í júlí 2000. Í niðurstöðukafla örorkumatsins, sem ber yfirskriftina „samantekt og álit“, segir svo: „Fyrir slysið 12.03.1987 var Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir einkennalaus frá stoðkerfi. Í slysinu gekk hún út úr strætisvagni yfir götu þegar bíll ók á hana. Hún hlaut áverka á vinstri olnboga, kvið og brjóstkassa og var á gæsludeild slysadeildar yfir eina nótt. Framantaldir áverkar löguðust allir og skyldu ekki eftir sig nein varanleg mein. Við eftirlit 3-4 vikum eftir slysið þegar gipsspelka var fjarlægð kom fram að Kolbrún hafði eymsli yfir rófubeini sem talið var vera hugsanlega vegna sprungu í beininu en það var ekki myndað. Síðan hefur Kolbrún haft óþægindi í rófubeini allt til dagsins í dag. Þau koma við langar setur, stöður, áreynslu, rembing, í lok meðgöngu og við fæðingu. Þau trufla hana við göngu, vinnu í sitjandi stellingu eða vinnu er krefst áreynslu. Við skoðun finnast eymsli yfir rófubeini sem aukast við áreynslu. Við mat á varanlegri örorku er talið líklegt að Kolbrún hafi getað hlotið áverka á rófubeini í framangreindu slysi, enda er þess getið í læknisvottorði sem ritað er tveimur og hálfum mánuði eftir slysið. Samfelld kvartanalýsing Kolbrúnar er trúverðug. Varanleg örorka er metin 5%.“ III. Dómkröfu sína í málinu byggir stefnandi á því að stefndi hafi með stórkostlegu gáleysi orðið valdur að því að stefnandi hafi orðið af tryggingabótum frá réttargæslustefnda, Sjóvá Almennum tryggingum hf., vegna slyssins 12. mars 1987, samtals að fjárhæð 1.978.600 krónur. Hafi þar annars vegar verið um að ræða bætur fyrir varanlega örorku, sem á grundvelli örorkumats Atla Þórs Ólasonar læknis og tjónsútreiknings Jóns Erling Þorlákssonar tryggingafræðings hafi numið 1.878.600 krónum. Hins vegar hafi stefnandi orðið af miskabótum að fjárhæð 100.000 krónur. Stefnda hafi borið að gefa út stefnu á hendur tryggingafélaginu til þess að rjúfa fyrningu bótakröfunnar eða fá yfirlýsingu frá félaginu þess efnis að það myndi ekki bera fyrningu fyrir sig. Það hafi hann ekki gert og þar með gerst sekur um saknæm mistök í starfi sínu sem lögmaður. Fái þessi grundvöllur kröfugerðar stefnanda stoð í úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna, en að honum er vikið í kafla I hér að framan. Verði samkvæmt þessu ekki hjá því komist að gera stefnda ábyrgan fyrir tjóni stefnanda. Um lagarök fyrir skaðabótakröfu sinni vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar. Þá er vísað sérstaklega til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 61/1942 um málflytjendur, nú 2. mgr. 25. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því er varðar miskabótakröfu. IV. Í greinargerð stefnda er því haldið fram að nokkru áður en stefnandi veitti honum umboð til að fara með bótamál gagnvart réttargæslustefnda vegna slyssins 12. mars 1987 hefði stefnandi, sem þá var þunguð, lýst því að eymsli í rófubeini, sem hún hefði fundið fyrir í kjölfar slyssins, gætu tekið sig upp við fæðingu. Ekkert hefði verið minnst á rófubeinseymsl vegna meðgöngu. Stefndi hefði ritað réttargæslustefnda bréf 25. nóvember 1996 og á grundvelli þess hefði félagið sent honum gögn í málinu 5. desember sama árs. Hefði stefndi á þessu tímamarki litið svo á að hann væri búinn að ná samkomulagi við tryggingafélagið um að málinu yrði haldið opnu. Ýmislegt hefði síðan orðið til þess að tefja málið, en stefnandi hefði að endingu misst þolinmæðina og falið öðrum lögmanni að annast það. Krafa stefnda um sýknu er í fyrsta lagi á því byggð að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku í umferðarslysinu 12. mars 1987. Hún hafi þar af leiðandi aldrei eignast lögvarða kröfu til bóta vegna slyssins. Því geti ekki verið um það að ræða að stefndi hafi bakað henni tjón með aðkomu sinni að málinu. Tiltekur stefndi í þessu sambandi að engin tengsl þurfi að vera á milli rófubeinseymsla sem stefnandi hafi sem barn fundið fyrir í kjölfar slyssins og rófubeinseymsla sem síðar hefðu komið til vegna meðgöngu og fæðingar. Þannig séu rófubeinseymsli og eymsli í spjaldhrygg algengir fylgikvillar meðgöngu og fæðingar. Slík einkenni geti einnig stafað af öðrum og ókunnum orsökum. Þá skipti miklu í þessu sambandi að engin gögn liggi fyrir í málinu sem staðfesti frásögn stefnanda um viðvarandi eymsli í rófubeini frá því skömmu eftir slysið og þar til bera fór á þeim í tengslum við meðgöngu og fæðingu í lok árs 1996. Sé því engin sönnun komin fram fyrir því að eymsli í rófubeini í kjölfar umrædds slyss hafi haft þau áhrif á stefnanda sem hún heldur fram. Í öðru lagi reisir stefndi sýknukröfu sína á því að jafnvel þótt talið verið að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku í slysinu 12. mars 1987 hafi bótakrafa vegna þess verið fyrnd löngu áður en stefndi fékk málið til meðferðar. Vísar stefndi þessu til stuðnings til 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. áður ákvæði 78. gr. umferðarlaga nr. 40/1968. Samkvæmt 99. gr. núgildandi umferðarlaga fyrnist bótakrafa samkvæmt XIII. kafla laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Tilvitnað ákvæði eldri umferðarlaga hafi verið sama efnis. Ljóst sé af gögnum málsins að heilsufarslegt ástand stefnanda eftir slysið hafi verið orðið stöðugt fyrir mitt ár 1988. Hugsanleg bótakrafa á hendur tryggingafélagi bifreiðarinnar sem ekið var á stefnanda í umrætt sinn hafi þar með verið fyrnd löngu áður en stefnandi fól stefnda í lok árs 1996 að semja við það um skaðabætur vegna slyssins, enda hafi stefnandi ekkert aðhafst áður til að slíta fyrningu. Í þriðja lagi krefst stefndi sýknu á þeim grundvelli að hann hafi ekki sýnt af sér gáleysi við hagsmunagæslu í þágu stefnanda. Bótagrundvöllur sé því ekki fyrir hendi. Í málinu liggi það fyrir að stefnandi hafi sent réttargæslustefnda bréf 25. nóvember 1996 þar sem áskilnaður um bætur hafi verið hafður uppi. Tryggingafélagið hafi í kjölfarið sent stefnda umbeðin gögn án höfnunar bótaréttar. Hafi stefndi litið svo á að hann væri búinn að ná samkomulagi við félagið um að það myndi ekki bera fyrningu fyrir sig. Stefndi hafi því verið í góðri trú. Löngu seinna, eða 25. júní 1999, og þar með löngu eftir að 10 ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga var liðinn, hafi fyrst legið fyrir sú afstaða tryggingafélagsins að það teldi hugsanlega bótakröfu stefnanda vegna slyssins fyrnda. V. Undir rekstri málsins og á grundvelli matsbeiðni frá stefnda voru þeir Benedikt Ó. Sveinsson sérfræðingur í fæðingarhjálp og kvensjúkdómum og Stefán Carlsson bæklunarskurðlæknir dómkvaddir til að leggja á það mat „hvort og þá hve miklar líkur [væru] á því að Kolbrún Hrund hafi hlotið varanlega örorku af völdum áverka á rófubein í umferðarslysinu 12. mars 1987“. Þá var þeim jafnframt falið að láta í té skriflegt og rökstutt álit á því „hvort rófubeinseymsli séu þekktur fylgikvilli meðgöngu og fæðingar og hvort rófubeinseymsli Kolbrúnar geti að einhverju eða öllu leyti stafað af slíkum kvilla án þess að áverki á rófubein komi til“. Matsgerð lá fyrir 4. nóvember 2002. Í þeim kafla hennar sem ber yfirskriftina „niðurstaða og álit“ segir svo: „Í samantekt málsins kemur fram að Kolbrún hefur um árabil haft óþægindi frá rófubeini og grindarbotni, sem hún rekur allt aftur til ársins 1987 er hún lenti í bílslysi. Hún hefur jafnframt átt við erfiða hægðatregðu að stríða allt frá barnæsku og þarf stundum að nota lyf til að losna við hægðir, en slíkt getur gefið óþægindi frá rófubeini og grindarbotni. [...] Einkenni frá rófubeininu hafa verið verst þegar hún er ófrísk og kringum fæðingar, en hjaðnað þess á milli. Þannig virðast einkennin og óþægindin frá slysinu fram að fyrstu meðgöngu og fæðingu eða í um 9 ár ekki hafa verið það slæm að ástæða hafi þótt að leita lækninga þeirra vegna. Þessara óþæginda er heldur hvergi getið í mæðraskrá frá 1996, en slíkt er viðtekin venja ef vandmálið er talið á einhvern hátt lýjandi í meðgöngu. Í ljósi framangreindra staðreynda eru svör og niðurstöður okkar undirritaðra dómkvaddra matsmanna eftirfarandi: 1) Það er sennilegt að Kolbrún hafi hlotið einhvern áverka á rófubein í bílslysinu 1987. Slíkt verður þó ekki fullyrt, þar sem saga um langvarandi hægðatregðu frá barnæsku getur að einhverju leyti skýrt einkennin. Hún var og einkennalítil árin eftir slysið, en einkennin jukust til muna við meðgöngu og fæðingu 1996 og 2000. En óþægindi frá rófubeini, grind og grindarbotni er þekktur fylgikvilli meðgöngu og fæðingar. Í ljósi þess að aðrir samverkandi þættir koma inn í myndina er ekki hægt að fullyrða, að Kolbrún hafi hlotið varanlega örorku í bílslysinu 1987. 2) Rófubeins, en þó einkum grindar verkir (grindargliðnun) eru algengir fylgikvillar á meðgöngu og í og eftir fæðingu, án þess að vitað sé um nokkurn áverka í sögu.“ Í kjölfar þess að framangreint mat lá fyrir lagði stefnandi fram yfirmatsbeiðni. Í þinghaldi 14. janúar 2003 voru þau Hulda Hjartardóttir sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp og Ríkarður Sigfússon og Björn Zoëga bæklunarskurðlæknar dómkvödd til að framkvæma hið umbeðna mat, sem aðallega laut að því að metið yrði yfirmati hvort og þá hve miklar líkur væru á því að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku af völdum áverka á rófubein í slysinu 12. mars 1987. Þá skyldi að auki lagt mat á það hvort varanleg örorka samkvæmt fyrirliggjandi áliti Atla Þórs Ólasonar læknis væri réttilega metin og hvort tímabært hafi verið að meta varanlega örorku stefnanda þegar Atli Þór gerði það. Matgerð yfirmatsmanna var lögð fram í þinghaldi 7. apríl 2003. Í henni kemur fram að við athugun á gögnum slysadeildar Borgarspítalans hafi komið í ljós að stefnandi hafi komið þangað til eftirlits 24. mars 1987. Hún hafi þá verið aum í rassi og rófubeini. Niðurstaða skoðunar hafi verið „kliniskt rófubeinsbrot“. Þá segir í matsgerðinni að við endurkomu á slysadeildina 3. apríl 1987 hafi stefnandi verið „alveg einkennalaus og ekki nein einkenni frá rófubeini“. Í niðurstöðuköflum matsgerðarinnar segir svo meðal annars „Yfirmatsmenn telja engan vafa á að við slysið 12 mars 1987 hlaut matsbeiðandi áverka á rófubein. Í komunótu á endurkomu Slysadeildar 24. mars 1987 er Kolbrún sögð hafa kliniskt rófubeinsbrot. Saga hennar er samfelld og trúverðug næstu árin. Hún fær álagseinkenni og óþægindi frá rófubeini við langar setur og er viðkvæm við þrýsting á rófubein samanber erfiðleika hennar að sitja hest. Einkennin há henni þó ekki daglega, en hafa áhrif á lífsgæði hennar. Þessi einkenni hafa ekki haft áhrif á skólagöngu og ekki hindrað hennar aflahæfi, en hún hefur verið dugleg við vinnu og oft verið í meira en 100% starfi. Einkennin hafa síðan á trúverðugan hátt aukist allmikið þegar á meðgöngu líður. Í fyrstu tveimur meðgöngunum hafði hún einnig grindargliðnunar einkenni, sem hún hefur sloppið við að þessu sinni. Meðgangan er aukið álag á grindarbotninn og þar með rófubeinið og því eðlilegt að einkennin aukist. Sjálf fæðingin er síðan verulegt álag á grindarbotn og rófubein. Rófubeinsverkir í kjölfar fæðingar eru ekki óalgengir en verkir frá rófubeini sjaldgæfir á meðgöngu hjá þeim sem ekki hafa átt barn áður og ekki fengið áverka fyrir meðgönguna þó að slíkt sé ekki óþekkt. Saga um hægðatregðu matsbeiðanda fyrir slys 12. mars 1987 er ekki staðfest og neitar Kolbrún því. Þá er yfirmatsmönnum ekki kunnugt að hægðatregða geti valdið rófubeinsverkjum „Coccycodynia“. Það er einnig hugsanleg skýring á því hvers vegna ekki er leitað til lækna að móðir matsbeiðanda er sjúkraliði og að hún við starf sitt hafi fengið þau ráð að við rófubeinsóþægindum væri ekkert að gera. Móðirin sýndi þó frumkvæði á yngri árum Kolbrúnar með því að fá fyrir hana sethring, sem er gamalreynt læknisráð við rófubeinsverkjum. [...] Það er samdóma álit matsmanna að við slysið hlaut Kolbrún Hrund áverka á rófubein. Við teljum yfirgnæfandi líkur á að slysið hafi valdið áverka sem orsaki viðkvæmni og verkjum við álag á rófubein og þar með varanlegri örorku.“ Þá veita yfirmatsmenn svohljóðandi svar við þeirri spurningu hvort mat Atla Þórs Ólasonar læknis hafi verið tímabært þegar það fór fram: „Já. Eðlilegt er að telja að um stöðugt ástand hafi verið að ræða hjá matsþola, nokkrum mánuðum eftir áverkann. Hins vegar var ekki hægt að vita hvernig aukið álag á meðgöngu hefði áhrif fyrr en síðar á ævinni.“ Að beiðni stefnda fól dómurinn undirmatsmönnum að leggja mat á það hvenær fyrst hafi verið tímabært að meta varanlega örorku stefnanda eftir bílslysið 12. mars 1987, að því gefnu að um hafi verið að ræða varanlega örorku vegna rófbeinsáverka af völdum slyssins. Í matsgerð þeirra 28. maí 2003 segir svo: „Við stöndum enn við fyrra álit okkar í þessu máli, að það sé ósannað að Kolbrún Hrund hafi hlotið varanlega örorku í bílslysi 1987. [...] Hafi hún verið svo slæm árin eftir slysið eins og hún heldur fram, bar að okkar mati forráðamönnum hennar skylda til að færa hana til læknis til frekari rannsókna og mats á áverkanum og afleiðingum hans. Hefði slíkt verið gert má ætla að ástandið hafi orðið stöðugt 2-3 árum eftir slys og þá tímabært að meta örorkuna.“ Yfirmatsmenn tóku þetta sama matsatriði til yfirmats að beiðni stefnanda og á grundvelli dómkvaðningar 1. júlí 2003. Í matsgerð þeirra, sem lögð var fram í þinghaldi 22. september sama árs, segir svo: „Í málinu liggur fyrir ítarleg matsgjörð okkar [...] Þar er í raun svarað þeirri spurningu sem fyrir okkur er lögð. Við teljum að við umferðarslysið 12. mars 1987 hafi matsbeiðandi hlotið áverka á rófubein. Næstu árin á eftir hefur hún óþægindi sem ekki virðast há henni mikið. Það er fyrst á meðgöngu 1996 að einkenni fara að aukast verulega vegna viðkvæmni á grindarbotnssvæði og aukins álags. Það var engin leið fyrir matsþola að vita hver afleiðing áverkans kynna að verða fyrr en við meðgöngu. [...] Svar: Við skoðun matsbeiðanda hjá heimilislækni 03.11.1997 rúmu ári eftir fæðingu barns var ástand orðið stabilt og einkenni gengin niður. Afleiðingar aukins álags vegna meðgöngu voru liðnar hjá. Það var fyrst þá sem allar afleiðingar áverkans voru að fullu ljósar.“ Undir- og yfirmatsmenn komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfestu þær matsgerðir sínar sem hér hefur verið gerð grein fyrir. VI. Svo sem fram er komið var stefnandi flutt á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík í kjölfar þess að bifreið var ekið á hana á Hamrabergi í Hafnarfirði 12. mars 1987. Hún var þá 9 ára gömul. Samkvæmt vottorði læknis á slysadeildinni 1. júní 1987 var niðurstaða skoðunar og rannsókna sem stefnandi undirgekkst þar „cliniskt vaxtarlínulos rétt neðan við [vinstri] olnboga og blæðing í [vinstri] olnbogalið“. Í vottorðinu kemur einnig fram að við gipstöku þremur til fjórum vikum síðar hafi stefnandi verið með „eymsli yfir rófubeini“. Var talið hugsanlegt að um sprungu í rófubeini hafi verið að ræða, en ekki var tekin röntgenmynd af því. Í niðurlagi vottorðsins er síðan haft eftir stefnanda að hún hafi fljótlega lagast í rófubeininu. Er hér væntanlega verið að vísa til gagna um komu stefnanda á slysadeildina 3. apríl 1987, sem áður er gerð grein fyrir. Af hálfu stefnanda er aftur á móti á því byggt í máli þessu að óþægindi í rófubeini hafi minnkað eitthvað nokkrum mánuðum eftir slysið, en verið áfram til staðar og versnað þegar frá leið og farið versnandi á síðari árum. Stefnandi ól barn á kvennadeild Landspítalans 27. október 1996. Í bréfi sem Reynir Tómas Geirsson forstöðulæknir á deildinni ritaði 29. maí 2000 í tilefni af bréfi sem þáverandi lögmaður stefnanda ritaði honum, kemur meðal annars fram, að í gögnum spítalans um þessa meðgöngu stefnanda væri ekkert að finna sem benti til þess að hún hafi borið fram kvartanir sem rekja mætti til bílslyss árið 1987. Þar kemur þó fram að við mæðraskoðun 25. júlí 1996 hafi stefnandi verið slæm í baki og rófubeini. Í gögnum frá Sólvangi í Hafnarfirði er síðan haft eftir stefnanda við læknisskoðun 21. febrúar 1997 að hún hafi aldrei orðið jafngóð í rófubeininu eftir slysið. Þannig hafi hún ekki þolað langar setur, svo sem í bíó og skóla. Við meðgönguna hafi farið að bera á lágstæðum mjóbaks- og spjaldverkjum og undir lok hennar hafi hún átt bágt með setur vegna samblands af spjaldverkjum og rófubeinsverkjum. Eftir fæðinguna hafi hún verið slæm í rófubeininu og enn verið viðkvæm við setur þegar skoðunin fór fram. Við komu á Sólvang 2. júlí 1997 var síðan eftirfarandi bókað í sjúkraskrá stefnanda: „Breytist lítið með rófubeinið, er þó þannig skárri að þetta bagar ekki mikið dags daglega þegar hún er í sinni rútínu við heimilisstörf eða í starfi sínu í Snælandsvídeo. Er fyrst og fremst böguð ef situr meira en venjulega, [svo sem] í bíl, bíó eða slíku.“ Framangreind staðhæfing stefnanda um viðvarandi óþægindi í rófubeini í kjölfar umferðarslyssins 12. mars 1987 fær ekki aðra stoð í gögnum málsins eða vætti vitna, að öðru leyti en því að yfirmatsmenn hafa metið frásögn hennar trúverðuga. Í matsgerð læknanna Benedikts Ó. Sveinssonar og Stefáns Carlssonar 4. nóvember 2002 er talið sennilegt að stefnandi hafi hlotið einhvern áverka á rófubein í slysinu 1987. Það verði þó ekki fullyrt. Er annars vegar vísað til þess að óþægindi frá rófubeini megi að einhverju leyti skýra með langvarandi hægðatregðu frá barnæsku. Hins vegar sé til þess að líta að óþægindin hafi aukist til muna við meðgöngu og fæðingu 1996 og 2000, en óþægindi frá rófubeini, grind og grindarbotni sé þekktur fylgikvilli meðgöngu og fæðingar. Í ljósi þessa og þar sem aðrir samverkandi þættir kæmu inn í myndina væri ekki hægt að fullyrða að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku í slysinu. Í ódagsettri matsgerð yfirmatsmanna, læknanna Björns Zoëga, Huldu Hjartardóttur og Ríkarðs Sigfússonar, er hins vegar út frá því gengið að stefnandi hafi hlotið áverka á rófubein í umræddu slysi. Í kjölfar slyssins hafi borið á álagseinkennum og óþægindum frá rófubeini við langar setur. Þessi einkenni hafi ekki háð stefnanda daglega, en haft áhrif á lífsgæði hennar. Einkennin hafi síðan á trúverðugan hátt aukist allmikið þegar á meðgöngu leið. Meðganga þýði aukið álag á grindarbotninn og þar með rófubeinið. Fæðing hafi síðan í för með sér verulegt álag á grindarbotn og rófubein. Rófubeinsverkir í kjölfar fæðingar séu ekki óalgengir, en verkir frá rófubeini sjaldgæfir á meðgöngu hjá þeim sem ekki hafa átt barn áður og ekki fengið áverka fyrir meðgönguna. Slíkt sé þó ekki óþekkt. Þá er hafnað því áliti undirmatsmanna að hægðatregða geti valdið rófubeinsverkjum. Var það að þessu virtu niðurstaða yfirmatsmanna að yfirgnæfandi líkur væru á því að í umferðarslysinu 1987 hafi stefnandi hlotið áverka sem orsaki viðkvæmni og verki við álag á rófubein og þar með varanlega örorku. Af matsgerð yfirmatsmanna og vitnisburði þeirra fyrir dómi verður skýrlega ráðið að sú niðurstaða þeirra, að stefnandi hafi hlotið áverka á rófubein í umferðarslysinu 12. mars 1987 og varanlega örorku vegna hans, sé að miklu leyti á því byggð að frásögn stefnanda um viðvarandi óþægindi í rófubeini frá því stuttu eftir slysið og fram til ársins 1996, þá er hún gekk með sitt fyrsta barn, hafi verið trúverðug. Á móti kemur hins vegar að í vottorði læknis 1. júní 1987, sem vísað er til hér að framan, er haft eftir stefnanda að hún hafi fljótlega lagast í rófubeininu. Mun hér vera vísað til komu stefnanda á slysadeild Borgarspítalans 3. apríl 1987. Þá verður í öllu falli við það að miða að stefnandi hafi ekki leitað til læknis vegna óþæginda í rófubeini á því tímabili sem hér um ræðir, eða um rúmlega 9 ára skeið, og framangreind frásögn hennar er ekki á annan hátt studd gögnum frá þessum tíma eða vætti vitna. Þá er til þess að líta að ekki er óalgengt að konur finni á meðgöngu fyrir óþægindum í rófubeini, grind og grindarbotni án undanfarandi áverka þar. Við þetta bætist síðan að svo sem fram kemur í fyrirliggjandi matsgerðum eru óþægindi frá rófubeini þekktur fylgikvilli fæðingar. Að öllu framangreindu virtu hafa ekki verið færðar fyrir því sönnur að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku í umferðarslysinu 12. mars 1987, en sönnunarbyrði þar um hvílir á henni. Dómkrafa stefnanda í málinu er alfarið á því reist að vegna vanrækslu stefnda hafi hún orðið af bótum frá tryggingafélagi bifreiðarinnar sem ekið var á hana. Með því að lögvarin krafa stefnanda á hendur tryggingafélaginu telst samkvæmt framansögðu ekki hafa stofnast er ekkert tjón fyrir hendi sem til álita kæmi að gera stefnda bótaskyldan fyrir. Verður stefndi þegar af þessari ástæðu sýknaður af kröfum stefnanda. Það er hins vegar mat dómsins að sú málsástæða stefnda, sem grundvölluð hefur verið á tilvísun til 78. gr. umferðarlaga nr. 40/1968 og 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, leiði til sömu niðurstöðu. Er þá til þess að líta að miðað við málatilbúnað stefnanda verður ekki ályktað á annan veg en þann að ástand hennar hafi verið orðið stöðugt og tímabært að meta örorku hennar eigi síðar en 2-3 þremur árum eftir slysið, svo sem undirmatsmenn telja, en ósamræmis telst gæta um þetta atriði í matsgerðum yfirmatsmanna. Samkvæmt þessu byrjaði fjögurra ára fyrningartími samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum umferðarlaga að líða eigi síðar en í lok árs 1990. Hafði ekkert verið aðhafst til að slíta fyrningu bótakröfu þegar stefnandi leitaði til stefnda í nóvember 1996. Hugsanleg bótakrafa var því löngu fyrnd þegar þar var komið sögu. Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá sem tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Eftir atvikum málsins og málalokum er rétt að stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til kostnaðar af matsgerðum, sem stefnda var nauðsyn að afla. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 550.000 krónur. Mál þetta dæma Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Konráð Lúðvíksson sérfræðingur í fæðingarhjálp og kvensjúkdómum og Ragnar Jónsson bæklunarskurðlæknir. D ó m s o r ð : Stefndi, Þórður Heimir Sveinsson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Kolbúnar Hrundar Sigurgeirsdóttur. Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 82/2016 | Fullnaðarkvittun Lánssamningur Gengistrygging Vextir Fjármálafyrirtæki Viðbótarkrafa | F ehf. og L hf. deildu um hvort L hf. hefði við endurútreikning á þremur lánssamningum, sem höfðu verið bundnir ólögmætri gengistryggingu, verið heimilt að reikna vexti á gjalddaga sem gjaldfallið hefðu fyrir endurútreikninginn eftir 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að við heildarmat á öllum aðstæðum yrði að líta til þess hvaða áhrif viðbótarkrafan hefði á efnahag F ehf. og óhagræði hans af því að þurfa að standa skil á henni. Var talið að þegar litið væri til stærðar F ehf. og umsvifa félagsins væru áhrif viðbótarkröfunnar á F ehf. svo veruleg að L hf. yrði sjálft að bera þann vaxtamun sem um var deilt í málinu. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogasonog Karl Axelsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2016. Hann krefst þessaðallega að stefnda verði gert að greiða sér 381.556.618 krónur, en til vara268.897.000 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. júní 2014 til greiðsludags.Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrirHæstarétti.ISvo sem rakið er í héraðsdómi gerði Ræsir hf. lánssamning við LandsbankaÍslands hf. 20. október 2006 að jafnvirði 320.000.000 krónur. Þá gerði RæsirFasteignir hf. lánssamning við bankann 29. ágúst 2007 að jafnvirði 255.000.000krónur. Að lokum gerði Festing ehf. lánssamning við bankann 25. febrúar 2008 aðjafnvirði 800.000.000 krónur. Í öllum tilvikum var um að ræða lán í erlendumgjaldmiðlum í tilteknum hlutföllum. Með viðauka við lánssamningana 20. október2006 og 29. ágúst 2007 yfirtók Festing ehf. skyldur lántaka samkvæmt þeim fráog með 31. júlí 2008. Kröfum samkvæmt öllum lánssamningunum var ráðstafað tilstefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Með samkomulagi 24. september 2010 um fjárhagslega endurskipulagninguFestingar ehf., sem meðal annars fól í sér útgáfu tveggja verðtryggðra skuldabréfaí íslenskum krónum og bera skyldu vexti frá 1. og 5. júlí 2010, greiddi Festingehf. upp áðurnefnd skuldabréf. Með samkomulaginu var höfuðstóll lánannalækkaður um 25% og miðað við að um væri að ræða lögmæt lán í erlendum myntum.Með bréfi 11. október 2011 féllst stefndi á að umrædd lán hefðu falið í séróheimila gengisbindingu. Af þeim sökum voru lánin endurútreiknuð til samræmisvið ákvæði laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu, sbr. 18. gr. þeirra laga, á þann veg að skuldbindingar samkvæmtþeim, í íslenskum krónum, bæru frá öndverðu vexti samkvæmt 4. gr. laga nr.38/2001, en ekki samningsvexti. Nam mismunurinn 307.434.000 krónum. Eftirendurútreikninginn taldist Festing ehf. eiga inneign að fjárhæð 38.537.123krónur, sem ráðstafað var til lækkunar skuld félagsins við stefnda. Varviðbótarkrafan því að fjárhæð 268.897.000 krónur. Varakrafa áfrýjanda svarartil þeirrar fjárhæðar, en í aðalkröfu hans er að auki tekið tillit til vaxta ogverðbóta vegna viðbótarkröfunnar miðað við fyrrgreind lán sem hann tók til aðgera upp lánssamningana er voru gengistryggðir. Með aðilum er ekki tölulegurágreiningur. Meðal málsgagna er tölvupóstur áfrýjanda 25. september 2013, þar sem hannspurðist fyrir um hvernig staðan væri „á þessum málum.“ Svaraði stefndi því tildegi síðar að „fyrstu lán lögaðila sem falla undir núverandi dómafordæmi“ yrðuleiðrétt í fyrri hluta októbermánaðar og stefnt væri að því að ljúka meginþorraþeirra fyrir áramót. Áfrýjandi sendi stefnda sama dag tölvupóst og spurðistfyrir um hvort búið væri að kveða upp úr um stöðu lána sinna og svaraði stefndierindinu sama dag á þann veg að þau hefðu verið „ólögleg gengistryggð lán“,ekki væri búið að fara yfir lánin með tilliti til nýlegra dómafordæma, en þaðskýrðist fljótlega.IIÁfrýjandi hefur höfðað mál þetta til endurgreiðslu á því sem hann telursig hafa ofgreitt við uppgjör fyrrgreindra þriggja lánssamninga sem bundnir voruólögmætri gengisviðmiðun. Hefur stefndi borið því við að óskráðar reglur um endurheimtuofgreidds fjár komi í veg fyrir að krafa áfrýjanda verði tekin til greina. Umþá málsástæðu er þess að gæta að stefndi átti sjálfur frumkvæði að því að takaskuldarsambandið upp með endurútreikningi lánanna, en með því viðurkenndi hanní verki rétt áfrýjanda til leiðréttingar eftir því sem lög stóðu til. Geturstefndi því ekki borið fyrir sig að reglur um endurheimtu ofgreidds fjár hindriað krafa áfrýjanda verði tekin til greina. Verður heldur ekki talið skipta málií þessu sambandi þótt áfrýjandi hafi ekki gert sérstakan fyrirvara viðendurútreikninga stefnda, enda lýsti hann því yfir með fyrrgreindum tölvupósti26. september 2013 að frekari leiðrétting gagnvart áfrýjanda gæti komið tilgreina að fengnum frekari upplýsingum. Þá hefur áfrýjandi ekki glataðviðbótarkröfu sinni fyrir tómlæti. Að þessu gættu ráðast úrslit málsins af þvíhvort stefnda hafi verið heimilt við endurútreikning lánanna að reikna meðviðbótarkröfu vegna þess vaxtamunar sem krafa áfrýjanda um endurgreiðslu lýturað.Svo sem Hæstiréttur hefur ítrekaðslegið föstu er það meginregla kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minnagreitt en hann á rétt til úr hendi skuldara, eigi tilkall til viðbótarkröfu.Frá þeirri meginreglu hefur verið viðurkennt að gera verði undantekningar viðsérstakar aðstæður. Í þeim efnum hefur einkum komið til greina að víkja frámeginreglunni þegar skuldari hefur með réttu getað miðað við að lögskiptunum séendanlega lokið og hann síðan í samræmi við það hagað ráðstöfunum sínum í góðritrú. Við mat á þessu verður einnig að líta til eðlis skuldarsambandsins,aðstöðu bæði kröfuhafa og skuldara og hvorum þeirra stóð nær að ganga úr skuggaum að efndir væru fullnægjandi eða bera áhættuna af mistökum sem leiddu tilvangreiðslu. Þá verður viðbótarkröfu frekar hafnað ef kröfuhafi hefur sýnt afsér tómlæti við að hafa uppi kröfu um leiðréttingu. Að baki undantekningum frámeginreglunni búa sjónarmið um öryggi í viðskiptum, en viðbótarkrafa getur haftí för með sér mikla röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara. Á þaðsérstaklega við þegar viðvarandi skuldarsamband til lengri tíma er tekið upphvað fortíðina varðar og skuldara í framhaldinu gert að standa kröfuhafa skil áumtalsverðum viðbótargreiðslum, þvert á væntingar skuldara um hið gagnstæðamiðað við það sem aðilar hafa fram að því lagt til grundvallar í lögskiptumsínum. Eftir því sem óhagræði skuldara er meira af viðbótarkröfunni þvísterkari eru rökin til að víkja frá meginreglunni.Þegar virt er staða aðila í skuldarsambandi, með tilliti til þess hvort fallistverði á viðbótarkröfu, hefur í dómaframkvæmd verið talið skipta máli hvortskuldari er annars vegar einstaklingur, lítið fyrirtæki eða fámenntsveitarfélag eða hins vegar stórt fyrirtæki. Að því er varðar fyrirtæki varviðbótarkröfu hafnað í dómi Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 og 30.janúar 2014 í máli nr. 544/2013, en þar áttu í hlut smáfyrirtæki. Aftur á mótivar viðbótarkrafa tekin til greina í dómum réttarins 12. desember 2013 í málinr. 463/2013 og 13. október 2016 í máli nr. 34/2016, en þar var um að ræða mjögstór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Í dómi Hæstaréttar 6. nóvember 2014 ímáli nr. 110/2014 og í dómum réttarins 15. október 2015 í málum nr. 34 og35/2015 áttu í hlut tvö fyrirtæki, sem ekki voru jafn stór en með þó nokkurumsvif. Þar var hafnað viðbótarkröfu á hendur öðru fyrirtækinu, en hún tekintil greina á hendur hinu. Samkvæmt þessu er ekki útilokað að vikið verði frámeginreglunni þótt í hlut eigi meðalstór og jafnvel stærri fyrirtæki, en þáþarf eðli máls samkvæmt meira að koma til. Er þess þá að gæta að stærrifyrirtæki búa að jafnaði yfir meiri þekkingu á sviði fjármála eða eiga í öllufalli auðveldara með að afla sér hennar en þau sem smærri eru. Af þeim sökumverða gerðar ríkari kröfur til aðgæslu stærri fyrirtækja gagnvart afleiðingumþeirra skuldbindinga sem þau gangast undir. Af þessu leiðir að því aðeinsverður vikið frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til fullra efnda, þegar stærrifyrirtæki eiga í hlut, að beiting reglunnar leiði til svo verulegrar röskunar áhagsmunum skuldara og jafnvægi í skuldarsambandinu að ekki verði við unað.Hvort sem litið er til hlutfalls viðbótarkröfu stefnda af höfuðstóllánanna, að teknu tilliti til hækkunar verðlags frá því lánin voru tekin,heildarfjárhæðar vaxtagreiðslna eða aðeins fjárhæðar viðbótarkröfunnar, eröldungis ljóst að hún er umtalsverð. Verður einnig að fallast á með héraðsdómiað lítið hlutfall afborgana breyti því ekki að skapast hafi næg festa viðframkvæmd lánssamninganna. Jafnframt verður lagt til grundvallar að báðiraðilar gengu út frá því að gengistrygging höfuðstóls lánanna væri gild og eruþví engin efni til að telja að áfrýjandi hafi ekki verið í góðri trú um aðgreiðslur hans á vöxtum hverju sinni fælu í sér fullar efndir. Mæla þessiatriði með því að krafa áfrýjanda verði tekin til greina, án þess þó að þau einog sér geti ráðið úrslitum. Að þessu gættu verður við heildarmat á öllumaðstæðum að líta til þess hvaða áhrif viðbótarkrafan hefur á efnahag áfrýjandaog óhagræði hans af því að þurfa að standa skil á henni.Eins og áður greinir var áfrýjanda tilkynnt um endurútreikninga stefnda álánunum með bréfi 11. október 2011, en þeir tóku mið af því að stefndi ættiviðbótarkröfu vegna vangreiddra vaxta fyrir liðna tíð. Samkvæmt ársreikningiFestingar ehf. 2011 námu rekstartekjur félagsins 997.404.470 krónum það ár. Þánam rekstrarhagnaður ársins fyrir skatta og fjármagnsliði 809.207.654 krónum,en hagnaður ársins að teknu tilliti til meðal annars fjármagnsliða,matsbreytinga fjárfestingareigna og tekjuskatts, 379.913.478 krónum. Eigið févar 488.198.719 krónur að teknu tilliti til viðbótarkröfunnar. Samkvæmt þessunemur hún um einum þriðja hluta rekstrartekna ársins og svarar til nær allshagnaðar þess. Að öllu þessu virtu og þegar litið er til stærðar og umsvifafélagsins á þessum tíma eru áhrif viðbótarkröfunnar á áfrýjanda, sem leiðir rétt sinn frá félaginu, svoveruleg að stefndi verður sjálfur að bera þann vaxtamun sem deilt er um í málinuog leiðir af því að lánin voru bundin ólögmætri gengistryggingu. Var stefndaþví óheimilt að taka tillit til viðbótarkröfunnar við endurútreikning lánannaog ber að standa áfrýjanda skil á fjárhæð er svarar til hennar. Fá ákvæði laganr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001, ekki haggað þeirri niðurstöðu, svosem Hæstiréttur hefur ítrekað lagt til grundvallar í dómum sínum umviðbótarkröfur vegna vaxta af gengistryggðum lánum, sbr. dóm réttarins 15.febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, og fleiri dóma sem gengu í kjölfarið. Líta verður svo á að krafa áfrýjanda geti einungis numið fjárhæð er svaritil leiðréttinga á fyrrgreindum lánum, að fjárhæð 307.434.000 krónur, aðfrádregnum 38.537.000 krónum samkvæmt skuldaleiðréttingu þeirri er áður ergetið, en það er sú fjárhæð sem áfrýjandi krefst til vara. Verður því hvorki fallistá með honum að lagaheimild né reglur um skaðabætur standi til að hann getikrafist fjárhæðar sem svarar til vaxta og verðbóta vegna lántökunnar til aðgera upp lánssamninganna. Verður varakrafan því tekin til greina meðdráttarvöxtum frá því málið var höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað, sem ákveðinn verðurí einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir. Dómsorð:Stefndi,Landsbankinn hf., greiði áfrýjanda, Festi ehf., 268.897.000 krónur meðdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu frá 17. september 2014 til greiðsludags.Stefndigreiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrirHæstarétti.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12.nóvember 2015.Málþetta var höfðað með stefnu birtri 17. september 2014 og dómtekið að lokinniaðalmeðferð 23. október sl. Stefnandi er Festir ehf., Kjalarvogi 7-15,Reykjavík. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.Íendanlegri kröfugerð sinni krefst stefnandi þess aðallega að stefnda verði gertað greiða stefnanda 381.556.618 krónur, en til vara 268.897.000 krónur, í báðumtilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr. laganr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. júní 2014 til greiðsludags. Hannkrefst einnig málskostnaðar.Stefndikrefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Hann krefsteinnig málskostnaðar.Viðupphaf aðalmeðferðar málsins var því lýst yfir að með hliðsjón af endanlegrikröfugerð stefnanda væri ekki lengur tölulegur ágreiningur með aðilum.Helstuágreiningsefni aðilaMeginágreininguraðila snýr að því hvort við endurútreikning tiltekinna lána, upphaflegasamkvæmt þremur lánssamningum sem bundnir voru ólögmætri gengistryggingu, hafiborið að taka tillit til fullnaðarkvittana vegna þeirra samningsvaxta semstefnandi hafði þegar greitt. Ef fallist er á sjónarmið stefnanda að þessuleyti telur hann sig eiga rétt á frekari leiðréttingu með hliðsjón af því aðumrædd lán voru greidd upp með lánum í íslenskum krónum sem urðu hærri fyrir þásök að ekki var tekið tillit til fullnaðarkvittana fram að þessu tímamarki.Gegn mótmælum stefnda, telur stefnandi sig þannig hafa greitt stefnda hærrifjárhæðir í vexti og verðtryggingu af hinum nýju lánum í íslenskum krónum enhonum bar. Ekki er um það deilt að stefndi hafi tekið við réttindum og skyldumlánveitanda af Landsbanka Íslands hf. vegna þeirra lána sem málið lýtur að,sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Einnig er ágreiningslaustað stefnandi hafi tekið við réttindum og skyldum lántakans, Festingar ehf.,vegna umræddra samninga sem síðar greinir nánar.Yfirlitum málsatvikHinn20. október 2006 gerði Ræsir hf. lánssamning við Landsbanka Íslands hf. aðjafnvirði 320 milljóna króna (samningur nr. 106-36-5991) í nánar tilteknumerlendum myntum. Lánið átti að endurgreiðast á 25 árum, með 300 jöfnumgreiðslum á eins mánaðar fresti. Vextir skyldu miðast við LIBOR að viðbættu2,25% álagi og greiðast mánaðarlega eftir á á umsömdum gjalddögum, sbr. 3. gr.samningsins. Með viðauka við samninginn yfirtók Festing ehf., skyldur lántakasamkvæmt samningnum frá og með 31. júlí 2008. Hinn29. ágúst 2007 gerði Ræsir Fasteignir hf., lánssamning við Landsbanka Íslandshf. að jafnvirði 255 milljónir króna (samningur nr. 0106-36-9189) í nánartilteknum erlendum myntum. Lánið átti að endurgreiðast á fimm árum, með 60afborgunum á eins mánaðar fresti, þannig að á fyrstu 59 gjalddögunum, hverjumum sig, bar að greiða 1/300 hluta lánsupphæðarinnar, en á lokagjalddaga, 5.ágúst 2012, bar að greiða 241/300 hluta. Vextir skyldu miðast við LIBOR aðviðbættu 2% álagi og greiðast mánaðarlega eftir á á umsömdum gjalddögum, sbr.3. gr. samningsins. Með viðauka við samninginn yfirtók Festing ehf., skyldurlántaka samkvæmt samningnum frá og með 31. júlí 2008. Hinn25. febrúar 2008 gerði Festing ehf., lánssamning við Landsbanka Íslands hf. aðjafnvirði 800 milljóna króna (samningur nr. 106-36-11469) í nánar tilteknumerlendum myntum. Lánið átti að endurgreiðast á fimm árum, með 60 afborgunum áeins mánaðar fresti, þannig að á fyrstu 59 gjalddögunum, hverjum um sig, bar aðgreiða 1/300 hluta lánsupphæðarinnar, en á lokagjalddaga, 1. mars 2013, bar aðgreiða 241/300 hluta. Vextir skyldu miðast við LIBOR að viðbættu 2,15% álagi oggreiðast mánaðarlega eftir á á umsömdum gjalddögum, sbr. 3. gr. samningsins.Meðsamningi 24. september 2010 um fjárhagslega endurskipulagningu Festingar ehf.,milli stefnda og Festingar ehf. samþykkti stefndi 25% höfuðstólslækkun lána nr.5991, 9189 og 11469. Höfuðstólslækkunin fór þannig fram að Festingu ehf. voruveitt tvö ný lán í íslenskum krónum til uppgreiðslu eldri lána og samhliða tekiðmið af umræddri höfuðstólslækkun. Í kjölfarið töldust fyrrgreind lán uppgreidd.Við höfuðstólslækkun var á því byggt að um lögmætar skuldbindingar í erlendumgjaldmiðlum væri að ræða. Er ekki um það deilt að téð lán hafi ætíð verið ískilum af hálfu lántaka.Íkjölfar dóms Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 var á það fallist afhálfu stefnda að fyrrgreind þrjú lán hefðu falið í sér óheimila gengisbindingu.Með bréfi 11. október 2011 var Festingu ehf. tilkynnt að lánin hefðu veriðendurútreiknuð til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010, sbr. lög nr. 38/2001,og dóm Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, þannig aðskuldbindingarnar, í íslenskum krónum, bæru frá öndverðu vexti samkvæmt 4. gr.,sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt endurútreikningi taldist Festing ehf.eiga inneign, samtals að fjárhæð 38.537.123 krónur, sem ráðstafað var tillækkunar annars þess láns í íslenskum krónum sem félagið hafði tekið vegnauppgreiðslu gengistryggðu lánanna.Íkjölfar dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, 18. október 2012í máli nr. 464/2012 og 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 kveðst stefnandi, sem núhafði tekið við réttindum og skyldum sem lántaki, hafa haft samband við stefndavegna frekari endurútreiknings á umræddum lánum. Er þessu til stuðnings vísaðtil tölvupóstsamskipta frá september 2013. Með bréfi 29. apríl 2014 sendistefnandi stefnda kröfubréf þar sem sá síðarnefndi var krafinn um endurgreiðsluvegna þess sem ofgreitt hefði verið af framangreindum lánssamningum með vísantil sjónarmiða um fullnaðarkvittanir. Þá var jafnframt gerð krafa umendurgreiðslu vegna ofgreidds fjár þar sem lánsfjárhæð lána í krónum sem tekinvoru 24. september 2010 hefði verið of há og þar með borið of háa vexti ogverðbætur.Ekkivar um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.Helstu málsástæður og lagarökstefnandaStefnandibyggir málatilbúnað sinn aðallega á því að félagið hafi átt rétt á frekarileiðréttingu á höfuðstól fyrrgreindra þriggja lána í október 2011, þegar láninvoru leiðrétt vegna ólögmætrar gengistryggingar, með vísan til sjónarmiða umfullnaðarkvittanir. Miðast varakrafa stefnanda við að hann eigi rétt á því aðfá þessa fjárhæð, sem ekki er tölulegur ágreiningur um, greidda úr hendistefnda. Stefnandi vísar hins vegar einnig til þess að afleiðingin af röngumendurútreikningi stefnda hafi orðið sú að nýrra lána í íslenskum krónum, semnotuð voru til að greiða upp eldri gengistryggðu lánin samkvæmt samkomulagi umfjárhagslega endurskipulagningu 24. september 2010, hafi orðið of hár.Stefnandi hafi því greitt hærri vexti og verðbætur af þessum lánssamningum frá1. júlí 2010 til 5. júní 2014. Miðast aðalkrafa hans við að hann eigi einnigrétt á því að stefndi bæti honum þessar ofgreiðslur. Svo sem áður greinir erekki heldur tölulegur ágreiningur um aðalkröfu stefnanda. Með hliðsjón afúrlausn málsins er ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir sjónarmiðumaðila um aðalkröfu stefnanda eða tölulegum útreikningum þeirra, sbr. e-lið 1.mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.Stefnandivísar til þess að viðurkennt hafi verið að áðurlýstir lánssamningarnir hafifalið í sér ólögmæt ákvæði um gengistryggingu. Sé skilyrðum fullnægt til aðvíkja frá reglunni um fullar efndir kröfuhafa með vísan til þess að stefnandihafi fengið fullnaðarkvittanir fyrir greiðslu vaxta. Að því er varðar aðalkröfustefnanda beri að gera stefnanda að öllu leyti eins settan og ef skuldin hefðiverið rétt reiknuð.Byggter á því að hver greiðsla vaxta á grundvelli lánssamninganna hafi veriðfullnaðargreiðsla og hafi stefndi ekki getað krafist frekari vaxta úr hendistefnanda. Fyrirvaralaus móttaka stefnda á greiðslum vegna lánssamningannaþriggja hafi jafngilt fullnaðarkvittun. Þegar atvik þessa lánssamninga séu virtí heild sinni standi það stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun semhafi orðið vegna þess að lánin innihéldu ákvæði um ólögmæta gengistryggingu.Með fyrirvaralausri móttöku stefnda á greiðslum stefnanda hafi stefnandi veriðí góðri trú um að greiðslum væri að fullu lokið og haft réttmæta ástæðu til aðætla að félagið væri búið að gera upp lánin að þessu leyti. Stefnandi byggirjafnframt á því að lög nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001, geti ekkiráðið niðurstöðu þessa álitaefnis, þar sem þau geti ekki með afturvirkum hættibreytt reglum um efni og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra varstofnað og af þeim greitt. Umrædd lög hafi tekið gildi hinn 18. desember 2010en krafa stefnanda eigi rætur að rekja til greiðslna sem áttu sér stað fyrirþað tímamark. Stefnandi vísar til þess aðstefndi, og forveri hans, sé fjármálafyrirtæki sem starfi á lánamarkaði og hafiþar boðið viðskiptavinum upp á lán með ólögmætri gengistryggingu. Stefnandi búiekki yfir sérfræðiþekkingu á gjaldeyrisviðskiptum og hafi enga sérfræðinga viðgerð lánssamninga innanborðs. Það hafi staðið stefnda nær en stefnanda að gætaað því að lánssamningarnir væru í samræmi við lög og bera áhættuna af því efsvo væri ekki. Vísað er til þess að stefnandi,og þar áður Festing ehf., hafi innt skilvíslega af hendi greiðslur afborgana ogvaxta frá 31. júlí 2008 til 1. júlí 2010 af umræddum lánum og þar til þau voruendurfjármögnuð með hinum lánunum. Hafi því verið komin festa á greiðslurafborgana og vaxta á þessu tímabili. Umframfjárhæðin, þ.e. munurinn á þegar greiddumsamningsvöxtum annars vegar og svonefndum seðlabankavöxtum sé umtalsverður,bæði þegar litið sé til fjárhæðarinnar sem hlutfalls af greiddum vöxtum ogeinnig sem hluta af höfuðstól lánanna sem og efnahags stefnanda. Í öllumtilvikum megi fullyrða að umframfjárhæðin sé umtalsverð miðað við höfuðstóllánanna og mjög íþyngjandi fyrir stefnanda að standa skil á henni. Samkvæmtútreikningum stefnanda nemur umframfjárhæðin 177.589.000 krónum vegna lánsinsað jafnvirði 800 milljónir króna og 166.587.000 krónum vegna lánanna aðjafnvirði 255 og 320 milljónir króna. Samkvæmt öllu þessu hafi stefnda veriðóheimilt að krefja stefnanda afturvirkt um frekari vexti og standi það honumnær að bera þann vaxtamun sem hér um ræði. Kröfursínar byggir stefnandi á meginreglum kröfu- og samningaréttar, á sjónarmiðum umendurgreiðslu ofgreidds fjár og á sjónarmiðum um gildi fullnaðarkvittana.Einnig er byggt á meginreglum skaðabótaréttar, sjónarmiðum um óréttmæta auðgunog ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Af hálfu stefnda er á þvíbyggt að ekki séu uppfyllt lagaskilyrði fyrir endurheimt ofgreidds fjár. Hinsvegar hafi stefndi átt rétt til fullra efnda, þ. á m. ógreiddra samningsvaxta.Fyrrgreindir endurútreikningar stefnda hafi verið í samræmi við lög nr.38/2001, eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010, sem og fordæmiHæstaréttar. Stefnda hafi verið heimilt að taka skuldasamband aðila upp meðtéðum endurútreikningum enda hafi hann að fullu tekið tillit tilinneignarvegna þeirra ofgreiðslna sem mynduðust vegna ólögmætrargengistryggingar. Ekki hafi verið um það að ræða að stefndi hafi auðgast ákostnað stefnanda heldur fremur hið gagnstæða.Stefndibyggir einnig á því að með viðtöku endurútreiknings og greiðslum á grundvelliþeirra í október 2010, svo og uppgjöri lánanna, hafi stefnandi firrt sig réttitil að hafa uppi kröfur um endurgreiðslur síðar. Stefndi hafi fengið höfuðstóllánanna færðan niður um 25% og því næst greitt hann upp með töku nýrra lána. Vísarhann til þess að sá fyrirvari sem stefnandi gerði í samkomulagi umskuldauppgjör 24. september 2010 hafi ekki verið nægilega skýr og afmarkaður.Stefndi hafi því ekki verið í vondri trú við móttöku greiðslna stefnanda semfólust í því að hann tók tvö ný lán og gerði upp fyrri lán. Einnig vísarstefndi til tómlætis stefnanda eftir að endurútreikningur lá fyrir.Verðiallt að einu litið svo á að stefnandi eigi hugsanlega viðbótarkröfurétt áhendur stefnda telur stefndi lagaskilyrði ekki uppfyllt að þessu leyti. Stefndivísar til þess að meginreglan sé sú að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitten hann átti rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er.Frá meginreglunni gildi sú undantekning að fullnaðarkvittun geti að vissumskilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati viðbótarkröfu sinni.Tilkalli kröfuhafa til viðbótargreiðslu verði þó einungis hafnað við sérstakaraðstæður og beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að svo sé.Stefnditelur að einstökum skilyrðum fyrir því að unnt sé að byggja áfullnaðarkvittunum sé ekki fullnægt. Stefnandi hafi ekki með réttu getað litiðsvo á að greiðslur væru fullnægjandi þó að sá þáttur skuldarinnar, þ.e.lánsmyntin, sem ótvírætt var forsenda vaxtanna, ætti eftir að sæta endurskoðun.Stefnanda hafi ekki getað dulist samhengið á milli mynttilgreiningar ogvaxtaviðmiðunar. Stefnandi vísar til stærðar, umfangs og sérfræðiþekkingarstefnanda. Stefnandi verði ekki talinn geta hafa litið svo á með réttu aðgreiðslur væru fullnægjandi.Stefndivísar til þess að meginhluti skuldbindinga stefnanda hafi verið óefndur þegarkom að endurútreikningi. Um hafi verið að ræða greiðslur af tiltölulega litlumhluta af höfuðstól enda hafi átt að greiða höfuðstólinn upp að langmestu leytiá gjalddaga. Því hafi skort á tilskilda festu. Einnig sé hlutfall viðbótarkröfuóverulegt eða einungis á bilinu 11,7% til 12,8% ef miðað er við hlutfall afframreiknuðum höfuðstól lánanna á endurútreikningsdegi.Stefndileggur á það áherslu að ekki megi á neinn hátt jafna viðbótarkröfum þeim sembeint var að Festingu ehf. til óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtækiyrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um verulega viðbótargreiðslu. Festing ehf. hafiverið umsvifamikið rekstrarfélag, einkum á sviði innflutnings og viðskipta almennt,og verði stöðu þess á engan hátt jafnað við dreifbýlissveitarfélag. StaðaFestingar ehf. til að bregðast við kröfu um fullar efndir hafi því verið alltönnur og mun betri en almennt megi ráðgera varðandi einstaklinga, minnifyrirtæki eða sveitarfélög. Festing ehf. hafi einnig verið í aðstöðu til aðhafa áhrif á einstök atriði í skilmálum lánssamninganna og jafnframt hafðifélagið brýnt tilefni til að leita sér allrar nauðsynlegrar sérfræðiaðstoðarvið samningsgerðina. Hafi því ekki verið um að ræða yfirburðastöðu annars aðilaí samningssambandinu. Festing ehf. teljist auk þess hafa verið stórt fyrirtækiá íslenskan mælikvarða þegar endurútreikningur fór fram og hafi félagið raunarverið í hópi stærstu fyrirtækja landsins á þeim tíma, hvort sem miðað er viðveltu eða hagnað. Hið sama eigi við um stefnanda. Er í þessu sambandi vísað til þess að samkvæmt ársreikningi Festingar ehf.fyrir árið 2011 voru rekstrartekjur félagsins tæplega 1 milljarður króna enhagnaður ársins tæplega 380 milljónir króna. Þá voru eignir taldar nema um 17milljörðum króna. Að mati stefnda verður hér einnig að líta til umfangs ogstærðar þeirrar samstæðu sem Festing ehf. tilheyrði, þ.e. til eigna og teknamóður- og dótturfélaga Festingar ehf., sem jafna megi að þessu leyti við tekjurog eignir Festingar ehf. Í því sambandi er meðal annars vísað til framlagðraupplýsinga um efnahag og rekstur íslenskra og erlendra dótturfélaga Festingarehf. á því tímamarki sem hér skiptir máli. Einnig er vísað til þess að Festingehf. hafi verið dótturfélag SMT Partners B.V. Hvort sem fallist er á að lítaberi til móður- og dótturfélaga Festingar ehf. telur stefndi að stefnandi sésvo stórt fyrirtæki að það geti ekki fallið undir undantekningu frá umræddrimeginreglu um rétt kröfuhafa til fullnaðarefnda.Stefndibendir einnig á að líta verði til þess hvert raunverulegt óhagræði skuldaransaf viðbótagreiðslu sé. Í málinu liggi fyrir að Festing ehf. hafi þegar greittkröfur stefnda sem mynduðust á grundvelli 4. gr. laga nr. 38/2001 þegar tekinvoru tvö ný lán til endurfjármögnunar. Því sé ljóst að viðbótarkröfur stefndahafi á engan hátt valdið verulegu óhagræði í þeim skilningi sem hér ber aðleggja til grundvallar, eða að kröfurnar hafi verið svo íþyngjandi að þeim hafiekki mátt beina að skuldara við endurútreikninginn. Stefndimótmælir vaxtakröfum stefnanda. Krafa um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001eigi sér enga stoð, hvorki í lögum nr. 38/2001 né fyrir eða eftir gildistökulaga nr. 151/2010. Lögum nr. 151/2010 verði auk þess ekki beitt með afturvirkumhætti. Lögjöfnun frá lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta séekki tæk. Þá eigi 8. gr. laga nr. 38/2001 ekki við, enda krafa stefnanda ekkireist á því að um skaðabætur sé að ræða og ekki sé um skaðabótaskylda háttsemiað ræða.Niðurstaða Í máli þessu er ágreiningslaustað með samkomulagi 24. september 2010 um fjárhagslega endurskipulagningu semmeðal annars fól í sér útgáfu tveggja verðtryggðra skuldabréfa í íslenskumkrónum, sem skyldu bera vexti frá 1. júlí 2010, greiddi Festing ehf. upp þrjúfyrrgreind skuldabréf sem bundin voru ólögmætri gengistryggingu. Meðsamkomulaginu var höfuðstóll téðra lána lækkaður um 25% og hafði þá verið tekiðtillit til þess að líta bar á lánin sem lán í íslenskum krónum sem ekki tækjubreytingum í takt við erlenda gjaldmiðla. Í lok 1. gr. samkomulagsins vargerður svonefndur allsherjarfyrirvari um lögmæti þeirra lána sem gerð voru uppmeð þessum hætti, meðal annars á þá leið að stefnandi fyrirgerði í engu réttitil að leita úrlausnar dómstóla „um lögmæti fyrrnefndra lána, um lagalegastöðu, forsendur og skyldur sínar sem skuldara, að koma að öllum tengdum kröfumog kröfugerð hverju nafni sem nefnist [...]“. Að mati dómsins getur ekki fariðá milli mála að með téðum fyrirvara áskildi Festing ehf. sér meðal annars rétttil að hafa uppi kröfu með vísan til þess að félagið hefði fengið útgefnarfullnaðarkvittanir fyrir greiðslu samningsvaxta sem grundvallast höfðu á hinniólögmætu gengistryggingu. Verður því hafnað þeirri málsástæðu stefnda aðFesting ehf. hafi gefið út umrædd tvö skuldabréf án nægilegs fyrirvara umhugsanlegan rétt sinn á grundvelli fullnaðarkvittana fyrir greiðslu vaxta. Með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar hafaverið til skuldara gengistryggðra lána í dómaframkvæmd, sbr. t.d. dómHæstaréttar 30. janúar 2014 í máli nr. 544/2013, verður enn fremur ekki á þaðfallist að Festing ehf. eða stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti í kjölfarendurútreiknings stefnda 11. október 2011 að krafa á þessum grundvelli hafifallið niður af þeim ástæðum. Dómurinn telur fram komið aðhlutfall viðbótarkröfu stefnda vegna afturvirks útreiknings vaxta samkvæmt 1.málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 hafi í sjálfu sér verið umtalsvert hvort semlitið er til höfuðstóls lánanna, heildarvaxtagreiðslna eða einungis þeirrafjárhæða sem hér var um að ræða. Þá verður ekki á það fallist með stefnda að umhafi verið að ræða svo fáar greiðslur, þegar litið sé til heildarfjöldaafborgana lánanna, að ekki hafi myndast nægileg festa í lögskiptum aðila að þessuleyti. Í málinu er hins vegar til þess að líta að árið 2010, þegarendurútreikningur fór fram, námu eignir samstæðu stefnanda u.þ.b. 16,6milljörðum króna, heildartekjur 3,5 milljörðum króna, en hagnaður nam u.þ.b.einum milljarði króna. Árið 2011, þegar endurútreikningur fór fram, námu tekjursamstæðunnar rúmlega 1,8 milljarði króna, eignir rúmlega 17 milljörðum króna oghagnaður nam rúmlega 380 milljónum króna. Er þannig ljóst að samstæða stefnandaer stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða og gildir þá einu þótt ekkert liggifyrir um erlent móðurfélag stefnanda. Haggar það ekki þessu þótt stefnandi, semer eignarhaldsfélag, hafi á að skipa tiltölulega fáum starfsmönnum.Þeirsamningar um var að ræða í máli þessu námu samtals 1.375.000.000 krónum aðhöfuðstól og bera þess vott að vera sniðnir að þörfum viðkomandi skuldara.Verður þessum samningum því ekki jafnað við þá stöðluðu samninga sem lutu aðmun lægri fjárhæðum og um var deilt í því máli sem lyktaði með dómi Hæstaréttar6. nóvember 2014 í máli nr. 110/2014. Einnig verður að leggja til grundvallarað Festing ehf. hafi í krafti fjárhagslegs styrkleika síns verið í góðriaðstöðu til að leggja mat á kosti og galla þess að taka lán sem fylgdi gengierlendra gjaldmiðla. Þá verður að horfa til þess að endurútreikningur stefndaleiddi ekki til þess að stefnandi væri skyndilega krafinn um sérstakar eðaauknar greiðslur, heldur var þvert á móti um það að ræða að höfuðstóll lána varfærður niður á grundvelli endurútreiknings stefnanda. Er þannig ekki komið framí málinu að greiðslubyrði Festingar ehf. hafi aukist í framhaldi afendurútreikningi og töku hinna nýju lána heldur benda gögn málsins fremur tilhins gagnstæða.Aðvirtum öllum framangreindum atriðum þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á aðáskilnaður stefnda um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 tilsamræmis við ákvæði laga nr. 151/2010 hafi valdið honum svo verulegri ogóvæntri röskun á fjárhagslegri stöðu að það standi stefnda nær að bera áhættunaaf þeim vaxtamun sem áður er lýst, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 15.október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til aðvíkja frá téðum fyrirmælum laga nr. 38/2001 viðvíkjandi endurútreikningigengistryggðra lána með vísan til fyrrgreindra ákvæða 72. gr. stjórnarskrárlýðveldisins Íslands, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og áðurlýstrar reglukröfuréttar um fullnaðarkvittanir. Verður stefndi því sýknaður af kröfumstefnanda. Með hliðsjón af vafaatriðummálsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.Afhálfu stefnanda flutti málið Gunnlaugur Úlfsson hdl.Afhálfu stefnda flutti máli Andri Árnason hrl.SkúliMagnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.D Ó M S O R ÐStefndi,Landsbankinn hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Festis ehf. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 381/2000 | Kröfuréttindi Lausafjárkaup Galli Riftun | P keypti víxla af L sem K hafði gefið út. Skömmu síðar fór K fram á greiðslustöðvun. Lýsti P þá yfir riftun á þeim forsendum að ólíklegt væri að þeir myndu greiðast. Hélt P því fram að söluverð víxlanna hefði verið langt yfir raunvirði þeirra á söludegi og gæti L ekki hafa dulist hvert stefndi með fjárhag K, enda hefði L verið viðskiptabanki K. L krafðist sýknu vegna aðildarskorts þar sem hann hefði aðeins haft milligöngu um viðskiptin. Ekki var fallist á það, enda hafði sú viðbára ekki komið fram fyrr en á síðari stigum málsins þrátt fyrir að fullt tilefni hefði verið til að setja hana fram fyrr, auk þess sem L hafði tekið efnislega afstöðu til kröfunnar strax í upphafi. Á hinn bóginn var ekki talið að það teldist galli á seldri kröfu í skilningi 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup að skuldari reyndist ekki fær um að greiða hana að fullu á gjalddaga. Voru skilyrði riftunar því ekki talin fyrir hendi. Þar sem áfrýjandi reisti dómkröfur sínar eingöngu á því að sér væri heimilt að rifta kaupunum en ekki á því að þau væru ógild eða að L bæri að greiða sér skaðabætur var L sýknaður af kröfum P. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2000. Hann krefst þess að viðurkennd verði heimild hans til að rifta kaupum 15. mars 1999 á tveimur víxlum með gjalddaga 3. júní 1999, hvorum að fjárhæð 5.000.000 krónur, og að stefnda verði gert að greiða sér 9.785.998 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. mars 1999 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Málið á rætur að rekja til þess að áfrýjandi keypti 15. mars 1999 tvo víxla útgefna af Kaupfélagi Þingeyinga hjá viðskiptastofu stefnda. Gjalddagi víxlanna var 3. júní sama árs og var hvor um sig að fjárhæð 5.000.000 krónur. Kaupverð víxlanna tók mið af kröfu um 10,5% ársávöxtun og nam þannig samtals 9.785.998 krónum. Um miðjan maí 1999 var haldinn aðalfundur Kaupfélags Þingeyinga. Voru þar lagðir fram reikningar ársins 1998, sem undirritaðir voru af stjórn félagsins 10. þess mánaðar og áritaðir af endurskoðendum þess sama dag. Samkvæmt reikningunum nam tap félagsins á árinu 1998 rúmlega 177 milljón krónum og var eigið fé alls í árslok rúmlega 68 milljón krónur. Var ljóst að fjárhagsstaða félagsins var alvarleg og samþykkti aðalfundurinn að grípa til ýmissa ráðstafana af því tilefni. Meðal annars var stjórn félagsins veitt umboð til að óska eftir heimild til greiðslustöðvunar. Áfrýjandi ritaði stefnda bréf 20. maí 1999. Taldi hann ljóst vegna frétta af fjárhagsstöðu Kaupfélags Þingeyinga að litlar sem engar líkur væru á að félagið myndi standa við víxilskuldbindingar sínar. Lýsti hann yfir riftun á víxilkaupunum frá 15. mars 1999 og krafðist endurgreiðslu á kaupverði þeirra. Þessu bréfi svaraði stefndi 31. maí 1999. Í bréfi hans var rakið að starfsmenn viðskiptastofu hans hafi ekki haft yfir öðrum upplýsingum að ráða um fjárhag Kaupfélags Þingeyinga en öllum voru aðgengilegar er kaupin voru gerð. Áfrýjandi hafi snúið sér til viðskiptastofu stefnda með ósk um að kaupa víxla og valið víxla með hárri ávöxtunarkröfu. Honum hafi því verið ljós sú áhætta, er í kaupunum fólst. Síðan segir: „Landsbankinn getur því ekki fallist á riftunarkröfu umbj. þíns um riftun kaupa á umræddum víxlum sem gefnir voru út af KÞ...“. Áfrýjandi ítrekaði kröfu sína um riftun með bréfi 7. júní 1999. Hafnaði stefndi riftunarkröfunni á ný með bréfi 28. sama mánaðar og byggði afstöðu sína á svipuðum rökum og fyrr. Kaupfélag Þingeyinga mun hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar 21. maí 1999 og hana framlengda 10. september sama árs. Í málinu liggur fyrir frumvarp að nauðasamningi fyrir félagið 25. september 1999, þar sem lánardrottnum, sem fara með samningskröfur, var boðin greiðsla á 78% krafna sinna. Af gögnum málsins verður ráðið að nauðasamningur þessa efnis hafi tekist. Liggur fyrir Hæstarétti staðfesting á því að inneign áfrýjanda samkvæmt bókhaldi Kaupfélags Þingeyinga sé 7.800.000 krónur, en engar greiðslur hafi samkvæmt bókhaldinu verið inntar af hendi til hans. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 20. september 1999. Lýtur kröfugerð hans að riftun víxilkaupanna og endurgreiðslu kaupverðs þeirra. Er sérstaklega tekið fram í stefnu að ekki sé gerð krafa um skaðabætur. II. Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að áfrýjandi sé ekki réttur aðili að málinu, þar sem umræddir víxlar séu handhafabréf og áfrýjandi hafi ekki lagt þá fram, heldur einungis ljósrit þeirra. Þá felist í kröfugerð áfrýjanda að nái riftunarkrafan fram að ganga skuli stefndi endurgreiða kaupverð víxlanna án þess að gert sé ráð fyrir skilum þeirra af hálfu áfrýjanda. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti lögmaður áfrýjanda því yfir að hann hefði nýlega fengið í hendur umrædda víxla frá stefnda og að frumrit þeirra verði afhent áfrýjanda gegn endurgreiðslu kaupverðs nái riftunarkrafan fram að ganga. Verður sýkna stefnda því ekki byggð á framangreindum forsendum. Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að málinu sé ranglega beint að sér. Hann hafi einungis annast milligöngu um að koma á samningi milli áfrýjanda og Kaupfélags Þingeyinga, sem hafi verið seljandi víxlanna. Viðskiptin hafi því farið fram fyrir reikning þriðja manns samkvæmt a. lið 1. töluliðs 8. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Hafi því áfrýjandi átt að beina kröfum sínum að Kaupfélagi Þingeyinga. Eins og að framan er rakið lýsti áfrýjandi yfir riftun á víxilkaupunum með bréfi til stefnda 20. maí 1999. Við þessari yfirlýsingu brást stefndi með áðurnefndu bréfi 31. sama mánaðar, þar sem hann tók efnislega afstöðu til riftunarkröfunnar og hafnaði henni. Benti stefndi áfrýjanda hvorki á að hann teldi sig einungis hafa haft milligöngu um viðskiptin né upplýsti hann áfrýjanda um hver verið hefði raunverulegur seljandi víxlanna, sem áfrýjandi ætti þá að beina riftunaryfirlýsingu sinni að. Var þó brýnt að upplýsa áfrýjanda tafarlaust um þetta, enda kom ekkert fram í kvittun stefnda 15. mars 1999 fyrir viðskiptunum með víxlana um að þau hefðu farið fram fyrir reikning þriðja manns. Getur því stefndi ekki á síðari stigum borið fyrir sig að kröfunni hafi ranglega verið beint að sér. III. Áfrýjandi byggir riftunarkröfu sína á því að umrædda víxla hafi skort þá kosti, sem ætla má að áskildir hafi verið. Þeir hafi verið haldnir verulegum galla, sem heimili kaupanda riftun samkvæmt 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Heldur hann því fram að ársreikningur Kaupfélags Þingeyinga fyrir árið 1997 og uppgjör félagsins fyrir fyrstu átta mánuði ársins 1998 sýni glöggt versnandi fjárhagsstöðu þess með lækkandi hlutfalli eiginfjár og veltufjár, svo og aukningu skammtímaskulda, þar á meðal vegna víxla og skuldabréfa. Viðurkennt sé af stefnda að hann hafi haft þessar upplýsingar undir höndum þegar kaupin voru gerð. Þá liggi fyrir að mun verri staða félagsins en þessi gögn sýndu hafi orðið opinber skömmu eftir kaupin. Geti stefnda ekki hafa dulist hvert horfði með fjárhag félagsins, enda hafi stefndi verið viðskiptabanki þess um áratugaskeið. Allt þetta sýni að víxlarnir hafi í raun verið mun minna virði á söludegi en söluverði þeirra nam, en það hafi ráðist af ávöxtunarkröfu, er stefndi hafi krafist í viðskiptunum. Söluhlutur telst gallaður í merkingu 42. gr. laga nr. 39/1922 ef hann hefur ekki þá eiginleika, sem hann samkvæmt kaupsamningi á að hafa eða almennt má búast við að hlutir af slíku tagi hafi. Tekur ákvæðið meðal annars til viðskipta með fjárkröfur. Við kaup á kröfum má almennt ganga út frá því að hin seldu kröfuréttindi séu til, svo og að skuldaviðurkenningarnar að baki þeim séu í réttu formi og veiti kröfuhafanum rétt á að leita fullnustu hjá skuldara samkvæmt efni sínu. Verði misbrestur á þessu gæti seld krafa talist gölluð í fyrrgreindum skilningi. Það telst hins vegar ekki galli á seldri kröfu í þessum skilningi að skuldari reynist ekki fær um að greiða hana að fullu á réttum gjalddaga. Með því að kaupa kröfu tekur kaupandi áhættu varðandi greiðslugetu skuldara. Á íslenskum fjármagnsmarkaði er til sölu fjöldi skuldaviðurkenninga, víxla og skuldabréfa til skemmri og lengri tíma, sem út hafa verið gefnar af opinberum aðilum og einkaaðilum til að afla lánsfjár. Ræðst verð þeirra meðal annars af mati á líkum á því að útgefandinn muni standa við skuldbindingar sínar. Á þessum markaði eykst hagnaðarvon kaupenda í samræmi við þá auknu áhættu, sem þeir eru tilbúnir að taka. Fullvissa um greiðslugetu skuldara er ekki meðal áskildra kosta kröfu í slíkum viðskiptum í merkingu 42. gr. laga nr. 39/1922. Eru skilyrði riftunar því ekki fyrir hendi. Með því að áfrýjandi hefur eingöngu reist dómkröfur sínar í málinu á því að sér sé heimilt að rifta kaupunum, en hvorki krafist ógildingar á samningi aðilanna né skaðabóta, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2000. Mál þetta, sem dómtekið var 19. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Pétri Jónssyni ehf., kt. 461097-2519, Dalavegi 26, Kópavogi, á hendur Helga Sigurði Guðmundssyni, kt. 291248-7569, Dísarási 14, Reykjavík, sem stjórnarmanni f.h. Landsbanka Íslands, kt. 710169-3819, Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu sem birt var 20. september 1999. Endanlegar dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. I. Stefnandi lýsir málsatvikum þannig: „Þann 15. mars 1999 keypti stefnandi, Pétur Jónsson ehf., tvo víxla útgefna af Kaupfélagi Þingeyinga, hvorn að fjárhæð kr. 5.000.000,00 af stefnda, sem bauð þá til sölu á skipulögðum verðbréfamarkaði í gegnum verðbréfadeild sína, svokallaða viðskiptastofu. Kaupverð víxlanna var samtals kr. 9.785.998,00 og er það dómkrafan í þessu máli. Ávöxtunarkrafa víxlanna var samtals 10,5% og gjalddagi þeirra var 3. júní 1999. Landsbanki Íslands og arftaki hans Landsbanki Íslands hf., hefur um langt skeið verið viðskiptabanki Kaupfélags Þingeyinga. Hinn 11 maí 1999 var aðalfundur Kaupfélags Þingeyinga haldinn og um viku fyrir aðalfundinn lá ársreikningur ársins 1998 fyrir. Kom þá í ljós að fjárhagsleg staða Kaupfélags Þingeyinga var mjög slæm. Endurskoðandi Kaupfélags Þingeyinga hafði í tvígang á árinu 1998 sent stjórn Kaupfélagsins alvarlegar aðvaranir um stöðu þess, eins og fram kemur í ummælum Halldóru Jónsdóttur stjórnarformanns Kaupfélags Þingeyinga í Degi 21. maí 1999. Var þá orðið ljóst að til verri vegar stefndi og skv. ummælum Halldóru Jónsdóttur stjórnarformanns Kaupfélags Þingeyinga í Morgunblaðinu þann 19. maí 1999, var skömmu eftir páska 1999 rætt við fulltrúa hjá Landsbanka Íslands hf. um stöðuna. Í sömu blaðagrein kemur fram í ummælum Halldóru Jónsdóttur að liður í erfiðri stöðu væri aukning á svokölluðum markaðsvíxlum til að fjármagna félagið, en slíkir víxlar hefðu verið góð leið til skammtímafjármögnunar fyrir nokkrum árum. Samningsstaða gagnvart skuldum af þessu tagi væri lítil og vanskil fljót að setja af stað mikinn hrunadans. Segir Halldóra í þessari sömu Morgunblaðsgrein eftirfarandi: „Í fáum orðum var ljóst að slík skriða yrði fjárhagsstöðunni ofviða. Þá varð að bregðast skjótt við." Jafnframt er eftirfarandi haft eftir Halldóru: „En það verður að vera mönnum ljóst að í viðkvæmri viðskiptastöðu skiptir miklu máli hvaða skilaboð umhverfið fær. Neikvæð skilaboð um stöðuna eru fljót að hafa þau áhrif að mál snúast til verri vegar og enn erfiðara verður að hafa tök á þróuninni". Í sömu Morgunblaðsgrein er einnig haft eftir Erlingi Teitssyni, varaformanni stjórnar Kaupfélags Þingeyinga, að það hraða ferli sem í gang fór hefði fyrst og fremst orðið vegna þess að félagið hefði neyðst til að fjármagna rekstur sinn með markaðsvíxlum, langt út yfir það sem nokkurt vit var í. Á aðalfundi Kaupfélags Þingeyinga var síðan samþykkt samhljóða að vinna að lausn á fjárhagsvanda félagsins á þeim grundvelli sem undirbúinn hafði verið í samvinnu við Landsbanka Íslands hf. og fleiri. Var gripið til þess ráðs að selja eignir félagsins og varð því Kaupfélag Þingeyinga að einhvers konar eignar-haldsfélagi að mestu án eigna, eins og stjórnarformaður félagsins Halldóra Jónsdóttir orðaði það í samtali við Morgunblaðið 19. maí 1999. Þann 21. maí 1999 fékk Kaupfélag Þingeyinga greiðslustöðvun sem þann 10. september 1999 var framlengt til 10. desember 1999 og ljóst er að víxlarnir munu ekki fást greiddir að fullu. Þegar stefnanda urðu þessi tíðindi ljós lýsti hann þann 20. maí 1999 yfir riftun á víxilkaupunum frá 15. mars 1999 og krafðist endurgreiðslu á kaupverði þeirra, auk vaxta og alls kostnaðar. Af hálfu Landbanka Íslands hf. var riftuninni hafnað og er málssókn því óhjákvæmileg." Stefndi kýs að lýsa málavöxtum með eftirfarandi hætti: „Eins og fram kemur í stefnu annaðist Pétur Stefánsson, ..., framkvæmdastjóri stefnanda, fyrir hönd félagsins, hinn 15. mars sl. kaup á víxlum í Kaupfélagi Þingeyinga svf. ( hér eftir KÞ) fyrir milligöngu stefnda ... Nafnverð víxlaanna var samtals 10 milljónir króna og ávöxtunarkrafan 10,5%. Fyrir víxlana voru greiddar kr. 9.758.998, stefnufjárhæð málsins, og var sú fjárhæð þegar að kaupunum frágengnum lögð inn á reikning KÞ að frádreginni umsaminni þóknun stefnda fyrir milligönguna og lögbundnu stimpilgjaldi. Milliganga stefnda við kaupin fól í sér þjónustu við stefnanda sem lengi hefur verið í viðskiptum hjá bankanum. Því er mótmælt sem fram kemur í stefnu að stefndi hafi selt umrædda víxla til að tapa sem minnstu sjálfur vegna viðskipta við KÞ. Á þeim tíma sem kaupin áttu sér stað lágu fyrir allnokkrar upplýsingar um fjárhagslega stöðu KÞ. Er þar að nefna ársreikning félagsins fyrir árið 1997 ... og milliuppgjör fyrir tímabilið janúar til ágúst 1998 ... Eins og nefnd skjöl bera með sér var tap af rekstri kaupfélagsins nálægt 30 milljónum króna árið 1997, að meðtalinni hlutdeild í afkomu dótturfélaga og hlutdeildarfélaga, og eiginfjárstaðan í lok ársins metin 243 milljónir króna. Í uppgjöri fyrir átta fyrstu mánuði ársins 1998 kom fram að tapið á því tímabili nam 11,5 milljónum króna í stað 22 milljón króna taps á sama tíma árið áður. Má segja að þetta hafi bent til þess að heldur horfði til betri vegar í rekstri félagsins frá því sem áður var. Af þessum gögnum að dæma varð því engin sérstök ástæða til að ætla að KÞ yrði ekki fært um að standa skil á greiðslu víxlanna á gjalddaga enda þótt ljóst væri að félagið yrði rekið með nokkru tapi. Stefndi hafði ekki aðgang að öðrum en ofannefndum upplýsingum við kaup stefnanda á víxlunum umrætt sinn. Það sem síðar kom í ljós, að staða félagsins hafi í raun verið verri en reikningar kaupfélagsins gáfu tilefni til að ætla, var stefnda ókunnugt um. Málsatvikalýsing stefnanda um annað er mótmælt sem rangri og ósannaðri. Því er sérstaklega mótmælt að stefndi hafi mátt vita um raunverulega stöðu félagsins. Bendir í raun allt til þess að stjórnarmönnum KÞ hafi sjálfum ekki verið það kunnugt hversu bág staðan raunverulega var. Stefnanda var fullljóst hvaða áhætta fylgdi því að kaupa umrædda víxla. Þar sem ávöxtun þeirra var umtalsvert hærri en samkvæmt öðrum fyrirtækjavíxlum, svo ekki sé talað um ríkis- og/eða bankavíxlum, kaus hann að fjárfesta með þeim hætti sem hann gerði og lét svo um mælt að tæpast færi elsta kaupfélag landsins „á hausinn" á þremur mánuðum. Það er því ekki rétt sem ráða má af málatilbúnaði stefnanda, að stefndi hafi beinlínis ráðlagt honum að kaupa umrædda víxla. Fyrirsvarsmaður stefnanda tók sjálfur ákvörðun um kaupin og áttu þar starfsmenn stefnda engan hlut að máli annan en þann að annast milligöngu. Því er mótmælt að ávöxtunarkrafa víxlanna, sem var eins og áður sagði 10,5%, hafi ekki bent til þess að um áhættusöm viðskipti væri að ræða. Á þessum tíma stóðu til boða hjá stefnda a) ríkisvíxlar með svipaðan binditíma þar sem ávöxtunarkrafan var 7,93%, b) víxlar útgefnir af Landsbanka Íslands hf. með ávöxtunarkröfu 8,11%, c) víxlar útgefnir af Samvinnusjóði Íslands með 8,43% ávöxtunarkröfu, d) víxlar útgefnir af Kaupfélagi Eyfirðinga svf. með ávöxtunarkröfu 9,30% og e) víxlar útgefnir af Snæfelli hf. með 9,25% ávöxtunarkröfu. Þá er hér að minnast annarra fjárfestingakosta, svo sem kaup á hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum, sem vegna dreifðrar áhættu eru miklum mun tryggari en kaup á fyrirtækjavíxlum. Stefnandi valdi hins vegar þann kost sem gerði ráð fyrir hæstri ávöxtun af þeim sem til boða stóðu og mátti hann vita að því fylgdi líklegast mest áhætta. Stefndi tekur loks fram að stefnandi málsins hefur þann tilgang samkvæmt samþykktum félagsins að starfa við útgerð, fiskvinnslu og skyldan rekstur, svo og rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Samkvæmt ársreikningi félagsins ... fyrir árið 1998 var hagnaður af reglulegri starfsemi nálægt tug milljón króna. Eignir félagsins voru í árslok metnar á tæpar 100 milljónir króna en eigið fé alls ríflega kvarthundrað milljónir. Samkvæmt þessu hefur stefnandi haft veruleg viðskiptaleg umsvif. Framkvæmdastjóri stefnanda, Pétur Stefánsson, er eini stjórnarmaður félagsins. Pétur hefur áratuga reynslu að útgerð, viðskiptum og fyrirtækjarekstri. Báðir þessir aðilar, þ.e. stefnandi og Pétur Stefánsson persónulega, hafi á liðnum árum átt í verulegum viðskiptum um verðbréf og gjaldeyri, meðal annars í því skyni að hafa af því fjárhagslegan ávinning. Í viðskiptum sínum hafi þessir aðilar gjarnan leitað eftir hárri ávöxtun og samfara því mikilli áhættu." II. Riftunarkröfu sína kveðst stefnandi styðja við 42. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Víxlana hafi skort þá kosti sem hefði mátt ætla að stefnandi gerði að skilyrði að þeir hefðu. Stefnandi hefði verið í góðri trú um að víxlarnir væru góð fjárfesting „enda benti ávöxtunarkrafa þeirra og upplýsingar stefnda við söluna ekki til þess að um áhættusöm viðskipti gæti verið að ræða." Á því er byggt að stefndi, Landsbanki Íslands hf., hafi brotið gegn 15. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996 með því að selja stefnanda tvo víxla 15. mars 1999, sem Kaupfélag Þingeyinga hafði gefið út. Bankinn hefði haft eða hefði mátt hafa fulla vitneskju um slæma fjárhagstöðu Kaupfélags Þingeyinga en leynt stefnanda þeirri vitneskju. Af hálfu stefnanda er talið að stefndi hafi í þessum verðbréfaviðskiptum við stefnanda einnig brotið gegn ákv. 27. gr. og 28. gr. sömu laga. Krafa stefnanda sé grundvölluð á því að stefndi hafi lengi verið viðskiptabanki Kaupfélags Þingeyinga og kaupfélagið hefði haft samráð við bankann um aðgerðir vegna fjárhagserfiðleika kaupfélagsins. Útgáfa markaðsvíxla af hálfu kaupfélagsins hafi verið liður í því að koma því út úr fjárhagserfiðleikum. Með útgáfu víxlanna hafi stefndi viljað koma því þannig fyrir að bankinn, sem lánadrottinn Kaupfélags Þingeyinga svf., tapaði sem minnstu á viðskiptum sínum við kaupfélagið. Tapið kæmi í þess stað niður á öðrum, þ.e. kaupendum víxlanna. Með framangreindu framferði stefnda gagnvart stefnanda sé brotið gegn því hvernig góður og gegn verðbréfamiðlari rækir störf sín. Beri stefndi því bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir „er hann fylgdi ráðleggingum viðskiptastofu stefnda." III. Stefndi byggir á því að stefnandi sé ekki réttur aðili máls þessa sóknarmegin. Víxlar þeir, sem hér um ræðir, séu handhafabréf og hafi ekki verið lagðir fram í dómi. Eigandi víxlanna sé réttur aðili málsins sóknarmegin. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á aðild sína. Þá byggir stefndi á því að hann sé ekki réttur aðili máls þessa varnarmegin. Stefndi hefði einvörðungu haft milligöngu um að koma á samningi milli stefnanda og kaupfélagsins þegar stefnandi fjárfesti í víxlum útgefnum af Kaupfélagi Þingeyinga svf. þann 15. mars 1999. Hér hafi verið um hefðbundin umboðsviðskipti að ræða skv. a-lið 1. tl. 8. gr. laga nr. 13/1986. Stefndi hafi eingöngu borið út býtum þóknun miðlara. Andvirði víxlanna hefði runnið til eiginlegs seljanda, útgefanda víxlanna, að frádreginni þóknun. Óhjákvæmilegt sé því annað en að sýkna stefnda vegna aðildarskorts skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður stefnda, er byggt á því, að ekki séu skilyrði fyrir riftun kaupa stefnanda á víxlunum. Ekki sé sýnt fram á að samningur við stefnanda hafi verið verulega vanefndur eða um svik af hálfu stefnda sé að ræða. Stefndi hafi hvorki gengist í ábyrgð fyrir víxlunum né fullyrt það við stefnanda að þeir fengjust greiddir. Hér hafi verið um áhættuviðskipti að ræða eins og ávöxtunarkrafan hefði borið með sér. Að baki víxla af því tagi, sem hér um ræðir, standi raunar ekkert til tryggingar annað en loforð útgefanda. Stefndi mótmælir því að hafa vanrækt upplýsingaskyldu gagnvart stefnanda og telur að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum í þá veru. Raunar hefði stefnda ekki verið kunnugt um að staða kaupfélagins væri eins bágborin og síðar hefði komið í ljós. Ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi hafi brotið gegn 15. gr. laga nr. 13/1996 og enn síður að hann hafi gerst brotlegur við 27. gr. sömu laga eða önnur lagaákvæði sem stefnandi vísar til. IV. Forsvarsmaður stefnanda, Pétur Stefánsson, gaf skýrslu fyrir réttinum. Hann sagði m.a. að aðdragandi þess að hann keypti umrædda víxla hafi verið sá að hann hefði haft peninga á lausu, tímabundið talsvert fé, og hefði hugsað sér að fá hærri ávöxtun en á venjulegum innlánsreikningum. Kvaðst hann hafa haft samband við „kontakt- mann" sinn í Landsbankanum, Magnús Magnússon. Magnús hefði hringt í sig fyrir jólin [1998] og tjáð honum að hann væri kontaktmaður hans við Landsbankann, öll hans viðskipti við bankann færu fyrst til hans áður en þau færu lengra. Kvað hann þá síðan hafa verið í miklu sambandi. Sagði hann að Magnús hefði bent sér á þessa víxla. Hann hefði tilnefnt víxla frá KEA og Kaupfélagi Þingeyinga með 10% ávöxtum eftir því sem hann minnti. Hafi hann ákveðið að kaupa þessa víxla sem voru til þriggja mánaða. Magnús hefði sagt að þeir hefðu þessa víxla til sölu en ekki sérstaklega mælt með því að hann keypti þá. Hann hefði ekki tjáð honum neitt um áhættu af kaupum víxla sem væru útgefnir af Kaupfélagi Þingeyinga. Hann hefði ekki upplýst hann um að fjárhagsstaða kaupfélagsins væri slæm, hvorki gagnvart bankanum né öðrum. Hann hefði engar upplýsingar veitt honum um atriði sem unnt sé að sjá í ársreikningum kaupfélagsins 1997 eða milliuppgjöri frá 1998. Hann kvaðst ekki hafa fengið að sjá þessa reikninga. Hann kvað bankann hafa haft þessa víxla til innheimtu fyrir hann en ekki hafi hann fengið neitt greitt inn á þá. Hann hafi enga tilkynningu fengið frá Landsbankanum um innheimtuna. Hann kvaðst alla sína tíð hafa verið í viðskiptum við Landsbankann og á síðustu árum hafi þau verið mjög mikil og engin áföll á neinn veg. Viðskiptin hafi verið happasæl, hvorugur skaðað hinn. Engin ástæða hefði verið fyrir bankann að koma honum í þessa klemmu. Aðspurður kvaðst Pétur hafa byrjað viðskiptaleg umsvif með rekstri hlutafélags með föður sínum 1967. Hann hafi hafið rekstur ásamt bróður sínum 1972. Síðan hafi hann verið einn með rekstur frá 1984. Hann kvaðst hafa tekið landspróf og hafa skipstjórnarmenntun. Hann kvaðst hafa persónulega reynslu af verðbréfa-viðskiptum síðan 1985 eða 1986. Kvaðst hann hafa keypt fasteignatryggð verðbréf og ríkisskuldabréf en ekki bréf, sem fela í sér meiri áhættu. Aðspurður kvaðst hann, í fyrsta skipti með kaupum á þeim markaðsvíxlum sem hér um ræðir, hafa keypt verðbréf, sem flokkast gætu undir að hafa meiri áhættu. Aðspurður kvaðst hann hafa reynslu af framvirkum samningum. Kvaðst hann hafa framvirkan samning við Landsbankann með erlendan gjaldeyrir, það sé eina þekking sín á framvirkum samningum. Lögmaður stefnda upplýsti að Magnús Magnússon, starfsmaður stefnda sem áður er getið, væri látinn og spurði hvort Pétri væri kunnugt um það. Játaði Pétur því. Lögmaðurinn sagði að haft væri eftir Magnúsi að Pétur hefði haft að orði þegar þessi viðskipti áttu sér stað: „Að varla færi elsta kaupfélag landsins á hausinn á þremur mánuðum." Kvaðst Pétur ekki kannast við það. Hann kvaðst hafa valið víxlana frá Kaupfélagi Þingeyinga fram yfir víxlana frá KEA vegna þess að hann væri að uppruna Húsvíkingur. Hann sagði að honum hefði ekki verið kunnugt um hversu mikil miðlaraþóknun Landsbankans var í þessum viðskiptum. Hafi hann talið það vera mál milli kaupfélagsins og bankans. Hann sagði að Magnús hefði gefið í skyn að þeir hefðu þessa víxla til sölu, ekki að þetta væru víxlar í eigu bankans sem bankinn þyrfti að koma út. Ekki hefði verið rætt hvernig bankinn væri kominn að víxlunum. Hann kvaðst ekki hafa séð ástæðu til að spyrjast nánar fyrir um þetta vegna þess að hann hafi treyst Landsbanka Íslands og hefði ekki ætlað að bankinn væri að selja viðskiptavini sínum einhverja vafasama pappíra. Hann hefði litið svo á að þetta væru örugg bréf frá öruggum aðila. Hann upplýsti að þetta væru einu viðskipti hans með verðbréf sem hann hefði tapað á. V. Niðurstaða: Af hálfu stefnda er bent á að stefnandi krefjist þess að fá endurgreidda víxla, sem stefnandi hafi keypt fyrir milligöngu stefnda, án þess að gert sé ráð fyrir skilum á víxlunum af hálfu stefnanda eða framsali þeirra til stefnda. Í þessu sambandi verður að álykta að gangi dómur um riftun, sé samningur um kaup felldur úr gildi, og niðurstaðan verði þá hin sama og hann hefði aldrei verið gerður. Þess vegna er engin þörf á því að taka fram í kröfu um riftun samnings að fullu að sá aðilanna, sem riftir, muni skila því aftur, sem hann kann að hafa tekið við hjá hinum. Ekki er því fallist á þessa málsástæðu stefnda. Stefndi krefst sýknu á grundvelli þess að stefnandi sé ekki réttur aðili máls þessa sóknarmegin. Víxlarnir, sem hér um ræðir, séu handhafabréf, en stefnandi hafi ekki lagt víxlana fram í dómi. Á dskj. nr. 4. í málinu kemur fram að Landsbanki Íslands hf., Austurbæjarútibú, Laugavegi 77, Rvík., hafi tekið víxlana til innheimtu 18. mars 1999 frá stefnanda. Hafi bankinn látið þá af hendi. Hefur frá upphafi þessa máls legið fyrir, að stefndi gerði grein fyrir hverjum hann afhenti víxlana. Verður því litið svo á að stefndi hafi víxlana enn í sínum vörslum fyrst ekkert hefur komið fram um að víxlarnir séu annars staðar en hjá honum. Stefndi krefst sýknu einnig á þeim grundvelli að hann sé ekki réttur aðili máls þessa varnarmegin. Stefndi hafi einvörðungu komið á samningi milli stefnanda og Kaupfélags Þingeyinga um að stefnandi keypti víxlana af kaupfélaginu. Af hálfu stefnda hafi um hefðbundin umboðssöluviðskipti verið að ræða en ekki um viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning. Ekki verður af gögnum málsins og framburði Pétur Stefánssonar fyrir réttinum annað ráðið en stefndi hafi selt stefnanda víxlana fyrir kaupfélagið og andvirðið runnið til kaupfélagsins að frádreginni þóknun til bankans fyrir hans framlag. Í máli þessu reynir því á, hvort stefndi hafi með aðkomu sinni að málinu átt slíkan þátt í kaupum stefnanda á víxlunum, að hann beri ábyrgð á hugsanlegu tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna kaupanna. Með þeim hætti verður að líta á aðild stefnda. Riftunarkröfu sína kveðst stefnandi styðja við ákv. 42. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Fallist er á með stefnda að víxlarnir hafi ekki verið gölluð vara í skilningi 42. greinar. Er málsástæðu stefnanda sem á því byggir vísað á bug. Stefnandi reisir kröfu á því að stefndi hafi ekki gætt ákv. 15. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti þegar bankinn seldi honum víxlana 15. mars 1999. Landsbanki Íslands hf. hefði haft eða mátt hafa fulla vitneskju um slæma fjárhagsstöðu Kaupfélags Þingeyinga en leynt stefnanda þeirri vitneskju. Þá hafi stefndi einnig gerst brotlegur við ákv. 27. gr., sbr. 26. gr. sömu laga, en stefndi hefði nýtt sér trúnaðarupplýsingar sjálfum sér til hagsbóta. Raunar hafi stefnda verið óheimilt að annast milligöngu um verðbréfaviðskipti fyrir kaupfélagið skv. 18. gr. sömu laga. Gegn mótmælum stefnda hvílir á stefnanda að sanna þessar staðhæfingar. Ekki verður með afdráttarlausum hætti ráðið af gögnum málsins að stefnda hafi verið kunnugt um að Kaupfélag Þingeyinga stæði á barmi gjaldþrots 15. mars 1999. Þá er ekki sannað að tæknilega hefði verið unnt fyrir stjórn bankans að ráða af upplýsingum, sem fyrir hendi voru hjá bankanum skömmu áður en stefnandi keypti víxlana, að geta kaupfélagsins til að greiða markaðsvíxla, sem bankinn var að selja fyrir kaupfélagið, væri ekki fyrir hendi. Verður það því ekki metið til skaða-bótaskyldrar vanrækslu af hálfu bankans að hafa ekki hafnað því að sjá um umrædda umboðssölu og koma þannig í veg fyrir að viðskiptamenn bankans yrðu fyrir tjóni vegna ógjaldfærni kaupfélagsins. Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn. DÓMSORÐ: Stefndi, Landsbanki Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Péturs Jónssonar ehf. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 389/2017 | Kærumál Útburðargerð Uppsögn Leigusamningur | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa F hf. um að A yrði borinn út úr tiltekinni fasteign í eigu F hf. Vísaði héraðsdómur m.a. til þess að uppsögn F hf. á leigusamningi aðila hefði verið í samræmi við húsaleigulög og að ákvæði samkomulags F hf. og velferðarsviðs Reykjavíkur um samstarf aðila varðandi félagslegar leiguíbúðir í Reykjavíkurborg gætu ekki staðið því í vegi að F. hf. væri heimilt að segja samningnum upp við þær aðstæður sem uppi væru í málinu. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir HelgiI. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir setturhæstaréttardómari.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttarmeð kæru, sem barst héraðsdómi 16. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 30.sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2017, þar sem fallistvar á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili verði með beinni aðfarargerð borinnút úr fasteigninni að [...] í Reykjavík, ásamt öllu því sem honum tilheyrir.Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefstþess að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hannkærumálskostnaðar.Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og ídómsorði greinir.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, Félagsbústöðum hf., 350.000 krónur íkærumálskostnað.Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2017.IMál þetta var tekiðtil úrskurðar 5. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi Það varendurupptekið 25. s.m. og tekið til úrskurðar á ný 15. maí sl. Sóknaraðili erFélagsbústaðir hf., Hallveigarstíg 1, Reykjavík. Varnaraðili er A,[...], Reykjavík. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðiliverði ásamt öllu sem honum tilheyrir, borinn út úr íbúðarhúsnæðinu að [...] 11,Reykjavík. Þá er krafist málskostnaðar. Varnaraðili krefstþess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar. IIMálavextirMeð aðfararbeiðni,sem barst réttinum 15. desember 2016, fór sóknaraðili fram á að varnaraðiliyrði borinn út úr ofangreindri fasteign. Fram kemur í beiðninni að meðtímabundnum leigusamningi, dagsettum 13. október 2005, hafi varnaraðili tekið áleigu framangreint íbúðarhús af sóknaraðila. Leigusamningurinn hafi veriðtímabundinn og skyldu lok leigutíma vera 30. apríl 2006. Samningnum hafi veriðbreytt í ótímabundinn samning 21. apríl 2006. Vegna skipulagsástæðna hafileigusamningnum verið sagt upp með skeyti, dagsettu 27. október 2015. Um hafiverið að ræða 12 mánaða uppsagnarfrest og miðað við að leiguafnotum lyki 31.október 2016, eða í síðasta lagi 1. nóvember 2016. Að liðnum leigutíma hafimargsinnis verið skorað á varnaraðila að rýma húsnæðið, án árangurs og sitjihann þar enn samningslaus. Vegna tregðu varnaraðila til að rýma húsnæðið hafiekki verið unnt að fastsetja upphafstíma framkvæmda á lóðinni. IIIMálsástæður sóknaraðila. Sóknaraðili byggirá því að þar sem löglega hafi verið staðið að uppsögn hins ótímabundnaleigumála sé varnaraðili samningslaus og beri honum því að víkja úr húsnæðinu,sem verði rifið í framhaldinu vegna fyrirhugaðra framkvæmda á lóðinni. Húsnæðiðsé í flokki skipulagseigna, þ.e. að um sé að ræða eldri eign sem þurfi að víkjaaf skipulagsástæðum. Varnaraðila hafi verið kunnugt um þessi áform sóknaraðilaí langan tíma. Sóknaraðili vísartil 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og XI. kafla húsaleigulaga nr. 36/1994.Öll skilyrði séu fyrir hendi til þess að varnaraðili, ásamt öllu sem honumtilheyrir verði borinn út úr húsnæði sóknaraðila með beinni aðfarargerð. Málsástæður varnaraðilaVarnaraðili byggirá því að ekki séu réttmætar ástæður fyrir uppsögn leigusamningsins af hálfusóknaraðila. Í tilkynningu dómsins um aðfararbeiðnina og þinghald til fyrirtökuhennar séu ástæður fyrir aðfarargerðinni taldar þær að sóknaraðili hafi rift leigusamningivið varnaraðila vegna vanefnda hans. Í aðfararbeiðninni sjálfri komi hins vegarfram að leigusamningi varnaraðila hafi verið sagt upp af skipulagsástæðum. Varnaraðili byggirá því að réttarstaða hans og sóknaraðila sé ekki með sama móti og á almennumleigumarkaði. Reykjavíkurborg hafi falið sóknaraðila að annast útleigufélagslegs húsnæðis þar sem afnotin byggjast á úthlutun velferðarsviðs ísamræmi við reglur laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þessi heimild byggi á1. mgr. 38. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál. Sóknaraðila sé því falið aðannast útleigu félagslegra íbúða í skilningi ofangreinds ákvæðis og 1. mgr. 47.gr. laga nr. 40/1991 á grundvelli úthlutunar velferðarráðs og séu því opinberverkefni sem geti fallið innan verksviðs framsalsins og þeirrar stjórnsýslu semsóknaraðili taki að sér að annast. Ábyrgð á félagsþjónustunni hvíli áReykjavíkurborg. Borgin verði að tryggja að varnaraðili eigi að vera einssettur og ef hann leigði íbúðina beint af borginni. Varnaraðili byggir á því að það sé stjórnvaldsákvörðun að úthlutahonum íbúð og vísar í því sambandi til álits umboðsmanns Alþingis nr.5544/2008. Sóknaraðili sé að afturkalla stjórnvaldsákvörðun, sem tekin hafiverið með úthlutun íbúðarhúsnæðis til varnaraðila, án þess að reglur stjórnsýsluréttarinsséu hafðar í fyrirrúmi. Þá hafi þær skipulagsbreytingar sem eigi að veragrundvöllur uppsagnarinnar ekki verið útskýrðar. Hvorki Reykjavíkurborg nésóknaraðili hafi komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili uppfylli ekkilengur skilyrði til þess að fá úthlutað félagslegu húsnæði. Vilji sóknaraðilifá varnaraðila út úr umræddu húsnæði verði hann að bjóða varnaraðila annaðsambærilegt húsnæði.IVNiðurstaðaÍ máli þessu krefstsóknaraðili þess að varnaraðili verði, ásamt öllu sem honum tilheyrir, borinnút úr íbúðarhúsnæðinu að [...] í Reykjavík.Varnaraðili vísartil þess að í aðfararbeiðninni komi fram að leigusamningnum hafi verið sagt uppvegna skipulagsástæðna en í tilkynningu héraðsdóms um beiðnina og þinghald tilfyrirtöku hennar komi fram að samningnum hafi verið rift vegna vanefndavarnaraðila. Að mati dómsins er hér um augljósa misritun að ræða og máttivarnaraðila vera það ljóst, enda kunnugt um fyrirhugaðar framkvæmdir á lóðinniallt frá uppsögn leigusamningsins 27. október 2015. Kröfu sóknaraðila um útburðverður ekki hafnað af þessum sökum. Eins og rakið er ímálavaxtalýsingu gerðu aðilar með sér tímabundinn leigusamning, dagsettan 13.október 2005, en samningnum var svo breytt í ótímabundinn samning 21. apríl2006. Sóknaraðili telur að sér hafi verið heimilt að segja upp leigusamningnum,á grundvelli húsaleigulaga, vegna skipulagsástæðna. Því mótmælir varnaraðili ogkveður að uppsögn leigusamningsins sé stjórnvaldsákvörðun og því hafisóknaraðila verið skylt að gæta að reglum stjórnsýsluréttarins í þessu máli. Fyrir liggur aðvarnaraðili hefur búið í umræddu húsnæði um árabil ásamt fjölskyldu sinni ogóráðnum fjölda hunda og katta. Af gögnum málsins má ráða að húsnæðið er í slæmuástandi og var það mat Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í júní 2015 að húsnæðiðværi heilsuspillandi og óíbúðarhæft vegna óþrifa, slæmrar umgengni og skorts áviðhaldi. Vegna andmæla varnaraðila var húsnæðið skoðað að nýju 3. júlí s.á. ogvar það þá metið íbúðarhæft þó að talsvert skorti á viðhald. Í forsögn vegnadeiliskipulagsbreytinga Reykjavíkurborgar, dagsettri 2. nóvember 2016, kemurfram að á lóðunum [...] og [...]standi til að byggja heimili fyrir fólk meðfötlun. Því sé gert ráð fyrir að rífa þurfi íbúðarhúsnæðið að [...].Varnaraðili kveðurað andmælaréttar hafi ekki verið gætt við uppsögn leigusamningsins, hann hafiekki fengið nægilegar útskýringar á uppsögninni og ekki verið boðin önnurúrræði. Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að aðili máls eigiþess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, endaliggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt séaugljóslega óþarft. Af gögnum málsins sést að afstaða varnaraðila og rök hanslágu fyrir strax eftir uppsögn leigusamningsins en hann bar því meðal annarsvið að hann gæti ekki flutt vegna barna sinn og hunda. Þá leiðbeindisóknaraðili varnaraðila ítrekað um rétt hans til að sækja um svokallaðanmilliflutning, þ.e. að fá annað íbúðarhúsnæði í staðinn fyrir það semvarnaraðili bjó í. Ekki er því fallist á það með varnaraðila að sóknaraðilihafi ekki gætt að reglum stjórnsýsluréttarins. Eftir að málið varendurupptekið, með heimild í 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála,sbr, 1. mgr. 84. mgr. laga nr. 90/1989 um aðför, lagði sóknaraðili framsamkomulag velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf., dagsett 19.nóvember 2014. Í 7. gr. samkomulagsins kemur fram að réttur sóknaraðila tiluppsagnar leigusamnings sé bundinn við þau tilvik þegar leigutaki hefur brotið gegnákvæðum leigusamnings eða ákvæðum húsaleigulaga. Þrátt fyrir þetta verður aðlíta svo á að ákvæði samkomulagsins standi því ekki í vegi að sóknaraðila séunnt að segja upp samningi við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu. Í þvísamhengi ber að líta til þess að varnaraðili hefur nú sótt um milliflutning ení 1. mgr. 4. gr. áðurgreinds samkomulags segir að úthlutun húsnæðis vegnamilliflutninga fari fram með sama hætti og ný úthlutun húsnæðis. Ekki er á færidómsins að taka afstöðu til þess hvort það húsnæði skuli henta fyrir hundahald.Af gögnum má ráðaað uppsögn leigusamningsins var í samræmi við lög um húsaleigu, þ.e. hvaðvarðar birtingu uppsagnar og tímafrest til að rýma húsnæðið. Með vísan til alls framangreinds verðurfallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði borinn út úríbúðarhúsnæðinu að [...], Reykjavík, með beinni aðfarargerð. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir, með vísan til þessað sóknaraðili lagði fram takmörkuð sönnunargögn með aðfararbeiðni sinni, réttað málskostnaður falli niður, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.Kolbrún Sævarsdóttirhéraðsdómari kveður upp þennan úrskurð. Ú R S K U R Ð A R O R Ð :Fallist er á kröfu sóknaraðila, Félagsbústaða hf., umað varnaraðili, A, verði borinn út úr fasteigninni að [...], Reykjavík, ásamtöllu því sem honum tilheyrir.Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 72/2004 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 26. febrúar 2004 kl. 16.00. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2004, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 26. febrúar 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 656/2017 | Þjónustugjald Nauðungarsala Skaðabætur | O sf. krafðist nauðungarsölu á sex eignarhlutum A ehf. í nánar tilgreindri húseign vegna ógreiddra vatns- og fráveitugjalda. Voru nauðungarsölubeiðnir O sf. teknar fyrir hjá sýslumanni en afturkallaðar áður en til byrjunar uppboðs kom þar sem A ehf. hafði greitt kröfur samkvæmt þeim. Í málinu krafðist A ehf. skaðabóta úr hendi O sf. á grundvelli 86. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Byggði krafa hans aðallega á því að í lögum nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga og 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna hefði ekki falist fullnægjandi lagastoð fyrir álagningu gjaldanna. Talið var að viðhlítandi grundvöllur hefði verið lagður fyrir heimild O sf. til að leggja á A ehf. vatns- og fráveitugjald og að gjöldin skyldu ákveðin á grundvelli fastrar krónutölu annars vegar eða breytilegs gjalds á hvern fermetra hins vegar. Af því og aðstæðum að öðru leyti leiddi jafnframt að leggja mætti til grundvallar að forsendur gjaldskráa O sf. fyrir töku gjaldanna hefðu verið nægilega traustar og samrýmanlegar grundvallarreglum og sjónarmiðum um fjárhæð þjónustugjalds. Voru því hvorki talin uppfyllt skilyrði bótaskyldu samkvæmt 86. gr. laga nr. 90/1991 vegna nauðungarsölubeiðna O sf. né skyldu til endurgreiðslu oftekinna gjalda samkvæmt lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Var O sf. því sýknað af kröfu A ehf. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir ogÞorgeir Ingi Njálsson landsréttardómari.Áfrýjandi skautmálinu upphaflega til Hæstaréttar 3. ágúst 2017. Ekki varð af fyrirhugaðriþingfestingu þess 20. september 2017 og áfrýjaði hann öðru sinni 16. októbersama ár. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.584.323 krónurmeð vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánartilgreindum fjárhæðum frá 25. júní 2015 til 19. desember sama ár, en meðdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefststaðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrirHæstarétti.Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti ogkemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti. ISvo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi erfjárkrafa áfrýjanda í málinu reist á því að hann eigi rétt til bóta úr hendistefnda á grundvelli 86. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í ákvæðinu ermælt fyrir um sérreglur um bótaskyldu vegna nauðungarsölu. Í því felst annarsvegar að gerðarbeiðandi ber án sakar ábyrgð á því að fullnægt sé lagaskilyrðumfyrir nauðungarsölu, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Hins vegar ber hann ábyrgðeftir almennum skaðabótareglum vegna mistaka við framkvæmd nauðungarsölunnar,sem gætu leitt til ógildingar hennar, sbr. 2. mgr. hennar. Þá er enn fremur tilstuðnings kröfugerð vísað til laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinnaskatta og gjalda, sem eðli máls samkvæmt getur eingöngu náð til þess hluta dómkröfunnarsem lýtur að þeim gjöldum sem áfrýjandi telur sig hafa staðið skil á umframskyldu.Krafa áfrýjanda snýr að beiðnum stefnda 4.júní 2015 um nauðungarsölu á sex af tíu eignarhlutum áfrýjanda í húsinu nr. 9við Aðalstræti í Reykjavík vegna ógreiddra vatns- og fráveitugjalda 2014.Studdist álagning gjaldanna við 6. gr. laga nr. 32/2004 um vatnsveitursveitarfélaga annars vegar og 14. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og reksturfráveitna hins vegar og gjaldskrár sem settar höfðu verið á grundvelli laganna,en að auki studdist gjaldskrá vatnsveitu við reglugerð nr. 401/2005 um vatnsveitursveitarfélaga og gjaldskrá fráveitu við reglugerð nr. 982/2010 um fráveitursveitarfélaga. Voru beiðnirnar teknar fyrir hjá sýslumanni 29. október 2015, enstefndi afturkallaði þær allar 6. nóvember sama ár og áður en til byrjunaruppboðs kom, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1991, þar sem kröfur samkvæmtþeim höfðu verið greiddar daginn áður. Var greiðsla innt af hendi með fyrirvaraum réttmæti gjaldtökunnar.IISamkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2004fylgir vatnsgjaldi lögveðréttur í viðkomandi fasteign í tvö ár frá gjalddaga.Hið sama á við um fráveitugjald, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 9/2009. Er ekkium það deilt að gjöld þessi falli undir 5. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr.90/1991 og þar með að krefjast megi nauðungarsölu á fasteign til fullnustu áþeim án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið enað nauðungarsölubeiðnir stefnda hafi fullnægt þeim kröfum sem gerðar erusamkvæmt 11. gr. laga nr. 90/1991 og að tilskilin gögn hafi fylgt þeim. Eru þvíekki efni til að fallast á það með áfrýjanda að sýslumanni hafi borið að hafnaþeim þegar í stað og endursenda stefnda þær, sbr. 2. mgr. 13. gr. sömu laga. Þáþykir mega ganga út frá því að miðað við þær forsendur sem lágu til grundvallarálagningu gjaldanna hafi skuld áfrýjanda við stefnda að því er tekur tilhöfuðstóls þeirra numið þeim fjárhæðum sem tilgreindar voru í beiðnunum, enhluti álagðra gjalda hafði þá verið greiddur.Samkvæmt framansögðu eru ekki fyrir hendiatvik eða aðstæður sem leitt geta til bótaskyldu stefnda óháð álitaefnum umlögmæti þeirrar gjaldaálagningar sem leysa þarf úr í málinu.IIISvo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi erkrafa áfrýjanda aðallega byggð á því að í lögum nr. 32/2004 og 9/2009 hafi ekkifalist fullnægjandi lagastoð fyrir þeirri álagningu vatns- og fráveitugjaldssem um er deilt í málinu. Gjöld þessi séu þjónustugjöld sem verði ekki lögð ánema gjaldandi geti notið þjónustu sem svari til gjaldtökunnar. Er nánar tiltekiðvísað til þess hvað þetta varðar að þar sem þeir eignarhlutar í húsinu, semmálið tekur til, séu ekki beintengdir vatnsveitu og fráveitu stefnda verðiáfrýjanda ekki gert að greiða af þeim vatns- og fráveitugjald. Þá hafi stefndií öllu falli ekki sýnt fram á að gjaldtakan hafi fullnægt þeim kröfum semgerðar séu lögum samkvæmt til ákvörðunar þjónustugjalda í samræmi við þásérgreindu þjónustu sem innt sé af hendi og kostnað er almennt leiði afhenni. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2004, einsog ákvæðið hljóðaði á þeim tíma sem hér skiptir máli, var heimilt að heimtavatnsgjald af öllum fasteignum er vatns gátu notið. Gat það numið allt að 0,5hundraðshlutum af fasteignamati. Þá sagði í 2. mgr. sömu greinar að í gjaldskráværi heimilt að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseignaog enn fremur að heimilt væri að miða vatnsgjaldið við fast gjald auk álagsvegna stærðar fasteignar og/eða notkunar samkvæmt mæli. Samkvæmt 10. gr.laganna skyldi stjórn vatnsveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið yrði nánar á umgreiðslu og innheimtu gjaldsins og miðað við að það ásamt öðrum tekjumvatnsveitu stæði undir rekstri hennar, þar með töldum fjármagnskostnaði, ogfyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Auk vatnsgjalds,sem hér er eingöngu til umfjöllunar, innheimtir stefndi sérstakt notkunargjaldsem miðast við notkun mælda í rúmmetrum. Í þágildandi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009var á árinu 2014 mælt fyrir um heimild til innheimtu fráveitugjalds af öllumfasteignum sem tengdar væru fráveitu sveitarfélags eða myndu tengjast henni.Sagði í 2. mgr. sömu greinar að þar sem frárennsli væri veitt fráatvinnustarfsemi eða vegna annars en venjulegra heimilisnota í fráveitukerfisveitarfélaga væri heimilt að innheimta gjald vegna losunar miðað viðinnrennsli vatns samkvæmt mæli. Þá var í 15. gr. laganna mælt fyrir um aðstjórn fráveitu skyldi semja gjaldskrá sem tæki mið af því að fráveitugjaldásamt öðrum tekjum fráveitu stæði undir rekstri hennar, þar með töldumfjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaðisamkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Þar sagði enn fremur að heimilt væri aðákveða hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna, svo og aðmiða mætti gjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar. Þá sagðium gjaldskrá fráveitu í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 982/2010 að heimilt væriað miða fráveitugjald við fast gjald, annað hvort fasta krónutölu eða semhlutfall af fasteignamati, auk álags vegna stærðar eða notkunarfasteignar. Það mun hafa verið skilningur stefnda aðleggja mætti vatnsgjald á þegar gjaldandi gæti tengt eign sína viðvatnasveituna án tillits til þess hvort hann gerði það. Með dómum Hæstaréttar28. nóvember 2013 í málum nr. 396 og 397/2013 var því slegið föstu að þar semum þjónustugjald væri að ræða yrði það ekki lagt á nema gjaldandi fengi þáþjónustu sem svaraði til gjaldtökunnar. Samkvæmt því væri óheimilt að heimtavatnsgjald áður en búið væri að tengja eign við vatnsveitu. Með sama hætti varþað niðurstaða Hæstaréttar í dómi 6. febrúar 2014 í máli nr. 613/2013 að ekkistæðu heimildir til álagningar fráveitugjalds nema gjaldandi fengi þá þjónustusem svaraði til gjaldtökunnar og því væri óheimilt að heimta það vegna þeirrahluta húsa á tiltekinni fasteign sem ekki væru tengd fráveitukerfi viðkomandisveitarfélags. Húsið nr. 9 við Aðalstræti í Reykjavík hefurum áratugaskeið verið tengt við vatns- og fráveitu stefnda. Eignarhlutaráfrýjanda eru á 2. hæð hússins og er óumdeilt að þeir eru hvorki beintengdirvið vatnsinntak hússins né fráveitukerfi þess. Á hinn bóginn liggur fyrir að ísameignarrými á hæðinni er salerni og þrifvaskur sem áfrýjandi hefur aðgang að.Um álagningu vatnsgjalds til stefnda vegnaársins 2014 fór eftir gjaldskrá nr. 1172/2013 sem birt var 27. desember 2013.Samkvæmt henni skiptist gjaldið í fastagjald að fjárhæð 5.490,51 krónur og álagsem nam 213,05 krónum á hvern fermetra miðað við hverja matseiningu samkvæmtfasteignamati. Um álagningufráveitugjalds fór eftir gjaldskrá nr. 1156/2013 sem birt var 23. desember2013. Samkvæmt henni nam fast gjald á matseiningu 9.262,39 krónum og það semþar er nefnt breytilegt gjald 357,52 krónum á hvern fermetra hennar. Af gögnummálsins verður ekki annað ráðið en að álagning vegna umræddra eignarhlutaáfrýjanda hafi verið í samræmi við gjaldskrárnar.Heimild til töku þjónustugjalds verðuralmennt aðeins nýtt í því skyni að hið innheimta gjald svari til hinnar veittuþjónustu. Í réttarframkvæmd hefurverið viðurkennd sú undantekning frá þessari almennu reglu að þjónustugjaldimegi á grundvelli lagafyrirmæla jafna með tilteknum hlutlægum aðferðum ágjaldendur þess. Á það við um þá gjaldtöku stefnda sem hér er til umfjöllunar. Aðvirtu því sem að framan greinir verður fallist á það með stefnda að viðhlítandigrundvöllur hafi verið lagður fyrir heimild hans til að leggja á áfrýjandavatns- og fráveitugjald fyrir árið 2014 að því er tekur til umræddraeignarhluta hans í húseigninni Aðalstræti 9 í Reykjavík og að gjöldin skylduákveðin á grundvelli fastrar krónutölu annars vegar og álags eða breytilegsgjalds á hvern fermetra eignar hins vegar.Íljósi þessa og aðstæðna að öðru leyti verður lagt til grundvallar við úrlausnmálsins að forsendur framangreindra gjaldskráa stefnda fyrir töku umræddragjalda hafi verið nægjanlega traustar og samkvæmt því samrýmanlegargrundvallarreglum og sjónarmiðum um fjárhæð þjónustugjalds. Samkvæmtöllu framansögðu eruhvorki uppfyllt skilyrði bótaskyldu samkvæmt 86. gr. laga nr. 90/1991 vegnanauðungarsölubeiðna stefnda né skyldu til endurgreiðslu oftekinna gjaldasamkvæmt lögum nr. 29/1995. Verður niðurstaðahéraðsdóms því staðfest. Áfrýjandaverður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorðigreinir.Dómsorð:Hinnáfrýjaði dómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi,Aðaleign ehf., greiði stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur - vatns- og fráveitu sf., 600.000krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.Dómur HéraðsdómsReykjavíkur 6. júní 2017 Málþetta höfðaði Aðaleign ehf., Aðalstræti 9, Reykjavík, með stefnu birtri 4. maí2016 á hendur Orkuveitu Reykjavíkur – vatns- og fráveitu sf., Bæjarhálsi 1,Reykjavík. Málið var dómtekið 11. aprílsl., en endurupptekið og dómtekið á ný 29. maí. Stefnandikrefst greiðslu bóta að fjárhæð 1.584.323 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laganr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.000.000 króna frá 25. júní 2015 til5. nóvember sama ár og af 1.584.323 krónum frá þeim degi til 5. desember samaár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.584.323 krónumfrá þeim degi til greiðsludags.Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að mati dómsins. Stefndikrefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi, til vara aðkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. Stefndikrafðist frávísunar málsins í greinargerð.Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 29. september 2016. Stefnandiá sex eignarhluta á 2. hæð í húsinu að Aðalstræti 9 í Reykjavík. Fasteignanúmer þeirra eru 229-6400, 229-6784,229-6402, 229-6401, 229-6399 og 229-6396.Ágreiningur málsins varðar álagningu og innheimtu stefnda á vatns- ogfráveitugjaldi af þessum eignarhlutum árin 2013 og 2014. Þann25. júní 2015 krafðist stefndi nauðungarsölu á þessum eignarhlutum tillúkningar álögðum gjöldum ársins 2014.Beiðnirnar voru teknar fyrir 29. október. Mætti þá stefnandi og mótmælti kröfumstefnda. Sýslumaður hunsaði mótmælistefnanda og stefndi hafnaði því að málinu yrði skotið til héraðsdóms, samkvæmt4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991. Stefnandigreiddi kröfur stefnda með fyrirvara þann 5. nóvember 2015 og stefndiafturkallaði beiðnir sínar degi síðar. Viðþingfestingu máls þessa var lögð fram aðilaskýrsla forsvarsmannsstefnanda. Þar er fyrst vikið að því aðengin haldbær gögn hafi fylgt beiðnum stefnda um nauðungarsölu. Kveðst hann draga mjög í efa að þetta sé ísamræmi við framkvæmd allt frá árinu 2011.Hann hafi eftir margítrekaðar kvartanir loks fengið að ganga á fundstarfsmanna stefnda í desember 2014.Hann hafi þar krafist niðurfellingar gjalda fyrir árin 2013 og 2014,til vara að vatnsgjald yrði miðað við fermetratölu húsnæðis, en ekki innheimthámarksgjald eins og verið hefði. Hafihann lagt fram töflu sem sýndi lækkun vegna þessara tveggja ára. Þann 16. desember 2014 hafi boristtölvupóstur frá stefnda þar sem hann hafi reiknað að nýju álagningu og lækkað,en þar hafi verið miðað við fermetratölu.Enginn fyrirvari hafi verið gerður í skeytinu um árið 2013, ekki hafiverið tekið fram að lækkunin næði ekki til þess árs. Það hafi fyrst verið við fyrirtökunauðungarsölubeiðninnar sem stefndi hafi fullyrt að gjöld ársins 2013 hefðuekki verið leiðrétt. Þásegir í aðilaskýrslunni að stefndi hafi tekið upp á því að hækka fráveitugjald,sem hafði verið lagt á og kveðst stefnandi hafa greitt með fyrirvara. Þessi afturvirka álagning sé með ölluóheimil. Loks segir að vatns- ogfráveitugjald sé ekki ákveðið á málefnalegum grundvelli eins og krefjast verði,en þetta séu þjónustugjöld. Miða bærigjaldið við nýtingu, en fermetrafjöldi gefi enga vísbendingu um nýtingu vatnseða fráveitu. Brotið sé gegn jafnræðisreglummeð því að leggja sama gjald á allt atvinnuhúsnæði. Stefnandilagði fram í dóminum skjal með fyrirsögninni Tafla, sem rædd var og lögð tilgrundvallar á fundi aðila í desember 2014.Þar er í töflum sundurliðuð álagning vatns- og fráveitugjalds á hverneignarhluta árin 2013 og 2014. Samtalsnámu þessi gjöld 324.712 krónum árið 2013 og 338.412 krónum árið 2014. Í útreikningi stefnanda er hins vegar taliðað gjöldin hefðu átt að nema samtals 110.314 krónum árið 2013 og 113.945 krónumárið 2014. Málsástæður og lagarök stefnanda Ístefnu segir að málið grundvallist á 1.–3. mgr. 86. gr. laga um nauðungarsölunr. 90/1991 (hér eftir skammst. nsl.)Ekki hafi verið skilyrði fyrir stefnda til að krefjast nauðungarsölu ogsé hann því bótaskyldur samkvæmt 1. mgr. 86. gr. Til þess að takmarka tjón sitt hafi stefnandigreitt kröfur stefnda með fyrirvara. Þáhafi stefndi afturkallað beiðnir sínar og nauðungarsölum þar með verið lokið,sbr. 5. tl. 2. mgr. 15. gr. nsl. Stefnandikveðst sækja bætur vegna allra beiðnanna í sama málinu, en málin fyrirsýslumanni hafi verið samkynja og af sömu rót runnin. Vísar hann til 1. mgr. 27. gr. laga ummeðferð einkamála nr. 91/1991 og 4. mgr. 84. gr. nsl. Stefnandibyggir á því að sýslumanni hafi borið að endursenda nauðungarsölubeiðnirstefnda þar sem engin gögn hafi fylgt þeim, engin skilríki um grundvöllkrafnanna. Í beiðnum hafi einungis komiðfram óskiljanlegar fullyrðingar stefnda.Ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 3. mgr. 11. gr. nsl. Ekki hafi verið bætt úr þessum ágalla viðfyrirtöku beiðnanna þann 29. október 2015 og með því hafi verið brotið gegnfyrirmælum 21. og 22. gr. nsl. Þegar afþeirri ástæðu beri stefnda að bæta tjón stefnanda. Stefnandibyggir á því að kröfur stefnda hafi þegar verið greiddar þegar beiðnir vorusendar. Því hafi ekki verið heimilt aðkrefjast nauðungarsölu. Stefndi hafi áfundi í janúar 2015 fallist á að lækka vatnsgjald áranna 2013 og 2014. Hann hafi fallist á að miða viðfermetrafjölda í stað hlutfalls af fasteignamati. Stefnandi hafi samt ekki fallið frá kröfu umniðurfellingu gjaldsins. Miðað viðmeðalhófsreglu hafi stefnda borið að láta fermetrafjölda ráða álagningu fráupphafi, enda hafi upplýsingar um fermetrafjölda legið fyrir hjá kröfueiganda,Reykjavíkurborg, og einnig á þinglýstu skjali.Stefnandi kveðst frá upphafi hafa greitt álögð gjöld með fyrirvara ogþví hafi hann eignast kröfu á hendur stefnda.Hann hafi greitt gjöldin í sex mánuði á árinu 2014 og þannig hafi gjöldársins 2014 greiðst að fullu. Telurstefnandi að hann hafi sýnt fram á þetta með skjölum við fyrirtökuna hjá sýslumanni,en ekki hafi verið tekið neitt tillit til þeirra. Hafi þó verið augljóst af framlögðum gögnumað hann hafi verið búinn að borga álögð gjöld að fullu og meira til, jafnvelþótt eingöngu væri litið til greiðslna á árinu 2014. Þábyggir stefnandi á því að kröfur stefnanda hafi verið ólögmætar fráupphafi. Hann hafi ekki notið þeirrarþjónustu sem greitt sé fyrir með þessum gjöldum. Eignarhlutar þessir séu ekki tengdir viðvatns- eða fráveitu. Gjöldin séuþjónustugjöld sem Reykjavíkurborg feli stefnda að innheimta. Ekki sé hægt að leggja þjónustugjald á nemanotið sé þjónustu sem svari til gjaldanna.Umræddir eignarhlutar hafi allir sérstakt fasteignarnúmer hjáFasteignamati ríkisins og í sameignarsamningi.Þar sé hvorki tengd vatns- né fráveita.Sameignarrými á hæðinni séu tengd.Væri gjaldið réttmætt bæri að leggja það á alla sameigendur þessararýma, þ.e. alla eigendur þriggja neðstu hæðanna í húsinu. Þar sem stefndi hafi lagt gjöld ásameignarhlutana sé honum óheimilt að leggja frekari gjöld á eignarhluta þá semekki séu tengdir veitunum. Íaðilaskýrslu sinni ber stefnandi fram þá málsástæðu að gjaldskrá stefndabyggist ekki á málefnalegum grunni.Reikna beri gjaldið miðað við nýtingu og að fráleitt sé að fermetratalaveiti vísbendingu um notkunina.Atvinnuhúsnæði sé lagt að jöfnu, hvort sem um sé að ræða skrifstofur,sláturhús, fiskvinnsluhús eða sundhallir.Feli þetta í sér brot gegn jafnræðisreglu. Stefnandibendir á að álögð gjöld hafi hækkað verulega á árinu 2013. Þá hafi verið tekið svokallað hámarksgjald afhverjum eignarhluta, sem hafi miðað við 0,5% af fasteignamati. Svo hátt gjald geti ekki talist sanngjarnteða í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé.Mótmælir stefnandi því að unnt sé að skýra hugtakið atvinnustarfsemi í7. gr. laga nr. 32/2004, um vatnsveitur, og 14. gr. laga nr. 9/2009, umfráveitugjöld, svo að það nái til starfsemi sem ekki nýti vatn. Í umræddum eignarhlutum séu einungisskrifstofur sem nýti ekki vatn. Stefnandibyggir á því að stefndi hafi ekki sannað að skilyrði þjónustugjalda hafi veriðuppfyllt við álagninguna, svo sem hver kostnaður hafi hlotist af þjónustu viðstefnanda. Kröfufjárhæðinskiptist í þrennt. Í fyrsta lagi erkrafist 1.000.000 króna í bætur fyrir miska, misgerð og lánstraustsspjöll, íöðru lagi 396.198 króna vegna oftekinna gjalda og í þriðja og síðasta lagi188.125 króna vegna lögmannsþóknunar við meðferð máls hjá sýslumanni. Krafaum bætur fyrir miska, misgerð og lánstraustsspjöll er byggð á því að í aðgerðumstefnda hafi falist ólögmæt meingerð og þær hafi verið til þess fallnar aðvalda sér álits- og lánstraustsspjöllum, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr.50/1993. Auglýst hafi verið íLögbirtingablaði og hjá Creditinfo að eignir stefnanda væru til nauðungarsölumeðferðarvegna vanskila. Krafaum endurgreiðslu oftekinna gjalda er miðuð við þá fjárhæð sem stefnandi greidditil að fá nauðungarsölubeiðnir stefnda afturkallaðar. Kröfuum greiðslu lögmannsþóknunar við málsmeðferð hjá sýslumanni byggir stefnandi á þvíað honum hafi verið nauðsynlegt að leita aðstoðar lögmanns til að verjast hjásýslumanni. Aukáðurgreindra réttarheimilda vísar stefnandi til stjórnsýslulaga, einkum reglnalaganna um jafnræði og meðalhóf. Þábyggir hann á lögmætisreglunni, stjórnvöld geti ekki íþyngt aðilum án heimildarí settum lögum. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndimótmælir því að einhverjir formgallar hafi verið á nauðungarsölubeiðnumsínum. Með beiðnunum hafi verið lagtfram stöðuyfirlit sem byggi á álagningu sem stefnanda hafi verið kynnt í byrjunárs 2014. Sýslumanni hafi ekki borið aðendursenda beiðnir þessar, þær hafi verið í samræmi við þá framkvæmd sem hafitíðkast allt frá 2011 þegar stefndi tók við innheimtu þessara gjalda. Stefndimótmælir því að stefnandi hafi verið búinn að borga álögð gjöld þegarnauðungarsölu var krafist. Stefndimótmælir því að stefnandi hafi eignast inneign vegna leiðréttingar gjaldannasem hafi verið ákveðin á fundi í desember 2014.Stefnandi hafi fengið leiðréttingu vegna gjalda ársins 2014 vegnaupplýsinga um stærð eignarhlutanna.Lækkunin hafi numið samtals 33.992 krónum. Hafi hún verið færð inn á hvern eignarhluta íréttum hlutföllum sem innborgun. Ekkihafi verið gerð nein leiðrétting vegna ársins 2013 og ekki um það rætt. Þar sem gjöldin hafi verið ógreidd hafistefnda verið rétt að krefjast nauðungarsölu og geti stefnandi því ekki krafistbóta. Stefndibyggir á því að álagning vatns- og fráveitugjalda á umrædda eignarhluta séréttmæt og lögmæt. Hann vísar til laganr. 32/2004, um vatnsveitur sveitarfélaga, og laga nr. 9/2009, um uppbygginguog rekstur fráveitna. Reykjavíkurborghafi með heimild í lögunum falið stefnda að annast vatns- og fráveitu íborginni, sbr. 4. gr. laga nr. 32/2004 og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, sbr.lög nr. 136/2013, um Orkuveitu Reykjavíkur. Stefndivísar til 6. gr. laga nr. 32/2004, áður en þeim var breytt með 2. gr. laga nr.21/2016. Heimilt hafi verið að leggjavatnsgjald á allar fasteignir „sem vatns geta notið“: Sams konar heimild hafi verið í 14. gr. laganr. 9/2009, áður en þeim var breytt, einnig með 2. gr. laga nr. 21/2016. Stefndibendir á að gjöldin séu lögð á fasteign í heild, ekki á einstaka hlutahennar. Gjald sé lagt á íbúðarhús íheild, þótt vatn eða frárennsli sé ekki tengt nema í hluta hússins. Aðalstræti 9 hafi verið reist 1970 ogskiptist í 43 matshluta. Af þeim séu 10í eigu stefnanda. Fasteignin sé tengdbæði við vatns- og fráveitu. Því séulögð gjöld á fasteignina alla, heildargjaldinu sé skipt á milli hverseignarhluta í samræmi við eignarhlutföll. Stefndimótmælir bótakröfum stefnanda. Segirhann að ekki sé sýnt fram á að skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga séfullnægt. Þá hafi stefnandi ekki sýntfram á að hann hafi orðið fyrir miska. Stefndisegir að meginreglan sé sú að aðili stjórnsýslumáls verði sjálfur að bera sinnmálskostnað. Hann eigi ekki kröfu tilþess að fá hann endurgreiddan frá stjórnvöldum nema sérstök lagaheimild standitil þess. Slík heimild sé hér ekki tilstaðar. Þá reki fyrirsvarsmaðurstefnanda málið sem lögmaður. Óeðlilegtsé að hann taki að sér málflutning gegn fullri greiðslu í þessu tilviki. Eigi þetta einnig við um málskostnaðarkröfustefnanda hér fyrir dómi. Varakröfuum lækkun stefnukrafna byggir stefndi á því að stefnandi hefði getað takmarkaðtjón sitt með því að leysa úr ágreiningnum á fyrri stigum. Hann hefði getað skotið máli sínu tilúrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og innanríkisráðuneytisins. Enn fremur hefði hann getað skotið ákvörðunsýslumanns, um að halda áfram nauðungarsölumeðferð, til héraðsdóms. Lokstelur stefndi að miskabótakrafa stefnanda sé óhófleg. Niðurstaða Kjarniágreinings aðila er réttmæti álagningar vatns- og fráveitugjalds á eignarhlutastefnanda í húseigninni Aðalstræti 9. Íeignarhlutum þessum eru hvorki vatnstengingar né frárennsli. Slíkar tengingar eru hins vegar ísameignarrými á sömu hæð. Stefnandi kýsað færa ágreining þennan í form skaðabótamáls samkvæmt 86. gr. laga nr. 20/1991,um nauðungarsölu. Skilyrði bótaábyrgðarsamkvæmt 1. mgr. 86. gr. er að skilyrði hafi skort til að krefjastnauðungarsölu, en stefnandi byggir gagngert á því að stefndi hafi ekki haftslíka heimild. Bótaskylda samkvæmt 2.mgr. er útilokuð þar sem nauðungarsalan fór ekki fram. Máliðvarðar álagningu áranna 2013 og 2014.Tilvísanir stefnanda til fyrri ára eru óákveðnar og ekki studdar neinumgögnum. Er ekki unnt að líta til þeirraað neinu leyti. Þá er málatilbúnaðurstefnanda varðandi álagningu ársins 2013 vanreifaður. Hann hefur ekki með haldbærum gögnum sýntfram á hver gjöld hefði með réttu átt að leggja á eignarhluta hans á þvíári. Hann hefur ekki sannað að stefndihafi fallist á að endurreikna gjöld ársins 2013 á grundvelli upplýsinga umfermetratölu eignarhlutanna. Er ekkiunnt að fjalla frekar um gjöld ársins 2013, nema í tengslum við þá málsástæðuað álagning á eignarhluta stefnanda hafi verið með öllu óheimil. Umvatnsgjald gilda lög nr. 32/2004. Áárinu 2014 gilti sú regla samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna að heimta máttivatnsgjald af öllum fasteignum sem tengja mætti vatnsveitu. Óumdeilt er að vatn er tengt í húsiðAðalstræti 9. Umfráveitugjald gilda lög nr. 9/2009. Áárinu 2014 gilti sú regla samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna að heimta mættigjaldið af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitusveitarfélags. Óumdeilt er að húseigninAðalstræti 9 er tengd við fráveitukerfi borgarinnar. Heimilter að leggja bæði gjöldin á fasteignir í heild.Ekki stoðar fasteignareigendum að skipta eignum sínum svo að einungissameignarhlutar séu tengdir við vatns- og fráveitu, heimilt er að leggja gjaldá alla eignarhluta fasteignar sem er tengd vatns- og fráveitu. Þau dómafordæmi sem stefnandi vísar til (H396, 397 og 613/2013) fjalla einungis um aðskilda hluta fasteigna sem ekki vorutengdir við vatns- eða fráveitukerfi sveitarfélagsins. Stefndavar heimilt að leggja á gjöld sem hlutfall af fasteignamati, en það stóðstefnanda nær að koma upplýsingum til stefnda um fermetratölu eignarhluta sinnaog æskja leiðréttingar í samræmi við það.Það gerði hann á fundi aðila í desember 2014 og var álagning gjaldafyrir árið 2014 lækkuð í kjölfarið.Stefnanda hefur, eins og áður segir, ekki tekist sönnun þess að stefndihafi samþykkt að breyta gjöldum fyrir árið 2013 á fundi aðila. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þóttstefndi hafi ekki skráð sérstaka fundargerð.Hefur stefnandi því ekki sannað að hann hafi verið orðinn skuldlaus viðstefnda þegar nauðungarsölu var krafist. Stefnandibyggir á því að fráveitugjald hafi verið lagt á eignarhluta hans meðafturvirkum hætti. Þessi málsástæða varloks skýrð þegar málið var endurupptekið og kom þá fram að hann vísar til þessað þegar útreikningi gjaldanna var breytt frá viðmiðun við fasteignamat íhlutfall af stærð eignarhluta í rúmmetrum, flokkaðist gjaldið í tvennt, sbr. 2.mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, eins og hún hljóðaði á árinu 2013. Þannig var annað hvort miðað viðfasteignamat, eða innheimt fast gjald og álag vegna stærðar. Stefnandi hefur ekki hnekkt því að breyttálagning gjaldsins hafi verið réttmæt, en gjaldið var endurskoðað að kröfuhans sjálfs. Stefnandibyggir á því að stefnda beri að sýna fram á að gjöldin séu ákveðin í samræmivið kostnað af því að veita þjónustuna.Hann hefur hins vegar ekki reynt að benda á nein atriði sem bent gætutil þess að talsverður hagnaður sé af rekstri þessarar þjónustu. Til að mynda er ósannað að arður hafi veriðgreiddur til eigenda stefnda eða að fyrirtækið hafi verið rekið með verulegumhagnaði. Verður að hafna þessari málsástæðustefnanda. Þá verður ekki fallist á aðþað sé ómálefnalegt að miða við stærð húsnæðis í fermetrum þegar gjaldið erákveðið. Ekkiverður fallist á að nauðungarsölubeiðnir stefnda hafi verið ófullnægjandi. Stefndi fullyrðir að hann hafi sent slíkarbeiðnir í sama formi og með sömu fylgiskjölum frá árinu 2011. Dómari málsins þekkir af eigin reynslu aðfyrir mörgum árum þegar Gjaldheimtan í Reykjavík annaðist innheimtufasteignagjalda, þ.m.t. vatnsgjalds, voru nauðungarsölubeiðnir vegna gjaldannaí svipuðu formi og nú tíðkast.Grundvöllur innheimtunnar er skýrður í beiðnunum og gjaldendum sem teljasig órétti beitta ekkert að vanbúnaði að hafa uppi varnir. Íaðilaskýrslu sinni ber stefnandi fram þá málsástæðu að gjaldskrá stefndabyggist ekki á málefnalegum grunni.Reikna beri gjaldið miðað við nýtingu og að fráleitt sé að fermetratalaveiti vísbendingu um notkunina.Atvinnuhúsnæði sé lagt að jöfnu, hvort sem um sé að ræða skrifstofur,sláturhús, fiskvinnsluhús eða sundhallir.Feli þetta í sér brot gegn jafnræðisreglu. Þessi fullyrðing var ekki studd neinumgögnum, en lögmaður stefnda mótmælti henni, bæði sem rangri og of seint framkominni. Þessi málsástæða kom ekki framí stefnu, en þar á stefnandi að greina allar málsástæður sem hann byggirmálsókn sína á, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá hefur stefnandi ekki lagt fram nein gögnsem styðja þessa fullyrðingu hans. Erekki unnt að fjalla um þessa málsástæðu þar sem hún er með öllu óútskýrð. Samkvæmtframansögðu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi verið skuldlaus þegarnauðungarsölu var krafist, eða að líta bæri svo á vegna þess að innheimtagjaldanna hafi verið óheimil. Verður þvíað sýkna stefnda af kröfu um skaðabætur sem nemur endurgreiðslu gjaldanna ogkostnaði af málsvörnum hjá sýslumanni.Þá voru allar aðgerðir stefnda lögmætar og þegar af þeirri ástæðu kemurekki til greiðslu miskabóta. Þráttfyrir skýra niðurstöðu er rétt að málskostnaður falli niður. Er þá einnig litið til þess aðfrávísunarkröfu stefnda var hrundið. JónFinnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Mál þetta var eins og áður segir dómtekið 11.apríl sl. Dómari ákvað að taka málið uppá ný og leita nánari skýringa á tveimur atriðum, en endurupptaka málsins náðistekki fyrr en 29. maí. Töldu lögmenn ekkiþörf á að málið yrði flutt í heild á ný.Dómsorð Stefndi,Orkuveita Reykjavíkur - vatns- og fráveita sf., er sýkn af öllum kröfumstefnanda, Aðaleignar ehf. Málskostnaðurfellur niður. |
Mál nr. 311/2004 | Gæsluvarðhald Skaðabótamál Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu Gjafsókn | H, sem hafði setið í gæsluvarðhaldi um tæplega þriggja mánaða skeið vegna gruns um aðild að innflutningi á fíkniefnum, krafðist skaðabóta eftir að ríkissaksóknari tilkynnti honum að mál á hendur honum hefði verið fellt niður. Talið var að hegðun H hafi leitt til handtöku hans og framkoma hans við skýrslugjöf hjá lögreglu hafi verið með þeim hætti að hún hafi stuðlað, ef ekki valdið því, að hann var hnepptur í gæsluvarðhald og hversu sú vist hans dróst á langinn. Var íslenska ríkið því sýknað af bótakröfu H þrátt fyrir að gæsluvarðhaldtíminn hafi verið í lengra lagi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. júlí 2004. Hann krefst þess að stefndi greiði 4.900.000 krónur með ársvöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. janúar 2001 til 1. júlí sama ár og samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 5. september 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. þeirra laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla. I. Atvikum málsins og málsástæðum eru gerð skil í héraðsdómi. Áfrýjandi krefst bóta af stefnda vegna setu sinnar í gæsluvarðhaldi frá 7. nóvember 2000 til 29. janúar 2001, er hann var látinn laus. Gæsluvarðhaldinu var hagað í samræmi við b. e. liði 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til 5. janúar 2001, en þann dag var hætt að takmarka aðgang áfrýjanda að fjölmiðlum, sbr. e. lið ákvæðisins. Áfrýjanda var kynnt, með bréfi ríkissaksóknara 13. mars 2003, að mál á hendur honum hefði verið fellt niður með vísun til 112. gr. laga nr. 19/1991, þar sem ekki var talið nóg fram komið við rannsókn málsins til þess að líklegt væri til sakfellis hans. Með bréfi 5. ágúst 2003 krafði áfrýjandi dómsmálaráðuneyti um bætur vegna gæsluvarðhalds að ósekju. Kröfu sína reisir hann á XXI. kafla laga nr. 19/1991 og vísar sérstaklega til ákvæða 175. gr. og 176. gr. kaflans. Þá vitnar hann einnig til 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar má engan svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Í 3. mgr. sömu greinar segir meðal annars að hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skuli án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skuli dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem þyngri refsing liggur við en fésekt. Þá kveður ákvæðið jafnframt á um það að maður skuli ekki sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur. Í lokaákvæði greinarinnar segir svo að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta. Í c. lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er mælt svo fyrir að svipta megi mann frelsi með löglegri handtöku eða gæslu, sem efnt sé til í því skyni að færa hann fyrir réttan handhafa opinbers valds, enda hvíli á honum rökstuddur grunur um afbrot eða með rökum sé talið nauðsynlegt að koma í veg fyrir að hann fremji afbrot eða komist undan að svo búnu. Í 5. mgr. ákvæðisins segir loks að sá sem tekinn hefur verið höndum eða settur í gæslu andstætt öðrum ákvæðum greinarinnar skuli eiga bótarétt, sem unnt sé að koma fram. Hin almennu lagaákvæði um bætur handa sakborningum eru í XXI. kafla laga nr. 19/1991. Í 176. gr. laganna segir að dæma megi bætur vegna tiltekinna aðgerða, þar á meðal gæsluvarðhalds og annarra aðgerða, sem hafa frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi, sbr. 177. gr., ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið eins og á stóð nægilegt tilefni til þeirra eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Í 1. mgr. 175. gr. laganna, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999, eru ákvæði, sem ná til alls kaflans, en þar segir meðal annars í 1. mgr., að kröfu um bætur megi taka til greina, ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur hefur verið borinn, hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana. Þó megi fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal bæta fjártjón og miska, ef því er að skipta. Skilyrði bótaréttar XXI. kafla laga nr. 19/1991 hafa verið skýrð með hliðsjón af ákvæðum 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu á þann veg að sá sem sæta þarf gæsluvarðhaldi, án þess að hafa sannanlega unnið til frelsisskerðingar, njóti bótaréttar, nema hann sjálfur hafi valdið eða stuðlað að því að til aðgerða var gripið gagnvart honum eða þeim viðhaldið. II. Í héraðsdómi er rakið tilefni þess að áfrýjandi var handtekinn grunaður um aðild að innflutningi fjögurra mismunandi fíkniefnasendinga til landsins. Þar er greint frá framburði fólks um veruleg kaup þeirra á gjaldeyri fyrir áfrýjanda, sem hann hefur litla grein gert fyrir, og um hleranir lögreglu í nokkurn tíma á símtölum hans við aðra grunaða um þennan fíkniefnainnflutning. Ljóst er að þessi gjaldeyriskaup og símtöl voru þess eðlis að fullkomin ástæða var til handtöku áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Áfrýjandi gerir ekki kröfu til bóta fyrir handtöku. Þá er í héraðsdómi rakið að áfrýjandi var yfirheyrður af lögreglu sama dag og hann var handtekinn og næsta dag leiddur fyrir dómara og þess krafist að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 28. nóvember 2000. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu lögreglunnar og var áfrýjandi með úrskurði 7. nóvember 2000 úrskurðaður í gæsluvarðhald með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Úrskurður þessi var staðfestur með dómi Hæstaréttar 13. sama mánaðar. Í héraðsdómi eru síðan tíundaðar skýrslutökur af áfrýjanda þar sem meðal annars voru bornar undir hann upptökur af símahlerunum. Jafnframt er þar greint frá úrskurðum dómstóla um framlengingu gæsluvarðhaldsins. Fram kom að grunur beindist að þátttöku áfrýjanda í skipulagningu innflutnings fíkniefnanna, fjármögnun þeirra og móttöku til dreifingar hérlendis. Þátttaka hans, ef sönnuð hefði verið, gat varðað hann fangelsi um langan tíma. Í málinu hafa verið lagðir fram dómar sem leiddu af þessari rannsókn allri. Kemur þar fram að rannsóknin var umfangsmikil og verulegir almannahagsmunir voru því tengdir að upp kæmist um þessa brotastarfsemi alla. Fjöldi manns var viðriðinn þessi brot og nauðsynlegt var að grunaðir gætu ekki haft samband sín í milli. Skýrslur áfrýjanda bera það með sér að hann ýmist kveðst ekkert muna um ákveðin símtöl, sem óumdeilt er að hann hefur átt við greinda aðila, eða skýringar hans á þeim eru afar ótrúverðugar. Stuðlaði hann þannig sjálfur að því að rannsóknin dróst á langinn og gæsluvarðhaldstíminn varð svo langur sem raun ber vitni. Þótt rannsóknin leiddi ekki til ákæru á hendur áfrýjanda verður ekki hjá því komist að líta svo á að hegðun hans sjálfs hafi leitt til handtöku hans og framkoma hans við skýrslugjöfina hjá lögreglu hafi verið með þeim hætti að hún hafi stuðlað, ef ekki valdið því, að hann var hnepptur í gæsluvarðhald og hversu sú vist hans dróst á langinn. Samkvæmt framansögðu, með stoð í niðurlagi 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991, verður að sýkna stefnda af bótakröfu áfrýjanda, þrátt fyrir að gæsluvarðhaldtíminn sé í lengra lagi. Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Áfrýjandi hefur gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður hans í héraði er staðfestur á þann hátt sem greinir í dómsorði héraðsdóms. Gjafsóknarkostnaður hans fyrir Hæstarétti ákveðst í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Hlyns Eggertssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur. Mál þetta, sem dómtekið var 6. þessa mánaðar, er höfðað 11. september 2003 af Hlyni Eggertssyni, [...], gegn íslenska ríkinu. Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.900.000 krónur með vöxtum frá 30. janúar 2001 samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 5. september 2003 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr.og 12. gr. sömu laga. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Stefndi krefst þess aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla. I. Stefnandi var handtekinn 6. nóvember árið 2000 vegna gruns um aðild að stórfelldum fíkniefnabrotum. Um var að ræða fjögur mál sem stefnandi var talin tengjast. Í fyrsta lagi var stefnandi grunaður um að hafa verið í samstarfi við nafngreindan mann í Hollandi um innflutning fíkniefna til Íslands og hafa fengið menn hérlendis til að skipta íslenskum peningum í gjaldeyri og senda hann til Hollands. Keyptu karl og kona gjaldeyri fyrir 3.673.642 krónur fyrir stefnanda á árinu 2000 fyrir peninga sem þau sögðust hafa fengið frá stefnanda. Sama fólk greindi frá því að það hefði skipt peningum fyrir stefnanda á árunum 1999 og 2000 og keypt gjaldeyri fyrir um 5.000.000 króna. Önnur kona kannaðist við að hafa keypt gjaldeyri fyrir stefnanda fyrir 338.403 krónur árið 2000. Var stefnandi grunaður um að hafa átt að taka við 10 kg af hassefni, afhenda 5 kg til annars manns og selja sjálfur 5 kg. Komu fíkniefnin til landsins með farskipi í júlí árið 2000 og var varpað í sjóinn skammt frá Engey með þeirri fyrirætlan að þau yrðu sótt síðar. Í annan stað var stefnandi grunaður um að hafa lagt 250.000 krónur til fjármögnunar á fíkniefnum. Var það mat lögreglu að símtöl, sem hleruð höfðu verið, bentu til að stefnandi hefði átt að fá hálft kg af amfetamíni um það leyti sem hann kæmi frá Mallorca eftir miðjan júlí árið 2000. Hafi stefnandi ætlað að drýgja efnið með íblöndunarefni þannig að úr yrði eitt og hálft kg en málið snerist um innflutning á 8 kg af amfetamíni. Í þriðja málinu var stefnandi grunaður um að hafa átt að taka við 94,12 g af kókaíni sem „burðardýr” og koma með það til landsins í maí árið 2000. Hafi hann jafnframt átt að selja fíkniefnið og að skipta hafi átt ágóða milli hans og þess manns sem stefnandi var talinn vera í samstarfi við í Hollandi. Í fjórða lagi var stefnandi grunaður um innflutning á 342,03 g af kókaíni, 48,91 g af MDMA-dufti (ectsasy) og 2,1 ml af LSD-vökva en fíkniefnin voru flutt til landsins 18. október árið 2000. Jafnframt var stefnandi grunaður um að hafa átt að taka við fíkniefnum og sjá um sölu þeirra þannig að ágóði skiptist milli stefnanda og annars manns. Stefnandi var yfirheyrður sama dag og hann var handtekinn en næsta dag krafðist lögreglan þess að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 28. nóvember 2000. Hafði þá hald verið lagt á um 8 kg af amfetamíni, 10 kg af hassi, milli 400 og 500 g af kókaíni, allt að 50 g af dufti sem innihélt MDMA auk LSD í fljótandi formi. Höfðu nokkrir menn setið í gæsluvarðhaldi eða voru í gæsluvarðhaldi á þessum tíma vegna gruns um aðild að innflutningi fíkniefnanna. Krafa lögreglu á hendur stefnanda um gæsluvarðhald var einkum rökstudd með því sem fram kom í símtölum milli stefnanda og annarra sem hleruð höfðu verið. Beindist grunurinn að þátttöku stefnanda í skipulagningu innflutnings fíkniefnanna, fjármögnun þeirra og móttöku efnanna til dreifingar hérlendis. Fram kom í kröfunni um gæsluvarðhald að málið væri á frumstigi og væri umfangsmikil rannsókn fyrirsjáanleg. Bæri nauðsyn til að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi þar sem honum yrði að öðrum kosti auðvelt að torvelda rannsókn málsins, meðal annars með því að hafa áhrif á vitni og samseka. Fallist var á kröfu lögreglu með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2000 með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurðinn með dómi 13. sama mánaðar. Skýrslur voru teknar af stefnanda 17., 24. og 27. nóvember 2000. Voru meðal annars bornar undir stefnanda upptökur af símhlerunum. Kannaðist stefnandi við símtöl en að mati lögreglu voru svör hans við ýmsum spurningum fjarstæðukennd og ótrúverðug. Lögregla krafðist áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir stefnanda 28. nóvember 2000 allt til 4. janúar 2001. Taldi lögregla að fyrir lægi að stefnandi þekkti og hefði haft tengsl við flesta þá sem kærðir voru í fyrrgreindum málum. Var og á það bent að rannsóknin væri sérlega umfangsmikil og bera yrði undir stefnanda mikinn fjölda símtala og framburða. Þá var vísað til skýrslna sem teknar höfðu verið af stefnanda en í þeim kæmi fram að stefnandi hefði verið afar ósamvinnufús. Kannaðist hann við að vera viðmælandi í símtölum þeim sem höfðu verið hleruð en þau væru á eins konar dulmáli. Stefnandi segðist hins vegar annars vegar ekkert vita um símtölin eða muna ekki eftir þeim. Með úrskurði héraðsdóms 28. nóvember 2000 var fallist á framlengingu gæsluvarðhalds yfir stefnanda en tíminn var styttur til 19. desember sama árs. Voru tvær ítarlegar skýrslur teknar af stefnanda á þessu tímabili. Er gæsluvarðhaldið rann út 19. desember 2000 var krafist framlengingar þess til 9. janúar 2001 á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Að mati lögreglu lágu þá fyrir framburðarskýrslur sem bentu ótvírætt til þátttöku stefnanda í innflutningi fíkniefna og fjármögnun til kaupa þeirra. Átti enn eftir að bera undir stefnanda allmörg símtöl og framburði. Þá höfðu skýrslur ekki verið teknar af öllum sem að málinu komu og var meðal annars beðið eftir að ætlaður aðalmaður í hluta málanna yrði framseldur frá Hollandi. Taldi lögregla mega vænta komu hans til landsins þar sem hún taldi að hann myndi ekki mótmæla framsalskröfunni. Með úrskurði héraðsdóms 19. desember 2000 var orðið við kröfu lögreglu um framlengingu gæsluvarðhaldsins eins og hún var fram sett og með dómi Hæstaréttar 22. sama mánaðar var úrskurðurinn staðfestur. Á nefndu tímabili voru teknar fimm ítarlegar skýrslur af stefnanda. Í skýrslutöku 3. janúar 2001 viðurkenndi stefnandi að efni símtals sem borið var undir hann gengi út á að hann hefði átt að fá innihald fíkniefnapakka, sem varpað hafði verið fyrir borð úr farskipi skammt frá Engey, og hvað átt hafi að gera við hann. Hins vegar bar stefnandi sem fyrr við ókunnugleika og minnisleysi varðandi efni ýmissa símtala sem hann viðurkenndi að hafa átt. Með kröfu 9. janúar 2001 fór lögregla fram á að stefnandi yrði úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 30. sama mánaðar og var fallist á kröfuna með úrskurði héraðsdóms sama dag. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 12. janúar 2001. Stefnandi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi 29. janúar 2001. Meðan á gæsluvarðhaldinu stóð sætti stefnandi einangrun, heimsóknarbanni, bréfaskoðun og fjölmiðlabanni samkvæmt b-, c-, d- og e- lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 en 5. janúar 2001 var fjölmiðlabanni aflétt. Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins 14. nóvember 2003. II. Krafa stefnanda er reist á því að frá upphafi rannsóknar málsins hafi stefnandi neitað sakargiftum. Stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 7. nóvember 2002 til og með 29. janúar 2001. Fyrirkomulag gæsluvarðhaldsins hafi allan tímann verið algjör einangrun samkvæmt b-, c-, d- og e- lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Þar hafi verið um að ræða einangrun, heimsóknarbann, bréfaskoðun og svokallað fjölmiðlabann. Hafi stefnandi þannig verið látinn sæta gæsluvarðhaldi að ósekju í þágu svonefndra rannsóknarhagsmuna í samtals tæpa þrjá mánuði. Ekki sé vafa undirorpið að gæsluvarðhaldið í svo langan tíma í fullkominni einangrun hafi haft í för með sér fyrir stefnanda andlega þjáningu og miska sem hann eigi rétt á að fá bættan að svo miklu leyti sem það sé unnt. Verði að telja að miskabótakrafa að fjárhæð 4.000.000 króna sé síst of há miðað við þann tíma sem stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi, svo og með tilliti til hinna alvarlegu sakargifta sem hefðu getað varðað margra ára fangelsi, hefðu þær verið á rökum reistar, en svo hafi ekki reynst vera. Stefnandi hafi verið í fullri vinnu hjá A er hann var handtekinn. Samkvæmt yfirlýsingu A 27. maí 2003 sé tekjutap stefnanda fyrir tímabilið 6. nóvember 2002 (handtökudagur) til 29. janúar 2001 varlega áætlað 900.000 krónur. Krefji stefnandi stefnda um þá fjárhæð vegna tekjumissis meðan hann sætti gæsluvarðhaldi. Að því er varði lagarök er vísað til XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og þá sér í lagi til 175. gr. og 176. gr. laganna. Einnig er í þessu sambandi vísað til 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 5. gr. og 8. gr. laga nr. 97/1995, og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefndi byggir sýknukröfu á því að lagaskilyrði hafi verið til að halda stefnanda í gæsluvarðhaldi vegna þess að rökstuddur grunur hafi beinst að honum um aðild að mjög umfangsmiklum fíkniefnabrotum, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Í stefnu sé ekki efast um að skilyrði hafi verið til að handtaka stefnanda en kröfur hans í málinu séu á því reistar að hann hafi verið í gæsluvarðhaldi samfellt frá 7. nóvember 2000 til og með 29. janúar 2001. Um gæsluvarðhaldið hafi í öllum tilvikum verið úrskurðað af dómi svo sem lög geri ráð fyrir. Í stefnu hafi engar ástæður verið færðar fram sem réttlætt gætu endurskoðun á þeim úrlausnum dómstóla, hvorki um skilyrði gæsluvarðhalds né tímalengd þess. Ljóst sé að stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi í alllangan tíma enda hafi verið um að ræða rökstuddan grun um að hann tengdist stórfelldum fíkniefnabrotum eins og að framan sé lýst og hafi málið verið sérstaklega umfangsmikið og flókið. Málsástæður stefnanda að því er varði umfjöllun um bótaskilyrði og bótagrundvöll séu mjög knappar og nánast órökstuddar. Fyrir liggi úrskurðir héraðsdóms og Hæstaréttar þar sem fallist hafi verið á kröfur lögreglustjóra um að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi en í þeim málum hafi reynt á skilyrði gæsluvarðhalds, eins og mælt sé fyrir um þau í lögum, og varðhaldi markaður tími. Enda þótt ekki hafi komið til ákæru á hendur stefnanda og málið verið fellt niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 geri það bótarétt ekki sjálfgefinn. Hafi því ítrekað verið slegið föstu með dómum Hæstaréttar að 175. gr. og 176. gr. laganna verði ekki túlkaðar með þeim hætti að sýknudómur, niðurfelling rannsóknar eða það að horfið sé frá saksókn leiði sjálfkrafa til bótaskyldu stefnda. Tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins í stefnu og mannréttindasáttmála Evrópu leiði heldur ekki til slíkrar hlutlægrar ábyrgðar. Í ljósi þessa og þegar fyrir liggi að stefnandi hafi fjórum sinnum verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna mjög umfangsmikillar rannsóknar hljóti að liggja í augum uppi að gera hafi orðið grein fyrir því í stefnu af hvaða ástæðum stefnandi hafi talið að stofnast hafi til bótaskyldu með vísan til nefndra ákvæða, þ.e. hvort hann telji að lagaskilyrði gæsluvarðhalds hafi ekki verið fyrir hendi á einhverjum stigum rannsóknar, rannsóknarhagsmunir hafi á einhverjum tíma fallið niður og þá hvenær, framkvæmd gæsluvarðhaldsins hafi ekki verið í samræmi við lög eða þess háttar. Ekkert sé að þessu vikið í stefnu og ekki á því byggt að stefnanda hafi verið haldið í gæsluvarðhaldi lengur en nauðsynlegt hafi verið vegna rannsóknarhagsmuna. Með vísan til þessa bendi stefndi í fyrsta lagi á að til greina komi að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi sökum vanreifunar, sbr. d- til g- liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verði hins vegar talið að málið sé tækt til efnismeðferðar sé kröfum og málsástæðum stefnanda mótmælt sem órökstuddum. Fyrir liggi að lögmæt skilyrði hafi staðið til þess að stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi þar sem rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi og miklir rannsóknarhagsmunir. Stefnandi hafi í raun ekki reifað málið svo heitið geti með tilliti til þeirra bótaskilyrða sem fram komi í upphafsákvæðum XXII. kafla laga nr. 19/1991. Þegar af þessum ástæðum beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda þar sem málatilbúnaður hans sé órökstuddur. Skilyrði til bóta samkvæmt 176. gr. laga nr. 19/1991 séu ekki fyrir hendi. Ríkt tilefni hafi verið til gæsluvarðhaldsins enda miklir rannsóknarhagsmunir í húfi meðan á því hafi staðið. Þá hafi tilhögun gæsluvarðhaldsins verið í samræmi við lög og rannsóknarhagsmuni þar sem stefnanda hefði verið auðvelt að torvelda rannsóknina hefði hann með einum eða öðrum hætti getað fylgst með henni, haft samband við aðra sem grunaðir voru eða önnur vitni. Þá hafi tilhögun varðhaldsins verið nauðsynleg til að stefnandi fengi ekki spillt sönnunargögnum. Grunsemdir lögreglu á hendur stefnanda hafi snúið að mörgum sendingum fíkniefna í fjórum aðskildum lögreglurannsóknum þar sem fjölmargir hafi komið við sögu og tengst með ýmsum hætti, beint og óbeint. Hafi hér verið um að ræða stærstu fíkniefnamál þessa tíma og augaleið gefi hversu brýnt sé frá þjóðfélagslegu sjónarmiði að svo flókin net fíkniefnaviðskipta séu upprætt. Í tilviki stefnanda hafi hann legið undir rökstuddum grun um að eiga samtímis aðild að mögum ótengdum málum sem sé óvenjulegt. Vinnsla málanna hafi verið tímafrek og útheimt mikla rannsóknarvinnu. Afla hafi þurft mjög margra gagna og vinna úr þeim. Skýrslutökur í málinu hafi verið vandasamar og mikill tími farið í að undirbúa þær. Af þessari ástæðu hafi verið ófært að mati lögreglu að láta stefnanda lausan fyrr en raunin varð, enda hafi tekið langan tíma að rannsaka ætluð tengsl hans við málin og tryggja að rannsóknarhagsmunum yrði ekki spillt. Liggi í augum uppi að rannsóknarvinna eins og í tilviki stefnanda sé mjög tímafrek, t.d. uppritun samtala og framburða, undirbúningur spurninga, rannsókn á efni símtalanna og öflun annarra gagna eða staðfestinga í tengslum við þau. Bera hafi þurft símtölin undir aðra aðila og síðan stefnanda og vinna þá úr þeim upplýsingum að nýju. Framferði stefnanda meðan á gæsluvarðhaldinu hafi staðið hafi gert þessa vinnu augljóslega erfiðari og tímafrekari en ella hefði orðið. Þótt gæsluvarðhald sé þvingunaraðgerð og allajafna þungbær sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir andlegri þjáningu. Svör stefnanda hafi ítrekað verið ótrúverðug þrátt fyrir að fyrir lægju upptökur af símahlerunum sem kynntar hafi verið honum skref fyrir skref þar sem hann hafi viðurkennt að vera viðmælandi í þeim símtölum auk þess að þekkja marga þá sem málinu hafi tengst. Hafi það ekki síst verið fyrir tilstuðlan stefnanda að gæsluvarðhaldið hafi staðið svo lengi sem raun beri vitni. Þrátt fyrir að hann hafi viðurkennt að hann væri viðmælandi í símtölunum hafi hann þráfaldlega borið við algjörum ókunnugleika við efni þeirra og samskipta sem undir hann hafi verið borin. Slíkan framburð verði að telja fjarstæðukenndan og ótrúverðugan miðað við hin sérkennilegu og flóknu samtöl sem með hliðsjón af öðrum upplýsingum hafi borið þess merki að varða fíkniefnaviðskipti með einum eða öðrum hætti. Lögð sé áhersla á að stefnanda hafi verið skylt að greina satt og rétt frá svo sem brýnt hafi verið fyrir honum í upphafi hverrar skýrslutöku, undanbragðalaust og greinilega, sbr. 33. gr. laga nr. 91/1991. Af þessum sökum byggi stefndi á því að ef svo ólíklega vilji til að lagaskilyrði hafi brostið fyrir gæsluvarðhaldinu leiði framferði stefnanda við rannsókn málsins engu að síður til þess að fella beri niður bætur að öllu leyti, sbr. lokamálsl. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Ýmislegt bendi og til þess að hinn rökstuddi grunur, sem fallið hafi á stefnanda, hafi átt við rök að styðjast og hafi því gæsluvarðhaldið verið fyrir tilstuðlan hans sjálfs. Hafi margt bent til þess að stefnandi hefði í raun verið þátttakandi í fjármögnun, innflutningi og dreifingu fíkniefna. Í skýrslutöku 3. janúar 2001 hafi stefnandi viðurkennt að hann hafi átt að taka á móti 5 kg af hassi sem hent hafi verið fyrir borð úr farskipi en að öðru leyti hafi hann haldið uppteknum hætti að bera við ókunnugleika eða minnisleysi um efni margra samtala og margt er hafi varðað meðferð mikilla fjármuna. Allt hafi þetta verið samskipti og ráðstafanir sem hafi verið þess eðlis að hverjum manni ætti að standa í fersku minni. Efni samtalanna, ráðagerðir um fjármögnun og gjaldeyriskaup og kunnugleiki við aðra aðila, sem grunaðir hafi verið, hafi bent til þess að grunur á hendur stefnanda hafi átt við rök að styðjast þrátt fyrir að fallið hafi verið frá ákæru. Með vísan til alls framanritaðs sé því mótmælt að kröfur stefnanda eigi sér stoð í ákvæðum 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrár eða 5. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu. Mótmælt er kröfu um bætur fyrir ætlað fjártjón. Í málinu hafi stefnandi ekki lagt fram skattframtöl vegna tekna áranna 2000 og 2001. Ekki hafi verið lagðir fram launaseðlar eða ráðningarsamningur. Engin gögn séu þannig um ráðningu stefnanda hjá föður sínum, hve lengi þeirri ráðningu hafi verið ætlað að vara eða hvort og með hvaða hætti hafi verið dregið af launum hans. Liggi fyrir að stefnandi hafi verið á launum í nóvember og desember 2000. Ekkert liggi þó fyrir um janúar 2001. Staðfestingu, undirritaðri af stefnanda sjálfum og föður hans, sé mótmælt sem rangri, enda sé þar gert ráð fyrir að stefnandi hafi að lágmarki orðið af launum að fjárhæð 900.000 krónur á tímabilinu sem hann hafi setið í haldi eða frá 6. nóvember 2000 til 29. janúar 2001. Láti nærri að gert sé ráð fyrir að laun hafi verið tæpar 300.000 krónur á mánuði en fyrir því sé engin stoð í gögnum málsins og sé fjárhæðin auk þess í algeru ósamræmi við aðrar upplýsingar í málinu um laun stefnanda í kringum þetta tímabil. Kröfum um bætur fyrir ætlað fjártjón vegna tekjumissis sé því mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum. Varakrafa er byggð á sömu málsástæðum og að framan greinir. Lögð er áhersla á að stefnandi hafi sjálfur verið valdur að því að hann sætti gæsluvarðhaldi og torveldað rannsóknina með sérstaklega ótrúverðugum framburði í skýrslum, sbr. lokamálslið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Miskabótakröfu sé mótmælt sem allt of hárri. Þá er byggt á sömu mótmælum gegn kröfu um bætur fyrir fjártjón og áður er getið. Mótmælt er vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda, einkum upphafstíma þeirra. Verði fallist á bótaskyldu komi ekki til greiðslu dráttarvaxta fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu. III. Í stefnu eru tilgreindar dómkröfur stefnanda. Er þar á því byggt að stefnandi hafi verið látinn sæta gæsluvarðhaldi að ósekju enda hafi hann neitað sök allan tímann. Að lokum er í stefnu vísað til helstu lagaákvæða sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á. Þykja þannig vera uppfyllt þau formskilyrði sem áskilin eru í 80. gr. laga nr. 91/1991 til að efnisdómur verði lagður á málið. Samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991, svo sem henni var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999, má dæma bætur ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur var borinn, hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana eða sakborningur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu. Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Þá má, samkvæmt 176. gr. laganna, dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða, sem hefur frelsisskerðingu í för með sér, aðra en fangelsi, ef lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt enda sé jafnframt uppfyllt skilyrði 175. gr. Skýra verður 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 svo að í síðarnefndu greininni, svo og 177. gr. laganna, sem hér á ekki við, séu tæmandi taldar þær aðgerðir er leitt geta til bótaskyldu stefnda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu. Jafnframt þurfi þó að vera fullnægt öðrum skilyrðum sem greinir í 176. gr. laganna og þeim skilyrðum sem um ræðir í 175. gr. þeirra. Hafa ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, með áorðnum breytingum, verið skýrð svo að þau veiti ekki ríkari bótarétt en leiddar verða af reglum XXI. kafla laga nr. 19/1991. Svo sem áður greinir skýrðu karlmaður og kvenmaður lögreglu frá því að þau hefðu keypt gjaldeyri að fjárhæð 3.673.642 krónur á árinu 2000 fyrir peninga sem þau sögðust hafa fengið frá stefnanda. Sama fólk greindi og frá því að það hefði margoft skipt peningum fyrir stefnanda á árunum 1999 og 2000 og keypt gjaldeyri fyrir hann fyrir um 5.000.000 króna. Þá kannaðist önnur kona við að hafa keypt gjaldeyri fyrir stefnanda fyrir allt að 338.403 krónur árið 2000. Er hér um að ræða þekkta aðferð þeirra sem stunda fíkniefnaviðskipti, í því skyni að dylja slóð sína. Stefnandi kannaðist við að hafa fengið fólkið til að kaupa gjaldeyri fyrir sig en framburði hans og fólksins um fjölda tilvika og fjárhæðir bar ekki saman. Ofangreindur framburður karlmanns þess og þeirra tveggja kvenmanna, sem greindu frá gjaldeyriskaupum sínum fyrir stefnanda, en framburður þeirra hefur stoð í bankagögnum og að hluta framburði stefnanda, var til þess fallinn að rökstuddur grunur beindist að stefnanda um að hafa notað peningana til stórra fíkniefnakaupa. Hið sama er að segja um ýmis símtöl stefnanda við fólk sem tengdist þeim málum er voru til rannsóknar. Af málsgögnum er ljóst að stefnandi var grunaður um aðild að stórfelldum innflutningi fíkniefna. Um var að ræða fjögur aðskilin mál sem gerð er grein fyrir í málavaxtalýsingu. Komu þar fjölmargir við sögu og var rannsókn mála þessara afar umfangsmikil og tímafrek. Teknar voru margar ítarlegar skýrslur af stefnanda og öðrum sem taldir voru tengjast málunum. Við yfirheyrslu 3. janúar 2001 viðurkenndi stefnandi loks þátttöku í einu málanna með því að hafa átt að taka á móti 5 kg af hassi sem varpað hafði verið fyrir borð úr farskipi í júlí árið 2000. Fíkniefnið fannst ekki þrátt fyrir mikla leit. Eftir það voru teknar skýrslur af stefnanda 5. og 22. sama mánaðar þar sem bornar voru undir hann upptökur af símtölum við einstaklinga sem voru undir rökstuddum grun um aðild að einu málanna. Að lokum var tekin ítarleg skýrsla af stefnanda 29. sama mánaðar þar sem enn voru bornar undir hann upptökur af símtölum við aðila sem tengdust rannsókn sama máls. Að lokinni þeirri yfirheyrslu var stefnandi látinn laus. Samkvæmt því sem rakið hefur verið er það álit dómsins að miðað við umfang málsins hafi rannsókn lögreglu verið hraðað eins og kostur var. Stefnandi neytti ekki þess réttar síns að neita að svara spurningum og kaus allan tímann að gefa skýrslu. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 19/1991 ber sakborningi að skýra satt frá kjósi hann að gefa skýrslu um sakarefnið. Bera lögregluskýrslur með sér að framangreind skylda hafi verið brýnd fyrir stefnanda. Samkvæmt framansögðu bar stefnanda að skýra frá sannleikanum samkvæmt um þau atriði sem hann var spurður um. Á þeim tíma, sem stefnandi sætti gæsluvarðhaldi, voru bornar undir hann tugir símtala hans við ýmsa aðila sem tengdust rannsókn málanna en símtölin höfðu sem fyrr segir verið hleruð. Stefnandi kannaðist við að vera viðmælandi í símtölunum, sem í langflestum tilvikum gengu að mati dómsins ótvírætt út á fíkniefnaviðskipti, en kvaðst ýmist ekki muna eftir þeim eða svaraði út í hött spurningum lögreglu um efni þeirra. Mjög algengt var að stefnandi svaraði: „Ég man það ekki ... Ég veit það ekki”. Sem dæmi um svör stefnanda við spurningum lögreglu skal getið yfirheyrslu 20. desember 2000. Þar var hann spurður um hver tilgangurinn hafi verið með því af hálfu áðurnefnds karlamanns, sem keypti gjaldeyri fyrir stefnanda, að senda peninga fyrir stefnanda til Hollands. Svarað stefnandi: „Ég veit það ekki en mig grunaði að þeir væru fyrir kaupum á fíkniefnum”. Þá var stefnandi spurður um hvar hann hefði fengið peningana og svaraði stefnandi: „Ég þori ekki að greina frá því hvar ég fékk þessa peninga vegna ótta við hefndaraðgerðir”. Enn var stefnandi spurður hvort einhver annar aðili en stefnandi hefði staðið á bak við sendingarnar og svaraði stefnandi þá: „Já það er mjög líklega einhver annar aðili en ég sem stóð á bak við þessa peninga”. Spurningu um hvernig það kom til að stefnandi bað manninn um að senda peningana til Hollands svaraði stefnanda: „Ég veit ekki út af hverju”. Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að lögmæt skilyrði hafi verið til gæsluvarðhalds yfir stefnanda og fullt tilefni til þess að beita því úrræði. Þá er það álit dómsins að stefnandi hafi, sem fyrr segir, með afar ótrúverðugum tilsvörum sínum við skýrslugjöf hjá lögreglu stuðlað af sjálfsdáðum að gæsluvarðhaldi yfir sér þannig að ekki þykja uppfyllt lagaskilyrði til að dæma honum bætur, sbr. niðurlagsákvæði 175. gr. laga nr. 19/1991. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. Stefnandi nýtur gjafsóknar í máli þessu og eru því ekki efni til að dæma íslenska ríkið til greiðslu málskostnaðar. Fellur málskostnaður þar af leiðandi niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri. Dómsorð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Hlyns Eggertssonar, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 300.000 krónur. |
Mál nr. 161/2016 | Kærumál Hjón Lögskilnaður Dómstóll Lögsaga | M1 kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur M2 var vísað frá dómi á þeirri forsendu að málið heyrði ekki undir lögsögu íslenskra dómstóla. M1 hafði höfðað mál gegn M2 og krafist þess að honum yrði veittur lögskilnaður frá M2. Málsaðilar voru báðir erlendir ríkisborgarar sem höfðu gengið í hjónaband á Íslandi árið 2011 en voru hins vegar ekki búsettir hér á landi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að M1 og M2 féllu ekki undir neitt það tilvik sem gerð væri grein fyrir í 114. gr. laga nr. 31/1993 um lögsögu íslenskra dómstóla í hjúskaparmálum. Þá yrði af þeirra hálfu ekki byggt á lögsögu hér á landi á grundvelli undantekningarreglu 4. mgr. 141. gr. sömu laga, enda tæki sú regla samkvæmt efni sínu aðeins til staðfestrar samvistar. Þar sem málsaðilar lytu hvorugur lögsögu íslenskra dómstóla yrði mál til hjónaskilnaðar þeirra í milli ekki höfðað hér á landi. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. | DómurHæstaréttar.Mál þettadæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og KarlAxelsson. Sóknaraðiliskaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárustréttinum 1. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22.febrúar 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi.Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferðeinkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úrgildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hannkærumálskostnaðar.Varnaraðiligerir sömu kröfu og sóknaraðili, en krefst að auki kærumálskostnaðar.Málsaðilarsem eru erlendir ríkisborgarar gengu í hjónaband á Íslandi 5. desember 2011.Þeir eru ekki búsettir hér á landi og falla að öðru leyti ekki undir neitt þaðtilvik sem gerð er grein fyrir í 114. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um lögsöguíslenskra dómstóla í hjúskaparmálum. Þá verður af þeirra hálfu ekki byggt álögsögu hér á landi á undantekningarreglu 4. mgr. 141. gr. sömu laga, endatekur sú regla samkvæmt efni sínu aðeins til staðfestrar samvistar. Málsaðilarlúta því hvorugur lögsögu íslenskra dómstóla og mál til hjónaskilnaðar þeirra ímilli verður ekki höfðað hér á landi. Hinn kærði úrskurður verður þvístaðfestur. Eftiratvikum þykir rétt að kærumálskostnaður falli niður.Dómsorð:Hinn kærðiúrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaðurfellur niður.Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22.febrúar 2016. Mál þetta, sem var tekið tilúrskurðar í dag, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af M1,[...],[...],[...] á hendur M2, til heimilis að [...],[...],[...], með stefnu birtri7. september 2015. Stefnandi krefst lögskilnaðarvið stefnda skv. 37. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með vísan til 4. mgr. 41.gr. sömu laga. Að auki er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi samþykkir allar kröfurstefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.I Stefnandi málsins er [...]ríkisborgari og kom til Íslands árið 2011 ásamt stefnda, sambýlismanni sínum,frá [...]. Tilgangur þeirra var að ganga í hjónaband. Hjónavígslan fór fram hjáembætti Sýslumannsins í Reykjavík 5. desember 2011 og sneru þeir svo aftur til[...]. Árið 2012 flutti stefndi út af heimili þeirra. Stefnandi sóttist eftirlögskilnaði hjá Sýslumanni Reykjavíkur en beiðninni var hafnað þar semstefnandi uppfyllti hvorki skilyrði XV. kafla né XVI. kafla hjúskaparlaga umlögheimili né heimilisfesti hér á landi. Stefnandi telur að samkvæmtmeginreglum alþjóðlegs einkamálaréttar gildi sú regla að skilnaður fari fram íþví landi þar sem aðilar séu búsettir. Málið horfir þannig við að hjónabandsamkynhneigðra sé ólöglegt bæði í [...] og [...] sem leiðir til þess að aðilargeta ekki leitað skilnaðar í heimalöndum sínum. Krefst stefnandi því að honumverði veittur lögskilnaður við stefnda hér á landi og byggir kröfur sínar á 37.gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og krefst skilnaðar sér til handa. Stefnandi ogstefndi hafa ekki búið saman í 3 ár og fullnægja því skilyrðum greinarinnar.Stefndi samþykkir kröfu stefnanda.II Málsaðilar eru báðir erlendirríkisborgara og komu hingað til lands í því skyni að ganga í hjónaband. Þeirhafa engin tengsl við landið. Til þess að unnt sé að höfða mál hér á landiverður skilyrðum V. kafla um varnarþing, í lögum nr. 91/1991 um meðferðeinkamála, að vera fullnægt. Samkvæmt V. kafla laga nr.91/1991 er meginreglan sú, að ekki er unnt að höfða mál hér á landi gegn mannisem á heimili í öðru landi. Undantekningar frá þessari meginreglu er að finna í3. og 4. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 43. gr. laga um meðferð einkamála en þær eigaekki við hér. Stefnandi kveðst í málatilbúnaðisínum vísa um varnarþing til 2. mgr. 115. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Ákvæði115. gr. er svohljóðandi: „Mál skal höfða á heimilisvarnarþingistefnda. Ef stefndi á ekki heimilisvarnarþing hér á landi skal mál höfða þarsem stefnandi á heimilisvarnarþing. Aðilar geta samið um annað varnarþing en aðframan greinir. Nú er eigi til að dreifavarnarþingi skv. 1. mgr. og skal þá höfða mál fyrir dómstóli er ráðuneytiðkveður á um.“ Ekki liggur fyrir í málinu aðráðuneytið hafi kveðið á um varnarþing í Reykjavík. Með vísan til þess sem aðframan greinir verður ekki séð að stefndi eigi varnarþing hér og geti ekkisamið um að eiga varnarþing hér á landi. Verður því ekki hjá því komist, þegaraf þessari ástæðu, að vísa málinu frá dómi Eins og mál þetta liggur fyrirþykir rétt að hvor aðili um sig bera sinn kostnað af málinu. Sigrún Guðmundsdóttirhéraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.ÚRSKURÐARORÐ Málinuer vísað frá dómi. Málskostnaðurer felldur niður. |
Mál nr. 543/2015 | Fasteign Skipulag Tjón Skaðabætur Matsgerð Sveitarfélög | J og V höfðuðu mál á hendur sveitarfélaginu M til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem þau töldu sig hafa orðið fyrir vegna breytinga á deiliskipulagi lóðar í nágrenni íbúðar þeirra. Reistu þau kröfu sína á því að með breytingunni hefði íbúð þeirra rýrnað í verði, einkum vegna aukins hávaða, umferðar og sjónmengunar, sbr. 33. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ekki var fallist á með M að yfirmatsgerð dómkvaddra manna væri haldin slíkum annmörkum að það leiddi til þess að niðurstaða hennar, um að söluverð fasteignar J og V hefði rýrnað um 11% vegna umþrættra breytinga á deiliskipulagi M, yrði ekki lögð til grundvallar í málinu. Var M því gert að greiða J og V hina umkröfðu fjárhæð. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, GretaBaldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og IngveldurEinarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. ágúst 2015. Hann krefst aðallegasýknu af kröfu stefndu, en til vara að krafan verði lækkuð. Þá krefst hannmálskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrirHæstarétti. Dómendur fóru á vettvang 3. maí 2016.Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, sem ákveðinnverður eins og í dómsorði greinir en við ákvörðun á fjárhæð hans er tekiðtillit til þess að samhliða þessu máli eru rekin fimm önnur um sama álitaefni.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi, Mosfellsbær, greiði stefndu, JóniGuðmundssyni og Valgerði Gunnarsdóttur, málskostnað fyrir Hæstarétti, 300.000krónur. Dómur HéraðsdómsReykjavíkur 26. maí 2015Mál þetta var höfðað 15. október 2013 og dómtekið13. apríl 2015. Stefnandi er Jón Guðmundsson og Valgerður Gunnarsdóttir bæðitil heimilis að Stórakrika 1 í Mosfellsbæ, en stefndi er Mosfellsbær, Þverholti2 í Mosfellsbæ. Stefnendur krefjastþess að stefnda verði gert að greiða þeim skaðabætur að fjárhæð 3.146.000krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 1. ágúst2012, með vísan til 9. gr. sömu laga, til greiðsludags. Þá krefjast stefnendurgreiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krefstaðallega sýknu af öllum kröfum stefnenda auk greiðslu málskostnaðar en til varaað kröfur stefnenda verði lækkaðar verulega og málskostnaður falli niður.I. Samkvæmt kaupsamningidagsettum 7. desember 2007 keyptu stefnendur íbúð í fjölbýlishúsinu Stórakrika1 sem er í Krikahverfi í Mosfellsbæ. Um er að ræða fjögurra herbergja íbúð áþriðju hæð til hægri, merkta 303. Samkvæmt því deiliskipulagi sem var í gildiþegar stefnendur keyptu íbúðina var gert ráð fyrir leikskóla á einni hæð á lóðnorðan við Stórakrika 1. Þann 8. maí 2008sendi stefndi eigendum nánar greindra eigna við Sunnukrika, Litlakrika ogStórakrika, þar á meðal eigendum íbúða í Stórakrika 1 tillögu að breytingu ádeiluskipulagi Krikahverfis til grenndarkynningar. Stefndi byggðigrenndarkynninguna á því að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri aðræða, sbr. 2. mgr. 26. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.Sneri breytingin að lóð og mannvirkjum á lóð Krikaskóla norðan við Stórakrika1. Samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi átti að reisa leik- og grunnskóla í staðleikskólans, og skyldi meginhluti hússins vera á tveimur hæðum í stað einnarhæðar áður. Lóð skólans var enn fremur stækkuð um 916 fermetra til norðaustursog var bílastæðum fjölgað. Við bættist einnig ný aðkoma að bílastæðunum fráSunnuhlíð. Stefnendur og aðrir íbúar í Stórakrika mótmæltu fyrirhuguðumbreytingum í bréfi til stefnda þann 5. júní 2008. Staðhæfðu íbúarnir aðbreytingin skaðaði hagsmuni þeirra með því að útsýni úr íbúðum þeirra myndiskerðast og hávaði og umferðarþungi í nágrenni þeirra aukast. Töldu þeirforsendur sínar fyrir kaupum á íbúðum við Stórakrika brostnar ef fyrirhuguðbreyting á deiliskipulagi næði fram að ganga. Í kjölfar þessara mótmæla vorugerðar breytingar á deiliskipulagstillögunum. Byggingarreitur skólans varfærður um 10 metra til norðurs og 5 metra til austurs, í átt frá Stórakrika 1.Þá var lóð skólans stækkuð úr 9.966 fermetrum í 11.875 fermetra. Bílastæðum varfjölgað um 12, skyldu nú 14 stæði vera fyrir framan bygginguna, í stað 12 áður,og 30 í stað 20 norðaustan við bygginguna. Þann 17. júlí 2008 samþykktibæjarráð stefnda breytingarnar á deiliskipulagi sem voru auglýstar íStjórnartíðindum 10. september sama ár. Stefnendur kröfðustbóta vegna tjóns sem þeir töldu sig hafa orðið fyrir vegna breytinganna ádeiliskipulaginu. Fengu stefnendur ásamt fleiri fasteignaeigendumfasteignasalana Sverri Kristinsson og Þorleif St. Guðmundsson til að meta tjónvegna breytinga á deiliskipulagi. Matsgerð þeirra nær til 15 íbúða ífjölbýlishúsinu Stórakrika 1 auk 6 nærliggjandi einbýlis- og raðhúsa í götunni.Skiluðu þeir sérfræðiáliti dagsettu 28. apríl 2010. Matsmennirnir voru sammálamatsbeiðendum um að stækkun skólans skerði útsýni íbúða og raðhúsa, þómismunandi mikið. Einnig töldu þeir ljóst að umferð og hávaði myndi aukast oghvort tveggja raski þeim forsendum sem matsbeiðendur byggðu á við kaup sín. Varþað niðurstaða matsmanna að allar eignirnar hefðu lækkað í verði og áætluðuþeir að verðrýrnunin væri á bilinu 3-15%. Hvað varðar íbúð stefnenda áætluðuþeir að verðrýrnun hennar væri 4% og næmi 1.144.000 krónum. Stefndi fór fram ádómkvaðningu matsmanna sumarið 2010 og voru fasteignasalarnir Gunnar JónYngvason og Magnús Kristinsson dómkvaddir til þess að meta hvort íbúarStórakrika 1-13, Stórakrika 17 og Litlakrika hefðu orðið fyrir tjóni, og þáhversu miklu. Matsgerð þeirra lá fyrir 15. mars 2011. Í umfjöllun matsmanna umforsendur matsins er greint frá því að þeir hafi kannað gaumgæfilega útsýni úríbúðunum og húsum og leitast við að meta hvort gæði útsýnis hefðu veriðfrábrugðin ef Krikaskóli hefði verið byggður á einni hæð í samræmi viðupphaflegt skipulag og hvaða áhrif það hefði á verð fasteignanna. Þá ertiltekið í matinu að matsmenn telja nálægð við grunnskóla leiða til hækkunarfasteignaverðs en það hve nálægt hann er íbúðum horfi þó til lækkunar á verði.Á heildina litið telja þeir staðsetningu skólans ekki hafa áhrif áfasteignaverðið. Niðurstaða matsgerðarinnar, að því er varðar íbúðir íStórakrika 1, var sú að deiliskipulagsbreytingin hefði engin áhrif haft ámarkaðsverð þeirra. Breytingarnar á deiliskipulaginu hefðu á hinn bóginn lækkaðmarkaðsverðmæti raðhúsa í Stórakrika, en ekki þykir frekari ástæða til að rekjahér umfjöllun matsmanna um þær eignir. Í kjölfar þessa mats gekk stefndi tilsamninga við eigendur áðurnefndra raðhúsa um greiðslu bóta á grundvellimatsins. Þeir aðilar sem ekkivar samið við eftir að matsgerð lá fyrir í mars 2011 fóru fram á dómkvaðninguyfirmatsmanna. Dómkvaddir voru þeir Dan Valgarð S. Wiium, hdl. ogfasteignasali, Ingileifur Einarsson fasteignasali og Freyr Jóhannessontæknifræðingur, sem skiluðu yfirmatsgerð 19. júní 2012. Í matsgerðinni kemurfram að yfirmatsmenn hafi látið gera hljóðmælingu og samkvæmt niðurstöðum hennarsé hávaðinn talsvert umfram það sem talið er eðlilegt í íbúðahverfi. HalldórKristinn Júlíusson, starfsmaður Verkís ehf., vann hljóðmælinguna og skilaðiminnisblaði til yfirmatsmanna sem fylgdi yfirmatsgerðinni. Í niðurstöðuhljóðmælinga segir að hljóðstig hafi mælst mest 5 dB yfir viðmiðunarmörkumreglugerðar nr. 724/2008. Í minnisblaði Halldórs er tekið fram að mælingar hansveiti vísbendingu um stærðargráðu hljóðstigs en til að fá áreiðanleganiðurstöðu um jafngildishljóðstig þurfi mun umfangsmeiri mælingar en hanngerði. Yfirmatsmenn vísa tilframangreindra mælinga og er niðurstaða þeirra sú að þegar börn séu að leik áskólalóð Krikaskóla sé umfang hávaða við Stórakrika 1 slíkt að það geti hæglegaverið til ama fyrir íbúa hússins en tekið er fram að hljóðmengun komi misillavið íbúa hússins eftir staðsetningu íbúða. Enn fremur var það niðurstaðayfirmatsmanna að umferð fólks og farartækja væri talsvert meiri nú en hefðiverið, ef skólabyggingin hefði verið minni og á einni hæð. Þá segir íyfirmatsgerð að flestir íbúar í húsinu nr. 1 við Stórakrika, Mosfellsbæ séukomnir á eftirlaunaaldur og telja yfirmatsmenn fullvíst að það hafi ráðið mikluvið val þeirra á kaupum í umræddu húsi. Um breytt útsýni úr íbúðunum segir íyfirmatsgerð að það hafi skerst lítils háttar vegna efri hæðarskólabyggingarinnar en skerðingin sé meiri vegna íbúða á neðri hæðum hússins.Niðurstaða yfirmatsmanna var sú að íbúðareigendur tilgreindra íbúða viðStórakrika 1 og 11 hefðu orðið fyrir tjóni vegna breytinga á deiluskipulagi. Tölduþeir að markaðsverð íbúðanna hefði skerst um 5-14% og næmi tjónið í heild42.667.000 krónum. Að því er varðar íbúð stefnenda töldu matsmenn aðmarkaðsverðmæti eignar þeirra hefði skerst um 11% og næmi tjón þeirra 3.146.000krónum. Stefnendur, ásamt öðrum íbúðareigendum, kröfðu stefnda um greiðslu bótafyrir það tjón sem þeir höfðu orðið fyrir samkvæmt yfirmatsgerðinni en stefndihafnaði bótaskyldu í málinu. Eftir að mál þettavar höfðað var að beiðni stefnda dómkvaddur matsmaður til að mæla hávaða frá leiksvæðivið skólann. Var óskað eftir því að matsmaður gerði samfellda hljóðmælingu ísjö sólarhringa við húshlið Stórakrika 1. Skyldi mælitími ná yfir heilaskólaviku án frídaga og skyldi matsmaður reikna hvert væri svonefnthljóðstigsgildi, þ.e. „jafngildishljóðstig“ í desibelum (LAeq í dB(A)),„hámarkshljóðstig“ í desibelum (LAFmax í dB(A)) og „hávaðavísir“ í desibelum(Lden í dB(A)). Ólafur Daníelsson byggingarverkfræðingur var dómkvaddur tilstarfans. Í matsgerð Ólafs errakið að í reglugerð nr. 724/2008 séu gerðar tilteknar kröfur um hljóðstig fráatvinnustarfsemi, sem séu breytilegar eftir tíma sólarhrings. Á milli klukkan 7á morgnana til klukkan 7 að kvöldi megi jafngildishljóðstig, mælt í desibelum(LAeq), ekki fara fram yfir 50 desibel mælt við húsvegg íbúðarhúsnæðis áíbúðarsvæðum, en 30 desibel mælt innandyra. Á milli klukkan 7 að kvöldi ogklukkan 11 að kvöldi megi jafngildishljóðstigið við húsvegg sömu húsagerða ekkifara fram yfir 45 desibel, eða 30 desibel innandyra. Að nóttu, eða á milli klukkan11 að kvöldu og 7 að morgni, megi jafngildishljóðstigið við húsvegg sömuhúsagerða ekki fara fram yfir 40 desibel, eða 25 desibel innandyra. Þá segir aðhámarkshljóðstig (LAFmax) megi ekki fara fram yfir 45 desibel innandyra. Í niðurstöðukaflamatsgerðarinnar er rakið hvernig hljóðmælingarnar voru framkvæmdar við húsveggStórakrika 1. Þá segir að gera megi ráð fyrir að hljóðgjöf fráleikskólalóðum/skólalóðum sé mjög breytileg frá einum degi til þess næsta.Margt geti haft áhrif á hljóðstig frá starfsemi sem þessari, ýmist til hækkunareða lækkunar, eins og íþróttaiðkun á skólalóð (íþróttaviðburðir), veðurfar,dagskrá skólanna, gerð leikfanga, líðan barnanna o.fl. Valdi það auknumbreytileika í hljóðgjöf og þar með þeirri óvissu þegar mat sé lagt á hávaðadreifinguog hljóðstig frá leikskólalóðum/skólalóðum. Þá segir: „Í þessum mælingum mælisthljóðstig yfir 50dB fyrir flest tímabil mælinganna. Ljóst er að umferðarhávaðagætir á svæðinu. Bakgrunnshávaðamæling var framkvæmd þegar engin starfsemifyrir börn var í skólanum. Þegar bakgrunnshávaðamæling var framkvæmd var hálkaá götum fyrst um morguninn og vegyfirborð blautt, sem hefur áhrif ámæliniðurstöður. Í bakgrunnshávaðamælingunni 24. október mældistjafngildishljóðstig að jafnaði heldur lægra en þegar börn eru í skólanum. Þarsem hljóðstigið mælist nokkuð áþekkt er erfitt að draga miklar ályktanir afniðurstöðunum. Fyrrgreindar mælingar gefa þó vísbendingu um aðjafngildishljóðstig frá starfsemi Krikaskóla liggi undir eða í kringum mörkreglugerðar um hávaða nr. 724/2008.“ Mál þetta er rekiðsamhliða málunum E-4095/2013 til 4100/2013 og fór aðalmeðferð þeirra fram íeinu lagi. Í upphafi aðalmeðferðar gengu dómarar á vettvang ásamt lögmönnumaðila. Jón Guðmundsson gaf aðilaskýrslu fyrir dómi og auk hans Anna KristínScheving, Karl Kári Másson og Valdimar Hergils Jóhannesson, íbúar í Stórakrika1 og aðilar annarra mála, og vitnin Þrúður Hjelm, skólastjóri Krikaskóla,Sverrir Kristinsson, löggiltur fasteignasali, Þorleifur Guðmundsson, löggilturfasteignasali og matsmennirnir Gunnar Jón Yngvarsson, Magnús Kristinsson,Ingileifur Einarsson, Freyr Jóhannesson og Dan Valgarð Sigurðsson Wiium.II. Stefnendur byggja áþví að þau hafi orðið fyrir tjóni vegna breytinga sem stefndi gerði ádeiliskipulagi í nágrenni íbúðar þeirra skömmu eftir að þau keyptu hana. Áðuren þau festu kaup á íbúðinni hafi þau kannað skipulag svæðisins og hafi ákveðiðkaupin þar sem þau töldu íbúðina uppfylla kröfur þeirra um að búa í friðsæluhverfi. Jafnframt hafi þau ályktað út frá skipulaginu að íbúðin myndi takaalmennum verðbreytingum á fasteignamarkaði. Stefnendur byggjabótakröfu sína á 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þau löghafi gilt þegar umrædd breyting á deiliskipulagi átti sér stað. Skipulagslög nr.123/2010 tóku gildi 1. janúar 2011, en í þeim sé að finna sambærilegt ákvæði í51. gr. laganna. Í 56. gr. þeirra laga séu tekin af tvímæli um það að lög nr.73/1997 gildi um þau lögskipti sem hér um ræðir. Í 33. gr. sé kveðið áum það að valdi gildistaka skipulags því að verðmæti fasteignar lækki ognýtingarmöguleikar hennar skerðist þá eigi sá sem sýnt getur fram á að hannhafi orðið fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði. Í samræmivið lagaákvæðið hafi þau leitað eftir samkomulagi við stefnda um bætur og síðanum að meta tjón sitt þar sem stefndi taldi sér ekki fært að semja viðstefnendur án þess að ákveðin viðmiðun um fjárhæð lægi fyrir. Þegar sú viðmiðunlá fyrir óskaði stefndi eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta tjón stefnenda.Stefnendur hafi ekki viljað una því mati og því óskað eftir yfirmatsgerð. Krafastefnenda sé byggð á matsgerð yfirmatsmanna en matið hafi verið hnökralaust ogniðurstöðunni hafi ekki verið hnekkt. Niðurstaðayfirmatsmanna sé sú að verðmæti fasteignar þeirra hafi rýrnað vegna breytinga ádeiliskipulagi á lóð V-5 í Krikahverfi í Mosfellsbæ. Skipulagsbreytingin hafileitt til þess að skólabyggingin varð hærri og stærri en ráðgert var, umferð oghávaði meiri og útsýni úr íbúðunum minna. Niðurstaða matsgerðarinnar sé sú aðsöluverð allra fasteigna sem matið náði til hafi lækkað. Hvað varðar íbúðstefnenda sé fjártjón vegna þeirrar verðrýrnunar 3.146.000 krónur. Stefndi hafi, með þvíað greiða bætur á grundvelli undirmatsgerðar, til þeirra íbúðareigenda sem undirmatsmenntöldu að hefðu orðið fyrir tjóni, viðurkennt í verki að greiða eigi bætur ísamræmi við niðurstöðu mats á tjóni íbúðareigenda. Með sama hætti verði stefndiþví að sætta sig við að greiða bætur til þeirra sem yfirmatsmenn telja að eigirétt á bótum í samræmi við niðurstöðu þeirra. Stefnendur vísa til 64. gr. laganr. 91/1991 varðandi fullt og óskorað sönnunargildi yfirmatsgerðarinnar. Aukþess sé samhljómur milli niðurstöðu yfirmatsmanna og niðurstöðu sérfræðingastefnenda, þeirra Sverris Kristinssonar og Þorleifs St. Guðmundssonar.Yfirmatsmennirnir og þessir sérfræðingar hafi meiri reynslu en undirmatsmenn afmötum af þessu tagi. Stefnendur byggja áþví að þau eigi einnig rétt á bótum samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarinsen á þær reglur reyni ekki nema sem viðmiðun þar sem 33. gr. skipulags- ogbyggingarlaga nr. 73/1997 taki af öll tvímæli um rétt stefnenda til bóta. Um lagarök að öðruleyti vísa stefnendur til skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 ogbyggingarreglugerðar nr. 441/1998, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti ogmengunarvarnir, reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða og reglugerðar nr. 1000/2005um kortlagningu hávaða og aðgerðaráætlanir. Þá vísa þau til laga nr. 38/2001varðandi dráttarvaxtakröfuna og XXI. kafla laga nr. 91/1991 varðandimálskostnað. III. Stefndi byggirsýknukröfu sína á því stefnendur hafi ekki sýnt fram á að þau hafi orðið fyrirtjóni í skilningi 33. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.Ekki verði byggt á yfirmatsgerð í málinu þar sem matsmenn hafi ekki fylgtákvæðum laga um meðferð einkamála við framkvæmd yfirmats. Jafnvel þótt byggjamegi á fyrirliggjandi yfirmatsgerð sé hún haldin slíkum efnisannmörkum að húnverði ekki talin sýna fram á tjón stefnenda. Hvað fyrra atriðiðvarðar, að matmenn hafi ekki fylgt ákvæðum einkamálalaga, byggir stefndi á þvíað fyrir liggi að rökstuðningur yfirmatsmanna byggi að verulegu leyti áhljóðmælingu sem framkvæmd hafi verið án þess að honum hafi verið gefiðtækifæri til að vera viðstaddur mælinguna. Stefnda hafi heldur ekki veriðgefinn kostur á að tjá sig um umrædda hljóðmælingu þegar minnisblað um hanahafi legið fyrir. Þessi háttur á gerð matsgerðar sé í andstöðu við 2. mgr. 62.gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt ákvæðinu hvíli skylda ámatsmönnum að tilkynna aðilum um matsfundi og veita þeim færi á að tjá sig umgögn sem aflað er til afnota við matið. Þessari skyldu hafi ekki veriðfullnægt. Lögmaður og yfirmatsbeiðandi virðast aftur á móti hafa haft aðgang aðumræddu minnisblaði um hljóðmælingu áður en yfirmatsgerðin lá fyrir. Stefndihafi fyrst fengið upplýsingar um hljóðmælinguna þegar honum hafi verið kynntyfirmatsgerðin. Þegar af þessari ástæðu sé ótækt að byggja á yfirmatsgerðinnivið úrlausn málsins og því fari fjarri að hún geti talist fullnægjandi sönnunhins meinta tjóns. Stefndi byggirmálsástæðu þessa einnig á því að framangreind hljóðmæling hafi ekki veriðframkvæmd af þeim matsmönnum sem dómkvaddir höfðu verið til starfans, heldur afHalldóri Kristni Júlíussyni, starfsmanni Verkís, án þess að stefndi hafi haftnokkuð um það að segja. Samkvæmt 65. gr. laga nr. 91/1991, beri dómkvöddummatsmanni að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu til skýringar og staðfestingará matsgerð. Dómkvaddir matsmenn geti með engu móti gefið skýringar á minnisblaðium hljóðmælingu sem þeir hafi ekki sjálfir framkvæmt. Að sama skapi sé höfundiminnisblaðsins óheimilt að koma fyrir dóminn með vísan til ákvæðis 51. gr. laganr. 91/1991. Í öðru lagi byggirstefndi á því að ef talið verður forsvaranlegt að byggja á yfirmatsgerðinniþrátt fyrir framangreinda galla, þá séu alvarlegir efnisannmarkar á henni semleiði til þess að hún geti ekki talist fullnægjandi sönnun um ætlað tjónstefnenda. Beri af þeim sökum að sýkna stefnda. Yfirmatsmenn hafikomist að þeirri niðurstöðu að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni við breytinguá deiliskipulagi skólalóðar Krikaskóla þannig að íbúð þeirra hafi rýrnað íverði um 3.146.000 krónur. Rökstuðningi yfirmatsmannanna megi skipta í þrjáhluta: Hljóðmengun, sjónmengun og aukna umferð. Stefndi telur rökstuðningyfirmatsmanna ófullnægjandi og að hann sýni ekki fram á tjón stefnenda. Að því er hljóðmengunvarðar, hafi framkvæmd hljóðmælingar verið ófullnægjandi. Enga lýsingu sé aðfinna á því hvernig mælingin fór fram, hvenær hún hafi verið gerð, hvar hafiverið mælt eða hversu lengi í senn. Þá liggi hvorki fyrir útreikningar néniðurstöður mælinga á tölulegu formi. Aðeins sé vísað til þess að mæling hafi ístuttan tíma mælst mest 5 dB yfir viðmiðum reglugerðar nr. 724/2008 að því ervarðar viðmið fyrir íbúðarhúsnæði á íbúðasvæði en mælst mest jafnháttviðmiðunum reglugerðarinnar fyrir íbúðarhúsnæði á verslunar-, þjónustu ogmiðsvæðum. Engar nánari skýringar sé hins vegar að finna á þessum viðmiðunumeða hvort þau eigi við um hljóðvist við Krikaskóla. Þá taki mælingamaðursjálfur fram að niðurstaða hans sé háð óvissu og nauðsyn sé umfangsmeirimælinga. Mælingin sé því ómarktæk og niðurstaða yfirmatsgerðar sem byggð sé áhenni geti ekki haft sönnunargildi í málinu. Hvað sjónmengun varðar,þá byggir stefndi á því að niðurstaða yfirmatsmanna sé órökstudd. Í niðurstöðuyfirmatsgerðar segi: „Útsýni hefur skerts lítilsháttar vegna efri hæðarskólabyggingarinnar en skerðingin er ekki mikil að mati yfirmatsmanna.Útsýniskerðingin [sic] er þó meiri fyrir þær íbúðir sem eru á neðri hæðumhússins. Hafa yfirmatsmenn tekið tillit til þessara þátta í niðurstöðum sínum.“Hvergi sé vikið að því hvaða aðferð hafi verið notuð til að leggja mat á meintaskerðingu útsýnis. Útsýni úr íbúðunum sé mismunandi eftir staðsetningu íbúðar íhúsinu. Enga útskýringu sé að finna í yfirmatsgerð á því hvaða þættir eðasjónarmið hafi haft áhrif á þá niðurstöðu að útsýni úr íbúð stefnenda hefðiskerst og hvaða áhrif það atriði hafi haft á niðurstöðu þeirra um lækkað markaðsverð.Þá sé engan samanburð að finna á milli óbreytts skipulags og hins breyttaskipulags að því er meinta sjónmengun varðar en með breyttu skipulagi hafibyggingin aðeins hækkað um þrjá metra, úr sex metrum í níu metra. Íundirmatsgerð sé þetta atriði mun betur rökstutt og niðurstaða hennar er sú aðútsýni úr íbúð stefnenda hafi ekki áhrif á markaðsverð hennar. Loks sé niðurstaðamatsgerðar varðandi aukna umferð í nágrenni íbúðar stefnenda órökstudd. Íyfirmatsgerð sé staðhæft að umferð fólks og farartækja sé talsvert meiri nú enhefði verið, ef skólabyggingin hefði verið innan óbreytts skipulags.Yfirmatsmenn virðist ekki hafa athugað þetta atriði eða mælt núverandi umferðeða lagt mat á hvers konar ónæði hljótist af umferðinni. Þannig sé hvorki gerðurreki að því að sýna fram á að umferð hafi aukist miðað við hið óbreytt skipulagné hvert sé raunverulegt ónæði af umferð fólks og farartækja sem leiði til þessað markaðsvirði íbúðar stefnenda hafi lækkað. Sem fyrr sé ekki að finnarökstuðning á því hvort og þá hvernig þetta atriði hefur áhrif á útreikningyfirmatsmanna á hinu meinta skerta markaðsvirði. Þá er í yfirmatsgerð hvorkigetið um né lagt mat á áhrif breytinga sem stefndi gerði á upphaflegrideiliskipulagstillögu, með því að færa bílastæði fjær íbúð stefnenda. Auk framangreindraatriða bendir stefndi á að í yfirmatsgerð sé ranglega staðhæft að flestir íbúarvið Stórakrika 1 séu komnir á eftirlaunaaldur og segi í matsgerðinni aðfullvíst sé að það hafi ráðið miklu um val þeirra við fasteignakaup. Staðhæfingþessi sé einfaldlega röng, svo sem gögn málsins sýni, auk þess sem ekki verðiséð hvaða áhrif aldur íbúðareigenda geti haft á markaðsvirði íbúða en fráupphafi hafi verið ráðgert að leikskóli yrði á umdeildri lóð. Þá sé ekki íyfirmatsgerðinni vikið að því hvort nálægð við grunnskóla kunni að hafa áhrif áverðmæti umræddra íbúða til hækkunar en undirmatsmenn töldu það hafa áhrif ámarkaðsvirði íbúðanna við Stórakrika 1. Þá sé umfjöllunyfirmatsmanna um sundurliðun fjárhæðar tjóns á hverja fasteign órökstudd.Niðurstaða yfirmatsins feli í sér að verðmætisskerðing sé frá 5-14% ánsundurliðunar á því á hverju það byggir, s.s. hvort sjónmengun eða hljóðmenguná í hlut eða hvaða viðmið sé notað. Þá sé enginn samanburður á verðmæti miðaðvið að skipulag hefði verið óbreytt. Þá er mótmælt áætluðu markaðsvirðiumræddra fasteigna sem röngu og ósönnuðu en engar skýringar sé að finna íyfirmatsgerð á því hvernig viðmiðunarverðið sé fundið út. Stefndi telur einnigmeð öllu óljóst hvort yfirmatsmenn hafi yfirhöfuð skoðað íbúð stefnenda viðgerð yfirmatsins. Í yfirmatsgerð sé vísað til þess að þann 22. nóvember 2011hafi yfirmatsmennirnir Dan Wiium og Freyr Jóhannesson skoðað 13 íbúðir í húsinuán þess að þær hafi verið tilgreindar frekar. Síðan segir að þann 14. mars 2012hafi farið fram önnur skoðun á íbúðum hússins, nú af hálfu yfirmatsmannannaDans Wiium og Ingileifs Einarssonar og sem fyrr án frekari tilgreiningar á þvíum hvaða íbúðir í húsinu hafi verið að ræða. Eigendur 14 íbúða ífjölbýlishúsinu að Stórakrika 1 voru aðilar að yfirmatinu. Loks mótmælir stefndiþví að samhljómur sé á milli yfirmatsgerðar og skýrslu Sverris Kristinssonar ogÞorleifs St. Guðmundssonar og jafnframt þeirri staðhæfingu að þessir aðilar séureynslumeiri en undirmatsmenn. Af öllu framangreinduleiði að stefnendur hafi hvorki sýnt fram á að verðmæti fasteignar þeirra hafilækkað við gildistöku deiliskipulagsbreytingar stefnda þann 17. júlí 2008, néað þau hafi orðið fyrir tjóni af þessum sökum sem stefnda beri að bæta, sbr. 1.mgr. 33. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þá sé þvímótmælt að stefnendur eigi rétt á bótum samkvæmt almennum reglumskaðabótaréttarins enda hafi þau ekki sýnt fram á að skilyrðum þeirra reglna séfullnægt. Stefndi mótmælirdráttarvaxtakröfu frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi sbr. ákvæði 9. gr. laga nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá mótmælir stefndi sérstaklega kröfumstefnenda um greiðslu málskostnaðar, s.s. greiðslu kostnaðar vegna matsgerðar,sem stefnendur öfluðu einhliða, og greiðslu kostnaðar vegna hljóðmælingar. Stefndi byggir tilvara á því að kröfur stefnenda beri að lækka verulega og að málskostnaður falliniður. Byggir stefndi kröfu sína á því að stefnendum hafi ekki tekist að sýnafram á réttmæti nema hluta þess tjóns sem bóta er krafist fyrir vegna meintrarverðmætisrýrnunar eða að tjón stefnenda sé aðeins að litlu leyti að rekja tildeiliskipulagsbreytinga sem stefndi samþykkti þann 17. júlí 2008. Vísar stefndiað öðru leyti eftir atvikum til umfjöllunar um aðalkröfu til stuðnings því aðvarakrafa hans skuli ná fram að ganga.IV. Í máli þessu er deiltum bótaskyldu stefnda vegna tjóns sem stefnendur telja sig hafa orðið fyrirvegna breytinga á deiliskipulagi lóðar í nágrenni íbúðar þeirra, sem gert vareftir að þau keyptu íbúðina. Stefnendur byggja á því að breytingar ádeiliskipulaginu hafi leitt til þess að íbúðin rýrnaði í verði. Er bótakrafaþeirra á því reist að verðrýrnunin hafi verið 11% og nemi 3.146.000 krónum. Stefnendur byggjabótakröfu sína á 33. gr. áðurgildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997,sbr. 56. gr. núgildandi skipulagslaga nr. 123/2010 varðandi lagaskil. Stefndibyggir sýknukröfu sína á því að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að þau hafi orðiðfyrir tjóni í skilningi 33. gr. Í 1. mgr. 33. gr.segir að valdi gildistaka skipulags því að verðmæti fasteignar lækki,nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður var heimilt eða að hún munirýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður þá eigi sá sem sýnt getifram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóðieða að hann leysi fasteignina til sín. Í 2. og 3. mgr. greinarinnar eru nánariákvæði um ákvörðun bóta o.fl. Er hér um almenna hlutlæga bótareglu að ræða semnú er að finna í 1. mgr. 51. gr. laga nr. 123/2010 með lítið breyttu orðalagisem ekki var ætlað að hafa áhrif á inntak reglunnar. Stefndi byggirsýknukröfu sína aðallega á því að yfirmatsgerðin sem stefnendur byggja kröfusína á, sé haldin svo miklum annmörkum að hún geti ekki talist tæktsönnunargagn um tjón stefnenda. Jafnvel þótt fallistsé á það með stefnda að rétt hefði verið af matsmönnum að upplýsa um það ámatsfundi með fulltrúum bæði matsbeiðanda og matsþola, hvernig ákveðið var aðstanda að hljóðmælingu, sbr. 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991, er ekki fallistá að þessi formgalli leiði til þess að matsgerðin í heild sé haldin slíkumannmörkum að hún teljist ekki tækt sönnunargagn í málinu, enda er hljóðmælingineinungis einn þáttur af fleirum sem matsgerðin byggir á. Þá ber matsmönnum aðstaðfesta matsgerð sína fyrir dómi og skýra efni hennar hennar, sbr. 65. gr.sömu laga, og á það einnig við um atriði sem þeir byggja á sérfræðigögnumannarra en matsmanna sjálfra. Þá heldur stefndi þvífram að rökstuðningur í yfirmatsgerð sé ófullnægjandi og renni hún af þeimsökum ekki stoðum undir staðhæfingar stefnenda um tjón af völdum umdeildrabreytinga á deiliskipulagi. Yfirmatsmenn gáfu skýrslu fyrir dómi, staðfestumatsgerð sína og lýstu því að þeir hefðu skoðað allar íbúðir sem matsgerðin tóktil. Svo sem fram kemur í matgerð töldu yfirmatsmenn að söluverð fasteignarstefnenda hefði rýrnað um 11% vegna umdeildra breytinga á deiliskipulagistefnda. Í matsgerðinni kemur fram að þeir telja þrjá þætti leiða til þessararniðurstöðu; aukinn hávaða, aukna umferð og sjónmengun, þar með talið lakaraútsýni. Fallast má á það meðstefnda að rökstuðningur í yfirmatsgerð sé fremur rýr. Af matsgerðinni verðurekki ráðið með skýrum hætti að matsmenn hafi rannsakað sérstaklega, eða meðöðrum hætti reynt að meta, hvernig hávaða og umferð hefði verið háttað ef ekkihefði komið til breytingar á deiliskipulaginu. Þá er í matsgerðinni einnig aðfinna staðhæfingar þess efnis að flestir íbúar Stórakrika 1 séu komnir á eftirlaunaaldur,sem matsmenn telja fullvíst að hafi haft áhrif á fasteignakaup þeirra. Þessistaðhæfing fær ekki stoð í gögnum málsins og virðast íbúar hússins vera á öllumaldri. Þá er engum gögnum til að dreifa um að aldur stefnenda hafi veriðforsenda kaupa þeirra né útskýrt hvernig það atriði geti hafa haft áhrif á matyfirmatsmanna um verðrýrnun íbúðarinnar vegna skipulagsbreytinganna. Þrátt fyrirframangreinda ágalla hefur því mati yfirmatsmanna ekki verið hnekkt að íbúðstefnenda hafi rýrnað í verði. Er það mat dómsins að sjónmengun og skert útsýnieitt og sér hafi hvað mest áhrif og eru þessir þættir ótvírætt til staðar ogsýnilegir við vettvangsskoðun. Endurspeglast þetta í niðurstöðu yfirmatsmanna íþví að þeir telja verðrýrnun íbúða mismunandi eftir því hvernig þessi þátturhorfir við. Hvað ónæði af umferð og aukinn hávaða varðar, þá er erfiðleikum háðað meta með nákvæmni hver umferð og hávaði hefði verið, hefði skólinn risiðinnan ramma óbreytts skipulags. Á hinn bóginn liggur fyrir að fleiri starfmenneru að störfum við Krikaskóla en verið hefði ef starfsemi hans hefði verið ísamræmi við fyrri nýtingarhugmyndir og sömu leiðis eru fleiri börn í skólanum.Var þetta staðfest af Þrúði Hjelm, skólastjóra Krikaskóla, sem gaf skýrslufyrir dómi. Af því er óhætt að draga þá ályktun að allar líkur eru á að umferðsé meiri en stefnendur máttu vænta miðað við óbreytt skipulag. Hvað hávaða frástarfsemi skólans áhrærir er á það fallist með stefnda að hljóðmælinguyfirmatsgerðarinnar er ábótavant og ályktanir yfirmatsmanna, um aukinn hávaðamiðað við fyrra deiliskipulag, eru ekki reistar á fullnægjandi gögnum. Hinsvegar er til þess að líta að stefndi aflaði nákvæmari mælinga á hávaða meðmatsgerð Ólafs Daníelssonar, dómkvadds matsmanns. Í matsgerð Ólafs er því lýsthverjum vandkvæðum það er bundið að afla nákvæms mats á hávaða frá Krikaskóla,að teknu tilliti til annarra umhverfishljóða. Engu að síður eru niðurstöðurítarlegra mælinga hans að hávaði utan við Stórakrika 1 séu í eða við efri mörkþess sem heimilt er frá atvinnustarfsemi samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 umhávaða. Verður ekki annað séð en það styðji þá niðurstöðu yfirmatmanna, semþeir leggja til grundvallar mati sínu, að hávaði geti hæglega verið stefnendumog öðrum íbúum í Stórakrika 1 til nokkurs ama. Með vísan til þesssem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að yfirmatsgerðin sé ekkihaldin slíkum annmörkum að það leiði til þess að niðurstaða hennar verði ekkilögð til grundvallar í málinu. Verður með hliðsjón af því að byggja niðurstöðumálsins á því að stefnendum hafi á grundvelli yfirmatsgerðar tekist sönnun þessað þau hafi orðið fyrir tjóni, sem ekki hefur verið hnekkt með öðrum gögnum.Stefndi hefur sérstaklega andmælt forsendum matsgerðarinnar um áætlaðmarkaðsverð, en matsmenn miða verðmætisrýrnun á íbúð stefnenda við áætlaðmarkaðsverð hennar í mars 2011. Stefndi hefur á hinn bóginn ekki rökstuttandmæli sín frekar eða lagt fram nein gögn sem veita vísbendingar um aðmatsverð þetta sé rangt. Er niðurstaða dómsins því sú að leggja beri niðurstöðuyfirmatsgerðar til grundvallar úrlausn málsins, bæði hvað varðar sönnun á tjónistefnanda og umfangi þess. Ber stefndi bótaábyrgð á framangreindu tjóni ágrundvelli 33. gr. laga nr. 73/1993. Bótakrafa stefnenda verður samkvæmtframansögðu tekin til greina. Stefnendur krefjastdráttarvaxta frá 1. ágúst 2012 en stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu frá fyrritíma en dómsuppsögu. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 skuluskaðabótakröfur bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna að liðnummánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar semþörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Með hliðsjón af þessarireglu verður við það að miða að stefndi hafi sannanlega haft öll gögn íhöndunum til að meta fjárhæð bótakröfunnar þann 16. ágúst 2012 en þann dagsendi lögmaður stefnenda stefnda kröfubréf með sundurliðaðri kröfugerð ágrundvelli yfirmatsgerðarinnar. Krafa stefnenda beri því dráttarvexti samkvæmt1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 16. september sama ár. Í samræmi við 1. mgr.130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að greiða stefnendum málskostnað. Viðákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til útlagðs kostaðar stefnenda, þ.á.m.vegna matsgerðarinnar sem aflað var áður en málið var höfðað, enda verður aðtelja hana tengjast beint málarekstri þessum og falla því undir g-lið 1. mgr.129. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt er tekið tillit til þess að mál þetta errekið samhliða 6 öðrum samkynja málum. Telst málskostnaður með hliðsjón afofangreindu hæfilega ákveðinn 600.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Mál þetta flutti,fyrir hönd stefnenda, Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður og fyrir hönd stefnda,Ingvi Snær Einarsson héraðsdómslögmaður. IngibjörgÞorsteinsdóttir, héraðsdómari og dómsformaður, kvað upp dóminn ásamtmeðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni verkfræðingi og Magnúsi Leópoldssyni,löggiltum fasteignasala. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.D ó m s o r ð : Stefndi, Mosfellsbær,greiði stefnendum, Jóni Guðmundssyni og Valgerði Gunnarsdóttur, 3.146.000krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16.september 2012 til greiðsludags auk 600.000 króna í málskostnað. |
Mál nr. 152/2009 | Verksamningur Skuldamál Útivist | R krafði G um greiðslu á þremur reikningum sem voru til komnir vegna jarðvinnu í þágu G. Einkum var deilt um reikning frá 1. ágúst 2006, sem R hélt fram að væri vegna verks sem hefði ekki verið hluti af aukaverkum samkvæmt verksamningi aðila. Í viðskiptamannabókhaldi sínu, sem G lagði fram við meðferð málsins í héraði til sönnunar um viðskipti aðila, færði hann framangreindan reikning sem skuld í viðbót við skuld með fullri fjárhæð verksamningsins. Miðaðist skuldastaða í bókhaldinu við þetta. Taldist þar með nægilega sannað að verk samkvæmt reikningi 1. ágúst 2006 hefði verið viðbót við það sem samið hafði verið um í verksamningi aðila. Var G dæmdur til að greiða alla reikninganna. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. mars 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara lækkunar á fjárhæð hennar. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Samkvæmt ljósriti úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra um tilkynningu á breytingu á nafni sem móttekin var 14. janúar 2009 var nafni stefnanda í héraði, SR verktaka ehf., breytt í RTH ehf. Bú RTH. ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 6. maí 2009 og hefur þrotabúið tekið við aðild að málinu samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Með vísan til sama lagaákvæðis er kveðinn upp dómur í málinu án munnlegs flutnings. Áfrýjandi hefur lagt fram nokkur ný skjöl fyrir Hæstarétt. Stefndi heldur því fram að verk samkvæmt reikningi 1. ágúst 2006 hafi ekki verið hluti af aukaverkum samkvæmt verksamningi 7. desember 2005. Í viðskiptamannabókhaldi sínu, sem áfrýjandi lagði fram við meðferð málsins í héraði til sönnunar um viðskipti aðila, færði hann framangreindan reikning sem skuld í viðbót við skuld með fullri fjárhæð nefnds verksamnings. Miðast skuldastaða í bókhaldinu við þetta. Telst þar með nægilega sannað að verk samkvæmt reikningi 1. ágúst 2006 hafi verið viðbót við það sem samið var um í verksamningnum 7. desember 2005. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir. Málskostnaður dæmist ekki fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Áfrýjandi, Gullhamrar ehf., greiði stefnda, þrotabúi RTH ehf., 1.044.074 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 915.615 krónum frá 2. ágúst 2006 til 2. ágúst 2007, af 572.427 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2007, en af 1.044.074 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. I. Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 19. desember sl., er höfðað með stefnu sem birt var fyrirsvarsmanni stefnda 13. febrúar sl. Stefnandi er SR-verktakar ehf., Miðhrauni 22, Garðabæ, en stefndi er Gullhamrar ehf., Beykihlíð 25 í Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.730.450 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 399.741 krónu frá 1. desember 2005 til 1. ágúst 2006, af 1.258.803 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2007, en af 1.730.450 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt þó að frádregnum 343.188 krónum, sem stefndi greiddi inn á skuldina 2. ágúst 2007. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins. Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda, að mati dómsins. II. Stefnandi segir skuld þessa til komna vegna jarðvinnu í þágu stefnda við Biskupsgötu 11-39 í Reykjavík á árunum 2005, 2006 og 2007 og byggjast á þremur reikningum úr rafrænu bókhaldi stefnanda, með gjalddaga 1. desember 2005, 1. ágúst 2006 og 1. nóvember 2007. Stefndi hafi greitt 343.188 krónur inn á kröfuna 2. ágúst 2007 og dragist sú fjárhæð frá kröfunni. Samkvæmt stefnu og framlögðum gögnum sundurliðast krafan þannig: Stefnandi byggir á því að skuldin hafi ekki fengist greidd, þrátt fyrir innheimtutilraunir, og sé honum því nauðsynlegt að höfða mál þetta. Til stuðnings kröfum sínum vísar hann til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga og meginreglu samningaréttar um að samninga skuli halda. Krafa hans um dráttarvexti styðst við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en málskostnaðarkrafa við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. III. Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því að aðilar hafi gert með sér verksamning 7. desember 2005, í framhaldi af eldri verksamningi. Hafi þar verið kveðið á um uppmælingu og aukaverk vegna vinnu við húsin að Biskupsgötu 11-39. Umsamin heildarfjárhæð vegna verksins hafi verið 9.525.000 krónur. Í samningnum komi fram að stefnandi hafi á undirskriftardegi gefið út reikninga fyrir 9.053.353 krónum, en skuli við verklok gefa út reikning fyrir mismuninum, 471.647 krónum. Stefndi byggir á því að samkvæmt viðskiptamannabókhaldi sínu 12. desember 2005 hafi bókfærðar eftirstöðvar vegna umrædds verksamnings numið 1.456.553 krónum. Hafi stefnandi þá átt eftir að gefa út reikning fyrir 471.647 krónum, sem lokagreiðslu við verklok. Stefndi hafi 2. ágúst 2006 greitt 1.400.000 krónur inn á viðskiptaskuldina og því hafi eftirstöðvar samningsins þá verið 528.200 krónur, og hafi stefnanda verið það kunnugt. Til þess að jafna út viðskipti aðila hafi forsvarsmaður stefnanda, Þórkatla Ragnarsdóttir, 5. mars 2008 pantað fermingarveislu hjá dótturfélagi stefnda, Veitingahúsinu Þjóðhildarstíg 2 ehf. Hafi stefndi talið að með þeim viðskiptum væri uppgjöri milli aðila lokið, þótt reikningur vegna fermingarveislunnar hafi verið nokkru hærri en eftirstöðvar skuldarinnar, eða 630.000 krónur. Stefndi mótmælir reikningi stefnanda nr. 239, útgefnum 1. ágúst 2006, að fjárhæð 859.062 krónur, og segir hann ekki eiga sér neina stoð í verksamningi aðila. Jafnframt mótmælir hann vaxtareikningi stefnanda. Þá áréttar stefndi að stefnandi geri í stefnu hvorki grein fyrir innborgun stefnda að fjárhæð 1.400.000 krónur, né samningi aðila um áðurnefnda fermingarveislu. IV. Við aðalmeðferð gáfu skýrslu fyrir dóminum Þórkatla Ragnarsdóttir, fyrrverandi forsvarsmaður og skrifstofustjóri stefnanda, Ragnar Þórarinsson, framkvæmdastjóri stefnanda og Lúðvík Thorberg Halldórsson, stjórnarformaður og forsvarsmaður stefnda. Þórkatla Ragnarsdóttir kvaðst hafa séð um fjármál stefnanda á þeim tíma sem hér um ræðir og mundi hún glögglega eftir reikningi að fjárhæð 859.062 krónur, sem gefinn var út 1. ágúst 2006. Sagði hún að reikningurinn væri vegna vinnu við jarðvegsskipti og hellulagnir við hús dóttur forsvarsmanns stefnda við Biskupsgötu. Hefði forsvarsmaður stefnda sérstaklega beðið um verkið og væri það ekki hluti af verksamningi aðila frá 7. desember 2005. Kvaðst hún ítrekað hafa reynt að fá reikninginn greiddan, en forsvarsmaður stefnda hafi forðast hana og borið ýmsu við. Í skýrslu sinni fyrir dóminum neitaði Þórkatla því að samið hefði verið um að reikningur vegna fermingarveislu dóttur hennar yrði millifærður sem greiðsla inn á skuld stefnda við stefnanda, og bætti því við að hún hefði enga heimild til að semja um slíkt, þar eð stefnandi væri félag í eigu margra einstaklinga. Við sama tækifæri var hún innt álits á framlögðu viðskiptayfirliti stefnda við stefnanda og hún sérstaklega spurð um innborgun stefnda að fjárhæð 1.400.000 krónur, sem bókfærð er 2. ágúst 2006. Kvaðst hún ekki muna nákvæmlega hvenær greiðslur hefðu borist frá stefnda eða fjárhæðir hverju sinni, en sagðist ekki sjá neitt athugavert við yfirlitið frá stefnda. Í skýrslu Ragnars Þórarinssonar kom fram að hann hefði sjálfur unnið við jarðvegsskipti og gerð bílaplans við hús dóttur forsvarsmanns stefnda. Hefði forsvarsmaðurinn sérstaklega beðið um það verk, og sagði Ragnar afdráttarlaust að það verk hefði ekki verið hluti af þeim aukaverkum sem um hefði verið samið í verksamningi frá 7. desember 2005, enda væri það ekki í samræmi við teikningar frá Landmótum ehf., sem vísað sé til í verksamningi. Í máli Lúðvíks Thorbergs Halldórssonar kom fram að stefnandi hefði tekið að sér ýmis aukaverk samkvæmt áðurnefndum verksamningi og væru þau innifalin í þeim greiðslum sem verksamningurinn kvæði á um. Sagðist hann hafa samið um það við stefnanda að fyrir aukaverk skyldi greiða 1.000.000 krónur fyrir hverja húsalengju, eða samtals 3.000.000 króna. Neitaði hann því að hafa beðið stefnanda sérstaklega um að vinna aukaverk við hús dóttur sinnar. Aðspurður um greiðslu til stefnda að fjárhæð 1.400.000 krónur, sagði Lúðvík að hann hefði sjálfur millifært fjárhæðina inn á reikning stefnanda 3. ágúst 2006 og kæmi greiðslan fram á viðskiptayfirliti. Bætti hann því við að bókhald stefnda væri fært daglega. Bæði Þórkatla Ragnarsdóttir og Lúðvík Thorberg staðfestu fyrir dómi að heildarfjárhæð verksamnings vegna Biskupsgötu 11-39 hefði verið 9.525.000 krónur. V. Eins og fram hefur komið gerðu aðilar með sér verksamning 7. desember 2005 vegna framkvæmda við Biskupsgötu 11-39. Þar kemur fram að heildarkostnaður samkvæmt uppmælingu sé 6.525.000 krónur, en fyrir aukaverk vegna allra húsanna, hverju nafni sem nefnist, skuldbindi verkkaupi sig til að greiða 3.000.000 króna. Samtals nemur því fjárhæð verksamningsins 9.525.000 krónur. Jafnframt segir þar að stefnandi hafi þegar gefið út reikninga fyrir 9.053.353 krónum en við verklok muni stefnandi gefa út reikninga fyrir mismuninum, 471.647 krónum. Stefndi hefur í máli þessu lagt fram yfirlit hreyfinga úr viðskiptamannabókhaldi sínu vegna viðskipta við stefnanda árin 2005 og 2006. Samkvæmt yfirlitinu nemur fjárhæð bókfærðra reikninga frá stefnanda í árslok 2005 samtals 9.053.353 krónum, eins og segir í áðurnefndum verksamningi, en greiðslur stefnda nema samtals 7.596.800 krónum. Í árslok 2005 nam því skuld stefnda við stefnanda 1.456.553 krónum, en þá átti stefnandi eftir að gefa út lokareikning sinn samkvæmt verksamningnum, 471.647 krónur. Meðal þeirra reikninga sem stefnandi hafði þá þegar gefið út, og mynduðu fjárhæð bókfærðra reikninga á yfirliti stefnda, var reikningur að fjárhæð 399.741 króna, útgefinn 1. desember 2005. Sá reikningur er einn þriggja reikninga sem mynda stefnufjárhæðina í máli þessu. Forsvarsmaður stefnanda, ásamt framkvæmdastjóra, hafa fyrir dómi fullyrt að reikningur að fjárhæð 859.062 krónur, sem gefinn var út 1. ágúst 2006, vegna viðbótarplans og jarðvinnu við hús dóttur forsvarsmanns stefnda, sé ekki hluti af verksamningi aðila frá 7. desember 2005. Hafi forsvarsmaður stefnda sérstaklega óskað eftir því að sú vinna yrði unnin, en verkið hafi ekki verið í samræmi við þær teikningar sem stefnandi hafi unnið eftir og voru hluti af verksamningi aðila. Forsvarsmaður stefnda hefur hins vegar hafnað því að hafa sérstaklega óskað eftir umræddu verki, enda væri það hluti af þeim aukaverkum sem samið hafi verið um. Ekki er um það deilt að stefnandi vann að jarðvegsskiptum og gerð bílaplans við hús dóttur forsvarsmanns stefnda. Samkvæmt sundurliðuðum reikningi stefnanda nam kostnaður við það alls 859.062 krónur. Gegn mótmælum stefnda telur dómurinn að umrætt verk sé ekki hluti af þeim aukaverkum sem samið var um í margnefndum verksamningi frá 7. desember 2005. Er þá einkum til þess horft að kostnaður við verkið er hlutfallslega mun hærri en aðilar sömdu um sem greiðslu vegna aukaverka fyrir hvert hús í húsalengjunum, en samkvæmt verksamningi voru húsin 15 að tölu og því reiknað með 200.000 krónum fyrir hvert hús, eða samtals 3.000.000 króna fyrir þau öll. Þá þykir færsla stefnda á reikningsfjárhæðinni í viðskiptamannabókhald sitt fyrir árið 2006 eindregið benda til þess að stefndi hafi samþykkt reikninginn. Verður stefndi því dæmdur til að greiða reikningsfjárhæðina. Stefnandi hefur mótmælt því að stefndi hafi greitt inn á viðskiptaskuld sína 1.400.000 krónur 2. ágúst 2006, eins og fram kemur í viðskiptamannabókhaldi stefnda. Engu að síður kvaðst fyrrverandi forsvarsmaður stefnanda, Þórkatla Ragnarsdóttir, ekki gera neinar athugasemdir við viðskiptamannabókhald stefnda, þegar henni var sýnt viðskiptayfirlitið og hún innt eftir því hvort hún kannaðist við umrædda innborgun. Hins vegar sagðist hún ekki muna hvenær stefndi hefði greitt innborganir, né einstakar fjárhæðir. Í ljósi þeirra ummæla telur dómurinn að stefndi hafi fært nægar sönnur fyrir því að hann hafi greitt umrædda fjárhæð, 1.400.000 krónur, sem innborgun á viðskipti aðila. Stefndi heldur því fram að áðurnefnd Þórkatla hafi samið svo um að reikningur vegna fermingarveislu dóttur hennar skyldi ganga upp í viðskiptaskuld stefnda við stefnanda. Reikningurinn er að fjárhæð 630.000 krónur, gefinn út á nafn stefnanda 5. mars 2008, og hefur verið framseldur af veitingahúsinu Þjóðhildarstíg 2 ehf. til stefnda. Þórkatla Ragnarsdóttir hefur hafnað þessari staðhæfingu stefnda og bent á að stefnandi sé félag í eigu margra aðila og hafi hún ekki heimild til slíkra ráðstafana. Verður því ekki fallist á að reikningur þessi komi til lækkunar á kröfu stefnanda á hendur stefnda. Samkvæmt því sem að ofan er rakið verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.044.074 krónur, sem sundurliðast þannig: Fjárhæð þessi er í samræmi við framlagt yfirlit úr viðskiptamannabókhaldi stefnda, að viðbættum lokareikningi samkvæmt verksamningi og að frádreginni innborgun stefnda 2. ágúst 2007. Fallist er á að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 915.615 krónum frá 2. ágúst 2006 til 2. ágúst 2007, af 572.427 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2007, en af 1.044.074 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Samkvæmt úrslitum málsins, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 200.000 krónur. Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan. DÓMSORÐ: Stefndi, Gullhamrar ehf., greiði stefnanda, SR-verktökum ehf., 1.044.074 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 915.615 krónum frá 2. ágúst 2006 til 2. ágúst 2007, af 572.427 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2007, en af 1.044.074 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 553/2006 | Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. október 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. nóvember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 17. nóvember 2006 en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Varnaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 19. október 2006. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2006, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 25. september 2006 í málinu nr. 508/2006, kemur fram að varnaraðili hafi verið handtekinn 19. sama mánaðar grunaður um að hafa átt aðild að þjófnaði í umdæmi lögreglustjórans á Selfossi. Þá er þess getið í úrskurðinum að varnaraðili hafi verið handtekinn á ný aðfaranótt 21. sama mánaðar þar sem hann og félagar hans voru á bifreið, sem tekin hafði verið í heimildarleysi. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað líði rannsókn þessara mála. Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 21. september 2006. Af gögnum málsins verður ráðið að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi framið allmörg hegningarlagabrot, sem fangelsisrefsing er lögð við. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Lögreglustjórinn í Kelflavík hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, með lögheimili að [...] en án fasts samastaðar, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 föstudaginn 14. nóvember nk. á meðan mál hans eru til rannsóknar og eftir atvikum þar til dómur gengur í málum hans. Krafan er reist á ákvæðum c liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Kærði kretst þess að kröfunni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að kærði er grunaður um að hafa framið fjölda hegningarlagabrota á þessu ári og séu mál þessi nú til rannsóknar hjá lögreglu í Keflavík og á Selfossi. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness þann 21. september sl. til föstudagsins 20.október nk. kl. 16 á grundvelli c. liðar 1mgr. 103.gr. laga um meðferði opinberra mála í máli nr. R-168/2006. Á sama tíma hafi A [kt.], úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 20. október nk. kl. 16, en þeir séu grunaðir um að hafa einir, í félagi, eða með öðrum, staðið að margs konar afbrotum í júlí, ágúst og september á þessu ári, svo sem þjófnaði, nytjastuldi, fjársvikum, eignaspjöllum og umferðarlagabrotum og hafi reynst nauðsynlegt að fá þá úrskurðaða í gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1 .mgr. 103.gr. laga um meðferð opinberra mála því þeir linntu ekki afbrotum. Kærðu, X og A, hafi verið í einangrun í Fangelsinu á Litla-Hrauni, en þeir hafi verið grunaðir um íkveikju þann 15. október sl. í fangelsinu, en lögreglan á Selfossi hafi það mál nú til rannsóknar. Samkvæmt meðfylgjandi greinargerð Jóhannesar Jenssonar, aðstoðaryfir-lögregluþjóns, hafi lögreglan unnið látlaust að rannsókn mála sem þeir eru grunaðir um að tengjast. Þegar rannsókn málanna sé lokið verða þau send ákæruvaldinu til athugunar sbr. 112.gr. laga um meðferð opinberra mála og reynt að ljúka afgreiðslu málanna þar sem allra fyrst. Lögreglan telji X vera vanaafbrotamann sem þurfi að stöðva til að hægt sé að afgreiða mál hans með lögreglurannsókn, ákærumeðferð og væntanlegri dómsmeðferð. Verði hann látinn laus, megi búast við því að hann taki þegar upp fyrri iðju. Þegar virt er hve tíð brot þau eru, sem kærði X og A eru grunaðir um í júlí, ágúst og september, má fallast á að veruleg hætta sé á því að þeir haldi áfram brotastarfsemi ef þeir verða frjálsir ferða sinna og því sé nauðsynlegt að þeir sæti gæsluvarðhaldi meðan mál þeirra eru til lykta leidd. Hins vegar verður og að líta til þess að mörg þessara brota eru smávægileg og sök um sum þeirra játuð. Flest þeirra eru framin í júlí og ágúst s.l. og því hefur unnist tími til að rannsaka þau að einhverju leyti áður en kærði X var úrskurðaður í gæsluvarðhald 24. september s.l. Mál þessi eru flest á lokastigi rannsóknar og verður að ætla að unnt sé að ljúka rannsókninni og gefa út ákæru í málinu innan fárra daga og þykir því mega fallast á rök kærða um að umkrafinn gæsluvarðhaldstími verði styttur nokkuð og er kærði X með vísan til c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. nóvember nk. kl. 16:00. Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð: Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. nóvember nk. kl. 16:00. |
Mál nr. 473/2017 | Kærumál Fjárslit milli hjóna Opinber skipti | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli K og M vegna hjónaskilnaðar. Lagt var til grundvallar að nánar tilgreind hross og stóðhestur að hálfu skyldu koma til skipta samkvæmt 104. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Að auki skyldu folatollar vegna stóðhestsins koma til skipta að hálfu. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir ÓlafurBörkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson. Sóknaraðili skaut málinutil Hæstaréttar með kæru 13. júlí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 27.sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 30. júní 2017,þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi í tengslum við opinber skiptitil fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 1. mgr.133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að„hrossin A (50%), B, C, E, F, G, H, tryppi undan M og A fætt 2015, I, J, K og L[...] komi ekki til skipta við fjárslit aðila“ og að „hafnað verði ákvörðunskiptastjóra um að gjalda þurfi búinu hluta af folatollum vegna stóðhestsins A“.Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.Varnaraðili krefststaðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.Með vísan tilforsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.Sóknaraðili verðurdæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.Dómsorð:Hinn kærði úrskurðurer staðfestur.Sóknaraðili, K,greiði varnaraðila, M, 350.000 krónur í kærumálskostnað.Úrskurður Héraðsdóms Norðurlandsvestra 30. júní 2017IMálþetta sem barst dóminum með bréfi skiptastjóra 10. janúar sl. var tekið tilúrskurðar 11. maí sl.Sóknaraðilier K, [...], [...].Varnaraðilier M, [...], [...].DómkröfurSóknaraðilikrefst þess að við skipti til fjárslita á búi aðila komi hrossin A, B, C, D, E,F, G, H, I, J, K, L [...] og folald undan M og A fætt 2015 ekki til skipta. Þákrefst sóknaraðili þess að hafna verði ákvörðun skiptastjóra þess efnis aðgjalda þurfi búinu hluta af folatollum vegna stóðhestsins A.Varnaraðilikrefst þess að hrossin A, B, C, D, E, F, G, L [...], H, I, J, K og trippinundan M og A fætt 2015 komi til skipta við fjárslit á búi aðila. Þá krefstvarnaraðili þess að ákvörðun skiptastjóra um að gjalda beri búinu folatollavegna stóðhestsins A verði staðfest. Loks krefst varnaraðili málskostnaðar úrhendi sóknaraðila og að við ákvörðun hans verði tekið tillit tilvirðisaukaskatts. IIAtvik málsAðilarmáls þessa gengu í hjúskap á árinu 1991 en höfðu tekið upp sambúð nokkrum árumfyrr og tóku þá upp sameiginlegan búskap að [...] í [...]. [...] 2014 slitu aðilar samvistum og fluttivarnaraðili af heimili þeirra en fram að því höfðu þau hin síðari ár rekiðsaman [...] að [...] en reksturinn var skráður á kennitölu varnaraðila. Framkemur í lýsingu sóknaraðila á málavöxtum að hún hafi frá upphafi annast umbókhald búsins og m.a. af þeim sökum séð um útgáfu reikninga.Áárinu 2013 stofnaði varnaraðili einkahlutafélagið N ehf. og var nokkuð afeignum búsins fluttar inn í það félag en aðilar eru ekki sammála um hvort þaðvar gert með vitund og vilja sóknaraðila. Á árinu 2015 stofnaði sóknaraðilieinkahlutafélagið P ehf. og hefur hún undir því nafni rekið [...] að [...]. Umvorið 2015 hófu aðilar samningaumleitanir varðandi skipti á búi þeirra en náðuekki samkomulagi og fór svo að varnaraðili óskaði eftir opinberum skiptum ogvar úrskurður þess efnis kveðinn upp [...] 2016 og Einar Sigurjónssonhéraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri. Aðilar hafa sammælst um aðviðmiðunardagur skipta sé 31. desember 2015. Ágreiningur hefur verið milliaðila um skiptingu eigna, einkum hrossastofns þeirra og hafa þau ítrekað reyntað ná samkomulagi með aðstoð lögmanna sinna en án árangurs. Á skiptafundi 22.desember sl. leitaðist skiptastjóri til við að jafna ágreining varðandiskiptingu þeirra hrossa sem tiltekin eru í kröfum aðila og tekjur afstóðhestinum A. Það tókst ekki og var máli þessu þá skotið til dómsins.Meðalgagna málsins eru reikningar sem bera nafn varnaraðila en númer þeirra er 662og 663. Samkvæmt efni þeirra eru þeir gefnir út annars vegar 1. maí 2015 oghins vegar í maí 2015 en með þeim kaupir einkahlutafélagið P þau hross sem umer deilt í máli þessu fyrir alls 17.800.000 krónur. Aðila greinir hins vegar áum hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að gefa þessa reikninga út og þá telurvarnaraðili reikningana falsaða.IIIMálsástæður og lagarökAfhálfu sóknaraðila er á því byggt að hross þau sem ágreiningur er um í málinuhafi ekki verið eign búsins á viðmiðunardegi skipta. Hún hafi fært eignarhaldhrossanna ásamt ófæddum fyljum af sameiginlegu búi aðila yfir í einkahlutafélagsitt með útgáfu reikninga 1. maí 2015 og þar hafi verðgildi þeirra verið metiðá 17.800.000 krónur. Því sé einkahlutafélag hennar réttur eigandi hrossanna.Sóknaraðili telur einsýnt að verðgildi hrossanna komi til skipta semhjúskapareign hennar og geti varnaraðili krafist þess þó hann formi kröfursínar með öðrum hætti nú. Þá hafi hún ítrekað áskilið sér rétt til að haldafram endurgjaldskröfu vegna eigna sem varnaraðili flutti í einkahlutafélag sittúr sameiginlegu búi aðila á árinu 2013 og síðar. Telur sóknaraðili rétta aðkröfur þessar mætist við fjárslitin og ákveði þannig þá fjárhæð sem til skiptakomi vegna hrossanna auk tækja.Sóknaraðilireisir kröfur sínar einnig á því að samkomulag hafi verið um það milli aðila aðhún gæti stofnað einkahlutafélag til að sjá um hennar hluta búrekstur ogvarnaraðili hafi skriflega samþykkt það. Vorið 2015 hafi henni verið ómögulegtað stunda áfram [...] nema með því að gera slíkar ráðstafanir enda hafivirðisaukaskattsnúmer varnaraðila verið lokað á þeim tíma. Hún hafi löngu áðurákveðið að stofna einkahlutafélag til að sjá um rekstur sinn og rætt það við ogfengið samþykki varnaraðila fyrir því. Lögum samkvæmt verði einkahlutafélag aðeiga þær eignir sem rekstrinum er ætlað að halda utan um. [...] sévirðisaukaskattskyld starfsemi og því hafi félagið þurft að eiga hrossin semhelst voru tekjuberandi til að hægt væri að taka gjöldin jafnframt í gegnumfélagið og innskatt á móti útskatti þeirra tekna sem af þeim hrossum komu. Henni hafi þvíbeinlínis verið ómögulegt annað en að flytja þær eignir sem helst gáfu af sértekjur fyrir búreksturinn í félagið.Þetta hafi hún gert með útgáfu tveggja reikninga og þar með hafi félagiðeignast hrossin. Sóknaraðili vísar til þess að henni hafi verið ókleift aðflytja aðrar eignir en hross yfir í einkahlutafélag sitt en varnaraðili hafiallt frá árinu 2013 flutt í sitt einkahlutafélag öll helstu vinnutæki búsinsauk þess sem hann hafi líka selt tæki sem tilheyrðu búinu án vitundar eða viljahennar og að mestu án þess að endurgjald fyrir tækin rynni til búsins. Þábendir varnaraðili á að þær eignir sem færðar voru yfir á P ehf. hafi einungisverið brot af heildareignum búsins, þ.e. einungis 12 hross auk væntanlegrafolalda sem hún hafi metið á 17.800.000 krónur en á þeim tíma hafi búið áttríflega [...] hross. Með því að flytja hrossin yfir í einkahlutafélagið hafisóknaraðili ekki ætlað sér að skerða hlut varnaraðila enda ávallt ljóst aðhrossin myndu koma til skipta í einhverri mynd, ef ekki in natura á móti öðrumhrossum.Sóknaraðiliheldur því einnig fram að hún hafi haft fullan ráðstöfunarrétt á eiginhjúskapareignum þrátt fyrir samvistarslitin og því verið heimilt að ráðstafahrossunum í einkahlutafélag sitt. Skipti þá engu hvaða reikningseyðublöð vorunotuð. Henni hafi verið skylt að láta verðgildi eigna sinna standa til skiptavið fjárslitin en ekki eignirnar sjálfar. Ákvæði hjúskaparlaga eða skiptalagaveiti ekki heimildir til riftunar á gerningum aðila í aðdraganda opinberraskipta meðan eignirnar, verðgildi þeirra og/eða endurgjald vegna þeirra kemur tilskipta. Gagnaðili geti þó eftir ákvæðum 2. mgr. 106. gr. skiptalaga, sbr. 2.mgr. 107. gr. hjúskaparlaga gert endurgjaldskröfu telji hann að eignir hafiverið teknar með öllu undan skiptum. Sóknaraðili byggir einnig á því að húnhafi haft viðkomandi hross í vörslum sínum, fóðrað, tamið og hugsað násastalfarið um þau frá samvistarslitum þar til þeim var ráðstafað til P ehf. Aukþess hafi hún gert þær ráðstafanir sem til þurfti til að koma fyli í hryssurnarsem síðan köstuðu vorið 2015.Sóknaraðiliheldur því fram að hrossin sem tilgreind eru á umdeildum reikningum og deilt erum í máli þessu hafi verið hjúskapareign hennar. Þau hafi að langstærstum hlutaverið skráð hennar eign í „WorldFeng“ sem sé sérstakt skráningarkerfi hrossahér á landi. Kerfið gefi þó ekki óumdeilda mynd af eignaskráningu hrossa enaðilar hafi deilt um skráningu hrossa í kerfið frá sambúðarslitum og raunarhafi þau bæði fært til eignarhald á hrossum í skráningarkerfið. Haustið [...] hafivarnaraðili breytt þó nokkrum skráningum áður en sambúðarslit urðu en hún hafisíðan breytt ýmsum skráningum til baka. Auk þess hafi skráningu hrossa veriðbreytt að kröfu skiptastjóra. Hvað sem líði skráningu hrossanna ískráningarkerfið heldur sóknaraðili því fram að þau hafi verið hennar hjúskapareignenda að stærstum hluta komið inn í bú aðila sem eign hennar frá foreldrumhennar eða sem afkomendur hrossa sem henni hafi verið gefin í framhaldi af þvíað aðilar hófu búskap á jörðinni. Sóknaraðili bendir á að vegna deilna aðilahafi ekki verið unnt að skrá folöld fædd 2015 og breytingar á eignarhaldihrossa í „WorldFeng“ eftir reglum sem um slíka skráningu gilda og því gefiskráningarkerfið ekki endanlegar eða tæmandi upplýsingar um eignarheimildhrossaeignar aðila á viðmiðunardegi skiptanna. Þávísar sóknaraðili til þess að búrekstur aðila hafi verið sameiginlegur og ákennitölu varnaraðila. Hún hafi í langan tíma gefið út reikninga og séð umsameiginleg fjármál aðila og ekki haft ástæðu til að hætta því enda með reksturbúsins á sínum herðum eftir sambúðarslitin. Byggir hún á því að varnaraðili oglögmaður hennar hafi beinlínis falið henni að gefa út reikninga og á sama tímastoði ekki að bera því við nú að henni hafi verið óheimilt að gefa út reikningaá reikningseyðublöð með nafni varnaraðila. Þá hafi varnaraðili aldrei frásambúðarslitum bannað henni að gefa út slíka reikninga eða sjá um fjármálin aðöðru leyti, þvert á móti hafi ráð verið fyrir því gert að hún sinnti þessuáfram ásamt öðru er viðkom sameiginlegum búrekstri þeirra. Sóknaraðilivísar til sömu málsástæðna og raka sem að framan er getið varðandi stóðhestinn Aen eignarhald hans var fært yfir í einkahlutafélagið P ehf. Ljóst sé aðhesturinn tilheyri ekki búinu heldur sé hann eign einkahlutafélagsins og þvíeigi tekjur af honum ekki að renna til búsins. Að mati sóknaraðila erskiptastjóra óheimilt að endurkrefja einkahlutafélag í eigu annars aðila sem ífjárslitum er um tekjur þess félags, til hagsbóta fyrir báða aðilafjárslitanna. Með þessu væru tekur einkahlutafélags í eigu aðila að skiptastyfir til annars aðila sem ekki er eigandi þess félags og hefur ekkert með þaðað gera. Hvaðlagarök varðar vísar sóknaraðili fyrst og fremst til hjúskaparlaga nr. 31/1993og laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, en einnig til laga umeinkahlutafélög nr. 138/1994 og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1998. Krafa ummálskostnað úr hendi varnaraðila er reist á lögum um meðferð einkamála nr.91/1991.Varnaraðilibyggir kröfu sína um að nefnd hross skuli koma til skipta in natura á því aðþau hafi verið eign búsins á viðmiðunardegi skipta, 31. desember 2015.Sóknaraðili hafi margsinnis viðurkennt að umrædd hross kæmu til skipta á búiþeirra hjóna og vísar hvað það varðar til lista sem sóknaraðili lagði fram áskiptafundum og tillagna að skiptum á þeim.Varnaraðilimótmælir því að sóknaraðila hafi varið heimilt að gefa út reikninga nr. 662 og663 í hans nafni og heldur því fram að þeir séu falsaðir og hafi af þeim sökumekkert gildi. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að eigendaskipti hrossannahafi ekki verið færð í „WorldFeng“. Byggir varnaraðili á því að réttur eigandiumþrættra hrossa ásamt þeim fyljum sem voru í hryssunum vorið 2015 og öðrumafkomendum þeirra sem síðar eru til komnir séu því aðilar máls þessa að jöfnuenda hafi hrossabústofn þeirra verið sameign þeirra frá upphafi. Varnaraðilivísar til þess að engin verðmæti hafi komið til hans eða búsins vegna hrossannaauk þess sem ráðstöfun þessi hafi verið ólögmæt samkvæmt hjúskaparlögum, einkumIX. kafla laganna. Varnaraðiliandmælir því að samkomulag hafi verið með aðilum þess efnis að sóknaraðilistofnaði félag til þess að sjá um hennar hluta búrekstursins og að hann hafisamþykkt það skriflega. Slík yfirlýsing sé ekki til og ljósrit það sem lagthafi verið fram í málinu sé falsað og óvottað. Varnaraðilimótmælir því að sóknaraðili hafi haft fullan ráðstöfunarrétt á hjúskapareignumsínum þrátt fyrir samvistarslitin og að henni hafi verið heimilt að ráðstafahrossum þeim sem um er deilt til einkahlutafélags í hennar eigu. Skipti þá enguhvaða reikningseyðublöð voru notuð við gerninginn. Vísar varnaraðili til 59.gr. hjúskaparlaga máli sínu til stuðnings og 61. og 62. gr. laganna. Með þessumólögmæta gjörningi hafi sóknaraðili gert tilraun til að leggja sér út verðmætustukynbótahross búsins. Í raun sé hér um að ræða erfðaefni sem ekki verður metiðtil fjár, heldur verði líkt og varnaraðili hafi frá upphafi gert kröfu um aðskipta hrossunum að jöfnu milli aðila. Það verði gert með því að hvor aðila umsig fái hvort alsystkinið og að afkvæmi undan bestu ræktunarhryssunum skiptistjafnt, t.d. ef til eru fjögur tryppi undan sömu meri fái hvor aðila um sig tvötryppi. Afhálfu varnaraðila er fullyrðingum sóknaraðila í þá veru að hún hafi haftumþrætt hross í sinni vörslu mótmælt. Hrossin séu á [...] vegna þess aðsóknaraðili hafi neitað að afhenda þau og rétt að líta svo á að þau séu ívörslum búsins. Þá heldur varnaraðili því fram að hann hafi sjálfur ekið meðallar hryssur til stóðhesta nema þær sem voru í hólfi hjá hestum á [...]. Þá séþað einnig rangt sem sóknaraðili haldi fram að hún hafi séð um alla vinnuvarðandi það að koma fyli í þær hryssur sem voru með fyli og urðu að folöldumfæddum sumarið 2015, annast eftirlit með þeim og hafa umsjón með þeim þegar þærköstuðu. Í þessu sambandi verði að benda á að engir folatollar eru færðir til gjaldaí ársreikningi P ehf. fyrir árið 2015. Hvaðkröfu um að ákvörðun skiptastjóra þess efnis að búinu beri að gjalda folatolla af stóðhestinum A verðistaðfest vísar varnaraðili að hluta til til sömu málsástæðna og raktar hafaverið að framan. Auk þess sé ljóst að stóðhesturinn tilheyri búinu m.a. samkvæmtskráningu í „WorldFeng“ en ekki P ehf. enda hafi það félag ekki greitt neittfyrir hestinn. Þar af leiðandi eigi tekjur af honum að renna til búsins.Varnaraðili vísar til þess að hesturinn sé úr sameiginlegri ræktun aðila oghafi verið grunnskráður á þau bæði. Sóknaraðili hafi á sínum tíma skráð hestinnað hálfu í eigu tveggja dætra þeirra. Þær systur beri hins vegar engan kostnaðaf hestinum og þá hafi þær ekki lagt neitt til hans og þar af leiðandi eigi þærekki rétt á að hirða af honum tekjur heldur eigi þær að renna til búsins.Þráttfyrir að A sé [...] og hann hafi verið notaður verulega á undanförnum árum líktog skráning afkvæma hans beri með sér hafi engar tekjur skilað sér til búsins íformi folatolla en sumarið 2016 hafi tollurinn verið verðlagður á 195.000krónur. Varnaraðili byggir á því að skiptastjóri hafi heimildir til aðendurkrefja þann aðila sem hagnýtt hefur sér eignir annars aðila sem ífjárslitum er, um tekjur af eign til hagsbóta fyrir báða aðila fjárslitanna. Umlagarök vísar varnaraðili fyrst og fremst til hjúskaparlaga nr. 31/1993 og lagaum skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Einnig til laga um einkahlutafélög nr.138/1994 og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1998. Þá vísar hann til almennra reglnakröfu- og eignaréttar um að gerða samninga beri að halda. Krafa um málskostnaðúr hendi sóknaraðila er reist á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.IVNiðurstaðaÁgreiningurmáls þessa snýst um það hvort hrossin sem nafngreind eru í kröfugerðum aðilaskuli koma til skipta við fjárslit á búi þeirra. Sóknaraðili krefst þess aðhrossunum verði haldið utan við skiptin en andvirði þeirra, eins og það ertilgreint á reikningum sem í málinu liggja, komi til skipta. Varnaraðili krefstþess hins vegar að hrossunum verði skipt in natura. Þá deila aðilar sérstaklegaum tekjur sem stóðhestinn A hefur aflað. Sóknaraðili krefst þess að tekjunumverði haldið utan við skiptin en varnaraðili telur þær eiga að renna tilbúsins. Undirrekstri málsins féllu aðilar frá ágreiningi varðandi merina D en á skiptafundi12. maí 2016 skiptu aðilar á milli sín nokkrum hrossum og kom D ásamt fyli þá íhlut sóknaraðila. Þá liggur og fyrir að aðilar eru sammála um að stóðhesturinnA sé að hálfu í eigu tveggja dætra þeirra og snýst ágreiningur þeirra því umþað hvort hann tilheyri búi þeirra að hálfu. Aðilarstunduðu saman hrossarækt í fjölda ára frá því að þau hófu sambúð á árinu [...]allt til þess dags er varnaraðili fór af sameiginlegu heimili þeirra haustið2014. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að þau hafi að jöfnu komiðað ræktun hrossanna og búskapnum almennt. Flest hinna umþrættu hrossa úr ræktunaðila voru í upphafi skráð að jöfnu í eigu þeirra beggja í upprunabók íslenskahestsins „WorldFengur“ sem gefur sterka vísbendingu um að þau hafi litið svo áað þau ættu jafnan hlut í þeim hrossum sem þau ræktuðu. Þá liggur fyrir aðaðilar hafa þegar skipt að jöfnu sín á milli allnokkrum hrossum og önnur hafameð samkomulagi verið seld án þess að annar aðila gerði sérstakt tilkall tilþeirra. Eru því ekki efni til annars en að líta svo á að aðilar hafi átt þauhross sem hér er um deilt, líkt og önnur, að jöfnu. Ekki skiptir hér máli þóvera kunni að hin umþrættu hross séu afkvæmi hrossa sem voru í eigu ættingjasóknaraðila og hún eignaðist áður en aðilar tóku upp sambúð en ætterni þeirraeitt og sér getur ekki leitt til þess að þau séu frekar hjúskapareignsóknaraðila en varnaraðila.Sóknaraðilibyggir á því að einkahlutafélagið P ehf. hafi keypt hrossin í maí 2015 og þarmeð séu þau ekki lengur í eigu búsins og komi því ekki til skipta. Af hálfuvarnaraðila er því haldið fram að reikningar þessir séu ólögmætir og dagsettiraftur í tímann. Hér háttar svo til að sum þeirra hrossa sem um er deilt ímálinu og fleiri hross voru með reikningi í [...] 2015 seld Q ehf. Ágreiningurkom upp milli aðila vegna þeirrar ráðstöfunar og var máli varðandi ágreininginnskotið til dómsins en sóknaraðili sem jafnframt var til sóknar í því málifelldi það niður. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en langt fram áhaustið 2016 hafi ekki annað staðið til en að hin umþrættu hross væru tilskipta. Aðilar hafa bæði gert tillögur að skiptingu hrossa og verður ekkiframhjá því horft að í tillögum sóknaraðila eru hin umþrættu hross ítrekaðnefnd. Ekkert bendir til annars en að reikningar fyrir sölu ágreiningshrossanna hafi fyrst komið fram haustið 2016 en þegar meta átti hross búsinstil verðs í nóvember það sl. andmælti sóknaraðili því að ákveðin hross sættumati. Á skiptafundi 20. desember sl. er reikningunum að því er virðist fyrstframvísað og þeim strax mótmælt af hálfu varnaraðila. Með hliðsjón af þessu bersóknaraðili sönnunarbyrgði fyrir því að reikningarnir hafi verið gefnir út áþeim tíma sem dagsetning þeirra segir til um og jafnframt að henni hafi á þeimtíma verið þessi ráðstöfun heimil. Slík sönnun hefur ekki tekist. Hér verðureinnig að horfa til þess að hrossin voru notuð í sameiginlegan atvinnureksturaðila en þau ráku áður saman [...] og bar sóknaraðila því eftir ákvæðum 61. gr.hjúskaparlaga nr. 31/1993 að afla sér skriflegs samþykkis varnaraðila fyrirsölu hrossanna. Hrossin tilheyrðu því sameiginlegu búi aðila og koma til skiptaskv. 104. gr. laga nr. 20/1991. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið erkröfum sóknaraðila hafnað og fallist á kröfu varnaraðila þess efnis að hrossþau sem nánar eru tilgreind í úrskurðarorði skuli koma til skipta. Áðurer þess getið, að aðilar eru sammála um að stóðhesturinn A sé að hálfu í eigutveggja dætra þeirra og kemur því ekki til álita að allar tekjur af hestinumskuli renna til búsins og þannig koma til skipta. Skiptir hér engu þóttdæturnar hafi ekki staðið undir helmingi þess kostnaðar sem óhjákvæmilega hlýstaf rekstri hestsins. Eftir atvikum kann búið að eiga kröfur á þær vegna þessa.Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 kemur m.a. arður af eignum ogréttindum til skipta og er því fallist er á niðurstöðu skiptastjóra þannig aðtekjur af hestinum tilheyri búinu.Meðhliðsjón af niðurstöðu málsins verður sóknaraðili dæmdur til að greiðavarnaraðila 620.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.Afhálfu sóknaraðila flutti mál þetta Þyrí Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður enaf hálfu varnaraðila Ólafur Björnsson hæstaréttarlögmaður.HalldórHalldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættum ákvæðum 2. mgr.131. gr. laga nr.20/1991, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr.91/1991.ÚrskurðarorðViðopinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skuluhrossin B, C, E, F, G, H, I, J, K, L [...], tryppi undan M og A fætt 2015 ogstóðhesturinn A að hálfu, koma til skipta.Viðfjárslitin skal leggja til grundvallar að helmingur folatolla vegnastóðhestsins A komi til skipta. Sóknaraðili greiði varnaraðila 620.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 391/2003 | Kærumál Kæruheimild Útivist Frávísun frá Hæstarétti | Kærð var sú ákvörðun héraðsdóms um að fella niður mál sem S hafði höfðað gegn F og J. Tekið var fram að samkvæmt ótvíræðu orðalagi í upphafi 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væru það eingöngu úrskurðir héraðsdómara um nánar tilgreind efni, sem gætu sætt kæru til Hæstaréttar, en ekki ákvarðanir hans um þau. Þar sem heimild brast fyrir kærunni var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 8. október 2003. Sóknaraðilar kveðast kæra „úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur“ 21. mars 2003, en þann dag hafi málinu verið lokið með ákvörðun um að fella það niður, en um þessi afdrif málsins hafi þeim fyrst orðið kunnugt 16. september 2003. Um kæruheimild vísa sóknaraðilar til k. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þeir krefjast þess að ákvörðun héraðsdómara verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir hann að taka málið til meðferðar að nýju. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Varnaraðili þingfesti mál þetta á hendur sóknaraðilum fyrir héraðsdómi 12. desember 2002 til heimtu skuldar. Í greinargerð sóknaraðila, sem lögð var fram á dómþingi 23. janúar 2003 kröfðust þeir sýknu af kröfu varnaraðila og greiðslu málskostnaðar. Í málinu liggur fyrir ljósrit símbréfs, sem héraðsdómari kveður að sent hafi verið lögmanni sóknaraðila 4. mars 2003, en þar var tilkynnt um fyrirtöku málsins 21. sama mánaðar. Það þing var sótt af hálfu varnaraðila, en ekki af hálfu sóknaraðila. Krafðist varnaraðili þess að málið yrði fellt niður án kostnaðar og féllst héraðsdómari á þá kröfu með ákvörðun, sem færð var í þingbók. Sóknaraðilar kveðast ekki hafa fengið það símbréf, sem áður er getið. Þeim hafi því ekki verið kunnugt um þinghaldið 21. mars 2003 og hafi málið ranglega verið fellt niður án greiðslu málskostnaðar til sóknaraðila. Sóknaraðilar hafa ekki neytt réttar síns til að leita endurupptöku málsins í héraði, sbr. 97. gr. laga nr. 91/1991, og afla í því sambandi úrskurðar, sem kynni að mega kæra til æðra dóms samkvæmt i. lið 1. mgr. 143. gr. sömu laga. Svo sem greinir hér að framan kvað héraðsdómari ekki upp úrskurð um að mál varnaraðila gegn sóknaraðilum yrði fellt niður heldur tók hann um það ákvörðun, sem færð var í þingbók, sbr. 3. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi í upphafi 1. mgr. 143. gr. sömu laga eru það eingöngu úrskurðir héraðsdómara um nánar tilgreind efni, sem geta sætt kæru til Hæstaréttar, en ekki ákvarðanir hans um þau. Brestur því heimild fyrir kæru sóknaraðila. Af þeim sökum verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2003. Mál nr. E-17780/2002 Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis gegn Friðriki Ingva Jóhannessyni og Jóhanni Þór Hopkins Skjöl málsins nr. 1- 11 liggja frammi. Af hálfu stefnanda sækir þing Hlynur Halldórsson hdl. v/Jóhannesar B. Björnssonar hdl. Af hálfu stefndu er ekki sótt þing en forföll hafa ekki verið boðuð. Dómarinn leggur fram nr. 12, boðun í þinghaldið með símbréfi. Lögmaður stefnanda óskar eftir að fella málið niður án kostnaðar. Málið er fellt niður. Dómþingi slitið. Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari |
Mál nr. 544/2002 | Kynferðisbrot Opinberir starfsmenn Sönnunargögn | X, sjúkraflutningamaður, var sakaður um að hafa áreitt Y kynferðislega þegar hún var flutt með sjúkrabifreið á sjúkrahús. Þegar litið var til lýsinga X á því hvað honum bar að gera samkvæmt starfsreglum þar um og athöfnum hans í greint sinn þótti ekki útilokað að eðlilegar skýringar gætu legið til þess að DNA-snið úr X fannst á vinstra brjósti Y, hvort sem það var komið úr munnvatni hans eða á annan hátt, en annarra gagn naut ekki um ætlað áreiti hans við Y. Yrði ekki útilokað eins og aðstæðum var háttað að Y hefði getað mistúlkað athafnir X. Þóttu sönnunargögn málsins metin í heild ekki nægileg til þess að dómur yrði á þeim reistur um sakfellingu X en endurtekið mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar Y var ekki talið geta haft áhrif á þá niðurstöðu. Með vísan til þessa var talið að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sekt X og var hann því sýknaður. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. desember 2002 að ósk ákærða og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á sakfellingu, þyngingar refsingar og að dómfelldi verði dæmdur til greiðslu 2.000.000 króna miskabóta til kæranda auk vaxta. Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann mildunar refsingar, hún verði skilorðsbundin og að skaðabætur verði lækkaðar Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð bréfaskipti saksóknara og Gunnlaugs Geirssonar prófessors varðandi lífsýni sem tekin voru af kæranda á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi nokkru eftir að ásakanir hennar á hendur ákærða komu fram. I. Ákærði er sakaður um alvarlegt brot í opinberu starfi sem sjúkraflutningamaður. Á hann að hafa áreitt kæranda kynferðislega þegar hún var flutt frá heimili sínu á Landspítalann við Hringbraut laugardagskvöldið 18. ágúst 2001. Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Fram kom fyrir Hæstarétti að ákærði hefur að baki umtalsvert starfsnám og mikla starfsreynslu sem sjúkraflutningamaður. Fyrir dómi sagðist ákærða svo frá að hann og vitnið A hafi verið kallaðir í sjúkrabifreið að heimili kæranda og hafi ástæða útkallsins verið meðvitundarleysi vegna lyfjatöku. Þeir hafi farið inn með tæki sín og þar hitt fyrir kæranda, sem hafi legið fullklædd í hjónarúmi, og virst vera með litla meðvitund fyrst í stað. Hún hafi í byrjun engu svarað þeim, en síðar sagt að hún vildi ekkert með þá hafa og vildi svipta sig lífi. Bað hún þá að koma sér út. Í því hafi borið að Þórdísi Guðmundsdóttur lækni og aðstoðarmann hennar. Eftir að hafa hugað lítillega að kæranda hafi þeir A skilið hana eftir í umsjá læknisins en farið út og sótt sjúkrakörfu og komið með hana alveg inn að rúmi kæranda. Þórdís hafi þá verið búin að ræða meira við hana og setja upp nál hjá henni og æðalegg í handlegg hennar og verið að reyna að fá fram hvaða lyf hún hefði tekið. Þeir hafi sett hana í körfuna og hafi hún ekkert eða lítið hjálpað til við það, verið slöpp og hafi þeir eiginlega farið með hana eins og meðvitundarlausa manneskju. Þeir hafi síðan flutt hana út úr húsinu og sett hana á börunum inn í bifreiðina. Hann og Þórdís læknir hafi farið aftur í bifreiðina með kæranda. Hann hafi setið framar á bekknum til hliðar við börurnar eða á móts við höfuðið en Þórdís setið við fótagaflinn. Samkvæmt vinnureglum eigi þeir að vinna ákveðin verk og sagðist hann hafa hafið þau, tekið vinstri handlegg kæranda og lagt yfir sig og mælt blóðþrýsting og súrefnismettun í blóði með viðeigandi áhöldum. Þórdís læknir hafi á meðan lokið við að skrifa sína skýrslu. Hún hafi ákveðið að farið skyldi með sjúklinginn á Landspítalann við Hringbraut og hafi hún síðan kvatt þá. A hafi ekið en hann verið einn aftur í hjá kæranda. Þar sem Þórdís hafi talið að ekki væri mikil alvara á ferðum, hafi verið ákveðið að þeir ækju ekki með forgangi á sjúkrahúsið. Þeir sjúkraflutningamennirnir hafi í upphafi rætt saman um hvaða leið þeir ættu að fara út úr hverfinu, en síðan hafi hann snúið sér aftur að kæranda. Hafi hann fyrst límt á hana fjórar elektróður, en þær séu með lími og geli. Tvær þeirra eigi að límast um það bil neðan við viðbein og hinar tvær á kvið sitt hvoru megin alveg út á síðu í línu út frá nafla. Þetta eigi að gefa sjúkraflutningamönnum færi á að fylgjast með hjartslætti. Í þessu tilviki hafi hann rennt efri elektróðunum niður um hálsmál bols, sem kærandi var í, en að neðan tekið bolinn upp. Þegar hann hafi séð að hjartað vann eðlilega hafi hann hlustað hana með hlustunarpípu til þess að athuga hvort lungun fylltu sig eðlilega. Hann hafi hlustað hana yfir lungnasvæðið og til þess farið með hlustunarpípuna niður um hálsmál bolsins og lyft honum upp á móts við neðstu rifbein. Eftir þetta hafi hann tekið „súrefnisgleraugu“, þ.e. glæra slöngu með tveimur litlum opum, sem fara eigi upp í nasirnar og fest sé bak við eyrun en komi saman undir hökunni. Slangan sé fest við súrefnisgeyma bílsins. Hann hafi reynt að spjalla við kæranda meðan á þessu stóð og sagt henni hvert þau væru að fara, en hún hafi engu eða litlu svarað. Hafi hann því viljað fá frekari viðbrögð og nuddað bringubein hennar með fingurhnúunum. Hún hafi þá kveinkað sér lítillega. Þeir hafi síðan ekið sem leið lá á sjúkrahúsið. Kærandi hafi verið með teppi yfir sér og neðri ól á sjúkrabörunum spennta. Hann hafi annað slagið ýtt á bringuna á kæranda en ekki fengið of góð svör og því ýtt einu sinni eða tvisvar undir kjálkabörð hennar. Þá hafi hún hreyft sig svo að hann vissi að hún var ekki meðvitundarlaus. Þegar á sjúkrahúsið kom hafi hann tekið til sín vírana sem hann hafði sett upp með því að toga í þá. Þá hafi hann tekið af henni súrefnisgleraugun. Á sjúkrahúsinu hafi tveir hjúkrunarfræðingar tekið við kæranda og hafi hann sagt þeim að hún væri ekki meðvitundarlaus en með skerta meðvitund. Ákærði hefur lagt fram leiðbeiningar til sjúkraflutningamanna um vinnuferli þegar sjúklingur hefur skerta meðvitund eða er meðvitundarlaus. Af hálfu saksóknara hefur ekki verið sýnt fram á að framangreind lýsing ákærða stangist í nokkru á við venjubundið vinnuferli sjúkraflutningamanna í tilviki sem þessu. Styðst lýsing hans og við frásögn Þórdísar læknis svo langt sem hún nær. Fram kom að bæði hún og ákærði voru með latexhanska meðan þau önnuðust kæranda. Hún taldi að kærandi hefði verið með slævða meðvitund. Hún hafi svarað hægt, eins og hún væri undir áhrifum lyfja, en hún hafi samt svarað öllu skýrt, það sem það var. Vitnið A sjúkraflutningamaður, sem var með ákærða í greint sinn, skýrði fyrir dómi frá komu þeirra á heimili kæranda með líkum hætti og ákærði. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt óeðlilegt í framkomu ákærða við kæranda. Hann taldi sig sjá vel aftur í bifreiðina um baksýnisspegilinn. Ljóst virðist þó að hann getur ekki úr bifreiðastjórasætinu séð á efri hluta sjúklings sem liggur í körfunni. Fyrir dómi sagði kærandi að hún hefði tekið lyf umrætt kvöld. Henni hefði liðið illa og langað til að deyja. Hún muni að hún hafi skammast sín þegar sjúkraflutningamennirnir komu fyrir að hafa gert þetta en ekki tekist ætlunarverk sitt. Hún hafi því haft lokuð augun og hvorugan sjúkraflutningamanninn séð. Annar þeirra hafi ýtt við henni og spurt hvaða lyf hún hefði tekið og hún þá bent honum inn í annað herbergi. Hann hafi síðan athugað meðvitund sína og ýtt nokkrum sinnum við sér. Læknirinn hafi svo komið og talað við sig, spurt hvað hún héti og hvar lyfin væru og hversu mikið hún hefði tekið. Hún hafi svarað henni. Hún sagði að sjúkraflutningamennirnir hefðu verið inni á meðan læknirinn talaði við sig. Síðan hafi þeir beðið sig að setjast á sjúkrabörurnar þegar læknirinn hafði skoðað sig. Hún hefði alltaf haldið fyrir andlitið með höndunum. Hún kvaðst sjálf hafa getað farið í börurnar. Þeir hafi síðan farið með sig út í bifreiðina og hafi annar sjúkraflutningamaðurinn og læknirinn farið aftur í með sér. Sá fyrrnefndi hafi setið nær höfðagafli sínum en læknirinn nær mittinu. Læknirinn hafi beðið um að bifreiðin yrði aðeins stöðvuð, eftir að hún var farin af stað, því að þurft hefði að setja nál í höndina á sér. Hún hafi síðan heyrt að læknirinn hafi sagt við sjúkraflutningamanninn að þetta væri ekkert alvarlegt og því væri allt í lagi að hann færi úr bílnum. Sjúkraflutningamaðurinn hafi því verið einn í bifreiðinni hjá sér. Hann hafi tekið bolinn, sem hún var í, upp og hafi sennilega ætlað að setja á hana elektróður. Hún muni þó þegar hún kom inn á “geðdeildina” hafi hún aðeins haft eina slíka undir hægra brjóstinu og ekki hafi virst sem aðrar hafi verið settar á sig. Hún sagðist ekki hafa verið tengd við nein mælitæki. Hún kvaðst hafa verið í brjóstahaldara en hlýrarnir hafi báðir dottið niður svo að skálarnar beggja megin höfðu farið undir brjóstin. Þessi frásögn er ekki í samræmi við fyrstu skýrslu hennar fyrir lögreglu en þá hélt hún því fram að ákærði hefði tekið brjóstahaldarana niður fyrir brjóstin. Kærandi sagði að sig hafi bara langað til að sofna en sjúkraflutningamaðurinn hafi kallað til sín nokkrum sinnum og ýtt á bringuna á sér. Hún hafi ekki svarað honum og hafi þá orðið þess vör að hann kleip og þuklaði á vinstra brjóstinu á sér og muni að hún hugsaði hvort hann ætti að gera þetta til að athuga vökuástand hennar. Hún hafi verið fljót að ýta þeirri hugsun frá sér. Hann hafi haldið þessu áfram og þuklað bæði brjóstin og farið með höndina ofan í buxurnar og snert skapahárin en ekki farið neðar. Hún hafi stífnað öll upp og hann þá fært höndina. Hann hafi þá kallað aftur til hennar og ýtt aftur á bringuna á henni. Hún hafi ekki svarað honum og hann hafi farið með höndina strax upp á hægra brjóst og þuklað á sér þar. Síðan hafi hún orðið þess vör að hann nartaði í vinstri geirvörtuna. Þetta hafi ekki verið langur tími, en fyrir sér heil eilífð. Síðan muni hún eftir því þegar verið var að bakka að sjúkrahúsinu hafi hann staðið upp og glennt fætur sína í sundur, en hún hafi verið með bogna fætur, og síðan hafi hann káfað á lærum sínum og sköpum að utanverðu. Loks hafi hann lagt fæturna niður og lagað bolinn. Hún hafi allan tímann haft hendur fyrir andlitinu. Þegar sjúkraflutningamaðurinn hafi örugglega verið farinn hafi hún sagt hjúkrunarkonu frá því að hann hefði káfað á sér. Hjúkrunarfræðingarnir, sem tóku á móti kæranda, sögðu fyrir dómi að hún hefði eflaust verið eitthvað undir áhrifum lyfja en ekkert „útslegin“, bara miður sín, og staðfestu að hún hafi strax sagt þeim að ákærði hefði leitað á sig. Þær töldu að sjúkraflutningamaðurinn hefði lýst meðvitund kæranda minni en þær upplifðu hana. Hulda María Einarsdóttir læknir, sem síðan var kölluð til, kvaðst muna óljóst eftir atvikum. Tilfellið hafi verið tilkynnt sem lyfjaeitrun, en hún taldi þó að kærandi hefði rætt við sig með fullri meðvitund. Hún hafi sagt að sjúkraflutningamaðurinn hefði leitað á sig og sleikt geirvörturnar. Hún kvaðst ekki hafa viljað trúa þessu og þótt þetta út í hött og viljað spyrja hana um lyfin, sem hún hefði tekið, en kærandi hefði alltaf komið aftur að þessu. Þar sem hún var þetta stöðug í framburði sínum hafi hún kallað til geðlækni sem var á bakvakt. Þorsteinn Gíslason geðlæknir kvaðst muna greinilega eftir samtali við kæranda. Hún hafi verið ágætlega vakandi, ef til vill eitthvað merkt því að vera undir áhrifum lyfja. Hún hafi sagt sér frá því að sjúkraflutningamaður hefði þreifað á brjóstum sér og kysst þau. Hún hafi komist í uppnám við að segja frá þessu. Hann hafi rætt frekar við hana og síðan deildarlækninn og þar sem sagan sem kærandi sagði þeim hvoru í sínu lagi var samhljóða, hafi í raun ekki verið um annað að ræða en að senda kæranda á neyðarmóttöku. Arnar Hauksson læknir, sem skoðaði kæranda á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi, hefur eftir henni líka frásögu um áreiti sjúkraflutningamannsins og aðrir. Segir í skýrslu hans að kæranda hafi liðið illa og grátið einkum þegar hún rifjaði atburðinn upp. Kærandi hafi virst eðlileg við almenna skoðun og hafi síðan verið tekin strok frá geirvörtum í von um að finna lífsýni úr munnvatni. Arnar kom fyrir dóm og sagði þá að eina sem þeir hafi getað gert hafi verið að taka strok með saltvatnsupplausn í kring um geirvörtur fyrir hugsanleg lífsýni, en engir áverkar hafi sést á kæranda. Hann kvaðst hafa spurt hana hvort um einhvern misskilning hennar hefði getað verið að ræða, hvort sjúkraflutningamaðurinn hefði ekki bara verið að strjúkast við hana, en hún hafi tjáð þeim að hún hafi verið með lokuð augun. Hún hafi hins vegar haldið því fram að þetta hefði verið eins og hann hefði eftir henni. II. Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík sendi lífsýni þau, sem Arnar Hauksson læknir hafði tekið, til Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði ásamt fylgiseðlum, þar sem greint var frá því að um væri að ræða brjóstahaldara og bómullarpinna í máli sem varðaði hugsanlegt kynferðisbrot. Beðið var um rannsókn á því hvort munnvatn greindist í sýnunum og hvort unnt væri að nota það til kennslagreiningar. Rannsóknarstofan sendi sýnin til rannsóknar á Rettsmedisinsk Institutt í Noregi. Í ljós kom þar við fjölmögnunaraðferð að DNA-snið karlmanns og konu voru í tveimur bómullarpinnum frá vinstri geirvörtu, en eingöngu konunnar í öðrum tveimur pinnum frá sömu geirvörtu. Ekki reyndist unnt að framkalla DNA-snið úr þremur sýnum sem tekin voru frá hægri geirvörtu og ekki þóttu efni til að rannsaka brjóstahaldara. Að þessari niðurstöðu fenginni þótti ástæða til að tekin yrðu blóðsýni úr kæranda og ákærða til rannsóknar og samanburðar við lífsýnin sem fyrir voru. Voru þau bæði til samvinnu þar um. Sýnin voru send Rettsmedisinsk Institutt sem fyrr. Í málinu liggur fyrir túlkun Gunnlaugs Geirsonar prófessors á niðurstöðu rannsóknarstofnunarinnar. Segir þar að merki um munnvatn hafi fundist í einum bómullarpinna af þremur, sem teknir hafi verið frá hægri geirvörtu, og öllum fjórum pinnunum, sem teknir hafi verið frá vinstri geirvörtu kæranda. Einnig hafi fundist vottur af munnvatni í brjóstahaldara svarandi til vinstra brjósts. Eins og áður greinir var eingöngu unnt að magna upp DNA-snið í bómullarpinnum, sem höfðu verið teknir frá vinstri geirvörtu kæranda. Mátti greina DNAsnið frá bæði kæranda og ákærða í tveimur bómullarpinnum af fjórum, en í hinum tveimur eingöngu frá kæranda. Segir í skýrslu prófessorsins að munnvatn hafi verið að finna á báðum geirvörtum kæranda og í brjóstahaldara og frumur með DNA-sniði ákærða hafi fundist á vinstri geirvörtu kæranda. Þegar þessar niðurstöður voru bornar undir kæranda og ákærða taldi hún að þær styddu framburð sinn en hann kvaðst ekki geta skýrt það að DNA-snið hans fyndist á brjósti konunnar en gat þess þó að hann hefði þann kæk að þurrka sér um munnvikin með handarbakinu. Þessi tilgáta hans virðist ekki hafa verið könnuð nánar. Í röksemdum héraðsdóms er fullyrt að með niðurstöðu framangreindrar DNA-rannsóknar sé fram komið að munnvatn úr ákærða hafi greinst á vinstra brjósti kæranda skömmu eftir ætlað atvik. Bæði í greinargerð saksóknara og ákærða er því haldið fram að hér sé of sterkt til orða tekið. Af þessu tilefni ritaði saksóknari Gunnlaugi Geirssyni prófessor bréf og spurði hvort þessi fullyrðing héraðsdóms væri rétt og jafnframt að því hvort tiltekið magn af frumum þurfi að vera í sýni svo að magna megi upp DNA-snið. Í svari prófessorsins segir meðal annars að vitnisburður um að vessi með lífsýni geti verið til staðar leiði til þess að strokið sé yfir staðinn þar sem vessinn sé talinn vera með rökum bómullarpinna, sem síðan sé látinn þorna. Sé leitað að munnvatni sé skimað í sýninu fyrir alfa-amylasa (efnakljúf, sem sé í miklum mæli í munnvatni) og sé það jákvætt sé kannað hvort þar séu frumur og DNA-efnið einangrað úr kjörnum þeirra og DNA-sniðið, sem því næst sé framkallað, borið saman við DNA-snið grunaða. Munnvatnið sé tær vökvi með nokkru slími. Frumurnar sem finnist í munnvatninu séu að mestu þekjufrumur innan úr klæðningu munnslímhúðarinnar og yfirleitt sé talsvert mikið af þeim í munnvatninu og stuðst við það til kennslagreiningar í rannsókn brotamála, til dæmis þar sem sígarettustubbar finnast á vettvangi, brún á drykkjaríláti o.s.frv. Tilvist alfa-amylasa og frumna með DNA-sniði grunaðs í umræddu sýni bendi til þess að sniðið sé úr munnvatni (munnslímhúðarfrumum) hans komið, en að öðru leyti sé ekki kleift að leggja mat á orðalag dómsins. Þá kom fram í svarbréfi prófessorsins að unnt sé að magna DNA-snið frá einni frumu, en í raun sé jafnan um að ræða umtalsverðan fjölda frumna, þó að ekki sé unnt að tilgreina tölu þeirra. Svar prófessorsins leiddi til frekari bréfaskipta. Í tölvupósti sem prófessorinn sendir saksóknara segir: „Vegna spurningar þinnar um húðþekjufrumur verður að undirstrika að slíkar þekjufrumur skipta sér í neðsta lagi húðarinnar en þroskast og þokast upp á við að yfirborði og tapa kjarnanum þegar ofar dregur. Eftir því sem húðlagið er þykkara er minna af kjarnaefni (DNA) við yfirborðið og er því yfirleitt afar lítið af slíku efni í sýnum sem tekin eru af yfirborði hörunds. Hins vegar hefur kjarnsýru-mögnunaraðferðin gert kleift að ná fram DNA-sniði þótt afar lítið sé af kjarnaefni í stroki frá húðyfirborði og er því ekki unnt fortakslaust að hafna því að unnt sé að magna upp DNA-snið úr slíku sýni heldur verður að kanna slíkt í hverju máli fyrir sig. Slímhúðir, svo sem í munni, kynfærum og víðar, eru klæddar frumum sem einnig skipta sér í neðsta lagi þekjunnar en þær mynda aðeins þunnt lag (þess vegna eru slímhúðir rauðar að þær eru svo þunnar að blóðið skín í gegn) og tapa ekki kjarnanum er þær þokast ofar í þekjunni við þroska. Því er mikið kjarnaefni í frumum sem koma af yfirborði slímhúða, t.d. er mikið af því í munnvatni og öðrum vessa sem tekur við frumum af yfirborði slímhúða. Ef húð rofnar kemur yfirleitt til blæðingar og DNA getur þar með komið frá blóðfrumum (hvítum blóðkornum)“. Samkvæmt skýringum saksóknara fyrir Hæstarétti ber að skilja svör og útskýringar prófessorsins svo að munnvatn hafi fundist á brjóstum kæranda. Ekki verði fullyrt hvort það stafi frá kæranda sjálfri, ákærða eða þeim báðum. Í munnvatninu á vinstra brjósti hennar hafi verið unnt að magna DNA-snið bæði úr henni sjálfri og honum að því er varðaði tvo bómullarpinna af fjórum, þ.e. að húðþekjufrumur hafi verið í munnvatninu með kjarnaefni (DNA). Lögreglan í Reykjavík sendi jafnframt sýni úr kæranda til Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfjafræði og bað um að þau yrðu rannsökuð. Lögreglan óskaði eftir alkóhólrannsókn og lyfjaleit við þá rannsókn. Í beiðninni eru þau lyf, sem talin eru koma við sögu, noprilan, exan og imóvan. Í matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents segir um sermissýni merkt NM-760, sem mun vera viðkomandi sýni, að etanól hafi ekki verið í mælanlegu magni. Í serminu hafi verið klórdíazepoxíð 1,35 µg/ml og vottur af demoxepami (minna en 0,5 µg/ml). Tramadól (Nobligan eða Imovane hafi ekki verið í mælanlegu magni í serminu. Sýnið hafi verið of lítið til ákvörðunar á búspíróni (Exan). Dósentinn segir að klórdíazepoxíð sé róandi lyf af völdum benzódíazepín sambanda og sé demoxepam virkt umbrotsefni þess. Þéttni klórdíazepoxíðs í serminu bendi til töku þess í stórum lækningalegum skömmtum. Sýnið hafi aðeins nægt til takmarkaðrar lyfjaleitar. Niðurstöðurnar útiloki því ekki önnur algeng lyf. Lögreglan virðist ekki hafa kannað áhrif greindra lyfja á veruleikaskyn þeirra sem taka þau inn og engin álitsgerð liggur fyrir um slík áhrif. III. Í niðurstöðu héraðsdóms er sagt að framburður kæranda sé helsta sönnunargagnið í málinu og því haldið fram að hún sé staðföst í þeim framburði sínum að ákærði hafi sleikt brjóst hennar og káfað á kynfærum þegar hún var flutt með sjúkrabifreið á Landspítalann við Hringbraut. Á það er bent að hún hafi strax sagt frá atvikinu er ákærði og samstarfsmaður hans voru farnir af sjúkrahúsinu og frásögn hennar hafi, samkvæmt framburði hjúkrunarfólks þar og á neyðarmóttöku Landspítalans, verið í samræmi við framburð hennar síðar fyrir dómi og skýrslugjöf hjá lögreglu. Þá er talið að trúverðugleiki kæranda styrkist af þeim ákveðnu vísbendingum sem fram komi um að ákærði hafi talið meðvitund hennar skerta. Þó ráði úrslitum að munnvatn úr ákærða hafi greinst á vinstra brjósti kæranda. Við framangreindan rökstuðning er það að athuga að ekki er annað fram komið en að ákærði hafi vitað að kærandi var við einhverja meðvitund. Þótt ásakanir kæranda á hendur ákærða hafi verið staðfastar verður að fallast á það með verjanda ákærða að nokkrar breytingar hafa orðið á frásögn hennar frá fyrstu skýrslutöku 19. ágúst 2001, bæði við skýrslugjöf hjá lögreglu 11. desember 2001 um nokkur atriði og síðar fyrir dómi varðandi stöðu brjóstahaldarans. Þá hefur hún frá upphafi borið að hún hafi allan tímann haft hendur fyrir augunum og ekki séð athafnir ákærða heldur skynjað þær. Framburður hennar um hversu margar elektróður voru settar á hana getur vart staðist. Þótt hjúkrunarfræðingarnir sem fyrst sáu hana á sjúkrahúsinu beri að hún hafi verið með meiri meðvitund en sjúkraflutningamennirnir sögðu þeim, liggur ekkert fyrir um veruleikaskyn hennar meðan á flutningi þeirra stóð. Fram hjá því verður ekki horft að hún hafði tekið lyf í stórum skömmtum í því augnmiði að fyrirfara sér og hlaut eðlilega að vera í miklu uppnámi þegar af þeim sökum. Álitsgerð um áhrif lyfja þeirra sem hún tók liggur ekki fyrir. Héraðsdómur segir í röksemdum sínum að ákærði hafi verið staðfastur í framburði sínum. Vitnið A, sem ók sjúkraflutningabifreiðinni, varð einskis óvenjulegs var og sat hann þó rétt fyrir framan kæranda og ákærða og gat fylgst að hluta með því sem fór fram á milli þeirra um baksýnisspegil bifreiðarinnar. Kærandi vissi samkvæmt framburði sínum af honum en lét ekkert vita af ætluðu broti. Áður er því lýst að ekki liggur annað fyrir en að lýsing ákærða sé í samræmi við starfsreglur hans og svo langt sem framburður Þórdísar læknis nær hóf ákærði að fara eftir þeim fyrirmælum. Saksóknari og verjandi eru um það sammála að héraðsdómur oftúlki niðurstöðu DNA-rannsóknar, svo sem að framan er lýst. Þegar litið er til lýsinga ákærða á því hvað honum bar að gera og athöfnum hans í greint sinn þykir ekki útilokað að eðlilegar skýringar geti legið til þess að DNA-snið úr ákærða fannst á vinstra brjósti kæranda, hvort sem það var komið úr munnvatni hans eða á annan hátt. Annarra gagna nýtur ekki um ætlað áreiti ákærða við kæranda. Verður ekki útilokað eins og aðstæðum var háttað að kærandi hafi getað mistúlkað athafnir ákærða. Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar gefi vitni eða ákærði ekki skýrslu þar fyrir dómi. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar getur rétturinn hins vegar, telji hann líkur fyrir því að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng, svo að einhverju skipti um úrslit máls, fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð máls í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram á ný, eftir því sem þurfa þykir. Að framan er því lýst að Hæstiréttur gerir nokkrar athugasemdir við mat héraðsdóms um sönnunargildi framburðar kæranda og telur hugsanlegt að það sé ekki rétt að öllu leyti og því má hreyfa því að ómerkja eigi héraðsdóm og vísa málinu til nýrrar meðferðar þar fyrir dómi. Hins vegar þykja framangreind sönnunargögn málsins metin í heild ekki nægileg til þess að dómur verði á þeim reistur um sakfellingu ákærða og verður ekki talið að endurtekið mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar kæranda geti haft áhrif á þá niðurstöðu. Verður málið því dæmt efnislega. Af því sem að framan er rakið leiðir að ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sanna sekt ákærða. Ber því að sýkna hann af öllum kröfum þess. Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 verður bótakröfu kæranda vísað frá dómi. Ákvörðun héraðsdóms um málsvarnarlaun ákærða og þóknun til réttargæslumanns er staðfest. Sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkisjóði, þar með talin málsvarnarlaun ákærða og þóknun réttargæslumanns kæranda, svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, X, skal sýkn af kröfum ákæruvaldsins. Bótakröfu kæranda á hendur ákærða er vísað frá dómi. Ákvörðun héraðsdóms um málsvarnarlaun ákærða og þóknun til réttargæslumanns kæranda í héraði er staðfest. Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun til réttargæslumanns kæranda í héraði og fyrir Hæstarétti. Málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, ákveðast 250.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns kæranda, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2002. Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 9. september 2002, „... á hendur X, fyrir kynferðisbrot og brot í opinberu starfi, með því að hafa laugardaginn 18. ágúst 2001, í sjúkrabifreið á leið á Landspítalann við Hringbraut, er ákærði sinnti sjúklingnum Y, sem sjúkraflutningamaður í Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, tekið brjóstahaldara niður fyrir brjóst konunnar, káfað á og sleikt brjóst hennar, strokið hendi yfir skapahár hennar innan klæða og káfað á innanverðum lærum og kynfærum hennar utan klæða. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40, 1992 og 138. gr. almennra hegningarlaga. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Y krefst miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum um vexti og verðbætur nr. 38, 2001 og þóknunar vegna réttargæslu.” Ákærði krefst sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 31. fyrra mánaðar. Að kvöldi laugardagsins 18. ágúst 2001 var Y flutt frá heimili sínu við [...] með sjúkrabifreið á Landspítalann við Hringbraut. Hafði hún tekið talsvert magn lyfja í því skyni að svipta sig lífi. Er á sjúkrahúsið kom skýrði hún frá því að sjúkraflutningamaður hefði áreitt sig kynferðislega í sjúkrabifreiðinni. Hún hefði haldið höndum fyrir andliti alla leið frá heimili sínu í [...] og á Landspítalann. Sagðist hún skammast sín fyrir að hafa reynt að svipta sig lífi. Samkvæmt tímaskráningum kom bifreið, sem ákærði var í og A ók, á vettvang á heimili Y kl. 19.06, fór þaðan kl. 19.23 og er skráður laus við Landspítalann kl. 19.34. Lögreglan var kölluð á bráðamóttöku spítalans og segir í lögregluskýrslu að hún hafi komið á vettvang kl. 23.45. Af gögnum og framburði lögreglumannsins má ætla að það hafi í raun verið kl. 22.45. Þar sögðu þær Hulda María Einarsdóttir, læknir, og Þóra Björk Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur, lögreglumönnum frá því að Y hefði sagt þeim frá því að hún hefði verið áreitt kynferðislega í sjúkrabifreiðinni á leið á spítalann. Í frumskýrslu er bókað eftir Y að hún hefði reynt sjálfsvíg um kl. 19 þetta kvöld. Það hefði ekki tekist þar sem dóttir hennar hefði komið að henni og kallað eftir aðstoð. Þá er haft eftir henni að er hún var aftur í sjúkrabifreiðinni ásamt einum sjúkraflutningamanni hafi sá losað brjóstahaldara hennar til að festa á hana mælitæki. Hann hafi þá einnig klipið í geirvörtur hennar og sleikt þær. Síðan hefði hann sett aðra höndina ofan í nærbuxur hennar. Y kvaðst þá hafa orðið stjörf. Hún hafi ekki sagt neitt og hafi hún haft lokuð augun á meðan á þessu stóð. Sagðist hún halda að sjúkraflutningamaðurinn hafi talið hana meðvitundarlausa. Lögreglan flutti Y frá Landspítalanum við Hringbraut á svokallaða neyðarmóttöku á Landspítalanum í Fossvogi. Síðar verður greint frá skýrslu Arnars Haukssonar, læknis á neyðarmóttökunni. Þar var tekið sýni með strokum af brjóstum Y og send til athugunar á Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði. Voru sýnin send til rannsóknar á Rettsmedisinsk Institutt í Noregi. Gerð er grein fyrir endanlegum niðurstöðum í álitsgerð rannsóknastofnunnar, sem dagsett er 1. mars 2002. Þar er í byrjun vísað til fyrri álitsgerðar stofunnar, dagsettrar 13. nóvember 2001, þar sem komið hafi fram að í sýni af vinstri geirvörtu Y hafi fundist frumur frá karlmanni. Hafi verið tekin blóðsýni af Y og ákærða. Síðan eru niðurstöðurnar raktar. Í niðurstöðukafla segir m.a.: "Merki um munnvatn finnast á einum bómullarpinna af þremur, sem teknir voru frá hægri geirvörtu og öllum fjórum pinnum, sem teknir voru frá vinstri geirvörtu kæranda. Einnig fannst vottur af munnvatni í brjóstahaldara svarandi til vinstra brjósts. Ekki var unnt að magna upp DNA-snið frá bómullarpinnum 1a og 1b og 2, sem teknir höfðu verið af hægra brjósti. Í bómullarpinnum þeim, sem teknir voru af vinstri geirvörtu kæranda, mátti greina blöndu af DNA-sniði frá karli og konu í bómullarpinnum 3a og 3b. Bómullarpinnar 4a og 4b höfðu að geyma DNA frá einum einstaklingi og var það frá konu og var samkyns kvenhluta þess, sem fannst í bómullarpinnum 3a og 3b og svarar til þess að vera kærandi DNA-snið það, sem er frá karlmanni og fannst á vinstri geirvörtu kæranda er sömu tegundar og fannst í blóði kærða [...]. Samkvæmt framanskráðu liggur fyrir að munnvatn var að finna á báðum geirvörtum konunnar og í brjóstahaldara og frumur með DNA-sniði kærða fundust á vinstri geirvörtu kæranda Í svari Rettsmedisinsk Institutt er greint frá þeim aðferðum, sem stuðst er við svo og segir um áreiðanleika niðurstöðunnar að líkurnar til þess að finna samskonar snið frá óskyldum einstaklingi eru ávallt lægri en 0,001% eða 1:10.000. Unnt er að reikna líkurnar í hverju máli fyrir sig ef þurfa þykir." Framburður prófessors Gunnlaugs Geirssonar fyrir dómi verður rakinn síðar. Verða nú raktar skýrslur fyrir dómi. Ákærði lýsti umræddu útkalli í skýrslu sinni fyrir dómi. Hann sagði að hann og A hefðu farið í þetta útkall. Tilkynnt hefði verið um meðvitundarleysi og lyfjaeitrun eða lyfjainntöku. Y hefði legið í hjónarúmi og hafi hún virst meðvitundarlaus. Hún hafi fyrst ekki svarað en síðan sagt að hún vildi deyja. Hafi hún sagt þeim að fara. Í því hafi læknir komið á vettvang, Þórdís Guðmundsdóttir. Þeir hafi þá sótt sjúkrakörfu. Í sjúkrabifreiðinni kvaðst ákærði hafa farið eftir vinnureglum um slík tilfelli. Þeir hefðu ekið án forgangs á Landspítalann. Fljótlega eftir að þeir lögðu af stað hafi A spurt hann um val á leið og hann svarað honum. Eftir það hafi hann fest fjórar elektróður á Y, tvær fyrir neðan viðbein, og tvær á kvið. Hann kvaðst hafa farið inn undir hálsmálið á bol Y til að koma efri elektróðunum fyrir og tengja vírana við þær. Hann hafi séð að hjartsláttur var eðlilegur. Þvínæst hafi hann sett á Y svokölluð súrefnisgleraugu. Hann kvaðst við það hafa sagt eitthvað við hana, en hún hafi aðeins sýnt lítil viðbrögð. Hann kveðst þá hafa nuddað hraustlega á henni bringubeinið, sem eigi að kalla fram mikil sársaukaviðbrögð, en viðbrögð hennar hafi verið lítil. Y hefði á leiðinni verið með teppi yfir sér og neðra beltið á körfunni hefði verið spennt. Ákærði kvaðst annað slagið hafa ýtt í bringuna á henni, en viðbrögð hafi ekki verið góð. Þá hafi hann einu sinni eða tvisvar ýtt undir kjálkabarðið á henni og fengið fram viðbrögð. Þá hafi hann vitað að hún var ekki meðvitundarlaus. Hann hafi á leiðinni hlustað hana, sett hlustunarpípuna undir hálsmálið og eins undir bolinn að neðanverðu og hlustað við rifbeinin. Í þann mund er þau komu á spítalann hafi hann tekið elektróðurnar. Það hafi hann gert einfaldlega með því að toga í vírana. Hann hafi ekki lyft bol Y. Við komuna á Landspítalann kvaðst ákærði hafa sagt að Y hefði litlu svarað, væri með skerta meðvitund. Hann minnti að tveir hjúkrunarfræðingar hefðu tekið á móti þeim. Aðspurður kannaðist ákærði ekki við að hafa sagt að Y væri mjög sofandi. Kvað hann það ekki vera meðal þeirra lýsinga sem þeir notuðu. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt niðurstöður DNA-rannsóknar sem lýst er að framan. Hann neitaði alfarið að hafa áreitt Y kynferðislega. Ákærði kvaðst hafa verið með sérstaka hanska. Hann hefði sett þá upp áður en farið var inn á heimili Y og tekið þá af sér eftir að flutningnum var lokið. Ákærði kvaðst vera með kæk, hann þurrkaði sífellt úr munnvikjunum með hendinni. Y gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst hafa tekið inn lyf umrætt sinn. Henni hefði liðið illa og hafi langað til að deyja. Hún kvaðst muna að sjúkraflutningamennirnir hefðu komið inn og hún hefði skammast sín fyrir að hafa gert þetta. Því hafi hún verið með lokuð augun. Hún hefði verið flutt út í sjúkrabifreið og kvaðst hún hafa farið sjálf í börurnar. Á leiðinni niður stigann hefði hún tekið fyrir andlitið. Læknirinn hefði verið í bílnum fyrst, en síðan farið og þá hefði sjúkraflutningamaðurinn verið einn með henni. Y kvaðst hafa verið í svörtum bol. Hún hefði verið með brjóstahaldara, en hlírarnir hefðu verið verið farnir útaf öxlunum þannig að skálarnar hefðu farið undir brjóstin. Sjúkraflutningamaðurinn hefði tekið upp bolinn, en hún hefði þá enn verið með hendur fyrir andliti. Hún kvaðst hafa verið með teppi bara yfir fótunum. Y gaf tvívegis formlega skýrslu hjá lögreglu að viðstöddum réttargæslumanni sínum. Fyrri skýrslan var tekin síðdegis sunnudaginn 19. ágúst 2001, tæpum sólarhring eftir að meint brot var framið. Sú síðari var tekin 11. desember 2001. Í fyrri skýrslunni lýsir hún því að ákærði hafi tekið brjóstahaldarann niður fyrir og frá brjóstunum án þess að taka frá hlírana eða losa þá. Hún nefnir ekki í þessari skýrslu að þeir hafi legið útfyrir axlir. Aðspurð gat hún ekki skýrt þennan mun með öðru en því að hún hafi verið í mikilli geðshræringu er hún gaf skýrsluna. Y lýsti því að sjúkraflutningamaðurinn hefði ýtt á bringuna á henni, en hún ekki svarað honum. Síðan hafi hún fundið að hann kleip í og þuklaði á vinstra brjósti hennar. Hún kvaðst hafa hugsað hvort hann ætti að gera þetta til að kanna hvort hún væri vakandi. Nánar sagði hún að hann hefði þuklað á báðum brjóstunum og þvínæst farið með höndina ofan í buxur hennar. Þar hafi hann snert skapahár hennar. Hún kvaðst hafa verið í “leggings” og í nærbuxum. Hún kvaðst hafa stífnað upp og hann þá fært höndina strax í burtu. Hann hafi kallað Y og ýtt á bringuna á henni. Hún hafi ekki svarað honum og hann hafi þá þuklað á henni hægra brjóstið og nartaði í vinstri geirvörtuna. Síðan þegar þau nálguðust sjúkrahúsið og bílnum var bakkað inn, hafi hann staðið upp og glennt í sundur á henni fæturna og káfað á lærunum á henni og kynfærum utan klæða. Síðan hafi hann lagt fætur hennar niður og lagað hana, sett bolinn niður, en hún hafi enn verið með hendur fyrir andliti. Hún kvaðst hafa haldið höndum fyrir andlitinu allt þar til hún var viss um að sjúkraflutningamaðurinn væri farinn. Þá hefði hún sagt hjúkrunarfræðingnum frá því að káfað hefði verið á sér. Sama hefði hún síðan sagt lækninum. Í framhaldinu hefðu tveir lögreglumenn komið. Er henni var sagt að hún þyrfti að fara niður á neyðarmóttöku hefði hún kviðið því að fara í sjúkrabifreið, en lögreglan hefði keyrt hana. Y sagði að sér hefði virst hjúkrunarfólkið vera hissa er þau sáu ástand hennar, en ákærði hefði sagt þeim að hún væri sofandi og slegið á ennið á henni. Y sagðist hafa verið lengi að ná sér eftir þennan atburð. Hún hafi verið niðurbrotin og mjög hrædd, sérstaklega við sjúkrabíla. Hún kvaðst hafa verið lögð inn á geðdeild nokkrum sinnum, þar á meðal í kjölfar atburðarins. Kvaðst hún telja að orsökin fyrir innlögnunum hafi verið þetta atvik, en ekki fyrri veikindi hennar. A, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann fór í umrætt útkall ásamt ákærða. Hann lýsti aðgerðum þeirra á sama hátt og ákærði, en hann ók bílnum. Hann sagði að Y hefði verið með skerta meðvitund. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt sérstakt aftur í bílnum á leiðinni á Landspítalann. Hann kvaðst geta séð stóran hluta sjúklingsins úr bílstjórasætinu. Kom ekki annað fram í skýrslu hans sem ástæða er til að rekja. Við aðalmeðferð málsins var tekin skýrsla af Þórdísi Guðmundsdóttur, lækni. Skýrslan var tekin í gegnum síma, en vitnið er nú búsett í Svíþjóð. Þórdís fór á vettvang í [...] umrætt sinn. Hún kvaðst hafa talað við Y og hafi hún ákveðið að flytja hana á sjúkrahús vegna gruns um lyfjaeitrun. Hún kvaðst ekki hafa fylgst með flutningi hennar í bílinn, en síðan rætt við hana í bílnum áður en lagt var af stað á sjúkrahúsið. Hún hafi ekki farið með sama bíl. Um meðvitund Y sagði Þórdís að hún hefði verið slævð, svör hafi komið hægt en tal hafi verið skýrt. Ása Fríða Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst hafa tekið á móti Y umrætt sinn og keyrt hana inn. Hafi verið með henni í fimmtán til tuttugu mínútur. Y hafi verið hálfgrátandi, en ekki mjög “dröggeruð”. Hún hafi verið miður sín. Hún hafi haldið fyrir andlitið. Er hún hafi verið spurð hvers vegna hún væri að gráta hafi hún sagt að sjúkraflutningamaðurinn hefði leitað á hana. Vitnið mundi ekki nákvæmlega hvernig Y hefði lýst því, þeim hafi fundist þetta frekar ótrúlegt. Margir sem komi inn séu bara ruglandi. Y hafi ekki talað um annað á meðan Ása heyrði til, en hún kvaðst hafa lokið vakt skömmu síðar. Aðspurð sagði Ása að hún hefði búist við að Y væri meira lyfjuð en hún reyndist vera. Hafi hún byggt það á því sem henni hafði verið sagt. Hún gat hins vegar ekki tilgreint þann sem hefði sagt henni þetta. Þóra Björk Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún var á vakt umrætt sinn og tók á móti Y. Hún kvaðst eiga erfitt með að rifja atvik upp. Hana minnti að Y hefði verið lyfjuð en ekki með skerta meðvitund. Hún mundi ekki hvað sjúkraflutningamennirnir höfðu sagt um meðvitund hennar. Sér hafi þó fundist að þeir hefðu lýst henni með skertari meðvitund en henni hefði síðan fundist sjálfri er hún talaði við hana. Y hafi strax farið að tala um áreiti sjúkraflutningamannsins. Treysti vitnið sér ekki til að rifja upp lýsingar hennar. Hulda María Einarsdóttir, læknir, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst muna óljóst eftir atvikinu, en hún hitti Y fljótlega eftir að hún kom inn á Landspítalann umrætt sinn. Hulda sagði að Y hefði verið með fullri meðvitund. Vitnið kvaðst muna eftir því að Y hefði sagt að sjúkraflutningamaðurinn hefði leitað á hana og að hann hefði sleikt á henni geirvörturnar. Á endanum kvaðst vitnið hafa kallað til geðlækni. Meiri afskipti kvaðst hún ekki hafa haft af Y. Við aðalmeðferð málsins var tekin skýrsla af Þorsteini Gíslasyni, geðlækni. Skýrslan var tekin í gegnum síma, en vitnið er nú búsett í Svíþjóð. Hann var umrætt kvöld vakthafandi læknir á geðdeild Landspítalans og var kallaður til að meta Y. Hann kvaðst muna eftir því að þegar hann ræddi við hana, sem hafi verið sennilega tveimur til tveimur og hálfum tíma eftir að hún kom á sjúkrahúsið. Hún hafi verið ágætlega vakandi og áttuð, væg merki hafi verið um lyfjaáhrif. Hún hafi lýst fyrir sér atvikinu í sjúkrabílnum og er hann bar sig saman við deildarlækninn hafi það reynst vera sama sagan og hún sagði honum. Því hafi verið ákveðið að senda Y á neyðarmóttökuna. Eftir það kvaðst vitnið ekki hafa komið að málum hennar, taldi þó að hún hefði verið lögð inn á geðdeild sjúkrahússins. Rögnvaldur Ólafsson, flokksstjóri hjá lögreglunni, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann fór á vettvang á Landspítalanum umrætt sinn. Þangað hefði verið komið með sjúkling sem hélt því fram að hún hefði verið áreitt kynferðislega í sjúkrabíl. Hann sagði að Y hefði verið í miklu uppnámi. Þeir hefðu farið með hana á neyðarmóttökuna á Landspítalanum í Fossvogi. Vitnið sagði að Y hefði lýst því hvernig sjúkraflutningamaðurinn hefði þuklað á henni í bílnum og sleikt brjóst hennar. Hún hefði þá legið alveg kyrr og ekki sýnt nein viðbrögð. Ingólfur Bruun, rannsóknarlögreglumaður, var kallaður til og hitti Y á neyðarmóttökunni í Fossvogi þessa nótt. Hann sagði að Y hefðu verið mikið niðri fyrir, en ekki með óráði. Hún hafi verið staðföst í sínum framburði. Hún hefði lýst því að sjúkraflutningamaður hefði leitað á hana, káfað á henni og sleikt á henni brjóstin. Arnar Hauksson, læknir, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann var læknir á neyðarmóttökunni umrætt sinn. Hann kvaðst hafa tekið strok með saltvatnsupplausn í kringum geirvörturnar á Y, til að kanna hvort þar fyndust lífssýni. Sjálfur hafi hann ekki getað séð það. Hún hafi ekki verið með sjáanlega áverka. Þá punktaði hann niður frásögn hennar af atvikinu. Hann sagði að hún hefði ekki breytt þeirri frásögn neitt þá eða síðar. Gunnlaugur Geirsson, prófessor, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann staðfesti að fram hefði komið í rannóknum á sýnunum í Noregi staðfesting á því að um munnvatn hefði verið að ræða. Hann sagði að sýnin hefðu verið send utan til rannsóknar án nokkurrar rannsóknar hér, þar sem um mjög lítil sýni væri að ræða og því nauðsynlegt að taka þau strax til fullrar rannsóknar. Guðlaug Þorsteinsdóttir, geðlæknir, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún hitti Y er hún var flutt á geðdeild þann 19. ágúst. Hún sagði að Y hefði þá verið í miklu uppnámi og þurft mikið að tjá sig um atvikið í sjúkrabílnum. Hún hefði lýst því að maðurinn hefði þuklað á henni brjóstin og kynfærin og sleikt á henni geirvörturnar. Fyrst hefði hann kannað hvort hún væri með meðvitund. Hún hefði sagt að hún hefði ekki sýnt nein viðbrögð. Guðlaug sagði erfitt að greina á milli orsaka fyrir því sem hún greindi sem áfallastreituröskun í vottorði sínu. Gömul áföll vakni oft til lífsins þegar viðkomandi verður fyrir nýju áfalli. Hún sagði að Y hefði ekki verið í góðu jafnvægi á þessum tíma. Frammi liggur í málinu vottorð Heiðdísar Sigurðardóttur, sálfræðings, en hún gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Hún lýsir því í vottorði sínu að Y hafi verið í viðtölum hjá sér á tímabilinu frá 28. ágúst 2001 til 11. júní 2002. Í viðtölunum hafi komið fram skýr einkenni áfallastreituröskunar. Hafi hún sýnt áberandi einkenni er samræmist því að hafa orðið fyrir umræddu áfalli. Lýsti Heiðdís þessu nánar í skýrslu sinni fyrir dómi, en ekki er nauðsynlegt að rekja það á þessu stigi. Verður að því vikið í niðurstöðukafla dómsins. Niðurstaða. Helsta sönnunargagn í málinu er framburður Y. Hún er staðföst í þeim framburði sínum að ákærði hafi sleikt brjóst hennar og káfað á kynfærum hennar er hún var flutt með sjúkrabifreiða á Landspítalann við Hringbraut. Y hóf að segja frá atvikinu strax og ákærði og samstarfsmaður hans voru farnir af sjúkrahúsinu. Framburður tveggja hjúkrunarfræðinga, deildarlæknis og geðlæknis, er ræddu við Y á Landspítalanum við Hringbraut, staðfestir það og fram kemur að frásögn hennar er í samræmi við framburð hennar síðar fyrir dómi og við skýrslugjöf hjá lögreglu. Sömu sögu segir Y á neyðarmóttökunni á Landspítalanum í Fossvogi. Það litla misræmi sem fram kemur í lýsingu hennar á stöðu brjóstahaldara hennar skiptir ekki máli. Þá styrkist trúverðugleiki framburðar Y af þeim ákveðnu vísbendingum sem fram koma um að ákærði hafi talið meðvitund hennar skerta. Ákærði neitar sök og er staðfastur í framburði sínum. A var ökumaður sjúkrabifreiðarinnar. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt óvenjulegt, að hann hefði ekki séð til ákærða áreita Y kynferðislega. Framburður hans sker ekki úr í málinu. Með niðurstöðu DNA-rannsóknar, sem áður er lýst, er fram komið að munnvatn úr ákærða greindist á vinstra brjósti Y skömmu eftir meint atvik. Önnur skýring en sú að ákærði hafi sleikt brjóst hennar er fjarlæg og verður ekki hjá því komist að telja þetta atriði, svo mjög sem það styrkir einbeittan framburð Y, ráða úrslitum svo að telja verði hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi áreitt Y kynferðislega eins og lýst er í ákæru. Er sú lýsing í samræmi við framburð Y hjá lögreglu og fyrir dómi Verður ákærði samkvæmt því sakfelldur eins og krafist er, en brotið er í ákæru réttilega fært til 209. gr. almennra hegningarlaga. Þá felur það einnig í sér brot gegn 138. gr. laganna þar sem ákærði framdi það í opinberu starfi sínu. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum. Brotið er alvarlegt og hefur ákærði brugðist miklu trausti sem til hans er borið. Refsing hans er ákveðin fangelsi í níu mánuði. Brotið er alvarlegra en svo að skilorðsbinding komi til greina. Bótakrafa Y er studd nokkrum gögnum um andlegt ástand hennar og áhrif brotsins. Er það einkum vottorð Heiðdísar Sigurðardóttur, sálfræðings, svo og Guðlaugar Þorsteinsdóttur, geðlæknis. Í vottorði sínu kveðst Guðlaug Þorsteinsdóttir ekki hafa forsendur til að meta hvaða langtímaáhrif atvikið hafi á Y. Hins vegar sé líklegt að til skemmri tíma hafi atburðurinn aukið á vanlíðan hennar og átt þátt í að hún átti erfiðara með að að vinna í þunglyndi sínu og takast á við önnur mál. Heiðdís Sigurðardóttir segir í vottorði sínu að í viðtölum komi fram skýr einkenni áfallastreituröskunar. Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af framansögðu og með tilliti til dómvenju eru bætur til Y ákveðnar 400.000 krónur, er beri vexti eins og í dómsorði greinir, en ákærða var kynnt bótakrafan 19. mars 2002. Ákærði verður dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar. Málsvarnarlaun verjanda ákærða eru ákveðin 220.000 krónur, en þóknun réttargæslumanns brotaþola 120.000 krónur. Mál þetta dæma héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson, dómsformaður, Kristjana Jónsdóttir og Skúli J. Pálmason. Ákærði, X, sæti fangelsi í níu mánuði. Ákærði greiði Y 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. ágúst 2001 til 19. apríl 2002, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Guðmundar Ágústssonar, héraðsdómslögmanns, 220.000 krónur, og þóknun Helgu Leifsdóttur, héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur. |
Mál nr. 325/2006 | Banki Upplýsingaskylda Þagnarskylda Skattur Stjórnsýsla | Deilt var um hvort að L væri skylt að afhenda R sundurliðaðar upplýsingar um öll viðskipti með hlutabréf og aðila að þeim viðskiptum á árinu 2003 sem L hafði umsjá með. R hélt því fram að sú skylda hvíldi ótvírætt á L á grundvelli 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. L taldi að allan vafa um efni ákvæðisins yrði að túlka borgurunum í hag. Þá hefðu skattayfirvöld brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með kröfu sinni um framangreindar upplýsingar, auk þess sem veiting slíkra upplýsinga bryti í bága við 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að tilgangur 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003 sé málefnalegur og beiting R á henni hafi verið innan meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Ákvæðið feli í sér skyldu fyrir L að veita umbeðnar upplýsingar og þagnarskylda á grundvelli 58. gr. laga nr. 161/2002 víki fyrir þeirri skyldu. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2006. Hann krefst þess að viðurkennt verði að honum sé óskylt að afhenda stefnda sundurliðaðar upplýsingar um öll viðskipti með hlutabréf og aðila að þeim viðskiptum á árinu 2003, sem áfrýjandi hafði umsjá með, í samræmi við það, sem eyðublað stefnda RSK 2.08 beri með sér, svo sem stefndi hafi krafist í bréfi til áfrýjanda 25. maí 2004. Áfrýjandi krefst einnig sýknu af kröfu stefnda í gagnsök í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Landsbanki Íslands hf., greiði stefnda, ríkisskattstjóra, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2006. I Mál þetta sem dómtekið var 8. mars sl. höfðaði Landsbanki Íslands hf., kt. 710169-3819, Austurstræti 11, Reykjavík gegn ríkisskattstjóra, kt. 540269-6029, Laugavegi 166, Reykjavík með stefnu birtri 30. júní 2005. Dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær að viðurkennt verði með dómi að honum sé óskylt að afhenda stefnda sundurliðaðar upplýsingar um öll viðskipti með hlutabréf og aðila að þeim viðskiptum á árinu 2003, sem stefnandi hafði umsjá með, í samræmi við það sem eyðublað stefnda RSK 2.08 ber með sér, svo sem krafist hafi verið af hálfu stefnda í bréfi til stefnanda 25. maí 2004. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins. Dómkröfur stefnda í aðalsök eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins með virðisaukaskatti. Dómkröfur stefnanda í gagnsök eru þær að viðurkennt verði með dómi að gagnstefnda sé skylt að verða við kröfu gagnstefnanda samkvæmt bréfi, dags. 25. maí 2004, að afhenda skattstjórum eða umboðsmönnum þeirra sundurliðaðar upplýsingar um öll viðskipti með hlutabréf og aðila að þeim viðskiptum á árinu 2003, sem gagnstefndi hafði umsjá með, í samræmi við og í því formi sem gagnstefnandi hefur ákveðið samkvæmt eyðublaði RSK 2.08, samkvæmt auglýsingu gagnstefnanda nr. 1/2004 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2004. Þá verði gagnstefnda gert að greiða gagnstefnanda málskostnað að mati dómsins með virðisaukaskatti. Dómkröfur stefnda í gagnsök eru þær að hann verði sýknaður af kröfum gagnstefnanda og gagnstefnanda gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins. II Eftirleiðis verður í dóminum Landsbanki Íslands hf. nefndur stefnandi og ríkisskattstjóri stefndi eða RSK. Aðilar málsins deila um það hvort stefnanda sé skylt að láta skattyfirvöldum í té upplýsingar samkvæmt ákvæði 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt, áður laga nr. 75/1981, en málsgreinin er svohljóðandi: „Allir aðilar, þar með taldir bankar, sparisjóðir og aðrar peningastofnanir, verðbréfamarkaðir og aðrir sem annast kaup og sölu, umboðsviðskipti og aðra umsýslu með hlutabréf, skulu ótilkvaddir afhenda skattstjóra eða umboðsmanni hans skýrslu um slík viðskipti og aðila að þeim, ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.“ Þessi grein laganna var nýmæli sem bætt var inn í 92. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með breytingarlögum nr. 36/1991. Í breytingarlögunum var m.a. kveðið á um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, þ.e. ákveðin skattfríðindi vegna kaupa á hlutabréfum í innlendum hlutafélögum. Í 5. mgr. 92. greinar laga nr. 90/2003, áður laga nr. 75/1981, segir: „Ríkisskattstjóri getur ákveðið almenna skyldu til að afhenda skattstjóra eða umboðsmanni hans skýrslu ókeypis og í því formi sem hann ákveður um önnur atriði sem máli skipta varðandi álagningu skatta samkvæmt lögum þessum, svo sem um greiðslur til verktaka fyrir efni og vinnu, kaup og sölu á hráefni og afurðum, hlutafé og arð, stofnfé og stofnfjárvexti og vinninga í happdrætti og keppni.“ Í 94. gr. laga nr. 90/2003, áður laga nr. 75/1981, segir m.a.: „Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfivöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með eða rannsókn á henni. Með skattyfirvöldum í þessari grein er átt við skattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra. Vegna skatteftirlits samkvæmt lögum þessum getur skattstjóri, ríkisskattstjóri og menn, sem þeir fela skatteftirlitsstörf, krafist þess að framtalsskyldir aðilar leggi fram til könnunar bókhald sitt og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn er varða reksturinn, þar með talin bréf og samningar. Enn fremur hafa þessir aðilar aðgang að framangreindum gögnum og aðgang að starfsstöðvum framtalsskyldra aðila og birgðageymslum og heimild til að taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að geti gefið upplýsingar er máli skipta. Sömu heimildir hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins vegna rannsókna skv. 103. gr.“ III Þeir aðilar sem tilgreindir eru í 2. mgr. 92. gr. munu ekki ótilkvaddir, eins og þar er tekið til orða, hafa afhent stefnda þær skýrslur sem þar er getið um, en með auglýsingu nr. 4/2001, dags. 8. janúar 2001, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 31. janúar s.á. tilkynnti stefndi m.a. að frestur fjármálastofnana til að skila upplýsingum af þessu tagi væri til 14. apríl 2001. Frá þessum tíma hefur stefndi birt árlega sams konar auglýsingu í Stjórnartíðindum. Upplýsingarnar átti að veita á forminu RSK 2.08, en tekið fram að æskilegt væri að þeim væri skilað á tölvutæku formi samkvæmt færslulýsingu stefnda og í síðari auglýsingum var bent á að bæði eyðublaðið og færslulýsinguna væri að finna á vefsíðu RSK. Hluti framangreindrar auglýsingar er formblað þar sem gert er ráð fyrir að nafn og kennitala eða skattkennitala viðskiptaaðila sé skráð og heimilisfesturíki tilgreint. Þá ber að gera grein fyrir fjárhæð keyptra hlutabréfa í íslenskum félögum svo og nafnverði þeirra, fjárhæð seldra bréfa og sömuleiðis nafnverði þeirra. Sömu upplýsingar á að gefa um viðskipti með hlutafé í erlendum félögum þó þannig að í stað nafnverðs keyptra og seldra bréfa á að skrá fjölda hluta. Hvorum viðskiptunum um sig eru ætlaður sérstakur dálkur. Stefndi ritaði fjármálastofnunum sérstakt bréf, þ.á m. stefnanda, dags. 8. mars 2001, og greindi frá því að hann hefði tekið þá ákvörðun, með stoð í 2. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981, að krefjast þeirra upplýsinga sem greint væri frá í auglýsingunni frá 8. janúar. Í bréfinu segir síðan eftirfarandi: „Gera skal grein fyrir hlutabréfaviðskiptum allra viðskiptaaðila viðkomandi fjármálastofnunar eða milligönguaðila á árinu 2000, hvort sem um einstaklinga eða lögaðila er að ræða og án tillits til þess hvort aðili þessi ber hér á landi fulla eða takmarkaða skattskyldu. Þegar um hefur verið að ræða viðskipti með hlutabréf í íslenskum félögum skal tilgreina fyrir hvern einstakan viðskiptamann heildarverð og samanlagt nafnverð hlutabréfa, sem keypt voru af og/eða fyrir milligöngu viðkomandi fjármálastofnunar eða milligönguaðila. Á sama hátt ber að greina frá heildarverði og samanlögðu nafnverði þeirra bréfa, sem viðkomandi aðili hefur selt. Gera skal grein fyrir viðskiptum með hlutabréf í erlendum félögum með sama hætti og að ofan greinir þó þannig að í stað nafnverðs hlutabréfa skal tilgreina fjölda hluta. Ofangreindum upplýsingum ber að skila til embættisins eigi síðar en 14. apríl 2001.“ Óumdeilt er í málinu að samkvæmt framangreindum auglýsingum stefnda og bréfi hans átti einungis að gera grein fyrir heildarviðskiptum hvers og eins viðskiptamanns á árinu en ekki hverjum einstökum viðskiptum hans. Hins vegar skipti ekki máli hvort viðkomandi fjármálastofnun seldi viðskiptamanninum hlutabréfin eða annaðist einvörðungu milligöngu um viðskipti með þau. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja svöruðu bréfi stefnda frá 8. mars með bréfi dags. 26. mars 2001 og kemur þar fram að þar sem málið varði sameiginlega hagsmuni aðildarfyrirtækja samtakanna hafi verið ákveðið að samtökin rituðu bréfið fyrir þeirra hönd. Í bréfinu er lögð áhersla á trúnaðarskyldu banka og verðbréfafyrirtækja gagnvart viðskiptamönnum þeirra og einnig vísað til ákvæða þeirra laga sem skylda þessi fyrirtæki til að veita skattyfirvöldum upplýsingar um einstaka viðskiptamenn, einkum 1. mgr. 94. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Þá kemur fram í bréfinu að í auglýsingu stefnda sé gerðar mun ríkari kröfur um upplýsingagjöf en tíðkast hafi og dregið í efa að þessar kröfur hafi nægilega lagastoð í 2. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981. Gögn til að skýra þá lagagrein séu af skornum skammti og allan vafa verði að skýra viðskiptamanni í hag. Hafa verði í huga „að samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar skal lagaákvæði vera þeim mun skýrara og ótvíræðara því meira íþyngjandi sem það er fyrir borgarann.“ Líta verði til þess að greinin hafi verið sett inn í lögin á sama tíma og skattafrádráttur vegna hlutabréfakaupa hafi verið heimilaður. Vísað er til þess hverjar upplýsingar fjármálafyrirtækin þurfi að gefa um afdreginn fjármagnstekjuskatt, þ.e. að þær nái aðeins til „heildartölu greidds fjármagnstekjuskatts allra viðskiptamanna sinna, en ekki sundurliðuðu upplýsingablaði um hvern viðskiptamann.“ Þá kemur fram að stefndi hafi beðið um svo viðamiklar upplýsingar að með því hafi hann brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Fleira kemur fram í bréfinu sem ekki verður rakið en niðurlag þess er svohljóðandi: „Í ljósi alls sem að framan er rakið telja aðildarfyrirtæki Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja að krafa embættisins um sundurliðaðar upplýsingar um hlutabréfakaup eigi sér hvorki stoð í gildandi lögum né þeirri skattframkvæmd sem ríkt hefur. Í því sambandi verður einnig að horfa til þess opna fjármálaumhverfis sem fyrirtækin starfa í. Hins vegar lýsa umrædd fjármálafyrirtæki sig reiðubúin til að veita almennar upplýsingar um heildartölu þessara viðskipta hjá hverju og einu fyrirtæki á sambærilegan hátt og tíðkast hefur varðandi upplýsingar um skil á afdreginni staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts.“ Stefndi svaraði þessu bréfi Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja með bréfi dags. 10. apríl 2001. Í bréfi sínu andmælir stefndi sjónarmiðum sem fram koma í bréfi Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og segir að þau breyti engu um upplýsingaskyldu samkvæmt 2. mgr. 92. gr. Stefndi bendir m.a. á að 2. mgr. 92. greinar hafi verið tekin upp í þá lagagrein og kveði með sama hætti á um upplýsingaskyldu vegna hlutabréfaviðskipta og skyldu til þess að afhenda upplýsingar, t.d. um laun og aðrar starfstengdar greiðslur, sem árum saman hafi verið afhentar athugasemdalaust. Stefndi bendir á að í greinargerð með breytingarlögum nr. 36/1991 sé tekið fram að um sé að ræða svipað fyrirkomulag á upplýsingagjöf varðandi hlutabréfaviðskipti eins og upplýsingagjöf um laun, arð o.fl. Þá segir m.a. orðrétt í bréfinu: „Tilgangur skattyfirvalda með öflun þessara upplýsinga um hlutabréfaviðskipti er hinn sami og liggur að baki öflun annarra upplýsinga skv. 92. gr. laga nr. 75/1981, þ.e. að treysta skattframkvæmd og tryggja eftir því sem unnt er að skattstofnar og skattar séu ákveðnir með réttum hætti. Viðskipti með hlutabréf hafa farið mjög vaxandi á undanförnum árum og það því orðið meira hagsmunamál fyrir ríkissjóð og brýnna jafnréttismál fyrir skattborgarana að tryggt sé eftir mætti að framtaldar tekjur séu réttar og skattar ákveðnir í samræmi við það.“ Stefndi ítrekar í bréfi sínu tilmælin til fjármálastofnananna um að afhenda umbeðnar upplýsingar og segir embættið reiðubúið til samstarfs um tæknileg atriði er upplýsingagjöfina varði eins og fram hafi komið á fundi hans með fulltrúum samtakanna. Þá er greint frá því í bréfinu að ríkisskattstjóri hafi þegar hafið forskráningu á framtöl manna á hluta af þeim upplýsingum sem aflað sé á grundvelli 2. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981 og fleiri upplýsingum. Stefnanda var sent afrit af bréfinu. Í framhaldi af þessum bréfaskiptum og viðræðum ritaði stefndi Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja bréf 30. apríl 2001 þar sem vísað er til viðræðna þessara aðila og er í bréfinu sagt að samtökin hafi lýst vilja sínum til þess að vinna með skattyfirvöldum að því að forskráðar yrðu upplýsingar um hlutabréfaviðskipti á skattframtöl en jafnframt lýst áhyggjum sínum af kröfum skattyfirvalda um upplýsingar um kaup og sölu hlutabréfa á árinu 2000, einkum vegna þess að fyrirvari væri skammur til að útbúa þau forrit sem til þyrfti. Í bréfinu er því og lýst að skattyfirvöldum sé mikil þörf á því að fá upplýsingar um viðskipti með hlutabréf bæði vegna almennrar skattframkvæmdar og eins í þeim tilgangi að einfalda framtalsgerð með því að forskrá upplýsingar um viðskipti með hlutabréf. Þá segir m.a. orðrétt í bréfinu: „Tilgangur þessa bréfs er annars vegar að leita eftir samstarfi við Samtök banka og verðbréfafyrirtækja um undirbúning að öflun upplýsinga frá fjármálastofnunum um kaup og sölu á hlutabréfum og e.t.v. öðrum verðbréfum í þeim tilgangi að þær verði framvegis forskráðar á framtöl með þeim hætti að framteljendur þurfi fyrst og fremst að staðfesta að þær séu réttar. Ríkisskattstjóri hyggst fela sérstökum starfshópi að vinna að þessu verkefni sem fólgið verður í því að greina þær upplýsingar, sem nauðsynlegt er að afla, skipuleggja vinnsluferil upplýsinganna og semja færslulýsingar fyrir þær tölvuskrár, sem óskað verður eftir að fá upplýsingarnar afhentar í. Er hér með óskað eftir að Samtök banka og verðbréfafyrirtækja tilnefni 2-3 fulltrúa til að vinna með starfshópi RSK að verkefni þessu.“ Þá er því lýst að tilgangur bréfsins sé einnig sá að skoða hvort hægt sé að haga öflun upplýsinga á þessum vettvangi fyrir árið 2000 með öðrum hætti en gert hafi verið ráð fyrir í auglýsingu ríkisskattstjóra frá 8. janúar 2001 og bréfi frá 8. mars 2001. Í framhaldi af þessu settu aðilar tvo vinnuhópa á laggirnar, annan til að gera áætlun um forprentun upplýsinga um hlutabréfaviðskipti á skattframtöl og hinn til að undirbúa öflun upplýsinga um hlutabréfaviðskipti. Fyrri hópurinn mun ekki hafa komið saman en seinni hópurinn skilaði niðurstöðu sem er í stórum dráttum sú að bankar og verðbréfafyrirtæki skili upplýsingum um heildarsölu og heildarkaup og heildarfjölda einstaklinga og lögaðila sem í viðskiptunum áttu, sundurliðað eftir því á hvaða fjárhæðabili viðskiptin voru, t.d 1-2, 2-5 milljónir o.s.frv. Hinn 24. september 2003 bað stefndi stefnanda, með vísun til 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, um upplýsingar um öll viðskipti sem stefnandi og Landsbréf hf. áttu eða höfðu milligöngu um með hlutabréf 10 tilgreindra hlutafélaga á árunum 2000-2001. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja óskuðu eftir fresti til 24. október til þess að taka afstöðu til beiðninnar eftir að aðilar höfðu haldið fund um málið. Hinn 23. október 2003 ritaði stefnandi stefnda svarbréf og kemur þar m.a. fram að stefnandi muni láta stefnda í té upplýsingar um öll viðskipti sem bankinn átti sjálfur með hlutabréf í fyrirtækjunum árin 2000-2001 en að bankanum sé ekki heimilt á grundvelli 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 að veita stefnda upplýsingar um öll viðskipti sem bankinn hafi haft milligöngu um með hlutabréf í sömu fyrirtækjum á sama tíma. Í bréfinu er færður fram ítarlegur rökstuðningur fyrir þessari niðurstöðu, sem ekki er ástæða til að rekja hér sérstaklega, enda er hann nær samhljóða þeim málsástæðum stefnanda sem hann byggir málflutning sinn á í málinu auk þess sem því er haldið fram af stefnda að þessi beiðni stefnda sér sérstaks eðlis og komi ekki við deiluefni málsins. Beiðni sína frá 24. september ítrekaði stefndi í bréfi dags. 28. nóvember 2003. Hinn 25. maí 2004 ritaði stefndi stefnanda bréf og vitnar til auglýsingar sinnar nr. 1/2004 sem gefin hafi verið út 6. janúar 2004 og bendir í bréfinu á skilaskyldu banka og verðbréfafyrirtækja á upplýsingum um viðskipti með hlutabréf samkvæmt 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003. Sagt er í bréfinu að stefnandi hafi ekki enn sinnt þessari lögboðnu skyldu og skorað á hann að gera það. Minnt er á þær refsingar sem við liggi sé skyldunni ekki fullnægt. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja svöruðu bréfi stefnda með bréfi dags. 8. júní 2004 og kemur þar fram að aðildarfyrirtæki samtakanna hafi falið þeim að taka málið til skoðunar og verði haft samband við stefnda innan tíðar. Hinn 28. júní 2004 rituðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja stefnda bréf og í því benda þau m.a. á að með 2. mgr. 92. gr. sé lögð kvöð á þann aðila sem hafi milligöngu um viðskipti með hlutabréf sem almennt sé ekki lögð á rekstraraðila, s.s. fasteignasala. Um sé að ræða íþyngjandi lagaákvæði sem beri að túlka þröngt og styðji lögbundin þagnarskylda í lögum nr. 161/2002 þrönga túlkun ákvæðisins. Stefndi geti ekki upp á eindæmi sitt krafist þess að lögskýring hans ein sé lögð til grundvallar. Í bréfinu kemur fram að samkvæmt forsögu og eðlilegri túlkun á 2. mgr. 92. gr. ættu fyrirtækin að hafa fullnægt lagaskyldu sinni, skiluðu þau stefnda upplýsingum í samræmi við tillögur vinnuhópsins sem lýst er hér að framan og sagt að á þeim tíma hafi stefnda sýnst þetta nægjanlegt. Hinn 7. júlí 2004 skilaði stefnandi síðan upplýsingum um hlutabréfaviðskipti þau sem stefnandi hafði milligöngu um á árinu 2003 á því formi sem vinnuhópurinn hafði samið. Hinn 20. desember 2004 ritaði stefndi stefnanda bréf, vísaði til auglýsingar nr. 1/2004 og minnti á skilaskyldu samkvæmt henni sem hann segir stefnanda ekki hafa uppfyllt, því að upplýsingar sem hann hafi sent hafi verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við skýrar kröfur um form og efni þeirra. Tekið er fram í bréfinu að í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 25. maí 2004, hafi verið vakin athygli á refsiákvæðum sem lægju við vanrækslu þess að veita umbeðnar upplýsingar. Að lokum er greint frá því að stefndi hafi ákveðið að beina því til skattrannsóknarstjóra ríkisins að hefja rannsókn á meintum brotum stefnanda á ákvæðum 92. gr. laga nr. 90/2003 og að þeim verði vísað til opinberrar rannsóknar. Hinn 30. desember 2004 svaraði stefnandi bréfi stefnda og endurtekur að verulegu leyti þau rök sem áður höfðu verið færð fram fyrir því að sú upplýsingaskylda sem lögð væri á stefnanda væri ekki í samræmi við réttan skilning á ákvæðum 92. gr. og þeim reglum sem farið væri eftir við skilagrein afdregins skatts á fjármagnstekjur. Þá er og vísað til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og að sú upplýsingaöflun sem lögð sé á stefnanda fari langt fram úr eðlilegu meðalhófi, m.a. vegna þess að umbeðnar upplýsingar geti aldrei orðið grundvöllur skattálagningar sem slíkrar. Bent er á heimildir stefnda samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/2003 og að lagalegar forsendur til þess að láta stefnda upplýsingarnar í té séu ekki fyrir hendi. Stefndi ritaði stefnanda bréf 3. janúar 2005 og lýsir því þar yfir að í samræmi við bréf sitt til stefnanda 20. desember 2004 muni hann vísa málinu til skattrannsóknarstjóra hvað hann og gerði með bréfi 7. janúar 2005. Stefnandi ritaði stefnda bréf 11. janúar 2005 og mótmælti þessum málatilbúnaði stefnda og rökstuddi þau mótmæli. Þá ritaði stefnandi skattrannsóknarstjóra bréf 23. júní 2005 þar sem kemur m.a. fram að stefnandi hafi ákveðið að höfða staðfestingarmál á grundvelli 2. tl. 25. gr. laga nr. 91/1991 á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á því að ekki sé skylt að veita þær upplýsingar á því formi sem stefndi hafi farið fram á samkvæmt 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003. Jafnframt óskaði stefnandi eftir því að rannsókn skattrannsóknarstjóra yrði frestað á meðan beðið væri úrlausnar dómstóla. Mál þetta var höfðað 30. júní 2005 eins og fyrr greinir. IV Af hálfu stefnanda er á það bent að 92. grein laga nr. 90/2003 eigi að efni til rætur sínar að rekja allt aftur til laga um tekjuskatt og eignarskatt frá árinu 1921 og aðalefni hennar sé og hafi verið að tryggja skattyfirvöldum upplýsingar um alls kyns launagreiðslur og leigugreiðslur sem gerði þeim kleift að leggja á skatta með réttum hætti. Við setningu laga nr. 40/1978 hafi verið tekið upp ákvæði sem skyldaði menn til þess að gefa þessar upplýsingar ótilkvaddir. Ákvæði 92. greinar hafi verið sett til þess að hægt sé að sannreyna að framtöl séu rétt en ekki til þess að þangað verði sóttar heimildir til skatteftirlits. Í 94. gr. laganna sé síðan kveðið á um almenna upplýsingaskyldu gagnvart skattyfirvöldum og skatteftirlit þeirra. Skattyfirvöld verði að byggja skatteftirlit sitt og skattrannsóknir á þessari lagagrein og þær verði að beinast að einstökum aðilum eða sérstaklega afmörkuðum hópum. Í greininni sé tekið fram, og hafi verið svo allt frá gildistöku laga nr. 70/1962, að einungis væri skylt að senda allar nauðsynlegar upplýsingar og skýrslur sem skýra yrði með þeim hætti að skattyfirvöld gætu ekki beðið um hvaða upplýsingar sem væri heldur einungis þær sem þeim væru nauðsynlegar til þess að framfylgja skatteftirliti með réttum og eðlilegum hætti. Því ættu skattyfirvöld að forðast að skapa óþarfa fyrirhöfn við skýrslugjöfina, s.s. eins og þá að viðkomandi aðili þurfi að leggja sérstaka vinnu í að taka upplýsingarnar saman, séu þær ekki til í aðgengilegu formi, heldur eigi að einskorða beiðnir skattyfirvalda við þær upplýsingar sem fyrir hendi séu. Með lögum nr. 36/1991 um breyting á lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt hafi nýrri málsgrein verið bætt inn í 92. gr. laganna, sem orðið hafi 2. mgr. Tilefni þess hafi verið að breytingarlögin hafi heimilað að frá skattskyldum tekjum yrðu dregnar ákveðnar upphæðir vegna kaupa á hlutabréfum. Greininni hafi því verið ætlað það hlutverk að með heimild í henni gætu skattyfirvöld haft eftirlit með því að það skattahagræði sem ákveðið var í breytingalögunum væri notað með lögmætum hætti. Þessu ákvæði hafi þannig aldrei verið ætlað að leggja þær skyldur á umsýsluaðila með hlutabréfaviðskiptum þriðja aðila sem stefndi geri nú kröfu til að stefnandi uppfylli og séu ekki byggðar á fullnægjandi lagaheimildum. Ljóst sé af forsögu ákvæðisins að það eigi að skýra þröngt og einnig leiði það til þrengri skýringar á ákvæðinu að stefnandi sé bundinn þagnarskyldu um hag viðskiptamanna sinna samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Frávikum frá þessari þagnarskyldu verði að beita varlega og jafnframt að skýra þau þeim í hag sem upplýsingaskyldan hvíli á. Enda þótt upplýsingar sem gefnar séu á grundvelli 94. gr. laga nr. 90/2003 geti útrýmt þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 geri upplýsingagjöf samkvæmt 92. gr. það ekki. Ákvæði 2. mgr. 92. gr. sé íþyngjandi fyrir borgarana og samkvæmt lögmætis-reglu stjórnsýsluréttarins verði lagaákvæði af þeim toga að vera þeim mun skýrara og ótvíræðara sem það sé meira íþyngjandi. Allan vafa um efni greinarinnar verði að skýra borgurunum í hag. Ákvæði 2. mgr. feli í sér mjög víðtæka kvöð sem almennt verði ekki lögð á rekstraraðila, enda sé hér ekki um beina þátttöku slíks aðila í þeim viðskiptum sem beiðnin um upplýsingarnar snúi að heldur einvörðungu umsjón með þeim. Þótt fyrirtæki eigi ótilkvödd að gefa upplýsingar samkvæmt greininni leggi það ekki jafnframt á þau skyldu til þess að leggja sérstaka vinnu í að draga upplýsingarnar saman, sem þó sé nauðsynlegt í mörgum tilfellum, en það myndi hafa í för með sér umtalsverðan kostnað og fyrirhöfn. Þær upplýsingar sem skylt sé að gefa verði alla vega að einskorða við þær upplýsingar sem fyrir hendi séu, en stundum sé það svo að ekki sé neitt skráð um hlutabréfaviðskipti, t.d. þegar makaskipti séu höfð á hlutabréfum. Í sumum tilvikum sé ómögulegt að gefa umbeðnar upplýsingar. Þá sé það svo að stefndi beini kröfum sínum um upplýsingar aðeins til banka og fjármálafyrirtækja, en ýmsir aðrir annist viðskipti með hlutabréf, s.s. lögmenn, en þeim sé ekki lögð þessi upplýsingaskylda á herðar samkvæmt auglýsingu stefnda. Auglýsing stefnda nr. 1/2004 þar sem mælt hafi verið fyrir um skil á upplýsingum um viðskipti með hlutabréf á formi RSK 2.08 breyti engu um skyldu stefnanda því að í stjórnvaldsfyrirmæli verði ekki settar reglur um skyldur sem gangi lengra en rétt skýring settra laga sem þau séu byggð á. Stefnda hafi og verið ómögulegt að gera sér grein fyrir því á árinu 2003 hverjar kröfur stefndi kynni að gera í auglýsingu sinni árið 2004. Það sé að vísu svo að játa verði skattyfirvöldum rúmar heimildir til þess að krefjast upplýsinga, sbr. 94. gr. laga nr. 90/2003 og 15. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Mat skattyfirvalda á upplýsingaþörfinni verði þó að vera málefnalegt og þau verði að gæta þar hófs í samræmi við 12. gr. laga nr. 37/1993. Stefnandi haldi því fram að stefndi hafi í auglýsingu sinni með kröfu um víðtækar upplýsingar farið langt fram úr eðlilegu meðalhófi og þar með brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. Ekki verði betur séð en slík upplýsingagjöf myndi brjóta í bága við þagnarskylduákvæðið í 58. gr. laga nr. 161/2002 þar sem ekki sé í ljós leitt að skattyfirvöld hafi lögmæta hagsmuni af því að fá þessar upplýsingar. Þessar kröfur feli í raun í sér lið í verulega umfangsmiklu skatteftirliti sem stefnda beri sjálfum að sinna samkvæmt 102. gr. laga nr. 90/2003 og geti ekki lagt á aðra. Þá beri þess að gæta að ákvæði 2. mgr. 92. gr. hafi ekki verið beitt fyrstu 10 árin og beri að túlka lagagreinina miðað við þá stöðu sem þá var uppi en ekki miðað við stöðuna eins og hún nú sé. Með því samkomulagi sem nefnd á vegum aðila hafi náð um efni upplýsinganna hafi stefndi í raun fallist á að efni 2. mgr. 92. gr. væri mun takmarkaðra en hann vilji nú vera láta. Því sé haldið fram af stefnanda að þetta samkomulag sé bindandi fyrir aðila málsins. Það að stefndi hafi í september 2003 afmarkað beiðni sína við 10 fyrirtæki styðji þessa staðhæfingu stefnanda. Stefndi hafi og enga grein gert fyrir því hvers vegna honum sé nú nauðsyn á að fá jafn viðamiklar upplýsingar og hann geri kröfu til. Hér verði einnig að hafa í huga að hingað til hafi fjármálafyrirtækjum ekki verið gert að láta stefnda í té upplýsingar um viðskipti hvers og eins viðskiptamanns ótilkvödd og megi þar benda á hvernig háttað sé upplýsingum um fjármagnstekjuskatt, en þar sé aðeins gefin upp ein heildartala fyrir allan afdreginn fjármagnstekjuskatt en ekki hvað hver og einn viðskiptamaður greiði. Upplýsinga-skyldu gagnvart skattyfirvöldum verði að skýra heildstætt og sé það gert leiði það ótvírætt til þess að dómkröfu stefnanda beri að taka til greina. Krafa stefnanda í gagnsök sé óafmörkuð og af þeim sökum ekki hægt að taka hana til greina. Af hálfu stefnda er því haldið fram að skylda stefnanda til að afhenda stefnda upplýsingar um hlutabréfaviðskipti samkvæmt 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt, áður laga nr. 75/1985, sé skýr og ótvíræð og það eigi hann að gera ótilkvaddur. Ekki sé krafist upplýsinga um hver og ein viðskipti heldur einungis um heildarviðskipti á umræddu ári. Stefndi hafi á grundvelli framangreinds lagaákvæðis birt auglýsingu þar um 6. janúar 2004 auk þess að senda stefnanda sérstaka áskorun um skil á umræddum upplýsingum í bréfi dags. 25. maí 2004. Stefndi hafi og birt auglýsingar sama efnis í janúarmánuði ár hvert, allt frá árinu 2001. Þær upplýsingar sem beðið sé um rúmist fyllilega innan ramma 2. mgr. 92. gr. og þær liggi allar fyrir með aðgengilegum hætti hjá stefnanda enda alkunna að viðskiptaaðilum séu árlega send yfirlit þar sem fram komi bæði sundurliðaðar og samandregnar upplýsingar um kaup og sölu hlutabréfa. Engin rök séu fyrir því að skýra málsgreinina svo þröngt að samkvæmt henni sé ekki hægt að krefjast þessara upplýsinga. Það sé og reyndar svo að ýmsar fjármálastofnanir hafi sent stefnda sams konar upplýsingar og stefnandi neiti að afhenda og á því formi sem gert sé ráð fyrir í auglýsingu stefnda R 2.08. Ákvæði 2. mgr. 92. gr. hafi staðið óbreytt frá því það hafi verið lögtekið með breytingarlögum nr. 36/1991 og í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga komi fram að með ákvæðinu sé lögð almenn skylda á herðar þeim aðilum sem eigi viðskipti með hlutabréf að veita skattyfirvöldum upplýsingar um viðskiptin. Um sé að ræða svipað fyrirkomulag og sömu skyldur og gildi um ýmsa aðra upplýsingagjöf, s.s. þá er varði laun, arð, stofnsjóði, afurðainnlegg o.fl. Í athugasemdunum komi einnig fram að viðskipti með hlutabréf hafi stóraukist, þeim viðskiptum fylgi skattfríðindi og ákvæðinu sé ætlað að koma til móts við þarfir hins opinbera um þennan þátt fjármálalífsins. Hér sé um að ræða eðlilegar, sanngjarnar og málefnalegar kröfur á hendur stefnanda og öðrum sem séu í sömu stöðu. Tilgangur ákvæðisins sé að tryggja og treysta grundvöll skattframkvæmdar og skatteftirlits á þessu sviði. Það sé alls ekki svo að ákvæðinu hafi verið ætlaður sá tilgangur einn að byggja á því eftirlit með skattafslætti einstaklinga vegna hlutabréfakaupa eins og stefndi haldi fram, en lögaðilar hafi ekki notið þess skattafsláttar. Þá séu þessar upplýsingar forsenda fyrir framþróun skattskýrslugerðar af því að þær geri mögulegt að forskrá þær á eyðublöð fyrir skattframtal. Þessar ástæður séu bæði málefnalegar og fari hvergi út fyrir meðalhóf. Ljóst sé að gera verði greinarmun á upplýsingaskyldu samkvæmt 92. og 94. gr. Ákvæði 92. gr. leggi skyldu á alla þá sem þau taki til til að veita skattyfirvöldum ótilkvaddir nánari upplýsingar er varðað geti skattskil ótilgreinds hóps manna eða lögpersóna. Í 94. gr. sé hins vegar kveðið á um skyldu til þess að veita skattyfirvöldum upplýsingar sem þau kunni að krefjast sérstaklega og varði tiltekna skattaðila eða afmarkaðan hóp þeirra. Í því tilviki séu gerðar ríkari kröfur til skattyfirvalda um afmörkun umbeðinna upplýsinga en samkvæmt 2. mgr. 92. gr. Þagnarskylduákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki standi ekki í vegi fyrir þeirri skyldu stefnanda að láta í té upplýsingar um hlutabréfaviðskipti samkvæmt 2. mgr. 92. gr. enda sé í 58. gr. sérstaklega mælt fyrir um það að þagnarskyldan víki þegar skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt svo sem hér sé raunin. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú samkvæmt dómi, sem kveðinn hafi verið upp 21. október 1999 í máli nr. 156/1999, að þagnarskylduákvæðið yrði að víkja þegar beiðst væri upplýsinga samkvæmt 94. gr. laga nr. 75/1981. Verði að líta svo á að sama máli gegni þegar beðið sé um upplýsingar samkvæmt 2. mgr. 92. gr. Þá beri þess og að gæta að þagnarskylda hvíli á starfsmönnum skattyfirvalda samkvæmt 117. gr. laga nr. 90/2003 og séu þagnarskylduhagsmunir stefnanda þannig tryggðir. Ekki skipti máli hvort umkrafðar upplýsingar leiði beint til þess að unnt sé að ákvarða skattstofn hjá hlutaðeigandi aðila enda ekki áskilnaður um slíkt í 92. gr. Þá skipti heldur ekki máli hvort upplýsingarnar varði aðila sem beri hér á landi ótakmarkaða eða takmarkaða skattskyldu eða aðila sem ekki sé skattskyldur hérlendis. Þótt skattyfirvöld hafi ekki beitt þessu ákvæði fyrr en nokkrum árum eftir að það var lögtekið breyti það engu um gildi þess. Þótt fyrirspurnir hafi ekki verið sendar þá falli skylda eða heimild ekki niður samkvæmt ákvæðinu. Lagaskyldan standi óbreytt sem og heimildir skattyfirvalda til að ákveða í hvaða formi upplýsingarnar séu gefnar. Skattyfirvöld hafi svigrúm til að meta það á hverjum tíma hvort skattalegar eða þjóðfélagslegar forsendur séu til þess að afla upplýsinga í ákveðnum málaflokkum umfram aðra í þágu skatteftirlits. Af hálfu stefnda sé því mótmælt að samkomulag hafi verið gert um það í hvaða formi ætti að gefa upplýsingarnar og engu máli skipti þótt stefndi hafi á árinu 2003 beðið um upplýsingar um hlutabréfaviðskipti nafngreindra hlutafélaga á árunum 2000 og 2001 með vísan til 94. gr. laga nr. 90/2003. Sú athugun sé þessu máli óviðkomandi. Þá sé því mótmælt að við upplýsingagjöf samkvæmt 2. mgr. 92. gr. eigi að líta til framkvæmdar upplýsingagjafar um afdreginn skatt af fjármagnstekjum, en sú framkvæmd sé byggð á allt öðrum grunni og sé óskyld kröfum um upplýsingar samkvæmt 2. mgr. 92. gr. Þar sé verið að krefjast upplýsinga um skatt sem þegar hafi verið dreginn frá tekjum. Rangt sé og ósannað að stefnanda sé ómögulegt að veita umkrafðar upplýsingar eða að það hafi umtalsverðan kostnað í för með sér. Stefnda hafi verið nauðsynlegt að höfða gagnsök í málinu til þess að fá bindandi dóm um skyldu stefnanda til að veita upplýsingar í samræmi við það sem krafist sé á RSK 2.08. V Í 92. gr. laga nr. 90/2003 er lögð rík og víðtæk skylda á þá sem hafa menn í þjónustu sinni til þess að láta skattyfirvöldum ótilkvaddir í té upplýsingar um hvers kyns greiðslur sem þeir inna af hendi til þeirra sem þjónustuna veita og sem er skylt eða kann að vera skylt að greiða skatt af lögum samkvæmt. Mat á skattskyldunni er fyrst og fremst í höndum skattyfirvalda þótt fleiri geti síðar komið að slíku mati vilji skattgreiðandi ekki una því. Mat skattyfirvalda getur eðlilega með sama hætti lotið að því að ákveðnar greiðslur séu ekki skattskyldar eða þá skattskyldar að takmörkuðu leyti. Þótt skattskyldan sé íþyngjandi fyrir þann sem hún hvílir á leiðir það ekki til þess að ákvæði 92. gr. eigi að skýra þröngt, að því er skyldu til upplýsingagjafar varðar, heldur öllu fremur til þess að skýra eigi það rúmt, þó innan hæfilegra marka, einkum með það í huga að skattyfirvöldum ber að sjá til þess að skattskyldu sé fullnægt og jafnframt að menn njóti skattfríðinda séu þau fyrir hendi, jafnræði ríki á milli skattgreiðenda og einnig að skattur verði ekki lagður á nema traust lagastoð sé fyrir hendi. Af þessu leiðir að skattyfirvöldum er nauðsyn á haldgóðum upplýsingum og þær upplýsingar sem skattyfirvöldum er heimilt að krefjast geta vissulega haft og geta þurft að hafa eitthvað fleira að geyma en nákvæmlega það sem fellur undir hugtakið skattstofn, þ.e.a.s. þá fjárhæð sem skattgreiðsluna á að miða við. Í ljósi þessa verður að játa skattyfirvöldum meira svigrúmi innan meðalhófsreglunnar en annars væri. Í greininni er skýrlega kveðið á um það að skattyfirvöldum ber að afhenda upplýsingarnar ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður en með því hefur löggjafinn lagt á ákveðna kvöð sem getur haft vinnu og kostnað í för með sér. Þótt þessi kvöð kunni að geta verið íþyngjandi þá er ljóst að hér er um þjóðfélagslega nauðsyn að ræða og löggjafinn ætlast til þess að upplýsingagjafinn beri kvöðina bótalaust. Má hér t.d. nefna 5. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003 sem fyrr er getið í dóminum. Þótt vera kunni að erfitt geti verið eða jafnvel ómögulegt að gefa einhverjar af upplýsingunum samkvæmt 2. mgr. 92. gr. getur það ekki leitt til þess að þar með falli upplýsingaskyldan niður. Enda þótt svo kunni að vera að skattstofn verði ekki ákveðinn eingöngu á grundvelli þeirra upplýsinga um hlutabréfaviðskipti, sem stefndi hefur krafist að stefnandi láti honum í té samkvæmt 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003, áður laga nr. 75/1981, þá léttir það ekki skyldunni af stefnanda eins og umrædda málsgrein verður að skýra. Hér ber að hafa í huga það sem segir um 5. gr. í greinargerð með frumvarpi til breytingarlaga nr. 36/1991, en sú grein varð að 2. mgr. 92. greinar. Þar segir svo: „Með þessari grein er gerð tillaga um að lögð verði almenn skylda á herðar þeirra aðila sem viðskipti eiga með hlutabréf til að veita skattyfirvöldum upplýsingar um slík viðskipti. Er hér um svipað fyrirkomulag að ræða og nú gildir varðandi ýmsa upplýsingagjöf um laun, arð, stofnsjóði, afurðainnlegg o.fl. Á síðustu missirum hafa orðið verulegar breytingar á íslenska hlutabréfamarkaðinum. Viðskipti með hlutabréf hafa stóraukist og fjöldi þeirra aðila, sem þau stunda, hefur margfaldast. Skattfríðindi fylgja kaupum á ýmsum hlutabréfum. Þessu ákvæði er ætlað að koma til móts við þarfir hins opinbera um upplýsingar um þennan þátt fjármálalífsins. Upplýsingaskyldan hvílir á þeim sem annast um viðskiptin, t.d. hlutabréfasölum. Verður að ætla að skráning á viðskiptum, sem hjá þeim á sér stað, geri upplýsingagjöf auðvelda fyrir þessa aðila.“ Af þessu má telja ljóst að löggjafinn hafði í huga þarfir hins opinbera fyrir upplýsingar um hlutabréfaviðskipti og verður ekki séð að sú þörf hafi einvörðungu verið bundin við það að sumum hlutabréfakaupum fylgdu skattfríðindi. Þörfina hlaut hið opinbera, þ.e. skattyfirvöld í þessu tilviki, að meta á hverjum tíma og m.a. í ljósi þess þykir ekki skipta máli þótt stefndi hafi ekki beitt heimildum sínum samkvæmt 2. mgr. 92. gr. fyrr en raun ber vitni. Þá verður heldur ekki séð að hér skipti máli þótt ríkisskattstjóri hafi m.a. í hyggju að nota umbeðnar upplýsingar til þess að forskrá þær á eyðublöð fyrir skattframtal. Í 94. gr. laga nr. 90/2003, áður nr. 75 /1981, er kveðið á um víðtækar heimildir skattyfirvöldum til handa til að fá í hendur upplýsingar bæði frá framteljendum og öðrum í því skyni að rannsaka og sannreyna hvort rétt sé talið fram, þ.e.a.s. til þess að framkvæma skatteftirlit. Þessi lagagrein mun hafa verið skýrð svo, eða beitt í framkvæmd með þeim hætti, að upplýsinganna verði krafist frá aðilum eða um aðila sem sérstaklega eru tilgreindir hver og einn. Ekki þykir unnt að nota efni 94. greinar til þess að skýra 2. mgr. 92. gr. svo að skattyfirvöld verði að tilgreina sérstaklega hvern og einn til þess að skylt verði að veita upplýsingar um hlutabréfaviðskipti hans samkvæmt lagagreininni. Má hér og hafa í huga að grundvöllur þess hvort efni eru talin til sérstaks skatteftirlits hlýtur, a.m.k. að hluta til, að vera efni þeirra upplýsinga sem skylt er að gefa samkvæmt 92. gr. Þessar tvær lagagreinar fá skattyfirvöldum víðtækar heimildir í hendur, sem þeim verður að telja nauðsynlegar, og er ekki hægt að líta svo á að efni annarrar þeirrar takmarki sérstaklega efni hinnar. Samkvæmt framansögðu verður að skýra 2. mgr. 92. gr. svo að hún heimili stefnda að krefja stefnanda um þær upplýsingar sem hann fór fram á í bréfi dags. 25. maí 2004 til stefnanda, sbr. dómkröfur stefnanda í aðalsök. Eins og stöðu og hlutverki skattyfirvalda er háttað verður að telja tilgang lagagreinarinnar málefnalegan og beitingu ríkisskattstjóra á henni innan meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Tillögur vinnuhóps stefnda og Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja geta ekki talist binda hendur stefnda um rétt hans til þess að krefjast upplýsinga samkvæmt 2. mgr. 92. gr. með þeim hætti sem hann nú gerir. Kemur þá til athugunar hvort stefnanda sé engu að síður óskylt að veita umbeðnar upplýsingar vegna þess að hann er bundinn þagnarskyldu um hag viðskiptamanna sinna samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Fallast ber á það að frávikum frá þessari þagnarskyldu á að beita varlega og jafnframt að skýra þau þeim í hag sem upplýsingaskyldan hvílir á. Það breytir þó ekki því að samkvæmt lagagreininni víkur þagnarskyldan þegar skylt er að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Niðurstaða Hæstaréttar í dómi, sem upp var kveðinn 21. október 1999 í málinu nr. 156/1999, var sú að þagnarskylda starfsmanna Landsbanka Íslands hf. yrði að víkja fyrir upplýsingaskyldu sem kveðið væri á um í 94. gr. laga nr. 75/1981 og 15. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, en í þeirri lagagrein er kveðið á um upplýsingaskyldu og heimildir til skatteftirlits og skattrannsókna. Með hliðsjón af þessari dómsniðurstöðu og samkvæmt því sem að framan er sagt um efni og skýringu á ákvæði 2. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003 er niðurstaða dómsins sú að þagnarskylduákvæðið í 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki geti ekki heimilað stefnanda að víkjast undan upplýsingaskyldu samkvæmt 2. mgr. 92. gr. Hér ber og að hafa í huga þagnarskyldu starfsmanna skattyfirvalda samkvæmt 117. gr. laga nr. 90/2003. Sú þagnarskylda tekur við þegar þagnarskylda 58. gr. laga nr. 161/2002 víkur og þagnarskylda ríkir því samfleytt um framangreindar upplýsingar þótt hún færist yfir á nýjan aðila. Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið er niðurstaða dómsins sú að hafna verður viðurkenningarkröfu stefnanda. Með vísan til sömu röksemda verður gagnkrafa stefnda tekin til greina. Málskostnaður sem stefnandi greiði stefnda þykir hæfilega ákveðinn kr. 400.000, þar með talinn virðisaukaskattur. Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Dómsorð. Hafnað er þeirri kröfu stefnanda, Landsbanka Íslands hf., að viðurkennt verði með dómi að stefnanda sé óskylt að afhenda stefnda, ríkisskattstjóra, sundurliðaðar upplýsingar um öll viðskipti með hlutabréf og aðila að þeim viðskiptum á árinu 2003, sem stefnandi hafði umsjá með, í samræmi við það sem eyðublað stefnda RSK 2.08 ber með sér, svo sem krafist hafi verið af hálfu stefnda í bréfi til stefnanda 25. maí 2004. Stefnanda er skylt samkvæmt bréfi stefnda, ríkisskattstjóra, dags. 25. maí 2004, að afhenda skattstjórum eða umboðsmönnum þeirra sundurliðaðar upplýsingar um öll viðskipti með hlutabréf og aðila að þeim viðskiptum á árinu 2003, sem stefnandi hafði umsjá með, í samræmi við og í því formi sem stefndi hefur ákveðið samkvæmt eyðublaði RSK 2.08, samkvæmt auglýsingu stefnda nr. 1/2004 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2004. Stefnandi greiði stefnda kr. 400.000 í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskattur. |
Mál nr. 447/2005 | Vörumerki Lögbann | C ehf. höfðaði mál til staðfestingar á lögbanni, sem sýslumaðurinn í Reykjavík, hafði lagt við því að A ehf. notaði, sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið „Life Extension“ og nánar tiltekið útlit umbúða þeirra. Ennfremur krafðist C ehf. viðurkenningar á að A ehf. væri óheimilt að nota umrætt vörumerki svo og endurgjalds fyrir óheimila notkun félagsins á því. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að C ehf. hefði ekki sýnt fram á að félagið hefði öðlast vörumerkjavernd á heitinu „Life Extension“. Ekki þóttu næg efni til að hrófla við þeirri niðurstöðu. Þá var staðfest að A ehf. væri óheimilt að nota sem auðkenni á vöru sinni útlit þeirra umbúða, sem hann seldi hana í, svo og lögbann sama efnis, enda augljós ruglingshætta á merkjum aðilanna á umbúðunum. Að lokum var fallist á kröfu um að A ehf. skyldi greiða C ehf. 1.000.000 krónur í hæfilegt endurgjald fyrir óheimila hagnýtingu vörumerkisins á grundvelli 1. mgr. 43. gr. laga nr. 46/1997 um vörumerki. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. október 2005 og gerir eftirfarandi dómkröfur: 1) Að synjað verði um staðfestingu lögbanns, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði við því að hann noti sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið „Life Extension“ og útlit umbúða þeirra, sem hann selur þær í, það er hvítt plastglas með mynd af blómum í miðju þess, heiti vörunnar fyrir ofan myndina og heiti framleiðanda auk annars undir myndinni, svo og öll önnur not hans af vörumerkjum, sem eru eins og eða líkjast þessu vörumerki eða fela í sér aðra tilvísun til þess. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms hvað þennan lið varðar. 2) Að hann verði sýknaður af kröfu um greiðslu endurgjalds fyrir hagnýtingu vörumerkis gagnáfrýjanda, en til vara að þessi kröfuliður verði lækkaður. 3) Að vísað verði frá dómi kröfu gagnáfrýjanda um viðurkenningu á því að honum sé óheimilt að nota sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið „Life Extension“ og nánar tiltekið útlit umbúða þeirra, en til vara að hann verði sýknaður af þeirri kröfu. Aðaláfrýjandi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 28. desember 2005. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að viðurkennt verði að aðaláfrýjanda sé óheimilt að nota sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið „Life Extension“, sem og öll önnur not á vörumerkjum, sem eru eins eða líkjast umræddu vörumerki eða fela í sér aðra tilvísun til þess, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur hvað þennan lið varðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. I. Gagnáfrýjandi hefur selt fæðubótaefni hér á landi frá árinu 1997 undir heitinu „Life Extension“. Telur hann sig hafa öðlast vörumerkjarétt á heitinu og útliti þeirra umbúða, sem efnin eru seld í. Aðaláfrýjandi hóf á árinu 2004 sölu á fæðubótaefnum undir sama heiti og gagnáfrýjandi notar á sína vöru og í umbúðum, sem líktust mjög þeim sem hann selur sína vöru í. Fékk gagnáfrýjandi lagt lögbann við því að aðaláfrýjandi notaði umrætt heiti og umbúðir í starfsemi sinni. Í kjölfarið sótti sá fyrrnefndi um að fá skráð vörumerki það, er hann hafði notað, en í því er áðurnefnt heiti áberandi hluti merkisins. Málavextir eru nánar raktir í héraðsdómi. Við úrlausn um kröfu gagnáfrýjanda varðandi notkun vörumerkisins var í forsendum hins áfrýjaða dóms vísað til ákvörðunar Einkaleyfastofu vegna ágreinings um skráningu merkisins. Var talið að orðasambandið „Life extension“ væri almennt notað um ákveðinn hóp næringarefna, sem hafi tiltekna eiginleika, og þótti það hvorki vera sérstaklega lýsandi fyrir vöru gagnáfrýjanda né greina hana frá sambærilegum eða svipuðum efnum eða lyfjum. Varð niðurstaða héraðsdóms sú að gagnáfrýjandi hefði ekki sýnt fram á að hann hafi öðlast vörumerkjavernd á heitinu „Life Extension“ fyrir fæðubótaefni sín og var hafnað kröfu hans um að aðaláfrýjanda væri óheimilt að auðkenna sína vöru með sama heiti. Á hinn bóginn var fallist á að vörumerki aðaláfrýjanda væri mjög líkt merki gagnáfrýjanda og að hætta væri á að menn rugluðu merkjunum saman, enda bæði notuð til auðkenningar á sams konar vöru. Var fallist á kröfu gagnáfrýjanda um að aðaláfrýjanda væri óheimilt að nota sem auðkenni á vöru sinni útlit þeirra umbúða, sem hann selur hana í. Fallist verður á að augljós ruglingshætta sé á merkjum aðilanna. Gekk aðaláfrýjandi langt í því að líkja eftir merki gagnáfrýjanda, þegar hann hóf að selja vöru sína á árinu 2004, og nýtti með því markaðsstarf sem gagnáfrýjandi hafði þá þegar unnið. Verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að aðaláfrýjanda sé óheimilt að nota sem auðkenni á vöru sína útlit þeirra umbúða, sem hann selur hana í, svo og um staðfestingu lögbanns að því leyti, en ekkert tilefni er til að verða við fyrrgreindri frávísunarkröfu aðaláfrýjanda, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti eru ekki næg efni til að hrófla við þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi öðlast vörumerkjavernd á heitinu „Life Extension“ fyrir fæðubótaefni sín. II. Gagnáfrýjandi krefst staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um að aðaláfrýjanda sé skylt að greiða honum 1.000.000 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum fyrir óheimila hagnýtingu vörumerkisins. Aðaláfrýjandi krefst sýknu. Í stefnu gagnáfrýjanda til héraðsdóms var til stuðning kröfu um hæfilegt endurgjald vísað til 43. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að hann reisir kröfuna á ákvæði 1. mgr. 43. gr. laganna. Af umfjöllun í stefnu verður ekki annað ráðið en að krafan lúti að slíku endurgjaldi, sem í því ákvæði greinir, en ekki að skaðabótum samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Að því virtu verður fallist á kröfu gagnáfrýjanda í þessum þætti málsins. Samkvæmt öllu framanröktu verður héraðsdómur staðfestur. Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Aðaláfrýjandi, Arnarvík heildverslun ehf., greiði gagnáfrýjanda, Celsus ehf., 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júlí 2005. Mál þetta var höfðað 15. júní 2004 og var dómtekið 15. apríl sl. Málið var endurflutt 18. júlí 2005 og dómtekið sama dag. Stefnandi er Celsus ehf., Sörlaskjóli 7, Reykjavík, Stefndi er Arnarvík heildverslun ehf., Bröttugötu 3b, Reykjavík. Dómkröfur Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur: 1. Að staðfest verði með dómi lögbann það sem fulltrúi sýslumannsins í Reykjavík lagði við því þann 9. júní 2004 að stefndi Arnarvík heildverslun ehf., noti sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið LIFE EXTENSION og útlit umbúða þeirra sem hann selur þær í, þ.e. hvítu plastlyfjaglasi með mynd af blómum í miðju þess, heiti vörunnar fyrir ofan myndina, og heiti framleiðanda auk annars undir myndinni, svo og öll önnur not stefnda á vörumerkjum sem eru eins og eða líkjast vörumerkinu LIFE EXTENSION, eða fela í sér aðra tilvísun til þessa vörumerkis stefnanda. 2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu vörumerkisins að fjárhæð 3.681.000 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 4., sbr. 3. kafla laga nr. 38/2001 frá 9. júní 2004 til greiðsludags og að dæmt verði að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum frá upphafsdegi vaxta. 3. Að viðurkennt verði með dómi gagnvart stefnanda að stefnda sé óheimilt að nota sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið LIFE EXTENSION og útlit umbúða þeirra sem hann selur þær í, þ.e. hvítt plastlyfjaglas með mynd af blómum í miðju þess, heiti vörunnar fyrir ofan myndina, og heiti framleiðanda auk annars undir myndinni, sem og öll önnur not stefnda á vörumerkjum sem eru eins og eða líkjast vörumerkinu LIFE EXTENSION, eða fela í sér aðra tilvísun til þessa vörumerkis stefnanda. 4. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda lögbannskostnað og málskostnað allan að mati dómsins. Stefndi gerir svofelldar dómkröfur: 1. Synjað verði staðfestingar á lögbanni sem fltr. Sýslumannsins í Reykjavík lagði við því hinn 9. júní 2004 að stefndi "Arnarvík heildverslun ehf., kt. 641193-2679", noti sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið LIFE EXTENSION og útlit umbúða þeirra sem hann selur þær í, þ.e. hvítu plastglasi með mynd af blómum í miðju þess, heiti vörunnar fyrir ofan myndina og heiti framleiðanda auk annars undir myndinni, svo og öll önnur not gerðarþola (stefnda) á vörumerkjum sem eru eins og eða líkjast vörumerkinu LIFE EXTENSION, eða fela í sér aðra tilvísun til þessa vörumerkis gerðarbeiðanda (stefnanda). 2. Stefndi krefst þess að vera sýknaður af kröfu stefnanda um “hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu vörumerkisins að fjárhæð 3.681.000 krónur” auk vaxta, sbr. 2. tl. dómkrafna stefnanda í stefnu. Til vara er þess krafist að þessi liður dómkrafna stefnanda verði lækkaður verulega. 3. Stefndi krefst þess að dómkröfu um viðurkenningu á því “að stefnda sé óheimilt að nota sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið LIFE EXTENSION” samkvæmt 3. tl. í dómkröfum stefnanda í stefnu, verði vísað frá dómi. Verði ekki á það fallist er þess krafist að stefndi verði sýknaður af þessum lið dómkrafna stefnanda. Stefndi krefst í öllum tilvikum málskostnaður að skaðlausu að mati réttarins, vegna lögbannsmálsins svo og vegna meðferðar þessa máls fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Málavextir Stefnandi hefur frá árinu 1997 selt fæðubótarefni hér á landi undir heitinu LIFE EXTENSION, en vöruna hefur stefnandi flutt inn frá framleiðanda hennar í Svíþjóð, BioCare Villoldo AB. Hefur varan verið seld í lyfjaverslanir, heilsubúðir og samkvæmt pöntunum frá því á fyrri hluta ársins 1997 til dagsins í dag. Stefnandi kveðst hafa eytt gífurlegum tíma og fjármunum í markaðssetningu vörunnar hér á landi. Megi nefna að kostnaður við birtingu auglýsinga á vörunni hafi numið yfir 5 milljónum króna án virðisaukaskatts á þessum tíma, að ótöldum kostnaði við gerð auglýsinganna sem hafi numið um 1 milljón króna, auk kostnaðar við kynningar í apótekum og þátttöku í vörusýningum svo dæmi séu nefnd. Af hálfu stefnda er þessari fullyrðingu stefnanda mótmælt sem ósönnuðum enda hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn til þess að styðja þessa fullyrðingu sína. Í byrjun maímánaðar 2004 kveðst stefnandi hafa orðið þess áskynja að stefndi hefði hafið sölu á fæðubótarefni, sem stefndi auglýsi sem sambærilega vöru stefnanda, en stefnandi og framleiðandi vörunnar, BioCare Villoldo AB í Svíþjóð, séu alls ekki sammála þeirri fullyrðingu. Selji stefndi vöru sína undir sama heiti og í nánast eins umbúðum og stefnandi, en á mun lægra verði, enda séu gæði þeirrar vöru ekki nándar nærri þau sömu. Þessu mótmælir stefndi og bendir á að engin gögn liggi fyrir í málinu um samanburð á gæðum varanna og bendir jafnframt á að innihaldslýsing þeirra sé sú sama. Hinn 12. maí 2004 sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf þar sem vakin var athygli hans á því að með því að selja fæðubótarefni undir nafninu LIFE EXTENSION væri hann að brjóta gegn vörumerkjarétti stefnanda, og var þess óskað að hann léti af sölu vöru sinnar undir þessum merkjum. Var ekki orðið við því af hálfu stefnda. Sendi stefnandi þá beiðni um lögbann til sýslumannsembættisins í Reykjavík þann 24. maí 2004. Var lögbann lagt við notkun stefnda á auðkennum stefnanda þann 9. júní 2004, sbr. lögbannsmál nr. L-9/2004. Mál þetta, sem höfðað var til staðfestingar á lögbanninu, var síðan þingfest 22. júní 2004. Nokkru áður er mál þetta var þingfest, eða hinn 13. maí 2004, lagði Anna Björg Hjartardóttir, framkvæmdastjóri stefnanda, inn umsókn hjá Einkaleyfastofu um skráningu vörumerkisins LIFE EXTENSION det lilla extra for Dig over trettio BIOCARE MEDICAL (orð- og myndmerki). Óskað var skráningar fyrir næringarefni í læknisfræðilegum tilgangi í flokki 5 og fyrir bætiefni í flokki 29. Umsóknin fékk númerið 1330/2004. Merkið var skráð og birt í ELS-tíðindum hinn 15. júlí 2004, sbr. skráning nr. 556/2004. Með bréfi, dags. 15. september 2004, andmælti A & P Árnason ehf. skráningu merkisins f.h. stefnda. Byggðust andmæli stefnda á því að merki umsækjanda væri óskráningarhæft þar sem það uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997 um sérkenni og aðgreiningarhæfi. Eftir að aðilar höfðu skilað greinargerðum var málið tekið til úrskurðar. Hinn 10. desember 2004 lá fyrir ákvörðun Einkaleyfastofu um að skráning merkisins LIFE EXTENSION det lilla extra for Dig over trettio BIOCARE MEDICAL (orð- og myndmerki) skyldi halda gildi sínu. Málsástæður stefnanda og lagarök Mál þetta kveðst stefnandi höfða til staðfestingar á framangreindu lögbanni, til viðurkenningar á rétti sínum og til greiðslu á hæfilegu endurgjaldi, vöxtum og kostnaði. Stefnandi byggi á því að öll skilyrði 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 séu uppfyllt í máli þessu. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi öðlast vörumerkjarétt á heitinu LIFE EXTENSION og útliti umbúða þeirra sem varan sé seld í, þar sem auðkenni þessi hafi verið notuð af honum óslitið fyrir vöru hans frá því á árinu 1997. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 3. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997, geti vörumerkjaréttur stofnast hvort sem er fyrir skráningu vörumerkis, eða notkun þess. Sé alveg ljóst að stefnandi hafi öðlast vörumerkjavernd á merki sínu fyrir notkun þess undanfarin 7 ár hér á landi. Stefnandi byggir á því að merki hans uppfylli öll skilyrði 13. gr. vörumerkjalaga um sérkenni og hæfi merkisins til að öðlast vörumerkjavernd. Heitið LIFE EXTENSION geti ekki talist lýsandi fyrir þá vöru sem það auðkenni, né útlit umbúðanna. Stefnandi hafi lagt inn umsókn um skráningu vörumerkis síns hjá Einkaleyfastofu þann 13. maí 2004, sbr. umsókn nr. 1330/2004. Í vörumerkjarétti felist samkvæmt 4. gr. vörumerkjalaga að aðrir en eigandi vörumerkis megi ekki heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi tákn sem séu eins eða lík vörumerki hans ef notkunin taki til eins eða svipaðrar vöru eða þjónustu og vörumerkjarétturinn nái til og ef hætt sé við ruglingi, þar með talið að tengsl séu með merkjunum. Heitið LIFE EXTENSION geti ekki talist tegundarheiti yfir fæðubótarefni. Sé ljóst að það sé til þess fallið að njóta vörumerkjaverndar. Með notkun sinni á heitinu LIFE EXTENSION og útliti umbúða þeirra sem stefndi selji vöru sína í, sé hann að brjóta gegn fyrrnefndum vörumerkjarétti stefnanda. Í fyrsta lagi noti stefndi alveg sama heiti á vöru sína og stefnandi, og í öðru lagi séu umbúðir stefnda nokkuð nákvæm eftirlíking umbúða þeirra sem stefnandi noti. Hafi starfsfólk apótekanna sem selji vöru stefnanda sjálft ruglast á vörum þessum og hafi þau talið stefnanda vera að selja vöru þessa í Bónus búðunum eftir að hafa séð auglýsingar þeirra. Sé því sannarlega um ruglingshættu að ræða. Einnig verði að telja að með athöfn sinni brjóti stefndi gegn 20., 20.a, 21. og 25. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993. Ljóst sé að stefndi sé að nýta sér þá vinnu sem stefnandi hafi lagt í við kynningu, dreifingu og markaðssetningu á vöru sem hafi orðið vinsæl hér á landi, með því að fá aðila til að framleiða fyrir sig vöru sem stefndi segi sömu vöru og stefnandi selji, og selji hana hér á landi undir sama heiti og með sama útliti og stefnandi geri. Séu neytendur blekktir þarna með alvarlegum hætti. Ljóst sé að vara sú sem stefndi selji sé ekki sú sama að eiginleikum og/eða gæðum og vara stefnanda, og verður að telja það alvarlegt brot gegn neytendum þegar þeim sé talin trú um það í auglýsingum stefnda að um sömu vöru sé að ræða. Einnig sé það alvarlegt brot gegn réttindum stefnanda að varan sé sett í nánast eins umbúðir og seld undir sama heiti. Hinn sænski framleiðandi vöru þeirrar sem stefnandi selji hér á landi hafi leitað upplýsinga um hið danska fyrirtæki, sem stefndi segist eiga viðskipti við og hafi fengið þær upplýsingar símleiðis frá því fyrirtæki að þeir framleiddu þessa vöru eingöngu fyrir stefnda til að selja í Bónusverslunum hér á landi, í þeim umbúðum og undir því nafni sem stefndi hafði óskað eftir. Sé fyrirætlun stefnda að nýta sér freklega markaðsvinnu stefnanda alveg ljós, og algerlega óviðunandi. Það sé ljóst að eftir miklu sé að slægjast fyrir stefnda því að umrædd vara sé í 1. sæti yfir söluhæstu fæðubótarefni í apótekunum Lyf & heilsa, eins og sjá megi á heimasíðu þeirra: www.lyfogheilsa.is. Stefnandi krefjist greiðslu úr hendi stefnda vegna brota hans gegn vörumerkjarétti stefnanda að fjárhæð 3.681.000 krónur sem sé hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu vörumerkis hans, sbr. 43. gr. vörumerkjalaga. Ljóst sé að neytendur hafi látið blekkjast af auglýsingum stefnda og hafi keypt vöru hans í Bónus verslununum í þeirri trú að þeir væru að kaupa vöru stefnanda. Hafi stefndi því hagnast af þessari ólögmætu hagnýtingu sinni á vörumerki stefnanda og beri honum að greiða endurgjald vegna þess. Samkvæmt reikningi sem stefndi hafi sent Aðföngum hf. sem sjái um innkaup fyrir Bónus verslanirnar, hafi sölufjárhæðin numið 3.681.000 krónum án virðisaukaskatts og telji stefnandi að miða beri við þá tölu við mat á hæfilegu endurgjaldi fyrir not á vörumerki sínu. Varðandi lagarök vísar stefnandi til laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann ofl., 24. - 32. gr. þeirra laga auk 6. kafla þeirra um staðfestingu lögbannsins. Þá er vísað til vörumerkjalaga nr. 45/1997 og samkeppnislaga nr. 8/1993 um brot stefnda gagnvart stefnanda. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsástæður stefnda og lagarök Á því er byggt af hálfu stefnda að grundvallarskilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. séu ekki fyrir hendi og því beri að synja um staðfestingu framangreinds lögbanns. Stefnanda hafi hvorki tekist að sanna eða gera það sennilegt að athafnir stefnda með sölu á fæðubótarefni undir merkinu LIFE EXTENSION brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti stefnanda, né hafi stefnandi getað sýnt fram á það með haldbærum rökum að sala stefnda á fæðubótarefni undir merkinu LIFE EXTENSION, muni spilla fyrir rétti stefnanda og réttur hans fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði stefnandi knúinn til þess að bíða dóms um rétt sinn eða réttindaleysi. Þvert á móti hafi stefnandi, með því að knýja fram lögbann samkvæmt framansögðu, valdið stefnda verulegu fjárhagslegu tjóni, sem stefndi áskilji sér allan rétt til að krefja stefnanda um á síðari stigum. Á því sé byggt af hálfu stefnda að stefnandi geti ekki og muni aldrei geta öðlast lögvarinn einkarétt á sölu fæðubótarefnis undir merkinu LIFE EXTENSION, hér á landi, eins og því sé lýst í umsókn hans um skráningu til Einkaleyfastofu. Stefnandi hafi lagt inn umsókn um skráningu vörumerkis síns hjá Einkaleyfastofu þann 13. maí 2004. Umsókn um skráningu vörumerkisins hafi birst í ELS tíðindum, hinn 15. júlí 2004, nánar tiltekið 7. tbl., árg. 2004, sbr. framlagt ljósrit úr ELS tíðindum. A & P Arnason/Lovísa Jónsdóttir, viðskiptalögfr., hafi hinn 15. september 2004 lagt fram, f.h. stefnda, andmæli gegn skráningu vörumerkisins, nr. 556/2004, LIFE EXTENSION (orð og myndmerki). Af andmælum þessum megi glöggt ráða að vörumerki stefnanda sem stefnandi sæki um skráningu á sé ekki tækt/hæft til skráningar. Í niðurlagi andmælanna segi: “Þegar vörumerkið er skoðað í heild þá sést að hver orðhluti sem við höfum lýst hér að ofan stendur einn og sér og því er ekki hægt að halda því fram að þeir saman myndi nægileg sérkenni til þess að hljóta vernd. Myndhluti skráningarinnar er eini hluti hennar sem segja má að hafi til að bera einhver sérkenni. Sú vernd sem skráning á slíkri mynd gæti fengið hlýtur þó að vera mjög takmörkuð þar sem ekki er hægt að gefa einum aðila einkarétt á því að nota blóm sem auðkenni fyrir þær vörur sem um ræðir. Þá er það álit okkar að blóm sem sérkenni fyrir þessar vörur sem hér um ræðir sé lýsandi þar sem verið er að vísa til náttúrunnar og lækninga, en í þeim efnum hafa blóm og jurtir lykilhlutverki að gegna. Vörumerkjaréttur sem menn öðlast við skráningu nær ekki til þeirra hluta merkis sem ekki er heimilt að skrá eins sér. Af því sem kemur fram hér að ofan á (sic) er ekki nokkur hluti merkisins skráningahæfur einn og sér og því er ekki hægt að fallast á skráningu nr. 556/2004. Í ljósi framangreinds förum við fram á að skráning nr. 556/2004 verði afmáð úr vörumerkjaskrá.” Á því er byggt af hálfu stefnanda að hann hafi öðlast vörumerkjarétt á merki sínu fyrir notkun þess undanfarin 7 ár hér á landi. Stefnandi geti ekki öðlast vörumerkjarétt fyrir notkun á merki sínu sem hann fái ekki skráð hér á landi. Vörumerkjaréttur fyrir notkun geti aldrei orðið sterkari/ríkari en skráning gefi merkinu. M.ö.o. vörumerkjaréttur fyrir notkun geti ekki skapast fyrir vörumerki sem ekki sé hæft til skráningar. Á því sé byggt af hálfu stefnanda að stefndi hafi, með því að selja vöru sína, brotið gegn 20., 20a., 21. og 25. gr. samkeppnislaga. Fullyrðingum og staðhæfingum stefnanda sé m.a. ákveðið andmælt í greinargerð stefnda/gerðarþola í lögbannsmálinu. Stefnandi geri kröfu um það að stefndi greiði honum hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu vörumerkis síns. Þess er krafist að stefndi verði sýknaður af kröfulið þessum (2. tl.), m.a. vegna þess að stefnandi hafi ekki öðlast lögvarinn rétt til slíks endurgjalds. Verði á hinn bóginn fallist á það að stefnandi eigi slíkan rétt/kröfu er þess krafist að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þess beri að geta að sala á vöru stefnda hafi verið stöðvuð af stefnanda sem hafi leitt til þess að stefndi hafi orðið fyrir gífurlegu fjárhagslegu tjóni. Stefndi sitji uppi með óselda vöru. Viðmið um hæfilegt endurgjald við framlagðan vörureikning sé ekki raunhæf í þessu sambandi þar sem ekki sé tekið tillit til innkaupsverðs vörunnar og þess hluta vörunnar sem ekki hafi selst og verði ekki hægt að koma í verð, verði hið umdeilda lögbann staðfest. Í 3. tl. dómkrafna stefnanda er krafist viðurkenningardóms, svo sem þar er lýst. Þess er krafist að kröfulið þessum verði vísað frá dómi þar sem um sömu dómkröfu er að ræða og undir l. tl., en ekki sé raunhæft að tvídæma sömu kröfuna, í sama dómsmáli. Verði ekki fallist á það að kröfulið þessum beri að vísa frá dómi er þess krafist að stefndi verði sýknaður af kröfulið þessum. Vísað er til þeirra sjónarmiða og andmæla stefnda sem fram koma í greinargerð hans í lögbannsmálinu. Það skuli áréttað að stefndi hafi verið í góðri trú um að flytja til landsins fæðubótarefni undir heitinu LIFE EXTENSION. Heitið LIFE EXTENSION fyrir fæðubótarefni hafi áunnið sér að vera tegundarheiti fyrir fæðubótarefni sem hvergi hafi fengist skráð í heiminum, sem vörumerki. Stefndi vísar m.a. til laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o. fl., 24.-32. gr. þeirra laga auk 6. kafla þeirra um staðfestingu lögbannsins. Einnig til vörumerkjalaga nr. 45/1997 og samkeppnislaga nr. 8/1993, kröfum sínum og málsástæðum sínum til stuðnings. Um réttarfar og málskostnað vísast m.a. til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna. Niðurstaða Eins og fram er komið hefur stefnandi, frá árinu 1997, selt fæðubótarefni undir heitinu LIFE EXTENSION. Byggir hann kröfur sínar í máli þessu á því að hann hafi öðlast vörumerkjarétt á heitinu LIFE EXTENSION og útliti þeirra umbúða sem varan er seld í. Liggur fyrir að merkið LIFE EXTENSION det lilla extra for Dig over trettio BIOCARE MEDICAL (orð- og myndmerki) var skráð hjá Einkaleyfastofu 15. júlí 2004. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki geta einstaklingar og lögaðilar öðlast einkarétt á vörumerki samkvæmt ákvæðum laganna. Samkvæmt 2. gr laganna geta vörumerki verið hvers konar sýnileg tákn sem eru til þess fallin að greina vörur eða þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra, svo sem orð eða orðasambönd, bókstafir, tölustafir, myndir, teikningar, útlit, búnaður eða umbúðir vöru. Stefnandi hefur selt vöru sína undir heitinu LIFE EXTENSION. Gerir hann kröfu til þess í málinu að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að nota þetta vörumerki sem auðkenni á vörum sínum. Í úrskurði Einkaleyfastofu vegna umsóknar stefnanda á skráningu vörumerkisins LIFE EXTENSION det lilla exta for Dig over trettio BIOCARE MEDICAL segir að samkvæmt mati Einkaleyfastofunnar taki 1. mgr. 15. gr. til textans í merki umsækjanda og eigi það einnig við um orðasambandið LIFE EXTENSION sem verði að telja að sé orðin algeng orðanotkun, m.a. fyrir ákveðinn hóp næringarefna/lyfja sem ætlað er að hafa tiltekna eiginleika. Á netinu sé gjarnan hægt að nálgast upplýsingar um svokölluð “life extension drugs” sem einhvers konar lyf eða fæðubótarefni sem hafi tiltekna eiginleika. Einkaleyfastofa telur því ekki hægt að veita einum aðila einkarétt á að nota orðasambandið LIFE EXTENSION fyrir umræddar vörur þar sem það virðist almennt vera notað um slíkar vörur. Er það mat Einkaleyfastofu að þau gögn sem stefnandi lagði fram því til stuðnings að orðasambandið LIFE EXTENSION hefði öðlast sérkenni með notkun, sbr. 2. mgr. 13. gr. vörumerkjalaga, séu ekki nægjanleg til þess að hægt sé að fallast á einkarétt umsækjanda á orðasambandinu LIFE EXTENSION á grundvelli markaðsfestu. Þegar virt eru þau gögn sem fyrir liggja í málinu þykir sýnt fram á að enska orðasambandið LIFE EXTENSION er notað almennt um ákveðinn hóp næringarefna sem hafa tiltekna eiginleika. Er þetta orðasamband, eitt sér, því ekki sérstaklega lýsandi fyrir vöru stefnanda og þykir ekki greina vöru stefnanda frá sambærilegum eða svipuðum efnum eða lyfjum, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997. Þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi öðlast vörumerkjavernd á þessu heiti og ber því að hafna kröfu hans um að stefnda sé óheimilt að nota sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið LIFE EXTENSION. Stefnandi selur fæðubótarefni sitt í litlum hvítum plastglösum. Á merkimiða þeirra er að finna bæði mynd og texta. Efst stendur LIFE EXTENSION. Í línu þar fyrir neðan stendur á sænsku: Det lilla extra för Dig över trettio. Þar fyrir neðan kemur mynd af bleikum, gulum og rauðum blómum á grænum stilkum raðað saman í vönd. Undir myndinni, milli tveggja strika, stendur BIOCARE ∙ MEDICAL. Undir neðra strikinu er heimilisfang og neðst stendur 12o Tabletter. Fæðubótarefni það sem stefndi selur er í nánast samskonar plastglösum og stefnandi selur sitt efni í. Á merkimiða er einnig að finna mynd og texta. Efst á miðanum stendur LIFE EXTENSION. Í línu þar fyrir neðan stendur á dönsku: Kosttilskud til dig over tredive. Þar fyrir neðan kemur mynd af blómvendi í brúnum, rauðum og gulum litum. Undir myndinni, milli tveggja strika, stendur Life Care Denmark. Undir neðra strikinu er heimilisfang og neðst stendur 120 Tabletter. Þegar virt eru þessi tvö vörumerki sem aðilar hafa kosið að setja á vöru sína, og umbúðir vörunnar, verður ekki hjá því komist að sjá hvað merkin eru lík. Uppsetning á texta, letri og mynd er sú sama. Mynd er mjög svipuð í báðum tilvikum, þ.e. um blómavendi er að ræða í báðum tilvikum, enda þótt litir séu ekki þeir sömu. Þegar einnig er litið til þess að bæði merkin eru notuð til auðkenningar á fæðubótarefnum verður að telja að veruleg ruglingshætta sé fyrir hendi. Stefnandi hefur selt vöru sína undir þessu sama vörumerki frá árinu 1997. Telja verður að vörumerkið í heild sinni hafi til að bera nægjanlegt sérkenni til að uppfylla ákvæði 1. mgr. 13 gr. laga nr. 45/1997. Telst stefnandi því með notkun sinni á merkinu hafa öðlast vörumerkjavernd á því, þegar á þeim tíma er stefndi hóf sölu á vöru sinni árið 2004. Ber því að fallast á þá kröfu stefnanda að stefnda sé óheimilt að nota sem auðkenni á vörum sínum útlit þeirra umbúða sem hann selur vöru sína í, þ.e. hvítt plastlyfjaglas með mynd af blómum í miðju þess, heiti vörunnar fyrir ofan myndina og heiti framleiðanda auk annars undir myndinni. Hinn 9. júní 2004 var lagt lögbann við notkun stefnda á þessu umrædda vörumerki. Með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. ber að hafna kröfu stefnda um frávísun 3. töluliðar í kröfugerð stefnanda. Ber að staðfesta lögbannið að öðru leyti en því að fellt er úr gildi lögbann sem lagt var á notkun stefnda á auðkenninu LIFE EXTENSION, enda hefur stefndi ekki sýnt fram á að lögbannið, að svo miklu leyti sem það er staðfest, uppfylli ekki ákvæði 24. gr. laga nr. 31/1990. Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu vörumerkisins að fjárhæð 3.681.000 krónur. Stefnandi byggir þessa kröfu sína á því að stefnandi hafi hagnast á ólögmætri hagnýtingu sinni á vörumerki stefnanda. Vísar stefnandi í þessu sambandi til 43. gr. vörumerkjalaga. Eins og krafa hans er sett fram ber að skilja hana svo að byggt sé á 2. mgr. 43. gr. laganna en þar segir að þeim sem hagnast á broti gegn vörumerkjarétti, án þess að um ásetning eða gáleysi sé að ræða, sé skylt að greiða hæfilegt endurgjald. Endurgjaldið megi þó aldrei vera hærra en ætla megi að nemi hagnaði hans af brotinu. Samkvæmt framlögðum gögnum þykir sýnt að stefnandi hefur eytt talsverðum fjárhæðum í að markaðssetja vöru sína. Telja verður að stefndi hafi notið góðs af þeirri markaðssetningu þar sem hætta þykir á að neytendur hafi ruglað þessum tveimur vörutegundum saman, sbr. það sem áður er rakið. Fjárhæð kröfunnar er reist á reikningi frá stefnda til Aðfanga hf. vegna sölu á LIFE EXTENSION fyrir 3.681.000 krónur. Stefndi bendir á í greinargerð sinni að þessi viðmiðun sé ekki raunhæf þar sem ekki sé tekið tillit til innkaupsverðs vörunnar og þess hluta hennar sem ekki hafi selst og verði ekki hægt að koma í verð verði lögbannið staðfest. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þessu sjónarmiði sínu. Telja verður sýnt, sbr. það sem að framan er rakið, að stefndi hafi brotið gegn vörumerkjarétti stefnanda og að hann hafi hagnast á umræddum viðskiptum. Ber honum því, sbr. 2. mgr. 43. gr. vörumerkjalaga, að greiða stefnanda hæfilegt endurgjald sem eftir atvikum ákveðst 1.000.000 króna. Dráttarvaxtakröfu stefnanda er ekki mótmælt og er krafa hans tekin til greina. Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 500.000 krónur. Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Hafnað er kröfu stefnda um að þriðja kröfulið í stefnu verði vísað frá dómi. Hafnað er kröfu stefnanda, Celsus ehf., um staðfestingu lögbanns sem lagt var á 9. júní 2004 við því að stefndi, Arnarvík heildverslun ehf., noti sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið LIFE EXTENSION. Staðfest er lögbann, sem lagt var á 9. júní 2004, við því að stefndi, Arnarvík heildverslun ehf., noti sem auðkenni á vörum sínum útlit þeirra umbúða sem hann selur þær í, þ.e. hvítt plastglas með mynd af blómum í miðju þess, heiti vörunnar fyrir ofan myndina og heiti framleiðanda auk annars undir myndinni. Stefndi, Arnarvík heildverslun ehf., skal vera sýkn af þeirri kröfu stefnanda, Celsus ehf., að viðurkennt verði með dómi að honum sé óheimilt að nota sem auðkenni á vörum sínum vörumerkið LIFE EXTENSION. Viðurkennt er að stefnda, Arnarvík heildverslun ehf., sé óheimilt að nota sem auðkenni á vörum sínum útlit umbúða þeirra sem hann selur þær í, þ.e. hvítt plastlyfjaglas með mynd af blómum í miðju þess, heiti vörunnar fyrir ofan myndina, og heiti framleiðanda auk annars undir myndinni. Stefndi, Arnarvík heildverslun ehf., greiði stefnanda, Celsus ehf. 1.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. júní 2004 til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 606/2006 | Kærumál Vinnusamningur Uppsögn Trúnaðarskylda Lögbann | Þ sagði upp starfi sínu hjá O ehf. Á uppsagnarfrestinum hætti hann störfum fyrir félagið og hóf störf hjá T ehf., sem var í samkeppni við O ehf. Síðargreinda félagið krafðist þess að lagt yrði lögbann við því að Þ tæki við starfinu þar til uppsagnarfresturinn væri liðinn auk þess sem krafist var lögbanns við því að hann hefði á sama tíma samband við viðskiptamenn O ehf. Talið var að Þ hefði verið bundinn við ráðningarsamning sinn við O ehf., þegar hann hvarf úr starfi sínu og hóf störf hjá T ehf. Með því hefði hann brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart O ehf. og ekki talið að skaðabætur vernduðu hagsmuni félagsins nægilega. Var því fallist á að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann væri fullnægt og lagt fyrir sýslumann að leggja lögbann við því að Þ starfaði hjá T ehf., kæmi fram fyrir hönd þess, kynnti það eða sinnti öðrum verkefnum í þágu þess. Þá var einnig fallist á að leggja lögbann við því að Þ hefði samband við viðskiptamenn O ehf. í því skyni að veita þeim þjónustu á sviði tölvukerfa og netlausna. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 26. október 2006 um synjun lögbanns við því að varnaraðili tæki við starfi hjá Títan ehf., kæmi fram fyrir hönd þess félags, kynnti það eða sinnti nokkrum öðrum verkefnum fyrir félagið, hvort sem er launuðum eða ólaunuðum, og ennfremur að varnaraðili hefði samband við viðskiptamenn sóknaraðila, þar með talið starfsmenn þeirra, og/eða veitti þeim þjónustu á sviði tölvukerfa og netlausna, hvort heldur sem er gegn gjaldi eða ekki, og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumann að leggja lögbann við umræddum athöfnum varnaraðila er gildi til og með 31. desember 2006. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Fallist er á með héraðsdómi, að varnaraðili hafi enn verið bundinn við ráðningarsamning sinn við sóknaraðila, þegar hann hvarf úr starfi sínu hjá honum og hóf störf hjá Títan ehf., sem ágreiningslaust er að stundar samkeppnisrekstur við sóknaraðila. Ber varnaraðili á gildistíma samningsins til 31. desember 2006 trúnaðarskyldu við sóknaraðila, en telja verður að slík skylda gildi almennt í lögskiptum starfsmanns og vinnuveitanda meðan ráðningarsamningur er í gildi þó að ekki sé þar sérstaklega kveðið á um hana. Fallist er á með sóknaraðila, að réttarreglur um skaðabætur geti ekki talist vernda hagsmuni hans nægilega, þegar varnaraðili brýtur gegn trúnaðarskyldum sínum á þann hátt sem hér er raunin. Samkvæmt þessu verður talið að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt til að lögbannskrafa sóknaraðila nái fram að ganga. Verða kröfur hans því teknar til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms af sinni hálfu og verður kröfu hans um málskostnað í héraði vísað frá Hæstarétti. Varnaraðili skal greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Lagt er fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við því að varnaraðili, Þorsteinn Einarsson, starfi hjá Títan ehf. fram til 31. desember 2006, komi fram fyrir hönd þess félags, kynni það eða sinni öðrum verkefnum í þess þágu. Lögbannið taki einnig til þess að varnaraðili hafi á sama tíma samband við viðskiptamenn sóknaraðila, Opinna kerfa ehf., þar með talið starfsmenn þeirra, í því skyni að veita þeim þjónustu á sviði tölvukerfa og netlausna, hvort heldur sem er gegn gjaldi eða án þess, og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki. Kröfu varnaraðila um málskostnað í héraði er vísað frá Hæstarétti. Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Málið barst dóminum 27. október sl. og var þingfest 1. nóvember sl. Það var tekið til úrskurðar 13. nóvember sl. Sóknaraðili er Opin kerfi ehf., Höfðabakka 9, Reykjavík. Varnaraðili er Þorsteinn Einarsson, Goðheimum 12, Reykjavík. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík í lögbannsgerð nr. L-41/2006, um að synja sóknaraðila um lögbann, verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sýslumann, gegn tryggingu sem hann metur nægilega, að leggja lögbann við því að varnaraðili taki við starfi hjá Títan ehf., komi fram fyrir hönd þess félags, kynni það eða sinni nokkrum öðrum verkefnum fyrir félagið, hvort sem er launuðum eða ólaunuðum. Einnig verði lagt lögbann við því að varnaraðili hafi samband við viðskiptamenn sóknaraðila, þar með talið starfsmenn þeirra, og/eða veiti þeim þjónustu á sviði tölvukerfa og netlausna, hvort heldur sem er gegn gjaldi eða ekki, og hvort sem er sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki. Lögbannið gildi til og með 31. desember 2006. Þá er krafist málskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður. Málavextir eru þeir að varnaraðili starfaði hjá sóknaraðila og höfðu þeir gert með sér samning þar um 5. nóvember 1998. Varnaraðili sagði upp störfum 22. september sl. Kveður sóknaraðili uppsögnina hafa átt sér þann aðdraganda að Títan ehf., sem sé nýtt fyrirtæki og starfi á sama sviði og sóknaraðili, hafi ráðið varnaraðila til starfa. Þrátt fyrir það hafi verið gert ráð fyrir að varnaraðili myndi vinna út uppsagnarfrestinn hjá sóknaraðila eða til ársloka. Sóknaraðili kveður uppsögn varnaraðila og annarra starfsmanna hafi orðið til þess að 1. október sl. hafi forstjórinn ritaði starfsmönnum bréf, gert grein fyrir stöðu mála og hvernig brugðist skyldi við henni. Varnaraðili og aðrir, sem sagt höfðu upp störfum, litu þannig á þetta bréf að eftir sendingu þess væri þeim ókleift að vinna lengur hjá sóknaraðila. Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi skorað á varnaraðila, og aðra sem höfðu sagt upp störfum, að snúa aftur til vinnu, gerðu þeir það ekki, heldur hófu störf hjá Títan ehf. Sendu varnaraðili og tveir aðrir fyrrum starfsmenn sóknaraðila viðskiptamönnum hans bréf og tilkynntu um starfslok sín og jafnframt að þeir hefðu hafið störf hjá Títan ehf. og væru boðnir og búnir til að vinna áfram að verkefnum fyrir viðtakanda. Sóknaraðili krafðist þess 18. október sl. að sýslumaður legði lögbann við því að varnaraðili ynni fyrir Títan ehf. á uppsagnarfrestinum, en því hafnaði sýslumaður 26. október sl. og bar þá sóknaraðili málið undir dóminn. Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili sé samningsbundinn sér til ársloka. Hann hafi, án þess að sóknaraðili leysti hann undan vinnuskyldu, hafið störf hjá keppinaut og í því starfi haft samband við viðskiptavini sóknaraðila í því skyni að ná viðskiptum við þá frá sóknaraðila. Á því er byggt að á varnaraðila hvíli ólögfestar trúnaðarskyldur, sem meðal annars feli í sér að menn megi ekki taka að sér störf fyrir keppinaut meðan á uppsagnarfresti stendur og vinna þannig gegn hagsmunum vinnuveitanda síns. Gegn þessum skyldum hafi varnaraðili brotið og kunni það að valda sóknaraðila miklu tjóni. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi hvorki sannað né gert sennilegt að það fari í bága við réttindi hans þótt hann hafi hafið störf hjá öðrum vinnuveitanda. Lagaskilyrði séu því ekki til þess að verða við kröfu sóknaraðila, sbr. 24. gr. laga nr. 91/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Varnaraðili bendir á að hann hafi slitið vinnusambandi sínu við sóknaraðili og hann sé því ekki lengur bundinn trúnaði við hann. Ekki sé hægt að knýja sig til vinnu gegn vilja sínum, en hann hafi haft fullgildar ástæður til að hætta störfum áður en uppsagnarfresturinn var liðinn. Þá er á því byggt að krafan sé alltof víðtæk, sbr. 31. gr. laganna, og myndi lögbann nánast koma í veg fyrir að varnaraðili gæti unnið og aflað sér tekna, enda ekki lengur á launum hjá sóknaraðila. Með samningi 5. nóvember 1998 réð varnaraðili sig til starfa hjá sóknaraðila. Í samningnum er ákvæði um að hvor um sig geti sagt honum upp með þriggja mánaða fyrirvara, miðað við mánaðamót. Í samningnum eru ákvæði um þagnarskyldu, en engin sem banna varnaraðila að vinna tiltekin störf eftir að hann lætur af störfum. Ágreiningslaust er að varnaraðili sagði upp samningnum 22. september sl. og hóf skömmu síðar, áður en uppsagnarfrestur var útrunninn, að vinna hjá Títan ehf. sem er keppinautur sóknaraðila. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögbannslaga má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings ef sá sem þess beiðist sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Í 3. mgr. sömu greinar segir að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggi hagsmunina nægilega. Varnaraðili hvarf úr starfi sínu hjá sóknaraðila þótt hann væri enn bundinn við það samkvæmt framangreindum samningi og hóf störf hjá keppinautnum. Með þessu kann hann að hafa valdið sóknaraðila bótaskyldu tjóni. Samkvæmt nefndri 3. mgr. 24. gr. lögbannslaganna verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggi hagsmuni lögbannsbeiðanda nægilega. Það er niðurstaða dómsins að réttarreglur um skaðabætur muni tryggja hagsmuni sóknaraðila, verði hann fyrir tjóni af samningsbroti varnaraðila. Það eru því ekki lagaskilyrði til að verða við kröfu hans og er henni hafnað en málskostnaður skal falla niður. Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kröfu sóknaraðila, Opinna kerfa ehf., er hafnað en málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 691/2013 | Kærumál Lögræði Dómkvaðning matsmanns | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni A um dómkvaðningu matsmanna til að meta hvort hann væri hæfur til að ráða fé sínu sjálfur í máli er varðaði ótímabundna fjárræðissviptingu hans að kröfu B, C og D. Í læknisfræðilegu áliti sérfræðings í öldrunarlækningum, sem greint hafði A með Alzheimer sjúkdóm og annast meðferð hans, kom fram að vegna vitrænnar skerðingar og áðurnefnds sjúkdóms væri hann ekki hæfur til að verja fjárhagslega hagsmuni sína. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að mál til sviptingar lögræðis væru rekin á grundvelli lögræðislaga nr. 71/1997 og sættu þau samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna almennri meðferð einkamála með þeim frávikum sem í lögunum greindi. Eftir 6. mgr. sömu lagagreinar bæri að hraða meðferð máls til sviptingar lögræðis svo sem kostur væri. Þó mætti það ekki bitna á rétti þess sem krafist væri að sviptur yrði þeim mannréttindum að fara sjálfur með lögráð sín. Aðilar slíks máls hefðu ekki forræði á sönnunarfærslu. Þannig væri svo fyrir mælt í 11. gr. lögræðislaga að dómara bæri að tryggja að mál væri nægilega upplýst og gæti hann í því skyni aflað þeirra sönnunargagna sem þörf væri á. Rannsókn dómara ætti að lúta að því að kanna hvort skilyrðum lögræðissviptingar væri fullnægt. Þegar litið væri til afstöðu A, þess að ekki hefði verið aflað álits annars sérfróðs manns um andlegt heilbrigði hans en þess læknis sem annast hefði meðferð hans og gagna málsins að öðru leyti, taldi Hæstiréttur vafa leika á því hvort skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga væru fyrir hendi til að svipta A fjárræði ótímabundið. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að kveðja sérfróðan mann á grundvelli 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að láta í ljós læknisfræðilegt álit á því hvort A væri fær um að ráða fé sínu vegna sjúkdóms þess sem hann væri haldinn og alvarlegs heilsubrests af hans völdum. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2013, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og dómkvaddir verði tveir menn til að meta hvort hann sé hæfur til að ráða fé sínu sjálfur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Málsatvikum er lýst á greinargóðan hátt í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram hafa varnaraðilar krafist þess að sóknaraðili verði sviptur fjárræði ótímabundið. Fyrir liggur vottorð Björns Einarssonar, sérfræðings í öldrunarlækningum, 24. september 2013 þar sem hann lét í ljós það álit að samkvæmt læknisfræðilegu mati sínu væri sóknaraðili „ekki hæfur, vegna vitrænnar skerðingar og Alzheimers sjúkdóms, til að verja fjárhagslega hagsmuni sína.“ Af hálfu sóknaraðila hefur sú krafa verið gerð að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir menn til að meta hæfi sitt „til að ráða fé sínu í skilningi lögræðislaga“. Mál til sviptingar lögræðis eru rekin á grundvelli lögræðislaga og sæta samkvæmt 1. mgr. 10. gr. þeirra laga almennri meðferð einkamála með þeim frávikum sem í lögunum greinir. Eftir 6. mgr. sömu lagagreinar ber að hraða meðferð máls til sviptingar lögræðis svo sem kostur er. Þó má það ekki bitna á rétti þess sem krafist er að sviptur verði þeim mannréttindum að fara sjálfur með lögráð sín. Eins og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði hafa aðilar máls til sviptingar lögræðis ekki forræði á sönnunarfærslu á sama hátt og aðilar að einkamáli sem sætir almennri meðferð. Þannig er svo fyrir mælt í 1. mgr. 11. gr. lögræðislaga að dómara beri að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann kveður upp úrskurð um sviptingu lögræðis. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar getur hann í því skyni aflað sjálfur þeirra sönnunargagna sem hann telur þörf á. Svo sem tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi til lögræðislaga á rannsókn dómara að lúta að því að kanna hvort skilyrðum til lögræðissviptingar sé fullnægt, enda er þar jafnframt lögð áhersla á nauðsyn þess að niðurstaða máls til sviptingar lögræðis sé byggð á traustum grunni. Séu ákvæði 11. gr. lögræðislaga virt í ljósi fyrrgreindrar meginreglu 1. mgr. 10. gr. laganna verða ákvæðin ekki skýrð á þann veg að útilokað sé að dómari geti orðið við beiðni manns, sem krafist er að sviptur verði lögræði til langframa, um að dómkvaddur verði sérfróður maður til að leggja mat á atriði, sem krefjast annarrar sérfræðilegrar þekkingar en lagaþekkingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Með því móti er séð til þess að báðir aðilar fái komið að sjónarmiðum sínum við dómkvaðningu matsmannsins og matið sjálft. Vegna þeirrar áherslu sem lögð er á að máli skuli hraðað verður þetta þó ekki gert nema dómari telji að réttmætur vafi leiki á hvort skilyrðum lögræðissviptingar sé fullnægt og mat hins sérfróða manns kunni að varpa frekara ljósi á málið. Þar sem málsaðilar hafa sem fyrr segir takmarkað forræði á sönnunarfærslu er dómari ekki bundinn af matsbeiðni, heldur getur hann ákveðið að mati skuli hagað á annan veg en þar er farið fram á ef hann álítur það æskilegra í þeim tilgangi að upplýsa málið. Eins og áður er fram komið liggur fyrir í máli þessu læknisfræðilegt álit sérfræðings í öldrunarlækningum, sem greindi sóknaraðila með Alzheimer sjúkdóm og hefur annast meðferð hans síðan, að vegna vitrænnar skerðingar og þess sjúkdóms sé hann ekki hæfur „til að verja fjárhagslega hagsmuni sína“. Á hinn bóginn heldur sóknaraðili því fram að þrátt fyrir að hann hafi greinst með sjúkdóminn sé hann fullfær um að ráða fé sínu og að ekkert í fari hans eða framgöngu gefi tilefni til að óttast að hann muni sólunda fé sínu og eignum, andstætt hagsmunum sínum. Að teknu tilliti til þessarar afstöðu sóknaraðila, þess að ekki hefur verið aflað álits annars sérfróðs manns um andlegt heilbrigði hans en þess læknis, sem annast hefur meðferð hans, og gagna málsins að öðru leyti verður litið svo á að vafi leiki á því hvort skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga séu fyrir hendi til að svipta hann fjárræði ótímabundið. Af þeim sökum verður fallist á að aflað verði læknisfræðilegs álits sérfróðs manns, annars en fyrrgreinds sérfræðings í öldrunarlækningum, á því hvort sóknaraðili sé fær um að ráða fé sínu vegna sjúkdómsins og alvarlegs heilsubrests af hans völdum. Samkvæmt því sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að kveðja sérfróðan mann á grundvelli 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 til að láta í ljós læknisfræðilegt álit á því hvort sóknaraðili sé fær um að ráða fé sínu vegna Alzheimer sjúkdóms þess sem hann er haldinn og alvarlegs heilsubrests af hans völdum, sbr. a. lið 4. gr. lögræðislaga. Vegna fyrirmæla þeirra laga um að mál til sviptingar lögræðis skuli hraðað ber að dómkveðja matsmanninn svo fljótt sem kostur er og brýna jafnframt fyrir honum að hraða störfum sínum. Þar sem skylda hvílir á héraðsdómara samkvæmt 1. mgr. 11. gr. lögræðislaga að upplýsa málið og þóknun matsmanns skal greidd úr ríkissjóði eftir 1. mgr. 17. gr. laganna skal matsgerð fengin dómara í hendur. Að öðru leyti ber við dómkvaðningu matsmanns og framkvæmd matsins að fylgja ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991 eftir því sem við á. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að kveðja sérfróðan mann á grundvelli 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að láta í ljós læknisfræðilegt álit á því hvort sóknaraðili, A, sé fær um að ráða fé sínu vegna Alzheimer sjúkdóms þess sem hann er haldinn og alvarlegs heilsubrests af hans völdum. Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, B, C og D, Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur til hvors þeirra. |
Mál nr. 580/2010 | Kærumál Lögræði | Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði svipt sjálfræði í tólf mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 4. október 2010. Kæran barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2010, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími, en þó ekki lengur en sex mánuðir. Þá krefst hún kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þóknunar úr ríkissjóði til handa skipuðum talsmanni sínum fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanns fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 80/2009 | Kærumál Hald Skjal Trúnaðarskylda lögmanns | Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem Ríkislögreglustjóra var heimilað að leggja hald á nánar tilgreind skjöl. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ekki hefði verið sýnt fram á að umrædd skjöl hefðu að geyma trúnaðarupplýsingar skjólstæðings til lögmanns um einkahagi hans. Væri því ekki fyrir hendi sú aðstaða sem um ræðir í b. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2009, þar sem sóknaraðila var heimilað að leggja hald á nánar tilgreinda kaupsamninga, fylgigögn og yfirlit um ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum varnaraðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Eins fram kemur í hinum kærða úrskurði rannsakar lögregla sölu eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á flugvélum til tilgreindra félaga. Beinist rannsóknin meðal annars að meintum fjársvikum og fjárdrætti. Af gögnum málsins má ráða að lögregla telji varnaraðila hafa í vörslum sínum afrit af kaupsamningum vegna sölu á flugvélunum. Varnaraðili hefur andmælt framkominni kröfu á grundvelli sjónarmiða um trúnaðarskyldu lögmanns við skjólstæðing. Um þetta vísar hann einkum til 1. mgr. 68. gr. og b. liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Þá vísar hann einnig um trúnaðarskyldu þessa til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, siðareglna lögmanna og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess telur hann að líta beri til 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár sem og 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 skal leggja hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla má að þeir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli. Samkvæmt 2. málslið ákvæðisins er hins vegar óheimilt að leggja hald á muni ef þeir hafa að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hefur farið á milli, svo og upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. tekur til. Í máli þessu er um að ræða skjöl sem ætla má að veiti lögreglu upplýsingar eða hafi sönnunargildi við rannsókn máls. Er lögreglu því skylt að afla slíkra skjala við rannsókn þess samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 68. gr. laganna. Í samræmi við 2. málslið ákvæðisins kemur til athugunar hvort ákvæði 2. mgr. 119. gr. laganna standi þessari kröfu í vegi. Þar segir meðal annars í b. lið að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir í starfi sem lögmaður. Við úrlausn málsins ber að líta til þess að krafa sóknaraðila beinist að samningum sem skjólstæðingur varnaraðila hefur með aðstoð hans gert við þriðja mann og gögnum sem varða efndir þess samnings. Ekki hefur verið sýnt fram á að umrædd skjöl hafi að geyma trúnaðarupplýsingar skjólstæðings til lögmanns um einkahagi sína. Er því ekki fyrir hendi sú aðstaða sem um ræðir í b. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður heldur ekki talið að tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár standi þessari niðurstöðu í vegi. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess með vísan til 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 69. gr. sömu laga að dómurinn ákveði með úrskurði haldlagningu eftirtalinna kaupsamninga, fylgigagna og yfirlita yfir ráðstöfun greiðslna, sem eru í vörslum lögmannsstofunnar Logos lögmannsþjónustu slf., Efstaleiti 5, 103 Reykjavík: Kaupsamningur varðandi vélina MSN3005, seljandi Hópsnes en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG. Í greinargerð lögreglu kemur fram að hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sé til rannsóknar mál er lúti að Eignarhaldsfélaginu City Star Airlines ehf. og kæru á hendur ofangreindum Ómari Benediktssyni, fyrrum stjórnarmanni félagsins, Rúnari Árnasyni fyrrum framkvæmdastjóra félagsins og Atla Árnasyni fyrrum starfandi stjórnarformanni félagsins. Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Málið varði meint fjársvik og fjárdrátt í sambandi við sölu og kaup flugvélarinnar TF-CSD og ólöglega meðferð fjármuna félagsins. Málið lúti að rannsókn á sölu Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á flugvél til Roxane Holdings Limited á Bresku Jómfrúreyjum. Einnig að sölu fjögurra sambærilegra flugvéla sem virðast hafa verið seldar saman til Aircraft Asset Management AAM GmbH & CoKG og ofangreindir kaupsamningar fjalli um. Tvær af flugvélunum hafi verið eigu Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., sú þriðja í eigu Roxane Holdings Limited og hafi hún áður verið keypt af eignarhaldsfélaginu. Fjórða flugvéin hafi verið í eigu Hópsness ehf., sem sé félag í eigu eins af stjórnarmönnum eignarhaldsfélagsins og fjölskyldu hans. Grunur leiki á að við sölu flugvélanna til ofangreinds aðila hafi söluverð flugvélanna tveggja í eigu eignarhaldsfélagsins verið óeðlilega lágt miðað við verðmæti og verð hinna tveggja flugvélanna. Þannig hafi verðgildi flugvélanna í eigu Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. verið rýrt við söluna til verðaukningar á flugvélunum í eigu hinna tveggja aðilanna til tjóns fyrir eignarhaldsfélagið og síðar þrotabú þess. Lögmaðurinn sem hafi haft umsjón með sölunni á ofangreindum flugvélum hafi neitað að afhenda efnahagsbrotadeild ofangreinda kaupsamninga. Í ljósi ofangreinds og fyrir framgang rannsóknar málsins sé nauðsynlegt að fara fram á haldlagningu nefndra kaupsamninga. Með vísan til þess sem að framan er rakið og fyrirliggjandi rannsóknargagna, verður að ætla að kaupsamningar þeir sem hér um ræðir og krafist er haldlagningar á hafi sönnunargildi í máli því sem til rannsóknar er hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Verður því að telja að uppfyllt séu lagaskilyrði til þess að verða við kröfu ríkislögreglustjóra um haldlagningu samkvæmt 1. mgr. 68. gr., sbr. 2. mgr. 69. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ekki verður talið, eins og atvikum máls er háttað, að ákvæði b liðar 2. mgr. 119. gr. laganna sé þeirri niðurstöðu til fyrirstöðu með tilliti til trúnaðarskyldu lögmanna, eins og byggt var á af hálfu varnaraðila í málflutningi. Krafan verður því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Ú R S K U R Ð A R O R Ð : Ríkislögreglustjóra er heimil haldlagning eftirtalinna kaupsamninga, fylgigagna og yfirlita yfir ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum lögmannsstofunnar Logos lögmannsþjónustu slf., Efstaleiti 5, 103 Reykjavík: - Kaupsamningur varðandi vélina MSN3005, seljandi Hópsnes en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG. - Kaupsamningur varðandi vélina MSN3006, seljandi Roxane en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG. - Kaupsamningur varðandi vélarnar MSN3091 og TF-CSB/MSN3093, seljandi er ECSA en kaupandi Aircraft Asset Management AAM GmbH & Co KG. |
Mál nr. 82/2006 | Skip Vátryggingarsamningur | Fiskibáturinn Röst SH-134 sökk er hann var á siglingu út af Snæfellsnesi 19. mars 2003. Í janúar sama ár hafði S tekið að sér að húftryggja bátinn. Vátryggingarfjárhæð vátryggingarskírteinisins var tilgreind 18.613.000 krónur og var sú fjárhæð reist á mati fjárhæðanefndar fiskiskipa. Í vátryggingarskilmálum er í 1. gr. tekið fram að um vátrygginguna gildi sú grundvallarregla að hún sé skaðatrygging og sé félaginu óskylt að greiða hærri bætur en þarf til þess að bæta tjón það, sem orðið hefur. Í 1. tölulið 3. gr. segir að samkomulag um verð sé bindandi fyrir félagið en þó sé unnt að víkja því til hliðar ef hið tiltekna verð er hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins. Í samræmi við 75. gr. þágildandi laga nr. 20/1954 var það S að sanna að uppfyllt væru skilyrði til að víkja verðákvörðuninni til hliðar. Að beiðni S var dómkvaddur matsmaður til að meta hvert hefði verið staðgreiðsluverð bátsins á tjónsdegi. Matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að matsverð bátsins hefði að hámarki verið 3.000.000 krónur. Var talið að með matinu hefði S sannað að skilyrði væru uppfyllt til að víkja verði því sem tilgreint er í vátryggingarskírteininu til hliðar. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að af forsendum matsgerðarinnar megi ráða að matsfjárhæðin hefði dugað til kaupa á sambærilegu skipi við það sem fórst og að nokkuð framboð hafi verið af slíkum fiskiskipum. Verði því talið að með greiðslu bóta í samræmi við niðurstöðu matsgerðarinnar hafi S að fullu bætt Þ tjón sitt, og sé félaginu ekki skylt að greiða frekari bætur, sbr. 1. gr. vátryggingarskilmálanna og 1. mgr. 39. gr. þágildandi laga nr. 20/1954. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2006. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 18.613.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. mars 2003 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 6. febrúar 2004 að upphæð 3.000.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð, dráttarvextir einungis dæmdir frá dómsuppsögu og málskostnaður látinn niður falla. I. Í apríl 1999 keypti sameignarfélagið Röst fiskibátinn Grímsey II er bar skipaskrárnúmerið 1317 og hlaut síðar nafnið Röst SH 134. Kaupverðið var 14.000.000 krónur. Um var að ræða 31 brúttótonna trébát smíðaðan á Skagaströnd árið 1973. Rekstur bátsins mun hafa gengið erfiðlega og var hann seldur nauðungarsölu sem lauk 11. október 2002. Búnaðarbanki Íslands hf. var hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 3.200.000 krónur og fékk bankinn uppboðsafsal fyrir bátnum 20. nóvember 2002. Þeir menn sem áður höfðu staðið að sameignarfélaginu Röst stofnuðu einkahlutafélagið Röst í því skyni að halda rekstri bátsins áfram. Seldi Búnaðarbanki Íslands hf. einkahlutafélaginu bátinn með afsali 29. nóvember 2002. Umsamið kaupverð var 3.900.000 krónur. Í janúar 2003 gaf stefndi út vátryggingarskírteini til Rastar ehf. vegna húftryggingar bátsins. Er það dagsett 20. janúar en í texta þess er útgáfudagur sagður 1. janúar. Skyldi skírteinið endurnýjast 1. janúar ár hvert. Vátryggingarfjárhæð er tilgreind 18.613.000 krónur. Ágreiningslaust að hún er í samræmi við mat fjárhæðanefndar fiskiskipa, en engra gagna nýtur í málinu um það mat. Í vátryggingarskilmálum er í 1. gr. tekið fram að um vátrygginguna gildi sú grundvallarregla að hún sé skaðatrygging og sé félaginu óskylt að greiða hærri bætur en þarf til þess að bæta tjón það, sem orðið hefur. Í 1. tölulið 3 gr. segir að í byrjun hvers vátryggingartímabils skuli vátryggingartaki og félagið koma sér saman um vátryggingarverðið. Það samkomulag sé bindandi fyrir félagið nema leitt sé í ljós, að vátryggingartaki hafi gefið villandi upplýsingar um atriði, sem skipti máli við verðákvörðun. Verðákvörðun verði einnig „vikið til hliðar ef hið tiltekna verð er hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins, sbr. 75. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.“ Þá segir í 1. tölulið 17. gr, að ef skipið farist eða sé dæmt óbætandi bæti félagið tjónið með því að greiða vátryggingarverðið. Þann 19. mars 2003 var bátnum siglt áleiðis til Reykjavíkur frá Stykkishólmi, þar sem hann hafði legið undanfarna mánuði. Kom leki að bátnum út af Snæfellsnesi og sökk hann, en mannbjörg varð. Að beiðni stefnda var dómkvaddur maður 30. maí 2003 „til að meta hvert hafi verið staðgreiðsluverð bátsins á tjónsdegi...“ Matsmaður skilaði matsgerð 8. ágúst 2003 og komst að þeirri niðurstöðu að staðgreiðsluverð bátsins „í því ástandi, sem hann þá var í, hafi þann 19. mars 2003, er báturinn sökk, getað orðið að hámarki kr. 3.000.000.-...“ Reis ágreiningur með Röst ehf., sem heimtaði vátryggingarverð skipsins, og stefnda, sem bauð bætur á grundvelli framangreindrar matsgerðar. Greiddi stefndi 6. febrúar 2004 bætur í samræmi við matsgerðina að frádreginni sjálfsábyrgð og ógreiddu iðgjaldi vegna húftryggingarinnar. Röst ehf. höfðaði mál þetta 24. janúar 2005. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 13. júní 2005 og hefur þrotabúið tekið við rekstri málsins. II. Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að í vátryggingarsamningi stefnda og Rastar ehf. sé kveðið á um að vátryggingarverð bátsins sé 18.613.000 krónur. Sé það í samræmi við mat fjárhæðanefndar fiskiskipa. Venja sé við húftryggingar fiskiskipa að miða við það verðmat nema um annað sé sérstaklega samið. Vátryggingarverðið sé samkvæmt vátryggingarskilmálum bindandi fyrir félagið og beri því samkvæmt skilmálunum að greiða bætur miðað við það verð ef skipið ferst. Sé það og föst venja við uppgjör vegna skipstapa að víkja ekki frá því að miða greiðslu húftryggingabóta við umsamið vátryggingarverð. Þá hafi stefndi viðurkennt framangreint vátryggingarverð í verki með því að draga iðgjald miðað við það verð frá greiðslu sem hann innti af hendi 6. febrúar 2004. Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á að ekki hafi verið gert sérstakt samkomulag um vátryggingarverð bátsins, þrátt fyrir ráðagerð um annað í framangreindu ákvæði 1. tölulið 3. gr. skilmálanna. Framangreint vátryggingarskírteini sé því ekki „verðsett“ og fari þar af leiðandi um uppgjör tjónsins eftir almennum reglum 37. gr. og 38. gr. þágildandi laga nr. 20/1954. Með framangreindu mati hafi félagið fært sönnur á að verð bátsins hafi að hámarki verið 3.000.000 krónur og hafi félagið fullnægt skyldum sínum með greiðslu þeirrar fjárhæðar. Í annan stað byggir stefndi á því að Röst ehf. hafi ekki upplýst við gerð vátryggingarsamningsins að félagið hafi skömmu áður keypt skipið á 3.900.000 krónur. Hefðu þær upplýsingar legið fyrir stefnda hefði vátryggingarverð skipsins aldrei verið tilgreint með þeim hætti sem gert var. Sé vátryggingarverðið því óskuldbindandi vegna villandi upplýsinga tryggingartaka með vísan til framangreinds ákvæðis í 1. tölulið 3. gr. skilmálanna. Í þriðja lagi er sýknukrafan reist á því að unnt sé að víkja verðákvörðuninni til hliðar, enda sýni matsgerðin að verðið sem tilgreint sé í skírteininu sé hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins samkvæmt lokamálslið 1. töluliðar 3. gr. skilmálanna og 75. gr. þágildandi laga nr. 20/1954. Loks andmælir stefndi því að fyrrgreindur frádráttur fulls iðgjalds við greiðslu bóta eigi að hafa réttaráhrif enda hafi iðgjaldið nú verið leiðrétt miðað við að altjónsverðmæti hafi verið 3.000.000 krónur. III. Af framburði Gests Más Gunnarssonar, forsvarsmann Rastar ehf. og Halldórs Teitssonar starfsmanns stefnda fyrir héraðsdómi sýnist ljóst að ekki fóru fram sérstakar umræður um vátryggingarverð bátsins þegar húftryggingin var tekin í ársbyrjun 2003. Vátryggingarfjárhæð var hins vegar tilgreind í samningi aðila. Var hún reist á mati fjárhæðanefndar fiskiskipa eins og altítt mun vera með húftryggingarverð skipa af svipaðri stærð. Að því gættu og með vísan til þess að ákvæði vátryggingarskírteinisins og vátryggingarskilmálanna eru skýrlega miðuð við að kveðið sé á um tiltekið verð skipsins verður að telja að um „verðsett“ skírteini sé að ræða í skilningi 75. gr. þágildandi laga nr. 20/1954. Í lokamálslið 1. töluliðar 3. gr. vátryggingarskilmálanna er, eins og að framan er rakið, kveðið á um að verðákvörðun verði vikið til hliðar ef hið tiltekna verð er hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins og er þar vísað til 75. gr. þágildandi laga nr. 20/1954. Hvílir á félaginu að sanna að svo sé. Samkvæmt niðurstöðu framangreindrar matsgerðar, sem ekki hefur verið hnekkt, var staðgreiðsluverð Rastar SH 124 þann 19. mars 2003 að hámarki 3.000.000 krónur eða innan við einn sjötti hluti verðákvörðunarinnar í skírteininu. Enda þó að með réttu hefði átt að miða verðmatið við 1. janúar 2003, er ábyrgð félagsins hófst, sbr. 1. mgr 75. gr. laga nr. 20/1954, verður að telja að með matinu hafi verið leitt í ljós að skilyrði séu til að víkja verðákvörðuninni til hliðar. Af forsendum matsgerðarinnar má ráða að matsfjárhæðin hefði dugað til kaupa á sambærilegu skipi við það sem fórst og að nokkuð framboð hafi verið af slíkum fiskiskipum. Verður því einnig að telja að með greiðslu bóta í samræmi við niðurstöðu matsgerðarinnar hafi stefndi að fullu bætt það tjón er varð er Röst SH 124 fórst og er félaginu ekki skylt að greiða frekari bætur, sbr. 1. gr. vátryggingarskilmálanna og 1. mgr. 39. gr. þágildandi laga nr. 20/1954. Þar sem engin rök eru heldur til að tengja réttaráhrif við fyrrgreinda greiðslu bóta 6. febrúar 2004 verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Mál þetta, sem dómtekið var 3. nóvember 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Röst ehf., kt. 580902-3080, Lágholti 6, Stykkishólmi, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var 24. janúar 2005. Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 18.613.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 19. mars 2003 til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun dags. 6. febrúar 2004 að fjárhæð 3.000.000 kr. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum máls-kostnaðarreikningi. Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 13. júní 2005. Dómkröfur stefnda eru aðallega að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður að mati réttarins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar, málskostnaður falli niður og dráttarvextir einungis dæmdir frá dómsuppsögudegi. Helstu málavextir eru að stefnandi keypti af Búnaðarbanka Íslands hf. þann 29. nóvember 2002 Röst SH-134, sknr. 1317, 31 brúttótonna eikarbát er smíðaður var á Skagaströnd 1973. Kaupverðið var 3.900.000 kr. og hafði báturinn verið afhentur stefnanda 16. september 2002. Röst SH-134 hafði áður verið í eigu Rastar sf. en var seldur á nauðungarsölu 11. október 2002 og var Búnaðarbanki Íslands hf. hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 3.200.000 kr. Þann 19. mars 2003 var Röst SH-134 á siglingu út af Snæfellsnesi á leið frá Stykkishólmi til Reykjavíkur. Skipverjar voru tveir, Bergsveinn Gestsson skipstjóri og Gestur Már Gunnarsson vélstjóri, og voru þeir á leiðinni til Reykjavíkur með bátinn til að Þorsteinn Jónas Þorsteinsson, skipasölumaður hjá fasteignasölunni Hóli, gæti sýnt hann hugsanlegum kaupendum, en Þorsteinn hafði tekið að sér að selja bátinn. Á siglingunni kom leki að bátnum sem skipverjar réðu ekki við og sökk hann, en skipverjar komust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim bjargað. Af hálfu stefnda segir að í upphafi árs 2003 hafi umboðsmaður stefnanda haft samband við félagið og óskað eftir að félagið vátryggði bátinn Röst SH-134. Í viðtalinu hafi komið fram að fyrri eigendur hefðu hætt rekstri og núverandi úrgerðaraðili væri Röst ehf. Orðið hefði verið við þessari beiðni og vátryggingarskírteini gefið út á grundvelli mats „fjárhæðarnefndar“. Í vátryggingarskírteininu, sem dagsett er 20. janúar 2003, segir að útgáfudagur hafi verið 1. janúar 2003 með fyrirheit um endurnýjun 1. janúar ár hvert og er m.a. greint frá því að um húftryggingu sé að ræða og vátryggingarfjárhæðin sé 18.613.000. Þá segir að greiðslutímabilið sé 1. janúar 2003 til 31. desember 2003 og iðgjald 817.111 kr. Eftir að félagið hafði fengið tilkynningu um tjónið, segir af hálfu stefnda, hafi málið verið skoðað frekar. Hafi forráðamönnum stefnda þá orðið ljóst að fyrri eigandi, Röst sf., hafði komist í þrot og báturinn seldur Búnaðarbanka Íslands hf. á uppboði, svo sem áður var rakið, og núverandi eigandi, Röst ehf., hafði keypt bátinn af bankanum 29. nóvember 2002 á 3.900.000 kr. Þá hafi einnig komið í ljós að Röst sf. hafði ekki greitt iðgjaldið fyrir árið 2002 og gjaldið enn í vanskilum. Greint er frá því að stefndi hafi við svo búið athugað gangverð báta af svipaðri gerð og framboð slíkra báta. Hafi það leitt í ljós að óraunhæft var að miða við vátryggingarverð bátsins sem greiðslu í altjóni. Óskað hafi þá verið eftir að dómkvaddur yrði matsmaður til að segja til um hvert væri hæfilegt verð fyrir bátinn miðað við staðgreiðslu. Þann 30. maí 2003 var Jónas Haraldsson hrl. kvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat. Niðurstaða hans 8. ágúst 2003 var að staðgreiðsluverð m.b. Rastar SH-134 hefði þann 19. mars 2003 að hámarki getað orðið 3.000.000 kr. „hefði yfirhöfuð tekizt að selja bátinn, án nýs athugasemdalauss haffærisskírteinis eða hvort heldur“. Er matið lá fyrir bauð stefndi stefnanda 3.000.000 kr. sem fullnaðargreiðslu á tjóninu en stefnandi hafnaði því boði. Ákvað stefndi þá einhliða að greiða þessa fjárhæð til stefnanda og var þeirri greiðslu ráðstafað í samráði við stefnanda en stefndi dró frá umræddri fjárhæð sjálfsábyrgð stefnanda og ógreitt iðgjald fyrir árið 2003. Stefnandi byggir á því að vátryggingarsamningur aðila kveði á um að vátryggingarfjárhæðin sé 18.613.000 kr. Fyrir liggi yfirlýsing frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, sbr. dskj. nr. 25, sem greini m.a. frá því að þilfarsskip séu metin á vegum Fjárhæðanefndar fiskiskipa eftir ákveðnum aðferðum og húftryggingarverð skipanna þar með ákveðið. Nefndin sé skipuð fulltrúum frá vátryggingafélögum og Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þar segir og að báðum aðilum sé fullkomlega ljóst, að markaðsverð skipa sé ekki einhlítur mælikvarði á virði skipa, og tekið fram, að sérstaklega þurfi að semja um frávik frá matsverði en um slíkan samning sé ekki að ræða milli aðila. Krafa stefnanda hljóti því að vera vátryggingarfjárhæðin 18.613.000 kr. Stefndi byggir á því að hafa þegar greitt stefnanda andvirði bátsins. Fyrir liggi að stefndi og stefnandi hafi ekki komið sér saman um vátryggingarverð bátsins svo sem 3. gr. skilmála fyrir húftryggingu bátsins mælir fyrir um. Bindandi vátryggingarverð sé því ekki fyrir hendi. Um bætur fyrir tjónið fari því að almennum reglum skaðatrygginga, sbr. 1. gr. umræddra skilmála og ákvæða 37. og 38. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingar-samninga. Með matsgerð dómkvadds matsmanns hafi stefndi fært sönnur á það að verðmæti bátsins hafi að hámarki verið 3.000.000 kr. Stefndi hafi því fullnægt þeim skyldum sem á honum hvíldi samkvæmt vátryggingarsamningi aðila og gildandi lögum. Verði ekki fallist á framangreind lagasjónarmið og röksemdir er vísað til þess að mat fjárhæðanefndar á verðmæti bátsins hafi verið reist á „afskrifuðu endurstofnsverði“ sem sé fyrst og fremst grundvöllur fyrir uppgjöri á tjónum þar sem gert sé við skip. Endurstofnsverðið segi ekkert til um verðmæti bátsins í altjóni, en verðmæti skipa í kaupum og sölum hafi á síðari árum yfirleitt ráðist af allt öðrum sjónarmiðum en þeim sem varði smíðakostnað þeirra. Byggt er á því að óumdeilt sé að báturinn hafi verið vátryggður á grundvelli mats fjárhæðanefndar og jafnframt sé óumdeilt að eigendur stefnanda greindu stefnda ekki frá því að þeir hefðu skömmu áður keypt bátinn á 3.900.000 kr. Vátryggingarverðið hafi því ekki verið skuldbindandi fyrir stefnda skv. ákvæðum greinar 3.1 í skilmálum fyrir vátryggingu bátsins en víkja megi verðákvörðun til hliðar teljist vátryggingarverð hærra en svo að sanngjarnt megi teljast, sbr. 75. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið er í öllu falli krafist þess að dregið verði frá mati fjárhæðanefndar er nemi þeim kostnaði sem stefnandi hefði þurft að inna af hendi til nauðsynlegra viðgerða á bátnum til að halda haffærisskírteininu í gildi eftir 24. apríl 2003, en t.d. hafi verið ljóst að endurnýja þurfti aftasta skammdekksplanka í bakborða við næstu bolskoðun. Gestur Már Gunnarsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. aðstefnandi hafi átt bátinn [Röst SH-134] frá því í nóvember 2002. Hann sagði að útgerðarstjórn á bátnum hafi að meginhluta til verið í hans höndum. Gestur skýrði frá því að í nóvember 2002 hafi það gerst að báturinn hafi verið tryggður til áramóta 2002/2003 og síðan sjálfkrafa með skírteininu, sbr. dskj. nr. 14, sem hafi verið gefið út í janúar 2003 og miðaðist frá áramótum til áramóta 2003/2004 án vísbendingar um breytingu á verðmiði tryggingarupphæðarinnar er hafi verið órofið frá fyrri tíma. Stefnandi hafi ekki átt neinn þátt í því að ákvarða vátryggingarfjárhæðina. Aðspurður hvort hann hefði tilkynnt umboðsmanni stefnda um leka sem var á skipinu í Grundarfjarðarhöfn á árinu áður, sagði hann, að tekin hefði verið lögregluskýrsla af því atviki en kvaðst ekki muna hvort hann hefði sent stefnda bréf um það. Halldór Teitsson, starfsmaður stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann kannaðist ekki við að samkomulag væri með Landssambandi íslenskra útvegsmanna og tryggingarfélögunum um að miða eigi við vátryggingarfjárhæð í öllum tilvikum. Hann sagði að reyndar væri það svo að fiskiskip væru metin af Fjárhæðanefnd fiskiskipa. Það mat sé notað í vátryggingarfjárhæðum margra skipa. Á undanförnum árum hafi reyndin verið sú að markaðsverð skipa hafi lækkað og skapað ákveðið misræmi. Þess vegna hafi oft og tíðum vátryggingarfjárhæð verið önnur en fjárhæðanefndarmatið. Gjarnan sé spurt þegar skip koma í tryggingu, sérstaklega gömul skip, hvert kaupverðið hafi verið. Rætt sé um þetta við vátryggingartaka og í sumum tilvikum hafi mikið verið lagt í skip þannig að eðlilegt sé að vátryggingarfjárhæð sé hærri en markaðsverð segir til um enda þótt skipið yrði ekki selt fyrir sama verð og vátryggingarfjárhæðin gæfi tilefni til. Halldór sagði að matið væri notað til að bæta hlutatjón á skipum. Matið væri brotið niður í hina ýmsu hluti sem væru um borð í skipinu, húfur, vélar og tæki. Þegar hlutatjón verði þá sé farið í matið og skoðað t.d. á hvað vélin sé metin. Ekki sé greitt meira fyrir en matið segi til um. Halldór sagði að Röst SH-134 hafi komið í tryggingu 23. janúar 2003 á sömu forsendum og skipið hafði verið tryggt hjá stefnda 2002. Komið hefði í ljós að skipið fór í uppboðsmeðferð og þá hafi verið feldar niður þær skuldir sem voru á þessu fyrirtæki, þ. á m. iðgjaldaskuldir vegna bátsins sem hafi verið töluverðar. Búnaðarbankinn hafi keypt skipið á uppboði fyrir 3.000.000 kr. í september. Nokkrum dögum seinna hafi bankinn selt sömu aðilum skipið fyrir 3.900.000 kr. Síðan hafi skipið ekki verið vátryggt fyrr en í desember, rétt fyrir endurnýjun, en þá hafi verið haft samband við umboð stefnda í Stykkishólmi og beðið um tryggingu á þessu skipi. Hins vegar hafi ekkert verið getið um kaupverðið eða neitt í þá áttina. Tekið hafi verið við beiðninni og henni komið til stefnda í Reykjavík og þar hafi stúlka, sem vinnur í deildinni hjá honum, tekið við þessari beiðni og hún gefin út og notað þetta mat. Þetta hafi raunar ekki verið í samræmi við vinnubrögð hjá stefnda þegar um svona gömul tréskip er að ræða. Jónas Haraldsson hrl. kom fyrir réttinn og staðfesti að hafa unnið matsgerð þá sem fram kemur á dskj. nr. 19. Ályktunarorð: Fyrir liggur í málinu að stefnandi, Röst ehf., keypti af Búnaðarbanka Íslands hf. 31 brúttótonna eikarbát, Röst SH-134, sknr. 1317, 29. nóvember 2002. Jafnframt að 20. janúar 2003 var báturinn vátryggður hjá stefnda og vátryggingarfjárhæðin tilgreind 18.613.000 kr. Fjárhæðin var miðuð við mat Fjárhæðanefndar fiskiskipa sem lagt hafði verið til grundvallar vátryggingu bátsins hjá stefnda í tíð fyrri eiganda bátsins, Rastar sf. Ekki verður ráðið af gögnum málsins - og því raunar ekki haldið fram af aðilum málsins - að komið hafi til tals milli forsvarsmanna stefnanda og starfsmanna stefnda að hafa upphæð vátryggingarfjárhæðarinnar einhverja aðra, en víst er að starfsmönnum stefnda mátti vera ljós eigendaskipti að bátnum, þ.e. að Röst ehf. væri eigandi bátsins þó að sömu menn væru hluthafar og hefðu átt sameignarfélagið Röst. Hins vegar segir í vátryggingarskilmálum aðila, grein 3.1, m.a.: Verðákvörðun verður einnig vikið til hliðar ef hið tiltekna verð er hærra en svo að sanngjarnt sé að telja það vátryggingaverð skipsins, sbr. 75. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Í annarri málsgrein 75. greinar laga nr. 20/1954 segir: Ef kveðið er á um tiltekið verð á skipi, þegar vátryggingarsamningurinn er gerður (verðsett skírteini), er sú verðákvörðun skuldbindandi fyrir félagið, ef það getur eigi sannað, að hið tiltekna verð sé hærra en svo, að sanngjarnt sé að telja það vátryggingarverð skipsins. Að mati dómkvadds matsmanns var umræddur bátur, þann 19. mars 2003 er báturinn sökk, að hámarki 3.000.000 króna virði. Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda, en rétt er að málskostnaður falli niður. Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn. DÓMSORÐ: Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, þrotabús Rastar ehf. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 359/2002 | Kynferðisbrot Börn Skaðabætur Ákæra | X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn mágkonu sinni um tveggja til þriggja ára skeið og dóttur sinni í framhaldi af því á næstu tveimur árum þegar þær voru á aldrinum níu til tólf ára. Tekið var fram að hvert brot um sig sætti sjálfstæðu mati og yrði sakfelling af einu ekki notuð til sönnunar um sök af öðru, þótt hún kynni að geta gefið ákveðna vísbendingu um hvatir ákærða. Var sakarmat héraðsdóms staðfest að öðru leyti svo og heimfærsla brota ákærða til 1. mgr. 200. gr. og fyrri málsliðs 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tekið var fram að við ákvörðun refsingar yrði að líta til þess, að brot ákærða voru ítrekuð og alvarleg og stóðu yfir um árabil, gegn annarri stúlkunni í átta tilvikum en hinni tvisvar sinnum. Stúlkurnar voru á barnsaldri og misnotaði ákærði sér aðstöðu sína og trúnaðartraust þeirra, en hann hafði ýmist uppeldis- eða umsjárskyldum að gegna gagnvart þeim á heimili sínu. Var atferli hans til þess fallið að valda þeim sálarháska og tjóni og átti hann sér engar málsbætur. Þótti refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Var niðurstaða héraðsdóms um skaðabætur staðfest. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og ákvörðun skaðabóta auk þyngingar á refsingu. Ákærði krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins og verði skaðabótakröfu vísað frá dómi, en til vara er krafist ómerkingar og heimvísunar. Til þrautavara krefst ákærði þess, að refsing verði milduð og skilorðsbundin auk þess sem fjárhæð dæmdra bóta verði lækkuð. Ákæruvaldið krefst þess, að ákærði verði sakfelldur fyrir mörg tilvik sama efnis samkvæmt 1. tl. II. kafla ákæru, og sé það í samræmi við framburð brotaþola fyrir héraðsdómi. Krafa þessa efnis hafi verið sett fram við munnlegan málflutning í héraði með skírskotun til 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en um það hafi ekkert verið bókað. Í niðurstöðu héraðsdóms skorti á umfjöllun um það, hvort ákærði er sakfelldur fyrir eitt tilvik eða fleiri samkvæmt þessum ákærulið. Af c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 er ljóst, að í ákæru verður að greina nákvæmlega það brot, sem talið er hafa verið framið, og stað þess og stund eins skýrt og kostur er. Samkvæmt því verður ótvírætt að koma fram í ákæru, hvort um eitt eða fleiri brot sömu tegundar er talið vera að ræða. Ákæra þessa máls verður ekki skilin á annan veg en þann, að í 1. tl. II. kafla sé einungis saksótt vegna eins brots á tilteknum stað á árinu 1990. Í 1. mgr. 117. gr. laga um meðferð opinberra mála segir, að hvorki megi dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá, sem í ákæru greinir, né aðrar kröfur á hendur honum. Að fullnægðum ákveðnum skilyrðum má þó dæma áfall á hendur ákærða, þótt minniháttar atriði séu ekki réttilega greind í ákæru, en þó aldrei aðrar kröfur en þar koma fram. Þetta lagaákvæði veitir dómstólum ekki heimild til þess að dæma ákærða fyrir fleiri brot en skýrlega eru greind í ákæru og breytir framburður brotaþola fyrir dómi engu þar um, enda verður ákæruvaldið að axla ábyrgð á því, hvernig að saksókninni var staðið. Kemur því ekki til álita og úrlausnar í málinu, hvort ákærði kunni að hafa gerst sekur um fleiri brot en greinir í framangreindum ákærulið. Ákærði er í máli þessu borinn sökum um kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum á aldrinum níu til tólf ára, mágkonu sinni um tveggja til þriggja ára skeið og dóttur sinni í framhaldi af því á næstu tveimur árum. Hvert brot um sig sætir sjálfstæðu mati og verður sakfelling af einu ekki notuð til sönnunar um sök af öðru, þótt hún kunni að geta gefið ákveðna vísbendingu um hvatir ákærða. Með þessum athugasemdum verður sakarmat héraðsdóms staðfest með vísun til forsendna hans að öðru leyti svo og heimfærsla brota ákærða til refsiákvæða. Við ákvörðun refsingar ákærða verður að líta til þess, að brot hans voru ítrekuð og alvarleg og stóðu yfir um árabil, gegn annarri stúlkunni í átta tilvikum en hinni tvisvar sinnum. Stúlkurnar voru á barnsaldri og misnotaði ákærði sér aðstöðu sína og trúnaðartraust þeirra, en hann hafði ýmist uppeldis- eða umsjárskyldum að gegna gagnvart þeim á heimili sínu. Atferli ákærða var til þess fallið að valda þeim sálarháska og tjóni og á hann sér engar málsbætur. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af röksemdum héraðsdóms að öðru leyti þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um skaðabætur staðfest, enda er miskabótakröfum brotaþola í hóf stillt. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað eru staðfest. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns beggja brotaþola, Þorbjargar I. Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 29. maí 2002. I. Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 16. apríl sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru útgefinni 15. janúar 2002 á hendur X ,,fyrir kynferðisbrot eins og hér greinir: I Gegn mágkonu sinni, Z, fæddri 1977, með því að hafa: 1. Sumarið 1986 eða 1987, í svefnherbergi íbúðarhússins [...] , látið stúlkuna fróa sér. 2. Snemma árs 1987, [...], strokið yfir og sett fingur inn í kynfæri stúlkunnar. 3. Árið 1988, á baðherbergi [...], í tvígang látið stúlkuna fróa sér og að hafa í eitt skipti nuddað lim sínum við kynfæri stúlkunnar og sett liminn inn í kynfæri hennar. 4. Vorið 1988, [...], sleikt kynfæri stúlkunnar, stungið fingri inn í kynfærin og stungið kerti inn í leggöng hennar. 5. Vorið 1989, í dráttarvél á leiðinni [...], látið stúlkuna fróa sér og að hafa, þegar komið var að [...], látið stúlkuna sjúga á sér liminn í svefnherbergi íbúðarhússins. Telst þetta varða við fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sbr. 10. gr. laga nr. 40, 1992, sbr. áður 1. mgr. 200. gr og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. II Gegn dóttur sinni, Y, fæddri 1981, með því að hafa: 1. Árið 1990 [...], káfað á og stungið fingri inn í kynfæri stúlkunnar. 2. Í nóvember 1992, [...] káfað á og stungið fingri inn í kynfæri stúlkunnar, látið hana fróa sér og sleikt kynfæri stúlkunnar. Telst þetta varða við 1. mgr. 200. gr. og fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 8. gr. og 10. gr. laga nr. 40, 1992, sbr. áður 1. mgr. 200. gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Z krefst bóta að fjárhæð kr. 774.700 auk dráttarvaxta frá 17. nóvember 2000 til greiðsludags. Y krefst bóta að fjárhæð kr. 774.700 auk dráttarvaxta frá 15. nóvember 2000 til greiðsludags." Verjandi ákærða, krafðist fyrir hans hönd aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfum yrði þá vísað frá dómi. Til vara krafðist hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krafðist hann þess að allur sakarkostnaður, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun, yrði greiddur úr ríkissjóði. II. Málavextir. 1. Samkvæmt framburði ákærða og vitna hófu ákærði og Þ, sambúð á árinu 1980 og bjuggu þau fyrst í stað [...]. Þau fluttu [...] árið 1983 eftir að hafa búið um nokkurra mánaða skeið á heimili foreldra Þ. Að [...] bjuggu þau [...] allt til ársins 1989, en fluttu þá til [...] og héldu heimili á [...] fram til ársins 1992. Þann [...] 1992 fluttu þau að núverandi heimili sínu [...]. Ákærði og sambýliskona hans eiga saman fjögur börn, vitnið Y, fædda 1981, Æ fædda 1988 og tvíbura [...]. Allnokkur samgangur var milli fjölskyldu ákærða og móðurfólks Þ fram til hausts 1998. Fór vitnið Z mikið til systur sinnar og mágs [...], einkum eftir að hún fór að geta ferðast þangað ein síns liðs upp úr 1985. Meðal annars dvaldi hún þar í nokkrar vikur í byrjun árs 1987[...]. Hún hjálpaði til á heimilinu eins og aldur hennar og atgervi gaf tilefni til. Af framburði ákærða og sambýliskonu hans verður þó ekki annað ráðið en að þeim hafi þótt erfitt að hafa Z á heimilinu. Þá lýstu ákærði og Þ því að mikið ósamkomulag hafi verið á milli Z og Ö bróður hennar, en hann hafi einnig fengið að dvelja hjá þeim. Vegna þessa hafi verið nánast ómögulegt að hafa þau samtímis á heimilinu. Framburður þeirra um ósamkomulag þetta er í ósamræmi við framburð Z, foreldra hennar og bróður. Þá bar vitnið Y að samkomulag hennar og Z hafi verið ágætt og að Z hafi verið eins og stóra systir hennar. Y, dóttir ákærða, ólst upp á heimili foreldra sinna og bjó þar allt til ársins 1998. Skólaganga reyndist henni erfið frá fyrstu tíð en henni leið illa í skóla og var lögð í einelti. Hún lauk stúdentsprófi [...] um síðustu áramót. Um sumarið 1998 fékk Þ fyrst vitneskju um ásakanir Z og Y í garð ákærða. Y sagði foreldrum sínum síðar á því ári að ásakanir hennar væru ekki réttar en svo fór að hún lagði fram kæru á hendur föður sínum í janúar 2000. Eftir að ásakanir Z og Y í garð ákærða komu fram leitaði hann að sjálfsdáðum til Brynjólfs Ingvarssonar geðlæknis og fór framhaldi af því í viðtalsmeðferð hjá honum. Jafnframt var hann lagður inn á [...] í 4 daga vegna þessa. Þá mun Brynjólfur hafa átt allnokkur viðtöl við Þ og einnig eitt símtal við Z og í eitt sinn kom Y með móður sinni að hitta lækninn. Í lok árs 1998 gerði Kristján M. Magnússon sálfræðingur greiningarskýrslu um ákærða. Þar kemur fram að hann telji ákærða ekki líklegan til að misnota börn. Sami sálfræðingur annaðist athugun á hegðunarerfiðleikum Æ, yngri dóttur ákærða sem fædd er 1988. Í kjölfar þeirrar athugunar sendi barnaverndarnefnd [...] beiðni til lögreglustjórans [...] dagsetta 20. janúar 2000 um lögreglurannsókn á meintu kynferðisbroti ákærða í garð stúlkunnar. Fór fram skýrslutaka fyrir dómi í Barnahúsi daginn eftir. Það mál var síðar fellt niður af hálfu ákæruvalds. 2. Miðvikudaginn 15. nóvember 2000 kom Y á lögreglustöðina [...] og lagði fram kæru á hendur ákærða. Í skýrslu lögreglu er haft eftir henni að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega frá því að hún var 9 ára og allt þar til hún varð 13 eða 14 ára. Lýsir hún þar sömu háttsemi og greinir í ákæruliðum í II. kafla ákæru. Hún kvað ástæðu þess að hún legði fram kæru nú vera þá að hún hefði í byrjun árs 2000 verið kölluð til yfirheyrslu um meinta kynferðislega áreitni föður hennar í garð yngri systur hennar. Hún kvað sér þykja svo vænt um systkini sín að hún vildi ekki að það sama henti þau og henti hana. 3. Föstudaginn 17. nóvember 2000 kom Z á lögreglustöðina [...] og lagði fram kæru á hendur ákærða. Í lögregluskýrslu sem tekin var af henni við þetta tækifæri kemur fram að ákærði hafi áreitt hana reglulega frá því að hún var 8 eða 9 ára og þar til hún var á 15. ári. Lýsir hún þar sömu háttsemi og greinir í I. kafla ákæru. Ástæðu þess að hún legði fram kæru kvað Z vera þá að hún vissi að ákærði hafi áreitt Y dóttur sína og að tilkynnt hafi verið að hann hafi hugsanlega einnig áreitt yngri systur hennar, Æ. Fleiri börn séu á heimilinu og kvað hún ákærða ekki hafa leyfi til að eyðileggja líf þeirra. Um leið og vitnið gaf sína fyrstu lögregluskýrslu afhenti hún lögreglu yfirlýsingar frá fimm aðilum sem hún kvaðst hafa sagt frá háttsemi ákærða í hennar garð á undanförnum árum. Þessir aðilar komu allir fyrir dóminn. III. Hér á eftir verður rakinn framburður ákærða og vitna sem gefinn var við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Ákærði neitaði alfarið öllum sakargiftum. Hann kvaðst hafa leitað til Brynjólfs Ingvarssonar geðlæknis nokkru eftir að ásakanir Z og Y hafi komið fram. Ástæða þess að hann leitaði til Brynjólfs hafi verið sú að hann hafi verið farinn að halda að áburður Z væri réttur og hann hefði fallið úr minni hans. Ásakanirnar hafi verið alvarlegar og hann hefði ekki fundið neina skýringu á þeim. Ákærði kvað ,,sóðakjaft" hafa verið á þeim sem komu [...] og hafi Z ekki verið nein undantekning þar á. Slíkt orðbragð hafi verið landlægt í [...]. Hann sjálfur hafi verið klámfenginn fyrr á árum en orðið fágaðri með tímanum. Á hans heimili hafi í gleðskap verið sagðir tvíræðir brandarar en varla meira. Á meðan þau bjuggu [...] hafi þau Þ keypt tímaritið Bleikt og blátt en þegar það breyttist í hálfgert klámblað hafi þau hætt að kaupa það. Ákærði kvaðst hafa sýnt Y, dóttur sinni blaðið í þeim tilgangi að svara kynferðislegum spurningum hennar. Að auki hafi hann sýnt henni Kvennafræðarann. Vitnið Z bar að í upphafi hefði áreitni ákærða falist í því að hann talaði um kynlíf, útlit, breytingar á líkama með aldri, tíðir o.þ.h. Ákærði hafi haft frumkvæði að þessu tali, en hún muni fyrst eftir því þegar hún var 8-9 ára. Meðal annars hafi hann sagt henni að þau og Þ svæfu saman, sýnt henni myndir í klámblöðum, t.d. í Bleiku og bláu og sagt að í blöðunum væru sætar stelpur. Síðar hafi ákærði farið að strjúka henni um líkamann. Hún muni ekki hvort fyrsta skiptið hafi verið innan eða utan klæða, en hvoru tveggja hafi átt sér stað. I. kafli ákæru. Varðandi þá háttsemi sem greinir í ákærulið I.1 kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa verið einn í svefnherbergi með Z [...]. Z lýsti því að í þetta sinn hafi Þ ekki verið heima en hún viti ekki hvar Y hafi verið. Hún kvaðst ekki muna hver aðdragandinn að því var að hún fór inn í svefnherbergi hússins en hún muni að þetta tilvik byrjaði með því að ákærði talaði við hana á kynferðislegum nótum. Hann hafi beðið hana um að setjast á rúmið hjá sér, lagst útaf og tekið í höndina á henni og sett hana í klofið á sér. Hann hafi verið í buxum og peysu en rennt niður buxnaklauf sinni og látið hana fróa sér. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvað var að gerast og dregið að sér höndina en ákærði hafi verið rólegur og látið höndina aftur á kynfærin á sér. Hann hefði haldið utan um hendi hennar og í raun gert þetta sjálfur en hún muni ekki hvort honum varð sáðlát. Varðandi háttsemi þá er greinir í ákærulið I.2 kvaðst ákærði stundum hafa verið einn [...] með Z. Hún hafi sótt í að vera með honum í [...] en þar sem erfitt hafi verið að hafa hana með sökum athyglissýki hennar hafi hann reynt að komast hjá því. Þá bar hann að ekki hafi verið hægt að sjá til íbúðarhússins út um gluggann [...] þar sem í glugganum hafi verið matt byggingarplast. Auk þess hafi ekki verið hægt að sjá til íbúðarhússins nema með því að vera alveg út við gluggann. Vitnið Z bar að atvik þetta hefði átt sér stað [...]. Það hafi byrjað með því að ákærði hefði talað við hana á kynferðislegum nótum, en það hefði hann oft gert einkum ef þau voru einhversstaðar ein. Hún hafi að beiðni ákærða farið úr buxum og nærbuxum, en henni hafi liðið illa og verið kalt. Ákærði hafi látið hana setjast á hrúgu af pokum, strigapokum og fleiru, hann hafi sest hjá henni, strokið henni um læri og kynfæri og sett puttana inn í leggöngin. Hún kvaðst vera alveg viss um að hann setti a.m.k. einn fingur eða fleiri inn í kynfæri hennar. Hún hafi ekki fylgst með höndum hans heldur horft út um gluggann og upp í loft. Hún kvaðst muna til þess að hafa sagt ákærða að sér væri kalt og reynt að fá hann til að hætta með því að segja að einhver gæti komið eða séð til þeirra eða eitthvað þess háttar. Hún kvaðst ekki geta sagt til um hversu lengi þetta stóð yfir en í minningunni væri þetta langur tími. Hún taldi atvikið hafa átt sér stað um vetur því að [...] og það hafi verið einhverskonar hrím á byggingarplastinu fyrir gluggunum. Þá kvað hún þetta hafa gerst á þeim tíma sem móðir hennar var á spítala, en hún sjálf hafi þá verið í skóla [...]. Varðandi háttsemi þá sem greinir í ákærulið I.3. bar ákærði að baðherbergið [...] sé svo lítið og þröngt að fullorðnir geti ekki athafnað sig þar eins og lýst er í ákæru. Hann kvaðst ,,hafa álpast inn á Z þar sem hún var í baði” en hann hafi þá bara farið út og lokað. Z hafi hins vegar sífellt verið að koma að honum í baði og sjálf farið í bað þegar hann þurfti að nota baðið. Z kvað fáa daga hafa liðið milli fyrstu tveggja atvikanna sem lýst er í þessum ákærulið og þau atvik séu mjög lík. Ákærði hafi komið inn til hennar þar sem hún var að baða sig, sest á klósettsetuna, talað við hana, sett hönd hennar í klofið á sér og látið hana fróa sér með því að halda utan um hönd hennar. Síðan hafi hún átt að halda áfram án hans aðstoðar. Hún taldi að ákærða hefði ekki orðið sáðlát. Hvað varðar þriðja tilvikið sem lýst er undir þessum ákærulið hafi ákærði komið inn í baðherbergið en hún hafi staðið á fætur og ætlað að fara. Ákærði hafi þá lokað hurðinni og látið hana leggjast bera á gólfið, lagst ofan á hana og kysst. Ákærði hafi nuddað sér fram og til baka ofan á henni og sett liminn í leggöng hennar svo sem lýst er í ákæru. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hversu langt limurinn fór inn í leggöngin, en ákærði hefði sagt að hann kæmist ekki alla leið. Á meðan á þessu stóð hafi ákærði talað um að hann þyrfti að gæta sín því það yrði mikið ,,uppistand ef hann gerði hana ófríska." Vitnið kvaðst ekki hafa verið byrjuð að hafa blæðingar á þessum tíma og ekki farin að fá brjóst. Z sagði að baðherbergið hafi ekki verið stórt og taldi hún að gólfið hafi verið það lítið að erfitt hefði verið fyrir fullorðinn mann að liggja þar. Varðandi þá háttsemi sem lýst er í ákærulið I.4 bar ákærði af sér allar sakir, en kvað Z stundum hafa komið blauta fram úr baði og lítt klædda. Alltaf hafi gengið illa að fá hana til að klæða sig og kostað fortölur. Vitnið Z lýsti þessu tilviki þannig að enginn hafi verið heima þegar það átti sér stað. Ákærði hafi náð í stól og stillt honum upp fyrir framan sjónvarpið. Hann hafi látið hana setjast á stólinn með fæturna í sundur, síðan sett fingur í leggöng hennar og sleikt á henni kynfærin. Þá hafi hann náð í kerti úr kertastjaka á borði í stofunni, sett kertið í plastpoka og stungið því inn í hana og hreyft það fram og til baka. Vitnið mundi ekki hvort ákærði klæddi hana úr eða hvort hann sagði henni að afklæðast. Vitnið kvaðst hafa gert ákærða grein fyrir því að henni þætti þetta athæfi vont. Meðan á þessu stóð hafi verið bankað á dyrnar og ákærði hafi þá sagt henni að klæða sig, sett kertið á sinn stað, stungið pokanum í vasann og farið til dyra. Hún hafi farið inn í herbergi og klætt sig þar. Við meðferð málsins nafngreindi vitnið komumann en hann kom ekki fyrir dóm. Varðandi háttsemi þá sem greinir í ákærulið I.5 bar ákærði að Z hafi ekki farið með honum í dráttarvél á þessum tíma þar sem vélin hafi verið [...] fram á haust. Þá hefði Z aldrei lagt það á sig að fara um 140 km í dráttarvél, er taki nokkra klukkustundir. Hann hafi hins vegar farið þessa leið á dráttarvél sjálfur en á þessum tíma hafi hann [...]. Ákærði kvaðst hafa átt hvíta dráttarvél með rauðu húsi. Z bar að dráttarvélin sem þau fóru á hafi verið með húsi, rauð og hvít að lit. Inni í húsinu vinstra megin aftan og ofan við ökumannssætið hafi verið lítið sæti með handfangi. Hún kvaðst einu sinni hafa farið með ákærða í dráttarvélina frá [...] og hafi ferðin tekið nokkrar klukkustundir. Ákærði hafi setið í ökumannssætinu með buxnaklaufina opna og beðið hana að fróa sér. Ákærði hafi tekið í hönd hennar og lagt hana í klofið á sér. Hún hafi haldið í handfangið og hallað sér fram en kvaðst ekki geta lýst þessu tilviki nákvæmlega. Vitnið bar að ákærða hafi ekki orðið sáðfall. Hún kvaðst muna eftir því að í [...] hafi þau mætt bifreið og hafi þá ákærði sagt henni að hætta meðan bifreiðin fór hjá, en síðan hafi hún átt að halda áfram. Hún kvaðst ekki geta sagt til um hvort hún gerði þetta oft á leiðinni eða hvort þetta gerðist bara einu sinni. Z kvað förina örugglega hafa verið tengda [...] og kvaðst muna að þau hafi lagfært girðingar í þessari ferð. Vitnið ætlaði að þessi atburður hafi gerst vorið 1989. Hún taldi að Þ hafi verið heima með lítið barn, þó ekki kornabarn, en Æ sé fædd í maí 1988. Vitnið kvaðst ekki hafa sagt Þ frá atvikinu í dráttarvélinni með öðrum hætti en hér er lýst. Hún kvað þó að sig gæti misminnt varðandi dagsetningu, en atvik hafi verið með þessum hætti. Þegar komið var [...] hafi ákærði farið með hana inn í herbergi. Ákærði hafi lagst í svefnbekk sem þar var og sagt henni að setjast og sleikja á honum liminn, en það hafi ekki verið í fyrsta sinn sem hún hafi gert það. Hún kvað ákærða hafa haldið fyrir aftan höfuð hennar og ýtt því niður og hafi þetta gengið nokkra stund án þess að ákærða yrði sáðfall. Vitnið, Þ, bar fyrir dómi að hún hafi haldið dagbækur og samkvæmt þeim hafi dráttarvélin ekki farið að [...] á vordögum 1989. Ákærði hafi hins vegar farið þangað einsamall á dráttarvélinni þann 23. júní sama ár en hún og stelpurnar hafi farið þangað á bifreið daginn eftir. Vitnið treysti sér til að fullyrða að Z hafi ekki farið þessa leið í dráttarvél og vísaði til þess að hliðarsætið hafi verið hart og afar óþægilegt. Vitnið, G, móðir Sigríðar og tengdamóðir ákærða, bar að hún hafi haldið dagbók á því árabili sem ákæran tekur til og þaðan hafi Z upplýsingar um ferðir sínar að [...]. Vitnið bar að Z hafi stundum sagt að það væri leiðinlegt [...], en hún hafi þó ekki neitað að fara þangað. Á árinu 1997 hafi Z fyrst sagt henni frá brotum ákærða gagnvart sér. Z hafi tjáð henni að ákærði hefði leitað á hana kynferðislega og sagt í grófum dráttum frá því hvað hann hefði gert henni. Hún hafi þannig sagt að ákærði hefði notað á hana kerti og einnig að hann hefði einhvern tímann látið hana fróa sér í dráttarvél. Þá hafi hún tjáð sér að ákærði hefði reynt að hafa við hana kynmök, en hún muni ekki hvenær það hafi átt að eiga sér stað. Þó gæti það hafa verið á stofugólfi eða baðherbergisgólfi [...]. Vitnið kvað Z hafa liðið illa er hún sagði frá þessu, en virtist þó létta við frásögnina. Kvaðst vitnið ekki hafa ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi frásagnar Z. Vitnið kvaðst ekki hafa þrýst á Z að leggja fram kæru, en bar að Z hefði verið hrædd um að börn ákærða lentu í því sama og hún. Vitnið, Ö, dvaldist einnig á heimili ákærða og systur sinnar [...]. Hann kvaðst fyrst hafa frétt af ásökunum Z í júlí 1995, en þá hafi B, kærasti hennar, komið til hans og sagt að Z vildi tala við hann. Hún hafi þá legið grátandi uppi í rúmi og sagt honum að ákærði hefði misnotað hana. Ekki hefði verið neinn vafi á því við hvað Z hafi átt, en hún hafi þó ekki lýst einstökum tilvikum. Vitnið kvað samkomulag sitt og ákærða hafa verið gott og ekkert í fari ákærða hafi bent til hegðunar eins og ákært er fyrir. Hann hafi t.d. aldrei séð klámblöð eða klámmyndbönd á heimilinu. Vitnið, A, kvaðst vera góð vinkona Z. Vitnið kvaðst muna eftir því að árið áður en þær fermdust hafi þær verið að gæta barna [...]. Þær hafi verið búnar að hátta sig og koma sér fyrir á gólfinu á dýnum og verið að horfa á myndband þegar ákærði kom heim. Hann hafi sett klámmynd í myndbandstækið og lagst á milli þeirra. Ákærði hafi strokið á henni fæturna í nokkra stund en þegar hann var að fara með höndina upp í klof hennar hafi hún staðið á fætur og farið inn á baðherbergi. Áreitni ákærða hafi staðið yfir í nokkrar mínútur og kvað hún útilokað að hann hafi gert þetta í einhverju ógáti. Z hafi komið á eftir henni og þá hafi hún sagt henni hvað ákærði hefði gert. Vegna þessa athæfis hefði hún viljað fara heim en Z þá sagt að ákærði hefði líka gert þetta við hana og beðið hana um að fara ekki. Jafnframt hefði Z lofað að tala við ákærða sem hún hefði og gert. Þær hefðu farið inn í stofu og eftir það hefði ákærði farið að sofa. Hún kvaðst aldrei hafa komið inn á heimili ákærða eftir þetta atvik. Að mati vitnisins var ákærði ekki mikið ölvaður þegar þetta atvik átti sér stað. Vitnið bar að á árunum 1995-1998 hafi Z greint henni nánar frá kynferðisbrotum ákærða, þar á meðal að hann hafi sett kerti upp í leggöngin á henni, látið hana sjúga á honum liminn og að hann hefði einu sinni haft við hana samfarir. Vitnið kvað Z hafa verið með samviskubit vegna dætra ákærða sem búa heima hjá honum. Vitnið kvaðst hafa þekkt Z frá því að hún var 11 ára og dró hún ekki í efa að Z væri að segja satt. Vitnið sagði Z vera frekar lokaða en það hefði mátti sjá þegar þær ræddu þessi mál að henni leið illa. Þegar vitnið vildi segja öðrum frá athæfi ákærða hafi Z alltaf sagt að hún vildi ekki gera systur sinni það. Vitnið, C, kvaðst hafa kynnst Z þegar Z var 10 ára gömul. Vitnið bar að Z hafi á árinu 1993 sagt að hún hafi verið misnotuð sem barn og hún hafi fundið að gerandinn var nákominn Z. Á þessum tíma hafi hún ekki lýst því í hverju brot ákærða voru fólgin. Á árinu 1996 hafi hún nefnt ákærða sem geranda og lýst því í hverju brot hans voru fólgin, m.a. hafi hún lýst því að ákærði hafi notað kerti á kynfæri hennar, leitað á hana og sýnt henni spólur. Í gegnum tíðina hafi Z opnað sig smátt og smátt og þær rætt þessi mál mikið. Vitnið bar að Z hafi sagt að ákærði hafi meðal annars sleikt kynfæri Z en hún hafi ekki kært sig um nákvæmar lýsingar. Að mati vitnisins væri Z ekki manneskja sem fari með fleipur. Hún kvað hana lokaða sem persónu og frekar stífa. Þær hafi rætt ýmsa hluti varðandi hennar sambönd og ætlaði vitnið að verknaður ákærða hefði haft áhrif á Z í samböndum hennar við karlmenn. Vitnið kvað Z ekki einungis hafa verið að hugsa um eigið skinn í þessu máli heldur einnig um börn systur hennar en hún hafi verið hrædd um þau. Vitnið kvaðst hafa lagt að Z að kæra. Vitnið, C kvaðst hafa verið í sambúð með Z á árunum 1993 til 1995 og þau einkum búið hjá foreldrum hennar en líka leigt saman. Vitnið kvað Z oftast hafa viljað vera heima. Hún hafi líka oft verið veik og tekið þunglyndisköst og liðið illa. Hann kvaðst oft hafa spurt Z hvað væri að en hún hafi ekki viljað segja hvað amaði að henni fyrr en tæpu ári eftir að þau byrjuðu að vera saman. Hún hafi þá sagt að ákærði hefði misnotað hana en ekki sagt strax í hverju brot hans voru fólgin. Það hafi hún gert nokkru seinna. Hún hafi m. a. lýst kynferðislegu athæfi ákærða í traktor á leið frá [...] og tilraunum ákærða til kynmaka í [...]. Z hafi greint frá því að tilvikin væru mörg og að ákærði hafi oft látið hana fróa sér. Var það mat vitnisins að áðurgreind vanlíðan Z hafi tengst athæfi ákærða og haft áhrif á samband þeirra. Z hafi tjáð honum, áður en hún lagði fram kæru á hendur ákærða, að hún hefði áhyggjur af yngri börnum ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa reynt Z að ósannindum og telur ekki ástæðu til að draga í efa að hún sé að segja satt. Vitnið, D, bjó með Z á árunum 1996 til 1999. Vitnið bar að vegna erfiðleika í sambandi þeirra, m. a. varðandi kynlíf hafi hann hvatt Z að segja sér frá því hvað amaði að. Vitnið bar að Z hafi þá sagt honum frá brotum ákærða. Z hafi meðal annars sagt frá ferð í dráttarvél [...] þar sem ákærði hafi látið hana hafa við sig munnmök og viðhaft káf en þegar þau hafi mætt bifreið hafi hann látið hana hætta. Þá hefði ákærði bannað henni að læsa baðherberginu er hún fór í bað en einhverju sinni hafi hann komið þar inn og misnotað hana. Vitnið kvað Z og hafa lýst því að ákærði hafi reynt að hafa við hana kynmök en Z hafi sagt að það hafi ekki gengið. Þá hafi ákærði við sama tækifæri haft á orði við Z að hann væri að kenna henni og síðar þegar hún næði sér í mann myndi hann þakka honum þetta. Einnig hafi hún skýrt frá atviki þar sem Z var að gæta barna heima hjá ákærða ásamt vinkonu sinni en þá hafi ákærði áreitt vinkonuna líka. Þá hafi hún lýst atviki þar sem ákærði setti kerti í plastpoka og setti það inn í hana. Vitnið kvað að þau hafi reynt að tala ekki mikið um smáatriði enda hafi þau ekki skipt öllu máli í þeirra sambandi og hann hafi heldur ekki viljað hlusta á þau. Vitnið bar að það hafi tekið tíma fyrir hann að fá Z til að skýra frá því hvað hefði komið fyrir hana en þetta hafi fengið mjög á hana og örugglega haft áhrif á að uppúr sambandi þeirra slitnaði. Vitnið greindi frá því að hann hafi verið viðstaddur þegar Z ræddi í síma við Þ systur sína á árinu 1998. Vitnið bar að Z hafi lýst ýmsu fyrir Þ og tjáð henni að hún hefði áhyggjur af börnunum hennar. Vitnið bar, að símtal þetta hafi verið tilfinninga-þrungið, Z hafi grátið en hann hafi reynt að hlusta ekki á hvað hún sagði. Eftir símtalið hafi Z sagt honum að Þ hafi sagt hana ljúga. Þá hafi Z sagt honum að hún hefði áhyggjur og sektarkennd vegna yngri barna systur sinnar. Vitnið kvaðst hafa reynt að fá Z til að segja frá ,,enda sé ljóst að svona hegðun sé ekki stundarbrjálæði." Vitnið kvað Z vera trausta og heiðarlega en mislynda og hann hafi ekki reynt hana að ósannsögli. Vitnið, D, kvaðst hafa þekkt Z frá árinu 1989 og bar að Z hafi verið 14 eða 15 ára er hún sagði henni fyrst frá brotum ákærða. Vitnið bar að þær hafi setið við eldhúsborðið heima hjá henni og skyndilega hafi Z farið að gráta en það sé í eina skiptið sem hún hafi séð hana gráta. Z hafi sagt henni að mágur hennar hafi misnotað hana kynferðislega en ekki skýrt nákvæmlega frá því í hverju brotin hafi falist. Þó hafi Z sagt henni að ákærði hafi ,,gengið alla leið þegar hún var 11 ára" og að ákærði hafi haft á orði að hún þyrfti að ,,læra þetta" eða eitthvað í þeim dúr. Hún kvað Z hafa verið hrædda um að ákærði viðhefði sama athæfi gagnvart Æ og yngri systur hennar. Vitnið, H, kvaðst hafa aðstoðað ákærða [...] skömmu áður en fjölskyldan flutti þangað og á sama tíma hafi Z verið þar. Hann hafi oftast sofið í sérherbergi en í eitt skipti hafi þau öll þrjú verið í sama herberginu. Vitnið kvaðst ekki hafa vitneskju um hvar ákærði og Z sváfu, en þó muni hann að ákærði svaf í stóru herbergi. Hann kvaðst ekki muna til þess að hafa séð Z koma að morgni út úr herbergi ákærða og þá ekki heldur að Z hafi neitað að sofa ein. Að sögn vitnisins hafi þau bæði verið kát og hress og samskipti þeirra hafi virst góð. II. kafli ákæru. Ákærði neitaði alfarið sök undir þessum kafla ákæru. Aðspurður um þá háttsemi sem greinir undir ákærulið II.1 kvað ákærði að Y hefði liðið illa í skóla. Eftir að Z hafi komið fram með sínar ásakanir hafi Y fylgt í kjölfarið, en síðar hafi hún dregið þær til baka. Vitnið, Y, kvaðst fyrst muna eftir áreitni föður síns er hún hafi spurt hann hvað það væri að fróa sér. Ákærði hafi þá látið hana hafa blað með grein um þetta efni en hún hafi á þessum tíma verið 9 ára. Ákærði hafi líka sýnt henni myndir sem voru í blaðinu Bleikt og blátt. Hann hafi rætt myndirnar sem voru af beru fólki og haft uppi athugsemdir um líkamshluta fólksins. Síðar hafi ákærði farið að káfa á henni en það hafi sennilega verið sama kvöld og hann lét hana hafa blaðið. Ákærði hafi káfað á kynfærum hennar innan klæða og strokið henni um brjóst. Vitnið bar að ákærði hafi einhverju sinni látið hana fara úr buxum og setjast á stól og draga hnén upp að öxlum. Þá hafi hann stungið fingri inn í leggöngin. Hún hafi meitt sig við athafnir ákærða og kvaðst viss um að ákærði hafi sett fingur inn í leggöngin. Hún hafi ekkert sagt við ákærða en hann hafi sagt eitthvað við hana en hún hafi reynt að hlusta ekki. Vitnið bar að ákærði hafi sagt að hann væri að kenna henni. Vitnið bar að ákærði hafi oft stungið fingri inn í leggöng hennar og káfað á henni og einnig sýnt henni klámmyndir. Atvik sem þessi hafi oft gerst á meðan þau bjuggu [...] en hún muni ekki eftir einstökum tilvikum heldur bara broti og broti og geti því ekki sagt til um hversu mörg tilvikin voru en þau hafi öll átt sér stað í stofunni. Skiptunum hafi fækkað þegar móðir hennar gerðist dagmamma árið 1991. Vitnið Z kvað Y hafa fyrst á árinu 1998 lýst kynferðislegu athæfi ákærða. Y hafi sagt að ákærði hefði strokið henni, látið hana fróa honum, sett fingur inn í leggöng hennar og talað um kynlíf við hana. Vitnið kvaðst hafa spurt Y að því hvort þetta hefði gerst oft og hún hafi svarað því játandi. Vitnið kvað Y hafa tjáð sér að hún hefði orðið fyrir áreitni af hálfu frænda síns þegar hún var lítil. Vitnið hafi þá spurt Y að því hvort eitthvað fleira í þeim dúr hafi komið fyrir hana og þá hafi hún skýrt sér frá framangreindu athæfi ákærða. Aðspurð um háttsemi þá sem greinir í ákærulið II.2 kvaðst ákærði ekki hafa haft í frammi við Y kynferðislegt tal en hún hafi sjálfsagt orðið vitni að slíku á heimili þeirra í [...] þegar gestir komu. Hann hafi t.d. orðið að vísa fólki af heimilinu vegna ,,klámkjafts" en húsið [...] sé þannig byggt að þar sé mjög hljóðbært. Ákærði kvaðst hafa velt framangreindum sakargiftum fyrir sér allt frá því að mál þetta kom upp en ekki fundið neina skynsamlega skýringu. Ákærði nefndi þó helst að dóttir hans Y hafi orðið fyrir óæskilegum áhrifum og verið beitt þrýstingi af hálfu ömmu sinnar og mágkonu, vitninu Z. Vitnið, Y, bar að í nóvember 1992 hafi móðir hennar verið [...] í heilan mánuð þegar hún var að eiga tvíburana en á þeim tíma hafi hún gist [...]. Tveimur dögum áður en móðir hennar kom heim hafi hún farið [...] og ætlað að forðast ákærða með því að læsa sig inni í herbergi sínu. Þar hafi verið svo mikið dót að hún hafi ekki getað verið þar og því ætlað að vera í herbergi systur sinnar. Vitnið kvað ákærða hafa beðið sig um að ræða við sig en hann hafi fljótlega farið að tala um kynlíf og slíka hluti. Hann hafi fengið hana til að sofa í rúmi hjá sér og þar hafi hann látið hana hátta. Þá hafi ákærði káfað á henni og viljað að hún fróaði honum. Hann hafi síðan farið í nærbuxur sínar og haft á orði að hann væri ekki viss um að geta haft stjórn á sér en hafi svo sleikt á henni kynfærin. Hún hafi sagt að hún þyrfti að fara á salerni og þegar þangað kom hafi hún læst að sér. Vitnið staðhæfði að þetta atvik hafi gerst í nóvembermánuði 1992 en svipuð atvik ekki gerst eftir það. Ákærði hefði þó talað mikið um kynlíf við hana og hvatt hana til að fróa sér. Vitnið kvað ákærða þannig hafa talað um kynlíf sitt og móður hennar og m.a. tjáð henni að móðirin hefði haft sveppasýkingu í fyrsta skipti sem þau voru saman. Þá hefði hann sagt að hann væri vanur að rífa utan af henni nærbuxurnar. Einnig hafi hann talað mjög kynferðislega um vitnið Z og m.a. lýst skapahárum hennar sem dúnmjúkum og sagt að Z og vitnið A hafi verið að fróa sér með kerti er fjölskyldan bjó [...]. Vitnið bar að ákærði hefði a.m.k. einu sinni sýnt henni klámmyndband að heimili þeirra [...] og þá hafi I og J verið viðstaddar. Að sögn vitnisins var hún alltaf hrædd við föður sinn vegna þess að hann hafi alltaf orðið svo reiður við hana hversu lítilvægt það var sem hún gerði af sér. Vitnið kvaðst hafa reynt að segja móður sinni frá háttsemi ákærða, en hún hafi brugðist reið við. Vitnið sagðist oft hafa hugsað um sjálfsmorð þegar hún var 12 til 14 ára og það hafi tengst þessari háttsemi ákærða. Henni hafi gengið illa í skóla og það einnig tengst þessari reynslu. Þá hafi hún alltaf verið óörugg hjá ákærða og síðar hjá öðru fólki. Vitnið skýrði svo frá að hún hafi verið að vinna [...] sumarið 1998. Hún kvaðst ekki geta skýrt hvers vegna hún dró ásakanir í garð föður síns til baka en bar að ákærði hefði eitt sinn sótt hana [...] og á leiðinni heim hafi hann rætt hvaða afleiðingar ásakanir þeirra Z hefðu. Hann hafi m.a. sagt að hann myndi fyrirfara sér og þá yrðu börnin föðurlaus. Hún kvað foreldra hennar hafa rætt við hana og móðir hennar hafi viljað vita nákvæmlega hvað hefði gerst en hún hafi ekki getað tjáð sig. Vitnið vísaði til þess að þegar þetta gerðist hafi hún þegar verið búin að greina móður sinni, ömmu og Z frá athæfi ákærða. Í janúar 2000 hafi hún verið boðuð í skýrslutöku hjá lögreglu vegna meintrar misnotkunar ákærða á yngri systur hennar, Æ. Hún hafi því haft mikinn tíma til að hugsa sig um og ákveðið að kæra í nóvember 2000. Hún kvaðst hafa farið til Georgíu sálfræðings í [...] vegna þess að hún var farin að mæta illa í skólann. Hún hafi ekki rætt við hana um þau atvik sem ákæra lýtur að. Einnig hafi hún farið til Ragnheiðar Indriðadóttur og við hana hafi hún getað rætt þessi mál. Hún kvaðst halda sambandi í dag við ömmu og afa í föðurætt svo og systur föður síns auk móðurfólksins. Hún kvað ekkert samband vera við ákærða og móður eða yngri systkin og lýsti hún yfir áhyggjum af þeim yngri. Vitnið kvað framangreinda háttsemi hafa haft áhrif á samband hennar við stráka og taldi sig þurfa mikla aðstoð til að vinna í sínum málum. Vitnið, Þ, bar að í júlí 1998 hafi móðir hennar, G hringt til hennar og sagt frá ætluðum brotum ákærða. Eftir að hafa talað við hana hafi hún rætt við Z, en síðan gengið á ákærða, sem hafi alfarið neitað öllu. Vitnið bar að Y hafi eitt sinn hringt til hennar þegar Y var við vinnu [...] sumarið 1998 og spurt hvort hún mætti fara suður í fríinu sínu. Hún hafi svarað því til að betra væri að hún kæmi heim því það væru einhver leiðindamál í gangi á heimili ömmu hennar. Þá hafi Y farið að ,,væla" í símann og sagt ,,hann gerði þetta við mig líka." Vitnið bar að í þessu símtali hafi Y ekki sagt í hverju áreitni ákærði hafi falist. Y hafi komið heim í fríum eftir þetta samtal. Y hafi lýst því einhverju sinni fyrir sér að brot ákærða hafi átt sér stað [...], en hún hafi aldrei lýst athæfi ákærða nákvæmlega. Vitnið bar að hún hefði beðið Y um að koma með sér til [...] til viðtals hjá Brynjólfi Ingvarssyni geðlækni og það hafi gengið eftir. Þar hafi hún ekki getað tjáð sig en ,,grátið, skælt, ekki þó hágrátið og átt erfitt með að koma þessu upp úr sér". Læknirinn hafi lítið tjáð sig en hún hafi jánkað því að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega. Hún hafi sagt að ákærði hafi káfað á henni en ekki að hann hafi haft við hana kynferðismök. Vitnið bar að Y hafi aðallega sagt já og jú í þessu viðtali og frásögn hennar hafi verið mjög slitrótt og hún hafi þurft að beita hana þrýstingi til að tjá sig. Vitnið kvað Y hafa sagt sér frá því að þegar vitnið var að eiga tvíburana hafi Y þurft að vera í sama rúmi og ákærði og skilist að hún hafi þá þurft að fróa ákærða. Vitnið minntist þess ekki að Y hafi sagt að ákærði hefði sett fingur inn í leggöng hennar. Fyrir dómi greindi vitnið frá því að hún hefði ekki lagt trúnað á frásögn Y er hún hringdi frá [...] og af þeim sökum viljað fá fyllri upplýsingar. En eftir að Y lagði fram kæru á hendur föður sínum hafi hún tekið þá ákvörðun að slíta öll tengsl við dóttur sína. Vitnið skýrði frá því að hún hefði aldrei orðið vör við hneigðir ákærða til að beita börn kynferðislegu ofbeldi og fordæmdi hann slíkt. Hún kvað tímaritið Bleikt og blátt hafa verið keypt á heimili þeirra um tíma, en ekki klámblöð og klámspólur. Hún kvað klámspólu þó hafa verið á heimilinu um tíma, vegna þess að nágranni hefði gleymt henni þar. Vitnið, G, amma Y, kvað hana hafa sagt frá því á árinu 1998 að ákærði hefði ekki verið góður við hana og í framhaldi af því hefði hún tjáð sér að ákærði hefði áreitt sig kynferðislega. Þegar þetta gerðist hafi Y verið að vinna [...] en stundum komið í fríum á heimili hennar [...]og þá haft orð á að sig langaði ekki heim. Vitnið kvað Y hafa tjáð sér að hún hafi reynt að segja mömmu sinni frá athæfi ákærða en þær orðræður ávallt endað með því að hún segði bara það sem hún hélt að foreldrar hennar vildu heyra. Vitnið kvaðst hafa haft vitneskju um að Y dró ásakanir sínar á hendur ákærða til baka til baka við foreldra sína. Vitnið bar að Y hafi sagt sér að ákærði hafi haft á orði að hann ætlaði að fyrirfara sér vegna þessara ásakana. Vitnið kvað Y hafa lýst því að ákærði hafi látið hana fróa honum og sett fingur í kynfæri hennar. Hún hafi sagt sína sögu smátt og smátt. Vitnið bar að á þessum tíma hafi andleg líðan Y verið afar slæm og hafi hún t.d. ekki getað farið ein í banka og einnig haft miklar martraðir. Að mati vitnisins hefur líðan stúlkunnar batnað mikið frá því sem var. Vitnið kvaðst aldrei hafa hvatt þær frænkur Y og Z til að leggja fram kæru í máli þessu en Y hafi sagt að hún vildi ekki að það sama henti önnur börn og það sem henti þær. Vitnið bar að Y hafi orðið fyrir miklu áfalli þegar hún var boðuð til skýrslutöku hjá lögreglu vegna ætlaðrar kynferðislegra háttsemi ákærða gagnvart yngri systur sinni, Æ. Vitnið, I, frænka Y var [...] 12 ára gömul sumarið 1993. Hún kvaðst ekki muna eftir klámfengnu tali á heimilinu en hún muni eftir að hafa horft á grófa klámmynd þar, með ákærða, Y og J. Vitnið bar að Þ hafi ekki verið heima þegar þetta gerðist. Hún kvaðst ekki hafa orðið vitni að kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða þann tíma sem hún dvaldi á heimili hans. Vitnið kvaðst stundum hafa séð um þvotta á heimilinu og þá tekið eftir því að óvenjumikil útferð hafi verið í nærbuxum Y. Vitnið, J, kvaðst hafa verið [...] sumarið 1993 er hún var á 17. ári og hafi hún hjálpað til með börnin og heimilishaldið. Hún sagði að mikið hefði verið klæmst þarna en ákærði ekkert meira en aðrir. Vitnið fullyrti að hún hefði aldrei séð klámmyndir eða klámspólur á heimili ákærða. Vitnið bar að samskipti hennar og ákærða hafi verið ágæt og ætti hún erfitt með að trúa ásökunum á hendur honum en hún kvaðst einnig eiga erfitt með að trúa því að Y segði ósatt. Vitnið bar að Z hafi rætt ásakanir á hendur ákærða við hana og lýst áhyggjum sínum af börnum ákærða á heimili hans. Vitnið bar að Z hafi lýst undrun sinni á því að vitnið skyldi ekki vita neitt um þessi mál og mikil heift hefði verið í Z. Vitnið, Georgía Magnea Kristmundsdóttir sálfræðingur, bar að Y hafi verið vísað til hennar af [...] vegna vanlíðanar hennar en hún hefði verið lögð í einelti alla sína skólagöngu. Starf hennar hefði fyrst og fremst falist í því að byggja upp sjálfstraust, ákveðni og félagsfærni hjá stúlkunni. Vitnið bar að þann 3. febrúar 1999 hafi Y sagt í viðtali að Z frænka hennar hafi innt hana eftir því hvort ákærði hefði áreitt hana kynferðislega. Vitnið bar að Y hafi svarað spurningu Z játandi til að fá frið fyrir frekari spurningum Z. Vitnið bar að í annað sinn hafi Y skýrt frá því að móðir hennar hefði lagt að henni að greina ömmu sinni og afa frá því að hún hafi ranglega játað spurningum Z um kynferðislega áreitni ákærða í sinn garð. Vitnið kvaðst þekkja til einkenna þolenda kynferðisbrota og hafi Z borið slík einkenni. Vitnið upplýsti að hún hefði einungis hitt Y fimm sinnum og því hafi kynni þeirra ekki verið djúp en framfarir hafi orðið hjá Y. Vitnið, Ragnheiður Indriðadóttir sálfræðingur, bar að Y hafi komið til hennar snemma hausts 2001 og þær hafi átt 10 viðtöl. Vitnið kvað andlega líðan Y hafa verið slæma. Hún hafi átt erfitt með svefn, verið haldin miklum kvíða, öryggisleysi, verið grátgjörn og með lélega sjálfsmynd. Y hafi rakið líðan sína til kynferðisbrota föður sem hún hafi lýst. Brotin hafi byrjað þegar hún var 8 ára og staðið allt þar til [...] 14 ára. Hún hafi lýst því að ákærði hefði þuklað á brjóstum hennar, sett fingur inn í leggöng, sýnt henni klámblöð og spólur og haft á orði að hann væri að kenna henni. Þetta athæfi hafi ákærði viðhaft margsinnis. Vitnið kvað sjálfsmynd Y hafa molnað smátt og smátt. Það var álit vitnisins að áðurnefnd einkenni Y samræmdust því að hún hefði orðið fyrir kynferðisbrotum. Vegna þessa hafi hún og legið vel við einelti og látið það yfir sig ganga. Henni hafi fundist hún vera skítug, hún njóti ekki kynlífs og sambönd hennar við karlmenn hafi verið stutt og losaraleg. Að mati vitnisins hafði Y góð raunveruleikatengsl og kvað hana tengja orsök og afleiðingu. Hún hafi lokið stúdentsprófi og sjái nú fyrir sér framtíð. Vitnið sagði að hennar starf hafi verið að styrkja og styðja Y í hennar erfiðleikum. Vitnið bar að Y hafi alla tíð verið stöðug í sínum framburði en borið að kæra hennar hjá lögreglu hafi fyrst og fremst verið lögð fram vegna þess að hún hefði áhyggjur af systrum sínum. Vitnið kannaðist ekki við að Y hefði dregið ásakanir sínar til baka. Það var mat vitnisins að Y hafi átt góð samskipti við móðurfjölskyldu [...] og hún hafi haft mikinn styrk af Z frænku sinni. Vitnið bar að Y hafi náð miklum bata á síðasta ári, en hún þarfnist þó mikillar aðstoðar í framtíðinni. Vitnið, Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir, bar að ákærði hefði fyrst komið í viðtal 14. júlí 1998. Hann hafi haft alvarlegar sjálfsvígshugleiðingar og legið af þeim sökum á sjúkrahúsi frá 26. til 30. júlí 1998. Þar fyrir utan hafi hann komið í fjölda viðtala. Vitnið bar að ákærði hafi farið í sálfræðirannsókn hjá Kristjáni Má Magnússyni sálfræðingi og við hana hafi vitnið stuðst í umsögn sinni til lögreglunnar í [...]. Þar komi fram að ákærði hafi tjáð sig um öll sakarefnin og lýst sig saklausan af þeim. Þá bar vitnið að það hafi verið niðurstaða prófana Kristjáns Más Magnússonar sálfræðings að ákærði sé meðvitaður gerða sinna og við ágæta andlega heilsu. Ekkert komi fram í persónuleikaprófum er benti til þess að ákærði sé líklegur til að misnota börn eða hann hafi getað gleymt, bælt eða útilokað minningar um kynferðislegt ofbeldi gagnvart dóttur sinni og mágkonu. Vitnið kvaðst sammála niðurstöðu Kristjáns Más og frá upphafi hafi hann verið nánast sannfærður um sakleysi ákærða. Vitnið, Kristján Már Magnússon sálfræðingur, kvaðst hafa lagt persónuleika-próf fyrir ákærða en niðurstaða þeirra prófa hafi ekki bent til þess að ákærði væri líklegur til að misnota börn kynferðislega. Í niðurstöðu greiningarskýrslu vitnisins sem dagsett er 28. desember 1998 og vitnið staðfesti fyrir dóminum, kemur fram að ekkert benti til þess að ákærði hafi getað gleymt, útilokað eða bælt minningar um að hann hafi beitt dóttur sína og mágkonu kynferðislegu ofbeldi. Þá hafi ekkert í framburði eða persónugerð ákærða stutt að þetta hafi nokkurn tíma gerst. Vitnið kvað slík sálfræðipróf ekki óyggjandi sönnun þess að ákærði hefði ekki gerst sekur um kynferðislega misnotkun gagnvart börnum. Þá kvaðst vitnið hafa farið að efast um að niðurstaða prófsins væri rétt þegar ákall kom frá [...] vegna breyttrar hegðunar yngri dóttur ákærða Æ. Vitnið kvaðst hafa hitt Æ 19. febrúar 1999. Í greinargerð hans dagsettri 19. janúar 2000 um telpuna sem hann staðfesti fyrir dómi kemur fram að í samtölum við stúlkuna hafi komið fram að hún hafi haft óvenju nákvæma vitneskju um kynlíf miðað svo ungt barn. Vitnið bar fyrir dómi að stúlkan hefði greinilega orðið vitni að kynlífi og skoðað klámefni með ákærða í tölvu. Hún hafi lýst hluta af þessu efni nákvæmlega, m.a. sagt frá mynd þar sem karlmaður hafði samfarir við telpu sem ekki hafði nein brjóst. Vitnið kvaðst hafa vísað málinu til barnaverndarnefndar vegna þess hversu greinargóð lýsing stúlkunnar hafi verið. IV. Niðurstaða. Ákærði hefur staðfastlega við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi neitað allri sök í málinu. Þá bar hann fyrir dómi að hann hafi aldrei sýnt vitnunum Z, Y, I eða A klámefni en framburður þeirra er á annan veg um það efni. Ákærði skýrði hins vegar frá því fyrir dómi að hann hefði svarað fyrirspurn dóttur sinnar Y um kynferðisleg málefni með því að sýna henni m.a. tímaritið Bleikt og blátt. Varðandi samskipti sín við Z hefur ákærði haldið því fram, í staðfestri lögregluskýrslu frá 7. desember 2000, að hann hefði um áramótin 1991 til 1992 orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu Z, sem þá var 14 ára. Þá bar hann að á heimili hans hafi ekki verið til annað klámefni en tímaritið Bleikt og blátt en um tíma hafi þó verið klámmyndband í eigu annars aðila á heimilinu. Þá hafnaði hann alfarið frásögn vitnisins A um að hann hafi haft í frammi við hana kynferðislega tilburði. Sá framburður ákærða er í andstöðu við það sem vitnin A og Z báru fyrir dóminum. Í málinu liggur fyrir að ákærði fór að undirlagi Brynjólfs Ingvarssonar geðlæknis, í greiningarviðtöl til Kristjáns Más Magnússonar sálfræðings haustið 1998. Fyrir dómi bar Brynjólfur að hann væri sammála niðurstöðu Kristjáns Más að ekki væri líklegt að ákærði væri haldinn barnagirnd. Kristján Már bar hins vegar fyrir dómi að eftir athugun sína í febrúar 1999 á Æ, yngri dóttur ákærða, hafi hann farið að efast um að niðurstöður prófana hans væru réttar. Stúlkan var þá 11 ára gömul. I. kafli ákæru. Vitnið, Z, lýsti ítarlega brotum ákærða í hennar garð. Þannig lýsti hún af nákvæmni aðdraganda, umhverfi og aðferð sem ákærði viðhafði er hann lét hana fróa sér í [...] um tilvik sem greinir í 2. tölulið þessa kafla ákæru. Þá lýsti hún árstíma, aðstæðum [...] í smáatriðum og líðan sinni meðan á athöfnum ákærða stóð. Um tilvik þau sem greinir í 3. tölulið þessa kafla ákæru lýsti Z lýsti því að skammur tími hefði liðið á milli þeirra tilvika er ákærði lét hana fróa sér [...]. Hún lýsti háttsemi ákærða og afstöðu þeirra til hvors annars [...] meðan á háttseminni stóð af nokkurri nákvæmni. Z lýsti því að baðherbergið [...] hefði verið lítið og erfitt fyrir fullorðinn mann að athafna sig þar eins og lýst er í ákæru og er sá framburður í samræmi við framburð ákærða. Hún lýsti því að ákærði hefði lagst ofan á hana á baðherbergisgólfinu og viðhaft þá háttsemi sem lýst er í 3. tölulið I. kafla ákærunnar. Einnig lýsti hún orðum ákærða meðan á þessu stóð en ákærði hafi m.a. sagt að hann ,,kæmist ekki alla leið". Á sama hátt var lýsing vitnisins á því tilviki sem lýst er undir 4. tölulið þessa kafla ákæru ítarleg og nákvæm. Hún lýsti m.a. líðan sinni meðan á athöfnum ákærða stóð og því að nafngreindur maður hefði knúið dyra. Atviki því sem lýst er í 5. tölulið þessa kafla ákæru kvaðst hún ekki geta lýst nákvæmlega. Hún kvaðst þó muna eftir því að hafa farið þessa löngu leið í dráttarvélinni, og því að þau hafi mætt bifreið sem orðið hafi til þess að ákærði lét hana hætta um stund. Hún kvaðst tengja þennan atburð [...] og aðstæðum systur sinnar er þá hafi verið með ungabarn. Þá er frásögn hennar af því sem gerðist að [...] í þessari greinargóð. Vitnið Z lagði fram kæru á hendur ákærða vegna framangreindrar háttsemi í nóvember 2000, en þá voru liðin tæp 15 ár frá því að fyrsta brotið átti sér stað. Á hinn bóginn er upplýst að Z hafði þegar á árinu 1991 skýrt að nokkru leyti frá því að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega. Þannig sagði hún A vinkonu sinni á árinu 1991 að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega. Tilefnið var kynferðisleg háttsemi ákærða í garð þeirra vinkvenna. Með trúverðugum framburði vitnanna, B, C, Ö, G, D, E, Þ og Y er upplýst að hún sagði þeim einnig á mismunandi tímum frá háttsemi ákærða. Þá er á meðal gagna málsins skýrsla Helgu Hannesdóttur geðlæknis þar sem fram kemur að Z hafi tjáð henni í desember 1995 að hún hafi verið ,,misnotuð kynferðislega á aldrinum 9-13 ára af ættingja". Í framburði flestra vitnanna kom fram að Z hafi haft áhyggjur af því að ákærði áreitti önnur börn á heimili sínu. Fyrir liggur að vitnið lagði fram framangreinda kæru eftir að hún hafði verið kölluð til skýrslugjafar hjá lögreglu vegna meintrar kynferðislegrar misnotkunar ákærða gagnvart 11 ára gamalli dóttur sinni. Z hefur í frásögn sinni verið sjálfri sér samkvæm um háttsemi ákærða. Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn frá atburðum þeim sem í ákæru greinir er framburður hennar að mati dómsins heilsteyptur og trúverðugur. Þegar framangreint er virt í heild og horft til greinargóðrar lýsingar Z hjá lögreglu og fyrir dómi sem og þess hversu mörgum aðilum hún sagði sögu sína á mismunandi tímum, þykir fram komin lögfull sönnun um atvik þau sem greinir í þessum kafla ákæru. Framburður ákærða var hins vegar í andstöðu við frásögn vitna m.a. um atriði sem ekki tengjast sakarefninu. Í framburði hans gætti einnig mikillar vanvirðingar í garð Z og er framburður hans í heildina litið ótrúverðugur. Með framangreindri háttsemi hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 200. gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en með breytingu á XXII. kafla laganna varðar háttsemin við fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, en þó þannig að refsing verði ekki þyngri en orðið hefði eftir eldra ákvæði 202. gr. laganna sbr. meginreglu 2. gr. sömu laga. II. kafli ákæru. Ákærði hefur við alla meðferð málsins þverneitað háttsemi þeirri sem lýst er í þessum kafla ákæruskjals. Eins og að framan er rakið kvaðst hann fyrir dómi eingöngu hafa sýnt Y tímaritið Bleikt og blátt svo og Kvennafræðarann er hún spurði hann um kynferðisleg málefni. Stúlkan var þá 9 ára. Y bar að áreitni ákærða í hennar garð hafi byrjað er hún hafi spurt hann að því hvað væri að fróa sér og hann þá sýnt henni tímarit með grein um þetta efni, líkt og ákærði hefur borið. Þá lýsti vitnið háttsemi ákærða ítarlega og í samræmi við 1. tölulið þessa kafla ákærunnar. Hún bar m.a. að hún hafi kennt sársauka við athafnir ákærða, ákærði hafi rætt við hana á meðan á athæfinu stóð en hún hafi reynt að hlusta ekki. Þá bar vitnið einnig að ákærði hafi sagst vera að kenna henni. Þeirri háttsemi sem greinir í 2. tölulið þessa kafla ákæru lýsti vitnið á greinargóðan hátt, þar á meðal aðdraganda hennar. Vitnið bar að ákærði hefði oft talað um kynlíf við sig og lýst skapahárum Z frænku sinnar. Einnig hafi hann lýst samlífi hans og móður hennar og að auki kynferðislegum athöfnum vitnanna Z og A. Í málinu liggur fyrir að vitnið greindi móður sinni og ömmu frá kynferðislegum athöfnum ákærða í hennar garð sumarið 1998. Áður hefði Z frænka hennar spurt hana um hvort hún hafi mátt þola slíkt af hálfu ákærða og hún játað því. Upplýst er að vitnið dró ásakanir sínar í garð föður síns til baka nokkru eftir að þær komu fram, fyrst í samtali við foreldra sína og síðar í viðtali hjá Georgíu Magneu sálfræðingi. Í ljósi þess að ákærði hafði lýst því að hann myndi fyrirfara sér vegna ásakana hennar og Z er það mat dómsins að þetta rýri ekki trúverðugleika framburðar hennar. Vitnið, Ragnheiður Indriðadóttir sálfræðingur, bar að Y hafi tjáð henni að ákærði hefði misnotað hana líkt og greinir í ákæru frá því að hún var 8 ára og allt til 14 ára aldurs. Að sögn vitnisins samræmdist andleg líðan Y og léleg sjálfsmynd hennar því að hún hefði verið misnotuð kynferðislega. Hefur þetta mat vitnisins einnig stoð í framburði vitnisins Georgíu Magneu. Vitnið Y bar að hún hafi hugsað sig vel um áður en hún lagði fram kæru á hendur föður sínum en hún hafi með kærunni viljað koma í veg fyrir brot ákærða gegn yngri systrum sínum. Þegar allt framangreint er virt er það mat dómsins að framburður vitnisins sé trúverðugur og borinn fram af einlægni og staðfestu. Með hliðsjón af þessu og því að ákærði hefur orðið sannur að athæfi sömu tegundar gagnvart Z mágkonu sinni, vitnisburði Kristjáns Más Magnússonar sálfræðings um yngri dóttur ákærða og vitnisburði A um kynferðislegt athæfi ákærða í sinn garð, þykir ekki varhugavert að telja, þrátt fyrir neitun ákærða, að næg sönnun sé fram komin fyrir sekt hans samkvæmt þessum kafla ákæru. Með framangreindri háttsemi hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 200. gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en með breytingu á XXII. kafla laganna varðar háttsemin við 1. mgr. 200. gr. og fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 8. gr. og 10. gr. laga nr. 40/1992, en þó þannig að refsing verði ekki þyngri en orðið hefði eftir eldra ákvæði 202. gr. hegningarlaga, sbr. meginreglu 2. gr. sömu laga. Brot ákærða voru ítrekuð um árabil og eru alvarlegs eðlis. Með háttsemi sinni gerðist hann sekur um kynferðislegt ofbeldi gagnvart mágkonu sinni og dóttur, misnotaði sér aðstöðu sína og brást trúnaðartrausti þeirra. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu og þykir refsing hans með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. töluliðs 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga eftir atvikum hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Í málinu krafðist réttargæslumaður beggja brotaþola, Þorbjörg I. Jónsdóttir héraðsdómslögmaður, skaðabóta að fjárhæð 774.700 krónur til handa hvorri þeirra um sig. Bótakröfu sína sundurliðaði hún þannig: Miskabætur 500.000 krónur, áætlaður kostnaður vegna sálfræðimeðferðar 200.000 krónur og lögfræðikostnaður að meðtöldum virðisaukaskatti 74.700 krónur. Auk þessa krafðist hún vaxta. Bótakröfurnar voru birtar ákærða 25. september 2001. Lögmaðurinn rökstuddi kröfu sína við aðalmeðferð málsins. Ákærði andmælti bótakröfunni fyrir dómi. Bótakrefjendur eiga rétt á miskabótum, auk vaxta eins og í dómsorði greinir, úr hendi ákærða vegna þeirrar háttsemi sem hann hefur verið sakfelldur fyrir sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sbr. áður 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að mati dómsins hafa kærendur átt í verulegum sálrænum erfiðleikum vegna verknaðar ákærða. Verður hann því dæmdur til að greiða miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur til hvorrar um sig auk lögfræðikostnaðar. Kröfu um áætlaðan kostnað vegna sálfræðimeðferðar ber hins vegar að vísa frá dómi. Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin 300.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Stefáns Ólafssonar héraðsdómslögmanns, svo og 150.000 króna þóknun Þorbjargar I. Jónsdóttur héraðsdómslögmanns, réttargæslumanns beggja brotaþola. Við ákvörðun þóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til þess tíma sem fór í ferðalag hans vegna meðferðar málsins. Halldór Halldórsson dómstjóri, sem dómsformaður ásamt Ingveldi Einarsdóttur og Ólafi Ólafssyni, héraðsdómurum kveða upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna umfangs málsins og mikilla anna dómsformanns. DÓMSORÐ. Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin 300.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Stefáns Ólafssonar héraðsdómslögmanns, svo og 150.000 króna þóknun Þorbjargar I. Jónsdóttur héraðsdómslögmanns, réttargæslumanns beggja brotaþola. Ákærði greiði Z 574.700 krónur með vöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. október 2001 til greiðsludags. Ákærði greiði Y 574.700 krónur með vöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. október 2001 til greiðsludags. |
Mál nr. 697/2017 | Kærumál Nauðungarvistun | Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnirÞorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. nóvember2017, en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður HéraðsdómsReykjaness 2. nóvember 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins áhöfuðborgarsvæðinu 23. október sama ár um nauðungarvistun sóknaraðila ásjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þákrefst hún þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins í héraðiog fyrir Hæstarétti. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.Með vísan til forsendna hins kærðaúrskurðar verður hann staðfestur. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislagagreiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er aðmeðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðilafyrir Hæstarétti, Ómars R. Valdimarssonar héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur,greiðist úr ríkissjóði. Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2.nóvember 2017.Með beiðni, dagsettri 23. október 2017,sem barst Héraðsdómi Reykjaness 25. sama mánaðar, hefur sóknaraðili, A, kt. [...],[...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins áhöfuðborgarsvæðinu frá 23. október 2017 um að samþykkja nauðungarvistunsóknaraðila á sjúkrahúsi. Við meðferð málsins var sú varakrafa sett fram afhálfu sóknaraðila að nauðungarvistuninni yrði markaður skemmri tími en 21dagur.Varnaraðili er Kópavogsbær,velferðarsvið, 700169-3759, Fannborg 4, Kópavogi, sem krefst þess að ákvörðunsýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 23. október sl. um nauðungarvistunsóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest.Í beiðni sóknaraðila segir að hún sébyggð á 1. mgr. 30. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Einnig að sóknaraðili teljiað skilyrði 3. mgr. 19. gr. séu ekki fyrir hendi og því beri að fellaáðurgreinda ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu úr gildi.Samkvæmt gögnum málsins krafðistvarnaraðili þess með beiðni, dagsettri 23. október 2017, að sýslumaðurinn áhöfuðborgarsvæðinu heimilaði nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi meðheimild í 19. gr., sbr. 20. og 21. gr., lögræðislaga nr. 71/1997. Í beiðninnisegir að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, maníu ángeðrofseinkenna. Hún hafi ekkert sjúkdómsinnsæi og fullreynt sé að meðhöndlaveikindi hennar á göngudeild. Sé nú svo komið að óhjákvæmilegt sé aðnauðungarvista varnaraðila á sjúkrahúsi svo hún megi fá viðeigandi ognauðsynlega meðferð.Með beiðni um nauðungarvistunsóknaraðila fylgdi vottorð B geðlæknis á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, en þarsegir að sóknaraðili sé [...] ára, búi í eigin íbúð og eigi þrjú uppkomin börn.Samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum hafi hún átt við geðsveiflur að etja mjöglengi, en hafi lítið leitað sér hjálpar og hafi ekki verið á lyfjum. Hún hafit.d. keypt sér hús í [...] í örlyndisástandi skömmu fyrir hrun og fjármagnaðkaupin með gengistryggðu láni. Þá er haft eftir aðstandendum að sóknaraðilihafi þó aðallega verið þunglynd. Hún hafi fengið þunglyndislyf í haust, sem ýtthafi undir örlyndi og hafi hún verið í örlyndisástandi í rúman mánuð. Á samatíma hafi hún neytt talsverðs áfengis, sem virtist fylgja örlyndisástandinu.Sóknaraðili hafi einnig verið mikið á ferðinni, eytt miklum peningum og t.d.ætlað að kaupa sér bifreið á átta milljónir króna. Starfsmenn bílaumboðsinshafi þó talið hana á að kaupa ódýrari bifreið, en ekki hafi verið gengið frákaupunum. Þá hafi aðstandendur nefnt það að sóknaraðili borði yfirleitt í [...],þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara, en forstöðukonan þar hafi hringt í dótturvarnaraðila og tjáð henni að framkoma sóknaraðila væri með þeim hætti að húntreysti sér ekki til þess að taka á móti henni vegna ástands hennar, sem nánarigrein er gerð fyrir í læknisvottorðinu. Í vottorðinu segir ennfremur að á meðaná þessu örlyndi sóknaraðila hefur staðið hafi hún lagst inn á geðdeild, enútskrifað sig gegn læknisráði. Þá hafi sóknaraðili leitað bæði á hjartagáttvegna mikils bjúgs á fótum og á göngudeild geðsviðs, en ekki farið eftir ráðumlækna og ekki mætt í síðasta viðtal við geðlækni á geðdeild. Fullreynt sé þvíað meðhöndla varnaraðila á göngudeild.Um skoðun á sóknaraðila segir að hún séáttuð á stað og stund og eigin persónu. Hún sé óhirt, þvagblaut og hafi ekkiviljað þrífa sig fyrir viðtalið. Hún tjái sig greiðlega, haldi þræði, en farium víðan völl í frásögn. Ekki séu merki um geðrofseinkenni, en sjúkdómsinnsæisé mjög lítið. Hún viðurkenni að vera aðeins ör, en telji sig ekki þurfa neinskonar aðstoð vegna þess. Hún vilji fara heim og sé því alfarið mótfallin aðvera á geðdeild. Í niðurstöðu vottorðsins segir að sóknaraðili sé haldinalvarlegum geðsjúkdómi, þ.e. maníu án geðrofseinkenna. Enn fremur aðóhjákvæmilegt sé að nauðungarvista sóknaraðila á sjúkrahúsi til að varna því aðandleg og líkamleg veikindi hennar versni og til verndar lífi hennar og heilsu.C geðlæknir gaf skýrslu í gegnum símafyrir dóminum, en hún annaðist meðferð varnaraðila frá 23. október til 30.október sl. Hún sagði að sóknaraðili hefði verið ör á deildinni og ekki viljaðþiggja þá meðferð sem henni hefði verið ráðlögð. Sjúkdómur sóknaraðila hefðiekki verið greindur, en sterkur grunur væri um að sóknaraðili væri haldingeðhvarfasýki. Ekki væri hægt að staðfesta að sóknaraðili væri haldinn þeimsjúkdómi, en hins vegar hefði sóknaraðili sýnt einkenni þess sjúkdóms. Ástandsóknaraðila með þeim hætti að jafna mætti til alvarlegs geðsjúkdóms. Meðhliðsjón af sögu sóknaraðila og einkennum væru talsverðar líkur á því aðsóknaraðili væri haldin geðhvarfasýki og þar með alvarlegum geðsjúkdómi. Húnsagði að reynt hefði verið að veita sóknaraðila aðstoð utan sjúkrahússins, enán árangurs. Sóknaraðili hefði ekki fylgt ráðleggingum lækna og stefnt lífisínu og heilsu í hættu. Læknirinn sagði að ekki hefði hefði reynst unnt aðútiloka aðrar ástæður örlyndisástands sóknaraðila, svo sem skjaldkirtilssjúkdómeða krabbamein í höfði, þar sem sóknaraðili hefði ekki viljað gangast undirsneiðmynd af höfði eða aðrar rannsóknir. Hún sagði að óhjákvæmilegt hefði veriðað nauðungarvista sóknaraðila á sjúkrahúsinu.Þá gaf símaskýrslu fyrir dóminum D,núverandi meðferðarlæknir sóknaraðila. Hann kvaðst hafa annast meðferðsóknaraðila frá 30. október sl. og sagði að sóknaraðili væri ótvírætt íörlyndisástandi. Þá sagði hann að illa hefði gengið að fá sóknaraðila tilsamvinnu um meðferð og að sóknaraðili hefði ekkert innsæi í sjúkdóm sinn. Hannkvað verulegar líkur á því að sóknaraðili væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi,enda væri hún með alvarleg geðræn einkenni.Í ljósi framlagðra gagna og þess sem aðframan hefur verið rakið telur dómurinn að sýnt hafi verið fram á að fullnægthafi verið skilyrðum 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 ogað óhjákvæmilegt hafi verið að nauðungarvista sóknaraðila á sjúkrahúsi svo aðgreina megi sjúkdóm sóknaraðila og veita henni viðeigandi meðferð. Ber því aðstaðfesta ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar um frá 23. október2016.Allur málskostnaður greiðist úrríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknunskipaðs talsmanns sóknaraðila, Ómars R. Valdimarssonar hdl., sem þykir hæfilegaákveðin 148.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómarikveður upp úrskurð þennan.ÚRSKURÐARORÐ:Staðfest er ákvörðun sýslumannsins áhöfuðborgarsvæðinu frá 23. október 2017 um að sóknaraðili, A, kt. [...], skulivistuð á sjúkrahúsi.Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila,Ómars R. Valdimarssonar hdl., 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 92/2000 | Skattur Dagpeningar Ráðningarsamningur Sératkvæði | Deilt var um skattalega meðferð á hluta þeirra greiðslna sem E fékk fyrir vinnu sína sem flugmaður á vélum flugfélagsins A hf. erlendis á árunum 1992 og 1993. E hafði verið ráðinn til starfa af erlendri áhafnarleigu, F, og fengið laun sín greidd þaðan. E hóf störf samkvæmt munnlegum ráðningarsamningi 1. júní 1992 og starfaði óslitið til 25. nóvember 1993, en skriflegur ráðningarsamningur var gerður við hann 16. desember 1992. Sökum þess að ekki lá ótvírætt fyrir, hvað fólst í þeim greiðslum, sem E móttók frá F, og hvort þær væru tæmandi sem endurgjald, var talið óhjákvæmilegt að leggja staðhæfingar launagreiðanda um heildargreiðslur til grundvallar. Um heimild til frádráttar á framtali launamanns frá ætluðum dagpeningagreiðslum launagreiðanda vísaði Hæstiréttur til dóms réttarins 28. september 2000, í máli nr. 124/2000. Ekki lágu fyrir gögn um ferða- og dvalarkostnað E, sem skattfrádráttur yrði byggður á, vegna umrædds tímabils, en E hafði fengið frádrátt metinn að álitum vegna beggja áranna. Var ekki talið, að E hefði fært að því gild rök, að sú niðurstaða hefði ekki verið málefnaleg og í samræmi við úrlausnir í málum annarra skattþegna, sem eins stóð á um. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2000. Hann krefst þess aðallega, að úrskurður ríkisskattstjóra frá 30. nóvember 1998 verði ógiltur og stefndi dæmdur til að endurgreiða áfrýjanda ofgreidd opinber gjöld að fjárhæð 627.419 krónur auk vaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, eins og nánar greinir í stefnu í héraði, frá 29. janúar 1999 til greiðsludags. Til vara krefst hann auk höfuðstóls samkvæmt aðalkröfu vaxta samkvæmt 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 22. desember 1998 til birtingardags stefnu í héraði en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst áfrýjandi þess, að hinir endurákvörðuðu skattstofnar hans verði lækkaðir, 25% álag vegna gjaldársins 1993 verði fellt niður og stefnda gert að þola endurútreikning skattyfirvalda á opinberum gjöldum áfrýjanda í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Í máli þessu er deilt um skattalega meðferð á hluta þeirra greiðslna, sem áfrýjandi fékk fyrir vinnu sína sem flugmaður á vélum flugfélagsins Atlanta hf. erlendis á árunum 1992 og 1993. Hann var ráðinn til starfa af erlendri áhafnaleigu, Flight and Cabin Crew International Limited (FCCI) og skuldbatt sig til starfa í þágu Atlanta hf. Fram er komið, að áfrýjandi hóf störf samkvæmt munnlegum ráðningarsamningi 1. júní 1992 og starfaði óslitið til 25. nóvember 1993. Skriflegur ráðningarsamningur var gerður við áfrýjanda 16. desember 1992. Samkvæmt honum skyldu mánaðarlaun hans nema 5000 bandaríkjadölum, en einnig kemur þar fram, að kauptrygging væri að lágmarki 2560 dalir. Þetta var þó ekki skilgreint frekar í samningnum. Fyrir héraðsdómi skýrði áfrýjandi svo frá, að með hinum skriflega ráðningarsamningi hefðu laun verið lækkuð vegna erfiðleika í rekstri Atlanta hf. á þessum tíma og flugmenn einungis fengið laun fyrir þá daga, sem þeir voru í vinnu, en þó haft umrædd lágmarkslaun. Síðan hafi mátt „hugsa þá restina bara sem dagpeninga.” Ekki hafi verið greitt sérstaklega fyrir orlof eða veikindi og ekkert lífeyrissjóðsgjald hafi verið innt af hendi. Í ráðningarsamningnum, sem er á stöðluðu eyðublaði, er gert ráð fyrir „Location Compensation“ en ekki er fyllt út í eyðu um slíkar greiðslur. Dagpeninga til handa áfrýjanda er þannig ekki getið sérstaklega í ráðningarsamningnum. Fram kemur í yfirlýsingu FCCI 28. febrúar 1996, að heildargreiðslur til áfrýjanda hafi á árinu 1992 numið 32.106 bandaríkjadölum, en þar af hafi hann fengið 14.421 dal í laun og 17.685 dali sem „Per Diem” greiðslur vegna 131 dags. Á árinu 1993 hafi hann fengið 14.470 dali í laun og 23.280 dali sem „Per Diem“ greiðslur vegna 194 daga. Ekki kemur fram í bréfinu nánari sundurliðun á ferðum áfrýjanda í þágu flugfélagsins Atlanta hf. og hvernig greiðslu kostnaðar var háttað. Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn einkum á því, að framangreindum dagpeningagreiðslum hafi verið ætlað að standa undir öllum kostnaði við umrædd ferðalög að undanskildum fargjöldum til og frá Íslandi og gistikostnaði í Helsinki. Hann greinir svo frá, að á árinu 1992 hafi hann aðallega unnið í Finnlandi og Kambódíu en 1993 í Þýskalandi, Túnis, Tyrklandi og Bandaríkjunum auk Finnlands. Gögn málsins um þetta eru þó ekki fyllilega skýr. Í héraðsdómi eru rakin samskipti áfrýjanda við skattyfirvöld vegna ágreinings um heimild hans til að draga ætlaðan ferðakostnað frá heildartekjum og skilmerkileg grein er þar gerð fyrir málsástæðum og lagarökum aðila þessa dómsmáls. II. Aðila málsins greinir á um það, hvort heildargreiðslur FCCI til áfrýjanda á árinu 1992 hafi numið 32.106 bandríkjadölum, eins og yfirlýsingar launagreiðandans frá 26. janúar 1994 og 28. febrúar 1996 bera með sér, eða 31.613 dölum, eins og fram komi á innleggsnótum bankareiknings áfrýjanda. Í málinu liggja ekki fyrir samtímagögn um sundurliðun launa áfrýjanda, svo sem launaseðlar eða launamiðar, og ekki liggur ótvírætt fyrir, hvað falist hafi í þeim greiðslum, sem lagðar voru á gjaldeyrisreikning áfrýjanda, og hvort þær hafi verið tæmandi sem endurgjald frá FCCI. Á það verður því að fallast með héraðsdómi, að óhjákvæmilegt sé að leggja staðhæfingar launagreiðanda um heildargreiðslur til grundvallar. Með dómi Hæstaréttar 28. september 2000 í máli nr. 124/2000 var leyst úr ágreiningi um heimild til frádráttar á framtali launamanns frá ætluðum dagpeningagreiðslum launagreiðanda. Frádráttarheimild 1. tl. 1. mgr. A-liðs 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt er skýrð svo, sbr. 1. tl. 1. mgr. A-liðs 7. gr. og 29. gr. sömu laga, að henni sé sett tvenns konar hámark. Í fyrsta lagi sé miðað við mótteknar greiðslur á dagpeningum eða kostnaði og í öðru lagi við auglýst mat ríkisskattstjóra, sem ekki var gefið út á þeim árum, sem um er deilt í þessu máli. Þá er í dóminum áréttað það skilyrði frádráttar, að sannað sé, að um ferða- og dvalarkostnað sé að ræða. Loks eru 2. og 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu skýrðar svo, sbr. og 1. tl. 1. mgr. A-liðs 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, að framkvæma eigi þennan frádrátt svo, að launagreiðandi og launþegi verði að hafa gögn til að staðreyna, að greiddir dagpeningar hafi farið til greiðslu dvalarkostnaðar. Felst í þeirri kröfu áskilnaður um, að þessir aðilar geti báðir sýnt fram á með óyggjandi hætti, hvernig einstökum ferðum hafi verið háttað og hver hafi greitt kostnað vegna þeirra og hvernig. Samkvæmt framansögðu liggja ekki fyrir gögn um ferða- og dvalarkostnað áfrýjanda, sem skattfrádráttur yrði byggður á, vegna áranna 1992 og 1993, er hann starfaði í þágu flugfélagsins Atlanta hf. og fékk laun sín greidd frá erlendri áhafnarleigu. Áfrýjandi hefur fengið frádrátt metinn að álitum vegna beggja áranna, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Hefur hann ekki fært að því gild rök, að sú niðurstaða hafi ekki verið málefnaleg og í samræmi við úrlausnir í málum annarra skattþegna, sem eins stóð á um. Samkvæmt framansögðu og annars með hliðsjón af forsendum héraðsdóms verður hann staðfestur. Rétt þykir eftir atvikum, að hvor aðila beri sinn kostnað af áfrýjun málsins. D ó m s o r ð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Sératkvæði Hjartar Torfasonar Ég er sammála öðrum dómendum um mat á heildargreiðslum til áfrýjanda árið 1992. Áfrýjandi var ráðinn til starfa á vegum erlendrar áhafnaleigu sem flugmaður á vélum íslenska flugfélagsins Atlanta hf., er skráðar voru á Íslandi. Var samið um ráðninguna til ákveðins lokadags og á þeim grundvelli, að starfstíminn yrði ekki samfelldur, heldur tengdur þeim verkefnum, sem um væri að ræða hjá flugfélaginu, þannig að áfrýjandi legði fram störf við þær flugvélar og frá þeirri bækistöð, sem félagið tæki til hverju sinni. Í samræmi við þetta áttu laun hans ekki að vera föst, heldur miðuð við þann tíma, sem hann væri fjarvistum frá heimili sínu vegna dvalar við störfin í bækistöðvum félagsins og í flugferðum þaðan. Hins vegar áttu þau að greiðast mánaðarlega og miðast við tiltekin mánaðarlaun. Jafnframt var samið um mánaðarlega kauptryggingu, er nam rúmum helmingi af þessum viðmiðunarlaunum. Hann var fyrst sendur til Finnlands, en síðar til ýmissa fjarlægari dvalarlanda. Ráðningarkjör áfrýjanda munu hafa verið munnleg í fyrstu, en síðar staðfest í skriflegum vinnusamningi, er gerður var 16. desember 1992 milli hans og áhafnaleigunnar FCCI á stöðluðu eyðublaði, sem hún lagði til. Gefur samningstextinn skýrt til kynna, að greiðslur fyrir störfin hafi átt að skiptast í laun annars vegar og staðaruppbót hins vegar. Jafnframt var svo á kveðið, að áfrýjanda yrði lagt til ókeypis húsnæði við hverja bækistöð, nema hann vildi heldur leggja það til sjálfur eftir sérstöku samkomulagi. Ekki var fjallað um kostnað af fæði eða öðru uppihaldi, og má þannig álykta, að áfrýjanda hafi verið ætlað að bera hann sjálfur að öðru jöfnu, en staðaruppbótin kæmi þar á móti. Að samningi þessum má það finna, að útfylling í eyður í textanum virðist síður vönduð en ritun hins staðlaða meginmáls. Meðal annars er ekkert handritað í áðurnefnda liði um laun og staðaruppbót nema ein tala fyrir laun og önnur um lágmarkstryggingu, og þá þannig, að ekki verður séð nema af tölunum sjálfum, að um sé að ræða mánaðarlaun fremur en viku- eða daglaun. Að sjálfsögðu má hugsa sér, að þessi útfyllingarháttur hafi átt að tákna, að áfrýjandi fengi einungis launagreiðslu, en enga sérgreinda staðaruppbót, og væru allir launaþættir innifaldir í hinum umsamda viðmiðunartaxta. Áfrýjandi hefur hins vegar skýrt hann með því, að í liðinn um staðaruppbót hafi engin tala verið rituð fyrir þá sök, að uppbótin gæti orðið mismunandi eftir dvalarlöndum. Er sú skýring ekki síður trúverðug, þegar skjalið er virt í heild. Í málinu hefur áfrýjandi þannig lagt fram grundvallarskjal, sem gefur til kynna, að dagpeningar eða ígildi þeirra hafi átt að vera hluti af launum hans og mæta kostnaði af öðrum nauðsynjum en húsaskjóli, sem hann bæri sjálfur vegna starfa á framandi vettvangi. Á það má fallast, að í skjalinu og yngri gögnum frá áhafnaleigunni, þar sem um dagpeninga er fjallað, komi ekki fram óyggjandi sönnum þess, að sá hluti launanna hafi verið sérgreindur við útborgun þeirra hverju sinni, en hún fór fram með greiðslum inn á bankareikning. Hefur áfrýjandi ekki getað lagt fram sundurliðun einstakra útborgana, og launamiðar eftir árið voru ekki sendir skattyfirvöldum. Þetta eitt getur þó ekki ráðið því, hvort áfrýjandi eigi tilkall til frádráttar dagpeninga frá skattskyldum tekjum sínum af störfunum, þar sem leggja verður heildarlegt mat á stöðu hans sem launþega á vegum áhafnaleigunnar, þegar úr því er leyst, hvaða sönnunarkröfur sé eðlilegt eða unnt að gera vegna þess frádráttar. Meðal annars virðist þá mega greina, að áfrýjandi hafi staðið tiltölulega höllum fæti við samningsgerð um kjör sín og tilhögun launagreiðslna miðað við það, sem almennt gerðist á sama tíma um stéttarbræður hans hér á landi. Er hvorki sanngjarnt né rétt, að hann gjaldi slíks í samjöfnuði við þá í skattalegu tilliti. Að athuguðu þessu síðastnefnda verður að fallast á það með áfrýjanda, að hann hafi fært fram nægilega skýra sönnun um, að hann hafi við störfin fengið greidda dagpeninga vegna ferða- og dvalarkostnaðar, er marktækir séu í skilningi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og reglna á grundvelli þeirra. Jafnframt verður ekki séð, að ástæða sé til að vefengja, að þeir hafi runnið til greiðslu uppihaldskostnaðar úr hans hendi að verulegu leyti, enda hafa skattyfirvöld viðurkennt það að tilteknu marki. Eðlilegt sýnist, að tekjufrádráttur vegna þessa verði metinn eftir svipuðum reglum og þeim, er nú gilda gagnvart flugliðum hjá þeim félögum, er aðallega hafa með höndum flug til og frá Íslandi, þar sem lagaákvæði hafa ekki breyst frá því að störfin voru unnin. Rétt er hins vegar, að skattyfirvöld fjalli um nánari ákvörðun frádráttarins. Geti þá eftir atvikum komið til athugunar, hvort heildarfjárhæð dagpeninganna standi í eðlilegu hlutfalli við heildargreiðslur til áfrýjanda, en auk mats á stöðu hans sjálfs þarf þá einnig að koma til samanburðar við laun annarra flugliða, að teknu tilliti til hennar, en um þau liggur lítið fyrir í málinu. Samkvæmt þessu er það niðurstaða mín, að taka beri til greina þá kröfu áfrýjanda, að úrskurður ríkisskattstjóra frá 30. nóvember 1998 verði felldur úr gildi, en öðrum kröfum hans beri að vísa frá héraðsdómi. Jafnframt greiði stefndi honum hæfilegan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Ár, miðvikudaginn, er á dómþingi sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af kveðinn upp dómur í málinu nr. E-3481/1999: Erlendur Birgir Blandon gegn íslenska ríkinu Mál þetta, sem dómtekið var 19. janúar sl. er höfðað með stefnu birtri 21. júní sl. Stefnandi er Erlendur Birgir Blandon, kt. 230265-5509, Lindarbergi 94, Hafnarfirði. Stefndi er íslenska ríkið. Þess er aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra frá 30. nóvember 1998 verði ógiltur og að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda ofgreidd opinber gjöld, að fjárhæð kr. 627.419 auk vaxta samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1987 af kr. 509.715 frá 29. 1. 1999 til 1.2.1999, af kr. 559.715 frá þeim degi til 1.3.1999, af kr. 609.715 frá þeim degi til 6.4.1999 og af kr. 627.419 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist að dráttarvextir verði lagðir við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 22.12.1999 í samræmi við 12. gr. fyrrnefndra laga. Til vara er krafist auk höfuðstóls samkvæmt aðalkröfu vaxta samkvæmt 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. laga nr. 49/1987 með síðari breytingum af kr. 50.000 frá 22.12.1998 til 29.1.1999, af kr. 509.715 frá þeim degi til 1.2.1999, af kr. 559.715 frá þeim degi til 1.3.1999, af kr. 609.715 frá þeim degi til 6.4.1999 og af kr. 627.419 frá þeim degi til birtingardags stefnu þessarar, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafist að hinir endurákvörðuðu skattstofnar stefnanda verði lækkaðir og 25% álag vegna gjaldársins 1993 verði fellt niður og stefnda gert að þola endurútreikning skattyfirvalda á opinberum gjöldum stefnanda í samræmi við niðurstöðu dómsins. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Málskostnaður beri dráttarvexti skv. 10. sbr. 12. gr. laga nr. 25/1987 að liðnum 15 dögum frá dómsuppsögudegi til greiðsludags. Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af aðal- og varakröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að mati dómsins. Varðandi þrautavarakröfu stefnanda er gerð sú krafa aðallega að henni verði vísað frá dómi en til vara er gerð krafa um sýknu. Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda til handa stefndu að mati dómsins. MÁLSATVIK: Málavextir Stefnandi málsins starfaði á árunum 1992-1993 erlendis á vegum flugfélagsins Atlanta sem flugmaður. Ráðningar og starfsfyrirkomulagi var þannig háttað að stefnandi réð sig sem starfsmann erlendrar áhafnarleigu, Flight and Cabin Crew International Limited (FCCI). Stefnandi skuldbatt sig í raun til að starfa í þágu flugfélagsins Atlanta hf. Í árslok 1993 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á skattskilum nokkurra íslenskra starfsmanna erlendrar áhafnarleigu sem unnu í þágu flugfélagsins Atlanta. Stefnandi var kallaður til skýrslutöku hinn 9. janúar 1995. Í niðurstöðu skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram, að dagpeningar hafi ekki verið sérstaklega aðgreindir og ekki hefði verið hægt að sjá í heildargreiðslum frá FCCI sundurliðun á því hvað væru dagpeningar og hvað var launagreiðslur. Á framtali 1993 taldi stefnandi fram "nettótekjur" sem heildargreiðslur frá FCCI, það er að dagpeningar eða frádráttur vegna dagpeninga voru ekki færðir á framtalið og á framtali 1994 voru nettótekjur færðar í reit 21 en dagpeningar í reit 23 og frádráttur í reit 33. Þá hefur stefnandi ekki getað lagt fram gögn vegna útlagðs kostnaðar á vegum FCCI. Töluleg niðurstaða skattrannsóknarstjóra var sú, að vanframtaldar tekjur og offærður frádráttur vegna dagpeninga væru vegna ársins 1992 kr. 978.861 og vegna ársins 1993 kr. 1.544.158. Samtals kr. 2.523.019. Stefnanda var send skýrsla skattrannsóknarstjóra með bréfi 15. febrúar 1996. Með bréfi stefnanda, dags. 4. mars 1996, mótmælti hann niðurstöðum skýrslunnar og taldi að heildartekjur árið 1993 hefðu verið 493 dollurum lægri en uppgefið var af hálfu vinnuveitanda hans. Þá gerir hann kröfu um frádrátt vegna 131 ferðadaga í þágu starfs samkvæmt dagpeningareglum ríkisskattstjóra. Varðandi framtal 1994 gerði hann kröfu um frádrátt samkvæmt dagpeningareglum ríkisskattstjóra í 194 daga. Afstaða skattrannsóknarstjóra til bréfs stefnanda liggur fyrir á dskj. 42. Þar kemur fram kafli 2.5 "Lok rannsóknar" sem er hluti af endanlegri skýrslu skattrannsóknarstjóra, en hún er að öðru leyti samhljóða dskj. 3. Hinn 14. mars 1996 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins ríkisskattstjóra mál stefnanda til endurákvörðunar á grundvelli 6. mgr. 102. gr. A laga 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum (tsk). Hinn 21. mars sama ár boðaði ríkisskattstjóri skattbreytingar á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra. Bréfi þessu var ekki svarað af hálfu skattaðilans og hinn 1. apríl 1997 úrskurðaði ríkisskattstjóri hækkun tekjuskatts vegna gjaldáranna 1993 og 1994 og bætti við 25% álagi hvort ár. Í úrskurðum sínum vísaði ríkisskattstjóri til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 583/1995 og 1085/1996. Hinn 24. maí 1997 kærði stefnandi úrskurð ríkisskattstjóra, og 30. nóvember 1998, úrskurðaði ríkisskattstjóri kröfu stefnanda og stóð því hinn kærði úrskurður óbreyttur að öðru leyti en því að fallið var frá því að beita álagi gjaldárið 1994. Úrskurði þessum var ekki skotið til yfirskattanefndar af hálfu skattaðila og er í máli þessu gerð krafa um ógildingu á honum. MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK: Af hálfu stefnanda segir að ágreiningur í máli þessu snúist ekki efnislega um heildargreiðslur þær sem stefnandi fékk greiddar frá FCCI á árunum 1992 og 1993 að öðru leyti en því að stefnandi mótmælir því að hafa móttekið frá FCCI meira en 31.613 bandaríkjadali á árinu 1992. Vísar stefnandi því til sönnunar til yfirlits, sem er að finna á fylgiskjali 7/l, sbr. fskj. 6/2 með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins dagsettri 14. febrúar 1996 og telur að það sé skattyfirvalda eða launagreiðanda að sanna að tekjur hans hafi verið aðrar en þær sem fram koma á innborgunarseðlum launagreiðanda. Ekki er ágreiningur um fjölda starfsdaga stefnanda erlendis. Að öðru leyti snúist ágreiningur aðila eingöngu um það hvort stefnandi hafi mátt draga frá tekjum sínum ferðakostnað í samræmi við dagpeningareglur ríkisskattstjóra eins og þær komi fram í leiðbeiningum með skattframtali árin 1993 og 1994. Þó að matsreglur þessar hafi ekki fengið formlega meðferð skv. úrskurði yfirskattanefndar hafi verið farið eftir þeim í reynd. Matsreglur þessar séu settar samkvæmt heimild í 1. tl. A. liðs 30. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. gr. laga nr. 92/1987 og 116. gr. laga nr. 75/1981. Þær séu settar til að einfalda skattalega framkvæmd og um leið ákveða mörk heimilaðs frádráttar kostnaðar vegna dagpeningagreiðslna án framlagningar kostnaðarfylgiskjala, sbr. dóm Héraðsdóms í málinu nr. E-6590/1993. Er því haldið fram í máli þessu að stefnandi eigi fullan rétt til frádráttar þessa, enda sé hann samkvæmt lögum, sbr. 1. tl. A liðs 30. gr. og þeirri meginreglu, sem fram komi í 2. mgr. B liðs 30. gr., að menn skuli ekki greiða tekjuskatt af kostnaði við öflun tekna sinna. Öllum skilyrðum 1. tl. A. liðs 30. gr sé fullnægt. Óumdeilt sé að stefnandi hafi starfað sem launþegi hjá erlendum atvinnurekanda og á hans vegum erlendis fyrir flugfélag sem skráð sé hér á landi. Hann hafi dvalið mikinn hluta umræddra ára erlendis. Þrátt fyrir þetta hafi hann kosið að eiga lögheimili á Íslandi og greiða skatt af tekjum sínum hér á landi. Samkvæmt yfirlýsingu launagreiðanda í bréfi til stefnanda dagsettu 28. febrúar 1996 hafi stefnandi fengið greidda dagpeninga á árinu 1992 sem nemi 17.685 bandaríkjadölum. Svari það til 1.129.010 króna miðað við kaupgengi bandaríkjadals 31. desember 1992. Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra gjaldárið 1993, hafi dagpeningar vegna annars kostnaðar en gistingar, sem stefnanda var látin í té, á tímabilinu l. júní- 31. desember samsvarað 85,5 SDR á dag eða kr. 984.334 miðað við kaupgengi á SDR hinn 31. desember. Við þessa fjárhæð, sem sé hvorki hærri en mótteknir dagpeningar né matsreglur ríkisskattstjóra, hafi stefnandi miðað frádrátt í framtali sínu 1993. Samkvæmt framangreindri yfirlýsingu hafi stefnandi fengið greidda dagpeninga að fjárhæð samtals 23.280 bandaríkjadali á árinu 1993. Miðað við árslokagengi bandaríkjadals hafi það samsvarað 1.690.826 krónum. Í fylgiskjali með skattframtali stefnanda 1994, hafi hálfir dagpeningar gjaldárið 1994 samsvarað 1.522.640 krónum. Frádráttur þessi sé samkvæmt þessu innan þeirra marka, sem lögin áskilja. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ferðakostnaður sá, sem stefnandi varð að greiða vegna starfans og hann byggir frádrátt sinn á, sé hinn sami og við er miðað í matsreglum ríkisskattstjóra, en þær séu byggðar á reglum ferðakostnaðarnefndar ríkisins. Um sönnun fyrir því að stefnandi hafi þurft að annast greiðslu sambærilegs kostnaðar, og matsreglur ríkisskattstjóra gera ráð fyrir, þ.e. greiðslu fæðis og annars kostnaðar, vísar stefnandi til niðurstöðu í skýrslu skattrannsóknarstjóra 14. febrúar 1996, ráðningarsamnings stefnanda, fskj. 8/1 með skýrslunni, þar sem fram sé tekið að stefnanda hafi borið laun og "Location Compensation" auk húsnæðis, einkennisbúnings og trygginga, bréfs FCCI frá 23. október 1995, bréfs Aviation Consultancy Executive, 24. mars 1998, en fyrirtæki þetta hafi tekið við viðskiptum við Altanta hf. af FCCI, bréfs Atlanta hf., dags. 11.6.1999, og þess að fyrirkomulag ráðningar hafi ætíð verið með sambærilegum hætti og tíðkast hafi alla tíð hjá flugmönnum íslensku flugfélaganna, þ.m.t. flugmönnum, sem voru í starfi hjá Arnarflugi hf. og hafi verið eða séu í starfi hjá Flugfélaginu Atlanta hf., Flugleiðum hf. o.fl. Hafi þessir starfsmenn fengið samsvarandi kostnað frádreginn samkvæmt reglum ríkisskattstjóra. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ferðakostnaður hans hafi verið samsvarandi þeim kostnaði sem gengið sé út frá í matsreglum ríkisskattstjóra og eigi hann samkvæmt því rétt á hálfum dagpeningum, þ.e. vegna fæðis og annars kostnaðar. Fari órökstudd lækkun á kostnaði þessum í úrskurði ríkisskattstjóra, þar sem miðað sé við um 48 SDR á dag árið 1992 og um 31 SDR á dag árið 1993 í bága við jafnræðisreglur 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sá niðurskurður sé heldur ekki í samræmi við þá yfirlýsingu, sem fram komi í bréfi ríkisskattstjóra, frá 15. apríl 1999, þar sem fram komi að nýjar reglur eigi að gera flugliða áhafnaleiga jafnsetta þeim flugliðum, sem fái beinar greiðslur frá íslensku flugfélögunum. Verði því ekki í móti mælt að stefnandi og aðrir þeir starfsmenn, er hafi mátt þola niðurskurð á samskonar frádrætti séu skattlagðir með öðrum og þyngri hætti en stéttarbræður þeirra, sem starfi beint hjá íslenskum flugfélögum. Ríkisskattstjóri haldi því fram í úrskurðum sínum, og sé þá vitnað í framlagða úrskurði yfirskattanefndar, að dagpeningar til stefnanda séu ekki nægilega afmarkaðir og sérgreindir. Það sé út af fyrir sig rétt að launagreiðandi sendi ekki sundurliðun á greiðslum sínum til stefnanda í dagpeninga og laun fyrr en eftir því var gengið af hálfu Flugfélagsins Atlanta hf. og stefnanda í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra, en ekki sé við stefnanda að sakast í því efni. Er því haldið fram að það geti ekki eitt og sér svipt stefnanda rétti til samsvarandi frádráttar og aðrir launþegar hafi fengið. Sem dæmi megi nefna að fráleitt sé að telja að flugmaður hjá Flugleiðum hf. myndi missa frádráttarrétt sinn þó að Flugleiðum hefði orðið á að senda upplýsingar um greidda dagpeninga til skattyfirvalda innan tilskilins frests. Er því og haldið fram að jafnvel þó að engir dagpeningar hafi verið í samningum við hinn erlenda vinnuveitanda, eigi það ekki vegna framangreindra jafnræðisreglna, að hafa skipt máli. Launþegi, sem þurfi að leita sér atvinnu erlendis vegna skorts á atvinnu hér á landi eigi ekki að vera ver settur en launþegi, sem fari til starfa erlendis á vegum íslensks atvinnurekanda síns. Ríkisskattstjóri byggi endurákvörðun sína í öðru lagi á því að ekki sé fyllilega ljóst hvort greiðslur, sem fólust í "location compensation" eða "Per Diem" hafi verið til greiðslu sama kostnaðar og matsreglur rsk. miða við. Þessum rökum ríkisskattstjóra er mótmælt sem órökstuddum. Vísist í því sambandi til framlagðra gagna um greiðslur kostnaðar og niðurstöðu skattrannsóknarstjóra. Kostnaður stefnanda hafi numið að minnsta kosti þeim fjárhæðum, sem hann hafi dregið frá tekjum sínum. Geri dagpeningareglur ekki ráð fyrir að leggja þurfi fram reikninga eða önnur gögn svo framanlega sem kostnaðurinn sé innan marka reglnanna. Á þeim tíma sem hér um ræði hafi ekki legið fyrir reglur ríkisskattstjóra um það hvernig haga bæri meðferð slíks kostnaðar sem hér um ræðir í framtölum, þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir flugfélagsins Atlanta, starfsmanna á vegum þess svo og lögmanns þeirra að þær yrðu settar. Um 4 ár hafi liðið frá því að RSK hafi verið send tillaga að reglum þar til að reglur hafi verið settar. Óeðlilegt sé að íslenskir starfsmenn erlendra atvinnurekenda beri hallann af því að ekki hafi verið fyrir hendi reglur sambærilegar þeim, sem gilt hafi um starfsmenn íslenskra atvinnurekenda, enda virðist leiðbeiningar ríkisskattsstjóra gera ráð fyrir að erlendar tekjur séu meðhöndlaðar með sama hætti og íslenskar. Fyrir liggi skriflegur ráðningasamningur stefnanda við FCCI auk yfirlýsingar launagreiðanda um skiptingu greiðslna í laun annarsvegar og dagpeninga hinsvegar svo og um fjölda dvalardaga á erlendri grundu. Þá liggi fyrir almenn yfirlýsing um launakjör áhafnarmeðlima frá 24. mars 1998 og yfirlýsing FCCI frá 23. október 1995 um það hvaða kostnaði dagpeningagreiðslum sé ætlað að mæta. Liggi því ótvírætt fyrir hver launakjör hans hafi verið umrædd ár. Ekki verði séð að dagpeningar frá FCCI séu í ósamræmi við þá dagpeninga sem almennt hafi tíðkast hjá flugmönnum umrædd ár. Er því haldið fram að fullnægt sé því skilyrði laganna til frádráttar að dagpeningar séu nægilega aðgreindir og sérgreindir svo og í fullu samræmi við frádráttarheimildir RSK svo og í samræmi við reglur RSK, sbr. skilyrði til frádráttar skv. reglum sem fram komi í bréfi ríkisskattstjóra frá 8. janúar 1998 og 15. apríl 1999. Ekki geti verið á valdi stefnanda að erlent fyrirtæki er hann starfar fyrir fylgi kröfum sem íslensk skattyfirvöld geri til fyrirtækja hér á landi. Krafa um dráttarvexti í aðalkröfu styðjist við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 10. gr. laga nr. 25/1987, en hækkun ríksskattsstjóra samkvæmt úrskurði hans 30. nóvember 1998 hafi verið greidd með fyrirvara um endurgreiðslu. Varakrafa um vexti samkvæmt 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981 og III. kafla laga nr. 25/1987 er sett fram fallist héraðsdómur ekki á að greiðsla með fyrirvara jafngildi kröfu um endurgreiðslu eins og tilskilið er í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995. Þrautavarakrafa stefnanda er sú að ferðakostnaður sá sem ríkisskattstjóri reiknaði stefnanda til frádráttar sé í hæsta máta óeðlilegur og ósanngjarn. Miðað við úrskurð RSK er hann reiknaður um 48 SDR á dag á árinu 1992 og um 31 SDR á árinu 1993 meðan matsreglur hans gera ráð fyrir að fæði eitt og sér kosti um SDR 60 á dag á árinu 1992 og sömu fjárhæð jan-maí 1993, en um SDR 57 júní-desember 1993. Þá er sérstaklega mótmælt beitingu 25% álags á "vantaldar tekjur". Stefnandi taldi fram eftir bestu vitund og samvisku. Eins og áður hefur komið fram beitti hann sömu framtalsaðferð flugliðar og aðrir flugliðar nýta og skattyfirvöldum hefur verið kunn. Hafa skattyfirvöld ekki þar til reglur voru settar verið í stakk búin að svara því á hvern hátt starfsmenn erlendra atvinnurekenda skuli telja fram til skatts. Er því ekki eðlilegt að stefnandi sé beittur viðurlögum, eins og skattstjóri hefur gert sbr. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Af hálfu stefnda er því mótmælt, að stefnandi hafi einungis móttekið frá FCCI en 31.613 bandaríkjadali á árinu 1992 og vísað til fskj. 7/1, sbr. 6/2 í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins en stefnandi telji að ekki hafi hærri fjárhæð verið lögð á gjaldeyrisreikning hans. Af hálfu stefndu er þessu hafnað. Til grundvallar tekjufærslu að fjárhæð 32.106 bandaríkjadalir á tekjuárinu 1992 liggi yfirlýsingar frá launagreiðanda sbr. t.d. fskj. 2.1-2.2 og 7/1 með fyrrnefndri skýrslu. Hvorki stefnandi né skattyfirvöld hafi fengið launaseðla, launamiða, uppgjör eða gögn að undaskildu bréfi á fskj. 7/1 varðandi þær greiðslur sem stefnandi hafi fengið fyrir störf sín. Þar sem ekki liggi fyrir með skýrum og sundurliðuðum hætti hvað falist hafi í þeim greiðslum sem lagðar voru á gjaldeyrisreikning stefnanda séu engin efni til annars en að leggja yfirlýsingar launagreiðanda til grundvallar í málinu. Efnislega sé ágreiningurinn einungis sá, hvort stefnandi hafi mátt draga frá tekjum sínum ferðakostnað í samræmi við dagpeningareglur ríkisskattstjóra. Af hálfu stefndu er því haldið fram að lagaheimild sé ekki til staðar fyrir kröfu stefnanda. Stefnandi hafi ráðið sig til starfa hjá FCCI. Ráðningarstaður hans hafi ekki verið á Íslandi heldur þeir staðir hann var sendur til hverju sinni. Aðallega hafi stefnandi verð við störf í Finnlandi en á árinu 1992 einnig í Cambodiu. Á árinu 1993 hafi hann unnið auk Finnlands í Þýskalandi, Túnis og Tyrklandi. Í kæru stefnanda frá 24. maí 1997 til ríkisskattstjóra komi fram að stefnandi hafi ásamt samstarfsmönnum sínum þurft að kosta uppihald sitt erlendis og gistingu sína í Helsinki. Í fyrstu hafi starf flugmannanna einungis verið í Helsinki en síðan hafi verkefnum fjölgað og greiðslur til starfsmannanna hafi verið hækkaðar og þeir fengið fría gistingu utan Helsinki. Líta verði svo á, að Helsinki hafi verið hinn reglulegi vinnustaður stefnanda. Eigi það sér einnig stoð í bréfi Air Atlanta, dags. 24. febrúar 1994. Er stefnandi hafi hafið störf hjá FCCI hafi verið gerður við hann munnlegur ráðningarsamningur og hinn 16. des. 1992 síðan skriflegur samningur sem endurnýjaður hafi verið án sérstakrar áritunar á hann að sögn stefnanda. Í ráðningarsamningi stefnanda sé dagpeninga ekki getið sérstaklega og hafi þeir á engan hátt verið afmarkaðir eða sérgreindir hvorki að því er fjárhæð varðar eða að öðru leyti. Síðar tilkomin yfirlýsing FCCI dags 28. febr. 1996, breyti þessu ekki, enda dragi það verulega úr sönnunargildinu að hún skuli vera fengin löngu eftir að rannsókn málsins hófst. Heildartekjur stefnanda séu skattskyldar skv. 1. tl. A-lið 7. gr. tsk. Skv. l. tl. A- liðar 30. gr. tsk. séu dagpeningar tilgreindir sérstaklega sem frádráttarbær gjöld í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Hér sé um undanþágu frá skattskyldu að ræða sem skv. viðurkenndum lögskýringarreglum í skattarétti beri að skýra þröngt. Í ljósi orðalags frádráttarheimildarinnar verði að skilgreina og afmarka dagpeninga sérstaklega af hálfu launagreiðanda. Því sé ekki til að dreifa í tilviki stefnanda og skorti því lagaheimild fyrir frádráttarliðnum. Hér er einnig bent á, að skv. 6. gr. reglugerðar nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu með áorðnum breytingum, sé það skilyrði fyrir því að halda megi dagpeningum utan staðgreiðslu, að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launamanni, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga. Sama skilyrði sé í leiðbeiningum ríkisskattstjóra frá 8. jan. 1998 og 15. apríl 1999. Samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar skuli reikna staðgreiðslu af öðrum greiðslum launagreiðanda vegna ferðalaga launamanns, en tekið fram að launamaður geti hins vegar lagt fram með skattframtali sínu gögn um kostnað sem hann hafi sannanlega orðið fyrir vegna ferða á vegum launagreiðanda, sbr. 1. tl.A 1. mgr. 30. gr. tsk og komi þá slíkur kostnaður til frádráttar við álagningu. Stefnandi haldi því fram að óeðlilegt sé að stefnandi og samstarfsmenn hans beri hallann af því, að ekki voru til staðar leiðbeiningareglur eins og þeir óskuðu og það hafi liðið fjögur ár frá beiðni þeirra og þar til reglur voru settar. Alltaf hafi verið til almennar reglur um dagpeninga sem taki til stefnanda og annarra gjaldanda. Engin rök standi til þess að setja sérreglur eftir þeirra höfði um þá. Reglur ríkisskattstjóra frá 1998 og 1999 séu í meginatriðum í samræmi við gildandi reglur. Alltaf sé það grundvallaratriði að launþegi fái greidda dagpeninga frá vinnuveitanda og upplýsingar verði að liggja fyrir um þá. Eins og að framan greini skorti það hjá stefnanda. Þar fyrir utan er bent á að þær reglur sem lagðar séu fram í málinu séu frá 1. febr. 1994, en ágreiningur málsins taki til áranna 1992 og 1993. Varðandi síðbúna yfirlýsingu launagreiðanda stefnanda í bréfi frá dagsettu 28. febrúar 1996 veki það athygli að meginhluti tekna stefnanda sé svokallað "Per Diem" greiðsla sem ekki sé skilgreind frekar. Laun fyrir tímabilið 1. júní 1992 til ársloka séu 14.421 bandaríkjadalir en Per Diem-greiðslan fyrir sama tímabil 17.685 bandaríkjadalir. Fyrir tímabilið 1. jan. 1993 til 25. nóv. 1993 hafi launaþátturinn verð talinn 14.470 bandaríkjadalir en Per Diem-greiðslan mun hærri eða 23.280 bandaríkjadalir. Þannig tilgreini hið síðbúna vottorð meginhluta tekna stefnanda vera einhvers konar dagpeningagreiðslur. Þessara Per Diem-greiðslna sé ekki getið í ráðningarsamningi og ekkert liggi fyrir hvort þessar greiðslur sé endurgreiðsla á kostnaði. Að mati stefndu hefur þetta skjal ekkert sönnunargildi. Þar fyrir utan sé um ótrúverðuga skiptingu dagpeninga og launa að ræða. Efnislegur ágreiningur sé einungis sá hvort stefnandi hafi mátt draga frá tekjum sínum ferðakostnað í samræmi við dagpeningareglur ríkisskattstjóra. Að áliti stefnda skortir lagaheimild fyrir þessari kröfu. Eins og fram komi í endurákvörðun ríkisskattstjóra hafi stefnanda verið ákvarðaður frádráttur að álitum, þar sem litið hafi verið svo á að stefnandi hafi haft einhvern kostnað vegna starfa sinna. Við þessa ákvörðun hafi verið höfð hliðsjón af úrskurðum yfirskattanefndar nr. 583/1995 og 1085/1996. Öll framkvæmd skattyfirvalda varðandi mál stefnanda og samstarfsmanna hans hafi einkennst að því að gæta jafnræðis milli þeirra. Þannig hafi máli eins aðila verð flýtt, sbr. tilgreinda úrskurði yfirskattanefndar og þeir úrskurðir hafðir til hliðsjónar við ákvörðun frádráttar til handa öðrum starfsmönnum. Því hafi sambærilegar reglur verið hafðar um sambærilega tilvik. Vísað er á bug öllum tilvitnunum stefnanda til brota á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga. Auk þess sé vanreifað á hvern hátt ákvæði þessi eru brotin. Þar fyrir utan eigi tilgreind ákvæði ekki við í málinu, en ákvæði stjórnarskrárinnar snúi fyrst og fremst að borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum en ekki að efnahagslegum og félagslegum réttindum. Af hálfu stefnanda sé mótmælt beitingu 25% álags á vantaldar tekjur. Álag á vanframtaldar tekur stefnanda gjaldárið 1994 hafi verið fellt niður sbr. úrskurð ríkisskattstjóra frá 30. nóvember 1998. Eftir standi því álag á vantaldar tekjur gjaldárið 1993. Á skattframtali stefnanda hafi ekki verð gerð nein grein fyrir þeim framtalshætti sem hann viðhafði og upplýst var um við rannsókn málsins. Því er hafnað að fella niður álag það ár. Um reglur um frádrátt flugliða vegna dagpeningagreiðslna vegna ferðakostnaðar þeirra í þágu atvinnurekenda sinna vísar stefndi til almennra reglna um frádrátt frá dagpeningagreiðslum, en þær reglur gildi jafnt um flugliða sem og aðra sem fái greidda dagpeninga frá launagreiðanda sínum. Þá er einnig bent á að í bréfi ríkisskattstjóra dags. 15. apríl 1999, sé fjallað um núgildandi reglur um dagpeningafrádrátt flugliða vegna ferða á vegum vinnuveitanda. Vöxtum og upphafstíma vaxta er mótmælt en um vexti fari eftir 112. gr. tsk.. Að öðru leyti er vísað til skýrslu skattrannsóknarstjóra, bréf og úrskurða ríkisskattstjóra og úrskurða yfirskattanefndar. Varðandi málskostnað er vísað til 130. gr. eml. NIÐURSTAÐA Í málinu liggur frammi bréf frá Flight and Cabin Crew International, dagsett 26. janúar 1994, sem er fylgiskjal með rannsókn skattrannsóknarstjóra. Í bréfi þessu segir að greiðslur til stefnanda hafi verið samtals 32.106 bandaríkjadalir á árinu 1992. Stefnandi hefur lagt fram bréf sama aðila frá 28. febrúar 1996 þar sem segir að laun og "per diem" á árinu 1992 hafi verið samtals 32.106 bandaríkjadalir. Stefnandi heldur því fram að fjárhæð þessi sé hærri en nemi greiðslum til hans og ber fyrir sig yfirlit um innlegg á bankareikning sinn. Við úrlausn þessa verða upplýsingar launagreiðanda um greiðslur til stefnanda lagðar til grundvallar og þannig við það miðað að greiðslur til hans hafi numið samtals ofangreindri fjárhæð á árinu 1992 en ekki er deilt um fjárhæðir að öðru leyti. Samkvæmt 30. gr. laga nr. 75/1981, A lið, tölul. 1, má draga frá tekjum manna útgjöld sem eru að hámarki móttekin fjárhæð ökutækjastyrkja, dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað er að séu ferða- eða dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra, sbr. 116. gr. laga nr. 75/1981. Sérstakar matsreglur samkvæmt þessu lagaákvæði munu ekki hafa verið settar á þeim tíma er atvik máls þessa urðu. Í leiðbeiningum um útfyllingu skattframtals einstaklinga fyrir árin 1993 og 1994 segir að um frádrátt frá mótteknum dagpeningum gildi skattmat ríkisskattstjóra í staðgreiðslu, sem byggist á því að uppfyllt séu skilyrði 2. og 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, en reglugerð þessi er sett með heimild í 8. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 591/1987 er kveðið á um það að heimilt sé að halda utan staðgreiðslu dagpeningum og hliðstæðum endurgreiðslum á ferða- og dvalarkostnaði vegna launagreiðanda, sé fjárhæð þeirra innan þeirra marka sem leyfist til frádráttar samkvæmt reglum ríkisskattstjóra, sbr. 1. tölul. 30. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum. Eins og að framan segir voru reglur af þessu tagi ekki til á þeim tíma sem hér um ræðir. Í 3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir að heimildirnar til þess að halda dagpeningum og hliðstæðum endurgreiðslum á ferða- og dvalarkostnaði utan staðgreiðslu séu bundnar þeim skilyrðum að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda sem og hjá launamanni gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga eða eftir atvikum reikningar frá þriðja aðila, svo og nafn og kennitala launamanns. Í leiðbeiningunum um útfyllingu skattframtals árin 1993 og 1994 er rakið hverjar upphæðir má draga frá dagpeningagreiðslum í mismunandi tilvikum. Því er haldið fram af hálfu stefnanda að sá frádráttur sem hann tilgreinir á móti dagpeningum á framtali sínu 1994 og hann vill byggja á við álagningu á árinu 1993 sé í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra og er því ekki mótmælt af hálfu stefnda. Ljóst er að heimildin í 30. gr. A. 1 laga nr. 75/1981, til þess að draga frá tekjum manna, hvort heldur um er að ræða laun, dagpeninga, ökutækjastyrk eða ámóta greiðslur, útgjöld sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda, byggist á þeirri hugsun að launþega beri ekki að greiða skatt af þeim hluta launa sem rennur til þess að kosta öflun teknanna. Af nettótekjum sínum ber launþeganum hins vegar að greiða skatta og skiptir þá ekki máli með hvaða hætti þau hafa verið greidd, hvort þau hafa verið nefnd dagpeningar, ökutækjastyrkur eða eitthvað annað, nema þá komi til sérstakar frádráttarheimildir. Samkvæmt framtölum stefnanda hefur hann aðallega fengið greidda dagpeninga vegna dvalar sinnar í Finnlandi eða í 131 dag árið 1992 og í 194 daga árið 1993. Ágreiningur aðila snýst um það hvort stefnandi á rétt á því að draga frá frá tekjum sínum sömu fjárhæð og fram kemur í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um framtal einstaklinga. Stefnandi heldur því fram að svo sé. Málflutningur hans verður þó tæplega skilinn svo að hann telji að leiðbeiningar ríkisskattstjóra um framtal einstaklinga skapi einar og sér rétt til frádráttar heldur vegna þess að kostnaður eða útgjöld hans hafi a.m.k. numið þeim fjárhæðum sem í upphafi voru tilfærð í skattframtölum á móti fengnum dagpeningum og því frádrátturinn heimill skv. 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr 75/1981. Leiðbeiningarreglur ríkisskattstjóra skapa ekki sjálfstæðan rétt til frádráttar en skilyrði frádráttar eru lögbundin, sbr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Í leiðbeiningarreglunum er og um frádráttinn vísað til skattmats ríkisskattstjóra í staðgreiðslu á árunum 1992 og 1993 sem sagt er að byggist á því að uppfylla þurfi skilyrði 2. og 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 591/1987, en þau eru rakin hér að framan. Ríkisskattstjóri virðist þannig nota framangreinda tilvísun í stað þess að setja sérstakar reglur um mat á hlunnindum samkvæmt 116. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt 30. gr. laga nr. 75/1981, A-lið, tölul. 1, má eins og að framan segir draga frá tekjum manna útgjöld sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og verða útgjöldin að vera í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra, sem verður að skilja svo að þau megi ekki nema hærri fjárhæðum en þeim sem ríkisskattstjóri tiltekur í mati sínu og verði að fullnægja skilyrðum matsreglnanna að öðru leyti. Þá mega útgjöldin ekki nema hærri fjárhæð en þær greiðslur atvinnurekanda sem ætlað var að mæta þeim. Eins og fyrr er rakið hefur stefnandi engin gögn getað lagt fram um kostnað sinn vegna atvinnurekanda og engin gögn um það hver hluti af launum hans var greiddur sem dagpeningar. Hann hefur einungis tiltekið dvalardaga og margfaldar þá síðan með þeim tölum sem við eiga í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um framtal einstaklinga. Stefnandi hefur með þessum hætti, að því er virðist, ákveðið að mestu leyti sjálfur hver hluti af launum hans skuli teljast dagpeningar og hvað skuli koma þeim til frádráttar. Stefnandi hefur þannig á engan hátt fullnægt þeim skilyrðum til frádráttar frá tekjum sínum sem kveðið er á um í 30. gr. laga nr. 75/1981 og að framan eru rakin. Hins vegar eru af stefnda hálfu ekki gerðar athugasemdir við að frádrátt þann sem ríkisskattstjóri beitti við ákvörðun tekna stefnanda í úrskurði sínum frá 30. nóvember 1998 en á hinn bóginn er því mótmælt að hann sé jafnmikill og stefnandi sjálfur tiltekur. Þegar svo háttar til sem hér um ræðir verður að telja ríkisskattstjóra heimilt samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 að áætla tekjur stefnanda og að beita heimild í 2. mgr. 106. gr. svo sem hann hefur gert. Álagningu ríkisskattstjóra, verður að telja innan marka framangreindra valdheimilda. Fram kemur í málinu að við ofangreinda álagningu var höfð hliðsjón af úrskurðum yfirskattanefndar í málum sem snertu samstarfsmenn stefnanda þar sem málsatvik voru áþekk. Verður ekki annað séð en að meðferð mála þessara og efnisúrlausn hafi verið sambærileg og því engan vegin á það fallist að jafnræðisregla stjórnarskrár eða stjórnsýslulaga hafi verið brotin gagnvart stefnda. Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að sýkna ber stefnda af öllum kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður. Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn. Stefndi, íslenska ríkið, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Erlendar Birgis Blandon. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 574/2016 | Kærumál Gagnsök Frávísunarúrskurður staðfestur | S ehf. og L kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem gagnsök sem þau höfðuðu í máli L hf. á hendur þeim var vísað frá dómi. Við þingfestingu gagnsakar lögðu S ehf. og L fram aðra gagnstefnu en þá sem þau höfðu látið birta fyrir L hf. Hafði gagnsök því ekki réttilega verið höfðuð innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Þá uppfyllti gagnstefnan ekki skilyrði d. og e. liðar 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa gagnsök S ehf. og L frá héraðsdómi því staðfest. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I.Jónsson og Þorgeir Örlygsson.Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2016, enkærumálsgögn bárust réttinum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður HéraðsdómsReykjavíkur 12. júlí 2016, þar sem gagnsök er sóknaraðilar höfðuðu í málivarnaraðila á hendur þeim, var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr.143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess ífyrsta lagi að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrirhéraðsdóm að taka gagnsök til efnismeðferðar og í öðru lagi að kröfuvarnaraðila í aðalsök verði vísað frá héraðsdómi. Loks krefjast þeirkærumálskostnaðar.Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar ogkærumálskostnaðar.Mál varnaraðila gegn sóknaraðilum var þingfest í héraði 26. nóvember2015 og þá lögð fram stefna og dómskjöl nr. 2 til 32. Sóknaraðilar létu birtavarnaraðila gagnstefnu 15. desember sama ár, en er gagnsök skyldi þingfesta 16.janúar 2016 lögðu þeir fram gagnstefnu, sem var annars efnis en sú sem hafðiverið birt fyrir varnaraðila. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti meðvísan til forsendna héraðsdóms um þetta atriði, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.Sóknaraðilar greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorðigreinir.Dómsorð:Hinn kærði úrskurðurer staðfestur.Sóknaraðilar, Sellóehf. og Lárus Hinriksson, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónurí kærumálskostnað.Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur12.júlí 2016Málþetta, var höfðað 11. nóvember 2015. Stefnandi er Landsbankinn hf. kt. [...],Austurstræti 11, 155 Reykjavík. Stefndu eru Selló ehf., kt. [...],Gránufélagsgötu 31, 600 Akureyri og Lárus Hinriksson, kt. [...],Gránufélagsgötu 31, 600 Akureyri, f. h. félagsins og persónulega.Dómkröfurstefnanda eru þær að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn íveðrétt sem stefnandi á í eignarhluta stefnda Selló ehf. í fasteigninni aðGránufélagsgötu 10, fnr. 214-8927, Akureyri, samkvæmta)tryggingabréfinr. 0162-63-2331, útg. 06.09.2005, upphaflega að fjárhæð 8.200.000 krónur miðaðvið grunnvísitölu 243,2 stig, sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðsogb)tryggingabréfinr. 0162-63-620205, útg. 24.04.2006, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 krónurmiðað við grunnvísitölu 252,3 stig, sem breytist í samræmi við vísitöluneysluverðs ogc)tryggingabréfinr. 0162-63-620556, útg. 22.11.2006, upphaflega að fjárhæð 7.000.000 krónur,óverðtryggt, ogd)tryggingabréfinr. 0162-63-620815, útg. 15.05.2007, upphaflega að fjárhæð 8.000.000 krónurmiðað við grunnvísitölu 268,7 stig, sem breytist í samræmi við vísitöluneysluverðs, setttil tryggingar skuldum og fjárskuldbindum, útgefanda þeirra, Kraga ehf., kt. [...],við stefnanda, samkvæmt skuldabréfi nr. 0162-74-621085, samkvæmt yfirdrætti áveltureikningi nr. 0162-26-5690, samkvæmt yfirdrætti á veltureikningi nr.0162-26-6090, samkvæmt bankaábyrgð GI0100003731, útg. 16.04.2008 og samkvæmtlánssamningi nr. 8704, útg. 18.07.2007.Jafnframtgerir stefnandi þær dómkröfur að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnáminn í veðrétt sem stefnandi á í eignarhlutum stefnda, Lárusar Hinrikssonar ífasteigninni að Gránufélagsgötu 31, fnr. 226-3389, Akureyri samkvæmt,e)tryggingabréfinr. 0162-63-2382, útg. 09.12.2005, upphaflega að fjárhæð 10.000.000 króna,óverðtryggt, sett til tryggingar skuldum og fjárskuldbindingum Kraga ehf. kt. [...],við stefnanda samkvæmt skuldabréfi nr. 0162-74-621085, samkvæmt yfirdrætti áveltureikningi nr. 0162-26-5690, samkvæmt yfirdrætti á veltureikningi nr.016-26-6090, samkvæmt bankaábyrgð GI0100003731, útg. 16.04.2008 og samkvæmtlánssamningi nr. 8704, útg. 18.074.2007.Einniger krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og virðisaukaskatts afmálflutningsþóknun. Ígreinargerð stefndu um aðalsök sem lögð var fram þann 10. mars 2016, er gerðkrafa um sýknu af kröfum stefnanda. Þá er gerð sú krafa að gagnsök sé sameinuðaðalsök „og þessari greinargerð sem er samliggjandi gagnstefnu sem lögð varfram 14. janúar 2016.“ Þá gerir hvor stefndi fyrir sig kröfu um málskostnaðsamkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk þesssem stefndi Lárus gerir kröfu um að virðisaukaskatti verði bætt við málskostnaðef við eigi. Stefndu,Selló ehf. og Lárus Hinriksson List lögðu fram gagnstefnu í málinu þann 14.janúar 2016. Í gagnstefnu gerir hvor um sig þá kröfu að vera sýkn af kröfumgagnstefnda, Landsbankans hf.Þágera gagnstefnendur þá gagnkröfu að gagnstefnda verði gert að greiða gagnstefnendumskaða- og miskabætur, samtals 148.000.000 króna, eða að mati dómsins hámarksbætur, samkvæmt rökum og lögum sem nánar eru rakin í gagnstefnu. Einniger gerð sú krafa í gagnstefnu að gagnstefnandi, Selló ehf., fái endurgreidda þáfjárhæð „sem tekin var af sölu eignarinnar að Munkaþverárstræti 11 bls. 17 og18, auk vaxta til greiðsludags.“Gagnstefnendurlögðu fram viðauka við gagnstefnu þann 10. mars 2016. Þar er gerð sú krafa „aðgagnstefndu greiði samkvæmt dómi Héraðsdóms N.E. Bls. 9-11 Dæmd Málsvarnar launtil stefnanda Selló ehf. Kr. 525þús auk vaxta til greiðsludags.“Þágerir hvor gagnstefnandi kröfu um greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins,eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og gagnstefnandi Lárus gerirennfremur kröfu um að virðisaukaskatti verði bætt við málskostnað. Ígreinargerð gagnstefnda, Landsbankans hf. er aðallega gerð sú krafa að kröfumgagnstefnenda í gagnstefnu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaðuraf öllum kröfum gagnstefnenda og í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað aðskaðlausu úr hendi gagnstefnenda að teknu tilliti til virðisaukaskattskyldulögmanna. Viðfyrirtöku málsins þann 25. maí sl. var ákveðið að munnlegur málflutningur færifram um frávísunarkröfur gagnstefnda. Við munnlegan málflutning komu framkröfur gagnstefnenda um frávísun aðalkröfu auk þess sem þess var krafist aðfrávísunarkröfum gagnstefnda væri hrundið. Að undangengnum munnlegummálflutningi þann 27. júní sl. var málið tekið til úrskurðar.IGagnstefndibyggir kröfu sína um frávísun gagnstefnu í fyrsta lagi á því að frestur sá sem2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991 áskilur til málshöfðunar,hafi verið liðinn þegar óbirt gagnstefna hafi verið lögð fram í dómi þann 14.janúar 2016. Ekki hafi verið lögð fram sama gagnstefna og birt var fyrirgagnstefnda þann 15. desember 2015 og ekki væru gerðar sömu kröfur í þeimgagnstefnum. Íöðru lagi byggir gagnstefndi á því að málatilbúnaður gagnstefnanda uppfyllialls ekki áskilnað stafliða d. og e. í 1. mgr. 80. gr. laga um meðferðeinkamála. Þannig sé sýknukrafa í gagnstefnu óviðeigandi, kröfur um skaðabæturog miskabætur lítt eða ekki rökstuddar og engum eiginlegum gögnum studdar aukþess sem ekki sé tiltekin fjárhæð sem endurgreiðslu sé krafist á. Þá ægi öllusaman í umfjöllun um málsatvik og málsástæður í löngu máli, sem og skriflegum málflutningi,enda sé gagnstefnan 17 blaðsíður að lengd. IIStefnduí aðalsök telja að málinu hafi ekki verið stefnt inn á rétt varnarþing. Stefndueigi lögheimili á Akureyri og ekki hafi verið um það samið sbr. ákvæði 3. mgr.42. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að málið væri tekið fyrir íHéraðsdómi Reykjavíkur og þar af leiðandi beri að vísa aðalsök frá dómi. Einnigeigi við ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála þar sem krafastefnenda sé öfugsnúin og megi líkja því við að fá mann dæmdan fyrir morð enþað eigi eftir að sanna að einhver hafi verið myrtur. Algerlega sé ósannað aðaðalstefndu séu í skuld við aðalstefnanda og því beri að vísa málinu frá dómi.Gagnstefnendurgera jafnframt þá kröfu að hafnað verði frávísun gagnstefnu frá dómi. Gagnstefnahafi verið birt fyrir gagnstefnda með því að lögmaðurinn Ólafur Rúnar Ólafssonhrl. hafi undirritað hana þann 15. desember 2015. Hafi gagnstefnendur átt von áþví að sá lögmaður yrði viðstaddur við þingfestingu gagnstefnunnar þann 14.janúar 2016 eða Bjarni Þór Óskarsson hrl. Hvorugur hafi hins vegar veriðviðstaddur en annar lögmaður hafi mætt fyrir hönd gagnstefnda og auk þess aðstoðarmaðurdómara. Hafi gagnstefnan verið móttekin af þeim athugasemdalaust og eigi þvívið ákvæði 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála. Viðkomandi aðilar hefðu áttað gera athugasemdir strax við þingfestingu gagnstefnunnar, eins og fram komi í5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála. Það hafi aðstoðarmaður dómara ekkigert og ekki lögmaður gagnstefnda og því hafi gagnstefnendur talið aðsamkomulag væri um framlagningu gagnstefnunnar skv. 2. mgr. 28. gr. laga ummeðferð einkamála. Krafa um frávísun málsins sem fyrst hafi komið fram þann 7.apríl 2016, hafi þannig verið of seint fram komin og sé vanreifuð. Sérstaklegaberi að horfa til þess að gagnstefnandi Lárus sé ólöglærður og því hafi veriðenn ríkari krafa skv. 4. mgr. 104. gr. laga um meðferð einkamála að upplýsagagnstefnanda um formhlið málsins við þingfestingu gagnstefnunnar. Gagnstefnendurtelja jafnframt að ekki sé um tvær gagnstefnur að ræða þótt orðalag þeirra séekki nákvæmlega það sama. Sömu rök og gögn væru að baki báðum gagnstefnum. Gagnstefnendurtelja einnig að ekki sé óviðeigandi að geta í gagnstefnu að gagnstefnendurkrefjist þess að vera sýknir af aðalsök. Einnig komi skýrt fram í dómkröfu gagnstefnuað krafist sé 148.000.000 króna í bætur og liggi ljóst fyrir á hvaða forsendum súkrafa sé gerð og að sú krafa tengist aðalsök málsins og megi tala um„síamstvíbura“ í því sambandi. IIIFramkom í munnlegum málflutningi hjá stefndu í aðalsök, að málinu sé ekki stefntinn á rétt varnarþing. Íákvæðum þeirra tryggingabréfa sem um getur í kröfu stefnanda er kveðið á um aðrísi mál út af skuld eða veðsetningu bréfanna, megi reka þau mál fyrirHéraðsdómi Reykjavíkur. Stefndu mættu við þingfestingu málsins í HéraðsdómReykjavíkur þann 26. nóvember 2015, án athugasemda um varnarþing og lögðu síðarfram greinargerð um aðalkröfu auk þess að gagnstefna í málinu. Málið telst þvírekið fyrir réttu varnarþingi. Aðalstefndutelja jafnframt ósannað að þeir séu í einhverri skuld við stefnanda og því beriað vísa málinu frá dómi skv. 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála. Ímálinu er ekki gerð fjárkrafa á hendur aðalstefndu, heldur er gerð krafa um aðstefnanda verði fyrir dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt nánar tiltekinnatryggingarbréfa áhvílandi á fasteignum stefndu. Er því ekki fallist á frávísunmálsins á framangreindum forsendum um að réttindi eða skyldur séu enn ekkiorðin til. Gagnstefnditelur að gagnstefna sú sem þingfest var þann 14. janúar 2016, hafi komið ofseint fram. Ekki hafi verið um sömu gagnstefnu að ræða og birt var honum þann15. desember 2015 og því hafi gagnsök ekki verið höfðuð innan mánaðar fráþingfestingu aðalsakar. Gagnstefndi lagði fram afrit þeirrar gagnstefnu sembirt var, sbr. dskj. nr. 79. Fallist er á það með gagnstefnda að ekki er umsömu gagnstefnu að ræða. Þá liggur ekki fyrir að gagnstefnan sem þingfest var14. janúar 2016 hafi verið birt fyrir gagnstefnda. Ígagnkröfu gagnstefnenda sem lögð var fram þann 10. mars 2016, sem viðauki við fyrrigagnstefnu, sbr. dskj. nr. 77, virðist krafist dóms um málsvarnarlaun semákveðin voru í úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, í máli nr. Y-4/2012 ogkveðinn var upp þann 14. október 2015. Ekkiliggur fyrir í málinu að samkomulag hafi verið gert um framlagningu gagnkrafna áþann hátt sem gert var. Ekki er fallist á það með gagnstefnendum að þar semekki hafi verið gerðar athugasemdir í þinghaldi þann 14. janúar 2016, hafigagnstefnendur mátt líta svo á að sátt væri um framlagningu hennar og aðmótmæli af hálfu gagnstefnda eftir það hafi verið of seint fram komin. Gagnstefndifékk frest til framlagningar greinargerðar. Í greinargerð hans kom fram krafaum frávísun gagnkrafna og því komu málsástæður og mótmæli fram jafnskjótt ogtilefni var til, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála. Meðvísan til framangreinds var gagnsök sú sem þingfest var þann 14. janúar 2016, oggagnsök í viðauka þann 10. mars 2016, ekki höfðuð innan mánaðar fráþingfestingu aðalsakar sbr. 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr.91/1991 og ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa gagnkröfum gagnstefnenda frádómi. Gagnstefnditelur jafnframt að gagnkröfur uppfylli ekki ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga ummeðferð einkamála, einkum d. og e. liða. Í gagnstefnu er krafist bæði skaða- ogmiskabóta. Ekki liggur fyrir sundurliðun á fjárhæðum milli skaðabótakröfuannars vegar og miskabótakröfu hins vegar. Ekki liggur fyrir hvort gagnstefndukrefjist hvor um sig þeirrar fjárhæðar sem um getur í kröfunni eða þá hvernigsú fjárhæð eigi að skiptast milli aðila yrði hún dæmd. Um þá gagnkröfu stefnandaer varðar eignina að Munkaþverárstræti 11 er ekki getið um hvaða fjárhæðar erkrafist endurgreiðslu á og jafnframt er vísað til blaðsíðutals án nánariskýringar. Þá er gerð krafa um vexti án þess að geta af hvaða fjárhæðum erkrafist vaxta af eða upphafsdags þeirra.Gagnstefnendurnutu leiðbeiningarskyldu. Að mati dómsins er framangreind kröfugerðgagnstefnenda það óákveðin að hún uppfyllir ekki ákvæði d.liðar 1. mgr. 80. gr.laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ígagnstefnu málsins eru jafnframt óþarfa málalengingar sem valda því að óljóster á hvaða málsástæðum gagnstefnendur byggja málsókn sína þannig að samhengimálsástæðan sé ljóst og í reynd er um skriflegan málflutning að ræða. Uppfyllirgagnstefnan því að mati dómsins ekki ákvæði e.liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála. Meðvísan til framangreinds er gagnkröfum gagnstefnenda sem fram koma í gagnstefnusem þingfest var þann 14. janúar 2016, sbr. dskj. nr. 33 og í viðauka viðgagnstefnu í dskj. nr. 77, sem lagt var fram þann 10. mars 2016, vísað frádómi. Réttþykir að ákvörðun málskostnaðar vegna frávísunarkrafna bíði efnisdóms í málinu.Úrskurðþennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.Ú R S K U R Ð A R O R Ð:Vísaðer frá dómi gagnkröfum gagnstefnenda í máli þessu. Ákvörðunum málskostnað bíður efnisdóms. |
Mál nr. 44/2017 | Kærumál Kröfugerð Lögvarðir hagsmunir Frávísun frá héraðsdómi að hluta | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu þb. G á hendur Y ehf. um að félaginu yrði gert að afsala til búsins tiltekinni fasteign. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að eftir að G hafði afsalað fasteigninni til Y ehf. hefði hún verið veðsett yfir verðmæti sitt. Lægi þannig fyrir að yrði fallist á framangreinda kröfu þb. G væru áhvílandi á eigninni nýjar skuldir Y ehf. sem næmu hærri fjárhæð en aðilar teldu vera markaðsvirði hennar. Skorti þb. G því lögvarða hagsmuni af því að fá fasteigninni afsalað til sín. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir MarkúsSigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru17. janúar 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður erúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017 þar sem vísað var frá dómi kröfusóknaraðila á hendur varnaraðila um að honum yrði gert að afsala til sóknaraðilafasteigninni Ystaseli 28 í Reykjavík. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr.laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrirhéraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar íhéraði og kærumálskostnaðar.Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar og kærumálskostnaðar.Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðarverður hann staðfestur.Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilakærumálskostnað eins og í dómsorði greinirDómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Sóknaraðili, þrotabú GyðuBrynjólfsdóttur, greiði varnaraðila, Ystaseli 28 ehf., 350.000 krónur íkærumálskostnað.ÚrskurðurHéraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017.Mál þetta, sem höfðað var 2. maí sl., var tekið tilúrskurðar um frávísunarkröfu stefnda, Ystasels 28 ehf., Ystaseli 28, Reykjavík,14. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi. Stefnandi málsins er þrotabúGyðu Brynjólfsdóttur, Ystaseli 28, Reykjavík, sem mótmælir kröfu stefnda umfrávísun. Báðir aðilar hafa uppi kröfu um málskostnað.Bú Gyðu Brynjólfsdóttur var tekið tilgjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 18. nóvember 2015. Málið hefurskiptastjóri, fyrir hönd þrotabúsins, höfðað til riftunar á sölu þrotamanns áfasteigninni að Ystaseli 28, Reykjavík, til stefnda samkvæmt afsali 13. febrúar2015, en söluverð samkvæmt afsalinu nam 54 milljónum króna. Taldist það aðfullu greitt samkvæmt afsalinu, en kaupandi tók yfir áhvílandi veðskuldir áfyrsta veðrétti við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, upphaflega að fjárhæðfjórar milljónir króna, veðskuldir á öðrum veðrétti við Íslandsbanka hf.,upphaflega að fjárhæð 12.411.000 krónur, og veðskuldir á þriðja veðrétti semvoru fjögur tryggingarbréf til handhafa, samtals að fjárhæð 32 milljónir króna.Aðrar áhvílandi veðkröfur voru sagðar greiddar upp við afsalið. Í efnisþætti málsins krefst stefnandiþess að rift verði með dómi fyrrgreindri ráðstöfun og, aðallega, að stefndiverði dæmdur til að afsala fasteigninni til stefnanda, en til vara er þess krafist að stefndi verðidæmdur til að greiða stefnanda 54 fjórar milljónir króna , ásamt nánartilteknum dráttarvöxtum. Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að um hafiverið að ræða gjafagerning til nákomins aðila samkvæmt 131. gr. laga nr.21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Það sé rangt sem staðhæft sé í afsalinu aðkaupverðið hafi verið að fullu greitt og stefndi yfirtekið áhvílandiveðskuldir. Þá liggi ekkert fyrir um að raunverulegar skuldir búi að baki þeimfjórum tryggingarbréfum sem hvíldu á eigninni og liggi beinast við að álykta aðum málamyndagerninga hafi verið að ræða. Í öllu falli verði að leggja tilgrundvallar að áhvílandi skuldir hafi verið miklu lægri en verðmætifasteignarinnar. Krafa um afhendingu fasteignarinnar byggist á 144. gr. laganr. 21/1991 og er vísað til þess að ekkert sé því til fyrirstöðu að eigninni séskilað. Greiðslukrafa stefnanda byggist á 142. gr. sömu laga.Af hálfu stefnda er krafist sýknu íefnisþætti málsins. Er í meginatriðum vísað til þess að um hafi verið að ræðasölu eignarinnar á eðlilegu verði. Lögð er á það áhersla að eignin hafi veriðyfirveðsett og hafi ráðstöfunin með engum hætti leitt til þess að eignin hafiekki staðið veðhöfum eða öðrum kröfuhöfum til fullnustu. Því er mótmælt að ekkihafi verið raunverulegar skuldir að baki áðurgreindum tryggingarbréfum.Frávísunarkrafa stefnda er ímeginatriðum á því reist að eignin sé yfirveðsett. Ef fallist yrði á aðalkröfustefnanda í málinu hefði það því engin áhrif á hag þrotabúsins eða veðhafaYstasels 28. Málsókn stefnanda hafi því ekki að markmiði að leysa úrraunverulegum ágreiningi og skorti stefnanda lögvarða hagsmuni af kröfu sinni.Þessum sjónarmiðum er mótmælt af hálfu stefnanda.NiðurstaðaEkki er um það deilt að söluverðfasteignarinnar að Ystaseli 28 nam 54 milljónum króna við afsal hennar tilstefnda 13. febrúar 2015. Ekki er heldur um það ágreiningur að téð verð hafiverið eðlilegt markaðsverð. Af gögnum málsins verður dregin sú ályktun að þegarbú Gyðu Brynjólfsdóttur var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms18. nóvember 2015 hafi þær veðskuldir sem fram komu í afsali, og áður er gerðgrein fyrir, enn verið áhvílandi á eigninni. Samkvæmt nýleguþinglýsingavottorði sem stefndi hefur lagt fram hvílir hins vegar nú áfasteigninni, á fyrsta veðrétti, veðskuld að fjárhæð 45 milljón króna við ALMverðbréf hf., áðurgreind tryggingarbréf að fjárhæð 32 milljónir og loksveðskuld við ARM Securities Ltd. að fjárhæð 35 milljónir króna. Veðskuldir áfyrsta og þriðja veðrétti voru stofnaðar eftir að búið var tekið til gjaldþrotaskiptaog eru skjöl vegna þeirra árituð um mótttöku til þinglýsingar eftir útgáfustefnu málsins. Jafnvel þótt horft sé fram hjá umræddumfjórum tryggingarbréfum, sem stefnandi telur enga skuld standa á bakvið, ersamkvæmt áðurgreindu ljóst að eftir söluna til stefnda hefur eignin veriðveðsett langt umfram verðmæti sitt. Liggur þannig fyrir að ef fallist yrði áaðalkröfu stefnanda þess efnis að eigninni yrði afsalað aftur til hans væruáhvílandi á eigninni nýjar skuldir stefnda sem næmu hærri fjárhæð en það semaðilar telja vera markaðsverð hennar. Verður því að fallast á það með stefndaað stefnanda, sem þrotabú, skorti lögvarða hagsmuni af því að fá eigninniafsalað til sín, eins og atvik málsins liggja nú fyrir. Er því óhjákvæmilegt aðvísa kröfu stefnanda þar að lútandi frá dómi af þessum sökum.Varakrafa stefnanda, samhliða kröfu umriftun, gerir ráð fyrir því að stefndi greiði fjárhæð sem svarar til verðmætifasteignarinnar með vísan til 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskiptio.fl. Svo sem áður greinir byggist krafan á því að ekkert endurgjald hafi komiðfyrir eignina úr hendi stefnda en því er þó hreyft í stefnu að þær skuldir semstefndi yfirtók hafi í öllu falli verið mun lægri en raunverulegt verðmætieignarinnar. Við munnlegan flutning umfrávísunarkröfu kom fram af hálfu stefnda að hann hefði í reynd tekið yfir öllframangreind lán sem vísað væri til í afsali. Þar sem hann, sem einkahlutafélaghafi ekki getað tekið yfir húsnæðislán á fyrsta og öðrum veðrétti, hafi veriðtekið nýtt lán til þess að greiða þessi lán upp og væri þar um að ræða þáveðskuld að fjárhæð 45 milljónir króna við ALM verðbréf hf. sem nú hvílir áfyrsta veðrétti eignarinnar. Við munnlegan flutning var einnig staðfest aðhvorki Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins né Íslandsbanki hf. væru meðalkröfuhafa í búinu og væri líklega ástæða þess að veðskuldir við þá hefðu veriðgreiddar upp. Með hliðsjón af þessu útilokaði skiptastjóri ekki að frekarikönnun á atvikum málsins myndi leiða til lækkunar greiðslukröfu stefnanda. Hinsvegar ítrekaði skiptastjóri þá afstöðu stefnanda að á bakvið umræddtryggingarbréf stæðu engar raunverulegar skuldir auk þess sem gerður varfyrirvari við skuldabréf ARM Securities Ltd. að fjárhæð 35 milljónir króna.Að mati dómsins hljóta málsástæðurstefnda á þá leið að hann hafi innt af hendi hagsmuni og fullt endurgjaldi meðþví að taka yfir framangreindar veðskuldir við sölu eignarinnar að Ystaseli 28,þ.á m. samkvæmt fjórum áðurlýstum tryggingarbréfum, að koma til skoðunar þegartekin er afstaða til þess hvort í umræddri ráðstöfun hafi í reynd falistgjafagerningur, að hluta eða í heild, í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 semleiða eigi til greiðslukröfu gagnvart stefnda samkvæmt nánari reglum 142. gr.laganna. Eins og atvikum málsins er háttað getur ekki skipt máli í því sambandiþótt vafi sé uppi um endanlega fjárhæð greiðslukröfu stefnanda. Er því kröfustefnda um frávísun málsins hafnað að öðru leyti en að framan greinir.Ákvörðun um málskostnað bíður dóms ímálinu.Af hálfu stefnda flutti málið HeiðarÁsberg Atlason hrl.Af hálfu stefnanda flutti málið EinarHugi Bjarnason hrl.Skúli Magnússon kveður upp úrskurðþennan.Úrskurðarorð:Kröfu stefnanda, þrotabús Gyðu Brynjólfsdóttur, um aðstefndi, Ystasel 28 ehf., verði dæmdur til að afsala fasteigninni Ystaseli 28ásamt öllum tilheyrandi réttindum, þ.m.t. lóðarréttindum aftur til stefnanda,er vísað frá dómi. Að öðru leyti er kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað. |
Mál nr. 464/2017 | Stjórnvaldsákvörðun Málefni fatlaðra Stjórnarskrá Miskabætur Flýtimeðferð Gjafsókn | Á krafðist þess að ógilt yrði ákvörðun S þar sem beiðni hennar um endurgjaldslausa túlkaþjónustu var hafnað, en þjónustunnar var óskað í tengslum við fyrirhugaða dvöl Á í ungmennasumarbúðum fyrir daufblind ungmenni á Norðurlöndum sem starfræktar voru í Svíþjóð. Þá krafðist hún jafnframt miskabóta með vísan til þess að ákvörðunin hefði falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hennar, sem bakaði S og Í skaðabótaskyldu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var með vísan til forsendna í Hæstarétti, var lagt til grundvallar, með vísan til 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr. hennar, að einstaklingar sem byggju við fötlun líkt og Á ættu stjórnarskrárvarinn rétt á því að þeim væri í lögum tryggð ákveðin lágmarksaðstoð án tillits til efnahags. Þá var rakið að samkvæmt 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar væri ekki heimilt að inna af hendi gjald nema heimild væri til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í ákvörðun S hefði komið fram að kostnaður vegna þjónustunnar hefði numið 18% af því fé sem til umráða var fyrir tímabilið júlí til september 2017. Hefði verið vísað til þess að veiting þjónustunnar orðið til þess að fjármagn til þjónustunnar hefði hvorki enst út framangreint tímabil né virt jafnræði notenda hennar. Hefði niðurstaðan verið í samræmi við ákvæði 2. gr. gjaldskrár nr. 444/2013 sem kvað á um að heimilt væri að veita þjónustuna á grundvelli sérstakrar fjárveitingar í fjárlögum ár hvert. Ekki yrði séð miðað við fjárveitingar til verkefnisins að neinu hefði breytt um niðurstöðu S þótt þjónustan hefði verið veitt hér á landi og var því ekki tekin afstaða til þess hvort heimilt væri að greiða fyrir túlkaþjónustu sem fram færi erlendis. Var Á ekki talin hafa sýnt fram á að S hefði brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og þá yrði ekki séð hvernig setning sérstakrar reglugerðar hefði aukið möguleika Á á úthlutun þegar litið væri til þess fjármagns sem veitt væri í málaflokkinn. Þá hefðu aðstæður Á og þarfir hennar fyrir táknmálstúlkun sérstaklega verið kannaðar. Hefði synjun S byggt á málefnalegum rökum og verið í samræmi við settar reglur að teknu tilliti til þess fjármagns sem til ráðstöfunar var. Þar sem engir meinbugir hefði verið á ákvörðuninni sem leiða ættu til ógildingar hennar var kröfu Á að þessu leyti hafnað, enda væri það ekki á valdi dómstóla að mæla fyrir um fjárveitingar, sbr. 2., 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar. Voru S og Í því sýknuð af kröfu Á. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, MarkúsSigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.Áfrýjandi skautmálinu til Hæstaréttar 19. júlí 2017. Hún krefst þess að ógilt verði ákvörðunstefndu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra frá 8. júní 2017,þar sem beiðni áfrýjanda um tiltekna endurgjaldslausa túlkaþjónustu var hafnað,og að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 1.000.000 krónur meðdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu frá 21. júní 2017 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar íhéraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur veriðveitt. Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðarfyrir Hæstarétti, en til vara að fjárkrafa áfrýjanda verði lækkuð ogmálskostnaður felldur niður.Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 ummeðferð einkamála.Það athugast að í máli þessu var áfrýjanda ekki þörf á að stefnaSamskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra samhliða íslenska ríkinu. Þá áttihéraðsdómur ekki við ákvörðun um gjafsóknarkostnað að taka afstöðu til útlagðskostnaðar áfrýjanda. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hinsáfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Rétt er að málskostnaður milli aðila fyrir Hæstarétti falli niður, en umgjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur skal veraóraskaður.Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellurniður.Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda,Áslaugar Ýrar Hjartardóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar meðtalin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.DómurHéraðsdóms Reykjavíkur 14. júlí 2017. Málþetta, sem dómtekið var 10. júlí sl., er höfðað með stefnu birtri 21. júní sl. Stefnandier Áslaug Ýr Hjartardóttir, kt. [...], Háaleitisbraut 129, Reykjavík. Stefndueru Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, kt. [...], Grensásvegi 9,Reykjavík og íslenska ríkið og fyrir þess hönd er stefnt fjármálaráðherra ogmennta- og menningarmálaráðherra. Dómkröfurstefnanda eru þær að stjórnvaldsákvörðun stefnda Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausraog heyrnarskertra, dags. 8. júní 2017, þar sem beiðni stefnanda umendurgjaldslausa túlkaþjónustu var synjað, verði ógilt með dómi. Þá krefststefnandi þess að stefndu verði sameiginlega (in solidum) gert að greiðastefnanda 1.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi tilgreiðsludags. Stefnandi krefst þess einnig að stefndu greiði henni sameiginlega(in solidum) málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að matidómsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókní máli þessu með leyfi dómsmálaráðuneytisins dagsettu 27. júní 2017 og ergjafsóknin takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Við matið verði jafnframttekið mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyld. Dómkröfurstefndu eru þær að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og aðstefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins. Til vara erkrafist lækkunar fjárkröfu og að málskostnaður verði felldur niður. Málþetta sætir flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 ummeðferð einkamála. Með bréfi dómstólaráðs dagsettu 20. júní sl. var dómaranumfalið mál þetta til meðferðar. Málavextir. Stefnandikveðst vera með arfgengan taugahrörnunarsjúkdóm sem fyrst hafi gert vart viðsig þegar stefnandi var á barnsaldri. Hafi sjúkdómurinn ágerst þannig aðstefnandi hafi fyrst misst heyrnina, síðan hafi farið að bera á skertu jafnvægiog sjónmissi sem leitt hafi til lögblindu. Hafi jafnvægið haldið áfram aðskerðast og hafi stefnandi verið háð hjólastól í mörg ár. Stefnandi sé fötluð ískilningi 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, hún geti ekkiskilið talmál vegna heyrnarskerðingar sinnar en hún tali íslensku vel. Húnþurfi táknmál í daglegum samskiptum en vegna lögblindunnar þurfi viðmælendur aðvera hæfilega nálægt til að hún sjái táknin. Þá sjái hún hendurnar illa efdimmt er eða viðmælandi klæðist ljósum litum. Hún geti aðeins haft samskipti viðeinn í einu og af og til þurfi hún að fara óhefðbundnar leiðir til að komastyfir hindranir í samskiptum, svo sem með notkun snertitáknmáls. Öll þátttakahennar í daglegu lífi sé háð því að hún njóti aðstoðar túlks og án hans séhenni ómögulegt að eiga samskipti við annað fólk. Stefnandi hafi varðanditúlkaþjónustu meðal annars leitað til hinnar stefndu samskiptamiðstöðvar, hér áeftir SHH, en þessi stefndi sé ríkisstofnun sem heyri undir mennta- ogmenningarmálaráðuneytið og meðal verkefna stofnunarinnar sé að veitaendurgjaldslausa táknmálstúlkun. Stefnandikveðst í lok sumars árið 2016 hafa fengið upplýsingar um að ungmennasumarbúðirfyrir daufblind ungmenni á Norðurlöndum yrðu starfræktar í Svíþjóð dagana17.-24. júlí 2017. Þátttakendur í búðunum, sem séu sérhannaðar að þörfumdaufblindra einstaklinga, séu allir daufblind ungmenni á sama reki ogstefnandi. Hafi legið fyrir frá upphafi að ætlaði stefnandi sér að taka þátt ísumarbúðunum yrði hún að njóta aðstoðar túlks. Hafi stefnandi því óskað eftir túlkaþjónustuhjá stefnda SHH þann 25. ágúst 2016 en erindinu hafi ekki verið svarað fyrr en16. desember sama ár. Í svarinu sé tekið fram að það hafi komið skýrt fram hjámenntamálaráðuneytinu að fé til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu úr félagslegumsjóði yrði einungis veitt til túlkaþjónustu innanlands. Yrði stefnandi þvísjálf að greiða fyrir túlkaþjónustuna ásamt ferðakostnaði, gistingu oguppihaldi fyrir túlkana. Stefnandi hafi í kjölfarið sent formlega beiðni umendurgjaldslausa túlkaþjónustu hjá stefnda SHH en beiðninni hafi verið hafnað28. mars sl. Hafi verið tekið fram í svarinu að á stefnda SHH hvíldi sú skyldaað gæta jafnræðis milli notenda þjónustunnar og þá yrði þessi stefndi að sjátil þess að fjárveitingar til stofnunarinnar myndu endast. Þá hafi verið vísaðtil þess að túlkaþjónusta sem fram færi erlendis væri mun dýrari en innlendtúlkaþjónusta. Stuttu eftir þetta hafi komið í ljós að forsvarsmenn búðannahafi verið reiðubúnir að greiða allan ferða- og dvalarkostnað túlkanna. Hafistefnandi aftur haft samband við stefnda SHH og óskað eftir kostnaðaráætlunvegna launakostnaðar fjögurra túlka í tengslum við fyrirhugaða dvöl stefnanda íSvíþjóð. Hafi kostnaðaráætlunin verið byggð á gjaldskrá stefnda SHH og numiðu.þ.b. einni og hálfri milljón króna. Hafi stefnandi aftur haft samband viðþennan stefnda og gert grein fyrir hinum breyttu forsendum en erindinu hafiverið hafnað 8. júní sl., en þar er um að ræða þá stjórnvaldsákvörðun semstefnandi krefst að verði ógilt. Í ákvörðuninni kemur fram að ekki sé gert ráðfyrir ferðakostnaði erlendis í fjárframlagi til endurgjaldslausrartúlkaþjónustu. Þá kemur fram að ekki væri fallist á að veita umræddatúlkaþjónustu í Svíþjóð þar sem slík ákvörðun hefði orðið til þess að fjármagnsem ætlað sé til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu fyrir tímabilið júlí tilseptember hefði hvorki enst út fjórðungstímabilið né hefði jafnræði notendaverið virt. Málsástæðurog lagarök stefnanda. Stefnandi byggir á því aðstjórnvaldsákvörðun stefnda SHH, sem sé undirstofnun mennta- ogmenningarmálaráðuneytisins, sbr. 3. og 4. gr. laga nr. 129/1990, hafi brotið íbága við stjórnarskrárvarinn rétt hennar samkvæmt 1. mgr. 76. gr.stjórnarskrárinnar, ákvæði alþjóðasáttmála og meginreglur stjórnsýsluréttar. Afþessum sökum sé ákvörðunin ógildanleg. Þá byggir stefnandi á því að stefnduhafi vanrækt að setja upp reglur og byggja upp kerfi sem miði að því að tryggjastefnanda viðhlítandi aðstoð í samræmi við kröfur 76. gr. stjórnarskrárinnar.Hafi þessi vanræksla dregið úr lífsgæðum stefnanda og stuðlað að aukinnifélagslegri einangrun hennar. Feli þetta í sér ólögmæta meingerð gegn persónustefnanda sem baki stefndu sameiginlega bótaskyldu á grundvelli 26. gr. laganr. 50/1993. Þá er einnig byggt á því að brotið hafi verið gegn málsmeðferðarreglumstjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku umræddrar ákvörðunar sem og almennumreglum stjórnsýsluréttar, t.d. um skyldubundið mat og lögmætisreglu. Stefnandi byggir á því að mikilvægijafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar felist ekki aðeins í því að veraalmenn leiðbeiningarregla um bann við mismunun í lagasetningu, heldur tengisthún jafnframt skýringu laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Ef um sé að ræða mismununmilli aðila verði hún að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og allartakmarkanir á mannréttindum verði að skýra þröngt. Um sé að ræða mjög mikilvægmannréttindi stefnanda, þ.e. réttinn til að eiga samskipti við annað fólk, þarmeð talið að stunda félagslíf og tómstundir til jafns við aðra. Lagt hafi veriðtil grundvallar í dómaframkvæmd að einstaklingar sem búi við sömu líkamlegufötlun og stefnandi eigi stjórnarskrárvarinn rétt á að í lögum sé þeim tryggðákveðin lágmarksaðstoð túlks án tillits til efnahags. Það falli í skaut stefndaSHH að sjá stefnanda fyrir þessari lágmarksaðstoð samkvæmt almennum lögum ogstjórnvaldsfyrirmælum. Samkvæmt lögum nr. 129/1990 sé eitt af hlutverkumstefnda SHH að annast táknmálstúlkun en ekki sé mælt fyrir um í hvaða tilvikumskuli veita slíka þjónustu. Í 4. gr. reglugerðar nr. 1058/2003 sé tekið fram aðeitt af verkefnum stefnda SHH sé að veita endurgjaldslausa táknmálsþjónustusamkvæmt nánari ákvæðum í gjaldskrá. Í gjaldskrá nr. 444/2013 sé tekið fram aðstefnda SHH sé heimilt að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegslífs og greiða ferðakostnað táknmálstúlks utan Reykjavíkursvæðisins ágrundvelli sérstakrar fjárveitingar í fjárlögum ár hvert. Þá sé tekið fram aðvið afgreiðslu beiðna á grundvelli þessarar heimildar skuli gætt jafnræðismilli notenda þjónustunnar með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem sé tilráðstöfunar á hverjum tíma. Ekki sé skilgreint hvenær einstaklingar eigi rétt áendurgjaldslausri túlkaþjónustu. Það falli því í skaut stefndu að afmarka ogskilgreina þau tilvik sem kalli á að slík þjónusta sé veitt en ekki hafi veriðbirt nein viðmið í þeim efnum. Af þessu leiði að stefnda SHH sé falið aðafmarka umfang þeirrar lágmarksaðstoðar sem notendur þjónustunnar skuli eigarétt á. Slíkt framsal telur stefnandi að samrýmist ekki þeim kröfum sem leiðiaf 76. gr. stjórnarskrárinnar og vegi að réttaröryggi notenda. Stefnda SHH hafiverið úthlutaðir 870 tímar fyrir tímabilið frá og með júlí 2017 til og meðseptember sama ár og eigi þessir tímar að duga til endurgjaldslausrartúlkaþjónustu fyrir 250 einstaklinga. Dugi hin takmarkaða fjárveiting tilstefnda SHH til að greiða fyrir 84 mínútur á mánuði fyrir hvern af þessumeinstaklingum. Miðað við sömu forsendur ætti stefnandi rétt á u.þ.b. 17klukkutímum af endurgjaldslausri túlkaþjónustu á þessu ári. Megi leiða að þvílíkur að allar beiðnir sem kalli á þjónustu túlks til lengri tíma myndi vega aðjafnræði notenda og ætti því að hafna slíkum beiðnum. Stefnanda kveðst ekkivera ljóst hvar mörkin liggja í þessum efnum en ljóst sé að þetta fyrirkomulagkomi í veg fyrir að hún njóti þeirrar lágmarksaðstoðar sem hún eigi rétt ásamkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Synjun stefnda SHH á beiðnistefnanda sé ósamrýmanleg þeim rétti sem hún eigi samkvæmt 1. mgr. 76. gr.stjórnarskrárinnar og þar af leiðandi sé hún ólögmæt og ógildanleg. Stefnandi byggir á því að samkvæmt2. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992 skuli við framkvæmd laganna tekið mið af þeimalþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafi gengist undir, einkumsamningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í 9. gr. þess samningssé fjallað um aðgengi. Þar segi að aðildarríkin skuli gera viðeigandiráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi ogtaka fullan þátt á öllum sviðum lífsins. Skuli ráðstafanirnar m.a. felast í þvíað staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefti aðgengi og eigi m.a. að nátil upplýsinga- og samskiptaþjónustu, rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu. Þásegi í 9. gr. að samningsaðilar skuli gera viðeigandi ráðstafanir til þess aðláta í té ýmiss konar beina aðstoð og þjónustu milliliða, þ.m.t. fylgdarmanna,lesara og faglærðra táknmálstúlka. Í 21. gr. samningsins sé fjallað umtjáningar- og skoðanafrelsi og aðgang fatlaðs fólks að upplýsingum. Þar segi aðaðildarríkin skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja aðfatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t.frelsi til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum til jafnsvið aðra, með hjálp hvers kyns samskiptamiðla að eigin vali. Feliráðstafanirnar m.a. í sér að viðurkenna og auðvelda fötluðu fólki notkuntáknmáls, óhefðbundinna tjáskiptaleiða og allra annarra tjáskiptaleiða semmögulegar séu og sem fatlað fólk kjósi að nota í opinberum samskiptum. Þá hafiíslenska ríkið skuldbundið sig til að vernda friðhelgi einkalífs borgara sinna,jafnræði, tjáningarfrelsi, funda- og félagafrelsi og leggja bann við mismununmeð undirritun, fullgildingu og lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr.lög nr. 62/1994. Þá vísar stefnandi einnig til 1., 2., 7., 19. og 1. mgr. 27.gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, 2., 17., 18., 2. mgr. 19., 26.og 27. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálalegréttindi og 2. og 15. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg,félagsleg og menningarleg réttindi og inngangsorða félagssáttmála Evrópu.Stefnandi telur ljóst að ákvörðun stefnda SHH brjóti gegn þeim skyldum semleiði af framangreindum réttarheimildum og rétti stefnanda og því sé húnógildanleg. Stefnandi byggir á því að stefndiSHH sé sem stjórnvald bundið af skráðum og óskráðum meginreglumstjórnsýsluréttarins, sbr. m.a. 1. og 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr.37/1993. Í ákvörðun stefnda SHH hafi verið m.a. tekið fram að ekki hafi veriðgert ráð fyrir ferðakostnaði erlendis í fjárframlagi til endurgjaldslausrartúlkaþjónustu. Stefnandi telur þessar röksemdir ekki eiga við þar semsérstaklega hafi verið greint frá því í erindi stefnanda að ferða- ogdvalarkostnaður yrði greiddur af sumarbúðunum. Hefði stefndi SHH einungis þurftað standa straum af launakostnaði og hefði beiðni stefnanda allt eins getaðlotið að beiðni um túlkaþjónustu vegna innlendra sumarbúða. Við tökuákvörðunarinnar hafi þessi stefndi ekki tekið tillit til sérstakra aðstæðnastefnanda. Lögð hafi verið sérstök áhersla á þann kostnað sem kæmi til með aðleiða af ferð stefnanda, u.þ.b. ein og hálf milljón króna og hlutfall þesskostnaðar af heildarfjárframlögum, u.þ.b. 15%. Það hafi hins vegar veriðstarfsmenn stefnda SHH sem tekið hafi ákvörðun um að fjórir túlkar skyldufylgja stefnanda til Svíþjóðar og hafi sú staðreynd að stefnandi þjáist afsamþættri sjón- og heyrnarskerðingu örugglega spilað stórt hlutverk. Leggjaberi sérstaka áherslu á sérstaka stöðu stefnanda að þessu leyti og hefðistefnda SHH verið rétt að meta beiðni hennar í þessu ljósi. Ef stefnandi hefðieinungis þurft einn túlk hefði launakostnaður numið 375.000 krónum. Sé þvíljóst að hin umdeilda ákvörðun stjórnvaldsins sé efnislega röng auk þess semrannsóknarskylda sé sniðgengin og lögmætisregla brotin. Leiði allt framangreinttil þess að fallast beri á dómkröfur stefnanda. Stefnandi telur ljóst að takmarkaðfjárframlag til stefnda SHH sé aðalástæðan fyrir því að beiðni stefnanda hafiverið hafnað. Ef fallist yrði á sjónarmið þessa stefnda liggi fyrir aðstofnuninni yrði fengið vald til að hafna öllum beiðnum sem feli í sér auknaþjónustu við notendur þar sem samþykkt slíkra beiðna myndi valda því aðfjárframlög myndu ekki endast út ársfjórðunginn. Stefnandi telur hér umómálefnalegt sjónarmið að ræða sem sé í ósamræmi við markmið laga nr. 129/1990,ákvæði reglugerðar nr. 1058/2003 og ákvæði stjórnarskrár. Þá bendir stefnandi áað ólögmæt stjórnsýsluframkvæmd geti aldrei verið fordæmisgefandi. Stefnandi telur með vísan tilframanritaðs að ljóst sé að stjórnvaldsákvörðun þessa stefnda hafi brotið íbága við rannsóknar- og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þá hafi verklag þessastefnda, m.a. að hafna beiðnum á grundvelli kostnaðar án nánara mats, falið ísér brot gegn meginreglunni um skyldubundið mat. Þegar aðstæður stefnanda séuskoðaðar samanborið við þá sem sæki þjónustuna í því tilviki þegar fjármunirséu tiltækir, sem og aðra einstaklinga sem sækja sér nauðsynlega þjónustu semnjóti fullnægjandi fjárframlaga, sé ljóst að réttindi stefnanda séu ekki nægilegatryggð og feli þetta í sér brot gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga semog 65. gr. stjórnarskrárinnar. Liggi því fyrir að stjórnvaldsákvörðun þessastefnda hafi verið haldin verulegum efnisannmörkum og beri því að ógilda hana. Stefnandi byggir miskabótakröfu sínaá 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og kveðst hafa leitast við að koma álögmætu ástandi án árangurs. Þar sem beiðni stefnanda um endurgjaldslausatúlkaþjónustu hafi verið hafnað hafi henni verið neitað um rétt sem hún hafiátt samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Hafi höfnunin falið í sér aðstefnanda hafi verið aftrað frá því að njóta réttar síns til að stundatómstundir og félagslíf til jafns við aðra. Árétta ber að aðstoð túlks sénauðsynlegt skilyrði þess að stefnandi geti skynjað það sem fram fari og tjáðsig en það séu algjörar lágmarksforsendur fyrir því að taka þátt í samfélagimanna. Hafi athafnaleysi stefndu, í bága við þær jákvæðu skyldur sem á þeimhvíli gagnvart stefnanda leitt til þess að hún upplifi sig félagslegaeinangraða en það sé henni mjög þungbært. Sé því ljóst að mati stefnanda aðháttsemi stefndu beri að flokka sem ólögmæta meingerð gegn persónu hennar,frelsi og friði í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Auk framangreindra laga, reglugerðaog alþjóðasáttmála vísar stefnandi til 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga,meginreglna stjórnsýsluréttar, reglunnar um skyldubundið mat og lögmætisregluíslensks réttar. Krafa um dráttarvexti á fjárkröfu stefnanda er studd við III.kafla laga nr. 38/2001 og málskostnaðarkrafa er byggð á XXI. kafla laga nr.91/1991. Málsástæðurog lagarök stefndu. Stefndu byggja á því að í lögum nr. 129/1990sé mælt fyrir um að eitt verkefna stefnda SHH sé að annast táknmálstúlkun enmarkmið laganna sé að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðastí þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra. Hlutverk stefnda sé m.a. aðannast táknmálstúlkun, sbr. c-lið 1. mgr. 2. gr. laganna. Þá sé í gildireglugerð nr. 1058/2003 um stofnunina. Hafi löggjafinn gert ráð fyrir að veittskuli þjónusta við táknmálstúlkun og markað með fjárlögum heimildir til aðveita hana endurgjaldslaust. Telja stefndu því að löggjafinn hafi mælt fyrir umþá lágmarksaðstoð sem 76. gr. stjórnarskrárinnar geri ráð fyrir. Auk þessauppfylli löggjafinn ákvæðið á margan annan hátt í tilviki fatlaðra, sbr. einkumlög um málefni fatlaðra. Stefndubyggja á því að ekkert gjald sé heimilt að inna af hendi úr ríkissjóði nemaheimild sé til þess á fjárlögum eða fjáraukalögum, sbr. 41. og 42. gr.stjórnarskrárinnar. Stefndu telja að ráðið verði af ákvæðum 6. gr. laga nr.129/1990 að það sé ekki meginregla að táknmálstúlkun sé endurgjaldslaus.Stofnunin skuli gera fjárhagsáætlun til allt að fimm ára og geti ráðherra aðfengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar sett gjaldskrá fyrir þá þjónustu semstofnunin veiti. Í 4. gr. reglugerðar nr. 1058/2003 hafi verið mælt fyrir um aðverkefni stofnunarinnar væri auk annarra að veita táknmálstúlkaþjónustu gegngjaldi. Með reglugerð nr. 884/2004 hafi sú breyting verið gerð á 4. gr.reglugerðarinnar að helstu verkefni SHH séu annars vegar að veitatáknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi eða endurgjaldslaust samkvæmt nánari ákvæðumí gjaldskrá, sbr. 4. mgr. 5. gr. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. gildandi gjaldskrár séheimilt að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu vegna daglegs lífs og greiðaferðakostnað táknmálstúlks utan Reykjavíkursvæðisins vegna þess á grundvellisérstakrar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert. Þá segi að við afgreiðslu beiðnaá grundvelli þessarar heimildar skuli gætt jafnræðis milli notenda þjónustunnarmeð tilliti til þeirrar fjárveitingar sem til ráðstöfunar sé á hverjum tíma.Verði ráðið af þessu að stefnda SHH hafi verið nokkur vandi á höndum við aðskipta þeim fjármunum sem til ráðstöfunar séu eftir heimildum fjárlaga með þeimsem á þjónustunni þurfi að halda. Hafi endurgjaldslaus þjónusta táknmálstúlkaþví verið veitt vegna daglegs lífs og hafi þurft að koma til gjaldtöku í þeim tilvikumþegar fjármunir séu uppurnir. Til að tryggja jafnræði enn betur hafi árinuverið skipt í fjóra hluta og heimildum skipt niður á tímabil. Þetta sé ein leiðtil að jafna útdeilingu enda séu ekki fyrir hendi reglur sem geri stofnuninnikleift að forgangsraða eftir þörf eða í hvaða tilvikum sé nákvæmlega rétt aðveita endurgjaldslausa túlkaþjónustu. StefndiSHH hafi til úthlutunar 870 tíma við endurgjaldslausa túlkaþjónustu eða8.816.560 krónur til ráðstöfunar. Dagskrá sumarbúðanna í Svíþjóð geri ráð fyrir154 túlkuðum tímum í eina viku vegna þjónustu við stefnanda sem nemi 1.560.636krónum, eða um 18% af fé sem til umráða sé þann fjórðung. Hafi synjunin byggt áþví að þar sem slík ákvörðun hefði orðið til þess að fjármagn sem ætlað sé tilendurgjaldslausrar túlkaþjónustu fyrir tímabilið hefði hvorki enst þannfjórðung né hefði jafnræði notenda verið virt. Áður hafi synjunin byggt á þvíað einungis væru skilyrði til að veita túlkaþjónustu innanlands og verði aðlíta svo á að þær forsendur hafi einnig staðið erindi stefnanda í vegi þegarþví hafi verið svarað 8. júní sl. eins og fyrri afstaða beri með sér. Sé þvíljóst að þetta hafi verið og sé ein ástæða synjunarinnar eins og stefnanda sékunnugt um. Stefndu byggja á því að miða verði við að endurgjaldslaustúlkaþjónusta sé bundin við þjónustu hérlendis og styðjist það við ákvæði laganr. 129/1990 og jafnræðisrök. Því standi ekki rök til þess að ógilda ákvörðunstefnda SHH. Stefndubyggja á því að markmið laga nr. 129/1990 sé að stuðla að jafnréttiheyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmálsheyrnarlausra. Verði að skýra hlutverk stofnunarinnar í 2. gr. í þessu ljósi,þ.e. að þjónustan sé bundin við þá sem veitt sé hér á landi og telja stefnduorðalagið „þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu“ vísa til þess. Þá verði að geraráð fyrir að þjónustan snúist um túlkun á íslensku talmáli yfir á íslenskttáknmál og væri það til samræmis við ákvæði laga nr. 61/2011 um stöðuíslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Væri táknmálstúlkun á erlendri grundeinnig væri hún mun flóknari í framkvæmd vegna kostnaðar og mannafla en það kæmiallt niður á þjónustu almennt hér álandi. Virðist óumdeilt að þörf sé á fjórum túlkum og fé til að standa straumaf launakostnaði þeirra. Þar sem einhvers staðar verði að draga mörkin sémálefnalegt og í samræmi við lögin og gjaldskrána að takmarka endurgjaldslausatúlkaþjónustu við þá sem fram fer hér á landi. Lög um málefni fatlaðs fólksbyggi einnig á þessu sem og löggjöf á sviði sjúkratrygginga. Þá megi einnignefna að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé fyrst og fremst bundin viðíslenska lögsögu. Stefnduhafna því að um valdframsal sé að ræða. Til að framfylgja lögum og í ljósifjárveitinga verði starfsmenn stefndu að haga ákvörðunum sínum sem best ísamræmi við jafnræðissjónarmið. Sett hafi verið reglugerð og gjaldskrá þar semmeginviðmiðin komi fram, þ.e. að þjónustan sé bundin við daglegt líf og aðjafnræðis sé gætt miðað við forsendur þjónustunnar með tilliti til þeirrarfjárveitingar sem til ráðstöfunar sé á hverjum tíma. Þá hafi árinu verið skiptí tímabil sem auðveldi mjög að jafnræðis verði gætt. Ekki séu fyrir hendireglur um forgangsröðun eða í hvaða tilvikum þjónusta skuli veitt. Stefnandi séhins vegar ein af þeim sem nýti endurgjaldslausa túlkaþjónustu á vegum stefndaí miklum mæli. Ekki sé sjálfgefið að þjónusta á erlendri grund vegna dvalar ísumarbúðum yrði forgangsatriði, enda margvísleg tilvik sem geti skipt meiramáli miðað við þá fjármuni sem til ráðstöfunar séu. Stefndutelja að uppfyllt séu skilyrði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðsfólks og annarra mannréttindasamninga sem ríkið sé aðili að. Það sé á valdilöggjafans og stjórnvalda að afmarka nánar í almennum reglum í hvaða tilvikumtáknmálstúlkun sé gjaldskyld og hvenær endurgjaldslaus. Það sé látið líta svoút sem stefnandi njóti nær engrar þjónustu og meðaltalsútreikningar notaðir ánþess að upplýst sé um þá þjónustu sem stefnanda sé í reynd veittendurgjaldslaust. Hafi stefnanda verið veitt endurgjaldslaus túlkaþjónusta semnumið hafi 216,5 tímum á árinu 2016 og hafi sú þjónusta verið veitt í 133,5tíma það sem af sé þessu ári. Sé því með öllu óraunhæft að jafnræði hafi veriðraskað gagnvart stefnanda. Stefnandi hafi ekki bent á tilvik sem sætt hafiannars konar úrlausn en hún hafi sætt. Þótt stefnanda hafi verið synjað umtúlkaþjónustu erlendis sé ekki þar með sagt að stefndu hafi brotið á henni réttog gert henni ófært að stunda tómstundir og félagslíf. Stefndutelja að kostnaður við táknmálstúlkaþjónustu sem stefnandi hafi sótt um sé um18% af allri fjárheimild þess tímabils sem til ráðstöfunar sé og hefði það bæstvið kostnað sem stefnandi fái af sömu fjárveitingum. Á skrá stefnda SHH séu umog yfir 200 notendur. Þörfin sé mjög misjöfn hjá hverjum og einum en beiðnirstefnanda hafi almennt verið samþykktar. Umsókn stefnanda nú sé hins vegaróvenjuleg og skeri sig úr, einkum sökum þess að beiðnin varði þjónustu tiltáknmálstúlkunar erlendis. Stefndu byggja á því að gætt hafi verið jafnræðisvið meðferð umsókna og hafi stefnandi ekki bent á sambærileg tilvik sem sætthafi annarri meðferð eða niðurstöðu. Stefndubyggja á því að synjunin hafi byggt á málefnalegum sjónarmiðum og hafi veriðlögmæt þar sem um hafi verið að ræða túlkaþjónustu erlendis. Þá er því mótmæltað brotið hafi verið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar og í stefnu séþað ekki rökstutt, einkum sé rætt um efni ákvörðunarinnar. Þá sé ekki vikið aðþví hvernig stefnandi telur að rannsóknarregla hafi verið brotin. Stefnandivirðist sammála því að fjóra túlka þurfi vegna fötlunar stefnanda þótt reifuðsé sú hugmynd í stefnu að einn yrði sendur. Það sé hins vegar ekki í samræmivið erindi stefnanda þar sem hún ræði um túlka og af samskiptum lögmannsstefnanda við stofnunina virðist á engum stigum deilt um að fjórir túlkar værunauðsynlegir. Séu málsástæður þessa efnis í stefnu illskiljanlegar og verðiekki annað séð en að málið hafi verið kannað nægjanlega en fyrir liggi afstaðaþess efnis að þjónustan yrði aðeins veitt innanlands. Stefndutelja sig hafa lagt sig fram um að afgreiða allar umsóknir ájafnræðisgrundvelli. Engin stoð sé fyrir fullyrðingum í stefnu um aðfjárskortur leiði að meginreglu til þess að umsóknum sé hafnað. Í kjölfar dómsí máli nr. E-327/2015 hafi verið reynt að hafa að leiðarljósi að sjóður semfjárveitingar myndi tæmdist ekki. Hafi höfnun á umsókn stefnanda jafnt byggt áþví að þjónustan skyldi fara fram utan landsteina og því að kostnaður yrði viðþær aðstæður svo mikill að jafnræði yrði raskað miðað við fjárheimildir. Um séað ræða málefnalegar og lögmætar ástæður. Að því er sjónarmið um skyldubundiðmat varðar liggi fyrir að stofnunin hafi metið sérstaklega og skoðaðgaumgæfilega tilefni umsóknarinnar. Stefndu byggja á því að höfnunin byggi álögum og málefnalegum sjónarmiðum og stuðli að því að stefnandi og aðrir njótilágmarksaðstoðar sem löggjöfin eigi að tryggja. Skeri sakarefnið sig verulegafrá því sem fjallað hafi verið um í fyrrgreindum dómi. Stefndumótmæla miskabótakröfu og byggja á sömu málsástæðum og fyrr greinir enda hafiþað verið í samræmi við lög og málefnaleg sjónarmið að synja um túlkaþjónustu vegnasumarbúða erlendis. Hafi starfsmenn þeir sem annist málefni eftir lögum nr.129/1990 lagt sig fram um að fara eftir þeim forsendum réttarreglna sem gildiog gætt jafnræðis miðað við þá fjármuni sem heimildir standi til hverju sinni. Sé því óraunhæft að uppfyllt séu skilyrðib-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga enda ekki um að ræða ólögmæta meingerðgegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda. Hafi stefndu í reynd uppfylltmargvíslegar skyldur gagnvart stefnanda og afgreiðsla erindis hennar eða skorturá nákvæmari reglum í því tilviki sem hér sé til úrlausnar hafi í engu falið ísér ólögmæta meingerð gagnvart henni. Stefnduvísa um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.Niðurstaða.Eftir að greinargerð stefndu láfyrir lagði stefnandi fram í málinu bókun þar sem fram kemur að stefnandi hafigengið út frá því sem gefnu, vegna orðalags stjórnvaldsákvörðunar stefnda SHHdags. 8. júní 2017 og fyrri samskipta lögmanns við stofnunina, að stofnuninhefði fallið frá röksemd sinni þess efnis að einungis væri heimilt að veitaumbeðna túlkaþjónustu innanlands. Þrátt fyrir orðalag umræddrar ákvörðunar ogfyrri samskipta sé því haldið fram í greinargerð stefndu að einungis sé heimiltað veita umbeðna túlkaþjónustu innanlands. Stefnandi mótmælir því að þessiröksemd komi til skoðunar í málinu þar sem stefndi SHH hafi fallið frá hennimeð bindandi hætti þann 8. júní 2017. Verði hins vegar komist að þeirriniðurstöðu að ekki hafi verið fallið frá ofangreindri röksemd við tökustjórnvaldsákvörðunarinnar þá mótmælir stefnandi lögmæti hennar harðlega. Engarmálefnalegar forsendur séu fyrir þessari túlkun á reglunum þar sem umbeðintúlkaþjónusta lúti einungis að launakostnaði túlkanna sem fari eftir gjaldskrástefnda SHH. Því liggi fyrir að launakostnaðurinn sé ekki hærri þrátt fyrir aðviðkomandi þjónusta komi til með að fara fram erlendis. Þá njóti einstaklingurumrædds réttar þótt farið sé tímabundið af landi brott. Þá bendir stefnandi áað þessi túlkun sé í andstöðu við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands samkvæmtEES-samningnum og sé til þess fallin að mismuna notendum þjónustunnar.Stefnandi vísar um þetta til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Stefndumótmæltu bókun stefnanda og kváðu hina umdeildu röksemd hafa verið hlutasynjunar á beiðni stefnanda og ekki hafi verið fallið frá henni. Þá höfnuðustefndu því sem fram komi í seinni hluta bókunarinnar að það sé andstættþjóðréttarlegum skuldbindingum og jafnframt var þessari efnisgrein mótmælt semnýrri málsástæðu. Í 1. mgr. 76. gr.stjórnarskrárinnar segir að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögumréttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar ogsambærilegra atvika. Verður að leggja til grundvallar að einstaklingar sem búafötlun eins og stefnandi á við að glíma eigi samkvæmt framansögðustjórnarskrárvarinn rétt á því að þeim sé í lögum tryggð ákveðin lágmarksaðstoðán tillits til efnahags, sbr. einnig jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.Ekki er um það deilt í máli þessuað stefnandi, sem haldin er tiltekinni fötlun eins og gerð hefur verið greinfyrir hér að framan, er ómögulegt að eiga samskipti við annað fólk án aðstoðartáknmálstúlka og er réttur hennar þar að lútandi óumdeildur. Samkvæmt 6. gr.laga nr. 129/1990 og gjaldskrá nr. 444/2013 á stefnandi rétt á endurgjaldslausritáknmálstúlkaþjónustu vegna daglegs lífs. Í gjaldskránni kemur fram að heimiltsé að greiða ferðakostnað táknmálstúlks utan Reykjavíkursvæðisins vegna þess, ágrundvelli sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum ár hvert. Skuli við afgreiðslubeiðna á grundvelli þessarar heimildar gætt jafnræðis milli notendaþjónustunnar, með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem til ráðstöfunar sé áhverjum tíma. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst í fyrsta lagi um það hvortheimilt sé að veita endurgjaldslausa táknmálstúlkaþjónustu á erlendri grundu.Þá er deilt um það hvort synja megi stefnanda um endurgjaldslausa aðstoð ágrundvelli jafnræðisreglu, þ.e. að fjárveiting til hennar myndi skerða réttannarra umsækjenda til slíkrar þjónustu og einnig er deilt um það hvort stefnduséu bundnir af fjárveitingum til þessa málaflokks og hvort þeim sé heimilt aðsynja um aðstoð á þeim grundvelli að ekki sé nægilegt fé til þeirrarráðstöfunar sem hér um ræðir.Í máli þessu hafa verið lögð framgögn um úthlutun fjár til félagslegrar táknmálstúlkunar undanfarin ár. Ísamræmi við fyrirmæli mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 26. janúar 2015hefur stefndi SHH skipt árinu í fjóra hluta og dreift 30% fjárins á fyrstafjórðung, 20% á annan fjórðung, 30% á þriðja fjórðung og 20% á fjórða fjórðung.Á árinu 2015 voru 23.600.000 krónur til ráðstöfunar til endurgjaldslausrartáknmálstúlkunar, árið 2016 voru 29.600.000 krónur til ráðstöfunar og dugði þaðfé til að greiða táknmálstúlkun í 2921 klukkutíma og árið 2017 eru 30.402.000krónur til ráðstöfunar, en það fé dugir til að greiða táknmálstúlkun í 3000tíma. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda SHH voru stefnanda veittir 216 og hálfurtími í endurgjaldslausa túlkaþjónustu árið 2016 og það sem af er þessu árihefur hún fengið 133 og hálfan tíma í þessa þjónustu. Verði á það fallist aðstefnandi eigi rétt á þessari þjónustu í ferð sinni til Svíþjóðar er gert ráðfyrir að kostnaður af þeim sökum muni nema 1.564.296 krónum og er þar um aðræða laun fjögurra túlka í 154 túlkaða tíma. Í þessari áætlun er ekki gert ráðfyrir kostnaði vegna flugs, gistingar eða dagpeninga. Upplýst hefur verið aðmótshaldarar í Svíþjóð hafi fallist á að greiða allan ferða- og dvalarkostnaðtúlkanna. Samkvæmt 41. og 42. gr.stjórnarskrárinnar er ekkert gjald heimilt að inna af hendi nema heimild sé tilþess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í hinni umdeildu stjórnvaldsákvörðun frá 8.júní 2017 er vísað til framangreinds bréfs mennta- ogmenningarmálaráðuneytisins frá 26. janúar 2015 þar sem stefnda SHH er falið aðsjá til þess að það fjármagn sem til ráðstöfunar sé til endurgjaldslausrartáknmálstúlkunar dugi út árið og þá skuli stofnunin gæta jafnræðis meðalnotenda þjónustunnar. Fram kemur í ákvörðuninni að fyrir tímabilið júlí tilseptember á þessu ári séu til úthlutunar 870 tímar eða 8.816.560 krónur fyrirum 250 einstaklinga. Myndi kostnaður stefnanda vegna sumarbúðanna í Svíþjóðnema um 18% af því fé sem væri til umráða. Synjun þessa stefnda var á því byggðað ákvörðun um að veita stefnanda umrædda túlkaþjónustu í Svíþjóð hefði orðiðtil þess að fjármagn sem ætlað væri til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu fyrirtímabilið hefði hvorki enst út fjórðungstímabilið né hefði jafnræði notendaverið virt. Þessi niðurstaða er í samræmi við ákvæði 2. gr. gjaldskrár nr. 444/2013 en þar er m.a. tekiðfram að stefnda SHH sé heimilt að veita endurgjaldslausa túlkaþjónustu ágrundvelli sérstakrar fjárveitingar í fjárlögum ár hvert. Ekki verður séð miðaðvið þær fjárveitingar sem skammtaðar voru til verkefnisins að neinu hefði breyttað þessu leyti hefði verið um að ræða túlkaþjónustu hér á landi og þarf þvíekki að taka afstöðu til þess hvort heimilt sé að greiða fyrir túlkaþjónustusem fram fer erlendis. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en aðstefnandi hafi notið jafnræðis þegar fjallað hefur verið um umsóknir hennar umendurgjaldslausa túlkaþjónustu í öðrum tilvikum en hér er fjallað um. Að matidómsins hefur stefnandi ekki sýnt fram á að stefndi SHH hafi brotið gegnrannsóknarreglu stjórnsýslulaga og þá verður ekki séð hvernig setningsérstakrar reglugerðar hefði aukið möguleika stefnanda á úthlutun þegar horfter til þess nauma fjármagns sem veitt er í þennan málaflokk. Þá má af gögnum málsins ráða að aðstæðurstefnanda og þarfir hennar fyrir táknmálstúlkun hafi sérstaklega verið kannaðarog í skýrslu Valgerðar Stefánsdóttur, forstöðumanns stefnda SHH, fyrir dómi komfram að vegna sérstaks líkamlegs álags á túlka þegar túlkað væri fyrirstefnanda þyrfti að lágmarki fjóra túlka fyrir svo langa ferð. Synjun stefnda SHHá umsókn stefnanda byggði því að mati dómsins á málefnalegum rökum og var ísamræmi við þær reglur sem settar höfðu verið að teknu tilliti til þessfjármagns sem til ráðstöfunar var. Þar sem engir þeir meinbugir eru áákvörðuninni sem leiða eigi til ógildingar hennar ber að hafna kröfu stefnandaað þessu leyti, enda er það ekki á valdi dómstóla að mæla fyrir umfjárveitingar, sbr. 2., 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar. Verða stefndu þvíþegar af þessari ástæðu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, þar á meðalmiskabótakröfu hennar með sömu röksemdum.Réttþykir að málskostnaður milli aðila falli niður og skal allur málskostnaðurgreiðast úr ríkissjóði í samræmi við gjafsóknarleyfi stefnanda, þar með talinmálflutningsþóknun lögmanns hennar, Páls Rúnars M. Kristjánssonar hrl., semþykir með hliðsjón af tímaskýrslu hans og umfangi málsins hæfilega ákveðin2.800.000 krónur. Úr ríkissjóði skal einnig greiða útlagðan kostnaðlögmannsins, 45.000 krónur. HjörturO. Aðalsteinsson héraðsdómari kvað uppdóminn.DÓMSORÐ: Stefndu,Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og íslenska ríkið, skulu verasýknir af öllum kröfum stefnanda, Áslaugar Ýrar Hjartardóttur í máli þessu. Málskostnaður milli aðila fellurniður en allur gjafsóknarkostnaðurstefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmannshennar, Páls Rúnars M. Kristjánssonar hrl., 2.800.000 krónur og útlagðurkostnaður lögmannsins, 45.000 krónur. |
Mál nr. 72/2017 | Skattur Fjármagnstekjuskattur Hlutafélag | Á, ÁÁ og E voru öll í tilteknum hlutföllum eigendur I hf. árið 2005, en það félag rak útgerð fiskiskips og fór með verulegar aflaheimildir. Til tals kom á árinu 2004 að skipta félaginu einkum vegna aukinna umsvifa þess í viðskiptum með fjármálagerninga. Á stjórnarfundi í apríl 2005 var einnig fjallað um slík áform og ákveðið að leggja fram um það tillögu á aðalfundi félagsins, sem síðar skyldi haldinn. Þann 23. maí 2005 gerðu útgerðin S hf. og K ehf. tilboð í alla hluti í óstofnuðu einkahlutafélagi F en eignir og réttindi félagsins voru sögð fiskiskip, aflaheimildir þess og veiðarfæri. Á, ÁÁ og E samþykktu tilboðið fyrir hönd hins óstofnaða einkahlutafélags. Kaupsamningur um eignirnar var gerður 27. sama mánaðar. Skiptingaráætlun fyrir I hf. var samþykkt 16. ágúst 2005 og var skiptingin samþykkt á hluthafafundi 24. september 2005. Samkvæmt henni skyldi fiskiskip I hf., aflaheimildir og veiðafæri renna til nýstofnaðs einkahlutafélags F, en eigendur þess voru hinir sömu og eigendur I hf. og í sömu hlutföllum. F ehf. hafði verið stofnað í lok júní 2005. Við skattskil gjaldárið 2006, vegna tekjuársins 2005, töldu Á, ÁÁ og E fram sem fjármagnstekjur hagnað af sölu hluta í F ehf. til S hf. og K ehf., og greiddu af því fjármagnstekjuskatt. Árið 2011 kvað ríkisskattstjóri, að undangenginni athugun, upp úrskurð þar sem ákveðið var að endurákvarða opinber gjöld I hf. vegna nánar tilgreindra gjaldára og var niðurstaðan á því reist að í framangreindum ráðstöfunum hefði í raun falist sala á fiskiskipi, aflaheimildum og veiðarfærum frá I hf. til S hf. og K ehf. Hefði til samræmis við það I hf. borið að telja söluhagnaðinn fram sem tekjur og greiða af þeim tekjuskatt. Var lagður tekjuskattur á I hf. til samræmis við þessa niðurstöðu. I hf. freistaði þess að hnekkja þessari niðurstöðu ríkisskattstjóra, en hún var á endanum staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 217/2015. Á, ÁÁ og E töldu að miðað við að I hf. hefði þurft að greiða tekjuskatt af söluhagnaði eignanna til S hf. og K ehf. hefðu þau ekki þurft að greiða fjármagnstekjuskatt af hagnaði þeirra af sölu hluta í F ehf. til S hf. og K ehf. Óskuðu þau eftir því við ríkisskattstjóra að álagning á opinberum gjöldum þeirra gjaldárið 2006 yrði endurupptekin og þeim endurgreiddur ofgreiddur fjármagnstekjuskattur. Því var hafnað af hálfu ríkisskattstjóra og höfðuðu þau þá mál á hendur Í til endurgreiðslu ætlaðs ofgreidds fjármagnstekjuskatts. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, kom meðal annar fram að þótt leiða mætti af áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 217/2015 að tekjur af sölu umræddra eigna og réttinda I hf. hefðu með réttu átt að falla því félagi í skaut, en ekki Á, ÁÁ og E, yrði ekki fram hjá því litið að þeim fjármunum, sem komu fyrir þessi verðmæti, hefði verið ráðstafað til þeirra í ágúst 2005 og hefðu verið þeim til frjálsrar ráðstöfunar eftir það. Í því ljósi hefði ríkisskattstjóra verið rétt að líta svo á að fjármunir er svöruðu til hagnaðar af sölu umræddra verðmæta hefðu runnið til Á, ÁÁ og E og væru því tekjur af hlutareign þeirra í I hf. í samræmi við 11. gr. laga nr. 90/2003 sem væru skattskyldar samkvæmt 7. gr. sömu laga. Þessi niðurstaða fæli ekki í sér óheimila eignaskerðingu samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, né væri hún andstæð atvinnufrelsisákvæði 1. mgr. 75. gr. Var Í því sýknað af kröfum Á, ÁÁ og E. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2017. Þau krefjast þess að nánar tilgreindir úrskurðir ríkisskattstjóra 12. ágúst 2013 verði felldir úr gildi og stefnda gert að greiða áfrýjendunum Ármanni Fr. Ármannssyni og Esther Ósk Ármannsdóttur hvoru um sig 253.036 krónur og áfrýjandanum Láru Friðbertsdóttur 153.986.548 krónur, í öllum tilvikum með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 30. janúar 2006 til 7. mars 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.Ármann Ármannsson, sem átti aðild að málinu í héraði, lést 16. apríl 2017 og hefur eftirlifandi maki hans, Lára Friðbertsdóttir, fengið leyfi 21. sama mánaðar til setu í óskiptu búi. Hún hefur tekið við aðild hins látna að málinu í samræmi við 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962.Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.Áfrýjendur greiði stefnda óskipt málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.Áfrýjendur, Ármann Fr. Ármannsson, Esther Ósk Ármannsdóttir og Lára Friðbertsdóttir, greiði óskipt stefnda, íslenska ríkinu, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2016I Mál þetta, sem var dómtekið 10. október sl., er höfðað 23. júní 2015 af Ármanni Ármannssyni, Mánatúni 2 í Reykjavík, Ármanni Fr. Ármannssyni, Ólafsgeisla 115 í Reykjavík og Esther Ósk Ármannsdóttur, Hörpugötu 9 í Reykjavík, gegn íslenska ríkinu. Dómkröfur stefnanda, Ármanns Ármannssonar, eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 12. ágúst 2013, með tilvísunarnúmerið 20120301436, og að felld verði niður álagning fjármagnstekjuskatts á hann vegna sölu hlutafjár í Fjarðarey ehf. á árinu 2005 við álagningu árið 2006, og stefnda gert að endurgreiða stefnanda 153.986.548 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. janúar 2006 til 7. mars 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi, Ármann Fr. Ármannsson, gerir þá kröfu að felldur verði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 12. ágúst 2013, með tilvísunarnúmerið 20120303792, og felld verði niður álagning fjármagnstekjuskatts á hann vegna sölu hlutafjár í Fjarðarey ehf. á árinu 2005 við álagningu árið 2006, og stefnda gert að endurgreiða stefnanda 253.036 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. janúar 2006 til 16. mars 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi, Esther Ósk Ármannsdóttir, gerir þá kröfu að felldur verði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 12. ágúst 2013, með tilvísunarnúmerið 20120303794, og felld verði niður álagning fjármagnstekjuskatts á hana vegna sölu hlutafjár í Fjarðarey ehf. á árinu 2005 við álagningu árið 2006, og stefnda gert að endurgreiða stefnanda 253.036 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. janúar 2006 til 16. mars 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnendur krefjast þess, hver fyrir sig, að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk virðisaukaskatts. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og að þeir verði, hver um sig, dæmdir til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.II Málsatvik eru þau að stefnendur voru öll eigendur Ingimundar hf. árið 2005 þegar samþykkt var að skipta félaginu upp í þrjú félög. Stefnandi, Ármann Ármannsson, átti þá 99,3% hlutafjár í félaginu, en fjögur börn hans áttu hvert um sig 0,175% hlut í því, þeirra á meðal stefnendur, Ármann Fr. Ármannsson og Esther Ósk Ármannsdóttir. Var meðal annars við það miðað að útgerðarhluti félagsins, sem fólst í útgerð fiskiskipsins Helgu RE 49, yrði færður í sérstakt félag. Hinn 23. maí 2005 gerði Skinney Þinganes hf. stefnanda, Ármanni Ármannssyni, kauptilboð „fyrir hönd hluthafa einkahlutafélags sem stofnað verður eftir skiptingu Ingimundar hf. ... í alla hluti hins óskráða einkahlutafélags“. Á grundvelli tilboðsins var 27. sama mánaðar gerður kaupsamningur þar sem „eigendur allra hluta í Fjarðarey ehf. ... sem verður skráð við skiptingu Ingimundar hf.“ seldu Skinney Þinganesi hf. 90% hluta í hinu óskráða félagi og Ketillaug ehf. 10% hluta í því. Einkahlutafélagið Fjarðarey mun hafa verið stofnað 30. júní 2005 og var stofnun þess tilkynnt til fyrirtækjaskrár 12. ágúst sama ár. Afsal fyrir hlutafénu í félaginu var gefið út 16. ágúst 2005 til kaupendanna. Skiptingar- og samrunaáætlun var undirrituð af stjórnum Ingimundar hf. og Fjarðareyjar 16. ágúst 2005 og hún birt í Lögbirtingablaði 24. ágúst 2005. Þá var skipting samþykkt á hluthafafundi í Ingimundi hf. 24. september 2005 sem og á hluthafafundi í Fjarðarey ehf. 26. september 2005 þar sem fulltrúar nýrra hluthafa voru mættir. Í stefnu greinir svo frá að stefnendur hafi hagnast nokkuð af sölu hlutfjárins í Fjarðarey ehf. og hafi talið söluhagnað sinn fram árið 2006. Í skattframtali stefnanda, Ármanns Ármannssonar, á því ári vegna tekjuársins 2005 var söluhagnaður hans í tilefni af framangreindum viðskiptum talinn nema 1.537.878.557 krónum sem taldar voru fram sem fjármagnstekjur. Í skattframtölum annarra stefnenda var söluhagnaður þeirra talinn nema 2.530.361 krónu hjá hvoru systkinanna og voru þessar tekjur taldar fram sem fjármagnstekjur. Ágreiningslaust er að stefnendur hafi greitt fjármagnstekjuskatt af þessum tekjum, stefnandi Ármann Ármannsson, 153.986.548 krónur, og systkinin hvor um sig 253.036 krónur. Með bréfi ríkisskattstjóra til Skinneyjar Þinganess hf. í lok júní 2011 var óskað upplýsinga um kaupin á Fjarðarey ehf. Svar mun hafa borist í júlí sama ár. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2011, var óskað upplýsinga um sömu viðskipti frá Ingimundi hf. Eftir frekari gagnaöflun af hálfu ríkisskattstjóra boðaði hann með bréfum 1. desember 2011 að fyrirhugað væri að endurákvarða opinber gjöld Ingimundar hf. og stefnenda. Í boðunarbréfinu voru færð rök fyrir því að gagngjaldsskilyrði 52. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fyrir skiptingu Ingimundar hf. hefðu ekki verið uppfyllt. Eftir að ríkisskattstjóra höfðu borist skrifleg andmæli við framangreindu erindi kvað hann upp úrskurð í málum stefnenda og Ingimundar hf. 30. desember 2011. Í samandreginni lýsingu í úrskurði í máli Ingimundar hf. kemur fram að athugun ríkisskattstjóra hafi leitt í ljós að við skiptingu félagsins hafi fiskveiðiskipið Helga RE 49 verið flutt úr félaginu yfir í nýtt félag, Fjarðarey ehf., ásamt aflaheimildum. Hlutabréf í Fjarðarey ehf. hafi þá þegar verið seld til Skinneyjar-Þinganess hf./Ketillaugar ehf., þ.e. áður en formlegri skiptingu á félaginu var lokið. Því teldist gagngjaldsskilyrði fyrrgreindra ákvæða laga um tekjuskatt ekki uppfyllt. Samkvæmt því bæri að færa söluandvirði fiskiskipsins auk aflaheimilda til tekna hjá Ingimundi hf. sem venjulegan söluhagnað atvinnurekstrareigna, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 90/2003. Fallist var á að heimilt væri að færa niður hluta af söluhagnaði með því að aukafyrna eignir samkvæmt heimild í 14. gr. og 6. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðum í málum stefnenda var ekki vikið að framangreindri skiptingu. Hins vegar var stofn til fjármagnstekjuskatts gjaldárið 2007 hækkaður vegna lækkunar á hlutafé Ingimundar hf. árið 2006. Stefnendur ákváðu að una þeirri niðurstöðu. Ingimundur hf. mun hafa samið við innheimtumann ríkissjóðs um greiðslu kröfunnar í tilefni af endurálagningu opinberra gjalda vegna framangreindrar niðurstöðu og innt af hendi 287.649.234 krónur 9. júlí 2013. Ingimundur hf. kærði úrskurð ríkisskattstjóra í máli félagsins til yfirskattanefndar 2. mars 2012. Með úrskurði yfirskattanefndar 3. júlí 2013 var kröfum Ingimundar hf. hafnað. Ingimundur hf. höfðaði því næst mál fyrir dómstólum í því skyni að fá úrskurðinn felldan úr gildi. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar Íslands 12. nóvember 2015 í málinu nr. 217/2015. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skipting Ingimundar hf. hefði fyrst tekið gildi þegar hluthafafundurinn í Fjarðarey ehf. hafði samþykkt skiptinguna fyrir sitt leyti samkvæmt 1. og 2. mgr. 133. gr., sbr. 1. tölulið 1. mgr. 127. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Þótt hluthafar í Ingimundi hf. hefðu fengið hlutabréf í Fjarðarey ehf. við stofnun þess hefði Ingimundi hf. ekki verið skipt að lögum fyrr en eftir að þeir höfðu afsalað bréfunum til annarra. Af þeirri ástæðu hefði því frumskilyrði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að hluthafar í félagi sem skipt væri fengju hlutabréf í félögunum sem við tækju sem gagngjald fyrir hlutafé í hinu skipta félagi, ekki verið fullnægt. Skipti Ingimundar hf. hafi því ekki haft þau áhrif í skattalegu tilliti sem þar væri kveðið á um. Þá var á það fallist að skattyfirvöldum hafi verið heimilt með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 að ákveða að kaupverð samkvæmt umræddum kaupsamningi skyldi fært til tekna hjá Ingimundi hf. að því tilskyldu að öðrum skilyrðum endurálagningar væri fullnægt. Reyndist svo vera og var stefndi því sýknaður af kröfum Ingimundar hf. Í ljósi fyrrgreinds úrskurðar ríkisskattstjóra í máli Ingimundar hf. óskuðu stefnendur eftir því með bréfum 7. og 16. mars 2012 að álagning á opinberum gjöldum þeirra gjaldárið 2006 yrði endurupptekin og leiðrétt. Því til stuðnings var vísað til þess að það væri afstaða ríkisskattstjóra að skipting Ingimundar hf. hafi falið í sér málamyndagerning sem horfa bæri fram hjá í skattalegu tilliti. Samkvæmt því bæri ekki aðeins að hækka álagningu opinberra gjalda á Ingimund hf. heldur einnig að fella niður álagningu á stefnendur sem helgast hefði af hagnaði af sölu hlutabréfanna í Fjarðarey ehf. Ríkisskattstjóri beið niðurstöðu yfirskattanefndar áður en embættið tók afstöðu til erinda stefnenda. Með úrskurðum ríkisskattstjóra 12. ágúst 2013 hafnaði ríkisskattstjóri endurupptöku og leiðréttingu skattframtala stefnenda árið 2006. Í niðurstöðukafla úrskurðar í máli stefnanda, Ármanns Ármannssonar, segir orðrétt: „Gjaldanda voru á árinu 2005 afhent verðmæti sem renna áttu til Ingimundar hf. vegna sölu þess félags á atvinnurekstrareignum sínum. Það söluandvirði sem ríkisskattstjóri lagði til grundvallar að væri söluverð skips og aflaheimilda var að fjárhæð 1.550.000.000 kr. og þar sem gjaldandi var eigandi 99,3% hlutafjár í Ingimundi hf. runnu 1.539.150.000 kr. af söluandvirðinu til gjaldanda. Þar sem gjaldanda var afhent söluandvirði eignanna var ráðstöfunarréttur söluandvirðisins á hendi gjaldanda og á hans valdi að ákveða hvernig því yrði varið. Ber að líta til þess við mat á því hvort til gjaldanda hafi runnið skattskyldar tekjur á árinu 2005.“ Því næst er í úrskurðinum vísað til 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, sem fjallar um hvaða greiðslur teljist vera arður af hlutum og hlutabréfum, og talið að líta verði á þetta „úthlutaða fé“ í ljósi þess ákvæðis. Um hafi verið að ræða „afhendingu verðmæta til hlutareiganda sem telja verði sem tekjur af hlutareign hans í félaginu“. Var því hafnað að um „efnahagslega tvísköttun“ væri að ræða, enda væri almenna skattframkvæmdin sú að hagnaður af seldum atvinnurekstrareignum í eigu hlutafélaga væri skattlagður hjá hlutafélaginu og því næst væri það sem ráðstafað væri til hlutahafa skattlagt sem tekjur af þeirra hlutareign að gættum ákvæðum um arðsúthlutunarheimildir. Úrskurðir í málum annarra stefnenda voru samhljóða nema fjárhæðir aðrar. Með bréfi til ríkisskattstjóra 29. ágúst 2013 krafðist lögmaður stefnenda þess að ríkisskattstjóri afturkallaði framangreindar ákvarðanir sínar með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeirri kröfu var hafnað með bréfum til stefnenda 23. október 2013.III. Málsástæður og lagarök stefnenda Stefnendur byggja málssókn sína á því að þeir hafi samkvæmt stjórnarskrá heimild til að stofna félög og stunda þá atvinnustarfsemi sem lög leyfi. Stefnendur hafi kosið að reka atvinnustarfsemi sína í hlutafélaginu Ingimundi. Um uppbyggingu og starfsemi hlutafélaga gildi lög um hlutafélög. Hlutafélagalögin geri m.a. ráð fyrir því að hluthafar geti ákveðið að skipta hlutafélagi upp í fleiri en eitt hlutafélag eða einkahlutafélag. Stefnendur hafi nýtt sér þennan rétt og skiptu Ingimundi hf. á árinu 2005 þannig að til varð félagið Fjarðarey ehf. Einkahlutafélagið hafi tekið við fiskiskipinu Helgu RE, lausafé því tilheyrandi og veiðiheimildum. Við skiptinguna hafi stefnendur farið í einu og öllu eftir lögum um hlutafélög og lögum um tekjuskatt. Stefnendur byggja einnig á því að þeim sé og hafi verið frjálst að semja um sölu á hlutum í Fjarðarey ehf. áður en formlegum skiptum Ingimundar hf. hafi verið lokið, enda skipting félagsins skilyrði þess að samningurinn um sölu hlutanna í Fjarðarey ehf. yrði réttilega efndur. Kveða þeir sölu þeirra á hlutum í Fjarðarey ehf. hafa leitt til skattskyldu þeirra samkvæmt lögum um tekjuskatt. Stefnendur hafi gert grein fyrir sölunni á hlutum sínum í skattaframtölum eftir að salan hafði átt sér stað og hafi skilað ríkissjóði lögboðnum fjármagnstekjuskatti. Stefnendur benda á að skattyfirvöld og dómstólar hafi talið að skipting Ingimundar hf. og sala hluta í Fjarðarey ehf. hafi falið í sér málamyndagerninga og skattasniðgöngu sem skattayfirvöldum sé heimilt að færa til raunveruleikans. Því telja stefnendur að einu og sömu verðmætin, þ.e. endurgjaldið fyrir útgerð Helgu RE með veiðiheimildum og öðru sem skipinu fylgdu á árinu 2005, hafi verið skattlögð sem tekjur af sölu atvinnurekstrareiningar hjá Ingimundi hf. og sem tekjur af sölu hlutabréfa hjá stefnendum. Stefnendur byggja á því að með þessari tvöföldu skattheimtu sé freklega gengið á rétt þeirra til að ráða eignum sínum og haga atvinnustarfsemi sinni með þeim hætti sem þeim og löglegum félögum þeirra sé sem hagfelldust hverju sinni. Eignir stefnenda og Ingimundar hf. njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Eignarréttarákvæðið setji skattheimtu skorður. Telja stefnendur að af þeim skorðum leiði m.a. að sömu tekjur verði ekki skattlagðar tvisvar sinnum, síst af öllu með tæplega sex ára millibili, aðeins vegna þess eins að skattayfirvöld telji tiltekin lögskipti hafa falið í sér málamyndagerninga sem þau vilji færa til meints raunveruleika. Af hálfu stefnenda er á því byggt að sé skattayfirvöldum játaður svo víðfeðmur réttur til að hlutast til um einkaréttarlegar aðgerðir og viðskipti verði hinn skattaréttarlegi raunveruleiki að ná til allra þátta viðkomandi aðgerða og viðskipta. Af því leiði að skattayfirvöldum hafi borið að verða við kröfum stefnenda um að endurupptaka skattskil þeirra og álagningu á árinu 2006 þegar skattayfirvöld höfðu tekið ákvörðun um að skattleggja Ingimund hf. Á þetta sjónarmið hafi ríkisskattstjóri fallist að hluta með því að taka til greina sjónarmið Ingimundar hf. um að ef leggja ætti tekjuskatt á félagið á grundvelli raunveruleikareglu 57. gr. tekjuskattslaganna þá yrði að horfa til þess að féð sem kom út úr viðskiptunum við Skinney-Þinganes hf. hefði verið notað til nýfjárfestingar. Af röksemdafærslu og niðurstöðu skattayfirvalda í máli Ingimundar hf. leiði að mati stefnenda að hluthafar Fjarðareyjar ehf. hafi ekki getað haldið söluverði hlutafjár í félaginu. Söluverðið hafi orðið að fara inn til Ingimundar hf. þangað sem það hafi líka farið og verið notað til að kaupa nýtt skip og aflaheimildir. Stefnendur benda á að hluthafafundur í Ingimundi hf. hafi aldrei tekið ákvörðun um að greiða eða afhenda stefnendum og öðrum hluthöfum félagsins, sem arð eða gjöf, andvirði atvinnurekstrareiningar þeirra sem skipting Ingimundar hf. hafi tekið til. Þegar skattayfirvöld hafi breytt því, sem frá þeirra bæjardyrum séð hafi talist óvenjuleg skipti í fjármálum í ,,venjuleg“, verði hin nýja skipan að ná til allra þeirra þátta sem hafi talist óvenjulegir og færa þá alla til samræmis við raunveruleikann, en ekki aðeins hluta þeirra. Um lagarök vísa stefnendur til reglna um samningsfrelsi, reglna um jafngildi skráðra sem óskráðra samninga, reglna kröfuréttar um efndir samninga, 133. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, 52. gr. og 57. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, og til ákvæða 72., 74., 75. og 77. gr. stjórnarskrárinnar sem setja eignaskerðingum, afskiptum ríkisvaldsins af atvinnustarfsemi og skattheimtu þess skorður. Stefnendur kveða endurgreiðslukröfur sínar og kröfur um vexti og dráttarvexti byggja á lögum nr. 29/1995, sbr. lög nr. 38/2001. Upphafstími dráttarvaxta sé miðaður við þann tíma sem stefnendur hafi óskað eftir upptöku skattskila sinna. Þá sé krafa um málskostnað reist á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.2. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi mótmælir öllum málatilbúnaði stefnenda sem röngum. Í fyrsta lagi er á því byggt að endurgreiðslukrafa stefnenda sé fallin niður fyrir fyrningu. Krafa stefnenda byggi á lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Samkvæmt 4. gr. laganna falli krafa um endurgreiðslu niður fyrir fyrningu þegar fjögur ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað. Óumdeilt sé að stefnendur hafi talið hagnað af sölu hlutafjár í Fjarðarey ehf. fram til skatts árið 2006. Hagnaðurinn hafi verið skattlagður sem fjármagnstekjur á því ári og inntur af hendi. Endurgreiðslukrafa stefnenda sé því fyrnd hvort sem miðað sé við stefnubirtingu 23. júní 2015 eða beiðni stefnenda til ríkisskattstjóra um endurupptöku og leiðréttingu, dags. 7. og 16. mars 2012. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Verði stefndi ekki þegar sýknaður á grundvelli fyrningar byggir hann sýknukröfu sína á því að úrskurðir ríkisskattstjóra í málum stefnenda séu í einu og öllu í samræmi við lög. Engum þeim efnisannmörkum sé til að dreifa sem að lögum geti leitt til þess að þeir verði felldir úr gildi í heild sinni eða að hluta. Stefndi byggir á því að engin tvísköttun hafi átt sér stað. Í lögskýringargögnum með 52. gr. tekjuskattslaga komi fram að með ákvæðinu sé ekki verið að leggja til að fallið verði frá skattlagningu, heldur væri skattlagningu frestað þar til eignarhlutur í viðtökufélagi yrði seldur. Ekkert kæmi í veg fyrir að staðið væri að skiptingu á annan máta en gert væri ráð fyrir í ákvæðinu, en það myndi aftur á móti valda því að viðkomandi aðilar nytu ekki hins skattalega hagræðis sem tilgreint væri í ákvæðinu, heldur yrðu slík tilvik meðhöndluð eftir þeim reglum sem gildi um úttektarskattlagningu. Stefndi bendir á að samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli Ingimundar hf. liggi fyrir að skipting Ingimundar hf. hafi ekki öðlast gildi samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga nr. 2/1995 fyrr en hluthafafundur í Fjarðarey ehf. hafi samþykkt skiptinguna fyrir sitt leyti 26. september 2005. Stefnendur hafi selt þriðja aðila allt hlutafé sitt í Fjarðarey ehf. 27. maí 2005 og tekið við greiðslu söluverðsins 16. ágúst 2005. Gagngjaldsskilyrði 1. mgr. 52. gr. tekjuskattslaga hafi því ekki verið fyrir hendi og frestun skattlagningar á söluverði þeirra rekstareigna sem runnið hafi frá Ingimundi hf. til Fjarðareyjar hf. þar af leiðandi verið óheimil. Ingimundi hf. hafi því borið að standa skil á greiðslu skatts sem hafi numið söluhagnaði atvinnurekstrareignanna sem færðar hafi verið yfir í Fjarðarey ehf. Stefndi telur að hafa verði í huga að undir venjulegum kringumstæðum sé sala eigna skattlögð hjá lögaðilanum sjálfum. Ákvæði 52. gr. laga nr. 90/2003 sem kveði á um skattleysi/frest skattlagningar við skiptingu félaga, sé undantekningarákvæði. Uppfylli skipting ekki gagngjaldsskilyrði ákvæðisins hafi það í för með sér að þær eignir sem fari frá félagi við skiptingu skattleggist hjá félaginu sem hafi látið þær af hendi og afhending eða skipti á hlutabréfum hluthafa við skiptingu félags teljist hafa í för með sér skattskyldar tekjur hjá hluthöfum sem láta þau af hendi. Stefndi vísar til 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 í þessu sambandi þar sem kveðið sé á um að auk venjulegrar arðgreiðslu teljist til arðs af hlutum og hlutabréfum sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa sem telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu. Úttekt úr félagi, hvort sem um sé að ræða arð sem úthlutað væri með réttum hætti af skattlögðum tekjum, þ.e. hagnaði félagsins eftir skatt, eða óheimila úttekt, sé alltaf skattskyld í hendi hluthafanna. Mörg dæmi þessa sé að finna í dómaframkvæmd. Sama eigi við um söluhagnað af hlutabréfum í félagi. Eina hugsanlega álitaefnið í þessu sambandi sé að mati stefnda hvort skattleggja beri tekjurnar samkvæmt 1. eða 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Þessu til stuðnings vísar stefndi til úrskurða yfirskattanefndar nr. 175/2015 og 176/2015. Stefndi vísar og til þess að óumdeilt sé að í tilviki stefnenda hafi að auki átt sér stað sjálfstæð sala á öllu hlutafé þeirra í Fjarðarey ehf. til þriðja aðila. Stefnendur hafi fengið söluverðið greitt 16. ágúst 2005 samhliða útgáfu afsals. Að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar og í ljósi þess að í skattskilum stefnenda á gjaldárinu 2006 er tilgreindur söluhagnaður á hlutabréfum í Fjarðarey ehf., telur stefndi það vafalaust að um sé að ræða skattlagningu sérgreindra tekna sjálfstæðra skattaðila. Stefnendur töldu sér til tekna í skattskilum sínum söluhagnað af hlutum í Fjarðarey ehf. og er sú skattlagning í fullu samræmi við ákvæði 52. gr. tekjuskattslaga. Ingimundi hf. hafi á hinn bóginn verið ákvarðaður skattstofn vegna þess að ákvæði 52. gr. voru ekki uppfyllt við yfirfærslu eigna við skiptingu og þær tekjur skattlagðar sem hverjar aðrar tekjur lögaðila sem sæti sjálfstæðri skattlagningu. Ekki verði þannig með nokkru móti fallist á að um „tvöfalda skattlagningu“ sé að ræða fremur en lög standi til s.s. gildir annars vegar um skattlagningu tekna lögaðila og hins vegar skattlagningu hjá hluthöfum þegar félag úthluti arði af skattlögðum tekjum. Hvað þá heldur þegar um sé að ræða sjálfstæða sölu hluthafa á hlutabréfum í því félagi eða öðrum hlutafélögum, en það eigi vissulega við um stefnendur í þessu máli. Öndverðum málsástæðum stefnenda sé mótmælt sem röngum. Stefndi tekur fram að hann fái ekki séð hvernig synjun á því að endurákvarða réttilega álagða skatta stefnenda geti falið í sér skorður við frelsi þeirra til að haga atvinnustarfsemi sinni með þeim hætti sem þeim og löglegum félögum þeirra sé hagfelldust hverju sinni í skilningi 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár, allra síst í ljósi sérstakra ákvæða í 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár um skatta. Þá telur hann úrskurði ríkisskattstjóra í málum stefnenda fyllilega samrýmast fyrirmælum 11. gr. tekjuskattslaganna. Sú skattlagningarregla sé almenn og gildi án takmarkana um alla þá sem fái úthlutað verðmætum úr hlutafélagi. Stefndi mótmælir sem rangri málsástæðu stefnenda um að fjármagnstekjuskattur, sem þau hafi greitt árið 2006, brjóti gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Stefndi vísar til þess að óumdeilt sé að stefnendur hafi fengið söluverðið frá Skinney-Þinganesi hf. og Ketillaug ehf. í hendur 16. ágúst 2005 og að féð hafi verið þeim til frjálsrar ráðstöfunar. Það breytir engu um skattskyldu stefnenda að þau hafi síðar ráðstafað þessu fé til kaupa á hlutafé í Ingimundi hf. Stefndi kveðst vilja halda því til haga að í úrskurði ríkisskattstjóra í máli Ingimundar hf. hafi hvorki verið bornar brigður á réttmæti skiptingar félagsins né samning stefnenda um sölu hlutafjár Fjarðareyjar ehf. til Skinneyjar-Þinganess hf. og Ketillaugar ehf. Í úrskurðinum hafi hins vegar verið á því byggt að skattaleg meðferð Ingimundar hf. á þessum gerningum í skattskilum sínum hafi verið til málamynda, eins og síðar hafi verið staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 217/2015. Sú staðreynd að Ingimundur hf. hafi ekki notið þess skattalega hagræðis sem fólgið sé í 52. gr. tekjuskattslagana öndvert ráðagerðum félagsins leiði ekki sjálfkrafa til þess að skattskil annarra aðila í viðskiptunum hafi verið röng. Þegar í ljós komi að sú skattasniðgönguleið sem farin hafi verið hafi ekki gengið upp geti aðilar þannig ekki óskað eftir leiðréttingu á skattskilum sínum í ljósi þess að sá „forsendubrestur“ hafi orðið að aðferðin sem þeir völdu hafi þrátt fyrir allt leitt til skattlagningar sem þeir voru að reyna að forðast eða jafnvel hærri skattlagningar en ef rétt hefði verið staðið að öllum skattskilum þeirra aðila sem að komu. Að öllu framangreindu virtu telur stefndi að rétt hafi verið að synja stefnendum um endurupptöku á skattskilum þeirra vegna gjaldársins 2006. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnenda sérstaklega bæði sem vanreifaðri og ósannaðri. Upphafsdagur vaxta sé órökstuddur, enda komi hvergi fram í gögnum málsins hvaða dag stefnendur hafi innt af hendi greiðslu fjármagnstekjuskatts. Þá séu allir vextir eldri en fjögurra ára fyrndir í samræmi við 4. gr. laga nr. 29/1995 sem og almenna fyrningarreglu 3. gr. laga nr. 150/2007, sbr. 3. gr. eldri fyrningarlaga nr. 14/1905. Eigi stefnendur einhverja kröfu til greiðslu vaxta beri því að miða upphafsdag þeirra við síðara tímamark. Stefndi styður kröfu sína um málskostnað við 130. gr. laga nr. 91/1991.IV Kröfur stefnenda eru á því reistar að ríkisskattstjóra hafi verið skylt að verða við beiðni þeirra um endurupptöku og leiðréttingu á því að leggja bæri á þau fjármagnstekjuskatt gjaldárið 2006 í ljósi þeirrar afstöðu skattyfirvalda að líta bæri á Ingimund hf. sem raunverulegan seljanda fiskiskipsins Helgu RE 49, ásamt veiðarfærum og fiskveiðiheimildum, og að söluhagnaðurinn skyldi færður til tekna hjá félaginu. Stefnendur krefjast þess annars vegar að ákvarðanir ríkisskattstjóra frá 12. ágúst 2013 um að hafna beiðni þeirra þar að lútandi verði felldar úr gildi. Hins vegar krefjast þeir endurgreiðslu þess fjármagnstekjuskatts sem þau inntu af hendi á árinu 2006 vegna tekna af sölu hlutabréfa í Fjarðarey ehf., en sú krafa er reist á lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Stefndi krefst sýknu aðallega á þeim grunni að endurgreiðslukrafan sé fyrnd. Um það vísar hann til 4. gr. fyrrgreindra laga nr. 29/1995. Í ákvæðinu segir að krafa um endurgreiðslu samkvæmt lögunum falli úr gildi fyrir fyrningu þegar fjögur ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað. Þar segir enn fremur að allir áfallnir vextir fyrnist samhliða kröfu um endurgreiðslu. Ákvæði þetta er afdráttarlaust um að fjögurra ára fyrningarfrestur hefjist þegar greiðsla eigi sér stað. Þó er óljóst hvernig álitaefni um fyrningu horfir við þegar skattyfirvöld beita endurálagningu, sem skattgreiðandi telur kalla á leiðréttingu á skattgreiðslu sinni, þegar fjögur ár eru liðin af sex ára fresti samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Stefnendur eiga hvað sem því líður lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum um ógildingu ákvarðana ríkisskattstjóra frá 12. ágúst 2013. Því er rétt að fjalla fyrst um þann ágreining sem uppi er um efni þeirra ákvarðana áður en afstaða er tekin til þess hvort endurgreiðslukrafa stefnenda kunni að vera fyrnd. Beiðni stefnenda 7. og 16. mars 2012 um breytingu á skattálagningu þeirra var reist á 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar er ríkisskattstjóra veitt heimild til þess að taka til greina beiðni af þessu tagi, en þó lengst sex ár aftur í tímann talið frá því ári þegar beiðni kemur fram, enda liggi verulegir hagsmunir að baki slíkri beiðni. Skal slík beiðni byggjast á nýjum gögnum og upplýsingum, eins og segir í ákvæðinu. Heimilt er að víkja frá framangreindum tímamörkum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Synjun ríkisskattstjóra á því að verða við beiðni stefnenda var ekki reist á því að á það skorti að fyrrgreindu skilyrði um tímamörk væri fullnægt. Í skattframtölum stefnenda vegna tekjuársins 2005 voru taldar fram tekjur sem áttu rætur að rekja til hagnaðar af sölu hlutabréfa í Fjarðarey ehf., eins og rakið er í kafla II. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 12. nóvember 2015 tóku skiptin á Ingimundi hf. ekki gildi fyrr en hluthafafundur í Fjarðarey ehf. hafði samþykkt skiptinguna fyrir sitt leyti 26. september 2005. Þá höfðu stefnendur þegar ráðstafað eignarhlutum sínum í Fjarðarey ehf. með kaupsamningi 27. maí 2005. Þau fengu því aldrei hlutabréf í því félagi í sínar hendur nema að nafninu til og ekki var fullnægt svonefndu gagngjaldsskilyrði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/2003. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar segir að líta verði svo á að með kaupsamningi um hlutafé í hinu óstofnaða félagi, Fjarðarey ehf., frá 27. maí 2005 hafi í reynd verið ráðstafað eignum og réttindum í eigu Ingimundar hf. til kaupenda hlutanna í hinu óstofnaða félagi, enda voru þeir orðnir hluthafar í því þegar eignirnar og réttindin runnu til þess frá Ingimundi hf. Af þessum sökum var skattyfirvöldum rétt með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 að ákveða að kaupverð samkvæmt samningnum skyldi fært til tekna hjá Ingimundi hf. að öðrum skilyrðum endurálagningar fullnægðum. Hér reynir á hvort þessi niðurstaða gefi tilefni til þess að fella niður álagningu fyrrgreinds fjármagnstekjuskatts er byggðist á því að stefnendur hefðu selt hlutabréf sín í Fjarðarey ehf. gegn umsömdu endurgjaldi. Þó að leiða megi af framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands að tekjur af sölu umræddra eigna og réttinda Ingimundar hf. hefðu með réttu átt að falla félaginu í skaut, en ekki stefnendum, verður ekki fram hjá því litið að þeim fjármunum, sem komu fyrir þessi verðmæti, var ráðstafað til stefnanda 16. ágúst 2005, eins og gögn málsins bera með sér, og voru þeim til frjálsrar ráðstöfunar eftir það. Í því ljósi var ríkisskattstjóra rétt að líta svo á að fjármunir er svöruðu til hagnaðar af sölu umræddra verðmæta hefðu runnið til stefnenda og væru því tekjur af hlutareign þeirra í Ingimundi hf. í samræmi við 11. gr. laga nr. 90/2003 sem eru skattskyldar samkvæmt 7. gr. sömu laga. Ekki er fallist á að um óheimila tvísköttun hafi verið að ræða enda getur fjármunum, er svara til söluhagnaðar af eignum hlutafélags og félagið greiðir tekjuskatt af, verið úthlutað til hlutareigenda sem teljast þá skattskyldar tekjur hans í samræmi við fyrrgreint ákvæði laga nr. 90/2003 og 4. tölulið c-liðar 7. gr. laganna. Þá fær dómurinn ekki séð að sú ákvörðun að ráðstafa þessum tekjum til kaupa á hlutafé í Ingimundi hf. af félaginu sjálfu, eins og skattframtal stefnanda, Ármanns Ármannssonar, ber með sér að hann hafi gert, breyti því að honum bar skylda til að greiða skatt af þeim. Samkvæmt framansögðu hafa stefnendur ekki sýnt fram á að sú breyting skattyfirvalda, að færa hagnað af sölu eigna og réttinda Ingimundar hf. samkvæmt kaupsamningi 27. maí 2005 félaginu til tekna, leiði lögum samkvæmt til þess að fella beri niður skattálagningu sem reist var á tekjum stefnenda af sölu hlutabréfa í Fjarðarey ehf. Sú niðurstaða, sem reist er á almennum og efnislegum mælikvarða 11. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 7. gr. sömu laga, er gilda um hvers konar úthlutun verðmæta úr hlutafélögum, felur ekki í sér óheimila eignaskerðingu samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá er sú niðurstaða heldur ekki andstæð atvinnufrelsisákvæði 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, enda helgast hún af lögmætri álagningu skatts af tekjum stefnenda. Því verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber stefnendum óskipt að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur. Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.D Ó M S O R Ð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda, Ármanns Ármannssonar, Ármanns Fr. Ármannssonar og Estherar Óskar Ármannsdóttur. Stefnendur greiði stefnda óskipt 800.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 13/2000 | Kærumál Nauðungarsala Aðild | Við nauðungarsölu á fiskeldisstöð krafðist S, leigjandi stöðvarinnar, þess að vikið yrði frá almennum skilmálum við nauðungarsölu. Krafa þessi sætti andmælum af hálfu eigenda landsins, sem stöðin stóð á. Talið var að landeigendurnir teldust ekki aðilar að nauðungarsölunni. Kröfu S var eigi að síður hafnað, þar sem á skorti að allir veðhafar, samkvæmt fram lögðum gögnum, hefðu samþykkt umrætt frávik. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. desember 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að vikið yrði á nánar tiltekinn hátt frá almennum uppboðsskilmálum við nauðungarsölu á fiskeldisstöð í Vatnsleysuvík á spildu úr landi Minni-Vatnsleysu og Stóru-Vatnsleysu í Vatnsleysustrandarhreppi. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Hann krefst þess að skilmálum við uppboð á eigninni verði breytt á þann veg aðallega að kaupandi fái umráð hennar „þegar liðin eru þrjú ár frá því að honum er endanlega slegin eignin“, en til vara að frestur fram að umráðatöku kaupanda verði mun lengri en mælt er fyrir um í almennum uppboðsskilmálum fyrir fasteignir. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður. Den Norske Bank AS, Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. og Laxalind ehf., sem stóðu að sókn málsins fyrir héraðsdómi við hlið sóknaraðila, hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. I. Með beiðnum 26. janúar og 6. febrúar 1998 leituðu Den Norske Bank AS og Iðnþróunarsjóður nauðungarsölu á fyrrnefndri fiskeldisstöð ásamt leigulóðarréttindum, þinglýstri eign Laxalindar ehf., til fullnustu á nánar tilteknum veðkröfum. Hefur Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. síðan tekið við aðild að nauðungarsölunni af Iðnþróunarsjóði. Landspildan, sem fiskeldisstöðin er á, er eign varnaraðila, en hún var leigð Lindalaxi hf. til 25 ára með samningi 23. október 1987. Þar var meðal annars kveðið á um að leigutaka væri óheimilt að framselja réttindi sín samkvæmt samningnum nema með samþykki leigusala, en þeim síðarnefndu bæri þó að hlíta aðilaskiptum að réttindunum vegna nauðungarsölu eða gjaldþrotaskipta á búi leigutakans. Við gjaldþrotaskipti á búi leigutakans keypti Laxalind hf. fiskeldisstöðina ásamt leigulóðarréttindum með samningi 22. febrúar 1990. Sóknaraðili kveðst hafa tekið réttindi kaupandans, nú Laxalindar ehf., á leigu með munnlegum samningi. Verður að leggja þá staðhæfingu til grundvallar, sbr. dóm Hæstaréttar 7. júní 1999 í fyrra máli á milli aðilanna. Varnaraðilar vísa á hinn bóginn til þess að þau hafi ekki samþykkt að sóknaraðili fengi að taka við réttindum Laxalindar ehf., svo sem áskilið sé í leigusamningnum frá 23. október 1987, og sé því réttur sóknaraðila háður annmörkum. Þau höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness 17. febrúar 1999 á hendur sóknaraðila og Laxalind ehf., þar sem meðal annars er krafist viðurkenningar á riftun leigusamnings um landspilduna, sem fiskeldisstöðin er á. Því máli mun ekki vera lokið. Við nauðungarsöluna, sem stofnað var til á framangreindan hátt, krafðist sóknaraðili þess að sýslumaðurinn í Keflavík breytti uppboðsskilmálum í það horf, sem greinir í áðurnefndri aðalkröfu hans. Gerðarbeiðendurnir við nauðungarsöluna, Den Norske Bank AS og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., lýstu sig samþykka þessari kröfu ásamt gerðarþolanum, Laxalind ehf. Sýslumaður hafnaði henni með ákvörðun 28. september 1998. Í málinu leitast sóknaraðili við að fá þessari ákvörðun hnekkt og uppboðsskilmálum breytt. II. Varnaraðilar vísa til þess að þeir séu leigusalar þeirra afnotaréttinda, sem krafist er nauðungarsölu á. Þeir hafi rift leigusamningi sínum við gerðarþola, Laxalind ehf., og höfðað dómsmál því til staðfestingar. Vegna riftunarinnar séu afnotaréttindin ekki lengur á hendi gerðarþolans, heldur fallin á ný til varnaraðila. Af þessum sökum eigi varnaraðilar aðild að nauðungarsölunni, sbr. 3. tölulið 2. gr. laga nr. 90/1991. Nauðungarsalan, sem um ræðir í málinu, nær sem fyrr segir til mannvirkja í tengslum við fiskeldisstöð ásamt réttindum gerðarþolans, sem hann reisir á leigusamningnum frá 23. október 1987, yfir landspildu, sem tilheyrir varnaraðilum. Varnaraðilar hafa ekki fært fyrir því rök að þeir geti talist eiga réttindi yfir mannvirkjunum. Í skilningi 3. töluliðar 2. gr. laga nr. 90/1991 njóta þeir heldur ekki réttinda yfir ætluðum leigulóðarréttindum gerðarþolans, enda eru leigulóðarréttindin sótt í þeirra hendur sem leigusala. Yfirlýsing þeirra um riftun leigusamningsins og málshöfðun til að fylgja henni eftir fær því ekki breytt að hann veitir enn gerðarþolanum þinglýst réttindi, sem hafa ekki færst til varnaraðilanna, enda hefur hann andmælt riftun og veitir ekki atbeina sinn að framkvæmd hennar. Af þessum sökum geta þeir ekki reist aðild að nauðungarsölunni á tilvitnuðu lagaákvæði. Í málinu verður ekki leyst úr því hvort umrædd lóðarréttindi gerðarþolans séu fallin niður, enda er unnt að selja þau nauðungarsölu án tillits til óvissu, sem kann að ríkja um þau. Fengi þá kaupandi í engum atriðum aðra stöðu gagnvart varnaraðilum en gerðarþoli hefur nú. Að þessu gættu verður aðild varnaraðila að nauðungarsölunni heldur ekki studd við ákvæði 4. töluliðar 2. gr. laga nr. 90/1991. Breytingin, sem sóknaraðili krefst að gerð verði á uppboðsskilmálum, er þess efnis að ekki fer á milli mála að hún myndi bæði torvelda að mun sölu á eignunum, sem nauðungarsalan tekur til, og leiða til þess að lægra verð en ella fengist fyrir þær. Hún getur því bersýnilega orðið til tjóns jafnt fyrir gerðarþola, gerðarbeiðendur og aðra, sem njóta réttinda yfir eignunum. Gerðarbeiðendur og gerðarþoli við nauðungarsöluna hafa allir lýst sig samþykka kröfu sóknaraðila um breytingu á uppboðsskilmálum. Samkvæmt fyrirliggjandi ljósriti úr þinglýsingabók eru þeir hins vegar ekki einir um að eiga hér hlut að máli, enda er þar getið um áhvílandi veðréttindi handa Iðnaðarbanka Íslands hf. samkvæmt þremur heimildarbréfum frá árinu 1988. Í málinu liggur ekkert fyrir um að veðréttindi þessi séu liðin undir lok, á hvers hendi þau séu nú eða hver afstaða veðhafans sé til uppboðsskilmála. Vegna þessa var sýslumanni rétt samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laga nr. 90/1991 að hafna kröfu sóknaraðila um breytingu skilmálanna. Ákvörðun hans frá 28. september 1998 verður því að standa óröskuð. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Rétt þykir að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. I. Mál þetta var þingfest hinn 23. febrúar 1999. Úrskurður um formhlið gekk hinn 5. maí s. á. og var niðurstaðan að vísa málinu frá dómi. Þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar og með dómi hinn 7. júní 1999 í hæstaréttarmálinu nr. 201/1999 var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Málið var tekið fyrir að nýju hinn 11. nóvember. Að lokinni aðalmeðferð hinn 9. desember 1999 var málið tekið til dóms. Málið snýst um ágreining um þá ákvörðun sýslumanns í Keflavík að nauðungarsala nr. 980072/98 á eigninni Fiskeldisstöð í Vatnsleysuvík á spildu í landi jarðanna Stóru- og Minni- Vatnsleysu, Vatnsleysustrandarhreppi, nái fram að ganga og að söluskilmálar við væntanlega framhalds nauðungarsölu verði áfram í samræmi við auglýsingu um almenna skilmála fyrir nauðungarsölu á fasteignum nr. 41 frá 1992. Af hálfu sóknaraðila, Silungs ehf., kt. 631192-2119 og varnaraðilanna Den Norske Bank A/S, Bergen, Noregi, Iðnþróunarsjóðs, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík og Laxalindar ehf., kt. 631089-1009, eru þær dómkröfur gerðar, að héraðsdómari breyti ákvörðun sýslumannsins í Keflavík frá 28. september sl. á þann veg að uppboðskaupandi fái umráð nauðungarsöluandlagsins þegar liðin eru þrjú ár frá því að honum er endanlega slegin eignin. Til vara gerir sóknaraðili þær kröfur að fyrrgreint tímamark miðist við skemmri tíma en að framan er krafist, en þó mun lengri en hinir almennu uppboðsskilmálar gera ráð fyrir, og aldrei skemmri tíma en tvö ár. Þá gerir sóknaraðili þær kröfur að héraðsdómur ákveði að eigendur jarðanna Stóru og Minni Vatnsleysu, þau Sæmundur Þórðarson, Anne May, Þórður Jónas og Siv E. Sæmundarbörn og Geirlaug, Katrín og Skúli Þorvaldarbörn eigi ekki aðild að málinu eða nauðungarsölunni. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins, óskipt úr hendi varnaraðilanna, Sæmundar Þórðarsonar, Anne May, Þórðar Jónasar og Sivjar E. Sæmundarbarna og Geirlaugar, Katrínar og Skúla Þorvaldarbarna, a. m. k. vegna þess dráttar málsins sem snýr að aðild þeirra. Þess er krafist að málskostnaðurinn beri dráttarvexti að liðnum fimmtán dögum frá ákvörðun dómsins. Af hálfu varnaraðila, eigenda Stóru- og Minni- Vatnsleysu, þeirra Sæmundar Þórðarsonar, Anne May Sæmundsdóttur, Þórðar Jóns Sæmundssonar, Sivjar E. Sæmundsdóttur, Geirlaugar Þorvaldsdóttur, Katrínar Þorvaldsdóttur og Skúla Þorvaldssonar, er þess krafist að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Keflavík um óbreytta söluskilmála. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins. Við upphaf aðalmeðferðar var því lýst yfir af hálfu málsaðilja að ekki verði deilt um frávísunarkröfur sem hafðar hafa verið uppi, vegna dóms Hæstaréttar frá 7. júní í máli nr. 201/1999. II. Í nauðungarsölubeiðni Iðnþróunarsjóðs, nú Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, móttekinni af sýslumanninum í Keflavík hinn 13. febrúar 1998, er nauðungarsöluandlag og aðild tilgreind svo: ,,Fiskeldisstöð Laxalindar ehf. við Vatnsleysuvík, 190 Vogum, þ.e. öll mannvirki sem eru á leigulandi fiskeldisstöðvarinnar, sbr. þinglýstan leigusamning 23. nóvember 1997, þinglýst skjal nr. 5587/1987. Helstu mannvirki þar eru fiskeldisker, rafstöðvarhús, skrifstofuhús, dælur og tæki til fiskeldis, sbr. 6. gr. veðlaga nr. 18/1987. Ennfremur leiguréttur og öll önnur réttindi sem veðsett eru skv. framangreindum leigusamningi. Gerðarbeiðandi: Iðnþróunarsjóður, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík. Gerðarþoli: Laxalind ehf., kt. 631089, Vatnsleysuvík, Vogum.” Sýslumaður tók beiðni þessa fyrir hinn 24. apríl 1998 og lagði þá einnig fram nauðungarsölubeiðni frá Den Norske Bank A/S og Iðnþróunarsjóði. Auk framangreindra aðila var mætt af hálfu landeigenda, eigenda jarðanna Stóru- og Minni Vatnsleysu, og lögð fram tilkynning um riftun á framangreindum lóðarleigusamningi, útburðarbeiðni og fleiri skjöl er m.a. sýndu að leigutaki samkvæmt framangreindum samningi, Laxalind ehf., síðar þrotabú félagsins, hefði selt Silungi ehf., sóknaraðila í máli þessu, réttinn samkvæmt hinum þinglýsta leigusamningi, ásamt öðrum þeim eignum er nauðungarsölubeiðnin tekur til. Af hálfu landeigenda var því mótmælt að nauðungarsalan næði fram að ganga, en af hálfu gerðarbeiðenda var krafa um sölu ítrekuð. Sýslumaður féllst eigi á mótmæli landeigenda og ákvað framhald nauðungarsölu. Er sýslumaður tók málið fyrir hinn 17. september 1998 var m.a. bókað: ,,Af hálfu gerðarþola (Laxalindar ehf.) mætir Bjarni Þór Óskarsson hdl. Uppboðið var auglýst í Víkurfréttum þann 10.09. sl. Gætt er að því sem segir í 2. og 3. mgr. 31. gr. laga nr. 90/1991. Bjarni Þór Óskarsson hdl. mætir fyrir leigutaka landsins, Silung ehf., og fer fram á að söluskilmálum vegna sölu eignarinnar verði breytt á þann hátt að uppboðskaupandi fái ekki umráð eignarinnar fyrr en að liðnum þremur árum frá því að honum er endanlega slegin eignin. Mætt er af hálfu allra veðhafa og samþykkja þeir framangreinda breytingu á uppboðsskilmálum og gerðarþoli samþykkir einnig framangreint. Af hálfu landeigenda er mættur Ingimundur Einarsson hrl. og mótmælir að framangreind breyting á skilmálum fari fram. Af hálfu gerðarþola og veðhafa er því haldið fram að landeigendur séu ekki aðilar nauðungarsölunnar. Af hálfu landeigenda er bent á að þeir séu aðilar að leigusamningi um eignina. Sýslumaður mun tilkynna aðilum málsins þegar uppboðsskilmálar hafa verið ákveðnir. Hörður F. Harðarson hdl. vegna Fjárfestingarbanka atvinnulífsins býður kr. 300.000. Frekari boð komu ekki fram. Ákveðið er að þessu uppboði verði fram haldið á eigninni sjálfri miðvikudaginn 14. október nk. kl. 13.30.” Með bréfi dags. 28. september 1998 tilkynnti sýslumaður lögmönnum gerðarbeiðenda, gerðarþola og landeigendum eftirfarandi: ,,Í þinghaldi 17. september 1998 við byrjun uppboðs eignarinnar Vatnsleysuvíkur fiskeldistöð, ásamt öllum mannvirkjum og leigurétti á spildu úr landi Minni og Stóru Vatnsleysu, Vatnsleysustrandarhreppi, var þess krafist af óþinglýstum leigutaka landsins Silungi ehf., kt. 621192-2119 að uppboðsskilmálum vegna væntanlegrar nauðungarsölu eignarinnar yrði breytt á þann hátt að væntanlegur uppboðskaupandi eignarinnar fengi ekki umráð hennar fyrr en að liðnum þrem árum frá því honum væri endanlega slegin eignin við framhaldsnauðungarsölu. Var þetta samþykkt af hálfu veðhafa og gerðarþola við nauðungarsöluna. Af hálfu leigusala þ.e.a.s. landeigenda framangreinds lands var þessu mótmælt. Sýslumaðurinn í Keflavík hefur nú tekið þá ákvörðun að söluskilmálar við væntanlega framhaldsnauðungarsölu eignarinnar 14. október 1998 kl. 13.30 verði óbreyttir eins og þeir eru tilgreindir í auglýsingu um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á fasteigninni nr. 41 frá 1992.” III. Máli því sem hér er til úrlausnar var hrundið af stað með bréfi lögmanns leigutakans Silungs ehf. til sýslumannsins í Keflavík dagsettu 29.9.1998 er hljóðar svo: ,,Undirritaður, f.h. Silungs ehf., kt. 631192-2119, mótmælir þeirri ákvörðun sýslumanns að hafna ósk um breytingu á söluskilmálum á fiskeldisstöð í Vatnsleysuvík, sem fram kom í þinghaldi 17.09.1998, sbr. ákvörðun dags. 28.09.1998, sem barst undirrituðum í dag. Þá er því sjálfstætt mótmælt að landeigendur séu aðilar málsins, eða eigi af sölunni nokkra lögvarða hagsmuni, eins og ákvörðunin virðist gera ráð fyrir. Andlag sölunnar er ekki réttindi þeirra, en í þinglýstum grunnleigusamningi er beinlínis gert ráð fyrir því að réttur sem sá samningur veitir verði seldur nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 15. gr. málskjals nr. 12. Rökstuðningur fyrir því að sýslumaður eigi að verða við ósk um breytingu á söluskilmálum er annars vegar sá, að nauðungarsalan sé framkvæmd af hálfu opinbers valds f.h. gerðarbeiðenda, að teknu tilliti til hagsmuna þeirra sem rétt eiga til söluandlagsins. Í þessu tilviki hefur komið fram einróma ósk allra þeirra sem eiga lögvarðra hagsmuna að gæta af sölunni, um að söluskilmálum verði breytt með tilteknum hætti. Engin rök séu því til þess að sýslumaður gangi gegn óskum þessara rétthafa, enda engin rök færð fyrir ákvörðuninni. Hins vegar er á því byggt að söluandlagið sé svo sérstakt að það beinlínis kalli á það að sýslumaður ótilkvaddur breyti útfrá hinum almennu skilmálum. Þannig er um mannvirki að tefla sem eru sérútbúin til eldis fisks og eðlilegur eldistími er tvö til þrjú ár. Í fiskeldisstöðinni er fiskur að verðmæti yfir 200 milljónir, verði unnt að ljúka eldisferlinu. Verði hinum almennu söluskilmálum ekki breytt leiðir það til þess að Silungur ehf. gæti þurft að slátra fiskinum langt fyrir heppilegan og fyrirhugaðan slátrunartíma. Af því leiðir sóun verðmæta upp á a.m.k. 100 milljónir. Að framansögðu virtu telur Silungur ehf. ljóst að sýslumanni sé rétt að breyta ákvörðun sinni, en krefst þess ella að málinu verði þegar skotið til Héraðsdóms Reykjaness og að frekari aðgerðir við nauðungarsöluna verði stöðvaðar meðan málið er rekið fyrir dómstólum. Hjálagðar eru yfirlýsingar veðhafa og gerðarþola um stuðning við kröfu þessa, sbr. og bókun í þingbók við fyrirtöku málsins 17.09.1998.” Bréfi þessu svarar sýslumaður með bréfi dags. 1. október, þar sem m.a. segir: “Sýslumaðurinn í Keflavík lítur svo á, sbr. 2. mgr. 73. gr. l. nr. 90 frá 1991, að Silungur ehf. sé með fyrrgreindu bréfi sínu að leita úrslausnar héraðsdómara um þá ákvörðun sýslumanns sem kom fram í bréfi hans til aðila málsins dags. 28. september s.l., en sú ákvörðun er þar kemur fram varðandi söluskilmála við nauðungarsöluna stendur óhögguð. Samkvæmt 3. mgr. 73. gr. l. nr. 90 frá 1991 sendast yður gögn málsins.” Þess má geta að þann 24. febrúar 1999 var þingfest í héraðsdómi Reykjaness almennt einkamál þar sem að eigendur jarðanna Stóru- og Minni- Vatnsleysu, Vatnsleysustrandarhreppi, Gullbringusýslu krefjast þess að staðfest verði riftun þeirra á leigusamningi, upphaflega við Lindalax hf., nú við Laxalind ehf. og auk þess krefjast þeir greiðslu vangoldins leigugjalds. Silungi ehf. er stefnt til réttargæslu í þessu máli sem ekki hefur verið til lykta leitt. IV. Varnaraðilar, eigendur jarðanna Stóru- og Minni-Vatnsleysu, Vatnsleysustrandarhreppi, Gullbringusýslu, krefjast þess sem fyrr er greint, að ákvörðun sýslumannsins í Keflavík um að hafna kröfu sóknaraðila um breytingu á nauðungarsöluskilmálum nauðungarsölu nr. 980072/98, Vatnsleysuvík, spilda úr landi Minni og stóru vatnsleysu, verði staðfest. Aðild sína að máli þessu rökstyðja landeigendur með því, að þar sem þeir hafi rift leigusamningi um landspilduna standi mannvirkin leiguréttindalaus á landi þeirra. Þau séu viðskeytt við fasteign þeirra. Hinn 23. október 1987 hafi landeigendur annars vegar og Lindalax hf. hins vegar gert með sér leigusamning um landspildu þá sem uppboðsmál þetta varðar. Varnaraðili Laxalind ehf. hafi síðan gengið inn í rétt Lindalax hf. við gjaldþrot fyrrnefnds félags á grundvelli heimildar í 2. mgr, 15. gr. nefnds leigumála. Laxalind ehf. hafi fullkomlega vanefnt skyldur sínar til greiðslu leigugjalds samkvæmt samningnum. Vegna þeirrra vanefnda hafi landeigendur lýst yfir riftun leigumálans með símskeyti hinn 16. mars 1998. Þeir hafi höfðað einkamál, sem enn sé ekki lokið, til staðfestingar á riftuninni. Andlag nauðungarsölunnar sé m. a. þau leiguréttindi sem fyrrnefndur samningur veitti uppboðsþola. Í samræmi við riftunaryfirlýsingu sína telja landeigendur að réttindi uppboðsþola samkvæmt samningnum séu niður fallin og að öll réttindi yfir landinu séu til þeirra fallin að nýju sem þinglýstra eigenda landsins. Landeigendur telja að þeir hafi, sem eigendur þess lands sem leiguréttindi þau sem selja á á uppboði náðu yfir, og mannvirki þau sem uppboðið nær til standa á, mikla hagsmuni af því að nauðungarsalan fari ekki fram. Ljóst sé að það skerði til muna þá eign sem krafist er sölu á, ef uppboðskaupandi fengi ekki að njóta arðs af eigninni fyrr en eftir þrjú ár. Þær breytingar sem krafist hafi verið á uppboðsskilmálum séu miklar og hefðu afdrifarík áhrif á möguleika þeirra til að gæta réttar síns við söluna, t.d. með því að bjóða í hana og hefja þegar rekstur ef af uppboðskaupum yrði. Þannig sé ljóst að hagsmunir þeirra af framgangi og meðferð nauðungarsölunnar séu miklir og með hliðsjón af höfðun riftunarmálsins sé einnig ljóst að þeir séu brýnir. Salan í heild og þá einkum óeðlilegir og ósanngjarnir söluskilmálar geti samkvæmt þessu augljóslega valdið þeim miklu tjóni og óþægindum. Vísa þeir m. a. til 3. mgr. 29. gr. 4. tl. 2. gr. nsl. Landeigendur byggja á því að óheimilt sé að víkja frá almennum söluskilmálum ef telja megi að það torveldi sölu á eigninni eða horfi aðila að nauðungarsölunni eða þriðja manni ólöglega til tjóns, nema fyrir liggi samþykki þessara aðila. Telja þeir að svo mikil frávik frá hinum almennu uppboðsskilmálum geti torveldað sölu á eigninni og valdið þeim miklu tjóni og réttarspjöllum. Vegna þessa krefjast þeir þess að staðfest verði sú ákvörðun sýslumanns að láta almenna uppboðsskilmála gilda við nauðungarsöluna. Þá kom fram í máli lögmanns landeigenda, að hann teldi að túlka beri 29. gr. nauðungarsölulaga á þann veg að gildi samþykkis þeirra sem hlut ættu að máli, skipti aðeins máli þegar sýslumaður ákvæði að víkja frá almennum uppboðsskilmálum. Þeir geti með öðrum orðum ekki knúið sýslumann til þess að gera þær breytingar sem þeim þóknast. V. 29. gr nauðungarsölulaga nr. 90/1991 hljóðar svo: ,,Eftir kröfu aðila að nauðungarsölunni getur sýslumaður ákveðið með bókun í gerðabók að víkja í tilteknum atriðum frá almennum uppboðsskilmálum. Krafa um slíka breytingu skal að jafnaði koma fram við fyrirtöku skv. 21. gr. Breytingu má þó gera allt þar til lokið er að leita boða í eignina, en raski hún þá forsendum fyrir þegar framkomnum boðum verða bjóðendur ekki bundnir við þau. Ef um uppboð er að ræða á eign, sem almennir uppboðsskilmálar hæfa ekki, ákveður sýslumaður ótilkvaddur í hverjum atriðum verði vikið frá þeim svo viðeigandi sé. Ákvörðun um þetta skal bókuð í gerðabók. Ekki verður vikið frá almennum uppboðsskilmálum ef telja má hættu á að það torveldi að mun sölu á eigninni, horfi aðila að nauðungarsölunni eða þriðja manni ólöglega til tjóns, leiði til mismununar á rétthöfum yfir eigninni eða tefji óhæfilega að gerðarbeiðendur fái fullnustu, nema hlutaðeigendur lýsi sig samþykka því." Álit dómsins. Í máli þessu eru uppboðsþolinn Laxalind ehf. og báðir uppboðsbeiðendur, Iðnþróunarsjóður og Den Norske Bank ASA, svo og núverandi rekstraraðili umræddrar laxaeldisstöðvar, Silungur ehf., allir sammála um að krefjast þess að uppboðsskilmálum, sem óumdeilt er að eru hinir almennu uppboðsskilmálar í merkingu 28. gr. og 29. gr. nauðungarsölulaga, verði breytt á þann veg, að uppboðskaupandi fái umráð nauðungarsöluandlagsins þegar þrjú ár eru liðin frá því að honum er slegin eignin. Gegn þessu leggjast landeigendur. Telja verður að landeigendur, sem eru þinglýstir eigendur að landi því er mannvirki þau er uppboðið tekur til standa á, og leigusalar að umdeildum leigurétti sem bjóða á upp, geti tekið sér stöðu sem aðilar að uppboðinu og haft uppi kröfur varðandi uppboðsmeðferðina, og þá jafnframt verið varnaraðilar að máli þessu. Að fenginni þeirri niðurstöðu liggur fyrir að eigi er fullnægt því skilyrði 3. mgr. 29. gr. nauðungarsölulaga, að hlutaðeigendur hafi lýst sig samþykka þargreindum frávikum frá almennum uppboðsskilmálum. Telja verður að hið umkrafða frávik í máli þessu sé svo verulegt, að þeir er fráviksins krefjast, verði að hnekkja þeirri fullyrðingu landeigenda, að frávikið sé til þess fallið að hafa þær afleiðingar sem lýst er í síðast tilvitnuðu lagaákvæði. Það hefur sóknaraðila í máli þessu og þeim er styðja kröfur hans ekki tekist. Ber því að hafna kröfum sóknaraðila. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð: Synjað er dómkröfum sóknaraðila, Silungs ehf. og varnaraðilanna Iðnþróunarsjóðs og Den Norske Bank ASA, um að vikið verði frá almennum uppboðsskilmálum við nauðungarsölu sýslumanns í Keflavík nr. 980072/98 á eigninni Vatnsleysuvík, fiskeldisstöð, ásamt öllum mannvirkjum og leigurétti á spildu úr landi jarðanna Stóru- og Minni- Vatnsleysu í Vatnsleysustrandarhreppi. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 147/2006 | Ávana- og fíkniefni Framleiðsla Vopnalög Upptaka | L var í félagi við annan mann sakfelldur fyrir framleiðslu á 110,8 gr. af amfetamíni, og vörslur á tilgreindu magni af vökvum og efnum sem tengdust framleiðslunni og innihéldu amfetamín, metamfetamín og efnið P-2-NP. Þá var L einnig sakfelldur fyrir vörslur á 64,18 gr. af amfetamíni, 193 amfetamíntöflum og loftskammbyssu á heimili sínu og 0,45 gr. af amfetamíni og 10,71 gr. af hassi í bifreið sinni. Talið var að ekki væri komin fram sönnun þess að L hafi ætlað það amfetamín sem hann var sakfelldur fyrir framleiðslu á og 64,18 gr. af því amfetamíni sem hann var sakfelldur fyrir vörslur á, að öllu leyti til sölu. Refsing L var ákveðin með hliðsjón af eindregnum brotavilja hans, alvarleika brotanna, játningu á sakargiftum að talsverðu leyti og aðstoð við lögreglu, sem og 1., 3. og 6. tölulið 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. L var dæmdur til 14 mánaða fangelsisvistar og til að sæta upptöku á loftskammbyssu, fíkniefnum, vökvum og efnum sem tengdust fíkniefnaframleiðslu og munum sem notaðir höfðu verið til ólögmætrar meðferðar fíkniefna. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. febrúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu. Ákærði krefst sýknu af því að hafa ætlað til sölu 110,8 grömm af amfetamíni, sem hann var sakfelldur fyrir framleiðslu á samkvæmt héraðsdómi, og að hafa ætlað til sölu í ágóðaskyni þau 64,18 grömm af amfetamíni, sem um getur 1. tölulið II. kafla ákæru. Þá krefst hann að refsing verði að öðru leyti milduð og sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Ekki verður talið að fram sé komin sönnun þess að ákærði hafi ætlað ofangreind fíkniefni að öllu leyti til sölu. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, 46.354 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir báðum dómstigum, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Ákærði verður einnig dæmdur til að greiða annan sakarkostnað í héraði, 295.815 krónur. Dómsorð: Héraðsdómur skal að vera óraskaður um annað en sakarkostnað. Ákærði, Lúðvík Eiríksson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 46.354 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 622.500 krónur. Ákærði greiði annan sakarkostnað í héraði 295.815 krónur. Mál þetta, sem dómtekið var 22. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 1. júlí 2005 á hendur Lúðvík Eiríkssyni, kt. 140962-2609, Vesturvör 27, Kópavogi, og X fyrir eftirtalin brot: I. Ákærðu báðum fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa um nokkurt skeið fram til 25. nóvember 2003 staðið saman að framleiðslu á a.m.k. 110,83 g af amfetamíni í söluskyni á ofangreindu heimili ákærða Lúðvíks og haft í vörslum sínum á sama stað 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum og 300 ml af vökva sem í greindist amfetamín og að hluta til metamfetamín auk 1.788 g af efnum sem innihéldu 1-phenyl-2-nitro-1-propene (P-2-NP), en lögregla lagði hald á efnin við húsleit 26. sama mánaðar. Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 4. gr., 4. gr. a. og 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 10/1997, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. II. Ákærða Lúðvík fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa haft fíkniefni í vörslum sínum þann 25. nóvember 2003 sem hér greinir: 1. Á ofangreindu heimili sínu 64,18 g af amfetamíni ætluðu til sölu í ágóðaskyni og 193 stk. af 5 mg amfetamíntöflum ávísuðum á A, en lögregla fann efnin við húsleit 26. sama mánaðar. 2. Í bifreiðinni JR-810 á Bústaðavegi í Reykjavík 0,45 g af amfetamíni og 10,71 g af hassi, sem lögregla fann við leit á ákærða. III. Ákærða X fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa 25. nóvember 2003 í bifreiðinni JR-810 á Bústaðavegi í Reykjavík haft í vörslum sínum 0,04 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit á ákærða. Brot skv. II. og III. lið eru talin varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 65/1974, sbr. 6. gr. laganna, að því varðar ákærulið II,2, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. IV. Ákærða Lúðvík fyrir vopnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 25. nóvember 2003 átt og haft í vörslum sínum loftskammbyssu af gerðinni B án þess að hafa skotvopnaleyfi, en lögregla fann og lagði hald á vopnið við húsleit á framangreindu heimili ákærða. Þetta er talið varða við 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998. V. Ákærða X fyrir hótanir, með því að hafa á tímabilinu frá 15. október 2004 til 22. apríl 2005 í níu skipti hótað C og D, með tölvupósti og skrifum á heimasíður þeirra og nafngreindrar frænku D, en skrif þessi voru til þess fallin að vekja ótta hjá C og D um líf þeirra og velferð: 1. Föstudaginn 15. október 2004: “Ég drep þig þegar ég næ þér og í það er mjög stutt.” 2. Fimmtudaginn 2. desember 2004: “Í dag veit ég um 1stk. E + C + F sem eru búnir að vinna sér inn þokkalega flengingu og hver er nú betri en maðurinn m vöndinn.” 3. Laugardaginn 4. desember 2004: “Ég klára þetta mál einfaldlega og kem svo og tek í lurginn á ykkur fyrir heimskuna.” 4. Fimmtudaginn 9. desember 2004: “Niðurtalningin sýnir einfaldlega hvað eru margir dagar í að þessu lífi ljúki sem þú ætlaðir þér að eignast með því að ræna barnið þitt. Eftir að henni lýkur stígur þú inn í alveg nýtt líf, sem búið er að skipuleggja fyrir þig.” 5. Föstudaginn 10. desember 2004: “Sona getur þú talið sjálfur. Núll daginn þinn, sunnudaginn, væri skynsamlegt hjá þér að nota til þess að biðja fjölskyldu þína fyrirgefningar á því hvað þú ert mikið ómenni. Á mánudaginn verður þú staddur á nákvæmlega mínus einum degi í lífi þínu.” 6. Föstudaginn 10. desember 2004: “Ef allt gengur smurt (og leðrað) þá mæti ég stundvíslega í afmælið hans G, þá verður búið að losa þig við C fyrir fullt og allt ... p.s. þetta eru ekki kenningar lengur, þetta er verklegt.” 7. Laugardaginn 26. febrúar 2005: “Núna geturðu hringt og vælt í lögreglunni því að nú er ekki bara verið að hóta ... barnaníðingur, núna ertu í alvöru hættu.” 8. Laugardaginn 26. febrúar 2005: “Á næstu dögum eða vikum koma til með að hafa samband við þig menn sem gætu verið í Hells Angels, eða öðrum ámóta karlaklúbbum. Bara sona til að halda ... við efnið, þeir eiga það sameiginlegt að vera meinilla við barnaníðinga.” 9. Föstudaginn 22. apríl 2005: “D og sérstaklega C ... Og C þegar málið er frágengið sleppur þú ekki lifandi út úr evrópu.” Þetta er talið varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. VI. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Að því er varðar ákærða X er þess krafist til vara að hann verði dæmdur til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 samtals 175,5 g af amfetamíni, 193 töflur af amfetamíni og 10,71 g af hassi og jafnframt 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum og 300 ml af vökva, sem í greindist amfetamín og metamfetamín, auk 1.788 g af efnum, sem innihéldu 1-phenyl-2-nitro-1-propene, og skv. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga er krafist upptöku á framangreindri loftskammbyssu. Þá er þess krafist skv. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 að ákærði Lúðvík sæti upptöku á 2 eldföstum mótum (JO7, K02) og hvítum diski (K01) sem notað var til ólögmætrar meðferðar fíkniefna. Verjandi ákærða Lúðvíks krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Verjandi ákærða X krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Óhjákvæmilegt þykir að rekja framburð ákærða Lúðvíks að því er varðar háttsemi skv. I. og II. kafla ákæru í tvígang um tiltekin atriði. Gætir því endurtekningar hér á eftir í I. og II. kafla dómsins. I. kafli ákæru. Í lok september 2001 höfðu lögreglunni í Reykjavík borist upplýsingar um að ákærði Lúðvík Eiríksson væri hugsanlega viðriðinn framleiðslu á fíkniefnum og að sú starfsemi færi fram á heimili hans að Vesturvör 27 í Kópavogi. Í kjölfar þess leitaði lögregla eftir úrskurði dómstóla um heimild til að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmer er ákærði hafði yfir að ráða. Með úrskurði 13. nóvember 2003 var lögreglu heimiluð leit á heimili ákærða að Vesturvör 27. Þriðjudaginn 25. nóvember 2003 hafði lögregla afskipti af ákærða sem ökumanni bifreiðarinnar JR-810. Með ákærða í bifreiðinni voru meðákærði X og annar einstaklingur. Þar sem grunur lék á um ölvun við akstur voru ákærðu og farþegi færðir á lögreglustöð. Við leit fundist í fórum ákærða Lúðvíks 10,71 g af hassi. Þá fundust í bifreiðinni 0,45 g af amfetamíni. Þá fundust á ákærða X 0,04 g af amfetamíni. Miðvikudaginn 26. nóvember 2003 fór fram í húsleit að Vesturvör 27 í Kópavogi. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að húsnæðið að Vesturvör 27 sé að hluta iðnaðarhúsnæði og að hluta íbúðarhúsnæði. Íbúð ákærða Lúðvíks hafi verið merkt. 03.06. en hún hafi verið um 50 fermetrar að stærð. Húsnæðið hafi skipst niður í forstofu, salerni, sameiginlega stofu og eldhús, svefnherbergi og aukaherbergi. Á stofuborði hafi verið hvítt efni á veggflísaplötu sem lögregla hafi talið verið amfetamín. Í aukaherbergi hafi mátt sjá fjöldann allan af glervörum, tilraunaglösum, plastbrúsum, plastslöngum og ýmsan annan búnað til framleiðslu á amfetamíni. Mikið af vörum hafi innihaldið óþekktan vökva. Í eldhúsi hafi verið glervara með óþekktum vökvum og ýmsar umbúðir er hafi innihaldið hvítt efni, sennilega amfetamín og grunnefni til íblöndunar. Fram kemur að ákærði Lúðvík hafi borið að hann hafi verið að gera tilraunir með að búa til amfetamín. Starfsmenn tæknideildar lögreglu komu á vettvang, sem og starfsmenn Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum. Að ráðleggingum starfsmanna Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum hafi verið haft samband við Slökkvilið Reykjavíkur, þar sem ástæða hafi verið til að óttast efni á staðnum vegna brunahættu og lífrænna leysi- og ætiefna. Lögregla lagði hald á varning í íbúðinni er talinn var hluti af tilraunum til amfetamínframleiðslu. Ákærði Lúðvík var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins miðvikudaginn 26. nóvember 2003. Var hann látinn laus úr varðhaldinu miðvikudaginn 10. desember 2003. Ákærði X var sömuleiðis úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins miðvikudaginn 26. nóvember 2003. Var hann einnig látinn laus úr varðhaldinu miðvikudaginn 10. desember 2003. Í skýrslu lögreglu um haldlagða muni eru færð tilvik merkt A 01 til A 04, B 01 til B 19, C 01 til C 14, D 01 til D 06, E 01 til E 09, F 01 til F 65, G 01 til 16, H 01 til H 81, I 01 til I 26 og J 01 til J 61. Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar hafi efnin verið litaprófuð 22. desember 2003 og eftirfarandi niðurstöður komið fram: Efnaskrárnúmer 10-2003-831: Nr. 1, sýni merkt J 48, 1,25 g af amfetamíni. Nr. 2, sýni merkt J 49, 0,19 g af amfetamíni Nr. 3, sýni merkt J 50, 0,85 g af amfetamíni. Nr. 4, sýni merkt J 51, 0,14 g af amfetamíni. Nr. 5, sýni merkt J 52, 0,60 g af amfetamíni. Alls 3,03 g af amfetamíni. Efnaskrárnúmer 10-2003-832: Nr. 1, sýni merkt I 12, 2,40 g af amfetamíni Nr. 2, sýni merkt I 12, 2,39 g af amfetamíni. Nr. 3, sýni merkt I 12, 4,88 g af amfetamíni Nr. 4, sýni merkt I 12, 27,11 g af amfetamíni Nr. 5, sýni merkt I 13, 11,41 g af amfetamíni Nr. 6, sýni merkt I 21, 168,66 g af óþekktu efni til Nr. 7, sýni merkt I 24, 108,62 g af amfetamíni Nr. 8, sýni merkt I 25, 0,22 g af amfetamíni Nr. 9, sýni merkt I 26, 14,95 g af amfetamíni. Alls 171,98 g af amfetamíni og 168,66 g af efni sem ekki hafi verið skilgreint. Efnaskrárnúmer 10-2003-850: Nr. 1, sýni merkt J 09, 193 stykki af amfetamíntöflum. Rannsóknarstofa í lyfja- og eiturefnafræðum hefur 15. og 19. janúar 2004 ritað matsgerðir vegna sýna er lögregla lagði hald á við rannsókn málsins. Samkvæmt matsgerð frá 15. janúar hafi sýni úr efnaskrárnúmeri 10-2003-832 verið rannsökuð. Sýni nr. 4 hafi verið rannsakað og niðurstöður bent til þess að amfetamín hafi að mestu verið í formi amfetamínsúlfats. Magn amfetamínsbasa í sýninu hafi verið 20%, sem samsvari 27% af amfetamínsúlfati. Úr sama efnaskrárnúmeri hafi sýni merkt nr. 6 verið hvítt duft, 5,85 g að þyngd. Sýnið hafi innihaldið blöndu af sykrum, en engin þekkt lyf eða ávana- eða fíkniefni. Úr sama efnaskrárnúmeri hafi sýni merkt nr. 7 verið fölbleikt duft 5,51 g að þyngd. Efnapróf hafi bent til þess að amfetamín hafi þar að mestu verið í formi amfetamínsúlfats. Magn amfetamínbasa hafi verið 10%, sem samsvari 14% af amfetamínsúlfati. Úr sama efnaskrárnúmeri hafi sýni merkt nr. 9 verið gulleitt duft 3,16 g að þyngd. Efnapróf hafi bent til þess að amfetamín hafi þar að mestu verið í formi amfetamínsúlfats. Magn amfetamínbasa hafi verið 48%, sem samsvari 65% af amfetamínsúlfati. Samkvæmt matsgerð frá 19. janúar hafi sextán ílát merkt G 01 til G 16 verið rannsökuð. Úr ílátunum, sem hafi innihaldið tvo vökvafasa, hafi fasar verið aðskildir og mældir sérstaklega. Botnfall hafi verið síað frá, þurrkað og þvegið. Að því loknu hafi sýni verið tekin úr öllum ílátunum, mismunandi fösum og botnfalli. Í framburði sakborninga hafi komið fram lýsing á vel þekktu framleiðsluferli fyrir amfetamín. Þeirri framleiðslu megi skipta í tvennt. Fyrri hlutinn sé framleiðsla á 1-phenyl-2 nitro-1-proppe (P-2-NP) úr bensaldehýði og nitróetan, en það sé meðal annars þekkt milliefni í framleiðslu amfetamíns og metamfetamíns. Því efni sé lýst sem gulum kristöllum. Seinni hlutinn sé afoxun P-2-NP í amfetamín í lausn með ál-saltsýru-kvikasilfursblöndu. Að lokum sé amfetamínið hreinsað úr hvarfablöndunni og fellt út sem amfetamínsúlfat. Ljóst sé að innihald sex íláta, þ.e. G 01, G 02, G 12 til G 14 og G 16 tengist fyrri hluta framleiðsluferlisins. Þau innihaldi öll sama efnið, sem niðurstöður rannsókna bendi eindregið til að sé 1-phenyl-2-nitro-1-propene (P-2-NP). Gera megi ráð fyrir að ílát G 01 og G 02 innihaldi hvarfablöndu úr fyrri hluta framleiðsluferlisins. G 12 til G 14 innihaldi etanóllausn P-2-NP, sem líklegt sé að tengist hreinsun og endurútfellingu P-2-NP og gera megi ráð fyrir að kristallar sem komi fram séu nothæft hráefni í seinni hluta framleiðsluferlisins. Ílát G 16 hafi innihaldið þurra kristalla P-2-NP, sem sé tilbúið hráefni í seinni hluta framleiðsluferlisins. Í innihaldi íláta G 03 til G 08 og G 11 hafi greinst amfetamín og tveimur þeirra, G 05 og G 08, einnig metamfetamín. Því megi telja víst að innihald þeirra tengist síðari hluta framleiðsluferlisins. Í ílátum G 04 og G 07 hafi verið hlaupkennt súrt efni og megi gera ráð fyrir að innihaldið sé hvarfblanda úr seinni hluta framleiðsluferlisins, áður en hafist sé handa við hreinsun amfetamíns úr blöndunni. Þrjú ílátanna, G 03, G 05 og G 11, hafi innihaldið tvo vökvafasa og tengist því líklega úrhlutun amfetamíns úr hvarfablöndunni yfir í lífrænan leysi, sem sé hluti af hreinsun amfetamíns. Loks hafi tvö ílát, G 06 og G 08 líklega innihaldið afganga úr hreinsunarferlinu. Miðað við þær niðurstöður sé ljóst að á staðnum hafi verið tvær hvarfablöndur, þ.e. G 04 og G 07, af seinni hluta framleiðsluferilsins og þrjú ílát, eða G 03, G 05 og G 11, sem hafi innihaldið blöndu sem bendi til hreinsunar á amfetamíni úr hvarfablöndum. Innihald þessara fimm íláta tengist því allt framleiðslu á amfetamíni og greinilega hafi fleiri en ein hvarfablanda verið í vinnslu á sama tíma. Að lokum hafi þrjú ílát hvorki innihaldið amfetamín né P-2-NP. Í íláti G 09 hafi verið brennisteinssýra, sem nota megi til að fella út amfetamínsúlfat og tengist því lokaskrefi framleiðsluferlisins. Í íláti G 10 hafi verið ,,toluene”, sem sé lífrænt leysiefni sem nota megi m.a. við úrhlutun amfetamíns úr seinni hvarfablöndunni. Það geti líka verið notað í öðrum hlutum framleiðsluferlisins. Að lokum hafi ílát merkt G 15 innihaldið sápu, sem hugsanlega hafi verið notuð til hreinsunar á þeirri glervöru sem notuð hafi verið í framleiðslunni. Með matsgerð rannsóknarstofunnar fylgir excel skrá þar sem efni þessi eru sundurliðuð miðað við þyngd, lýsingu á efni og innihaldi. Ákærði Lúðvík Eiríksson var fyrst yfirheyrður af lögreglu 26. nóvember 2003. Við það tilefni kvaðst ákærði viðurkenna að hafa framleitt amfetamínsúlfat. Hann hefði ekki dreift því til annarra eða selt það. Kvaðst ákærði hafa framleitt efnið þar sem honum hafi ekki líkað það amfetamín er væri á boðstólum á Íslandi. Auk þess kvaðst ákærði hafa áhuga á efnafræði. Ákærði kvað ýmislegt ,,dót” hafa verið í íbúð sinni að Vesturvör 27 sem tengdist áhuga hans á efnafræði, ekki endilega framleiðslu á amfetamíni. Eitthvað af búnaðinum hafi verið notaður til framleiðslu á amfetamíni. Inni í bakarofni hafi verið um 20 g af hreinu amfetamínsúlfati, á eldhúsbekk vökvi sem félli til við framleiðslu amfetamíns, efni í ísboxi innpakkað í álpappír sem hægt væri að breyta í amfetamín. Í herberginu hafi verið amfetamínbasi í vökvaformi. Í bakarofni hafi verið amfetamín sem búið hafi verið að blanda í ,,lactosa”. Í efri skáp hafi verið efni sem ákærði hafi fengið ,,hjá einhverjum manni.” Efnið hafi verið í tveim staukum og plastpoka. Ákærði kvað meðákærða hafa tekið þátt tilraunum til framleiðslu amfetamínsins og verið viðstaddur allar tilraunir nema þá fyrstu, sem hafi mistekist algerlega. Alls hafi verið gerðar sex tilraunir til framleiðslu. Kvaðst ákærði hafa átt öll grunnefnin sem hafi þurft til framleiðslunnar. Ákærði kvaðst hafa byrjað á því að búa til ,,Nistrostyren” úr Benzaldehyd og Nitroetan, og sem hvata hafi ákærði notað butylamin og cyklohexylamin. Eftir það hafi þurft að afoxa Nitrostrynið sem gert hafi verið með þeim hætti að virkja ál með kvikasilfurclórýði þannig að úr hafi orðið álamalgam. Hafi ákærði notað saltsýru til að gera það súrt. Út úr því kæmi amfetamín með fullt af aukaefnum. Eftir það væri amfetamínið hreinsað með því að gera það ýmist súrt eða basískt. Afurðin væri að lokum prófuð með því að taka efnið í nefið. Fyrsta tilraunin hafi mistekist en í þeirri næstu hafi verið skipt út metanóli yfir í etanól. Afraksturinn hafi verið milli 8-10 g af hreinu amfetamíni. Hafi ákærði prufað eitthvað af amfetamíninu sjálfur og verið ,,nokkuð sáttur” við útkomuna. Umrætt efni væri síðan blandað niður í um 15% styrkleika. Ekkert af efninu hafi verið selt og hafi megnið af því verið í íbúðinni er lögregla hafi framkvæmt þar leit. Ákærði kvaðst neyta amfetamíns sjálfur. Hafi hann byrjað neyslu sína 18 ára og notað fíkniefni nokkuð stöðugt. Hafi hann selt amfetamín, þó ekki úr eigin framleiðslu. Hafi hann selt efnið fyrir annan mann, sem ákærði kvaðst ekki vilja nafngreina. Ekki hafi verið ákveðið fyrir fram hve mikið ákærði hafi átt að bera úr býtum fyrir hvert selt gramm. Kvaðst ákærði hafa verið að fá til sín allt frá 1.000 krónum og upp í 4.000 krónur fyrir hvert gramm. Af því hafi síðan farið kostnaður, m.a. vegna íblöndunarefna. Ákærði kvaðst hafa drýgt efnið til helminga með mjólkursykri. Ákærði kvaðst upp á síðkastið hafa fjármagnað fíkniefnaneyslu svo og aðra framfærslu með sölu fíkniefna. Lögregla hafi fundið efni í efri skáp í eldhúsi í íbúðinni. Um væri að ræða efni er ákærði hafi verið að selja fyrir ónefnda einstaklinginn. Hafi ákærði pakkað efnunum í plastpoka. Er undir ákærða var borið að lögregla hafi lagt hald á 193 stykki af 5 mg amfetamíntöflum ávísuðum á A kvað ákærði töflurnar ekki tengjast tilraunastarfseminni. Þá tengdust amfetamíntöflurnar ekki ,,nafni á glasinu.” Er undir ákærða voru bornar matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 15. og 19. janúar 2004 kvaðst hann ,,sáttur við þessa niðurstöðu.” Þá kvað hann þá lýsingu á framleiðsluferlinu er fram kæmi í matsgerðunum vera rétta lýsingu á framleiðsluferlinu. Að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík gaf ákærði skýrslu fyrir dómi 10. desember 2003. Bar hann að miðað við þá reynslu sem ákærðu hefðu hefði ,,þetta” ef til vill skilað um 50-60 g af hreinu amfetamínsúlfati. Er lögregla hafi framkvæmt húsleit hafi ákærðu verið búnir að búa til um 20 g af amfetamínsúlfati. Ákærðu hafi verið búnir að blanda megninu af því með um 15% styrkleika. Ákærði bar að meðákærði hafi tekið þátt í framleiðslunni en um hafi verið að ræða sameiginlegt verkefni sem ákærðu hafi tekið sér fyrir hendur. Engin hlutverkaskipting hafi verið ákveðin. Hráefnin hafi þó stafað frá ákærða. Er ákærði var inntur eftir hvernig ætlunin hafi verið að skipta afurðum kvað ákærði þeim mundu hafa verið skipt til helminga. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa selt fíkniefni fyrir aðra. Kvaðst ákærði hafa haft viðurværi sitt í einhvern tíma af því að ,,selja áfram eitthvert amfetamínafbrigði að ég tel.” Kvaðst ákærði ef til vill hafa fengið um fimm til sex stóra skammta af amfetamíni, sem hann hafi sett niður í 20 g einingar. Kvaðst ákærði hafa selt megnið af efnunum beint úr bíl sínum á Reykjavíkursvæðinu. Við þingfestingu málsins fyrir dómi bar ákærði að hann teldi verknaðarlýsingu í I. kafla ákæru rétta og að hann mótmælti ekki magntölum í þeim ákærulið. Framleiðslan hefði ekki verið í söluskyni og héldi hann uppi vörnum á þeim grundvelli. Kvaðst ákærði hafa verið að framkvæma tilraunir með að framleiða amfetamín. Kvaðst hann ekki vita hvað meðákærði hafi verið að gera. Þeir hafi ekki verið í samstarfi um framleiðslu á efnum og hafi hvor um sig útvegað sér þau efni er þeir hafi þurft til sinna starfa. Ákærði kvað ómögulegt að ákvarða afkastagetu í framleiðsluferlinu. Hafi ýmis framleiðsluferli átt eftir að fara af stað er lögregla hafi framkvæmt húsleit að Vesturvör 27. Hafi ákærði ekki verið með neinar væntingar um afraksturinn en framleiðslan hafi ekki verið gerð í þeim tilgangi að fá eitthvað magn af efnum út. Tilgangurinn hafi aðallega verið að búa til hreint amfetamín til eigin neyslu. Að öðru leyti hafi starfsemin farið fram af hreinum áhuga ákærða á efnafræði. Ákærði kvaðst kjósa að tjá sig ekki um hvar hann hafi fengið 64,18 g af amfetamíni er lögregla hafi lagt hald á og fram kæmi í 1. tl. II. kafla ákæru. Hafi hann ekki verið búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera við það efni. Einn möguleiki hafi verið að nota efnið til samanburðar við þau efni er ákærði fengi út úr tilraunum sínum. Kvaðst ákærði því alfarið mótmæla því að hann hafi staðið að framleiðslu á fíkniefnum í söluskyni. Undir ákærða var borin lögregluskýrsla frá 2. desember 2003 þar sem hann á bls. 6 er inntur eftir því hvort hann hafi selt fíkniefni. Ákærði kvað það svar er hann hafi gefið lögreglumanninum vera rétt. Þá var borin undir ákærða lögregluskýrsla frá 9. desember 2003 þar sem hann á bls. 3 var inntur eftir því hvort hann fjármagni fíkniefnaneyslu sína svo og framfærslu með því að selja öðrum fíkniefni. Ákærði kvað lögreglumanninn hafa fært í skýrsluna það svar sem ákærði hafi gefið. Hann hafi þó misskilið spurninguna að því er varðaði ,,framfærslu”. Hið rétta væri að hann hafi afhent öðrum amfetamín, en eingöngu hafi um lítið magn verið að ræða. Á þessum tíma hafi hann starfrækt einkahlutafélag og hafi hann verið með tekjur úr þeim rekstri. Undir ákærða var borin skýrsla hans fyrir dómi 10. desember 2003 og svar um að ákærði hefði viðurværi sitt í einhvern tíma af því að selja áfram eitthvað amfetamínafbrigði. Ákærði kvaðst ekki skilja orðið ,,viðurværi”. Hið rétta væri að hann hefði fengið einhverja peninga fyrir sölu á efnum. Hann hafi hins vegar misskilið orðið ,,viðurværi” með sama hætti og hann hafi misskilið orðið ,,framfærsla”. Ákærði X var fyrst yfirheyrður af lögreglu 26. nóvember 2003. Kvaðst hann hafa kynnst meðákærða um tveim árum fyrir handtöku lögreglu. Þá hafi ákærða vantað amfetamín og leið legið til meðákærða. Í framhaldi hafi ákærðu neytt amfetamíns af og til saman. Hafi ákærði sett sig í samband við meðákærða um mitt ár 2003 til að kanna hvort meðákærði ætti amfetamín. Í kjölfarið hafi þeir átt nokkra fundi saman þar sem m.a. hafi verið rætt um að reyna að búa til amfetamín. Kvaðst ákærði hafa haft vitneskju um að meðákærði ætti ýmsar glervörur til framleiðslu á amfetamíni. Hafi þeir tekið til við að gera tilraunir með að búa til amfetamín. Hafi þeir framkvæmt alls sex tilraunir. Úr þeim hafi komið eitthvað af amfetamíni og kvaðst ákærði telja að efnið hafi verið nokkuð gott. Hafi þeir staðið að framleiðslunni í íbúð meðákærða að Vesturvör 27 í Kópavogi. Kvaðst ákærði neyta fíkniefna og hafa verið með eitthvað af efni á sér úr framleiðslu þeirra er lögregla hafi haft afskipti af þeim. Kvaðst ákærði einungis hafa staðið að framleiðslunni til að afla sér amfetamíns til eigin neyslu. Hann hafi hins vegar ekki komið nálægt dreifingu eða sölu fíkniefna. Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 28. nóvember 2003. Bar hann að upphaflega hafi meðákærði átt tiltekið magn af grunnefnum og hafi þeir ákveðið að framleiða úr því efni. Ef til kæmi að selja amfetamínið hefði það fallið í hlut meðákærða, enda félli slík starfsemi ,,ekki að minni manngerð.” Ákærði kvað fyrstu tilraun hafa mistekist en hana hafi ákærði ekki verið viðstaddur. Kvaðst ákærði telja að þeir hafi verið búnir að búa til um 300 g af grunnefnum. Hafi þeir engan mælikvarða haft á gæði þess amfetamíns er þeir hafi búið til. Væntingarnar hafi verið þær að grunnefnið myndi skila allt upp að 40% af amfetamínsúlfati. Fyrstu tilraunir hafi ekki gefið gott efni, en í seinni skiptin hafi það hins vegar verið nokkuð gott. Ákærðu hafi ekki tekist að búa til alveg hreint amfetamín, hvítt og laust við öll aukaefni. Kvaðst ákærði telja að ekkert efni hafi verið selt er lögregla hafi framkvæmt húsleit að Vesturvör 27. Kvaðst ákærði ekki hafa lagt neina fjármuni í framleiðsluna. Hafi framlag hans verið fólgið í vinnu. Hafi meðákærði ákveðið að blanda ákærða í vinnuna þar sem ákærði hafi haft tilteknar hugmyndir um hvernig unnt væri að auka framleiðnina og gæðin. Ákærði kvaðst hafa notað fíkniefni um einu sinni í viku. Hafi hann eingöngu notað amfetamín. Kvaðst ákærði einungis hafa fengið efni hjá meðákærða og hafi hann reynt að ,,sníkja” sem mest af efnum. Hafi hann helst ekki notað þau ef hann hafi þurft að borga fyrir þau. Að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík gaf ákærði skýrslu fyrir dómi 10. desember 2003. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa gert tilraunir með að framleiða amfetamín að Vesturvör 27 í Kópavogi. Ákærðu hafi staðið saman að þeim tilraunum. Meðákærði hafi séð um að afla hráefna, en mikið af þeim hafi meðákærði átt. Kvaðst ákærði hafa gert sér vonir um að 15-40% af amfetamínsúlfati kæmi út úr framleiðslunni. Kvaðst ákærði telja að ákærðu hafi framleitt um 200 g af hráefni og hafi verið reiknað með að fá úr þeim um 15-40% af súlfati. Hafi ákærði ætlað að ,,taka sér” eitthvað af sínu uppáhaldsefni en að meðákærði myndi ,,bara sjá um afganginn og hann hefði þá væntanlega greitt mér vinnulaun ef til hefði komið.” Um það hafi ákærðu rætt lauslega. Við þingfestingu málsins fyrir dómi bar ákærði að hann teldi verknaðarlýsingu í I. kafla ákæru rétta og að hann mótmælti ekki magntölum í þeim ákærulið. Framleiðslan hafi ekki verið í söluskyni og héldi hann uppi vörnum á þeim grundvelli. Kvað hann 110,83 g af amfetamíni er lögregla hafi lagt hald á ekki hafa verið hreint amfetamín. Niðurstöður í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 15. janúar 2004 þar sem efnasýni lögreglu nr. 7 sýni m.a. fram á það. Það framleiðsluferli er ákærðu hafi stuðst við hafi miðað við fræðilega útkomu. Í framkvæmd hafi það þó ekki staðist að því er varðaði magntölur er geti komið út úr slíkri framleiðslu. Færi það eftir aðstæðum hverju sinni. Ákærðu hafi framkvæmt fjórar eða fimm tilraunir og hafi reynslan úr þeim gefið á milli 10 til 20 g. af hreinu amfetamíni úr hverri tilraun. Efni úr framleiðsluferlinu væri síðan kristallað yfir í amfetamínsúlfat. Efnið væri síðan þynnt út með mjólkursykri, eða laktósa, áður en það væri notað. Áðurnefnt efnasýni lögreglu nr. 7 hafi verið þynnt út með mjólkursykri. Ákærði kvað rétt vera að lögregla hafi lagt hald á 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum og 300 ml af vökva sem í hafi greinst amfetamín og metamfetamín. Ekki lægi fyrir hve mikið af hreinu amfetamíni hafi verið í þessum efnum og væri það í samræmi við niðurstöður á bls. 2 í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 19. janúar 2004. Einnig gæti staðist að lögregla hafi lagt hald á 1.788 g af efnum sem hafi innihaldið P-2-NP efnum. Efnið hafi ekki verið hreint og eitthvað af því uppleyst í alkóhóli. Ákærði kvað engan sérstakan hafa átt frumkvæði að framleiðslu efnanna. Hafi ákærðu einfaldlega orðið ásáttir um að framleiða efni. Ákærði hafi útvegað tæki og efni til framleiðslunnar. Hafi engin hlutverkaskipting verið ákveðin. Undir lokin hafi meðákærði orðið þreyttur á starfseminni og ákærði þá séð um framleiðsluna. Þeir félagar hafi tekið á bilinu 30 til 60 g af amfetamíni úr framleiðslunni. Lögregla hafi lagt hald á 300 ml af hráefni í formi vökva. Úr því hafi verið unnt að framleiða í mesta lagi 20% af efni og í minnsta lagi 10%. Efni það sem hafi komið út hafi væntanlega verið selt þar sem ákærðu hafi ekki þurft að vera með slíkt magn undir höndum fyrir þá sjálfa. Væntanlega hafi fallið í hlut meðákærða að selja efnið þar sem ákærði hafi ekki haft áhuga á slíkri sölu. Tilgangur með framleiðslunni hafi því verið að eignast fíkniefni og peninga. H lyfjafræðingur staðfesti matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 15. og 19. janúar 2004. Kvað hún starfmenn rannsóknarstofunnar hafa verið kallaða á vettvang í kjölfar húsleitar lögreglu að Vesturvör 27 í Kópavogi. Í íbúðinni hafi verið mikið af dóti. Ýmis tæki og tól hafi verið þar sem og leysiefni og ýmis efni. Starfsemi hafi greinilega verið í gangi er lögregla hafi farið inn í íbúðina. Greinilegt hafi verið að ýmsar breytingar hafi verið gerðar á íbúðinni til að framleiðsla gæti farið fram. Tilraunir hafi greinilega staðið yfir í einhvern tíma. Rannsóknarstofan hafi fengið til umsagnar hluta af framburðum ákærðu og teikningar er þeir hafi sett niður á blað við lögreglurannsóknina. Hafi tilgangurinn verið að athuga hvort framleiðsla á amfetamíni hafi farið fram í íbúðinni. Það framleiðsluferli er ákærðu hafi stuðst við væri þekkt aðferð við framleiðslu á amfetamíni og ekki flókin efnasmíð. Upplýsingar um ferlið væri hægt að nálgast víða, t.a.m á internetinu. Einstaklingar með þekkingu á efnafræði gætu því gert tilraunir með framleiðslu. Tilteknum upphafsefnum væri blandað saman og þau látin hvarfast. Úr því fengist milliefni sem þyrfti að hreinsa. Það efni væri notað áfram og úr því fengið efni. Um væri því að ræða tveggja þrepa hvarf. Fyrri hluti framleiðsluferlisins væri óvissara en það síðara. Báðir hlutar framleiðsluferlisins gætu verið í gangi á sama tíma. Öllu ferlinu væri þó hægt að ljúka á einhverjum dögum. Efnið P-2-NP hafi verið á vettvangi, en efnið væri milliefni í framleiðsluferli amfetamíns. Magn efnisins hafi verið 1.788 g. Erfitt væri að fullyrða hve mikið af hreinu nothæfu milliefni kæmi út úr því magni. Ákærðu hafi borið að þeir hafi framkvæmt 6 tilraunir, en þar af hafi ein mistekist. Um 10 g af amfetamínsúlfati hafi getað komið úr hverri blöndu og í seinni hluta tilrauna um 40 g miðað við framburð ákærðu. Efnismagnið væri því á bilinu 40-60 g í það heila. Rannsóknarstofan hafi fengið efnasýni nr. 7 frá lögreglu til rannsóknar. Niðurstöður kæmu fram í matsgerð rannsóknarstofunnar frá 15. janúar 2004. Svo sem þar kæmi fram hafi magn amfetamínbasa verið 10% sem samsvari 14% af amfetamínsúlfati. Glúkósi og laktósi væru ekki hluti af framleiðsluferlinu sem bendi til að efnið hafi verið þynnt niður í algengan styrk á amfetamíni sem ætlað væri til neyslu. Að því er varðaði matsgerðina frá 19. janúar kæmi fram að til rannsóknar hafi verið 7 ílát þar sem amfetamín hafi fundist. Sýni G 04 og G 07 hafi verið hlaupkennd. Um hafi verið að ræða blöndu úr seinni hluta framleiðsluferlisins. Önnur efni hafi verið lífræn leysiefni sem hafi innihaldið amfetamín. Engar styrkleikamælingar hafi verið framkvæmdar og óvíst hvað þau efni hafi leitt af sér. I rannsóknarlögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Kvaðst hann hafa stjórnað rannsókninni á sínum tíma og farið á vettvang. Greinilegt hafi verið að framleiðsla á amfetamíni hafi staðið yfir er lögregla hafi framkvæmt húsleit að Vesturvör 27. Nokkra daga hafi tekið að flokka þau efni niður er hafi verið í herbergi í íbúðinni. Einnig hafi verið mikið af dóti í eldhúsi. Lögregla hafi fundið fullunnið efni, m.a. í bakarofni í íbúðinni. Þá hafi einnig fundist efni er augljóslega hafi ekki verið hluti af framleiðslunni, en greinilegur litamunur hafi verið á því efni og þeim er framleidd hafi verið á staðnum. Hafi það komið heim og saman við þann framburð ákærða Lúðvíks hjá lögreglu að hann hafi verið með efni hjá sér er hann hafi verið að selja fyrir annan mann. Þetta efni hafi verið geymt í eldhúsinnréttingu í eldhúsi íbúðarinnar. Efnið hafi verið gulleitt, á meðan annað efni í framleiðslunni hafi verið bleikt á litinn. Sími hjá ákærða Lúðvík hafi verið hleraður á þessum tíma. Af þeim hlerunum hafi lögregla ráðið að ákærði væri að selja fíkniefni. I kvað ákærðu báða hafa verið samstarfsfúsa og hafa lagt sig fram við að aðstoða lögreglu og skýra það framleiðsluferli er þeir hafi notast við. Niðurstaða: Ákærðu hafa báðir viðurkennt að hafa staðið að tilraunum til að framleiða amfetamín og lýst yfir að efnismagn sem tilgreint er í ákæru sé rétt. Þeir hafa synjað fyrir að hafa framleitt efnið í söluskyni og hafa haft uppi fyrirvara um hve mikið af amfetamíni unnt hafi verið að framleiða með þeirri aðferð er þeir hafi notað. Ákærðu hafa báðir lýst því framleiðsluferli er þeir hafi stuðst við. Fram kemur að ferlið hafi verið tveggja þrepa, þar sem tiltekin efnablanda hafi verið látin hvarfast svo úr yrði milliefnið P-2-NP. Það milliefni hafi aftur verið látið hvarfast svo úr yrði amfetamínsúlfat. Súlfatið hafi síðan þurft að hreinsa með því að gera ýmist súrt eða basískt. Afraksturinn yrði amfetamín. Ákærðu bera báðir að gerðar hafi verið sex tilraunir til framleiðslu á amfetamíni og hafi sú fyrsta mistekist. Bera þeir einnig að þeir hafi gert ráð fyrir að fá á bilinu 10 til 20 g af hreinu amfetamínsúlfati úr hverri tilraun. Þá hafa þeir lýst yfir að þeir hafi reiknað með að blanda í efnið mjólkursykri eða glúkósa. H lyfjafræðingur á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum hefur staðfest að sú aðferð er ákærðu hafi stuðst við sé þekkt við framleiðslu á amfetamíni. Þá hafi efni er lögregla hafi lagt hald á og Rannsóknarstofa í lyfja- og eiturefnafræðum fengið til rannsóknar staðfest að þetta framleiðsluferli hafi verið í gangi að Vesturvör 27. Hafi hluti haldlagðra efna komið úr fyrri hluta framleiðsluferlisins en önnur efni úr því síðara. Einnig hafi lögregla lagt hald á efni sem tengist framleiðslu á amfetamíni, svo sem etanóllausn, brennisteinssýru og sápu. Í ákæru er ákærðu í fyrsta lagið gefið að sök að hafa um nokkurt skeið fram til 25. nóvember 2003 staðið saman að framleiðslu á a.m.k. 110,83 g af amfetamíni í söluskyni á heimili ákærða Lúðvíks að Vesturvör 27 í Kópavogi. Efnaskýrslur lögreglu nr. 10-2003-831 og 10-2003-832 tilgreina efni sem lögregla lagði hald á og færði í hendur Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum. Þá geta matsgerðir rannsóknarstofunnar frá 15. og 19. janúar 2004 um niðurstöður prófana og ályktanir þær sem H gerði grein fyrr í réttinum. Lögregla hefur lagt hald á efni sem merkt hafa verið J 48, J 49, J 51, J 52 og I 24 í munaskrá lögreglu. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu frá 5. janúar 2004 um haldlagningu muna, merkt II-2.1, bls. 47 í rannsóknargögnum málsins, er ekki tilgreint sérstaklega hvar efni merkt J 48, J 49, J 51 og J 52 hafi fundist. Efni merkt I 24 fannst hins vegar í eldföstu móti í bakarofni, sbr. skýrsla lögreglu um haldlagningu muna frá 26. nóvember 2003, merkt II-2.1, bls. 34 í rannsóknargögnum málsins. Efni þessi eru tilgreind nr. 1, 2, 4 og 5 í efnaskýrslu nr. 10-2003-831 og nr. 7 í efnaskýrslu nr. 10-2003-832 að því er varðar I 24. Nema þau samtals 110,80 g, en ekki 110,83 g svo sem ákæra miðar við. Verður í niðurstöðu miðað við 110,80 g. Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 19. janúar 2004 er stærstur hluti þessa efnis, eða 108,62 g, merkt nr. 7 í efnaskýrslu. Er um að ræða efni er fundust í bakarofni. Samkvæmt matsgerðinni innihélt efni þetta amfetamín, glúkósa og laktósa. Bentu efnapróf til að amfetamínið væri að mestu í formi amfetamínsúlfats. Hafi mælingar gefið til kynna að magn amfetamínsúlfats hafi numið 14%. H hefur borið að niðurstaða rannsóknarinnar hafi þar með leitt í ljós að ákærðu hafi verið búnir að blanda efnið með venjubundnum aukaefnum, svo sem glúkósa. Þar með liggur fyrir að efnið er ekki hreint amfetamín og verður að telja styrkleika 110,80 g af amfetamíni hafa miðast við styrkeika sem gjarnan er við sölu á amfetamíni. Í annan stað er ákærðu gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum, 300 ml af vökva sem í greindist amfetamín og að hluta metamfetamín og loks 1.788 g af efnum, sem innihéldu P-2-NP. Matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum 19. janúar getur um ílát með efnum er rannsóknarstofan fékk til rannsóknar og tengjast framleiðsluferlinu. Samkvæmt skrá er fylgir matsgerðinni og merkt er R-03380, eru sýni merkt G 03, G 04, G 05, G 06, G 07 og G 11 samtals 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum. Kemur fram að amfetamín hafi greinst í þeim. Í matsgerðinni er talið víst að efnin tengist síðari hluta framleiðsluferlisins. Sýni nr. G 08 er glerflaska með 300 ml af rauðbrúnum tærum vökva sem inniheldur amfetamín. Í matsgerðinni er rakið að efnið hafi líklega verið afgangur úr hreinsunarferli. Loks kemur fram í skrá R-03380 að sýni nr. G 01, G 02, G 12, G 13, G 14 og G 16 hafi innihaldið P-2-NP en þau hafi vegið samtals 1.788 g. Samkvæmt matsgerðinni tengjast þau fyrri hluta framleiðsluferlisins. Er það í samræmi við þann framburð ákærðu og H að fyrri hluti framleiðsluferlisins skili af sér milliefninu P-2-NP, sem síðan fari inn í síðari hluta ferlisins. H bar fyrir dómi að engar styrkleikamælingar hafi verið framkvæmdar á þessum efnum og óvíst hvað þau hafi leitt af sér. Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndu ákærðu báðir að hafa staðið sameiginlega að tilraunum við framleiðslu á amfetamíni. Ákærði X hefur fyrir dómi borið um atvik á sama veg. Ákærði Lúðvík hefur hins vegar fyrir dómi synjað fyrir að um samstarf hafi verið að ræða með þeim félögum. Þegar litið er til framburða ákærðu hjá lögreglu og með vísan til afdráttarlauss framburðar ákærða X verður slegið föstu að þeir hafi unnið að framleiðslunni í félagi. Ákærði Lúðvík bar við lögregluyfirheyrslu að hann hafi neytt fíkniefna nánast samfellt frá 18 ára aldri. Jafnframt hafi hann selt fíkniefni fyrir aðra og gerði nokkra grein fyrir tilhögun þess. Kvaðst hann hafa framfleytt sér með sölu fíkniefna og hafa haft viðurværi sitt að hluta af sölunni. Ákærði X bar að efni þau er ákærðu hafi gert ráð fyrir að fá úr framleiðslunni yrðu meiri en svo að þeir hefðu not fyrir þau öll sjálfir. Hafi verið rætt lauslega um að selja hluta afrakstursins. Þegar litið er til þessara atriða og horft til þeirra ráðstafana er ákærðu höfðu ráðist í til að koma framleiðsluferli amfetamíns í gang, m.a. með því að afla sér viðamikils búnaðar og hráefna og ráðast í breytingar á húsnæði, verður ekki við annað miðað en að þeir hafi haft áform um að selja a.m.k. hluta af afrakstrinum. Ákærðu verða samkvæmt þessu sakfelldir fyrir framleiðslu á 110,8 g af amfetamíni í söluskyni. Jafnframt verða þeir sakfelldir fyrir vörslur á 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum og 300 ml af vökva sem innihéldu amfetamín og metamfetamín. Loks verða þeir sakfelldir fyrir vörslur á 1.788 g af efnum sem innihéldu P-2-NP. Eru brot ákærðu rétt heimfærð til refsiákvæða í I. kafla ákæru. II. kafli ákæru. 1. tl. Ákærði bar við skýrslugjöf hjá lögreglu að hann neytti amfetamíns. Hafi hann byrjað neyslu 18 ára og notað fíkniefni nokkuð stöðugt. Hafi hann selt amfetamín, þó ekki úr eigin framleiðslu. Hafi hann selt efnið fyrir annan mann, sem ákærði kvaðst ekki vilja nafngreina. Ekki hafi verið ákveðið fyrir fram hve mikið ákærði hafi átt að bera úr býtum fyrir hvert selt gramm. Kvaðst ákærði hafa verið að fá til sín allt frá 1.000 krónum og upp í 4.000 krónur fyrir hvert gramm. Af því hafi síðan farið kostnaður, m.a. vegna íblöndunarefna. Ákærði kvaðst hafa drýgt efnið til helminga með mjólkursykri. Upp á síðkastið hafi ákærði fjármagnað fíkniefnaneyslu svo og aðra framfærslu með sölu fíkniefna. Lögregla hafi fundið efni í efri skáp í eldhúsi í íbúðinni. Um væri að ræða efni er ákærði hafi verið að selja fyrir ónefnda einstaklinginn. Efnið hafi verið í tveim staukum og plastpoka. Hafi ákærði jafnan pakkað efnunum í plastpoka. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 21. janúar 2004 bar ákærði, er fjólubláir plaststaukar í rannsóknargögnum merktir I 12, I 13, I 25, I 26 og efni í plastpoka merkt J 50 hafi verið amfetamín sem ekki hafi tengst tilraunum ákærðu við framleiðslu á fíkniefnum. Um hafi verið að ræða amfetamín er ákærði hafi tekið við frá aðila er hann vildi ekki gefa upp hver væri. Er ákærði gaf skýrslu fyrir dómi 10. desember 2003 kvaðst hann viðurkenna að hafa selt fíkniefni fyrir aðra. Kvaðst ákærði hafa haft viðurværi sitt í einhvern tíma af því að ,,selja áfram eitthvert amfetamínafbrigði að ég tel.” Kvaðst ákærði ef til vill hafa fengið um fimm til sex stóra skammta af amfetamíni, sem hann hafi sett niður í 20 g einingar. Kvaðst ákærði hafa selt megnið af efnunum beint úr bíl sínum á Reykjavíkursvæðinu. Við þingfestingu málsins viðurkenndi ákærði vörslur á 64,18 g af amfetamíni skv. 1. tl. II. kafla ákæru. Efnið hafi ekki verið ætlað til sölu. Ákærði kvaðst kjósa að tjá sig ekki um hvar hann hafi fengið umrædd 64,18 g af amfetamíni. Hafi hann ekki verið búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera við það efni. Einn möguleiki hafi verið að nota efnið til samanburðar við þau efni er ákærði fengi út úr tilraunum sínum. Kvaðst ákærði því alfarið mótmæla því að hafa staðið að sölu fíkniefna. Undir ákærða var borin lögregluskýrsla frá 2. desember 2003 þar sem hann á bls. 6 er inntur eftir því hvort hann hafi selt fíkniefni. Ákærði kvað það svar er hann hafi gefið lögreglumanninum vera rétt. Þá var borin undir ákærða lögregluskýrsla frá 9. desember þar sem hann á bls. 3 var inntur eftir því hvort hann fjármagni fíkniefnaneyslu sína svo og framfærslu með því að selja öðrum fíkniefni. Ákærði kvað lögreglumanninn hafa fært í skýrsluna það svar sem ákærði hafi gefið. Hann hafi þó misskilið spurninguna að því er varðaði ,,framfærslu”. Hið rétta væri að hann hafi afhent öðrum amfetamín, en eingöngu hafi verið um lítið magn að ræða. Á þessum tíma hafi hann starfrækt einkahlutafélag og hafi hann verið með tekjur úr þeim rekstri. Undir ákærða var borin skýrsla hans fyrir dómi 10. desember 2003 og svar um að ákærði hefði viðurværi sitt í einhvern tíma af því að selja áfram eitthvað amfetamínafbrigði. Ákærði kvaðst ekki skilja orðið ,,viðurværi”. Hið rétta væri að hann hafi fengið einhverja peninga fyrir sölu á efnum. Hann hafi hins vegar misskilið orðið ,,viðurværi” með sama hætti og hann hafi misskilið orðið ,,framfærsla”. I rannsóknarlögreglumaður bar að lögregla hafi fundið fullunnið efni, m.a. í bakarofni, í íbúð ákærða að Vesturvör 27. Þá hafi einnig fundist efni er augljóslega hafi ekki verið hluti af þeirri framleiðslu er ákærði hafi viðurkennt að hafa haft með höndum, en greinilegur litamunur hafi verið á því efni og þeim er framleidd hafi verið á staðnum. Hafi það komið heim og saman við þann framburð ákærða hjá lögreglu að hann hafi verið með efni hjá sér er hann hafi verið að selja fyrir annan mann, sem ákærði hafi ekki viljað nafngreina. Þetta efni hafi verið geymt í eldhúsinnréttingu í eldhúsi íbúðarinnar. Efnið hafi verið gulleitt, á meðan annað efni í framleiðslunni hafi verið bleikt á litinn. Sími hjá ákærða hafi verið hleraður á þessum tíma. Af þeim hlerunum hafi lögregla ráðið að ákærði væri að selja fíkniefni. Ákærði bar að 193 stykki af amfetamíntöflum, er lögregla hafi lagt hald á í íbúðinni, hafi ekki tengst ,,nafni á glasinu.” Þær hafi verið eign A. Hafi hún einhverju sinni beðið ákærða um að geyma töflurnar. Þær hafi þess vegna ekki verið í vörslum ákærða. A kvaðst hafa beðið ákærða Lúðvík um að geyma fyrir sig amfetamíntöflur er lögregla hafi lagt hald á að Vesturvör 27. Hún hafi ekki viljað geyma töflurnar á sér og því beðið ákærða um að geyma þær. Hafi hún umrætt sinn hitt ákærða úti á götu. Kvaðst A fá slíkar töflur ávísaðar hjá lækni, en til hans færi hún mánaðarlega. Kvaðst hún telja að hún hafi komið heim til ákærða tvisvar sinnum. I rannsóknarlögreglumaður bar að amfetamíntöflur er lögregla hafi lagt hald á hafi fundist í lyfjaboxi sem hafi verið merkt A. Töflurnar hafi fundist í lyfjahirslu í íbúðinni, sem sennilega hafi staðið á eldhúsborði. Hirslan hafi verið lokuð, en ekki læst. Niðurstaða: Ákærði Lúðvík bar við lögregluyfirheyrslur að tiltekin efni er lögregla hafi lagt hald á hafi ekki tengst tilraunum til amfetamínframleiðslu. Hafi efnin verið í eldhúsinnréttingu í eldhúsi. I rannsóknarlögreglumaður bar að tiltekin efni hafi fundist í eldhúsi í fjólubláum plaststaukum og plastpoka, sem ekki hafi haft sama lit og önnur efni er lögregla hafi lagt hald á. Efni þessi eru merkt nr. 3 í efnaskrá 10-2003-831 og nr. 1 til 5 og 8 til 9 í efnaskrá 10-2003-832. Nema þau samtals 64,18 g af amfetamíni. Svo sem rakið hefur verið viðurkenndi ákærði við yfirheyrslur hjá lögreglu og í skýrslu sinni fyrir dómi 10. desember 2003 að hafa selt fíkniefni fyrir annan mann sem hann vildi ekki nafngreina. Hann hafi sjálfur notað amfetamín reglulega, haft viðurværi sitt af sölu slíkra efna og hafa framfleytt sér að hluta af henni. Þá bar meðákærði að hann hafi í einhverjum tilvikum leitað til ákærða um kaup á amfetamíni og hafi þau kynni orðið upphaf að hugmyndum þeirra um framleiðslu á amfetamíni. Með vísan til þessa framburða og þess að frágangur og litur efnanna gaf til kynna að þau tengdust ekki framleiðslu ákærðu, verður slegið föstu að 64,18 g af amfetamíni er lögregla lagði hald á og voru í vörslu ákærða, hafi verið ætluð til sölu í ágóðaskyni. Ákærði hefur synjað fyrir að hafa haft vörslur á 193 amfetamíntöflum er lögregla lagði hald á og merktar voru A. Hann hefur þó viðurkennt að efnin hafi verið á heimili ákærða, en þar hafi þau verið geymd í lyfjahirslu. A kom fyrir dóminn og bar að hún hafi fengið ákærða til að geyma þessar töflur fyrir sig. Við það verður að miða að vörslur á greindum amfetamíntöflum séu hverjum manni óheimilar samkvæmt 2. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. gr., sbr. 14. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002, nema undanþágur séu veittar þar frá. A var óheimilt að afhenda ákærða þessar töflur og biðja hann um að geyma þær. Hefur ákærði framið öll brot sem tilgreind eru undir 1. tl. II. kafla ákæru og eru þau þar rétt heimfærð til refsiákvæða. 2. tl. Ákærði Lúðvík hefur játað sök samkvæmt 2. tl. II. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samræmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt þessum kafla og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða. III. kafli ákæru. Ákærði X hefur játað sök samkvæmt III. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samræmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt þessum kafla og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða. IV. kafli ákæru. Ákærði Lúðvík hefur játað sök samkvæmt IV. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samræmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt þessum kafla og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða. V. kafli ákæru. Með bréfi 10. desember 2004 til lögreglustjórans í Reykjavík fór J lögfræðingur þess á leit að lögregla myndi krefjast þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að lagt yrði bann á grundvelli XIII. kafla laga nr. 19/1991 við því að ákærði X myndi raska friði C, D og tveggja drengja þeirra, þannig að hann kæmi ekki nærri heimili þeirra, veitti þeim eftirför, heimsækti þau eða setti sig með einu eða öðru móti í samband við þau. Fram kemur að C, D og börn þeirra hafi á þeim tíma búið í Danmörku þar sem þau hafi verið við nám. Þá var um leið kærð hótun af hálfu ákærða um að lífláta C, sem sett hafi verið fram í tölvubréfi 15. október 2004. Er í bréfi J raktir þeir málavextir að ákærði væri gamall kunningi D, en þau hafi verið ,,kærustupar” þegar þau hafi verið 15 ára gömul. Eftir að hún hafi hætt með ákærða hafi hún árin á eftir farið að heyra utan af sér að ákærði væri að bera út að hann væri enn með henni. Hafi ákærði m.a. heimsótt föður D undir því yfirskini að hann væri tengdasonur hans, en þá hafi D verið orðin 22ja ára. Eftir að D hafi gengið á ákærða með þetta hafi hann viljað meina að þau hafi ,,sofið saman”. Þar sem D hafi ekki viljað kannast við það hafi hún hætt að ræða við ákærða. Um það leyti hafi C kynnst D og þau fljótlega tekið upp sambúð. Í júní 2002 hafi þau flutt til Danmerkur. Þá hafi ákærði haft samband við D, í kjölfar andláts fyrrverandi kærasta hennar, og tilkynnti henni að hann væri faðir yngsta sonar hennar, G. Hafi það kallað fram hörð viðbrögð hjá C og D. Ýmsar hótanir hafi gengið á milli. Að lokum hafi verið ákveðið að ákærði myndi kosta DNA rannsókn þar sem úr þessu atriði yrði skorið. Þar sem ekki hafi verið unnt að fá slíka rannsókn á Íslandi án dómsúrskurðar hafi ákærði kosið að láta E prófessor sjá um rannsóknina. Niðurstöður hafi staðfest að C væri faðir drengsins. Þrátt fyrir þá niðurstöðu hafi ákærði ekki látið sér segjast og tekið til við að saka C og D um að hafa látið falsa niðurstöðurnar. Þar sem ,,engu tauti” hafi verið við ákærða komið hafi C og D alfarið hætt að svara bréfum frá honum. Jafnframt hafi háttsemi hans verið kærð til lögreglu. Í kjölfarið hafi ákærði verið kallaður fyrir lögreglu. Hafi hann lofað að láta af háttsemi sinni. Um tveimur klukkustundum síðar hafi ákærði sent þeim tölvubréf með hótunum. Í desember 2002 hafi þau fengið símhringingu frá ákærða þar sem hann hafi greint frá því að hann hafi verið að koma til Danmerkur en hann ætlaði að ,,ná fram rétti sínum hvernig svo sem hann færi að því”. Af þeim sökum hafi þau tekið sig upp og flutt í annan bæjarhluta, fengið leynisímanúmer og verndað heimilisfang. Daginn eftir að þau hafi flutt hafi þau frétt af því að sést hafi til ákærða þar sem hann hafi verið að líta inn um glugga á fyrrum dvalarstað þeirra. Einnig hafi hann gengið um hverfið og spurst fyrir um hvert þau hafi flutt, ásamt því að leggja nokkur bréf til þeirra í póstkassa. Hafi þau lagt fram kæru á hendur ákærða vegna bréfanna en málið verið fellt niður þar sem ákærði hafi flutt til Íslands áður en unnt hafi verið að hefjast handa við rannsókn. Með þessu hafi fjölskyldan verið komin í felur fyrir ákærða. C hafi haft opið netfang í skóla sínum í Danmörku og ákærði nýtt sér það og reglulega sent honum hótanir. Haustið 2004 hafi C fengið enn fleiri bréf frá ákærða, þar á meðal beinar morðhótanir. Þann 30. nóvember 2004 hafi D opnað ,,bloggsíðu” sér til gamans. Þrem dögum síðar hafi ákærði verið búinn að finna síðuna og tekið til við að skrifa alls konar aðdróttanir inn í gestabók síðunnar. Afleiðingar alls þessa hafi verið slæmar fyrir fjölskylduna. Drengirnir væru skelfingu lostnir, en þeir hafi þurft að skipta tvisvar sinnum um skóla, hverfi og vini vegna áreitanna. Hafi ákærði m.a. sent eldri syni þeirra bréf, sem og móður C. Einnig hafi hann sent ýmsum skólafélögum C bréf. Hann hafi vanið komur sínar til Íslendingafélagsins í K í Danmörku þegar hann hafi verið þar. Þar hafi hann ófrægt fjölskylduna. Í ríflega 2 ár hafi C og D ekki á nokkurn hátt svarað ákærða. Hafi þau á tímabilinu fengið yfir 150 bréf frá honum, ásamt því að hann hafi hringt. Í niðurlagi bréfsins kemur fram að fjölskyldan muni flytja til Íslands sumarið 2005 en þá ljúki námi úti. Sé fjölskyldunni farið að kvíða fyrir, en þau óttist um líf sitt og heilbrigði. Miðvikudaginn 25. maí 2005 hafði lögregla samband við C, sem þá var enn búsettur í Danmörku. Var kærubréfið frá 10. desember 2004 borið undir hann. Staðfesti C að allt er fram kæmi í bréfi væri rétt. Er ákærði var yfirheyrður af lögreglu kvaðst hann mótmæla því að hafa hótað C lífláti. Bar hann að flest það er fram hafi komið í kærubréfi C væri rangt. Kvaðst hann hafa farið til Danmerkur, en ætlunin hafi verið að flytja þangað. Hafi hann komið við í K til þess að bjóða C og D upp á aðra DNA rannsókn. Hafi hann skilið miða eftir á hurð þar sem þau hafi búið. Þar sem dyrabjöllu hafi ekki verið svarað hafi ákærði kíkt á glugga. Eftir það hafi hann bankað hjá nágrönnum en þar hafi hann fengið þær upplýsingar að C og fjölskylda hafi flutt úr húsnæðinu. Kvaðst hann neita að tjá sig um hvort hann hafi sent C tölvupóst 15. október 2004 með eftirfarandi skilaboðum: ,,Ég drep þig þegar ég næ þér og í það er mjög stutt.” Þá kvaðst ákærði neita að svara staðhæfingum lögreglu um tiltekin skrif inn á heimasíður C eða D. Í lok skýrslutökunnar kvaðst ákærði vilja ítreka að hann færi fram á að fallist yrði á að framkvæmd yrði önnur rannsókn á faðerni, sem framkvæmd yrði í öðru landi en á Íslandi. Er ákærði var yfirheyrður um sakarefnið síðar kvaðst hann vilja breyta fyrri framburði sínum. Kvaðst hann játa að hafa skrifað þær færslur inn á ,,bloggíður” er hann var grunaður um að hafa ritað. Kvaðst ákærði ekki vilja tjá sig um skilaboðin frá 15. október 2004: ,,Ég drep þig þegar ég næ þér og í það er mjög stutt.” Hann hafi þó sent skilaboðin. Fyrir dómi kvaðst ákærði viðurkenna að hafa sent skilaboð samkvæmt 1. tl. V. kafla ákæru. Í þeim hafi falist hótanir. Ákærði kvaðst einnig hafa sent skilaboð samkvæmt 2. til 9. tl. V. kafla ákæru. Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 2. tl. hafi falist að ákærði hafi verið að boða að hann myndi ,,draga” E, C og D í réttarsal þar sem þau myndu þurfa að standa fyrir máli sínu. Ákærði væri maðurinn með vöndinn í því efni og ,,flenging” væri tilvísun til afdrifa málsins fyrir dómi. Hafi ákærði ekki ætlað að flengja C, heldur notað myndlíkingu. Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 3. tl. um að hann tæki í lurginn á þeim hafi falist að hann myndi ,,skammast út í” C og D. Ummæli er ákærði hafi viðhaft undir 4. tl. hafi verið sett fram í þeim tilgangi að hræða C. Hafi þau verið rituð til að vekja ótta hjá honum. Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 5. tl. um að C yrði staddur á nákvæmlega mínus einum degi í lífi sínu hafi ekki falist tilvísun til dauða. Hafi ákærði verið að vísa til fyrsta dags í breyttu lífi, en á þessum tíma hafi ákærði verið að vinna að því að ná C og D ,,í réttarsal.” Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 6. tl. um að búið yrði að losa G við C fyrir fullt og allt hafi falist að ákærði væri þá búinn að ,,koma upp um” C og fletta ofan af ráðabruggi hans. Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 7. tl. um að C væri í alvöru hættu hafi falist að hætta yrði á að komið yrði upp um hann. Ákærði hafi áður fengið símtal þar sem honum hafi borist upplýsingar um C og E. Ummæli, er ákærði hafi viðhaft undir 8. tl. um að mönnum í Hells Angels væri meinilla við barnaníðinga, hafi verið sett fram til að hræða C. Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 9. tl. um að C slyppi ekki lifandi út úr Evrópu hafi falist hótun. C kvað fjölskylduna hafa flutt til Danmerkur vegna náms. Þau hafi flutt aftur heim til Íslands í júní 2005. Ákærði hafi flutt til Danmerkur í desember 2002. Hafi hann um leið gert C og fjölskyldu aðvart um að hann væri kominn út. Kvaðst C telja að ákærði hafi búið úti þar til um mitt ár 2003. Ákærði hafi sent sér og fjölskyldu sinni ýmsar hótanir á árinu 2004. Hafi hann ekki linnt látum m.a. með símhringingum og hafi fjölskyldan þurft að færa sig um set í Danmörku til að forðast ákærða. Hafi þau flutt innanbæjar og þurft að ,,losa sig við” hluta vinahópsins af þessum sökum. Hafi þau á tilteknum tíma talið að áreiti ákærða væri lokið og D fengið sér ,,bloggsíðu.” Ákærði hafi þegar áttað sig á síðunni og ritað inn á hana ýmsar hótanir. C kvað börn sín vera mjög hrædd við ákærða vegna hótana hans. Þá hafi D greinst með kvíðaröskun vegna háttsemi ákærða. Allt í fari ákærða hafi gefið C ástæðu til að óttast hann. Hafi þau orðið mjög hrædd. Eftir að ákærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna árásar á E hafi fjölskyldunni liðið betur. Nytu drengir C lífsins í dag. Ákærða hafi verið sleppt úr gæsluvarðhaldi á sínum tíma og hafi drengirnir brugðist þannig við að þeir hafi ekki þorað út úr húsi. Að því er varðaði einstaka töluliði ákæru kvaðst C hafa skilið skilaboð samkvæmt 2. tl. V. kafla ákæru þannig að ákærði ætlaði að gera C og fjölskyldu eitthvert líkamlegt mein. Hafi hann þegar gert lögreglu aðvart um skilaboðin. Eftir langvinnar hótanir hafi tiltekin merking verið lögð í þessa orðsendingu frá ákærða. Að því er varðaði 3. tl. hafi C talið að ákærði ætlaði að beita líkamlegu ofbeldi. Að því er varðaði 4 tl. hafi C búist við að ákærði ætlaði að vinna fjölskyldunni skaða. 5. tl. hafi C skilið sem hótun um dauða. Hafi hann einnig óttast að ákærði myndi ráða barni sínu bana. 6. tl. hafi C skilið þannig að ákærði ætlaði að drepa sig. 7. tl. hafi C skilið þannig að ákærði ætlaði að gera sér eitthvað. 8. tl. hafi C skilið þannig að ákærði hefði ráðið einhverja til að meiða sig. Í 9. tl. hafi C talið felast hótun um dauða. D kvaðst vera gift C og ættu þau tvo drengi sem væru í dag 14 og 9 ára. Ákærði hafi fullyrt að þau hafi sofið saman á árum áður. Kvaðst D hafa neitað því og ákærði þá beitt hana líkamlegu ofbeldi. Hafi hún náð að flýja af vettvangi í það sinnið. Fjölskyldan hafi flutt til Danmerkur. Ákærði hafi haldið áfram að ofsækja fjölskylduna og flutt út í lok árs 2002. Hafi það leitt til þess að fjölskyldan hafi orðið að flytja og af þeim ástæðum orðið að taka eldri drenginn úr skóla. Hafi það haft slæm áhrif á drenginn. Fjölskyldan hafi þá fengið verndað heimili í Danmörku. Framferði ákærða hafi því haft mjög slæm áhrif á fjölskylduna. Börn hennar og C hafi orðið mjög hrædd og sjálf hafi D greinst með kvíðaröskun. Fái hún lyf vegna sjúkdómsins. Þá eigi hún erfitt með svefn. Sé allt þetta tilkomið vegna ákærða, sem hafi áreitt hana frá því hún var unglingur. Kvaðst D óttast ákærða mjög. Einnig hafi hún óttast að hann myndi ræna öðrum dreng þeirra. Þá hafi hún óttast að ákærði myndi drepa C. Eldri sonur þeirra hafi á tímum sofið með hníf undir kodda til varnar ákærða. Ákærði hafi sent drengnum sms símaskilaboð um að hann vissi hvar fjölskyldan byggi. D kvað ákærða enn senda sér og fjölskyldu sinni bréf, nú frá Sogni. Ekki væru í þeim bréfum hótanir en efni þeirra væri algert ,,bull.” Bréfin tengdust D, C og E prófessor. Ekki kvaðst hún óttast ákærða á meðan hann væri í öryggisgæslunni. Að því er varðaði einstaka ákæruliði kvað D hótanir hafa falist í 2. tl. V. kafla ákæru, en hann hafi þar hótað að lemja C. 3. tl. hafi hún túlkað sem ofbeldishótun. Að því er varðaði 4. tl. hafi hún talið að ákærði væri að hóta því að drepa C í það sinnið. Sama ætti við um 5. tl. V. kafla ákæru. Kvaðst hún hafa skilið 6. tl. þannig að ákærði hafi verið að vísa til ástands eftir að hann hafi drepið C. Hótun um ofeldi hafi falist í 7. tl. Ákærði hafi dvalið í Danmörku, eins og áður hafi komið fram. Hafi fjölskyldan talið að í 8. tl. hafi falist að ákærði hafi náð sambandi við einhverja menn á meðan hann hafi verið úti, gagngert til að ráðast á C. Að því er varðaði 9. tl. kvaðst D hafa litið svo á að ákærði væri að hóta að drepa C. L geðlæknir staðfesti geðrannsókn er hann framkvæmdi á ákærða. Kvað hann rannsóknina að miklu leyti hafa snúist um hugarástand ákærða gagnvart E. Hluti af rannsókninni hafi varðað hótanir er ákærði hafi sett fram gagnvart E, C og D. Málin hafi í raun öll verið samtvinnuð. M geðlæknir gerði viðamikla grein fyrir högum ákærða á Réttargeðdeildinni að Sogni. Kvað hann deildina veita vistmönnum tiltekna meðferð. Gæti hún verið fólgin í lyfjameðferð, viðtölum, þátttöku í virkni o.s.frv. M kvað ákærða ekki sæta lyfjameðferð í öryggisgæslunni, en hann kysi að taka ekki lyf þar sem hann teldi sig ekki glíma við geðsjúkdóm. Ávinningur af þvingaðri lyfjameðferð næði ekki að upphefja þá ókosti sem slík meðferð hefði. Ákærða væri ekki sérlega virkur í meðferð á deildinni, en M og X ræddu engu að síður talsvert saman. Niðurstaða: Ákærði X hefur viðurkennt að í tölvupósti samkvæmt 1. tl. V. kafla ákæru hafi falist hótanir. Jafnframt hefur hann viðurkennt að hótanir hafi falist í ummælum undir 4., 7. og 8. tl. V kafla ákæru. Að öðru leyti hefur hann synjað fyrir að í einstökum skrifum undir V. kafla hafi falist hótanir en hefur gefið sínar skýringar á efni skilaboðanna. C og D komu bæði fyrir dóminn. Lýstu þau þeirri ógn er þeim stafaði af ákærða og þeim skilaboðum er hann hefði sent þeim. Bar sú lýsing þess augljós merki að C og D hafi verið mjög óttaslegin, eftir endurtekin skrif ákærða og sífelldar tilraunir af hans hálfu til að ná til þeirra. Hafa þau borið um þjáningar er fjölskyldan hafi upplifað á undanförnum árum vegna þessa, sem hafi m.a. leitt til þess að D hafi greinst með kvíðaröskun. Ákærði hefur alla tíð verið ósáttur við niðurstöðu DNA rannsóknar sem á árinu 2002 útilokaði hann föður að barni D og C. Áráttuhegðun hans hefur að verulegu leyti beinst að E prófessor sem hafði umsjón með tilteknum þáttum DNA rannsóknarinnar. Var ákærði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2005 í málinu nr. S-1027/2005 sakfelldur fyrir alvarlega líkamsárás og hótanir á gagnvart E. Þeir atburðir áttu sér stað á fyrri hluta árs 2005. Þegar til alls þessa er litið eru engin efni til annars en að telja að C og D hafi haft raunhæfa ástæðu til að óttast ákærða og að þau hafi upplifað tölvupóst frá honum og skrif á heimasíður þeirra sem hótanir í sinn garð. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt V. kafla ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Ákærði Lúðvík er fæddur árið 1962. Hann gekkst 30. maí 2003, 28. október 2004 og 20. apríl 2005 undir sáttir fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Að öðru leyti skiptir sakaferill hann ekki máli fyrir niðurstöðu þessa máls. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir framleiðslu á 110,8 g af amfetamíni í söluskyni. Einnig hefur hann verið sakfelldur fyrir vörslur á 64,18 g af amfetamíni sem hann hafi ætlað til sölu. Þá hefur hann verið sakfelldur fyrir vörslur á 193 töflum af amfetamíni á heimili sínu og 0,45 g af amfetamíni og 10,71 g af hassi er fundust í bifreiðinni JR-810. Hann hefur verið sakfelldur fyrir vopnalagabrot, með því að hafa haft loftskammbyssu í vörslum sínum án þess að hafa skotvopnaleyfi. Loks hefur ákærði verið sakfelldur fyrir vörslur á tilgreindu magni af vökvum og hlaupkenndum efnum sem innihéldu amfetamín og að hluta til metamfetamín og efni sem innihélt efnið P-2-NP, en þessi efni komu öll úr fyrri og seinni hluta framleiðsluferlis við tilbúning amfetamíns. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um hve mikið magn af amfetamíni hafi getað orðið afrakstur fullnaðrar framleiðslu úr þessum efnum. Þá liggur fyrir að vökvar þessir voru ekki styrkleikamældir. Verður við fátt annað miðað en framburð ákærðu, sem bera að þeir hafi gert sex tilraunir til að framleiða amfetamín, ein þeirra mistekist og að þeir hafi reiknað með að hver tilraun gæfi af sér 10 til 20 g af hreinu amfetamíni. H hefur borið að þessar staðhæfingar ákærðu geti staðist, en hún hefur talið að ákærðu hafi getað náð út úr framleiðslunni á bilinu 40 til 60 g af hreinu efni. Ef það efni hefði verið drýgt með hefðbundnum hætti með mjólkursykri hefði afraksturinn aldrei orðið undir 100 g af neysluhæfri vöru, en sennilega nærri 200 g, þar sem reikna má með að efnið yrði drýgt umtalsvert. Þá verður við ákvörðun refsingar einnig horft til þess framferðis ákærða að framleiða sjálfur amfetamín, sem til stóð að selja, en það þykir bera vott um eindreginn brotavilja. Brot samkvæmt ákæru eru öll framin áður en ákærði gekkst undir sáttir á árunum 2004 og 2005. Ber því að tiltaka refsingu sem hegningarauka samkvæmt 78. gr. laga nr. 19/1940. Brot ákærða eru alvarleg, en þau varða hættulegt fíkniefni. Hann hefur að talsverðu leyti játað sök og aðstoðað lögreglu við að varpa ljósi á það framleiðsluferli er ákærðu studdust við. Með vísan til þessa, sem og 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr., sbr. og 2. mgr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 14 mánuði. Til frádráttar komi gæsluvarðhald er ákærði sætti á meðan á rannsókn málsins stóð. L geðlæknir framkvæmdi geðrannsókn á ákærða X og er rannsóknin dagsett 20. maí 2005. Í samantekt kemur fram að um sé að ræða nær 34 ára gamlan einhleypan karlmann sem undanfarin þrjú ár hafi verið fastur í því að hann sé faðir ákveðins drengs. Gerðar hafi verið blóðprufur sem hafi útilokað ákærða sem föður drengsins en hann sé sannfærður um að svik séu í tafli. Niðurstöður blóðrannsókna séu falsaðar. Ákærði hafi búið sér til skýringakerfi sem styðji þessa hugsun hans. Mikil heift og reiði sem hafi af hans hálfu beinst að foreldrum drengsins og E lækni. Vaxandi hótanir í garð E frá haustinu 2004 hafi endað með árás á E. Saga um amfetamínneyslu og stundum ofneyslu sé hjá ákærða. Hugsanir ákærða einkennist af ofstæki og þráhyggju og séu með mjög miklum ranghugmyndablæ, heift hans hafi farið stöðugt vaxandi. Það sé mat L, eins og ástand ákærða sé, að full ástæða sé til að taka hótanir hans gagnvart E alvarlega. Ákærði hafi aldrei leitað sér aðstoðar út af vandamálum sínum eftir því sem best sé vitað. Amfetamínneysla hans geti átt þátt í aðsóknarranghugmyndum en líklegt sé að orsakaþættir aðsóknarhugmyndarinnar séu fleiri. Mjög mikilvægt sé að ákærði fái viðeigandi læknis- og geðlæknismeðferð. Á þessu stigi sé sjúkdómsinnsæi hans ekkert og hann hugsanlega verulega hættulegur umhverfi sínu. Sé því brýnt að hann fái viðeigandi geðlæknismeðferð samhliða öryggisgæslu. Er það álit L að ákærði sé haldinn alvarlegri hugvilluröskun (delusional disorder) og hafi þess vegna verið á undanförnum mánuðum ófær um að stjórna gerðum sínum. Það sé mat L að ákærði sé enn hættulegur öðrum og brýna nauðsyn beri til að hann fái viðeigandi meðferð. Á meðan slík meðferð fari fram sé mikilvægt að ákærði sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því að refsing geti borið árangur. Samvinna við ákærða hafi verið takmörkuð í geðskoðuninni. Veikindi hans skýri ósamvinnuþýði hans enda sé sjúkdómsinnsæi hans ekkert. Að ósk ákærða voru geðlæknarnir N og O dómkvaddir til að leggja sérstakt mat á sakhæfi ákærða. Í matsgerð geðlæknanna, frá 2. september sl. kemur fram, að ákærði hafi með öllu hafnað að eiga viðtöl við geðlæknanna. Af þeim ástæðum hafi matsmennirnir ekki getað framkvæmt sjálfstæða geðrannsókn. Matsmenn hafi hins vegar kynnt sér rækilega fyrirliggjandi málsgögn. Af þeim gögnum verði ekki séð að tilefni sé til að draga í efa réttmæti niðurstöðu L geðlæknis. Telji matsmenn að tiltæk gögn málsins, sem varpað geti ljósi á geðhagi ákærða, bendi til þess að hann sé haldinn alvarlegri hugvilluröskun (l. psychosis paranoides persistens / paranoia querulans, e. delusional disorder). Að því gefnu álykti matsmenn að geðhagir ákærða hafi um langt skeið verið með þeim hætti að hann hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum. Af sömu ástæðu beri einnig að álykta að refsing geti ekki borið árangur. Þá álykti matsmenn, á grundvelli tiltækra gagna, að geðhagir ákærða hafi jafnframt verið með þeim hætti að hann geti talist hættulegur öðrum um ófyrirsjáanlegan tíma. Reynslan sýni að einstaklingar með alvarlega hugvilluröskun, af því tagi sem um ræði, paranoia querulans, gefi sjaldan eða aldrei upp á bátinn viðleitni sína til að ná fram fyrirætlan sinni eða kröfu. Velþekkt dæmi séu um að slíkt ferli hafi varað árum og jafnvel áratugum saman. Matsmenn telji því brýnt að ákærði sæti öryggisgæslu og fái meðferð á viðeigandi stofnun. Með vísan til þess er hér að framan er rakið um geðhagi ákærða, hótana hans í garð C og D og niðurstöðu héraðsdóms í málinu nr. S-1027/2005 telur dómurinn ekki varhugavert að slá föstu, að andlegt ástand ákærða hafi verið það sjúkt á seinni hluta árs 2004 að hann hafi þá verið ófær um að stjórna gerðum sínum og sé því ósakhæfur. Ber því að sýkna hann af refsikröfu ákæruvaldsins, sbr. 15. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði situr nú í öryggisgæslu á grundvelli 62. gr. laga nr. 19/1940. Er óþarft að árétta þá gæslu hér. Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs efni og áhöld sem í ákæru greinir, sem og loftskammbyssa, sem þar er tilgreind. Um sakarkostnað og málsvarnarlaun fer svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið litið til yfirlits lögreglustjóra um sakarkostnað og útgjalda vegna ferðakostnaðar vitnis. Einnig hefur verið tekið tillit til þess að sá hluti sakarkostnaðarins er varðar ákærða X greiðist úr ríkissjóði. Hefur virðisaukaskatti verið bætt við dæmd málsvarnarlaun. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Eyjólfur Eyjólfsson fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík. Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærði, Lúðvík Eiríksson, sæti fangelsi í 14 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 26. nóvember 2003 til 10. desember sama ár. Ákærði, X, er sýkn af refsikröfu ákæruvaldsins. Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 175,47 g af amfetamíni, 193 töflur af amfetamíni og 10,71 g af hassi, 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum, 300 ml af vökva, sem í greindist amfetamín og metamfetamín, 1.788 g af efnum sem innihéldu 1-phenyl-2-nitro-1-propene, 2 eldföst mót (JO7, K02), hvítur diskur (K01) og loftskammbyssa, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins. Ákærði Lúðvík greiði 519.915 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 224.100 krónur. Sakarkostnaður að fjárhæð 593.160 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 297.345 krónur. |
Mál nr. 173/2006 | Gjaldþrotaskipti Riftun Óvenjulegur greiðslueyrir Ómerking héraðsdóms að hluta | Þrotabú K krafðist riftunar á greiðslu félagsins á nokkrum skuldum til G og endurgreiðslu á þeirri fjárhæð. Með héraðsdómi voru þær kröfur teknar til greina. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að um væri að ræða óvenjulegan greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og staðfest niðurstaða héraðsdóms um riftun á greiðslu á umræddum skuldum. Hvað varðar endurheimtukröfu þrotabús K var tekið fram að héraðsdómur hefði ekki rökstutt með hvaða hætti greiðslan hefði komið G að notum í skilningi 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Auk þess þótti skorta á að héraðsdómur tæki afstöðu til varakröfu G um lækkun endurheimtukröfunnar. Varð því ekki komist hjá því að ómerkja héraðsdóm að þessu leyti og vísa þeim þætti málsins heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason. Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. mars 2006. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnda, en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Krafa stefnda um riftun á greiðslu Kaldabergs ehf. á nokkrum skuldum til áfrýjanda 3. nóvember 2003 var tekin til greina í héraðsdómi, en bú félagsins var tekið til gjaldaþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 25. mars 2004. Var úrskurðurinn reistur á yfirlýsingu Bjarka Ágústssonar fyrrum forsvarsmanns félagsins fyrir sýslumanni 18. febrúar 2004 um eignaleysi þess. Frestdagur við skiptin var 26. febrúar 2004. Þær greiðslur sem krafa stefnda um riftun tók til eru vegna skuldar samkvæmt skuldabréfi nr. 545-74-964188 að fjárhæð 1.550.134 krónur, skuldar samkvæmt skuldabréfi nr. 545-74-961873 að fjárhæð 479.238 krónur, skuldar samkvæmt víxli nr. 545-70-912909 að fjárhæð 211.419 krónur, skuldar samkvæmt víxli nr. 545-70-912882 að fjárhæð 214.363 krónur, skuldar samkvæmt víxli nr. 545-70-912881 að fjárhæð 268.523 krónur og yfirdráttarskuldar á tékkareikningi nr. 545-26-56516 að fjárhæð 1.795.401 króna. Samtals námu greiðslurnar 4.519.078 krónum. Héraðsdómur reisti riftun greiðslnanna á 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og dæmdi áfrýjanda til að greiða stefnda alla dómkröfuna sem hann taldi vera þá fjárhæð sem stefndi hefði nýtt til greiðslu skulda við áfrýjanda. Kaldaberg ehf. annaðist rekstur tannlæknastofu í eigu Bjarka Ágústssonar og sambúðarkonu hans, en Bjarki er menntaður tannlæknir. Með kaupsamningi 30. september 2003 seldi Kaldaberg ehf. Turnhamri ehf., sem er í eigu Ágústs Hreggviðssonar föður Bjarka, fasteignar að Staðarbergi 2-4 í Hafnarfirði. Kaupverðið var nær allt greitt með yfirtöku og uppgreiðslu áhvílandi veðskulda og vanskilaskulda. Að fasteigninni seldri nam eign félagsins samkvæmt gögnum málsins 6.126.947 krónum í lausafjármunum. Með kaupsamningi degi síðar seldi félagið Turnhamri ehf. tæki, tól og lager tannlæknastofunnar fyrir 9.350.000 krónur. Skyldi kaupverðið greitt með yfirtöku tveggja lána hjá áfrýjanda samtals að fjárhæð 3.223.053 krónur, með greiðslu þeirra skulda við áfrýjanda sem um getur í þessu máli og með 1.607.869 krónum, sem að mestu mun hafa verið varið til greiðslu annarra skulda þessu máli óviðkomandi. Stefndi reisir kröfu sína um riftun á því að greiðslur þær sem um getur í málinu hafi verið óeðlilegar þegar þær voru inntar af hendi og brotið gegn jafnræði kröfuhafa, en það eigi sér stoð í lögum nr. 21/1991 að þess verði að gæta við greiðslur svo skömmu fyrir gjaldþrot. Fyrir liggi að 71% af ráðstafanlegum eignum búsins hafi verið afhentar áfrýjanda til greiðslu á skuldum og það leitt til þess að hann hafi engum fjármunum hafa tapað við gjaldþrotið, þótt félagið hafi skuldað honum vel á fimmtu milljón króna rúmum fjórum mánuðum fyrir frestdag. Byggir stefndi á því að greiðslurnar hafi brotið gegn 134. gr. laga nr. 21/1991. Þær hafi farið fram fyrr en eðlilegt var samkvæmt skilmálum skuldbindingarskjala, en flest bendi til að þau hafi að öllu leyti verið í skilum þegar þau voru greidd upp. Skoraði hann á áfrýjanda að upplýsa nánar hvernig staða skuldbindinganna hefði verið á þessum tíma. Greiðslurnar hafi skert greiðslugetu Kaldabergs ehf. verulega á tíma þegar öllum mátti vera ljóst að það stefndi í gjaldþrot félagsins. Krafa um riftun er einnig reist sjálfstætt á 141. gr. laga nr. 21/1991 og því haldið fram að umræddar ráðstafanir hafi verið ótilhlýðilegar, enda áfrýjanda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Greiðslurnar hafi leitt til þess að eignir þrotabúsins voru ekki til reiðu fyrir aðra kröfuhafa, en Kaldaberg ehf. hafi ótvírætt verið ógjaldfært á þessum tíma og áfrýjanda fullkunnugt um það. Endurheimtukrafa stefnda er byggð á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, verði fallist á riftun samkvæmt 134. gr. sömu laga en ella á 3. mgr. þeirrar greinar. Heldur hann því fram að fjárkrafa hans sé sú sama hvort sem notast sé við endurheimtukröfu samkvæmt 1. mgr. eða skaðabætur samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins. Áfrýjandi heldur því fram að veigamiklum málsástæðum, sem hann hafi haft uppi sé ekki getið í héraðsdómi. Vísar hann til greinargerðar sinnar í héraði því til sönnunar. Þar er því haldið fram að það hafi ekki verið Kaldaberg ehf. sem hafi innt greiðslur þessar af hendi heldur Turnhamar ehf., en félagið hafi keypt lausafé af Kaldabergi ehf. og meðal annars greitt fyrir það með uppgreiðslu þessara skulda, sem ekki hafi tengst lausafénu. Stefndi verði því að beina kröfum sínum að því félagi. Þá er því haldið fram að í stefnu í héraði sé ekki á því byggt að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða, en það sé eitt þriggja skilyrða fyrir beitingu 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá telji stefndi að greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum án þess að rökstyðja það frekar í sóknargögnum í héraði. Áfrýjandi heldur því fram að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun greiðslnanna séu ekki uppfyllt. Í fyrsta lagi hafi greiðslurnar ekki farið fram fyrr en eðlilegt var og í öðru lagi hafi þær ekki skert greiðslugetu Kaldabergs ehf. verulega. Þá hafi ekki verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri og greiðslurnar virst eðlilegar eftir atvikum. Jafnframt mótmælir hann því að riftunarskilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt. Verði krafa stefnda um riftun tekin til greina er þess krafist að endurheimtukrafa hans verði að minnsta kosti lækkuð um 1.800.000 krónur, en hann hafi í sambandi við greiðsluna aflétt tveimur tryggingarbréfum útgefnum 12. mars 2003 þess efnis að tvær fasteignir Ágústs Hreggviðssonar yrðu framvegis til tryggingar öllum skuldbindingum Kaldabergs ehf. við áfrýjanda. Reisir hann kröfuna á því að stefndi eigi eingöngu endurheimtukröfu um það fé sem hefði komið áfrýjanda að notum, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Áfrýjandi heldur því að lokum fram að hvergi í héraðsdómi sé minnst á það að hann hafi byggt á því að krafa stefnda um riftun vegna óvenjulegs greiðslueyris sé of seint fram komin. Hvergi sé rökstutt að greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum. Þá sé ekki í dóminum fjallað um kröfu áfrýjanda um lækkun endurheimtukröfu vegna þeirra veðtrygginga eiganda Turnhamars ehf., sem aflétt var við uppgjör greiðslu þess fyrirtækis við áfrýjanda. II. Héraðsdómur er á því reistur að Kaldaberg ehf. hafi með kaupsamningi við Turnberg ehf. 3. október 2003 látið frá sér lausafé sitt til greiðslu á skuld við áfrýjanda svo sem að framan er lýst. Breyti milliganga þriðja manns, Turnbergs ehf., engu við mat á því hvort um sé að ræða óvenjulega greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Fallast má á það með áfrýjanda að stefndi hafi mátt leggja skýrari grunn að málsókninni að þessu leyti með stefnu í héraði. Hins vegar kom þessi greiðslutilhögun skýrt fram í öðrum sóknargögnum og er ómótmælt að málið var í héraði sótt og varið á þessum grunni. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Með þessari athugasemd en annars með skírskotun til raka héraðsdóms verður hann staðfestur um riftun á greiðslum Kaldbergs ehf. til áfrýjanda þar sem þær fóru fram með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Að framan er því lýst að héraðsdómur dæmir áfrýjanda til að greiða alla stefnukröfuna þar sem hann hafi nýtt sér hana til greiðslu skulda Kaldabergs ehf. við sig. Dómurinn rökstyður ekki nánar með hvaða hætti greiðslan kom áfrýjanda að notum í skilningi 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Áfrýjandi gerði varakröfu í héraði um lækkun endurheimtukröfunnar og færði fram sérstakar málsástæður fyrir henni. Á skortir að héraðsdómur taki afstöðu til þessarar varakröfu. Verður því ekki hjá því komist að ómerkja héraðsdóm að þessu leyti og vísa þeim þætti málsins heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju. Ákvörðun málskostnaðar í héraði bíður endanlegs dóms, en rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Ákvæði héraðsdóms um riftun greiðslna skal vera óraskað. Niðurstaða héraðsdóms um endurheimtukröfu stefnda, þrotabús Kaldabergs ehf., að fjárhæð 4.519.078 krónur frá áfrýjanda, Glitni banka hf., er ómerkt og þeim þætti málsins vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju. Ákvörðun málskostnaðar í héraði bíður endanlegs dóms. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. I. Mál þetta sem dómtekið var 9. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi var höfðað af þrotabúi Kaldabergs ehf., kt. 620598-2759, Hafnargötu 29, Keflavík, á hendur Íslandsbanka hf., kt. 421289-5069, Kirkjusandi, Reykjavík, með stefnu birtri 13. desember 2004 og þingfestri 12. janúar 2005. Stefnandi gerir þá kröfu að rift verði með dómi greiðslu hins gjaldþrota félags Kaldabergs ehf. á eftirtöldum skuldum við stefnda 3. nóvember 2003. Skuld samkvæmt skuldabréfi nr. 545-74-964188 að fjárhæð 1.550.134 krónur, skuld samkvæmt skuldabréfi nr. 545-74-961873 að fjárhæð 479.238 krónur, skuld samkvæmt víxli nr. 545-70-912909 að fjárhæð 211.419 krónur, skuld samkvæmt víxli nr. 545-70-912882 að fjárhæð 214.363 krónur, skuld samkvæmt víxli nr. 545-70-912881 að fjárhæð 268.523 krónur og yfirdráttarskuld á tékkareikningi nr. 545-26-56516 með 1.795.401 krónum. Stefnandi krefst þess og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.519.078 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 3. nóvember 2003 allt til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefnandi hefur komið fram leiðréttingu á númeri skuldabréfs að fjárhæð 1.550.134 krónur án athugasemda af hálfu stefnda. Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. II. Bú Kaldabergs ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 25. mars 2004 að kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði. Var úrskurðurinn byggður á yfirlýsingu Bjarka Ágústssonar fyrrum forsvarsmanns félagsins fyrir sýslumanni þann 18. febrúar 2004 um eignaleysi þess. Frestdagur við skiptin var 26. febrúar 2004 og lauk kröfulýsingarfresti að kveldi 14. júní 2004. Í skýrslu Bjarka hjá skiptastjóra, kemur fram, að Kaldaberg ehf. hafi verið stofnað af honum og fyrrum sambýliskonu hans Elísabetar Sigurðardóttur og að þau áttu hvort um sig 50% í félaginu. Hafi Elísabet í fyrstu annast framkvæmdastjórn en hætt því þegar þau slitu samvistum 3. september 2002 og hún sent tilkynningu um það til hlutafélagaskrár. Kvaðst Bjarki hafa fengið Ólaf Harðarson viðskiptafræðing til þess að yfirfara fjármál Kaldabergs ehf. um svipað leyti en þá hafi verið yfirvofandi nauðungarsala á eign félagsins. Hafi niðurstaðan orðið sú að allar eignir Kaldabergs ehf. voru seldar til Turnhamars ehf. sem hafi orðið til þess að bjarga miklum verðmætum og þess gætt í hvívetna að mismuna ekki kröfuhöfum. Samkvæmt kaupsamningi dagsettum 1. október 2003 sem liggur fyrir í dóminum sem dómskjal nr. 14 og er undirritaður af Bjarka Ágústssyni pr.pr. Kaldaberg ehf. og Ágústi Hreggviðssyni pr.pr. Turnhamar ehf. seldi Kaldaberg ehf. Turnhamri ehf. tæki sín tól og lager fyrir 9.350.000 krónur. Skyldi kaupverðið greitt þannig að yfirtekin skyldu tvö lán við Glitni samtals að fjárhæð 3.223.053 krónur, greiddar upp skuldir við stefnda í þessu máli samkvæmt sundurliðun á kaupsamningi að fjárhæð samtals 2.723.677 krónur en eftirstöðvar kaupverðsins skyldu greiddar í peningum þann 3. nóvember 2003 1.795.401 krónur og þann 11. sama mánaðar 1.607.869 krónur. Í greinargerð stefnanda segir, að samkvæmt kaupsamningi sömu aðila dags. 30. september 2003 þar sem seld var hin megineign félagsins, þ.e. fasteignin við Staðarberg 2-4 í Hafnarfirði, eignarhluti 0202,var kaupverðið að undanskildum. 53.258 krónum að fullu greitt með yfirtöku eða uppgreiðslu áhvílandi veðskulda og greiðslu á vanskilum veðskulda. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var því eina óumdeilda eign búsins þegar þessar ráðstafanir fóru fram hrein eign í lausafjármunum að fjárhæð 6.126.947 krónur. Af þeirri fjárhæð var 4.519.078 krónum varið til greiðslu skulda við stefnda sem er fjárkrafa stefnanda í máli þessu. Síðasta greiðslan að fjárhæð 1.607.869 krónur var innt af hendi til félagsins 11. nóvember 2003 og er máli þessu óviðkomandi enda þá Kaldaberg ehf. skuldlaust við stefnanda og þetta fé að mestu notað samkvæmt framkomnum upplýsingum, óstaðfestum þó, frá fyrrum forsvarsmanni félagsins og Ólafi Harðarsyni til greiðslu annarra skulda einkum á opinberum gjöldum. Í greinargerð stefnda segir að í seinni hluta októbermánaðar árið 2003 hafi Ágúst Hreggviðsson, faðir Bjarka Ágústssonar, fyrirsvarsmanns Kaldabergs ehf., haft samband við útibú stefnda. Óskaði hann eftir því að tryggingarbréf nr. 2383 og 2384, bæði útgefin þann 12. mars 2003 að fjárhæð 800.000 krónur hvort, myndi framvegis vera til tryggingar skuldbindingum Turnhamars ehf., kt. 650903-2930, félags í hans eigu, en bréfin voru áður til tryggingar skuldbindingum Kaldabergs ehf., sbr. dskj. nr. 23-24. Veðandlag tryggingarbréfsins var fasteign Ágústar að Búhömrum 4, Vestmannaeyjum. Óskaði Ágúst, f.h. Turnhamars ehf., eftir því að fá lán hjá stefnda að fjárhæð 9.500.000 krónur sbr. dskj. nr. 25, sem hann ætlaði að ráðstafa á þann máta að hann myndi greiða allar lausaskuldir Kaldabergs ehf., félags í eigu sonar hans, auk þess sem eftirstöðvar bréfsins áttu að fara inn á tékkareikning Turnhamars ehf. Var Ágústi tjáð, eftir rannsókn á hans högum, að það væri í lagi, enda taldi stefndi Ágúst vera góðan viðskiptamann. Í framhaldi af þessu voru fyrrgreind tryggingarbréf árituð um skuldaraskipti þann 23. október 2003. Var Turnhamri ehf., félagi í eigu Ágústar, lánaðar 9.500.000 krónur með skuldabréfi dags. 27. október 2003. Var skuldabréfið keypt af stefnda og því ráðstafað til greiðslu á lausaskuldbindingum Kaldabergs ehf. hjá stefnda, auk þess sem eftirstöðvum lánsins var ráðstafað inn á tékkareikning Ágústar, allt samanber sundurliðun á dskj. nr. 26. Var þetta allt gert að ósk Ágústar án nokkurs atbeina stefnda. Þess beri að geta til útskýringar á dskj. nr. 26, að ástæða þess að fjárhæð sú er Turnhamar ehf. hafði til ráðstöfunar var rúmlega 9.300.000 í stað 9.500.000 krónur er sú að stefndi tók 2% lántökugjald af 9.500.000 krónum. Líkt og sjáist af dskj. nr. 26 þá hafi 1.550.134 krónur verið notaðar til að greiða skuldabréf nr. 964188; 211.419 krónur til að greiða víxil nr. 912909; 214.363 krónur til að greiða víxil nr. 912882; 268.523 krónur til að greiða víxil nr. 912881; 479.238 krónur til að greiða skuldabréf nr. 961873 og að lokum 1.795.401 krónur til greiðslu inn á tékkareikning Kaldabergs ehf. nr. 56516. Samtals eru þetta greiðslur Turnhamars ehf., fyrirtækis Ágústar Hreggviðssonar, á skuldum Kaldabergs ehf. að fjárhæð kr. 4.519.078,-, sem er stefnufjárhæð máls þessa. Eftirstöðvar af andvirði lánsins, þ.e. 4.707.247 krónur voru greiddar inn á tékkareikning Turnhamars ehf. nr. 0545-26-3911, sbr. sama dómskjal. Á þessu sjáist að það var Turnhamar ehf. sem greiddi umræddar skuldir Kaldabergs ehf. hjá stefnda með láni er Turnhamar ehf. tók hjá stefnda. Að gefnu tilefni er það tekið fram að aldrei hafi verið minnst á það við stefnda að verið væri að selja lausafjármuni í eigu Kaldabergs ehf. og/eða að lán það sem Turnhamar ehf. tók hjá stefnda hafi að hluta til verið kaupverð þeirra lausafjármuna. Stefndi hafi í raun ekki haft hugmynd um hvers vegna fyrirtæki í eigu föður eiganda Kaldabergs ehf. væri að greiða upp skuldbindingar Kaldabergs ehf. og taldi það í raun ekki vera sitt hlutverk að grennslast fyrir um það. Stefndi hafi ekki haft hugmynd um meinta slæma stöðu Kaldabergs ehf. á greiðsludegi, enda megi nefna að Kaldaberg ehf. var ekki skráð á vanskilskrá Lánstrausts hf. á greiðsludegi þann 3. nóvember 2003. Í framburði Bjarka Ágústssonar fyrir dóminum kom fram að ljóst hafi verið að við vandamál hafi verið að stríða í rekstri Kaldabergs ehf. í byrjun september 2002 og að svo hafi verið í talsverðan tíma fram að því. Hafi hann reynt að kalla til hina aðilana sem stóðu að fyrirtækinu, þáverandi sambýliskonu sína og foreldra hennar, en án árangurs. Hafi enginn vilji verið hjá þeim til þess að leggja fyrirtækinu til nauðsynlegt fé svo forða mætti sem flestum frá tjóni. Við blasti að það átti að fara að bjóða upp húsnæðið sem fyrirtækið átti og hafi hann leitað sér aðstoðar til þess að fá heildaryfirsýn á fyrirtækið og meta hvað hægt væri að gera til þess að bjarga því sem bjargað yrði. Hafi því verið leitast við að selja eignirnar út úr Kaldabergi ehf. og reynt að fá sem mest út úr því þannig að eftir yrðu aðeins skuldir sem eigendurnir yrðu að takast á við. Þegar búið hafi verið að selja eignirnar hafi eina raunverulega verðmætið sem eftir var verið skattalegt tap sem nam 10.000.000 króna sem hægt hafi verið að selja fyrir 2 milljónir króna. Eftir að víxlar höfðu lent í vanskilum þýddi ekkert að tala við Búnaðarbankann eða Landsbankann þar sem einnig voru skuldir sem hann hafði verið að reyna að koma í ákveðinn farveg og greiða inná. Vildu þessir bankar ekkert gera. Hann upplýsti að Íslandsbanki hefði verið sinn persónulegi viðskiptabanki en einnig hafi hluti af reksri Kaldabergs ehf. farið um hendur bankans. Kvaðst Bjarki ekki hafa viljað mismuna kröfuhöfum en þrátt fyrir það hafi það verið hans ákvörðun að greiða Íslandsbanka hf. vegna þess að honum fannst eðlilegra að hreinsa upp hjá einni bankastofnun í stað þess að vera með þrjár til þess að fást við í Kaldabergsmálinu þegar eigendurnir færu að leysa úr því. Tengdist þessi ákvörðun því einnig að eigendur Kaldabergs ehf. voru í ábyrgðum sem fallið hefðu á þá og nefndi Bjarki í því sambandi bæði sjálfan sig Elísabet, fyrrum sambýliskonu sína, og foreldra hennar. Eftir að eignirnar voru seldar Turnhamri ehf. hafi engar eignir verið eftir þegar búið var að ráðstafa andvirðinu m.a. til þess að greiða upp skuldir Kaldabergs ehf. við Íslandsbanka hf. eins og fram er komið. Ágúst Hreggviðsson sagðist hafa komið að málum Kaldabergs ehf. og hefði stofnun Turnhamars ehf. verið í þeim tilgangi að bjarga því sem bjargað varð hjá syni sínum Bjarka og hefði rekstur Kaldabergs ehf. þá ekki átt neina framtíð fyrir sér að sínu mati. Hefði Íslandsbanki ekki gert neinar kröfur á hendur honum vegna Kaldabergs ehf. og hann hafi ekki komið sjálfur að því að ákveða sérstaklega greiða að skuldir þess við Íslandsbanka. Ólafur Harðarson hafi séð um samninga við bankann. Vitnið Ólafur Harðarson sagðist hafa komið að málum Kaldabergs ehf. í ágústmánuði 2003 og hafi þá allt verið rauðglóandi hjá fyrirtækinu vegna átaka milli eigenda. Sjálfur hafi hann á þeim tíma talið að fyrirtækið ætti framtíð fyrir sér en til þess hafi þurft nýtt fé. Hann hafi setið fundi með öllum kröfuhöfum og skoðað bókhald og ársreikninga. Sagði Ólafur að Turnhamar hafi keypt eignir Kaldabergs ehf. á yfirverði vegna þess að hægt var að nýta þær í þeim rekstri sem Turnhamar ehf. hugðist taka við. III. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að umræddar greiðslur til stefnda hafi verið óeðlilegar þegar þær fóru fram og brjót gegn meginreglunni um jafnræði kröfuhafa sem eigi sér stoð víð í lögum um nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Fyrir liggji að u.þ.b. 71% af ráðstafanlegum eignum búsins voru afhentar stefnda til greiðslu á skuldum við hann sem síðan leiddu til þess að stefndi tapar engum fjármunum á gjaldþrotinu að því er virðist þrátt fyrir að hafa átt á félagið kröfur vel á fimmtu milljón króna einungis rúmum fjórum mánuðum fyrir frestdag. Stefnandi byggir á því að umræddar greiðslur til stefnda hafi brotið gegn 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Þær hafi þannig farið fram fyrr en eðlilegt var. Í því sambandi er bent á að skuldabréf þau sem um ræðir höfðu ekki runnið sitt skeið í þeim skilningi að lánstímabilið sem ráðgert var við útgáfu bréfanna hafi verið ólokið við uppgreiðslu bréfanna og flest bendi reyndar til að umrædd bréf hafi að öllu leyti verið í skilum þegar þau voru greidd upp. Skoraði stefnandi á stefnda í stefnu að upplýsa nánar hvernig staða á þessum skuldum var þ.e. eftir atvikum hversu vanskil höfðu staðið lengi ef um vanskil var að ræða, hvort greiddar hafi verið umrætt sinn upp allar skuldir Kaldabergs ehf. við stefnda, hvort kröfurnar hafi verið farnar í lögfræðilega innheimtu og að ljósrit af umræddum skjölum yrðu lögð fram í dóm. Í þessu sambandi áréttaði stefnandi að þegar lagt væri mat á hvort skilyrðum 134. eða 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt beri að meta kröfur þær sem greiddar voru til samans, þ.e. hver heildarfjárhæðin var. Þá er á því byggt sjálfstætt varðandi alla kröfu stefnanda að fjárhæð sú sem greidd var hafi skert greiðslugetu Kaldabergs ehf. verulega samanber framangreint. Hitt blasir enda við að félagið varð gjaldþrota skömmu síðar og öllum mátti vera á þeim tíma sú framtíð félagsins ljós þótt það skipti í sjálfu sér ekki grundvallarmáli varðandi kröfur stefnanda. Um leið og einu umtalsverðu eignir búsins voru því sem næst allar afhentar viðskiptabanka félagsins lá fyrir að starfsemi félagsins átti að leggja niður og að engar tekjur yrðu í starfseminni í kjölfarið og því ekkert til að greiða öðrum kröfuhöfum. Krafa um riftun er einnig byggð sjálfstætt á 141. gr. laga nr. 21/1991, enda ljóst að mati stefnanda að ráðstafanirnar voru ótilhlýðilegar, stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leiddu til þess að eignir þrotabúsins voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Ótvírætt er að mati stefnanda að Kaldaberg ehf. var á þessum tíma ógjaldfært félag eða varð það a.m.k. við þessar ráðstafanir og stefnda hafi verið eða mátt vera það fullkunnugt enda stefndi viðskiptabanki félagsins. Endurgreiðslukrafa stefnanda byggir á 142. gr. laga nr. 21/1991, 1. mgr. ef fallist verður á riftun með skírskotun til 134. gr. en ella á 3. mgr. Stefnandi telur að fjárkrafa hans sé sú sama hvort sem notast er við endurgreiðslureglu 1. mgr. eða skaðabætur skv. 3. mgr. IV. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að það hafi ekki verið Kaldaberg ehf. sem greiddi skuldir sínar, heldur Turnhamar ehf., félag í eigu Ágústs Hreggviðssonar, sem er faðir Bjarka Ágústssonar, fyrirsvarsmanns og eiganda Kaldabergs ehf. Það hafi verið Turnhamar ehf. sem keypti lausaféð en ekki stefndi og greiddi fyrir lausaféð með m.a. uppgreiðslu skulda er tengdust lausafénu ekki. Stefnandi hefði því átt að beina kröfu á hendur Turnhamri, mögulega með vísan í 134. gr. gþl. og að lausaféð hefði verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri. Atferli og ráðstafanir stefnda séu algjörlega í samræmi við vandaða viðskiptahætti og brjóti á engan hátt í bága við skilyrði XX. kafla laga nr. 21/1991. Svo er að sjá að stefndi byggi á því að greiðsla skulda Kaldabergs ehf. hafi verið innt af hendi á eðlilegum tíma og að greiðsla frá þriðja manni geti ekki skert greiðslugetu þrotabúsins, í það minnsta ekki verulega, enda hafi Kaldaberg ehf. ekki verið á vanskilaskrá er greiðsla átti sér stað. Þá telur stefndi að greiðsla Kaldabergs ehf. hafi eftir atvikum verið venjuleg. Stefndi leggur á það áherslu að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Taki dómurinn ekki til greina kröfu stefnda um sýknu, þá krefst stefndi verulegrar lækkunar á dómkröfum með vísan til sömu raka og koma fram í aðalkröfu um sýknu. Stefndi telur að upphafstími dráttarvaxta geti í fyrsta lagi verið einum mánuð frá þeim degi er stefnandi sannanlega kemur fram með kröfu á hendur stefnda, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og fjölda dómafordæma þess efnis. Verður því að telja að dráttarvexti skuli í fyrsta lagi reikna frá 13. janúar 2005, eða mánuði eftir birtingu stefnu, sbr. dskj. nr. 1. Niðurstaða. VI. Byggir stefnandi kröfu sína aðallega á 134. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt greininni má rifta greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, ef greitt er með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð, sem hefur skert greiðslugetu þrotamanns verulega nema greiðslan hafi virst eðlileg eftir atvikum. Til vara byggir stefnandi á 141. gr. sömu laga. Ekki er um það deilt í málinu að um greiðslu skuldar Kaldabergs ehf. við Íslandsbanka hf. var að tefla þegar Turnhamar ehf. greiddi þær skuldir sem dómkrafa stefnanda byggist á. Sagði fyrrverandi forsvarsvarsmaður Kaldabergs ehf. í skýrslu sinni fyrir dóminum að það hafi verið hans ákvörðun að greiða Íslandsbanka hf. vegna þess að honum fannst eðlilegra að hreinsa upp hjá einni bankastofnun í stað þess að vera með þrjár í takinu til þess að fást við í Kaldabergsmálinu þegar eigendurnir færu að leysa úr því. Eftir að eignirnar voru seldar Turnhamri ehf. hafi engar eignir verið eftir þegar búið var að ráðstafa andvirði þeirra m.a. til þess að greiða upp skuldir Kaldabergs ehf. við Íslandsbanka hf., eins og fram er komið. Styðst þessi niðurstaða einnig við það að í framburði stofnanda Turnhamars ehf., Ágústs Hreggviðssonar, fyrir dóminum að stefndi hafi ekki gert neinar kröfur á hann í þessu sambandi. Í 134. gr. laga nr. 21/1991 eru orðuð þrjú skilyrði sem leiða til þess að rifta megi óvenjulegum greiðslum á skuld síðustu sex mánuði fyrir frestdag. Eru þessi skilyrði sjálfstæð að því leyti að aðeins eitt af þeim þarf að vera til staðar svo riftun fái framgang, allt að því gefnu, að greiðslan sé ekki þrátt fyrir allt, venjuleg eftir atvikum. Ekki er það skilyrði fyrir beitingu riftunar eftir greininni að riftunarþoli hafi verið grandsamur. Eins og áður greinir, var frestdagur 26. febrúar 2004 og skuldirnar við stefnda greiddar 3. nóvember 2003 þannig að fyrir liggur að þær voru greiddar innan sex mánaða fyrir frestdag. Er það álit dómsins að með því að ráðstafa 4.519.078 krónum af andvirði lausafjárins sem Kaldaberg ehf. seldi Turnhamri ehf. með þeim hætti sem áður greinir til greiðslu á skuld við stefnda hafi verið um óvenjulegar greiðslur að ræða í skilningi ákvæðisins enda verði að taka mið af því hvernig greiðslan fór frá skuldaranum, en ekki hvernig hún var reidd af hendi til stefnda. Af því sem nú hefur verið rakið er ljóst að Kaldaberg ehf. lét frá sér lausafé sitt til þess að greiða skuldir sínar við stefnda. Milliganga þriðja manns í þessu tilfelli Turnhamars ehf. sem síðan greiddi stefnda í formi peninga breytir hér engu við mat á því hvort um sé að ræða óvenjulegan greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Þykir dómara einsýnt í ljósi þess sem að ofan er rakið að þessar ráðstafanir eigi rót sína að rekja til þeirrar slæmu fjárhagsstöðu sem Kaldaberg ehf. var komið í er greiðsla skuldarinnar við stefnda fór fram. Ekkert hefur komið fram af hálfu stefnda sem gefur tilefni til þess að álykta að þessi greiðslumáti geti virst venjulegur eða fyrirséður eftir atvikum, annað en að greitt hafi verið með peningum sem áður er fjallað um í dóminum. Sönnunarbyrðin fyrir því að greiðslan hafi eftir atvikum verið venjuleg hvílir á stefnda, sem riftunarkrafan beinist gegn, og verður stefndi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Af þessum sökum verður fallist á að greiðsla þessi hafi farið fram með svo óvenjulegum hætti að henni megi rifta með vísan til ákvæða 134. gr. laga nr. 21/1991. Í samræmi við ákvæðið skal stefndi því dæmdur til þess að greiða stefnanda dómkröfuna 4.519.078 krónur sem hann nýtti sér til greiðslu skulda stefnanda við sig. Stefndi hefur mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda og sérstaklega upphafstíma þeirra. Telur dómari að miða beri upphafstíma dráttarvaxta við þann dag sem málið var höfðað eða 13. desember 2004, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur. Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn. D ó m s o r ð: Rift er greiðslu á skuld stefnanda, þrotabús Kaldabergs ehf., við stefnda Íslandsbanka hf. að fjárhæð 4.519.078 krónur. Stefndi greiði stefnanda 4.519.078 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. desember 2004 til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostað. |
Mál nr. 592/2013 | Frávísun frá héraðsdómi Kröfugerð Fjöleignarhús | Húsfélag H höfðaði mál til heimtu skaðabóta vegna ætlaðra ágalla á viðgerð á sameign hússins. Hafði E hf. annast útboðslýsingu, verklýsingu, tilboðsskrá og eftirlit með framkvæmdum en M ehf. séð um viðhald og viðgerð utanhúss. Ný málsástæða húsfélagsins um að krafa vegna ætlaðs tjóns á séreignarhluta eigenda H hefði verið framseld húsfélaginu komst ekki að fyrir Hæstarétti með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af gögnum málsins varð ráðið að hluti kröfu húsfélagsins tæki til séreignarhluta eigenda hússins, þótt í stefnu væri rakið að kröfur málsins vörðuðu sameiginlega hluta hússins. Þótti kröfugerð húsfélagsins vera í ósamræmi við málsástæður þess. Þá hafði húsfélagið ekki sundurgreint kröfu sína þannig að glögglega yrði ráðið hvaða hluti hennar yrði rakinn til tjóns á sameign eigenda hússins og hvaða hluti yrði rakinn til tjóns á séreign þeirra. Var því ekki unnt að leggja dóm á málið og óhjákvæmilegt að vísa því frá héraðsdómi án kröfu. | Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. september 2013. Hann krefst þess að stefndu greiði sér sameiginlega 3.182.210 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. september 2010 til greiðsludags og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi réðst áfrýjandi í viðgerðir á sameign fasteignarinnar að Háteigsvegi 12 vorið 2004. Stefnda, Efla hf., sem þá hét Línuhönnun hf., annaðist útboðslýsingu, verklýsingu og tilboðsskrá sem gerð var í mars 2004 og eftirlit með framkvæmdum á húsinu samkvæmt útboðsgögnum. Tilboði stefndu, Múr- og málningarþjónustunnar Höfn ehf., var tekið í verkið, sem fólst í viðhaldi og viðgerðum utanhúss. Í málinu hefur verið lögð fram yfirlýsing um málshöfðun og umboð frá 10. nóvember 2011 þar sem fram kemur að eigendur Háteigsvegar 12 staðfesti að áfrýjandi hafi fullt umboð til þess að ,,höfða og reka mál á hendur [stefndu] vegna vanefnda á samningi annars vegar um eftirlit með verki og hins vegar um viðgerðir á húsinu.“ Áfrýjandi lagði fram nýtt dómskjal fyrir Hæstarétti sem ber yfirskriftina ,,Árétting um framsal á kröfu“ þar sem segir að það áréttist að eigendur að öllum íbúðum að Háteigsvegi 12 hafi framselt kröfur sínar vegna tjóns á séreignum sínum vegna vanefnda á verki, og/eða eftirliti með því til áfrýjanda. Sé því áfrýjandi bær og réttur aðili til að krefjast bóta vegna tjóns, hvort sem er vegna sameignarhluta hússins eða séreignarhluta þess. Skjal þetta byggir á þeirri nýju málsástæðu hér fyrir dómi að krafa vegna ætlaðs tjóns á séreignarhluta eigenda Háteigsvegar 12 hafi verið framseld áfrýjanda. Með vísan til 2. mgr. 163. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fær þessi málsástæða ekki komist að hér fyrir dómi. Í stefnu í héraði greinir að áfrýjandi fari með málið fyrir hönd eigenda þar sem kröfur málsins varði sameiginlega hluta hússins og að stefndu beri sameiginlega ábyrgð á því að á viðgerðum stefndu hafi verið leyndir gallar. Stefnukrafan grundvallast á verðmati verkfræðistofunnar Verkís frá október 2009, sem áfrýjandi fékk til að ,,taka út húsið ... vegna þess að borið hefur á vatnsskemmdum að innanverðu á útveggjum og loftum í húsinu“. Er stefnukrafan greind í fjóra þætti. Fyrsti hluti hennar lýtur að þéttingu sem sundurliðast í kíttun meðfram gluggum, kíttun undir gluggum og þéttingu á þakdúk, en síðastgreindur liður er skýrður svo í úttektinni að um sé að ræða þéttingu dúks á þaksvölum. Annar hluti hennar greinist í málningarvinnu, sem sundurliðast í jarðhæð, stofu á 1. hæð og stofu á 2. hæð auk herbergis á 3. hæð. Þriðji hluti hennar lýtur að parketi á 1. hæð, sem sundurliðast í rif og förgun, flotun og nýtt parket. Fjórði hluti dómkröfunnar lýtur að gólfdúk á jarðhæð, sem sundurliðast í rif og förgun, flotun og nýr dúkur. Í 5. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er tilgreint hvað teljist til séreignar fjöleignarhúsa. Í 1. tölulið greinarinnar segir að allt afmarkað húsrými sem gert er að séreign samkvæmt þinglýstum heimildum og allt sem liggi þar innan veggja teljist til séreignar. Í 8. tölulið segir að innra byrði svalaveggja og gólfflötur svala teljist til séreignar. Þá er tilgreint í 6. tölulið 8. gr. laganna að allt húsrými sem ekki teljist séreign, teljist til sameignar og dæmi tekin þar um. Í 3. mgr. 71. gr. laganna er kveðið svo á um að húsfélög geti verið aðilar að dómsmáli, bæði til sóknar og varnar. Gildir það jafnt um mál gegn þriðja aðila og einum eða fleiri félagsmönnum, en kröfur þær sem húsfélag er bært til að hafa uppi í dómsmáli eru þó bundnar við sameign fjöleignarhúss. Af gögnum málsins verður ráðið að hluti kröfu áfrýjanda taki til séreignarhluta eigenda hússins, þótt í stefnu sé rakið að kröfur málsins varði sameiginlega hluta hússins. Þannig er kröfugerð áfrýjanda í ósamræmi við málsástæður hans og hann hefur ekki sundurgreint kröfu sína þannig að glögglega verði ráðið hvaða hluti hennar verður rakinn til tjóns á sameign eigenda hússins og hvaða hluti verður rakinn til tjóns á séreign þeirra. Er því ekki unnt að leggja dóm á málið í þessu horfi og óhjákvæmilegt að vísa því frá héraðsdómi án kröfu. Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðst í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Áfrýjandi, Húsfélagið Háteigsvegi 12, greiði stefndu, Eflu hf. og Múr- og Málningarþjónustunni Höfn ehf., hvorum um sig samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2013. Mál þetta, sem dómtekið var 16. apríl sl., er höfðað af Háteigsvegi 12, húsfélagi, Háteigsvegi 12, Reykjavík, gegn Eflu hf., Höfðabakka 9, Reykjavík, með stefnu birtri 24. júní 2011 og Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf., Tunguhálsi 17, Reykjavík, með stefnu birtri 28. júní 2011. Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til þess að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 3.182.210 krónur, sameiginlega (insolidum), með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. september 2010 til greiðsludags auk málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Stefnda Efla hf. krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda en til vara er krafist verulegrar lækkunar á dómkröfu stefnanda. Þá er í báðum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda í samræmi við framlagt málskostnaðaryfirlit. Stefnda, Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf., krefst þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að mati dómsins. Með úrskurði héraðsdóms, dagsettum 1. febrúar 2012, var kröfu stefndu um að málinu yrði vísað frá dómi, hafnað. Málsatvik og ágreiningsefni Málavextir eru þeir að vorið 2004 réðst stefnandi í viðamiklar viðgerðir á sameign fasteignarinnar að Háteigsvegi 12 í Reykjavík. Stefnda Efla hf., þá Línuhönnun hf., annaðist útboðslýsingu, verklýsingu og tilboðsskrá, sem gerð var í mars 2004. Stefnda Efla hf. gerði síðan tilboð í eftirlit með viðhaldsframkvæmdunum, dagsett 31. mars 2004, og var því tilboði tekið. Samkvæmt því skyldi stefnda Efla hf. hafa umsjón með viðhaldi og viðgerðum á húsinu samkvæmt framangreindum útboðsgögnum. Skyldi verkið unnið í einum áfanga. Eftirlit stefndu Eflu hf. hafi m.a. átt að felast í því að eftirlitsmaður skoðaði og samþykkti viðgerðarefni sem verktaki hugðist nota, kæmi á verkstað þrisvar sinnum í viku að meðaltali og sæi til þess að verktaki framkvæmdi verkið eins og útboðsgögn segðu til um. Þá skyldi hann annast lokaúttekt á verkinu. Stefnandi tók tilboði stefndu, Múr- og málningarþjónustunnar Hafnar ehf., 14. apríl 2004, í viðhald og viðgerðir utanhúss, að fjárhæð 8.229.450 krónur og skyldi verkinu vera að fullu lokið 14. júlí 2004. Lokaúttekt vegna verksins fór fram 27. júlí 2004 og hafi þar komið fram að öllum verkþáttum væri lokið og engar athugasemdir verið gerðar við verkið. Stefnandi byggir á því að það hafi verið sumarið 2009 sem íbúar hússins hafi orðið varir við leka með fram og undir gluggum hússins og hafi stefnandi þá leitað til verkfræðistofunnar Verkíss hf. til að greina orsök og afleiðingar hugsanlegs leka og kanna mögulegan kostnað af viðgerðum. Lekagreining Verkíss hf., dagsett 22. október 2009, liggur fyrir í málinu. Þar segir að skemmdirnar væru helst undir gluggum og svalahurðum og niður við gólf á sömu stöðum. Skemmdir hafi verið í loftum í stofu á annarri hæð og undir þaksvölum þriðju hæðar. Einnig hafi verið skemmdir í lofti stigagangs til móts við reykháf. Mikill raki og skemmd hafi verið í parketi undir gluggum og svalahurð í stofu á fyrstu hæð. Auk þess hafi gólfdúkur verið farinn að losna undir glugga í stofu á jarðhæð þar sem raki hafi mælst 98%. Verulegur raki hafi mælst á eftirtöldum stöðum við glugga og hurðarkarma: á jarðhæð, undir glugga í sameiginlegu þvottahúsi og undir glugga í stofu íbúðar, á fyrstu hæð, undir stofugluggum og undir svalahurð í stofu, á annarri hæð, undir svalahurð og í lofti í stofu, og á þriðju hæð, undir svalahurð í stofu. Var orsök rakans talin vera leki með fram og undir gluggum og hurðarkörmum og vegna gata í þéttingum á asfaltdúk við húsvegg á þaksvölum á 3. hæð. Kostnaður við viðgerðir hafi verið metinn 3.182.210 krónur. Í lekagreiningunni kemur fram að samkvæmt útboðsgögnum hafi átt að þétta bæði með fram og undir gluggum þegar ráðist var í viðgerðir árið 2004 en ekki væri að sjá að það hafi verið gert. Lögmaður stefnanda sendi bréf til stefndu Eflu hf. 25. febrúar 2010 og stefndu, Múr- og málningarþjónustunnar Höfn ehf. 16. ágúst s.á. þar sem óskað var eftir afstöðu þeirra til ábyrgðar á gallanum í ljósi niðurstöðu greiningar Verkíss hf. Stefnda Efla hf. svaraði með bréfi, dagsettu 6. maí 2010, þar sem því var lýst yfir að stefnda teldi lekann ekki á sína ábyrgð. Þar hafi komið fram það sjónarmið félagsins að steining hússins að Háteigsvegi 12 hafi verið gróf og því hafi verið erfitt að fá góða viðloðun með kítti. Auk þess væri óvíst hvort kíttun gæti hafa orsakað umræddan leka enda væri kíttun ekki „varanleg þétting“ heldur aðeins skemmri tíma vörn. Jafnframt væri um að ræða rýrnun glugga frá steini sem eðlilegt væri miðað við þá staðreynd að gluggarnir væru orðnir 50 ára gamlir. Stefndi, Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf., svaraði með bréfi, dagsettu 24. ágúst 2010, þar sem fram kemur að félagið telji sig ekki bera ábyrgð á galla verksins þar sem eftirlitsmaður hafi ákveðið að sleppa þessum verkliðum þrátt fyrir að hafa sett þá í útboðsgögn. Verktaki geti ekki verið ábyrgur fyrir verkliðum sem ekki hafi verið framkvæmdir. Félagið hafi unnið í samræmi við útboðsgögn frá stefndu Eflu hf. og undir leiðsögn og eftirliti hans. Í kjölfarið hafi stefnandi sent stefndu Eflu hf. annað bréf, dagsett 29. september 2010, þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum frá stefndu Eflu hf. um þá ákvörðun hennar sem eftirlitsmanns með verkinu og umsjónarmanni með útboðslýsingu, verklýsingu og tilboðsskrá, að þétta ekki gluggana í samræmi við það sem fram hafi komið í útboðsgögnum. Í svari lögmanns stefndu Eflu hf., dagsettu 4. febrúar 2011, kom fram að ekki hafi verið tekin sérstök ákvörðun um að þétta ekki gluggana heldur hafi hún líklega verið grundvölluð á mati verktakans. Jafnframt hafi því verið mótmælt að stefnda Efla hf. beri nokkra ábyrgð á meintum göllum og að ósannað væri að tilefni hafi verið til að láta þétta í kverkina milli gluggakarma og steypu og ekki hafi með neinu móti verið sýnt fram á að skortur á þéttingu hefði valdið meintum göllum. Stefnda Efla hf. hélt því fram að þótt kíttað hefði verið á sínum tíma væru allar líkur á að sú kíttun hefði gefið sig við þá mismunarhreyfingu milli karma og steypu sem hefði átt sér stað. Líklegra væri að sú mismunarhreyfing, sem sæist skýrlega á myndum Verkíss hf., stafaði af lækkandi rakastigi í gluggum og veggjum frekar en skorti á þéttingu. Loks hafi matsgerð Verkíss hf. verið mótmælt þar sem hún væri ófullnægjandi sönnun um að galli væri á umræddu verki. Hennar hafi verið aflað einhliða og stefndu Eflu hf. hafi ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Eftir að málið var höfðað var Helgi S. Gunnarsson, byggingarverkfræðingur og húsasmíðameistari, að beiðni stefnanda, dómkvaddur sem matsmaður til að meta hvort leki væri í fasteigninni. Ef svo væri hverjar væru orsakir lekans. Hvort verkliður 1.2.2 í útboðsgögnum, sbr. einnig verklýsing 01.201 og 01.207, hafi verið unninn sumarið 2004. Ef ekki hvort það hefði komið í veg fyrir tjónið ef þessir verkliðir hefðu verið unnir í samræmi við útboðsgögn og loks hver ætla megi að sé eðlilegur kostnaður við lagfæringar af völdum leka- og vatnsskemmda. Niðurstaða matsmannsins var sú að gluggar virtust almennt vera í þokkalegu ástandi, að lítið væri um fúa í botn- eða hliðarstykkjum og að raki í gluggum væri eðlilegur, um 7-9%. Samskeyti og tengingar við pósta væru þó víða mjög opin og þörfnuðust nauðsynlegrar þéttingar. Matsmaður hafi brotið/hreinsað frá mjög víða þar sem gluggastykki koma að steypu. Almennt hafi þau samskeyti verið nokkuð þétt og ekki opin og girði hafi virst vera heilleg á flestum stöðum fyrir innan. Hins vegar sé gluggi á efstu hæð, sem og þéttingar með glugga á efstu hæð í stigagangi, í frekar slæmu ástandi, bæði opnar samsetningar og skeyti sem og þéttingar með gluggum. Matsmaður taldi því að leki væri í fasteigninni og byggði sú niðurstaða á ástandi inni, þ.e. ummerkjum um leka, frágangi og ástandi glugga og þéttinga og frágangs við glugga. Þá ætti vatn við rétt skilyrði mjög greiða leið inn í hús á a.m.k. tveimur stöðum, annars vegar undir svalahurð í efstu íbúð og í neðra horni austasta suðurglugga á 2. hæð. Þá taldi matsmaður að orsakir lekans væru nokkrar. Gluggar hafi lekið á ýmsum stöðum með póstum og samskeytum. Óþéttleiki væri tilkominn vegna rýrnunar í viðnum og skorts á viðhaldi. Þessi leki væri ekki mikill og auðvelt væri að koma í veg fyrir hann með þéttingu samskeyta með inndælingu. Alla glugga þyrfti að hreinsa og mála og augljóst sé að gluggar inni hafi ekki verið málaðir í mörg ár (a.m.k. 10 ár) og því séu lekaummerki vegna þessa leka að öllum líkindum bæði gömul og ný. Þá sé leki mikill með gluggum í stigagangi á vesturhlið hússins. Þétt (kíttað) hafi verið með botnstykki glugga en þétting hafi verið illa af hendi leyst og geri ekkert gagn. Samskeyti glugga og pósta á suðurglugga á svölum efstu hæðar séu óþétt og þá sérstaklega við hurð. Greið leið sé fyrir vatn í sunnan slagveðri inn í vegg og þaðan í gegnum vegg og inn á efstu hæð og plötu niður í stofuloft á íbúðinni fyrir neðan. Ummerki sjáist á báðum hæðum. Almennt séu samskeyti á þessum glugga óþétt og opin. Það var álit matsmanns að verklýsingar nr. 01.201 og 01.207 undir verklið 1.2.2 í útboðsgögnum hafi ekki verið unnin sumarið 2004. Undantekning virðist þó vera tilraun til þéttingar á glugga á vesturhlið en sú þétting gæti þó hafa verið unnin síðar. Loks taldi matsmaður að hefðu framangreindir verkliðir verið unnir í samræmi við fyrirskrift þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir áframhaldandi tjón, nánar tiltekið tjón vegna leka með gluggum í stigagangi á 2. og efstu hæð og tjón vegna leka með gluggum og svalahurð á efstu hæð. Þá bendir hann á að það sé eitt af hlutverkum hönnuða og eftirlitsaðila að reyna að lágmarka umfang og tilkostnað verka með því að vega og meta hversu mikilla aðgerða sé þörf. Af þeirri ástæðu sé m.a. magn þessara liða í verklýsingu áætlað og umfang ákvarðað samhliða verki. Taldi matsmaður að nauðsynlegar aðgerðir, til að fyrirbyggja leka og lagfæra þegar komnar skemmdir af völdum leka og raka, væru eftirfarandi: Gera við glugga og hurðarkarma samkvæmt verklýsingu 1.2.2. Umfangsmestu framkvæmdirnar væru á suðurgluggum og hurðarkarmi efstu hæðar og samskeytum pósta á suðurhlið. Þétta þurfi (fúga með og undir glugga), sbr. verklýsingu 01.201 og 01.207 á vestur og suðurhlið. Hreinsa þurfi upp flagnaða málningu og múr á útveggjum að innanverðu og sparsla og endurmála á 3., 2., 1. hæð og kjallara að sunnanverðu. Einnig loft í stofu á 2. hæð. Kostaður við ofangreindar framkvæmdir yrði samkvæmt áliti matsmanns 1.069.500 krónur, og sundurliðist þannig: Viðgerð á gluggum og hurðarkörmum, þétt með gluggum Undirbúningur og uppsetning aðstöðu, s.s. nauðsynlegra vinnupalla 99.000 kr. Þétting á op. samskeytum karma og pósta skv. verklýsingu 01.105 167.000 kr. Þétta, fúga með og undir gluggum, sbr. verklýs. 01.201 og 01.207 149.999 kr. Frágangur í verklok 71.500 kr. Samtals kostnaður, efni og vinna með 25,5%VSK 486.500 kr. Málningarvinna inni Undirbúningur og aðstaða s.s. varnir 70.500 kr. Jarðhæð 80.000 kr. 1. hæð 122.000 kr. 2. hæð 158.000 kr. 3. hæð 104.000 kr. Frágangur í verklok 48.500 kr. Samtals kostnaður, efni og vinna með 25,5% VSK 583.000 kr. Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur Ólafur Sörli Kristmundsson, íbúðareigandi að Háteigsvegi 12, Hafsteinn Kristján Halldórsson, starfsmaður stefndu Eflu hf., Helga Bertelsen, Helgi S. Gunnarsson, dómkvaddur matsmaður, Stefán Andrésson húsasmíðameistari, starfsmaður Verkíss hf., Sigurvin Ármannsson, fyrrum eigandi stefndu, Múr- og málningarþjónustunnar Höfn ehf., og Elías Víðisson, starfsmaður stefndu, Múr- og málningarþjónustunnar Höfn ehf. Málsástæður og lagarök stefnanda Auk framangreindrar matsgerðar Helga S. Gunnarssonar byggir stefnandi dómkröfu sína á verðmati Verkíss hf. og sundurliðast það með eftirfarandi hætti: 1.1 Kíttun með fram gluggum 60.000 kr. 1.2 Kíttun undir gluggum 286.000 kr. 1.3 Þétting á þakdúk 104.000 kr. 2.1 Jarðhæð 53.000 kr. 2.2 1. hæð 200.000 kr. 2.3 Stofa 2. hæð 200.000 kr. 2.4 Herbergi 3. hæð 140.000 kr. 3.1 Rif og förgun 218.460 kr. 3.2 Flotun 347.550 kr. 3.3 Nýtt parket 1.390.200 kr. 4.1. Rif og förgun 18.000 kr. 4.2 Flotun 52.500 kr. 4.3 Nýr dúkur 112.500 kr. Samtals 3.182.210 kr. Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndu verði gert að greiða honum dráttarvexti samkvæmt 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu mánuði eftir að stefnandi hafi tilkynnt báðum stefndu um tjón sitt og afhent þeim lekagreiningu Verkíss hf. þar sem greind sé orsök og afleiðing tjónsins auk þess sem sett sé fram kostnaðaráætlun, eða frá 16. september 2012 til greiðsludags. Stefnandi vísar til þess að hann sé félag eiganda hússins að Háteigsvegi 12 í Reykjavík og þar sem kröfur máls þessa varði sameiginlega hluta hússins fari húsfélagið með málið f.h. eigenda. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að á framkvæmd á viðgerðum á húsinu séu leyndir gallar í skilningi kröfuréttar, þ. á m. verktakaréttar og skaðabótaréttar. Á göllunum beri stefndu sameiginlega ábyrgð þar sem báðir stefndu hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart stefnanda. Um galla sem séu á framkvæmdinni sé einkum vísað til niðurstöðu greiningar Verkíss hf., dagsettrar 22. október 2009. Stefnandi byggir skaðabótakröfu gagnvart stefnda, Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf., á almennum skaðabótareglum, þ. á m. reglum um sakarábyrgð. Í útboðsgögnum og verksamningi sé vísað til íslensks staðals um almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir, ÍST 30:1977, og byggir stefnandi á gr. 29.6 í ÍST en þar segir: „Ef í ljós koma á verkinu leyndir gallar sem ekki var unnt að sjá fyrir lok ábyrgðartímans skal verktaki svara skaðabótum ef gallarnir stafa sannanlega af ásetningi eða gáleysi hans sjálfs eða starfsmanna hans. Um fyrningu á þeim skaðabótakröfum fer eftir ákvæðum laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905.“ Þá vísar stefnandi til þess að þar sem stefndi, Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf., hafi ekki framkvæmt ákveðna verkþætti í samræmi við útboðsgögn og verksamning hafi stefnandi orðið fyrir tjóni. Samkvæmt útboðsgögnum á bls. 42, lið 1.2.2, hafi stefndi, Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf., borið að fúga þar sem bil hafi myndast milli karms og steins og undir alla glugga. Um það hvernig frágangi skyldi háttað við það verk sé nánar fjallað í verklýsingu, liðum 01.201 og 01.207, á bls. 70 og 71. Þá sé í tilboði stefnda, Múr- og málningarþjónustunnar Hafnar ehf., einnig gert ráð fyrir þessum verkliðum, sbr. lið 2.2.4 þar sem áætlaður kostnaður vegna þessara verkliða er alls 106.000 krónur. Engar breytingar hafi verið gerðar á verksamningi aðila í þá veru að fallið hafi verið frá þessum verklið og sé því einboðið að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því að hafa vanrækt skyldu sína í þessum efnum. Afleiðingar þess séu þær að leki hafi myndast með fram og undir gluggum og hurðarkörmum. Lekinn hafi svo leitt til vatnsskemda á innanverðum útveggjum og loftum í húsinu auk þess sem gólf á jarðhæð og 1. hæð hússins séu skemmd. Á þessu tjóni stefnanda beri stefndi ábyrgð samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins um sakarábyrgð. Stefndi, Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf., vísar til þess í bréfi sínu til stefnanda, dagsettu 24. ágúst 2010, að stefnda Efla hf. hafi tekið ákvörðun um að ekki væri tilefni til að þétta kverkina milli gluggakarma og steypu og að hann hafi fylgt þeirri ákvörðun. Ekkert hafi komið fram í málinu sem styður þessa staðhæfingu stefnda, Múr- og málningarþjónustunnar Höfn ehf., og sé henni því mómælt sem rangri og ósannaðri. Auk þess fríi slíkt stefnda, Múr- og málningarþjónustuna Höfn ehf., ekki af ábyrgð í málinu enda hafi verkið verið unnið í þágu stefnanda samkvæmt samningi stefnda og stefnanda. Jafnvel þó hugur stefndu Eflu hf. hafi staðið til þess þá hefði stefndi ekki verið þess umkominn að breyta verksamningnum sem slíkum án samráðs við stefnanda. Stefnandi byggir á því að skaðabótaábyrgð stefndu Eflu hf. verði grundvölluð á því að með tilboði stefnda, dagsettu 30. apríl 2004, hafi stefndi tekið á sig ábyrgð eftirlitsaðila við verkið. Samkvæmt því beri eftirlitsmanni að koma á verkstað þrisvar sinnum í viku að meðaltali og sjá til þess að verktaki framkvæmi verkið eins og útboðsgögn segi til um. Jafnframt komi þar fram að stefndi eigi að framkvæma lokaúttekt á verkinu. Samkvæmt bréfi frá stefndu Eflu hf., dagsettu 6. maí 2010, hafi lokaúttek á verkinu farið fram árið 2004. Sé því ljóst að stefnda hafi yfirsést, eða hann látið hjá líða, að gera athugasemdir við stefnda, Múr- og málningarþjónustuna Höfn ehf., um að verkþættir 1.2.2, sbr. verklýsingar 01.201 og 01.207, bls. 42, 70 og 71, hafi ekki verið framkvæmdir í samræmi við útboðsgögn. Stefnandi hafi keypt af stefndu Eflu hf. sérfræðilega úttekt á framkvæmd og frágangi verksins og mátt treysta því að hann framkvæmdi eftirlitið með viðunandi hætti. Það hafi stefndi ekki gert. Eftirlit stefnda hafi því ekki verið í samræmi við tilboð hans og hafi það beinlínis leitt til tjóns stefnanda sem sé þannig í beinu orsakasambandi við athafnaleysi stefnda sem hafi falist í vanræktu eftirliti. Þá vísar stefnandi til þess að krafan sé sett fram í tæka tíð enda sé ekkert sem takmarki ábyrgð stefndu nema ákvæði fyrningalaga nr. 14/1905 um fyrningu skaðabótakrafna. Um leið og vart hafi orðið við galla á verki stefndu hafi stefnandi strax leitað til sérfræðinga til að fá greiningu á því hvaðan umræddur leki stafaði og hafi látið stefndu vita um leið og niðurstaða Verkíss hf. lá fyrir. Stefnandi telur að hann hafi ekki getað séð fyrir að slíkur galli sem hér um ræðir væri á verkinu enda hafi hann falið annars vegar stefnda, Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf., sem verktaka, að framkvæma verkið í samræmi við útboðsgögn og verksamning og hins vegar stefndu Eflu hf. að hafa eftirlit með því að verkið yrði framkvæmt í samræmi við útboðsgögn og verksamning. Stefndu hafi báðir brugðist skyldum sínum. Á því sé byggt af hálfu stefnanda að þess hafi mátt vænta að verkið yrði leyst þannig af hendi að dygði til einhverra ára, þ.e. án þess að leki myndaðist. Tilgangurinn með verkinu hafi verið að bregðast við viðhaldsþörf á eldra húsi og því haldlitlar málsástæður stefndu Eflu hf. að við því megi búast að eldri hús leki. Markmiðið hafi verið að bregðast við slíku en því fór fjarri að stefnanda hafi verið gert viðvart af hálfu stefnda að þessarar niðurstöðu væri að vænta strax á næstu árum, þ.e. að skemmdir yrðu innandyra vegna leka. Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á því að stefndu beri hvor um sig fulla ábyrgð á tjóni hans og því sé gerð krafa um að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina sameiginlega (in solidum). Um aðild sóknar- og varnarmegin vísar stefnandi til 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um samlagsaðild þar sem kröfur séu af sama uppruna, sama atvikalýsing eigi við og þær séu studdar sömu röksemdum og sönnunargögnum. Hvað varðar lagarök vísar stefnandi til almennra meginreglna kröfu- og skaðabótaréttar um efndir fjárskuldbindinga, krafa um dráttarvexti er byggð á 1. mgr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og krafa um greiðslu málskostnaðar á grundvelli 130. gr. laga nr. 91/1991. Þá byggist krafa um virðisaukaskatt á málskostnað á ákvæðum laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur. Málsástæður og lagarök stefndu Eflu hf. Fyrst og fremst byggir stefnda Efla hf. á því að sýkna beri félagið á grundvelli aðildarskorts samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þannig geti stefnandi ekki verið aðili til sóknar vegna þeirra liða sem snerta séreignir einstakra eigenda fasteignarinnar. Þar sem ekki liggi fyrir málflutningsumboð til handa stefnanda til að fara með málið fyrir hönd félagsmanna sinna sé nauðsynlegt að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu. Verði stefnda ekki sýknuð á grundvelli aðildarskorts byggir hann á þeirri málsástæðu að kröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir tómlæti, þrátt fyrir að vera ekki fyrndar í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Það sé staðreynd að það hafi liðið tæplega sex ár frá því að umræddu verki lauk og þar til Eflu hf. barst bréf frá lögmanni stefnanda 25. febrúar 2010. Þær tafir sem hafi orðið á því að tilkynna Eflu hf. um meinta galla verði að teljast verulegt tómlæti í málinu. Að mati stefndu Eflu hf. hefði góðum, gegnum og skynsömum manni átt að hafa verið löngu ljóst fyrir sumarið 2009 að leki væri með fram gluggum enda virðast rakaskemmdir í húsinu vera nokkrar. Jafnvel þótt fallist yrði á að húseigendur hefðu ekki getað áttað sig á því fyrr en sumarið 2009 að gluggar væru gallaðir sé krafa þeirra samt sem áður fallin niður fyrir tómlæti. Þá byggir stefndi á því að eðlilegt sé að aðilar í viðskiptalífinu hafi þær væntingar að kröfur vegna vanefnda á samningum liggi fyrir eins fljótt og auðið er. Líta verði þannig til þeirrar lagaþróunnar sem átt hafi sér stað með gildistöku laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Fyrir gildistöku þeirra laga hafi fyrningarfrestur vegna galla verið 10 ár en nú sé fyrningarfrestur þeirra aðeins fjögur ár, sbr. 2. og 3. gr. laganna. Fyrningarfresturinn reiknast frá þeim degi þegar samningurinn er vanefndur, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, og í tilviki hins meinta galla yrði þá miðað við að vanefnd samningsins hafi stofnast við lokaúttekt stefndu Eflu hf., 27. júlí 2004. Hefði krafa stefnanda því að öllum líkindum verið fyrnd ef hún hefði stofnast eftir gildistöku hinna nýju laga. Að mati stefndu Eflu hf. sýnir framangreint að ríkari kröfur séu nú gerðar en áður til þess að kröfur vegna vanefnda liggi fyrir sem fyrst. Sé það í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í lögum um lausafjárkaup, þjónustukaup og fasteignakaup. Í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup komi fram lögbundin regla um tómlætisáhrif. Þar segir að kaupandi glati rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var, eða mátti verða hans var, í hverju gallinn sé fólginn. Geri kaupandi það ekki innan sanngjarns frests glati hann rétti sínum til að bera fyrir sig gallann. Við skýringu á 1. mgr. 32. gr. laga um lausafjárkaup og sömu reglu 1. mgr. 48. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 hafi verið miðað við það í framkvæmd að tilkynning verði að hafa borist innan átta mánaða, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 448/2004 og 60/2007. Ljóst sé að mati stefnda Eflu hf. að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir umræddum göllum miklu fyrr en hann ber við í málinu. Jafnvel þótt fallist yrði á það að húseigendur hefðu orðið gallans varir sumarið 2009 hafi þeir ekki tilkynnt stefnda Eflu hf. um galla á verkinu fyrr en 25. febrúar 2010, eða um 10 mánuðum eftir að þeir urðu gallans varir. Þá sé í því bréfi ekki hægt að sjá að sú tilkynning uppfylli þau skilyrði sem þurfa að koma fram í tilkynningum, samkvæmt 48. gr. laga um fasteignakaup. Að þessu sögðu þykir stefndu Eflu hf. ljóst að krafan sé fallin niður fyrir tómlæti í skilningi 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Stefnda bendir á að jafnvel þótt ekki yrði fallist á að krafan væri fallin niður fyrir tómlæti í skilningi 1. mgr. 32. gr. laganna þá sé ljóst að tilkynning stefnanda hafi ekki verið send innan þeirra fortakslausu tímamarka sem um er getið í 2. mgr. 32. gr. laga um lausafjárkaup. Þar er mælt fyrir um að kvarti neytandi ekki innan tveggja ára frá afhendingardegi meintrar gallaðrar þjónustu geti hann ekki síðar borið gallann fyrir sig. Í þessu ákvæði sé ekki talað um að tímamarkið byrji að líða „frá þeim tíma er neytandinn vissi eða mátti hafa verið ljóst“ að þjónustan var gölluð, líkt og í 1. mgr. 17. gr. laganna, heldur sé miðað við afhendingardag hinnar seldu þjónustu. Reglan er fortakslaust þannig að krafan fellur niður innan tveggja ára fyrir tómlæti, án tillits til þess hvenær neytandi hafi orðið gallans var. Af framansögðu verði því að telja að krafa stefnanda hafi verið fallin niður fyrir tómlæti í síðasta lagi hinn 28. júlí 2006, enda hafi þá verið liðin tvö ár frá því að hin selda þjónusta var veitt. Beri af þeim sökum að sýkna stefndu Eflu hf. af kröfum stefnanda. Stefnda byggir á því að verði talið að stefnandi sé neytandi í skilningi 3. mgr. 1. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, þrátt fyrir að vera ekki einstaklingur, sé á því byggt að 17. gr. þeirra laga sé sama efnis og 32. gr. laga um lausafjárkaup. Gildi því sömu rök og að framan hafa verið reifuð. Þá byggir stefnda á því, að verði ekki fallist á að sýkna hana á grundvelli tómlætis, að sýkna beri þar sem sönnun hafi ekki tekist um að gallar séu á umræddu verki. Þannig liggi aðeins greining Verkíss hf. til grundvallar dómkröfum stefnanda en slíkt sönnunargagn sé ótækt að mati stefndu Eflu hf. þar sem hennar hafi verið aflað einhliða af hálfu stefnanda. Umræddri matsgerð sé þar að auki of ábótavant til að geta talist gilt sönnunargagn í þessu máli. Þannig sé aðeins nokkrum orðum farið um það hvernig úttektin hafi verið framkvæmd. Þá sé rökstuðningur Verkíss hf. fyrir niðurstöðu sinni mjög fátæklegur, enda væntanlega ekki tilgangur umræddrar greiningar að vera sönnunargagn í gallamáli fyrir dómstólum. Þá sé „lekagreiningin“ fjarri því afdráttarlaus um meinta galla og orsakir þeirra. Þannig segi t.d. undir lið 2 í „lekagreiningunni“ að „[n]okkur vatnsbretti hafi sprungið og losnað sem hugsanlega megi rekja til þess að vatn hefur lekið inn undir glugga“. Þá sé það mat stefndu Eflu hf. að sýkna beri félagið þar sem ekki sé um að ræða galla í skilningi laga auk þess sem félagið hafi ekki borið ábyrgð á ætluðum galla. Samkvæmt verklýsingu átti að þétta með kítti þar sem bil væri milli steins og karms, sbr. kafla 1.2.2 í verklýsingu. Það sé mat stefndu Eflu hf. að ekki sé um galla að ræða í skilningi laga enda sé ekkert orsakasamhengi á milli meintra galla og þeirrar ákvörðunar að kítta ekki með fram gluggum. Steiningin á húsinu sé gróf og hefði því orðið mjög erfitt að fá góða viðloðun með kítti auk þess sem gluggarnir á húsinu séu orðnir 50 ára gamlir. Það sé því mat stefndu Eflu hf. að það hafi ekki verið nauðsynlegt að kítta á þeim stöðum sem um ræðir og jafnvel þótt kíttað hefði verið á sínum tíma séu allar líkur á að sú kíttun hefði gefið sig við þá mismunarhreyfingu sem hafi átt sér stað og sést á myndum í lekagreiningu Verkíss hf. Sú mismunarhreyfing stafi ekki af skorti á kíttun heldur sé mun líklegra að hún stafi af lækkandi rakastigi í gluggum og veggjum. Hinir meintu gallar stafi því ekki af skorti á kíttingu heldur af eðlilegu sliti svo gamals húss. Verði fallist á að um sé að ræða galla á verkinu sé ljóst, að mati stefndu Eflu hf., að ákvörðun þess efnis að sleppa því að kítta á umræddum stöðum hafi ekki verið á ábyrgð stefndu Eflu hf. heldur hafi ákvörðunin væntanlega verið tekin af verktaka í samráði við verkkaupa. Auk þess að krefjast sýknu af dómkröfum stefnanda og mótmæla dómkröfum um skaðabætur að fjárhæð 3.182.210 krónur, mótmælir stefndi einnig dráttarvaxtakröfu stefnanda. Verði ekki fallist á frávísun vaxtakröfu stefnanda í heild sinni sé þess krafist að dráttarvextir reiknist frá þingfestingu málsins, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ástæðan er sú að upphafstími dráttarvaxta í stefnu er sagður miðaður við 18. september 2010. Ekki verði séð að nokkrar kröfur hafi verið lagðar fram í málinu 18. ágúst 2010, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001. Þar sem ekki sé ljóst frá hvaða tímamarki stefnandi byggir kröfur sínar um vexti krefst stefndi þess að dráttarvextir reiknist frá þingfestingu málsins, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu Eflu hf. krefst stefnda þess til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Vísað sé til sömu málsástæðna og komu fram vegna sýknukröfu stefndu Eflu hf. Þá mótmæli stefnda öllum dómkröfum sem röngum, ósönnuðum og of háum, einnig kostnaðarmati og þar með töldum magnútreikningum. Þá séu kröfur, að hluta til að minnsta kosti, vegna séreignar og verði að lækka kröfugerð með tilliti til þess. Útreikningum Verkíss hf. í lekagreiningu sé sérstaklega mótmælt. Þar sé gert ráð fyrir því að skipt sé út ýmsu gömlu efni fyrir nýtt, eins og t.d. að sett verði nýtt parket á fyrstu hæð og nýr gólfdúkur á jarðhæð, í stað þess að láta lagfæringar á hinu eldra duga. Slíkt væri eðlilegt m.t.t. þess að um gamalt íbúðarhús er að ræða og nýtt gólfefni geti reynst mun dýrara en lagfæring á hinu eldra. Ef fallist yrði á kröfur af þessu tagi væri farið gegn meginreglu bótaréttar um að tjónþoli skuli fá tjón sitt bætt en ekki hagnast á tjóni. Þá beri að taka tillit til þess að stefnandi á rétt á að fá endurgreiddan virðisaukaskatt vegna vinnu á byggingarstað. Krafa stefnanda sé með virðisaukaskatti og verði að taka tillit til þessa atriðis við mat á meintu tjóni stefnanda. Hvað lagarök varðar vísar stefnda til laga um lausafjárkaup nr. 42/2000, aðallega 17. gr. Þá vísar hún í lög nr. 40/2002 um fasteignakaup sem og til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og reglna um tómlæti og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þá aðallega 5., 6., 9. og 11. gr. laganna. Loks byggir hún kröfu sína um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Málsástæður og lagarök stefndu, Múr- og málningarþjónustunnar Hafnar ehf. Stefnda, Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf., byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki sannað að leki í fasteigninni Háteigsvegur 12 í Reykjavík stafi af því að stefnda hafi ekki unnið sitt verk með sómasamlegum hætti á árinu 2004. Verkið hafi verið úttekið af stefndu Eflu hf. og engar athugasemdir verið gerðar við verk stefndu. Það hafi verið ákvörðun stefndu, Eflu hf., að ekki yrði fúgað með fram gluggum eins og ráð hafi verið fyrir gert í útboðsgögnum. Það hafi verið skylda eftirlitsaðila að fara yfir fyrirliggjandi verkþætti með verktaka, t.d. merkja hvar gert skuli við steypu, taka út hreinsun fyrir málningu o.s. frv., samkvæmt samningi hans við stefnanda. Í útboðsgögnum hafi einungis verið gert ráð fyrir að þéttir yrðu 30 metrar með fram gluggum, sbr. útboðslið 01.201. Ef þétt hefði verið með fram öllum gluggum þá hefðu það verið alls 257 metrar. Þessar tölur hafi því verið settar inn í útboðslýsinguna, alfarið til að fá einingaverð ef þessir verkþættir yrðu unnir af verktaka. Það hafi síðan verið eftirlitsaðilans með verkinu að taka ákvörðun um það hvort verkið yrði unnið og hversu margir metrar yrðu þéttir. Stefnda, Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf., hafi lotið boðvaldi stefndu Eflu hf. um það hvort verkið yrði unnið og þá hversu margir metrar yrðu þéttir. Í öðru lagi þá byggir stefnda á því að stefnandi hafi ekki sannað tjónið með fullnægjandi hætti. Hann hafi kosið að byggja kröfugerð sína alfarið á lekagreiningu Verkíss hf. og sé sú sönnunarfærsla algjörlega ófullnægjandi og ómögulegt sé að leggja hana til grundvallar kröfugerð fyrir dómi. Stefndu hafi ekki fengið að gæta sinna hagsmuna við mat á tjóninu og koma að sínum sjónarmiðum. Séu orsakir tjónsins og umfang þess því algjörlega ósannaðar. Beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Í þriðja lagi vísar stefnda til þess að þær kröfur sem uppi eru hafðar í málinu séu aðeins að litlu leyti á forræði stefnanda. Stefnandi geti einungis átt aðild að þeim kröfum er varða sameign hússins en ekki þeim er varða séreignir innan þess. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber því að sýkna stefndu á grundvelli aðildarskorts. Að öðru leyti taki stefnda, Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf., undir þau rök sem fram komi í greinargerð stefndu Eflu hf. og gerir þau rök að sínum eftir því sem við á. Niðurstaða Stefnandi, Húsfélagið Háteigsvegi 12, Reykjavík, byggir á því að þar sem dómkrafa varði sameiginlega hluta hússins fari hann með málið fyrir hönd eigenda íbúða í húsinu. Stefnandi lagði fram yfirlýsingu eigenda, dagsetta 10. nóvember 2011, þar sem þeir lýsa því yfir að stefnandi hafi fullt umboð til að höfða og reka mál á hendur stefndu vegna vanefnda á samningi, annars vegar um eftirlit með verki og hins vegar um viðgerðir á húsinu, enda hafi húsfélagið verið verkkaupi samkvæmt samningnum og annast samningsgerð fyrir hönd allra eigenda íbúða í húsinu. Stór hluti af dómkröfu stefnanda, þ.e. liður 2, málningarvinna, liður 3, parket á 1. hæð og liður 4, gólfdúkur á jarðhæð, varða tjón sem eigendur íbúða í húsinu telja sig hafa orðið fyrir á séreignum sínum. Í framangreindu umboði felst ekki heimild til handa húsfélaginu til að reka mál fyrir hönd íbúðareigenda vegna tjóns á séreign. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 eru stefndu því sýknaðir af lið 2, 3 og 4 í dómkröfu stefnanda vegna aðildarskorts. Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefndu, Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf., á grundvelli almennra skaðabótareglna, þ. á m. á reglum um sakarábyrgð. Stefnandi vísar til þess að í útboðsgögnum og verksamningi sé vísað til íslensks staðals um almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir, ÍST 30, en þar segir í gr. 29.6 að komi í ljós leyndir gallar á verki sem ekki hafi verið unnt að sjá fyrir við lok ábyrgðartímans skuli verktaki svara skaðabótum stafi gallarnir sannanlega af ásetningi eða gáleysi hans sjálfs eða starfsmanna hans. Um fyrningu kröfunnar fer eftir ákvæðum laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, þ.e. tíu ára fyrningarfrestur. Tekið er undir það með stefnanda að framangreint ákvæði í gr. 29.6 telst vera hluti af samningi milli aðila. Ákvæðið er einskorðað við að leyndir gallar hafi verið á verki. Stefnda, Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf., byggir vörn sína á því að það hafi verið ákvörðun starfsmanna Línuhönnunar hf., forvera stefndu Eflu hf., að framkvæma ekki þennan verkþátt en samkvæmt samningnum hafi það verið hlutverk Eflu hf. að ákveða hvaða verkþættir yrðu framkvæmdir. Bæði í skýrslu Sigurvins Ármannssonar og Elíasar Víðissonar kom fram að magntölur væru áætlaðar í útboðsgögnum þar sem ekki sé hægt, þegar gögnin eru útbúin, að segja nákvæmlega til um það hver þörfin á viðgerðum sé. Aðalatriðið hafi verið að einingarverð kæmi fram. Sama efnis var framburður Hafsteins Kristjáns Halldórssonar hvað þetta varðar. Einnig kom fram í skýrslu hans að reikningum til gjaldkera hafi alltaf fylgt yfirlit þar sem fram hafi komið staða verksins og hvað búið væri að reikningsfæra á hvern verklið. Í skýrslu Helga S. Gunnarssonar, dómkvadds matsmanns, við aðalmeðferð málsins vísaði hann hvað þetta varðar í matsgerð sína þar sem fram kemur að hafa þurfi í huga að eitt af hlutverkum hönnuða og eftirlitsaðila sé að reyna að lágmarka umfang og tilkostnað verka með því að vega og meta hversu mikilla aðgerða sé þörf. Af þeirri ástæðu sé m.a. áætlað magn þessara liða í verklýsingu og umfang ákvarðað samhliða verki. Þá liggi fyrir að stefnda Efla hf. tók að sér að hafa umsjón og eftirlit með framkvæmdunum og kemur þar m.a. fram að hann fari „yfir fyrirliggjandi verkþætti með verktaka, t.d. merkir hvar gert skuli við steypu, tekur út hreinsun undir málningu, o.s.frv.“ Sem eftirlitsaðili kom stefnda Efla hf. fram sem fulltrúi stefnanda gagnvart stefndu, Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf., en auk þess gerði tilboð stefndu ráð fyrir því að fulltrúi eigenda mætti einnig á verkfundi er halda ætti aðra hverja viku til að fara yfir stöðu verksins. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að ákvörðun um það hvort nefndir verkliðir yrðu unnir eða ekki hafi verið tekin af stefndu, Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf., né heldur hafi henni borið að taka þá ákvörðun á grundvelli samningssambands við stefnanda. Ekki er ágreiningur um það með aðilum að verkliðir nr. 01.201 og 01.207 voru ekki framkvæmdir þegar viðgerðirnar fóru fram árið 2004, eins og fram kemur í niðurstöðu dómkvadds matsmanns. Þetta má einnig sjá á framlögðu yfirliti, dagsettu 28. júlí 2004, og að ekki var krafist greiðslu vegna þeirra. Þá sagði Ólafur Sörli Kristmundsson í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins að hann hafi séð um að greiða reikninga vegna verksins og að þeir hafi ekki verið sérstaklega yfirfarnir nema stærstu tölurnar. Ekkert hefur því komið fram sem bendir til þess að um leynda galla hafi verið að ræða heldur lá fyrir frá verklokum að þessir verkliðir höfðu ekki verið framkvæmdir. Verður því ekki talið að ábyrgð stefndu, Múr- og málningarþjónustunnar Hafnar ehf., verði byggð á nefndu ákvæði. Stefndu byggja á því að krafa stefnanda sé niður fallin vegna tómlætis og vísa því til stuðnings í 17. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Lokaúttekt vegna verksins fór fram í júlí 2004, íbúar hússins urðu varir við meinta galla sumarið 2009, í október 2009 lá fyrir greining Verkíss hf. vegna gallans og 25. janúar 2010 barst stefnda bréf vegna meintra galla. Lög nr. 42/2000 taka samkvæmt 1. gr. þeirra til hvers kyns samninga um kaup á þjónustu sem veitt er neytendum í atvinnuskyni gegn endurgjaldi, m.a. þegar veitt þjónusta felur í sér vinnu við fasteignir. Samkvæmt 3. gr. ákvæðisins er með neytanda átt við einstakling sem er kaupandi þjónustu og kaupin eru ekki í atvinnuskyni eða í tengslum við starf hans. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að lögunum segir að megintilgangur þess sé að auka neytendavernd í viðskiptum við seljendur þjónustu og í því gildi sú afmörkun að þegar rætt er um neytanda í frumvarpinu sé átt við að kaupandi þjónustu sé einstaklingur og viðskipti hans og seljanda þjónustu séu ekki talin vera liður í atvinnurekstri einstaklingsins. Samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 eru húsfélög vettvangur þar sem sameiginlegum málum eigenda séreigna í viðkomandi húsi er ráðið til lykta. Með hliðsjón af því og þar sem málið varðar beina hagsmuni einstaklinga vegna fasteigna þeirra, án tengsla við atvinnurekstur, byggir dómurinn á því að um viðskipti aðila fari eftir lögum nr. 42/2000. Samkvæmt 17. gr. laganna skal neytandi tilkynna seljanda um galla á keyptri þjónustu innan sanngjarns frests eftir að neytandinn vissi eða mátti hafa verið ljóst að hún væri gölluð. Í 2. mgr. ákvæðisins er fortakslaust ákvæði hvað það varðar að kaupandi þjónustu getur ekki borið fyrir sig galla síðar en tveimur árum eftir að seld þjónusta var afhent nema seljandi hafi með ábyrgðaryfirlýsingu eða sérstökum samningi tekið á sig ábyrgð vegna galla í lengri tíma. Verklok voru í júlí 2004 og var því í janúar 2010 löngu liðinn sá tveggja ára frestur til að bera fyrir sig galla. Af framlögðum gögnum má ráða að stefnandi var ekki krafinn um greiðslu vegna þessara verkliða en þeir komu fram á yfirliti án þess að tilgreind væri fjárhæð til greiðslu vegna þeirra. Var því ljóst strax árið 2004 að þeir höfðu ekki verið framkvæmdir. Með vísan til framangreinds, og þess sem áður hefur verið talið um tilgang þess að setja fram magntölur og hlutverk eftirlitsaðila, verður því ekki talið að við eigi sú undantekning sem fram kemur í 3. mgr. ákvæðisins um að framangreindir frestir eigi ekki við hafi seljandi þjónustu brotið gegn almennum viðskiptaháttum eða á annan hátt sýnt af sér vítavert gáleysi. Eftir þessu eru stefndu einnig sýknaðar af 1. lið dómkröfunnar. Með hliðsjón af því sem að ofan hefur verið rakið ber að sýkna báðar stefndu af öllum kröfum stefnanda og er því ekki ástæða til að taka afstöðu til málsástæðna að öðru leyti. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991 ber stefnanda að greiða báðum stefndu málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 800.000 krónur til hvorrar stefndu og hefur þá verið litið til þess að málið hefur áður verið flutt um frávísunarkröfu auk þess sem tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnanda flutti málið Helga María Pálsdóttir hdl., af hálfu stefndu Eflu hf. flutti málið Víðir Smári Petersen hdl. og af hálfu stefndu, Múr- og málningarþjónustunnar Höfn ehf., flutti málið Björgvin Þorsteinsson hrl. Vegna anna dómara hefur dómsuppkvaðning dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari töldu hins vegar ekki þörf á því að málið yrði flutt að nýju. Dómari tók við málinu 25. nóvember 2011 en hann hafði fram að þeim tíma ekki haft nein afskipti af meðferð þess. Dóminn kveða upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, Gústaf Vífilsson byggingarverkfræðingur og Jón Ágúst Pétursson byggingartæknifræðingur. D Ó M S O R Ð Stefndu, Efla hf. og Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf., eru sýknaðar af öllum kröfum stefnanda, Háteigsvegur 12, húsfélag. Stefnandi greiði stefndu hvorri um sig 800.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 473/2011 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að [...], verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 2. september 2011, klukkan 14.00, vegna rökstudds og mjög sterks gruns um að hann hafi nauðgað [...], aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí sl., milli klukkan 04.00 og 05.00 á útisalerni í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. Kröfu sinni til stuðnings vísar lögreglustjóri til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. ágúst 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. ágúst 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. september 2011 klukkan 14. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Fallist er á að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið brot, sem varðað geti 10 ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, og að ætlað brot sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt vegna almannahagsmuna. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 566/2017 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.Varnaraðili skaut málinu tilHæstaréttar með kæru 8. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. september 2017,þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins22. september 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur.Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilikrefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til varaað farbanni verði beitt í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu aðgæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.Sóknaraðili krefst staðfestingarhins kærða úrskurðar.Varnaraðili er undir rökstuddumgrun um að hafa gerst sekur um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr.19/1940, sem fangelsisrefsing liggur við, sbr. dóm Hæstaréttar 29. ágúst 2017 ímáli nr. 535/2017. Vegna umfangs rannsóknar málsins er fullnægt skilyrðum a.liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti áframgæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er og einangrun meðan á því stendur, sbr.2. mgr. 98. gr. sömu laga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður erstaðfestur. Úrskurður HéraðsdómsReykjaness föstudaginn 8. september 2017Lögreglustjórinná höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag aðX , fæddur [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. september2017 kl. 16.00. Þá er þess krafist aðkærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Ígreinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að hann hafi nú tilrannsóknar innflutning á fíkniefnum hingað til lands. Lögreglu hafi boristupplýsingar um að grunur léki á að í [...] bifreiðinni [...] væru falinfíkniefni, en bifreiðin hafi verið um borð í ferjunni [...] á leið hingað tillands. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið Y. Ferjan hafi komið hingað til landsfrá Danmörku að morgni fimmtudagsins 24. ágúst. Við skoðun á bifreiðinni hafikomið í ljós froðukenndur vökvi sem virtist hafa lekið úr undirvagnibifreiðarinnar. Við frekari skoðun og frumrannsókn lögreglu hafi komið í ljósað um væri að ræða amfetamínvökva. Með heimild HéraðsdómsReykjaness hafi lögreglan m.a. komið fyrir eftirfararbúnaði undir bifreiðinniog fylgt henni eftir þar sem henni hafi verið ekið áleiðis til Reykjavíkur. Yhafi komið til Reykjavíkur seint á fimmtudagskvöldi og lögregla fylgst meðferðum hans. ErY kom til Reykjavíkur hafi hann lagt bifreiðinni við [...] við Suðurlandsbrautí Reykjavík þar sem hann beið þar til [...] bifreið, sem í voru Z, X og Þ, varekið að honum og úr henni kom X og settist inn í [...] bifreiðina. Bifreiðunumhafi síðan báðum ekið að gistiheimili við [...] í Reykjavík þar semfjórmenningarnir hafi farið inn. Á leiðinni að gistiheimilinu hafi mátt heyra Yog X ræða saman m.a. um það hvort leitað hafi verið í [...] bifreiðinni átollsvæðinu á Seyðisfirði. Skömmu síðar hafi mennirnir sést fara út og skoða [...]bifreiðina. Að morgni 25. ágúst sl. hafi X og Þ síðan ekið [...] bifreiðina ummiðborgina og að lokum inn í bílskúr við [...] í Reykjavík þar sem X og Þ hafiverið handteknir skömmu síðar. Um svipað leiti hafi Z komið keyrandi á [...]bifreiðinni og lagt henni utan við [...] til móts við bílskúrinn en þegar hannvarð var við lögreglu hafi hann tekið til fótanna og hlaupið suður [...] þarsem hann var handtekinn stuttu síðar. Í framhaldi hafi Y verið handtekinn ágistiheimilinu við [...] Þann25. ágúst sl. hafi kærðu öllum verið, með úrskurðum Héraðsdóms Reykjaness, gertað sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til dagsins í dag semstaðfest var með dómum Hæstaréttar Íslands. Þásegir í greinargerðinni að við rannsókn á [...] bifreiðinni hafi komið í ljósað við haldlagningu í framhöggvara bifreiðarinnar hafi verið 1328 millilítraraf amfetamíni en við mælingar lögreglu hafi komið í ljós að höggvarinn rúmi5240 millilítra. Þá hafi rannsókn lögreglu leitt í ljós að X og Þ hafi komiðhingað til lands, með flugi frá Póllandi þar sem þeir séu búsettir, að kvöldi24. ágúst sl. þ.e. sama dag og Y hafi komið til landsins með ferjunni. Viðyfirferð á hlustunum hafi einnig komið fram að Y átti í símasamskiptum viðnokkra aðila meðan hann keyrði frá Seyðisfirði til Reykjavíkur en þeirra ámeðal var Þ. Z sé búsettur hér á landi og sé það grunur lögreglu að hann hafiátt að taka á móti mönnunum og vera þeim innan handar með aðstöðu en viðrannsókn lögreglu hefur komið í ljós að Z sé sá sem pantaði herbergi fyrir X, Þog Y á gistiheimilinu. Hann hafði samkvæmt eigin framburði afnot af bílskúrnumí [...] og þá hafi fundist talstöðvar bæði í [...] bifreiðinni og [...] bifreiðZr sem talið sé að notaðar hafi verið í samskiptum fjórmenningarnir eftir aðþeir hittust við [...] að kvöldi 24. ágúst sl. Ennfremursegir að unnið sé hörðum höndum að rannsókn málsins sem sé yfirgripsmikil.Lögregla hafi yfirheyrt fjórmenningana í þrjú skipti og ljóst sé að enn bernokkuð á milli í framburðum þeirra. Lagt hafi verið hald á umtalsvert magn síma-og tölvubúnaðar sem enn sé verið að skoða og afrita og enn eigi eftir að beraþau gögn undir kærðu. Þá sé verið er að kortleggja ferðir kærðu og kanna meðmögulegar fyrri ferðir þeirra hingað til lands. Einnig sé leitað mögulegrasamverkamanna bæði hér á landi og erlendis og beðið sé eftir gögnum sem óskað hafiverið eftir frá dönskum og pólskum yfirvöldum sem mögulega þurfi að bera undirkærðu. Íljósi alls ofangreinds sé það mat lögreglu að miklu skipti að orðið verði viðkröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðhald og einangrun enda sé ljóstað kærðu séu allir undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magniaf sterkum fíkniefnum hingað til lands sem ætla megi að hafi verið flutt hingaðtil lands til sölu og dreifingar. Þá sé ljóst að ef kærðu gangi lausir þá getiþeir haft áhrif á framburð hvers annars og á mögulega samverkamenn og hætt sévið því að kærðu geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglan hafiekki lagt hald á nú þegar.Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr.95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til að sæta einangrun samkvæmtb. lið 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, er þess krafist að krafan nái fram að gangaeins og hún er sett fram. Samkvæmt rannsóknargögnummálsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magniaf sterkum fíkniefnum og getur meint brot varðað fangelsisrefsingu sannist sök.Rannsókn málsins er langt komin en enn á eftir að vinna úr miklu magni gagnasem lögregla hefur aflað og virðast umfangsmikil auk þess sem lögregla bíðurgagna frá Póllandi og Danmörku sem á eftir að bera undir kærðu. Haldi kærðióskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, s.s. með því að komasönnunargögnum undan eða hafa samband við samseka. Með vísan til a-liðar 1.mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála,er því fallist á kröfur lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Úrskurðþennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari. Úrskurðarorð:Kærða, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldiallt til föstudagsins 22. september 2017, kl. 16:00. Kærðiskal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. |
Mál nr. 374/2009 | Skuldamál Tryggingarbréf Fölsun | Með dómi héraðsdóms var SG gert að greiða SP rúmlega nítján milljónir króna ásamt dráttarvöxtum en fjárkrafa hans var byggð á skuldarviðurkenningu útgefinni í júní 2007. Þá var jafnframt staðfestur veðréttur SP í tilgreindri eign fyrir dómkröfum hans í samræmi við tryggingarbréf dagsett í janúar 2005. Fyrir Hæstarétti krafðist SG aðallega að héraðsdómur yrði ómerktur þar sem héraðsdómur hefði með úrskurði hafnað ósk hennar, á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, um að fresta aðalmeðferð málsins. Þá hefðu aðilar ekki verið búnir að lýsa gagnaöflun lokið. Aðalkröfu SG var hafnað með vísan til 2. mgr. sama ákvæðis, enda bæri að hraða málsmeðferð eftir föngum. Varakrafa SG um sýknu var byggð á því að fyrrgreind skuldarviðurkenning og tryggingarbréf væru fölsuð og skjölin því óskuldbindandi fyrir hana. Í málinu lá fyrir sérfræðiálit um rithandarrannsókn sem benti eindregið til þess að SG hefði undirritað skjölin. Sýknukröfu SG var því hafnað og niðurstaða héraðsdóms staðfest. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 12. maí 2009, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 24. júní 2009. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 3. júlí 2009. Áfrýjandi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Til vara krefst hún sýknu af kröfu stefnda, en að því frágengnu sýknu að svo stöddu. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Aðalkrafa áfrýjanda um að héraðsdómur verði ómerktur er á því byggð að dómurinn hafi með úrskurði 13. janúar 2009 hafnað ósk áfrýjanda á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um að fresta aðalmeðferð málsins, sem á því var reist að ólokið væri lögreglurannsókn á undirskrift vitundarvotts á gögnum sem dómkrafa stefnda byggi á. Þá hafi aðilar ekki verið búnir að lýsa gagnaöflun lokið. Fallist er á það mat héraðsdómara að ekki hafi verið sýnt fram á þýðingu slíkrar rannsóknar fyrir úrslit málsins, og ekkert er fram komið um að rannsókn á þessu standi yfir eða hafi gert það. Þrátt fyrir að aðalmeðferð fari að jafnaði ekki fram fyrr en aðilar hafa lýst gagnaöflun lokið, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, ber dómara að synja um frest ef ekki er þörf á honum, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar, enda ber að hraða málsmeðferð eftir föngum. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að ákvörðun héraðsdómara um að neita að fresta aðalmeðferð frá þeim tíma sem ákveðinn hafði verið hafi valdið henni réttarspjöllum. Er aðalkröfu áfrýjanda hafnað. Stefndi krefst þess að áfrýjandi greiði 19.069.051 krónu ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Fjárkrafan er byggð á skuldaviðurkenningu sem var útgefin 4. júní 2007. Einnig er krafist að staðfestur verði veðréttur í fasteigninni Túngötu 32 í Reykjavík samkvæmt tryggingarbréfi 28. janúar 2005. Varnir áfrýjanda lúta að því að nafnritun hennar á framangreinda skuldaviðurkenningu og tryggingarbréf sé fölsuð og skjölin séu því óskuldbindandi fyrir hana. Lagt hefur verið fram sérfræðiálit Statens kriminaltekniska laboratorium í Svíþjóð 11. febrúar 2008 um rithandarrannsókn á undirritun framangreindra skjala. Niðurstaða rannsakenda bendir eindregið til þess að áfrýjandi hafi undirritað skjölin. Það hnekkir hvorki niðurstöðu rithandarrannsóknarinnar né hefur áhrif á gildi skuldbindinganna, að stefndi er sjálfur annar tveggja votta að nafnritun áfrýjanda á skjölin og að vefengd er undirritun dóttur áfrýjanda sem votts á tryggingarbréfinu. Af þessum ástæðum eru ekki efni til að taka sýknukröfu áfrýjanda til greina og heldur ekki varakröfu hennar um sýknu að svo stöddu. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Sophia Guðrún Hansen, greiði stefnda, Sigurði Pétri Harðarsyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2009. Mál þetta, sem dómtekið var hinn 13. janúar, að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað af Sigurði Pétri Harðarsyni á hendur Sophiu Guðrúnu Hansen, með stefnu birtri hinn 23. janúar 2008. Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda 19.069.051 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. janúar 2007 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að staðfestur verði veðréttur stefnanda í Túngötu 32 í Reykjavík, fyrir dómkröfum stefnanda, í samræmi við tryggingarbréf, dagsett 28.janúar 2005, að fjárhæð 20.000.000 króna. Stefnandi krefst og málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda, en til vara að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda, að svo stöddu. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. II Málavextir eru þeir, að stefnandi stóð með stefndu að átaki, sem kallað var Börnin heim. Gekk umrætt átak út á að hjálpa stefndu að endurheimta dætur sínar frá föður þeirra, sem bjó í Tyrklandi. Var kostnaður við átakið mikill. Stefnandi kveðst hafa aðstoðað stefndu á margvíslegan hátt við þetta verkefni, ekki síst fjárhagslega. Hinn 4. desember 1990 var gefið út skuldabréf, að fjárhæð 1.740.000 til handhafa, en stefnandi er handhafi bréfsins. Stefnandi kveður, að auk skuldabréfsins hafi verið um ýmsar aðrar skuldir að ræða við stefnanda. Hann hafi m.a. tekið að sér að greiða ýmsan útlagðan kostnað, svo sem vegna ferða stefndu, viðhald húsnæðis og annars sem til hafi fallið á margra ára tímabili. Stefnandi kveður stefndu hafi skilað skattframtali í september 2002, þar sem hún hafi viðurkennt skuld við stefnanda. Hafi það verið í fullu samræmi við yfirlýsingu stefndu fyrir og eftir þann tíma. Auk þess hafi stefnandi alltaf staðið í þeirri trú að milli aðila ríkti gott samband sem byggðist á trausti. Hafi hann því aldrei gegnið hart fram við að fá kröfu sína innheimta, en stefnda hafi gefið út tryggingarbréf til stefnanda hinn 28. janúar 2005, að fjárhæð 20.000.000 króna til tryggingar skuldum sínum við stefnanda. Samkvæmt yfirlýsingu Skattstjórans í Reykjavík taldi stefnandi fram skuld stefndu við sig á skattskýrslum sínum fyrir tekjuárin 2000 til 2007. Stefnda kveðst ekki kannast við málavaxtalýsingu stefnanda og kveðst ekki hafa gefið út þau skuldaskjöl, sem stefnandi byggi kröfur sínar á. Um leið og henni hafi orðið kunnugt um tilvist þeirra í júlí 2007 kærði hún fölsun þeirra til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. III Stefnandi byggir kröfur sínar á skuldaviðurkenningu, sem stefnda hafi undirritað hinn 4. júní 2007. Þar viðurkenni hún, í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar, svo sem skattframtöl, og með útgáfu tryggingarbréfs, að skulda stefnanda 19.069.051 krónu miðað við 1. janúar 2007. Byggist sú skuld á öllum eldri skuldum stefndu við stefnanda. Eins og fram komi í skuldaviðurkenningunni sé skuldin samkvæmt henni tryggð með tryggingarbréfi, dagsettu 28. janúar 2005, sem tryggt sé með veði í Túngötu 32 í Reykjavík. Beri stefnanda að fá veðrétt sinn staðfestan, sbr. umrætt tryggingarbréf, fyrir fjárhæð 19.069.051 króna, auk vaxta og kostnaðar. Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningsréttar. Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1.mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu. IV Stefnda byggir sýknukröfu sína á því, að þau skjöl, sem stefnandi byggi kröfur sínar á séu fölsuð og því óskuldbindandi fyrir stefndu. Varakröfu sína um sýknu að svo stöddu byggir stefnda á 26. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála en það væri óviðunandi niðurstaða fyrir stefndu að verða dæmd til að greiða stefnanda þær kröfur, sem hann geri í málinum af þeirri ástæðu einni að rannsókn lögreglu sé ekki lokið. Stefnda hafi gert allt sem í hennar valdi sé til að hraða rannsókn, en það sé ekki á hennar valdi hvenær rannsókn ljúki. Kröfu um málskostnað byggir stefnda á 1.mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnda á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnda reki enga virðisaukaskattsskylda starfsemi og því sé henni nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnanda. V Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um greiðslu samkvæmt skuldaviðurkenningu útgefinni af stefndu og jafnframt krefst hann þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt tryggingarbréfi, fyrir skuldinni. Stefnda heldur uppi vörnum í málinu og byggir á því, að umrædd skuldaskjöl séu fölsuð. Samkvæmt framlagðri skuldaviðurkenningu, dagsettri 4.júní 2007, viðurkennir stefnda, að skulda stefnanda 19.069.051 krónu, miðað við 1. janúar 2007. Þá lýsir stefnda þar yfir, að umrædd skuld sé tryggð með tryggingarbréfi, að fjárhæð 20.000.000 króna, útgefnu 28. janúar 2005 og hvíli það á 7. veðrétti á fasteigninni að Túngötu 32, Reykjavík. Tryggingarbréf þetta liggur frammi í málinu og var móttekið til þinglýsingar 14. júlí 2005. Stefnda kærði til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fölsun á tryggingarbréfinu og skuldaviðurkenningunni. Samkvæmt bréfi Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 3. júní 2008, var niðurstaða þeirrar rannsóknar sú, að rithandarrannsóknir bendi eindregið til þess að stefnda hafi ritað undir umrædd skjöl. Með vísan til framanritaðs liggur ekki annað fyrir en að stefnda hafi gefið út fyrrgreinda skuldaviðurkenningu. Með því að fyrir liggur gild skuldaviðurkenning, ber að fallast á kröfu stefnanda og dæma stefndu til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð, í samræmi við efni skuldaviðurkenningarinnar. Stefnandi hefur krafið stefndu um dráttarvexti af umstefndri fjárhæð frá 1. janúar 2007, og virðist þar miða við stöðu skuldarinnar eins og hún var þann dag, eins og fram kemur í áðurgreindri skuldaviðurkenningu. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, er heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Samkvæmt títtnefndri skuldaviðurkenningu er ekki ákvæði um gjalddaga skuldarinnar eða um dráttarvexti að öðru leyti, og skiptir þá ekki máli að staða skuldarinnar sé þar tilgreind miðað við ákveðinn dag. Gjaldféll því skuldin fyrst er stefnandi sannanlega krafði stefndu um greiðslu hennar, eða með birtingu stefnu, en ekki er unnt að líta svo á að innheimtubréf lögmanns stefnanda, þar sem krafist er greiðslu á tryggingarbréfi, sé gjaldfelling á umræddri skuld. Með vísan til þess verður stefnda því dæmd til að greiða dráttarvexti er mánuður var liðinn frá birtingu stefnu, í samræmi við 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, eða frá 23. febrúar 2008 til greiðsludags. Þá verður og staðfestur veðréttur stefnanda í Túngötu 32, Reykjavík, fyrir dómkröfum stefnanda, samkvæmt tryggingarbréfi, dagsettu 28. janúar 2005, sbr. og áðurgreinda skuldaviðurkenningu, fyrir dómkröfum stefnanda, eins og krafist er. En ekki verður talið skipta máli um gildi tryggingarbréfsins að fyrir liggi niðurstaða rannsóknar lögreglu, að beiðni stefndu, á því hvort undirritun annars vitundarvotts á tryggingabréfið sé falsað. Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur. Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð : Stefnda, Sophia Hansen, greiði stefnanda, Sigurði Pétri Harðarsyni, 19.069.051 krónu, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 23. febrúar 2008 til greiðsludags. Staðfestur er veðréttur stefnanda í Túngötu 32, Reykjavík, fyrir dómkröfum stefnanda, í samræmi við tryggingarbréf, dagsett 28.janúar 2005, að fjárhæð 20.000.000 króna. Stefnda greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur. |
Mál nr. 30/2000 | Nauðungarsala Skaðabótamál | Fulltrúi sýslumanns ákvað gegn andmælum H að fresta uppboði á sumarbústaðargrind, þar til leyst hefði verið úr beiðni BÍ um endurupptöku máls um gildi fjárnáms, sem nauðungarsölubeiðni H var reist á. Beiðni BÍ um endurupptöku málsins var hafnað og ákvað fulltrúinn þá að uppboðið skyldi fara fram. Þegar uppboð var haldið hafði bú gerðarþolans hins vegar verið tekið til gjaldþrotaskipa að kröfu sýslumanns og rann söluverð þeirra muna, sem ráðstafað var við uppboðið, til þrotabúsins. H taldi ákvörðun fulltrúans um að fresta uppboðinu hafa verið ólögmæta og orðið til þess að hún fékk ekki í sinn hlut söluverð sumarbústaðargrindarinnar auk þess sem hún hefði orðið fyrir kostnaði vegna vörslusviptingar, geymslu og fleira. Talið var, að ekki hefðu verið skilyrði að lögum til að láta beiðnina um endurupptöku verða til þess að uppboði yrði frestað. Hins vegar þótti ekkert liggja fyrir í málinu um hvaða tök fulltrúinn hefði haft á að gera sér grein fyrir vægi nýrra sönnunargagna, sem vísað var til í endurupptökubeiðninni, þegar hann tók ákvörðun um framgang uppboðsins. Þá var jafnframt litið til þess að krafa um gjaldþrotaskipti hafði þegar verið lögð fyrir héraðsdóm þegar ákvörðunin var tekin, en vegna ákvæða 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. voru af þessum sökum ekki efni til að telja sennilegt að frestunin hefði horft sérstaklega til tjóns fyrir H. Að öllu þessu virtu þótti ekki nægilega fram komið að skilyrði væru til að fella skaðabótaskyldu á íslenska ríkið vegna framangreindrar ákvörðunar sýslumannsfulltrúans. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna ríkið af kröfu H. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2000. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 664.479 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. febrúar 1999 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður þá látinn falla niður. I. Eins og greinir í héraðsdómi gerði sýslumaðurinn í Kópavogi fjárnám 30. september 1997 fyrir kröfu áfrýjanda á hendur Byggðalandi ehf., sem nam á þeim tíma 1.567.141 krónu. Fjárnám var gert í tveimur nánar tilteknum bifreiðum ásamt þremur sumarbústaðagrindum og gólfgrind, sem svo voru nefndar og sagðar vera að Ljósatröð í Hafnarfirði. Var þetta gert samkvæmt ábendingu lögmanns áfrýjanda, enda var ekki mætt við fjárnámið af hálfu gerðarþola. Með beiðni 8. október 1997 til sýslumannsins í Hafnarfirði leitaði áfrýjandi nauðungarsölu á umræddum sumarbústaðagrindum og gólfgrind. Lögmanni áfrýjanda var tilkynnt 20. sama mánaðar að þessir munir yrðu seldir við uppboð, sem haldið yrði að Skútahrauni 2a í Hafnarfirði 29. nóvember 1997, en um leið veitti sýslumaður áfrýjanda heimild til að taka vörslur þeirra. Hinn 4. nóvember 1997 beindi Orico ehf. kröfu til Héraðsdóms Reykjaness um að fjárnám áfrýjanda yrði fellt úr gildi að því er varðaði tvær af áðurnefndum sumarbústaðagrindum, sem félagið taldi tilheyra sér. Búnaðarbanki Íslands gerði 18. sama mánaðar kröfu sama efnis varðandi þriðju sumarbústaðagrindina. Af þessum sökum ákvað sýslumaðurinn í Hafnarfirði með vísan til 3. mgr. 54. gr. laga nr. 90/1989 um aðför að fresta fyrirhuguðu uppboði. Úrskurður gekk í héraði 27. nóvember 1997 í máli milli áfrýjanda og Búnaðarbanka Íslands, sem var rekið af framangreindu tilefni, og var þar tekin til greina krafa bankans um að fella fjárnám áfrýjanda að hluta úr gildi. Áfrýjandi kærði þann úrskurð 1. desember 1997 til Hæstaréttar, sem hafnaði kröfu um ógildingu fjárnámsins með dómi 11. sama mánaðar. Með bréfi til sýslumanns 9. janúar 1998 greindi lögmaður áfrýjanda frá því að nokkuð gæti dregist að niðurstaða fengist í máli hennar og Orico ehf. um gildi fjárnámsins. Var þess því farið á leit að þeir munir, sem ágreiningur stæði ekki lengur um, yrðu seldir við uppboð, svo og að uppboð á gólfgrind og einni sumarbústaðagrind yrði haldið á nánar tilteknu geymslusvæði við Straumsvík, þar sem áfrýjandi hafi komið þeim fyrir í kjölfar vörslusviptingar. Við þessu varð sýslumaður 4. febrúar 1998 og tilkynnti þá um fyrirhugað uppboð á sumarbústaðagrind 20. sama mánaðar. Hinn 5. febrúar 1998 var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness úrskurður í máli Orico ehf. við áfrýjanda, þar sem krafa félagsins um ógildingu fjárnáms var tekin til greina. Með bréfi til Hæstaréttar 17. febrúar 1998 óskaði Búnaðarbanki Íslands eftir því að áðurnefnt mál sitt og áfrýjanda yrði tekið upp á ný, þar sem lagt hafi verið fram í máli hennar og Orico ehf. skjal, sem bankanum hafi ekki áður verið kunnugt um og leitt gæti til annarrar niðurstöðu en fengin var í máli hans og áfrýjanda. Af þessu tilefni mótmælti bankinn því jafnframt við sýslumann að sumarbústaðagrindin, sem sá fyrrnefndi hafði talið til eignarréttar yfir, yrði seld á uppboði. Sýslumaður ákvað 20. febrúar 1998 gegn andmælum áfrýjanda að uppboðið næði ekki fram að ganga fyrr en útséð yrði um afdrif beiðni Búnaðarbanka Íslands um endurupptöku málsins. Með dómi Hæstaréttar 5. mars 1998 var hrundið kröfu Orico ehf. um að fjárnám áfrýjanda í tveimur sumarbústaðagrindum yrði fellt úr gildi. Sama dag tilkynnti sýslumaður að allar sumarbústaðagrindurnar yrðu seldar 17. mars 1998 við uppboð, sem yrði haldið á áðurnefndu geymslusvæði við Straumsvík. Hinn 11. sama mánaðar hafnaði Hæstiréttur beiðni Búnaðarbanka Íslands um endurupptöku máls hans og áfrýjanda. Þegar uppboð var síðan haldið á sumarbústaðagrindunum og gólfgrind 17. mars 1998 hafði bú gerðarþolans, Byggðalands ehf., verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hafði það gerst 13. sama mánaðar samkvæmt kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði 19. febrúar 1998, en hann taldi félagið standa í skuld að fjárhæð 8.405.452 krónur vegna ógreiddra opinberra gjalda. Krafan um gjaldþrotaskipti var studd við árangurslaust fjárnám, sem annar lánardrottinn hafði fengið gert hjá félaginu 16. febrúar 1998. Söluverð munanna, sem var ráðstafað við uppboðið 17. mars 1998, rann til þrotabús Byggðalands ehf., enda féll fjárnám áfrýjanda í þeim niður vegna ákvæðis 1. mgr. 138. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Áfrýjandi telur fyrrnefnda ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði 20. febrúar 1998 um að fresta uppboði á sumarbústaðagrindinni, sem hún hafði deilt um við Búnaðarbanka Íslands, hafa verið andstæða lögum. Sú ákvörðun hafi orðið til þess að hún hafi ekki fengið í sinn hlut söluverð þeirrar sumarbústaðagrindar, en það hafi numið 462.190 krónum að greiddum kostnaði af uppboði. Þá hafi hún af sömu ástæðum orðið að bera allan kostnað af vörsluviptingu munanna, geymslu þeirra og störfum lögmanns síns við að koma fram nauðungarsölu. Alls séu kröfuliðir áfrýjanda af þessum rótum 202.289 krónur og skaðabótakrafa hennar þannig samtals 664.479 krónur. II. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði fór í senn með nauðungarsölu á fyrrnefndum eignum Byggðalands ehf. samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og innheimtu opinberra gjalda félagsins sem innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi sínu, sbr. meðal annars 1. gr. laga nr. 92/1989 um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, svo sem þeim lögum var breytt með 36. gr. laga nr. 15/1998. Samkvæmt því, sem liggur fyrir í málinu, hafði sýslumaður falið sama fulltrúa sínum að fara með báða þessa málaflokka. Var reyndin og sú í þessu tilviki, en fulltrúinn gerði meðal annars kröfu í nafni sýslumanns 19. febrúar 1998 um að bú Byggðalands ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Áfrýjandi hefur ekki borið fyrir sig að þessi sérstöku atvik geti þrátt fyrir ákvæði síðari málsliðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1991 hafa leitt til annmarka á hæfi fulltrúans til að taka ákvörðun um beiðni Búnaðarbanka Íslands um frestun uppboðs 20. febrúar 1998, þannig að ógildingu þeirrar stjórnvaldsákvörðunar geti varðað. Af þeim sökum geta þessi atvik ekki komið til skoðunar við úrlausn málsins í öðru sambandi en við mat á því hvort uppfyllt séu skilyrði sakarreglu fyrir skaðabótaskyldu stefnda vegna ákvörðunarinnar. Eins og áður greinir var í Hæstarétti kveðinn upp dómur 11. desember 1997 í máli áfrýjanda og Búnaðarbanka Íslands, þar sem slegið var föstu að fjárnám hennar í eign Byggðalands ehf. væri gilt gagnvart bankanum. Með þessu var fengin um það álitaefni bindandi úrlausn, sem beiðni Búnaðarbanka Íslands 17. febrúar 1998 um endurupptöku máls síns og áfrýjanda fékk ein og sér í engu haggað, sbr. 3. mgr. 168. gr. og 3. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og þeim var breytt með 21. gr. og 22. gr. laga nr. 38/1994. Voru því ekki skilyrði að lögum til að láta beiðnina um endurupptöku verða til þess að uppboði yrði frestað 20. febrúar 1998. Þegar tekin er afstaða til þess hvort mistök, sem fólust í ákvörðun fulltrúa sýslumanns um þetta efni, verði metin honum svo til sakar að skaðabótaskyldu varði fyrir stefnda verður hins vegar ekki horft fram hjá því að í skriflegri kröfu Búnaðarbanka Íslands um frestun uppboðsins var skírskotað til afrits af beiðni til Hæstaréttar um endurupptöku máls, þar sem fram kom að hún væri studd við nýtt sönnunargagn. Liggur ekkert fyrir í málinu um hvaða tök fulltrúinn gæti hafa haft á að gera sér grein fyrir vægi þessa gagns þegar hann tók ákvörðun um framgang uppboðs með mati á atvikum eftir ákvæðum 2. mgr. 22. gr., sbr. 2. mgr. 63. gr. laga nr. 90/1991. Þá verður jafnframt að líta til þess að krafa um gjaldþrotaskipti á búi Byggðalands ehf. hafði verið lögð fyrir Héraðsdóm Reykjaness þegar fulltrúi sýslumanns tók ákvörðunina, en af því markaðist hver frestdagur samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 yrði talinn vera ef krafan næði fram að ganga. Vegna ákvæða 139. gr. sömu laga voru af þessum sökum ekki efni til að telja sennilegt, þegar ákvörðun var tekin 20. febrúar 1998 um framgang uppboðsins, að horft gæti sérstaklega til tjóns fyrir áfrýjanda að því yrði frestað um skamman tíma til þess að ótvíræð niðurstaða fengist fyrir dómstólum um réttindi yfir þeim eignum, sem fjárnám áfrýjanda hafði verið gert í. Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á að nægilega sé fram komið að skilyrði séu til að fella skaðabótaskyldu á stefnda vegna umræddrar ákvörðunar fulltrúa sýslumanns um frestun uppboðs. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Hauðar Helgu Stefánsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 175.000 krónur. Héraðsdómur barst ekki. |
Mál nr. 486/2010 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. ágúst 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. ágúst 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. ágúst 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að beitt verði vægari úrræðum, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 16/2017 | Kærumál Símahlerun | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var kröfu L um heimild til að hlusta og hljóðrita símtöl og önnur fjarskipti við nánar tilgreint símanúmer X og eftir atvikum önnur símanúmer sem X kynni að hafa umráð yfir. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason ogKarl Axelsson.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. janúar 2017, sembarst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurðurHéraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2017, þar sem fallist var kröfu sóknaraðila umað honum væri heimilt að „hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið [...]og þau símanúmer sem X ... hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 6. janúar2017 til og með 3. febrúar 2017“ og að „nema sms sendingar, þar með taldar smssendingar á lesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar með símanúmerunum ásama tíma og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf greindra númera og símtækjaá sama tíma.“ Þá var fallist á kröfu sóknaraðila um að 365 miðlum ehf., Símanumhf., Hringdu ehf., Og fjarskiptum hf., Nova ehf., IP fjarskiptum ehf., IMCÍsland ehf., Símfélaginu ehf. og Alterna Tel ehf. yrði gert að „veita ávana- ogfíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um úr og íhvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], sem X ... hefur í eigusinni eða umráðum frá og með 5. janúar 2017 til og með 3. febrúar 2017 og IMEInúmer sem símanúmerið notar á sama tímabili, jafnframt sendar og mótteknar smssendingar, sem og samtöl við talhólf greinds númers“ og gert að upplýsa hverjirværu „rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengjast greindu númeri á samatíma.“ Loks var fallist á kröfu sóknaraðila um að fjarskiptafyrirtækjunum yrðigert að veita honum upplýsingar „um netnotkun símans sem og tengingar símansvið símsenda, hvort sem er vegna símtala eða netnotkunar og upplýsinga umgagnanotkun og gagnamagn símanúmersins ... á sama tímabili“ og upplýsingar umþau símanúmer „sem tengst hafa IMEI/IMSEI númeri símtækisins sem ofangreintnúmer var notað í á sama tímabili.“ Kæruheimilder í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilikrefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hannkærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingarhins kærða úrskurðar.Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.Dómsorð:Hinnkærði úrskurður er staðfestur.ÚrskurðurHéraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2017. Með beiðni, sem dagsett er ídag, var þess krafist af Lögreglustjórnum á höfuðborgarsvæðinu að HéraðsdómurReykjaness úrskurði að heimilt verðiað hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið 789-7974 og þau símanúmer semX, kt. [...], hefur í eigu sinni eða umráðum frá og með 6. janúar 2017 til ogmeð 3. febrúar 2017, og jafnframt sé heimilt að nema sms sendingar, þar meðtaldar sms sendingar á lesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar meðsímanúmerunum á sama tíma og hlusta og hljóðrita samtöl við talhólf greindranúmera og símtækja á sama tíma. Þá er þess krafist aðHéraðsdómur Reykjaness úrskurði að 365 miðlar ehf., Símanum hf., Hringdu ehf.,Og fjarskiptum hf., Nova ehf., IP fjarskiptum ehf., IMC Ísland ehf.,Símfélaginu ehf. og Alterna Tel ehf., verði áfram gert skylt að veita ávana- ogfíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um úr og íhvaða símanúmer hringt var úr og í símanúmerið [...], sem X, kt. [...], hefur íeigu sinni eða umráðum frá og með 5. janúar 2017 til og með 3. febrúar 2017 ogIMEI númer sem símanúmerið notar á sama tímabili, jafnframt sendar og mótteknarsms sendingar, sem og samtöl við talhólf greinds númers, en jafnframt verðiupplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig tengjast greindunúmeri á sama tíma. Þá er krafist upplýsinga um netnotkun símans sem og tengingarsímans við símsenda, hvort sem er vegna símtala eða netnotkunar og upplýsingaum gagnanotkun og gagnamagn símanúmersins sem krafa þessi beinist að á samatímabili. Jafnframt er krafist upplýsinga um þau símanúmer sem tengst hafaIMEI/IMSEI númeri símtækisins sem ofangreint númer var notað í á sama tímabili. Í greinargerð lögreglustjóranssegir að Lögreglustjórinn áhöfuðborgarsvæðinu hafi hafið rannsókn á máli er varði stórfelldan innflutningfíkniefna og peningaþvætti hér á landi. Lögreglu hafi ítrekað boristupplýsingar þess efnis að hér á landi sé starfræktur hópur einstaklinga sem standiskipulega að innflutningi, framleiðslu og sölu fíkniefni sem og peningaþvætti.Lögregla hafi að undanförnu unnið að því að skoða þær upplýsingar sem boristhafa úr ýmsum áttum og setji upp mynd af grunuðum brotahóp. Um sé að ræða einstaklinga semtengjast fyrirtækjunum [...] og [...] sem sé [...]. Þessi fyrirtæki séu í eigu A,kt. [...] og X, kt. [...]. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins [...] sé B, kt. [...].Þessum einstaklingum tengist svo þeir C, kt. [...], D, kt. [...] og E, kt. [...]. Samkvæmt þeim upplýsingum semlögreglu hafi borist séu A og X höfuðpaurar hópsins. A sé búsettur í [...] enhann mun vera sá aðili sem útvegi hluta fíkniefnanna. X mun vera sá semstjórnar hópnum hér á landi. Upplýsingar liggi fyrir um að fyrirtækin [...] [...]séu notuð til að þvætta ávinning af brotastarfsemi þessara einstaklinga.Hópurinn muni standa að innflutningi á kókaíni og MDMA töflum, ásamt því aðframleiða kannabisefni og flytja inn og selja amfetamín í miklu mæli hér álandi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hafi borist séu fíkniefni falin meðmatvörum sem séu fluttar inn til landsins í tengslum við verslunina [...], enhópurinn mun einnig hafa útvegað burðardýr til að flytja efnin inn með flugi.Nýlega bárust lögreglu svo upplýsingar þess efnis að þessi sami hópur hefðiflutt inn til landsins tugi kílóa af amfetamíni með skipi, og að sú leið værinotuð reglubundið. Í október sl. hafi boristgreiningardeild Ríkislögreglustjóra upplýsingar um að ákveðið skip væri að komahingað til lands með miklu magni af amfetamínbasa, sem notað sé til að vinnaamfetamín úr og voru ofangreindir aðilar nafngreindir í tengslum við þanninnflutning. Við skoðun lögreglu á komu þessa skips hafi komið í ljós að þaðhafi tvisvar sinnum komið hingað til lands á þessu ári. Þessar upplýsingar komiheim og saman við þær upplýsingar sem lögreglu hafi áður borist. Við skoðun lögreglu á fjármálummeintu höfuðpaura hópsins, þeirra A og X og fyrirtækjanna tveggja, megi sjá aðárið 2013 hafi A verið með rúmar tvær milljónir í tekjur, en það sama ár hafihann staðgreitt hann íbúð að fjárhæð 26 milljónir króna. Á tímabilinu frá júlí2014 til janúar 2015 megi sjá að lagðar hafi verið inn samtals 23 milljónir afreikningi [...], yfir á reikning í eigu fyrirtækisins [...]. Þá hafi 16milljónir verið teknar út í reiðufé af þeim reikning í þremur færslum, en Ahafi tekið út a.m.k. 12 milljónir af þessum 16 milljónum. Í lok september ásíðasta ári hafi verið millifærðar afreikningi [...] samtals sex milljónir inn á reikninga A og X. Nú síðast hafilögreglu borist upplýsingar þann 14. desember um að þessi sami hópurstæði í stórfelldri sölu og dreifingu á MDMA töflum, amfetamíni ogkannabisefnum. Með heimild héraðsdóms Reykjaness hafi lögreglan aflað gagna aðþví er varði ofangreinda einstaklinga, símagagna og bankagagna. Við skoðun ásímagögnum kærða megi sjá að hann sé í samskiptum við stóran hluta afofangreindum hópi, en ekki alla. Lögreglan telji að með hlustun á síma kærðafái hún betri vitneskju um samskipti innan hópsins, sem og hverjir það séu semstarfa í hóp kærða. Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að kærði skipti umnúmer reglulega til að forðast afskipti lögreglu. Í ljósiframangreinds telji lögreglan kærða vera undir rökstuddum grun um stórfelltfíkniefnalagabrot og peningaþvætti og telur mikilvægt að fá heimild til að komafyrir og nota eftirfararbúnað undir bifreið kærða í þeim tilgangi að fylgjastmeð ferðum hans. Þess sé krafist að krafan verðitekin fyrir á dómþingi án þess að kærði eða annar sá sem hún beinist að verðikvaddur á dómþingið með vísan til rannsóknarhagsmuna í málinu. Vísað sé til 1.mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Vísað sé til framangreinds,framlagðra gagna og 80. og 81. gr., sbr. 1. mgr. 83. gr. laga um meðferðsakamála nr. 88/2008. Dómarifellst á að krafan hljóti meðferð fyrir dómi án þess að kærði verði kvaddur ádómþing, enda gæti vitneskja hans um kröfuna spillt fyrir rannsókn. Kærða hefurhins vegar verið skipaður talsmaður, sbr. 2. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008. Með vísan til framangreinds ogrannsóknargagna þykir einsýnt að þær upplýsingar sem lögreglustjórinn óskareftir kunni að geta skipt miklu fyrir yfirstandandi rannsókn. Þá þykja ríkiralmannahagsmunir krefjast þess að gripið verði til umbeðinnar rannsóknaraðgerðar.Er því fallist á að fyrir hendi séu skilyrði 80. og 81. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 83. gr. laga um meðferðsakamála nr. 88/2008 tilað taka kröfu lögreglustjóra til greina eins og hún er fram sett. GunnarAðalsteinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð. ÚRSKURÐARORÐ Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinuer heimilt að hlusta og hljóðritasímtöl úr og í símanúmerið [...] og þau símanúmer sem X, kt. [...], hefur íeigu sinni eða umráðum frá og með 6. janúar 2017 til og með 3. febrúar 2017, ogjafnframt er heimilt að nema sms sendingar, þar með taldar sms sendingar álesanlegu formi, sem sendar eru eða mótteknar með símanúmerunum á sama tíma oghlusta og hljóðrita samtöl við talhólf greindra númera og símtækja á sama tíma. 365 miðlum ehf., Símanum hf.,Hringdu ehf., Og fjarskiptum hf., Nova ehf., IP fjarskiptum ehf., IMC Íslandehf., Símfélaginu ehf. og Alterna Tel ehf., er áfram heimilt að veita ávana- og fíkniefnadeildlögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um úr og í hvaða símanúmerhringt var úr og í símanúmerið [...], sem X, kt. [...], hefur í eigu sinni eðaumráðum frá og með 5. janúar 2017 til og með 3. febrúar 2017 og IMEI númer semsímanúmerið notar á sama tímabili, jafnframt sendar og mótteknar sms sendingar,sem og samtöl við talhólf greinds númers, en jafnframt skal upplýsa hverjir erurétthafar allra þeirra númera sem þannig tengjast greindu númeri á sama tíma.Þá skal veita upplýsingar um netnotkun símans sem og tengingar símans viðsímsenda, hvort sem er vegna símtala eða netnotkunar og upplýsingar umgagnanotkun og gagnamagn símanúmersins sem krafa þessi beinist að á samatímabili. Jafnframt skal upplýsa um þau símanúmer sem tengst hafa IMEI/IMSEInúmeri símtækisins sem ofangreint númer var notað í á sama tímabili. |
Mál nr. 20/2012 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að Xskyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og ÓlafurBörkur Þorvaldsson. Varnaraðili skaut málinutil Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2012, þarsem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 12.janúar 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilikrefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en tilvara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefststaðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendnahins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður erstaðfestur. |
Mál nr. 96/2017 | Kærumál Nálgunarbann | Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir HelgiI. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.Varnaraðiliskaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2017, sem barst réttinum ásamtkærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurðurHéraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2017, þar sem staðfest var ákvörðunsóknaraðila 31. janúar sama ár um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindunálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 umnálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærðiúrskurðurverði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hannstaðfestur.Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðinverður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úrríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr.14. gr. laga nr. 85/2011. Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Þóknun verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonarhæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6.febrúar 2016. Lögreglustjórinná höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfestiákvörðun hans frá 31. janúar sl. um að X skuli sæta nálgunarbanni til 28. febrúar nk. þannig að lagtverði bann við því að X veiti systkinum sínum, þeim A, kt. [...] og B, kt.[...], eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau meðöðrum hætti.Ígreinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að lögreglan á höfuðborgar-svæðinuhafi nú til rannsóknar meint ofbeldi þeirra C og X gegn börnunum A og B. X erfaðir barnanna en X er eldri bróðir þeirra. Aðstoðarsaksóknaritekur fram að upphaf málsins megi rekja til máls 007-2016-[...] þar sem D,eldri systir A og B, hafi kært C föður sinn og X bróður sinn fyrir áralangtofbeldi gegn sér. Í því máli sé C undir sterkum grun um að hafa nefbrotiðbrotaþola og slegið hana með fánastöng í líkamann svo hún hafi hlotið miklaáverka af, auk annarra tilvika. Þá sé X sömuleiðis undir sterkum grun umofbeldi á hendur D. Í tveimur skýrslutökum af D, þann 16. september sl. ogaftur þann 12. janúar sl., lýsi hún einnig alvarlegu ofbeldi sem A og B hafiorðið fyrir af hálfu föður þeirra og X eldri bróður þeirra. Lýsi hún því aðfaðir slái börnin með höndum, skóhorni, belti og inniskóm og viðvarandi ofbeldisé á heimilinu. Þá verði yngri börnin sömuleiðis vitni að ofbeldi gegn öðrum áheimilinu.Þáer þess getið að 6. desember sl. hafi barnavernd rætt við A og B í skólumbarnanna. Þar hafi komið fram hjá B að hann hefði orðið fyrir ofbeldi af hálfuforeldra sinna sem hefðu slegið hann með höndum, inniskóm og stundum meðskóhorni úr járni. Þá hafi komið fram hjá B að eldri bróðir hans, X, sem byggiá heimilinu hefði einnig beitt hann ofbeldi með því að lemja hann, hrinda, kýlaog sparka í hann. Þá hefði hann orðið vitni að ofbeldi bróður gegn systursinni. A hafi í viðræðum við barnavernd ekki sagst verða fyrir ofbeldi af hálfuforeldra sinna en segðist verða fyrir ofbeldi af X bróður síns.Ígreinargerð aðstoðarsaksóknara kemur einnig fram að í skýrslutöku fyrir dómiþann 16. janúar sl. hafi komið fram hjá B að hann væri beittur ofbeldi af hálfubróður síns og þá hefði hann orðið vitni að ofbeldi gegn systrum sínum áheimilinu. Ekki hafi verið unnt að ljúka skýrslutöku af B þar sem honum hafiliðið illa og óskað eftir að þurfa ekki að tjá sig frekar.Þáer frá því greint að í skýrslutöku fyrir dómi 16. janúar sl. hafi A lýst því aðhún hafi írekað orðið fyrir ofbeldi af hálfu bróður síns eða orðið vitni aðofbeldi hans gegn systkinum sínum. A hafi kosið að tjá sig ekki um ofbeldiforeldra sinna en hefði lýst því að faðir hennar væri mjög skapstór maður. Þaðværi ljóst af yfirheyrslunni yfir A að hún óttaðist föður sinn og hefði miklaráhyggjur af því að ekki yrði unt að tryggja öryggi hennar í málinu kysi hún aðtjá sig. Meðal gagna málsins séu m.a. ljósmyndir af áverkum sem talið sé að Ahafi orðið fyrir af hálfu föður síns þegar þau hafi verið stödd í [...] yfirjólin 2016. Gögnin hafi borist lögreglu frá eldri systur barnanna, D. Samkvæmt D hafi A verið sleginmeð belti eða skóhorni af föður sínum umrætt sinn. Í bókunarkerfi lögreglu séeinnig að finna nokkrar tilkynningar um læti eða ofbeldi á heimili kærða semstyðji við framburð barnanna og systur þeirra um ofbeldi sem þau hafi sætt eðaorðið vitni að (sjá bókanir lögreglu í máli nr. 007-2015-[...] frá 12. maí 2015og í máli nr. 007-2016-[...] frá 5. nóvember 2016). Aðstoðarsakóknarigreinir einnig frá því að framburður barnanna og D um meint ofbeldi hafi veriðborinn undir kærðu og neiti þeir báðir sök eða geri lítið úr þeim tilvikum semborin hafi verið undir þá eða hafi lýst þeim á annan veg. Fram hafi komið hjá Cað hann hefði notað skóhorn til að hræða börnin og hefði hann danglað í þau meðþví. Þá hafi hann kannast að hafa öskraðá börnin og hrætt þau. X hefði kannast við að hafa tekið A hálstaki og henthenni til en segðist eingöngu hafa hrætt B bróður sinn. Móðir barnanna, E, hafieinnig verið yfirheyrð vegna málsins og neiti hún að hafa orðið vitni aðofbeldi C og X. Milli þessara þriggja aðila sé þó töluvert misræmi og lýsi þauatvikum sem borin hafi verið undir þau með ólíkum hætti.Þákemur fram að Barnavernd Reykjavíkur hafi þann 16. janúar sl. tekið ákvörðun umað vista börnin tímabundið utan heimilis til 31. janúar vegna alvarleikamálsins. Í framhaldi hafi lögreglan tekið ákvörðun um að C og X skyldu sætanálgunarbanni gagnvart börnunum á sama tíma þar sem ljóst væri að taka þyrftifrekari skýrslur af börnunum en það hafi verið mat lögreglu að mikilvægt væriað C og X gætu ekki sett sig í samband við börnin á meðan. Þann 25. janúar sl.hafi verið tekin lögregluskýrsla af A og fyrirhugað var að tekin yrði skýrsla íBarnahúsi af B sama dag sem reyndist ekki unnt sökum vanlíðanar hjá honum. Þann31. janúar sl. hafi því verið tekin skýrsla af B á lögreglustöð í samráði viðBarnavernd Reykjavíkur. Sé það mat lögreglu, eftir að aftur hafi verið rætt viðbörnin, að taka þurfi frekari skýrslur af þeim og því sé mikilvægt að takmarkaáfram samskipti C og X við börnin. X hafi upphaflega verið gert að sætanálgunarbanni með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 16. janúarsl. til 31. janúar sl. sem staðfest hafi verið með úrskurði HéraðsdómsReykjavíkur nr. R-[...]/2017. Íljósi þess sem að framan greinir telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laganr. 85/2011 séu uppfyllt, en C og X liggi að mati lögreglu undir rökstuddumgrun um að hafa beitt A og B líkamlegu ofbeldi sem talið sé varða við ákvæðialmennra hegningarlaga og barnaverndarlaga. Það sé mat lögreglu að brýnt sé aðað börnin njóti verndar fyrir frekara ofbeldi og áreiti af hálfu föður þeirraog bróður meðan rannsókn málsins sé enn á viðkvæmu stigi og mikilvægt að kærðusetji sig ekki í samband við börnin eða geti haft áhrif á framburð þeirra áþessu stigi máls. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi barnanna verði vernduðmeð öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.Niðurstaða:Einsog rakið er í greinargerð hefur lögregla til rannsóknar ætluð brot varnaraðilagagnvart tveimur yngri systkinum sínum, B og A. Þar kemur fram að ætluð brotvarnaraðila varði í senn við barnaverndarlög og almenn hegningarlög án þess aðvísað sé til tiltekinna refsiákvæða. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20.janúar sl. var á það fallist að fullnægt væri skilyrðum a-liðar 4. gr. og 6.gr. laga nr. 85/2011 fyrir nálgunarbanni þannig að varnaraðila væri bannað aðsetja sig í samband við börnin. Samkvæmt a-lið 4. gr. fyrrgreindra laga er þaðskilyrði fyrir að beita megi nálgunarbanni að rökstuddur grunur sé um aðsakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friðibrotaþola. Samkvæmt framlögðum rannsóknargögnum verður á það fallist aðvarnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa beitt börnin líkamlegu ofbeldisem varðað getur við almenn hegningarlög og 99. gr. barnaverndarlaga. Skýrslursem lögregla 25. janúar og 31. janúar sl. breyta ekki því mati réttarins.Samkvæmt1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 verður nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekkiþykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti.Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Af1. mgr. 7. gr. laganna verður einnig ráðið að unnt er að beita nálgunarbannivegna ríkra rannsóknarhagsmuna. Samkvæmt því sem upplýst var við málflutning umkröfu sóknaraðila liggur fyrir samkomulag milli barnaverndaryfirvalda íReykjavík og varnaraðila þar sem varnaraðili skuldbindur sig til þess að búaekki á sameiginlegu heimili sínu og brotaþola. Var staðfest við málflutninginnað þetta samkomulag gilti út febrúarmánuð. Þá kom þar fram að barnaverndaryfirvöldhefðu ekki farið fram með kröfu um nálgunarbann, eins og barnaverndarnefnd erheimilt að gera á grundvelli 37. gr. barnaverndarlaga, heldur hafi þótteðlilegt að lögreglustjóraembættið gerði slíka kröfu fyrir dómi þar semlögreglurannsókn færi fram á hinu ætlaða ofbeldi.Brotaþolarhafa nú gefið skýrslu bæði í Barnahúsi 16. janúar sl. og hjá lögreglu 31.janúar sl. Upplýst er að lögregla telur nauðsynlegt að taka aftur skýrslu afbörnunum í Barnahúsi. Af þessum sökum telur lögreglan mikilvægt að verndabörnin gegn frekara ofbeldi og áreiti af hendi varnaraðila sem geti haft áhrifá framburð þeirra meðan á rannsókn málsins stendur. Hvað þetta atriði varðarskal tekið fram að ekki náðist að klára skýrslutöku af B í Barnahúsi þar semhonum leið mjög illa. Ekki er efni til að draga í efa mat lögreglu að ástæða sétil þess að hann gefi að nýju skýrslu í Barnahúsi. A er aftur á móti á sextándaaldursári og hún hefur þegar lokið við að gefa skýrslu í Barnahúsi og hjálögreglu. Að teknu tilliti til hagsmuna barnanna á þessu stigi rannsóknarmálsins og þess sem hér hefur verið rakið um þörf á frekari skýrslutöku ogmöguleg áhrif á framburð brotaþola ef ekki er komið í veg fyrir að sóknaraðilihafi samskipti við börnin þykir mega fallast á að framangreindu skilyrði fyrrimálsliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 sé fullnægt.Afhálfu sóknaraðila var upplýst fyrir dómi að ekki hafi verið ákveðið hvenærbörnin gæfu frekari skýrslur. Það hafi tekið drjúgan tíma að vinna traustþeirra, en við fyrri skýrslutöku í Barnahúsi hafi þau ekki viljað tjá sig nemaað hluta til um atvik. Af hálfu sóknaraðila var upplýst að nálgunarbanni verðiaflétt þegar ástæða hennar þykir ekki lengur vera fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 11.gr. laga nr. 85/2011. Í þessu ljósi ber að fallast á kröfu sóknaraðila eins oghún er fram sett. Þóknunskipaðs verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar hdl., 160.000 krónur, greiðistúr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála,sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, ÓmarsArnar Bjarnþórssonar hdl., 160.000 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóðisamkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.ÁsmundurHelgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.Ú R S K U R Ð A R O R ÐStaðfester ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 31. janúar sl. um að X skuli sæta nálgunarbanni til 28.febrúar nk., þannig að lagt er bann við því að X veiti systkinum sínum, þeim A,kt. [...] og B, kt. [...], eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig ísamband við þau með öðrum hætti.Þóknunverjanda varnaraðila, BjarnaHaukssonar hdl., 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði, sem og þóknun skipaðsréttargæslumanns brotaþola, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 160.000 krónur. |
Mál nr. 81/2017 | Lánssamningur Neytendalán Yfirdráttarheimild | A hf. höfðaði mál á hendur G til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á debetreikningi. Hélt G því fram að hún ætti kröfu til skuldajafnaðar við kröfu A hf. þar sem ekki hefði verið gerður við hana skriflegur samningur um yfirdráttarlán og því hefði verið óheimilt að innheimta lánskostnað vegna þess. Talið var að hvað sem liði fyrirmælum 5. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, um að samningar um yfirdráttarheimildir skyldu skriflegir, væri sérstaklega tekið fram í skýringum með ákvæðinu í frumvarpi til upphaflegra laga um neytendalán nr. 30/1993 að það væri ekki fortakslaust skilyrði fyrir gildi lánssamninga að þeir væru skriflegir, heldur gildi munnlegir samningar eftir sem áður. Þegar G sótti um að stofna reikninginn hafði hún undirritaði yfirlýsingu þar sem meðal annars kom fram að hún hefði kynnt sér reglur og skilmála sem giltu um tékkaviðskipti og debetkort og að hún staðfesti að hún myndi fara eftir ákvæðum þeirra. Kom þar einnig fram að G væri samþykk því að vextir af yfirdráttarheimild reikningsins yrðu skuldfærðir af honum mánaðarlega. Var því talið að G hefði mátt vera ljóst áður en hún stofnaði til viðskiptanna hvaða kjör lágu til grundvallar viðskiptasambandi aðila. Þá hefði G aldrei gert athugasemdir við útreikninga og gjaldfærslu A hf. samkvæmt reikningsyfirlitum sem hún fékk send og greitt athugasemdalaust þann kostnað og vexti sem til féllu. Var G því gert að greiða A hf. umkrafða fjárhæð. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma ÞorgeirÖrlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og ÁsgeirMagnússon dómstjóri.Áfrýjandi skautmálinu til Hæstaréttar 7. febrúar 2017. Hún krefst þess aðallega að „hinumáfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að krafa stefnda verði stórlegalækkuð, þannig að höfuðstóll hennar nemi aðeins“ 288.492 krónum en til vara „aðkrafa stefnda verði lækkuð að mati réttarins.“ Þá krefst hún málskostnaðar íhéraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrirHæstarétti. Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt og þeirra á meðal reglurKaupþings Búnaðarbanka hf. um debetkort sem giltu frá janúar 2004. Eru þærefnislega samhljóða þeim reglum sem lágu fyrir héraðsdómi um þau atriði semmáli skipta við úrlausn málsins.Þegar áfrýjandi sótti 31. október 2003 um að stofna debetkortareikninghjá Kaupþingi Búnaðarbanka hf. undirritaði hún yfirlýsingu þar sem meðal annarssagði: „Ég [undirrituð] sem hef óskað eftir að stofna tékkareikning/debetkortvið Kaupþing Búnaðarbanka hf. skuldbind mig hér með til að: ... gefa ekki úttékka nema innstæða eða yfirdráttarheimild sé fyrir hendi á reikningi mínum.Misnotkun getur haft í för með sér að reikningi mínum verði lokað og einnigöllum öðrum tékkareikningum á mínu nafni ... Ég hef kynnt mér reglur ogskilmála er gilda um tékkaviðskipti og debetkort. Ég staðfesti með undirritunminni að ég mun í einu og öllu fara eftir ákvæðum þeirra. Ég samþykki að vextiraf yfirdráttarheimild ofangreinds tékka/debetreiknings verði skuldfærður afhonum mánaðarlega.“ Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hinsáfrýjaða dóms verður hann staðfestur.Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefndamálskostnað fyrir Hæstarétt sem ákveðinn verður eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.Áfrýjandi, Guðbjörg Kristjánsdóttir, greiði stefnda, Arion banka hf.,500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. DómurHéraðsdóms Reykjaness 7. desember 2016.Mál þetta, sem dómtekið var 20.október sl., höfðaði stefnandi, Arion banki hf., Borgartúni 19 í Reykjavík,hinn 18. febrúar 2016 á hendur stefndu, Guðbjörgu Kristjánsdóttur, Mosprýði 1 íGarðabæ. Kröfur stefnanda eru þær aðstefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 2.485.459 krónur, ásamtdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu frá 31. ágúst 2015 til greiðsludags. Þá krefst stefnandimálskostnaðar.Kröfur stefndu eru þær að krafastefnanda verði stórlega lækkuð og að stefnandi verði dæmdur til greiðslumálskostnaðar. IMeð umsókn um debetkortareikning31. október 2003 stofnaði stefnda reikning nr. [...] hjá Kaupþingi-Búnaðarbankahf., er nú tilheyrir stefnanda. Samkvæmt framlögðum reikningsyfirlitum varheimild til yfirdráttar á reikningnum til staðar frá 17. mars 2004. Heimildin namí upphafi 100.000 krónum og nýtti stefnda sér hana. Yfirdráttarheimildin varreglulega hækkuð og nam hún 1.500.000 krónum frá 15. ágúst 2007. Heimildin varfelld niður 20. mars 2011 án þess að uppsöfnuð skuld reikningsins, 1.497.671króna, væri greidd á þeim degi. Stefnda fór í greiðsluskjól hjáumboðsmanni skuldara 30. júní 2011. Umsókn hennar um samning tilgreiðsluaðlögunar var hafnað 21. júlí 2015. Reikningi stefndu hjá stefnanda varlokað 31. ágúst 2015 og nam uppsöfnuð skuld reikningsins á þeim degistefnufjárhæð málsins. Stefndu var sent innheimtubréf 15. október 2015 og aftur30. sama mánaðar. Þar sem stefnda greiddi ekki kröfuna höfðaði stefnandi málþetta til innheimtu hennar 18. febrúar sl. samkvæmt áðursögðu. IIAf hálfu stefnanda er á því byggtað stefnda hafi fengið heimild til að yfirdraga reikning nr. [...] upp aðtiltekinni fjárhæð og stofnað þannig til skuldar við stefnanda. Nemi uppsöfnuðskuld reikningsins á þeim degi sem honum var lokað, 31. ágúst 2015,stefnufjárhæð málsins. Stefnda hafi reglulega fengið send yfirlit frá stefnandaum stöðu reikningsins á hverjum tíma og ekki gert athugasemdir við þau yfirlit.Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og meginreglu samningaréttar umskuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga beri stefndu aðgreiða hina umkröfðu fjárhæð. Stefnandi kveðst ekki gera kröfuum dráttarvexti frá umsömdum gjalddaga kröfunnar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, heldur láti hann nægja að krefjastdráttarvaxta frá þeim degi sem reikningnum var lokað, stefndu tilhagsbóta. Stefnandi hefur mótmælt því aðstefnda eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar. Stefnandi bendir á að stefnda hafimeð undirritun á umsókn um stofnun reikningsins staðfest að hafa kynnt sérreglur og skilmála sem um tékkaviðskipti og debetkort giltu, svo og að vextiraf yfirdráttarheimild yrðu skuldfærðir af reikningnum. Stefnda hafi því ávalltvitað hver kostnaður af lántökunni yrði, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr.121/1994. Þá hafi stefnda engin mótmæli haft uppi við vaxtaútreikning áreikningsyfirlitum sem hún hafi fengið send. Stefnda hafi heldur ekki mótmæltútsendum innheimtubréfum.Af hálfu stefnanda er því mótmæltað hann hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar. Bendir stefnandi á aðákvæði 11. gr. laga nr. 121/1994 hafi girt fyrir að stefnandi gæti innheimtkröfuna á meðan stefnda var í greiðsluskjóli. Stefnda hafi verið ígreiðsluskjóli í fjögur ár og áfallnir vextir á því tímabili gjaldfallið viðlok tímabilsins 22. júlí 2015. Tómlæti komi því ekki til álita.Við munnlegan flutning málsinsmótmælti stefnandi því sérstaklega að stefndu hafi verið heimilt undiraðalmeðferð málsins að auka við kröfur sínar. Stefnda geti ekki gert frekarikröfur en hún hafi sett fram í greinargerð sinni, en þar hafi hún viðurkennt aðskulda stefnanda 1.162.229 krónur.IIIStefnda vísar til þess að ekkihafi verið gerður lánssamningur um yfirdráttarheimild samkvæmt ákvæðumþágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994. Stefnanda hafi vegna þessa ífyrsta lagi verið óheimilt að innheimta lánskostnað, það er útvexti,viðvörunargjald, þjónustugjald og FIT-kostnað, af „heimilaðriyfirdráttarheimild“ sem veitt var stefndu 30. júní 2009 að fjárhæð 1.500.000krónur og gilti fram til 20. mars 2011. Við munnlegan málflutning kom fram hjálögmanni stefndu að henni hafi fyrst verið veitt yfirdráttarheimild 17. mars2004 en ekki 30. júní 2009, eins og fram komi í greinargerð. Gaf lögmaðurinnþær skýringar að stefnda hefði ekki haft undir höndum upplýsingar að því ervarðaði fyrra tímabil og hafi stefnandi neitað að afhenda stefndu gögn um það.Stefnda byggir í öðru lagi á því að stefnanda hafi verið óheimilt að innheimtaútvexti af „óheimilaðri yfirdráttarheimild“ frá 20. mars 2011 fram til 31.ágúst 2015 þegar reikningnum var lokað. Hvað fyrra tímabilið varðarbyggir stefnda á því að enginn lánssamningur hafi verið gerður vegnayfirdráttarheimildarinnar þrátt fyrir ófrávíkjanlega skyldu þess efnis samkvæmt1. mgr. 3. gr., sbr. 5. gr. þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994, sbr.lög nr. 179/2000. Hafi stefnanda því verið óheimilt að innheimta lánskostnað íformi útvaxta, þjónustugjalds, viðvörunargjalds og FIT-kostnaðar afyfirdráttarheimildinni sem var í gildi fram til 20. mars 2011, að fjárhæð1.500.000 krónur. Stefnda vísar til 1. mgr. 14. gr. tilvitnaðra laga þar semmælt hafi verið fyrir um að lánveitanda væri óheimilt að krefja lánþega umvexti og annan kostnað, væri slíkt ekki tilgreint í lánssamningi. Í greinargerðkom fram að stefnda teldi sig eiga skuldajafnaðarkröfu á hendur stefnanda vegnagreiðslu lánskostnaðar af reikningnum á tímabilinu frá 30. júní 2009 fram til20. mars 2011 og að sú krafa næmi samtals 335.442 krónum(321.267+7.332+5.200+1.643). Við aðalmeðferð málsins var því síðan haldið framaf hálfu stefndu að hún ætti kröfu á hendur stefnanda vegna lánskostnaðar seminnheimtur hefði verið yfir lengra tímabil, eða allt frá 17. mars 2004. Lagði stefnda fram skjal við upphaf aðalmeðferðar með útreikningum sem viðþetta miðaði. Er krafa stefndu þar sögð nema 880.149 krónum (725.100 + 134.733+ 20.316). Um heilmild til skuldajafnaðar vísar stefnda til 1. mgr. 28. gr. laganr. 91/1991 um meðferð einkamála. Öll skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendiþar sem kröfurnar séu samrættar, efndatími þeirra kominn og báðar varði þærtékkareikning stefnda hjá stefnanda.Stefnda byggir á því að stefnanda hafi átt að veraljósar skuldbindingar sínar samkvæmt lögum nr. 121/1994 sem sérfróttfjármálafyrirtæki í skilningi 1. og 19. gr. laga nr. 161/2002 umfjármálafyrirtæki. Stefnandi sé sérfróður aðili á umræddu sviði og hafi honumborið að fara að lögum í starfsemi sinni. Standi þaðstefnanda nær en stefndu sem sé neytandi. Stefnda hafi ekki þekkt rétt sinnheldur treyst stefnanda að því er varðaði innheimtu kostnaðar af reikningnum. Meðal annars afþeirri ástæðu hafi hún ekki gert athugasemdir við reikningsyfirlit stefnanda.Stefnda vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 3. gr.,sbr. 5. gr., laga nr. 121/1994, skuli lánveitandi gera skriflegan samning umyfirdráttarlán til neytanda. Þá sé einnig áskilnaður um skriflegan lánssamningum yfirdráttarheimild í 2. mgr. 6. gr. og 9. gr., sbr. 1. mgr. 12. gr.,laganna. Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 121/1994, stafliðum a-e, sé kveðið á umhvaða upplýsingar lánveitandi skuli veita í samningi um yfirdráttarheimildir.Skylda stefnanda til að gera lánssamning umyfirdráttarheimild við stefndu hafi því verið ófrávíkjanleg. Stefnda vísar tilþess að einu undantekninguna frá þeirri skyldu sé að finna í 3. málslið e-liðar 1. mgr.3. gr. laganna, er varði breytingu á yfirdráttarheimild, en þar sé þó gert ráðfyrir að lánveitandi sendi skriflegan samning eftir á. Með gagnályktun frá umræddu ákvæði sé skýrt að lánssamningar eigi að veraskriflegir í upphafi með þar tilgreindum upplýsingum a-e-liða 1. mgr. 3. gr.laganna. Þá megi ráða af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 672/2012 að efekki hafi verið gerður samningur sem innihaldi þær upplýsingar sem skylt hafiverið að veita samkvæmt lögum nr. 121/1994 sé ekki heimilt að innheimtakostnað, hverju nafni sem hann nefnist. Þá vísarstefnda til þess að lög um neytendalán hafi verið sett til innleiðingar átilskipun 87/102/EBE, sbr. breytingatilskipun 90/88/EBE, en meginatriðitilskipunarinnar sé að neytendur fái upplýsingar um lántökukostnað í prósentumsamkvæmt árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Sé tilskipuninni ætlað að tryggjaneytendum lágmarksvernd gagnvart fjármálafyrirtækjum. Stefnda byggi á því að1. mgr. 3. gr. laga nr. 121/1994 hafi áskilið lánssamning við ákveðinn neytandaum yfirdráttarheimild á hans tékkareikningi. Þar sem um mismunandi yfirdráttarheimildir og kjör geti verið að ræða fyrir hvern ogeinn neytanda hjá fjármálafyrirtæki geti almennir skilmálar, sem lagðir séufram eða komi fram á heimasíðu fjármálafyrirtækis, ekki komið að öllu leyti ístaðinn fyrir samning við hvern neytanda. Verði tilgangi laga um neytendalán ogtilskipunar 87/102/EBE ekki náð án þess að skriflegur samningur liggi fyrir,jafnframt því að upplýsingum samkvæmt a til e-liðum 1. mgr. 3. gr. laga nr.121/1994 yrði ekki komið sannanlega til skila. Í lögunum sé ekki gert ráðfyrir því að neytandi þyrfti að leita þessara upplýsinga heldur hafi þær átt aðliggja fyrir frá lánveitanda við töku yfirdráttarheimildar. Hvað síðara tímabilið varði byggi stefnda á því aðeftir að yfirdráttarheimild hennar féll niður 20. mars 2011 hafi verið umóheimilaða yfirdráttarheimild að ræða fram til 31. ágúst 2015 er reikningnumvar lokað. Stefnanda hafi því verið óheimilt að innheimta útvexti á tímabilinu.Sömu sjónarmið eigi við að þessu leyti og hvað fyrra tímabilið varði. Því tilviðbótar byggi stefnda á því að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 121/1994, sbr.lög nr. 179/2000 og 1. gr. laga nr. 63/2008, sé fjármálafyrirtæki ekki heimiltað innheimta útvexti vegna óheimils yfirdráttar ef slík gjaldtaka eigi sér ekkistoð í samningi. Þar sem engum slíkum samningi hafi verið til að dreifa hafigjaldtakan verið óheimil.Stefndavísar til þess að staða skuldar á reikningnum 28. febrúar 2011 hafi verið1.497.671 króna, en þann dag hafi síðustu útvextir af heimilaðriyfirdráttarheimild verið reiknaðir. Eins og áður segir byggði stefnda á því ígreinargerð að til frádráttar þeirri yfirdráttarskuld skyldi koma óheimilllánskostnaður í formi útvaxta, viðvörunargjalds, þjónustugjalds og FIT-kostnaðar,samtals að fjárhæð 335.442 krónur og hafi því staða reikningsins 28. febrúar2011 verið 1.162.229 krónur (1.497.671 – 335.442) sem stefnda skuldi stefnanda.Við aðalmeðferð málsins var á hinn bóginn til þess vísað af hálfu stefndu aðtil frádráttar yfirdráttarskuldinni skyldu koma 880.149 krónur. Þá byggirstefnda á því að ef ekki verði fallist á gagnkröfu hennar til skuldajafnaðarsamkvæmt framansögðu verið lagt til grundvallar að staða skuldarinnar viðstefnanda sé 1.497.671 króna, miðað við stöðu yfirdráttarins 28. febrúar 2011,þar sem stefnanda hafi verið óheimilt að innheimta útvexti eftir þann tíma. Verði ekki fallist á málsástæður stefndu samkvæmtframansögðu er á því byggt af hálfu stefndu að krafa stefnanda sé niður fallinvegna tómlætis. Frá því stefnda hætti notkun reikningsins 28. febrúar 2011 ogheimild reikningsins féll niður 20. mars sama ár, og þangað til reikningnum varlokað 31. ágúst 2015, hafi liðið meira en fjögur ár án þess að stefnandi héldirétti sínum til kröfunnar til haga. Stefndu hafi verið send innheimtuviðvörun15. október 2015 og málinu stefnt fyrir dómstóla í mars 2016 en þá hafi veriðliðin 5 ár frá því reikningurinn var síðast notaður. Frá þeim tíma hafireikningurinn borið útvexti sem hlaðist hafi upp þar til reikningnum var lokað.Stefnda hafi verið í greiðsluaðlögun á þessum tíma og ekki mátt greiða kröfurlánardrottna sinna. Hins vegar hafi stefnandi mátt stefna málinu fyrir dómfljótlega eftir að reikningnum var lokað og halda þannig kröfu sinni til haga.Stefnandi hafi látið hjá líða, lengur en hæfilegt geti talist, að geraeinhverjar þær ráðstafanir sem löggjöf eða venja mæli fyrir um til að tryggjarétt sinn eða viðgang kröfunnar. Viðmunnlegan flutning málsins féll stefnda frá þeirri málsástæðu sinni að hlutikröfu stefnanda væri fallin niður fyrir fyrningu. Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda til laga um neytendalán nr.121/1994 sbr. lög nr. 179/2000 og lög nr. 63/2008, einkum 3., 5., 6., 9., 12.,14. og 28. gr. laganna. Jafnframt vísarstefnda til 1. og 19. gr. laga nr. 161/2002 og til 2. og 3. gr. laga nr.2/1993, 3. gr. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.IVUpplýst er að stefnda stofnaðidebetkortareikning þann er mál þetta varðar, nr. [...] hjá KaupþingiBúnaðarbanka hf., er nú tilheyrir stefnanda, 31. október 2003. Heimild tilyfirdráttar á reikningnum var til staðar frá 17. mars 2004. Heimildin nam íupphafi 100.000 krónum og nýtti stefnda sér hana. Yfirdráttarheimildin varreglulega hækkuð og nam hún 1.500.000 krónum frá 15. ágúst 2007. Heimildin varfelld niður 20. mars 2011 án þess að uppsöfnuð skuld reikningsins, 1.497.671króna, væri greidd á þeim degi. Reikningnum var lokað 31. ágúst 2015 og namreikningsskuldin þá stefnufjárhæð málsins, 2.485.459 krónum.Málsvörnstefndu er á því reist að hún eigi kröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnandaþar sem ekki hafi verið gerður við hana sérstakur samningur um yfirdráttarlánog því hafi verið óheimilt að innheimta lánskostnað vegna yfirdráttar áreikningi hennar. Samkvæmt5. gr. þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994 skyldi lánssamningur veraskriflegur og fela í sér upplýsingar sem tilgreindar voru í 6. og 8. gr.laganna. Eftir gildistöku laga nr. 179/2000 hinn 20. desember 2000 tók ákvæði5. gr. til samninga um yfirdráttarheimild, þó þannig að 3. gr. laganna fól ísér sérákvæði um upplýsingagjöf við samninga um yfirdráttarheimild aftékkareikningi og sambærilegum lánssamningum með breytilegum höfuðstól. Hvaðsem líða kann fyrirmælum 5. gr. um skriflegan lánssamning hefur verið talið,með hliðsjón af skýringum með 5. gr. frumvarps til upphaflegra laga umneytendalán nr. 30/1993, að það sé ekki fortakslaust skilyrði fyrir gildilánssamninga að þeir séu skriflegir, heldur gildi munnlegir samningar eftir semáður, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 349/2014. Þá kom fram í3. mgr. 14. gr. laganna að lánveitanda væri heimilt að krefja neytanda um vextiog annan lántökukostnað, sem ekki væru tilgreindir í samningi, ef hann gætisannað að neytanda hafi mátt vera ljóst hver lántökukostnaðurinn hafi átt aðvera. Í umsókn stefndu um debetkortareikning 31.október 2003 kom fram að stefnda hefði kynnt sér reglur og skilmála sem giltuum tékkaviðskipti og debetkort og að stefnda staðfesti með undirritun sinni aðhún myndi í einu og öllu fara eftir ákvæðum þeirra. Þá kom einnig fram aðstefnda væri samþykk því að vextir af yfirdráttarheimild reikningsins yrðuskuldfærðir af honum mánaðarlega. Fyrir dóminn hafa verið lagðir fram almennirskilmálar innlánsreikninga svo og reglur og skilmálar vegna debetkorta. Í grein11.1 í reglum um debetkort kemur fram að gjöld vegna notkunar korts greiðikorthafi samkvæmt verðskrá á hverjum tíma en verðskrá sem veiti upplýsingar um gjöld,vaxtakjör og annað, sem tengist notkun debetkorta, skuli jafnan liggja frammi íbankanum. Í grein 11.2 segir síðan að bankanum sé heimilt að færa korthafa tilgjalda á viðskiptareikningi hans gjöld samkvæmt verðskrá. Með vísan til þessaog dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 533/2014 verður talið að stefndu hafiátt að vera ljóst áður en hún stofnaði til viðskipta við stefnanda hvaða kjörlágu til grundvallar viðskiptasambandi aðila. Þessu til viðbótar liggja fyrir ímálinu reikningsyfirlit frá stofnun reikningsins á árinu 2003 til lokunar hansá árinu 2015 sem bera það með sér að hafa verið send stefndu. Yfirlitin hafa aðgeyma nákvæmar og sundurliðaðar upplýsingar um innborganir og úttektir, þar ámeðal vegna þjónustugjalda og vaxtakostnaðar. Á öllum yfirlitunum kemur fram aðathugasemdir óskist gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlitsins en annarsteljist reikningurinn réttur. Stefnda hefur ekki mótmælt því að henni hafiborist umrædd yfirlit. Þá er óumdeilt að stefnda gerði á engum tímapunkti athugasemdirvið útreikninga og gjaldfærslu stefnanda og greiddi athugasemdalaust þannkostnað og vexti sem til féllu. Sú staðreynd að stefnandi er fjármálafyrirtækiog sérfróður aðili getur ekki, svo sem málið liggur fyrir dómnum, haft áhrifvið mat á framangreindu. Að öllu þessu virtu telst hafa komist á samningur umlánsviðskiptin og verður ekki fallist á gagnkröfu stefndu til skuldajafnaðarvið kröfu stefnanda. Í ljósialls þess sem að framan er rakið verður hafnað kröfum stefndu um lækkun ákröfum stefnanda hvort tveggja er varðar tímabil fyrir og eftir 20. mars 2011.Er því þá hafnað að 3. mgr. 3. gr. laga nr. 121/1994, eftir breytingar meðlögum nr. 62/2008, leiði til þess að stefnanda hafi verið óheimilt að innheimtavexti af skuldinni. Af skýringum með ákvæðinu í frumvarpi að lögum nr. 62/2008er ljóst að ákvæðinu hafi verið beint að kostnaði sem fjármálafyrirtækiinnheimta þegar viðskiptavinir eyða um efni fram án þess að hafa heimild tilyfirdráttar á reikningi, eða hinum svokallaða FIT-kostnaði. Leiðir ákvæðið ekkitil þess að stefnanda hafi verið óheimilt að skuldfæra samningsvexti afyfirdráttarskuld stefndu á tímabilinu frá og með 20. mars 2011 þegaryfirdráttarheimild á reikningnum féll niður. Stefnda hefur á því byggt að krafa stefnandasé niður fallin fyrir tómlæti. Fyrir liggur að yfirdráttarskuld á reikningistefndu féll í gjalddaga 20. mars 2011. Stefnda fór í greiðsluskjól hjáumboðsmanni skuldara 30. júní sama ár og meðan á því stóð var stefnandaóheimilt að krefja um eða taka við greiðslu á kröfum sínum en vextir féllu áskuldina samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga.Umsókn stefndu um samning til greiðsluaðlögunar var hafnað 21. júlí 2015 og varskorað á stefndu að greiða skuldina með innheimtubréfi 15. október 2015 ogaftur 30. sama mánaðar. Mál þetta var síðan höfðað í febrúar 2016. Með hliðsjónaf þessu og þar sem það voru atvik er vörðuðu stefndu sem girtu fyririnnheimtuaðgerðir mestan hluta þess tíma sem liðinn er frá gjaldfellingukröfunnar verður því hafnað að krafan sé niður fallin vegna tómlætis. Meðvísan til þess sem að framan er rakið verður krafastefnanda tekin til greina, svo sem hún er fram sett. Samkvæmt þeim málsúrslitum og með vísan til 1.mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndu gert aðgreiða stefnanda málskostnað sem hæfilega þykir ákveðinn 250.000 krónur. Dóm þennan kveður upp KristinnHalldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr.115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.DÓ M S O R Ð:Stefnda, GuðbjörgKristjánsdóttir, greiði stefnanda, Arion banka hf., 2.485.459 krónur, ásamtdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu frá 31. ágúst 2015 til greiðsludags. Stefnda greiði stefnanda 250.000krónur í málskostnað. |
Mál nr. 588/2010 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. október 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að henni verði gert að sæta farbanni, en að þessu frágengnu krefst hún þess að sér verði ekki gert að sæta einangrun á gæsluvarðhaldstíma. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 444/2011 | Líkamsárás | R var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa í félagi við Y ráðist á A,rifið hann á fætur þar sem hann sat við borð og slegið hann í andlit, höfuð oglíkama. Var R sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1940 en ekki talið sannað að hann hefði slegið Ahnefahöggum í líkama. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að skýrslutaka af vitnumvið aðalmeðferð í málinu, sem áður höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu, hafi veriðí samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og eðlilegt aðvitnisburður þeirra hjá lögreglu hefði eftir atvikum verið lagður til grundvallarvið úrlausn málsins í héraði. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og GretaBaldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júlí 2011 í samræmi viðyfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist aðrefsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Samkvæmt 2. og 3. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skuluspurningar lagðar fyrir vitni um atvik máls við meðferð þess fyrir héraðsdómiáður en skýrsla, sem það hefur gefið hjá lögreglu um sakarefnið, er kynnt fyrirþví. Ef vitnið staðfestir það, sem eftir því er haft í slíkri skýrslu, verðurdómur reistur á þeim vitnisburði samkvæmt 1. mgr. 111. gr. sömu laga, eftirmati dómara á sönnunargildi hans, sbr. 1. mgr. 109. gr. þeirra. Sú aðferð, sem að framan greinir, var viðhöfð við aðalmeðferð í málinuþegar skýrsla var tekin fyrir héraðsdómi af þeim vitnum sem áður höfðu gefiðskýrslu hjá lögreglu. Vegna þess að skýrslutakan hjá lögreglu átti sér staðtiltölulega skömmu eftir að ætlað brot ákærða hafði verið framið var eðlilegtað sá vitnisburður yrði eftir atvikum lagður til grundvallar við úrlausnmálsins í héraði. Í málinu hafa verið lögð fram læknisvottorð þar sem lýst er líkamsáverkum áákærða og A í kjölfar átakanna á skemmtistaðnum Spot aðfaranótt 29. nóvember2009. Samkvæmt vottorðunum voru verulegir áverkar á A, en nánast engir áverkarvoru sjáanlegir á ákærða. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dómsverður hann staðfestur. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talinmálsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin eru að meðtöldumvirðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal veraóraskaður. Ákærði, Reynir Örn Auðarson, greiðiallan áfrýjunarkostnað málsins, 268.151 krónu, þar með talin málsvarnarlaunskipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15.júní 2011. I. Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 27.apríl sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni1. febrúar 2011, á hendur Reyni Erni Auðarsyni, kt. [...], [...], [...] og Y,kt. [...], [...], [...], „fyrir líkamsárás, með því að hafa, aðfaranóttsunnudagsins 29. nóvember 2009, á skemmtistaðnum Spot að Bæjarlind 6 íKópavogi, í félagi ráðist á A, rifið hann á fætur þar sem hann sat við borð ogslegið hann hnefahöggum andlit (sic), höfuð og líkama, með þeim afleiðingum aðhann hlaut mar og bólgu við hægra auga, skurð við hægra auga og neðan viðvinstri augabrún, rispur og mar á hálsi og öxlum auk þess sem brotnaði upp úrtönn. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr., almennrahegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr.82/1998. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og tilgreiðslu alls sakarkostnaðar.“ Af hálfu ákærðu er aðallega krafist sýknu, en til varavægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t.hæfileg málsvarnarlaun, verði að hluta eða öllu leyti lagður á ríkissjóð. II. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu dags. 4. desember 2009, kombrotaþoli í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann dag að eiginfrumkvæði og lagði fram kæru vegna líkamsárásar sem hann hefði orðið fyrir áveitingastaðnum Spot í Kópavogi aðfaranótt 29. nóvember sama ár. Skýrði brotaþoli svo frá að fyrr um kvöldið og fram yfirmiðnætti þessa nótt hefði hann verið á jólahlaðborði á vegum vinnustaðar síns.Þegar komið hefði verið fram yfir miðnætti hefði hann setið við borðið þar semþau hefðu matast fyrr um kvöldið ásamt kærustu sinni B og þau verið að bíðaeftir því að vera sótt. Á meðan þau hefðu verið bíða þarna hefði sest viðhliðina á honum maður að nafni Y en fyrir aftan hann hefði stillt sér upp maðurað nafni Reynir Örn Auðarson, en hann ynni sem dyravörður á staðnum, en hefðiekki verið við vinnu þetta kvöld. Y hefði spurt hann hvort hann heiti A oghefði hann svarað því játandi. Hann hefði spurt hann á móti hver hann væri enekki fengið svar við spurningu sinni. Hann hefði þá snúið sér aftur að borðinuog farið að tala við kærustu sína, en þá hefði ekki skipt neinum togum að hannhefði allt í einu verið rifinn á fætur og Y og Reynir byrjað að kýla hann í höfuð,andlit og líkama. Líklega hefði verið um ein 10 högg að ræða. Sagðist brotaþolihafa dottið í gólfið við höggin, en þá hefði bróðir hans, C, komið honum tilhjálpar og þá hefði hann náð að komast á fætur. C hefði tekist að ýta Y ogReyni í burtu frá honum, en síðan hefði Reynir ráðist á sig aftur. Hefði komiðþarna til átaka á milli hans og Reynis, en dyraverðir hefðu fljótlega komiðþarna að og stöðvað átökin og vísað honum út úr húsinu. Brotaþoli sagði aðfötin sín hefðu öll verið rifin eftir þessi átök við Reyni og sagðist hann hafaendað nánast ber að ofan fyrir utan veitingahúsið. Sagðist hann hafa farið áslysadeild Landspítalans í Fossvogi þessa nótt vegna áverka sinna og fengiðáverkavottorð. Á meðal gagna málsins eru læknisvottorð slysa- ogbráðadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi vegna brotaþola og beggjaákærðu. Í vottorð D læknis, dags. 18. desember 2009, segir aðbrotaþoli hafi leitað á slysadeildina hinn 29. nóvember 2009 og verið skráðurinn kl. 2:13. Hann hafi sagt að tveir menn hefðu ráðist á sig á skemmtistaðnumSpot, hrint honum í gólfið og barið. Hann hafi fengið högg á andlit og lýstumtalsverðum verkjum í vinstri andlitshelmingi og lýst sársauka við að hreyfakjálkalið. Þá hefði brotnað upp úr tönn. Í vottorðinu segir að við skoðun sé sjúklingur marinn ogbólginn bæði ofan og neðan við hægra auga. Svolítill skurður eða rispa sé réttneðan við vinstri augabrún, sem ekki þurfi að sauma. Við skoðun í munni virðistvanta svolítið brot innanvert á endajaxl vinstra megin í efri gómi. Sjúklingursé aumur yfir báðum kjálkaliðum en hann geti opnað munninn. Þá sé hann meðrispur og mar á húð á hálsi neðanvert vinstra megin og þaðan út á vinstriöxlina. Af rispunum sé það að segja að þær séu þrjár vinstra megin á hálsi ogein rispa út á hægri öxlina. Ekki finnist fleiri eymsli í brjóstkassa eða kvið.Í vottorðinu eru áverkar brotaþola greindir sem yfirborðsáverkar og áverki átönn. Loks segir í vottorðinu að sjúklingur hafi komið tilendurmats hinn 1. desember 2009. Við skoðun hafi hann enn verið svolítið mar ogglóðarauga við vinstra auga og hafi það teygt sig yfir að nefinu. Einnig hafimátt sjá bjúg liggja frá hægra nefbeini. Útlit brotaþola hafi ekki vakið uppgrunsemdir um nefbrot. Í vottorði E læknis, dags. 1. febrúar 2010 segir að ákærðiReynir hafi leitað til slysadeildarinnar hinn 29. nóvember 2009 kl. 2:09. Hafihann sagst hafa lent í átökum við annan mann og fengið hnefahögg í andlit réttneðan við nef. Við átökin hafi orðið mikil áreynsla á olnboga. Hafi hann veriðað fá verk annað slagið í vinstri olnboga, sérstaklega við lyftingar og einnigvið áreynslu. Í vottorðinu segir að við skoðun hafi ekki verið að sjá mareða bólgu yfir olnboga og hann hafi hvorki verið þreifiaumur yfir olnboganum néyfir vöðvafestum í olnboga. Þá hafi hann náð að rétt vel um olnboga, en fáiverki við að beygja um liðinn. Þá hafihann verið þreifiaumur yfir nefi en ekki hafi sést bólga eða mar í andliti. Í vottorði sama læknis segir að ákærði Y hafi leitað tilslysadeildarinnar á sama tíma og meðákærði Reynir. Ákærði Y hafi tjáð lækni aðhann hefði verið í partýi, lent í slagsmálum og verið bitinn af öðrum manni íhálsinn. Í vottorðinu segir að við skoðun hafi sést smá hrufl vinstra megin áhálsinum, u.þ.b. 2 sm langt og þar í kring hafi einnig verið mar. Í ályktunvottorðsins segir að ákærði hafi sagst hafa hlotið mannabit á hálsi. Undirrituðhafi ekki séð sjúkling og ekki hafi verið lýst tannaförum en hins vegar bæðihrufli og mari sem gæti passað við bit. Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum oghjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir: Ákærði Reynir Örn Auðarson neitaði sök. Hann sagði að umrættkvöld hefði ónefndur strákur, sem verið hefði á jólahlaðborði á staðnum, komiðtil meðákærða Y og kvartað yfir því að [...] C og A hefðu haft í hótunum viðhann allt kvöldið. Hefði strákurinn beðið Y um að biðja bræðurna um að hætta aðáreita hann. Hann sagði að þeir meðákærði hefðu farið til A, brotaþola í máliþessu, og meðákærði sest við hliðina á honum en sjálfur sagðist hann hafastaðið fyrir aftan þá, og stutt báðum höndum á sitt hvort stólbakið á stólummeðákærða og brotaþola. Hann sagði að meðákærði hefði sagt eitthvað viðbrotaþola og brotaþoli snúið sér að honum, en síðan snúið sér undan aftur oglátið eins og meðákærði væri ekki þarna. Sagðist ákærði þá hafa tekið nokkuðharkalega með vinstri hendi í öxlina á brotaþola og sagt honum að hlusta ámeðákærða. Hefði brotaþoli þá ýtt stólnum aftur fyrir sig, rokið upp og látiðhöggin dynja á ákærða og sagðist ákærði hafa varið sig. Hann sagði að mikið affólki hefði verið þarna í kring og sagði ákærði að rifið hefði verið í hann,meðal annars í hárið á honum. Þeir brotaþoli hefðu síðan endað í gólfinu, ensíðan sagðist ákærði hafa farið frá brotaþola. Ákærði sagði að meðákærði hefðisetið rólegur þar til bróðir brotaþola kom þarna að til að hjálpa bróður sínum.Hefði bróðirinn farið í meðákærða og þeir slegist og hefði það endað með þvíbróðirinn beit meðákærða í hálsinn. Þessi slagsmál hefðu síðan verið stöðvuð afdyravörðunum. Hann sagði að meðákærði hefði engan þátt átt í átökum viðbrotaþola. Hann sagði að meðákærði hefði setið rólegur á meðan hann hefðisjálfur verið að takast á við fjóra eða fimm. Þegar C, bróðir brotaþola, hefðihins vegar komið hlaupandi að þeim hefði meðákærði staðið upp og gripið C oghálfpartinn tekið hann í fangið. Hann sagðist hafa frétt að C hefði bitiðmeðákærða í hálsinn, meðákærði rifið C frá sér og þá hefði hluti af húð flestaf hálsi meðákærða. Hann sagði að framburður vitna um að þeir meðákærði hefðurifið brotaþola upp af stólnum og kýlt hann margsinnis í andlit, höfuð oglíkama væru rangir. Hann sagði að daginn eftir hefði verið haldinn fundur meðþeim meðákærða, föður [ ], brotaþola og dyravörðum á staðnum og þar hefði veriðákveðið að engin kæra yrði lögð fram í málinu. Mjög misvísandi frásagnir hefðukomið fram á fundinum um atvikið. Ákærði sagðist hafa unnið sem dyravörður á umræddum stað ítvo eða þrjá mánuði á þessum tíma, en umrætt kvöld hefði hann ekki verið viðvinnu heldur að skemmta sér. Aðspurður sagðist hann ekki hafa verið miklumáfengisáhrifum þegar atvik málsins gerðust. Aðspurður um áverka á brotaþola sagði ákærði að hann ættibágt með að trúa því að hann hefði valdið því að brotnaði upp úr tönn hjábrotaþola þar sem hann hefði ekki verið sár á höndum eftir atvikið. Hann sagðiað brotaþoli og bróðir hans hefðu viðurkennt á áðurgreindum fundi að þeir væruslagsmálahundar og því sagðist ákærði halda að hluti áverkanna væru gamlir. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 19. janúar 2010, sem er ísamræmi við framangreint. Þar sagði ákærði einnig að hann héldi að þeirbrotaþoli hefðu báðir dottið í gólfið í átökunum. Bróðir brotaþoli hefði komiðhonum til aðstoðar, en meðákærði hefði dregið hann í burtu. Eftir að þeirbrotaþoli stóðu upp hefðu átök á milli þeirra haldið áfram en dyraverðir hefðugengið á milli þeirra og stöðvað átökin. Ákærði Y neitaði sök. Hann sagði að þeir meðákærði hefðusetið veitingastaðnum umrætt kvöld þegar strákur, sem væri 18 ára gamall sonurog bróðir fyrrverandi vinnufélaga hans, hefði komið til hans og tjáð honum aðinni á staðnum væri strákur að nafni A sem væri að hóta honum öllu illu. Hefðistrákurinn spurt hann að því hvort hann gæti talað við þennan A, þ.e. brotaþolaí máli þessu. Sagðist ákærði hafa samþykkt það og gengið ásamt meðákærða tilbrotaþola og sest við hliðina á honum. Sagðist hann hafa spurt hann að þvíhvort hann væri A og hvort hann væri að hóta ungum dreng á staðnum. Í því hefðibrotaþoli snúið sér frá honum og þá hefði meðákærði tekið í öxlina á brotaþoliog sagt við hann: „Horfðu á manninn!“. Brotaþoli hefði þá staðið mjög snöggtupp og tekist á við meðákærða. Þegar brotaþoli hefði staðið upp hefði stóllbrotaþola ýst aftur og farið í meðákærða. Hann sagði að sig minnti að brotaþolihefði kýlt meðákærða um leið og hann stóð upp og þá hefði meðákærði tekið ámóti honum. Átök meðákærða og brotaþola hefðu síðan borist í átt að barborðinuog sagðist ákærði þá hafa staðið upp og um leið séð [...] brotaþola, C, komahlaupandi og sagðist hann hafa gengið í veg fyrir hann. Þeim tveimur hefði þálent saman. Meira hefði hann þá ekki séð af viðureign meðákærða og brotaþola.Hann sagði að þeir C hefðu endað nálægt dansgólfinu og þar hefði C bitið hann íhálsinn. Þegar átökum þeirra lauk hefði allt verið búið á milli meðákærða ogbrotaþola. Ákærði sagði að framburður brotaþola og vitna væri alrangurog sagðist hann aldrei hafa komið nálægt brotaþola. Hann sagði að brotaþoli ogbróðir hans væru þekktir í [...] fyrir slagsmál og margir væru hræddir við þá. Aðspurður um áverka brotaþola sagðist ákærði telja að brotnaðhefði upp úr tönn brotaþola áður en til umræddra átaka kom. Sagðist hann hafahitt brotaþola á fundi á veitingastaðnum daginn eftir og þá hefðu litliráverkar verið á brotaþola. Brotaþoli hefði verið með smávægilegt glóðarauga ogþað hefði verið allt og sumt. Á þessum fundi hefðu einnig verið faðir [...] ogdyraverðir á staðnum. Fundurinn hefði gengið út á það að ná sáttum í málinuenda hefði ekki verið um alvarleg slagsmál að ræða. Hefði fundinum lokið meðþví að ekki yrði meira aðhafst í málinu. Aðspurður kvaðst hann hafa verið undir áhrifum þetta kvöld,en ekki miklum þar sem hann hefði verið nýkominn á staðinn. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 3. febrúar 2010, semsamrýmist skýrslu hans fyrir dóminum. A sagðist hafa verið á jólahlaðborði á veitingastaðnum Spotmeð samstarfsfólki sínu umrætt kvöld. Sagðist hann hafa verið ölvaður og þvímyndi hann ekki alveg eftir öllum atvikum. Sagðist hann þó muna eftir að hafasetið við borð ásamt þáverandi kærustu sinni og beðið eftir fari heim. Hannsagði að fyrrverandi kærsta sín hefði setið ská á móti honum. Þá hefðu ákærðikomið til hans og hefði ákærði Y sest við hliðina á honum, en ákærði Reynirstaðið fyrir aftan hann. Y hefði spurt hann að nafni og hann svarað honum ogsíðan hefði hann einnig spurt ákærða að nafni. Sagðist hann ekki vita hvortákærði svaraði honum, en það næsta sem hann vissi var að hann hefði veriðrifinn harkalega upp af stólnum, sennilega af ákærða Reyni, og hefði hann því næstverið kýldur og laminn. Hann sagðist halda að ákærði Reynir hefði kýlt hann þvíhann hefði aðallega tekist á við hann, en þó hefði ákærði Y einnig staðið uppum leið og ákærði Reynir reif hann upp á öxlinni. Sagðist hann hafa upplifaðárásina í fyrstu þannig að ákærðu væru báðir að ráðast á hann. Aðspurðursagðist hann ekki muna eftir því hvort ákærði Y sló hann, en ákærðu hefðu báðirverið í honum í skamma stund þar til [...] hans, sem hefði verið þarna skammtfrá, kom til að hjálpa honum, en þá sagðist brotaþoli hafa verið kominn ígólfið. Sagðist hann ekki hafa verið sleginn á meðan hann lá í gólfinu. Hannsagðist síðan hafa staðið upp og þá hefði [...] hans verið farinn að takast ávið ákærða Y á meðan hann sjálfur hefði tekist á við ákærða Reyni. Allt hefðiþetta gerst mjög hratt. Því næst hefðu öryggisverðir komið þarna að, en hannsagði að þeir hefðu ekki gert mikið til að skakka leikinn. Sagðist hann hafafengið mikið af höggum á sig á meðan reynt var að stöðva átökin. Sagðistbrotaþoli hafa fengið langflest hnefahöggin í andlitið, enda hefði hann veriðmjög bólginn í andlitinu á eftir. Hann sagðist ekki vita hversu mörg högginvoru, en þau hefðu komið í andlit, höfuð og líkama. Þá sagði brotaþoli að fötsín hefðu rifnað. Sagðist hann hafa náð að verja sig eitthvað og náð að kýlaákærða Reyni nokkrum sinnum. Hann sagðist hins vegar ekki muna eftir að hafakýlt ákærða Y. Brotaþoli sagði að lýsing ákærðu á atburðarásinni væri ekkirétt, þ.e að hann hefði staðið snögglega upp og byrjað að kýla ákærða Reyni.Sagðist brotaþoli hafa lent í slagsmálum áður og sagðist alveg hafa vitað hvaðstóð til þegar ákærðu, sem væru 10 árum eldri en hann, hefðu báðir komið tilhans. Hann játaði því að hafa fengið á sig ákæru vegna líkamsárásar. Brotaþoli sagði að eftir að átökunum lauk hefði hann farið útog verið mjög reiður. Hefði hann ætlað að fara aftur inn og ráðast á ákærðuaftur, enda hefði hann verið ölvaður. Dyraverðirnir hefðu stoppað hann af ogsagðist hann því hafa farið beint heim, en farið á slysadeild daginn eftir.Brotaþola var þá bent á að samkvæmt framlögðu læknisvottorði hefði hann komið áslysadeild umrædda nótt kl. 2:13. Sagði brotaþoli þá að það gæti verið.Brotaþoli sagðist hafa verið blár og marinn í framan og sagðist hann varla hafagetað opnað annað augað vegna bólgu. Þá sagði hann að brotnað hefði úr tönnumhjá honum. Brotaþoli sagðist hafa mætt á fund með ákærðu, föður sínum ogdyravörðum á staðnum daginn eftir. Hann sagði að strákurinn, sem hefði tjáðákærðu að hann hefði verið að hóta honum lífláti, væri yngri bróðir stráks semhefði kært hann fyrir líkamsárás, en ákærði Y væri vinnufélagi þess manns.Sagði brotaþoli að þessi mál tengdust því nokkuð. C, bróðir brotaþola, sagðist hafa setið ásamt félaga sínum áveitingastaðnum Spot umrætt kvöld, skammt frá brotaþola og kærustu hans, en þauhefðu verið á leið heim. Sagðist hann hafa séð tvo menn ganga að brotaþola ogtala við hann. Annar hvor mannanna hefði síðan annað hvort rifið brotaþola uppúr sætinu eða brotaþoli staðið sjálfur upp og því næst hefði annar ákærðu kýltbrotaþola einu sinni til tvisvar með krepptum hnefa, sennilega í andlitið ábrotaþola því það hefði verið bólgið á eftir. Sagðist hann ekki hafa séð hvorákærðu það var. Hann sagði að dimmt hefði verið inni á staðnum og því hefðihann ekki séð þetta almennilega. Sagðist hann þá hafa stokkið upp, en straxverið gripinn af ákærða Y og sagðist hann hafa tekist á við hann og þeirra átökborist út á dansgólfið. Nánar aðspurður sagði ákærði að hann hefði upplifaðatvik með þeim hætti að annar ákærðu hefðu rifið brotaþola upp úr stólnum og aðbáðir ákærðu hefðu ráðist á brotaþola, en hann sagðist ekki muna hvor gerðihvað. Hann sagði að rétt væri eftir sér haft í lögregluskýrslu um að hann gætiekki sagt til um hvar höggin lentu á brotaþola. Hann sagði að brotaþola hefðisnúið baki í hann meðan á átökunum stóð. Lýsing ákærðu á atburðarásinni var borin undir vitnið ogsagðist hann ekki kannast við að atvik hefðu gerst með þessum hætti. Hannsagðist hafa séð áverka á brotaþola, þ.e. hann hefði verið bólginn í andlitinu.Aðspurður sagðist hann hafa verið undir áhrifum áfengis. Vitni gaf skýrslu hjá lögreglu 14. janúar 2010, sem er ímegindráttum í samræmi við framangreint. Þar sagði vitnið að annar ákærðu hefðustaðið fyrir aftan stól brotaþola, en hinn staðið fyrir framan hann. Þeir hefðurifið brotaþola upp af stólnum og byrjað að berja á honum. B sagðist hafa verið kærasta brotaþola á þessum tíma, ensagði að þau væru ekki lengur kærustupar. Kvaðst hún hafa verið á árshátíð áveitingastaðnum Spot í umrætt sinn og sagðist hafa setið við borð ásamtbrotaþola og einhverju af samstarfsfólki hans. Nýbúið hefði verið að opna fyriralmenning inn á staðinn þegar ákærðu hefðu komið til brotaþola og spurt hvorthann héti A. Brotaþoli hefði litið á þá en ekki svarað þeim og snúið sér undan.Hefði þá annar ákærðu, sem hefði verið í rauðum bol, rifið eða kippt í stólbrotaþola og snúið stólnum og brotaþola að sér og síðan hefði hann rifiðbrotaþola upp af stólnum á öxlunum. Í kjölfarið hefðu brotist út mikil slagsmálá staðnum. Sagðist hún hafa séð að brotaþoli var barinn í andlitið. Þá sagðisthún hafa séð brotaþola ýta frá sér til að verja sig, en sagðist ekki geta sagttil um það hvort brotaþoli sló ákærðu. Hún sagði að mikil þvaga af fólkimyndast þarna, sem hefði reynt að ganga á milli. Sagðist hún hafa séð brotaþolafara í gólfið. Þá hefði [...] brotaþola blandað sér í málið. Hún sagðist hafafarið út þegar slagsmálin brutust út og þegar brotaþoli hefði komið út hefðiskyrtan hans verið í henglum. Hún sagði að systir sín hefði náð í þau og fariðmeð brotaþola á slysadeild. Hún sagði að þar hefði komið í ljós að brotnaðhafði upp úr tönn hjá honum og þá hefði hann verið mjög marinn næstu daga áeftir. Þegar vitnið var spurt að því hvort báðir ákærðu hefðu ráðistá brotaþola sagði hún að það gæti verið að annar þeirra hefði bara staðið hjá.Framburður ákærðu var kynntur vitninu og sagði hún ekki rétt að brotaþoli hefðistaðið snögglega upp og byrjað að kýla ákærðu, heldur hefði verið kipptsnögglega í stól brotaþola og hann rifinn upp. Hún sagði að ákærðu hefðu báðirkomið gangandi að brotaþola, en kvaðst ekki muna hvort þeir settust eða stóðuhjá brotaþola. Nánar aðspurð sagði hún þó að sig rámaði í að annar ákærðu hefðusest við hlið brotaþola og talað við hann. Annar þeirra hefði sett höndina áöxl brotaþola og spurt hann hvort hann væri A. Sá hinn sami hefði síðan rifið ístól brotaþola. Aðspurð sagðist hún ekki hafa verið undir áhrifum áfengis þettakvöld. Hún sagðist hafa munað mun betur eftir atvikum þegar hún gafskýrslu hjá lögreglu. Hún sagði að frásögn hennar ætti að vera rétt ílögregluskýrslu, þ.e. að báðir ákærðu hefðu ráðist á brotaþola og kýlt hann íandlit og höfuð. Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 14. janúar 2010, sem er ímegindráttum í samræmi við framangreint. Þar sagði vitnið að tveir menn hefðukomið að borðinu þar sem hún og brotaþoli sátu og hefði annar mannanna sest viðhliðina á brotaþola, en hinn staðið fyrir aftan stól hans. Allt í einu hefðiannar þessara manna rifið í stól brotaþola og snúið honum við og síðan hefðumennirnir rifið hann upp af stólnum og byrjað að berja á honum. F sagðist hafa verið á jólahlaðborði með starfsfólki sínu íumrætt sinn og sagðist hafa staðið við borðið, sem hópurinn hafði setið við umkvöldið, þegar tveir menn hefðu komið að borðinu. Hefðu þeir tekið sér stöðufyrir aftan brotaþola og kærustu hans, sem setið hefðu við borðið. Hún sagðistekki hafa vitað fyrr en brotaþoli hefði verið rifinn upp af stólnum og síðanhefðu brotist út slagsmál. Hún sagði að þetta hefði gerst mjög hratt og átökinorðið að einni þvögu og því væri erfitt að segja til um hver gerði hvað. Kvaðsthún muna eftir brotaþola í gólfinu með annan ákærðu ofan á sér, en síðan hefðifólk byrjað að stía þeim í sundur. Þá hefði bróðir brotaþola reynt að hjálpahonum. Aðspurð sagði hún að annar ákærðu, sem hefði verið í rauðu að ofan,hefði rifið brotaþola upp af stólnum, en sagðist ekki vita hvor þeirra það vareða hvar hann tók í brotaþola, en sennilega hefði hann rifið brotaþol upp áöxlunum. Fyrir sér hefði þetta atvikast með þeim hætti að annar ákærðu hefðirifið brotaþola upp af stólnum og byrjað að berja hann og stuttu síðar hefðibrotaþoli verið kominn í gólfið. Hún sagðist muna eftir því að hafa séð aðbrotaþoli var kýldur í andlitið og þá hefði skyrtan hans verið rifin í tætlur.Hún sagðist ekki muna hvor ákærðu kýldi brotaþola í andlitið. Þá kvaðst húnekki geta sagt til um hvort báðir ákærðu kýldu brotaþola. Framburður ákærðu var borinn undir vitnið og sagði hún aðekki væri rétt að annar ákærðu hefði lagt hönd á öxl brotaþola og að við þaðhefði brotaþoli staðið snögglega upp og byrjað að berja ákærðu. Hún sagði aðsér hefði virst augljóst að ákærðu komu til brotaþola í þeim tilgangi að berjahann. Hún sagði aðspurð að hún hefði ekki verið undir miklum áfengisáhrifumþetta kvöld. Þá sagðist hún vera samstarfskona brotaþola. Skýrsla vitnisins hjá lögreglu var borin undir vitnið. Kvaðsthún ekki muna eftir því nú að annar ákærðu hefðu setið við hliðina á brotaþolaog að sá hefði byrjað að kýla brotaþola. Hún sagðist muna það eitt nú að báðirákærðu hefðu komið til brotaþola og átt einhver stutt samskipti við hann áðurslagsmál brutust út. Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 14. janúar 2010. Þar sagðisthún hafa staðið við borðið sem brotaþoli og kærasta hans sátu við. Hefði þákomið að borðinu ókunnugur maður sem sest hefði við hliðina á brotaþola. Annarókunnugur maður sem einnig hefði komið þarna að borðinu hefði staðið fyriraftan stól brotaþola. Maðurinn sem sest hefði við hliðina á brotaþola hefðifarið að tala við hann, en síðan hefði brotaþoli snúið sér aftur að kærustusinni. Allt í einu og fyrirvaralaust hefði maðurinn, sem staðið hefði fyriraftan brotaþola, rifið hann upp af stólnum, en hinn byrjað að berja hannnokkrum höggum, sem hún hefði ekki séð betur en að lentu öll í andlitibrotaþola. Sagðist hún síðan hafa litið af mönnunum, en þegar hún hefði litiðtil þeirra aftur hefði hún sé að sá sem sló brotaþola hefði verið í átökum viðhann á gólfinu. G sagðist hafa setið við borð með brotaþola og fleira fólkiþegar ákærðu hefðu komið báðir aftan að brotaþola við borðið. Sagðist hún munaeftir að þeir stóðu báðir fyrir aftan brotaþola. Annar þeirra hefði dregið stólbrotaþola að sér og frá borðinu og síðan rifið brotaþola í burtu frá borðinu. Íframhaldinu hefðu brotist út slagsmál. Sagðist hún halda að sá, sem dregiðhefði brotaþola í burtu frá borðinu, hefði byrjað slagsmálin. Hún sagðist ekkigeta sagt til um það hvort báðir ákærðu slógu brotaþola, en sagðist a.m.k. hafaséð annan þeirra slá brotaþola. Hún sagðist ekki hafa fylgst frekar meðslagsmálunum og því gæti hún ekki skýrt nákvæmlega frá því hver gerði hvað. Húnsagði þó að annar ákærðu hefði kýlt brotaþola og brotaþoli hefði reynt að svarafyrir sig. Hún sagði að mikil þvaga hefði myndast kringum brotaþola og ákærðuog því hefði hún ekki séð nákvæmlega hvað gerðist. Allt hefði þetta gerst mjögsnöggt. Framburður ákærðu um að brotaþoli hefði allt í einu staðiðupp og ráðist á þá var borinn undir vitnið og sagði vitnið þá að fyrir sérhefði atburðarásin verið með þeim hætti að ákærðu hefðu ráðist á brotaþola ogdregið hann í burtu. Hún sagði að bróðir brotaþoli hefði reynt að aðstoða hann.Hún sagðist muna eftir að skyrta brotaþola hefði öll verið rifin á eftir. Húnsagðist ekkert tengjast brotaþola, sen sagði að kærasti hennar hefði verið aðvinna með brotaþola. Aðspurð sagðist hún hafa drukkið eitt hvítvínsglas meðmatnum fyrr um kvöldið. Hún sagði að hún hefði munað betur eftir atvikum þegarhún gaf skýrslu hjá lögreglu og sagðist kannast við frásögn sína þar. Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 10. janúar 2010. Þar sagðihún að brotaþoli hefði ekki viljað tala við annan manninn og reynt að færastólinn sem hann sat á að borðinu aftur. Mennirnir hefðu þá rifið sitt hvorumegin í brotaþola og kippt honum upp af stólnum og frá borðinu. Sá þeirra, semvirst hefði ágengari við brotaþola, hefði slegið til hans en hún sagðist ekkihafa séð nákvæmlega hvar höggið lenti, en það hefði annað hvort verið í öxlinaeða á kjálkann. Sagðist hún hafa forðað sér, en síðan hefðu dyraverðir komiðþarna að og gengið á milli og á meðan brotaþola var haldið sagðist hún hafa séðmanninn, sem hafði verið ágengari, ná að slá brotaþola. H, dyravörður á veitingastaðnum Spot, sagðist hafa staðið íaðalinngangi veitingastaðarins þegar tilkynning hefði komið í talstöðina umslagsmál á dansgólfinu. Sagðist hann hafa hlaupið inn og séð áflog í gangi.Vinstra megin í salnum hefðu tveir strákar verið að slást og berja hvorn annan.Sagðist hann hafa þekkt annan þeirra, þ.e. ákærða Reyni, en hann hefði veriðstarfsmaður á veitingastaðnum. Sagðist hann hafa stíað þeim í sundur með því aðýta ákærða Reyni í burtu og róa hann niður. Hann sagðist hafa séð út undan sérað annar dyravörður var að reyna að stöðva önnur slagsmál hægra megin í salnumog að þriðji dyravörðurinn hélt stráknum, sem ákærði Reynir var að slást við.Hann sagðist ekki hafa séð ákærða Y. Hann sagði að ákærði Reynir og brotaþolihefðu skipst á ókvæðisorðum og síðan hefðu þeir rifið sig lausa og þeim lent aftursaman. Sagðist hann þá hafa tekið ákærða Reyni í burtu og hinn dyravörðurinnhefði tekið í brotaþola og þeir ákveðið að stoppa þetta alveg. Hann sagði aðþegar hann hefði verið að leiða ákærða Reyni í burtu hefði ákærði Y komið áeftir þeim og verið með stórt bitfar á hálsinum. Sagðist hann hafa farið meðákærðu inn í eldhús, en hann sagðist ekki hafa vitað hvað varð af brotaþola ogbróður hans. Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 5. febrúar 2010, semsamrýmist framangreindu. I sagðist hafa verið á veitingastaðnum með ákærðu umrættkvöld. Hún sagði einhver strákur hefði komið til þeirra og beðið ákærðu um aðhjálpa sér því brotaþoli hefði verið að hóta honum um kvöldið. Ákærðu hefðu þvífarið til brotaþola til að ræða við hann og hefði ákærði Y sest við hliðina áhonum, en ákærði Reynir staðið fyrir aftan brotaþola. Hún sagðist hafa séð aðþeir voru að ræða saman og síðan hefði ákærði Reynir lagt höndina á öxlbrotaþola og þá hefði brotaþoli staðið snögglega upp og kýlt ákærða Reyni. Þeirhefðu síðan lent í áflogum. Bróðir brotaþola hefði síðan komið þarna að ætlaðað ráðast líka á Reyni, en þá hefði ákærði Y farið fyrir hann og síðan lent íátökum við bróðurinn á dansgólfinu. Sagðist hún hafa reynt að ná bróðurnum ofanaf ákærða Y. Hún sagði að bróðir brotaþola hefði bitið ákærða Y í hálsinn. Húnsagði að ákærði Y hefði verið með stórt bitfar á hálsinum á eftir og orðið aðfara á slysavarðstofu um kvöldið vegna þess. Hún sagðist vera fyrrverandi makiákærða Y. Hún sagðist ekki hafa verið undir áhrifum áfengis, enda neytti húnekki áfengis. J sagðist hafa komið á veitingahúsið Spot umrætt kvöld og þarhefðu setið við borð brotaþoli, kærasta og bróðir hans og tvær vinkonurvitnisins. Sagðist hún hafa sest við borðið hjá þeim og farið að spjalla viðþau. Einhverjir tveir strákar hefðu allt í einu komið aftan að brotaþola, snúiðstólnum sem hann sat á að sér og rætt eitthvað við hann. Brotaþoli hefði þásnúið stólnum aftur að borðinu, en þá hefðu þessir menn rifið hann upp afstólnum og byrjað að berja brotaþola, þ.e. slá hann með krepptum hnefa íandlitið. Hún sagðist aðspurð ekki muna eftir að annar mannanna hefði sestniður. Hún sagði að báðir mennirnir hefðu tekið þátt í árásinni á brotaþola, ensagðist ekki geta sagt til um hvor þeirra gerði hvað. Annar hvor þeirra hefðihins vegar rifið í stól brotaþola og síðan hefði annað hvort þeir báðir eðaannar hvor þeirra rifið brotaþola upp af stólnum. Hún sagðist ekki geta sagttil um það hvort báðir eða annar hvor þeirra kýldi brotaþola. Sagðist hún hafaforðað sér eftir að átökin byrjuðu og því ekki séð meira af þeim. Á eftir hefðiskyrta brotaþola verið rifin og þá hefði brotaþoli verið blóðugur. Hún sagði aðekki væri rétt að brotaþoli hefði staðið upp og látið höggin dynja á ákærðu. Húnsagðist muna eftir að bróðir brotaþola hefði staðið upp til að aðstoðabrotaþola. Hún sagðist aðspurð hafa verið undir áhrifum áfengis, en ekkimiklum. Hún sagðist vera gamall vinur brotaþola. Skýrsla vitnisins hjá lögreglu var kynnt fyrir vitninu ogkvaðst hún kannast við hana og sagði að rétt væri eftir sér haft í skýrslunni.Sagðist hún hafa munað þetta betur á þessum tíma. Hún sagðist þó stórefast umað báðir hefðu snúið stólnum, en sagði að báðir hefðu ráðist á brotaþola. Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 29. janúar 2010. Þar sagðihún að mennirnir hefðu snúið stólnum sem brotaþoli sat á frá borðinu. Brotaþolihefði snúið stólnum aftur að borðinu og þá hefðu mennirnir rifið brotaþola uppaf stólnum og byrjað að berja hann. D, sérfræðingur á bráða- og slysadeildLandspítala-háskólasjúkrahúss. Hann staðfesti vottorð vegna brotaþola á skjaliIV, 1-1. Hann sagði að um hefði verið að ræða yfirborðsáverka og áverka á tönn. Ákærðu Y og Reynir komu aftur fyrir dóminn og voru þeirinntir eftir því af hverju þeir hefðu ekki bent á vitnið I fyrr eða þegar þeirgáfu skýrslu við rannsókn málsins hjá lögreglu. Sögðu þeir þá báðir að þeirhefðu talið að málið væri ekki þess eðlis að það myndi fara fyrir dóm. III. Í máli þessu er ákærðu gefið að sök að hafa í félagi ráðist ábrotaþola, rifið hann á fætur þar sem hann sat við borð og slegið hannhnefahöggum í andlit, höfuð og líkama með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru. Brotaþoli hefur borið um það að hafa verið rifinn harkalegaupp af stól sínum, sennilega af ákærða Reyni, og síðan hafi hann verið kýldurog laminn. Sagðist hann halda að ákærði Reynir hefði kýlt hann því hann hefðiaðallega tekist á við hann. Hann sagðist ekki geta sagt til um það hvort ákærðiY sló hann. Ákærði Reynir hefur einnig borið um það að hafa tekist á viðbrotaþola og kvaðst hann viðurkenna að hafa tekið nokkuð harkalega í öxlina áhonum. Kvað hann ákærða Y engan þátt hafa átt í átökunum við brotaþola. Vitnið C hefur borið um það að annar ákærðu hefði rifiðbrotaþola upp úr sætinu og því næst kýlt brotaþola einu eða tveimurhnefahöggum, sennilega í andlitið. Á sama veg hefur borið vitnið F en hún sagðiað hún hefði ekki vitað fyrr en annar ákærðu, sem hefði verið rauðklæddur aðofan, hefði rifið brotaþola upp af stólnum og byrjað að berja hann. Vitnin B, Gog J hafa allar borið um það að annar ákærðu hefði rifið í stól brotaþola ogsnúið stólnum þannig að brotaþoli hefði snúið að ákærðu og frá borðinu. Sagði Bað þessi sami ákærði hefði verið í rauðum bol. B og G sögðu að sá hinn sami ogreif í stólinn hefði síðan rifið brotaþola upp af stólnum og frá borðinu, en Jsagði að annað hvort báðir ákærðu eða annar hvor þeirra hefði rifið brotaþolaupp af stólnum. Vitnin B og F sögðu að brotaþoli hefði verið rifinn upp afstólnum á öxlunum. Vitnin B, F, G og J sögðu að brotaþoli hefði verið kýldur ogsögðu vitnin B og F að brotaþoli hefði verið kýldur í andlitið. Ekkertframangreindra vitna gat borið um það hvor ákærðu kýldu brotaþola eða hvortákærðu kýldu hann báðir. Sum vitnanna báru um að hafa séð a.m.k. annan ákærðuberja brotaþola, þ.e. slá hann með krepptum hnefa í andlitið. Ljóst þykir afframburðum vitnanna að sá ákærðu, sem reif brotaþola upp af stólnum, kýldi hanní andlitið. Framburður allra þessara vitna þykir trúverðugur þó að framburður þeirrahafi borið þess nokkur merki hversu langt er um liðið frá því að atvik málsinsáttu sér stað. Framburður vitnisins I kom fyrst fram viðframhaldsaðalmeðferð. Í ljósi þess, tengsla vitnisins við ákærða Y og þess aðframburðurinn er mjög á skjön við framburð allra annarra vitna í málinu þykirhann ótrúverðugur. Verður ekki byggt á honum við meðferð málsins. Ljóst er af framburði vitnanna C, B, F, G og J aðframangreind atburðarás gerðist mjög hratt. Þá er ljóst að ákærði Y átti íátökum við bróður brotaþola, C, á meðan ákærði Reynir tókst á við brotaþola,samanber og framburð dyravarðarins H. Í ljósi framangreinds, framburðar ákærðaReynis, brotaþola og annarra vitna í málinu þykir í ljós leitt svo hafi sé yfirskynsamlegan vafa að ákærði Reynir Örn réðst á brotaþola, reif hann á fætur þarsem hann sat við borð og sló hann að fyrra bragði hnefahöggum í andlit og höfuðmeð þeim afleiðingum sem greinir í ákæru. Með hliðsjón af framburði vitna þykirhins vegar ósannað að ákærði Reynir hafi slegið brotaþola í líkamann, en meðhliðsjón af því að ákærði Reynir reif brotaþola upp af stólnum á öxlunum þykirljóst að rispur og mar á hálsi og öxlum séu afleiðingar árásarinnar. Með hliðsjón af framburði ákærða Reynis, brotaþola og annarravitna í málinu þykir hins vegar slíkur vafi vera uppi um þátt ákærða Y íárásinni á brotaþola að ekki verði hjá því komist að sýkna hann af kröfumákæruvalds. Niðurstaða málsins er því sú að ákærði Reynir er sakfelldurfyrir þá háttsemi sem greinir í ákæru, að því tilskyldu að ekki þykir sannað aðhann hafi slegið brotaþola hnefahöggum í líkama. Ákærði Y er hins vegarsýknaður af refsikröfu ákæruvalds. Háttsemi ákærða Reynis er réttilega heimfærð til refsiákvæðaí ákærunni. Samkvæmt sakavottorði gekkst ákærði Reynir Örn á árunum 2002 og2003 alls þrisvar undir lögreglustjórasátt vegna hraðakstur, sviptingarakstursog ölvunaraksturs. Síðast var ákærði hinn 31. janúar 2005 dæmdur í tveggjamánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir húsbrot. Sakarferill ákærðahefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í málinu. Refsing ákærða Reynis þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 30daga. Í ljósi þess að um 12 mánuðir liðu frá því að rannsókn lauk og þar tilákæra var gefin út í málinu þykir rétt að binda refsinguna skilorði eins ognánar greinir í dómsorði. Sakarkostnaður nemur alls 407.550 krónum og eru þ.m.t.málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sveins Andra Sveinssonar hrl., semþykja hæfilega ákveðin 376.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði Reynir Örn greiði helming þessa sakarkostnaðar eða203.775 krónur, en helmingur sakarkostnaðar er felldur á ríkissjóð. Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans. Dómsorð: Ákærði, Y, er sýkn af kröfum ákæruvalds í máli þessu. Ákærði, Reynir Örn Auðarson, sæti fangelsi í 30 daga enfullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimurárum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennrahegningarlaga. nr. 19/1940. Ákærði, Reynir Örn, greiði helming alls sakarkostnaðar, semer alls að fjárhæð 407.550 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðsverjanda ákærðu, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 376.500 krónur, en helmingursakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 586/2006 | Fasteignakaup Galli Skoðunarskylda | Þ höfðaði mál á hendur R og Á vegna galla sem hún taldi vera á fasteign sem hún hafði keypt af þeim en húsið var byggt árið 1944. Annars vegar hefðu komið í ljós rakaskemmdir á veggjum og í lofti sem kæmu frá morkinni steyptri þakrennu og vegna skorts á einangrun. Hins vegar hefði sólpallur við húsið verið seldur sem séreign en væri í raun sameign með öðrum eigendum hússins. Ekki var talið að Þ ætti rétt á skaðabótum úr hendi R og Á vegna hinnar steyptu rennu þar sem hún hefði mátt við skoðun sjá þann ágalla sem var á henni og hafði því tilefni til að kanna ástand hennar frekar. Þá var heldur ekki talið að Þ ætti rétt á skaðabótum vegna einangrunarinnar þar sem ekki var talið í ljós leitt að R og Á hefði verið kunnugt um rakamyndun í fasteigninni. Ennfremur hafði ekki verið sýnt fram á að fasteignin hefði verið byggð í ósamræmi við lög og reglur sem á byggingartíma hennar giltu. Þá voru R og Á einnig sýknuð af afsláttarkröfu Þ þar eð annmarkar á fasteigninni voru ekki slíkir að rýrðu verðmæti hennar svo nokkru varðaði, sbr. 18. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, jafnvel þótt fallist yrði að fullu á kröfu Þ samkvæmt matsgerð. Hins vegar var fallist á að Þ ætti rétt til skaðabóta vegna sólpalls þeirrar fjárhæðar sem í héraðsdómi gat. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 8. september 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 25. október 2006 og var áfrýjað öðru sinni 13. nóvember sama ár. Hún krefst þess nú að stefndu verði gert að greiða sér 939.795 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. mars 2005 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi mátti við skoðun sjá þann ágalla sem var á steyptri þakrennu á umræddu húsi og olli þeim leka sem um ræðir. Hafði hún því tilefni til að kanna ástand rennunnar frekar. Þá er fallist á að áfrýjandi eigi rétt til skaðabóta vegna sólpalls sem nemur þeirri fjárhæð sem í héraðsdómi greinir. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um þau atriði sem til endurskoðunar eru fyrir Hæstarétti. Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmd til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur er staðfestur um að stefndu, Rögnvaldur Jónatansson og Ásdís Jónsdóttir, greiði áfrýjanda, Þórdísi Tinnu Aðalsteinsdóttur, 77.714 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. mars 2005 til greiðsludags. Áfrýjandi greiði stefndu 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar 300.000 krónur. Mál þetta, sem dómtekið var 15. desember 2005 var höfðað þann 7. apríl s.á. með birtingu stefnu fyrir lögmanni stefndu og var þingfest 13. apríl s.á. Gagnsök var þingfest 11. maí 2005 og voru málin þá sameinuð. Stefnandi er Þórdís Tinna Aðalsteinsdóttir, Grænukinn 1, Hafnarfirði. Stefndu eru Rögnvaldur Jónatansson og Ásdís Jónsdóttir, bæði til heimilis að Holtsgötu 8, Hafnarfirði. Málið var ennfremur upphaflega höfðað gegn Hraunhamri ehf. en fellt niður á hendur fyrirtækinu þann 29. júní 2005. Að ósk lögmanna var beðið með dómsuppsögu meðan gerður væri eignaskiptasamningur sem tryggði að gagnstefnendur gætu gefið út afsal. Var fyrirhugað að endurupptaka málið að honum fengnum og flytja að nýju. Ekki hefur samningur þessi litið dagsins ljós. Var málið því endurupptekið vegna þess dráttar sem hefur orðið á dómsuppkvaðningunni af þessum sökum og flutt að nýju með hefðbundnum hætti og dómtekið að nýju. Var að því loku kveðinn upp svofelldur dómur. I. a. Aðalsök Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda 122.000 krónur auk vanskilavaxta p.a., skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 24.3.2005 til greiðsludags. Til viðbótar er þess krafist að stefndu Rögnvaldi Jónatanssyni og Ásdísi Jónsdóttur verði in solidum gert að greiða stefnanda kr. 817.795 auk vanskilavaxta p.a., skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 24.3.2005 til greiðsludags. Þess er krafist að stefnanda verði heimilað ex tunc að skuldajafna kröfum sínum á hendur stefndu Rögnvaldi og Ásdísi á móti eftirstöðvum kaupverðs kr. 511.551. Þess er krafist að gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefndu in solidum eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar. Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu og að hafnað verði skuldajafnaðarkröfu stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefndu krefjast málskostnaðar í aðal- og varakröfur, auk virðisaukaskatts. b. Gagnsök Í gagnsök eru þær kröfur gerðar af hálfu gagnstefnenda að gagnstefnda verði dæmd til að greiða gagnstefnendum 511.551 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 5. apríl 2004 til greiðsludags. Krafist er málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Gagnstefnda gerir þá kröfu að hún verði sýknuð af kröfu gagnstefnenda og að henni verði dæmdur málskostnaður úr hendi gagnstefnanda. II. Afhendingardagur fasteignarinnar hafi verið 29. nóvember 2003 en í stað þess að þrífa íbúðina hafi stefndu málað eina umferð yfir stofuna, að eigin sögn til þess að gera vel við stefnanda. Síðar hafi stefnanda boðið í grun að ástæðan væri önnur, þ.e. vegna þess að svo miklar útfellingar hafi tekið að myndast bak við skápa og myndir að vandamálið hefði átt að blasa við á afhendingardegi. Fljótlega eftir að kaupandi hafi farið að búa í húsinu hafi hún orðið vör við raka- og fúkkalykt í íbúðinni, ásamt útfellingum á veggjum og loftum þar sem loft og útveggur mætast. Hafi hún í framhaldi þessa haft samband við fasteignasalann sem haft hafði milligöngu um sölu eignarinnar, þar sem hún hafi talið að um væri að ræða leyndan galla sem seljandi bæri ábyrgð á. Ennfremur hafi stefnandi haft samband við fagmenn sem bent hafi á að rétt væti að hita- og rakamæla íbúðina, ásamt því að ljósmyndir yrðu teknar til sönnunar. Hafi hita- og rakamælingar verið gerðar á hitastigi íbúðarinnar þann 11. febrúar, 17. mars og 9. apríl 2004. Stefnandi hafi fengið þá Kristinn R. Sigurjónsson byggingameistara til þess að gera álitsgerð í málinu sem dagsett sé 20. apríl 2004. Fyrir hönd stefnanda hafi stefndu verið ritað bréf þann 24. maí 2004 þar sem kvartað hafi verið yfir því að útveggir væru ekki einangraðir, íbúðin væri klædd úr asbesti, þakrenna væri gölluð og sólpallur væri ekki í séreign. Hafi bréfinu verið svarað að hálfu stefndu þann 8. júní 2004 þar sem eftirfarandi því hafi verið hafnað að skortur á einangrun væri ekki óeðlilegur miðað við byggingartíma hússins og að seljendur hafi verið grandlausa um einangrun hússins. Ennfremur hafi komið fram að klæðning með asbesti sé ekki galli og að sprungur í rennum væru ekki á 60 ára gamalli fasteign og að þetta hefði verið sýnilegt. Stefnandi telur hins vegar að svo rammt hafi kveðið að vandamálunum að enginn hefði getað búið í húsinu án þess að verða rakans var og þeirra útfellinga sem af honum leiddu. Stefndu hafi búið fyrst í kjallaranum í talsverðan tíma, til nóvember 1999, þegar þau hafi keypt umrædda íbúð og búið í henni þar til hún var seld, þ.e. í um fjögur ár. Svo vilji til að íbúðin í kjallaranum sé einangruð og hafi stefndu átt að verða vör við muninn strax, sérstaklega þar sem eign í kjallara haldi betur hita og minni kuldabrú og raki myndist þar frekar en í eign á næstu hæð fyrir ofan. Stefnanda hafi ekki verið kunnugt að sólpallurinn tilheyrði sameigninni, enda myndi þá ekki standa í kaupsamningi að verið væri að selja henni sólpallinn. IV. Samkvæmt málavaxtalýsingu stefndu bjuggu þau í eigninni í fjögur ár og urðu aldrei vör við raka í fasteigninni, útfellingar eða annað slíkt sem gæti gefið til kynna meinta galla. Er málið hafi komið upp hafi þau haft samband við vini og ættinga og spurt hvort þau hafi nokkru sinni orðið vör við slíkt en þau svör verið neikvæð. Stefnandi hafi átt að greiða stefndu lokagreiðslu 511.551 krónur þann 5. apríl 2004 en ekki gert það og hafi greiðslan því gjaldfallið þann dag. Hafi stefnandi borið því við að fasteignin væri haldin göllum og að því væri henni heimilt að halda eftir lokagreiðslu kaupsamnings til skuldajafnaðar við gagnkröfu sína. Stefnandi hafi ekki greitt skuld sína þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þegar matsgerð hafi borist frá matsmanni hafi stefndu mótmælt kröfum stefnanda, fyrir það fyrsta þar sem matsmanni hefði verið fullkunnugt um að lögmaður stefndu hafi ekki getað komist á þann fund og í annan stað hafi öðrum kröfuliðum stefnanda verið hafnað. Hafi verið skorað á stefnanda að greiða lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi og hafi því til staðfestingar verið þingfest gagnstefna þann 11. maí 2005 þar sem stefnandi var krafinn um lokagreiðslu samkvæmt samningnum. V. Samkvæmt matsbeiðni og viðbótarmatsbeiðni skyldi matsmaður meta: 1. Orsakir leka í íbúðinni, hvað þurfi að gera til að bæta úr og kostnaðinn við það. 2. Kostnað við að einangra útveggi íbúðarinnar, með öllum frágangi og afleiddum kostnaði, þ.m.t. afnotamissi meðan á framkvæmdum stendur. 3. Kostnað við að reisa sólpall sambærilegan þeim sem sé fyrir framan húsið og hæfilegan afslátt á verði fasteignarinnar miðað við að sólpallurinn teljist til sameignar hússins en ekki sérnota annars vegar og ef hann verður fjarlægður hins vegar. Í viðbótarmatsbeiðni var matsefnið eftirfarandi: 1. Hvaða ummerki megi sjá inni í íbúðinni um skort á einangrun í húsinu, eðli og orsakir ummerkjanna og hversu sýnileg þau eru. 2. Við hvaða aðstæður ummerkin komi helst fram og hvort og hvernig þau ágerist með tímanum. 3. Hvaða vandamál eða óþægindi fylgja því að láta hjá líða að einangra útveggi íbúðarinnar. Með matsgerð sinni dagsettri 13. febrúar 2005 komst matsmaður að þeirri niðurstöðu hvað varðaði fyrri matsbeiðni: 1. Lekaskemmdir á veggjum og lofti væru vegna leka frá steyptri rennu. Í svefnherbergi væru greinilegar lekaskemmdir í N/Au horni herbergisins, leki í N/Au horni var að mati matsmanns kominn til vegna skemmdrar steypurennu á norðurhlið hússins. Rennan væri greinilega morkin vegna frostskemmda í steypu og ónýt. Taldi matsmaður að til að koma í veg fyrir leka þyrfti að gera við rennu með því að fjarlægja hana með sama hætti og gert hefði verið á S hlið. Heildarkostnaður við verkið var metinn kr. 465.000 eða kr. 168.795 miðað við hlutfall stefnanda í heildareigninni. Rakaskemmdir væru einnig á veggjum og lofti, t.d. í svefnherbergi S/Au horni, barnaherbergi og víðar. Rakaskemmdir þessar væru tilkomnar vegna skorts á einangrun. 2. Það var mat matsmannsins að hagkvæmasta leiðin til að einangra íbúðina væri að blása steinullareinangrun á bak við asbestklæðninguna sem fyrir var og klæða síðan vegg með rakavörn og einu lagi af gifsi. Taldi hann að verkið myndi kosta kr. 649.000 auk afnotamissis kr. 35.000. 3. Matsmaður mat stofnkostnað við sambærilegan pall 122.000 krónur. Taldi matsmaður að hæfilegur afsláttur til kaupenda, hefði pallur verið seldur sem séreign en sé sameign, væri sem svaraði eignarhluta annarra eigenda eða (100% - 36,3%) = 63,7%. Hæfilega metinn afsláttur væri því 63.7% x 122.000 krónur = 77.714 krónur. Yrði pallurinn fjarlægður var hæfilegur afsláttur metinn 157.000. Niðurstöður matsmanns samkvæmt viðbótarmatsbeiðni voru eftirfarandi: 1. Afleiðing þess að íbúðin var ekki einangruð væri rakamyndun vegna þéttingar í kverkum og við kuldabrýr, mikill hitakostnaður og óþægindi vegna hitasveiflna og kulda. Rakamyndun ylli því að sveppir eða mygla mynduðust á yfirborði veggja t.d. í kverkum, ennfremur bólgnaði málning upp og flagnaði með tímanum. Ummerki vegna rakaskemmda væri einnig á veggjum og á lofti, t.d. í svefnherbergi S/Au horni, barnaherbergi og víðar. Rakaskemmdir væru til komnar vegna skorts á einangrun. 2. Ummerki eftir rakamyndun og afleiðingar hennar komi mest fram þegar mikill munur sé á hitastigi inni og úti, ennfremur þurfi nægjanlegur raki að vera til staðar innanhúss. Nægjanlegur raki innanhúss myndist við eðlilega notkun íbúðar. Ummerkin ágerist hratt, sérstaklega myndun sveppa og mygluhróðurs, flögnun málningar og skemmdir á byggingarvirki í framhaldi. 3. Þau vandamál sem verði viðloðandi sé íbúð ekki einangruð séu rakamyndun vegna þéttingar í kverkum og við kuldabrýr, mikill hitakostnaður og óþægindi vegna hitasveiflna og kulda, skemmdir í yfirborði veggflatar, myndun sveppa og mygluhróðurs og skemmdir í byggingarvirki, s.s. grind í útvegg o.s.frv. V. Stefnandi byggir á því að íbúðin sé gölluð í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, enda séu almennt gerðar þær kröfur við notkun íbúða að þær séu a.m.k. svo vel einangraðar að ekki fyllist allt af raka og myndist útfellingar í veggjum. Stefnandi dregur í efa að eignin hafi verið byggð í samræmi við lög og reglur á sínum tíma auk þess sem frágangur sem hafi verið í ósamræmi við góðar venjur og fagleg vinnubrögð á þeim tíma þegar eignin var byggð. Sérstaklega sé til þess að taka að langt bil sé milli asbestsklæðningar og útveggja þannig að loftstraumur sé mikill þar á milli. Þar sé engin einangrun en svona lagað hafi ekki verið tíðkað á þeim tíma sem eignin var byggð. Aðalatriðið sé þó að eignin þurfi að uppfylla þær kröfur til daglegrar notkunar sem gerðar séu til íbúða nema um annað sé samið. Í öðru lagi hafi stefnandi ekki fengið þær upplýsingar sem hann hafi haft réttmætar ástæður til að ætla að hann fengi sbr. 26. gr. fasteignakaupalaga. Verði að hafa í huga að samkvæmt þágildandi lögum nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, beri að upplýsa atriði sem þessi. Leiði þetta af 12. gr. laganna þar sem fram komi að semja skuli söluyfirlit sem skuli vera rækilegt. Eigi það að greyma þau atriði sem máli geti skipt við sölu eignar. Þá skuli gæta þess að fram komi öll grundvallaratriði um ástand eignarinnar skipt geti kaupanda máli. Meðal annars sé sérstaklega nefnt í dæmaskyni ástand, byggingarlag og byggingarefni. Þetta sé aðeins nefnt í dæmaskyni og sé ljóst að einangrun eignar geti alls ekki orðið minna mál en þetta. Hafi stefnandi lögum samkvæmt haft réttmætar ástæður til að ætla að hún fengi þessar upplýsingar en í söluyfirliti á komi fram að starfsmönnum sé ekki kunnugt um neina galla á eigninni. Í þriðja lagi beri að líta til þess að ástand eignarinnar samræmist ekki upplýsingum sem veittar hafi verið um hana í sölugögnum sbr. 1. mgr. 27. gr. fasteignakaupalaga. Megi í þessu sambandi meðal annars nefna að í söluyfirliti sé talað um skemmtilega miðhæð. Ekkert sé skemmtilegt við vandamál af þessu tagi þar sem allt fyllist af raka, útfellingar myndist og kyndingarkostnaður hækki. Söluyfirlitið í heild sinni beri með sér að eigninni sé lýst sem huggulegri og þægilegri og vandamálalausri við notkun. Stefnandi byggir á því að stefndu séu grandsöm um þau atriði sem rakin hafi verið. Sé því aðallega krafist skaðabóta fyrir allt tjón, beint og óbeint, skv. 43. gr. fasteignakaupalaga og um rétt til að krefjast bóta vegna óbeins tjóns vísist til 2. mgr. Á því sé byggt að öll þessi þrjú atriði hvert um sig, að ekki sé talað um öll saman, leiði til þess að stefnandi geti krafist skaðabóta. Stefnandi byggir á því að rakinn í íbúðinni hafi ekki getað dulist stefndu og alls ekki útfellingarnar sem mynduðust. Stefndu hafi áður búið í kjallara eignarinnar en þar hafi verið búið að einangra og ýti þetta enn frekar undir þær grunsemdir stefnanda að stefndu séu grandsöm. Stefndu hafi borið að upplýsa um þessi vandamál við kaupin en hafi látið það undir höfuð leggjast. Staðhæfingar stefndu um að þau hafi verið grunlaus séu svo fjarstæðukenndar að þær beri að virða að vettugi auk þess sem nægilegt sé að sanna hvað bonus pater hafi mátt vita en þar sé um að ræða objektífan mælikvarða að meginstefnu til. Þurfi því ekki að sanna hvað stefndu sem slík hafi vitað heldur hvaða kröfur megi almennt gera til þess sem menn viti eða megi vita sem hafi búið í eign sem þessari í fjögur ár og hafi áður búið annars staðar í sama húsi þar sem þetta vandamál hafi ekki verið fyrir hendi. Það styðju ennfremur grunsemdir um grandsemi stefndu að þau hafi látið mála stofuna eina umferð, væntanlega þar sem þau hafi ekki getað þrifið rakaummerkin, enda kveði rammast að þeim í stofunni. Verði ekki fallist á að um sök stefndu sé að ræða byggir stefnandi á því að gallinn rýri verðgildi eignarinnar svo verulega að stefnandi eigi rétt til skaðabóta fyrir annað tjón en óbeint samkvæmt 1. mgr. 43. gr. fasteignakaupalaga en ella beri að veita afslátt í samræmi við kostnað við að bæta úr gallanum sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna. Stefndu hafi selt stefnanda sólpall sem séreign með kaupsamning en um vanheimild þeirra sé að ræða þar sem hann sé hluti af sameign hússins. Beri þeim að svara til skaðabóta vegna vanheimildarinnar. Um þetta vísist til 46. gr. fasteignakaupalaga. Vegna leka sé töluleg kröfugerða stefnanda svohljóðandi: Viðgerð á steyptri rennu kr. 168.795Einangrun íbúðar kr. 649.000Samtals kr. 817.795Sólpallur kr. 122.000Samtals kr. 939.795 Hvað varðar ástand steyptrar rennu hafi ekkert verið upplýst um lekann frá henni og í söluyfirliti hafi ekki verið minnst á neina galla. Af því leiði af ákvæði 3. mgr. 29. gr. fasteignakaupalaga að stefndu geti ekki borið fyrir sig skoðunarskyldu. Treysti stefnandi því að eignin læki ekki eins og fram hafi komið í söluyfirliti. Því er harðlega mótmælt að stefndu hafi tilkynnt stefnanda að pallurinn væri sameign enda færu þau þá ekki að selja hann á sama tíma. Hvað varði skuldajafnaðarkröfu ex tunc byggir stefnandi á 44. gr. fasteignakaupalaga og til þess að stefndu hafi ekki hlutast til um gerð eignaskiptasamnings eins og þeim hafi borið að gera, enda fari þinglýstar heimildir ekki saman við efni hins selda auk almennra reglna. Stefnandi telur af lýsingu í matsgerð megi draga þá ályktun að það geti ekki verið að stefndu hafi ekki vitað um vandamálin sem fylgdu húsinu og byggir á því samhliða öðrum málsástæðum að um sviksamlega háttsemi sé að ræða af þeirra hálfu í skilningi 30. gr. samningalaga nr. 7/1936. Stefnandi byggir á lögum nr. 40/2002 um fasteignakaup, einkum 12. gr., 18. gr., 19. gr., 26. gr., 27. gr., 29. gr., 41. gr., 43. gr., 44. gr. og 46. gr. Einnig vísast til 7. gr. samningalaga nr. 7/1936. b. Gagnsök Hvað varðar gagnsök byggir aðalstefnandi sýknukröfu sína á því að eftir að kaup hafi tekist með aðilunum hafi aðalstefndu lofað að útvega sér eignarheimild fyrir hinu selda með gerð nýs eignaskiptasamnings. Þannig hátti til að aðalstefnanda hafi verið seldar geymslur undir útitröppu og í kjallara en þeim eignarhlutum sé hins vegar þinglýst á kjallaraíbúðina. Hins vegar hafi verið skilið frá íbúð á miðhæð baðherbergi og afhent kjallaraíbúðinni. Ekki sé vitað til að neinar hindranir séu í veginum. Stefndu hafi ekki lokið gerð nýs eignaskiptasamnings og geti því ekki afsalað eigninni í samræmi við kaupsamning þar sem eignarheimild skorti og ekki sé vitað til að samþykkis þeirra, sem óbein eignarréttindi eigi, hafi verið aflað um þessar breytingar á þinglýstum heimildum. Afsal geti því ekki farið fram og þar af leiðandi sé umkrafin fjárhæð ekki gjaldfallin. Vísar aðalstefnandi hér til 11. gr. og 1. ml. 1. mgr. 50. gr. fasteignakaupalaga. Aðalstefnandi hafi uppi réttmæta gallakröfu sem sé hærri en hin umstefnda krafa. Af 44. gr., sbr. e-lið 1. mgr. 37. gr. fasteignakaupalaga leiði að um löglega ráðstöfun sé að ræða. Verði viðurlögum eins og dráttarvöxtum og málskostnaði því ekki beitt. Aðalstefnandi telur að háttsemi aðalstefndu hafi verið sviksamleg og að því teljist allar vanefndir verulegar þannig að riftunarréttur hafi verið fyrir hendi. Hafi því mátt halda eftir greiðslu og láta reyna á efndir samningsins in natura. Við slíkar aðstæður sé skuldajöfnun heimil ex tunc. Sama regla gildi um vanrækta upplýsingaskyldu eða gáleysi seljenda. Þá sé umfang gallans verulegt í þessu samhengi. Hvernig sem á málið sé litið sé gagnkrafa aðalstefnanda hærri en krafa aðalstefndu og sé því lýst yfir skuldajöfnuði ex tunc en til vara frá síðara tímamarki. VI. Stefndu hafna því að gallar hafi verið á fasteigninni er þau seldu hana stefnanda. Í annan stað telja stefndu að ágallinn, ef einhver er, rýri verðmæti fasteignarinnar ekki svo nokkru varði, sbr. 1. mgr. 18. gr. fasteignakaupalaga. Í þriðja lagi mótmæla stefndu því að hafa sýnt af sér saknæma háttsemi við sölu fasteignarinnar. 1. Krafa stefndu um sýknu þar sem fasteignin að Nönnustíg 12, Hafnarfirði sé ekki haldin galla. Stefndu hafna málsástæðum stefnanda hvað varðar kröfu um bætur vegna einangrunar. Stefndu benda á að fasteignin hafi verið byggð árið 1944 samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins, en við byggingu húsa á þeim tíma hafi gilt aðrar reglur um t.d. byggingarefni og einangrun en í dag. Fullyrðingar stefnanda um að fasteignin sé gölluð vegna skorts á einangrun telja stefndu því ranga. Á þeim tíma er eignin hafi verið byggð hafi óljósar kröfur verið gerðar um klæðningu og einangrun húsa en algengt hafi verið að einangra með bili þar sem skortur hafi verið á efni. Stundum hafi þó verið einangrað með sagi, torfi, reyringi. Telja stefndu því að fasteignin uppfylli allar þær kröfur um einangrun sem gerðar hafi verið á byggingartíma, þ.e. einangrun með bili. Búið hafi verið í fasteigninni í um 60 ár og hafi aldrei komið fram kvörtun um lélega einangrun eða annað slíkt fyrr en stefnandi hafi flutt í fasteignina. Sérfræðingar séu sammála um að lifnaðarhættir geti haft áhrif á það hvort og hvernig raki og útfellingar myndist í fasteign. Samkvæmt framburði íbúa á efri hæð fasteignarinnar hafi þeir ekki orðið varir við nein vandamál lík þeim sem lýst sé í málinu. Hvorki stefndu né fyrri íbúar hafi vitað að einangrað hafi verið með bili. Ljóst sé einnig að komið sé að ýmis konar viðhaldi á svo gamalli fasteign og þar sé einangrun alls ekki undanskilin. Því geti kaupendur slíkra fasteigna ætíð átt von á því að þurfa að leggja út í kostnað vegna viðhalds og endurnýjunar. Stefndu telja slíkt eiga við í þessu máli. Skoðunarskylda sé ætíð ríkari þegar um eins gamalt hús sé að ræða og raun ber vitni. Stefndu mótmælta fullyrðingu stefnanda um að í söluyfirliti eigi að koma fram hvernig fasteign sé einangruð, enda sé varla unnt að gera þá kröfu til fasteignasala að þeir brjóti upp veggi til að kanna einangrun fasteigna. Telja stefndu því að sýkna beri þá af kröfu um raka vegna einangrunar. Hvað varði kröfu stefnanda um bætur vegna leka sem myndast hafi vegna skemmdrar rennu telja stefndu að óljóst sé hvort krafist sé afsláttar eða skaðabóta vegna leka sem myndast hafi vegna ástands rennu á norðurhlið eignarinnar. Ljóst sé þó að ástand hennar sé slíkt að ekki ætti að fara framhjá neinum að hún þarfnist viðgerðar og vísa stefndu um þetta til ummæla matsmanns í matsgerð þar sem segi að renna sé greinilega morkin af völdum frostskemmda í steypu og ónýt. Þar sem greinilegt sé við skoðun að rennan þarfnist viðgerða telji stefndu að ekki sé um galla að ræða. Stefndu hafi aldrei orðið vör við lekavandamál vegna rennunnar og því ekki tilkynnt um neitt slíkt. Ljóst hafi þó verið að gera þyrfti við rennuna vegna ástands hennar. Hafnað sé þeirri málsástæðu stefnanda að geta verði um í söluyfirliti alls þess sem mögulega kunni að þarfnast viðhalds eða þurfi að gera við. Ekki sé ætlast til þess að í söluyfirlit sé sett það sem alfarið sé sýnilegt við skoðun. Því eigi 3. mgr. 29. gr. ekki við varðandi þetta atriði, líkt og stefnandi haldi fram. Verði því að sýkna stefndu af þessari kröfu stefnanda. Hvað varði kröfu stefnanda um bætur vegna sólpalls telja stefndu augljóst að sólpallurinn sé í sameign fjöleignarhússins. Stefndu hafi séð um að byggja pallinn fyrir fjöleignarhúsið en hann hafi aftur á móti verið sameign allra í húsinu. Staðhæfingum stefnanda um að hún teldi annað eiga við sé mótmælt sem fráleitum og röngum. Stefndu hafi tilkynnt stefnanda það greinilega við söluna og við skoðun að pallurinn væri í sameign hússins og að stefnandi væri því að kaupa hlutdeild í pallinum í samræmi við eignarhluta sinn í fasteigninni. Þetta hafi stefnandi vitað og telji því stefndu kröfuna fráleita. Ekkert sé getið um sólpallinn í söluyfirliti eða kauptilboðum en aftur á móti komi fram í kaupsamningi að eignarhlutfall sé 36,6% og í sameiginlegri lóð 36,6% og að sólpallur á lóð hússins fylgi íbúðinni. Það sé skilningur stefndu að íbúðinni fylgi hlutdeild í sólpalli á sameiginlegri lóð. Taka hefði þurft sérstaklega fram ef hin selda eign ætti að fullu sólpall á sameiginlegri lóð. Það hafi ekki verið gert. Vegna þessa sé krafist sýknu af þessari kröfu stefnanda. Stefndu byggja sýknukröfu sína ennfremur á því að sé um ágalla að ræða þá rýri hann ekki verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varði, sbr. 1. mgr. 18. gr. fasteignakaupalaga. Með fasteignakaupalögum hafi komið fram nýmæli sem eigi meðal annars að hafa það hlutverk að fækka þeim gallamálum sem stefnt sé fyrir dómstóla. Felist í þeirri reglu að sé ágalli á fasteign, þá teljist hann ekki vera galli nema hann rýri verðmæti fasteignar svo nokkru varði, sbr. 1. mgr. 18. gr. fasteignakaupalaga. Ekki komi fram í greinargerð hvernig meta eigi hvort um galla sé að ræða en óumdeilt sé að “gallaþol” sé minna í nýrri eignum en eldri. Hafi dómstólum verið falið það hlutverk að móta þær reglur sem gilda eiga um mat á þessu. Komi fram í greinargerð að það kunni að vera að hlutfall galla af verðmæti eignar ætti að vera að lágmarki 10% fyrir eldri eignir, en það væri þó of hátt hlutfall fyrir yngri eignir. Dómkrafa stefnenda sé að fjárhæð kr. 939.795, en sú krafa sé um 8,7% af kaupverði eignarinnar. Stefndu telji að krafa sem sé hlutfallslega ekki hærri en 8,7 % af kaupverði fasteignar í um 60 ára gömlu húsi geti aldrei talist rýra verðmæti hennar svo nokkru varði, komi ekkert annað til. Einnig benda stefndu á að matsmaður meti í matsgerð mögulegan galla vegna sólpalls á 77.714 krónur, en ekki kr. 122.000 krónur líkt og stefnandi geri. Lækki dómkrafa stefnanda því í 895.509 krónur eða 8,3 % af kaupverði fasteignarinnar. Þegar haft sé í huga að krafa stefnanda um bætur vegna ónýtrar rennu sé byggð á því sem greinilega var sýnilegt við skoðun sé heildarkrafa stefnanda í raun ekki hærri en 726.714 krónur eða um 6,7% að kaupverði fasteignarinnar. Augljóst sé að krafa sem ekki sé hærri en það geti aldrei talist rýra verðmæti fasteignar svo nokkru varði, sbr. 1. mgr. 18. gr. fasteignakaupalaga og byggja stefndu á dómafordæmum hvað þetta varði. Að lokum benda stefndu á það sem fram komi síðar í lækkunarkröfum, þ.e. að krafa stefnanda lækki enn frekar þegar tillit sé tekið til þess að 60% af virðisaukaskatti fáist endurgreiddur.Vegna þessa sé krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Hvað varðar meinta saknæma háttsemi stefndu við sölu eignarinnar byggja stefndu á því að þau hafi ekki vitað um einangrun fasteignarinnar, þ.e. hvernig hún væri úr garði gerð. Stefndu hafi að sjálfsögðu vitað að ekki væri hægt að gera kröfu um að einangrun í 60 ára gömlu húsi gæti verið ámóta einangrun og í nýrri fasteign. Stefndu mótmæli því harðlega að þau hafi tekið eftir rakaummerkjum eða útfellingum á fasteigninni þann tíma sem þau bjuggu þar. Stefndu hafi hvorki vitað né mátt vita af frágangi einangrunar. Þau hafi búið í fasteigninni í fjögur ár eða allt þar til hún hafi verið orðin of lítil fyrir þau og mótmæli því harðlega að þau hafi verið með ungabarn og síðar ungan dreng í fasteign sem haldin var miklum rakavandamálum, útfellingum, myglu og sveppum. Ennfremur hafi leigjendur sem bjuggu í íbúðinni á undan stefndu ekki orðið vör við umrædd vandamál. Stefndu mótmæli því að þau hafi málað stofu íbúðarinnar til að leyna galla, en þau hafi aðeins viljað skila íbúðinni hreinni. Stefndu telji því að sé eignin haldin ágalla verði að telja að hann hafi ágerst eða blossað upp eftir að stefnandi flutti í fasteignina, en viðvörunarmerki eða bein gallamerki hafi ekki verið komin fram þegar stefndu eða leigjendur hafi búið í íbúðinni. Þá hafi íbúi á efri hæð hússins ekki orðið var við nein vandamál líkt og þeim sem lýst er í málinu. Stefndu hafi því hvorki vitað né getað vitað um meinta galla á fasteigninni. Verði því ekki byggt á saknæmi stefndu við söluna. Verði það hins vegar mat dómstólsins að stefndu hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við sölu eignarinnar krefjist stefndu verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda. Hvað kröfu um lækkun varðar byggja stefndu á þeim málsástæðum sem að framan hafi verið raktar vegna sýknukröfu stefndu. Ennfremur bendi stefndu á að matsmaður meti meintan galla vegna sólpalls á kr. 77.714 krónur en ekki 122.000 krónur líkt og stefnandi gerir. Er því krafist lækkunar að þessu leyti. Stefndu krefjast lækkunar á kröfum stefnanda sem nemi mismuni á verði nýrrar og notaðrar fasteignar. Telja stefndu ósanngjarnt að fallist verði á að stefnandi eigi rétt til einangrunar og rennu líkt og um nýja eign væri að ræða verði kröfur stefnanda teknar til greina að fullu. Þá er mótmælt skuldajafnaðarkröfu stefnanda, enda telji stefndu sig ekki vera í skuld við hana. Einnig sé því mótmælt að stefnendur eigi að gera eignaskiptasamning, enda sé hann til staðar. Þá sé svokölluðum rannsóknum aðila mótmælt, enda hafi þeir aðilar sem að rannsókninni staðið ekki verið dómkvaddir til þeirra starfa. Að lokum byggja stefndu á því að lækka beri kröfu stefnanda um sem svarar til 60% af virðisaukaskatti við vinnu, enda fáist hann endurgreiddur. Stefndu byggja á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði og lögum nr. 40/2002 um fasteignakaup, þá sérstaklega III. kafla þeirra laga. Einnig er vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um loforð og skuldbindingargildi samninga. Kröfu sína um málskostnað í aðal- og varakröfu reisa stefndu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði, auk virðisaukaskatts. VII. Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og stefndu aðilaskýrslu. Ennfremur báru vitni fyrirsvarsmaður fasteignasölunnar Hraunhamars ehf. Magnús Emilsson, Helgi S. Gunnarsson, dómkvaddur matsmaður, fyrrum íbúi í risi og leigjendur miðhæðar. a. Aðalkrafa Samkvæmt 18. gr. fasteignakaupalaga telst fasteign gölluð ef hún stenst ekki þær kröfur um gæði, búnað og annað sem leiðir af lögunum og kaupsamningi. Notuð fasteign telst þó ekki gölluð, nema ágallinn rýri verðmæti hennar svo nokkru varði eða seljandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Samkvæmt a. lið 1. mgr. 19. gr. laganna telst fasteign gölluð ef hún hentar ekki til þeirra afnota sem sambærilegar eignir eru venjulega notaðar til. Samkvæmt niðurstöðum matsgerðar þeirrar sem framkvæmd var að beiðni stefnanda er ljóst að lekaskemmdir á veggjum og lofti eru fyrir hendi í fasteigninni. Koma þær annars vegar frá steyptri rennu sem er greinilega morkin af völdum skemmda í steypu og hins vegar vegna skorts á einangrun. Rakamyndun í íbúðinni leiðir því af því að hún er ekki fullnægjandi einangruð sem leiðir til myndunar sveppa og myglu á veggjum og þess að málning bólgnar upp og flagnar með tímanum. Ljóst er þá að ummerki eftir rakamyndun og afleiðingar ágerast hratt, sérstaklega myndun sveppa og myglu, flögnun málningar og skemmdir á byggingarverki í framahaldi þess. Hvað varðar upplýsingar þær sem seljendum fasteignarinnar bar að veita ber að líta til þess að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. fasteignakaupalaga telst fasteign gölluð ef kaupandi hefur ekki fengið þær upplýsingar um hana sem seljandi vissi eða mátti vita um og kaupandi hafði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi. Þetta gildir þó aðeins ef það hefur haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings að upplýsingarnar voru ekki veittar. Stefndu hafa borið fyrir dómi að þau hafi aldrei orðið vör við rakamyndun, sveppi eða myglu á yfirborði veggja íbúðarinnar né þess að bólgum í málningu eða við það að málning hafi flagnað af veggjum, loftum eða kverkum. Styðst framburður stefndu ennfremur við vitnisburð fyrrum leigjenda íbúðarinnar og íbúa sem búið hafði í risi um árabil. Verður því ekki fallist á með stefnanda að stefndu hafi leynt stefnanda neinum upplýsingum um meinta ágalla á íbúðinni, enda hefur ekki verið sýnt fram á að þau hafi vitað eða mátt vita um þá annmarka á fasteigninni að Nönnustíg sem leiddir hafa verið í ljós með matsgerð. Getur sú staðreynd að stefndu urðu einu sinni vör við raka á baði sem stafað hafi af því að þakrenna á húsinu hafði ekki verið hreinsuð ekki breytt þessari niðurstöðu enda í ljós leitt að þetta var ekki vandamál nema rennan væri ekki hreinsuð reglulega. Verður því ekki byggt á því að stefndu hafi vísvitandi leynt slíkum ágalla. Ekki hefur verið sýnt fram á að fasteignin hafi ekki verið byggð í samræmi við lög og reglur sem á byggingartímanum giltu, eða gildandi venjur og fagleg vinnubrögð. Ekki er fallist á með stefnanda að stefndu beri ábyrgð samkvæmt 1. mgr. 27. gr. fasteignakaupalaga þar sem í söluyfirliti hafi verið villandi upplýsingar um eiginleika eignarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. fasteignakaupalaga bera seljendur ábyrgð á því að þær upplýsingar sem hann, eða aðrir þeir sem komu fram fyrir hans hönd, gáfu kaupanda séu réttar. Ekki hefur verið sýnt fram á það að hvorki seljendur né sá fasteignasali sem um söluna sá hafi gefið nokkrar upplýsingar eða yfirlýsingar um eiginleika einangrunar hússins eða gæði, og þá hefur ekki verið sýnt fram á að ástæða hafi verið til þess að ætlast til þess af seljanda eða fasteignasala að svo væri gert eins og áður hefur verið rakið. Almennt tíðkast ekki við gerð söluyfirlita að getið sé eiginleika einangrunar fasteignar. Verður því ekki byggt á því að seljendur beri ábyrgð samkvæmt 1. mgr. 27. gr. fasteignakaupalaga eins og stefnandi byggir á. Að þessu virtu verður ekki fallist á að stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefndu. Hvað varðar afsláttarkröfu stefnanda gildir sá mælikvarði að ágalli á fasteign rýri verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varði. Fallast verður á það, eins og sýnt hefur verið fram á með matsgerð þeirri sem lögð hefur verið fram, að í íbúðinni eru leka- og rakaskemmdir. Hefur matsmaður metið kostnað við að bæta úr þessum ágalla 649.000 krónur auk 35.000 króna vegna afnotamissis. Sé tekið tillit til kröfu stefnanda einnig vegna viðgerðar á steyptri rennu er krafa stefnanda samtals vegna leka- og rakaskemmda 817.795 krónur. Þessum útreikningum hefur ekki verið hnekkt og því verður á þeim byggt. Þótt fallist væri að fullu á kröfu stefndu á grundvelli matsgerðar þeirrar sem liggur fyrir í málinu er ekki unnt að fallast á að annmarkar á íbúðinni séu slíkir að rýri verðmæti hennar svo nokkru varði, sbr. 18. gr. fasteignakaupalaga, enda verður ennfremur að líta til þess að renna á húsinu sem sýnt hefur verið fram á að ónýt sé var að nokkru sýnileg við skoðun og þá ennfremur með hliðsjón af því að seljendur fasteignarinnar geti ekki talist ábyrgir fyrir því að hafa ekki upplýst kaupanda um eiginleika einangrunar fasteignarinnar. Hefur því hvorki verið sýnt fram á að seljendur hafi sýnt af sér saknæma háttsemi eða að ágalli sá sem á hinni seldu fasteign er rýri verðmæti hennar svo nokkru varði. Verður því ekki hjá því komist að sýkna aðalstefndu af kröfu aðalstefnanda um greiðslu skaðabóta vegna viðgerðar á rennu kr. 168.795 og einangrunar að upphæð 649.999 krónur. Umdeildur er aðdragandi þess að í kaupsamningi er tekið fram sérstaklega að sólpallur sé seldur, þrátt fyrir að stefndu haldi því fram að þau hafi talið augljóst að hann væri í sameign og því aðeins verið að selja hlutdeild sína í honum. Hins vegar verður að telja sýnt fram á að við skoðun fasteignarinnar, sem og við gerð kaupsamnings, hafi stefnandi mátt telja að umræddur sólpallur væri í séreign seljenda enda voru honum veittar þær upplýsingar, sbr. 1. mgr. 27. gr. fasteignakaupalaga. Verður því fallist á kröfu stefnanda hvað varðar afsláttarkröfu vegna hins selda sólpalls að fjárhæð 77.714 krónur eins og byggt er á í matsgerð. Gagnstefnendur krefjast greiðslu lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi þeim sem aðilar gerðu um hina umdeildu fasteign sem gagnstefnda hélt eftir vegna meintra galla á henni. Er um að ræða kröfu að sem nemur 511.551 krónum sem greiða átti 5. apríl 2004. Gagnstefnda hefur byggt á því að hún verði ekki krafin um lokagreiðslu vegna þess að gagnstefnendur skorti þinglýsta eignarheimild og geti af þeim sökum ekki gefið út afsal fyrir eigninni í samræmi við kaupsamning. Þessu hafa gagnstefnendur ekki andmælt og þykir af þeim sökum rétt að sýkna gagnstefndu af þessari kröfu að svo stöddu. Fallist er á endurgreiðslukröfu vegna sólpalls í samræmi við niðurstöðu matsgerðar. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar sem talin málflutningsþóknun lögmanns hennar Einars Gauts Steingrímssonar hrl. 360.648 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 175.024 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Dóminn kveða upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsómari ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni, byggingaverkfræðingi og Vífli Oddssyni, byggingaverk-fræðingi. D Ó M S O R Ð : Stefndu, Rögnvaldur Jónatansson og Ásdís Jónsdóttir, greiði stefnanda, Þórdísi Tinnu Aðalsteinsdóttur, 77.714 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 24.3.2005 til greiðsludags. Í gagnsök er Þórdís Tinna sýkn að svo stöddu af kröfu Rögnvalds og Ásdísar um greiðslu lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi aðila að fjárhæð 511.551 krónur með vöxtum frá 5. apríl 2004 til greiðsludags. Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar sem talin málflutningsþóknun lögmanns hennar Einars Gauts Steingrímssonar hrl. 360.648 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 175.024 krónur vegna útlagðs kostnaðar. |
Mál nr. 99/2004 | Kynferðisbrot Börn Miskabætur | X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum en neitaði sök. Vitnisburður stúlknanna þótti skilmerkilegur og trúverðugur, og var X sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga með háttsemi sinni. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um 10 mánaða fangelsisrefsingu X. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. febrúar 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að refsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar að nýju. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að kröfum um miskabætur verði vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og dæmdar bætur lækkaðar. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, samtals 60.000 krónur. Mál þetta, sem dómtekið var 8. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni 3. nóvember 2003 gegn X, kt.[...], [...], „fyrir eftirgreind kynferðisbrot: 1. Gegn A, fæddri árið 1996, með því að hafa, sumarið 2002, á vinnustað ákærða að [...], a. káfað á kynfærum stúlkunnar innanklæða, b. lagt getnaðarlim sinn við kynfæri hennar, c. fróað sér fyrir framan hana. Brot skv. a og b liðum varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40,1992 og 4. gr. laga nr. 40, 2003, en brot skv. c lið við 209 gr. sömu laga. 2. Gegn B, fæddri árið 1993, með því að hafa á árinu 2000 eða 2001, a. í bílskúr við [...], afklætt stúlkuna að neðan og tekið myndir af kynfærum hennar, b. ekið með stúlkuna í bifreið sinni frá [Z] til [Y] þar sem hann afklæddi hana að neðan og sleikti kynfæri hennar. Brot skv. a lið varðar við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 með áorðnum breytingum og brot skv. b lið við 1. mgr. 202. gr. sömu laga, sbr. 10. gr. laga nr. 40,1992 og 4. gr. laga nr. 40,2003. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Bótakröfur: 1. Af hálfu A, kt. [...], [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 500.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2002 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti. 2. Af hálfu B, kt. [...], [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 450.000 í miskabætur auk dráttarvaxta frá því mánuður er liðinn frá því sakborningi er kynnt bótakrafan til greiðsludags, skv. lögum nr. 38, 2001 um vexti og verðbætur. Auk þess er áskilinn réttur til skaðabóta vegna kostnaðar af að halda fram bótakröfu.” I. Þann 8. október 2002, kom L, móðir kæranda A, á skrifstofu Fjölskyldu- og félagsþjónustu [...]. Hún greindi sálfræðingi félagsþjónustunnar frá því að daginn áður um kvöldmatarleytið, hafi fjögurra ára sonur hennar verið að fikta í typpinu á sér og hafi L sagt honum að hætta því. Þá hafi dóttir hennar A sagt: „Hann X er alltaf að gera þetta og það kemur mjólk úr typpinu á honum.” Hún hafi ennfremur sýnt móður sinni með höndunum hvernig X hafi fróað sér. L hafi spurt stúlkuna hvort X hafi snert hana og hafi hún jánkað því og lagt lófann á svæðið nálægt kynfærum sínum til að sýna móður sinni hvar hann hafi komið við hana. Síðan hafi stúlkan sagt við móður sína: „Ég ætla að hafa hann fyrir vin minn.” Fram kom í þessu viðtali við L að ákærði væri með vinnuaðstöðu að [...], stutt frá heimili kæranda. Fyrir framan vinnuaðstöðuna væri strætóstoppistöð þar sem börn biðu eftir strætó á leið í skóla. L sagði að hópur af krökkum væri í kringum ákærða og hafi hann verið að gefa þeim sælgæti og peninga. Hún hafi einhvern tímann spurt ákærða hvers vegna hann væri að gefa þeim sælgæti og peninga og hafi hann svarað því til að þau væru að tína rusl fyrir hann og passa gluggana svo ekki væri verið að brjóta þá. L skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að sonur hennar fjögurra ára, U, hafi tekið upp á því að fikta við typpið á sér. Hún hafi í eitt sinn sagt við U að hann skyldi hætta því vegna þess að typpið gæti dottið af honum. A hafi þá setið fyrir framan sjónvarpið og verið að horfa á það. Hún hafi þá sagt: „Hann X er alltaf að gera svona og það kemur mjólk úr typpinu á honum.” Síðan hafi hún farið hjá sér og orðið feimin. L kvaðst þá hafa spurt A hvað hann X gerði til þess að mjólk kæmi út úr typpinu á honum. A hafi þá sýnt með handahreyfingum, með hálflokaðri hendi, líkt og hún héldi utan um eitthvað og hreyft höndina upp og niður. L kvaðst hafa sest hjá A og spurt hana hvað best væri að gera og hafi stúlkan þá svarað „maður hættir að vera vinur hans.” Um kvöldið þennan dag hafi H, níu ára dóttir hennar, komið heim og hlerað hvað gerst hafði. H hafi sagt A ljúga. L kvaðst þá hafa sagt H að A ætti ekki að vita um svona hluti en H þá snúið því upp í fíflaskap og reynt að eyða talinu. Fram hafi komið hjá H að hún hafi einnig verið hjá ákærða og hafi hann gefið henni og öðrum krökkum sælgæti. H hafi sagt henni að krakkarnir væru stundum inni hjá ákærða að hlusta á hann syngja og fá hjá honum sælgæti. Síðan hafi R, tíu ára vinkona H, komið í heimsókn og fregnað hjá H hvað gerst hafði. Hafi R orðið mjög skrýtin og stúlkurnar báðar orðið æstar og ruglaðar. Systir L, G, býr í næsta húsi við L að [...]. L segir G hafa heyrt á tali stúlknanna, H, dóttur L, og R, dóttur G, þar sem þær hafi verið að tala um að A væri búin að kjafta frá öllu og að A væri svikari. Næsta dag hafi L pantað viðtal hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar og þann dag hafi A verið mjög hrædd og spurt hvort lögreglan væri að koma. L kvaðst hafa skynjað að eldri stúlkurnar hafi verið að hrella A og gengið á hana og sagt henni að segja ekkert frá. L kvaðst kannast við ákærða þar sem hún hafi verið vinkona dóttur hans er hún var í barnaskóla. Ákærði hafi verið töluvert þar sem hann hafði aðstöðu við [...], mest yfir miðjan daginn og eitthvað á kvöldin. Þetta hafi bæði verið um helgar og virka daga. Hún kvaðst hafa vitað af því að ákærði væri að gefa börnum sælgæti og leyfði þeim að leika í porti fyrir aftan húsið hjá sér. Þau hafi smíðað kofa í portinu og verið mikið þar. Hún kvaðst einu sinni hafa hitt á ákærða og hann sagt að hann gæfi börnunum sælgæti svo að húsið yrði ekki fyrir skemmdum. Dómskýrsla var tekin af A í Barnahúsi 24. október 2002. Í þeirri skýrslu segir hún m.a.að í eitt skipti hafi ákærði mátað typpið sitt við pjölluna sína og í annað skiptið hafi ákærði fróað sér fyrir framan hana. Sýndi hún með handahreyfingum hvernig hann hafi gert það og sagði að mjólk hafi komið úr typpinu hans. Í það skiptið sagði hún að ákærði hefði dregið buxur hennar niður að hnjám. Þá lýsti stúlkan því hvernig ákærði hafi káfað einu sinni á kynfærum hennar innan klæða. Ákærði hafi sagt við hana að hún mætti ekki segja neinum frá. G skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að ákærði hafi verið með verkstæði á ská á móti sér hinum megin við götuna. Hún þekki hann ekki neitt, hafi einungis kastað á hann kveðju þegar hann hafi komið þarna í hverfið í upphafi. Hún hafi tekið eftir því að hann hafi verið að laða að sér krakka með því að gefa þeim sælgæti. Krakkarnir í hverfinu hafi því verið mikið í kringum ákærða. Mánudaginn 7. október 2002 hafi L systir hennar skýrt henni frá því að fjögurra ára sonur hennar, U, hafi eitthvað verið að fitla við typpið á sér og L bannað honum það. Þá hafi A dóttir hennar farið að tala um að ákærði sé alltaf að því og það komi mjólk úr typpinu á honum. G kvaðst hafa rætt þetta við dóttur sína, R, sem sé tíu ára gömul. R sé hins vegar lokuð og hafi ekki viljað segja móður sinni frá neinu í þessu sambandi. Hún kvaðst síðan hafa heyrt til H, dóttur L, og R, þar sem þær hafi verið að skamma A fyrir að kjafta frá og kölluðu hana svikara og klöguskjóðu. Þetta hafi orðið til þess að A hafi farið að gráta. Vitnið K var gestkomandi hjá L í umrætt sinn. Hann er nú sambýlismaður hennar. Hann sagði að yngsti sonur L hafi verið að toga í typpið á sér og móðir hans bannað honum það. Þá hafi A sagt að það kæmi mjólk úr typpinu á honum X. L hafi þá spurt dóttur sína frekar um þetta en viðbrögð barnsins orðið þau að hún hafi lokast, líkt og hún hafi sagt eitthvað sem hún hafi ekki mátt segja. Hjá lögreglu og fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann hafi tekið þá stefnu strax í upphafi er hann hafi fengið aðstöðuna á [...] að gefa börnunum sælgæti til þess að skemmdarverk yrðu síður unnin á húsnæðinu. Í einhverjum tilvikum hafi hann einnig gefið einhverjum krökkum peninga en það hafi verið í þeim tilvikum er þau hafi unnið fyrir hann eitthvað lítilræði, eins og til dæmis að tína rusl. Áður fyrr hafi ítrekað verið unnar skemmdir á bifreiðum við húsið og á húsinu sjálfu en eftir að hann hafi fengið krakkana í lið með sér hafi ekkert slíkt gerst. Ákærði neitaði öllum ásökunum um kynferðislega misnotkun gagnvart A. Aðspurður um hvort að hann gæti gefið skýringu á þessum framburði stúlkunnar svaraði hann því til að hann geti sér helst til að þetta sé allt komið frá móður hennar. Hann hafi lent í útistöðum við móður A og þau rifist nokkrum sinnum. Hún hafi verið að skammast við hann nokkrum sinnum vegna umgengni hans við börnin og gefið ýmislegt í skyn. „Síðasta skiptið var svolítið grimmara, ég var orðinn dálítið leiður á henni.” Það hafi verið stuttu áður en að hann hafi verið kærður. „Hún varð náttúrulega reið því sem ég sagði, ég baunaði bara á hana á móti.” Þessari frásögn ákærða mótmælir L. Hún kannaðist ekki við fyrir dómi að hafa staðið í útistöðum við ákærða eða lent í rifrildi við hann. Samskipti þeirra hafi verið góð og hún hafi ekki trúað neinu slæmu upp á hann. Hún taldi að hún hafi aðeins einu sinni talað við ákærða eftir að hann flutti í aðstöðuna að [...] og áður en mál þetta kom upp. Þau hafi tekið tal saman þar sem þau hafi þekkst frá fyrri tíð en hún hafi verið bekkjarsystir dóttur ákærða er hún hafi búið í [Z]. Ákærði hafi sagt henni að krakkarnir væru að gæta hússins og hafi ekki annað farið á milli þeirra. Ákærði heldur því fram að umgengni hans við krakkana hafi ekkert breyst eftir þennan atburð nema aðeins fyrst í stað. Hann hafi til dæmis þurft að reka A út úr húsinu hjá sér nokkrum sinnum. Viðhorf hennar gagnvart honum hafi ekki breyst. Þetta segir móðir A að sé alrangt. Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur og forstöðumaður Barnahúss hefur skilað greinargerð í málinu varðandi A. Hún kom einnig fyrir dóm og staðfesti greinargerð sína. Fram hefur komið hjá henni að A hafi í viðtölum ítrekað vikið talinu af samskiptum sínum við ákærða. Hún hafi lýst því í fyrsta viðtali að mjólk hafi komið úr typpinu á honum og að henni hafi þótt það ógeðslegt. Hún segist ekki vera hrædd við ákærða en bregði þó jafnan er hún sjái hann á förnum vegi. Um tíma hafi telpan sýnt kynferðislega ögrandi hegðun eins og títt sé um börn sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi eða áreitni. Algengt sé að börn sem sætt hafi kynferðislegri misnotkun þarfnist nokkurra viðtala á ný er þau komist á kynþroskaaldur vegna breytt skilnings og viðhorfa til atvika af því tagi sem telpan hafi lýst. Húsleit var gerð hjá ákærða að [...] og ýmsir munir teknir og sendir í rannsókn til Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði. Í niðurstöðum Gunnlaugs Geirssonar prófessors segir meðal annars að engar sæðisfrumur sé að finna í munum þeim sem haldlagðir voru af lögreglu vegna rannsóknar málsins. A var skoðuð í Barnahúsi 30. október 2002 af barnalækni og kvensjúkdómalækni. Niðurstaða þeirra skoðunar var að kynfæri og endaþarmssvæði væri eðlilegt og engin merki um innþrengingu. II. Þann 27. janúar 2003 óskaði Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar eftir því að lögreglurannsókn færi fram vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi gagnvart barni í [Z]. Kemur fram í beiðninni að stúlka hafi sagt í Barnahúsi að ákærði hafi reynt að káfa á brjóstum B. Barnaverndarnefnd hafi rætti við föður B, J, og hafi komið fram hjá honum að krakkar í hverfinu hafi mikið verið að leika sér í kringum ákærða í [Z], en ákærði búi í [Z] og sé með vinnuaðstöðu í bílskúr við heimili J. J upplýsti barnaverndarnefnd um að ákærði væri góður við krakkana, gæfi sig mikið á tal við þá og gæfi þeim stundum pening til að kaupa sér sælgæti. Þá ætti ákærði einnig hund sem krakkarnir væru hrifnir af. Hjá lögreglu og fyrir dómi skýrði J svo frá að hann hafi á þessum tíma búið að [...] í [Z] við hliðina á ákærða sem búi að [...]. J kvaðst hafa flutt ásamt fjölskyldu sinni að [...] í [Z] í mars 2001. Það hafi verið eitt sinn sumarið 2000 að B hafi ekki skilað sér heim á réttum tíma. Hann hafi verið leigubílstjóri á þeim tíma og hafi eiginkona hans hringt í hann og beðið hann um að leita að stúlkunni. Hann hafi gert það en án árangurs er hann hafi komið heim á [...] hafi hann hitt ákærða sem hafi sagt honum að B og vinkona hennar, S, hafi farið með honum í bíltúr til þess að viðra hundinn. Ákærði hafi afsakað hvað hann hafi komið seint heim með B. J kvaðst hafa spurt dóttur sína nánar um ferðir þeirra og hafi hún sagt honum að hún og S hafi farið í bílnum með ákærða og hann gefið þeim sælgæti. S hafi farið fyrr út úr bílnum en B verið eitthvað lengur í honum. Honum hafi skilist að ákærði hafi ekið út á [...] á milli Z og K. Hann hafi spurt dóttur sína hvort eitthvað hefði gerst en hún neitað því. Svo hafi það gerst í febrúar 2003 að S hafi skýrt frá að eitthvað óeðlilegt hafi gerst í þessari bílferð. Hann hafi þá spurt B nánar um bílferðina og B sagt honum frá því að ákærði hafi strokið henni um líkamann og farið með hendurnar niður líkama hennar að framanverðu. Þá sagðist J hafa skýrt stúlkunni frá því að hún væri ekki ein um þetta, ákærði hafi leitað á fleiri stúlkur. Þá hafi hún opnað sig frekar og skýrt honum frá því að eitthvað hafi einnig gerst í bílskúrnum hjá ákærða. Hann kvaðst ekki hafa gengið frekar á telpuna enda hafi verið mælst til þess af hálfu barnaverndarnefndar að það yrði ekki gert, heldur myndi hún skýra frá reynslu sinni í Barnahúsi. Þann 19. febrúar 2003 var tekið könnunarviðtal í Barnahúsið við B. Í því viðtali lýsir stúlkan því að hún hafi farið í bíltúr með ákærða ásamt vinkonu sinni S. Ákærði hafi káfað innanklæða á S um brjóst hennar. Hafi þær setið í aftursæti bifreiðar ákærða. S hafi verið keyrð heim fyrst en bíltúrinn haldið áfram með B. Hafi ákærði fært B úr buxum og sleikt kynfæri hennar. Þá skýrði stúlkan einnig frá því að ákærði hafi tekið mynd af henni í bílskúrnum hjá sér. Hafi hann lyft henni upp á borð, afklætt hana að neðan og tekið síðan tvær myndir af henni. Ákærði hafi sagt að hún mætti ekki segja neinum frá þessu. Hann hafi stundum gefið henni pening, stundum 100 krónur og stundum 500 krónur. Þann 28. febrúar 2003 var tekin dómskýrsla af B í Barnahúsi. Í ítarlegri yfirheyrslu skýrði hún á sama veg frá og áður hafði komið fram. Hún sagðist einu sinni hafa farið til ákærða eftir að mál þetta kom upp. Hafi hún þá verið með mörgum vinkonum sínum og beðið ákærða um að laga hjólið sitt. M, móðir B, skýrði á sama veg frá og eiginmaður hennar, J. N, móðir S, gaf skýrslu hjá lögreglu. Hún sagðist hafa gengið á S og spurt hana hvort eitthvað hafi gerst í bílferðinni með B. Þá hafi móðir B verið búin að hringja og verið að leita að B. S hafi ekki viljað segja henni neitt frá ökuferðinni en farið að gráta. Dómskýrsla var tekin af S í Barnahúsi 19. september 2003. Hún mundi eftir bílferðinni með ákærða en sagði að ekkert hafi gerst þar. Hún var þá spurð um af hverju hún hafi farið að gráta heima hjá sér er mamma hennar hafi spurt um ökuferðina. Hún svaraði því til að hún hafi verið hrædd um að ákærði væri búinn að taka B og hafi því orðið hrædd og farið að gráta. Fyrir dómi og hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá að hann kannaðist vel við B. Krakkarnir í hverfinu væru gjarnan að sniglast í kringum hann er hann væri að vinna í bílskúrnum. Samskipti hans við börnin hafi ekki verið mikil en hann hafi til dæmis lagfært fyrir þau hjólin, þar á meðal fyrir B. Hann neitaði því alfarið að hafa brotið gegn B kynferðislega. Hann kvaðst ekki hafa rekið börnin í burtu frá sér og segist hafa alist upp við það hjá föður sínum að gera það ekki. Hann kvaðst stundum hafa tekið B og fleiri krakka upp í bílinn til sín á [...] við skólann og leyft þeim að sitja í bílnum eftir [...]götunni. Tvisvar á dag hafi hann farið að viðra hundinn niður á fjörukamb og oft hafi krakkar beðið um að fara með honum en hann ekki leyft það. Hann kvaðst ekki muna eftir að B hafi farið með honum í slíka ferð en segir þó að það gæti verið. Þá taldi hann það einnig geta verið að hann hafi gefið krökkunum stundum sælgæti og pening. Ákærði neitar því að hann hafi farið í ökuferð með B út í [Y] eins og B og S vinkona hennar hafa haldið fram. Þá neitaði ákærði þeim framburði J að hann hafi beðið J afsökunar á því hvað hann hafi komið seint heim með B. Ákærði kvaðst eiga Polaroid myndavél en hafi aldrei tekið mynd af B. Í málinu liggur frammi greinargerð frá Ólöfu Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingi og starfsmanni Barnahúss. Hún kom einnig fyrir dóm og staðfesti greinargerð sína. Hún sagðist hafa hitt B fjórum sinnum frá 1. apríl 2003 til 23. september sama ár. Stúlkan hafi talað um að hún væri mikið til hætt að hugsa um það sem gerst hafði en sagðist muna eftir því að sér hafi liðið mjög illa á þessum tíma og hafi orðið mjög hrædd í bílnum með ákærða. Sumarið 2003 hafi hún ekki treyst sér til þess að fara inn í banka þar sem eiginkona ákærða vinni þar sem það minnti hana á atburðinn. Í september hafi hún þó verið farin að þora að ganga [...]götuna í [Z] en þó ekki þeim megin sem ákærði búi. Það er álit Ólafar Ástu að þó svo að B sé farin að gleyma ýmsu sem gerðist megi ætla að hún hafi ofangreinda atburði ofarlega í huga og það hindri hana í að lifa eðlilegu og óttalausu lífi. III. Ákærða er gefið að sök að hafa sumarið 2002 á vinnustað sínum í [...] káfað á kynfærum stúlkunnar A, lagt getnaðarlim sinn við kynfæri hennar og fróað sér fyrir framan hana. Ákærði hefur staðfastlega neitað þessum sakargiftum við rannsókn og meðferð málsins. Hann segist hafa gefið krökkunum sem leituðu til hans sælgæti og pening til þess að koma í veg fyrir að skemmdir væru unnar á bifreiðum fyrir utan húsið hjá sér og til varnar rúðubrotum á húsinu. Ákærði hefur skýrt kæruna á hendur sér með því að móðir A hafi lent í útistöðum við hann og hann sagt henni til syndanna. Í framhaldi af því hafi þessi kæra komið fram. L, móðir A, kannast hins vegar ekki við það og segir að þau hafi engin samskipti haft fyrir utan einu sinni er hún hafi hitt ákærða og hann sagt henni að hann hafi beðið börnin að passa fyrir sig gluggana á húsinu. Önnur samskipti hafi þau ekki haft. A var að verða sex ára er hún kom fyrir dóm í Barnahúsi. Vitnisburður hennar var tekinn upp á myndband og horfði dómurinn á upptökuna við aðalmeðferð málsins. Framburður stúlkunnar var skilmerkilegur miðað við ungan aldur hennar. Hún skýrði frá af barnslegri einlægni og notaði orðfæri barna. Þannig lýsir hún því með hreyfingum og orðum hvernig ákærði hafi dregið hana úr buxunum, farið sjálfur úr sínum buxum og fróað sér fyrir framan hana. Þá hafi hann eitt sinn mátað typpið sitt við pjölluna hennar eins og hún komst að orði. Þessi vitnisburður telpunnar þykir trúverðugur. Enginn skynsamleg skýring er komin fram í málinu um að stúlkan hafi gert sér þetta upp eða að móðir hennar hafi lagt henni orð í munn. Orðfæri stúlkunnar benda þvert á móti til þess að þetta sé frá henni sjálfri komið. Þá þykir skýring ákærða um óvild móður stúlkunnar í sinn garð ótrúverðug. Framburður stúlkunnar fær stoð í vætti Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings en stúlkan gekk til hennar í níu skipti frá því í október 2002 fram á haust 2003. Þá er framburður móður stúlkunnar og vitnisins K, núverandi sambýlismanns L, til styrktar því að stúlkan hafi greint rétt frá, en þau voru bæði viðstödd er stúlka lét þau orð falla að mjólk kæmi úr typpinu á X. Með hliðsjón af framansögðu er sannað, þrátt fyrir eindregna neitun ákærða, að hann hafi sumarið 2002 misnotað A kynferðislega á verkstæði sínu í [...]. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að ætla að frásögn stúlkunnar sé röng að einhverju leyti. Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er varðar a og b lið 1. kafla ákæru en gegn 209. gr. sömu laga er varðar c lið 1. kafla ákæru. Ákærða er einnig gefið að sök að hafa á árinu 2000 eða 2001 í bílskúr við [...] í [Z] afklætt stúlkuna B að neðan og tekið myndir af kynfærum hennar. Þá er honum jafnframt gefið að sök að hafa ekið með stúlkuna í bifreið sinni frá [Z] til [Y] þar sem hann afklæddi hana að neðan og sleikti kynfæri hennar. Ákærði hefur staðfastlega neitað þessum sakargiftum. B var sjö eða átta ára þegar meint háttsemi ákærða gagnvart henni átti sér stað. Hún var tæplega tíu ára er hún gaf vitnaskýrslu fyrir dómi í Barnahúsi. Vitnisburður hennar var tekinn upp á myndband og var það sýnt við aðalmeðferð málsins. Dómurinn er einhuga um að framburður hennar sé trúverðugur. Hún lýsir því hvernig ákærði hafi lyft henni upp á borð, afklætt hana að neðan og tekið tvær myndir af henni. Myndavélin hafi verið þannig að það hafi komið mynd strax út úr vélinni. Ákærði hefur staðfest að hann eigi slíka myndavél af gerðinni Polaroid. B hefur jafnframt lýst ökuferðinni út í [Y]. Vinkona hennar, S, hafi verið með í för og hafi þær farið að viðra hund ákærða. Ákærði hafi ekið S heim fyrst en síðan haldið áfram með B. Hann hafi síðan afklætt hana að neðan og sleikt kynfæri hennar. Ákærði hefur neitað að þessi ökuferð hafi átt sér stað. Hann hafi aldrei farið með S og B í ökuferð. S gaf skýrslu fyrir dómi og sagði frá umræddri ökuferð. Hún hafi verið keyrð heim fyrst en ákærði haldið áfram með B. Þessi frásögn S þykir styrkja framburð B um að þessi ökuferð hafi verið farin. Framburður föður B er ennfremur til styrktar en hann ber að hann hafi hafið leit að dóttur sinni umrætt kvöld. Er hann kom heim úr leitinni hafi hann hitt ákærða í götunni þar sem þeir bjuggu báðir og hafi ákærði afsakað að hann hafi komið seint heim með B. Þessum framburði föður B hefur ákærði mótmælt. Þá er framburður Ólafar Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðings, sem rakinn er hér að framan, enn til styrkar því að framburður B sé trúverðugur. Ákærði hefur neitað sakargiftum en viðurkennir að hann hafi gefið börnum í hverfinu sælgæti og peninga. Hann kann ekki skýringu á ásökunum B á hendur sér. Dómurinn telur hafið yfir skynsamlegan vafa að stúlkan hafi greint hreinskilningslega frá atvikum fyrir dómi og að hún hafi aðeins skýrt frá því sem hún hafi raunverulega þurft að þola af hálfu ákærða. Sök ákærða telst því sönnuð í þessum þætt málsins. Þykir sannað að ákærði hafi misnotað B kynferðislega eins og í ákæru greinir. Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hvað varðar a lið í 2. kafla ákæru, en gegn 1. mgr. 202. gr. sömu laga hvað varðar b lið 2. kafla ákæru. Ákærði hefur tvisvar hlotið dóm og tvisvar gengist undir sáttir, aðallega fyrir brot gegn áfengis- og umferðarlögum. Brot ákærða gegn stúlkunum tveimur, sem hann er nú sakfelldur fyrir, er alvarlegt og beinist að mikilvægum hagsmunum. Hann notfærði sér ungan aldur þeirra til þess að misnota þær kynferðislega. Með framanritað í huga og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlag, þykir refing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Af hálfu stúlknanna beggja er sett fram skaðabótakrafa, reist á 26. gr. laga nr. 50/1993. Af gögnum málsins má ráða að stúlkurnar hafa orðið fyrir áfalli en þeim hafi tekist með hjálp fagaðila að vinna sig út úr vandanum þannig að brot ákærða gagnvart þeim veldur þeim ekki teljandi erfiðleikum í daglegu lífi. Það er þó álit sérfræðinga Barnahúss að þær þurfi á aðstoð fagaðila að halda er þær komi á unglingsárin og fari að leggja annan skilning ofangreinda atburði. Stúlkurnar hafa orðið fyrir miska og þykja bætur A hæfilega ákveðnar 300.000 krónur og bætur til B 300.000 krónur. Ákærða voru birtar miskabótakröfur 22. júlí 2003. Þykir því rétt að þær beri hver fyrir sig dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. ágúst til greiðsludags. Samkvæmt framangreindum málsatvikum greiðir ákærði allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun, sbr. 1. mgr. 164. gr. og 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991. Ákærði greiði skipuðum verjanda sínum, Þorvaldi Jóhannessyni hdl., 320.000 krónur og þóknun réttargæslumanna stúlknanna, Þórdísar Bjarnadóttur hdl. og Sifjar Konráðsdóttur hrl., 110.000 krónur til hvorrar um sig. Af hálfu ákæruvalds flutti málið Sigríður Jósefsdóttir saksóknari. Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðmundur L. Jóhannesson, sem dómsformaður, Gunnar Aðalsteinsson og Sveinn Sigurkarlsson. DÓMSORÐ Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 mánuði. Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þorvaldar Jóhannessonar hdl., 320.000 krónur, svo og þóknun réttargæslumanna, Þórdísar Bjarnadóttur hdl. og Sifjar Konráðsdóttur hrl., 110.000 krónur til hvorrar um sig. Ákærði greiði L fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2003 til greiðsludags. Ákærði greiði J og M, fyrir hönd ólögráða dóttur þeirra, B, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2003 til greiðsludags. |
Mál nr. 188/2002 | Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. maí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að sér verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu verði gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Ár, sunnudaginn, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Gretu Baldursdóttur héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður. Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til mánudagsins 27. maí 2002 kl. 16:00. Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að lögreglan í Reykjavík hafi handtekið kærða í gær vegna gruns á hendur honum um fjársvik og skjalafals þann 8. þ.m. Þann dag hafi kærði komið inn í verslun Landsíma Íslands hf., Smáralind í Kópavogi, og svikið út farsíma að andvirði 50.460 kr. Af kaupverði hafi kærði greitt 14.460 kr. með tékka að fjárhæð 15.000 kr. sem kærði hafi falsað með nafni Páls H. Svavarssonar. Þá hafi kærði falsað undirritun á léttkaupasamning fyrir eftirstöðvum kaupverðs að fjárhæð 36.000 kr. með nafni Páls. Þá leiki grunur á að kærði hafi falsað ökuskírteini í nafni nefnds Páls. Auk þess sem lögreglan rannsaki nú framangreind brot kærða hafi hún á undanförnum mánuðum margoft þurft að hafa afskipti af kærða vegna afbrota hans og undirbúi lögfræðideild embættisins nú saksókn á hendur honum fyrir eftirgreind brot sem flest hafi verið framin á árinu 2002: Mál nr. 010-2002-2894. Fyrir skjalafals, með því að hafa föstudaginn 18. janúar 2002 framvísað hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Álfabakka 14, umsókn um tékkareikning og debetkort sem hann hafi falsað með nafni Páls H. Svavarssonar sem umsækjanda og fengið þannig afhent hjá sparisjóðnum tékkhefti og debetkort á reikning nr. 4471 og framvísað jafnframt víxileyðublaði til tryggingar á heimild til yfirdráttar á 500.000 kr. á reikninginn, útfylltu að andvirði 500.000 kr., sem kærði hafi falsað með nafni Páls sem samþykkjanda og greiðanda og með nafni Sigurðar Grétarssonar sem útgefanda. Mál nr. 010-2002-8274. Fyrir fjársvik framin í janúar 2002 með því að hafa í auðgunarskyni stofnað til reikningsviðskipta við fyrirtækið Sindra-Stál hf. og á tímabilinu frá 14. janúar til 28. febrúar tekið út í reikninginn verkfæri alls að verðmæti 423.846 kr. þrátt fyrir að hann sé með öllu eignalaus og ógjaldfær. Kærði hefur hvorki greitt reikninginn né skilað vörum til fyrirtækisins. Mál nr. 010-2002-9241. Fyrir að hafa á tímabilinu frá 10. janúar til 22. febrúar í 12 skipti svikið út farsíma og fylgihluti í verslunum Landsíma Íslands alls að verðmæti 834.827 kr. sem kærði lét skuldfæra heimildarlaust í viðskiptareikninga fyrirtækja. Mál nr. 010-2002-7037. Fyrir skjalafals, með því að hafa 4. febrúar 21002 tekið á leigu hjá bílaleigunni Avis fólksbifreiðina BP-624 til 7. næsta mánaðar heimildarlaust í nafni fyrrgreinds Páls fyrir hönd fyrirtækisins Rolf Johansen & Co. og falsað samning um leigu á bifreiðinni þess efnis en leigusamninginn undirritaði hann með nafni Páls. Lögreglan fann bifreiðina skemmda þann 6. mars sl. Mál nr. 010-2002-10093. Fyrir skjalafals og fjársvik, með því að hafa í febrúar 2002, í auðgunarskyni stofnað til reikningsviðskipta við verslunina Þór hf., Ármúla 11, og jafnframt framvísað til tryggingar væntanlegum viðskiptum víxileyðublað fyrir andvirði 250.000 kr. sem kærði samþykkti sjálfur til greiðslu og falsaði með áritun á nafni áðurgreinds Páls sem útgefanda og með áritun á nafni Þóreyjar Indriðadóttur sem ábekings og síðan tekið út vörur að andvirði 273.063 kr., sem kærði hefur hvorki greitt né skilað til verslunarinnar. Mál nr. 010-2002-6869. Fyrir fjársvik með því að hafa 27. febrúar 2002 svikið út hjá 4 verslunum Húsasmiðjunnar hf. vörur að verðmæti 352.537 kr. með því að láta skuldfæra andvirði varanna heimildarlaust í viðskiptareikning Teiknistofunnar, Ármúla 6, hjá Húsasmiðjunni. Mál nr. 036-2001-5910. Fyrir að hafa ekið bifreiðinni KS-460, óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa deyfandi lyfja frá Reykjavík til Hafnarfjarðar en akstri hans lauk við Lyngás í Hafnarfirði þar sem kærði sofnaði í bifreiðinni. Mál nr. 010-2002-997. Fyrir nytjatöku og brot á umferðarlögum með því að hafa 9. janúar 2002, ekið bifreiðinni TL-842, óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa áfengis og deyfandi lyfja, vestur Miklubraut og svo óvarlega að hann ók utan í aðra bifreið, ekið áfram gegn rauðu umferðarljósi inn á gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og ekið á aðra bifreið þar. Kærða er jafnframt gefið að sök að hafa í framhaldi af því tekið heimildarlaust bifreið sem stöðvað hafði verið nefnd gatnamót vegna árekstursins og ekið henni að versluninni Select við Bústaðaveg. Mál nr. 010-2002-4615. Fyrir tilraun til fjársvika með því að hafa þann 5. febrúar 2002 í félagi við annan mann reynt að svíkja út hjá verslun Nýherja, Borgartúni 37, skjávarpa og myndavél, samtals að verðmæti 572.912 kr., sem þeir pöntuðu hjá fyrirtækinu heimildarlaust í nafni Rolfs Johansen & Co. Eins og fram kemur í greinargerð lögreglu var kærða veitt reynslulausn um mitt síðasta ár. Kærði hefur viðurkennt aðild sína að allmörgum brotum sem flest voru framin á þessu ári og það síðasta þann 8. þ.m. Með vísan til framanritaðs og rannsóknargagna málsins þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og ætla má að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið. Er því fallist á að skilyrðum um gæsluvarðhald kærða samkvæmt c lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt. Krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi verður tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til mánudgsins 27. maí nk. kl.16.00. |
Mál nr. 350/2009 | Hlutafélag Hlutabréf Aðild Jafnræði Skaðabætur | V, H og K voru hluthafar í fjárfestingarbankanum S 17. ágúst 2007 þegar stór hluti í bankanum var seldur til óþekkts aðila að talið var fyrir 18,60 krónur fyrir hverja krónu nafnverðs. Hlutaféð hafði verið í eigu bankans sjálfs. Meðalverð í viðskiptum í kauphöllinni þennan dag var 19,17 krónur. B o.fl. sátu í stjórn bankans á þessum tíma. V, H og K höfðuðu mál á hendur B o.fl. og kröfðust þess að þeim yrði í sameiningu gert að greiða þeim samtals 31.461 krónu ásamt vöxtum. Töldu þau að stjórn félagsins bæri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hún hefði valdið hluthöfum. V, H og K báru því við að stjórn félagsins hefði verið óheimilt að selja svo stóran hlut undir markaðsverði á þeim degi er kaupin voru gerð. Salan hefði rýrt verðmæti félagsins og stjórnin hefði átt að geta selt hlutinn að minnsta kosti á meðalgengi dagsins. B o.fl. hefði borið að gæta hagsmuna félagsins og sjá til þess að það seldi eignir sínar fyrir sem hæst verð hverju sinni. Þá töldu þau að stjórnarmönnum hefði verið óheimilt að mismuna hluthöfum með því að selja einum þeirra hluti á mun lægra verði en aðrir gátu keypt hluti á þennan dag. Talið var að V, H og K hefðu ekki sýnt fram á tjón sitt vegna umræddrar sölu. Þá gæti niðurstaðan heldur ekki byggst á þeirri málsástæðu þeirra að umrædd sala hefði verið óþörf. Stjórnendur félag tækju ákvarðanir um fjárhagslegar ráðstafanir og dómstólar gætu ekki fjallað um hvort þær hefðu verið nauðsynlegar eða ekki. Í málinu gæti því aðeins reynt á hvort með þeim hefði verið brotið ólöglega gegn réttindum annarra. V, H og K þóttu ekki hafa sýnt fram á að raunhæft hefði verið að fá verulega hærra verð fyrir bréfin en fékkst. Þá hefðu þau ekki sannað að tilboð um kaup á svo miklu hlutafé hefðu verið virk í kauphöllinni á þessum tíma. Því væri ekki sannað að réttindum félagsins hefði verið ráðstafað á óréttmætan hátt. Ennfremur var talið að stjórnendum félagsins hefði ekki verið skylt að bjóða hluthöfum að ganga inn í umræddan samning þar sem slíkur áskilnaður væri hvorki í hlutafélagalögum né samþykktum félagsins. Með þessari sölu hefði hluthöfum félagsins því ekki verið mismunað. Voru B o.fl. sýknaðir af kröfum V, H og K. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fyrir héraðsdómi beindu áfrýjendur kröfum sínum til vara að Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. Fjármálaeftirlitið tók 9. mars 2009 yfir vald hlutahafafundar í félaginu, vék frá stjórn þess, sem stefndu skipuðu, og setti skilanefnd yfir það á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Áfrýjendur halda ekki uppi kröfum á hendur félaginu fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. |
Mál nr. 252/2008 | Kærumál Óvígð sambúð Fjárskipti | M krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði að hann fengi í sinn hlut við opinber skipti vegna sambúðarslita málsaðila 50% af söluverði tilgreindrar fasteignar. K keypti fasteignina með kaupsamningi 2. apríl 2002 og var ein þinglýstur eigandi hennar. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að engar settar lagareglur væru til um skipti er slit verða á óvígðri sambúð. Hafi dómstólar litið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og að um fjármál þeirra fari eftir almennum reglum fjármunaréttarins. Væri meginreglan sú að við slit sambúðar tæki hvor aðili það sem hann væri skrifaður fyrir nema sönnun tækist um myndun sameignar. Í ljósi atvika málsins varð ekki talið að M hefði tekist að sanna með fullnægjandi gögnum og gegn andmælum K, að þau hefðu staðið sameiginlega að kaupum á hinni umdeildu fasteign og að honum bæri því hlutdeild í andvirði söluhagnaðar eignarinnar. Var kröfum hans því hafnað. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2008, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi varðandi opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar aðilanna. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði að hann fái í sinn hlut við skiptin 50% af söluandvirði fasteignarinnar að X, 1. hæð, í Reykjavík samkvæmt kaupsamningi 2. febrúar 2006, milli varnaraðila sem seljanda og tveggja nafngreindra manna sem kaupenda, að frádregnum helmingi áhvílandi veðskulda og kostnaðar af sölu á eigninni. Til vara krefst hann þess að viðurkenndur verði réttur hans til annarrar lægri eignarhlutdeildar í söluandvirði fasteignarinnar, samkvæmt ofangreindum kaupsamningi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt og að staðfest verði ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað hans í héraði. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Fallast má á með sóknaraðila að ekki verði ráðið að öll vitni er skýrslu gáfu við meðferð málsins hafi tengst sóknaraðila frekar en varnaraðila. Þá verður ekki fullyrt nákvæmlega um hversu lengi sambúð málsaðila stóð en af gögnum málsins verður nægjanlega ráðið að hún hafi verið slitrótt og staðið í stuttan tíma. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að sóknaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á eignarhlutdeild sína í umræddri fasteign að X í Reykjavík og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur, þar með talið ákvæði hans um gjafsóknarkostnað. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað í ríkissjóð svo sem í dómsorði greinir. Gjafsóknarkostnaður beggja aðila vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna þeirra, allt eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, M, greiði 150.000 krónur í kærumálskostnað sem renna í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 150.000 krónur. Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 150.000 krónur. I Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 15. nóvember 2006 var ákveðið að opinber skipti færu fram vegna sambúðarslita málsaðila. Með bréfi skiptastjóra mótteknu 10. ágúst 2007 var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 21. september 2007 og tekið til úrskurðar 6. mars sl. Málið var endurupptekið og dómtekið á ný 9. apríl 2008. Sóknaraðili er M, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík. Varnaraðili er K, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík. Sóknaraðili gerir aðallega þær dómkröfur að viðurkennt verði að sóknaraðili fái í sinn hlut við skiptin 50% af söluandvirði fasteignarinnar X, 1. hæð (eignarhluti 01-0101), fastanúmer fasteignar [...], Reykjavík, samkvæmt kaupsamningi, dagsettum [...] 2006, milli varnaraðila sem seljanda og A og B sem kaupenda, um framangreinda fasteign, að frádreginni helmings hlutdeild í áhvílandi veðskuldum og kostnaði við sölu á eigninni. Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til annarrar lægri eignahlutdeildar í söluandvirði fasteignarinnar X, 1. hæð (eignarhluti 01-0101) fastanúmer fasteignar [...], Reykjavík, skv. ofangreindum kaupsamningi. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins og með vísan til framlagðs málskostnaðarreiknings lögmanns sóknaraðila, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti á málskostnaðarfjárhæð. Sóknaraðili krefst þess einnig að honum verði dæmdur gjafsóknarkostnaður skv. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, úr hendi ríkissjóðs til samræmis við málskostnaðarreikning, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti. Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. II Mál þetta barst dóminum með bréfi skiptastjóra dags. 9. ágúst 2007. Í bréfinu kemur fram að á skiptafundi sem skiptastjórinn hélt hinn [dags.] 2007, vegna fjárslita á milli málsaðila, hafi komið upp ágreiningur um kröfu sóknaraðila um að í hans hlut komi helmingur af nettóandvirði fasteignarinnar X, 1. hæð í Reykjavík. Skiptastjóri hafi leitast við að jafna ágreininginn en án árangurs. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að aðilar hafi kynnst haustið 1998 og hafið samband upp úr því. Þau hafi búið í óvígðri sambúð samfellt frá maí 2001 til september 2003, þegar sóknaraðili flutti af heimilinu. Til að láta reyna á sambandið hafi sóknaraðili aftur flutt á heimilið í byrjun desember 2003 og búið þar til 20. maí 2004. Eftir að varnaraðili hafi dvalist erlendis sumarið 2004 hafi aðilar tekið saman aftur í október sama ár og sóknaraðili flutt inn á heimilið að nýju og búið þar til í byrjun apríl 2005. Loks hafi þau búið saman frá miðjum nóvember 2005 til áramóta það ár. Aðilar eigi saman dæturnar C, fædda [dags.] 2001 og D, fædda [dags.] 2002. Sóknaraðili kveður þau bæði hafa verið skráð með lögheimili að Y, Reykjavík á heimili móður varnaraðila, á tímabilinu 19. apríl 2000 til 1. nóvember 2001 en þá hafi hann flutt lögheimili sitt að Z, Reykjavík. Það hafi hann gert vegna umsóknar varnaraðila um lánafyrirgreiðslu hjá Búnaðarbankanum en varnaraðila hafi verið tjáð að það gæti haft neikvæð áhrif á lánamöguleika hennar ef hún væri skráð í sambúð með sóknaraðila þar sem gert hafði verið hjá honum árangurslaust fjárnám. Sóknaraðili kveður málsaðila fyrst hafa búið að Þ, Reykjavík, í íbúð sóknaraðila. Þaðan hafi þau flutt 20. ágúst 2002 í íbúð að Æ, Reykjavík, sem hafi verið í eigu ömmu varnaraðila. Hinn 14. febrúar 2003 hafi þau síðan flutt að X, Reykjavík, í íbúð sem þau hafi keypt árið áður. Varnaraðili hafnar því að sambúð aðila hafi staðið samfellt frá maí 2000 til september 2003 og að þau hafi verið í sambúð eftir það. Hið rétta sé að þau hafi búið saman um stuttan tíma á árinu 2000 þar til sóknaraðili hafi verið fundinn sekur um refsiverða háttsemi í opinberu máli. Hinn 12. desember 2001 hafi þau mætt hjá sýslumanninum í Reykjavík og staðfest að sambúð þeirra hafi lokið í nóvember 2001. Þau hafi gert tilraun til að endurnýja samband sitt á árinu 2003 en það hafi ekki skilað árangri. Hafi þau aldrei búið saman eftir það. Varnaraðili telur rangt og ósannað að aðilar hafi tekið upp sambúð að nýju eftir september 2003. Sóknaraðili kveður aðila hafa sameiginlega staðið að kaupum að íbúðinni X, sem sé 4ra herbergja íbúð á 1. hæð, með kaupsamningi dagsettum [...] 2002. Íbúðin hafi hins vegar eingöngu verið skráð á nafn varnaraðila vegna árangurslausa fjárnámsins. Kaupverð íbúðarinnar hafi verið greitt með útborgunargreiðslum að fjárhæð kr. 10.085.000, sem sóknaraðili hafi fjármagnað nánast að öllu leyti, og lánum þ.e. fasteignaveðbréfi og viðaukaláni frá Íbúðalánasjóði. Greiðsla síðustu afborgunar hafi frestast af ástæðum er vörðuðu seljendur en hana hafi þau greitt í janúar 2004. Sóknaraðili kveður þau hafa leigt íbúðina út fyrstu 7 mánuðina en síðan ráðist í að gera hana upp. Hann hafi unnið að lagfæringum allt þar til þau hafi flutt inn þann 14. febrúar 2003. Hann hafi lagt til bæði efni og alla vinnu. Þá hafi hann á tímabilinu ágúst til lok október 2002 unnið að viðgerðum á húsinu að utan, þ.e. gert við múr og málað allt húsið að utan, en sóknaraðili starfi við húsamálun. Varnaraðili kveðst ein hafa keypt íbúðina að X. Kaupverðið, kr. 10.085.000, hafi hún greitt sjálf m.a. með láni frá móður sinni að fjárhæð kr. 300.000, láni frá lífeyrissjóði að fjárhæð kr. 1.000.000 og arði af fasteigninni. Að öðru leyti hafi hún greitt kaupverðið með fasteignabréfi að fjárhæð kr. 6.692.000 og viðbótarláni kr. 2.472.500. Hafi hún leigt íbúðina út allt fram til nóvember 2002 m.a. til að kosta afborganir og endurbætur á fasteigninni sem hún hafi ráðist í nokkru síðar. Með kaupsamningi, dagsettum 2. febrúar 2006, seldi varnaraðili fasteignina að X. Kaupendur voru A og B og var kaupverðið 19.300.000 kr. Staða áhvílandi veðskulda við sölu íbúðarinnar, þ.e. við Íbúðalánasjóð vegna fasteignaveðbréfs og viðaukaláns nam þá um 11.000.000 kr. III Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að umrædd fasteign að X, Reykjavík, hafi verið keypt á sambúðartíma málsaðila, og þeir staðið sameiginlega að kaupum á henni. Við skipti á ,,félagsbúi“ þeirra eigi hann því helmings eignarhlut í söluandvirði fasteignarinnar, þ.e. söluandvirði hennar að frádregnum áhvílandi veðskuldum. Samkvæmt kaupsamningi hafi útborgun kaupverðs numið 1.085.000 kr. og hafi málsaðilar fjármagnað hana á eftirfarandi hátt: Fyrsta greiðsla útborgunar að fjárhæð 300.000 kr., svo og lántökugjöld og stimpilgjöld vegna íbúðarláns og viðbótarláns hafi verið greidd af söluandvirði jeppabifreiðar og bifhjóls sem sóknaraðili fékk í skiptum fyrir Mercedes Benz bifreiðina P. Önnur greiðsla útborgunar að fjárhæð 200.000 kr., hafi verið fjármögnuð með launatekjum sóknaraðila, er á þeim tíma starfaði hjá O, og leigugreiðslum sem þau fengu af íbúðinni. Þriðja greiðsla útborgunar að fjárhæð 300.000 kr., hafi sömuleiðis verið fjármögnuð með launatekjum sóknaraðila og leigutekjum af eigninni, en í héraðsdómsmálinu nr. D-22/2006 komi fram í skýrslutöku af E, er annaðist fyrir hönd móður sinnar F umrædd fasteignaviðskipti, að hann hafi sótt umrædda afborgun til sóknaraðila á heimili málsaðila að Æ, Reykjavík. Fjórða afborgun útborgunar kaupverðs að fjárhæð 285.000 kr., hafi verið greidd með launatekjum sóknaraðila að undanskildum 100.000 kr., sem greiddar hafi verið með leigutekjum af eigninni og endurgreiðslu, er varnaraðili fékk frá skattinum í formi vaxtabóta vegna veðlána á íbúðinni. Síðasta afborgun útborgunar kaupverðs hafi frestast af ástæðum er vörðuðu seljendur, en hana hafi þau síðan greitt í janúar 2004. Sóknaraðili vísar til þess að fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum á sambúðartímanum og afborganir af lánum af íbúðinni, sem og öll gjöld og rekstrarkostnaður varðandi fasteignina, hafi verið greidd af sameiginlegum fjármunum heimilisins, þ.e. frá 15. júní 2002 til og með gjalddaga 15. ágúst 2003 og frá 15. desember 2003 fram að gjalddaga í mars 2004, en þá hafi varnaraðili sótt um og fengið samþykkta hjá Íbúðarlánasjóði frystingu á afborgunum af hærra veðláninu og lánið verið í frystingu frá þeim tíma fram að því að íbúðin var seld. Frá mars 2004 hafi því eingöngu verið greiddar afborganir af viðbótarláninu, er ýmist hafi verið greiddar af varnaraðila eða sóknaraðila. Varðandi frekara framlag sóknaraðila til eignamyndunar í umræddu íbúðarhúsnæði vísar sóknaraðili til þess að hann hafi unnið að viðamiklum lagfæringum og endurbótum á íbúðinni frá byrjun nóvember 2002 og þar til þau fluttu í hana, 14. febrúar 2003, og lagt þar til bæði allt efni (utan eldhúsinnréttingar er keypt hafi verið á visa-kort varnaraðila) og vinnu, en auk sóknaraðila hafi vinir hans og mágur unnið með honum að þeim. Meðal annars hafi verið skipt um og endurnýjaðar allar raf- og hitalagnir í íbúðinni, allir útveggir einangraðir upp á nýtt og ný gólfefni sett á næstum öll gólf. Loks hafi sóknaraðili á tímabilinu ágúst-októberloka 2002 gert við múr og málað allt húsið að X, Reykjavík að utan. Á yfirliti yfir framkvæmdir utanhúss komi fram að kostnaðarhlutur íbúðar á 1. hæð varðandi utanhúsframkvæmdir nemi 454.378 kr. Samkvæmt t.d. Hrd. 2005:1222 sé við fjárskipti vegna slita á óvígðri sambúð ekki nægjanlegt að horfa eingöngu til þinglýsingar eignarheimildar yfir fasteign, heldur beri að líta til framlags hvors um sig til eignamyndunar í henni. Sóknaraðili byggir á því að sannað sé framlag hans til eignarmyndunar málsaðila í umræddri fasteign a.m.k. til jafns við varnaraðila. Hér sé og vísað til sjónarmiða sifjaréttar um að eignarmyndun sem verði í sambúð skuli skiptast að jöfnu milli sambúðaraðila. Um varakröfu sóknaraðila sé vísað til sömu röksemda og með aðalkröfu, en gerð krafa um að eignarhlutdeild sóknaraðila í söluverðinu verði þá ákvörðuð í samræmi við það sem dómurinn telji hæfilega, telji dómurinn að ákvarða beri hana lægri en skv. aðalkröfu sóknaraðila. Kröfum sínum til stuðnings vísar sóknaraðili til meginreglna og dómaframkvæmdar um fjárskipti við sambúðarslit, reglna sifjaréttar varðandi óvígða sambúð og grundvallarreglna á sviði eignarréttar. IV Varnaraðili byggir á því að samningur hafi verið með aðilum um skiptingu eigna í lok hinnar stuttu sambúðar á árinu 2003. Fram komi í málatilbúnaði gagnaðila sú afstaða að ekki sé til að dreifa öðrum eignum til skipta en söluandvirði fasteignar varnaraðila við [...]. Í skýrslu sinni fyrir dómi vegna ágreinings um hvort heimila skyldi opinber skipti hafi hann hins vegar viðurkennt að skipting eigna hafi átt sér stað þar sem hann hafi m.a. fengið í sinn hlut bifreið af tegundinni [...], hljómflutningstæki, skenk, borð og stóla, rúm o.s.frv. en ekki sé getið um þessa eignaskiptingu í beiðni gagnaðila um opinber skipti eða í greinargerð hans til dómsins. Framburður gagnaðila og tómlæti staðfesti þá fullyrðingu varnaraðila að samningur hafi verið um skiptingu eigna við slit á hinni stuttu sambúð. Sé enda ekki fyrr en nákvæmlega ári síðar sem gagnaðili hreyfi því að skipti hafi ekki átt sér stað með bréfi dags. 30. ágúst 2004. Þá hafði vísitala íbúðarverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað úr 158,9 stigum (ágúst 2003) í 182,6 stig (ágúst 2004) eða samtals u.þ.b. 15% á einu ári. Virðist þessi hækkun hafa farið fyrir brjóstið á gagnaðila og hann talið sig eiga hlut í þessari hækkun. Telji varnaraðili að hér sé komið að kjarna málsins. Skipti á eignum hafi átt sér stað við slit á sambúð þeirra þar sem varnaraðili hélt eign sinni sem hún hafði keypt fyrir eigið fé áður en þau hófu sambúð að nýju. Gagnaðili hafi hins vegar fengið bifreið og megnið af innbúi eins og hann hafi staðfest fyrir dómi. Ytri aðstæður í formi mikillar hækkunar íbúðarverðs valdi því að hann telji sig nú eiga rétt til hlutdeildar í fasteigninni sem varnaraðili greiddi fyrir að öllu leyti og fékk því í sinn hlut við sambúðarslitin. Gefi auga leið að skiptin verði ekki tekin upp vegna hækkunar fasteignaverðs þremur árum síðar. Þar sem skipting eigna hafi þegar átt sér stað beri að sýkna varnaraðila af öllum kröfu gagnaðila. Á því sé byggt af hálfu gagnaðila að aðilar hafi keypt ,,saman“ íbúðina við X í apríl 2002. Þar sem gagnaðili hafi hins vegar verið með á sér árangurslaust fjárnám frá því í maí 2001 hafi íbúðin aðeins verið skráð á nafn varnaraðila. Varnaraðili mótmæli því í fyrsta lagi, eins og fyrr greini, að þau hafi verið í sambúð þegar fasteignin var keypt. Þá sé því með öllu mótmælt að þau hafi keypt fasteignina saman enda í engu samræmi við fyrirliggjandi gögn. Varnaraðili minnist þess reyndar að hafa fengið gagnaðila til að koma með sér annað hvort til að skoða fasteignina eða á fund hjá fasteignasölunni en tæplega sex ár séu síðan hún keypti fasteignina. Það leiði hins vegar að sjálfsögðu ekki til þess að aðilar hafi keypt saman fasteignina. Þurfi ekki annað en að skoða kaupsamning um fasteignina en þar komi skýrt fram að kaupandi hennar sé varnaraðili. Þá séu lán tekin á hennar nafn og þau tiltekin í skattframtali hennar. Var fasteignin færð í bækur sýslumanns með sama hætti en hún var ein þinglýst eigandi fasteignarinnar. Beri gagnaðili að sjálfsögðu sönnunarbyrði fyrir því að 100% eignarhlutfall varnaraðila hafi verið til málamynda og að hann hafi raunverulega verið eigandi að fasteigninni, ef það er krafa hans. Tilvísan gagnaðila í árangurslaust fjárnám styðji ekki annað en að hann hafi ekki haft fjárhagslega burði til að festa kaup á fasteign en fyrir liggi að fjöldi árangurslausra fjárnáma hafi verið gerður síðan hjá gagnaðila. Kjarninn í málatilbúnaði gagnaðila virðist vera sú afstaða að eignir sem verði til þegar fólk er í sambúð skuli skiptast jafnt á milli sambúðaraðila. Þessu mótmælir varnaraðili enda gildi hér ekki reglur hjúskaparlaga um hlut í hjúskapareign maka við skilnað. Í fyrsta lagi þurfi sambúð til, sem ekki hafi verið til staðar við kaup á fasteigninni. Í annan stað þurfi til að sameiginlega sé staðið að eignamynduninni, þ.e.a.s. líta verði til framlags aðila. Hér höfum við skjalfest með kaupsamningi að varnaraðili hafi verið ein kaupandi fasteignarinnar. Sé þess einnig getið í skattframtali hennar en skorað sé á gagnaðila að leggja fram framtöl sín því til stuðnings að hann hafi talið fasteignina fram sem sína. Þá liggi fyrir að gagnaðili lagði enga fjármuni fram til fasteignakaupanna enda áttu þau sér stað með lántöku varnaraðila og arði af fasteigninni en óumdeilt sé að leigutekjur hafi verið notaðar til endurbóta á fasteigninni, til greiðslu afborgana lána o.s.frv. Gagnaðili líti með öllu fram hjá þeirri staðreynd að fasteignin hafi nánast verið fjármögnuð 100% með láni frá Íbúðarlánasjóði sem þinglýst hafi verið á fasteignina. Jafnframt að lán þessi hafi verið tekin af varnaraðila sem greiddi af þeim m.a. áður en gagnaðili flutti inn á heimilið og eftir að gagnaðili flutti út af heimilinu en varnaraðili greiddi þannig af fasteigninni allt til apríl 2006 þegar hún var seld. Auk þess að greiða af lánunum hafi hún borið persónulega ábyrgð á greiðslu þeirra en lánin hafi eðli málsins samkvæmt verið framlag hennar til fasteignakaupanna. Gagnaðili geri mikið úr því að hann hafi greitt einhverja greiðsluseðla á nafni varnaraðila sem hann hafi lagt fram í málinu. Fyrst sé þar að nefna greiðsluseðil vegna ágúst og september 2002 sem greiddir voru 12. október 2002. Rétt sé að vekja á því athygli að varnaraðili fæddi gagnaðila barn í september 2002 og ekkert óeðlilegt við að hann aðstoðaði varnaraðila á því stigi. Úttekt gagnaðila þann 5. júní 2002, komi umræddri fasteign lítið við. Eins og sjá megi af fylgiskjali nr. 1 sé úttektin vegna barns þeirra, C, en sama eigi við um greiðslu samkvæmt fylgiskjali nr. 2. Greiðsluseðill á fylgiskjali nr. 3 sé málinu óviðkomandi en gagnaðili virðist hafa greitt orkuveitureikning varnaraðila af einhverri ástæðu. Hafa ber í huga að aðilar áttu saman eitt barn og annað í vændum. Greiðsluseðill, sem sé fylgiskjal nr. 4, sé málinu alls óviðkomandi enda greiðsluseðill á nafni gagnaðila. Athygli veki að næsti reikningur sem gagnaðili greiði sé í mars 2003 en eins og áður hafi komið fram flutti hann að nýju inn á heimili varnaraðila um það leyti. Gagnaðili hafi lagt fram úttektarseðil, sem staðfesta eigi, líkt og áðurgreindir seðlar, að þau hafi staðið saman að eignarmynduninni. Vakin sé athygli á skýringu á úttektarseðlinum þar sem segi að úttektin sé vegna greiðslu á reikningum og seldra Evra. Reikningar er varði umrædda fasteign séu aðeins fasteignagjöld og einn gjalddagi skuldabréfs. Annað sé fasteigninni óviðkomandi. Ástæða þess að gagnaðili kunni að hafa greitt þessa reikninga sé að hann bjó á heimili varnaraðila á þessum tíma án þess að greiða með öðrum hætti fyrir not sín af fasteigninni. Virðist hann greiða reikninga í annað sinn, eftir að hann flutti inn til varnaraðila í maí 2003, þ.m.t. rafmagn, sem hann nýtti sjálfur og í þriðja sinn í lok júlí. Þess skuli getið að innlögn á reikninga varnaraðila sé máli þessu óviðkomandi og varði, að því best verði séð, börn aðila sem þá voru tvö. Á því sé byggt að greiðsla gagnaðila á nánar tilgreindum reikningum feli með engu móti í sér þátttöku í eignamyndum sem leiða eigi til þess að hann eigi hlut í ætluðu söluandvirði fasteignarinnar mörgum árum síðar. Greiðslur þessar hafi ekki farið fram samhliða því að fasteignin var keypt og varði því ekki greiðslu kaupverðs. Þá varði greiðslur þessar að öðru leyti þá staðreynd að aðilar eiga börn saman og not gagnaðila af fasteigninni. Þá sé á því byggt af hálfu gagnaðila að hann hafi unnið við fasteignina og þannig átt þátt í ætlaðri eignamyndun. Varnaraðili mótmælir lýsingu gagnaðila á ætlaðri aðkomu að framkvæmdum innanhúss enda greiddi varnaraðili sjálf fyrir framkvæmdirnar, þ.m.t. efniskaup, sem greidd hafi verið með visa-korti varnaraðila, eins og gagnaðili viðurkennir í greinargerð sinni, með leigutekjum, sem jafnframt sé viðurkennt af gagnaðila og með öðrum hætti, þ.m.t viðskiptanetinu. Þá hafi iðnaðarmenn annast framkvæmdir að mestu. Hlutur gagnaðila í utanhúsframkvæmdum hafi verið greiddur af varnaraðila annað en verkliðir en gagnaðili óski ekki eftir endurgjaldi fyrir þá vinnu. Þá hafði sú vinna engin áhrif á verðmæti fasteignarinnar. Þá sé á því byggt af hálfu gagnaðila að hann hafi greitt fyrstu útborgun, 300.000 kr., með ætluðu andvirði jeppabifreiðar og bifhjóls sem sóknaraðili kveðst hafa fengið fyrir bifreiðina P Varnaraðili mótmælir að svo hafi verið. Þá sé bifreiðin sem gagnaðili sé væntanlega að vísa til með skráningarnúmerið Q og hafi hún verið í eigu varnaraðila og geti því hvað sem öðru líður vart verið hlutur gagnaðila í kaupverði fasteignarinnar. Næstu greiðslu, að fjárhæð 200.000 kr., kveður gagnaðili hafa verið fjármagnaða með launatekjum hans og leigutekjum af íbúðinni. Leigutekjurnar séu arður af fasteign varnaraðila og því augljóslega framlag hennar. Hinni fullyrðingunni sé mótmælt, þ.e. að hluti greiðslunnar hafi verið fjármagnaður með launum gagnaðila en engin gögn séu lögð fram þessari staðhæfingu til staðfestu. Þriðju afborgunina kveður gagnaðili hafa verið fjármagnaða með sama hætti. Telji hann framburð sonar seljanda fasteignarinnar staðfesta að greiðslan, að fjárhæð 300.000 kr., hafi verið fjármögnuð með þessum hætti þar sem hann hafi sótt greiðsluna á heimili varnaraðila þar sem gagnaðili hafi verið staðsettur og afhent honum fjármunina. Í fyrsta lagi sé mótmælt að sonur seljanda hafi nokkra hugmynd um hvernig þessir fjármunir voru tilkomnir, þ.e. hvort þeir voru einvörðungu leigutekjur o.s.frv. Það að gagnaðili hafi verið staðsettur á heimili varnaraðila ráðist væntanlega einfaldlega af þeirri staðreynd að þau eignuðust barn saman nokkrum dögum áður án þess þó að vera í sambúð. Varnaraðila reki hins vegar ekki minni til að greiðslan hafi farið fram fyrir milligöngu gagnaðila, þ.e.a.s. að hann hafi verið sá sem afhenti fyrirsvarsmanni seljanda greiðsluna, en aftaki ekki að svo hafi verið. Breyti það hins vegar engu um þá staðreynd að fjármunir þessir hafi verið frá varnaraðila komnir eins og fyrr hafi verið rakið. Gagnaðili viðurkenni að hluti af fjórðu afborgun stafi frá varnaraðila en hann telji að 185.000 kr. hafi verið fjármagnaðar með launum hans. Þessari staðhæfingu sé mótmælt sem rangri og ósannaðri en varnaraðili hafi ítrekað skorað á gagnaðila að leggja fram skattframtöl sín. Þar sem hann hafi ekki orðið við þeirri áskorun verði að leggja til grundvallar að hann hafi ekki gefið upp ætlaðan eignarhlut sinn né að hann hafi haft fjárhagslega burði til að standa að kaupunum en fyrir liggi að ítrekað hafi verið gert árangurlaust fjárnám hjá honum, m.a. vegna vangreiddra meðlagsgreiðslna síðustu ár. Eins og fyrr greini sé því mótmælt að gagnaðili hafi orðið eigandi að fasteigninni eða eigi kröfu til hlutar af ætluðum söluhagnaði fasteignarinnar enda þurfi hann þá að hafa verið eigandi fasteignarinnar. Gæti gagnaðili í besta falli átt fjárkröfu á hendur varnaraðila vegna einstakra reikninga sem hann kunni að hafa greitt eða vegna ætlaðrar vinnu við fasteignina utanhúss. Slík krafa sé hins vegar fyrnd. Með vísan til framangreinds beri að hafna öllum kröfum gagnaðila. Varnaraðili vekur athygli á því að verulegir annmarkar séu á málatilbúnaði sóknaraðila. Felist þeir annmarkar m.a. í kröfugerð og að málsástæður séu óljósar og órökstuddar. Geri sóknaraðili kröfu um að viðurkennt verði að hann fái 50% af söluandvirði fasteignarinnar að frádreginni helmings hlutdeild í áhvílandi veðskuldum og kostnaði við sölu á eigninni. Hér beri til þess að líta að fasteignin sé löngu seld og engin ætlaður söluhagnaður því til staðar og því dómur í málinu í samræmi við kröfugerð með öllu þýðingarlaus en sóknaraðili geri ekki skilgreinda fjárkröfu á hendur varnaraðila. Þá sé auk þess ekkert tillit tekið til þess í kröfugerð að varnaraðili greiddi afborganir, vaxtagjöld, fasteignagjöld, tryggingar, hita, rafmagn o.s.frv. af fasteigninni í fjögur ár. Ekkert sé getið um það í kröfugerð eða málsástæðum hvernig fara skuli með þennan kostnað en af kröfugerð gagnaðila leiði að varnaraðili sitji ein uppi með þennan kostnað á meðan gagnaðili virðist ætla sér að fá viðurkenningu á því að hann eigi helming í ætluðum hagnaði af fasteigninni sem leiði einkum af hækkun fasteignaverðs. Þá leggi sóknaraðili ekki fram nokkur gögn fullyrðingum sínum til stuðnings að hann hafi verið kaupandi fasteignarinnar eða átt hlut í greiðslu kaupverðs. Þá liggi ekki fyrir nokkur gögn um meint vinnuframlag hans eða verðmæti þeirrar vinnu og/eða ætluð áhrif á verðmæti fasteignarinnar. Í varakröfu sé gerð krafa um aðra lægri ,,eignahlutdeild“ í söluandvirði fasteignarinnar án þess að í aðalkröfu sé gerð krafa um ,,eignarhlutdeild“ heldur viðurkenningu á að sóknaraðili fái í sinn hlut við skiptin 50% af söluandvirði fasteignarinnar. Á því sé byggt að framangreindar málsástæður eigi að leiða til þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað enda ódómtækar. Jafnframt sé á því byggt að óskýr og ófullnægjandi málatilbúnaður sóknaraðila sé ekki í samræmi við ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðili geri þó ekki sjálfstæða kröfu um frávísun málsins. Varnaraðili vísar til skiptalaga nr. 20/1991 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, meginreglna kröfuréttar, þ.m.t. um tómlæti, og laga um fyrningu, nr. 14/1905. V Óumdeilt er að aðilar bjuggu saman á árunum 2000 og 2001 þar til þau skráðu sig úr sambúð í nóvember 2001. Aðila greinir hins vegar á um sambúðartíma þeirra eftir það en sóknaraðili kveður þau hafa búið saman samfellt frá maí 2001 til september 2003. Þau hafi síðan tekið aftur saman í desember sama ár og hafi þá sambúð þeirra staðið yfir til maí 2004. Aftur hafi þau hafið sambúð í byrjun október 2004, sem stóð þar til í byrjun apríl 2005 og að síðustu hafi sambúð þeirra staðið yfir frá miðjum nóvember 2005 til lok sama árs. Varnaraðili neitar því að aðilar hafi búið saman eftir sambúðarslitin í nóvember 2001 fyrir utan tímabilið febrúar/mars 2003 til ágúst sama ár. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. nóvember 2006 í máli nr. D-22/2006: M gegn K, er því slegið föstu að ósannað sé að sambúð aðila hafi staðið óslitið frá maí 2001. Þó er talið sannað að aðilar hafi búið saman frá 14. febrúar 2003 til 1. september það ár. Öll þau vitni sem komu fyrir dóminn og báru um sambúð aðila tengdust sóknaraðila. Verður ekki talið að með framburði þeirra hafi sóknaraðila tekist að sýna fram á að hann og varnaraðili hafi í raun verið í sambúð eftir september 2003. Í máli þessu hefur sóknaraðili leitast við að sýna fram á að hann hafi átt eignarhlutdeild í fasteigninni að X, íbúð á 1. hæð, sem varnaraðili keypti með kaupsamningi dags. [...] 2002 og aðilar bjuggu saman í um tíma. Varnaraðili, og var þinglýstur eigandi fasteignarinnar, seldi hana með kaupsamningi dags. [...] 2006. Byggir sóknaraðili á því að aðilar hafi sameiginlega keypt umrædda íbúð á sambúðartíma sínum. Útborgun kaupverðs hafi skipst í fernt og hafi þær afborganir verið greiddar með andvirði af sölu jeppabifreiðar og bifhjóls, sem sóknaraðili hafi fengið í skiptum fyrir Mercedes Benz bifreið sína, launatekjum sóknaraðila, leigutekjum sem þau hafi fengið af íbúðinni og endurgreiðslu, er varnaraðili hafi fengið frá skattinum í formi vaxtabóta vegna veðlána á íbúðinni. Þá hafi sóknaraðili unnið að ýmsum framkvæmdum og endurbótum, sem gerðar voru á húseigninni. Engar settar lagareglur eru til um skipti er slit verða á óvígðri sambúð. Hafa dómstólar litið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og að um fjármál þeirra fari eftir almennum reglum fjármunaréttarins. Er meginreglan sú, að við slit sambúðar tekur hvor aðili það sem hann er skrifaður fyrir nema sönnun takist um myndun sameignar. Verður hvor aðili fyrir sig að sanna hlutdeild sína í eignamyndun á þeim tíma þegar fjárhagsleg samstaða hefur verið milli sambúðarfólks. Fyrir liggur að umrædd Benz bifreið var skráð eign varnaraðila. Þá hefur sóknaraðili ekki lagt fram skattframtöl til staðfestingar launatekna, sem hann kveðst hafa notað til greiðslu afborgana á fasteigninni X Með vísan til þessa verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á að hann hafi verið aflögufær við kaup fasteignarinnar og að hann hafi lagt fram fé til kaupanna sem leiða eigi til þess að hann eigi rétt á eignarhluta í fasteigninni. Í málinu liggja fyrir reikningar, sem sóknaraðili hefur lagt fram. Dómurinn lítur svo á að reikningar þessir hafi enga þýðingu fyrir úrslit málsins þar sem þeir voru hvorki greiddir samhliða kaupum á eigninni, X né sýna þeir fram á að fjárhagsleg samstaða hafi verið milli aðila. Ljóst þykir að sóknaraðili hefur tekið til hendinni við framkvæmdir og endurbætur á fasteigninni, X Leiðir það eitt þó ekki til þess að honum beri hlutdeild í fasteigninni en sóknaraðili hefur ekki gert kröfu um greiðslu vegna eigin vinnu hans og annarra sem ekki ætluðust til endurgjalds eða gerðu kröfu um endurgjald fyrir vinnu sína. Að öllu framangreindu virtu, verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist að sanna með fullnægjandi gögnum, og gegn andmælum varnaraðila, að þau hafi sameiginlega staðið að kaupum á fasteigninni að X 1. hæð og honum beri því hlutdeild í andvirði söluhagnaðar eignarinnar. Verður því að hafna kröfum sóknaraðila. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili greiði sinn hluta málskostnaðar. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, samtals 677.902 kr., sem er málflutningsþóknun lögmanns hans að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður 22.410 kr., greiðist úr ríkissjóði. Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, samtals 595.265 kr., sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði. Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kröfum sóknaraðila, M, er hafnað. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila kr. 677.902 greiðist úr ríkissjóði. Gjafsóknarkostnaður varnaraðila kr. 595.265 greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 215/2006 | Kaupsamningur | Ágreiningur málsins laut að túlkun á samningi er aðilar gerðu 1. september 2004 um kaup S á öllu hlutafé í L ehf. og TB ehf. J, E og Þ kröfðu S um eftirstöðvar umsamins kaupverðs en S krafðist þess að þeim yrði gert að þola lækkun á því á grundvelli 2. tl. 4. gr., sbr. 2. gr. samnings aðila. Í 4. gr. samningsins voru gerðar ýmsar forsendur og fyrirvarar við hann, m.a. að fram færi kostgæfnisathugun og birgðamat. Samkvæmt 2. og 3. gr. samningsins var talið ljóst að ekki hafi átt að greiða kaupverð né afhenda hið selda fyrr en að uppfylltum umræddum fyrirvörum og forsendum. Því hafi borið að túlka samninginn þannig að S hafi átt að gera kröfu um lækkun kaupverðsins á grundvelli 4. gr. hans áður en meginþorri kaupverðsins var inntur af hendi og hið selda afhent honum. Hann var talinn bera hallann af því að svo var ekki gert og krafa J, E og Þ því tekin til greina. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. febrúar 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. apríl sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 19. apríl 2006. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði dæmd til að greiða sér 30.110.555 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2004 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér 23.036.601 krónu með sömu dráttarvöxtum. Þess er krafist að dæmd fjárhæð komi til skuldajafnaðar við kröfu stefndu um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs samkvæmt samningi aðila, en að öðru leyti til sjálfstæðs dóms um greiðslu til áfrýjanda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ekki er fram komið að áfrýjandi hafi freistað þess að fá viðbótarfrest til greiðslu kaupverðs í því skyni að kanna betur fyrirvara og forsendur umrædds samningsins. Reynir því ekki á það í máli þessu hvort honum hefði verið það unnt. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Skauti ehf., greiði stefndu, Jóni Páli Grétarssyni, Eiríki Inga Grétarssyni og Þorgerði Arnórsdóttur, samtals 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2005. Mál þetta, sem var dómtekið 14. desember, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 10. desember 2004 af Jóni Páli Grétarssyni, Suðurvangi 12, 220 Hafnarfirði, Eiríki Inga Grétarssyni, Laugalind 8, 201 Kópavogi, og Þorgerði Arnórsdóttur, Miðleiti 2, 103 Reykjavík, gegn Skauta ehf., Faxafeni 11, Reykjavík, til efnda kaupsamnings. Með gagnstefnu birtri 13. janúar 2005 höfðaði Skauti ehf. gagnsök í málinu á hendur stefnendum. Í ljósi þess að aðalsök og gagnsök fjalla um sömu efnisþættina verða málsástæður í aðal- og gagnsök hjá hvorum málsaðila raktar í einu lagi. I. Dómkröfur. Aðalsök Aðalstefnendur krefjast þess að gagnstefnandi verði dæmdur til greiðslu kaupverðs að fjárhæð 15.000.000 króna með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. nóvember 2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati réttarins. Gagnstefnandi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnenda og að aðalstefnendum verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt reikningi. Gagnsök Gagnstefnandi krefst þess aðallega að aðalstefnendum verði gert að þola lækkun á kaupverði samkvæmt 2. tl. 4. gr., sbr. 2. gr. samnings um kaup á hlutafé Leikbæjar ehf., kt. 440196-3499, og TB heildverslunar, kt. 540100-2680, frá 1. september 2004, að fjárhæð samtals 30.110.555 krónur, þ.e. 17.870.555 krónur, vegna ofreiknaðra eigna, að teknu tilliti til vikmarka, og 12.240.000 krónur, vegna ofreiknaðs hagræðis í launakostnaði, en til vara að fjárhæð 23.036.601 króna þ.e. 10.796.601 króna vegna lækkunar eigin fjár félaganna frá kaupdegi, að teknu tilliti til vikmarka ((42.012.612-30.716.011)-500.000) og 12.240.000 króna vegna ofreiknaðs hagræðis í launakostnaði. Hvort tveggja kröfurnar beri dráttarvexti skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2004 til greiðsludags. Komi dæmd krafa gagnstefnanda til skuldajöfnunar við kröfu gagnstefndu um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs samningsins, en að öðru leyti til sjálfstæðs dóms um greiðslu til gagnstefnanda. Að gagnstefndum verði gert að greiða gagnstefnanda málskostnað samkvæmt reikningi. Gagnstefndu krefjast sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda og málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti. Málavextir. Málsatvik eru þau, að aðalstefnendur áttu saman hlutafélagið Leikbæ ehf. sem rekur fjórar leikfangaverslanir undir því nafni. Þá áttu aðalstefnendur Jón Páll og Eiríkur annað einkahlutafélag, TB heildverslun ehf., sem flutti inn leikföng og seldi í heildsölu til smásala. Aðalstefnendur upplýsa, að í ágústmánuði 2004 hafi aðilar ótengdir máli þessu leitað eftir kaupum á fyrirtækjum fyrir allt að 130.000.000 króna. Áður en þeim viðræðum var ráðið til lykta, hafði Sigurður Smári Gylfason, viðskiptafræðingur hjá Behrens Capital ehf., samband við þá og kynnti að hann kynni að hafa kaupendur á takteinum, þ.e. gagnstefnanda. Kom hann fram sem milligöngumaður milli málsaðila og útbjó kynningargögn úr bókhaldi og ársreikningum einkahlutafélaganna auk upplýsinga frá aðalstefnendum. Þann 31. ágúst 2004 hittust þeir Jón Páll f.h. aðalstefnenda og Þorvarður Elíasson og Elías Þorvarðarson fyrir hönd gagnstefnanda. Sigurður Smári sat einnig fundinn. Forsvarsmenn gagnstefnanda tilkynntu að þeir væru í nafni óstofnaðs einkahlutafélags reiðubúnir að kaupa fyrirtækin á 120.000.000 króna. Því tilboði var umsvifalaust hafnað af hálfu aðalstefnenda. Daginn eftir eða 1. september 2004 tókust samingar milli málsaðila. Þeir Þorvarður Elíasson og Elías Þorvarðarson rituðu undir samninginn í nafni óstofnaðs einkahlutafélags sem þeir hugðust stofna ásamt Bjarna Þorvarðarsyni. Af hálfu aðalstefnenda ritaði Jón Páll undir samninginn. Í 1. gr. samningsins varðandi hið selda segir: „Allt hlutafé seljenda í Leikbæ ehf., kt. 440196-3499, Fjarðargötu 13-15, 220 Hafnarfirði (LB) að nafnvirði kr. 500.000,- og TB heildverslun ehf., kt. 540100-2680, Faxafeni 11, 108 Reykjavík (TB) að nafnvirði kr. 500.000,- Við samningsgerðina er miðað við og vísað til ársreikninga beggja félaganna fyrir árið 2003 auk óendurskoðaðs uppgjörs (rekstrar- og efnahagsreikningur) fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2004 og eru þessi uppgjör fylgiskjöl með samningi þessum. Seljendur hafa heimild til að selja hlutabréf sín í TB til LB enda hafi það engin fjárshagsleg áhrif á hið selda að öðru leyti né hafi áhrif á kaupverð hins selda.“ Í 2. gr. samningins um kaupverð hins selda segir: „Sem endurgjald fyrir hið selda greiðir kaupandi seljendum kr. 135.000.000 sem greiðist þannig, sbr. þó leiðréttingarákvæði í grein 4.2 samnings þessa: a) Kr. 120.000.000 greiðist þegar fyrirvörum samkvæmt 4 gr. í samningi þessum hefur verið fullnægt að mati kaupanda eða í síðasta lagi við afhendingu hins selda samkvæmt 3 gr. samnings þessa. b) Kr. 15.000.000, - tveimur mánuðum eftir afhendingu.“ Í 3. gr. samningsins um afhendingu hins selda segir: „Seljendur skulu afhenda hið selda veðabanda- og kvaðalaust eigi síðar en 15. september 2004, enda hafi fyrirvarar þeir og forsendur þær sem getið er um í samningi þessum verið uppfylltir fyrir þann tíma.“ Í 4. gr. eru gerðar ýmsar forsendur og fyrirvarar við kaupsamninginn. Í grein 4.1 er gert ráð fyrir kostgæfnisathugun en þar segir: „Að kaupandi geri kostgæfnisathugun á þeim gögnum og upplýsingum sem lögð hafa verið fram og sem eru grundvöllur samnings þessa þar sem fram komi m.a. að innistæður, einstakir eigna- og skuldaliðir séu í samræmi við bókhald félagsins. Felst kostgæfnisathugun jafnframt í því að staðreyna dulið eigið fé í birgðum félagsins sem sagt er nema allt að kr. 15.000.000,- og að staðreyna fullyrðingar seljenda um kostnaðarþætti í rekstri félagsins sem tengjast núverandi rekstrarfyrirkomulagi og eignarhaldi á félaginu er m.a. felast í verulegri hagræðingu í launakostnaði á ársgrundvelli m.t.t. þess að tveir af þremur eigendum hafa verið lítið sem ekkert virkir í vinnu sl. tvö ár sem og áætlaðri veltu- og hagnaðaraukningu vegna Mattel umboðs þannig að áætluð velta TB heíldverslunar muni aukast verulega.“ Í gr. 4.2 í samningnum segir: „Að við endanlega ákvörðun á kaupverði samanber grein 2 samnings þessa skal gert uppgjör fyrir LB og TB m.v. 31.8.2004. Áætlað er að eigið fé félaganna beggja sé í samræmi við eigið fé í uppgjörum þann 30.6.2004 enda er við þau miðuð í samningi þessum. Að auki skal gera ráð fyrir duldu eigin fé í birgðum félagsins. Skal miðað við eftirfarandi reiknireglu varðandi mat á endurmetnu eigin fé félaganna beggja: Eigið fé Leikbæjar ehf. 30.6.2004 kr. 18.595.959 Eigið fé TB heildverslunar ehf. 30.6.2004 kr. 8.416.653 Dulið eigið fé í birgðum kr. 15.000.000 Endurmetið eigið fé kr. 42.012.612 Við mat á verðmætum birgða TB og LB skal nota útsöluverð seljanlegra (kúrant) birgða (LB/ÞE) með virðisaukaskatti og deila í það með stuðlinum 2,1 en þessi útreikningur felur í sér 68% álagningu á útsöluverð. Við ákvörðun á endanlegu kaupverði skal allt frávik á endurmetnu eigin fé frá kr. 42.012.612,- koma til hækkunar eða lækkunar kaupverðs sbr. 2. grein samnings þessa. Aðilar eru þó sammála um að vikmörk við mat á ofangreindu eigin fé sé +/- kr. 500.000 og að niðurstaða í mati á endurmetnu eigin fé umfram þessi vikmörk sbr. ofangreindan útreikning hækki eða lækki kaupverðið sem þeim mismun nemur og dregst frá eða bætist við greiðslur samkvæmt b lið 2. gr. samnings þessa“ Hinn 2. september 2004 var gerður viðauki við ofangreindan kaupsamning og í 4. tl. hans er tekið fram að uppgjör þann 31.08.2004, sem vísað er til í 4. gr. Kaupsamningsins, skuli gert í samræmi við og með sömu aðferðum og milliuppgjör dags. 30.06.2004. Dagana 2., 11. og 12. september 2004 fór fram talning vörubirgða félaganna og voru starfsmenn frá KPMG endurskoðun viðstaddir talninguna f.h. kaupanda og fylgdust með töldu magni, en ekki sjálfum útreikningi vörubirgðanna. Í kynningu er sett var fram vegna sölu á Leikbæ var kynnt að álagning væri almennt um 68% = útsöluverð/2,1, sbr. og 3. mgr. gr. 4.2 kaupsamningi. Þann 15. september 2004 voru fyrirtækin afhent en þá jafnframt ritað undir sérstakan viðauka við samning aðila. Í þeim viðauka var kaupverði hlutafjár fyrirtækjanna breytt þannig að það var lækkað um söluþóknun milliliðsins, Behrens Capital ehf., sem gagnstefnanda bar að annast greiðslu á. Varð samningsverðið þannig 131.400.000 krónur. Fyrri samningsgreiðsla gagnstefnanda var síðan lækkuð sem nam þeirri breytingu eða í 116.400.000 krónur en síðari greiðslan átti að vera óbreytt. Þá lýstu aðilar því yfir að þeir myndu hafa eðlilegt samráð og samvinnu um uppgjörsvinnu vegna reksturs félaganna frá 1. september til 11. september vegna óframkominna gjaldareikninga, uppgjörs og mats birgða þann 31. ágúst 2004 vegna sölu og innkaupa á þessu tímabili. Skyldu endurskoðendur aðila bera hitann og þungann af þessu verki. Hinn 14. nóvember 2004 gerði Þorvarður Elíasson kostgæfnisathugun, samanber gr. 4.1 í kaupsamningi, og gerði hann athugasemdir við útreikning vörubirgðanna og fleira. Var það niðurstaða Þorvarðar, að vörubirgðir væru ofmetnar og væri útsöluverð birgða, sem deila skyldi 2,1 í, með mun hærri álagningu í talningabókum en greinir í 3. mgr. gr. 4.2 í kaupsamningi. Jafnframt gerði hann grein fyrir athugun á fullyrðingum aðalstefnenda um að veruleg hagræðing ætti að nást í launakostnaði á ársgrundvelli m.t.t. þess að tveir af þremur eigendum hafi verið lítið sem ekkert virkir í vinnu sl. tvö ár sem og þeirri fullyrðingu að áætluð velta TB heildverslunar mundi aukast verulega vegna Mattel-umboðsins. Þá kvartaði hann undan því að bókhaldsgögn væru ekki aðgengileg, ef þau væru þá fyrir hendi, þar sem þau lægju óskipulega í plastpokum í einum haug í kjallara hússins. Þá hefði gögnum úr tölvu félaganna verið eytt áður en hún var afhent nýjum eiganda. Niðurstaða kostgæfnisathugunar Þorvarðar var sú að vörubirgðir félaganna væru verulega ofmetnar og fullyrðingar seljenda um fyrirsjáanlegan launasparnað og veltuaukningu TB heildverslunar stæðust ekki. Aðalstefnendur höfnuðu alfarið niðurstöðu kostgæfnisathugunarinnar og kröfuðst efnda samkvæmt samningnum. Með bréfi 16. nóvember 2004 gerði lögmaður aðalstefnenda kröfur á hendur gagnstefnanda, en því bréfi svaraði lögmaður gagnstefnanda með bréfi 18. nóvember 2004 og athugasemdum dags. sama dag. Lögmenn aðila leituðust við á fundi 30. nóvember, þar sem mættir voru auk lögmanna fulltrúar aðalstefnenda og endurskoðendur aðila, að ná samkomulagi í málinu, en það tókst ekki. Höfðuðu aðalstefnendur mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu dags. 10. desember 2004. Gagnstefnandi höfðaði gagnsök í málinu 13. janúar 2005. Hinn 9. mars 2005 voru endurskoðendurnir Guðmundur Snorrason og Ólafur G. Sigurðsson dómkvaddir til að meta eftirfarandi atriði: „1. Hver teljist hafa verið meðalálagning útsöluverðs þeirra vörubirgða, sem taldar voru að útsöluverðmæti samtals kr. 134.836.723 við útreikning á vörubirgðum Leikbæjar ehf. og TB heildverslunar ehf. vegna uppgjörs félaganna hinn 31. ágúst 2004? 2 Telji matsmenn sér ekki kleift að reikna út eða meta meðalálagningu skv. 1. tl. eru matsmenn beðnir að gefa álit sitt á niðurstöðu kostgæfnisathugunar gagnstefnanda á dskj. nr. 8 og 9 og síðari athugana hans á bls. 4 í gagnstefnu, dskj. nr. 29. 3. Hvert telst hafa verið verðmæti vörubirgða þessara miðað við lög og góða reikningsskilavenju? 4. Geta matsmenn sannreynt að vörubirgðir félaganna samkvæmt uppgjöri þeirra hinn 30.6.2004 hafi verið vanreiknaðar um 15 millj. kr.? 5 Voru vörubirgðir félaganna hinn 31. desember 2003 reiknaðar með sama hætti og vörubirgðir hinn 31.8. 2004? 6. Hversu háan árlegan launakostnað telja matsmenn hafa sparast við það að tveir af eigendum hlutafélaganna hættu störfum hjá félögunum og hvern telja matsmenn vera árlegan kostnað vegna vinnuframlags starfsmanna, sem nauðsynlegt er að fá til þeirra starfa er þeir unnu?“ Hinir dómkvöddu matsmenn skiluðu matsgerð sinni 22. september 2005. Sem svar við 1. og 2. spurningu telja þeir eðlilegan deilistuðul til að nálgast kostnaðarverð birgðanna geta legið á bilinu 2,35-2,42 og þeir telja að reiknuð meðalálagning vörubirgðanna sé á bilinu 89-94%. Sem svar við 3. spurningu telja þeir ekki unnt að fullyrða með nákvæmni um kostnaðarverð vörubirgða þann 31. ágúst 2004 en telja það vera á bilinu 42-57 milljónir, en þó nær neðri mörkunum og hæpið að það hafi verið hærra en 50 milljónir. Varðandi 4. spurningu telja þeir ógerning á grundvelli fyrirliggjandi gagna að sannreyna að birgðir hafi 30. júní 2004 verið vanreiknaðar um 15 millj. Sem svar við 5. spuringu telja þeir að birgðir félaganna hafi ekki verið reiknaðar með sama hætti í árslok 2003 og hinn 31. ágúst 2004. Að lokum telja matsmenn sér ekki fært að leggja mat á 6. spurningu. III. Málsástæður og lagarök aðalstefnenda og gagnstefndu. Málssókn sína styðja aðalstefnendur fyrst og fremst við þá grundvallarreglu samninga- og kröfuréttar að samninga skuli efna. Efndaskylda gagnstefnanda sé ótvíræð enda efndatími kominn og engar málefnalegar ástæður til annars en að gagnstefnandi efni samningsskyldu sína í samræmi við 2. gr. samnings aðila frá 1. september 2004, að teknu tilliti til leiðréttingar kaupverðs til hækkunar í samræmi við 4. mgr. greinar 4.2 í þeim samningi. Aðalstefnendur hafi efnt samninginn að fullu og öllu leyti af sinni hálfu, meðal annars með þátttöku og liðsinni í rekstri hinna seldu félaga allt til loka október-mánaðar. Hefur að mati aðalstefnenda þar hvergi borið skugga á og samningurinn og hið selda reynst nákvæmlega í samræmi við þær samningsforsendur sem aðilar gáfu sér og kveðið er á um í samningi aðila frá 1. sepember 2004. Þar sé sérstaklega samið um að við samningsgerðina sé miðað við og vísað til ársreikninga beggja félaganna fyrir árið 2003 og árshlutauppgjörs fyrstu sex mánaða ársins 2004 vegna beggja félaganna. Á því er byggt af hálfu aðalstefnenda að þessar forsendur hafi gengið eftir að öllu leyti og ekkert komið fram sem gefi gagnstefnanda tilefni til athugasemda. Enn síður einhvers tugmilljóna afsláttar, sbr. kostgæfnisathugunina. Aðalstefnendur halda því fram, að allar rekstrarforsendur hafi legið fyrir áður en hið selda var afhent 15. september og gagnstefnanda þá tækt að hafa lokið öllum athugunum sínum á forsendum kaupanna eins og honum bar líka að gera fyrir þann dag, sbr. 3. gr. samnings aðila. Engar athugasemdir komu fram enda ekkert til að gera athugasemdir við. Aðalstefnendur halda því fram, að gagnstefnandi hafi vanefnt ótvíræða greiðsluskyldu sína samkvæmt samningi aðila og því beri að dæma hann til réttra efnda ásamt dráttarvaxta af samningsfjárhæðinni allt frá réttum gjalddaga þann 15. nóvember 2004. 2. Almenn mótmæli við kostgæfnisathuguninni. Aðalstefnendur mótmæla í heild kostgæfnisathugun Þorvarðar Elíassonar frá 14. nóvember 2004. Þeir telja að athugasemdir Þorvarðar eigi sér sáralitla skírskotun til samnings aðila og séu þar að auki byggðar á einkaforsendum sem gagnstefnandi gefi sér en eigi sér hvergi stoð í samningi aðila og hafi aldrei verið minnst á fyrr. Aðalstefnendur telja að nánast virðist sem gagnstefnandi hafi talið sér renna blóðið til skyldunnar að finna eitthvað að samningi aðila eða efndum hans eftir að hafa mótttekið tölvupóst Sigurðar Smára sem til er vitnað í bréfi lögmanns gagnstefnanda frá 18. nóvember 2004. Slíkt sé algerlega úr lausu lofti gripið og raunar eigi orðsending Sigurðar um kostgæfnisathugun gagnstefnanda sér ekki stoð í samningi aðila, það er að segja að hana hafi átt að framkvæma á þessu stigi. Megi fremur álykta að Sigurður hafi orðið þess var að gagnstefnandi hafi ekki rækt samningsskyldur sínar sem skyldi við að ljúka athugunum í tengslum við kaupin fyrir 15. september og að með þessu skeyti hafi hann ætlað að brýna gagnstefnanda til dáða þannig að hann lyki því sem hann hefði átt að vera löngu búinn að gera. Hvert tilefni skeytisins var geti aðalstefnendur ekki fullyrt en þeir verði að sjálfsögðu ekki undir það seldir að gagnstefnandi geti byggt rétt á hendur þeim á grundvelli þess að vanrækja samningsskyldur sínar. Réttur gagnstefnanda í þessum efnum verði ekki betri en hann hefði orðið að rétt efndum samningsskyldum. Fullyrt er af hálfu aðalstefnenda að ef einhverjar athugasemdir í líkingu við þær sem gagnstefnandi hefur nú hreyft hefðu verið nefndar 15. september, þegar fyrirvörum og forsendum kaupanna átti að vera fullnægt, sbr. 3. gr. samnings aðila, hefði kaupunum einfaldlega verið rift. Á þeim tíma hefði slíkt verið einfalt í sjálfu sér. Einungis óverulegur kostnaður hefði verið til fallinn af hálfu málsaðila vegna vinnu sérfræðinga að kaupunum og engin tugmilljónadeila væri til staðar. Aðalstefnendur telja efni kostgæfnisathugunarinnar svo fjarri öllu því sem um var samið milli aðila að engin efni séu til að fjalla í löngu máli um það. Lögð skuli þó áhersla á eftirfarandi: Í stefnu málsins taka aðalstefnendur það fram varðandi þennan lið að í samningi aðila hafi verið samið um nákvæmlega útfærða reikniaðferð sem leggja ætti til grundvallar við útreikning verðmætis birgða fyrirtækjanna, sbr. grein 4.2. Þessi samningsforsenda hafi verið vegin og metin af samningsaðilum og samþykkt eins og aðrar með undirritun kaupsamnings en hún hafi átt sér skírskotun til ársreiknings fyrirtækjanna sem lágu kaupunum til grundvallar, sbr. 1. gr. samningsins. Þessari grundvallarforsendu vilji gagnstefnandi nú breyta einhliða. Aðalstefnendur telja að í kostgæfnisathuguninni virðist gagnstefnandi reikna út allt annan og miklu hærri deilistuðul en hinn umsamda stuðul 2,1, einkum á grundvelli ályktana sem hann dragi af verði einstakra vara eins og Pictionary-spilsins. Þær ályktanir séu bæði rangar og alltof víðtækar. Deilitala birgða á þeim grundvelli sem aðilar sömdu um í kaupsamningi sínum finnist ekki út frá bókfærðu verði einnar vöru heldur raunverulegu söluverði allra vara byggt á sölureynslu liðinna ára að teknu tilliti til afsláttar, útsöluverðs, rýrnunar og svo framvegis, samanber útreikning Ingólfs Flygenring lögg. end. Að mati aðalstefnenda komi þessi nýja forsenda ekki til greina því hún sé í andstöðu við samning aðila. Samningur aðila frá 1. september 2004 fjalli ekki um nákvæma útreikninga á verðmæti einstakra eigna fyrirtækjanna, ekkert frekar á birgðum en innanstokksmunum, hillurekkum, sjóðsvélum, tölvubúnaði, fasteignum eða öðrum slíkum áþreifanlegum verðmætum. Hið selda hafi verið hlutafé fyrirtækjanna sjálfra verðlagt fyrst og fremst á grundvelli þeirrar arðsemi sem reynsla liðinna ára hafi borið með sér. Sérstaklega skuli áréttað, að málsaðilar hafi ekki samið um að innkaupsverð birgða yrði lagt til grundvallar heldur sérstök útreikningsaðferð sem hafi falið í sér deilitölu út frá söluverði eins og áður er rakið. Aðalstefnendur byggja á því að hefði hugmynd málsaðila verið sú að leggja innkaupsverðið til grundvallar hefði einfaldlega verið kveðið á um það í samningnum, en svo sé ekki. Útreikningar og framsettar tölur á sérstöku skjali merktu ÞE 15. nóv. 2005, eiga einnig litla skírskotun til raunveruleikans að mati aðalstefnenda. Í dæmaskyni megi nefna að það eigi ekki við nokkur rök að styðjast að helmingur birgða eigi sér innlendan uppruna og helmingur erlendan. Aðalstefnendur leyfa sér að vekja sérstaka athygli á því hve málatilbúnaður gagnstefnanda sé mótsagnakenndur í þessum efnum. Ef rétt sé að raunálagning sé svo miklu hærri en talið var, sem gagnstefnandi vilji vera láta, hefðu fyrirtækin skilað miklu meiri arðsemi á liðnum árum en raunin sé. Leiða megi rök að því að við þær aðstæður hefði verðmæti fyrirtækjanna verið talið miklu meira en samkvæmt kaupsamningnum frá 1. september 2004. Sú staða hefði þannig getað leitt til enn hærra söluverðs fyrirtækjanna en ekki lægra verðs, að mati aðalstefnenda. Með hliðsjón af þessu hljómi það mótsagnakennt að krafist sé stórfelldrar lækkunar kaupverðs vegna gallaðs söluhlutar í skilningi kaupalaga, vegna þess álits gagnstefnanda að álagning á þær vörur sem fyrirtækin selji sé meiri en kaupsamningur aðila hafi gert ráð fyrir. Aðalstefnendur halda því fram í stefnu að gagnstefnanda hafi alltaf mátt vera fullkunnugt um að aðalstefnendur hafi ekki selt honum einkaumboð á Mattel-vörum. Aðrir séu og hafi verið þar um hituna. Enda megi þrautreyndum og menntuðum mönnum á sviði verslunar og viðskipta vera ljóst að einkaumboðum á vörum af þessu tagi sé ekki til að dreifa. Aðalstefnendur geti ekki borið ábyrgð á því hvernig aðrir aðilar á smásölumarkaði hagi sér eftir að hið selda var afhent. Ekki frekar í þessu tilviki frekar en endranær beri aðalstefnendur sem seljendur áhættuna sem fylgi rekstrinum eftir afhendingu. Þá er því mótmælt sem fráleitu sem gagnstefnandi slái fram í skjali sínu að TB heildverslun ehf. sé eitthvert gervifyrirtæki. Þetta hljóti að vera sett fram gegn betri vitund enda fyrirtækið í rekstri á hans vegum síðustu tvo mánuðina. Gagn-stefnanda hafi mátt vera fullkunnugt um að allar birgðir TB heildverslunar ehf. hafi verið seldar Leikbæ ehf. og þær birgðir taldar sem birgðir Leikbæjar samkvæmt sérstöku ákvæði í samningi aðila, eða eins og segi í 3. mgr. gr. 4.2 í samningi: „Við mat á verðmætum birgða TB og LB skal nota útsöluverð seljanlegra (kúrant) birgða LB með virðisaukaskatti og deila í það með stuðlinum 2,1 ...“ Hugleiðingar gagnstefnanda í skjalinu um væntingar er lúti að hagnaði TB heildverslunar ehf. eigi sér enga skírskotun til samnings aðila. Aðalstefnendur hafi engu lofað um hagnað fyrirtækisins enda ekki í þeirra valdi að ráða því hvernig til takist á árinu 2005 svo dæmi sé tekið úr þessu skjali gagnstefnanda. Tölur um rekstrarafgang beggja einkahlutafélaganna upp á 38 milljónir séu hugarsmíð gagnstefnanda sem aldrei hafi fyrr fyrir augu aðalstefnenda komið auk þess sem hann eigi sér enga samsvörun í ársreikningum félaganna sem hafi verið gagnstefnanda aðgengilegir við kaupin. Fullyrt er af hálfu aðalstefnenda að þau hafi aldrei gefið í skyn hvað þá fullyrt að unnt væri að ná slíkum hagnaði af rekstri félaganna auk þess sem gagnstefnanda hefði verið í lófa lagið að fletta ofan af slíku skrumi hefði því verið slengt fram. Margföldunarstuðull upp á 4,65 eigi síðan ekki við nein rök að styðjast né kannist aðalstefnendur við að hafa séð honum bregða fyrir áður vegna kaupa gagnstefnanda á hlutafé fyrirtækjanna tveggja. Félögin hafi verið seld af aðalstefnendum á grundvelli mats þeirra á verðmæti þeirra sem hafi byggst á skoðun þeirra á rekstarhæfni fyrirtækjanna, arðsemi þeirra og eignum sem þau hafi þekkt mjög vel eftir að hafa rekið Leikbæ ehf. um langt árabil og TB heildverslun ehf. frá stofnun. Aðalstefnendur hafi ekki verðlagt fyrirtækin á grundvelli neins margfeldis af hagnaði eða veltu eða öðru slíku og enn síður af verðmæti einhverra birgða. Aðalstefnendum sé ekki ljóst hvað gagnstefnandi á við með því að vefengja það hvert vinnuframlag eigenda í hópi seljenda hafi verið. Í annan stað sé því mótmælt sem röngu að það hafi verið umsamið að launakostnaður hefði átt að lækka um 10 milljónir. Það að margfalda svo meint ofmat á launakostnaðarsparnaði með einhverjum margföldunarstuðli er gersamlega fjarri öllum raunveruleika að mati aðalstefnenda. Um önnur atriði sem rakin eru í kostgæfnisathugun Þorvarðar tekur að mati aðalstefnenda vart að fjölyrða en þeim er mótmælt sem röngum og raunar telja aðalstefnendur að sum þeirra sæti mikilli furðu. Þannig sé gagnstefnanda fullkunnugt um að eldra bókhald félaganna sé til staðar í kjallara Faxafens 11 þar sem það sé í kössum merktum hverju ári fyrir sig og að aðalstefnendur haldi engum bókhaldsgögnum leyndum fyrir gagnstefnanda. Bókhald ársins 2004 sé hjá bókhaldara félagsins þar sem það sé aðgengilegt í tölvukerfi hans og um það sé gagnstefnanda fullkunnugt að aðalstefnendur hafi lýst því yfir að þau munu annast persónulega um uppgjör til bókhaldara fyrirtækjanna m.v. 31. ágúst 2004. Vegna mótmæla er lúta að meintri gagnaeyðingu af minnisdiski tölvu skuli áréttað að engin slík eyðing hafi átt sér stað. Í nefndri vél hafi verið vistuð gögn er lúti að launagreiðslum og söluyfirliti. Hvort tveggja hafi verið til staðar við afhendingu vélarinnar. Aðdróttunum um gagnaeyðingu og óreiðu og lögbrot er vísað á bug sem ósæmilegum. Með vísan til alls þess sem þegar hefur verið rakið er því eindregið mótmælt sem röngu að nokkrum galla í skilningi kaupalaga sé til að dreifa eða nokkurt annað tilefni sé fyrir gagnstefnanda að beita vanefndaúrræðum kaupalaga. Með vísan til þess og efnis samnings aðila frá 1. september 2004 og viðauka við hann frá 2. og 15. september 2004 er þess krafist að fallist verði á dómkröfur aðalstefnenda og gagnstefnandi þannig dæmdur til réttra efnda á samningi aðila. Við túlkun á efni samnings aðila ber að mati aðalstefnenda að hafa í huga þann gríðarlega aðstöðumun sem sé milli aðila í þessum viðskiptum. Aðalstefnendur séu verslunarmenn sem sinnt hafi rekstri leikfangabúða um starfsævina án þess að leita sér sérstakrar langskólamenntunar eða víðtækari rekstrarreynslu. Forsvarsmenn gagnstefnanda séu á hinn bóginn næsta sérfróðir á sviði viðskipta, hver á sínu sviði, þannig að saman myndi þeir mjög sterka einingu. Þannig mun Elías Þorvarðarson hafa verið verslunarstjóri stórrar smásöluverslunar, Nettó í Mjódd, og því gerkunnugur verslunarrekstri. Þorvarður Elíasson hafi verið skólastjóri Verzlunarskóla Íslands í aldarfjórðung og því eðli máls samkvæmt gerkunnugur öllu er við komi rekstri fyrirtækja, einkum á sviði viðskipta. Bjarni Þorvarðarson hafi síðan starfað um langt árabil við kaup og sölu fyrirtækja, meðal annars á vegum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og síðar dótturfélaga Íslandsbanka hf. Þar á meðal hafi hann veitt fyrirtækinu Talenta hf. forstöðu en starfsemi þess hafi fyrst og fremst falist í kaupum á eignarhlutum í fyrirtækjum. Síðasta árið hafi Bjarni síðan starfað sem sérstakur fjárfestingarráðgjafi Kenneth Peterson sem hafi átt og rekið Norðurál hf. auk ýmissa annarra fjárfestinga. Sé til efs að margir séu þrautkunnugri Bjarna í kaupum á fyrirtækjum. Að mati aðalstefnenda leiddi þessi munur til þess að samningur málsaðila sé um flest einkar hagfelldur gagnstefnanda þannig að ef á annan halli sé það á aðalstefnendur. Í samningnum séu til að mynda gerðar mun stífari kröfur til þeirra heldur en vænta mætti ef fullt jafnræði hefði ríkt milli aðila. Í dæmaskyni megi nefna að einum aðalstefnenda, Jóni Páli Grétarssyni, hafi verið ætlað samkvæmt samningnum að vinna launalaust út október 2004, sem hann og gerði, og síðan að vera gagnstefnanda til ráðgjafar út árið 2005 gegn mjög hóflegri þóknun, sbr. grein 4.3 í samningi aðila. Eins hafi börn og makar aðalstefnenda mátt láta af störfum fyrirvaralaust án nokkurs uppsagnarfrests eða annarra réttinda sem kjarasamningur áskilur verslunarmönnum. Aðalstefnendum hafi verið gert að ráðstafa hagsmunum þessara skyldmenna sinna þannig að þeim hafi borið að falla frá kröfum um laun eða önnur fríðindi frá afhendingardegi, sbr. grein 4.5. Loks hafi aðalstefnendum verið gert að undirrita mjög íþyngjandi samkeppnishömlur samkvæmt 5. gr. samningsins. Með hliðsjón af þessu sé að mati aðalstefnenda fjarri sanni að þessir feðgar með sína gríðarlegu reynslu af fyrirtækjakaupum og rekstri ásamt fræðilegri þekkingu geti borið fyrir sig að hafa ekki kunnað skil á inntaki samnings sem þeir tóku fullan þátt í að semja og stóðu að. Því ber að taka kröfur aðalstefnenda til greina og dæma gagnstefnanda til réttra efnda á samningi aðila. 5. Um fjárkröfur aðalstefnenda Endanleg fjárkrafa er um réttar efndir kaupverðs í samræmi við 2. gr. í kaupsamning þ.e. 15.000.000 króna. Krafist er dráttarvaxta frá vanskiladegi þann 15. nóvember 2004. 6. Athugasemdir aðalstefnenda. Aðalstefnendur mótmæla í sjálfu sér ekki því að útreikningar gagnstefnanda séu réttir að gefnum þeim útreikningsforsendum sem gagnstefnandi gefur sér. Á því sé einfaldlega byggt, að útreikningsforsendur gagnstefnanda eigi sér sáralitla stoð í samningi aðila eða gefi rétta mynd af sakarefni þessa máls. Að gefnum eigin forsendum, eins og til dæmis þeim sem gagnstefnandi gefur sér, sé hægt að komast stærðfræðilega að allskyns niðurstöðum sem hafi ekkert með viðkomandi úrlausnarefni að gera. Varðandi málatilbúnaðinn hafa aðalstefnendur ekki uppi frávísunarkröfu í máli þessu en telja óhjákvæmilegt að vekja athygli á því að lítt sé skiljanlegt hvað átt sé við af hálfu gagnstefnanda þegar hann heldur því fram að reikniregla samkvæmt gr. 4.2 í kaupsamningi aðila sé tilgreind í töflu sem sett sé fram á bls. 3 í gagnstefnu. Að mati gagnstefndu er óskýrleiki þessi ekki til þess fallinn að koma í veg fyrir að dómur verði lagður á málið og þau sýknuð af gagnkröfum gagnstefndanda enda gagnstefnanda að sanna sitt mál. Nefnd tafla sé vart til að styrkja mál gagnstefnanda sökum nefnds óskýrleika. 7. Lagarök Varðandi lagarök er vísað til reglna samninga- og kröfuréttar um réttar efndir samninga og fjárskuldbindinga. Jafnframt vísa aðalstefnendur til kaupalaga nr. 50/2000 um skyldur gagnstefnanda til efnda og þess að engin rök standi til beitingar vanefndaúrræða af hálfu gagnstefnanda. Þá styðst málsvörnin í gagnsök einkum við sakarreglu skaðabótaréttar og lög nr. 7/1936 sem og meginreglu samningaréttar um réttar efndir gerðra samninga. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 þar sem aðalstefnendur seru ekki virðisaukaskattsskyld og beri þeim því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. IV. Málsástæður og lagarök gagnstefnanda og aðalstefnda. 1. Vörubirgðir. Samkvæmt gr. 4.2 í kaupsamning aðila hafi verið við það miðað að eigið fé félaganna beggja væri hinn 31. ágúst 2004 um það bil það sem greini í hálfsársuppgjörum félaganna 2004, en að auki skyldi gera ráð fyrir duldu eigin fé í birgðum. Reikniregla sú sem miða skyldi við sbr. gr. 4.2 í kaupsamningi sé hér að neðan í fremsta dálki en hafi breyst í uppgjöri beggja aðila 31. ágúst 2004 sem hér greini: Miðað við framangreinda reiknireglu og að teknu tilliti til þeirra fullyrðinga aðalstefnenda er fram koma í gr. 4.1 í kaupsamningi og í kynningu Sigurðar Smára Gylfasonar á fyrirtækinu um fyrirsjáanlegan launasparnað og veltuaukningu vegna Mattel-umboðsins hafi gagnstefnandi samþykkt að greiða 135 milljónir króna fyrir hlutafé félaganna sbr. 2. gr. kaupsamnings. Samkvæmt 3. mgr. gr. 4.2 í kaupsamningi hafi verið gert ráð fyrir að vörubirgðir yrðu taldar á útsöluverði með virðisaukaskatti og í þá útkomu deilt með stuðlinum 2,1 til að fá fram kostnaðarverð vörubirgðanna, en sá stuðull hafi samsvarað 68% álagningu á kostnaðarverð (sem ranglega hafi verið ritað útsöluverð í greininni), en það hafi verið sú meðalálagning, sem aðalstefnendur hafi upplýst að hefði verið á seldum vörum, sbr. kynningu Sigurðar Smára á Leikbæ. Það hafi strax legið ljóst fyrir þegar aðalstefnendur hafi skilað útreikningi á útsöluverði taldra birgða 134.836.723 kr. eða að kostnaðarverði miðað við framan-greindan stuðul 64.207.963 kr. að það verð gæti vart staðist þegar litið væri til kostnaðarverðs vörubirgða skv. fyrri uppgjörum, en vörubirgðir ársreikninga 2003 hafi numið 34.314 þús. kr. og 39.340 þús. kr. hinn 30. júní 2004, og samkvæmt reiknireglu gr. 4.2 í kaupsamningi getað numið 54.340 þús. kr. miðað við þær fullyrðingar aðalstefnenda að þær væru vantaldar um allt að15.000 þús. kr. Séu birgðir hinn 31. ágúst 2004 því reiknaðar 9.867.963 kr. hærri en aðalstefnendur hafi talið að þær gætu numið. Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að kostgæfnisathugun sú er honum bar að vinna ætti ekki aðeins að beinast að því að dulið eigið fé í birgðum félagsins næmi allt að 15 millj. kr. heldur ætti hún einnig að staðreyna að vörubirgðir væru reiknaðar á sem næst kostnaðarverði eins og venja er til í uppgjörum slíkra fyrirtækja, enda sé í uppgjörum hinna seldu félaganna sérstaklega gerð grein fyrir kostnaðarverði seldra vara, sbr. rekstrarreikninga og sundurliðanir kostnaðarverðs seldra vara í framlögðum uppgjörum félaganna. Kostgæfnisathugunin hafi hins vegar leitt í ljós, að álagning sú sem miða skyldi við, þ.e. 68% auk vsk., sem samsvaraði deilistuðlinum 2,1, hafi verið mun lægri en sú álagning sem notuð hafi verið til að finna útsöluverð vörubirgðanna. Stafar þetta af því að birgðaverð einstakra vara hafi verið reiknað miðað við allt aðrar álagningarreglur en raunveruleg sala þeirra hafi skilað félögunum. Í kostgæfnisathugun sinni og athugasemdum sínum frá 15. nóvember 2005 hafi formaður gagnstefnanda gert grein fyrir kostgæfnisathugun þeirri er hann hafi gert á einstökum vöruflokkum, en samkvæmt þeirri athugun hafi reiknistuðullinn verið á bilinu 2,91-3,00 og vörubirgðir því oftaldar um 17.935.113 kr. -19.214.054 kr. Hafi aðalstefnendur ekki mótmælt útreikningum þessum sem röngum, en hafnað því að koma að athugun á málinu. Hafi gagnstefnandi leitast við að komast að nákvæmari útreikningum, en bókhaldi félaganna hafi verið hagað með þeim hætti að erfitt sé að fá fram innkaupsverð einstakra vara og upplýsingar um raunverulegt söluverð úr sölukerfi félaganna, sbr. liði 5 og 6 í kostgæfnisathuguninni. Það hafi þó komið í ljós, að meginálagningarreglan virðist hafa verið sú, sem fram komi á bréfi, sem ritað sé af aðalstefnanda Jóni Páli, en þar segi að útsöluverð innfluttra vara sé fengið með þeim hætti að innkaupsverð þeirra sé margfaldað með 1,1 til að fá út kostnað við fragt og 1,1 til að fá út kostnað vegna tolla, en síðan sé kostnaðarverðið þannig reiknað margfaldað með 1,7 til að fá út heildsöluverð vörunnar og það síðan margfaldað með 2 til að fá út smásöluverðið. Þetta þýði að deilistuðull verði að vera 3,4 í stað 2,1 til að fá út kostnaðarverð varanna. Þá staðfesti talningabók þessa háu álagningu við ákvörðun útsöluverðs Pictionary-vara, sbr. neðst á vörutalningarblaði. Sú vara hafi verið að innkaupsverði 89,38 dk, auk fraktar og tolla, en reiknuð á 4.980 kr. í birgðatalningu. Miðað við gengi dk. þann 30. nóvemer 2004, 11.644 kr., sé innkaupsverð þessarar vörutegundar miðað við framangreinda reiknireglu kr. 1041x1,1x1,1= 1.260 kr. Deilistuðull til að ná fram kostnaðarverði vörunnar 1.260 kr. sé því 3,95. Fyrir liggur að TB heildverslun hafi selt þessa vörutegund á 2.800 kr., sbr. sölureikning 10. ágúst 2004. Þá verði ekki betur séð en að aðalstefnendur hafi reiknað vörubirgðir TB heildverslunar, bæði þær sem hafi verið seldar Leikbæ ehf. og eigin birgðir sem taldar hafi verið 2,3 millj. kr. í uppgjöri 31.8.2004 á samsvarandi útsöluverði Leikbæjar ehf. með virðisaukaskatti. Ljóst megi vera að forsendur gagnstefnanda fyrir kaupunum hafi verið þær að vörubirgðir væru reiknaðar á sem næst raunverulegu kostnaðarverði eins og uppgjör félaganna bendi til að hafi verið gert, enda færi annað í bága við 16. og 28. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994 og 26. og 27. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga, 4. tl. 73. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt og 2. gr. reglugerðar nr. 483/1994 um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri. Þá komi fram í útreikningi vörutalningar, að aðalstefnendur telji talninguna sýna kostnaðarverð birgðanna. Hafi því gagnstefnandi verið í góðri trú um að deilistuðull sá sem aðalstefnendur hafi talið samsvara meðalálagningu seldra vara myndi reikna raunverulegt kostnaðarverð vara eins og uppgjör félaganna hafi sýnt. Skuli í þessu sambandi einnig benda á að ársreikningur Leikbæjar ehf. árið 2003 sé áritaður sem endurskoðaður af endurskoðanda félagsins. Aðalstefnendum sé ljóst að álagning útsöluverðs vörubirgða samkvæmt talningu sé hærri en sú álagning sem fram komi í 3. mgr. gr. 4.2 í kaupsamningi, en telji að stuðullinn 2,1 sé ófrávíkjanlegur, þar sem um hann hafi verið samið. Sé skýring þeirra á hinni lágu meðalálagningu sú, að lækkunin stafi af útsölum, tilboðum, rýrnun, verðsveiflum innan árs o.s.frv. Aðalstefnendur réttlæti stuðul þennan með því að 68% álagning hafi verið sú álagning, sem ársreikningar Leikbæjar hafi sýnt, sbr. yfirlit um meðalálagningu. Gagnstefnandi mótmælir þessu sjónarmiði og telur að þessi aðferð á útreikningi birgða sé ekki í samræmi við lög og reglur og þýði í raun að gagnstefnanda sé gert að taka á sig með þessum hætti alla framtíðarbreytingar á verði vörubirgðanna, svo sem óorðna rýrnun, lækkun vegna útsöluverðs og annað sem aðalstefnendur segja að valdi lækkun á álagningu seldra vara. Þá er nefndu yfirliti um meðalálagningu mótmælt sem þýðingarlausu auk þess sem bent er á að það nái til fleiri ára en miða hafi átt við skv. Kaupsamningi, auk þess sem óskýrður sé mismunur á vörukaupum 2003 og 2004 miðað við uppgjör Í málinu sé lagt fram lokauppgjör á eiginfjárstöðu félaganna hinn 31. 8. 2004, sem byggi á meðaltali deilistuðla samkvæmt niðurstöðu kostgæfnisathugunar og athugasemda Þorvarðar 15. nóv. 2004 að því er verðmæti birgða varði. Samkvæmt því og með tilliti til umsaminna vikmarka eigi gagnstefnandi kröfu um lækkun kaupverðs sem nemur 17.870.555 kr. Með vísan til framangreinds sé aðalkrafa gagnstefnanda í máli þessu sú að aðalstefnendum verði gert að þola endurmat kaupverðs skv. 2. gr. kaupsamnings aðila til lækkunar vegna oftalinna vörubirgða um 18.370.555 kr. að frádregnum umsömdum vikmörkum skv. 4. mgr. 2. tl. 4. gr., 500.000 kr. Nemi því krafa gagnstefnanda samkvæmt þessum kröfulið 17.870.555 kr. með dráttarvöxtum frá 15. nóvember 2004 og komi til skuldajöfnunar við eftirstöðvakröfu aðalstefnenda og sjálfstæðst dóms fyrir mismuninum. Verði á það fallist að gagnstefnandi sé bundinn af tilgreindum deilistuðli skv. 3. mgr. gr. 4.2 og að útsöluverð birgða sé rétt tilgreint í vörutalningu, þýði það að öll hækkun vörubirgða umfram kostnaðarverð eða dagverð, sbr. tilvitnuð lög, verði að teljast hækkun yfirverðs kaupanda umfram það sem reikniregla í gr. 4.2 í kaupsamningi geri ráð fyrir. Því sé gerð sú varakrafa að ákvæði 4.1 og 4.2 verði skilin svo að vörubirgðir verði aldrei reiknaðar á hærra verði en sem nemi eignfærðum birgðum samkvæmt bókhaldi félaganna hinn 30. júní 2004 eða 39.340.000 kr. að viðbættri hækkun birgða að hámarki 15 milljónum kr. eða alls 54.340.000 kr. Samkvæmt því verði endurmetið eigið fé sem hér segir: Eigið fé Leikbæjar ehf. 8.991.121 Eigið fé TB heildverslunar 8.536.520 Leiðréttingar við uppgjör (1.811.630) Dulið eigið fé í birgðum 15.000.000 30.716.011 Vegna lækkunar á eigin fé félaganna og leiðréttinga við uppgjör eigi því kaupverðið að endurmetast til lækkunar um 11.296.60 kr., vikmörk 500.000 kr. Krafan sé því 10.796.601 kr. Á það sé og bent að sé miðað við birgðamat aðalstefnenda við útreikning á kostnaðarverði seldra vara á tímabilinu 1. janúar 2003- 31. ágúst 2004 verði meðalálagning tímabilsins mun hærri en 68%, og birgðir því oftaldar sem því nemi. 2. Hagræðing launakostnaðar. Eins og fram komi í gr. 4.1 í kaupsamningi hafi aðalstefnendur fullyrt að kaupin myndu leiða til hagræðingar í launakostnaði á ársgrundvelli m.t.t. þess að tveir af þremur eigendum hefðu verið lítið sem ekkert virkir í vinnu sl. tvö ár. Samkvæmt 4. tl. kostgæfnisathugunarinnar hafi verið gert ráð fyrir að launa-kostnaður myndi lækka um 10 millj. kr. á ári, sbr. kynningu Sigurðar Smára á Leikbæ. Niðurstaða kostgæfnisathugunarinnar hafi verið að nær lagi væri að áætla að sú tala gæti orðið 6 millj., þar sem í reynd væru tveir af þremur eigendum í vinnu og að framkvæmdastjóri félgsins hefði þurft að sinna störfum hins þriðja að verulegu leyti án þess að fá greiðslu fyrir þau störf. Samkvæmt kynningunni hafi aðalstefnendur gert ráð fyrir að EBITDA félaganna væri 15.238 kr. fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2004, sem miðað við heilt ár næmi því 30.476 þús. kr. Fyrir félögin hafi kaupandi greitt 135.000.000 kr. eða sem svari 4,43 falda EBITUNA. Miðað við að sparnaður nemi aðeins 6.000.000 kr. í stað 10.000.000 kr. lækki EBITAN í 26.476 kr. Kaupverðið miðað við sama margföldunarstuðul ætti því að lækka í 117.300.000 kr. eða um 12.700.000 kr. Sé krafa samkvæmt þessum lið því lækkun kaupverðs um 12.700.000 kr. 3. Aukning veltu TB heildverslunar. Í gr. 4.1 í kaupsamningi og kynningunni sé fullyrt af aðalstefnendum að gagnstefnandi geti vænst verulegrar aukningar veltu- og hagnaðar vegna Mattel-umboðsins. Samningur við Mattel-umboðið hafi runnið út um síðastliðin áramót og séu fulltrúar umboðsins væntanlegir til viðræðna um framhaldið. Á þessu stigi sé því ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort fullyrðingar aðalstefnenda komi til með að standast. 4. Samantekt kröfuliðar 1. Aðalkrafa er mynduð af kröfu gagnstefnanda um leiðréttingu eigin fjár vegna oftalinna vörubirgða, sbr. lið 1. 17.870.555 krónur og kröfu um leiðréttingu eða afslátt á kaupverði vegna fullyrðingar aðalstefnenda um hagræðingu vegna launakostnaðar, sbr. lið 2 12.240.000 krónur eða samtals 30.110.555 krónur. Varakrafa er með sama hætti mynduð í samræmi við málsástæður í lið 1 10.796.601 króna og lið 2 12.240.000 krónur eða samtals 23.036.601 króna. 5. Sérstakar athugasemdir gagnstefnanda varðandi stefnu málsins. Mótmælt er þeirri málsástæðu aðalstefnenda, er fram kemur í stefnu, að skilja beri kaupsamning aðila svo að gagnstefnanda hafi borið að ljúka kostgæfnisathugun skv. gr. 4.1 fyrir 15. september 2004. Gagnstefnandi telur að ákvæði þetta beri að túlka svo að hér sé verið að ákvarða greiðsludag, sem ekki sé bindandi tímamörk til kostæfnisathugunar. Hefði verið óframkvæmanlegt að ljúka kostgæfnisathugun fyrir þann tíma. Þá vísar gagnstefnandi til 1. mgr. 31. gr. og 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að honum hafi verið heimilt að halda eftir ógreiddu kaupverði, sbr. 42. gr. sömu laga. Að því er varðar mat á vörubirgðum félaganna sé meginágreiningur aðila fólginn í því að aðalstefnendur telji að svo hafi verið um samið að útsöluverð birgða ætti að miðast við aðra álagningu en þá raunálagningu sem hefði verið í félaginu sem aðalstefnendur telja að hafi verið 68%. Þannig sé útsöluverð innfluttra vörubirgða, reiknað miðað við 70% álagningu á innkaupsverð til að fá út heildsöluverð og síðan 70% (vsk. innifalinn) ofan á það verð til fá út smásöluverð. Með því að reikna útsöluverðið með þessum hætti og lækka það aðeins með stuðlinum 2,1, þ.e. miðað við 68% álagningu auk virðisaukaskatts, reiknast vörubirgðir mun hærri að verðmæti en kostnaðarverð, sem um leið hafi það í för með sér að seljendur fái stærri hluta af álagningunni til sín en þeim beri, þar sem það lendi síðan á kaupanda að gefa afslátt, taka á sig rýrnun o.fl. 6. Lagarök. Varðandi lagarök er byggt á meginreglum samninga- og kröfuréttar um réttar efndir samninga og fjárskuldbindinga. Þá er vísað til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 30., 33. gr. og 36. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, vanefndaúrræði kaupanda, einkum 30., 38. og 40 gr. Varðandi vaxtakröfu er vísað til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991. V. Forsendur og niðurstaða. Ágreiningur málsins lýtur að túlkun á samningi er málsaðilar gerðu 1. september 2004. Aðalstefnendur telja að túlka eigi samninginn eftir orðum sínum þannig að gagnstefnandi eigi að greiða eftirstöðvar kaupverðs sem tilgreint er í 2. gr. samningsins, en gagnstefnandi telur að lækka eigi kaupverðið vegna fyrirvara sem gerðir voru í kaupsamningnum og snertu mat á birgðum og hagræðingu í launakostnaði. Eins og að framan greinir var samningur sá er um er deilt gerður 1. september 2004. Andlag hins selda var allt hlutafé aðalstefnenda í Leikbæ ehf., að nafnvirði 500.000 krónur og TB heildverslun ehf., einnig að nafnverði 500.000 krónur. Í samningnum var miðað við og vísað til ársreikninga beggja félaganna fyrir árið 2003 og óendurskoðaðra rekstrar- og efnahagsreikninga fyrir fyrstu 6 mánuði árins 2004 og eru þessi gögn fylgiskjöl með samningnum. Þannig lá fyrir að verið var að kaupa fasteignir, bæði í Reykjavík og í Hafnarfirði, bifreiðar, vörubirgðir, viðskiptakröfur og fleira án þess að eignir þessar væru nokkuð skilgreindar með öðrum hætti en með tilvísun til nefndra ársreikninga félaganna. Um var samið að endurgjald fyrir hið selda skyldi vera 135.000.000 króna og meginþorra þeirrar fjárhæðar eða 120.000.000 króna bar gagnstefnanda, samkvæmt a. lið 2. gr. samningsins, að greiða „þegar fyrirvörum samkvæmt 4. gr. í samningi þessum hefur verið fullnægt að mati kaupanda eða í síðasta lagi við afhendingu hins selda samkvæmt 3. gr. samnings þessa“. Þau atriði sem gagnstefnandi byggir á til lækkunar kaupverðsins eiga sér stoð í forsendum og fyrirvörum sem tilgreindir eru í 4. gr. samningsins og er þá einkum byggt á gr. 4.2 varðandi birgðamatið og kostgæfnisathugun sem gagnstefnandi gat gert skv. gr. 4.1. Samkvæmt 3. gr. samningsins skyldi afhending hins selda vera eigi síðar en 15. september 2004, „enda hafi fyrirvarar þeir og forsendur þær sem getið er um í samningi þessum verið uppfylltir fyrir þann tíma.“ Tilgreind samningsákvæði kveða á um skyldur beggja samningsaðila og gera ráð fyrir að engar skyldur verði inntar af hendi, án þess að fullnægt sé þeim fyrirvörum og uppfylltar þær forsendur sem getið er um í 4. gr. samningsins. Fyrir liggur í málinu, að hið selda var afhent 15. september 2004 og þann dag greiddi gagnstefnandi umsamda fjárhæð skv. viðaukasamningi frá 15. september 2004 eða 116.400.000 krónur. Þá liggur einnig fyrir, að þann dag var engum athugasemdum hreyft af hálfu gagnstefnanda er vörðuðu fyrirvara þá sem um getur í 4. gr. samningsins. Dómurinn lítur svo á, að túlka beri samning málsaðila þannig að gagnstefnanda hafi borið að gera þær kröfur sem hann hefur uppi í gagnsök áður en meginþorri kaupverðsins eða 116.400.000 króna var inntur af hendi. Með því að gagnstefnandi lét það hjá líða ber hann hallann af því. Þá máttu aðalstefnendur einnig treysta því, að allir fyrirvarar skv. 4. gr. samningsins yrðu útkljáðir, áður en til afhendingar hins selda kæmi, en það hvíldi á gagnstefnanda að gera gangskör að þeim atriðum sem nefnd eru í gr. 4.1 og 4.2 í samningnum. Dómurinn hafnar þeirri málsástæðu gagnstefnanda, að ekki hafi reynst nægur tími né gögn legið fyrir á fyrstu 15 dögum septembermánaðar til að vinna þá vinnu sem þurfti og liggur til grundvallar kröfu hans um lækkun kaupverðsins. Eins og að framan greinir gerir samningurinn einmitt ráð fyrir að fyrirvararnir samkvæmt 4. gr. yrðu útkljáðir áður en aðilar inntu skyldur sínar af hendi og því var ekkert samkvæmt samningnum sem batt málsaðila við að ganga frá viðskiptunum 15. september 2004, ef fyrirvörunum væri ekki fullnægt. Á þetta sér einnig stoð í b. lið 2. gr. samningsins, en þar segir að greiða beri lokagreiðsluna 15.000.000 króna „tveimur mánuðum eftir afhendingu“ án þess að ákveðin dagsetning sé tilgreind. Þá liggur fyrir að birgðatalning sú sem endurskoðendur hjá KPMG endurskoðun hf. voru viðstaddir fyrir hönd gagnstefnanda fór fram þann 2., 11., og 12. september 2004. Dómurinn telur því að gagnstefnanda hefði verið unnt að fresta greiðslu kaupverðsins og þar með afhendingu hins selda um einhverja daga, hefði hann viljað kanna fyrirvarana betur. Þegar á allt þetta er litið telur dómurinn að taka eigi kröfu aðalstefnenda um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðsins 15.000.000 króna sem greiða átti 15. nóvember 2004 til greina. Þá eru ekki efni til annars en að taka einnig til greina vaxtakröfu aðalstefnenda sem byggð er á III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, enda hefur krafa þessi ekki sætt mótmælum af hálfu gagnstefnanda. Í gagnstefnu gerir gagnstefnandi kröfu um lækkun á kaupverði, annars vegar kröfu um leiðréttingu eigin fjár vegna ofreiknaðra birgða og er sú krafa aðallega að fjárhæð 17.870.555 krónur en til vara 10.796.601 krónur og hins vegar er krafa vegna fullyrðinga aðalstefnenda um hagræðingu vegna launakostanaðar að fjárhæð 12.240.000 króna. Aðakrafan er því samtals að fjárhæð 30.110.555 krónur og varakrafan að fjárhæð 23.036.601 krónur. Þá er þess jafnframt krafist að dæmd krafa gagnstefnanda komi til skuldajafnaðar við kröfu aðalstefnenda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs en að öðru leyti til sjálfstæðs dóms. Kröfur gagnstefnanda eiga sér stoð í gr. 4.1 og 4.2 í kaupsamningi aðila frá 1. september 2004. Samkvæmt gr. 4.2 er með skýrum hætti samið um hvernig staðið skuli að útreikningum á verðmæti birgðanna og má ljóst vera af forsendum þeim er þar voru gefnar að það verð gat aldrei leitt fram kostnaðarverð birgðanna. Eins og að framan greinir þá er niðurstaða dómsins í aðalsök sú að útkljá hefði átt allan hugsanlegan ágreining byggðan á forsendum og fyrirvörum í 4. gr. kaupsamningsins áður en greiðsla meginþorra kaupverðsins og afhending félaganna fór fram. Gagnstefnandi hélt ekki þessum rétti sínum til haga í tæka tíð. Kröfur gagnstefnanda í gagnsök eru því of seint fram komnar miðað við samning málsaðila og ber því að sýkna aðalstefnendur af öllum kröfum gagnstefnanda. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur dómurinn að gagnstefnanda beri að greiða aðalstefnendum 15.000.000 króna. Aðalstefnendur eru sýknaðir af öllum kröfum gagnstefnanda. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður gagnstefnanda gert að greiða aðalstefnendum málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 850.000 krónur. Af hálfu aðalstefnenda flutti málið Björn L. Bergsson hrl. Af hálfu gagnstefnanda flutti málið Helgi V. Jónsson hrl. Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari, Helgi Sigurðsson hrl. og Sigurður Pálmi Sigurðsson, löggiltur endurskoðandi, kváðu upp dóm þennan. DÓMSORÐ Gagnstefndandi, Skauti ehf., greiði aðalstefnendumJóni Páli Grétarssyni, Eiríki Inga Grétarssyni og Þorgerði Arnórsdóttur 15.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 15. nóvember 2004 til greiðsludags. Gagnstefnandi greiði aðalstefnendum 850.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 528/2015 | Kærumál Nauðungarvistun | Með kröfu, sem dagsett er 2. ágúst sl. og barst réttinum 4. ágúst sama ár, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 2. ágúst sl., um að hann skuli vistast á sjúkrahúsi. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Málið var þingfest í dag og tekið samdægurs til úrskurðar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. ágúst 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 2015, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 2. ágúst 2015 um að sóknaraðili skyldi vistaður á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Sóknaraðili var með samþykki innanráðuneytisins 2. ágúst 2015 vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum í allt að 21 sólarhring frá þeim tíma samkvæmt heimild í 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. lögræðislaga. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun verjanda sóknaraðila, Jóns Bjarna Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, og talsmanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 386/2010 | Málskostnaðartrygging Frávísun frá Hæstarétti | Máli þrotabús S ehf. gegn H ehf., GK, GRR og F ehf. var vísað frá Hæstarétti þar sem málskostnaðartrygging var ekki afhent innan frests sem þrotabú S ehf. hafði til þess að setja hana. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2010. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér aðallega 21.558.798 krónur, en til vara 6.128.845 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndu hafa aðallega krafist staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, var bú Sog-veitinga ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 1. febrúar 2011. Af því tilefni kröfðust stefndu 15. sama mánaðar að áfrýjanda yrði gert með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fallist var á þá kröfu og áfrýjanda veittur þriggja vikna frestur til að afhenda skilríki fyrir tryggingunni, sem var ákveðin 1.000.000 krónur. Sú trygging hefur ekki verið sett og ber því samkvæmt 3. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr. sömu laga að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Áfrýjandi, þrotabú Sog-veitinga ehf., greiði stefndu Húsgörðum ehf., Garðari Kjartanssyni, Guðbjörgu R. Róbertsdóttur og Fasteignamarkaðinum ehf., hverjum fyrir sig 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2010. I Mál þetta var höfðað 2. apríl 2009 og dómtekið 19. febrúar 2010. Stefnandi er Sog-veitingar ehf., Þrastarlundi, Selfossi, en stefndu eru Húsgarðar ehf., Neðstaleiti 8, Reykjavík, Garðar Kjartansson, Strandvegi 21, Garðabæ, Guðbjörg R. Róbertsdóttir, Sautjándajúnítorgi 1, Garðabæ, og Fasteignamarkaðurinn ehf., Óðinsgötu 4, Reykjavík. Réttargæslustefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu verði insolidum dæmd til að greiða stefnanda 21.558.798 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda málskostnað. Varakrafa stefnanda er að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 6.128.845 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda málskostnað. Dómkröfur stefndu Húsgarða ehf. og Garðars Kjartanssonar eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað. Til vara krefjast þeir þess að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður. Dómkröfur stefndu Guðbjargar R. Róbertsdóttur og Fasteignamarkaðarins ehf. eru þær aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað. Til vara krefjast þau þess að þau verði sýknuð að svo stöddu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað og til þrautavara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og gerir hann engar kröfur í málinu. Aðalkröfur stefndu voru í upphafi þær að málinu yrði vísað frá dómi. Með úrskurði uppkveðnum 30. október 2009 var frávísunarkröfum stefndu hafnað að mestu leyti en samþykkt að vísa frá dómi þeirri varakröfu stefnanda að viðurkennt væri að stefndu skyldu in solidum halda stefnanda skaðlausum af öllum kröfum sem stefnandi þyrfti að greiða til Ungmennafélags Íslands á grundvelli nánar tilgreindrar yfirlýsingar. II Málavextir eru þeir helstir að stefndi Fasteignamarkaðurinn ehf. fékk veitingarekstur Þrastarlundar í Grímsnesi til sölumeðferðar í apríl 2007. Eigandi þess reksturs var Húsgarðar ehf., sem hafði keypt reksturinn 29. september 2005 af Snorra Sigfinnssyni fyrir hönd Þrastarlundar ehf. Eigandi fasteignarinnar var Ungmennafélag Íslands. Stefnandi leitaði til stefnda Fasteignamarkaðarins ehf. með kaup í huga og fóru tilboð á milli hans og seljanda eftir að stefnandi hafði skoðað eignina. Með kaupsamningi 16. maí 2007 keypti stefnandi af stefnda Húsgörðum ehf., nánar tilgreindar eignir: „Nafn, veitingarekstur og viðskiptavild í Þrastarlundi í Grímsnesi auk allra þeirra hluta sem eru í eigu seljanda til reksturs veitingahúss.“ Þá er sérstaklega tekið fram að bifreiðar í eigu rekstrarins fylgi ekki með í kaupunum. Til viðbótar tækjalista sem kaupendum hafði verið afhentur skyldu fylgja með í kaupunum ýmis tæki og tól sem tilgreind eru í kaupsamningnum. Þá kemur fram í kaupsamningi þessum að kaupandi yfirtaki frá og með kaupsamningsdegi öll réttindi og skyldur seljanda samkvæmt leigusamningi sem í gildi sé um húsnæðið er hýsi veitingahúsið Þrastarlund og lausamuni sem rekstrinum fylgi en séu í eigu leigusala. Ekki sé verið að kaupa kennitölu seljanda, stefnda Húsgarða ehf., skuldir eða aðrar skuldbindingar fyrri eigenda að öðru leyti en því að gildandi leigusamningur sé yfirtekinn. Kaupverðið var 34.000.000 króna sem skyldi greiðast við undirritun samningsins, helmingur með peningum og helmingur með skuldabréfi. Samkvæmt skuldabréfinu eru skuldarar Jónas Lúðvíksson, Mark Kristján Brink, Hrannar Jónasson og Kristjana O. Valgeirsdóttir en þau voru öll í stjórn stefnanda og kröfuhafi samkvæmt bréfinu er stefndi Garðar Kjartansson sem er fyrirsvarsmaður stefnda Húsgarða ehf. Gengið var frá yfirtöku stefnanda á leigusamningi um húsnæðið við leigusalann Ungmennafélag Íslands hinn 4. október 2007 með undirritun leigusala, stefnanda og stefnda Húsgarða ehf. á yfirlýsingu um samþykki fyrir yfirtöku húsaleigusamnings o.fl. með skilyrðum. Stefnandi taldi sig hafa þurft að undirrita umrædda yfirlýsingu þar sem stefnanda væru settir afarkostir, að öðrum kosti hefði leigusali ekki samþykkt yfirtökuna. Stefnandi taldi að um breytingar hafi verið að ræða á leigusamningi frá því að kaupsamningur var gerður og gerði athugasemdir við það með bréfi sama dag til leigusalans og stefndu Garðars, Húsgarða ehf., og Fasteignamarkaðarins ehf. og áskildi sér allan rétt í því sambandi. Í samræmi við yfirlýsinguna um yfirtöku húsaleigusamningsins lagði stefnandi svo fram ábyrgðaryfirlýsingu Kaupþings banka hf., dagsetta 8. október 2007, þar sem bankinn samþykkti ábyrgð á leigugreiðslum stefnanda gagnvart leigusala, Ungmennafélags Íslands, fyrir að allt að 4.993.166 krónum. Í tilefni af fyrrgreindu bréfi stefnanda í kjölfar frágangs á yfirtöku leigusamningsins ritaði leigusali honum bréf 18. des. 2007, sem stefndu Húsgarðar ehf. og Fasteignamarkaðurinn ehf. fengu afrit af og kom þar meðal annars fram að hann hefði ekki veitt formlegt samþykki fyrir aðilaskiptum að leigusamningi fyrr en í októbermánuði 2007 og kom sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi yfirtöku leigusamnings og skyldur leigutaka samkvæmt honum. Stefndu Guðbjörg og Fasteignamarkaðurinn ehf. halda því fram að stefnandi hafi lagt mikla áherslu á að ganga frá kaupunum og undirrita kaupsamning áður en sumarvertíð hæfist og hafi ekki verið gengið frá yfirtöku á húsaleigusamningi fyrir þann tíma en leigusali hafi lagt áherslu á að félagið gengi sjálft frá slíkri yfirtöku. Hafi stefnanda verið kynnt þessi afstaða félagsins og honum ráðlagt að fara til fundar við leigutaka til að kynna sér skilyrði yfirtökunnar og hafi aðilar á vegum stefnanda farið á fund leigusala áður en kaupsamningur var gerður. Af hálfu stefndu er því haldið fram að við söluna hafi verið farið yfir öll þau gögn sem vörðuðu þá eign sem verið var að selja og þá samninga sem tengdust henni, og hafi þeir samningar og söluyfirlit legið frammi við kaupsamningsgerðina. Hafi stefnanda því verið kunnugt um alla samninga, meðal annars um tilvist fjármögnunarleigusamnings við Glitni hf. og þá skyldu sem hvíldi á leigutaka um greiðslur af þeim samningi. Hinn 13. mars 2008 sendi lögmaður stefnanda stefndu, Húsgörðum ehf., Garðari og Fasteignamarkaðinum ehf., bréf þar sem komið var á framfæri óánægju stefnanda vegna meintra vanefnda vegna sölunnar og var því bréfi svarað af hálfu stefnda Fasteignamarkaðarins með bréfi 25. mars 2008. Hinn 12. júní 2008 barst stefnanda innheimtubréf frá lögmanni Ungmennafélags íslands vegna ógreiddra reikninga vegna fjármögnunarleigu hjá Glitni. Lögmaður stefnanda sendi stefndu Húsgörðum ehf., Garðari og Fasteignamarkaðinum ehf. innheimtubréf þann 29. júlí 2008 og var því bréfi svarað af hálfu stefnda Fasteignamarkaðarins ehf. 8. ágúst 2008. Í máli þessu krefur stefnandi alla stefndu um greiðslu bóta vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna kaupa sinna á rekstri veitingahússins Þrastarlundar. Hafi hið selda verið gallað og á því beri stefndu Húsgarðar ehf. og Garðar Kjartansson ábyrgð sem seljendur og stefndu Guðbjörg Róbertsdóttir og Fasteignamarkaðurinn ehf. beri ábyrgð á tjóni stefnanda vegna vanrækslu þeirra á að sinna lögbundnum starfsskyldum sínum. III Stefnandi sundurliðar aðalkröfu sína svo: Hvað snertir lið 1 þá sé um að ræða eldhústæki samkvæmt tækjalista sem fylgt hafi með kaupsamningi en komið hafi í ljós að væru í eigu Glitnis samkvæmt fjármögnunarleigusamningi og muni Ungmennafélag Íslands eignast tækin að leigutíma loknum. Þar sem ljóst sé að tækin hafi verið seld stefnanda með vanheimild eigi stefnandi rétt á skaðabótum sem jafngildi verðmæti þeirra. Í fjármögnunarleigusamningi séu tækin metin á 4.000.000 króna eða 4.980.000 krónur með virðisaukaskatti. Fjárhæð í lið 2 jafngildi eftirstöðvum fjármögnunarleigusamningsins við Glitni miðað við stöðu hans þann 15. mars 2009. Þar sem stefnanda hafi verið tjáð að hann geti ekki haldið húsaleigusamningnum við Ungmennafélag Íslands og þar með haldið hinum keypta rekstri gangandi nema greiða framangreinda fjárhæð hafi hann orðið fyrir tjóni sem nemi þeirri fjárhæð. Fjárhæð í lið 3 jafngildi gjaldföllnum afborgunum af fjármögnunarleigusamningnum við Glitni en Ungmennafélag Íslands hafi krafið stefnanda um greiðslu þessarar fjárhæðar. Stefnandi hafi orðið fyrir framangreindu fjártjóni þar sem honum hafi verið tjáð að hann geti ekki haldið húsaleigusamningnum við Ungmennafélag Íslands og þar með haldið hinum keypta rekstri gangandi nema greiða framangreinda fjárhæð. Þrátt fyrir það að stefnandi hafi ekki enn greitt allar fjárhæðir samkvæmt 2. og 3. liðum kröfunnar sé byggt á því að stefnandi hafi eignast lögvarðar kröfur á hendur öllum stefndu fyrir framangreindum fjárhæðum og standi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála því ekki í vegi fyrir því að stefnandi geti krafið stefndu um framangreindar fjárhæðir. Byggist það á því að stefnandi hafi neyðst til að samþykkja að greiða af leigusamningi við Glitni og líti Ungmennafélag Íslands svo á að allar afborganir af fjármögnunarleigusamningnum séu skuld stefnanda. Krafa samkvæmt lið 4 sé sú upphæð sem stefnandi hafi greitt af fjármögnunarleigusamningnum við Glitni. Hafi stefnandi gert það í þeirri von að þar með næði hann að takmarka tjón sitt. Hefði stefnandi ekki gert það hefði Ungmennafélag Íslands rift húsaleigusamningnum við hann. Krafa samkvæmt lið 5 sé vegna þess að fjárhagslegt uppgjör vegna útgjalda til Ungmennafélags Íslands vegna veiðileyfasölu fyrir árið 2007 hafi ekki farið fram milli stefnanda og seljanda. Stefnandi hafi þurft að greiða reikning vegna þessa að fjárhæð 1.338.653 krónur, eða 489.874 krónur vegna veiðileyfasölu til Ungmennafélags Íslands 2007 og 848.779 krónur vegna tjaldstæða til Ungmennafélags Íslands 2007. Greiðslan vegna veiðileyfa byggist á þjónustusamningi sem ekki hafi verið gerð grein fyrir í kaupsamningi. Miðað við yfirtökudag sé hlutur seljanda 185.064 krónur. Krafa samkvæmt lið 6 sé vegna uppgjörs á veiðileyfasölu til Stangveiðifélags Reykjavíkur. Í gildi sé leigusamningur milli Ungmennafélags Íslands og Stangveiðifélags Reykjavíkur og liggi fyrir að seljandi hafi innheimt allar tekjur af veiðileyfum ársins 2007 eftir að afhending hins selda átti sér stað. Miðað við yfirtökudag hefði seljandi átt að endurgreiða kaupanda 489.681 krónu. Stefnandi kveður að ekki komi skýrt fram í gögnum frá fasteignasölunni hvort seljandinn hafi verið stefndi Garðar Kjartansson eða Húsgarðar ehf. og sé þeim því báðum stefnt fyrir allri kröfunni. Stefnukrafa á hendur þeim sé innan samninga. Krafan um að stefndu Fasteignamarkaðurinn ehf. og Guðbjörg R. Róbertsdóttir, verði dæmd til greiðslu allrar kröfunnar byggist á því að fasteignasalan hafi haft milligöngu um kaupin og hafi stefnda Guðbjörg R. Róbertsdóttir, löggiltur fasteignasali, annast þá umsýslu í starfi sínu hjá fasteignasölunni. Sé fasteignasalan tvímælalaust bótaskyld, á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar, vegna mistaka þessa starfsmanns síns. Krafan á fasteignasöluna og Guðbjörgu byggist á skaðabótaábyrgð utan samninga. Þrátt fyrir að grundvöllur fyrir bótakröfunum á hendur stefndu sé ólíkur, séu að mati stefnanda uppfyllt skilyrði til að krefja þá alla um bætur í sama máli, sbr. heimild í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan á hendur stefndu Garðari og Húsgörðum ehf. byggist á því að þeir hafi valdið stefnanda tjóni vegna þess að vanheimild hafi verið fyrir hendi varðandi hluta þeirra eigna sem seldar hafi verið. Ekki hafi verið gerð grein fyrir fjármögnunarleigusamningi við Glitni og ómögulegt hafi verið að fá leigusamninginn yfirfærðan til stefnanda nema með því að samþykkja yfirtöku á greiðslum samkvæmt þeim fjármögnunarleigusamningi. Að auki hafi stefndu ekki gert upp við stefnanda hlutfallslegar tekjur vegna sölu veiðileyfa ársins 2007 eða greitt sinn hluta í gjöldum til Ungmennafélags Íslands vegna veiðileyfasölu. Stefnandi hafi því neyðst til að gera upp öll gjöldin við Ungmennafélag Íslands því annars hefði leigusamningnum verið rift vegna vanskila. Hafi Stangaveiðifélag Reykjavíkur greitt beint til stefnda Húsgarða ehf. leigugreiðslu vegna veiðileyfasölu vegna ársins 2007 þann 4. sept. 2007 eða þó nokkru eftir að salan hafi farið fram. Hafi stefndi Húsgarðar ehf. ekki viljað greiða stefnanda sinn hluta af þessum fjármunum miðað við afhendingardag, þrátt fyrir áskoranir þar um af hálfu stefnanda. Sé krafan á hendur stefndu Húsgörðum ehf. og Garðari aðallega grundvölluð á skaðabótaábyrgð innan samninga. Hið selda teljist gallað samkvæmt 17. gr. kaupalaga nr. 50/2000. Hinn seldi rekstur svari ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hafi gefið um hann og teljist því einnig gallaður samkvæmt skilgreiningu 18. gr. kaupalaga. Hafi stefndu Húsgarðar ehf. og Garðar ekki greint frá því að yfirtaka þyrfti fjármögnunarleigusamning við Glitni til að Ungmennafélag Íslands samþykkti yfirtöku á leigusamningi. Í gagntilboði hafi stefndi Garðar sérstaklega skuldbundið sig til að ábyrgjast framsal á húsaleigusamningi fyrir gerð kaupsamnings en hann hafi ekki staðið við það. Byggist krafan um skaðabætur á 40. gr. kaupalaga. Hið selda hafi við samningsgerð ekki verið í samræmi við það sem heitið hafi verið af seljanda. Þá byggist krafan einnig á 41. gr. kaupalaga um vanheimild því mikið af því lausafé sem selt hafi verið með kaupsamningnum hafi verið í eigu Glitnis samkvæmt fjármögnunarleigusamningnum. Stefnandi hafi verið í góðri trú um að hann væri eigandi þeirra lausafjármuna sem tilgreindir hafi verið í kaupsamningnum og hafi hann veðsett þá síðar til tryggingar fyrir láni frá Kaupþingi vegna endurfjármögnunar á kaupunum. Um umfang skaðabóta vísar stefnandi til 67. gr. kaupalaga. Ef ekki verði fallist á það að stefndu Garðar og Húsgarðar ehf. séu skaðabótaskyldir innan samninga sé gerð krafa um afslátt úr hendi þeirra fyrir sömu fjárhæð á grundvelli 38. gr. kaupalaga. Varðandi afsláttarkröfuna sé vísað í sömu málsástæður og lagarök fyrir skaðabótakröfunni, eftir því sem við geti átt. Kröfu sína á hendur stefndu Fasteignamarkaðinum ehf. og Guðbjörgu R. Róbertsdóttur kveður stefnandi byggjast á skaðabótaábyrgð utan samninga, sbr. og 27. gr. laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Ábyrgðin komi til vegna vanrækslu fasteignasalans á að sinna lögboðnum starfsskyldum sínum. Um sé að ræða sérfræðiábyrgð sem leiði til strangari ábyrgðar en venjulega. Hafi umdeildur kaupsamningur verið útbúinn af stefndu Guðbjörgu og komi tjón stefnanda til vegna sakar fasteignasalans og sé það bein afleiðing af sökinni. Flokkist vanræksla fasteignasalans undir stórfellt gáleysi og byggist meðal annars á því að ekki hafi verið farið eftir þeim reglum sem gildi um sölu á fyrirtækjum, eins og þær séu skilgreindar í lögum nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Í 10. gr. þeirra laga komi fram að sá sem annist milligöngu um sölu, skuli semja rækilegt yfirlit um þau atriði sem skipt geti máli við söluna. Í 10. og 11. gr. laganna séu síðan ítarleg ákvæði um söluyfirlit fasteigna og að lokum segi í 3. mgr. 11. gr. að í söluyfirliti vegna fyrirtækja skuli einnig tilgreina hverjar hafi verið tekjur og gjöld þess síðustu þrjú ár fyrir gerð söluyfirlits, svo og hverjar séu eignir þess og skuldir. Upplýsingar þessar skuli reistar á endurskoðuðum reikningum fyrirtækisins eða öðrum haldbærum gögnum. Skuli milligönguaðili leitast við að tryggja að kaupandi fái öruggar og nákvæmar upplýsingar um allt sem máli skipti um rekstur og fjárhagsstöðu fyrirtækis áður en hann geri tilboð í það eða taki afstöðu til sölutilboðs. Fyrir liggi að við sölu á veitingarekstrinum í Þrastarlundi hafi ekki verið útbúið neitt söluyfirlit af hálfu fasteignasalans og hafi því ekki verið uppfyllt lagaskilyrði hvað þetta varðar. Þá komi fram í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2004 að áður en tilboð sé gert í eign skuli væntanlegum tilboðsgjafa afhent söluyfirlit og skuli hann staðfesta móttöku þess með nafnritun sinni og dagsetningu. Þetta ákvæði hafi verið brotið af hálfu fasteignasalans. Samkvæmt 15. gr. laganna beri fasteignasala að gæta hagsmuna kaupanda og seljanda. Hafi fasteignasalinn mátt vita um leigusamninginn við Ungmennafélag Íslands og mikilvægi hans og hafi honum því borið að ganga tryggilega úr skugga um það hvort kaupanda væri heimilt að yfirtaka samninginn og hvort einhver skilyrði væru fyrir því. Hefði fasteignasalinn sinnt þessari skyldu sinni hefði stefnandi ekki orðið fyrir tjóni hvað þetta varði. Með því að sinna ekki þessari lögboðnu skyldu hafi fasteignasalinn brotið af sér gagnvart stefnanda á saknæman hátt. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 99/2004 skuli öll skjala- og samningsgerð vönduð og svo úr garði gerð að hagsmunir beggja aðila séu tryggðir og réttarstaða hvors um sig sé glögg. Gera verði strangar kröfur til löggiltra fasteignasala að þessu leyti og sé sanngjarnt að leggja áhættuna af óskýrleika og óvandvirkni fremur á fasteignasalann en viðsemjenda fasteignasölunnar. Um sé að ræða fasteignasala sem starfi í skjóli opinberra starfsleyfa og sé sanngjarnt að gera ríkar kröfur til hans um aðgæslu og vandvirkni. Ef fasteignasalinn hefði sýnt lágmarksaðgæslu og kannað möguleika á yfirtöku á húsaleigusamningi hjá Ungmennafélagi Íslands sjálfstætt eins og honum hafi borið, hefði komið í ljós að Ungmennafélag Íslands myndi ekki samþykkja yfirtökuna nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í framhaldi af því hefði fasteignasalinn mátt sjá að samkvæmt fjármögnunarleigusamningnum hafi mikið af þeim hlutum sem seldir voru samkvæmt kaupsamningnum verið í eigu Glitnis og þá hefði vanheimild seljanda komið skýrlega í ljós. Beri fasteignasalinn því ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þessarar vanheimildar. Hefðu allar upplýsingar legið fyrir af hálfu fasteignasalans sé einsýnt að stefnandi hefði ekki ráðist í kaupin eða þá að söluverðið hefði verið mun lægra. Sé tjón stefnanda bein afleiðing af þessari vanrækslu fasteignasalans. Með framangreindri háttsemi hafi fasteignasalinn bakað sér bótaábyrgð. Af því sem að framan sé rakið sé ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir beinu fjártjóni sem felist í því að vanheimild hafi verið fyrir hendi varðandi hluta af seldum eignum og ómögulegt hafi verið fyrir stefnanda að fá leigusamning yfirfærðan á sig nema með því að samþykkja yfirtöku á greiðslum vegna fjármögnunarleigusamningsins við Glitni. Þá hafi ekki verið gengið frá uppgjöri vegna veiðileyfa og hafi stefnanda hvorki tekist að fá hlutfallslega endurgreiðslu veiðileyfa ársins 2007 úr hendi seljanda né hafi honum tekist að fá seljanda til að greiða sinn hluta í gjöldum til Ungmennafélags Íslands vegna veiðileyfasölu ársins 2007. Stefnandi hafi því neyðst til að gera upp hlut seljanda við Ungmennafélag Íslands. Hefði fasteignasalinn framkvæmt uppgjör vegna þessa við kaupsamninginn á milli aðila hefði stefnandi ekki orðið fyrir tjóni vegna þessa. Um lagarök varðandi dráttarvaxtakröfu vísar stefnandi til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 og 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Upphaf dráttarvaxtaútreiknings miðist við 2. maí 2009 en á þeim degi hafi verið liðnir 30 dagar frá þingfestingardegi stefnu. Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefnandi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæða 21. kafla þeirra laga. Aðildin í málinu sé byggð á heimild í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi réttargæslustefnda sé byggt á 21. gr. laga nr. 91/1991 og því að stefndu Fasteignamarkaðurinn ehf. og Guðbjörg Róbertsdóttir hafi verið með gilda starfsábyrgðartryggingu hjá félaginu. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi lögvarinn rétt til að krefjast eftirstöðva fjármögnunarleigusamnings og gjaldfallinna afborgana af fjármögnunarleigusamningnum sem Ungmennafélag Íslands hafi þurft að greiða, sbr. liði 2-3 í aðalkröfu sé varakrafan sett fram. Í því tilviki sé krafist greiðslu samkvæmt öllum öðrum liðum aðalkröfunnar. Að öðru leyti vísar stefnandi um varakröfu sína til málsástæðna og lagaraka vegna aðalkröfu eftir því sem við getur átt. IV Málsástæður og lagarök stefndu Húsgarða ehf. og Garðars Kjartanssonar. Stefndi Garðar byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að hann hafi ekki persónulega selt stefnanda veitingareksturinn og sé hann því ekki persónulega ábyrgur. Seljandi hafi verið meðstefndi Húsgarðar ehf. Byggja báðir stefndu á því að fyrirsvarsmaður stefnda Húsgarða ehf. hafi komið á framfæri við stefnanda og meðstefnda Fasteignamarkaðinn ehf. öllum þeim upplýsingum sem nauðsynlegt hafi verið og hafi engu verið leynt. Sé málsástæðu stefnanda um vanheimild stefnda Húsgarða ehf. mótmælt. Stefnanda hafi einungis verið seldir munir í eigu stefnda Húsagarða ehf. auk reksturs veitingahússins og réttindi og skyldur sem honum hafi fylgt. Þetta hafi öllum verið ljóst þegar frá kaupunum hafi verið gengið og hafi öll gögn um réttindin og skyldurnar legið frammi við kaupsamningsgerðina. Á því virðist byggt af hálfu stefnanda að stefndi Garðar hafi ábyrgst gagnvart stefnanda í gagntilboði framsal á húsaleigusamningi fyrir gerð kaupsamningsins en ekki staðið við það. Þessu sé alfarið mótmælt. Hafi legið fyrir áður en kaupsamningur var undirritaður að stefnandi fengi að yfirtaka leigusamninginn og aðra þá samninga sem honum hafi fylgt gegn því að stefnandi legði fram tryggingu fyrir efndum. Hafi forsvarsmenn stefnanda sjálfir farið á fund leigusala og fengið þetta staðfest. Þeir hafi hins vegar kosið að ganga ekki frá yfirtöku húsaleigusamningsins fyrr en síðar vegna erfiðleika á að útvega fullnægjandi tryggingu fyrir leigusalann. Það sem stefnandi kalli afarkosti sem hann hafi þurft að undirgangast hafi ekki verið aðrar kvaðir og skyldur en hann hafi verið upplýstur um fyrir gerð kaupsamningsins. Þá telja stefndu vonlaust að átta sig á kröfugerð stefnanda en hann virðist vera að krefjast skaðabóta og/eða afsláttar fyrir sömu hlutina í fjórum fyrstu liðum kröfugerðar sinnar. Þá sé ljóst að ef stefnandi hafi átt kröfu á stefndu eigi afsláttur sem hann hafi fengið af kaupverði að koma til frádráttar en sá afsláttur hafi numið 3.372.203 krónum. Stefndu byggja kröfur sínar um málskostnað á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsástæður og lagarök stefndu Guðbjargar R. Róbertsdóttur og Fasteignamarkaðarins ehf. Stefndu byggja kröfu sína um sýknu á því að meint tjón stefnanda sé ekki að rekja til sakar stefndu. Stefnandi, sem beri sönnunarbyrðina um orsök tjóns síns og umfang, hafi hvorugt sannað. Stefndu mótmæla því að fasteignasalinn eða aðrir starfsmenn fasteignasölunnar hafi vanrækt skyldur sínar og brotið þær lagareglur sem gildi um sölu á þeim rekstri sem um ræðir, sbr. lög nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Sé því mótmælt að starfsmenn fasteignasölunnar hafi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um hið selda. Þær upplýsingar sem stefnandi hafi fengið frá stefndu og seljanda vegna kaupa á nafni, rekstri og viðskiptavild Þrastarlundar í Grímsnesi hafi verið fullnægjandi til þess að uppfylla kröfur laga nr. 99/2004. Stefndu mótmæla skýringum stefnanda á 10., 11. og 12. gr. laga nr. 99/2004 og telja að stefnandi líti algerlega fram hjá skyldu hans sjálfs til að skoða hið selda. Þá sé því mótmælt að ekki hafi verið útbúið söluyfirlit yfir hið selda. Það hafi verið gert og hafi stefnandi fengið það í hendur. Í því komi fram að húsaleiga sé um 600.000 krónur á mánuði, að leigusali eigi hluta innréttinga í veitingahúsinu og að leigutaki greiði 100.000 krónur umfram húsaleigu fyrir það. Einnig sé í söluyfirlitinu tilgreindir þeir aukasamningar sem fylgt hafi húsaleigusamningi og kaupverð rekstursins tiltekið 50.000.000 króna. Telji stefndu sig hafa uppfyllt grundvallarskilyrði 10., 11. og 12. gr. laga nr. 99/2004 um að útbúa söluyfirlit og veita stefnanda þær upplýsingar sem hann hafi þurft til að taka ákvörðun um kaup. Verði að líta til þess að um hið selda hafi verið takmarkaðar opinberar upplýsingar og sjálfstæð gagnaöflun stefndu verið takmörkunum háð. Hafi stefndu og stefnandi því þurft að treysta á upplýsingar frá seljanda um hvaða eignir tilheyrðu rekstrinum. Grundvallarhugmyndir 10., 11. og 12. gr. laga nr. 99/2004 séu að kaupandi fái svo glöggar og traustar upplýsingar um fyrirtækið sem selt sé að hann geti gert tilboð á grundvelli þeirra og skoðunar á hinu selda. Stefnandi hafi lagt áherslu á að allar upplýsingar um hinn selda rekstur hafi ekki komið fram í skjölum eða söluyfirliti og hafi hann kosið að líta framhjá því að skoðun hans sjálfs á hinu selda sé jafnframt eitt af grundvallaratriðum við kaup á rekstri eins og hér um ræði. Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 99/2004 komi fram að söluyfirlit sé aðeins einn hluti þess að byggja upp grundvöll kaupanda fyrir kaupum á rekstri, hinn sé skoðun hans á hinu selda og það sem kaupandi verði áskynja við slíka skoðun. Telji stefndu að skoðun fyrirsvarsmanna stefnanda á hinum selda rekstri hafi verið ítarleg og það ásamt þeim upplýsingum sem þeim hafi verið kynntar af stefndu og seljanda hafi nægt til að stefnandi hafi fengið allar upplýsingar sem hann hafi þurft til að taka upplýsta ákvörðun um kaup á hinum selda rekstri. Eftir að stefnandi hafði samþykkt kauptilboð vegna hins selda rekstrar hafi hann ítrekað rekið á eftir kaupsamningsgerð þrátt fyrir að ekki væri búið að ganga frá yfirtöku á húsaleigusamningi. Áður en kaupsamningur hafi verið undirritaður hafi fyrirsvarsmanni stefnanda verið bent á að ganga til fundar við Ungmannafélag Íslands til að fá vilyrði um að yfirtaka gildandi húsaleigusamning um reksturinn og kynna sér samninginn. Hafi aðilar á vegum stefnanda farið á fund Ungmennafélags Íslands fyrir kaupsamningsgerð og hafi þeim verið tjáð að fjármögnunarleigusamningur við Glitni hf. væri til staðar og að það þyrfti að greiða af honum jafnhliða leigu, ásamt því að farið hafi verið yfir leigusamninga um veiðirétt og tjaldsvæði. Þrátt fyrir að ekki hafi verið gengið frá yfirtöku leigusamnings hafi stefnandi viljað klára gerð kaupsamnings sem fyrst. Stefnanda hafi svo verið kynntur gildandi húsaleigusamningur við undirritun kaupsamnings ásamt fleiri gögnum er varðað hafi reksturinn. Hafi fylgigögn kaupsamnings verið afhent seljanda og stefnanda við kaupsamningsgerð. Meðal þeirra gagna sé yfirlýsing um samþykki fyrir yfirtöku húsaleigusamnings o.fl. sem seljandi hafi undirgengist við yfirtöku á húsaleigusamningi hins selda reksturs á sínum tíma. Sé yfirlýsingin í fullu samræmi við þá yfirlýsingu sem stefnandi hafi undirritað 8. október 2007. Hafi verið farið yfir þessa yfirlýsingu við undirritun kaupsamnings. Komi fram í C lið 2. gr. ákvæðis hennar að hluti af lausafé í Þrastarlundi sé á kaupleigusamningi við Glitni hf. Þar komi einnig fram fjárhæð samningsins. Hafi fyrirsvarsmanni stefnanda verið gert ljóst að stefnandi þyrfti að uppfylla svipuð skilyrði og þar komi fram, enda hafi honum verið kynntar sömu skyldur á fundi með Ungmennafélagi Íslands fyrir gerð kaupsamnings. Í kauptilboði 7. maí 2007 og kaupsamningi 16. maí 2007 komi fram að kaupandi yfirtaki skyldur samkvæmt leigusamningi og þar komi fram að hluti lausafjármuna tilheyri leigusala. Jafnhliða þessu hafi seljandi kynnt stefnanda hið selda við skoðun á því og farið yfir þau tæki og tól sem fylgdu starfseminni og hinum selda rekstri og gert honum grein fyrir því að hluti munanna væri í eigu leigusala. Seljandi hafi farið yfir veltu og rekstur hins selda með stefnanda og hafi hann fengið allar slíkar upplýsingar frá seljanda. Af ofangreindu megi vera ljóst að stefnanda hafi verið fullkunnugt um fjármögnunarleigusamning við Glitni hf., þá greiðsluskyldu sem honum hafi fylgt og það lausafé sem hann hafi tekið til. Hafi stefnandi verið búinn að kynna sér alla kosti hins selda og átt að vera ljóst að greiðslur samkvæmt fjármögnunarleigusamningnum væru hluti af rekstrargjöldum hins selda reksturs. Standist því ekki þær fullyrðingar stefnanda að hann hefði ekki ráðist í kaupin ef hann hefði vitað af þessum samningi eða að söluverðið hefði verið mun lægra. Þá telja stefndu að stefnandi hafi ekki fært sönnur á meint tjón sitt og sé kröfugerð hans áfátt. Í fyrsta lagi megi nefna að útreikningar stefnanda á ætluðu tjóni samkvæmt 1. tölulið kröfugerðar hans byggi á gögnum frá árinu 2004. Sé ljóst að verðmæti þeirra tækja sem um ræði geti ekki verið það sama og verðmæti þeirra hafi verið þegar þau voru keypt á árinu 2004 með tilliti til notkunar og almennra fyrningarreglna, hvað svo sem bótaskyldu stefndu líði. Gefi fjárhæð þessi því ekki rétta mynd af verðmæti umdeildra tækja og geri stefnandi því ekki raunverulega tilraun til að sýna fram á tjón sitt. Verðmat rekstursins hafi nánast að öllu leyti verið miðað við veltu hins selda reksturs, það lausafé sem hafi verið selt með honum hafi því myndað lítinn ef nokkurn hluta af heildarverði hins selda. Með því að taka ekki tillit til afskrifta eða sýna hversu mikið hlutfall af kaupverði hið selda lausafé hafi verið eða sýna fram á hversu stórt hlutfall af kaupverði hið ætlaða lausafé sem vanheimild hafi verið fyrir myndaði af öllu lausafé hins selda reksturs hafi stefnandi ekki sýnt fram á ætlað tjón sitt. Kröfugerð stefnanda samkvæmt 2., 3. og 4. tl. vegna fjármögnunarleigusamnings við Glitni hf. sé mótmælt enda hafi stefnandi ekki orðið fyrir tjóni er rekja megi til sakar stefndu vegna yfirtöku á greiðslum samkvæmt þeim samningi, sbr. það sem að framan er rakið um að upplýsingar hafi verið veittar fyrir og við gerð kaupsamning vegna þessa. Stefnandi hafi ekki greitt kröfur samkvæmt 2. og 3. tl. Samningsviðmið fjármögnunarleigusamningsins við Glitni hf. sé myntkarfa erlendra gjaldmiðla. Samt sem áður geri stefnandi kröfu um ákveðna fjárhæð í krónum sem hann telji að sé tjón sitt. Gengi erlendra gjaldmiðla sé mjög sveiflukennt og geti sú fjárhæð sem stefnandi þurfi að greiða Ungmennafélagi Íslands orðið hærri eða lægri heldur en sú fjárhæð sem hann krefjist. Sé því óvíst hver verði endanleg fjárhæð og hugsanlega geti stefnandi hagnast af ætluðu tjóni sínu ef hann fái dóm fyrir kröfum sínum óbreyttum. Meint tjón stefnanda samkvæmt 5. og 6. tl. sé ekki tilkomið vegna sakar stefndu en stefnandi og seljandi hafi gert með sér samkomulag um uppgjör við undirritun yfirlýsingar um yfirtöku húsaleigusamnings sem ljóst hafi verið að færi ekki fram fyrr en eftir gerð kaupsamnings. Hafi stefnandi og seljandi ætlað að fylgja uppgjörinu eftir án aðkomu stefndu. Ef fallist verði á að stefnandi eigi kröfur samkvæmt 2. og 3. tl. byggja stefndu varakröfu sína á því að þar sem kröfur Ungmennafélagi Íslands á hendur stefnanda hafi ekki verið efndar geti efndatími þeirra krafna ekki verið runninn upp gagnvart stefndu. Beri því að sýkna þau að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þrautavarakröfu sína um lækkun krafna byggja stefndu á því að umfang tjóns stefnanda sé ósannað og beri í öllu falli að lækka dómkröfur verulega. Vísa stefndu til rökstuðnings aðalkröfu þar sem tjón stefnanda sé ósannað. Þá hafi stefnandi ekki að nokkru marki reynt að takmarka tjón sitt. Sem dæmi um það megi benda á að stefnandi hafi ekki greitt af skuldum samkvæmt fjármögnunarleigusamningi við Glitni hf. og hafi því ýmiss kostnaður og vextir bæst við kröfur stefnanda. Um lagarök vísa stefndu einkum til almennra reglna skaðabótaréttar, laga nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, reglugerðar nr. 939/2004 um samninga um þjónustu fasteignasala og söluyfirlit og laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Stefndu byggja kröfur sínar um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. V Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda Garðari Kjartanssyni á því að ekki komi skýrt fram í gögnum frá fasteignasölunni hvort seljandinn hafi verið stefndi Garðar eða stefndi Húsgarðar ehf. Samkvæmt gögnum málsins er stefndi Garðar framkvæmdastjóri stefnda Húsgarða ehf. og prókúruhafi félagsins. Í gagntilboði 7. maí 2007 vegna sölu á veitingarekstri í Þrastarlundi er í prentuðum texta skjalsins stefndi Garðar sagður seljandi en kaupandi tveir fyrirsvarsmenn stefnanda fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags. Í undirskrift seljanda er stefndi Húsgarðar ehf. hins vegar sagður seljandi. Samkvæmt kaupsamningi og afsali frá 16. maí 2007, sem mál þetta snýst fyrst og fremst um, þar sem stefnanda er seldur veitingarekstur í Þrastarlundi Grímsnesi ásamt nánar tilgreindu lausafé kemur skýrt fram í prentuðum texta skjalsins að seljandinn er stefndi Húsgarðar ehf. og kaupandi stefnandi. Undir skjalið rita fyrirsvarsmenn félaganna beggja, án þess að tilgreina að þeir séu að undirrita fyrir hönd félaganna. Þrátt fyrir þessa ónákvæmni þykir ekki fara milli mála að aðilar að kaupsamningi þeim sem hér er deilt um eru stefnandi og stefndi Húsgarðar ehf. Þá liggur fyrir að eigandi fasteignarinnar hafði gert húsaleigusamning við stefnda Húsgarða ehf. vegna húsnæðisins sem hýsti veitingahúsið og lausamuni sem rekstrinum skyldi fylgja og væru í eigu leigusala og það var sá húsaleigusamningur sem stefnandi ætlaði að yfirtaka. Þykir ekki fara milli mála að stefnandi var að gera samning við Húsgarða ehf. en ekki Garðar Kjartansson persónulega og breytir engu þótt kröfuhafi samkvæmt skuldabréfi sem fyrirsvarsmenn stefnanda gáfu út sem hluti af greiðslu kaupverðsins hafi verið stefndi Garðar. Þegar af þessari ástæðu verður stefndi Garðar Kjartansson sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda Húsgörðum ehf. einkum á því að hann hafi selt stefnanda eignir sem að hluta til voru í eigu annars aðila, hann hafi ekki gert stefnanda grein fyrir fjármögnunarleigusamningi við Glitni auk þess að ómögulegt hafi verið fyrir stefnanda að fá leigusamninginn yfirfærðan nema að samþykkja yfirtöku á greiðslum samkvæmt Glitnissamningnum. Af þessum sökum hafi hann orðið fyrir tjóni. Þá byggir hann kröfur sínar á hendur stefndu Guðbjörgu og Fasteignamarkaðinum ehf. á því að tjón hans verði meðal annars rakið til sakar þeirra vegna vanrækslu fasteignasalans á að sinna lögboðnum starfsskyldum sínum. Með samningi um fjármögnunarleigu 14. ágúst 2004 tók Ungmennafélag Íslands á leigu nánar tilgreind tæki sem metin voru að fjárhæð 4.000.000 króna. Leigusali var Glitnir. Samkvæmt kaupsamningi aðila skyldi kaupandi yfirtaka öll réttindi og skyldur seljanda samkvæmt gildandi leigusamningi um húsnæðið sem hýsti veitingahúsið Þrastarlund og lausamuni sem rekstrinum fylgdi og voru í eigu leigusala. Samþykkti leigusali yfirtöku stefnanda á leigusamningi með yfirlýsingu um samþykki fyrir yfirtöku húsaleigusamnings o.fl. með skilyrðum hinn 4. október 2007. Undir það skjal rituðu jafnframt stefnandi og stefndi Húsgarðar ehf. Samkvæmt 1. tl. yfirlýsingar þessarar var vísað til húsaleigusamnings 22. janúar 2004 um húsnæðið sem forveri stefnda Húsgarða ehf., Snorri Sigurfinnsson fyrir hönd Þrastarlundar ehf. hafði tekið á leigu þann dag og jafnframt tekið fram að samhliða hafi verið gerðir við hann samningar um lax- og silungsveiði og tjaldsvæði. Þá var vísað til framsals samningsins til Húsgarða ehf. hinn 29. september 2005. Samkvæmt 2. tl. yfirlýsingarinnar segir að samkvæmt ósk stefnda Húsgarða ehf. lýsi leigusali því yfir og samþykki að stefnandi yfirtaki þá leigu- og þjónustusamninga sem leigusali hafi gert við Þrastarlund ehf. og svo framleigt til stefnda Húsgarða ehf. með nánar tilgreindum skilyrðum í stafliðum A-F. Samkvæmt A lið skyldi stefnandi leggja fram bankaábyrgð að fjárhæð 4.993.166 krónur sem væri uppreiknuð fjárhæð samkvæmt vísitölu í samræmi við ákvæði greinar 4.5 í húsaleigusamningi, til tryggingar greiðslu húsaleigu. Samkvæmt B lið var forsenda aðilaskiptanna af hálfu leigusala að þegar stefnandi taki yfir framangreinda leigu- og þjónustusamninga verði fyrrum framleigutaki skuldlaus við leigutaka. Þá skuli stefnandi tryggja við greiðslu kaupverðs til stefnda Húsgarða ehf. að ógreidd leiga vegna húsnæðis, tjaldsvæðis og lax- og silungsveiði, verðbætur af leigu og afborganir af samningi leigusala við Glitni hf. vegna lausafjár í hinu leigða húsnæði, sem leigutaki greiði af samkvæmt munnlegu samkomulagi við leigusala, og annað sem óuppgert sé við yfirtökuna verði greitt. Að öðrum kosti verði ekki af framsali samninganna til stefnanda. Þá segir í C lið að stefnanda sé ljóst að hluti af lausafé í Þrastarlundi sé á kaupleigusamningi við Glitni hf. til 10 ára og samkvæmt samningi við leigusala sé það leigutaka að greiða af þessum samningi sem hinn 22. júlí 2007 hafi staðið í 10.653.185 krónum. Að öðrum kosti hafi leigusali heimild til að rifta öllum leigu- og þjónustusamningum samkvæmt 1. tl. yfirlýsingarinnar. Stefnandi telur að framangreind skilyrði til yfirtöku á leigusamningi hafi verið breyting á því sem samið hafi verið um við gerð kaupsamnings. Samkvæmt sams konar yfirlýsingu sem stefndi Húsgarðar ehf. undirrituðu þegar þeir tóku yfir húsaleigusamning við leigusala voru sömu skilyrði sett fyrir yfirtökunni hvað hann snertir og stefnandi þurfti að gangast undir og í stað bankaábyrgðar þurfti stefndi Húsgarðar ehf. að leggja fram tryggingavíxil að fjárhæð 4.000.000 króna, en sú fjárhæð er uppreiknuð varðandi bankaábyrgð þá sem stefnandi þurfti að leggja fram. Að þessu virtu þykir ljóst að stefnandi var með framangreindri yfirlýsingu að taka að sér sömu skyldur og fá sömu réttindi og stefndi Húsgarðar ehf. hafði samkvæmt leigusamningi við Ungmennafélag Íslands. Var það í samræmi við ákvæði kaupsamningsins þar sem sagði að stefnandi yfirtæki frá og með kaupsamningsdegi öll réttindi og skyldur Húsgarða ehf. samkvæmt gildandi leigusamningi um húsnæðið sem hýsir veitingahúsið Þrastarlund og lausamuni sem rekstrinum fylgir en eru í eign leigusala. Átti stefnanda því að vera fullkunnugt um fjármögnunarleigusamning við Glitni og þær skyldur sem honum fylgdu vegna yfirtökunnar. Að sama skapi mátti stefnanda vera ljóst að hluti þess lausafjár sem var í Þrastarlundi var á kaupleigusamningi við Glitni og ber kaupsamningur með sér að meðal þess sem stefnandi yfirtók voru lausamunir sem fylgdu rekstrinum en voru í eigu leigusala. Ónákvæmt orðalag í kaupsamningi um að til viðbótar tækjalista sem kaupendum hafi verið afhentur fylgi nánar tilgreint lausafé með í kaupunum verður að skýra með hliðsjón af þessu. Fyrir lá við kaupsamningsgerð að stefnandi þyrfti að gera samning við leigusala og liggur ekki fyrir svo óyggjandi sé hver var ástæða þess að ekki var gengið skriflega frá yfirtöku stefnanda á leigusamningi fyrr en nokkrum mánuðum eftir að skrifað var undir kaupsamning. Hefur stefnandi ekki lagt fram haldbær gögn um stefndi Húsgarðar ehf. beri ábyrgð á þessum drætti og þar með að hann hafi ekki staðið við samning aðila að þessu leyti. Af hálfu stefndu hefur því verið haldið fram að allir þeir samningar og skjöl sem vörðuðu umdeild viðskipti hafi legið frammi við gerð kaupsamnings. Verður að telja harla ótrúverðugt að fyrirsvarsmenn stefnanda hefðu gengið frá kaupsamningi og greiðslum samkvæmt honum án þess að kynna sér þá samninga sem beinlínis er vitnað til í kaupsamningi að kaupandi yfirtaki. Þá hvílir enn fremur skylda á kaupanda að kynna sér hið selda og kjósi hann að gera það ekki verður hann að bera hallann af því. Þá verður ekki framhjá því litið að sá aðili sem gögn málsins bera með sér að hafi aðallega komið fram fyrir hönd stefnanda í þessum viðskiptum, Mark Kristján Brink, skyldi ekki gefa aðilaskýrslu fyrir dómi heldur Kristjana Valgeirsdóttir sem upplýsti að hún hefði ekki tekið þátt í aðdraganda kaupanna heldur hafi það væntanlega verið Mark og Jónas og Jónas Lúðvíksson sem upplýsti að hans aðkoma hefði fyrst og fremst verið að fjármagna kaupin. Bera gögn málsins með sér að umræddur Mark hafi farið á staðinn og kynnt sér hvaða eignir fylgdu með í kaupunum. Þá kom fram hjá vitninu Sæmundi Runólfssyni, fyrirsvarsmanni Ungmennafélags Íslands, að áður en kaupsamningur var undirritaður hafi Mark, Jónas og einhver þriðji aðili komið á hans fund til að fara yfir hver skilyrði væru fyrir því að leigusamningur yrði yfirtekinn. Að því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefnandi ekki sýnt fram á það með haldbærum gögnum að hið selda hafi verið gallað þar sem það hafi ekki verið í samræmi við það sem stefndi Húsgarðar ehf. lofaði að þessu leyti. Að sama skapi verður ekki annað séð en að fasteignasalinn hafi við sölumeðferðina sinnt lögboðnum starfsskyldum sínum. Fyrir liggur söluyfirlit vegna hins selda með þeim upplýsingum sem fasteignasalinn hafði frá seljanda. Þar sem um var að ræða sölu á rekstri og lausafé, en ekki sölu á fasteign eða fyrirtæki sem slíku, verður til þess að líta að um hið selda lágu takmarkaðar opinberar upplýsingar og því var sjálfstæð gagnaöflun fasteignasalans takmörkunum háð. Varð fasteignasalinn því að treysta þeim upplýsingum sem hann fékk frá seljanda. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki annað séð en að allar nauðsynlegar upplýsingar hafi legið fyrir við undirritun kaupsamningsins og hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til þess að söluyfirlit frá fasteignasölunni hafi skort eða verið áfátt s.s. vegna þess að tekjur og gjöld undanfarinna ára hafi ekki legið fyrir, enda verður ekki séð að hann telji sig hafa orðið fyrir tjóni af þeim sökum. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að skjalagerð hafi verið áfátt og að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess. Að öllu framangreindu virtu verða stefndu sýknuð af kröfuliðum 1-4. Eins og rakið er að framan er í 1. tl. yfirlýsingar um samþykki fyrir yfirtöku húsaleigusamnings o. fl. með skilyrðum sem dagsett er 4. október 2007, fjallað um samning við leigutaka varðandi lax- og silungsveiði í landi leigusala og samkvæmt 2. gr. yfirlýsingarinnar yfirtók stefnandi þann samning. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum greiddi stefnandi leigusala í lok árs 2007 á grundvelli fyrrgreinds samnings um lax- og silungsveiði vegna ársins 2007 alls 489.874 krónur vegna veiðileyfa, en samkvæmt samningnum var leigufjárhæðin 400.000 krónur sem uppreiknast samkvæmt vísitölu neysluverðs. Miðað við að stefnandi yfirtók reksturinn hinn 16. maí 2007 er ljóst að hann á rétt á endurgreiðslu frá seljanda, stefnda Húsgörðum ehf., vegna tímabilsins fram að þeim tíma. Hafa útreikningar stefnanda ekki sætt andmælum að þessu leyti og verður fallist á að stefnandi eigi á grundvelli samnings hans við Húsgarða ehf. rétt á að fá endurgreiddar 185.064 krónur í samræmi við kröfulið stefnanda nr 5. Varðandi kröfulið stefnanda nr. 6 sem varðar uppgjör á veiðileyfasölu þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að í gildi var leigusamningur milli Ungmennafélags Íslands og Stangveiðifélags Reykjavíkur um veiðileyfi. Þá bera gögn málsins með sér að stefndi Húsgarðar ehf. fékk hinn 4. september 2007 greiddar 786.987 krónur frá Stangveiðifélagi Reykjavíkur vegna veiðileyfasölu þess síðarnefnda vegna ársins 2007. Miðað við að stefnandi yfirtók reksturinn 16. maí 2007 ber stefnda Húsgörðum ehf. að endurgreiða stefnanda hlutdeild hans í tekjunum frá þeim degi er hann yfirtók reksturinn. Hefur útreikningur stefnanda ekki sætt andmælum og verður stefndi Húsgarðar ehf. dæmdur til að greiða stefnanda 489.681 krónu. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður stefndi Húsgarðar ehf. dæmdur til að greiða stefnanda 674.745 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en dráttarvaxtakröfu stefnanda hefur ekki verið andmælt sérstaklega. Ekki verður séð með hvaða rökum stefnandi telur sig eiga bótakröfu sömu fjárhæðar á hendur stefndu Guðbjörgu og Fasteignamarkaðinum ehf. en umræddar greiðslur byggja á samningum sem stefnandi yfirtók við kaupin á rekstri frá stefnda Húsgörðum ehf. og greiðslur þessar voru inntar af hendi löngu eftir að kaupsamningur var undirritaður og afskiptum fasteignasölunnar lokið. Verður ekki séð að upplýsingar um uppgjör að þessu leyti hafi legið fyrir við undirritun kaupsamnings. Verða stefndu Guðbjörg og Fasteignamarkaðurinn ehf. því sýknuð af kröfuliðum 5 og 6. Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu, Garðari Kjartanssyni, Guðbjörgu R. Róbertsdóttur og Fasteignamarkaðinum ehf. 200.000 krónur í málskostnað hverju fyrir sig en rétt þykir að málskostnaður verði felldur niður milli stefnanda og stefnda Húsgarða ehf. Af hálfu stefnanda flutti málið Árni Ármann Árnason hrl. Af hálfu stefndu Garðars Kjartanssonar og Húsgarða ehf. flutti málið Björgvin Þorsteinsson hrl. en af hálfu stefndu Guðbjargar R. Róbertsdóttur og Fasteignamarkaðarins ehf. flutti málið Kristín Edwald hrl. Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð Stefndu, Garðar Kjartansson, Guðbjörg R. Róbertsdóttir og Fasteignamarkaðurinn ehf., eru sýknuð af öllum kröfum stefnanda, Sog-veitinga ehf. í máli þess og skal stefnandi greiða hverju þeirra 200.000 krónur í málskostnað. Stefndi Húsgarðar ehf. greiði stefnanda 674.745 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. maí 2009 til greiðsludags og skal hvor um sig bera sinn hluta málskostnaðar. |
Mál nr. 162/1999 | Þjófnaður | J var ákærður fyrir þjófnað. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna og J dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, Jón Hinrik Hjartarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. mars 1999. Mál þetta var dómtekið 17. febrúar sl. Er það höfðað með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði 15. janúar 1999 á hendur ákærðu [...], og Jóni Hinrik Hjartarsyni, kt. 161268-5189, Skúlaskeiði 16, Hafnarfirði, fyrir eftirtalin brot: I. [...] II. Gegn ákærðu báðum fyrir eftirtalin hegningarlagabrot: 1. Fyrir þjófnað, með því að hafa í félagi, miðvikudaginn 4. nóvember 1998, stolið úr versluninni R.Ó. Rafbúð-rafverkstæði, Hafnargötu 52, Keflavík, tveimur rafölum og einni halogen ljósaperu, samtals að verðmæti kr. 31.270,-. (mál nr. 34-1998-3824). 2. Fyrir þjófnað, með því að hafa í félagi, miðvikudaginn 4. nóvember 1998, stolið úr versluninni Stapafelli hf., Hafnargötu 29, Keflavík, hleðslu- og starttæki, þrýstimæli, hníf, hitamæli og mæli í bifreiðar, samtals að verðmæti kr. 16.570,-. (mál nr. 34-1998-3824). Telst háttsemi þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. III. Gegn ákærða Jóni Hinrik Hjartarsyni fyrir þjófnað, með því að hafa einhvern tímann á tímabilinu frá miðjum desember 1998 fram í byrjun janúar 1999, stolið loftpressu að verðmæti 120.000,- kr. úr nýbyggingu að Berjahlíð 1, Hafnarfirði, en hann var handtekinn með hana í sinni vörslu 3. janúar s.l. fyrir utan Skúlaskeið 16, Hafnarfirði. (mál nr. 36-1999-10) Telst háttsemi þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. IV. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að ákærði M sæti upptöku 0,4 gr af hassi skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. I. kafli ákæru. [...] II. kafli ákæru. Ákæruliðir 1-2 Þann 4. nóvember 1998 var lögreglunni í Keflavík tilkynnt um þjófnað úr versluninni Stapafelli í Keflavík. Vitnið Magnús Jensson starfsmaður í versluninni sagðist hafa veitt tveimur mönnum athygli í versluninni sem voru báðir með íþróttatöskur en frekar óíþróttamannlegir að sjá. Þegar þeir voru farnir út sá hann að bílahleðslutæki var horfið úr einni hillunni. Hann sagðist hafa séð að mennirnir hefðu gengið yfir götuna og yfir á veitingastaðinn Pizza 67. Hefði hann látið hringja í lögregluna og tilkynnt um grun sinn um þjófnað og hvar mennirnir væru niður komnir. Lögreglan fór á staðinn og voru ákærðu báðir handteknir, töskurnar fundust á bak við hurð inn á salerni. Vitnin Jón Birgisson Olsen og Sigurður Vignir Ragnarsson komu fyrir dóm. Þeir voru gestir á veitingastaðnum Pizza 67 í umrætt sinn. Sögðu þeir að svolítið fát hefði komið á ákærðu er lögreglan kom á staðinn og hefði annar mannanna hlaupið með töskurnar inn á salerni. Vitnið Reynir Jens Ólason eigandi R.Ó. Rafbúð-rafverkstæði við Hafnargötu 52 í Keflavík afgreiddi ákærðu í umrætt sinn. Hann sagði að þeir hefðu verið afskaplega geðugir og elskulegir menn. Annar þeirra hefði keypt af honum rafmagnsnúru. Hann hefði því heldur betur orðið hissa þegar lögreglan hefði hringt í hann eftir hádegi og beðið hann um að koma upp á lögreglustöð til þess að bera kennsl á nokkra muni sem lögreglan taldi að hefði verið stolið úr verslun hans. Kvaðst Reynir hafa þekkt munina enda merktir versluninni. Lögreglumennirnir Ólafur Ólafsson og Arngrímur Guðmundsson er stóðu að handtöku ákærðu í umrætt sinn gáfu einnig skýrslu fyrir dómi. Þeir sögðu að þýfið hefði verið blandað í báðum töskunum og rafmagnsnúra sú sem keypt var í annarri versluninni hefði ekki verið ein sér í annarri töskunni. Ákærði Jón Hinrik skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hefði farið til Keflavíkur ásamt ákærða Mána rétt fyrir hádegi þennan dag. M hefði ætlað að hitta mann að nafni Þórir. Ákærði Jón Hinrik neitar því alfarið að hafa stolið einhverju úr þessum verslunum. Hann kvaðst hafa keypt þar rafmagnsnúru hjá R.Ó. búðinni en kveðst ekkert hafa tekið ófrjálsri hendi. Hann kveðst ekki vita hvort ákærði M hefði tekið eitthvað. Ákærði staðfesti að þeir hefðu haft tvær íþróttatöskur meðferðis. Ákærði M skýrði aftur á móti svo frá að hann hefði farið til Keflavíkur til að hitta mann sem hann vildi ekki nánar tilgreina. Hann kannaðist ekki við að hafa farið inn í umræddar tvær verslanir en kannaðist þó við að hafa verið með tvær töskur meðferðis. Hefði hann skilið þær eftir á salerni á veitingastaðnum Pizza 67. Líklegast væri að hann hefði gleymt þeim þar. Þeir munir sem í töskunum voru hafi verið greiðsla upp í skuld. Með framburði vitna og skýrslum lögreglunnar þykir nægilega sannað að ákærðu voru að verki í umrætt sinn og er brot þeirra rétt færð til refsiákvæðis í ákæru. III. kafli ákæru Aðfarnótt 3. janúar 1999 hafði lögreglan tal af ákærða Jóni Hinrik fyrir utan heimili hans að Skúlaskeiði 16, Hafnarfirði. Kom í ljós að stór loftpressa var í aftursæti bifreiðar hans við hlið barnabílstóls. Á vettvangi sagði ákærði að vinur hans Ágúst ætti loftpressuna. Hjá lögreglu sagði ákærði að hann hefði fundið loftpressuna í vegkanti rétt við Snælandsvídeó sem er við Staðarberg 2-4 í Hafnarfirði. Kveðst hann hafa tekið loftpressuna og ætlað sér að koma henni til réttra eigenda þar sem hann taldi hana liggja undir skemmdum þar sem hún lá úti á víðavangi. Fór ákærði með lögreglu og sýndi henni hvar hann hafði fundið loftpressuna en það var við nýbyggða göngubrú á milli Staðarbergs og Stekkjarbergs. Fyrir dómi skýrði ákærði á sama veg frá. Hann hefði ætlað að bjarga verðmætum frá glötun og koma loftpressunni í hendur réttra eigenda. Sagði hann ennfremur að loftpressan hefði verið þarna í reiðuleysi í nokkra daga, líklegast frá 30. desember 1998. Vitnin Jón Hansson, Hörður Jónsson og Kristján Bjarnason, allir búsettir að Stekkjarbergi nálægt vettvangi komu fyrir dóm. Jón og Hörður töldu mjög líklegt að þeir hefðu orðið loftpressunar varir ef hún hefði verið á þeim stað sem ákærði heldur fram. Kristján vildi ekki fullyrða að hann hefði orðið þess var. Vitnið Pétur Einarsson verktaki er eigandi loftpressunar. Hann kom fyrir dóm og sagðist hafa þekkt loftpressuna greinilega aftur vegna sérkenna hennar. Loftpressan hefði verið geymd í nýbyggingu að Berjahlíð 1 og hefði hann ekki haft hugmynd um að henni hafi verið stolið þegar lögreglan hafði samband við hann. Með framburði vitna og öðrum gögnum málsins þykir nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis. Ákvörðun refsingar. [...] Ákærði Jón Hinrik Hjartarson. Ákærði Jón Hinrik hefur 9 sinnum undirgengist sáttir vegna brota á umferðarlögum og lögum um ávana-og fíkniefni. Hann hefur alls hlotið 5 dóma fyrir brot á umferðarlögum, lögum um ávana og fíkniefni og hegningarlögum. Tveir af þessum dómum eru skilorðsbundnir fangelsisdómar, kveðnir upp 1989 og 1990. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði en rétt þykir að skilorðsbinda hana og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. alm. hgl. Með vísan til 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 verða ákærðu dæmdir til að greiða in solidum allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. saksóknarlaun í ríkissjóð, 50.000 krónur. [...] Ákærði Jón Hinrik Hjartarson greiði skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 80.000 krónur í málsvarnarlaun. Dómsorð: [...] Ákærði, Jón Hinrik Hjartarson, sæti fangelsi í 4 mánuði en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. alm. hgl. Ákærðu greiði in solidum allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. saksóknarlaun í ríkissjóð, 50.000 krónur. [...] Ákærði, Jón Hinrik Hjartarson greiði skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 80.000 krónur í málsvarnarlaun. |
Mál nr. 50/2010 | Kærumál Varnarþing Frávísunarúrskurður staðfestur | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli H ehf. gegn S ehf. var vísað frá dómi. Talið var að málið yrði hvorki rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 né eftir heimild í samningi aðilanna. Þá hafi H ehf. ekki sannað, gegn mótmælum S ehf., að samið hafi verið munnlega á milli lögmanna þeirra um að málið yrði rekið fyrir þeim dómstóli, sbr. 3. mgr. 42. gr. sömu laga. Verði ekki litið svo á að S ehf. hafi glatað rétti til að hafa uppi kröfu um frávísun vegna rangs varnarþings þó því hafi ekki verið hreyft af honum við þingfestingu málsins, heldur fyrst með greinargerð hans. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann „málskostnaðar í héraði úr hendi lögmanns varnaraðila ... og kærumálskostnaðar.“ |
Mál nr. 605/2008 | Kröfugerð Skriflegur málflutningur Frávísun frá héraðsdómi | T krafðist þess að „viðurkennt verði með dómi að [S] sé óheimilt að flytja inn, framleiða eða láta framleiða, bjóða til sölu, selja eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af saltsprautuvél, sem lýst er í matsgerð [...] vélaverkfræðings sem vél boðin til sölu af stefnda, eða áþekkum vélum.“ Þá krafðist hann þess að birgðir af sprautusöltunarvél, sem lýst hafði verið í fyrrgreindri matsgerð, yrðu gerðar upptækar án endurgjalds til handa T. Loks krafðist T að S yrði gert að greiða sér 6.000.000 krónur. S var sýknaður í héraði en lét málið ekki til sín taka fyrir Hæstarétti. Var litið svo á að hann krefðist staðfestingar héraðsdóms og var í málinu því kveðinn upp dómur án munnlegs málflutnings, sbr. 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Talið var að ekki fengist staðist að T gæti um efnisatriði krafna sinna vísað til framlagðra skjala í málinu án þess að taka lýsingu þeirra upp í kröfuna sjálfa. Virtist T gera ráð fyrir að dómurinn leysti úr því í dómsorði hvernig lýsa skyldi vélinni sem um ræddi ef krafan yrði tekin til greina. Taldi Hæstiréttur að þessi háttur á kröfugerð T yrði ekki talinn geta samrýmst ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991. Krafa T um skaðabætur byggðist á þeirri forsendu að fallist yrði á viðurkenningarkröfu hans. Var málinu vísað frá héraðsdómi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. nóvember 2008. Hann krefst þess að „viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að flytja inn, framleiða eða láta framleiða, bjóða til sölu, selja, eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af saltsprautuvél, sem lýst er í matsgerð Sveins Víkings Árnasonar, vélaverkfræðings sem vél boðin til sölu af stefnda, eða áþekkum vélum.“ Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að þola að birgðir af sprautusöltunarvél, sem lýst sé í fyrrgreindri matsgerð Sveins Víkings Árnasonar, verði gerðar upptækar án endurgjalds til handa áfrýjanda. Áfrýjandi krefst þess ennfremur að stefnda verði gert að greiða sér 6.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. febrúar 2007 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður litið svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Með vísan til sama lagaákvæðis er kveðinn upp dómur í málinu án munnlegs málflutnings. Í tveimur fyrri kröfuliðum áfrýjanda er um hina umdeildu saltsprautuvél vísað til lýsingar á henni í „matsgerð Sveins Víkings Árnasonar“ vélaverkfræðings. Talið verður að í d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 felist að krafa í dómsmáli þurfi að vera svo skýr að taka megi hana í dómsorð ef fallist er á hana sbr. 2. mgr. 114. gr. sömu laga. Ekki fær staðist að áfrýjandi geti um efnisatriði krafna sinna vísað til framlagðra skala í málinu án þess að taka lýsingu þeirra upp í kröfuna sjálfa. Virðist áfrýjandi gera ráð fyrir að dómurinn leysi úr því í dómsorði hvernig lýsa skuli vélinni sem um ræðir ef krafan yrði tekin til greina. Þessi háttur á kröfugerð áfrýjanda verður ekki talinn geta samrýmst nefndu ákvæði í 80. gr. laga nr. 91/1991 og verður þessum kröfum því vísað frá héraðsdómi. Krafa áfrýjanda um skaðabætur byggist á þeirri forsendu að fallist sé á viðurkenningarkröfu hans. Verður henni því í samræmi við það sem að framan segir einnig vísað frá héraðsdómi og þar með málinu í heild. Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður litið svo á að í stefndi krefjist þess að Hæstiréttur dæmi honum sama málskostnað vegna reksturs málsins í héraði og honum var þar tildæmdur með hinum ómerkta héraðsdómi. Verður fallist á þá kröfu. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Áfrýjandi, Traust þekking ehf., greiði stefnda, Stál Plús ehf., 450.000 krónur í málskostnað í héraði. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. ágúst 2008. Mál þetta, sem dómtekið var 12. þessa mánaðar, var höfðað 5. febrúar 2007. Stefnandi er Traust þekking ehf., Klapparstíg 18, Reykjavík. Stefndi er Stál Plús ehf., Bæjarhrauni 2, Hafnarfirði. Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur: 1. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að flytja inn, framleiða eða láta framleiða, bjóða til sölu, selja, eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af saltsprautuvél, sem lýst er í matsgerð Sveins Víkings Árnasonar, vélaverkfræðings, á dskj. 24, sem vél boðin til sölu af stefnda, eða áþekkum vélum. 2. Að stefndi verði dæmdur til að þola að birgðir hans af sprautusöltunarvél, sem lýst er í fyrrgreindri matsgerð Sveins Víkings Árnasonar, verði gerðar upptækar án endurgjalds til handa stefnanda. 3. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð kr. 6.000.000 ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá birtingardegi stefnu þessarar til greiðsludags. 4. Að stefndi greiði stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins. I. Í stefnu kemur m.a. fram að stefnandi hafi um langt skeið framleitt og selt sprautusöltunarvélar til notkunar við fiskvinnslu, sem hannaðar eru af Trausta Eiríkssyni vélaverkfræðingi, en stefnandi, sem er félag í eigu Trausta, hafi einkarétt til framleiðslu og sölu vélanna. Meðal annars sé um að ræða vél TR 850 sem seld hafi verið hér á landi og erlendis. Vélin samanstandi af sprautuvél, grófsigti og fínsigti. Í tiltekinni gerð vélarinnar, sem stefnandi hafi nú hætt framleiðslu á, sé nálarhausinn færður upp og niður á öxlum sem liggja niður frá báðum endum haussins. Útfærsla á nálarhausnum og sjálfar nálarnar séu með öðru sniði en nálar hjá öllum framleiðendum sem stefnandi þekkir til. Stýribúnaður, m.a. í nálarhausnum, sé með allt öðru sniði en nálar hjá öðrum framleiðendum. Þá sé yfir vélinni öryggishlíf úr gagnsæu plasti sem sé þannig formuð að hún þrengist eftir því sem ofar dregur þannig að séð frá hlið sé um trapisuform að ræða. Stefnanda sé ekki kunnugt um að saltsprautuvélar séu eða hafi verið framleiddar af öðrum hér á landi þar til nú nýlega að komið hafi fram vélar sem notfæri sér það framlag er stefnandi hafi innt af hendi við hönnun slíkra véla. Vélar sem framleiddar eru af erlendum samkeppnisaðilum séu allar frábrugðnar vélum stefnanda, bæði hvað varðar útlit, tæknilega útfærslu, m.a. hvað varðar síur og öxla. Stefnandi hafi orðið þess áskynja haustið 2005 að stefndi hefði í hyggju að flytja inn og selja hér á landi saltsprautuvélar sem framleiddar eru í Lettlandi. Um sé að ræða vélar sem stefndi kveðist ýmist hafa hannað sjálfur eða látið hanna í Lettlandi. Fyrsta vélin er stefndi seldi hér á landi hafi verið seld Írafelli ehf. í Hafnarfirði. Stefnandi telji að stefndi hafi með einhverjum hætti komist yfir teikningar af vél sinni en hann hafi ekki fullvissu um á hvern hátt það hafi gerst. Umrædd vél, sem var seld Írafelli, sé nauðalík vél stefnanda og sé form og útfærsla sú sama. Þannig færi öxlar nálarhausinn upp og niður og séu þeir studdir með fjórum hjólum hvorum megin eins og útfært sé á teikningu stefnanda 8730-05. Nálarhausinn sé þannig úr garði gerður að vökvaþrýstingurinn þrýstir nálinni niður, vegna stimpils sem er festur efst á nálina. Þetta sé gagnstætt erlendum vélum, t.d. vélum framleiddum af Formaco í Danmörku, þar sem hverri nál er þrýst niður með gormi. Þá sé grófsían eins útfærð og grófsía stefnanda. Þegar vélin var seld Írafelli ehf. hafi hún ekki verið útbúin fínsíu, en slík sía hafi verið sett upp við vélina síðar. Fínsían sé útfærð á sama hátt og samkvæmt teikningu stefnanda nr. 8730-16. Útfærsla á vélarhúsi og þversnið vélarinnar og færibandsins sem flytur fiskinn gegnum vélina sé eins og í vél stefnanda, sbr. teikningar nr. 8730-02b og 8730-02a. Útlitið sé sambærilegt. Vélin hafi öryggishlíf úr gagnsæju efni og sé form hennar hið sama og form öryggishlífar stefnanda. Mótor á vél stefnda sé ekki undir hlíf en það fyrirkomulag hafi verið á eldri gerðum véla stefnanda. Þá séu nálar í vél stefnda eins og nálar í eldri gerðum véla stefnanda. Stefndi telji að takmarkaðir möguleikar séu á útfærslu á saltsprautvél af þeirri gerð sem hér um ræðir og að þau atriði sem séu sameiginleg með vélunum byggist á þekktum aðferðum. Stefnandi telji á hinn bóginn að fjölmargir möguleikar séu á því að útfæra saltsprautuvél og að útfærslumöguleikarnir takmarkist ekki aðeins við þá útfærslu sem stefnandi nýtist við. Stefnandi telji raunar að að tæknileg útfærsla hans skilji sig frá vörum samkeppnisaðila og feli í sér sjálfstætt framlag hans við útfærslu á þeirri tæknilegu lausn sem við sé að eiga. Þetta sjálfstæða framlag sé öðrum óheimilt að nýta sér með eftirgerð, líkt og stefndi geri. Af þessu tilefni hafi stefnandi sent stefnda bréf dagsett 25. október 2005, þar sem því hafi verið lýst að sala stefnda á vél sinni væri andstæð lögum. Þessu hafi verið hafnað með bréfi stefnda dagsettu 15. nóvember 2005. Stefnanda hafi verið gefinn kostur á að skoða vél stefnda og hafi það verið niðurstaða sérfræðings hans að notaðar hafi verið aðferðir við útfærslu vélarinnar sem stefnandi einn hafi notast við, sbr. bréf dagsett 15. desember 2005. Enn hafi stefndi hafnað að um brot væri að ræða, sbr. bréf stefnda dagsett 10. janúar 2006. Að ósk stefnanda var Sveinn Víkingur Árnason vélaverkfræðingur dómkvaddur sem matsmaður 10. febrúar 2006 og skilaði matsmaður matsgerð í apríl 2006. Verður gerð grein fyrir niðurstöðum matsmanns í lok þessa kafla. Í greinargerð stefnda er atvikum m.a. lýst svo að stefndi starfi við hönnun, smíði og uppsetningu á framleiðslulínum ásamt ýmsum búnaði, bæði fyrir fiskvinnslu og til notkunar um borð í fiskiskipum og starfi hann í samkeppni við stefnanda á því sviði. Árið 2005 hafi stefndi ákveðið að leggja drög að hönnun og framleiðslu nýrrar vélar, svokallaðrar saltsprautunarvélar. Áður en hönnun og framleiðsla vélarinnar hófst hafi stefndi kannað sérstaklega hjá Einkaleyfastofu hvort fyrir hendi væri einkaleyfi til hönnunar vélarinnar hér á landi. Jafnframt hafi þetta verið kannað í evrópskum einkaleyfabanka. Svo hafi ekki reynst vera. Fyrirséð hafi verið að hönnun vélarinnar og framleiðsla þyrfti að fara fram í nánu samstarfi við notendur hennar. Hafi stefndi því ákveðið að ganga til samstarfs við félögin Thor ehf. og Írafell ehf. og hafi stefndi selt þeim eina saltsprautunarvél þann 5. júlí 2005. Forsendur samningsins hafi verið þær að um frumsmíði vélarinnar væri að ræða og að stjórnkerfi vélarinnar og nánari útfærsla þyrfti að vera unnin í nánu samstarfi kaupanda og seljanda. Samið hafi verið um að vélinni mætti skila stæðist hún ekki væntingar kaupanda. Þetta hafi fyrirsvarsmaður kaupanda, Guðni Gunnarsson, staðfest. Í yfirlýsingu Guðna á dskj. nr. 29 komi fram að í upphafi hafi verið nokkrir örðugleikar við vélina, þ.e kar við grófsíu og grófsían sjálf hafi verið of litlar auk þess sem fínsían starfaði ekki sem skyldi. Unnið hafi verið að endurbótum þessara atriða í samvinnu við kaupandann og starfi vélin nú eins og henni sé ætlað eins og fram komi í yfirlýsingu nefnds Guðna. Stefndi kveðst ekki hafa afhent eða selt aðra vél þessarar tegundar, en það sé staðfest með yfirlýsingu Eymundar Sveins Einarssonar löggilts endurskoðanda 31. febrúar 2007 og skýrslu Sturlu Más Jónssonar sem var sölumaður hjá stefnda frá febrúar 2006 til október 2006. Ástæða þessa hafi verið sú að stefnandi varð strax í upphafi mjög ósáttur við framleiðslu stefnda. Þetta megi ráða af rafpósti Trausta Eiríkssonar dagsettum 10. september 2005. Að auki hafi stefnandi sent rafpóst til stærstu fiskframleiðenda hérlendis þar sem því var haldið fram að framleiðsla stefnda væri illa fengin eftirlíking af framleiðslu stefnanda og að vélin væri meingölluð. Hafi framleiðslu stefnanda verið líkt við ”Mercedes Bens” en framleiðslu stefnda við “Trabant”. Þessi bréf hafi borist víða og leitt til þess að stefndi gat ekki komið vöru sinni á framfæri. Hafi stefnda því verðið nauðugur einn sá kostur að senda erindi til Neytendastofu þar sem kvartað var undan ólögmætum viðskiptaháttum stefnanda. Neytendastofa hafi lokið málinu með ákvörðun 15. mars 2007 og talið stefnanda hafa brotið gegn ákvæðum 5. og 6. gr. laga nr. 57/2005 þar sem ummæli í fyrrgreindum tölvupóstum og bréfum hefðu brotið gegn góðum viðskiptaháttum og gefið villandi upplýsingar til neytenda. Hafi það verið niðurstaða Neytendastofu að þar sem matsgerð hefði leitt í ljós að vél stefnda væri ekki framleiðslueftirlíking af vél stefnanda, hefði stefnanda borið að gæta þess í viðskiptum að reyna að hafa ekki áhrif á viðskiptavini með villandi eða ósanngjörnum upplýsingum um keppinauta sína, en það hefði stefnandi gert með fyrrgreindum bréfum. Eins og áður getur var Sveinn Víkingur Árnason vélaverkfræðingur dómkvaddur sem matsmaður til að meta hvort sú tæknilega lausn sem birtist í sprautusöltunarvél, hannaðri af Trausta Eiríkssyni, aðgreini sig nægilega frá vörum samkeppnisaðila til að hún njóti verndar gegn eftirlíkingum skv. 5. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gegnsæi markaðarins nr. 57/2005. Jafnframt hvort sambærileg vél, sem boðin væri til sölu hér á landi af Stál Plús ehf., fæli í sér eftirlíkingu á framangreindri vél. Við matið yrði eftirfarandi spurningum svarað; 1. Að matsmaður lýsi í stuttu máli útliti og þeirri tæknilegu útfærslu/lausn sem notast er við af hálfu matsbeiðanda í sprautusöltunarvél hans, TR 850. Jafnframt að vél matsþola sé lýst á sama hátt. 2. Að matsmaður leggi með rökstuddum hætti faglegt mat sitt á það hvort útlit og sú tæknilega útfærsla/lausn sem notast er við af hálfu matsbeiðanda í sprautusöltunarvél hans, TR 850, aðgreini sig frá vörum annarra samkeppnisaðila (að eftirgerðum undanskildum) og feli í sér sjálfstæða hugmynd eða sjálfstætt framlag, en ekki aðeins hagnýtingu á þekktum aðferðum á viðkomandi sviði. 3. Að matsmaður leggi með rökstuddum hætti faglegt mat sitt á þvð hvort vél matsþola feli í sér eftirlíkingu á vél matsbeiðanda í heildarmati sínu. Matsmaður skuli þannig leggja mat sitt á hvort þau atriði sem einkenna útlit og tæknilega útfærslu TR 850 birtist í vél matsþola og hvort nokkur einkenni séu á henni sem greini hana með afgerandi hætti frá vélinni TR 850. 4. Að matsmaður leggi með rökstuddum hætti mat sitt á það hvort og að hvaða marki útlit vélanna, hvorrar um sig hafi að einhverju leyti ráðist af tæknilegum kröfum eða eiginleikum slíkra véla. 5. Að í tengslum við svar við spurningu 3 leggi matsmaður með rökstuddum hætti mat sitt á það hvort líklegt sé að vél matsþola hafi verið hönnuð án vitundar um tilvist vélar matsbeiðanda og hvort líklegt sé að aðeins sé um hagnýtingu á þekktum aðferðum á viðkomandi sviði að ræða. Matsmaður skuli beita faglegu mati sínu og eigin skynsemi við svar á þessari spurningu. Matsmaður svaraði öllum spurningunum fjórum og verður nú gerð grein fyrir niðurstöðum matsmanns einkum varðandi spurningar nr. 3 og 5 sem þykja skipta hér mestu máli. Varðandi spurningu nr. 3 var svar matsmanns eftirfarandi: Útlit. Vélarnar hafa báðar sama grunnútlit. Á myndum af vélum annarra framleiðenda má sjá að vélar þeirra allra hafa þetta grunnútlit. Mótor sem drífur færibandið er staðsettur við enda bandsins og er drifás mótorsins hornréttur á ás tromlunnar í færibandinu. Mótorinn á vél matsbeiðanda vísar niður og er almennt undir hlíf en mótorinn á skoðaðri vél matsþola vísaði upp og var ekki undir hlíf. Hvoru tveggja teljast þekktar leiðir til að drífa færiband. Vél matsþola er í útliti líkari vélum CFS Food Systems og Formaco Machinery Company A/S en vél matsbeiðanda. Tæknileg útfærsla, Hvað tæknilega útfærslu varðar eru vélar matsþola og matsbeiðanda líkar varðandi grunnatriði eins og tveggja þrepa síu (síunin er þó útfærð með nokkuð mismunandi hætti) og nálarhaus sem stýrir þrýstingi á fiskinn með pækilþrýsingi. Þá er færslukerfi fyrir nálarhausa mjög líkt útfært í vélum matsþola og matsbeiðanda. Nálarnar eru einnig líkar þó hlutföll séu ekki þau sömu. Heildarmat. Þau atriði sem telja má sértæk í ytra útliti vélar matsbeiðanda er ekki að finna í vél matsþola (alveg gegnsæ og fremur stutt hlíf). Þau atriði sem telja má sértæk varðandi tæknilega útfærslu í vél matsbeiðanda eru með mjög líkum hætti í vél matsþola (nálarhaus og færslubúnaður fyrir hann). Ef beitt er heildarmati (útlit og tæknileg útfærsla) er vél matsþola ekki eftirlíking af vél matsbeiðanda. Vél matsþola aðgreinir sig frá vél matsbeiðanda hvað útlit varðar og er nær öðrum vélum hvað það varðar. Varðandi tæknilega útfærslu eru grundvallaratriði hönnunar mjög lík (nálarhaus og lyftibúnaður fyrir nálarhaus). Spurningu 5 svaraði matsmaður svo: Það verður að teljast líklegt að matsþoli hafi haft vitneskju um vél matsbeiðanda þegar hönnun fór fram. Matsbeiðandi var þá eini framleiðandi sprautusöltunarvéla á Íslandi og því einn aðalkeppinautur matsþola a.m.k. á því markaðssvæði. Ekki var mögulegt að skoða færslubúnað fyrir nálarhaus á öðrum vélum en vél matsþola og á teikningu af vél matsbeiðanda og eru þær útfærslur mjög líkar og ólíklegt að vél matsþola hafi verið hönnuð án vitneskju um slíkan búnað. Þó má geta þess að þessi aðferð við lóðrétta færslu er vel þekkt. Varðandi nálarhausinn þá er hönnun og undirliggjandi tækni hans sérstök fyrir vél matsbeiðanda (miðað við þá vitneskju sem matsmaður gat viðað að sér) og er sami búnaður í vél matsþola mjög líkur og ólíklegt verður að teljast að ekki hafi legið fyrir vitnskja um nálarhaus matsbeiðanda og tæknilega útfærslu hans þegar nálarhaus matsþola var hannaður. Matsmaður staðfesti mat sitt fyrir dóminum. Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur Trausti Eiríksson fyrirsvarsmaður stefnanda og Svavar Þorsteinsson fyrirsvarsmaður stefnda. Skýrslur vitna gáfu auk matsmanns, Árni Snæbjörnsson endurskoðandi, Jóhann Oddgeirsson, framkvæmdastjóri, Eymundur Einarsson endurskoðandi, Sturla Jónsson, Guðni Gunnarsson, Bergþór Konráðsson og Sigurður Vilhjálmsson. Þykja ekki efni til að rekja skýrslurnar. Dómarar gengu á vettvang ásamt lögmönnum og fyrirsvarsmönnum aðila fyrir upphaf aðalmeðferðar. II. Kröfu sína um að stefnda verði dæmt óheimilt að nota þá tæknilegu útfærslu/lausn sem stefnandi hefur einn rétt til, byggir stefnandi á því að tæknileg útfærsla/lausn hans skilji sig frá vörum samkeppnisaðila og feli í sér sjálfstætt framlag hans við útfærslu á þeirri tæknilegu lausn sem við sé að eiga. Þetta sjálfstæða framlag sé öðrum óheimilt að nýta sér með eftirgerð, líkt og stefndi geri í þessu tilfelli, á grundvelli 5. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005. Samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir á hverjum tíma. Í ákvæðinu felist meðal annars bann við því að selja eða framleiða eftirlíkingar sem fela í sér óheiðarlega hagnýtingu á framlagi annarra, og sé þá ekki gert að skilyrði að viðkomandi vara njóti verndar samkvæmt öðrum lögum er vernda hugverk, s.s. einkaleyfi. Stefnandi byggir á því að vernd samkvæmt framangreindu ákvæði njóti sérhvert framlag sem telja megi að hafi fjárhagslegt verðmæti fyrir framleiðandann, sem aðgreini sig jafnframt frá vörum samkeppnisaðila. Það liggi fyrir að þetta verðmæti verði að engu ef samkeppnisaðilum sé heimilt að eftirgera umrætt framlag án þess að hafa lagt á sig erfiði og kostnað sem framleiðandi hefur haft af framleiðslunni. Með mati hins dómkvadda matsmanns telji stefnandi sig hafa sýnt fram á að nálarhaus, færslubúnaður fyrir hann og undirliggjandi tækni sé sjálfstætt framlag í þessu sambandi og ekki einvörðungu hagnýting á þekktum aðferðum. Þannig taki matsmaður fram í mati sínu að útfærsla/lausn stefnanda sé sértæk hvað varðar nálarhaus og færslubúnað fyrir hann. Hönnun og undirliggjandi tækni nálarhaussins sé sérstök fyrir vél stefnanda. Telur stefnandi útfærsluna/lausnina því njóta verndar samkvæmt 5. gr. laga nr. 57/2005. Þá telji stefnandi jafnframt að með matinu sé sýnt fram á að útfærsla/lausn stefnda á nálarhaus, færslubúnaði fyrir hann og undirliggjandi tækni sem hann notast við í vél sinni sé bein eftirlíking af útfærslu/lausn stefnanda og þar með brot gegn framangreindri 5. gr. laga nr. 57/2005. Matsmaður telji að hönnun og undirliggjandi tækni nálarhaussins sé sérstakur fyrir vél stefnanda og að sami búnaður í vél stefnda sé mjög líkur og ólíklegt að ekki hafi legið fyrir vitneskja um nálarhaus stefnanda og tæknilega útfærslu hans þegar nálarhaus stefnda var hannaður. Sé þar meðal annars um að ræða að dæluþrýstingur stýrir því viðnámi sem nálarnar veita þegar nálarhausinn er færður niður í fiskinn. Með þessu telji stefnandi ljóst að um eftirlíkingu sé að ræða á hönnun nálarhauss, færslubúnaðar fyrir hann og undirliggjandi tækni vélar stefnanda, sem brjóti gegn 5. gr. laga nr. 57/2005. Stefnandi telji því ótvírætt að innflutningur og sala stefnda á saltsprautuvélinni brjóti gegn þessu ákvæði. Stefnandi byggi ennfremur á því að stefndi hafi við sölu vélanna brotið gegn hönnunarvernd sinni er tekur til útlits vélarinnar, sbr. 9. gr. laga um hönnun nr. 46/2001 en hann eigi hönnunarskráningu nr. 44/2005. Stefnda sé því óheimil notkun útfærslunnar/lausnarinnar í atvinnustarfsemi sinni og beri að dæma þessa háttsemi stefnda óheimila, þ.m.t. að framleiða, flytja inn, bjóða til sölu, etja á markað eða nota þessa tæknilegu útfærslu/lausn í atvinnustarfsemi sinni. Kröfu sína um eignaupptöku byggir stefnandi á 4. mgr. 26. gr. laga nr. 57/2005, sbr. 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um brot gegn 5. gr. laga nr. 57/2005 sé að ræða og samkvæmt því sé þess krafist að sprautusöltunarvélar stefnda, sem brjóta gegn rétti stefnanda, verði gerðar upptækar, enda sé um að ræða hluti sem orðið hafa til við misgerning. Hagsmunir stefnanda verði fyrir borð bornir án eignaupptöku, enda óeðlilegt að birgðir af ólögmaætum eintökum sem eigi sé heimilt að selja eða ráðstafa, séu áfram í vörslu stefnda. Kröfu sína um skaðabætur byggir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttar utan samninga og 1. mgr. 38. gr. laga um hönnun nr. 46/2001. Á því sé byggt að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni með því að gera eftirlíkingu af útfærslu/lausn stefnanda af ásetningi, stórkostlegu gáleysi eða í það minnsta gáleysi. Þetta sé honum óheimilt vegna ákvæða 5. gr. laga nr. 57/2005 og 9. gr. laga nr. 46/2001 um hönnun. Lög nr. 57/2005 hafi ekki að geyma ákvæði um skaðabætur, en ljóst sé að saknæmt brot gegn lögunum, sem hafi fjárhagslegt tjón í för með sér, beri að bæta eftir almennum reglum skaðabótaréttarins. Stefndi hafi ekki upplýst stefnanda um fjölda keyptra og seldra eintaka af eftirlíkingunni, en stefnandi telji að lágmarki sé um þrjár sprautusöltunarvélar að ræða. Skaðabótakrafa stefnanda sé byggð á því að stefnandi hafi orðið af sölu sama fjölda sprautusöltunarvéla og stefndi hafi þegar selt, enda sé staðganga alger milli varanna og um beina eftirlíkingu að ræða. Ágóði af hverju eintaki sprautsöltunarvéla stefnanda hafi á árunum 2005-2006 að meðaltali verið tvær til tvær og hálf milljón króna, sbr. fram,lagða staðfestingu löggilts endurskoðanda. Þar sem stefnandi telji líklegt að stefndi hafi selt þrjú eintök af eftirlíkingunni þá nemi bótakrafa stefnanda 6.000.000 króna. Krafist sé dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá birtingardegi stefnu til greiðsludags, sbr. 4. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. III. Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 eða ákvæðum laga nr. 46/2001 og sé því krafist sýknu af viðurkenningarkröfu stefnanda. Í fyrsta lagi sé þeirri málsástæðu stefnanda mótmælt, að stefnandi hafi einkarétt til sölu og framleiðslu saltsprautunarvéla hér á landi, enda komi það fram á dskj. nr. 27 að ekkert einkaleyfi sé til framleiðslu slíkra véla hér á landi. Í öðru lagi sé byggt á því að hönnunarvernd stefnanda taki ekki til vélar stefnda. Hönnunarverndin taki til útlits á vél sem ekki líkist útliti vélar stefnda auk þess sem hönnunarverndin hafi verið skráð þann 15. nóvember 2005 eftir að stefndi hafði selt vél sína í júlí 2005. Í þriðja lagi sé mótmælt öllum málsástæðum stefnanda í þá veru að tæknileg útfærsla hans skilji sig frá vörum samkeppnisaðila og að hún feli í sér sjálfstætt framlag við útfærslu á þeim tæknilegu lausnum sem við sé að eiga í slíkum vélum. Sé á því byggt að fjöldi véla sé útfærður á sama hátt og vél stefnanda, þótt hætt hafi verið framleiðslu og markaðssetningu á sumum vélanna af ýmsum ástæðum. Í stefnu sé því haldið fram að vélar sem séu framleiddar af erlendum samkeppnisaðilum séu allar frábrugðnar vélum stefnanda, bæði hvað varðar útlit og tæknilega útfærslu, m.a. hvað varðar síur og öxla. Þessu sé mótmælt sem röngu og í því sambandi vísað til auglýsingar Kvótamarkaðarins sem er á dskj. nr. 45 þar sem auglýst er til sölu sænsk sprautusöltunarvél sem virðist byggja á nákvæmlega sömu lausn og vél stefnda. Þá komi fram á upplýsingasíðu VGI ehf. á dskj. nr. 46 upplýsingar um svokallaða “Fomaco vél” sem sé áþekk vél stefnanda. Í fjórða lagi sé á því byggt að stefndi hafi á engum tíma stolið eða líkt eftir hönnun vélar stefnanda likt og haldið er fram í stefnu. Fullyrðingum um hönnunarstuld sé harðlega mótmælt, enda sé vél stefnda hans eigið hugverk en ekki annarra. Sé þvert á móti á því byggt að stefnandi hafi á engum tíma gefið stefnda þann eðlilega tíma sem hann hafi þurft til þróunar og framleiðslu á nýrri útgáfu vélarinnar. Hafi stefnandi jafnframt með óeðlilegum viðskiptaháttum komið í veg fyrir að stefndi kæmi vöru sinni á framfæri á markaði í samkeppni við stefnanda. Þegar dómkvaddur hafi verið matsmaður til að skoða fyrstu og einu framleiðsluvél stefnda hafi hún ekki verið komin í endanlegan búning. Samt sem áður hafi það verið niðurstaða matsmanns að vél stefnda væri ekki framleiðslueftirlíking af vél stefnanda. Stefndi hafi hins vegar frá þeim tíma haldið áfram með vinnu við þróun nýrrar útgáfu vélarinnar. Vél stefnda hafi því verið breytt mikið eftir að dómkvaddur matsmaður skoðaði hana og mat. Því taki viðurkenningarkrafa stefnanda í reynd til vélar sem nú sé ekki lengur framleidd af stefnda. Þrátt fyrir þetta sé þó óhjákvæmilegt að gera grein fyrir einstökum atriðum er skilji milli véla aðila. a. nálar og nálarhaus. Í stefnu sé því haldið fram að nálarhaus vélar stefnanda sé þannig úr garði gerður að vökvaþrýsingur stýri því magni pækils sem sprautað er í hráefnið um leið og vökvaþrýstingurinn þrýsti nálinni niður, vegna stimpils sem festur sé efst í nálina og að þetta sé gagnstætt erlendum vélum, t.d. vélum framleiddum af Farmaco í Danmörku þar sem hverri nál sé þrýst niður með gormi. Stefndi byggir á því að þetta sé ekki rétt, þar sem þessi tækni sé einnig notuð í vél samkvæmt dómskjali nr. 46 og í “ Landsmiðjuvélinni”. Þá hafi þetta einnig verið tækni vélar sem fyrirtækið Málmey ehf. hafði í hyggju að framleiða og var búið að kynna á heimasíðu sinni. Þá sé það ekki rétt að útfærsla stefnanda á nálarhausnum og sjálfar nálarnar á vélinni séu með öðru sniði en nálar hjá öðrum framleiðendum slíkra véla. Sé á því byggt að Landsmiðjan hf. hafi í mörg ár framleitt saltsprautuvélar sem voru með samskonar nálar en þeirri framleiðslu hafi síðan verið hætt. Margar þessarra véla séu þó enn í notkun hérlendis. Þá bendi stefndi á að hann hafi hannað nýjan haus á vélina sem byggi á annarri tækni. Eitt megineinkenni þess hauss sé að viðnám nála stýrist af loftþrýstingi undir nálar og vökvaþrýstingi ofan frá. Þá byggi stefndi á því að ekki séu líkindi með þeim nálum sem notaðar eru í vélar stefnda og stefnanda. Upphaflega hafi nálar í vél stefnda verið áþekkar nálum “Landsmiðjuvélarinnar”. Sú lausn hafi ekki uppfyllt væntingar stefnda og því hafi verið ákveðið að skipta þessum nálum nálum út fyrir aðra grennri tegund nála. b. grófsía Þá sé því haldið fram í stefnu að grófsíur á vélum aðila séu með sama hætti. Þessu sé mótmælt og á því byggt að þegar matsmaður skoðaði vélina hafi verið bráðabirgðagrófsía á henni sem hafi samanstaðið af plötu og kari. Á mynd af vél stefnanda TR-850 sé grófsía staðsett við hlið vélar (sem lítið færiband) og virðist lítið kar vera undir því. Í vél stefnda sé sprautuþrýstingur hins vegar of mikill fyrir svo lítið kar. Því sé grófsía á vél stefnda með þeim hætti að fyrir framan vélina sé staðsett 400 lítra kar með kælispírölum og síubandi. Þar sé því um allt aðra lausn að ræða. c. fínsía. Varðandi fínsíu í vél stefnda sé því alfarið mótmælt að um sömu lausn sé að ræða. Við þróun á vél stefnda hafi verið útbúin fínsía til bráðabirgða. Síðan hafi verið keypt fínsía á vél stefnda frá fyrirtækinu Valve & Filter Corporation, sem augljóslega sé ekki hugverk stefnanda. d. útfærsla á vélarhúsi. Á því sé byggt að ekkert sé óeðlilegt við að útfærsla á vélarhúsi og þversnið vélanna og færibandsins sem flytur fiskinn gegnum vélarnar sé ámóta í vélum aðila. Hafa verði í huga að allar saltsprautuvélar hafa bönd sem flytja fisk gegnum vélina og vélarhús þar sem mótorar og fleira eru staðsett.. Þetta sé einnig niðurstaða matsmanns. Þá sé það ekki rétt að öryggishlíf á vél stefnda og stefnanda séu eins að því leyti að öryggishlífin sé úr gagnsæu efni og að form hennar sé það sama og á vél stefnanda. Af gögnum sé ljóst að öryggishlíf á vél stefnda sé úr stáli og form hennar sé ekki það sama og á vél stefnanda. Af framansögðu sé því ljóst að engin líkindi séu með vélum aðila og telji stefndi því að sýkna beri hann af viðurkenningarkröfu stefnanda. Um upptökukröfu stefnanda byggir stefndi á þeim málsástæðum og lagarökum og varða sýknukröfu af viðurkenningarkröfu stefnanda. Sé á því byggt að stefndi hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 við hönnun og síðar framleiðslu á saltsprautunarvél. Því sé kröfu stefnanda um upptöku alfarið mótmælt enda séu skilyrði þessa úrræðis ekki fyrir hendi í málinu. Þá liggi fyrir að stefndi hafi ekki getað framleitt eða selt vélar á innlendum markaði vegna aðgerða stefnanda. Því séu engar vélar til sem gera mætti upptækar að kröfu stefnanda. Að því er varðar skaðabótakröfu stefnanda þá mótmælir stefndi bæði grundvelli skaðabótaskyldu sem og þeim forsendum sem stefnandi leggur til grundvallar við ákvörðun meints fjártjóns. Er byggt á því að stefndi hafi ekki valdið stefnanda neinu tjóni með þeim hætti sem byggt er á í stefnu, auk þess sem stefnandi hafi ekki sannað meint tjón sitt eða grundvöll slíkrar bótaábyrgðar. Þá byggir stefndi á því, að jafnvel þó að bótagrundvöllur teldist vera fyrir hendi, þá sé bótakrafa stefnanda svo vanreifuð að óhjákvæmilegt sé að vísa henni frá dómi ex officio. Vegna áskorunar stefnanda hafi stefndi nú upplýst að hann hafi einungis selt eina vél en ekki þrjár eins og byggt sé á af hálfu stefnanda. Ástæða þess sé eingöngu sú að stefndi hafi ekki getað hafið sölu og framleiðslu vélarinnar vegna markvissra aðgerða stefnanda gegn honum á samkeppnismarkaði. Neytendastofa hafi nú tekið afstöðu til kvartana stefnda þar að lútandi og hafi niðurstaða stofnunarinnar verið sú að stefnandi hafi brotið gegn ákvæðum 5. og 6. gr. laga nr. 57/2005. Stefnandi hafi þvert á móti valdið stefnda miklu tjóni og geymi stefndi sér allan rétt til þess að krefja stefnanda um bætur vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir af þessum sökum. Stefndi byggir kröfur sínar á reglum laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins og almennum reglum skaðabótaréttar utan samninga. Þá vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og varðandi málskostnað til 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991. IV. Í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins svo og í málflutningi 12. þessa mánaðar tefldi lögmaður stefnda m.a. fram málsástæðum er varða aðild í málinu, m.a. að stefnandi sé ekki eigandi þeirra réttinda er hann byggi mál sitt á svo og atriðum varðandi aðild stefnda. Var þessu mótmælt sem nýjum málsástæðum og of seint fram komnum af lögmanni stefnanda. Er fallist á sjónarmið stefnanda að þessu leyti og koma þessar nýju málsástæður ekki til álita varðandi niðurstöðu málsins, hvorki að kröfu né að sjálfsdáðum. Upplýst er í málinu að stefnanda hefur ekki verið veitt einkaleyfi á þeirri tæknilegu útfærslu sem hann byggir málssóknina á og verður niðurstaða því ekki byggð á einkaleyfi enda er ekki í reynd á því byggt af hálfu stefnanda. Ekki er fallist á að hönnunarvernd vélar stefnanda taki til vélar stefnda. Ber í því sambandi til þess að líta að eins og fram kemur í mati dómkvadds matsmanns að vél stefnda er ekki eftirlíking af vél stefnanda og útlitslega líkist vél stefnda frekar vélum annarra framleiðenda en stefnanda. Jafnframt er tekið fram í matinu að allar vélarnar sem voru bornar saman hafa sama grunnútlit. Verður krafa stefnanda því ekki tekin til greina á grundvelli laga um hönnun nr. 46/2001. Eins og að framan getur byggir stefnandi einkum á því að stefnda sé óheimilt að nota þá tæknilegu útfærslu/lausn sem stefnandi hefur einn rétt til. Tæknileg útfærsla/lausn hans skilji sig frá vörum samkeppnisaðila og feli í sér sjálfstætt framlag hans við útfærslu á þeirri tæknilegu lausn sem við sé að eiga. Þetta sjálfstæða framlag sé öðrum óheimilt að nýta sér með eftirgerð, líkt og stefndi geri í þessu tilfelli, á grundvelli 5. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005. Stefnandi telji sig hafa sýnt fram á að nálarhaus, færslubúnaður fyrir hann og undirliggjandi tækni sé sjálfstætt framlag í þessu sambandi og ekki einvörðungu hagnýting á þekktum aðferðum. Þannig taki matsmaður fram í mati sínu að útfærsla/lausn stefnanda sé sértæk hvað varðar nálarhaus og færslubúnað fyrir hann. Telur stefnandi útfærsluna/lausnina því njóta verndar samkvæmt 5. gr. laga nr. 57/2005. Þá telji stefnandi jafnframt að með matinu sé sýnt fram á að útfærsla/lausn stefnda á nálarhaus, færslubúnaði fyrir hann og undirliggjandi tækni sem hann notast við í vél sinni sé bein eftirlíking af útfærslu/lausn stefnanda og þar með brot gegn framangreindri 5. gr. laga nr. 57/2005. Matsmaður telji að hönnun og undirliggjandi tækni nálarhaussins sé sérstakur fyrir vél stefnanda og að sami búnaður í vél stefnda sé mjög líkur og ólíklegt að ekki hafi legið fyrir vitneskja um nálarhaus stefnanda og tæknilega útfærslu hans þegar nálarhaus stefnda var hannaður. Með þessu telji stefnandi ljóst að um eftirlíkingu sé að ræða á hönnun nálarhauss, færslubúnaðar fyrir hann og undirliggjandi tækni vélar stefnanda, sem brjóti gegn 5. gr. laga nr. 57/2005. Að mati dómsins er ljóst að margt er líkt með tæknilegri útfærslu á færslubúnaðinum, nálarhausum og útliti nála svo og undirliggjandi tækni í vélum aðila og er fallist á það með dómkvöddum matsmanni að þessi atriði séu sértæk í vél stefnanda. Ekki er þó um að ræða eftirlíkingu þar sem mál, málsetningar, form og samsetningar eða staðsetningar eru ekki nákvæmlega eins þótt þessir hlutir séu mjög líkir í báðum vélunum. Má því segja að um svipaða tæknilega útfærslu og virkni sé að ræða en ekki beina eftirlíkingu. Stefndi, sem að líkindum hefur þekkt útfærsluna að þessu leyti í vél stefnanda og hugsanlega öðrum svipuðum vélum, þykir því fremur hafa nýtt sér hugmyndina að útfærslunni, hvaðan sem hún hefur upphaflega komið, en ekki beint líkt eftir útfærslu stefnanda. Samkvæmt gögnum málsins hefur vél stefnda verið í þróun frá því að hann seldi Írafelli ehf. hana og erfiðleikar komið fram. Bendir það ekki til þess að um eftirlíkingu sé að ræða eða að stefndi hafi haft undir höndum teikningar af vél stefnanda. Þá ber enn og aftur að leggja áherslu á að þrátt fyrir að hin tæknilega útfærsla á vélunum að þessu leyti sé mjög lík er tæknilega útfærslan í vél stefnanda ekki einkaleyfisvernduð og mál, málsetningar á teikningum, yfirborðsform og staðsetningar eru ólíkar. Að framangreindu virtu telur dómurinn í ljósi heildarmats að vél stefnda sé ekki eftirlíking á vél stefnanda. Braut stefndi því ekki gegn ákvæði 5. gr. laga nr. 57/2005 við framleiðslu vélar sinnar. Ber samkvæmt þessu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem eftir atvikum þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur. Dóm þennan kveða upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari meðdómsmennirnir og Indriði Sævar Ríkharðsson vélaverkfræðingur og Magnús Þór Jónsson vélaverkfræðingur Dómsorð: Stefndi, Stál Plús ehf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Traustrar þekkingar ehf., í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 105/2009 | Kærumál Innsetningargerð | S og A kröfðust þess að þeim yrði heimilað að fá nánar tilgreint afsal tekið úr vörslum fasteignasalans Æ og fengið sér með beinni aðfarargerð. Í málinu var upplýst að Æ var vörsluhafi skjalsins og vegna ágreinings, um skyldu S og A til að greiða seljandanum Þ dráttarvexti, hafði skjalið hvorki verið afhent S og A eftir að það var undirritað né fært af fasteignasölunni til þinglýsingar. Hæstiréttur taldi ekki efni til að fallast á með S og A að stofnast hefði til eignarréttar þeirra yfir afsalinu við undirritun þess án tillits til þess hvort þau hefðu uppfyllt skyldur sínar við seljandann. Um ætlaðar vanefndir S og A væri samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ágreiningur, sem ekki yrði leyst úr í málinu, sem rekið væri eftir ákvæðum 13. kafla laga nr. 90/1989, sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna. Var kröfu S og A um að fá umrætt afsal afhent sér með beinni aðfarargerð því hafnað. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. I Samkvæmt gögnum málsins gerðu varnaraðilar samning 10. október 2007 við ÞG-Verktaka ehf. um kaup á tilgreindri íbúð í fjöleignarhúsi að Norðurbakka 25 í Hafnarfirði, en milligöngu um þau viðskipti hafði Fasteignasalan Borgir ehf., sem sóknaraðili mun starfa hjá sem löggiltur fasteignasali. Umsamið kaupverð var 34.600.000 krónur, en þar af áttu 9.000.000 krónur að greiðast með fasteignaveðbréfi og samtals 25.600.000 krónur með peningum í fimm tilteknum áföngum. Um gjalddaga einnar af þessum síðastnefndu greiðslum, að fjárhæð 9.000.000 krónur, sagði eftirfarandi í kaupsamningnum: „Gegn skilyrtu veðleyfi vegna veðflutnings af eign kaupanda að Hólmatúni 22A. Greiðslan skal innt af hendi svo fljótt sem unnt er eftir sölu eignarinnar, þó aldrei síðar en 20.12.07. Fasteignasölunni Borgum og seljendum skal sendur kaupsamningur um eignina strax og hann hefur verið undirritaður“. Fyrir liggur í málinu að varnaraðilum mun ekki hafa tekist að selja fasteign sína fyrir þann dag, sem tiltekinn var í ofangreindu ákvæði kaupsamningsins. Varð því að svo stöddu ekki af efndum af hendi þeirra að öðru leyti en því að umsamin fjárhæð fasteignaveðbréfs mun hafa hækkað um 1.103.871 krónu til greiðslu upp í þennan hluta kaupverðsins. Stóðu því eftir 7.896.129 krónur af greiðslunni, sem átti að berast seljanda í síðasta lagi 20. desember 2007, en sú fjárhæð mun svo hafa verið innt af hendi 20. maí 2008. Óumdeilt virðist vera að varnaraðilar hafi staðið réttilega skil á kaupverðinu að öðru leyti. Af gögnum málsins verður séð að seljandi íbúðarinnar hreyfði því þegar í orðsendingu til starfsmanns á fasteignasölu sóknaraðila 8. janúar 2008 að seljandinn gerði kröfu um dráttarvexti vegna vanskila varnaraðila. Í orðsendingu frá starfsmanni fasteignasölunnar til seljandans 21. maí 2008, þar sem tilkynnt var að varnaraðilar hefðu staðið skil á áðurnefndri greiðslu degi fyrr, kom fram að þau hefðu á hinn bóginn ekki greitt „vextina, kr. 488.463, og biðja um að tekið verði tillit til umkvartana þeirra vegna óþæginda þar í móti.“ Í því sambandi var greint frá fjórum atriðum, sem varnaraðilar teldu að valdið hefðu þeim óþægindum í tengslum við annmarka á íbúðinni. Í bréfi annars varnaraðilans 13. júní 2008 til seljandans var boðin greiðsla á 300.000 krónum til að ljúka ágreiningi um þetta, en í því sambandi var tekið fram að varnaraðilinn minntist þess ekki að rætt hefði verið um vexti þegar samið hafi verið munnlega um frest á greiðslu, sem inna átti af hendi í síðasta lagi 20. desember 2007, auk þess sem varnaraðilunum hefði verið ætlaður of skammur tími til að selja fyrri fasteign sína í tengslum við þessi viðskipti. Í málinu hefur verið lagt fram ljósrit af afsali seljandans til varnaraðila fyrir íbúðinni að Norðurbakka 25. Það er dagsett 20. maí 2008 og undirritað af seljanda og varnaraðilunum, svo og af tveimur vottum, sem munu vera starfsmenn á fasteignasölu sóknaraðila. Í afsalinu segir meðal annars að umsamið kaupverð sé að fullu greitt. Óumdeilt virðist vera að afsalið hafi legið fyrir á fasteignasölunni, undirritað af seljanda, þegar varnaraðilar komu þangað til að inna af hendi greiðslu þann dag, sem skjalið er dagsett. Vegna ágreinings um skyldu varnaraðila til að greiða seljandanum dráttarvexti mun skjalið hvorki hafa verið afhent þeim fyrrnefndu eftir að það var undirritað né fært af fasteignasölunni til þinglýsingar og liggur fyrir að það er enn í vörslum sóknaraðila. Í málinu leita varnaraðilar eftir heimild til að fá þetta skjal afhent sér með beinni aðfarargerð. II Í fyrrnefndum kaupsamningi varnaraðila við ÞG-Verktaka ehf. 10. október 2007 var meðal annars kveðið á um að dráttarvextir skyldu „reiknast við greiðsludrátt“. Þar var einnig tekið fram að þegar „kaupandi hefur efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi á hann rétt á afsali fyrir eigninni úr hendi seljanda.“ Þótt afsal hafi verið undirritað af seljanda og varnaraðilum sem kaupendum 20. maí 2008 verður ekki litið fram hjá því að fasteignasala sóknaraðila lét þetta skjal ekki af hendi til varnaraðila vegna ágreinings, sem upp var kominn milli þeirra og seljandans um hvort varnaraðilar hefðu fullnægt framangreindu skilyrði í kaupsamningnum fyrir afsali. Ekki eru efni til að fallast á með varnaraðilum að stofnast hafi til eignarréttar þeirra yfir þessu skjali við undirritun þess án tillits til þess hvort þau hafi uppfyllt skyldur sínar við seljandann. Um ætlaðar vanefndir varnaraðila er samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ágreiningur, sem ekki verður leyst úr í máli, sem rekið er eftir ákvæðum 13. kafla laga nr. 90/1989, sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður hafnað kröfu varnaraðila um heimild til að fá þetta afsal afhent sér úr vörslum sóknaraðila með beinni aðfarargerð. Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hafnað er kröfu varnaraðila, Snorra Lorentz Kristinssonar og Önnu Grétu Arngrímsdóttur, um að þeim verði heimilað að fá afhent með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila, Ægis Breiðfjörð Sigurgeirssonar, afsal 20. maí 2008 frá ÞG-Verktökum ehf. til varnaraðila fyrir íbúð auðkenndri nr. 306 í fjöleignarhúsi að Norðurbakka 25 í Hafnarfirði. Varnaraðilar greiði sóknaraðila samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Með bréfi mótteknu í Héraðsdómi Reykjavíkur, 29. október 2008, kröfðust sóknaraðilar, Snorri L. Kristinsson, kt. 291145-5319 og Anna G. Arngrímsdóttir, kt. 100344-3949, bæði til heimilis að Norðurbakka 25, Hafnarfirði, þess að afsal í eigu sóknaraðila, útgefið til sóknaraðila, 20. maí 2008, af ÞG-Verktökum, kt. 581198-2569, fyrir íbúð 306 (eign merkt 03.06, matshluti 02, fastanúmer 229-3506) í húsinu nr. 25 við Norðurbakka í Hafnarfirði ásamt stæði í bílageymslu, merktu B26, svo og öllu sem fylgir og fylgja ber að engu undanskildu, þ.m.t. tilheyrandi hlutdeild í sameign og lóðarréttindi, verði tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila, Ægis Breiðfjörð Sigurgeirssonar, löggilts fasteignasala, Ármúla 1, Reykjavík og fengið sóknaraðilum. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins. Af hálfu varnaraðila, Ægis Breiðfjörð Sigurgeirssonar, er krafist sýknu af dómkröfum sóknaraðila og að sóknaraðilum verði gert að greiða málskostnað. I Í beiðni sóknaraðila kemur fram að þann 10. október 2007 hafi þau skrifað undir kaupsamning vegna ofangreindrar íbúðar við Norðurbakka í Hafnarfirði. Seljendur íbúðarinnar hafi verið ÞG-Verktakar ehf., og hafi Fasteignasalan Borgir, Ármúla 1, Reykjavík séð um söluna. Gengið hafi verið endanlega frá greiðslum samkvæmt kaupsamningi þann 20. maí 2008 með afsali sem seljandi hafi undirritað. Hafi varnaraðili, sem fyrirsvarsmaður fasteignasölunnar, neitað að afhenda sóknaraðilum afsal íbúðarinnar þrátt fyrir ítrekaðar kröfur um slíkt og hafi nú haft afsalið undir höndum í u.þ.b. fimm mánuði. Afsalið sé ótvíræð eign sóknaraðila, kvaðalaus og skilyrðislaus. Handhöfn varnaraðila á skjölunum sé einungis tilkomin samkvæmt umboð sóknaraðila vegna umsýslu varnaraðila fyrir sóknaraðila. Hafi varnaraðili tekist á hendur umsýslu fyrir sóknaraðila tengda kaupum, þ.m.t. þinglýsingu kaupsamningsins og afsalsins, gegn greiðslu frá sóknaraðilum. Á þeim grundvelli hafi varnaraðili fengið afsalið í sínar vörslur við útgáfu þess og borið fyrir þeirra hönd að annast um þinglýsingu þess. Með því að afhenda sóknaraðilum ekki afsalið þinglýst hafi varnaraðili brotið gegn lagaskyldum sínum samkvæmt lögum nr. 99/2004 um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Afsalið fyrir eigninni hafi verið gefið út til sóknaraðila þann 20. maí 2008 eins og áður hafi komið fram. Í því komi m.a. fram að umsamið kaupverð sé að fullu greitt. Afsalið sé staðfesting á eignarrétti að eigninni sem hafi verið afsalað til sóknaraðila. Áttu sóknaraðilar þegar eftir útgáfu þess rétt á að fá það afhent enda beri það með sér að þeir hafi uppfyllt allar skyldur sínar. Ágreiningur um ætlaða vaxtaskuld sóknaraðila við seljanda fasteignarinnar sé síðar tilkominn og breyti ekki rétti sóknaraðila til skjalsins. Um lagrök sé vísað til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. II Í greinargerð varnaraðila kemur fram að hann kannist við að hafa umrætt afsal undir höndum. Ástæða þess að afsalið hafi verið gefið út af seljanda sé sú að sóknaraðilar hafi átt eftir að greiða eftirstöðvar kaupverðs með áföllnum dráttarvöxtum og gegn þeirri greiðslu hafi varnaraðili mátt afhenda afsalið. Handhöfn varnaraðila á skjalinu hafi verið trygging seljanda fyrir því að greiðsla yrði innt af hendi. Útgáfa þess af hálfu seljanda hafi verið til hagræðis gerð þar sem ekki hafi verið ljóst hvenær sóknaraðilar ætluðu að mæta til að ganga frá lokagreiðslu. Réttur sóknaraðila til handhafnar afsalsins sé hins vegar háður því að þeir hafi að fullu greitt umsamið kaupverð, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 40/2002. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi átt að greiða kr. 7.896.129 þann 20. desember 2007. Óumdeilt sé að sú greiðsla hafi ekki borist í tíma. Fyrir liggi að seljandi eignarinnar hafi ítrekað lagt fyrir varnaraðila að innheimta dráttarvexti. Fyrir liggi að skv. lið 13 á bakhlið kaupsamnings eigi að reiknast dráttarvextir á greiðsludrátt kaupverðs. Fyrir varnaraðila liggi skýr fyrirmæli um að afhenda ekki afsal til sóknaraðila nema þeir greiði umkrafða dráttarvexti. Sú krafa hafi verið höfð uppi strax við vanskil á greiðslu kaupverðs í desember 2007 og formlega ítrekuð síðar, m.a. í tölvupósti starfsmanns varnaraðila 8. janúar 2008. Ljóst sé að ef varnaraðili verði við kröfum sóknaraðila verði hann skaðabótaskyldur gagnvart seljanda fasteignarinnar. Í ljósi skýrra fyrirmæla seljanda og þar af leiðandi óvissu um rétt sóknaraðila til afsalsins, vegna ágreinings um skyldu hans til að greiða dráttarvexti, verði að sýkna varnaraðila af kröfum sóknaraðila. Með vísan til þessa verði ekki séð að sóknaraðilar eigi svo ljós réttindi til afsalsins, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem 83. gr. laga nr. 90/1989 heimili honum að styðja mál sitt fyrir dómi. Þvert á móti sé í lögum um fasteignakaup kveðið skýrt á um að sóknaraðili eigi því aðeins rétt til afsals úr hendi seljanda að hann hafi að fullu efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 40/2002. Þar til úr þessum ágreiningi hafi verið leyst endanlega sé varnaraðila óheimilt að afhenda sóknaraðilum umkrafið afsal. III Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort varnaraðila sé skylt að afhenda sóknaraðilum afsal útgefið til þeirra, 20. maí 2008, af ÞG-Verktökum ehf., fyrir íbúð 306 í húsinu nr. 25 við Norðurbakka í Hafnarfirði. Það er skilyrði fyrir beinni aðfarargerð samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför að réttindi gerðarbeiðanda séu svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem afla má samkvæmt 1. mgr. 83. gr. aðfararlaga. Varnaraðili byggir á að það séu fyrirmæli seljanda eignarinnar að hann afhendi ekki afsalið fyrr en sóknaraðilar hafi greitt vaxtaskuld. Fyrir liggur að sóknaraðilar greiddu þann 20. maí 2008 lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi um eignina og fasteignagjöld. Þegar kaupandi hefur efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi á hann rétt á afsali úr hendi seljanda, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 40/2002. Umrætt afsal er gefið út 20. maí 2008, þ.e. sama dag og lokagreiðsla samkvæmt kaupsamningi fór fram. Afsalið, sem er undirritað af seljanda eignarinnar og sóknaraðilum í votta viðurvist, er staðfesting á að eignarrétti að eigninni hafi verið afsalað til sóknaraðila. Áttu sóknaraðilar þegar eftir útgáfu þess rétt á að fá það afhent. Ágreiningur sá sem fyrir liggur að er um greiðslu vaxta þykir engu breyta þar um, enda skjalið frá útgáfu eign sóknaraðila. Þá geta hér heldur engu breytt meintar skuldbindingar varnaraðila gagnvart seljanda eignarinnar. Samkvæmt því sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989 til að verða við kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Eftir niðurstöðu málsins verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðilum 100.000 kr. í málskostnað. Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Afsal í eigu sóknaraðila, útgefið til sóknaraðila, 20. maí 2008, af ÞG-Verktökum, fyrir íbúð 306 (eign merkt 03.06, matshluti 02, fastanúmer 229-3506) í húsinu nr. 25 við Norðurbakka í Hafnarfirði ásamt stæði í bílageymslu, merktu B26, svo og öllu sem fylgir og fylgja ber að engu undanskildu, þ.m.t. tilheyrandi hlutdeild í sameign og lóðarréttindi, skal tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila, Ægis Breiðfjörð Sigurgeirssonar, löggilts fasteignasala, Ármúla 1, Reykjavík, og fengið sóknaraðilum. Varnaraðili greiði sóknaraðilum 100.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 110/2011 | Loforð Samningur | J höfðaði mál gegn fyrrum vinnuveitanda sínum I ehf. og gerði kröfu um greiðslu kostnaðar vegna kaupa á hlutabréfum í móðurfélagi I ehf. J reisti kröfu sína á starfslokasamningi þar sem meðal annars var kveðið á um að I ehf. myndi vinna að lausn málsins þannig að tjón J af kaupunum yrði sem minnst. Orðalag samningsins var hvorki talið fela í sér skuldbindingu I ehf. um að tryggja J skaðleysi af hlutabréfakaupunum né loforð um að I ehf. tækist á hendur nánar tilteknar aðgerðir til að draga úr tjóni J. Var I ehf. því sýknað af kröfu J. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. febrúar 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 13.632.875 krónur, en til vara aðra lægri fjárhæð, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gegndi áfrýjandi starfi framkvæmdastjóra hjá stefnda og hafði á þeim tíma keypt hlutabréf í Icelandair Group hf., móðurfélagi stefnda, í nóvember 2006. Eftir gögnum málsins gerði áfrýjandi þetta með því að taka verulegan hluta kaupverðs hlutabréfanna að láni, en þetta mun nokkur fjöldi stjórnenda móðurfélagsins jafnframt hafa gert. Samningur var gerður milli aðilanna 1. júlí 2008 um starfslok áfrýjanda og var í honum meðal annars svofellt ákvæði: „Hlutabréfaeign. Framkvæmdastjóri fjárfesti í félaginu á þeim tíma sem félagið var skráð á markaði. Væntingar um þróun gengis hafa ekki gengið eftir og er verulegt tap af þessari stöðu. Félagið mun vinna að lausn þessa máls þannig að tjón framkvæmdastjóra verði sem minnst. Frágangi þessa máls skal lokið eigi síðar en 1. maí 2009.“ Áfrýjandi reisir dómkröfur sínar í málinu á þessu ákvæði. Framangreind orð í samningi aðilanna 1. júlí 2008 verða ekki eftir hljóðan sinni skilin svo að þau feli í sér skuldbindingu stefnda til að tryggja áfrýjanda skaðleysi af hlutabréfakaupunum í Icelandair Group hf. Þau fela heldur ekki í sér loforð um að stefndi muni takast á hendur nánar tilteknar aðgerðir til að draga úr tjóni áfrýjanda, heldur vilyrði um að „vinna að lausn þessa máls“, sem ekki var afmarkað frekar. Dómkröfur áfrýjanda verða ekki reistar á slíku vilyrði. Héraðsdómur verður því staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Jóhann Kristjánsson, greiði stefnda, Iceland Travel ehf., 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2010. I Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 16. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóhanni Kristjánssyni, kt. 260565-4199, Dalhúsum 107, Reykjavík, með stefnu, þingfestri 21. janúar 2010, á hendur Iceland Travel ehf., kt. 410791-1379, Skútuvogi 13a, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 13.632.875, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.gr. vaxtalaga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 1. maí 2009 til greiðsludags og leggist dráttarvextir við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. maí 2010, en síðan árlega þann dag. Enn fremur er krafizt málskostnaðar að mati dómsins ásamt vöxtum af málskostnaði skv. 3. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisauka af málskostnaði, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur. Dómkröfur stefnda eru þær, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu. II Málavextir Þann 4. apríl 2006 hóf stefnandi störf sem framkvæmdastjóri hjá stefnda, dótturfélagi Icelandair group h.f., en forstjóri þess Björgólfur Jóhannsson var á þeim tíma stjórnarformaður stefnda. Stefnandi kveður stjórnendur stefnda hafa verið hvatta til að standa með félaginu út á við, þegar félagið var sett á markað, og taka þátt í hlutafjáraukningunni. Stefndi, sem var einn af stjórnendum félagsins, kveðst hafa látið tilleiðast og keypt hlutabréf í Icelandair group h.f. fyrir 30.000.000 króna. Hann kveðst hafa lagt til þess eigið fé, kr. 1.420.000, auk þess sem hann hafi tekið að láni í banka kr. 8.580.000. Þá hafi hann fengið að láni 20.000.000 kr. í Landsbanka Íslands með veði í hlutabréfunum. Á fyrri hluta árs 2008 var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda. Í framhaldi af uppsögninni sömdu stefnandi og Björgólfur Jóhannsson um starfslok stefnanda og er samningurinn dagsettur 1. júlí 2008. Áður en starfslokasamningurinn var gerður áttu aðilar nokkur samskipti um starfslokakjörin, þar sem m.a. var fjallað um það tjón sem stefnandi hafði orðið fyrir vegna áðurnefndra hlutafjárkaupa. Liggur m.a. fyrir tölvubréf frá stefnanda, dags. 6. júní 2008, þar sem hann vísar m.a. til samkomulags á fundi aðila um, að stefndi tryggði, að stefnandi kæmi ekki út í tapi vegna umræddra hlutabréfakaupa. Í svari stefnda við því bréfi segir m.a. „Ég vil fara yfir þetta með þér og reyna að gera taplaust a.m.k. lágmarka það þannig að þú verðir sáttur.“ Í starfslokasamningi stefnda, gr. 5, segir svo um hlutabréfaeign stefnanda: Framkvæmdastjóri fjárfesti í félaginu á þeim tíma sem félagið var skráð á markaði. Væntingar um þróun gengis hafa ekki gengið eftir og er verulegt tap af þessari stöðu. Félagið mun vinna að lausn þessa máls þannig að tjón framkvæmdastjóra verði sem minnst. Frágangi þessa máls skal lokið eigi síðar en 1. maí 2009. Stefndi kveður talsverða verðlækkun hafa verið á hlutabréfum í Icelandair Group á þessum tíma. Félagið hafi verið að vinna að því að finna lausn á skuldsettum hlutafjárkaupum fyrir alla stjórnendur félagsins, sem höfðu keypt hlutabréf við skráningu félagsins á markað. Björgólfur hafi í raun verið að bjóða stefnanda að njóta sömu lausnar og aðrir stjórnendur félagsins fengju, enda þótt hann væri að láta af störfum. Þá kveður stefndi stöðu Icelandair Group hafa verið erfiða og óvíst, hvernig fjárhagsstaða félagsins myndi þróast, á þeim tíma sem umræddur starfslokasamningur var gerður. Hafi verið ljóst, að félagið hafi, á þessum tíma, ekki getað skuldbundið sig til að taka yfir skuldbindingar vegna hlutabréfakaupa starfsmanna. Með starfslokasamningnum við stefnanda hafi félagið einungis skuldbundið sig til þess reyna að finna lausn á umræddu hlutabréfamáli stefnanda með það fyrir augum, að tjón hans yrði sem minnst, líkt og hjá öðrum starfsmönnum, sem keypt höfðu hlutabréf í félaginu. III Málsástæður stefnanda Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi hafi ekki staðið við sinn hluta samkomulagsins. Kostnaður stefnanda vegna hlutabréfakaupanna nemi kr. 13.632.875. Sé þess krafizt, að tjón stefnanda verði bætt honum að skaðlausu samkvæmt samningi um starfslok, dags 1. júlí 2008. Samkvæmt starfslokasamningnum sundurliðist krafa stefnanda, vegna tjóns sökum hlutabréfakaupa í Icelandair Group ehf. frá 10. nóvember 2006, sem hér segi: Þar sem innheimtutilraunir, sbr. innheimtubréf frá Guðmundi B. Ólafssyni hrl., dags. 24. júní 2009, svo og ítrekunarbréf frá Guðmundi B. Ólafssyni hrl., dags. 20. ágúst 2009, hafi reynzt árangurslausar, sé málshöfðun því nauðsynleg, og sé farið fram á ítrustu kröfur samkvæmt lögum. Stefnandi styður kröfur sínar við samningalög nr. 7/1936, meginreglur kröfuréttar og meginreglur vinnuréttar. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla, sbr. 1. mgr. 6. gr., vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Einnig er krafizt virðisaukaskatts af málskostnaði, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Málsástæður stefnda Stefndi kveðst byggja kröfur sínar á því, að ákvæði 2. mgr. 5. gr. starfslokasamningsins feli ekki í sér skuldbindingu fyrir stefnda til þess að tryggja, að stefnandi komi skaðlaus út úr hlutabréfaviðskiptum sínum. Hið stefnda félag hafi hins vegar tekið á sig skyldu til að „vinna að lausn þessa máls“, þannig að tjón stefnanda „verði sem minnst“. Stefndi hafi sinnt þessari skyldu sinni með því að vinna að lausn máls stefnanda með sama hætti og unnið hafi verið að lausn sambærilegra mála hjá öðrum stjórnendum innan samstæðunnar. Farið hafi verið með mál allra starfsmanna, sem voru í sömu stöðu vegna hlutabréfakaupa, á þennan hátt. Það hafi hins vegar ekki tekizt að finna lausn, sem gerði stjórnendur skaðlausa vegna hlutabréfakaupa, og það sama hafi verið látið yfir alla ganga. Stjórn stefnda og Björgólfur hafi ekki haft heimild til þess að ganga frá sérstökum samningi um þessi efni við stefnanda. Á það sé sérstaklega bent, að orðalag samningsins um, að stefndi skyldi vinna að málinu, þannig að tjónið „verði sem minnst“, geti ekki falið í sér skuldbindingu um, að stefndi taki á sig allt tjón stefnda vegna hlutabréfakaupanna. Umrætt ákvæði starfslokasamningsins geri í raun ráð fyrir því, að stefnandi verði fyrir a.m.k. einhverju tapi. Fjárhæð tapsins hafi átt að ráðast af niðurstöðu í vinnu stefnda til að finna lausn á málinu með öðrum stjórnendum. Af þessari ástæðu sé ekki unnt að taka kröfu stefnanda til greina. Með starfslokasamningnum hafi uppgjöri vegna starfsloka stefnanda verið að fullu lokið og því lýst yfir, að báðir aðilar ættu engar frekari kröfur á hendur hvor öðrum en fram komi í samningnum, sbr. 3. mgr. 5. gr. samningsins. Að öllu ofangreindu virtu telji stefndi, að sýkna skuli félagið af öllum kröfum stefnanda. Stefndi styður kröfur sínar við meginreglur kröfuréttar og samningalög nr. 7/1936. Málskostnaðarkrafan styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991, lög um meðferð einkamála. IV Forsendur og niðurstaða Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og enn fremur Hörður Gunnarsson, stjórnarformaður stefnda, og Björgólfur Jóhannsson stjórnarmaður stefnda. Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi hafi, með 2.mgr. 5. gr. starfslokasamnings aðila skuldbundið sig til þess að tryggja skaðleysi stefnanda vegna hlutabréfakaupa hans í fyrirtækinu og við munnlegan málflutning kom fram, að hann byggi þá túlkun samningsins einnig á tölvubréfum, dags. 6. júní 2008, þar sem stefnandi vísar m.a. til samkomulags á fundi aðila um, að stefndi tryggði, að stefnandi kæmi ekki út í tapi vegna umræddra hlutabréfakaupa, en í svari stefnda við því bréfi, dags. sama dag, segir m.a. „Ég vil fara yfir þetta með þér og reyna að gera taplaust, a.m.k. lágmarka það þannig að þú verðir sáttur.“ Eins og 2. mgr. 5. gr. starfslokasamnings aðila hljóðar, felur hún í sér loforð stefnda um að leitast við að lágmarka tjón stefnda vegna hlutabréfakaupa hans, en verður ekki skilin sem skilyrðislaust loforð um algert skaðleysi. Önnur merking verður eigi heldur lögð í texta nefnds tölvubréfs. Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanna stefnda fyrir dómi tókst sú viðleitni ekki, en ekki liggur annað fyrir en að félagið hafi leitazt við að lágmarka tjónið. Frekari skyldur tók stefndi ekki að sér með umræddu samningsákvæði. Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu. Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn D Ó M S O R Ð Stefndi, Iceland Travel ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jóhanns Kristjánssonar. Aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu. |
Mál nr. 462/2011 | Kærumál Innsetningargerð Börn | Sóknaraðili krefst þess að úrskurðað verði að börn hans og varnaraðila, þau A, fæddur 2001 og B, fædd 2006, bæði með lögheimili í [ ] í Þýskalandi, en talin með dvalarstað á nánar greindu heimilisfangi á [ ], verði tekin úr umráðum varnaraðila og afhent sóknaraðila eða öðrum sem hann setji í sinn stað. Eða að varnaraðili snúi með börnunum aftur til [ ] og afhendi honum börnin að heimili hans að [ ] þar í borg. Þá krefst sóknaraðili þess að verði aðfararfrestur ákveðinn þá verði hann ekki lengri en 15 dagar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júlí 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 8. júlí 2011, þar sem varnaraðila var heimilað að liðnum sex vikum frá uppsögu úrskurðarins að fá A fæddan 2001 og B fædda 2006 tekin úr umráðum sóknaraðila og afhent sér, eða öðrum sem hann kynni að setja í sinn stað, með beinni aðfarargerð, hefði sóknaraðili ekki áður fært þau til [...] í Þýskalandi eftir því sem nánar greinir í úrskurðinum. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um afhendingu barnanna. Til vara krefst hún þess að frestur til afhendingar barnanna verði lengdur og ákveðinn allt að þremur mánuðum. Í báðum tilvikum gerir hún kröfu um að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur en að aðfararfrestur verði ekki ákveðinn lengri en 15 dagar. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Að auki krefst hann þess að „dæmdur málskostnaður í héraði verði tekinn til endurskoðunar og hækkaður í samræmi við málskostnaðarreikning fyrri lögmanns.“ Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Komast því kröfur hans um styttingu aðfararfrests og hækkun á málskostnaði í héraði ekki að fyrir Hæstarétti. Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að sóknaraðili hafi haldið börnum málsaðila á Íslandi á ólögmætan hátt í skilningi laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. og að ekki hafi verið sýnt fram á að aðstæður séu með þeim hætti að undantekningareglur 12. gr. laganna eigi við. Af aðfararorðum Haagsamningsins er sýnt að honum er ætlað að stuðla að því að börnum, sem í skilningi hans hafa verið flutt á milli landa á ólögmætan hátt, verði skilað til þess ríkis, þar sem þau voru búsett áður en það gerðist. Verður þeirri skyldu til að skila börnum aðilanna, sem leggja má á sóknaraðila á grundvelli samningsins, þannig fullnægt með því að hún fari sjálf með börn sín til [...] í Þýskalandi eða stuðli á annan hátt að för barnanna þangað, þar sem sóknaraðili gæti eftir atvikum dvalið eins og nauðsyn krefði og farið með umsjá barnanna í samræmi við samkomulag aðilanna um forsjá uns niðurstaða fengist þar í forsjárdeilu þeirra. Liggur ekki annað fyrir en að sóknaraðila sé þetta unnt. Ekki eru efni til að telja orðalag 1. mgr. 11. gr. laga nr. 160/1995 girða fyrir þetta og leiða til þess að börnunum verði ekki skilað með öðru móti en að færa þau í hendur varnaraðila til [...] í Þýskalandi. Láti sóknaraðili á hinn bóginn ekki verða af því að skila börnunum á þennan hátt verður afhending þeirra á grundvelli laga nr. 160/1995 að fara fram með innsetningargerð í samræmi við kröfu sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Verður því tekin til greina krafa varnaraðila um að honum sé heimilt að fá börnin tekin úr umráðum sóknaraðila og afhent sér með innsetningargerð, sem fara má fram til fullnustu á skyldu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðila, [...], er heimilt að liðnum tveimur mánuðum frá uppsögu þessa dóms að fá A og B tekin úr umráðum sóknaraðila, [...], og afhent sér með beinni aðfarargerð hafi sóknaraðili ekki áður fært þau til [...] í Þýskalandi samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í forsendum þessa dóms. Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest. Kærumálskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður beggja málsaðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 400.000 krónur, til hvors. |
Mál nr. 174/2009 | Kærumál Ábyrgð Banki Lögbann | L, A og M kröfðust þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að leggja ekki lögbann við þeirri fyrirætlun Í að greiða MÖ tiltekna fjárhæð á grundvelli tveggja bankaábyrgða. Með úrskurði héraðsdóms var kröfu L, A og M hafnað þar sem dómurinn taldi að ekki væri uppfyllt skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990. Í dómi Hæstiréttar var hins vegar talið að L, A og M hefðu gert nægilega sennilegt að umræddar greiðslur myndi brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra og að réttindi þeirra gætu skaðast að marki þannig að ekki yrði úr bætt síðar. Þá var jafnframt talið að sýnt hefði verið fram á að greiðsla af hálfu Í yrði að teljast yfirvofandi athöfn í merkingu 1. mgr. 24. gr. lagana nr. 31/1990. Önnur skilyrði lagaákvæðisins voru jafnframt talin uppfyllt, enda áttu ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna ekki við í málinu. Hæstiréttur féllst því á lögbannskröfu L, A og M og var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. | Dómur Hæstaréttar.. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. apríl og 4. júní 2009. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 6. febrúar 2009 um synjun lögbannsgerðar í máli nr. L-12/2009. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför með áorðnum breytingum. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við þeirri fyrirætlan varnaraðila að greiða Mønten København ApS, á grundvelli tveggja bankaábyrgða, fjárhæð sem nemur 3.290.040 dönskum krónum. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. I Í hinum kærða úrskurði er greint frá samningi 30. janúar 2008 um kaup á 30 hótelíbúðum í Kaupmannahöfn, sem þá voru á byggingarstigi. Seljandi var Mønten København ApS. Kaupendur íbúðanna voru nokkrir einstaklingar og lögaðilar fyrir hönd óstofnaðs félags, en meðal þeirra voru sóknaraðilarnir Lárus Guðmundsson og Atli Ómarsson. Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur fram að kaupendur hafi nokkru síðar gerst hluthafar í sóknaraðilanum Mynt ehf. og teljist það félag vera kaupandi að þeim 30 íbúðum, sem voru keyptar í það sinn, en félagið hafði áður keypt 50 hótelíbúðir af sama seljanda. Heildarkaupverð í samningnum 30. janúar 2008 var 61.663.550 danskar krónur. Í samningnum var ákvæði þess efnis að kaupendur skyldu afhenda seljanda bankaábyrgð fyrir fjárhæð, sem mun svara til nærri 30% af heildarkaupverðinu. Samkvæmt samningnum skyldi bankaábyrgð nema 18.499.065 dönskum krónum. Glitnir banki hf. gaf í samræmi við þetta út ábyrgð fyrir Lárus Guðmundsson til seljanda fyrir 1.212.960 krónum og Atla Ómarsson fyrir 2.077.080 krónum eða samtals 3.290.040 dönskum krónum Aðrir íslenskir bankar og sparisjóðir gáfu út ábyrgðir til seljanda fyrir því, sem eftir stóð af fjárhæðinni, sem ábyrgð skyldi veitt fyrir samkvæmt kaupsamningnum. Ekki liggur annað fyrir en að varnaraðili hafi tekið yfir skyldur, sem Glitnir banki hf. tókst á herðar samkvæmt framansögðu. Í málatilbúnaði sóknaraðila er sérstaklega vísað til ákvæða í 4. gr. kaupsamningsins, sem fjalla um verklok, afhendingu hins selda og galla á því. Samkvæmt grein 4.1 skyldi afhending miðast við 1. nóvember 2008, en grein 4.2 hafi veitt seljanda heimild til að tilkynna kaupanda um frestun á afhendingu hins selda í allt að sex mánuði frá 1. nóvember 2008, að því tilskyldu þó að tilkynning um framlengingu bærist kaupanda ekki síðar en þremur mánuðum fyrir ráðgerðan afhendingardag. Í sömu grein segir, sbr. einnig grein 4.4, að standi seljandi ekki við að afhenda íbúðirnar fullbúnar á tilkynntum afhendingardegi eigi kaupandi rétt á að rifta kaupunum og skuli þá hvorugur samningsaðila eiga frekari kröfur á hinn. Sóknaraðilar kveða seljanda hafa 19. maí 2008 nýtt sér heimild til að fresta afhendingu og tilkynnt að hótelíbúðirnar yrðu afhentar 28. nóvember sama ár. Hann hafi enn tilkynnt 30. júní 2008 um frekari seinkun og skyldi afhending nú verða 30. janúar 2009. Í grein 4.2 hafi aðeins verið gert ráð fyrir einni frestun á afhendingu, en þrátt fyrir það hafi sóknaraðilar fallist á síðari framlenginguna. Umsaminn afhendingardagur hafi samkvæmt því verið 30. janúar 2009. Glitnir banki hf. mun því til samræmis hafa framlengt ábyrgðir sínar. Sóknaraðilar skýra svo frá að í nóvember 2008 hafi þeim orðið ljóst að seljandi myndi ekki geta staðið við að afhenda umræddar íbúðir á umsömdum tíma. Hafi verkfræðistofan Radius í Kaupmannahöfn verið fengin til að gera úttekt á stöðu verksins og sé ítarleg skýrsla hennar dagsett 22. desember 2008. Samkvæmt henni hafi þá mjög mikið vantað upp á að verkinu væri lokið. Verkfræðistofan hafi gert aðra úttekt 23. janúar 2009 og þá þriðju 30. sama mánaðar. Niðurstaðan hafi enn orðið sú að mikið verk væri óunnið þar til hótelíbúðirnar kæmust í afhendingarhæft ástand. Fullljóst hafi verið að seljanda yrði ókleift með öllu að standa við samninginn. Seljandi hafi ekki afhent íbúðirnar 30. janúar 2009 og að auki hafi danskur dómstóll fallist á mótmæli hans gegn því að dómkvaddur yrði maður sem sóknaraðilar hugðust kveðja til að staðfesta hver staða framkvæmda væri á umsömdum afhendingardegi. Sóknaraðilar lýstu síðan yfir riftun kaupanna 30. janúar 2009 vegna vanefnda seljanda. Lögmaður seljanda krafði varnaraðila um greiðslu samkvæmt áðurnefndum bankaábyrgðum með bréfum 26. janúar 2009. Þar var vísað til 20. gr. reglna, sem gildi um ábyrgðirnar, og kallist ICC Uniform Rules for Demand Guarantees (URDG) og jafnframt staðhæft að sóknaraðilar hafi vanefnt samninga sína við seljanda og að samningsbrot þeirra hafi falist í því að gera ljóst að þeir myndu ekki greiða kaupverðið í banka seljanda. Varnaraðili óskaði af þessu tilefni 4. febrúar 2009 nánari skýringa lögmannsins á ætluðum samningsbrotum sóknaraðila. Í svari hans 5. febrúar 2009 var einkum vísað til bréfs fulltrúa sóknaraðila 13. janúar 2009, sem líta yrði á sem yfirlýsingu um fyrirfram vanefnd á greiðslu kaupverðs, hvort heldur væri 26. janúar eða á afhendingardegi 30. sama mánaðar. II Sóknaraðilar reisa kröfu sína á því að seljandi hótelíbúðanna hafi án nokkurs vafa vanefnt samningsskyldur sínar, svo sem rakið er að framan, þannig að þeim fyrrnefndu hafi verið heimil riftun. Þeir mótmæla jafnframt að þeir hafi sjálfir brotið samninginn, enda hafi þeim verið heimilt að fella niður greiðslur eftir að ljóst varð að seljanda yrði ókleift að efna af sinni hálfu. Þrátt fyrir vangetu til að efna samninginn réttilega krefjist seljandinn engu að síður greiðslu samkvæmt bankaábyrgðunum. Sú háttsemi feli í sér tilraun til fjársvika og sé refsiverð, enda sé honum fullljóst að af réttum efndum af hans hálfu geti ekki orðið og að sóknaraðilar hafi ekki vanefnt sínar skyldur. Áðurnefndar reglur, sem gildi um bankaábyrgðirnar verði ekki skýrðar svo að þær hindri að sóknaraðilar geti varist þeirri tilraun til fjársvika, sem seljandinn hafi viðhaft. Samkvæmt reglunum sé mat á því hvort skylt sé að greiða í höndum dómstóla í því ríki þar sem bankaábyrgðirnar séu gefnar út. Þá telja sóknaraðilar skilyrði samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 til að fá lagt lögbann á greiðslu varnaraðila vera uppfyllt. Líta verið svo á að greiðsla varnaraðila sé yfirvofandi, en í því sambandi verði að gæta að því að rík skylda hvíli á bönkum að greiða samkvæmt bankaábyrgð, komi fram krafa um það, og viðskiptin að baki séu að meginstefnu ábyrgðinni óviðkomandi. Í því ljósi verði að telja að greiðsla sé yfirvofandi. Hag seljandans sé svo komið að gjaldþrot blasi við. Sú athöfn, sem fælist í því að greiða samkvæmt ábyrgðunum, myndi óhjákvæmilega leiða til verulegs tjóns og valda sóknaraðilum réttarspjöllum, enda hætta á að lögmæt endurkrafa þeirra myndi glatast í gjaldþrotameðferð. Afleiðingarnar yrðu alvarlegar fyrir sóknaraðila, sem hafi veitt varnaraðila sjálfskuldarábyrgð eða veð vegna bankaábyrgðanna. Málsástæður sóknaraðila eru að öðru leyti raktar í hinum kærða úrskurði. III Reglur, sem gilda um þær ábyrgðir sem hér um ræðir og vísað hefur verið til, fela í sér fyrirvara til hags fyrir þann greiðsluskylda, þrátt fyrir almennt sterka stöðu rétthafans. Sérhver staðhæfing rétthafa samkvæmt bankaábyrgð um vanefnd af hálfu gagnaðilans leiðir ekki til skilyrðislausrar greiðsluskyldu. Í málinu nýtur gagna um það á hvaða byggingarstigi umræddar hótelíbúðir voru í þann mund sem þær skyldu afhentar sóknaraðilum fullbúnar. Þeir síðastnefndu hafa með þeim gert líklegt að seljandi umræddra íbúða hafi vanefnt samning sinn við þá þannig að riftun kaupanna hafi verið þeim heimil samkvæmt grein 4.2, sbr. einnig grein 4.4 í kaupsamningnum. Ekki er fram komið að sóknaraðilar hafi sjálfir vanefnt samninginn. Þeir hafa þannig gert nægilega sennilegt að greiðsla varnaraðila samkvæmt áðurnefndum bankaábyrgðum muni brjóta gegn lögvörðum rétti þeirra. Með gögnum um fjárhagsstöðu seljandans hafa sóknaraðilar með sama hætti skotið stoðum undir þá staðhæfingu sína að réttindi þeirra geti skaðast að marki þannig að ekki verði bætt úr síðar verði stór hluti kaupverðsins afhentur seljandanum nú. Sú aðstaða er því fyrir hendi í málinu að ósamræmi er milli kröfugerðar um greiðslu ábyrgðarfjárhæðar og þess réttar, sem gögn málsins benda til að seljandi hótelíbúðanna raunverulega eigi. Að fenginni kröfu frá lögmanni seljanda um greiðslu beindi varnaraðili fyrirspurn til hans. Annað liggur ekki fyrir um viðbrögð varnaraðila og þá ekki heldur hvort hann hyggst verða við kröfunni eða synja um greiðslu. Að því virtu, svo og sterkri stöðu rétthafa og ríkri skyldu banka til athafna verður fallist á með sóknaraðilum að greiðsla af hálfu varnaraðila teljist vera yfirvofandi athöfn í merkingu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Önnur skilyrði samkvæmt lagaákvæðinu eru jafnframt uppfyllt til þess að krafa sóknaraðila geti náð fram að ganga, enda eiga ákvæði 3. mgr. 24. gr. ekki við í málinu. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og fallist á að lögbannskrafa sóknaraðila nái fram að ganga. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við því að varnaraðili, Íslandsbanki hf., greiði Mønten København ApS á grundvelli tveggja bankaábyrgða, sem settar voru fyrir sóknaraðila Lárus Guðmundsson og Atla Ómarsson fjárhæð sem nemur 3.290.040 dönskum krónum. Með bréfi mótteknu 13. febrúar 2009 kröfðust sóknaraðilar, Lárus Guðmundsson, kt. 010460-4179, Súlunesi 33, Garðabæ, Atli Ómarsson, kt. 080866-3729, Faxahvarfi 10, Kópavogi og Mynt ehf., kt. 421007-1440, Aðalstræti 6, Reykjavík, þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 6. febrúar 2009 um synjun lögbannsgerðar í máli nr. L-12/2009 verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við þeirri fyrirætlan varnaraðila, Nýja Glitnis hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi, Reykjavík, að greiða Mønten København ApS út tvær bankaábyrgðir samtals að fjárhæð 3.290.040 danskar krónur. Þá var krafist málskostnaðar. Málið var þingfest 20. febrúar 2009. Af hálfu varnaraðila eru ekki hafðar uppi kröfur í málinu. Sóknaraðilar hafa fallið frá kröfu um málskostnað. Málið var tekið til úrskurðar 27. sama mánaðar. I Sóknaraðilar kveða málavexti þá að með kaupsamningi dags. í desember 2007, hafi tilgreindir einstaklingar og lögaðilar f.h. óstofnaðs félags þeirra keypt 30 hótelíbúðir „Business Apartments“ í Amager Bros Kvarter við Amager Boulevard 115 í Kaupmannahöfn. Hafi sóknaraðilarnir Lárus Guðmundsson og Atli Ómarsson, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags þeirra, verið meðal kaupenda samkvæmt þessum kaupsamningi. Seljandinn, Mønten København ApS, sé danskt dótturfélag verktakafyrirtækisins Keflar Invest sem hafi á þeim tíma hafið byggingu 80 hótelíbúða ásamt móttöku, eldhúsi, veitingasölu, garði og öðrum sameiginlegum svæðum á grunni eldri byggingar við Amager Boulevard í Kaupmannahöfn. Samkvæmt 7. gr. kaupsamningsins hafi heildarkaupverðið numið 61.663.550 dönskum krónum og átti það að greiðast við afhendingu íbúðanna. Samkvæmt grein 7.2.2. í kaupsamningnum hafi kaupandi átt að leggja fram bankaábyrgð að fjárhæð 18.499.065 danskar krónur til tryggingar greiðslu kaupverðs en fjárhæð þessi hafi numið 30% af heildarkaupverði. Bankaábyrgðir til tryggingar kaupsamningsgreiðslu, samtals að fjárhæð 18.499.065 danskar krónur hafi verið veittar af fjórum íslenskum bönkum, Landsbanka Íslands, BYR sparisjóði, Glitni og Kaupþing í 7 aðgreindum bankaábyrgðum. Í samræmi við kaupsamninginn hafi kaupendur stofnað með sér einkahlutafélag utan um þessi kaup. Það hafi gerst þannig að tilgreindir einstaklingar og lögaðilar, þar á meðal sóknaraðilarnir Lárus Guðmundsson og Atli Ómarsson hafi gengið inn í hlutafélagið Mynt ehf. með kaupsamningi dags. 13. mars 2008 en þetta félag hafi verið stofnað þann 25. september 2007 af aðilum sem höfðu gert sambærilegan kaupsamning þann 18. september 2007 um kaup á 50 hótelíbúðum í sömu byggingu. Samkvæmt þessum kaupsamningi sé seljandi sá sami og í fyrri kaupsamningi og séu ákvæði og orðalag þess kaupsamnings, réttindi og skyldur kaupanda og seljanda á allan hátt þau sömu en Mynt ehf. sé kaupandi íbúðanna. Þannig hafi Mynt ehf. í raun verið kaupandi 80 hótelíbúða samkvæmt tveimur kaupsamningum, gerðum annars vegar í september og hins vegar í desember 2007. Á grundvelli kaupsamningsins sem gerður hafi verið í desember 2007 hafi varnaraðili gefið út tvær bankaábyrgðir þann 16. og 21. janúar 2008 samtals að fjárhæð 3.290.040 danskar krónur vegna sóknaraðilanna Atla Ómarssonar (DKK 2.077.080) og Lárusar Guðmundssonar (DKK 1.212.960), til seljandans, Mønten København ApS, allt í samræmi við ákvæði kaupsamningsins. Hafi þessi ábyrgð gilt til 1. nóvember 2008 sem hafi verið áætlaður afhendingadagur samkvæmt kaupsamningi. Með umræddum kaupsamningum hafi fylgt 13 fylgiskjöl sem töldust hluti kaupsamninganna. Eins og að framan greini hafi afhendingadagur allra framangreindra íbúða verið áætlaður þann 1. nóvember 2008. Samkvæmt kaupsamningunum og fylgiskjali þeirra nr. 10 hafi umræddar íbúðir átt að afhendast full kláraðar, með öllum húsgögnum og öðru lausafé, allt niður í gaffla og skeiðar í hverri íbúð og svo búnar að unnt væri að hefja útleigu og rekstur þeirra strax við afhendingu. Í 4. grein kaupsamninganna, hafi verið afar mikilvægar samningsbundnar heimildir til handa kaupanda. Samkvæmt grein 4.2. í kaupsamningum aðila hafði seljandi heimild til að tilkynna kaupanda, þremur mánuðum fyrir ráðgerðan afhendingardag um frestun afhendingar. Þessi framlenging hafi getað numið allt að 6 mánuðum frá hinum upphaflega ráðgerða afhendingadegi (sem var 1. nóvember 2008) en þó að því tilskildu að tilkynning um slíka framlengingu bærist kaupanda aldrei síðar en þremur mánuðum fyrir ráðgerðan afhendingardag. Í grein 4.2., sbr. og grein 4.4. sé skýrt kveðið á um, að standi seljandi ekki við það að afhenda allar umræddar íbúðir á tilkynntum afhendingardegi í því ástandi sem kaupsamningar og skilalýsing þeirra kveði á um eigi kaupandi samningsbundinn rétt til að rifta og ganga frá kaupsamningnum án þess að annar hvor aðilinn eigi frekari kröfu á hendur hinum. Við þessar aðstæður eigi kaupandi jafnframt rétt til endurgreiðslu þeirra kaupsamningsfjárhæðar sem hann hafi þá þegar innt af hendi sem samkvæmt grein 7.2.1. í kaupsamningunum nemi samtals 2.250.000 dönskum krónum. Beri seljanda að endurgreiða þessa fjárhæð með uppsöfnuðum vöxtum frá því að kaupsamningsgreiðslur þessar hafi verið afhentar seljandanum. Með bréfi, dags. 19. maí 2008, hafi seljandi neytt framangreindrar heimildar og tilkynnt að afhendingadagur hótelíbúðanna yrði þann 28. nóvember 2008. Með tölvubréfi þann 30. júní 2008, hafi seljandi tilkynnt um enn frekari framlengingu afhendingardagsins sem nú átti að vera 30. janúar 2009. Þrátt fyrir að ákvæði greinar 4.2. í kaupsamningum gerði aðeins ráð fyrir einni framlengingu á afhendingardegi hafi kaupandi fallist á þessa framlengingu enda hafi hún borist langt innan þeirra þriggja mánaða tímamarka sem áskilin séu í grein 4.2. fyrir slíka tilkynningu. Í ljósi framlengingar á afhendingardegi, hafi varnaraðili framlengt bankaábyrgðir sínar til 1. febrúar 2009. Umræddar bankaábyrgðir hafi þannig verið í gildi til 1. febrúar 2009 en íbúðirnar hafi átt að afhenda þann 30. janúar 2009 og þá fullbúnar í samræmi við ítarlega skilalýsingu sem sé hluti kaupsamninganna. Þegar tekið hafi að líða á nóvember 2008 hafi farið að koma í ljós að seljandi myndi með engu móti geta uppfyllt þá samningsskuldbindingu sína að afhenda umræddar hótelíbúðir þann 30. janúar 2009, hvað þá í hinu samningsbundna ástandi. Í desember 2008 hafi kaupandinn, Mynt ehf., fengið verkfræðistofuna Radius í Kaupmannahöfn til að gera úttektir á stöðu verksins (þ.e. byggingu hótelíbúðanna). Eins og sjá megi af ítarlegri úttekt verkfræðistofunnar, dags. 22. desember 2008, hafi verkið verið langt frá lokastigi og augljóst að kraftaverk þyrfti til að ljúka byggingunni fyrir afhendingardag. Radius hafi svo gert aðra úttekt á verkinu þann 23. janúar 2009 eða 7 dögum fyrir afhendingardag og hafi niðurstaða hennar verið á sama veg. Afar langt væri frá því að byggingunni væri að ljúka hvað þá að hótelíbúðirnar væru að komast í afhendingarhæft ástand og að þar væri unnt að reka hótel frá og með 30. janúar 2009 eins og kaupsamningar kveða á um. Af því sem sjá mátti í úttektunum hafi sóknaraðilum þótt fulljóst að ekki yrði með neinu móti unnt að afhenda íbúðirnar þann 30. janúar nk. Sóknaraðilar hafi því ráðið sér lögmann í Kaupmannahöfn í byrjun desember sem hafi annast öll samskipti við seljanda vegna málsins. Með bréfi þann 13. janúar sl., hafi hann f.h. sóknaraðila sent framangreinda úttektarskýrslu frá 22. desember sl. á ástandi hússins til seljanda og áskilið sér allan rétt til beitingar þeirra réttarúrræða sem kaupsamningur og lög kvæðu á um. Þrátt fyrir framangreindar úttektir og bréfasamskipti lögmanns sóknaraðila og lögmanna seljanda hafi lögmaður seljanda engu að síður ritað bréf til varnaraðila þann 26. janúar 2009, þar sem gerðar hafi verið kröfur til greiðslu á bankaábyrgðum þeim er varnaraðili hafði gefið út á grundvelli fyrrnefndra kaupsamninga fyrir sóknaraðila. Það hafi því komið gerðarbeiðendum verulega í opna skjöldu að Mønten København ApS skyldi krefjast greiðslna á bankaábyrgðum sem settar voru sem trygging fyrir greiðslu kaupverðs, enda öllum aðilum löngu orðið fullljóst að seljandi gæti ekki afhent hótelíbúðirnar. Byggingin hafi aðeins verið hálfkláruð og engin lokaúttekt á vegum yfirvalda hefði farið fram. Þvert á móti hafi byggingaryfirvöld í Kaupmannahöfn gert alvarlegar athugasemdir við ýmislegt til að mynda brunöryggismál. Bæði fyrir og í kjölfar sendingar kröfubréfa vegna greiðslu umræddra bankaábyrgða hafi lögmaður sóknaraðila sent varnaraðila ýmis gögn og upplýsingar auk hinna ítarlegu úttektarskýrslna verkfræðistofunnar Radíus. Þann 30. janúar s.l. hafi seljandi ekki afhent sóknaraðilum hinar umræddu hótelíbúðir og hafi meinað sóknaraðilum að skoða hina hálfkláruðu byggingu sem hafi átt að vera fullbúin og tilbúin til hótelrekstrar þann dag. Í kjölfarið hafi lögmaður sóknaraðila í Danmörku ritað bréf, dags. 30. janúar s.l., þar sem kaupsamningum aðila hafi verið rift með vísan til samningsbundinna réttinda kaupanda í greinum 4.2. og 4.4. í kaupsamningum. Þann dag sem afhending hafi átt að fara fram hafi verkfræðistofan Radíus tekið myndir og tekið saman í skýrslu, dags. 30. janúar 2009. Hafa beri í huga við skoðun á þessari skýrslu að hvorki fulltrúi sóknaraðila né verkfræðistofan Radíus hafi fengið aðgang að byggingunni við hina svokölluðu „afhendingu“ hennar. Eins og sjá megi af framlögðum myndum hafi verkið vart verið hálfklárað þann dag sem afhending átti að fara fram. Með bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 2. febrúar 2009, hafi ítarlega verið farið yfir ástæður þess að ekki ætti að verða við kröfu seljanda um greiðslu bankaábyrgðanna og hafi verið skorað á varnaraðila að greiða ekki út umræddar bankaábyrgðir. Vísast að öðru leyti til bréfsins en þar hafi sóknaraðilar áskilið sér allan rétt til beitingar nauðsynlegra réttarúrræða til að koma í veg fyrir greiðslu ábyrgðanna. Þrátt fyrir framangreint virðist varnaraðili fyrirhuga að greiða seljanda þær bankaábyrgðir sem hann hafi krafist greiðslu á og því hafi sóknaraðilum verið sá kostur að leita eftir lögbanni. Þann 6. febrúar sl. lögðu sóknaraðilar fram beiðni um lögbann hjá sýslumanninum í Reykjavík. Þann sama dag tók sýslumaður þá ákvörðun að fallast ekki á kröfu sóknaraðila um lögbann. Niðurstaða sýslumanns byggði á því að það væri á áhættu gerðarþola að greiða út fjármuni á grundvelli bankaábyrgðanna, ennfremur að ekki fengist séð af beiðninni og gögnum með henni að gerðarbeiðandi hafi sýnt fram á eða gert sennilegt að yfirvofandi væri athöfn af hálfu gerðarþola sem bryti gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda. Það var einnig mat sýslumanns að hagsmunir gerðarbeiðanda vegna ráðstöfunar gerðarþola á bankaábyrgðunum væru nægilega tryggðir með réttarreglum um refsingu og skaðabætur. II Sóknaraðilar segja kröfu sína um lögbann byggja á tveimur útgefnum bankaábyrgðum varnaraðila, sem gefnar hafi verið út á grundvelli tveggja kaupsamninga. Þessar bankaábyrgðir séu annars vegar að fjárhæð 2.077.080 danskra króna og hins vegar 1.212.960 danskra króna eða samtals 3.290.040 danskra króna. Sóknaraðilar telja rökstuðning sýslumannsins í Reykjavík frá 6. febrúar s.l. fyrir synjun á lögbannsbeiðni sóknaraðila afar stuttorðan og fátæklegan. Án þess að skýra það út frekar sé látið nægja að segja að það sé mat sýslumannsins í Reykjavík að það sé á áhættu varnaraðila hvort hann greiði út fjármuni á grundvelli bankaábyrgðanna. Þess sé ekki getið á hvern hátt sýslumaður telji að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hér sé á ferðinni yfirvofandi athöfn sem brjóti gegn lögvörðum hagsmunum hans. Þá sé ekki heldur tilgreint í rökstuðningi sýslumanns hvernig réttarreglur og skaðabætur tryggi hagsmuni sóknaraðila nægjanlega. Sóknaraðilar telji ótvírætt að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann, o.fl., sé fullnægt til að leggja lögbann við greiðslu varnaraðila á bankaábyrgðum til Mønten København ApS. Hér sé um að ræða yfirvofandi athöfn af hálfu varnaraðila sem sóknaraðilar telji ólögmæta og hún muni klárlega brjóta gegn lögvörðum rétti sóknaraðila. Fyrir liggi að Mønten København ApS hafi sent varnaraðila kröfubréf, dags. 26. janúar s.l., þar sem krafist sé greiðslu á framangreindum bankaábyrgðum og af samskiptum sóknaraðila við varnaraðila að dæma virðist varnaraðili vera við það að hefjast handa við þá athöfn að greiða út umræddar bankaábyrgðir til Mønten København ApS. Sóknaraðilar byggi á því að umræddar bankaábyrgðir, hafi verið veittar á grundvelli kaupsamnings til tryggingar á greiðslu kaupverðs og nemi bankaábyrgðirnar 30% af kaupverði sóknaraðila við umrædd fasteignakaup. Telja sóknaraðilar að varnaraðili sé ekki í rétti til að greiða út umræddar bankaábyrgðir. Í umræddum bankaábyrgðum segi beinlínis að skilyrði útgreiðslu á ábyrgðinni sé að sóknaraðilar (Principal) hafi vanefnt undirliggjandi samning, sem í þessu tilviki sé kaupsamningur milli sóknaraðila og seljandans Mønten København ApS. Fyrir liggi að sóknaraðilar hafi ekki vanefnt kaupsamninginn heldur þvert á móti fylgt honum í einu og öllu fram að samningsbundinni afhendingu. Varnaraðili hafi í höndum öll gögn því til staðfestu. Ekki verði með neinu móti skilið hvers vegna þetta ákvæði sé í sjálfri bankaábyrgðinni hafi það ekkert vægi eða tilgang. Sóknaraðili telur að hér sé um að ræða beinan efnisrétt í sjálfri bankaábyrgðinni til að hafna greiðslu sé ekki sýnt fram á að sóknaraðilar hafi vanefnt hinn undirliggjandi samning. Ekki hafi verið sýnt fram á þær vanefndir og því telji sóknaraðilar það beinlínis ólögmætt af varnaraðila og brjóta gegn skilmálum bankaábyrgðanna að greiða umræddar ábyrgðir út. Tilgangur lögbannsbeiðnar sóknaraðila sé að koma í veg fyrir að þessi ólögmæta athöfn eigi sér stað. Ennfremur bendi sóknaraðilar á að hinum undirliggjandi kaupsamningi hafi verið rift. Þannig sé sjálfur grundvöllurinn sem bankaábyrgðirnar hafi verið veittar fyrir á sínum tíma ekki lengur til staðar. Eftir riftun kaupsamningsins muni þannig aldrei reyna á hvort sóknaraðilar hafi vanefnt undirliggjandi samning eins og áskilið sé í bankaábyrgðunum. Allt að einu undirbúi varnaraðili útgreiðslu bankaábyrgðanna. Auk þess að horfa algjörlega framhjá framangreindum skilmálum bankaábyrgðanna sé í ákvörðun sýslumanns algerlega horft framhjá því sem mikilvægast sé varðandi grundvöll lögbannsbeiðnar sóknaraðila. Umræddar bankaábyrgðir séu veittar á grundvelli alþjóðlegra viðurkenndra reglna sem samdar séu að tilstuðlan Alþjóða viðskiptaráðsins og kallist ICC Uniform Rules for Demand Guarantees. Þessar reglur gildi um umræddar bankaábyrgðir og af 27. og 28. gr. reglnanna verði glögglega ráðið að umræddar bankaábyrgðir og mögulegur ágreiningur vegna þeirra fari eftir íslenskum lögum þar sem útgefandi bankaábyrgðanna sé íslenskur banki. Sóknaraðilar geti því einungis beint kröfum sínum varðandi bankaábyrgðirnar að varnaraðila og þeirri athöfn sem hann fyrirhugi nú að framkvæma. Í inngangskafla reglnanna sé skýrt tekið fram að reglunum sé ætlað að vernda og koma í veg fyrir að ábyrgðarhafi (sóknaraðili) þurfi að sæta því að bankaábyrgðirnar séu greiddar út þegar slíkar kröfur byggja á ólögmætum og/eða sviksamlegum athöfnum rétthafans. Eins og fram komi í lögbannsbeiðni sóknaraðila sé byggt á því að krafa rétthafa til útgreiðslu bankaábyrgðanna sé gerð á röngum og ósönnuðum forsendum, eingöngu í hagnaðarskyni fyrir Mønten København ApS. Krafan sé ólögmæt og gerð í því skyni að skaða hagsmuni sóknaraðila. Rétthafi bankaábyrgðanna, Mønten København ApS, hafi gert kröfu um greiðslu bankaábyrgða þann 26. janúar s.l., verandi fullkomlega grandsamur um á þeim tíma að efndir hans myndu ekki fara fram þann 30. janúar s.l. eins og kaupsamningur kveði á um. Sú varð einnig raunin. Krafan sé gerð í nafni Karsten Kristoffersen lögmanns sem undirriti kröfubréf til bankanna í nafni Mønten København ApS en hann hafi fram til þess tíma komið fram sem lögmaður Alm. Brand Bank en sá banki treysti á greiðslu bankaábyrgðanna vegna lánahagsmuna sinna gagnvart Mønten København ApS, sbr. framlagt veðbókarvottorð. Sóknaraðilar telji það engum vafa undirorpið að hér sé af ásetningi gerð tilraun til greiðslu á bankaábyrgðum, að því er virðist með vitund Alm. Brand Bank, án þess að lögmætur grundvöllur sé til þeirrar kröfugerðar. Gegn betri vitund og með sviksamlegum hætti sé þannig leitast við að auðgast á ólögmætan hátt enda sé seljanda fullkunnugt að honum sé ókleift að afhenda þá söluvöru sem bankaábyrgðir hafi verið veittar fyrir og fyrir liggi á þessu stigi að söluvaran verði ekki afhent. Sóknaraðilar vísa í þessu samhengi til 26. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum og ekki síst til 248. gr. laganna. Sóknaraðilar vísa til þess að í inngangskafla hinna alþjóðlegu reglna um bankaábyrgðir segi að reglur landsréttar viðkomandi ríkis gildi varðandi refsiverða háttsemi þegar gerðar séu kröfur til útgreiðslu bankaábyrgða með sviksamlegum eða ólögmætum hætti. Af framangreindu telji sóknaraðilar ekki neinum vafa undirorpið að með kröfum um útgreiðslu bankaábyrgðanna geri rétthafinn tilraun til fjársvika. Hann viti að hann geti ekki afhent þá söluvöru sem bankaábyrgð var veitt fyrir. Allt að einu reyni hann nú að fá greitt 30% af kaupverði þessarar sömu söluvöru í gegnum bankaábyrgð. Greiði varnaraðili umræddar bankaábyrgðir brjóti hann þannig gegn lögvörðum réttindum sóknaraðila og staðfesti ólögmæta athöfn. Með lögbannsbeiðni sóknaraðila sé verið að koma í veg fyrir þá ólögmætu athöfn og að mati sóknaraðila sé algjörlega framhjá þessu horft í ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík. Þá sé ljóst að varnaraðili sjálfur sé í miklum vafa um það hvort hann geti greitt út umræddar ábyrgðir og telji greinilega að krafa um útgreiðslu þeirra sé vægast sagt hæpin. Sóknaraðila sé kunnugt um að varnaraðili hafi ritað rétthafa ábyrgðanna bréf þar sem vísað sé í framangreinda skilmála bankaábyrgðarinnar um að vanefndir sóknaraðila séu fyrir hendi og óskað upplýsinga um þær hugsanlegu vanefndir sóknaraðila. Með hliðsjón af framangreindu og framkomu rétthafa ábyrgðanna megi því vera ljóst að það sé a.m.k. verulegur vafi á því að útgreiðsla bankaábyrgðanna sé lögmæt, hvað þá að slík útgreiðsla styðjist við þær reglur sem gildi um viðkomandi bankaábyrgðir. Vísar sóknaraðili í þessu samhengi einkum til hæstaréttardóms í máli nr. 48/2005. Þá hafna sóknaraðilar því mati sýslumanns að hagsmunir sóknaraðila séu nægjanlega tryggðir með réttarreglum um refsingar og skaðabætur. Af fyrirliggjandi gögnum og samskiptum milli sóknaraðila og varnaraðila, einkum bréfi dagsettu 2. febrúar 2009, megi vera ljóst að sú athöfn sem felast myndi í því að greiða út ábyrgðirnar fæli í sér stórkostleg réttarspjöll og verulegt tjón fyrir sóknaraðila. Tjónið yrði margþætt og telji sóknaraðilar að komi til þess að ábyrgðirnar verði greiddar út á þessum tímapunkti sé ljóst að það tjón muni ekki fást bætt. Við rétthafa ábyrgðanna, Mønten København ApS, blasi gjaldþrot og virðist lánveitandi rétthafans, Alm. Brand Bank hafa tekið við allri framkvæmd aðgerða samkvæmt bestu upplýsingum sóknaraðila. Af veðbókarvottorði verði séð að áhvílandi veðskuldir Alm. Brand Bank auk annarra banka séu vel yfir því kaupverði sem undirliggjandi kaupsamningur kveði á um. Komi til þess að framangreindum kröfubréfum rétthafans verði svarað með greiðslum af varnaraðila, þrátt fyrir allt framangreint, liggi fyrir að sú lögmæta endurkrafa sem sóknaraðilar hafi þá rétt til úr hendi seljanda kunni svo gott sem að glatast í gjaldþrotameðferð. Afleiðingar þess verði skelfilegar fyrir sóknaraðila og hluthafa sóknaraðilans Myntar ehf. Að baki umræddum bankaábyrgðum liggi í öllum tilvikum sjálfsskuldaábyrgðir og/eða veðábyrgðir hlutahafa sóknaraðila. Á hvern og einn þeirra muni því falla háar fjárhæðir jafnvel án þess að nokkur endurgreiðsla, sem sóknaraðilar hefðu þó rétt til, kæmi á móti því tjóni. Þetta gerist um leið og bankaábyrgðirnar verði greiddar út því þá þegar myndist skuld þeirra gagnvart varnaraðila. Langan tíma geti tekið að ná fjármununum til baka sem verði þó líklega aldrei greiddir til baka fari þeir einu sinni úr landi sé tekið mið af fjárhagsstöðu rétthafa bankaábyrgðanna. Þá taki það langan tíma að fá skorið úr réttarágreiningi um skaðabótaábyrgð varnaraðila eftir útgreiðslu bankaábyrgðanna. Á meðan verði sóknaraðilar fyrir tjóni sem enginn beri nema þeir. Að baki ákvörðun sýslumanns virðist liggja það mat að varnaraðili sé það sterkur fjárhagslega að skaðabótareglur muni verja sóknaraðila fyrir fullri endurkröfu leiði greiðsla ábyrgðanna til tjóns fyrir sóknaraðila. Þessu mati hafni sóknaraðilar. Miðað við gengi dönsku krónunnar nú nemi fjárhæð umræddra bankaábyrgða rúmlega 760.000.000 íslenskra króna. Miðað við bága stöðu íslenskra banka í dag, ekki síst varnaraðila, verði ekki með neinu móti tryggt að slík endurgreiðslukrafa fáist fullbætt. Sóknaraðilar bendi á að efnahagsreikningur varnaraðila liggi ekki einu sinni fyrir. Ekki verði séð af bréfi sýslumanns hvaða grundvöll sýslumaður geti lagt undir þá vissu sína að sóknaraðilar séu nægjanlega tryggðir af skaðabótareglum og því beri að synja um lögbannsbeiðni sóknaraðila. Þá benda sóknaraðilar á að þrátt fyrir mikil samskipti við varnaraðila að undanförnu og áskoranir um að greiða ekki umræddar bankaábyrgðir hafi varnaraðili ekki boðist til að leggja fram tryggingu fyrir tjóni sóknaraðila. Það bendi ekki til þess að það sé hafið yfir allan vafa að varnaraðili bæti eða geti bætt sóknaraðila umrætt tjón. Ljóst megi vera að verði ábyrgðirnar greiddar út vegna ólögmætrar kröfu Mønten København ApS muni hagsmunir sóknaraðila skaðast svo stórkostlega að óbætanlegt verði. Þá sýni framangreind atriði að það mat sýslumannsins í Reykjavík sé ekki rétt að ákvæði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 standi því í vegi að lögbannsgerðin nái fram að ganga. Af öllu framangreindu telji sóknaraðilar sig hafa sýnt fram á að útilokað sé að þeir geti tryggt hagsmuni sína með öðrum hætti en að fá lögbann lagt við þeirri athöfn að greiða umræddar bankaábyrgðir til rétthafans. Auk framangreindra röksemda megi vera ljóst að sóknaraðilar hafi af því verulega meiri hagsmuni af því að fá lögbannsbeiðni sinni framgengt en varnaraðili að fá að greiða umræddar bankaábyrgðir miðað við þær aðstæður sem hér séu uppi. Þá bendi sóknaraðilar á að lögbannsgerðin fari fram á þeirra ábyrgð. III Í greinargerð varnaraðila kemur fram að honum hafi borist krafa Mønten København ApS þann 22. janúar sl. Varnaraðili hafi svarað með bréfi dags. 30. jan. sl. þar sem frekari skýringa á kröfunni hafi verið óskað um leið og bent hafi verið á að athugasemdir hefðu komið fram frá sóknaraðilum varðandi réttmæti hennar. Í bréfinu hafi ábyrgðarhafa, Mønten, verið bent á að fyrirsjáanlegar vanefndir væru ekki taldar upp sem ástæða fyrir kröfu samkvæmt ábyrgðinni með vísan til texta hennar. Þessu hafi lögmenn Mønten svarað með bréfi dags. 5 febrúar s.l. þar sem þeir hafi lýst yfir því að þeir teldu yfirlýsingar sóknaraðila um að þeir myndu ekki greiða kaupsamningsgreiðslur á afhendingartíma jafngilda vanefnd og að ábyrgðin væri ekki takmörkuð við tiltekna tegund vanefndar, þ.e. fyrirsjáanlega vanefnd. Hafi kröfur Mønten síðan verið ítrekaðar. Varnaraðili telur það rangt hjá sóknaraðila að ákvæði reglna Alþjóða viðskiptaráðsins um ábyrgðir (Uniform Rules for Demand Guarantees) gildi um þær bankaábyrgðir sem tekist er á um í þessu máli. Hið rétta sé að ekki sé vísað til þessara alþjóðlegu reglna í viðkomandi ábyrgðaryfirlýsingum bankans. Varnaraðili mótmælir hvorki kröfu sóknaraðila um lögbann né krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði staðfest. Hann telur ekki ástæðu til að halda uppi vörnum á þessu stigi máls á grundvelli þeirrar meginmálsástæðu að beiðni sóknaraðila um lögbann við umræddri athöfn, þ.e. þeirri að banki efni samningsskyldur sínar samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu sé alfarið á ábyrgð sóknaraðila og með beiðninni takist þeir á hendur að halda varnaraðila skaðlausum af öllum eftirmálum sem ábyrgðarhafi, Mønten, kunni að hafa uppi gagnvart bankanum í kjölfar lögbanns, fallist dómurinn á rök sóknaraðila. Varnaraðili bendir allt að einu á það, að um sé að ræða ábyrgð sem fylgi alþjóðlegum reglum um greiðsluábyrgðir þó raunar sé ekki vísað til þeirra eins og áður er rakið og þær gildi því ekki fortakslaust um það réttarsamband sem sé kveikjan að þessu máli. Bankinn hafi samþykkt að greiða ábyrgðirnar ef krafa þar að lútandi kæmi fram innan gildistíma þeirra. Einu skilyrðin hafi verið þau að ábyrgðarbeiðandi, sóknaraðilar, hafi að mati ábyrgðarhafa, Mønten, vanefnt tiltekinn samning og hinn síðarnefndi hafi gert kröfu fyrir lok gildistíma. Ekki sé tilskilið að leggja eigi fram sérstakar skjallegar heimildir aðrar þar að lútandi. Þessi framgangsmáti endurspegli það sjónarmið, að þarfir viðskiptalífsins, ekki síst hins alþjóðlega hluta, séu settar ofar hugsanlegum andmælum aðila viðskiptasambandsins sjálfs, enda væru bankaábyrgðir að öðrum kosti lítils virði. Þetta sé orðað svo í reglum Alþjóða viðskiptaráðsins:„Guarantees by their nature are separate transactions from the contracts or tender conditions on which they are based, and Guarantors are in no way concerned with or bound by such contracts “ Útgefandi ábyrgðar geti almennt ekki hafnað kröfum um greiðslu nema augljóst megi telja að krafan sé ósönn eða byggist á sviksamlegu atferli, eins og vikið sé að í athugasemdum við hinar alþjóðlegu reglur sem sóknaraðili vísi til. Hvað varði vafa varnaraðila um greiðslu ábyrgðanna, þá megi sjá af gögnum að varnaraðili hafi óskað eftir frekari gögnum og skýringum þegar krafa um greiðslu ábyrgðarinnar kom fram. Lögmenn ábyrgðarhafa hafi svarað fyrirspurninni og liggi afrit þeirra bréfasamskipta í málinu. Vangaveltur sóknaraðila um getu varnaraðila til að standa undir ábyrgð sinni gagnvart hugsanlegum endurkröfum sóknaraðila geti tæpast talist rök fyrir annarri niðurstöðu en þeirri sem varnaraðili telji rétta í málinu. Varnaraðili hafi starfsleyfi frá eftirlitsaðilum. Þá standi hann einungis að baki lítils hluta ábyrgðanna eins og sóknaraðili hafi gert grein fyrir. IV Eins og að framan er rakið keyptu sóknaraðilar hótelíbúðir, sem voru í byggingu, með kaupsamningi í desember 2007 af Mønten København ApS. Samkvæmt grein 7.2.2. í kaupsamningnum skyldu kaupendur leggja fram bankaábyrgð til tryggingar greiðslu kaupverðs. Á grundvelli kaupsamningsins gaf varnaraðili út tvær bankaábyrgðir þann 16. og 21. janúar 2008 samtals að fjárhæð 3.290.040 danskra króna vegna sóknaraðilanna Lárusar Guðmundssonar (DKK 1.212.960) og Atla Ómarssonar (DKK 2.077.080), til seljandans, Mønten København ApS. Eru bankaábyrgðirnar með sjálfskuldarábyrgð og/eða veðábyrgðum hluthafa sóknaraðila Myntar ehf. Liggur fyrir að Mønten København ApS hefur með bréfi til varnaraðila þann 22. janúar 2009 krafist greiðslu á bankaábyrgðunum. Með bréfi dags 30. sama mánaðar óskaði varnaraðili frekari skýringa á kröfunni og benti á að athugasemdir hefðu komið fram af hálfu sóknaraðila varðandi réttmæti hennar. Þá var bent á að fyrirsjáanlegar vanefndir væru ekki taldar upp sem ástæða fyrir kröfu samkvæmt ábyrgðinni. Svarbréf Mønten København ApS er dagsett 5. febrúar s.á. Þar kemur fram að yfirlýsingar sóknaraðila um að þeir myndu ekki greiða kaupsamningsgreiðslur á afhendingartíma jafngiltu vanefnd og að ábyrgðin væri ekki takmörkuð við tiltekna tegund vanefndar. Krefjast sóknaraðilar þess í máli þessu að lögbann verði lagt við því að varnaraðili greiði Mønten København ApS út bankaábyrgðirnar. Samkvæmt bankaábyrgðunum er það skilyrði fyrir útgreiðslu þeirra að sóknaraðili hafi vanefnt kaupsamninginn. Sóknaraðilar halda því fram að þeir hafi ekki vanefnt kaupsamninginn. Því sé ólögmætt af varnaraðila að greiða út ábyrgðirnar. Þá hafi kaupsamningnum verið rift og því sé grundvöllur bankaábyrgðanna ekki lengur til staðar. Samkvæmt 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi gerðarbeiðanda muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Þar sem ekki þykir liggja fyrir í málinu að varnaraðili hafi tekið afstöðu til þess hvort honum beri að greiða umkrafðar bankaábyrgðir er það mat dómsins að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að varnaraðili hafi hafist handa eða muni hefjast handa við athöfn sem gæti valdið sóknaraðila tjóni. Þykir því ekki vera fullnægt því skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 að athöfn sem leggja á lögbann við sé byrjuð eða yfirvofandi. Verður því þegar af þeirri ástæðu ekki hjá því komist að hafna kröfu sóknaraðila. Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Ú R S K U R Ð A R O R Ð: Hafnað er kröfu sóknaraðila, Lárusar Guðmundssonar, Atla Ómarssonar og Myntar ehf. um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 6. febrúar 2009 um synjun lögbannsgerðar í máli nr. L-12/2009. |
Mál nr. 548/2013 | Kynferðisbrot Börn Upptaka Skaðabætur | X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr., 199. gr., 2. mgr. 202. gr., 1. mgr. 206. gr., 209. gr., 3. mgr. 210. gr., 1. mgr. 210. gr. a, áður 4. mgr. 210. gr. og 2. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 auk tilraunar til brota gegn 199. gr., 2. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, með nánar tilgreindri háttsemi gegn tólf stúlkum og fyrir vörslur á barnaklámi. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að X hefði ekki áður gerst brotlegur við lög. Brot hans hefðu mörg og hefðu mörg þeirra verið til þess fallin að hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar, en margar stúlknanna voru mjög ungar þegar brotin áttu sér stað. Var talið að X hefði þannig haft yfirburðastöðu í aldri og þroska í samskiptum við þær og hefði hann nýtt sér þá stöðu. Þá var einnig litið til þess að þegar X framdi alvarlegasta brotið hefði hann aðeins verið 16. ára að aldri. Að þessu virtu og með vísan til 1., 2., 6. og 7. töluliða 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing X ákveðin fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Þá var X gert að sæta upptöku á tölvu auk þess sem honum gert að greiða stúlkunum miskabætur. | Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. júlí 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í 3. lið II. kafla ákæru 8. mars 2013 og 3. lið I. kafla ákæru 4. apríl sama ár, en til vara að því er varðar síðarnefndan ákærulið að héraðsdómur verði ómerktur. Að öðru leyti er þess krafist að niðurstöður hins áfrýjaða dóms um einstaka liði í ákærunum verði staðfestar, en refsing ákærða þyngd. Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar. Brotaþolar krefjast þess að ákærða verði gert að greiða þeim eftirfarandi fjárhæðir með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði: A 500.000 krónur, B 800.000 krónur, C 1.300.000 krónur, D 1.500.000 krónur, E 500.000 krónur, G 600.000 krónur, H 500.000 krónur, Q 2.500.000 krónur, S 800.000 krónur, U 500.000 krónur og V 500.000 krónur, en F krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 4. febrúar 2012 til 24. sama mánaðar og frá 18. janúar 2013 verður dregin frá refsingu hans. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldsvist ákærða, X, frá 4. febrúar 2012 til 24. sama mánaðar og samfleytt frá 18. janúar 2013 skal draga frá refsingu hans. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 3.782.814 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 2.259.000 krónur, og þóknun réttargæslumanna brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 564.750 krónur og Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2013. Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 8. mars 2013, á hendur: ,,X, kennitala [...], [...], [...], nú með dvalarstað í fangelsinu Litla-Hrauni, fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum: I. Fyrir eftirtalin kynferðisbrot gegn A, kennitala [...], sem þá var 12 og 13 ára: 1. Með því að hafa laugardaginn 24. apríl 2010, í samskiptum á internetinu við A, þá 12 ára, í gegnum samskiptaforritið MSN, undir notendanafninu [...], sagt henni að sýna ákærða brjóst sín, rass og kynfæri í vefmyndavél, sem hún gerði, og á meðan tekið 21 skjáskotsmynd á tölvuna af berum brjóstum, rassi og kynfærum A. Ákærði hafði framangreinda 21 mynd af A, sem sýna hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt, í vörslu sinni í fartölvu af gerðinni Hewlett Packard allt til 3. nóvember 2011, er lögregla lagði hald á tölvu hans. Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, og 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012, sbr. áður 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. 2. Með því að hafa þriðjudaginn 16. nóvember 2010, í samskiptum á internetinu við A, þá 12 ára, í gegnum samskiptaforritið Skype, undir notendanafninu [...], beðið A nokkrum sinnum um að sýna ákærða rass sinn og brjóst í vefmyndavél, sem hún neitaði að gera. Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. 3. Með því að hafa fimmtudaginn 25. ágúst 2011, í samskiptum á internetinu við A, þá 13 ára, í gegnum samskiptaforritið Skype, undir notandanafninu [...], sagt A ítrekað að sýna ákærða rass sinn og brjóst í vefmyndavél, sem hún neitaði að gera, og að hafa fróað sér fyrir framan hana í vefmyndavél, auk þess sem hann spurði hana hvort hún þyrði að hitta hann og snerta hann og bauð henni peninga fyrir að hitta hann og horfa á hann fróa sér. Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. II. Fyrir eftirtalin kynferðisbrot gegn B, kennitala [...], sem þá var 14 ára: 1. Með því að hafa þriðjudaginn 22. febrúar 2011, í samskiptum á internetinu við B, í gegnum samskiptaforritið Skype, undir notandanafninu [...], beðið B um að sýna ákærða brjóst sín og rass í vefmyndavél og tekið 13 skjáskotsmyndir á tölvuna af B vera að stunda sjálfsfróun. Ákærði hafði framangreindar 13 myndir af B, sem sýna hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt, í vörslu sinni í tölvu af gerðinni Hewlett Packard allt til 3. nóvember 2011, er lögregla lagði hald á tölvu hans. Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, og 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012, sbr. áður 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. 2. Með því að hafa mánudaginn 4. apríl 2011, í samskiptum á internetinu við B, á samskiptasíðunni tinychat.com, undir notandanafninu [...], fengið B til að sýna ákærða brjóst sín í vefmyndavél og kvaðst hann í samskiptunum vera að millifæra greiðslu fyrir sýninguna á bankareikning sem B gaf honum upp. Ákærði tók 34 skjáskotsmyndir á tölvuna af B sem sýna ber brjóst hennar. Ákærði hafði framangreindar 34 myndir af B, sem sýna hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt, í vörslu sinni í fartölvu af gerðinni Hewlett Packard allt til 3. nóvember 2011, er lögregla lagði hald á tölvu hans. Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, og 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012, sbr. áður 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. 3. Með því að hafa á árinu 2010 eða fyrri hluta ársins 2011 sýnt B ruddalegt og ósiðlegt athæfi er hann keypti kynlífstæki fyrir stúlkuna í versluninni Adam og Evu í Reykjavík og afhenti henni. Telst þetta varða við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. 4. Með því að hafa á vormánuðum 2011 tælt B til annarra kynferðismaka en samræðis er hann hét henni 200.000 kr. fyrir kynferðislega myndatöku og fékk hana til að hitta sig til undirbúnings fyrir myndatökuna en ákærði sótti hana á bifreið að heimili hennar við [...] í Reykjavík og ók með hana í Klettagarða þar sem ákærði, í bifreiðinni, lét B fróa honum auk þess sem hann fróaði henni. Telst þetta varða við 1. og 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. 5. Með því að hafa um nokkurt skeið haft í vörslu sinni átta myndir af B sem sýna hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt í fartölvu af gerðinni HewlettPackard, allt til 3. nóvember 2011, er lögregla lagði hald á tölvu hans. Telst þetta varða við 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012, sbr. áður 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. III. Fyrir eftirtalin kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot gegn C, kennitala [...], sem þá var 15 ára: 1. Með því að hafa í eitt skipti í aprílmánuði 2011 í ljósmyndaaðstöðu sem ákærði hafði til afnota að [...] í Reykjavík, tekið 12 myndir af C nakinni eða á g-strengsnærbuxum einum fata, þar á meðal myndir af brjóstum hennar, rassi og kynfærum. Ákærði hafði framangreindar 12 myndir af C, sem sýna hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt, í vörslu sinni í fartölvu af gerðinni Hewlett Packard allt til 3. nóvember 2011, er lögregla lagði hald á tölvu hans. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga, 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga og 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012, sbr. áður 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. 2. Með því að hafa föstudaginn 28. október 2011 í samskiptum á internetinu við C á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], látið af hendi við C tvær klámmyndir, sem sýna unglingsstúlku sjúga lim karlmanns, með því að senda henni myndirnar rafrænt á meðan samskiptum þeirra stóð. Telst þetta varða við 3. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. 3. Með því að hafa á tímabilinu frá 1. ágúst til 13. október 2011 í samskiptum á internetinu við aðila sem ákærði taldi vera C, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...] eða [...], ítrekað sýnt af sér lostugt og ósiðlegt athæfi en ákærði bað hana að stunda með honum kynlíf, bauð henni peningagreiðslu fyrir nektarmyndatöku og kynmök, sagði henni að taka myndir af kynfærum sínum og rassi, meðal annars með hlut inni í kynfærum sínum, og senda honum rafrænt og bauðst til að gefa henni 100 myndir af nöktum stúlkum. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, allt sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. 4. Með því að hafa á tímabilinu frá 28. október til 20. nóvember 2011 í samskiptum á internetinu við C, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...] eða [...], ítrekað sýnt henni lostugt og ósiðlegt athæfi en ákærði sendi henni kynferðislegar lýsingar, bað hana um að stunda með honum kynlíf og um að fá að taka myndir af því, bauð henni að sitja fyrir í nektarmyndatökum og bað hana að taka myndir af honum að stunda sjálfsfróun. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. IV. Fyrir kynferðisbrot gegn D, kennitala [...], sem þá var 16 ára, með því að hafa, í ágúst 2011, í samskiptum á internetinu við D, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], heitið henni greiðslu gegn því að hún hefði önnur kynferðismök en samræði við karlmann, sem reyndist vera ákærði sjálfur. Ákærði, undir notandanafninu Fyrirsætu vantar, taldi D trú um að aðili nokkur vildi taka myndir af kynferðismökum hennar með karlmanni en með því skilyrði að áður en til myndatökunnar kæmi þyrfti hún að hitta karlmanninn til undirbúnings og hafa önnur kynferðismök við hann sem þau þyrftu að taka myndir af. D, sem kvaðst vera 18 ára í samskiptunum við ákærða, hitti karlmanninn, sem reyndist vera ákærði, í þessum tilgangi og vegna loforðs ákærða um greiðslu peninga, í þrígang í ágústbyrjun 2011 í Elliðaárdal, Fossvogsdal og á heimili ákærða að [...] í Reykjavík. Við kynferðismökin setti ákærði getnaðarlim sinn í munn D og hún setti fingur sinn, stilk af plöntu og þrjár gerðir af gervilimum inn í endaþarm hans. Ákærði hét D í upphafi greiðslu að fjárhæð 100.000 kr. en hækkaði fjárhæðina uns hann hét 300.000 kr. í lok ágústmánaðar, en innti greiðsluna ekki af hendi. Telst þetta varða við 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. V. Fyrir eftirtalin kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot gegn E, kennitala [...], sem þá var 13 ára: 1. Með því að hafa þriðjudaginn 27. september 2011, í samskiptum á internetinu við E, í gegnum samskiptaforritið Skype, undir notandanafninu [...], fengið E til þess sýna ákærða brjóst sín og maga og tekið eina mynd sem sýnir hana í brjóstahaldara og aðra sem sýnir ber brjóst hennar og maga. Ákærði hafði framangreindar tvær myndir af E, sem sýna hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt, í vörslu sinni í fartölvu af gerðinni Hewlett Packard allt til 3. nóvember 2011, er lögregla lagði hald á tölvu hans. Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, og 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012, sbr. áður 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. 2. Með því að hafa þriðjudaginn 27. september og miðvikudaginn 28. september 2011, í samskiptum á internetinu við E, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], sýnt E lostugt og ósiðlegt athæfi með því að hafa spyrja hana hvort hún vildi sitja fyrir í myndatöku á undirfötum og nakin. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. 3. Með því að hafa föstudaginn 25. nóvember 2011, í samskiptum á internetinu við E, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...] eða [...], sýnt E lostugt og ósiðlegt athæfi með því að hafa spyrja hana kynferðislegra spurninga, meðal annars hvort hún væri með stóran rass og stór brjóst. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. VI. Fyrir eftirtalin kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot gegn F, kennitala [...], sem þá var 14 ára: 1. Með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 1. október 2011, í samskiptum á internetinu við F, í gegnum samskiptaforritið Skype, undir notandanafninu [...], fengið F til að sýna ákærða rass sinn, maga og læri, en hún var einungis klædd g-strengsnærbuxum og bol sem hún lyfti upp. Ákærði tók sex skjáskotsmyndir á tölvuna af F og hafði framangreindar sex myndir, sem sýna F á kynferðislegan og klámfenginn hátt, í vörslu sinni í fartölvu af gerðinni HewlettPackard allt til 3. nóvember 2011, er lögregla lagði hald á tölvu hans. Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, og 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012, sbr. áður 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. 2. Með því að hafa laugardaginn 1. október 2011, í Elliðaárdalnum í Reykjavík, í myndatöku sem ákærði og F höfðu sammælst um, fengið hana til þess að fækka fötum og tekið 18 myndir af rassi hennar og kynfærum þar sem hún klæddist einungis g-strengsnærbuxum og einnig tekið fjórar myndir þar sem hún klæddist brjóstahaldara og g-strengsnærbuxum. Ákærði hafði framangreindar 22 myndir af F, sem sýna hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt, í vörslu sinni í fartölvu af gerðinni Hewlett Packard allt til 3. nóvember 2011, er lögregla lagði hald á tölvu hans. Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, og 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 6. gr. laga nr. 58/2012, sbr. áður 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga. 3. Með því að hafa á tímabilinu frá 1. október til 26. nóvember 2011, í samskiptum á internetinu við F, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...] eða [...], sýnt F lostugt og ósiðlegt athæfi með því að hafa í sjö skipti leitast við að fá F til þess að sitja fyrir í myndatöku hjá honum fáklædd, á undirfötum eða sundfötum. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. 4. Með því að hafa sunnudaginn 13. nóvember 2011, í samskiptum á internetinu við F, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], leitast við að fá F að sitja nakin fyrir í kynferðislegri myndatöku með karlmanni og sagt henni að hún fengi greiddar 800.000 kr. fyrir það. Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en vil vara við 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. VII. Fyrir eftirtalin kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot gegn G, kennitala [...], sem þá var 15 ára: 1. Með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 24. október 2011, í samskiptum á internetinu við G, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], sýnt G yfirgang og lostugt og ósiðlegt athæfi með því að spyrja hana kynferðislegra spurninga, meðal annars um kynlífsreynslu hennar, og leitast við að fá hana til að sýna ákærða sig á undirfötum einum fata í vefmyndavél, sem hún neitaði. Ákærði leitaðist einnig við að fá G þá um nóttina til að fara út af heimili sínu án vitneskju foreldra hennar og hitta hann og í því skyni bauðst hann til að gera eitthvað fyrir hana í staðinn og bauð henni 3.000 kr. Telst þetta varða við 199. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. 2. Með því að hafa mánudaginn 24. október, við undirgöng skammt frá söluturninum [...], [...] í Reykjavík, þar sem hann hafði mælt sér mót við G, káfað á rassi hennar innanklæða og kysst hana á munninn. Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. VIII. Fyrir kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot gegn H, kennitala [...], sem þá var 14 ára, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 23. október og aðfaranótt mánudagsins 24. október 2011, í samskiptum á internetinu við H, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], sýnt H yfirgang og lostugt og ósiðlegt athæfi með því að leitast við að fá hana til að sitja fyrir í myndatöku hjá honum á sundfötum og nakin og spyrja hana kynferðislegra spurninga, meðal annars um kynlífsreynslu hennar. Ákærði leitaðist einnig við að fá H síðla kvölds til að fara út af heimili sínu til þess að hitta hann og kyssa hann og í því skyni bauð hann henni 1.000 kr. og síðan 3.000 kr., og þrýsti að auki á hana til að hitta hann daginn eftir í sama skyni. Ákærði fékk H í framangreindum samskiptum til að opna samskiptasíðuna tinychat.com og reyndi í samskiptum á þeirri síðu að fá hana til að sýna honum brjóst sín í vefmyndavél. Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, 209. gr. sömu laga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærði sæti upptöku samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009, á fartölvu af gerðinni Hewlett Packard sem notuð var til framningu brota og lögregla lagði hald á (munaskrá 88280). Einkaréttarkröfur: Vegna ákæruliðar I: Af hálfu I, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hans, A, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 500.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2010 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar til greiðsludags en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar II Af hálfu J, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, B, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 800.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar til greiðsludags en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar III Af hálfu K, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, C, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.300.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júní 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar til greiðsludags en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar IV Af hálfu L, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hans, D, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 1.500.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. júlí 2011, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar V Af hálfu M, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, E, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 500.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar VI Af hálfu N, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, F, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 500.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar VII Af hálfu O, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, G, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 600.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. október 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar VIII Af hálfu P, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, H, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 500.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. október 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“ Önnur ákæra var gefin út á hendur ákærða 4. apríl 2013 þar sem ákært er ,,fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum: I. Fyrir eftirtalin kynferðisbrot gegn Q, kennitala [...], sem þá var 15 ára: 1. Með því að hafa, í janúar 2008, í samkvæmi að [...] í Reykjavík, sprautað rjóma úr rjómasprautu á milli brjósta Q og er hún bað hann um að þrífa rjómann af, að hafa sleikt rjómann af henni. Telst þetta varða við 199. gr. almenna hegningarlaga nr. 19/1940. 2. Með því að hafa, í janúar 2008, að [...] í Reykjavík, með ólögmætri nauðung haft önnur kynferðismök en samræði við Q gegn hennar vilja, en Q að óvörum káfaði ákærði á kynfærum hennar innan klæða og setti fingur í leggöng hennar, þrátt fyrir að hún bæði hann að hætta og reyndi að færa hönd hans frá sér. Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. 3. Með því að hafa, í lok janúar eða byrjun febrúar 2008, á heimili Q að [...] í Reykjavík, með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft samræði og önnur kynferðismök við Q gegn hennar vilja og þrátt fyrir að hún hefði sagt honum að hún vildi ekki kynferðislegt samneyti við hann. Ákærði togaði náttbuxur Q niður þar sem hún lá í rúmi sínu, ýtti nærbuxum hennar til hliðar og sleikti kynfæri hennar. Skömmu síðar settist ákærði í skrifborðsstól, fróaði sér, ýtti Q niður og lét hana sjúga lim hans. Því næst sagði hann henni að afklæðast og hafði hann við hana samræði um leggöng á gólfinu undir skrifborði og hélt henni niðri með því að leggja handlegg sinn yfir bak hennar, uns hann hafði sáðlát, auk þess sem hann reyndi að setja liminn í endaþarm hennar. Þá klíndi hann sæði á brjóst Q, togaði hana að sér og lét hana sjúga lim hans. Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. II. Fyrir nauðgun, með því að hafa í lok októbermánaðar 2011, í bifreið sem lagt var nærri Rafstöðvarhúsinu í Elliðaárdal, með ofbeldi og ólögmætri nauðung haft önnur kynferðismök en samræði við R, kennitala [...], sem þá var 18 ára, gegn hennar vilja, en ákærði girti niður um sig, fróaði sér, tók í hönd R og hélt utan um hönd hennar á meðan hann lét hana fróa sér, uns R náði að losa takið. Í kjölfarið, fyrir utan bifreiðina, ýtti ákærði R, sem var aðeins klædd í nærbuxur, upp að bifreiðinni, stóð aftan við hana og káfaði og kleip í berar rasskinnar hennar á meðan hann fróaði sér, uns hann hafði sáðlát. Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. III. Fyrir eftirtalin kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot gegn S, kennitala [...], sem þá var 16 ára: 1. Með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 26. nóvember 2012, í samskiptum á internetinu við S, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], sýnt henni lostugt og ósiðlegt athæfi með því að bjóða henni að sitja fyrir í nektarmyndatöku og sagt henni að hún fengi fyrir það greiddar 100.000 kr. fyrirfram, með því skilyrði að hún sýndi honum sig frá öllum hliðum á nærbuxum einum fata. Er S neitaði beiðnum ákærða um að sýna sig í vefmyndavél fékk hann hana til að taka myndir af sér á nærbuxum einum fata og senda honum rafrænt á meðan samskiptum þeirra stóð. S sendi ákærða 8 slíkar myndir af sér, sem sýna hana á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Telst þetta varða við 209. gr. og 2. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. 2. Með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 20. desember 2012, í samskiptum á internetinu við S, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], sýnt henni lostugt og ósiðlegt athæfi með því að bjóða henni að sitja fyrir í nektarmyndatöku, sem enginn myndi vita af, og spyrja hana um kynlífsreynslu hennar með orðunum „þú ert hrein ?“. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. IV. Fyrir kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot gegn T, kennitala [...], sem þá var 16 ára, með því að hafa fimmtudaginn 13. desember 2012, í samskiptum á internetinu við T, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], sýnt henni lostugt og ósiðlegt athæfi með því að bjóða henni 100.000 kr. fyrirframgreiðslu fyrir að sitja fyrir í nektarmyndatöku. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. V. Fyrir kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot gegn U, kennitala [...], sem þá var 16 ára, með því að hafa þriðjudaginn 18. desember 2012, í samskiptum á internetinu við U, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], sýnt henni lostugt og ósiðlegt athæfi með því að bjóða henni 100.000 kr. fyrirframgreiðslu fyrir að sitja fyrir í nektarmyndatöku. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. VI. Fyrir kynferðisbrot og barnaverndarlagabrot gegn V, kennitala [...], sem þá var 13 ára, með því að hafa föstudaginn 21. desember 2012, í samskiptum á internetinu við V, á samskiptavefnum Facebook, undir notandanafninu [...], sýnt henni lostugt og ósiðlegt athæfi með því að bjóða henni 100.000 kr. fyrirframgreiðslu fyrir að sitja fyrir í nektarmyndatöku. Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einkaréttarkröfur: Vegna ákæruliðar I: Af hálfu Q, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.500.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2008 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar II: Af hálfu R, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 700.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar III: Af hálfu Y, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, S, er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 800.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 4. gr. sömu laga, frá 1. desember 2012, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, sbr. 9. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Vegna ákæruliðar IV: Af hálfu Z, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, T, kt. [...], er gerð krafa um á ákærða verði gert að henni miskabætur að fjárhæð 500.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. desember 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að kærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar V: Af hálfu Þ, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hans, U, kt. [...], er gerð krafa um á ákærða verði gert að henni miskabætur að fjárhæð 500.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. desember 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að kærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Vegna ákæruliðar VI: Af hálfu Æ, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, V, kt. [...], er gerð krafa um á ákærða verði gert að henni miskabætur að fjárhæð 500.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 21. desember 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að kærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“ Málin voru sameinuð. Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að bótakröfum verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakröfur sæti lækkun. Krafist er sýknu af upptökukröfu. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins. Málavextir verða nú reifaðir varðandi hvern ákærulið um sig og niðurstaða í kjölfarið. Við reifum málavaxta þar sem vísað til til tiltekins notandanafns á samskiptasíðum á netinu er viðkomandi notandanafn skáletrað. Ákæra dagsett 8. mars 2013. I.1. Hinn 16. febrúar 2012, lagði I, faðir A, fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem hér um ræðir. Tekin var skýrsla af A fyrir dómi 24. febrúar 2012. Hún kom fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins og verður vitnisburður hennar rakinn síðar. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst engin samskipti hafa átt við A og hann hafi ekki verið undir notandanafninu [...] í netsamskiptum. Lagt var hald á tölvu ákærða 3. nóvember 2011. Við rannsókn hennar fannst notandanafnið [...]. Spurður fyrir dómi um þetta kunni ákærði ekki aðra skýringu á því en þá að hann hafi ekki getað fylgst með því sem gerðist við tölvu hans er haldin voru partý á heimili hans. Hver sem er hafi getað farið í tölvuna. Meðal gagna málsins eru skjáskotsmyndir sem teknar voru á tölvu ákærða og sýna ber brjóst, rass og kynfæri A. Ákærði ítrekaði að hann kannaðist ekki við samskiptin við hana. Undir rannsókn málsins var tekin skýrsla af A. Hún kvaðst ekki muna eftir þessu, en gæi sem sagðist búsettur á Akureyri og kallaði sig [...] og væri fæddur árið 1991 hefði haft samband við hana á MSN. Þau hafi í fyrstu rætt á almennum nótum, en síðan hafi viðmælandinn [...] farið að sýna sig í vefmyndavél og fékk hana til hins sama. Hún hafi sýnt á sér brjóstin þótt hún myndi ekki eftir þessu. Hann hafi fróað sér fyrir framan netmyndavélina. Hún kvaðst hafa sagt viðmælanda sínum aldur sinn og að hún væri fædd árið 1997. Hún kvaðst hafa notað nafnið [...] í þessum samskiptum. Hún kvað 97 í nafninu gefa til kynna fæðingarárið og viðmælandinn ætti að átta sig á því. Hún kvaðst aldrei hafa hitt þennan aðila. A kvaðst aðeins hafa haft samband við þennan aðila í gegnum MSN en hún hafi ekki átt Skype á þessum tíma. Skjáskotsmyndirnar sem í ákæru greinir liggja frammi. Við skýrslutökuna fyrir dómi baðst A undan því að skoða þær. Henni var gerð grein fyrir því að myndirnar væru af henni eða einhverjum öðrum, en myndirnar koma frá [...]. Henni var gerð grein fyrir því að á myndunum sæjust meira en brjóst. Hún kvaðst ekki muna eftir þessu. Hún gæti hafa sýnt meira en brjóstin. Vitnið A lýsti því er hún tók að hafa samskipti við aðila með notandanafnið [...] frá [...] á MSN á þessum tíma er hún var 12 ára gömul. Viðmælandinn hafi beðið hana um að sýna brjóst sín, rass og kynfæri í vefmyndavél sem hún gerði. Hún hafi notað tiltekið nafn í samskiptunum og sé það nafnið sem kemur fram á endurriti samskiptanna, en þau gögn liggja frammi. Hún kvað samskiptunum við [...] rétt lýst í þessum ákærulið, en hún kvaðst aldrei hafa séð framan í [...], viðmælanda sinn á MSN, og hún kvaðst aldrei hafa séð ákærða fyrr en við skýrslutökuna fyrir dómi er hann var viðstaddur. Spurð hvort hún hafi verið þvinguð til að bera sig, kvaðst hún ekki hafa þorað öðru. Hún hafi aldrei gefið til kynna að hún væri mótfallin þessu. Viðmælandinn hafi spurt sig um aldur og hún sagst vera fædd árið 1997. Niðurstaða I.1. Samskiptin sem hér um ræðir fundust við rannsókn á tölvu ákærða, og skjáskotsmyndirnar sem hér um ræðir. Skýringar ákærða á tilvist þessara gagna í tölvu hans eru fráleitar og ótrúverðugar og verður niðurstaðan ekki byggð á þeim. Vitnisburður A er trúverðugur og bar hún um að hafa greint viðmælandanum, [...], frá aldri sínum, auk þess sem notandanafn hennar í samskiptunum [...] gefi aldurinn til kynna. Hún sé fædd árið 1997 og hafi því verið 12 ára gömul er samskiptin áttu sér stað. Er með þessu sannað að ákærði vissi eða mátti vita aldur viðmælanda síns. Það er mat dómsins að skjáskotsmynd eins og hér um ræðir, beri að virða sem ljósmynd og að skýra beri 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga svo að ákvæði taki yfir slíka myndatöku. Að þessu virtu er sannað með því að samskiptin sem um ræðir voru geymd í tölvu ákærða og með stoð í trúverðugum vitnisburði A, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir og er brot hans rétt fært til refsiákvæða eins og aðalkrafa ákæruvaldsins tekur til. I.2. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessum samskiptum. Hann kvaðst hafa notað notandanafnið [...] í samskiptaforritinu Skype, en hann muni ekki eftir að hafa notað [...]. Ákærði skoðaði samskiptin sem hér um ræðir, en endurrit þeirra liggur frammi, en þau fundust við rannsókn á tölvu ákærða. Hann hvorki kannaðist við þessi samskipti né mundi eftir þeim og kvað langt um liðið. Vitnið A kvaðst hafa verið í sambandi við [...] á Skype eins og hér er lýst, en hún kvaðst ekki hafa vitað að það væri sami aðilinn og [...] sem rætt var um í 1. ákærulið að framan. Hún kvað sig ráma í það að viðmælandi sinn hafi beðið hana um að sýna sér rass og brjóst í vefmyndavél. Hún mundi þetta illa, en hún kvaðst aldrei hafa séð framan í viðmælandann [...]. Niðurstaða I.2. Ákærði mundi ekki eftir að hafa notað notandanafnið [...], en hann hafi hins vega notað notandanafnið [...] í netsamskiptum. Netsamskiptin sem hér um ræðir fundust í tölvu ákærða og er þannig sannað að ákærði átti þessi samskipti við A á þessum tíma. Samskiptin sem um ræðir áttu sér stað um sjö mánuðum eftir samskiptin sem var lýst í næsta ákærulið á undan en engin sýnileg tengsl eru á milli þeirra þannig að unnt sé að slá því föstu að ákærði hafi vitað, eða mátt vita, að viðmælandinn í þessum samskiptum hafi verið A sem þá var 12 ára gömul en hún vissi ekki hver viðmælandi hennar var. Er samkvæmt þessu sannað með netsamskiptunum sem fundust í tölvu ákærða að hann átti samskiptin við A, en sýknað er af þeim hluta ákærunnar að ákærði hafi vitað að viðmælandinn var 12 ára gömul. Hefur ákærði með ummælunum sem í ákæru greinir gerst sekur um brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga. I.3. Ákærði kvaðst hafa notað notandanafnið [...] á Skype. Hann kvaðst hins vegar ekki muna eftir samskiptunum sem lýst er í þessum ákærulið. Hann skoðaði samskiptin sem um ræðir, en þau liggja frammi útprentuð. Hann kvaðst þar sjá að fæðingardagur A sé [...] 1990 og hann hafi því talið viðmælandann sér eldri. Í hinum útprentuðu samskiptum sem um ræðir kemur fram að [...]sem átti í samskiptum við ákærða spyr [...] hvers vegna hann heiti nú [...]. Svar sem hún fékk er efnislega þannig að viðmælandinn hafi þurft nýtt notandanafn þar sem [...] var ekki að virka. Fyrir dómi var ákærði beðinn um að skýra þessi ummæli. Kvað hann sér sýnast að þetta væri einhver kaldhæðni og endurtók að hann væri ekki [...] svo sem rakið var undir ákærulið 1. Öll ummælin og samskiptin sem í þessum ákærulið greinir voru borin undir ákærða og mundi hann ekki eftir þeim og neitaði sök. Vitnið A mundi ekkert eftir samskiptunum við [...] eins og hér er lýst og hún mundi ekki notandanafn sitt á Skype. Fram kom að A mundi þessi samskipti illa eða alls ekki, en samskiptin voru kynnt henni ítarlega fyrir dóminum. Hún mundi ekki hvort hún hefði skráð aldur sinn ranglega á Skype og hún mundi ekki eftir að aldur sinn hafi borið á góma í samskiptunum við myndatöku. A lýsti áhrifum þessa á sig og fram kom að hún átti áður við vanda að stríða. Fyrir liggur sálfræðivottorð A, dagsett 2. maí 2013. Í vottorðinu er m.a. lýst kvíða, depurð, skömm og reiði sem séu þekkt einkenni þolenda kynferðisbrota. Þóra Einarsdóttir sálfræðingur ritaði vottorðið. Hún kom fyrir dóminn, skýrði það og staðfesti. I.3. Ákærði mundi ekki eftir þessum samskiptum og neitar sök. Samskiptin sem hér um ræðir fundust í tölvu ákærða og er þannig sannað að hann átti þessi samskipti við viðmælandann sem gekk undir notandanafninu [...]. Vitnið A man ekki eftir þessum samskiptum og hún mundi ekki eftir því að hafa notað notandanafnið sem hér um ræðir, en ítarlega var farið yfir þessi samskipti með henni fyrir dómi. Þótt viðmælandi ákærða í þetta sinn hafi spurt hann að því að hvers vegna hann héti nú [...] en ekki [...], felst ekki í því sönnun um að ákærði hafi þarna verið að ræða við A sem hvorki man eftir samskiptunum, né að hafa notað notandanafnið sem um ræðir. Er samkvæmt þessu ekki upplýst í málinu hver viðmælandi ákærða í greint sinn var. Að þessu virtu er ósannað, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi framið háttsemina sem hér um ræðir og ber að sýkna hann. II. Hinn 3. febrúar 2012, lagði J, móðir B, fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem hér um ræðir. Tekin var skýrsla af B fyrir dómi 10. febrúar 2012. Hún kom fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins og verður vitnisburður hennar rakinn síðar. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa þekkt B lengi. Þau hafi bæði haft samband um netið, auk þess sem þau hafi hist. Hann kvaðst ekki muna mikið eftir samskiptunum við hana, en þau hafi ekki verið af kynferðislegum toga. B hafi sagst vera 16 ára gömul er samskipti þeirra áttu sér stað. II.1 Ákærði kvaðst ekki hafa verið í samskiptum við B undir notandanafninu sem hér um ræðir og neitaði sök. Notandareikningur á Skype sem hér um ræðir fannst við rannsókn á tölvu ákærða. Hann kvaðst ekki geta skýrt það öðruvísi en hann gerði og rakið var við ákærulið I. 1, að framan að hver sem er hafi getað farið í tölvu ákærða og farið inn á Skype og rætt við hvern sem er. Hann mundi ekki hvort haldin var veisla á heimili hans þann dag, þ.e. 22. febrúar 2011, en þá áttu þessi samskipti sér stað. Ákærði skoðaði samskiptin sem hér um ræðir og kannaðist ekki við þau og nefndi að B, sem þar greinir, sé fædd [...] 1992. Ákærði skoðaði skjáskotsmyndir sem hér um ræðir. Hann kannaðist ekki við þær en nefndi að sambærilegar myndir af B væru á nafngreindum vefsíðum. Hann kvaðst hafa fengið slíkar myndir sendar, auk þess sem hann kvaðst hafa halað niður einni mynd. Vitnið B mundi lítið eftir netsamskiptunum við [...], en þó mundi hún eftir samskiptunum 22. febrúar 2011, er háttsemin sem í þessum ákærulið greinir var viðhöfð. Hún kvaðst hafa verið undir áhrifum er þetta átti sér stað, en hún þekkti sig á skjámyndunum sem liggja frammi meðal gagna málsins. Hún kvaðst telja að ákærði hafi vitað aldur sinn þótt hann hafi ekki verið ræddur milli þeirra. Vitnið Ö lýsti því að hún hafi látið B, vinkonu sinni, í té bankareikning sem hún gaf upp til þeirra sem B hafði tiltekin samskipti við á netinu. Fyrir liggur sálfræðivottorð B, dags. 6. maí 2013. Þorbjörg Sveinsdóttir sálfræðingur ritaði vottorðið, hún staðfesti það og skírði fyrir dóminum. Niðurstaða II.1 Ákærði neitar sök. Skype samskiptin sem hér um ræðir fundust í tölvu ákærða og er þannig sannað að hann átti þessi samskipti við B á þeim tíma sem hér um ræðir, en skýringar ákærða eru að engu hafandi sem fyrr um það að hver sem er hafi getað átt samskiptin hafi viðkomandi verið gestkomandi á heimili ákærða á þessum tíma. Ákærði kvaðst hafa talið B hafa verið 16 ára gamla á þessum tíma og að hún hafi greint sér svo frá. Á tölvugögnum má ráða að B hafi skráð fæðingardag sinn, [...] 1992. B taldi ákærða vita aldur sinn þótt það hafi ekki verið rætt milli þeirra. Er samkvæmt því sem nú hefur verið rakið, gegn neitun ákærða, ósannað að hann hafi vitað að B var 14 ára gömul er þessi samskipti áttu sér stað. Þá er sannað með samskiptunum sem liggja frammi og með vitnisburði B, en gegn neitun ákærða, að samskiptin voru efnislega eins og lýst er í ákærunni. Myndirnar fundust í vörslum ákærða við leit í tölvu hans sem lagt var hald á. Er samkvæmt þessu sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir, utan að ósannað er að ákærði hafi vitað að B var 14 ára gömul er þetta átti sér stað. Brot ákærða varða við þau lagaákvæði sem varakrafa ákæruvaldsins lýtur að. II.2 Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið [...] í samskiptunum við B á þessum tíma. Hann neitaði að hafa greitt inn á reikning eins og ákært er fyrir. Hann mundi ekki eftir þessum samskiptum, en hann kannaðist við notandanafnið [...]. Hann kvaðst ekki muna eftir myndunum. Þær gætu hafa komið af öðrum vefsíðum sem hann nefndi. Hann kvaðst ekki hafa tekið skjáskotsmyndirnar og ekki sjáist á þeim af hverjum þær séu. Vitnið B mundi eftir þessum samskiptum. Hún hafi átt að sýna sig eins og lýst er í í ákærunni, sem undirbúning fyrir stóra myndatöku. Viðmælandinn [...] hafi beðið sig um að framkvæma það sem lýst er í ákærunni og það hafi hún gert. Hún kvað viðmælandann hafa ætlað að leggja inn greiðslu á reikning Ö, vinkonu sinnar, en verið var að greiða fyrir það sem hún gerði. B kvað 32 skjáskotsmyndir sem um ræðir vera af sér. Hún kvað öruggt að [...] hafi tekið skjáskotsmyndirnar og rökstuddi hún hvers vegna hún væri viss um það. Niðurstaða II.2 Ákærði neitar sök. Netsamskiptin sem hér um ræðir fundust í tölvu ákærða og einnig ljósmyndirnar sem hér um ræðir og kannaðist ákærði við að hafa notað notandanafnið [...]. Með þessu er sannað og með trúverðugum vitnisburði B og með stoð í vitnisburði Ö, en gegn neitun ákærða, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir, utan að ósannað er að ákærði hafi vitað að B var aðeins 14 ára gömul á þessum tíma og um aldurinn vísast til umfjöllunar í niðurstöðukafla næsta ákæruliðar á undan. Háttsemi ákærða samkvæmt þessum ákærulið varðar við þau lagaákvæði sem varakrafa ákæruvaldsins lýtur að í ákæru. II.3 Ákærði neitar sök, en kvaðst að beiðni B hafa keypt fyrir hana kynlífstæki eða 3 cm gervilim á 1.000 krónur. Vitnið B kvað ákærða hafa keypt kynlífstæki fyrir sig á árinu 2010. Hugsanlega hafi hún beðið ákærða um að kaupa þetta og gæti framburður ákærða um það verið réttur. Niðurstaða II.3 Ákærði kvaðst hafa keypt kynlífstækið að beiðni B sem kvað það geta verið rétt hjá ákærða. Ekkert liggur fyrir í þessum ákærulið um vitneskju ákærða um aldur B á þessum tíma. Er þannig ósannað að ákærði hafi með háttsemi sinni sýnt háttsemi sem varðar við tilvitnuð ákvæði barnaverndarlaga í ákæru og ber að sýkna ákærða af þessum ákærulið. II.4 Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hvorki minnast þess að hafa boðið B peningagreiðslu fyrir kynferðislega myndatöku né að hafa boðið henni upp á myndatöku. Þá hafi hann ekki sótt hana á heimili hennar eins og lýst er í ákærunni. Vitnið B kvaðst um þetta leyti hafa verið í miklum samskiptum á netinu við [...]og komið hafi fram að hana vantaði peninga til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína á þessum tíma. Hún kvað þau ákærða hafa rætt saman á facebook og hún hafi ákveðið að slá til vegna fjárþarfar sinnar. Ákærði hafi sótt hana á heimili hennar við [...] og ekið í Klettagarða, en hún taldi að hún væri að fara í kynferðislega myndatöku þar sem ákærði hafði heitið henni 200.000 krónum eins og lýst er í ákærunni. Þar hafi hann látið hana fróa honum, auk þess sem hann fróaði henni eins og lýst er í ákærunni, en þau hafi farið úr fötum áður en þetta átti sér stað aftur í bifreiðinni sem var rauður sportbíll að hennar sögn, þótt hún væri ekki viss um það. Þetta hafi tekið stutta stund og ók ákærði henni heim eftir þetta. B lýsti aðstoð sem hún hefur leitað sér eftir þetta, en hún kvaðst hafa verið kvíðin og þunglynd. Hún fór í meðferð og gengur vel síðan. Niðurstaða II.4 Ákærði neitar sök. B er ein til frásagnar um það sem hún kvað hafa átt sér stað. Vitnisburður hennar fær ekki þá stoð í öðrum gögnum málsins sem þarf til þess að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni gegn eindreginni neitun ákærða. Er samkvæmt þessu ósannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og ber að sýkna hann. II.5 Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa séð þrjár myndanna sem um ræðir á facebook síðu B. Aðrar myndir hafi hann séð á tveimur nafngreindum netsíðum. Ákærði skýrði myndasöfnun af netinu og skilja mátti ákærða þannig að þetta tengdist umfjöllun um hann sjálfan á netsíðum sem um ræðir og einelti sem hann varð þar fyrir. Hann hafi safnað myndunum í ákveðna möppu í tölvu sinni í því skyni að leggja fram ásamt kæru vegna eineltisins sem hann kvaðst hafa orðið fyrir á netsíðunum. Myndir af B hafi verið meðal þessara mynda að sögn ákærða. Niðurstaða II.5 Sannað er með rannsókn á tölvu ákærða, þar sem myndirnar sem hér um ræðir fundust, að ákærði hafði þær í vörslum sínum á þeim tíma sem í ákæru greinir. Varðar þessi háttsemi ákærða við þau lagaákvæði sem í ákæru greinir. III. Hinn 1. febrúar 2012 lagði K, móðir C, fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í þessum kafla ákæru greinir. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa þekkt C lengi og hann hafi vitað að hún var 15 ára gömul á þeim tíma sem í ákæru greinir. III.1 Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa tekið myndirnar af C að hennar beiðni, þar á meðal nektarmyndir. Ákærði kvað sjást á ljósmyndunum að C situr fyrir af fúsum og frjálsum vilja. Ákærði kvaðst þannig hafa tekið ljósmyndirnar sem hér um ræðir að hennar beiðni og að myndirnar hafi verið í tölvu sinni eins og í ákæru greinir. Vitnið C kvaðst hafa kynnst ákærða á facebook. Þau kynni leiddu til þess að hún fór til ákærða í myndatöku í apríl 2011, en móðir hennar skutlaði henni þangað og ræddi þá einnig við ákærða. Hún kvað ákærða hafa spurt sig um aldur og hún sagt að hún væri 15 ára gömul. Eftir það voru þau ákærðu tvö á staðnum. Hafi hann sagt móður hennar að hún gæti treyst sér og það yrði ,,ekkert bull og eitthvað svoleiðis“. Hún kvaðst hafa tekið með sér föt til að nota við myndatökurnar. Hún hafi haft fataskipti og ákærði tekið af henni ,,venjulegar myndir fyrst“. Myndir eins og rætt hafi verið um að hann tæki. Síðan hafi hann tekið að biðja hana að fara úr öllum fötum nema nærbuxum. Hún lýsti því síðan hvernig ákærði bað hana stöðugt um að fækka fötum og hvernig henni leið við þetta. Hún kvað sér hafa liðið illa og hún kvaðst ekki hafa getað talið sig geta bakkað út úr aðstæðum sem komnar voru upp þótt henni hafi ekki fundist þær í lagi. Hún lýsti því er ákærði tók þarna myndir af rassi hennar, brjóstum og kynfærum. Hún lýsti vanlíðan sinni meðan á þessu stóð. Fyrir liggur að C hafði samskipti við ákærða eftir þennan atburð og ekki er að sjá í gögnum neitt um það að hún hafi verið ósátt við myndatökuna sem hér um ræðir. Spurð um skýringar á þessu fyrir dómi kvaðst hún hafa verið verið hrædd við ákærða. Hún hafi ekki viljað gera neitt honum á móti skapi. Hún hafi ekki vitað hvort hann myndi skaða hana meira eða koma heim til hennar. Vegna hræðslu hafi hún látið sem ekkert væri. Það skýri áframhaldandi netsamskipti við hann. Hún lýsti aðstoð sem hún hefur leitað sér vegna afleiðinga af háttsemi ákærða að hennar sögn. Vitnið K, móðir C, kvað dóttur sína hafa greint sér frá samskiptum sínum við ákærða á facebook og að hann vildi taka myndir af henni. K lýsti ráðstöfunum sínum í kjölfarið meðal annars því að hún ræddi við ákærða á facebook og í síma og úr varð að hún ók C til ákærða á [...] þar sem taka átti myndir af C. Þar ræddi hún við ákærða sem var þarna einn og var viðstödd er hann tók nokkrar myndir af C í fötum. Aldrei stóð annað til en að C yrði mynduð í fötum og hafi það verið rætt við ákærða. Hún hafi greint ákærða frá aldri C, en fram kom hjá ákærða að hann vissi aldur hennar. K kvaðst síðan hafa farið í verslun í nágrenninu og ætlað að koma strax aftur, en bíll hennar bilaði og úr varð að faðir C sótti hana á [...]. Í millitíðinni hringdi hún í C og spurði hana hvort allt væri í lagi og svo virtist hafa verið að sögn K. Hún kvaðst hafa fengið sendar myndir af C og allt virst í lagi þangað til lögreglan hafði samband við hana og greindi frá myndum af C sem fundist höfðu í tölvu ákærða. Hún hafi þá áttað sig á því sem gerst hafði. Hún lýsti áhrifum sem samskipti C við ákærða höfðu. C hafi leitað sér aðstoðar vegna þessa og lýsti hún því. Meðal gagna er læknisvottorð C, dagsett 7. maí 2013. Gunnar Ingi Gunnarsson heimilislæknir ritaði vottorðið. Fram kemur í því að C leitaði til Gunnars Inga hinn 23. janúar sl. og hafi hún þá verið í miklu andlegu uppnámi. Hún hafi greint frá því að líðanin væri vegna kynferðislegs ofbeldis nokkru áður. Gunnar Ingi skýrði og staðfesti læknisvottorðið fyrir dómi. Niðurstaða III.1 Ákærði neitar sök og kvað myndirnar sem hér um ræðir hafa verið teknar samkvæmt ósk C. Vitnið C hafði samskipti við ákærða eftir myndatökuna og ekkert kemur þar fram um að hún hafi er myndirnar voru teknar verið ósátt við myndatökuna og það verður heldur ekki ráðið af ljósmyndunum. Skýringar hennar síðar eru ekki til þess fallnar að breyta því sem ákærði mátti halda er myndirnar voru teknar. Það er samkvæmt þessu mat dómsins að ósannað sé, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi vitað á verknaðarstundu að myndatakan hafi verið gegn vilja C. Er ákærði samkvæmt þessu sýknaður af broti gegn 209. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði vissi aldur C eins og rakið var. Hann hefur því með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn öðrum þeim lagaákvæðum sem í ákæru greinir, en ljósmyndirnar sem um ræðir fundust í tölvu ákærða 3. nóvember 2011. III.2 Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa sent C myndirnar tvær sem hér um ræðir. Hann hafi gert það eftir að hafa spurt hana á facebook hvort hún vildi fá þær sendar. Hann hafi sent þær eftir að hún sagðist vilja fá þær. Vísaði ákærði um þetta til fyrirliggjandi endurrita um facebook-samskipti þeirra C. Vitnið C lýsti samskiptunum við ákærða sem í þessum ákærulið greinir. Hún kvaðst ekki hafa beðið ákærða um að fá myndirnar sendar. Hún kvaðst hafa verið búin að gleyma þessum atburði er hún gaf skýrsluna fyrir dómi. Niðurstaða III.2 Ákærði játar að hafa sent C tvær klámmyndir eins og hér er lýst. Með því hefur ákærði gerst sekur um brotið sem um ræðir og varðar háttsemin við 3. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir. III.3 Ákærði kannast við samskiptin sem hér um ræðir. Hann kvaðst hafa spurt viðmælanda sinn á vinalegum nótum hvort hún þekkti einhverja stelpu sem væri til í að koma í myndatöku með C einungis á nærbuxum eða nakin. Viðmælandinn hafi sagt já við þessu. Síðar í samskiptunum segir [...], sem er ákærði, ,,get reddað þér kannski 40.000 kr. fyrir myndatöku ef þú vilt“. Spurður um þetta fyrir dómi tók ákærði fram að þau C hefðu verið í kynferðislegu sambandi. Það sem hann hafi átt við með boðinu hafi verið það að C gæti sjálf selt ljósmyndirnar á tiltekinni netsíðu sem ákærði lýsti. Aldrei hafi staðið til að hann greiddi henni fyrir myndatökuna. Í samskiptunum sem hér um ræðir er á einum stað rætt um 3.000 krónur. Ákærði kvað ekki hægt að skilja þau samskipti svo að hann væri að bjóða 3.000 krónur fyrir nektarmyndatöku og neitaði því. Í tilvitnuðum samskiptum þennan dag skrifar ákærði ,,ja og þú veist vel það fréttist ekkert ef við ríðum svo ríðum og ekki vera búa til afsakanir með að vilja ekki ríða mér þú færð 3 þús og ég fæ drátt“. Spurður um þessi ummæli kvaðst ákærði ekki hafa verið að bjóða greiðslu fyrir kynmök. Það hafi hann aldrei gert. Ákærði kvaðst reikna með því að hann hafi skuldað viðmælandanum 3.000 krónur og hann ætlaði að greiða skuld sína. Á einum stað í samskiptunum skrifar ákærði ,,myndirðu ekki ríða fyrir skó“ og í framhaldinu er kynferðislegt spjall. Ákærði kveður ekkert af því sem þarna er rætt hafa átt sér stað. Þá er rætt um myndatöku af kynfærum, m.a. með hlut inni í kynfærum sínum. Ákærði kannaðist við þessi skrif. Samskiptin sem um ræðir hafi farið fram með fúsum og frjálsum vilja beggja. Samskiptin sem hér um ræðir komu þannig til að einhver aðili braust inn á facebook C og þóttist vera hún í samskiptunum við ákærða sem lýst er í ákæruliðnum. Ákærði kveðst ekki muna hvort hún hafi nefnt þetta í samskiptunum við sig. Það gæti þó verið. Vitnið C mundi eftir því er brotist var inn á facebook síðu hennar á þessum tíma og að viðmælandinn hafi þá haft samskipti við ákærða eins og hér er lýst en hún kvaðst ekki hafa átt þessi samskipti við ákærða sjálf. Niðurstaða III.3 Ákærði neitar sök en kvað þessi samskipti hafa átt sér stað. Þau hafi verið að vilja beggja. Skýringar ákærða á því sem kemur fram í netsamskiptunum, og lýst er í ákæru og rakið var að framan, eru fráleitar og að engu hafandi og verður niðurstaðan ekki byggð á þeim. Skýringar ákærða um að hann hafi skuldað viðmælandanum peninga eru fráleitar eins og flest í hans framburði um þennan ákærulið. Það er mat dómsins að ef samskiptin sem um ræðir eru lesin í heild hafi ákærði með þeim gerst brotlegur á þann hátt sem í þessum ákærulið greinir, en hann taldi sig vera í samskiptum við C og er háttsemin því rétt færð til refsiákvæða í ákærunni. III.4 Ákærði kannaðist við samskiptin sem hér um ræðir, en neitar sök. Eins og rakið var kvaðst hann hafa vitað að C var 15 ára gömul á þessum tíma. Hann kvað það sem hann skrifaði á facebook síðuna um kynlífsmyndir hafa verið hugmyndir sem aldrei voru framkvæmdar. Þá kvað hann ekki unnt að meta nektarmyndatöku sem kynferðislega myndatöku. Hann hafi átt við listræna myndatöku. Hann kannaðist við samskiptin sem hér um ræðir, en kvað þau sem fyrr samskipti tveggja einstaklinga sem eigi sér stað af fúsum og frjálsum vilja beggja. Vitnið C mundi eftir þessum samskiptum við ákærða á facebook eins og lýst er í þessum ákærulið og kvað lýsinguna þar rétta. Niðurstaða III.4 Ákærði vissi um aldur C er þessi samskipti áttu sér stað, en ákærði hefur játað að hafa átt samskiptin við C. Eins og ummælunum er háttað við C, sem var barn að aldri, telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða að hann hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn lagaákvæðunum sem í ákæru greinir. IV. Hinn 4. maí 2012, lagði D fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í þessum kafla ákæru greinir. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst kannast við D, en ekki muna eftir samskiptunum sem hér um ræðir, en þau D hafi stundað kynlíf saman, m.a. á heimili ákærða. Hann kvaðst hafa hitt D í janúarmánuði sl. Þau hafi þá verið saman á skemmtistað hér í borg ásamt vinkonu hennar og ákærði hafi ekki séð þá að eitthvað væri að. Ákærði kannast við samskiptin við D undir notendaheitunum sem lýst er í þessum ákærulið þar sem ákærði nafngreinir að hann greiði 100.000 krónur. Kvaðst ákærði hafa átt við það að hún gæti sjálf selt ljósmyndirnar, sem hann tæki, á tiltekinni netsíðu. Síðar í samskiptunum, er fjárhæðin hækkar, kvaðst ákærði hafa átt við það sama og rakið var. D gæti selt myndirnar sjálf. Ákærði kvaðst aldrei hafa boðið henni greiðslu fyrir kynmök eða eitthvað annað af kynferðislegum toga. Fram kemur í samskiptunum sem hér um ræðir að ákærði sé milligönguaðili fyrir aðila, eins og lýst er í ákærunni. Spurður um þetta kvað ákærði þennan aðila vera erlendan mann sem haft hafi samband við sig er hann var staddur á landinu. Hann kvaðst ekki muna nánar eftir þessum manni en ákærði kvaðst hafa hitt hann ,,á djamminu í miðbænum“. Ákærði kvað myndirnar og kynlífsmyndskeið sem liggja frammi og sýna athafnirnar sem lýst er í ákærunni vera myndir af þeim D í kynlífsathöfnum. Myndirnar hafi aðeins verið fyrir þau tvö. Þau hafi stundað kynlífið saman af fúsum og frjálsum vilja og þau væru bæði fyrir svipaða hluti í kynlífinu, eins og ákærði bar, og D hafi tekið kynlífsmyndskeiðið sem vísað er til í ákærunni. Vitnið D kvað ákærða hafa dúkkað upp á facebook síðu sinni á þeim tíma sem í ákæru greinir undir notandanafninu [...]. Hann hafi boðið sér 100.000 krónur fyrir kynmök með öðrum manni sem reyndist ákærði sjálfur eins og lýst er í þessum ákærulið. Hún kvaðst hafa verið atvinnulaus og ákveðið að taka tilboðinu, en hún kvað sig hafa vantað peninga til að geta heimsótt móður sína í [...]. Hún hafi hitt ákærða þrisvar sinnum eins og lýst er í ákærunni og ákærði hafi viðhaft þá háttsemi sem þar greinir. Hún lýsti fyrsta fundi þeirra ákærða í Elliðaárdal þar sem ákærði ljósmyndaði hana. Næsti fundur þeirra var í Fossvogsdal þar sem ákærði tók af henni ljósmyndir. Þá hafi hann spurt hana hvort þau ættu ekki að gera það, en hún hafi sagt nei. Hann hafi þá ýtt henni niður í grasið og haft við hana mök. Hún lýsti því að hún hafi þurft á peningunum að halda og ákærði hafi stöðugt hækkað tilboð sitt. Hún kvaðst þá hafa hugsað að hún væri hvort sem er búin að gera svo margt að eitt skipti enn skipti ekki máli. Hún hafi hins vegar aldrei fengið greitt. Hún kvaðst hafa sagt ákærða að hún væri 18 ára gömul. Síðar kvaðst hún ekki muna þetta vel. Meðal gagna málsins eru ljósmyndir sem sýna mestan hluta háttsemi ákærða sem lýst er í þessum ákærulið. D lýsti áhrifum háttsemi ákærða á sig. Hún kvaðst hafa verið undir læknishendi á geðdeild. Hún lýsti tilraunum til að vinna sig út úr þessu og ýta þessari reynslu frá sér. Vitnið Á kvað D, vinkonu sína, hafa sagt sér frá því sem átti sér stað. Hún lýsti því að hún hafi stundum rætt við ákærða á facebook er D komst ekki sjálf að tölvunni fyrir einhverra hluta sakir. Hún lýsti því að komið hafi fram í þessum samskiptum að D ætti að hitta karlkyns módel til að undirbúa myndatöku. Þá hafi D greint sér frá því að ákærði hafi látið hana setja eitthvað inn í rassinn á sér. Þetta hafi gerst inni í skógi og D hafi farið úr fötunum að ósk ákærða. Þá hafi komið fram að maðurinn hafi boðið D 300.000 krónur, eins og lýst er í ákærunni. Hún kvaðst hafa rætt við aðila sem kallaði sig áhugaljósmyndara, en hún vissi ekki hver þessi aðili var í raun. Fyrir liggur sálfræðivottorð D, dagsett 7. maí 2013. Í vottorðinu segir m.a. að líðan D sé lýsandi fyrir afleiðingar sem algengar séu hjá einstaklingum sem beittir hafa verið kynferðisofbeldi. Þóra Björt Sveinsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, ritaði vottorðið og staðfesti það og skýrði fyrir dóminum. Niðurstaða IV Ákærði hefur viðurkennt samskiptin við D á netinu, eins og lýst er í þessum kafla ákærunnar. Hann hefur gefið skýringar á því hvað hann átti við er hann nefndi peningagreiðslur. Skýringar ákærða eru að mati dómsins fráleitar og ótrúverðugar og verða ekki lagðar til grundvallar niðurstöðunni, enda koma þær alls ekki heim og saman við netsamskiptin sem um ræðir, séu þau lesin í heild. Vitnisburður D er trúverðugur og fær stoð í gögnum málsins, svo sem netsamskiptunum og vitnisburði Á, auk þess sem vitnisburðurinn fær góða stoð í ljósmyndum og myndum sem liggja frammi. Ljóst er af því sem rakið var að D lét undan ákærða vegna loforða hans um greiðslu, eins og í ákæru greinir. Er samkvæmt þessu sannað með vitnisburði D og með stoð í vitnisburði Á og með hliðsjón af sýnilegum sönnunargögnum sem rakin voru, gegn neitun ákærða, að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákærulið greinir og eru brot hans rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni. V. Hinn 30. janúar 2012 lagði M, móðir E, fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í þessum ákærulið greinir. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa átt í netsamskiptum við E, en lítið muna eftir því annað en að hún væri frá [...]. V.1 Ákærði kvaðst hafa notað notandanafnið sem hér um ræðir, en hann muni lítið eftir þessum samskiptum. Hann kvaðst í upphafi þeirra ekki hafa gert sér gein fyrir því að E væri 13 ára gömul. Er aldur hennar kom í ljós hafi hann dregið til baka allt sem áður var rætt um varðandi nekt. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að hafa tekið myndirnar sem hér um ræðir, en myndirnar fundust í tölvu ákærða, svo sem í ákæru greinir. Ákærði kunni að hafa tekið skjáskotsmynd fyrir slysni. Hann kvaðst hafa átt marga eldri og yngri vini á facebook og tók fram að yngri einstaklingar en 15 ára ættu ekki að geta skráð sig á facebook. Hann kvað aldur E ekki hafa komið fram á netsíðu hennar. Vitnið E kom ekki fyrir dóminn undir aðalmeðferðinni. Hún gaf skýrslu fyrir dómi 10. febrúar 2012. Þar lýsti hún því að hún hefði farið úr að ofan fyrir framan netmyndavél á Skype og að sér hefði liðið illa við þetta. Hún kvaðst hafa sagt viðmælandanum að hún væri 13 ára gömul. E kvaðst einnig hafa rætt við einhvern sem kallaðist „[...]“ á facebook. Sá aðili hafi rætt við vinkonu hennar um að taka myndir af þeim. Aðspurð hvers konar myndir hafi verið um að ræða sagði hún, venjulegar myndir eins og þegar maður fer í myndatöku. Vitnisburður E um tilvikin sem í þessum þremur ákæruliðum greinir er mjög óskýr og erfitt að ráða nokkuð af honum um það sem gerðist í þessum samskiptum utan að hún hafi ,,flassað“, eins og hún bar, eða farið úr að ofan. Niðurstaða V.1 Ákærði vissi aldur E og samskiptin sem hér um ræðir liggja fyrir. Skýring ákærða um að hann hafi tekið skjáskotsmynd fyrir slysni er ótrúverðugur og fær ekki stoð í samskiptunum sem lýst var. Það er mat dómsins að sannað sé með netsamskiptunum sem hér um ræðir og rakin voru og með ljósmyndum sem ákærði tók og með stoð í vitnisburði E,svo langt sem hann nær, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákærunni, en lagt var hald á ljósmyndirnar sem um ræðir í tölvu ákærða 3. nóvember 2011. V.2 Ákærði neitar sök. Hann kannaðist við þessi samskipti. Hann kvað það sem hér um ræðir hafa komið til tals áður en ákærði vissi um aldur E sem hann taldi að minnsta kosti 15 ára gamla. Strax og aldurinn varð ljós hafi hann dregið það sem hér um ræðir til baka. Ákærði kvaðst hafa talið E eldri. Í samskiptunum segir ákærði: ,,ég bid samt ekki verður bara minnst í undirfötum.“ V.3 Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa notað notandanafnið sem hér um ræðir, en lítið muna eftir þessum samskiptum, en hann kvað þau hafa átt sér stað. Vitnið M, móði E, kvað hana ekki vilja ræða þetta mál. Hún hafi alveg lokað á það. M kvaðst hafa fengið vitneskju um málið er lögreglan hringdi í hana í janúar 2012 og greindi frá því að ljósmyndir af E hefðu fundist í tölvu X [...]. Hún lýsti ráðstöfunum sem gerðar voru í framhaldinu, m.a. hjá Barnaverndarnefnd. Hún nefndi að E hefði beðið sig að keyra sig til Reykjavíkur í september 2011 til að X [...] gæti myndað hana. Hún hafi sagt dóttur sinni að þetta kæmi ekki til greina. Hún kvað greinilegt að samskiptin hefðu haldið áfram á facebook. M lýsti slæmum áhrifum samskiptanna við ákærða á dóttur sína. Fyrir liggur sálfræðivottorð E sem Gylfi Jón Gylfason ritaði. Vottorðið er dagsett 8. maí 2013. Gylfi kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti vottorðið sem fjallar um getu E til að gefa skýrslu fyrir dómi í máli þessu. Í vottorðinu er lýst takmarkaðri getu E til að vitna í málinu og helgast það af þroskaskerðingu og slökum málþroska hennar. Af þessum sökum kom E ekki fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins. Af skýrslutökunni sem tekin var af E, og rakin var að framan, eru þessir annmarkar augljósir. Niðurstaða V. 2 og 3 Ákærði bar um samskiptin við E og vissi hann um aldur hennar. Endurrit samskiptanna sem hér um ræðir liggja frammi. Er sannað með þeim og að hluta með stoð í vitnisburði E, en gegn neitun ákærða, að hann hafi með háttsemi sinni sem í þessum ákæruliðum greinir gerst brotlegur við lagaákvæðin sem í ákærunni greinir og er þá litið til þess að E var aðeins 13 ára gömul á þessum tíma. VI. Hinn 6. febrúar 2012 lagði N, móðir F, fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í þessum kafla ákærunnar greinir. VI.1 Ákærði neitar sök. Hann kvaðst lengi hafa verið í samskiptum við F á netinu og hann kannist við samskiptin sem hér um ræðir þótt hann muni ekki efni þeirra. Hann kvaðst hafa vitað aldur F og kemur það fram í endurriti netsamskipta þeirra. F hafi ekki talið myndirnar sem um ræðir klámfengnar eða kynferðislegar eins og lýst er í ákærunni. Ákærði kvaðst hafa tekið myndirnar sem hér um ræðir, en myndirnar voru vistaðar í tölvu ákærða, eins og rakið er í ákærunni. Hann mundi ekki tilefnið. Það gæti hafa verið fyrir slysni og skýrði ákærði hvers vegna hann taldi svo vera. Vitnið F kvað samskiptin við ákærða hafa byrjað á facebook 1. október 2011, er hún var 14 ára gömul, og kvaðst hún hafa sagt ákærða frá aldri sínum. Sér hafi fundist spennandi að ræða við ákærða og ekki hafi breytt neinu um það þótt hann hafi verið nokkrum árum eldri en hún, en hann hafi sagt henni aldur sinn. Þau ákváðu að hittast og hafi hún ákveðið að taka móður sína með þar sem hún hafi ekki viljað vera ein þar sem ákærði var töluvert eldri. Úr varð að þau ákærði hittust í Seljahverfi þar sem hann tók af henni andlitsmyndir, en móðir hennar beið afsíðis á meðan. F lýsti facebook samskiptum þeirra í kjölfarið. Hún kvað þetta hafa leitt til þess að þau mæltu sér mót í Elliðaárdal 1. október 2011, sbr. ákærulið 2. Þar hafi ákærði ætlað að taka ljósmyndir af henni þar sem mynda átti maga- og bakvöðva og hún kvaðst hafa áhuga á líkamsrækt. Ákærði hafi tekið myndirnar, en hún hafi fundið fyrir pressu frá honum um að hún fækkaði fötum, sem hún gerði. Hún kvað systur sína hafa verið með sér í för í þetta sinn, en hún hafi beðið afsíðis meðan myndatakan fór fram. Hún kvaðst fyrst hafa séð í skýrslutöku hjá lögreglunni myndir sem ákærði tók í þetta skipti, en það hafi verið myndir sem teknar voru er hún skipti um föt og nærmyndir af rassi og kynfærum hennar er hún klæddist g-strengs nærbuxum. Áður hafi ákærði sent henni myndir, sem voru flottar að hennar sögn. Hún kvaðst þarna hafa séð að ákærði misnotaði traust hennar og tók myndir sem hún reiknaði ekki með. Hún kvaðst hafa skoðað myndirnar í myndavél eftir myndatökuna, en ekki séð sumar myndanna, svo sem nærmyndir af rassi og kynfærum. Þá kvaðst hún hafa séð skjáskotsmyndir af Skype sem ákærði hafi tekið af henni. F kvað ákærða hafa boðið sér 800.000 krónur fyrir nektarmyndatöku, en þetta boð hafi komið frá ákærða á facebook 13. október 2011, sbr. ákærulið 4. Aðdragandinn hafi verið sá að hann hafi viljað fá að sjá líkama hennar sem hún sýndi í vefmyndavél. Þá hafi hann tekið myndirnar og lýsti hún slæmum áhrifum þessa á sig, er hún sá myndirnar sem um ræðir við skýrslutöku hjá lögreglu. Nánar spurð um 800.000 króna greiðsluna kvaðst hún ekki viss um það hvort ákærði ætlaði að greiða þá fjárhæð. F lýsti slæmum áhrifum sem samskipti við ákærða höfðu á hana og rakin hafa verið. Hún kvaðst hafa leitað sér sálfræðiaðstoðar vegna þessa og sú aðstoð vari enn. Vitnið N, móðir F, lýsti því er hún fór með F í myndatöku hjá ákærða í fyrsta skipti, en F hafi hitt ákærða tvisvar sinnum. Hún hafi rætt aldur hennar við ákærða og vissi hann að hún var 14 ára gömul. Hún kvaðst hafa rætt við ákærða í síma áður en hún fór með dóttur sinni til fundar við hann, en fram kom hjá honum að hann hafi ekki viljað að hún kæmi með dóttur sinni þar sem það gæti truflað. Ákærði hafi tekið myndirnar meðan hún beið afsíðis og fóru þær mæðgur heim eftir 15 til 20 mínútur. Ákærði sendi síðan fínar myndir af F að sögn hennar. Stuttu síðar hafi ákærði haft samband við F og úr varð að hún hitti hann í Elliðaárdal. N kvaðst ekki hafa komist með, en dóttir hennar fór þá með F, systur sinni, en hún kvað þá hafa myndast ákveðið traust eftir fyrri myndatökuna sem hún lýsti. Hún lýsti fötunum sem F átti að hafa meðferðis. Hún kvað systurina hafa átt að bíða afsíðis meðan ákærði myndaði F og hafi systirin beðið í bíl ákærða á meðan. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvað gerðist og ekki hafa fengið að sjá myndirnar sem ákærði tók í Elliðaárdalnum. Hún kvað afleiðingar samskiptanna við ákærða hafa verið slæmar fyrir F og lýsti hún erfiðleikum hennar í skóla þess vegna og félagslegri einangrun og fleiru. F hafi leitað sálfræðiaðstoðar sem hún lýsti. Vitnið Ð, systir F, kom fyrir dóminn og lýsti því er hún fór með F, systur sinni, til fundar í Elliðaárdal þar sem taka átti myndir af F. Hún kvaðst hafa farið með henni þar sem móðir þeirra komst ekki en til stóð venjuleg myndataka eins og áður er móður þeirra fór með F. Hún kvaðst hafa beðið á bekk meðan ákærði og F fóru afsíðis. Spurð kvað hún sér ekki hafa verið bannað að fylgjast með, en hún hafi fundið fyrir því að pressa var á hana að fylgjast ekki með myndatökunni. Hún kvað sér hafa verið orðið kalt og hafi ákærði þá boðið henni inn í bíl sinn, sem hún þáði. Hún hafi ekki séð til ákærða og F sem komu loks og fóru þær systur heim eftir þetta. Hún hafi séð einhverjar myndir sem ákærði sendi F, en hún hafi ekki skoðað þær í myndavél ákærða. F hafi ekki greint sér frá því að eitthvað hafi ekki verið í lagi í samskipunum við ákærða fyrr en fyrir stuttu síðan. Fyrir liggur sálfræðivottorð F, dagsett 7. maí 2013. Tryggvi Sigurðsson sálfræðingur ritaði vottorðið. Í því er lýst einkennum kvíða og tilfinningalegra erfiðleika sem raktir eru til háttsemi sem í ákæru greinir. Tryggvi kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði vottorðið. Niðurstaða VI.1 Ákærði hefur borið um samskiptin við F sem hér um ræðir. Hann mundi ekki tilefni þess að skjámyndirnar voru teknar, en taldi þær geta hafa verið teknar fyrir slysni. Sá framburður ákærða er ótrúverðugur og verður ekki á honum byggt, enda í ósamræmi við það sem fram kemur í netsamskiptunum sem hér um ræðir og í andstöðu við vitnisburð F. Í samskiptunum fékk ákærði F, sem hann vissi að var 14 ára gömul, til að sýna sig eins og rakið er í þessum ákærulið. Er háttsemin sönnuð með netsamskiptunum sem liggja fyrir, með trúverðugum vitnisburði F og með öðrum gögnum málsins og varðar hún við þau lagaákvæði sem aðalkrafa ákæruvaldsins lýtur að í ákæru. VI.2 Ákærði mundi eftir samskiptunum sem hér um ræðir. Hann kvað aðdragandann þann að þau F hefðu mælt sér mót. Hún hafi komið á staðinn ásamt móður sinni. Myndirnar sem voru teknar að ósk F og af fúsum og frjálsum vilja hennar og sjáist það vel á ljósmyndunum að sögn ákærða. Hann lýsti óskum F við myndatökuna og að hún hafi viljað að vöxtur sinn sæist á myndunum og lýsti ákærði þessu nánar. Ákærði var spurður um myndir af rassi hennar og kynfærum, er hún klæddist g-strengs nærbuxum. Ákærði kvaðst hafa tekið meira en 300 ljósmyndir af F þarna og myndirnar sem teknar eru með aðdrætti aftan á hana af rassi og kynfærum er hún var klædd í g-streng hafi verið teknar tilviljanakennt og óvart. Ekki hafi verið ásetningur sinn að taka þær myndir, en F hafi skoðað allar myndirnar og ekki tekið eftir þessari mynd frekar en ákærði sjálfur. Niðurstaða VI.2 Ákærði bar um þessi samskipti F. Ljóst er af því sem rakið var að F reiknaði með því að teknar yrðu af henni ljósmyndir sem tengdust áhuga hennar á líkamsrækt og taldi hún myndirnar eiga að sýna líkamshluta svo sem maga og bak, eins og hún bar. Fyrir liggur að ákærði tók af henni myndir sem sýna rass og kynfæri eins og lýst er í þessum ákærulið. Ákærði brást trausti sem honum var sýnt er hann tók myndirnar af rassi og kynfærum F eins og lýst er í ákærunni. En framburður hans um tilurð myndanna er ótrúverðugur. F sá þessar myndir fyrst við rannsókn málsins og var mjög brugðið. Ákærði hefur með þessari háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum sem aðalkrafa ákæruvaldsins lýtur að, en ákærði hafði myndirnar í vörslum sínum í tölvu sem lagt var hald á 3. nóvember 2011. VI.3 Ákærði kannast við þessi facebook samskipti. Hann kvað þau F hafa verið í netsambandi eftir myndatökurnar sem lýst var að framan og þar komi fram skýr vilji hennar um að teknar yrðu svona ljósmyndir. Niðurstaða VI.3 Sannað er með framburði ákærða og fyrirliggjandi netsamskiptum og vitnisburði F að þessi samskipti áttu sér stað. Þau virðast hafa farið fram af fúsum og frjálsum vilja F og varðar þessi háttsemi því ekki við 209. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar vissi ákærði um aldur F, sem var aðeins 14 ára gömul, og varðar háttsemi ákærða þannig við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga eins og lýst er í ákærunni. VI.4 Ákærði neitar sök. Hann kvað samskiptin sýna að hann væri ekki að bjóða F myndatöku. Hann sé að greina henni frá myndatöku sem ákærði hefði heyrt af og hann svari spurningum F vegna þessa. Niðurstaða VI.4 Ákærði neitar sök. Ekki er á því byggt í ákærunni að ákærði hafi sjálfur ætlað að greiða þessa fjárhæð fyrir myndatökuna sem um ræðir. Sakarefnið er að hann hafi sagt F að hún fengi peninga fyrir að sitja nakin fyrir eins og lýst er í ákærunni. Er sannað með framburði ákærða, netsamskiptunum sem liggja fyrir, og með vitnisburði F að ákærði hafi gerst sekur um háttsemina sem hér um ræðir og varðar brot hans við þau lagaákvæði sem aðalkrafa ákæruvaldsins lýtur að í ákærunni. VII. Hinn 27. október 2011 lagði É, faðir G, fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í þessum kafla ákæru greinir. VII.1 Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið í netsamskiptum við G á þessum tíma, þau hefðu rætt um myndatöku og ákærði kvaðst hafa tekið af henni örfáar ljósmyndir þar sem G klæddist úlpu. Þau hafi síðan ákveðið á netinu að hittast aftur sem þau gerðu, sbr. ákærulið 2 í þessum kafla ákæru. Þau hafi hist við [...]skóla þar sem þau hafi rætt saman og kysst og faðmast er þau kvöddust. Þau hafi síðan hálfpartinn klæmst í sms samskiptum í kjölfarið að sögn ákærða. Hann neitaði að hafa sýnt G yfirgang og lostugt og ósiðlegt athæfi. Samskipti þeirra á netinu hafi verið af fúsum og frjálsum vilja beggja, en hann kvaðst hafa talið G 16 eða 17 ára gamla. Útlit hennar gefi til kynna að hún hafi verið eldri en hún í raun var. Kynferðislegar spurningar milli þeirra séu eðlilegar í samskiptum kynjanna eins og hér um ræðir. Ákærði kvað boðin um 3.000 króna greiðslu hafi verið grín og það sjáist af samhenginu. Vitnið G lýsti samskiptunum við ákærða undir nafninu [...] á facebook á þessum tíma. Viðmælandinn hafi spurt hana ýmissa spurninga svo sem hversu gömul hún væri og hvort hún vildi koma í undirfata- myndatöku sem hún vildi ekki. Hann hafi þá beðið hana um að hitta sig þetta kvöld, sem hún gerði. Þar hafi ákærði tekið af henni nokkrar myndir. Hún hafi neitað ákærða er hann spurði hana hvort hún vildi láta mynda sig á undirfötum. Þær H, vinkona hennar, sem var með henni í för fóru heim eftir þetta. Hún hafi haldið áfram að ræða við ákærða á facebook langt fram á kvöld þar sem hann spurði hana alls konar óviðeigandi kynferðislegra spurninga og um kynlífsreynslu hennar. Hún mundi ekki hvort ákærði bað hana um að sýna sig í netmyndavél, eins og lýst er í ákærunni, en kvað allt koma fram í netsamskiptunum sem liggja fyrir og staðfesti hún að fyrirliggjandi netsamskipti sýndu samskipti þeirra ákærða sem hér um ræðir. Hann hafi beðið hana um að fara út um nóttina gegn 3.000 króna greiðslu. Þau hafi síðan hist daginn eftir. Þau hafi rætt saman og ákærði tók að káfa á henni og kyssa hana á munninn og á sama tíma fór hann að káfa á rassi hennar innanklæða. Hún kvaðst ekki hafa gefið ákærða neina vísbendingu um að hún vildi þetta og þetta hafi komið sér í opna skjöldu. Hún kvaðst hafa forðað sér strax og ákærði hætti káfinu. G kvað þessa atburði hafa haft mikil áhrif á sig. Hún treysti fólki ekki og eigi erfitt með að kynnast nýju fólki. Hún lýsti aðstoð sem hún hefur notið frá aðilum sem tengjast henni fjölskylduböndum. Vitnið O, móðir G, lýsti því er G kvaðst ætla að skjótast út með vinkonu sinni og hitta ljósmyndara. Hún kvað sér hafa fundist þetta skrýtið og hafi hún hringt í G og vildi fá að ræða við manninn sem vildi ekki ræða við hana að sögn G. G hafi komið heim fljótlega eftir þetta og hafi hún skoðað netsamskipti hennar og sá það að viðkomandi aðili var að klæmast við hana. Hún hafi prentað samskiptin út og komið til lögreglunnar. Hún viti að G hitti manninn daginn eftir og að hann hafi káfað á rassinum á henni og reynt að kyssa hana. Hún kvaðst áður hafa bannað henni að hitta manninn. Hún kvað G hafa liðið illa eftir þetta og hafi þetta haft slæm áhrif á skólagöngu hennar. Vitnið É, faðir G, lýsti því er kona hans greindi honum frá þessum atburði er hann var staddur erlendis. Hann lýsti því er facebook samskipti ákærða og G voru prentuð út og færð lögreglunni. Hann kvað G lítið hafa rætt þennan atburð. Hún hafi þó greint sér frá því að ákærði hefði káfað á henni innanklæða og kysst hana á munninn. Niðurstaða VII.1 Ákærði neitar sök. Fram kemur í fyrirliggjandi netsamskiptum ákærða og G að hún greindi honum frá aldri sínum. Ákærði vissi því aldur hennar er hann hafði við hana netsamskiptin sem í þessum ákærulið greinir. Er sannað með netsamskiptum, með vitnisburði G og með stuðningi af vitnisburði foreldra hennar, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem hér um ræðir og varðar háttsemin við þau lagaákvæði sem í ákæru greinir. VII.2 Ákærði kvað þau G hafa mælt sér mót við [...]skóla á þessum tíma. Ákærði kvaðst hafa kysst hana á munninn og sett hönd sína á rass hennar utanklæða. Ákærði vísaði til þess að áður en að þau hittust hafi hann spurt hana á netinu hvort það væri ekki í lagi að hann kyssti hana er þau hittust. G hafi samþykkt þetta og það komi fram í netspjalli þeirra. Í endurriti netsamskipta ákærða og G frá þessum tíma kemur fram að framburður ákærða um kossinn er réttur. Niðurstaða VII.2 Ákærði neitar sök. Vitnisburður G fær ekki þá stoð af öðrum vitnisburði eða gögnum málsins til að unnt sér að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni gegn eindreginni neitun ákærða. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af þessum ákærulið. VIII Hinn 27. október 2011, kærði P, móðir H, ákærða fyrir háttsemina sem í þessum ákærulið greinir. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið í netsamskiptum við H og hafa gert sér grein fyrir því að hún var 14 ára gömul. Hann kvaðst ekki kannast við samskiptin sem hér um ræðir og taldi gögn sem fylgja þessum ákærulið ekki prentuð af facebook af netinu og því ekki sýna netsamskipti þeirra H. Gögnin sem um ræðir geti eins verið word-skjal og skýrði hann þetta álit sitt um að gögnin gætu verið fölsuð. Spurður um efni samskiptanna eins og þau liggja fyrir kvaðst hann ekkert muna eftir þeim. Ákærði kannaðist við samskipti við H á samskiptasíðunni Tynichat.com. Þar hafi hann beðið H um að sýna sér nærbuxur sínar eftir að hún sagði að þær væru skrýtnar en hann kvaðst aldrei hafa beðið hana um að sýna á sér brjóstin. Vitnið H lýsir samskiptum við ákærða á facebook. Strax og samskiptin hófust hafi ákærði leitað eftir því að hún sæti fyrir hjá honum. Hún kvaðst hafa farið með G, vinkonu sinni, sbr. ákærulið VI, er ákærði myndaði hana. Samskipti þeirra héldu áfram á facebook og kvað hún ákærða hafa farið ,,yfir strikið“ er hann bauð henni greiðslu fyrir kossa og tók að spyrja hana um kynlífsreynslu sína. Samskiptin hafi verið eins og lýst er í þessum ákærulið og hann hafi reynt að fá hana til að sýna á sér brjóstin eins og lýst er. Þá hafi ákærði boðið henni peninga eins og lýst er í ákærunni. H kvað sér hafa fundist lítið mál að sitja fyrir á sundfötum. Hefði komið til þess hefði móðir hennar verið viðstödd. Hún kvað sér hafa liðið illa eftir samskiptin við ákærða og lýsti hún því. Vitnið P, móðir H, lýsti því að H hefði gert sér grein fyrir því að ekki gæti orðið af myndatöku nema með leyfi foreldra. Þær mæðgur hafi rætt þetta. Daginn eftir samskipti ákærða og H á facebook hafi H sýnt sér samskiptin í tölvunni, en samskiptin hafi fljótt orðið mjög dónaleg að hennar sögn. Hún kvaðst hafa hringt í lögreglu daginn eftir og spurt hvernig hún ætti að snúa sér í málinu. Hún hafi þá prentað út facebook-samskiptin og fært lögreglunni. Hún lýsti áhrifum sem samskipti H við ákærða höfðu á hana. Niðurstaða VIII Ákærði neitar sök. Samskiptin sem hér um ræðir liggja frammi, en P, móðir H, prentaði samskiptin út og færði lögreglunni. Samskiptin eru því ófölsuð, andstætt því sem ákærði hefur haldið fram. Upplýsingar um aldur H á þessum tíma komu fram í netsamskiptum hennar og ákærða. Er sannað með netsamskiptunum sem liggja frammi, með vitnisburði H og með stoð í vitnisburði P, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem hér um ræðir og er einkum litið til þess að H var aðeins 14 ára gömul er samskiptin átti sér stað. Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni. Ákæra dagsett 4. apríl 2013 Hinn 23. janúar 2013, lagði Q fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í þessum kafla ákærunnar greinir. Tekin var af henni vitnaskýrsla hjá lögreglunni sama dag. I.1-3 Ákærði neitar sök og kvaðst ekki muna eftir Q. Hann kvaðst hafa óskað eftir því við yfirheyrslu hjá lögreglunni að fá að sjá myndir af henni frá árinu 2008, en honum hafi verið sýnd ljósmynd af henni sem tekin var fimm árum síðar eða á árinu 2013. Hann kvaðst ekki muna eftir henni er hann skoðaði ljósmyndina. Hann mundi ekki eftir neinum heimsóknum eða samskiptum við Q á þeim tíma sem í þessum ákæruliðum greinir. Vitnið Q kvaðst hafa kynnst ákærða eftir að hafa hitt hann í samkvæmi er hún var 15 ára gömul. Það hafi verið í janúar 2008 að [...]. Þar hafi ákærði verið með rjómasprautu og skyndilega hafi hann sprautað úr henni milli brjósta Q. Hún kvaðst hafa orðið pirruð og ekki áttað sig á því sem hafði gerst. Hún hefði sagt ákærða að þrífa þetta. Hann hafi þá sleikt rjómann af brjóstum hennar. Í vinkona hennar hafi verið viðstödd er þetta átti sér stað. Vitnið Q kvaðst hafa verið stödd að [...] í janúar 2008 á heimili Í, vinkonu sinnar, er ákærði hringdi. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvernig ákærði komst yfir símanúmer hennar. Hann hafi spurt hvort hann mætti ekki koma í heimsókn þar sem hann væri í nágrenninu. Hún mundi ekki hvað gerðist en ákærði hafi boðið sjálfum sér í heimsókn og var hann kominn á staðinn innan fimm mínútna. Allt hafi orðið óþægilegt eftir komu ákærða. Þau hafi síðan þrjú lagst upp í rúm hjá Í og horft á sjónvarp. Ákærði ætlaði að stoppa stutt að hennar sögn. Hún lýsti því að um leið og þau settust upp í rúmið hafi ákærði tekið að káfa á henni. Hann hafi farið inn á hana og inn á nærbuxur hennar. Hún hafi reynt að segja honum að hætta, en Í hafi verið við hliðina á sér og hafi hún tekið eftir því að Í hafi liðið óþægilega vegna þessa. Q hafi reynt að færa sig fjær ákærða sem færði sig þá aftur nær henni, en á sama tíma hefði Í fært sig örlítið fjær. Að því kom að ákærði setti fingur sinn í leggöng hennar. Sama var hvað hún sagði, hann hafi haldið áfram og sagst geta fullnægt henni. Hún hafi ekki viljað þetta eins og rakið hefur verið. Hún mundi ekki hvað varð til þess að ákærði hætti, en hana minnti að hann hafi fengið símtal og einhver hefði komið og sótt hann. Hann hafi stoppað þarna í um 15 mínútur að hún taldi. Hún hafi farið heim til sín og ekki rætt þetta við nokkurn mann. Hún hafi skammast sín fyrir þetta. Næst kvaðst Q hafa hitt ákærða er hann kom heim til hennar að [...] í lok janúar eða í byrjun febrúar 2008. Hún hafi verið heima ásamt foreldrum sínum er ákærði hringdi og spurði hvort hann mætti koma í heimsókn ásamt sameiginlegum kunningja þeirra. Q kvaðst ekki hafa það í sér að segja nei. Hún hafi fengið samþykki foreldra sinna fyrir komu ákærða og hafi hann komið ásamt Ó, vini þeirra, um 10 mínútum síðar. Hún hafi verið í herbergi sínu á efri hæðinni. Er þeir Ó komu hafi ákærði læst herberginu. Hún kvaðst hafa orðið hrædd og verið vör um sig. Þau hafi lagst upp í rúm og ákærði þá byrjað að tala á kynferðislegum nótum og lýsti hún því. Hún hafi sagt honum að hún vildi ekkert, hún hefði nýlokið blæðingum og Ó væri þarna og foreldrar hennar frammi. Ákærði hefði sagt að honum fyndist þetta í lagi. Hann hafi þvínæst farið undir sæng og togaði niður náttbuxur hennar. Eftir það átti hann við hana munnmök. Hún hafi stirðnað upp og ekkert hafi þýtt að andmæla ákærða, hann hafi gert það sem hann vildi. Eftir þetta hafi Ó lagst upp í rúm og þóst sofa, en hún kvað ákærða hafa gefið Ó merki um þetta. Ákærði hafi þessu næst sest á skrifborðsstól og lét hana eiga við sig munnmök, auk þess sem hann fróaði sér. Eftir þetta hafi ákærði látið á sig smokk og sagði henni að leggjast á gólfið sem hún gerði. Þá hafi hann haft við hana mök, auk þess sem hann hélt henni niðri og reyndi að setja lim sinn í endaþarm hennar. Hún kvaðst hafa reynt að sýna honum að hún væri ekki hrædd. Síðan hafi ákærði tekið af sér smokkinn og klínt sæði á brjóst hennar og vegginn, auk þess sem hann lét hana taka liminn upp í sig. Því næst klæðir hann sig og þeir Ó fóru. Hún kvaðst ekki hafa trúað því að Ó hafi verið sofandi er þetta átti sér stað. Q lýsti miklum og slæmum afleiðingum þessa á sig. Hún lýsti skömm og að hún hefði ekki viljað ræða þetta. Það hafi hún í raun ekki gert fyrr en hún leitaði til Kristínar Jónsdóttur kvensjúkdómalæknis vegna vandamála í kynlífi. Kristín hafi spurt sig hvort hún hefði orðið fyrir kynferðislegu áreiti og greindi hún Kristínu þá frá þessum atburðum. Hún lýsti vinnu sinni og aðstoð við að ná bata vegna þessa. Vitnið Í lýsti því er hún var í samkvæmi að [...] í janúar 2008. Hún kvaðst hafa verið að ræða við vinkonur sínar er hún sá Q ræða við ákærða sem sprautaði rjóma á milli brjósta Q. Hún sagði ákærða að þrífa þetta og hafi hann þá byrjað að sleikja rjómann af. Í lýsti því er Q var í heimsókn hjá henni að [...] í janúar 2008. Ákærði hefði þá hringt og vildi fá að hitta Q sem sagðist vera hjá vinkonu sinni. Ákærði sagðist koma og stoppa stutt eftir að Q gaf honum upp heimilisfang hennar. Stuttu síðar kom ákærði og öll þrjú fóru upp í rúm að horfa á sjónvarpið. Hún lýsti því er ákærði tók að þukla á Q. Hann hafi farið inn á hana og hafi þetta verið mjög vandræðalegt fyrir sig. Hún kvaðst hafa séð er ákærði var kominn inn á Q ,,niðri“ og hafi hún sagt nei og gefið til kynna að hún vildi þetta ekki. Ákærði sinnti því ekki og hélt áfram. Hún kvað sig minna að þær Q hafi verið undir sömu sænginni, en ákærði undir annarri. Hún kvaðst hafa séð hönd ákærða hreyfast og hún hafi skynjað þetta svo að hann hafi sett fingur í kynfæri Q þar sem þau voru öll í rúminu, en hún sá hönd ákærða innanklæða í klofi Q. Hana minnti að þessu hefði lokið er sími ákærða hringdi og hann fór í burtu eftir það. Vitnið Ó lýsti því er samkvæmi var á heimili hans að [...], í janúar 2008. Ákærði var þar auk Q og fleiri. Hann kvaðst lítið muna eftir þessu kvöldi en sig rámi í það að ákærði hefði sprautað rjóma á brjóst Q. Ó kvaðst hafa farið með ákærða á heimili Q stuttu síðar. Þau hafi verið þrjú og ekkert sérstakt að gera, en hann gæti hafa farið í tölvuna. Hann kvaðst hafa sofnað í heimsókninni til Q. Hann kvað ákærða og Q hafa verið sveitt er hann vaknaði og hann hafi talið að þau hefðu stundað kynlíf meðan hann svaf. Þeir ákærðu fóru stuttu eftir að hann vaknaði. Hann viti ekki hvað gerðist í herberginu á meðan hann svaf, en hann hafi aldrei rætt það við ákærða. Fyrir liggur læknisvottorð Q, dagsett 15. febrúar 2013. Kristín Jónsdóttir yfirlæknir ritaði vottorðið. Vottorðið er svofellt: ,,Hér með staðfestist að þau einkenni sem Q leitaði með til undirritaðrar í september sl. og nefnast á fræðimáli non-organic vaginismus og non-organic dyspareunia séu beintengd og afleiðing af kynferðisbroti sem átti sér stað þegar hún var 15 ára gömul. Um er að ræða krampa í leggöngum ásamt miklum verkjum í grindarbotni og verkjum á spangarsvæði og við leggangaop, sérstaklega við samfarir. Þetta er vel þekkt sem afleiðing af kynferðisafbrotum, jafnvel löngu eftir að afbrotið hefur átt sér stað. Síðan Q leitaði til undirritaðrar hefur meðferð gengið mjög vel, bæði sálfræðiviðtöl og meðferð hjá sjúkraþjálfara, ásamt viðtölum og skoðunum hjá undirritaðri sem staðfestir enn frekar að bein tengsl séu á milli ofbeldisins sem hún lenti í og einkennanna.“ Kristín Jónsdóttir kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti vottorðið. Hún kvað veikindi Q, sem lýst er í vottorðinu, tengjast atburðunum sem í ákæru greinir mjög sterkt og skýrði hún þetta nánar. Fyrir liggur sálfræðivottorð Q, dagsett 14. febrúar 2013. Sólveig Erna Jónsdóttir sálfræðingur ritaði vottorðið. Í vottorðinu er svofelldur kafli: ,,Q, 20 ára gamalli konu, var vísað til undirritaðs sálfræðings í sálfræðilegt mat og áfallahjálp af Helgu Sól Ólafsdóttur, félagsráðgjafa á Kvennadeild LSH í byrjun október 2012 vegna meintrar nauðgunar sem átti sér stað um það bil fimm árum áður. Q hefur hlotið 11 viðtöl á tímabilinu 17. október 2012 til 28. janúar 2013 þar sem henni hefur verið veittur sálrænn stuðningur og formleg hugræn atferlismeðferð við einkennum áfallastreituröskunar og öðrum afleiðingum meints kynferðisbrots. Viðmót og hegðun Q benti allt til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, bjargarleysi og hrylling þegar meint nauðgun átti sér stað og að afleiðingar áfallsins hafi verið alvarlegar. Niðurstöður greiningarmats á afleiðingum meintrar nauðgunar sýndu að Q þjáðist af áfallastreituröskun (Post-Traumatic Stress Disorder) í kjölfar meintrar nauðgunar. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem eru vel þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og nauðgun, líkamsárás, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvara vel frásögnum hennar í viðtölum. Hún hefur ávallt virst hreinskilin og verið trúverður og samkvæm sjálfri sér. Eins og áður hefur verið greint frá hefur Q sýnt jákvæð viðbrögð við hugrænni atferlismeðferð við afleiðingum meints kynferðisbrots þar sem hún hefur sýnt vaxandi getu til að takast á við minningar og hún uppfyllir ekki lengur greiningarskilmerki fyrir áfallastreituröskun. Þrátt fyrir þetta valda ákveðin einkenni henni ennþá vanlíðan og truflun í daglegu lífi. Þykir ljóst að áfallið hafði víðtæk áhrif á hana. Undirrituð gerir ráð fyrir að meðferðarvinna haldi áfram en ekki er hægt að segja með vissu hve langan tíma meðferð tekur eða hvort fullur bati náist.“ Sólveig Erna Jónsdóttir kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti vottorðið. Niðurstaða I.1 Ákærði neitar sök. Sannað er með trúverðugum vitnisburði Q og Í og með stoð í vitnisburði Ó, en gegn neitun ákærða, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir og er brot ákærða rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni. Niðurstaða I.2 Eins og rakið var neitar ákærði sök og kannast ekki við nein samskipti við Q. Vitnið Q er trúverðug í frásögn sinni af þessum atburði og vitnisburður Í er einnig trúverðugur. Er efnislega samhljóða vitnisburður þeirra tveggja lagður til grundvallar niðurstöðunni gegn neitun ákærða. Er samkvæmt þessu sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og er brot ákærða rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni. Niðurstaða I.3 Ákærði neitar sök og kannast ekki við nein samskipti við Q. Vitnisburður Q er trúverðugur. Langur tími er liðinn frá hinum meinta atburði og Q leitaði sér ekki aðstoðar fyrr en mörgum árum síðar en fram kom að ýmislegt annað en meint háttsemi ákærða samkvæmt þessum ákærulið kann að hafa valdið þeim veikindum sem lýst var að framan. Um þetta vísast m.a. til niðurstöðu næsta ákæruliðar að framan. Vitnið Ó bar að hann hefði ekki orðið neins var í greint sinn, utan að hann hafi talið er hann vaknaði að ákærði og Q hefðu stundað kynlíf meðan hann svaf. Að öllu þessu og öðrum gögnum virtum er það mat dómsins að vitnisburður Q fái ekki þá stoð af öðrum gögnum málsins sem þarf til að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni gegn neitun ákærða. Samkvæmt þessu er háttsemin sem hér um ræðir ósönnuð og ber að sýkna ákærða af þessum ákærulið. II. Hinn 6. febrúar 2013 lagði R fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í þessum ákærulið greinir. Tekin var af henni vitnaskýrsla hjá lögreglunni sama dag. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst kannast við R. Hann kvað þau hafa hist í Elliðaárdal á þessum tíma, en þau höfðu mælt sér mót á facebook. Þau hafi komið í Elliðaárdal hvort á sínum bíl, en ákveðið var að ákærði tæki af R ljósmyndir sem hann gerði. Ákærði kvað vel geta verið að þetta hafi verið 30. nóvember 2011, en þá dagsetningu má sjá af gögnum málsins. Eftir á fóru þau í bifreið ákærða þar sem R klæddi sig. Þau hafi rætt saman í bílnum og R hafi káfað á ákærða sem baðst undan því þar sem honum hafi fundist það óþægilegt þar sem hann hafi verið í sambandi við vinkonu R á þessum tíma. Þau hafi farið hvort sína leið eftir þetta. Hann kvað ekkert af því sem í ákæru greinir hafa átt sér stað. Þau R hafi lengi verið í sambandi á facebook og einnig eftir myndatökuna 30. nóvember 2011. Þá komu aldrei fram frá R ásakanir um að ákærði hefði brotið gegn henni á einhvern hátt. Vitnið R kvaðst hafa farið í myndatöku hjá ákærða í lok nóvember 2011, eftir að hafa komist í samband við hann á facebook. Ákærði hafi stöðugt spurt hvort hún vildi ekki fara í myndatöku hjá sér. Hún kvaðst hafa verið reiðubúin til að fara í nektarmyndatöku hjá honum og lýsti hún því hvernig hún hugsaði sér að það gæti farið fram. Hún kvað ekkert kynferðislegt hafa legið að baki þessu af sinni hálfu. Þau hafi mælt sér mót á facebook og hist við rafstöðvarhúsið í Elliðaárdal á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hún hafi tekið með sér teppi út úr bílnum þar sem hún fór úr fötunum fyrir myndatökuna. Ákærði hefði viljað að hún færi úr öllu, sem hún gerði ekki. Hún lýsti síðan myndatökunni sem þarna fór fram. Hún kvað jörð hafa verið snævi þakta og henni hafi verið orðið mjög kalt er ákærði bauð henni að koma inn í bíl sinn og hlýja sér. Þau hafi setið þar og rætt saman og allt verið í lagi uns ákærði tók að reyna að kyssa hana. Hún hefði vikið sér undan honum og sagst ekki vilja þetta, en hann haldið áfram. Hún kvað ákærða hafa tekið að rakka sig niður er hún neitaði honum og þau hafi áfram rætt saman á kynferðislegum nótum og lýsti hún því. Ákærði hefði síðan beðið hana um að skoða á honum liminn, sem hún kvaðst ekki hafa vilja gera. Hann hafi verið ágengur og tekið út á sér liminn og síðan tók hann í hönd hennar og setti á lim sinn og lét hana fróa sér. Hún hefði beðið hann um að hætta og girða buxurnar upp um sig. Hann hefði þá spurt hana hvort henni væri sama þótt hann fróaði sér sem hún sagði ekki vera og bað hann um að hætta. Að lokum hafi hún sagt honum að fara út úr bílnum og fróa sér sem hann gerði. Hún kvaðst hafa farið út úr bílnum stuttu síðar í nærbuxum einum klæða og hefði ákærði þá gripið í berar rasskinnar hennar meðan hann fróaði sér og hafði sáðlát eins og lýst er í ákærunni. Eftir þetta hélt hvort um sig í burtu á sinni bifreið. Hún kvaðst hafa haft samband við ákærða á facebook eftir þetta í því skyni að fá sendar myndir sem hann tók. R kvaðst hafa greint Ú, vinkonu sinni, frá þessum atburði tveimur vikum síðar. Þá hafi hún greint kærasta sínum frá þessu í desember síðastliðnum. Hann hafi kvatt hana til að kæra. R lýsti afleiðingum þessa atburðar á sig. Vitnið W, unnusti R, lýsti því er hún greindi honum frá atburðinum sem hér um ræðir í febrúar síðastliðnum. R hafi farið í myndatöku hjá ákærða í Elliðaárdal. Eftir myndatökuna hafi þau rætt saman inni í bíl og R setið þar með teppi utan um sig. Þá hafi ákærði viljað að hún fróaði honum sem hún vildi ekki. W lýsti atburðinum sem gerðist eftir frásögn R og kemur flest hið sama fram hjá honum og R um atburðinn. W kvaðst hafa kvatt R til að kæra atburðinn. Vitnið Ú kvaðst hafa vitað af ferð R í nektarmyndatöku hjá ákærða. R, vinkona sín, hefði greint sér frá atburðinum sem í þessum ákærulið greinir og R hafi liðið illa vegna þessa. Vitnið Ý kvað R, vinkonu sína, hafa greint sér frá því er hún fór í myndatöku hjá ákærða. Hún kvaðst hafa séð myndirnar eftir þetta, en hún hafi ekki vitað hvað gerðist fyrr en R greindi henni frá þessu í byrjun þessa árs. Ý greindi frá mörgu hinu sama og lýst er í þessum ákærulið og hefur það eftir R. Fyrir liggur sálfræðivottorð R, dagsett 6. maí 2013. Reynir Harðarson sálfræðingur ritaði vottorðið. Hann kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti vottorðið. Niðurstaða II. Ákærði neitar sök. Vitnisburður R er trúverðugur. Hún leitaði sér ekki aðstoðar fyrr en löngu eftir hinn meinta atburð og greindi ekki frá honum fyrr en allnokkru eftir. Hún hafði í millitíðinni verið í netsamskiptum við ákærða þar sem ekki kom neitt fram sem síðar kom fram um þennan meinta atburð. Vitnisburður R fær ekki þá stoð í öðrum gögnum málsins sem þarf til að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni gegn eindreginni neitun ákærða. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af þessum ákærulið. III. Hinn 15. janúar 2013 lagði Y, móðir S, fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem hér um ræðir. Sama dag var tekin vitnaskýrsla af S hjá lögreglu. III.1 Ákærði kvaðst kannast við S og vita að hún var 16 ára gömul á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann hafi verið í netsamskiptum við hana á facebook eins og hér sé lýst. Ákærði kvaðst hafa dregið tilboð sitt um 100.000 króna greiðslu fyrir fram til baka, en hann hafi átt við það að hún gæti selt ljósmyndir sjálf á tiltekinni netsíðu. Þá kvaðst hann hafa dregið þetta tilboð sitt til baka er honum varð ljós aldur S. Sjá má merki um þetta í netsamskiptunum sem hér um ræðir. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að hafa fengið sendar átta myndir svo sem lýst er í ákærunni. Myndirnar hafi ekki verið vistaðar í tölvu hans. Vitnið S kvaðst hafa byrjað samskipti við ákærða á facebook er hún var 14 ára gömul. Fyrst hafi verið rætt um að ákærði tæki venjulegar ljósmyndir af henni, en síðan hafi hann boðið sér 100.000 krónur fyrir nektarmyndatöku, en þetta hafi verið í desember síðastliðnum. Áður en til nektarmyndatöku kæmi hafi ákærði farið fram á það að hún sendi honum myndir af sér frá öllum hliðum þar sem hún klæddist aðeins nærbuxum. Hún kvaðst hafa sent ákærða átta myndir af þessum toga. Hún kvað ákærða hafa vitað aldur sinn. Hún kvað ákærða í desember síðastliðnum hafa boðið sér á facebook að sitja fyrir nakinni og að enginn myndi vita af myndatökunni og þá spurt hana um kynlífsreynslu hennar. Hún lýsti áhrifum þessa á sig. Sér líði illa vegna þessa og finnist hún hafa verið niðurlægð. Hún hafi leitað sér aðstoðar vegna þessa. Fyrir liggur sálfræðivottorð S, dagsett 19. desember 2012. Erla Björg Birgisdóttir sálfræðingur ritaði vottorðið. Hún kom fyrir dóminn og skýrði það og staðfesti. Niðurstaða III.1 Ákærði neitar sök en kannast við þessi netsamskipti. Skýringar ákærða á því hvað hann átti við með peningagreiðslunni sem um ræðir eru ótrúverðugar og eru í andstöðu við samskiptin, séu þau lesin í heild. Sjá má af netsamskiptunum að S greinir ákærða frá aldri sínum 9. nóvember 2011. Ákærði vissi því hinn 26. nóvember 2012 að hún var 16 ára gömul. Með netsamskiptunum, sem um ræðir, með vitnisburði S og með framburði ákærða að hluta, þótt hann neiti sök, er sannað að ákærði viðhafði þá háttsemi sem í ákæru greinir og vissi þá um aldur S. Hefur ákærði með þeirri háttsemi sinni gerst sekur um brot sem varðar við lagaákvæðin sem í ákæru greinir. III.2 Ákærði kannaðist við þessi samskipti við S, en hann neitaði því að hann hefði með samskiptunum sýnt henni lostugt og ósiðlegt athæfi. Hann tók fram hið sama og varðandi 1. tl. þessa ákærukafla að hann hefði stöðugt dregið úr samskiptunum við S sem hafi ítrekað haft frumkvæði að frekari samskiptum þeirra á netinu. Niðurstaða III.2 Vísað er til niðurstöðu næsta ákæruliðar að framan um vitneskju ákærða um aldur S. Með því og með netsamskiptunum sem hér um ræðir og ákærði hefur kannast við og með vitnisburði S er sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemina sem hér um ræðir og er brot ákærða rétt fært til refsiákvæða í ákærunni. IV. Hinn 18. janúar 2013, lagði Z, móðir T, fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í þessum ákærulið greinir. T gaf vitnaskýrslu hjá lögreglunni 29. s.m. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa átt netsamskipti við T á þessum tíma, en hann hafi talið hana 18 ára gamla. Hann kvað áhugamál sitt, ljósmyndun, hafa verið orðið fyrirferðameira og sér hafi fundist eðlilegt að greiða fyrir eins og lýst er. Vitnið T kvaðst hafa verið í samskiptum við ákærða á facebook og hafi hann boðið sér 100.000 króna fyrirframgreiðslu. Hún kvaðst strax hafa stöðvað samskiptin og orðið hrædd er ákærði bauð henni 100.000 krónur fyrir nektarmyndatöku, en hún var þá 16 ára gömul og það komi fram á facebook síðu hennar. Niðurstaða IV. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa talið T 18 ára gamla. T kvaðst hafa sagt ákærða að hún væri 15 ára gömul. Hvorki endurrit facebook samskipta né önnur gögn styðja vitnisburð T um þetta. Gegn neitun ákærða er ósannað að hann hafi vitað að T var 16 ára gömul er samskiptin áttu sér stað. Verður þannig við það að miða að ákærði hafi talið hana 18 ára en með hliðsjón af því telur dómurinn háttsemina sem í ákæru greinir ekki vera saknæma og varða við lagaákvæðin sem þar greinir og ber samkvæmt því að sýkna ákærða af þessum ákærulið. V. Hinn 18. janúar 2013 kærði Þ, faðir U, ákærða vegna háttseminnar sem hér um ræðir. Tekin var skýrsla af U hjá lögreglu 23. s.m. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið í netsamskiptum við U á þessum tíma eins og lýst er í ákærunni. Hann neitaði að hafa gerst brotlegur við lög með þessum samskiptum og vísaði til sjónarmiða sem rakin voru varðandi næsta ákærulið að framan og kvað hið sama eiga við. Hann kvaðst hafa reiknað með því að U væri eldri, en hann mundi ekki hvort varð af myndatökunni. Vitnið U lýsti netsamskiptum við ákærða sem hér um ræðir. Komið hafi fram hjá ákærða að hann leitaði að módeli til að sitja fyrir við nektarmyndatökur og hafi hann boðið henni 100.000 krónur. Hún hafi verið mótfallin þessu og sagt ákærða að hún væri ekki orðin 18 ára gömul og að hún væri aðeins 16 ára. Hann hafi samt haldið áfram að reyna að fá hana til að sitja fyrir hjá sér gegn greiðslu eins og rakið var. Hún kvaðst hafa gefið ákærða í skyn í lok samtalsins að hún væri mótfallin þessu spjalli þeirra. Hún kvaðst hafa orðið mjög stressuð vegna þessa máls og lýsti hún því. Sér hafi fundist það sem gerðist rangt. Niðurstaða V. Ákærði kannast við þessi samskipti en neitar sök. Fyrir liggur í netsamskiptum sem liggja frammi að U greindi ákærða frá því að hún væri ekki orðin 18 ára gömul. Sannað er með framburði ákærða að hluta, þótt hann neiti sök, og með netsamskiptunum og vitnisburði U að ákærði hafi framið háttsemina sem hér um ræðir og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni. VI. Hinn 18. janúar 2013 kærði Æ, móðir V, ákærða fyrir háttsemina sem í þessum ákærulið greinir. Tekin var vitnaskýrsla af V fyrir dómi 22. s.m. Ákærði neitar sök, en kvað þessi samskipti hafa átt sér stað. Þau V hafi verið í sambandi á facebook frá árinu 2011. Hann vísaði til þess að lágmarksaldur á facebook væri 15 ár og hann hafi því talið V eldri en hún raunverulega var, en hann mundi ekki eftir því hvort aldur hennar hafi beinlínis borið á góma. Vitnið V kom ekki fyrir dóminn undir aðalmeðferðinni. Hún gaf skýrslu fyrir dómi 28. janúar 2013. Þar lýsti hún því er hún var í samskiptum við aðila sem notaði notandanafnið [...] á facebook. Þessi aðili hefði boðið henni að sitja fyrir gegn greiðslu eins og lýst er í þessum ákærulið. Fyrir liggur læknisvottorð V, dagsett 30. apríl 2012. Bertrand Lauth barna- og unglingageðlæknir ritaði vottorði. Hann kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði vottorðið, en þar kemur fram að V eigi við flókinn vanda að stríða allt frá 8 ára aldri. Þá segir að ólíklegt sé að hún hafi orðið fyrir alvarlegum afleiðingum vegna brotanna, enda hafi hún strax fengið mikinn stuðning. Niðurstaða VI. Ákærði kannast við þessi samskipti, en neitar sök. Hann vísaði til þess að lágmarksaldur á facebook væri 15 ár. Fyrir liggur samkvæmt netsamskiptum ákærða og V þennan dag að hún greindi ákærða frá því að hún væri 13 ára gömul. Sannað er með framburði ákærða að hluta, þótt hann neiti sök, og endurriti netsamskiptanna sem um ræðir ásamt með vitnisburði V að ákærði hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir, en hann vissi á þessum tíma að V var 13 ára gömul. Er háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni. Vitnið Eyrún Eyþórsdóttir lögreglumaður lýsti upphafi rannsóknar þessa máls. Það hafi verið er foreldrar G og H komu til lögreglu með útprentun af netsamskiptum stúlknanna. Í kjölfarið var tölva ákærða haldlögð og rannsökuð og fannst í henni mikið magn mynda af unglingsstúlkum. Í framhaldinu tókst að finna út hverjar sumar þeirra voru og vatt rannsóknin þannig upp á sig og lýsti hún því. Steinar Kristján Ómarsson lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn og staðfesti lögregluskýrslur sem hann ritaði vegna málsins, einkum varðandi rannsókn á tölvum, símum, myndavélum og fleiri tækjum ákærða sem innihalda gögn. Fyrir liggur sálfræðivottorð ákærða, dagsett 20. apríl 2012. Í vottorðinu er svofelldur kafli: ,,Niðurstöður þeirra sálfræðilegra prófa sem lögð voru fyrir X virðast í meginatriðum falla vel að hvort öðru sem og frásögnum hans og foreldra hans. Greind hans fellur innan eðlilegra marka á nær öllum þáttum en hafa má í huga að geta hans til að skilja félagslegar aðstæður og tengja saman orsakir og afleiðingar mældust verulega skert. Það kann að hafa áhrif á hvernig hann metur og hagar sig í samskiptum, einkum þar sem samskiptin hans fara fram að miklu leiti á netinu og veita honum að því virðist falska sýn á ábyrgð og öryggi. X bæði greinir frá og mælist með ýmis sálræn einkenni og ljóst er að upplifun hann af því að vera kærður, settur í einangrun og á því að eiga mögulega yfir höfði sér dóm veldur honum mikilli streitu og vanlíðan. Einnig virðast aðstæðurnar ýfa upp eldri reynslu hans af því að vera lagður í einelti og tilfinningar því tengdu sem gera honum erfitt um vik að aðgreina þessar tilfinningar og aðstæður með réttmæddum hætti. Það er, að hann upplifir að verið sé að ráðast á hann og á X erfitt með að mynda sér raunhæfa mynd um hvernig hegðun hans hefur spilað inn í þá atburðarrás sem hann stendur nú frammi fyrir þ.e. að vera kærður fyrir kynferðisbrot. Vegna vantrausts hann á öðrum gerir það honum erfitt um vik að mynda sterk félagsleg tengsl og virðist sem samskipti hans við aðra beri þess merki og eru því frekar yfirborðskennd. Slíkt má greina í þeim samskiptum sem hann hefur átt við stúlkur í gegnum netið. Hér að framan hefur verið leitast við að gefa mynd af eiginleikum, ástandi og takmörkunum X. Það er mat undirritaðrar að þrátt fyrir að geðrænt ástand hans sé ekki gott sem stendur stafar það fyrst og fremst af þeim aðstæðum sem hann stendur nú frammi fyrir. X er ágætlega félagsmótaður en ekki félagslega sterkur og sýnir ekki af sér aðra áhættuhegðun en kynferðislega. Engar vísbendingar hafa komið fram í athugun undirritaðrar að X hafi afbrigðilegar kynlanganir en framsetning hans á kynferðislegum viðhorfum sínum bera vott um markaleysi í samskiptum og skert innsæi og ábyrgð. X hefur á undanförnum árum leitað sér aðstoðar sálfræðings sem og annarra stuðningsaðila sem hann telur að hafi komið sér að gagni. Hann er sem stendur í sálfræðiviðtölum. Undirrituð telur mikilvægt að X fái aðstoð við að takast á við tilfinningar sínar um vantraust sem og markaleysi í samskiptum við stúlkur einkum í gegnum netið.“ Anna Kristín Newton sálfræðingur ritaði vottorðið. Hún staðfesti það og skýrði fyrir dóminum. Vitnið Å, faðir ákærða, kom fyrir dóminn. Hann lýsti atburðum í lífshlaupi ákærða sem koma einnig fram í sálfræðivottorði ákærða. Hann lýsti einelti sem ákærði hefur orðið fyrir og afleiðingum þess. Þá lýsti hann sjúkdómi sem ákærði er haldinn, en ekki þykir ástæða til að reifa vitnisburðinn um þetta. Þá lýsti hann ljósmyndaáhuga ákærða og samvinnu þeirra feðga á því sviði. Vitnið Ä móðir ákærða kom fyrir dóminn og lýsti einelti sem ákærði hefur mátt þola og afleiðingum þess. Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Brot hans eru mörg og voru mörg til þess fallin að hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar eins og rakið hefur verið en margar stúlknanna sem ákærði braut gegn voru mjög ungar er brotin áttu sér stað. Ákærði hafði þannig yfirburðastöðu í aldri og þroska í samskiptunum við margar stúlknanna og nýtti hann sér þessa yfirburðastöðu sína. Er ákærði framdi alvarlegasta brotið, sbr. ákæruliði I.2 í ákæru, dagsettri 4. apríl 2013, var hann aðeins 16 ára gamall. Með vísan til alls ofanritaðs og með vísan til 1., 2., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivistinni gæsluvarðhald ákærða frá 4.-24. febrúar 2012 og óslitið frá 18. janúar 2013 til dagsins í dag. Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga skal ákærði sæta upptöku á Hewlett Packard fartölvu sem hann notaði við framningu brota. Miskabótakröfur samkvæmt báðum ákærum eru allar reistar á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfurnar sem teknar eru upp í fyrri ákæruna voru allar birtar ákærða hjá lögreglunni 17. apríl 2012. Dráttarvextir á miskabætur samkvæmt fyrri ákærunni verða dæmdir frá 17. maí 2012 er mánuður var liðinn frá birtingu krafnanna fyrir ákærða. Við ákvörðun miskabóta er í öllum tilvikum tekið mið af afleiðingum sem háttsemi ákærða hafði í för með sér en eins og rakið var við ákæruliði beggja ákæra og liggja frammi sérfræðivottorð um þetta. Miskabótakröfur í ákæru dagsettri 8. mars 2013. Vegna ákæruliðar I Ákærði greiði A 400.000 króna miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2010 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 229.038 króna réttargæsluþóknun. Vegna ákæruliðar II Ákærði greiði B 500.000 króna miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði ¾ hluta 213.350 króna réttargæsluþóknunar Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði. Vegna ákæruliðar III Ákærði greiði C 500.000 króna miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júní 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 260.413 króna réttargæsluþóknun. Vegna ákæruliðar IV Ákærði greiði D 600.000 króna miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. júlí 2011 til 17. maí 2012 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanni 376.500 króna réttargæsluþóknun. Vegna ákæruliðar V Ákærði greiði E 300.000 króna miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 257.275 króna réttargæsluþóknun. Vegna ákæruliðar VI Ákærði greiði F 500.000 króna miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 210.213 króna réttargæsluþóknun. Vegna ákæruliðar VII Ákærði greiði G 250.000 króna miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. október 2011 til 17.maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði helming 241.588 króna réttargæsluþóknunar Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði. Vegna ákæruliðar VIII Ákærði greiði H 250.000 króna miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. október 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 194.525 króna réttargæsluþóknun. Miskabótakröfur í ákæru dagsettri 4. apríl 2013. Sömu sjónarmið eiga við og rakin voru að ofan vegna miskabóta samkvæmt fyrri ákærunni. Sem fyrr reiknast dráttarvextir frá því er mánuður var liðinn frá birtingu miskabótakrafna. Vegna ákæruliðar I Ákærði greiði Q 1.500.000 króna miskabætur. Er við ákvörðun miskabóta til Q tekið mið af alvarlegum afleiðingum af háttsemi ákæra, sbr. og læknisvottorð sem rakið var þar um. Ákærði greiði vexti samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2008 til 11. apríl 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði 2/3 hluta 194.525 króna réttargæsluþóknunar Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði. Vegna ákæruliðar II Eftir niðurstöðu þessa ákæruliðar ber að vísa bótakröfu R frá dómi. 194.525 króna réttargæsluþóknun Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns greiðist úr ríkissjóði. Vegna ákæruliðar III Ákærði greiði S 300.000 króna miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. desember 2012 til 22. apríl 2013 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanni 376.500 króna réttargæsluþóknun. Vegna ákæruliðar IV Eftir niðurstöðu þessa ákæruliðar ber að vísa bótakröfu T frá dómi. 213.350 króna réttargæsluþóknun Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns greiðist úr ríkissjóði. Vegna ákæruliðar V Ákærði greiði U 100.000 króna miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. desember 2012 til 22. apríl 2013 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanni 200.800 króna réttargæsluþóknun. Vegna ákæruliðar VI Ákærði greiði V 100.000 króna miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 21. desember 2012 til 22. apríl 2013 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 185.113 króna réttargæsluþóknun. Ákærði greiði 593.655 krónur í útlagðan sarkostnað ákæruvaldsins. Ákærði greiði 4/5 hluta af 5.283.550 króna málsvarnarlaunum Jónasar Þóris Jónassonar hæstaréttarlögmanns á móti 1/5 hluta sem greiðist úr ríkissjóði, en málsvarnarlaunin eru fyrir vinnu verjandans á rannsóknarstigi málsins og undir dómsmeðferð. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna. Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið. Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Barbara Björnsdóttir og Halldór Björnsson. Dómsorð: Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhald ákærða frá 2.-24. febrúar 2012 og óslitið frá 18. janúar 2013 til dagsins í dag. Upptæk er dæmd HewlettPackard fartölva. Ákærði greiði eftirtöldum aðilum miskabætur auk vaxta: A 400.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2010 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 229.038 króna réttargæsluþóknun. B 500.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði ¾ hluta 213.350 króna réttargæsluþóknunar Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði. C 500.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júní 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 260.413 króna réttargæsluþóknun. D 600.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. júlí 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanni 376.500 króna réttargæsluþóknun. E 300.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 257.275 króna réttargæsluþóknun. F 500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 210.213 króna réttargæsluþóknun. G 250.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. október 2011 til 17.maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 241.588 króna réttargæsluþóknun. H 250.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. október 2011 til 17. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 194.525 króna réttargæsluþóknun. Q 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2008 til 11. apríl 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði 2/3 hluta 194.525 króna réttargæsluþóknunar Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði. S 300.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. desember 2012 til 22. apríl 2013 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanni 376.500 króna réttargæsluþóknun. U 100.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. desember 2012 til 22. apríl 2013 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 200.800 króna réttargæsluþóknun. V 100.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 21. desember 2012 til 22. apríl 2013 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þessa greiði ákærði Gunnhildi Pétursdóttur héraðsdómslögmanni 185.113 króna réttargæsluþóknun. Bótakröfu R er vísað frá dómi. 194.525 króna réttargæsluþóknun Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns R, greiðist úr ríkissjóði. Bótakröfu T er vísað frá dómi. 213.350 króna réttargæsluþóknun Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns T, greiðist úr ríkissjóði. Ákærði greiði 593.655 krónur í útlagðan skarkostnað ákæruvaldsins. Ákærði greiði 4/5 hluta af 5.283.550 króna málsvarnarlaunum Jónasar Þórs Jónassonar hæstaréttarlögmanns á móti 1/5 hluta sem greiðist úr ríkissjóði, en málsvarnarlaun verjandans eru fyrir vinnu málsins á rannsóknarstigi og undir dómsmeðferð. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna. |
Mál nr. 478/2008 | Aðflutningsgjald Endurkrafa | Málsaðilar deildu um ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda vegna nánar tilgreindra vörusendinga fyrirtækisins H en J annaðist um nokkurra ára skeið tollafgreiðslu og tollskjalagerð fyrir félagið. Árið 2002 flutti félagið inn til landsins frá Danmörku tvær vörusendingar. Fyrri sendingin kom til landsins 29. janúar en síðari 24. apríl og kom J fram fyrir hönd félagsins við tollafgreiðslu sendinganna. Á aðflutningsskýrslum vegna þeirra var verð ranglega tilgreint í dönskum krónum en hefði átt að vera í evrum samkvæmt reikningum. Var útreikningur aðflutningsgjalda því byggður á röngum fjárhæðum og því greidd of lág aðflutningsgjöld í íslenskum krónum vegna sendinganna. Fyrir Hæstarétti féll J frá kröfu um endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna síðari sendingarinnar en eftir stóð ágreiningur vegna vörusendingarinnar í janúar 2002. Aðflutningsgjöld vegna þeirrar sendingar voru skuldfærð á innflytjandann H 12. febrúar sama ár. J leiðrétti mistökin vegna janúarsendingarinnar 20. ágúst 2002 en þann sama dag úrskurðaði T um endurákvörðun aðflutningsgjalda á þeirri sendingu. Bú H var tekið til gjaldþrotaskipta 18. desember 2003 og lýsti T kröfum vegna vangreiddra aðflutningsgjalda í búið. Skiptum á búi H lauk í október 2004 án þess að nokkuð fengist greitt upp í kröfur T. Í júlí 2005 var J krafið um hin vangreiddu aðflutningsgjöld vegna framangreindra sendinga. J mótmælti því að félagið bæri ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjaldanna og að ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 111. gr., sbr. 4. málsliðar 1. mgr. 14. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987 væru uppfyllt þar sem tollafgreiðslan sem slík hefði verið leiðrétt. Með ákvörðun T 21. október 2005 var niðurstaðan sú að J bæri ábyrgð á hinum vangreiddu aðflutningsgjöldum vegna þessara vörusendinga. Héraðsdómur féllst ekki á það með J að ábyrgð hans á greiðslu aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar hefði fallið niður við það að gjöldin hefðu í upphafi verið skuldfærð á innflytjandann þar sem hann mátti vita að upplýsingar í aðflutningsskýrslu væru rangar. Þótti engu breyta um ábyrgð J að hin vangreiddu leiðréttu aðflutningsgjöld hefðu ekki verið skuldfærð á innflytjandann sérstaklega. Þá hefði J ekki sýnt fram á að T hefði með framgöngu sinni í málinu hagað málum öðruvísi en aðrir tollstjórar á landinu og þannig orðið uppvís að ósamkvæmni í stjórnsýslu. Var J því talinn ábyrgur fyrir greiðslu vangreiddra aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar. Breytti engu um ábyrgð hans að þessu leyti hvort leiðréttingar hans á útreikningi gjaldanna hefðu borist tollstjóra áður en hann kvað upp úrskurð um endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar en ekki var í málinu ágreiningur um fjárhæð gjaldanna. Þá var ekki fallist á það að T hefði fyrirgert kröfum sínum á hendur J á þeim forsendum að hann hefði sýnt af sér tómlæti við innheimtu þeirra á hendur innflytjanda. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu héraðsdóms. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 24. júní 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 6. ágúst 2008. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 2. september 2008. Hann krefst þess nú að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.813.156 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, frá 4. júlí 2006 til greiðsludags og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á stefnukröfum og niðurfellingar málskostnaðar. Áfrýjandi hefur breytt kröfugerð sinni fyrir Hæstarétti þannig að fallið er frá kröfu um endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna innflutnings í apríl 2002. Eftir stendur ágreiningur um hver hafi átt að greiða endurákvörðuð aðflutningsgjöld vegna vörusendingar í janúar 2002. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Jónar Transport hf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2008. Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars 2008, var höfðað 13. júlí 2007. Stefnandi er Jónar Transport hf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.254.167 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, frá 4. júlí 2006 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað. Til vara krefst hann þess að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla. Málavextir eru þeir að fyrirtæki að nafni HL og Co. ehf. flutti inn til Íslands varning frá ýmsum löndum og annaðist stefnandi um nokkurra ára skeið tollafgreiðslu og tollskjalagerð fyrir félagið. Á árinu 2002 flutti félagið inn til landsins frá Danmörku þær tvær vörusendingar sem mál þetta fjallar um. Kom fyrri sendingin til landsins 29. janúar 2002 en hin síðari 24. apríl 2002 og kom stefnandi fram fyrir hönd innflytjandans við tollafgreiðslu sendinganna. Á aðflutningsskýrslum vegna vörusendinganna var verð ranglega tilgreint í dönskum krónum sem átti samkvæmt reikningum að vera í evrum. Var útreikningur aðflutningsgjalda því byggður á röngum fjárhæðum og þar sem gengi danskrar krónu var mun lægra en gengi evru voru aðflutningsgjöldin verulega vanreiknuð af þessum tveim sendingum. Stefnandi kveður mistök þessi hafa orðið vegna innsláttarvillu. Aðflutningsgjöld vegna janúarsendingarinnar voru skuldfærð á innflytjandann HL og Co. ehf. 12. febrúar 2002 en aðflutningsgjöld vegna aprílsendingarinnar var skuldfærð á stefnanda 14. júní 2002, að sögn stefnanda vegna þess að tollyfirvöld hefðu tímabundið lokað fyrir skuldfærslu á innflytjandann. Stefnandi kveðst hafa greitt aðflutningsgjöldin vegna aprílsendingar og hafi innflytjandinn endurgreitt honum þann kostnað. Stefnandi kveður starfsmenn sína fara reglulega yfir aðflutningsskýrslur og við slíkt reglubundið eftirlit hafi mistökin komið í ljós og þá þegar hafi verið lagðar inn leiðréttingar til Tollstjórans í Reykjavík. Leiðréttingar stefnanda vegna aprílsendingar voru samkvæmt gögnum málsins mótteknar hjá Tollstjóranum í Reykjavík 18. júlí 2002. Var sú leiðrétting tekin til greina og ákvarðaði Tollstjórinn í Reykjavík vanreiknuð aðflutningsgjöld á grundvelli hennar hinn 14. ágúst 2002. Stefnandi leiðrétti mistökin vegna janúarsendingarinnar hinn 20. ágúst 2002 en þann sama dag úrskurðaði Tollstjórinn í Reykjavík um endurákvörðun aðflutningsgjalda á þeirri sendingu. Kveðst stefnandi hafa sent nauðsynlegar leiðréttingar að morgni þessa dags áður en úrskurður tollstjóra var kveðinn upp. Stefndi hins vegar heldur því fram að umrædd leiðrétting hafi ekki borist fyrr en í kjölfar úrskurðarins og hafi stefnanda verið kunnugt um að úrskurður tollstjóra um endurákvörðun hafi verið í undirbúningi. Hafi stefnanda verið send tilkynning þess efnis 2. ágúst 2002 og hafi hún verið móttekin af stefnanda 6. ágúst 2002. Hafi stefnanda þar verið veittur frestur til að tjá sig um fyrirhugaða endurákvörðun til 19. ágúst 2002. Bú HL og Co. ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. desember 2003. Lýsti Tollstjórinn í Reykjavík kröfum vegna vangreiddra aðflutningsgjalda í búið. Með bréfi 27. apríl 2004 tilkynnti Tollstjórinn í Reykjavík stefnanda að fengi hann ekki greiddar kröfur sínar úr þrotabúinu myndi hann krefja stefnanda um greiðslu aðflutningsgjaldanna. Var skiptum á búi HL og Co. ehf. lokið hinn 13. október 2004 án þess að nokkuð fengist greitt upp í kröfur Tollstjórans í Reykjavík. Með bréfi 7. júlí 2005 var stefnandi krafinn um hin vangreiddu aðflutningsgjöld vegna framangreindra sendinga og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Með bréfi lögmanns stefnanda til Tollstjórans í Reykjavík 17. ágúst 2005 var því mótmælt að stefnandi bæri ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda vegna umræddra vörusendinga. Þá var því enn fremur mótmælt að ákvæði 2. ml. 2. mgr. 111. gr., sbr. 4. ml. 1. mgr. 14. gr. þágildandi tollalaga væru uppfyllt þar sem tollafgreiðslan sem slík hefði verið leiðrétt. Með ákvörðun Tollstjórans í Reykjavík 21. október 2005 var niðurstaðan sú að stefnandi bæri ábyrgð á hinum vangreiddu aðflutningsgjöldum vegna þessara vörusendinga og skorað á stefnanda að greiða þau. Með bréfi 8. nóvember 2005 var stefnandi krafinn um greiðslu aðflutningsgjaldanna, að öðrum kosti yrði lokað á tollafgreiðslu hans. Stefnandi kærði framangreinda ákvörðun tollstjóra til fjármálaráðuneytisins með bréfi 25. nóvember 2005. Með úrskurði fjármálaráðuneytisins 4. júlí 2006 staðfesti ráðuneytið ákvörðun tollstjórans. Stefnandi greiddi kröfu Tollstjórans í Reykjavík 4. júlí 2006 með fyrirvara um lögmæti kröfunnar og endurkrefur stefnda um þá fjárhæð í máli þessu. Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að samkvæmt 1. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987 hvíli ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda á innflytjanda eða viðtakanda vöru. Í 2. mgr. ákvæðisins komi fram að ef annar en innflytjandi eða viðtakandi vöru komi fram gagnvart tollyfirvöldum vegna tollmeðferðar vöru beri hann ásamt innflytjanda in solidum ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda. Ábyrgð umboðsmanns falli brott hafi aðflutningsgjöld verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda vöru, sbr. þó 4. ml. 1. mgr. 14. gr. laganna. Þar komi fram að tollafgreiðsla sem eigi sér stað með skjalasendingum milli tölva leiði til þess að ábyrgð umboðsaðila falli niður hafi aðflutningsgjöld verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda vöru hjá tollstjóra, nema umboðsaðili hafi ekki haft heimild frá innflytjanda eða viðtakanda til skuldfærslunnar, eða ef umboðsaðili vissi eða mátti vita að upplýsingar sem veittar voru í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi. Stefnandi byggir aðallega á því að hann beri ekki ábyrgð á umræddum aðflutningsgjöldum þar sem þau hafi sannanlega verið skuldfærð á HL og Co. ehf. í samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Ekki sé unnt að líta svo á að stefnandi hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar sem veittar hafi verið í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi. Skilyrði 4. ml. 1. mgr. 14. gr. fyrir því að ábyrgðin falli ekki brott séu ekki uppfyllt. Stefnandi hafi haft heimild frá innflytjanda til skuldfærslu og óumdeilt sé að búið hafi verið að skuldfæra umrædd gjöld á innflytjanda. Varðandi skilyrði fyrir því að ábyrgð umboðsaðila falli ekki brott, sbr. 4. ml. 1. mgr. 14. gr., byggi stefnandi á því að umrædd innsláttarvilla geti ekki talist uppfylla það skilyrði að stefnandi hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar sem veittar hafi verið í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi. Varðandi það hvernig skýra beri inntak þess „að vita“ eða „mega vita“ í skilningi tollalaga verði að líta til ákvæða þeirra um refsingu og önnur viðurlög, enda sé sú greiðsluskylda sem lögð sé á stefnanda verulega íþyngjandi. Vísi stefnandi til 1.3. mgr. 126. gr. þágildandi tollalaga hvað þetta varði en skilyrði refsinga og refsikenndra viðurlaga á grundvelli tollalaga sé ásetningur, stórkostlegt gáleysi eða ítrekað athæfi. Það óhapp sem orðið hafi við tollmeðferð stefnanda vegna sendinganna geti ekki talist uppfylla þessi skilyrði um ásetning eða stórkostlegt gáleysi. Sé fráleitt að ætla að starfsfólk stefnanda hafi vitað að umræddar upplýsingar væru ekki réttar. Hafi stefnandi hagsmuni af því að öll aðstoð starfsfólks við viðskiptamenn séu sem vönduðust, bæði gagnvart viðskiptamönnunum sjálfum og ekki síst gagnvart hinu opinbera. Við vinnslu upplýsinga hafi orðið það óhapp að röng mynt hafi verið færð inn á aðflutningsskýrslu og hafi verið um einfalda og skiljanlega innsláttarvillu að ræða. Þá bendi stefnandi á að tollstjóri fái allar upplýsingar sem liggi til grundvallar álagningu frá stefnanda. Verði stefnandi að geta treyst því að ef nauðsynlegt reynist að leiðrétta upplýsingar komist slíkar leiðréttingar hratt og vel í framkvæmd. Að mati stefnanda uppfylli huglæg afstaða starfsmanna stefnanda ekki skilyrði um að þeir hafi vitað eða mátt vita að upplýsingarnar væru ekki réttar. Þá geti afleiðingar óhappa ekki verið meira íþyngjandi en afleiðingar af brotum á tollalögum. Jafnvel þó talið væri um gáleysi að ræða dygði það ekki til, sbr. 1. mgr. 126. gr. þágildandi tollalaga. Þá byggi stefnandi á að við ákvörðun á því hvort hann beri ábyrgð á hinum vangreiddu aðflutningsgjöldum verði að líta til þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á 111. gr. laganna með 17. gr. laga nr. 81/1998. Fyrir breytinguna hafi það verið meginregla að þegar annar aðili en innflytjandi hafi komið fram fyrir hans hönd við tollafgreiðslu vöru hafi sá aðili borið ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda ásamt innflytjanda. Með breytingunni hafi verið dregið úr ábyrgð þeirra sem kæmu fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd innflytjenda þar sem talið hafi verið að ábyrgðin væri of víðtæk. Breytingarnar hafi verið á þá leið að aðilum sem hafi haft heimild til þess að koma fram fyrir hönd innflytjenda við tollafgreiðslu, hafi verið gert kleift að skuldfæra aðflutningsgjöld beint á þá innflytjendur sem hafi notið greiðslufrests á aðflutningsgjöldum í tolli. Fram að þeim tíma hafi aðflutningsgjöld að jafnaði verið skuldfærð á umboðsaðilann sjálfan. Þá hafi möguleikar innflytjenda til að fá aðflutningsgjöld skuldfærð verið rýmkaðir. Komi fram í athugasemdum með lögunum að ekki verði séð að rök séu til þess að aðila, sem annist í atvinnuskyni tollmeðferð vara fyrir innflytjendur, verði gert að greiða aðflutningsgjöld innflytjenda sem öðlast hafi greiðslufrest á aðflutningsgjöldum í þeim tilvikum er innflytjandi greiði ekki áfallin gjöld á gjalddaga. Af þeim sökum sé lagt til að ábyrgð umboðsaðila falli brott við skuldfærslu aðflutningsgjaldanna á innflytjanda. Telji stefnandi að þessar breytingar á lögunum styðji sjónarmið þau sem hann leggi til grundvallar. Þá byggi stefnandi á því að þegar leiðréttingar hafi borist tollstjóranum hafi honum borið að skuldfæra hin leiðréttu gjöld á innflytjanda. Í úrskurði ráðuneytisins segi um þetta að engin heimild sé í lögum til skuldfærslu vangreiddra innflutningsgjalda hjá innflytjanda. Að mati stefnanda fái sú lagatúlkun ekki staðist. Heimild til skuldfærslu nái til aðflutningsgjalda en þau séu samkvæmt 1. gr. þágildandi tollalaga tollur svo og aðrir skattar og gjöld sem greiða beri við tollmeðferð vöru. Þegar leiðrétta verði gjöld vegna þess að þau voru ranglega reiknuð upphaflega sé leiðréttingin eitthvað sem hafi borið að greiða en ekki verið greitt. Heimili sumir tollstjórar að leiðréttingar séu skuldfærðar en aðrir, þar með talinn Tollstjórinn í Reykjavík, ekki. Slík ósamkvæmni í stjórnsýslu sé ólíðandi. Í ljósi þess að hin leiðréttu gjöld hafi ekki verið skuldfærð á innflytjanda byggi stefnandi á því að Tollstjórinn í Reykjavík hafi ekki gengið nægilega á eftir greiðslu frá HL og Co. ehf. þegar leiðréttingar hafi átt sér stað á árinu 2002. HL og Co. ehf. hafi á þeim tíma verið í fullum rekstri og hafi bú félagsins ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta fyrr en rúmu ári síðar. Hefði það verið gert, og þeim úrræðum sem tollstjóri hafði verið beitt, hefði félagið greitt gjöldin eins og önnur álögð gjöld á þeim tíma. Hafi embætti Tollstjórans í Reykjavík með þessu sýnt af sér tómlæti og það leiði til þess að stefndi geti ekki snúið sér að stefnanda með greiðslu. Um lagarök að öðru leyti en að framan eru rakin vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnaðarkröfu sína. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi komið fram gagnvart tollyfirvöldum við tollafgreiðslu sendinganna, og hafi af þeim sökum verið krafinn um greiðslu vanreiknaðra og vangreiddra aðflutningsgjalda á grundvelli ábyrgðar sinnar sem umboðsmaður samkvæmt 2. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987. Þar sem aðflutningsgjöld vegna aprílsendingarinnar hafi aldrei verið skuldfærð á innflytjanda hafi stefnandi borið ábyrgð á greiðslu þeirra ásamt innflytjanda á grundvelli 1. ml. 2. mgr. 111. gr. laganna. Varðandi endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna janúarsendingar hafi ekki borist andmæli frá stefnanda innan þess frests sem honum hafi verið gefinn af Tollstjóranum í Reykjavík. Hafi leiðréttingarskýrsla ekki verið látin tollstjóra í té fyrr en eftir að tilkynning um fyrirhugaða endurákvörðun hafði verið send innflytjanda og stefnanda. Málið hafi sætt tiltekinni lögboðinni málsmeðferð samkvæmt 99. gr. þágildandi tollalaga og því hafi ekki verið unnt að taka leiðréttingarskýrslu stefnanda fyrir hönd HL og Co. ehf. til greina. Aðflutningsgjöld hafi verið skuldfærð á innflytjanda og solidarisk ábyrgð hafi hvílt á stefnanda á vanreiknuðum gjöldum vegna sendingarinnar, sbr. 2. ml. 2. mgr. 111. gr., sbr. 4. ml. 1. mgr. 14. gr. Þótt sendingarnar tvær hafi sætt mismunandi meðferð sé stefnandi í báðum tilvikum ábyrgur fyrir greiðslu aðflutningsgjalda. Stefnandi hafi sem umboðsmaður innflytjanda við tollafgreiðslu sendinganna borið ábyrgð á því að upplýsingar sem veittar voru í aðflutningsskýrslu væru réttar. Stefnandi hafi enn fremur borið ábyrgð á því að um væri að ræða allar þær upplýsingar sem hefðu átt að koma fram vegna tollafgreiðslunnar og að þær væru byggðar á viðeigandi tollskjölum, sbr. 1. mgr. 16. gr. þágildandi tollalaga. Um ábyrgð umboðsmanns á greiðslu innflutningsgjalda hafi verið fjallað í 111. gr. þágildandi tollalaga, en þar segi í 1. ml. 2. mgr. að ef annar en innflytjandi eða viðtakandi vöru komi fram gagnvart tollyfirvöldum vegna tollmeðferðar vöru, beri hann ásamt innflytjanda in solidum ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda. Þá segi í 2. ml. ákvæðisins að ábyrgð umboðsmanns falli brott hafi aðflutningsgjöld verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda, sbr. þó 4. ml. 1. mgr. 14. gr., og sé þar vísað til þess að ábyrgð umboðsmanns falli ekki brott ef hann hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar sem veittar voru við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi. Stefndi telur ljóst að samkvæmt ákvæðum 4. ml. 1. mgr. 14. gr. sé ekki krafist stórkostlegs gáleysis eða ásetnings til að ábyrgð umboðsmanns á greiðslu aðflutningsgjalda haldist. Lögboðin álagning aðflutningsgjalda byggi á upplýsingum sem innflytjandi eða eftir atvikum umboðsmaður hans láti tollstjórum í té. Það standi innflytjendum og umboðsmönnum þeirra nær að hafa undir höndum rétt gögn og öll þau gögn sem eigi að liggja til grundvallar tollafgreiðslu, þannig að tryggja megi rétta innheimtu aðflutningsgjalda. Auk þess standi það þessum aðilum nær að láta tollyfirvöldum þessar upplýsingar í té. Eitt sé að tryggja með lögum innheimtu réttra aðflutningsgjalda hjá þeim sem sannanlega hafi haft möguleika á að láta réttar upplýsingar í té en annað að refsa fyrir þá yfirsjón sem leitt hafi til rangrar ákvörðunar aðflutningsgjalda við tollafgreiðslu. Þá sé að mati stefnda ekki unnt að fallast á að um einfalda innsláttarvillu hafi verið að ræða. Stefnandi sé fagaðili með sérþekkingu í tollskýrslugerð og selji inn- og útflytjendum þá þjónustu. Hafi vörureikningar borið skýrt með sér að verð væri tilgreint í evrum og hafi það ekki getað farið fram hjá stefnanda við þá könnun sem honum hafi borið að gera. Stefnanda hafi borið að ganga úr skugga um að upplýsingar í aðflutningsskýrslu væru byggðar á þeim tollskjölum sem lágu til grundvallar SMT-tollafgreiðslu. Stefnandi hafi því mátt vita í skilningi 4. ml. 1. mgr. 14. gr. og 1. ml. 2. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga, að röng mynt hafi verið tilgreind í aðflutningsskýrslum vegna sendinganna. Stefndi hafnar því að breyting á 111. gr. tollalaga á árinu 1998 styðji málflutning stefnanda. Með breytingunni hafi löggjafanum þótt rétt að losa umboðsaðila undan ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda, enda hafi greiðsla þeirra verið tryggð með skuldfærslu hjá innflytjanda, en að því gefnu og tilskildu að umboðsaðilinn hafi ekki vitað eða mátt vita að upplýsingar sem voru látnar tollyfirvöldum í té hafi verið rangar eða ófullnægjandi. Það skilyrði sé ekki uppfyllt í þessu máli. Samkvæmt skuldfærsluheimildum þágildandi tollalaga hafi innflytjendum verið veitt heimild til þess að fá aðflutningsgjöld af innfluttum sendingum, sem tollafgreiddar voru á tilteknum uppgjörstímabilum skuldfærðar um tiltekinn tíma, sbr. 109. gr. þágildandi tollalaga og 4. gr. þágildandi reglugerðar nr. 390/1999. Skuldfærsla á innflytjanda vegna janúarsendingar hafi verið hinn 12. febrúar 2002, með eindaga 15. mars 2002, og skuldfærsla á stefnanda vegna aprílsendingar þann 14. júní 2002, með eindaga 15. júlí 2002. Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. þágildandi tollalaga hafi eindagi aðflutningsgjalda verið tollafgreiðsludagur varanna, í þeim tilvikum að innflytjandi hafi vanreiknað aðflutningsgjöld í aðflutningsskýrslu eða þau reynst vanreiknuð samkvæmt upplýsingum sem gefnar höfðu verið. Samkvæmt því hafi hin vanreiknuðu aðflutningsgjöld vegna sendinganna fallið í eindaga við tollafgreiðslu hinn 12. febrúar og 14. júní 2002. Engin heimild hafi verið í tollalögum né reglugerðum til að skuldfæra eindöguð aðflutningsgjöld hjá innflytjanda og því engin heimild til skuldfærslu eindagaðra leiðréttra aðflutningsgjalda samkvæmt 2. mgr. 108. gr. hjá innflytjanda vegna sendinganna. Stefndi kveður stefnanda ekki hafa sýnt fram á að mismunandi framkvæmd sé viðhöfð hjá tollstjórum landsins í slíkum tilvikum sem hér um ræðir og hafnar öllum slíkum fullyrðingum sem röngum. Þá kveður stefndi ekki unnt að fallast á það með stefnanda að kröfurnar séu fallnar niður vegna tómlætis tollstjóra á að skuldfæra aðflutningsgjöld á innflytjanda, en greiðslufrestun hafi verið stöðvuð þegar í júní. Ekki hafi tekist að innheimta vangreidd aðflutningsgjöld hjá innflytjanda, en bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi ekkert fengist greitt upp í kröfurnar. Tollstjóri hafi sótt efndir krafna sinna innan þeirra fresta sem lög bjóði og séu þær ekki niður fallnar á hendur stefnanda. Varakröfu sína kveðst stefndi styðja við sömu sjónarmið og aðalkröfu sína. Ekki sé unnt að fallast á að stefnandi geti átt rétt til endurgreiðslu leiðréttra aðflutningsgjalda sem hann hafi borið ábyrgð á samkvæmt 1. ml. 2. mgr. 111. gr. vegna aprílsendingar sem skuldfærð hafi verið á stefnanda sjálfan en aldrei á innflytjanda. Þá mótmæli stefndi upphafstíma dráttarvaxta og krefst þess, með vísan til 7. gr. laga nr. 38/2001, að dráttarvextir miðist ekki við fyrri tíma en þingfestingu málsins. Stefnandi hafi að þarflausu dregið að hafa uppi kröfur sínar um rúmlega eins árs skeið, en úrskurður fjármálaráðuneytisins hafi legið fyrir hinn 4. júlí 2006 og sama dag hafi stefnandi greitt kröfuna með fyrirvara en fyrst með höfðun þessa máls hafi hann uppi kröfur um endurgreiðslu. Í málinu er ekki ágreiningur um fjárhæð kröfu stefnanda sem er vegna leiðréttingar á ranglega útreiknuðum aðflutningsgjöldum, annars vegar að fjárhæð 1.800.456 krónur vegna janúarsendingar og hins vegar að fjárhæð 441.011 krónur vegna aprílsendingar auk innheimtukostnaðar að fjárhæð 12.700 krónur. Þetta er sú fjárhæð sem stefnandi greiddi Tollstjóranum í Reykjavík 4. júlí 2006 og endurkrefur stefnda nú um í málinu. Á þeim tíma sem umræddar vörusendingar voru tollafgreiddar voru í gildi tollalög nr. 55/1987. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. þeirra laga hvíldi ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda á innflytjanda eða viðtakanda vöru. Þá sagði í 2. mgr. ákvæðisins að ef annar en innflytjandi eða viðtakandi vöru kæmi fram gagnvart tollyfirvöldum vegna tollmeðferðar vöru bæri hann ásamt innflytjanda in solidum ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda. Ábyrgð umboðsmanns félli þó brott hefðu aðflutningsgjöld verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda, sbr. þó 4. ml. 1. mgr. 14. gr. laganna, en þar sagði að ábyrgðin félli ekki niður ef umboðsmaður vissi eða mátti vita að upplýsingar sem veittar voru í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi. Gögn málsins bera með sér að aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar sem kom til landsins í apríl 2002 voru skuldfærð 14. júní 2002 á stefnanda, ekki innflytjandann HL og Co. ehf. Greiddi stefnandi þau gjöld í kjölfarið og fékk þau síðan endurgreidd af innflytjanda. Er óumdeilt að þau gjöld voru vanreiknuð vegna þess að þau voru í upphafi reiknuð út frá rangri mynt. Með vísan til framangreinds ákvæðis 2. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga bar stefnandi, sem kom fram gagnvart tollyfirvöldum við tollmeðferð vörunnar, ábyrgð á greiðslu aðflutningsgjalda með innflytjanda og þar sem aðflutningsgjöldin voru skuldfærð á hann en ekki innflytjandann féll ábyrgð hans ekki niður. Á það sama við um hin vangreiddu leiðréttu aðflutningsgjöld sem féllu í eindaga á tollafgreiðsludegi varanna, sbr. 2. mgr. 108. gr. þágildandi tollalaga, enda hefðu þau verið skuldfærð á stefnanda í upphafi, hefði hann gefið réttar upplýsingar í aðflutningsskýrslu. Bar stefnandi því ábyrgð á gjöldum þessum. Þá bera gögn málsins með sér að aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar sem kom til landsins í janúar 2002 var skuldfærð á innflytjandann 12. febrúar 2002. Er óumdeilt að þau gjöld voru vanreiknuð á sama hátt og gjöld vegna aprílsendingarinnar vegna þess að upphaflegir útreikningar byggðust á rangri mynt. Með vísan til framangreinds ákvæðis 2. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga féll ábyrgð umboðsmanns á greiðslu aðflutningsgjalda niður ef aðflutningsgjöld voru skuldfærð á innflytjanda, nema ef umboðsmaður vissi eða mátti vita að upplýsingar sem veittar voru í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi. Stefnandi kom fram fyrir hönd innflytjanda við tollafgreiðslu sendingarinnar og bar ábyrgð á því að þær upplýsingar sem veittar voru í aðflutningsskýrslum væru réttar en stefnandi er fagaðili á sviði tollskýrslugerðar og veitir fyrirtækjum þjónustu á því sviði. Verður ekki annað af gögnum málsins ráðið en að þeir reikningar sem umræddar aðflutningsskýrslur byggðu á bæru með sér ótvírætt að verð þeirra væri í evrum en ekki dönskum krónum og mátti stefnandi því, sem fagaðili á sviði tollskýrslugerðar, vita að upplýsingar sem fram komu í aðflutningsskýrslunni væru rangar. Liggur í augum uppi að öllu máli skiptir að verð sem aðflutningsgjöld reiknast af séu uppgefin í réttri mynt í aðflutningsskýrslu og því mikilvægt að vandað sé til verks við útfyllingu skýrslunnar. Stefnandi vísar til ákvæða í XIV. kafla þágildandi tollalaga og telur að líta eigi til þeirra við skýringar á inntaki orðanna „að vita“ eða „mega vita“ í tilvitnuðu ákvæði 14. gr. laganna og með hliðsjón af því þurfi að vera fyrir hendi ásetningur, stórkostlegt gáleysi eða ítrekað athæfi. Í þessum kafla laganna er fjallað um refsingar og önnur viðurlög við tollalagabrotum sem er ekki sambærilegt við það ágreiningsefni sem hér er uppi og varðar leiðréttingar á útreikningi aðflutningsgjalda vegna rangra upplýsinga. Verður því ekki séð að skýra beri orðin „að vita“ eða „mega vita“ þannig að stefnandi hefði þurft að hafa gefið rangar upplýsingar af ásetningi, stórkostlegu gáleysi eða ítrekað. Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður ekki fallist á það með stefnanda að ábyrgð hans á greiðslu aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar hafi fallið niður við það að gjöldin voru í upphafi skuldfærð á innflytjandann þar sem hann mátti vita að upplýsingar í aðflutningsskýrslu voru rangar. Með vísan til þessa þykir engu breyta um ábyrgð stefnanda að hin vangreiddu leiðréttu aðflutningsgjöld hafi ekki verið skuldfærð á innflytjandann sérstaklega, en eins og fram er komið er eindagi hinna leiðréttu aðflutningsgjalda tollafgreiðsludagur varanna. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að Tollstjórinn í Reykjavík hafi með framgöngu sinni í því máli sem hér er til umfjöllunar hagað málum öðruvísi en aðrir tollstjórar á landinu og þannig orðið uppvís að ósamkvæmni í stjórnsýslu. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið var stefnandi ábyrgur fyrir greiðslu vangreiddra aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar. Breytir engu um ábyrgð stefnanda að þessu leyti hvort leiðréttingar hans á útreikningi gjaldanna hafi borist tollstjóra áður en hann kvað upp úrskurð um endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna janúarsendingarinnar en ekki er ágreiningur um fjárhæð gjaldanna. Að öllu framanrituðu virtu þykir ljóst að stefnandi bar ábyrgð á hinum vangreiddu leiðréttu aðflutningsgjöldum beggja sendinganna með vísan til 2. mgr. 111. gr. þágildandi tollalaga og breyta rökin sem lágu til grundvallar breytingu á því ákvæði á árinu 1998 engu um ábyrgð hans samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins. Þá verður ekki fallist á það að Tollstjórinn í Reykjavík hafi fyrirgert kröfum sínum á hendur stefnanda á þeim forsendum að hann hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu þeirra á hendur innflytjanda. Bú innflytjandans var tekið til gjaldþrotaskipta rúmu ári eftir endurákvörðun aðflutningsgjaldanna og lýsti tollstjóri kröfum í búið innan lögbundins frests. Þegar það lá fyrir að ekkert fengist greitt upp í kröfurnar úr þrotabúinu krafði hann stefnanda um greiðslu. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið var stefnandi réttilega krafinn um greiðslu aðflutningsgjaldanna og kostnaðar vegna innheimtu þeirra sem hann greiddi 4. júlí 2006 og verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir þó rétt að fella málskostnað niður. Af hálfu stefnanda flutti málið Dýrleif Kristjánsdóttir hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Guðrún Margrét Árnadóttir hrl. Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn. Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Jónar Transport hf., í máli þessu. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 303/2007 | Kærumál Frávísunarúrskurður felldur úr gildi | S stefndi F hf. til greiðslu nánar tilgreindrar fjárhæðar en krafan var á því reist að skilyrði væru til að breyta umsömdu verði á hlut S í Í ehf. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi þar sem talið var að annmarkar væru á stefnunni og að aðrir aðilar að samningi um verð á hlutum í Í ehf. hefðu átt að eiga aðild að því, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki var á það fallist slíkir annmarkar væru á stefnunni að það varðaði frávísun málsins. Þá var til þess vísað að krafa S væri einungis til hækkunar á umsömdu verði á hlut hans í Í ehf., en þau réttindi hefði hann ekki átt óskipt með öðrum hluthöfum. Yrði því ekki fallist á að samaðildar væri þörf til sóknar í málinu. Samkvæmt þessu var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili var eigandi að 2,35% hlut í Ísland Express ehf. þegar hann, ásamt tíu öðrum hluthöfum í félaginu, rituðu 16. september 2005 undir samning við Iceland Express Investment S.A. Í samningnum var komist að samkomulagi um verð fyrir hlut hvers og eins fyrrgreindra hluthafa, en Iceland Express Investment S.A. var þá orðinn eigandi að meira en 90% hlutfjár í Ísland Express ehf. og hafði tilkynnt um innlausn á hlutum annarra hluthafa. Tók verðlagning hlutanna mið af því að heildarmat á Íslandi Express ehf. væri 1.100.000.000 krónur og skyldi sóknaraðili fá 25.850.000 krónur fyrir sinn hlut. Í málinu krefst sóknaraðili að varnaraðili greiði sér 21.150.000 krónur til viðbótar við umsamið verð, en aðilar komust að samkomulagi 5. mars 2007 um að varnaraðili kæmi í stað Iceland Express Investment S.A., sem skuldari að hugsanlegum kröfum í tilefni af ofangreindum viðskiptum. Varnaraðili reisir kröfu sína um frávísun málsins meðal annars á því að stefna sóknaraðila samrýmist ekki kröfum 80. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglu réttarfars um munnlegan málflutning. Í stefnunni eru málavextir raktir ítarlega í sérstökum kafla og því næst gerð grein fyrir málsástæðum sóknaraðila. Þar er tekinn upp orðréttur texti úr fyrirliggjandi gögnum málsins, sem ekki verður séð að þörf hafi verið á í stefnu, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Af henni verður hins vegar skýrlega ráðið að kröfugerð sóknaraðila er á því reist að skilyrði séu til að breyta umsömdu verði fyrir hlut sóknaraðila í Íslandi Express ehf. til hækkunar er nemi stefnufjárhæð á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Er ekki unnt að fallast á með varnaraðila að slíkir annmarkar séu á stefnunni að það varði frávísun málsins. Varnaraðili reisir frávísunarkröfu sína ennfremur á því að þörf sé á samaðild allra þeirra, sem áttu aðild að samningnum 16. september 2005 við Iceland Express Investment S.A, til sóknar í málinu, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Eins og rakið hefur verið gerir sóknaraðili aðeins kröfu um hækkun á umsömdu verði á sínum hlut í Íslandi Express ehf., en þau réttindi átti hann ekki óskipt með öðrum hluthöfum. Verður ekki fallist á að samaðildar sé þörf til sóknar í málinu og breytir engu í því sambandi þótt umsamið verð til hvers hluthafa hafi verið reist á almennri forsendu um verðmat einkahlutafélagsins. Með hliðsjón af framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Varnaraðili, Fons Eignarhaldsfélag hf., greiði sóknaraðila, Sigurði Inga Halldórssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 6/1999 | Kærumál Nauðungarsala Málshöfðunarfrestur Frávísunarúrskurður felldur úr gildi | A stefndi íslenska ríkinu til greiðslu bóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir er 3 hross hans voru seld nauðungarsölu sem óskilahross. Héraðsdómur vísaði málinu frá þar sem málshöfðunarfrestur XV. kafla laga 90/1991 um nauðungarsölu var liðinn. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi þar sem málsástæður A lutu meðal annars að því, að starfsmenn stefnda hefðu valdið A tjóni með saknæmri háttsemi sinni. Málshöfðunarfrestur laga 90/1991 ættu ekki við um málshöfðun á slíkum grunni. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 1998, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 1999. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 1998, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað. I. Málið á rætur að rekja til þess að á uppboði 19. nóvember 1994 mun sýslumaðurinn á Akureyri hafa selt nauðungarsölu fjögur óskilahross samkvæmt beiðni hreppstjóra Eyjafjarðarsveitar. Sóknaraðili kveðst hafa átt þrjú af þessum hrossum og saknað þeirra frá því í október 1994, en hvorki þekkt þau af lýsingu í auglýsingu, sem fjallskilastjóri fékk birta um óskilahross í dagblaði 12. og 14. þess mánaðar, né í auglýsingu sýslumanns um uppboðið. Sér hafi því ekki orðið kunnugt um ráðstöfun hrossanna fyrr en eftir uppboðið. Með bréfi til sýslumanns 1. febrúar 1995 hafi hann krafist þess að hrossunum yrði skilað til sín með stoð í 4. mgr. 59. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., sbr. 91. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sem sóknaraðili telur hafa að geyma fyrirmæli um rétt eiganda óskilahross til að leysa það til sín innan tólf vikna frests frá nauðungarsölu þess. Þessu erindi hafnaði sýslumaður með bréfi 7. mars 1995, þar sem látið var í ljós það álit að fyrirmæli um innlausnarrétt í áðurnefndu ákvæði laga nr. 6/1986 tækju til söluverðs, sem fengist við nauðungarsölu, en ekki hins selda. Í málinu krefst sóknaraðili bóta úr hendi varnaraðila vegna andvirðis hrossanna, svo og fyrirhafnar sinnar og vinnumissis í tengslum við áðurgreind atvik. Hann kveðst aðallega reisa kröfu sína á þeirri málsástæðu að sýslumaður og hreppstjóri, sem séu starfsmenn varnaraðila, hafi ekki brugðist við ítrekaðri málaleitan sinni um að fá að neyta innlausnarréttar samkvæmt 4. mgr. 59. gr. laga nr. 6/1986 innan þess frests, sem þar greini. Hann hafi því farið á mis við að fá hrossin afhent. Þá kemur fram í héraðsdómsstefnu að sóknaraðili byggi jafnframt á þeirri málsástæðu að ranglega hafi verið staðið að aðdraganda og undirbúningi nauðungarsölu hrossanna. Lýsing þeirra í auglýsingu hafi í verulegum atriðum verið ónákvæm og ekki við hann að sakast að hafa ekki kannast við þau af henni. II. Í XV. kafla laga nr. 90/1991 eru sérreglur um bótaskyldu vegna nauðungarsölu, sem leiða til ábyrgðar gerðarbeiðanda án sakar á því að fullnægt sé lagaskilyrðum fyrir nauðungarsölu, sbr. 1. mgr. 86. gr., ábyrgðar þess sama eftir sakarreglunni vegna mistaka sýslumanns við framkvæmd nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 86. gr., og ábyrgðar ríkisins vegna gáleysis starfsmanns þess við þá framkvæmd, sbr. 1. mgr. 87. gr. Sé bótakrafa reist á einhverri af þessum þremur reglum verður að höfða mál um hana innan þriggja mánaða frests, sem mælt er fyrir um í 88. gr. laganna. Sá frestur gildir hins vegar ekki þegar höfðað er einkamál vegna nauðungarsölu á öðrum grunni, svo sem mál á hendur gerðarbeiðanda til heimtu bóta samkvæmt sakarreglunni vegna framferðis hans sjálfs eða til endurheimtu ofgreidds fjár, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1997, bls. 3242. Fyrrnefnd málsástæða, sem sóknaraðili reisir kröfu sína aðallega á, er að engu leyti studd við þær reglur í 86. og 87. gr. laga nr. 90/1991, sem getið er hér að framan. Að því leyti, sem sóknaraðili kann að styðja kröfu sína að auki við þá málsástæðu að hreppstjóra Eyjafjarðarsveitar hafi sem starfsmanni varnaraðila orðið á mistök við lýsingu umræddra hrossa í beiðni um nauðungarsölu, verður ekki séð að byggt sé á öðrum lagagrunni en sakarreglunni. Samkvæmt þessu tekur málshöfðunarfrestur samkvæmt 88. gr. laga nr. 90/1991 ekki til kröfu sóknaraðila að því leyti, sem hún er reist á þessum grunni. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Kærumálskostnaður fellur niður. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 1998. Mál þetta, sem tekið var til úrlausnar 3. þessa mánaðar að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 30. júní 1998. Stefnandi er Auðbjörn Kristinsson, kt. 211159-2789, Melasíðu 8b, Akureyri. Stefndi er íslenska ríkið, kt. 540269-6459, Reykjavík. Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur, að fjárhæð 500.000 krónur, auk 0,50% ársvaxta frá 19. nóvember 1994 til 1. mars 1995, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist, að dráttarvextir verði lagðir við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. mars 1996. Að lokum er krafist málskostnaðar, þ.m.t. matskostnaðar, úr hendi stefnda, auk 24.5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður að mati dómsins. Til vara er gerð krafa um lækkun á stefnukröfum málsins og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla. I. Málavextir. Í október 1994 kveðst stefnandi hafa saknað þriggja hrossa sinna. Hefðu þau verið á beit á afrétti í Glæsibæjarhreppi, skammt frá Hraukbæ, en þar hefði stefnandi haft aðstöðu fyrir þau. Kveðst stefnandi hafa farið að grennslast eftir þeim, en án árangurs. Dagana 12. og 14. október sama ár voru fimm hross auglýst í óskilum í Hrafnagilsdeild Fjallskiladeildar Eyjafjarðarsveitar í dagblaðinu Degi af hálfu fjallskilastjóra. Lýsing þeirra var svohljóðandi: "Jarpur hestur ómarkaður ca. 2-3 vetra. Brúnn hestur, ómarkaður, veturgamall. Brúnskjóttur hestur, ómarkaður, ca. 3 vetra. Jörp hryssa og mósótt hryssa, báðar með markinu lögg aftan vinstra og lögg aftan hægra, 2-5 vetra." Þann 12. nóvember 1994 auglýsti sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu nauðungarsölu fjögurra óskilahrossa, og var lýsing þeirra hin sama og áður greinir, að því undanskildu, að fyrstnefndi hesturinn hafði verið felldur út úr henni. Var nauðungarsalan, sem fram fór að beiðni hreppstjóra Eyjafjarðarsveitar, auglýst í Hraungerðisrétt, Eyjafjarðarsveit, og skyldi fram fara 19. nóvember 1994 kl. 11.00. Nokkru eftir nauðungarsöluna kveðst stefnandi hafa þekkt aðra hryssuna sem sína í hesthúsi. Að sögn stefnanda kvaðst eigandi hennar hafa keypt hana af manni þeim, sem hafði verið slegin hryssan á nauðungarsölunni 19. nóvember 1994. Kveður stefnandi, að þá hafi sér orðið ljóst, að þau þrjú hross, sem hann hafði saknað, hefðu verið seld á umræddu uppboði. Fram er komið í málinu, að öll hrossin voru seld á samtals 92.000 krónur. Af þeirri fjárhæð var greiddur ýmis áfallinn kostnaður, en eftirstöðvarnar, 16.421 króna, voru lagðar inn á bankareikning. Stefnandi reyndi árangurslaust að fá hrossin í sínar hendur með því að tala við starfsmenn sýslumannsembættisins, þáverandi hreppstjóra Eyjafjarðarsveitar og kaupanda hrossanna, en þær tilraunir báru ekki árangur. Er það var fullreynt, leitaði stefnandi til lögmanns, er ritaði sýslumanni bréf 1. febrúar 1995 og krafðist þess, að fjögurra vikna innlausnarfrestur samkvæmt 4. mgr. 59. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o. fl. yrði virtur og stefnanda skilað hrossunum. Það erindi var ítrekað með bréfi 7. mars sama ár. Svarbréf sýslumanns er dagsett sama dag og var kröfunni hafnað með vísan til þess, að umræddur innlausnarfrestur ætti við um þá peninga, sem fengist hefðu fyrir hrossin á uppboðinu. Þeir peningar, að frádregnum kostnaði, væru til reiðu þeim, er gæti sannað eignarrétt sinn á hrossunum. Stefnandi lagði fram matsbeiðni í Héraðsdómi Norðurlands eystra 6. apríl sama ár, þar sem þess var farið á leit, að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir menn til að meta hrossin þrjú. Farið var fram á, að matsmenn létu uppi rökstutt og skriflegt álit um a) hvort lýsing hrossanna í umræddri auglýsingu gæti átt við, hvað varðar lit, aldur og mark, en hið síðastnefnda ætti við um hryssurnar tvær. Sérstaklega skyldi látið uppi, hvort stefnandi, sem eigandi, hefði mátt ráða af þessari lýsingu, að um hross í hans eigu væri að ræða, og b) að mat yrði lagt á verðgildi hrossanna út frá útliti, kostum og ætterni. Matsmennirnir, Benedikt Ólafsson hdl. og Ármann Gunnarsson dýralæknir, skiluðu matsgerð í júlí. Um fyrri matslið segir svo: 1. Brúnhöttóttur hestur, skottóttur og nösóttur, móhringeygður á báðum augum. Aldur: 5 vetra. Mark: Biti aftan hægra, stig aftan vinstra (óglöggt mark á vinstra eyra). 2. Mósótt/móálótt hryssa, verður grá. Aldur: 3ja vetra. Mark: Geirskorið aftan á báðum eyrum. 3. Jörp hryssa, rauðjörp nú en gæti hafa verið dekkri síðastliðið haust. Aldur: 3ja vetra. Mark: Glögglega geirskorið á hægra eyra en óglöggt mark á vinstra eyra. Verðmæti hrossanna mátu þeir sem hér segir: 1. Brúnhöttótti hesturinn kr. 100.000 2. Móálótta hryssan kr. 60.000 3. Jarpa hryssan kr. 90.000 Samtals kr. 250.000 Stefnandi höfðaði mál á hendur sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar með stefnu, þingfestri 2. maí 1996, aðallega til afhendingar hrossanna, en til vara til greiðslu skaðabóta. Dómur féll í málinu 29. október sama ár og var stefndi sýknaður vegna aðildarskorts, en málskostnaður felldur niður. Stefnandi krafði stefnda um bætur með bréfi 26. maí 1998, en þeirri kröfu var hafnað með bréfi ríkislögmanns 3. næsta mánaðar. II. Málsástæður og lagarök stefnanda. Af hálfu stefnanda er á því byggt, að með því að sinna ekki beiðnum hans og hafna að hann næði lögvörðum rétti sínum og heimti á ný þau þrjú hross, sem seld höfðu verið á uppboði, hafi honum verið valdið tjóni, sem stefnda beri að bæta. Þegar metið sé, hvort stefndi hafi með einhverju móti átt að gera sér grein fyrir, að meðal hrossa þeirra, sem auglýst voru í óskilum af hálfu fjallskilastjóra og síðar þeirra þriggja hrossa, sem sýslumaður auglýsti nauðungarsölu á, væru hans hross, sé nærtækast að vitna til niðurstöðu matsmanna, en hún sé sú, að stefnandi hafi ekki mátt ráða af lýsingunni, að um hross væri að ræða í hans eigu. Af samanburði á lýsingu í auglýsingu og niðurstöðu matsmanna þar um megi sjá, að lýsingin í auglýsingunni hafi verið mjög villandi og ekki unnt að lá stefnanda, að hann teldi sér hross þessi óviðkomandi. Fyrir dómi hafi matsmenn sagt, að torvelt hefði verið fyrir stefnanda að átta sig á, að um hross í hans eigu væri að ræða samkvæmt lýsingu í auglýsingunni. Komi fram í skýrslu Ármanns Gunnarssonar matsmanns, að lýsingin hafi ekki verið nákvæm og sérstaklega telji hann misbrest varðandi lýsingu á mörkum. Matsmaðurinn Benedikt Ólafsson segi, að eigandi hrossanna hafi ekki getað áttað sig á þeim sem sínum samkvæmt lýsingunni. Stefnandi hafi byggt rétt sinn á að fá hrossin afhent á 4. mgr. 59. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o. fl., sbr. lög nr. 90/1991, en þar sé kveðið á um tólf vikna innlausnarrétt. Þeirri kröfu hafi verið komið á framfæri innan frestsins, er stefnandi hafði komist að raun um afdrif hrossanna. Sé afstaða sýslumanns byggð á stórfelldum misskilningi, sem sé í fullkominni andstöðu við almennan skilning á hugtakinu, sem sé fornt og hafi verið túlkað þannig, að uppboðskaupandi þurfi að vera við því búinn að skila viðkomandi grip til rétts eiganda, gefi hann sig fram innan tólf vikna frá uppboðsdegi. Stefnandi gerir þá aðalkröfu, að honum verði bætt tjón sitt með 500.000 krónum. Beri sýslumaður og hreppstjóri, "sem um málið véluðu á sínum tíma", ábyrgð á því sem starfsmenn stefnda, að stefnandi hafi ekki fengið neytt lögmælts innlausnarréttar. Telji stefnandi, að verðmæti hrossanna hafi verið a.m.k. 350.000 krónur á þeim tíma, sem nauðungarsala fór fram. Telji hann reyndar, að brúnhöttótti hesturinn sé einn og sér 150 - 200.000 króna virði. Þá hafi stefnandi haft margháttaða fyrirhöfn og orðið fyrir vinnumissi við að leita réttar síns með ótal ferðum til sýslumanns, hreppstjóra og annarra, sem að málinu komu. Varakröfu sína byggir stefnandi á mati hinna dómkvöddu matsmanna, en það miðist við verðgildi hrossanna á uppboðsdegi. Aðal- og varakrafa byggist á því, að allur aðdragandi og undirbúningur nauðungarsölunnar hafi verið hrapalegur, lýsing ónákvæm svo verulegu skakkaði og stefnanda ekki láandi, að hann þekkti ekki hrossin sem sín og loks hafi lögmæltum innlausnarrétti hans ekki verið sinnt af réttu yfirvaldi. Allt hafi þetta haft þær afleiðingar, að stefnandi hafi misst eignir sínar, hrossin, og eigi því rétt á að fá þau bætt vegna aðgerða eða aðgerðarleysis starfsmanna stefnda, sem beri ábyrgð sem vinnuveitandi eða húsbóndi sýslumanns og hreppstjóra. Um lagarök vísar stefnandi sérstaklega til 4. mgr. 59. gr. laga nr. 6/1986 og 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, hvað varðar gerð bótakröfu og einnig til ólögfestrar reglu skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna. III. Málsástæður og lagarök stefnda. Af hálfu stefnda er byggt á því, að eftir að hrossin komu fram í hrossasmölun seinni partinn í september 1994, hafi verið hafin víðtæk leit að eigendum þeirra. Hafi hrossin meðal annars verið send í aðalhrossaskilarétt Eyjafjarðarsveitar, Borgarrétt fremri, en þangað hafi komið fjöldi hestamanna. Þá hafi þau verið senda suður á Ystu-Gerðisrétt. Jafnframt hafi verið haldið uppi víðtækum fyrirspurnum, bæði gegnum síma og með samtölum við einstaklinga, meðal annars á Akureyri. Þá hafi landsmarkaskrár verið skoðaðar og haft samband við utanhéraðsmenn. Þannig telji Hjörtur Haraldsson fjallskilastjóri, að gert hafi verið eins og hægt var, til að hafa uppi á eiganda hrossanna. Samkvæmt aðilaskýrslu telji stefnandi, að hann hafi á sínum snærum um 100 hross. Megi telja með ólíkindum, að hann hafi ekki á tímabilinu frá september 1994 til 19. nóvember sama ár fengið upplýsingar um óskilahross, en stefnandi hafi þó farið að sakna hrossa sinna í október 1994. Upplýsi stefnandi í skýrslu sinni, að hann hafi ekki átt mark sjálfur, þó að hann hafi verið með um 100 hross. Samkvæmt 63. gr. laga nr. 6/1986 sé hverjum búfjáreiganda skylt að hafa á búfé sínu glöggt mark, sbr. og fjallskilasamþykkt fyrir Eyjafjarðarsýslu, Akureyri, Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð nr. 402/1998, sbr. einnig reglugerð nr. 224/1987 um mörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár. Svo sem fram komi í bréfi sýslumanns frá 7. mars 1995 hafi stefnandi getað fengið uppboðsandvirði hrossanna greitt með því að færa sönnur á eignarrétt sinn að þeim. Verði því ekki séð, að stefnandi eigi réttmæta kröfu í máli þessu. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi byggi á því, að allur aðdragandi og undirbúningur uppboðssölunnar hafi verið hrapalegur og nefni, að lýsing hrossanna hafi verið ónákvæm, þannig að hann hafi ekki þekkt hross sín. Sé því einungis byggt á ónákvæmri auglýsingu hrossanna, en önnur atriði varðandi ætlaðan galla á aðdraganda og undirbúningi uppboðssölunnar því vanreifuð. Sé því haldið fram, að mikið vinna hafi verið lögð í að finna eiganda hrossanna. Hafi fjallskilastjóri fengið til liðs við sig fjóra menn til að skoða hrossin og lýsing hrossanna verið byggð á álitum þeirra, sem hafi verið einróma. Hafi öll vinnubrögð verið eins vönduð og mögulegt var og ekki hafi verið um neina saknæma hegðun að ræða. Hafi sýslumaður tekið í sína auglýsingu, svo sem eðlilegt hafi verið, lýsingu fjallskilastjóra á hestunum. Sé á það bent, að fjallskilastjóri starfi ekki á vegum stefnda. Verði fallist á þá málsástæðu stefnanda, að auglýsing og tilgreining hestanna hafi verið þannig, að ekki hafi verið unnt að þekkja hrossin af henni, þá sé því haldið fram, að uppboðið hefði getað sætt ógildingu í ljósi rangrar tilgreiningar á uppboðsandvirði. Því sé málshöfðunarfrestur löngu liðinn, sbr. 88. gr. nauðungarsölulaga. Verði ekki fallist á þessa málsástæðu stefnda, sé ljóst, að auglýsingin hafi tilgreint nægilega hross þau, er boðin voru upp. Hafi stefnandi því borið að gæta réttar síns. Það hafi hann ekki gert og við hann einan sakast. Því sé hafnað af hálfu stefnda, að með innlausnarrétti samkvæmt 59. gr. laga nr. 6/1986 sé átt við rétt til efnda in natura, en ekki peningagreiðslu. Sé þar átt við, að eigandi, sem sannar eignarrétt sinn, eigi aðeins tilkall til að fá andvirði hinna seldu hrossa, en ekki þau sjálf. Því til stuðnings sé bent á 61. gr. sömu laga, þar sem beinlínis sé tekið fram, að andvirði seldra gripa greiðist eiganda, sanni hann eignarrétt sinn innan tiltekins tíma. Þá sé bent á, að fyrir uppboð flytjist eignarrétturinn til uppboðskaupanda við hamarshögg og sé hann ekki takmarkaður eða kvaðabundinn í tólf fyrstu vikurnar. Mótmælt er fjárhæðum aðalkröfu og varakröfu og bent á, að öll hrossin hafi selst á 92.000 krónur. Sé aðalkrafan með öllu órökstudd tölulega og engin gögn færð henni til stuðnings. Ósannað sé um margháttaða "fyrirhöfn og vinnumissi" stefnanda. Vegna varakröfu stefnda sé ítrekað, að dómkröfur stefnanda séu órökstuddar. Þá beri einnig að lækka þær verulega vegna eigin sakar stefnanda, sem telja verði verulega í ljósi athafnaleysis hans. Þá er vöxtum og upphafstíma þeirra mótmælt. IV. Niðurstaða. Hreppstjóri Eyjafjarðarsveitar og sýslumaður Eyjafjarðarsýslu eru starfsmenn stefnda. Er ótvírætt af málatilbúnaði stefnanda, að hann telur, að þessir starfsmenn stefnda beri ábyrgð á því, sem stefnandi telur, að úrskeiðis hafi farið við undirbúning nauðungarsölunnar. Mál þetta snýst því um, hvort stefndi beri bótaábyrgð á ætluðu tjóni stefnanda vegna nauðungarsölu umræddra hrossa 19. nóvember 1994. Byggir stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda á óskráðum reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á saknæmum og ólögmætum athöfnum ofangreindra starfsmanna hans. Rekur stefnandi tjón sitt til þess, að auglýsing sú, er sýslumaður lét birta um nauðungarsöluna, hafi verið haldin slíkum annmörkum, að stefnandi hafi ekki mátt þekkja af henni hross þau, er hann taldi til eignar sinnar, og af þeim sökum hafi hann ekki átt þess kost að gæta hagsmuna sinna við nauðungarsöluna. Um ábyrgð á nauðungarsölu er fjallað í XV. kafla laga nr. 90/1991, 86. - 88. gr. 86. gr. tekur til bótaábyrgðar gerðarbeiðanda vegna þess að skilyrði hafi skort fyrir nauðungarsölu eða hún hafi annars farið fram með þeim hætti, að hún hafi eða gæti sætt ógildingu, en á því er byggt af hálfu stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 87. gr. laganna er þeim, sem á tilkall til bóta á grundvelli 86. gr., heimilt að beina málsókn til heimtu þeirra að ríkinu óskipt með gerðarbeiðanda, ef sá sem hafði framkvæmd nauðungarsölunnar með höndum, sýndi af sér gáleysi við þá athöfn, sem leiddi til tjóns. Í 88. gr. nefndra laga segir, að höfða beri mál til heimtu bóta samkvæmt 86. gr., sbr. 1. mgr. 87. gr., fyrir héraðsdómi, áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því sá, sem hefur orðið fyrir tjóni, átti þess fyrst kost að hafa kröfu sína uppi. Samsvarandi frestákvæði er í 98. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 um ábyrgð gerðarbeiðanda og ríkissjóðs á aðfarargerð eftir 96. gr. og 1. mgr. 97. gr. þeirra laga. Stefnandi kveðst í aðilaskýrslu sinni hafa orðið þess áskynja mánuði eftir nauðungarsöluna 19. nóvember 1994, að umrædd hross hefðu verið boðin upp af hálfu sýslumanns og seld. Samkvæmt því byrjar málshöfðunarfrestur að líða hið fyrsta á því tímamarki, en í síðasta lagi að loknum 12 vikna innlausnarfresti þeim, er greinir í 4. mgr. 59. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o. fl. Þar sem frestur þessi er löngu liðinn, hvort sem miðað er við fyrra eða síðara tímamarkið, er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu sjálfkrafa frá dómi þegar af þeirri ástæðu. Eftir þessum úrslitum verður stefnandi úrskurðaður til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur. Úrskurð þennan kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari. Úrskurðarorð: Máli þessu er vísað sjálfkrafa frá dómi. Stefnandi, Auðbjörn Kristinsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 538/2008 | Skaðabætur Líkamstjón Sératkvæði | G krafðist viðurkenningar á skaðabótaábyrgð R á líkamstjóni sem hún varð fyrir á gangstíg við leikskóla, þar sem hún starfaði, þegar hún rann í hálku og féll aftur fyrir sig. Slysið varð ekki innan lóðar leikskólans heldur á mörkum bílastæðis og göngustígs sem ætlaður var almenningi. Ekki þótti sýnt fram á að slys G yrði rakið til saknæmrar háttsemi eða vanrækslu starfsmanna leikskólans. Var það hvorki í verkahring þeirra að gera ráðstafanir til að sandbera göngustíginn né bera á hann íseyðandi efni til að forða slysum. Þegar hálka myndaðist kvaðst leikskólastjórinn hafa haft samband við starfsmenn R í viðkomandi hverfisstöð, sem höfðu þá komið eins fljótt og þeir gátu. Þá var ekki fallist á það með G að R bæri ábyrgð á slysinu þar sem aðstæður á göngustígnum hefðu verið óforsvaranlegar. G var starfsmaður leikskólans og hafði starfað þar í um átta ár. Hún hefði því verið vel kunnug aðstæðum. Talið var að henni hefði borið að gæta varkárni við þær veðuraðstæður sem voru hinn umrædda dag, enda hefði hún borið fyrir dómi að hún hefði búist við að hálka væri á göngustígnum. Yrði því að telja slys G rakið til óhappatilviljunar eða gáleysis hennar. Var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna og R sýkn af kröfu G. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. október 2008. Hún krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem hún varð fyrir 3. desember 2003 á gangstíg við leikskólann Heiðarborg í Reykjavík. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins og að málskostnaður fyrir Hæstarétti verði þá felldur niður. Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður felldur niður samkvæmt 3. mgr. 130. gr., sbr., 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Sératkvæði Viðars Más Matthíassonar Ég er ósammála niðurstöðu meirihluta dómenda um sýknu stefnda. Röksemdir mínar og niðurstaða eru eftirfarandi: Eins og í héraðsdómi greinir varð áfrýjandi fyrir slysi er hún rann í hálku og féll aftur fyrir sig. Hlaut hún af líkamstjón og er nægilega upplýst að afleiðingar þess eru varanlegar fyrir hana. Krefst hún viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna tjónsins. Slysið varð um kl. 08:00 að morgni 3. desember 2003, er áfrýjandi var á leið til vinnu sinnar. Hún var með fjögurra ára dóttur sína með sér en hún var nemandi á leikskólanum. Höfðu þær gengið frá bifreiðastæði og upp á göngustíg, sem liggur meðfram girðingu er umlykur leikskólann. Um er að ræða almennan göngustíg og vissi áfrýjandi, sem unnið hafði á leikskólanum í næstum átta ár, að það gæti verið hálka á stígnum. Af málflutningi aðila verður ráðið að ekki sé sérstakur halli á göngustígnum þar sem áfrýjandi féll. Hún hefur ekki sýnt fram á að stefnda hafi að lögum borið skylda til að setja handrið við stíginn eða hitalögn undir hann til að varna hálkumyndum á þeim stað er hún féll. Þá er upplýst og ómótmælt að ein dráttarvél með hálkueyðandi efni var send frá þjónustumiðstöð stefnda við Stórhöfða 9 til aðgerða í Árbæjar- og Seláshverfum um kl. 07:30 þennan morgun, en ekki er upplýst hve langan tíma tekur að fara um þessi tvö hverfi, né hvar byrjað hafi verið. Dráttarvélin hafði ekki komið á göngustíginn við leikskólann er slysið varð og ekki er upplýst hvenær dags hún kom þangað. Leikskólinn Heiðarborg er með um 80 nemendur. Starfsmenn munu vera um 17. Sá starfsmaður sem fyrstur mætir kemur um kl. 07:30 en flestir aðrir koma um kl. 08:00. Nemendurnir 80 sem koma í fylgd aðstandenda koma einnig flestir frá kl. 08:00 til 09:00. Af þessu verður sú ályktun dregin, að gera megi ráð fyrir að um 150 manns komi í leikskólann á hverjum morgni, flestir á tímanum frá kl. 08:00 til 09:00. Göngustígur sá sem um ræðir, þótt um almennan göngustíg sé að ræða, er sú leið að leikskólanum frá bifreiðastæðinu sem farin er. Göngustígurinn var óupplýstur á þeim tíma, sem slysið varð, en úr því var bætt á árinu 2005. Þegar slysið átti sér stað var myrkur og því erfitt að átta sig á aðstæðum. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 78/1994 um leikskóla skal leikskólastjóri stjórna starfi leikskóla í umboði rekstraraðila, sem samkvæmt 7. gr. laganna er stefndi. Gera verður þá kröfu til leikskólastjóra að hann geri nauðsynlegar og eðlilegar ráðstafanir til þess að tryggja öryggi þeirra sem leið eiga eftir þeim hluta göngustígsins, sem nauðsynlegt er að fara, að og frá leikskólanum. Við þær ráðstafanir verður að taka tillit til þess að í flestum tilvikum er um að ræða fólk með börn þar sem athyglin kann að verulegu leyti að vera bundin börnunum. Leikskólastjóra bar því að gera ráðstafanir til að hálku yrði eytt á þeim hluta göngustígsins sem nauðsynlegt var að fara um til að komast að leikskólanum. Engin vissa var fyrir því að þeir, sem önnuðust hálkueyðingu á vegum þjónustumiðstöðva stefnda, gerðu það í tæka tíð. Var slysahætta vegna hálku á stígunum kunn. Þetta hafði ekki verið gert er áfrýjandi mætti til vinnu. Verður því í ljósi aðstæðna, einkum þeirra að myrkur var og erfitt að gæta sín á hálku, talið til gáleysis leikskólastjóra, sem stefndi ber ábyrgð á, að slík hálkueyðing hafði ekki farið fram. Ber því stefndi skaðabótaábyrgð á líkamstjóni áfrýjanda vegna slyssins. Stefndi gerir til vara þá kröfu, verði hann talinn skaðabótaskyldur, að það verði þá einungis að hluta. Rökstyður hann kröfu sína svo að slysið verði að mestu rakið til eigin sakar áfrýjanda. Verði hún að bera tjón sitt sjálf til samræmis við það. Vísar stefndi einkum til hins langa starfstíma áfrýjanda á leikskólanum og að hún hafi að minnsta kosti mátt vita að það kynni að vera hálka á þessu svæði. Henni hafi borið að sýna fyllstu varkárni enda hafi hún gjörþekkt umhverfið. Áfrýjandi var á leið til vinnu og samtímis með dóttur sín á leikskólann er slysið varð. Þótt henni væri kunnugt um hálku á stígnum þennan morgun átti hún ekki annan kost en að fara þessa leið til vinnustaðar síns. Ósannað er að hún hafi ekki farið gætilega umrætt sinn eins og hún heldur fram. Er því ekki fallist á að áfrýjandi skuli vera meðábyrg að slysinu og bera þess vegna hluta af tjóni sínu sjálf. Samkvæmt framansögðu tel ég að stefndi eigi að bera óskerta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni því er áfrýjandi varð fyrir í slysinu 3. desember 2003 við leikskólann Heiðarborg. Ég tel að stefndi eigi að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Mál þetta, sem dómtekið var 10. júní sl., var höfðað 30. nóvember 2007. Stefnandi er Guðrún Ólöf Sumarliðadóttir, Fljótaseli 24, Reykjavík. Stefndi er Reykjavíkurborg. Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu. Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns þess sem stefnandi varð fyrir þann 3. desember 2003, á göngustíg við leikskólann Heiðarborg í Reykjavík. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning eða að mati dómsins, í samræmi við þá hagsmuni sem í húfi eru og vinnu málflytjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Ekki eru gerðar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda. Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi krefst þess að verða aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna þess slyss sem stefnandi varð fyrir þann 3. desember 2003 og að málskostnaður verði felldur niður. Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar enda hefur stefnandi ekki gert neinar kröfur á hendur félaginu. Málavextir eru þeir að stefnandi starfaði sem leiðbeinandi við leikskólann Heiðarbæ í Árbæjarhverfi, Reykjavík. Hún hóf störf þar í febrúar 1996. Klukkan 08.00 að morgni 3. desember 2003 var stefnandi á leið til vinnu sinnar. Með stefnanda í för var fjögurra ára gömul dóttir hennar sem var nemandi í leikskólanum. Eftir að stefnandi hafði lagt bifreið sinni á bílastæði við leikskólann, gekk hún ásamt dóttur sinni eftir gangstíg í átt að leikskólanum. Vildi þá ekki betur til en svo að stefnandi rann í hálku, sem þar hafði myndast, og féll aftur fyrir sig. Lenti hún illa á bakinu auk þess sem vinstri handleggur og höfuð hennar skullu í jörðina. Stefnandi kveðst hafa farið varlega og hafa verið í grófbotna skóm. Þrátt fyrir það hafi hún ekki náð að afstýra slysinu vegna flughálku sem hafði myndast á göngustígnum. Stefnandi kveðst hafa leitað samdægurs til læknis. Í færslu í sjúkraskrá hennar segir að hún hafi runnið í hálku um morguninn á leið til vinnu, og hlotið áverka, m.a. á baki, hálsi og hnakka. Finni hún fyrir dofa aftan í hnakka sem leiði upp í höfuð og niður með hálsi. Einnig þreifieymsli yfir hryggjartindum um ofanverðan brjósthrygg. Samkvæmt læknisvottorði Hjördísar Harðardóttur hefur stefnandi allt frá slysdegi glímt við afleiðingar þessa slyss. Með bréfi stefnanda til réttargæslustefnda, dags. 22. mars 2007, var þess óskað að viðurkennd yrði skaðabótaskylda stefnda vegna slyss stefnanda og tjón hennar greitt úr ábyrgðartryggingu stefnda. Með svarbréfi réttargæslustefnda, dags. 14. september 2007, var bótaskyldu stefnda hafnað. Við þá niðurstöðu kveðst stefnandi ekki geta unað og hefur því höfðað mál þetta. Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að stefndi sé skaðabótaskyldur, samkvæmt almennu skaðabótareglunni, á slysinu. Slysið megi rekja til vanbúnaðar og óforsvaranlegra aðstæðna á gangstíg við leikskóla stefnda, Heiðarborg, í Árbæjarhverfi Reykjavíkur, og/eða ófullnægjandi viðbragða starfsmanna stefnda við hálkumyndun á göngustígnum og þeirri slysahættu sem henni fylgdi. Beri stefndi því ábyrgð á því líkamstjóni stefnanda sem af slysinu hlaust, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga. Í málinu liggi fyrir að stefnandi slasaðist er henni skrikaði fótur og hún missti jafnvægið í hálku sem hafði myndast á göngustíg sem liggur að leikskólanum Heiðarborg. Vísist hér til vottorðs Veðurstofu Íslands, yfirlýsingar Emelíu B. Möller, leikskólastjóra Heiðarborgar, og bréfs réttargæslustefnda 14. september 2007. Byggt er á því að stefnda hafi borið að sjá til þess að umbúnaður göngustígsins, sem liggur að leikskólanum Heiðarborg, væri forsvaranlegar og hefði ekki í för með sér slysahættu fyrir þá gangandi vegfarendur er nýttu sér þjónustu skólans. Hafi hvílt sérstaklega rík skylda á stefnda, sem opinberum aðila, að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi vegfarenda á göngustígnum að leikskólanum, sem sé eina leiðin frá bílastæði að leikskólanum. Hafi starfsmönnum leikskólans, eða öðrum starfsmönnum stefnda, borið að tryggja að umbúnaður gönguleiðarinnar væri forsvaranlegur þannig að öryggi vegfarenda væri tryggt, svo sem með því að sand- eða saltbera göngustíginn, en það hefði ekki verið mikið verk, enda fjarlægð frá bílastæði að leikskólanum ekki nema nokkrir tugir metra. Fyrir liggi að stefnda hafi verið kunnugt um hálkumyndun í efri byggðum borgarinnar umræddan morgun, m.a. í Árbæjar- og Seláshverfi. Verði að ætla að honum hafi þá þegar borið að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slysahættu við stofnanir borgarinnar. Telja verði að sérstaklega brýnt hafi verið að gera ráðstafanir á göngustígnum að leikskólanum, þar sem hann hafi hvorki verið upphitaður né hafi þar verið lýsing. Því hafi verið kolniðamyrkur við stíginn í þeim erfiðu aðstæðum er þar höfðu skapast. Telja verði einnig að starfsmönnum leikskólans, sem sumir hverjir hafi verið mættir til vinnu klukkan 07.30 um morguninn, og jafnvel fyrr, hafi borið að grípa til ráðstafana vegna hálkumyndunarinnar, svo sem með því að bera sand eða salt á göngustíginn, áður en von væri á foreldrum með börn sín á leikskólann, milli klukkan 08.00 og 09.00. Ekkert hafi hins vegar verið aðhafst í þessum efnum. Telja verði einnig að sérstaklega brýn nauðsyn hafi verið til að fylgjast með hálkumyndun á göngustígnum og gera ráðstafanir til að tryggja þar öryggi vegfarenda. Einkum hafi það verið brýnt í ljósi þess að þegar stefnandi féll hafi það ekki verið í fyrsta skiptið sem starfsmenn leikskólans eða foreldrar barna á leikskólanum féllu þar í hálku. Um þetta hafi starfsmönnum stefnda auðvitað verið kunnugt en þrátt fyrir það hafi engar ráðstafanir verið gerðar vegna hálkumyndunar á göngustígnum umræddan morgun. Til viðbótar því að engar ráðstafanir voru gerðar til að bregðast við hálkumyndun á göngustígnum, þá liggi fyrir að engin lýsing hafi verið á stígnum, sem gert hafi það að verkum að stefnanda hafi nánast verið ókleift að átta sig með góðu móti á aðstæðum. Hún hafi ekki séð, vegna myrkurs, hvar myndast hafði hálka á göngustígnum. Hafi það leitt til þess að þrátt fyrir að stefnandi hafi farið eins varlega og mögulegt var, með dóttur sína sér við hlið, hafi það ekki dugað til að afstýra slysi hennar. Augljóst sé að hefði verið fullnægjandi lýsing við göngustíginn hefði stefnandi átt hægara með að átta sig á aðstæðum og fóta sig á göngustígnum og hefði þá að öllum líkindum ekki slasast. Í febrúar 2005 hafi verið komið upp ljósastaurum við göngustíginn, að gefnu tilefni, en ljóst megi vera að það hefði átt að gera miklu fyrr. Auk alls framangreinds liggi fyrir að upphitun/bræðslukerfi hafi ekki verið í göngustígnum þegar slysið varð. Hefði slíkt kerfi verið til staðar hefði slys stefnanda ekki borið að. Einfalt hefði verið að koma slíkum búnaði fyrir, og hefði verið eðlilegt að slíkur búnaður væri til staðar, sérstaklega í ljósi þeirrar starfsemi sem fram fór í leikskólanum og vegna þeirra sem þangað þurftu að sækja. Með því að sjá ekki til þess að göngustígurinn væri upphitaður, en hann sé vel að merkja eina og beina leiðin í leikskólann, hafi stefndi brotið gegn grein 199.4 byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar segi að forráðamönnum opinberra fasteigna sé skylt að setja upphitun í umferðarstétt næst aðalinngangi viðkomandi húss þar sem því verði við komið. Ekki sé hægt að fallast á það með réttargæslustefnda að einungis göngustígurinn innan girðingar leikskólans teljist til umferðarstéttar næst aðalinngangi. Aðstæður við leikskólann Heiðarborg séu þannig að frá bílastæði að inngangi leikskólans verði að ganga umræddan göngustíg. Ekki sé hægt að fallast á það með stefnda að girðing leikskólans, sem sé sett upp í þeim tilgangi að tryggja öryggi barna leikskólans, leiði til þess að einungis göngustígurinn innan girðingar leikskólans teljist falla undir framangreint ákvæði byggingarreglugerðarinnar, en ekki sá hluti göngustígsins sem liggi utan girðingarinnar. Stefnandi telur að sé horft til alls framangreinds, þess að engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að bregðast við hálkumyndun á göngustígnum, engin handrið eða lýsing hafi verið við göngustíginn og að göngustígurinn hafi ekki verið upphitaður, eins og kveðið sé á um í byggingarreglugerð, verði að telja að allar aðstæður og umbúnaður göngustígsins umrætt sinn hafi verið allsendis óforsvaranlegur. Verði stefndi af þessum sökum að bera ábyrgð á líkamstjóni stefnanda á grundvelli sakarreglu og/eða húsbóndaábyrgðarreglu skaðabótaréttarins. Stefnandi hafni því að slys hennar verði rakið til óhappatilviks og/eða eigin gáleysis. Í skaðabótarétti teljist óhapp vera það atvik sem engum verði kennt um. Augljóst megi vera að svo hafi ekki verið hér. Stefnandi telur einsýnt, með vísan til alls framangreinds, að slys hennar megi að öllu leyti rekja til óforsvaranlegra aðstæðna og umbúnaðar á umræddum göngustíg og/eða þess að stefndi hafi ekki með neinum hætti brugðist við hálkumyndun á göngustígnum. Liggi ekkert fyrir um það í málinu að stefnandi hafi hagað sér með gáleysislegum eða óforsvaranlegum hætti umrætt sinn. Stefnandi byggir á almennum reglum skaðabótaréttarins, um skaðabætur utan samninga, sakarreglunni og reglunni um ábyrgð vinnuveitenda á saknæmum verkum/aðgæsluleysi starfsmanna sinna. Einnig er byggt á reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð fasteignareigenda á umbúnaði fasteigna sinna o.fl. Einnig er byggt á reglum skaðabótalaga nr. 50/1993, og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Um málskostnað vísast til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Um virðisaukaskatt vísast til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld og beri henni því nauðsyn til þess að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Um heimild til höfðunar viðurkenningarmáls vísast til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að slysið sé ekki að rekja til atvika eða aðstæðna sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Af gögnum málsins megi ráða að orsök slyssins hafi verið óhappatilviljun og/eða eigin sök stefnanda. Skilyrðum sakarreglunnar sé ekki fullnægt og hafnar stefndi bótaábyrgð. Framangreindu til stuðnings vísar stefndi til þess að ekki sé unnt að rekja tjón stefnanda til vanbúnaðar eða óforsvaranlegra aðstæðna á göngustíg við leikskólann Heiðarborg þann 3. desember 2003. Verði slysið heldur ekki rakið til ófullnægjandi viðbragða starfsmanna stefnda, hvorki samstarfsmanna stefnanda né annarra starfsmanna stefnda. Er því mótmælt að sérstaklega rík skylda hafi hvílt á stefnda, sem opinberum aðila, að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi vegfarenda á umræddum göngustíg. Samkvæmt stefnu hafi óhappið átt sér stað kl. 08:00 að morgni þann 3. desember 2003. Stefnandi, sem hafði verið starfsmaður leikskólans um nokkurra ára skeið, hafi vitað eða mátti vita, að ef hálka væri á göngustígum við leikskólann svo snemma dagsins gæti hún ekki gert ráð fyrir að búið væri að salt- eða sandbera þann göngustíg sem hún féll á. Vísar stefndi til þess að ekki sé meiri hætta við þennan tiltekna göngustíg en við aðra göngustíga í borginni þegar hugsanleg hálka er á jörðu. Slys stefnanda sé ekki hægt að rekja til saknæmrar hegðunar starfsmanna stefnda heldur sé um óhappatilvik að ræða sem stefnandi beri sjálf ábyrgð á. Þá er því einnig mótmælt sérstaklega að viðbrögð samstarfsmanna stefnanda við leikskólann Heiðarborg hafi verið ófullnægjandi. Ótækt sé af hálfu stefnanda að gera kröfu til þess að aðrir starfsmenn leikskólans væru búnir að gera tilteknar öryggisráðstafanir á þeim tíma er óhappið átti sér stað, þ.e. að salt- eða sandbera göngustíginn. Þessu til stuðnings vísar stefnandi sérstaklega til þess að göngustígurinn liggi ekki næst aðalinngangi leikskólans. Ljóst sé að slys stefnanda verði ekki rakið til saknæmrar hegðunar samstarfsmanna hennar. Um óhappatilvik sé að ræða sem stefnandi beri sjálf ábyrgð á. Þá vísar stefndi til þess að af framlögðu vottorði Veðurstofu Íslands verði ráðið að bjartviðri og léttskýjað hafi verið aðfaranótt 3. desember, en skýjað og hitastig 3,2°C kl. 06:00 árdegis í Reykjavík. Klukkan 09:00 hafi verið rigning og hitastig skráð 5,7°C. Veðurskilyrði hafi ekki gefið starfsmönnum stefnda tilefni til sérstakra öryggisráðstafana sem séu frábrugðnar því sem hefðbundið er. Verði slysið því ekki rakið til yfirsjónar eða vanrækslu starfsmanna sem stefndi beri ábyrgð á. Þá vísar stefndi til þess að þennan tiltekna morgun hafi hverfisbækistöð í Breiðholti látið þjónustumiðstöðina á Stórhöfða vita um hálku á bílastæðum í efri byggðum og hafi óskaði eftir því að sandur yrði borinn á þau. Fjórir traktorar hafi farið út að sanda kl. 07:30, þar af einn í Árbæjar- og Seláshverfi. Byggir stefndi á því að sú skylda verði ekki lögð á hann á sand- eða saltbera alla göngustíga og bílastæði hverfisins. Þá sé ósannað að hálka, sem stefnandi lýsi, hafi verið meiri en annars staðar á gönguleiðum í þéttbýli eða að slysið verið rakið til vanbúnaðar eða vanrækslu af hálfu stefnda. Er staðhæfingum stefnanda sérstaklega mótmælt sem ósönnuðum um að þennan morgun hafi verið flughálka á göngustíg þeim er stefnandi féll á. Er því jafnframt mótmælt af hálfu stefnda að sú skylda hafi hvílt á honum að setja upphitun í göngustíginn sem stefnandi vísar til að hún hafi fallið á. Liggi sá göngustígur ekki næst aðalinngangi leikskólans. Þegar af þeirri ástæðu eigi tilvísanir stefnanda til greinar 199.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 ekki við um tjón hennar. Þá byggir stefndi á því að samkvæmt teikningum sé lengdarhalli göngustígsins 48 prómill. Ekki sé venja að setja handrið við göngustíga sem séu með eins litlum halla og sá sem stefnandi féll á. Jafnframt séu örfá dæmi um handrið við göngustíga sem séu með yfir 100 prómill lengdarhalla. Vísar stefndi til þess að engin krafa sé til þess í lögum eða reglum og/eða reglugerðum að hafa handrið við göngustíga sem þennan. Stefndi mótmælir því að ófullnægjandi lýsing hafi verið við göngustíginn. Verði hins vegar talið að lýsingunni hafi verið áfátt er á því byggt af hálfu stefnda að bótaskylda sé ekki fyrir hendi vegna þessa enda hafi stefnandi getað komið í veg fyrir tjón með nægilegri aðgát. Er staðhæfingu stefnanda, um að þegar hún féll hafi það alls ekki verið í fyrsta skiptið sem starfsmenn eða foreldrar barna hefðu fallið á þessum tiltekna göngustíg, jafnframt mótmælt sem rangri og ósannaðri. Hafi engin gögn verðið lögð fram staðhæfingunni til stuðnings. Til stuðnings sýknukröfu stefnda, á grundvelli eigin sakar stefnanda, er einkum vísað til þess að stefnanda hafi borið að sýna sérstaka aðgát þegar hún gekk á þeim göngustíg þar sem slysið átti sér stað. Hálka geti myndast mjög skyndilega yfir vetrarmánuðina á Íslandi og verði gangandi vegfarendur að vera viðbúnir því. Stefnandi hafði verið starfsmaður leikskólans síðastliðin sjö ár áður en óhappið átti sér stað og hafi því margoft gengið um þennan göngustíg. Hún hafi því gjörþekkt umhverfið og hafi borið að gæta fyllstu varkárni. Stefnandi hafi vitað eða mátti vita að það kynni að vera hált á þessu svæði enda sé það ekki upphitað eða gerðar aðrar sérstakar öryggisráðstafanir. Gáleysi stefnanda sé orsök slyssins. Af framangreindu telur stefndi ljóst vera að slysið verði hvorki rakið til saknæmrar háttsemi né vanbúnaðar. Tjón stefnanda sé fyrst og fremst að rekja til óhappatilviks og/eða eigin sakar hennar. Á afleiðingum slyssins beri stefnandi ein ábyrgð. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Til vara byggir stefndi aðallega á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til eigin sakar hennar og/eða óhappatilviljunar. Stefnandi eigi því að bera stærstan hluta tjóns síns sjálf þar sem eigin sök hennar upphefji bótaskylduna að mestu leyti. Vísar stefndi um þetta til þess sem áður hefur verið rakið til stuðnings aðalkröfu. Stefndi vísar sérstaklega til þess að stefnandi hóf störf á leikskólanum Heiðarborg í febrúar 1996. Stefnandi hafi því vitað eða mátti vita að það kynni að vera hált á þessu svæði. Hafi henni borið að sýna fyllstu varkárni, enda hafi henni verið aðstæður allar kunnar og hafi hún gjörþekkt umhverfið. Að öðru leyti er, til stuðnings varakröfu stefnda, byggt á sömu málsástæðum og að framan eru færðar til stuðnings aðalkröfu. Um lagarök vísar stefndi einkum til almennra reglna skaðabótaréttar, um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, óhappatilvik, gáleysi og eigin sök tjónþola. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi starfaði sem leiðbeinandi við leikskólann Heiðarborg í Árbæ, Reykjavík. Hinn 3. desember 2003 var stefnandi á leið til vinnu sinnar snemma morguns. Er hún var að koma að leikskólanum rann hún til á hálku og féll aftur fyrir sig. Byggir stefnandi á því í málinu að hún hafi við slysið orðið fyrir líkamstjóni sem stefndi, Reykjavíkurborg, beri bótaábyrgð á. Fyrir dómi lýsti stefnandi aðdraganda slyssins með þeim hætti að hún hafi lagt bíl sínum á bílastæði sem liggur við leikskólann. Hún hafi verið að koma að göngustíg sem liggur meðfram leikskólanum. Hún hafi ætlað að grípa í grindverkið sem liggur umhverfis leikskólann, en fallið áður en henni tókst að grípa í það. Kvað hún gangstéttina hafa verið ísi lagða. Þá hafi ekki verið nein lýsing á þessu svæði. Aðspurð kvaðst stefnandi hafa átt von á því að göngustígurinn væri háll á þessum árstíma. Dómari og lögmenn aðila fóru á vettvang og könnuðu aðstæður. Við eina hlið leikskólans liggur göngustígur, sem ætlaður er almenningi, en ekki eingöngu þeim sem erindi eiga í leikskólann. Á aðra hlið liggur bílastæði. Þeir sem koma frá bílastæðinu þurfa að ganga smáspotta á göngustígnum áður en þeir koma að hliði leikskólans. Er stefnandi féll var hún á mörkum bílastæðisins og göngustígsins. Einn ljósastaur var sjáanlegur í nágrenni slysstaðarins. Með hliðsjón af framburði Emelíu B. Möller leikskólastjóra og Þórhildar Svavarsdóttur deildarstjóra þykir mega leggja til grundvallar að lýsing hafi verið ófullnægjandi á göngustígnum. Eins og rakið hefur verið varð slysið ekki innan lóðar leikskólans heldur á mörkum bílastæðis og göngustígs sem ætlaður var almenningi. Samkvæmt framburði stefnanda og Emelíu B. Möller var það ekki í verkahring starfsmanna leikskólans að gera ráðstafanir til að sandbera göngustíginn eða bera á hann íseyðandi efni til að forða slysum. Bar Emelía að þegar hálka myndaðist hefði hún haft samband við starfsmenn Reykjavíkurborgar í hverfisstöð Árbæjarhverfis sem hafi þá komið eins fljótt og þeir gátu. Samkvæmt framansögðu þykir því ekki sýnt fram á að slys stefnanda verði rakið til saknæmrar háttsemi eða vanrækslu starfsmanna leikskólans. Stefnandi byggir einnig á því að stefndi, Reykjavíkurborg, beri ábyrgð á slysinu þar sem aðstæður á göngustígnum hafi verið óforsvaranlegar. Hafi stefnda, sem opinberum aðila, borið að sjá til þess að ráðstafanir væru gerðar til þess að tryggja öryggi vegfarenda um göngustíginn sem sé eina leiðin frá bílastæðinu að göngustígnum. Vísar stefnandi til greinar 199.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Ekki er fallist á að stefndi beri bótaábyrgð á grundvelli byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar sem ekki verður séð að hún eigi hér við. Eins og áður er rakið varð slysið utan girðingar leikskólans, á göngustíg sem er ætlaður almenningi en ekki við aðalinngang leikskólans. Stefnandi var starfsmaður leikskólans og hafði starfað þar í um það bil átta ár. Hún var því vel kunnug aðstæðum. Bar henni að gæta varkárni við þær veðuraðstæður sem voru hinn umrædda dag, enda bar hún fyrir dómi að hún hefði búist við að hálka væri á göngustígnum. Samkvæmt framansögðu telst slys stefnanda verða rakið til óhappatilviljunar eða gáleysis stefnanda. Ber samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu. Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Stefndi, Reykjavíkurborg, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Guðrúnar Ólafar Sumarliðadóttur. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 117/2010 | Kærumál Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli b. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. febrúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi „þar til dómur fellur í máli hans mánudaginn 8. mars 2010, kl. 15.00.“ Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hann verði einungis látinn sæta farbanni, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til mánudagsins 8. mars 2010 klukkan 15. |
Mál nr. 516/2016 | Ákæra Líkamsárás Skilorð | X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ráðist á A og slegið hana ítrekað með krepptum hnefa í andlit, bak og brjóstkassa með þeim afleiðingum meðal annars að hún hlaut mar í andliti og sár á augabrún. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í ákvörðun ákæruvalds um að höfða málið fælist beiting þess á valdheimildum á grundvelli laga og gæti hún eðli máls samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla. Til refsimildunar var litið til þess að X hafði ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Til refsiþyngingar var hins vegar horft til þess að brotið hafði beinst gegn eiginkonu hans, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Var refsing X ákveðin fangelsi í 90 daga en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnirHelgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.Ríkissaksóknariskaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða umáfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.Ákærði krefst þessaðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómurverði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, að þessu frágengnu að hann verðisýknaður af kröfu ákæruvaldsins og loks að refsing verði milduð.Af hálfu ákærðaeru bæði frávísunarkrafa hans og krafa um ómerkingu hins áfrýjaða dóms reistará því að héraðsdómari hafi átt að taka efnislega afstöðu til þess hvort fyrirhendi hafi verið almenningshagsmunir samkvæmt 2. mgr. 217. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1940 til útgáfu ákæru í máli þessu. Ákæruvaldið mat þaðsvo að almenningshagsmunir krefðust þess að mál þetta yrði höfðað. Sú ákvörðunfelur í sér beitingu ákæruvalds á valdheimildum á grundvelli laga og getur eðlimáls samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla, sbr. meðal annars dómaHæstaréttar 14. mars 2011 í máli nr. 140/2011 og 26. október 2011 í máli nr.578/2011. Verður framangreindum kröfum ákærða því hafnað.Við ákvörðunrefsingar ákærða verður ekki litið til yfirlýsingar brotaþola um andstöðu sínavið höfðun málsins. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan tilforsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.Ákærða verður gertað greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðsverjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og ídómsorði greinir.Dómsorð:Héraðsdómur skalvera óraskaður.Ákærði, X,greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 382.416 krónur, þar með talinmálsvarnarlaun verjanda síns, Magnúsar Björns Brynjólfssonarhæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.DómurHéraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2016. Mál þetta, semdómtekið var 19. maí sl., er höfðað með ákæru, útgefinni 1. mars sl., á hendurX, kennitala [...], [...] í [...], fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranóttlaugardagsins 6. desember 2014, ráðist á A, eiginkonu sína, á heimili þeirra að[...] í [...], slegið hana ítrekað með krepptum hnefa í andlit, bak ogbrjóstkassa, allt með þeim afleiðingum að A hlaut mar víðs vegar í andliti,bólgu yfir bæði augu, sár á hægri augabrún og eymsl á brjóstkassa, í hársverðiog á baki. Telst þetta varða við1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr.20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998. Þess er krafist aðákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Verjandi ákærðakrefst þess aðallega að málið verði fellt niður, en til vara að því verði vísaðfrá dómi. Til þrautavara er krafist sýknu. Þá krefst verjandi hæfilegrarþóknunar sér til handa.I Samkvæmt skýrslulögreglu var óskað eftir aðstoð hennar við [...] bensínstöð að [...] þar semstatt var fólk sem hafði flúið af heimili sínu að [...] vegna heimilisofbeldis.Hitti lögregla þar fyrir B og C sem lýstu því að þau hefðu flúið út þar semfaðir B væri ölvaður og hefði ráðist á þau, en það væri vani á föstudögum aðhann væri með læti vegna ölvunar. Upplýsti B að móðir hennar væri á heimilinuog bað hún lögreglu um að athuga hvort ekki væri allt í lagi með hana. Á samatíma barst önnur tilkynning þar sem þess var óskað að lögregla færi að [...]þar sem eiginkonan væri flúin af heimilinu. Er lögregla kom þangað var A fyrirutan húsið og segir í skýrslunni að hún hafi verið blóðug og marin í andliti,henni hafi verið mikið niðri fyrir og virst mjög hrædd. Hún sagði að eiginmaðurhennar, ákærði, hefði ráðist á hana og meðan á barsmíðunum hafi staðið hafihann sagst ætla að drepa hana. Sjáanlegir áverkar á A voru mar í andliti ogbólga á báðum augum. Þá blæddi úr hægri augabrún hennar, auk þess sem húnkvartaði undan eymslum í brjóstkassa, á brjóstum, í hársverði og á baki. Peysahennar var rifin og blóðug og hártægjur á baki peysunnar. Ákærði sat inni ístofu og var skyrta hans blóðug og fráhneppt að neðan. Hann var greinilegaundir áhrifum áfengis. Var ákærði handtekinn og færður á lögreglustöð. Viðskoðun á íbúðinni að [...] komu í ljós blóðblettir í stofu og eldhúsi.Klappstóll var brotinn á gangi við eldhúsið og glerkanna brotin á gólfi íherbergi B. Salernishurð var brotin að neðan eftir spörk. Brotið jólaskraut láá forstofugólfi. A var flutt á slysadeild og lögð þar inn vegna hugsanlegrarheilablæðingar. Í málinu liggja fyrirljósmyndir af áverkum á A sem teknar voru á vettvangi. Má þar sjá verulegaáverka í andliti hennar og blóð, auk þess sem blóðtaumur liggur frá augabrún.Þá er peysa hennar blóðug víðs vegar og má sjá hártægjur á bakhliðinni. Áljósmyndum af ákærða sem teknar voru hjá lögreglu má sjá blóð á skyrtu hans, enneðri hluti hennar er fráhnepptur. Þá liggja fyrir myndir af vettvangi þar semsjá má brotna hurð og blóðbletti. Af hálfu verjandaákærða var lögð fram yfirlýsing A, dags. 14. mars 2016, þar sem fram kemur aðákæran í málinu hafi ekki verið gefin út að hennar kröfu eða beiðni og hún farigegn vilja hennar. Þá lýsir hún því að verði málinu haldið til streitu muni húnekki mæta fyrir dóm eða gefa skýrslu vegna málsins. Þá frábiðji hún sérafskipti hins opinbera af einkalífi þeirra hjóna og mótmæli því að ákæruvaldiðeigi forræði málsins. Fyrir dómi neitaðiákærði að tjá sig um málið. Við aðalmeðferðmálsins var haft símasamband við B, dóttur ákærða, þar sem hún var stödderlendis. Hún skoraðist undan því að gefa skýrslu í málinu, sbr. 1. mgr. 117.gr. laga nr. 88/2008. Þá mætti C, tengdasonur ákærða, fyrir dóminn, enskoraðist jafnframt undan því að gefa skýrslu með vísan til sama ákvæðis. A mætti ekki fyrirdóminn en haft var símasamband við hana að ósk ákæruvaldsins til staðfestingará því að hún hygðist ekki gefa skýrslu í málinu. Skýrði hún þá frá því að húnskoraðist undan því að gefa skýrslu í málinu, samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laganr. 88/2008, og stæði við skýrslu sína hjá lögreglu. Þá gerði hún grein fyrirástæðu þessarar afstöðu sinnar og vísaði til yfirlýsingar sinnar frá 14. marssl. Vitnið Dlögreglumaður kvaðst muna vel eftir þessu máli. Lögreglumenn hafi veriðkallaðir að sjoppu við [...] þar sem þeir hafi hitt dóttur og tengdason ákærðavegna heimilisófriðar. Þau hafi lýst því að þetta væri alvanalegt áföstudagskvöldum. Þeir hafi síðan verið kallaðir að heimili ákærða. Eiginkonaákærða hafi þar komið stökkvandi fyrir bifreiðina og sagt að maðurinn hennarætlaði að drepa hana. Hún hafi verið blóðug, stokkbólgin á báðum augum og blætthafi úr augabrún. Ákærði hafi setið í stofunni en hafi veist að lögreglumönnumer þeir hafi komið inn. Íbúðin hafi verið snyrtileg fyrir utan merki um átök, svosem brotna hurð og stól. Eiginkona ákærða hafi lýst því að átökin hafi byrjað íeldhúsi og færst inn í stofu. Þar hafi ákærði legið á henni, veitt henni 20-40högg og margoft sagt að hann ætlaði að drepa hana. Hann hafi ekki hætt fyrr enhann hafi örmagnast. Vitnið kvaðst hafa fylgt eiginkonu ákærða á slysadeild þarsem hún hafi verið lögð inn vegna hugsanlegrar heilablæðingar. Hún hafi veriðmjög miður sín og hrædd og óskað eftir því að lögreglan veitti henni allamögulega aðstoð. Vitnið Elögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang umrætt sinn. Búið hafi verið aðtryggja vettvang að mestu er hann hafi komið og ákærði hafi setið inni í stofu.Ljóst hafi verið að mikið hafi gengið á. Blóð hafi verið sjáanlegt oginnanstokksmunir hafi kastast til. Ákærði hafi verið handtekinn og þurft hafiað taka hann tökum til að yfirbuga hann en hann hafi verið mjög drukkinn ogviðskotaillur. Hann hafi haft minni háttar áverka á hnúum. Vitnið kvaðst hafaséð eiginkonu ákærða á vettvangi. Hún hafi verið blóðug og fatnaður hennartættur. Hann kvað sig minna að búið hefði verið að rífa hressilega í hárið áhenni. Vitnið Flögreglumaður tók skýrslu af eiginkonu ákærða, A. Hún hafi ekki viljað leggjafram kæru og lýst því að þau hjónin væru að vinna í sínum málum. Hún hafi greintfrá því að þau hefðu umrætt sinn verið á jólahlaðborði. Ákærði hafi veriðorðinn ölvaður en þá yrði hann mjög erfiður. Hann hafi ráðist að henni og látiðhöggin dynja á andliti hennar og höfði. Dóttir hennar og tengdasonur hafi veriðfarin út áður en þetta hafi átt sér stað. Hún hafi lýst því að hún hafi dvalistyfir nótt á spítala vegna gruns um blæðingu inn á heila. Hún hafi ekki viljaðveita lögreglu aðgang að læknisfræðilegum gögnum vegna málsins. Vitnið Glögreglumaður, sem tók skýrslu af ákærða daginn eftir atburðinn, greindi fráþví að hann hefði sagst muna lítið eftir kvöldinu. Hann hefði sagt að efeiginkona sín greindi frá þessum atburðum væri það rétt. Hann hafi veriðþreyttur, blóðugur og í uppnámi. Hann hafi greint frá því að hann væri ekki meðopið sár og blóðið á honum væri því úr öðrum. II Ákærði krefst þess aðallega aðmálið verði fellt niður, en til vara að málinu verði vísað frá dómi. Byggirhann það á því að ekki liggi fyrir kæra af hálfu brotaþola. Í máli þessu erákært fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins höfðar ákæruvaldið mál út af brotum samkvæmt 1.mgr. og skal það ekki gert nema almenningshagsmunir krefjist þess. Í þessu máli hefur ákæruvaldið, að lokinnirannsókn málsins, metið það svo að skilyrði væru til útgáfu ákæru samkvæmt 145.gr. laga nr. 88/2008. Eðli málsins samkvæmt sætir sú ákvörðun ekki endurskoðundómstóla og verður kröfu ákærða um niðurfellingu eða frávísun málsins af þessumsökum hafnað. Ákærði neitar sök.Hann kaus að tjá sig ekki fyrir dómi um það sem honum er gefið að sök.Brotaþoli, sem er eiginkona ákærða, dóttir hans og tengdasonur skoruðust öllundan því að gefa skýrslu fyrir dómi. Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 27.febrúar 2015 og símaskýrslu 8. desember sama ár. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laganr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færðeru fram við meðferð máls fyrir dómi. Þó getur skýrsla vitnis hjá lögreglu haftsönnunargildi þótt vitnið komi ekki fyrir dóminn ef þess er ekki kostur viðmeðferð málsins, sbr. 3. mgr. 111. gr. Í greinargerð með framangreindu ákvæðier orðalagið „þess er ekki kostur“ skýrt svo að það geti tekið til þess þegarvitni er svo alvarlega veikt að það gæti stofnað heilsu þess í hættu að komafyrir dóm til skýrslugjafar, þegar vitni er horfið og ekki er vitað hvar það erniðurkomið eða þegar það neitar að gefa skýrslu fyrir dómi samkvæmt 117. gr.laganna. Brotaþoli mætti ekki fyrir dóminn þrátt fyrir boðun en sagði í símtalivið dóminn að hún skoraðist undan því að gefa skýrslu. Þá hafði hún jafnframtlýst því yfir 14. mars sl. að hún myndi ekki mæta. Með hliðsjón afframangreindu þykir verða að líta svo á að þess hafi ekki verið kostur að fávitnið fyrir dóminn í skilningi 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Ef þess er ekkikostur að vitni komi fyrir dóminn metur dómari hvort skýrsla fyrir lögregluhafi sönnunargildi og hvert það sé. Í málinu liggur fyrir hljóðupptaka afskýrslum brotaþola hjá lögreglu. Í framburði brotaþola fyrir lögreglu 27.febrúar 2015 kom fram að brotaþoli vildi ekki leggja fram kæru í málinu. Húnlýsti því hins vegar hvað hefði gerst umrætt kvöld og var lýsingin á þann vegað ákærði hefði slegið hana, setst klofvega yfir hana á gólfinu og látið höggindynja á henni með hnefum í höfuð og bringu. Þá greindi hún frá því að hún hefðifengið smávægilega blæðingu inn á heila sem hefði gengið til baka. Ísímaskýrslu 8. desember 2015 lýsti hún óbreyttri afstöðu til kæru. Þá kvaðsthún myndi koma áverkavottorði til lögreglu, en henni snerist síðar hugur ogheimilaði lögreglu ekki aðgang að læknisfræðilegum gögnum. Fyrir liggur að viðhandtöku ákærða var hann blóðugur og með áverka á hnúum. Af ljósmyndum í málinumá sjá talsvert blóð á honum en hann virðist ekki hafa haft nein sár sem blæddiúr. Af myndum af brotaþola frá umræddu kvöldi má sjá ýmsa áverka sem samrýmastákæru. Þá hafa lögreglumenn lýst áverkum sem þeir sáu á henni. Lögreglumennirnirlýstu því með skýrum hætti hvernig aðkoman var á vettvangi umrætt sinn. Þarhafi verið ýmis ummerki eftir átök og blóðblettir. Brotaþoli hafi lýst árásákærða og borið merki þess sem hefði gerst. Þá lýstu lögreglumenn skýrslutökumaf ákærða og brotaþola. Með hliðsjón afframburði lögreglumanna hér fyrir dómi, ljósmyndum af ákærða, brotaþola ogvettvangi, sem og öðrum málsgögnum, auk þess sem hliðsjón verður höfð af þvísem fram kom hjá brotaþola við skýrslugjöf hjá lögreglu þykir sannað að ákærðihafi veist að brotaþola umrætt sinn eins og lýst er í ákæru og veitt henni þááverka sem þar er lýst. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur fyrir það semhonum er gefið að sök í ákæru og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða. Ákærði er fæddur í[...] 1954. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Við ákvörðunrefsingar verður litið til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga en líkamsárásákærða beindist gegn eiginkonu hans. Þá verður litið til þess að um alvarlegalíkamsárás var að ræða, en jafnframt til framlagðrar yfirlýsingar brotaþola.Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í90 daga en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður aðliðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiðimálsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hrl.,245.520 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en ekki hlaust annarkostnaður af meðferð málsins. Af hálfuákæruvaldsins flutti málið Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari. Barbara Björnsdóttirhéraðsdómari kveður upp þennan dóm.D Ó M S O R Ð: Ákærði, X, sætifangelsi í 90 daga en fullnustu refsingarinnar skal frestað og falli hún niðurað liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiðimálsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hrl.,245.520 krónur. |
Mál nr. 30/1999 | Kærumál Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Krafist var framlengingar gæsluvarðhaldsvistar Ó, eingöngu á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en Ó var undir rökstuddum grun um innflutning á 630 grömmum af kókaíni. Ó hafði þegar setið í gæsluvarðhaldi í rúmlega mánuð á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Ekki var fallist á að gæsluvarðhaldsvist Ó yrði framlengd á þessum grunni. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 17. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili játað að hafa átt þátt í innflutningi á um 630 g af kókaíni til landsins, svo sem hann er borinn sökum. Sóknaraðili reisir ekki kröfu sína um gæsluvarðhald á því að þess sé þörf vegna rannsóknar málsins, heldur eingöngu á ákvæði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ekki verður fallist á að hér séu alveg næg efni til að beita gæsluvarðhaldi með stoð í því ákvæði. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. |
Mál nr. 604/2008 | Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu Réttaráhrif dóms Réttlát málsmeðferð Skaðabætur Orsakatengsl Sönnun Sératkvæði | P krafðist skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins þar sem brotinn hafi verið á honum réttur með dómi Hæstaréttar 25. apríl 1997 í máli hans gegn L. Málið gegn L hafði hann höfðað til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætra athafna L. Úrslit málsins urðu þau að þrír dómarar vildu sýkna L en tveir dómarar skiluðu sératkvæði og vildu taka kröfu P til greina. Árið 2003 komst mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að einn þriggja dómara sem skipuðu meirihluta Hæstaréttar hafi verið vanhæfur til setu í dóminum vegna fjárhagslegra tengsla við L og með því hafi verið brotið gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Taldi P íslenska ríkið bera fébótaábyrgð gagnvart sér annars vegar vegna þess að hann hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar og hins vegar þar sem það hafi ekki rétt hlut hans nægjanlega í kjölfar niðurstöðu mannréttindadómstólsins. Talið var að leggja yrði til grundvallar að hæstaréttardómaranum hafi borið að víkja sæti við meðferð málsins. Þátttaka vanhæfs dómara hafi falið í sér brot á mikilvægum grundvallarréttindum gagnvart P. Væri íslenska ríkið því ábyrgt fyrir fjártjóni sem af þessu kunni að hafa hlotist. Talið var að ógerlegt væri að geta sér til um á hvern veg atkvæði hefðu fallið í Hæstarétti ef annar dómari hefði skipað dóminn í stað þess sem með réttu átti að víkja sæti við meðferð málsins. Ætti það sama við ef lögum um meðferð einkamála hefði verið breytt og mál hans endurupptekið og dæmt á nýjan leik. Sé þar um getgátur að ræða en ekki fullnægjandi sönnun fyrir orsakatengslum milli ætlaðs tjóns og þess að ekki hafi verið fylgt reglum um réttláta málsmeðferð, en slík sönnun sé forsenda þess að P verði dæmdar bætur á þessum grundvelli. Talið var að íslenska ríkið hafi fullnægt skuldbindingu sinni samkvæmt 1. mgr. 46. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með því að greiða P þær miskabætur sem mannréttindadómstólinn hafi ákvarðað honum. Hafi ríkið því ekki látið hjá líða að bregðast við dómnum. Ekki var fallist á að það fyrirkomulag um endurupptöku dæmdra mála sem íslenski löggjafinn hafi valið og byggt sé á 169. gr. laga nr. 91/1991 sé andstætt 70. gr. stjórnarskrárinnar og var því hafnað að dæma skaðabætur á þeim grundvelli. P byggði einnig á því að niðurstaða málsins hafi verið lögfræðilega röng og valdið sér fjártjóni. Talið var að sakarefnið hafi verið endanlega til lykta leitt með dómi Hæstaréttar frá 1997. Formlegt gildi dómsins standi óhaggað, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Sé ekki heimild til þess að lögum að dómsúrlausn geti nú að efni til sætt endurskoðun Hæstaréttar á þeim grundvelli sem P byggi mál sitt á. Þá voru ákvæði íslenskra laga ekki talin standa því í vegi að P yrðu dæmdar miskabætur þótt mannréttindadómstóllinn hafi áður dæmt honum slíkar bætur. Þegar á hinn bóginn væru virt framangreind rök um bótagrundvöllinn yrði ekki fallist á að skilyrði væru til að dæma P miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu P. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir, dómstjórarnir Helgi I. Jónsson og Þorgeir Ingi Njálsson og Þorgeir Örlygsson prófessor. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. nóvember 2008. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 42.500.823 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. apríl 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess, að dómkröfur áfrýjanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði látinn falla niður. Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. I Áfrýjandi höfðar mál þetta til heimtu skaðabóta úr hendi stefnda á þeim grundvelli, að brotinn hafi verið á honum réttur er Hæstiréttur lauk 25. apríl 1997 dómi á mál hans gegn Landsbanka Íslands, en dómurinn er birtur í dómasafni Hæstaréttar það ár á blaðsíðu 1323 í máli nr. 210/1996. Málið á hendur bankanum höfðaði áfrýjandi til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætra athafna bankans er leitt hafi til þess, að hann hafi glatað tryggingarréttindum fyrir fjárkröfu á hendur þriðja manni og krafan fyrir vikið orðið honum einskis virði. Úrslit hæstaréttarmálsins urðu þau, að þrír dómarar sýknuðu bankann af kröfu áfrýjanda, en tveir dómarar skiluðu sératkvæði og vildu taka kröfu áfrýjanda til greina. Málsókn sína á hendur stefnda í máli þessu byggir áfrýjandi á því, að mannréttindadómstóll Evrópu hafi með dómi 10. apríl 2003 komist að þeirri niðurstöðu, að einn þriggja dómara sem mynduðu meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 hafi verið vanhæfur til setu í dóminum vegna fjárhagslegra tengsla við Landsbanka Íslands og með því hafi verið brotið gegn 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Telur áfrýjandi stefnda bera fébótaábyrgð gagnvart sér í fyrsta lagi vegna þess, að hann hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar við meðferð hæstaréttarmáls nr. 210/1996, og í öðru lagi vegna þess að stefndi hafi ekki rétt hlut áfrýjanda nægjanlega í kjölfar staðfestingar dóms mannréttindadómstóls Evrópu á mannréttindabroti gagnvart honum. Áfrýjandi telur, að tvenn úrræði hafi verið stefnda fær til að rétta hlut hans í kjölfar dóms mannréttindadómstólsins. Annars vegar hafi það mátt gera með því að heimila endurupptöku máls nr. 210/1996 og tryggja áfrýjanda þannig aðgang að sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Hins vegar með því að greiða áfrýjanda skaðabætur vegna þess tjóns, sem hann kynni að hafa orðið fyrir vegna meðferðar umrædds hæstaréttarmáls og vegna þess að málið hafi ekki fengist endurupptekið. Hvorug þessara leiða hafi verið farin og telur áfrýjandi sig ekki þurfa að sæta því, að mannréttindabrot stefnda valdi sér fjártjóni og eigi áfrýjandi rétt á að fá hvers konar fjártjón bætt sem telja megi að brot stefnda hafi valdið honum. Áfrýjandi áréttaði í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti, að hann hefði aldrei farið fram á að mál nr. 210/1996 yrði endurupptekið á grundvelli 169. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, heldur að dómur í því máli yrði felldur úr gildi og málið tekið til meðferðar að nýju með vísan til grunnreglna stjórnskipunar og réttarfars og meginreglna réttarskipunarinnar og eðli máls. Kröfum sínum til stuðnings vísar áfrýjandi til þess, að eftir uppkvaðningu dóms mannréttindadómstóls Evrópu hafi legið fyrir, að á honum hafi verið brotinn réttur og að hann kynni að hafa orðið fyrir verulegu fjártjóni vegna meðferðar hæstaréttarmáls nr. 210/1996. Telur áfrýjandi ljóst, að niðurstaða þess máls hefði getað orðið önnur ef hinn vanhæfi dómari hefði ekki tekið þátt í meðferð þess. Atkvæði hans hafi haft úrslitaþýðingu í málinu í þeim skilningi, að hinn vanhæfi dómari hafi verið einn þeirra þriggja sem stóðu að atkvæði meirihlutans. Hefði hinn vanhæfi dómari ekki tekið þátt í meðferð hæstaréttarmálsins megi leiða verulegar líkur að því, að niðurstaða málsins hefði orðið áfrýjanda, en ekki Landsbanka Íslands, í hag og áfrýjandi því fengið dæmdar skaðabætur úr hendi bankans. Þegar af þessari ástæðu sé raunhæft að ætla, að brot stefnda hafi valdið áfrýjanda fjártjóni og þurfi ekki frekari sönnunar við í þeim efnum. Stefndi mótmælir þeim grundvelli sem málatilbúnaður áfrýjanda hvílir á. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 feli í sér endanlega úrlausn þess ágreinings sem þar var leyst úr, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, og standi dómurinn því óhaggaður að formi til og efni. Ógerlegt sé að leiða getur að öðrum úrslitum hæstaréttarmálsins þótt allra reglna 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hefði verið gætt. Ætlað fjártjón áfrýjanda verði því ekki rakið til þess hvernig Hæstiréttur var skipaður í umræddu máli eða hvort reglum 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans var fullnægt og engin heimild sé að lögum til að víkja frá almennum reglum um sönnunarbyrði hvað varðar orsakasamband milli brots og ætlaðs fjártjóns. Stefndi byggir og á því, að íslenska ríkið hafi fullnægt dómi mannréttindadómstólsins í máli áfrýjanda og þeim skyldum sem á því hvíla samkvæmt mannréttindasáttmálanum og stjórnarskrá. Því verði bótaskylda stefnda gagnvart áfrýjanda ekki reist á þeim grundvelli, að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar í þeim efnum. Stefndi mótmælir einnig að krafa áfrýjanda geti átt stoð í því að niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 hafi verið lögfræðilega röng. Óraunhæft sé að ætla, að dæmt verði öðru sinni um kröfu áfrýjanda á hendur Landsbanka Íslands þar sem lagaheimild standi ekki til þess. Loks mótmælir stefndi því, að krafa áfrýjanda um miskabætur eigi sér lagastoð þar sem ólögmætri meingerð sé ekki til að dreifa af hálfu stefnda og því sé ekki fullnægt áskilnaði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. II Eins og fyrr greinir var það niðurstaða mannréttindadómstóls Evrópu, að einn þriggja dómara sem stóðu að atkvæði meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 hafi verið vanhæfur til setu í dóminum. Þótt engin ástæða væri til að ætla, að annað hvort umræddur dómari sjálfur eða maki hans hafi átt beina hagsmuni af úrslitum málsins, taldi mannréttindadómstóllinn að þáttur dómarans í skuldaskilum makans og það hagræði sem hann naut og tengsl hans við Landsbankann hafi verið þannig að eðli og umfangi og það nálægt athugun Hæstaréttar á máli áfrýjanda í tíma, að áfrýjandi hafi með réttu getað óttast að Hæstarétt skorti þá óhlutdrægni sem krafist er. Með því hafi verið brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og voru áfrýjanda dæmdar miskabætur vegna þeirra þjáninga sem mannréttindadómstóllinn taldi, að áfrýjandi hefði liðið af völdum þess sem talið var fela í sér brot gegn mannréttindasáttmálanum. Í máli þessu liggja fyrir gögn, sem ekki hafa verið bornar brigður á, um fjárhagsstöðu maka hæstaréttardómarans vorið 1996. Af þeim má ráða, að snemma í maí það ár var hann í ábyrgð fyrir kröfum á hendur þriðja manni er námu um 50 milljónum króna. Meðal kröfuhafa var Landsbanki Íslands með um 16 milljóna króna kröfu. Af þessu tilefni leitaði makinn samninga við lánardrottna aðalskuldara með það í huga að greiða hluta þeirra skulda sem hann var í ábyrgð fyrir, gegn því að eftirstöðvar skuldarinnar yrðu felldar niður. Í beiðni makans til Landsbanka Íslands um skuldaskil 15. apríl 1996 kemur fram, að hann telji sig eignalausan, en eiginkona hans eigi tvær fasteignir sem séu séreign hennar samkvæmt kaupmála og hafi hún samþykkt að ráðstafa með veðsetningum eða sölu nettó andvirði eigna sinna til greiðslu skuldanna að því tilskildu, að eiginmaður hennar yrði leystur undan ábyrgðunum. Var síðan í beiðninni farið fram á við Landsbankann, að bankinn samþykkti sem fullnaðargreiðslu 25% af heildarkröfu sinni er félli á eiginmanninn sem ábyrgðarmann. Gögn máls þessa bera það einnig með sér, að maki dómarans gaf 30. maí 1996 út fjögur skuldabréf til Landsbréfa hf., Verðbréfamarkaðar Landsbankans, sem var fjármálastofnun í eigu Landsbankans, og nam fjárhæð þeirra um 13,6 milljónum króna, tryggð með veði í fyrrgreindum fasteignum sem voru séreign hæstaréttardómarans. Makinn greiddi 4. júní 1996 í samræmi við skuldaskilasamning við Landsbanka Íslands tæpar 4,4 milljónir króna, en þar af gengu um 3,7 milljónir króna upp í skuld hans við bankann. Í samræmi við ákvæði skuldaskilasamningsins voru makanum gefnar eftir 75% af þeim skuldum sem til voru komnar vegna ábyrgða hans á framangreindum skuldum, eða um 11 milljónir króna. Loks bera gögn málsins það með sér, að heildarskuldir maka dómarans við Landsbanka Íslands hafi 4. júní 1996 verið um 17,3 milljónir króna, en 25. apríl 1997, er Hæstiréttur lauk dómi á mál nr. 210/1996, hafi heildarskuldir hans við bankann verið um 2,4 milljónir króna. Þegar virt er það sem að framan greinir um fjárhagsleg samskipti maka hæstaréttardómarans og Landsbanka Íslands í aðdraganda þess að Hæstiréttur lauk 25. apríl 1997 dómi á mál nr. 210/1996 og höfð er í huga aðkoma dómarans að því að greiða fyrir framangreindum skuldaskilum við Landsbankann, verður að leggja til grundvallar að hæstaréttardómaranum hafi samkvæmt 9. lið 6. gr. þágildandi laga um Hæstarétt Íslands nr. 75/1973 borið að víkja sæti við meðferð þess máls, sbr. og g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Við úrlausn þess álitaefnis hvort áfrýjandi geti að íslenskum lögum átt rétt til bóta vegna fjártjóns sem hann sannanlega kann að hafa beðið og rekja má til þess, að vanhæfur dómari tók þátt í meðferð máls hans fyrir Hæstarétti, er fyrst til þess að líta, að rétturinn til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli er meðal þeirra hornsteina sem lýðfrjáls ríki byggja réttarskipan sína á, sbr. 70. gr. stjórnarskrár, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þátttaka vanhæfs dómara í meðferð hæstaréttarmáls nr. 210/1996 fól því í sér gagnvart áfrýjanda brot á mikilvægum grundvallarréttindum. Er stefndi því ábyrgur fyrir fjártjóni áfrýjanda sem af þessu kann að hafa hlotist. Við meðferð hæstaréttarmáls nr. 210/1996 var Hæstiréttur Íslands skipaður fimm dómurum. Ef frá er talið atkvæði hins vanhæfa dómara við meðferð málsins féllu atkvæði jafnt þar sem tveir dómarar sýknuðu Landsbanka Íslands af kröfu áfrýjanda, en tveir vildu taka kröfu hans á hendur bankanum til greina. Á það verður fallist með héraðsdómi, að ógerlegt er eins og mál þetta er vaxið að geta sér til um það á hvern veg atkvæði hefðu fallið í Hæstarétti ef annar dómari hefði frá öndverðu skipað dóminn í stað þess sem með réttu átti að víkja sæti við meðferð málsins. Sama myndi eiga við ef lögum um meðferð einkamála hefði verið breytt á þann veg sem áfrýjandi mæltist til um og mál hans endurupptekið og dæmt í Hæstarétti á nýjan leik í skjóli slíkrar lagaheimildar. Er í því tilviki einnig útilokað að leiða að því líkur, hvernig atkvæði hefðu fallið í endurskipuðum Hæstarétti. Er því ekki fullnægjandi af hálfu áfrýjanda að vísa til þess, fjárkröfu sinni til stuðnings, að Hæstiréttur kynni að hafa komist að annarri niðurstöðu hefði hann verið skipaður öðrum dómendum við meðferð málsins. Er þar aðeins um getgátur að ræða, en ekki fullnægjandi sönnun fyrir orsakatengslum milli ætlaðs tjóns áfrýjanda og þess að ekki var fylgt reglum 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, en slík sönnun er forsenda þess að áfrýjanda verði dæmdar bætur á þessum grundvelli úr hendi stefnda. Málsástæðu áfrýjanda sem byggir á þessum grunni er því hafnað. III Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur áfrýjandi þrívegis leitað eftir því við Hæstarétt, að mál nr. 210/1996 verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu á ný, en ávallt verið synjað þar sem lagaskilyrði til endurupptöku hefur þótt skorta, síðast með ákvörðun Hæstaréttar 23. október 2006. Þá er í héraðsdómi gerð grein fyrir tilmælum áfrýjanda til forseta Alþingis um að handhafar löggjafarvalds hlutuðust til um að breytingar yrðu gerðar á lögum nr. 91/1991 í þá veru, að það hamli ekki endurupptöku máls og rétti til aðgangs að óhlutdrægum og óvilhöllum dómstóli, þótt endurupptökubeiðni hafi áður verið hafnað, þegar atvik máls og aðstæður eru með þeim hætti sem í tilviki áfrýjanda. Í framangreindri ákvörðun Hæstaréttar 23. október 2006 er tekið fram, að í lögum nr. 91/1991 sé ekki að finna sérstaka heimild til endurupptöku máls, sem dæmt hefur verið í Hæstarétti, í kjölfar dóms mannréttindadómstóls Evrópu um að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmálanum við meðferð málsins. Jafnframt liggur fyrir að lögum um meðferð einkamála hefur ekki verið breytt í þá veru sem áfrýjandi fór fram á við handhafa löggjafarvalds. Telur áfrýjandi, að með því að hlutast ekki til um slíka lagabreytingu hafi stefndi sýnt af sér háttsemi sem sé saknæm í skilningi almennra skaðabótareglna. Auk þess sé stefndi bótaskyldur gagnvart honum á hlutlægum grundvelli þar sem um skerðingu stjórnarskrárvarinna réttinda áfrýjanda sé að ræða. Þegar metið er hvort stefndi hafi bakað sér bótaábyrgð gagnvart áfrýjanda með því að hlutast ekki til um lagabreytingu með þeim hætti sem áfrýjandi fór fram á og áður er lýst, er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 46. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, heita samningsaðilar því að hlíta endanlegum dómi mannréttindadómstóls Evrópu í hverju máli sem þeir eru aðilar að. Af sáttmálanum verður ekki leidd sú regla, að aðildarríki hans séu skuldbundin til að rétta hlut kærenda á annan hátt en með greiðslu þeirra bóta sem mannréttindadómstóllinn kann að ákvarða kæranda í hverju tilviki. Verður því ekki séð, að íslenska ríkið hafi með aðild sinni að mannréttindasáttmála Evrópu undirgengist þá þjóðréttarlegu skuldbindingu að tryggja þeim sem mannréttindadómstóllinn telur brotið gegn rétt til að fá dómsmál fyrir íslenskum dómstólum endurupptekið. Tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins 19. janúar 2000 til aðildarríkja nr. R (2000) 2 um endurskoðun eða endurupptöku vissra mála fyrir innlendum dómstólum í framhaldi af dómum mannréttindadómstóls Evrópu fela ekki í sér slíka skuldbindingu fyrir íslenska ríkið að þjóðarétti. Þegar til þess er litið sem að framan er rakið, aðstæður í máli áfrýjanda virtar og það haft í huga, að stefndi greiddi áfrýjanda í ágúst 2003 þær miskabætur sem mannréttindadómstóll Evrópu ákvarðaði honum ásamt tildæmdum kostnaði, verður að leggja til grundvallar, að íslenska ríkið hafi fullnægt þeirri skuldbindingu sem það hefur undirgengist samkvæmt 1. mgr. 46. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Af þessu leiðir, að hafna ber þeirri málsástæðu áfrýjanda, að hann eigi rétt til bóta úr hendi stefnda þar sem stefndi hafi látið hjá líða að bregðast við dómi mannréttindadómstólsins 10. apríl 2003 með þeim hætti sem lögskylt var. Þá verður heldur ekki fallist á með áfrýjanda, að það fyrirkomulag um endurupptöku dæmdra mála sem íslenski löggjafinn hefur valið og byggt er á í 169. gr. laga nr. 91/1991 sé andstætt 70. gr. stjórnarskrárinnar eða öðrum þeim réttarheimildum sem áfrýjandi vísar til. Ber því einnig að hafna þeirri málsástæðu áfrýjanda, að skaðabætur honum til handa vegna ætlaðs fjártjóns hans verði dæmdar á þeim grundvelli, að áfrýjandi hafi ekki fengið mál sitt endurupptekið í Hæstarétti og dæmt á nýjan leik. IV Loks byggir áfrýjandi kröfur sínar á hendur stefnda í máli þessu á því, að niðurstaða hæstaréttarmáls nr. 210/1996 hafi verið lögfræðilega röng og valdið sér fjártjóni sem stefndi beri ábyrgð á. Vísar áfrýjandi í því sambandi til sératkvæðis tveggja dómara í málinu og gerir rökstuðning sem þar kemur fram að sínum. Í dómi meirihlutans í hæstaréttarmáli nr. 210/1996 er á því byggt, að til þess að áfrýjandi þess máls geti komið fram bótaábyrgð á hendur stefnda í því máli, þurfi hann fyrst að færa sönnur á eignaraðild sína að kröfu þeirri sem var grundvöllur málshöfðunar hans á hendur bankanum og sýna jafnframt fram á, að hann hafi orðið fyrir raunverulegu tjóni er bankinn eigi sök á og ekki hann sjálfur. Var síðan lagt til grundvallar af hálfu meirihlutans, að áfrýjanda málsins hefði ekki tekist að færa sönnur fyrir því, að hann hafi orðið eigandi kröfunnar og var bankinn sýknaður af kröfu áfrýjandans. Niðurstaða minnihlutans var hins vegar sú, að áfrýjandinn hefði í málinu sýnt nægilega fram á rétt sinn yfir kröfunni til að geta beint bótakröfu að Landsbankanum. Var í sératkvæðinu á það fallist með áfrýjandanum, að starfsmaður bankans hefði sýnt af sér háttsemi sem bankinn bæri ábyrgð á og voru áfrýjanda dæmdar bætur úr hendi bankans. Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem að lögum koma í þeirra stað, um þær kröfur sem þar eru dæmdar að efni til. Samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laganna verður krafa, sem dæmd hefur verið að efni til, ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en í þeim lögum segir og skal vísa nýju máli um slíka kröfu frá dómi. Af ákvæði þessu leiðir, að aðilar einkamáls hafa að íslenskum rétti takmörkuð úrræði til að leita endurskoðunar máls að gengnum dómi Hæstaréttar ef frá er talin endurupptaka eftir reglum 169. gr. tilvitnaðra laga. Eins og áður greinir hefur áfrýjandi þrívegis leitað endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 210/1996, en beiðni hans ávallt verið synjað. Með dómi Hæstaréttar í málinu var sakarefni þess endanlega til lykta leitt og stendur formlegt gildi dómsins því óhaggað, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Er ekki heimild til þess að lögum, að sú dómsúrlausn geti nú að efni til sætt endurskoðun Hæstaréttar á þeim grundvelli, sem áfrýjandi byggir mál sitt á. Ber því að hafna þeirri málsástæðu áfrýjanda, að hann geti átt rétt til skaðabóta úr hendi stefnda vegna ætlaðs fjártjóns á þeim grundvelli, að niðurstaða meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 hafi verið röng. V Eins og fram kemur í héraðsdómi dæmdi mannréttindadómstóll Evrópu 10. apríl 2003 áfrýjanda miskabætur að fjárhæð 25.000 evrur. Áfrýjandi telur að verði ekki á það fallist að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda í formi fjártjóns eigi hann, til viðbótar þeim miskabótum sem mannréttindadómstóllinn ákvarðaði honum, rétt til miskabóta úr hendi stefnda samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem felist í því að fá ekki skorið úr sakarefni hæstaréttarmáls nr. 210/1996 fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Telur áfrýjandi, að fjárhæð miskabóta eigi að svara til fjárhæðar aðalkröfu hans í málinu. Ákvæði íslenskra laga standa því ekki í vegi, að áfrýjanda verði í máli þessu dæmdar miskabætur úr hendi stefnda, þótt mannréttindadómstóll Evrópu hafi áður dæmt honum slíkar bætur vegna þeirra atvika er hann reisir dómkröfur sínar í máli þessu á, sbr. 2. gr. laga nr. 62/1994. Þegar á hinn bóginn eru virt þau rök sem liggja að baki niðurstöðu um bótagrundvöll í II. kafla dómsins hér að framan, verður ekki fallist á með áfrýjanda að skilyrði séu til að dæma honum miskabætur úr hendi stefnda samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. VI Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdóms að sýkna skuli stefnda af kröfum áfrýjanda í máli þessu. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Ég er samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda um að við meðferð hæstaréttarmáls nr. 210/1996 hafi verið brotið gegn ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 6. gr samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, en úrlausn mannréttindadómstóls Evrópu hefur ekki sjálfstæða þýðingu þegar komist er að þessari niðurstöðu þar sem hún er ekki bindandi að íslenskum landsrétti samkvæmt 2. gr. laga nr. 62/1994. Ég er einnig sammála meirihlutanum um að stefndi sé ábyrgur fyrir því fjártjóni sem af því kann að hafa hlotist að brotið var gegn þeim réttindum áfrýjanda sem njóta verndar í 70. gr. stjórnarskrárinnar. Áfrýjandi hefur þrisvar sinnum óskað eftir því við Hæstarétt að mál nr. 210/1996 yrði endurupptekið vegna upplýsinga um fjárhagsleg samskipti maka eins dómenda Hæstaréttar í því máli við Landsbanka Íslands sem ekki hafi legið fyrir við meðferð málsins. Fram er komið hjá áfrýjanda að hann hafi aldrei farið fram á að málið yrði endurupptekið á grundvelli 169. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, heldur með vísan til grunnreglna stjórnskipunar og réttarfars, meginreglna réttarskipunar og eðlis máls. Hins vegar taldi Hæstiréttur allt að einu að um beiðnir hans færi að ákvæðum 169. gr. laga nr. 91/1991. Í síðasta svari réttarins til áfrýjanda 23. október 2006 var sérstaklega tekið fram að í fyrri málslið 2. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 væri fortakslaust kveðið á um að aðili gæti ekki nema einu sinni sótt um endurupptöku í máli samkvæmt 1. mgr. greinarinnar og ekki hefðu verið færð fram haldbær rök fyrir því að þetta væri í ósamræmi við 70. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þessu liggur fyrir að hæstaréttarmálið nr. 210/1996 hvorki hefur verið né verður tekið fyrir á ný til endurskoðunar í Hæstarétti. Áfrýjanda verður ekki um það kennt. Fyrir liggur samkvæmt framansögðu að áfrýjandi hefur ekki notið þeirrar málsmeðferðar sem 70. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að tryggja honum. Leggja verður til grundvallar að stefndi beri ábyrgð á því að tryggja mönnum slíka meðferð. Áfrýjanda er ógerlegt að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirrar röngu málsmeðferðar er hann sannarlega sætti. Eins og á stendur um þetta tel ég að stefndi verði að bera hallann af ómöguleika við sönnun á því hvort brotið hafi leitt til fjártjóns fyrir áfrýjanda og þá hve mikils. Vegna niðurstöðu meirihluta dómenda um sýknu stefnda er ekki þörf á að fjalla sérstaklega um varakröfu stefnda um lækkun á fjárhæð bóta til handa áfrýjanda en þess skal getið að ég tel að dæma beri stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Mál þetta var höfðað 24. apríl 2007 og dómtekið 2. þ.m. Stefnandi er Pétur Þór Sigurðsson, Klyfjaseli 18, Reykjavík. Stefndi er íslenska ríkið. Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 42.500.823 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. apríl 2003 til greiðsludags auk málskostnaðar. Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður. Með úrskurði þessa dóms 30. janúar 2008 var málinu vísað frá dómi og með því fallist á upphaflega aðalkröfu stefnda. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem felldi hann úr gildi með dómi sínum 4. mars 2008 (mál nr. 104/2008) og lagði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. 1 Með dómi Hæstaréttar Íslands 25. apríl 1997 í máli nr. 210/1996 var Landsbanki Íslands sýknaður af kröfu stefnanda um skaðabætur að fjárhæð 8.746.319 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. október 1992 til greiðsludags auk málskostnaðar vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna saknæmrar háttsemi starfsmanns bankans. Einnig var stefnandi dæmdur til að greiða Landsbanka Íslands 200.000 krónur í málskostnað. Með dóminum var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. maí 2006. Tveir dómarar af fimm skiluðu sératkvæði. Þeir töldu að taka bæri kröfu áfrýjanda til greina en þó þannig að krafan bæri dráttarvexti frá 30. ágúst 1993 er mánuður hefði verið liðinn frá því áfrýjandi beindi rökstuddri kröfu að stefnda um greiðslu bótafjárhæðarinnar. Þá töldu þeir að dæma bæri stefnda í málinu til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Hinn 9. júní 1997 óskaði stefnandi eftir því við Hæstarétt að dómur í framangreindu máli yrði felldur úr gildi vegna vanhæfis eins dómarans, sem skipað hafði meirihlutann í málinu, byggðu á fjárhagslegum tengslum hans við Landsbanka Íslands. Í niðurstöðu réttarins töldust þau tengsl ekki upplýst. Lægi því ekki fyrir að umræddur dómari hefði verið vanhæfur; lagaskilyrði væru því ekki til að verða við beiðni um endurupptöku málsins og var henni hafnað. Hinn 23. október 1997 leitaði stefnandi á ný eftir endurupptöku málsins. Taldi hann að veruleg fjárhagsleg tengsl milli maka dómarans og Landsbanka Íslands renndu stoðum undir vanhæfi hans. Þessari beiðni stefnanda var hafnað 19. nóvember 1997 með vísun til þess að samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 gæti aðili ekki sótt nema einu sinni um endurupptöku máls samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar. Hinn 23. október 1997 lagði stefnandi fram kæru fyrir mannréttindanefnd Evrópu þar sem hann taldi skipan dómsins í framangreindu máli hafa falið í sér brot á 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með ákvörðun 14. júní 2001 var því slegið föstu að kæran væri tæk til meðferðar. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu féll 10. apríl 2003. Í áliti dómsins segir m.a.: „ Dómstóllin telur að það sé fyrst og fremst óhlutdrægnikrafan sem til umfjöllunar er í þessu máli...Spurningunni um hvort óhlutdrægni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sáttmálans sé fyrir hendi ber bæði að svara á huglægum grundvelli, þ.e. á grundvelli persónulegrar sannfæringar dómara í tilteknu máli, og á hlutlægum grundvelli, þ.e. með athugun á hvort aðstæður hafi verið þannig að útiloka megi að óhlutdrægni dómarans verði með réttu dregin í efa...Samkvæmt hinu hlutlæga viðmiði verður að ákvarða, án nokkurs tillits til gerða dómarans, hvort fyrir hendi séu atvik sem kunna að vekja vafa um óhlutdrægni hans. Í þessu efni kann ásýndin ein jafnvel að öðlast nokkuð mikilvægi. Það, sem hér er í húfi, er það traust sem dómstólar í lýðræðisþjóðfélagi verða að vekja meðal almennings. Þess vegna verður hver sá dómari, sem með réttu er unnt að óttast að ekki sé óhlutdrægur, að víkja sæti... leit að minnsta kosti svo út að tengsl væru milli ráðstafana Guðrúnar Erlendsdóttur hæstaréttardómara í þágu eiginmanns síns og þess hagræðis sem Landsbankinn veitti honum. Dómstóllinn mun ekki hafa uppi getgátur um hvort hún naut af þessu einhvers persónulegs hags, og telur enga ástæðu til að ætla að annað hvort hún sjálf eða eiginmaður hennar hafi átt einhverja beina hagsmuni af úrslitum máls kæranda og Landsbankans. Aftur á móti voru þáttur dómarans í skuldaskilunum, það hagræði sem eiginmaður hennar naut og tengsl hans við Landsbankann þannig að eðli og umfangi, og það nálægt athugun Hæstaréttar á máli kæranda í tíma, að kærandi gat með réttu óttast að Hæstarétt skorti þá óhlutdrægni sem krafist er.“ Í forsendum dómsins varðandi tjón segir: „Kærandi krafðist skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón er hann hefði orðið fyrir vegna þess að hann tapaði máli sínu fyrir Hæstarétti hinn 25. apríl 1997, þar sem dæmt var bankanum í vil með þremur atkvæðum gegn tveimur, og þar sem eitt meirihlutaatkvæðanna var atkvæði Guðrúnar Erlendsdóttur hæstaréttardómara. Krafðist kærandi kr. 41.010.259, og myndaði aðalkrafa hans í því máli, kr. 8.746.319, þá fjárhæð ásamt áföllnum dráttarvöxtum. Hann lagði áherslu á að orsakasamhengi væri milli þess að Hæstiréttur hefði ekki sinnt máli hans sem sjálfstæður og óhlutdrægur dómstóll og þess að rétturinn hefði hafnað kröfu hans. Kærandi fór einnig fram á að dómstóllinn ákvarðaði honum miskabætur vegna vonbrigða, þjáninga og mannorðsspjalla sem hann hefði orðið fyrir af brotinu. Krafðist hann bóta að mati dómstólsins sem ekki væru lægri en 40 milljónir króna... Dómstóllinn telur að sanngjarnar bætur verði aðeins ákvarðaðar á þeirri forsendu að kærandi naut ekki allra reglna 1. mgr. 6. gr. sáttmálans. Dómstólnum er ókleift að leiða getum að úrslitum máls kæranda ef svo hefði verið. Dómstóllinn telur þó að kærandi hafi liðið þjáningar af völdum þess sem talið er fela í sér brot gegn sáttmálanum og verði það ekki nægilega bætt með þeirri ákvörðun að brot hafi átt sér stað...“ Í dómsorðum var kröfu stefnanda (kæranda) um bætur fyrir fjártjón vísað frá dómi en jafnframt var kveðið á um að íslenska ríkinu bæri að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 25.000 evrur auk 15. 000 evra í kostnað og útgjöld. Einnig var kveðið á um að ríkið skyldi greiða stefnanda þann skatt sem kynni að vera lagður á ofangreindar greiðslur. Dómarar Mannréttindadómstóls Evrópu, sjö að tölu, voru einhuga um framangreindar dómsniðurstöður að því undanskildu að einn dómarinn skilaði sératkvæði með eftirfarandi meginrökum: „Ég hef greitt atkvæði gegn því að veita kæranda miskabætur að fjárhæð 25.000 evrur þar sem ég álít þá fjárhæð augljóslega fram úr hófi með hliðsjón af fordæmum dómstólsins.“ Þá gerðu tveir dómenda sérstaka grein fyrir samþykktaratkvæðum sínum. Í séráliti annars þeirra, sem hinn lýsti sig sammála með nokkrum viðbótarskýringum, segir: „Svo kann að virðast að miskabætur þær, sem dæmdar eru í máli þessu, séu fremur háar. Ég hef engu að síður greitt atkvæði mitt með meirihlutanum fyrir greiðslu þeirra bóta af ástæðum sem rétt er að séu skýrðar. Þegar hagar til eins og í þessu máli, þegar dómstóll heimalandsins sker úr ágreiningi með meiri hluta þriggja gegn tveimur og brot virðist hafa verið framið gegn 1. mgr. 6. gr. vegna þess að einn dómara hefur skort óhlutdrægni eða svo lítur a.m.k. út fyrir -, virðist endurupptaka innan lands vera eðlileg eða jafnvel sjálfsögð í kjölfar slíks dóms. Ráðherranefndin hefur hvatt öll aðildarríki til að fella inn í landslög sín ákvæði um möguleika á endurupptöku mála ef Mannréttindadómstóll Evrópu hefur álitið að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 6. gr., sérstaklega þegar „brotið byggist á réttarfarslegum mistökum eða ágöllum sem eru svo alvarlegs eðlis að verulegur vafi er fyrir hendi um úrslit þeirra málaferla í heimalandinu sem kvartað er um“ (sjá Tilmæli ráherranefndar til aðildarríkja nr. R(2000)2 um endurskoðun eða endurupptöku dómsmála heima fyrir í kjölfar dóma Mannréttindadómstóls Evrópu, samþykkt 19. janúar 2000). Ég tel að þessu máli sé þannig farið. Kærandi hefur þegar, án árangurs, beðið um endurupptöku málsins og íslensk lög gera að því er virðist ekki ráð fyrir neinum frekari möguleikum á endurupptöku...Ef nýjar ástæður til endurupptöku koma til í kjölfar dóms Mannréttindadómstólsins ætti viðeigandi endurupptökutilhögun alltaf að vera fyrir hendi. Þar sem þessi leið er, að því er virðist, lokuð samkvæmt íslenskum lögum og langt kann að vera þangað til Ísland breytir landslögum sínum, verður hér ekki einungis að taka tillit til þess langa tíma sem líða kann heldur einnig til þess að kærandi fær ef til vill aldrei mál sitt endurupptekið...“ Stefnandi tók við umræddum miskabótum, ásamt dæmdum kostnaði vegna reksturs málsins fyrir Mannréttindadómstólnum, úr hendi íslenska ríkisins í ágústmánuði 2003. Í bréfi sínu til ríkislögmanns 20. ágúst 2003 gerði hann þann fyrirvara að þrátt fyrir móttöku greiðslunnar gerði hann „eftir sem áður þá kröfu á hendur íslenska ríkinu að gripið (yrði) til sértækra ráðstafana til að bæta úr brotinu gagnvart (sér) og rétta hlut (sinn) “. Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 15. september 2005, til fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu fylgdi yfirlit yfir þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hefðu gripið til í því skyni að fullnægja dómi Mannrétttindadómstóls Evrópu í máli stefnanda þessa máls. Dómurinn hafi verið þýddur og birtur á heimasíðu ráðuneytisins. Ekki væri ljóst hver afstaða Hæstaréttar yrði til beiðni stefnanda um endurupptöku málsins, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 169. greinar laga nr. 91/1991, þar sem ekki hefði áður reynt á endurupptöku máls fyrir Hæstarétti í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði slegið föstu broti gegn mannréttindasáttmálanum. Þá var vísað til þess að dómsmálaráðuneytið hefði með bréfi, dags. 18. júlí 2005, farið þess á leit við réttarfarsnefnd að hún léti í té álit sitt á því hvort ákvæði XXV. kafla laga nr. 91/1991, að því er varðar heimildir til endurupptöku mála, ættu að sæta endurskoðun, meðal annars að teknu tilliti til dóms mannréttindadómstólsins í máli stefnanda og tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R(2000)2 um endurupptöku mála að landsrétti í kjölfar dómsuppkvaðninga mannréttindadómstólsins. Í því bréfi, sem hér var getið, er vísað til þess að með bréfi, dags. 18. október 2004, hefði fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu greint frá því að ráðherranefnd Evrópuráðsins hefði ekki lokað máli stefnanda. Bréfinu hefði fylgt fyrirspurn frá mannréttindaskrifstofu Evrópuráðsins, dags. 12. ágúst 2004, þar sem fram kæmi sú afstaða að málinu yrði best lokið með endurupptöku þess fyrir Hæstarétti. Hinn 7. júlí 2006 fór stefnandi þess á leit að dómur í framangreindu máli yrði felldur úr gildi og það tekið til meðferðar að nýju fyrir Hæstarétti. Samkvæmt endurriti úr gerðabók Hæstaréttar 23. október 2006 var umsókn stefnanda um endurupptöku hafnað þegar af þeirri ástæðu að skilyrði 2. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 væru ekki uppfyllt til að Hæstiréttur tæki hana til efnislegrar umfjöllunar að nýju. Stefnandi sendi forseta Alþingis bréf 23. febrúar 2007. Þar segir að því sé beint til íslenska ríkisins að það hlutist til um að lögum um meðferð einkamála verði breytt í þá veru að það að endurupptökubeiðni hafi áður verið hafnað hamli ekki endurupptöku máls og rétti til aðgangs að óhlutdrægum og óvilhöllum dómstóli. Að mati stefnanda sé ljóst, verði ekki hlutast til um viðeigandi lagabreytingar, að íslenska ríkið hafi þá synjað honum aðgangs að óhlutdrægum og óvilhöllum dómstóli og að honum sé þá nauðugur sá kostur að leita réttar síns eftir öðrum leiðum en beinast virðist þá liggja við að höfða skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu. Í svarbréfi 5. mars 2007 kveðst forsetinn telja eðlilegast að dómsmálaráðherra og allsherjarnefnd meti hvort tilefni sé til að standa að þeirri lagabreytingu sem lögð sé til í bréfi stefnanda. Hann hafi því óskað eftir því við formann allsherjarnefndar að nefndin taki erindið til athugunar. Hins vegar sé ekki venja að forseti eigi frumkvæði að lagasetningu af þessu tagi í krafti síns embættis. Í stefnu segir að með vísun til framanritaðs og þar sem frekari viðræður hafi ekki borið árangur, að teknu tilliti til fyrningarreglna og þess langa tíma sem liðið hafi frá uppkvaðningu dóms Mannréttindadómstólsins án þess að stefndi gerði neinn sérstakan reka að því að bregðast við honum, sé málshöfðun óhjákvæmileg. 2 Stefnandi kveður stefnda hafa brotið gegn þeim grundvallarréttindum sínum að fá notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óvilhöllum dómstóli við meðferð einkamáls hans gegn Landsbanka Íslands, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 10. apríl 2003. Einnig hafi stefndi vanrækt, í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu, að bregðast við dóminum með því að heimila stefnanda endurupptöku málsins og tryggja um leið aðgang hans að óvilhöllum dómstóli. Með því hafi stefnandi m.a. brotið gegn 46. gr. sáttmálans, sem kveði á um að samningsaðilar heiti því að hlíta endanlegum dómum dómstólsins í þeim málum sem þeir eigi aðild að, og þeirri meginreglu réttarins að sérhver sá, sem sæti broti á mannréttindum sínum af hálfu hins opinbera, skuli eiga raunhæf úrræði að landsrétti til að leita réttar síns, sbr. einnig undirstöðurök 13. gr. mannréttindasáttmálans. Af hálfu stefnanda er á því byggt að vegna framangreindra brota beri stefnda að bæta stefnanda allt það fjárhagslega tjón sem raunhæft megi telja að af þeim hafi hlotist. Brot á ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, þ.m.t. þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins, teljist að meginreglu saknæm af hálfu ríkisins en auk þess sé á því byggt að ríkið beri hlutlæga ábyrgð á slíkum brotum. Af hálfu stefnanda er á því byggt að í umræddu hæstaréttarmáli hafi atkvæði hins vanhæfa dómara haft úrslitaþýðingu og hann hafi því verið sviptur raunhæfum kosti þess að tryggja fjárhagslegan rétt sinn, sbr. til hliðsjónar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessu sé jafnframt ljóst að hefði stefndi heimilað endurupptöku málsins og um leið tryggt aðgang stefnanda að óvilhöllum dómstóli séu líkur til þess að hann hefði fengið stefnufjárhæð máls þessa ásamt dráttarvöxtum frá 30. ágúst 1993 dæmdar úr hendi Landsbankans. Vegna aðgerðarleysis stefnda að tryggja stefnanda réttláta og hlutlausa málsmeðferð og þar með mannréttindi hans beri stefndi allan halla af því hver niðurstaða endurupptekins máls hefði orðið. Verði skaðabótaréttur stefnanda talinn háður því að hann hafi orðið fyrir óyggjandi fjártjóni verði stefndi að bera allan halla af óvissu í því tilliti enda sé hún til komin vegna réttarbrots hans og aðgerðarleysis við að rétta hlut stefnanda. Stefnandi byggir jafnframt á því að verði skaðabótaréttur hans, þrátt fyrir allt framangreint, talinn vera háður því að hann hafi orðið fyrir óyggjandi fjártjóni sem stefnanda beri að sanna, séu verulega miklar líkur fyrir því að fallist hefði verið á fjárkröfur hans við endurupptöku málsins. Á því er þannig byggt að niðurstaða meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 210/1996 hafi verið lögfræðilega röng og að ráðgera verði, hefði málið verið endurupptekið, að niðurstaðan hefði orðið önnur og þá í samræmi við atkvæði þeirra dómara sem skipuðu minnihlutann í málinu. Umkrafin fjárhæð er þannig fundin að miðað er við höfuðstól kröfu stefnanda á hendur Landsbanka Íslands í hæstaréttarmálinu hr. 210/1996, 8.746.319 krónur, en á hann reiknist dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. ágúst 1993, í samræmi við sératkvæði í málinu, til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 10. apríl 2003 er dómur Mannréttindadómstóls Evrópu var kveðinn upp. Líta verði svo á að við uppkvaðningu dómsins hafi brot stefnda verið staðfest og honum hafi þá í síðasta lagi borið að rétta hlut stefnanda. Áfallnir dráttarvextir á tilgreindu tímabili nemi 33.754.504 krónum sem að viðbættri höfuðstólsfjárhæð nemi samtals stefnufjárhæð málsins. Krafist er dráttarvaxta af þeirri kröfu á hendur stefnda frá 10. apríl 2003 þar sem stefnandi hafi gert ítarlega grein fyrir fjárkröfu sinni í erindi til Mannréttindadómstóls Evrópu 5. apríl 2002 og þeirri kröfu verið beint gegn stefnda. Höfnun dóms á framangreindum málsástæðum stefnanda feli í sér þá niðurstöðu að hann verði að hlíta því að hafa hvorki fengið aðgang að óvilhöllum dómstóli né að réttur hans vegna þessa hafi í neinu verið bættur. Yrði þetta niðurstaðan telur stefnandi sig eiga rétt á miskabótum úr hendi stefnda vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem slík niðurstaða fæli í sér, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Telur stefnandi hæfilegar miskabætur svara sömu fjárhæð og hann telji fjárhagslegt tjón sitt vera. 3 Af hálfu stefnda er byggt á því að með dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. apríl 1997 í máli nr. 210/1996 hafi verið felldur dómur á bótakröfu stefnanda gegn Landsbanka Íslands og bankinn verið sýknaður en krafan hafi á engan hátt byggst á réttarsambandi við stefnda. Dómur Hæstaréttar sé endanlegur samkvæmt grundvallarreglum réttarfars og íslenskrar stjórnskipunar og engin heimild sé til endurskoðunar hans, á þann hátt sem krafist sé í málinu, í formi skaðabótakröfu gegn stefnda. Þessu til stuðnings vísar stefndi til V. kafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. og 1. gr. dómstólalaga nr. 15/1998 og lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 24. gr., 25. gr. og 116. gr., svo og meginreglna einkamálaréttarfars. Að virtum forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 210/1996, sem stefnandi hafi ekki reynt að hrekja nema á þeim grundvelli að einn dómenda hafi verið vanhæfur og að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu, sé ósannað að niðurstaðan hefði orðið önnur en um það hljóti stefnandi að bera sönnunarbyrði. Á því er einnig byggt af hálfu stefnda að hann hafi fullnægt skyldum sínum samkvæmt 46. gr. mannréttindasáttmálans, sem á hann hafi verið lagðar með dómsorði Mannréttindadómstólsins, og greitt stefnanda tildæmdar bætur. Þá stangist þær skorður, sem settar séu við endurupptöku dæmdra mála fyrir Hæstarétti, í engu á við sáttmálann og bótakrafa stefnanda fái ekki stoð í því að stefnda hafi borið að tryggja frekari leið til endurupptöku með lagabreytingu eða hlutast til um aðra dómsmeðferð í máli hans gegn Landsbanka Íslands. Varakrafa stefnda er rökstudd með því að verði fallist á að stefndi beri bótaskyldu í málinu og leitt verði getum að annarri niðurstöðu Hæstaréttar sé engan vegin víst að kröfur stefnanda hefðu verið teknar til greina að öllu leyti eða að dráttarvextir hefðu verið ákvarðaðir eins og hann ráðgeri nú, auk þess sem telja verði þá áföllnu dráttarvexti fyrnda eftir ákvæðum 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905. Stefndi vísar til tómlætis stefnanda varðandi málskot hans til Mannréttindadómstólsins svo og höfðun þessa máls. Stefndi mótmælir einnig almennt dráttarvaxtakröfu stefnanda og vísar til heimildar dómara að færa til upphafstíma dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. 4 Auk greinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu er megingagn stefnanda endurrit dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 210/1996 en gögn þess liggja ekki frammi. Dómur Hæstaréttar felur í sér endanlega úrlausn þess ágreiningsefnis stefnanda og Landsbanka Íslands sem þar var til umfjöllunar. Samkvæmt réttarskipan landsins er það fráleitt á valdsviði héraðsdómara að kveða á um hvort dómur Hæstaréttar Íslands í tilteknu máli hafi verið réttur eða rangur. Það er grundvallarregla í skaðabótarétti að sá, sem krefst skaðabóta, verður í fyrsta lagi að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og umfang þess. Síðan þarf hann að sanna bótagrundvöll og orsakatengsl. Sá, sem krefst skaðabóta, ber sönnunarbyrði um ætlað tjón sitt og er ekki fallist á að í þessu máli séu rök til að víkja frá þeirri almennu grundvallarreglu. Mannréttindadómstóll Evrópu mat einn af fimm dómurum framangreinds máls vanhæfan á grundvelli hlutlægra sjónarmiða. Að atkvæði hans undanskildu féllu atkvæði jafnt. Ógerlegt er að ætla á um það á hvern veg atkvæði dómara, sem komið hefði í stað þess sem með réttu hefði átt að víkja sæti, hefði fallið. Hefðu stjórnvöld lagt fram lagafrumvarp eða hlutast til um framlagningu þess, sem til þess væri fallið að greiða stefnanda leið að endurupptöku máls hans fyrir Hæstarétti, er alls óvíst hver afdrif þess hefðu orðið í meðförum handhafa löggjafarvalds. Hinu sama gegnir um niðurstöðu hugsanlegs, nýs dóms. Þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hefur ekki sýnt fram á tjón sitt verður eigi fallist á kröfu hans um bætur vegna ætlaðs fjártjóns. Af hálfu stefnanda er ekki sett fram ákveðin, sérgreind miskabótakrafa. Dómkrafa hans er sett fram á grundvelli útreiknaðs, fjárhagslegs tjóns. Á engan hátt er sýnt fram á að fullnægt sé áskilnaði 1. mgr. 26. skaðabótalaga um miskabætur og er kröfu stefnanda, að því er lýtur að þeirri málsástæðu, hafnað. Samkvæmt framangreindu er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður. Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Péturs Þórs Sigurðssonar. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 172/2001 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Ár 2001, föstudaginn 11. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Hjördísi Hákonardóttur héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X [ . . . ], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 22. júní 2001 klukkan 16:00. Af hálfu kærða er þess krafist að kröfunni verði hafnað. Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 22. júní 2001 klukkan 16:00. |
Mál nr. 25/2022 | Kærumál Útlendingur Lögvarðir hagsmunir Persónuvernd Stjórnarskrá Frávísun frá héraðsdómi felld úr gildi | A kærði dóm Landsréttar þar sem máli hennar á hendur Í var vísað frá héraðsdómi. Ágreiningur málsins laut að því hvort A hefði lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um ógildingu úrskurðar kærunefndar útlendingarmála 25. september 2018 þar sem staðfest var synjun Útlendingastofnunar um að veita A vegabréfsáritun til Íslands sumarið 2018. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fyrirmæli 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar hefðu verið skýrð þannig að sérhverjum sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta beri réttur til að fá skorið úr ágreiningi um lögmæti ákvarðana og athafna stjórnvalda. Tiltekin réttaráhrif væru enn bundin við ákvörðunina frá 2018 um að synja A um vegabréfsáritun. Þannig væri mælt fyrir um skráningu ákvörðunarinnar og ástæður að baki henni í miðlægt upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu. Eina úrræði A til þess að fá eytt þeim persónuupplýsingum, sem skráðar væru um hana í kerfið og hún telur óáreiðanlegar eða rangar, væri að leita til dómstóla hér á landi til að fá ógilta stjórnvaldsákvörðun um synjun vegabréfsáritunar. Þegar þetta væri virt hefði A lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni um ógildingu á úrskurði kærunefndar útlendingamála sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar. Var hinn kærði dómur felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. apríl 2022 en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 25. mars 2022 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar en til vara að hann verði látinn niður falla.4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar en til vara að kærumálskostnaður verði látinn niður falla.Ágreiningsefni5. Fyrir Hæstarétti lýtur ágreiningur málsins að því hvort sóknaraðili hefur lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um ógildingu úrskurðar kærunefndar útlendingamála 25. september 2018 þar sem staðfest var synjun Útlendingastofnunar um að veita sóknaraðila vegabréfsáritun til Íslands sumarið 2018. Byggðist niðurstaða hins kærða dóms um frávísun málsins frá héraðsdómi á því að lögvarðir hagsmunir væru ekki fyrir hendi þar sem tímabilið sem sóknaraðili sótti um vegabréfsáritun fyrir væri liðið og ekkert lægi fyrir um að hún hefði sótt um vegabréfsáritun á ný.Málsatvik og meðferð máls6. Sóknaraðili, sem er kínverskur ríkisborgari, sótti um vegabréfsáritun til Íslands hjá sendiráði Íslands í Peking í Kína 15. maí 2018. Í umsókn hennar kom fram að hún hygðist koma á Schengen-svæðið 16. júlí 2018 og yfirgefa það 15. ágúst sama ár. Útlendingastofnun synjaði umsókn sóknaraðila 20. júní 2018 á þeim forsendum að upplýsingar sem hún veitti um tilgang dvalar sinnar þættu ótrúverðugar auk þess sem talin var hætta á að hún dveldi lengur á svæðinu en heimilt væri samkvæmt vegabréfsáritun. Því væru ekki uppfyllt skilyrði vegabréfsáritunar samkvæmt 20. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og 32. gr. reglugerðar nr. 1160/2010 um vegabréfsáritanir og tekið fram að sóknaraðili væri metin sem „innflytjendaáhætta“ (immigration risk) á Schengen-svæðinu. Sóknaraðili skaut ákvörðuninni til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti hana með úrskurði 25. september 2018.7. Sóknaraðili höfðaði mál þetta 27. september 2019 og krafðist þess að úrskurður kærunefndarinnar yrði ógiltur og ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja henni um vegabréfsáritun yrði felld úr gildi. Byggðist krafa hennar á því að málsmeðferð Útlendingastofnunar og síðar kærunefndar útlendingamála hefði brotið í bága við ýmis ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt var á því byggt að mati á hvort hún uppfyllti skilyrði fyrir vegabréfsáritun samkvæmt 20. gr. laga nr. 80/2016 hefði verið verulega ábótavant. 8. Með héraðsdómi 7. janúar 2021 var lagt mat á lögvarða hagsmuni sóknaraðila af úrlausn málsins í ljósi þess að krafa hennar lyti að vegabréfsáritun vegna ferðar sem hún hugðist fara sumarið 2018. Vísað var til þess að þótt tímabilið væri liðið yrði ekki fullyrt að það hefði ekkert raunhæft gildi fyrir hana að fá leyst efnislega úr máli sínu. Í dóminum var talið að brotið hefði verið gegn andmælarétti sóknaraðila samkvæmt 12. gr. laga nr. 80/2016 og 13. gr. laga nr. 37/1993 við meðferð Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála á máli hennar. Þrátt fyrir þann annmarka á málsmeðferð hefði varnaraðili leitt nægar líkur að því að niðurstaða kærunefndarinnar hefði orðið sú sama þótt andmælaréttur sóknaraðila hefði verið virtur. Varnaraðili var því sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila.9. Sóknaraðili áfrýjaði dóminum til Landsréttar. Í hinum kærða dómi var talið að sóknaraðili hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um sakarefnið, enda væri tímabilið sem hún sótti um vegabréfsáritun fyrir löngu liðið og ekkert lægi fyrir um hvort hún hefði sótt um vegabréfsáritun á ný. Auk þess myndi synjun um áritun ekki sjálfkrafa leiða til þess að nýrri umsókn þar um yrði synjað en hún yrði metin á grundvelli allra fyrirliggjandi upplýsinga. Málinu var af þessari ástæðu vísað frá héraðsdómi án kröfu.Málsástæður aðila0. Sóknaraðili telur að hún hafi ríka lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins og bendir því til stuðnings einkum á að varnaraðili hafi skráð synjun um vegabréfsráritun til hennar og ástæður fyrir henni í sameiginlegt upplýsingakerfi Schengen-ríkjanna, svo sem mælt sé fyrir um í 5. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 1160/2010. Um sé að ræða skuldbindingu Íslands samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 767/2008 frá 9. júlí 2008 um upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir (VIS) og skipti á gögnum milli aðildarríkja um vegabréfsáritanir til stuttrar dvalar. Eitt helsta markmið upplýsingakerfisins sé að draga úr misnotkun á vegabréfsáritunum og koma í veg fyrir að einstaklingur fái vegabréfsáritun samþykkta þegar annað Schengen-ríki hefur áður synjað um vegabréfsáritun, aðstoða við að bera kennsl á þá sem ekki uppfylla skilyrði fyrir komu á Schengen-svæðið og koma í veg fyrir ógnir við innra öryggi.1. Sóknaraðili heldur því fram að skráning á synjun vegabréfsáritunar og ástæðum hennar í upplýsingakerfið sé verulega íþyngjandi fyrir hana. Kerfið byggist á því að lögregluyfirvöld og stofnanir sem annist vegabréfsáritanir og landamæraeftirlit allra aðildarríkja á Schengen-svæðinu hafi aðgang að þessum upplýsingum þegar meta þurfi síðari umsóknir hennar um vegabréfsáritun til að ferðast inn á svæðið. 2. Sóknaraðili leggur áherslu á mikilvægi þess að þær rangfærslur sem komi fram í ákvörðunum stjórnvalda um synjun á umsókn hennar og skráningu þeirra í upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir séu leiðréttar. Þá bendir hún á að persónuupplýsingar um hana sem þar séu varði meðal annars fjölskylduhagi hennar og séu þáttur í friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Eina leiðin til þess að fá þessum upplýsingum eytt og þar með áhrifum skráningarinnar á ferðafrelsi hennar sé að dómstóll ógildi ákvörðun um að synja henni um vegabréfsáritun. Vísar hún um það til 3. mgr. 25. gr. fyrrgreindrar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 767/2008 sem mæli fyrir um að aðildarríki skuli tafarlaust eyða gögnum um synjun um vegabréfsáritun úr kerfinu þegar endanlegur dómur um ógildingu ákvörðunar liggur fyrir.3. Varnaraðili telur það nýja málsástæðu af hálfu sóknaraðila að hún hafi sérstaka hagsmuni af því að synjun um vegabréfsáritun sé ekki skráð í miðlægt upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir enda hafi hvorki verið byggt á henni í héraði né fyrir Landsrétti. Þótt synjunin sé vissulega skráð í upplýsingakerfið samkvæmt fyrrgreindum reglugerðum hafi málatilbúnaður sóknaraðila fram að þessu ekkert lotið að umræddri skráningu heldur aðeins fjallað um þær ástæður sem leiddu til synjunar og málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála.4. Þá bendir varnaraðili á að verði dómkrafa sóknaraðila um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar tekin til greina þyrfti sóknaraðili engu að síður að sækja um vegabréfsáritun að nýju, sbr. 5. mgr. 20. gr. laga nr. 80/2016, enda gildi slík áritun að hámarki 90 daga á nánar tilgreindu tímabili. Það tímabil sé löngu liðið eins og fram hafi komið í hinum kærða dómi. Sóknaraðili hafi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr dómkröfu sinni enda hafi úrlausn um sakarefnið ekkert raunhæft gildi fyrir réttarstöðu hennar. Með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 beri því að staðfesta hinn kærða dóm.Niðurstaða5. Dómstólar eiga almennt úrskurðarvald um gildi stjórnvaldsákvarðana en sú meginregla hefur verið leidd af 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sem mælir fyrir um að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Í greininni er í senn fólginn stjórnskipulegur grundvöllur fyrir eftirliti dómstóla með framkvæmdarvaldinu og réttur til að fá skorið úr ágreiningi um lögmæti ákvarðana og athafna stjórnvalda. Var sú skipan styrkt frekar þegar fest var almenn regla í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnarskipunarlög nr. 97/1995, um að öllum beri réttur til að fá úrlausn dómstóls um réttindi sín og skyldur. 6. Af þessum ákvæðum leiðir að borgararnir eiga stjórnarskrárvarinn rétt til að fá efnisúrlausn dómstóla í máli um lögmæti stjórnvaldsákvarðana að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. einnig til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 26. mars 2013 í máli nr. 652/2012 og 31. júlí 2017 í máli nr. 452/2017. Þannig segir í greinargerð með frumvarpi að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 að það teljist ekki andstætt rétti til aðgangs að dómstólum samkvæmt 1. mgr. 70. gr. að reglur séu settar í réttarfarslöggjöf um að maður þurfi sjálfur að hafa hagsmuni af því að fá leyst úr máli til að geta lagt það fyrir dómstóla.7. Sú vernd sem framangreind ákvæði veita rétti manns til að fá úrlausn dómstóla um lögmæti stjórnvaldsákvörðunar er því meðal annars háð grunnreglu einkamálaréttarfars um lögvarða hagsmuni og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sem mælir fyrir um að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 12. júní 2002 í máli nr. 231/2002. Því verður úrlausn máls að hafa raunhæft gildi eða þýðingu fyrir hagsmuni aðila máls og þeir hagsmunir teljast lögvarðir ef þeir tengjast þeim réttarreglum eða réttindum og skyldum sem eru hluti af sakarefninu. Ástæða er til að beita grunnreglunni um nauðsyn lögvarinna hagsmuna ekki með ströngum hætti enda kann með því að verða gengið of nærri hinum stjórnarskrárvarða rétti til aðgangs að dómstólum. 8. Reglan um lögvarða hagsmuni í einkamáli lýtur að formhlið máls sem dómara ber að gæta af sjálfsdáðum þótt krafa um frávísun komi ekki fram, sbr. til hliðsjónar fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 231/2002. Af þeirri ástæðu verður ekki ætlast til að sá sem höfðar mál færi fram með tæmandi hætti málsástæður til stuðnings því að hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um sakarefni, sbr. einnig 1. mgr. 111. gr. laganna. Verður því ekki fallist á þær röksemdir varnaraðila að þær málsástæður sem sóknaraðili teflir fram hér fyrir réttinum, um afleiðingar af skráningu ákvörðunar í upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir fyrir réttindi hennar, séu svo vanreifaðar í greinargerð fyrir Landsrétti að um nýja málsástæðu sé að ræða sem beri að hafna. Að auki er þess að gæta að í greinargerð sóknaraðila til Landsréttar er sérstaklega fjallað um lögvarða hagsmuni hennar af ógildingu synjunar um vegabréfsáritun vegna áhrifa ákvörðunarinnar á ferðafrelsi hennar til allra ríkja á Schengen-svæðinu. Kom sú málsástæða því fram þegar tilefni varð fyrst til, sbr. einnig 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 og er það jafnframt kjarni málatilbúnaðar hennar fyrir Hæstarétti.9. Í málinu er óumdeilt að tímabilið sem sóknaraðili sótti um vegabréfsáritun fyrir miðaðist við 16. júlí til 15. ágúst 2018. Eru réttaráhrif synjunar að því er varðar útgáfu áritunarinnar sem slíkrar því ótvírætt liðin undir lok. Eins og fram kemur í hinum kærða dómi myndi ógilding ákvörðunarinnar þannig ekki hafa neitt raunhæft gildi í því tilliti fyrir sóknaraðila og yrði hún að sækja á ný um áritun ef hún hefði áform um að koma hingað til lands í framtíðinni.20. Á hinn bóginn er ljóst að önnur tiltekin réttaráhrif eru enn bundin við ákvörðunina frá 2018 um að synja sóknaraðila um vegabréfsáritun. Svo sem fyrr greinir er mælt fyrir um skráningu ákvörðunarinnar og ástæður fyrir henni í miðlægt upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu, sbr. fyrirmæli í 5. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 1160/2010 sem er sett með stoð í 20. gr. laga nr. 80/2016. Í 8. mgr. 20. gr. laganna er tekið fram að heimilt sé að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja við mat á umsókn um vegabréfsáritun. Þá er tekið fram í lokamálsgrein 21. gr. fyrrgreindrar reglugerðar að þótt áður hafi verið synjað um vegabréfsáritun skuli það ekki leiða til þess að nýrri umsókn verði synjað sjálfkrafa en ný umsókn skuli metin á grundvelli allra fyrirliggjandi upplýsinga.21. Vafalaust er samkvæmt framangreindu að fyrri ákvörðun um að synja sóknaraðila um vegabréfsáritun á grundvelli innflytjendaáhættu sumarið 2018 og aðrar upplýsingar um ástæður synjunar sem skráðar eru í upplýsingakerfið verða hluti af fyrirliggjandi gögnum sem þýðingu geta haft og gætu reynst íþyngjandi við afgreiðslu síðari umsóknar hennar. Er þá einkum horft til þess markmiðs kerfisins að fyrirbyggja að einstaklingur fái vegabréfsáritun samþykkta þegar annað ríki á Schengen-svæðinu hefur áður synjað um vegabréfsáritun.22. Upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir hér á landi er hluti af umfangsmiklu rafrænu gagnasafni sem tengist sameiginlegu upplýsingakerfi allra ríkja á Schengen-svæðinu samkvæmt 20. gr. laga nr. 80/2016 og nánari fyrirmælum laga nr. 51/2021 um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Sóknaraðili nýtur réttar samkvæmt 20. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og 15. gr. laga nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi til að fá leiðréttar óáreiðanlegar upplýsingar um sig og að fá röngum upplýsingum eytt. Sem fyrr greinir koma nánari skilyrði fyrir eyðingu gagna sem tengjast synjun um vegabréfsáritun í upplýsingakerfið fram í 3. mgr. 25. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 767/2008, sbr. einnig reglugerð nr. 1275/2021 um íslenskan hluta upplýsingakerfis (N-VIS) um vegabréfsáritanir, en annars er meginreglan samkvæmt 23. gr. fyrrgreindrar reglugerðar að varðveislutími upplýsinga um umsóknir sé að hámarki fimm ár.23. Ljóst er því að eina úrræði sóknaraðila til þess að fá eytt þeim persónuupplýsingum, sem skráðar eru um hana í kerfið og hún telur óáreiðanlegar eða rangar, er að leita til dómstóla hér á landi til að fá ógilta stjórnvaldsákvörðun um synjun vegabréfsáritunar. Þegar þetta er virt hefur sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni um ógildingu á úrskurði kærunefndar útlendingamála sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar. Má um það einnig til hliðsjónar vísa til dóms Hæstaréttar 7. maí 2003 í máli nr. 150/2003. Standa hvorki ákvæði 25. gr. laga nr. 91/1991 né grunnreglur einkamálaréttarfars um lögvarða hagsmuni því í vegi að efnisdómur verði lagður á kröfuna sem sóknaraðili hefur uppi í málinu.24. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði dómur felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.25. Það athugist að sóknaraðili þurfti ekki að krefjast þess að ákvörðun Útlendingastofnunar yrði felld úr gildi samhliða kröfu um ógildingu á úrskurði kærunefndar útlendingamála.26. Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn kærði dómur er felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, A, 500.000 krónur í kærumálskostnað.https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=172af3b8-73ec-4e03-9cd0-095e262d49ac&verdictid=99911fda-5f10-4c7d-a021-509ba646ef5e |
Mál nr. 125/1999 | Skaðabætur | Bifreiðarstjórinn G slasaðist við fermingu vöruflutningabifreiðar á athafnasvæði L. Varð slysið þegar G hugðist vega sig upp í bifreiðina af bretti, sem var á gálga lyftara, sem notaður var við verkið, en S, stjórnandi lyftarans, setti hliðarfærslu lyftarans af stað um leið með þeim afleiðingum að hönd G klemmdist. Hélt G því fram að hann hefði beðið S að stöðva lyftarann, en S mótmælti því að hann hefði heyrt slík skilaboð. Krafðist G bóta úr hendi L á grundvelli húsbóndaábyrgðar vegna mistaka S. Héraðsdómur sýknaði L, þar sem að ekki var talið að G hefði fært sönnur fyrir því að atvik að slysinu hefðu verið slík, sem hann hélt fram. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest í Hæstarétti með vísan til forsendna. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 1999. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.447.734 krónur auk 2% ársvaxta frá 1. febrúar 1995 til 22. september 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem rétt þykir að að fella niður. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað, sem fellur niður. Áfrýjandi, Gunnar Viðar Gunnarsson, greiði stefnda, Landflutningum ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 1998. I. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 28. maí 1998 og dómtekið 8. þ.m. Stefnandi er Gunnar Viðar Gunnarsson, kt. 240369-5759, Mávakletti 3, Borgarnesi. Stefndi er Landflutningar ehf., kt. 710169-4629, Skútuvogi 8, Reykjavík. Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að upphæð 2.537.629 krónur, auk 2% ársvaxta af þeirri fjárhæð frá 1. febrúar 1995 til 22. september sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist, að áfallnir dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar og dráttarvextir reiknist af þeirri fjárhæð á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 25/1987, í fyrsta sinn 19. mars 1998. Þá er krafist málsksotnaðar. Stefndi krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að sér verði tildæmdur málskostnaður úr hendi hans, en til vara, að sök verði skipt, kröfur stefnanda lækkaðar og málskostnaður felldur niður. II. Málsatvik eru þau, að stefnandi slasaðist miðvikudaginn 1. febrúar 1995, er hann vann við lestun vöruflutningabifreiðarinnar PB-040 á athafnasvæði stefnda Skútuvogi 8 í Reykjavík. Stefnandi hafði ekið bifreiðinni frá bílastöðinni Stefni hf. á Akureyri (nú Flutningamiðstöð Norðurlands ehf.), en hann hafði starfað þar um skeið sem flutningabílstjóri. Hann vann einnig við akstur eftir slysið. Stefnandi lauk sveinsprófi í húsasmíði 28. janúar 1995 og hefur að undanförnu, eða í rúmt ár, starfað við húsasmíðar. Lestun bifreiðarinnar fór þannig fram, að vörum á brettum var lyft inn í vörurými bifreiðarinnar með vörulyftara stefnda, Linda/Lancing JL-2216. Stjórnaði starfsmaður stefnda, Stefán Hermóður Gestsson, lyftaranum. Við lok lestunar á PB-040 var næstsíðasta vörubrettið staðsett aftast vinstra megin á bílpallinum og var það með viðkvæmar mjólkurvörur. Um nánari atvik segir í stefnu: „. . .bað stefnandi stjórnanda lyftarans að bíða, meðan hann færi inn í vöruhús bifreiðarinnar og lagaði til, þannig að síðasta brettið gæti gengið inn í bifreiðina. Stefnandi hugðist vega sig upp í bifreiðina af bretti því, sem var á gálga lyftarans, upp í vöruhúsið, en það er algeng aðferð. Í þann mund, er stefnandi var að vega sig upp, setti stjórnandi lyftarans hliðarfærslu lyftarans af stað með þeim afleiðingum, að hægri hönd stefnanda, sem er rétthentur, klemmdist illa.“ Í greinargerð stefnda segir: „. . .Var Hermóður að koma síðasta brettinu fyrir hægra megin á pallinum með því að rugga lyftaragöfflunum til hliðar, þegar stefnandi, er stóð fyrir aftan bílinn, vó sig fyrirvaralaust upp á bílpallinn með því að setja hægri höndina á gafflana eða brettið og klemmdist á milli með fingurna. Kannast Hermóður lyftaramaður ekki við að hafa verið beðinn um að bíða, meðan stefnandi færi upp í bifreiðina, né að lyftarinn hafi þá ekki verið í vinnslu.“ Stefnandi fann strax fyrir miklum sársauka og sá, að þrír fingur voru klemmdir, en þó aðallega langatöng. Hann leitaði þegar á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík, þar sem hann var skoðaður og meðferð var hafin. Stefnandi lá inni á bæklunarlækningadeild Borgarspítala til 3. febrúar 1995, er hann útskrifaðist og var honum fylgt eftir á endurkomudeild spítalans. Vinnueftirlit ríkisins var kvatt á vettvang. Segir í skýrslu þess, dags. 1.2.1995: „Ekkert var athugavert við vörulyftarann, en minnt er á, að starfsmenn skulu ekki vera nærri vélbúnaði vörulyftara í vinnu.“ Afleiðingar slyssins urðu þær, að taka þurfti framan af löngutöng stefnanda, og var það gert 3. maí og 13. september 1995. Stefnandi var óvinnufær vegna slyssins og afleiðinga þess tvö tímabil á árinu 1995, eða frá slysdegi til 6. júní og frá 13. september til 30. október. Segir í vottorði Magnúsar Páls Albertssonar læknis, dags. 21. júní 1996: „. . . Áverkinn telst frekar alvarlegur fyrir höndina og hefur í för með sér varanleg mein vegna styttingar á löngutöng hægri handar“ Sigurjón Sigurðsson læknir mat örorku stefnanda og er skýrsla hans dagsett 22. júlí 1996. Hann mat tímabundið atvinnutjón stefnanda 100% frá 1. febrúar 1995 til 6. júní s.á. og frá 13. september 1995 til 30. október s.á. Stefnandi var talinn hafa „þurft að vera rúmfastur frá 01.02.95 til 14.03.95 og síðan veikur án þess að vera rúmliggjandi frá 15.03.95 til 06.10.95 og 13.09.95 til 30.10.95 vegna afleiðinga slyssins.“ Varanlegur miski var metinn 10% og varanleg örorka 10%. Stefnandi mætti að eigin frumkvæði í rannsóknardeild Lögreglunnar í Reykjavík 28. febrúar 1995 og gaf skýrslu um slysið. Skýrsla var síðan tekin af Stefáni Hermóði Gestssyni 6. mars 1995. Í bréfi lögmanns stefnanda til réttargæslustefnda 21. september 1995 er því haldið fram, að orsök slyssins megi rekja til fljótfærni og mistaka lyftaramannsins. Vinnuveitandi hans, stefndi í máli þessu, beri húsbóndaábyrgð á þeim mistökum, jafnframt ábyrgð sem eigandi lyftarans. Er þess óskað, að tryggingafélagið endurskoði afstöðu sína til bótaskyldu. Í svarbréfi 31. október 1995 segir, að af gögnum málsins verði ekki ráðið, að tjónið verði rakið til annarra atriða en fljótfærni stefnanda máls þessa og geti réttargæslustefndi ekki fallist á skaðabótaskyldu stefnda. III. Krafa stefnanda er reist á því, að orsök tjóns hans megi rekja til þeirrar fljótfærni og mistaka stjórnanda lyftarans að setja hliðarfærslu lyftaragálgans af stað, á meðan stefnandi var að vega sig upp á bretti það, sem var á gálga lyftarans. Stefnandi telur, að stefndi beri húsbóndaábyrgð á þessum mistökum starfsmannsins. Hann sé því bótaskyldur, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins, og beri honum að greiða skaðabætur samkvæmt 1. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá er vísað til þess, að stefndi sé tryggður ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda. Endanleg dómkrafa stefnanda er nokkuð breytt frá stefnukröfu, að fram komnum athugasemdum af hálfu stefnda, og sundurliðast hún þannig: IV. Sýknukrafa stefnda er reist á því, að hann eða starfsmenn hans eigi enga sök á slysi stefnanda, sem eingöngu verði rakið til gáleysis hans sjálfs. Því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að stefnandi hafi beðið lyftarastjórann að bíða, meðan stefnandi vægi sig upp í bílinn og að lyftarinn hafi þá ekki verið í vinnslu. Lyftarastjórinn hafi þvert á móti verið að koma síðasta vörubrettinu fyrir aftast á bílpallinum með því að rugga brettinu til hliðar með lyftaranum, og hafi verið ógerningur fyrir hann að varast hin fyrirvaralausu viðbrögð stefnanda og afstýra slysi. Á stefnanda hvíli sönnunarskylda um ætlaða sök lyftarastjórans og orsakatengsl milli þess og slyssins, samkvæmt almennum sönnunarreglum skaðabótaréttarins. Stefnanda, sem hafi verið 25 ára á slysdegi, húsasmiður að mennt og flutningabílstjóri að atvinnu, hafi mátt vera ljós hættan af atferli sínu. Hann hafi átt að tryggja sér, áður en hann vó sig upp, að stjórnandi lyftarans vissi af því og biði á meðan. Af hálfu stefnda er einnig byggt á þeirri málsástæðu, að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á slysinu af því einu að vera eigandi lyftarans, sem stefnandi klemmdist af. Stefnandi hafi ekki reynt að rökstyðja fullyrðingu um, að stefndi beri skaðabótaábyrgð sem eigandi lyftarans. Ekkert hafi verið við hann að athuga, sbr. skoðunarskýrslu Vinnueftirlitsins, og um hlutlæga bótaábyrgð á lyfturum sé ekki að ræða, fremur en öðrum vinnuvélum. Varakrafa stefnda er byggð á því, að tjón stefnanda megi að stærstum hluta rekja til eigin sakar hans. Sök stefnanda sé fólgin í því að vega sig upp á bílpallinn, án þess að gera lyftarastjóranum örugglega viðvart um þá ætlan. Kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón beri að hafna, og eigi stefnandi aðeins rétt til bóta fyrir raunverulegt vinnutekjutap, en ekki miðað við meðaltekjur húsasmiða. Hann hafi auk þess ekki unnið sem húsasmiður, þegar hann slasaðist. Þá séu slysakaup og bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og úr atvinnuslysatryggingu ávallt til frádráttar. Kröfu um bætur fyrir varanlega örorku er mótmælt sem of hárri. Beri að miða við tekjur stefnanda síðustu tólf mánuði fyrir slysið, en ekki eigi hér við að nota meðaltekjur iðnaðarmanna, þar sem stefnandi hafi kosið að nýta ekki iðnmenntun sína til tekjuöflunar. Vaxtakröfu er andmælt, en vextir séu reiknaðir af of háum höfuðstól, og engin efni séu til að reikna upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Loks er örorkumati, sem krafa stefnanda er reist á, mótmælt sem of háu. V. Kröfugerð stefnanda er einvörðungu reist á ábyrgð stefnda eftir reglu skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð en ekki ætlaðri ábyrgð hans sem eiganda vörulyftara þess, sem um ræðir í málinu. Um tildrög slyssins eru ekki aðrir til frásagnar en stefnandi og Stefán Hermóður Gestsson, sem gáfu skýrslur við dómsmeðferðina, en þeir höfðu áður gefið skýrslur hjá lögreglu, eins og fyrr greinir. Þeim ber saman um, að slysið hafi orðið um sjöleytið að kvöldi 1. febrúar 1995. Ágreiningslaust er, að stefnandi hafi staðið framanvert við lyftarann eða við hliðina á honum, Stefáni Hermóði til vinstri handar, meðan unnið var að lestun bifreiðarinnar. Einnig, að lyftarinn hafi verið hávaðasamur og að útvarp hafi verið í honum svo og, að rennigluggi á hlið hans hafi verið opinn. Þá sætir ekki ágreiningi, að fingur stefnanda hafi klemmst á þann hátt, sem hann lýsir. Stefnandi skýrði svo frá, að hann hefði talið, að Stefán Hermóður hefði meðtekið skilaboð sín um að bíða meðan hann færi upp á pall flutningabifreiðarinnar, en til þess hafi ekki verið önnur leið en að nota gálga vörulyftarans. Aðspurður, hvort verið gæti, að Stefán Hermóður hefði ekki heyrt í honum, sagði hann. „Hann svaraði mér.” Hann kvaðst hafa haldið í fyrstu, að meiðsl sín væru lítil, eða einungis skráma, og farið til að fá plástur. Vitnið Stefán Hermóður Gestsson kvað hávaða í lyftaranum hafa verið það mikinn, að þurft hafi að kalla hátt til að heyrðist inn í hann. Hann kvaðst ekki hafa heyrt, að stefnandi bæði hann að stoppa lyftarann. Stefnandi hafi verið til vinstri við lyftarann, en athygli sín hafi verið á brettinu, sem hann var að reyna að koma á pallinn með því að skáskjóta honum sitt á hvað, og hafi hann verið að teygja sig til hægri, þegar slysið varð. Hann kvað sér hafa tekist að koma brettinu á réttan stað þegar eftir að stefnandi var farinn í burtu. Hann kvað það koma fyrir, að menn gripu um hús lyftarans til að vega sig upp, en aldrei um vélbúnað hans. Jafnvel þótt stefnandi hafi reynt að gera Stefáni Hermóði viðvart um fyrirætlun sína og beðið hann að stöðva vörulyftarann, er ekki í ljós leitt, að hann hafi gengið örugglega úr skugga um, að boðin væru numin. Stefnandi hafði ekki að hlutverki að aðstoða við hleðsluna og mátti Stefán Hermóður ekki gera ráð fyrir þeim viðbrögðum hans, sem leiddu til slyssins, nema honum væri fyrirfram gert kunnugt um þau. Gegn andmælum stefnda hefur stefnandi ekki fært sönnur að því, að atvik að slysinu hafi verið slík, sem hann heldur fram og sem hann styður kröfu sína við. Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú, að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Stefnanda verður gert að greiða stefnda 250.000 krónur í málskostnað. Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari. Dómsorð: Stefndi, Landflutningar ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Gunnars Viðars Gunnarssonar. Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 222/2002 | Kærumál Lögbann Vitni | Hæstiréttur hafnaði kröfu H o.fl. um að teknar yrðu skýrslur fyrir dómi af fjórum nafngreindum vitnum í tengslum við kærumál um lögbannsgerð, sem H o.fl. ráku á hendur U ehf. o.fl. fyrir Hæstarétti. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 8. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2002, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að teknar yrðu skýrslur fyrir dómi af fjórum nafngreindum vitnum í tengslum við kærumál um lögbannsgerð, sem sóknaraðilar reka nú á hendur varnaraðilum fyrir Hæstarétti. Kæruheimild er í e. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að heimilað verði að taka skýrslur af þessum vitnum og varnaraðilum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði. Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði stað Varnaraðilar krefjasfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðilar verða dæmd í sameiningu til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðilar, Hrönn Sveinsdóttir, Árni Sveinsson, Böðvar Bjarki Pétursson, Inga Rut Sigurðardóttir og Tuttugu geitur sf., greiði í sameiningu varnaraðilum, Ungfrú Íslandi ehf., Elvu Dögg Melsteð, Ingunni Hafdísi Hauksdóttur, Írisi Hrund Þórarinsdóttur, Margréti Jóelsdóttur, Maren Ösp Hauksdóttur, Jóhönnu Ósk Halldórsdóttur, Margréti Óskarsdóttur, Sunnu Þorsteinsdóttur, Halldóru Þorvaldsdóttur, Agnesi Ósk Þorsteinsdóttur, Ingu Kristínu Campos, Írisi Björk Árnadóttur, Pálu Hallgrímsdóttur og Elvu Hrönn Eiríksdóttur, hverjum fyrir sig 5.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 19/2021 | Leigusamningur Samning dóms Ómerking héraðsdóms Heimvísun | Aðilar málsins gerðu með sér leigusamning til tuttugu ára þar sem F ehf. tók á leigu fasteign í eigu Í ehf. í því skyni að reka þar hótel. Vegna aðstæðna sem rekja mátti til COVID-19 heimsfaraldursins var hótelinu lokað í lok mars 2020. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfu F ehf. um að víkja tímabundið til hliðar ákvæði leigusamningsins um leigugreiðslur á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Leyfi var veitt til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar samkvæmt heimild í 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fyrir héraðsdómi hefði verið til úrlausnar annars vegar viðurkenningarkrafa F ehf. um að leigusamningi yrði tímabundið vikið til hliðar og hins vegar fjárkrafa Í ehf. í gagnsök um greiðslu leigu fyrir hluta þess tímabils sem viðurkenningarkrafan tók til. Síðastnefnd krafa hefði falið í sér skyldu sem fullnægja mætti með aðför samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Í dóminum hefði einungis verið leyst úr viðurkenningarkröfunni en að þeirri niðurstöðu fenginni hefði ekki verið dæmt um greiðslukröfu Í ehf. Taldi Hæstiréttur að Í ehf. hefði lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um hvort hann ætti fjárkröfu á hendur F ehf. og hefði héraðsdómi borið að leysa efnislega úr kröfum hans eins og skylt hefði verið samkvæmt f. lið 1. mgr. og 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Héraðsdómur var því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2021. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og að honum verði gert að greiða sér 419.889.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. apríl 2020 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 15. apríl 2020 að fjárhæð 11.345.266 krónur og 9. apríl 2021 að fjárhæð 297.858.441 krónu. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.3. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 7. júlí 2021. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og að ákvæði um leigufjárhæð í leigusamningi milli aðila 2. júlí 2013 verði tímabundið vikið til hliðar að fullu frá 1. apríl til 31. desember 2020. Jafnframt krefst hann þess að frá 1. janúar til 31. mars 2021 verði sér gert að greiða 20% leigufjárhæðar hvers mánaðar að viðbættri verðtryggingu auk virðisaukaskatts að fjárhæð 11.709.004 krónur vegna janúar 2021, 11.732.935 krónur vegna febrúar 2021 og 11.725.755 krónur vegna mars 2021 eða samtals 35.167.694 krónur. Þá krefst hann þess að dráttarvextir verði ekki dæmdir af leigufjárhæðum fyrr en einum mánuði eftir uppsögu dóms Hæstaréttar. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Málsatvik og meðferð málsins4. Aðilar gerðu leigusamning 2. júlí 2013 þar sem aðaláfrýjandi leigði gagnáfrýjanda fasteign til tuttugu ára í því skyni að reka hótel. Vegna aðstæðna sem rekja má til COVID-19-heimsfaraldursins lokaði gagnáfrýjandi hótelinu í lok mars 2020. Ágreiningur málsins lýtur að kröfu gagnáfrýjanda um að gera tímabundna breytingu á leigugreiðslum samkvæmt leigusamningnum. Gagnáfrýjandi reisir kröfur sínar á ákvæði í leigusamningnum um ófyrirséð og ófyrirsjáanleg atvik, ólögfestri reglu kröfuréttar um óviðráðanleg ytri atvik (force majeure), reglu kröfuréttar um stjórnunarábyrgð, sem og reglum samningaréttar um brostnar forsendur og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sem vísað er til í 11. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Aðaláfrýjandi gerir hins vegar kröfu um greiðslu áfallinnar leigu fyrir 1. apríl til 1. september 2020 að frádregnum innborgunum.5. Í hinum áfrýjaða dómi var jafnframt til úrlausnar sú krafa gagnáfrýjanda á hendur Íslandsbanka hf. að staðfest yrði lögbann sem gert var 23. júní 2020 við greiðslu nánar tiltekinna ábyrgða sem settar voru til tryggingar leigugreiðslum hans. Á það var ekki fallist í hinum áfrýjaða dómi og var þeim hluta málsins ekki áfrýjað. Eftir að héraðsdómur gekk greiddi Íslandsbanki hf. aðaláfrýjanda 297.858.441 krónu á grundvelli ábyrgðarinnar sem hann hafði gengist í.6. Fyrir héraðsdómi var endanleg krafa gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda sú að vikið yrði tímabundið til hliðar ákvæði leigusamningsins um greiðslu leigu þannig að því yrði vikið til hliðar að fullu 1. apríl til 31. desember 2020 og að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða 20% leigunnar frá 1. janúar til 31. mars 2021 að viðbættri verðtryggingu og virðisaukaskatti. Þá var þess krafist að dráttarvextir reiknuðust ekki af ógreiddri leigu fyrr en einum mánuði eftir dómsuppsögu. Í gagnsök krafðist hann jafnframt sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda og til vara að kröfur hans yrðu lækkaðar. Aðaláfrýjandi krafðist hins vegar sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda. Í gagnsök krafðist hann þess að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sér 419.889.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 sem var gjaldfallin leiga frá 1. apríl til 1. september 2020, að frádreginni innborgun 15. apríl 2020 að fjárhæð 11.345.266 krónur.7. Eins og áður greinir var í hinum áfrýjaða dómi fallist á að rétt væri að víkja tímabundið til hliðar leigusamningi aðila á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Leiguverðið átti að ákvarðast með þeim hætti að frá apríl 2020 til og með loka mars 2021 greiddi gagnáfrýjandi helming leigufjárhæðar í hverjum mánuði miðað við leigusamning aðila. Upphafstími dráttarvaxta af leigugreiðslum vegna framangreinds tímabils var mánuði eftir dómsuppsögu. Um gagnkröfu aðaláfrýjanda sagði í forsendum dómsins að af framangreindri niðurstöðu leiddi að hafnað væri kröfum ,,gagnstefnanda í gagnsök þar sem um leigufjárhæð fer samkvæmt því sem greinir í aðalsök.“ Í dómsorðinu var síðan ekkert vikið að greiðslukröfu aðaláfrýjanda.8. Með ákvörðun Hæstaréttar 4. maí 2021 var fallist á að málið gæti haft þýðingu fyrir framkvæmd fjölda samninga þar sem forsendur hefðu breyst vegna heimsfaraldursins og væri því brýnt að fá niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti. Hefðu málsaðilar hvorki lýst því yfir að þörf væri á að leiða vitni í málinu né að ágreiningur væri um sönnunargildi munnlegs framburðar í héraði. Því var talið fullnægt skilyrðum 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og veitt leyfi til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt um formhlið þess 13. október 2021.Niðurstaða9. Í héraðsdómi var til úrlausnar annars vegar viðurkenningarkrafa gagnáfrýjanda um að leigusamningi yrði tímabundið vikið til hliðar og hins vegar fjárkrafa aðaláfrýjanda um greiðslu leigu fyrir hluta þess tímabils sem viðurkenningarkrafan tók til, en sú krafa fól í sér skyldu sem fullnægja má með aðför samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í dóminum var einungis leyst úr viðurkenningarkröfunni en að þeirri niðurstöðu fenginni var ekki dæmt um greiðslukröfu aðaláfrýjanda. Slík dómsúrlausn veitir aðaláfrýjanda ekki heimild til að leita aðfarar enda felur dómsorð hins áfrýjaða dóms ekki í sér skyldu sem framfylgt yrði með slíkri gerð, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 7. mars 1996 í máli nr. 347/1994 sem birtur er í dómasafni réttarins 1996 á bls. 786 og 20. mars 2014 í máli nr. 673/2013. Það á við jafnvel þótt af dómsorði hins áfrýjaða dóms megi ráða að gagnáfrýjanda beri að greiða hluta hinnar umsömdu leigu enda er fjárhæð hennar þar ekki nánar tiltekin. Er jafnframt til þess að líta að með kröfu í gagnsök krafðist aðaláfrýjandi greiðslu vegna leigu frá apríl til september 2020 en í aðalsök laut krafa gagnáfrýjanda að tímabilinu frá apríl 2020 til loka mars 2021. 0. Aðaláfrýjandi hefur lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um hvort hann á fjárkröfu á hendur gagnáfrýjanda og bar héraðsdómi að leysa efnislega úr kröfum hans eins og skylt var samkvæmt f-lið 1. mgr. og 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Má um það meðal annars vísa til dóma Hæstaréttar 9. nóvember 1995 í máli nr. 133/1994 sem birtur er í dómasafni réttarins 1995 á bls. 2580, 30. apríl 2009 í máli nr. 485/2008, 20. desember 2011 í máli nr. 383/2011, 13. júní 2013 í máli nr. 35/2013 og 2. júní 2016 í máli nr. 479/2015. Dómaframkvæmd ber þannig með sér að gerðar eru ríkar kröfur í þessum efnum. Fyrrgreindur annmarki á héraðsdómi er slíkur að ekki verður hjá því komist að ómerkja hann án kröfu og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. 1. Tekið skal fram að á það verður ekki fallist með aðilum að um sé að ræða bersýnilega villu í dómi sem dómara er heimilt að leiðrétta samkvæmt 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem fram kom við flutning málsins hér fyrir dómi að aðilum ber ekki saman um hvernig leiðrétta skuli dóminn með tilliti til forsendna hans. 2. Rétt þykir að málskostnaður falli niður fyrir Hæstarétti.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=80d318b1-7586-4f58-ba7e-777f9d67f94d |
Mál nr. 137/2016 | Kærumál Dómkvaðning matsmanns Sönnunarfærsla Lánssamningur Gengistrygging | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var tveimur beiðnum B hf. um dómkvaðningu matsmanns. Með matsgerðunum hugðist B hf. sýna fram á hvernig staðið hefði verið að efndum skuldbindinga samkvæmt lánssamningi sem félagið hafði gert við LÍ hf. Í málinu krafðist B hf. viðurkenningar á því að umrætt lán hefði verið í íslenskum krónum og gengistryggt með ólögmætum hætti. Hæstiréttur vísaði til þess að í dómaframkvæmd réttarins hefði því verið slegið föstu að lög stæðu ekki í vegi fyrir því að fjármálafyrirtæki veittu innlendum aðilum lán í erlendum gjaldmiðli, en á hinn bóginn væri óheimilt samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að veita lán í íslenskum krónum með skilmála um gengistryggingu. Þegar leyst hafi verið úr því í einstökum tilvikum hvort um erlent lán hafi verið að ræða, hafi fyrst og fremst verið litið til forms og meginefnis samnings um það og þá einkum hvernig sjálf skuldbindingin væri tilgreind í lánssamningnum, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 551/2011. Væri skuldbindingin tilgreind með fjárhæð í erlendum gjaldmiðli hefði verið lagt til grundvallar að orðalag skuldbindingarinnar nægði eitt og sér til að ráða úrslitum og þyrfti þá hvorki að líta til þess hvernig ráðgert hefði verið í samningi að skyldur aðila skyldu efndar né hvernig efndir þeirra hefðu orðið í raun, sbr. m.a. dóm réttarins í máli nr. 187/2014. Þá hafi jafnframt verið gengið út frá því að ótvíræð tilgreining skuldar í erlendum gjaldmiðli í viðauka við lánssamning um skilmálabreytingu eða skuldskeytingu hefði ein út af fyrir sig nægt til að ráða niðurstöðu og skipti þá ekki máli hvernig staðið hefði verið að efndum hans, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 369/2014. Í umræddum lánssamningi voru skuldbindingarnar tilgreindar þannig að óljóst mátti vera hvort lánið hefði verið í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum með skilmála um gengistryggingu. Í viðauka sem gerður var við lánssamninginn var skuldin á hinn bóginn skýrlega tilgreind með fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum. Sönnun B hf. um hvernig í raun hefði verið staðið að efndum lánssamningsins gat því engu breytt við úrlausn málsins. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var hinn kærði úrskurður því staðfestur. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir MarkúsSigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Hjördís Hákonardóttir setturhæstaréttardómari.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar meðkæru 17. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 1. mars sama ár. Kærðurer úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2016, þar sem hafnað var tveimurbeiðnum sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr.143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðumbeðnar dómkvaðningar fari fram. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar og kærumálskostnaðar.Samkvæmt gögnum málsins gerði EignarhaldsfélagÚA ehf. samning 6. apríl 2004 við Landsbanka Íslands hf. um „fjölmyntalán til 10ára að jafnvirði kr. 2.400.000.000 ... í neðanskráðum myntum og hlutföllum: EUR39% GBP 9% CHF 13% JPY 12% USD 27%“, svo sem sagði í meginmáli samningsins, ená forsíðu var tiltekið að hann væri lánssamningur um „ISK 2.400.000.000,-“. Í framhaldiaf tilgreiningu fjárhæðar lánsins í meginmáli samningsins sagði eftirfarandi:„Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögumfyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind meðfjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum.Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur ííslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Skuldsamkvæmt samningnum átti að greiða á tíu árum, fyrst með 28 afborgunum áþriggja mánaða fresti, sem næmu 1/57 hluta höfuðstólshverju sinni, en á lokagjalddaga, 15. maí 2014, átti að greiða afgangskuldarinnar í einu lagi. Skuldin átti að bera svonefnda LIBOR vexti með 1,5%álagi og áttu að vera „ellefu vaxtagjalddagar fyrstu þrjú ár lánstímans, ífyrsta skipti 15. ágúst 2004“, en frá 15. maí 2007 skyldu vextir greiddir meðafborgunum af höfuðstólnum. Í samningnum var tekið fram að lántakinn óskaðieftir að sex nánar tilgreindir erlendir gjaldeyrisreikningar hans við bankannyrðu skuldfærðir fyrir afborgunum og vöxtum af skuldinni. Í málatilbúnaðisóknaraðila er greint frá því að 15. ágúst 2005 hafi verið „aukið viðlánssamninginn samtals kr. 183.730.073, sem virðist hafa tekið mið afbandaríkjadollar (USD) og hækkaði því lánsfjárhæðin sem því nam“, en í gögnum,sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, er ekkert frekar um þetta að finna.Viðauki var síðan gerður við samninginn 28. apríl 2006, þar sem sagði meðalannars: „Eftirstöðvar lánsins þann 15.02.2006 eru USD 8.973.826,34 JPY421.978.022 CHF 5.575.411,01 GBP 1.626.873,54 EUR 10.737.639,10. Lán þetta berað greiða með 33 ... afborgunum á 3 ... mánaða fresti þannig að á fyrstu 28afborgunargjalddögunum hverjum um sig, greiðist 1/57hluti lánsupphæðarinnar og á lokagjalddaga þann 15.05.2014 greiðist 29/57hluti lánsupphæðarinnar. Að auki verða 4 vaxtagjalddagar, næst þann 15.05.2006.Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta verður því 15.05.2007.“ Loks sagði svo íviðaukanum undir yfirskriftinni: „Skuldskeyting“: „Brim hf. ... yfirtekur hérmeð skyldur lántaka samkvæmt ofangreindum lánssamningi með undirskrift sinni.“Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5.gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslandshf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af þvítók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 9. sama mánaðar um ráðstöfun tiltekinna eignaog skuldbindinga félagsins til varnaraðila og er ekki ágreiningur um aðréttindi samkvæmt framangreindum lánssamningi hafi á þann hátt komist í eiguhans. Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti verður ekki annað séð en að lánsamkvæmt samningnum hafi verið í skilum, bæði fyrir og eftir aðilaskiptin aðhonum, en þó að teknu tilliti til þess að eftir málatilbúnaði sóknaraðila varskilmálum lánsins aftur breytt 13. maí 2014 og greiðir hann enn afborganir ogvexti af því.Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegnvarnaraðila 22. júní 2015 og krefst þess að viðurkennt verði að lán samkvæmtsamningnum frá 6. apríl 2004 sé „bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi14. gr. sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.“ Varnaraðilikrefst sýknu af þeirri kröfu. Í þinghaldi 10. nóvember 2015 lagði sóknaraðilifram tvær beiðnir um dómkvaðningu matsmanns, annars vegar manns með „þekkingu ábankaviðskiptum, greiðslumiðlun milli landa, uppgjörum í innlendumgreiðslukerfum og raunverulegri framkvæmd hreyfinga í bankaviðskiptum innanbanka og milli banka“ til að gefa svör við fjórum tilgreindum spurningum og hinsvegar manns, sem væri sérfróður um bókhald og reikningsskil viðskiptabanka, tilað svara tveimur spurningum. Spurningar þessar eru teknar orðrétt upp í hinumkærða úrskurði, en samkvæmt matsbeiðnum sóknaraðila hyggst hann með matsgerðunumafla sönnunar um að erlendur gjaldeyrir hafi í raun ekki skipt um hendur íviðskiptum á grundvelli lánssamningsins, hvorki við útborgun lánsins négreiðslu vaxta af því og afborgana af höfuðstól þess.Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur ítrekaðverið slegið föstu að lög standi því ekki í vegi að fjármálafyrirtæki hér álandi veiti innlendum aðila lán í erlendum gjaldmiðli, en óheimilt sé á hinnbóginn samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að veita lán í íslenskum krónummeð þeim skilmála að höfuðstóll þess taki breytingum í samræmi við gengierlends gjaldmiðils. Þegar leyst hefur verið úr því í einstökum tilvikum hvortum sé að ræða lán í erlendum gjaldmiðli, sem heimilt er að veita samkvæmtframansögðu, hefur fyrst og fremst verið litið til forms og meginefnis samningsum það og þá einkum hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í honum, sbr.meðal annars dóm Hæstaréttar 23. nóvember 2011 í máli nr. 551/2011. Sé lánið tilgreintmeð fjárhæð í erlendum gjaldmiðli hefur verið lagt til grundvallar að orðalagskuldbindingarinnar nægi eitt og sér til að ráða úrslitum og þurfi þá hvorki aðlíta til þess hvernig ráðgert hafi verið í samningi að skyldur aðilanna yrðuefndar né hvernig efndir þeirra hafi orðið í raun, sbr. meðal annars dómréttarins 26. mars 2014 í máli nr. 187/2014. Þá er þess og að gæta að þóttupphafleg skuldbinding í lánssamningi sé óskýr að þessu leyti hefur veriðgengið út frá því að ótvíræð tilgreining skuldar samkvæmt honum í erlendumgjaldmiðli í viðauka við hann um skilmálabreytingu eða skuldskeytingu nægi einút af fyrir sig til að ráða niðurstöðu og skipti þá ekki máli hvernig staðiðhafi verið að efndum samningsins, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 12. febrúar2015 í máli nr. 369/2014.Í lánssamningnum 6. apríl 2004, sem mál þetta er sprottið af, var greint þannig fráskuldbindingum að óljóst mátti vera hvort lánið hafi verið í erlendumgjaldmiðlum eða í íslenskum krónum með skilmála um gengistryggingu. Íviðaukanum, sem var gerður við samninginn 28. apríl 2006 og færði meðal annarsskuldbindingar samkvæmt honum á herðar sóknaraðila, var skuldin á hinn bóginn skýrlegatilgreind með fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum. Sönnun sem sóknaraðili villfæra með matsgerðum dómkvaddra manna um hvernig í raun hafi verið staðið aðefndum þessara skuldbindinga getur því samkvæmt framansögðu engu breytt viðúrlausn málsins. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður hinnkærði úrskurður því staðfestur.Sóknaraðila verður gert að greiðavarnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans erlitið til þess að samhliða máli þessu eru rekin tvö önnur milli sömu aðila umsamkynja ágreining.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Sóknaraðili, Brim hf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf.,250.000 krónur í kærumálskostnað.Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar2016.I. Mál þetta, sem tekið var tilúrskurðar 13. janúar sl., var höfðað með áritun um birtingu stefnu 22. júnísl., af Brimi hf., Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf.,Austurstræti 11, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að lán samkvæmtlánssamningi nr. 0106-36-1260, milli stefnda og stefnanda, dagsettum 6. apríl2004, sé bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr., sbr. 13. gr.,laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda. Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfumstefnanda. Þá krefst stefndimálskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, úr hendi stefnanda. Í þinghaldi þann 10. nóvember sl. lagði stefnandi fram tvær beiðnir umdómkvaðningu matsmanna. Stefndi mótmæltidómkvaðningunni. Ágreiningurinn vartekinn til úrskurðar 13. janúar sl. að loknum munnlegum málflutningi.II Málavextir eru þeir, aðEignarhaldsfélag ÚA, sem lántaki, og Landsbanki Íslands hf., sem lánveitandi,gerðu með sér lánssamning 6. apríl 2004 um svokallað fjölmyntalán til 10 ára aðjafnvirði 2.400.000.000 krónur í eftirgreindum myntum og hlutföllum: 39% evrur,9% sterlingspund, 13% svissneskir frankar, 12% japönsk jen og 27%Bandaríkjadalir. Samkvæmt beiðnistefnanda um útgreiðslu lánsins, sbr. og gr. 1.3 í lánssamningnum, skyldiláninu ráðstafað til að greiða niður skuld samkvæmt tilgreindum viðskiptasamningi.Stefnandi heldur því fram að umdeildur lánssamningur sé í öllum aðalatriðumeins og lánssamningur sá sem ágreiningur hafi verið um í dómi Hæstaréttar ímáli nr. 155/2011. Þegar samningurinn sévirtur með hliðsjón af efni hans og efndum á aðalskyldum verði að telja að hannfeli í sér ólögmætt gengistryggt lán.Stefnandi kveðst ekki hafa fengið erlendan gjaldeyri í hendur íreynd. Erlendur gjaldeyrir hafi hvorkikomið inn í bankann né farið út úr honum.Landsbanki Íslands hf. hafi því í reynd stofnað til skuldbindinga ííslenskum krónum með lánveitingunni.Engu breyti hvort heldur útgreiðsla lánsins eða endurgreiðsla þess hafifarið um IG-reikning, höfuðbók 38, frekar en hefðbundna innlánsreikninga,höfuðbók 26. IG-reikningar séu í raunekki annað en gengistryggðir innlánsreikningar í íslenskum krónum ogóumdeilanlegt sé að á IG-reikningum hvíli ekki raunverulegur erlendurgjaldeyrir. Vísar stefnandi m.a. tilþess að Seðlabanki Íslands hafi litið á skuldbindingar á IG-reikningum semskuldbindingar í íslenskum krónum með gengisviðmiðun. Greiðslur inn og út af IG-reikningum getiekki falið í sér yfirfærslu erlends gjaldeyris milli aðila í reynd. Þetta séugreiðslur í íslenskum krónum, enda hluti innlendrar greiðslumiðlunar í innlendugreiðslukerfi. Stefnandi byggir kröfursínar á því að lánssamningurinn sé verðtryggður við gengi erlendra mynta og aðslík verðtrygging fari í bága við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu,sbr. 13. og 14. gr. laganna, eins og dómstólar hafi margsinnis staðfest. Stefndi byggir á því að umþrættur samningur hafi verið um gild lán íerlendum gjaldmiðlum og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr.38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Stefndi byggir á því að texti þeirrar skuldbindingarsem stefnandi hafi gengist undir með skuldskeytingu 6. apríl 2006 sé skýr umþað að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða og vísar m.a. tildómaframkvæmdar Hæstaréttar. Óumdeilt er að stefnandi hefur tekið yfir skyldur lántaka samkvæmt samningnum.Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100. gr. a í lögumnr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimildtil fjárfestingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaðio.fl., að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf., þar með réttindumog skyldum er þeim fylgdu, til stefnda.Hefur því stefndi yfirtekið allar skyldur Landsbanka Íslands hf.samkvæmt þeim samningi sem deilt er um í málinu. IIIEins og áður greinir lagði stefnandi fram tvær matsbeiðnir í þinghaldi hinn10. nóvember sl. Í matsbeiðnum stefnandaer annars vegar óskað eftir því, með vísan til 61. gr. laga nr. 91/1991, aðdómkvaddur verði óvilhallur matsmaður með þekkingu á bankaviðskiptum,greiðslumiðlun milli landa, uppgjörum í innlendum greiðslukerfum ograunverulegri framkvæmd hreyfinga í bankaviðskiptum innan banka og milli banka.Tilgang matsins kveður stefnandi vera að staðreyna það hvort raunverulegurgjaldeyrir hafi í reynd skipt um hendur við efndir skuldbindinga samkvæmtumþrættum lánssamningi. Ágreiningslaustsé með aðilum að þegar lánið var veitt hafi sú aðgerð einvörðungu farið framinnan Landsbanka Íslands hf. hér á landi, sem lánveitanda, og hafi stefndi lagtáherslu á það í málatilbúnaði sínum.Þannig hafi ekki verið send svonefnd SWIFT-skeyti í tilefni aflánveitingunni. Stefnandi kveðst byggja m.a. á því í stefnu að engar raunverulegargjaldeyrishreyfingar hafi átt sér stað við ráðstöfun lánsins, enda ekki annargjaldmiðill vistaður eða gefinn út hér á landi en íslenskar krónur. Ekkert liggi fyrir í málinu sem bendi tilannars en að það eitt hafi gerst, að á móti kröfueign í formi undirritaðslánssamnings hafi Landsbanki Íslands hf. fært niður kröfueignir sínar á grundvelliframangreinds viðskiptasamnings í greiðslu-, uppgjörs- og/eða bókhaldskerfumsínum hér á landi og að allar mögulegar hreyfingar fjármuna við útborgun hafiverið um eigin reikning bankans. Stefndihafi hins vegar haldið því fram að texti þeirrar skuldbindingar sem stefnandigekkst undir með skuldskeytingu 28. apríl 2006 hafi verið skýr. Þá hafi lánsfjárhæðin í öndverðu veriðráðstafað til lækkunar eldri lána í erlendri mynt. Í tilefni af framangreindum ágreiningi aðila sé óskað eftir að matsmaðursvari eftirgreindum matsspurningum með rökstuddum hætti:„1. Var raunverulegum erlendum gjaldeyri, í eiguLandsbanka Íslands hf., ráðstafað til niðurgreiðslu skuldar samkvæmtviðskiptasamningi á dskj. nr. 3 við útborgun lánsins? Fór raunverulegur erlendur gjaldeyrir umeigin reikninga bankans í þeim tilvikum? 2.Skipti raunverulegur erlendur gjaldeyrir um hendur við greiðsluafborgana og vaxta af láninu með skuldfærslu af IG reikningum stefnanda? 3.Var raunverulegur erlendur gjaldeyrir vistaður eða gefinn út hér álandi, með rafrænum hætti, hjá Landsbanka Íslands hf. eða stefnda, á þvítímabili sem málið varðar? 4.Hvaða greiðslu-, uppgjörs- og/eða bókhaldskerfi komu við sögu annarsvegar við útgreiðslu lánsins og hins vegar við greiðslur stefnanda á afborgunumog vöxtum af láninu? Hver annaðistrekstur þeirra og, ef við á, í hvaða gjaldmiðli voru þau starfrækt eða færð?“ Stefnandi lagði einnig fram beiðni um að dómkvaddur yrði einn hæfur ogóvilhallur matsmaður, sérfróður um bókhald og reikningsskil viðskiptabanka,helst löggiltur endurskoðandi eða einstakling með sambærilega þekkingu. Stefnandi kvað tilgang með matinu vera þann að sýna fram á þá staðhæfingusína að raunverulegur erlendur gjaldeyrir hafi ekki skipt um hendur við efndirLandsbanki Íslands hf., með hreyfingum innan bankans, enda aðeins íslenskarkrónur gefnar út og vistaðar hér á landi í rafrænum kerfum viðskiptabanka. Þetta telji stefndi ósannað og haldi því framí málinu að hann hafi lánað stefnanda erlendan gjaldeyri, sem hafi verið í eigubankans fyrir, og ráðstafað gjaldeyrinum með raunverulegum greiðslum inn áframangreindan viðskiptasamning. Í tilefni af þessum ágreiningi málsaðila sé óskað að matsmaður svari meðrökstuddum hætti eftirgreindum spurningum: „1.Hvernig voru umrædd viðskipti færð í bókhalds- og uppgjörskerfumbankans, þegar lánið var veitt? Óskað ereftir að færslum í bókhalds- og uppgjörskerfum sé lýst lið fyrir lið meðtilvísun til færslulykla. 2.Voru viðskiptin færð samkvæmt reglum og venjum sem um slíkar færslurgilda?“ Eins og áður greinir andmæltistefndi því að dómkvaddir yrðu matsmenn í málinu. Í munnlegum málflutningi um þann ágreiningaðila vísaði stefndi til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferðeinkamála. Af því leiði og að stefnandaskorti lögvarða hagsmuni fyrir öflun umbeðinna matsgerða, auk þess semmatsspurningarnar feli í reynd í sér lögspurningar, sbr. 25. gr. laga nr.91/1991. Þá vísaði stefndi til þess að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefði verið leystúr sams konar ágreiningi. Stefndi kvaðumdeilda skuldbindingu stefnanda vera skýra en þar séu lánsfjárhæðirtilgreindar í erlendum gjaldmiðlum.Texti þeirrar skuldbindingar sem stefnandi hafi gengist undir taki þvíaf skarið um efni skuldbindingarinnar og komi því önnur atriði ekki tilálita. Þá hafi Hæstiréttur í dómum sínum,þar sem texti samnings hafi ekki verið skýr, litið til annarra atriða sem lútiað því hvernig skuldbindingin hafi verið efnd og framkvæmd að öðru leyti, t.d.hvort lánsfjárhæð hafi verið lögð inn á svonefnda innlenda gjaldeyrisreikninga,höfuðbók 38, eða þær að einhverju leyti verið nýttar til uppgreiðslu eldrierlendra lána. Hæstiréttur hafi í dómumsínum þar sem leyst sé úr sams konar ágreiningi og í þessu máli, ekki litið tilþeirra atriða sem matsspurningar stefnanda lúti að, eða hafi þeim verið gefinsérstök þýðing, þ. á m. um hvaða greiðslu-, uppgjörs- og/eða bókhaldskerfi hafikomið við sögu, hvernig viðskiptin hafi verið færð í þeim kerfum eða hvort„raunverulegur“ erlendur gjaldeyrir sé vistaður eða gefinn út hér á landi meðrafrænum hætti. Samkvæmt því beri aðhafna matsbeiðnum stefnanda.IV Í einkamáli lýtur sönnun einkum aðþví að leiða í ljós hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð, sbr. 1.mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Aðili aðeinkamáli á að meginstefnu rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögnsem hann telur þörf á. Það er því hvorkiá valdi stefnda né dómstóla að aftra því nema með stoð í lögum. Af þeim sökum ber dómara að verða við beiðnimálsaðila um að dómkveðja matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nemaformskilyrði síðari málsliðar 1. mgr. 61. gr. séu ekki fyrir hendi, leitað sémats um atriði, sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr.46. gr. laganna, eða matsbeiðni lúti einvörðungu að atriðum, sem dómara ber aðleggja sjálfur mat á en ekki sérfróðum matsmönnum, sbr. 2. mgr. 60. gr. ogfyrri málslið 1. mgr. 61. gr. Ísíðastnefnda tilvikinu yrði matsgerð ávallt tilgangslaus til sönnunar ískilningi 3. mgr. 46. gr. Matsbeiðnir stefnanda lúta að því að fá álit sérfróðra matsmanna um bókhaldog reikningsskil viðskiptabanka sem og sérfróðan matsmann með þekkingu ábankaviðskiptum, greiðslumiðlun milli landa, uppgjörum í innlendumgreiðslukerfum og raunverulegri framkvæmd hreyfinga í bankaviðskiptum innanbanka og milli þeirra. Stefnandi kveðurtilgang matsins vera að sanna að fullyrðingar hans um að raunverulegur erlendurgjaldeyrir hafi ekki skipt um hendur við efndir umþrætts lánssamnings, endaaðeins íslenskar krónur gefnar út og vistaðar hér á landi í rafrænum kerfumviðskiptabanka, og því feli umdeildur lánssamningur í sér ólögmætagengistryggingu. Málsaðila greinir á um það í málinu hvort samningur stefnanda viðLandsbanka Íslands hf. 28. apríl 2006 sé um lán í íslenskum krónum, bundiðgengi erlendra gjaldmiðla, þannig að skilmálar þess brjóti í bága við 14. gr.,sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í dómum Hæstaréttar hefur margsinnis reynt átúlkun sambærilegra samninga. Hefur Hæstiréttur í dómum sínum um hvort lán sé íerlendri mynt eða íslenskum krónum bundnum gengi erlendra gjaldmiðla, fyrst ogfremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántakihefur gengist undir. Þegar sútextaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessuleyti hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur í raunverið efnd og framkvæmd að öðru leyti og hefur þá m.a. verið litið til aðferðarvið útborgun lánsfjárins. Í þeimfjölmörgu dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefur á túlkun samninga, með textasem er ekki skýr um þá skuldbindingu sem lántaki hefur gengist undir, hefurverið talið að útborgun inn á gjaldeyrisreikninga í samræmi við ákvæði samningsfeli í sér að fé í erlendum gjaldmiðlum skipti í reynd um hendur. Að því virtu fæst ekki séð að þýðingu getihaft við úrlausn ágreinings sem deilt er um í málinu að aflað verði mats á þeimatriðum sem tilgreind eru í matsbeiðnum, en það getur hvorki verið hlutverkdómkvaddra matsmanna að túlka samning aðila né myndi slíkar matsgerðir nokkrubreyta um þær kröfur sem stefnandi hefur uppi í málinu. Af þeim sökum er sú sönnunarfærsla semstefnandi gerir kröfu um samkvæmt framangreindu bersýnilega þýðingarlaus fyrirmál þetta, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Verður því þegar af þeim sökum að hafnabeiðni hans um dómkvaðningu matsmanna. Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.Ú R S K U R Ð A R O R Ð:Hafnað er kröfu stefnanda, Brims hf., um dómkvaðningu matsmanna. |
Mál nr. 28/2009 | Kærumál Framsal sakamanns Fordæmi | Mál þetta var tekið til úrskurðar fyrr í dag. Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 3. desember 2008 til ríkissaksóknara tilkynnti ráðuneytið að fallist hafi verið á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila, X, til Póllands. Var þeirri niðurstöðu ráðuneytisins komið á framfæri við varnaraðila 23. desember 2008, en með bréfi verjanda varnaraðila sama dag krafðist hann þess að málið yrði borið undir Héraðsdóm Reykjavíkur. Ríkissaksóknari kom þeirri kröfu á framfæri við dóminn 8. janúar 2009. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2009, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málsvarnarlauna fyrir Hæstarétti. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Ákvörðun dóm- og kirkjumálaráðherra sem staðfest var með hinum kærða úrskurði var tekin 3. desember 2008 en í úrskurðarorði hefur dagsetningin misritast. Vegna forsendna og niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar 10. desember 2007 í máli nr. 634/2007 er fallist á að skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 sé fullnægt fyrir kröfu sóknaraðila, þar sem refsirammi brotsins sem varnaraðila er gefið að sök er hærri en eitt ár samkvæmt íslenskum lögum. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir. Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 og þykja þau hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra 3. desember 2008 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands er staðfest. Ákvörðun hins kærða úrskurðar um þóknun skipaðs verjanda varnaraðila er staðfest. Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 454/2015 | Líkamstjón Skaðabætur Örorkubætur | A krafði V hf. um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir á árinu 2011 er hann missti meðvitund við akstur bifreiðar sinnar. Voru aðilar sammála um að vegna óvenjulegra aðstæðna hjá A á árunum 2009 og 2010 bæri við útreikning bóta fyrir varanlega örorku að meta árslaun hans sérstaklega eftir 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en deildu um hvaða viðmið bæri að leggja til grundvallar. Í aðalkröfu sinni miðaði A við meðaltekjur hans á árunum 2004 til 2006 við eigin atvinnurekstur sem fólst í útseldum akstri vörubifreiðar. Tóku þær tekjur mið af reiknuðu endurgjaldi og hagnaði af rekstrinum öll árin. Þá hafði A uppi varakröfur sem reiknaðar voru eftir meðaltekjum tilgreindra fagstétta. V hf. taldi aftur á móti að ákveða ætti bæturnar miðað við launatekjur A á árinu 2008 sem hann fékk greiddar frá því einkahlutafélagi er tók við atvinnurekstri A í ársbyrjun 2007 án tillits til arðgreiðslu sem A fékk frá félaginu á árinu 2008. Hafði V hf. innt af hendi greiðslu til A í samræmi við það en A veitt henni viðtöku með fyrirvara um frekari bætur. Talið var að leggja bæri til grundvallar bótunum meðallaun iðnaðarmanna á slysárinu 2011 enda yrði því slegið föstu að A hefði á árunum 2004 til 2008 ekki haft lægri tekjur en því næmi þegar litið væri til þess að hluti hagnaðar af atvinnurekstri hans á því tímabili hefði verið tilkominn vegna vinnuframlags hans sjálfs. Var V hf. því gert að greiða A nánar tilgreinda fjárhæð. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir BenediktBogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu tilHæstaréttar 8. júlí 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda,en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar fyrirHæstarétti, en til vara að hann verði látinn niður falla.Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sittleyti til Hæstaréttar 28. september 2015. Hann krefst þess aðallega aðaðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 31.389.715 krónur, með 4,5% ársvöxtumfrá 12. maí 2012 til 27. september 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, entil vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Að þessu frágengnu krefsthann þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 18.270.343 krónur, en aðþví frágengnu 12.165.551 krónu, í báðum tilvikum með sömu vöxtum og áður greinir.Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits tilgjafsóknar sem honum hefur verið veitt.ISvo sem nánar er rakið í hinumáfrýjaða dómi varð gagnáfrýjandi fyrir slysi 12. maí 2011 þegar hann misstimeðvitund við akstur bifreiðar sinnar. Bifreiðin var tryggð lögbundinnislysatryggingu ökumanns hjá aðaláfrýjanda og hefur hann viðurkennt að berabótaábyrgð á slysinu. Aðilar hafa náð samkomulagi um uppgjör skaðabóta fyrirtjónið að frátöldum bótum fyrir varanlega örorku. Með hinum áfrýjaða dómi varfallist á heimild aðaláfrýjanda til að skuldajafna ógreiddum iðgjöldum gegn skaðabótum.Gagnáfrýjandi unir þeirri niðurstöðu og taka kröfur hans mið af því.Aðilar eru sammála um að bætur tilgagnáfrýjanda fyrir varanlega örorku hans verði ekki reiknaðar eftir 1. mgr. 7.gr. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Telja þeir að vegna óvenjulegra aðstæðna hjágagnáfrýjanda á árunum 2009 og 2010 beri að meta árslaun hans sérstaklega eftir2. mgr. sömu greinar en deila um hvaða viðmið beri að leggja til grundvallar. Íaðalkröfu sinni miðar gagnáfrýjandi við meðaltekjur hans á árunum 2004 til 2006við eigin atvinnurekstur sem fólst í útseldum akstri vörubifreiðar. Taka þærtekjur mið af reiknuðu endurgjaldi og hagnaði af rekstrinum öll árin. Verðiekki á þetta fallist hefur gagnáfrýjandi uppi varakröfur sem reiknaðar erueftir meðaltekjum tilgreindra fagstétta. Aðaláfrýjandi telur aftur á móti aðákveða eigi bæturnar miðað við launatekjur gagnáfrýjanda á árinu 2008 sem hannfékk greiddar frá því einkahlutafélagi er tók við atvinnurekstri gagnáfrýjandaí ársbyrjun 2007. Við þann útreikning tók aðaláfrýjandi ekki tillit tilarðgreiðslu sem gagnáfrýjandi fékk frá félaginu á árinu 2008. Hefuraðaláfrýjandi innt af hendi greiðslu til gagnáfrýjanda í samræmi við þetta enhenni var veitt viðtaka með fyrirvara um frekari bætur.IIÞótt ekki verði talið að hagnaður afatvinnurekstri gagnáfrýjanda verði að öllu leyti rakinn til vinnuframlags hanssjálfs er til þess að líta að hann hafði ekki starfsmenn í sinni þjónustu effrá eru taldar skammtíma ráðningar vegna orlofs hans. Því má gera ráð fyrir aðallnokkur hluti hagnaðarins verði rakinn til vinnuframlagsins, en nánari gagnanýtur ekki við í málinu um hvernig hagnaðurinn skiptist eftir vinnugagnáfrýjanda og annarri starfsemi á hans vegum. Þá skiptir ekki máli þótthagnaðurinn hafi á árinu 2008 verið greiddur sem arður einkahlutafélags sem tókvið rekstrinum, enda fer uppgjör skaðabóta vegna líkamstjóns fram áeinkaréttarlegum grundvelli og óháð því hvernig standa ber skil á tekjum tilskatts eftir reglum opinbers réttar. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á þaðmeð aðaláfrýjanda að reikna beri bætur fyrir varanlega örorku aðeins eftirframtöldum launatekjum á árinu 2008. Á það verður hins vegar ekki fallistmeð gagnáfrýjanda að tekjur hans á árunum 2004 til 2006 séu líklegri mælikvarðiá framtíðartekjur hans en þau laun sem hann hafði vegna sama atvinnurekstrar áárunum 2007 og 2008. Með þessu móti verður ekki valið það tímabil sem tjónþolaer hagfelldast en litið með öllu fram hjá lægri tekjum á öðru og síðaratímabili. Jafnframt er til þess að líta að atvinnurekstur gagnáfrýjanda fólstekki aðeins í vinnu hans sjálfs heldur einnig í útleigu á vörubifreið sem hannnýtti við reksturinn. Eins og áður segir verður því ekki lagt til grundvallarað allur hagnaður af rekstrinum á fyrrgreindu tímabili sé til kominn vegnavinnuframlags hans sjálfs, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. febrúar 2011í máli nr. 405/2010. Samkvæmt þessu verður að hafna aðalkröfu gagnáfrýjanda. Aðþessu frágengnu kemur til skoðunar hvort bætur til gagnáfrýjanda verða ákveðnará öðrum grundvelli eftir þeim kröfum sem teflt er fram í málinu.Með varakröfu sinni krefstgagnáfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms en þar voru bætur fyrirvaranlega örorku miðaðar við meðalheildarlaun manns með 3. eða 4. stig vélstjórnará slysárinu 2011 eftir kjarakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrirFélag vélstjóra og málmtæknimanna sem fram fór á því ári. Þótt gagnáfrýjandihafi lokið námi í vélstjórn á árinu […] liggur fyrir að hann hefur ekki starfaðað neinu marki í þeirri grein. Þykja upplýsingar um laun vélstjóra því ekkilíklegur mælikvarði um framtíðartekjur gagnáfrýjanda ef slysið hefði ekkiorðið. Þess utan verður við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku ekki stuðstvið almennan mælikvarða sem ráðinn er af kjarakönnun stéttarfélags meðalfélagsmanna sinna. Þessi krafa gagnáfrýjanda verður því heldur ekki tekin tilgreina. Í sínum ítrustu varakröfum miðargagnáfrýjandi árslaun við meðallaun iðnlærðra verkstjóra eða meðallauniðnaðarmanna á slysárinu 2011 samkvæmt launarannsókn Hagstofu Íslands. Svo semfram er komið hafði gagnáfrýjandi ekki mannaforráð í sínum atvinnurekstri ogverður því ekki miðað við fyrri mælikvarðann. Aftur á móti þykir ekkivarhugavert að leggja þann síðari til grundvallar bótum fyrir varanlega örorkuenda verður því slegið föstu að gagnáfrýjandi hafi á árunum 2004 til 2008 ekkihaft lægri tekjur en því nemur þegar litið er til þess að hluti hagnaðar afatvinnurekstrinum á því tímabili er til kominn vegna vinnuframlags hans sjálfs.Samkvæmt þessu verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda 12.165.551krónu með vöxtum eins og krafist er og greinir í dómsorði.Aðaláfrýjanda verður gert að greiðamálskostnað í héraði eins og í dómsorði greinir en ákvæði héraðsdóms umgjafsóknarkostnað verður staðfest.Rétt er að málskostnaður fyrirHæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda fyrir Hæstaréttifer eins og greinir í dómsorði. Dómsorð:Aðaláfrýjandi,Vörður tryggingar hf., greiði gagnáfrýjanda, A, 12.165.551 krónu með 4,5%ársvöxtum frá 12. maí 2012 til 27. september 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.Aðaláfrýjandigreiði 800.000 krónur í málskostnað í héraði sem renni í ríkissjóð. Ákvæðihéraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.Málskostnaðurfyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrirHæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmannshans, 800.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2015.I. Mál þetta, sem var dómtekið 17. marssl., er höfðað 8. september 2014 af A, […], gegn Verði tryggingum hf.,Borgartúni 25 í Reykjavík. Stefnandi krefst þess aðallega aðstefndi greiði sér 32.265.440 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 12. maí 2012 til27. september 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til varakrefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda20.726.131 krónu með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Til þrautavara krefststefnandi þess að stefndi greiði sér 19.146.068 krónur en til þrautaþrautavara13.041.276 krónur, í báðum tilvikum með sömu vöxtum og að framan greinir. Þákrefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi einsog að málið væri ekki gjafsóknarmál og að dæmdur málskostnaður taki mið af þvíað stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur. Stefndi krefst þess aðallega að hannverði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaðarúr hendi stefnanda. Til vara gerir stefndi þá kröfu að kröfur stefnanda verðilækkaðar verulega og að málskostnaðar verði felldur niður.II. Málavextir eru þeir að stefnandi misstimeðvitund við akstur bifreiðar sinnar […] á Sæbraut í Reykjavík 12. maí 2011með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir graseyju milli akreina, yfir ágrasflöt vestan Sæbrautar og upp á steinvegg, en féll síðan niður vegginn þónokkra hæð. Endaði bifreiðin á hægri hlið. Vitni er komu á vettvang komustefnanda út úr bifreiðinni sem var mikið skemmd. Töldu þau að hann væri íöndunar- og hjartastoppi og hófu endurlífgunartilraunir. Í kjölfarið varstefnandi fluttur með sjúkrabifreið á slysa- og bráðadeild Landspítalans. Þarvar hann greindur með marga alvarlega áverka svo sem brot á kúpubotni,lungnamar, brot á tólfta brjóstlið, mörg brot á hálsliðum, rifbrot auk mars eðablæðinga í lifur og brisi. Næstu mánuði og ár gekkst stefnandi undir miklaendurhæfingu. Bifreið stefnanda var tryggðlögbundinni slysatryggingu ökumanns og eiganda hjá hinu stefndavátryggingafélagi. Stefnandi og stefndi óskuðu sameiginlega eftir því að B,heila- og taugaskurðlæknir, og C hrl. legðu mat á afleiðingar slyssins.Samkvæmt álitsgerð þeirra 22. júlí 2013 var stöðugleikapunktur ákveðinn 12. maí2012 og tímabundin óvinnufærni og tímabil þjáninga var talið vera eitt ár fráslysdegi. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski næmi 45 stigumog varanleg örorka væri 75%. Með bréfi lögmanns stefnanda 27. ágúst2013 krafðist stefnandi 66.511.658 króna í skaðabætur úr hendi stefnda, þar af59.282.962 króna í bætur fyrir varanlega örorku. Styðst kröfugerðin viðniðurstöðu framangreindrar álitsgerðar. Í bréfinu voru færð rök fyrir því aðekki væri unnt að miða við launatekjur stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slysið.Því væri við útreikning kröfunnar miðað við launatekjur hans á árunum 2004 til2006. Málsaðilar eru sammála um að leggjaframangreinda álitsgerð til grundvallar uppgjöri skaðabóta fyrir líkamstjónstefnanda. Þá féllst stefndi á það í tölvubréfi til lögmanns stefnanda 14.nóvember 2013 að ekki væri rétt að miða bætur fyrir varanlega örorku við reglu1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þar sem aðstæður í lífi stefnandahefðu verið óvenjulegar árin 2009 og 2010. Hins vegar myndi félagið ekkifallast á að reikna árslaun á grundvelli reiknaðs endurgjalds og hagnaðar afrekstri stefnanda á árunum 2004 til 2006, eins og stefnandi gerði kröfu um. Þarsem aðstæður stefnanda hefðu ekki verið óvenjulegar árið 2008 gerði stefndistefnanda tilboð um að miða útreikning á varanlegri örorku við tekjur hans áþví ári. Þá var upplýst að stefnandi skuldaði tryggingarfélaginu 875.752 krónursem draga bæri frá skaðabótum við uppgjör. Lögmaður stefnanda tók við uppgjöriskaðabóta að heildarfjárhæð 29.625.474 krónur, þar af 23.601.347 krónur ívaranlega örorku, með þeim fyrirvara að um væri að ræða innborgun áheildarkröfu stefnanda. Kom þar fram að gerður væri fyrirvari við alla þættimálsins, þ. á m. viðmiðunarlaun við útreikning skaðabóta fyrir varanlegaörorku. Við útgreiðslu bótanna var kröfu stefnda um vangreidd iðgjöld aðfjárhæð 875.725 krónur skuldajafnað á móti skaðabótum stefnanda.III.. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi kveðst reisa málshöfðun sínaá 1. mgr. 88. gr. og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og meginregluskaðabótaréttar um fullar bætur til tjónþola. Bifreið stefnanda, með skráningarnúmerið[…], hafi verið tryggð lögboðinni slysatryggingu ökumanns og eiganda hjástefnda á slysdegi. Krafa um skaðabætur sé byggð á ákvæðum skaðabótalaga nr.50/1993 og niðurstöðum matsmannanna B, heila- og taugalæknis, og C hrl., sbr.matsgerð 22. júlí 2013. Stefnandi byggir á því að við uppgjörskaðabóta fyrir varanlega örorku sé ekki rétt að miða við laun hans þrjúsíðastliðin tekjuár fyrir slysdag, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Hannvísar til þess að hann sé með full réttindi sem vélfræðingur (vélstjóri) eftirnám í Vélskóla Íslands þar sem hann hafi lokið fjórða stigi vélstjóranáms ogfengið fullgild réttindi eftir að hafa lokið svonefndum „smiðjutíma“. Stefnandihafi líka fullgild vinnuvélaréttindi og meirapróf auk skipstjórnarréttinda ábáta undir 30 brúttórúmlestum, svokallað „pungapróf“. Stefnandi hafi unnið í rúm 30 ár viðeigin rekstur og hjá verktakafyrirtækjum […], öll venjuleg störf vegnajarðvegsframkvæmda, svo sem akstur vörubíla, stjórn vinnuvéla, malarnám,hafnargerð, gröft á grunnum, gatnagerð, framleiðslu húseininga, malbikun ogrekstur vélsmiðju og steypustöðvar. Hann hafi unnið alla tíð við verkstjórn eneinnig verið framkvæmdastjóri húseiningaverksmiðjunnar […] ehf. og verktakafyrirtækisins[…] ehf. Einnig hafi hann starfað við […]. Stefnandi vísar einnig til þess að framtil ársins 2007 hafi hann rekið fyrirtæki sitt á eigin kennitölu og hafireksturinn gengið vel. Árið 2007 hafi einkahlutafélagið D ehf. tekið viðrekstrinum. Á því ári hafi aftur á móti orðið mikill samdráttur ímannvirkjagerð og byggingarstarfsemi á […]. Hnignunin hafi aukist jafnt og þéttyfir árið og hafi haft mjög alvarlegar afleiðingar á starfsemi félagsstefnanda. Reksturinn hafi dregist mikið saman með tilheyrandi tekjumissi fyrirstefnanda. Hrunið 2008 hafi svo aukið enn á þessa erfiðleika. Stefnandi hafigripið til ýmissa hagræðingarráðstafana, m.a. lækkað laun sín eins og sjá megiá skattframtölum vegna áranna 2004-2010. Stefnandi telur aðstæður sínar hafaverið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem efnahagshrunhafi orðið í íslensku atvinnulífi haustið 2008. Afleiðingar „hrunsins“ hafim.a. orðið þær að útboðum vegna verkefna, sem félag stefnanda hafi unnið allajafna að, hafi fækkað verulega. Algjört frost hafi myndast í iðngreinum þar semengin verkefni var að fá, hvort heldur stór eða smá, sérstaklega á […] þar semstarfsstöðvar félags stefnanda hafi verið. Þar sem félag stefnanda hafi fengiðlitlar sem engar tekjur hafi starfsemi þess stöðvast eftir því sem lengra hafiliðið frá hruni og laun stefnanda lækkað í samræmi við það. Að lokum hafi veriðkrafist gjaldþrotaskipta yfir félaginu. Stefnandi tekur fram að efnahagshruniðsem skall á Íslandi haustið 2008 eigi sér ekkert fordæmi í Íslandssögunni.Óumdeilanlegt sé að aðstæður á markaði árin 2008, 2009 og 2010 hafi verið bæðiafbrigðilegar og sérstaklega alvarlegar. Í tilviki stefnanda verði að líta tilþess að rekstur hans hafi um margra ára bil gengið mjög vel og án teljandierfiðleika. Hreinar tekjur hans af atvinnurekstrinum staðfesti það. Stefnandihafi verið bæði farsæll í starfi og notið góðra tekna. Hann hafi t.a.m. aldreiþegið atvinnuleysisbætur fyrr en árið 2009, þegar örlög félags hans hafi veriðráðin. Utanaðkomandi atburðir, sem stefnandi hafi engin áhrif haft á, hafiráðið því að félagið hafi verið tekið til skipta og að tekjur stefnanda hafilækkað verulega frá því sem þær höfðu verið áður. Hefði ekki komið til„hrunsins“ telur stefnandi fullvíst að hann hefði notið sömu tekna og hanngerði árin á undan. Stefnandi vísar enn fremur til þess aðefnahagskreppan sé tímabundin og hafi forsætisráðherra m.a. lýst þvíopinberlega að „kreppunni sé formlega lokið“. Það endurspeglist m.a. í því aðbyggingarkranar rísi yfir fjölmörgum nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu ogkaupmáttur Íslendinga hafi aukist. Að efnahagskreppan hafi verið tímabundinsýni að mati stefnanda að aðstæður á Íslandi árin 2007 til 2010 hafi veriðóvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefnandi byggir einnig á því að tekjurhans árin 2008 til 2010 séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjurhans ef hann hefði ekki orðið fyrir slysi. Ástæðan séu hinar óvenjuleguaðstæður sem raktar séu að framan en þær hafi orðið til þess að laun stefnandahafi lækkað verulega, sbr. fyrri umfjöllun. Stefnandi hafi verið með miklastarfsreynslu, hafi unnið langan vinnudag og haft góðar tekjur fram að því aðhalla fór undan fæti í rekstri félags hans vegna ytri aðstæðna. Með vísan tilþess að um tímabundnar aðstæður á íslenskum efnahagmarkaði hafi verið að ræða,sem og menntunar og starfsreynslu stefnanda, telur stefnandi öruggt að hannhefði fundið sér vel launað starf við hæfi ef slysið hefði ekki orðið. Með það meginmarkmið skaðabótalaga íhuga, að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir tjón sitt, telur stefnandi enginrök standa til þess að miða framtíðartekjutap hans vegna slyssins við laun hansá árunum 2008 til 2010. Því sé rétt að beita öðrum launaviðmiðum sem séuréttari mælikvarði á tekjur hans í framtíðinni. Að öðrum kosti fái hann tjónsitt ekki bætt. Stefnandi krefst þess að við útreikningbóta fyrir varanlega örorku verði miðað við tekjur hans síðustu þrjú árin áðuren rekstur hans fór að dragast saman vegna aðstæðna sem hófust árið 2007 oghrundu svo. Þar sé vísað til áranna 2004, 2005 og 2006. Tekjurnar séu á bilinu4.562.656 krónur til 7.218.875 krónur þessi ár og séu mjög áþekkar meðallaunumiðnlærðra vélstjóra þessi sömu ár. Tekjurnar séu blanda af reiknuðu endurgjaldivið eigin atvinnurekstur, sbr. lið 2.4 í skattframtölum, og hreinum tekjum afeigin atvinnurekstri, sbr. lið 2.5 á skattframtali. Þær sundurliðar stefnandiþannig: ÁrTekjur skv. staðgr.skr., kr.Vísitala ársinsVísitala á st.l.p.Mótframlag atvinnur.Samtals kr.20044.562.656,-250,3432,96%8.364.699,-20057.218.875,-267,2432,97%2.514.239,-20066.280.938,-292,7432,97%9.939.697,- Meðaltal 10.272.878,- Viðmiðunarlaunin séu því 10.272.878krónur að meðtöldu framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð. Krafa stefnandavegna varanlegrar örorku nemi því 33.328.375 krónum ((10.272.878 x 7,389 x 75%)– 23.601.347 (fyrri innborgun)). Verði ekki fallist á framangreintárslaunaviðmið telur stefnandi að miða eigi við meðalheildarlaun manns með 3.eða 4. stig vélstjórnar á slysárinu 2011 samkvæmt launarannsókn Félagsvélstjóra og málmtæknimanna (FVM) frá 16. janúar 2012, enda leggja dómstólaroft til grundvallar meðallaun á því ári sem slys verður í því starfi semtjónþoli er menntaður til. Mánaðarlaun vélstjóra með 3. eða 4. stig réttindasamkvæmt launarannsókn FVM árið 2011 hafi verið 605.000 krónur.Viðmiðunarlaunin séu því 7.840.800 krónur að meðtöldu 8% framlagiatvinnurekanda í lífeyrissjóð ((605.000 x 12) x 1,08). Varakrafa stefnandavegna varanlegrar örorku nemi því 19.850.406 krónum ((7.840.800 x 7,389 x 75%)- 23.601.347 (fyrri innborgun)). Verði heldur ekki fallist áframangreint árslaunaviðmið telur stefnandi rétt að miðað verði viðmeðalheildarlaun iðnlærðra verkstjóra á slysárinu 2011 samkvæmt launarannsóknHagstofunnar. Mánaðarlaun iðnlærðra verkstjóra samkvæmt launakönnunHagstofunnar árið 2011 hafi verið 583.000 krónur. Viðmiðunarlaunin séu því7.555.680 krónur að meðtöldu 8% framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð((583.000 x 12) x 1,08). Þrautavarakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku séþví 18.270.343 krónur ((7.555.680 x 7,389 x 75%) - 23.601.347 (fyrriinnborgun)). Verði ekki fallist á nein framangreindárslaunaviðmið er þess krafist af hálfu stefnanda að miða við meðalheildarlauniðnaðarmanna á slysárinu 2011 samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar. Meðallauninnemi 498.000 krónum. Viðmiðunarlaunin séu því 6.454.080 krónur að meðtöldu 8%framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð ((498.000 x 12) x 1,08).Þrautaþrautavarakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku nemi því 12.165.551krónu (6.454.080 x 7,389 x 75%) - 23.601.347 (fyrri innborgun)). Stefnandi mótmælir því að skilyrði hafiverið fyrir hendi til að skuldajafna ætlaðri kröfu stefnda um vangreidd iðgjöldvið kröfu stefnanda um skaðabætur. Hann kveður stefnda ekki hafa lagt fram neingögn til stuðnings kröfunni, einungis ódagsett yfirlit um hina ætluðu skuldstefnanda og kröfulýsingu í þrotabú hans, sem skýri ekki kröfu stefnda. Ekkiliggi nægjanlega fyrir hvaða iðgjöld þetta séu, fyrir hvaða tímabil, fyrirhvaða tryggingu, á hvaða bíl o.s.frv. Stefndi hafi heldur ekki lagt fram gögntil stuðnings því að stefnanda hafi verið tilkynnt um hinar ætluðu vanefndirbréfleiðis, að honum hafi verið send áminning vegna ógreiddra iðgjalda,greiðsluáskorun og formleg riftun á vátryggingarsamningi, sbr. 32. og 33. gr.laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Þá bendir stefnandi á að hann hafi hafttil umráða bifreið sem fjármögnunarfyrirtæki hafi að lokum leyst til sín.Stefnandi telur að ef hin ætluðu vanskil eru vegna iðgjalda á tryggingumþeirrar bifreiðar hafi þær átt að falla niður frá og með deginum semlánveitandi leysti hana til sín. Af þeirri ástæðu geti stefndi ekki krafið hannum greiðslu iðgjalds eftir að bifreiðin var látin af hendi. Að framangreindu virtu lítur stefnandisvo á að krafa stefnda vegna ætlaðra vanskila á iðgjöldum sé hvorki sönnuð négjaldkræf. Af þeirri ástæðu bresti stefnda lagalega heimild til að lýsa yfirskuldajöfnuði enda séu efnisleg skilyrði til þess ekki uppfyllt. Vegna framangreindskrefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda875.725 krónur fyrir að halda ólöglega eftir greiðslum við uppgjör skaðabóta. Stefnandi kveður málskostnaðarkröfusína vera reista á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991um meðferð einkamála. Málskostnaður stefnanda beri virðisaukaskatt samkvæmtlögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldurog því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 42. gr. laga nr.91/1991. Stefnandi kveður vaxtakröfu sína vera reista á 16. gr. skaðabótalagaog 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Vaxta sé krafist frá upphafsdegi metinnarörorku, 12. maí 2012, til 27. september 2013, þegar mánuður hafi verið liðinnsíðan stefndi hafði verið krafinn um greiðslu skaðabóta, en dráttarvaxta fráþeim degi. 2. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi kveður stefnanda bera sönnunarbyrði fyrir umfangi ætlaðs tjóns sem hanntelur að eigi rót að rekja til bílslyss þess sem hann hafi orðið fyrir 12. maí2011, umfram það tjón sem stefnandi hafi þegar fengið bætt. Stefndi byggir áþví að slík sönnun liggi ekki fyrir. Stefndi vísar til þess aðhann hafi bætt stefnanda tjón vegna varanlegrar örorku hans sem og af öðrumtoga. Hvað varanlega örorku snerti telur stefndi að byggja beri útreikninga áreglu 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Telur hann að leggja eigitil grundvallar atvinnutekjur stefnanda, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda tillífeyrissjóðs, síðasta almanaksárið sem stefnandi hafi verið í fullu starfifyrir þann dag er tjónið varð, sem í tilviki stefnanda sé árið 2008.Upplýst sé að stefnandi hafi á stundum verið atvinnulaus árin þar á eftir þartil hann hafi lent í slysinu árið 2011. Stefnandi hafi hins vegar viljað byggjaá meðaltali þriggja ára, 2004, 2005 og 2006, þar sem hann telur að óvenjuleguraðstæður hafi fyrr komið til á íslenskum vinnumarkaði. Tekjur hans hafi veriðhærri árin fyrir það. Stefndi byggir á því að til að hægt sé að víkja frá meginreglu 1. mgr. 7.gr. skaðabótalaga og beita undantekningarákvæði 2. mgr. 7. gr. sömu laga þurfistefnandi að sýna fram á að annars vegar séu fyrir hendi óvenjulegar aðstæður ískilningi ákvæðisins og hins vegar að annar mælikvarði sé réttari til að metahverjar framtíðartekjur stefnanda hefðu orðið, en það hafi stefnandi ekki gert. Að mati stefnda felibreyttar efnahagsaðstæður í kjölfar bankahrunsins árið 2008 ekki í sér sönnunum að óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hafi veriðfyrir hendi í tilviki stefnanda þannig að ætla megi að annar mælikvarði séréttari. Að mati stefnda geti hrun fjármálakerfisins á Íslandi haustið 2008ekki sem slíkt réttlætt það að miðað sé við hærri tekjur við útreikninga ávaranlegri örorku. Hins vegar sé atvinnuleysi, sem hafi verið meðal afleiðingaefnahagsþrenginganna, atriði sem geti réttlætt beitingu 2. mgr. 7. gr.skaðabótalaga. Aðstæður stefnanda hafi verið með þeim hætti og því sé rétt aðhorfa til annarra viðmiða en rauntekna stefnanda síðustu þrjú almanaksár fyrirslysið. Stefndi telur einboðið aðlækka kröfur stefnanda og sýkna stefnda þar sem rök standi ekki til þess aðmiða við meðaltekjur stefnanda á árunum 2004, 2005 og 2006 við útreikning ávaranlegri örorku með vísan til efnahagshrunsins. Ekki standi rök til þess aðhorfa til mestu góðærisára Íslandssögunnar á seinni tímum í byggingariðnaði. Áþví sé byggt að nærtækara sé að horfa eingöngu til ársins 2008, en þá hafi hannverið með sömu tekjur og árið 2007. Bæði árin hafi hann notið launa að fjárhæð3.840.000 krónur sem framreiknuð vegna ársins 2008 hafi numið á tímapunktistöðugleika 12. maí 2012 5.203.834 krónum (3.840.000/345x432,9x1,08). Þaðviðmið hafi stefndi lagt til grundvallar við uppgjörið. Stefndi byggir á því aðeinungis laun komi til álita við ákvörðun árslauna. Stefnandi hafi fengiðgreidd laun árin 2007 og 2008, en meðaltal þeirra ára megi hugsa sem varakröfu.Stefndi telur að annað eigi við árin 2004 til og með 2006. Byggir stefndi á þvíað hvergi sjái þess stað að leggja beri ávinning af atvinnurekstri tilgrundvallar í þessu efni. Slíkur ávinningur kunni að eiga rót að rekja tilvinnuframlags stefnanda en einnig til annarra starfsmanna hans, vörusölu eðaleigu tækja. Slíkar rekstrartekjur falli ekki að hugtakaskilyrðumskaðabótalaganna, þær séu ekki „meðalatvinnutekjur tjónþola“ svo notað séorðalag úr lögskýringargögnum. Í skattframtölum stefnanda fyrir árin 2004, 2005og 2006 komi fram að stofn til útreiknings tekjuskatts sé samsettur öll árin afreiknuðu endurgjaldi og hreinum tekjum af eigin atvinnurekstri, en stefnandihafi rekið fyrirtæki sitt á eigin kennitölu til ársins 2007. Eftir það hafieinkahlutafélagið D ehf. tekið við rekstrinum. Samkvæmt hlutafélagaskrá hafitilgangur félagsins verið vörubílarekstur, tengd starfsemi, rekstrarráðgjöf ogstjórnun, kaup og sala fasteigna, rekstur fasteigna, lánastarfsemi o.fl. Rakiðsé í bréfi, sem ritað hafi verið fyrir hönd stefnanda að fyrirtæki stefnandahafi unnið meðal annars að vinnslu og sölu jarðefna. Slík sala hafi án vafaskapað sölutekjur í rekstri stefnanda. Þá sé alkunna að greitt sé sérstaklegafyrir afnot vörubíla og annarra tækja í rekstri eins og þeim sem stefnandi hafisinnt. Á meðan ekkert liggi fyrirum uppruna hreinna tekna af atvinnustarfsemi telur stefndi að ekki verði horfttil tekjuára þar sem slíkar tekjur hafi verið helmingur eða allt að tveimurþriðju hlutum stofns til útreiknings tekjuskatts og útsvars. Á því sé byggt afhálfu stefnda að arður af rekstri fyrirtækis falli ekki að hugtaksskilyrðum 5.gr. laga nr. 50/1993. Gildi þá einu hvort hluta af arðinum megi rekja tilvinnuframlags stefnanda en um það eigi hann sönnunarbyrði. Stefndi bendir á aðbótum fyrir varanlega örorku sé ætlað að bæta upp þau raunverulegu áhrif semlíkamstjón hafi á getu einstaklings til þess að afla tekna. Hreinarrekstrartekjur falli ekki að hugtakinu árslaun að mati stefnda. Stefnandi hafiengin gögn lagt fram er sýni hvernig hreinar tekjur hans hafi myndast. Stefndi bendir einnig á aðstefnandi hafi einvörðungu greitt eigið 4% framlag til lífeyrissjóðs út fráreiknuðu endurgjaldi. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skuli reikna afheildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf ogþjónustu samkvæmt 3. gr. laga nr. 129/1997. Því telur stefndi að stefnandi hafisjálfur gengið út frá því að reiknaða endurgjaldið endurspeglaði heildarfjárhæðgreiddra launa. Stefndi telur því að ekki séunnt að líta til annars en launatekna stefnanda sjálfs. Stefndi byggir á því aðstefnandi hafi ekki sýnt fram á eða gert líklegt með áreiðanlegum gögnum umaflahæfi sitt að önnur viðmiðun en sú sem beitt hafi verið við uppgjör bóta tilhans sé réttari mælikvarði á framtíðartekjur hans. Um varakröfu stefnda er afhans hálfu tekið fram að það blasi við að lengst megi ganga með því að horfatil tveggja ára, þ.e. áranna 2007 og 2008. Þá hafi stefnandi verið meðnákvæmlega sömu launin, 3.840.000 krónur, sem leiði þó til ögn hærriviðmiðunarlauna en bótauppgjör stefnda, enda verðbætur á laun ársins 2007 hærrien ársins 2008. Laun til grundvallar örorkubótum myndu þá nema 5.497.008 krónum(3.840.000/326,6x432,9x1,08), vegna ársins 2008 og 5.203.834 krónum vegnaársins 2008. Meðaltal áranna tveggja myndi nema 5.350.421 krónu. Bætur vegnavaranlegrar örorku ættu þá að nema 24.413.697 krónum sem sé 812.350 krónumhærra en uppgjör málsaðila. Af hálfu stefnda er tekiðfram að það eigi ekki við rök að styðjast að árið 2007 hafi verið samdráttarárþannig að ekki sé unnt að líta til tekna á því ári. Þá beri að líta til þess aðáhrif efnahagsþrenginganna, sem hófust haustið 2008, hafi einkum komið fram áárinu 2009 og á árunum þar á eftir. Þá vekur stefndi athygli á því að launinséu þau sömu bæði árin 2007 og 2008. Stefndi mótmælir því aðvarakröfur stefnanda geti átt við. Ekki sé unnt að miða við meðalheildarlaunmanns með 3. og 4. stig vélstjórnar á slysárinu, enda liggi ekki fyrirupplýsingar um að stefnandi hafi nokkurn tíma starfað sem slíkur þrátt fyrir aðhann hafi lokið námi við Vélstjóraskóla Íslands árið […]. Slíkar tekjur gefiþví ekki fullnægjandi mynd af væntanlegum framtíðartekjum hans. Stefndi telur heldur ekkiunnt að miða við meðaltekjur iðnlærðra verkstjóra við útreikning bóta. Þaðliggi ekkert fyrir um að stefnandi hafi haft mannaforráð þannig að rétt sé aðhorfa til þessa hóps. Þá liggi heldur ekki fyrir að laun hans hafi nokkurn tímatekið mið af kjarasamningi verkstjórafélagsins. Jafnvel þó að ekki sé unnt aðstyðjast við tekjur þriggja ára fyrir slysdag leiði það ekki sjálfkrafa tilþess að miða eigi við meðeltekjur þeirrar starfsgreinar sem stefnandi hafiekkert starfað við á slysdegi. Stefndi telur sér hafa veriðheimilt að skuldajafna vangoldnum iðgjöldum við bætur stefnanda. Um heimild sínavísar stefndi til 122. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Samkvæmtþví ákvæði sé stefnda heimilt að skuldajafna bótagreiðslum eðavátryggingarfjárhæð gagnvart vangoldnu iðgjaldi vegna þeirrar vátryggingar semum ræði eða annarra sem stefnandi hafði hjá stefnda. Stefnandi hafi skuldaðstefnda 635.785 krónur auk áfallins ógreidds kostnaðar og vísar um það tilyfirlits frá innheimtufyrirtækinu Motus. Stefndi kveður kröfuna byggjast áiðgjöldum vegna ökutækjatryggingar sem stefnandi hafi verið með hjá stefndavegna vörubifreiðarinnar […] á vátryggingatímabilunum frá 1. janúar til 31.desember 2011 annars vegar og hins vegar frá 1. janúar til 31. desember 2012.Skuld stefnanda hafi staðið í 875.725 krónum með vöxtum og kostnaði þegaruppgjör á bótum til stefnanda hafi farið fram 27. ágúst 2013. Stefndi mótmælir því aðstefnandi hafi ekki vitað um vanefndir sínar á iðgjöldum til stefnda sem rönguog ósönnuðu. Stefndi kveður stefnanda hafa skrifað sjálfviljugan undirvátryggingarsamning við stefnda en að hann hafi ekki greitt umsamið iðgjaldþrátt fyrir að vera vel upplýstur um vanskil sín. Fyrir liggi innheimtubréf ogaðvaranir frá Motus sem engar forsendur séu til að ætla að stefnandi hafi ekkifengið í hendur. Stefndi kveðst einnig tilöryggis mótmæla dráttarvaxtakröfu stefndanda enda hafi málsaðilar freistað þessað leysa ágreining sinn utan réttar. Því sé ekki um vanskil að ræða í neinumskilningi þess orðs sem geti skapað rétt til slíkra vaxta. Um lagarök vísar stefndi tiláðurgreindra lagaraka til stuðnings sýknukröfu. Kröfu sína um málskostnaðstyður hann við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá krefststefndi álags á málskostnað sem nemi virðisaukaskatti, en stefndi reki ekkivirðisaukaskattsskylda starfsemi. Því beri honum nauðsyn á að fá dæmt álag semnemi þeim skatti á hendur stefnanda.IV. Í máli þessu eru aðilarsammála um að stefnandi eigi bótarétt úr slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar[…] hjá hinu stefnda tryggingarfélagi vegna líkamstjóns sem stefnandi hlaut íslysi sem ökumaður í bifreiðinni 12. maí 2011. Um bótarétt stefnanda fer eftirskaðabótalögum nr. 50/1993. Aðila greinir á um fjárhæð skaðabóta fyrirvaranlega örorku sem stefnandi hlaut í slysinu. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr.skaðabótalaga ber að meta bætur fyrir varanlega örorku til fjárhæðar ágrundvelli örorkustigs tjónþola, árslauna hans samkvæmt 7. gr. laganna ogstuðli samkvæmt töflu í 1. mgr. 6. gr. laganna sem ræðst af aldri tjónþola áþeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Ekki er ágreiningur um aðað örorkustig stefnanda af völdum slyssins er 75%. Þá er ágreiningslaust aðmiða beri við stuðulinn 7,389 við útreikning bótanna. Aðila greinir hins vegará um þau árslaun sem leggja ber til grundvallar við þennan útreikning. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr.skaðabótalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, skulu árslaun teljast verameðalatvinnutekjur tjónþola, að meðtöldu framlagi vinnuveitanda tillífeyrissjóðs, þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjónið varð,leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorkumiðast við. Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður erufyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegarframtíðartekjur tjónþola, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Aðilar eru sammála um aðí tilviki stefnanda séu óvenjulegar aðstæður fyrir hendi þannig að meta beriárslaun hans sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Ástæður þessaeru þó mismunandi í hugum aðila, eins og ráðið verður af umfjöllun í kafla III.Þá greinir aðila á um hvaða annar mælikvarði sé réttari á líklegarframtíðartekjur stefnanda. Fyrir liggur að stefnandi,sem er vélstjóri að mennt og með vinnuvéla- og meirapróf, rak um alllangtskeið, áður en hann lenti í slysinu, fyrirtæki sem annaðist akstur vörubifreiðaog stjórn vinnuvéla, malarnám og verktakastarfsemi í tengslum við jarðvegsvinnuýmiss konar. Fram til ársins 2007 var fyrirtækið rekið á kennitölu stefnanda.Samkvæmt skattframtölum hans var hann með tekjur á árunum 2004, 2005 og 2006sem samanstóðu annars vegar af reiknuðu endurgjaldi og hins vegar af hreinumtekjum af eigin atvinnurekstri. Í kafla III.1 er greint frá tekjum stefnandaþessi ár, en aðalkrafa hans er á því reist að leggja beri þessar tekjur tilgrundvallar við útreikning á árslaunum samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga,eins og nánar er fjallað um hér að framan. Á árinu 2007 mun stefnandihafa stofnað einkahlutafélagið D ehf. og fært eigin atvinnurekstur þangað.Starfsemi félagsins er skráð í hlutafélagaskrá „[…]“ og er tilgangi félagsinsþar lýst sem „vörubílaakstur, tengd starfsemi, rekstrarráðgjöf og stjórnun,kaup og sala fasteigna, leiga tækja og fasteigna, rekstur fasteigna,lánastarfsemi og önnur sú starfsemi sem stjórn félagsins telur því til hagsbótahverju sinni“. Stefnandi var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins aukþess að hafa prókúru þess. Samkvæmt ársreikningi félagsins 2007, dags. 30.október 2008, nam hagnaður félagsins á árinu 2007 rúmum 5,3 milljónum króna. Íárslok 2007 nam óráðstafað eigið fé félagsins rúmlega 4,6 milljónum króna. Ískattframtali stefnanda fyrir tekjuárið 2007 var hann með 3.840.000 krónur ílaunatekjur frá D ehf. á því ári. Fram kemur í fyrrgreindum ársreikningi aðgreidd laun félagsins nemi sömu fjárhæð. Liggur því fyrir að stefnandi var einistarfsmaður félagsins á þessu ári. Stefnandi var ekki skráður eigandi félagsinssamkvæmt ársreikningnum heldur E. Á skattframtali 2009 taldistefnandi fram sömu launatekjur frá D ehf. fyrir árið 2008 og hann hafði gertárið áður, 3.840.000 krónur. Stefndi hefur miðað uppgjör skaðabóta tilstefnanda við þessar tekjur og hefur fært ákveðin rök fyrir þeirri nálgun semlýst er í kafla III.2. Ársreikningur félagsins fyrir árið 2008 ber með sér aðhann var áfram eini starfsmaður félagsins. Af honum verður einnig ráðið að Dehf. hafi greitt út arð á því ári að fjárhæð 4,5 milljónir króna á grundvellihagnaðar síðasta reikningsárs. Stefnandi hefur lagt fram upplýsingar úrskattframtali sínu og eiginkonu sinnar sem færa sönnur á að hann hafi fengiðumræddan arð greiddan þó að E hafi áfram verið skráður eigandi félagsins íársreikningi fyrir rekstrarárið 2008. Samkvæmt ársreikningnum varð tæplega 7milljóna króna hagnaður af rekstri félagsins á árinu 2008, en sökum hárrafjármagnsgjalda nam tap félagsins tæplega 7,7 milljónum króna. Stefnandi heldur því fram aðá árinu 2007 hafi orðið mikill samdráttur í mannvirkjagerð ogbyggingarstarfsemi á […] þar sem stefnandi var með starfsemi. Hafi þessihnignun komið jafnt og þétt fram og valdið því að reksturinn hafi dregist mikiðsaman með tilheyrandi tekjumissi fyrir stefnanda. Þetta samrýmist ekkiframlögðum gögnum um rekstur D ehf. Þau gefa til kynna að rekstur félagsinshafi gengið álíka vel eða betur árið 2007 en árið á undan, en hagnaður milliáranna jókst um rúmlega 2,3 milljónir króna og rekstrarhagnaður var svipaður.Hagnaður af rekstri ársins 2008 var síðan álíka mikill og árin 2006 og 2007.Ekki liggur því fyrir að samdráttur hafi orðið í starfsemi félagsins fyrr enmögulega á árinu 2009, en þess ber að geta að ekki liggja fyrir tölur úrrekstri félagsins fyrir það ár eða síðar. Hins vegar er ljóst að vaxandifjármagnsgjöld, einkum gengismunur, fóru að sliga félagið strax á árinu 2008,eins og ársreikningur þess ber með sér. Launatekjur stefnanda frá félaginulækkuðu úr þessu, urðu 2.560.000 krónur árið 2009, 1.920.000 krónur árið 2010og 640.000 krónur slysárið 2011. Öll þessi ár fékk stefnandi einnig greiddaratvinnuleysisbætur. Félagið mun síðan hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Eins og rakið verður varðslysið í maí 2011. Ekki er unnt að fallast á að reiknað endurgjald stefnanda oghagnaður af einkarekstri hans á árunum 2004, 2005 og 2006, er varð fyriralvarlegum skakkaföllum í kjölfar efnhagshrunsins haustið 2008, eins og stefnandilýsir raunar í stefnu, sé sá mælikvarði sem sé réttari á líklegarframtíðartekjur stefnanda, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Því ber að hafnaaðalkröfu stefnanda. Eins og rakið hefur veriðmiðar stefndi uppgjör skaðabótanna einungis við fram taldar launatekjurstefnanda árið 2008 frá D ehf. Er það fyrsta árið af þremur sem leggja hefðiátt til grundvallar ef árslaunaviðmiði 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hefði veriðbeitt. Ekki verður ráðið af framlögðum gögnum að þetta ár hafi verið óvenjulegtþegar litið er til launatekna stefnanda í samanburði við fyrri ár, sem voru þærsömu og árið á undan og ekki svo fjarri reiknuðu endurgjaldi stefnanda árið2006. Þegar hefur verið vikið að rekstri einkahlutafélags stefnanda á árinu2008 og þeim arði sem gögn málsins benda til að stefnandi hafi greitt sér á þvíári vegna hagnaðar fyrra árs. Í uppgjöri því, sem stefndi telur fela í sérfullar efndir á skaðabótakröfu stefnanda, er ekki litið til þessarararðgreiðslu eða annars hagnaðar af rekstri félagsins. Með atvinnutekjum ískilningi 7. gr. skaðabótalaga er átt við tekjur af vinnuframlagi tjónþola semeru þess eðlis að þær geta skerst við örorku. Í dómaframkvæmd hefur ekki veriðá það fallist að við ákvörðun árslauna beri einungis að líta til fram talinnalaunatekna tjónþola, sem er í hliðstæðri aðstæðu og stefnandi, heldur getihagnaður af rekstri einkahlutafélags, sem tjónþoli á og starfar hjá, einnigverið hluti af atvinnutekjum hans. Stefnandi var eini starfsmaður D ehf. áárinu 2008, eins og árin á undan. Hann ók sjálfur vörubifreiðum og stjórnaðivinnuvélum félagsins sem skóp því tekjur sem lögðu grunn að þeirri arðgreiðslusem stefnandi fékk á árinu. Því er ekki unnt að fallast á að við útreikning áskaðabótum til stefnanda fyrir varanlega örorku sé rétt að miða einungis viðlaunatekjur stefnanda árið 2008, eins og stefndi leggur til grundvallar. Ágreiningslaust er að hlutiaf tekjum D ehf. hlaust af útleigu á eignum félagsins. Ekki liggur því fyrir aðallur hagnaður félagsins á árinu 2007, sem lá til grundvallar arðgreiðslunni2008, helgist af vinnuframlagi hans sjálfs. Stefnandi hefur heldur ekki gertkröfu um eða fært rök fyrir því að miða beri árslaun hans við arðgreiðsluársins 2008 ásamt launatekjum. Þá er ljóst að halla fór undan rekstri félagsinsallnokkru fyrir slysið í maí 2011 og hefur það nú verið tekið tilgjaldþrotaskipta. Eins og málið liggur fyrir dóminum er því ekki forsenda tilað meta árslaun samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga út frá framlögðum gögnumum tekjur stefnanda og rekstur einkahlutafélags hans. Telur dómurinn aðalmennur mælikvarði sé réttari fyrir líklegar framtíðartekjur stefnanda semleggja ber til grundvallar við útreikning á skaðabótum hans fyrir þá varanleguörorku er hann hlaut í slysinu 2011. Í varakröfu stefnanda erstuðst við meðalheildarlaun manns með 3. eða 4. stig vélstjórnar á slysárinusamkvæmt kjarakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Félagvélstjóra og málmtæknimanna sem fram fór á því ári. Ágreiningslaust er aðstefnandi hefur lokið því námi. Þá liggur fyrir að hann hefur helgað sigrekstri er tengist á ýmsan hátt námi hans. Stefnandi var 51 árs þegar hann varðfyrir slysinu og ekkert sem bendir til þess að honum hefði ekki verið unnt að starfaáfram á vettvangi þar sem menntun hans og reynsla nýttist hefði hann ekki orðiðfyrir því slysi sem er tilefni máls þessa. Telur dómurinn rétt að leggja þennanmælikvarða á líklegar framtíðartekjur stefnanda til grundvallar. Ber því aðfallast á varakröfu stefnanda að því er lýtur að varanlegri örorku stefnanda,en ekki er ágreiningur um útreikning stefnanda á þeirri fjárkröfu. Undir rekstri málsins hefurstefndi lagt fram gögn til stuðnings því að stefnandi hafi skuldað stefndaiðgjöld vegna trygginga á […] bifreið með skráningarnúmerinu […] fyrir árin2011 og 2012. Stefnanda var tilkynnit um þessi vanskil með bréfi 9. júlí 2012,en eftirstöðvar námu þá 813.268 krónum. Innheimtufyrirtækið Motus sendistefnanda aðra tilkynningu um sömu vanskil 31. júlí 2012. Samkvæmt bréfi 19.nóvember 2013 var tilkynnt um niðurfellingu ökutækjatryggingar framangreindrarbifreiðar frá og með 7. ágúst 2012 vegna vanskila. Við það lækkaði krafan um164.804 krónur. Þá var krafan enn á ný lækkuð um 12.679 krónur vegnaniðurfellingar ökutækjatryggingar á […] bifreið með skráningarnúmerinu […], semstefnandi var skráður eigandi að. Eftir það nam skuld stefnanda samtals 635.785krónum. Samkvæmt framlögðu yfirliti frá Motus, dags. 13. nóvember 2013, namstaða skuldarinnar á þeim degi með vöxtum og kostnaði 875.725 krónum. Þessariskuld var skuldajafnað á móti bótagreiðslu til stefnanda 14. nóvember Samkvæmt1. mgr. 122. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga var stefnanda heimiltað skuldajafna við bótagreiðslur til stefnanda vangoldnu iðgjaldi vegna þeirrarvátryggingar sem um ræðir eða annarra sem vátryggingartaki hefur hjá félaginu.Í þessu ljósi verður að hafna kröfu stefnanda sem að þessu lýtur. Samkvæmt framansögðu ber aðfallast á varakröfu stefnanda um greiðslu 19.850.406 króna í skaðabætur fyrirvaranlega örorku til viðbótar við þær 23.601.347 krónur sem stefnandi hefurþegar fengið greiddar úr slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar […]. Kröfur stefnanda um vexti og dráttarvexti eiga sérstoð í 16. gr. skaðabótalaga sem og 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu og ber að fallast á þá kröfu. Öðrum kröfumstefnanda er hafnað. Eins og atvikum er háttaðþykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnandi nýtur gjafsóknarí málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi innanríkisráðuneytisins 10. nóvember 2014.Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t.málflutningsþóknun lögmanns hans Sveinbjörns Claessens hdl., sem þykir hæfilegaákveðin 744.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ásmundur Helgasonhéraðsdómari kveður upp dóm þennan.D Ó M S O R Ð : Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiðistefnanda, A, 19.850.406 krónur með 4,5%ársvöxtum frá 12. maí 2012 til 27. september 2013, en með dráttarvöxtumsamkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeimdegi til greiðsludags. Málskostnaður milli aðila fellur niður.Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t.málflutningsþóknun lögmanns hans, Sveinbjörns Claessens hdl., 744.000 krónur. |
Mál nr. 511/2011 | Kærumál Innsetningargerð Frávísun frá Hæstarétti | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa S hf. um að honum yrði heimilað að fá nánar tiltekna lausafjármuni tekna úr vörslum L ehf. og fengna sér með beinni aðfarargerð. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lagði S hf. fram staðfestingu þess efnis að innsetningargerð á grundvelli hins kærða úrskurðar væri lokið. Taldi rétturinn að L ehf. hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að úrskurðinn kæmi til endurskoðunar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti. | Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. ágúst 2011, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá nánar tiltekna lausafjármuni tekna úr vörslum sóknaraðila og fengna sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um aðfarargerð og honum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði. Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Fyrir Hæstarétt hefur varnaraðili lagt fram endurrit úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík, þar sem fram kemur að innsetningargerð á grundvelli hins kærða úrskurðar hafi byrjað 20. september 2011, svo og staðfestingu sýslumanns á því að gerðinni hafi síðan verið lokið. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að úrskurðurinn komi til endurskoðunar. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 120/2010 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. mars 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og honum verði ekki gert að sæta einangrun. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Það athugist að hinn kærði úrskurður var, svo sem fyrr greinir, kveðinn upp miðvikudaginn 24. febrúar 2010. Varnaraðili kærði úrskurðinn með kæru sem stimpluð er um móttöku af Héraðsdómi Reykjaness föstudaginn 26. febrúar 2010. Gögn málsins bárust Hæstarétti mánudaginn 1. mars 2010 klukkan 15.45. Þegar sérstaklega er höfð hliðsjón af hinum stutta gæsluvarðhaldstíma má ljóst vera að nauðsynlegt var að reka kærumál þetta með meiri hraða en hér var greint, þar sem réttur varnaraðila til að kæra úrskurðinn hefur annars litla þýðingu fyrir hann. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 13/2016 | Kærumál Gæsluvarðhald Útlendingur Frávísun frá Hæstarétti | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Eftir að málið barst Hæstarétti var rétturinn upplýstur um að X hefði þegar verið afhentur frönskum yfirvöldum. Var málinu því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta nánar tilgreindu gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 4. mgr. 33. gr. a. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa nái fram að ganga. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Hæstarétti hefur borist tölvubréf sóknaraðila þar sem upplýst er að varnaraðili hafi verið afhentur frönskum yfirvöldum fyrr í dag. Samkvæmt því er ljóst að það ástand, sem leitt hefur af hinum kærða úrskurði, er þegar um garð gengið. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. |
Mál nr. 317/2001 | Kærumál Lögbann Lögvarðir hagsmunir Frávísun frá Hæstarétti | A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem lagt var fyrir sýslumann að leggja samkvæmt kröfu N og C lögbann við því að A beitti farþega á tilteknu skipi, áhöfn þess og starfsmenn hindrunum þegar það yrði við höfn í Reykjavík 7. ágúst 2001. Mun skipið hafa komið að morgni 7. ágúst 2001 til Reykjavíkur, þar sem lögbanni sýslumanns var framfylgt, en farið þaðan að kvöldi þess dags. Hæstiréttur taldi tilefni lögbannsins hafa gengið um garð þegar skipinu var siglt frá Reykjavík og samkvæmt því gæti A ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá lögbannið fellt úr gildi. Var málinu vísað frá Hæstarétti. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. ágúst 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 2001, þar sem sýslumanninum í Reykjavík var gert að leggja samkvæmt kröfu varnaraðila lögbann við því að sóknaraðili beitti farþega á skipinu Clipper Adventure, áhöfn þess og starfsmenn, sem afgreiði það, hindrunum þegar það yrði við höfn í Reykjavík 7. ágúst 2001. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um lögbann verði hafnað og „lagt fyrir héraðsdómara að taka málið aftur til efnismeðferðar”, svo og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði. Til vara krefst sóknaraðili þess að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði látinn falla niður. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til þrautavara að þeir „verði sýknaðir af kröfu sóknaraðila á grundvelli aðildarskorts.“ Í öllum tilvikum krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði kröfðust varnaraðilar þess 3. ágúst 2001 að sýslumaðurinn í Reykjavík legði lögbann við því að sóknaraðili ásamt þremur öðrum nánar tilgreindum samtökum og þremur nafngreindum mönnum létu verða af yfirvofandi hindrunum, kyrrsetningu, viðskiptabanni, uppgöngu í skip og öðrum athöfnum, sem þeir hefðu boðað að gripið yrði til, gegn varnaraðilum, sem væru útgerð og eigandi farþegaskipsins Clipper Adventure, þegar það kæmi til landsins 7. ágúst 2001. Sýslumaður tók beiðni varnaraðila fyrir samdægurs og hafnaði henni. Varnaraðilar kröfðust úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um þá ákvörðun sýslumanns með bréfi, sem barst dóminum 4. ágúst 2001. Af því tilefni var mál þetta þingfest fyrir héraðsdómi sama dag. Það var munnlega flutt degi síðar, en hinn kærði úrskurður kveðinn upp sem áður segir 6. ágúst 2001. Að kvöldi þess dags lagði sýslumaðurinn í Reykjavík á lögbann í samræmi við niðurstöðu úrskurðar héraðsdómara. Mun skipið síðan hafa komið að morgni 7. ágúst 2001 til Reykjavíkur, þar sem lögbanni sýslumanns var framfylgt, en farið þaðan að kvöldi þess dags. Af því, sem að framan greinir, er ljóst að lögbann, sem kveðið var á um með hinum kærða úrskurði, var lagt á 6. ágúst 2001. Tilefni lögbannsins var um garð gengið 7. sama mánaðar þegar skipinu Clipper Adventure var siglt frá Reykjavík. Samkvæmt því getur sóknaraðili ekki lengur haft lögvarða hagsmuni af því að fá lögbannið fellt úr gildi. Af þeim sökum verður málinu vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði, en við ákvörðun hans er litið til þess að kæra í máli þessu var bersýnilega að ófyrirsynju. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðili, Alþjóða flutningaverkamannasambandið, greiði varnaraðilum, New World Ship Management LLC og Clipper Cruise Line Ltd., hvorum fyrir sig 75.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 451/2000 | Líkamstjón Skaðabætur Örorka | Þ vann sem sjúkraliði í hálfu starfi, en var að auki húsmóðir á fimm manna heimili þegar hún lenti í umferðarslysi og hlaut líkamstjón af. Ágreiningur reis um það, við hvaða laun skyldi miða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón Þ vegna heimilisstarfa og hvaða laun skyldi leggja til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku. Hæstiréttur féllst á kröfu Þ um að henni yrði bætt tímabundið atvinnutjón vegna heimilisstarfa með sömu fjárhæð og hún fékk samtals í mánaðarlaun í hálfu starfi sem sjúkraliði þann tíma sem hún var óvinnufær með öllu, enda væri þeirri kröfu svo í hóf stillt að hún yrði ekki skert. Jafnframt var fallist á kröfu hennar um bætur fyrir varanlega örorku. Tók sú fjárhæð mið af 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið hljóðaði þá. Var talið, að bótagreiðendum hefði ekki tekist að sýna fram á, að Þ hefði ekki getað tvöfaldað tekjur sínar með því að vinna fulla vinnu sem sjúkraliði. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. desember 2000. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefndu gegn greiðslu á 3.008.529 krónum með 2% ársvöxtum frá 29. september 1997 til greiðsludags, svo og gegn greiðslu kostnaðar stefndu af innheimtuþóknun lögmanns hennar miðað við framangreindan höfuðstól 30. desember 1999. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms. Til vara er þess krafist, að áfrýjendum verði gert að greiða henni aðra lægri fjárhæð að mati Hæstaréttar en samkvæmt dómsorði héraðsdóms með sömu vöxtum og þar greinir. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. I. Eins og nánar greinir í héraðsdómi lenti stefnda í umferðarslysi 29. september 1997 og hlaut af nokkur lemstur. Í örorkumati læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Ragnars Jónssonar 1. nóvember 1999 var tímabundið atvinnutjón hennar vegna slyssins metið 100% í fjóra mánuði, hún var talin veik án rúmlegu í sex mánuði, varanlegur miski hennar var metinn 8% og varanleg örorka 15%. Hvorki er ágreiningur um þetta mat né fébótaábyrgð áfrýjenda samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Fyrir Hæstarétti deila málsaðilar eingöngu um það, við hvaða laun skuli miða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón stefndu vegna heimilisstarfa og hvaða laun skuli leggja til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir málsástæðum aðila um þetta. II. Í gögnum málsins kemur fram, að stefnda vann sem sjúkraliði í hálfu starfi en var að auki húsmóðir á fimm manna heimili. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur, bæði við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna. Hefur þeirri skipan því verið komið á með lögum, að sá, sem gegnir ekki launuðu starfi eða einungis hlutastarfi utan heimilis, teljist verða fyrir fjártjóni vegna þess eins, að hann fari vegna líkamstjóns á mis við að geta sinnt heimilisstörfum að hluta eða öllu leyti. Fjárhæð bóta vegna slíks tjóns á samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga að miðast við verðmæti vinnu við heimilisstörf. Ágreiningur málsaðila lýtur að því, hvernig þetta verðmæti skuli fundið. Engra gagna eða samanburðarhæfra talna nýtur í málinu um það, hvaða launaviðmiðun gæti almennt verið réttlætanleg vegna heimilisstarfa. Hvað sem þessu líður verður þó að líta svo á, að kröfu stefndu sé svo í hóf stillt, að hún verði ekki skert. Ber því þegar að fallast á, að áfrýjendur bæti stefndu tímabundið atvinnutjón hennar vegna heimilisstarfa með 327.495 krónum eða sömu fjárhæð og hún fékk samtals í mánaðarlaun í hálfu starfi þá fjóra mánuði, sem hún var óvinnufær með öllu. III. Þar sem stefnda var í hálfu starfi fyrir slysdag ber að ákvarða bætur henni til handa vegna varanlegrar örorku á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 37/1999, en ekki 1. mgr. 7. gr. eða 8. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði skulu árslaun tjónþola til viðmiðunar við ákvörðun bóta metin sérstaklega, en ekki er ráð fyrir því gert, að í slíkum tilvikum verði heildaratvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir slysdag lagðar til grundvallar, eins og kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. Með hliðsjón af athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga um 2. mgr. 7. gr. skal ákveða árslaunin, eins og þau hefðu orðið, ef tjónþoli hefði verið í fullu launuðu starfi utan heimilis, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Eins og áður greinir var stefnda sjúkraliði í hálfu starfi fyrir slysdag og er fram komið, að hún hafi einkum unnið á kvöldvöktum. Þar sem 2. mgr. 7. gr. felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. sömu greinar um viðmiðun við heildaratvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir slysdag, þegar árslaun eru metin, ber áfrýjendum sem bótagreiðendum að sýna fram á, að stefnda hefði ekki getað tvöfaldað atvinnutekjur sínar með því að vinna fulla vinnu sem sjúkraliði og þá eftir atvikum á afbrigðilegum vinnutíma. Verður því fallist á kröfu stefndu um 2.817.268 krónur sem bætur vegna varanlegrar örorku. Þá verður jafnframt að miða við 146.610 krónur í þjáningabætur og 372.160 krónur vegna varanlegs miska, eins og stefnda krefst. IV. Samkvæmt framansögðu verða áfrýjendur dæmdir til að greiða stefndu 3.663.533 krónur með 2% ársvöxtum frá slysdegi til 30. desember 1999, sbr. 16. gr. skaðabótalaga, eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 37/1999. Telja verður, að 30. nóvember 1999 hafi áfrýjandi Vátryggingafélag Íslands hf. fengið í hendur gögn, er nægðu til að taka afstöðu til kröfu stefndu og greiða að minnsta kosti þá fjárhæð, sem félagið taldi sér skylt að inna af hendi. Verður hin dæmda fjárhæð látin bera dráttarvexti frá 30. desember 1999 í samræmi við 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Áfrýjendur greiði stefndu sameiginlega 500.000 krónur í málskostnað í héraði. Fyrir Hæstarétti ber áfrýjendum að greiða 400.000 krónur í málskostnað og rennur sú fjárhæð í ríkissjóð, en um gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi mælir í dómsorði. Við ákvörðun um málskostnað hefur meðal annars verið litið til þess, að áfrýjendur hafa ekki fært fram viðhlítandi skýringar á því, hvers vegna áfrýjandi Vátryggingafélag Íslands hf. varð ekki við margendurteknum óskum stefndu um greiðslu, er hún myndi taka við með fyrirvara, svo sem félaginu var þó skylt samkvæmt 24. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Dómsorð: Áfrýjendur, Reykjavíkurborg og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði in solidum stefndu, Þórdísi Másdóttur, 3.663.533 krónur með 2% ársvöxtum frá 29. september 1997 til 30. desember 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Áfrýjendur greiði stefndu sameiginlega 500.000 krónur í málskostnað í héraði. Þá greiði áfrýjendur sameiginlega 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti og rennur sú fjárhæð í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2000. Mál þetta, sem dómtekið var 8. september s.l., er höfðað með stefnu birtri 15. febrúar s.l. Stefnandi er Þórdís Másdóttir, kt. 300758-4879, Kóngsbakka 6, Reykjavík. Stefndu eru Borgarstjórinn í Reykjavík fyrir hönd Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar, kt. 690269-5549 og Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 3.663.533 með 2% ársvöxtum og vaxtavöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 29. september 1997 til 1. maí 1999, en frá þeim degi með 4,5% ársvöxtum og vaxtavöxtum samkvæmt 12. gr. laga nr. 37/1999 til 30. desember 1999, en frá þeim degi með dráttarvöxtum og vaxtavöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags. Til vara er krafist annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts samkvæmt reikningi. Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir gegn greiðslu á kr. 3.008.529 með 2% vöxtum á ári samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga eins og hún var á slysdegi frá 29. september 1997 til greiðsludags, svo og gegn greiðslu kostnaðar stefnanda af innheimtuþóknun lögmanns stefnanda miðað við ofangreindan höfuðstól 30. desember 1999, auk virðisaukaskatts af innheimtuþóknun. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. Málavextir eru þeir að mánudaginn 29. september 1997 var stefnandi á ferð á Reykjanesbraut nærri Sæbraut í Reykjavík í bifreið sinni G-25776. Mun hafa verið unnið að viðhaldi Reykjanesbrautar og hluti eystri akreinar lokaður fyrir umferð. Mun vörubifreiðinni R-27998, eign stefnda Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar, hafa verið ekið aftan á bifreið stefnanda og mun bifreið hennar hafa kastast á sendibifreiðina ZU-746. Stefnandi var þá þunguð og mun hafa verið gengin 18 vikur. Stefnandi hlaut áverka á háls, herðar og mjóbak með leiðni niður í vinstri fót. Þá mun hún hafa þjáðst af höfuðverk í kjölfar slyssins. Með sameiginlegri matsbeiðni aðila dagsettri 15. september 1999 var óskað eftir mati læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Ragnars Jónssonar á afleiðingum slyssins. Örorkumat þeirra er dagsett 1. nóvember 1999 og var niðurstaða þeirra sú að tímabundið atvinnutjón stefnanda var metið 100% í fjóra mánuði, hún var talin veik án rúmlegu í sex mánuði, varanlegur miski hennar var metinn 8% og varanleg örorka 15%. Aðila greinir ekki á um þetta mat læknanna. Með bréfi dagsettu 30. nóvember s.l. sendi stefnandi stefndu kröfugerð sína og óskaði eftir uppgjöri fyrir 15. desember s.l. Stefnanda barst tilboð frá stefndu 27. desember s.l. og 6. janúar s.l. gerði stefnandi athugasemdir við tilboðið og benti m.a. á að ekki væri gert ráð fyrir bótum fyrir tímabundið tekjutjón vegna heimilisstarfa og þá mótmælti stefnandi tekjuviðmiðun stefndu vegna útreiknings á bótum fyrir varanlega örorku, en stefnandi hafði í kröfugerð sinni miðað við laun sín síðustu tólf mánuði fyrir slys en stefndu miðuðu við meðallaun sjúkraliða. Gerði stefnandi kröfu um leiðréttingu en ella um uppgjör á grundvelli tilboðs stefndu, mótteknu með fyrirvara stefnanda um forsendur tilboðsins og alla uppgjörsliði. Stefnanda bárust samdægurs athugasemdir stefndu og var þeim jafnframt svarað samdægurs. Stefnanda barst síðan nýtt tilboð frá stefndu 13. janúar s.l. og voru þá boðnar bætur fyrir tímabundið tekjutjón vegna heimilisstarfa að fjárhæð kr. 150.000 og jafnframt fól tilboðið í sér lítillega hækkun á bótum fyrir varanlega örorku. Í niðurlagi tilboðsins segir að hugmynd þessi um lokauppgjör tjónsins sé sett fram af hálfu félagsins með fyrirvara um öll þau atriði sem hún byggir á, ef ekki næst samkomulag um fyrirvaralaust uppgjör. Stefnandi lagði til í símbréfi daginn eftir að sæst yrði á að tímabundið tekjutjón vegna heimilisstarfa verði miðað við helming af meðaltals mánaðarlaunum, sem stefndu miðuðu bætur vegna varanlegrar örorku við. Þá var lagt til að viðmiðunarlaun vegna bóta fyrir varanlega örorku miðuðust að hálfu við þessi meðaltalslaun og að hálfu við rauntekjur stefnanda síðustu 12 mánuði fyrir slysið. Þá var tekið fram að stefnandi óskaði eftir uppgjöri á grundvelli tilboðs stefndu, mótteknu með fyrirvara, yrði ekki fallist á sáttatillögurnar. Sættir náðust ekki milli aðila. Stefnandi byggir á því að við ákvörðun bóta fyrir tímabundið tekjutjón vegna heimilisstarfa beri að miða við launatekjur hennar utan heimilis, en þær hafi verið staðfestar með launaseðlum. Samkvæmt 3.mgr. 1. gr. skaðabótalaga beri að mati stefnanda að leggja verðmæti vinnu við heimilisstörf að jöfnu við launatekjur. Mat stefnanda á verðmæti heimilisstarfa sé andstætt þessu lagaákvæði og fráleitt þegar horft sé til þess að stefnandi hafi á umræddu tímabili verið húsmóðir á fimm manna heimili. Mánaðarlaun stefnanda í hálfu starfi utan heimilis í slysaforföllum tímabilið 29. september 1997 til 29. janúar 1998 hafi numið kr. 327.495, eða kr. 81.873 að meðaltali á mánuði. Beri að leggja verðmæti heimilisstarfa að jöfnu við þau mánaðarlaun. Hafi skaðabótalögunum beinlínis verið ætlað að bæta réttarstöðu heimavinnandi húsmæðra eins og ráða megi af ummælum í frumvarpi að lögunum. Byggir stefnandi á því að afstaða stefndu feli í sér mismunun, einkum gagnvart konum og brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og alþjóðasáttmála. Hið stefnda félag mismuni tjónþolum almennt með mati á verðmæti vinnu við heimilisstörf. Þá styðjist kröfur stefnanda við þá staðreynd að stefndu viðurkenni í raun þessi sjónarmið með því að miða bætur fyrir varanlega örorku við meðallaun sjúkraliða, kr. 132.000 á mánuði. Stefnandi byggir á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miðar við laun stefnanda síðustu tólf mánuði fyrir slys varðandi bætur fyrir varanlega örorku. Stefnandi segir rangt að miða við meðallaun sjúkraliða. Stefnandi hafi vegna fjölskyldustærðar kosið að vinna hálfa vinnu á vöktum. Í fullu starfi hefði stefnandi gengið sömu vaktir og í hálfu starfi en tekið helmingi fleiri. Stefnandi eigi þess ekki kost að vinna fullt starf næstu áratugi og beri að miða tekjutap hennar við fyrirliggjandi staðreyndir um tekjuöflun hennar. Stefnandi byggir kröfur sínar á þeirri meginreglu að hún eigi með bótagreiðslu frá stefndu að verða eins sett og slysið hefði ekki orðið. Stefnandi reisir vaxtakröfur á beinum ákvæðum 16. gr. skaðabótalaga eins og þau voru á slysdegi og jafnframt eins og þeim var breytt með 12. gr. laga nr. 37/1999 með gildistöku 1. maí 1999. Stefnandi byggir á því að synjun stefndu á að greiða bætur í samræmi við tilboð félagsins nema gegn fyrirvaralausri móttöku stefnanda sé ólögmæt. Stefndu sé beinlínis skylt að greiða stefnanda þær bætur sem hún eigi sannanlega rétt á, sbr. 24. gr. laga nr. 20/1954. Stefndu neiti að greiða bætur fyrir tjónsliði sem enginn ágreiningur sé um. Feli þessi afstaða félagsins í sér ólögmætar þvingunaraðgerðir gagnvart stefnanda og sé til þess fallin að hún geti ekki látið reyna á einstaka ágreiningsliði fyrir dómi. Að mati stefnanda feli uppgjör á grundvelli tilboðs stefndu án fyrirvara stefnanda í sér beina viðurkenningu hennar á sjónarmiðum stefndu um verðmæti vinnu við heimilisstörf og launaviðmiðun við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku og aðra ágreiningsliði og þrengi almennt rétt hennar verulega til endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga. Stefnandi byggir á því að kröfur stefnanda um fyrirvara séu bæði málefnalegar og brýnar, meðal annars vegna þess að dómstólar hafi ekki leyst úr ágreiningi sem lýtur að verðmæti vinnu við heimilisstörf. Stefnandi vísar til III. kafla umferðarlaga, 1. gr., 2. gr., 3. gr., 4. gr. 5. gr. 6. gr. 7. gr. 9. gr. 11. gr. og 15. gr. skaðabótalaga og 24. gr. laga nr. 20/1954. Þá vísar stefnandi til 65. gr. stjórnarskrárinnar, laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, einkum 1. gr., 2. gr. 3. gr. og 6. gr. og til alþjóðasamninga um mannréttindi og laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Vaxtakrafa er studd við 16. gr. skaðabótalaga, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999 og dráttarvaxtakrafa er reist á 10. gr., sbr. 14. gr. vaxtalaga. Stefnandi vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að krafa um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón vegna heimilisstarfa er kr. 327.495, krafa um bætur fyrir þjáningar kr. 146.610, krafa um bætur fyrir varanlegan miska kr. 372.160 og krafa um bætur fyrir varanlega örorku kr. 3.633.533. Stefnandi upplýsti að stefndu hefðu greitt allan útlagðan kostnað að undanskildum reikningi fyrir sjúkraþjálfun kr. 7.500. Sá reikningur er hluti af málskostnaðarkröfu stefnanda. Af hálfu stefndu er á því byggt að með þeirri greiðslu sem stefnanda standi til boða sé boðin sú fjárhæð sem stefnandi eigi rétt á samkvæmt skaðabótalögum. Stefndu byggja á því að Hæstiréttur Íslands hafi komist að þeirri niðurstöðu að bætur vegna tímabundins atvinnutjóns samkvæmt 2. gr., sbr. 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga beri að miða við verðmæti vinnu við heimilisstörf. Telja stefndu leiða af sjálfu sér að verðmæti vinnu við heimilisstörf sé óháð þeirri vinnu sem tjónþoli sinnir utan heimilis, en þar geti verið um ýmis störf að ræða og endurgjald fyrir þau mismunandi. Það eigi ekki að hafa áhrif á verðmæti starfa sem fólk í mismunandi starfsgreinum sinnir á heimili sínu. Væri slíkt brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar ef sambærileg störf á heimili væru verðlögð á mismunandi hátt eftir ósambærilegum aðstæðum utan heimilis. Stefndu byggja á því að því sé ekki mótmælt að mánaðarlegar tekjur sjúkraliða í fullu starfi hafi á árinu 1997 numið kr. 132.000. Stefndu benda á að hafa verði í huga að við ákvörðun bóta samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga sé verið að bæta starfsorkuskerðingu en ekki tekjumissi í fortíð. Þótt heildarvinnutekjur síðasta árs séu að meginstefnu lagðar til grundvallar útreikningi sé einungis um viðmiðun að ræða. Séu hagir tjónþola þannig að hann hafi ekki nýtt starfsorku sína að fullu á viðmiðunartímabilinu verða tekjur hans ekki lagðar til grundvallar um framtíðartjón vegna starfsorkuskerðingar. Í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga sé fjallað um slík álitamál. Þar segi eftirfarandi: „Hafi tjónþoli verið í hlutastarfi mundi fjárhæð árslauna einnig verða ákveðin með mati. Ef kona eða karl hefur t.d. unnið hálfan daginn utan heimilis, en að öðru leyti notað starfsorku sína til þess að sinna börnum sínum og öðrum heimilisstörfum, skal ákveða árslaun eins og þau mundu hafa orðið ef tjónþoli hefði verið í fullu launuðu starfi utan heimilis, sbr. 3. gr. 1. gr. frumvarpsins. Í öðrum tilvikum verður við matið m.a. að líta til þess hvort líklegt er að tjónþoli hefði farið í fullt starf.“ Að mati stefndu verður því að miða við árstekjur launþega í sambærilegu fullu starfi, en fram komi hjá stefnanda að hún eigi þess ekki kost að vinna fullt starf næstu áratugi. Samkvæmt framansögðu segjast stefndu bjóða stefnanda bætur samkvæmt þessum lið í samræmi við 7. gr. skaðabótalaga, eða kr. 2.337.409. Stefndu byggja á því að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga eins og hún var á slysdegi skyldu vextir af bótakröfu vera 2% á ári frá því tjón varð að viðbættum verðbótum samkvæmt 15. gr. laganna. Í lögum nr. 37/1999 sé tekið fram í 15. gr. að lögin eigi við um skaðabótaábyrgð vegna tjón sem rakið verði til bótaskylds atviks eftir gildistöku laganna. Sé því tilefnislaus sú krafa stefnanda að um vexti fari samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga eins og hún varð með lögum nr. 37/1999. Stefndu byggja á því að 19. janúar 2000 hafi stefnanda staðið til boða sú fjárhæð, sem boðin var í greinargerðinni og eigi stefnandi því ekki rétt á dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð. Stefndu reisa kröfu um málskostnað á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Forsendur og niðurstaða. Í máli þessu er ekki deilt um bótaskyldu stefndu. Þá er ágreiningslaust að tímabundið atvinnutjón stefnanda var metið 100% í fóra mánuði, hún var talin veik án rúmlegu í sex mánuði, varanlegur miski var metinn 8% og varanleg örorka 15%. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst í fyrsta lagi um það við hvaða laun skuli miðað þegar bætur vegna tímabundins atvinnutjóns stefnanda eru ákveðnar. Í öðru lagi er deilt um launaviðmiðun varðandi bætur fyrir varanlega örorku. Þá er ágreiningur um það hvort breyting sú, sem gerð var með lögum nr. 37/1999 á vaxtafæti 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga, eigi við um tjón stefnanda. Einnig er ágreiningur um dráttarvexti. Skilja verður greinargerð stefndu og málflutning svo að ekki sé lengur ágreiningur með aðilum um að stefnandi eigi rétt á þjáningabótum í 181 dag. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. Upplýst er að stefnandi vann sem sjúkraliði í hálfu starfi áður en hún lenti í slysinu 29. september 1997 og sinnti auk þess heimilisstörfum, en samkvæmt gögnum málsins var um fimm manna fjölskyldu að ræða. Mánaðarlaun stefnanda í hálfu starfi þá fjóra mánuði sem hún var óvinnufær námu kr. 327.495 og gerir stefnandi þá kröfu að verðmæti heimilisstarfa verði lögð að jöfnu við þessi mánaðarlaun. Stefndu bjóða stefnanda hins vegar kr. 150.000 í bætur fyrir tímabundið atvinnutjón og byggja þá niðurstöðu á útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings, en þeir eru byggðir á launatöxtum Iðju, félags verksmiðjufólks. Í athugasemdum um 1. gr. frumvarpsins sem varð að skaðabótalögum segir svo um 3. mgr. að ákvæðið að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli leggja að jöfnu við launatekjur skipti máli þegar ákveða skal bætur fyrir atvinnutjón skv. 2. gr. (tímabundið atvinnutjón) eða varanlega örorku skv. 2. mgr. 7. gr. Þá er vakin á því athygli í athugasemdum um 2. gr. að nýmælið í 3. mgr. 1. gr. geti haft veruleg áhrif þegar bætur eru ákvarðaðar fyrir atvinnutjón. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna í því horfi sem hún var fyrir lagabreytinguna 1. maí 1999, skulu árslaun metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum um þessa lagagrein er sérstaklega tekið fram að hafi tjónþoli verið í hlutastarfi myndi fjárhæð árslauna einnig verða ákveðin með mati. Hafi kona eða karl unnið hálfan daginn utan heimilis en að öðru leyti notað starfsorku sína til þess að sinna börnum sínum og öðrum heimilisstörfum, skuli ákveða árslaun eins og þau myndu hafa orðið ef tjónþoli hefði verið í fullu launuðu starfi utan heimilis, sbr. 3. mgr. 1. gr. Að mati dómsins fer ekki milli mála að ætlan löggjafans var að sömu uppgjörsreglur skyldu gilda að þessu leyti, hvort sem um tímabundið atvinnutjón eða varanlega örorku var að ræða. Þessi niðurstaða fær stoð í ummælum um 8. gr. frumvarpsins, en þar er að finna reglur um ákvörðun bóta til þeirra sem nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur. Kemur þar fram að reglum frumvarpsins um þetta efni sé ætlað að tryggja, eftir því sem frekast er unnt, að réttur þeirra sem vinna heimilisstörf án verulegra tekna af vinnu utan heimilis, verði almennt ekki lakari en tjónþola sem hafa launatekjur. Verður krafa stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón því tekin til greina. Með sömu rökum og að framan greinir ber að fallast á þá kröfu stefnanda að henni beri bætur fyrir varanlega örorku í samræmi við laun hennar síðustu tólf mánuði fyrir slysið. Þar sem ekki er ágreiningur um bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska, verða kröfur stefnanda að því leyti teknar til greina. Stefnandi gerir þá kröfu að miðað verði við 2% ársvexti frá slysdegi til 1. maí 1999, en 4,5% ársvexti frá þeim degi til 30. desember 1999, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999, en samkvæmt þeirri lagagrein breyttist vaxtafótur 16. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 37/1999 öðluðust þau gildi 1. maí 1999 og eiga við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til bótaskylds atviks eftir gildistöku laganna. Þar sem stefnandi slasaðist fyrir gildistöku laganna fer ekki á milli mála að um skaðabótaábyrgð fer eftir lögunum í þeirri mynd er þau voru fyrir lagabreytinguna 1. maí 1999. Hið sama hlýtur að gilda um vexti af skaðabótakröfum. Er kröfu stefnanda um 4,5% ársvexti því hafnað. Samkvæmt gögnum málsins fengu stefndu í hendur öll gögn sem máli skipta 30. nóvember s.l. og gátu stefndu þá tekið afstöðu til bótakröfu stefnanda. Stefndu halda því fram að 19. janúar s.l. hafi stefnanda staðið til boða sú fjárhæð sem boðin er í greinargerð. Gögn málsins sýna að stefnandi hafi ítrekað reynt að ganga til uppgjörs á grundvelli tilboðs stefndu með fyrirvara, síðast 27. janúar s.l., en stefndu hafi ekki ljáð máls á því. Hefur stefndu því ekki tekist að sýna fram á að stefnanda staðið umræddir fjármunir til boða eins og þeir halda fram. Ber því að fallast á dráttarvaxtakröfu stefnanda. Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn. Stefndu, borgarstjórinn í Reykjavík fyrir hönd Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Þórdísi Másdóttur, skaðabætur að fjárhæð kr. 3.663.533 með 2% ársvöxtum og vaxtavöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 29. september 1997 til 30. desember 1999, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags og kr. 500.000 í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti. |
Mál nr. 107/1999 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | X, skipverji á ms. Goðafossi, var grunaður um brot gegn 123. og 124. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 4. sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, með því að hafa smyglað til landsins miklu magni af áfengi, tóbaki og fleiru. Talið var að skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, væri fullnægt til að staðfesta mætti úrskurð héraðsdóms um að X sætti gæsluvarðhaldi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður dæmist ekki. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 567/2008 | Kærumál Gæsluvarðhald Útlendingur | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, svo sem þeim var breytt með 18. gr. laga nr. 86/2008, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. október 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 83/2005 | Kærumál Málskostnaðartrygging | Í krafðist þess að IS yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sem fyrirtækið hafði höfðað á hendur Í. Var úrskurður héraðsdóms, þar sem kröfunni var hafnað, staðfestur í Hæstarétti. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2005, sem sóknaraðila varð fyrst kunnugt um 15. febrúar sl., en þar var hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður. Sóknaraðili ber fyrir sig að héraðsdómari hafi ekki sinnt skyldu samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 til að leiðbeina fyrirsvarsmanni hans, sem sótti sjálfur þing í héraði og er ólöglærður, í tæka tíð um rétt hans til að krefjast tryggingar fyrir greiðslu málskostnaðar. Byggir sóknaraðili kröfu sína um að varnaraðila verði gert að setja slíka tryggingu á 1. mgr. 133. gr. laganna með áorðnum breytingum. Samkvæmt a. lið þess ákvæðis getur stefndi að fullnægðum nánari skilyrðum krafist málskostnaðartryggingar ef stefnandi er búsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Fram er komið að varnaraðili hefur heimilisvarnarþing í Belgíu. Samkvæmt þessu og með því að ekkert hefur verið fært fram til að leiða líkur að því að varnaraðili sé ófær um að greiða málskostnað verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Íslensk dreifing ehf., greiði varnaraðila, Italo Suisse NV, 100.000 krónur í kærumálskostnað. Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 14. desember sl. er höfðað með stefnu birtri 11. febrúar sl. Stefnandi er Italo Suisse NV Kastelenlaan 107-A 7780 Komen, Belgíu. Stefndi er Íslensk Dreifing ehf. Skútuvogi 1e, Reykjavík. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 4.393 evrur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. apríl 2003 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður. Í þessum þætti málsins hefur þess verið krafist af hálfu stefnda að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu. Vísað er til þess af hálfu stefnda að stefnandi sé aðili með búsetu erlendis og því beri honum að setja tryggingu fyrir málskostnaði sbr. a-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu stefnanda er kröfunni mótmælt og vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála hafi stefnda borið að gera kröfu þessa við þingfestingu málsins. Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn. ÚRSKURÐARORÐ Kröfu stefnda, Íslenskrar Dreifingar ehf., um að stefnanda, Italo Suisse, verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar er hafnað. |
Mál nr. 431/2016 | Niðurfelling máls Málskostnaður | Eftir kröfu L hf. var mál hans á hendur L fellt niður fyrir Hæstarétti. Var L hf. dæmt til greiðslu málskostnaðar fyrir réttinum að kröfu L. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir HelgiI. Jónsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar7. júní 2016. Við munnlegan flutning málsins tilkynnti áfrýjandi að hann féllifrá áfrýjun þess, en dæmt yrði um málskostnað. Stefndi krefst málskostnaðarfyrir Hæstarétti.Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105.gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málið felltniður fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166.gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrirHæstarétti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Mál þetta er fellt niður.Áfrýjandi, Landsbankinn hf., greiðistefnda, Lúðvík Brynjólfssyni, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. |
Mál nr. 66/2006 | Kærumál Fjárnám Skattur | Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur með beiðni móttekinni 15. júlí 2005. Málið var þingfest 22. ágúst 2005 og tekið til úrskurðar 14. desember 2005. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. janúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2006, þar sem staðfest var fjárnám, sem gert var að kröfu varnaraðili 22. júní 2005, í eignarhluta sóknaraðila í Garðsstöðum 3, Reykjavík. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Hólmfríður Á. Vilhjálmsdóttir, greiði varnaraðila, Tollstjóranum í Reykjavík, 100.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 8/2004 | Fiskveiðibrot Umboðssvik Virðisaukaskattur Staðgreiðsla opinberra gjalda Upptaka | A, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins B ehf., og M skipstjóri voru dæmdir fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með því að hafa haldið nánar tilteknum skipum til veiða án lögboðinna aflaheimilda. Báru þeir ábyrgð á að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi vegna þess fiskafla sem veiddur var í umræddum veiðiferðum. Þá var A jafnframt dæmdur fyrir umboðssvik og brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Var refsing A ákveðin þriggja mánaða fangelsi og 18.000.000 kr. sekt í ríkissjóð, en refsing M tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og 800.000 kr. sekt í ríkissjóð. Á hinn bóginn var kröfu um upptöku andvirðis hins ólögmæta afla á hendur A og M hafnað. Hvorugur þeirra átti hinn ólögmæta afla og ekkert lá fyrir um það hvort einhver ágóði kom í þeirra hlut, og ef svo var hve mikill. Þar sem ekki naut við skýrrar lagaheimildar til upptöku þegar svo stóð á varð kröfu um upptöku andvirðis hins ólögmæta afla ekki beint að A og M persónulega. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Helgi I. Jónsson dómstjóri. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds. Krefst ákæruvaldið nú staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu og refsiákvörðun er varðar ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson og Margeir Jóhannesson. Þess er einnig krafist að héraðsdómur verið staðfestur á hendur þeim og A að því er varðar kröfu um upptöku samkvæmt I. til III. lið A ákæru og þeim gert að sæta þeirri upptöku óskipt. Ákærði Agnar krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Ákærði Margeir krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin. I. Eins og nánar greinir í héraðsdómi varðar I. og III. liður A kafla ákæru ætluð brot ákærðu Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar og Margeirs Jóhannessonar og fleiri nafngreindra manna gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996, lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997, öllum með áorðnum breytingum. Í I. lið er ákærða Agnari, sem framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins U ehf., er gerði út fiskiskipið m/b Gróttu RE 26, A, stjórnarformanni félagsins og ákærða Margeiri, sem skipstjóra á skipinu, gefið að sök að hafa haldið skipinu án lögboðinna aflaheimilda til dragnótaveiða í atvinnuskyni í nánar tilgreindar veiðiferðir á tímabilinu 10. mars 2001 til 5. apríl sama árs. Í II. lið er ákærða Agnari, sem framkvæmdastjóra sama útgerðarfélags, er gerði út fiskiskipið m/b Klettsvík SH 343, gefið að sök að hafa haldið skipinu án lögboðinna aflaheimilda til netaveiða í atvinnuskyni í 89 veiðiferðir á tímabilinu 9. nóvember 2001 til 6. apríl 2002. Fyrrnefndur A, stjórnarformaður félagsins og skipstjóri í umræddum veiðiferðum, var einnig sakaður um þessa háttsemi. Þá er í III. lið ákærða Margeiri, sem skipstjóra á fiskiskipinu m/b Bervík SH 143, sem gert var út af X ehf., því félagi og nafngreindum framkvæmdastjórum og stjórnarformönnum þess, gefið að sök að hafa haldið skipinu til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 28 veiðiferðir án lögboðinna aflaheimilda á tímabillinu frá 1. desember 2001 til 26. febrúar 2002. Heildarafla skipanna og afla, sem veiddur var umfram aflaheimildir í áðurnefndum veiðiferðum, er nánar lýst í ákæru og hinum áfrýjaða dómi, en eins og þar kemur fram er ekki ágreiningur um þann þátt málsins. Eins og nánar greinir í héraðsdómi voru ákærðu Agnar, Margeir og A sakfelldir fyrir þá háttsemi, sem þeim var gefin að sök í áðurnefndum liðum ákæru. Ákærði A unir dómi. Með héraðsdómi var þeim öllum dæmd refsing og gert að sæta upptöku andvirðis ólögmæts afla, eins og þar er nánar rakið. II. Ákærði Agnar neitar sakargiftum. Hann reisir kröfu sína um sýknu á að hann hafi enga ábyrgð borið á því að ekki hafi reynst vera nægar aflaheimildir fyrir hendi vegna umræddra veiðiferða. Meðákærði A hafi átt að sjá um þann þátt, en sjálfur hafi hann annast fisksölu á vegum U ehf. og ekki orðið framkvæmdastjóri félagins fyrr en 17. desember 2001, er breyting var gerð á stjórn og framkvæmdastjórn þess. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi var ákærði Agnar skráður framkvæmdastjóri U ehf. 17. desember 2001, svo sem fram kemur í útskrift úr hlutafélagaskrá, en félagið var úrskurðað gjaldþrota 24. júlí 2002. Samkvæmt tilkynningu 4. september 2000 til hlutafélagaskrár hafði hann haft prókúru fyrir félagið fram að þeim degi. Hann fullyrti við yfirheyrslu við rannsókn málsins 2. október 2002, er hann var spurður um stjórn og starfsemi félagsins rekstrarárið 2001, að hann hafi verið framkvæmdastjóri þess, en eiginkonur þeirra A, sem skráðar voru í stjórn félagsins á fundi þess 4. september 2000, hafi „ekki komið neitt að rekstrinum, heldur hafi nöfn þeirra verið notuð til uppfyllingar til skráningar hjá Hlutafélagaskrá.“ Er sá framburður í samræmi við framburð meðákærða A við rannsókn og meðferð málsins. Sagði A við yfirheyrslu hjá lögreglu 16. september 2002 að eiginkonur þeirra beggja „hafi ekkert haft með nein mál að gera fyrir U ehf. á þessum tíma eða frá byrjun ársins 2001“, en ákærði Agnar hafi verið framkvæmdastjóri á því ári. Gaf hann þá skýringu fyrir dómi á því, að Agnar hafi ekki verið skráður í stjórn félagsins allt rekstrarárið 2001, að sá síðarnefndi hafi verið gjaldþrota og þeir talið það „skaða fyrir fyrirtækið.“ Þeir hafi tekið þá ákvörðun sameiginlega að skrá hann í stjórn í desember 2001 þar sem eiginkonur þeirra „komu ekkert að þessu ... komu ekkert að rekstri undir einum eða neinum kringumstæðum.“ Ákærði Agnar var yfirheyrður hjá skattrannsóknarstjóra 26. mars 2002 meðal annars í tilefni af rannsókn á ætluðum brotum hans og meðákærða A vegna vanskila U ehf. á greiðslu virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins nóvember til desember 2001. Við þá yfirheyrslu sagði hann að nafngreindur starfsmaður á skrifstofu félagins hafi séð um gerð virðisaukaskattskýrslunnar fyrir þetta tímabil og bókhald félagsins undir sinni stjórn. Þegar litið er til eindregins framburðar ákærða við rannsókn málsins hjá lögreglu og skattrannsóknarstjóra, sem fær stoð í framburði meðákærðu A og Margeirs við rannsókn málsins og fyrir dómi, þess að ákærði hafði áður haft prókúru fyrir félagið og að öðru leyti til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að sannað sé að ákærði hafi í raun verið framkvæmdastjóri U ehf. á þeim tíma, sem um er getið í I. og II. lið A kafla ákæru, og að hann bæri ábyrgð á að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi vegna þess fiskafla, sem veiddur var í umræddum veiðiferðum. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða Agnars og heimfærslu brota hans til refsiákvæða að öðru leyti en því að 25. gr. laga nr. 38/1990 var breytt með 12. gr. laga nr. 85/2002. Ákærði Margeir neitar sakargiftum. Er sýknukrafa hans einkum á því reist að ekki sé við hann að sakast heldur útgerðarfélagið X ehf., sem gerði út skipið, að ekki hafi verið hirt um að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi, enda sé það á ábyrgð útgerðarinnar að sjá um það. Hafi ákærði ekkert haft með stöðu aflamarks á skipinu að gera og forsvarsmenn útgerðarinnar sagt honum að alltaf hafi „átt að laga kvótann“. Þá sé það ein af grundvallarreglum fiskveiðistjórnunarkerfisins að aflaheimildir séu framseljanlegar og færanlegar milli skipa. Vísar ákærði í því efni meðal annars til 12. gr. laga nr. 38/1990. Alvanalegt sé að útgerðir leigi eða kaupi „veiðiheimildir (aflamark) á skipin eftir því sem mögulegt er hverju sinni.“ Þannig fari skipin „oft til sjós án aflamarks en leigja svo aflamark eftir því sem þörf er á.“ Sú venja hafi skapast að menn tryggi sér oft „aflaheimildir/aflamark“ eftir á, sbr. 14. gr. laga nr. 57/1996 með áorðnum breytingum. Verði að skýra ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 í ljósi 14. gr. laganna og með hliðsjón af þeirri grundvallarreglu að aflaheimildir séu framseljanlegar. Kveðst ákærði hafa gert allt sem í hans valdi stóð til að fylgjast með því að nægilegar aflaheimildir væru fyrir hendi í veiðiferðunum. Hann hafi aldrei fengið viðvörun frá Fiskistofu aðra en símskeyti 21. febrúar 2002 um tilkynningu um fyrirhugaða sviptingu veiðileyfis. Varakröfu sína um sýknu reisir ákærði Margeir á sömu sjónarmiðum og aðalkröfu, en bendir jafnframt á að gera verði greinarmun á sakarefninu í I. og III. lið ákæru þar sem áðurnefndri 14. gr. laga nr. 57/1996 hafi verið breytt með lögum nr. 24/2001, sem hafi tekið gildi 7. maí sama árs. Fram að þeim tíma hafi tilkynningar einungis verið sendar útgerð en ekki skipstjórnarmönnum. Því beri að sýkna ákærða af fyrri liðnum, þar sem lagabreytingin hafi ekki tekið gildi fyrr en eftir það tímabil, sem fjallað er um í þeim lið. Í áðurnefndri 14. gr. laga nr. 57/1996 er mælt fyrir um sviptingu almenns veiðileyfis skipsað undangenginni tilkynningu Fiskistofu til útgerðar og skipstjóra, bendi upplýsingar Fiskistofu til að skip hafi veitt umfram aflaheimildir sínar í einhverri tegund. Hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan fjögurra daga tekur sviptingin gildi. Verði aflaheimildir skips að liðnum fresti auknar þannig að afli skips á veiðiárinu rúmist innan þeirra skal því veitt leyfi að nýju. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna er á hinn bóginn óheimilt að hefja veiðiferð á skipi, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni nema það hafi aflaheimildir, sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð eru. Þótt ákvæði 14. gr. laga nr. 57/1996 heimili að veittur sé frestur til að lagfæra aflaheimildastöðu skips áður en gripið er til fyrirhugaðrar sviptingar almenns veiðileyfis breyta þau engu um fortakslaust bann 2. mgr. 3. gr. við því að veiðiferð verði hafin þegar svo stendur á sem í ákvæðinu greinir. Er fallist á með héraðsdómara að ákærða Margeiri hafi sem skipstjóra borið að fylgjast með því hvort skipin Grótta RE 26 og Bervík SH 143 hefðu fullnægjandi aflaheimildir til að veiða þann fisk sem til stóð í þeim veiðiferðum, sem um getur í I. og III. lið ákæru. Gat ákærða engan veginn dulist að sá mikli afli sem veiddist var langt umfram aflaheimildir, sem hann mátti telja líklegt að dygðu fyrir aflanum. Verður samkvæmt framansögðu fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ákærði beri á því refsiábyrgð samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 að skipunum var haldið til veiða án þess að ganga úr skugga um að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 12/2000, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1534. Eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi með sömu leiðréttingu, sem áður er getið varðandi heimfærslu brota ákærða Agnars til refsiákvæða. III. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærða Agnar fyrir brot þau, sem honum eru gefin að sök í B og C kafla ákæru. Við ákvörðun refsingar ákærða Agnars er litið til þess að þáttur hans í brotunum var minni en meðákærða A, sem var stjórnarformaður félaganna U ehf. og T ehf. og sá að mestu um að útvega skipum félaganna aflaheimildir. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærðu Agnars og Margeirs. Ákærðu hafa báðir mótmælt kröfum ákæruvalds um upptöku á ætluðum ávinningi af brotum þeirra, meðal annars með vísan til þess að þeir hafi hvorugur átt hlut í umræddum útgerðarfélögum og engan ávinning fengið í sinn hlut. Þá séu lagaákvæðin, sem kröfur um upptöku byggjast á, hvorki skýrar né ótvíræðar heimildir um að gera megi upptækt andvirði ágóða hjá þeim, sem engan eignarrétt hafi haft á umframaflanum eða andvirði hans. Gera verði jafnríkar kröfur til skýrleika ákvæða sem fjalla um refsingar og önnur viðurlög og þeirra, sem fjalla um hina refsiverðu háttsemi. Í ákæru er þess krafist að „ákærðu verið gert að þola upptöku ávinnings af brotum sínum, ólöglegum afla, eða peningafjárhæð sem svarar til andvirðis ... ólöglegs afla að mati dómkvaddra matsmanna“. Er ekki ágreiningur í málinu um mat hins dómkvadda matsmanns á andvirði hins ólöglega afla. Ljóst er að aflinn var seldur og er hann því ekki fyrir hendi sem slíkur og verður þar af leiðandi ekki gerður upptækur. Engin gögn liggja heldur fyrir um að sett hafi verið trygging af hálfu útgerðarfélaganna fyrir greiðslu andvirðis hans. Fram er komið að hvorugur ákærðu áttu hinn ólögmæta afla. Ekkert liggur heldur fyrir um það hvort einhver ágóði kom í þeirra hlut, og ef svo var hve mikill. Í þeim upptökuákvæðum, sem ákæruvaldið vísar til í ákæruskjali, er hvergi að því vikið að beita megi upptöku hjá öðrum en þeim, sem hlotið hefur ágóða af brotinu. Þar sem ekki nýtur við skýrrar lagaheimildar um þetta verður kröfu um upptöku andvirðis hins ólögmæta afla ekki beint að ákærðu persónulega. Samkvæmt framansögðu ber að hafna kröfu ákæruvalds um upptöku á hendur ákærðu Agnari og Margeiri. Ákærðu, Agnar og Margeir, verða dæmdir til að greiða helming sakarkostnaðar sem þá varðar í héraði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra þar fyrir dómi, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu, Agnars og Margeirs, fyrir Hæstarétti, greiðist að jöfnu úr ríkissjóði og af ákærðu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjanda þeirra, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu, Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar og Margeirs Jóhannessonar, en kröfum ákæruvalds um upptöku á hendur þeim er hafnað. Allur sakarkostnaður í héraði sem varðar ákærðu, Agnar og Margeir, greiðist að hálfu af þeim og að hálfu úr ríkissjóði. Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra er staðfest. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af ákærðu, Agnari og Margeiri, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Agnars fyrir Hæstarétti, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur og skipaðs verjanda ákærða Margeirs fyrir Hæstarétti, Reynis Karlssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Vesturlands 31. október 2003. Jón H. Snorrason saksóknari hjá Ríkislögreglustjóranum gaf út ákæru í máli þessu 26. júní 2003, og var málið höfðað með birtingu hennar og fyrirkalls fyrir ákærðu á tímabilinu 24. til 31. júlí s. á. Málið var þingfest 20. ágúst sl. og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 10. október 2003. Ákærðir eru Agnar Norðfjörð Hafsteinsson, kennitala 300763-4489, Háseylu 9 K, Reykjanesbæ; A; B; Margeir Jóhannesson, kennitala 240759-2259, Brekkugötu 4 Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi; C; D, og eftirtalin einkahlutafélög: V ehf.; X ehf.; Y ehf.; Z ehf.. Ákært er fyrir ætluð lögbrot svo sem segir í ákæru: ,,A. I. Á hendur ákærðu A, Agnari Norðfjörð Hafsteinssyni og Margeiri Jóhannessyni. Ákærðu A sem stjórnarformanni og Agnari Norðfjörð sem framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins U ehf., sem úrskurðað var gjaldþrota 24. júlí 2002, sem gerði út m/b Gróttu RE 26, skipaskrárnúmer 1171, og ákærða Margeiri sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 7 veiðiferðir frá J auk veiðiferða þar sem í 12 skipti var landað af afla skipsins í gáma á tímabilinu frá 10. mars til 5. apríl 2001 án lögboðinna aflaheimilda, en í veiðiferðum þessum var afli skipsins samtals 80.299 kg af slægðum þorski, 43.382 kg af slægðri ýsu, 763 kg af slægðum skarkola og 764 kg af slægðri þykkvalúru og sólkola umfram aflaheimildir skipsins. II. Á hendur ákærðu Agnari Norðfjörð Hafsteinssyni og A. Ákærðu Agnari Norðfjörð sem framkvæmdastjóra og A sem stjórnarformanni útgerðarfélagsins U ehf. sem átti og gerði út m/b Klettsvík SH 343, skipaskrárnúmer 1170, og A sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til netaveiða í atvinnuskyni í 89 veiðiferðir frá J á tímabilinu frá 9. nóvember 2001 til 6. apríl 2002 án lögboðinna aflaheimilda, en að loknum veiðiferðum þessum var afli skipsins samtals 114.965 kg af slægðum þorski, 1.177 kg af slægðri ýsu, 1.042 kg af slægðum steinbít, 1.104 kg af slægðum skötusel og 4.497 kg af slægðum skarkola umfram aflaheimildir skipsins. III. Á hendur ákærðu A, D, Margeiri Jóhannessyni og X ehf. Ákærða A sem framkvæmdastjóra og stjórnarformanni til 3. janúar 2002 og D sem stjórnarformanni og framkvæmdastjóra frá þeim tíma, í útgerðarfélaginu X ehf. sem átti og gerði út m/b Bervík SH 143, skipaskrárnúmer 259, og ákærða Margeiri sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 28 veiðiferðir frá Patreksfirði og J á tímabilinu frá 1. desember 2001 til 26. febrúar 2002 án lögboðinna aflaheimilda, hvar af 7 ferðir voru farnar fyrir 3. janúar 2002, en að loknum veiðiferðum þessum var afli skipsins samtals 73.844 kg af slægðum þorski og 46.411 kg af slægðri ýsu umfram aflaheimildir skipsins, hvar af 7.646 kg af slægðum þorski og 1.227 kg af slægðri ýsu voru veiddar umfram aflaheimildir skipsins fyrir 3. janúar 2002, en 66.198 kg af slægðum þorski og 45.184 af slægðri ýsu voru veiddar umfram aflaheimildir skipsins eftir 3. janúar 2002. IV. Á hendur ákærðu D, B og V ehf. Ákærðu D sem stjórnarformanni og A sem framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins V ehf. sem gerði út m/b Storms SH 333, skipaskrárnúmer 586, og ákærða A sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til netaveiða í atvinnuskyni í 10 veiðiferðir frá Rifi og J á tímabilinu 23. mars til 4. apríl 2002 án lögboðinna aflaheimilda, en að loknum veiðiferðum þessum var afli skipsins samtals 118.806 kg af slægðum þorski og 4.046 kg af slægðum skarkola umfram aflaheimildir skipsins. V. Á hendur ákærðu D, A og Y ehf. Ákærða D sem stjórnarformanni og framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Y ehf., sem gerði út m/b Sigurvon BA 55, skipaskrárnúmer 1343, og ákærða A sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 3 veiðiferðir frá Bíldudal dagana 5., 6. og 7. nóvember 2002 án lögboðinna aflaheimilda, en að loknum veiðiferðum þessum var aflinn samtals 14.641 kg af slægðum þorski, 3.844 kg af slægðri ýsu, 408 kg af slægðum ufsa, 1.154 kg af slægðum karfa og 223 kg af slægðri þykkvalúru umfram aflaheimildir skipsins. VI. Á hendur ákærðu C, A og Z ehf. Ákærða Sigurði sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Z ehf. sem gerði út m/b Sandafell ÍS 82, skipaskrárnúmer 1812, og A sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 3 veiðiferðir frá J dagana 7., 8. og 9. desember 2002 án lögboðinna aflaheimilda, en í þessum veiðiferðum skipsins var aflinn samtals 6.373 kg af slægðum þorski umfram aflaheimildir skipsins. Brot ákærðu samkvæmt I. VI. lið, A. kafla ákæru teljast varða við 2. mgr. 3. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 57, 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. 225. gr. laga nr. 82, 1998, 2. og 4. mgr. 7. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 38, 1990, um stjórn fiskveiða, sbr. 6. gr. laga nr. 36, 1992, 195. gr. laga nr. 82, 1998 og 2. og 12. gr. laga nr. 85, 2002 og 3. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. og 17. gr. laga, nr. 79, 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. 239. gr. laga nr. 82, 1998. Um refsiábyrgð V ehf., X ehf., Y ehf. og Z ehf. vísast auk framangreinds til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 57, 1996, 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 38, 1990 og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79, 1997. B. Á hendur ákærðu A og Agnari Norðfjörð Hafsteinssyni fyrir umboðssvik. Með því að hafa svo sem lýst er í A. kafla ákæru lið I. haldið m/b Gróttu RE 26, sem U ehf. hafði á leigu frá eiganda þess, til veiða frá 10. mars til 5. apríl 2001 í 7 veiðiferðir auk veiðiferða þar sem í 12 skipti var landað af afla skipsins í gáma án lögbundinna aflaheimilda, og aflað samtals 80.299 kg af slægðum þorski, 43.382 kg af slægðri ýsu, 763 kg af slægðum skarkola og 764 kg af slægðri þykkvalúru og sólkola umfram aflaheimildir skipsins og umfram ákvæði leigusamningsins, og gert eigendur skipsins bundna af því að kaupa aflaheimildir sem þessu nam til að rétta af stöðu aflaheimilda skipsins. Brot ákærðu samkvæmt B. kafla ákæru telst varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. C. Á hendur ákærða A og Agnari Norðfjörð Hafsteinssyni. I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt. 1. Fyrir brot framin í rekstri U ehf. Ákærðu A sem stjórnarformanni og Agnari Norðfjörð sem framkvæmdastjóra U ehf., er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Stykkishólmi skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árinu 2001 sem hér greinir: Uppgjörstímabil: Árið 2001 Nóvember - desember kr. 415.385 kr. 415.385 Samtals: kr. 415.385 2. Fyrir brot framin í rekstri T ehf. Ákærðu A sem stjórnarformanni og Agnari Norðfjörð sem framkvæmdastjóra T ehf., er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Stykkishólmi skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árinu 2001 samtals að fjárhæð 11.323.174 og sundurliðast sem hér greinir: Uppgjörstímabil: Árið 2001 Mars - apríl kr. 5.285.124 September kr. 583.055 Október kr. 2.075.675 Nóvember kr. 2.960.894 Desember kr. 418.426 kr. 11.323.174 Samtals: kr. 11.323.174 Brot ákærðu samkvæmt I. lið, C. kafla ákæru töluliðum 1 og 2 telst varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998. I. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. 1. Fyrir brot framin í rekstri U ehf. Ákærðu A og Agnari Norðfjörð er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Stykkishólmi skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna U ehf. á árinu 2001 samtals að fjárhæð kr. 1.019.682 og sundurliðast sem hér segir: Greiðslutímabil: Árið 2002 Janúar kr. 528.453 Febrúar kr. 491.229 kr. 1.019.682 Samtals: kr. 1.019.682 2. Fyrir brot framin í rekstri T ehf. Ákærðu A og Agnari Norðfjörð er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Stykkishólmi skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna T ehf. á árinu 2001 og 2002 samtals að fjárhæð kr. 4.486.248 og sundurliðast sem hér segir: Greiðslutímabil: Árið 2001 Júní kr. 511.900 Júlí kr. 1.882.333 Ágúst kr. 605.981 Nóvember kr. 92.844 Desember kr. 521.578 kr. 3.614.636 Árið 2002 Janúar kr. 479.110 Febrúar kr. 392.502 kr. 871.612 Samtals: kr. 4.486.248 Brot ákærðu samkvæmt II. lið, C. kafla ákæru töluliðum 1 og 2 telst varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998. D. Kröfugerð Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar fyrir framangreind brot. Skaðabótakrafa L, gerir kröfu um að ákærða A stjórnarmanni U ehf. verði gert að greiða bankanum skaðabætur vegna brota sem umgetur í I. lið A. kafla og B. kafla ákæru samtals að fjárhæð kr. 15.773.875 auk dráttarvaxta frá 27. nóvember 2001. Krafa um upptöku ólögmæts afla Þess er krafist, með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, og 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 79, 1997, að ákærðu verði gert að þola upptöku ávinnings af brotum sínum, ólöglegum afla, eða peningafjárhæð sem svarar til andvirðis eftirtalins ólöglegs afla að mati dómkvaddra matsmanna: I. Ákærðu A, Margeiri og Agnari Norðfjörð á afla samkvæmt I. kafla ákæru 80.299 kg af slægðum þorski, 43.382 kg af slægðri ýsu 763 kg af slægðum skarkola og 764 kg af slægðri þykkvalúru og sólkola. II. Ákærðu A og Agnari Norðfjörð á afla samkvæmt II. kafla ákæru 114.965 kg af slægðum þorski, 1.177 kg af slægðri ýsu, 1.042 kg af slægðum steinbít, 1.104 kg af slægðum skötusel og 4.497 kg af slægðum skarkola. III. Ákærðu samkvæmt III. kafla ákæru. Ákærðu Margeiri, A og X ehf. verði gert að þola upptöku á andvirði 7.646 kg af slægðum þorski, 1.227 kg af slægðri ýsu, og ákærðu Margeiri, D og X ehf. á andvirði 66.198 kg af slægðum þorski og 45.184 kg af slægðri ýsu eða samtals 73.844 kg af slægðum þorski og 46.411. kg af slægðri ýsu. IV. Ákærðu B, D og V ehf. á afla samkvæmt IV. kafla ákæru 118.806 kg af slægðum þorski og 4.046 kg af slægðum skarkola V. Ákærðu A, D og Y ehf. á afla samkvæmt V. kafla ákæru 14.641 kg af slægðum þorski, 3.844 kg af slægðri ýsu, 408 kg af slægðum ufsa, 1.154 kg af slægðum karfa og 223 kg af slægðri þykkvalúru. VI. Ákærðu A, C og Z ehf. á afla samkvæmt VI. kafla ákæru 6.373 kg af slægðum þorski." Þannig hljóðar ákæruskjalið. Matsgerð Með matsbeiðni sem Héraðsdómi Vesturlands barst 27. ágúst 2003, óskaði ákærandi eftir því að dómurinn kveddi til sérfróðan mann ,,til að meta peningalegt verðmæti afla þess sem ákærðu eru sakaðir um af hafa aflað [og] talinn er ólöglegur." Hinn 5. september kvaddi dómari til F, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðar [...] hf. í J, til að gera hið umbeðna mat. Í matsgerð gerir matsmaður svofellda grein fyrir matinu: ,,Við matið lagði matsmaður til grundvallar markaðsverð á seldum afla á fiskmarkaði. Miðaði matsmaður við sambærilegan afla, þe. sömu fisktegundir í sama ástand, þe. sömu stærðar, jafngamlan, veiddan á svipaðri veiðislóð og lönduðum á sömu höfnum og þar með sömu markaðssvæðum og téður afli. Er allur afli umreiknaður í slægðan afla, nema karfinn sem ávallt er hafður óslægður í viðmiðunum. Ástæðan fyrir því að matsmaður miðar við markaðsverð er einfaldlega sú að það er það verð sem að mati matsmanns sýnir rétt peningalegt virði margtéðs afla. Einnig er það það verð sem er sambærilegt við það verð sem fengist hefði ef ákæruvaldið hefði gert aflann upptækan við löndun og selt á fiskmarkaði í sínu nafni, eins og fordæmi eru fyrir, einnig eru fordæmi fyrir því að sýslumenn hafi gert tilkall til aflaverðmætis afla sem seldur er á fiskmarkaði áður en kemur að uppgjörsdegi og fiskmarkaður því greitt aflaverðmætið út til viðkomandi embættis. Í slíkum tilfellum fá embættin andvirði aflans greitt út að frádregnum sölukostnaði viðkomandi fiskmarkaðs og því sýnir matsmaður það andvirði sérstaklega í töflunni hér að neðan." Matsmaður kom fyrir dóm og staðfesti matsgerð sína. Kröfugerð verjenda fyrir hönd ákærðu Af hálfu ákærða Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar er þess krafist aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Í báðum tilvikum er þess krafist að sakarkostnaður verði allur lagður á ríkissjóð, þ. m. t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda að mati réttarins. Af hálfu ákærða A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar vegna brota skv. ákæruliðum A, I; A, II og A, III og C-hluta ákæru, með fyrirvara um fjárupphæðir, og að ákærði verði sýknaður af ákæruliðum A, V og A, VI og B-hluta ákæru og skaðabótakröfu skv. D-hluta. Krafist er að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, en til vara að hluta, þ. á m. málsvarnalaun verjanda fyrir dómi og við lögreglurannsókn. Af hálfu ákærðu B og D og einkahlutafélaganna V, Y og X, voru hafðar upp þessar kröfur: Að ákærði D verði sýknaður af háttsemi skv. III. kafla A-hluta ákæru og af háttsemi skv. IV. kafla. Komi til sakfellingar skv. V. kafla A-hluta ákæru, verði ákærða ekki gerð refsing. Krafist er sýknu af kröfum um upptöku afla skv. D-hluta ákæru, III, IV. og V. tölulið. Að ákærði B verði sýknaður af A-hluta, kafla IV, og einnig kröfum í D-hluta, IV tölulið. Að ákæru á hendur X ehf. verði vísað frá dómi. Að ákærðu V ehf. og Y ehf. verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvalds. Verjandi ákærðu B og D og einkahlutafélaganna V, Y og X, krefst þess að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Verjandi krefst málsvarnarlauna vegna hvers aðila um sig fyrir vörn fyrir dómi og fyrir réttargæslu. Af hálfu ákærða Margeirs Jóhannessonar er þess krafist aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum refsikröfum ákæruvaldsins og jafnframt að kröfu um upptöku skv. D-hluta ákæru, I. og III. lið, verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að ákærði hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa og verði þá sýknaður af upptökukröfum. Verjandi krefst málsvarnarlauna að mati dómsins. Af hálfu ákærðu C og Z ehf. er þess krafist að ákærðu verði bæði sýknuð af kröfum ákæruvaldsins, þ. m. t. af upptökukröfu. Hann krefst þess að málsvarnarlaun að mati dómsins og annar sakarkostnaður verði greiddur af ríkissjóði. Um A-hluta ákæru Inngangur: Tildrög þessa máls eru sem hér segir: Upphaf áæruliðanna í A-hluta ákæru voru kærur frá Fiskistofu til ríkislögreglustjórans. Þetta á þó ekki við um ákærulið I í A-hluta, þar sem upphaf máls var kæra frá L hf., en sá ákæruliður er þó sem aðrir reistur á gögnum frá Fiskistofu. Hálfdán Daðason lögreglumaður var rannsóknari máls þessa hjá ríkislögreglustjóranum. Hann kom fyrir dóminn sem vitni og lýsti því hvernig hann hefði unnið úr þeim gögnum sem fyrir lágu. Tölur um veiðiferðir í öllum ákæruliðunum eru byggðar á aflayfirliti sem hann vann yfir aflamarksstöðu viðkomandi skips þann tíma sem ákæruliður tiltekur og veiðiferðir á þeim tíma. Hann kvaðst yfirleitt hafa byrjað að vinna út frá stöðubréfi Fiskistofu sem gefið hefði verið út eftir síðustu löndun. Hann hefði síðan fengið upplýsingar frá Fiskistofu um allan landaðan afla, fyrir hvern einasta dag, og hefði þannig reiknað sig aftur í tímann. Aflamarksstaðan hefði verið leiðrétt eftir löndunum. Tillit hefði verið tekið til aflamarksfærslna bæði af og frá skipinu og einnig (í ákærulið A, I eingöngu) til útflutnings í gámum. Einnig væri reiknaður inn í dæmin hlutur undirmálsfisks, sem sem draga mætti frá aflamarkinu. Vitnið lýsti þessu nánar í smáatriðum. Svona hefði hann reiknað aftur í tímann. Þannig hefði verið fundinn fjöldi veiðiferða þar sem skip hefði ekki haft fullnægjandi aflaheimildir. Útreikningar þessir hefðu stemmt við stöðubréf Fiskistofu, sem væru yfirleitt tvö í hverjum mánuði. Hálfdán sagði að menn hefðu bent á að á tilteknum dögum hefðu þeir á aflaskráningarkerfi Fiskistofu, Lóðsinum, fengið uppgefna tölu sem passaði ekki við þessa útreikninga. Landanir kæmu oft inn í Lóðsinn seint og illa. Rannsóknarinn sagði til skýringar að hjá Fiskistofu væri ekki unnt að fá stöðubréf aftur í tímann. Fram kom hjá verjendum ákærðu að ekki væri ágreiningur um að rannsóknarinn hefði fært rétt af þeim frumgögnum sem hann hafði um landanir, aflamarksfærslur og fleira, inn á yfirlitin. Niðurstöðutölur í ákæruliðunum í A-hluta ákæru um neikvæða aflamarksstöðu í lok tímabila voru ekki rengdar. Efasemdir komu hins vegar fram um aðferð rannsóknara, þ.e. þá aðferð að reikna frá síðasta stöðubréfi Fiskistofu og síðan aftur tímann. Kom fram að þetta kynni að hafa leitt til þess að veiðiferðir, þegar aflamarksstaðan hefði verið neikvæð, hefðu orðið fleiri en rétt væri. Hálfdán var spurður hvort verið gæti að það fengjust færri veiðiferðir með neikvæða aflamarksstöðu ef reiknað væri fram í tímann, en ekki aftur, eins og gert var. Hann kvaðst ekki vilja fullyrða um það, en hann teldi það afar ólíklegt. Það er álit dómara að hér skipti máli að ekki hafa verið bornar brigður á niðurstöðutölur um aflamagn skipa umfram heimildir, en ekki hvort vera kunni að einhverju skeiki um fjölda veiðiferða, en ekki hefur það þó, að mati dómara, verið gert líklegt. Þá hafa heldur ekki verið gerðar athugasemdir við þau tímabil sem tiltekin eru í ákæruliðunum, nema hvað fram er komið að síðara tímamark greinir ekki endilega frá síðasta löndunardegi, heldur miðast það við síðasta útgefið stöðubréf. Um ákærulið A, I Þáttur ákærða Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar: Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst ekki hafa verið framkvæmdastjóri U ehf. á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur. Meðákærði A hefði verið framkvæmdastjóri á þessum tíma. Á þessum tíma kvaðst ákærði hafa séð um fisksölu fyrir U ehf. Hann hefði ekki verið í stjórn félagsins og ekki starfað á skrifstofu þess. Samkvæmt útskrift úr Hlutafélagaskrá voru skv. fundi í U ehf. 4. september 2000 þessir menn í stjórn félagsins: G, stjórnarformaður, A og H meðstjórnendur. A var framkvæmdastjóri. Ákærða Agnars Norðfjörð er ekki getið. Í skýrslu sem ákærði gaf fyrir lögreglu 2. október 2002 var hann spurður um þessa útskrift út Hlutafélagskrá, og var þá þetta eftir honum haft: ,,Agnar segir skjalið ekki greina rétt frá stjórn félagsins fyrir rekstrarárið 2001. Hann segir að A hafi verið stjórnarformaður og hann sjálfur hafi verið framkvæmdastjóri U ehf. Agnar segir að þær G og H hafi ekki komið neitt að rekstrinum. heldur hafi nöfn þeirra verið notuð til uppfyllingar til skráningar hjá Hlutafélagakrá." Samkvæmt annarri útskrift úr Hlutafélagaskrá verður breyting á stjórn og framkvæmdastjórn U ehf. á fundir 17. desember 2001. Þá skipa stjórn félagsins ákærði A og G, en framkvæmdastjóri er ákærði Agnar Norðfjörð. Ákærði var spurður um skýringar á ofangreindum framburði sínum fyrir lögreglu. Hann sagði að þetta hefði bara verið misskilningur hjá sér. Hann hefði mistúlkað þetta og ekki verið í standi til að hugsa þetta rökrétt. Hann hefði talið að það gilti fyrir árið að hann hefði verið skráður framkvæmdastjóri á árinu 2001. En hann hefði á þessu ári ekki verið með prókúru fyrir félagið og aldrei með prókúru í banka. Hann hefði ekki farið með fjármálastjórn fyrir félagið. Í annarri skýrslu sem ákærði gaf fyrir lögreglu 13. maí 2003 var hann spurður hver hefði séð um daglegan rekstur U ehf. og hver hefði tekið fjárhagslegar ákvarðanir fyrir félagið þegar það var með Gróttu RE-26 á leigu: ,,Agnar segir að það hafi verið hann og A. Agnar segir að sitt svið hjá félaginu hafi verið fisksala en A hafi séð um allt er vék að kvótamálum hjá félaginu. Hann segist ekki hafa starfað í J, heldur hafi hans starfsaðstaða aðallega verið heima hjá honum í K." Fyrir dóminum bar ákærði að hann hefði ekkert ákvörðunarvald haft um útgerð skipsins Gróttu. Meðákærði Agnars Norðfjörð, A, var fyrir dóminum spurður hver hefði verið raunveruleg staða hans og ákærða Agnars Norðfjörð hjá U ehf. eftir fund í félaginu 4. september 2000. Hann sagði að staðan hefði verið sú, að þeir ákærði Agnar hefðu ,,unnið þessi mál í sameiningu alla tíð burtséð frá skráningu í félögunum". Hann vísaði í þessu sambandi til framburðar síns fyrir lögreglu 16. september 2002: ,,A segir að í stjórn U ehf. á því tímabili sem fjallað er um eða febrúar, mars og apríl 2001, hafi hann og Agnar Norðfjörð Hafsteinsson verið í stjórn U ehf. Hann segist hafa verið stjórnarformaður en Agnar hafi verið framkvæmdastjóri." Þegar meðákærða var bent á að skv. útskrift úr Hlutafélagaskrá hefði ákærði Agnar Norðfjörð ekki orðið framkvæmdastjóri fyrr en 17. desember 2001, sagði meðákærði að hann hefði kannski ekki verið í stjórn, en ,,hann starfaði bara með mér". Í skýrslu sem tekin var fyrir lögreglu af meðákærða 6. maí 2003 var hann spurður hver hefði séð um daglegan rekstur U ehf. og hver hefði tekið fjárhagslegar ákvarðanir fyrir félagið á þessu umrædda tímabili, þegar félagið var með Gróttu RE-26 á leigu. Svar: ,,A segir að hann og Agnar Norðfjörð hafi séð um daglegan rekstur U ehf. og tekið fjárhagslegar ákvarðanir fyrir félagið." Meðákærði staðfesti þetta fyrir dóminum. Meðákærði var fyrir dóminum spurður hvenær gengið hefði verið frá þeirri verkaskiptingu milli hans og ákærða Agnars Norðfjörð, sem hann hefur nú lýst. Hann sagði að það hefði verið gert um leið og félagið var stofnað. Ástæðan fyrir því að það hefði ekki verið gengið formlega frá því að ákærði Agnar væri framkvæmdastjóri hefði verið sú að hann hefði verið gjaldþrota. Þess vegna hefði kona hans, H, farið í stjórn. Ákærði staðfesti að formlega hefði þessu verið breytt á fundi 17. desember 2001. Meðákærði bætti við, aðspurður, að það hefði ekki verið glögg verkaskipting milli hans og ákærða, Agnars. Þeir hefðu tekið ákvarðanir sameiginlega, mikið gegnum síma. Ákærða hefði verið ljós aflamarksstaða skipsins Gróttu. Meðákærði A sagði að það hefði verið hann sem að mestu hefði séð um það fyrir U ehf. að leigja kvóta fyrir Gróttu. Meðákærði Margeir Jóhannesson var fyrir dóminum spurður hverjir hefðu verið fyrirsvarsmenn félagsins sem hann hefði átt samskipti við. Hann sagði: ,,Þeir voru það báðir." Hann hefði þó átt meiri samskipti við meðákærða A en ákærða Agnar Norðfjörð. A hefði verið ,,meira á staðnum". Hann kvaðst þó ekki geta svarað því hver hefði séð um að leigja kvóta á skipið. Þeir hefðu báðir átt þátt í að ráða hann sem skipstjóra. Þeir hefðu farið allir þrír saman til að kaupa skipið Bervík SH 143 (ákæruliður A,III). Niðurstaða: Af skýrslum þeim sem ákærði Agnar Norðfjörð gaf fyrir lögreglu er greinilegt að hann taldi sig bera fulla ábyrgð til jafns við meðákærða A á rekstri U ehf. á þeim tíma sem ákæruliðurinn tekur til, þrátt fyrir það að hann væri ekki formlega skráður framkvæmdastjóri félagsins fyrr en 17. desember 2001. Framburður hans fyrir dóminum um það, að þessi framburður hans fyrir lögreglu væri rangur, þykir dómara ekki trúverðugur né heldur skýring hans á því hvers vegna hann hefði borið rangt. Framburður hans fyrir lögreglu kemur hins vegar vel heim við það sem meðákærðu, A og Margeir Jóhannesson, báru fyrir dóminum. Því þykir dómara sannað að ákærði Agnar Norðfjörð hafi í raun verið framkvæmdastjóri U ehf. á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur. Sem slíkur ber hann ábyrgð á þeim fiskafla umfram veiðiheimildir sem þar greinir. Ákærði hefur engar brigður borið á efnisatriði ákæruliðarins, og ekkert er fram komið í málinu sem bent gæti til þess að þar gæti ranglega verið farið með magntölur umfram veiðiheimildir. Að þessu athuguðu telur dómari að ákærði Agnar Norðfjörð sé sannur að þeirri sök sem á hann er borin í ákæruliðnum. Þáttur ákærða A: Ákærði játaði sök sína samkv. þessum ákærulið. Hann kvaðst þó ekki vita hver margar veiðiferðirnar hefðu verið, sagðist ekki hafa aðstöðu til að meta hve margar þær hefðu verið án þess að skipið hefði kvóta. Hann kannaðist við að hafa verið stjórnarformaður U ehf., sem hefði gert skipið Gróttu RE-26 út á umræddu tímabili, 10. mars til 5. apríl 2001. Hann kannaðist við að afli umfram aflaheimildir hefði verið sá sem í ákæruliðnum greinir. Dómari telur að með þessum framburði ákærða sé fram komin afdráttarlaus játning á því broti sem á hann er borið í ákæruliðnum. Gögn málsins styðja þessa játningu. Ákærði er sannur að sök. Þáttur ákærða Margeirs Jóhannessonar: Ákærði neitaði sök. Hann kannaðist við að hafa verið skipstjóri á Gróttu RE-26 á þeim tíma sem ákæruliðurinn tekur til, sagði þó að skipið hefði hætt veiðum um viku fyrir 5. apríl 2001, hann myndi dagsetninguna ekki nákvæmlega. Hann var spurður hvort niðurstöðutölur ákæruliðarins um afla umfram aflaheimildir væru réttar eða rangar. Hann kvaðst ekki geta borið um það, hann hefði aldrei séð neinar tölur um þetta. Hann var þá spurður hvað hann hefði vitað um aflamarksstöðu skipsins þann tíma sem hann var skipstjóri. Hann kvaðst hafa vitað ósköp lítið, hann hefði vitað að lítill kvóti hefði verið á því. Hann kvaðst ekkert vita um leigusamning U ehf. við Haförn ehf. um skipið. Hann hefði ekki haft eftirlit með því hvort skipið hefði nægar aflaheimildir, hann hefði treyst útgerðinni til að annast það. Ákærði var spurður hvort hann hefði ekki litið á það sem sitt hlutverk að fylgjast með aflamarksstöðu skipsins. Hann sagði að það væri rosalega erfitt fyrir skipstjórnarmann að fylgjast með henni. Útgerðin seldi aflann hingað og þangað, m. a. til útlanda í gámum. Eina leiðin fyrir skipstjóra til að fylgjast með þessu væri í gegnum Lóðsinn hjá Fiskistofu [þ.e. aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Innskot dómara.], en það hefði hann ekki gert. Hann hefði á þessum tíma átt heima í Hafnarfirði, en hann hefði dvalist um borð í skipinu þegar hann var við róðra frá J. Hann hefði ekki haft tölvu um borð nema siglingatölvu, ekki með nettengingu. Faxtæki hefði verið bilað. Upplýsingar þær sem hann hefði fengið um aflamarksstöðu hefðu komið frá útgerðinni. Ákærði sagði að eftirlit skipstjóra með aflamarkstöðunni væri erfitt m.a. vegna þess að það væri sífellt verið að leigja kvóta inn á skipið. Hann hefði þó vitað gróflega hve mikið hann hefði veitt, en hann hefði ekki getað séð hvaða aflaheimildir hefðu komið inn á skipið í staðinn. Hann sagðist hafa verið hjá þessari útgerð, U ehf., hálft annað ár, og þetta hefði alltaf gengið snurðulaust. Niðurstaða: Skipstjóri ber víðtæka ábyrgð á því skipi sem hann stjórnar, á siglingu þess og öllum búnaði og að starfsemi um borð í því fari að lögum, sbr. t. a. m. 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og mörg önnur ákvæði í þeim lögum og sjómannalögum nr. 35/1985. Ótvírætt verður að telja að skipstjóri beri ábyrgð á því að fiskiskip hefji ekki veiðiferð nema skip hans hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofan sjávar. Skipstjóra ber að halda afladagbækur sk. 15. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, og verður ekki annað séð en færsla þeirra ætti að auðvelda skipstjóra að fylgjast með aflamarksstöðu skips. Ekki verður fallist á það með ákærða að það hafi verið mjög erfitt fyrir hann sem skipstjóra að fylgjast með því hvort skipið Grótta hefði aflaheimildir til að veiða þann fisk sem til stóð að fiska fyrir hverja sjóferð, að minnsta kosti ekki svo erfitt að miklu munaði frá réttu lagi. Í þeim ákærulið sem hér um ræðir, A, I, fiskaði ákærði mikið magn af fiski umfram aflaheimildir, um 80 tonn af slægðum þorski og 43 tonn af slægðri ýsu auk skarkola og þykkvalúru. Slíkur umframafli gat ekki farið fram hjá ákærða ef hann hefði viðhaft eðlilega gát við veiðarnar. Að þessu athuguðu telur dómari sannaða sök ákærða samkv. þessum ákærulið. Um ákærulið A, II Þáttur ákærða Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar: Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri U ehf. frá 17. desember 2001. Hann kvaðst hafa verið skráður sem slíkur samkv. beiðni meðákærða A. Hann kvaðst hafa séð um fisksölu fyrir félagið. Hann hefði ekki komið að því að afla veiðiheimilda fyrir félagið og hefði ekki þekkt til þess þáttar í rekstrinum. Ákærði var spurður hvort hann hefði efnislegar athugasemdir að gera við þennan ákærulið. Hann kvaðst ekki hafa þekkingu til þessa að gera athugasemdir. Í skýrslu sem tekin var af ákærða fyrir lögreglu 13. maí 2003 um efni þessa ákæruliðar var borin undir ákærða samantekt rannsóknarans um aflamarksstöðu Klettsvíkur SH-343. Þetta er skráð í lögregluskýrsluna: ,, Samkvæmt þessari samantekt virðist skipinu hafa verið haldið samtals í 89 veiðiferðir á tímabilinu 9. nóvember 2001 til 6. apríl 2002, með neikvæða aflamarksstöðu. Hann er spurður hvort hann vilji tjá sig um þessa samantekt eða hvort hann rengi hana á einhvern hátt. Agnar segist ekkert hafa að athuga varðandi þessa samantekt. Hann segist þó alls ekki hafa vitað til þess að skipinu hafi verið haldið til veiða í allar þessar veiðiferðir án þess að hafa til þess nægar heimildir. Agnar segist vita til þess að bæði þeir hjá U ehf. og fjöldi annarra útgerðarmanna hafi farið til sjós með litlar veiðiheimildir og jafnvel farið fram yfir veiðiheimildastöðuna en þeir hafi alltaf reddað þeim málum fljótlega með því að leigja til skipanna heimildir. Stundum hafi Fiskistofa sent skeyti um að staðan væri orðin neikvæð og þá hafi menn leigt til sín heimildir. Hann segir að aðferðin hafi verið sú að menn fylgdust með aflaskráningarkerfinu ,,Lóðsinn" hjá Fiskistofu og gert [svo] út eftir þeim upplýsingum sem þar var að hafa. Hann segir að oft hafi ,,Lóðsinn" sýnt mönnum betri stöðu en hún var þar sem upplýsingar um landaðan afla kom misjafnlega fljótt inn í það kerfi." Ákærði sagði að hann og meðákærði A hefðu aldrei rætt neitt saman um aflaheimildir, eða kvótastöðu, skipsins Klettsvíkur. Það hefði alveg verið á könnu meðákærða að sjá um kvótamálin. Hann kvaðst ekki vera klár á því hver hefði verið skipstjóri skipsins á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur, þ.e. frá 9. nóvember 2001 til 6. apríl 2002. Við rannsókn þessa máls fyrir lögreglu voru teknar skýrslur af ákærða 3. október 2002 og 13. maí 2003. Í fyrri skýrslunni var ákærði spurður hverjir hefðu tekið fjárhagslegar ákvarðanir hjá U ehf. og hverjir hefðu séð um daglegan rekstur félagsins. Hann sagði að hann og meðákærði A hefði tekið allar fjárhagslegar ákvarðanir varðandi félagið og séð sameiginlega um daglegan rekstur þess. Fyrir dóminum sagði ákærði að það væri ekki rétt að hann hefði séð um daglegan rekstur félagsins og hann hefði heldur ekki tekið fjárhagslegar ákvarðanir í nafni þess. Ákærði var spurður um skýringu á framburði sínum fyrir lögreglu. Hann kvaðst hafa talið að af því að hann hefði verið skráður framkvæmdastjóri á þessu ári, þá væri það samkvæmt lögum þannig að hann hefði átt að sinna daglegum rekstri og taka fjárhagslegar ákvarðanir. Sækjandi vitnaði til þess að í skýrslu ákærða fyrir lögreglu 3. október 2002 er þetta haft eftir honum: ,,Agnar segist vilja taka það fram að það sé ekki rétt sem fram kemur í kærunni [þ.e. kæru Fiskistofu] að skipinu hafi verið haldið til veiða án veiðileyfis, hinsvegar sé rétt að skipinu hafi verið haldið til veiða án þess að hafa til þess aflaheimildir." Ákærði var spurður á hverju hann hefði byggt þennan framburð, ef hann hefði ekki þekkt neitt til aflamarksstöðu skipsins. Hann kvaðst hafa heyrt þetta hjá meðákærða A. Sækjandi vísaði einnig til þess að í sömu skýrslu fyrir lögreglu var ákærði spurður hvers vegna hann sem framkvæmdastjóri félagsins hefði látið halda skipinu út í samtals 12 sjóferðir án þess að hafa til þess aflaheimildir. ,,Agnar segir að meiningin hafi verið að leigja til skipsins aflaheimildir eins og alltaf hafði verið gert. Hann segir að vinnureglur hafi verið þær hjá kvótalitlum skipum að leigja til þeirra aflaheimildir daginn fyrir sviptingu veiðileyfis og það hafi verið meiningin í þessu tilfelli. Staða fyrir tækisins hafði hinsvegar versnað það mikið á þessu tímabili og í ljós kom að ekki reyndist fjárhagslega geta til að leigja til skipsins aflaheimildir og nú er svo komið félagið er komið í gjaldþrotaskipti." Ákærði var spurður á hverju hann hefði reist þennan framburð sinn. ,,Á því sem mér var sagt," svaraði ákærði. Hann sagðist hafa trúað því að meiningin hefði verið að leigja til skipsins aflaheimildir og því tryði hann enn. Hann hefði vitað að það gilti um kvótalausa báta að allir hefðu verið ,,að vinna eftir svipuðum leiðum". Hann sagðist ekki geta skýrt þennan framburð sinn frekar, nema hvað hann hefði ekki haft með kvótaleigu fyrir skipið að gera. En hann hefði vitað að það hefði þurft að leigja kvóta fyrir skipið eftir hendinni. Meðákærði A sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að staða ákærða Agnars Norðfjörð hefði ekki breyst neitt eftir 17. desember 2001, þegar hann var skráður framkvæmdastjóri. Honum hefði verið kunnugt um aflamarksstöðu Klettsvíkur þann tíma sem ákæruliðurinn tiltekur. Þeir hefðu rætt mikið um stöðu mála, þótt hann, þ.e. meðákærði A, hefði þekkt betur til en ákærði, þar sem hann starfaði í J. Þeir hefðu rætt mikið saman í síma, og svo hefði hann verið mikið í Reykjavík. Í skýrslu sem tekin var fyrir lögreglu 30. september 2002 var meðákærði spurður hver hefði tekið ákvörðun um að Klettsvík SH-343 skyldi haldið til veiða þrátt fyrir að skipið hefði ekki til þess aflaheimildir. Svar var þannig bókað: ,,A segir að þeir Agnar Norðfjörð hafi tekið þessa ákvörðun sameiginlega." Þetta staðfesti ákærði fyrir dóminum sem rétt. Niðurstaða: Dómari telur ótrúverðugar skýringar ákærða fyrir dóminum á því hvers vegna hann hafi borið rangt í skýrslum sínum fyrir lögreglu. Með vísan til framburðar hans þar, framburðar meðákærða A fyrir dóminum og framburðar meðákærða undir ákærulið A, I, Margeirs Jóhannessonar, telur dómari sannaða sök ákærða Agnars Norðfjörð samkvæmt þessum ákærulið. Athuga ber að ákærði var formlega skráður framkvæmdastjóri U ehf. frá 17. desember 2001. Þáttur ákærða A: Ákærði játaði sök skv. þessum ákærulið, en sagðist þó ekki geta staðfest að fjöldi veiðiferða væri réttur. Hann sagðist ekki hafa verið skipstjóri á skipinu Klettsvík SH-343 nema í 28 daga á því tímabili sem um ræðir í ákæruliðnum. Hann kvaðst enga ástæðu hafa til að rengja niðurstöðutölur um afla fram yfir aflaheimildir. Samkvæmt lögskráningarskjali, sem frammi liggur, var ákærði skipstjóri á Klettsvík SH-343 frá 14. mars til 8. apríl 2002. Ákærði staðfesti að þetta væri rétt. Þá sagði ákærði að skipinu hefði ekki verið haldið til veiða eftir að það var svipt veiðileyfi. Ákærði sagði aðspurður kannast við að hafa sem skipstjóri fengið símskeyti frá Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis, en hann kannaðist ekki við að hafa sem slíkur fengið senda aðvörun frá Fiskistofu. Með játningu ákærða A, sem er studd öðrum málsgögnum, er sönnuð sök hans samkvæmt þessum ákærulið. Þó ber að athuga að veiðiferðir hans sem skipstjóra voru miklu færri en talið er í ákæruliðnum. Um ákærulið A, III Þáttur ákærða A: Ákærði játaði sök skv. þessum ákærulið. Hann kvaðst þó ekki geta staðfest fjölda veiðiferða. Hann sagðist enga ástæðu hafa til að rengja að rétt væri greint frá afla umfram veiðiheimildir. Hann sagði það rétt vera að hann hefði selt X ehf. 3. janúar 2002 meðákærða D, en hann hefði komið að rekstri félagsins áfram. Hann hefði gert Bervík SH-143 eftir 3. janúar. Með skýlausri játningu ákærða, sem studd er öðrum málsgögnum, er sönnuð sök ákærða, A, samkv. þessum ákærulið. Þáttur ákærða D: Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst ekki hafa verið stjórnarformaður [og framkvæmdastjóri] frá 3. janúar 2002, eins og sagt er í ákæruliðnum. Það hefði staðið til að hann keypti X ehf. en það hefði gengið til baka. Hann var þá spurður hver væri skýringin á að tilkynning um breytta eignaraðild hefði verið send Hlutafélagaskrá, móttekin þar 8. maí 2002. Samkvæmt fram lögðu vottorði Hagstofu Íslands væri ákærði stjórnarmaður og framkvæmdastjóri X ehf. frá 3. janúar 2002. Ákærði kvaðst hafa ætlað að kaupa félagið, en það hefði verið hætt við. Spurður um hvenær hætt hefði verið við, sagði hann að það hefði verið fljótlega eftir 3. janúar. Hann kvaðst ekki geta gefið skýringu á hvers vegna tilkynningin til Hlutafélagaskrár hefði þá verið send. Hann hefði ekki sent hana. Hann hefði aldrei komið að rekstri þessa félags. Ákærði kvaðst ekki geta tjáð sig um magntölur afla umfram aflaheimildir. Við rannsókn þessa máls fyrir lögreglu var tekin skýrsla af ákærða D 31. október 2002. Framburður hans þar var nokkuð á annan veg en fyrir dómi. Honum var kynnt vottorð Hlutafélagaskrár þar sem fram koma upplýsingar um stjórn og starfsemi X ehf. skv. samþykktum þann 3. janúar 2002, sbr. hér að framan. Ákærði var spurður hvort skjalið greindi rétt frá stjórn og starfsemi X ehf. fyrir rekstrarárið 2002. Svarið var þannig bókað: ,,D segir skjalið greina rétt frá stjórn og starfsemi X ehf. fyrir rekstrarárið 2002." Litlu síðar er skráð í skýrsluna: ,,D er spurður um hver hafi tekið fjárhagslegar ákvarðanir hjá félaginu og séð um daglegan rekstur þess. D segist sjálfur hafa tekið fjárhagslegar ákvarðanir hjá félaginu og séð um daglegan rekstur þess." Fyrir dómi sagði ákærði að þessi framburður hans fyrir lögreglu væri rangur. Þegar hann var spurður um skýringu á þessum ranga framburður sagði hann: ,,Ég hef bara misskilið hann." Aðra skýringu kvaðst hann ekki geta gefið. Í skýrslu ákærða fyrir lögreglu er ennfremur þetta skráð: ,,D er spurður hvers vegna hann, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri X ehf., útgerðarfélags Bervíkur SH-143, hafi látið halda skipinu til veiða í allar veiðiferðir á árinu 2002, án þess að hafa til þess aflaheimildir. D segist hafa talið útgerð Bervíkur SH-143, HH hafa haft nægjanlegar veiðiheimildir." Hann var fyrir dóminum spurður á hverju hann hefði byggt þetta svar, fyrst hann hefði ekki haft þekkingu á rekstrinum eða haft með hann að gera. Ákærði kvaðst ekki vilja svara þessu. Meðákærði A sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að það væri rétt að hann hefði selt X ehf. 3. janúar 2002 ákærða D, en hann, A, hefði komið að rekstri félagsins áfram. Hann hefði gert út Bervík SH-143 eftir 3. janúar. Meðákærði sagði að aðkoma ákærða D að einkahlutafélaginu A hefði verið lítil sem engin eftir 3. janúar 2002. Félagið hefði aldrei verið formlega afhent. Í raun hefði staða sín hjá félaginu ekki breyst, hann hefði verið framkvæmdastjóri áfram. Þegar til hefði átt að taka hefði staða félagsins verið orðin svo slæm að aldrei hefði orðið af því að meðákærði hefði tekið við skipinu Bervík SH-343. Hann kvað það sína skoðun að ákærði D bæri ekki með neinum hætti ábyrgð á því sem honum væri gefið að sök í þessum ákærulið. Meðákærði kvaðst hafa séð um að Hlutafélagaskrá væri send tilkynning um breytta eignaraðild að X ehf., móttekna 8. maí 2002. Hann ítrekaði að ákærði D hefði að engu leyti komið að rekstri félagsins að því er ákæruefnið varðaði. Meðákærði Margeir Jóhannesson var spurður um þátt ákærða D samkvæmt þessum ákærulið. Hann sagði að hann hefði séð ákærða D í fyrsta sinni við aðalmeðferð málsins, og hann hefði aldrei fyrr heyrt hann nefndan. Niðurstaða: Framburður ákærða fyrir dóminum fær stuðning af framburði hinna tveggja meðákærðu. Verður að telja ósannað að hann hafi komið að útgerð skipsins Bervíkur SH-143 á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur, þrátt fyrir að formlega hafi hann verið orðinn eigandi að X ehf. 3. janúar 2002 og þrátt fyrir að framburður hans fyrir lögreglu hafi verið á annan veg. Verður ákærði D sýknaður af kröfum ákæruvaldsins samkv. þessum ákærulið. Þáttur ákærða Margeirs Jóhannessonar: Ákærði neitaði sök. Hann kannaðist við að hafa verið skipstjóri á Bervík SH-143 þann tíma og farið þær veiðiferðir sem ákæruliðurinn tiltekur. Hann var spurður hvað hann hefði vitað um aflamarksstöðu skipsins á þessum tíma. Hann sagði að því hefði verið hagað þannig að leigður hefði verið til skipsins kvóti jöfnum höndum, eins og þurft hefði að nota. Hann kvaðst ekki hafa vitað um aflamarksstöðu skipsins nákvæmlega og hefði ekki haft aðstöðu til að fylgjast með henni. Hann kvaðst þó aðspurður hafa leitað upplýsinga hjá útgerðinni um aflsmarksstöðuna og ávallt verið sagt að hún væri í lagi. Hann hefði á hverjum degi talað við annað hvort meðákærða A eða Agnar Norðfjörð. Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa fengið neina aðvörun frá Fiskistofu aðra en símskeyti með hótun um veiðileyfissviptingu. Þegar hann hefði fengið slíkt skeyti á Bervík SH [Fiskistofa sendi skeytið 21. febrúar 2002. Aths. dómara.] hefði hann haft samband við útgerðina. Hann kvaðst ekki hafa haft heimild til að leigja sjálfur kvóta á skipið. Meðákærði A sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að ákærði Margeir hefði ekki haft með að gera aflamarksstöðu skipsins, en hann vissi ekki hvaða vitneskju hann hefði haft um hana. Það hefði alltaf átt að laga kvótann og það hefði Margeiri verið sagt. Margeir hefði þó vitað að skipið hefði verið kvótalaust þegar hann hefði ráðið sig sem skipstjóra í upphafi. Hann hefði verið með skipið árið á undan. Þá hefði verið leigð inn á skipið 1.800 tonn og það hefði Margeir veitt. Meðákærði sagði að ákærði Margeir hefði ekki átt hlut í X ehf. Niðurstaða: Skipstjóri ber víðtæka ábyrgð á því skipi sem hann stjórnar, á siglingu þess og öllum búnaði og að starfsemi um borð í því fari að lögum, sbr. t. a. m. 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og mörg önnur ákvæði í þeim lögum og sjómannalögum nr. 35/1985. Ótvírætt verður að telja að skipstjóri beri ábyrgð á því að fiskiskip hefji ekki veiðiferð nema skip hans hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofan sjávar. Skipstjóra ber að halda afladagbækur sk. 15. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, og verður ekki annað séð en færsla þeirra ætti að auðvelda skipstjóra að fylgjast með aflamarksstöðu skips. Ekki verður fallist á það með ákærða að það hafi verið mjög erfitt fyrir hann sem skipstjóra að fylgjast með því hvort skipið Bervík hefði aflaheimildir til að veiða þann fisk sem til stóð að fiska fyrir hverja sjóferð, að minnsta kosti ekki svo erfitt að miklu munaði frá réttu lagi. Í þeim ákærulið sem hér um ræðir, A, III, fiskaði ákærði mikið magn af fiski umfram aflaheimildir, nær 74 tonn af slægðum þorski og rúm 46 tonn af slægðri ýsu. Slíkur umframafli gat ekki farið fram hjá ákærða ef hann hefði viðhaft eðlilega gát við veiðarnar. Dómari lítur svo á að það hafi verið skylda ákærða að fylgjast sjálfstætt með aflamarksstöðu skipsins; hann geti ekki borið fyrir sig að fyrirsvarsmenn útgerðarinnar hafi sagt honum að skipið hefði nægar aflaheimildir. Að þessu athuguðu telur dómari sannaða sök ákærða samkv. þessum ákærulið. Þáttur ákærða X ehf.: Að mati dómara eru ekki rök til þess að vísa ákæru á hendur þessum ákærða frá dómi. Með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 57, 1996, 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 38, 1990 með áorðnum breytingum og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79, 1997 ber að sakfella þennan ákærða fyrir brot samkvæmt þessum ákærulið. Um ákærulið A, IV Þáttur ákærða D: Ákærði neitaði sök skv. þessum ákærulið. Hann kvaðst hafa talið að nægar aflaheimildir væru á skipinu Stormi SH-333. Hann kannaðist við að hafa verið stjórnarformaður í félaginu V ehf., en meðákærði A hefði verið framkvæmdastjóri og skipstjóri á Stormi. Ákærði kannaðist við að það hefði verið hans hlutverk að hafa umsjón með aflamarksstöðu skipsins. Þegar hann var spurður um hvort niðurstöðutölur ákæruliðarins um veiði umfram heimildir væru réttar, sagðist hann ekki geta svarað til um það. Hann var þá spurður á hverju hann hefði byggt það álit að aflaheimildir skipsins hefðu verið nægar. Hann sagði að búið hefði verið að leigja kvóta á bátinn þegar V ehf. keypti hann. Hann sagðist ekki hafa fylgst nógu grannt með, en hefði treyst á að aflamarksstaðan væri í lagi. Ákærði sagði að meðákærði A hefði verið framkvæmdastjóri bara að nafni til. Hans hlutverk hefði ekki verið að sjá um að báturinn hefði kvóta. Meðákærði B sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að það hefði komið í hlut ákærða D að fylgjast með aflamarksstöðu skipsins á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur. Niðurstaða: Ákærði D ber ábyrgð á því sem stjórnarformaður V ehf. á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur að skipið Stormur SH-333 veiddi langt umfram aflaheimildir sínar. Ákærða er engin vörn í því að hann hafi talið að skipið hefði nægar aflaheimildir. Ákærði er sannur að sök. Þáttur ákærða B: Ákærði kannaðist við að efnisatriði ákæruliðarins væru rétt. Hann kannaðist við að hafa verið framkvæmdastjóri V ehf., sem gerði út Storm SH-333, og jafnframt skipstjóri á bátnum á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur. Hann sagði jafnframt að á þeim tíma sem um ræðir hefði hann ekki vitað að hann væri að fara fram úr aflaheimildum. Hann kvaðst ekki hafa fengið nein skeyti eða tilkynningar um það. Ákærði sagði að 1. september [2001] hefði V ehf. keypt bátinn Storm. Honum hefði fylgt 180 tonna þorskígilda aflamark. Hann kvaðst hafa talið, þegar hann var stjórnarformaður V og skipstjóri á bátnum, að nóg væri eftir af aflaheimildum. Síðan hefði meðákærði D tekið við sem stjórnarformaður, og það hefði verið talið að nóg væri eftir af aflaheimildum. Hann sagði að það hefði komið í hlut meðákærða D að fylgjast með aflamarksstöðu skipsins á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur. Hann hefði engar upplýsingar fengið um stöðuna. Hann kveðst hafa haldið afladagbók en ekki dregið veiddan afla frá aflamarki skipsins. Hann hefði aldrei tekið saman afla hvers mánaðar. Hann hefði ekki spurt meðákærða D um stöðuna. Niðurstaða: Ákærði ber sem framkvæmdastjóri V ehf., sem gerði út skipið Storm SH-333 á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur, og sem skipstjóri skipsins ábyrgð á því að skipið veiddi mjög mikið umfram aflaheimildir. Ótvírætt verður að telja að skipstjóri beri ábyrgð á því að fiskiskip hefji ekki veiðiferð nema skip hans hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofan sjávar. Ákærði bar að hann hefði haldið afladagbók, sbr. 15. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, og verður ekki annað séð en færsla hennar hefði átt að auðvelda honum að fylgjast með aflamarksstöðu skips. Dómari fellst ekki á að ákærði geti borið fyrir sig að hann hafi talið að skipið hefði nægar aflaheimildir. Honum átti að vera í lófa lagið að fylgjast með aflamarksstöðunni, a.m.k. svo að ekki skeikaði mjög miklu. Í þeim ákærulið sem hér um ræðir, A, IV, fiskaði ákærði mikið magn af fiski umfram aflaheimildir, nær 119 tonn af slægðum þorski og rúm 4 tonn af slægðum skarkola. Slíkur umframafli gat ekki farið fram hjá ákærða ef hann hefði viðhaft eðlilega gát við veiðarnar. Dómari lítur svo á að það hafi verið skylda ákærða að fylgjast sjálfstætt með aflamarksstöðu skipsins; hann geti ekki borið fyrir sig að það hefði komið í hlut meðákærða D að fylgjast með henni. Þá telur dómari að fjarska ótrúverðugur sé sá framburður ákærða að hann hefði ekki hafa fengið nein skeyti eða tilkynningar um að hann væri að fara fram úr aflaheimildum. Kjartan Sólberg Júlíusson, forstöðumaður lögfræðisviðs Fiskistofu, kom fyrir dóminn sem vitni. Hann bar að símskeyti, þar sem boðuð væri veiðileyfissvipting, væri sent bæði skipstjóra og útgerðaraðila skips. Slíkt skeyti bærist alltaf skipstjóra, því að skip sem væri í útgerð, væri út á sjó. Það væri lesið upp í síma af strandarstöð. Það bærist alltaf til viðkomandi skips. Hins vegar gæti verið að útgerðarmaður væri ekki viðlátinn á útgerðarstað. Þennan framburð áréttaði vitnið með því að segja að það væri útilokað að skipstjóra bærist ekki slíkt skeyti. Að þessu athuguðu telur dómari sannaða sök ákærða samkv. þessum ákærulið. Þáttur ákærðu V ehf.: Með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 57, 1996, 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 38, 1990 með áorðnum breytingum og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79, 1997 ber að sakfella þessa ákærðu fyrir brot samkvæmt þessum ákærulið. Um ákærulið A, V Þáttur ákærða D.: Ákærði játaði skýlaust brot sitt, eins og því er lýst í þessum ákærulið. Með þeirri játningu, sem studd er öðrum málsgögnum, er sönnuð sök hans samkv. þessum ákærulið. Þáttur ákærða A: Ákærði neitaði sök skv. þessum ákærulið. Hann kannaðist við að hafa verið skipstjóri Sigurvonar BA-55 þá daga sem ákæruliðurinn tiltekur. Hann kvaðst enga ástæðu hafa til að rengja tölur um afla umfram veiðiheimildir. Hann kvaðst ekki hafa vitað betur en að færður hefði verið kvóti á skipið og að Fiskmarkaður [...] hefði átt að gera það. Það hefði honum verið sagt, og Fiskmarkaðurinn hefði verið búinn að jánka því. Það hefði átt að gerast áður en veiðiferðirnar þrjár voru farnar. Hann hefði ekki vitað um neikvæða stöðu aflamarks fyrr en menn Fiskistofu hefðu komið um borð þriðja veiðidaginn og tjáð honum að skipið væri komið í mínus. Þá hefði hann hætt veiðum og skipið hefði verið svipt veiðileyfi. Ákærði sagði að Sigurvon BA-55 hefði verið eitt hinna svokölluðu kvótalausu skipa. Hann sagði, aðspurður, að stjórnvöld hefðu ekki skipt sér af því, þótt skip færi til veiða án aflaheimilda, ef því væri útvegaður kvóti innan þriggja daga. Hann sagði einnig að það væri ekki ákvörðun skipstjóra heldur útgerðar hvar afla væri landað. Afla Sigurvonar í þeim þremur veiðiferðum sem ákæruliðurinn tiltekur hefði verið ekið frá Bíldudal í fiskmarkað á Patreksfirði. Ákærði sagðist vita til þess að í þessu tilviki hefði verið samningur milli fiskmarkaðarins og útgerðar um að markaðurinn útvegaði skipinu kvóta. Ákærði var spurður hver hefði verið staða meðákærða, D, hjá Y ehf. Ákærði kvaðst ekki vita það. Aðspurður hver ráðið hefði hann sem skipstjóra, sagði hann að það hefðu verið meðákærði D og A sonur hans. Hann sagði að hann héldi að það hefði verið D sem átt hefði að hafa samband við Fiskmarkaðinn um kvótakaup, en sjálfur hefði hann fyrr haft samband við E starfsmann markaðarins, en hann, ákærði, hefði verið búinn að vera með skipið nokkurn tíma áður. Bæði E og F [framkvæmdastj. Fiskmarkaðar [...], sem áður mun hafa heitið Fiskmarkaður [...]. Innskot dómara.] hefði verið kunnugt um samkomulag um útvegun kvóta. Ákærði staðfesti skýrslu sem hann gaf fyrir lögreglu 14. janúar 2003. Þar kemur fram að hann er spurður hver hafi tekið fjárhagslegar ákvarðanir hjá Y ehf. og hverjir hafi séð um daglegan rekstur: ,,A segist ekki vita neitt um þetta en segist hafa unnið hjá D sem hafi séð um útgerð Sigurvonar BA-55." Ákærði sagði að aflamarksstaða Sigurvonar BA-55 hefði verið löguð eftir þá þrjá daga sem ákæruliðurinn tekur til. Hann hefði róið bátnum eftir það. Hann sagði að fiskmarkaðurinn mundi hafa lagfært kvótastöðuna. Meðákærði D kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi ekki hafa upplýst ákærða A um aflamarksstöðu skipsins. Hann sagði að fiskmarkaðurinn hefði átt að sjá um að leigja kvóta til skipsins Sigurvonar. Það hefði verið munnlegur samningur um það. Ákærði A hefði vitað af þeim samningi. Samningurinn hefði verið á þá lund að markaðurinn leigði kvóta til skipsins í stað þess afla sem landað væri, en leiguverðið yrði síðan dregið frá söluverði aflans. Það hefði verið farið á sjó án aflaheimilda með það fyrir augum að aflamarksstaðan yrði leiðrétt eftir löndun. Meðákærði D gaf skýrslu fyrir lögreglu 8. janúar 2003 vegna þessa máls. Hann var fyrir dóminum spurður um eitt atriði í þeirri skýrslu: ,,D segist kannast við að hafa sagt A skipstjóra á Sigurvon BA-55, að búið hafi verið að laga aflamarksstöðu skipsins áður en A hélt skipinu til veiða þann 5. nóvember sl." Meðákærði staðfesti þetta fyrir dóminum. Niðurstaða: Dómari vísar til þess sem hér að framan ritað um ábyrgð skipstjóra í umfjöllun um ákæruliði A, I; A, III og A, IV. Dómari lítur svo á að það hafi verið skylda ákærða að fylgjast sjálfstætt með aflamarksstöðu skipsins; hann geti ekki borið fyrir sig að fyrirsvarsmenn útgerðarinnar hafi sagt honum að skipið hefði nægar aflaheimildir. Afli umfram heimildir samkv. þessum ákærulið er meiri en svo að ákærði geti borið fyrir sig að hann hafi ekki vitað betur en aflaheimildir væru fyrir hendi. Hann verður því sakfelldur. Þáttur ákærðu Y ehf.: Með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 57, 1996, 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 38, 1990 með áorðnum breytingum og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79, 1997 ber að sakfella þessa ákærðu fyrir brot samkvæmt þessum ákærulið. Um ákærulið A, VI Þáttur ákærða C: Ákærði neitaði sök. Hann kannaðist við að hafa verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Z ehf., sem gert hefði út Sandafell ÍS 82 á þeim tíma sem ákæruliðurinn tekur til. Hann hefði haft með það að gera að sjá til að aflaheimildir skipsins væru nægar. Hann sagði að það væri rangt að skipinu hefði verið róið dagana 7., 8. og 9. desember 2002 án þess að aflamark þess dygði fyrir afla í þessum veiðiferðum. Skipið hefði haft nægar aflaheimildir. Ákærði gaf þessar skýringar á afstöðu sinni: Hann sagði að fiskveiðistjórnunarkerfið á Íslandi byggðist á því að allir bátar sem hefðu veiðileyfi mættu veiða. Ákveðnar tegundir væru bundnar í aflamarki og aðrar ekki. Tveir þriðju væru bundnar í aflamarki, en einn þriðji ekki, og sér væri heimilt að stunda þær veiðar óheftar. Þar að auki hefði skipið haft aflamark í kvótabundnum tegundum. Ef einhverjar kvótabundnar tegundir hefðu verið veiddar, sem ekki hefði verið aflamark fyrir, þá hefði það verið lagað eftir á, eins og ráð væri fyrir gert í fiskveiðistjórnunarlögum. Færanleiki frá einni tegund til annarrar, flutningur á aflamarki fram og til baka, væri hornsteinn þeirra laga. Hvernig ætti að vera hægt að veiða ef ekki væri unnt að laga kvótastöðu, ef veiddist tegund sem ekki væri aflamark fyrir? Ákærði var spurður hvort skipið Sandafell hefði haft aflamark í þorski þegar farnar voru veiðiferðirnar 7., 8. og 9. des. 2002. Ákærði sagði: ,,Það hefur ekkert með þetta að gera." Hann sagði að hinn 4. des. 2002 hefði staðan verið þannig að skipið hefði veitt 172 kg af þorski umfram aflaheimild. Þessa stöðu hefði hann lagað 5. des., leigt 1.000 kg af þorski og 1.000 kg af ýsu. Þetta aflamark hefði verið leigt hjá Kvóta- og skipasölunni 5. des. og verið faxað til Fiskistofu 9. des. og fært þá á Sandafell, en síðan hefði þetta verið tekið af bátnum aftur, en sett síðan á hann aftur. Báturinn hefði farið til veiða 6. des. Hann kvaðst ekki lögum samkv. vera skyldugur til að eiga aflaheimildir í þorski. Samkv. 7. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna væri öllum sem hefðu veiðileyfi heimilt að veiða tegundir sem ekki væru bundnar aflamarki. Ákærða var bent á að afli umfram veiðiheimildir væri skv. ákæruliðnum 6.373 kg af þorski, svo að 1.000 kg af þorski og 1.000 kg af ýsu jafnaði ekki þá tölu. Ákærði sagði að aflamark upp á tonn í þorski og tonn í ýsu hefði að öllu venjulegu dugað í þær veiðiferðir sem ákæruliður tiltekur. Ákærði var spurður hvað hann hefði getað reiknað með miklum þorskafla í veiðiferð. Hann sagðist hafa haldið Sandafelli út til veiða frá J fyrir 7. desember, og meðalafli í veiðiferð hefði verið 600 - 700 kg samtals af öllum tegundum. Það sem gerst hefði í veiðiferðunum þremur 7. - 9. des. hefði verið, að í síðustu veiðiferðinni hefði verið reynt að fiska sandkola og ,,aukategundir". Í einu kasti hefðu þá aflast 4 - 5 tonn af þorski, frekar smáum, sem alls ekki hefði verið leitað eftir. Til þess að leiðrétta þessi mistök, sagði ákærði, að hann hefði landað öllum þessum þorski sem ,,Hafró"afla. Hann hefði merkt hann þannig við löndun um kvöldið. Fiskmarkaður hefði tekið aflann. Daginn eftir hefði allur aflinn verið seldur á uppboði. Honum hefði þá verið sagt að það hefði enginn ,,Hafró"afli verið. Hann hefði þá sagt fiskmarkaðinum að þetta væru mistök sem yrði að leiðrétta. Fiskmarkaðstjórinn hefði farið á vigtina og ætlað að leiðrétta þetta, en Fiskistofa hefði neitað. Ákærði sagði að merkimiðar mundu hafa fokið af fiskkörum. Fyrst þetta hefði ekki gengið kvaðst ákærði hafa haft annað úrræði lögum samkvæmt, að leiðrétta kvótastöðuna, og það hefði hann gert. Ákærði var spurður hvernig hann fylgdist með aflamarksstöðu skipsins. Hann sagðist gera það eins og allir aðrir, með því að fara inn á heimasíðu Fiskistofu, á Lóðsinn. Ef hann sæi að bátur sem hann gerði út hefði farið yfir aflaheimildir leigði hann þær eins fljótt og kostur væri. Hann sem útgerðarmaður gæti ekki fylgst öðruvísi með aflamarksstöðunni, þegar bátur væri að landa hér og þar út um landið. Flestar vigtir á landinu væru beintengdar Lóðsinum. Í einhverjum tilvikum kæmu upplýsingar um afla ekki inn á Lóðsinn fyrr en tveimur til þremur dögum eftir löndun. Ef það kæmi fyrir að farið væri fram úr aflaheimildum væri staðan leiðrétt eins og lög gerðu ráð fyrir. Þetta gerðu allir. Ákærði sagði að meðákærði A hefði engin afskipti haft af aflamarksstöðu skipsins. Hann hefði upplýst meðákærða um stöðuna og sagt honum að nægilegt aflamark væri á skipinu. Í málinu liggur fyrir skjal Fiskistofu (útskrift af heimasíðu 15. apríl 2003) um aflamarksfærslu af Mýrafelli ÍS 123 (1811) yfir á Sandafell ÍS 82 (1812). Aflamarkið er 1.000 kg í þorski og 1.000 kg í ýsu. Dagsetning færslunnar er 11. desember 2002. Ákærði ber að hann hafi leigt þetta aflamark 5. desember og faxað upplýsingar um leiguna til Fiskistofu 9. des. Fram hefur verið lögð skrifleg yfirlýsing Árna Guðmundssonar framkvæmdastjóra Kvóta- og skipasölunnar ehf., svo hljóðandi: ,,Hér með staðfestist að C f/h Z ehf. óskaði eftir því föstudaginn 06. des 2002 að Kvóta og skipasalan ehf. útvegaði sér aflamark í eftirfarandi fisktegundum fyrir mb Sandafell ÍS 82 sknr. 1812: Þorskur 1000 kg og ýsa 1000 kg. Sama dag tjáði undirritaður C að Kvóta og skipasalan ehf. hefði aflamark eins og um var beðið og var þetta sett í hefðbundið vinnuferli hjá Kvóta og skipasölunni ehf. Ósk um flutning var send á faxi til Fiskistofu mánudaginn 09. des 2002. Staðfesting um flutning aflamarksins barst miðvikudaginn 11. desember." Ekki hafa verið bornar brigður á framburð ákærða um þetta atriði máls né heldur á framanritaða yfirlýsingu. Þá hefur verið af hálfu ákærða lögð fram svohljóðandi yfirlýsing E sölustjóra [...] (Fiskmarkaðar [...]), dags. 19. ágúst 2003: ,,Ég undirritaður staðfesti hér með að útgerðarmaður Sandafells ÍS 82 sknr. 1812 C hafði samband við Fiskmarkað [...] þann 11 12 2002 vegna löndunar Sandafells þann 10 12 2002 til þess að athuga hvort löndunin 4900 kg þorskur hafi ekki verið viktuð sem hafró afli. Vegna veðurs þá virðist sem merkingar á hluta af körunum hafi fokið af við akstur inn í hús markaðarins þannig að þessi tiltekni afli fór ekki á hafró. Ég undirritaður reyndi að leiðrétta þetta á hafnarvog Jur en Fiskistofa bannaði leiðréttingu." Þegar skjal þetta var lagt fram í dóminum var eftirfarandi bókað í þingbók: ,,Sækjandi tekur fram að hann hafi ekki athugasemdir við þessa yfirlýsingu að því leyti sem hún tekur til þess að ákærði C hafi óskað eftir staðfestingu á því að hann hafi landað tilteknum afla sem ,,Hafróafla”. Sækjandi lítur svo á að í yfirlýsingunni felist ekki afstaða E til þess hvort þessi tiltekni afli hafi verið merktur sem ,,Hafróafli”." Niðurstaða: Dómari telur að leggja verði til grundvallar niðurstöðu um þennan ákærulið, að ákærði hafi leigt til Sandafells ÍS 82 aflamark sem numið hafi 1.000 tonn í þorski og 1.000 tonn í ýsu og að aflamarkstilfærslan hafi verið tilkynnt Fiskistofu 9. desember 2002. Einnig verði að miða við að ákærði hafi gert ráðstafanir til að afli sem nam 4.900 kg af þorski yrði landað sem svokölluðum ,,Hafró"afla, þ.e. afla hvers verðmæti legðist til Hafrannsóknastofnunar, en drægist ekki frá aflamarki skipsins, sbr. bráðabirgðákvæði nr. XXIX laga nr. 38/1990, sbr. 7. gr. laga nr. 129/2001. Athuga ber að afli umfram aflaheimildir samkvæmt ákæruliðnum var 6.373 kg af slægðum þorski. Þá ber enn að athuga að samkv. 14. gr. laga nr. 57/1996 fá útgerðarmenn og skipstjórar þrjá virka daga til að lagfæra aflastöðu skips eftir að skeyti um boðaða leyfissviptingu er sent út, þ.e.a.s. þeir hafa þrjá virka daga til þess að lagfæra aflaheimildir. Atvik máls teygja sig yfir helgi. Að öllu þessu samandregnu telur dómari að sýkna beri ákærða C af kröfum ákæruvaldsins. Þáttur ákærðu A og Z ehf.: Það leiðir af því sem hér er að framan ritað að sýkna ber þessa ákærðu af kröfum ákæruvaldsins. Heimfærsla brota samkvæmt A-hluta ákæru undir lagaákvæði Í ákæru eru brot samkvæmt þessum hluta ákæru rétt færð undir lagaákvæði. Athuga ber þó á ákærandi vísar til 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 38/1990, en rétt hefði verið að vísa til 20. gr. laganna, sbr. 195. gr. laga nr. 82/1998 og 27. gr. laga nr. 57/1996, þar sem 12. gr. laga nr. 82/2002 um breytingu á þessari lagagrein tekur ekki gildi fyrr en 1. september 2004. Um refsiábyrgð lögaðila gildir á sama hátt 1. mgr. 20. gr. a laga nr. 38/1990, sbr. 28. gr. laga nr. 57/1996. Um B-hluta ákæru Kæra L hf.: Með bréfi, dags. 27. nóvember 2001, kærði Garðar Garðarsson hrl. f.h. L hf. stjórnarmenn U ehf. (G, ákærða A og H) til ríkislögreglustjórans fyrir brot á lögum um stjórn fiskveiða og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, um umboðssvik. Málavextir voru í bréfinu sagðir þeir að þann 6. febrúar 2001 hefði U ehf., sem leigutaki, og útgerðarfélagið Haförn [ehf.], sem leigusali, gert með sér leigusamning um leigu á fiskiskipi, Gróttu RE-26. Leigutíminn hefði verið frá 12. febrúar til 12. maí 2001. Í 4. gr. samningsins hefði komið fram að einu aflaheimildirnar sem skipið leigðist með væru 10.000 kg af steinbít. Í 8. gr. hefði verið tekið fram að leigutaka væri kunnugt um uppboðsmeðferð á skipinu. Leigusamningurinn liggur frammi. Hinn 15. mars 2001 hefði kærandi, L hf., eignast Gróttu RE á nauðungaruppboði. Eftir uppboðið hefði komið í ljós að skipið hefði veitt langt umfram veiðiheimildir, og er í bréfinu vitnað til stöðubréfs Fiskistofu frá 21. maí 2001, sem rannsóknari málsins byggði á það aflayfirlit sem er grundvöllur þessa hluta ákæru. Atvikalýsing þessi er gögnum studd og verður að teljast rétt. Hinn 5. júní 2001 ritaði L hf. U ehf. bréf. Þar er sagt að Fiskistofa hefði krafist þess að leigðar yrðu þær veiðiheimildir til Gróttu sem upp á vantaði. Er þess krafist að ,,U ehf. geri nú þegar ráðstafanir til að leigja þær veiðiheimildir sem á vantar." Gefinn var frestur til 8. júní 2001. Segir í þessu bréfi að ,,eftir þann tíma mun L grípa til nauðsynlegra úrræða og eftir atvikum leigja sjálfur þær heimildir sem á vantar og krefja yður um allan kostnað . . ." Þessu bréfi svaraði lögmaður U ehf. með tölvubréfi 21. sama mán. Þar segir að U ehf. telji sér ekki skylt ,,að greiða þá kröfu sem L hf. gerir á hendur félaginu. Byggist afstaða umbj. okkar m.a. á því að félagið hafi ekki verið útgerðaraðili þess skips sem hér um ræðir þegar umræddar veiðar fóru fram. Þar að auki liggur ekki fyrir að L hafi orðið fyrir tjóni." Framburður ákærða Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar: Ákærði neitaði sök samkvæmt þessu hluta ákæru. Hann kvaðst aðspurður ekki þekkja til þess hvort aflamarksstaða skipsins Gróttu RE- 26 hefði verið svo neikvæð sem fram kemur í ákæruhlutanum. Hann kannaðist við að skipið hefði verið leigt af Haferni ehf. Hann sagði að hann og meðákærði A hefðu aldrei rætt um aflamarksstöðu skipsins. Nánar má vísa til framburðar ákærða undir ákærulið A, I hér að framan, þar sem hér er um sömu atvik að ræða. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við leigusamning um skipið Gróttu RE-26. Hann sagðist kannast við að skipið hefði verið tekið á leigu. Hann kvaðst ekki hafa komið að gerð þess samnings, ,,ekki að mig minnir," sagði hann. Hann var þá spurður hvort honum hefði verið kunnugt um að skipið hefði samkv. samningnum einungis haft aflaheimildir fyrir 10 tonn af steinbít. Hann neitaði því, sagðist ekki hafa verið klár á hvernig þessi samningur var nákvæmlega. Hann hefði ekki komið að gerð samningsins. Framburður ákærða A: Ákærði neitaði sök skv. þessum hluta ákæru. Hann kannaðist við leigusamning milli Hafarnar ehf. og U ehf. um skipið Gróttu RE-26 og að hann hefði undirritað samninginn. Hann kannaðist við að skipinu hefði fylgt til leigutakans aflamark í steinbít, 10.000 kg. Hann kvaðst ekki rengja þær magntölur sem fram koma í ákæruhlutanum um afla umfram heimildir. Hann sagði að þessi neikvæða staða aflamarks hefði fylgt skipinu til loka fiskveiðiársins. Hann sagði að engir samningar hefðu verið við leigusalann um að skipið mætti fara fram úr aflaheimildum. Ákærði var spurður hvort honum hefði verið tilkynnt um uppboðskaup L á Gróttu RE-26, eða hvort hann hefði vitað af þeim kaupum. Hann kvaðst ekki hafa vitað af þeim fyrr en eftir uppboðið, hann myndi þetta ekki nákvæmlega. Hann sagði, aðspurður, að uppboðskaupandi hefði haft samband við hann til að biðja hann að hætta veiðum eða gera aðrar ráðstafanir. Ákærði kannaðist við að L hf. hefði krafið U ehf. um að kaupa aflaheimildir á Gróttu, eftir að hann eignaðist skipið, sem U hefði ekki fallist á, vegna fjárskorts, sagði ákærði. Í B-hluta ákæru eru atvik um útgerð og veiðar Gróttu RE-26 hin sömu og lýst er í I-lið A-hluta ákæru. Þeim er hér rétt lýst. Ákærði A var stjórnarformaður U ehf. á þeim tíma sem ákæruhlutinn tekur til. Í umfjöllun um ákærulið A, I hér að framan er komist að þeirri niðurstöðu að ákærði Agnar Norðfjörð hafi í raun verið framkvæmdastjóri U ehf. á þeim tíma sem sem ákæruliðurinn tiltekur. U ehf. var útgerðaraðili skipsins, og bera ákærðu báðir ábyrgð á útgerð félagsins á umræddum tíma. Ákærðu er gefið að sök að hafa brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. Þar segir: ,,Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi." Ákærðu misnotuðu þá aðstöðu sem þeir höfðu sem stjórnendur U ehf. til að gera út skipið Gróttu RE-26, sem var í eigu annars aðila, L hf., með því að láta skipið veiða mikinn fiskafla umfram veiðiheimildir. Með þeim verknaði þeirra varð L bundinn til að leigja veiðiheimildir til skipsins, annars missti skipið veiðileyfi og eigandi mátti búast við sektum. Afli skipsins í útgerð ákærðu var svo langt umfram heimildir að óhætt er að slá því föstu að um vísvitandi ákvarðanir ákærðu var að ræða. Því telst sönnuð sök beggja ákærðu samkvæmt B-hluta ákæru. Brot þeirra er í ákæru rétt fært undir lagaákvæði. Um C-hluta ákæru Tildrög ákæru: Með bréfi, dags. 14. ágúst 2002, vísaði skattrannsóknastjóri ríkisins til efnahagsbrotdeildar ríkislögreglustjórans niðurstöðum sínum í máli ákærðu, Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar og A, vegna vanskila U ehf. og T ehf. á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti. Segir í bréfinu að tilefni rannsóknar skattrannsóknarstjóra megi rekja til ábendingar sýslumanns Snæfellinga um ætluð brot þessara skattaðila. Rannsóknin hafi hafist formlega 21. mars 2002 og ,,lokið með gerð meðfylgjandi skýrslna". Framhaldsrannsókn ríkislögreglustjórans og síðan ákæra eru byggð á rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins. Framburður ákærða A: Ákærði játaði brot sín skv. ákæruliðunum fjórum í þessum ákæruhluta. Hann sagðst þó ekki játa að fjárhæðin í ákærulið C, I, 2, ætti að nema kr. 11.323.174, heldur ætti upphæðin að vera kr. 8.347.588, vegna þess að inn á skuldina hefðu verið greiddar kr. 2.975.586, eins og fram kæmi í fram lagðri skýrslu skattrannsóknarstjóra. Ákærði var spurður um meintan þátt meðákærða Agnars Norðfjörð að brotum skv. C-hluta ákæru. Hann sagði að þeir, hann og meðákærði Agnar, hefðu verið með bókara sem séð hefði um að gera skýrslur, en þeir hefðu síðan séð um að greiða þegar peningar hefðu verið til, ef þeir hefðu verið til. Hann var þá spurður hvort meðákærði hefði þekkt stöðu mála hjá félögunumm U og T. Hann kvaðst telja það. Í skýrslu sem ákærði gaf fyrir lögreglu 16. september 2002 er haft eftir honum að hann sjálfur og meðákærði Agnar Norðfjörð hafi borið ábyrgð á fjármálastjórn og öllum skattskilum U ehf. vegna rekstartímabilsins nóvember 2001 til og með febrúar 2002. Hann bar á sama veg um T ehf. að því er varðaði rekstartímabilið mars 2001 til og með febrúar 2002. Skýrsluna staðfesti ákærði fyrir dóminum. Ákærði var þá spurður hver hefði verið með tékkhefti fyrir félögin U og T. Hann kvaðst hafa verið með það, en enginn annar. Hann kvaðst hafa séð um að greiða skatta. Um stöðu félaganna í árslok 2001 sagði ákærði að hún hefði verið erfið en þó í lagi. Hann hefði ekki gert meðákærða sérstaklega grein fyrir stöðu félaganna, en hann hefði vitað um hana. Ákærði var spurður um ástæður þess að rekstur U ehf. og T ehf. fór að ganga illa á síðari hluta ársins 2001 og á árinu 2002. Hann sagði að sumarið 2001 hefðu bátar á vegum þessara félaga fiskað vel. Þá hefði fiskur verið flakaður í svokallaðan pækil. Flökin hefðu síðan verið send suður í I til að láta lausfrysta þau. Þau hefðu verið höfð of lengi í pækli, hefðu súrnað og skemmst. Þarna hefði orðið ,,tap upp á gríðarlegar tölur", milli 30 og 40 milljónir króna. Í framhaldi af þessu hefðum ,,við" farið að selja afurðir beint til SÍF (ekki í umboðssölu). Þá hefði myndast stór skuld virðisaukaskatts. Félögin hefðu líka tapað á gjaldþroti viðskiptavina. þar hefði tapast fé sem hefði átt að nota til að leigja kvóta. Aðspurður kvaðst ákærði ekki sitja eftir með neinn hagnað af starfsemi þessara félaga, nema síður væri. Hann væri ekki orðinn gjaldþrota, en hann yrði það. Hann væri eignalaus. Framburður ákærða Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar: Ákærði neitaði sök samkvæmt öllum liðum í þessu hluta ákæru, bæði varðandi meint brot gegn lögum um virðisaukaskatt og einnig meint brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Nánar um ákærulið C, I, 1. Ákærða var bent á að hann hefði verið skráður framkvæmdastjóri U ehf. frá 17. desember 2001. Standa hefði átt skil á virðisaukaskattinum skv. þessum ákærulið 5. febrúar 2002. Ákærði kvaðst hafa verið skráður framkvæmdastjóri, en hann hefði ekki séð um daglegan rekstur og hefði ekki haft prókúra á reikninga félagsins. Hann hefði ekki vitað um skattskil félagsins. Í skýrslu sem ákærði gaf fyrir lögreglu 2. október 2002 var hann spurður hver hefði annast daglega fjármálstjórn U ehf., þ.m.t. borið ábyrgð á hvers kyns skattskilum vegna vsk-tímabilsins nóv.-des. 2001 (gjalddagi 05. febrúar 2002) og vegna launatímabilanna janúar og febrúar 2002 (á eindaga 05. febrúar og 05. mars 2002). Svar: ,,Agnar segir að eins og lög gera ráð fyrir hafi það verið framkvæmdastjórinn og stjórnarformaðurinn eða þeir Agnar og A sem hafi borið ábyrgð á fjármálstjórn félagsins og borið ábyrgð á fjármálastjórn félagsins og borið ábyrgð á hverskyns skattskilum vegna ofangreindara rekstrartímabila." Þegar þetta var borið undir ákærða vísaði hann til fyrri framburðar, um A-hluta ákæru, m.a. þessa: Hann kvaðst hafa talið að af því að hann hefði verið skráður framkvæmdastjóri á þessu ári, þá væri það samkvæmt lögum þannig að hann hefði átt að sinna daglegum rekstri og taka fjárhagslegar ákvarðanir. Um ákæruliði C, I, 2; C, II, 1 og C, II, 2 svaraði ákærði til á sama veg og um ákærulið C, I, 1. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði Hlutafélagakrár var ákærði Agnar skráður framkvæmdastjóri T ehf. samkvæmt samþykkt fundar í félaginu 17. desember 2001. Í skýrslu þeirri sem vitnað var til hér að framan, sem ákærði gaf fyrir lögreglu 2. október 2002, var hann spurður á sama veg um rekstur T ehf. og um rekstur U ehf. og gaf sömu svör: ,,Agnar segir að eins og lög gera ráð fyrir hafi það verið framkvæmdastjórinn og stjórnarformaðurinn eða þeir Agnar og A sem hafi borið ábyrgð á fjármálstjórn félagsins og borið ábyrgð á hverskyns skattskilum vegna ofangreindara rekstrartímabila." Fyrir dóminum bar ákærði ítrekað að hann hefði ekki haft með að gera fjárreiður hvorki fyrir U ehf. né T ehf. Hann hefði aldrei undirritað nein skjöl eða skuldbindingar fyrir þessi félög. Hann hefði ekki haft neinar heimildir í bankastofnunum til að skuldbinda félögin. Starfsstöð sín hefði verið, meðan hann starfaði fyrir þessi félög, á heimili sínu í K. Hann kvaðst ekki vera eigandi að hlutum í U ehf. eða T ehf. Hann hefði ekki haft með kvótaleigu að gera. Starf hans fyrir T ehf. hefði verið fólgið í fisksölu. Hann hefði sjaldan komið á vettvang félaganna á Snæfellsnesi, svona einu sinni mánuði til að kíkja á afurðir í sambandi við sölu. Þá neitaði ákærði því, aðspurður, að honum hefði verið kunnugt um fjárhagslega stöðu félaganna, þegar hann var skráður framkvæmdastjóri 17. desember 2001. Honum hefði ekki verið kunnugt um vanskil á vörslusköttum. Niðurstöður: Ákærði A hefur játað brot sín samkvæmt öllum fjórum ákæruliðunum í þessum kafla ákæru. Hann hefur þó ekki viðurkennt að vanskil sem hann ber ábyrgð á samkv. ákærulið C, I, 2, ættu að nema kr. 11. 323.174, heldur ætti upphæðin að vera kr. 8.347.588, vegna þess að inn á skuldina hefðu verið greiddar kr. 2.975.586, eins og fram kæmi í fram lagðri skýrslu skattrannsóknarstjóra. Síðasti gjalddagi þeirra greiðslna virðisaukaskatts, sem ákært er fyrir vanskil á, var 5. febrúar 2002, þ.e. gjalda fyrir desember 2001. Innágreiðslan var samkvæmt tilvitnaðri skýrslu skattrannsóknarstjóra og samantekt rannsóknara lögreglu greidd eftir þann tíma, eða 26. mars 2002. Ekki er ágreiningur um að greitt hafi verið eftir gjalddaga. Brotið var fullframið þegar ekki voru staðin skil á skattinum á gjalddaga. Sú fjárhæð sem ákærði ber ábyrgð á er því kr. 11.323.174 eins og segir í ákæru. Játning ákærða A er studd öðrum málsgögnum. Hann er sannur að sök samkvæmt öllum fjórum ákæruliðunum í C-hluta ákæru. Í umfjöllun um ákæruliði I og II í A-hluta ákæru og um B-hluta ákæru hefur ákærði Agnar Norðfjörð verið sakfelldur þar sem hann hafi sem framkvæmdastjóri í raun og skráður framkvæmdastjóri U ehf. frá 17. desember 2001 borið ábyrgð á atvinnurekstri félagsins. Greinilegt er að starfsemi og rekstur þessara tveggja félaga, U og T, hefur verið mjög samofinn. Verður því ekki hjá því komist að fella sök á ákærða Agnar Norðfjörð fyrir brot samkv. öllum fjórum ákæruliðunum í C-hluta ákæru. Brot ákærðu eru rétt færð undir lagaákvæði í ákæru. Ákvörðun refsinga Ákærði Agnar Norðfjörð Hafsteinsson hefur í dómi þessum verið sakfelldur fyrir brot samkvæmt I. og II. ákærulið A-hluta, B-hluta og öllum fjórum ákæruliðum C-hluta ákæru. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði einu sinni áður sætt refsingu, árið 1987, og hefur hún ekki áhrif hér. Niðurstaða um sakfellingu ákærða er á því byggð að hann hafi sem framkvæmdastjóri borið ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar voru f.h. hlutafélaganna U (I. og II. liður A-hluta, B-hluti og ákæruliðir I,1 og II, 1 í C-hluta ákæru) og T (ákæruliðir I, 2 og II, 2 í C-hluta ákæru), bæði þegar hann var formlega skráður sem slíkur og einnig þegar hann var það í raun án þess að vera skráður framkvæmdastjóri (ákæruliður A, I, og að nokkru leyti C-hluti ákæru). Við ákvörðun refsingar tekur þó dómari tillit til þess að telja verður upplýst að ákærði hafi ekki haft jafnvirka aðstöðu til að stjórna félögum þessum og meðákærði A. Samkvæmt skýrslu A fyrir dóminum var hann með tékkhefti fyrir félögin U og T, en enginn annar. Hann kvaðst hafa séð um að greiða skatta. Við ákvörðun refsingar verður tekið tillit til þess að brot ákærða skv. I. og II. lið A-hluta ákæru voru stórfelld og augljóslega framin af ásetningi. Hið sama gildir um C-hluta ákæru. Refsing ákærða þykir dómara hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi, og auk þess verði honum gert að greiða 18.000.000 króna sekt í ríkissjóð, en 12 mánaða fangelsi komi í stað sektar ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Ákærði A er sakfelldur fyrir brot samkvæmt I, II, III. og V. ákærulið A-hluta ákæru, B-hluta og öllum fjórum ákæruliðum C-hluta ákæru. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði tvisvar áður sætt refsingu, árin 1989 og 1993, og koma hafa þær refsingar ekki áhrif hér. Brot ákærða eru stórfelld. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi, og auk þess greiði ákærði 20.000.000 króna sekt í ríkissjóð, en 12 mánaða fangelsi komi í stað sektarinnar ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Ákærði B er sakfelldur fyrir brot samkv. IV. ákærulið A-hluta ákæru. Þessi ákærði á að baki langan sakaferil samkv. sakavottorði. Frá árinu 1984 til ársins 2001 hefur hann 15 sinnum sætt refsingu fyrir ýmis hegningarlaga- og umferðarlagabrot. Næstsíðasta refsingin var samkvæmt dómi 28. maí 1998, 90.000 króna sekt fyrir brot gegn 231. gr. almennra hegningarlaga, en síðast hlaut hann refsingu með lögreglustjórasátt 16. október 2001, 60.000 króna sekt fyrir brot gegn lögum um lögskráningu sjómanna. Brot ákærða verður að teljast stórfellt. Refsing ákærða þykir dómara hæfilega ákveðin eins mánaðar fangelsi, en rétt þykir honum að fullnustu þeirrar refsingar verði frestað, og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu þessa dóms, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Auk þessa er rétt að ákærða verði gert að greiða 600.000 króna sekt í ríkissjóð, en 56 daga fangelsi komi í stað sektarinnar, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Ákærði Margeir Jóhannesson er sakfelldur fyrir brot samkvæmt I. og III. ákærulið A-hluta ákæru. Hann hefur fjórum sinnum áður sætt refsingu, þar af þrisvar á árabilinu 1977 til 1985, en þær refsingar skipta ekki máli hér. Hinn 25. janúar 2002 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Vestfjarða, 1.200.000 króna sekt fyrir brot gegn 4. gr. og G-lið 5. gr., sbr. 16. gr. laga nr. 79/1997, og 1. mgr. 4. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 38/1990. Ekki liggur fyrir að í því máli hafi verið um ásetningsbrot að ræða. Refsing ákærða Margeir þykir dómara hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi, en rétt þykir að fullnustu þeirrar refsingar verði frestað og að hún falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu þessa dóms, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Auk þessa greiði ákærði 800.000 króna sekt í ríkissjóð, en 72ja daga fangelsi komi í stað sektarinnar, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms. Ákærði D er sekur fundinn um brot samkvæmt IV. og V. lið A-hluta ákæru. Hann á að baki langan sakferil skv. sakavottorði, frá árinu 1960 til ársins 1988, sem ekki kemur hér til álita. En eftir það tímabil hefur hann einu sinni verið dæmdur til refsingar, í 70.000 króna sekt fyrir brot á lögum nr. 35/1993, lögum nr. 112/1984 og lögum nr. 40/1977. Dómara þykir refsing ákærða D hæfilega ákveðin 800.000 króna sekt í ríkissjóð, en 72ja daga fangelsi komi í hennar stað, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Einkahlutafélögin V, Y og X hafa öll verið sakfelld með vísan 24. gr. laga nr. 57/1996, 20. gr. a laga nr. 38/1990 með áorðnum breytingum, og 18. gr. laga nr. 79/1997. Hæfilegt þykir að þeim verði hverju fyrir sig ákvörðuð sekt í ríkissjóð að fjárhæð kr. 400.000. Um D-lið ákæru, kröfur um upptöku, bótakrafa Með vísan til þeirra lagaákvæða sem tilgreind eru í ákæru ber dómara að verða við kröfum ákæranda um upptöku þess ávinnings sem ákærðu, þeir sem sakfelldir hafa verið, hafa haft af brotum í máli þessu. Fiskafli verður ekki gerður upptækur, og ber að leggja til grundvallar matsgerð hins dómkvadda matsmanns, enda hefur hún í engu verið rengd. Í sóknarræðu sinni gat sækjandi þess að rétt væri að leggja til grundvallar nettóverð afla fremur en brúttóverð, skv. matsgerð, og verður svo gert. Niðurstöður um upptöku verða hér raktar í sömu röð og ákæruliðir í D-hluta ákæru. Ekki eru að mati dómara rök til þess að vísa frá dómi upptökukröfum á hendur ákærða Margeiri Jóhannessyni samkv. kröfu verjanda hans, sbr. I. og III. lið D-hluta ákæru. Við málflutning var því hreyft af hálfu ákærðu D, B og V ehf. að upptaka vegna afla umfram aflaheimildir samkvæmt IV. ákærulið í A-hluta ákæru hefði þegar farið fram. Meðal gagna málsins er bréf Fiskistofu til V ehf. vegna Storms SH 333 (586) þar sem tilkynnt er um álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla á fiskveiðiárinu 1. september 2001 til 31. ágúst 2002, skv. 2. mgr. 1. gr., 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga nr. 37/1992. Gjaldið er að fjárhæð kr. 20.086.234. Forstöðumaður lögfræðisviðs Fiskistofu, Kjartan Sólberg Júlíusson, kom fyrir dóminn sem vitni. Hann var spurður um þetta gjald. Hann sagðist, aðspurður, halda að þetta gjald hefði ekki farið í innheimtu, en væri þó ekki viss um það. Greiðsla hefði ekki borist, en hann gæti ekki svarað því hvort farið hefði verið með málið í aðfarargerð. Hann sagði að þarna væri um að ræða gjald vegna ólögmæts sjávarafla Storms í lok fiskveiðiárs. Dómari lítur svo á að álagning þessa sérstaka gjalds skipti ekki máli hér, hvort sem gjaldið hefur verið innheimt eða ekki. Beiting dómara á fyrirmælum 2. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997 hljóti að vera óháð slíkri stjórnvaldsekt. Afstaða dómara til krafna ákæruvaldsins um upptöku er þessi: I. Dæma ber ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson, A og Margeir Jóhannesson til að sæta in solidum upptöku á andvirði 80.299 kg af slægðum þorski, 43.382 kg af slægðri ýsu, 763 kg af slægðum skarkola og 764 kg af slægðri þykkvalúru og sólkola, samtals kr. 16.613.989. II. Dæma ber ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson og A til að sæta in solidum upptöku á andvirði 114.965 kg af slægðum þorski, 1.177 kg af slægðri ýsu, 1.042 kg af slægðum steinbít, 1.104 kg af slægðum skötusel og 4.497 kg af slægðum skarkola, samtals kr. 28.587.469. III. Dæma ber ákærðu A, Margeir Jóhannesson og X ehf. til að sæta in solidum upptöku á andvirði 7.646 kg af slægðum þorski, 1.227 kg af slægðri ýsu, samtals kr. 2.080.273. Einnig ber að dæma ákærðu Margeir og X ehf. in solidum til að sæta upptöku á andvirði 66.198 kg af slægðum þorski og 45.184 kg af slægðri ýsu, samtals kr. 26.864.854. Þar sem ákærði D hefur verið sýknaður af ákærulið A, III, verður hann og sýknaður af upptökukröfu skv. þessum lið. IV. Dæma ber ákærðu B, D og V ehf. til að sæta in solidum upptöku á andvirði 118.806 kg af slægðum þorski og 4.046 kg af slægðum skarkola, samtals kr. 23.131.392. V. Dæma ber ákærðu A, D og Y ehf. til að sæta in solidum upptöku á andvirði 14.641 kg af slægðum þorski, 3.844 kg af slægðri ýsu, 408 kg af slægðum ufsa, 1.154 kg af slægðum karfa og 223 kg af slægðri þykkvalúru, samtals kr. 3.990.232. VI. Þar sem ákærðu A, C og Z ehf. hafa verið sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt ákærulið A, VI, verða þeir sýknaðir af upptökukröfu samkv. þessum lið. Bótakrafa: Lögmaður bótakrefjanda, L hf., kom fyrir dóminn og skýrði bótakröfuna á hendur ákærða A. Lögmaðurinn lækkaði bótakröfuna, þannig að höfuðstóll verður kr. 13.669.035. Krafist er dráttarvaxta frá 1. júlí 2001. Auk þess er krafist innheimtukostnaðar, kr. 613.609. Um atvik máls vísast til umfjöllunar um B-hluta ákæru hér framar í dóminum. Í greinargerð bótakrefjanda fyrir bótakröfunni segir að hún styðjist einkum við sakarregluna og aðrar almennar reglur skaðabótaréttar innan og utan samninga. Með því að veiða langt umfram lögbundnar heimildir hafi kærðu [stjórn U ehf. Innskot dómara.] skuldbundið kæranda, þ.e. L hf., fjárhagslega. Fiskistofa hafi krafist þess að leigðar yrðu þær heimildir sem upp á vantaði, og þar sem kærðu hafi ekki sinnt ósk kæranda um að leigja þær veiðiheimildir sem á vantaði, hafi kærandi verið nauðbeygður til að kaupa þær sjálfur. Kærðu hafi verið fullljóst að greiða þyrfti fyrir veiðar umfram heimildir og U ehf. hafi notið alls hagnaðar af veiðum umfram heimildir. Dómari telur að bótakrefjandi hafi sýnt fram á að ákærði A hafi valdið bótakrefjanda tjóni með ólögmætri og saknæmri háttsemi. Um fjárhæð bótakröfu er ekki deilt. Verður ákærði A dæmdur til að greiða L hf. bótakröfuna svo sem hún er fram sett. Krafist er innheimtukostnaðar. Dómari fellst á þá kröfu og þykir hæfilegt að dæmdar verði kr. 100.000 í innheimtukostnað. Sakarkostnaður Dæma ber ákærðu, þá er sakfelldir hafa verið, til að greiða sakarkostnað svo sem hér segir: Ákærði Agnar Norðfjörð Hafsteinsson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., sem skulu vera 320.000 krónur auk virðisaukaskatts. Ákærði A greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., sem skulu vera 370.000 krónur auk virðisaukaskatts. Er þá tekið tillit til réttargæslu verjanda við rannsókn fyrir lögreglu. Ákærðu B og D og einkahlutafélögin V, Y og X greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., sem skulu vera 400.000 krónur auk virðisaukaskatts, og er þá tekið tillit til réttargæslu verjanda við rannsókn fyrir lögreglu. Ákærði Margeir Jóhannesson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar hdl., 300.000 krónur auk virðisaukaskatts. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu C og Z ehf., Guðmundar Óla Björgvinssonar hdl., skulu vera 300.000 krónur auk virðisaukaskatts, og skulu þau greiðast úr ríkissjóði. Allur annar sakarkostnaður greiðist þannig: Ákærði A greiði 1/3 hluta, en 2/3 hlutar greiði óskipt ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson, Margeir Jóhannesson, B, D og einkahlutafélögin V, Y og X. Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm. D Ó M S O R Ð Ákærði Agnar Norðfjörð Hafsteinsson sæti þriggja mánaða fangelsi. Ákærði greiði 18.000.000 króna sekt í ríkissjóð, en 12 mánaða fangelsi komi í stað sektar ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Ákærði A sæti 6 mánaða fangelsi. Ákærði greiði 20.000.000 króna sekt í ríkissjóð, en 12 mánaða fangelsi komi í stað sektarinnar ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Ákærði er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt VI. lið í A-hluta ákæru. Ákærði Margeir Jóhannesson sæti tveggja mánaða fangelsi, en fullnustu þeirrar refsingar skal fresta og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu þessa dóms, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði 800.000 króna sekt í ríkissjóð, en 72ja daga fangelsi komi í stað sektarinnar, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms. Ákærði B sæti eins mánaðar fangelsi, en fullnustu þeirrar refsingar skal fresta, og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu þessa dóms, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði 600.000 króna sekt í ríkissjóð, en 56 daga fangelsi komi í stað sektarinnar, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Ákærði D greiði 800.000 króna sekt í ríkissjóð, en 72ja daga fangelsi komi í hennar stað, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Ákærði er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt III. lið A-hluta ákæru. Ákærðu C og Z ehf. eru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins á hendur þeim í þessu máli. Ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson, A og Margeir Jóhannesson sæti in solidum upptöku á andvirði 80.299 kg af slægðum þorski, 43.382 kg af slægðri ýsu, 763 kg af slægðum skarkola og 764 kg af slægðri þykkvalúru og sólkola, samtals kr. 16.613.989. Ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson og A sæti in solidum upptöku á andvirði 114.965 kg af slægðum þorski, 1.177 kg af slægðri ýsu, 1.042 kg af slægðum steinbít, 1.104 kg af slægðum skötusel og 4.497 kg af slægðum skarkola, samtals kr. 28.587.469. Ákærðu A, Margeir Jóhannesson og X ehf. sæti in solidum upptöku á andvirði 7.646 kg af slægðum þorski, 1.227 kg af slægðri ýsu, samtals kr. 2.080.273. Ákærðu Margeir Jóhannesson og X ehf. sæti in solidum upptöku á andvirði 66.198 kg af slægðum þorski og 45.184 kg af slægðri ýsu, samtals kr. 26.864.854. Ákærðu B, D og V ehf. sæti in solidum upptöku á andvirði 118.806 kg af slægðum þorski og 4.046 kg af slægðum skarkola, samtals kr. 23.131.392. Ákærðu A, D og Y ehf. sæti in solidum upptöku á andvirði 14.641 kg af slægðum þorski, 3.844 kg af slægðri ýsu, 408 kg af slægðum ufsa, 1.154kg af slægðum karfa og 223 kg af slægðri þykkvalúru, samtals kr. 3.990.232. Ákærði D á að vera sýkn af kröfu ákæruvaldsins um upptöku samkvæmt III. lið í D-hluta ákæru. Ákærðu A, C og Z ehf. eiga að vera sýknir af kröfum ákæruvaldsins um upptöku samkvæmt VI. lið í D-hluta ákæru. Ákærði A greiði L hf. kr. 13.669.035 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags og kr. 100.000 í innheimtukostnað. Ákærði Agnar Norðfjörð Hafsteinsson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 320.000 krónur auk virðisaukaskatts. Ákærði A greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., 370.000 krónur auk virðisaukaskatts. Ákærðu B, D og einkahlutafélögin V, Y og X greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 400.000 krónur auk virðisaukaskatts. Ákærði Margeir Jóhannesson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar hdl., 300.000 krónur auk virðisaukaskatts. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu C og Z ehf., Guðmundar Óla Björgvinssonar hdl., 300.000 krónur auk virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 15/2020 | Hlutdeild Nauðgun Ómerking dóms Landsréttar Samning dóms Sératkvæði | X var ákærð fyrir hlutdeild í nauðgun meðákærða Y samkvæmt 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Y lést áður en aðalmeðferð málsins fór fram í héraði og var það því fellt niður á hendur honum. Með héraðsdómi var X sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgunarbroti og dæmd í 2 ára fangelsi en dómurinn taldi að hlutdeild X hefði verið af ásetningi og falist bæði í athöfn og afhafnaleysi. Með dómi Landsréttar var X sýknuð af ákærunni þar sem talið var að X yrði ekki dæmd sek um hlutdeild í nauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa einungis horft á samskipti Y og A. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að Landsréttur hefði látið hjá líða að taka rökstudda afstöðu til þess ákæruatriðis er laut að því hvort telja hefði að X hefði veitt atbeina sinn að ætluðu nauðgunarbroti Y með því að liggja við hlið hans og A meðan á kynferðismökum stóð þannig að félli undir verknaðarlýsingu 194. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940. Þá kom fram að í röksemdum hins áfrýjaða dóms hefði hvorki farið fram mat á fyrirliggjandi upplýsingum um þroskahömlun A og þýðingu hennar við úrlausn málsins né að tekin hefði verið afstaða til þess hvort máli skipti í því samhengi að atvik hefðu gerst í lokuðu herbergi á heimili Y og X. Einnig yrði ekki séð að við mat á sakargiftum í dóminum hefði verið tekin afstaða til þýðingar þess liðsmunar sem Y hefði skapað gagnvart A með nærveru sinni. Var því talið af röksemdum í dóminum yrði ekki ráðið að fram hefði farið heildarmat á þeim atvikum sem sönnuð þótti og aðstæðum eins og þeim hefði verið lýst í ákæru við úrlausn um hvort háttsemi X uppfyllti við þær aðstæður lágmarksskilyrði hlutdeildar í nauðgunarbroti. Hefðu því með hinum áfrýjaða dómi ekki verið uppfyllt skilyrði f. liðar 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var af þessum sökum talið óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur BörkurÞorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon og Helgi I. Jónsson fyrrverandihæstaréttardómari.Ríkissaksóknariskaut málinu til Hæstaréttar 1. apríl 2020. Ákæruvaldið krefst þess að „ákærðaverði sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgun meðákærða, sbr. ákærulið 1, samkvæmtþeirri verknaðarlýsingu ákæruliðar 2 að hafa veitt meðákærða liðsinni í verkimeð því að hafa legið við hlið meðákærða og brotaþola og horft á, á meðanmeðákærði braut gegn brotaþola.“ Ákærða krefstaðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að henni verði gerðvægasta refsing sem lög heimila og sú refsing verði bundin skilorði.IMeð 1. lið ákæruhéraðssaksóknara 22. febrúar 2018 var Y gefin að sök nauðgun með því að hafa aðkvöldi sunnudagsins 2. október 2016 á heimili sínu og ákærðu látið brotaþola, A,hafa við sig munnmök, stungið fingri inn í leggöng hennar og haft við hanasamræði um leggöng en Y hefði notfært sér yfirburðastöðu sína og aðstöðumungagnvart brotaþola sem væri þroskahömluð og verið ein og mátt sín lítils gegnhonum og ákærðu í lokuðu herbergi, undir áhrifum lyfja og/eða vímuefna, lömuðaf hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugum stað. Í 2. töluliðákærunnar var ákærðu gefin að sök hlutdeild í broti Y, samkvæmt 1. liðákærunnar, með því að hafa veitt honum liðsinni í verki með því að gefabrotaþola óþekkta töflu og láta hana reykja kannabisefni sem brotaþoli hefði sagthafa sljóvgað sig, legið við hlið Y og brotaþola og horft á og fróað sér meðan Ybraut gegn brotaþola. Var háttsemi Y heimfærð undir 1. og 2. mgr. 194. gr.almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007 og háttsemiákærðu undir sömu ákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna.IIVið þingfestingumálsins í héraði 27. mars 2018 neituðu bæði Y og ákærða sök. Y lést 11. apríl2018, áður en aðalmeðferð málsins fór fram í héraði og var það fellt niður áhendur honum með vísan til a. liðar 1. mgr. 170. gr. laga nr. 88/2008 ummeðferð sakamála. Með héraðsdómivar ákærða sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgunarbroti og dæmd í 2 ára fangelsi,jafnframt því sem henni var gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.000.000krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Framburður brotaþola, sem talinn var hafastuðning í framburði vitna og að hluta til í framburði ákærðu sjálfrar, var lagðurtil grundvallar niðurstöðunni, en framburður ákærðu á hinn bóginn metinnótrúverðugur um ýmis atriði er máli þóttu skipta. Sagði í dóminum að hlutdeildákærðu hefði verið af ásetningi og falist bæði í athöfn og athafnaleysi.Ákærðu, sem þekkt hefði brotaþola, hefði borið að reyna að koma í veg fyrir aðhöfð yrðu kynferðismök við hana við þær aðstæður sem um ræðir. Þess í staðhefði hún stuðlað að þeim með nánar tilgreindri háttsemi sinni gagnvartbrotaþola sem hefði verið ein og upp á ákærðu og Y komin. 2Við meðferðmálsins fyrir Landsrétti féll ákæruvaldið frá þeirri verknaðarlýsingu í ákæruað ákærða hefði veitt Y liðsinni í verki með því að láta brotaþola reykjakannabisefni. Með dómi Landsréttar 14. febrúar 2020 var ákærða sýknuð af kröfuákæruvaldsins og einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá héraðsdómi. Kom fram ídóminum að ósannað væri að ákærða hefði gefið brotaþola töflu sem leitt hefðitil þess að hún hefði orðið mjög sljóvguð. Gegn neitun ákærðu væri einnig ósannaðað hún hefði fróað sér á meðan Y hefði haft kynferðismök við brotaþola. Því kæmieinungis til skoðunar hvort ákærða hefði gerst sek um hlutdeild í nauðgunsamkvæmt 1. lið ákæru með því að hafa horft á Y brjóta gegn brotaþola, eins ogkomist væri að orði í 2. lið ákærunnar. Til að sakfellt yrði fyrir hlutdeild ínauðgunarbroti fyrir slíkt athafnaleysi, yrði að lágmarki að liggja fyrir aðákærða hefði áður átt virkan þátt í að koma brotaþola í þá stöðu að Y hefðigetað brotið gegn henni. Hjá lögreglu og fyrir dómi hefði brotaþoli aftur ámóti borið að það hefði verið Y en ekki ákærða sem boðið hefði sér heim oglátið aka sér þangað. Því yrði ákærða ekki dæmd sek um hlutdeild ínauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa horft á samskipti Y ogbrotaþola. 3Áfrýjunarleyfi ímálinu var veitt á þeim grunni að líta yrði svo á að úrlausn um beitingu ákvæða1. og 2. mgr. 194. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga myndi hafaverulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. IIIÁkæruvaldið færir þau rökfyrir kröfu sinni um sakfellingu ákærðu hér fyrir dómi að Landsréttur hafi meðöllu litið fram hjá mikilsverðum atriðum, bæði er varðar ákæruefnið og hvaðtelja megi sannað í málinu. Þannig yrði til að mynda hvorki séð að lagt hafi veriðmat á fyrirliggjandi upplýsingar um þroskahömlun brotaþola né þá ólögmætunauðung sem lýst sé í 1. lið ákæru um að Y hafi notfært sér yfirburði sína ogaðstöðumun gagnvart brotaþola sem sé þroskahömluð og hafi mátt sín lítils bæðigegn honum og ákærðu við nánar tilgreindar aðstæður. Þá hafi Landsréttur ekkivikið að því að ákærðu sé ekki einungis gefið að sök að hafa horft á Y hafasamræði við brotaþola heldur hafi hún jafnframt legið við hlið þeirra. Hafi nærverahennar við þessar aðstæður verið til þess fallin að auka liðsmun Y gegnbrotaþola og því verið þáttur í þeirri ólögmætu nauðung sem brotaþoli hafi veriðbeitt. Þannig hafi ákærða veitt liðsinni í verki við hina ólögmætu nauðung semákært er fyrir. Auk þessa hafi Landsrétturlátið hjá líða að víkja að þroskahömlun brotaþola og vitneskju ákærðu um hana.Ekki verði fallist á þá ályktun dómsins að til þess að ákærða hafi getað talisthlutdeildarmaður hafi hún þurft að eiga virkan þátt í að koma brotaþola í þástöðu að Y gæti brotið gegn henni. Matskennt sé hvernig fara eigi með athafnaleysimanns sem viðstaddur sé refsiverðan verknað. Um sé að ræða rýmkaða refsiábyrgðog í reynd séu engin lágmarksskilyrði fyrir því að hlutdeildarbrot teljist hafaverið framið. Hafi Landsréttureinnig litið fram hjá framburði ákærðu um að hún hafi greitt fyrir aksturbrotaþola að heimili þeirra Y umrætt kvöld og um talsverða þátttöku ákærðu íþví kynferðisbroti sem um ræði. Loks verði að líta til þess að ákærða hefði meðeinföldum hætti getað afstýrt brotinu.2Krafa ákærðu um staðfestinguhins áfrýjaða dóms er einkum reist á því að sönnunargildi munnlegs framburðarverði ekki endurmetið fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.Eftir standi því það eina ákæruatriði að ákærða hafi veitt Y liðsinni í verkimeð því að liggja við hlið hans og brotaþola og horfa á það sem gerðist milliþeirra. Sú nærvera ákærðu verði á hinn bóginn ekki talin vera liðsinni í verkiog ekki þáttur í nauðung í garð brotaþola, auk þess sem vafasamt sé að fullyrðaað Y hafi þvingað brotaþola til kynmaka við sig. Ákæruvaldinu hafi heldur ekki tekistsönnun um að þroskahömlun brotaþola hafi verið með þeim hætti að áhrif skulihafa á niðurstöðu máls. Þá hafi ákærða ekki vitað fyrir fram að til stæði að brotaþolikæmi á heimili hennar en hún hefði greitt fyrir akstur brotaþola þangaðsamkvæmt fyrirmælum Y. Hafa verði í huga að Y hafi beitt ákærðu bæði andlegu oglíkamlegu ofbeldi í sambúð þeirra. Loks verði að líta til þess að þau atriðisem ákæruvaldið tilgreini til stuðnings sakfellingu ákærðu, svo sem greiðslaákærðu fyrir akstur eða spurning hennar til brotaþola um hvort hún mætti sjálfsnerta brotaþola, séu ekki meðal þeirra atriða sem greint sé frá í ákæru. Meðvísan til 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 komi því ekki til álita að dæmaákærðu seka um hlutdeildarbrot á grundvelli þeirrar ætluðu háttsemi.IVÍ 1.mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga kemur fram að hafi refsilöggjöf breyst fráþví að verknaður var framinn til þess er dómur gengur, skuli dæma eftir nýrrilögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Aldrei má þó dæma refsingu,nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngrirefsingu en orðið hefði eftir þeim lögum. Með lögum nr. 16/2018, sem tóku gildi 12. apríl 2018, voruákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga færð í það horf sem nú er. Í 1. mgr.greinarinnar segir að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann ánsamþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skuli sæta fangelsi ekki skemur en 1ár og allt að 16 árum. Telst samþykki liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsumvilja en ekki ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung.Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrumsambærilegum hætti. Þá segir í 2. mgr. 194. gr. að einnig teljist nauðgun, ogvarði sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr., að beita blekkingum eðanotfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðraandlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök,eða þannig væri ástatt um hann að öðru leyti að hann gæti ekki spornað viðverknaðinum eða skilið þýðingu hans. Á þeim tíma er atvik málsgerðust sagði í 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga að hver sem hefðisamræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eðaannars konar ólögmætri nauðung gerðist sekur um nauðgun og skyldi sæta fangelsiekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis teldist sviptingsjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Þá sagði í 2.mgr. greinarinnar að það teldist einnig nauðgun og varðaði sömu refsingu ogmælt væri fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlunmanns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig væriástatt um hann að öðru leyti að hann gæti ekki spornað við verknaðinum eðaskilið þýðingu hans. Í 1. mgr. 22. gr. almennrahegningarlaga er almennt ákvæði um hlutdeild í brotum samkvæmt ákvæðum laganna,öðrum en þeim sem hafa að geyma sjálfstæðar og sérhæfðar hlutdeildarheimildir.Þar er kveðið á um að hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki,fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt almennumhegningarlögum er framið, skuli sæta þeirri refsingu, sem við brotinu er lögð.Í 2. mgr. sömu greinar er að finna frjálsar heimildir til refsilækkunar hlutdeildarmannssamkvæmt greininni, ef aðstæður eða atvik gefa tilefni til, svo sem að þátttakahlutdeildarmanns í broti er smávægileg eða er fólgin í því að styrkja áformannars manns, sem áður er til orðið, eða fyrirhuguðþátttaka hefur misheppnast. Þá er í 3. mgr. greinarinnar heimild til refsibrottfalls efmanni hefur af gáleysi orðið á að taka þátt í broti sem á undir hegningarlagaákvæðiþar sem ekki er sett þyngri refsing en fangelsi allt að einu ári. Loks eru í 4.mgr. greinarinnar reglur um hlutdeild eftir að brot hefur verið fullframið, semfelast þarf í að veita brotamanni eða öðrum liðsinni til þess að halda viðólögmætu ástandi, sem skapast hefur fyrir brotið eða njóta hagnaðar af því,enda taki önnur ákvæði laga ekki til verknaðar hlutdeildarmanns. Í athugasemdum í greinargerðmeð frumvarpi sem varð að almennum hegningarlögum segir að í 1. mgr. 22. gr. ségert ráð fyrir því sem almennri reglu að þegar fleiri en einn maður vinni samanað framkvæmd brots, skuli sök hvers um sig metin sjálfstætt eftir afstöðu hversum sig til brotsins eða tilraunar til þess. Þá geti refsing hvers þátttakandaum sig orðið misjöfn eftir atvikum. Eins og að framan greinir erhlutdeild samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga fólgin í þátttökumanns í afbroti, sem lýst er annars staðar í þeim lögum, og ræðst hún eðlimálsins samkvæmt talsvert af verknaðarlýsingu þess afbrots og fullframningarstigi.Hlutdeildarbrot er sjálfstætt brot þótt ekki sé tilgreint með tæmandi hætti í 1.mgr. 22. gr. hvaða háttsemi fella beri undir ákvæðið, heldur eru þess í stað nefndnokkur dæmi um hana. Þá kunna atvik að vera með þeim hætti að sakfellt verðifyrir hlutdeildarverknað óháð refsiábyrgð aðalmanns, en ásetningur tilhlutdeildar verður að öllu jöfnu að standa til þess að brotið verði fullframiðþrátt fyrir að atbeini hlutdeildarmanns lúti einungis að undirbúningsstigibrots. Samkvæmt framansögðu erlýsing 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga víðtæk um þá háttsemi sem falliðgetur undir ákvæðið. Þannig er hlutdeild hvorki skilgreind né bundin þátttöku íundirbúningi brots eða skipulagningu og getur hún jafnvel falist í þátttöku semekki er skaðleg eða hættuleg í sjálfu sér en tengist refsinæmum aðalverknaði ogverður refsiábyrgð fyrir hlutdeild ákvörðuð sjálfstætt. Hlutdeildarbrot þarfekki að vera afgerandi þáttur í því hvort refsiverður verknaður er framinn heldurgetur nægt, eins og áður segir, að styrkja áform annars manns sem áður eru tilorðin, sbr. 2. mgr. 22. gr. Getur hlutdeild í einhverjum tilvikum verið fólginí athafnaleysi en eðli málsins samkvæmt felst hún alla jafna í athöfn í verkieða orði, sbr.meðal annars til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 4. febrúar1993 í máli nr. 422/1992, sem birtur er í dómasafni réttarins árið 1993 áblaðsíðu 198, 12. desember 2002 í máli nr. 328/2002 og 24. janúar 2008 í málinr. 354/2007. VNiðurstaða hinsáfrýjaða dóms er einkum reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðuog vitna, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr.215. gr. laga nr. 88/2008. Tekur kröfugerð ákæruvalds hér fyrir dómi mið af því.Með vísan til 1. mgr. 180.gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða ekki sakfelld fyrir aðra háttsemi en greinirí ákæru. Á hinn bóginn verður við mat á því hvort sú háttsemi sem lýst er íákæru teljist sönnuð að líta til annarra atriða sem kunna að vera henni tilstuðnings og hvílir sönnunarbyrði um þau á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laganna.Eins og að framan greinir erhlutdeild samkvæmt 22. gr. almennra hegningarlaga fólgin í þátttöku í afbrotisem lýst er annars staðar í þeim lögum og ræðst inntak hlutdeildarverknaðarmjög af verknaðarlýsingu þess afbrots. Ræðst því mat á þeirri háttsemi ákærðu,sem ákært er fyrir, af verknaðarlýsingu 194. gr. laganna. Ekki vartiltekið í hinum áfrýjaða dómi hvort háttsemi Y hefði mátt fella undir ákvæði 194.gr. almennra hegningarlaga eða hverju úrlausn um það skyldi varða við mat á þvíhvort ákærða hefði gerst sek um hlutdeildarbrot. Verður úrlausn hins áfrýjaðadóms skilin svo að sönnuð háttsemi ákærðu hafi ekki nægt til sakfellingarhennar, óháð mati á atferli Y gagnvart brotaþola. Á hinn bóginn lét dómurinn hjá líða að taka rökstudda afstöðutil þess ákæruatriðis er laut að því hvort telja yrði að ákærða hefði veittatbeina sinn að ætluðu nauðgunarbroti Y með því að liggja við hlið hans ogbrotaþola meðan á kynferðismökum stóð, þannig að félli undir verknaðarlýsingu 194.gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Í því sambandi var heldurekki tekin afstaða til þess hvort ákærða vissi um þroskaskerðingu brotaþola, ogeftir atvikum til þýðingar þeirrar skerðingar við mat á aðstæðum, eða umtilefni þess að brotaþola var boðið á heimili hennar og Y. Í dóminum var jafnframtlátið hjá líða að taka afstöðu til þess hvort sú skírskotun í 2. ákærulið til1. ákæruliðar um „hlutdeild í nauðgun samkvæmt 1. ákærulið“ varðaði einhverjufyrir niðurstöðu málsins. Við mat á því hvort ákærða hefði gerst sek umhlutdeild í nauðgun var þannig ekki tekin afstaða til þeirrar aðstöðu sem lýster í 1. lið ákæru að Y „notfærði sér yfirburða stöðu sína og aðstöðumun gagnvartA sem er þroskahömluð og að hún var ein og mátti sín lítils gegn honum ogmeðákærðu X í lokuðu herbergi ... lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugumstað.“ Um nauðsyn þess að slíkt mat færi fram ber að líta tilefnisinntaks þágildandi 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 2. gr.laganna, að til ofbeldis teljist svipting sjálfræðis með innilokun og að þaðteljist nauðgun að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns tilþess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hannað öðru leyti að hann geti ekki spornað við verknaðinum. Eins og að framangreinir varð ekki breyting á ákvæði 194. gr. að þessu leyti með lögum nr.16/2018.Samkvæmt framansögðuverður hvorki séð að í röksemdum hins áfrýjaða dóms komi fram mat áfyrirliggjandi upplýsingum um þroskahömlun brotaþola og þýðingu hennar viðúrlausn málsins né að tekin hafi verið afstaða til þess hvort máli skipti í þvísamhengi að atvik urðu í lokuðu herbergi á heimili Y og ákærðu, sem lá við hliðhans og brotaþola meðan kynferðismök áttu sér stað, eins og segir í ákæru. Þáverður ekki séð að við mat á sakargiftum hafi í dóminum verið tekin afstaða tilþýðingar þess liðsmunar sem ákærða hafi skapað gagnvart brotaþola með nærverusinni við þessar aðstæður. Af röksemdum í dóminumverður þannig ekki ráðið að fram hafi farið heildarmat á þeim atvikum semsönnuð þóttu og aðstæðum eins og þeim var lýst í 1. lið ákæru við úrlausn umhvort sönnuð háttsemi ákærðu uppfyllti við þessar aðstæður lágmarksskilyrðihlutdeildar í nauðgunarbroti því sem lýst er í 1. lið ákæru. Með hinum áfrýjaða dómi voruþví ekki uppfyllt skilyrði f. liðar 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr., laga nr.88/2008 um röksemdir fyrir niðurstöðu. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinnáfrýjaða dóm, án kröfu, og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðarog dómsálagningar á ný.Ákvörðun um sakarkostnaðbíður nýs dóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur áríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, semákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði. Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur erómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar ogdómsálagningar að nýju.Allur áfrýjunarkostnaðurgreiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu,Björgvins Jónssonar lögmanns, 800.000 krónur. SératkvæðiBenedikts Bogasonar og Helga I. JónssonarVið erum ósammála meirihluta dómenda um niðurstöðu málsins afeftirfarandi ástæðum:IÍ máli þessu var ákærðu gefin að sök hlutdeild í nauðgunarbroti Ysamkvæmt 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940 að kvöldi 2.október 2016 á heimili sínu og Y með því að hann hefði látið A hafa við sigmunnmök, stungið fingri inn í leggöng hennar og haft við hana samræði umleggöng. Hefði Y notfært sér yfirburðastöðu sína og aðstöðumun gagnvartbrotaþola, sem væri þroskahömluð, og að hún hefði mátt sín lítils gegn honum ogákærðu í lokuðu herbergi, undir áhrifum lyfja og/eða vímuefna, lömuð af hræðsluog fjarri öðrum á ókunnugum stað. Ákærðu var gefin að sök hlutdeild eftir 1.mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga í framangreindri háttsemi Y með því aðveita honum liðsinni í verki með því að gefa brotaþola óþekkta töflu og látahana reykja kannabisefni, sem brotaþoli kveðst hafa orðið mjög sljóvguð af,legið við hlið brotaþola og Y og horft á og fróað sér á meðan hann braut gegnbrotaþola. Y lést 10. apríl 2018, fyrir aðalmeðferð málsins í héraði, og varmálið á hendur honum fellt niður samkvæmt heimild í a. lið 1. mgr. 170. gr.laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.Með héraðsdómi var ákærða sakfelld samkvæmt ákæru og gert að sætafangelsi í 2 ár. Í greinargerð ákæruvaldsins fyrir Landsrétti var fallið fráþeirri verknaðarlýsingu í ákæru að ákærða hefði veitt Y liðsinni í verki meðþví að láta brotaþola reykja kannabisefni. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærðasýknuð af ákærunni. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að með hliðsjón afmisvísandi framburði brotaþola væri ósannað að ákærða hefði gefið henni töflusem leitt hefði til þess að hún hefði orðið mjög sljóvguð. Þá væri ósannað gegnneitun ákærðu að hún hefði fróað sér á meðan Y hafði samfarir við brotaþola.Kæmi því einungis til skoðunar hvort ákærða hefði gerst sek um hlutdeild ínauðgun með því að hafa horft á meðan Y braut gegn brotaþola. Til að sakfellt yrðifyrir slíkt athafnaleysi sem hlutdeild í nauðgunarbroti yrði að lágmarki aðliggja fyrir að ákærða hefði áður átt virkan þátt í því að að koma brotaþola íþá stöðu að Y gat brotið gegn henni. Hjá lögreglu og fyrir dómi hefði brotaþoliaftur á móti borið að það hefði verið Y, en ekki ákærða, sem hefði haft sambandvið sig, boðið sér heim og látið aka sér þangað. Yrði ákærða því ekki sakfelldfyrir hlutdeild í nauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa horftá samskipti Y og brotaþola.Með ákvörðun Hæstaréttar 31. mars 2020 var með skírskotun til 4. mgr.215. gr. laga nr. 88/2008 fallist á beiðni ákæruvaldsins um að mál þetta yrðiflutt munnlega um beitingu ákvæða 1. og 2. mgr. 194. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr.,almennra hegningarlaga. Þá sagði í ákvörðuninni að niðurstaða Landsréttarbyggðist að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu, en það matyrði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.Eftir hinu tilvitnaða lagaákvæði er ekki heimilt að veita leyfi til að áfrýjadómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati Landsréttar ásönnunargildi munnlegs framburðar. Tekur ákvæðið í senn til sönnunargildismunnlegs framburðar ákærðu og vitna. Af því leiðir að ekki verður haggað viðsýknu ákærðu af því að hafa gefið brotaþola töflu, sem hún hafi orðið mjögsljóvguð af, og að hafa fróað sér meðan á ætluðu kynferðisbroti Y stóð, enhvort tveggja var reist á sönnunargildi munnlegs framburðar. Er því einungistil úrlausnar hvort ákærða hafi gerst sek um hlutdeild í broti Y samkvæmt ákærumeð því að hafa legið við hlið hans og brotaþola og horft á.IIÍ skýringum við 22. gr. almennra hegningarlaga í greinargerð meðfrumvarpi til laganna kemur fram að meta verði sjálfstætt hvernhlutdeildarverknað eftir afstöðu geranda til brotsins og að sakfella megi fyrirhlutdeildarverknað, óháð ábyrgð aðalmanns. Í máli þessu verður ekki skorið úrum sekt eða sýknu Y þar sem það var, eins og áður greinir, fellt niður gagnvarthonum. Samkvæmt ákæru er ákærðu ekki gefið að sök að hafa komið að þeimundirbúningsathöfnum Y að setja sig í samband við brotaþola, bjóða henni heimtil sín og láta aka henni þangað eða greiða fyrir farið, en hið síðastnefndahefur ákærða viðurkennt að hafa gert að fyrirlagi Y. Þá er ákærðu heldur ekkigefið að sök að hafa tekið þátt í þeim kynlífsathöfnum, sem í ákæru greinir,eða tilraun til þeirra, sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr.88/2008 má ekki dæma ákærðu fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir.Samkvæmt þessu var ákærðu hvorki gefin að sök verkleg hlutdeild í ætluðu nauðgunarbrotiY við undirbúning eða framkvæmd þess né sálræn hlutdeild með því að hafa, meðaná atferli hans stóð, með orðum, svipbrigðum, hreyfingum, bendingum eða öðrulátbragði veitt honum liðsinni við framningu þess. Verður því að taka afstöðutil þess sem út af stendur í verknaðarlýsingu ákæru, hvort í því athafnaleysiákærðu, einu og sér, að liggja við hlið hans og brotaþola og horfa á, felistliðsinni í verki eftir 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.Það mat Landsréttar á sönnunargildi framburðar brotaþola að Y hafi haftallt frumkvæði að komu hennar á heimili hans og ákærðu með því að setja sig ísamband við brotaþola, bjóða henni þangað og láta aka henni, er ekki tilendurskoðunar fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Endaþótt fyrir liggi í málinu að ákærða hafi í beinu framhaldi af komu brotaþola ogað frumkvæði Y verið samþykk því að taka þátt í kynlífsathöfnum með honum ogbrotaþola er ljóst af málsgögnum að þegar það gekk ekki eftir, þar sem Y snerisér alfarið að brotaþola, að afstaða ákærðu til þess brots, sem honum var gefiðað sök, var skýr um að hún hefði verið því mótfallin. Jafnframt liggur fyrir aðþessi afstaða ákærðu leiddi í raun til þess að Y lét af háttsemi sinni gagnvartbrotaþola. Við þessar aðstæður og í ljósi þeirrar verknaðarlýsingar, sem eftirstendur samkvæmt ákæru um hlutdeild hennar í ætluðu broti Y, verður ákærða ekkisakfelld fyrir að hafa með umræddu athafnaleysi sínu veitt Y liðsinni í verki ískilningi 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framansögðu teljum við að staðfesta beri niðurstöðu hinsáfrýjaða dóms og fella allan áfrýjunarkostnað málsins á ríkissjóð. Dómur Landsréttar 14.febrúar 2020Mál þetta dæma Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari, Hjörtur O. Aðalsteinsson,settur landsréttardómari, og Eggert Óskarsson, fyrrverandi héraðsdómari.Málsmeðferð og dómkröfuraðilaRíkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 5. nóvember 2018 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Vestfjarða 10. október 2018 í málinu nr. S-13/2018.Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að því er varðar sakfellingu ákærðu en fellur frá þeirri verknaðarlýsingu í ákæru að ákærða hafi veitt meðákærða liðsinni í verki með því að láta brotaþola reykja kannabisefni. Jafnframt er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.Ákærða krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð og hún ákvörðuð skilorðsbundin. Þá krefst ákærða þess aðallega að einkaréttarkröfu brotaþola verði vísað frá dómi en til vara að fjárhæð þeirrar kröfu verði lækkuð. Brotaþoli, A, krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að því er varðar einkaréttarkröfu hennar.Ákærða gaf viðbótarskýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti og þá var einnig spiluð upptaka af framburði brotaþola fyrir héraðsdómi.NiðurstaðaÍ 1. lið ákæru í máli þessu er Y gefin að sök nauðgun með því að hafa látið brotaþola hafa við sig munnmök, stungið fingri inn í leggöng hennar og haft við hana samræði um leggöng. Er ákærði talinn hafa notfært sér yfirburðastöðu sína og aðstöðumun gagnvart brotaþola sem sé þroskahömluð og að hún hafi verið ein og mátt sín lítils gegn honum og ákærðu í lokuðu herbergi, undir áhrifum lyfja og/eða vímuefna, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugum stað. Í 2. lið ákærunnar er ákærðu gefin að sök hlutdeild í nauðgun samkvæmt 1. lið ákærunnar með því að hafa veitt meðákærða Y liðsinni í verki með því að gefa brotaþola óþekkta töflu sem brotaþoli kvaðst hafa orðið mjög sljóvguð eftir, legið við hlið meðákærða og brotaþola og horft á og fróað sér á meðan meðákærði braut gegn brotaþola.Við þingfestingu málsins í héraðsdómi 27. mars 2018 neitaði ákærði Y sök, en hann lést 10. apríl sama ár og var mál ákæruvaldsins á hendur honum fellt niður samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 170. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.Brotaþoli lýsti því fyrir héraðsdómi að ákærða hefði gefið henni e-pillu rétt eftir að hún hefði verið komin upp í rúm til ákærðu og meðákærða og hefði hana farið að svima, ekkert séð voða mikið og séð bara svart. Hún lýsti töflunni þannig að hún hefði verið kringlótt og staðið „e“ á henni. Síðar í skýrslutökunni var brotaþola sýnd mynd af 100 mg Seroquel töflu og þá staðfesti hún að ákærða hefði gefið henni slíka töflu. Meðal gagna málsins eru upplýsingar um lyfið Seroquel og þar kemur fram að um sé að ræða lyfseðilsskylt sefandi lyf sem innihaldi virka efnið quetíapín og sé notað til að meðhöndla geðklofa. Það sé óvenjulegt sefandi lyf og fylgi notkun þess vægar hreyfitruflanir sem líkist einkennum parkinsonsveiki og ósjálfráðra hreyfinga. Þá segir að verkun lyfsins komi fram innan viku og sé verkunartími allt að 12 klukkustundir.Með hliðsjón af hinum misvísandi framburði brotaþola að þessu leyti verður að telja ósannað að ákærða hafi gefið brotaþola einhverja þá töflu sem hafi leitt til þess að hún hafi orðið mjög sljóvguð eftir. Þá hefur ákærða neitað því að hafa fróað sér á meðan meðákærði hafði samfarir við brotaþola, en brotaþoli er ein til frásagnar um það. Gegn neitun ákærðu verður að telja þetta atriði ákærunnar ósannað. Samkvæmt framangreindu kemur einungis til skoðunar í máli þessu hvort ákærða hafi gerst sek um hlutdeild í nauðgun samkvæmt 1. lið ákærunnar með því að hafa horft á meðan meðákærði braut gegn brotaþola eins og komist er að orði í ákærunni.Samkvæmt 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt lögunum er framið, sæta þeirri refsingu sem við brotinu er lögð. Til að refsiábyrgð verði lögð á ákærðu fyrir hlutdeild í nauðgun samkvæmt verknaðarlýsingu 1. töluliðar ákæru verður ákæruvaldið því bæði að færa sönnur að því að sú háttsemi sem þar er lýst hafi farið fram og að ákærða hafi veitt liðsinni til hennar í orði eða verki. Eins og áður greinir stendur það eitt eftir af verknaðarlýsingu 2. töluliðar ákæru í máli þessu að ákærða hafi horft á meðan meðákærði braut gegn brotaþola. Til að sakfellt verði fyrir slíkt athafnaleysi sem hlutdeild í nauðgunarbroti verður að lágmarki að liggja fyrir að ákærða hafi áður átt virkan þátt í því að koma brotaþola í þá stöðu að meðákærði gat brotið gegn henni. Hjá lögreglu og fyrir dómi bar brotaþoli aftur á móti að það hefði verið meðákærði, en ekki ákærða, sem hefði haft samband við sig, boðið sér heim og látið aka sér þangað. Verður ákærða því ekki sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa horft á samskipti meðákærða og brotaþola.Með hliðsjón af þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 ber að vísa einkaréttarkröfu brotaþola frá dómi.Þá ber með vísan til 2. mgr. 235. gr. sömu laga að fella sakarkostnað eins og hann var ákveðinn í héraðsdómi á ríkissjóð.Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.Dómsorð:Ákærða,X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.EinkaréttarkröfuA er vísað frá héraðsdómi. Sakarkostnaðureins og hann var ákveðinn í héraði greiðist úr ríkissjóði.Áfrýjunarkostnaðurmálsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjandaákærðu, Björgvins Jónssonar lögmanns, 1.000.000 króna, og þóknun skipaðsréttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar lögmanns, 300.000krónur.Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 10. október 2018IMál þetta, sem dómtekiðvar 14. september 2018 að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara,útgefinni 22. febrúar 2018, á hendur „Y,kennitala [...], [...], [...] og X, kennitala [...], [...], [...], fyrir eftirgreind brot að kvöldi sunnudagsins 2.október 2016, á þáverandi heimili þeirra að [...]:Gegn ákærða Y fyrir nauðgun, með því að hafa látið A hafa við sig munnmök, stungið fingri inn í leggöng hennar og haft við hana samræði um leggöng en ákærði notfærði sér yfirburða stöðu sína og aðstöðumun gagnvart A sem er þroskahömluð og að hún var ein og mátti sín lítils gegn honum og meðákærðu X í lokuðu herbergi, undir áhrifum lyfja og/eða vímuefna, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugum stað. Gegn ákærðu X fyrir hlutdeild í nauðgun samkvæmt 1. ákærulið, með því að hafa veitt meðákærða Y liðsinni í verki með því að gefa A óþekkta töflu og láta hana reykja kannabisefni sem A kveðst hafa orðið mjög sljóvguð eftir, legið við hlið meðákærða og A og horft á og fróað sér á meðan meðákærði braut gegn A. Telst brot samkvæmt 1. ákærulið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, en brot samkvæmt 2. ákærulið telst varða við sömu ákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.Einkaréttarkröfur: Af hálfu A kt. [...] eru gerðar eftirfarandi kröfur:Á hendur ákærða Y er gerð krafa um að hann greiði henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. október 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun vegna réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun. Á hendur ákærðu X er gerð krafa um að hún greiði henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. október 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða þóknun vegna réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“II Ákærðu mættu bæði við þingfestingumálsins, 28. mars 2018, neituðu sök og höfnuðu bótakröfu. Í því sama þinghaldivar að beiðni héraðssaksóknara dómkvaddur matsmaður til þess að leggja mat á þroska brotaþola, og hvortbrotaþoli ætti erfitt með að lesa í félagslegar aðstæður og setja mörk varðandióviðeigandi samskipti. Var dr. B sálfræðingur dómkvaddur til þess verkefnis ogskyldi hann skila mati sínu eigi síðar en þann 15. maí 2018. Þá var málnr. S-10/2018, sem var höfðað á hendur ákærða Y, með ákæru útgefinni 21.febrúar 2018, sameinað þessu máli, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr.88/2008 um meðferð sakamála.ÁkærðiY lést þann 10. apríl 2018. Mál ákæruvaldsins á hendur honum var því felltniður samkvæmt heimild a-liðar 1. mgr. 170 gr. laga um meðferð sakamála nr.88/2008.III Ákæruvaldið gerir þær kröfur sem íákæru greinir á hendur ákærðu X. Af hálfu brotaþola eru gerðar sömukröfur og í greinargerð gagnvart ákærðu auk þess sem brotaþoli áskildi sér rétttil að hafa uppi bótakröfu gegn dánarbúi ákærða Y. Ákærða neitar sök. Ákærða krefstaðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að bótarkröfu verði vísað frádómi. Til vara gerir ákærða kröfu um vægustu refsingu er lög leyfa auk lækkunarbótakröfu. Þá gerir ákærða kröfu um að málskostnaður verði greiddur úrríkissjóði.IV Mál þetta á upphaf sitt í bréfibarnaverndanefndar á norðanverðum Vestfjörðum 21. desember 2016, beiðni umrannsókn á meintu kynferðislegu ofbeldi gagnvart brotaþola, A. Samkvæmt því semþar greinir kom brotaþoli ásamt móður sinni í viðtal fyrr þann sama dag eftirað móðir brotaþola hafði frétt frá þriðja aðila að brotaþola hefði verið„nauðgað“. Í bréfinu er greint frá frásögn brotaþola af því að ákærði Y heitinnhefði haft samband við sig gegnum samskiptaforritin Snapchat og Messenger íseptember 2016. Brotaþoli hefði ekki þekkt manninn og ekki hitt hann áður, en þekktihins vegar kærustu hans, X, frá því að hún passaði börn hennar fyrir einhverjumárum. Í bréfinu er nánar greint frá lýsingum brotaþola á atvikum þann 2.október 2016, sem þróuðust þannig að brotaþoli var sótt til [...] oghenni ekið heim til ákærðu að [...]. Þar hefðu ákærðu tekið á móti henni, látiðhana reykja gras og gefið henni pillu. Brotaþoli hefði ekki getað neitað, veriðhrædd og óttast hvað myndi gerast ef hún afþakkaði. Í framhaldi af því hefðiákærði Y heitinn sagt brotaþola að afklæðast og átt við hana mök. Eftir þaðhafi brotaþoli viljað fara heim. Ákærði Y heitinn hafi ekki viljað það enákærða X útvegað brotaþola far til síns heima. Þá segir og að brotaþoli hafisagt að hún hefði ekki greint frá þessu af ótta við að móðir hennar yrði reiðog einnig að brotaþoli hafi verið hrædd við Y heitinn. Íbréfinu er frá því greint að móðir brotaþola hafi sagt að ákærða X hefði tekiðmyndir af því sem átti sér stað milli brotaþola og Y heitins og sýnt þær konuað nafni C, og sú kona hefði síðar upplýst móður brotaþola um þessi atvik. Loks erá það bent í bréfi barnaverndarnefndar að brotaþoli sé þroskahömluð og eigierfitt með að átta sig á því hvenær verið sé að blekkja hana og tæla.Skilningur hennar á því sem sagt sé við hana sé mjög slakur og því geti húnfundið sig í aðstæðum sem hún ráði ekki við og geti þá ekki spornað við fótum,sett mörk eða farið úr aðstæðum. Skýrslur voru teknar af brotaþola ogmóður hennar vegna málsins 22. desember 2016. Í framhaldi af því voru teknarskýrslur af D og E, sem báðir könnuðust við að hafa ekið með brotaþola aðkvöldi 2. október 2016. Sömuleiðis voru teknar skýrslur af C, F, G og H. Ákærðuvoru handtekin á heimili sínu 23. desember 2016 og teknar af þeim skýrslur.Meðalgagna málsins eru skýrslur Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins frá árinu2013 er varða brotaþola. Þar kemur fram að fylgst hefur verið með þroskabrotaþola frá fimm ára aldri. Samkvæmt nefndum gögnum var brotaþoli greind ámörkum miðlungs til vægrar þroskahömlunar. Þá glími brotaþoli við athyglisbrestán ofvirkni auk erfiðleika í félagsumhverfi. Hefur brotaþoli vegna þessa fengiðlyfjameðferð auk liðveislu og stuðnings í námi. Þáliggja fyrir ýmis rannsóknargögn er varða síma- og samskiptamiðlanotkun ákærðuog brotaþola. Viðrannsókn málsins var óskað eftir mati sálfræðings á andlegri líðan brotaþola ogástandi eftir hið meinta kynferðisbrot. Var I sálfræðingur fenginn til þess aðvinna það mat. Liggur skýrsla hans þar að lútandi fyrir í málinu. Að beiðni héraðssaksóknara var dómkvaddur dr. Bsálfræðingur til þess að leggja mat á þroskabrotaþola og hvort hún ætti erfitt með að lesa í félagslegar aðstæður og setjamörk varðandi óviðeigandi samskipti. Liggur skýrsla hans fyrir í málinu. V Sem fyrr segir lést ákærði Y eftirað mál þetta var þingfest en áður en aðalmeðferð málsins fór fram, og var málákæruvaldins á hendur honum fellt niður. Skýrsla sem tekin var af Y hjálögreglu var spiluð, í hljóði og mynd, við aðalmeðferð málsins. Þar neitaðihann sök. Í skýrslu sinni hjá lögreglu kannaðist Y heitinn við að hafa verið að„reyna við“ brotaþola, sem hefði komið einu sinni til hans og ákærðu X. Kvaðhann engan hafa þá verið heima við nema hann og ákærðu X. Þá kannaðist hann viðað hafa boðið brotaþola í heimsókn og kvað þau parið hafa gert það ísameiningu. Hins vegar neitaði Y heitinn að hafa átt kynmök við brotaþola og aðhafa gefið henni pillur eða gras. Ákærða neitar sök. Fyrir dómi kvaðstákærða þekkja brotaþola.Þær hefðu unnið saman á [...] og brotaþoli hefði passaði fyrir hana. Umatvik þann 2. október 2016 sagðist ákærðu svo frá að þetta hefði veriðafmælishelgin sín. Y hefði sagt sér að brotaþoli væri að koma og hún ætti aðláta „gaurinn“ sem skutlaði henni hafa pening. Kvaðst hún ekki hafa vitaðfyrirfram hvað stæði til. Brotaþoli hefði komið um níuleytið og farið inn íherbergi til Y að spjalla. Sjálf hefði hún sest inn í stofu og spjallað viðgesti sína, J og K, í dágóða stund, en síðar farið inn til brotaþola og Y semþá hefðu legið uppi í rúmi í fötunum sínum. Hún kvaðst hafa spurt brotaþolahvort hún vildi totta Y og þær hefðu báðar gert það til skiptis. Ákærða kvaðsthafa spurt brotaþola hvort hún mætti snerta hana en brotaþoli neitað því. Yhefði viljað fá að sofa hjá brotaþola sem hefði sagt já við því. Kvaðst ákærðaþá hafa orðið mjög afbrýðisöm. Y og brotaþoli hefðu haft kynmök í einhverjarmínútur og ákærða orðið mjög pirruð og snúið sér undan en Y hefði ekki skiliðneitt í því. Hún hefði þá ekki sagst geta þetta og viljað hætta þessu. Þauhefðu þá klætt sig. Ákærða kvaðst hafa útskýrt fyrir brotaþola að þetta hefðiekkert með hana að gera og útvegað brotaþola leigubíl heim. Brotaþoli hafi sagtþetta allt í lagi en mamma hennar mætti ekki vita af þessu. Ákærða kvaðst ekkihafa áttað sig á því hvers vegna það væri fyrr en í skýrslutöku í desember, þvíað hún hefði talið að brotaþoli væri orðin 18 ára eða alveg að verða það.Nokkrum dögum eftir þessi atvik hefði brotaþoli sent sér og Y Snapchat um aðredda sér bjór og grasi, en ákærða kvaðst hafa svarað brotaþola því til að húnværi enn í Reykjavík.Um aðstæður á heimilisínu að öðru leyti umrætt kvöld sagði ákærða að þrennt hefði verið gestkomandiframmi í stofu meðan því fór fram sem að framan var lýst. Þá kvað ákærðakvikmynd hafa verið í sjónvarpi í svefnherberginu, einhverja kvikmynd, ekkiklámmynd. Klám hefði verið sett áseinna. Ákærðaneitaði að hafa gefið brotaþola nokkuð og kvaðst ekki hafa séð hana taka pillu.Aðspurð um neyslu sína kvaðst ákærða hafa fengið sér extacy og drukkið umhelgina, „ekkert frábært ástand“ hefði verið á sér. Svipað ástand hefði verið áY, hann hefði neytt áfengis og tekið kvíðalyf. Hún staðfesti að Y heitinn oghún sjálf hefðu átt svefnlyfið Seroquel, en neitaði að hafa gefið brotaþola þaðlyf. Aðspurðum kynni Y heitins og brotaþola taldi ákærða Y hafa hitt brotaþola ístarfsmannapartýi í [...], þegar hann hefði komið með sér. Það hafi veriðþeirra eina tenging sem hún vissi um. Ákærðaneitaði alfarið að hafa vitað um þroskahömlun brotaþola enda hefði hún ekkitreyst henni fyrir börnum sínum um kvöld eða yfir nótt ef svo hefði verið. Húnkannaðist þó við að hafa heyrt að brotaþoli væri „eftirá“, en hefði ekki tekiðmark á slíku, enda sjálf oft verið milli tannanna á fólki. Ákærðaneitaði að hafa beitt brotaþola ofbeldi eða þvingun til þátttöku í kynlífi meðsér og manni sínum og sömuleiðis að hafa tekið myndir af því. Ákærða kvaðsthafa sýnt C myndir af sér og Y eftir að vitnið hafði sagt að sig langaði í„threesome“. Þá hefði ákærða einnig sagt vitninu að Y væri ekki sáttur við aðákærða væri í „threesome“ með öðrum og að þau hefðu reynt að fara í„threesome“, með brotaþola, en það hefði verið fáranlegt. Ákærðavar tvísaga um tildrög þess að brotaþoli kom á heimili hennar í umrætt sinn, enviðurkenndi þó hjá lögreglu að hafa boðið brotaþola í heimsókn, ásamt fleirum„til að hafa gaman“, en gat þó ekki nafngreint aðra gesti er skýrsla var tekinhjá lögreglu. Ákærða neitaði alfarið að tjá sig um sakarefni á hendur mannisínum í þeirri skýrslutöku eða þátttöku sína í meintum kynlífsathöfnum viðbrotaþola. Brotaþoli Agreindi frá því fyrir dómi að hún hefði þekkt ákærðu þar sem hún hefði passaðfyrir ákærðu fyrir nokkrum árum, en ekki þekkt Y beinlínis. Þá hefði húnunnið með ákærðu á [...] og mundi eftir að hafa hitt Y heitinn ístarfsmannaferð. Hún kvað Y hafa haftsamband við sig gegnum Snapchat, og sagst ætla að koma og sækja hana. Hún hefðisvo verið sótt af einhverjum, sem hún vissi ekki hver var, og ekið heim tilákærðu og Y. Hún hefði ekkert vitað hvað var í gangi. Þegar á staðinn var komiðhefðu þau gefið sér einhverja pillu og eitthvað að drekka og allt í einu hefðihún verið komin í „miðjuna á milli þeirra“ og þá hefði þetta gerst. Aðspurðkvaðst brotaþoli ekki hafa komið áður í þetta hús. Brotaþoli kvað enga aðra enþau þrjú hafa verið á staðnum þegar hún kom, en eftir á hefði hún séðeinhverja, sem hún taldi leigja með ákærðu. Nánar aðspurð um atvik 2.október 2016 lýsti brotaþoli því þannig að hún hefði bankað og ákærða komið tildyra, hálfnakin, í skyrtu. Hún hefði gengið á eftir ákærðu inn í herbergi ogþar hefði Y verið. Ákærða hefði gefið sér pillu, kringlótta sem á stóð e. Húnhefði reynt að hafna þessu, gert sitt besta. Eftir það hefði hana farið aðsvima og allt í einu hafi hún verið komin úr fötunum. Y hefði svo átt við sigkynmök en ákærða notað titrara á sjálfa sig. Eftir þetta hefði hún klætt sig ogþá hefði henni verið rétt gras, sem þau hefðu verið að reykja. Brotaþoli kvaðst munaeftir því að hafa verið beðin um að totta Y og taldi að hann hefði sjálfurbeðið um það. Hennar viðbrögð við því hefðu verið að gera það. Brotaþoli kvaðstfyrir dómi ekki hafa vitað hvað stæði til, en verið til í að fara til þeirra ogvita hvað þau vildu sér. Hún kvað ákærðu hafa verið ósátta við Y þar sem hannhefði frekar vilja ríða sér en ákærðu. Ákærða hefði þá orðið ósátt og ekkitalað við sig. Aðspurð um ástandið á þeim ákærðu og Y heitnum þegar hún komkvaðst brotaþoli ekki vita hvað hún ætti að segja, en hefði fundist eins og þauhefðu verið að drekka áfengi, það mætti sjá á augunum á fólki, en ekki fundiðneina áfengislykt. Sjálf kvaðst hún ekki hafa neytt áfengis áður en hún kom ástaðinn. Aðspurð hvort hún hefði reynt að stoppa ákærða í athöfnum sínum,kvaðst brotaþoli hafa reynt það en ekki þorað að segja neitt, hún hefði veriðkjaftstopp. Brotaþoli kvaðst hafa verið hrædd og farið í „panikk“ eftir aðsmokkur rifnaði. Að öðru leyti kvaðst brotaþoli ekki muna vel hvað fram fór.Hún kvaðst hafa farið í leigubíl heim, og farið út við sundlaugina, svo aðmamma hennar fattaði ekki neitt, en brotaþoli kvaðst ekki hafa þorað að segjamóður sinni frá þessu fyrr en eftir að móðir hennar hafði frétt þetta fráþriðja aðila. Umlíðan sína eftir atvikin kvaðst brotaþoli hafa gengið til sálfræðings og þaðgengi vel og svo hefði hún fengið hund. Móðir brotaþola, L, kom fyrir dóminn. Hún upplýsti að Chefði haft samband við sig og greint frá samtali við ákærðu X þar sem ákærðahefði sagt C frá því að ákærða og maður hennar hefðu farið í „threesome“ meðbrotaþola og að ákærða hefði sýnt sér myndir af því. Að fengnum þessumupplýsingum hefði hún snúið sér til barnaverndarnefndar og í kjölfar þess hefðirannsókn málsins hafist. Móðirbrotaþola kvað líðan dóttur sinnar hafa breyst eftir atvikið. Hún hefði málaðsig mikið, verið reið og lokað sig af. Hún hefði læst að sér og tekiðreiðiköst. Þá hefði hún fengið martraðir. Þá hefði hún elt móður sína ástundum. Vitniðkvað dóttur sína ekki eiga marga vini. Hún hafi verið mikið ein, ekki veriðfélagslega sterk. Hún sé nú farin í björgunarsveit og það hafi gert henni gott.Þó taldi móðir brotaþola að bakslag hefði komið í bata brotaþola eftir að máliðfór fyrir dómstóla. Brotaþoli sé í vinnu og hafi í seinni tíð ekki treyst sértil að gera hluti sem hún hefur hingað til ráðið við. Hafi vinnuveitandibrotaþola af þessum sökum ítrekað haft samband við sig vegna þess og hún hefðisjálf farið í vinnuna til brotaþola og aðstoðað hana. Fkom fyrir dóminn og greindi frá því að hún þekkti brotaþola, sem hefði passaðfyrir hana. Þá kvaðst hún þekkja móður brotaþola. Enn fremur að hún þekktiákærðu, sem væri besta vinkona sín, þær hefðu þekkst frá því að þær vorukrakkar. Aðspurðum samskipti sín við ákærðu fyrstu helgina í október 2016 kvaðst vitnið hafahringt í ákærðu til að biðja hana að útvega sér sígaréttur en ákærða hafi veriðupptekin með kærastanum sínum. Vitnið kvað þetta hafa verið afmælishelgi ákærðusem hafi verið að halda upp á það og verið með einhverja í heimsókn. Hún sjálfhafi verið heima með pínulítið barn. Vitniðkannaðist við að hafa verið í samskiptum við móður brotaþola á Facebook, semhefði verið reið. Kannaðist vitnið við að hafa greint móður brotaþola frásamtali sínu við ákærðu í október 2016, þegar ákærða hefði sagt sér frá því að Yheitinn hefði fengið sig til að fara í „threesome“, sem hún hefði ekki viljað,en verið svo mikið undir áhrifum að hún gerði það samt. Erframburður vitnisins í ágætu samræmi við það sem fram kom í skýrslu hennar hjálögreglu, en þar bar vitnið að hún hefði hringt í ákærðu á laugardagskvöldið 2.október og ákærða hefði þá sagst vera „mellupoppuð að horfa á klám með Y“. Vitnið G greindi frá því að hún og ákærða hefðulengi verið vinkonur og kvaðst vitnið þekkja brotaþola gegnum ákærðu. Um atvikmálsins kvaðst vitnið vita það eitt sem ákærða hefði sagt henni. Að brotaþolihefði komið í heimsókn og Y heitinn hefði sofið hjá henni. Kvaðst vitnið ekkimuna hvort ákærða hefði sagst hafa tekið þátt í því eða tekið myndir á meðan.Kvaðst hún ekki hafa verið mikið í sambandi við þau á þessum tíma, þau hefðuverið í mjög slæmu ástandi, í neyslu. Ílögregluskýrslu, sem tekin var af vitninu í febrúar 2017, sagðist vitninu svofrá að ákærða hefði sagt sér að brotaþoli hefði komið í heimsókn til ákærðu ogþau hefðu ætlað í „threesome“ en brotaþoli hefði ekki viljað það. Y hefði þáhaft kynmök við brotaþola. C kom fyrir dóminn og kvaðst vita þaðeitt um mál þetta að ákærða og maður hennar Y hefðu sofið hjá brotaþola. Þauhefðu bæði greint frá því. Vitnið kvaðst lítið muna eftir lögregluskýrslu semtekin var af henni í tengslum við rannsókn málsins, hún væri búin að vera veikfrá því að það var gert, hefði orðið fyrir áfalli. Aðspurt kvaðst vitnið munaeftir að hafa sagt móður brotaþola frá því. Það hefði hún gert vegna þess aðbrotaþoli hefði verið barn þegar þetta átti sér stað. Ískýrslu lögreglu af vitninu kemur fram að vitnið kvaðst hafa séð myndskeið ísíma ákærðu, þar sem ákærða og maður hennar voru í kynlífsathöfnum meðbrotaþola, þannig að ekki fór á milli mála hver hún var. Ákærða hefði sagt aðhún væri að fara að eyða þessu úr símanum sínum.Vitnið E kom fyrir dóminn og kvaðst muna eftir að hafaskutlað stelpu frá [...] til [...] Hann hefði fengið 2000 krónur fyrirgreiðann, en hefði átt að fá gras fyrir. Hann kvað stúlku hafa komið til dyraað [...]i, mjög léttklædda, eiginlega ekki í neinu. Ískýrslu sinni hjá lögreglu kvaðst vitnið hafa verið beðið um að skutla stelpufrá sundlauginni í [...] inn á [...], til ákærðu X. Dleigubílstjóri kom fyrir dóminn og kvaðst lítið muna eftir atvikum. Taldivitnið að hann hefði munað þetta betur þegar hann gaf skýrslu hjá lögregluvegna rannsóknar málsins. Staðfesti vitnið að hafa ekið stúlku frá [...] til [...]oghún hefði farið út við sundlaugina. Ískýrslu lögreglu kemur fram að vitnið hafði þá kannast við að hafa ekið stúlkufrá [...] , sem hefði greinilega verið að flýta sér. Hún hefði beðið um að fálánað fyrir bílnum og túrinn hefði svo verið greiddur mörgum dögum síðar. Þáhefði ákærða X greitt honum fyrir aksturinn. K komfyrir dóminn og kvaðst hafa verið gestkomandi á heimili ákærðu þá helgi sem þauatvik urðu sem ákært er fyrir. Tilefni þess hafi verið afmæli ákærðu X. Kvaðst vitniðhafa verið þar ásamt bróður sínum, M og kærustu hans, J. Hann hafi setið oghorft á sjónvarp með bróður sínum þegar brotaþoli kom. Kvað hann ákærðu X hafasagt að von væri á heimsókn, stelpu sem ætlaði í „threesome“ með þeim. Brotaþoli hafi svo komið og farið inn íherbergið þar sem Y var og þau þrjú hafi lokað á eftir sér. Kvaðst hann hafaheyrt stunur frá þessu herbergi. Aðspurt kvað vitnið mögulegt að eftir á hefðiákærða X verið eitthvað fúl út í Y. Jgaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Hún kvaðst hafa verið á heimili ákærðufyrstu helgina í október 2016. Hún hafi verið á staðnum, með K, M, Y og X,þegar ljóshærð stelpa hafi komið í heimsókn. Vitnið kvaðst sjálft hafa fariðtil dyra og opnað fyrir henni, en mundi ekki eftir því að ákærða hefði rætt viðbílstjórann sem „skilaði stelpunni“.Stelpan hafi farið inn í herbergi til Y og ákærðu X. Ákærða hefði svosíðar sagt að það þyrfti að redda henni fari heim. Vitnið kvað þau Y, ákærðu ogstúlkuna hafa verið að gera „eitthvað saman öll þrjú“. Ákærða hefði svo komiðfram grátandi vegna þess að hún fékk ekki athygli og vildi því redda stelpunnifari heim, þar sem stelpan hafi ekki átt heima á [...]. Vitnið M greindi frá því fyrir dómi að hafaverið á staðnum er brotaþoli kom til ákærðu og kvað hana hafa verið þar í umklukkustund. Hann hefði ekki rætt við hana, aðeins heilsað og kvatt. Hún hefðiverið með ákærðu og Y inni í herbergi. Aðspurður kvaðst hann hafa heyrteitthvað, mögulega stunur. Vitnið kannaðist ekki við að neitt rifrildi hefðiorðið eftir á milli ákærðu og Y heitins. Nlögreglufulltrúi kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslur sem frá honum stafa ímálinu. Upplýsti hann að þrátt fyrir að ekki hafi verið unnt að rekja eða kallafram eydd skilaboð milli brotaþola og Y heitins, hafi verið ummerki um nafnhans á Messenger-hluta Facebook hjá brotaþola. Unnt hefði verið að sýna fram ásamskipti en ekki hver þau samskipti voru. Þá lægju fyrir gögn sem sýndusamskipti ákærðu D leigubílstjóra, rétt fyrir klukkan 11 að kvöldi, þann 2.október 2016. Isálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sem hann vann að beiðnilögreglu í upphafi árs 2017 og greindi frá meðferð sinni á brotaþola vegna þessatviks er málið varðar. Upplýsti vitnið að vegna þroskaskerðingar brotaþolahafi orðið að einfalda alla meðferð hennar. Reynt hefði verið að leggjaáfallastreituröskunarpróf fyrir brotaþola en það hafi ekki gengið þar sembrotaþoli hafi ekki skilið innihald margra spurninganna þrátt fyrirútskýringar, en sú vanlíðan og þau sálrænu viðbrögð sem brotaþoli hafi greintfrá samsvari líðan og viðbrögðum sem þekkt séu hjá fólki sem orðið hafi fyrirkynferðisbrotum. Vitnið kvað brotaþola geta greint ágætlega frá, en frásögnhennar væri einföld og knöpp. Þau hefðu farið nokkrum sinnum gegnum atvikin ogbrotaþoli hefði haldið sig fast við ákveðin atriði og þau verið samsvarandi fráeinu skipti til annars. Vitniðkvað brotaþola hafa liðið ömurlega og hún verið uppfull af skömm yfir því aðhafa lent í þessu. Hún hafi sagst hafa orðið mjög vör um sig. Farið að læsa aðsér, átt erfitt með svefn. Passað að fara alltaf stystu leið á milli staða ogþá hafi hún verið hrædd við að hitta meinta gerendur. Þá hafi minningar umþetta truflað brotaþola fyrst á eftir heilmikið. Vitniðtaldi að þroskaskerðing brotaþola ætti að vera fólki ljós. Það þyrfti ekki aðtala lengi við hana til að átta sig á því.Aðspurt taldi vitnið aðbrotaþoli væri berskjaldaðri en aðrir vegna skerðingar sinnar og auðveldara aðafvegaleiða brotaþola vegna þess. Einstaklingur með slíka skerðingu ætti erfittmeð að lesa milli lína, skildi ekki hvort væri verið að gera grín að sér eðahrósa, skildi ekki almennilega hvað væri að gerast. Taldi vitnið að brotaþoliætti erfitt með að standa á sínu ef hún væri í aðstæðum sem hún upplifðiógnandi eða væru ógnandi.Bsálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína í málinu. Íniðurstöðum þeirrar matsgerðar kemur fram að greindartala brotaþola mældist 61stig, sem væri vel undir efri mörkumvægrar þroskahömlunar. Þá bæri hún marktæk einkenni um kvíða og þunglyndi.Fyrir dómi áréttaði vitnið að þótt talað væri um væga þroskahömlun væri ekkertí raun vægt við það. Ekki væri aðeins um að ræða skerðingu á greindarlegrihæfni heldur einnig félagslegri, hvernig maður næði að bjarga sér í daglegulífi. Brotaþoli glímdi við víðtæka vitsmunalega erfileika á öllum sviðum.Máltengdir erfiðleikar væru umtalsverðir og líka í því sem kallað er verkleggreind. Brotaþoli væri í þörf fyrir mjög mikla aðstoð og mikinn stuðning.Brotaþoli hefði verulega skerta hæfni til að leggja mat á félagslegar aðstæðurog setja mörk. Skilningur hennar á samskiptum væri takmarkaður. Taldi vitnið aðhæfileiki brotaþola til að meta félagslega þætti væri kannski eins og hjá 10ára barni, hún væri verulega á eftir því sem vænta mætti af jafnöldum hennar. Vitnið taldi að þráttfyrir að brotaþoli bæri ekki sýnileg útlitseinkenni þroskahömlunar, þá væriútilokað annað en gera sér grein fyrir því ef maður kynntist henni. Fullorðinnmaður sem hefði samskipti við brotaþola ætti að komast fljótt að því aðbrotaþoli væri þroskaskert.Þá upplýsti vitnið aðbrotaþoli hefði átt erfitt með að greina frá þessum atvikum, t.d. móður sinni.Það væri helst að hún gæti tjáð sig við I sálfræðing og hundinn sinn. Vitniðtaldi ekki ólíklegt að brotaþoli hefði verið grunlaus um aðstæður. Hún hefðiþekkt ákærðu X og haft traust á henni. Taldi vitnið að miðað við mat sitt ábrotaþola hefði hún ekki haft forsendur til að átta sig á því hvað var að faraað gerast í umrætt sinn og hún hefði ekki forsendur eða getu til að koma sér útúr slíkum aðstæðum. Brotaþoli væri leiðitöm og ætti erfiðara með að standastþrýsting en aðrir. Hún væri margfalt meira útsett fyrir kynferðisbrotum enmanneskja með fulla greind. VIÁkærða hefur viðurkenntað brotaþoli hafi komið á heimili hennar og Y heitins að kvöldi 2. október2016. Hún kannaðist við að hafa greitt manni fyrir akstur brotaþola frá [...] til[...]og leigubíl fyrir hana til baka. Ákærða hefur og viðurkennt að hafa veriðí neyslu þá helgi. Þá hefur hún viðurkennt að hafa sjálf beðið brotaþola um aðeiga kynmök við Y heitinn og sig en orðið afbrýðisöm þegar Y vildi fremur hafamök við brotaþola en hana. Þessi framburður ákærðu fær einnig stoð í framburðivitna, vinkvenna ákærðu, sem hafa borið um að ákærða hafi greint þeim frá þessusíðar. Sömuleiðis liggur fyrir í skýrslu af Y heitnum viðurkenning hans á þvíað brotaþoli hefði komið á heimili þeirra og að hann hefði verið „að reyna viðhana“. Þá kannaðist ákærða við það hjá lögreglu að hafa boðið brotaþola heimtil sín „til að hafa gaman“.Ákærða hefur borið þvívið að hún hafi ekki vitað að til stæði að hafa kynmök við brotaþola fyrr enhún var mætt á staðinn. Þá kveðst ákærða hafa beðið frammi í stofu til að byrjameð vegna þess að hún vissi ekki hvað stóð til. Þessi framburður ákærðustangast á við framburð vitna. K, sem kvaðst hafa verið á staðnum umrætt kvöld,bar fyrir dómi að ákærða og Y hefðu sagt sér og öðrum gestkomandi að von væri ástelpu sem ætlaði í „threesome“ með þeim húsráðendum. Brotaþoli hefði svo komiðog farið beint inn í herbergi með þeim og þaðan hefðu svo heyrst stunur. VitniðJ kvaðst einnig hafa verið á staðnum umrætt sinn. Kvaðst hún sjálf hafa fariðtil dyra og opnað fyrir brotaþola, sem hefði farið inn í herbergi til Y ogákærðu til „gera eitthvað saman“. Ákærða hefði svo komið fram grátandi vegnaþess að hún fékk ekki athygli og vildi senda brotaþola heim. Ákærða hefur og borið þvívið að brotaþoli hafi ekki verið þvinguð til þeirra kynlífsathafna semviðurkennt er að áttu sér stað þegar brotaþoli kom á heimili ákærðu. Brotaþolihafi ekki verið beitt ofbeldi, gefið lyf eða fíkniefni og þá kveðst ákærða ekkihafa gert sér grein fyrir ungum aldri brotaþola, haldið að hún væri 18 ára eðaalveg að verða það, eða þeirri staðreynd að hún er þroskaheft.Ákærða hefur greint fráþví að brotaþoli hafi gætt barna sinna ítrekað sumarið 2015 eða 2014. Brotaþolier fædd í nóvember 1999 og hefur þá verið á fjórtánda eða fimmtánda ári þegarhún gætti barna ákærðu. Að mati dómsins er það harla ótrúverðugt að ákærða hafifalið brotaþola gæslu ungra barna sinna án þess að hafa nokkra hugmynd um aldurhennar, auk þess sem hún hlýtur að hafa átt samskipti við brotaþola í tengslumvið það og þannig óhjákvæmilega mátt verða vör við að brotaþoli er alls ekkiþroskuð með þeim hætti sem vænta má af jafnöldrum hennar og enn síður þeim semeldri eru. Þessa hefði ákærða einnig átt að verða vör sem samstarfskonabrotaþola á [...], enda hefur hún sjálf sagt að samstarfsmenn þeirra hafi talaðum að brotaþoli væri „eftirá“, en hún kosið að taka ekki mark á því tali.Brotaþoli kom fyrir dóminn og að mati dómsins er augljóst af framburði hennarog framkomu að brotaþoli er ekki þar stödd í þroska sem vænta má af stúlku áhennar aldri. Í þessu samhengi ber og að líta til framburðar sálfræðingannatveggja sem vitni báru í málinu, en þeir töldu báðir að þroskaskerðingbrotaþola ætti að vera hverjum manni ljós sem hefði samskipti við hana. Er þaðmat dómsins að ákærða hafi ekki mátt komast hjá því með ítrekuðum samskiptumvið brotaþola að brotaþoli væri svo þroskaheft sem gögn málsins bera með sér.Auk þess sem telja verður að ákærða og ákærði Y heitinn hefðu mátt gera sérgrein fyrir ungum aldri brotaþola af samskiptum þeirra við hana gegnumsamskiptaforritið Facebook. En meðal ganga málsins er ljósmynd af brotaþola afFacebook-síðu hennar. Af þeirri mynd verður ekki dregin önnur ályktun um aldurbrotaþola en að hún sé barn auk þess sem þar greinir glöggt fæðingardag hennarog ár. Framburður ákærðu ersamkvæmt framansögðu ekki í samræmi við framburð vitna, auk þess sem ósamræmisgætti í framburði hennar. Er það mat dómsins að framburður ákærðu sé lítt trúverðugur um þau atvik sem áttu sér stað og erutilefni þessa máls. Viðmat á framburði brotaþola ber að líta til þess sérstaklega að brotaþoli erþroskaskert. Í skýrslum og framburði sálfræðinganna tveggja sem hafa hitt hanaog metið kemur fram að þroskaskerðing brotaþola veldur því m.a. að hún á erfittmeð að tjá sig, hefur ekki endilega skilning á tíma og frásögn hennar erknappari og einfaldari en hjá einstaklingi með fulla greind. Þá ermálskilningur hennar lakur og því erfitt að spyrja hana og hætta er á að mennleggi henni orð í munn. Brotaþoli var óörugg og átti erfitt með að tjá sigfyrir dómi en framburður hennar var þó í ágætu samræmi við framburð hennar hjálögreglu og frásagnir hennar af atvikum síðar, hjá barnaverndarnefnd ogsálfræðingi hennar. Þannig hefur brotaþoli hvergi vikið frá því að henni hafiverið gefin pilla og gras um rætt kvöld. Framburður brotaþola afatvikum fær enn fremur stoð í framburði I sálfræðings sem brotaþoli hefurendurtekið tjáð sig við um atvikið með nokkuð samsvarandi hætti. Þá kemur framí skýrslu hans í málinu að þrátt fyrir að ekki hafi gengið að leggjaáfallastreitupróf fyrir brotaþola sakir skerðingar hennar hafi brotaþoli greintfrá vanlíðan og viðbrögðum sem þekkt séu hjá fólki sem orðið hafi fyrirkynferðisbrotum. Þá hefur móðir brotaþola borið um breytta hegðun brotaþolaeftir atvikið, merki um vanlíðan og aukin vandamál í félagslíf og vinnu. Að ofangreindu virtu erað mati dómsins ekki óvarlegt að leggja frásögn brotaþola af atvikum tilgrundvallar því sem átti sér stað kvöldið 2. október 2016. Það er mat dómsins aðákærða hafi án vafa gengið að því með vissu hvað til stóð þegar brotaþoli kom áheimili hennar. Ákærða hafði sjálf frumkvæði að þeim kynmökum sem áttu sér staðmilli Y heitins og brotaþola og þrátt fyrir að hún segist hafa spurt brotaþolahvort hún vildi taka þátt í þeim athöfnum að einhverju leyti leysir það ákærðuekki undan því að hafa með því veitt atbeina sinn að því sem þar átti sér stað.Hlutdeild ákærðu í hinum kærða verknaði fólst hvorutveggja í senn í athöfn ogathafnaleysi, þar sem ákærðu hefði borið að koma í veg fyrir að haft værisamræði við brotaþola við þessar aðstæður fremur en hitt, þar sem ljóst má veraað ákærða þekkti brotaþola. Þá viðurkenndi ákærða að hafa sjálf viljað takabeinan þátt í kynlífsathöfnum með brotaþola og manni sínum og hefði í raunbundið enda á þær vegna þess eins að henni fannst hún sjálf höfð út undan.Verður ekki litið öðruvísi á en svo aðákærða hafi haft ásetning til þess að misnota sér aðstöðu sína gagnvartbrotaþola þetta kvöld; það að brotaþoli var ein og upp á ákærðu og mann hennarkomin, fólk sem var undir áhrifum áfengis og eða lyfja, töluvert eldra enbrotaþoli, á heimili þeirra og inni í lokuðu herbergi þar sem brotaþoli,barnung þroskaheft stúlka, átti sér enga undankomuleið. Með vísan tilframangreinds verður ákærða sakfelld fyrir það brot sem henni er gefið að sök íákæru og er brot hennar þar rétt heimfært til refsiákvæða. VII. Sakaferillákærðu hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Við ákvörðunrefsingar er litið til 2. mgr. 22. gr. sem og a-liðar 195. gr. laga nr.19/1940. Að því gættu og með vísan til 1., 2., 5. og 6. tl. 70 gr. þykirrefsing ákærðu réttilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Fallister á kröfu brotaþola um miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna sem skulu beravexti eins og í dómsorði greinir. Á grundvelli sakfellingarákærðu, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verðurhenni gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Þórðar Más Jónssonarlögmanns, og síðar skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar, ogréttargæslumanns brotaþola eins og hann er ákveðinn í dómsorði, en þá hefurverið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá ber ákærðu að greiða útlagðanferðakostnað verjanda síns og réttargæslumanns. Þá þykir enn fremur rétt, einsog málið liggur fyrir og með vísan til 236. gr. laga nr. 88/2008, að gera ákærðuað greiða helming sakarkostnaðar samkvæmt framlögðum yfirlitumhéraðssaksóknara, 556.096 krónur. Þóknun Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns,fyrir verjandastörf fyrir Y, 379.440 krónur greiðist úr ríkissjóði. Dóm þennan kveður uppBergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari.DÓMSORÐ: Ákærða,X, sæti fangelsi í tvö ár. Ákærðagreiði brotaþola, A, 1.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganr. 38/2008 frá 3. október 2016 til 8. apríl 2018 en með dráttarvöxtum skv. 1.mgr. 6. gr. frá þeim degi til greiðsludags. Ákærðagreiði 3.264.231 krónu í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðsverjanda síns, Þórðar Más Jónssonar lögmanns, 321.470 krónur, og málsvarnarlaunsíðar skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 1.159.400krónur, auk útlagðs kostnaðar lögmannsins 108.282 krónur og þóknunréttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur lögmanns, 1.046.715 krónur,auk útlagðs kostnaðar, 72.268 krónur. |
Mál nr. 22/2006 | Líkamsárás Skilorð Miskabætur | J var ákærður fyrir líkamsrárás og viðurkenndi að hafa slegið A eitt hnefahögg og síðan haldið honum hálstaki uns hann hafi róast, en neitaði að hafa slegið A fleiri högg en eitt. Af misvísandi framburði J og vitna og óljósum gögnum um meiðsli J, sem höfðu ekki verið skýrð fyrir dómi, varð ekki fullyrt nákvæmlega um atburðarrás umrætt sinn. Gegn eindreginni neitun J, sem fékk nokkra stoð í framburði vitnis, varð ekki fullyrt að J hafi veitt A fleiri hnefahögg í andlit en eitt. Þá var ekki fram komið að A hafi sýnt af sér slíka framkomu að gefið hafi J ástæðu til líkamsárásarinnar. Var J talinn hafa gerst sekur um líkamsrárás sem varðaði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði skilorðsbundið. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson prófessor. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. desember 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu ákærða. Jafnframt krefst ákæruvaldið þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta til A samtals að fjárhæð 605.372 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.372 krónum frá 1. apríl 2004 til greiðsludags, en með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af 600.000 krónum frá 14. apríl 2004 til 15. júlí 2005 en með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi greiðsludags. Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu A verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð. Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa laugardaginn 28. febrúar 2004 að [...], Seltjarnarnesi, slegið A hnefahögg í andlitið, fellt hann í gólfið og slegið hann nokkur hnefahögg í andlitið þar sem hann lá á gólfinu, með þeim afleiðingum að hann bólgnaði og marðist í andliti og aftan á höfði og hnakka, brot kom í framvegg hægri kinnholu og brot inn í augntóttarbotn á litlu svæði framan til og þrjár miðframtennur brotnuðu. Framburður ákærða og vitna er rakinn í héraðsdómi. Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hafa greint sinn í anddyri hússins slegið A eitt hnefahögg sem komið hafi ofarlega í höfuð A og því næst „stokkið“ á hann með þeim afleiðingum að þeir hafi báðir fallið á gólfið. Hafi andlit A skollið í gólfið. Í framhaldi af því hafi hann náð að taka A hálstaki og haldið honum í því taki uns hann hafi róast nægilega, eins og hann komst að orði. Þá hafi hann yfirgefið vettvang ásamt félaga sínum C. Ákærði neitaði að hafa slegið A fleiri högg en eitt, en kvað þá þó hafa stimpast í nokkrar mínútur eftir að þeir féllu á gólfið. Ákærði kvaðst hafa ráðist á A í kjölfar þess að A hafi skyndilega slegið hann hnefahögg í andlitið er hann bar upp það erindi að fá að hitta B fyrrverandi unnustu sína, þáverandi unnustu A en nú sambúðarkonu hans. Síðar í yfirheyrslu fyrir dómi vildi ákærði leiðrétta það sem hann hafði áður borið í yfirheyrslunni og við skýrslugjöf hjá lögreglu um að hann hafi stokkið á A. Þeir hafi öllu heldur lent í stimpingum og fallið á gólfið. Ekki verður ráðið af framburði ákærða að hann telji sig hafa orðið fyrir meiðslum umrætt sinn og hafi hann haft yfirhöndina í viðureign þeirra. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki vilja mótmæla að A hafi umrætt sinn hlotið þá áverka sem greinir í ákæru. Vitnið C bar fyrir dómi að A hafi ráðist að fyrra bragði á ákærða og slegið til hans og hafi þeir tveir verið að stimpast og fallið á gólfið. Ekki kvaðst vitnið muna mikið meira eftir atvikum, sem hann kvaðst raunar ekki hafa séð vel og ekki heldur hafa greint orðaskipti þeirra í milli, þrátt fyrir að hann hafi staðið um tveimur metrum frá ákærða er atvik urðu. Ákærði kvað B ekki komið að fyrr en átök voru hafin og ákærði og A lágu á gólfinu, en C sagði hana ekki hafa komið að fyrr en átökunum var að ljúka. A og B báru bæði að B hafi séð atvik öll og er framburður þeirra í meginatriðum á sömu lund um að ákærði hafi ráðist fyrirvaralaust á A og slegið hann hnefahögg. Við það hafi A fallið og ákærði í framhaldi af því tekið hann hálstaki og veitt honum þá fleiri hnefahögg. Talaði A um þrjú til fjögur högg, en B kvaðst ekki hafa tölu á því hversu mörg höggin voru, en þau hafi verið mörg. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu kom lögregla á vettvang skömmu eftir atvik. Voru þá ákærði og C farnir þaðan. Í frumskýrslu Péturs Guðmundssonar varðstjóra, dagsettri daginn eftir, sem hann staðfesti fyrir dómi, kemur fram að andlit A hafi verið „bólgið og marið að sjá, nef og við hægra auga sérstaklega. Þá var hann með roða á hálsi og brotnað hafði úr framtönnum.“ Bæði A og B báru að hann hefði tannbrotnað, auk þess sem í gögnum málsins er að finna vottorð K tannlæknis, fósturföður A, frá 22. apríl 2004 um brotnar miðframtennur í efri góm. Í læknisvottorði 24. ágúst 2004 um fyrstu skoðun á A á slysadeild eftir atvik, sem rakið er í héraðsdómi, er hins vegar hvergi getið um að hann hafi verið með brotnar tennur þrátt fyrir ítarlega lýsingu á áverkum hans, þar sem nefnt er meðal annars að samkvæmt skoðun og röntgenmynd af andlitsbeinum „greindust ekki klárlega brot en vökvaborð í kinnholu hægra megin og virtist vera nefbrotinn á mynd.“ Var honum ráðlagt að leita til háls-, nef- og eyrnadeildar er bólga í andliti væri farin að hjaðna. Ekki kemur fram í vottorðinu hvenær skoðun á slysadeild fór fram, en af því sem fram er komið í málinu verður helst ráðið að það hafi verið sama dag og atvik urðu. Þá segir í vottorðinu að A hafi komið á göngudeild háls-, nef- og eyrnadeildar fjórum dögum síðar. Er þess þá fyrst getið að hann hafi verið nýkominn frá tannlækni þar sem gert hafi verið við þrjár tennur, en engin breyting sé á biti og heilar og eðlilegar slímhúðir í munni. Þá væri hann ekki nefbrotinn, en samkvæmt sneiðmynd af augngjörð og andlitsbeinum sæist brot í framvegg hægri kinnholu og lítill brotflaski sem hefði örlítið færst til. Einnig væru merki um „gamalt blóð“ í hægri kinnholu og merki um gliðnun milli „frontal“ beins og kinnbeins hægra megin og brot inni í augntóttarbotni á litlu svæði framan til. Læknar þeir sem skoðuðu A gáfu ekki skýrslur fyrir dómi þótt fullt tilefni hafi verið til. Verður því ekki fullyrt að A hafi hlotið tannbrot umrætt sinn, en nægilega er sannað að hann hafi hlotið aðra þá áverka sem í ákæru greinir. Af því sem að framan er rakið um misvísandi framburð ákærða og vitna og af óljósum gögnum um meiðsli ákærða, sem ekki hafa verið skýrð fyrir dómi, verður ekki fullyrt nákvæmlega um atburðarrás umrætt sinn. Við mat á framburði ákærða og vitna verður einnig að líta til þess að það var ekki fyrr en rúmu ári eftir atvik, eða 24. maí og 7. júní 2005, að lögregla tók skýrslu af vitnum sem A tilgreindi þegar í kæruskýrslu sinni 1. mars 2004. Þá tók lögregla fyrst skýrslu af ákærða 15. júní 2005. Hins vegar er með játningu ákærða, sem fær fullan stuðning í framburði vitnanna A og B, sannað að ákærði réðist á A umrætt sinn og sló hann hnefahögg í andlitið þannig að hann féll við og í kjölfarið tók ákærði A hálstaki þar sem hann lá á gólfinu. Gegn eindreginni neitun ákærða, sem fær nokkra stoð í framburði vitnisins C, verður hins vegar ekki fullyrt að ákærði hafi síðar veitt honum fleiri hnefahögg í andlit. Þá er ekki fram komið að A hafi sýnt af sér slíka framkomu að gefið hafi ákærða ástæðu til líkamsárásarinnar. Samkvæmt öllu framanrituðu er sannað að ákærði hefur gerst sekur um líkamsárás sem varðar við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Ekki er fallist á með héraðsdómi að fram sé komin sönnun um að ákærði hafi í afbrýðiskasti farið á heimili B gagngert í þeim tilgangi að stofna til ófriðar og að ákærði hafi fyrirfram ákveðið að valda A líkamstjóni. Fram er komið að ákærða var 8. október 1999 gerð sekt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Við ákvörðun refsingar verður sérstaklega til þess litið að ekki verður séð að háttsemi A hafi gefið ákærða tilefni til árásarinnar sem olli honum töluverðu tjóni. Þá hefur ákærði, sem var 20 ára er brotið var framið, ekki gerst sekur um brot sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar. Samkvæmt framanrituðu og að teknu tilliti til gagna um hagi ákærða er refsing hans ákveðin fjögurra mánaða fangelsi, sem bundin skal skilorði eins og nánar greinir í dómsorði. A hefur krafist þess að ákærði greiði sér 600.000 krónur í miskabætur. Þykir rétt að taka þessa kröfu hans til greina með 200.000 krónum og er þá miðað við þær afleiðingar líkamsárásarinnar sem sannaðar teljast í málinu. Þá er fallist á með héraðsdómi að ákærði verði dæmdur til að greiða A 5.372 krónur vegna kostnaðar við komu hans á Landspítala-háskólasjúkrahús 3. mars 2004. Um vexti fer eins og greinir í dómsorði. Í héraðsdómi var ákærði dæmdur til greiðslu 60.000 króna vegna kostnaðar A við að halda fram kröfu sinni í málinu, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Fyrir Hæstarétti hefur þessi krafa ekki verið höfð uppi og kemur hún því ekki til skoðunar. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Kostnað vegna áfrýjunar málsins ber samkvæmt 169. gr. laga nr. 19/1991 að greiða úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem tiltekin eru í dómsorði að meðtöldum virðisaukaskatti. Dómsorð: Ákærði, Jökull Jóhannsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði A 205.372 krónur með vöxtum af 200.000 krónum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. apríl 2004 til 15. júlí 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 205.372 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2005. Mál þetta, sem dómtekið var 11. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 12. júlí 2005 á hendur Jökli Jóhannssyni, kt. 160883-4489, Akurholti 9, Mosfellsbæ, fyrir líkamsárás, með því að hafa laugardaginn 28. febrúar 2004 að [...], Seltjarnarnesi, slegið A, kt. [...], hnefahögg í andlitið, fellt hann í gólfið og slegið hann nokkur hnefahögg í andlitið þar sem hann lá í gólfinu, með þeim afleiðingum að hann bólgnaði og marðist í andliti og aftan á höfði og hnakka, brot í framvegg hægri kinnholu og brot inn í augntóttarbotn á litlu svæði framan til og þrjár miðframtennur brotnuðu. Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Nefndur A krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 485.072 auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af 70.000 kr. frá 29. febrúar 2004 til 1. apríl s.á., af 75.072 kr. frá þeim degi til þess dags er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar og af 485.072 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann miskabóta að fjárhæð 600.000 kr. og þjáningabóta að fjárhæð 11.878 kr. með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. apríl 2004 til þess dags er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann greiðslu kostnaðar vegna lögmannsþóknunar skv. framlögðum reikningi eða samkvæmt mati dómsins auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af tildæmdum málskostnaði frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Laugardaginn 28. febrúar 2004 kl. 15.50 fékk lögreglan í Reykjavík boð um að fara að [...] á Seltjarnarnesi, en þar ættu sér stað átök. Skömmu áður en lögregla kom á vettvang bárust önnur boð um að árásarmaðurinn væri horfinn af vettvangi. Í frumskýrslu kemur fram að haft hafi verið tal af A og B. Hafi B greint frá því að fyrrverandi kærasti hennar hafi við annan mann knúið dyra að [...]. A hafi farið til dyra, en um leið og hann hafi opnað dyrnar hafi ákærði ýtt A inn í anddyrið og slegið hann hnefahögg í andlitið. Hafi A hálfvankast við höggið og ákærði fylgt atlögu sinni eftir með fleiri höggum í andlit A um leið og hann hafi tekið hann hálstaki. Kemur fram að B hafi orðið vitni að atburðum. Hafi lögreglumenn bent A á að fara á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss vegna áverka er hann hefði í andliti. Andlit A hafi verið bólgið og marið að sjá, nef og hægra auga sérstaklega. Þá hafi hann verið með roða á hálsi og brotnað hafi úr framtönn. Sigurður Torfi Grétarsson deildarlæknir á Landspítala háskólasjúkrahúsi hefur 24. ágúst 2004 ritað vottorð vegna komu A á slysadeild 28. febrúar 2004. Í vottorðinu kemur fram að við skoðun hafi A greinilega verið með ,,status” eftir árás, allur verið bólginn og marinn í andliti, meira hægra megin. Hafi hann einnig verið með skrámur og byrjandi glóðarauga vinstra megin. Þá hafi hann reynst vera með kúlu á enni, mar og skrámur niður undir vör. Hann hafi verið með skrámu á hægra eyra, kúlu á hnakka hægra og vinstra megin og mar á höfuðleðri á fjórum stöðum aftan á höfði og hnakkasvæði. Þá hafi hann verið verulega bólginn yfir nefi og andliti hægra megin. Eftir skoðun á slysadeild hafi röntgenmynd verið tekin af andlitsbeinum og hafi greinilegt brot ekki greinst, en vökvaborð í kinnholu hægra megin og sennilegt nefbrot. Hafi hann farið heim og verið ráðlagt að leita á háls-, nef- og eyrnadeild þegar bólga færi að hjaðna. A hafi komið aftur á göngudeild háls-, nef- og eyrnadeildar 3. mars 2004. Við þá skoðun hafi hann verið með myndarlegt glóðarauga hægra megin. Skyn og hreyfing í andliti hafi verið eðlileg en nokkur eymsli við þreifingu í augntótt. Einnig hafi verið nokkur eymsli hægra megin yfir nefbeini, annars hafi nef virst þokkalega beint. Hafi hann verið nýkominn frá tannlækni þar sem gert hafi verið við þrjár brotnar tennur. Tekin hafi verið sneiðmynd af augnumgjörð og andlitsbeinum. Við þá rannsókn hafi sést brot í framvegg hægri kinnholu og lítill brotflaski sem hafi örlítið færst til. Einnig hafi verið hliðrun á miðnesi yfir til vinstri, en engin merki um tilfært brot. Það hafi verið merki um gliðnun milli ,,frontal” beins og kinnbeins hægra megin og brot inn í augntóttarbotn á litlu svæði framan til og ,,hematom” undir brotstaðnum. Þá er í rannsóknargögnum málsins vottorð K tannlæknis frá 22. apríl 2004. Í vottorðinu kemur fram að A hafi komið til meðferðar 29. febrúar 2004 vegna áverka á tönnum nr. 21, 31 og 41, en um sé að ræða miðframtennur í efri og neðri góm. Þær tennur hafi allar brotnað. Ákærði kvað B vera fyrrverandi kærustu sína. Þau hafi verið saman í um 20 mánuði og hætt saman stuttu fyrir atburðinn 28. febrúar 2004. Fyrir hafi hann ekki þekkt A en vitað hver hann var. Hafi hann hitt A á skemmtistað einhverju fyrir atburðinn og hafi A tjáð honum að hann hafi ,,verið með” B á meðan ákærði og B hafi verið saman. Umræddan dag hafi ákærði reynt að ná í B í gegnum ,,MSN” en A hafi verið að nota tölvuna hennar. Hafi A m.a. spurt ákærða að því hvort hann væri ,,gay.” Hafi A með því verið að gera lítið úr ákærða. Hafi ákærði þá gripið til þess ráðs að hringja heim til B en A hafi svarað í símann og sagt ákærða að hætta að hringja í B. Hafi A verið mjög hortugur í símtalinu. Þessu næst hafi ákærði farið með félaga sínum, C, í verslunarmiðstöðina Kringluna. Þar hafi ákærði tekið ákvörðun um að fara heim til B í þeim tilgangi að ná tali af henni til að útkljá samband þeirra. Ákærði og C hafi komið að [...] og A opnað hurðina er þeir hafi knúið dyra. Hafi hann greinilega verið ölvaður en hann hafi verið með bjórflösku í hendi. Hafi A sagt ákærða að hætta að tala við B því allt væri búið á milli þeirra. Hafi ákærði neitað að fara fyrr en hann fengi að ræða við B. Þá hafi A slegið ákærða hnefahögg og hafi höggið komið á vinstra eyrað. Á þeim tíma hafi C staðið fyrir aftan ákærða og séð það er fram hafi farið. C hafi ,,frosið” og ekkert aðhafst. Ákærði hafi því næst slegið A hnefahögg í andlitið og hafi höggið lent fyrir ofan augun á A. Því næst hafi ákærði stokkið á A með þeim afleiðingum að þeir hafi báðir fallið í flísalagt anddyrið. A hafi við það farið með andlitið í flísarnar. Þeir hafi báðir ,,stympast” í gólfinu í nokkrar mínútur þangað til ákærði hafi náð hálstaki á A og verið ofan á honum. Í því hafi B komið að. Hafi hún öskrað og togað í hár ákærða. Hafi hún sennilega hringt í lögreglu, en ákærði hafi séð hana með síma í hendi. Hafi ákærði náð að draga A með sér í takinu að dyrunum, sleppt honum þar og hlaupið út. Hafi A ætlað að hlaupa á eftir ákærða en ákærði og C náð að forða sér inn í bifreið er þeir hafi komið á. Í framhaldinu hafi þeir farið í sund í Árbæjarlaug. Kvaðst ákærði stórlega efast um að þeir ákverkar er hafi greinst á A við læknisskoðun hafi verið af völdum ákærða. Ekki sé ólíklegt að A hafi hlotið áverkana við að falla með andlitið í gólf í anddyrinu. Ekki kvaðst ákærði sjálfur hafa hlotið alvarlega áverka við atlöguna, en hann hafi aðallega verið í ,,sjokki.” A kvaðst hafa verið nýbyrjaður með B er atburðir hafi átt sér stað. B hafi þar á undan verið í sambandi með ákærða. Hafi ákærði verið ósáttur við sambandsslitin og verið að ,,hrella” B eftir það. Hafi A verið heima hjá B að [...] á Seltjarnarnesi að morgni laugardagsins 28. febrúar 2004. Hafi ákærði hringt og spurt hvort foreldrar B væru heima. B hafi sagt ákærða að þau væru ekki heima en væru á leið heim úr sumarbústað. Um tveim klukkustundum síðar hafi A og B séð til ferða ákærða úti í garði en með honum hafi verið annar drengur, sem A hafi ekki þekkt. Í framhaldinu hafi verið bankað á útidyrahurðina. Hafi A farið til dyra. Þegar hann hafi opnað hurðina hafi ákærði staðið fyrir utan og félagi hans fyrir aftan hann. A hafi kastað kveðju á ákærða. Ákærði hafi hins vegar fyrirvaralaust slegið A með krepptum hnefa í andlitið og hafi höggið lent við nefrætur. Hafi A ,,séð hvítt” og í framhaldinu fengið annað högg frá ákærða í andlitið. Hafi A hrasað aftur á bak, lent með bakið upp að vegg og sigið niður á gólf. Hafi ákærði lent ofan á honum. Hafi hann ekki lent með andlitið í gólfið. Inni í anddyri hússins hafi ákærði haldið áfram að slá A í andlitið og hafi A reynt að verja andlit sitt. Einnig hafi ákærði tekið A hálstaki um leið og hann hafi haldið barsmíðunum áfram. Hafi hann haldið hálstakinu í talsverðan tíma. B hafi orðið vitni að þessum atburðum og reynt að stöðva árás ákærða með því að rífa í hár hans. Félagi ákærða hafi hins vegar ekkert gert til að stöðva árásina. Hafi B hringt í lögreglu. Þá hafi félagi ákærða marghvatt ákærða til að koma sér í burtu áður en lögregla kæmi. Þá hafi ákærði hætt að slá A, staðið á fætur og sparkað í hann. Um leið og ákærði hafi haldið á brott hafi hann haft í hótunum við A og sagt eitthvað á þá leið að hann ,,væri að fokka í röngum manni” og að hann myndi örugglega ekki vilja hitta ákærða aftur. Í kjölfarið hafi ákærði og félagi hans forðað sér á bifreið. A hafi farið á slysadeild. Þrjár framtennur hafi brotnað við árásina, auk þess sem A hafi fengið töluverða áverka í andliti. Á sunnudeginum hafi fósturfaðir A gert við hinar brotnu tennur. B hafi verið inni á gangi fyrir innan anddyrið er A hafi opnað útidyrahurðina og hún séð atburðarásina frá upphafi. A kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis að morgni laugardagsins. Hafi hann og B verið að skemmta sér kvöldið áður og verið að taka til. Af þeim ástæðum hafi A verið með flösku í hendi er hann hafi gengið til dyra. Flaskan hafi verið úr plasti og hafi A sennilega borið hana fyrir höfuð sitt er ákærði hafi lamið hann í andlitið. B kvað ákærða vera fyrrverandi kærasta sinn en þau hafi hætt saman um hálfu ári fyrir atburðinn. Hún hafi verið heima hjá sér að morgni laugardagsins 28. febrúar 2004 og hafi kærasti hennar, A, verið heima hjá henni. Foreldrar B hafi verið að heiman. Ákærði hafi hringt og spurt hvort foreldrar B væru heima. Hafi honum verið svarað með því að þau væru í sumarbústað. B og A hafi verið að taka til og séð einhverja hlaupa fram hjá stofuglugganum. Stuttu síðar hafi verið bankað á útidyrahurðina. A hafi farið til dyra og B staðið álengdar til að fylgst með hver væri kominn. Hafi hún séð A opna og ákærða standa fyrir utan. Hafi ákærði sagt eitthvað eins og ,,blessaður” en síðan hafi hann lamið A með krepptum hnefa í andlitið. A hafi vankast við höggið, fallið aftur fyrir sig að vegg og sigið niður á gólf. Ákærði hafi fylgt atlögunni eftir, m.a. lagst niður á hné og slegið A ítrekað í höfuðið eftir að A hafi fallið í gólfið. A hafi reynt að verjast árásinni með því að bera hendur fyrir höfuð sér. Ákærði hafi gripið A hálstaki um leið og hann hafi slegið til hans. Hafi B orðið mjög skelkuð og án árangurs reynt að ná ákærða af A. Félagi ákærða, C, hafi staðið hjá og ekkert aðhafst þrátt fyrir beiðni B þar um. Kvaðst B aldrei hafa séð slíka árás á nokkurn mann og því brugðið mjög. Hafi hún grátandi hringt í lögreglu og foreldra sína en ákærði hafi ekki hætt barsmíðunum þrátt fyrir það. Hafi hún óttast að ákærði ,,myndi ganga frá A” en atlagan hafi verið það harkaleg að blóðslettur hafi lent á veggjum við útidyrnar og á mottu í anddyri. Að lokum hafi ákærði staðið á fætur, sparkað í A og hlaupið á brott. C hafi farið með honum. Þeir hafi lagt bifreið í næstu götu og hlaupið þangað. Af þeim ástæðum hafi lögregla ekki orðið ferða þeirra vör en hún hafi komið skömmu síðar. B kvað A hafa verð með flösku í hendi er hann hafi opnað dyrnar. Hafi hann borið hana fyrir sig þegar ákærði hafi lamið hann í andlitið. Gæti verið að við fyrsta höggið hafi hún lent á munni A, en flaskan ekki komið við sögu eftir það. A hafi ekki slegið ákærða. Kvaðst B telja að ákærði hafi verið afbrýðisamur út í A og af þeim ástæðum ráðist á hann. Kvaðst B nú vera í sambúð með A, en samband þeirra hafi staðið frá því atburðir hafi átt sér stað. C kvaðst hafa verið með ákærða laugardaginn 28. febrúar 2004. Hafi þeir ætlað í sund en ákveðið að fara að [...] á Seltjarnarnesi til að ræða við B. Hafi þeir verið komnir langleiðina að Árbæjarlaug er þeir hafi tekið ákvörðun um að fara heim til B. Ákærði hafi verið fyrrum kærasti B og verið í símasambandi við hana áður en þeir hafi lagt af stað. Ákærði hafi knúið dyra að [...]. Drengur að nafni A, sem C hafi ekki séð fyrr, hafi komið til dyra með bjórflösku í hendi. Ákærði hafi óskað eftir því að fá að ræða við B en farið að rífast við A í dyragættinni. A hafi slegið til ákærða, sem hafi fært sig undan svo höggið hafi komið laust utan í höfuð ákærða. Hafi ákærði sennilega ekki meitt sig neitt við höggið. Ákærði hafi gripið um A til að verða ekki fyrir fleiri höggum og þeir síðan farið að ,,stympast”. Kvaðst C hafa staðið fyrir utan húsið og fylgst með. Hafi honum brugðið við viðbrögð A og því ekki náð að aðhafast neitt til að stöðva átökin. A hafi ítrekað reynt að kýla ákærða en ákærði reynt að halda í A svo hann yrði ekki fyrir höggum. Í átökunum hafi A og ákærði lent í gólfinu og A sennilega farið með andlitið í gólfið. C hafi þó ekki séð það gerast, heldur talið svo vera þar sem A hafi verið blóðugur í andliti eftir átökin og ákærði hvorki slegið til hans né sparkað. Eftir þetta hafi C og ákærði hlaupið á brott. B hafi ráðist á ákærða og rifið í hárið á honum. Hafi hún ekki séð upphaf átakanna og fyrst komið í dyrnar eftir að lætin voru yfirstaðin. C kvaðst fullyrða að ákærði hafi ekki slegið A í höfuðið. Ekki kvaðst C viss um hvor flaska sú er A hafi haft í hendi hafi verið úr plasti eða gleri eða hvort hún hafi rekist í A við átökin. Pétur Guðmundsson lögreglumaður kvað lögreglu hafa verið boðaða að [...] á Seltjarnarnesi umrætt sinn. Á vettvangi hafi verið rætt við þolanda, sem hafi verið með áverka í andliti. Einnig hafi verið rætt við stúlku, sennilega kærustu brotaþola. Þeim hafi verið leiðbeint um framhald málsins. Ekki kvaðst Pétur muna eftir að flaska hafi verið á vettvangi. Þá kvaðst Pétur telja að brotaþoli hafi verið án áfengisáhrifa, en ekki hafi fundist áfengislykt af honum. Niðurstaða: Ákærði hefur borið að hann hafi farið að [...] á Seltjarnarnesi, laugardaginn 28. febrúar 2004. Tilgangur með för hans hafi verið að útkljá samband hans og B. Er ákærði hafi knúið dyra hafi A opnað hurðina. Hafi hann ekki gefið ákærða færi á að ræða við B og slegið ákærða hnefahögg í andlitið. Hafi ákærði þá slegið A eitt hnefahögg í andlitið, stokkið á hann og gripið um hann til að verjast frekari höggum. Við það hafi þeir fallið í gólfið og A rekið andlitið í flísar á gólfi anddyrisins. Við fallið hafi A sennilega hlotið þá áverka er í ákæru greini. Ákærði hafi orðið að taka A hálstaki um hríð til að verjast honum. Eftir stutta stund hafi ákærði þó sleppt og hlaupið í burtu ásamt félaga sínum C. A og B bera með öðrum hætti um atvik. Lýsa þau bæði atvikum þannig að ákærði hafi hringt fyrr um morguninn og leitað eftir því hvort foreldrar B væru heima. Einhverju síðar hafi ákærði komið að húsinu við annan mann og knúið dyra. Er A hafi opnað dyrnar hafi ákærði fyrirvaralaust slegið A hnefahögg í andlitið. Hafi hann fylgt atlögu sinni eftir með fleiri hnefahöggum þar sem A hafi legið í gólfinu. Einnig hafi ákærði tekið A hálstaki um leið og hann hafi haldi barsmíðunum áfram. Á meðan hafi félagi ákærða staðið fyrir utan dyrnar og ekkert aðhafst þrátt fyrir að B hafi þráðfaldlega beðið hann um það. Um leið hafi hún reynt að ná ákærða frá A. C kom fyrir dóminn. Bar hann með svipuðum hætti og ákærði um atvik. Í tveim atriðum er frásögn hans þó á annan veg. Hefur hann fullyrt að ákærði hafi ekki slegið A í andlitið. Ákærði hefur þó viðurkennt að hafa slegið A eitt hnefahögg í andlitið. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa tekið A hálstaki þar sem þeir hafi verið í átökum á gólfi anddyrisins. A og B hafa einnig borið um að ákærði hafi tekið A hálstaki. C hefur engu slíku lýst en eingöngu borið að ákærði hafi haldið í A til að verjast höggum frá honum. Vitnið mætti ekki við aðalmeðferð málsins þrátt fyrir að hafa fengið boð um það. Gaf vitnið þá skýringu á fjarveru sinni við aðalmeðferðina að það hefði ,,gleymt” því að mæta. Að mati dómsins er framburður þessa vitnis ótrúverðugur. Telja verður hafið yfir vafa að afbrýðisemi hafi stjórnað för ákærða að [...] að morgni laugardagsins 28. febrúar 2004. Hafi ætlunin verið að stofna þar til ófriðar. B hafði þá töluverðu áður slitið sambandi þeirra og ákærða kunnugt um að annar karlmaður var kominn í hans stað. Framburður A og B hefur verið greinargóður og trúverðugur um atvik. Er óhætt að leggja til grundvallar að B hafi orðið vitni að allri atburðarásinni. Læknisvottorð ber um þá áverka er í ákæru greinir. Er fjarstæðukennt að slíkir áverkar geti hlotist af falli einu saman. Verður slegið föstu að ákærði hafi veitt A þessa áverka með hnefahöggum í andlitið. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Ákærði hefur gengist undir sátt vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Að öðru leyti hefur hann ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Atlaga ákærða að A var harkaleg og langvinn og hlaust af mikið líkamstjón. Þá liggur fyrir að ákærði réðst í förina í félagi við annan mann, gagngert í þeim tilgangi að stofna til ófriðar. Aðdragandi atlögu hans gagnvart A ber með sér að ákærði hafði fyrir fram tekið þá ákvörðun að valda A líkamstjóni. Með hliðsjón af þessu sbr. og 1., 2., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 8 mánuði, sem að hluta verður bundið skilorði svo sem í dómsorði greinir. Af hálfu A hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafan sett fram með þeim hætti að í fyrsta lagi er gerð krafa um greiðslu á 385.072 krónum, auk vaxta, vegna kostnaðar við lagfæringar á tönnum og kostnað við læknaþjónustu. Hefur fyrsti liður verið lækkaður undir rekstri málsins í það horf er hér greinir. Krafa um greiðslu á 385.072 krónum byggir á mati tannlæknis á hver yrði kostnaður brotaþola af tannskaða sínum. Fyrir liggur að þrjár framtennur brotnuðu. Í vottorðinu kemur fram að postulínskróna kosti um 70.000 krónur og fyllingar um 10.000 krónur ,,stykkið”. Kostnaður við þrjár tennur nemi því ,,trúlega” 380.000 krónum. Þá liggur fyrir að útlagður kostnaður vegna komu á Landspítala háskólasjúkrahús 3. mars 2004 hafi numið samtals 5.372 krónum. Byggir þessi kröfuliður þannig að mestu leyti á áætluðum kostnaði við endurbætur. Slík möt hafa dómstólar ekki lagt að jöfnu við raunverulegan kostnað af endurbótum og þar með tjón í skilningi skaðabótalaga. Er þessi kröfuliður vanreifaður og verður af þeim ástæðum vísað frá dómi. Verður útlagður kostnaður að fjárhæð 5.372 krónur þó tekinn til greina. Í annan stað er gerð krafa um greiðslu á miskabótum að fjárhæð 600.000 krónur, auk vaxta. Ákærði hefur valdið A miskatjóni. Á hann rétt á skaðabótum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Samkvæmt dómvenju eru þær hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir. Þá er höfð uppi krafa um greiðslu á 11.878 krónum í þjáningabætur, auk vaxta. Krafa um þjáningabætur eru studd við 3. gr. laga nr. 50/1993. Er á því byggt að A hafi verið rúmfastur í fjóra daga eftir árásina og að hann hafi verið heima við vegna veikinda í viku. Engin gögn hafa verið lögð fram þessu til stuðnings. Er kröfuliður um þjáningabætur því vanreifaður og verður honum vísað frá dómi. Ákærði greiði 60.000 krónur í lögmannskostnað. Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra um sakarkostnað, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík. Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærði, Jökull Jóhannsson, sæti fangelsi í 8 mánuði. Fresta skal fullnustu 5 mánaða af refsivistinni og sá hluti hennar falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði A, kt. [...], miskabætur og útlagðan kostnað að fjárhæð 305.372 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, af 300.000 krónum frá 28. febrúar 2004 til 1. apríl s.á, en af 305.372 krónum frá þeim degi til 15. júlí 2005, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr., af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags og 60.000 krónur vegna lögmannskostnaðar. Skaðabótakröfu A er að öðru leyti vísað frá dómi. Ákærði greiði 171.070 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns 156.870 krónur. |
Mál nr. 297/2010 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. maí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 8. júní 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Fallist er á með sóknaraðila að sterkur grunur sé um að varnaði hafi gerst sekur um brot sem varðað geti 10 ára fangelsi og telja verði varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 605/2011 | Kærumál Börn Bráðabirgðaforsjá Umgengni | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að K færi með forsjá dóttur málsaðila til bráðabirgða þar til dómur gengi í forsjármáli þeirra, sem og niðurstaða um umgengnisrétt. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. október 2011, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um forsjá dóttur þeirra, A, til bráðabirgða og umgengni við hana á meðan rekið er mál varnaraðila á hendur sóknaraðila um forsjá barnsins. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá barnsins til bráðabirgða og varnaraðila gert að greiða einfalt meðlag með barninu frá 1. nóvember 2011. Til vara krefst hann þess að lögheimili barnsins verði hjá sér, en varnaraðili hafi umgengni við það aðra hverja viku frá fimmtudegi til sunnudags kl. 20. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að lögheimili barnsins verði hjá sér og sóknaraðila gert að greiða einfalt meðlag með barninu „frá uppkvaðningu úrskurðar þar til endanlegur dómur gengur í forsjármáli milli aðila.“ Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því krafa hennar um málskostnað í héraði ekki til álita hér fyrir dómi. Sóknaraðili gerir athugasemdir við meðferð héraðsdóms á máli þessu sem hafi verið á þann veg að hann hafi ekki fengið að gæta hagsmuna sinna. Hafi forsjármálið verið þingfest 5. október 2011, en krafa varnaraðila um bráðabirgðaforsjá hafi verið tekin fyrir í þinghaldi 7. sama mánaðar og ákveðið að taka hana til aðalmeðferðar þremur dögum síðar, þrátt fyrir andmæli sóknaraðila. Af fyrirliggjandi endurriti úr þingbók vegna fyrirtöku málsins 7. október 2011 verður ekki séð að lögmaður sóknaraðila hafi andmælt þessari ákvörðun dómara. Af hálfu sóknaraðila var lögð fram greinargerð í þinghaldinu 10. sama mánaðar og aðspurðir af dómara í því þinghaldi töldu lögmenn beggja aðila ekkert því til fyrirstöðu að aðalmeðferð færi fram. Verður því ekki séð að hinn skammi frestur hafi komið í veg fyrir að sóknaraðili gæti gætt hagsmuna sinna. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði tók sóknaraðili barn aðila af leikskóla 20. september síðastliðinn án vitundar og í óþökk varnaraðila og neitaði henni um umgengni við það. Fyrir liggur að eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar skilaði sóknaraðili barninu til varnaraðila. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 639/2010 | Ávana- og fíkniefni Upptaka | V og Y voru sakfelldir fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, með því að hafa staðið að umfangsmikilli ræktun á kannabisplöntum í sölu- og dreifingarskyni og haft í vörslum sínum 493 kannabisplöntur, 2.806,9 g af kannabislaufum og 10,98 g af hassi. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms um sakfellingu ákærðu, en refsing beggja var ákveðin fangelsi í 14 mánuði. Sakarferill ákærðu, hvors um sig, auk umfangs og eðlis brotsins voru ekki talin gefa tilefni til þess að skilorðsbinda refsingu þeirra. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Eggert Óskarsson héraðsdómari. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2010 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms. Ákærði, Valur Hermannsson, krefst þess að refsing hans verði milduð. Ákærði, Y, krefst þess að refsing hans verði milduð. Eftir að dómur gekk í héraði gekkst ákærði Y undir tvær lögreglustjórasáttir fyrir umferðarlagabrot. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var ákærða Y skipaður nýr verjandi, Sigmundur Hannesson hæstaréttarlögmaður, í stað Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns. Hafði hinn síðarnefndi þá skilað til Hæstaréttar greinargerð fyrir hönd ákærða. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu fundnir sekir um brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með því að hafa, eins og þar segir nánar, staðið að umfangsmikilli ræktun á kannabisplöntum í sölu- og dreifingarskyni. Brot ákærðu varðar við 2. gr., sbr. 4. gr., 5. gr. og 6. gr. laganna. Í héraðsdómi eru rakin þau atriði sem helst skulu hafa áhrif á refsingu ákærðu. Með vísan til þess verður refsing hvors ákærðu um sig ákveðin fangelsi í 14 mánuði. Þá er fallist á með héraðsdómi að sakarferill ákærðu hvors um sig, umfang og eðli brotsins gefi ekki tilefni til að skilorðsbinda refsingu ákærðu. Ákvæði héraðsdóms um upptöku eru ekki til endurskoðunar og standa þau óröskuð sem og ákvæði um sakarkostnað. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður kostnaður við áfrýjun felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að ákærðu, Valur Hermannsson og Y, sæti hvor um sig fangelsi í 14 mánuði. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Helga Birgissonar 251.000 krónur, Sveins Andra Sveinssonar 125.500 krónur og Sigmundar Hannessonar 188.250 krónur. Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. október 2010. Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 28. maí sl. á hendur Vali Hermannssyni, kt. 021084-3019, Blásölum 14, Kópavogi, Y, kt. […], […] og X „fyrir stórfellt brot á lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa í ágúst 2008 sett upp mjög stóra ræktunaraðstöðu fyrir allt að 500 kannabisplöntur í útihúsi við [...] í [...], [...] og hafa staðið að ólögmætri ræktun á kannabisplöntum allt fram til 23. mars 2009 er lögregla fann ræktunaraðstöðuna við húsleit og fyrir að hafa umrætt sinn haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 493 kannabisplöntur sem samtals vógu 68.313,7 gr, 2.706.9 gr af kannabislaufum og 10,98 g af hassi sem lögregla fann við áðurnefnda húsleit. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og að ákærðu verði gert að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá 15457) sem hald var lagt á, sbr 6. mgr. 5. gr. laga um ávana og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Jafnframt er sbr. 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, krafist upptöku á eftirtöldum munum sem notaðir höfðu verið eða ætlaðir voru til ólögmætrar ræktunar kannabisjurta og meðferðar fíknefna og uppsetningar á búnaði til ræktunar fíkniefna, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins: 1. 9 x 20 ltr brúsa af Voeding gróðurvökva 2. 6 x 10 ltr brúsa af Atazyne gróðurvökva 3. 2 x 5 ltr brúsa af Wortel gróðurvökva 4. 2 x 1 ltr brúsa af Ataclean gróðurvökva 5. 1 x 1 ltr brúsa af GHE gróðurvökva 6. 1 brúsa af silicate vökva 7. 8 stk plaströr 5,90 metrar að lengd, hvert 8. 32 stk götuð plaströr 3,71 metrar að lengd, hvert 9. 31 stk plaströr 1,39 metrar að lengd, hvert 10. 12 stk Gatvita hitalampar 11. 1 stór kassi af svörtum plastpottum (um 3000 stykki) 12. 3 stk Flotec FP7KV vatnsdælur 13. 1 stk Top 2 Pedrollo vatnsdælu 14. 2 stk SN-001155 viftur 15. 1 stk Bomann vifta 16. 1 stk Bosch Aquatak dæla 17. um 10,4 metrar af 6 tommu plastbarka 18. 2 klaufhamrar 19. 1 stk Kaz blásari 20. 1 stk Kassel blásari 21. 36 metra af garðyrkjuslöngum 22. heimatilbúin rafmagnstafla 23. 1 stk hvítur rafmagnsofn 24. 4 pakkar af grænu rótarneti 25. 1 kassi af rafmagnssnúrum og tengjum 26. 6 slöngubútar 27. 3 stk gráir blásarar með börkum Þá er þess ennfremur krafist að ákærða Vali verði gert að sæta upptöku á ætluðum hagnaði af fíkniefnasölu, kr. 11.895.000,- og 7.265 evrum að frádregnum kr. 3.747.454,- sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.“ Mál þetta var þingfest 24. júní sl. og kom ákærði Valur þá fyrir dóm ásamt Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hrl., en lögmaðurinn hafði áður verið skipaður verjandi ákærða vegna málsins og fengið afhent gögn þess. Ákærði Valur játaði sök samkvæmt ákæru og samþykkti upptöku á fíkniefnum, en mótmælti kröfu um upptöku á fjármunum. Ákærði X kom fyrir dóminn 26. ágúst sl. ásamt Bjarna Haukssyni hrl. og óskaði eftir skipun hans sem verjanda og var lögmaðurinn skipaður til starfans í þinghaldinu. Ákærði neitaði sök. Ákærði Y kom fyrir dóminn 9. september sl., óskaði eftir að Brynjar Níelsson hrl. yrði skipaður verjandi sinn og var það gert. Ákærði Y játaði sök í þinghaldinu og mótmælir ekki kröfu um upptöku á fíkniefnum og búnaði. Enginn verjenda ákærðu óskaði eftir að leggja fram greinargerð. Aðalmeðferð málsins fór fram 17. september 2010 og var málið tekið til dóms að henni lokinni. Verjandi ákærða Vals krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að dæmd fangelsisrefsing verði bundin skilorði. Þá krefst verjandinn þess að ákærði verði sýknaður af kröfu um upptöku á fjármunum. Loks krefst verjandi jafnframt hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Verjandi ákærða Y krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði dæmd skilorðsbundin, auk hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Verjandi ákærða X krefst þess aðallega að ákæru verði vísað frá vegna ákærða X, en til vara að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds í málinu og til þrautavara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði að öllu leyti bundin skilorði. Hann krefst þess jafnframt að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði í öllum tilvikum og þar með talin hæfileg málsvarnarlaun. Málavextir. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu er upphaf máls þessa að rekja til þess að lögreglunni á Selfossi bárust upplýsingar um að hugsanleg framleiðsla fíkniefna í [...] tengdist tiltekinni bifreið, en bifreiðin var skráð á [...] ákærða Vals, en lögregla hafði fengið um það upplýsingar að ákærði Valur tengdist nokkrum ræktunarmálum í Reykjavík. Þá var lögreglu kunnugt um að ákærði Y hefði verið handtekinn vegna fíkniefnamáls, ásamt ákærða Val, en ákærði Y væri [...] bóndans á [...] í [...], A. Bifreiðin hefði sést í förum í [...] að koma frá [...]. Hafi lögregla farið að ræða við A á [...] 25. mars 2009 og hafi hann strax kannast við bifreiðina og að hún hefði komið þar, en þá hefðu komið á henni ákærðu Valur og Y. Þeir hefðu farið í skemmu sem A hefði leigt til ákærðu Y og X. Hafi A strax kvaðst átta sig á komu lögreglumannanna og í beinu framhaldi af þeim orðum vísað lögreglu á aðstöðu sem ákærðu X og Y hafi haft á leigu hjá honum frá því síðla sumars 2008. A hafi ekki kvaðst vita hvað væri þar inni, en teldi það ekki vera lögum samkvæmt. Hafi A vísað lögreglu á vélageymslu og lokað rými þar inn af og hafi þar verið mikið af kannabisplöntum. Kemur fram í frumskýrslu að A hafi tjáð lögreglu á vettvangi að ákærðu Y og X hafi komið að máli við hann fyrir nokkru síðan og hafi þeir sagst ætla að sinna þar einhverskonar smíðaverkefni fyrir C, en ákærði Y ynni þar. Nokkru síðar hafi ákærði Valur komið þarna og hafi ákærði Y sagt að hann væri smiður og myndi aðstoða við smíðina. Þetta hafi verið síðsumars 2008. Við leit lögreglu í umræddri vélageymslu fundust 496 kannabisplöntur, alls 68.313,7 g, 2.706,9 g af kannabislaufum og 10,98 g af hassi. Var lagt hald á kannabisplönturnar og fíkniefnin. Var ein plantnanna send rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði til greiningar og var plantan græn og blómstrandi. Vóg plantan 841,4 g við komu á rannsóknarstofuna, en eftir þurrkun 187,6 g. Magn tetrahýdrókannabínóls í plöntunni mældist 78mg/g eftir þurrkun, sem samsvarar 17mg/g fyrir þurrkun skv. matsgerð rannsóknarstofunnar. Við rannsókn málsins var gerð leit í bankahólfi ákærða Vals og fundust þar í íslenskum seðlum kr. 11.827.000 og 7.265 evrur í seðlum. Var lagt hald á féð. Þá fundust við leit á heimili ákærða Vals 68.000 kr. í íslenskri mynt. Var jafnframt lagt hald á það. Ákærði Valur gaf tvívegis framburðarskýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins. Í fyrri skýrslu kannaðist ákærði Valur við að hann ætti aðild að málinu. Kvað hann ræktunina hafa hafist haustið 2008 en þá hafi þeir hafist handa við að útbúa aðstöðuna. [...] hafi orðið fyrir valinu þar sem A ætti heima þar. Þá er bókað eftir ákærða „Þá var X einnig með okkur í þessu. En engir aðrir.“ Það sem þurft hafi til hafi þeir keypt í versluninni [...] og lamparnir hafi verið keyptir í versluninni [...] og líklega hafi meðákærði Y keypt þá. Kvaðst ákærði Valur sjálfur hafa lagt til fræ. Þeir hafi séð um ræktunina hann sjálfur og meðákærðu Y og X, þeir hafi sjálfir séð um uppskeru en neitaði að svara hve oft hafi verið uppskorið, en þeir hafi þrír átt að fá það sem fengist út úr ræktuninni. Í sömu skýrslu er haft eftir ákærða að það hafi verið farið að styttast í fyrstu uppskeru. Þeir hafi átt að greiða eitthvað fyrir aðstöðuna en meðákærði Y hafi séð um að semja um það við A, en A hafi ekkert vitað hvað hafi verið í gangi. Allir þrír ákærðu hafi verið með lykil að húsnæðinu og engir aðrir. Síðast hafi ákærði komið á vettvang um mánuði fyrir handtöku en þá hafi þeir komið þrír saman, ákærði sjálfur og meðákærðu Y og X, en ákærða minnti að þeir hefðu farið á bifreið meðákærða X. Allir hafi þeir haft kunnáttu á þessu sviði. Kvað ákærði að þeir ættu saman þrír allan búnað sem lagt var hald á. Þá kom fram hjá ákærða að hann hafi verið duglegur að vinna og leggja fyrir en þó hafi fé hans verið á þrotum. Aftur gaf ákærði Valur skýrslu hjá lögreglu, en þá var honum kynnt að lögregla hefði lagt hald á framangreint fé í bankahólfi hans. Kvað hann D eiga a.m.k. 5 milljónir af því fé, en hitt væri fé sem ákærði hefði sankað að sér gegnum árin með alls kyns braski, fjárhættuspilum og fleiru. Ákærði þverneitaði því að féð tengdist umræddri kannabisræktun á nokkurn handa máta. Þá tók ákærði fram í skýrslunni að hlutur meðákærða X væri mjög lítill og mikið minni en hlutdeild hans sjálfs og meðákærða Y. Ákærði Y var einu sinni yfirheyrður af lögreglu undir rannsókn málsins. Kom fram hjá honum að hann væri saklaus af því að eiga ræktunina en hann hefði komið að því að setja upp búnaðinn og leigja húsnæðið og hann hafi vitað til hvers hafi átt að nota húsnæðið. Kvaðst síðast hafa komið að [...] tveimur til þremur vikum fyrir skýrslutökuna, en þá hafi hann verið að leika sér á fjórhjóli og hafi jafnframt kíkt á ræktunina. Meðákærði X hafi nokkrum sinnum komið að [...] þá um veturinn. Ákærði Y bar að hann hafði fengið lánaða skemmuna og hana hafi átt að nota til ræktunarinnar. Ákærði kannaðist við að hafa nokkrum sinnum komið í húsið sem ræktunin var í og séð plönturnar, en vildi ekki tjá sig um hverjir aðrir hefðu þá verið þar. Ákærði bar að hann hefði komið á sendibíl með timbur sem notað var við að koma upp aðstöðunni, en annað myndi hann ekki hver hefði komið með. Ákærði hafi svo komið að því með meðákærðu Val og X að bera inn það sem notað var til að setja upp ræktunina og hann hafi jafnframt komið að því að setja upp búnaðinn. Hann hafi gert sér grein fyrir hvað átti að gera þarna, en hann hafi verið beðinn um að aðstoða við þetta. Ákærði neitaði að hafa keypt lampana sem hefðu verið notaðir við ræktunina. Ákærði bar að ekki hefði verið rætt um skiptingu ágóða af ræktuninni en að hann hefði átt að fá einhverja peninga út úr henni, en það hafi ekki orðið ennþá. Ákærði bar að hann hefði hvorki séð uppskeru úr ræktuninni né vissi til þess að tekin hefði verið uppskera úr ræktuninni. Ákærði bar að hann hefði nokkrum sinnum vökvað plönturnar en að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um verkaskiptingu. Engan kostnað kvaðst ákærði hafa lagt í ræktunina nema ef vera skyldi eldsneytiskostnað við að flytja aðföngin að [...]. Um aðild meðákærðu Vals og X vildi ákærði Y ekki tjá sig við lögreglu. Af ákærða X var tekin ein framburðarskýrsla undir rannsókn málsins. Ákærði kannaðist ekkert við ræktun á kannabisplöntum. Hann hefði komið þangað þar sem A ætti staðinn og hefði hann stundum farið þangað til að leika sér á fjórhjóli í fjörunni þar. Síðast hefði ákærði komið að [...] í ágúst 2008 og þá í þeim tilgangi að fara á fjórhjól eða „krossara“. Kvaðst ákærði vita hver væri meðákærði Valur, en hann væri ekki vinur sinn. Aðspurður kannaðist ákærði við að hafa hjálpað meðákærðu að bera timbur í skemmu þegar hann hefði verið að [...] í ágúst 2008 í framangreindri heimsókn sinni til að aka fjórhjóli, en sá hafi ekki verið tilgangur heimsóknar sinnar og hann hafi ekki haft hugmynd um til hvers timbrið væri ætlað. Ákærði kvaðst vera á skilorði og vildi ekki koma nálægt neinu í þessa veru. Ákærði neitaði því að hann hefði falast eftir að fá húsnæðið leigt eða falast eftir áframhaldandi leigu. Undir rannsókn málsins voru teknar vitnaskýrslur af A, [...], og D. Hjá vitninu A kom fram að ákærði Y hefði lýst á huga á því síðla sumars 2008 að fá, ásamt ákærða X, leigt hjá vitninu húsnæði. Hafi ákærði Y sagt þá ætla að smíða þar fyrir C. Þeir hafi komið um haustið nokkrum sinnum, m.a. með timbur og verkfæri, en hann hafi ekki mikið hitt þá. Vitnið bar að hafa fengið að vita að ákærði Valur væri með þeim í þessu líka. Vitnið Daría bar að hún og ákærði Valur hefðu átt peningana sem hald var lagt á í bankahólfinu, en hennar hluti hefði verið fimm milljónir og megnið af því hefði verið tryggingafé vegna slyss. Þau hafi viljað geyma peningana sína í bankahólfi vegna vantrausts á bönkum eftir fall bankanna haustið 2008. Um tilurð þeirra peninga sem tilheyrðu ákærða Val bar vitnið að ákærði Valur hefði unnið mjög mikið, m.a. við hellulagnir og þ.u.l. og ýmsa verktakavinnu, m.a. hefði hann átt gröfu, en mikið af tekjum ákærða vegna þessa hefði verið „svart“. Við rannsóknina fór fram könnun á fjármálum ákærðu. Við þá könnun kom í ljós að eyðsla ákærða Vals væri talsvert umfram uppgefnar tekjur, en flestir reikninga hans væru þó jákvæðir eða a.m.k. ekki neikvæðir. Var meðal annars aflað gagna frá félagsmálayfirvöldum í Reykjavík um lágmarksframfærslukostnað. D voru endurgreiddar af hinu haldlagða fé kr. 3.747.454 þar sem sýnt þótti að þeir fjármunir væru vegna greiðslu slysabóta. Framburður ákærða og vitna fyrir dómi. Ákærði Valur Hermannsson játaði fyrir dómi að hafa staðið að ræktun kannabisplantna og vörslum á þeim og öðrum fíkniefnum eins og lýst er í ákærunni. Upptökukröfu vegna áhalda og muna sem notaðir hefðu verið kvaðst ákærði ekki mótmæla. Ákærði mótmælti kröfu ákæruvalds um upptöku á peningum. Féð væri ekki afrakstur fíkniefnasölu heldur hefði ákærði verið að vinna mikið og sú vinna hefði verið „svört“ og með því móti hefði ákærði aflað mikilla tekna á löngum tíma. Hafi hann lagt fyrir lengi vel. Þá hefði hann líka stundað fjárhættuspil og væri almennt mjög fégráðugur maður. Ákærði kvaðst hafa unnið sjálfstætt sem verktaki, í jarðvegsvinnu, hellulögnum o. fl., m.a. með gröfu. Þá hefði ákærði líka unnið að hluta sem launamaður hjá E og fengið verk gegnum hann og raunar unnið líka fyrir hann persónulega sem verktaki. Hefði ákærði líka tekið að sér ýmis önnur verk, s.s. húsamálun og annað viðhald á húsum, t.a.m. þakrennuviðgerðir. Þá hefði ákærði mokað snjó á vetrum. Almenna verktakastarfsemi kvaðst ákærði hafa byrjað haustið 2005 með því að mála hús á [...] í Reykjavík og fyrir það hefði hann fengið 700.000 kr. Hefði ákærði tekið hvað sem er að sér. Hefði ákærði fengið greitt frá tugum þúsunda upp í mörg hundruð þúsund krónur fyrir mörg verk. Hefði verið mikil gósentíð og nóg að gera, svo að ákærði hafi ekki komist yfir öll verk sem hann hefði getað fengið. Hefði ákærði unnið mikinn fjölda verka fyrir mörg hundruð manns og fengið mikið greitt. Nefndi ákærði nokkur dæmi um verk sem hann hefði unnið en nefndi ekki nákvæmar staðsetningar. Erfitt hefði verið að biðja fólk að staðfesta þetta þar sem verkin hefðu verið unnin „svart“. Kvaðst ákærði hafa unnið við garðavinnu frá 16 ára aldri en hafa farið að vinna sjálfstætt upp úr tvítugu og gert það langt fram eftir árinu 2008, eða allt fram að fjármálahruni því sem varð haustið 2008. Ákærði kvaðst hafa verið með strák eða stráka með sér í vinnu. Eftir það hafi ekki verið neitt að gera. Ekki kvaðst ákærði hafa haldið neina ársreikninga eða neitt slíkt, enda hefði hann ekkert kunnað fyrir sér í fyrirtækjarekstri að því leyti. Kvaðst ákærði hafa verið í „góðum málum“ fjárhagslega frá u.þ.b. 2005 en þá hafi hann virkilega farið að safna peningum. Ekki kvað ákærði að til væru nein gögn um allt það fé sem ákærði hefði aflað með framangreindum hætti. Ákærði kvaðst hafa aflað sér verkfæra og verið með auglýsingu í Fréttablaðinu reglulega. Fjárins í bankahólfinu kvaðst ákærði hafa aflað allt frá árinu 2005 og langt fram eftir árinu 2008. Ákærði skýrði svo frá að hann væri í sambúð og ættu þau kona hans von á barni innan tveggja vikna. Hafi hann ekkert brotið af sér frá því að umrædd kannabisræktun var stöðvuð. Ákærði kvaðst reka innflutningsfyrirtæki og verslun með gróðurvörur. Ákærði bar að D hefði átt um 5 milljónir af fénu sem hald hafi verið lagt á. Þeir peningar hafi verið tilkomnir með vinnu og tryggingabótum vegna slyss. Þau hafi ekki treyst bönkunum eftir fall þeirra haustið 2008 og því talið öruggara að geyma fé í bankahólfi en á reikningi. Bankahólfið hefði hann tekið á leigu í ársbyrjun 2006 að hann minnti. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað neitt um það að innistæðueigendur á Íslandi hefðu átt að fá greiddar allar bankainnistæður sínar eftir svonefnt „bankahrun“. Um þátt meðákærðu í ræktuninni vísaði ákærði til framburðar síns hjá lögreglu, en tók þó sérstaklega fram að meðákærði X hefði eiginlega ekkert komið að málinu og hans hlutur væri sama og enginn. Enginn hefði nokkurn tíma haft nokkrar tekjur af plöntum sem lagt var hald á í málinu. Ákærði Y gaf skýrslu fyrir dómi og játaði sakargiftir að fullu eins og þeim er lýst í ákærunni. Kvað hann meðákærða Val vera æskufélaga sinn. Kvað hann hugmyndina að ræktuninni hafa verið sameiginlega. Ákærði kvaðst þekkja meðákærða X og þeir hefðu verið vinir í nokkur ár og lékju saman fótbolta. Kvað ákærði að þáttur meðákærða X væri „eiginlega enginn“. Hann hafi ekkert komið nálægt þessu og engar skýringar hefði hann á því hvers vegna meðákærði X væri flæktur í málið. Meðákærði X hafi hjálpað til við að bera spýtur inn í bíl eða út úr bíl á vettvangi ræktunarinnar þegar verið var að koma upp aðstöðunni, áður en nokkur ræktun hófst, en ákærði kvaðst ekki hafa sagt honum neitt um fyrirhugaða ræktun. Meðákærði X hafi ekki hjálpað neitt við þetta að öðru leyti. Ekki taldi ákærði að meðákærði X hefði komið í rýmið þegar ræktunin var hafin. Ákærði X hafi engan þátt átt í þessu. Ákærði kvaðst sjálfur hafa útvegað húsnæðið. Ákærði og meðákærði Valur hafi hjálpast að við að smíða og koma upp aðstöðunni og koma ræktuninni í gang. Báðir hafi þeir gefið áburð og vökvað plönturnar. Ekki hefði verið um fræ að ræða heldur afklippur og græðlinga, en meðákærði Valur hafi útvegað það. Ákærði kvaðst vera í vinnu, en hann væri ekki í sambúð. Ekki kvaðst ákærði hafa haft tekjur af þessu og hefði ekki selt fíkniefni. Ákærði kannaðist við að meðákærði X hefði komið með sér að [...] í eitt eða tvö skipti til að leika sér á mótorhjóli. Ákærði kvaðst hafa staðið að brotinu í þeim tilgangi að græða sem mest fé til að koma sér upp fjármagni til að stofna löglegt fyrirtæki. Hafi þetta átt að gerast bara einu sinni til tvisvar á sem stystum tíma í sínum huga. Byrjunin hafi verið 4-5 mánuðum áður en lögreglan komst í spilið. Ákærði X gaf skýrslu fyrir dóminum og neitaði sakargiftum með öllu. Ekki kvaðst ákærði skilja hvers vegna hann hefði flækst í málið. Ákærði kvaðst vera vinur meðákærða Y síðan í grunnskóla og meðákærði Valur væri kunningi þeirra. Ákærði kvaðst hafa farið að [...] ásamt meðákærða Y til að leika sér á fjórhjóli á ströndinni. Eitt kvöldið hafi Valur verið á staðnum og þá hafi ákærði hjálpað báðum meðákærðu við að bera inn timbur. Ekki hafi ákærði neitt vitað til hvers timbrið væri eða hvað ætti að gera þarna, en meðákærðu hafi beðið sig um að hjálpa sér við að bera timbrið inn í skemmuna. Þeir hafi borið timbrið inn í skemmuna þar sem voru húsbílar og vagnar, að dyrum sem ganga að annarri skemmu en þangað inn hafi ákærði ekki komið, hvorki þá né nokkurn tíma síðar. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð umræddar kannabisplöntur. Kom fram hjá ákærða að hann væri í vinnu og hefði verið á umræddum tíma. Ekki kvaðst ákærði hafa neitt að athuga við upptökukröfu í ákæru, enda varðaði krafan hann ekki og hann gæti ekki tjáð sig neitt um hana. Vitnið Rúnar Þór Steingrímsson rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi gegnum síma og skýrði frá því að hafa komið að [...] og hitt þar fyrir A sem hafi vísað lögreglu á skemmu þar sem hafi verið kannabisræktun. Minnti vitnið að A hafi sagt að ákærðu Y og X hafi leigt af sér skemmuna. Hald hafi verið lagt á plönturnar og þær sendar tæknideild lögreglu í Reykjavík. Heima hjá ákærða Val hafi fundist bankahólfslykill og ákærði Valur hafi opnað fyrir lögreglu bankahólfið og í því hafi verið peningar sem hafi verið lagt hald á. Lögregla hafi farið yfir upplýsingar um tekjur frá skattyfirvöldum og bankareikninga. Þá hafi lögregla fengið almennar upplýsingar um almennan lágmarksframfærslukostnað frá félagsmálayfirvöldum í Reykjavík. Ákærði Valur hafi borið að D ætti hluta fjárins og sjálfur hafi hann kvaðst hafa unnið í fjárhættuspilum og nurlað saman fé í gegnum tíðina. D hafi talað um að hann hafi unnið „svarta vinnu“, en ekki mundi vitnið hvort ákærði hefði sjálfur borið um það. Fengnar hafi verið upplýsingar frá tryggingafélögum vegna framburðar um að féð væri slysabætur og það hafi komið í ljós að hún hafi fengið slysabætur frá tveimur tryggingafélögum einhverjum árum á undan. Haldi hafi verið aflétt og henni hafi verið endurgreitt það í samræmi við þær tölur. Ekki kvað vitnið liggja fyrir sönnunargögn um að sala fíkniefna hafi farið fram vegna framleiðslunnar á [...]. Vitnið A kom fyrir dóm og kvaðst vilja gefa skýrslu þótt honum væri það ekki skylt. Vitnið skýrði frá því að hann hefði leigt [...]ákærða Y, húsnæðið og raunar hafi hann líka verið meðvitaður um að ákærði Valur kæmi að því líka en þeir væru æskuvinir. Hafi ákærði Y talað um að skapa sér aukatekjur við smíðar þar sem hann væri í vaktavinnu. Kvaðst vitnið hafa verið fjarverandi meira og minna vegna eigin vinnu, en ákærði Y hafi talað við sig í júlí 2008 um að fá skemmuna leigða. Upp úr því hafi þeir komið þangað eitthvað að dunda. Ákærði X hafi komið einu sinni með hinum um miðjan dag og þá hafi þeir verið eitthvað að bauka en verið stutt við. Fyrst um sumarið hafi fyrst og fremst verið hreinsað út úr húsnæðinu. Í september hafi þeir komið með timbur og stál sem þeir hafi dregið að sér, ekki mundi vitnið hvort ákærði X hafi verið með í því, eða hvort þann dag hefðu þeir líka verið að leika sér á fjórhjólum eða skellinöðrum einhverskonar, en einhvern tíma hefðu þeir verið að leika sér á „krossara“. Þeir hafi verið búnir að setja upp langt trévinnuborð en lítið annað hafi gerst. Vitnið hafi verið mikið fjarverandi fram til loka nóvember 2008. Vitnið E kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að ákærði Valur hafi starfað hjá sér við malbikunarfyrirtæki á árunum 2005-2007 m.a. við að safna upplýsingum um ástand gatna og þ.u.l. Ákærði hafi starfað hjá sér sem launamaður. Ákærði hafi verið að vinna hjá öðrum verktaka en óskað eftir vinnu hjá sér. Kvað vitnið sér hafa verið kunnugt að ákærði hafi verið með sjálfstæðan rekstur og verið m.a. með gröfu. Hafi vitnið fengið ákærða til að vinna m.a. í sínum eigin garði, en vitnið hafi vitað til þess að ákærði Valur hafi unnið mikið sjálfstætt á þessum tíma og hafi vitnið raunar vísað á ákærða um ýmis verk. Ekki vissi vitnið hvernig hefði verið greitt fyrir þau verk. Kvaðst vitnið hafa greitt ákærða „svart“ fyrir þá vinnu sem ákærði hafi unnið fyrir hann prívat og með reiðufé en enginn reikningur hafi verið gefinn út, en það hafi hentað báðum vel. Vitnið kvaðst hafa verið í ágætu sambandi við ákærða Val og hann hafi beðið sig um að bera vitni fyrir dóminum. Vitnið kvaðst muna til þess að ákærði hafi verið með smágröfu en mundi ekki glögglega eftir frekari tækjabúnaði. Vitnið D kom fyrir dóminn og kvaðst vildi gefa skýrslu þó sér væri það óskylt. Hún skýrði svo frá að hún hafi átt tæpar 5 milljónir króna í bankahólfi því sem að framan er lýst og um getið. Það fé hafi fyrst og fremst verið tilkomið vegna bóta sem hún hafi fengið vegna tveggja bílslysa sem hún hafi lent í með stuttu millibili, en hún hafi slasast talsvert. Hafi hún fengið greiddar rúmar 3 milljónir í bætur vegna slysanna, en auk þess hafi verið upp undir 2 milljónir sem hún hafi lagt fyrir með vinnu. Hafi bæturnar verið greiddar á árinu 2007 og lagðar inn á reikning. Hún hafi tekið út af reikningnum af og til. Hafi hún verið að safna peningum til að geta lokið háskólanámi sínu án þess að þurfa að taka námslán. Eftir fall bankanna haustið 2008 hafi hún ekki treyst bönkunum og því ekki vilja geyma fé sitt á bankareikningum heldur talið öruggara að geyma féð í bankahólfinu hjá ákærða Val, [...]. Hún hafi látið ákærða hafa peningana til að setja þá í bankahólfið. Ekki mundi vitnið nákvæmlega hve lengi ákærði hefði verið með bankahólfið [...]. Ákærði hafi starfað „svart“ [...], en hann hafi þó ekki farið að vinna mikið fannst henni fyrr en árið 2007, en þá hafi hann farið að vinna mjög mikið og unnið „svart“. Hafi ákærði unnið með gröfunni og fengið stráka til að hjálpa sér. Ekki vissi vitnið nákvæmlega hvernig verk var um að ræða en nefndi þó hellulagnir. Taldi vitnið að ákærði hefði verið með mjög góðar tekjur á árunum 2007 og 2008. Megnið af afrakstrinum hafi farið í bankahólfið [...]. Ekki vissi vitnið fyrir hverja hefði verið unnið en greiðslur hefðu verið „svartar“. Vitnið taldi þó að ekki hefðu allar tekjur ákærða verið „svartar“, en ekki gat hún sagt til um hve stór hluti tekna hans væri eða hefði verið „svartur“. Vitnið kvaðst hafa séð launaseðla hjá ákærða. Ekki vissi vitnið til þess að ákærði hefði nokkurn tíma verið með tekjur af fíkniefnasölu, en nokkur kostnaður hafi hins vegar farið í að setja upp aðstöðuna til ræktunarinnar. Vitnið kvaðst hafa haft launatekjur sem rekstrarstjóri hjá [...] og svo hafi hún verið verslunarstjóri eitt sumar og svo hafi hún unnið hjá [...]. [...] Hafi hún tekið bæturnar smám saman út af reikningum og sett í bankahólfið og eytt að einhverju leyti. Vitnið gat ekki gert fulla grein fyrir mismun á tekjum samkvæmt skattframtali og innlögnum á reikning sinn annars vegar og eyðslu skv. korta- og bankayfirlitum hins vegar. Vitnið Elís Kjartansson lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að lögregla hafi fengið upplýsingar um hugsanlega stórfellda ræktun fíkniefna í [...]. Eftirgrennslan beindi grun að [...] og fljótlega hafi lögregla farið þangað. Hafi A tekið á móti þeim og opnað þeim leið í skemmu þar sem hafi verið mikið af kannabisplöntum A hafi upplýst að fyrir þessu stæðu [Y] og félagar hans. Ekki mundi vitnið hvort nöfn voru þá nefnd og þá hvaða nöfn. Vitnið taldi fráleitt að plönturnar hafi verið hugsaðar til einkaneyslu. Vitnið Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að hafa hitt A á [...] strax á vettvangi. Ekki hafi þetta virst koma A á óvart, en hann hafi vísað lögreglu á plönturnar. Vitnið minnti að A hafi sagt frá því að [Y], ásamt ákærðu Val og X væru með húsnæðið til afnota. Lokað hafi verið inn í rýmið þar sem kannabisplönturnar voru og það þannig sérskilið frá öðrum hlutum skemmunnar. Vitnið Elín Jóhannsdóttir lögreglumaður kom fyrir dóminn og skýrði frá því að hafa komið að [...] þegar lögregla kom þangað og fann umrædda ræktun. A á [...] hafi vísað beint á ræktunina. Ekki gat vitnið svarað því hverja A hafi nefnt sem fyrirsvarsmenn ræktunarinnar, en samskipti við hann hafi einkum verið á hendi Elís Kjartanssonar og Sveins Kristjáns Rúnarssonar. Niðurstaða. Krafa verjanda X um frávísun ákæru vegna ákærða kom fram undir aðalmeðferð og verður fjallað um hana hér án sérstaks úrskurðar. Frávísunarkrafan byggir annars vegar á því að rannsókn málsins hafi verið ábótavant og hins vegar á því að verknaðarlýsing í ákæru sé ófullkomin og ekki í samræmi við rannsóknargögn. Í 53. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 kemur fram að það skuli vera markmið lögreglurannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákæranda sé fært að taka ákvörðun um saksókn og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi. Það er mat dómsins að almennt sé áskilnaði ákvæðisins fullnægt í máli þessu og að rannsókn málsins hafi náð því markmiði að upplýsa málið nægilega til að ákvörðun um saksókn yrði tekin gagnvart hverjum og einum sakborninga. Það breytir þó ekki því að rannsókn á verkaskiptingu og ætluðum þætti ákærða X er ekki eins rækileg og ákjósanlegt hefði verið, einkum með hliðsjón af því að hann neitaði sakargiftum hjá lögreglu. Rétt hefði verið að rannsaka betur ætlaðan þátt hans. Verjandi hefur auk þessa byggt frávísunarkröfu sína á því að verknaðarlýsing í ákæru sé ófullkomin og ekki í samræmi við gögn málsins. Verknaðarlýsing í ákæru er á þann veg að hún byggir ljóslega á því að ákærðu hafi unnið allt verkið í sameiningu og ekki haft með sér sérstaka verkaskiptingu, en ekki verður séð að ákæru sé áfátt miðað við að ákæra byggi á þessu. Líkt og um fyrri röksemdir verjanda ákærða X um frávísun má segja að rannsókn málsins hefði mátt vera fyllri hvað varðar þátttöku hvers og eins hinna þriggja ákærðu. Ekki verður þó talið að málsvörn ákærða X hafi orðið áfátt af þessum sökum, en sönnunarfærsla fer fram fyrir dómi. Með hliðsjón af því hvernig málið er vaxið þykja ekki vera næg efni til að vísa málinu frá af þessum sökum. Ákærði X hefur frá upphafi staðfastlega neitað öllum áburði um þátttöku í framangreindum brotum. Hann hefur skýrt frá því að hann hafi hjálpað við að bera timbur, sem hann hafi ekki vitað neitt um hvað átti að nota, og að hann hafi komið að [...] til að leika sér á mótorhjóli eða fjórhjóli þar í fjörunni, en æskuvinur hans, ákærði Y, [...] að [...]. Við lögreglurannsókn málsins kom fram óljós framburður vitnisins JA um að ákærði X hafi verið með á leigu, ásamt ákærða Y, þá aðstöðu sem kannabisplönturnar voru ræktaðar í. Ekki bar hann þó um aðild eða þátttöku ákærða X í framangreindum brotum. Fyrir dómi bar vitnið aðeins að hann hefði leigt syni sínum, ákærða Y, umrætt húsnæði, en bar ekki um að ákærði X hafi jafnframt verið leigutaki. Hann bar jafnframt að ákærði X hafi komið a.m.k. einu sinni austur að [...] á þessum tíma, en það er í samræmi við framburð ákærða X sjálfs um að hann hafi komið að [...] í þeim tilgangi að leika sér á fjórhjóli eða torfærumótorhjóli þar í fjörunni. Ákærði Valur bar um það í upphafi lögreglurannsóknarinnar að þeir allir þrír ákærðu hefðu staðið að umræddri ræktun og engir aðrir. Ekki lýsti hann þó neinum sérstökum athöfnum eða aðgerða ákærða X í því sambandi, en sagði að þeir hafi séð um uppskeru og séð um ræktunina. Í síðari framburðarskýrslu sinni hjá lögreglu bar ákærði Valur að hlutur ákærða X væri mjög lítill. Fyrir dómi bar ákærði Valur svo að ákærði X hafi eiginlega ekkert komið að málinu og hans hlutur væri sama og enginn. Ákærði Y skýrði frá því hjá lögreglu að ákærði X hafi nokkrum sinnum komið að [...] um veturinn 2008-2009 og að hann hafi hjálpað við að bera inn það sem notað var við uppsetningu ræktunarinnar, eða „þetta drasl“ svo vitnað sé orðrétt til framburðarskýrslunnar. Að öðru leyti tjáði hann sig ekki um meintan þátt ákærða X í framburði sínum hjá lögreglu. Fyrir dómi skýrði ákærði Y svo frá að þáttur ákærða X væri „eiginlega enginn“ og að hann hafi ekkert komið nálægt þessu, að frátöldu því að bera inn spýtur þegar verið var að koma upp aðstöðunni áður en nokkur ræktun hófst en ákærða X hafi ekkert verið sagt um það hvað stæði fyrir dyrum. Hann bar jafnframt að ákærði X hafi komið að [...] einu sinni til tvisvar um veturinn til að leika sér á mótorhjóli, en hann hafi ekki komið í það húsnæði sem ræktunin var í og hafi ekki séð umræddar plöntur. Það er mat dómsins, að virtum ofangreindum framburðum, einkum þeim framburðum sem gefnir hafa verið fyrir dóminum, að ákæruvaldinu hafi ekki tekist sönnun þess að ákærði X hafi gerst sekur um neitt það sem honum er gefið að sök í ákærunni, en líta ber jafnframt til þess að meðal rannsóknargagna málsins er ekkert sem rennir stoðum undir þátttöku ákærða X í brotunum. Ber því að sýkna ákærða X af öllum kröfum ákæruvalds í málinu. Ákærðu Valur og Y hafa báðir játað það undanbragðalaust að hafa gerst sekir um það sem þeim er gefið að sök. Hafa þeir báðir lýst nokkuð sinni þátttöku í brotunum. Þykir játning þeirra vera í samræmi við önnur gögn málsins og hefur ekkert það komið fram sem dregið geti úr trúverðugleika játningar þeirra og framburðar um þetta Þykir vera sannað að þeir hafi gerst sekir um þau brot sem þeim eru gefin að sök í ákærunni og varðar við þau refsiákvæði sem vísað er til, að undanskildu því að réttara hefði verið að vísa til 4. gr. en til 4. gr. a. í lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sem þykir þó ekki koma að sök. Hafa báðir ákærðu Valur og Y þannig unnið sér til refsingar. Ákærði Valur hefur samfelldan sakaferil frá árinu 2003. Það ár var hann tvívegis sektaður, annars vegar um 250.000 kr. vegna fíkniefnabrots og hins vegar um 70.000 kr. vegna ölvunaraksturs. Árið 2004 hlaut ákærði 30 daga fangelsisrefsingu fyrir hegningarlagabrot og 100.000 kr. sekt fyrir fíkniefnabrot. Enn hlaut ákærði 49.000 kr. sektarrefsingu fyrir fíkniefnabrot á árinu 2005 og á árinu 2006 voru ákærða þrívegis gerðar sektarrefsingar samtals kr. 665.000 fyrir fíkniefnabrot og umferðarlagabrot. Á árinu 2007 var ákærði dæmdur í 75.000 kr. sekt fyrir líkamsárás, og gekkst undir tvær lögreglustjórasáttir, 110.000 kr. sekt fyrir umferðarlagabrot og 28.000 kr. fyrir fíkniefnabrot. Á árinu 2008 var ákærði dæmdur til að greiða 260.000 kr. sekt fyrir of hraðan akstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna auk þess sem hann gekkst það ár undir 28.000 kr. sektargreiðslu með lögreglustjórasátt fyrir fíkniefnabrot. Þann 27. október 2009 gekkst ákærði undir tvær lögreglustjórasáttir, annars vegar 128.000 kr. sekt fyrir fíkniefnabrot og umferðarlagabrot og hins vegar 38.000 kr. sekt fyrir fíkniefnabrot. Þá var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi þann 2. desember 2009 fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptingarakstur. Ber með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að ákveða ákærða hegningarauka nú vegna þriggja síðustu refsinga. Ákærði Y hefur sex sinnum gengist undir lögreglustjórasáttir. Fyrst árið 2002, 80.000 kr. sekt fyrir ölvunarakstur, tvívegis á árinu 2003, annars vegar 28.000 kr. sekt fyrir fíkniefnabrot og hins vegar 60.000 kr. sekt fyrir sviptingarakstur, einu sinni árið 2005, kr. 50.000 fyrir of hraðan akstur og tvisvar á árinu 2008, fyrst 19. ágúst, 28.000 kr. fyrir fíkniefnabrot og svo 28. nóvember, 140.000 kr. fyrir of hraðan akstur. Ákærðu Valur og Y hafa báðir játað brot sín hreinskilnislega og undanbragðalaust. Brot þeirra eru stórfelld og skipulögð, en þeir þurftu að útvega sér húsnæði og leggja í kostnað og fyrirhöfn til að koma fram brotum sínum sem voru framin á alllöngum tíma. Verður ekki annað ráðið en að brotin hafi verið framin í hagnaðarskyni, eins og raunar kom berlega fram í framburði ákærða Y. Engan greinarmun er unnt að gera á þátttöku þeirra í brotinu og hefur ekkert annað komið fram en að þeir hafi staðið saman að brotinu í öllum meginatriðum. Nokkuð er um liðið, eða um eitt og hálft ár, síðan lögregla stöðvaði ræktunina og lagði hald á plönturnar. Þá frömdu þeir brot sitt í sameiningu, en það ber að jafnaði að taka til þyngingar á refsingu, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykir hæfileg refsing beggja ákærðu vera ákveðin fangelsi í 20 mánuði fyrir hvorn um sig og þykja ekki standa rök til þess að skilorðsbinda refsingu að neinu leyti og er þá litið til umfangs brotsins og einbeitts brotavilja ákærðu, sem frömdu brot sitt í hagnaðarskyni. Þá þykir sakaferill ákærðu, einkum þó ákærða Vals, ekki gefa tilefni til þess að binda refsingar ákærðu skilorði. Í ákæru er krafist upptöku á þar tilgreindum fjármunum sem ætluðum hagnaði af fíkniefnasölu. Ákærði Valur, sem upptökukrafan beinist að, hefur mótmælt upptökukröfunni. Á þeim tíma sem brotið var framið og allt til þess að lögregla stöðvaði ræktunina og lagði hald á plönturnar þann 23. mars 2009 var ákvæði 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 óbreytt og var þá heimilt að gera upptækan ávinning sem aflað hefði verið með broti og enginn ætti löglegt tilkall til. Samskonar ákvæði eru og voru í 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. reglugerðar nr. 233/2001. Sambærilegt ákvæði er nú í 69. gr. almennra hegningarlaga, en fleiri ákvæði hafa nú komið til með rýmri heimildum til upptöku og tóku þau gildi eftir að brotið var framið. Með hliðsjón af meginreglunni um bann við afturvirkni refsilaga verður niðurstaða um upptökukröfuna byggð á lögum eins og þau voru þegar brotið var framið og verður ekki litið til síðar til kominna ákvæða. Ekki er í málinu ákært fyrir sölu á fíkniefnum og liggur ekkert fyrir um að ákærðu hafi fengið uppskeru af plöntunum, þó svo kunni að vera. Hafa þannig ekki verið færðar neinar sönnur á að hagnaður hafi orðið af brotinu, þó svo að það hafi almennt verið til þess fallið að skila miklum ávinningi. Þó svo að skýringar ákærða á tilurð fjárins kunni að virðast ótrúverðugar og lúti meira og minna allar að skattundanskotum og fjárhættuspilum, þá breytir það ekki því að engar sönnur hafa verið færðar á það að ávinningur hafi orðið af brotinu eða að fjárins hafi að öðru leyti verið aflað með fíkniefnasölu. Er því óhjákvæmilegt að sýkna ákærða Val af kröfu ákæruvaldsins um að tilgreindir peningar verði gerðir upptækir. Ákærðu hafa ekki mótmælt kröfu ákæruvaldsins um upptöku fíkniefna og búnaðar og ber að fallast á hana skv. tilvitnuðum ákvæðum eins og nánar greinir í dómsorði. Ákærðu Valur og Y hafa verið sakfelldir skv. ákæru og ber að dæma þá til greiðslu sakarkostnaðar sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ber þó að taka tillit til þess að ákærði Valur er sýknaður af kröfu um upptöku framangreindra haldlagðra peninga. Við rannsókn málsins féll til kostnaður að fjárhæð kr. 139.961, sem er annars vegar kostnaður vegna rannsóknar og efnagreiningar á fíkniefnum, en hins vegar vegna ljósritunar og fjölritunar gagna. Ber að dæma ákærðu Val og Y til greiðslu hans in solidum sbr. 2. mgr. 219. gr. laganna. Þá ber að dæma ákærðu Val og Y til greiðslu málsvarnarlauna skipaðra verjenda sinna. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Vals, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., ákveðast kr. 300.000, en af því greiði ákærði Valur kr. 250.000 en kr. 50.000 greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Brynjars Níelssonar hrl., ákveðast kr. 250.000 og ber ákærða Y að greiða alla fjárhæðina. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Bjarna Haukssonar hrl., kr. 250.000, greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun eru öll ákveðin að virðisaukaskatti meðtöldum. Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður flutti málið af hálfu ákæruvalds. Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan. DÓMSORÐ: Kröfu ákærða, X, um frávísun er hafnað. Ákærði, X, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvalds í málinu. Ákærði, Valur Hermannsson, skal vera sýkn af kröfu ákæruvalds um upptöku á kr. 11.895.000,- og 7.265 evrum að frádregnum kr. 3.747.454,- sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins. Ákærði, Valur Hermannsson, sæti fangelsi í 20 mánuði. Ákærði, Y, sæti fangelsi í 20 mánuði. Upptækar til eyðingar skulu 493 kannabisplöntur, 2.706.9 g af kannabislaufum og 10,98 g af hassi, sbr. efnaskrá lögreglu nr. 15457. Ákærðu Valur og Y sæti upptöku á eftirtöldum munum sem notaðir höfðu verið eða ætlaðir voru til ólögmætrar ræktunar kannabisjurta og meðferðar fíkniefna og uppsetningar á búnaði til ræktunar fíkniefna, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins: 1. 9 x 20 ltr brúsa af Voeding gróðurvökva 2. 6 x 10 ltr brúsa af Atazyne gróðurvökva 3. 2 x 5 ltr brúsa af Wortel gróðurvökva 4. 2 x 1 ltr brúsa af Ataclean gróðurvökva 5. 1 x 1 ltr brúsa af GHE gróðurvökva 6. 1 brúsa af silicate vökva 7. 8 plaströr 5,90 metrar að lengd, hvert 8. 32 götuð plaströr 3,71 metrar að lengd, hvert 9. 31 plaströr 1,39 metrar að lengd, hvert 10. 12 Gatvita hitalampar 11. 1 stór kassi af svörtum plastpottum 12. 3 Flotec FP7KV vatnsdælur 13. 1 Top 2 Pedrollo vatnsdælu 14. 2 SN-001155 viftur 15. 1 Bomann vifta 16. 1 Bosch Aquatak dæla 17. 10,4 metrar af 6 tommu plastbarka 18. 2 klaufhamrar 19. 1 Kaz blásari 20. 1 Kassel blásari 21. 36 metra af garðyrkjuslöngum 22. heimatilbúin rafmagnstafla 23. 1 hvítur rafmagnsofn 24. 4 pakkar af grænu rótarneti 25. 1 kassi af rafmagnssnúrum og tengjum 26. 6 slöngubútar 27. 3 gráir blásarar með börkum Ákærðu Valur og Y greiði in solidum kr. 139.961 í sakarkostnað, og auk þess ákærði Valur kr. 250.000 af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., sem ákveðast alls kr. 300.000 og greiðast kr. 50.000 úr ríkissjóði, og ákærði Y málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Brynjars Níelssonar hrl., kr. 250.000. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Bjarna Haukssonar hrl., kr. 250.000, greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 216/2006 | Kærumál Fjárslit milli hjóna | M og K fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng í apríl 2003 og gerðu af því tilefni fjárskiptasamning. Þau hófu sambúð að nýju í júní það ár, en slitu samvistir í janúar 2006. M krafðist þess meðal annars að þær eignir sem skipt hafði verið með samningi hjónanna kæmu ekki til skipta nú með vísan til 111. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Talið var að túlka yrði ákvæðið svo að verið væri, að því er fjárskipti varðar, að leggja endurnýjaða sambúð hjóna að jöfnu við stofnun hjúskapar í öðrum tilvikum þar sem reyndi á 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga. Óumdeilt var að um það bil tvö og hálft ár liðu frá því að sambúð M og K tókst á ný þar til þau slitu samvistir á nýjan leik. Þá var ekki talið að M hefði sýnt fram á að önnur skilyrði sem nefnd væru í 1. mgr. 104. gr. væru uppfyllt. Var því talið að beita bæri meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti við fjárskiptin. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2006, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum málsaðila í tengslum við fjárskipti milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við skipti á þeim eignum og skuldum sem voru til staðar þegar aðilar fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng í apríl 2003 verði byggt á fjárskiptasamningi þeirra frá sama tíma og komi þær eignir því ekki til skipta nú. Þá krefst hann þess að við skipti á þeim eignum og skuldum sem til hafi orðið eftir að aðilar hófu að nýju sambúð í júní 2003 verði vikið frá helmingaskiptum í samræmi við 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þannig að hvort þeirra taki það sem þau komu með í búið á því tímabili. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar. Komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að einungis komi til skipta þær eignir sem myndast hafi í hjónabandi aðila eftir brottfall skilnaðar að borði og sæng fellst hún á kröfu sóknaraðila um að vikið verði frá helmingaskiptum á þeim eignum og krefst þess þá að íbúð að [...], verði metin eign hennar. Jafnframt krefst hún þá helmingshlutdeildar í þeim hjúskapareignum sóknaraðila sem ekki komu til skipta árið 2003, svo sem áunnum lífeyrisréttindum hans í Lífeyrissjóði [...] og eftir atvikum eignarhlutdeild hans í séreignasjóði. Verði niðurstaðan sú að einungis komi til skipta þær eignir sem myndast hafi í hjónabandi aðila eftir brottfall skilnaðar að borði og sæng, krefst hún þess til þrautavara að beitt verði helmingaskiptareglu við skipti á þeim eignum og beri henni þá helmingur úr skírri hjúskapareign sóknaraðila. Í öllum tilvikum krefst hún kærumálskostnaðar. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var samningur málsaðila um skilnaðarkjör, sem gerður hafði verið 28. febrúar 2003 og var samkvæmt 1. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga skilyrði þess að skilnaður að borði og sæng yrði þá veittur, ekki meðal gagna málsins í héraði. Sóknaraðili hefur lagt samning þennan fyrir Hæstarétt. Í samningnum kemur fram um skiptingu eigna, að í hlut mannsins kom fyrirtækið [...]. Í hlut konunnar kom innbú hjónanna auk 366.489 króna, sem maðurinn skyldi greiða henni. Ekki eru aðrar eignir tilgreindar í samningnum. Sóknaraðili reisir kröfu sína, um að eignir þær sem skipt var með samningi hjónanna 2003 skuli ekki koma til skipta nú, á 111. gr. hjúskaparlaga. Þar er að finna sérreglu um eignaskipti á milli hjóna, þegar svo stendur á að þau hafa fengið skilnað að borði og sæng, er leitt hefur til fjárskipta, en tekið saman aftur, en þá falla réttaráhrif skilnaðarins almennt niður samkvæmt síðari málslið 35. gr. laganna. Segir í 111. gr. að í slíku tilviki eigi við ákvæði 1. mgr. 104. gr. um eignir sem komið hafi í hlut maka við skiptin, og hann hefur flutt að nýju í hjúskapinn, komi til fjárskipta síðar milli hjónanna, eins og hér er raunin. Þetta ákvæði verður að túlka svo að verið sé, að því er fjárskipti varðar, að leggja endurnýjaða sambúð hjóna að jöfnu við stofnun hjúskapar í öðrum tilvikum, þar sem reynir á 1. mgr. 104. gr. laganna. Óumdeilt er að um það bil tvö og hálft ár liðu frá því sambúðin tókst á ný þar til málsaðilar slitu samvistir á nýjan leik. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að önnur skilyrði sem nefnd eru í 1. mgr. 104. gr. séu uppfyllt. Verður ekki fallist á að við svo búið séu efni til að taka kröfur hans til greina heldur beri að beita meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti við fjárskiptin nú. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest. Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður Málið barst dóminum 19. janúar sl. Það var þingfest 10. febrúar sl. og tekið til úrskurðar 15. mars sl. Sóknaraðili er M, [...], Reykjavík. Varnaraðili er K, [...], Reykjavík. Sóknaraðili krefst þess að við skipti á þeim eignum og skuldum sem voru til staðar þegar aðilar fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng í apríl 2003 verði byggt á fjárskiptasamningi aðila frá í apríl 2003 og komi þær eignir því ekki til skipta nú með vísan til 111. gr. laga nr. 31/1993. Við skipti á þeim eignum og skuldum sem til hafa orðið eftir að aðilar hófu að nýju sambúð í júní 2003 verði beitt “skáskiptareglu” 104. gr. laga nr. 31/1993 þannig að hvort hjóna um sig taki það sem þau komu með í búið á því tímabili. Varnaraðili “krefst þess að hún verði sýknuð af báðum kröfum sóknaraðila. Hún gerir aðallega þær kröfur að fjárskiptin taki til heildareigna hvors hjóna um sig og krefst hún helmings úr skírri hjúskapareign sóknaraðila. Til vara krefst hún þess, komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að aðeins komi til skipta þær eignir sem myndast hafa í hjónabandi aðila eftir brottfall skilnaðar að borði og sæng, þá fellst hún á kröfur sóknaraðila um skáskipti á þeim eignum sem myndast hafa eftir þann tíma og krefst þess að íbúðin að [...], Reykjavík, verði metin hennar eign. Jafnframt krefst gerðarþoli helmingshlutdeildar í þeim hjúskapareignum gerðarbeiðanda sem ekki komu til skipta á árinu 2003 svo sem áunnum lífeyrisréttindum gerðarbeiðanda í Lífeyrissjóði verkfræðinga og eftir atvikum eignarhlutdeild hans í séreignasjóði. Til þrautavara krefst hún þess, verði niðurstaðan sú að aðeins komi til skipta þær eignir sem myndast hafa í hjónabandi aðila eftir brottfall skilnaðar að borði og sæng, að beitt verði skiptum á grundvelli helmingaskiptareglna hjúskaparlaganna og krefst hún helmings úr skírri hjúskapareign sóknaraðila í þeim eignum sem myndast hafa eftir þann tíma.” Þá er krafist málskostnaðar. Upphaflega hafði sóknaraðili krafist þess að bú hans og varnaraðila yrði tekið til opinberra skipta til fjárslita þeirra á milli. Síðar varð samkomulag með aðilum um að leggja ágreining sinn fyrir dóminn með heimild í 2. mgr. 125. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Féll sóknaraðili þá frá kröfu um opinber skipti. Málavextir eru þeir að aðilar gengu í hjónaband [...] apríl 1997 eftir að hafa búið saman frá árinu 1992. Þeir fengu skilnað að borði og sæng [...] apríl 2003, en hófu sambúð að nýju í júní það ár. Í janúar á þessu ári slitu þau samvistir er sóknaraðili flutti af heimilinu. Meðal gagna málsins er endurrit úr hjónaskilnaðarbók frá 7. júlí 2005. Varnaraðili mætti þá hjá sýslumanni og er haft eftir henni að hún dragi “til baka kröfu sín um lögskilnað á grundvelli 1. mgr. 36. gr. hjúskaparlaga, en í stað þess gera kröfu um skilnað að borði og sæng á grundvelli 33. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hún kveðst ekki hafa áttað sig á því er hún mætti hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 11. maí sl. að hjónaband þeirra hafi raknað við á ný, þar sem þau hafi tekið aftur upp samvistir í júní 2003 og séu að slíta samvistir nú í júlímánuði.” Sóknaraðili mætti ekki hjá sýslumanni, þrátt fyrir boðanir, og í nóvember sl. vísaði sýslumaður málinu frá sér. Sóknaraðili heldur því fram að þrátt fyrir að aðilar hafi hafið sambúð að nýju í júní 2003 þá hafi hann ekki flutt lögheimili sitt á sameiginlegt heimili aðila og hann hafi haldið áfram að greiða meðlag með börnum þeirra og geri enn. Þá heldur sóknaraðili því og fram að við skilnaðinn í apríl 2003 hafi verið gerður samningur um eignaskipti. Samningur þessi er ekki meðal gagna málsins, en varnaraðili hefur ekki mótmælt tilvist hans. Af hálfu varnaraðila er gerð sú athugasemd að það hafi verið ákvörðun sóknaraðila að þau yrðu skráð með sitt hvort lögheimilið til að fá hærri barna- og vaxtabætur og eins til að greiða lægri leikskólagjöld. Hið rétta sé hins vegar að þau hafi búið saman í hjónabandi og rekið heimilið sameiginlega allt þar til í janúar síðastliðnum. Sóknaraðili byggir á því að við skilnað aðila í apríl 2003 hafi verið gerður samningur um fjárskipti og geti því ekki aðrar eignir komið til skipta nú en þær sem myndast hafa eftir þann tíma, sbr. 111. gr. hjúskaparlaga. Þess vegna falli þær eignir utan skipta nú sem skipt var áður og einungis sé þörf á að skipta þeim eignum sem mynduðust meðan á síðari sambúðartíma stóð. Við þau skipti krefst sóknaraðili þess að vikið verði frá helmingaskiptareglunni, sbr. 104. gr. hjúskaparlaga. Aðilar hafi ekki ætlað að taka upp fjárfélag að nýju þegar þau hófu sambúð aftur og eigi því hvort um sig að taka þá muni er það kom með í búið meðan á seinni sambúðinni stóð. Það sem hann hafi keypt á þessu tímabili sé hans eign. Varnaraðili byggir aðallega á því að samkvæmt meginreglu hjúskaparlaga skuli við fjárskipti milli hjóna vegna skilnaðar beita helmingaskiptareglunni, enda eigi undantekningar frá henni ekki við. Skilnaður aðila að borði og sæng í apríl 2003 hafi fallið niður er þau hófu aftur sambúð í júní sama ár, sbr. 35. gr. laganna. Hjónabandið hafi þá raknað við, enda hafi þau búið saman sem hjón þar til í janúar á þessu ári. Réttaráhrif skilnaðarins, þar með talin fjárskiptin, hafi því aldrei orðið virk og af því leiði að 111. gr. eigi ekki við. Við aðalmeðferð málsins lagði lögmaður varnaraðila fram kröfugerð á sérstöku dómskjali og er hún tekin upp hér að framan. Lögmaður sóknaraðila mótmælti kröfugerð lögmanns varnaraðila, þar sem kröfur þær sem þar komi fram séu of seint fram komnar. Taldi lögmaðurinn að kröfur í greinargerð væru kröfur varnaraðila í málinu. Í munnlegum flutningi kom fram hjá lögmanni varnaraðila að hann hefði ekki uppi nýja og breytta kröfugerð í málinu, heldur hefði hann við flutning málsins kosið að taka kröfur sínar saman á einu skjali í stað þess að í greinargerð væru þær vafðar inn í málsútlistun hans. Athugun á greinargerð lögmanns varnaraðila leiðir í ljós að kröfur hennar, sem raktar voru hér að framan, koma fram í greinargerð hennar þótt ekki sé það á þann skipulega hátt í upphafi sem lög gera ráð fyrir, sbr. d lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki er því um nýja kröfugerð að ræða og þurfa mótmæli lögmanns sóknaraðila þar af leiðandi ekki frekari umfjöllunar við. Það er upplýst í málinu að aðilar skildu að borði og sæng [...] apríl 2003, en tóku upp sambúð aftur í júní sama ár. Við það féllu niður réttaráhrif skilnaðarins, sbr. 35. gr. hjúskaparlaga. Engu breytir um þetta þótt sóknaraðili hafi haldið skráðu lögheimili annars staðar, enda er því ómótmælt að hann hafi búið og haldið heimili með varnaraðila allt þar til í janúar á þessu ári. Þegar aðilar hófu sambúð að nýju verður ekki annað séð af gögnum málsins en þau hafi endurreist sameiginlegt fjárfélag sitt og þar með hafi fallið úr gildi samningur þeirra um eignaskipti er þau gerðu við skilnaðinn. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfum sóknaraðila. Jafnframt er úrskurðað að við fjárskipti milli aðila skuli beitt helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga. Málskostnaður skal falla niður. Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Kröfum sóknaraðila, M, er hafnað og skal við fjárskipti vegna skilnaðar hans við varnaraðila, K, beitt helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 475/2007 | Áfrýjun Áfrýjunarfrestur Frávísun frá Hæstarétti | Bréf X þar sem hún lýsti þeirri ákvörðun sinni að áfrýja dómi á hendur sér til Hæstaréttar barst ríkissaksóknara 30. mars 2007. Þann 11. apríl 2007 var dómurinn birtur fyrir X og var þar skráð að hún tæki áfrýjunarfrest. Þann 30. apríl 2007 sendi ríkissaksóknari X og verjanda hennar bréf þar sem óskað var eftir frekari útlistun á því að hvaða ákæruliðum krafa X um sýknu laut. Tilkynning lögmanns X um áfrýjun dómsins barst ríkissaksóknara ekki fyrr en 28. ágúst 2007 og var þá áfrýjunarfrestur löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991, auk þess sem sú tilkynning uppfyllti ekki skilyrði ákvæðisins um efni slíkrar yfirlýsingar. Var því talið að annmarkar á tilkynningu X um áfrýjun hafi leitt til þess að áfrýjunarstefna hafi verið gefin út eftir að liðnar voru átta vikur frá uppkvaðningu héraðsdóms og var áfrýjun af hálfu ákæruvaldsins því ekki studd við 152. gr. laga nr. 19/1991. Var málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. ágúst 2007 að fenginni yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur. Ákærða krefst nú sýknu af liðum 2.1 og 2.3 í ákæru 26. september 2006 og sýknu af ákæru 23. október 2006. Að öðru leyti krefst ákærða þess að henni verði ekki gerð frekari refsing en hún fékk með dómum Héraðsdóms Reykjaness 15. desember 2006 og Héraðsdóms Suðurlands 26. júlí 2006. I Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 20. mars 2007. Ákærða var ekki viðstödd uppkvaðningu hans, en þar var hins vegar verjandi hennar. Hinn 27. mars 2007, sendi ákærða ríkissaksóknara svofellt bréf:: „Efni: Yfirlýsing um áfrýjun. Með vísan til XVIII. kafla laga nr. 19/1991 óskar dómfellda [...] yfir áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] sem kveðinn var upp þ. 20. mars sl. en hefur ekki enn verið birtur dómfellda. Áfrýjað er í því skyni að fá sýknudóm að hluta og lækkun refsivistar, sem undirritaðri þykir allt of þung.“ Bréf þetta er stimplað um móttöku ríkissaksóknara 30. mars 2007. Þann 11. apríl 2007 var dómurinn birtur fyrir ákærðu. Þar var skráð að hún tæki áfrýjunarfrest. Þann 30. apríl 2007 sendi ríkissaksóknari ákærðu og verjanda hennar í héraði bréf þar sem segir meðal annars: „Í héraðsdóminum er fjallað um fjórar ákærur á hendur yður og eru ákæruliðir á annan tug. Þér voruð sýknuð af þremur ákæruliðum og þar með af ákæru dagsettri 16. október 2006 að öllu leyti. Ef þér viljið áfrýja í því skyni að „fá sýknudóm að hluta“ eins og segir í áfrýjunaryfirlýsingu yðar er nauðsynlegt, til þess að unnt verði að gefa út áfrýjunarstefnu í málinu, að fram komi að hvaða ákæruliðum krafan um sýknu lýtur. Embætti ríkissaksóknara mun veita yður aðstoð við ritun áfrýjunaryfirlýsingar ef þér óskið eftir.“ Hinn 28. ágúst 2007 barst ríkissaksóknara bréf frá verjanda ákærðu í héraði, sem dagsett er 9. maí 2007. Þar segir: „Varðar: Bréf saksóknara vegna áfrýjunaryfirlýsingar [...] Ofangreindur aðili hefur farið þess á leit að undirritaður lögmaður aðstoði hana vegna umrædds. Svo sem fram kemur í bréfi embættisins er í héraðsdómi sýknað af þremur ákæruliðum og er ekki óskað eftir áfrýjun er þá varðar. Þeir ákæruliðir sem óskað er sýknu af, eða lækkunar refsingar eru eftirfarandi: [...] Auk þess er krafist sýknu af bótakröfum, á þeim grundvelli að þær séu ósannaðar og vanreifaðar.“ Hinn 29. ágúst 2007 ritaði ríkissaksóknari lögmanni ákærðu svofellt bréf: „Í gær, 28. ágúst, barst símsent bréf yðar, dagsett 9. maí sl., þar sem lýst er kröfum X, sbr. áfrýjunaryfirlýsingu hennar, dagsetta 27. mars sl. og bréf þessa embættis, dagsett 30. apríl sl. Þótt bréf yðar, dagsett 9. maí sl., hafi ekki borist þessu embætti fyrr en í gær verður nú gefin út áfrýjunarstefna vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. [...] með tilliti til áfrýjunaryfirlýsingar X, dagsettrar 27. mars sl., sbr. og bréf yðar dagsett 9. maí sl. en móttekið 28. ágúst sl.“ Skráð er í bréfið að afrit þess væri sent ákærðu. Eins og áður segir var áfrýjunarstefna gefin út 30. ágúst 2007 þar sem kom fram að ákærða hefði óskað áfrýjunar til sýknu á öllum ákæruliðum sem hún hefði verið sakfelld fyrir í héraði, en ella til mildunar refsingar svo og til sýknu af skaðabótakröfum, en jafnframt væri þá áfrýjað af ákæruvaldsins hálfu til staðfestingar á sakfellingum og refsiákvörðun héraðsdóms og ákvörðun hans um greiðslu skaðabóta. Í greinargerð ákærðu fyrir Hæstarétti komu síðan fram endanlegar kröfur hennar. II Fallist er á með ákærðu að hún eigi ríkan rétt til að fá endurskoðaðan áfellisdóm í sakamáli. Hins vegar kemur það ekki í veg fyrir að löggjafinn setji nánari reglur þar að lútandi, svo sem um fresti til áfrýjunar. Samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal ákærði lýsa yfir áfrýjun dóms með bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dóms, þegar birtingar hefur verið þörf samkvæmt 3. mgr. 133. gr. laganna, en ella innan þess tíma frá uppkvaðningu hans. Í tilkynningunni skal tekið nákvæmlega fram í hverju skyni sé áfrýjað, þar á meðal varðandi kröfur samkvæmt XX. kafla ef því er að skipta. Ríkissaksóknara og öðrum ákærendum er skylt að veita ákærða leiðbeiningar um gerð tilkynningar ef eftir því er leitað. Eins og að framan er rakið lýsti ákærða yfir áfrýjun 27. mars 2007 áður en henni hafði verið birtur dómurinn með formlegum hætti en verjandi hennar í héraði hafði verið viðstödd dómsuppsöguna. Á það skorti að tilkynning ákærðu hafi uppfyllt kröfur laganna eins og ríkissaksóknari benti á í bréfi sínu til hennar og verjandans 30. apríl 2007. Við birtingu dómsins 11. apríl 2007 ritaði ákærða nafn sitt undir yfirlýsingu um að hún hefði tekið við leiðbeiningum um rétt til áfrýjunar og að hún tæki sér áfrýjunarfrest. Hins vegar barst tilkynning lögmanns hennar um áfrýjun dómsins ekki til ríkissaksóknara fyrr en 28. ágúst 2007. Var þá áfrýjunarfrestur löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 auk þess sem sú tilkynning uppfyllti ekki heldur skilyrði ákvæðisins um efni slíkrar yfirlýsingar. Í 152. gr. laga nr. 19/1991 segir að hyggist ríkissaksóknari áfrýja héraðsdómi skuli áfrýjunarstefna gefin út innan átta vikna frá uppkvaðningu hans. Ef ákærði áfrýjar dómi getur ríkissaksóknari áfrýjað honum af hálfu ákæruvalds þótt sá frestur sé liðinn. Það ákvæði gildir eðli málsins samkvæmt því aðeins að yfirlýsing ákærða um áfrýjun hafi verið fullnægjandi. Áfrýjunarstefna var gefin út eftir að liðnar voru átta vikur frá uppkvaðningu héraðsdóms og verður áfrýjun af hálfu ákæruvalds því ekki studd við 152. gr. laganna. Samkvæmt öllu framanrituðu leiða annmarkar á tilkynningu ákærðu um áfrýjun héraðsdóms til þess að málinu verður sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti. Ákærðu verður jafnframt gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Ákærða, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 143.410 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur. |
Mál nr. 206/2016 | Rán | Ó og J voru sakfelldir fyrir rán með því að hafa farið inn í banka í Reykjavík, vopnaðir eftirlíkingu af skammbyssu og hníf, ógnað þar starfsfólki og viðskiptavinum og haft á brott með sér nánar tilgreinda fjármuni. Var brotið talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að margir hefðu verið í bankanum er ránið var framið, bæði starfsfólk og viðskiptavinir, sem hefðu ekki getað vitað hvort byssan hefði verið raunveruleg eða ekki. Þá hefði brotið verið skipulagt, beinst að mikilvægum hagsmunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og framið í sameiningu, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Var refsing Ó og J ákveðin fangelsi í þrjú ár en refsing þess fyrrnefnda ákvörðuð sem hegningarauki við dóm sem hann hafði hlotið í janúar 2016, með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson og IngibjörgBenediktsdóttir settur hæstaréttardómari. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars2016 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins erþess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.Ákærði Ólafur IngiGunnarsson krefst þess að refsing hans verði milduð og bundin skilorði.Ákærði Jóel MaronHannesson krefst þess að refsing hans verði milduð.Við ákvörðun refsingarber sérstaklega að líta til þess að brot þeirra var skipulagt, þeirra hagsmuna sem brotið varðaði, sbr. 1.tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og þess að brotiðfrömdu ákærðu í sameiningu, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Að þessu gættu, enað öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hannstaðfestur.Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnaðmálsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti,sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Af áfrýjunarkostnaði málsinsgreiði ákærðu, Ólafur Ingi Gunnarsson og Jóel Maron Hannesson hvorfyrir sig 622.500 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjenda þeirra,hæstaréttarlögmannanna Sigurðar G. Guðjónssonar og Bjarna Haukssonar. Annanáfrýjunarkostnað, 91.406 krónur, greiði ákærðu óskipt.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24.febrúar 2016. Mál þetta, sem dómtekið var 18.febrúar síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans áhöfuðborgarsvæðinu, útgefinni 5. febrúar síðastliðinn, á hendur Ólafi Inga Gunnarssyni,kennitala [...], Hjallabraut 15, Hafnarfirði og Jóel Maron Hannessyni,kennitala [...], Ásbrekku 7, Garðabæ, „fyrir rán, með því að hafa í félagi,miðvikudaginn 30. desember 2015, farið inn Landsbankann við Borgartún 33 íReykjavík, ákærði Ólafur klæddur svartri hettupeysu, með andlitið hulið ogvopnaður eftirlíkingu af skammbyssu og ákærði Jóel í hettupeysu, með andlitiðhulið og vopnaður hníf, stokkið yfir afgreiðsluborð þar sem voru fyrir 5starfsmenn bankans og ákærði Ólafur ógnaði gjaldkera bankans A með byssunnim.a. með því að halda byssunni upp við höfuð A meðan hann skipaði henni að opna3 sjóðsvélar bankans sem ákærði Ólafur tók síðan fjármuni úr, á meðan tókákærði Jóel peninga sem voru á afgreiðsluborði og setti í poka sem hann hafðimeðferðis og ógnaði starfsfólki og viðskiptavinum bankans með hníf sem hannhélt á lofti. Ákærðu höfðu 558.000 íslenskar krónur, 1.080 evrur, 10.000japönsk jen, 500 danskar krónur og 20 pund á brott með sér af vettvangi. Telstþetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þesser krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu allssakarkostnaðar.“ Ákærðu hafa fyrir dómi skýlaustjátað að hafa framið brot það sem þeim er gefið að sök í ákærunni og er játningþeirra studd sakargögnum. Það eru þvíefni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferðsakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessuverða ákærðu sakfelldir fyrir brotið sem er réttilega fært til refsiákvæðis íákærunni. Við þingfestingu tóku ákærðu sérfrest til að kynna sér gögn málsins og ákveða afstöðu sína til ákærunnar. Íþinghaldi 10. febrúar játuðu þeir sök og ekki kom fram ósk um að aðalmeðferðfæri fram. Meðal rannsóknargagna ermyndbandsupptaka úr afgreiðslusal bankans sem tekin er af ákærðu fremja ránið.Á henni sést hvernig ákærðu koma hlaupandi inn í bankann klæddir eins og íákæru greinir. Annar þeirra heldur á byssu en hinn á hníf. Þeir stökkva yfirafgreiðsluborðið og taka þegar til við að leita að peningum. Ákærði ÓlafurIngi, sem var með byssuna, sækir bankastarfsmann og ógnar henni með byssunni ogber hana upp að höfði hennar eins og lýst er í ákæru. Á sama hátt sést ákærðiJóel Maron ógna starfsfólki og viðskiptavinum með hníf eins og lýst er í ákæru.Til undirbúnings ráninu höfðu ákærðu tekið sendibifreið ófrjálsri hendi og komuá henni að bankanum. Þeir skildu bifreiðina eftir í gangi og óku á brott eftirránið. Þeir földu síðar ránsfenginn og reyndu á annan hátt að dylja slóð sína. Lögreglan hóf þegar umfangsmiklaeftirgrennslan og var myndum af ræningjunum dreift. Ábendingar bárust um aðákærðu kynnu að hafa verið að verki. Þeir gáfu sig svo fram við lögreglu aðtilstuðlan aðstandenda sinna um miðnætti sama dag og ránið var framið. Þávísuðu þeir á ránsfenginn sem komst til skila. Ákærðu hafa verið sakfelldirfyrir rán þar sem þeir notuðu vopn til að ógna fólki. Byssan reyndist síðarvera eftirlíking og haft er eftir starfsmanni bankans, sem í ákæru getur, aðhún hafi gert sér grein fyrir að svo var. Hins vegar er til þess að líta aðmargir aðrir voru í bankanum þegar ránið var framið, bæði starfsfólk ogviðskiptavinir. Þeir gátu ekki vitað hvort byssan væri raunveruleg eða ekki.Samkvæmt rannsóknargögnum er byssan 18 cm á lengd og 13 cm há. Við fyrstu sýn ámynd virðist hún vera raunveruleg. Þá er hnífurinn úr stáli, 27 cm langur, þaraf er blaðið 15 cm. Aftari hluti bakkans er tenntur. Ákærði Ólafur Ingi var dæmdur í30 daga fangelsi 21. janúar síðastliðinn fyrir umferðarlagabrot og verður honumþví nú dæmdur hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði JóelMaron hefur ekki áður verið dæmdur til refsingar. Við ákvörðun refsingar verðurað líta til þess að ákærðu frömdu vopnað rán á óvenju grófan hátt. Í bankanumvar nokkur fjöldi fólks, bæði starfsmenn og viðskiptavinir. Ráða má afmyndbandsupptöku að þeir gengu óhikað og skipulega til verks og tók rániðstuttan tíma. Ákærðu til málsbóta er að þeir gáfu sig fram eins og lýst var ogvísuðu á ránsfenginn. Þá játuðu þeir sök fyrir dómi. Þeir eru ungir að árum ogákærði Jóel Maron er með hreint sakavottorð. Samkvæmt þessu öllu þykir megaákveða refsingu þeirra, hvors um sig, 3 ára fangelsi. Til frádráttar skal komagæsluvarðhaldsvist þeirra eins og í dómsorði segir. Ákærðu verða dæmdir til aðgreiða sakarkostnað óskipt eins og í dómsorði greinir. Enn fremur skulu þeirgreiða málsvarnarlaun verjanda sinna sem ákvörðuð eru með virðisaukaskatti ídómsorði, svo og annan kostnað eins og þar greinir. Arngrímur Ísberg héraðsdómarikvað upp dóminn.D ó m s o r ð : Ákærði, Ólafur Ingi Gunnarsson,sæti fangelsi í 3 ár en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist frá 31.desember 2015. Ákærði, Jóel Maron Hannesson,sæti fangelsi í 3 ár en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist frá 31.desember 2015. Ákærðu greiði óskipt 40.000krónur í sakarkostnað. Ákærði Ólafur Ingi greiðimálsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Steinbergs Finnbogasonar hdl., 818.400krónur og 13.920 krónur í aksturskostnað. Ákærði Jóel Maron greiðimálsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 818.400 krónurog 13.920 krónur í aksturskostnað. |
Mál nr. 267/2009 | Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til föstudagsins 19. júní 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess, að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði ákærða, X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. júní nk. kl. 16.00. Ákærði sæti nú ákærumeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem honum sé gefin að sök, samkvæmt fjórum ákæruskjölum, fjölmörg afbrot. Einkum sé um að ræða auðgunarbrot, s.s. rán, þjófnaði, fjársvik, hylmingu, og ólögmæta meðferð fundins fjár, auk umferðarlaga- og fíkniefnalagabrota. Aðalmeðferð málsins hafi hafist 22. apríl sl., en þar sem ekki hafi reynst unnt að yfirheyra öll vitni málsins, var aðalmeðferðinni framhaldið þriðjudaginn 12. maí nk. Til stóð að ljúka meðferð málsins nú fyrr í dag, með því að taka skýrslu af vitni sem vistað sé á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Samkvæmt upplýsingum læknis hafi vitnið verið alls ófært um að gefa skýrslu í dag og hafi málinu því verið frestað til 3. júní nk. og megi þá vænta dóms fljótlega í kjölfarið. Ákærði eigi að baki langan sakarferil sem nái allt til ársins 1990 og á þeim tíma hafi hann hlotið 10 fangelsisdóma fyrir auðgunarbrot. Ljóst sé að verði hann fundinn sekur um þau brot sem að ofan greinir muni hann fá óskilorðsbundna fangelsisrefsingu. Ákærði sé vanaafbrotamaður í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga, en brotaferill hans hafi verið samfelldur frá því í mars í fyrra uns hann hafi verið hnepptur í varðhald. Við rannsókn mála ákærða hafi komið í ljós að hann sé án heimilis og atvinnu og hafi verið í mikilli neyslu fíkniefna. Ætla megi að hann framfleyti sér og fjármagni fíkn sína með afbrotum. Það sé mat lögreglustjóra að kærði muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Nauðsynlegt sé því að kærði sæti gæsluvarðhaldi svo unnt verði að ljúka málum hans bæði fyrir dómi og hjá lögreglu. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga. Samkvæmt framangreindu og gögnum málsins er fullnægt skilyrðum þess að beitt verði gæsluvarðhaldi samkvæmt c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og fallist er á að til þess sé rökstudd ástæða. Samkvæmt þessu er fallist á framkomna kröfu eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Ákærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. júní nk. kl. 16.00. |
Mál nr. 539/2012 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áframsæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferðsakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir ViðarMár Matthíasson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Varnaraðiliskaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. ágúst 2012, sem barst réttinum ásamtkærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt tilfimmtudagsins 6. september 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr.192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallegaað hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldiverði markaður skemmri tími. Sóknaraðilikrefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Fallist er á meðhéraðsdómi að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot, semað lögum getur varðað 10 ára fangelsi og að öðrum skilyrðum 2. mgr. 95. gr.laga nr. 88/2008 sé einnig fullnægt. Með þessum athugasemdum verður hinn kærðiúrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærðiúrskurður er staðfestur. |