Title
stringlengths 15
17
| Keywords
stringlengths 3
238
| Summary
stringlengths 73
7.23k
| Text
stringlengths 125
444k
|
---|---|---|---|
Mál nr. 386/2005 | Vinnuslys Líkamstjón Gjafsókn | J byggði kröfu sína á því að hún hafi orðið fyrir slysi við störf sín hjá S í janúar árið 2000. Taldi hún S bera skaðabótaábyrgð á slysinu sem vinnuveitandi hennar vegna ófullnægjandi aðstæðna á vinnustað og annmarka á verkstjórn við þau störf sem J vann er hún slasaðist. J var ekki talin hafa sannað að hún hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá S umræddan dag og var S þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu hennar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2005. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Stefnda byggir kröfu sína á því að hún hafi orðið fyrir slysi við störf sín hjá áfrýjanda 28. janúar 2000. Telur hún áfrýjanda bera skaðabótaábyrgð á slysinu sem vinnuveitandi hennar vegna ófullnægjandi aðstæðna á vinnustað og annmarka á verkstjórn við þau störf sem stefnda vann er hún slasaðist. Sá sem krefst skaðabóta úr hendi annars aðila vegna slyss verður að sanna að hann hafi orðið fyrir slysi, að það hafi leitt til þess tjóns sem bóta er krafist fyrir og það megi rekja til atvika sem gagnaðilinn beri ábyrgð á með þeim hætti að bótaskyldu varði. Í málinu greinir aðila á um hvort stefnda hafi uppfyllt sönnunarskyldu sína um þessi atriði. Staðhæfingar málsaðila um atvik máls hafa almennt ekki sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem honum er óhagstætt, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við úrlausn á ágreiningi málsaðila um sönnun atvika í þessu máli verður því að taka afstöðu til þess, hvort staðhæfingar stefndu fái stoð í sönnunargögnum sem aflað hefur verið við rekstur málsins. Engin vitni voru að hinum ætlaða tjónsatburði. Samstarfsmaður stefndu við færibandið umrætt sinn gaf skýrslu hjá lögreglu 9. júní 2000 og kvaðst ekki muna eftir að stefnda hafi minnst á það við sig að hafa fengið vörubretti í höfuðið þennan dag. Hann minntist þess heldur ekki að stefnda hafi kvartað undan höfuðverk næstu daga á eftir. Óumdeilt er að stefnda lét hvorki yfirmenn né samstarfsfólk sitt vita um slysið og gafst því ekki tilefni til að rannsaka vettvang og hugsanlegar orsakir þess þegar í stað. Ekki nýtur gagna í málinu um að ytri áverkar hafi sést á stefndu eftir slysið, en hún bar sjálf fyrir dómi að hún hefði fengið stóra kúlu á höfuðið. Ekkert slíkt kemur heldur fram í læknisvottorðum um skoðun á stefndu 11. febrúar 2000 en þann dag leitaði hún á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri vegna höfuðverks. Í þessum vottorðum er heldur ekki minnst á höfuðhöggið sem stefnda kveðst hafa fengið í slysinu, þó að greint sé frá kvörtunum hennar varðandi heilsufar umrætt sinn. Í málinu liggur fyrir bréf framkvæmdastjóra pökkunarstöðvar áfrýjanda 7. mars 2000 „til þeirra sem málið varðar“. Tilefni þess mun vera milliganga sem danskur konsúll á Akureyri hafði við að koma orðsendingu til áfrýjanda um slysið. Í bréfinu er tekið fram að stefnda segist hafa orðið fyrir höfuðhöggi sem kunni að vera orsök veikinda hennar. Er þetta í fyrsta sinn sem gögn málsins nefna að stefnda kveðist hafa orðið fyrir slysi. Bréfritari segist hafa kannað málið með viðtölum við yfirmann, samstarfsfólk og launafulltrúa. Hafi enginn kannast við að stefnda hafi slasast á vinnustaðnum. Ekki verður bætt úr skorti á sönnun um að tjónsatburðurinn hafi orðið með vitnisburði starfsmanna áfrýjanda um geymslustað vörubretta eða almennar aðstæður á vinnustaðnum. Hið sama er að segja um síðari tíma læknaskýrslur, umsögn Vinnueftirlits ríkisins um aðstæður á vettvangi löngu eftir að slysið á að hafa orðið og vottorð frá veðurstofu. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telst ósannað að stefnda hafi slasast við vinnu sína hjá áfrýjanda umræddan dag. Verður áfrýjandi þegar af þessari ástæðu sýknaður af kröfu stefndu. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verður látinn niður falla. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað stefndu í héraði verða staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Áfrýjandi, Samherji hf., er sýkn af kröfu stefndu, Jane Ingrid Bork. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað stefndu skal vera óraskað. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur. Mál þetta, sem dómtekið var þann 22. júlí, hefur Jane Ingrid Bork, kt. 310759-2289, Sólheimum 1, 601 Akureyri, höfðað hér fyrir dómi með stefnu, útgefinni 15. júní 2004 og birtri 15. s.m., á hendur Samherja h.f., kt. 610297-3079, Glerárgötu 30, 600 Akureyri, og Tryggingamiðstöðinni h.f. kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, til réttargæslu, en málið var þingfest 24. júní s.á. Endanlegar dómkröfu stefnanda eru þær, að hið stefnda félag, Samherji h.f. verði dæmt til að greiða henni kr. 6.554.578 með 4,5% ársvöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, sbr. 12. gr. laga nr. 37, 1999 um breytingar á þeim lögum, af kr. 2.771.578 frá slysdegi 28. janúar 2000 til 1. október 2001, en af kr. 6.554.578 frá þ.d. til 17. desember 2003 og með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38, 2001 til greiðsludags. Þá er þess krafist að vextirnir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 28. janúar 2001. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda, þ.m.t. útlagðs kostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi, en með bréfi Dómsmálaráðuneytisins dags. 18. júlí 2002 var stefnanda veitt gjafsókn og gerir stefnandi þá kröfu að málskostnaður verði dæmdur henni eins og málið sé eigi gjafsóknarmál. Þá er krafist að 24% virðisaukaskattur leggist við dæmdan málskostnað sbr. lög nr. 50, 1998, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyld. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, en það félag hafði með höndum ábyrgðartryggingar vegna launþega fyrir stefnda. Dómkröfur stefnda eru aðallega, að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda og að málskostnaður verði dæmdur að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður. I. Í stefnu og öðrum gögnum er atvikum máls lýst á þá leið að stefnandi, sem er danskur ríkisborgari, hafi flust búferlum frá Danmörku til Íslands sumarið 1999 og tekið sér bólfestu í næsta nágrenni Akureyrar. Þann 4. október það ár hóf hún störf í fiskvinnslufyrirtæki stefnda, Strýtu á Oddeyrartanga, nánar til tekið í pökkunarstöð fyrirtækisins. Ágreiningslaust er að þann 28. janúar 2000 var stefnandi ásamt öðrum starfsmanni, Huldu Ólafsdóttur, að pakka eins kílóa pokum af frosnum karfaflökum í kassa. Kassarnir voru færðir á færiband, og þaðan í sjálfvirka lokunarvél en síðan var þeim staflað á trévörubretti. Vörubrettin voru færð til með vörulyftara ellegar handlyftara. Af hálfu stefnanda er atvikum nánar lýst á þann veg að umræddan dag hafi vantað 2-3 manneskjur í pökkunarsalinn og þar sem færibandið hafi stöðugt verið í gangi hafi aðeins önnur þeirra, þ.e. hún eða nefnd Hulda, mátt víkja frá í senn. Það hafi því gerst er vörubretti var fullhlaðið að hún hafi farið út úr vinnslurýminu og inn á lager til að ná í nýtt bretti. Staðhæfir stefnandi að það hafi tíðkast að vörubrettin hafi verið geymd utan dyra í frosti og snjó, en brettastæður, allt að 2ja metra háar, verið færðar á nefndan lager. Til þess að ná til efsta brettisins hafi hún í greint sinn mátt stíga upp í brettasamstæðuna. Brettið hafi verið hálffrosið eða stamt af bleytu og hafi hún því þurft að beita afli til að losa um það. Við þetta átak hafi brettið skyndilega losnað og fallið niður og þá rekist í höfuð hennar. Hún hafi strax fengið kúlu á höfuðið, en í fyrstu ekki fundið fyrir miklum óþægindum og þar sem ekki hafi blætt hafi hún ekki haft orð á höfuðhögginu við samstarfsmann sinn. Hún hafi því lokið vinnu sinni nefndan dag. Daginn eftir atvikið hafi hún hins vegar fundið fyrir höfuðverk sem hafi ágerst með tímanum og af þeim sökum hafi hún tekið verkjatöflur. Hún hafi þó farið til vinnu mánudaginn 31. janúar og sinnt störfum sínum allt til þriðjudagsins 8. febrúar, en það hafi verið síðasti vinnudagur hennar hjá stefnda. Miðvikudaginn 9. febrúar hafi höfuðverkurinn verið orðinn slíkur að hún hafi átt erfitt með svefn og af þeim sökum kvatt Braga Sigurðsson heimilislækni til sín. Læknirinn hafi talið að hún væri með slæmar bólgur í ennisholum. Fimmtudaginn 10. febrúar hafi hún farið á Heilsugæslustöðina á Akureyri þar sem m.a. hafi verið tekin úr henni blóðprufa. Föstudaginn 11. febrúar hafi hún enn farið á Heilsugæslustöðina, hitt fyrir nefndan lækni, er hafi tjáð henni að samkvæmt blóðprufunni væri eitthvað athugavert við heilsu hennar og gefið þau fyrirmæli að ef höfuðverkurinn skánaði ekki þá skyldi hún leita til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA). Þá um kvöldið hafi hún verið með miklar höfuðkvalir og svima og af þeim sökum farið um miðnættið í leigubifreið á FSA. Í anddyri slysadeildar FSA hafi hún liðið út af og í raun lítið vitað af sér eftir það. Hafi hún dvalið á sjúkrahúsinu þá um nóttina, en farið í sneiðmyndatöku að morgni laugardagsins 12. febrúar. Hafi þá komið í ljós að blæðing var innan við höfuðkúpu. Hafi þá þegar verið flogið með hana í sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hún hafi verið lögð inn á Sjúkrahús Reykjavíkur, en þar hafi hún gengist undir bráðaaðgerð. Hún hafi dvalið á sjúkrahúsinu til 29. febrúar 2000 en þá verið útskrifuð. Hún hafi samt sem áður ekki komist til vinnu og því ýmist dvalið á Íslandi eða í Danmörku, en loks farið í endurhæfingu á Kristnesspítala þann 20. ágúst 2001 og dvalið þar til 5. október sama ár. Samkvæmt stefnu leitaði stefnandi til danska konsúlsins á Akureyri nokkru eftir að hún lét af starfi sínu í pökkunarstöð stefnda. Liggur fyrir að konsúllinn greindi þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, Aðalsteini Helgasyni frá líðan stefnanda og frásögn hennar um að hún hefði orðið fyrir greindu höfuðhöggi á vinnustaðnum. Í málinu liggur og fyrir bréf Aðalsteins dags. 7. mars 2000, en þar kemur m.a. fram að hann hafi í viðtölum við yfirmann og annað starfsfólk fyrirtækisins komist að því að stefnandi hefði hringt í launafulltrúa fyrirtækisins og greint frá höfuðhöggi og veikindum og að hún hefði haft höfuðverk í einhvern tíma en tekið verkjalyf til að minnka þjáningar sínar. Enginn á vinnustaðnum hafi kannast við að stefnandi hefði slasast á vinnustaðnum, en „sumir samstarfsmenn hennar höfðu áður haft á orði að suma daga virtist hún vera á lyfjum eða “undir áhrifum””. Er haft á orði í bréfinu að umrætt slys sé sennileg skýring á þessu ástandi stefnanda, enda ekki aftekið að það geti hafa átt sér stað þrátt fyrir að hún sé ein til frásagnar þar um. Frá því er greint að stefnandi hafi starfað í nefndri pökkunarstöð í nokkra mánuði og reynst ágætur starfsmaður. Á meðal gagna málsins eru þrjú læknabréf slysadeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vegna stefnanda, dagsett 11.02. og 17.03. 2000. Í fyrsta bréfinu, sem undirritað er af Birni Guðbjörnssyni sérfræðingi er samskiptadagur tilgreindur 11. febrúar 2000 kl. 00:24, vegna höfuðverkjar stefnanda. Tiltekið er að um sé að ræða 40 ára gamla konu sem hafi átt við áfengisvandamál að stríða, að u.þ.b. mánuði fyrir komu hafi hún fengið sýkingu neðanvert við hægra auga er hafi breiðst út yfir andlit og að hún hafi verið á sýklalyfjum vegna þessa. Þá segir að 2 vikum fyrir komu hafi hún verið kvefuð, en að síðustu 3 daga hafi hún verið með sögu um höfuðverk. Síðan segir: Hefur verið stífluð í nefi og er þetta slæmur höfuðverkur, sérstaklega hægra megin í andliti. Þessu hefur ekki fylgt nein ógleði né uppköst, en hún segist þola ljós svolítið illa. Hún hefur ekki sögu um mígreni. Hún segist lítið hafa sofið undanfarnar 3 nætur. Við komu vaknar strax grunur um sinusitis, sérstaklega þar sem hún var aum yfir enni og kinnum. Var ekki mjög kvalin að sjá. Fékk 2 Parkódín Forte og 1 Voltaren, en þar sem það virkaði ekki eftir klukkustund fékk hún Pethidin 50 mg. og Phenergan 25 mg. i.m. Við það sofnaði hún og svaf í u.þ.b. klukkustund, fór þá heim og kemur ambulant í sinusamind um morguninn. Í öðru læknabréfinu, sem dagsett er sama dag, þ.e. 11. febrúar 2002 kl. 9:30 segir að ástæða samskipta sé tilgreindur höfuðverkur. Í bréfinu er vísað til upplýsinga frá Braga Sigurðssyni, lækni, þ. á. m. að stefnandi hafi m.a. misnotað áfengi á árum áður og að hún hafi lent í bílslysi einhverjum árum fyrr og þá hlotið áverka á höfuð. Einnig er áréttað að stefnandi hafi verið með sýkingu á hægri kinn í byrjun desember 1999 og að hún hafi af þeim sökum verið meðhöndluð með sýklalyfjum. Tiltekið er að stefnandi hafi fyrst fundið fyrir höfuðverk 2 vikum fyrir komu: „ekkert akút” upphaflega frekar væg, en ágerst og ekki sofið nú s.l. 2-3 nætur. Lýsir sárum púlserandi höfuðverk í öllum hægri hluta höfuðs, mest á bak við augað, eins og augað ætli að þrýstast út. Einhver ljósfælni, eitthvað runnið meira úr auganu. Óvinnufær s.l. 2 daga. Ekki veitt eftirtekt neinum neurologiskum brottfallseinkennum öðrum en að hún upplifir tvísýni sem er jafnt til allra átta. Síðast í blóðprufu hjá Braga (heimilislækni) í gær og var þá með crp um 50 og sökk 35. Hefur haft hækkuð lifrarpróf. Skoðun kl. 11 að morgni, fengið petitin injection að ganga um 2 um nóttina. Hún er e.t.v. svolítið sljó. Ákaflega ruglingsleg saga. Í stuttu máli ekkert öruggt fokalt í neuroliskum status og ekkert með vissu í lokal status annað en smávægileg litabreyting á hægri kinn. Hún er ekki hnakkastíf. Babinski mjög grunsamlega positifur beggja vegna. Álit: Vanmetið (sic) en finnst að verði að útiloka annars vegar heilaabcess og hins vegar sinus thrombosu, legg til tölvusneiðmynd af höfði Viðbót: Á tölvusneiðmynd sést blæðing í heila. Líklega subdural blæðing. Bjarni Hannesson, taugaskurðlæknir er staddur í húsinu og lítur á myndina af sjúklingi. Bjarni metur þetta þannig að hún eigi að fara í aðgerð sem fyrst og fer konan héðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur og leggst inn á taugaskurðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.” Í læknabréfi Heila- og taugaskurðdeildar Landspítala, sem ritað er f.h. Arons Björnssonar, sérfræðings, og dags. er 9. maí 2000 er ofangreind sjúkrasaga stefnanda rakin að nokkru, þ.á.m. að hún hafi verið með vaxandi höfuðverk við komu á FSA þann 11. febrúar 2000, í u.þ.b. 2 vikur, er hafi ágerst 2-3 daga fyrir komu, en síðan segir: „Saga um einhverjar ryskingar um 2 vikum fyrir komu. Tölvusneiðmynd á FSA fyrir komu sýndi stóra subdural blæðingu hæ. megin. Við skoðun var hún vel vakandi . Var talsvert illa áttuð á stað og stund, var mjög óstyrk við gang og lítt samstarfsfús. Hún kvartaði um tvísýni þegar horft var til beggja hliða en kraftar í útlimum, reflexar og skyn virtust eðlil. Blþr. 176/104 púls 80, reglul. Eðlileg hjarta- og lungnahlustun. Farið var með hana í aðgerð strax við komu og gerð borhola hæg. megin á höfði og tæmt út mikið af gömlu blóði. Eftir aðgerðina hresstist Jane (stefnandi) hratt og var mun betri daginn eftir.“ Í síðast nefnda bréfinu er greint frá því að 14. febrúar 2000 hafi stefnanda hrakað og að hún hafi af þeim sökum þurft að fara í nýja aðgerð. Hafi þá á ný verið tæmt úr mikið af blóði og gömlum himnum. Eftir aðgerðina hafi stefnandi verið í gjörgæslu í einn sólarhring en síðan hægt og rólega farið að hressast og að lokum útskrifast 29. febrúar með tilvísun um áframhaldandi eftirlit hjá læknum á FSA. Í bréfi áðurnefnds Arons Björnssonar sérfræðings á Heila- og taugaskurðdeild Landsspítala í Fossvogi, dagsettu 16. mars 2000, sem ritað er til danska konsúlsins á Akureyri er sjúkrasaga stefnanda rakina og m.a. staðfest innlögn og meðferð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og segir um það orðrétt: ,,.. vegna blæðingar innan höfuðkúpu sem hún hefur væntanlega fengið við einhvers konar höfuðhögg einhverjum vikum áður. Var þetta farið að valda talsverðum þrýstingi og vaxandi einkennum í formi lömunar og rugls. Þá voru gerðar á henni tvær aðgerðir með einhverra daga millibili og eftir seinni aðgerðina hefur henni farnast vel og er hún nú á góðum batavegi. Hún útskrifaðist á sjúkrahúsið á Akureyri og síðan í framhaldi af því heim til sín, 29.02.2000.“ Samkvæmt gögnum málsins ritaði lögmaður stefnanda beiðni til Vinnueftirlits ríkisins 14. apríl 2000 og til lögreglunnar á Akureyri 17. maí 2000. Er þar að nokkru rakin framan lýst atburðarás en farið fram á frekari rannsókn. Af hálfu lögreglu fór fram rannsókn í fyrirtæki stefnda Strýtu hf. á tímabilinu frá 31. maí til 4. nóvember 2000. Voru þá m.a. teknar skýrslur af stefnanda, samstarfskonu hennar Huldu Ólafsdóttur, aðstoðarverkstjóranum Bjarneyju Völu Steingrímsdóttur og lyftaramanninum Snorra Sigurðssyni. Í lögregluskýrslu stefnanda sem dagsett er 31. maí nefnt ár lýsir hún verkefnum sínum á vinnustað stefnda með svipuðum hætti og hér að framan var rakið, þ.á.m. að þann 28. janúar hafi hún verið að pakka karfapakkningum í pappakassa og raða þeim á bretti. Í skýrslunni er tekið fram að lögmaður hennar hafi túlkað orð hennar, en þar segir m.a.: „Jane segir að hún hafi verið að vinna með konu sem heitir Hulda við að pakka og raða á bretti. Jane segir að þegar að þær hafi verið búnar að fylla brettið þá hafi það verið sótt á lyftara og síðan hafi hún þurft að sækja nýtt bretti til að raða á. Jane segir að þennan dag hafi vantað tvær eða þrjár manneskjur til vinnu og því hafi hún þurft að sækja brettin sjálf. Jane segir að tómum brettum hafi verið ekið inn í húsið í tveggja metra stæðum. Jane segir að þessi bretti hafi staðið úti og verið frosin og snjóug. Jane segir að í eitt skiptið þegar hún var að sækja bretti sem þá voru í u.þ.b. tveggja metra hæð. Jane kveðst hafa ætlað að taka efsta brettið en ekki náð upp og því hafi hún stigið inn í brettastæðuna til að ná hærra upp. Jane segir að hún hafi togað í efsta brettið til að ná því niður. Jane segir að brettið hafi verið frosið fast á stæðunni en það hafi síðan losnað skyndilega og runnið niður á höfuðið á sér. Jane segir að henni hafi ekki fundist afleiðingarnar af þessu né líðan sín eftir þetta hafa verið neitt slæm og því hafi hún haldið áfram vinnu eins og ekkert hafi komið fyrir. Jane kveðst hafa fengið kúlu á höfuðið og hún ekki verið með neinn höfuðverk eftir þetta. Jane segir að þetta hafi líka gerst í endanum á vinnudeginum. Jane sagði að enginn hafi orðið vitni að þessu óhappi. Jane segir að á laugardeginum hafi hún svo fundið fyrir höfuðverk sem svo hafi ágerst. Jane kveðst hafa farið í vinnu á mánudeginum og þá enn verið með höfuðverk og fengið eitthvað af verkjatöflum í vinnunni.“ Í lögregluskýrslunni lýsir stefnandi atvikum máls eftir þetta, þ.á.m. versnandi líðan, samskiptum við lækni og innlögn á FSA með sama hætti og hér að framan var rakið. Lokaorð hennar voru þessi: „Jane segir að hún sé ekki í vafa um að ástæðan fyrir þessum blæðingum sé eftir að hún fékk brettið í höfuðið þegar að hún var að vinna á Strýtu. Jane segir að hún hafi ekki fengið annað höfuðhögg á þessu tímabili, hvorki áður en hún fékk brettið í höfuðið né eftir að það gerðist.“ Í skýrslu sem samstarfskona stefnanda, Hulda Ólafsdóttir gaf hjá lögreglu þann 9. júní 2000 skýrir hún frá því að hún hafi frá því að hún hóf störf í Strýtu hf. í septembermánuði 1999 mikið starfað með stefnanda en jafnframt að hún myndi sáralítið eftir atvikum máls þann 28. janúar sl. Í skýrslunni segir síðan m.a.: „Hulda segir að hún og Jane hafi verið að vinna saman þennan dag við að pakka fiskpakkningum ofaní kassa. Hulda segir að þeim kössum hafi svo verið raðað á bretti. Hulda segir að þegar að brettin voru full þá hafi hún og Jane keyrt brettin með trillu fram í skála þar sem þau hafi rúllað utan um kassann, utan á brettinu með plasti og síðan hafi lyftari komið og tekið brettið. Hulda segir að yfirleitt sé tóm brettastæða geymd hjá rúllubandinu við pökkunina. Hulda segir að sig minni að í einu tilfelli þegar að brettastæðan var búin við bandið að Jane hafi farið fram í skála til að sækja tómt bretti. Hulda segir að sig minni að Jane hafi farið ein að sækja brettið þar sem þær megi ekki yfirgefa pökkunarbandið báðar í einu því að það sé alltaf í gangi. Hulda segir að hún muni ekki eftir því að Jane hafi minnst á það við sig að hafa fengið bretti í höfuðið þegar að hún sótti það. Hulda kveðst ekki minnast þess að Jane hafi kvartað undan höfuðverk eftir þennan dag.“ Í lögregluskýrslu Bjarneyjar Völu, flokksstjóra, sem dagsett er 9. júní 2000, er haft eftir henni að hún muni ekkert eftir þeim degi er vinnuslys það sem um sé rætt hafi átt að gerast þ.e. þann 28. janúar 2000. Hún staðfesti hins vegar að þann dag hafi stefnandi og nefnd Hulda unnið saman við að pakka fiski og lýsti hún ferlinum á svipuðum nótum og þær hér að framan. Í skýrslunni er m.a. haft eftir vitninu: „Bjarney segir að brettastæða með tómum brettum sé svo geymd við pökkunarbandið og þær nái í tóm bretti þangað. Bjarney segir að tómu brettin séu aldrei geymd frammi þar sem lyftarinn kemur inn. Bjarney segir að lyftarinn komi alltaf með tóma brettastæðu inn að pökkunarbandinu. Bjarney segir að það sé engin föst regla á því hvað þessi brettastæða sé há. Bjarney segir að lyftaramennirnir komi með brettin í þeirri hæð sem þægilegt er að taka þau niður. Bjarney segir að Jane hafi aldrei minnst á neitt við sig um að hafa fengið tómt bretti í höfuðið. Bjarney segir að hún muni eftir því að Jane hafi fengið einhverja flensu og verið frá í einhvern tíma. Bjarney segir að eftir það hafi Jane kvartað um höfuðverk. Bjarney segir að Jane hafi ekki fengið nein verkjalyf hjá sér en segir að starfsfólk geti sjálft fengið þau verkjalyf sem til eru á vinnustaðnum og fengið sér þegar tilefni er til þess.“ Í lögregluskýrslu Snorra Sigurðssonar, sem dagsett er 4. nóvember 2000, lýsti hann verkum sínum sem lyftaramanns svo og vinnuferli í pökkunarsal stefnda þannig: „Snorri segir að hann hafi einnig komið með tóm bretti til þeirra sem voru að pakka. Snorri segir að hann hafi yfirleitt ekið tómu brettunum inn til þeirra sem voru að pakka en stundum hafi hann þurft að skilja þau eftir frammi í innkeyrslunni. Snorri segir að hæðin á brettastæðunni hafi verið misjöfn. Snorra er nú sýnd mynd af brettastæðu sem er u.þ.b. tveggja metra há. Snorri segir að þessi hæð á brettastæðunni sé í líkingu við hæðina á þeim brettastæðum sem að hann hafi flutt inn en þær hafi líka verið lægri en þetta. Snorri segir að oft hafi brettin verið frosin saman og erfitt hafi verið að ná þeim sundur.“ Í lok skýrslunnar kveðst Snorri ekki hafa orðið vitni að ætluðu vinnuslysi, en hins vegar heyrt af því síðar að stefnandi hefði fengið bretti í höfuðið. Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, sem dagsett er 21. september er greint frá aðstæðum í pökkunarsal stefnda. Þá er atvikum lýst með hliðsjón af frásögn stefnanda með eftirfarandi hætti: Tildrög munu hafa verið þau að hin slasaða vann ásamt annarri konu við að pakka inn eins kílóa pökkum af frosnum karfaflökum í kassa, sem síðan er settir á rúllufæriband þar sem þeim er lokað. Þá eru þeir teknir af bandinu og staflað á vörubretti. Utan um kassastæðuna er síðan vafið plasti og eftir það er vörubrettið fjarlægt með vörulyftara. Að sögn slösuðu mun hún hafa verið að ná í vörubretti sem að hún segir að hafi verið í vörubrettastæðu sem var um tveir metrar á hæð. Brettastæðan mun hafa verð flutt með vörulyftara af plani utan við húsið og inn í pökkunarsalinn. Til að ná efsta brettinu þurfi hún að stíga upp í brettastæðuna og kippa því niður. Slasaða telur að brettið hafi verið frosið við það næsta en losnað skyndilega og við það rekist í höfuð hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut kúlu á höfuðið. Telur hún að höggið hafi komið af stað blæðingu innan við höfuðkúpuna. Aðstæður í pökkunarsal voru eftirfarandi þegar að rannsókn fór fram (080900), lýsing mældist um 170-250 lúx, hitastig um 18 stig, rakastig 42%. Gólf voru þurr, hávaði var óverulegur. Greint er frá því í skýrslunni að umrædd vörubretti séu af eura staðli, 120x80x15 cm., um 25 kíló, en síðan segir: Orsök meints slyss má hugsanlega rekja til þess að vörubrettastæðan hafi verið það há að erfitt og jafnvel varasamt hafi verið að ná í brettin með því að stíga upp í brettastæðuna. Hugsanlega hafa brettin verið frosin saman þannig að erfitt hafi reynst að ná þeim sundur án þess að rykkja í þau. Ekki mun vera notuð trappa eða pallur við að ná efstu brettunum úr stæðu. Skyldur aðila samkvæmt lögum nr. 46, 1980 voru skýrðar fyrir verkstjóra/forstöðumanni og eftirfarandi fyrirmæli voru gefin: 1. Gera skal úrbætur við pökkun er varða of mikla vinnuhæð við stöflun á fiskikössum á vörubretti. sjá m.a. reglur nr. 499/1994. 2. Þegar verið er að taka vörubretti á höndum úr brettastæðum, skal þess gætt að þær séu ekki of háar fyrir starfsmanninn. 3. Atvinnurekandi skal gera skipulagsráðstafanir eða nota viðeigandi hjálpartæki, einkum vélbúnað, til að komast hjá að starfsmenn þurfi að handleika byrðar, sbr. reglur nr. 499/1994.” Af hálfu stefnanda var lagt fram vottorð Veðurstofu Íslands um veður á Akureyri dagana 25. til 28. janúar 2000. Samkvæmt vottorðinu var hitastig þann 25. og 26. janúar í fyrstu 9,2° stig en fór lækkandi og var mínus 2° um miðnætti 26. til 27. samhliða lítilsháttar snjókomu. Þann 27. fór hiti lækkandi frá mínus 2,6° til mínus 6° ásamt skúrum slydduéli og lítilsháttar sjókomu, þann 28. var hitastig frá mínus 6,9° til mínus 4°, án úrkomu fyrri hluta dags. Af hálfu stefnanda voru, auk þeirra læknisvottorða sem áður voru rakin, lögð fram tvö vottorð. Í því fyrra, þ.e. læknisvottorði Þóris V. Þórissonar heimilislæknis, sem dagsett er 22. mars 2001, er rakin saga stefnanda eftir höfuðaðgerðina í febrúarmánuði 2000. Er því lýst að stefnandi hafi í fyrstu alveg verið óvinnufær vegna verulegra höfuðkvala og svima, að í maí 2000 hafi hún flust um stund til Danmerkur en farið til síns heima á Íslands í lok október sama ár. Greint er frá því að stefnandi sé á ritunartíma vottorðsins enn ekki vinnufær vegna mikillar þreytu og úthaldsleysis svo og verkja sem að hún fái af og til. Tiltekið er að í sjúkrasögu stefnanda blandist áfengissýki sem hún hafi átt að stríða við bæði hér á Íslandi og í Danmörku, en að hún hafi alveg hætt að drekka áfengi eftir að hún fluttist að nýju til Íslands í október 2000. Vegna nefnds heilsufarsástands hafi stefnandi verið lögð inn á endurhæfingardeild FSA í Kristnesi. Í læknisvottorði Lúðvíks Guðmundssonar, endurhæfingarlæknis á Kristsnesi, sem dagsett er 27. september 2001 er lýst félagssögu stefnanda og eldri sjúkrasögu. Er frá því greint að stefnandi hafi á yngri árum stundað sjómennsku og starfað við aðhlynningu fatlaðs fullorðins fólks, en síðar starfað við iðn sína, matreiðslu og þá m.a rekið fiskveitingahús. Greint er frá því að stefnandi hafi átt við áfengisvandamál að stríða, einkum er hún bjó í Danmörku en að það sé nú úr sögunni. Greint er frá því að árið 1996 hafi hún lent í bílslysi og fengið höfuðhögg vinstra megin á enni og rifbrot auk fleiri eymsla, en að hún hafi jafnað sig allvel af þeim afleiðingum. Þá hafi hún ökklabrotnað árið 1994 og aftur 1997. Í vottorðinu er síðan rakin frásögn stefnanda af ætluðu vinnuslysi þann 28. janúar 2000 og innlögn hennar á endurhæfingardeild af þeim sökum hinn 20. ágúst 2001. Er lýst ástandi stefnanda við komu og gangur meðferðar rakin, en lokamatið er svofellt: „Almennt líkamlegt ástand er gott og verkjavandamál sem voru til staðar í kjölfar slyss virðast að mestu úr sögunni. Vitræn geta virðist eðlileg en við verklega prófun komu þó fram nokkrir erfiðleikar við að skipuleggja vinnu, einbeitingarerfiðleikar og sennilega úthaldsleysi. Þetta eru væntanlega afleiðingar höfuðslyssins. Vænta má að þessi einkenni eigi eftir að minnka og lagast þegar að frá líður og Jane komist í betra form og fer að stunda vinnu. Það er ráðlegt að Jane fari í frekar létt starf, gjarnan það sem að hún hefur lært til, þ.e.a.s. einhvers konar eldamennsku eða störf í mötuneyti, til að byrja með í hlutastarfi en á að geta unnið fullt starf þegar að frá líður.“ Samkvæmt gögnum málsins ritaði lögmaður stefnanda bréf til stefnda þann 9. apríl 2002 og greindi þar formlega frá ætluðu vinnuslysi og spurðist fyrir um afstöðu félagsins til bóta. Með bréfinu fylgdu framangreindar skýrslur lögreglu og vinnueftirlits en einnig læknabréf og læknisvottorð. Er engin svör bárust frá stefnda var erindið ítrekað með bréfum dagsettum 14. maí og 11. desember 2002. Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi þann 12. júní 2002 og óskaði hún þá eftir örorkumati dómkvaddra matsmanna, læknanna Guðmundar Björnssonar og Guðna Arinbjarnar og er það dagsett 30. maí 2003. Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna er vísað til áður rakinna gagna en síðan er rakin félags- og persónusaga stefnanda, fyrri heilsufarssaga, frásögn stefnanda af ætluðu slysi 28. janúar og loks er lýst skoðun þeirra á stefnanda. Í niðurlagi matsgerðarinnar er svofelld samantekt: „Undirritaðir matsmenn hafa kynnt sér þau læknisfræðilegu gögn sem að fyrir liggja varðandi ofanritaða og hafa átt við hana viðtal og skoðað. Þeir telja ljóst að við slysið þann 28.01.00 hafi Jane Ingrid Bork getað hlotið höfuðhögg sem valdið hefur subdural blæðingu sem kom í ljós eftir nokkra daga. Það er álit heila- og taugaskurðlæknis að svo geti verið. Þá eru vitrænar skerðingar og úthaldsleysi taldar til afleiðinga höfuðslyssins af endurhæfingarlækni.” Í matsgerðinni láta hinir dómkvöddu matsmenn það álit í ljós að læknismeðferð og endurhæfingartilraunum gagnvart stefnanda sé lokið og að tímabært sé að leggja mat á varanlegt heilsutjón hennar vegna afleiðinga slyssins, en við mat á stöðugleikapunkti er miðað við útskrift á endurhæfingardeild. Við mat á tímabundnu atvinnutjóni leggja matsmenn til grundvallar að stefnandi hafi hætt störfum þann 08.02.00 og hafi ekki hafið störf að nýju á almennum vinnumarkaði eftir það. Telja þeir sanngjarnt að telja tímabundna óvinnufærni fram að stöðugleikapunkti, 01.10.01. Við mat á þjáningatíma leggja matsmenn til grundvallar að stefnandi hafi verið veik og batnandi í u.þ.b. 8 mánuði, þar af verið rúmliggjandi í 9 vikur, bæði á sjúkrahúsi á Akureyri, í Reykjavík og til endurhæfingar á Kristnesspítala. Við mat á varanlegum miska er af hálfu matsmannanna lagt til grundvallar að um hafi verið að ræða höfuðhögg, blæðingar og aðgerðir þeim tengdum, en um það segir nánar í matsgerðinni: ,,Ofanrituð (stefnandi) finnur fyrir almennum einkennum úthaldsleysis, svima og höfuðverkja og fram hefur komið truflun við verklega prófun. Auk almennrar líkamlegrar færnisskerðingar er um allnokkra varanlega skerðingu á lífsgæðum hennar að ræða. Við mat á varanlegri örorku leggja matsmenn til grundvallar að ofanrituð vann í fullu starfi í rækjuverksmiðju þegar slys það sem hér er fjallað um átti sér stað. Hún er lærður kokkur og hefur reynslu af rekstri fiskveitingahúss. Fram kemur að hún hyggst nú fara að vinna í hálfu starfi í plastverksmiðju. Hún nýtur 65% örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins frá því í september 2002. Undirritaðir matsmenn telja ljóst að ofanrituð verði fyrir varanlegri skerðingu á getu til tekjuöflunar þegar litið er til eðli þeirra varanlegu meina sem býr við í kjölfar slyssins sem hér er fjallað um. Um er að ræða skerðingu á álagsgetu og úthaldsþoli og þá hafa komið fram erfiðleikar við að skipuleggja vinnu og einbeitingarerfiðleikar. Matsmenn telja að þegar til lengri tíma er litið komi hún til með að getað aukið starfshlutfall sitt í léttu hreyfanlegu starfi og jafnvel tekið til við starf þar sem starfsreynsla hennar og menntun nýtist.” Telja matsmenn sanngjarnt að telja stefnanda búa við fjórðungs, 25%, skerðingu á varanlegri getu til tekjuöflunar, en að miski hennar sé 20% og að hefðbundin varanleg læknisfræðileg örorka sé 20%.“ Lokaorð matsgerðarinnar eru svohljóðandi: „Undirritaðir matsmenn hafa kynnt sér þau læknisfræðilegu gögn sem fyrir liggja varðandi ofanritað og hafa átt við hana viðtal og skoðað. Þeir telja ekki að önnur slys eða sjúkdómar eigi þátt í því mati sem hér er lagt fram og eingöngu tekur til afleiðinga vinnuslyssins þann 28.01.00.“ Af gögnum málsins má ráða að málsaðilar hafi reynt að ná samkomulagi um bætur til handa stefnanda á árinu 2003 en að þær tilraunir hafi runnið út í sandinn í lok ársins. Málsástæður stefnanda. Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hún hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda föstudaginn 28. janúar 2000. Slysið hafi ekki vitnast strax enda hafi hún ekki haft orð á því við samstarfsfólk og vinnuveitanda heldur harkaði hún af sér við vinnu sína næstu daga þrátt fyrir stöðugt vaxandi höfuðverk uns hún hafi gefist upp þriðjudaginn 8. febrúar sama ár. Af hálfu stefnanda er vísað til framlagðra læknabréfa, ekki síst bréfs Arons Björnssonar sérfræðings á heila- og taugaskurðlækningadeild frá 16. mars 2000 og svohljóðandi álits: „ að vegna blæðingar innan höfuðkúpu, sem hún hefur væntanlega fengið við einhvers konar höfuðhögg einhverjum vikum áður. Var þetta farið að valda talsverðum þrýstingi og vaxandi einkennum í formi lömunar og rugls“. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að álit sérfræðingsins komi mjög vel saman við þann atburð sem hún hefur upplýst um, en við nefnda höfuðaðgerð hafi einmitt verið liðnar röskar tvær vikur frá því að vörubrettið skall í höfuð hennar. Til þess er vísað að stefnandi hafi unnið samvikusamlega og yfir höfuð mætt stundvíslega til vinnu nema þegar veikindi hömluðu, en hún hafi legið veik 7.-14. janúar og 20.-21. janúar 2000 vegna lungnabólgu. Ekkert annað atvik né slík högg hafi átt sér stað en það sem nefndur sérfræðingur lýsir að sé líklegasta orsök slíkrar blæðingar hafi átt sér stað. Í því samhengi er og vísað til bréfs Aðalsteins Helgasonar, framkvæmdastjóra Strýtu frá 7. mars 2000. Af hálfu stefnanda er vísað til fyrirliggjandi lögregluskýrslna og frásagnar samstarfsmanna stefnanda, ekki síst varðandi meðferð og starfstilhögun á vinnustað stefnda, þar á meðal með tóm vörubretti. Í því sambandi er og vísað til áður rakinnar skýrslu Vinnueftirlits ríkisins og um skyldur stefnda samkvæmt lögum nr. 46, 1980 og loks til fyrirmæla er gefin voru eftir vettvangsathugun Vinnueftirlitsins. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að álit Arons Björnssonar, heilaskurðlæknis, en einnig að nokkru frásögn samstarfsmanna, þ.á.m. um geymslustað tómra vörubretta, hæð þeirra og ástand, styðji það að frásögn hennar af atvikum máls sé rétt. Greindar vinnuaðstæður, ekki síst það að engin trappa eða ástig var til staðar í vinnurými stefnanda, hafi verið þannig að stefnandi hafi unnið við aðstæður sem ekki voru boðlegar og það orðið til þess að slysið þetta varð. Er á því byggt að stefnandi beri í ljósi allra aðstæðna ábyrgð á slysi hennar sem vinnuveitandi. Bæði hafi vinnuaðstæður ekki verið fullnægjandi, hjálpartæki ekki verið til staðar, en einnig hafi skort á verkstjórn og vinnuskipulag. Fyrirmæli er Vinnueftirlitið hafi gefið eftir rannsókn á aðstæðum hjá stefnda sýni þetta best, sbr. og reglur nr. 499, 1994. Staðreynt hafi verið að tóm bretti hafi ekki verið tiltæk er á þurfti að halda og einnig hafi verið of fámennt á vinnuvettvangi stefnanda. Það undanþiggi þó ekki vinnuveitanda því að gæta þess að boðlegar aðstæður séu fyrir hendi, þ.á.m. með hliðsjón af þyngd bretta, u.þ.b. 25 kg, hæð brettastæðu og að verkið var unnið með handafli. Óljóst sé hvers vegna starfsmenn þurftu yfir höfuð á stundum að ná sjálfir í bretti, en það bendi þó til þess að verkstjórn og skipulagi hafi verið ábótavant eða mannekla verið á staðnum. Telur stefnandi að sökum vanbúnaðar varðandi vinnuaðstöðu og mistaka við verkstjórn hafi slys hennar orðið og á því beri stefndi skaðabótaábyrgð og beri að bæta tjón stefnanda. Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 46, 1980, 1. mgr. 14. gr., 21. gr., 1. mgr. 23. gr. og 1. mgr. 36. gr., en auk þess til dómafordæma Hæstaréttar í máli nr. 1994, bls. 2379. Varðandi útreikning bótakröfu vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50, 1993 með síðari breytingum. Til grundvallar leggur stefnandi matsgerð læknanna Guðmundar Björnssonar og Guðna Arinbjarnar, en kröfuna sundurliðar hún nánar þannig: 1. Tímabundið atvinnutjón kr. 2.147.576, en að frádregnum sjúkradagpeningum kr. 790.748, samtals kr. 1.376.828. 2. Þjáningabætur: Þjáningatími 8 mánuðir, þar af 9 vikur rúmliggjandi samtals 177 dagar x 980 (3.282/4.618) þ.e. án rúmlegu kr. 173.460. Vegna rúmlegu, 63 dagar x 1.0830 samtals kr. 115.290. Alls þjáningabætur kr. 288.750. 3. Varanlegur miski: 4.000.000 x 4.618/3.282 x 20, samtals kr. 1.126.000. 4. Varanleg örorka, 25%, en með hliðsjón af skattframtölum síðustu þriggja ára, 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 6. gr.: 1.200.000 x 4.271/3.282 = 1.561.609 x 9.689 x 25%, og með leiðréttingu skv. 15. gr. skaðabótalaga samtals 3.783.000. Heildarkrafa stefnanda samkvæmt ofangreindu er því kr. 6.554.578. Kröfur um vexti og dráttarvexti styður stefnandi við lög nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, en um málskostnað er vísað til 1. mgr. 29. gr., sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála. Þá er vísað til laga nr. 46, 1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. og reglur nr. 499, 1994, skaðabótalaga nr. 50, 1993 svo og óskráðra reglna skaðabótaréttar þ.á.m um húsbónda- eða vinnuveitendaábyrgð. Málsástæður og lagarök stefnda. Af hálfu stefnda er á því byggt að hann beri ekki sem vinnuveitandi ábyrgð á slysi stefnanda. Jafnframt er því andmælt að ábyrgð hans geti grundvallast á því að vinnuaðstæður hafi ekki verið fullnægjandi og að verkstjórn og skipulagi hafi verið ábótavant. Í fyrsta lagi rökstyður stefndi sýknukröfu sína með því að algjörlega sé ósannað að stefnandi hafi yfirleitt orðið fyrir slysi á vinnustað hans þann 28. janúar 2000. Er til þess vísað að stefnanda beri að sanna að slys hafi orðið á þann veg sem hún haldi fram og sé það bjargföst skoðun hans að sú sönnun hafi ekki tekist. Engin vitni hafi verið að ætluðu slysi. Þá hafi stefnandi heldur ekki haft orð á því við nokkurn mann að eitthvað hafi komið fyrir hana nefndan dag. Þáverandi framkvæmdastjóri stefnda hafi samkvæmt framlögðu bréfi, dagsettu 7. mars 2000, rúmum mánuði eftir að slys það sem stefnandi hefur borið að hafi orðið, rætt við samstarfsfólk og verkstjóra um ætlað tilvik en enginn kannast við frásögn hennar. Af hálfu stefnda er lögð áhersla á að í bréfinu finnist engin viðurkenning á því að slys hafi orðið þó svo slíkt hafi ekki verið talið útilokað í bréfinu, enda stefnanda ein til frásagnar um atvikið. Þá hafi lögregluskýrslur sem hafi verið teknar af samstarfsfólki stefnanda í júní og nóvember 2000 ekki skorið úr um málatilbúnað stefnanda. Er að því leyti mótmælt andstæðri lýsingu stefnanda í stefnu svo og ályktunum sem þar eru dregnar af umsögn Vinnueftirlits ríkisins. Verði engin sú ályktun dregin af umræddum gögnum, þvert á móti sé það skoðun stefnda að ósannað sé með öllu að stefnandi hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína umræddan dag líkt og hún haldi fram og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Af hálfu stefnda er á það bent, að þó svo að sannað verði að stefnandi hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína þann 28. janúar 2000 sé eftir sem áður ósannað að slysið hafi orðið með þeim hætti að stefndi beri á því ábyrgð að lögum. Í því samhengi er vísað til skýrslu Vinnueftirlits ríkisins þar sem segi m.a.: „Orsök meints slyss má hugsanlega rekja til þess að vörubrettastæðan hafi verið það há að erfitt og jafnvel varasamt hafi verið að ná í brettin með því að stíga upp í brettastæðuna. Hugsanlega hafa brettin verið frosin saman þannig að erfitt hafi reynst að ná þeim sundur án þess að rykkja í þau.” Af hálfu stefnda er því andmælt að vinnuaðstæðum á vinnustað hans hafi verið ábótavant auk þess sem skort hafi á að verkstjórn hafi verið í lagi. Er því haldið fram að vinnuaðstæður hafi verið eins og gengur og gerist við fiskvinnslu á Íslandi og ekkert hafi verið athugavert við verkstjórnina. Kjarna málsins kveður stefndi vera þann að stefnandi hafi ekki fært sönnur á það að málsástæður hennar eigi við rök að styðjast. Í fyrsta lagi sé ósannað að bretti hafi vantað við færibandið. Í öðru lagi sé ósannað að bretti hafi verið frosin saman. Í þriðja lagi sé ósannað að hæð brettanna hafi verið á þann veg að erfitt hafi verið að nálgast þau væri slíkt nauðsynlegt. Stefndi mótmælir því ennfremur að stefnandi hafi sýnt fram á að heilsufarslegt ástand hennar megi alfarið rekja til ætlaðs slyss þann 28. janúar 2000. Í því samband bendir stefndi á áður rakin gögn, þ.á.m. að stefnandi hafi fengið höfuðhögg árið 1996 er hún ók bifreið sinni á tré. Þá segi í læknisvottorðum að stefnandi hafi orðið fyrir einhverjum ryskingum u.þ.b. 2 vikum fyrir komu á Landspítala Háskólasjúkrahús þann 11. febrúar 2000 eða á svipuðum tíma og slys það er hún heldur fram að hafi orðið. Loks komi það ítrekað fram í gögnum málsins að stefnandi hafi átt við áfengisvandamál að stríða, sem vissulega kunni að hafa haft áhrif á heilsufarslegt ástand hennar í dag. Af hálfu stefnda er á því byggt að af öllu framangreindu leiði að grundvöllur bótakröfu stefnanda geti engan veginn staðist og beri því að fallast á aðalkröfu hans um sýknu. Varakröfu sína um lækkun kveðst stefndi fyrst og fremst byggja á eigin sök stefnanda. Samkvæmt frásögn stefnanda hafi hún sjálf ákveðið að sækja brettið í umrætt sinn og staðið að því verki eins og henni fannst best. Hafi eitthvað farið úrskeiðis við framkvæmdina hljóti stefnandi að bera ábyrgð á því. Hún hafi og haft aðra möguleika til að vinna verk sitt. Í fyrsta lagi hafi hún getað beðið einhvern af samstarfsfólki sínu um aðstoð en fjöldi fólks hafi verið að vinna í pökkunarsalnum. Í öðru lagi hafi ætíð verið á vinnustaðnum tiltækir litlir handtjakkar er hafi verið heppilegir til að sækja bretti væri slíkt nauðsynlegt. Stefnandi hafi hvorugan kostinn nýtt sér og sé eigin sök hennar því augljós að mati stefnda. Við munnlegan málflutning hafði stefndi ekki uppi tölulegan ágreining um skaðabætur, þ.e. eftir að stefnandi hafði lagfært kröfugerð sína undir rekstri málsins. Stefndi andmælir á hinn bóginn vaxta- og dráttarvaxtakröfu og bendir á að vextir sem áfallnir hafi verið fyrir 24. júní 2000 séu fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14, 1905. Þá hafi krafa um dráttarvexti ekki stoð í lögum þar sem ekki verði séð að töluleg krafa hafi verið formlega sett fram fyrr en við þingfestingu málsins þann 24. júní 2004. II. Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu, en auk þess voru teknar vitnaskýrslur af Bjarneyju Völu Steingrímsdóttur og Snorra Sigurðssyni. Við meðferð málsins fór dómari á vettvang ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér aðstæður, en auk þess liggja fyrir ljósmyndir lögreglu af margnefndum pökkunarsal stefnda. III. Í máli þessu greinir aðila á um hvort stefnandi hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína í fiskverkunarhúsi stefnda, Strýtu á Oddeyrartanga, hinn 28. janúar 2000. Í málinu byggir stefnandi ennfremur á því að vinnuaðstæður hafi ekki verið fullnægjandi og að almennri verkstjórn og skipulagi hafi verið áfátt, þ.á.m. að fullnægjandi hjálpartæki hafi ekki verið fyrir hendi, og að þetta hafi verið andstætt ákvæðum laga nr. 46, 1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum nr. 499, 1994 um öryggi og hollustu. Ágreiningslaust er að stefnandi hóf störf hjá stefnda í byrjun október 1999, en hún er danskur ríkisborgari. Hafði stefnandi það hlutverk að raða fullunnum fiskafurðum í plastpakkningum í kassa, sem síðar fóru yfir færiband og í álímingarvél. Kassarnir voru færðir með handafli á vörubretti. Fullhlaðin vörubretti voru loks færð til með hand- ellegar vélknúnum lyftara, en tóm bretti sett í þeirra stað. Samkvæmt frásögn vitnisins Snorra Sigurðssonar, lyftaramanns, fyrir dómi voru tómar trébrettasamstæður, allt að 2 metra háar, geymdar utan dyra. Var það vinnulag viðhaft, sérstaklega á vetrum, að stæðum þessum var ekið í hús að kvöldlagi með þeirri ætlan að brettin þiðnuðu. Voru því brettastæðurnar geymdar í rými við útidyrnar, í pökkunarsal ellegar í lagerskála þar fyrir innan. Frásögn nefnds vitnis var samhljóða vitnisburði Bjarneyjar Völu Steingrímsdóttur, flokksstjóra, um að starfsmönnum í pökkunarsal hafi verið ætlað að taka nefnd bretti með handafli úr stæðunum eftir þörfum og færa þau að pökkunarfæribandinu. Samkvæmt frásögn Bjarneyjar Völu unnu að jafnaði tveir starfsmenn við pökkunarvélina, og þá oft stefnandi og samverkakona hennar, Hulda Ólafsdóttir. Vegna stöðugrar vinnslu í pökkunarsalnum var samkvæmt vætti Bjarneyjar Völu og nauðsynlegt að önnur þeirra væri við pökkunina, þ.á.m. er sækja þurfti ný bretti til áhleðslu. Það var hins vegar álit vitnisins að stefnanda hefði eftir atvikum verið í sjálfsvald sett hvort hún kallaði eftir aðstoð annarra starfsmanna ellegar biði eftir lyftaramanni, treysti hún sér ekki til að ná í bretti einsömul. Við skýrslugjöf fyrir dómi lýsti stefnandi atvikum máls með aðstoð dómtúlks. Var frásögn hennar í öllum aðalaltriðum samhljóða því er fram kom í áður rakinni lögregluskýrslu hennar, en að nokkru leyti fyllri, þ.á.m. að hún hefði í umrætt sinn farið einsömul inn í lagerskálann til þess að ná í bretti, en það fallið niður er hún sló í það til þess að losa um það. Hafi brettið þá fallið niður úr um 2 metra hæð á hægri hluta höfuðs hennar, en einnig komið við mjöðmina. Fyrir dómi staðhæfði stefnandi að höggið hefði verið þungt og áréttaði að hún hefði af þeim sökum fengið sýnilega kúlu á höfuðið og fundið fyrir eymslum. Vegna tungumálaörðugleika kvaðst hún ekki hafa greint samverkakonu sinni eða öðrum á vinnustaðnum frá atvikinu, en vísaði í því sambandi til þess að aðeins hafi verið um hálf klukkustund eftir af vinnudeginum er atburðurinn gerðist. Að öðru leyti bar stefnandi á svipaða lund og áður var rakið, þ.á.m. um stöðugt versnandi líðan næstu daga eftir atburðinn. Samkvæmt framansögðu er stefnandi ein til frásagnar um atvik. Frásögn hennar er þó samhljóða lýsingu áður greindra vitna um verklag í pökkunarstöð stefnda, þ.á.m. um að tíðkast hafi að einn starfsmaður tæki um 25 kílóa trébretti úr um 2 metra brettastæðu með handafli og færði að pökkunarlínunni. Um aðrar aðstæður á vettvangi þykir frásögn stefnanda hafa stuðning í vætti samstarfskonunnar Huldu Ólafsdóttur hjá lögreglu, þ.á.m. að þær hafi að jafnaði verið einar að störfum, en einnig í vætti Snorra Sigurðssonar fyrir dómi, um ástand bretta að vetrarlagi, svo og í vottorði Veðurstofu Íslands. Við aðalmeðferð málsins lýsti stefnandi áverka sínum hægra megin á höfði, en jafnframt að hún hefði ekki, m.a. af tungumálaörðugleikum, greint frá slysinu á vinnustað stefnda. Verður fallist á að stefndi hafi af þeim sökum tæplega getað brugðist við á annan hátt en gert var, en fyrir liggur að Vinnueftirlit ríkisins og lögregla hófu rannsókn sína eftir tilkynningu lögmanns stefnanda vorið 2000. Í ljósi þessa verður að telja að fullnægjandi rannsókn hafi farið fram í kjölfar veikinda stefnanda. Eins og áður er lýst hefur stefnandi borið að hún hafi fundið fyrir stöðugt vaxandi höfuðverk við vinnu sína næstu daga eftir höfuðhöggið. Að mati dómsins hefur þessi frásögn hennar nokkra stoð í framburði vitnanna Snorra Sigurðssonar og Huldu Ólafsdóttur, en til þess er að líta að nokkuð var um liðið frá ætluðu atviki er þau gáfu skýrslur sínar og að vætti þeirra er ekki í samræmi við fram lagt bréf fyrrum framkvæmdastjóra stefnda um að starfsmenn hafi við eftirgrennslan um mánuði eftir ætlað atvik ekki kannast við að stefnandi hafi orðið fyrir vinnuslysi. Í bréfinu er hins vegar ekki tilgreint við hvaða starfsmenn framkvæmdastjórinn ræddi. Lýst líðan stefnanda hefur að mati dómsins stoð í áður röktum læknabréfum og vottorðum, ekki síst bréfi Arons Bjarnasonar, sérfræðings á heila- og taugaskurðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, sem dagsett er 16. mars 2000, um blæðingu innan höfuðkúpu og bráðaaðgerð hægra megin á höfði stefnanda og tæmingu á miklu magni af gömlu blóði. Var það álit sérfræðingsins að þetta ástand stefnanda hefði væntanlega stafað af einhvers konar höfuðhöggi, einhverjum vikum áður. Greind vottorð og álit eru samhljóða álitsgerð Lúðvíks Guðmundssonar, endurhæfingalæknis á Kristnesi, á líðan stefnanda svo og matsgerð læknanna Guðna Arinbjarnar og Guðmundar Björnssonar. Nefndum gögnum hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefnda. Þegar framangreint er virt í heild, þ.á.m. lýsing stefnanda á verklagi við færslu margnefndra timburbretta á vinnustað stefnda, frásögn vinnufélaga þar um, vottorð Veðurstofu Íslands um hitastig og úrkomu dagana 27.-28. janúar 2000 ásamt framangreindum vottorðum og matsgjörðum lækna og loks athugasemdum Vinnueftirlits ríkisins um úrbætur skv. lögum nr. 46, 1980, eru að áliti dómsins nægjanlegar líkur að því leiddar að stefnandi hafi hlotið þann höfuðáverka sem hún hefur lýst með þeim hætti sem hún hefur borið. Ber samkvæmt þessu að leggja fébótaábyrgð vegna vinnuslyssins á stefnda og eru eigi efni til að skipta þeirri ábyrgð. Þar sem ekki er tölulegur ágreiningur um kröfur stefnanda verður stefnda dæmt til að greiða stefnufjárhæðina, kr. 6.554.578. ásamt þeim vöxtum sem greinir í dómsorði, en vextir fyrir 24. júní 2000 eru þó fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14, 1905. Stefnanda var veitt gjafsókn þann 12. júní 2002. Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 892.832 greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun lögmanns hennar, Hreins Pálssonar hrl., sem ákveðast kr. 754.252, og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð. Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefnda greiði kr. 892.832 í málskostnað til ríkissjóðs. Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari. D Ó M S O R Ð : Stefndi, Samherji h.f., greiði stefnanda, Jane Ingrid Bork, kr. 6.554.578 með vöxtum skv. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50, 1993 frá 24. júní 2000 til 24. júlí 2004 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þ.d. til greiðsludags. Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 892.832 greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningslaun lögmanns hennar, Hreins Pálssonar hrl. kr. 754.252. Stefndi greiði kr. 892.832 í málskostnað til ríkissjóðs. |
Mál nr. 324/2000 | Kærumál Innsetningargerð Eignarnám Stjórnvaldsákvörðun | Sveitarfélagið H krafðist þess að fá með aðför umráð yfir 30.000 m³ af grjóti úr námu Ó. Byggðst krafan á að matsnefnd eignarnámsbóta hefði heimilað umráðin í maí 2000, þrátt fyrir að kröfu H um eignarnám á grjótinu væri ekki lokið. Ó og R, sem hafði fengið leigðan af Ó allan rétt til töku grjóts úr umræddri námu, höfnuðu að hlíta úrskurði nefndarinnar nema að undangenginni aðför. Talið var að ákvörðun um eignarnám væri stjórnvaldsákvörðun, sem sveitarstjórn færi með vald til að taka og bæri ábyrgð á. Í málinu lá fyrir að Siglingastofnun Íslands hafði frumkvæði að því að gera Ó og R tilboð í jarðefni og átti önnur samskipti við þá vegna málsins. Þá tók stofnunin ákvörðun um eignarnámið og sendi beiðni til matsnefndar eignarnámsbóta í umboði hafnarsjóðs H í júní 1999. Eftir það fjallaði hafnarstjórn H um málið og tók ákvörðun um eignarnámið og staðfesti bæjarstjórn H þá ákvörðun í september 1999. Var því talið að í málinu hefði ekki verið gætt fyrir réttu stjórnvaldi þeirra reglna, sem fylgja bæri við töku slíkrar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar og hefði ekki verið unnt að framselja vald H í þessum efnum. Var krafa H um umráð jarðefna í námu Ó ekki talin styðjast við gilda ákvörðun um eignarnám og staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu hans um að fá umráðin með aðför. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. ágúst 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 11. ágúst 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá með innsetningargerð umráð yfir grjótnámu varnaraðila í landi Horns til að taka þar 30.000 m3 af grjóti. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess sér verði heimiluð innsetningargerðin, svo og að varnaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. I. Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði leitar sóknaraðili eftir því að fá með aðför umráð yfir 30.000 m3 af grjóti úr námu varnaraðilans Ómars Antonssonar í svokölluðu Litla Horni í landi jarðarinnar Horns. Grjótið hyggst hann nýta til að gera grjótvarnargarð á Austurfjörutanga við Hornafjarðarós. Er krafan reist á því að matsnefnd eignarnámsbóta hafi 15. maí 2000 heimilað honum umráðin þrátt fyrir að ekki sé lokið meðferð kröfu sóknaraðila um eignarnám á grjótinu. Með bréfi 16. sama mánaðar höfnuðu varnaraðilarnir að hlíta úrskurði nefndarinnar nema að undangengnum úrskurði um aðför. Í úrskurði héraðsdómara er gerð grein fyrir þeim málsástæðum, sem aðilarnir reisa kröfur sínar á. II. Meðal málsgagna er bréf Siglingastofnunar Íslands til varnaraðilans Ómars 8. febrúar 1999. Er þar leitað eftir kaupum á 25.000 m3 af grjóti úr áðurnefndri námu varnaraðilans gegn ákveðnu verði. Var tekið fram í niðurlagi bréfsins að tilboðið gilti til 1. mars sama árs. Tilboðinu var ekki svarað. Lögmaður sóknaraðila sendi þessum varnaraðila bréf 19. apríl 1999. Segir þar meðal annars að þar eð varnaraðilinn hafi ekki svarað áðurnefndu bréfi frá 8. febrúar sama árs hafi Siglingastofnun Íslands falið lögmanninum að gera nýtt tilboð í umrætt grjót. Það tilboð, sem síðan var gert í bréfinu, var að mestu leyti samhljóða fyrra tilboði Siglingastofnunar Íslands. Þá segir í bréfinu að umbjóðandi lögmannsins hafi fulla heimild til að taka grjót úr námunni gegn gjaldi til að reisa fyrirhugaðan varnargarð. Gangi varnaraðilinn ekki að tilboðinu eða geri gagntilboð fyrir 1. maí sama árs eigi umbjóðandi lögmannsins ekki annan kost en að leita eftir úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta um verðmat vegna eignarnáms á grjótinu. Sóknaraðila er að engu getið í bréfinu eða að hann eigi hlut að máli við tilboðsgerðina. Í svari varnaraðilans 29. apríl 1999 segir að hann hafi leigt varnaraðilanum Rein sf. allan rétt til töku grjóts úr umræddri námu og víðar í landi jarðarinnar Horns. Samningur sá, sem þar er vísað til, er dagsettur sama dag og bréf varnaraðilans. Í málinu hefur hann lagt áherslu á að bergið í umræddri námu sé gabbró, sem nýta megi með mun arðvænlegri hætti en þeim, sem sóknaraðili hyggst gera. Það sjáist skýrt af því gjaldi, sem Rein sf. hafi skuldbundið sig með samningnum til að greiða fyrir hvern rúmmetra af efninu og sé verulega hærra en tilboð Siglingastofnunar Íslands. Af þessu tilefni beindi lögmaðurinn fyrir hönd Siglingastofnunar Íslands sama tilboði að varnaraðilanum Rein sf. með bréfi 7. maí 1999. Eftir að varnaraðilinn hafði svarað bréfinu var haldinn fundur forráðamanna hans og fulltrúa Siglingastofnunar Íslands 15. júní 1999. Í minnispunktum um fundinn segir meðal annars að fundarmenn hafi lýst sjónarmiðum sínum og áformum vegna efnistöku í Litla Horni. Þar segir einnig að niðurstaða fundarmanna hafi verið sú að efnistaka og sprengingar Siglingastofnunar Íslands í námunni geti ekki farið fram meðan Rein sf. vinni efni þar. Lögmaðurinn ritaði Rein sf. bréf degi síðar þar sem vísað var til þess, sem fram hafi komið á fundinum. Segir síðan í bréfinu: „Siglingastofnun er ekki reiðubúin til að greiða kr. 200 fyrir hvern rúmmetra af föstu grjóti úr námunni og hefur því sú ákvörðun verið tekin að fá Matsnefnd eignarnámsbóta til að ákvarða um verðmæti grjótsins. Verður málinu beint að leigusalanum og eiganda jarðarinnar, Ómari Antonssyni.“ Hinn 18. júní 1999 skrifaði lögmaðurinn varnaraðilanum Ómari bréf, þar sem greint var frá samskiptum Siglingastofnunar Íslands og Reinar sf. Þess er getið í upphafi bréfsins að Hornafjarðarbær ætli fljótlega að reisa grjótgarð frá Austurfjörutanga. Ítrekaði lögmaðurinn fyrra boð um gjald fyrir grjót úr námunni. Síðan segir: „Umbjóðendur mínir hafa ekki svigrúm til að bjóða hærri fjárhæðir ... Takir þú ekki tilboði þessu mun verða leitað til Matsnefndar eignarnámsbóta um verðlagningu grjótsins.“ Í bréfi lögmannsins 28. júní 1999 til matsnefndar eignarnámsbóta segir að fyrir hönd umbjóðanda síns, Hafnarsjóðs Hornafjarðar, óski hann eftir að verðmat fari fram vegna eignarnáms á 30.000 m3 grjóts í Litla Horni. Þar segir einnig: „Í þeim samningaviðræðum sem í gangi hafa verið um verðlagningu grjótsins hefur Siglingastofnun komið fram fyrir hönd Hafnarsjóðs Hornafjarðar sem kosta mun að hluta til það verk sem fyrirhugað er að nota grjótið í, í samræmi við gildandi lög.“ Við meðferð málsins fyrir matsnefndinni 23. júlí 1999 krafðist varnaraðilinn Ómar þess að nefndin vísaði því frá sér, þar sem ekki hafi verið tekin lögmæt ákörðun um eignarnám. Málinu var þá frestað til 9. ágúst sama árs. Áður en sá fundur var haldinn var boðað til fundar í hafnarstjórn Hornafjarðar 26. júlí 1999, þar sem samþykkt var að „taka grjót úr fyrrgreindri námu eignarnámi gegn bótum að mati matsnefndar eignarnámsbóta.“ Á fundi matsnefndarinnar 9. ágúst sama árs var lögmæti ákvörðunarinnar enn mótmælt af varnaraðilanum Ómari og borið við að með réttu hljóti að eiga undir sveitarstjórn að taka ákvörðun um eignarnám samkvæmt 16. gr. hafnalaga nr. 23/1994. Var í kjölfarið haldinn fundur í sveitarstjórn sóknaraðila 2. september 1999, þar sem áðurnefnd bókun hafnarstjórnar um eignarnám var borin upp og samþykkt. Vegna stjórnsýslukæru varnaraðilans Ómars til samgönguráðherra 3. september 1999 frestaði matsnefnd eignarnámsbóta meðferð málsins þar til niðurstaða ráðherra lá fyrir 24. mars 2000, en þar var hafnað sjónarmiðum varnaraðilans um að annmarkar væru á meðferð málsins. Tók nefndin í kjölfarið málið á ný til meðferðar og kvað þá meðal annars upp þann úrskurð 15. maí sl., sem áður er getið og er tilefni máls þessa. III. Varnaraðilar reisa kröfu sína meðal annars á því að lögmæt ákvörðun um að taka eignarnámi grjót úr námu varnaraðilans Ómars hafi ekki verið tekin. Hafnarstjórn sóknaraðila hafi tekið slíka ákvörðun 26. júlí 1999, en til þess hafi hún ekki verið bær. Sveitarstjórnin hafi ekki tekið neina sjálfstæða ákvörðun, heldur einungis staðfest 2. september 1999 ákvörðun hafnarstjórnar. Þá halda varnaraðilar fram að réttur til andmæla hafi ekki verið virtur meðan Siglingastofnun Íslands leitaði eftir samningnum um kaupin og að þeim hafi ekki verið gert ljóst að þeir ættu rétt á að tjá sig um hvort skilyrði eignarnáms væru fyrir hendi. Í því sambandi halda þeir fram að mótmæli, sem höfð hafi verið uppi fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, hafi einungis lotið að þeirri málsmeðferð, sem hafi verið undanfari þess að ákvörðun var tekin um eignarnám, en ekki að því hvort skilyrði væru til að beita eignarnámi. Þá hafi rannsóknarskylda ekki verið virt áður en ákvörðun um eignarnám var tekin, en enga nauðsyn hafi borið til að taka eignarnámi hið verðmæta grjót í námunni á Litla Horni. Sjónarmið varnaraðila hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu hefðu þeir getað skýrt sína hlið málsins áður en ákvörðun var tekin. Þá hafi málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar verið brotnar á varnaraðilum í fleiri greinum. IV. Um heimild til eignarnáms vísar sóknaraðili til 16. gr. hafnalaga með áorðnum breytingum. Er ekki ágreiningur í málinu um að í þeirri lagagrein felist fullnægjandi heimild fyrir sóknaraðila til að taka jarðefni eignarnámi í þágu þeirra framkvæmda, sem hann hyggst ráðast í við Austurfjörutanga. Samkvæmt 3. gr. sömu laga eru sveitarfélög eigendur hafna og samkvæmt 4. gr. skal hafnarstjórn, sem kosin er af eigendum hafnar, hafa á hendi stjórn hennar og hafnarsjóðs. Þá er í 2. mgr. 13. gr. laganna ákvæði þess efnis að engin mannvirki megi gera á hafnarsvæðinu nema með samþykki viðkomandi hafnarstjórnar. Hafnarframkvæmdir, er njóta ríkisstyrks, skulu samkvæmt 17. gr. hafnalaga unnar undir tæknilegu og fjárhagslegu eftirliti Siglingastofnunar Íslands, auk þess sem allar áætlanir og uppdrættir skulu sendar stofnuninni til samþykktar. Þá annast Siglingastofnun framkvæmd frumrannsókna í samráði við viðkomandi hafnarstjórn. Fari hafnarstjórn þess á leit annast Siglingastofnun auk frumrannsókna meðal annars framkvæmdir eftir því, sem við verður komið. Loks er í 21. gr. laganna fjallað um þátttöku ríkisins í greiðslu kostnaðar við hafnarframkvæmdir. Er hluti þess allt að 60% stofnkostnaðar við nánar tilteknar framkvæmdir, en allt að 90% stofnkostnaðar við aðrar framkvæmdir. Kostnað við frumrannsóknir greiðir ríkið allt að 100%. V. Samkvæmt áðurröktum ákvæðum í 3. gr., 4. gr. og 13. gr. hafnalaga er ljóst að hafnarstjórn eru ætlaðar rúmar heimildir til að stjórna málefnum hafnar. Í málatilbúnaði sóknaraðila er því þó ekki haldið fram að endanlegt ákvörðunarvald um að beita eignarnámi hafi verið í höndum hafnarstjórnar, enda var fjallað um málið í sveitarstjórn með þeim hætti, sem áður var lýst og sóknaraðili telur fela í sér fullnægjandi ákvörðun hennar um eignarnám. Er ljóst að vald til að taka ákvörðun af þeim toga, sem hér um ræðir, gat ekki verið í höndum annars en sveitarstjórnarinnar sjálfrar, sem fer með æðsta vald um fjárhagsleg málefni sveitarfélagsins, auk þess sem slík ákvörðun er einatt verulega íþyngjandi fyrir þann, sem hún beinist gegn. Við þá ákvörðun varð að gæta réttra reglna um málsmeðferð. Í II. kafla að framan er lýst aðdraganda þess að ákvörðun var tekin um eignarnám. Eins og þar er rakið gerði Siglingastofnun Íslands varnaraðilunum tilboð í jarðefni og átti önnur samskipti við þá af þessu tilefni frá 8. febrúar 1999 til 16. júní sama árs. Í bréfi stofnunarinnar þann dag til varnaraðilans Reinar sf. segir jafnframt að ákvörðun hafi verið tekin um að fela matsnefnd eignarnámsbóta að meta verðmæti grjótsins. Ekkert annað er fram komið en að Siglingastofnun Íslands hafi tekið þá ákvörðun um eignarnám, sem til er vísað. Aðildar sóknaraðila að málinu er fyrst getið í lokatilboði til varnaraðilans Ómars 18. júní 1999, en í niðurlagi þess bréfs segir að það sé ritað fyrir hönd Siglingastofnunar og Hornafjarðarbæjar. Í beiðni til matsnefndar eignarnámsbóta 28. sama mánaðar um að meta verðmæti hins eignarnumda grjóts segir að hún sé borin fram í umboði hafnarsjóðs Hornafjarðar. Hafnarstjórn sóknaraðila fjallaði sem áður segir um málið 26. júlí 1999 og tók þá ákvörðun um eignarnám eftir að Siglingastofnun hafði þegar tekið sömu ákvörðun og vísað málinu til matsnefndar eignarnámsbóta. Bæjarstjórn staðfesti þá ákvörðun 2. september sama árs. Ekkert er fram komið um að hafnarstjórn eða bæjarstjórn hafi fjallað sjálfstætt um málið fyrr en þá. Ákvörðun um eignarnám eftir ákvæðum hafnalaga er stjórnvaldsákvörðun og fer sveitarstjórn með vald til að taka hana og ber ábyrgð á henni. Lögboðið hlutverk Siglingastofnunar við framkvæmdir samkvæmt 17. gr. hafnalaga felur ekki í sér heimild fyrir stofnunina til að fara með ákvörðunarvald um eignarnám. Hefur samkvæmt þessu í engu verið gætt í málinu fyrir réttu stjórnvaldi þeirra reglna, sem ber að fylgja við töku slíkrar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar. Vald sóknaraðila í þessum efnum varð ekki framselt neinum öðrum. Sú viðbára hans í greinargerð til Hæstaréttar að hafnarstjórn og bæjarstjórn hafi fylgst vel með samningatilraunum Siglingastofnunar getur ekki leyst hann undan þeirri skyldu að taka sjálfur ákvörðun um hvort og þá með hvaða hætti eignarnámi skyldi beitt og tryggja að réttum reglum yrði fylgt við meðferð málsins á öllum stigum. Samkvæmt framanröktu styðst krafa sóknaraðila um að fá umráð jarðefna í námu varnaraðilans Ómars ekki við gilda ákvörðun um eignarnám. Verður kröfu hans því hafnað og úrskurður héraðsdómara staðfestur um annað en málskostnað. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn eins og segir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað. Sóknaraðili, Sveitarfélagið Hornafjörður, greiði hvorum varnaraðila, Ómari Antonssyni og Rein sf., samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað. |
Mál nr. 785/2016 | Kærumál Hæfi dómara | H kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hennar um að héraðsdómari viki sæti í ágreiningsmáli um að bú H yrði tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Í. Ekki var fallist á með H að í tölvubréfi sem héraðsdómari hafði sent á málsaðila hefði falist ólögskyldar leiðbeiningar til lögmanns Í í skilningi b. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafði H ekki sýnt fram á að fyrir hendi væru atvik eða aðstæður sem væru til þess fallin að draga óhlutdrægni héraðsdómarans með réttu í efa, sbr. g. lið 5. gr. laganna. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnirÞorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.Sóknaraðili skaut málinu tilHæstaréttar með kæru 23. nóvember 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum samadag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2016 þar sem hafnaðvar kröfu sóknaraðila um að Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari víki sæti ímálinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferðeinkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina.Þá krefst hún kærumálskostnaðar.Varnaraðili krefst staðfestingarhins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.Sandra Baldvinsdóttirhéraðsdómari hefur sent Hæstarétti athugasemdir sínar, sbr. 2. mgr. 147. gr.laga nr. 91/1991. Eins og fram kemur í hinum kærðaúrskurði byggir sóknaraðili kröfu sína um að héraðsdómarinn víki sæti á b. ogg. liðum 5. gr. laga nr. 91/1991. Með skírskotun til forsendna hins kærðaúrskurðar er staðfest sú niðurstaða að í tölvubréfi því er héraðsdómarinn sendi27. september 2016 hafi ekki falist ólögskyldar leiðbeiningar til varnaraðila ískilningi b. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt framá að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallin að dragaóhlutdrægni héraðsdómarans með réttu í efa, sbr. g. lið 5. gr. laganna. Ber þvíað staðfesta hinn kærða úrskurð.Sóknaraðili verður dæmdur til aðgreiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður erstaðfestur.Sóknaraðili, Hlédís Sveinsdóttir,greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.Úrskurður HéraðsdómsReykjaness 9. nóvember 2016. Með beiðni, dags. 7. október2015, sem barst dóminum sama dag, krafðist sóknaraðili, Íslandsbanki hf.,Kirkjusandi 2, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Hlédísar Sveinsdóttur, kt.[...], yrði tekið til gjaldþrotaskipta með vísan til 65. gr. laga nr. 21/1991um gjaldþrotaskipti o.fl. Við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar 5. nóvember2015 var sótt þing af hálfu sóknaraðila og varnaraðila. Varnaraðili mótmæltikröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr.21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið tilgjaldþrotaskipta. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að búvarnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta verði hafnað. Þá krefstvarnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Í þinghaldi í dag lagði varnaraðili fram kröfu um að dómariviki sæti. Er sú krafa varnaraðila til úrlausnar hér.I. Krafa sóknaraðilaum að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta er byggð á því að gerthafi verið árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila, hinn 1. október 2015. Íbeiðni sóknaraðila segir jafnframt að lýst sé neðangreindi kröfu: Höfuðstóll, gjaldfelldur 18.243.328 Samningsvextir til 1.10.2009 1.083.120 Dráttarvextir til 7.10.2015 15.391.082 Banka- og stimpilkostnaður 20.598 Innheimtuþóknun 953.121 Mót í héraðsdómi 6.800 Greiðsluáskorun 14.800 Birting greiðsluáskorunar 12.500 Fjárnámsbeiðni 23.000 Kostnaður vegna fjárnáms 139.132 Uppboðsbeiðni 6.800 Kostnaður vegna uppboðs 84.300 Kröfulýsing 6.800 Gjaldþrotaskiptabeiðni 23.000 Annar kostnaður 31.700 Vextir af kostnaði 79.070 Virðisaukaskattur 265.998 Innborgun -11.863.125 Samtals kr. 24.522.024 Sóknaraðili kveðst ábyrgjastgreiðslu alls kostnaðar af meðferð þessarar kröfu og gjaldþrotaskiptum ef tilkemur. II. Varnaraðili lagði framgreinargerð í þinghaldi 9. nóvember 2015, þar sem kröfu sóknaraðila var mótmæltog vísað til þess að ágreiningsmál væri rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur umfjárnámsgerðina 1. október 2015. Málinu var frestað að beiðni sóknaraðila tilað kynna sér framlögð gögn sóknaraðila og leggja fram frekari gögn, til 23.nóvember 2015. Í þinghaldi þann dag lagði sóknaraðili fram greinargerð ogfrekari gögn. Málinu var frestað að beiðni varnaraðila til 14. desember 2015 ení þinghaldi þann dag lagði varnaraðili fram bókun þar sem mótmælt vargagnaframlagningu sóknaraðila í þinghaldinu 23. nóvember 2015. Málinu var aðósk varnaraðila frestað til 6. janúar 2016 til að leggja fram frekari gögn.Þegar málið var tekið fyrir þann dag lagði varnaraðili fram ýmis gögn og fékksóknaraðili frest til 27. janúar 2016 til að kynna sér þau. Í þinghaldi þanndag lögðu báðir málsaðilar fram gögn og var málinu frestað til 2. febrúar 2016.Við fyrirtöku málsins þann dag var ákveðið að munnlegur málflutningur færi framí málinu 8. apríl 2016. Að beiðni varnaraðila var fyrirhuguðum málflutningifrestað utan réttar til 6. maí 2016, þar sem ekki lá fyrir niðurstaða íágreiningsmáli sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um fjárnám sýslumanns1. október 2015, sbr. mál nr. Y-5/2015. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð 18. apríl 2016 í málinr. Y-5/2015 þar sem aðfarargerð sú sem fram fór hjá sýslumanni 1. október 2015og lauk með árangurslausu fjárnámi var felld úr gildi. Úrskurðurinn var kærðurtil Hæstaréttar. Var því ákveðið að fresta máli því sem hér er til úrlausnarótiltekið.Með dómi Hæstaréttar 14. júní 2016 í máli nr. 356/2016 varhinn kærði úrskurður í máli nr. Y-5/2015 felldur úr gildi. Í kjölfarið varmunnlegur málflutningur um kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búivarnaraðila ákveðinn 22. ágúst 2016, en síðan var ákveðið að frestamálflutningi að ósk varnaraðila til 26. september 2016 til sáttaumleitana.Sættir tókust ekki og ekki varð af málflutningi 26. september en sóknaraðilisamþykkti að ósk varnaraðila að málinu yrði frestað þar til niðurstaða lægifyrir vegna beiðni varnaraðila um endurupptöku á framangreindum dómiHæstaréttar í máli nr. 356/2016. Með úrskurði endurupptökunefndar í máli nr.3/2016 frá 19. október 2016 var beiðni varnaraðila um endurupptöku dómsHæstaréttar í máli nr. 356/2016 hafnað. Með tölvupósti lögmanns sóknaraðila 24.október 2016 var upplýst að með úrskurði endurupptökunefndar 19. október 2016hefði beiðni varnaraðila um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 356/2016verið hafnað og var þess óskað að dómari boðaði til aðalflutnings í máli þessu.Dómari boðaði málsaðila til aðalflutnings sem færi fram 9. nóvember 2016. Degiáður, 8. nóvember, óskaði varnaraðili eftir því að málinu yrði frestað þar semlögmaður varnaraðila hefði sagt sig frá málinu. Dómari synjaði frestbeiðnivarnaraðila og setti varnaraðili í kjölfarið fram kröfu um að dómari viki sæti.Krafa varnaraðila var tekin til úrskurðar í þinghaldi í dag, 9. nóvember. III. Varnaraðili byggir kröfu sína umað dómari víki sæti á því að dómari hafi veitt aðila „ólögskyldar leiðbeiningarum málið“. Varnaraðili vísar kröfu sinni til stuðnings til b-liðar 5. gr. laganr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þar segir að dómari verði vanhæfur til aðfara með mál ef hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veittaðila ólögskyldar leiðbeiningar um það. Nánar tiltekið byggir varnaraðili á þvíað dómari hafi, með tölvupósti 27. september 2016 til eiginmanns varnaraðila,Gunnars Árnasonar, með afriti á lögmann sóknaraðila, Dóris Ósk Guðjónsdótturhdl., gefið sóknaraðila leiðbeiningar umfram skyldu um hvernig ætti að hagamálatilbúnaði sóknaraðila og hvernig standa ætti að málinu. Tölvupósturinn hafifalið í sér viðbrögð dómara við tölvupósti Gunnars, sem varnaraðila í máli nr.X-15/2015, þar sem farið hafi verið fram á að mál nr. X-15/2016 yrði sett á dagskrá dómsins með vísan til niðurstöðuHæstaréttar Íslands 6. september 2016 í máli nr. 520/2016, þar sem umþrættfjárnámsgerð hafi verið felldúr gildi. Í tölvupósti dómara segi: „Máli nr.X-14/2015: Íslandsbanki gegn Hlédísi Sveinsdóttur, sem mun einnigvera hjá endurupptökunefnd, var frestað með hliðsjón af því að máli nr.X-15/2015 var frestað þar sem erindiværi til meðferðar hjáendurupptökunefnd. Sóknaraðili mun þá væntanlega óska eftir því að það málverði líka sett á dagskrá dómara. Það væri þá hægt að taka það fyrir íframhaldi af máli nr. X-15/2015 þann 18. október.“ Varnaraðili kveður að mál nr.X-14/2015 og mál nr. X-15/2015 byggist á sömu málsástæðum og sömu málsgögnum ogeigi bæði uppruna sinn í því að sóknaraðili telji sig vera eftirstæðankröfuhafa að lokinni nauðungarsölu á fasteign, á grundvelli veðskuldabréfs ífasteign, sem varnaraðili og Gunnar, ásamt þriðja aðila, hafi gengistupphaflega í ábyrgð fyrir til viðbótar við fyrrgreinda veðtryggingu.Sóknaraðili leggi fjárnámsgerð til grundvallar í báðum málunum en ágreiningi umfjárnámsgerðirnar hafi verið vísað til héraðsdóms og úrskurðir héraðsdóms síðarkærðir til Hæstaréttar. Hæstiréttur hafi kveðið upp dóm í máli Gunnars hinn 6.september 2016 þar sem umþrætt fjárnámsgerð hafi verið felld úr gildi og þarmeð hafi grundvöllur sóknaraðila í máli nr. X-15/2015 brostið. Í kjölfar þesshafi Gunnar farið fram á það við dómara að mál nr. X-15/2015 yrði sett ádagskrá dómsins án tafar. Dómari hafi ekki viljað verða við því fyrr en meðfyrirtöku 18. október 2016. Sóknaraðili hafi í þinghaldi þann dag, 18. október,óskað eftir því að málinu yrði frestað en Gunnar hafnað því með vísan tilniðurstöðu Hæstaréttar. Í þinghaldinu hafi dómari þráspurt varnaraðila hvorthann hygðist ekki fallast á frest sóknaraðila, en því hafi Gunnarafdráttarlaust hafnað. Dómari hafi þá tekið málið til úrskurðar en hafi ekkienn kveðið upp úrskurð og ekki svarað tölvupósti og símaskilaboðum, þar semleitað hafi verið skýringa á því hverju það sæti að ekki hafi ennþá veriðkveðinn upp úrskurður í málinu. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi sentbeiðni til endurupptökunefndar vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 520/2016 ogfarið þess á leit við Gunnar að hann hafi frumkvæði að því að krefjast þess aðbú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili telur engin efni standatil þess að sóknaraðili fái samþykkta beiðni sína um endurupptöku. Þá segirvarnaraðili að sóknaraðili hafi samtímis lýst sig reiðubúinn til að afturkallagjaldþrotakröfu sína á hendur varnaraðila í máli nr. X-14/2015. Sóknaraðili ogGunnar hafi átt í djúpstæðum ágreiningi sem hafi komið til kasta Hæstaréttar íþrígang þar sem sóknaraðili hafi krafist þess að bú Gunnars yrði tekið tilgjaldþrotaskipta. Varnaraðili telur að skýrt hafi komiðfram undir rekstri máls nr. X-15/2015 að um óvild dómara sé að ræða í garðeiginmanns varnaraðila, sem eigi aðild að hliðstæðu máli. Með vísan til þesstelur varnaraðili að með réttu megi draga óhlutdrægni dómara í efa, sbr. g-lið5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ennfremur byggir varnaraðiliá því að dómari hafi tengsl við sóknaraðila sem séu til þess fallin að dragamegi óhlutdrægni dómara með réttu í efa þar sem sóknaraðili eigi veðbönd áheimili dómara. Einnig byggir varnaraðili á því að eiginkona dómstjóraHéraðsdóms Reykjaness, sem hafi úthlutað til dómara máli nr. X-14/2015, starfisem yfirmaður hjá sóknaraðila. Um viðskiptasamband sé að ræða milli dómara ogsóknaraðila og því megi með réttu draga óhlutdrægni dómara í efa, sbr. g-lið 5.gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að lokum byggir varnaraðili áþví að dómari hafi synjað varnaraðila um að máli nr. X-14/2015 yrði frestað, ánþess að fyrir því liggi viðhlítandi rök eða skýringar, en varnaraðili hafióskað eftir frestun málsins með vísan til þess að lögmaður varnaraðila hefði sagtsig frá málinu með tilkynningu til dómara 8. nóvember 2016.IV. Ímáliþessu krefst varnaraðili þess að dómari víki sæti með vísan til b-liðar 6. gr.laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem dómari hafi veitt sóknaraðila„ólögskyldar leiðbeiningar um málið“. Tölvupóstursá sem varnaraðili byggir á var svar dómara við beiðni Gunnars Árnasonar,eiginmanns varnaraðila, um að mál nr. X-15/2015 yrði sett á dagskrá dómsins.Eins og fram kemur í málatilbúnaði varnaraðila sjálfs eru mál nr. X-15/2015 ogX-14/2015 hliðstæð og hafa verið rekin samhliða. Síðarnefnda málinu hafði veriðfrestað eingöngu vegna þess að fyrrnefnda málinu hafði verið frestað. Dómaribenti á þann möguleika að taka þessi mál fyrir sama daginn, 18. október 2016,ef sóknaraðili myndi óska eftir því. Í þessu felast ekki „ólögskyldarleiðbeiningar um málið“ sem leiða til vanhæfis dómara. Einnig er því alfariðhafnað að um óvilddómara sé að ræða í garð eiginmanns varnaraðila. Eiginmaður varnaraðila óskaðieftir því við dómara í tölvupósti 27. september 2016 að mál nr. X-15/2015 yrðisett á dagskrá og varð dómari við því sama dag með því að ákveða fyrirtöku 18.október 2016. Eiginmaður varnaraðila krafðist þess að fyrirtaka yrði fyrr ímálinu en dómari útskýrði í tölvupósti til varnaraðila að það væri ekki unntvegna embættisanna dómara og var boðað til þinghalds innan eðlilegs tíma, 18.október. Í þinghaldi 18. október krafðist varnaraðili þess að kröfu sóknaraðilaum gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila yrði hafnað en sóknaraðili gerði kröfu umað málinu yrði frestað þar til niðurstaða lægi fyrir hjá endurupptökunefnd umendurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 520/2016. Dómari innti eiginmannvarnaraðila eftir afstöðu hans til frestbeiðni sóknaraðila og er það alrangt aðdómari hafi þráspurt hvort varnaraðili hygðist ekki fallast á frestbeiðnisóknaraðila. Málið var tekið til úrskurðar um ágreining aðila, sem vartvíþættur, og hefur dómari lögum samkvæmt fjórar vikur til að kveða uppúrskurð. Í tölvupósti varnaraðila til dómara 26. október 2016 kemur fram aðvarnaraðila er vel kunnugt um að dómari hafi samkvæmt lögum fjórar vikur til aðkveða upp úrskurð. Dómari þarf því ekki að veita varnaraðila útskýringar á þvíaf hverju ekki er búið að kveða upp úrskurð í máli nr. X-15/2015 en embættisannirdómara eru miklar. Sérstaklega skal tekið fram að dómari hefur ekki fengið neinsímaskilaboð frá eiginmanni varnaraðila. Samkvæmt öllu framansögðu er þaðfráleitt að dómari hafi sýnt eiginmanni varnaraðila óvild og að dómara beri þvíað víkja sæti í málinu, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Þáer þaðekki rétt að dómari hafi fjárhagsleg tengsl við sóknaraðila. Dómari er ekki meðlán hjá sóknaraðila og sóknaraðili á ekki veð í eign dómara. Skjal það semvarnaraðili hefur vísað til er vegna láns hjá Landsbankanum og hefur ranglega ískýringartexta á veðbókarvottorði verið tengt við Glitni, nú Íslandsbanka. Þáer því hafnað að starf eiginkonu dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness hjásóknaraðila leiði til vanhæfis dómara. Einniger þvíhafnað að dómara beri að víkja sæti þar sem dómari hafi synjað beiðni semvarnaraðili setti fram í tölvupósti til dómara í gær, 8. nóvember, um aðfyrirhugðum málflutningi næsta dag, 9. nóvember, yrði frestað. Eins og útskýrtvar í svari dómara í tölvupósti til varnaraðila 8. nóvember, og eins og rakiðhefur verið hér að framan, hefur máli þessu verið frestað ítrekað vegnavarnaraðila og málið dregist úr öllu hófi. Niðurstaða liggur fyrir vegnaendurupptökubeiðni sóknaraðila hjá endurupptökunefnd og sóknaraðili hefurkrafist þess að mál þetta verði til lykta leitt. Dómari hafnar því alfarið aðsynjun dómara um að veita varnaraðila nú frekari frest í málinu leiði tilvanhæfis dómara, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt öllu framansögðu er kröfuvarnaraðila um að dómari víki sæti hafnað. Krafa varnaraðila um að dómari víkisæti er með öllu að ófyrirsynju og að því er virðist sett fram með þeimásetningi að valda drætti á málinu þar sem dómari hafði synjað varnaraðila umfrekari frest. Úrskurð þennan kveður upp SandraBaldvinsdóttir héraðsdómari. Ú r s k u r ð a r o r ð:Kröfuvarnaraðila, Hlédísar Sveinsdóttur, um að Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómarivíki sæti, er hafnað. |
Mál nr. 53/2009 | Ráðningarsamningur Starfslok Kröfugerð Aðfinnslur Sératkvæði | H krafðist þess að viðurkennt yrði að henni hefði með ólögmætum hætti verið skipað í veikindafjarvistir frá starfi sínu sem tónlistarkennari hjá F og að F yrði dæmt til að greiða henni skaða- og miskabætur vegna þessa. Í málinu hélt F því fram að veikindi H hefðu orðið þess valdandi að hún gæti ekki sinnt starfi sínu. Þar sem H hafði ekki aflað sér sönnunar um vinnufærni sína, þrátt fyrir að það hefði staðið henni nær, yrði að leggja til grundvallar að hún hefði horfið frá vinnu vegna veikinda. Þar sem F hafði uppfyllt launagreiðsluskyldu sína gagnvart H í samræmi við rétt hennar samkvæmt gildandi kjarasamningi og lagareglum var F sýknað af kröfu H. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. febrúar 2009. Hún krefst þess að viðurkennt verði að henni hafi með ólögmætum hætti verið skipað í veikindafjarvistir frá starfi sínu sem tónlistarkennari hjá stefnda í desember 2005 og að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skaða- og miskabætur að fjárhæð 6.341.436 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. apríl 2008 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla. Krafa áfrýjanda um greiðslu úr hendi stefnda er reist á þeirri grunnröksemd að stefndi hafi með ólögmætum hætti skipað henni í veikindafjarvistir frá starfi sínu í desember 2005. Áfrýjandi lýsti því við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að hún hefði ekki aðra hagsmuni að lögum af því að fá viðurkenningardóm í samræmi við fyrri kröfulið sinn en að fá leyst úr ágreiningi aðila um þessar forsendur fyrir aðfararkröfunni í síðari kröfuliðnum. Viðurkenningarkrafan felur því í reynd einungis í sér forsendu af hálfu áfrýjanda fyrir aðfararkröfu hennar og verður fjallað um efni hennar þannig en ekki lagður á hana sérstakur dómur. Krafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti er annars vegar um 341.436 krónur vegna þess sem hún telur vanta á launagreiðslur stefnda til sín það tímabil sem krafa hennar í héraði tók til. Hefur hún þá dregið frá kröfunni launagreiðslur stefnda og greiðslur sem hún hefur notið vegna sama tímabils frá sjúkrasjóði stéttarfélags síns, lífeyrissjóði, Félagsþjónustunni í Reykjavík og Tryggingastofnun ríkisins. Þessar greiðslur dró hún ekki frá kröfunni í héraði. Hins vegar krefst hún miskabóta 6.000.000 króna svo sem hún gerði í héraði. Fyrir liggur að stefndi taldi atvik sem orðið höfðu á vinnustað áfrýjanda leiða í ljós að heilsufar hennar væri með þeim hætti að hún gæti ekki leyst starf sitt af hendi. Er óumdeilt að áfrýjanda varð strax á næstu dögum kunnugt um þessa afstöðu stefnda. Þá hefur áfrýjandi lagt fram í Hæstarétti bréf lögmanns Félags framhaldsskólakennara 20. mars 2006 til félagsins, þar sem hann meðal annars nefnir að hann hafi í símtali við áfrýjanda lagt til að hún aflaði sér læknisvottorðs um vinnufærni sína, mætti með það á vinnustaðinn og lýsti sig reiðubúna að taka til starfa aftur. Talið verður að þessi atvik hafi gefið áfrýjanda tilefni til að afla gagna um heilsufar sitt til sönnunar um vinnufærni sína og það hafi staðið henni nær en stefnda að afla þeirra enda óhægt um vik fyrir hann, eins og tekið er fram í forsendum hins áfrýjaða dóms. Verður því lagt til grundvallar dómi að áfrýjandi hafi horfið frá vinnu í desember 2005 vegna veikinda. Fallist verður á með stefnda að hann hafi í tengslum við veikindi áfrýjanda og starfslok, þar með talið með launagreiðslum til hennar, farið að öllu leyti eftir kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og SFR stéttarfélags í almannaþjónustu, en óumdeilt er að sá samningur gilti um ráðningarkjör áfrýjanda. Verður ekki talið að tilvísanir áfrýjanda til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skipti máli við úrlausn málsins þegar af þeirri ástæðu að uppsögn stefnda á ráðningarsamningi áfrýjanda, sem reist var á því að hún hefði verið samfellt frá vinnu vegna veikinda í 12 mánuði launalaust, gaf ekki tilefni til áminningar eða málsmeðferðar samkvæmt stjórnsýslulögum. Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjandi verður samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir. Það er aðfinnsluvert að bæði stefna áfrýjanda í héraði og greinargerð hennar fyrir Hæstarétti eru að mun lengri og ítarlegri en gert er ráð fyrir í e. lið 1. mgr. 80. gr. og b. lið 2. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991. Í hinum áfrýjaða dómi er efni stefnunnar tekið um of upp í dóminn án þess að nægilega hafi verið fylgt d. lið 114. gr. sömu laga. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður. Áfrýjandi, Helga Björk Magnúsar Grétudóttir, greiði stefnda, Fjölmennt, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Hjördísar Hákonardóttur I Fyrir liggur að stefndi taldi atvik sem orðið höfðu á vinnustað áfrýjanda 7. desember 2005 leiða í ljós að heilsufar hennar væri með þeim hætti að hún gæti ekki leyst starf sitt af hendi. Er óumdeilt að áfrýjanda var strax á næstu dögum kunnugt um þessa afstöðu stefnda. Í tölvupósti sem hún skrifar skólastjóra 14. desember 2005 rekur hún atburði 7. desember og segir þar deildarstjóra hafa fullyrt að hún væri veik, en hún hafi andmælt því. Í héraðsstefnu kemur fram að áfrýjandi hafi strax mótmælt öllum fullyrðingu um veikindi og verið reiðubúin til að mæta til vinnu. Stefndi kvaðst hafa farið að ráðleggingum Félags framhaldsskólakennara um hvernig taka mætti á málinu, en í tölvupósti frá formanni þess til skólastjóra 9. desember 2005 segir að: „við svona aðstæður geti stjórnandi afþakkað vinnuframlag starfsmanns vegna þess að hann sé ófær um að gegna starfi sínu vegna veikinda. Ef starfsmaðurinn hafnar því þá getur stjórnandi farið fram á að starfsmaðurinn fari í læknisrannsókn hjá trúnaðarlækni stofnunarinnar“. Þykir mega ganga út frá því, og hefur það stuðning í málsgögnum, að skólastjórinn hafi upplýst áfrýjanda um innihald þessa bréfs símleiðis. Þá hefur áfrýjandi lagt fram í Hæstarétti bréf lögmanns Félags framhaldsskólakennara 20. mars 2006 til félagsins, þar sem hann meðal annars nefnir að hann hafi í símtali við áfrýjanda lagt til að hún aflaði sér læknisvottorðs um vinnufærni sína, mætti með það á vinnustaðinn og lýsti sig reiðubúna að taka til starfa aftur. Ljóst er af málsgögnum að áfrýjandi fór ekki að þessum ráðum lögmannsins. Áfrýjandi var boðuð bréflega til fundar 22. ágúst 2006 til þess að kynna henni tvær skýrslur, annars vegar úttekt Lífs og sálar ehf., sálfræðistofu, sem stefndi hafði óskað eftir vegna kvartana áfrýjanda um einelti og ofbeldishótanir á vinnustaðnum, og hins vegar greinargerð trúnaðarmanns fatlaðra í Reykjavík. Ekki eru meint veikindi áfrýjanda nefnd í því fundarboði. Með bréfi lögmanns stefnda 7. desember 2006 var henni tilkynnt að réttur hennar til launa vegna veikinda væri fallinn niður og henni gefinn kostur á að fá lausn frá störfum ef hún framvísaði vottorði um „varanlega ófærni um að gegna starfi vegna vanheilsu“ og myndi hún þá halda föstum launum í þrjá mánuði. Ef hún kysi að snúa aftur til starfa myndi stefndi nýta sér heimild samkvæmt kjarasamningi til þess að krefjast vottorðs trúnaðarlæknis. Áfrýjandi mótmælti þessari afstöðu með bréfi 27. apríl 2007 og krafðist þess að lögmæt uppsögn færi fram eða ellegar að hún kæmi aftur til starfa. Með bréfi lögmanns stefnda 3. maí 2007 var fyrra erindi ítrekað. Í svarbréfi 3. júlí 2007 mótmælti áfrýjandi enn að hún hefði verið veik frá 7. desember 2005. Vísar hún þar um til vottorðs heimilislæknis sem hafi legið fyrir frá upphafi, en það er ekki meðal málsgagna. Áfrýjandi var síðan formlega leyst frá störfum samkvæmt grein 12.4.2. í kjarasamningi með bréfi 17. desember 2007. Er óumdeilt að hún hafi þá fengið greidd þriggja mánaða laun. Í áðurgreindu bréfi áfrýjanda 3. júlí 2007 krafðist hún þess að „fá skriflega greinargerð um meint veikindi“ sín og hvaðan sú sjúkdómsgreining kæmi. Var þessi krafa ítrekuð í bréfi lögmanns hennar 13. nóvember 2007. Í svarbréfi lögmanns stefnda 20. nóvember 2007 segir að fyrir liggi tvær skýrslur sem varði málið og skýri efni þeirra hvers vegna stefndi taldi nauðsynlegt á sínum tíma að afþakka vinnuframlag áfrýjanda og talið hafi verið að veikindi hindruðu hana í að sinna kennslu fyrir stefnda. Þarna vísar stefndi til þeirra tveggja skýrslna sem kynntar voru áfrýjanda á fundi 22. ágúst 2006, en þá voru rúmir átta mánuðir liðnir frá því að hún var send heim úr vinnu. Fyrri skýrslan er unnin af Líf og sál ehf., sálfræðistofu 5. maí 2006 af því tilefni að áfrýjandi kvartaði yfir samstarfsmanni. Ekki er tekið undir þau umkvörtunarefni, en lýst þeim vanda sem upp var kominn á vinnustaðnum vegna framkomu áfrýjanda. Engin afstaða er þar tekin til heilsufars áfrýjanda og lýsti annar skýrslugjafa því fyrir dómi að ekki hefði verið um það beðið og þau myndu ekki hafa tekið að sér slíkt verkefni. Hin skýrslan er greinargerð trúnaðarmanns fatlaðra í Reykjavík 14. júlí 2006. Þar er lýst ýmsum atvikum sem nemendur hafi kvartað yfir. Þá kemur ítrekað fram í skýrslunni að kennarinn sé kominn í veikindaleyfi, að atvik hafi verið skýrð fyrir nemendum í ljósi þessara veikinda og hvers eðlis þau séu og skýrsluhöfundur hafi vitneskju um að kennarinn muni ekki koma aftur til starfa. Í tilefni þessarar skýrslu sendi áfrýjandi erindi til Félagsmálaráðuneytisins sem féllst á að fjalla um það á grundvelli eftirlitshlutverks síns samkvæmt 3. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Í áliti ráðuneytisins 28. september 2007 kemur fram að um óvenjulegt mál sé að ræða, að viðkomandi trúnaðarmaður hafi verið nýkomin til starfa, og að hún hefði að réttu átt að bera mál þetta formlega undir Svæðisráð um málefni fatlaðra í Reykjavík og ræða þar efnistök áður en hún afgreiddi það. Þá hafi andmælaréttur áfrýjanda ekki verið virtur. Í málflutningi sínum byggir stefndi á því að hann hafi í kjölfar atburðarins 7. desember 2005 haft samband við tvo heilbrigðisstarfsmenn og fleiri aðila vegna áfrýjanda. Verður að skilja það svo að það hafi verið í tengslum við þá ákvörðun hans að setja áfrýjanda í veikindaleyfi. Engin gögn eru í málinu varðandi þessi samtöl og þessir ráðgjafar komu ekki fyrir dóminn til að gefa skýrslu þar um. II Stefndi er sjálfseignarstofnun og virðist óumdeilt að hann hafi gengið inn í annars vegar samkomulag sem forveri hans, Fullorðinsfræðsla fatlaðra, og Kennarasamband Íslands gerðu 12. júní 2002 um að lágmarkskjör starfsmanna færu að kjarasamningi Kennarasambandsins og fjármálaráðherra, og hins vegar þjónustusamning menntamálaráðuneytis og Landsamtakanna Þroskahjálp og Öryrkjabandalags Íslands um rekstur fullorðinsfræðslu fyrir fatlaða 12. mars 2002. Í þjónustusamningnum kemur fram í 4. gr. að ríkið leggur stofnuninni til rekstrarfé. Starfsemi stefnda á undir lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðra og lýtur eftirliti félagsmálaráðuneytisins. Í ljósi þessa er fallist á með áfrýjanda að stefnda beri að fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Þá segir í ráðningarsamningi áfrýjanda að um „réttindi og skyldur starfsmanns fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna“, er ómótmælt að þarna sé vísað til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Skilja verður málflutning stefnda svo að vegna meintra veikinda áfrýjanda hafi sá kostur ekki verið fyrir hendi að veita henni áminningu og hefja uppsagnarferli. Ber stefndi sönnunarbyrði fyrir því að aðstæður hafi verið með þeim hætti. Ljóst er að hvorug framangreindra skýrslna fjallar um mat á heilsufari áfrýjanda og styðja þær því ekki þá ákvörðun stefnda að setja hana í ótímabundið í veikindaleyfi. Í báðum skýrslunum eru hins vegar tilgreind atvik sem sýna að vandamál höfðu skapast á vinnustaðnum og verður að fallast á að nægilega sé upplýst að skólastjórnandi hafi verið í rétti til að senda áfrýjanda heim 7. desember 2005. Engin gögn önnur en frásagnir um óviðeigandi hegðun áfrýjanda, sem ekki eru staðfestar fyrir dómi, styðja hins vegar þá fullyrðingu stefnda að áfrýjandi hafi verið óvinnufær í kjölfarið. Engin vottorð eða skýrslur heilbrigðisstarfsfólks þar að lútandi er að finna í málinu. Verður því ekki fallist á að stefndi hafi sannað að hann hafi haft fullnægjandi forsendur til þess að setja áfrýjanda í ótímabundið veikindaleyfi og gera henni að afsanna réttmæti þess, og að ekki hafi verið unnt að fara með starfslok hennar samkvæmt IX. kafla laga nr. 70/1996. III Eins og að framan er rakið er upplýst að áfrýjanda var frá upphafi ljóst að hún var sett í veikindaleyfi. Kemur fram að hún hafi af þessu tilefni þegar í upphafi leitað til heimilislæknis, en vottorð þar um er ekki að finna í málsgögnum. Þá er ljóst að hún tók ekki til greina ráðleggingar lögmanns stéttarfélags síns, sem hann skýrir frá í bréfi 20. mars 2006, um að hún skyldi afla sér læknisvottorðs um vinnufærni sína og mæta til starfa. Í ljósi þess að áfrýjandi vissi að hún var talin veik, ákvæða kjarasamnings, sem henni hafði verið bent á, og ráðlegginga lögmannsins, verður að líta svo á að hún hafi sýnt verulegt tómlæti um hagsmuni sína með því að afla ekki gagna um heilsu sína til sönnunar á vinnufærni sinni. Þó að fallist sé á að stefndi hafi ekki gætt réttra vinnubragða við uppsögn áfrýjanda upphefur það ekki skyldu hennar til að bregðast við þeirri fullyrðingu að hún væri óvinnufær vegna veikinda, enda gat hún ein aflað réttra gagna um heilsufar sitt eða samþykkt að tala við trúnaðarlækni stefnda. Þá verður einnig að líta til þess að samkvæmt uppfærsluskrá launamanns eru mánaðarlaun til hennar frá og með desember 2005 til og með desember 2006 skráð sem veikindalaun. Liggur ekki fyrir að hún hafi gert neinar athugasemdir við þá afgreiðslu. Ráðningarsamningur áfrýjanda var ótímabundinn með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Hefur hún fengið greidd full laun í eitt ár og að auki þrjá mánuði vegna uppsagnar. Fallast verður á með stefnda að áfrýjandi hafi þar með fengið fullar bætur, enda hefur hún ekki sannað að núverandi óvinnufærni hennar sé afleiðing þeirra atburða sem mál þetta snýst um. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu þykir rétt að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum samkvæmt 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Tekið er undir aðfinnslur meiri hluta dómsins. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2008. Mál þetta sem þingfest var hinn 10. apríl 2008 var dómtekið 14. október 2008. Stefnandi er Helga Björk Magnúsar Grétudóttir, Sólvallagötu 50, Reykjavík. Stefndi er Fjölmennt, Borgatúni 22, Reykjavík. Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur í málinu: Að viðurkennt verði að stefnanda hafi með ólögmætum hætti verið skipað í veikindafjarvistir frá starfi sínu sem tónlistarkennari hjá stefnda í desember 2005. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 13.122.009 í bætur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti. Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað með hliðsjón af gjaldskrá Lögfræðiþjónustunnar ehf. og beri málskostnaður virðisaukaskatt. Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði látinn falla niður. Málsatvik: Stefnandi kveður málsatvik vera þau að hún hafi ráðið sig til starfa hjá Fullorðinsfræðslu fatlaðra, sem síðar varð Fjölmennt, með ráðningarsamningi dagsettum 4. október 2002. Um 100% starf hafi verið að ræða við tónlistarkennslu. Stéttarfélag stefnanda sé Kennarasamband Íslands (KÍ) og í ráðningarsamningi aðila sé vísað til kjarasamnings KÍ um launagreiðslur og önnur starfskjör, um rétt til launa í veikindum og fleiri atriði. Þá sé einnig vísað til kjarasamnings KÍ vegna uppsagnarfrests og fram komi í ráðningarsamningi að um réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna án nánari lagatilvísunar. Stefndi sé miðstöð símenntunar sem þjóni fötluðu fólki 20 ára og eldri. Stefndi sé sjálfseignarstofnun með þjónustusamning við menntamálaráðuneytið. Vorið 2002 hafi orðið breyting á rekstrarformi stefnda, sem þá hét Fullorðinsfræðsla fyrir fatlaða. Breytingin fólst í því að stefndi varð sjálfseignarstofnun í stað ríkistofnunar en með þjónustusamning við menntamálaráðuneytið. Þann 7. desember 2005 hafi komið til árekstrar á milli stefnanda og samkennara og sviðstjóra hjá stefnda í kennslustund frammi fyrir nemendum og samkennara. Stefnandi hafi talið að þarna hafi átt sér stað ofbeldi gagnvart sér og nemendum. Hún hafði haft samband við Vinnueftirlitið vegna þessa atburðar og óskað aðstoðar. Síðar sama dag hafi framkvæmdastjóri stefnda, Atli Georg Lýðsson, og deildarstjóri stefnda, María Hildiþórsdóttir, óskað eftir fundi með stefnanda. Á fundinum hafi stefnandi sagt frá því að hún hefði haft samband við Vinnueftirlitið vegna málsins. Deildarstjórinn hafi fullyrt við stefnanda að hún væri veik sem stefnandi mótmælti. Þann 8. desember 2005 hafi stefnandi mætt til vinnu og kennt sína tíma. Þann 9. desember hafi hún ekki átt að kenna. Þann 12. desember 2005 hafi stefnandi talað við framkvæmdastjóra stefnda í síma og hann sagt henni að hún ætti ekki að mæta til vinnu að svo stöddu. Stefnandi hafi þá aftur haft samband við heimilislækni sinn og kvartað formlega til Vinnueftirlitsins og sent formanni KÍ tölvupósta vegna málsins. Í framhaldi hafi stefndi sett stefnanda á veikindalaun og hún fengið greidd veikindalaun frá 7. desember 2005 til 7. desember 2006 en þá verið tilkynnt að veikindaréttur hennar hjá stefnda væri tæmdur og hún fengi ekki frekari greiðslur. Þann 3. janúar 2006 hafi stefnanda borist bréf frá Vinnueftirlitinu og í framhaldi af því verið framkvæmd úttekt hjá stefnda þann 5. janúar s.á. og gerðar þrjár athugasemdir af hálfu Vinnueftirlitsins sem flokkaðar hafi verið sem minniháttar athugasemdir. Stefndi hafi óskað eftir aðstoð fyrirtækisins Lífs og sálar ehf. í mars 2006 vegna ásakana stefnanda um einelti og ofbeldishótanir. Hafi verið óskað eftir rannsókn Lífs og sálar ehf. á því hvað hæft væri í ásökunum stefnanda. Skýrsla fyrirtækisins, unnin af Einari G. Jónssyni og Þórkötlu Aðalsteinsdóttur, sálfræðingum hafi legið fyrir þann 5. maí 2006. Í skýrslunni komi fram að fjarvistir stefnanda frá vinnu hafi verið skilgreindar sem veikindaleyfi af hálfu stjórnenda. Ekkert mat sé þar lagt á ástand stefnanda en þar komi fram að ljóst sé að stefnandi hafi neitað að hlýða fyrirmælum yfirmanns. Að mati þeirra sem unnu skýrsluna hefði stefnandi við þessar aðstæður átt að gera athugasemd, yfirgefa skólastofuna og kvarta síðan við stjórnendur vinnustaðarins. Í skýrslunni komi fram að það sé ljóst að stefnandi hafi upplifað aðstæður þann 7. desember 2005 sem mjög erfiðar og hafi síðan átt erfitt með að komast yfir það sem gerðist. Einnig hafi það skapað mikla vanlíðan hjá stefnanda hversu langur tími hafi liðið og hve óljós staða hennar hjá stefnda væri. Í skýrslunni komi fram að fullyrðing standi gegn fullyrðingu um samskiptin eftir 7. desember 2005. Stefnandi hafi kvartað undan því að enginn hafi haft samband við hana frá stefnda en stjórnendur stefnda segi að stefnandi hafi tilkynnt þeim að hún óskaði ekki eftir beinum samskiptum við þá. Í skýrslunni komi fram það mat að hluti vandans sé að stjórnendur stefnda hafi ekki tekið á vandmálum með skýrum hætti. Stjórnendur stefnda hefðu þurft að taka afstöðu til þeirra þátta í hegðun stefnanda sem þyki ámælisverðir og ákveða hvort boða eigi áminningu vegna þeirra eða láta kyrrt liggja og koma hefði þurft skýrt fram afstaða þeirra til þess hvort stefnandi yrði boðin velkomin til starfa eða hvort einhver skilyrði yrðu sett fyrir endurkomu hennar. Stjórnendur stefndu þyrftu að taka afstöðu til þess hvort óæskilegt væri að stefnandi komi aftur til starfa eftir það sem á undan er gengið, og ef svo væri, að taka afstöðu til þess hvort bjóða eigi stefnanda starfslokasamning eða hvort setja eigi af stað uppsagnarferli. Það hafi síðan ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 9. ágúst 2006, að boðað hafi verið til fundar vegna málsins. Stefnandi mætti til fundarins með þáverandi lögmanni sínum. Á fundinum hafi fyrrnefnd greinargerð Lífs og sálar ehf. verið lögð fram og greinargerð trúnaðarmanns fatlaðra í Reykjavík, dagsett 14. júlí 2006, vegna meintra samskiptaerfileika milli stefnanda og nemenda stefnda. Stefnandi, sem hafi ekkert vitað um vinnslu þessarar greinargerðar trúnaðarmanns fatlaðra fyrr en á þessum fundi, hafi mótmælt henni með öllu. Stefnandi sendi félagsmálaráðuneytinu erindi í apríl 2007 og óskaði eftir því að framangreind greinargerð trúnaðarmanns yrði rannsökuð. Var svo gert og í september 2007 lá fyrir sú afstaða ráðuneytisins að andmælaréttur stefnanda hefði ekki verið virtur en að trúnaðarskylda hefði ekki verið brotið á henni. Með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 7. desember 2006, var stefnanda tilkynnt að veikindalaun hennar væru fallin niður. Jafnframt var henni tilkynnt að hún hefði möguleika á lausn frá störfum ef hún framvísaði læknisvottorði um varanlega ófærni um að gegna starfi vegna vanheilsu en með því að vera leyst frá störfum á þessum grunni héldi hún föstum launum í þrjá mánuði. Loks var henni bent á að starfsmaður, sem hefði verið óvinnufær vegna veikinda samfellt í 1 mánuð eða lengur, mætti ekki hefja störf að nýju nema læknar vottaði að heilsa hans leyfði. Kæmi til þess myndi stefndi nýta sér heimild í kjarasamningi og krefjast vottorðs trúnaðarlæknis stofnunarinnar. Þann 22. desember 2006 lagði stefnandi fram formlega kvörtun um einelti á vinnustað til Vinnueftirlitsins og þar kemur fram eftirfarandi lýsing hennar á aðstæðum: „Í kjölfar atviks þann 7. des. 2005 sem var formlega kvartað undan til VER 12. des. 2005 var undirritaðri sagt að halda sig til hlés þar til öldurnar lægðu í gegnum óviðkomandi aðila. Seinna var ég úrskurðuð veik af stjórnendum, án samráðs við lækna og sett í veikindafrí gegn mínum vilja og læknisvottorðs aldrei krafist. Stjórnendur hafa aldrei haft beint samband við mig og er málinu enn ólokið.“ Í bréfi stefnanda til lögmanns stefnda. dagsettu 27. apríl 2007, kemur fram að stefnandi hafi gert ítrekaðar tilraunir til að fá lausn á sínum málum með aðstoð ýmissa aðila en að það hafi ekki tekist. Þá gerði stefnandi þá kröfu í bréfinu að stefndi segði sér upp með löglegum hætti eða að hún kæmi aftur til starfa. Lögmaður stefnda svaraði í bréfi, dagsettu 3. maí 2007, þar sem fram kemur að stefndi sé reiðubúinn, vegna veikinda stefnanda, að ganga til samstarfs við hana um lausn frá starfi samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Þá var áréttað í bréfinu að óskaði stefnandi ekki eftir því væri nauðsynlegt fyrir hana að framvísa starfshæfnisvottorði til að hefja starf að nýju. Stefnandi svaraði þessu með bréfi, dagsettu 3. júlí, þar sem hún hafnaði því að hún hefði verið veik, og benti á að ekkert í málinu styddi þá fullyrðingu, engin læknisvottorð um veikindi hennar lægju fyrir. Með bréfi, dagsettu 13. nóvember 2007, óskaði lögmaður stefnanda eftir því að stefndi legði fram þau gögn sem legið hefðu til grundvallar því mati hans að stefnandi hefði verið veik þann 7. desember 2005 og síðar. Einnig var óskað skýringa og gagna sem legið hefðu til grundvallar þeirri ákvörðun að setja stefnanda á veikindalaun í desember 2005. Svar barst frá lögmanni stefnda með bréfi, dagsettu 20. nóvember 2007, þar sem fram kom að stefndi hefði talið nauðsynlegt á sínum tíma að afþakka vinnuframlag stefnanda þar sem hún hefði verið talin ófær um að gegna starfi sínu vegna veikinda. Hefði stefnanda ávallt síðan verið gerð grein fyrir því að þegar og ef hún teldi heilsu sína leyfa sér að hefja starf að nýju yrði hún að tilkynna stefnda það formlega og stefndi þá fela trúnaðarlækni stofnunarinnar að leggja mat á heilsufar hennar eins og kjarasamningur heimilaði. Þá var bent á fyrirliggjandi skýrslur um málið og að stefndi hefði talið að efni þeirra skýrði hvers vegna talið hefði verið að veikindi stefnanda hindruðu hana í að sinna kennslu fyrir stefnda. Með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 17. desember 2007, var stefnanda tilkynnt að með vísan til kjarasamningsgreinar 12.4.2, væri hún leyst frá störfum frá og með 7. desember 2007, vegna heilsubrests. Jafnframt að stefndi myndi afgreiða launagreiðslu til stefnanda vegna loka vinnusambandsins í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Lögmaður stefnanda mótmælti ofangreindri ákvörðun stefnda í bréfi, dagsettu 4. janúar 2008, og gerði grein fyrir fyrirhugaðri skaðabótakröfu á hendur stefnda vegna málsins. Lögmaður stefnda áréttaði í bréfi 8. janúar 2008 að stefndi teldi sig hafa gert að fullu upp við stefnanda í samræmi við kjarasamning og að fyrirhugaðri skaðabótakröfu væri hafnað. Fram kemur í stefnu að stefnandi hafi ekki unnið frá því í desember 2005. Hún hafi ekki fengið aðra vinnu við tónlistarkennslu enda tíðkist að hafa samband við fyrri vinnustað og fá meðmæli og umsögn þegar sótt sé um starf. Þá sé tónlistarheimurinn hér á landi mjög lítill og þetta mál sé vel þekkt innan hans. Frá því í ágúst 2007 hafi stefnandi verið óvinnufær með öllu, eins og vottorð heimilislæknis hennar, sem liggur frammi í málinu, beri með sér. Af hálfu stefnda er tekið fram að því er varðar atvik málsins að stefnandi, sem hafi starfað sem tónlistarkennari hjá stefnda, hafi lent í útistöðum við stuðningsfulltrúa og starfsfólk og farið út fyrir öll mörk í almennum samskiptareglum, og hafi það einnig bitnað á nemendum. Þann 7. desember 2005 hafi stefnandi mætti til kennslu í annarlegu ástandi að mati stjórnenda. Hafi verið óskað eftir því við stefnanda að hún færi heim, hvíldi sig og leitaði sér aðstoðar. Varðandi þennan atburð vísar stefndi í greinargerð sinni til áðurnefndrar skýrslu Lífs og sálar, sálfræðistofu, sem unnin hafi verið vegna ásakana stefnanda um einelti og ofbeldishótanir. Komi fram á bls. 7 í skýrslunni dæmi frá viðmælendum skýrsluhöfunda um ójafnvægi stefnanda og óviðeigandi hegðun: „T.d. bænahald í kennslustundum, setja kryddjurtir ofan á ofna skólahúsnæðinu til að fæla burt illar vættir og ónáða nemendur í einkalífi þeirra með heimsóknum og símhringingum. Gagnrýna stjórnendur og samstarfsmenn við nemendur og gera nemendur að trúnaðarvinum sínum.“ Þáverandi framkvæmdastjóri stefnda leitaði strax eftir ofangreinda atburði til stéttarfélags stefnanda til ráðgjafar um það hvað væri best að gera í máli hennar. Í tölvupósti frá formanni Félags framhaldsskólakennara 9. desember 2005 segir: „Félagið hafði samband við lögmann þess, Ragnar H. Hall, til að fá ráðgjöf varðandi málin sem við ræddum um í vikunni. Hann segir að við svona aðstæður geti stjórnandi afþakkað vinnuframlag starfsmanns vegna þess að hann sé ófær um að gegna starfi sínu vegna veikinda. Ef starfsmaðurinn hafnar því þá getur stjórnandi farið fram á að starfsmaðurinn fari í læknisrannsókn hjá trúnaðarlækni stofnunarinnar sem gefi þá út vottorð um vinnufærni/óvinnufærni og um forsendur þess að starfsmaður geti/geti ekki sinnt starfi sínu. Í framhaldinu verði þá starfsmaður leystur frá störfum ef niðurstöður læknisrannsóknar sýna að hann sé ófær um að gegna þeim vegna veikinda.“ Stefnanda hafi strax í desember 2005 verið gerð grein fyrir því að stefndi teldi hana ófæra um að gegna starfi sínu vegna veikinda og að væri hún því ósammála yrði hún að fara í læknisrannsókn hjá trúnaðarlækni til að leggja mat á vinnufærni hennar. Líklegt sé að stefnandi hafi einnig fengið þessar upplýsingar frá stéttarfélagi sínu, með hliðsjón af framangreindum tölvupósti. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi viðurkennt veikindi sín í framkvæmd með því að leita eftir styrkjum, meðal annars frá sjúkrasjóði KÍ. Þá kemur fram af hálfu stefnda að frá því að stefnandi fór í veikindaleyfi í byrjun desember 2005 hafi hún verið á fullum launum í 12 mánuði + 3 mánuði eða samtals í 15 mánuði. Málsástæður og lagarök stefnanda: Stefnandi byggir á því að lausn hennar úr starfi hjá stefnda vegna heilsubrests, hafi verið ólögmæt. Stefnandi telur að við undirbúning og töku þeirrar ákvörðunar hafi ekki verið gætt réttra meginreglna samkvæmt lögum og kjarasamningum. Stefnandi leggur áherslu á að við mat á lögmæti ákvörðunarinnar verði að líta á málið í heild, hinn langa aðdraganda og sérkennilega ferli þess og til þess að allar ákvarðanir stefnda í málinu varði mikilvæga persónulega hagsmuni stefnanda. Stefnandi byggir á því að stefndi sé stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að sú ákvörðun stefnda að setja stefnanda á veikindalaun sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem lúti ákvæðum þeirra laga, auk óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttar, og verði að byggjast á málefnalegum og gildum forsendum. Stefnandi telur að með því að taka ákvörðun um að senda stefnanda heim og ákveða svo að hún væri veik, án undirbúnings og án þess að viðhlítandi grundvöllur væri lagður að ákvörðuninni, án þess að gefa skýringar á henni og án þess að gefa stefnanda kost á að tjá sig um málið, hafi stefndi brotið gegn andmælarétti stefnanda, sbr. 13.-15. gr. stjórnsýslulaga, gegn rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt því ákvæði skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun ef markmiði verði ekki náð með öðru vægara móti. Stefnandi telur að hún hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna þess að stefndi hafi með ólögmætum hætti sett hana á veikindalaun og síðar veitt henni lausn frá starfi á grundvelli heilsubrests. Telur stefnandi að hún eigi rétt á að fá það tjón sitt bætt úr hendi stefnda. Stefnandi telur að lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi um sig og sín réttindi. Stefnandi hafi gert ótímabundinn ráðningarsamning við stefnda þann 4. október 2002 og komi þar meðal annars fram að ofangreind lög gildi um starfssambandið og að stéttarfélag launþegans sé Kennarasamband Íslands (KÍ). Samkvæmt starfsmannalögum nr. 70/1996 sé skylt að veita starfsmanni áminningu og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. laga nr. 70/1996. Eru það fyrst og fremst ástæður sem rekja má til persónu starfsmannsins. Þá eigi starfsmenn rétt til launa í veikindaforföllum samkvæmt 12. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996, sbr. lög nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 19/1979 sé það lagt í hendur launþegans, hvort hann vilji neyta réttar síns til veikindalauna, hann eigi, ef að atvinnurekandi óskar þess, að afhenda atvinnurekanda vottorð læknis, sem sýni óvinnufærni launþegans vegna veikinda. Skylda launþegans í þessu efni sé bundin ósk atvinnurekandans. Í 12. kafla kjarasamnings KÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sé fjallað um rétt starfsmanna vegna veikinda og slysa. Þar komi fram í grein 12.1.1. að ef starfsmaður verði óvinnufær vegna veikinda og slyss, skuli hann þegar tilkynna það yfirmanni sínum sem ákveði hvort læknisvottorðs skuli krafist og hvort það skuli vera frá trúnaðarlækni hlutaðeigandi stofnunar. Þá segi í greininni að krefjast megi læknisvottorðs af starfsmanni vegna óvinnufærni hvenær sem forstöðumanni /yfirmanni stofnunar þyki þörf á. Lög nr. 19/1979, lög nr. 70/1996 og veikindakafli kjarasamningsins gangi út á að það sé starfsmaður sem tilkynni veikindi óski hann eftir greiðslu veikindalauna og beri honum að leggja fram vottorð læknis því til sönnunar ef vinnuveitandi óskar Réttur vinnuveitandans snúist um að geta krafist læknisvottorðs til staðfestingar á óvinnufærni starfsmanns sem hafi óskað eftir að fá veikindalaun greidd. Laga- og kjarasamningaákvæðum um veikindarétt sé ætlað að veita launþegum ákveðið fjárhagsöryggi í veikinda- og slysatilvikum sem byggist á áunnum rétti launþegans til launa í veikindum. Ákvæðin gefi ekki, og hafi aldrei verið ætlað að gefa, vinnuveitanda heimild eða möguleika á því að ákveða einhliða að starfsmaður sé veikur, hefja greiðslu veikindalauna og á grundvelli þessara einhliða ákvarðana leysa starfsmann frá störfum á grundvelli heilsubrests. Það sé eingöngu þegar starfsmaður hafi tilkynnt um veikindi að myndist réttur fyrir vinnuveitanda að krefjast læknisvottorðs og starfshæfnisvottorðs. Stefnandi byggir á því að fjarvera hennar frá vinnu hafi ekki verið óútskýrð, heldur hafi átt sér þá skýringu að stefndi hafi sent hana heim vegna samskiptavandamála sem komið hafi upp á vinnustað hennar þann 7. desember. Stefnandi hafi mætt til vinnu 8. desember, en hún hafi ekki átt að kenna 9. desember. Stefndi hafi tilkynnt henni símleiðis að hún skyldi halda sig heima að svo stöddu, en hún hafi á þessum tíma verið vinnufær og tilbúin að sinna skyldu samkvæmt ráðningarsamningi. Þetta hafi stefnda verið heimilt og hann byggt á stjórnunarrétti sínum, en þegar hann hafi sett stefnanda á veikindalaun án nokkurrar tilkynningar um veikindi eða framlagningar vottorðs af hálfu stefnanda, hafi stefndi farið út fyrir mörk stjórnunarréttar síns. Hann hafi aldrei skýrt á hverju hann byggði ákvörðun sína og fullyrðingar um veikindi stefnanda, sem hafi strax mótmælt öllu tali um veikindi og verið reiðubúin til að mæta til vinnu hvenær sem stefndi óskaði. Stefndi hafi aldrei reynt að sanna eða sýna fram á veikindi stefnanda, en í bréfi lögmanns hans frá 20. nóvember 2007 hafi hann í fyrsta sinn reynt að skýra á hverju niðurstaða um veikindi stefnanda hafi verið byggð. Þar sé vísað til skýrslu Lífs og sálar ehf., frá 7. maí 2006 og til greinargerðar trúnaðarmanns fatlaðra í Reykjavík frá 14. júlí 2006. Segi orðrétt í bréfinu: „Telur Fjölmennt að efni þeirra skýri hvers vegna talið hefur verið að veikindi Helgu Bjarkar hindri hana í að sinna kennslu fyrir Fjölmennt.“ Stefnandi telur að ofangreindar skýrslur staðfesti ekki með nokkrum hætti veikindi hennar. Annars vegar skýrsla unnin af sálfræðingum vegna ásakana stefnanda um einelti á vinnustað og hins vegar skýrsla unnin af þroskaþjálfa, trúnaðarmanni fatlaðra, vegna meintra samskiptaerfiðleika milli stefnanda og nemanda stefnda. Skýrslurnar hafi ekki verið unnar af læknum og geti ekki komið í stað læknisvottorðs. Fram hafi komið í bréfi lögmanns stefnda frá 20. nóvember 2007 að stefnanda hafi ávallt verið gerð grein fyrir því að þegar og ef hún teldi heilsu sína leyfa sér að hefja starf að nýju yrði hún að tilkynna stefnda það formlega og hann þá fela trúnaðarlækni stofnunarinnar að leggja mat á heilsufar hennar. Því er mótmælt að þessi krafa um starfhæfnisvottorð hafi legið fyrir frá upphafi. Það hafi fyrst verið á fundi í ágúst 2006 að gerð hafi verið krafa um að stefnandi skilaði starfhæfnisvottorði til þess að mega hefja vinnu að nýju. Skilyrði sem stefnandi hafi mótmælt með öllu. Stefnandi hafi alveg frá upphafi mótmælt því að hún væri veik eða að hún hafi verið óvinnufær í desember 2005. Hún hafi alltaf haldið því fram að hún ætti rétt á að snúa aftur til vinnu eða að stefndi yrði að segja henni upp með lögmætum og formlegum hætti. Stefnandi hafi mótmælt því með öllu að stefndi hefði getað krafist þess að hún skilaði inn starfshæfnisvottorði til að mega mæta aftur til vinnu enda hafi hún ekki verið frá vinnu sinni hjá stefnda vegna veikinda. Því telji stefnandi að stefndi hafi ekki getað byggt lausn hennar frá störfum á kjarasamningsgrein 12.4.2 á grundvelli heilsubrests þar sem að ákvæðið byggist á því að starfsmaður hafi verið frá vinnu vegna veikinda sem, eins og fram hafi komið, hafi alls ekki átt við. Kröfu sína um miskabætur byggir stefnandi á því að í aðgerðum stefnda hafi falist ólögmæt meingerð gagnvart henni sem stefndi beri ábyrgð á og sé bótaskyldur vegna. Stefnandi bendir á að það hafi fyrst verið með tilkynningu hennar um einelti til Vinnueftirlits sem stefndi hafi brugðist við og óskað eftir úttekt Lífs og sálar ehf. Kröfu sína um miskabætur byggir stefnandi á því að í aðgerðum stefnda hafi falist ólögmæt meingerð gagnvart henni sem stefndi beri ábyrgð á og sé bótaskyldur vegna. Stefnandi bendir á að það hafi fyrst verið með tilkynningu hennar um einelti til Vinnueftirlits sem stefndi hafi brugðist við og óskað eftir úttekt Lífsogsálar ehf. Stefnandi telur að stefndi hafi með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi gert lítið úr henni og hennar starfsframlagi án þess að veita henni nokkurt tækifæri til að bera hönd fyrir höfðuð sér. Fullyrðingar stefnda um veikindi séu með ólíkindum. Framganga stefnda gagnvart stefnanda brjóti gegn því sem talist geti eðlileg framkoma vinnuveitanda gagnvart starfsmanni. Stefndi hafi niðurlægt stefnanda með ótilhlýðilegum hætti, brotið gegn persónu hennar og virðingu. Hún hafi ekki fengið tækifæri til að verja sig og skýra mál sitt, henni verið sett ólögmætt skilyrði fyrir því að geta snúið aftur til vinnu og svo loks sagt upp störfum með ólögmætum hætti. Stefndi hafi því algerlega brugðist skyldum sínum sem vinnuveitandi. Stefnandi hafi upplifað aðgerðir stefnda sem einelti og ofsóknir og telji sig af þessum sökum eiga rétt á miskabótum úr hendi stefnda. Háttsemi stefnda hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda sem leiði til þess að stefnda beri að greiða stefnanda miskabætur, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við mat á því hvort framangreindar aðgerðir stefnda gagnvart stefnanda hafi verið meingerð gegn persónu stefnanda beri að líta til þess að lausn frá störfum hafi verið byggð á meintum veikindum sem stefndi hafi aldrei gert tilraun til að styðja gögnum. Viðurkenning á lögmæti slíkrar einhliða fullyrðingar vinnuveitanda um veikindi starfsmanns vekti upp spurningar um hvaða áhrif það hefði á vinnuumhverfi og réttarvernd launþega í landinu, það sé alltaf áfall þegar starfsmanni sé sagt upp, en það skipti líka verulegu máli með hvaða hætti starfsmanninum sé sagt upp. Aðgerðirnar veki grundsemdir um að stefndi hafi hreinlega ekki treyst sér til að segja stefnanda upp með formlegum og lögmætum hætti og því hafi stefndi valið sér þessa óvenjulegu leið til þess að losa sig við óæskilegan starfsmann. Stefnandi kveður ástæður málshöfðunarinnar ekki síst vera kröfu sína um að fá uppreisn æru og að viðurkennt verði að hún hafi ekki verið veik þegar vinnuframlagi hennar var hafnað í desember 2005, að stefnda hafi ekki verið stætt á að krefja hana um starfhæfnisvottorð og að viðurkennt verði að hún hafi mátt þola aðför að persónu sinni, óþægindi og andlegar þjáningar, vegna engra saka. Þá vísar stefnandi til þeirrar vitundarvakningar og hugarfarsbreytingar sem átt hafi sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum árum um að einelti sé ekki samþykkt hvar sem það finnist fyrir. Vísast til reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum sem byggist á lögum nr. 46/1980. Þar er einelti skilgreint sem: „Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.“ Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar hvíli ríkar skyldur á atvinnurekanda um að koma í veg fyrir hvers konar einelti. Þá vísist einnig til reglna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og til félagsmálasáttmála Evrópu, en þar sé kveðið á um rétt fólks til mannlegrar reisnar í starfi. Stefnandi telur að aðgerðir stefnda gagnvart sér undanfarin ár falli undir skilgreininguna á einelti í fyrrgreindri reglugerð. Þetta hafi haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda og sé hún í dag óvinnufær. Mannorð hennar og æra hafi beðið mikinn hnekki og tíminn frá því í desember 2005 hafi einkennst af kvíða, vanmætti, ótta og reiði og haft afgerandi áhrif á líf hennar. Stefnandi telur að ákveða verði miskabætur að álitum, en ekki sé við fordæmi að styðjast. Stefnandi sundurliðar skaðabótakröfu sína þannig: Miskabótakröfu sína að fjárhæð kr. 6.000.000 rökstyður stefnandi með því hversu alvarlega aðför að æru og mannorði einstaklings sé hér um að ræða, en ekki sjái fyrir endann á áhrif aðgerða stefnda á líf stefnanda. Kröfur sínar í málinu reisir stefnandi á meginreglum vinnu- og starfsmannaréttar, stjórnsýslulögum nr. 37/1993, skaðabótalögun nr. 50/1993, lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sbr. reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Krafa um vexti og dráttarvexti er reist á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsástæður og lagarök stefnda: Stefndi hafnar því að hann hafi á einhvern hátt gengið á rétt stefnanda. Hann telur að skýrslurnar sem liggja frammi í málinu, annars vegar skýrsla Lífs og sálar ehf. og hins vegar skýrsla trúnaðarmanns fatlaðra, sanni réttmæti þess mats stefnda á heilsu stefnanda í desember 2005 að rétt væri að hún færi í veikindaleyfi. Þá vísar stefndi til sjúkradagpeningavottorðs frá 22. ágúst 2007, sem einnig liggur frammi í málinu, en þar kemur fram að stefnandi „lenti í einelti á vinnustað sem hefur valdið miklum sálrænum erfiðleikum og orðið til þess að hún hefur ekki getað unnið“ og einnig kemur þar fram að frá 1. ágúst 2007 sé stefnandi óvinnufær með öllu. Stefnanda hafi ætíð staðið til boða, ef hún væri í raun ekki sátt við að vera í veikindaleyfi, að fara í skoðun hjá trúnaðarlækni stefnda til að meta vinnufærni. Þá liggi fyrir að stefndi hafi boðað stefnanda á fund, sem stefnandi hafi mætt til með þáverandi lögmanni sínum, til að kynna henni ofangreindar skýrslur sem unnar hafi verið af utanaðkomandi aðilum, sem stefndi hafi engar forsendur haft til að hafa áhrif á. Það geti ekki verið á ábyrgð stefnda ef þeir sem unnu þessar skýrslur hafi ekki staðið rétt að málum gagnvart stefnanda. Þá mótmælir stefndi því sem fram kemur í stefnu að stefndi virðist hafa haft það að markmiði að losa sig við stefnanda; fyrir stefnda hafi vakað það eitt að tryggja að þeir kennarar sem séu að starfi hjá honum hverju sinni séu heilir heilsu, andlega og líkamlega. Sé þetta sérstaklega mikilvægt með hliðsjón af fötlun þeirra nemenda sem starfsfólk stefnda sinnir. Þá tekur stefndi fram að skýrsla Lífs og sálar ehf. staðfesti að ekki hafi verið um einelti eða ofbeldi að ræða í garð stefnanda. Við aðalmeðferð málsins komu fram mótmæli stefnda við því að um stjórnvaldsákvörðun hefði verið að ræða þegar ákveðið var að setja stefnanda á veikindalaun og kom fram það sjónarmið að um tvær leiðir hefði verið að velja í desember 2005 þegar stefnandi var að mati stefnda orðin ófær um að gegna starfi sínu: sú leið sem farin var og byggðist á reglum um veikindarétt annars vegar, og hins vegar, áminningar- og uppsagnarferli. Ákveðið hafi verið að fara þá leið sem vægari var gagnvart stefnanda. Þá kom fram í skýrslum fyrir dómi að haft hefði verið samband við ýmsa aðila, svo sem heimilislækni stefnanda og geðhjúkrunarfræðing sem hafi sinnt henni, áður en ákvörðun var tekin um að setja stefnanda á veikindalaun. Stefndi tekur fram að frá því að veikindaleyfi stefnanda hófst í byrjun desember 2005 hafi hún verið á fullum launum í 12+3 mánuði eða samtals í 15 mánuði. Jafnvel þó að talið verði að ekki hafi verið staðið rétt að málum gagnvart stefnanda, telji stefndi að tjón stefnanda vegna þess hafi verið að fullu bætt. Þá verði að líta til þess í þessu sambandi að stefnandi hafi viðurkennt veikinda sín í raun enda hafi hún fengið fyrirgreiðslu bæði frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og styrktarsjóði Kennarasambands Íslands. Stefndi telur sig hafa fylgt leiðbeiningum stéttarfélags stefnanda og ákvæðum kjarasamnings varðandi veikindi stefnanda og síðan lausn frá störfum. Ef stefnandi hefði raunverulega viljað hefja störf að nýju og talið sig vinnufæra hefði hún átt að tilkynna það formlega og samþykkja að láta trúnaðarlækni stefnda meta vinnufærni, eins og kjarasamningur aðila kveði á um. Varðandi varakröfu sína um verulega lækkun skaðabóta, krefst stefndi þess í því tilviki að, ef ekki verður fallist á að rétt hafi verið staðið að máli stefnanda af hálfu stefnda, verði litið á greiðslur þær, sem stefnandi hefur fengið frá því hún hætti að sinna starfi sínu í desember 2005, sem skaðabætur. Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til kjarasamnings aðila, kjarasamnings milli fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu. Niðurstaða: Það liggur fyrir í málinu að stefnandi var ráðin til starfa við tónlistarkennslu hjá stefnda, eða forvera hans Fullorðinsfræðslu fatlaðra, 4. október 2002. Ekki virðist vera um það deilt í málinu að um réttindi og skyldur starfsmannsins færi að lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eins og tekið er fram í ráðningarsamningi, enda var vinnuveitandinn þá ríkisstofnun. Þá er ljóst að stefnandi var að störfum hjá stefnanda þar til í byrjun desember 2005, en kom ekki til vinnu eftir það. Í millitíðinni hafði rekstrarform stefnda breyst og var hann, þegar þarna var komið sögu, sjálfseignarstofnun með þjónustusamning við menntamálaráðuneytið. Stefnandi byggir á því að sú ákvörðun stefnda að setja stefnanda á veikindalaun í desember 2005, sé stjórnsýsluákvörðun, þar sem stefndi sé stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1933, og að brotið hafi verið á stefnanda með því að gæta ekki að meginreglum sem um slíkar ákvarðanir gilda. Í 1. gr. laganna segir: „Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga“. Ekki verður séð að stefndi geti fallið undir skilgreiningu ákvæðisins, enda um sjálfseignarstofnun að ræða. Verður því ekki fallist á þær málsástæður stefnanda er byggjast á að réttur hennar samkvæmt stjórnsýslulögum hafi ekki verið virtur. Stefnandi fékk greidd veikindalaun í tólf mánuði frá því að hún lét af störfum hjá stefnda. Hún hélt starfi sínu í tólf mánuði eftir að greiðslu veikindalauna lauk, en þá tilkynnti stefndi stefnanda að henni hefði verið veitt lausn frá starfi vegna veikinda og fékk stefnandi þá þriggja mánaða lausnarlaun greidd. Var af hálfu stefnda vísað til greinar 12.4.2 í kjarasamningi Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs varðandi þessi málalok. Ekki virðist vera um það deilt í málinu að miðað við að stefnandi hafi verið veik, hafi verið rétt staðið að málum gagnvart henni að því er launagreiðslur varðar. Taka verður undir það með stefnanda að ekki liggur fyrir í málinu skjalfesting á veikindum hennar í desember 2005, þegar stefndi sendi hana heim. Það kom fram við aðalmeðferð málsins, að haft hefði verið símasamband við stefnanda þann 12. desember 2005 og henni í því símtali meðal annars kynnt ráðgjöfin sem stefndi fékk frá frá KÍ 9. desember 2005 og fékk það stuðning í skýrslutöku af fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnda við aðalmeðferð málsins. Af hans hálfu kom einnig fram að forsvarsmenn stefnda hefðu haft áhyggjur af heilsu stefnanda og haft samráð við heimilislækni hennar og fleiri heilbrigðisstarfsmenn sem hefðu sinnt henni um það leyti er hún hætti störfum hjá stefnanda. Þá kom fram við skýrslutöku af núverandi framkvæmdastjóra stefnda, þá deildarstjóra hjá stefnda, að stefnandi hefði verið nokkuð frá vegna veikinda á árinu 2005 og að hún hefði átt sveiflukennd tímabil. Skýrslur þær, sem unnar voru vegna málsins og nefndar hafa verið, eru báðar gerðar eftir að stefnandi var komin í veikindaleyfi og ganga skýrsluhöfundar út frá því að um veikindi sé að ræða. Ekki er hægt að túlka niðurstöður þeirra sem sjálfstæða staðfestingu á veikindum stefnanda, en þær renna stoðum undir það að óviðunandi ástand hafði skapast, við kennslu nemenda hjá stefnda, vegna ástæðna er vörðuðu stefnanda. Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður að telja að stefndi hafi sýnt fram á það að veikindi stefnanda hafi komið í veg fyrir að hún gæti sinnt starfi sínu fyrir stefnda í desember 2005. Einnig verður að hafa í huga að stefnda var óhægt um vik að útvega læknisvottorð um heilsu stefnanda án atbeina hennar. Þá er til þess að líta að stefnandi fékk launaseðla þar sem fram kom að henni voru greidd veikindalaun í 12 mánuði, og í bréfum til hennar og öðrum gögnum sem hún hafði aðgang að kom skýrt fram að litið var svo á að hún væri í veikindaleyfi. Þá gat ekki hafa farið framhjá stefnanda að hún átti allan þann tíma, sem veikindalaunin voru greidd og auk þess í heilt ár þar á eftir, kost á að afla sér vottorðs um að hún væri fær um að gegna starfi sínu og óska eftir að fá að koma aftur til starfa hjá stefnda. Það er því niðurstaða málsins að með greiðslu veikindalauna í tólf mánuði og lausnarlauna sem svarar þriggja mánaða launum, hafi stefndi uppfyllt launagreiðsluskyldu sína gagnvart stefnanda, enda eru þær greiðslur í samræmi við ítrasta rétt starfsmanns samkvæmt þeim kjarasamningum og lagareglum sem giltu um samningssamband aðila. Stefndi verður því sýknaður af skaðabótakröfu stefnanda. Einnig verður með sömu rökum hafnað kröfu stefnanda um viðurkenningu á því að henni hafi með ólögmætum hætti verið skipað í veikindafjarvistir frá starfi sínu hjá stefnda í desember 2005. Stefnandi byggir miskabótakröfu sína á því að í aðgerðum stefnda, sem stefnandi hafi upplifað sem einelti gagnvart sér, hafi falist ólögmæt meingerð gegn stefnanda og vísar til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til stuðnings kröfunni. Þegar atvik málsins eru virt og með vísan til forsendna fyrir sýknu af skaðabóta- og viðurkenningarkröfum stefnanda, verður ekki séð að stefndi hafi brotið á stefnanda þannig að uppfyllt séu skilyrði tilvitnaðs ákvæðis í lögum nr. 50/1993 og verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda um miskabætur. Eins og atvikum máls þessa er háttað og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður á milli aðila falli niður. Stefnandi fékk útgefið gjafsóknarleyfi 28. júní 2007 vegna reksturs málsins í héraði. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sonju M. Hreiðarsdóttur, héraðsdómslögmanns, sem ákveðst, með hliðsjón annars vegar af tímaskýrslu lögmannsins og hins vegar af umfangi málsins, 900.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn. D ó m s o r ð: Stefndi, Fjölmennt, er sýkn af kröfum stefnanda, Helgu Bjarkar Magnúsar Grétudóttur. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Sonju M. Hreiðarsdóttur, héraðsdómslögmanns, 900.000 krónur. |
Mál nr. 626/2013 | Vinnuslys Líkamstjón Skaðabætur Sakaskipting Gáleysi Gjafsókn | A höfðaði mál gegn B hf. og V hf. og krafðist greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem hann varð fyrir í starfi hjá B hf. er stigi sem hann stóð í féll niður. Fyrir Hæstarétti var aðeins deilt um hvort A skyldi bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Að því virtu hve mikil sök B hf. var í samanburði við gáleysi sem A kynni að hafa sýnt við notkun stigans þóttu B hf. og V hf. ekki hafa tekist sönnun þess að A hefði af stórkostlegu gáleysi átt þátt í að tjónsatburður varð og að lækka bæri bætur til hans af þeim sökum á grundvelli 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var því fallist á kröfur A. | Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. september 2013. Hann krefst þess að stefndu greiði sér óskipt 22.270.085 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.393.465 krónum frá 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011 og af 22.270.085 krónum frá þeim degi til 15. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.065.010 krónum sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi 5. september 2011 og 14.792.433 krónum sem greiddar voru 11. september 2013. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en hann nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Í máli þessu krefst áfrýjandi bóta úr hendi stefndu vegna slyss við störf hjá stefnda B hf. 9. febrúar 2010. Með hinum áfrýjaða dómi voru stefndu dæmdir til að greiða óskipt áfrýjanda skaðabætur vegna slyssins, en áfrýjanda gert að bera hluta tjóns síns sjálfur vegna stórfellds gáleysis og um það vísað til 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eftir uppsögu hins áfrýjaða dóms greiddi stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. áfrýjanda bætur samtals 14.792.433 krónur, en áfrýjandi tók við greiðslu með fyrirvara um sakarskiptingu. Hér fyrir dómi er því einvörðungu uppi ágreiningur um hvort áfrýjandi skuli bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. II Er slys varð hafði áfrýjandi unnið samfleytt hjá stefnda B hf. í um níu ár. Fólst starfi hans í að landa úr skipum og koma hráefni í hús, þegar bræðsla fór fram. Sá starfi sem honum var falinn á slysdegi var á hinn bóginn að þrífa svokallað mjölhús og því ekki hluti af hans venjubundnu störfum. Í skýrslutöku fyrir héraðsdómi bar áfrýjandi að verkstjórinn, C, hafi beðið hann að vinna þetta verk, þar sem von væri á eftirlitsmönnum og hafi verið rekið á eftir að verkið yrði unnið. Áfrýjandi fór því umræddan dag í mjölhúsið til að hreinsa veggi þess og loft. Af frásögn hans fyrir héraðsdómi verður ráðið að er hann kom í mjölhúsið hafi þar verið lyftari með vinnupalli sem hafði verið lyft í um tveggja til þriggja metra hæð frá gólfi og lá 3,46 metra langur stigi upp að lyftaranum. Hann hafi tekið stigann niður og fært hann ásamt vinnupallinum um það sem kallað var „ein breidd“ í húsinu. Áfrýjandi lét þann enda stigans sem klæddur var plasttöppum nema við gólf. Er áfrýjandi var kominn upp í stigann rann stiginn til og féll áfrýjandi með stiganum í gólfið og hlaut þá áverka sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi og leitaði strax læknis. Sýnilegar áverkar voru á vinstri hendi hans, þar sem úlnliður hafði brotnað og síðar kom í ljós að hann hafði einnig brotnað á hægri hendi. Fyrir héraðsdómi bar vitnið D, starfsmaður stefnda B hf., að er slys varð hefði hann verið að sinna öðru verki en áfrýjandi í mjölhúsinu. Hann kvað verk það sem áfrýjanda var falið umrætt sinn oftast unnið með svipuðum hætti og áfrýjandi vann það, þannig að stiginn hafi verið notaður. Það hafi ekki oft verið unnið þannig að lyftari væri notaður til að lyfta þeim upp sem verkið skyldi vinna. Jafnframt kvað hann að allur gangur hefði verið á því hvort stiginn var bundinn við handrið vinnupalls á gaffli lyftarans áður en pallinum var lyft upp. Hann hefði venjulega bundið stigann þegar upp var komið, líkt og áfrýjandi hafi ætlað sér. Fyrir héraðsdómi bar áðurnefndur C að stigi sá sem áfrýjandi notaði umrætt sinn væri stigi til að bera rafmagnskapla og ekki ætlast til að hann væri notaður eins og ,,tröppur“. Ef stiginn væri notaður á þann veg, ætti ekki að láta plasttappana nema við gólf, af því að stiginn væri beittur ,,hinum megin“ og þyrfti að ,,fá festuna niðri“. Stigar af þessari gerð væru ,,út um allt ... af því að þeir eru til ... þannig að þeir eru alltaf á svæðinu ... maður getur svo sem ekki gert í því að menn taki þá þar sem þeir liggja.“ Áfrýjandi og fyrrgreindur D töldu báðir að öruggara væri að nota stigann þannig að plasttapparnir næmu við gólf, en eins og ráða má af fyrrgreindum framburði verkstjóra stefnda fyrir héraðsdómi var þá ekki tryggt að stiginn rynni ekki til. Fyrrgreindur D kvað að sér hefði ekki verið leiðbeint um að stigann bæri að nota á þann hátt. Fram er komið að stiginn sem notaður var, er ekki hefðbundinn stigi, heldur svokallaður kapalstigi og voru á öðrum enda hans plasttappar. Meðal gagna málsins eru upplýsingar frá framleiðendum sams konar stiga og áfrýjandi notaði umrætt sinn og samkvæmt þeim á ekki að nota stigana á þann hátt sem gert var er slysið varð. Slysið var fyrst tilkynnt Vinnueftirlitinu 18. febrúar 2010 eða níu dögum eftir slysið. III Eins og greinir í forsendum hins áfrýjaða dóms var niðurstaða hans um bótaskyldu stefndu reist á því að verkstjórn á vinnustað áfrýjanda hafi verið ábótavant, þar sem áfrýjandi hafði ekki fengið fyrirmæli um hvernig vinna bæri umrætt verk og að stigi sá sem notaður var við verkið hafi ekki verið öruggur. Stefndu fella sig við niðurstöðu héraðsdóms um bótaskyldu, en telja áfrýjanda eins og fyrr segir að hluta meðábyrgan fyrir tjóni sínu vegna stórfellds gáleysis, sbr. 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga, en á þeim hvílir sönnunarbyrði um að skerða beri bætur til áfrýjanda á þeim grundvelli. Eftir 1. mgr. 23. gr. laga 46/1980 skal verkstjóri beita sér fyrir að starfsskilyrði á vinnustað séu fullnægjandi, meðal annars að því er varðar öryggi. Í 1. mgr. 37. gr. er mælt svo fyrir að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis. Þá skal vinnustaður vera þannig úr garði gerður samkvæmt 1. mgr. 42. gr. að þar sé gætt fyllsta öryggis. Í II. viðauka við reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, sem sett hefur verið á grundvelli 47. gr. laganna, er að finna ákvæði varðandi notkun tækja þegar unnið er tímabundið og starfsmenn eru í fallhættu. Í 4.1.2. gr. viðaukans segir að einungis sé „heimilt að nota stiga við vinnu í hæð þegar unnið er tímabundið verk og þegar ... ekki er ástæða til að nota önnur öruggari tæki vegna lítillar áhættu eða þess að annaðhvort stendur notkun stutt yfir eða tilteknar aðstæður eru á vinnustað sem atvinnurekandi getur ekki breytt.“ Í 4.2.1. gr. er kveðið á um að stigar verði „að vera þannig upp settir að öruggt sé að þeir séu stöðugir við notkun.“ Þá er svofellt ákvæði í 4.2.2. gr.: „Koma skal í veg fyrir að færanlegir stigar renni til við notkun með því að festa efri eða neðri enda hans, með búnaði sem hindrar að hann renni til eða með einhverjum öðrum hætti sem hefur sömu áhrif.“ Enn fremur segir í 4.2.3. gr.: „Stigar skulu notaðir þannig að starfsmenn geti jafnan verið stöðugir og haft trygga handfestu.“ Áfrýjandi var á slysdegi 64 ára gamall og vanur verkamaður. Hann hafði unnið samfleytt hjá stefnda B hf. í um níu ár og hafði að auki starfsreynslu sem sjómaður til fjölda ára. Hann var á hinn bóginn ekki vanur þeim starfa sem honum var falinn umrætt sinn. Eins og að áður greinir var slysið ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu fyrr en níu dögum síðar og fór engin rannsókn fram á tildrögum þess og aðstæðum á vettvangi eins og skylt var samkvæmt 1. mgr. 79. gr. og 1. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980. Verða stefndu því að bera hallann af þeirri óvissu sem var um aðstæður á vinnustaðnum er slys varð og lögð til grundvallar sú frásögn áfrýjanda að þegar hann kom í mjölhúsið hafi þeim búnaði sem hann átti að nota verið stillt upp eins og hann hefur fullyrt og í samræmi við þær ljósmyndir sem teknar voru á slysstað. Á þeim má sjá að á öðrum enda stigans var band, sem áfrýjandi kvaðst fyrir héraðsdómi hafa ætlað sér að binda við lyftarann til að tryggja stöðugleika stigans og að á hinum enda hans voru plasttappar. Þá verður jafnframt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins þann framburð áfrýjanda að verkið hafi átt að vinna í flýti og hann hafi ekki talið sér fært að kalla í annan starfsmann til þess að vinna verkið með sér. Að framan hefur verið gerð grein fyrir því að verkstjórn af hálfu stefnda B hf. var ábótavant. Þannig vissu fyrirsvarsmenn þessa stefnda að umrædda stiga átti ekki að nota á þann hátt sem gert var, en komu engu að síður ekki í veg fyrir það. Áfrýjandi var heldur ekki í þeirri stöðu að hann gæti gefið öðrum starfsmönnum fyrirmæli um að aðstoða sig við verkið. Þegar virt er hve mikil sök stefnda B hf. var samkvæmt framansögðu í samanburði við gáleysi sem áfrýjandi kann að hafa sýnt við notkun umrædds stiga hefur stefndu ekki tekist sönnun þess að áfrýjandi hafi af stórkostlegu gáleysi átt þátt í að tjónsatburður varð og að lækka beri bætur til hans af þeim sökum á grundvelli 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga. Verður krafa áfrýjanda því tekin að fullu til greina, en ekki er í málinu ágreiningur um fjárhæðir. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og fjárhæð gjafsóknarkostnaðar verður staðfest. Stefndu verða dæmdir til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði. Dómsorð: Stefndu, B hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði óskipt áfrýjanda, A, 22.270.085 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.393.465 krónum frá 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011 og af 22.270.085 krónum frá þeim degi til 15. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.065.010 krónum sem greiddar voru 5. september 2011 og 14.792.433 krónum sem greiddar voru 11. september 2013. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 650.000 krónur. Stefndu greiði óskipt 909.565 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2013. Mál þetta, sem dómtekið var 24. maí sl., er höfðað af A, […], á hendur B hf., […], og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 11. maí 2012. Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði gert að greiða honum óskipt skaðabætur að fjárhæð 22.270.085 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 3.393.465 krónum frá 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011, af 22.270.085 krónum frá þeim degi til 15. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.065.010 krónum sem stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi 5. september 2011. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða honum óskipt málskostnað auk virðisaukaskatts, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi allt eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Stefndu gera aðallega þá kröfu að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður. Málsatvik Atvik gerðust 9. febrúar 2010 þegar stefnandi var við störf hjá stefnda, B hf. Stefnanda hafði verið falið af verkstjóra, C, að vinna við þrif í mjölhúsi. Málsaðila greinir á um það hvernig aðstæður voru þegar stefnandi kom í mjölhúsið. Stefnandi byggir á því að þá hafi aðrir starfsmenn stefnda, B hf., þeir D og E, verið búnir að stilla upp tækjum og vinnuaðstöðu m.a. vinnupalli sem sé um 3-4 metrar á lengd og 1,5 metrar á breidd og með tréhandriði. Búið hafi verið að lyfta pallinum upp í um þriggja metra hæð með gaffallyftara á þeim stað þar sem þrífa átti veggina og stilla upp stiga úr málmi við pallinn. E hafi þá verið farinn og hafi því stefnandi og D verið einir við þrifin en D hafi verið staddur í hinum enda hússins. Stefndu byggja á því að C hafi falið stefnanda og ofangreindum D og E að þrífa mjölhúsið og hafi til verksins fengið þeim lyftara með vinnupalli til að standa á. Hafi stefnandi tekið að sér að þrífa loft mjölhússins og hafi hann lyft vinnupallinum með lyftaranum upp í tveggja metra hæð og stillt honum samsíða vesturhlið mjölhússins milli innkeyrsludyra og mjölkvarnar. Þegar stefnandi fór upp stigann og ætlaði upp á vinnupallinn rann stiginn til á gólfinu með þeim afleiðingum að stefnandi féll niður. Stefnandi leitaði strax til læknis og kom í ljós að hann var brotinn á úlnliði vinstri handar. Síðar kom í ljós að hann hafði einnig brotnað á hægri hendi. Samkvæmt matsgerð F og G bæklunarskurðlækna frá 12. ágúst 2011 hlaut stefnandi 100% varanlega örorku vegna slyssins. Stefndi, B hf., tilkynnti slysið til Vinnueftirlits ríkisins, 18. febrúar 2010. Þar segir að stefnandi hafi lyft vinnukörfu í um tveggja metra hæð og hafi hann notað þriggja og hálfs metra langan rafmagnsstiga til að fara upp í körfuna. Þegar hann hafi verið kominn efst í stigann og ætlað að binda hann við efra handrið körfunnar sem hafi verið í um þriggja metra hæð hafi stiginn, sem hafi verið með plasthettum á neðri endum stigakjálkanna, runnið út undan sér. Stefnandi hafi þá fallið niður og við það hafi hann brotnað á vinstri framhandlegg auk þess að hljóta fleiri áverka. Með bréfi, dagsettu 2. mars 2011, krafðist stefnandi greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu stefnda, B, hf. hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Félagið hafnaði bótaskyldu með bréfi, dagsettu 12. ágúst 2011, og vísaði m.a. til þess að ósannað væri að slysið mætti rekja til saknæmrar háttsemi vátryggingartaka, starfsmanna hans eða annarra atvika eða aðstæðna sem hann bæri ábyrgð á. Með bréfi, dagsettu 6. október 2010, skaut stefnandi málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Í niðurstöðu nefndarinnar frá 16. nóvember 2011 taldi nefndin ekki sýnt fram á að öryggismálum eða verkstjórn hefði verið ábótavant af hálfu stefnda, B hf., og að stefnandi ætti því ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu félagsins hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Stefnandi óskaði þess 25. nóvember 2011 að úrskurðarnefndin tæki málið upp á ný á grundvelli vottorðs frá D, dagsettu sama dag, um verktilhögun. Var beiðninni hafnað og taldi nefndin að skilyrði til endurupptöku væru ekki fyrir hendi. Þann 5. september 2011 voru stefnanda greiddar bætur að fjárhæð 3.065.020 krónur vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku úr slysatryggingu launþega sem stefndi, B hf., hafði tekið hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu auk stefnanda, þrír starfsmenn stefnda, B hf., þeir D, C verkstjóri og H verksmiðjustjóri. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi telur að stefndi, B hf., beri skaðabótaábyrgð á slysinu, m.a. á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., beri hins vegar ábyrgð á slysinu sem vátryggjandi stefnda, B hf., en fyrir liggi að ábyrgðartrygging var í gildi hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., á slysdegi. Af hálfu stefnanda er á því byggt að í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, séu lagðar ríkar skyldur á vinnuveitendur og verkstjóra til að tryggja öryggi starfsmanna á vinnustöðum. Samkvæmt 37. gr. laganna skal vinnu hagað og hún framkvæmd þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skal viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Sambærilegar reglur um aðstæður á vinnustöðum sé að finna í 42. gr. laganna og um vélar, tæki og annan búnað í 46. gr. laganna. Nánar sé fjallað um skyldur atvinnurekanda til að tryggja viðunandi starfsskilyrði hvað varðar tæki í reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja. Samkvæmt reglugerðinni teljast tæki vera vélar eða vélbúnaður, áhöld eða verkfæri eða þess háttar búnaður sem notaður er á vinnustöðum. Í 5. gr. reglugerðarinnar segir að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum eru látin í té innan fyrirtækisins henti til þeirra verka sem vinna eigi eða séu hæfilega löguð að þeim, þannig að starfsmenn geti notað þau án þess að öryggi þeirra eða heilsu stafi hætta af. Þegar tæki eru valin til notkunar skuli atvinnurekandi hafa í huga þau sérstöku vinnuskilyrði, aðstæður og þá áhættu gagnvart öryggi og heilsu starfsmanna sem fyrir hendi eru innan fyrirtækis. Einkum skuli hann hafa í huga áhættu á þeim stað þar sem vinnan fari fram og enn fremur aðra áhættu sem notkun viðkomandi tækis kunni að hafa í för með sér. Í II. viðauka með áðurnefndri reglugerð nr. 367/2006 sé að finna ítarleg ákvæði er varða notkun ýmissa tækja á vinnustöðum, m.a. þegar starfsmenn eru í fallhættu. Í gr. 4.1.1 í viðaukanum segir að við tímabundna vinnu í hæð þar sem fallhætta sé fyrir hendi skuli velja þau tæki sem best tryggja öruggar starfsaðstæður. Enn fremur skuli velja tæki í samræmi við eðli verks, fyrirsjáanlegt álag og þannig að starfsmenn geti unnið og farið um á öruggan hátt. Þá segir jafnframt að velja skuli heppilegustu aðgangsleiðir að tímabundnum verkstöðvum þar sem starfsmenn eru í fallhættu og að umferð til eða frá aðgangsleiðum palla, vinnupalla eða göngubrúa megi ekki auka hættu á falli. Um stiga segi sérstaklega í gr. 4.2.1 að þeir verði að vera þannig upp settir að öruggt sé að þeir séu stöðugir við notkun og að færanlegir stigar verði að hvíla á stöðugu og traustu undirlagi af heppilegri stærð. Upphengdir stigar skuli festir á sem tryggastan hátt og þannig að þeir geti ekki færst til hliðar eða sveiflast til. Í framhaldi af þessu segir í gr. 4.2.2 að koma skuli í veg fyrir að færanlegir stigar renni til við notkun með því að festa efri eða neðri enda þeirra, með búnaði sem hindrar að þeir renni til, eða festa þá með einhverjum öðrum hætti sem hafi sömu áhrif. Stefnandi telur að slys hans megi rekja til þess að stefndi, B hf., hafi vanrækt lögboðnar skyldur sínar, samkvæmt áður tilvísuðum laga- og reglugerðarákvæðum, um að tryggja aðstæður og öryggisráðstafanir á vinnusvæði hans. Stefnandi hafi unnið verkið umrætt sinn samkvæmt fyrirmælum verkstjóra og notað þau áhöld sem honum hafi verið lögð til. Stefndi, B hf., hafi ekki séð til þess að sá búnaður sem stefnanda var látinn í té til vinnu væri fullnægjandi, eins og honum bar samkvæmt ofangreindum lagaákvæðum og reglugerð. Samkvæmt gögnum málsins sé óumdeilt að umræddur stigi hafi verið mjög háll á gólfinu. Annar stigi hafi ekki verið tiltækur í húsinu. Stiginn hafi ekki verið festur, hvorki við neðri né efri enda, og því hafi hann runnið til þegar stefnandi klifraði upp hann. Það hafi verið búið að stilla upp vinnuaðstöðunni þegar stefnandi fékk fyrirmæli um að vinna verkið með þessum hætti. Slysið megi því fyrst og fremst rekja til vanbúnaðar stigans sem stefndi, B hf., lagði til. Þannig hafi hann valdið slysi stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti og beri því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli sakarreglunnar. Þá mótmælir stefnandi því alfarið, sem fram hafi komið af hálfu stefnda, B hf., að slysið sé sök stefnanda þar sem þetta tiltekna verk eigi að vinna með öðrum hætti, þ.e. starfsmenn eigi að fara í lyftarakörfu (eða vinnukörfu) niðri við gólf og láta svo annan starfsmann lyfta sér með lyftara upp í þá hæð sem þurfi til að þrífa veggi hússins. Stefnandi telur að þetta verk hafi alltaf verið unnið með vinnupallinum í mjölhúsinu. Hafi stefnandi átt að nota vinnukörfu hefði annar maður þurft að vera með honum við þrifin, til að stjórna lyftaranum, lyfta honum og færa körfuna til þegar stefnandi væri búinn með það veggsvæði sem hann næði til úr körfunni. Þar sem karfan sé mun minni en vinnupallurinn sem notaður var hefði þurft að færa hann ansi oft. Verkið hefði því tekið mun lengri tíma en eins og áður sagði hafi verkið verið unnið undir tímapressu þetta tiltekna sinn samkvæmt fyrirmælum frá verkstjóra. Stefnandi bendir á að þeir hafi einungis verið tveir að vinna verkið, hann og D, og þar sem þeir unnu báðir við þrifin sem slík, hafi ekki verið unnt að nota lyftarakörfu við verkið. Stefndi, B hf., byggi á því að þeir hafi verið þrír á staðnum umrætt sinn en það sé ekki rétt. Þriðji maðurinn, E, hafi verið farinn af vinnustaðnum áður en slysið varð og nutu þeir D því ekki aðstoðar hans. Á þessu hafi stefnandi byggt allt frá upphafi, sbr. tilkynningu hans dagsetta 17. mars 2010. Stefndi, B hf., sá því ekki til þess að nægilega margir starfsmenn væru á vinnustaðnum til þess að unnt væri að vinna verkið með þeirri aðferð sem stefndi telur eftir á að rétt hefði verið að beita. Stefnandi telur raunar að þetta atriði skipti ekki máli varðandi ábyrgð stefnda þar sem búið hafi verið að stilla upp vinnuaðstöðunni í mjölhúsinu þegar hann kom að verkinu samkvæmt fyrirmælum verkstjórans og hann hafi ekkert haft um það að segja hvernig og með hvaða tækjum verkið væri unnið. Hann hafi aðeins farið eftir þeim fyrirmælum sem hann hafi fengið frá yfirmanni sínum. Stefnandi telur að stefndi beri skaðabótaábyrgð á slysi hans vegna alls þessa á grundvelli sakarreglunnar líkt og áður sagði. Stefnandi telur einnig að verkstjórn hafi verið áfátt. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980 beri verkstjóra m.a. að sjá um að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á vinnustaðnum sem hann hafi umsjón með. Þá skuli verkstjóri samkvæmt 23. gr. sömu laga beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs sem hann stjórnar séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti, sé framfylgt. Hann skuli einnig, verði hann var við einhver þau atriði sem leitt gætu til hættu á slysum eða sjúkdómum, tryggja að hættunni sé afstýrt. Stefnandi telur ljóst, með hliðsjón af atvikalýsingu, að verkstjóri hafi ekki fylgt tilvitnuðum ákvæðum laganna umrætt sinn. Hann hafi mátt gera sér grein fyrir því að stiginn væri vanbúinn og að hættulegt væri að nota hann í þessari hæð án þess að festa hann, þar sem stiginn hafi verið á svona hálum endum. Einnig hafi verið ljóst, að til þess að unnt væri að vinna verkið, án þess að nota stigann með þessum hætti, hefði einn starfsmaður í viðbót þurft að vera á staðnum, sem og önnur tæki. Stefndi, B hf., beri enn fremur ábyrgð á tjóni stefnanda vegna þessa á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð. Stefnandi bendir á að ekki sé hægt að kenna óaðgæslu af hans hálfu um slysið. Hann hafi ekki þekkt til annarra tiltækra leiða til vinna verkið undir þeim tímamörkum sem honum voru sett og hann hafi ekki getað annað en að nota þau áhöld sem honum hafi verið látin í té. Annar stigi hafi t.d. ekki verið tiltækur á staðnum. Þar að auki hafi umrætt verk ekki tilheyrt starfssviði hans og hafi hann því ekki verið vanur að vinna það. Enn fremur sé af hans hálfu vísað til 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæðinu er eingöngu heimilt að skerða bætur starfsmanns vegna líkamstjóns í vinnuslysi hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða ásetning. Stefnandi telur fullljóst, með vísan til ofangreindrar atvikalýsingar, að hann hafi ekki sýnt af sér slíkt gáleysi eða ásetning að heimilt sé að skerða bætur til hans samkvæmt ákvæðinu. Að lokum bendir stefnandi á að ljóst sé að stefndi, B hf., brást skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980 um að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Stefnandi leitaði strax til læknis eftir slysið og ljóst varð þá þegar að hann var óvinnufær sökum þess og yrði það í einhvern tíma í kjölfarið. Auk þess hafi slysið, eða fall úr þessari hæð, augljóslega verið til þess fallið að valda langvinnu eða varanlegu heilsutjóni. Þá sé ljóst að stefndi, B hf., vissi af slysinu strax eftir að það varð og bar að tilkynna slysið innan sólarhrings til Vinnueftirlitsins samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var slysið þó ekki tilkynnt til eftirlitsins fyrr en með tilkynningu, dagsettri 18. febrúar 2010, eða níu dögum eftir slysdag og þ.a.l. hafi Vinnueftirlitið ekki rannsakað orsakir þess. Slysið hafi heldur ekki verið rannsakað af lögreglu. Stefnandi telur vegna þessa að stefndi, B hf., beri hallann af skorti á sönnun um óljós atriði vegna slyssins, sbr. dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands um þetta efni. Ljóst sé að stefnanda og stefndi, B hf., greinir á um ýmislegt varðandi tildrög slyssins, t.d. hvaða áhöld voru notuð til verksins, en rannsókn Vinnueftirlitsins, strax á slysdegi, hefði getað upplýst um það. Þá vísar stefnandi til þess að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., virðist fyrst og fremst byggja afstöðu sína á upplýsingum um tildrög slyssins frá fyrirsvarsmönnum stefnda, B hf. Stefnandi bendir á að slíkar upplýsingar komi ekki í staðinn fyrir hlutlæg gögn líkt og rannsóknarskýrslu Vinnueftirlits ríkisins. Þá sé ekki hægt að bæta úr vanrækslu á tilkynningarskyldu samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 með slíkum upplýsingum. Með hliðsjón af öllu ofansögðu telur stefnandi að stefndu beri fulla og óskipta skaðabótaábyrgð á tjóni hans af völdum slyssins. Það megi fyrst og fremst rekja til þess að stefndi, B hf., hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980, sérstaklega með hliðsjón af reglugerð nr. 431/1997 um notkun tækja. Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðum fyrirliggjandi matsgerðar. Stefnandi telur allar forsendur til að leggja matsgerðina til grundvallar enda byggði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., á henni við uppgjör úr slysatryggingu launþega. Til frádráttar tímabundnu tekjutapi komi 60% eða 931.235 krónur af greiðslum frá lífeyrissjóðum sem voru í heildina samtals 1.552.059 krónur (2.058.590 – 931.235 = 1.127.355 krónur). Til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku komi 40% reiknaðs eingreiðsluverðmætis greiðslna frá lífeyrissjóði eða 1.072.249 krónur (19.948.869 – 1.072.249 = 18.876.620 krónur). Krafa stefnanda sundurliðast á eftirfarandi hátt að teknu tilliti til frádráttar vegna greiðslna frá lífeyrissjóði: Auk skaðabóta krefst stefnandi vaxta og dráttarvaxta til greiðsludags og málskostnaðar líkt og í dómkröfu greinir. 1) Kröfu sína um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns reisir stefnandi á 2. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð F bæklunarlæknis og G hæstaréttarlögmanns, dagsettri 12. ágúst 2011, telja matsmenn að stefnandi hafi verið óvinnufær frá slysdegi, 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011. Meðallaunatekjur stefnanda, síðustu þrjá mánuði fyrir slysið, þ.e. frá nóvember 2009 til janúar 2010, voru samkvæmt staðgreiðsluyfirlitum hans samtals 431.813 krónur ((544.608 + 315.791 + 435.040)/3). Tekjur hans á tímabili óvinnufærni, sem varði í samtals 12,1 mánuð, hafi því átt að vera samtals 5.224.937 krónur (12,1 x 431.813). Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti hafi tekjur stefnanda á tímabili óvinnufærni þó verið aðeins samtals 2.302.062 krónur og frádráttarbærar bætur samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1993, þ.e. frá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., vegna slysatryggingar (342.064 kr.), Sjúkratryggingum Íslands (300.672 kr.) og sjúkrasjóði stéttarfélags (221.549 kr.), numið 864.285 krónur. Samtals geri það 3.166.347 krónur. Af hálfu stefnanda sé gerð krafa um mismuninn þar á, þ.e. samtals 2.058.590 krónur (5.224.937 – 3.166.347). 2) Stefnandi byggir kröfu sína um þjáningabætur á 3. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð, telja matsmenn að tímabil þjáninga samkvæmt 3. gr. sé það sama og tímabil óvinnufærni, þ.e. frá 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011, en þar af hafi stefnandi verið rúmfastur í einn dag. Stefnandi hafi því verið veikur án þess að vera rúmfastur í 407 daga. Þjáningabætur nemi 1.650 krónum á dag, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1993, að viðbættri hækkun samkvæmt lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. laganna, fyrir hvern dag er stefnandi var veikur án þess að vera rúmfastur en 3.060 krónur þegar hann var rúmfastur. Með vísan til framangreinds krefjist hann þjáningabóta að fjárhæð 674.610 krónur ((407 x 1.650) + 3.060). 3) Varðandi kröfu um bætur vegna varanlegs miska vísar stefnandi til 4. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð telja matsmenn að varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins samkvæmt 4. gr. sé 20 stig. Með vísan til 2. mgr. 4. gr. laganna og aldurs stefnanda á slysdegi krefst stefnandi því bóta samtals að fjárhæð 1.591.500 krónur (7.957.500 x 20%) vegna varanlegs miska. 4) Kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku reisir stefnandi á 5.-7. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð sé varanleg örorka stefnanda vegna slyssins 100%. Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degi er heilsufar hans í kjölfar slyssins telst vera stöðugt, er margfeldisstuðull hans samkvæmt 6. gr. laga nr. 50/1993 2,781. Varðandi tekjuviðmið, þá vísar stefnandi til launatekna hans síðustu þrjú ár fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. Samkvæmt skattframtölum voru launatekjur hans árið 2007 samtals 5.369.968 krónur, árið 2008 samtals 6.749.950 krónur og árið 2009 samtals 5.499.056 krónur. Meðaltekjur hans, leiðréttar samkvæmt launavísitölu, sbr. 1. mgr. 7. gr., auk 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, verða þannig samtals 7.173.272 krónur. Geri stefnandi því kröfu um að bætur fyrir varanlega örorku nemi samtals 19.948.869 krónum (7.173.272 x 2,781 x 100%) að frádregnum bótum fyrir varanlega örorku úr slysatryggingu launþega, samtals 3.065.010 krónur sem stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiddi 5. september 2011, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Varðandi vaxtakröfu sína vísar stefnandi til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1993. Gerir hann kröfu um að bætur vegna tímabundins tekjutaps, þjáningabætur og bætur vegna varanlegs miska beri vexti frá tjónsdegi samkvæmt ákvæðinu en krafa vegna varanlegrar örorku frá upphafsdegi metinnar örorku. Varðandi kröfu um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og krefst þess að upphafstími dráttarvaxta miðist við þann dag er stefna var þingfest, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001. Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð, lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 21., 23., 37., 42., 46. og 79. gr. Þá byggir hann á reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, sérstaklega 5. gr. og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 2.-7. gr., 15.-16. gr. og 23. gr. a. Um aðild vísar stefnandi til III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um varnarþing vísar hann til 33. gr. og 42. gr. laga nr. 91/1991 og um málskostnað til 129. og 130. gr. sömu laga, varðandi vaxtakröfu af skaðabótum til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1993, um dráttarvexti til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. sömu laga, og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988. Málsástæður og lagarök stefndu Stefndu byggja á því að um mál þetta fari eftir sakarreglunni og byggja sýknukröfu sína á því að ekki sé sannað, að stefndi, B hf., eða starfsmenn hans, eigi nokkra sök á slysi stefnanda eða hafi valdið því með saknæmum og ólögmætum hætti. Stefndu telja að ekkert bendi til þess, að lyftarinn, vinnupallurinn eða stiginn, hafi verið vanbúinn og ekki uppfyllt öryggiskröfur laga og reglugerða um þess konar tæki og notkun þeirra. Ekki hafi verið bent á nein sértæk ákvæði, sem þessi tæki eða einstakir tækjahlutar hafi ekki uppfyllt og þá að hvaða leyti og hvernig það hafi valdið slysinu. Séu þau lög, reglugerðir og einstök ákvæði þeirra, sem stefnandi vísar til, almenns eðlis og ekkert sem sýni að framangreind tæki og búnaður þeirra hafi ekki verið í samræmi við þau. Eigi það jafnt við um stigann og hin tækin. Um hafi verið að ræða lausan málmstiga, og sé ekki bannað að hafa plasthettur neðan á kjálkum hans. Sé röng sú fullyrðing af hálfu stefnanda að stiginn hafi verið vanbúinn. Annað mál er að mjög óvarlegt sé að nota stiga sem þennan á sléttu og óstömu gólfi, eins og stefnandi gerði, án þess að fyrirbyggja áður að stiginn gæti runnið til að neðan, t.d. með skorðum eða stömu undirlagi. Sé slysið að rekja til þess gáleysis stefnanda en ekki til þess að stiginn hafi verið vanbúinn, sem sé alls ósannað. Slysið hefði ekki orðið, ef stefnandi hefði séð til þess að stiginn gæti ekki runnið til að neðan áður en stefnandi fór upp í hann. Við hverjum manni hafi blasað nauðsyn þess að tryggja að stiginn gæti ekki runnið til á gólfinu áður en farið væri upp í hann. Þá telja stefndu að ekkert slys hefði orðið, ef stefnandi hefði fylgt öruggu og hefðbundnu verklagi, sem fólst í því að fara upp í verkpallinn á göfflum lyftarans niður við gólf og láta annan starfsmann lyfta sér upp í hæfilega hæð til að þrífa, í stað þess að nota stigann. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu, tveir eða þrír starfsmenn hafi verið að vinna við þrifin á hverjum tíma. Stefnanda hafi verið vandalaust að kalla til mann til að lyfta sér upp með lyftaranum í stað þess að nota stiga. Ekkert styðji að það hafi verið ókleift eða að tímaþröng til þrifanna hafi hindrað það. Hafi stefnandi með atferli sínu sýnt af sér stórfellt gáleysi. Stefndu vísa til þess að verkstjórinn hafi látið þá félaga fá lyftara til verksins en ekki stigann og ekki gefið fyrirmæli í þá átt að lyfta fyrst verkpallinum upp með lyftaranum og reisa síðan stiga til að komast upp í verkpallinn. Það hafi stefnandi tekið upp hjá sjálfum sér. Rangt sé og ósannað að búið hafi verið að lyfta upp verkpallinum og reisa upp stigann þegar stefnandi kom að verkinu. Einnig sé rangt og ósannað að það hafi verið venjulegt verklag að lyfta upp pallinum með lyftaranum og reisa síðan stiga við pallinn til að komast upp í hann. Þá sé yfirlýsingu D þessa efnis frá 25. nóvember 2011 sérstaklega mótmælt. Slíkt verklag sé næsta einkennilegt svo ekki sé meira sagt, en varla hafi verið unnt að lyfta pallinum í rétta hæð án þess að maður væri á pallinum og segði lyftaramanninum til. Ef pallinum væri fyrst lyft upp mannlausum þyrfti sá, sem vinna ætti á pallinum og notaði stiga til að komast upp á pallinn, síðan að kalla til lyftaramann eftir að upp var komið til að láta stilla pallinn í rétta hæð. Sé því engin furða að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi talið verklag stefnanda vera „óvenjulegt“. Sé fráleitt að þetta hafi verið tíðkanleg vinnubrögð við þrif á mjölhúsinu svo sem stefnandi heldur fram. Stefndu telja að slysið sé því ekki að rekja til þess að öryggisbúnaði lyftarans, vinnupallsins og stigans hafi verið áfátt, að gefin hafi verið fyrirmæli um varasöm vinnubrögð, eða að stefnandi hafi bara fylgt tíðkanlegum vinnubrögðum og að skort hafi á verkstjórn. Slysið sé alfarið að rekja til gálausra gjörða stefnanda sjálfs. Verkið hafi verið sára einfalt og hættulaust ef staðið væri rétt að verki og útheimti það ekki sérstaka verkstjórn. Mátti hverjum manni, og ekki síst stefnanda, vera ljós hættan af því að nota lausan stiga á sléttu og óstömu gólfi án þess að tryggja fyrst, að stiginn gæti ekki runnið til að neðan á gólfinu. Að sama skapi mátti stefnandi, í ljósi aldurs, menntunar og reynslu, vita að öruggt og sjálfsagt verklag væri að fara upp í verkpallinn niður við gólf og láta svo lyfta sér upp með lyftaranum í stað þess að nota lausan stiga til að fara upp í verkpallinn eftir að pallinum hafði fyrst verið lyft upp mannlausum. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Loks telja stefndu að þeir eigi ekki að bera hallann af því að slysið hafi ekki verið tilkynnt í samræmi við 79. gr. laga nr. 46/1980. Samkvæmt ákvæðinu skuli atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna til vinnueftirlitsins slys, ef starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga auk slysdags. Slys þar sem líkur eru á, að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni ber að tilkynna innan sólahrings. Verði ekki séð af fyrirliggjandi gögnum, að stefndi, B hf., eða starfsmenn hans hafi mátt sjá strax við slysið eða innan sólarhrings frá því það gerðist, að stefnandi hafi orðið fyrir langvinnu og varanlegu heilsutjóni. Eigi stefndu því ekki að bera hallann af skorti á sönnun um óljós atriði í tengslum við slysið fyrir það eitt, að slysið hafi ekki verið tilkynnt strax og því hafi vinnueftirlitið ekki rannsakað það. Í annan stað sé á það að líta, að ekki sé ágreiningur um það, hvernig sjálft slysið gerðist. Þá hefði vinnueftirlitið ekki getað upplýst frekar en fyrir liggur eða skorið úr ágreiningi málsaðila um það, hvaða verklag hafi tíðkast við þrifin og hvernig vinna ætti verkið, þó vinnueftirlitið hefði mætt á slysstað og rannsakað slysið. Hvílir því sönnunarbyrðin á stefnanda um meinta sök stefnda, B hf., og orsakatengsl og ekki eru efni til að létta af honum sönnunarbyrðinni. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu er gerð sú varakrafa að skipta beri sök í málinu og lækka jafnframt stefnukröfur, en þeim sé mótmælt sem of háum. Er krafan byggð á því, að stefnandi hafi valdið slysinu af stórfelldu gáleysi með því að viðhafa ekki öruggt og hefðbundið verklag við að fara upp í verkpallinn og nota í stað þess lausan stiga til að fara upp á pallinn án þess að tryggja fyrst að stiginn gæti ekki runnið til á gófinu. Mátti stefnandi í ljósi starfsreynslu sinnar og starfsmenntunar vita betur og hafi ekkert sér til afsökunar. Verði stefnandi því að bera hluta af tjóni sínu sjálfur. Stefndu gera ekki tölulegar athugasemdir við bótakröfu en mótmæla kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi og í öllu falli frá fyrri tíma en 15. júní 2012, er mánuður var liðinn frá þingfestingardegi, en stefnandi fékk ekki tölulega og sundurliðaða kröfugerð stefnanda í hendur fyrr en með stefnu í málinu. Niðurstaða Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda, B hf., á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Við upphaf aðalmeðferðar málsins breytti stefnandi dómkröfu sinni, til lækkunnar frá því sem er í stefnu, í samræmi við athugasemdir sem fram komu í greinargerð stefndu. Ekki er nú ágreiningur milli aðila um fjárhæð bótakröfunnar eða einstaka liði hennar. Þá er ekki ágreiningur milli aðila um að tjón stefnanda sé afleiðing slyssins og að slysið hafi orðið þegar að stefnandi klifraði upp rafmagnsgrind sem hann hafi notað sem stiga. Á þeim enda grindarinnar sem hann hafi látið hvíla á gólfinu hafi verið plasthettur og er óumdeilt að þær hafi verið hálar og gólfið óstamt og að slysið hafi orðið þegar grindin rann til. Stefnandi telur að stefndu verði að bera hallann af því að slysið var ekki tilkynnt til vinnueftirlitsins eins og boðið er í 79. gr. laga nr. 46/1980. Strax eftir slysið kom í ljós að stefnandi var brotinn á vinstra úlnlið og var þá þegar ljóst að slysið bæri að tilkynna til vinnueftirlitsins án ástæðulausrar tafar. Slysið var fyrst tilkynnt 18. febrúar 2010 þegar 9 dagar voru liðnir frá því það varð. Engin rannsókn fór fram á slysinu. Verða stefndu því að bera hallann af skorti á sönnun í málinu um þau atriði sem geta haft áhrif á sakarmat og eru talin óljós. Samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laga nr. 46/1980 rannsakar vinnueftirlitið vettvang. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á að dráttur á að tilkynna um slysið, og sú staðreynd að slysið var ekki rannsakað, hafi leitt til vafa um tildrög þess þar sem helsta ágreiningsatriði aðila varðar aðdraganda þess að stefnandi notaði búnaðinn á þann hátt sem hann gerði og getur niðurstaða um það helst ráðist af framburðum stefnanda og starfsmanna stefnda, B hf., en ekki aðstæðum á vettvangi. Stefndu byggja á því að stefnanda og D, sem einnig vann við þrif í mjölhúsinu þegar slysið varð, hafi verið fenginn lyftarinn til að vinna verkið en ekki stiginn. Sú málsástæða stefnanda að hann hafi komið að búnaðinum þannig uppsettum að búið hafi verið að lyfta pallinum upp og reisa stiga við pallinn fær hins vegar stuðning í framburði D við aðalmeðferð málsins. Þá bar D einnig um það í skýrslu sinni að hann hafi ekki fengið fyrirmæli um að vinna með stefnanda og að verkið hafi alltaf verið unnið á þann hátt sem stefnandi gerði þegar einn maður var að vinna það utan þess að E hafi venjulega bundið stigann við handrið pallsins áður en pallinum var lyft upp. D er enn starfsmaður stefnda, B hf. Með hliðsjón af framburði hans byggir dómurinn á því búnaðurinn hafi þegar verið uppsettur þegar stefnandi kom að verkinu og að einungis stefnandi hafi fengi fyrirmæli um að vinna þetta tiltekna verk. Ekki er fallist á það með stefnanda að tímaþröng hafi hindrað hann í að kalla eftir aðstoð við að láta lyfta sér upp með lyftaranum. Jafnvel þó að C, verkstjóri hjá stefnda, B hf., hafi í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins tekið undir það að tilefni þrifanna væri heimsókn eftirlitsmanna þá liggur ekkert fyrir um það að sá tími sem stefnandi hafði til að vinna verkið hafi verið svo tæpur að máli hefðu skipt þær mínútur sem farið hefðu í það að kalla eftir aðstoð og þá jafnvel þó að ítrekað hefði þurft að kalla eftir aðstoð. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 skal vinnuveitandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis á vinnustað og samkvæmt 21. gr. laganna er verkstjóri fulltrúi vinnuveitanda. Í 23. gr. laganna segir að verkstjóri skuli beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs sem hann starfar á séu fullnægjandi og að þeim ráðstöfunum sé fylgt sem gerðar eru til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti. Stefnandi byggir á því að hann hafi ekki fengið nein fyrirmæli um það hvernig hann ætti að vinna verkið. Ekki kemur fram í málatilbúnaði stefndu að stefnanda hafi verið sagt hvernig hann ætti að vinna verkið. C sagði í framburði sínum við aðalmeðferð málsins að hann kannaðist ekki við að hafa sagt að vinna ætti verkið á þann hátt sem stefnandi gerði. Venjulega ynnu tveir menn þetta verk og ekki hafi verið ætlast til þess að rafmagnsgrindurnar væru notaðar sem tröppur en sé það gert þá ætti plastið ekki að snúa niður en betri festa fengist ef hinn endinn sneri niður. Sé búnaðurinn notaður á þann hátt sem stefnandi gerði þyrfti einhver að halda stiganum áður en hann er bundinn eða binda stigann fyrst við handriðið og hífa þannig upp. Í skýrslu D kom fram að hann hefði fengið fyrirmæli um það hvað hann ætti að gera og þau hafi, eins og áður hefur verið rakið, ekki falið í sér fyrirmæli um að aðstoða stefnanda. Ekkert liggur fyrir um það hvaða verkefni ætlunin var að E sinnti þennan dag en bæði stefnandi og D hafa borið um það að hann hafi ekki verið á staðnum þegar slysið varð. Í skýrslu C kom einnig fram að sjaldan væri þrifið á þann hátt sem gert var þennan dag. Stefnandi lýsti því í skýrslu sinni að hann hefði ekki áður þrifið veggi mjölhússins utan seilingarfjarlægðar standi hann á gólfi. Í skýrslu D kom fram að hann hefði séð stefnanda vinna þetta verk áður með sama verklagi og einnig að hann hefði sjálfur unnið verkið á sama hátt og stefnandi og þá einnig snúið stiganum þannig að plasthetturnar sneru niður og bundið stigann þegar hann var kominn upp. Af hálfu stefndu hefur ekki verið á því byggt að stefnandi hafi fengið beinar leiðbeiningar um það hvernig staðið skyldi að verkinu. Með hliðsjón af framangreindu, og þá sérstaklega framburðum C og D, verður að telja að skort hafi á leiðbeiningar til stefnanda um það hvernig vinna bæri verkið á öruggan hátt. Samkvæmt 37. og 42. gr. laga nr. 46/1980 skal vinnustaður vera þannig úr garði gerður og vinnu hagað og hún framkvæmd þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skal viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Í gr. 4.2.1 í viðauka II við reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja kemur fram að stigar skuli vera þannig upp settir að öruggt sé að þeir séu stöðugir við notkun og að færanlegir stigar verða að hvíla á stöðugu og traustu undirlagi. Þá segir í gr. 4.2.2 að til að koma í veg fyrir að færanlegir stigar renni til við notkun skuli festa efri eða neðri enda hans, með búnaði sem hindrar að hann renni til eða með einhverjum öðrum hætti sem hefur sömu áhrif. Óumdeilt er að stigi sá sem stefnandi notaði til verksins er ekki hannaður til þessara nota heldur hafi verið um rafmagnsstiga eða rafmagnsgrind að ræða. Einnig er óumdeilt að engar ráðstafanir voru gerðar við neðri hluta stigans til að hindra að hann rynni. Af fyrirliggjandi myndum af stiganum má ráða að þeir bera ekki með sér hvernig hann eigi að snúa utan þess sem ráða má af því að á öðrum enda hans voru plasthettur. Allir þeir aðilar sem gáfu skýrslu fyrir dóminum báru um að þessar grindur hefðu verið notaðar sem stigar hjá fyrirtækinu en misvísandi var hvort aðrir stigar hefðu verið í boði. Þá báru allir um að hætta væri á því að grindurnar rynnu til þegar þær voru notaðar þannig að plasthetturnar væru látnar snúa niður. Bæði í skýrslu D og C kom fram að grindurnar væru ekki lengur notaðar sem stigar. Eftir framangreindu er það niðurstaða dómsins að verkstjórn hafi verið ábótavant í umrætt sinn að því leyti að stefnandi fékk ekki fyrirmæli um það hvernig vinna bæri verkið en víst er að slysið hefði ekki orðið ef stefnanda hefði verið lyft upp með lyftaranum. Þá var stiganum eða rafmagnsgrindinni einnig ábótavant þar sem hún er ekki hönnuð til þessara nota og bæði stefnandi og D töldu að væri hún notuð sem stigi bæri að snúa endanum með plasthettunum niður. Fyrirsvarsmenn stefnda, B hf., vissu að starfsmenn notuðu grindina sem stiga og hefðu getað hindrað það á einfaldan hátt. Þá liggur fyrir að eftir slysið var grindunum skipt út fyrir hefðbundna stiga. Ekki liggja fyrir nein gögn um það hvort slysinu hefði verið varnað hefði stefnandi notað stiga í stað grindarinnar í umrætt sinn. Engu að síður lítur dómurinn til þess að verkstjóri lét viðgangast að verkið væri almennt unnið á þann hátt sem stefnandi gerði og að rafmagnsgrindur væru þá notaðar sem stigar en stefnandi byggir sérstaklega á því að hann hafi notað þessa aðferð þar sem hann hafi séð aðra nota hana áður og er það í samræmi við framburð D. Ber stefndi, B hf., því bótaábyrgð vegna tjóns stefnanda með vísan til almennu sakarreglunnar og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Óumdeilt er að þegar slysið varð var stefndi, B hf., með ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., og ber félagið því bótaábyrgð vegna slyssins óskipt með stefnda, B hf. Í skýrslu stefnanda við aðalmeðferð málsins kom fram að hann hafi athugað, bæði áður en hann fór upp grindina og þegar hann var byrjaður að fara upp hana, hvort hún væri stöðug og taldi hann svo vera. Þá kom fram í framburði hans að band hafi verið efst á grindinni, eins og hann sneri henni, og að ætlun hans hafi verið sú að nota það til að binda stigann fastan við handrið pallsins. Stefndu hafa sérstaklega mótmælt þessu sem ósönnuðu og verður ekki á þessu byggt af hálfu dómsins. Stefnanda var ljóst að ekki var um hefðbundinn stiga að ræða. Einnig er til þess að líta að stefnandi var tæplega 65 ára gamall þegar slysið varð og var þá reyndur starfsmaður hjá fyrirtækinu þrátt fyrir að hafa ekki unnið að staðaldri við það starf sem hann slasaðist við. Honum mátti því vera ljóst að þann búnað sem var á staðnum var hægt að nota á margan misöruggan hátt. Þá verður einnig að telja að þrátt fyrir að honum hafi ekki verið gefin skýr fyrirmæli um að fá aðstoð frá öðrum starfsmanni og hann hafi ekki verið í stöðu til þess að gefa öðrum starfsmönnum fyrirmæli um verk þá mátti hann í ljósi reynslu sinni vita að sú leið var honum fær og til þess fallin að tryggja öryggi hans betur við framkvæmd starfsins. Verður að telja að stefnandi hafi við þessar aðstæður sýnt af sér gáleysi sem með hliðsjón af aðstæðum öllum og því sem rakið hefur verið verður að teljast vera stórkostlegt, sbr. 23. gr. a laga nr. 50/1993. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefndu bæti stefnanda tjónið að 2/3 hluta en hann beri sjálfur tjón sitt að 1/3 hluta. Með hliðsjón af framangreindu er krafa stefnanda tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði. Dráttarvextir eru ákvarðaðir frá þingfestingadegi 15. maí 2012 en stefndu var fyrst birt fjárhæð kröfunnar með birtingu stefnu. Innanríkisráðherra veitti stefnanda gjafsókn með bréfi 23. mars 2012 og greiðist allur gjafsóknarkostnaður stefnanda úr ríkissjóði, þar með talinn útlagður kostnaður að fjárhæð 410.769 krónur, og þóknun lögmanns hans, Kristjáns Thorlacius hdl., sem telst hæfilega ákveðinn 700.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Eftir framangreindri niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991, ber stefndu að greiða stefnanda óskipt málskostnað, 1.110.769 krónur er renni til ríkissjóðs. Vegna anna dómara hefur uppkvaðning dómsins dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari töldu að ekki væri þörf á því að málið yrði flutt á nýju. Af hálfu stefnanda flutti málið Kristján Thorlacius hdl. og af hálfu stefndu flutti málið Þórólfur Jónsson hdl. Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn. D Ó M S O R Ð Stefndu, B hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, óskipt skaðabætur að fjárhæð 14.854.144 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 2.263.439 krónum frá 9. febrúar 2010 til 24. mars 2011, af 14.854.144 krónum frá þeim degi til 15. maí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 5. september 2011 að fjárhæð 3.065.010 krónur. Stefndu greiði stefnanda óskipt 1.110.769 krónur í málskostnað er renni til ríkissjóðs. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn útlagður kostnaður, 410.769 krónur, og þóknun lögmanns hans, Kristjáns Thorlacius héraðsdómslögmanns, 700.000 krónur. |
Mál nr. 379/1999 | Félagsdómur Frávísunarkröfu hafnað | Launanefnd sveitarfélaga höfðaði mál fyrir Félagsdómi gegn FL og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að uppsagnir tólf leikskólakennara, félagsmanna í FL, úr störfum hjá sveitarfélaginu Á yrðu dæmdar brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamnings og því ólögmæt vinnustöðvun. Krafðist FL frávísunar málsins. Talið var að málið ætti undir Félagsdóm og var staðfestur úrskurður dómsins þar sem frávísun var hafnað. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 1999 samkvæmt heimild í 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Krefst hann þess að málinu verði vísað frá Félagsdómi og varnaraðili dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Félagsdómi og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar á úrskurði Félagsdóms og kærumálskostnaðar. Málsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði. Milli aðila máls þessa er í gildi kjarasamningur frá september 1997, sem falla á úr gildi 31. desember 2000. Kom sóknaraðili fram fyrir hönd félagsmanna sinna við samningsgerðina samkvæmt 4. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Er það krafa varnaraðila í málinu að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að uppsagnir tólf leikskólakennara, sem eru félagsmenn sóknaraðila, úr störfum hjá Árborg verði dæmdar brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamningsins og því ólögmæt vinnustöðvun. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 á Félagsdómur að dæma um lögmæti boðaðra eða þegar hafinna vinnustöðvana. Málsókn sína gegn sóknaraðila byggir varnaraðili og á 4. mgr. 27. gr. laganna, þar sem segir að stéttarfélög reki mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi. Við efnisúrlausn máls þessa yrði úr því skorið hvort uppsagnir fyrrgreindra félagsmanna sóknaraðila feli í sér ólögmæta vinnustöðvun og þá jafnframt tekin afstaða til ábyrgðar og aðildar sóknaraðila, en hann krefst til vara sýknu vegna aðildarskorts. Að þessu athuguðu og með vísan til ofangreindra lagaákvæða þykir mál þetta heyra undir Félagsdóm. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður á að vera óraskaður. Kærumálskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 17/2011 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. janúar 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. febrúar 2011, klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til var að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 24/2016 | Kærumál Einkarefsimál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur | Kærumál. Einkarefsimál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hennar á hendur M var vísað frá dómi. Fyrir Hæstarétti krafðist K þess að einkarefsikröfur hennar á hendur M yrðu teknar til efnismeðferðar en þær voru hafðar uppi á þeim grunni að M hefði án vitundar og í óleyfi hennar gert upptöku á mynd með hljóði af kynlífsathöfnum þeirra og birt á internetinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að sú aðstaða að K hefði höfðað einkarefsimál á hendur M samhliða því að bera upp við lögreglu kæru vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi hans, sem gæti orðið efni til saksóknar af hálfu ákæruvaldsins, stangaðist ekki á við bann 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, við endurtekinni saksókn eða refsingu þannig að varðað gæti frávísun á einkarefsikröfum K. Á hinn bóginn hafði K hvorki lagt fram eintak af þeirri upptöku, sem hún kvað varnaraðila hafa gert, né gögn um hvað kynni að hafa komið fram á henni, en í greinargerð í héraði hefði M haldið því fram að sakir sem K hefði borið á sig væru með öllu tilhæfulausar. Án sönnungargagna um þetta meginatriði málsins var ófært að fella efnisdóm á það og var hinn kærði úrskurður því staðfestur um frávísun refsikrafnanna. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og GuðrúnErlendsdóttir settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttarmeð kæru 4. janúar 2016, en kærumálsgögn bárustréttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður HéraðsdómsReykjavíkur 21. desember 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilavar vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fellt verði úr gildi ákvæðihins kærða úrskurðar um frávísun málsins að því er varðar kröfur hennar umrefsingu á hendur varnaraðila og aðallega lagt fyrir héraðsdóm að taka þær tilefnismeðferðar en til vara „að fresta málinu að því leyti með vísan til 3. mgr.102. gr. laga nr. 91/1991 ... þar til efnismeðferð í sakamáli hefst fyrir dómiellegar ... þar til fyrir liggur hvort kærði verði ákærður“. Þá krefst sóknaraðiliaðallega málskostnaðar í héraði, til vara að hann verði felldur niður en að þvífrágengnu að hann verði lækkaður. Í öllum tilvikum krefst hún kærumálskostnaðar.Varnaraðilikrefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.Eins og greinirí hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta 24. júní 2015 og krafðistþess að varnaraðili yrði dæmdur til refsingar, svo og að honum yrði gert aðsæta upptöku tiltekinna muna og ávinnings og greiða tilgreindar fjárhæðir ískaðabætur, auk þess sem viðurkennd yrði skaðabótaskylda hans vegna varanlegrarörorku og varanlegs miska sóknaraðila. Í héraðsdómsstefnu var því lýst aðkröfur þessar væru hafðar uppi á þeim grunni að varnaraðili hafi aðfaranótt 1.janúar 2013 án vitundar sóknaraðila og í óleyfi hennar gert upptöku á mynd meðhljóði „af kynlífsathöfnum“ þeirra. Þessa upptöku, sem hafi verið 59 sekúndurað lengd, hafi varnaraðili birt „opinberlega á netinu“ 13. sama mánaðar, en umþað hafi sóknaraðila á hinn bóginn ekki orðið kunnugt fyrr en „um jólin 2014“. Hafisóknaraðili borið upp við lögreglu 15. júní 2015 kæru á hendur varnaraðilafyrir þetta athæfi. Ekki lægi fyrir hvort ákæruvaldið myndi höfða sakamál gegnvarnaraðila vegna þessa, en sökum sex mánaða frests, sem settur er í 1. mgr.29. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til að höfða einkarefsimál, værisóknaraðila nauðsynlegt að grípa þegar til málshöfðunar. Með hinum kærðaúrskurði var orðið við kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað í heild fráhéraðsdómi. Sóknaraðili unir við þá niðurstöðu um annað en kröfur sínar um aðvarnaraðila verði gert að sæta refsingu og greiða málskostnað.Sú aðstaða aðsóknaraðili hafi höfðað einkarefsimál á hendur varnaraðila samhliða því að beraupp við lögreglu kæru vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi hans, sem gæti orðiðefni til saksóknar af hálfu ákæruvaldsins, stangast ekki á við bann 1. mgr. 4.gr. 7. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr.62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, við endurtekinni saksókn eða refsinguþannig að varðað gæti frávísun þessa máls að því er varðar kröfur sóknaraðilaum að varnaraðila verði gert að sæta refsingu. Svo sem greinir í hinum kærðaúrskurði hefur sóknaraðili á hinn bóginn gert mál þetta þannig úr garði aðhvorki hefur hún lagt fram eintak af þeirri upptöku, sem hún kveður varnaraðilahafa gert, né gögn um hvað kunni að hafa komið fram á henni, en í greinargerðfyrir héraðsdómi hélt varnaraðili því fram að sakir, sem sóknaraðili hafi boriðá sig, væru „með öllu tilhæfulausar“. Án sönnunargagna um þetta meginatriðimálsins er ófært að fella efnisdóm á það og verður hinn kærði úrskurður þvístaðfestur að því leyti sem honum hefur verið skotið til Hæstaréttar.Sóknaraðilaverður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn kærðiúrskurður er staðfestur.Sóknaraðili, K,greiði varnaraðila, M, 350.000 krónur í kærumálskostnað.Úrskurður HéraðsdómsReykjavíkur 21. desember 2015. Málþetta, sem tekið var til úrskurðar þriðjudaginn 15. desember 2015, var höfðað24. júní 2015 af K, [...], [...], á hendur M, [...], [...]. Dómkröfurstefnanda eru eftirfarandi:A. Refsitengdarkröfur. Refsikröfur Þess erkrafist að stefndi verði dæmdur til refsingar. a. Aðallega er þess krafist að hann verði dæmdur tilfangelsisrefsingar allt að einu ári.b. Til vara er þess krafist að honum verði gert að sæta sektsem nemi allt að lögbundnu hámarki samkvæmt almennum hegningarlögum nr. 19/1940með síðari breytingum, eftir atvikum samhliða dæmdri fangelsisrefsingu, verðihún skilorðsbundin.2. Krafa um upptöku muna Samhliðarefsikröfum er gerð krafa um upptöku eigna samkvæmt 1. mgr. 69. gr. almennrahegningarlaga. a. Aðallega er þess krafist að gerður verði upptækur með dómiallur búnaður – vélbúnaður og hugbúnaður – í eigu eða vörslu stefnda semtengist brotum hans gegn stefnanda, hvort sem hlutir þessir „hafa veriðnotaðir, ætlaðir eru til notkunar eða hætta þykir á að verði notaðir viðframningu brots [...] hafa orðið til við brot [eða] með öðrum hætti tengjastframningu brots“. b. Til vara er krafist upptöku fjárhæðar sem svarar tilandvirðis framangreindra muna í heild eða að hluta, sbr. 2. mgr. 69. gr. aalmennra hegningarlaga.3. Krafa um upptöku ávinnings Samhliðaframangreindu er þess krafist samkvæmt 69. gr. almennra hegningarlaga aðupptækur verði gerður með dómi ávinningur stefnda af brotum eða fjárhæð semsvarar til hans í heild eða að hluta allt að 5.000.000 króna aðallega, en tilvara samkvæmt áætlun, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 69. gr. almennrahegningarlaga.B. Skaðabótakröfur . Miskabótakrafa Stefnandikrefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér bætur samkvæmt 26.gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, aðallega að fjárhæð 3.000.000 króna, en til varaað annarri og lægri fjárhæð að mati dómsins, í báðum tilvikum með vöxtumsamkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá og með 1. janúar2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga, aðallega frá og með2. maí 2015, en til vara frá og með 24. júní 2015.2. Krafa um bætur vegna fjártjóns Stefnandikrefst skaðabóta úr hendi stefnda vegna fjártjóns, aðallega að fjárhæð11.097.000 krónur, en til vara 6.097.000 krónur, og til þrautavara lægribótafjárhæðar að álitum, í öllum tilvikum ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum umvexti og verðtryggingu, aðallega frá og með 2. maí 2015, en til vara frá og með24. júní 2015.3. Viðurkenning á bótaábyrgð vegna varanlegrar örorku ogvaranlegs miska. Stefnandikrefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri bótaábyrgð vegnavaranlegrar örorku og varanlegs miska sem hún hafi hlotið sökum brota hans. Þá krefststefnandi málskostnaðar í öllum tilvikum, auk virðisaukaskatts. Dómkröfurstefnda eru aðallega þær að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi að öllu leytieða hluta, til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda, en tilþrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá er krafistmálskostnaðar úr hendi stefnanda og lögmanns hennar sameiginlega. Í þessumþætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfu verði hafnað og máliðtekið til efnismeðferðar.IAtvik málsins eru umdeild. Í stefnu er þvílýst að málið varði mynd- og hljóðupptöku af kynlífsathöfnum aðila sem stefndihafi gert í óleyfi og án vitundar stefnanda aðfaranótt 1. janúar 2013 og birt áinternetinu. Myndbandsupptaka sem lýst er í stefnu liggur ekki fyrir í málinu.Stefnandi kveðst hafa fengið vitneskju um upptökuna eftir að hafa fengið sendantengil á hana frá fyrrverandi kærasta sínum um jól 2014. Í kjölfarið hafi húnleitað til lögmanns síns vegna málsins. Að ráði lögmannsins hafi stefnandi áttfund með stefnda 15. maí sl. þar sem honum hefði verið kynnt hugsanlegsáttaleið í málinu, en þær umleitanir hafi ekki borið árangur. Þann 15. júní2015 kærði stefnandi stefnda til lögreglu vegna meints brots hans, en rannsóknmálsins er ólokið. Við munnlegan málflutning kom fram að stefndi hafi nú veriðboðaður til skýrslutöku hjá lögreglu vegna framangreindrar kæru stefnanda áhendur honum. Stefndi kveður þær sakir sem á hann eru bornar í málinu vera meðöllu tilhæfulausar.II Stefndireisir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagiá því að sakarefni málsins eigi ekki undir dóminn. Í stefnu komi fram aðstefnandi telji stefnda hafa brotið gegn henni með þeim hætti að varði viðákvæði 229. gr. og 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo að hún eigisjálf sókn sakar, en jafnframt þannig að varði við 209. gr. sömu laga og fleirirefsiákvæða. Meint brot stefnda hafi verið kærð til lögreglu, en í því felistkrafa um að lögregla rannsaki mál og að kærði verði sóttur til saka. Vísað ertil ákvæða laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 þar sem fram komi að rannsóknsakamála sé í höndum lögreglu og að ákærendur taki ákvörðun um saksókn, sbr.24. gr. og 52. gr. laganna. Mál sem handhafi ákæruvalds höfði til refsingarlögum samkvæmt skuli sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála, sbr. 1.og 2. gr. þeirra laga. Stefndi bendir á að lög um meðferð einkamálataki til dómsmála sem hvorki sæta sérstakri meðferð eftir fyrirmælum annarralaga né heyri undir sérdómstóla lögum samkvæmt, sbr. 1. gr. laga nr. 91/1991.Sérstaklega hafi verið tekið fram í greinargerð með frumvarpi að lögunum aðsakamál falli utan marka þeirra. Samkvæmt 24. gr. laganna beri dómara að vísamáli frá dómi eigi sakarefni ekki undir dómstóla. Stefnda sé borið á brýn brotgegn ýmsum ákvæðum hegningarlaga, sem sum séu sögð á forræði stefnanda sjálfsað sækja en ákæruvaldið eigi sókn sakar vegna annarra. Stefndi byggir annarsvegar á því að sakarefni málsins, eins og því er lýst í stefnu, eigi undir 209.gr. almennra hegningarlaga og sé rannsókn og ákvörðun um saksókn því á forræðilögreglu og ákæruvalds. Hins vegar er á því byggt að sama brot, þótt talið sévarða við mismunandi refsilagaákvæði, geti ekki sætt tvöfaldri málsmeðferð,annars vegar í einkarefsimáli og hins vegar í sakamáli. Slíkt myndi jafnframthorfa til stórkostlegra réttarspjalla fyrir stefnanda við þá sakamálarannsóknsem stendur yfir. Í öðru lagi er frávísunarkrafa á þvíbyggð að stefna í málinu uppfylli ekki lágmarksskilyrði samkvæmt 80. gr. lagaum meðferð einkamála. Krafa stefnanda um upptöku, sbr. lið II.A.2 í stefnu, séódómtæk þar sem hún beinist ekki að neinu tilteknu andlagi. Þá sé vísun til 2.mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga til stuðnings varakröfu óskiljanleg ogódómtæk. Krafa um upptöku ávinnings sé engum rökum studd og hafi stefnandiengar líkur leitt að því að stefndi hafi haft ávinning af þeirri háttsemi semhonum sé borin á brýn. Krafa umbætur vegna fjártjóns, sbr. lið II.B.2 í stefnu, sé jafnframt órökstudd og hafiengar líkur verið leiddar að því að tjón sem lýst er sé sennileg afleiðing hinsmeinta tjónsverknaðar. Engin gögn hafi verið lögð fram um andlegt eðafjárhagslegt tjón stefnanda. Þá hafi engar líkur verið leiddar að því ímálatilbúnaði stefnanda að hún búi við varanlegan miska eða örorku, sbr. liðII.B.3 í stefnu. Því beri að vísa kröfum stefnanda að þessu leyti frá dómi. Máliðbyggi á því að stefndi hafi tekið kynlífsathafnir þeirra stefnanda upp ámyndband. Myndband eða skjáskot úr slíkri upptöku hafi ekki verið lögð fram ímálinu. Ekkert liggi fyrir um að myndbandið sé til eða að því hafi verið dreiftá internetinu. Þá liggi ekkert fyrir um hvort aðilar málsins sjáist ámyndbandinu, sé það til. Þannig hafi grundvallargögn málsins ekki verið lögðfram fyrir dóminum og beri að vísa því frá dómi af þeim sökum. Lokstelur stefndi að stefna sé þannig úr garði gerð að í henni felist skriflegurmálflutningur, sem enn fremur geti verið frávísunarástæða.III Stefnanditelur stefnda hafa gert á hlut sinn með refsiverðum og ólögmætum hætti og meðþví unnið sér til refsingar og skaðabótaábyrgðar. Háttsemi stefnda geti varðaðvið 209. gr. almennra hegningarlaga, en einnig við 229. gr. og 234. gr. sömulaga og eigi stefnandi sókn sakar vegna síðargreindu brotanna, sbr. 3. tölul.242. gr. almennra hegningarlaga. Þessi þáttur málsins lúti að því hvort, hvenærog hvernig stefnandi geti leitað réttar síns fyrir dómstólum samkvæmt því. Ertil þess vísað að dómari geti frestað meðferð málsins uns rannsókn lögregluvegna kæru á hendur stefnda um meint brot gegn 209. gr. almennra hegningarlagaverður ráðið til lykta, sbr. 3. mgr. 102. laga um meðferð einkamála. Verðistefndi ákærður í því máli myndi vera unnt að falla frá refsikröfu íeinkarefsimálinu sem nú hefur verið höfðað. Þá vísar stefnandi til 25. og 29.gr. almennra hegningarlaga um rétt sinn til málshöfðunar og tímafrests í þvísambandi. Ummeðferð einkarefsimála fari eftir lögum um meðferð einkamála og fari aðilar meðforræði málsins samkvæmt því. Málatilbúnaður í stefnu taki mið af því.Stefnandi hafi ekki haft ástæðu til að ætla að bornar yrðu brigður á að stefndihafi framið þá háttsemi sem lýst er í stefnu eða að hún hafi hlotið tjón þaraf. Vísar stefnandi í því sambandi til sáttaumleitana og samskipta aðila áfacebook sem átt hafi sér stað áður en til málshöfðunar kom. Í stefnu sé á þvíbyggt að verknaðurinn hafi verið viðurkenndur og telur stefnandi sig búa yfirsönnunargögnum um það. Hún hafi ekki talið nauðsynlegt að leggja fram gögn tilað sýna fram á atvik sem þau stefndi væru sammála um. Er jafnframt vísað tilg-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála þar sem fram komi að í stefnuskuli greina helstu gögn semstefnandi hafi til sönnunar.Loks er því andmælt af hálfu stefnanda aðdómkröfur og málatilbúnaður í stefnu séu svo óskýr að stefndi geti ekki tekiðtil varna í málinu og dómur verði ekki á það lagður. Þannig séu fjárkröfurítarlegar og sundurliðaðar. Þá megi styðja kröfurnar frekari gögnum viðefnismeðferð málsins. IV. Stefnandihefur höfðað einkarefsimál á hendur stefnda vegna meintra brota hans gegn 229.gr. og 234. gr., sbr. 3. tölulið 242. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur húnlagt fram kæru hjá lögreglu á hendur stefnda vegna þeirrar háttsemi sem húnsakar hann um og telur jafnframt varða við 209. gr. almennra hegningarlaga.Samkvæmt 29. gr. almennra hegningarlaga fellur heimild til þess að höfðaeinkamál til refsingar niður sé mál ekki höfðað áður en sex mánuðir eru liðnirfrá því að sá, sem heimildina hefur, fékk vitneskju um hinn seka. Verðurmálatilbúnaður stefnanda skilinn svo að málið hafi verið höfðað áður enmálshöfðunarfrestur var liðinn, með það fyrir augum að farið verði fram á þaðvið dóminn að því verði frestað samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga um meðferðeinkamála, þar til meðferð kærumáls hennar verði ráðið til lykta hjá lögregluog ákæruvaldi. Verði það mál fellt niður af hálfu ákæruvalds muni reyna á refsikröfuí einkarefsimáli þessu. Gengi sú ráðagerð eftir myndi stefnda gert að sætamálsmeðferð að nýju vegna háttsemi sem ákærandi hefði látið niður falla í öðrumáli. Er það niðurstaða dómsins að slík málsmeðferð yrði andstæð meginreglunni„ne bis in idem“, sbr. 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka og 1. mgr. 6. gr.mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þegar af þeirri ástæðu berað vísa frá dómi kröfum stefnanda um refsingu og refsikennd viðurlög í máliþessu, sbr. liði II.A.1 og II.A.2 í stefnu. Jafnframter til þess að líta að málsatvik eru mjög umdeild, eins og að framan greinir,og verður að virða málatilbúnað stefnanda í því ljósi. Stefnandi byggirdómkröfur sínar á því að stefndi hafi tekið upp myndband af kynlífsathöfnumþeirra og dreift því opinberlega með því að birta það á internetinu, en stefndihefur hafnað því. Slíkt myndband hefur ekki verið lagt fram í málinu né heldurönnur gögn sem af verði ráðið hvað komi fram á umræddri upptöku. Þá hafa engingögn verið lögð fram sem sýna fram á að slíku myndbandi hafi verið dreift áinternetinu. Samkvæmt framangreindu hafa hvorki verið lögð fram gögn sem sýnafram á tilvist myndbandsins né dreifingu þess. Þannig hefur stefnandi ekki lagtfram í málinu þau grundvallargögn sem málsókn hennar byggir á. Er það matdómsins að eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað hafi stefnda verið gerterfitt um vik að halda uppi viðhlítandi vörnum í málinu. Áskilnaður í stefnu umað leggja umrædd gögn fram á síðari stigum málsmeðferðarinnar breytir ekkiþeirri niðurstöðu, enda hefur stefndi þegar lagt fram greinargerð sína þar semvarnir hans koma fram. Þáskortir talsvert á að dómkröfur stefnanda og málatilbúnaður séu svo skýr semskyldi. Þannig er óljóst að hvaða munum upptökukrafa, sem í stefnu greinirsamkvæmt 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga, beinist og þar með hvaðafjárhæð eigi að leggja til grundvallar varakröfu samkvæmt 2. mgr. sömulagagreinar. Krafa um upptöku ávinnings samkvæmt 69. gr. almennra hegningarlagaer með öllu órökstudd enda verður því ekki fundinn staður í málatilbúnaðistefnanda að stefndi hafi haft ávinning af meintum brotum. Loks eruskaðabótakröfur í málinu vanreifaðar. Stefnandi hefur ekki lagt fram vottorðsálfræðings sem vísað er til í stefnu til stuðnings miskabótakröfu. Þá hafaekki verið lögð fram gögn til rökstuðnings kröfu um bætur vegna fjártjóns.Krafa um viðurkenningu bótaábyrgðar vegna varanlegrar örorku og varanlegs miskaer jafnframt með öllu órökstudd. Samkvæmtframangreindu er það niðurstaða dómsins að dómkröfur stefnanda um refsingu ogrefsikennd viðurlög samrýmist ekki grundvallarreglu réttarfars um bann viðendurtekinni málsmeðferð vegna refsiverðrar háttsemi. Enn fremur þykjadómkröfur stefnanda í málinu vanreifaðar og málatilbúnaður hennar svo óglöggurog óljós að óhjákvæmilegt er að vísa málinu frá dómi. Með vísantil 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiðastefnda 150.000 krónur í málskostnað. RagnheiðurHarðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Úrskurðarorð: Máli þessu er vísaðfrá dómi. Stefnandi,K, greiði stefnda, M, 150.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 136/2006 | Kærumál Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi | Ekki voru talin skilyrði til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. apríl 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Málsatvik eru greind í hinum kærða úrskurði. Eins og þar segir er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa veitt nafngreindum manni stungusár með hníf. Meðal gagna málsins er mynd af litlum vasahníf sem grunur leikur á að hafi verið notaður við árásina. Má af henni ráða að hnífur þessi sé með 4 til 5 sm löngu blaði. Í læknisvottorði sem fyrir liggur í málinu um áverka á brotaþola er sárum hans svo lýst að á höku hafi hann haft grunnt sár 1,5 sm að lengd, á vinstri síðu sár 3 sm að lengd, á brjóstbaki grunnt sár 2,5 sm að lengd og tvö önnur sár 2 sm að lengd og loks sár á mjóbaki 1,5 sm að lengd. Þá er þess getið að öll sárin samrýmist áverkum eftir eggvopn og að þau hafi verið staðdeyfð og saumuð. Af framangreindri lýsingu verður hvorki séð að atlaga sú sem kærði er grunaður um né áverkar þeir sem um ræðir hafi verið þess eðlis að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2006. Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 21. apríl 2006 kl. 16:00. Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan í Reykjavík hafi nú til rannsóknar tilraun til manndráps eða eftir atvikum sérstaklega hættulega líkamsárás sem hafi átt sér stað í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins 5. mars sl. Kærði liggi undir sterkum grun um að hafa umrætt sinn veitt A, [kt.], fimm stunguáverka á bol, þrjá hægra megin, einn á vinstri síðu og einn á mjóbak. Samkvæmt vottorði Steinunnar Hauksdóttur, deildarlæknis á slysa- og bráðadeild, hafi A reynst vera með fimm stungusár á bol þegar hann kom á deildina. Hafi þrjú sár verið hægra megin, eitt á vinstri síðu og eitt á mjóbaki. Lögreglu hafi verið tilkynnt um atvikið kl. 5:34 aðfaranótt 5. mars sl. Er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi þeir haft tal af A sem hafi verið alblóðugur á baki og er lögreglumenn hafi hugað að honum hafi þeir séð að hann var með þrjú sár á baki sem blæddi úr. A hafi í skyndi verið fluttur á slysa- og bráðadeild Landspítala í Fossvogi. Á vettvangi hafi lögreglumenn hitt B sem hafi tjáð þeim að kærði hafi sagt henni að hann hafi stungið mann og hafi sýnt henni vasahníf. Strax hafi verið gerðar ráðstafanir til að hafa upp á kærða og hann verið handtekinn stuttu síðar í bifreið sinni fyrir utan heimili hans. Kærði hafi viðurkennt í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa lent í átökum við A inni á veitingahúsinu [...]. Til átaka hafi komið eftir að út úr veitingahúsinu var komið og hafi fleiri en þeir komið þar við sögu. Átökin hafi borist inn í port sunnan við veitingahúsið. Kærði hafi síðan séð A fara út um hlið sem sé inn í portinu og segist hafa elt hann. Kærði hafi spurt A hvort hann myndi eftir honum og hafi A þá slegið hann í andlitið. Kærði hafi svarað í sömu mynt og hafi komið til frekari átaka milli þeirra. Kærði kveðist hafa tekið upp hníf sem hann hafi verið með í vasa sínum og stungið A tvisvar með hnífnum en útiloki ekki að hann hafi stungið hann oftar. Kærði segist hafa áttað sig á hvað hann hefði gert og farið að bifreið sinni sem hann hafði lagt vestan við [...]. Hann hafi hitt þar B og sagt henni frá slagmálunum og að hann hefði óvart stungið mann. Telji hann að B hafi séð hnífinn. Félagar hans tveir hafi síðan komið að bifreiðinni og hann ekið henni í burtu. B hafi borið að hún hafi rætt við kærða við bifreið hans og hafi hann margendurtekið að hann hafi stungið mann og að hann hafi gert það sex sinnum. Hafi hún séð að kærði var með hnífinn í höndunum. C var með B umrætt sinn og kveðist hún hafa heyrt kærða segja að hann hafi stungið “gaur” og hafi hún séð að kærði var með hníf í hendi. Kærði hafi með úrskurði héraðsdóms þann 5. þ.m. verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Rannsókn málsins sé vel á veg komin og sé staða rannsóknarinnar þannig að ekki sé talin þörf á að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Reynt verði að ljúka rannsókn málsins svo fljótt sem verða megi og verði málið síðan sent ríkissaksóknara til ákærumeðferðar, sbr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála. Samkvæmt gögnum málsins sé sterkur grunur um að kærði hafi framið alvarlegt brot þar sem beitt hafi verið lífshættulegu vopni. Geti brotið samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðað allt að 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu fangelsi samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr., sömu laga, teljist sök sönnuð. Sé brot kærða þess eðlis að telja verði nauðsynlegt með tillit til almannahagsmuna að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Kröfu þessari til stuðnings sé vísað til dóma Hæstaréttar nr. 563/2002, 268/2003, 44/2004, 331/2004, 521/2004, 396/2005 og 33/2006. Varðandi þau sjónarmið sem liggi til grundvallar gæsluvarðhaldi samkvæmt nefndu ákvæði skuli og bent á rit Evu Smith, Straffeproces, 1999, bls. 70. Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú ætlað brot kærða sem geti varðað við 211. gr., sbr. 20. gr., eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga eins og hún sé fram sett. Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú þann atburð er átti sér stað aðfararnótt 5. mars sl. í miðbæ Reykjavíkur er A hlaut fimm stunguáverka með hnífi. Um var að ræða þrjá stunguáverka hægra megin á bol, einn á vinstri síðu og einn á mjóbak. Kærði liggur undir sterkum grun um að hafa valdið A þessum áverkum, en hann hefur játað fyrir lögreglu að hafa stungið A tvisvar sinnum. Brot þetta getur varðað við 211. gr. sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Að því virtu að A hlaut áverka af völdum eggvopns og með hliðsjón af því hversu alvarleg sú háttsemi kærða er sem hann er sakaður um, teljast uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður krafa lögreglu því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 21. apríl 2006 kl. 16:00. |
Mál nr. 180/2005 | Líkamsárás Sönnun Ákæra | M og S voru ákærðir fyrir líkamsárásir. Þrátt fyrir nokkra ónákvæmni í ákæru þótti mega leggja dóm á málið með þeirri greiningu á sakarefninu, sem fólst í hinum áfrýjaða dómi. Í héraði voru báðir sýknaðir af sakargiftum um líkamsárás á A, en hvor um sig hins vegar sakfelldur fyrir líkamsárás á B. Fyrir Hæstarétti gerði ákæruvaldið kröfu um að M yrði sakfelldur fyrir líkamsárás á A. Voru ekki efni til að Hæstiréttur endurmæti sönnunargildi munnlegs framburðar tveggja vitna, sem sýkna M í héraði þótti byggja á. Var héraðsdómur því staðfestur um þetta atriði. Báðir ákærðu kröfðust fyrir Hæstarétti sýknu af ákærum um líkamsárás á B, sem þeir voru sakfelldir fyrir í héraði. Var ekki fallist á forsendur fyrir sakfellingu M og var hann því sýknaður af þessum þætti ákærunnar. Ekki var fallist á andmæli S, sem fyrst komu fram við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, við því að dómskýrsla vitnis, sem sakfelling hans í héraði var byggð á, hafði verið tekin gegnum síma. Hins vegar yrði litið til athugasemdanna við mat á sönnunargildi vitnaskýrslunnar. Ekki var talið unnt að sakfella S fyrir líkamsárás á B á þeim grundvelli sem gert var í héraðsdómi og var hann því sýknaður af því ákæruefni. Í samræmi við þetta var bótakröfum í ákæru vísað frá héraðsdómi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. mars 2005 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu og refsingu ákærða Sverris Más Jóhannessonar og að ákærði Magnús Ólafsson verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd auk þess sem ákærðu verði dæmdir til að greiða B skaðabætur að fjárhæð 446.410 krónur. Ákærði Magnús krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfu B verði vísað frá dómi en að því frágengnu að hún verði lækkuð. Ákærði Sverrir Már krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og bótakröfu vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. I. Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var mál þetta höfðað með ákæru lögreglustjórans á Akureyri 30. september 2004 á hendur ákærðu „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 28. mars 2004, á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri ... ráðist að B ... og A ... með höggum og spörkum, er þeir við vinnu sína á skemmtistaðnum hugðust vísa þeim út vegna slagsmála ...“ með þeim afleiðingum sem í ákærunni greinir. Samkvæmt rannsókn lögreglunnar, sem lá fyrir við útgáfu ákærunnar, höfðu umræddir tveir starfsmenn veitingahússins hlotið meiðsli að mestu leyti í átökum utan dyra þess, eftir að ákærðu hafði verið vísað þaðan út. Ónákvæmni gætir því í ákærunni þegar sagt er að þetta hafi gerst, þegar starfsmennirnir hugðust vísa ákærðu út af staðnum. Þá er í ákærunni rætt um líkamsárás, þó að ætlaðir þolendur væru tveir og ljóst af gögnum málsins, að ákærðu voru að mestu leyti taldir hafa valdið meiðslum mannanna hvor í sínu lagi. Þrátt fyrir þessa annmarka á ákærunni þykir, með vísan til 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, mega leggja dóm á málið með þeirri greiningu á sakarefninu, sem felst í hinum áfrýjaða dómi, þar sem ætluð brot hvors ákærðu um sig voru aðgreind og einnig ætlaðar árásir á hvorn framangreindra manna. Er þá meðal annars haft í huga, að annmarkar þessir hafa ekki haft þau áhrif á vörn ákærðu að henni hafi orðið áfátt af þeim sökum. II. Í hinum áfrýjaða dómi voru báðir ákærðu sýknaðir af sakargiftum um líkamsárás á A. Þeir voru hins vegar hvor um sig sakfelldir fyrir líkamsárás á B dyravörð, ákærði Magnús fyrir að hafa bæði sparkað og slegið í hann, þar sem hann stóð við inngang skemmtistaðarins og ákærði Sverrir Már fyrir að hafa sparkað í hann, meðan dyravörðurinn hélt ákærða Magnúsi eftir að hafa snúið hann niður utandyra. Ákæruvaldið fellir sig við þessa niðurstöðu um sakfellingar ákærðu að öðru leyti en því að krafa er gerð um að ákærði Magnús verði fyrir Hæstarétti sakfelldur fyrir líkamsárás á A. Skilja verður forsendur héraðsdóms fyrir þeirri niðurstöðu að sýkna ákærða Magnús af ákæru um líkamsárás á A á þann veg, að lagt hafi verið mat á sönnunargildi munnlegs framburðar tveggja nafngreindra vitna að samskiptum þessara tveggja manna inni á skemmtistaðnum, en A taldi sig hafa hlotið meiðsli sín þar. Eru ekki efni til að Hæstiréttur endurmeti þetta sbr. 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 eins og henni var breytt með 19. gr. laga nr. 37/1994. Af þessari ástæðu þarf ekki að taka til athugunar, hvort ákærði teljist hafa vitað að um eiganda skemmtistaðarins var að ræða og þá hvort það skipti máli. Verður héraðsdómur því staðfestur að því er þetta snertir. III. Koma þá til athugunar kröfur ákærðu um sýknu af þeim ákæruefnum sem þeir voru sakfelldir fyrir í héraði. Í héraðsdómi þótti sannað, að B hefði hlotið högg og spörk þar sem hann stóð við inngang skemmtistaðarins og varnaði ákærðu inngöngu. Var ákærði Magnús sakfelldur fyrir að hafa verið þarna að verki, þar sem bæði B og A hafi borið „að ákærði Magnús hefði haft sig meira í frammi í þessum atgangi en ákærði Sverrir Már.“ Að þessu virtu þótti dóminum nægilega sannað „að ákærði Magnús hafi bæði sparkað og slegið B með þeim afleiðingum að hann hlaut 10 x 5 cm stórt mar á hægri upphandlegg ...“. Ekki eru efni til að fallast á þessar forsendur fyrir sakfellingu ákærða Magnúsar vegna þessarar háttsemi enda getur það eitt að maður hafi haft sig meira í frammi en aðrir ekki nægt til að sakfella hann fyrir líkamsárás. Samkvæmt þessu verður hann sýknaður af þessum þætti ákærunnar. Sakfelling ákærða Sverris Más fyrir líkamsárás á B var í héraðsdómi eingöngu byggð á framburði A, en B kvaðst ekki sjálfur hafa séð hver hefði sparkað í sig, þegar hann hélt ákærða Magnúsi niðri fyrir utan skemmtistaðinn. Fyrir Hæstarétti var af hálfu ákærða Sverris Más talið að með öllu ætti að líta framhjá vitnisburði B um þetta, þar sem dómskýrsla vitnisins hefði verið tekin gegnum síma samkvæmt heimild í 3. mgr. 49. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 36/1999, án þess að nægs öryggis hefði verið gætt við skýrslutökuna, auk þess, sem ekki mætti neyta þessarar lagaheimildar, þegar í hlut ættu mikilvæg vitni svo sem A hlyti að teljast vera. Þegar til þess er litið að verjandi ákærða Sverris Más í héraði gerði ekki athugasemd við þann hátt sem hafður var á skýrslutökunni og neytti þar réttar til að gagnspyrja vitnið, verður ekki fallist á andmæli ákærða við þessu, sem fyrst komu fram við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Hins vegar verður til þessa litið, þegar metið er sönnunargildi vitnaskýrslunnar. Fyrir dómi bar A fyrst að ákærði Sverrir Már hefði haldið sig til hlés og staðið bara til hliðar, eftir að mönnunum tveimur hafði verið komið út af skemmtistaðnum. Síðar í skýrslunni sagði hann hins vegar að þessi ákærði hefði komið hlaupandi og sparkað í B liggjandi. Þegar litið er til þessa ósamræmis í framburði vitnisins og jafnframt haft í huga að allmargt fólk virðist hafa verið statt fyrir utan staðinn, þegar atburðirnir urðu, er ekki unnt að sakfella ákærða Sverri Má á þeim grundvelli sem gert er í hinum áfrýjaða dómi. Verður hann því sýknaður af þessu ákæruefni. IV. Samkvæmt framansögðu verða ákærðu sýknaðir af sakargiftum ákærunnar í málinu. Með vísan til þess verður, samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, bótakröfum í ákæru vísað frá héraðsdómi. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði en í tildæmdum málsvarnarlaunum er virðisaukaskattur innifalinn. Dómsorð: Ákærðu, Magnús Ólafsson og Sverrir Már Jóhannesson, eru sýknir af kröfum ákæruvaldsins. Bótakröfu B er vísað frá héraðsdómi. Staðfest eru ákvæði hins áfrýjaða dóms um fjárhæð málsvarnarlauna skipaðra verjenda ákærðu í héraði. Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Hilmars Ingimundarsonar og Bjarna Þórs Óskarssonar, 249.000 krónur til hvors. Mál þetta, sem dómtekið var þann 5. janúar s.l., höfðaði lögreglustjórinn á Akureyri með ákæru 30. september 2004 á hendur ákærðu, Magnúsi Ólafssyni, kt. 090980-4249, til heimilis að Laugartúni 19 b, Svalbarðsstrandarhreppi, og Sverri Má Jóhannessyni, kt. 090981-4129, Sandhólum, Eyjafjarðarsveit; „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 28. mars 2004, á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri, Strandgötu 7, Akureyri, ráðist að B, kt. [...], og A, kt. [...], með höggum og spörkum, er þeir við vinnu sína á skemmtistaðnum hugðust vísa þeim út vegna slagsmála, með þeim afleiðingum að B hlaut eymsli í brjóstkassa, sérstaklega undir vinstra herðablaði og 10 x 5 cm stórt mar á hægri upphandlegg og mar á vinstra læri, en A hlaut sár á vinstri framhandlegg, u.þ.b. 1 cm x 3 cm, auk daufra ráka á miðri bringu yfir brjóstbeininu. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Í málinu gerir Ingibjörg Elíasdóttir, hdl. fyrir hönd B, skaða- og miskabótakröfu úr hendi ákærðu, in solidum, samtals að fjárhæð kr. 446.410,- með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 29. júní 2003, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga og fyrir hönd A, skaða- og miskabótakröfu úr hendi ákærðu, in solidum, samtals að fjárhæð kr. 446.410,- með sömu vöxtum.“ Skipaður verjandi ákærða Sverris Más, Elísabet Sigurðardóttir hdl., gerir aðallega þær kröfur fyrir hönd ákærða í refsiþætti málsins að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa. Hvað bótakröfur varðar er þess aðallega krafist af hálfu ákærða að bótakröfunum verði vísað frá dómi, til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunum, en til þrautavara að kröfurnar verði lækkaðar. Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa. Skipaður verjandi ákærða Magnúsar, Sigmundur Guðmundsson hdl., gerir aðallega þær kröfur fyrir hönd ákærða í refsiþætti málsins að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa. Hvað bótakröfur varðar er þess aðallega krafist af hálfu ákærða að bótakröfunum verði vísað frá dómi, til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunum, en til þrautavara að kröfurnar verði lækkaðar. Þá krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa. I. Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á Akureyri var óskað aðstoðar lögreglu að Kaffi Akureyri um kl. 02:50, aðfaranótt 28. mars 2004, vegna átaka. Er lögregla kom á vettvang var B dyravörður með ákærða Magnús í fastatökum á gangstéttinni framan við anddyri skemmtistaðarins. Í námunda við tvímenningana stóð talsverður hópur fólks, meðal annarra ákærði Sverrir Már. Í frumskýrslunni er bókað að ákærðu hafi verið færðir í lögreglubifreiðina. Um ástand ákærðu segir í skýrslunni að báðir hafi þeir verið mjög ölvaðir en rólegir. Eftir að lögregla hafði rætt við ákærðu var þeim ekið að dvalarstað ákærða Magnúsar við Tjarnarlund á Akureyri. B leitaði þann 29. mars 2004 á slysadeild vegna áverka sem hann kvaðst hafa orðið fyrir framangreinda nótt. Í vottorði Ómars Þorsteins Árnasonar læknis, dags. 3. maí 2004, sem hann vann að öllu leyti úr nótum slysadeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, segir um áverka B: „Við skoðun á Slysadeild lýsti B heilmiklum eymslum í brjóstkassa, sérstaklega undir vinstra herðablaði. Þar var roðasvæði og var talið að um hugsanlegt mar væri að ræða. Hann var mjög þreifiaumur á um það bil lófastóru svæði fyrir neðan vinstra herðablað. Það kemur fram að á hægri upphandlegg hafi verið roðasvæði framanvert og að um það bil 10 x 5 cm stórt mar væri að brjótast út í gegnum húðina. Það voru engin þreifieymsli í brjóstkassa og ekki grunur að um rifbeinsbrot eða annað slíkt væri að ræða. Það kemur fram að mat læknisins sem skoðaði hann á Slysadeild, Ásu Eiríksdóttur, hafi verið að um mar og eymsli væri að ræða ...“ A leitaði þann 29. mars 2004 á slysadeild vegna áverka sem hann kvaðst hafa orðið fyrir framangreinda nótt. Í vottorði Ómars Þorsteins Árnasonar læknis, dags. 6. maí 2004, sem hann vann að öllu leyti úr nótum slysadeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, segir um áverka A: „Á vinstri framhandlegg var hann með sár, u.þ.b. 1 cm x 3 cm. Þetta var ekki djúpt sár og samhliða sárinu var rauð rák. Þessi áverkar voru u.þ.b. yfir miðjum framhandlegg, utanverðum. Á bringu var hann einnig með daufar rákir og var þetta á miðri bringunni yfir brjóstbeininu. Ekki djúpt og það blæddi ekki úr þessu.“ II. Framburður ákærða Magnúsar: Ákærði Magnús skýrði svo frá fyrir dómi að umrædda nótt hefði hann setið ásamt vini sínum, meðákærða Sverri Má, við borð á Kaffi Akureyri. Á ákærða var að skilja að hann hefði verið lítillega undir árifum áfengis. Milli ákærðu sagði ákærði hafa komið upp léttvægan ágreining og þeir í kjölfarið ýtt lítillega hvor við öðrum, ekki í neinni alvöru þó. Ákærði kvaðst síðan hafa ætlað að bakka frá meðákærða en ekki tekist betur til en svo að hann hrasaði um stól og féll aftur fyrir sig og í gólfið. Ákærði sagði A þá hafa komið að „bókstaflega með læti“, en ekki til þess að stilla til friðar og hefði hann rifið í meðákærða og ýtt við ákærða. Tók ákærði fram að á þessari stundu hefði hann hvorki vitað um hvaða mann var að ræða né um að maðurinn hefði tengsl við staðinn. Vitneskju um það hefði ákærði ekki fengið fyrr en tveimur dögum síðar. Fullyrti ákærði að A hefði ekki verið auðkenndur sem starfsmaður staðarins og hefði hann ekki heldur kynnt sig sem slíkan. Þá kannaðist ákærði ekki við að A hefði fyrr um nóttina haft afskipti af ákærðu. Ákærði kvaðst því hafa talið að um gest á skemmtistaðnum væri að ræða. Ákærði sagði hann og meðákærða hafa beðið A um að fara en hann ekki orðið við því og í framhaldinu hefði komið til átaka milli þremenninganna. Dyraverðir hefðu síðan komið að og átökin borist fram í anddyri og síðan út af staðnum. Þar hefði B haldið ákærða niðri og A kýlt hann í andlitið. Aðspurður kvaðst ákærði lítið geta borið um viðskipti meðákærða við dyraverðina, hann hefði haft nóg með að reyna að bjarga sjálfum sér. Fram kom hjá ákærða að dyraverðirnir hefðu ekki ávarpað ákærðu er þeir komu að þeim heldur hefðu dyraverðirnir strax tekið á ákærðu. Ákærði neitaði því að hafa slegið eða sparkað í A eða dyraverðina tvo. Það eina sem hann hefði gert hefði verið að reyna að ýta þeim frá sér þegar þeir hefðu verið að reyna að ná tökum á honum. Kom fram hjá ákærða í því sambandi að dyraverðirnir hefðu beitt hann óþarfa ofbeldi og kvaðst ákærði hafa hlotið glóðarauga í viðskiptum sínum við þá. Einnig hefði hann fengið mikið mar á bakið og þá hefði húðflúr á hendi hans rifnað. A sagði ákærði Magnús hafa verið klæddan í ljósa skyrtu er framangreind atvik gerðust. Tók ákærði fram í því sambandi að skyrta þessi hefði rifnað í stympingum þeirra A. Einnig kom fram hjá ákærða að A hefði fyrr um kvöldið setið á borði við hliðina á ákærðu og hann þá verið jakkafataklæddur. Taldi ákærði A hafa verið undir áhrifum áfengis. Framburður ákærða Sverris Más: Ákærði Sverrir Már greindi svo frá fyrir dómi þeir meðákærði hefðu farið að kýta inni á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri umrædda nótt. Meðákærði hefði síðan fallið af orsökum sem ákærði kvaðst ekki þekkja. Þá hefði komið að ákærða maður sem ákærði kvaðst hafa talið vera að veitast að honum og gripið í hann. Ákærði sagðist hafa snúist til varnar og gripið í manninn á móti. Einnig hefði meðákærði snúist honum til varnar. Í kjölfarið hefðu dyraverðir komið á vettvang og rokið á ákærða. Einhver þeirra hefði síðan tekið hann tökum aftan frá og leitt hann út af staðnum. Ákærði sagði áðurnefndan mann, A, ekki hafa verið auðkenndan skemmtistaðnum á nokkurn hátt. Þá hefði hann ekki kynnt sig sem slíkan aðila. Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekki farið að gruna að maðurinn væri tengdur staðnum fyrr en þeir meðákærði voru báðir komnir út af staðnum og meðákærði hafði verið keyrður í jörðina. Fram kom hjá ákærða að hann hefði ekki lent í frekari átökum þessa nótt en að framan er lýst. Hann hefði síðan í framhaldinu fylgst með dyravörðunum taka á meðákærða. Ákærði neitaði því aðspurður að hafa sparkað eða slegið í einhvern dyravarðanna. Þá kvaðst hann ekki hafa séð nein högg eða spörk frá öðrum aðilum. Hann tók hins vegar fram í því sambandi að dyraverðirnir hefðu tekið mjög harkalega á meðákærða og þeir bókstaflega „neglt honum í götuna“. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa átt viðskipti við B dyravörð þessa nótt. Ákærði sagði lögreglu hafa komið á vettvang og hefði hún beðið hann um að koma inn í lögreglubifreiðina og hann strax orðið við þeirri beiðni. Skömmu síðar hefði meðákærði einnig komið inn í bifreiðina. Lögregla hefði í framhaldinu ekið þeim heim til meðákærða. III. B greindi svo frá fyrir dómi að hann hefði verið við störf sem dyravörður á Kaffi Akureyri umrædda nótt. Vitnið hefði verið við inngang staðarins þegar A, einn eigenda hans, hefði kallað eftir aðstoð vitnisins við að koma tveimur mönnum, sem verið hefðu með ólæti, út af staðnum. Vitnið sagði mennina hafa verið búna að vera með ólæti fyrr um nóttina og þeir þá verið áminntir af A. Fram kom hjá vitninu að nefndur A hefði ekki verið við störf á skemmtistaðnum þessa nótt og þá gat vitnið aðspurt ekki sagt til um hvort A hefði verið auðkenndur staðnum á einhvern hátt. Vitnið sagði áðurnefndum mönnum hafa verið vísað út af skemmtistaðnum. Á vitninu var að skilja að ekki hefði gengið vandræðalaust að koma þeim út en það þó tekist. Atgangurinn hefði síðan fyrst hafist fyrir alvöru þegar búið var að koma mönnunum út af staðnum en þeir hefðu þá freistað inngöngu á ný með höggum og spörkum. Vitnið kvaðst bæði hafa fengið í sig högg og spörk en gat ekki sagt til um frá hverjum. Á endanum sagðist vitnið hafa þurft að snúa annan mannanna niður og halda honum þar til lögregla kom á vettvang. Hinn maðurinn hefði þá róast niður og dregið sig í hlé. Vitnið sagðist hafa margbeðið þann sem það hélt að vera rólegan, en alltaf þegar vitnið hefði losað tök sín hefði æsingurinn byrjað aftur. Fram kom hjá vitninu að sparkað hefði verið í tvígang í það þegar það var með annan mannanna í fastatökum í jörðinni fyrir utan skemmtistaðinn. Annað sparkið hefði komið í læri vitnisins og skilið eftir sig lítið mar. Hitt sparkið hefði komið undir rif vitnisins og vitnið fundið til eymsla undir rifjunum eftir það spark. Aðspurt gat vitnið hins vegar ekki sagt til um hver hefði verið þarna að verki. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð mennina slá A. Þá hefði vitnið heldur ekki séð A slá til mannanna. Fram kom hjá vitninu að þeir hefðu verið þrír sem komu að því að fjarlægja mennina af staðnum. Það hefðu verið vitnið, áðurnefndur A og K, sem verið hefði á vakt með vitninu umrædda nótt. A bar fyrir dómi að umrædda nótt hefði hann verið við störf á Kaffi Akureyri, en hann hefði verið kynnir á svokölluðu spænsku kvöldi sem haldið hefði verið á skemmtistaðnum. Vitnið kvaðst hafa setið ásamt konu sinni við borð í sal skemmtistaðarins og rætt við listakonu, sem komið hefði fram um kvöldið, þegar tveir menn hefðu farið að fljúgast á við borð skammt frá. Vitnið sagðist hafa sagt mönnunum að hætta áflogunum og þeir orðið við þeim tilmælum. Mennirnir hefðu síðan sest aftur við borðið. Stuttu síðar hefðu mennirnir rokið saman aftur með miklum látum og við það hefðu borð og stólar fallið um koll. Vitnið sagði af þessu hafa stafað ónæði fyrir aðra gesti og vitnið því farið og ætlað að skakka leikinn en mennirnir þá ráðist gegn því. Nánar lýsti vitnið því svo að það hefði reynt að skilja mennina tvo að með því að taka í annan þeirra en þeir þá ráðist gegn vitninu „með höggum, togi og látum“. Vitnið hefði því kallað dyraverði sér til hjálpar. Í kjölfarið hefði verið farið með mennina út af staðnum. Vitnið sagði annan mannanna sérstaklega hafa haft sig í frammi, það hefði verið sá sem síðar var haldið föstum fyrir utan staðinn þar til lögregla kom á vettvang. Eftir að búið var að koma mönnunum út af staðnum sagði vitnið þá ítrekað hafa reynt að komast aftur inn og í þeim tilraunum sínum hefðu þeir reynt að berja dyravörð þann sem stóð í dyrunum. Var á vitninu að skilja að annar mannanna hefði haft sig meira í frammi en hinn og hann í kjölfarið verið tekinn og B haldið honum niðri þar til lögregla kom á vettvang. Þá kom fram hjá vitninu að á meðan B hefði haldið manninum niðri hefði hinn maðurinn komið hlaupandi að og sparkað í B liggjandi, líklega í síðu hans, en síðan hlaupið strax aftur burtu. Í kjölfarið kvaðst vitnið hafa farið út til B og tekið sér stöðu við hlið hans. Fullyrti vitnið að engir aðrir hefðu tekið þátt í umræddum átökum en starfsmenn staðarins og títtnefndir tveir menn. Um áverka eftir framangreind átök bar vitnið að það hefði verið klórað og marið. Þá sagði vitnið bol þess hafa rifnað í átökunum og einnig hefði komið lítilsháttar rifa á jakka vitnisins. Aðspurt um þá áverka sem í ákæruskjali greinir, sár á vinstri framhandlegg og daufar rákir á miðri bringu yfir brjóstbeini, sagðist vitnið hafa hlotið þá áverka af völdum þess aðila sem síðar hefði verið haldið niðri fyrir utan staðinn af B. Fram kom hjá vitninu að það hefði nokkrum dögum síðar leitað til læknis, eftir að það og B hefðu ákveðið að kæra mennina tvo fyrir líkamsárás. Vitnið sagðist enga áverka hafa séð á mönnunum tveimur eftir átökin. Vitnið neitaði að hafa slegið ákærða Magnús hnefahögg í umræddum átökum. Þá neitaði vitnið því einnig alfarið að hafa er atvik máls gerðust veitt stúlku að nafni G hnefahögg. Vitnið kannaðist hins vegar við að nefnd stúlka hefði kvartað undan því að hún hefði orðið fyrir höggi í anddyri skemmtistaðarins þegar verið var að koma mönnunum tveimur út af staðnum. Aðspurt fullyrti vitnið að það hefði, er það hafði afskipti af mönnunum tveimur í fyrra skiptið, kynnt sig sem dyravörð á staðnum. Þá kom fram hjá vitninu að það hefði verið í jakkafatajakka utan yfir bol með hálskraga merktum skemmtistaðnum, en vitnið treysti sér ekki til segja til um hvort merkingarnar hefðu verið mönnunum sýnilegar. Bol þennan, sem og boli dyravarða almennt, sagði vitnið vera í eigu skemmtistaðarins. K skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið við störf sem dyravörður umrædda nótt. Um nóttina sagði vitnið barstúlku hafa sótt það inn í sal vegna átaka í anddyri staðarins. Er vitnið kom á vettvang hefði dyravörður verið að reyna að koma manni út af staðnum og þá hefði annar dyravörður, B, verið fyrir utan staðinn þar sem hann hefði freistað þess að halda öðrum manni niðri. Kvaðst vitnið hafa farið B til aðstoðar. Vitnið sagði þann mannanna sem ekki var haldið hafa reynt að kýla til B á meðan vitnið og B héldu hinum manninum niðri. Fram kom hjá vitninu að það, B og A hefðu allir verið auðkenndir sem dyraverðir staðarins. Vitnið sagði dyraverði almennt vera í sérstökum „dyravarðarbolum“ merktum skemmtistaðnum, en til væru tvær gerðir af slíkum bolum. Nánar aðspurt kvaðst vitnið ekki vita betur en A hefði verið við störf á skemmtistaðnum umrædda nótt. V greindi svo frá fyrir dómi að hún hefði verið á Kaffi Akureyri umrædda nótt er komið hefði til rifrildis milli ákærðu, sem vitnið sagðist báða þekkja. Var á vitninu að skilja að ekki hefði verið um alvarlegt rifrildi að ræða. Í kjölfarið hefðu dyraverðir skemmtistaðarins haft af þeim afskipti og ákærðu í framhaldinu lent í ryskingum við dyraverðina í anddyri staðarins. Taldi vitnið ástæðu ryskinganna þá að dyraverðirnir hefðu viljað ákærðu út af staðnum, en þeir ekki viljað fara. Vitnið sagði eiganda skemmtistaðarins, A, hafa slegið annan ákærðu a.m.k. tvisvar í andlitið þar sem hann hékk í dyragættinni og streittist á móti. Fyrir dómi kvaðst vitnið fyrst ekki treysta sér til þess að segja til um hvorn ákærðu A hefði slegið en sagði þann aðila í kjölfarið hafa rifið skyrtu A. Síðar í skýrslutökunni var á vitninu að skilja að um ákærða Magnús hefði verið að ræða, en vitnið sagðist hafa hitt hann daginn eftir og hann þá verið með stórt glóðarauga. Þá bar vitnið að A hefði hent vinkonu vitnisins á handrið þar sem hún hefði verið fyrir honum. Fram kom hjá vitninu að A hefði verið klæddur í jakkafatajakka, skyrtu með kögri eða blúndu og gallabuxur umrædda nótt. Var það hald vitnisins að A hefði ekki verið við störf á staðnum þessa nótt. Í því sambandi vísaði vitnið til þess að það hefði hitt A í tvígang fyrr um kvöldið, fyrst við borð inni í sal staðarins og síðan við barinn, og þau þá spjallað saman. Þá bar vitnið að A hefði verið búinn að sitja við borð með fleira fólki um hríð fyrr um kvöldið. Hegðun hans hefði því ekki bent til þess að hann væri við störf á staðnum. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærðu slá eða sparka til dyravarðanna í þessum atgangi. Vitnið sagðist ekki hafa séð það sem fram fór fyrir utan skemmtistaðinn þar sem það hefði þá verið að huga að áðurnefndri vinkonu. Vitnið kvaðst þó vita að í framhaldinu hefði lögregla komið á vettvang og ekið ákærðu heim. G bar fyrir dómi að hún hefði verið á Kaffi Akureyri umrædda nótt. Fram kom hjá vitninu að til rifrildis hefði komið milli ákærðu inni á skemmtistaðnum og ákærði Magnús verið færður út af staðnum í kjölfarið. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa séð með hvaða hætti það var gert. Vitnið sagði eiganda Kaffi Akureyri hafa hlaupið æstan út af staðnum og í leiðinni hefði hann hrint vitninu á handrið inni á staðnum og vitnið vankast við höggið. Síðar sagðist vitnið hafa séð tvo dyraverði halda ákærða Magnúsi fyrir utan skemmtistaðinn. Hermann Karlsson lögreglumaður kvaðst fyrir dómi lítið muna eftir atvikum máls. Vitnið staðfesti þó að hafa komið að málinu umrædda nótt. Þá bar vitnið að það hefði ekið ákærðu á dvalarstað þeirra í kjölfar þess að lögregla hafði af þeim afskipti. IV. Fyrir liggur að ákærðu varð sundurorða er þeir sátu við borð á skemmtistaðnum Kaffi Akureyri aðfaranótt 28. mars 2004, en af framburði ákærðu og vitnisins V má ráða að ekki hafi verið um alvarlegan ágreining að ræða. Einnig þykir upplýst með framburði ákærða Magnúsar og vitnisins A að til einhverra átaka hafi komið milli ákærðu í kjölfarið. Þá er og staðreynd að A, en hann mun vera einn eigenda Kaffi Akureyri, taldi framangreint háttalag ákærðu ekki ásættanlegt og hafði hann af því tilefni afskipti af ákærðu. A bar fyrir dómi að áverka þá sem hann hlaut umrædda nótt hefði hann hlotið af völdum þess aðila sem síðar var haldið niðri fyrir utan skemmtistaðinn af B. Upplýst er að sá aðili var ákærði Magnús. Þegar að þessu virtu ber að sýkna ákærða Sverri Má af þeim sakargiftum í ákæru sem varða A. Ákærðu héldu því báðir fram fyrir dómi að þeir hefðu ekki vitað um tengsl A við skemmtistaðinn er hann hafði af þeim afskipti. Þá fullyrtu þeir báðir að A hefði ekki verið auðkenndur staðnum á nokkurn hátt eða hann kynnt sig sem starfsmann staðarins. Sagði ákærði Magnús A hafa komið að „bókstaflega með læti“ en ekki til þess að stilla til friðar og hefði hann rifið í ákærða Sverri Má og ýtt við ákærða Magnúsi. Ákærðu hefðu beðið A um að fara en hann ekki orðið við því og í kjölfarið komið til átaka milli þeirra þriggja sem dyraverðir hefðu síðan blandað sér í. Ákærði Sverrir Már lýsti þessum atvikum svo að honum hefði komið maður, sem ákærði hefði talið vera að veitast að honum, og gripið í hann. Ákærði sagðist hafa snúist til varnar og gripið í manninn á móti, þá hefði ákærði Magnús einnig snúist til varnar. Í kjölfarið hefðu dyraverðir komið á vettvang, rokið á ákærða Sverri Má og einn þeirra síðan tekið hann tökum aftan frá og leitt hann út af skemmtistaðnum. Framburður vitnanna V og B er til stuðnings þeim framburði ákærðu að ekki hafi verið ljóst að A væri við störf á skemmtistaðnum þessa nótt eins og hann hefur haldið fram, en bæði þessi vitni töldu aðspurð fyrir dómi að A hefði ekki verið við störf umrædda nótt. Þá þykir einnig hvað þetta varðar verða að líta til framburðar A um að hann hafi verið í jakka yfir bol merktum skemmtistaðnum. Með framburði A og B liggur fyrir að A hafði hastað á ákærðu og sagt þeim að hafa sig hæga áður en til framangreindra átaka kom milli ákærðu. Hins vegar þykir ekki, gegn eindreginni neitun ákærðu, nægjanlega sannað að ákærðu hafi þá verið ljóst að um væri að ræða starfsmann staðarins og/eða einn eigenda hans. Að öllu framangreindu athuguðu þykir verða að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins að ákærða Magnúsi hafi ekki verið ljóst að A væri starfsmaður á Kaffi Akureyri. Þannig þykir í ljósi framangreinds og þeirra áverka sem A hlaut þessa nótt verða að leggja til grundvallar að ákærði Magnús hafi talið sig vera að koma meðákærða til varnar og síðar að verja hendur sínar gegn ágangi A. Í þessu sambandi þykir einnig mega líta til framburðar vitnanna V og G hvað framgöngu A varðar. Að öllu þessu virtu þykir varhugavert að telja fram komna lögfulla sönnun þess að ákærði Magnús hafi umrædda nótt ráðist að A með þeim hætti sem honum er gefið að sök í ákæru og þannig að varðað hafi við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Skal því sýkna ákærða Magnús af því ákæruatriði. Eins og áður hefur komið fram var B við störf sem dyravörður á Kaffi Akureyri umrædda nótt. Í kjölfar átaka ákærðu og A sagði vitnið ákærðu hafa verið færða út af staðnum. Þeir hefðu þá freistað inngöngu á ný með höggum og spörkum. Kvaðst vitnið bæði hafa fengið í sig högg og spörk en gat ekki sagt til um frá hverjum. Á endanum sagðist vitnið hafa þurft að snúa annan mannanna niður og halda honum, þar til lögregla kom á vettvang. Um þessi atvik bar A að ákærðu hefðu ítrekað reynt að komast inn eftir að þeim var vísað út af staðnum og í þeim tilraunum sínum hefðu þeir reynt að berja dyravörð þann sem stóð í dyragættinni. Var á vitninu að skilja að annar mannanna hefði haft sig meira í frammi en hinn og hann í kjölfarið verið tekinn og B haldið honum niðri þar til lögreglan kom á vettvang. Með vísan til framburðar B og A þykir dóminum sannað að B hafi fengið í sig högg og spörk þar sem hann stóð við inngang skemmtistaðarins og varnaði ákærðu inngöngu. Bæði vitnin báru að ákærði Magnús hefði haft sig meira í frammi í þessum atgangi en ákærði Sverrir Már. Að því virtu þykir dóminum nægjanlega sannað að ákærði Magnús hafi bæði sparkað og slegið í B með þeim afleiðingum að hann hlaut 10 x 5 cm stórt mar á hægri upphandlegg og þannig brotið gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar þykir að umræddum framburðum virtum varhugavert að slá því föstu að ákærði Sverrir Már, sem fyrir dómi kannaðist ekki við að hafa átt viðskipti við B þessa nótt, hafi slegið eða sparkað í B þar sem hann stóð í dyragættinni. B bar jafnframt fyrir dómi að er hann hefði haldið ákærða Magnúsi fyrir utan skemmtistaðinn hefði í tvígang verið sparkað í hann. Annað sparkið hefði komið í læri vitnisins og skilið eftir sig lítið mar. Hitt sparkið hefði komið undir rif vitnisins og vitnið fundið til eymsla undir rifjunum eftir það spark. Vitnið gat aðspurt ekki sagt til um hver hefði verið þarna að verki. Af framburði A má hins vegar glögglega ráða að ákærði Sverrir Már hafi verið að verki a.m.k. í síðar nefnda skiptið. Telur dómurinn því sannað með framanröktum framburðum B og A að ákærði Sverrir Már hafi sparkað í undir rif B með þeim afleiðingum sem í ákæruskjali greinir og þannig brotið gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. V. Með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan um sýknu ákærðu af þeim hluta sakargifta er A varða er bótakröfu A vísað frá dómi, sbr. 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991. Brotataþoli, B, gerir í málinu þær kröfur að ákærðu greiði honum óskipt skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð 446.410 krónur vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna árásarinnar aðfaranótt 28. mars 2004. Krefst hann þess jafnframt að nefnd fjárhæð beri vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og síðar dráttarvexti samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga. Kröfu sína hefur brotaþoli sundurliðað og rökstutt með eftirfarandi hætti: 1. Miskabætur samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993 kr. 400.000 2. Ónýtur fatnaður kr. 5.850 3. Lækniskostnaður samkvæmt reikningi kr. 3.210 4. Lögmannsþóknun kr. 30.000 5. Virðisaukaskattur á lögmannsþóknun kr. 7.350 Samtals kr. 446.410 Kröfulið 1 rökstyður brotaþoli svo að hann hafi verið að sinna störfum sínum með eðlilegum hætti þegar ákærðu hafi ráðist að honum með höggum og spörkum þannig að á honum sá. Brotaþoli hafi hlotið högg í andlit og marbletti bæði á hægri handlegg, herðablaði og læri. Hann eigi ekki að þurfa að sæta því að gengið sé í skrokk á honum af tilefnislausu þegar hann sé við störf, en hann hafi umrætt sinn verið að reyna að gæta þess að aðrir gestir skemmtistaðarins yrðu ekki fyrir tjóni vegna hegðunar ákærðu. Brotaþoli kveður kröfulið 2 studdan framlögðum gögnum frá versluninni Dressmann og frá Stíl ehf. Kröfulið 3 segir brotaþoli styðjast við framlagðan reikning vegna læknisaðstoðar. Þá gerir brotaþoli kröfu um lögmannskostnað við að halda fram kröfu sinni í málinu. Um sundurliðun þess kostnaðar vísast til framangreinds. Eins og áður hefur verið rakið telur dómurinn sannað að ákærði Sverrir Már hafi sparkað í brotaþola á þeim tíma og stað sem í ákæru greinir með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut eymsli í brjóstkassa, sérstaklega undir vinstra herðablaði, og jafnframt að ákærði Magnús hafi slegið og sparkað til hans umrætt sinn með þeim afleiðingum að hann hlaut 10 x 5 cm stórt mar á hægri upphandlegg. Er það niðurstaða dómsins að ákærðu beri skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja má til þessarar refsiverðu háttsemi. Krafa brotaþola um greiðslu 3.210 króna útlagðs kostnaðar vegna læknisaðstoðar er studd reikningi. Ber því að dæma ákærðu til að greiða brotaþola nefnda fjárhæð. Með vísan til yfirlýsingar A fyrir dómi, en A er einn eigenda Kaffi Akureyri, þess efnis að bolir dyravarða séu í eigu skemmtistaðarins ber að sýkna ákærðu af kröfulið 2 í bótakröfu brotaþola þar sem brotaþoli á ekki aðild að kröfunni, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærðu vegna árásarinnar á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem ákvarðast í samræmi við dómvenju 60.000 krónur. Ekki þykja efni til að gera upp á milli ákærðu hvað varðar skyldu til greiðslu miskabóta eða fjárhæð þeirra. Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála á brotaþoli rétt til bóta vegna lögmannskostnaðar sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni í málinu. Krafa brotaþola um lögmannskostnað að fjárhæð 37.350 með virðisaukaskatti er hófleg og ber með vísan til nefnds lagaákvæðis að dæma ákærðu til greiðslu hennar að fullu. Bótakrafa brotaþola var kynnt ákærða Sverri Má 21. maí 2004, en ákærða Magnúsi þremur dögum síðar samkvæmt fyrirliggjandi lögregluskýrslum. Rétt þykir því að krafan, sem gerð er óskipt á hendur ákærðu, beri dráttarvexti samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá 24. júní 2004 til greiðsludags. Með vísan til alls framangreinds dæmast ákærðu til að greiða brotaþola óskipt 100.560 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 97.350 frá 28. mars 2004 til 29. sama mánaðar, en af 100.560 krónum frá þeim degi til 24. júní 2004, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga af 100.560 krónum frá 24. júní 2004 til greiðsludags. VI. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærði Sverrir Már þann 8. apríl 1998 dæmdur í fangelsi í 1 mánuð vegna þjófnaðar, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár. Ákærði stóðst það skilorð. Þann 25. september 2000 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun vegna umferðarlagabrota og þá hlaut hann dóm 25. mars 2003 vegna slíkra brota. Að endingu gekkst ákærði undir sátt þann 12. febrúar 2004 vegna umferðarlagabrots. Við ákvörðun refsingar ákærða Sverris Má þykir verða að líta til þess að hann veittist að brotaþola þar sem hann var að sinna starfi sínu með því að halda ákærða Magnúsi og þannig koma í veg fyrir að hann skaðaði sjálfan sig og aðra. Hins vegar þykir einnig mega líta til þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Refsing ákærða þykir að þessu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í 1 mánuð. Eftir atvikum og með vísan til þess sem að framan segir um skilorðsdóm ákærða frá 1998 þykir með heimild í 57. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940 mega fresta fullnustu refsingar ákærða og skal refsingin falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærði Magnús þann 23. janúar 1998 dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár. Þann 8. maí 1998 var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi og til greiðslu sektar fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, en fullnustu fangelsisrefsingarinnar frestað skilorðsbundið í 2 ár. Með dómi 9. október sama ár var ákærða gerð 15.000 króna sekt fyrir brot gegn 2. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga. Þá gekkst ákærði þann 28. júlí 1999 undir sátt vegna umferðarlagabrota þess efnis að hann greiddi 68.000 króna sekt í ríkissjóð. Við ákvörðun refsingar ákærða Magnúsar þykir verða að líta til þess að hann veittist að brotaþola þar hann var að gegna störfum sínum á títtnefndum skemmtistað. Ákærði hefur nú öðru sinni verið sakfelldur fyrir ofbeldisbrot, en líta ber til þess að hið fyrra brot framdi hann er hann var mjög ungur að árum. Refsing ákærða þykir að þessu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í 1 mánuð. Eftir atvikum og með hliðsjón af því að allmörg ár eru liðin síðan ákærði hlaut síðast dóm þykir með heimild í 57. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940 mega fresta fullnustu refsingar ákærða og skal refsingin falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Með vísan til úrslita málsins og 1., 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála dæmist ákærði Sverrir Már til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Elísabetar Sigurðardóttur hdl. Ákærði Magnús greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar hdl. Málsvarnarlaun verjenda þykja hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir. Ákærðu greiði óskipt allan annan sakarkostnað. Uppkvaðning dóms þessa hefur dregist nokkuð vegna starfsanna dómara en endurflutningur málsins þykir óþarfur, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 448/2002 sem kveðinn var upp 20. mars 2003. Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð: Ákærði, Sverrir Már Jóhannesson, sæti fangelsi í 1 mánuð en fullnustu refsingar ákærða skal frestað og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði, Magnús Ólafsson, sæti fangelsi í 1 mánuð en fullnustu refsingar ákærða skal frestað og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærðu greiði B óskipt 100.560 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 97.350 krónum frá 28. mars 2004 til 29. sama mánaðar, en af 100.560 krónum frá þeim degi til 24. júní 2004, og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 100.560 krónum frá 24. júní 2004 til greiðsludags. Bótakröfu A, að fjárhæð 446.410 krónur, er vísað frá dómi. Ákærði Sverrir Már greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Elísabetar Sigurðardóttur hdl., 100.000 krónur. Ákærði Magnús greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar hdl., 100.000 krónur. Ákærðu greiði óskipt allan annan sakarkostnað. |
Mál nr. 851/2017 | Líkamstjón Orsakatengsl Lögregla Handtaka Ómerking héraðsdóms | Í málinu krafðist A þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Í á því líkamstjóni sem hann kvaðst hafa orðið fyrir af völdum lögreglu við handtöku árið 2010. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að A hefði verið í geðrofsástandi umrætt sinn og gæti ekki byggt bótakröfu á 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem hann hefði komið sér í það ástand að hann gerði sér ekki grein fyrir gjörðum sínum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þessi niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður hefði verið sérfróðum meðdómsmönnum, hefði leitt til þess að þar hefði í engu verið fjallað um hvort orsakatengsl hefðu verið á milli líkamstjóns A og athafna lögreglu í umrætt sinn og þar með hvort skilyrði 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 og almennu skaðabótareglunnar um orsakatengsl væru uppfyllt. Af þessum sökum var talið óhjákvæmilegt að ómerkja dóminn og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar á ný. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir ogKarl Axelsson og Kristbjörg Stephensen landsréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2017.Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á því varanlegalíkamstjóni sem hann kveðst hafa orðið fyrir 11. maí 2010 af völdum lögregluvið handtöku. Þá krefsthann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.Málavöxtum er lýst íhéraðsdómi. Svo sem þar kemur fram var áfrýjandi, sem þá var í alvarleguandlegu ástandi, handtekinn 11. maí 2010. Við handtökuna var hann staddur ísturtuklefa í baðherbergi á heimili nafngreinds manns í Kópavogi. Áfrýjandi virðistekki hafa áttað sig á nærveru eða heyrt í lögreglumönnum er þeir reyndu aðtelja hann á að koma úr sturtunni og brugðist ókvæða við og brotist um erlögregla hugðist leiða hann þaðan. Hafi lögregla þá brugðið á það ráð að takaáfrýjanda tökum, færa hann í handjárn, leggja hann á gólfið og bensla fæturhans. Nær jafnskjótt hafi áfrýjandi fengið krampa, kastað upp og fengiðhjartastopp. Lögregla og sjúkralið, sem þá var komið á vettvang, hafi hafiðlífgunartilraunir og náð að endurlífga áfrýjanda. Af gögnum málsins verðurráðið að hjartastopp áfrýjanda hafi varað í 20-25 mínútur. Varð áfrýjandi fyrirvaranlegu og stórfelldu heilsutjóni af völdum þess.Stefndi gerir ekkiathugasemd við þá málsástæðu áfrýjanda að handtaka lögreglu hafi farið fram ágrundvelli XIII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.Með málsókn þessari freistaráfrýjandi þess að fá skaðabótaskyldu stefnda viðurkennda vegna þess líkamstjónssem hann hlaut vegna framangreindra atvika. Áfrýjandi reisir þessa kröfu sínaannars vegar á 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008, sem á umræddum tíma handtökuvar 3. mgr. 228. gr. sömu laga og hins vegar almennu skaðabótareglunni. Hefurhann í því skyni að færa sönnur á líkamstjón sitt og orsakatengsl milli aðgerðalögreglu og þess aflað þriggja matsgerða. Eru þær ekki samhljóða um hvortorsakatengsl séu til staðar.Héraðsdómur taldi fram komnasönnun um að áfrýjandi hefði verið í geðrofsástandi er lögregla hafði framangreindafskipti af honum. Ekkert benti til þess að aðgerðir lögreglu hefðu veriðóheimilar eða óþarflega harkalegar og væri ekki sýnt fram á bótaskyldu ágrundvelli almennu skaðabótareglunnar. Þá er í forsendum hins áfrýjaða dómslagt til grundvallar „að aðili sem kemur sér í ástand sem gerir það að verkumað hann gerir sér ekki grein fyrir gjörðum sínum, er jafnan í slíku ástandi eðalendir í því af einhverjum orsökum“, geti ekki byggt bótakröfu á 3. mgr. 228.gr. laga nr. 88/2008.Frumskilyrði þess aðbótaskylda verði felld á stefnda er að tjón liggi fyrir í skilningiskaðabótaréttar og að orsakatengsl teljist sönnuð milli þess tjóns áfrýjanda oghinnar ætluðu skaðabótaskyldu háttsemi starfsmanna stefnda. Með því aðniðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, varð eins ogáður greinir, var þar í engu fjallað um hvort orsakatengsl voru á millilíkamstjóns áfrýjanda og athafna lögreglu í umrætt sinn og þar með hvortskilyrði 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 og almennu skaðabótareglunnar umorsakatengsl væru uppfyllt. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að ómerkjahinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar ogdómsálagningar að nýju.Rétt er að aðilarnir berihvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim íhérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8.desember 2017.Mál þetta sem höfðað var 23. október2015 var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 10. nóvember sl. Stefnandi er A, [...],Reykjavík og stefndi er íslenska ríkið.I.Stefnandi gerirþá dómkröfu að viðurkennd verði bótaskylda íslenska ríkisins vegna varanlegslíkamstjóns, sem stefnandi varð fyrir, þegar lögreglan handtók hann þann 11.maí 2010. Þá gerir stefnandi tilviðbótar kröfu um að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda miskabætur,samkvæmt 26. grein skaðabótalaga, að fjárhæð 3.000.000 króna auk vaxta samkvæmt1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 11. maí 2010 til29. nóvember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga fráþeim degi til greiðsludags. Þá krefst hannmálskostnaðar að skaðlausu, líkt og eigi væri um að ræða gjafsóknarmál. Stefndikrefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda en tilvara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður þá látinn niður falla.II.Þriðjudaginn 11. maí kl. 11:43 varlögregla að boði fjarskiptamiðstöðvar send að [...] í Kópavogi vegna, að sögn,átaka sem þar áttu að eiga sér stað. Þá kom fljótlega önnur tilkynning um aðmaður vopnaður golfkylfu væri fyrir utan húsið. Einnig var tilkynnt um mann semværi að rústa íbúð á fjórðu hæð.Er lögreglumenn komu á staðinn varþeim sagt að nakinn maður vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í átt að kirkjuskammt frá.Þegar þangað var komið var lögreglutilkynnt af aðilum á vettvangi að maðurinn hefði hlaupið inn í kjallaraíbúð að [...].Knúði lögregla þar dyra og hittihúsráðanda. Tjáði hann lögreglu að stefnandi hefði komið hlaupandi, hálfnakinnog barið á stofugluggann hjá sér og síðan á útidyrnar. Við það hafi makast einhverskonar sósa á rúðurnar, en húsráðanda virtist maðurinn blóðugur.Kvaðst hann hafa boðið stefnanda aðfara í sturtu og þvo sér. Meðan stefnandi var í sturtunni hafi hann heyrt hannöskra og láta einkennilega.Lögreglumenn kveða að þegar þeir hafikomið inn og farið að sturtunni hafi þeir séð að stefnandi öskraði og lét mjögsérkennilega í kaldri sturtunni. Hann hafi barið í veggi og kúgast.Lögreglumennirnir hafi reynt að ræða við stefnanda en hann hafi ekki veitt þeimneina athygli.Þá var skrúfað fyrir sturtuna og á nýreynt að ræða við stefnanda en hann hafi þá orðið mjög æstur svo að færa þurftihann í handjárn og jafnframt var hann lagður á gólfið. Einnig töldulögreglumennirnir nauðsynlegt að fjötra (bensla) fætur hans því hann sparkaðiítrekað til lögreglumannanna. Var tekin ákvörðun um að fá sjúkrabifreið ávettvang til að kanna með ástand stefnanda.Skömmu síðar byrjaði stefnandi að fákrampa og kasta upp. Færði lögreglumaður hann í hliðarstöðu og losaði handjárnog um fætur. Skömmu síðar hætti stefnandi að anda og hóf lögregla þá straxendurlífgunartilraunir.Sjúkrabifreið kom mjög fljótt ávettvang og tóku þá sjúkraflutningamenn við endurlífgunartilraunum. Eftir um 20-25 mínútur greindist púlsá stefnanda og var hann þá fluttur í forgangi á Landspítalann við Hringbraut.Þeir munir sem stefnandi hafði kastaðfram af svölum við [...] voru ónýtir eftir fallið. Þar á meðal var flatskjár,útvarpstæki, glerplata af stofuborði, sturtuhengi og fleira. Lentu munirnir ápalli á neðstu hæð blokkarinnar og á grasi þar við. Samkvæmt vitni sem kom fyrir lögregluhafði verið reynt að fá stefnanda til að hætta að henda niður hlutum enstefnandi hafi þá komið niður og ógnað nágranna með golfkylfu. Samkvæmt upplýsingum frá móðurstefnanda hafði hann kvöldinu áður verið ásamt systur sinni í mat hjá henni.Hvorug þeirra hafi tekið eftir einhverju óvenjulegu í fari hans, en þettastaðfesti móðirin fyrir dómi. Þá er upplýst að eftir mat hafi stefnandi fariðtil B, vinar síns. Samkvæmt skýrslu B hjá lögreglu, sem tekin var sama dag oghandtakan átti sér stað, kvað B stefnanda hafi komið kvöldið áður og verið framá nótt. Hann hafi í stuttu máli verði gjósandi eins og vitnið orðað það; veriðör og hreinskilinn. B hafi sofnað og þegar hann hafi vaknað um morguninn hafistefnandi verið farinn. Upp úr hádegi hringdi téður B í C vin sinn, til aðforvitnast um stefnanda. Þennan sama dag var einnig tekinskýrsla af D, íbúa í íbúð [...], [...]. Kvaðst D allt í einu hafa heyrt dynk ogþá séð að ruslapoki, sem hafði verið hent niður, hafði splundrast. Sá hann aðopinn gluggi var á 4. hæð hússins, en spáði ekki frekar í það. Eftir þetta hafiverið hent niður gardínustöngum, plasmasjónvarpi, hátölurum og fleiru. Fór Dupp á fjórðu hæð og bankaði á dyr íbúðarinnar, sem hann taldi að hlutirnir hafikomið úr. Þar svaraði enginn. Hafi hann svo gengið niður á planið og hittstefnanda þar, sem hann kvað hafa verið beran að ofan í annarlegu ástandi. Munstefnandi hafa náð í golfkylfu inn í bíl og sagt að mikið væri að. Allt væri aðfara til fjandans, en bað D að hringja ekki í lögreglu. Kvað hann stefnandahafa farið út á grasflöt og byrjað að rífa í sundur bréf með Ageli og kreistaþau yfir sig. Hringdi D þá í lögregluna. Þegar stefnandi heyrði í sírenum munhann hafa hlaupið í burtu og benti D lögreglunni þangað sem stefnandi hljóp. E, íbúi á 1. hæð að [...], kveðsthafa séð hálfa búslóð á pallinum hjá sér. Kvaðst hún hafa séð stefnanda ogfannst henni hann „út úr dópaður“. Kvað hún stefnanda hafa haldið á plastbréfummeð hvítum vökva í og hafi sagt, að hann yrði að sprauta úr þessu hér. Kvað húnstefnanda hafa farið í skottið á bílnum sínum, hellt í sig einhverjum vökva ognáð í golfkylfu. Bað stefnandi hana um að fá lánaðan gsm-síma en afþakkað þegarhún bauð honum heimasíma. Eftir það kvað hún hann hafa tekið á rás að leikskólahinum megin við götuna. Í dagbókarfærslu lögreglunnar erskráð að þegar lögreglan kom á staðinn hafi tilkynnandi beint þeim að [...] við[...] og skýrt frá því að nakinn maður, vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í þáátt. Hafi allt verið á öðrum endanum í íbúð stefnanda, talsvert af peningum,ætluð kannabisefni og plöntur lágu á gólfinu. Síðar hafi lögreglan kallað eftiraðstoð en þá var búið að staðsetja stefnanda í íbúð að [...]. Þegar þangað varkomið tók húsráðandi, F, á móti þeim. Í skýrslutöku af F, dagsettri 3.desember 2013, kvaðst hann hafa verið heima hjá sér þennan dag, 11. maí 2010,þegar hann sér mann hlaupa fram hjá glugganum. Kvað hann stefnanda hafa veriðnakinn og farið að maka geli á rúðuna. Kvaðst F hafa kallað á stefnanda ogspurt hvort ekki væri allt í lagi og hvort hann þyrfti aðstoð. F sagðist hafaboðið stefnanda að fara í sturtu. Kvaðst F hafa sagt stefnanda að drífa sig ísturtu og hafi þá tekið eftir því að stefnandi var búinn að læsa útihurðinni.Þegar stefnandi var í sturtunni hafi tveir lögreglumenn bankað á gluggann.Opnaði F fyrir þeim og spurðu lögreglumennirnir tveir hvort hann hefði séð„strípaling á vappi“. F svaraði því játandi og kvað stefnanda vera í sturtu hjásér. Kvaðst hann ekki þekkja stefnanda en tók það fram að hann teldi sér ekkistafa hætta af honum. Hafi stefnandi greinilega verið í miklu andlegu uppnámiog kallað eitthvað úr sturtunni, en F kvaðst ekki hafa heyrt orðaskil. Sagðist Fsíðan hafa séð inn um dyragættina, eftir að lögreglumennirnir voru búnir aðopna lásinn til að komast inn á baðherbergið, þar sem stefnandi hafi verið ísturtu. Lögreglan hafi farið inn og tekið á manninum. F kvaðst ekki hafa séðátök í sturtuherberginu en heyrt lætin. F sagðist hafa séð stefnanda íhandjárnum, liggjandi á gólfinu og lögreglumann með hnéð í bakið á honum aðhandjárna hann. Kvaðst F hafa séð stefnanda þegar hann féll í gólfið og þaðhafi verið eins og hann lyppaðist niður „eins og kerfið í honum hafi slökkt ásér“. Hafi stefnandi ekki hreyft sig og hafi F því beðið lögreglumennina um aðhnoða stefnanda. Kvað hann lögregluna á sama tíma hafa áttað sig á að maðurinnbarðist ekki lengur á móti. Hafi F þá farið að útidyrunum, séð sjúkrabíl ogveifað honum að koma. Sjúkraflutningamenn hafi þá komið inn með sín tæki ogtól. Kvað hann lögregluna þá hafa ætlað að draga stefnanda fram á gang, tekiðhann upp en stefnandi hafi verið háll viðkomu og þegar þeir hafi verið með hanní um lærahæð hafi þeir misst takið og við það hafi stefnandi skollið í gólfið. Fsagði manninn þegar hafa verið meðvitundarlausan þegar þetta gerðist en hnakkihans hafi skollið á flísarnar á gólfinu. Í dagbókarfærslu lögreglunnar kemurfram að lögreglumennirnir hafi ávarpað stefnanda er hann var í sturtu.Stefnandi hafi að því er virtist ekkert heyrt, þ.e. engin viðbrögð komu fráhonum. Ákváðu lögreglumennirnir þá að ná stefnanda úr sturtunni en um leið ogþeir gripu í hendur hans hafi hann veitt mótspyrnu. Hafi þeir þá fært stefnandaí lögreglutök, handjárnað hann og lagt hann á gólfið. Hafi lögreglumennirnirþar að auki orðið að binda fætur hans þar sem hann sparkaði í allar áttir. Framkemur, að á þessum tíma hafi þeir beðið um að fá senda sjúkrabifreið. Ídagbókarfærslunni er öndunarstopp skráð kl. 12:20 og þess getið aðsjúkrabifreið hafi komið nánast samstundis.F staðfesti skýrslu sína fyrirlögreglu í sérstöku vitnamáli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 30. september 2015,en þar lýsti F því að stefnandi hefði verið örvinglaður og viti sínu fjær erhann kom á heimili hans. Hann tók þó fram að engin hætta hefði stafað afstefnanda og hann hafi ákveðið að reyna að róa hann niður.Við komu á LSH var stefnandimeðvitundarlaus, með barkarrennu og kominn með gáttatif. Var hann svæfðurfljótlega eftir komu og fluttur á gjörgæsludeild til kælingar. Í innlagnarnótuá gjörgæsludeild er lýst rispum á öxlum og kvið. Farið var með stefnanda ítölvusneiðmynd af höfði, sem sýndi ekki blæðingu eða önnur áverkamerki.Tölvusneiðmynd af hálshrygg sýndi ekki merki um brot. Á tölvusneiðmynd afbrjóstkassa sáust dreifðar þéttingar, mest í hægra lunga sem vöktu grun umbyrjandi lungnabólgu en hvorki sáust merki um rifbrot né loftbrjóst. Átölvusneiðmynd var að sjá mikla þenslu í maga en ekkert annað athugavert. Við komuá spítalann var þvag einnig sent í lyfjaleit, m.a. fyrir amfetamíni, kókaíni,kannabis, E-töflum o.fl. og reyndist það allt vera neikvætt. Var stefnandi meðmikla truflun á sýrubasa jafnvægi og metabolískt súr, sem leiðréttist smámsaman með lyfjagjöf og öndunarmeðferð. Var stefnandi einnig með mikla hækkun ávöðvaensímum, CK og var myoglobín einnig mjög hækkað, sem benti til útbreiddsvöðvaskaða. Var stefnanda haldið sofandi í öndunarvél og kældur til að draga úrheilaskaða eftir hjartastoppið. Stefnandi var tekinn úr öndunarvélhinn 16. maí 2011, sem gekk vel. Hinn 17. maí 2011, skoðaði G taugalæknirstefnanda og benti taugaskoðun til útbreidds heilaskaða af völdumsúrefnisskorts. Hinn 18. maí 2011 vaknaði stefnandi og virtist vita eitthvað afumhverfi sínu. Þennan dag var hann útskrifaður af gjörgæsludeild á hjartadeild.Þegar ástand hans var á endanum talið stöðugt var stefnandi fluttur til frekariendurhæfingar á Grensásdeild Landspítalans, 16. júní 2011. Í læknisvottorði H,sérfræðings í lyflækningum og hjartasjúkdómum, dagsettu 6. maí 2012, gaflæknirinn álit sitt á mögulegum orsökum þess að stefnandi hefði farið íhjartastopp 11. maí 2010. Annaðist téður læknir stefnanda eftir komu ásjúkrahús. Taldi H orsök hjartastoppsins mjög sennilega tengda handtökunni.Mögulegar orsakir taldi hann helst vera tvær: Í fyrsta lagi væri vel þekkt aðeinstaklingar í annarlegu ástandi, sem eru beittir valdi og sem berjast á móti,geti farið í hjartastopp. Fari öll starfsemi einstaklingsins á fullt, sem valdimiklu álagi á hjartað og orsaki hjartsláttatruflanir. Taldi læknirinn mjög hágildi vöðvaensíma hjá stefnanda styðja að hann hefði reynt mjög á sig í átökumvið lögregluna. Í öðru lagi gæti högg á brjóst valdið hjartastoppi. Varstefnandi í sturtu og þar af leiðandi blautur og sleipur. Lögreglumennirnirhafi hæglega getað misst hann í gólfið, eins og lýst væri af vitni. Þáverandi lögmaðurstefnanda fór þess á leit við héraðsdóm að dómkvaddir yrðu matsmenn til að metaafleiðingar og orsök tjónsatburðarins. Dómkvödd voru þau I hjartalæknir og Jhrl.Um orsakatengsl á millivaldbeitingar lögreglunnar gegn stefnanda í umrætt sinn og þess líkamstjóns semhann varð fyrir kemur fram í matsgerðinni að stefnandi hafði fyrirtjónsatburðinn neytt töluverðs magns af orkugeli. Þá komi fram í sjúkraskráLandspítala að aðstandendum hafi þótt stefnandi vera mjög ör í tvær vikur fyrirtjónsatburð. Þá kemur fram að flestar auka- og eiturverkanir orkugels/orkudrykkjatengist háu koffíninnihaldi þeirra og auk þess eru oft í þeim önnur efni semeinnig innihalda koffín. Á síðustu árum hafi tilfellum koffíneitrana vegnaneyslu orkudrykkja fjölgað og lýst hafi verið dauðsföllum hjá einstaklingum,sem ekki hafi haft merki um hjartasjúkdóm sem talin eru tengjasteitrunaráhrifum þeirra. Koffíneitrun geti leitt til geðrofs oghjartsláttartruflana, sem geti verið lífshættulegar og í sjaldgæfum tilfellumleitt til dauða. Töldu matsmenn ofneysluorkugels/orkudrykkja fyrir tjónsatburð vera líklega skýringu ágeðrofseinkennum, sem stefnandi sýndi í aðdraganda tjónsatburðarins, daginn sematburðurinn gerðist og gæti hún einnig hafa verið meðvirkandi í hjartastoppinusem hann lenti í. Því til stuðnings vísa matsmenn til þess að við komu áspítalann hafi stefnandi verið með miklar truflanir á sýru-basa jafnvægi, ensýrustig í blóði mældist mjög lágt. Væri útilokað að stefnandi hefði lifað meðsvo lágt sýrustig, nema að hafa fengið einhvern tíma til aðlögunar, sem þýddiað líklegast væri um að ræða tveggja til þriggja daga ástand áður en hann fórhjartastopp og að þetta lága sýrustig tengdist inntöku orkugels/orkudrykkjadagana áður. Þá hafi stefnandi við komu á spítalann verið með verulega hækkun ávöðvaensímum, CK og myoglobíni, sem benti til útbreidds vöðvaskaða. Ekki vorumerki um skaða á hjartavöðva. Umrædd hækkun hafi getað leitt til nýrnabilunarog verið meðvirkandi í hjartastoppi. Það sé þekkt að einstaklingar sem eru íannarlegu ástandi og beittir valdi fari í hjartastopp og er þá oft einhverhækkun á vöðvaensímum. Það sé hins vegar afar ósennilegt að sú mikla hækkun semvar á vöðvaensímum hjá stefnanda tengist eingöngu handtökunni. Þó að hún eigieinhvern þátt í hækkun vöðvaensíma er líklegra að þessi mikla hækkun tengist aðmestu leyti miklum æfingum í aðdraganda tjónsatburðar. Þá voru matsmenn ekkisammála þeirri niðurstöðu H læknis að hugsanleg skýring hjartastoppsins væri súað lögreglumenn hafi misst stefnanda í gólfið. Ástæða þess sé fyrst og fremstsú að í skýrslu F vitnis komi greinilega fram að þegar lögreglumennirnir misstustefnanda í gólfið hafi hann verið meðvitundarlaus, auk þess sem því sé lýst aðhann hafi skollið á hnakkann en ekki á brjóstið. Með vísan til þessa töldumatsmenn ekki vera orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu gegn stefnanda ogþess líkamstjón sem hann varð fyrir.Töldu matsmenn líklegustuorsök líkamstjónsins vera það sturlunar- eða geðrofsástand sem hann virtistvera í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun ávöðvaensímum. Allt þetta mætti að mati matsmanna tengja við ofneyslu stefnandaá orkugeli/orkudrykkjum í aðdraganda tjónsatburðar. Var stefnandi metinn tilalgjörs varanlegs miska, þ.e. 100 stiga og 100% varanlegrar örorku. Tímabundiðatvinnutjón var 100% frá tjónsatburði fram að áætluðum stöðuleikatímapunkti.Þjáningatímabil og tímabil tímabundins atvinnutjóns taldist það sama, þar aftaldist stefnandi hafa verið rúmliggjandi frá 11. maí 2010 til 29. september2010. Samkvæmt beiðni stefnandavoru þann 22. janúar 2016 dómkvaddir sem matsmenn í málinu þeir K geð- ogembættislæknir og L lyf- og hjartalæknir. Matsgerð lá fyrir 11. júní það ár.Matsmenn töldu að miðað við lýsingar á atburðinum mætti jafnvel líta á aðgerðirlögreglu sem björgunaraðgerð fremur en að þær hafi valdið hjartstoppi, endahefði stefnandi allt eins getað fengið hjartastopp þótt lögreglan hefði ekkihaft afskipti af honum. Niðurstaða matsmanna var því sú að þeir tölduvaldbeitingu lögreglu ekki geta verið einn af orsakavöldum þess að stefnandifór í hjartastopp. Þá töldu matsmenn ekki að efnið Agel sem talið var aðstefnandi hefði neitt í óhóflegu magni fyrir atvikið gæti orsakað hjartastoppen þó með fyrirvara um að það væri hugsanlegt ef þess væri neytt í mjög miklumagni. Þá töldu matsmenn líkur á hjartastoppi auknar vegna aðgerða lögreglusökum ástands stefnanda fyrir handtökuna. Að lokum töldu matsmenn líkur fyrirþví að stefnandi hefði farið í hjartastopp þótt ekki hefði komið til aðgerðalögreglu. Stefnandi var ósáttur viðmatið og óskaði yfirmats. Yfirmatsmenn voru dómkvaddir 28. október 2016, þau, Mlyf- og hjartalæknir, N taugalæknir og O geðlæknir. Yfirmatsgerð var gefin út1. mars 2017. Matsmenn töldu aukna hættu á hjartastoppi við þær aðstæður þegarnauðsynlegt væri að beita valdi og töldu því líklegt að valdbeiting hefði áttþátt í að valda hjartastoppinu en aðrir þættir gætu verið meðvirkandi. Um fæðubótaefniðAgel töldu matsmenn ekki forsendur til að ætla að það gæti valdið hjartastoppi.Þá töldu matsmenn útilokað að svara því játandi eða neitandi hvort stefnandihefði farið í hjartstopp ef ekki hefði komið til valdbeitingar lögreglu. Á samaveg svöruðu matsmenn spurningunni ef stefnandi hefði fengið að klára sturtunaóáreittur. Niðurstaða matsmanna var sú að það yrði að teljast líklegt aðvaldbeiting hefði átt þátt í hjartastoppinu. Fyrir dómi kom fram að matsmenntöldu meira en helmingslíkur á þessu. Við upphaf aðalmeðferðarvar lögð fram geðrannsókn P geðlæknis frá 25. september 2017 en hana framkvæmdilæknirinn vegna annars dómsmáls nr. E-[...]/2016 sem stefnandi höfðaði gegnVerði tryggingum hf. vegna atviksins. Læknirinn var dómkvaddur til verksins 29.júní 2017. Um hvort og að hvaða leyti viðbrögð stefnanda hafi verið ósjálfráðvið handtökuna segir læknirinn það sitt álit að stefnandi hafi verið haldinngeðrofi og síðan miklu óráði í kjölfar alvarlegra veikinda við handtökuna. Þvíhafi öll viðbrögð hans verið algjörlega ósjálfráð. Þá taldi læknirinn aðstefnandi hefði ekki gert sér neina grein fyrir gerðum sínum og afleiðingumþeirra. Undir- og yfirmatsmenngáfu allir skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu skýrslu Q, fyrrum lögreglumaður og lögreglumennirnir R, S og T.P geðlæknir kom fyrir dóm og H hjartalæknir gaf símaskýrslu. Að endingu vartekin skýrsla af móður stefnanda.III.Stefnandi byggir á því,að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna ólögmætrar og harkalegrarhandtöku (valdbeitingar) lögreglunnar. Byggir stefnandi á að orsökhjartastoppsins hafi verið óheimilar og óþarflega harkalegar aðgerðirlögreglunnar. Því sé íslenska ríkið bótaskylt vegna líkamstjónsins. Byggirstefnandi kröfu sína á almennu skaðabótareglunni, auk 3. mgr. 228. gr. laga nr.88/2008, um meðferð sakamála en sú bótaregla sé hlutlæg. Hafi stefnandi ekkistuðlað sjálfur að þessum harkalegu aðgerðum lögreglunnar, nema þá með litlumótvægi og ósjálfráðum viðbrögðum, sem hafi verið eðlileg miðað við aðstæður.Verði ekki fallist á að ábyrgð stefnda sé hlutlæg byggir stefnandi á því, meðvísan til sömu lagagreinar og hinnar almennu skaðabótareglu, að lögreglan beriábyrgð vegna sakar þeirra starfsmanna sinna er að handtökunni stóðu. Fyrir það fyrsta byggirstefnandi á að handtaka lögreglunnar í umrætt sinn hafi verið ólögmæt, þar semekki verði séð að heimild hafi verið til hennar með vísan til 1. mgr. 90. gr.laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ósannað sé að rökstuddur grunur hafiverið um að stefnandi hafi framið brot í umrætt sinn sem sætt getur ákæru, endahafi hann aldrei verið ákærður í framhaldinu. Þá verði ekki heldur séð aðhandtakan hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot,enda hafi stefnandi verið í boði húsráðanda á heimili hans í sturtu, eða til aðtryggja návist hans eða öryggi eða öryggi annarra. Þá byggir stefnandi á aðlögreglunni hafi þar að auki verið óheimilt að opna sér leið inn á baðherbergiðog rífa stefnanda úr sturtunni án dómsúrskurðar eða sérstaks samþykkisstefnanda. Þá telur stefnandi þar að auki augljóst að ekki hafi verið umsamfellda eftirför í húsið að ræða sem réttlætt geti það að baðherbergið hafiverið opnað án dómsúrskurðar eða samþykkis stefnanda. Enn fremur byggirstefnandi á að lögreglan hafi ekki í umrætt sinn gætt meðalhófs við handtökuna.Ljóst sé að lögreglu hafi verið unnt að beita mun vægari úrræðum viðhandtökuna. Meðalhófsreglan sé bæði skráð og óskráð meginregla í íslenskumlögreglurétti og talin þýðingarmikil við framkvæmd lögreglustarfa. Reglan fáiog stoð í stjórnsýslulögum, lögum nr. 88/2008, mannréttindasáttmála Evrópu og68. og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi vísar og til 2. mgr. 13. gr.lögreglulaga nr. 90/1996 og greinargerðar með lögunum.Þótt handhöfumlögregluvalds sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna megiþeir þó aldrei ganga lengra en þörf sé á hverju sinni, sbr. 14. gr. lögrl. Stefnandi bendir á aðþegar lögreglumenn komu að húsnæði F hafi téður F sagt lögreglu að engin hættastafaði af stefnanda. Þá hafi legið fyrirá þessum tímapunkti að stefnandi hafiverið óvopnaður. Þar af leiðandi hafi engin þörf verið á þeim harkalegu úrræðumsem lögreglan beitti í umrætt sinn og sem urðu þess valdandi að stefnandi fór íhjartastopp. Þá hafi lögreglunni veriðí lófa lagið að leyfa stefnanda að klára sturtuna og reyna að róa hann niðuráður en hann væri handtekinn. Hefði þess háttar meðalhófs verið gætt sé ljóst,að mati stefnanda, að hann hefði ekki farið í hjartastopp Stefnandi byggir á því,með hliðsjón af þeim hátternisreglum og verklagsreglum lögreglu, þeirrikunnáttu sem lögreglumenn eigi að búa yfir, og þar af leiðandi á grundvellireglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð, að stefndi beri sönnunarbyrði um aðlíkamstjón stefnanda sé ekki á ábyrgð lögreglunnar. Alla vega eigi þessarreglur að létta sönnunarbyrði stefnanda. Í því sambandi verði stefndi að sýnafram á hvað réttlæti þá handtöku sem stefnandi varð fyrir og hver hafi veriðraunveruleg ástæða handtökunnar. Varðandi orsakatengslmilli handtöku lögreglunnar og hjartastoppsins byggir stefnandi á því að orsökþess að hann hafi farið í hjartastopp sé að öllum líkindum tengd handtökunni,líkt og H, sérfræðingur í lyflækningum og hjartasjúkdómum, telji samkvæmtvottorði sínu. Þar telji læknirinn mögulegar og líklegar orsakir vera aftvennum toga. Í fyrsta lagi, að sú valdbeiting sem lögreglan hafi beittstefnanda í því ástandi sem hann var hafi verið þess valdandi að stefnandi hafifarið í hjartastopp. Í öðru lagi, að höggið þegar lögreglumenn hafi misststefnanda á gólfið, hafi leitt til hjartastoppsins. Sé hjartastoppið sennilegafleiðing þessara tveggja hugsanlegra orsaka. Telur stefnandi í þessusamhengi að ekki sé tækt að byggja á niðurstöðu undirmats en þar gefi matsmennsér ákveðnar fyrir fram gefnar forsendur, sem við nánari athugun standist ekkiendilega nánari skoðun. Hann vísar hins vegar yfirmats sem hann telur að byggjaberi á um orsakatengsl í málinu.Fjallað sé í undirmatialmennt um auka- og eiturverkanir orkugels/orkudrykkja, án þess að nokkurntímann hafi farið fram rannsókn eða skoðun á sjálfu gelinu sem stefnandi tókinn daginn sem hann var handtekinn. Af lestri matsgerðarinnar megi ráða að þaðvirðist skipta meginmáli í niðurstöðu matsmanna að stefnandi hafi innbyrt mikiðmagn af koffíndrykkjum. Umrætt Agel hafi aldrei verið rannsakað af matsmönnum.Byggir stefnandi á að þannig sé ómögulegt og óvísindalegt að gefa sér þærforsendur að gelið hafi valdið eða átt þátt í því að valda hjartastoppinu. Þaðsé til dæmis engan veginn sannað að stefnandi hafi orðið fyrir koffíneitrun. Þá telur stefnandi þaðfurðulegt að vottorði H sé alfarið hafnað, m.a. með vísan til þess að stefnandihafi fallið með hnakkann á gólfið, er lögreglumennirnir misstu hann, en ekki ábrjóstið. Byggir stefnandi á að þrátt fyrir að hann hafi fallið með hnakkann ífyrstu viðkomu við gólfið hafi hann einnig orðið fyrir átökum við handtökunasem eins líklegt sé að hafi orsakað hjartastoppið. Allavega sé ótækt að útilokaþað einungis með vísan til þess að stefnandi hafi fallið með hnakkann á gólfið.Telur stefnandi í þvíljósi að undirmatsgerð svari ekki með fullnægjandi hætti hvort handtakan semslík hafi verið aðalorsakavaldur eða meðorsök þess að stefnandi fór íhjartastopp. Byggir stefnandi á að til þess að orsakatengsl teljist vera fyrirhendi í skaðabótarétti sé nægilegt að orsakasamband sé til staðar þótt ekki séum að ræða meginorsök. Að þessu hafi ekki verið gætt við vinnslumatsgerðarinnar. Byggir stefnandi á að hinharkalega og óþarfa handtaka (valdbeiting) sem viðhöfð hafi verið aflögreglunni í umrætt sinn hafi verið meðvirkandi þáttur í að stefnandi fór íhjartastopp með fyrrnefndum afleiðingum. Hið meinta geðrofsástand hans þennandag geti ekki talist nægjanlegur orsakavaldur eitt og sér. Með hliðsjón afframangreindum málsástæðum gerir stefnandi einnig kröfu um greiðslu miskabótaskv. a- og b-liðum 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og telur stefnandi hæfilegarmiskabætur vera 3.000.000 króna. Byggir stefnandi á því að lögreglu hafibrostið lögmæt skilyrði til handtökunnar, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr.88/2008. Hún hafi þar að auki ruðst inn á heimili, þar sem stefnandi varstaddur, án húsleitarheimildar, sem fari einnig í bága við lög nr. 88/2008 ogstjórnarskrárvarinn rétt stefnanda.Ekki hafi legið fyrirrökstuddur grunur í skilningi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um ætlaðarefsiverða háttsemi stefnanda. Telur stefnandi því að lögmæt skilyrði hafibrostið til þessara aðgerða, ekki hafi verið tilefni til þeirra af hálfulögreglu og þær verið framkvæmdar á óþarfalega hættulegan, særandi og móðgandihátt. Hafi hin harkalega og óþarfa handtaka að endingu leitt til mikils tjónsfyrir stefnanda eins og komið er að hér að ofan. Eigi stefnandi því rétt tilbóta, með vísan til XXXVII. kafla laga nr. 88/2008 og 26. gr. skaðabótalaga. Stefnandi styður dómkröfur sínar viðsakarregluna, meginreglur um vinnuveitandaábyrgð og sakamálalög nr. 88/2008.Þá styðji stefnandi dómkröfur sínar við meginreglur skaðabótaréttar, svo semregluna um vinnuveitendaábyrgð. Byggir stefnandi jafnframt kröfu sína ámeðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og stjórnskipunarréttarins og á lögreglulögum,en viðurkenningarkröfu sína byggi hann á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferðeinkamála nr. 91/1991. Einnig byggi stefnandi á þeim lagaákvæðum ogréttarreglum sem þegar hafi verið nefndar, sem og reglum skaðabótaréttar umsérfræðiábyrgð og sennilega afleiðingu og á skilyrðiskenningunni. Hvaðmálskostnað varði sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.IV.Stefndi bendir á vegna kröfustefnanda um viðurkenningu skaðabótaskyldu sem byggi á 2. mgr. 25. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála að í fjölda dóma Hæstaréttar hafi tilvitnað ákvæðiverið skýrt með þeim hætti að sá sem höfði mál til viðurkenningar áskaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrirtjóni og gera grein fyrir í hverju tjón hans felist svo og tengslum þess viðhið ætlaða skaðaverk. Í máli þessu liggi fyrir að stefnandifékk dómkvadda tvo matsmenn sem skiluðu matsgerð 10. september 2014. Óskað varm.a. eftir mati á því hvort orsakatengsl væru til staðar á milli valdbeitingarlögreglu gagnvart stefnanda og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. Á bls. 18í undirmatsgerð sé gerður reki að því að svara ofangreindri spurningu. Séniðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna á þann veg að ekki séu orsakatengsl millivaldbeitingar lögreglu gagnvart stefnanda og þess líkamstjóns sem hann varðfyrir. Stefnandi geri reyndar grein fyrir þessari niðurstöðu í stefnu en teljiekki tækt að byggja á niðurstöðu matsgerðarinnar. Matið hafi engu að síðurverið unnið af tveimur óvilhöllum aðilum. Í matsgerð sé reifað ástand stefnandadagana fyrir tjónsatburð. Komi þar m.a. fram að stefnandi hafði ekki sofið í umfimm sólarhringa og farið í líkamsrækt u.þ.b. þrisvar sinnum á dag. Einnig hafi hann verið hálf manískurog talað um fátt annað en orkugelið sem hann ætlaði að hefja innflutning á. Taki matsmenn undir álit U,yfirlæknis á gjörgæsludeild þar sem fram komi að það væri útilokað að stefnandihefði lifað með eins lágt sýrustig og mældist í honum nema að líkaminn hefðifengið einhvern tíma til aðlögunar.Að mati U sé líklegast að þarna hafiverið um að ræða tveggja eða þriggja daga ástand áður en stefnandi hafi farið íhjartastopp og að þetta lága sýrustig tengist inntöku orkugels/orkudrykkjadagana áður.Eins og áður segir hafi niðurstaðahinna dómkvöddu matsmanna verið sú að ekki væru orsakatengsl millivaldbeitingar lögreglu og líkamstjóns. Byggi það m.a. á vitnisburði húsráðandaum að stefnandi hafi þegar verið meðvitundarlaus áður en hann skall í gólfið ogauk þess hafi hann skollið á hnakkann en ekki brjóstið eins og H læknir taldiað gæti verið hugsanleg skýring. Niðurstaða dómkvaddra undirmatsmannageri það að verkum að dómkrafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu fullnægiekki þeim kröfum sem 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geri til slíkra krafna umviðurkenningu.Stefndi bendi á að samkvæmt gögnummálsins séu ekki tengsl milli tjóns og atvika máls og beri því í samræmi viðfjölmörg dómafordæmi að vísa þessari kröfu frá dómi sjálfkrafa (ex officio)nema dómurinn komist að annarri niðurstöðu en hinir dómkvöddu matsmenn sbr. 66.gr. laga nr. 91/1991.Varðandi kröfu stefnanda ummiskabætur að fjárhæð 3.000.000 kr. vill stefndi að fram komi að á þeim tímaþegar atburðir gerðust lá stefnandi undir grun um eignaspjöll og fíkniefnalagabrot.Hafði stefnandi einnig lagt nágrannasína í stórhættu með því að henda þungum hlutum fram af svölum og það hafi ekkiverið honum að þakka að enginn varð fyrir þeim hlutum. Var þetta leiksvæðibarna og útiverusvæði. Stefnandi hafi hlaupið um nakinn að því er virtistblóðugur og vopnaður golfkylfu. Hann hafi fundist í húsi þar sem hann átti ekkierindi og var ástand hans með þeim hætti að tryggja þurfti návist hans ogöryggi.Með þessu framferði hafi stefndivaldið eða a.m.k. stuðlað að þeim aðgerðum sem hann nú reisir kröfur sínar á,sbr. 2. og 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt undirmati hafi stefnandisjálfur komið sér í það ástand sem leiddi til þeirrar niðurstöðu sem orðin er. Handtakan hafi ekki verið ólögmæt ogekki um að ræða óþarflega harkalegar aðgerðir samkvæmt þeim skýrslum sem liggifyrir. Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 komi fram skilyrði fyrir handtöku enþar segi m.a. að lögreglu sé rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur leikurá að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynlegtil að koma í veg fyrir áframhaldandi brot o.s.frv.Í þessu máli hafi legið fyrirrökstuddur grunur um ýmis brot og þótt ekki hafi verið ákært breyti það þvíekki að ákvörðun um að handtaka stefnanda hafi verið rétt og uppfyllt skilyrðilaganna. Ástæða þess að ákæra hafi ekki verið gefin út sé sú aðheilsufarsástand stefnanda eftir þessa atburði hafi ekki gefið tilefni til aðákæra og ná fram sakfellingu.Varðandi röksemdir stefnanda um aðlögreglu hafi verið óheimilt að fara inn og sækja hann í sturtu bendir stefndiá að húsráðandi hafi ekki gert neina athugasemd við lögreglu eftir atburðinn néheldur hafi hann varnað lögreglu inngöngu. Eins og húsráðandi lýsti atburðumeftir á hafi hann sagt stefnanda hafa öskrað og látið einkennilega í sturtunni.Það sé ekki rétt sem fram komi í stefnu að húsráðandi hafi verið því alfariðmótfallinn að lögregla færi inn á heimili hans.Auk þess eigi hér við ákvæði 2. mgr.75. gr. laga nr. 88/2008. Full ástæða hafi verið fyrir lögreglu,miðað við upplýsingar vitna og aðstæður í [...], að hafa áhyggjur af og eltastefnanda. Hafi upplýsingar gefið tilefni til að ætla að hann gæti veriðsjálfum sér og öðrum hættulegur og við þær aðstæður hafi hann verið eltur oghandtekinn.Varðandi meðalhóf þá hafi þess veriðgætt við handtökuna og miðað við þá aðstöðu sem var til staðar. Þá liggi það fyrir samkvæmt gögnummálsins að stefnandi hafi misst meðvitund vegna eigin neyslu og skorts á svefniog það síðan leitt til hjartastopps eins og segi á bls. 19 í undirmati. Þannig sé ekkert í gögnum málsins sembendi til að lögregla hafi gengið lengra en ástæða var til eða brotið gegnmeðalhófsreglu.Tilvísun stefnanda til 26. gr.skaðabótalaga nr. 50/1993 er hafnað enda eigi skilyrði þeirrar greinar ekki viðhér. Hvorki sé um að ræða ásetning né stórfellt gáleysi af hálfu lögreglu íþeirri atburðarás sem þarna varð.Eins og fram sé komið hafi legiðfyrir rökstuddur grunur um ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda og lögreglataldi lögmæt skilyrði til staðar til að handtaka hann. Aðgerðin hafi ekki veriðharkalegri en ástæða var til en stefnandi hafi barist kröftuglega á móti einsog fram komi í gögnum málsins.Samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr.88/2008 megi lækka eða fella niður bætur ef sakborningur hefur valdið eðastuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Það ákvæði eigi við íþessu máli.Þar sem stefnandi málsins hafi komiðsér sjálfur í það ástand sem leiddi til þeirra afleiðinga sem urðu beri hannsjálfur ábyrgð á því sem gerðist.Stefnandi beri sönnunarbyrði fyriröllu sem bótakröfu hans viðkemur m.a. um sök, ólögmæti, orsakasamband ogsennilega afleiðingu. Stefndi byggi á því að ekki séu til staðar skilyrði tilað dæma bætur í máli þessu.Tilvísun stefnanda tilstjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 ogrökstuðningi er vísað á bug.Ef fallist verður á með stefnanda aðstefndi sé bótaskyldur er gerð krafa um verulega lækkun frá dómkröfumstefnanda. Sé ljóst að stefnufjárhæðin sé fjarri því sem dómaframkvæmd hefurtalið eðlilegt í bótamálum af þessum toga. Engin rök liggi til þess að breytaþeirri framkvæmd í þessu máli.Bótafjárhæðin sjálf sé ekki byggð áneinum rökum. Enginn grundvöllur sé fyrir fjárhæðinni né heldur reynt að sýnafram á í hverju tjónið er fólgið. Sé kröfufjárhæðin þannig órökstudd með öllu.Að öðru leyti er vísað tilmálsástæðna og lagaraka varðandi aðalkröfu stefnda. Stefnandi vísar ummálskostnað til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.V.Stefndi reifar ígreinargerð sjónarmið sem hann telur að leiða eigi til frávísunar málsinssjálfkrafa (ex officio) sökum þess að stefnandi hafi ekki sannað orsakatengsl ámilli aðgerða lögreglu og þess ástands sem stefnandi búi við í dag. Því hafiekki tekist sönnun um að stefnandi hafi, vegna ætlaðs skaðaverks, orðið fyrirfjárhagslegu tjóni og því ekki fullnægt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr.91/1991, um meðferð einkamála, til að höfða viðurkenningarmál. Rétt er að íundirmati var ekki talið að valdbeiting lögreglu hefði átt þátt í hjartastoppihjá stefnanda. Í yfirmati kom hins vegar fram að matsmenn töldu líklegt aðvaldbeiting hefði átt þátt í hjartastoppinu. Fyrir dómi kom fram hjá öllumyfirmatsmönnum að með þessu væri átti við meiri líkur en 50%. Í ljósi þessa ogþeirrar staðreyndar að stefnandi er metinn til 100% varanlegrar örorku og 100stiga miska vegna þessa atviks verður að telja að stefnandi eigi rétt á því aðum kröfu hans verði fjallað efnislega og skilyrðum 2. mgr. 25. gr. sé þvífullnægt.Ekki er gerður ágreiningurum aðdraganda þess að lögregla kom umrætt sinn að [...] í Kópavogi. Tilkynninghafði borist um átök og að maður vopnaður golfkylfu væri fyrir utan húsið. Einnig var tilkynnt ummann sem væri að rústa íbúð á fjórðu hæð. Er lögreglumenn komu á staðinn varþeim sagt að nakinn maður vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í átt að kirkjuskammt frá og haft í hótunum við nærstadda. Þegar að [...] var komið varlögreglu tilkynnt af aðilum á vettvangi að maðurinn hefði hlaupið inn íkjallaraíbúð að [...]. Framburður lögreglumanna sem ástaðinn komu er einróma um að húsráðandi í íbúðinni sem stefnandi hafði fariðinn í hafi á engan hátt sett sig á móti því að lögregla kæmi inn og verður ekkiheldur annað ráðið af framburði hans sjálfs fyrir dómi 30. september 2015. Einsog atvikum hefur verið lýst verður að líta svo á að ekkert bendi til þess aðlögregla hefði þurft að afla sér húsleitarheimildar í umrætt sinn og hefurþetta atriði enga þýðingu við úrlausn málsins. Framburður lögreglumanna fyrir dómium ástandið á stefnanda þegar lögregla kom að honum er ekki með öllu samhljóðaenda gerðust atburðir fyrir næstum sjö og hálfu ári síðan. Um hitt erulögreglumenn sammála, að þegar reynt var að tjónka við stefnanda og handtakahann lét stefnandi öllum illum látum. Eitt vitnanna sagði að hann hefði veriðviti sínu fjær, annað að hann hefði fengið æðiskast, þriðja vitnið lýsti þvísvo að hann hefði verið kolvitlaus, streist á móti og verið í sturlunarástandi,fjórði lögreglumaðurinn sagði stefnanda hafa öskrað óstjórnlega og hafi hannverið í öðrum heimi. Allir voru lögreglumennirnir sammála um að nauðsynlegthefði verið að handtaka stefnanda við þær aðstæður sem höfðu skapast en þeirhefðu ekki náð neinu sambandi við stefnanda sökum ástands hans. Þá kom fram aðaðstæður hefðu verið nokkuð hættulegar og nauðsynlegt að forða stefnanda fráþví að skaða sjálfan sig miðað við aðstæður á baðherberginu og ástandstefnanda. Lögregla taldi fullljóst að handtaka færi fram ef sömu aðstæðursköpuðust að nýju. Ekkert er heldur komið fram í málinuum að handtakan hafi verið óþarflega harðneskjuleg en lögreglumaður semfylgdist með álengdar taldi hana hafa verið fumlausa og gengið hratt fyrir sig.Framburður húsráðanda um að lögreglumaður hafi sett hné í bak stefnanda færekki stuðning í öðrum gögnum málsins og jafnvel þótt um slíkt hefði verið aðræða þá verður því ekki slegið föstu að það hefði verið eitthvert úrslitaatriðium það sem á eftir kom, auk þess sem að til sanns vegar mætti þá og færa aðnauðsynlegt hefði verið að beita slíkum tökum á stefnanda miðað við ástandhans. Hið sama gildir um þann framburðhúsráðanda að stefnandi hafi skollið með hnakkann í gólfið þegarlögreglumennirnir hafi misst hann. Þeir fjórir lögreglumenn sem komu fyrirdóminn staðhæfðu að þetta hefði ekki gerst og til þess er að líta þegarframburður húsráðanda er metinn að aðstæður voru mjög þröngar inni á baðinu ogjafnframt nokkur þröng á þingi þegar handtakan átti sér stað en samkvæmtlögregluskýrslu verður ekki betur séð en að sex lögreglumenn hafi veriðviðstaddir handtöku stefnanda. Sama gildir hér og um að lögreglumaður hafi setthné í bak stefnanda að ekki liggur fyrir nein sönnun um það í málinu að svonafall hafi getað valdið hjartastoppinu. H hjartalæknir taldi hins vegar í vottorðiað högg á brjóst gæti valdið hjartastoppi. Ekki er heldur óvarlegt að ætla aðef litið yrði, þrátt fyrir framangreint, svo á að lögregla hefði misststefnanda á gólfið í baðherberginu hefði það verið vegna mikillar bleytu ágólfinu, vegna þess að stefnandi var sjálfur rennblautur og sleipur og vegnaerfiðra aðstæðna og yrði þá talið til óhappatilviks. Með vísan til alls framangreindstelur dómurinn með öllu ósannað að lögreglumenn hafi gerst sekir um saknæmaháttsemi við handtöku stefnanda eða að handtakan hafi verið ólögmæt af öðrumorsökum. Verður ekki annað séð en að aðstæður umrætt sinn við handtökuna hafiverið með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr.88/2008 eða í 2. mgr. 93. gr. laganna og má til sanns vegar færa að reynt hafiverið að gæta þess eftir föngum að stefnandi ynni tjón á sjálfum sér eða öðrum,sbr. síðari málslið þess ákvæðis. Eins og ástandi stefnanda hefur verið lýstverður ekki séð að hægt hefði verið að beita vægari úrræðum umrætt sinn ogverður því talið að meðalhófs hafi verið gætt.Ekki verður fallist á að framangreindlagafyrirmæli eigi ekki stoð í stjórnarskrá sbr. 1. mgr. 67. gr. hennar eðabrjóti gegn mannréttindasáttmála Evrópu.Ekkert bendir til þess að aðgerðirlögreglu hafi verið óheimilar og óþarflega harkalegar eins og stefnandi byggirá. Því eru engin efni til að fallast á bótaskyldu stefnda á grundvelli almennusakarreglunnar og reglna um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum sínum.Stefnandi byggir kröfu sína jafnframtá 3. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Stefnandi byggir ekkiá því í stefnu málsins að 1. mgr. ákvæðisins eigi við en nefndi það viðaðalmeðferð að málið gegn stefnanda hefði verið fellt niður. Lögmaður stefndabenti á að sú ákvörðun hefði einvörðungu byggst á heilsubresti stefnanda og erekki ástæða til að draga þá fullyrðingu í efa miðað við málsatvik. Þettaskiptir þó ekki meginmáli því fjalla verður um þátt stefnanda í atburðarásinnihvort sem byggt yrði á 1. eða 3. mgr. 228. gr. sbr. 2. mgr. og síðari málslið3. mgr. Dómurinn telur fram komna sönnun ímálinu um að stefnandi hafi verið í geðrofsástandi umrætt sinn. Byggir þetta áframburði lögreglumanna og vitna fyrir lögreglu, framburði matsmanna fyrir dómiásamt geðrannsókn P geðlæknis og framburðar hans fyrir dómi. Því verður slegið föstu að stefnandihafi valdið því með hegðan sinni að lögregla taldi brýna nauðsyn bera til þessað handtaka hann umrætt sinn. Lögmaður stefnanda tefldi því fram viðaðalmeðferð málsins að ef gengið yrði út frá því að stefnandi hefði verið ígeðrofi við handtökuna þá hafi hann ekki gert sér grein fyrir hátterni sínu ogþví ekki verið meðvitaður um að hegðan hans væri til þess fallin að leiða tilhandtöku lögreglu. Því verði bótaskyldu ekki hafnað á grundvelli seinnimálsliðar 3. mgr. 228. gr. Dómurinn hafnar þessu sjónarmiði ogverður lagt til grundvallar að aðili sem kemur sér í ástand sem gerir það aðverkum að hann gerir sér ekki grein fyrir gjörðum sínum, er jafnan í slíkuástandi eða lendir í því af einhverjum orsökum, geti ekki byggt á þessu ákvæðief viðkomandi sannlega kallar yfir sig lögregluaðgerð s.s. handtöku eins og íþessu máli. Telja verður að slíkt hefði þurft að koma skýrt fram í ákvæðinusjálfu ef ráðagerð löggjafans var hin gagnstæða.Ályktun í framangreinda veru má og aðmati dómsins byggja á þeim grunnrökum sem búa að baki reglunni um óðs mannsvíg, í 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar, þótt aðstaðan sem þar er lýst sévissulega önnur. Með vísan til framangreinds verðurþví talið að stefnandi hafi sjálfur valdið aðgerðum lögreglu og með þvífyrirgert rétti sínum til bóta samkvæmt 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferðsakamála. Niðurstaða dómsins er því sú aðstefndi beri hvorki bótaábyrgð í málinu á grundvelli almennu sakarreglunnar néá grundvelli þeirrar hlutlægu reglu sem 228. gr. geymir.Af framangreindu virtu er ekki ástæðatil umfjöllunar um hvort það hafi verið handtaka lögreglunnar sem olli því aðhluta eða öllu að stefnandi lenti í hjartastoppi eða hvort það hafi verið fyrstog fremst ástand stefnanda sjálfs. Hið sama gildir um þá málsástæðu hvort þaðað stefndi lenti í hjartastoppi geti talist sennileg afleiðing af lögmætumaðgerðum lögreglu. Með vísan til framangreinds verðurþví stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Rétt þykir að málskostnaður falliniður. Stefnandi hefur lagt framgjafsóknarleyfi í málinu sem útgefið var 5. júlí 2012 og því greiðist málkostnaður hans úr ríkissjóði. Að hafðri hliðsjón afmálskostnaðarkröfu lögmanns stefnanda sem byggir á tímaskráningu og umfangimálsins er þóknun lögmanns ákveðin 1.800.000 krónur að meðtöldumvirðisaukaskatti. Fyrir hönd stefnandaflutti málið Steingrímur Þormóðsson hæstaréttarlögmaður og fyrir hönd stefnda,Ólafur Helgi Árnason hæstaréttarlögmaður. Dómþennan kveða upp Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari, dómsformaður, ogmeðdómsmennirnir Davíð O. Arnar hjartalæknir og Nanna Briem geðlæknir.D Ó M S O R ÐStefndi, íslenska ríkið, er sýknaðuraf kröfum stefnanda A. Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnandagreiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.800.000 krónur. |
Mál nr. 260/1999 | Verksamningur | S var félagi í vörubílstjórafélaginu M. Venja var að M tæki að sér verk og skipti hagnaði af þeim á milli félagsmanna sinna í hlutfalli við þá vinnu sem þeir lögðu í þau. M tók að sér verk við vegagerð og samdi síðar auk þess um að taka að sér viðbótarverk við ræsagerð á nálægum slóðum. S vann að ræsagerðinni og varð nokkur hagnaður af því verki. Reis ágreiningur með honum og M um hvort gera ætti viðbótarverkið upp sérstaklega, þannig að þeir einir nytu hagnaðarins sem að því unnu eða hvort gera ætti viðbótarverkið upp með aðalverkinu. Talið var að um væri að ræða sjálfstætt verk og var fallist á kröfu S um greiðslu úr hendi M. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 1999 og krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Eins og greinir í málavaxtalýsingu héraðsdóms gerðu áfrýjandi og Vegagerðin með sér verksamning um lagningu Hálsasveitarvegar í Borgarfirði 2. júlí 1997. Af hálfu áfrýjanda, sem var verktaki, unnu við verkið 20 félagsmenn. Á verkfundi samningsaðila 1. október 1997 var því lýst að verkinu væri lokið, nema hluta frágangs og lítilsháttar lagfæringum á frágangi ræsa. Á fundi þessum sömdu samningsaðilar um viðbótarverk, sem svo er bókað: „Verktaki tekur að sér sem viðbótarverk að vinna ræsagerð á Þorgautsstaðasýki, Teigsá, Hvammslæk, Sámsstaðagili og við Miðfossa. Samningsverð er kr. 3.628.100. ...“ Af hálfu áfrýjanda unnu hið síðara verk stefndi, sem var verkstjóri, og annar maður. Var því lokið í nóvember 1997. Ágreiningslaust er með málsaðilum, að áfrýjandi skuli gera upp fyrir hvert verk eingöngu við þá, sem það unnu, enda sé það venja, sem báðir vísa til. Ágreiningurinn lýtur að því einu, hvort telja skuli verkið, sem samið var um 1. október 1997, sjálfstætt verk eða hluta af verkinu við Hálsasveitarveg. Telur áfrýjandi það vera hluta af því síðarnefnda og að haga beri uppgjöri fyrir það samkvæmt því, en stefndi telur það sjálfstætt verk og því skuli einungis deila hagnaðinum milli þeirra, sem það unnu. Verkið, sem áfrýjandi samdi um við Vegagerðina 1. október 1997, var ekki við þann hluta Hálsasveitarvegar, sem fyrri verksamningur þeirra tók til. Um þetta viðbótarverk var gerður sérstakur verksamningur. Samkvæmt honum átti að vinna að tilteknum framkvæmdum á ákveðnum verktíma og gegn umsaminni greiðslu. Við þessar framkvæmdir var sérstakur verkstjóri. Upphaflega verkinu var nánast lokið þegar samningur var gerður um viðbótarverkið. Verður því að líta svo á að þetta hafi verið nýtt og sjálfstætt verk, sem áfrýjanda bar að gera upp við þá, sem það unnu eftir vinnuframlagi þeirra samkvæmt venju, enda ekki á annan veg sérstaklega samið. Verður héraðsdómur því staðfestur. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Vörubifreiðastjórafélagið Mjölnir, greiði stefnda, Sævari Sigurðssyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Suðurlands 31. mars 1999. Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi hinn 4. þessa mánaðar, er höfðað af stefnanda, Sævari Sigurðssyni, kt. 180540-4079, Hjarðarholti 6, Selfossi, á hendur stefnda, Mjölni, vörubílstjórafélagi, kt. 470269-2869, Hrísmýri 1, Selfossi, með stefnu, útgefinni 15. október 1998, en birtri 10. nóvember 1998. Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum „skuld að fjárhæð kr. 401.455,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 01.07.1998 til greiðsludags.”. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. II. Sumarið 1997 gerðu stefndi og Vegagerð ríkisins með sér verksamning um lagningu svonefnds Hálsasveitarvegar í Borgarfirði. Verklaun stefnda voru 29 milljónir króna. Verkið hófst 11. júlí 1997. Hinn 1. október það ár, þegar því verki var lokið eða því sem næst, var ákveðið að stefndi tæki að sér verk samhliða þessu verki en í öðru sveitarfélagi. Var um að ræða ræsagerð í Hvítársíðu og við Andakíl. Umsamin verklaun til stefnda vegna þessa voru 3.628.100 krónur. Stefndi fékk tvo félagsmenn sína, þá Helga Sigurðsson og stefnanda, til að annast ræsagerðina í Hvítársíðu og við Andakíl, en þeir höfðu unnið að lagningu Hálsasveitarvegar ásamt öðrum félagsmönnum stefnda. Hófu þeir verkið í október 1997, en luku verkinu í lok nóvember sama ár. Stefnandi hefur verið í hinu stefnda félagi í mörg ár og meðal annars setið í stjórn félagsins. Fram kom við meðferð málsins að félagið hefur á síðustu tíu árum breyst mikið. Það var áður stéttarfélag, en tilgangur þess er nú aðallega að annast fyrir félagsmenn tilboðsgerð í hin ýmsu verk í nafni félagsins, eða taka að sér verk með öðrum hætti, og bjóða félagsmönnum að vinna verkin og skipta hagnaði milli þeirra félagsmanna sem að verki unnu, en félagið hefur fengið óverulegan eða engan hluta af hagnaði vegna verka. Félagsmenn í hinu stefnda félagi munu vera um 30 sjálfstætt starfandi vörubílstjórar. Umsjón með tilboðum stefnda í hin ýmsu verk hefur verið í höndum sama manns, Róberts Róbertssonar, framkvæmdastjóra stefnda og hefur hann annast uppgjör til félagsmanna stefnda á hagnaði vegna verka sem stefndi hefur útvegað félagsmönnum sínum. Þá mun einnig vera nokkuð um það að félagsmenn stefnda hafi tekið að sér ýmis verk í eigin nafni án milligöngu stefnda. Í máli þessu er deilt um hvort tengsl milli þeirra verka sem hér um ræðir séu með þeim hætti að ekki verði á milli skilið. Þannig að stefnda hafi við uppgjör verið rétt að líta á bæði verkin og hagnað vegna þeirra sem eina heild og skipta heildarhagnaðinum milli þeirra félagsmanna stefnda sem að öðru hvoru verkinu komu, með tilliti til vinnuframlags þeirra við bæði verkin. Eða að stefnda hafi borið að skipta hagnaði vegna lagningu Hálsasveitarvegar sérstaklega milli þeirra félagsmanna stefnda sem að því verki komu en hagnaði vegna ræsagerðar í vítár Hvítársíðu og við Andakíl sérstaklega milli þeirra félagsmanna stefnda sem að því verki unnu. Þá hélt stjórn stefnda eftir hluta af hagnaði vegna verkanna tveggja í því skyni að nota til greiðslu hluta af launum framkvæmdastjóra. Stafar þessi deila af því að hlutfallslega var mun meiri hagnaður vegna ræsagerðarinnar í Hvítársíðu og við Andakíl, en við lagningu Hálsasveitarvegar. Stefnandi fékk greiddar 1.368.751 krónu frá stefnda, en telur sig hafa átt að fá 401.455 krónur til viðbótar sem er höfuðstóll stefnufjárhæðar, þar sem verkið hafi verið unnið af stefnanda og Helga Sigurðssyni, en ekki öðrum félagsmönnum stefnda. Stefndi nefnir að áralöng venja sé fyrir því að við uppgjör útboðsverka hjá stefnda að hagnaði eða tapi sé skipt á milli þeirra félagsmanna stefnda sem að verki unnu eftir vinnuframlagi og staðfesting þeirrar venju komi fram í reglum sem samþykktar voru á aðalfundi stefnda hinn 27. mars 1998. Stefndi kveðst líta svo á að það sé út í hött að aðeins tveir félagsmanna stefnda eigi að njóta einir hagnaðar af viðbótarverki því sem um ræðir. Þvert á móti eigi allir sem við heildarverkið unnu að njóta hagnaðarins. Bendir stefndi sérstaklega á að samkvæmt skjali um lokauppgjör vegna framkvæmdanna hafi hagnaður m. t. t. framlags í jöfnunarsjóð stefnda verið kr. 722.500. Hagnaðinum hafi verið skipt á milli þeirra félagsmanna sem að verkinu unnu án tillits til þess hvaða verkþætti hver sinnti. Stefndi nefnir einnig að stefnandi hafi áralanga reynslu af vinnu sem þessari, hann hafi starfað um töluvert skeið á vörubílastöð stefnda og þekki vel venjubundnar reglur við uppgjör. Hafi stefnandi aldrei áskilið sér önnur kjör en aðrir félagsmenn stefnda, eða gert athugasemdir við uppgjörsaðferðir stefnda. Þá vill stefndi vekja athygli á því að í lokauppgjöri stefnda við stefnanda komi fram að daglaun stefnanda hafi numið 40.257 krónum. Samkvæmt lokauppgjöri skiptast framangreindar 722.500 krónur milli 21 félagsmanns stefnda. Hlutur Helga Sigurðssonar er mestur, 99.500 krónur, en hlutur stefnanda næstmestur, 97.000 krónur. Sá sem næstur kemur fær í sinn hlut 86.000 krónur, en hinn minnsti hlutur er 5.000 krónur. Hinn 7. janúar 1998 rituðu stefnandi og Helgi Sigurðsson bréf til stefnda þar sem segir m. a.: „Bréf þetta er samið í framhaldi ákvörðunar stjórnar og framkvæmdastjóra vörubílstjórafélagsins Mjölnis að halda eftir hluta af greiðslu sem félaginu barst frá Vegagerðinni í Borgarnesi vegna vinnu Sævars Sigurðssonar og Helga Sigurðssonar nú í haust. Ljóst er að við undirritaðir getum ekki unað við þá ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjóra að halda eftir hluta af launum okkar til þess að setja í jöfnunarsjóð sem nota eigi til að mæta töpum væntanlegra verka þar sem engar lagaheimildir þar að lútandi eru fyrir hendi sem og vegna þeirra áhrifa sem slíkur gjörningur hafi á starfsemi félagsins og félagsmanna þess. Til stuðnings ákvörðun okkar viljum við benda á nokkur atriði úr lögum félagsins. 1. Félagið er hagsmunafélag sjálfstætt starfandi vörubifreiðastjóra og kemur ekki fram sem sjálfstætt starfandi aðili sbr. lög félagsins og túlkun yfirvalda. Félagið getur því ekki verið sjálfstætt starfandi rekstraraðili og haft af því tekjur t. d. með því að vera með bílstjóra á launum. 2. Hvergi í lögum vörubílstjórafélagsins Mjölnis er kveðið á um að stjórn félagsins sé heimilt að draga hluta af greiðslum sem félagið móttekur fyrir hönd félagsmanna sinna og ráðstafa þeim. Áratuga hefð er fyrir því að vinnuframlag ráði skiptingu greiðslna sem Mjölnir innheimtir fyrir félagsmenn sína ef fleiri en einn félagsmaður vinnur verk. Hvergi er kveðið á um jöfnunarsjóð í lögum félagsins þar sem dregið er af einum félagsmanni og greitt til annars félagsmanns. Skýrt er kveðið á um það hverjar tekjur félagsins og sjúkrasjóðs félagsins séu og hvernig þeim skuli ráðstafað. Eini starfsmaður félagsins er framkvæmdastjóri. Að auki viljum við benda á. Að ábyrgð á hverju verki sem unnið er hvílir á þeim sem verkið vinna, skiptir þar engu hvort verkið sé stórt eða smátt, bílstjórar fá greitt það sem út af stendur eftir að allur kostnaður hefur verið greiddur. Bæði á það við um aðkeypta vélavinnu, tryggingar eða annan kostnað sem til fellur. Ábyrgð og ávinningur hlýtur að haldast í hendur. Ef greiðsla og uppgjör vegna verksins verður ekki innt af hendi innan 7 daga frá dagsetningu þessa bréfs þá munum við sjá okkur tilneydda til að innheimta þessa greiðslu eftir öðrum leiðum.”. Með bréfi undirrituðu af framkvæmdastjóra stefnda til stefnanda dagsettu 11. janúar 1998 barst þeim svofellt svar: „Á stjórnarfundi sem haldinn var á Selfossi 11/1 1998 í Vörubílstjórafélaginu Mjölni, var mál Sævars Sigurðssonar og Helga Sigurðssonar tekið fyrir. Eftirfarandi var samþykkt. Þar sem allir reikningar félagsins eru hjá endurskoðanda verður mál ykkar ekki afgreitt, fyrr en reikningar liggja fyrir.”. Með skeyti hinn 16. janúar 1998 tilkynntu stefnandi og Helgi Sigurðsson stefnda að ef þeim bærist ekki efnislegt svar við fyrirspurn sinni yrði krafa þeirra um viðbótargreiðslu send til innheimtu hjá lögmanni. Með bréfi lögmanns stefnanda hinn 9. febrúar 1998 til stefnda var formlega óskað eftir því að stefnanda og Helga Sigurðssyni yrðu send öll gögn vegna vinnu þeirra við ræsagerð í Hvítársíðu og Andakíl, „m. a. afrit af tilboði í verk og samningi um verk (ef til er), svo og afrit af fundargerðum verkfunda, afrit af reikningum sem hafa verið gerðir og heildaruppgjör ef til er.”. Á aðalfundi stefnda hinn 27. mars 1998 var bókað m. a. í fundargerðabók: „Tillögur að reglu fyrir vörubílstjórafélagið Mjölni vegna uppgjörs útboðsverka, lagðar fram á aðalfundi 27. mars 1998. Skv. upplýsingum frá skattstjóranum er rétt að félagið sæki um annað VSK. númer sem eingöngu verði notað í tengslum við útboðsverkefni félagsins. Að 1% af tilboðsupphæð verði lagt inn á félagssjóð af hverju verki. Bifreiðastjórar á stöðinni taki sjálfir ákvörðun um það hvort þeir taki þátt í vinnu við einstök útboðsverk. Verði hagnaður af einstöku verki deilist hann á milli þeirra bifreiðastjóra sem þátt tóku í verki í samræmi og hlutfalli við vinnuframlag hvers eins bifreiðastjóra. Verði tap af einstöku verki deilist það á milli þeirra bifreiðastjóra sem þátt tóku í verki í samræmi og hlutfalli við vinnuframlag hvers og eins bifreiðastjóra. Reynir Guðmundsson Magnús Lárusson Samþ. samhljóða B.T. Til máls tóku Helgi Sigurðsson Ingvi Sigurðsson og lýstu stuðningi við framangreinda tillögu. Athugasemdir gerðu Egill - Halldór- Sævar - Reynir o. fl. Mönnum var allheitt í hamsi og er uppi talsverður ágreiningur meðal félagsmanna varðandi uppgjör einkum varðandi útboðsverk sl. árs. Tillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt af þorra fundarmanna.”. Þá var bókað að Helgi Sigurðsson hefði á fundinum óskað eftir „nánari skilagrein á verkum unnum í Hálsasveit og í Hvítársíðu og Andakíl.”. Þar sem stefnanda bárust ekki umbeðin gögn frá stefnda ritaði lögmaður hans vegagerðinni bréf hinn 30. apríl 1998 um málefnið og í framhaldi af því sendi vegagerðin honum ljósrit af lokareikningi vegna verksins við Hvítársíðu og Andarkíl og ljósrit fundargerða vegna verksins. Með bréfi dagsettu 10. júní 1998 krafði stefnandi stefnda um greiðslu kr. 401.739 í höfuðstól vegna títtnefnds verks. Með innheimtubréfi hinn 7. október 1998 var sú höfuðstólskrafa lækkuð í kr. 401.455, sem er höfuðstóll stefnukröfu. III. Forsendur og niðurstöður Ákvörðun um að stefndi skyldi annast ræsagerð í Hvítársíðu og Andakíl var tekin án undangengins útboðs, eða á verkfundi hinn 1. október 1997 vegna lagningar Hálsasveitarvegar í Borgarfirði. Ber það verk merki svokallaðs viðbótarverks, enda er það verk nefnt viðbótarverk í fundargerðum verkfunda, svo og í öllum gögnum málsins sem um það fjalla, m. a. í gögnum frá lögmanni stefnanda. Miðað við umfang verkanna var hagnaður af viðbótarverkinu hlutfallslega mun meiri en vegna aðalverksins. Stefndi ábyrgðist verk þau sem hér um ræðir gagnvart verkkaupa, sem var Vegagerð ríkisins. Fram kom fyrir dómi hjá Ingva Árnasyni, deildarstjóra framkvæmdadeildar Vegagerðar ríkisins á Vesturlandi, að þegar um sé að ræða tiltölulega lítil verk, jafnvel óskyld aðalverki, sem falla vel að öðrum verkum unnum í nágrenni, þá sé oft samið við þann aðila að annast þau viðbótarverk án útboðs. Svo hafi háttað til í þessu tilviki, þannig að hér hafi ekki verið um aukaverk að ræða, sem sé aukning á sama verki, heldur viðbótarverk. Viðbótarverkið hafi verið það umfangslítið að vegagerðinni hafi ekki verið skylt að bjóða það út. Að aðalverkinu, þ. e. lagningu Hálsasveitarvegar í Borgarfirði, komu 21 af 30 félagsmönnum stefnda og deildi stefndi milli þeirra, en ekki annarra félagsmanna, hagnaði af verkinu með tilliti til vinnuframlags hvers og eins félagsmanns. Hins vegar fékk stefndi einungis stefnanda og Helga Sigurðsson til að annast ræsagerðina í Hvítársíðu og Andakíl. Svo virðist sem uppgjörsreglur vegna viðbótarverksins hafi ekki borið á góma milli framkvæmdastjóra stefnda og stefnanda og Helga Sigurðssonar áður en verkið hófst. Nefndur Helgi Sigurðsson kvaðst fyrir dómi hafa hafa staðið í þeirri meiningu að hagnaður vegna viðbótaverksins myndi einungis skiptast milli hans og stefnanda, eins og venja hefði verið til. Stefnandi var verkstjóri yfir verkinu og sá um samninga við undirverktaka. Fram kom við meðferð málsins að fyrirsvarsmenn stefnda og stefnandi bjuggust ekki við svo miklum hagnaði vegna viðbótarverksins sem raun varð á, enda verður ekki annað séð en að uppgjör til félagsmanna stefnda vegna aðalverksins hafi nánast að öllu leyti átt sér stað áður en viðbótarverki lauk. Hins vegar sóttist stefnanda og Helga Sigurðssyni viðbótarverkið betur en þeir og aðrir höfðu búist við, m. a. vegna þess að stefnandi og Helgi Sigurðsson gátu vegna sérstakra samninga þeirra við landeigendur tekið malarefni tiltölulega nálægt þeim stöðum þar sem unnið var, auk þess sem stefnandi virðist hafa náð hagstæðum samningi við undirverktaka. Af gögnum málsins og framburði vitna verður ekki fullyrt um hvernig háttað hefur verið skiptingu þóknunar til félagsmanna stefnda í öðrum tilvikum vegna viðbótarverka í kjölfar aðalverka. Framkvæmdastjóri stefnda bar að uppgjör hafi verið í samræmi við venju, en sá stjórnarmaður stefnda sem skýrslu gaf fyrir dómi gat ekkert upplýst um reglur félagsins um uppgjör, en kvað framkvæmdastjóra félagsins hafa annast þau mál. Kvaðst hann raunar ekki vita til þess að stjórn félagsins hefði ályktað um að hluti af hagnaði vegna verka skyldi renna til greiðslu launa framkvæmdastjóra stefnda. Samþykkt aðalfundar stefnda, sem stefndi skírskotar til í þessu efni, var gerð eftir að verki því sem hér um ræðir lauk, eða hinn 27. mars 1998, en samþykktin er einungis um að skipta beri hagnaði eða tapi milli þeirra félagsmanna sem að verki vinna með tilliti til vinnuframlags þeirra. Þá verður ekkert ráðið af lögum stefnda um þetta atriði. Fram er komið að stefndi beitti öðrum uppgjörsaðferðum vegna viðbótarverksins en vegna aðalverksins. Í uppgjörinu vegna aðalverksins var aðallega tekið mið af fjölda ferða vörubíla með efni, en í uppgjöri vegna viðbótarverksins var frekar litið til fjölda vinnustunda stefnanda og Helga Sigurðssonar. Í uppgjörinu vegna viðbótarverksins mat stefndi hverja vinnustund á kr. 4.000, án þess þó að séð verði að slík viðmiðun hafi verið ákveðin áður en verkið hófst, en framkvæmdastjóri stefnda kvaðst hafa getað miðað við taxta félagsins þar sem svo mikill hagnaður hafi orðið af verkinu sem raun bar vitni. Virðist sem uppgjörsaðferð vegna aðalverksins hafi verið í samræmi við venju, en ekki vegna viðbótarverksins. Aðilum tókst ekki að upplýsa fyrir dóminum hver niðurstaðan hefði orðið ef beitt hefði verið sömu uppgjörsaðferðum vegna þessara tveggja verka. Þó má ætla að stefnandi og Helgi Sigurðsson hafi fengið hlutfallslega meira í sinn hlut en aðrir félagsmenn vegna þeirrar uppgjörsaðferðar sem viðhöfð var vegna viðbótarverksins, heldur en þeir hefðu fengið ef gert hefði verið upp við þá eins og við aðalverkið, að teknu tilliti til þess að allir félagsmenn stefnda fengju í báðum tilvikum metinn hlut samkvæmt báðum verkunum sameiginlega. Framkvæmdastjóri stefnda bar fyrir dómi að hann hefði tekið ákvörðun um að haga uppgjörum með þessum hætti því sér hefði þótt eðlilegt að umbuna stefnanda og Helga Sigurðssyni eitthvað umfram aðra. Þá kom einnig fram að m. a. vegna hins óvænta hagnaðar af viðbótarverkinu hafi stjórn félagsins ákveðið að láta hluta af hagnaði vegna verka á vegum stefnda fara til launagreiðslna framkvæmdastjórans. Samkvæmt framburði Sigurðar Hjaltasonar, endurskoðanda stefnda til margra ára, munu laun framkvæmdastjórans áður hafa verið tekin af félagsgjöldum og á árinu 1997 hafi stefndi ekki haft reglur um að láta hluta af hagnaði renna til greiðslu launa framkvæmdastjóra stefnda. Samkvæmt framanrituðu verður sú ályktun dregin, að ákvörðun um skiptingu hagnaðar vegna verka sem félagsmenn stefnda önnuðust hafi ekki verið í jafn föstum skorðum og stefndi heldur fram. Þá virðist ræsagerðin í Hvítársíðu og Andakíl ekki hafa verið í miklum tengslum við lagningu Hálsasveitarvegar, þó það verk hafi komið til í kjölfar lagningu Hálsasveitarvegar. Þegar litið er til þess að sem að framan er rakið og þeirrar staðreyndar að mismunandi uppgjörsaðferðir voru viðhafðar af hálfu stefnda vegna verkanna tveggja, er það niðurstaða dómsins að uppgjör hafi átt að vera með þeim hætti sem stefnandi heldur fram, sem er í samræmi við hina einu reglu sem báðir aðilar skírskota til, þ. e. að þeir sem verk vinna fái greitt fyrir þau, samkvæmt vinnuframlagi, en ekki aðrir. Í máli þessu er ekki ágreiningur um útreikninga stefnufjárhæðar eða um upphafstíma vaxta. Verður því krafa stefnanda tekin til greina eins og hún er fram sett. Eftir þessum úrslitum er rétt að stefndi greiði stefnanda 160.000 krónur í málskostnað. Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan dóm. Dómsorð: Stefndi, Mjölnir, vörubílstjórafélag, kt. 470269-2869, greiði stefnanda, Sævari Sigurðssyni, kt. 180540-4079, kr. 401.455, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 1. júlí 1998 til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 160.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 741/2014 | Kærumál Aðfarargerð | Þ krafðist þess að ógilt yrði aðfarargerð sem gerð var í eign hans að beiðni Í hf. Með hliðsjón af gögnum málsins þótti ósönnuð sú fullyrðing Þ að krafa Í hf. á hendur honum væri að fullu greidd. Var aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík því staðfest. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2014, þar sem staðfest var aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík 5. september 2013 í máli nr. 011-2013-04989. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Skilja verður dómkröfur sóknaraðila, sem er ólöglærður, á þann veg að hann krefjist þess að áðurgreind aðfarargerð verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður dæmist ekki. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 218/2009 | Fjársvik | K var ákærður fyrir fjársvik með því að hafa í tengslum við milligöngu sína sem lögmaður um sölu á tíu stofnfjárbréfum í Sparisjóði Hafnarfjarðar styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd S, sem annaðist samskipti við K fyrir sína hönd og fjögurra annarra eigenda bréfanna, um að það hámarksverð sem kaupendur bréfanna væru tilbúnir að greiða seljendum væri 25.000.000 krónur, en hið rétta hefði verið að K hefði á sama tíma samið við kaupendur bréfanna um að greiða 45.000.000 krónur fyrir hvert þeirra. Var K gefið að sök að hafa leynt verðmuninum og með þessu fengið eigendur bréfanna til að selja stofnfjárbréfin á lægra verðinu og því haft af þeim samtals 200.000.000 krónur. Var háttsemin í ákæru talin varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Talið var sannað að K hefði ekki ákveðið verðið sem eigendum bréfanna bauðst fyrir þau heldur hefði það verið ákveðið af öðrum og hann hefði ekki haft leyfi umbjóðanda síns til bjóða annað verð fyrir þau. Hlutverk K í þessum viðskiptum hefði því eingöngu verið, sem lögmaður, að vera umboðsmaður kaupanda í viðskiptum þar sem aðrir en hann höfðu ákveðið verð og önnur kjör. Þótti ekki fært að fallast á það með ákæruvaldinu að K hefði styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd S með því að hafa milligöngu um kaup á stofnfjárbréfum hans og félaga hans á framangreindu verði. Var K því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2009 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess nú að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing, auk þess sem hann verði sviptur lögmannsréttindum. Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, til vara að héraðsdómur verði staðfestur, en að því frágengnu að honum verði ekki gerð refsing eða hún ákveðin svo væg sem lög frekast leyfa. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu um sviptingu lögmannsréttinda verði vísað frá Hæstarétti, en til vara krefst hann sýknu af henni. Ekki eru efni til að verða við aðalkröfu ákærða um að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, Karls Georgs Sigurbjörnssonar, 502.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2009. I Málið, sem dómtekið var 19. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 23. júlí 2008 á hendur „Karli Georg Sigurbjörnssyni, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir fjársvik, með því að hafa í janúar og í byrjun febrúar 2006, í tengslum við milligöngu sína sem lögmaður um sölu á tíu stofnfjárbréfum í Sparisjóði Hafnarfjarðar, sem seljendur óskuðu samþykkis sparisjóðsstjórnar til að framselja fimmtudaginn 9. febrúar 2006, og samþykkt var daginn eftir, styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd Sigurðar Þórðarsonar kt. [...], sem annaðist samskipti við ákærða fyrir sína hönd og fjögurra annarra eigenda bréfanna, um að það hámarksverð sem kaupendur bréfanna væru tilbúnir að greiða seljendum fyrir hvert stofnfjárbréf værikr. 25.000.000, en hið rétta var að ákærði hafði á sama tíma samið við kaupendur bréfanna um að greiða kr. 45.000.000 fyrir hvert þeirra. Með þessu fékk ákærði, sem leyndi verðmuninum, eftirgreinda fimm eigendur bréfanna til að selja stofnfjárbréfin á lægra verðinu og hafði af þeim samtals kr. 200.000.000, svo sem hér er lýst: 1. Við sölu Sigurbergs Sveinssonar, kt. [...], á tveimur stofnfjárbréfum, nr. 21 og 21A til Fons eignarhaldsfélags hf., kt. [...], sem ákærði greiddi Sigurbergi fyrir kr. 50.000.000, föstudaginn 10. febrúar 2006, þrátt fyrir að raunverulegt söluverð bréfanna til Fons eignarhaldsfélags hf., sem greitt var inn á reikning Lögmanna Laugardal ehf. 13. sama mánaðar, væri kr. 90.000.000. 2. Við sölu Jónasar Hallgrímssonar, kt. [...], á tveimur stofnfjárbréfum, nr. 25 og 25A til Fons eignarhaldsfélags hf. sem ákærði greiddi Jónasi fyrir kr. 50.000.000, föstudaginn 10. febrúar 2006, þrátt fyrir að raunverulegt söluverð bréfanna til Fons eignarhaldsfélags hf., sem greitt var inn á reikning Lögmanna Laugardal ehf. 13. sama mánaðar, væri kr. 90.000.000. 3. Við sölu Sigurðar Þórðarsonar á tveimur stofnfjárbréfum, nr. 22 og 22A til Fjárfestingafélagsins Vatnaskil ehf., kt. [...], sem ákærði greiddi Sigurði fyrir kr. 50.000.000, föstudaginn 10. febrúar 2006, þrátt fyrir að raunverulegt söluverð bréfanna til Fjárfestingafélagsins Vatnaskila ehf., sem greitt var inn á reikning Lögmanna Laugardal ehf. sama dag, væri kr. 90.000.000. 4. Við sölu Harðar Zóphaníassonar, kt. [...], á tveimur stofnfjárbréfum, nr. 8 til JP fjárfestinga ehf., kt. [...], og nr. 8A til SGP fjárfestinga ehf., kt. [...], sem ákærði greiddi Herði fyrir kr. 50.000.000, föstudaginn 10. febrúar 2006, þrátt fyrir að raunverulegt söluverð bréfanna til JP fjárfestinga ehf. og SGP fjárfestinga ehf., sem greitt var inn á reikning Lögmanna Laugardal ehf. sama dag, væri kr. 90.000.000. 5. Við sölu Kristínar Einarsdóttur, kt. [...], á tveimur stofnfjárbréfum, nr. 42 og 42A til Fjárfestingafélagsins Kletts hf., kt. [...], sem ákærði greiddi Kristínu fyrir kr. 50.000.000, föstudaginn 10. febrúar 2006, þrátt fyrir að raunverulegt söluverð bréfanna til Fjárfestingafélagsins Kletts hf., sem greitt var inn á reikning Lögmanna Laugardal ehf. 19. apríl 2006, væri kr. 90.000.000. Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Auk þess er þess krafist með vísan til 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 31/1961, að ákærði verði sviptur rétti til að vera lögmaður í skilningi laga nr. 77/1998 um lögmenn. Framangreindir fimm brotaþolar; Sigurbergur Sveinsson, Jónas Hallgrímsson, Sigurður Þórðarson, Hörður Zóphaníasson og Kristín Einarsdóttir krefjast þess að ákærði verði dæmdur til að greiða þeim hverju og einu kr. 40.000.000 í skaðabætur auk dráttarvaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 10. febrúar 2006 til greiðsludags auk kostnaðar samkvæmt reikningi lögmanns þeirra.“ Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunum verði vísað frá dómi. II Upphaf máls þessa er að rekja til bréfs Fjármálaeftirlitsins til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra 16. desember 2005. Þar segir að Fjármálaeftirlitið hafi haft til athugunar mánuðina á undan hvort myndast hafi virkur eignarhlutur í Sparisjóði Hafnarfjarðar í andstöðu við 40. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002. Í framhaldinu hóf lögreglan rannsókn sem varð umfangsmikil, tugir manna voru yfirheyrðir og margra skjala aflað. Ekki er þörf á að rekja gang þeirrar rannsóknar, enda ekki til umfjöllunar í málinu nema að hluta til. Með bréfum 7. febrúar og 9. maí 2007 kærði lögmaður, fyrir hönd framangreindra brotaþola, ákærða til lögreglunnar fyrir ætlaðar blekkingar við sölu á stofnfjárbréfum þeirra í sparisjóðnum með milligöngu ákærða. Ákæran byggir á rannsókn lögreglunnar á grundvelli þessara bréfa. Forsaga málsins er sú, samkvæmt því sem upplýstist við aðalmeðferð, að einstakir stofnfjáreigendur í sparisjóðnum munu hafa haft hug á því að leyft yrði að selja stofnfjárbréf sjóðsins á frjálsum markaði. Ekki fékk þessi hugmynd þó nægan hljómgrunn fyrr en á árinu 2005, en á aðalfundi sparisjóðsins 20. apríl myndaðist meirihluti fyrir því að breyta samþykktum sparisjóðsins á þann veg að heimilt yrði að selja stofnfjárbréf. Á þessum aðalfundi tók ný stjórn við í sparisjóðnum og munu menn úr henni hafa rætt það við forsvarsmann fyrirtækisins A. Holding að það kæmi að því að mynda virkan markað með stofnfjárbréfin. Þeir stofnfjáreigendur sem leiddu framangreindar breytingar réðu ákærða og Sigurð G. Guðjónsson hrl. til að aðstoða þá við aðalfundinn. Í framhaldinu var sömu mönnum falið af forsvarsmanni A. Holding að annast milligöngu um sölu stofnfjáreigenda á bréfum sínum. Þeim stofnfjáreigendum, sem vildu selja bréf, var sagt að þeir gætu snúið sér til lögmannsstofu ákærða er tæki við bréfunum, aflaði samþykkis stjórnar sparisjóðsins og sæi um framsal þeirra. A. Holding lagði fram fé til að lögmannsstofa ákærða gæti greitt stofnfjáreigendum fyrir sín bréf og voru greiddar 25 milljónir króna fyrir hvert bréf og þar eð hver og einn stofnfjáreigandi átti tvö bréf komu 50 milljónir í hlut hvers. Bréfin voru svo seld kaupendum sem A. Holding valdi eða samþykkti á 45 milljónir hvert bréf eða 90 milljónir fyrir hlut hvers stofnfjáreiganda. III Ákærði skýrði svo frá við aðalmeðferð að hann hefði sem lögmaður unnið fyrir fyrirtækið A. Holding, sem er dótturfélag Baugs hf. Upphafið var að Stefán Hilmarsson, fyrir hönd A. Holding, leitaði til sín og Sigurðar G. Guðjónssonar og bað þá að aðstoða við framboð Páls Pálssonar til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar í ársbyrjun 2005. Þeir tóku verkið að sér, en fyrir lá að til stóð að fella sitjandi stjórn. Í framhaldinu var ákveðið að ákærði og Sigurður tækju að sér að aðstoða þáverandi stofnfjáreigendur við að selja stofnfjárbréf sín til A. Holding. Þeir fengu lista með nöfnum stofnfjáreigenda og hringdu í þá flesta og báðu þá að hitta sig. Eigendur bréfanna komu svo með þau og hittu þá Sigurð og afhentu þeim bréfin. Þeirra hlutverk var að sjá um að bréfin væru réttilega framseld, stjórn sparisjóðsins samþykkti söluna og eigendurnir fengju sínar greiðslur, það er að vinna venjuleg lögmannsstörf. Kaupandi bréfanna var A. Holding þótt þau hefðu verið framseld til annarra. Félagið lagði fram fé til kaupanna og valdi menn til að kaupa af sér og ákvað verðið til þeirra. Ákærði kvaðst ekki hafa komið að ákvörðunum um verð eða val á kaupendum á hlutum af A. Holding. Hann kvaðst á síðari stigum hafa vitað að þeir sem keyptu af A. Holding greiddu hærra verð en stofnfjáreigendurnir en það var honum óviðkomandi. Hann kvað engan stofnfjáreiganda hafa beðið sig að selja fyrir sig bréf. Varðandi þá 5 einstaklinga sem tilgreindir eru í ákærunni kvaðst ákærði ekki hafa hringt í þá heldur hefðu Stefán Hilmarsson og Ingólfur Flygenring haft samband við sig um miðjan nóvember 2005 og sagt sér að Sigurður Þórðarson myndi hafa samband við hann og hann ætti að ganga frá þeim viðskiptum. Sigurður hafði samband við hann og sagði hann honum að hann gæti gengið frá viðskiptunum við hann. Um miðjan desember hittust þeir og kvað ákærði Sigurð þá hafa þekkt málið, en hann vildi ekki ganga frá sölunni fyrr en eftir áramótin. Sigurður kom fram fyrir sína hönd og þeirra fjögurra sem nefndir eru í ákærunni. Í janúar hafði Sigurður samband til að kanna hvort það stæði ekki að hann og félagar hans gætu selt og í febrúar var svo gengið frá sölunni. Kvaðst ákærði hafa hitt Sigurð á skrifstofu hans þar sem hann afhenti honum bréfin og lét ákærða hafa upplýsingar um reikningsnúmer seljenda. Ákærði kvað rétt farið með tölur og dagsetningar í ákærunni varðandi sölu fimmmenninganna á stofnfjárbréfum þeirra. Ákærði bar að eftir stjórnarskipti í sparisjóðnum hefði verið ákveðið að stofnfjáreigendur mættu selja bréf sín. Eins og áður sagði gengu hann og Sigurður G. Guðjónsson frá viðskiptum langflestra stofnfjáreigenda, en Sigurður Þórðarson og félagar voru eftir. Kvað ákærði í raun enga nauðsyn hafa borið til að kaupa af þeim þar eð kaupandinn hafði þegar náð meirihluta í sparisjóðnum. Þeir Sigurður G. Guðjónsson fengu hins vegar fyrirmæli um að kaupa af þeim á sömu kjörum og keypt hafði verið af öðrum stofnfjáreigendum og gekk það eftir. Verðið var fastákveðið 25 milljónir króna á hvert bréf og þar eð allir áttu tvö bréf fékk hver um sig 50 milljónir. Ákærði kvaðst ekki hafa komið að ákvörðun verðsins, það hafi Hafnfirðingarnir, eins og hann orðaði það, og Stefán Hilmarsson gert. Sér var bara sagt að þetta væri verðið sem hann ætti að kaupa bréfin á. Þá kvað hann Stefán Hilmarsson hafa lofað því að allir stofnfjáreigendur myndu sitja við sama borð hvað varðaði sölu á bréfunum og enginn yrði skilinn eftir. Um miðjan nóvember var staðan sú að Sigurður Þórðarson og félagar voru orðnir einir eftir og þrátt fyrir að enga nauðsyn bar til að kaupa bréf þeirra hefði það verið gert vegna samkomulagsins. Ákærði kvaðst hafa sagt Sigurði Þórðarsyni að Baugur hf. stæði á bak við kaupin og virtist hann vita það. Þá kvað ákærði að stofnfjáreigendum hefði ekki hafa staðið til boða að kaupa á öðru verði en 50 milljónir fyrir hver tvö bréf. Þeir hefðu aldrei átt þess kost að fá 90 milljónir fyrir bréfin sín. Mismunurinn var þóknun sem A. Holding tók fyrir að koma kaupunum á og fjármagna þau. Ákærði kannaðist við að greiðslur vegna kaupanna hefðu farið um reikning lögmannsstofu sinnar. Hann kvaðst hafa unnið að þessum málum sem lögmaður og sem slíkur komið fram sem milligöngumaður um kaupin. Hann hefði ekki haft leyfi til þess að bjóða annað verð en umræddar 50 milljónir fyrir hver tvö bréf og allir stofnfjáreigendur, þar með talinn Sigurður Þórðarson, sættu sig við það og vissu um það þegar þeir komu á hans fund. Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður bar að hann hefði tekið að sér ásamt ákærða að vinna fyrir þá menn sem unnu að því koma á nýrri stjórn í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þeir sem voru fyrir hópnum voru meðal annars Ingólfur Flygenring og Páll Pálsson. Eitt af markmiðum þessa hóps var að vinna að því að selja mætti stofnfjárbréf í sparisjóðnum. Það var hugmynd hópsins að 25 milljónir myndu fást fyrir hvert bréf og þar með fengi hver eigandi 50 milljónir. Aðalfundurinn var haldinn 20. apríl 2005 og vann listi þeirra sem þeir ákærðu unnu fyrir. Eftir fundinn tóku þeir svo að sér að taka við stofnfjárbréfum frá seljendum og settu það skilyrði að kaupverðið yrði áður lagt inn á fjárvörslureikning skrifstofu ákærða. Þeir voru þá að vinna fyrir A. Holding og gaf félagið þeim þau fyrirmæli að ekki mætti greiða fyrir stofnfjárbréfin fyrr en meirihluti þeirra væri í þeirra vörslum. Síðan gekk þetta þannig fyrir sig að stofnfjáreigendur komu á skrifstofu ákærða og afhentu bréfin og framseldu og fengu síðar greitt þegar tilskyldum meirihluta var náð. Þegar komið var fram á haust voru Sigurður Þórðarson og félagar nánast einir eftir með stofnfjárbréf og þegar A. Holding vissi af því vildi Stefán Hilmarsson að keypt yrði af þeim. Það gekk svo eftir í febrúar 2006 eftir allnokkrar viðræður ákærða og Sigurðar Þórðarsonar. Sigurður bar að Sigurði Þórðarsyni hefði alltaf verið ljóst að verðið fyrir hver tvö bréf væri 50 milljónir og allir sem komu á fund þeirra ákærða vissu að þetta væri verðið sem í boði væri og ekki annað. Þeir ákærði höfðu haft fyrirmæli um að ekki yrði greitt hærra verð fyrir bréfin. Það hafi hins vegar verið Stefán Hilmarsson, sem var í forsvari A. Holding sem ákvað að bréfin yrðu seld áfram á 90 milljónir og hefðu þeir ákærði ekkert haft með það að gera. Sigurður Þórðarson bar að síðari hluta árs hefði hann og félagar hans haft hug á að selja stofnfjárbréf sín í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þessi áhugi kom til vegna stjórnarbreytingar í sparisjóðnum. Hann kvaðst ekki hafa verið í sambandi þá stofnfjáreigendur sem áður höfðu selt sín bréf, en Ingólfur Flygenring hefði bent honum á að ræða við ákærða um söluna. Ingólfur hefði sagt sér að ákærði hefði aðila sem vildi kaupa bréfin eins og Sigurður orðaði það. Eftir þetta samtal við Ingólf kvaðst Sigurður eingöngu hafa átt samskipti við ákærða um sölu bréfanna. Hann kvaðst ekki hafa reynt að selja bréfin annars staðar og ekki hafa haft samband við þá sem keyptu bréfin. Þá kvaðst hann hafa rætt um verð bréfanna við ákærða og hvort ekki væri hægt að fá hærra verð fyrir þau, en hjá honum kom fram að aðeins var um eitt verð að ræða og hefði hann skýrt félögum sínum frá því. Hann kvaðst ekki hafa vitað að þau yrðu seld öðrum á 90 milljónir. Ekkert kvaðst hann kannast við A. Holding og ekki hafði hann nein samskipti við Stefán Hilmarsson. Sigurður kvaðst hafa litið á ákærða sem fulltrúa kaupenda en vitað að hann var ekki að kaupa bréfin sjálfur. Framangreindir fjórir stofnfjáreigendur sem seldu stofnfjárbréf sín með milligöngu Sigurðar Þórðarsonar komu fyrir dóm. Frásögn þeirra var í aðalatriðum sú að þeir hefðu fengið vitneskju um það frá Sigurði síðla árs 2005 að hægt væri að fá 50 milljónir fyrir tvö bréf og fólu þeir honum að annast söluna fyrir sig. Upplýsingar um verðið komu frá Sigurði og vissi einn þeirra að hann hafði þær frá ákærða. Þá bar annar að þetta verð hefði verið til umræðu í bænum á þessum tíma. Enginn þeirra kannaðist við A. Holding eða Stefán Hilmarsson en þeir vissu um aðkomu ákærða að viðskiptunum án þess að vita fyrir hvern eða hverja hann vann. Ekki vissu þeir þá að bréfin átti að selja aftur og þá við hærra verði, en þeim var ljóst þegar þeir framseldu bréfin hver var kaupandinn. Ingólfur Flygenring var einn af þeim undirbjó mótframboð til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar vorið 2005. Aðalástæða þessa var óánægja með stjórn sjóðsins og rekstur hans. Einnig var óánægja með hömlur sem voru á viðskiptum með stofnfjárbréf sjóðsins en hann átti forkaupsrétt að þeim og þess vegna var enginn markaður með þau. Eftir stjórnarskipti var leyfilegt að selja bréfin, en ekki vissi Ingólfur hvernig verðið á bréfunum var reiknað út eða hver gerði það. Hann kvaðst hafa bent einhverjum stofnfjáreigendum á að ákærði tæki við stofnfjárbréfum gegn 50 milljóna greiðslu fyrir tvö bréf. Varðandi viðskipti Sigurðar Þórðarsonar kvaðst Ingólfur hafa hitt Sigurð og þá spurði hann Ingólf hvort hægt væri að selja bréfin. Þetta var í október 2005 og spurði Sigurður sig nokkrum sinnum um þetta. Fyrst var hann eingöngu að ræða um sín bréf en að lokum fyrir hina fjóra. Ingólfur kvaðst hafa sagt honum að það hefði verið markaður fyrir bréfin en hann vissi ekki hvernig það væri núna, enda Sigurður og félagar orðnir lítill minnihluti og bréf þeirra einskis virði. Ingólfur kvaðst hafa hringt í ákærða, en hann hefði séð um þessi mál og því næst sagði Ingólfur Sigurði að hringja í ákærða. Ingólfur kvað aldrei hafa verið rætt um annað verð en 50 milljónir fyrir tvö bréf og höfðu allir selt á því verði. Hann kvaðst ekki hafa heyrt um 90 milljónir fyrir bréfin fyrr en eftir að Sigurður var búinn að selja og hann sagði sér frá því og þar með að hann hefði verið svikinn. Sigurður hefði sagt sér að honum hefði ekki tekist að selja sín bréf, hvorki fyrir 50 né 90 milljónir og því sætt sig við verðið sem hann fékk hjá ákærða. Páll Pálsson bar að óánægja hefði verið meðal stofnfjáreigenda með starfsemi sparisjóðsins og ræddu menn um hvernig úr mætti bæta. Starfsemi annarra sparisjóða var með öðrum hætti, meðal annars vegna þess að þar var leyfður markaður með stofnfjárbréf. Páll og fleiri vildu breyta samþykktum sparisjóðsins á þá lund að leyfð yrðu viðskipti með stofnfjárbréf og kvaðst Páll hafa leitt hópinn. Á aðalfundi vorið 2005 myndaðist nýr meirihluti og breytti hann samþykktum sjóðsins. Hann kvaðst hafa þekkt Stefán Hilmarsson og í viðræðum við hann og þar með A. Holding kvaðst hann hafa lagt áherslu á að keypt yrði af öllum stofnfjáreigendum, enginn yrði skilinn eftir með sín bréf. Verðgildið var reiknað út frá ýmsum forsendum og varð niðurstaðan 50 milljónir fyrir tvö bréf, sem almenn sátt virtist ríkja um. Þetta verð var komið á bréfin þegar ákærði tók að sér að annast milligöngu um viðskipti með þau. Páll kannaðist við að hafa sagt stofnfjáreigendum að þeir gætu fengið framangreinda fjárhæð fyrir bréfin. Hann kvað Ingólf Flygenring hafa sagt sér að Sigurður Þórðarson væri í vandræðum með sín bréf, en sjálfur hefði hann aldrei haft samband við Sigurð og vissi bara um hans mál í gegnum Ingólf. Milli þeirra Ingólfs kom til tals að Sigurður og félagar myndu sitja við sama borð og aðrir varðandi sölu bréfanna. Þessar viðræður voru haustið eða í árslok 2005. Hann kvaðst ekki hafa vitað að bréfin yrðu seld á 90 milljónir. Stefán Hilmarsson fyrirsvarsmaður A. Holding bar að Páll Pálsson, Ingólfur Flygenring og aðrir menn úr hópi stofnfjáreigenda Sparisjóðs Hafnarfjarðar hefðu leitað til sín fyrir aðalfund sparisjóðsins 2005. Erindi þeirra var að leita aðstoðar til að gera viðskipti með stofnfjárbréf frjáls og leituðu þeir eftir því hvort félagið gæti orðið milliliður milli stofnfjáreigenda og nýrra kaupenda. Eftir aðalfundinn hófust viðræður við nýja stjórn sparisjóðsins sem beitti sér fyrir breytingum á samþykktum sjóðsins sem gerðu viðskipti með stofnfjárbréf heimil. Stefán kvaðst hafa leitað til ákærða og samið við hann og Sigurð G. Guðjónsson um lögfræðiþjónustu. Samningurinn gekk út á að A. Holding lagði fé inn á reikning lögmannstofu ákærða og átti að greiða af því fé til eigenda stofnfjárbréfa eftir því sem þeir komu með bréfin. Verðmæti bréfanna var ákveðið á grundvelli hugmyndar frá þeim mönnum sem upphaflega leituðu til Stefáns en ákærði átti engan þátt í að ákveða það. Varðandi Sigurð Þórðarson og félaga kvað Stefán þá hafa selt með þeim síðustu. Hann kvaðst hafa frétt um sumarið að Sigurður og félagar væru orðnir hræddir um að lokast inni með sín bréf og kvaðst hann því hafa komið þeim skilaboðum til stjórnar sparisjóðsins að keypt yrði af öllum, enginn yrði skilinn eftir með sín bréf. Ingólfur Flygenring hefði síðar spurt sig um það hvort þetta væri ekki rétt og hefði hann staðfest það. Stofnfjárbréfin voru síðan seld fjárfestum og kvaðst Stefán hafa reiknað verðið til þeirra út og miðað við upplausnarverð sparisjóðsins á þessum tíma og sættu kaupendurnir sig við það, enda höfðu þeir ráðagerðir, sem síðar rættust, um að byggja upp mun stærra fjármálafyrirtæki. Ákærði kom þarna hvergi nálægt. Hann fékk bara þau fyrirmæli frá A. Holding að verð bréfanna til nýju kaupendanna væri 90 milljónir fyrir hver tvö bréf. Verðmismunurinn var vegna þeirrar áhættu sem félagið tók í þessum viðskiptum. Stefán bar að eftir að meirihluti hafði náðst í sparisjóðnum hefði enginn kaupandi verið að bréfum minnihlutans. Magnús Ægir Magnússon var ráðinn sparisjóðsstjóri skömmu eftir að ný stjórn tók við eftir aðalfund 2005 og tók þátt í að breyta reglum hans til að hægt væri að selja stofnfjárbréfin. Þetta var sama þróun og hafði orðið í öðrum stórum sparisjóðum. Magnús kvað Ingólf Flygenring hafa sagt sér að Sigurður Þórðarson hefði nálgast sig varðandi sölu á bréfum sínum, einnig hefði þetta komið til tals á stjórnarfundi. Einnig kvaðst Magnús hafa vitað að allir stofnfjáreigendur ættu að sitja við sama borð um sölu á bréfum, en einhverjir þeirra höfðu ekki selt sín bréf og þar með talinn Sigurður. Jón Auðunn Jónsson var lögmaður sparisjóðsins á þessum tíma og hafði verið það frá 1990. Hann bar að fljótlega eftir aðalfund 2005 hefðu hafist viðskipti með stofnfjárbréf sjóðsins, en árin þar á undan hafði mjög verið þrýst á af hálfu sumra stofnfjáreigenda að leyft yrði að selja bréfin. Hann kvað það hafa verið alþekkt á þessum tíma að verðmæti tveggja bréfa væri 45 til 50 milljónir og hefði það verð byggst á útreiknuðu verðmæti sjóðsins. Jón Auðunn kvaðst fyrst hafa heyrt af störfum ákærða að málefnum sjóðsins rétt fyrir aðalfundinn. Hann kvaðst hafa átt hlut í Kletti hf. sem keypti stofnfjárbréf Kristínar Einarsdóttur, en kvaðst ekki muna til þess að hafa átt samskipti við ákærða varðandi þessi viðskipti. Klettur hf. greiddi 90 milljónir fyrir bréfin tvö. Jón Auðunn sagði að skýrt hefði verið frá því á stjórnarfundi í sparisjóðnum í desember 2005 að Sigurður Þórðarson og félagar vildu selja bréf sín á þessu verði, 50 milljónum, en þeir vildu fresta sölunni fram á árið 2006. Hann kvað ákærða og Sigurð G. Guðjónsson hafa tekið við bréfunum af seljendum og tryggt þeim greiðslur. Gangverð tveggja bréfa var 50 milljónir og kvað Jón Auðunn Sigurð Þórðarson hafa viljað fá staðfestingu á því að hann og félagar hans gætu selt bréf sín á þessu verði. Kvaðst Jón Auðunn líta svo á að samningur hefði komist á um þetta verð á bréfunum og að allir stofnfjáreigendur gætu selt bréf sín á því. Allmargir seljendur stofnfjárbréfa í sparisjóðnum gáfu skýrslu við aðalmeðferð. Þeim bar saman um að annaðhvort hefði Páll Pálsson eða Ingólfur Flygenring komið þeim skilaboðum til þeirra að hægt væri að selja stofnbréfin fyrir 50 milljónir, en hver átti tvö bréf. Ýmist var seljendunum vísað á lögmannsstofu ákærða eða hringt var í þá frá stofunni og þeim boðið að koma til að ganga frá málunum. Á stofunni afhentu seljendurnir bréfin og greiðslan barst síðan frá henni. Öllum bar saman um að þau hefðu ekki samið um verð bréfanna á stofunni eða við ákærða, það hefði verið ákveðið áður og þeim verið sagt það, annaðhvort af framangreindum mönnum eða það hefði verið rætt um það manna á milli í Hafnarfirði. Enginn seljendanna kannaðist við A. Holding eða Stefán Hilmarsson. Þá vissu þeir heldur ekki að til hefði staðið að selja bréfin áfram við hærra verði en þeir fengu fyrir þau. Forsvarsmenn fjögurra kaupenda stofnfjárbréfa komu fyrir dóm. Þeir keyptu allir stofnbréf á 45 milljónir hvert bréf. Þrír þeirra gerðu sín viðskipti með milligöngu ákærða og kom fram hjá þeim að verðið hefði verið fast og ekki til að semja um. Enginn þeirra vissi um A. Holding, en einn hafði fengið upplýsingar um bréfin frá Stefáni Hilmarssyni. Fjórði forsvarsmaðurinn keypti bréfin fyrir milligöngu Stefáns Hilmarssonar og vissi ekkert um A. Holding eða ákærða og þátt hans í málinu. Þá kom fram hjá þeim að þeir vissu ekki hvað stofnfjáreigendur fengu fyrir bréfin. Þá kom og fram að þetta hefði verið álitlegur fjárfestingarkostur og miklir framtíðarmöguleikar í því fólgnir að frjáls markaður myndaðist með stofnfjárbréfin. IV Í ákærunni er ákærða gefið að sök að hafa, í tengslum við milligöngu sína sem lögmaður, styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd Sigurðar Þórðarsonar, sem annaðist samskipti við hann fyrir sína hönd og fjögurra annarra eigenda stofnfjárbréfa, um að það hámarksverð sem kaupendur bréfanna væru tilbúnir að greiða seljendum fyrir hvert stofnfjárbréf væri25 milljónir. Hið rétta hafi hins vegar verið að ákærði hafði á sama tíma samið við kaupendur bréfanna um að þeir greiddu 45 milljónir fyrir hvert þeirra. Með þessu hafi ákærði, sem leyndi verðmuninum, fengið framangreinda fimm eigendur bréfanna til að selja þau á lægra verðinu og haft af þeim samtals 200 milljónir. Hér að framan var því lýst að ákærði og Sigurður G. Guðjónsson hrl. voru ráðnir til tiltekinna starfa sem lögmenn. Fyrst í tengslum við aðalfund Sparisjóðs Hafnarfjarðar í apríl 2005 og síðar til að annast milligöngu um sölu stofnfjárbréfanna fyrir A. Holding. Með vísun til þess sem rakið var í köflunum hér að framan telur dómurinn sannað að ákærði hafi ekki ákveðið verðið sem eigendum bréfanna bauðst fyrir þau heldur hafi það verið ákveðið af öðrum og hann hafi ekki haft leyfi umbjóðanda síns til að bjóða annað en framangreint verð fyrir þau. Þá er á sama hátt sannað að hann hafði hvorki leyfi til að selja þau við öðru verði en A. Holding hafði ákveðið né til annarra en þeirra sem það ákvað að selja þau til. Hlutverk ákærða í þessum viðskiptum var því eingöngu, sem lögmaður, að vera milligöngumaður um viðskipti þar sem aðrir en hann höfðu ákveðið verð og önnur kjör í viðskiptunum. Samkvæmt þessu er ekki hægt að fallast á það með ákæruvaldinu að ákærði hafi styrkt og hagnýtt sér ranga hugmynd Sigurðar Þórðarsonar með því að hafa milligöngu um kaup á stofnfjárbréfum hans og félaga hans á framangreindu verði. Hvort þeir hefðu getað selt þau öðrum fyrir annað verð er úrlausn þessa máls óviðkomandi, enda ósannað að ákærði hafi, í starfi sínu sem lögmaður A. Holding, mátt eða getað haft milligöngu um kaup á öðru verði en félagið hafði ákveðið. Ákærði verður því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins og skal sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Ragnars H. Hall hrl., 1.059.744 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Kröfum um bætur og lögmannskostnað er vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn. Dómsorð Ákærði, Karl Georg Sigurbjörnsson, er sýknaður af kröfu ákæruvaldsins. Sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Ragnars H. Hall hrl., 1.059.744 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Kröfum um bætur og lögmannskostnað er vísað frá dómi. |
Mál nr. 329/2012 | Skipulag Eignarnám Stjórnsýsla Sveitarfélög Andmælaréttur | Að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar tók sveitarfélagið H ákvörðun 5. nóvember 2008 um að taka tiltekið land Á eignarnámi. Var sú ákvörðun tilkynnt Á með bréfi næsta dag. Í kjölfar ábendinga til Skipulagsstofnunar um að umsögn hennar hefði verið byggð á ófullkomnum gögnum dró hún umsögn sína til baka og veitti nýja, þar sem fallist var á eignarnám á hluta þess lands sem um ræddi. Tók H aftur ákvörðun 7. janúar 2009 um eignarnám á landi Á á grundvelli nýrrar umsagnar Skipulagsstofnunar og var ákvörðunin tilkynnt Á með bréfi 2. mars 2009. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði meðal annars að verulegir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð hreppsnefndar H. Þannig hefði Á ekki verið kynnt ný umsögn Skipulagsstofnunar. Fyrri ákvörðun H hefði ekki verið afturkölluð þó fyrir lægi að hún stæðist ekki skilyrði þágildandi skipulags- og byggingarlaga. Á hefði ekki verið tilkynnt um að mál hans væri á ný til meðferðar hjá H, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga. Þá hefði H ekki leitað eftir að ná samkomulagi við Á eftir að ný umsögn Skipulagsstofnunar lá fyrir. Loks hefði Á ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en ný ákvörðun hefði verið tekin á grundvelli nýrra gagna og upplýsinga og hefði þannig verið brotið gegn andmælarétti hans samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Var því fallist á kröfu Á um ógildingu ákvörðunar H frá 7. janúar 2009 um að taka land hans eignarnámi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Eggert Óskarsson héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. maí 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Hrunamannahreppur, greiði stefnda, Árna Hjaltasyni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. febrúar 2012. Mál þetta, sem dómtekið var þann 19. janúar sl., er höfðað af Árna Hjaltasyni, kt. [...], til heimilis að Galtafelli, Hrunamannahreppi, með stefnu birtri þann 6. september 2011, gegn Hrunamannahreppi, kt. [...], Akurgerði 6, Flúðum, og var Ísólfi Gylfa Pálmasyni, sveitastjóra, stefnt fyrir hönd hreppsins. Stefnandi krefst þess aðallega að ógild verði með dómi ákvörðun hreppsnefndar Hrunamannahrepps frá 7. janúar 2009 að „taka það land eignarnámi sem fellur innan deiliskipulagsmarka, sbr. bréf Skipulagsstofnunar frá 5. desember 2008“. Endanleg varakrafa stefnanda er að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé skylt að kaupa allt land, öll mannvirki og rekstur veitingahússins Útlagans, Hrunamannahreppi, Árnessýslu, eign stefnanda. Þá er í báðum tilvikum krafist málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar. Málavextir. Ágreiningur aðila máls þessa á rætur sínar að rekja til ákvörðunar hreppsnefndar Hrunamannahrepps, þ.e. stefnda, um að taka land í eigu stefnanda eignarnámi, til lagningar Bakkatúnsvegar. Ákvörðun sú er stefnandi krefst ógildingar á var tekin á fundi hreppsnefndar þann 7. janúar 2009, en ágreiningur aðila á sér nokkuð eldri forsögu. Umræddur Bakkatúnsvegur hefur, miðað við framlögð gögn í máli þessu, verið á aðalskipulagi Hrunamannahrepps allt frá árinu 1994. Einnig liggur fyrir að þann 23. ágúst 2000 var samþykkt deiliskipulag fyrir íbúðarsvæði og veg í Bakkatúni. Deiliskipulagið var kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og héldu kærendur því meðal annars fram að fyrirhugaður Bakkatúnsvegur myndi valda slysahættu og væri með lagningu hans verið að brjóta gegn reglum grenndarréttar en úrskurðarnefnd féllst ekki á kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulagsins. Þá liggur einnig fyrir að gerðar voru breytingar á áðurnefndu deiliskipulagi þann 6. desember 2006. Hvað varðar ákvörðun hreppsnefndar um að taka land í eigu stefnanda eignarnámi liggur fyrir af gögnum máls að stefnandi hafi þann 8. maí 2008 setið sáttafund vegna málsins, þar sem fram kom að hann, ásamt fleiri landeigendum á umræddu svæði, væri ekki sáttur við fyrirhugaða legu vegarins. Þá hafnaði stefnandi boði stefnda um bætur fyrir land undir hinn fyrirhugaða veg. Þá liggur frammi minnisblað frá lögmanni stefnda, þar sem hann telur tilraunir til sátta fullreyndar og að næsta skref sé að leita umsagnar Skipulagsstofnunar. Fáist þar jákvæð umsögn sé unnt að taka nauðsynlegt land eignarnámi og vísa ágreiningi um bótafjárhæð til matsnefndar eignarnámsbóta, náist ekki sættir áður. Með bréfi lögmanns stefnda til Skipulagsstofnunar var þess krafist að stofnunin veitti jákvæða umsögn, þannig að stefndi gæti beitt eignarnámsheimildum sínum vegna framkvæmda við Bakkatúnsveg. Með bréfi Skipulagsstofnunar til lögmanns stefnda, dagsettu 18. september 2008, kemur fram að stofnunin telji skilyrði 2. mgr. 32. gr. þágildandi skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, uppfyllt og þá beri gögn málsins með sér að einnig sé uppfyllt skilyrði 3. mgr. sömu greinar um sáttatilraunir. Gerði Skipulagsstofnun því ekki athugasemdir við að stefndi tæki umræddar eignir eignarnámi. Í kjölfar jákvæðrar umsagnar Skipulagsstofnunar var stefnanda veittur andmælafrestur, sem síðar var framlengdur samkvæmt beiðni lögmanns hans. Skrifleg andmæli stefnanda voru send stefnda með bréfi dagsettu 31. október 2008, þar sem stefnandi krefst þess aðallega að fallið verði frá öllu fyrirhugaðu eignarnámi, deiliskipulagi verði breytt og vegurinn færður til suðurs. Kemur þar meðal annars fram að stefnandi telji að skilyrði eignarnáms séu ekki fyrir hendi, þar sem þvervegir og svæði umhverfis þá séu utan marka deiliskipulags, og telji hann umsögn Skipulagsstofnunar byggða á röngum forsendum og vísa beri málinu á ný til stofnunarinnar til endurskoðunar. Krefst stefnandi þess að umræddir þvervegir verði ekki á breyttu deiliskipulagi og að því loknu verði gengið til samningaumleitana við stefnanda í samræmi við lög. Á fundi hreppsnefndar þann 5. nóvember 2008 var fjallað um Bakkatúnsveg undir þriðja tölulið fundargerðar. Þar kemur fram að oddviti hafi kynnt framvindu málsins og dreift gögnum, allt frá árinu 1999, sem tengdust málinu. Þá kemur fram að oddviti hafi kynnt eftirfarandi tillögu: „Hreppsnefnd Hrunamannahrepps hafa borist athugasemdir vegna fyrirhugaðs eignarnáms, en með bréfi hreppsnefndarinnar dags. 15. október s.l. var lögmönnum aðila málsins gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna fyrirhugaðs eignarnáms. Annars vegar hafa borist athugasemdir frá Klemenz Eggertssyni hdl. dags. 31. október 2008 f.h. Árna Hjaltasonar og hins vegar frá Guðjóni Ægi Sigurjónssyni hrl. f.h. eigenda jarðarinnar Reykjabakka, dags. 30 [sic] október s.l. Í báðum tilfellum er fyrirhuguðu eignarnámi mótmælt. Að [sic] hálfu hreppsnefndar þykja fram komin andmæli ekki þess efnis að ástæða sé til að falla frá fyrirætlunum um veglagninguna [sic] og eignarnám í tengslum við hana. Hreppsnefnd samþykkir að taka umrædda spildu eignarnámi og vísa ágreiningi um verðmæti hennar til Matsnefndar eignarnámsbóta. Sveitarstjóra er falið að ganga frá málinu með þeim hætti og tilkynna aðilum framangreindar lyktir þess“. Samkvæmt fundargerðinni tekur hreppsnefnd ákvörðun um eignarnám á landi stefnanda og er bókunin svohljóðandi: „Hreppsnefnd samþykkir tillöguna með fjórum atkvæðum en Esther Guðjónsdóttir óskar að sitja hjá en mótmælir ekki veginum.“ Daginn eftir, þann 6. nóvember 2008, var stefnanda bréflega tilkynnt um áðurgreinda ákvörðun hreppsnefndar. Áður en fyrrgreind ákvörðun um eignarnám var tekin á fundi hreppsnefndar þann 5. nóvember 2008, hafði lögmaður annarra landeigenda, n.t.t. eigenda jarðarinnar Reykjabakka, sent Skipulagsstofnun bréf vegna málsins þar sem lýst var þeirri skoðun umræddra landeigenda að þeir teldu gögn að baki umsagnar stofnunarinnar hafa verið ófullkomin og þess farið á leit að umsögnin yrði dregin til baka. Er í bréfinu meðal annars bent á að vegstútar, er lögmaður stefnanda hafði í andmælum sínum í bréfi dagsettu 31. október 2008 nefnt þvervegi, væru ekki á fyrirliggjandi aðalskipulagi og væri deiliskipulag að þessu leyti ekki í samræmi við aðalskipulag og því væru skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 32. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ekki uppfyllt. Þann 11. nóvember 2008 sendi Skipulagsstofnun stefnda bréf vegna þessa þar sem hún óskaði eftir sjónarmiðum stefnda, áður en stofnunin tæki afstöðu til þess hvort ástæða væri til að endurskoða áður veitta umsögn sína. Þessu svaraði stefndi með bréfi dagsettu 1. desember 2008 þar sem sjónarmiðum eigenda jarðarinnar Reykjabakka er alfarið mótmælt. Í bréfi þessu er ekki minnst á það að stefndi hafði þá þegar, eða um mánuði áður, tekið ákvörðun um eignarnámið og tilkynnt stefnanda um þá ákvörðun sína. Með bréfi dagsettu 26. nóvember 2008 kærði stefnandi ákvörðun hreppsnefndar um eignarnám frá 5. nóvember sama árs, til Samgönguráðuneytisins, og krafðist ógildingar eignarnámsins. Byggði stefnandi þar á því, sem hann hafði áður haldið fram í andmælum sínum til hreppsnefndar, að skilyrði eignarnáms væru ekki uppfyllt þar sem þvervegir frá Bakkatúnsvegi væru utan marka deiliskipulags. Með bréfi til stefnda, dagsettu 5. desember 2008, tilkynnti Skipulagsstofnun að hún drægi til baka fyrri umsögn sína frá 18. september sama árs, og veitti nýja. Var ný umsögn Skipulagsstofnunar á þann veg að stofnunin teldi skilyrði 2. mgr. 32. gr. nr. 73/1997 ekki vera uppfyllt hvað varðaði þann hluta lands er lægi utan deiliskipulags, en gerði ekki athugasemdir við að það land sem væri innan marka deiliskipulags, yrði tekið eignarnámi, enda teldi hún önnur skilyrði eignarnáms uppfyllt, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 32. gr. og 3. mgr. 32. gr. þágildandi skipulags og byggingarlög nr. 73/1997. Á fundi hreppsnefndar þann 7. janúar 2009 var á ný tekin ákvörðun um eignarnám, og er eftirfarandi bókað í fundargerð hreppsnefndar þann dag: „Skipulagsstofnun v. eignarnáms vegna Bakkatúnsvegar. Oddviti kynnti umsögn frá 5. desember s.l. frá Skipulagsstofnun vegna fyrirhugaðs eignarnáms vegna Bakkatúnsvegar. Hreppsnefnd samþykkir að taka það land eignarnámi sem fellur innan deiliskipulagsmarka sbr. bréf Skipulagsstofnunar frá 5. desember 2008. Sveitarstjóra og Helga Jóhannessyni, lögmanni, falið að ljúka málinu.“ Í tilvísuðu bréfi Skipulagsstofnunar kemur fram að fyrirhuguðu eignarnámi sé ætlað að ná til lands í eigu stefnanda og lands jarðarinnar Reykjabakka. Orðrétt segir í umsögn Skipulagsstofnunar. „Eins og áður kom fram telur stofnunin hins vegar að svæði er liggur meðfram Bakkatúnsvegi frá suð-vestri til norð-austurs sé innan marka deiliskipulagsins. Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemdir við að þeir hlutar lands Árna Hjaltasonar og lands Reykjabakka séu teknir eignarnámi, enda telur hún önnur skilyrði eignarnáms uppfyllt, sbr. 1. tl. 2. mgr. 32. gr. og 3. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga.“ Þegar stefndi tók á ný ákvörðun um eignarnám þann 7. janúar 2009, hafði stefnandi eins og áður greinir, þegar kært ákvörðun hreppsnefndar um eignarnám frá 5. nóvember 2008, til Samgönguráðuneytisins og var kæran móttekin í ráðuneytinu þann 26. nóvember 2008. Þann 17. janúar 2009 sendi ráðuneytið lögmanni stefnanda, þá kæranda, bréf þar sem bent er á að ráðuneytið væri ekki æðra stjórnvald í skilningi stjórnsýsluréttar og byggi úrskurðarvald ráðuneytisins þannig á 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en ekki 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, líkt og kærandi hafði vísað til í kæru sinni. Þá kemur fram í bréfinu að ráðuneytið muni aðeins taka afstöðu til þess hvort hreppsnefnd hafi formlega staðið rétt að ákvörðun um eignarnám, en hvað efnishlið þess varðaði var stefnda bent á að snúa sér til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og/eða dómstóla. Þá liggur fyrir af gögnum málsins að Samgönguráðuneytið óskaði eftir afstöðu stefnda til málsins, og er umsögn stefnda til ráðuneytisins dagsett 25. febrúar 2009. Kemur þar fram að stefndi telji að í hvívetna hafi verið leitast við að fara að lögum varðandi meðferð málsins. Rekur stefndi fundargerðir hreppsins allt frá árinu 1988, og eru þar meðal annars raktar báðar þær bókanir sem hér var áður lýst, þ.e. ákvörðun hreppsnefndar um eignarnám frá 5. nóvember 2008 og ákvörðun um eignarnám frá 7. janúar 2009. Með bréfi dagsettu 2. mars 2009 tilkynnti stefndi stefnanda um ákvörðun hreppsnefndar frá 7. janúar sama árs, þ.e. að á fundinum hefði verið „tekin ákvörðun um að taka eignarnámi nauðsynlegt land vegna lagningar Bakkatúnsvegar.“ Kemur fram í bréfinu að því fylgi teikning sem lýsi legu vegarins. Þá héldu samskipti málsaðila við Samgönguráðuneytið áfram, og í bréfi til lögmanns stefnanda, þá kæranda, frá ráðuneytinu, dagsettu 3. mars 2009, kemur fram að ráðuneytinu hafi borist umsögn hreppsins vegna kærumálsins. Er lögmanninum þar greint frá hinni nýju umsögn Skipulagsstofnunar og bókun hreppsnefndar frá 7. janúar sama árs. Bréfi þessu svarar lögmaður stefnanda, þá kæranda, þann 13. mars 2009, og kemur fram í bréfi hans að hann telji breytta afstöðu Skipulagsstofnunar engin áhrif hafa á kæruna. Þann 25. júní 2009 kvað Samgönguráðuneytið upp úrskurð í máli aðila, og tekur ráðuneytið þar, að því er virðist, ekki eingöngu afstöðu til hinnar kærðu ákvörðunar frá 5.nóvember 2008, heldur einnig hinnar nýju ákvörðunar frá 7. janúar 2009. Í forsendum úrskurðarins kveður ráðuneytið nokkra hnökra vera á málsmeðferð hreppsins, m.a. andmælarétti fyrir töku hinnar nýju ákvörðunar hreppsins. Þessa hnökra telur ráðuneytið þó ekki leiða til ógildingar ákvörðunar hreppsins enda hafi stefnandi, þá kærandi, haft tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri er hann fékk andmælarétt við umsögn hreppsins, þ.e. undir rekstri kærumálsins. Hafnað var kröfu stefnanda, þá kæranda, um ógildingu ákvörðunar hreppsins um eignarnám. Og þá var vísað frá varakröfu hans um að hreppurinn skyldi kaupa allt land, mannvirki og rekstur kæranda, með vísan til þess að ráðuneytið hefði ekki úrskurðarvald í því efni. Þá hefur og verið lagður fram í málinu úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, þar sem eigendur jarðarinnar Reykjabakka kærðu báðar ákvarðanir hreppsins um eignarnám vegna Bakkatúnsvegar. Málinu var vísað frá úrskurðarnefnd á þeirri forsendu að æðra stjórnvald, þ.e. Samgönguráðuneytið hefði þegar hafnað því að fella úr gildi hinar kærðu ákvarðanir og úrskurðarnefndin ekki til þess bær að endurskoða niðurstöðu ráðuneytisins. Málsástæður og lagarök stefnanda. Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að uppdráttur af landi því sem stefndi hafi ákveðið að taka eignarnámi sé svo óskýr og óljós að ógilda verði eignarnámið. Á uppdrættinum séu engar tölur og af honum verði hvorki ráðin stærð landsins né afstaða og fjarlægðir nærliggjandi bygginga, t.d. veitingahúss stefnanda. Byggingar séu ekki heldur sýndar á uppdrætti, sem gerður var þann 29. janúar 2009, og stefndi lagði fram hjá matsnefnd eignarnámsbóta. Þá sé eign stefnanda ekki á íbúðarsvæði í Bakkatúni og sé ákvörðun Skipulagsstofnunar að því leyti byggð á röngum forsendum sem og ákvörðun sveitarstjórnar. Framangreindir annmarkar leiði til þess að sveitarstjórn hafi ekki tekið upplýsta ákvörðun. Stefnandi kveður stefnda hafa fallist á að ekki hafi verið lagaskilyrði fyrir fyrri ákvörðun hreppsnefndar þann 5. nóvember 2008 og hún því ólögmæt. Þrátt fyrir það haldi stefndi málinu áfram, minnki aðeins stærð landsins. Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið fylgt reglum stjórnsýsluréttar um undirbúning og efni stjórnvaldsákvarðana. Stefnandi kveður skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ekki vera fyrir hendi og mótmælir því að eignarnámið sé nauðsynlegt til þess að nýta land undir íbúðabyggð fyrir aldraða. Land sem haldið sé fram að eigi að nýta undir íbúðabyggð aldraðra sé í einkaeign og ekkert liggi fyrir hvort heimilt sé að nota það í þeim tilgangi. Auk þess sé óljóst hvort og hvenær fyrirhuguð íbúðabyggð aldraðra eigi að rísa. Því séu skilyrði áðurnefndar lagagreinar um almannaþörf ekki uppfyllt en menn verði ekki sviptir eignum sínum nema almannaþörf krefji, sbr. ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995. Stefnandi byggir einnig á því að til fyllingar reglu stjórnarskrárinnar um almannaþörf gildi hin óskráða meðalhófsregla stjórnskipunarréttarins í máli þessu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því verði eignarnámi ekki beitt sé hægt að ná markmiði þess með öðrum og vægari hætti. Stefnandi kveður vandséða ástæðu þess og rök fyrir því að sveigja veginn þannig að hann fari inn undir þakskegg húss stefnanda og ætla megi að það brjóti gegn 76. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem mælt sé fyrir um að hús á lóðarmörkum að gangstétt, við gatnamót eða að almennum gangstíg megi aldrei hindra nægjanlegt útsýni fyrir akandi umferð. Stefnandi kveður aðra og vægari möguleika séu við vegalagningu á umræddu svæði þar sem núverandi Hrunavegur liggur að jörðinni Grafarbakka og megi auðveldlega lagfæra og endurbæta hann og tengja við hina fyrirhuguðu íbúðabyggð án þess að skerða eignarréttindi aðliggjandi eigna. Vegurinn tengist við þjóðveginn utan við þéttbýlið á Flúðum og nýtist því vel í þeim tilgangi sem hinum nýja vegi sé ætlað. Þá var á því byggt í stefnu að borið hafi að nýta land í eigu stefnda, merkt UMFH á uppdrætti frá 21. ágúst 2007, áður en farið væri að skerða eigur annarra, en frá því var fallið í upphafi aðalmeðferðar þegar sveitarstjóri stefnda upplýsti að umrætt land væri ekki í eigu stefnda og er það í samræmi við framlögð gögn málsins. Stefnandi kveður að svo virðist sem stefndi standi í þeirri trú að ákvörðun sveitarfélagsins þann 7. janúar 2009 geti upphafið þá galla sem voru á ákvörðun sveitarfélagsins þann 5. nóvember 2008. Það sé hins vegar ekki fullnægjandi að fá aðeins nýja lögmæta umsögn Skipulagsstofnunar og vísa til hennar sjálfstætt án nokkurs lögformlegs undirbúnings. Sveitarstjórn beri að fara að stjórnsýslulögum við undirbúning, málsmeðferð og töku ákvarðana þegar um sé að ræða jafn íþyngjandi ákvörðun sem eignarnám, sbr. til dæmis 3. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Stefnandi kveður undirbúning að ákvarðanatöku stefnda þann 7. janúar 2009 ekki hafa verið með fullnægjandi hætti og ákvörðunin því ógild enda séu gerðar ríkar kröfur um lögboðna málsmeðferð við jafn viðamikla aðgerð og eignarnám. Auk þess hafi ekki verið fylgt reglum stjórnsýsluréttar um rannsókn málsins og andmælarétt, sem kveðið sé á um í 10. og 13. gr., sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en rík ástæða hafi verið til þess þar sem um hafi verið að ræða skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum. Stefnandi byggir varakröfu sína á 33. gr. laga nr. 73/1997 og 12. gr. laga nr. 11/1973 með áorðnum breytingum. Með vegalagningunni sé verið að rýra svo verulega verðmæti þess sem eftir stendur af fasteign stefnanda og skerða nýtingarmöguleika og rekstrargrundvöll veitingastaðarins að stefnandi geri kröfu til að öll fasteignin, ásamt öllu sem henni fylgir og fylgja ber, verði tekin eignarnámi með vísan til ofangreindra lagaákvæða. Landið sem taka eigi eignarnámi nái u.þ.b. 30 sentimetra inn undir þakskegg veitingahússins og göngustígur og girðing fari undir vegstæðið. Enginn fengi að byggja svo nálægt vegi og fyrirsjáanlegt sé að hin fyrirhugaða vegalagning muni hafa verulega íþyngjandi áhrif á atvinnurekstur stefnanda og séu miklir hagsmunir í húfi. Vegurinn sé aðalvegur í gegnum þorpið með tilheyrandi umferðarþunga og hættum sem af því skapast svo nálægt veitingastaðnum og vísar stefnandi til 46. gr. vegalaga nr. 80/2007 um að vegir opnir almenningi til frjálsrar umferðar skuli uppfylla kröfur um öryggi og á því beri veghaldari ábyrgð. Stefnandi hafi á sínum tíma fengið fyrirvara- og skilyrðislaust byggingarleyfi fyrir veitingahúsinu á lóðinni sem sé skilgreind sem viðskipta- og þjónustulóð í landskrá Fasteignamats ríkisins. Um lagarök vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, 1. tölul. 2. mgr. 32. gr. og 33. gr. laga nr. 73/1997, 10., 12., 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 12. gr. laga nr. 11/1973, 46. gr. vegalaga nr. 80/2007 og 76. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Krafa um málskostnað styðjist við 129. gr., sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um kröfu sína um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísar stefnandi til laga nr. 50/1988. Málsástæður og lagarök stefnda. Stefndi mótmælir öllum sjónarmiðum stefnanda í aðalkröfu málsins. Eignarnámið sé byggt á heimild í 32. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hafi stefndi í einu og öllu farið að lögum við undirbúning og töku eignarnámsákvörðunarinnar. Stefnandi vísar til þess að fyrirhugaður vegur hafi verið inni á samþykktu deiliskipulagi allt frá árinu 2000 og muni liggja um svæði sem skilgreint sé sem íbúðabyggð. Fyrir liggi að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi með úrskurði sínum þann 19. febrúar 2004 hafnað að ógilda deiliskipulag fyrir íbúðabyggð á Bakkatúni og á það mál hafi ekki reynt fyrir dómstólum. Því sé augljóst að fullnægt sé almannahagsmunum um aðkomu um vegi og götur í þéttbýli og með vísan til þess sé sjónarmiðum stefnanda um að almannahagsmunir séu ekki fyrir hendi í máli þessu mótmælt og vísar stefnandi til víðtækra eignarnámsheimilda sveitarfélaga í 32. gr. laga nr. 73/1997 og 50. gr. núgildandi skipulagslaga nr. 123/2010. Stefnandi vísar til þess að leitað hafi verið til Skipulagsstofnunar þann 20. ágúst 2008 sem hafi ekki gert athugasemdir við eignarnámið áður en ákvörðun var tekin og hafi stefnanda verið veittur frestur til andmæla að þeirri umsögn fenginni og fresturinn síðan aukinn á fundi hreppsnefndar þann 15. október 2008. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að Skipulagsstofnun hafi með nýrri afstöðu sinni þrengt nokkuð umsögn sína frá 5. desember 2008 sem stefndi hafi tekið endanlega ákvörðun um eignarnámið þann 7. janúar 2009. Þeirri ákvörðun hafi ekki verið hnekkt þrátt fyrir kærur auk þess sem stefnanda hafi verið kunnugt um hvað til hafi staðið allt frá því að hann keypti landið. Því sé ljóst að reglna stjórnsýsluréttarins hafi verið gætt við meðferð máls þessa frá upphafi. Í fyrsta lagi hafi stefnandi notið andmælaréttar á öllum stigum málsins. Í öðru lagi hafi sérstaklega verið gætt að meðalhófsreglunni þar sem eingöngu hafi verið tekið það sem fellur innan samþykkts skipulags og nauðsynlegt var að taka. Í þriðja lagi hafi rannsóknarskyldu stjórnvalda verið sinnt, auk þess sem allir hagsmunaaðilar á svæðinu hafi notið jafnræðis við málsmeðferðina. Stefndi mótmælir því sérstaklega að honum hafi borið að gæta að meðalhófsreglunni með því að breyta lagningu vegarins. Vegurinn hafi verið hannaður með þessum hætti með tilliti til umhverfisins og legu annarra vega auk þess, eins og áður hafi verið rakið, aðeins tekið eignarnámi lágmarks land. Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að stærðar hins eignarnumda svæðis sé ekki sérstaklega getið í eignarnámsákvörðuninni og segir það engu máli skipta enda liggi fyrir samþykkt deiliskipulag svæðisins þar sem fyrirhuguð lega vegarins komi fram auk þess sem nákvæmir uppdrættir hafi legið fyrir á öllum stigum málsins og verið meðal fylgigagna í þeim kæruferlum sem mál þetta hafi sætt til þessa. Þá virðist af dómkröfum stefnanda ekki skorta neitt á að hann geri sér grein fyrir því hvernig vegurinn muni liggja um land hans og hvaða afleiðingar vegalagningin hafi á hagsmuni hans enda sé það ekki fyrr en að því komi að ákvarða landeigendum bætur sem stærð spildna hvers og eins skipti máli. Þá liggi fyrir að 483 fermetra spilda stefnanda hafi verið tekin eignarnámi. Þá mótmælir stefndi því sérstaklega að skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf fyrir eignarnáminu skorti. Vísar stefndi til þess að það sé grundvallarregla varðandi eignarnám að það sé sá sem hafi eignarnámsheimild samkvæmt lögum sem eigi mat um almenningsþörf og hafi bæði Vegagerðin, meðan hún var með málið til meðferðar, og stefndi metið að svo hafi verið. Þá hafi einnig legið fyrir óskir samtaka aldraðra í hreppnum og íbúa á Grafarbakkabæjunum, Hverabakka og Laxárbakka um vegalagninguna. Stefndi krefst sýknu af varakröfu stefnanda enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á það með neinum hætti að útvíkka eigi eignarnámið þannig að það nái einnig til annarra hluta af fasteign hans, þ.m.t. húsakosts. Gera verði kröfu til þess að stefnandi sýni fram á nauðsyn þess, t.a.m. með áliti dómkvaddra matsmanna eða öðrum óyggjandi hætti. Að þessu leyti sé varakrafan algerlega vanreifuð. Auk þess sem stefnandi muni eiga þess kost að gera kröfu um auknar bætur vegna þessa við meðferð málsins hjá Matsnefnd eignarnámsbóta, sbr. 12. gr. laga um framkvæmd eignarnáms. Um lagarök vísar stefndi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 32. gr. og IX. kafla núgildandi skipulagslaga nr. 123/2010. Þá vísar stefndi til stjórnsýslulaga, einkum 10., 11., 12. og 13. gr. Vegna varakröfunnar vísar stefndi sérstaklega til laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, einkum 12. gr. Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Niðurstaða. Við upphaf aðalmeðferðar var gengið á vettvang og skoðuð fyrirhuguð lega Bakkatúnsvegar um land stefnanda við veitingahúsið Útlagann. Einnig var farið að bænum Grafarbakka sem stendur norðaustan Bakkatúns. Þá gaf stefnandi, Árni Hjaltason, aðilaskýrslu. Stefnandi heldur því fram að almenningsþörf hafi ekki staðið til eignarnámsins og því fái það ekki staðist að lögum. Til grundvallar eignarnámsákvörðun stefnda liggur deiliskipulag fyrir Flúðir, „Íbúðarsvæði og vegur í Bakkatúni“, sem tók gildi 23. ágúst 2000, sbr. og breytingu á deiliskipulaginu sem tók gildi 6. desember 2006. Deiliskipulagið afmarkar svæði fyrir íbúðabyggð í Bakkatúni, stórar lóðir sunnan við Bakkatún sem liggja að Hrunavegi og svokallaðan Bakkatúnsveg sem ætlað er að tengja fyrirhugað íbúðasvæði í Bakkatúni og bæi norðaustan Bakkatúns við þéttbýlið að Flúðum. Er deiliskipulagið í samræmi við aðalskipulag Flúða, sem staðfest var af umhverfisráðherra þann 25. apríl 1994, en þar er gert ráð fyrir áðurnefndum vegi norðaustur undir bæinn Grafarbakka. Deiliskipulagið frá árinu 2000 var kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Í úrskurði nefndarinnar frá 19. febrúar 2004 kemur fram að deiliskipulagið, geri eins og aðalskipulagið, ráð fyrir vegi austan og norðan við þéttbýlið á Flúðum og hafnaði nefndin kröfu um ógildingu deiliskipulagsins. Að mati dómsins þykja þau sjónarmið sem búa að baki fyrirhuguðum vegi vera reist á málefnalegum sjónarmiðum tengdum bættri tengingu fyrirhugaðrar íbúðabyggðar í Bakkatúni og bæja norðaustan Bakkatúns við þéttbýlið á Flúðum. Með vísan til þessa og að deiliskipulagið gerir aðeins ráð fyrir lágmarks landi undir fyrirhugaðan Bakkatúnsveg var að mati dómsins ekki gengið lengra en nauðsyn bar til. Er því ekki fallist á það með stefnanda að skilyrði um almenningsþarfir í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. tölul. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 73/1997, sé ekki uppfyllt. |
Mál nr. 638/2017 | Gjaldeyrismál Stjórnsýsla Stjórnvaldssekt | Í málinu deildu aðilar um gildi og efni ákvörðunar S um að leggja á R ehf. stjórnvaldssekt að tiltekinni fjárhæð vegna nánar tilgreindra brota á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Þá var deilt um skyldu Í til að endurgreiða sektarfjárhæðina með dráttarvöxtum ef fallist yrði á aðalkröfu R ehf. um ógildingu ákvörðunarinnar eða varakröfu um lækkun sektarinnar. Óumdeilt var að erlent móðurfélag R ehf., B, hafði keypt réttindi samkvæmt nauðasamningi K ehf. og framselt réttindin með lánssamningum til R ehf. en félögin heyrðu til sömu samstæðu í skilningi 1. mgr. 13. gr. g. laga nr. 87/1992. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom meðal annars fram að lánssamningar R ehf. við B hefðu falið það í sér að hluta- og kröfuréttindi hefðu verið flutt frá B til R ehf. Talið var að samningarnir hefðu falið í sér fjármagnshreyfingar milli landa sem hefðu farið í bága við 13. gr. b. og 13. gr. g. laga nr. 87/1992. Í ljósi þeirra undaþága sem giltu um fjármagnshreyfingar innan samstæðu milli landa samkvæmt lögum nr. 87/1992 var talið að S hefði ekki fært fyrir því rök að brot R ehf. hefðu verið til þess fallin að valda alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum, svo sem byggt var á í ákvörðun S. Væri þá einnig horft til þess að S hefði látið það viðgangast átölulaust að greiðslur af hálfu K ehf. væru inntar af hendi til R ehf. Þá voru brot R ehf. ekki talin ítrekuð í skilningi 2. mgr. 15. gr. laganna. Enn fremur var talið að við mat á fjárhæð sektar bæri að líta bæði til þess vafa sem var uppi um skýringu laga nr. 87/1992 svo og viðbragða S við tilkynningum K ehf. og fyrirætlun um að inna af hendi greiðslur til R ehf. Þótt ekki færi á milli mála að R ehf. hefði leitast við að nýta sér undanþágur í lögum um gjaldeyrismál í því skyni að fá greiddar út kröfur samkvæmt nauðasamningi K ehf., í stað þess að þeim væri ráðstafað á reikning í vörslu S, var talið að ekki hefðu verið færð fyrir því viðhlítandi rök að brot R ehf. hefðu verið sérlega alvarleg með tilliti til markmiða laga um gjaldeyrismál og því ekki efni til að gera R ehf. sérstaka sekt vegna brota sinna. Var sekt R ehf. því felld niður og Í gert að endurgreiða sektarfjárhæðina ásamt dráttarvöxtum. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson, MarkúsSigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.ÁfrýjandinnSeðlabanki Íslands skaut málinu til Hæstaréttar 6. október 2017. Hann krefstsýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Áfrýjandinníslenska ríkið áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 9. október 2017. Hannkrefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrirHæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og falli þá málskostnaður niður.Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrirHæstarétti.Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.Áfrýjendur greiði óskipt stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og ídómsorði greinir.Dómsorð:Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.Áfrýjendur, Seðlabanki Íslands og íslenska ríkið, greiði óskiptstefnda, Raski ehf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2017.Mál þetta varhöfðað með stefnu birtri 13. september 2016 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð14. júní sl. Stefnandi er Rask ehf., Lágmúla 7, Reykjavík. Stefndu eruSeðlabanki Íslands, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík og fjármála- og efnahagsráðherrafyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli, Reykjavík.Gegn stefnda,Seðlabanka Íslands, gerir stefnandi aðallega þá kröfu að ógilt verði súákvörðun hans 19. ágúst 2016 að leggja á stefnanda 75 milljóna krónastjórnvaldssekt, en til vara, að ákvörðuninni verði breytt á þann veg aðfjárhæð sektarinnar verði lækkuð stórkostlega. Gegn stefnda íslenska ríkinugerir stefnandi þá kröfu að honum verði gert að greiða stefnanda 78.160.034krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu frá 23. desember 2016. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.Stefndi,Seðlabanki Íslands, krefst sýknu auk málskostnaðar.Stefndi,íslenska ríkið, krefst aðallega sýknu, en til vara lækkunar á kröfu stefnanda.Hann krefst einnig málskostnaðar.Málið varupphaflega aðeins höfðað gegn stefnda, Seðlabanka Íslands. Með framhaldsstefnubirtri 8. febrúar sl. jók stefnandi við kröfur sínar gegn téðum stefnda ogkrafðist þess að honum yrði einnig gert skylt að greiða 78.160.034 krónur aukdráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. desember 2016.Framahaldssök stefnanda var vísað frá dómi með úrskurði 17. mars sl., en meðsakaukastefnu birtri og þingfestri sama dag beindi stefnandi sömu kröfu að stefnda,íslenska ríkinu. Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvikaEfnislegurágreiningur aðila lýtur að gildi og efni ákvörðunar stefnda, Seðlabanka Íslands(hér eftir vísað til sem „stefnda“), 19. ágúst 2016 um að leggja á stefnandastjórnvaldssekt að fjárhæð 75 milljónir króna vegna brota á lögum nr. 87/1992um gjaldeyrismál, með síðari breytingum. Þá er deilt um skyldu stefnda íslenskaríkisins, (hér eftir vísað til sem „sakaukastefnda“) til endurgreiðslusektarinnar með dráttarvöxtum ef fallist er á aðalkröfu stefnanda um ógildinguákvörðunarinnar eða varakröfu hans um lækkun sektarinnar. Atvik málsins eruóumdeild.ATildrögmálsins er að rekja til nauðasamnings Klakka ehf., áður Exista ehf., semstaðfestur var í héraðsdómi 10. október 2010. Samkvæmt samningnum skyldukröfuhafar fá greiðslur í formi nýs hlutafjár í félaginu og einnig greiðslur ííslenskum krónum, eftir því sem laust fé hrykki til, samkvæmt skilmálumsérstaks skuldaskjals þar sem kröfum var skipt í nánar tiltekna flokka. Ískuldaskjalinu var vísað til reglna nr. 370/2010 um gjaldeyrismál, svo ogreglna sem kynnu að koma í stað þeirra, og tekið fram að við þær aðstæður, aðKlakka ehf. væri óheimilt að greiða kröfuhafa samkvæmt reglunum, bæri félaginuað inna greiðslu af hendi inn á sérstakan vörslureikning.Með lögum nr.17/2012, um breytingu á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, var felld úr gildiundanþága sem verið hafði í gildi þess efnis að fjármagnshreyfingar á millilanda í krónum, vegna greiðslu á kröfum úr þrotabúi og greiðslu samningskrafnasamkvæmt nauðasamningi, væru undanþegnar banni 3. mgr. 13. gr. b laganna, einsog þeim hafði síðar verið breytt. Klakka ehf. varð samkvæmt þessu óheimilt aðinna greiðslur af hendi til erlendra kröfuhafa og skyldu greiðslur til þeirraþví fara inn á fyrrgreindan vörslureikning félagsins hjá stefnda.Erlentmóðurfélag stefnanda, Basway Corp. Ltd., skráð á Bresku Jómfrúaeyjum, mun hafakeypt réttindi samkvæmt fyrrgreindum nauðasamningi Klakka ehf. Með þremursamningum, dagsettum 3. júní, 17. september 2014 og 2. janúar 2015, voruréttindin framseld stefnanda með „tegundarákveðnum lánum“ til 1. júní 2024. Ermeginefni lánssamninganna lýst svo að 1. júní 2024 eigi stefnandi að skilaréttindum að sama nafnvirði til Basway Corp. Ltd., þó þannig að ekki sé gerðurgreinarmunur á réttindum gegn Klakka ehf. eftir þeim flokkum sem miðað sé við íáðurgreindu skuldaskjali. Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu mun stefnandi,eftir því sem nafnverð krafna hans lækki við endurgreiðslur Klakka ehf., þurfaað kaupa á markaði réttindi gegn félaginu til þess að greiða lánin á gjalddaga.Kostnaður stefnanda af lánunum sé því óviss. Af hálfu stefnda er hins vegar áþað bent að í reynd feli samningarnir það í sér að stefnandi muni greiðamóðurfélagi sínu fjárhæð í peningum sem ákveðin verði samkvæmt nánari ákvæðumsamninganna. Ekki er um það deilt að samtals lánaði Basway Corp.meðþessum hætti stefnanda kröfur að nafnvirði 4.730.585.141 króna, hlutafé aðnafnvirði 645.503.629 krónur og vörslufjárinneign að fjárhæð 651.025.325krónur. Meðtölvubréfi 2. júlí 2014 tilkynnti Klakki ehf. stefnda að félagið hefði fengið íhendur skírteini um framsal krafna Basway Corp. Ltd. til stefnanda samkvæmttilkynningu umboðsmanns kröfuhafa dagsettri 9. júní 2014. Í skeytinu tilstefnda sagði að í ljósi framsalsins og þess að framsalshafi væri innlenduraðili „munum við, í samræmi við skilmála nauðasamningsins, greiða framsalshafarúmlega kr. 191 milljónir hinn 7. júlí næstkomandi“. Með bréfi stefnda 3. júlí2014 til Klakka ehf. var óskað eftir frekari upplýsingum um framsalið og þáaðila sem þar ættu í hlut. Klakki ehf. svaraði erindi stefnda samdægurs. Þásegir í greinargerð stefnda að starfsmaður hans hafi degi síðar haft sambandvið varamann í stjórn stefnanda til að gera grein fyrir því að borist hefðuupplýsingar um viðskiptin, að málið væri á frumstigi athugunar innaneftirlitsdeildar stefnda en ekkert lægi fyrir um afgreiðslu þess, þ.e. hverniðurstaða athugunar yrði og hvort tilefni teldist til upphafs rannsóknar. Afhálfu stefnda var ekki sent bréf með formlegri afstöðu bankans tilfyrirhugaðrar greiðslu. Klakki ehf. innti því greiðsluna af hendi til stefnanda7. júlí 2014 ásamt áföllnum vöxtum, svo sem áður hafði verið boðað. Meðtölvuskeyti 7. október 2014 tilkynnti Klakki ehf. stefnda um annan lánssamningBasway Corp. Ltd. við stefnanda, dagsettan 17. september þess árs, svo og þáfyrirætlun félagsins að greiða stefnanda tiltekna fjárhæð innan ákveðinsfrests. Erindinu var ekki svarað af stefnda innan frestsins en í tölvuskeytistarfsmanns hans 10. október 2014 var hvatt til „sérstakrar varkárni“ í þeimtilvikum þar sem kröfuhafaskipti hefðu átt sér stað milli innlendra og erlendraaðila, þar sem slíkar fjármagnshreyfingar á milli landa væru óheimilar ánsérstakrar undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál. Klakki ehf. innti engu aðsíður greiðsluna af hendi til stefnanda 14. október 2014 og vísaði til þessgagnvart stefnda að hann hefði ekki vald til þess að skera úr um lögmætiframsals krafna samkvæmt nauðasamningnum. Greiðsla var jafnframt innt af henditil stefnanda 25. nóvember 2014 á grundvelli undangenginnar tilkynningar tilstefnda.Meðtölvuskeyti 26. janúar 2015 tilkynnti Klakki ehf. stefnda um þriðja framsalBasway Corp. Ltd. til stefnanda, dagsett 2. sama mánaðar. Klakka ehf. bárustjafnframt sérstakar greinargerðir vegna framsalsins og voru þær sendar stefnda.Þar kom fram að framsalið til stefnanda grundvallaðist á áðurlýstutegundarákveðnu láni til endurgreiðslu 1. júní 2024. Lýsti Klakki ehf. þeirrifyrirætlun sinni að greiða stefnanda tiltekna fjárhæð samkvæmt nauðsamningnumfyrir lok 30. janúar 2015. Af hálfu stefnda var brugðist við með tölvupósti 28.sama mánaðar. Var þar meðal annars vísað til athugasemda við það frumvarp, sem varðað lögum nr. 127/2011 um breytingu á lögum um gjaldeyrismál o.fl., um skýringu13. gr. g laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Var ítrekað að stefndi hvetti semfyrr til sérstakrar varkárni í þeim tilvikum sem kröfuhafaskipti hefðu átt sérstað milli innlendra og erlendra aðila, þar sem slíkar fjármagnshreyfingar ámilli landa væru óheimilar án sérstakrar undanþágu. Loks var tekið fram að kæmitil greiðslna yrði sá þáttur „rannsakaður sérstaklega sem og hlutdeild annarraaðila“. Við svo búið ákvað Klakki ehf. að inna ekki greiðslu af hendi tilstefnanda. Hinn sama dag er dagsett tilkynning stefnda, sem liggur fyrir ímálinu, um ætlað brot Basway Corp. Ltd., stefnanda og Klakka ehf. gegn lögum umgjaldeyrismál auk tveggja annarra fyrirtækja. Kom þar meðal annars fram að þaðværi mat eftirlitsdeildar stefnda að kröfuframsal gæti aldrei uppfyllt skilyrðilánveitingar innan samstæðu í innlendum gjaldeyri samkvæmt 13. gr. g laga nr.87/1992, eins og lögunum var breytt með lögum nr. 127/2011.BMeð bréfistefnda 2. febrúar 2015 tilkynnti stefndi stefnanda að ákveðið hefði verið aðtaka til rannsóknar meint brot hans gegn ákvæðum laga nr. 87/1992 vegnaframsals nauðasamningskrafna erlenda félagsins Basway Corp. Ltd. á hendurKlakka ehf. til stefnanda. Fram kom í bréfinu að rannsókninni væri ætlað aðleiða í ljós hvort stefnandi hefði tekið lán frá erlendum aðila og hvortfélagið hefði framkvæmt fjármagnshreyfingar á milli landa sem færu í bága viðákvæði laga nr. 87/1992 með síðari breytingum. Stefnandi sendi stefnda upplýsingarog gögn með bréfi 13. febrúar 2015. Þar kom fram að umrædd framsölnauðasamningskrafna á Klakka ehf., hefðu farið fram á grundvelli fyrrgreindra„tegundarákveðinna lána til eignar“ og fylgdu með afrit lánasamninganna þriggjaog tilkynningar umboðsmanns kröfuhafa um kröfuhafaskipti. Stefnditilkynnti stefnanda með bréfi 5. mars. 2015 að rannsókn málsins væri lokið. Íbréfi stefnda kom fram að niðurstaða rannsóknarinnar hefði leitt í ljós aðfjármagnshreyfingar í tengslum við framsal Basway Corp. á nauðasamningskröfumKlakka ehf. til stefnanda hefðu ekki fullnægt skilyrðum laga nr. 87/1992 umundanþágu frá almennu banni við fjármagnshreyfingum á milli landa og gætu þvíekki fallið undir undanþáguheimild laganna um lánveitingar á milli félaga í samstæðu,sbr. 13. gr. g laganna með síðari breytingum. Með þeim hætti hefði stefnandibrotið gegn 3. tölul. 1. mgr., sbr. 3. mgr. 13. gr. b og 1. mgr. 13. gr. g laganr. 87/1992.Stefnandimótmælti framangreindri niðurstöðu stefnda með bréfi 9. apríl 2015 þar semítarlega var fjallað um skýringu á ákvæðum laga nr. 87/1992 með hliðsjón afatvikum málsins. Einnig var óskað eftir því að stefndi upplýsti hvernig 1.tölulið 3. mgr. 13. gr. b laga nr. 87/1992 hefði verið beitt með tilliti tilannarra heimilla fjármagnshreyfinga, einkum hreyfinga samkvæmt 2. mgr. 13. gr.h sem heimilaði veitingu ábyrgða innan samstæðu. Stefndi svaraði erindistefnanda með bréfi 29. maí 2015 og kom þar meðal annars fram að litið væri svoá að veiting ábyrgðar innan samstæðu væri háð því skilyrði að hún færi fram meðúttekt af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, sbr. 1.tölulið 3. mgr. 13. gr. b laganna, eins og þeim hefði síðar verið breytt. CMeð bréfi 14.september 2015 óskaði stefnandi eftir því að stefndi afhenti sér öll álit,úrskurði, túlkanir, tilmæli og hvaðeina sem bankinn hefði látið frá sér fara umheimildir Klakka ehf. til útgreiðslna úr nauðasamningi til kröfuhafa. Varbeiðni stefnanda því næst nánar lýst í fjórum töluliðum og vísað til 15. gr. stjórnsýslulaganr. 37/1993 og 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Hinn 7. október 2015 óskaðistefnandi eftir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál um skyldu stefndatil afhendingar gagnanna, en stefndi hafði þá enn ekki svarað erindi stefnanda.Með bréfi 29. sama mánaðar svaraði stefndi erindi stefnanda. Var beiðnistefnanda hafnað að langmestu leyti með vísan til þess að hún varðaði ekkitiltekið mál og væri því óskýr. Stefndi vísaði þó einnig til þess að málefniKlakka ehf., hvort sem væri vegna undanþága, rannsóknar eða eftirlits, væruallt að einu háð þagnarskyldu. Stefnandi skaut þessari synjun tilúrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi 19. nóvember 2015. Sama dag óskaðistefnandi að nýju eftir frekari gögnum frá stefnda, meðal annars andmælumKlakka ehf. við niðurstöðum stefnda vegna greiðslna félagsins til stefnanda.Stefndi synjaði þeirri beiðni stefnanda með vísan til þagnarskyldu sinnar meðbréfi 3. desember 2015. Stefnandi skaut þeirri synjun til úrskurðarnefndar umupplýsingamál 29. sama mánaðar. Stefnandikvartaði einnig til umboðsmanns Alþingis 1. febrúar 2016 vegna tafa á rannsóknstefnda og vegna þess að hann hefði ekki stöðu aðila við rannsókn stefnda ágreiðslum milli hans og Klakka ehf. Umboðsmaður lauk athugun sinni með bréfi tilstefnanda 7. apríl 2016 þar sem fram kom að hann teldi ekki ástæðu til aðbregðast frekar við í tilefni af athugasemdum stefnanda um tafir á meðferðmálsins.Úrskurðarnefndum upplýsingamál lauk meðferð á kærum stefnanda með úrskurðum 20. september 2016og 30. desember þess árs. Með fyrri úrskurði nefndarinnar var stefndi skyldaðurtil að taka beiðni stefnanda, um aðgang að öllum álitum, úrskurðum, túlkunum,tilmælum og hvaðeina sem stefndi hefði látið frá sér fara um heimildir Klakkaehf. til útgreiðslna á nauðasamningi til kröfuhafa, til efnislegrar meðferðarað því leyti sem það væri enn ógert. Að öðru leyti var kærunni vísað frá, aðmeginstefnu með vísan til þess að þau væru háð þagnarskyldu. Kröfum stefnandasamkvæmt kærunni 29. september 2015 var einnig hafnað eða þeim vísað frá ásvipuðum grundvelli með úrskurði nefndarinnar 30. desember 2016. DMeð bréfi 14.mars 2016 sendi stefndi sáttaboð til stefnanda. Í bréfinu kom fram að máliðteldist að fullu upplýst og teldist stefnandi hafa brotið gegn 3. tölul. 1.mgr., sbr. 3. mgr. 13. gr. b og 1. mgr. 13. gr. g laga nr. 87/1992. Með vísantil heimildar í 15. gr. b laga nr. 87/1992 var stefnanda boðið að ljúkamálinu með greiðslu sektar að fjárhæð36.000.000 króna og var sáttaboðið bundið því skilyrði að framsal Basway Corp.Ltd. á nauðasamningskröfum sínum til stefnanda yrði leiðrétt, að undanskildumþeim kröfum sem lágu til grundvallar útgreiðslum Klakka ehf. til stefnanda semþegar höfðu farið fram, með þeim hætti að hinn erlendi aðili yrði formlegaeigandi krafnanna að nýju. Með bréfi 15.mars 2016 tilkynnti stefndi Klakka ehf. um niðurfellingu máls á hendur honum. Íerindinu kemur fram að andmæli Klakka ehf. hafi verið metin trúverðug og sökhafi ekki sannast í málinu án þess að vikið væri sérstaklega að lögmætiáðurgreindra framsala Basway Corp. til stefnanda.Meðtölvuskeyti 15. apríl 2016 var fyrrgreindu sáttaboði stefnda til stefnandahafnað. Var af hálfu stefnanda sem fyrr mótmælt túlkun stefnda á ákvæðum laganr. 87/1992 með síðari breytingum. Þá var því lýst að stefnandi teldi sig hafaheimildir fyrir því að í sambærilegum málum hefði stefndi taliðundanþáguheimild 1. mgr. 13. gr. g laganna ekki bundna við samstæðulán ííslenskum krónum og væri þetta rétt fæli sektarboð stefnda í sér brot gegnjafnræði. Einnig var vísað til þess að sú framkvæmd stefnda væri alþekkt aðsamstæðuundanþága væri ekki bundin við innlendan gjaldeyri.Með bréfi 8.júní 2016 kallaði lögmaður stefnanda eftir formlegri afstöðu stefnda til þesshvort réttindi stefnanda gegn Klakka ehf. teldust til aflandskrónueignarsamkvæmt 2. gr. laga nr. 37/2016. Með bréfi 15. sama mánaðar staðfesti stefndiað það væri mat hans að lánssamningar stefnanda og Basway Corp. Ltd. teldusttil aflandskrónueignar í skilningi e-liðar 2. gr. laganna. Bæri því að leggjaendurgreiðslur á grundvelli samninganna á reikninga háða sérstökum takmörkunumí innlendum gjaldeyri samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna. Vegna ágreinings aðilaum þetta atriði höfðaði stefnandi mál gegn stefnda sem lauk með dómi Hæstaréttar12. maí 2017 í máli nr. 211/2017 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms17. mars 2017 um frávísun málsins. Með hliðsjón af sakarefni málsins er ekkiástæða til að gera nánari grein fyrir þessum ágreiningi aðila.ESvo sem áður segir tók stefndi hinaumstefndu ákvörðun 19. ágúst 2016. Í ákvörðuninni eru atvik málsins ogsamskipti aðila rakin. Þá segir eftirfarandi í III. kafla ákvörðunarinnar:Samkvæmt 13. gr. b. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, eru eftirfarandifjármagnshreyfingar á milli landa óheimilar: Í fyrsta lagi viðskipti og útgáfaverðbréfa, hlutdeildarskírteina í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum,peningamarkaðsskjala og annarra framseljanlegra fjármálagerninga. Í öðru lagiinnlegg á og úttektir af reikningum í lánastofnunum. Í þriðja lagilánveitingar, lántökur og útgáfa ábyrgða sem ekki tengjast milliríkjaviðskiptummeð vörur og þjónustu. Í fjórða lagi inn- og útflutningur verðbréfa og innlendsog erlends gjaldeyris. Í fimmta lagi framvirk viðskipti, afleiðuviðskipti,viðskipti með valrétti, gjaldmiðla- og vaxtaskipti og önnur skyldgjaldeyrisviðskipti þar sem íslenska krónan er annar eða einn gjaldmiðlanna. Ísjötta lagi gjafir, styrkir og aðrar hreyfingar fjármagns hliðstæðar þeim semtaldar eru upp í 1. til 5. tölul. og eru til þess fallnar að valda alvarlegumog verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Þannig eru allarfjármagnshreyfingar á milli landa, í erlendum og innlendum gjaldeyri, semtaldar eru upp í 1. mgr. 13. gr. b. óheimilar, nema um sé að ræða greiðslu vegnakaupa á vöru eða þjónustu eða annarra fjármagnshreyfinga sem sérstaklega eruundanþegnar lögunum. [/] Þá segir í 3. mgr. 13. gr. b. laganna að allarfjármagnshreyfingar samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins á milli landa í innlendumgjaldeyri séu óheimilar. Þá segir ennfremur að undanþegnar banni 1. málsl. séusvo fjármagnshreyfingar sem eru sérstaklega undanþegnar í lögunum, aðrar envegna vöru- og þjónustuviðskipta, og greiðsla fer fram með úttektum afreikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi; fjármagnshreyfingarvegna vöru- og þjónustuviðskipta sem ekki eiga að fara fram í erlendumgjaldeyri, sbr. ákvæði til bráðabirgða II, þar sem greiðslan fer fram meðúttektum af reikningi í eigu kaupanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi; ogfjármagnshreyfingar vegna greiðslu andvirðis tjónabóta eða arfs semeinstaklingi hefur tæmst við dánarbússkipti þar sem greiðslan fer fram meðúttektum af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. [/]Þá er í 1. mgr. 13. gr. g. laganna lagt bann á lántökur og lánveitingar milliinnlendra og erlendra aðila, í öðrum tilvikum envegna viðskipta á milli landa með vöru og þjónustu, nema slíkar lántökur oglánveitingar séu milli félaga innan sömu samstæðu. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.eru lántökur innlendra aðila hjá erlendum aðilum í erlendum gjaldeyri heimilarað tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. 3. mgr. 13. gr. g. laganna.Heimild 1. mgr. 13. gr. g. laganna til lánveitingar og lántöku innan samstæðu áaðeins við að því skilyrði uppfylltu að greiðsla eigi sér stað með úttekt afreikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, sbr. 1. tölul. 3.mgr. 13. gr. b. sömu laga. [/] Rask ehf., semlántaki, fékk framseldar nauðasamningskröfur í eigu Basway gagnvart Klakkaehf., sem lánveitandi, samtals að nafnvirði kr. 4.730.585.141 átímabilinu frá 3. júní 2014 til 2. janúar 2015, sbr. lánssamning á milliaðilanna dags. 3. júní 2014, lánssamning dags. 17. september 2014 oglánssamning dags. 2. janúar 2015. Í málinu liggur fyrir að umræddarfjármagnshreyfingar fullnægja ekki skilyrðum 1. tölul. 3. mgr. 13. gr. b.laganna og falla þær því ekki undir undanþáguheimild 13. gr. g. sömu laga. Meðþeim hætti er félagið talið hafa brotið gegn 3. tölul. 1. mgr., sbr. 3. mgr.13. gr. b. og 1. mgr. 13. gr. g. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Um ákvörðunfjárhæðar stjórnvaldssektar sagði eftirfarandi í IV. kafla ákvörðunar stefnda:Framangreind brot varðar stjórnvaldssektum skv. 1. mgr. 15. gr. a. laganr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og geta sektir sem lagðar eru á lögaðila numiðfrá 50.000 kr. til 250.000.000 kr. Við ákvörðun sektarfjárhæðar er tekið mið afalvarleika brotanna, en fjármagnshreyfingar á milli landa í innlendum gjaldeyrieru sérstaklega takmarkaðar í ákvæðum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, enda tilþess fallnar að valda alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- ogpeningamálum. Jafnframt liggur fyrir að brotin varða háum fjárhæðum og svovirðist sem lánatilhögun umbjóðanda yðar hafi haft það markmið að sniðgangagildandi takmarkanir á fjármagnshreyfingum á milli landa. Enn fremur er tekiðmið af því að um endurtekin brot er að ræða á tímabilinu frá 3. júní 2014 til2. janúar 2015, en varamaður í stjórn félagsins hafði fengið tilkynningu um aðháttsemin gæti mögulega falið í sér brot gegn lögum nr. 87/1992, umgjaldeyrismál, hinn 4. júlí 2014. Stefnandigreiddi sektina til innheimtumanns ríkissjóðs, með fyrirvara um endurgreiðslumeð dráttarvöxtum, yrði sektin að hluta eða í heild ógilt eða lækkuð afdómstólum 23. desember 2016. Var fjárhæð greiðslunnar sú sem fram kemur ígreiðslukröfu stefnanda en þar af námu vextir 3.3310.034 krónum.FAf hálfustefnanda hafa verið rakin samskipti stefnanda og Klakka ehf. vegna ágreiningsþeirra um greiðsluskyldu síðargreinda félagsins eftir að stefndi hóf rannsóknsína, en vegna þessa ágreinings höfðaði stefnandi að lokum mál gegn Klakka ehf.sem lauk með dómi héraðsdóms 24. apríl 2017 í máli nr. E-2874/2016. Eftir aðstefnandi hafði höfðað málið gegn Klakka ehf., eða 28. september 2016, svaraðistefndi beiðni félagsins um leiðbeiningar sem meðal annars hafði verið settfram með bréfi lögmanns þess 30. maí 2016. Í fyrrgreindubréfi stefnda segir meðal annars: „Líkt og fyrr segir eru fjármagnshreyfingar ámilli landa takmarkaðar af ákvæðum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.Umbjóðandi yðar, Klakki ehf., og kröfuhafar félagsins, Rask ehf. [...], eru þvíinnlendir aðilar skv. 1. mgr. 1. gr. sömu laga, og eru því fjármagnshreyfingará milli þeirra einungis takmarkaðar ef þær fara yfir landamæri, þ.e. til eða fráÍslandi. Af framansögðu er ljóst að takmarkanir laganna á fjármagnshreyfingum ámilli landa standa ekki í vegi fyrir útgreiðslum frá Klakka ehf., vegnanauðasamnings félagsins, að því marki sem félögin eigi rétt til slíkragreiðslna á grundvelli nauðasamningsins, þau séu raunverulegir eigendurkrafnanna og beri fjárhagslega áhættu af eignarhaldi þeirra, farifjármagnshreyfingin ekki yfir landamæri.“ Klakki ehf. upplýsti stefnanda 29.september 2016 um breytta afstöðu stefnda og innti í framhaldi af því af hendigreiðslu til hans samkvæmt nauðasamningnum sem ekki er þörf á að gera nánarigrein fyrir. Við aðalmeðferð málsins lýsti lögmaður stefnda því yfir að hinbreytta afstaða stefnda til heimildar Klakka ehf. samkvæmt bréfinu 28.september 2016 hefði helgast af setningu laga nr. 37/2016 um meðferð krónueignasem háðar eru sérstökum takmörkunum. Hefði, eftir setningu laganna, ekki lengurverið varhugavert að heimila greiðslur Klakka ehf. til stefnanda þar semumræddir fjármunir stefnanda hefðu talist aflandskrónur.Engarmunnlegar skýrslur voru gefnar við aðalmeðferð málsins.Helstu málsástæður og lagarök stefnandaStefnandibyggir í fyrsta lagi á því að málsmeðferð stefnda hafi brotið gegn 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lögnr. 62/1994, 70. gr. stjórnarskrár og reglum stjórnsýsluréttar. Hafi annmarkará málsmeðferð stefnda verið verulegir og til þess fallnir að hafa áhrif ániðurstöðuna. Beri af þessum ástæðum að fella ákvörðunina úr gildi. Stefnandivísar til þess að hann hafi ítrekað óskað þess að fá að fylgja eftirsjónarmiðum sínum á fundi með starfsmönnum stefnda. Þessu hafi stefndi hafnaðog þannig brotið á rétti stefnanda til opinberrar málsmeðferðar. Stefndi vísareinnig til þess að sami starfsmaður stefnda hafi tekið ákvörðun um að hefjarannsókn á ætluðu broti stefnanda, stýrt rannsókninni og síðar tekið ákvörðunum sekt stefnanda. Telur stefnandi að þetta hafi brotið gegn rétti hans tilóhlutdrægrar meðferðar máls auk þess sem umræddan starfsmann hafi skort hæfisamkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga, eins og greinin verði skýrð samkvæmt 6. gr.mannréttindasáttmála Evrópu og 70. gr. stjórnarskrárinnar, til þess að takaákvörðun í málinu. Einnig vísar stefnandi í þessu sambandi til þeirrargrunnreglu að hann hafi átt rétt til að vera álitinn saklaus þar til sekt hansværi sönnuð. Telur hann að það fyrirkomulag að hann sé tilneyddur til að höfðamál til ógildingar refsingar, án þess að fullnustu hennar sé frestað, gangagegn þessum rétti.Stefnanditelur að óhóflegur dráttur hafi orðið á málsmeðferð stefnda og þannig hafiverið brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar. Áætlanir stefnda umhvenær niðurstöðu væri að vænta hafi ekki staðist. Að endingu hafi stefndimeira að segja neitað að gefa slíkar áætlanir, andstætt skyldu sinni samkvæmt9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og þannig brotið gegn stefnanda. Stefnandivísar einnig til þess að réttur til gagna í þágu málsvarnar sé þáttur íréttlátri málsmeðferð. Þá felist víðtækur réttur til gagna í 15. gr.stjórnsýslulaga og 5. og 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Stefndi njótirúmra heimilda til að beita undanþágum frá bannákvæðum laga nr. 87/1992. Nýtingslíkra heimilda og fyrri álit stefnda um beitingu laga nr. 87/1992 gagnvartréttindum á hendur Klakka ehf. geti því haft þýðingu t.d. fyrir framsetninguvarna sem tengjast jafnræði og meðalhófi, sbr. 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga.Stefnandi hafi af þessum sökum óskað gagna um fyrri úrlausnir og samskiptistefnda varðandi greiðsluheimildir Klakka ehf. og sérstaklega um afstöðu stefndatil þeirra greiðslna sem Klakki ehf. innti af hendi til stefnanda. Óumdeilt séað slíkar úrlausnir og samskipti séu til. Eins liggi fyrir að stefndi hafitekið ákvörðun í máli Klakka ehf. vegna þeirra greiðslna sem félagið innti afhendi til stefnanda. Þar hljóti að vera lýst afstöðu stefnda til greiðslnanna,enda gátu slík kröfuhafaskipti ekki átt sér stað án þess að stefndi hefði áðurstaðfest þau. Með synjun stefnda við afhendingu þessara gagna hafi verið brotiðgegn stefnanda.Stefnandibyggir í annan stað á því að lánin þrjú frá Basway Corp. Ltd. til hans hafiverið lögmæt. Hann vísar til þess að orðalag 13. gr. g laga nr. 87/1992, meðsíðari breytingu, sé skýrt um að lán innan samstæðu séu heimil án þess aðnokkrum frekari skilyrðum þurfi að fullnægja. Í öðru lagi bendir orðalag 1. tl.3. mgr. 13. gr. b laganna ekki til annars en að viðskipti Basway við stefnandahafi uppfyllt skilyrði ákvæðisins. Varðandi síðara atriðið er sérstaklega nefntað lánin voru tegundarákveðin og ekki standist að slík lán teljist veitt í„innlendum gjaldeyri“. Skilyrði þess að svo sé sé að réttindin gegn Klakka ehf.teljist „greiðslufyrirmæli“. Vafasamt sé að svo geti verið vegnaskilmálabundins og skilyrts eðlis þeirra. Teljist réttindin hins vegar„greiðslufyrirmæli“ hljóti ástæðan að vera sú að þau teljist fyrirmæli tilKlakka ehf. um að greiða stefnanda krónur. Sé svo, sé hins vegar vafalaust aðskilyrði 1. tl. 3. mgr. 13. gr. b teljist fullnægt þar sem greiðslur Klakkaehf. til stefnanda eigi að fara fram með úttektum af reikningi í eigu Klakkaehf., sem greiðanda, hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Hvernig sem ásé litið séu lánin þrjú því heimil samkvæmt lögum nr. 87/1992. Teljist einhvervafi leika á þessu beri að virða hann stefnanda í hag. Til þess leiðiveigamiklar meginreglur réttarskipanarinnar á borð við meginregluna umskýrleika refsiheimilda, meginregluna um samningsfrelsi og meginreglu 40. gr.EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga, sbr. lög nr. 2/1993. Verði þessuhafnað byggir stefnandi á því að heimildir stefnda til að veita undanþágu frálögum og geðþóttavald til að ákveða farveg máls með tilliti tilstjórnvaldssekta eða sakamálarannsóknar, standist ekki 2. og 69. gr.stjórnarskrár og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Tekið er fram að hvað semlíður deilu aðila um lögmæti ákvörðunar Basway um lánin til stefnanda hafistefndi ekki borið brigður á gildi lánanna sjálfra. Að lokumgrundvallar stefnandi málatilbúnað sinn á því að brotið hafi verið gegnjafnræði með ákvörðun stefnda. Stefnandi hafi ekki fengið afhent gögn, hvorkium ákvarðanir stefnda um heimild til útgreiðslna vegna nauðasamninga Klakkaehf. né um ákvarðanir hans um meðferð máls á hendur Klakka ehf. vegnagreiðslnanna til stefnanda. Vísar stefnandi til þess að stefndi hafi ekki orðiðvið áskorun um framlagningu þessara gagna í málinu. Verði því að líta á það semsannað að stefndi hafi heimilað greiðslur við aðstæður sem unnt sé að jafna tilþeirra sem eru uppi í málinu. Stefndi geti hins vegar ekki veitt einumundanþágu og beitt annan refsingu vegna sömu háttsemi. Undir meðferð málsinshefur stefnandi lagt fram gögn um breytingar á hluthöfum Klakka ehf. sem hanntelur sýna að erlendir aðilar hafi keypt hluti í félaginu eða aukið við hlutisína með kaupum af innlendum aðilum og sé vandséð hvernig þetta hafi gerst ánaðkomu stefnda. Hann vísar til þess aðstefndi hafi sem fyrr ekki brugðist við áskorun stefnanda um að leggja framgögn sem sýni fram á að afstaða stefnda í máli stefnanda hafi verið sú sama ogí málum annarra erlendra aðila sem keypt hafi réttindi gegn Klakka ehf.Varakrafastefnanda byggir á því að óhóflegar tafir hafi orðið á meðferð máls og ákvörðuðsekt sé úr hófi. Með henni sé ekki gætt neins samræmis við sektarákvarðanir íöðrum málum. Hún hafi því brotið í bága við 11. og 12. gr.stjórnsýslulaga. Varakrafa stefnandabyggir einnig á því að stefnda hafi verið kunnugt um téð lán án þess að lýstværi þeirri afstöðu að hann teldi þau ólögmæt. Þetta hefði stefnda verið skyltsamkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga. Sérstök ástæða hafi því verið til að leggja álægri sekt en ella. Stefndi hafi svo með engum hætti sýnt fram á að viðskiptinværu til þess fallin að ógna fjármálalegum stöðugleika. Þvert á móti leiðir afþeim 10 ára fjárbinding innan lands sem dragi úr hættu á óstöðugleika. Þannighafi hvorki verið tilefni til né þörf á að ákveða jafn háa refsingu og raun bervitni.Verði ekki áneitt framangreint fallist, byggir stefnandi varakröfu sína loks á því aðfjárhæð sektarinnar sé úr hófi miðað við ákvarðaða sekt Seðlabankans í eðlislíkumáli fyrirtækisins P153 ehf. sem hafi verið til meðferðar samhliða málistefnanda. Þar hafi sekt verið ákvörðuð sem lægra hlutfall af þeim fjárhæðumsem um teflir. Þetta hafi verið gert þótt í tilviki stefnanda hafi, vegnaátölulausra greiðslna og vanrækslu leiðbeiningarskyldu, myndast væntingar um aðstefndi teldi hinar umdeildu ráðstafanir lögmætar.Greiðslukrafastefnanda byggist á því að stefnanda hafi verið nauðugur sá kostur að greiðastjórnvaldssektina þegar í stað þar sem málshöfðun hafi ekki frestaðréttaráhrifum hennar. Hafi sektin verið greidd með fyrirvara um endurgreiðslu23. desember 2016 og sé krafist dráttarvaxta frá þeim tíma. Hann vísar tilmeginreglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár, laga nr. 29/1995 umofgreiðslu oftekinna skatta og gjalda og laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu til stuðnings kröfunni.Um lagarökvísar stefnandi einkum til laga nr. 87/1992, 69. og 70. gr. stjórnarskrár, 6.og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og til stjórnsýslulagaog upplýsingalaga. Helstu málsástæður og lagarök stefnda ogsakaukastefndaStefndibyggir sýknukröfu sína einkum á því að ákvörðun hans um álagningustjórnvaldssektar sé í einu og öllu í samræmi við lög. Á henni séu engir form-eða efnisannmarkar sem leitt geti til þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.Málsmeðferð stefnda á máli stefnanda hafi að fullu og öllu verið í samræmi viðákvæði laga nr. 87/1992, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglurstjórnsýsluréttar og engir þeir annmarkar á meðferð málsins sem leitt geti tilógildingar á ákvörðun hans.Stefndibyggir á því að stefnandi hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er íákvörðun stefnda. Með því að hafa sem lántaki, fengið framseldarnauðasamningskröfur í eigu Basway Corp. gagnvart Klakka ehf., samtals aðnafnvirði 4.730.585.141 króna á tímabilinu 3. júní 2014 til 2. janúar 2015 hafistefnandi brotið gegn 3. tölul. 1. mgr., sbr. 3. mgr. 13. gr. b og 1. mgr. 13.gr. g laga nr. 87/1992. Samkvæmt 13. gr. b laga nr. 87/1992 séu tilgreindirflokkar fjármagnshreyfinga á milli landa óheimilir. Eigi það m.a. við umviðskipti verðbréfa og annarra framseljanlegra fjármálagerninga, lánveitingarog lántökur. Í ákvæðinu sé einnig mælt fyrir um að óheimilt sé að eiga íframvirkum viðskiptum og afleiðuviðskiptum þar sem íslenska krónan er annar eðaeinn gjaldmiðlanna. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. b séu allar fjármagnshreyfingar ámilli landa sem taldar eru upp í 1. mgr. ákvæðisins í innlendum gjaldeyrióheimilar nema um sé að ræða greiðslu vegna kaupa á vöru eða þjónustu.Undanþegnar banninu séu samkvæmt 1. tölulið 3. mgr. 13. gr. b.fjármagnshreyfingar sem eru sérstaklega undanþegnar í lögunum sjálfum oggreiðsla fari fram með úttektum af reikningi í eigu greiðanda hjáfjármálafyrirtæki hér á landi.Í 1. mgr. 13.gr. g laga nr. 87/1992 sé lagt bann við lántökum og lánveitingum á milli landaá milli innlendra og erlendra aðila, í öðrum tilvikum en vegna viðskipta ámilli landa með vöru og þjónustu, nema slíkar lántökur og lánveitingar séumilli félaga innan sömu samstæðu. Heimild 1. mgr. 13. gr. g sé samkvæmt 1.tölul. 3. mgr. 13. gr. b bundin því ófrávíkjanlega skilyrði að greiðsla „farifram með úttektum af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér álandi“. Stefnandihafi fengið framseldar nauðasamningskröfur í eigu erlends móðurfélags sínsgagnvart Klakka ehf. á grundvelli þriggja lánssamninga á milli þessara aðila oghafi engin greiðsla farið fram í tengslum við lánveitinguna. Skuli stefnandiendurgreiða lánið með sömu eða sambærilegum kröfum, sbr. gr. 6.1 ílánasamningunum, en ef stefnandi endurgreiðir ekki lánið á umsömdumgreiðsludegi skuli hann greiða lánveitanda fjárhæð sem samsvarar verðmætinauðasamningskrafnanna, áætlað með sanngjörnum hætti af lánveitanda, ásamtföstum vaxtakostnaði sem skal nema 20% af virðismati lánveitanda. Sú háttsemiað framselja nauðasamningskröfur ásamt öllum þeim réttindum og skyldum sem þeimfylgja með þeim hætti sem stefnandi hefur fengið framseld kröfur og réttindi íKlakka ehf. úr hendi erlends kröfuhafa teljist til yfirfærslu eða flutningsfjármuna á milli innlendra og erlendra aðila. Engu skipti hvað stefnandi kjósiað nefna gjörninginn þegar fyrir liggur að framseld voru eignarréttindi íannars vegar nauðasamningskröfu á hendur Klakka ehf. og hins vegar hlutabréfumí Klakka ehf. sem falla undir fjármagnshreyfingu í innlendum gjaldeyri ískilningi 3. mgr. 13. gr. b laga nr. 87/1992. Í hinum framseldu kröfuréttindumfelist greiðslufyrirmæli, þ.e. kröfur um greiðslu tiltekinna fjármuna íinnlendum gjaldeyri. Greiðslur Klakka ehf. til stefnanda á grundvelliframseldra nauðasamningskrafna í framtíðinni flokkist sem fjármagnshreyfing ámilli tveggja innlendra aðila og geti aldrei talist fullnægja því skilyrði 1.tölul. 3. mgr. 13. gr. b til undanþágu fjármagnshreyfinga á milli landa, þ.e. ámilli stefnanda og Basway Corp., að greiðsla hefði átt að fara fram meðúttektum af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, einsog stefnandi virðist halda fram í stefnu.Enginn vafi geti verið á skýringuákvæða laga nr. 87/1992 þannig að efni sé til þess að virða slíkan vafastefnanda í hag, eins og hann telur rétt að gera. Stefnandi hafi margítrekað aðhann sé raunverulegur eigandi þeirra kröfuréttinda sem hér um ræði og berifjárhagslega áhættu af eignarhaldi á þeim. Fjármagnshreyfing sem nýtt er tillánveitingar frá erlendum aðila til innlends aðila, sem fullnægir ekkiskilyrðum 1. tölul. 3. mgr. 13. gr. b getur ekki fallið undið undanþáguheimild13. gr. g laga nr. 87/1992. Það liggiþví fyrir að ófrávíkjanlegu skilyrði 1. töluliðar 3. mgr. 13. gr. b tilundanþágu frá banni við fjármagnshreyfingum á milli landa í innlendum gjaldeyrihafi ekki verið fullnægt. Að því ervarðar málsástæður stefnanda um óréttláta málsmeðferð telur stefndi að málsmeðferðhans hafi að fullu verið í samræmi við ákvæði laga nr. 87/1992, ákvæðistjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur stjórnsýsluréttar og engir þeirannmarkar hafi verið á meðferð málsins sem leitt geti til ógildingar á ákvörðunhans. Er vísað til þess að 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr.62/1994 og 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, eigi samkvæmt orðannahljóðan einungis við um málsmeðferð fyrir dómi, en ekki málsmeðferð ástjórnsýslustigi. Stefndi sé stofnun með lögbundið hlutverk og lögbundnarskyldur og beri skylda til þess að bregðast við ef tilefni er til. Að bakiákvæðum laga um gjaldeyrismál búi mikilsverðir almannahagsmunir og geti brotgegn tilgreindum ákvæðum laganna varðað annars vegar stjórnsýsluviðurlögum,sbr. 15. gr. a, og hins vegar refsiviðurlögum, sbr. 16. gr. laganna. Samkvæmt15. gr. a laganna sé stefnda heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þannsem brýtur gegn ákvæðum laganna. Sé um að ræða stjórnsýsluviðurlög sem teljastekki til refsinga í skilningi V. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Því gildi lög um meðferð sakamála ekki ummálsmeðferð stefnda. Það fari hvorki gegn ákvæðum stjórnarskrár némannréttindasáttmála að sérfræðistjórnvaldi eins og stefnda sé falið vald tilþess að rannsaka mál og leggja stjórnvaldssektir á í tilefni af lögbroti, endaeigi stefnandi kost á að bera málið undir dómstól, sbr. 16. gr. c laga nr.87/1992. Stefndi telurað vandað hafi verið til málsmeðferðar hans að öllu leyti. Þá hafi stefnandaverið veittur rúmur andmælaréttur. Því hafi aldrei verið hafnað af hálfustefnda að halda fund með fulltrúum hans. Að teknu tilliti til sjónarmiðastefnanda, röksemda hans og gagna málsins hafi sú ákvörðun sem liggi fyrirverið tekin. Stefndi hafnar því alfarið að einn tiltekinn starfsmaður stefndahafi tekið ákvörðun um að hefja rannsókn á sökum stefnanda, stýrt rannsókninniog tekið síðar ákvörðun um stjórnvaldssekt, og njóti því ekki sérstaks hæfistil töku ákvörðunar. Fyrir liggi að margir starfsmenn stefnda sem starfa ásviði gjaldeyrismála hafi komið að málinu á einn eða annan hátt. Endanlegákvörðun hafi verið í höndum bankastjóra stefnda. Í öðru lagi er byggt á því aðþað sé eðlilegur þáttur í hverju máli að sá, sem tekur ákvörðun í málinu, komieinnig að undirbúningi og rannsókn þess. Sé það í samræmi við rannsóknarskyldustjórnvalda, skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og þar með því lögboðna hlutverkistjórnvalda að sjá til þess að mál sé nægilega rannsakað áður en ákvörðun ertekin í því. Stefndi vísar til þess að höfuðmarkmið hinna sérstöku hæfisreglnastjórnsýslulaga sé að stuðla að málefnalegri stjórnsýslu. Hæfisreglur 3. gr.stjórnsýslulaga gildi um alla starfsmenn sem komi að undirbúningi, rannsókn,meðferð og úrlausn máls þar sem taka á stjórnvaldsákvörðun, sbr. 1. mgr. 4. gr.stjórnsýslulaga. Byggt sé á þeirri meginreglu í stjórnsýslurétti að sömustarfsmenn rannsaki mál og taki ákvörðun í því. Þetta leiði eðli málsinssamkvæmt til þess að starfsmaður verður ekki vanhæfur til að taka ákvörðun ímáli þótt hann hafi komið að rannsókn þess.Stefndihafnar því alfarið að óhóflegur dráttur hafi verið á málsmeðferðinni. Nægi aðvísa til niðurstöðu umboðsmanns Alþingis 7. apríl 2016 í kjölfar kvörtunarstefnanda á töfum við rannsókn stefnda. Í bréfi umboðsmanns komi fram aðtöluverð samskipti hafi átt sér stað á milli stefnanda og stefnda allt frá þvíað tilkynnt var um upphaf rannsóknar í febrúar 2015 og þar til stefndi sendistefnanda sáttaboð í mars 2016. Með hliðsjón af farvegi málsins hafiumboðsmaður ekki talið ástæðu til að bregðast frekar við kvörtun stefnanda ogbent á að fyrir liggi að fyrirspurnum stefnanda um framgang málsins hafi jafnanverið svarað, auk þess sem stefndi hafi einnig tilkynnt að eigin frumkvæði umfrekari tafir á meðferð málsins. Stefndi vísartil þess að hann hafi afhent stefnanda öll þau gögn sem hann eigi rétt tilsamkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og upplýsingalaga nr. 140/2012, eins ogstaðfest hafi verið með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál 21.september 2016. Úrskurðarnefnd vísaði kæru stefnanda frá að öðru leyti en þvíað nefndin taldi að stefnanda bæri að taka beiðni stefnda um aðgang að „öllumálitum, úrskurðum, túlkunum, tilmælum og hvaðeina sem [stefndi] hefur látið frásér fara um heimildir Klakka til útgreiðslna úr nauðasamningi til kröfuhafa“til efnislegrar meðferðar. Að öðru leyti hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamálstaðfest þá afstöðu stefnda að þau gögn sem stefnandi krafðist aðgangs að félluundir þagnaskyldu samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um SeðlabankaÍslands, auk þess sem hluti gagnanna félli jafnframt undir þagnarskylduákvæði15. gr. laga nr. 87/1992. Með bréfi stefnda til stefnanda 7. nóvember hafiverið upplýst að við yfirferð skjalasafna stefnda, með það fyrir augum aðafmarka þau gögn er fallið gætu að orðalagi beiðni stefnanda, lægi fyrir að þaugögn sem svo háttaði til og hefðu ekki þegar verið afhent stefnanda væruundanskilin upplýsingarétti á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 og15. gr. laga nr. 87/1992.Hvað varðaráskorun stefnanda fyrir dómi um framlagningu gagna vísar stefndi til fyrrnefndrar niðurstöðuúrskurðarnefndar um upplýsingamál. Áskorun stefnanda nái til gagna sem háð séuþagnarskyldu og er um nánari rökstuðning vísað til þeirra sjónarmiða sem framkoma í bréfum stefnda sem liggja frammi í málinu. Höfðun dómsmáls hafi engináhrif á heimildir stefnda til að veita aðgang að gögnum sem séu háð þagnaskylduskv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 og 15. gr. laga nr. 87/1992. Stefnda beriað hlíta framangreindum fyrirmælum í starfsemi sinni og hafi ekki sjálfdæmi umað aflétta trúnaði af gögnum. Engin stoð sé fyrir þeim fráleita málatilbúnaðistefnanda að verði stefndi ekki við áskorun hans um framlagningu gagna sé hægtað líta svo á að í slíkum gögnum sé að finna aðra afstöðu en þá sem stjórnvaldsákvörðunstefnda byggi á.Að því ervarðar málsástæðu stefnanda um brot gegn jafnræðisreglu er því mótmælt aðsynjun stefnda við kröfu stefnanda um framlagningu gagna feli í sérstaðfestingu á því að stefndi hafi brotið gegn jafnræði. Stefndi hafi afhentstefnanda öll þau gögn sem hann eigi rétt til samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulagaog upplýsingalaga nr. 140/2012. Engin stoð sé fyrir þeim fráleita málatilbúnaðistefnanda að heimildir stefnda til að veita undanþágur frá ákvæðum laga nr.87/1992, samkvæmt 7. gr. laganna hafi þýðingu varðandi brot stefnanda. Í þessumáli liggi fyrir að stefnandi sótti ekki um undanþágu frá lögunum fyriróheimilum fjármagnshreyfingum.Stefndi telurengin efni til að taka til greina kröfu stefnanda um lækkun sektarfjárhæðar. Ervísað til þeirra sjónarmiða sem rakin eru að framan til stuðnings sýknukröfustefnda. Þá er vísað til þess að við ákvörðun á fjárhæðum stjórnvaldssektavegna brota á lögum um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra verðiað líta til hins sérstæða eðlis og þeirra almennu áhrifa sem brot á lögum umgjaldeyrismál kunni að hafa fyrir þjóðarbúið en slík brot geti valdiðalvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum sem leitt getitil gengislækkunar íslensku krónunnar og dregið á gjaldeyrisforða þjóðarinnar.Slík áhrif grafi jafnframt undan og tefli í tvísýnu áætlun um afnámgjaldeyrishafta. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi kosið að ganga ekkiað sáttaboði með því skilyrði að framsal Basway Corp. á nauðasamningskröfumsínum til stefnanda yrði látið ganga til baka, að undanskildum þeim kröfum semlágu til grundvallar á útgreiðslum Klakka ehf. sem þegar höfðu farið fram.Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. a laga nr. 87/1992 geti sektir sem lagðar eru álögaðila numið frá 50 þús. krónum til 250 millj. króna.Við ákvörðun sektaskuli stefndi m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðiðlengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot sé að ræða. Við ákvörðunsektarfjárhæðar hafi verið tekið mið af alvarleika brota stefnanda. Brotstefnanda hafi varðað háum fjárhæðum og lánatilhögun stefnanda og móðurfélagsstefnanda haft það eina markmið að sniðganga takmarkanir laga nr. 87/1992. Þáhafi við sektarfjárhæð verið tekið mið af því að um endurtekin brot var að ræðaog stefnandi gat ekki talist vera í góðri trú þar sem í júlí 2014, þegarstefndi fékk upplýsingar um framsal nauðasamningskrafna Klakka ehf., hafðistefndi samband við varamann í stjórn stefnanda til að upplýsa að háttseminfæri mögulega gegn ákvæðum laga nr. 87/1992. Því er mótmælt að ekki hafi veriðgætt samræmis við ákvörðun sektar í eðlislíku máli félagsins P153 ehf. þar sembrot stefnanda hafi verið metið alvarlegra bæði hvað varðar fjárhæðir en einnigað stefnandi hafði fengið útgreiðslur fjármuna á grundvelli framsalsins. Af hálfusakaukastefnda er tekið undir málsástæður og lagarök stefnda. Sé því ekki umógilda ákvörðun að ræða að neinu leyti og beri því einnig að sýkna afgreiðslukröfu stefnanda. Vísað er til þess að til sjálfkrafa skoðunar komihvort vísa beri frá dómi sakaukamáli stefnanda eða hvort sýkna beri afgreiðslukröfunni þar sem sá frestur sem áskilinn er í lögum nr. 87/1992 varliðinn við höfðun sakaraukans 17. mars 2017. Einnig telur sakaukastefndi að tilskoðunar komi hvort það verði metið stefnanda til vanrækslu að hafa ekki haftkröfu sína fyrr uppi, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Sakaukastefndibyggir á því að lög nr. 29/1995 eigi ekki við um sektir og verði krafa umdráttarvexti ekki byggð á 2. gr. þeirra laga. Er dráttarvaxtakröfu stefnandaþví sérstaklega mótmælt og talið að aldrei geti komið til greina að dæmadráttarvexti frá fyrra tímamarki en höfðun sakaukamálsins, þ.e. 17. mars 2017.NiðurstaðaMál þettalýtur að ákvörðun stefnda 19. ágúst 2016 um að stefnandi greiði stjórnvaldssektað fjárhæð 75 milljónir króna samkvæmt 1. mgr. 15. gr. a laga nr. 87/1992 umgjaldeyrismál, með síðari breytingum, vegna tiltekinna brota á lögunum, ensamkvæmt greininni geta sektir sem lagðar eru á lögaðila numið frá 50 þúsund krónumtil 250 milljóna króna og renna þær til ríkissjóðs. Ekki fer á milli mála að íákvörðun stefnda fólust viðurlög við brotum stefnanda gegn lögunum, eins og þauvoru talin sönnuð. Til samræmis við 2. mgr. greinarinnar var við mat á umfangiviðurlaganna meðal annars litið til alvarleika brota, huglægrar afstöðustefnanda og þess að um endurtekin brot væri að ræða. Þótt hér hafi ekki veriðum að ræða refsingu í skilningi íslenskra laga heldur stjórnsýsluviðurlög, ersamkvæmt þessu hafið yfir vafa að með þessu var stefnandi fundinn sekur um brotí skilningi 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr.62/1994, og honum ákveðin refsing í skilningi 69. gr. stjórnarskrárlýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.Er þá einnig horft til þess að brot gegn reglum laga nr. 87/1992, þ.m.t. þeimreglum sem stefnandi taldist hafa brotið gegn, geta leitt til útgáfu ákæru ogdóms um sekt eða fangelsi, enda séu brot talin meiri háttar, sbr. 16. gr. blaganna. Leiðir einnig af þessu að stefnandi nýtur vegna málsins réttindasamkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr.97/1995, og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 4.febrúar 2016 í máli nr. 278/2015.AÍ málinuliggur fyrir að undir fyrrnefnda ákvörðun stefnda ritaðiaðstoðarseðlabankastjóri ásamt nafngreindum starfsmanni stefnda sem mun hafaborið ábyrgð á og starfað að rannsókn málsins innan gjaldeyriseftirlitsstefnda. Er samkvæmt þessu ljóst að ákvörðun stefnda var tekin af þar til bærumfyrirsvarsmanni hans samkvæmt 22. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 36/2001 umSeðlabanka Íslands. Er því ekki borið við að aðstoðarseðlabankastjóri hafiverið vanhæfur í máli stefnanda. Þótt sástarfsmaður stefnda, sem bar ábyrgð á rannsókn og annarri meðferð málsins, hafiritað undir téða ákvörðun ásamt aðstoðarseðlabankastjóra verður sú tilhögunekki skilin svo að með því hafi starfsmanninum verið falið vald til þess aðtaka endanlega ákvörðun í málinu ásamt aðstoðarseðlabankastjóra. Ljóst er aðaðstoðarseðlabankastjóra var ekki unnt að taka ákvörðun í máli stefnanda ánþess að það væri rannsakað og undirbúningi þess að öðru leyti lokið afstarfsmönnum stefnda. Var málsmeðferð stefnda að þessu leyti í samræmi viðalmennar reglur stjórnsýsluréttar og þær nánari reglur sem gilda um starfsemiog skipulag stefnda. Jafngildir málsástæða stefnanda þess efnis að málsmeðferðstefnda hafi brotið gegn 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993,eins og ákvæðið verður skýrt með hliðsjón af 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6.gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar af leiðandi því að sú lögbundnamálsmeðferð, sem hér er kveðið á um, tryggi ekki nægilega réttláta málsmeðferð.Að matidómsins verður að horfa til þess að samkvæmt almennum reglum var stefnandaheimilt að bera ákvörðun stefnda undir dómstól sem hafði fullt úrskurðarvald umgildi ákvörðunarinnar og efni hennar, þ.m.t. mat stefnda á sönnun og fjárhæðsektar, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 278/2015. Hefur stefnandi ognýtt sér þennan rétt með höfðun máls þessa. Þá var vald stefnda til að ákveðaviðurlög bundið við stjórnvaldssektir og bar stefnda að kæra meiri háttar brottil lögreglu, sbr. 1. mgr. 16. gr. b laga nr. 87/1992, með síðari breytingum.Verður 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópuekki túlkuð á þá leið að hún útiloki að stjórnvald, sem ekki fullnægir sjálftkröfum um að teljast óháður og óhlutdrægur dómstóll, taki við þessar aðstæðurákvörðun um stjórnvaldssekt, sbr. til hliðsjónar dóm MannréttindadómstólsEvrópu 27. september 2011 í máli Menarini Diagnostics S.R.L. gegn Ítalíu. Geturþað ekki ráðið úrslitum í þessu sambandi þótt ákvörðun stefnda um sekt hafiverið endanleg innan stjórnsýslunnar og aðfararhæf, sbr. til hliðsjónar dómEFTA-dómstólsins 18. apríl 2012 í máli nr. E-15/10. Samkvæmt framangreindu er ekki fallist áþað með stefnanda að brotið hafi verið gegn 6. tölulið 1. mgr. 3. gr.stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð máls stefnanda. Af sömu ástæðum brautmálsmeðferð stefnda ekki gegn áskilnaði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr.mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta og opinbera málsmeðferð með því aðstefndi bæði rannsakaði mál stefnanda og tók ákvörðun um stjórnvaldssekt. Þóttsá dráttur sem varð á meðferð máls stefnanda kunni að hafa áhrif á mat dómsinsá viðurlögum samkvæmt 2. mgr. 15. gr. a laga nr. 87/1992, var hér ekki um aðræða atriði sem leitt getur til ógildis ákvörðunar stefna. Þá er haldlaus súmálsástæða stefnanda að áðurlýstar heimildir stefnda til að leggja ástjórnvaldssekt brjóti gegn ákvæðum 2. gr. og 69. gr. stjórnarskrár eða 7. gr.mannréttindasáttmála Evrópu.BMeð hliðsjónaf meginreglu íslensks réttar um lögbundna stjórnsýslu og grunnreglunni umjafnræði, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar eins og henni var breytt með 3. gr.stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, verða stjórnvöld, sem fengnar eru matskenndarheimildir til að veita víðtækar undanþágur frá bannreglum eða beitastjórnsýsluviðurlögum vegna brota á slíkum reglum, að tryggja að borgararnirgeti kynnt sér meginefni ákvarðana þeirra og lagaframkvæmd að öðru leyti. Súalmenna krafa um gagnsæi sem af þessu leiðir getur hins vegar ekki haggaðlögbundinni skyldu stefnda til að gæta trúnaðar um atriði sem varðar hagiviðskiptamanna bankans, svo og önnur atriði sem starfsmenn fá vitneskju um ístarfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, sbr. 1. mgr. 35gr. laga nr. 36/2001 og 15. gr. laga nr. 87/1992 með síðari breytingum. Verðurá það fallist með stefnda að téð ákvæði um þagnarskyldu gildi alla jafnan umstjórnsýslumál sem stofnunin hefur til meðferðar vegna einstakra aðila, þ. á m.vegna rannsóknar á ætluðum brotum eða veitingu undanþága.Samkvæmtframangreindu var réttur stefnanda til gagna undir meðferð málsins hjá stefndatakmarkaður við gögn þess tiltekna stjórnsýslumáls, sbr. 15. gr.stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem stefnandi naut almenns réttar tilaðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Ekki er um þaðdeilt að stefnandi hafði aðgang að öllum gögnum þess máls sem stefndi hóf gegnhonum með tilkynningunni 28. janúar 2015. Þá hefur stefnandi nýtt sér rétt sinnsamkvæmt lögum nr. 140/2012 með þeim kærum til úrskurðarnefndar upplýsingamálasem áður greinir. Hefur stefnandi ekki fært fyrir því rök að stefndi hafibrotið gegn ákvæðum laganna með þeim hætti að leitt geti til ógildingar þeirrarákvörðunar stefnda sem til úrlausnar er.Svo sem áðurgreinir naut stefnandi, þegar við upphaf málsins hjá stefnda, réttar tilréttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr.mannréttindasáttmála Evrópu, meðal annars þannig að hann hefði raunhæfamöguleika á því að halda uppi vörnum. Án tillits til ákvæða 15. gr. laga nr. 37/1993og fyrirmæla laga nr. 140/2012 bar stefnda því að veita stefnanda, að hans ósk,upplýsingar um afstöðu sína til sambærilegra tilvika og um ræddi í málistefnanda, eftir því sem honum var það fært vegna áðurgreindra lagaákvæða umþagnarskyldu. Hér verður þó sem fyrr að horfa til þess að stefnandi átti þesskost að höfða mál fyrir dómi til fullrar endurskoðunar á ákvörðun stefnda oggat hann í slíku máli skorað á stefnda að leggja fram hvers kyns gögn sem máliskiptu að hans mati samkvæmt nánari ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991. Hefurstefnandi og lagt fram áskorun á þessum grundvelli í málinu og er það dómsinsað meta hvort stefndi hafi nægjanlega brugðist við þeirri áskorun stefnanda,sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, þegar tekin er afstaða til þeirrarmálsástæðu hans að stefndi hafi mismunað stefnanda með ákvörðun sinni. Samkvæmtframangreindu geta ófullnægjandi viðbrögð stefnda við veitingu upplýsinga ummeðferð annarra sambærilegra mála ekki ein og sér leitt til ógildis ákvörðunarstefnanda. CÍ máli þessuhefur stefndi ekki brugðist sérstaklega við áskorun stefnanda um að leggja framgögn um afstöðu stefnda til útgreiðslna vegna nauðasamnings Klakka ehf. Þáhefur stefndi ekki nýtt sér heimild 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991 til þessað leggja fyrir dómara, í trúnaði og gegn þagnarskyldu, gögn um þetta efni.Hins vegar lýsti lögmaður stefnda því afdráttarlaust yfir fyrir dóminum viðaðalmeðferð málsins að fram til setningar laga nr. 37/2016 um meðferðkrónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum hafi erlendum aðila í engutilviki verið heimilað að framselja innlendum aðila kröfur gegn Klakka ehf.samkvæmt nauðasamningi félagsins og hafi stefndi því einungis heimilaðútgreiðslur samkvæmt samningnum til innlendra aðila. Enn fremur gaf lögmaðurinnskýringar á breytingum á hluthafaskrá Klakka ehf., einkum þær að í ákveðnumtilvikum hafi erlendir kröfuhafar Klakka ehf. flutt lögheimili sitt tillandsins og eftir það talist innlendir kröfuhafar.Með vísan til3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 verður að meta yfirlýsingu fulltrúa opinberrarstofnunar, þ. á m. lögmanns hennar, trúverðuga þar til annað sannast. Verðurekki gerð sú krafa til opinberrar stofnunar að hún styðji almenna yfirlýsingu,svo sem þá sem hér um ræðir, með gögnum nema sérstaklega standi á, einkum ef leiddarhafa verið líkur að því að yfirlýsingin sé röng. Þegar litið er til atvikamálsins telur dómurinn því að stefndi hafi með skýringum sínum fyrir dómivarpað nægjanlegu ljósi á þau gögn sem stefnandi vísar til um að stefndi hafiheimilað framsal krafna milli landa í sambærilegum tilvikum og um ræðir í málihans. Verður þar af leiðandi lögð til grundvallar yfirlýsing stefnda um að ekkihafi í neinum tilvikum verið fallist á framsal krafna samkvæmt nauðasamningiKlakka ehf. frá erlendum aðilum til innlendra á því tímabili sem hér um ræðir.Þá telur dómurinn að rannsókn stefnda á ætluðu broti Klakka ehf. vegnaútgreiðslna til stefnanda hafi ekki lotið að sambærilegu broti og stefnandi varsakaður um. Var niðurstaða þess mál því þýðingarlaus fyrir varnir stefnanda. Samkvæmtframangreindu telur dómurinn ekki fram komið í málinu að stefndi hafi farið meðog leyst úr máli stefnanda í andstöðu við grunnregluna um að stjórnvöld skuligæta samræmis og jafnræðis, sbr. meðal annars 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.DLánssamningarstefnanda við Basway Corp. Ltd. fólu það í sér að hluta- og kröfuréttindi voruflutt frá hinu erlenda félagi til stefnanda sem er einkahlutafélag skrásett hérá landi. Nánar tiltekið var andlag lánssamninganna hlutir í Klakka ehf. og rétturtil greiðslna samkvæmt samþykktum nauðsamningi félagsins sem kvað á umgreiðslur í íslenskum krónum, þ. á m. greiðslur sem þegar höfðu farið fram oggeymdar voru á vörslureikningi. Samkvæmt 3.mgr. 1. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál er með innlendum gjaldeyri áttvið íslenska peningaseðla, slegnapeninga, tékka og aðrar ávísanir, víxla og önnur greiðslufyrirmæli sem hljóðaupp á greiðslu í íslenskum krónum, minnispeninga, gull, silfur og aðra dýramálma ef þeir eru notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum hér á landi.Með hliðsjón af efni áðurgreindralánasamninga fer ekki á milli mála að samningarnir fólu í sér yfirfærslugreiðslufyrirmæla í íslenskum krónum að því er laut að rétti lántaka til að fásíðar greidda peninga samkvæmt nauðasamningi Klakka ehf. Var að þessu leytiótvírætt um að ræða lán í innlendum gjaldeyri í skilningi laga nr. 87/1992.Hins vegar fólu samningarnir að þessu leyti það augljóslega ekki í sér aðBasway Corp. Ltd. lánaði stefnanda peninga, sem greiðast skyldu út af reikningilánveitanda, enda voru þeir peningar ekki í vörslum Basway Corp. Ltd.Svo sem áður greinirfólu áðurgreindir samningar einnig í sér framsal réttinda til hluta í Klakkaehf. Þótt hér væri væntanlega um að ræða hluti með nafnverð í íslenskum krónumhefur stefndi engin rök fært að því að um hafi verið að ræða verðbréf sem notuðeru í viðskiptum hér á landi þannig að jafna megi til innlends gjaldmiðils.Verður því ekki á það fallist að lánssamningarnir hafi að þessu leyti verið íinnlendum gjaldeyri í skilningi laga nr. 87/1992. Hvað sem líður niðurstöðu umþetta atriði fólu þó samningarnir í heild í sér fjármagnshreyfingar milli landa, sbr.6. mgr. 1. gr. laga nr. 87/1992, eins og greininni var breytt með 1. gr. laganr. 127/2011.Samkvæmtsamningum aðila skyldi stefnandi greiða lánin með afhendingu sömu réttinda tilBasway Corp. Ltd. að lánstíma loknum eða 1. júní 2024. Gæti lántaki ekkiendurgreitt lánið með þessum hætti var kveðið á um það í lánssamningunum aðgreiða skyldi fjárhæð sem svaraði til téðra réttinda samkvæmt mati lánveitandaað viðbættu 20% álagi. Er þannig ljóst að af hálfu samningsaðila var gert ráðfyrir þeirri aðstöðu að stefnandi greiddi lánið upp með fjárhæð í peningum semað verulegu leyti væri háð mati lánveitanda. Er ekki fram komið í málinu hvortyfirhöfuð sé raunhæft að stefnandi greiði lánin upp með afhendingu sambærilegraréttinda gegn Klakka ehf. eða hvort yfirgnæfandi líkur séu á því að lánin verðiendurgreidd með peningum samkvæmt þessum skilmála samninganna. Þóttlögð sé á það áhersla af hálfu stefnda að markmið stefnanda og móðurfélags hanshafi verið að sniðganga gildandi takmarkanir um fjármagnshreyfingar milli landaer ekki á því byggt í ákvörðun stefnda að téðir lánssamningar hafi í reyndverið kaupsamningar með greiðslufresti þannig að 13. gr. g laganna, með síðaribreytingum, hafi ekki átt við. Kemur þetta atriði því ekki til frekariskoðunar.Í málinu er ágreiningslaust að stefnandi erinnlent dótturfélag Basway Corp. Ltd. og heyra félögin því til sömu samstæðu ískilningi 1. mgr. 13. gr. g laganna.Er því til úrlausnar hvort framangreindir lánssamningar hafi verið óheimilirsamkvæmt lögum nr. 87/1992 sökum fyrirmæla 1. töluliðar 3. mgr. 13. b laganna,eins og lögunum hafði síðar verið breytt, líkt og á er byggt í ákvörðun stefnda.EMeð hliðsjónaf meginreglu íslensks réttar um athafnafrelsi borgaranna og alþjóðlegumskuldbindingum íslenska ríkisins, sbr. einkum samninginn um Evrópskaefnahagssvæðið sem lögfestur er með samnefndum lögum nr. 2/1993, verður aðleggja til grundvallar að innlendum fyrirtækjum séu almennt heimilir samningarvið erlenda aðila sem fela í sér fjármagnshreyfingar, nema annað sé ákveðið meðlögum. Verður ályktun um þá meginreglu raunar einnig dregin af 2. gr. laga nr.87/1992. Í lögum nr. 87/1992 var hins vegar að finna viðamiklar takmarkanir áfjármagnshreyfingum milli landa, eins og þær eru nú skilgreindar í 2. tölulið1. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 127/2011. Efnisreglur um þessartakmarkanir áttu rætur sínar að rekja til hruns á fjármálamörkuðum haustið 2008samfara verulegum óstöðugleika í gjaldeyrismálum. Voru þær upphaflega settar afstefnda á grundvelli laga nr. 134/2008 sem breyttu lögum nr. 87/1992 og tókugildi 28. nóvember 2008. Reglur stefnda, sbr. þágildandi reglur nr. 370/2010 umgjaldeyrismál, voru hins vegar lögfestar með minni háttar breytingum með lögumnr. 127/2011 sem breyttu lögum nr. 87/1992. Þar til atvik máls þessa áttu sérstað var efnisákvæðum laganna um takmarkanir á fjármagnshreyfingum milli landaauk þess breytt nokkrum sinnum án þess að efni séu til að víkja að þeimbreytingum nánar. Í 1. mgr. 13. gr. b laga nr. 87/1992, sem aðstofni til var færð inn í lög nr. 87/1992 með 3. gr. fyrrnefndra laga nr.127/2011, var að finna almennt bannákvæði við öllum helstu tegundum fjármagnshreyfingamilli landa sem taldar voru upp í sex töluliðum. Þar á meðal var því slegiðföstu í 3. tölulið málsgreinarinnar að lánveitingar, lántökur og útgáfa ábyrgðasem ekki tengdust milliríkjaviðskiptum með vöru og þjónustu væru óheimilar. Íöðrum greinum laganna var að finna nánari ákvæði um einstakar tegundirfjármagnshreyfinga, þ. á m. var sérstaklega fjallað um lánveitingar íáðurnefndri 13. gr. g. Í 2. mgr. 13. gr. b var kveðið nánar á umfjármagnshreyfingar samkvæmt 1. mgr. greinarinnar í erlendum gjaldeyri og í 3.mgr. greinarinnar var fjallað um slíkar fjármagnshreyfingar í innlendumgjaldeyri. Í upphafi síðarnefndu málsgreinarinnar var endurtekin bannregla 1.mgr. en því næst kveðið á um að undanþegnar banninu væru tilteknar fjármagnshreyfingarsamkvæmt eftirfarandi töluliðum. Samkvæmt 1. tölulið málsgreinarinnar voruundanþegnar banninu fjármagnshreyfingar sem voru sérstaklega undanþegnar í lögunum, aðrar en vegna vöru- ogþjónustuviðskipta, þegar greiðsla færi fram með úttektum af reikningi í eigugreiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Í 1. mgr. 13.gr. g laga nr. 87/1992, sbr. 3. gr. laga nr. 127/2011 og 6. gr. laga nr.35/2013, var sérstaklega kveðið á um að lántökur og lánveitingar milliinnlendra og erlendra aðila væru óheimilar í öðrum tilvikum en vegna viðskiptaá milli landa með vöru og þjónustu „nema slíkar lántökur og lánveitingar séu ámilli félaga innan sömu samstæðu“. Í 3. mgr. greinarinnar voru lántökurinnlendra aðila hjá erlendum aðilum í erlendum gjaldeyri undanþegnar banninuvið tilteknar aðstæður. Í 4. mgr. greinarinnar var lagt bann við því aðfyrirfram greiða lán hjá erlendum aðilum og í 5. mgr. var fjallað umendurgreiðslu lána. Í 6. mgr. greinarinnar var kveðið á um að ákvæðigreinarinnar kæmu ekki í veg fyrir að lántökur og lánveitingar milli innlendraog erlendra aðila væru framlengdar, að því gefnu að aðrir skilmálar giltu aðsama leyti. Með 6. gr. laga nr. 35/2013 var hins vegar kveðið á um það meðbreytingu á málsgreininni að allar skilmálabreytingar sem gerðar væru á slíkumlánagerningum, m.a. breytingar ágreiðslu afborgana höfuðstóls og vaxta, breytingar á gjalddögum og/eðabreytingar vegna aðilaskipta að slíkum kröfuréttindum, teldust ný lántaka oglánveiting í skilningi 1. mgr. greinarinnar. Af athugasemdum við það frumvarpsem varð að lögum nr. 35/2013 verður ráðið að eftir þessa breytingu hafi boriðað líta á allar aðrar skilmálabreytingar en breytingar á lánstíma sem nýtt lán.Íathugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 127/2011, þar sem meðalannars voru lögfest áðurlýst ákvæði 13. gr. g, kemur fram að gert sé ráð fyrirþví að lántökur innan sömu samstæðu verði áfram heimilar. Var og sambærilegtákvæði við 1. mgr. 13. gr. g laganna áður að finna í 1. mgr. 7. gr. reglna nr.370/2010 um gjaldeyrismál og reglum um sama efni nr. 880/2009. Þá sagði í 2.mgr. 4. gr. reglna nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál sem fjallaði um lántökur oglánveitingar: „Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um lántökur og lánveitingarmilli félaga innan samstæðu.“ Sams konar ákvæði var í reglum nr. 1082/2008 umgjaldeyrismál. Er þannig ljóst að umrædd undantekningarregla um lánveitingarmilli landa innan samstæðu hefur verið í gildi allt frá 28. nóvember 2008.Í fyrrgreindum athugasemdum við það frumvarp sem varð aðlögum nr. 127/2011 segirað hér sé um að ræða þröngaundantekningu frá hinu almenna banni 3. mgr. 13. gr. b við fjármagnshreyfingumí innlendum gjaldeyri og eigi hún ekki við nema greiðsla eigi sér stað meðúttekt af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.Svo sem áður greinir er á því byggt íákvörðun stefnda að með þessu sé vísað til 1. töluliðs 3. mgr. 13. gr. b semáður greinir.Ílögskýringagögnum er ekki að finna sérstakar skýringar á því með hvaða rökum lántökur og lánveitingar innan samstæðuhafa verið undanþegnar hinu almenna banni við lánveitingum og lántökum millilanda allt frá haustinu 2008. Þá er þar ekki að finna skýringar á því með hvaðahætti skilyrðið, um að lánveitingar í innlendum gjaldeyri fari fram meðúttektum af reikningi hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, þjónar því markmiðilaga um gjaldeyrismál að tryggja stöðugleika í gjaldeyrismálum. Er hér til þessað líta að sambærileg undantekning hefur gilt um veitingu ábyrgða milli félagasamstæðu að því er varðar ábyrgð innlends aðila gagnvart erlendum, sbr. nú 2.mgr. 13. gr. h laga nr. 87/1992 með síðari breytingum, en ljóst er að ábyrgð eralla jafnan ekki veitt með úttekt af bankareikningi, svo sem gert er ráð fyrirí 3. mgr. 13. gr. b laganna. Í fyrrgreindum athugasemdum við það frumvarp sem varð aðlögum nr. 127/2011 er eingöngu vísað til þess að um sé að ræða undantekningufrá almennu banni við fjármagnshreyfingum í „innlendum gjaldeyri“ en ekki ervikið að því hvernig ákvæðið horfi við þegar um er að ræða lánveitingar innansamstæðu í erlendum gjaldeyri sem falla þó einnig undir orðalag þess. Þá erekki rædd sú aðstaða að lánssamningur kann að lúta að hlutaréttinda án þess aðnokkur gjaldmiðill skipti um hendur. Þess sér heldur ekki stað ílögskýringagögnum hvernig umrætt skilyrði er talið horfa við skilmálabreytingueða kröfuhafaskiptum sem telst ný lánveiting samkvæmt síðari málslið 6. mgr.13. gr. g, en í slíkum tilvikum er ekki heldur um að ræða greiðslu peninga afreikningi. Að lokum liggur ekkert fyrir um að stefndi hafi birt opinberlegaleiðbeiningar um túlkun sína eða lagaframkvæmd um fjármagnshreyfingar millilanda milli félaga innan samstæðu enda þótt umrædd undanþága hafi verið fyrirhendi allt frá 28. nóvember 2008.FSvo sem áðurgreinir telur dómurinn hafið yfir vafa að með ákvörðun stefnda hafi stefnandiverið fundinn sekur um brot í skilningi 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmálaEvrópu og honum ákveðin refsing í skilningi 69. gr. stjórnarskrárinnar.Samkvæmt 69. gr. stjórnarskrárinnar verður engum gert að sæta refsingu nemahann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tímaþegar hún átti sér stað eða sem megi fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi.Sambærilega reglu er að finna í fyrri málslið 1. mgr. 7. gr.mannréttindasáttmála Evrópu, svo og í 1. mgr. 15. gr. alþjóðasamnings umborgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Leiðir af framangreindum ákvæðum að lýsaber refsiverðri háttsemi, svo og þeirri refsingu eða þeim refsikennduviðurlögum sem hún er talin varða, í settum lögum Alþingis. Er hér um að ræðaeina af grundvallarreglum réttarríkis sem reist er á því viðhorfi að ákvörðunum refsiverða háttsemi skuli tekin af löggjafanum og samfélagsþegnarnir getiséð fyrir með vissu hvaða háttsemi þeirra getur leitt til slíkrar valdbeitingaraf hálfu ríkisvaldsins. Leiða grunnrök framangreindra ákvæða ekki aðeins tilþess að refsing verður ekki byggð á öðrum réttarheimildum en settum lögum,heldur einnig að réttmætan vafa um skýringu refsiákvæða verður að metasakborningi í hag. Þótt framsetning laganr. 87/1992 á bannákvæðum og undantekningum frá þeim hafi verið flókin ogorðalag ákvæða misvísandi, svo sem lýst er hér að framan, er engu að síðurljóst að í 3. mgr. 13. gr. b laganna var að finna almennar reglur umfjármagnshreyfingar milli landa sem vísuðu til og tóku til sértækari ákvæðalaganna í 13. gr. c til 13. gr. m. Að því er varðaði lánveitingar í innlendumgjaldeyri varð því ráðið af ákvæðum laganna að þær væru einungis heimilar aðuppfylltu því skilyrði að þær væru undanþegnar samkvæmt öðrum ákvæðum lagannaog enn fremur að greiðsla færi fram með úttekt af reikningi í eigu greiðandahjá fjármálafyrirtæki hér á landi, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 13. gr. b laganna. Samkvæmt þessu verðurekki á það fallist að lesa hafi mátt ákvæði 1. mgr. 13. gr. g um lánveitingarmilli landa innan samstæðu án tillits til þess almenna skilyrðis umlánveitingar sem fram kom í 1. tölulið 3. mgr. 13. gr. b laganna og fól í sérumtalsverða þrengingu á heimildum fyrirtækja innan samstæðu til lánveitingamilli landa í innlendum gjaldeyri. Hins vegar var umræddur töluliður bundinnvið fjármagnshreyfingar í innlendum gjaldeyri. Varð hann ekki skýrður svovíðtækt, í ljósi framangreindra krafna stjórnlaga og alþjóðlegra sáttmála umgrundvallarréttindi, að það væri skilyrði fyrir láni, sem ekki var í innlendumgjaldeyri, að greiðsla færi fram með úttekt af reikningi í eigu lánveitanda.Hvað sem líður ummælum í fyrrgreindum athugasemdum við það frumvarp sem varð aðlögum nr. 127/2011 fær slík skýring enga stoð í ákvæðum laga nr. 87/1992.Svo sem áður greinirtelur dómurinn ekki að stefndi hafi fært fyrir því haldbær rök að yfirfærslaBasway Corp. Ltd. á hlutum í Klakka ehf. til stefnanda með fyrrgreindumsamningum hafi falið í sér lán í innlendum gjaldeyri. Skorti stefnda þar afleiðandi heimild að lögum til að leggja stjórnvaldssekt á stefnanda vegna þessaþáttar lánssamninganna.GSvo sem áður greinirvar stefnda tilkynnt um lánssamninga Basway Corp. Ltd. og stefnanda og erekkert annað komið fram í málinu en að það hafi verið með vitund og viljastefnanda. Liggur því ekkert fyrir sem bendir til þess að stefnandi hafi viljaðleyna háttsemi sinni. Þá er fram komið að stefndi tók ekki skýra afstöðu tillögmætis samninganna fyrr en að liðnu meira en hálfu ári eftir að honum varðkunnugt um fyrsta lánssamning stefnanda og Basway Corp. Ltd. Hafði hann þáeinnig látið átölulaust að stefnanda væru ítrekað greiddar umtalsverðarfjárhæðir af hálfu Klakka ehf. samkvæmt nauðasamningi félagsins. Verða viðbrögðstefnda ekki túlkuð á annan veg en að raunverulegur vafi hafi verið uppi umhvernig túlka bar ákvæði laga nr. 127/2011 með tilliti til téðra samninga. Barstefnda að taka tillit til þessa vafa og eigin tómlætis við mat á alvarleikabrota stefnanda. Þá er ljóst að brot stefnanda voru ekki ítrekuð í þeimskilningi sem almennt er lagður í það hugtak í refsirétti enda þótt umendurtekna háttsemi væri að ræða. Verður einnig að telja þetta til annmarka árökstuðningi stefnda í ákvörðun hans 19. ágúst 2016.Í ljósi þeirra undaþágasem gilda um fjármagnshreyfingar innan samstæðu milli landa samkvæmt lögum nr.87/1992 telur dómurinn að stefndi hafi ekki, hvorki í forsendum ákvörðunarsinnar né undir meðferð málsins fyrir dómi, fært fyrir því rök að brotstefnanda hafi verið til þess fallin að valda alvarlegum og verulegumóstöðugleika í gengis- og peningamálum, svo sem á er byggt í ákvörðun stefnda.Er þá einnig horft til þess sem áður segir að stefndi lét það viðgangastátölulaust að greiðslur af hálfu Klakka ehf. væru ítrekað inntar af hendi tilstefnanda. Svo sem áður greinir hefur því einnig verið lýst yfir af hálfustefnda að erlendir kröfuhafar Klakka ehf. hafi öðlast stöðu innlendra meðbreytingu á lögheimili sínu og þannig öðlast rétt til útgreiðslu samkvæmtnauðasamningi félagsins. Að síðustu telur dómurinn að sú afstaða stefnda, aðfallast á einkaréttarlegt gildi þeirra samninga sem hér um ræðir og heimilaKlakka ehf. að endingu greiðslur til stefnanda á grundvelli þeirra, sbr. bréfstefnda til Klakka ehf. 28. september 2016, geti ekki samræmst þeirri afstöðuhans að hér hafi verið um að ræða brot sem til þess voru fallin að valdaalvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum og þar meðréttlæta háar sektir.HÍ dómum Hæstaréttar hefur ítrekað veriðgengið út frá því að dómstólar fari með óskorað endurskoðunarvald gagnvartsektarákvörðunum stjórnvalda með þeim takmörkunum einum sem leiða af forræðiaðila á sakarefninu, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í málinr. 278/2015. Í þessu felst að dómstólar meta ekki einungis hvort ákvörðunstjórnvalda um sektir styðjist við fullnægjandi heimildir og lögmæt sjónarmiðheldur er dómstólum ætlað að meta til hlítar hvaða sekt telst hæfileg með vísantil lögmæltra viðmiða. Samkvæmt 2. mgr. 15.gr. a laga nr. 87/1992, með síðari breytingum, skyldi við ákvörðunstjórnvaldssektar meðal annars tekið tillit til alvarleika brots og hvort umítrekað brot væri að ræða. Að mati dómsins var brot stefnda ekki ítrekað ískilningi greinarinnar, sem ber að skýra til samræmis við almennar reglurrefsiréttar, og gildir þá einu þótt um hafi verið að ræða endurtekna háttsemi.Stefnandi leitaðist ekki við að leyna háttsemi sinni og var leitað eftirafstöðu stefnda um hvort heimilt væri að inna af hendi greiðslur samkvæmtsamningunum. Þá telur dómurinn að við mat á fjárhæð sektar beri að líta bæðitil þess vafa sem var uppi um skýringu laga nr. 87/1992 svo og áðurlýstraviðbragða stefnda við tilkynningum Klakka ehf. og fyrirætlun um að inna afhendi greiðslur til stefnanda. Þótt ekki fari á milli mála að stefnandi hafileitast við að nýta sér undanþágur í lögum um gjaldeyrismál í því skyni að fágreiddar út kröfur samkvæmt nauðasamningi Klakka ehf., í stað þess að þeim væriráðstafað á reikning í vörslu stefnda, telur dómurinn að lokum að ekki hafiverið færð fyrir því viðhlítandi rök að brot stefnanda hafi verið sérlegaalvarlegt með tilliti til markmiða laga um gjaldeyrismál. Eins og mál þettaliggur fyrir í heild er það þar af leiðandi niðurstaða dómsins að ekki séu efnitil að gera stefnanda sérstaka sekt vegna brota sinna. Er þá einnig litið tilþess kostnaðar og óhagræðis sem meðferð máls stefnanda, sem tók yfir 17 mánuði,og dómsmál þetta hefur haft í för með sér fyrir hann, þ. á m. vegnatafarlausrar greiðslu sektar.Eftir þessum úrslitummálsins verður stefndi, Íslenska ríkið, dæmt til að endurgreiða stefnanda aðfullu þá sektarfjárhæð sem hann innti af hendi, en um þá fjárhæð er ekkitölulegur ágreiningur. Með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vextiog verðtryggingu dæmast dráttarvextir frá höfðun sakaukamáls stefnanda gegnstefnda, íslenska ríkinu, 17. mars 2017. Svo sem áðurgreinir hefur dómurinn við mat á stjórnvaldssekt stefnanda meðal annars litiðtil þess óhagræðis sem rekstur dómsmáls þessa hefur haft fyrir hann. Að þessuathuguðu og með hliðsjón af atvikum málsins að öðru leyti þykir rétt að hveraðili ber sinn kostnað af málinu. Af hálfustefnanda flutti málið Reimar Pétursson hrl.Af hálfustefnda, Seðlabanka Íslands, flutti málið Ástríður Gísladóttir hrl.Af hálfustefnda, íslenska ríkisins, flutti málið Einar Karl Hallvarðsson hrl.SkúliMagnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.D Ó M S O R ÐFelld erniður sekt stefnanda, Rasks ehf., að fjárhæð 75 milljónir króna, samkvæmtákvörðun stefnda, Seðlabanka Íslands, 19. ágúst 2016. Stefndi,íslenska ríkið, greiði stefnanda 78.160.034 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. mars 2017.Málskostnaðurfellur niður. |
Mál nr. 711/2016 | Kærumál Vitni Skýrslugjöf | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var gert að koma fyrir dóm við aðalmeðferð máls Á gegn X og gefa skýrslu. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir HelgiI. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar meðkæru 14. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. samamánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2016, þar semtekin var til greina krafa sóknaraðila um að vitnin A og B skyldu koma fyrirdóm við aðalmeðferð í máli sóknaraðila gegn varnaraðila og gefa skýrslu. Kæruheimilder í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilikrefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar.Með vísan til forsendna hins kærðaúrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2016.Mál þetta, sem tekið vartil úrskurðar 23. september síðastliðinn, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara,útgefinni 1. júní 2016, á hendur X, kennitala [...],[...], „fyrir líkamsárás oghættubrot, með því að hafa sunnudaginn 27. september 2015, á bifreiðastæði við [...]í Reykjavík, ekið bifreiðinni C á allt að 40 kílómetra hraða á klukkustund, ávinstra afturhorn bifreiðarinnar D sem þar stóð kyrrstæð, með þeim afleiðingumað eiginkona hans, E, sem sat ökumannsmegin í bifreiðinni D, fékk högg aftan áhnakka hægra megin og tognun og ofreynslu á hálshrygg auk þess sem ákærðistofnaði með háttseminni lífi og heilsu E og F, sem sat í farþegasætibifreiðarinnar, í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt.“ Telst þetta varða við217. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er þesskrafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu allssakarkostnaðar. Í bréfi héraðssaksóknara,sem barst dóminum 2. júní 2016 og vitnaboðun ákæranda kemur fram að ákæruvaldiðhyggst leiða fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins vitnin Aunglingafulltrúa og B félagsráðgjafa, sem bæði starfa hjá Félagsþjónustu [...].Með tölvupósti til dómara og ákæranda 20. september síðastliðinn mótmæltiskipaður verjandi ákærða því að fyrrnefnd vitni yrðu leidd fyrir dóminn tilskýrslugjafar. Í þinghaldi í málinu 23. september síðastliðinn voru mótmælináréttuð og var sækjanda og verjanda ákærða gefinn kostur á að tjá sig stuttlegaum ágreiningsefnið og var málið að því búnu tekið til úrskurðar. Ákæruvaldið krefst þessað því verði heimilað að leiða fyrir dóm sem vitni A og B. Verjandi ákærða krefstþess að hafnað verði kröfu ákæruvaldsins um að A og B verði leidd fyrir dóminnsem vitni. Af hálfu ákæruvaldsins erbent á að tilgangurinn með því að leiða vitnin sé sá að þau staðfesti ákveðinatriði sem fram komi í framlögðu vottorði þeirra í málinu. Því sé tilgangurinnekki sá að draga upp dökka mynd af ákærða. Túlka þurfi reglu 116. gr. laga nr.88/2008 um meðferð sakamála um það hverjir geti gefið skýrslu vitnis fyrir dómimeð hliðsjón af meginreglum sakamálaréttarfars. Beri að nefna að sönnunarmatiðsé frjálst og ekki síður þurfi að hafa í huga sannleiksregluna, sem sémeginstef í öllum sakamálum, það er að leiða hið sanna og rétta í ljós.Samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 geti dómari meinað aðilum umsönnunarfærslu telji hann hana bersýnilega þarflausa. Sé það væntanlega ágrundvelli reglunnar sem verjandi krefst þess að það meinað verði um þásönnunarfærslu sem um ræðir. Ákvæðið hafi í raun verið túlkað nokkuð þröngt meðsannleiksregluna og sönnunarmatsregluna í huga. Vísbending sé um það aðframburður brotaþola hafi tekið breytingum frá upphafi og því telji ákæruvaldiðnauðsynlegt leiða umþrætt vitni fyrir dóminn til skýrslugjafar. Umrædd vitnihafi hitt brotaþola og rætt við hana daginn eftir atvikið vegna vinnubarnaverndar í kjölfar atvika málsins og geta vitnin því borið um ástand hennarþá og um það hvernig hún upplifði atvikið. Eitt af því sem muni reyna á ímálinu sé mat á trúverðugleika brotaþola og annarra vitna í málinu og þar ámeðal þeirra sem rituðu vottorð Félagsþjónustu [...] og ætlunin er að komifyrir dóm og staðfesti það sem fram kemur í vottorðinu og máli skipti, en ekkistandi til að spyrja vitnin um öll atvik sem þar séu rakin og varði sakarefnið.Það geti haft þýðingu fyrir dóminn við mat á trúverðugleika vitna. Ekki verðiséð að skýrslutaka af vitnunum sé bersýnilega þarflaus. Af hálfu ákærða er byggtá því að samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sékveðið á um það hverjir geti talist vitni í máli, en það séu þeir sem getiborið um málsatvik. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr.88/2008 komi fram að maður verði því aðeins kvaddur fyrir dóm sem vitni að hanngeti borið um málsatvik sem hann hafi skynjað af eigin raun. Ljóst sé aðtilgreind tvö vitni hafi ekki skynjað atvik málsins af eigin raun. Atvikmálsins séu tiltölulega einföld og snúist um árekstur á bifreiðastæði við [...].Ákærði telji ljóst að nafngreindir einstaklingar geti ekkert borið um þaðatvik. Einnig sé í athugasemdum með 116. gr. laga nr. 88/2008 gert ráð fyrirþví að unnt sé að leiða sem vitni þá sem hafi veitt lögreglu eða ákærandasérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf, eins og til dæmis eigi við þegar verið sé aðstaðfesta matsgerð eða álit. Framlagt málsgagn, sem stafi frá A og B eigi ekkiheima í málinu, enda upplýsi það ekkert um málsatvik og þess vegna eigi þauekki að teljast vitni í málinu. Í skjalinu séu neikvæðar upplýsingar og verðiað telja að með því að leiða þá nafngreindu einstaklinga sem um ræði séákæruvaldið að reyna að koma af stað neikvæðri umræðu um ákærða.Niðurstaða:Samkvæmt 126. gr. laganr. 88/2008 um meðferð sakamála metur dómari við úrlausn máls sönnunargildivitnisburðar og skal í því sambandi meðal annars huga að afstöðu vitnis tilákærða og eftir atvikum brotaþola, hagsmunum þess af úrslitum málsins, þroskaþess, áreiðanleika skynjunar þess á atvikum, minni, ástand og hegðun þess viðskýrslugjöf, öryggi þess og skýrleika í svörum og samræmi í frásögn. Meðheimild í 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari meinað aðilasönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna,skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Ákæruvaldið gerir þákröfu að tveir starfsmenn barnaverndar [...] verði leidd fyrir dóm tilskýrslugjafar. Fyrir liggur að hvorugt þeirra getur gefið vitnisburð um þauatvik sem búa að baki ákæru í málinu, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 ummeðferð sakamála. Af hálfu ákæruvaldsins er einkum vísað til þess aðfyrrnefndir starfsmenn hafi ritað framlagt bréf til lögreglu vegna afskiptaþeirra og samskipta við brotaþola í beinu framhaldi af atvikum sem urðu tilefnitil útgáfu ákærunnar. Eiga ákærði og brotaþoli 16 ára barn sem var tilefniafskipta barnaverndar af málinu. Meðal málsgagna er bréfbarnaverndar [...] til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 17. nóvember 2015 semhefur að geyma samantekt um vinnslu barnaverndar á tilteknu máli. Í upphafibréfsins er greint frá því að tilkynning hafi borist nefndinni 27. september2015 og málið verið til vinnslu hjá bréfriturum sem séu starfsmennofbeldisteymis barnaverndar [...]. Samkvæmt verkferli hafi brotaþoli í málinu, E,verið boðuð til viðtals 28. september 2015 og ákærði tveimur dögum síðar. Ísamantektinni eru rakin samskipti starfsmanna barnaverndar við brotaþola ogákærða í beinu framhaldi þeirra atvika sem um getur í ákæru og er höfð eftirbrotaþola ýmis atriði sem snerta atvik málsins með beinum hætti og skynjunhennar á atvikum þeim sem lýst er í ákæru. Bréfið undirrita A unglingaráðgjafiog B félagsráðgjafi. Ákæruvaldið gerir þákröfu að A og B gefi skýrslu í málinu til að svara spurningum um atvik málsins,sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sjá má affyrrnefndu bréfi þeirra að þau geta borið um atvik í samskiptum sínum viðbrotaþola sem haft gætu þýðingu við úrlausn málsins. Verður því ekki séð aðákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála standi því í vegi að tilgreindirstarfsmenn barnaverndar [...] gefi skýrslu vitnis fyrir dómi, enda verður þvíekki slegið föstu að skýrslutaka af þeim sé bersýnilega þýðingarlaus viðsönnunarfærslu ákæruvaldsins í málinu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008.Verður því fallist á kröfu ákæruvaldsins um að því sé heimilt að leiða vitninfyrir dóm til skýrslugjafar. Úrskurð þennan kveður uppJón Höskuldsson héraðsdómari. Ú r s k u r ð a r o r ð:Krafa ákæruvaldsins um aðA og B skuli leidd fyrir dóm er tekin til greina. |
Mál nr. 669/2017 | Kærumál Fjármálafyrirtæki Slit Kröfulýsing Skipting sakarefnis Kærumálsgögn | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum F sem hann hafði lýst við slit L ehf. þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þær væru fallnar niður fyrir vanlýsingu samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. F krafðist þess að kröfur sínar yrðu teknar til efnismeðferðar við slitin. Ágreiningur málsins er varðaði aðalkröfu laut eingöngu að því hvort að F gæti krafist vaxta til viðbótar höfuðstól kröfu sinnar eins og þeirra var krafist í uppfærði kröfulýsingu. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annar fram að F hefði frá upphafi krafist vaxta en lækkað einungis fjárhæð hennar að teknu tilliti til breytts lagagrundvallar og vaxtaviðmiðunar sem hefðu komið fram í hinni nýju kröfulýsingu og F hefði útlistað til fullnaðar í greinargerð sinni í héraði á hvaða rökum vaxtakrafan byggði. Var því hinn kærði úrskurður er varðaði aðalkröfu F fellur úr gildi. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir ÓlafurBörkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttarmeð kæru 23. október 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 6. nóvember sama ár. Kærðurer úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2017 þar sem hafnað var kröfumsóknaraðila sem hann hafði lýst við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1.mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefstþess að teknar verði til efnismeðferðar kröfur hans við slitin sem lúta annarsvegar að skilyrtri almennri kröfu að fjárhæð 58.247.847,95 sterlingspund en hinsvegar til vara að fjárhæð 12.253.553,12 sterlingspund með stöðu í réttindaröðsamkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar og kærumálskostnaðar.ISvo sem nánar greinir í hinum kærðaúrskurði neytti Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laganr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að víkjafrá störfum stjórn varnaraðila, sem þá hét Landsbanki Íslands hf., taka yfirvald hluthafafundar í félaginu og setja yfir það skilanefnd. Slitameðferð ávarnaraðila hófst 22. apríl 2009 og gaf slitastjórn út innköllun tilskuldheimtumanna hans, en kröfulýsingarfresti mun hafa lokið 30. október samaár.Varnaraðili keypti bankann Heritable BankPlc. árið 2000 og gaf út yfirlýsingu 19. janúar 2004 þar sem hann gekkst íábyrgð fyrir skuldbindingum hans en ábyrgðin náði meðal annars tilinnlánaskuldbindinga bankans. Sama dag og Fjármálaeftirlitið vék stjórnvarnaraðila frá störfum, var dótturfélag hans, Heritable Bank Plc. settur í slitameðferðað kröfu breskra yfirvalda.Sóknaraðili er innstæðutryggingarsjóður íBretlandi og er hlutverk hans að veita innstæðueigendum og viðskiptavinumfyrirtækja á Bretlandi, sem stunda fjárfestingarstarfsemi, lágmarksvernd gegngreiðsluörðugleikum viðkomandi fyrirtækis. Þegar Heritable Bank Plc. var tekinntil slitameðferðar greiddi sóknaraðili þeim sem áttu innstæðu í þeim bankafjárhæð sem samsvaraði innlánsskuldbindingum bankans við þá. Til að standaundir þeim greiðslum tók sóknaraðili lán hjá Englandsbanka. Meðbréfi 22. október 2009 lýsti sóknaraðili kröfu við slit varnaraðila ágrundvelli fyrrnefndar ábyrgðar sem varnaraðili hafði gefið út til að tryggjagreiðslu skulda Heritable Bank Plc. Sóknaraðili krafðist greiðslu höfuðstólsþeirra innstæðna sem hann hafði leyst til sín auk skilyrtrar kröfu vegnainnstæðna sem hann taldi mögulegt að hann þyrfti að greiða. Auk höfuðstólskrafðist sóknaraðili aðallega dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vextiog verðtryggingu en til vara 8% enskra vanskilavaxta á grundvelli laga Englandsog Wales. Með bréfi 8. nóvember 2011 samþykkti slitastjórnvarnaraðila kröfuna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 ánfjárhæðar, þar sem ekki var komið endanlega í ljós hvað bú Heritable Bank Plc.myndi greiða upp í kröfuna, en öllum kröfum um vexti og kostnað var hafnað. Sóknaraðili sendi varnaraðila 17. september2015 uppfærða kröfulýsingu en í henni var höfuðstóll kröfunnar færður niður þarsem slitastjórn Heritable Bank Plc. hafði úthlutað sóknaraðila 98%höfuðstólsins sem sóknaraðili hafði upphaflega lýst við slit varnaraðila. Varþví höfuðstólskrafan færð niður í 10.987.320,15 sterlingspund úr 549.366.007,81sterlingspundum. Þá krafðist sóknaraðili vaxta á grundvelli skoskragjaldþrotalaga en til vara krafðist hann skaðabóta sem nam fjármögnunarkostnaðisóknaraðila. Sóknaraðili breytti því vaxtakröfu sinni sem og féll frá skilyrtrikröfu vegna mögulegra innstæðukrafna og kröfu um kostnað. Varnaraðili samþykktihöfuðstól kröfunnar sem skilyrta kröfu með bréfi 18. september 2015 en hafnaði kröfumsóknaraðila að öðru leyti. IIÁgreiningur í aðalkröfu lýtur eingöngu aðþví, öndvert við varakröfu, hvort sóknaraðili geti krafist vaxta til viðbótar höfuðstólkröfu sinnar eins og þeirra var krafist í uppfærðri kröfulýsingu hans 17.september 2015. Í þinghaldi 24. mars 2017 var ákveðið með stoð í 1. mgr. 31. gr.laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að skipta sakarefni málsins á þann háttað fyrst yrði leyst úr því hvort kröfur sóknaraðila væru fallnar niður fyrirvanlýsingu en að því búnu yrði eftir atvikum leyst úr efnisatriðum þeirra. Þaðathugist að ekki verður séð að héraðsdómara hafi verið rétt að fallast á ósk varnaraðilaum að skipta sakarefni málsins með þessum hættu en það varðar þó ekki ómerkinguhins kærða úrskurðar.Í hinum kærða úrskurði var komist að þeirriniðurstöðu að kröfurnar væru fallnar niður fyrir vanlýsingu samkvæmt 118. gr.laga nr. 21/1991 og kröfum sóknaraðila því hafnað.Samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991skal kröfu, sem lýst er á hendur þrotabúi, tiltekin eins skýrt og verða má, svosem fjárhæð kröfu í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti ískuldaröð. Í kröfulýsingu skal enn fremur greina þær málsástæður sem kröfuhafibyggir rétt sinn á hendur þrotabúinu, svo og önnur atvik sem þarf að greinasamhengis vegna. Þegar kröfulýsingarfresti er lokið skal skiptastjóri gera skráum þær kröfur sem komið hafa fram, þar sem hann lætur í ljós sjálfstæða afstöðusína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu umsig, sbr. 1. mgr. 119. gr. laganna. Rísi ágreiningur um lýsta kröfu og ekkitekst að jafna hann skal skiptastjóri beina honum til héraðsdóms eftir 171. gr.sömu laga. Skal héraðsdómari gefa kröfuhafa sem sóknaraðila málsins kost á aðskila greinargerð af sinni hálfu þar sem fram á að koma til fullnaðar hverjarkröfur hann hafi uppi fyrir dómi og á hverju þær séu byggðar, sbr. 1. mgr. 177.gr. laganna.Af framangreindum ákvæðum leiðir aðkröfulýsing á hendur þrotabúi skal vera ákveðin og ljós, einkum um fjárhæð séum peningakröfu að ræða. Einnig þarf að greina helstu málsástæður, sem búa aðbaki kröfunni, þar á meðal hvernig kröfufjárhæðin er reiknuð eða fundin út, eneftir atvikum má vísa um það til meðfylgjandi gagna. Þá skal við þingfestingu ágreiningsmáls af þvítagi sem hér um ræðir gefa sóknaraðila kost á að leggja fram greinargerð, þarsem komi fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séubyggðar ásamt frekari gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við. Aðframkomnum gögnum sóknaraðila skal varnaraðila gefinn kostur á að leggja framgreinargerð af sinni hálfu, þar sem fram komi kröfur hans ásamt gögnum þeim tilstuðnings. Samkvæmt þessu verður grundvöllur málsins treystur með greinargerðumaðila í héraði.IIIÍ hinni uppfærðu kröfulýsingu kom fram aðsóknaraðili krefðist hvorki lengur vaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 né samkvæmt breskum lögumheldur krefðist hann nú aðallega dráttarvaxta að fjárhæð 58.247.847,95 sterlingspundsamkvæmt skoskum lögum og tiltók að vaxtafótur væri 15%. Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga nr.21/1991 markar kröfulýsing ákveðinn ramma sem ekki verður verulega vikið frá enekki leiðir það til þess að kröfuhafa sé með öllu óheimilt að gera breytingar ervarða málatilbúnað hans, svo framarlega sem það er innan marka upphaflegrarkröfulýsingar. Samkvæmt því er ljóst að fjárhæð hinnar uppfærðu vaxtakröfusóknaraðila samkvæmt aðalkröfu hans rúmast innan upphaflegrar kröfu hans um vexti.Þannig var sóknaraðili með aðalkröfu sinni ekki að lýsa nýrri kröfu. Hafði hannfrá upphafi krafist vaxta á höfuðstól kröfunnar en lækkaði einungis fjárhæðhennar að teknu tilliti til breytts lagagrundvallar og vaxtaviðmiðunar er komufram í hinni nýju kröfulýsingu og sóknaraðili útlistaði til fullnaðar ígreinargerð sinni í héraði á hvaða rökum vaxtakrafan byggði. Með vísan til þessaféll hin umdeilda vaxtakrafa ekki niður fyrir vanlýsingu samkvæmt 118. gr. laganr. 21/1991. Bar héraðsdómi að taka efnislega afstöðu til hennar og hinn kærðiúrskurður því felldur úr gildi hvað hana varðar. Eins og mál þetta er lagtfyrir Hæstarétt verður á hinn bóginn staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðarum varakröfu sóknaraðila.Rétt er að málskostnaður í héraði bíðiefnisúrlausnar þar en hvor aðila beri kostnað af rekstri málsins fyrirHæstarétti.Það athugast að við málskot þetta hefursóknaraðili ekki farið eftir reglum nr. 677/2015 um kærumálsgögn í einkamálum,sem settar voru með stoð í 6. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991. Þannig hefur hannekki gætt þess að leggja einungis fyrir Hæstarétt þau skjöl sem þörf er á tilúrlausnar um ágreining þann er kærumálið varðar. Efnisyfirlit er ekki í samræmivið 4. gr. reglnanna og röð skjala er ekki sú sem mælt er fyrir um í 5. gr. Þáeru gögnin ekki með síðutali, svo sem boðið er í 7. gr. reglnanna. Ber aðátelja sóknaraðila fyrir þessa ágalla.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildihvað aðalkröfu sóknaraðila, Financial Services Compensation Scheme Ltd. varðar.Kærumálskostnaður fellur niður.Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9.október 2017. Þetta mál, sem barstdóminum, 16. desember 2015, með bréfi slitastjórnar LBI hf., var þingfest 1.apríl 2016 og tekið til úrskurðar 1. september 2017. Sóknaraðili,Financial Services Compensation Scheme Ltd., Beaufort House, 15 St. BotolphStreet, Lundúnum, Englandi, krefst þess aðallegaað krafa hans að fjárhæð 69.235.168,10 bresk pund verði viðurkennd viðslitameðferð og eftirfarandi nauðasamninga varnaraðila sem skilyrt almennkrafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Hannkrefst þess til vara að krafa hans að fjárhæð 23.240.873,27 bresk pund verðiviðurkennd við slitameðferð og eftirfarandi nauðasamninga varnaraðila sem skilyrtalmenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Tilþrautarvara krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 10.987.320,15bresk pund verði viðurkennd við slitameðferð og eftirfarandi nauðasamningavarnaraðila sem skilyrt almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, umgjaldþrotaskipti o.fl. Íöllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila sér aðskaðlausu. Varnaraðili,LBI ehf., kt. 540291-2259, Álfheimum 74, Reykjavík,krefst þess aðallega að vísað verði frá dómi þeirri kröfu sóknaraðila aðviðurkenndar verði eftirstöðvar höfuðstóls að fjárhæð 10.987.320,15 breskpund, að jafnvirði 2.099.457.134 króna í kröfuskrá, sem slitastjórn hefurþegar viðurkennt og ekki er ágreiningur um. Varnaraðili krefst þessjafnframt að öðrum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Varnaraðilikrefst þess til vara að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Tilþrautarvara krefst varnaraðili þess að fjárkröfur sóknaraðila verði lækkaðar. Íöllum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila sér aðskaðlausu.Málavextir Sóknaraðili,Financial Services Compensation Scheme Ltd. (FSCS), er innstæðutryggingasjóðurí Bretlandi, sem var stofnaður samkvæmt 15. hluta enskra laga 2000 umFjármálaþjónustu og -markað (e.Financial Services and Markets Act 2000). Hann er viðurkenndur samkvæmttilskipun Evrópusambandsins um innlánstryggingar (94/19/EC). Hún tryggirað innlánstryggingarvernd sé að nokkru samræmd innan ESB og EES. Hlutverksóknaraðila er að veita innstæðueigendum og viðskiptavinum fyrirtækja áBretlandi, sem stunda fjárfestingarstarfsemi, lágmarksvernd gegn greiðsluörðugleikumviðkomandi fyrirtækis. Starfsemi sóknaraðila er fjármögnuð með álagningu áfjármálastarfsemi í Bretlandi sem og endurheimtum frá fjármálafyrirtækjumsem hafa lent í greiðsluerfiðleikum. Varnaraðilier lögaðili sem var og hét Landsbanki Íslands hf. Hann stundaði fjármálastarfsemivíða um heim fyrir gjaldþrot íslensku viðskiptabankanna haustið 2008. Árið 2000keypti hann Heritable Bank Plc, banka með takmarkaða ábyrgð sem var stofnaðurog skrásettur í Skotlandi en með höfuðstöðvar í London. Heritable-banki sérhæfðisig í fjármálaráðgjöf og fjármögnun fasteignaþróunarverkefna. Varnaraðiligaf út ábyrgðaryfirlýsingu 19. janúar 2004 þar sem hann gekkst í ábyrgð fyrirskuldbindingum dótturfélagsins Heritable eins og nánar greinir í yfirlýsingunni. Áfyrstu árum aldarinnar höfðu bankar almennt greiðan aðgang að lánsfé á alþjóðlegumfjármálamörkuðum. Á árinu 2007 dró úr honum og um og upp úr miðju ári 2008 áttumörg fjármálafyrirtæki erfitt með að afla sér fjármagns meðal annars til aðgreiða skuldbindingar sem á þeim hvíldu. Í lok september var svo komið aðóttast var að Landsbanki Íslands hf., ásamt tveimur öðrum íslenskum bönkum,færi í þrot. Það varð til þess að í byrjun október hófst áhlaup á íslenskubankana og útibú þeirra erlendis þar á meðal í Bretlandi. Afþessum sökum tilkynnti breska fjármálaeftirlitið (Financial Services Authority,FSA) Landsbanka Íslands 3. október 2008 að það myndi beita hann formlegumvaldheimildum sínum. Með ákvörðun FSA var bankanum meðal annars gert aðhækka varasjóð sinn í 20% af óbundnum innstæðum sem geyma ætti í SeðlabankaBretlands (Bank of England). Þessi hækkun skyldi komin til framkvæmda 6.október 2008. Þann dag ákvað FSA að beita bankann frekari valdheimildum. Þærfólust í því að bankanum var ekki heimilt að bera fyrir sig ákvæði í samningumvið viðskiptavini, sem ella hefðu heimilað honum að seinka útgreiðslu innstæðnatímabundið um allt að 60 daga, nema að fengnu samþykki FSA. Íslenskafjármálaeftirlitið skipaði Landsbanka Íslands skilanefnd snemma morguns degisíðar, 7. október 2008, vegna ógjaldfærni hans. Seinna sama dag var dótturfélaghans, Heritable-banki, settur í skiptameðferð (e. administration) að kröfu breskra yfirvalda. Varnaraðiliáréttar að hann hafi því ekki verið í venjulegum rekstri þegar Heritable-bankivarð ógjaldfær. Heritablevar tekinn til slitameðferðar á grundvelli breskra gjaldþrotaskiptalaga frá1986 (e. Insolvency Act 1986). Löginmunu einnig gilda í Skotlandi en þar í landi gilda, að sögn sóknaraðila,jafnframt tilteknar sérreglur. Reglur viðauka B1 við framangreind lög gildaum slitameðferð (e. administration)almennt. Um slitameðferð í Skotlandi gildi jafnframt gjaldþrotareglur Skotlandsfrá 1986 (e. Insolvency (Scotland)Rules 1986) sem verða hér eftir nefndar skosku reglurnar (e. Scottish Rules). ÞegarHeritable-banki var tekinn til slitameðferðar greiddi sóknaraðili þeim sem áttuinnstæðu í þeim banka fjárhæð sem samsvaraði innlánsskuldbindingum bankansvið þá. Þær voru að mestu fluttar til bankans ING Direct á þann hátt að sóknaraðiligreiddi þeim banka fjárhæð sem samsvaraði innlánunum og með þeirri greiðslutók sá banki yfir skuldbindingar Heritable við innlánseigendur. Tilþess að sóknaraðila væri kleift að greiða þá fjárhæð, sem samsvaraði innstæðuskuldbindingumHeritable, varð hann að taka lán hjá Seðlabanka Bretlands (Bank of England) enþað bar breytilega vexti. InnlánsskuldbindingarHeritable voru fluttar til ING Direct á grundvelli ákvæða tilskipunar (e. order) 2008 nr. 2644 um flutningtiltekinna réttinda og skyldna Heritable-banka (e. the Heritable Bank plc Transfer of Certain Rights and Liabilities Order2008). Tilskipunin kveður meðal annars á um, sbr. gr. 15(1), að Heritable-bankiskuli greiða FSCS fjárhæð sem samsvarar þeim kröfum sem fluttar voru á grundvellitilskipunarinnar. Umsjónarmenn slitameðferðar Heritable tilkynntu sóknaraðila9. júlí 2009 að þeir hefðu fengið kröfu hans um endurgreiðslu og samþykkthana. Samadag og innlánsskuldbindingar Heritable voru fluttar yfir til ING Direct, 8.október 2008, yfirtóku bresk stjórnvöld útibú varnaraðila í London ogkyrrsettu eignir bankans sem og eignir sem tengdust honum, en voru í eigu,vörslu eða undir yfirráðum íslenskra stjórnvalda, allt á grundvelli laga umvarnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi frá 2001 (e. Antiterrorism, Crime and Security Act 2001). Fjórirstarfsmenn endurskoðunarstofunnar Ernst & Young LLP, voru skipaðir skiptastjórarHeritable. Forgangskröfuhafar lýstu kröfum að fjárhæð 35 milljónir breskrapunda við slit þess banka en þær kröfur voru að öllu leyti greiddar í júlí2009. Almennar kröfur á hendur Heritable námu samtals um 1.073 milljónumbreskra punda. Þar af nam krafa sóknaraðila um 547 milljónum punda og krafavarnaraðila 70 milljónum punda. Á tímabilinu júlí 2009 til ágúst 2015úthlutuðu skiptastjórar fimmtán sinnum upp í almennar kröfur og greiddu samtals98% almennra krafna. Frekari endurheimtur úr búinu munu vera mögulegar þannigað almennar kröfur greiðist að fullu og jafnvel að eitthvað fáist upp í eftirstöðvarkröfu varnaraðila sem nema sjö milljónum punda. Sú krafa er eftirstæð samkvæmtsamningi varnaraðila og Heritable en stendur öðrum eftirstæðum kröfum, svosem vaxtakröfum, framar í réttindaröð. Meðlögum nr. 44/2009, sem breyttu lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, varLandsbanki Íslands hf. tekinn til slita. Upphaf þeirra miðaði við 22. apríl2009 þegar lögin tóku gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn29. apríl 2009. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna og veitti kröfuhöfumfrest til 30. október sama ár til að lýsa kröfum sínum. Samkvæmt 102. gr. laganr. 161/2002 gilda reglur laga nr. 21/1991 um meðferð krafna við slitin, sbr.2. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 44/2009. Sóknaraðililýsti upphaflega kröfu við slit varnaraðila viku fyrir lok kröfulýsingarfrestsmeð kröfulýsingu dagsettri 22. október 2009. Krafan byggði á ábyrgðinni semvarnaraðili hafði gefið út til að tryggja greiðslu skulda Heritable-banka. Þákrafðist sóknaraðili greiðslu höfuðstóls þeirra innstæðna sem hann hafðileyst til sín auk skilyrtrar kröfu vegna innstæðna sem hann taldi mögulegt aðhann þyrfti að greiða. Auk þess krafðist sóknaraðili vaxta frá 8. október2008 til og með 22. apríl 2009 og kostnaðar. Hann krafðist aðallegaíslenskra dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr.38/2001, og kostnaðar, samtals að fjárhæð 691.740.505,12 bresk pund og að súkrafa yrði samþykkt sem forgangskrafa. Til vara krafðist sóknaraðili 8% enskravanskilavaxta á grundvelli laga Englands og Wales. Hann krafðist þesseinnig að krafa hans nyti stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr.21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórn hafnaði forgangi kröfunnaren féllst á gildi ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Fyrirtiltekinn kröfuhafafund hjá varnaraðila, þar sem fyrsta hlutagreiðsla upp íforgangskröfur var til umfjöllunar, féll FSCS frá kröfu um forgang ogkrafðist þess að fjárkrafan yrði samþykkt sem almenn krafa. Tilviðbótar við þá kröfu sem er hér til umfjöllunar lýsti sóknaraðili tveimuröðrum kröfum við slit varnaraðila. Sú umfangsmesta var vegna innstæðna í útibúiLandsbanka Íslands í London, Icesave-innstæðukrafa. Í öðru lagi lýsti hannskilyrtri kröfu vegna innstæðna sem hann hafði ekki leyst til sín. Í öllumþessum þremur tilvikum lýsti sóknaraðili sambærilegum vaxtakröfum. Hannkrafðist þess aðallega að höfuðstóll kröfunnar bæri vanskilavexti á grundvelliíslenskra laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, en til vara að hannbæri 8% vanskilavexti á grundvelli laga Englands og Wales. Viðslit varnaraðila var lýst fleiri en 12.000 kröfum. Slitastjórn hans leit svo áað brýnna væri að fá afstöðu dómstóla til sumra krafna svo sem um stöðu innstæðnaí forgangsröð krafna. Aðrar kröfur mættu bíða svo sem ábyrgðarkröfur eins ogsú sem sóknaraðili lýsti og er hér til meðferðar. Slitastjórn vísaði þvíágreiningi um innstæður fyrst til dómstóla til úrlausnar Meðdómi Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 340/2011 (Icesave-innstæðudómi)var staðfest sú afstaða slitastjórnar að hafna þeirri kröfu að höfuðstóll krafnannabæri íslenska dráttarvexti. Jafnframt taldi rétturinn að ekki væru uppfylltskilyrði til þess að á höfuðstólinn legðust 8% vanskilavextir samkvæmtenskum lögum. Samadag, 28. október 2011, kvað rétturinn einnig upp dóm í máli nr. 311/2011, semsóknaraðili átti ekki aðild að. Kröfuhafi í því máli, breskt sveitarfélag,krafðist vanskilavaxta, eins og sóknaraðili hafði gert í máli nr. 340/2011,aðallega dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 en til vara vanskilavaxtasamkvæmt enskum lögum. Hæstiréttur taldi, eins og í fyrra málinu, að ensk lögættu við um vanskilavexti á höfuðstól lýstrar kröfu þannig að ekki bæri aðgreiða dráttarvexti samkvæmt íslenskum lögum. Rétturinn taldi jafnframt aðskilyrði enskra laga til greiðslu vanskilavaxta væru ekki uppfyllt. Tæplegasex árum eftir lok kröfulýsingarfrests 17. september 2015 sendi sóknaraðili varnaraðilabreytta kröfulýsingu vegna þeirrar kröfu sem þetta mál varðar. Í henni varhöfuðstóll kröfunnar færður niður þar eð skiptastjórar Heritable höfðuúthlutað sóknaraðila 98 hundraðshlutum höfuðstólsins. Eftirstöðvarnar nema10.987.320,15 breskum pundum en upphaflegur höfuðstóll var 549.366.007,81breskt pund. Sóknaraðiliféll bæði frá kröfum um dráttarvexti á grundvelli íslenskra vaxtalaga ogvarakröfu um vanskilavexti á grundvelli laga Englands og Wales en vöxtum áþeim grundvelli hafði Hæstiréttur hafnað í dómum árið 2011. Þess í stað krafðisthann vaxta á grundvelli skoskra gjaldþrotalaga og til vara krafðist hann skaðabóta sem nema fjármögnunarkostnaðisóknaraðila. Hann féll einnig frá skilyrtri kröfu vegna mögulegra innstæðukrafnasem og kröfu um kostnað. Meðbreyttri kröfulýsingu gerði sóknaraðili eftirtaldar kröfur við slitvarn¬ar¬aðila:a. aðallega að 69.235.168,10 bresk pund yrði samþykkt sem almennkrafa;b. til vara að 23.240.873,27 bresk pund yrði samþykkt sem almennkrafa; ogc. til þrautavara að 10.987.320,15 bresk pund yrði samþykkt semalmenn krafa. Íöllum tilvikum er höfuðstóll sem nemur 10.987.320,15 breskum pundum hluti affjárhæðinni. Í aðalkröfunni er þessjafnframt krafist að 58.247.847,95 bresk pund vegna vaxta á grundvelli skoskragjaldþrotaskiptareglna verði samþykkt. Sú krafa grundvallast á því aðaðalskuldin, þ.e. krafa sóknaraðila á hendur Heritable, sé á hendur skoskufélagi sem er í slitameðferð samkvæmt þarlendum reglum. Þar af leiðandi gildiskosku reglurnar um þá vexti sem aðalskuldin ber. Framangreind fjárhæð svaritil 15% ársvaxta á upphaflegan höfuðstól kröfunnar frá 7. október 2008 til22. apríl 2009. Ívarakröfunni er þess krafist að 12.253.553,12 bresk pund verði samþykkt semalmenn krafa, ásamt áðurnefndum höfuðstól aðalskuldarinnar, á grundvelligreinar 3.3 í ábyrgðinni. Með ákvæðinu lofar varnaraðili að halda sóknaraðilaskaðlausum af öllum kostnaði, tjóni, tapi o.s.frv., sem af vanskilumaðalskuldara, Heritable, leiðir. Fjárhæðin svarar til þeirra vaxta sem FSCSþurfti að greiða Bank of England af láni sem sóknaraðili tók til þess að mætainnlánsskuldbindingunum Heritable. Íþrautavarakröfunni er einungis krafist höfuðstólsins. Varnaraðili hafi þegarsamþykkt hana sem skilyrta kröfu og telur sóknaraðili að ekki standiágreiningur um hana. Hún sé því eingöngu sett fram til áréttingar. Daginneftir að varnaraðili fékk breytta kröfulýsingu sóknaraðila, 18. september2015, samþykkti slitastjórn varnaraðila þrautavarakröfu sóknaraðila um eftirstöðvarhöfuðstóls Heritable-kröfunnar að fjárhæð 10.987.320,15 breskra punda semalmenna kröfu, háð því skilyrði að sóknaraðili fengi ekki frekari úthlutunupp í kröfuna í skiptameðferð Heritable, en hafnaði öllum vaxtakröfum.Sóknaraðili mótmælti þeirri afstöðu slitastjórnarinnar. Reynt var að jafnaágreining aðila. Þar eð það bar ekki árangur var honum vísað til HéraðsdómsReykjavíkur til úrlausnar með bréfi dagsettu 16. desember 2015. Þettamál varðar því eingöngu hvort og að hvaða leyti sóknaraðili eigi rétt á vöxtum.Um grundvöll höfuðstóls kröfunnar, rétthæð og fjárhæð er ekki ágreiningur.Málsástæður sóknaraðilaAðalkrafa Sóknaraðilivísar til þess að aðalkrafa hans grundvallist á ábyrgðaryfirlýsingu semfyrirrennari varnaraðila, Landsbanki Íslands hf., gaf út. Með henni hafibankinn ábyrgst skilyrðislaust að greiða allar skuldir dótturfélags síns,Heritable-banka. Þareð Heritable sé skoskt félag í slitameðferð gildi skoskar reglur um þá meðferð.Samkvæmt þeim beri kröfur á hendur félagi í slitameðferð 15% ársvexti fráupphafsdegi slitameðferðarinnar til greiðsludags. Aðalkrafa sóknaraðila íþessu máli varði því vexti á aðalskuldina á grundvelli skosku reglnanna semlögákveða bæði upphafsdag og hundraðshluta þeirra vaxta sem krafist er. Sóknaraðilifái líkast til ekki vaxtakröfu sína á hendur Heritable greidda vegna ákvæðaskosku reglnanna um réttindaröð krafna. Engu að síður beri aðalskuldin þessavexti og samkvæmt ábyrgðinni beri varnaraðila að greiða skuldir Heritable einsog þær eru á hverjum tíma. Sökum slitameðferðar varnaraðila takmarkist krafan áhendur honum við stöðu hennar á úrskurðardegi hans, 22. apríl 2009.Ábyrgðin nær yfir alla skuldHeritable gagnvart sóknaraðila Þegarfyrirrennari varnaraðila, Landsbanki Íslands hf., hafi ritað undir ábyrgðaryfirlýsinguhafi hann tekið á sig ábyrgð á öllum skuldum Heritable. Ábyrgðin sé óskilyrtog án nokkurra takmarkana. Í henni sé hugtakið skuldbindingar (e. Liabilities) skilgreint svo:means all monies andliabilities due, owing or incurred by Heritable Bank to Creditors provided thatin the case of debts due, owing or incurred by Heritable Bank to the suppliersof goods and services the relevant amount is in excess of £30,000 or in thecase of related obligations £30,000 in aggregate. Samkvæmtþessu orðalagi þýði hugtakið „skuldbindingar“ alla fjármuni og skuldbindingarsem greiða þurfi kröfuhöfum, vegna skulda sem Heritable hafi stofnað til eðahafi fallið á Heritable. Hugtakið kröfuhafar (e. Creditors) sé í sama skjali skilgreint þannig:means creditors to whom theLiabilities are due, owing or incurred by Heritable Bank now or at any time inthe future. Kröfuhafarsamkvæmt ábyrgðinni séu því allir þeir sem Heritable-banki standi í skuld við áhverjum tíma. Lokssegi í grein 3.2:The Guarantor irrevocably andunconditionally Guarantees the due and punctual performance and discharge byHeritable Bank of the Liabilities and that it will pay to any Creditors ondemand, and in the currency in which the same falls due for payment, all monieswhich are from time to time due by Heritable Bank to the Creditor. Þannighafi varnaraðili ábyrgst óafturkallanlega og skilyrðislaust, að greiða kröfuhöfum,sem hafi krafist þess, á réttum tíma allar skuldir Heritable eins og þær standahverju sinni og í gjaldmiðli skuldarinnar. Ensklög gildi um ábyrgðina, sbr. 17. gr. hennar. Samkvæmt þeim ensku lögum sem umhana gilda beri að túlka samninga samkvæmt orðanna hljóðan. Ekki eigi að beitaþröngri túlkun eða skýringu á ákvæðum ábyrgðarinnar. Því sé ekkert tilefni tilað gefa ábyrgðinni, eða ákvæðum hennar, aðra merkingu en leiðir af orðalagihennar. Aðmati sóknaraðila sýnir þetta að beri krafa hans á hendur Heritable-banka vexti,falli þeir undir ábyrgðaryfirlýsinguna. Samkvæmtíslenskum gjaldþrotaskiptarétti skuli kröfur á hendur þrotamanni miðast viðúrskurðardag. Vextir sem falli á almennar kröfur eftir úrskurðardag skipist íkröfuröð skv. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Þessar sömu reglur gildi oghafi gilt um slitameðferð varnaraðila. Úrskurðardagur varnaraðila sé 22. apríl2009. Í samræmi við framangreint, falli undir ábyrgð varnaraðila, skuld Heritablevið sóknaraðila eins og hún stóð 22. apríl 2009. Sóknaraðili krefst því ekkivaxta sem fallið hafa á skuld Heritable eftir þann dag.Samkvæmt skoskum reglum berkrafa sóknaraðila á hendur Heritable dráttarvexti Sóknaraðilivísar næst til þess að Heritable banki hafi orðið ógjaldfær 7. október 2008 oghafi sóknaraðili greitt fjárhæð sem samsvaraði öllum innstæðuskuldbindingumHeritable í Bretlandi til þess að innstæðueigendur yrðu ekki fyrir tjónivegna ógjaldfærni bankans. Varnaraðili hafi þá þegar eignast kröfu á hendurHeritable að sömu fjárhæð og hann greiddi vegna innstæðuskuldbindingabankans. Þráttfyrir að ensk lög gildi um innstæður hjá Heritable, sbr. gr. 101 í almennumskilmálum Heritable, gildi skoskar reglur um vexti á kröfur á hendur Heritableeftir að slitameðferð bankans hófst. Ástæða þess sé að Heritable sé skosktfélag og ákvæði skosku reglnanna, nánar tiltekið regla 4.66(1)(d)(ii), sbr.einnig 4.66(2)(b), kveði á um að kröfur á hendur félagi sem hafi verið tekiðtil slitameðferðar á grundvelli skosku reglnanna beri vexti og að þá beri aðgreiða í samræmi við reglur um stöðu krafna í forgangsröð. Þærensku og skosku lagareglur sem hér skipti máli séu þessar:Í 1. mgr. reglu 2.40 skosku reglnanna segi: This Chapter applies in any case where the administrator proposes to make a distribution to creditors or any class of them. Þannig gildi þessi tiltekni kafli skosku reglnanna um greiðslur til kröfuhafa skuldara í slitameðferð á grundvelli þeirra.Í reglu 2.41 sé vísað til reglu 4.66, sem sé í 9. kafla skosku reglnanna, um greiðslur úr slíkri slitameðferð.Í reglu 4.66(1)(c) segi að greiða eigi fjármuni félagsins, Heritable í þessu tilviki, til þess að mæta skuldbindingum vegna almennra krafna, þ.e. krafna sem séu ekki tryggðar eða njóti forgangs, ásamt gjaldföllnum vöxtum vegna þeirra fram að upphafsdegi slitameðferðarinnar (7. október 2008), áður en áfallnir lögbundnir vextir eftir upphafsdag slitameðferðar Heritable eru greiddir.Regla 4.66(1)(d) segi að lögákveðna vexti skuli greiða á kröfu á tímabilinu frá upphafsdegi slitameðferðar þar til krafan sé greidd.Samkvæmt reglu 4.66(2)(b) séu lögbundnir vextir 15% ársvextir. Þareð tilteknar sérreglur gildi um slita- og gjaldþrotameðferð félaga sem eru skrásettog stofnuð í Skotlandi hafi sóknaraðili fengið skoska lögmenn til að takasaman þær sem hafi þýðingu fyrir málið til þess að sanna tilvist og efniþeirra erlendu réttarreglna sem hann byggir aðalkröfu sína á. Samantektinsé afdráttarlaus um hvernig skuli farið með vexti á aðalskuldina sem hafafallið til eftir upphaf slitameðferðar Heritable. Allar almennar kröfur íslitameðferð Heritable, þar með talin krafa sóknaraðila, beri 15% ársvextifrá upphafsdegi slitameðferðarinnar til greiðsludags. Slíkar vaxtakröfurséu, eins og gildi skv. íslenskum lögum, eftirstæð krafa að einhverju leyti íslitameðferð Heritable. Það breyti þó ekki því að krafan um þá vexti sé til envíki fyrir öðrum kröfum í kröfuröð vegna úthlutana við slit Heritable. Ábyrgðvarnaraðila nái þrátt fyrir það til þessara vaxta enda séu þeir skuld Heritablevið sóknaraðila. Sóknaraðilitelur ljóst af viðkomandi ákvæðum og samantekt skosku lögmannanna aðaðalskuldin beri vexti samkvæmt skoskum lögum. Þrátt fyrir að aðalskuldinfáist ekki að fullu greidd frá Heritable, þar eð Heritable sé í slitameðferðog hinir lögákveðnu vextir, sem falla til eftir upphafsdag slitameðferðarinnar,fáist heldur ekki greiddir frá aðalskuldara, sé krafa sóknaraðila um vextinaengu að síður til. Afþví leiði jafnframt að varnaraðila, sem hafi ábyrgst greiðslu skulda Heritableeins og þær standa á hverjum tíma, beri að greiða sóknaraðila höfuðstól kröfunnarásamt þeim vöxtum sem aðalskuldin hafi borið í samræmi við ákvæði skosku reglnannafram til 22. apríl 2009, úrskurðardags varnaraðila.Þegar Heritable-banki varðógjaldfær var varnaraðili enn í rekstri Þráttfyrir að varnaraðila hafi verið skipuð skilanefnd 8. október 2008 hafi örlöghans þá verið fullkomlega óviss. Varnaraðili hafi því áfram starfað undirstjórn skilanefndar. Síðar hafi verið ákveðið að honum yrði slitið og ákveðiðmeð lögum að úrskurðardagur varnaraðila yrði 22. apríl 2009. Í kjölfariðhafi honum verið skipuð slitastjórn og hin eiginlega slitameðferð varnaraðilahafist. Við hana hafi staðan almennt verið sú, að beri krafa vexti beri hún þátil úrskurðardags. Þeir vextir njóti sömu stöðu í réttindaröð krafna og samþykkturhöfuðstóll kröfunnar. Sú meginregla hafi verið staðfest og dæmt eftir henni ífjölmörgum dómum Hæstaréttar og sé hún óumdeild í þeim ágreiningi sem hér ertil úrlausnar.Varakrafa Sóknaraðilibyggir varakröfu sína á ákvæði greinar 3.3 í ábyrgðinni, sem LandsbankiÍslands hf. gaf út vegna skulda Heritable-banka. Ákvæðið kveður á um að:The Guarantor, as primaryobligor and as a separate and independent obligation and liability from itsobligations and liabilities under clause 3.2, irrevocably and unconditionallyagrees to indemnify all Creditors full on demand against all losses, costs andexpenses suffered or incurred by the Creditor arising from or in connectionwith any failure by Heritable Bank duly and punctually to perform and dischargethe Liabilities. Þareð varnaraðili hafi tekið yfir skyldur Landsbanka Íslands þýði þetta að hannábyrgist skaðleysi sóknaraðila vegna vanefnda Heritable. Sóknaraðili ítrekarað þessi skuldbinding varnaraðila sé sjálfstæð skuldbinding sem hvíli á honumsem aðalskuldara og standi til viðbótar þeirri skuldbindingu sem hvíli ávarnaraðila sem ábyrgðarmanni. Einsog rakið sé í málsatvikalýsingu hafi sóknaraðili dregið á ádráttarlán hjá Englandsbankatil þess að standa straum af greiðslum vegna innstæðuskuldbindinga Heritable.Lán sóknaraðila hafi borið breytilega LIBOR-vexti auk 0,30% vaxtaálags. Framlögð gögn sýni hvaða vexti framangreint lán bar á hverjum tíma. Á því tímabilisem um ræðir, þ.e. frá 7. október 2008 til og með 22. apríl 2009, hafi vextir,sem námu 12.253.533,12 breskum pundum, fallið á lán sóknaraðila. Aðmati sóknaraðila er orðalag ábyrgðarinnar skýrt. Varnaraðili hafi, með sjálfstæðuloforði, lofað að halda sóknaraðila skaðlausum af því að Heritable greiddiekki skuldir sínar á réttum tíma. Varnaraðili hafi því lofað að halda sóknaraðilaskaðlausum af öllu tjóni, kostnaði og útgjöldum sem leiddi af vanefndum Heritable. Einsog rakið hafi verið hafi sóknaraðili, vegna lagaskyldu, neyðst til að greiðafjárhæð sem samsvaraði innstæðuskuldbindingum Heritable þar eð bankinn efndiekki skuldbindingar sjálfur. Til þess að sóknaraðili gæti innt þá greiðslu afhendi hafi hann orðið að taka lán hjá Seðlabanka Bretlands sömu fjárhæðar. Þannkostnað sóknaraðila sem hafi hlotist af lántökunni hafi varnaraðili lofað aðgreiða sóknaraðila. Sóknaraðilibendir á að orðalag greinar 3.3 í ábyrgðinni sé ekki takmarkandi og afarvíðtækt enda sé því ætlað að bæta sóknaraðila allt það tjón eða kostnað semhann verði fyrir sökum þess að Heritable hafi ekki staðið við skuldbindingarsínar. Varakrafasóknaraðila varði vaxtakostnað sem hann hafi sannanlega þurft að greiða vegnavanefnda Heritable og varnaraðili hafi lofað að halda sóknaraðila skaðlausumaf. Orðalag ábyrgðarinnar um þetta sé skýrt. Með henni hafi varnaraðili tekiðá sig sjálfstæða skuldbindingu, sem sé óháð aðalskuldinni í þessu máli.Þrautavarakrafa Sóknaraðilivísar til þess að þrautavarakrafa hans sé, eins og áður er nefnt, sett fram tiláréttingar. Í henni felist einungis krafa um höfuðstól aðalskuldarinnar. Slitastjórnvarnaraðila hafi þegar samþykkt kröfu sömu fjárhæðar og hann tilgreini í þrautavarakröfunni.Almennt um kröfugerðsóknaraðila Sóknaraðiliáréttar að ágreiningur málsaðila varði vaxtakröfur sóknaraðila í aðal- ogvarakröfu. Íbeiðni varnaraðila til Héraðsdóms um úrlausn þessa ágreinings segi:Ekki fæst séð að kröfur þessarkæmust að við slitameðferðina enda hafði krafan ekki verið sett fram á þessumgrundvelli áður. Þóttsóknaraðili telji ekki fyllilega ljóst til hvers varnaraðili vísar með þessumorðum bendir sóknaraðili á að hann telji ótvírætt að þær kröfur sem hann gerií málinu og komu fram í breyttri kröfulýsingu rúmist allar innan upphaflegrarkröfugerðar og málsástæðna. Grundvöllur þeirra krafna sem var lýst og erugerðar í þessu dómsmáli sé sá sami og var í upphaflegri kröfulýsingusóknaraðila, kröfurnar byggjast allar á ákvæðum ábyrgðarlýsingarinnar semvarnaraðili gaf út. Grundvallarmálsástæður sóknaraðila hafi ekki breystfrá upphaflegri kröfulýsingu, þ.e. að varnaraðili gekkst í ábyrgð fyrir tilteknumskuldbindingum og að sóknaraðili eigi kröfur á hendur varnaraðila á grundvelliþeirrar ábyrgðaryfirlýsingar sem varnaraðili gaf út. Sóknaraðiliáréttar að hann hafi ekki aukið kröfur sínar heldur þvert á móti dregiðverulega úr þeim enda hafi bæði verið dregið úr kröfum hvað varðar rétthæð ogfjárhæð. Sóknaraðili telur því ljóst að þær kröfur sem hann gerir í þessu málikomist að við slitameðferð og eftirfarandi nauðasamninga varnaraðila. Sóknaraðilitekur fram að aðalskuldin, eða eftirstöðvar hennar, eins og varnaraðili hafisamþykkt hana sé mynduð af höfuðstól innstæðuskuldbindinga Heritable ásamtsamningsvöxtum sem þær báru til 7. október 2008. Kröfur sóknaraðila í þessumáli varði vexti sem hafa fallið til frá 7. október 2008, annars vegar áhöfuðstólinn hjá aðalskuldara á grundvelli skoskra laga og hins vegar aðvaxtakostnaði sem sóknaraðili varð fyrir við að inna af hendi greiðslu vegnainnlánsskuldbindinganna. Sóknaraðiliáréttar að slitameðferð Heritable sé ekki lokið og því ekki útilokað aðumsjónarmaður slitameðferðarinnar úthluti frekara fé upp í kröfu sóknaraðila.Fari svo muni það koma til frádráttar kröfum hans á hendur varnaraðila. Af þeimsökum krefjist sóknaraðili þess að fjárkröfur hans verði samþykktar semskilyrtar kröfur utan málskostnaðarkröfu sóknaraðila. Tilstuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili meðal annars til breskra gjaldþrotaskiptalagafrá 1986 (e. Insolvency Act 1986),einkum viðauka B1 og ákvæða 1. mgr. reglu 2.40, svo og reglna 2.41 og 4.66 ískosku reglunum en einnig til almennra reglna íslensks og ensks samninga- ogkröfuréttar, laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og laga um gjaldþrotaskiptio.fl., nr. 21/1991.Málsástæður varnaraðilaKrafa um frávísun Varnaraðiliáréttar að í slitameðferð hans hafi höfuðstóll kröfu sóknaraðila samkvæmtbreyttri kröfulýsingu að fjárhæð 10.987.320,15 bresk pund verið samþykktursem almenn krafa, háð því skilyrði að ekki kæmi til frekari úthlutunar úrskiptameðferð Heritable-banka í Skotlandi. Fjárhæðin umreiknaðist í2.099.457.134 kr. í kröfuskrá. Hin samþykkta fjárhæð samsvari eftirstöðvumsamþykktrar kröfu við skiptameðferð Heritable, þ.e. innstæðurnar ásamtsamningsbundnum vöxtum til og með 7. október 2008 sem hafi ekki enn veriðgreiddar. Þar eð enn megi vænta úthlutunar í skiptameðferð Heritable séafstaðan skilyrt. Þess sé vænst að almennar kröfur verði að fullu greiddar ogeitthvað fáist greitt upp í eftirstæða kröfu varnaraðila. Ekki séu líkur tilað fjármunir umfram það komi til úthlutunar. Þegarágreiningur þessa máls var sendur dóminum til úrlausnar hafi málsaðila ekkigreint á um skilyrtan hluta kröfunnar sem slitastjórn hafði samþykkt. Sá hlutifjárkröfunnar sé engu að síður hluti af fjárhæð aðal- og varakröfu ogjafnframt sérstök þrautavarakrafa í kröfugerð sóknaraðila. Þar eð þessiafstaða slitastjórnar sé endanleg og sæti ekki ágreiningi hafi sóknaraðiliekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um þennan hluta kröfunnar. Af þeimsökum komist varnaraðili ekki hjá því að krefjast frávísunar á kröfum sóknaraðilaað þessu leyti. Þau atriði sem málsaðila greini á um, og rétturinn þurfi aðleysa úr, sé réttur sóknaraðila til vaxta eða skaðabóta.Kröfur sóknaraðila eru fallnar niður fyrir vanlýsingu Varnaraðilivísar til þess að í upphaflegri kröfu sóknaraðila, dagsettri 22. október 2009sem varnaraðili fékk degi síðar, hafi sóknaraðili krafist höfuðstóls innstæðnaásamt samningsbundnum vöxtum til 7. október 2008. Með aðilum sé óumdeilt aðsá hluti kröfunnar svari til þess hluta sem skiptastjórar Heritable hafasamþykkt. Sóknaraðili hafi fengið 98 hundraðshluta þessa hluta kröfunnargreiddan. Eftirstöðvar þeirrar kröfu, að fjárhæð 10.987.320,15 bresk pund,hafi slitastjórn varnaraðila samþykkt háð því skilyrði að ekki fengistfrekari úthlutun við slit Heritable. Í upphaflegri kröfulýsingu hafisóknaraðili þess utan sett fram skilyrta kröfu vegna mögulegra krafna um innlausninnstæðukrafna. Þá hafi sóknaraðili aðallega krafist dráttarvaxta til samræmisvið íslensk lög um vexti og verðbætur, nr. 38/2001, frá 8. október 2008 til ogmeð 22. nóvember 2009 og til vara krafist 8% enskra vanskilavaxta á grundvellilaga Englands og Wales. Í báðum tilvikum hafi hann krafist kostnaðar. Varnaraðilimótmæli því að sá málsgrundvöllur sem sóknaraðili setji fram í þessu dómsmálihafi verið lagður í upphaflegri kröfulýsingu. Umþrættar kröfur séu því nýjar ískilningi gjaldþrotalaganna og þær fallnar niður fyrir vanlýsingu. Sóknaraðiliberi ábyrgð á að útbúa kröfulýsingu sína og setja fram þær kröfur og málsástæðursem hann byggði á þannig að hún uppfyllti skilyrði 2. mgr. 117. gr. laga nr.21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Meðbreyttri kröfulýsingu, dagsettri 17, september 2015, sem sóknaraðili setti frameftir að kröfulýsingarfrestur rann út, hafi hann breytt kröfum sínum á þann vegað höfuðstóll var lækkaður til samræmis við það sem sóknaraðili hafði fengiðgreitt við slit Heritable. Fallið hafi verið frá skilyrtri kröfu vegnamögulegra umsókna um bætur og kröfu um kostnað. Hann hafi einnig fallið frákröfum um vexti á þeim grundvelli sem var lagður í upphaflegri kröfulýsingu.Þess í stað hafi hann aðallega krafist dráttarvaxta á grundvelli skoskragjaldþrotareglna og til vara skaðabóta sem nemi fjármögnunarkostnaðisóknaraðila vegna lántöku og sé sú krafa grundvölluð á ábyrgðinni sjálfri. Varnaraðilibyggi á því að af 2. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr.21/1991, leiði að í kröfulýsingu skuli koma fram hvaða kröfur séu hafðar uppiog á hvaða grundvelli ásamt þeim málsástæðum sem sóknaraðili vilji styðja þærvið. Kröfulýsing marki grundvöll krafna og ekki verði aukið við þær röksemdirsem þar komi fram. Kröfur sóknaraðila, eins og þær eru settar fram fyrir dómi,og þær málsástæður sem þær styðjast við hafi fyrst komið fram í aðlagaðrikröfulýsingu sem var send í september 2015, eftir lok kröfulýsingarfrests. Íupphaflegri kröfulýsingu sé hvergi vísað til skoskra gjaldþrotalaga eðavaxtakröfu sem leiddi af skiptameðferð Heritable í Skotlandi. Í henni hafisóknaraðili hvorki krafist skaðabóta né minnst á fjármögnunarkostnað FSCSeins og fyllsta ástæða hafi verið til. Báðar kröfurnar byggist á erlendumréttarreglum sem geti ekki talist hluti af upphaflegri kröfugerð. Rík ástæðahafi verið til að gera grein fyrir efni og tilvist réttarreglna sem málsástæðursóknaraðila grundvölluðust á. Það leiði af reglu 2. mgr. 44. gr. laga ummeðferð einkamála, nr. 91/1991. Með vísan til ofangreinds byggi varnaraðili áþví að kröfur sóknaraðila séu fallnar niður sökum vanlýsingar, sbr. 118. gr.laga nr. 21/1991.Niðurstaða Dómurinnféllst á þá ósk varnaraðila að sakarefni málsins yrði skipt þannig að fyrstverði dæmt um það hvort krafa sóknaraðila komist að eða hvort hún teljistfallin niður vegna vanlýsingar og umfjöllun um efnisatriði krafnanna sembyggja á erlendri löggjöf látin bíða þar til leyst hefur verið úr því hvortkröfurnar komist að. Einsog fram er komið lýsti sóknaraðili kröfu við slit varnaraðila. Í upphaflegrikröfulýsingu hans, sem varnaraðili fékk 23. október 2009, krafðist sóknaraðilihöfuðstóls þeirrar fjárhæðar sem hann hafði innt af hendi til að mætaskuldbindingum Heritable-banka við þá sem áttu innstæður í þeim banka þegar sávar tekinn til slita í Bretlandi. Íkröfulýsingunni er gerð grein fyrir því að sóknaraðili hafi á grundvelli enskralaga annars vegar greitt sumum þeim sem áttu innstæður í Heritable-bankaandvirði þeirra ásamt vöxtum og hins vegar greitt andvirði innstæðna annarra ísama banka til bankans ING Direct. Afþessum sökum hafi hann eignast þann rétt sem þessir innstæðueigendur áttu áhendur Heritable-banka. Hann hafi því lýst kröfu við slit þess banka. Hún hafiverið tekin á kröfuskrá og verið samþykkt. Íkröfulýsingunni kveðst sóknaraðili einnig bera ábyrgð á óvissum kröfum semnokkrir þeirra, sem áttu innstæður í Heritable-banka, hafi ekki enn krafist aðsóknaraðili greiddi þeim. LandsbankiÍslands hf., fyrirrennari varnaraðila og móðurfélag Heritable-banka, hafi gefiðút tvær ábyrgðaryfirlýsingar og hafi með þeim tekið á sig óafturkræfa og óskilyrtaábyrgð á skuldbindingum dótturfélagsins. Kröfu sína við slit varnaraðilabyggi sóknaraðili á þeirri kröfu sem hann hafi eignast á hendur Heritable og áþessum tveimur ábyrgðaryfirlýsingum sem Landsbanki Íslands hf. hafi gefið út. Íkröfulýsingunni færir sóknaraðili enn frekari rök fyrir kröfum sínum. Þar kemurskýrt og ótvírætt fram að aðalkrafa hans grundvallast á því að höfuðstóll innstæðnannaí Heritable, sem sóknaraðili hafði bætt innstæðueigendunum, beri dráttarvextisamkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 7. október2008 til og með 22. apríl 2009. Einnigkemur skýrt og ótvírætt fram að varakrafan byggist á því að innstæðurnarberi 8% vanskilavexti samkvæmt enskum lögum. Tilviðbótar þessum fjárkröfum krafðist sóknaraðili í upphaflegri kröfulýsingu ýmislegssem hefur ekki þýðingu hér. Að síðustu gerði sóknaraðili grein fyrir því aðhann lýsti höfuðstól kröfunnar svo og vöxtum í aðal- og varakröfu til 22. apríl2009 aðallega sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 en tilvara sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. Vöxtum sem féllu á lýsta kröfu eftir22. apríl 2009 svo og kostnaði sem félli til eftir sama dag lýsti hann semeftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. laganna. Umtveimur árum eftir lok frests til að lýsa kröfum við slit varnaraðila kvaðHæstiréttur upp dóma í málum sem vörðuðu annars vegar innstæður íHeritable-banka, dótturfélagi varnaraðila og hins vegar heildsöluinnlán íútibúi varnaraðila í London. Íbáðum tilvikum hafnaði rétturinn því að höfuðstóll innstæðnanna og innlánannasem var lýst við slit varnaraðila bæri dráttarvexti á grundvelli íslenskra lagaum vexti, nr. 38/2001, heldur bæru slík lán vexti samkvæmt enskum lögum.Rétturinn hafnaði því jafnframt að uppfyllt væru skilyrði enskra laga fyrirþví að greiða bæri vanskilavexti af þeim höfuðstól sem kröfuhafarnir lýstuvið slit varnaraðila. Íseptember 2015, þegar nær sex ár voru liðin frá því að frestur til að lýsakröfum við slit varnaraðila rann út, lagði sóknaraðili fram breytta lýsingu áþeirri kröfu sem hann taldi sig eiga rétt á við slit hans. Sóknaraðililækkaði höfuðstólinn um 98% enda hafði slitastjóri Heritable-banka greitt honumandvirði þess hundraðshluta úr búi þess banka. Hann lækkaði fjárhæð þeirravanskilavaxta sem hann krafðist úr 76.912.190,70 í 58.247.847,95 bresk pund.Hann féll frá þeim málsástæðum og lagarökum að greiða bæri íslenska dráttarvextií samræmi við lög um vexti og verðbætur nr. 38/2001 eða til vara 8% dómstólavextisamkvæmt lögum Englands og Wales. Þess í stað byggði hann kröfu um vanskilavextiá skoskum reglum sem gildi við slit á skoskum fyrirtækjum enda væri Heritableskoskur banki og við slit hans giltu skoskar reglur, þar á meðal um vanskilavextiaf fjárkröfum við slit fyrirtækja. Tilvara krafðist sóknaraðili ekki vanskilavaxta á höfuðstól þeirra innstæðna semhann hafði greitt heldur vaxta sem hann þurfti að greiða af láni sem hann tókhjá Englandsbanka til þess að geta greitt innstæðurnar og hafði greitt átímabilinu frá 7. október 2008 til og með 22. apríl 2009. Þessa kröfu byggðihann á því að með ábyrgðaryfirlýsingu hefði varnaraðili (áður LandsbankiÍslands hf.) lofað að halda kröfuhöfum Heritable-banka skaðlausum afviðskiptum sínum við þann banka. Samkvæmt1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., skal sá sem villhalda uppi kröfu á hendur þrotabúi lýsa henni fyrir skiptastjóra. Samkvæmt 2.mgr. skulu, í skriflegri lýsingu, kröfur tilteknar svo skýrt sem verða má, svosem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum. Í kröfulýsingu skal enn fremur greinaþær málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á hendur þrotabúinu á, svo ogönnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna. Dómurinngetur ekki fallist á að skýra megi þetta ákvæði þannig að unnt sé að koma að,eftir lok kröfulýsingarfrests, málsástæðu sem ekki var vikið einu orði að íupphaflegri kröfulýsingu, það er að lög þriðja landsins, Skotlands, veitisóknaraðila rétt sem Hæstiréttur hafi hafnað að íslensk eða ensk lög geti veitthonum. Jafnframt má benda áað þegar sóknaraðili lýsti kröfu sinni í upphafi, 23. október 2009, hafðislitameðferð Heritable-banka staðið í ríflega ár eða frá 7. október 2008. Þáhlýtur sóknaraðili að hafa vitað að skosk lög giltu um ákveðna þætti hennar,eins og hann heldur nú fram að þau geri. Þareð dómurinn telur þessa málsástæðu ekki komast að nú er krafa sóknaraðila umvanskilavexti á samanlagðan höfuðstól Heritable-innstæðnanna fallin niðurfyrir vanlýsingu enda féll sóknaraðili frá þeim málsástæðum sem hann hafðiáður fært fyrir þeim vöxtum. Varakrafansem sóknaraðili lýsti í síðari kröfulýsingu sinni byggir ekki á því að skuldHeritable-banka við hann beri vanskilavexti samkvæmt lögum tiltekins lands.Þess í stað byggir hann einvörðungu á ábyrgðaryfirlýsingunni og því ákvæðihennar að varnaraðila beri að bæta þeim sem getur byggt rétt á því skjali alltþað tjón sem hann verður fyrir vegna vanefnda Heritable-banka. Meðöðrum orðum krefst sóknaraðili í nýrri varakröfu ekki vanskilavaxta á höfuðstólinnstæðnanna sem hann greiddi, heldur þess að varnaraðili haldi honum skaðlausumaf því að hafa þurft að taka lán til þess að greiða þær. Hún er því í reynd umskaðabætur en ekki vexti. Aðmati dómsins verður ekki að liðnum kröfulýsingarfresti breytt svo verulega málsgrundvelliþeirrar fjárkröfu sem kröfuhafi telur sig eiga við slit fyrirtækis. Um þessamálsástæðu á það sama við og þá sem byggir á skosku reglunum. Hún er ný ogmátti vera sóknaraðila kunn þegar hann ritaði upphaflega kröfulýsingu sína. Fyrirþví að hann komi að öðrum málsástæðum en hann færði fram í upphaflegrikröfulýsingu færir sóknaraðili þau rök að fjárkrafa hans sé í báðum tilvikumlægri í síðari lýsingunni en þeirri fyrri og til grundvallar kröfunni liggi íöllum tilvikum sú ábyrgð sem fyrirrennari varnaraðila, Landsbanki Íslandshf., gaf út til tryggingar öllum skuldum Heritable-banka. Aðmati dómsins er, þegar kröfu er lýst, ekki hægt að geyma uppi í erminni málsástæðursem þá lá fyrir að hægt væri að byggja á og draga þær fyrst fram þegar í ljóser komið að þær málsástæður sem sóknaraðili lagði upphaflega á borðið munu ekkimegna að trompa málsástæður varnaraðila. Þesskonar leikur er kröfulýsing ekki. Skiptir þá ekki máli þótt fjárhæðin semspilað er um í síðari slögum sé lægri en sú sem upphaflega var lögð undir ogspil sóknaraðila (málsástæður hans) komi öll úr sömu hendinni (ábyrgðinni).Þegar kröfu er lýst við slit fyrirtækis þarf kröfuhafi að sýna slitastjórneða skiptastjóra á öll þau spil sem hann hefur þá á hendi. Einsog komið hefur fram samþykkti varnaraðili að sóknaraðili ætti rétt á, við slitþess síðarnefnda, fjárhæð sem samsvaraði þeim hluta höfuðstóls Heritable-innstæðnannasem ekki hefði enn fengist greiddur við slit þess banka, þó með því skilyrði aðsóknaraðili fengi ekki frekari úthlutun við slit Heritable-banka. Enguað síður tilgreinir sóknaraðili ógreiddan hluta höfuðstólsins sem þrautavarakröfuí þessu dómsmáli. Þar eð málsaðila greinir ekki á um rétt sóknaraðila til þessararfjárhæðar, að skilyrðinu uppfylltu, þarf hann ekki afstöðu dómsins til réttmætishennar. Af þeim sökum er þrautavarakröfu sóknaraðila vísað frá dómi afsjálfsdáðum. Dómurinnhefur því hafnað aðal- og varakröfu sóknaraðila en vísað þrautavarakröfu hansfrá dómi. Af þessum sökum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991,sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr.102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, ber sóknaraðila að greiðavarnaraðila málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til virðisaukaskatts,hæfilega ákveðinn 1.800.000 kr. IngiríðurLúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.Ú R S K U R Ð A R O R Ð Aðal-og varakröfu sóknaraðila, Financial Services Compensation Scheme Ltd., við slitvarnaraðila, LBI hf., er hafnað. Þrautavarakröfusóknaraðila er vísað frá dómi. Sóknaraðiligreiði varnaraðila 1.800.000. kr. í málskostnað. |
Mál nr. 592/2006 | Kærumál Innsetningargerð Börn | K, sem var búsett í Svíþjóð, krafðist þess að henni yrði heimilað að fá barn hennar og M tekið úr umráðum hans með beinni aðfarargerð þar sem því væri haldið hér á landi með ólögmætum hætti, sbr. 11. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Talið var að með því að synja um að senda barnið aftur til dvalar á lögheimili sínu hjá K væri því haldið hér á landi á ólögmætan hátt í skilningi ákvæðisins. Þá voru undanþágur í 2. eða 3. tölul. 12. gr. laganna ekki taldar eiga við í málinu. Var því fallist á að aðfarargerðin færi fram að liðnum tveimur mánuðum frá uppkvaðningu héraðsdóms ef M hefði ekki áður fært barnið til Svíþjóðar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2006, þar sem varnaraðila var heimilað að fá nafngreinda dóttur aðilanna tekna úr umráðum sóknaraðila og afhenta sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því að tími til afhendingar barnsins verði styttur verulega. Þá krefst hún kærumálskostnaðar, en til vara að kærumálskostnaður falli niður. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Kemst krafa hennar um breytingu á ákvæði hans um frest sóknaraðila til afhendingar barnsins því ekki að fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Ber að líta svo á að upphaf frests sem sóknaraðili hefur til að skila barninu til Svíþjóðar miðist við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. I Málið barst dóminum 25. september sl. og var þingfest 29. sama mánaðar. Það var flutt og tekið til úrskurðar 23. október sl. Sóknaraðili er K, [heimilisfang], Svíþjóð. Varnaraðili er M, [heimilisfang], Reykjavík. Sóknaraðili krefst þess að dóttir hennar og varnaraðila, A, fædd [...] 1996, verði tekin úr umráðum varnaraðila og afhent sér eða öðrum sem hún tilnefnir í sinn stað. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður málskostnaður úr hendi hennar. Verði orðið við kröfu sóknaraðila er þess krafist að málskot fresti aðför. Sóknaraðili skýrir svo frá málavöxtum að þau varnaraðili hafi gengið í hjónaband á árinu 1989 og eignast framangreint barn í Svíþjóð þar sem það hafi alla tíð verið búsett, fyrst á sameiginlegu heimili, en hjá sér eftir skilnað aðila í ársbyrjun 2000. Aðilar fari sameiginlega með forsjá barnsins en það eigi lögheimili hjá sóknaraðila. Í júní síðastliðnum hafi barnið farið í sumarleyfi til Íslands og hafi ætlunin verið að það dveldi hjá varnaraðila fram í byrjun ágúst, en þá átti það að snúa til baka í tæka tíð áður en skóli hæfist. Varnaraðili hafi hins vegar tilkynnt um þetta leyti að barnið myndi ekki snúa aftur til sóknaraðila og hafi hann haldið fast við þá ákvörðun þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir félagsmálayfirvalda ytra til að fá barnið aftur til sóknaraðila. Af hálfu varnaraðila er því lýst að hann hafi ekki lofað skilyrðislaust að senda barnið aftur til sóknaraðila að loknu sumarleyfi, enda hafi hann tekið við því þar eð sóknaraðili gat ekki annast það með fullnægjandi hætti. Hafi sænsk barnaverndaryfirvöld haft milligöngu um að barnið var sent til Íslands í júní. Kveður varnaraðili sóknaraðila eiga í vandræðum með áfengisneyslu og hafi yfirvöld ytra þurft að hafa afskipti af heimilinu frá því sumarið 2003 og hafi þau afskipti staðið til þessa dags. Hér á landi líði barninu hins vegar vel, það búi á heimili sóknaraðila ásamt stjúpmóður og þremur hálfsystkinum, gangi í skóla og hafi aðlagast umhverfinu hér á landi. Við upphaf skólagöngu hafi komið í ljós að barnið hafi hvorki verið læst né skrifandi, en það taki góðum framförum í skólanum, tali t.d. ágætlega íslensku. Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili haldi barninu hér á landi með ólögmætum hætti, en það eigi lögheimili hjá sér í Svíþjóð. Vísar hann til ákvæða laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., sbr. ákvæði Haagsamningsins frá 25. október 1980. Þá er á því byggt að engar þær ástæður séu til staðar í málinu sem koma ættu í veg fyrir afhendingu barnsins. Varnaraðili byggir á því að velferð barnsins sé stefnt í hættu verði það afhent sóknaraðila. Vísar hann til þess að félagsmálayfirvöld hafi lengi þurft að hafa afskipti af sóknaraðila vegna áfengisneyslu hennar sem hafi bitnað á þroska barnsins og þar með gengi þess í skóla. Þá er á því byggt að barnið sé andvígt því að fara til sóknaraðila og að því líði vel hér á landi hjá föður sínum, stjúpu og hálfsystkinum. Vísar varnaraðili til ákvæða 12. gr. framangreindra laga máli sínu til stuðnings svo og til ákvæða barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt gögnum málsins á barnið lögheimili hjá móður sinni, sóknaraðila, en aðilar fara sameiginlega með forsjá þess. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en það hafi gengið í skóla í Svíþjóð og hefur ekki verið sýnt fram á að aðilar hafi samið um að breyta því. Í gögnum málsins kemur og fram að félagsmálayfirvöld í Svíþjóð hafa um alllangt skeið haft afskipti af sóknaraðila og uppeldisaðstæðum barnsins. Tilefni þessara afskipta hefur verið áfengisneysla sóknaraðila sem oft á tíðum hefur valdið því að hún gat ekki sinnt barninu sem skildi. Eldri dóttir sóknaraðila, hálfsystir barnsins, sem komin er yfir tvítugt og býr ekki langt frá sóknaraðila, mun hafa litið til með því og tekið það til sín þegar áfengisneysla sóknaraðila keyrði úr hófi. Það kemur og fram í þessum gögnum að þótt Íslandsferð barnsins hafi komið til tals síðastliðið sumar hafi henni verið flýtt vegna áfengisneyslu sóknaraðila, en hún var alldrukkin þegar starfsmaður félagsmálayfirvalda heimsótti hana um miðjan júní. Barnið var þá flutt til hálfsystur sinnar. Ekkert annað er þó komið fram í málinu en að ferðin hafi átt að vera sumarleyfisferð og ætlast hafi verið til þess að barnið sneri aftur til Svíþjóðar til að sækja skóla síðsumars. Þrátt fyrir áfengisneyslu sóknaraðila kemur og fram í gögnunum að barninu þyki vænt um móður sína og vilji vera hjá henni nema þegar hún er drukkin. Þess er og að geta að gögnin bera með sér að sóknaraðili hafi tekið sig á að þessu leyti í sumar og haust og vottorð vinnuveitanda hennar ber ekki með sér að áfengisneyslan komi niður á starfi hennar. Dómarinn ræddi einslega við barnið áður en aðalmeðferð hófst og tjáði það sig um líðan sína. Af samtalinu, sem að mestu fór fram á íslensku, verður ekki dregin sú ályktun að því líði illa hjá varnaraðila eða í skóla hér á landi og hið sama má segja um viðhorf þess til sóknaraðila. Aðspurt kvaðst barnið helst vilja leysa deilu foreldra sinna á þann hátt að þau tækju saman aftur og það byggi hjá þeim en það vissi að slíkt gæti ekki gengið. Eins og fram er komið á barnið lögheimili hjá sóknaraðila í Svíþjóð og fara aðilar sameiginlega með forsjá þess. Það verður því að fallast á það með sóknaraðila að með því að synja um að senda barnið aftur til dvalar á lögheimili sínu hjá sóknaraðila haldi varnaraðili því hér á landi á ólögmætan hátt og brjóti þar með gegn rétti sóknaraðila, sbr. 1. tl. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 160/1995. Kemur þá til athugunar hvort einhverjar ástæður gætu orðið til þess að synja um afhendingu, sbr. 12. gr. nefndra laga. Í fyrsta lagi kemur til athugunar 2. tl. nefndrar greinar. Þar segir að heimilt sé að synja um afhendingu ef alvarleg hætta er á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu. Þrátt fyrir það sem sagt hefur verið um áfengisneyslu sóknaraðila benda gögn málsins ekki til þess að hún sé talin óhæfur uppalandi eða að nokkur hætta sé á að hún muni skaða barnið eða það muni lenda í óbærilegri stöðu verði það afhent henni. Í öðru lagi má synja um afhendingu ef barnið er andvígt henni og það hafi náð þeim þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess. Viðtal dómarans við barnið leiddi í ljós að það gerir ekki upp á milli foreldra sinna og var ekki hægt að draga þá ályktun af samtalinu að það væri andvígt afhendingu. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að varnaraðili haldi barninu hér með ólögmætum hætti og brjóti með því í bága við rétt sóknaraðila. Ekki eru fyrir hendi ástæður sem réttlætt geta synjun á afhendingu barnsins og verður því orðið við kröfu sóknaraðila og henni heimilað að láta taka barnið af varnaraðila með innsetningargerð skili hann því ekki til Svíþjóðar. Rétt þykir að gefa varnaraðila nokkurn umþóttunartíma, sérstaklega með tilliti til þess að barnið gengur í skóla hér á landi og skal sóknaraðila ekki heimilt að láta taka barnið fyrr en liðnir eru tveir mánuðir frá uppkvaðningu úrskurðarins, eins og nánar greinir úr úrskurðarorði. Loks ber að fallast á þá kröfu varnaraðila að málskot fresti aðför, sbr. 3. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Málskostnaður skal falla niður en gjafsóknarkostnaður varnaraðila skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þórdísar Bjarnadóttur hdl., 328.680 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn. Sóknaraðila, K, er heimilt að liðnum tveimur mánuðum frá uppkvaðningu úrskurðarins að fá barnið, A, tekið úr umráðum varnaraðila, M og afhent sér með beinni aðfarargerð hafi varnaraðili ekki áður fært það til Svíþjóðar. Málskot til Hæstaréttar frestar aðför. Málskostnaður skal falla niður en gjafsóknarkostnaður varnaraðila skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þórdísar Bjarnadóttur hdl., 328.680 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. |
Mál nr. 113/2003 | Kærumál Vitni | Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu P um að ákæruvaldinu yrði bannað að leiða átján nafngreind vitni við aðalmeðferð máls ákæruvaldsins gegn P. Í dómi Hæstaréttar segir að ráðið verði af gögnum málsins að tíu af þeim átján einstaklingum, sem P hafi krafist að ákæruvaldinu væri meinað að kveðja fyrir dóm sem vitni í málinu, hafi unnið að sérfræðilegum rannsóknum fyrir lögreglu við rannsókn málsins, sbr. 70. gr. laga nr. 19/1991. Af þeim sökum yrði talið heimilt að leiða umrædda einstaklinga fyrir dóm sem vitni, í því skyni að skýra þær rannsóknir sem þeir höfðu komið að, eða atriði sem þeim tengdust. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2003, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði bannað að leiða átján nafngreind vitni við aðalmeðferð máls sóknaraðila gegn varnaraðila og öðrum manni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila „verði synjað um að leiða eftirtalin vitni fyrir dóm til skýrslugjafar um atriði sem varða álit þeirra, skoðanir og ályktanir, sem byggðar séu á sérþekkingu þeirra eða meintri sérþekkingu þeirra á atriðum sem varða það hvort málverk teljast upprunaleg eða ekki, breytt eða ekki eða hverjir séu réttir höfundar málverka og mynda sem ákæra í málinu snýst um, en teljast ekki til sakaratriða málsins í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991.“ Nöfn umræddra vitna eru talin upp í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt 70. gr. laga nr. 19/1991 leitar rannsóknari til kunnáttumanna, þegar þörf er á sérfræðilegri rannsókn vegna opinbers máls. Getur slík rannsókn á málsatvikum verið nauðsynleg til þess að ákveða hvort sækja skuli mann til sakar og afla nauðsynlegra gagna til undirbúnings málsmeðferðar, sbr. 67. gr. laganna. Af þessu leiðir einnig að nauðsynlegt kann að vera að kveðja þann, er veitt hefur slíka sérfræðilega aðstoð, sem vitni fyrir dóm til þess að skýra þau gögn málsins, er frá honum stafa eða atriði, sem þeim tengjast. Verður að telja slíka vitnaleiðslu sérfræðings heimila, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í dómasafni 1999, bls. 2452. Af gögnum málsins verður ráðið að tíu af þeim átján einstaklingum, sem varnaraðili hefur krafist að sóknaraðila verði meinað að kveðja fyrir dóm sem vitni í máli þessu, hafi unnið að sérfræðilegum rannsóknum fyrir lögreglu við rannsókn málsins, sbr. 70. gr. laga nr. 19/1991. Af þeim sökum verður talið heimilt að leiða umrædda einstaklinga fyrir dóm sem vitni í því skyni að skýra þær rannsóknir sem þeir hafa komið að, eða atriði sem þeim tengjast. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 700/2017 | Kærumál Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og KarlAxelsson.Varnaraðili skaut málinu tilHæstaréttar með kæru 3. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7.sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. nóvember 2017, þarsem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. nóvember2017 klukkan16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferðsakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verðifelldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.Þá krefst hann kærumálskostnaðar.Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar.Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undirsterkum grun um kynferðisbrot gagnvart tveimur ungum dætrum sínum sem varðaðgeta 16 ára fangelsi. Þá eru brotin þess eðlis að ætla má gæsluvarðhaldnauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Að þessu virtu er fullnægtskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sætigæsluvarðhaldi eins og krafist er. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr.220. gr. laga nr. 88/2008.Dómsorð:Hinn kærði úrskurðurer staðfestur. Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. nóvember 2017.Lögreglustjórinná Suðurlandi hefur krafist þess að X, kt. [...], [...], [...], verði meðúrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. nóvember nk.kl. 16:00 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Krafan var tekin fyrir á dómþingi kl.14:45 í gær og tók dómari sér frest til kl. 11:10 í dag til að úrskurða um hanameð heimild í 1. mgr. 98. gr. sömu laga. Íkröfu lögreglustjórans kemur fram að lögreglan á Suðurlandi hafi nú tilrannsóknar ætlað kynferðisbrot kærða gegn dóttur hans, A, kt. [...], enrannsóknin hafi hafist í kjölfar bréfs félagsmálastjóra sveitarfélagsins [...]dags. 2. október sl. þar sem óskað hafi verið eftir lögreglurannsókn vegnaupplýsinga um ætlað brot gagnvart A. Hafi brotaþoli greint frá því ískýrslutöku hjá lögreglu þann 26. október sl. að hún hafi flust til [...]tveggja ára gömul ásamt fjölskyldu sinni og búið þar til tíu eða ellefu áraaldurs er þau hafi flutt aftur til Íslands og sest að á [...]. Er hún hafiverið fimm til sex ára hafi faðir hennar, kærði í máli þessu, haft samfarir viðhana a.m.k. þrisvar sinnum og hafi hann sett getnaðarlim sinn inn í leggönghennar í öll skiptin. Hafi þetta gerst er kærði hafi tekið hana eina með sérfrá [...] til [...] og dvalið þar á hótelherbergi. Hafi brotaþoli lýst umrædduhótelherbergi og húsbúnaði og hafi brotin að hennar sögn verið framin í rúmiinni í herberginu, en hún hafi sofið í sama rúmi og kærði. Hafi kærði ítrekaðbeðið hana um að segja mömmu hennar ekki frá. Þá hafi brotaþoli greint frá þvíað eldri systir hennar, B, hafi sagt henni að þetta hefði líka gerst fyrir hanaí sams konar ferðum. Hafi brotaþoli sagt að hún hefði fyrst sagt frá þessumbrotum nýverið, en hún hefði greint vinkonum sínum frá því að kærði hefðibrotið gegn henni þegar hún hafi verið yngri. Kærði hafi verið handtekinnsíðdegis þann 31. október og hafi hann neitað sök. Hann hafi staðfest að hannhefði tvisvar til þrisvar sinnum farið með brotaþola til [...] frá [...] í þeimtilgangi að fá endurnýjaða vegabréfsáritun. Hann hafi farið með rútu til [...]og dvalið þar eina nótt í senn á hóteli í borginni [...]. Hann kvaðst hafasofið í sama rúmi og brotaþoli og hafi hann lýst hótelherberginu með áþekkum hætti ogbrotaþoli hafi gert. Aðmati lögreglu sé framburður brotaþola afar trúverðugur og ekkert fram komið semgefi tilefni til að draga ásakanir hennar í efa. Þá styðji framburður kærðaframburð brotaþola í öllum meginatriðum varðandi ferðir hans með brotaþola ogaðstæður á hótelherberginu. Taka þurfi skýrslur af nokkrum aðilum vegnarannsóknar málsins, m.a. þremur vinum og félögum brotaþola sem hún hafi upplýstað hafa nýlega sagt frá hinum ætluðu brotum. Þá liggi fyrir að brotaþoli hafinýlega byrjað í viðtalsmeðferð hjá sérfræðingi í Barnahúsi og ljóst sé að aflaþurfi greinargerðar frá Barnahúsi. Íkröfu lögreglustjórans er því lýst að auk framangreinds máls sé tilákærumeðferðar hjá héraðssaksóknara mál þar sem kærða sé gefið að sök að hafaítrekað brotið kynferðislega gegn næst elstu dóttur sinni, B, kt. [...]. Hafi Bgreint frá því að kærði hafi fyrst brotið gegn henni þegar hún hafi verið 5-6ára en hún telji að á þeim tíma hafi þauverið búsett í [...] og hafi brotið átt sér stað á heimili þeirra þar. Hafiverið um að ræða samfarir þannig að kærði hafi stungið getnaðarlim sínum íleggöng hennar. Hafi þetta gerst oftar en einu sinni en hún myndi ekki hversuoft og hve gömul hún hefði þá verið. Hún kvað kærða ekki hafa brotið gegn eftirað þau hafi flutt til Íslands árið 2012. Þá hafi kærði sagt henni eftir brotinað segja engum frá þessu og hann ætlaði ekki að gera henni þetta aftur. Kærðineiti sök í málinu.Ígreinargerð lögreglustjóra er einnig greint frá dómi sakadómsAustur-Skaftafellssýslu frá [...] [...] 1991, en samkvæmt þeim dómi hafi kærðiverið dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn elstu dóttursinni þegar hún hafi verið 5-7 ára gömul, en kærði hafi alfarið játað sök fyrirdómi. Lögreglustjórinnbendir á að í þeim tveimur málum sem séu til meðferðar hjá lögreglu ogákæruvaldi sé um að ræða ætluð brot kærða sem kunni að varða við 194. gr., 200.gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga og sé um að ræða alvarlegar sakargiftirsem varði allt að sextán ára fangelsi. Að mati lögreglu sé sterkur rökstuddurgrunur kominn fram í málunum tveimur um að kærði hafi gerst sekur um hin ætluðubrot. Framburður systranna sé trúverðugur og ekkert fram komið sem gefi tilefnitil að draga frásagnir þeirra um málsatvik í efa. Hafi kærði sjálfur staðfestað hann hafi verið einsamall í hótelherbergi í [...]með brotaþolanum A í nokkurskipti og styðji það að mati lögreglu frumburð þessa brotaþola. Þá liggi fyrirósamræmi í framburði kærða í máli því sem varði brotaþolann B og fram hafikomið í því máli að kærði hafi sett sig í samband við þennan brotaþola og beðiðhana að ræða málið ekki við systur sínar. Sé kærði því í tveimur aðskildummálum undir sterkum rökstuddum grun um að hafa nauðgað tveimur dætrum sínumítrekað þegar þær hafi verið barnungar. Auk þess liggi fyrir dómur frá árinu1991 þar sem kærði hafi verið sakfelldur fyrir gróf og ítrekuð kynferðisbrotgegn elstu dóttur sinni þegar hún hafi verið 5-6 ára. Sé um að ræða óheyrilegagróf og alvarleg brot gegn ungum börnum kærða sem geti varðað allt að 16 árafangelsi. Telji lögreglustjóri að umrædd brot séu þess eðlis að gæsluvarðhaldsé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Sé óforsvaranlegt að kærðigangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarleg brotsem honum séu gefin að sök. Þá verði að líta til þess að ætluð háttsemi kærðasem lúti að grófum og ítrekuðum kynferðisbrotum sem spanni yfir langt tímabilgegn þremur dætrum hans sýni ákveðið hegðunarmynstur eða kenndir sem kærðivirðist ekki hafa stjórn á. Sé kærði því að mati lögreglu hættulegur umhverfisínu og brotin þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings gangi hannlaus meðan mál hans séu til meðferðar. Samkvæmt2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála má úrskurða sakborning ígæsluvarðhald þótt skilyrði a. til d. liðar 1. mgr. séu ekki fyrir hendi efsterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt meðtilliti til almannahagsmuna.Viðmeðferð málsins fyrir dómi upplýsti fulltrúi lögreglustjóra að kærði eigi 9 áradóttur og 3 ára dreng sem búi á heimili hans.Með vísan til þeirragagna sem lögð hafa verið fram í málinu er fallist á það mat lögreglustjóra aðkærði sé undir sterkum rökstuddum grun um brot gegn 194. gr., 200. gr. og 202.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en sá sem gerist sekur um brot gegn194. eða 202. gr. þeirra laga skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að16 árum. Þá verður fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé hættulegur umhverfi sínu og ætluð brot hansþess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings gangi hann laus meðan málhans séu til meðferðar. Þá fellst dómurinn á það með lögreglustjóra aðgæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti tilalmannahagsmuna. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95.gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til aðfallast á kröfulögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafister, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafister. Ekki er gerð krafa um að kærði sæti einangrun eða öðrum takmörkunum ígæsluvarðhaldinu.HjörturO. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.Úrskurðarorð:Kærði,X, kt. [...] skal sæta gæsluvarðhaldiallt til miðvikudagsins 29. nóvember 2017 kl. 16:00. |
Mál nr. 301/2016 | Líkamsárás Einkaréttarkrafa Skilorð | X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því hafa á nánar tilgreindan hátt ráðist á fyrrum sambýliskonu sína og veitt henni tilgreinda áverka. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að árás X hefði verið fólskuleg og beinst að sambúðarkonu hans. Var refsing X ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var X gert að greiða A miskabætur. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnirHelgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Davíð Þór Björgvinsson setturhæstaréttardómari. Ríkissaksóknariskaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða umáfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.Ákærði krefstþess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verðisýknaður og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en að því frágengnu aðrefsing hans verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.Brotaþoli, A,krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 3.100.000 krónur, tilvara aðra lægri fjárhæð að mati réttarins, í báðum tilvikum með vöxtum eins ogdæmdir voru í héraði, en að því frágengnu að héraðsdómur verði staðfestur umeinkaréttarkröfu sína.Engin efni erutil að vefengja mat héraðsdóms á munnlegum framburði ákærða eða vitna þannig aðleiði til ómerkingar héraðsdóms, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 ummeðferð sakamála, en samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur Hæstiréttur ekkiendurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar, nema hlutaðeigandivitni eða ákærði gefi skýrslu þar fyrir dómi. Verður kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdómsþví hafnað.Með vísan tilforsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða ogheimfærslu til refsiákvæðis. Atlaga ákærða var fólskuleg og beindist aðsambúðarkonu hans. Samkvæmt því og með hliðsjón af 3. mgr. 70. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, sembundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir.Að teknu tillititil afleiðinga árásar ákærða eru miskabætur til handa brotaþola ákveðnar600.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.Ákvæðihéraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.Ákærði verðurdæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaunskipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verðurað meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Ákærði, X, sæti fangelsi íþrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnumtveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa aðtelja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.Ákærði greiði A 600.000krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.Ákvæði héraðsdóms umsakarkostnað eru staðfest.Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnaðmálsins, 724.037 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, og þóknunréttargæslumanns brotaþola, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.Dómur HéraðsdómsReykjavíkur 19. febrúar 2016. Máliðer höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 17.nóvember 2015, á hendur: ,,X,kennitala [...], [...], Reykjavík,fyrir líkamsárás með því að hafa að kvöldifimmtudagsins 9. október 2014, ráðist á A, sambýliskonu sína, í sumarhúsi í [...]í [...], slegið hana með krepptum hnefa í andlit og hnakka svo hún féll ígólfið og þar sem hún lá á gólfinu sparkað í bringu og efri hluta líkamahennar, rifið í hár hennar og dregið hana út úr bústaðnum. Fyrir utanbústaðinn, þar sem A lá í jörðinni, sparkað í líkama hennar og slegið hana íandlitið. Eftir að X læsti A út og hún brotið rúðu á bústaðnum í kjölfarið ogvar að teygja hægri hendina inn um brotin gluggann hafi X tekið í hendi hennarog opnað hurðina svo hendin fór utan í brotið glerið og A skarst á hendinni.Einnig eftir að A kom aftur inn í bústaðinn hafi X sparkað í rassinn á henni.Allt með þeim afleiðingum að A hlaut djúpan skurð á þumli hægri handar, fjöldamarbletta og skrámur á andliti, hálsi, viðbeini hægra megin og á brjóstkassa.Telst brot þetta varða við 217. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr.82/1998.Fyrir hönd A kt.[...] gerir Kolbrún Garðarsdóttir hdl. kröfu þess efnis að ákærða verði gert aðgreiða A skaða og miskabætur að fjárhæð kr. 3.100.000.- auk vaxta skv. 8. gr.laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2014 en síðandráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar tilgreiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðarframlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti ámálsflutningsþóknun.Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingarog til greiðslu alls sakarkostnaðar.“Verjandi ákærða krefst aðallegasýknu, til vara að ákærða verði ekki gerð refsing og til þrautavara vægusturefsingar sem lög leyfa. Aðallega er krafist frávísunar skaðbótakröfu A en tilvara að hún verði lækkuð. Þess er krafist að málsvarnarlaun verði greidd úrríkissjóði að mati dómsins. Hinn2. desember 2014 var tekin lögregluskýrsla af A þar sem hún lýsti atvikum ogkom þar fram hjá henni að ákærði hefði viðhaft háttsemina sem í ákærunnigreinir. Ekki þykir ástæða til að reifa þessa skýrslu hér en vitnisburður Afyrir dómi verður rakinn síðar. Tekin var lögregluskýrsla afákærða 8. janúar 2015 þar sem hann neitaði ásökunum A og kvaðst ekki valdur aðáverkum hennar. Núverður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi Ákærði neitar sök. Hann kvaðósætti og rifrildi hafa orðið milli þeirra A á þessum tíma. Hún hefði orðiðtöluvert æst og hafi hann ráðlagt henni að fara út fyrir og reykja enæsingurinn hefði tengst áfengisdrykkju þeirra beggja á þessum tíma. Hún hefðigert það en læsts úti er hún skellti útidyrahurðinni aftur. Hann hafigreinilega ekki verið nægilega fljótur að opna fyrir henni þar sem hún brautrúðuna og ruddist inn en ákærði kvaðst ekki hafa verið nálægur er það gerðist.Hann kvað stein hafa verið á gólfinu og er hann kom að var A komin inn. Húnhefði því opnað dyrnar sjálf og skorið sig er hún teygði höndina inn um brotnarúðuna. Ákærði kvað lýsingu ákærunnar um að hann hefði átt hlut að máli er Askarst ekki rétta. Hún hefði skorið sig sjálf og hann ekki verið nærri er þaðgerðist. Hann hefði sótt handklæði og vafið um hendi hennar. A hafi verið mjögæst og sagst ætla að koma sér í burtu. Tók hún muni sem hún átti svo sem tölvuog kött sem hún setti í búr. Hún klæddist úlpu og gekk af stað út tröðina,þangað sem hann fylgdi henni og spurði hann hana hvort hún vildi ekki róa signiður sem ekki varð. Hún hefði því rokið í burtu en það hafi ekki verið ífyrsta skipti sem það gerðist að hans sögn. Hann hefði því talið að þettatilvik væri eins og önnur sem áður urðu og talið að hún yrði sótt. Hann hefðiekki vitað hversu alvarlegt skurðsárið var á fingri hennar en hann hefði ekkiséð aðra áverka á henni er hún fór en áverkann á hægri hendi. Hann kvað A hafabeðið sig um að hringja á sjúkrabíl en ákærði kvaðst hafa neitað og sagt henniað hún gæti sjálft hringt, sími væri í húsinu. Ákærði kvað engin átök hafa áttsér stað milli þeirra A á þessum tíma. Lýsing ákærunnar sé ekki rétt, áverkar áA sem lýst er í niðurlagi ákæru séu ekki af sínum völdum og hún hafi ekki haftaðra áverka en sár á hendi er hún yfirgaf ákærða í bústaðnum. Hann kvað hanageta hafa farið þaðan milli klukkan 22.30 og 23.00 að hann taldi. Spurður umþað hvort A hefði einhverja ástæðu til þessa að bera hann röngum sökum kvaðhann ákærðu sjálfa hafa sagt að hún væri „gullgrafari“. Hún hefði lagt frambótakröfu í málinu og það hafi verið það sem fyrir henni vakti. Vitnið A, fyrrum sambýliskonaákærða, kvað ákærða hafa komið heim umkvöldmatarleytið þennan dag en þá ekki með mat meðferðist eins og þau höfðuáður rætt um. Hann hafi aðeins haft vínföng meðferðis. Hún hafi spurt hann um matinnen hann engu svarað heldur tekið upp úr vínpokanum og blandað sér drykk. Húnhafi einnig fengið sér hvítvínsglas. Ákærði var að koma frá kistulagningu móðursinnar og hún hafi spurt hann um þann atburð en ákærði hafi svarað stuttlegasem hún lýsti. Hann hafi sest við sjónvarpið og hún við tölvuna. Hún kvað ekkihafa verið hægt að tala við ákærða sem engu svaraði þótt yrt væri á hann. Húnhafi þá farið inn í svefnherbergi með tölvuna. Síðar um kvöldið er hún var aðundirbúa að fara að sofa hafi hún gengið fram þar sem ákærði var og hafi húnætlað inn á baðherbergið er ákærði kallaði í hana. Hún kvað tóninn í ákærðaþannig að hún ákvað að fara til hans. Er hún settist hjá honum hafi hann sagthana fúla en hún sagði honum að hún væri svöng og að greinilegt væri að hannhefði fengið sér að borða áður en hann kom í bústaðinn. Ákærði stóð á fætur ogsagði henni að koma sér heim á stundinni en hún sagst ætla að verða samferðahonum í fyrramálið. Ákærði var þá kominn fast upp að henni, reif í hana ogtogað hana út en á leiðinni hafi hún gripið með sér síma sem ákærði tók síðanaf henni. Hún hafi streist á móti en ákærði hafi þá tekið að rífa í hárið áhenni, fellt hana í gólfið, sparkað í höfuð hennar og bringu, auk þess aðleggja hnéð ofan á bringu hennar og kýla í andlit og bringu en hún hafi reyntað verjast eftir getu. Blætt hafi úr sárum sem hún hlaut við þetta, meðalannars úr nefi. Ákærði dró hana út, hrinti henni í mölina og sparkað í hana,bæði í höfuð og líkama. Eftir þetta fór ákærði inn og skellti útidyrahurðinni ílás á eftir sér. Hún kvað ekki hægt að læsa sig úti og lýsti hún búnaðihurðarinnar að þessu leyti. Hún hafi staðið á fætur, ákærði hafi verið fyririnnan dyrnar og hún hafi beðið hann um að opna fyrir sér svo að hún gæti sóttdótið sitt. Ákærði gekk frá og hún viti ekki hversu lengi hún stóð illa klæddfyrir utan í þriggja stiga frosti. Hún kallaði á ákærða af og til en hann engusvarað. Síðar slökkti ákærði ljósið, fór inn í svefnherbergið og síðan inn ábað þar sem hún gat fylgst með honum. Ákærði svaraði engu köllum hennar þráttfyrir að hún hefði sagt að hún bryti rúðuna opnaði hann ekki fyrir henni. Laukþessu með því að hún sótti stein og braut rúðuna í hurðinni. Hún hafi veriðbúin að teygja höndina í gegnum brotna rúðuna er ákærði kom og reif upp hurðinasvo að hún skarst á hendinni en mikið blæddi úr skurðinum. Síðar í vitnisburðisínum endurtók hún þessa frásögn og kvað sér finnast svo sem ákærði hafi einnigrifið í hendi hennar á þessum tíma. Ítrekað spurð hvort ákærði hefði tekið íhönd hennar er hún skarst á brotinni rúðunni kvaðst hún ekki muna þetta fyrirvíst. Ákærði hafi ekki orðið við ítrekuðum óskum hennar um að hringja ísjúkrabíl eða lögreglu, hann hafi sagt að ekkert væri að henni og skipað henniút. Hún hefði klætt sig og tekið saman hluta af dóti sínu og haft með sér íburtu. Er hún var frammi á ganginum á leið út kýldi ákærði hana að minnstakosti tvisvar sinnum í höfuðið áður en hún komst út. Er þangað var komið komákærði að henni og sparkaði í rassinn á henni. Hún lýsti um eins kílómetragöngu sinni uns hún kom að húsi þar sem hún leitaði aðstoðar hjá íbúanum B semhélt að hún hefði lent í bílslysi. Hún hafi ekki hrasað á þeirri leið þóttvegurinn væri krókóttur malavegur. Hún bað B um að hringja í lögreglu eðasjúkrabíl en hann bauð henni inn og gerði að sárum hennar. Síðar hringdi hún í Ctengdadóttur sína sem sótti hana og ók á slysadeild. Hún lýsti aðstoð sem húnhefur sótt sér vegna þessa bæði hjá Kvennaathvarfi og sálfræðingi en henni hafiliðið mjög illa meðan á þessu stóð. Meðal gagna málsins erlæknisvottorð A, dagsett 10. desember 2014. Í vottorðinu er svofelldur kafli: „Skoðun, rannsóknir og álit: Vakandi, skýr en þreytuleg. Ermeð þornaða blóðtauma á hálsi og andliti. Höfuð og andlit: Það sést lífiðskapsár yfir vinstri nefvæng sem að sennilegast hefur blætt. Ekki áberandiaflögun á nefi. Ekki sjáanlegir áverkar í munni eða á tönnum. Háls og bak: Það sést roðiyfir hálsi vinstramegin eins og við byrjandi mar. Ekki önnur sjáanlegáverkamerki og þreifast ekki eymsli niður eftir hryggtindum. Brjóstkassi: Yfir viðbeinihægra megin sést striklaga og rauðleitt mar án húðrofs. Fær slæman verk fyrirbrjóstbeini miðju við þreifingu á brjóskassa. Hægri handleggur: Yfir þumalsvæðií lófanum er skurður u. þ. b. 2cm langur og nokkuð djúpur. Þónokkurmjúkvefjabólga í svæðinu. Ekki aðrir sjáanlegir áverkar og eðlileg skoðun áhendinni a.ö.l. Tekin er röntgenmynd af þumli sem sýnir brot með tilfærslu ogvekur sterkan grun um að liðband þumals sé í sundur. Vinstri handleggur: Ekki sjáanlegáverkamerki, eðlileg skoðun. Samantekið er stærsti áverkinn áþumli en mar og skrámur vítt og breitt í andliti, á hálsi og yfir brjóstkassaofanverðum. Teknar eru myndir af sjáanlegum áverkum og vistaðar í sjúkraskrá oger hægt að nálgast þær ef óskað ef eftir því.“D sérfræðilæknir ritaðivottorðið, skýrði það og staðfesti fyrir dóminum. Leiðrétt var misritun ívottorðinu þar sem segir að atburðurinn hafi orðið 15. október 2014 en A hafikomið samdægurs og atburðurinn varð, þ.e. 9. október 2014. Þá er leiðrétt ívottorðinu þar sem lýst skapsári þar sem eigi að standa skrapsár en úr þeimblæði í nokkrar mínútur. D kvað áverkana sem greindust á A geta samrýmstfrásögn hennar á atburðum. Hann kvaðst ekki geta svarað því hvernig skurður áhendi hefði hlotist. Meðal gagna málsins eru tvölæknisvottorð A sem E sérfræðilæknir ritaði. Annað vottorðið er dagsett 2.desember 2015 og hitt 13. janúar 2016. E skýrði vottorðin og staðfesti fyrirdómi og skýrði meðal annars misræmi milli vottorðanna þó að lýst sé samaáverkanum. Í fyrra vottorðinu segir að A hafi skorist á hnífi en í hinu síðarasegir að hún hafi skorist á brotinni rúðu. Þetta hafi verið vegna ónákvæmni semhann gat ekki skýrt nema að lögfræðingur A hefði greint sér frá atburðum þannigað hún hefði skorist á brotinni rúðu. Hann hefði því breytt vottorðinu meðhliðsjón af þessu. Fram kom hjá A að hún hefði skorist á brotinni rúðu. Hannlýsti áverkum, meðferð og batahorfum. Samkvæmt ákæru er ákærða gefið aðsök að hafa valdið djúpum skurði á þumli hægri handar A. Í læknisvottorðunumsem hér um ræðir er lýst meiri og öðrum afleiðingum en fjallað er um íákærunni. Að því leyti sem áverkanna er ekki getið í ákærunni er óþarfi aðfjalla um þá hér. Vitnið B lýsti því er A , semhann hafði ekki séð fyrr, bankaði upp á hjá honum milli klukkan 23.30 ogmiðnættis nóttina um sem ræðir í ákærunni. Hún var illa útleikin og blóðug,utan við sig og kalt en þriggja til fjögurra stiga frost var úti. Hún hafiverið hrædd og ekki vitað hvar hún væri. Hann lýsti því hvernig hann gerði aðsárum hennar en mikið blæddi úr nefi og handlegg. Hann kvað hana hafa greintfrá deilum við sambýlismann sinn en hún hefði ekki greint sér frá því semgerðist. A hafi hringt í vinkonu sína sem sótti hana og ók á slysadeild. Vitnið C kvað A hafa hringt í sigum miðnæturleytið og sótti hún A á heimili B. Augljóst var af útliti A að dæmaað eitthvað hefði gengið á eins og vitnið bar en hún var blóðug og eins og ítaugaáfalli eða í miklu andlegu áfalli. A hafi greint sér frá því að ákærði hefðirifið í hár hennar og dregið út úr húsinu, sparkað í magann á henni og læsthana úti illa klædda. Er hún reyndi að komast inni hafi ákærði rifið í hendihennar eftir að rúða brotnaði og hún skorist á rúðunni á hurðinni er ákærðikippti í hendi hennar. Hún ók A á slysadeild. Hún lýsti líðan A eins ogmanneskju sem hefði lent í losti. Þá hafi hún verið stjörf og titrandi. Vitnið F, systir A, kvað hanahafa hringt í sig eftir atburðinn sem í ákæru greinir og greint sér frá því aðhún hefði verið í bústaðnum meðan ákærði fór í kistulagningu móður sinnar. F kvaðsér hafa brugðið þótt þetta hefði áður komið upp í sambúð ákærða og A. Eftirheimkomu hefði ákærði farið að horfa á sjónvarpið og A verið inni í herbergi.Hún lýsti samskiptum þeirra eins og A greindi henni frá. A kvað ákærða hafahent sér út úr húsinu illa klæddri og veist að henni með höggum og spörkum. Húnhefði bankað og viljað sækja muni sína en ákærði ekki svarað. Hún hafi þá sagtákærða að hún yrði að brjóta rúðuna til að komast inn og sækja fatnað og dótiðsitt, meðal annars kött sem hún átti. Hún hefði þá brotið rúðu og teygt sig innen A hefði sagst halda að X hefði kippt í hendi hennar svo að hún skarst áhendinni. A hefði sótt eigur sínar en ákærði hefði þá ráðist aftur á hana útiþar sem hann hefði hent henni í götuna og „misþyrmt“ þar, eins og vitnið bar. Aleitaði sér aðstoðar í nálægu húsi. Spurð um líðan A eftir atburðinn kvað húnhenni hafa liðið illa andlega og lýsti hún því að A væri breytt og ólík sjálfrisér. Vitnið G, systir A, lýsti samtalivið A helgina eftir atburðinn sem í ákæru greinir og að hún hafi greint hennisvo frá að hún hefði orðið fyrir árás. A hefði þá greint sér frá atburðinum ogaftur er þær hittust síðar í vikunni. A hefði verið heima hjá ákærða sem hefðifarið í kistulagningu móður sinnar. Eftir heimkomu hefði ákærði farið aðdrekka. Mál hefðu þróast svo að ákærði réðist á hana og henti henni út og húnhafi ekki komist aftur inn. Ákærði hleypti henni ekki inn og endaði það með þvíað hún braut rúðu í hurðinni. Þá hefði ákærði komið að á þeirri stundu og hafihendi hennar rekist í rúðuna svo að hún skarst. Henni fannst A segja frá því aðákærði hefði ýtt hendinni á brotið glerið. Hún hefði skilið þetta svona. Áðurhefði ákærði lamið hana „til óbóta“, sparkað í hana, dregið á hárinu, henthenni út þar sem hann sparkaði í rassinn á henni. Hún lýsti ástandi A eftiratburðinn og kvað hún hana ekki hafa verið hún sjálf eftir þetta. Vitnið H, dóttir A, kvað móðursína hafa hringt í sig tveimur vikum eftir atburðinn og greint sér frá því semgerðist. Ástæðu þess að hún ræddi ekki við móður sína á þessum tíma kvað húnvera háttsemi ákærða en hún hafi ekki verið 10 ára gömul er hann lamdi hanafyrst og hún hafi ekki rætt við móður sína meðan á sambúð hennar og ákærða stóð.H kvað móður sína hafa greint sér frá rifrildi, meðal annars vegna matar semákærði kom ekki með heim, svo sem ætlunin var, og að ákærði hefði misst sigeins og hún bar. Ákærði hefði rifið í hár móður hennar og kýlt hana í andlit oghöfuð og sparkað í hana liggjandi og hent henni út úr húsinu þar sem hannsparkaði í hana. Hann læsti hana síðan úti og neitaði að opna. Móðir hennarhafi þá tekið stein og brotið rúðuna eftir að hafa árangurslaust hótað að geraþað yrði ekki opnað fyrir henni. Ákærði hefði gripið í höndina á henni oghleypt henni inn með skorna fingur. Móður hennar hefði sótt dót sitt, meðalannars kött og tölvu, og farið. Meðal ganga málsins ersálfræðivottorð A sem I sálfræðingur ritaði. Vottorðið er dagsett 30. nóvember2015. A hafi greint sér frá árás fyrrum sambýlismanns. A hafi liðið illa ogatburðurinn hafi haft mikil áhrif á hana. Lýsti vitnið þessu. NiðurstaðaÁkærði neitar sök. Hann kvaðósætti og rifrildi hafa orðið milli þeirra A á þessum tíma. Hann neitaði aðvera valdur að áverkunum sem lýst er í ákærunni og kvað A hafa skorist er húnteygði sig inn um rúðu sem hún braut eins og lýst var að framan. Er ákærði varspurður hvort A hefði einhverja ástæðu til að bera hann röngum sökum kvað hannhana hafa lagt fram bótakröfu í málinu og það hafi verið það sem fyrir hennivakti. Framburður ákærða um þetta verður ekki skilinn öðruvísi en svo að A bærirangar sakir á hann í því skyni að hafa af honum skaðabætur. Framburður ákærðaum þetta og ýmislegt annað í málinu er ótrúverðugur og verður niðurstaðan ekkibyggð á honum. Ákærði og A eru tvö til frásagnarum það sem gerðist. Ákærði bar að A hefði skorist á rúðunni án þess að hannhefði komið þar nærri. Vitnið A bar fyrir dóminum að hún hefði skorist erákærði reif upp hurðina. Síðar bar húnað sér finnist svo sem ákærði hefði rifið í hendi hennar á þessum tíma og ennsíðar kvaðst hún ekki muna fyrir víst hvort ákærði tók í hönd hennar eins oglýst er í ákærunni. Eins og frásögn A af þessum hluta sakarefnisins er háttaðog gegn eindreginni neitun ákærða er ósannað að hann hafi tekið í hendi hennará þessum tíma og opnað dyrnar svo að A skarst á hendinni. Er ákærði samkvæmtþessu sýknaðu af þessum hluta ákærunnar. Vitnisburður A er trúverðugur ogstöðugur um aðra þætti ákærunnar og fær vitnisburður hennar stoð í vitnisburði Ben A leitaði til hans um aðstoð um nóttina eins og rakið var. Þá færvitnisburður A stoð í læknisvottorði og vitnisburði D sérfræðilæknis og aðhluta með stoð í vitnisburði systra hennar, dóttur og tengdadóttur envitsburður þeirra var rakin að framan en vitnisburður þessara vitna ræður ekkiúrslitum. Er samkvæmt þessu sannað með trúverðugum vitnisburði A, meðlæknisvottorði dagsettu 10. desember 2014 og með vitnisburði D sérfræðilæknisog með stoð í vitnisburði og gögnum sem rakin voru, en gegn neitun ákærða, aðhann hafi gerst sekur um háttsemina sem í ákæru greinir fyrir utan skurð áþumli hægri handar en eins og rakið var er ákærði sýknaður af þeim hluta ákærunnar. Er háttsemi ákærða rétt færð tilrefsiákvæðis í ákærunni. Ákærði hefur ekki áður gerstbrotlegur við lög. Við refsiákvörðun er tekið mið af 3. mgr. 70. gr. almennrahegningalaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 45 daga enfresta skal fullnustu refsingarinnar svo sem í dómsorði greinir.Samkvæmt bótakröfu A er krafistskaða- og miskabóta að fjárhæð 3,1 milljón króna auk vaxta svo sem lýst er íákæru. Eins og krafan er sett fram verður að skilja hana svo að einungis sékrafist miskabóta enda fylgdu upphaflegu kröfunni engin gögn um bætur vegnabeins fjártjóns. A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grunvelli 26. gr.skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabæturnar hæfileg ákvarðaðar 400.000krónur auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en dráttarvextir reiknast frá 8.febrúar 2015 er mánuður var liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða. Þágreiði ákærði 409.200 króna réttargæsluþóknun Kolbrúnar Garðarsdótturhéraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns AÁkærði greiði 36.000 krónur vegnaútlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins. Ákærði greiði 613.800 krónamálsvarnarlaun Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns. Þóknun verjanda erfyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð. Þóknun lögmanna er ákvörðuðmeð virðisaukaskatti. Fanney Björk Frostadóttiraðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.Guðjón St. Marteinssonhéraðsdómari kveður upp dóminn.Dómsorð:Ákærði, X, sæti fangelsi í 45daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingudómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærðialmennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laganr. 22/1955. Ákærði greiði A, kt. [...],400.000 krónur í miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 9.október 2014 til 8. febrúar 2015 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1.mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.Ákærði greiði 36.000 krónur vegnaútlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.Ákærði greiði 409.200 krónaréttargæsluþóknun Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns. Ákærðigreiði 613.800 króna málsvarnarlaun Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns.Þóknun lögmanna er ákvörðuð með virðisaukaskatti. |
Mál nr. 484/2004 | Sératkvæði Þjófnaður Skilorð Skilorðsrof Sakarkostnaður | Ó var sakfelldur fyrir tvö þjófnaðarbrot.Með vísan til sakaferils Ó, þeirra brota sem hann var sakfelldur fyrir og þessað hann var að rjúfa skilorð í þriðja sinn var honum gert að sæta fangelsi í 22mánuði. Í ljósi þess að Ó sýndist nú vera að takast á við áfengis- ogvímuefnavandamál sín af fullri festu þótti rétt að fresta fullnustu 19 mánaðaaf refsingu hans. Þá var sakarkostnaður lækkaður. | Dómur Hæstaréttar. Mál þettadæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og IngibjörgBenediktsdóttir. Ríkissaksóknari skaut málinutil Hæstaréttar 30. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun,en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verðistaðfestur. Ákærði krefst þess að refsingverði milduð og hún skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta. Samkvæmtsakavottorði ákærða hefur hann fjórum sinnum gengist undir sáttir fyrirumferðarlagabrot, tvívegis árin 1995 og 2000. Í september 1999 var ákærufrestað skilorðsbundið á hendur honum fyrir skjalafals og síðar sama ár varhann dæmdur til greiðslu sektar og ökuréttarsviptingar fyrir umferðarlagabrot.Hinn 26. júní 2000 hlaut hann þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár,fyrir gripdeild, þjófnað, þjófnaðartilraun, eignaspjöll og hilmingu. Með dómi13. október sama ár var sú refsing dæmd upp og honum gerð 12 mánaðafangelsisrefsing, fyrir innbrotsþjófnað í sumarhúsi, fjársvik og hlutdeild ífjársvikum og skjalafalsi. Refsingin var skilorðsbundin í þrjú ár, meðal annars með vísan til þess aðum var að ræða hegningarauka og þess að ákærði hafði þá gengist undirvímuefnameðferð. Þann 3. nóvember 2000 var ákærði dæmdur í 16 mánaða fangelsifyrir innbrotsþjófnað í veitingahúsi og nytjastuld. Voru brotin framin fyriruppsögu dómanna frá 26. júní og 13. október og honum dæmd refsing í einu lagifyrir þau og brot samkvæmt síðarnefndum dómi. Var refsingin skilorðsbundin meðvísan til sömu sjómarmiða og fram komu í þeim dómi. Ákærði rauf skilorð dómsinsmeð þjófnaði 30. janúar 2002, sem hann var dæmdur fyrir 15. apríl sama ár, enþar sem brotið var smávægilegt var refsingin skilorðsbundin í þrjú ár. Hann varsíðast dæmdur 9. september 2003 í fangelsi í 18 mánuði fyrir tvö smávægilegþjófnaðarbrot sem hann framdi 4. desember 2001 og 27. nóvember 2002. Rauf hannskilorð dómsins frá 15. apríl 2002 með síðara brotinu. Refsingin var enn á nýskilorðsbundin að teknu tilliti til andlags þjófnaðarbrotanna og þess að ákærðihafði farið í vímuefnameðferð, náð þar góðum árangri og meðferð væri ólokið. Brot ákærðasem fjallað er um í þessu máli eru ekki stórvægileg. Hann hefur hins vegar meðþeim rofið í þriðja sinn skilorð, sem honum hefur verið sett. Að því virtu ogsakaferli hans og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaðahans um refsingu ákærða staðfest. Ákærði lagði fyrir Hæstarétt vottorð læknis áSjúkrahúsinu Vogi þar sem fram kemur að hann hafi verið í meðferð á vegum SÁÁvegna áfengis- og vímuefnafíknar rétt um 10 mánaða skeið. Auk þess sé hann í„viðhaldsmeðferð“ frá Vogi og mæti þar vikulega og að auki í læknaviðtöl á 4-6vikna fresti. Sú meðferð sé áfram fyrirhuguð. Hafi hann staðið sig vel ímeðferðinni. Þá lagði ákærði fyrir Hæstarétt vottorð forstöðumannsáfangaheimilis SÁÁ þess efnis að hann hafi verið þar til heimilis frá 28. maí2004 og verði það áfram um óákveðinn tíma. Í ljósi þess að ákærði sýnist núsamkvæmt framansögðu takast á við áfengis- og vímuefnavandamál sín af fullrifestu þykir, þrátt fyrir skilorðsrof hans, rétt að fresta fullnustu 19 mánaðaaf refsingu hans og falli hún niður að liðnum þremur mánuðum frá uppsögu þessa dómshaldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr.22/1955. Samkvæmtheildarreikningi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir sakarkostnað málsins í héraðinemur hann samtals 296.960 krónum, þar af 240.935 krónur vegna sakarkostnaðar„skv. yfirliti rannsóknara“ og 56.025 krónur vegna dæmdra málsvarnarlauna meðvirðisaukaskatti. Meðal gagna málsins er yfirlit lögreglustjórans í Reykjavíkum sakarkostnað að fjárhæð 240.935 krónur vegna lögreglurannsóknar þess máls,sem fjallað er um í 2. lið ákæru, en sá kostnaður varðar rannsókn vegna ætlaðsbrots þess manns, sem þar er sagður hafa verið með ákærða í innbrotinu.Samkvæmt þessu verður ákærði einvörðungu dæmdur til að greiða þann þáttsakarkostnaðar í héraði sem varðar málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans. Ákærðiverður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánargreinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Ólafur Pétur Pétursson, sætifangelsi í 22 mánuði. Fullnustu 19 mánaða af þeirri refsingu skal frestað oghún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærðialmennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laganr. 22/1955. Ákærði greiði 56.025 krónur ísakarkostnað í héraði og allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaunskipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonarhæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur. Ingibjargar Benediktsdóttur Ég er sammála niðurstöðumeiri hluta dómenda um refsingu ákærða að öðru leyti en því að hana skuliskilorðsbinda. Ákærði hefur nú með brotum sínum sem fjallað er um í málinurofið skilorð í þriðja sinn. Við ákvörðun skilorðsbindingar refsingar hanshefur fjórum sinnum áður verið vísað til þess að hann hafi gengist undirmeðferð vegna áfengis- og vímuefnanotkunar og sé að vinna bug á þeim vanda,fyrst í dómi frá 13. október 2000, þá 3. nóvember sama ár, næst 15. apríl 2002og loks 9. september 2003. Fallist er á að brot ákærða sem fjallað er um ímálinu séu ekki stórvægileg, en til þess er þó að líta að með öðru þeirrabraust hann inn í tvær geymslur í íbúðarhúsi í félagi við annan mann og stalþar þó nokkrum verðmætum. Þegar litið er til þessa brots ákærða, sakaferilshans og endurtekinna skilorðsrofa þykir mér ekki koma til álita aðskilorðsbinda refsingu hans, sem nú nemur 22 mánaða fangelsi, að hluta eða ölluleyti. Ég tel því að staðfesta eigi hinn áfrýjaða dóm um refsingu ákærða, og ersammála meiri hluta dómenda um sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað. Dómur HéraðsdómsReykjavíkur 8. nóvember 2004. Mál þetta var höfðað með ákærumlögreglustjórans í Reykjavík, dagsettum 17. ágúst sl. og 12. október sl., áhendur Ólafi Pétri Péturssyni, kt.[...], Geitlandi 8, Reykjavík. Ákæra dags. 17. ágúst 2004: „Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 31. mars 2004 íhúsnæði Mæðrastyrksnefndar að Sólvallagötu 48 í Reykjavík, stolið seðlaveski aðóvissu verðmæti. Telst þetta varða við 244. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1040. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.” Ákæra dags. 12. október 2004: „Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 2. apríl 2004 í félagivið A, brotist inn í 2 geymslur að Hraunbæ [...] í Reykjavík með því að spennaupp hurðir og stolið töskum, tölvu, tölvuskjá, örbylgjuofni, samlokugrilli,brauðrist, 2 ljósmyndum í römmum og myndbandsspólum, samtals að verðmæti um kr.54.500. Telst þetta varða við 244. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1040. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.” Verjandi ákærða krafðist vægusturefsingar er lög leyfa og hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa. Ákærði hefur játað brot sín fyrirdóminum. Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hannsakfelldur fyrir brot sín, en þau eru í ákæru réttilega heimfærð tilrefsiákvæða. Refsiákvörðun. Ákærði er fæddur í mars 1978. Hann á að baki nokkurn sakarferil. Hannhlaut tvær sáttir á árinu 1995 fyrir umferðarlagabrot og ákærufrestun á árinu1999 vegna auðgunarbrots. Þá hlaut hann dóm á árinu 1999 fyrirumferðarlagabrot. Á árinu 2000 hlaut hann tvær sáttir vegna umferðarlagabrota.Þá hlaut hann þrjá refsidóma það árið fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar,tilraun til fjársvika, gripdeild, eignaspjöll og hilmingu. Voru tveir síðaridómarnir báðir hegningaraukar og í báðum tilvikum voru tveir fyrri dómarnirdæmdir upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin. Ákærði hlautrefsidóm 15. apríl árið 2002 fyrir þjófnað og var þá refsing ákveðin 17 mánaðafangelsi. Um skilorðsrof var að ræða, en að teknu tilliti til smávægilegsandlags þjófnaðarins og persónulegara aðstæðna var refsing hans skilorðsbundin. Ákærði hlaut síðast 18 mánaða fangelsisdóm, 9. september 2003, fyrirþjófnað samkvæmt tveimur ákærum. Refsing var þá ákveðin sem hegningarauki vegnaannarrar ákærunnar, en með broti því sem sakfellt var fyrir í hinni ákærunnirauf ákærði skilorð dómsins frá 15. apríl 2002. Dómurinn var því dæmdur upp ogákærða gerð refsing í einu lagi og var hún skilorðsbundin í 3 ár. Við ákvörðun refsingar verður litið til greiðlegrar játningar ákærða ogþess að fyrirliggjandi gögn frá Sjúkrahúsinu Vogi sýna að hann hefur reynt aðvinna bug á vímuefnavanda sínum. Til refsiþyngingar horfir hins vegar að ákærðihefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir tvö þjófnaðarbrot, annað framið meðþví að brjótast inn í geymslur er tilheyrðu íbúðarhúsnæði og framdi ákærði þaðbrot í félagi við annan mann. Horfir þetta til refsiþyngingar. Þá hefur ákærðimargítrekað verið dæmdur fyrir auðgunarbrot. Með brotum þeim sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessuhefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 9. september 2003. Ber að dæmaskilorðsdóminn upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr.almennra hegningarlaga. Að þessu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í22 mánuði. Þegar litið er til þess að ákærði hefur ítrekað hlotið skilorðsdóma ogítrekað rofið skilorð þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu að neinu leyti. Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknunskipaðs verjanda ákærða, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur. D ó m s o r ð: Ákærði, Ólafur Pétur Pétursson sætifangelsi í 22 mánuði. Ákærði greiði allan sakarkostnaðmálsins, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda hans, Arnar Clausen,hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur. |
Mál nr. 12/2007 | Landamerki Áfrýjunarheimild Frávísun frá Hæstarétti að hluta | Í málinu deildu aðilar um landamerki landspildna sem skipt var út úr jörðinni Miðdal II. Í málinu greindi aðila meðal annars á um hvort miða ætti við orðalag í afsali fyrir eign áfrýjenda eða við uppdrátt af eigninni er fylgdi afsalinu, en uppdrátturinn bar ekki með sér að hafa verið þinglýstur. Þegar litið var til þess meðal annars að uppdrátturinn var gerður í tilefni af sölu til þess aðila sem áfrýjendur leiddu rétt sinn frá og að samkvæmt framburði vitnis hefði verið gerður áður en þinglýsing afsalsins fór fram, var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna stefnda af kröfum áfrýjenda. Áður en áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar höfðu þau greitt stefnda málskostnað samkvæmt hinum áfrýjaða dómi án fyrirvara um málsskot. Greiðsla áfrýjenda var ekki talin fela í sér viðurkenningu á kröfu stefnda um landamerkin, heldur var hún til fullnustu kröfu sem leiddi af úrslitum málsins í héraði. Gat hún því ekki svipt áfrýjendur heimild til áfrýjunar um annað en það sem hún fól beinlínis í sér. Var fallist á kröfu stefnda um að vísa bæri frá Hæstarétti kröfu áfrýjenda um málskostnað í héraði. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. janúar 2007 og krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þau verði sýknuð af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega að kröfum áfrýjenda verði að öllu leyti eða hluta vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst stefndi í báðum tilvikum málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I. Í málinu deila aðilar um merki milli landspildna í þeirra eigu, sem skipt var út úr jörðinni Miðdal II, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Hafa allmörg ný skjöl verið lögð fyrir Hæstarétt, en meðal þeirra er viðskiptakvittun Landsbanka Íslands hf. 17. október 2006 fyrir greiðslu áfrýjandans Björns Erlendssonar á 750.000 krónum inn á bankareikning stefnda. Er fram komið að með þessu hafi áfrýjandinn gert upp við stefnda málskostnað samkvæmt hinum áfrýjaða dómi. Reisir stefndi aðalkröfu sína á því að áfrýjun héraðsdóms sé ósamrýmanleg því að málskostnaður hafi verið greiddur án fyrirvara um málskot. Því beri að vísa málinu frá Hæstarétti, en að minnsta kosti þeirri kröfu að stefnda verði gert að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði. Áfrýjendur hafa greint frá ástæðu þess að greiðslan var innt af hendi, en með henni hafi þau ætlað að koma í veg fyrir að á dæmdan málskostnað félli aukakostnaður að óþörfu meðan ákvörðun um áfrýjun lægi ekki fyrir. Á því tímamarki hafi þau ekki notið aðstoðar lögmanns. Sá ágreiningur, sem dómsmálið er sprottið af, birtist í kröfu um viðurkenningu á nánar tilgreindum merkjum milli landareigna málsaðila. Áðurnefnd greiðsla áfrýjandans Björns fól ekki í sér viðurkenningu á kröfu stefnda um landamerkin, heldur var hún til fullnustu kröfu sem leiddi af úrslitum málsins í héraði. Getur hún ekki svipt áfrýjendur heimild til áfrýjunar um annað en það, sem hún fól beinlínis í sér. Verður aðalkröfu stefnda samkvæmt því hafnað að öðru leyti en því er varðar kröfu áfrýjenda um greiðslu málskostnaðar í héraði. II. Aðalkrafa áfrýjenda um vísun málsins frá héraðsdómi er meðal annars reist á því að ekki hafi verið leitað sátta í málinu fyrir milligöngu sýslumanns samkvæmt 6. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl. með áorðnum breytingum. Stefndi hafi þess í stað höfðað málið fyrir héraðsdómi og ekki gætt að því að „það voru aðilar allt umhverfis þrætuspilduna sem áttu hagsmuna að gæta“. Er sérstaklega vísað til þess að með þeirri staðsetningu merkja, sem ákveðin var með héraðsdómi, hafi fallið til stefnda spilda, sem tilheyri einum þessara nágranna. Því hafi borið að vísa málinu frá héraðsdómi af sjálfsdáðum. Þá hafi átt að hafa héraðsdóm fjölskipaðan, eins og venja sé í landamerkjamálum, þótt sá annmarki einn og sér valdi ekki frávísun. Áfrýjendur höfðu uppi frávísunarkröfu í héraði, en féllu frá henni við meðferð málsins. Skýra þau þá ráðstöfun þannig að hún hafi verið tengd því að héraðsdómari myndi leita sátta, sem hann hafi ekki gert þegar til kom. Í þinghaldi fyrir héraðsdómi 16. desember 2005 lýsti þáverandi lögmaður áfrýjenda yfir að fallið væri frá kröfu um frávísun málsins. Ekki kemur fram í bókun í þingbók að það sé tengt eða bundið skilyrðum um síðari sáttaumleitan dómara, en í þinghaldi 8. nóvember sama ár hafði verið fært til bókar að sættir væru reyndar með aðilum án árangurs. Sú aðstaða, sem greinir í 6. gr. laga nr. 41/1919, er ekki fyrir hendi í málinu. Dómur í því bindur ekki aðra en aðila þess, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og getur staðhæfing sem kom fyrst fram fyrir Hæstarétti um að farið hafi verið lítillega inn á nágrannaeign með kröfulínu stefnda ekki varðað frávísun málsins þótt rétt kynni að reynast. Samkvæmt þessu er hafnað aðalkröfu áfrýjenda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Þá er ekki skylt að hafa héraðsdóm fjölskipaðan í landamerkjamáli og ekki hefur verið bent á sérstaka þörf á því í þessu tilviki, en af þeim sökum getur ekki komið til álita að ómerkja hinn áfrýjaða dóm. III. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir margs kyns gögnum, sem aðilarnir hafa lagt fram í málinu, en meðal þeirra eru afsöl fyrir nokkrum spildum úr landi Miðdals II og uppdrættir. Áfrýjendur eignuðust landspildu sína við Myrkurtjörn með ódagsettu afsali, sem móttekið var til þinglýsingar 7. júlí 1971. Telja þau að landamerkjum hennar sé lýst samhljóða og með skýrum hætti í öllum afsölum, sem gerð hafi verið um hana, allt frá því spildunni var skipt út úr landi áðurnefndrar jarðar með afsali til Helga Bergssonar 2. september 1963. Þrátt fyrir skýrt orðalag í afsölum hafi héraðsdómari kosið að styðjast frekar við uppdrátt af spildunni, sem ekki hafi verið þinglýst með afsali 1963 og stangist á við það sem segi í því. Greinir aðilana á um hvort uppdrættinum hafi verið þinglýst svo sem hann hefur verið varðveittur af sýslumanni ásamt samriti afsals. Ekki sé vísað til uppdráttar í afsali 1963 og áðurnefndur uppdráttur sé ódagsettur og ómerktur. Telja áfrýjendur að ritaður samningstexti gildi samkvæmt almennum skýringarreglum öðru framar og í þessu máli geti skýr texti í afsali ekki vikið fyrir óundirritaðri og vefengdri teikningu. Mörkum landspildu áfrýjenda er lýst í afsali 2. september 1963. Um þau segir meðal annars: „Norðausturmörk. Lína hugsast dregin frá áðurnefndri girðingu umhverfis land Stefáns Thorarensen í suðurátt norðaustanvert í melöldu austanvert við Myrkurtjörn 200 m í suðurátt, en frá endapunkti þeirrar línu ræður suðausturmörkum brotin lína fyrst 50 m í suðvesturátt í stefnu á sumarbústað Gunnars Smith ...“. Á margnefndum uppdrætti eru dregnar línur umhverfis Myrkurtjörn, þar á meðal lína austan við tjörnina í stefnu á bústað Gunnars Smith og er ekki fram komið að ágreiningur sé um hana. Frá nyrðri enda þeirrar línu er önnur dregin í norðvestur að þáverandi fjárgirðingu Stefáns Thorarensen sem endapunkti og við hana er skráð vegalengdin 215 metrar. Ef sama lína er framlengd að merkjum lands Stefáns, eins og þau voru ákveðin 1955, er ómótmælt að lengd hennar væri yfir 400 metrar samtals. Sú skýring áfrýjenda að landspilda þeirra nái að markalínunni frá 1955 samræmist að þessu leyti alls ekki texta afsalsins 2. september 1963 um 200 metra lengd þessarar línu. Að sama skapi fellur sú tilgreining vegalengdar nær saman við það, sem nefndur uppdráttur ber með sér. Jóhannes Helgason gaf skýrslu fyrir dómi, en hann er sonur Helga Bergssonar og var 17 ára gamall þegar faðir hans fékk afsal fyrir spildunni sem nú tilheyrir áfrýjendum. Hann kannaðist við umræddan uppdrátt, sem sýnir merkjalínur umhverfis Myrkurtjörn. Kvað hann móður sína hafa gert uppdráttinn, en hún hafi á þeim tíma unnið á Raforkumálastofnun við gerð teikninga. Teikningin hafi verið gerð í framhaldi af mælingu á vettvangi, sem hann hafi sjálfur tekið þátt í að gera með seljandanum, líklega á árinu 1964 eða 1965. Vitnið kvaðst ekki hafa sjálfur framvísað afsalinu til þinglýsingar, en í fórum foreldra hans hafi teikningin jafnan fylgt því. Afsal föður hans var móttekið til þinglýsingar 13. maí 1966 og heldur stefndi fram að teikningin hafi þá fylgt afsalinu. Framburður vitnisins rennir stoðum undir að uppdrátturinn hafi verið gerður í tengslum við sölu landsins til Helga Bergssonar og áður en afsalinu var þinglýst 1966. Er einnig til þess að líta að skjalið stafar frá þeim, sem upphaflega öðlaðist rétt yfir spildunni, en frá honum leiða áfrýjendur rétt sinn. Uppdrátturinn styður málatilbúnað stefnda andstætt því sem áfrýjendur halda fram. Áfrýjendur bera fyrir sig að niðurstaða héraðsdóms um merki sé ekki á sama stað og fjárgirðing Stefáns Thorarensen stóð áður. Staðhæfing stefnda um að girðingarstæðinu sé fylgt við kröfugerð standist því ekki, heldur hafi verið farið inn á óumdeilt land áfrýjenda. Hafa þau lagt fyrir Hæstarétt teikningu sem á að sýna þessar línur, þar sem nokkuð skilur á milli þeirra syðst á svæðinu en bilið minnkar þegar norðar dregur. Þessari málsástæðu var ekki hreyft í héraði, sem áfrýjendum var þó í lófa lagið að gera, heldur þvert á móti lýst yfir í greinargerð þeirra að óumdeilt væri að á kröfulínu stefnda „var á seinni árum fjárgirðing.“ Við þessa yfirlýsingu eru áfrýjendur bundin, sbr. 45. gr. laga nr. 91/1991, og kemur þessi málatilbúnaður þeirra ekki frekar til álita. Samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjendum verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Kröfu áfrýjenda, Björns Erlendssonar og Sigríðar Á. Ásgrímsdóttur, um greiðslu málskostnaðar fyrir héraðsdómi er vísað frá Hæstarétti. Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjendur greiði óskipt stefnda, Gunnari Dungal, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Stefnandi telur augljóst að landmörk landspildu hans úr landi Miðdals II, með landnúmer 199722 og landspildu stefndu við Myrkurtjörn, séu eins og krafist sé. Stefnandi hafi fengið verkfræðistofuna Ráðgjöf ehf. til að mæla upp landspildur sínar og stefndu að því marki sem máli skipti. Mæliblað þetta sé lagt fram í málinu. Krafa stefnanda, um að landamerki milli landspildu hans og stefndu verði ákveðin eins og krafist sé, byggir á mæliblaðinu. Gerð er krafa til þess að þau verði ákveðin frá punkti 201 eftir línu í punkt 212 og þaðan beina stefnu í punkt 211. Á mæliblaðinu séu tilgreind hnit hvers þessara þriggja punkta og séu hnitin samkvæmt hnitakerfi Mælingadeildar Reykjavíkurborgar. Máli sínu til stuðnings bendir stefnandi á eftirfarandi málsástæður: 1. Girðing sú sem tilgreind sé í afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga Bergssonar, dags. 2. september 1963, og sögð sé vera umhverfis land Stefáns Thorarensen lögreglumanns, hafi á afsalsdegi legið eftir sömu línu og dómkröfur stefnanda lúti að. Hér hafi ekki verið um þá girðingu að ræða sem tilgreind sé í yfirlýsingu um landamerki milli Miðdals II og Búrfells, dags. 28. nóvember 1955. Á það sé bent að Stefán Thorarensen hafi fengið sérstaka heimild til að reisa girðingu þessa til þess að skepnur hans hefðu skjól í illviðrum. 2. Notkun orðsins „umhverfis“ í afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga Bergssonar bendi til þess að ekki sé átt við girðingu sem beinlínis sé á landamörkum Búrfells og Miðdals II. Ef sú aðstaða hefði verið uppi hefði verið nærtækara fyrir afsalsgjafa að tilgreina að um girðingu á landamörkum væri að ræða. 3. Með afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga Bergssonar hafi fylgt sérstakur uppdráttur og sé honum þinglýst. Komi þar glögglega fram að landamörk landspildu stefndu til norðvesturs séu í samræmi við dómkröfur stefnanda. Uppdráttur þessi hafi síðan fylgt áfram afsali Helga til Guðmundar Ólafssonar, dags. 8. ágúst 1969, og ódagsettu afsali Guðmundar til stefndu, sem þinglýst var 7. júlí 1971. 4. Önnur sumarbústaðalönd, sem skipt hafi verið úr landi Miðdals II, og liggi norðan landspildu stefndu, nái öll norðvestur að sömu línu og krafa stefnanda lúti að, sbr. framlagðan uppdrátt Ágústs Böðvarssonar. 5. Í afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga Bergssonar sé tilgreint að hin afsalaða landspilda sé ca 8 ha. Sömu stærðartilgreiningu sé að finna í síðari afsölum, þ.e. til Guðmundar Ólafssonar og í afsali hans til stefndu. Uppdrættir þeir sem stefndu létu þinglýsa, 8. apríl 2003, sýni hins vegar að landspilda þeirra sé 15-16 ha. Þetta frávik sé svo stórkostlegt að það geti ekki staðist en bent er á að samkvæmt þeim uppdrætti er fylgdi öllum fyrri afsölunum sé afmarkað land stefndu u.þ.b. 8 ha. 6. Samkvæmt uppdrætti er fylgdi afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga Bergssonar sé lengd á landamörkum landspildu stefndu til norðurs talin vera ca. 215 metrar. Samkvæmt nýrri teikningu stefndu sé samsvarandi lengd á landamörkum talin vera 400 m. Þetta frávik sé svo stórkostlegt að það geti ekki staðist. 7. Í tengslum við sölumeðferð á landspildu sinni hafi stefndu afhent Magnúsi Leópoldssyni, lögg. fasteignasala, uppdrátt er unninn var vegna endurmælingar 12. ágúst 1989. Stefnandi telur að leggja beri til grundvallar að stefndu hafi látið gera þennan uppdrátt og séu honum samþykk en þar komi berlega fram að landamörk séu í samræmi við kröfur stefnanda. 8. Staðhættir bendi til þess að sú frásögn Björns Mássonar um að Stefán Thorarensen hafi fengið að reisa girðingu austan landamarka Búrfells og Miðdals II sé rétt. Mýrin, sem þrætumál þetta snúist um, standi mun lægra en Búrfellslandið og hæðirnar í kring myndi ákjósanlegt skjól fyrir búfénað. 9. Stefnandi telur stefndu vera í vondri trú um meint réttindi sín. Þau hafi enn fremur verið það þegar þau fengu uppdráttum sínum þinglýst 8. apríl 2003. Við ákvörðun málskostnaðar verði að taka mið af þessu og dæma stefndu til að greiða álag á málskostnað, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til almennra reglna eigna- og kröfuréttar. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og til 129. gr., 130. og 131. gr. s.l. varðandi málskostnað. Málsástæður og lagarök stefndu Miðlínan var sett fram sem varakrafa í gagnsökinni. Hún sé auðkennd með orðunum Land Stefáns Thorarensen, lögreglumanns, samkvæmt yfirlýsingu um breytingu dags. 28. nóvember 1955. Girðing umhverfis landið. Þessi lína byggist á greindri yfirlýsingu um breytingu á mörkum. Ekki sé annað vitað en að línan sé í samræmi við það skjal. Stefndu byggja til vara á því að landamerki landspildu stefnanda og stefndu úr landi Miðdals II, séu úr punkti, hnit X 7169.6048 Y 14603.4317, sem er á mel austanvert við Gildruás (punktur 677), þaðan í punkt X 6894.3800 Y 14989.0500 sem er á beinni línu er hugsast dregin um Þúfuhól í Seljadalsá (punktur 661). Punktar þessir séu auðkenndir 677 og 661 fyrrgreindu korti sem hafi verið lagt fram í málinu. Við línuna sé skráð á kortið: Land Stefáns Thorarensen samkvæmt yfirlýsingu um breytingu dags. 28. nóvember 1955. Stefna á Þúfuhól. Neðsta línan (syðsta) sé auðkennd með orðunum fjárgirðing. Þetta sé kröfulína stefnanda í málinu, sem nánar verði fjallað um síðar. Af hálfu stefndu er öllum þeim uppdráttum, sem lagðir eru fram sem hluti af framlögðum kaupsamningum og afsölum í máli þessu, mótmælt. Þeir hafi lítið sönnunargildi og alls ekkert gildi varðandi sönnun um eignarrétt, svo fremi að ekki sé þess getið í skjalinu (afsalinu eða kaupsamningnum) að uppdráttur fylgi, eða þá að uppdrátturinn sé áritaður af aðilum eða þá með áritun þinglýsingardómara. Einkum og sér í lagi er slíkum uppdráttum mótmælt ef þeir eru í ósamræmi við skjal það sem þeir ættu þó að vera hluti af. Svo sé um uppdráttinn sem lagður sé fram með einu þýðingarmesta skjalinu í máli þessu, afsalinu frá 2. september 1963. Hann sé ósamrýmanlegur skjalinu sem hann fylgir, sem styðji með fleiru að hann sé síðari tíma gjörð. Stefndu benda á að lykilatriði málsins felist í því hvort þær liggi saman, spildan sem Stefán Thorarensen keypti með afsali dags. 25. jan. 1953, og stefnandi sé nú eigandi að, og spildan sem Helgi Bergsson keypti 1963 og stefndu eiga nú. Þegar það liggi ljóst fyrir ætti að vera einfalt að gera sér grein fyrir því hvaða lína sé markalína milli þeirra tveggja landspildna sem um ræðir í málinu. Stofnskjalið fyrir spildu stefnanda sé, sem fyrr segi, afsal til Stefáns Thorarensen lögreglumanns, dags. 25 jan. 1953. Þar sé fyrst lýst suðurmörkum og þar tilgreind varða á mel sunnan Leirtjarnar. Þetta sé varðan á Gildruási, punktur 45 á hnitsettu korti. Síðan sé austurmörkum lýst þannig: Frá fyrrnefndri vörðu ræður landamerkjum lína, sem hugsast dregin beint í Seljadalsá um tvo smáhnjúka, sem bera því nær saman austanvert við mýrarsund sem er austan Búrfells. Á þessari línu hafi verið sett upp girðing. Stofnskjalið fyrir spildu stefndu sé afsal til Helga Bergssonar, dags. 2. september 1963. Þar segir: að norðvestan ræður mörkum girðing umhverfis land Stefáns Thorarensen lögreglumanns (sbr. afsal dags. 25. jan. 1953) á 450 m löngu svæði. Helgi Bergsson selur Guðmundi Ó. Ólafssyni spilduna 8. ágúst 1969. Þar segir: að norðvestan ræður mörkum girðing umhverfis land Stefáns Thorarensen, lögreglumanns ( sbr. afsal, dags. 25. jan. 1953 ) á 450 m löngu svæði. Guðmundur Ó. Ólafsson seldi stefndu, Birni og Sigríði, spilduna með afsali þinglýstu 7. júlí 1971. Þar segir: Að norðvestan ræður mörkum girðing umhverfis land Stefáns Thorarensen, lögreglumanns ( sbr. afsal, dags. 25. jan. 1953 ) á 450 m. löngu svæði. Ofvaxið sé skilningi stefndu hvernig hægt sé að segja í afsali að girðing umhverfis land Stefáns Thorarensen ráði mörkum lands stefndu og halda því svo fram að löndin séu ekki samliggjandi. Stefndu hafi ekki verið í vafa um að þau væru að kaupa land sem lægi að landi Stefáns Thorarensen samkvæmt afsalinu árið 1971. Það hafi staðið skýrum stöfum í afsalinu svo og stofnskjalinu fyrir lóðinni. Samt sem áður sé málsókn stefnanda á því byggð að löndin hafi ekki legið saman. Það hafi verið breið skák á milli. Þá ímynduðu skák hafi stefnandi svo keypt að eigin frumkvæði árið 1999. Stefndu gera grein fyrir málsástæðum sínum með tilvísan til eftirgreindra skjala, sem rakin eru í tímaröð. Stofnskjalið fyrir spildu stefnanda, þ.e. afsal eigenda Miðdals II, þeirra Péturs Þorsteinssonar og Ríkarðs Jónssonar, til Stefáns Thorarensen lögreglumanns sé mjög mikilvægt vegna þess að í öllum síðari afsölum fyrir spildu stefndu sé til þess vísað með orðunum, sbr. afsal dags. 25. jan. 1953, þegar norðvesturmörkum spildu stefndu sé lýst. Sem áður greinir séu mörkin úr vörðu á Gildruási, beint í Seljadalsá um tvo smáhnjúka, sem bera því nær saman austanvert við mýrarsund sem er austan Búrfells. Á þessari línu hafi verið girðing. Það hljóti að vera þessi girðing sem ítrekað sé vísað til í málsskjölum með orðunum: „...girðing umhverfis land Stefáns Thorarensen lögreglumanns (sbr. afsal dags. 25. jan. 1953)“? Yfirlýsingin frá 28. nóvember 1955 sé makaskiptasamningur: „Stefán Thorarensen fær landspildu suðaustanvert við Gildruás og eigendur Miðdals II norðanvert við línu dregna úr Þúfuhól í Seljadalsá.“ Með skjali þessu hafi verið gert samkomulag um að mörk landspildu stefnanda í máli þessu að sunnan og austan skuli vera úr mel austanvert við Gildruás, (þ.e. hinum ágreiningslausa punkti 101 í stefnu), og þaðan hugsast dregin bein lína um Þúfuhól í Seljadalsá[...] Það þurfi ekki annað en draga línu frá ágreiningslausum punkti (101 í stefnu) beint í stefnu á þekkt kennileiti, Þúfuhól. Þá sé hin umsamda landamerkjalína samkvæmt yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955 komin. Hún hafi verið dregin á framlagt hnitsett kort, mælt í ágúst 2002, teiknað í apríl 2003. Í niðurlagsorðum 2. mgr. yfirlýsingarinnar frá 28. nóvember 1955 segir: ... en þaðan hugsast dregin bein lína um Þúfuhól í Seljadalsá og ræður girðing sem sett er á landamörkum þessum að austan verðu. Þarna sé getið um girðingu. Svo virðist sem á þessum mörkum hafi verið sett upp girðing. Stefndu telja sig hafa rekist á leifar af járnstaurum þarna í mýrinni, og geti sér þess til, að á einhverju skeiði hafi verið sett upp girðing á járnstaurum og með fáum strengjum sem auðvelt hafi verið að fjarlægja. Það hefði vissulega verið betra og líklega forðað málaferlum þessum ef umsamin girðing hefði verið varanleg girðing. Hin umsömdu landamerki séu þó glögg og skýr: Línan úr mel austanvert við Gildruás í stefnu á Þúfuhól. En svo undarlega virðist bregða við að eigendur Miðdals II hafi ekki byggt á samningi þessum við síðari löggerninga. Þeir hafi litið fram hjá honum. Alltaf sé vitnað til afsalsins frá 25. janúar 1953 um mörkin á spildu stefndu, en ekki til þessa samnings frá 1955. Ekki sé ljóst hvers vegna svo sé, hvort ástæðan sé sú að fullgildur samningur hafi ekki stofnast, eða hvort gagnaðilinn, Stefán Thorarensen, hafi ekki staðið við það að afsala hinni umsömdu landspildu norðanvert við línu dregna úr Þúfuhól í Seljadalsá? Það hvíli á stefnanda að upplýsa um hið síðargreinda. Stefndu byggja aðallega á því að samningur þessi hafi aldrei öðlast gildi eða verið felldur úr gildi eftir atvikum þannig að aðilar hafi orðið sammála um að byggja ekki á honum eða bera hann fyrir sig. Með afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga Bergssonar, dags. 2. september 1963, hafi landspildu stefndu verið skipt út úr Miðdal. Um norðvesturmörk landsins sé vísað til upprunalega afsalsins til Stefáns frá 1953 en ekki makaskiptasamningsins frá 28. nóvember 1955. Annað hvort séu eigendur Miðdals að tvíselja, þ.e. selja aftur viðbótar spilduna sem Stefán fékk með makaskiptasamningnum, eða þá að þeir líti fram hjá honum, að líkindum vegna þess að Stefán virðist aldrei hafa afsalað til eigenda Miðdals landi því sem þeir áttu að fá samkvæmt honum. Á þessum tíma virðist girðing sú, sem stefndi telur sig hafa fundið leifar af, hafa verið komin. Í afsali Helga Bergssonar til Guðmundar Ó. Ólafssonar, dags. 8. ágúst 1969, fyrir landspildu þessari sé enn vísað til hins upprunalega afsals til Stefáns Thorarensen eins og makaskiptasamningurinn sé ekki til. Í eignarheimild stefndu fyrir landspildu sinni frá árinu 1971 sé enn vísað til hins upprunalega afsals til Stefáns Thorarensen eins og makaskiptasamningurinn sé ekki til. Skal nú vikið að kröfulínu stefnanda. Það sé óumdeilt að á þeirri línu hafi á seinni árum verið fjárgirðing. Ekki njóti við skjallegra heimilda um það hvernig girðingarlínan eða girðingarstæðið hafi verið valið, girðingin hafi ekki verið á neinni af þeim markalínum sem lýst sé í framangreindum afsölum. Vakin sé sérstök athygli á neðstu málsgreininni á bls. 1 í afsalinu frá 25. janúar 1953: Hinni seldu eign fylgir réttur til beitar í landi Miðdals II um 25 ára skeið frá deginum í dag að telja fyrir allt að 150 fjár. Stefndu telja nærtækt að ætla að í þessu samningsákvæði sé að finna ástæðuna fyrir því að fjárgirðing þessi var sett upp á þeim stað sem raun varð á, inni á landi Miðdals II. Það hafi verið vegna þess að kaupandi spildunnar, Stefán Thorarensen, hafði, auk spildunnar, keypt beitarrétt í landi Miðdals. Þennan beitarrétt hafi hann nýtt með því girða til sín og afgirða frá Miðdal II spildu af því landi sem beitarrétturinn tók til. Nánar til tekið: Þrætulandið í máli þessu. Auk þess hafi þarna verið besta girðingarstæðið, m. a. vegna snjóalaga, sem í sjálfu sér geti verið fullnægjandi skýring á því hvers vegna girðingin hafi verið sett þarna. Loks sé sannfærandi sú skýring á tilvist girðingarinnar sem fram komi í stefnu að Stefán Thorarensen hafi fengið sérstaka heimild til að reisa girðingu þessa til þess að skepnur hans hefðu skjól í illviðrum. Eins og nánar sé greint í stefnu hafi Stefán Thorarensen fengið leyfi þeirra Péturs og Ríkarðs til að reisa girðingu austan landamarkanna til þess að búfénaður hans hefði skjól í vondum veðrum í þeirri mýrarlægð sem liggur austan markanna og nú sé þrætulandið. Stefndu fái ekki betur séð en með þessum orðum sé beinlínis verið að viðurkenna að fjárgirðingin hafi verið inni á landi Miðdals II en ekki umhverfis land Stefáns Thorarensen. Í tilvist þessarar girðingar sé síðan að leita ástæðunnar fyrir því að uppdrættirnir sem fjallað sé um hér að framan sýni ekki annað hvort samningslínuna frá 1953 eða þá hina endurskoðuðu samningslínu frá 1955. Þegar uppdrættirnir voru gerðir hafi girðingarnar á þessum samningslínum verið ofan teknar. Fjárgirðingin hafi verið eina girðingin sem greinilega hafi staðið uppi á svæðinu. Maðurinn sem uppdráttinn gerði hafi í fljótræði sett fjárgirðingarlínuna sem landamörk á uppdráttinn og ekki athugað að fjárgirðingin hafi alls ekki verið á þeirri línu sem lýst sé í skjölunum sjálfum með skýrum og óvefengjanlegum hætti, fyrst í afsalinu frá 25. janúar 1953, síðan í yfirlýsingu frá 28. nóvember 1955 en í þessi skjöl vísi síðan afsölin fyrir spildu stefndu sem hinir röngu uppdrættir nú fylgja. Kröfulína stefnanda eigi sér ekki stoð í texta neins af hinum framlögðu skjölum. Hennar eina stoð séu uppdrættir sem séu rangir vegna óvandvirkni og mistaka. Í samantekt séu helstu málsástæður stefndu þessar: 1. Í stofnskjalinu fyrir spildu gagnstefnanda og öllum síðari afsölum sé þrætulínunni í máli þessu lýst með því að vísa í annað skjal: Það sé sagt að hún liggi að landspildu Stefáns Thorarensen. Nánar tiltekið: Að norðvestan ræður mörkum girðing umhverfis land Stefáns Thorarensen lögreglumanns (sbr. afsal dags. 25. jan. 1953). 2. Þriggja girðinga sé getið á þrætulandinu enda hafi Stefán Thorarensen þrisvar fengið land frá Miðdal II: Fyrst 1953 að línu sem tilgreind sé í afsalinu frá 25. janúar 1953. Næst árið 1955 að línu þeirri sem tilgreind sé í yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955. Loks hafi hann fengið, að líkindum með munnlegu samkomulagi, viðbótarland til afnota. Í öll skiptin hafi hann sett upp girðingu, í tvö hin fyrri hrossagirðingar sem erfitt sé að finna ummerki um eftir hálfa öld, en í síðasta sinnið vandaða fjárgirðingu sem stóð nokkru lengur en hinn umsamdi beitarréttar samkvæmt afsalinu frá 25. janúar 1953, en honum lauk 1978. 3. Þótt með engu móti verði séð að síðastnefnd fjárgirðing eigi að hafa sjálfstæðar réttarverkanir um eignarhald á landi, þá sé hitt jafn ljóst að hún hafi haft óheppilegar afleiðingar. Hún, eða ummerki eftir hana, hafi valdið því að ónafngreindur mælingamaður teiknaði uppdrætti sem séu rangir og ósamrýmanlegir skjölum þeim sem þeir séu festir við í veðmálabókum. 4. Umræddum uppdráttum sé auk þess mótmælt sem óárituðum af samningsaðilum, óárituðum af þinglýsingardómara, ótölusettum í veðmálabók og óviðkomandi þeim skjölum sem þeir fylgja í veðmálabókinni þar sem þeirra sé að engu getið í skjölunum sjálfum. 5. Kröfulína stefnanda eigi sér enga skjallega stoð. Hún sé dregin eftir girðingarstæði fjárgirðingar sem girt hafi verið inni á landi Miðdals II, að líkindum samkvæmt munnlegu samkomulagi sem gert hafi verið af tímabundnum ástæðum. Þessari girðingarlínu sé ekki lýst í neinu af hinum framlögðu afsölum. Punktar þessir eru auðkenndir 45 og 655 á hnitsettum uppdrætti. Lína þessi er upphafleg markalína á landi því, að sunnan og austan, sem Stefán Thorarensen keypti úr landi jarðarinnar Miðdals II samkvæmt afsali dags. 25. janúar 1953. Með yfirlýsingu, dags. 28. nóvember 1955, varð samkomulag með aðilum um breytingu á landamerkjum hins selda landshluta að sunnan og austan. Samkvæmt þeim makaskiptum skyldi Stefán Thorarensen fá landspildu suðaustanvert við Gildruás og eigendur Miðdals II norðanvert við línu dregna úr Þúfuhól í Seljadalsá, eins og nánar er gerð grein fyrir í samkomulagi þessu. Yfirlýsingu þessari var þinglýst og verður að líta svo á að hún hafi haft fullt gildi milli aðila efni sínu samkvæmt. Verður því að miða við að afmörkun lands Stefáns Thorarensen og Miðdals II hafi miðast við þá línu, sem samkomulag varð um með yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefndu að upphafleg markalína samkvæmt afsalinu frá 25. janúar 1953 geti afmarkað land stefndu að norðvestan. Til vara telja stefndu að landamerki landspildu stefnanda og landspildu stefndu, úr landi Miðdals II séu úr punkti, hnit X 7169.6048 Y 14603.4317 sem er á mel austanvert við Gildruás (punktur 677), þaðan í punkt X 6894.3800 Y 14989.0500 sem er á beinni línu er hugsast dregin um Þúfuhól í Seljadalsá (punktur 661). Lína þessi er sú markalína sem samkomulag varð um með yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955 og fyrr getur, og er við þá línu miðað sem vesturmörk hins umdeilda lands í kaupsamningi stefnanda og eigenda Miðdals II frá 16. september 1999. Eins og segir í kaupsamningi þessum mynda austurmörk spildunnar við Seljadalsá hvasst horn við vesturmörkin og liggja þaðan suður eftir girðingu og girðingarstæði, með tveimur gleiðum hornum, er afmarka sumarhúsabyggð við Silungatjörn og mynda austurmörkin síðan annað hvasst horn við vesturmörkin við framangreindan mel. Spilda þessi, sem nefnd er Eystri spildan í framangreindum kaupsamningi og afsali til stefnanda, dags. 3. september 2004, er sú landspilda sem ágreiningur aðila stendur um. Er tekið fram í afsali að stefndi vefengi tilgreind austurmörk spildunnar og telji sig eiga land vestur að austurmörkum Búrfellslands. Samkvæmt þessum úrslitum málsins ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 750.000 kr. Hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar samkvæmt reikningi að fjárhæð 110.519 kr. og virðisaukaskatts. Ekki þykja vera efni til að dæma 50% álag á málskostnað samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, eins og stefnandi gerir kröfu um. Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð : Landamerki landspildu stefnanda, Gunnars B. Dungal, úr landi Miðdals II, með landnúmer 199722 og landspildu stefndu, Björns Erlendssonar og Sigríðar Á. Ásgrímsdóttur, við Myrkurtjörn, sem einnig er úr landi Miðdals II, eru frá suðri eftir línu úr punkti 101 (X=7160.520, Y=14598.420) norður í punkt 102 (X=6840.889, Y=14773.262) og þaðan norður í punkt 103 (X=6784.370, Y=14837.649) á uppdrætti sem unninn var af Ráðgjöf ehf., verkfræðistofu. Stefndu greiði stefnanda 750.000 kr. í málskostnað. |
Mál nr. 825/2014 | Kærumál Vitni | X krafðist þess að tiltekið vitni, Y, yrði leitt fyrir héraðsdóm í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti, þar sem að í ljós hefði komið eftir dómsuppsögu í héraði að Y væri grunaður um refsiverð brot í öðrum málum sem til rannsóknar væru. Taldi X að mikilvægar upplýsingar hefðu ekki legið fyrir þegar héraðsdómur lagði mat á trúverðugleika Y sem vitnis í málinu. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að skýrt lægi fyrir að Y hefði haft réttarstöðu sakbornings í öðrum málum sem til rannsóknar hafði verið og því væri ekki þörf að spyrja hann um það. Sönnunarfærsla um réttarstöðu Y í öðrum sakamálum væri því bersýnilega tilgangslaus og var kröfu X hafnað. Í dómi Hæstaréttar sagði að samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væri vitni skylt að svara spurningum sem til þess væri beint um atvik málsins. Að virtri þeirri reglu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2014 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að tiltekið vitni yrði leitt fyrir héraðsdóm í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr., sbr. c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa sín verði tekin til greina. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 er vitni í sakamáli skylt að svara spurningum sem til þess er beint um atvik málsins. Að virtri þeirri reglu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 99/2005 | Ráðningarsamningur Uppsögn Vinnulaun Orlof Útivist Skriflegur málflutningur | F, sem hafði starfað fyrir M ehf., stefndi félaginu til greiðslu vangreiddra launa í þrjá mánuði, frá desember 2003 til febrúar 2004, auk orlofs fyrir tímabilið frá júní 2003 til febrúar 2004. Í málinu var ágreiningslaust að uppsagnarfrestur F var einn mánuður. M ehf. hélt því fram að F hafi verið sagt upp störfum í október 2003 og fengið greidd laun í samræmi við það fyrir störf í nóvember sama árs. Þessu var mótmælt af F. Ekki þurfti að taka afstöðu til ágreinings um þetta þar sem F hafði haldið áfram óbreyttum störfum hjá M ehf. um nokkurra vikna skeið í desember 2003. Yrði því hvað sem öðru líður að líta svo á að félagið hefði í verki fallið frá uppsögn F. Í málatilbúnaði F var miðað við að gerðir hans sjálfs síðla í janúar 2004 hafi í reynd falið í sér uppsögn gagnvart félaginu. Var á þetta fallist. Þá var talið að F ætti rétt á að fá greitt orlofsfé til viðbótar umsömdum launum fyrir störf sín. Var því fallist á kröfur F. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. mars 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 824.812 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 241.200 krónum frá 1. janúar 2004 til 1. febrúar sama árs, af 452.400 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs og af 824.812 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 38/1994, ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar hins áfrýjaða dóms. I. Samkvæmt gögnum málsins hóf áfrýjandi störf hjá Málun og spörslun ehf. um miðjan júní 2003. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur. Fyrir liggur að áfrýjandi hafi ekki haft fastan vinnustað í störfum þessum, heldur gegnt þeim á mismunandi stöðum, þar sem félagið sinnti verkum hverju sinni, en þangað hafi honum verið beint af forráðamanni þess. Þá er óumdeilt að samið hafi verið um að áfrýjandi fengi 1.200 krónur í jafnaðarkaup á klukkustund, en ágreiningur er á hinn bóginn um hvort orlofsfé hafi átt að vera innifalið í þeirri fjárhæð, sem áfrýjandi mótmælir. Fyrir héraðsdómi var því haldið fram af hálfu félagsins að áfrýjanda hafi vegna verkefnaskorts verið sagt upp störfum með bréfi 31. október 2003, sem lagt hefur verið fram í málinu, og uppsagnarfrestur verið einn mánuður, en að honum loknum hafi áfrýjanda verið gefinn kostur á að starfa áfram við tilfallandi verkefni, sem lokið hafi endanlega í desember á sama ári. Áfrýjandi andmælir því að sér hafi borist uppsögn þessi og kveðst hafa verið við samfelld störf hjá félaginu fram til 18. desember 2003, þegar hlé hafi verið gert á þeim vegna verkefnaskorts. Hafi staðið til að vinna hæfist aftur eftir jólafrí, en ítrekaðar tilraunir hans til að fá upplýsingar um framhald starfa hafi lítinn sem engan árangur borið og honum aðeins verið tjáð að ný verkefni væru í sjónmáli. Ekki er ágreiningur um að áfrýjandi hafi fengið greidd laun til loka nóvember 2003, en hann kveðst ekkert hafa fengið greitt fyrir störf í desember. Hann hafi síðla í janúar 2004 gefist loks upp á því að bíða nýrra verkefna og greiðslu fyrir vinnu í desember og leitað af þeim sökum til stéttarfélags síns. Líti hann svo á að þar með hafi starfi hans hjá félaginu verið sagt upp, en uppsagnarfrestur staðið til loka febrúar 2004. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 25. mars 2004 á hendur Málun og spörslun ehf. til heimtu skuldar, sem hann sundurliðar þannig að hann eigi í fyrsta lagi vangreidd laun vegna desember 2003 að fjárhæð 241.200 krónur. Sé þar reiknað með 201 vinnustund, sem sé samanlagður fjöldi unninna stunda í þeim mánuði að viðbættum átta stundum á hverjum stórhátíðardegi, sem ella hefði verið vinnudagur, auk daga þegar hann hafði veikindaforföll. Í öðru lagi krefst áfrýjandi greiðslu á 211.200 krónum í mánaðarlaun vegna janúar 2004, en fjárhæð þessi sé miðuð við 176 vinnustundir, sem fengist hefðu með fullu starfi í dagvinnu þann mánuð. Í þriðja lagi telur áfrýjandi sig eiga rétt á launum í uppsagnarfresti vegna febrúar 2004 að fjárhæð 207.996 krónur og miðar hann þar við 173,33 vinnustundir, en ekki er skýrt nánar í málatilbúnaði hans hvernig þessi stundafjöldi er fundinn. Um þennan lið vísar áfrýjandi að öðru leyti til þess að hann hafi notið réttar til uppsagnarfrests í einn mánuð eftir nánar tilgreindu ákvæði kjarasamnings, sem nái til þeirra sem þiggi mánaðarlaun fyrir störf sín. Þá krefst áfrýjandi í fjórða lagi greiðslu á 188.531 krónu í orlofsfé, sem svari til 10,17% af greiddum launum vegna tímabilsins frá júní til nóvember 2003 og umkrafinna launa fyrir desember sama árs og janúar 2004, svo og af launum í uppsagnarfresti í febrúar 2004. Frá heildarfjárhæð þessara fjögurra liða, 848.927 krónum, dregur áfrýjandi 24.115 krónur vegna skuldar út af vöruúttekt, en þannig fæst fyrrgreind fjárhæð dómkröfu hans, 824.812 krónur. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi mun bú Málunar og spörslunar ehf. hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta og tók stefndi við málsaðild. II. Eins og áður greinir hélt stefndi fyrir héraðsdómi því fram að áfrýjanda hafi með bréfi 31. október 2003, sem afhent hafi verið sama dag, verið sagt upp störfum og uppsagnarfrestur samkvæmt því verið á enda í lok nóvember sama árs Við aðalmeðferð málsins í héraði kom fyrir dóm vitni, sem kvaðst hafa starfað með áfrýjanda á þessum tíma og bar að þeim hafi báðum verið afhent uppsagnarbréf við sama tækifæri umræddan dag. Þessu hefur áfrýjandi mótmælt. Ekki þarf að taka afstöðu til ágreinings um þetta, enda hefur ekki verið hnekkt þeirri staðhæfingu áfrýjanda að hann hafi haldið áfram óbreyttum störfum hjá Málun og spörslun ehf. um nokkurra vikna skeið í desember 2003 og hefur í engu verið sýnt fram á að samið hafi verið sérstaklega á því tímabili um önnur ráðningarkjör en áður giltu. Yrði því hvað sem öðru líður að líta svo á að félagið hefði í verki fallið frá uppsögn áfrýjanda. Ekki hefur verið haldið fram að honum hafi verið sagt upp störfum á síðari stigum, en í málatilbúnaði hans er miðað við að gerðir hans sjálfs síðla í janúar 2004 hafi í reynd falið í sér uppsögn gagnvart félaginu. Óumdeilt er að uppsagnarfrestur áfrýjanda hafi verið einn mánuður miðað við mánaðamót og hefur því ekki verið borið við að hann hafi vikist undan störfum í þágu félagsins meðan á frestinum stóð. Við meðferð málsins í héraði voru ekki höfð uppi mótmæli gegn útreikningi áfrýjanda á launum fyrir desember 2003 og janúar 2004 eða á launum í uppsagnarfresti. Samkvæmt því verður að taka þessa kröfuliði að fullu til greina með samtals 660.396 krónum. Fyrir héraðsdómi var þeim lið í kröfu áfrýjanda, sem varðar greiðslu orlofsfjár, mótmælt á þeirri forsendu að samið hafi verið um að það væri innifalið í þeirri fjárhæð, sem hann hafi fengið í jafnaðarkaup fyrir hverja vinnustund. Var því haldið fram að launaseðlar áfrýjanda hafi borið þetta með sér og hann aldrei hreyft andmælum gegn því meðan á störfum hans stóð. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn staðhæft að launaseðlar, sem hér um ræðir og ná til mánaðanna júní, júlí, ágúst, september og október 2003, hafi verið afhentir honum með eftirgangsmunum í einu lagi í nóvember á því ári. Um þetta ágreiningsefni er til þess að líta að á launaseðlum fyrir fjóra fyrstu mánuðina er meðal annars ýmist að finna orðin „Tímakaup með orlofi“, „Tímakaup m. orlofi“ eða „m/orlofi“. Á þeim öllum er hins vegar í sérstökum lið með fyrirsögninni „Orlof Áunnir tímar“ tiltekinn stundafjöldi, sem svarar til 10,17% af þeim vinnustundum, sem komu hverju sinni fram á launaseðli og kaup var greitt fyrir. Í launaseðli fyrir október 2003 var ekki vikið að því að orlofsfé væri innifalið í tímakaupi, en aftur var á sama hátt og áður greinir getið um áunna tíma til orlofs. Stefndi verður að bera sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi verið um þá skipan að orlofsfé væri innifalið í tímakaupi áfrýjanda. Gögnin, sem stefndi fyrir héraðsdómi bar fyrir sig til stuðnings þessu, benda samkvæmt framansögðu öðrum þræði til þess gagnstæða. Eru því engin efni til annars en að fallast á með áfrýjanda að hann eigi rétt á að fá greitt orlofsfé til viðbótar umsömdum launum fyrir störf sín. Útreikningi hans á þessum lið í dómkröfu, sem hann telur alls 188.531 krónu, hefur ekki verið andmælt sérstaklega og verður hann því tekinn að fullu til greina. Áfrýjandi hefur sem fyrr segir viðurkennt í málatilbúnaði sínum að hann standi í skuld við stefnda vegna vöruúttekar, sem hann telur nema 24.115 krónum. Ekki hefur verið sýnt fram á að sú fjárhæð eigi með réttu að vera hærri, svo sem borið var við af stefnda í héraði. Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi því dæmdur til að greiða áfrýjanda 824.812 krónur með vöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði. Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem í dómsorði segir. Dómsorð: Stefndi, þrotabú Málunar og spörslunar ehf., greiði áfrýjanda, Friðleifi Kristjánssyni, 824.812 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 241.200 krónum frá 1. janúar 2004 til 1. febrúar sama árs, af 452.400 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs og af 824.812 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Hinn 4. nóvember 2004 var stefndi úrskurðaður gjaldþrota og var Jón Auðunn Jónsson hrl.,sem sótti þingið skipaður skiptastjóri þrotabús stefnda. Lögmaður stefnda taldi sig því ekki hafa umboð til frekari afskipta af málinu þ.á.m. til endurflutnings. Skiptastóri þrotabús stefnda lýsti því yfir að hann muni ekki láta málið frekar til sín taka þ.a.m. ekki endurflytja það. Málið var því dómtekið að nýju án endurflutnings. Stefnandi er Friðleifur Kristjánsson, kt. [...], Dvergholti 3, Hafnarfirði, en stefndi var Málun og spörslun ehf., kt. 660101-2330, Lautasmára 4, Kópavogi, en verður nú þrotabú stefnda. Umboðsmaður stefnanda er Hulda Rós Rúriksdóttir hdl. en umboðsmaður stefnda Málunar og spörslunar ehf. var Hilmar Ingimundarson hrl., en skiptastjóri þrotabúsins er Jón Auðunn Jónsson, hrl. I. Dómkröfur. 1. Stefnandi gerir endanlegar kröfur um að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 824.813 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 241.200 krónum frá 01.01.2004 til 01.02.2004, af 452.452 krónum frá 01.02.2004 til 01.03.2004, af 824.812 krónum frá 01.03.2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi að fjárhæð 351.970 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 2. Stefndi hefur aðallega krafist þess að hann verði sýknaður af öllum kröfur stefnanda, en til vara er krafist lækkunar á kröfum hans. II. Málavextir. Stefnandi hóf þann 11. júní 2003 störf hjá stefnda sem rekur málningarfyrirtæki. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda, en óumdeilt er að hann skyldi fá greiddar 1200 krónur fyrir hverja unna klukkustund. Stefnanda var greitt eftir vinnuframlagi og kvaðst hann hafa haldið dagbók um vinnustundir þær, sem hann vann hjá stefnda og hafði hann fengið laun sín greidd mánaðarlega samkvæmt því og fékk jafnframt afhenta launaseðla um greidd laun. Á launaseðlunum kemur fram, að launin séu með orlofi, en þar er ekki sundurgreint hve mikill hluti launa sé orlofsfé. Stefnandi fékk launaseðla fyrir mánuðina júní, júlí, ágúst, september og október 2003, en ekki nóvember, þó að hann hafi fengið laun greidd fyrir þann mánuð 207.600 krónur. Fram kemur hjá stefnda að hann hafi sagt stefnanda upp störfum með uppsagnarbréfi 31. október 2003, en uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi væri einn mánuður. Það hafi hins vegar orðið að samkomulagi milli þeirra, að stefndi skyldi útvega stefnanda störf við málun í desember ef einhver vinna félli til, en í því samkomulagi hafi ekki falist að uppsögnin félli úr gildi, enda hafi stefnandi verið jafnframt í vinnu annars staðar, en á vegum stefnda t.d. að Sólasölum 4, Kópavogi. Hjá stefnanda kom fram að hann hefði unnið með venjulegum hætti í desember 2003 og hafi stefndi látið hann vita sem fyrr hvar hann ætti að mæta til vinnu hverju sinni. Þann 18. desember 2003 hafi lokið ákveðnu verki sem hann vann fyrir stefnda og hafi þá verið fyrirsjáanlegt að ekki yrðu fleiri verk fyrr en eftir jól og áramót og kemur ekki fram hjá stefnanda, að hann hafi fengið uppsagnarbréf í október 2003. Hann kvað stefnda hafa tjáð sér að vinna hæfist aftur eftir áramót. Stefndi hafði samt ekki samband við hann eftir áramót og honum hafði ekki tekist að ná sambandi við stefnda þrátt fyrir hringingar til hans. Hann kvað fyrirsvarsmann stefnda svo hafa hringt í sig um miðjan janúar 2004 og tjáð honum að engin verkefni væru fyrir hendi, en að þau kæmu innan tíðar. Eftir það hafði stefnandi oft hringt í stefnda í janúar 2004, en svarið alltaf verið að engin vinna væri fyrirliggjandi hjá stefnda. Stefnandi hafði þá farið til Eflingar, stéttarfélags síns og jafnframt sótt um atvinnuleysisbætur. Í framhaldi hafði stéttarfélagið sent stefnda bréf dags. 26. janúar 2004 um vangreidd laun til stefnanda fyrir desember 2003 og janúar 2004. Fram kemur hjá stefnda að stefnandi hafi á tímabilinu frá 11.-16. desember 2003 tekið út málningarefni án heimildar vegna eigin starfa og hafi hann með því gerst freklega brotlegur við vinnuréttarsamband þeirra og hafi ekki verið óskað frekari starfa af hans hálfu eftir þetta. Því hafi hann ekki átt rétt til frekari launa og því síður til frekari uppsagnar. III. Málsástæður og lagarök. 1. Kröfu sína byggir stefnandi á afhentum launaseðlum, tímaskráningu í desember 2003 og á ákvæðum kjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins. Gerð sé krafa um greiðslu launa vegna unninna stunda í desembermánuði 2003 samkvæmt tímaskráningu stefnanda, sem hann hélt saman á því tímabili. Vegna janúarmánaðar 2004 sé gerð krafa um greiðslu 176 stunda en sá fjöldi vinnustunda sé fundinn þannig að reiknaðar eru 8 klst. fyrir hvern virkan dag og jafnframt vegna 1. janúar. Gerð sé krafa um greiðslu eins mánaðar í uppsagnarfresti og byggi sú krafa á ákvæðum kjarasamnings, grein 12.1.2, (bls. 31) þar sem segi að mánaðarkaupsmenn eigi ávallt eins mánaðar uppsagnarfrest. Stefnandi hafi fengið nýja vinnu þann 2. mars 2004. Kröfu sína um greiðslu orlofs byggi stefnandi á ákvæðum kjarasamnings, kafla 4.1. (bls. 18). Gerð sé krafa um greiðslu uppsafnaðs orlofs frá upphafi starfstíma til loka febrúarmánaðar 2004. Fjárhæð orlofskröfu sé reiknuð miðað við heildarlaun frá upphafi starfstíma í samræmi við afhenta launaseðla. Þá sé fjárhæð vegna desember-febrúar reiknuð miðað við kröfugerð stefnanda. Vísað til þess að vegna mistaka hafi ekki í fyrri bréfum verið gerð krafa um greiðslu launa á uppsagnarfresti og uppsafnaðs orlofs. Kröfu stefnanda um greiðslu uppsafnaðs orlofs vegna nóvembermánaðar 2003 reikni stefnandi miðað við að unnar hafi verið 173,33 stundir í nóvembermánuði, en stefnandi líti svo á að hann hafi fengið laun greidd vegna nóvembermánaðar, en engan launaseðil afhentan. Krafa stefnanda sundurliðast með eftirgreindum hætti: Vangreidd laun í desember 2003: kr.241.200,- -201 klst x 1.200 kr/klst Vangreidd laun í janúar 2004: kr.211.200,- -176 klst x 1.200 kr/klst Vangreidd laun á uppsagnarfresti í febrúar 2004: kr.207.996,- -173,33 klst x 1.200 kr/klst Uppsafnað orlof: -10,17% af heildarlaunum skv. afhentum launas. kr.100.256,- -10,17% vegna nóvember 2003, reiknað af 207.600 kr.21.113,- -10,17% af umkröfðum launum v. des. 2002-feb. 2004 kr.67.162,- Heildarkrafa kr. 848.927,- Stefnandi hafi verið félagsmaður í Eflingu-stéttarfélagi á því tímabili er krafa hans stofnaðist. Vísað er til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar um að laun beri að greiða í samræmi við umsamda launataxta skv. gildandi ráðningar- og/eða kjarasamningi. Vísist um réttindi hans aðallega til 1.,2., 3., 4. og 12. kafla kjarasamnings félagsins. Jafnframt sé vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. aðallega 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1.,7., og 8. gr. og laga nr. 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl. Byggt sé á því að stefndi hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við stefnanda með því að greiða ekki umsamnin laun og uppfylla aðrar samningsskyldur sínar. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum sé greiðsluskylda stefnda ótvíræð. Um sönnun sé jafnframt vísað til stjórnunarréttar stefnda og þess að hann er bókhaldsskyldur að lögum. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti styðji stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum númer nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. 2. Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að hann skuldi stefnanda ekki þessi laun, en hann hafi fengið greidd þau laun, sem hann eigi rétt á m.v. ráðningarkjör, enda hafi stefnandi verið við vinnu annarsstaðar í janúar og febrúar. Varakröfu sína um lækkun stefnukröfu er á því reist að stefndi eigi skuldajafnaðarkröfu á hendur stefnanda að fjárhæð 27.355 krónur vegna úttektar stefnanda á málningarvörum í nafni stefnda, þá eigi stefnandi að draga frá kröfum sínum laun, sem hann hafi fengið frá öðrum í desember 2003 og janúar og febrúar 2004. Þá sé orlofskröfu stefnanda mótmælt, þar sem orlofið hafi verið innifalið í tímakaupinu. Stefndi vísi til skuldbindingar samninga og kröfuréttar og kjarasamninga varðandi uppsagnarfrest, þá sé vísað til trúnaðarskyldu launþega gagnvart vinnuveitanda. IV. Sönnunarfærsla. Stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda gáfu aðilaskýrslu í málinu og vitni báru Stefanía Ósk Þórisdóttir, [...], eiginkona stefnanda og Anton Tjörvi Jónsson, [...]. V. Niðurstöður. Í málinu er ágreiningslaust að stefnandi réðst í vinnu hjá stefnda 11. júní 2003 og hann skyldi fá greitt í jafnaðarkaup 1.200 krónur á tímann og var kaupið greitt mánaðarlega miðað við vinnuframlag stefnanda, en hann færði í dagbók um fjölda þeirra unnar vinnustunda fyrir stefnda og skilaði svo til hans tímaskýrslu þar um, og voru launaútreikningar stefnda byggðir á þessum tímaskýrslum. Ágreiningslaust er og að stefnandi átti rétt á eins mánaða uppsagnarfresti, en hins vegar voru launakjör stefnanda ekki þannig að hann væri á föstu mánaðarkaupi. Uppsagnarbréfið til stefnanda er dagsett 31. október 2003 og í yfirlýsingu og vitnisburði Antons Tjörva Jónssonar, sem og vann hjá stefnda á sama tíma og stefnandi og er málarasveinn kemur fram, að vitnið hafi fengið uppsagnarbréf á sama tíma og stefnandi og þeim hafi verið afhent bréfin samtímis og ástæða uppsagnarinnar hafi verið fyrirsjáanlegur verkefnaskortur hjá stefnda og hafði vitnið hætt vinnu í framhaldi af því eða í lok uppsagnarfrests. Af hálfu stefnda er því og haldið fram að stefnandi hafi þurft uppsagnarbréfið vegna umsóknar um atvinnuleysisbætur og notað það þannig, er því ekki sérstaklega mótmælt. Í málinu verður því við það miðað að stefnandi hafi fengið uppsagnarbréf eins og haldið er fram af stefnda og hann hafi í nóvember unnið í uppsagnarfrestinum. Hann hafi hinsvegar sóst eftir vinnu áfram hjá stefnda í desember eftir því sem verkefni féllu til, en jafnframt unnið hjá öðrum svo sem við húseignina Sólsali 4 í Kópavogi. Samkvæmt tímafærslum stefnanda í dagbók sína í desember 2003 hefur hann haft nokkuð stöðuga vinnu hjá stefnda fram að 13. desember, en eftir það minnkar vinnan og 18. desember er skráður síðasti dagur í vinnu hjá stefnda og að hann hafði ekki verið boðaður til starfa eftir það. Þá kemur til álita hvernig meta skuli störf stefnanda fyrir stefnda í desember og hvort þau hafi áhrif á fyrri uppsögn. Af því sem rakið hefur verið er ljóst að uppsögnin var vegna fyrirsjáanlegs verkefnisskorts og er fram komið hjá stefnda, að tvö hús sem átti að sandsparsla hafi dottið út og hjá stefnanda kom fram að síðasti vinnudagur hans hjá stefnda var 18. desember 2003 og þá átti að sjá til hvort frekari vinnu yrði að hafa í janúar og þá talað um að allt færi í gagn eftir jól. Það er ekki staðfest af stefnda að stefnanda hafi verið lofuð vinna eftir jól, heldur virðist hafa orðið trúnaðarbrestur milli þeirra. Það er því mat réttarins að ekki sé um að ræða svo fast og langvarandi vinnusamband eftir uppsögnina að stefnandi hafi átt rétt á eins mánaðar uppsagnarfresti, en með vísun til liðar 12.1.2 framangreinds kjarasamnings er fallist á að stefnandi hafi átti rétt á viku uppsagnarfresti frá 18. desember 2003, er honum var tilkynnt að ekki væri frekari vinnu að hafa í bili. Stefndi hefur ekki lagt fram neina tímaskráningu um vinnu stefnanda og verður að styðjast við tímaskráningu stefnanda á dskj. nr. 8, sem stefndi hefur ekki mótmælt um þar skráða vinnustaði nema Sólarsali 4, og óumdeilt að þar er stefnandi ekki að vinna á vegum stefnda og eru þeir tímar sem tilgreindir eru við þann stað ekki taldir með. Samkvæmt því hefur stefnandi unnið 112 klukkustundir hjá stefnda og verið veikur 15. og 16. desember og á hann rétt á 16 tíma launum vegna þess. Þá þykir hann eiga rétt á greiðslu 40 vinnustunda í uppsagnarfresti eða allt 168 klst. á 1200 krónur og því eru vangreidd laun til stefnanda sem stefnda ber að greiða 201.600 krónur. Frá því dregst gagnkrafa stefnda sem samsvarar lækkun stefnanda á kröfu sinni um 24.115 krónur og gerir það þá 177. 485 krónur. Fallist er á að stefndi greiði dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þessari fjárhæð frá 1. janúar 2004 til greiðsludags. Þegar litið er til framburðar stefnda og vitnisins Antons Tjörva þykir ljóst, að umsamin laun stefnanda voru 1200 krónur á tímann að meðtöldu orlofi. Þegar litið er til umsamdra vinnutaxta samkvæmt framangreindum kjarasamningi eru 1200 krónur á tímann svo langt yfir jafnaðarkaup, sem ákveðið yrði samkvæmt þeim, að 10,17% rúmast vel inn í 1200 króna tímakaupinu, án þess talið verði að þá sé það komið niður fyrir umsamin lágmarkslaun, enda hefði stefnanda borið að mótmæla því þegar í stað, ef hann taldi launaseðlana ranga að þessu leyti, en þar voru tilgreindar sérstaklega greiðslur lífeyrisiðgjalda og félagsgjalda og þá hefði átt að geta 10,17% orlofsframlags sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987, en í 3. mgr. sömu greinar er tekið fram að heimilt sé að greiða mánaðarkaupsmönnum orlofslaun á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur, svo sem virðist hafa verið gert hjá stefnda, og því ekki verið ástæða til að reikna út og tilgreina orlofslaunin sem frádráttarlið. Krafa stefnanda vegna ógreiddra orlofslauna er því ekki tekin til greina. Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 116.143 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Stefndi, þrb. Málunar og spörslunar ehf., greiði stefnanda, Friðleifi Kristjánssyni 177.485 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2004 til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 116.143 krónur í málskostnað, virðisaukaskattur af málflutningsþóknun er innifalinn. |
Mál nr. 416/2012 | Skattur Virðisaukaskattur Stjórnarskrá Jafnræðisregla Meðalhóf Málsástæða Stjórnvaldsfyrirmæli | LB ehf. starfaði á sviði mannvirkjagerðar og sérhæfði sig í framleiðslu forsteyptra eininga úr steinsteypu. Í málinu var deilt um rétt félagsins til endurgreiðslu virðisaukaskatts á verksmiðjuframleiddum húseiningum á grundvelli þágildandi 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sem og reglugerðar nr. 449/1990. Með bréfi 2. október 2007 vakti LB ehf. athygli skattyfirvalda á því að það hefði krafið ríkissjóð um of háar endurgreiðslur. Óskaði félagið í sama bréfi eftir því að því yrði endurgreiddur virðisaukaskattur vegna tiltekinna tímabila. Í kjölfarið endurskoðuðu skattyfirvöld þær endurgreiðslur sem félagið hafði notið. Með ákvörðun skattstjóra V var kveðið á um að áður endurgreiddur virðisaukaskattur skyldi greiddur í ríkissjóð að frádreginni þeirri fjárhæð er félagið átti rétt til endurgreiðslu á. Ríkisskattstjóri staðfesti ákvörðun skattstjóra og síðar staðfesti fjármálaráðherra úrskurð ríkisskattstjóra. LB ehf. hélt því fram að ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 hafi falið í sér brot gegn 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr. hennar. Í dómi Hæstaréttar segir að í dómaframkvæmd hafi löggjafinn verið talinn hafa víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða skattskyldu og verði að líta svo á að það svigrúm nái einnig til þess að kveða á um undanþágur frá skattskyldu. Féllst Hæstiréttur því ekki á sjónarmið LB ehf. og staðfesti niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu íslenska ríkisins. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2012. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 38.928.856 krónur, en til vara 31.140.465 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júlí 2008 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Þá krefst stefndi þess að vísað verði frá Hæstarétti varakröfu áfrýjanda. I Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var Loftorka Borgarnesi ehf. alhliða verktakafyrirtæki sem starfaði á sviði mannvirkjagerðar og sérhæfði sig í framleiðslu forsteyptra eininga úr steinsteypu. Á árunum 2002 til 2006 og á uppgjörstímabilinu janúar og febrúar 2007 fékk félagið endurgreiðslur úr ríkissjóði á virðisaukaskatti sem nam 89.460.930 krónum, vegna verksmiðjuframleiddra húseininga. Félagið vakti athygli skattyfirvalda á því, með bréfi 2. október 2007 að það hefði krafið ríkissjóð um of háar endurgreiðslur virðisaukaskatts á grundvelli reglugerðar nr. 449/1990 um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Í sama bréfi óskaði félagið eftir að því yrði endurgreiddur virðisaukaskattur úr ríkissjóði vegna tímabilanna mars og apríl, maí og júní og júlí og ágúst á árinu 2007. Í kjölfarið endurskoðuðu skattyfirvöld þær endurgreiðslur á virðisaukaskatti sem félagið hafði notið. Með ákvörðun skattstjóra Vesturlandsumdæmis 10. júní 2008 var kveðið á um að áður endurgreiddur virðisaukaskattur vegna framleiðslu og sölu félagsins á verksmiðjuframleiddum húseiningum að fjárhæð 89.460.930 krónur skyldi greiddur í ríkissjóð, að frádregnum 485.427 krónum, sem félagið ætti rétt til endurgreiðslu á. Var því félaginu gert að endurgreiða innheimtumanni ríkissjóðs mismuninn, 88.975.503 krónur. Félagið greiddi innheimtumanni ríkissjóðs 45.000.000 krónur með fyrirvara inn á kröfu hans 4. júlí 2008. Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð 31. desember 2008, þar sem ákvörðun skattstjóra var staðfest og með úrskurði fjármálaráðherra 15. júní 2009 var úrskurður ríkisskattstjóra staðfestur. Niðurstaða ráðherra var reist á því að framleiðsla og sala félagsins á steyptum einingum hafi ekki uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 449/1990. Ágreiningur máls þessa lýtur að rétti áfrýjanda til endurgreiðslu virðisaukaskatts á verksmiðjuframleiddum húseiningum, sem framleiddar voru á áðurgreindu tímabili, á grundvelli 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sem og reglugerðar nr. 449/1990. II Fyrir Hæstarétti teflir áfrýjandi fram málsástæðum sem hann byggði ekki á við meðferð málsins í héraði og hefur hann þeim til stuðnings lagt fyrir réttinn mikinn fjölda nýrra gagna. Heldur hann því nú meðal annars fram ,,að hús þau sem [Loftorka Borgarnesi ehf.] afhenti voru í því ástandi að vera a.m.k. þannig að jafna hafi mátt til þess að vera fokheld“. Einnig byggir hann á því að félagið hafi afhent uppsett hús og þannig uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 449/1990 um endurgreiðslu á 3,75% virðisaukaskatti, án tillits til þess hvort húsin væru fokheld. Styðst varakrafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti við þessar nýju málsástæður og gögn. Svo sem fyrr sagði komu nefndar málsástæður ekki fram við meðferð málsins í héraði þó að sama tilefni hafi þá verið til að byggja á þeim og nú, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af sömu ástæðu eru ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 163. gr. sömu laga fyrir því að hafa þessar málsástæður uppi fyrir Hæstarétti. Koma þær og varakrafa áfrýjanda því ekki til skoðunar við úrlausn málsins. III Í 42. gr. laga nr. 50/1988 var kveðið á um endurgreiðslu virðisaukaskatts og skilyrði endurgreiðslu. Á þeim tíma er Loftorka ehf. Borgarnesi sótti um og fékk endurgreiðslu virðisaukaskatts, frá 2002 til 2006 og á uppgjörstímabilinu janúar og febrúar 2007, var ákvæði um endurgreiðslu virðisaukaskatts til handa byggjendum íbúðarhúsnæðis í 2. mgr. 42 gr. laganna, sbr. a. lið 13. gr. laga nr. 119/1989, 1. gr. laga nr. 86/1996 og 9. gr. laga nr. 149/1996, sbr. og 6. gr. laga nr. 105/2000. Í 2. mgr. 42. gr. sagði að endurgreiða skyldi byggjendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hefðu greitt af vinnu manna á byggingarstað. Skyldi endurgreiðslan gerð á grundvelli framlagðra reikninga, eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Jafnframt skyldi endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hefðu greitt af vinnu manna við endurbætur þess. Þá var svo fyrir mælt að fjármálaráðherra setti með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna. Í lokamálslið 2. mgr. 42. gr. sagði eftir að honum hafði verið breytt með a. lið 13. gr. laga nr. 119/1989: ,,Á sama hátt skal í reglugerð kveðið á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum.“ Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 119/1989 sagði um síðastgreint ákvæði að ráðherra gæti með reglugerð á grundvelli þess ákveðið að endurgreiðslurnar tækju til verksmiðjuframleidds íbúðarhúsnæðis, þannig að endurgreiddur yrði virðisaukaskattur vegna þeirrar verksmiðjuvinnu er unnin hefði verið á byggingarstað við smíði húss á hefðbundinn hátt. Í III. kafla reglugerðar nr. 449/1990 var fjallað um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu vegna sölu verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa og í 10. gr. hennar kveðið á um stofn endurgreiðslu, miðað við byggingarstig verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa. Þar var tilgreint að íbúðarhús þyrfti að minnsta kosti að teljast fokhelt til að framleiðandi þess gæti sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti og sérstaklega áréttað að virðisaukaskattur væri ekki endurgreiddur af söluverði húshluta eða húsa sem afhent væru óuppsett. Reglugerð þessi var eins og áður er greint sett með stoð í lögum nr. 50/1988 og var tilgangur með setningu hennar sá að kveða á um framkvæmd endurgreiðslu virðisaukaskatts af íbúðarhúsnæði í samræmi við þágildandi ákvæði 2. mgr. 42. gr. laganna. Þar var það gert að skilyrði að um verksmiðjuframleidd íbúðarhús yrði að vera að ræða til þess að unnt væri að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts af öðru en vinnu manna á byggingarstað. Vegna þessa áskilnaðar var heimilt að afmarka frekar í reglugerðinni en gert var í umræddu lagaákvæði hvað teldust vera íbúðarhús í merkingu þess, meðal annars til aðgreiningar frá verksmiðjuframleiddum húseiningum. Með skírskotun til orðalags ákvæðisins og skýringar á því í lögskýringargögnum verður ekki fallist á að sú skilgreining á verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum sem kveðið var á um í 10. gr. reglugerðarinnar hafi takmarkað þann rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem kveðið var á um í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988. Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 hafi falið í sér brot gegn 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr. hennar. Í 1. gr. laganna er kveðið á um að greiða skuli í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar sé kveðið á um í þeim. Með 42. gr. laganna um endurgreiðslu virðisaukaskatts er mælt fyrir um undanþágur frá þeirri meginreglu. Af 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar leiðir að skattamálum skuli skipað með lögum. Í dómaframkvæmd hefur löggjafinn verið talinn hafa víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða skattskyldu og verður að líta svo á, að það svigrúm nái einnig til þess að kveða á um undanþágur frá skattskyldu, eins og þá sem um er deilt í þessu máli. Með hliðsjón af framangreindu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á með áfrýjanda að ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, eins og það hljóðaði á þeim tíma sem mál þetta tekur til, hafi verið í andstöðu við framangreindar stjórnarskrárgreinar, jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar eða meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest. Samkvæmt þessum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, þrotabú Loftorku Borgarnesi ehf., skal greiða stefnda, íslenska ríkinu, 450.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2012. I Mál þetta, sem dómtekið var að loknum endurflutningi 20. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Loftorku Borgarnesi ehf., Borgartúni 26, Reykjavík gegn íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu birtri 28. apríl 2011. Af hálfu stefnda er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda. II Málavextir Með úrskurði fjármálaráðherra, dags. 15. júní 2009, staðfesti fjármálaráðherra úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 31. desember 2008, og úrskurð skattstjóra Vesturlandsumdæmis, dags. 10. júní 2008, þar sem kveðið var á um að áður endurgreiddur virðisaukaskattur stefnanda, samtals að fjárhæð 88.975.503 kr. vegna framleiðslu og sölu þess á verksmiðjuframleiddum húseiningum á árunum 2002-2006 og uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2007, skyldi greiddur í ríkissjóð. III Málsástæður stefnanda Röng lagatúlkun Málsástæður stefnda Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ákvörðun skattstjóra og úrskurður ríkisskattstjóra í máli stefnanda séu í einu og öllu í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Á þeim séu engir form- eða efnisannmarkar sem leitt geti til þess að þeir verði felldir úr gildi í heild sinni eða að hluta. Sama gildi um úrskurð Fjármálaráðuneytis í máli stefnanda þar sem staðfestur sé úrskurður ríkisskattstjóra. Stefndi vísar til þess að í XIII. kafla laga um virðisaukaskatt sé að finna ýmis sérákvæði um sérstakar endurgreiðslur virðisaukaskatts og séu þær allt annars eðlis en endurgreiðslur þær sem skattaðili geti fengið ef innskattur hans væri hærri en útskattur á tilteknu tímabili. Ágreiningur aðila snúi því hvorki að skattákvörðun né uppgjöri virðisaukaskatts samkvæmt I., II., VII. og IX. kafla um virðisaukaskatt, heldur greini aðila á um það hvort stefnandi hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 42. gr. laganna og 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 449/1990 til að fá endurgreiddan hluta af þeim virðisaukaskatti sem hann hafði þegar skilað í ríkisjóð af sölu verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa. Stefndi bendir á að í virðisaukaskattslögunum sé ekki kveðið á um hver skuli annast framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt XIII. kafla þeirra. Í 1. mgr. 42. gr. laganna sé ráðherra falið að setja reglugerð þar sem kveðið sé á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum. Með reglugerð nr. 449/1990 hafi ráðherra falið skattstjóra að annast um framkvæmdina. Sú ráðstöfun ráðherra feli ekki sjálfkrafa í sér að kæruleiðir skattalaga gildi um afgreiðslur mála sem kunni að rísa varðandi sérstaka endurgreiðslu á virðisaukaskatti skv. XIII. kafla laganna. Afgreiðsla skattstjóra á beiðnum um endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt heimild í 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt og reglugerð nr. 449/1990 feli ekki í sér skattákvörðun í skilningi virðisaukaskattslaganna. Þá hafi yfirskattanefnd í úrskurði sínum nr. 267/1992 talið að ágreiningur um endurgreiðslu á grundvelli XIII. kafla laganna falli utan valdsviðs nefndarinnar, þar sem ákvörðun skattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. þeim kafla taki ekki til ákvörðunar skatta og gjalda. Telur stefndi að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda þar sem honum beri hvorki réttur né skylda til að inna greiðslu af hendi til stefnanda á þeim grundvelli sem málsóknin byggi á, verði málinu ekki vísað sjálfkrafa frá dómi (ex officio). Stefndi bendir á að endurgreiðsla á virðisaukaskatti samkvæmt XIII. kafla virðisaukaskattslaganna sé ívilnandi stjórnvaldsákvörðun, en feli hvorki í sér álagningu, né ákvörðun skatts. Þegar af þeirri ástæðu telur stefndi að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda. Af sömu ástæðu mótmælir stefndi því sem röngu, órökstuddu og ósönnuðu að ákvörðun skattstjóra um að stefnanda bæri að endurgreiða ofendurgreiddan virðisaukaskatt feli í sér brot gegn stjórnarskrá og er málsástæðum sem stefnandi byggir á þeim grundvelli mótmælt sem röngum. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti á eyðublaði RSK 10.16, „Beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sölu á verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum“. Á eyðublaðinu sé vísað til skýringa á bakhlið þess. Ákvörðun skattstjóra, úrskurð ríkisskattstjóra og ráðuneytis séu réttir og hafi stefnanda borið að endurgreiða 88.975.503 kr. Samkvæmt ákvæði 6. málsl. 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, eins og það hafi verið er skattstjóri hafi tekið ákvörðun um endurgreiðsluna, hafi skýrlega verið kveðið á um að virðisaukaskattur fengist einungis endurgreiddur af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum. Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 449/1990 sé sérstaklega tekið fram að virðisaukaskattur sé ekki endurgreiddur af söluverði húshluta eða húsa sem afhent séu óuppsett. Sala og afhending stefnanda á verksmiðjuframleiddum húseiningum, árin 2002-2006 og í janúar-febrúar 2007 hafi því ekki falið í sér afhendingu íbúðarhúsnæðis í skilningi 1. mgr. 42. gr. Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda sem rangri að breyting á 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt með lögum nr. 10/2009 feli í sér staðfestingu á því að fyrri lög hafi verið óljós um það hvort jafnræði hafi verið með byggingaraðferðum. Tilætlun löggjafans hafi einungis verið að víkka gildissvið ákvæðisins. Stefndi bendir á að ákvörðun skattstjóra um að stefnanda bæri að endurgreiða ofendurgreiddan virðisaukaskatt byggist á orðskýringu réttarheimilda. Löggjafinn hafi ákveðið að endurgreiðsla skyldi takmarkast við íbúðarhús og ráðherra hafi ákveðið að heimildin skyldi auk fullbúinna íbúðarhúsa einnig taka til íbúðarhúsa sem teldust ekki fullbúin, en skyldu að lágmarki vera fokheld til að endurgreiðsla ákveðins hluta virðisaukaskatts mætti fara fram. Ákvæði 10. gr. reglugerðarinnar séu því rýmri en orðlag lagaákvæðisins, þar sem í reglugerðinni séu einnig tilgreind íbúðarhús á mismunandi byggingarstigi. Stefndi mótmælir því sem röngu, órökstuddu og ósönnuðu að unnt sé að túlka orð löggjafans í athugasemdum við frumvarp það sem hafi orðið að lögum nr. 10/2009 um breytingu á virðisaukaskattslögum þannig að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár, sbr. 40. og 77. gr. hennar hafi verið virt að vettugi. Af athugasemdum laga nr. 119/1989 um breytingu á 2. mgr. 42. gr virðisaukaskattslaganna, megi þvert á móti sjá að í upphafi var verið að tryggja jafnræði þeirra aðila sem framleitt hafi íbúðarhús í verksmiðju og þeirra sem byggðu þau á byggingarstað. Þá mótmælir hann þeirri fullyrðingu stefnanda að um íþyngjandi kvöð sé að ræða, heldur sé um að ræða endurgreiðsluheimild sem sé ívilnandi og geti ekki talist til íþyngjandi kvaðar í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt. Stefndi vísar til þess að með ákvæðum a-liðar 13. gr. laga nr. 119/1989 hafi verið kveðið á um þá breytingu að á eftir 41. gr. laganna kæmi nýr kafli, XIII. kafli um endurgreiðslu virðisaukaskatts, með tveimur nýjum greinum, 42. og 43. gr. Með 2. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, hafi verið kveðið á um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem byggjendur íbúðarhúsnæðis hefðu greitt af vinnu manna á byggingarstað og skyldi endurgreiðslan gerð á grundvelli framlagðra reikninga, eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Í lokamálslið málsgreinarinnar hafi verið kveðið á um að fjármálaráðherra setti með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna. Síðan segir: „Á sama hátt skal í reglugerð kveðið á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum.“ (Nú 1. mgr. 42. gr., sbr. lög nr. 175/2006). Með reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, hafi verið sett ákvæði um framkvæmd endurgreiðslna á grundvelli 42. gr. laga nr. 50/1988. Eins og heiti reglugerðarinnar beri með sér er eingöngu endurgreitt vegna vinnu manna, þ.e. virðisaukaskatturinn fæst eingöngu endurgreiddur af þjónustuhlutanum. Hin reiknuðu hlutföll skv. III. kafla reglugerðarinnar taka þannig eingöngu mið af þeirri vinnu sem fram fari við framleiðslu eininga og eftir atvikum uppsetningu þeirra. Hlutföllin taka þannig mið af því hve langt á veg hið verksmiðjuframleidda íbúðarhús sé komið þegar kaupandi fær það afhent, þ.e. hvert sé byggingarstig hússins. Þriðji kafli reglugerðarinnar fjalli um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu vegna sölu verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa. Í 6. málsl. 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt sé skýrt tekið fram að með sama hætti og í 5. málsl. ákvæðisins skuli í reglugerð kveða á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum. Í 9. gr. reglugerðarinnar séu tilgreindir þeir aðilar sem eigi rétt til endurgreiðslu og í 10. gr. sé kveðið á um endurgreiðslustofn að teknu tilliti til byggingarstigs verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa og þar tekið fram að íbúðarhús þurfi að minnsta kosti að teljast fokhelt til að framleiðandi þess geti sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Þá sé sérstaklega áréttað að virðisaukaskattur sé ekki endurgreiddur af söluverði húshluta eða húsa sem afhent séu óuppsett og sé sá fyrirvari í fullu samræmi við almennan skilningi á hugtakinu íbúðarhúsnæði í 6. málsl. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988. Mótmælir stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að með reglugerðinni hafi endurgreiðsluheimildir skattstjóra verið túlkaðar mun þrengra en löggjafinn hafi ætlast til. Þá mótmælir stefndi því einnig að reglugerð nr. 449/1990 hafi ekki lagastoð Stefndi telur að stefnandi hafi höfðað mál þetta á hendur sér á röngum grundvelli, þar sem endurgreiðslukrafa stefnanda sé hvorki gjald né skattur í skilningi laga nr. 29/1995. Af þeirri ástæðu sé því mótmælt sem röngu að ákvæði 6. málsl. 1. mgr. 42. gr. feli í sér brot á ákvæðum 40., 77. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í fyrsta lagi sé ekki um álagningu skatts að ræða heldur innheimtu á kröfu sem stefnandi hafi að hluta til viðurkennt sjálfur að hafa ekki átt rétt til og fengið ofendurgreidda. Í öðru lagi geri löggjafinn skýran greinarmun á orðunum „íbúðarhúsnæði” og „húseiningum“. Ljóst sé að á þeim tíma sem um ræðir í máli þessu hafi framleiðendur verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa og verksmiðjuframleiddra húseininga ekki verið í sambærilegri stöðu líkt og stefnandi haldi fram. Þá er því mótmælt sem röngu að með lögum nr. 10/2009 hafi löggjafinn í raun viðurkennt að fyrri löggjöf hafi falið í sér brot á jafnrétti. Stefndi mótmælir sem rangri og ósannaðri þeirri málsástæðu stefnanda að 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og reglugerðar nr. 499/1990 hafi skekkt samkeppnisstöðu stefnanda á þeim markaði sem hann starfaði á. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda mótmælir hann framsetningu og útreikningi stefnukröfu sem rangri og ósannaðri. Fallist dómurinn á málsástæður stefnanda fyrir því að hann eigi rétt til endurgreiðslu þeirra 45 milljóna króna sem hann hafi endurgreitt stefnda þann 4. júlí 2008, telur stefndi að lækka beri kröfu stefnanda um 34.689.911 kr., sem sé sú fjárhæð sem hann hafi sjálfur viðurkennt að hann eigi að endurgreiða stefnda. Þá mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnanda sem rangri. Lög nr. 29/1995 fjalla samkvæmt efni sínu um endurgreiðslu stjórnvalda á sköttum og gjöldum sem þau hafa innheimt hjá skattaðila. Krafa stefnanda er hvorki skattur né gjöld. Þá hafi stefnandi sjálfur í stefnu ráðstafað sakarefninu þannig að upphafsdagur dráttarvaxta geti ekki verið fyrr en 4. nóvember 2010, þegar stefnandi hafi sannanlega krafist þeirra. IV Niðurstaða Í máli þessu deila aðilar um rétt stefnanda til endurgreiðslu virðisaukaskatts á verksmiðjuframleiddum húseiningum á grundvelli 42. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Með úrskurði fjármálaráðherra, dags. 15. júní 2009, staðfesti fjármálaráðherra að úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 31. desember 2008, um ákvörðun skattstjóra Vesturlandsumdæmis, dags. 10. júní 2008, skyldi standa óhögguð. Í ákvörðun skattstjórans var kveðið á um að áður endurgreiddur virðisaukaskattur stefnanda, samtals að fjárhæð 88.975.503 kr., vegna framleiðslu og sölu stefnanda á verksmiðjuframleiddum húseiningum á árunum 2002-2006 og uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2007, skyldi greiddur í ríkissjóð. Stefnandi greiddi hluta þeirrar fjárhæðar með fyrirvara um réttmæti greiðslunnar. Krefst hann nú endurgreiðslu þeirrar greiðslu auk endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna óafgreiddrar endurgreiðslubeiðna hans til skattstjóra hluta ársins 2007. Stefnandi teflir fram þremur málsástæðum kröfum sínum til stuðnings. Í fyrsta lagi byggir hann á því að túlkun ríkisskattstjóra á ákvæðum 42. gr. laga um virðisaukaskatt hafi verið röng og leitt til þess að byggingaraðilum sem starfi á sama markaði hafi verið mismunað. Við mat á þessu er til þess að líta að ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt var svohljóðandi er stefnandi fékk umræddar greiðslur: Endurgreiða skal byggjendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Endurgreiðslan skal gerð á grundvelli framlagðra reikninga, eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti, og vera verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu. Jafnframt skal endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur þess, enda sé heildarkostnaður a.m.k. 7% af fasteignamati húseignarinnar í ársbyrjun. Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna. Á sama hátt skal í reglugerð kveðið á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum. Með reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, var kveðið á um framkvæmd endurgreiðslna á grundvelli framangreinds ákvæðis. Í 9. gr. reglugerðarinnar eru tilgreindir þeir aðilar sem eiga rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu vegna sölu verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa og í 10. gr. er kveðið á um endurgreiðslustofn að teknu tilliti til byggingarstigs verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa og þar tekið fram að íbúðarhús þurfi að minnsta kosti að teljast fokhelt til að framleiðandi þess geti sótt um endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Þá er sérstaklega áréttað að virðisaukaskattur sé ekki endurgreiddur af söluverði húshluta eða húsa sem afhent séu óuppsett. Dómurinn getur ekki fallist á að túlkun skattyfirvalda á ákvæði 42. gr. laga um virðisaukaskatt sé röng. Við túlkun á ákvæðinu verður að horfa til þess að ráðherra var falið með reglugerð að kveða á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum. Ákvæði reglugerðarinnar um heimildir til endurgreiðslu eru skýr og verður ekki séð að skattyfirvöld hafi túlkað þau þrengra en efni standa til. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að reglugerð nr. 449/1990 hafi skort lagastoð að því marki sem orðalag hennar gangi lengra en lög heimiluðu varðandi jafnræði byggingaraðila. Umrædd reglugerð er sett með heimild í ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt og er því þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að fallast á að hana skorti lagastoð. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, hafi falið í sér stjórnarskrárbrot og hafi þar með ekki verið nothæft með þeim hætti sem ríkisskattstjóri hafi ákveðið. Löggjafinn hafi metið það svo að framleiðendur verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa annars vegar og verksmiðjuframleiddra húseininga hins vegar væru í sambærilegri stöðu. Vísar stefndi til jafnræðisákvæðis 65. gr. stjórnarskrárinnar í þessu samhengi. Eins og fram hefur komið var með ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt mælt fyrir um endurgreiðslu af vinnu manna við íbúðarhúsnæði á byggingarstað. Var ráðherra ennfremur heimilt að kveða á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum. Löggjafinn gerði, á þeim tíma sem atvik máls áttu sér stað, þannig skýran greinarmun á orðunum „íbúðarhúsnæði” og „húseiningum” og á því hvort vinna færi fram á staðnum eða í verksmiðju. Til þess að hús teljist fullnægja því skilyrði að vera íbúðarhús verður það að vera fokhelt, þ.e. þak fullfrágengið að utan og húsinu þannig lokað fyrir veðri og vindum, en óumdeilt er að framleiðsla stefnanda á verksmiðjuframleiddum húseiningum fullnægði ekki því skilyrði. Voru framleiðendur verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa og verksmiðjuframleiddra húseininga því ekki í sambærilegri stöðu. Þótt löggjafinn hafi síðar, með vísan til breyttra byggingarhátta eins og um getur í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 10/2009, séð ástæðu til þess að víkka út gildissvið ákvæðis 1. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt, með því að kveða sérstaklega á um heimild til þess að endurgreiða virðisaukaskatt vegna verksmiðjuframleiddra húseininga felur það að mati dómsins ekki í sér staðfestingu á því að löggjöfin hafi áður mismunað húsbyggjendum á ómálefnalegum forsendum eftir byggingaraðferðum. Samkvæmt öllu framangreindu ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Kolbrún Sævarsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóminn. D Ó M S O R Ð Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, þrotabús Loftorku ehf.. Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 50/2014 | Kaupsamningur Verðbréfaviðskipti Ógilding Galli Riftun Skaðabætur | M höfðaði mál gegn H og krafðist aðallega riftunar á kaupum hans á stofnfjárbréfum í tilteknum sparisjóði af H, sem var formaður stjórnar sparisjóðsins þegar viðskiptin fóru fram. Til vara krafðist M greiðslu fjárhæðar sem nam kaupverðinu en að því frágengnu viðurkenningar á skaðabótaskyldu H. Í dómi Hæstaréttar kom fram að innherjaákvæði laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti hefðu ekki gilt um viðskiptin. Þá yrðu ekki dregnar svo víðtækar ályktanir af innri reglum sparisjóðsins að það leiddi til þess að hliðstæðar innherjareglur hefðu gilt. Ekki var talið að H hefði búið yfir óbirtum upplýsingum um sparisjóðinn sem máli skiptu. Þá varð ógildi viðskiptanna ekki reist á því að H hefði leynt því að hún væri seljandi stofnfjárbréfanna, enda var framkvæmdin í samræmi við afstöðu Fjármálaeftirlitsins til upplýsingagjafar innherja á tilboðsmarkaði fyrir slík bréf. Ekki var talið að ógilda bæri viðskiptin á þeim grundvelli að tiltekinna formreglna hefði ekki verið gætt, enda lægi fyrir að engin efnisleg álitamál hefðu verið uppi varðandi sölu H. Einnig var hafnað málsástæðum M er lutu að því að ógilda bæri viðskiptin á grundvelli 30., 33. eða 36. gr. laga nr. 3/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, reglum um brostnar forsendur og lögjöfnun frá ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélag. Loks gátu stofnfjárbréfin ekki talist gölluð í skilningi laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Með vísan til þessa var H sýknuð af kröfum M. | Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2014. Hann krefst þess aðallega að viðurkennd verði riftun 15. september 2009 á kaupum áfrýjanda 26. júlí 2007 á stofnfjárbréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis af stefndu að fjárhæð 5.000.005 krónur og að stefndu verði gert að endurgreiða sér þá fjárhæð með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 39/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júlí 2007 til 16. september 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi að stefnda verði dæmd til að greiða sér 5.000.005 krónur með vöxtum eins og greinir í aðalkröfu. Að því frágengnu krefst áfrýjandi að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu vegna sölu umræddra stofnfjárbréfa. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis gaf út fréttatilkynningu 17. júlí 2007 þar sem meðal annars var greint frá því að stjórn sparisjóðsins hafi samþykkt þann dag að undirbúa breytingu hans í hlutafélag og óska eftir skráningu þess í kauphöll. Ráðgjafafyrirtækið Capacent hafi metið markaðsvirði sparisjóðsins miðað við 31. mars 2007, en á grundvelli þess mats ættu 85% hlutafjár í félaginu að falla til stofnfjáreigenda í honum en 15% til sjálfseignarstofnunar, sbr. þágildandi 74. gr. og 76. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Ráðgert væri að markaði fyrir stofnfjárbréf í sparisjóðnum yrði lokað 7. ágúst 2007 og myndi stjórn hans ekki samþykkja framsal á þeim upp frá því, en eftir það yrði næst unnt að eiga viðskipti með eignarhluti í sparisjóðnum í formi hlutabréfa eftir skráningu hans í kauphöll. Væri stefnt að því að sú skráning fengist í september 2007. Stefnda var formaður stjórnar sparisjóðsins. Í umfjöllun fjölmiðla í kjölfar fréttatilkynningarinnar kom meðal annars fram að Capacent teldi að markaðsvirði sparisjóðsins væri um 60 milljarðar króna miðað við fyrrgreint tímamark, en skýrsla Capacent var ekki birt í heild sinni. Á fundi stofnfjáreigenda í sparisjóðnum 21. ágúst 2007 var samþykkt tillaga um staðfestingu á samrunaáætlun hans og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., en skráning hlutafélagsins í kauphöll mun hafa gengið eftir í framhaldi af því. Samkvæmt gögnum málsins voru mikil viðskipti með stofnfjárbréf í sparisjóðnum á tímabilinu frá því að fyrrnefnd fréttatilkynnig var gefin út þar til 7. ágúst 2007 er lokað var fyrir viðskipti með stofnfjárbréf. Áfrýjandi var meðal þeirra sem gerðust stofnfjáreigendur á þessu tímabili. Leitaði hann í því skyni 25. júlí 2007 til SPRON verðbréfa hf., sem hafði á hendi markað fyrir stofnfjárbréf í sparisjóðnum, en þau voru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Meðal gagna málsins er endurrit af hljóðrituðu símtali sem áfrýjandi átti við nafngreindan verðbréfamiðlara. Ekki bar á góma í því samtali hverjir mögulegir seljendur kynnu að vera. Óskaði áfrýjandi að gert yrði fyrir sig tilboð í stofnfjárbréf á genginu 5,05 og við það miðað að heildarkaupverð yrði 5.000.000 krónur. Á grundvelli þess tilboðs komust á kaup 26. sama mánaðar um 17,78244 stofnfjárhluti sem hver var að nafnverði 25.000 krónur, en það var framreiknað með stuðlinum 2,20509 og taldist þannig nafnverðið alls 980.297 krónur. Voru þessir hlutir keyptir á áðurnefndu gengi og var verð þeirra því 4.950.500 krónur, en við það bættist þóknun að fjárhæð 49.505 krónur. Stefnda bauð til sölu á þessum tíma á stofnfjárbréfamarkaðnum hluta af stofnfjáreign sinni í sparisjóðnum og raðaðist hluti af stofnfjárbréfum hennar á móti tilboði áfrýjanda. Áfrýjandi greiddi kaupverðið, 5.000.005 krónur, 30. júlí 2007 inn á bankareikning SPRON verðbréfa hf. Í samræmi við samþykktir sparisjóðsins voru eigendaskipti að stofnfjárbréfum í honum borin undir stjórn hans á fundi 9. ágúst 2007. Var lagður fyrir stjórn sparisjóðsins til samþykktar listi með yfir 350 viðskiptum með stofnfjárbréf og voru fyrrnefnd kaup áfrýjanda þar á meðal. Listinn samþykktur í einu lagi og vék stefnda ekki sæti við þá afgreiðslu. Fjármálaeftirlitið tók 21. mars 2009 yfir vald hluthafafundar í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., vék félagsstjórn frá störfum og skipaði félaginu skilanefnd í samræmi við 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og þeim hafði verið breytt með lögun nr. 125/2008. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði félaginu slitastjórn 23. júní 2009 samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt gögnum málsins óskaði áfrýjandi allt frá 9. mars 2009 ítrekað eftir því við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. að upplýst yrði hver hefði verið viðsemjandi hans í fyrrgreindum kaupum. Fékk hann loks svar við því frá slitastjórn 2. september 2009. Í framhaldi af því sendi áfrýjandi stefndu bréf 15. sama mánaðar, þar sem hann lýsti yfir riftun og krafðist endurgreiðslu á kaupverðinu, sem hann kvað vera 5.000.000 krónur, auk dráttarvaxta og kostnaðar og nam krafa hans samtals 8.552.498 krónum. Stefnda hafnaði kröfu áfrýjanda með bréfi 28. september 2009. Áfrýjandi lýsti kröfu að sömu fjárhæð við slit Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Ágreiningi vegna þeirrar kröfulýsingar var vísað til dómstóla og lauk honum með dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2012 í máli nr. 650/2012 þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu áfrýjanda við slit félagsins. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 14. júlí 2011. II Fyrir liggur að þegar viðskipti aðila með stofnfjárbréf í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fóru fram í lok júlímánaðar 2007 voru bréfin óskráð, og raunar ekki hægt að skrá þau á skipulegum verðbréfamarkaði þar sem takmarkanir giltu um framsal þeirra samkvæmt þágildandi 64. gr. laga nr. 161/2002. Enda þótt samþykkt hafi verið á fundi stjórnar sparisjóðsins 17. júlí 2007 að undirbúa breytingu hans í hlutfélag og skráningu þess á markaði var það ekki fyrr en eftir stjórnarfundinn 21. ágúst 2007 og samruna sparisjóðsins við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis hf. í kjölfar hans sem mögulegt var að óska eftir slíkri skráningu. Liggur enda fyrir í bréfi Fjármálaeftirlitsins 27. janúar 2010 að slík umsókn hafði ekki borist Kauphöll Íslands þegar viðskipti aðila áttu sér stað. Samkvæmt 56. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, tóku ákvæði IX. kafla laganna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja til viðskipta með verðbréf sem skráð voru eða óskað hafði verið eftir að skráð yrðu á skipulegum verðbréfamarkaði. Þar sem svo háttaði ekki til um stofnfjárbréf í sparisjóðnum giltu innherjaákvæði þessa kafla laganna ekki um viðskipti aðila, sbr. dóm Hæstaréttar 29. apríl 2010 í máli nr. 407/2009. Ekki verður heldur fallist á með áfrýjanda að svo víðtækar ályktanir verði dregnar af innri reglum, sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafði sett sér, að það leiði til þess að hliðstæðar innherjareglur hafi gilt um viðskiptin þótt þau hafi fallið utan gildissviðs IX. kafla þágildandi laga um verðbréfaviðskipti, en áfrýjandi hefur í þeim efnum einkum borið við 1. mgr. 10. greinar eftirlits- og starfsreglna sparisjóðsins frá 31. janúar 2007. Áfrýjandi hefur uppi margvíslegar málsástæður er lúta að því að ógilda beri samning aðila eða víkja honum til hliðar. Hann bendir í því sambandi á að fyrrnefnd skýrsla Capacent, sem stefndu hafi verið kunn sem stjórnarformanni, hafi ekki verið birt en þar hafi verið að finna upplýsingar er áhrif hafi getað haft á mat á virði stofnfjárbréfa í sparisjóðnum. Við lestur á umræddri skýrslu verður ekki séð að þar sé að finna neinar trúnaðarupplýsingar eða aðrar upplýsingar sem hér skipta máli. Það er hins vegar ljóst að gengi stofnfjárbréfa í sparisjóðnum á umræddum tíma, þar með talið gengið sem áfrýjandi miðaði tilboð sitt við, var ekki í neinu samræmi við verðmat Capacent og sýnist hátt gengi hafa ráðist af væntingum markaðarins vegna fyrirhugaðrar breytingar sparisjóðsins í hlutafélag og skráningu þess í kauphöll, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 407/2009. Þá hefur áfrýjandi bent á að tekjur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis af eiginlegri sparisjóðsstarfsemi hafi ekki staðið undir rekstargjöldum hans og að verulegur hluti tekna sparisjóðsins hafi stafað af fjárfestingum. Þetta sést glögglega af ársreikningum sparisjóðsins og árshlutareikningi hans fyrir fyrsta ársfjórðung 2007, sem allir höfðu verið birtir er viðskiptin áttu sér stað. Einu óbirtu upplýsingarnar er þetta varða voru í árshlutareikningi fyrir fyrri árshelming 2007, en þar voru þessi hlutföll mjög á sömu lund og verið hafði. Stefnda bjó því heldur ekki yfir óbirtum upplýsingum um þetta er máli skiptu. Áfrýjandi byggir einnig á að með því að skýra ekki frá því að hún væri seljandi bréfanna hafi stefnda leynt upplýsingum sem máli skiptu við kaupin, en áfrýjandi kveðst ekki myndu hafa keypt bréfin ef hann hefði vitað að stjórnarformaður sparisjóðsins mæti horfur svo að hún vildi selja stofnfjárbréf sín. Í þessu sambandi verður til þess að líta að á sínum tíma leitaði Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis álits Fjármáleftirlitsins á drögum að reglum um viðskipti á tilboðsmarkaði með stofnfjárhluti í sparisjóðnum. Fjármáleftirlitið svaraði erindinu með bréfi 30. júní 2004. Í hinum fyrirhuguðu reglum hafði verið gert ráð fyrir að upplýsingar um aðila sem væru á fruminnherjalista yrðu gerðar opinberar og við þá upplýsingagjöf tekið mið af 48. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Var það mat Fjármálaeftirlitsins að með slíkri upplýsingagjöf væri verið að líkja eftir reglum sem giltu um skráða fjármálagerninga og væri það líklegt til að valda ruglingshættu milli tilboðsmarkaðarins og kauphallar eða skipulegs tilboðsmarkaðar. Verður bréf Fjármálaeftirlitsins ekki skilið á annan veg en þann að ekki væri nóg með að óskylt væri að birta slíkar upplýsingar þegar óskráð verðbréf ættu í hlut heldur væri það beinlínis óæskilegt. Framkvæmd stefndu við að bjóða stofnfjárfréf sín til sölu á tilboðsmarkaðnum var því í samræmi við afstöðu Fjármálaeftirlitsins til upplýsingagjafar innherja á tilboðsmarkaði fyrir slík bréf og verður ógildi viðskiptanna ekki á því reist. Áfrýjandi hefur í máltilbúnaði sínum talið að stefnda hafi í ýmsum greinum farið á svig við innri reglur sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafði sett um starfsemi sína. Er áður vikið að einu atriði í þeim efnum varðandi gildssvið reglna um innherjaviðskipti. Hér verður tekin afstaða til tveggja annarra atriða. Annars vegar var stefndu óheimilt að eiga viðskipti með stofnfjárbréfin án fyrirfram skriflegrar heimildar regluvarðar, sbr. 7. grein eftirlits- og starfsreglna sparisjóðsins frá 31. janúar 2007. Verður að telja ósannað í ljósi skýrslu regluvarðar að hún hafi leitað slíkrar heimildar. Í því sambandi ber þó til þess að líta að regluvörður bar fyrir dómi að hann hafi talið að á þessum tíma hafi engar innherjaupplýsingar legið fyrir. Hafi hann komist að þeirri niðurstöðu í samráði við lögfræðing sparisjóðsins og tjáð þá afstöðu í tölvupósti til annars stjórnarmanns sem hugðist selja. Hins vegar liggur fyrir að stefndu bar samkvæmt 2. mgr. 22. gr. reglna sparisjóðsins um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra, sem tóku gildi 1. mars 2007, að víkja af fundi stjórnar þegar fjallað var um sölu hennar á stofnfjárbréfum, en það gerði hún ekki á fundinum 9. ágúst 2007 eins fyrr segir. Hér er þess þó að gæta að á þeim fundi var afgreiddur í einu lagi listi með yfir 350 viðskiptum með stofnfjárbréf og að ekki voru uppi álitamál varðandi samþykki stjórnar á þeim viðskiptum. Verður í ljósi framanritaðs ekki talið að áfrýjandi geti reist kröfu um ógildingu viðskiptanna á því að framangreindra formreglna hafi ekki verið gætt, en fyrir liggur að engin efnisleg álitamál voru uppi varðandi sölu stefndu. Einnig vísar áfrýjandi um kröfur sínar varðandi ógildingu viðskiptanna almennt til 30. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Að framan er vikið að ýmsum atriðum er lúta að ætlaðri vitneskju stefndu um stöðu sparisjóðsins og aðstöðumun aðila. Hefur áfrýjandi ekki fært fram önnur og frekari atriði sem leitt geta til þess að tilvitnaðar greinar geti átt við um ógildingu samnings aðila eða þess að honum verði vikið til hliðar. Þá eru haldlausar þær málsástæður áfrýjanda að ógilding viðskipanna verði reist á reglum um brostnar forsendur eða lögjöfnun frá nánar tilteknum ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Varðandi kröfu sína um riftun vísar áfrýjandi til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og tilgreinir sérstaklega í stefnu ákvæði 18. gr., 19. gr. og 1. mgr. 39. gr. laganna. Eins og að framan er rakið óskaði áfrýjandi eftir því 25. júlí 2007 að nafngreindur verðbréfamiðlari gerði fyrir sig tilboð í stofnfjárbréf á genginu 5,05 og urðu viðskipti aðila á grundvelli þess tilboðs. Samkvæmt gögnum málsins virðist umrætt gengi hafa verið í samræmi við viðskiptaverð á markaði með stofnfjárbréf á þessum tíma. Verð á stofnfjárbréfum í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sýnist, eins og að framan er rakið, í lok júlí og byrjun ágúst 2007 fyrst og fremst hafa ráðist af væntingum markaðarins um verðþróun í framtíðinni. Geta bréfin ekki talist gölluð í skilningi kaupalaga þótt mat á efnislegu raunvirði félagsins kunni að hafa verið annað og lægra, enda lágu opinberar upplýsingar um niðurstöðu slíks mats miðað við lok mars 2007 fyrir við kaupin. Það getur heldur ekki leitt til þess að verðbréf teljist gölluð að þróun á markaðsverði þeirra verði önnur og óhagstæðari en kaupandi vænti. Verðbréfaviðskipti eru í eðli sínu áhættusöm og slíka áhættu hljóta kaupendur þeirra að taka. Raunar verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að stofnfjárbréfin og hlutabréfin sem í þeirra stað komu hafi haldið verðgildi alllengi eftir kaupin. Áfrýjandi tilgreinir í stefnu sérstaklega ákvæði 18. gr. og 19. gr. laga nr. 50/2000 og telur að af þeim verði leitt að stofnfjárbréfin hafi verið haldin galla. Verður ráðið að með því sé af hans hálfu vísað til þess að seljandi hafi búið yfir óopinberum upplýsingum, er snertu verðmat á stofnfjárbréfunum, sem honum hafi borið að upplýsa kaupanda um og þar sem hann hafi ekki gert það teljist bréfin gölluð. Er í þessu efni af hálfu áfrýjanda vísað til sömu atriða og um var fjallað hér að framan varðandi málsástlæður hans fyrir ógildingu samnings aðila. Með vísan til þess sem þar sagði verður heldur ekki fallist á þessar málsástæður við mat á því hvort stofnfjárbréfin hafi verið haldin galla í skilningi laga nr. 50/2000. Kröfu áfrýjanda um að riftun hans 15. september 2009 á kaupum aðila verður því hafnað. Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Magnús Björn Brynjólfsson, greiði stefndu, Hildi Petersen, 900.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2013. Mál þetta sem dómtekið var þann 1. október sl. var höfðað 14. júlí 2011 af Magnúsi Birni Brynjólfssyni, Hafnarstræti 20 í Reykjavík gegn Hildi Petersen, Hörgshlíð 26 í Reykjavík til riftunar kaupa og endurgreiðslu kaupverðs. Dómkröfur stefnanda eru aðallega að viðurkennd verði riftun, dags. 15.9.2009 á kaupum hans á stofnfjárbréfum stefndu, er áttu sér stað þann 26.7.2007 að fjárhæð kr. 5.000.005 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og að stefndu verði gert að endurgreiða 5.000.005 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26.7.2007 til 16.9.2009; en þá með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að greiða skaðabætur að fjárhæð 5.000.005 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26.7.2007 til 16.9.2009; en þá með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafist að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu vegna sölu hennar á stofnfjárbréfum til stefnanda hinn 26.7.2007 að fjárhæð 5.000.005 krónur í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Stefnandi krefst málskostnaðar sér að skaðlausu auk virðisaukaskatts eftir ákvörðun dómsins. Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefnda þess að henni verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda að mati dómsins auk virðisaukaskatts. Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna Atvik máls þessa eru þau að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis sendi frá sér fréttatilkynningu 17. júlí 2007, þar sem greint var meðal annars frá því að stjórn sparisjóðsins hefði samþykkt þann dag að undirbúa breytingu hans í hlutafélag og óska eftir skráningu þess í kauphöll. Hafi ráðgjafarfyrirtækið Capacent metið markaðsvirði sparisjóðsins miðað við 31. mars 2007, en á grundvelli þess mats ættu 85% hlutafjár í hlutafélaginu að falla til stofnfjáreigenda í honum og 15% til sjálfseignarstofnunar, sbr. þágildandi 74. gr. og 76. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Ráðgert væri að markaði fyrir stofnfjárbréf í sparisjóðnum yrði lokað 7. ágúst 2007 og myndi stjórn hans ekki samþykkja framsal á þeim upp frá því, en eftir það yrði næst unnt að eiga viðskipti með eignarhluti í sparisjóðnum í formi hlutabréfa eftir skráningu hlutafélagsins í kauphöll. Væri stefnt að því að sú skráning fengist í september 2007. Stefnandi var meðal þeirra, sem gerðust stofnfjáreigendur á þessu tímabili. Í því skyni leitaði hann 25. júlí 2007 til SPRON verðbréfa hf., sem hafði á hendi markað fyrir stofnfjárbréf í sparisjóðnum, en þau voru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Samkvæmt endurriti af hljóðrituðu símtali, sem stefnandi átti þá við tiltekinn verðbréfamiðlara, óskaði sá fyrrnefndi eftir því að gert yrði fyrir sig tilboð í stofnfjárbréf á genginu 5,05 og miðað við að heildarkaupverð yrði 5.000.000 króna. Verðbréfamiðlarinn skýrði stefnanda í símtalinu frá því að kaupin væru háð því hvort þeir sem ættu bréf vildu selja og með kauptilboðinu væri stefnandi raunverulega að reyna að freista þeirra. Ódýrasta sölutilboðið þann dag væri á genginu 5,13 og það væri þá frá stofnfjáreiganda sem með því auglýsti að hann væri tilbúinn að selja á því verði. Hvorki var spurt um né það upplýst í símtalinu hver það væri sem væri seljandi stofnfjárhlutanna. Í símtalinu kom fram að gengið hefði hækkað mikið eftir að birt var fréttatilkynning um að SPRON væri á leið inn í Kauphöllina og markaðurinn hefði tekið við sér, of mikið fyrir minn smekk, hafði verðbréfamiðlarinn sagt. Á grundvelli tilboðs stefnanda komust á kaup 26. júlí 2007 á genginu 5,05 og greiddi stefnandi 30. júlí s.á. SPRON verðbréfum hf. kaupverð bréfanna sem var 4.950.500 krónur og 1% kaupþóknun, 49.505 krónur, samtals 5.000.005 krónur. Á stjórnarfundi í sparisjóðnum 9. ágúst 2007 voru kaup stefnanda á stofnfjárbréfunum samþykkt. Á fundinum kom fram að 5,4% stofnfjár í sparisjóðnum höfðu skipt um hendur á tímabilinu frá 24. júlí 2007 fram að lokun markaðar fyrir stofnfjárbréf 7. ágúst s.á. og hefði stofnfjáreigendum þá fjölgað um 200, þannig að heildarfjöldi þeirra væri orðinn rúmlega 1.700. Á fundi stofnfjáreigenda, sem stefnandi þá tilheyrði, í sparisjóðnum, 21. ágúst 2007, var samþykkt að breyta Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í hlutafélag og var félagið skráð í kauphöll í framhaldi af því. Stefnandi fékk hlutabréf í hlutafélaginu að nafnverði 198.883 krónur í stað stofnfjárbréfa sinna. Fjármálaeftirlitið tók 21. mars 2009 yfir vald hluthafafundar í félaginu, vék félagsstjórn frá störfum og skipaði því skilanefnd og Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði síðan slitastjórn 23. júní 2009. Stefnandi krafði skilanefnd og síðar slitastjórn um upplýsingar um það hver hefði átt þau stofnfjárbréf sem hann hafði keypt í júlí 2007. Stefnandi fékk þær upplýsingar 2. september 2009 að stefnda, sem þá hafði verið formaður stjórnar SPRON, hefði verið seljandi bréfanna. Stefnandi sendi stefndu riftunar- og kröfubréf 15. september 2009 þar sem lýst var yfir riftun á kaupunum vegna galla á grundvelli laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Í bréfinu segir stefnandi stórfellda galla vera á stofnfjárbréfunum þar sem stefnda hafi, sem stjórnarmaður í SPRON á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram, haft upplýsingar um verðmæti sparisjóðsins og þar með bréfanna sem stefnandi hafi ekki haft. Stefnda hafi, sem stjórnarmaður og innherji, misnotað aðstöðu sína og trúnaðarupplýsingar Capacent ráðgjafar frá því í maí 2007, sem engum öðrum hafi verið aðgengilegar, með grófum og stórfelldum hætti. Stefnda hafi hagnýtt sér upplýsingar með óheiðarlegum og saknæmum hætti henni til hagsbóta en stefnanda til tjóns. Í bréfinu var jafnframt vísað til samningalaga, nr. 7/1936, þar sem hugsanlega hafi verið um fjársvik að ræða. Stefnandi krafðist endurgreiðslu fimm milljóna króna með tæplega þriggja milljón króna dráttarvöxtum, auk innheimtuþóknunar og virðisaukaskatts, samtals 8.522.498 króna, innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Með bréfi lögmanns stefndu 28. september 2009 til stefnanda var kröfum hans um riftun og endurgreiðslu hafnað og sjónarmiðum hans mótmælt. Í bréfinu kemur fram að stefnda hafi ekki við sölu á stofnfjárbréfunum haft undir höndum neinar sértækar eða leynilegar upplýsingar eða gögn um verðmæti SPRON sem ekki hafi verið eða mátt vera öðrum kunn. Verðmat á sparisjóðnum hafi verið birt opinberlega 17. og 18. júlí 2007 og markaðsverð á bréfunum hafi tekið mið af almennum væntingum á þessum tíma. Ekki hafi verið vísað til neinna gagna um þá fullyrðingu að stefnda hafi beitt blekkingum við sölu hlutanna með því að leyna upplýsingum sem verulegu máli kynnu að skipta við mat á verðmæti sparisjóðsins. Sala stofnfjárhlutanna hafi að öllu leyti verið í samræmi við þær reglur sem um sölu slíkra hluta giltu. Ágreiningur máls þessa snýst um réttmæti riftunarkröfu stefnanda og kröfu hans um endurgreiðslu eða skaðabætur úr hendi stefndu vegna kaupa hans á stofnfjárbréfum hennar. Umrædd viðskipti aðila hafa áður komið til umfjöllunar dómstóla og einnig stjórnvalda á undangengum misserum að frumkvæði stefnanda. Upplýsingar um þau mál eru hluti af málatilbúnaði stefnanda og verður hér greint frá þeim. Stefnandi sendi slitastjórn SPRON hf., 16. september 2009, kröfulýsingu að sömu fjárhæð og hann krafði stefnanda um, með vísun til riftunar viðskiptanna, og lýsti henni sem almennri kröfu í búið. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var máli stefnanda til viðurkenningar á kröfunni vísað frá dómi en kom til meðferðar dómsins að nýju með dómi Hæstaréttar í máli nr. 315/2012. Með úrskurði héraðsdóms 28. september 2012, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 650/2012 14. nóvember 2012 var því hafnað að viðurkenna kröfuna við slitameðferð SPRON hf. Þar kom fram að orsök tjóns stefnanda verði ekki rakin til meintrar ólögmætrar eða saknæmrar háttsemi af hálfu stjórnar, stjórnarformanns eða starfsmanna SPRON eða SPRON verðbréfa hf. og sé ekki sennileg afleiðing af þeirri háttsemi. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að regluverði í þjónustu SPRON hefði hvorki verið tilkynnt um viðskipti stjórnarformanns Sparisjóðsins við stefnanda né verið af öðrum sökum kunnugt um þau. Ætluð háttsemi stjórnarformannsins, sem stefnandi telji varða skaðabótaskyldu, gæti í engu fallið undir þá ábyrgð sem SPRON hafi borið á gerðum stjórnarformannsins vegna rækslu starfa hans, en sala á stofnfjárbréfum hans hafi verið þeim störfum með öllu óviðkomandi. Með bréfi til Fjármálaeftirlitsins 2. nóvember 2009 óskaði stefnandi svara við tilteknum spurningum varðandi það hvaða reglur giltu um sölu stefndu á stofnfjárhlutum í SPRON á umræddum tíma. Í svari Fjármálaeftirlitsins 27. janúar 2010 kom m.a. fram að þágildandi innherjareglur 9. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti giltu ekki um stjórnendur sparisjóða á þeim tíma sem stefnda seldi stofnfjárbréf sín og þeim hafi þá verið óskylt að birta upplýsingar um viðskipti sín með óskráð stofnfjárbréf. Í viðskiptum með óskráða fjármálagerninga njóti samningsaðilar réttarverndar almennra reglna samningaréttar svo sem ákvæða um upplýsingaskyldu seljanda og ákvæða um misneytingu og svik. Með kærubréfi, 28. janúar 2010, til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra krafðist stefnandi rannsóknar á því hvort stefnda hefði gerst sek um fjársvik eða annað refsivert athæfi samkvæmt almennum hegningarlögum við sölu stofnfjárbréfa sinna til stefnanda. Að lokinni rannsókn málsins var kærunni vísað frá 11. nóvember 2010 með ákvörðun Ríkislögreglustjóra. Sú ákvörðun var borin undir ríkissaksóknara sem staðfesti ákvörðun Ríkislögreglustjóra 7. janúar 2011. Í ákvörðun ríkissaksóknara kom m.a. fram að reglur um innherjaviðskipti hafi ekki átt við um stefndu á þeim tíma sem hún seldi bréf sín og að skylda fruminnherja til að birta upplýsingar um viðskipti sín hafi ekki hvílt á henni á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram. Við rannsókn málsins hafi komið fram að stefnda hafi ekki selt allan hlut sinn í SPRON og hafi enn haft mikilla hagsmuna að gæta við hlutafjárvæðingu SPRON. Rannsókn málsins hafi ekki leitt í ljós að hún hafi á ólögmætan hátt leynt upplýsingum sem áhrif gætu hafa haft á verðmæti bréfanna. Ekki hafi verið sýnt fram á samhengi milli ætlaðrar almennrar hvatningar frá stjórnarmönnum eða starfsmönnum SPRON til viðskiptavina um að kaupa bréfin og hækkunar á verði þeirra og sölu stefndu á bréfum. Ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að slík hvatning hafi átt sér stað til viðskiptavina í sviksamlegum tilgangi, en stefnda hafi almennt ekki verið í þeirri stöðu að ræða við hugsanlega kaupendur bréfa.Væntingar vegna fyrirhugaðrar breytingar félagsins í hlutafélag með þeim möguleikum sem því fylgi hafi væntanlega leitt til aukins áhuga á kaupum bréfanna á þessum tíma og haft áhrif til hækkunar á verði. Endanleg ákvörðun um það hvort félaginu yrði breytt í hlutafélag hafi verið í höndum stofnfjáreigendanna sjálfra. Ekki hafi tekist að sýna fram á að stefnda hafi með háttsemi sinni framið refsiverðan verknað sem heimfærður yrði undir 248. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Stefnandi höfðaði vitnamál gegn stefndu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, mál nr. V-11/2011, og voru vitnaskýrslur teknar fyrir dóminum af formanni slitastjórnar SPRON hf. og regluverði SPRON 30. júní 2011. Meðal þess sem þar kom fram var að samkvæmt reglum SPRON, á þeim tíma sem umrædd viðskipti áttu sér stað, skyldi regluvörður veita leyfi fyrir viðskiptum stjórnarmanna SPRON með stofnbréf, með fyrirvara um samþykki stjórnar. Regluvörður kannaðist ekki við að hafa fengið beiðni um slíkt samþykki frá stefndu fyrir sölu hennar á stofnfjárbréfum, en staðfesti að á svipuðum tíma hefði hann heimilað viðskipti annarra stjórnarmanna með stofnfjárbréf. Heimildir til viðskipta hafi í öllum tilvikum verið veittar, með fyrirvara um samþykki stjórnar, með hliðsjón af því að á þeim tíma hafi engar innherjaupplýsingar legið fyrir sem haft gætu áhrif á viðskipti með stofnbréf þar, sem upplýsingar um verðmat Capacent á sparisjóðnum hafði verið birt opinberlega. Stefnda kom fyrir dóminn við aðalmeðferð þessa máls og skýrði frá því að ástæða þess að hún ákvað að selja innan við þriðjung stofnfjárbréfa sinna í sparisjóðnum á þessum tíma var sú að hún kaus að fjárfesta í Auði Capital, til að leggja þeim konum lið sem að því félagi stóðu. Hún hafi ákveðið að selja aðeins 27% af eignarhlut sínum því hún hafi talið SPRON vera góða fjárfestingu á þeim tíma. Hún hafi ekki vitað að það var stefnandi sem keypti bréfin og hafi ekki séð fyrir að stefnandi yrði fyrir tjóni með kaupunum, en bréfin hefðu verið eftirsótt á markaði á þeim tíma. Stefnda gat ekki gefið skýringar á því hvers vegna engar upplýsingar væru fyrir hendi um að hún hefði leitað heimildar regluvarðar vegna sölunnar, en regluvörður og lögmaður hefðu á þessum tíma farið yfir þessi mál og upplýst stjórnarmenn um að þeim væri heimilt að eiga viðskipti með stofnfjárbréf eftir birtingu fréttatilkynningar um skýrslu Capacent. Stefnda upplýsti að þegar stjórn sjóðsins samþykkti söluna 9. ágúst 2007 hafi hún ekki vikið af fundi, þar sem engin álitamál hefðu komið upp varðandi viðskiptin, en salan var þar samþykkt ásamt fjölda annarra viðskipta með stofnbréf. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi styður kröfur sínar þeim málsástæðum að stefnda hafi verið fruminnherji og hafi búið yfir innherjaupplýsingum við sölu bréfanna, um bága eða mjög slæma fjárhagsstöðu SPRON, sem gert hafi það að verkum að hún hafi ákveðið að selja bréf sín. Stjórn SPRON hafi verið send matsskýrsla Capacent um verðmat SPRON, hún hafi verið merkt sem trúnaðarmál og enginn haft aðgang að henni nema stjórn og formaður hennar. Þótt tölur hafi verið birtar úr skýrslunni áður en stefnandi hafi keypt stofnbréfin hafi forsendur hennar ekki verið birtar, en innihald skýrslunnar og innihaldsleysi séu mjög mikilvægar innherjaupplýsingar. Stefnda sé sek um blekkingar og hafi þagað sviksamlega yfir mikilvægum upplýsingum. Stefnda hafi brotið gegn tilgreindum innri reglum SPRON og því séu viðskiptin ekki gild. Hún hafi sniðgengið regluvörð SPRON, en hún hafi haft tilkynningarskyldu um viðskipti sín og eftirlitsskyldu með störfum regluvarðar. Hún hafi með athöfnum sínum eða athafnaleysi sýnt af sér ásetning og/eða stórkostlegt gáleysi og valdið því að stefnandi glataði verðmæti stofnfjárins í hendur stefndu. Tjón stefnanda sé altjón sem stefnda beri ábyrgð á samkvæmt sakarreglunni. Verulegur galli hafi verið á hinu selda og sé riftun því heimil. Bréfin hefðu ekki verið keypt ef upplýst hefði verið um hver væri seljandinn. Skaðabótaábyrgð sé fyrir hendi vegna verulegra vanefnda. Aðstöðumunur hafi verið á aðilum stefnanda í óhag og riftun sé heimil vegna brostinna forsendna. Ógilding kaupanna sé heimil á grundvelli samningalaga vegna þess að leynt hafi verið með óheiðarlegum hætti hver seljandinn væri. Víkja megi samningnum um kaupin til hliðar af því að ósanngjarnt sé að bera hann fyrir sig vegna aðstöðumunar aðila og þess að stefnda hafi misnotað sér aðstöðu sína til að hagnast á kostnað stefnanda, en beita megi lögjöfnun frá lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, um stöðu hennar. Þá styður stefnandi kröfu um riftun og endurgreiðslu því að stefnda hafi notað stöðu sína gagnvart honum í því skyni að koma á viðskiptum á afar viðkvæmum tíma í skjóli upplýsinga, sem hún ein hafi setið að en leynt stefnanda. Stefnandi telji, með vísan til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins m.a. um brostnar forsendur, að það leiði til þess að heimilt sé að rifta kaupunum. Þá bendi stefnandi á 18. og 19. gr. laga nr. 50/2000, til stuðnings riftunarkröfu sinni. Aðilar hafi ekki setið við sama borð. Stefndu hafi verið skylt samkvæmt almennum reglum samnings- og kröfuréttar að veita stefnanda þær upplýsingar er áhrif gætu haft á kaupin. Stefnda hafi vanrækt það og því teljist söluhlutur, stofnfjárbréfin, gallaður og haldinn verulegum galla. Hefði stefnandi vitað að eigandi stofnfjárbréfanna væri stjórnarformaður bankans, sem búið hafi yfir innherjaupplýsingum, hefði hann aldrei keypt þau. Skilyrði riftunar séu uppfyllt. Hér sé um verulega vanefnd að tefla. Sök sé fyrir hendi, ásetningur og/eða gáleysi. Yfirlýsing um riftun hafi verið lögð fram um leið og ljóst hafi verið hver hafi verið viðsemjandi stefnanda. Af þeim sökum sé stefnanda heimilt að rifta kaupunum samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 50/2000. Þá beri að líta til þess að stefnandi hafi ekki verið sérfræðingur í verðbréfaviðskiptum og hafði aldrei átt viðskipti með stofnfjárbréf í sparisjóði. Stefnda hafi hins vegar verið æðsti yfirmaður sparisjóðsins og hafi haft allar upplýsingar í hendi um slæma stöðu sparisjóðsins, sem meta megi til innherjaupplýsinga. Hún hafi sniðgengið regluverk bankans sem fruminnherji. Hún beri sönnunarfærsluna fyrir því að hún hafi verið í góðri trú og farið að reglum SPRON í einu og öllu er hún hafi selt stofnfjárbréfin til stefnanda. Um fjártjón og orsakasamband kveði stefnandi tjón sitt vera sennilega afleiðingu af hinni bótaskyldu háttsemi stefndu. Bein orsakatengsl séu milli háttsemi stefndu og tjónsins. Stefnda hafi skert lögvarða hagsmuni stefnanda með háttsemi sinni, sem falist hafi í því að koma fram sem stjórnarformaður (fruminnherji), fara með leynd og blekkja stefnanda til viðskipta með sviksamlegu athæfi sínu. Hið bótaskylda atvik hefði ekki átt sér stað ef stefnda hefði komið heiðarlega fram og upplýst stefnanda um stöðu sína og fyrirætlan áður en kaupin voru gerð. Allar eftirlits- og starfsreglur SPRON, lög nr. 33/2003, reglugerð nr. 630/2005 og lög nr. 50/2000 og samningalög nr. 7/1936 hafi verið brotin. Stefnda hafi valdið stefnanda altjóni, sem nemi 5.000.005 krónum. Meginmarkmið bótakröfunnar sé að stefnda, sem beri persónulega ábyrgð á háttsemi sinni, greiði stefnanda þá fjármuni, sem hann sannanlega hafi látið af hendi vegna þessara viðskipta og geri hann eins settan eins og viðskiptin hafi ekki átt sér stað. Altjón stefnanda sundurliðist þannig að stefnandi hafi keypt að nafnvirði 444.561 hlut. Hlutirnir hafi verið framreiknaðir þannig: 444.561 x 2,205509 = 980.297. Gengið hafi verið ákveðið 5,05 x 980.297 = 4.950.500 krónur, sem sé kaupverð stofnfjárins. Kaupþóknun hafi verið 1% af kaupverði eða 49.505 krónur. Samtals hafi því uppgjörsverð á stofnfjárhlutum sem stefnda hafi selt verið 5.000.005 krónur sem sé stefnufjárhæð málsins. Stefnandi hafi orðið fyrir því tjóni vegna sviksamlegrar háttsemi stefndu. Orsakasamband sé á milli athafna stjórnarformannsins og altjóns stefnanda, sem sé afleiðing af athöfnum/athafnaleysi stjórnarformannsins. Hún beri persónulega ábyrgð á því með ásetningi eða gáleysi sínu að hafa blekkt stefnanda sem fruminnherji. Það geri hana skaðabótaskylda. Sé ekki unnt að fallast á kröfu stefnanda um fjárhæðir sé gerð þrautavarakrafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefndu. Stefnandi hafi ekki sýnt tómlæti, þar sem hann hafi ekki haft hugmynd um við hvern hann hafi átt viðskipti fyrr en það hafi verið upplýst í september 2009. Þá hafi hann strax sent stefndu riftunar- og kröfubréf. Þá hafi hann bæði ritað regluverði bankans og þeim verðbréfasala innan bankans sem komið hafi á umræddum viðskiptum. Hvorugur hafi svarað bréfum hans. Stefnandi hafi kært stefndu til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra og síðar ríkissaksóknara. Stefnandi hafi beðið niðurstöðu þeirra rannsókna, sem hafi ekki legið fyrir fyrr en 7. janúar 2011. Það hafi ekki verið fyrr en með yfirheyrslum 30. júní 2011 sem mál hafi tekið að skýrast varðandi athafnaleysi regluvarðar gagnvart stefndu. Vextir samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 séu miðaðir við þann tíma er kaupin hafi átt sér stað 26. júlí 2007 til 15. september 2009 en þá hafi verið krafist riftunar og endurgreiðslu samkvæmt bréfi stefnanda. Dráttarvextir séu samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga. Um lagarök byggi stefnandi á reglum SPRON sem dagsettar séu 11. desember 2003, 1. mars 2007, 31. janúar 2007, 2. nóvember 2006 og árið 2004. Stefnandi vísi til almennrar sakarreglu skaðabótaréttar varðandi sök stefndu. Stefnandi byggi á 54. gr., 55. gr., 62. gr. og 64. gr. laga, nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, 18. gr., 19. gr. og 30. gr. til 40. gr. laga, nr. 50/2000, um lausafjárkaup, 30. gr., 33. gr. og 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936, og almennra reglna kröfuréttarins, 248. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og laga, nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða. Einnig sé bent á 6. gr., 14. gr., 15. gr., 56. gr., 58. gr., 59. gr., 60. gr., 61. gr., 63. gr. og 64. gr. laga, nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, til stuðnings málstað stefnanda. Þá byggi stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga, nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varðandi málskostnað og 8. gr. og 6. gr. laga, nr. 38/2001, um vexti af kröfu stefnanda. Máli sínu til stuðnings bendi stefnandi á reglugerð, nr. 630/2005, um innherjaupplýsingar og markaðssvik, sem gildi um athæfi stefndu. Þá bendi stefnandi á gildi reglugerðar, nr. 994/2007, um innleiðingu reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB), nr. 1287/2006 frá 10. ágúst 2006, um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB, að því er varði skyldur fjármálafyrirtækja varðandi skýrsluhald, tilkynningar um viðskipti, gagnsæi á markaði, töku fjármálagerninga til viðskipta og hugtök sem séu skilgreind að því er tilskipunina varði. Stefnandi byggi einnig á ákvörðum sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 65/2005, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn sem tekið hafi gildi 29. apríl 2005. Þá bendi stefnandi á 1. mgr. 2. gr. laga, nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið til stuðnings máli sínu. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Af hálfu stefndu er öllum málsástæðum stefnanda um að stefnda hafi búið yfir innherjaupplýsingum um bága eða slæma fjárhagsstöðu SPRON, eða að stefnda hafi á annan hátt beitt blekkingum sem fruminnherji við sölu á stofnfjárbréfum 26. júlí 2007, eða misnotað aðstöðu sína á annan hátt til að hafa fjármuni af stefnanda, hafnað. Stefnda vísi því alfarið á bug að skilyrði riftunar hafi verið fyrir hendi þegar stefnandi hafi lýst yfir riftun 15. september 2009. Því sé alfarið hafnað að hin seldu stofnbréf hafi verið gölluð í skilningi laga nr. 50/2000 eða samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, þegar viðskiptin hafi átt sér stað í lok júlí 2007. Verðrýrnun stofnfjárbréfanna í kjölfar mikils verðfalls á fjármálamörkuðum á árinu 2008 geti engin áhrif haft í því sambandi. Leggi stefnda jafnframt áherslu á að lagaskilyrði til riftunar í verðbréfaviðskiptum séu mjög þröng og nægi ekki það eitt að ekki hafi verið gætt allra form- og verklagsreglna sem fara hafi átt eftir, ef því væri til að dreifa. Til stuðnings kröfu sinni vísi stefnda jafnframt til þeirrar meginreglu laga að gerða samninga beri að halda. Þá hafni stefnda því alfarið að skilyrði séu til beitingar 30., 33. eða 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936. Stefnda hafi hvorki fengið stefnanda til þess með svikum að ganga til kaupa á umræddum stofnfjárbréfum, né hafi hún þagað sviksamlega yfir atvikum sem máli hafi skipt um löggerninginn. Ekki verði heldur talið óheiðarlegt af stefndu að bera fyrir sig umræddan samning enda engin slík atvik fyrir hendi sem leiða ættu til slíkrar niðurstöðu. Verði ekki heldur fallist á að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að stefnda beri kaupin fyrir sig. Líta verði svo á að stefnandi, sem sé löglærður og hafi starfað sem lögmaður um árabil, hafi vitað eða mátt vita um áhættu þá sem felist almennt í viðskiptum með stofnfjárbréf í sparisjóði. Með vísan til eðlis markaðar með stofnfé í sparisjóði sé á engan hátt unnt að fallast á að slík viðskipti geti gengið til baka árum síðar, þegar hagnaðarvon aðila hafi ekki gengið eftir. Þá verði að líta svo á að með tómlæti sínu hafi stefnandi í reynd samþykkt viðskiptin og komi riftun ekki til álita tæpum tveimur árum eftir kaupin, sbr. 32. gr. og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/2000. Stefnda byggi á því að hún hafi á engan hátt brotið gegn lagaákvæðum, verklagsreglum SPRON eða hagsmunum stefnanda og bendi jafnframt á að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stofnfjárbréfin hafi verið haldin galla í skilningi 18. gr. eða 19. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, við kaupin. Eins hafi stefnandi ekki sýnt fram á að stofnfjárbréfin hafi ekki haft þá eiginleika söluhlutar sem kveðið sé á um í 17. gr. lausafjárkaupalaga. Enn fjarlægara sé að stefnandi hafi sýnt fram á að bréfin hafi verið haldin verulegum galla, en slíkt sé skilyrði riftunar samkvæmt 39. gr. sömu laga. Auk þess vísi stefnda til 66. gr. lausafjárkaupalaga. Þar komi fram að aðeins sé heimilt að rifta kaupum að kaupandi geti skilað söluhlut að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni og hlutur var í þegar kaupandi veitti honum viðtöku. Því sé hafnað að skilyrði skaðabótaábyrgðar séu fyrir hendi, sbr. varakröfu stefnanda. Að mati stefndu hafi stefnandi ekki sýnt fram á að stefnda hafi valdið honum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, auk þess sem ekki sé fallist á að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru tjóni vegna viðskiptanna eða að orsakasamband sé á milli þess og viðskipta stefndu við stefnanda, auk þess sem tjónið verði ekki talin sennileg afleiðing umræddra viðskipta. Verði stefnda ekki talin bera ábyrgð á afleiðingum sem séu ófyrirséðar eða tilviljunarkenndar, eins og hér sé raunin. Þá sé og til þess að líta að stefnandi hefði orðið fyrir nákvæmlega sama tjóni ef seljandi stofnfjárbréfanna hefði verið annar stofnfjáreigandi en stefnda, enda eina orsök verðfalls stofnfjárbréfa í SPRON sú fjármálakreppa sem riðið hafi yfir haustið 2008. Því sé alfarið hafnað að háttsemi stefndu, eða annarra aðila sem komið hafi að umræddum viðskiptum, hafi orðið þess valdandi að stofnfjárbréf stefnanda hafi fallið í verði eftir kaupin. Þá verði ekki betur séð en að stefnandi hafi haft 19 mánuði, frá kaupum stofnfjárbréfanna að telja, til þess að takmarka tjón sitt með því að selja bréfin áður en SPRON hf. var tekið til slitameðferðar. Sérstaklega sé tekið fram, með vísan til dómkrafna stefnanda, að ekki sé litið svo á að stefnandi byggi á sjónarmiðum um afslátt. Slíkum sjónarmiðum sé einnig alfarið mótmælt til öryggis (extuto). Með sömu rökum sé þrautavarakröfu stefnanda, um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, alfarið hafnað. Við munnlegan málflutning vísaði lögmaður stefndu sérstaklega til dóms Hæstaréttar 29. apríl 2010 í máli nr. 407/2009, sem hafi fullt sönnunargildi í þessu máli. Stefnda styður sýknukröfu sína við almennar reglur samninga- og kröfuréttar og kröfu um málskostnað við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Niðurstaða Svo sem rakið er í kafla um málsatvik hér að framan var fjallað um sömu atvik og liggja máli þessu til grundvallar í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2012, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2012 í málinu nr. 650/2012. Í því máli krafðist stefnandi viðurkenningar á skaðabótakröfu sem hann lýsti við slit SPRON hf. vegna tjóns sem hann hefði orðið fyrir, við þau kaup sem krafist er riftunar á eða skaðabóta vegna í þessu máli. Körfulýsingin, sem stefnandi lagði fram sem dómskjal í þessu máli, var sömu fjárhæðar og aðal- og varakröfur hans í þessu máli og var hún send slitastjórn SPRON hf. daginn eftir að stefndu var send sú yfirlýsing um riftun og krafa um endurgreiðslu sem aðalkrafa þessa máls byggir á. Í máli stefnanda á hendur slitastjórninni komu í meginatriðum fram sömu málsástæður og lagarök fyrir meintum saknæmum og ólögmætum athöfnum stefndu, sem stjórnarformanns SPRON, og stefnandi byggir á í þessu máli til stuðnings dómkröfum sínum á hendur henni sjálfri, og raktar hafa verið hér að framan. Það var niðurstaða héraðsdóms og Hæstaréttar að orsök tjóns stefnanda verði ekki rakin til meintrar ólögmætrar og saknæmrar háttsemi af hálfu stjórnar, stjórnarformanns, starfsmanna SPRON eða starfsmanna SPRON verðbréfa hf. og sé ekki sennileg afleiðing af þeirri háttsemi. Stefnandi hafði ekki sýnt fram á að SPRON bæri skaðabótaábyrgð á meintu tjóni hans og var kröfu hans hafnað með svofelldum rökstuðningi: Sóknaraðili byggir skaðabótakröfu sína á sakarreglunni og telur varnaraðila eiga sök á meintu tjóni sínu, þar sem stjórnarformaður varnaraðila og stjórn hans hafi af gáleysi eða ásetningi skaðað sóknaraðila fjárhagslega með ólögmætum athöfnum sínum, þannig að hann tapaði allri stofnfjáreign sinni. Þá byggir sóknaraðili á reglunni um húsbóndaábyrgð varnaraðila, þar sem regluvörður og stjórnarformaður varnaraðila og regluvörður SPRON verðbréfa hf. hafi ekki farið að þeim reglum sem þeim hafi verið settar af stjórn varnaraðila. Í sakarreglunni felst að maður beri ábyrgð á tjóni sem hann veldur með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing af hegðun hans og raski hagsmunum sem verndaðir eru með skaðabótareglum. Öll skilyrði reglunnar þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að leggja skaðabótaábyrgð á tjónvald vegna meints tjóns. Til þess að á varnaraðila verði felld bótaábyrgð í máli þessu nægir því ekki að sýnt sé fram á saknæma og ólögmæta háttsemi varnaraðila, heldur þarf sóknaraðili að sýna fram á orsakatengsl milli þeirrar háttsemi og þess tjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir og að tjónið sé sennileg afleiðing hinnar ólögmætu og saknæmu háttsemi. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að tjón hans hafi orðið á þeirri stundu er hann keypti umrædd stofnfjárbréf, 26. júlí 2007. Við aðalmeðferð málsins var sóknaraðili sérstaklega inntur eftir því hvort hann teldi að tjón sitt hefði orðið þá og kvaðst hann telja að þegar blekkingum hafi verið beitt af hálfu varnaraðila á kaupdegi bréfanna, hafi hann orðið fyrir því tjóni sem krafa hans eigi rætur að rekja til, en krafa hans er að fjárhæð 5.005.005 krónur, auk vaxta. Fram kemur í gögnum málsins að samkvæmt uppgjöri ársins 2007 nam hagnaður SPRON vegna ársins 3,3 milljörðum króna og fyrir liggur einnig í gögnum málsins að stofnfjáreigendum var greiddur arður í lok maí 2008. Fram kemur á dómskjali því sem lagt var fram fyrir upphaf aðalmeðferðar, nr. 95, að sóknaraðili var einn þeirra stofnfjáreigenda sem fengu greiddan arð af bréfunum í maí 2008. Samkvæmt framangreindu er ljóst að þau stofnfjárbréf sem sóknaraðili keypti 26. júlí 2007 urðu ekki einskis virði á kaupdegi, eins og sóknaraðili hefur haldið fram. Því verður ekki fallist á að tjón sóknaraðila hafi orðið á þeim degi. Sóknaraðili aðhafðist heldur ekkert í kjölfar kaupanna, sem rennt getur stoðum undir þá staðhæfingu hans, að hann hafi á þeim degi talið sig hafa orðið fyrir tjóni. Hann freistaði þess fyrst í september 2009, eða rúmum tveimur árum eftir kaupin, að rifta kaupum á bréfunum. Hann hélt því umræddum bréfum í rúm tvö ár og fékk greiddan arð af þeim. Hann gerði ekkert til takmarka meint tjón sitt fyrr en rúmum tveimur árum eftir að hann taldi sig hafa orðið fyrir tjóni, en þá hafði Fjármálaeftirlitið skipað SPRON skilanefnd og hlutabréf í varnaraðila voru orðin verðlaus. Sóknaraðili falaðist sjálfur eftir að kaupa títtnefnd stofnfjárbréf, en kaup á slíkum bréfum fela ávallt í sér ákveðna áhættu þar sem erfitt getur verið að sjá fyrir um þróun markaðarins hverju sinni. Viðskipti aðila voru með óskráð verðbréf, sem ekki var hægt að skrá á skipulegum verðbréfamarkaði og á þeim tíma er viðskipti aðila fóru fram hafði ekki verið óskað eftir skráningu SPRON í kauphöll. Því var áhætta af slíkum viðskiptum enn meiri en ella. Á sóknaraðila hvílir sönnunarbyrði fyrir því að meint tjón hans verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi varnaraðila og að orsakatengsl séu milli þeirrar háttsemi og meints tjóns, sem og þess að tjónið sé sennileg afleiðing háttseminnar. Það er mat dómsins að slík sönnun hafi ekki tekist, heldur hafi verið í ljós leitt að tjón sóknaraðila verði rakið til hans sjálfs og þeirra atburða er urðu í íslensku efnahagslífi í október árið 2008, sem leiddu til falls íslensku bankanna, og þess að stjórn Fjármálaeftirlitsins skipaði skilanefnd yfir SPRON 21. mars 2009. Tjónið verði einnig rakið til þeirrar áhættu er hann tók er hann keypti umrædd bréf og þess að hann reyndi ekki að takmarka tjón sitt, í kjölfar meints tjónsatburðar. Þessir atburðir eru orsök tjóns sóknaraðila og hefur ekkert fram komið í málinu er fært geta sönnur á að tjón hans verði rakið til annars, hvað sem líður vitneskju stjórnar varnaraðila og stjórnarformanns um fjárhagsstöðu SPRON á þeim tíma er sóknaraðili keypti umrædd bréf. Þá breyta meint brot stjórnarformanns, stjórnar og starfsmanna SPRON og SPRON verðbréfa hf. á lögum nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, meint brot gegn lögum um hlutafélög, meint brot gegn reglum sem giltu um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja, meint brot þeirra á eftirlits- og starfsreglum SPRON verðbréfa hf., meint brot þeirra á eftirlits- og starfsreglum SPRON, meint brot á reglum SPRON um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra, eða meint brot á reglum um viðskipti á stofnfjármarkaði SPRON engu um það heldur. Orsök tjóns sóknaraðila verður ekki rakin til meintrar ólögmætrar og saknæmrar háttsemi af hálfu stjórnar, stjórnarformanns eða starfsmanna varnaraðila eða starfsmanna SPRON verðbréfa hf. og er ekki sennileg afleiðing af þeirri háttsemi. Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, hefur dómur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað. Í máli þessu hefur ekkert það komið fram sem teljist sanna hið gagnstæða og verður framangreint því talið fullsannað. Í því felst meðal annars að tjón stefnanda er að rekja til annarra orsaka en háttsemi stefndu og ber hún þegar af þeirri ástæðu ekki bótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli reglna um skaðabætur utan samninga. Stefnandi byggir á því að um stefndu hafi átt að gilda reglur um innherjaviðskipti í þágildandi lögum, nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti. Á það verður ekki fallist, svo sem einnig er vikið að í rökstuðningi úrskurðar héraðsdóms sem tekinn er upp hér að framan, sbr. og dóm Hæstaréttar 29. apríl 2010 í máli nr. 407/2009, enda var skráning SPRON í Kauphöll ekki möguleg fyrr en stofnfjáreigendur, þar á meðal stefnandi, höfðu samþykkt að breyta sparisjóðnum í hlutafélag en það var gert 21. ágúst 2007. Þá eiga lög um hlutafélög, nr. 2/1995, ekki við í málinu, enda var SPRON ekki orðið hlutafélag þegar atvik málsins áttu sér stað. Um viðskipti stefndu með stofnfjárhluti giltu á hinn bóginn þær innri reglur SPRON sem stefnandi hefur vísað til. Af er á því hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda hafi brotið gegn reglum SPRON með því að leita ekki heimildar regluvarðar til sölu stofnfjárbréfa sinna eins og henni hafi verið skylt og því séu viðskiptin ekki gild. Stefnda bar fyrir dóminum að hún gæti ekki fullyrt um það hvort, og ef svo væri hvenær, hún hefði tilkynnt regluverði um viðskiptin en taldi sig hafa gert það. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 650/2012 er það talið óumdeilt að regluverði hafi hvorki verið tilkynnt um viðskipti stjórnarformannsins né honum verið um þau kunnugt af öðrum sökum og er það í samræmi við framburð regluvarðar um atvik í vitnamálinu nr. V-11/2011 og telst upplýst. Fallist er á það með stefnanda að það var í ósamræmi við þágildandi innri reglur SPRON að stefnda lét fyrirfarast að hafa samband við regluvörð vegna sölunnar. Heimild regluvarðar til viðskiptanna gat þó aldrei haft úrslitaáhrif um gildi þeirra, enda þurfti, í samræmi við samþykktir sparisjóðsins, samþykki stjórnar til eigendaskipta að stofnfjárbréfum í honum. Viðskiptin voru borin undir stjórn sparisjóðsins á fundi 9. ágúst 2007, þau voru þar samþykkt og öðluðust gildi. Málsástæðu stefnanda um ógildi viðskiptanna er því hafnað. Stefnandi byggir kröfur sínar meðal annars á því að stefnda hafi búið yfir óbirtum upplýsingum um stöðu SPRON vegna þess að skýrsla Capacent var ekki birt í heild sinni. Það hafi verið innherjaupplýsingar sem ekki hafi verið upplýst um við söluna. Því hafi hið selda verið gallað í skilningi 18. gr. og 19. gr. laga um lausafjárkaup. Þessi málsástæða stefnanda að hann hafi verið leyndur mikilvægum upplýsingum um verðmæti sparisjóðsins, sem stefnda hafi búið yfir, byggist á því að hluti skýrslu Capacent um ætlað verðmat tiltekinna fasteigna var ekki birtur. Upplýsingar um verðmæti sparisjóðsins samkvæmt skýrslu Capacent höfðu verið birtar opinberlega áður en kaupin gerðust, en gengi á stofnfjárbréfum í SPRON var þó ekki í samræmi við matið, heldur virðist hafa stjórnast af væntingum markaðarins vegna fyrirhugaðrar skráningar sparisjóðsins í Kauphöll, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 407/2009. Að dómi þessum virtum og því hve lítil áhrif verðmat Capacent virtist hafa á gengi bréfanna í raun, verður ekki talið að þær takmörkuðu upplýsingar sem ekki voru birtar hefðu haft þá þýðingu að ætla megi að það hafi haft áhrif á kaupin eða verulegu máli skipt, þannig að 1. mgr. 18. gr. og b-liður 1. mgr. 19. gr. laga um lausafjárkaup geti átt við. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 650/2012 felst full sönnun þess að þau stofnfjárbréf sem stefnandi keypti 26. júlí 2007 urðu ekki einskis virði á kaupdegi. Ekki hefur verið sýnt fram á að hin seldu bréf hafi ekki við afhendingu svarað til þeirra upplýsinga sem veittar voru við markaðssetningu þeirra og ekki hefur heldur verið sýnt fram á að seljandi hafi vanrækt að gefa upplýsingar sem verulegu máli skiptu varðandi bréfin og kaupandi mátti ætla að hann fengi upplýsingar um. Stefnandi hefur samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á að hið selda hafi verið gallað við kaupin, en áhætta af söluhlut flyst yfir til kaupanda þegar hann hefur verið afhentur, sbr. 13. gr. laga um lausafjárkaup. Þá var vanræksla stefndu á því að hafa samband við regluvörð ekki orsök þess verðhruns hins selda sem síðar varð og upplýst er með fyrrnefndum dómi að tjón stefnanda er ekki sennileg afleiðing af þeirri háttsemi. Að því virtu að hið selda var ekki gallað getur stefnandi ekki átt kröfu til riftunar kaupanna vegna galla, sem telji megi til verulegra vanefnda samkvæmt 39. gr. laga um lausafjárkaup. Hann getur ekki heldur átt kröfu til skaðabóta vegna tjóns sem hann hafi beðið vegna galla á hinu selda samkvæmt 40. gr. laganna og ekki er fyrir að fara vanefnd sem bakað geti seljanda ábyrgð samkvæmt reglum 2. mgr. 21. gr. laganna um ábyrgð á galla sem síðar kemur fram, enda ekkert orsakasamband fyrir hendi. Kröfum og málsástæðum stefnanda sem byggjast á vanefndaúrræðum ákvæða laga um lausafjárkaup vegna galla á söluhlut verður samkvæmt framangreindu hafnað. Stefnandi heldur því fram að hann hafi með sviksamlegum hætti verið leyndur upplýsingum um hver verið hafi eigandi bréfanna, sem hann hefði aldrei keypt ef hann hefði haft upplýsingar um að það væri stefnda og því séu forsendur kaupanna brostnar. Upplýst er í málinu að stefnandi óskaði ekki eftir upplýsingum um það hver hefði verið eigandi bréfanna fyrr en á árinu 2009 og ekkert hefur komið fram sem styður þá fullyrðingu að yfir þeim upplýsingum hafi hvílt sviksamleg eða saknæm leynd. Engin gögn eða upplýsingar um það hvernig kaupin gerðust styðja þá málsástæðu stefnanda að það hafi verið forsenda hans við kaupin eða ákvörðunarástæða að bréfin sem hann keypti væru ekki í eigu stefndu eða annarra í svipaðri aðstöðu til upplýsinga um sparisjóðinn, og er henni hafnað. Dómurinn tekur undir sjónarmið stefndu um að sú málsástæða stefnanda að ósanngjarnt sé að bera samninginn fyrir sig vegna aðstöðumunar aðila, eigi ekki við nein rök að styðjast, í ljósi menntunar og starfsferils stefnanda. Þá hefur ekki með neinum hætti verið sýnt fram á réttmæti málsástæðu stefnanda um að stefnda hafi komið óheiðarlega fram eða að það sé óheiðarlegt að hún vilji láta kaupin, sem fram fóru árið 2007, standa. Stefnandi hefur því hvorki sýnt fram á að málsástæður sem byggjast á tilvísan til 30. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936, né málsástæður sem byggjast á sjónarmiðum samningaréttarins um brostnar forsendur, séu á rökum reistar og verður þeim hafnað. Þegar allt framangreint er virt hefur stefnandi ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að fallast á kröfur hans að neinu leyti og verður stefnda því sýknuð af dómkröfum hans. Í samræmi við niðurstöðu málsins, og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.100.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. apríl 2013. D Ó M S O R Ð: Stefnda, Hildur Petersen, er sýknuð af kröfum stefnanda, Magnúsar Björns Brynjólfssonar. Stefnandi greiði stefndu 1.100.000 krónur í málskostnað. |
Mál nr. 568/2010 | Kærumál Innsetningargerð | Þ, eigandi skipsins F, krafðist þess að fá skipið afhent með beinni aðfarargerð úr umráðum ÞE, sem hafði tekið að sér með verksamningi að gera á því breytingar. Með aðilum var ágreiningur um efndir samningsins á báða bóga. ÞE hafði hafnað kröfu Þ um að fá skipið afhent á þeim grundvelli að félagið ætti haldsrétt í skipinu til tryggingar kröfum vegna verksins, sbr. 1. mgr. 200. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Þ hélt því hins vegar fram að haldsréttur væri ekki fyrir hendi þar sem lagðar hefðu verið fram bankaábyrgðir fyrir kröfum ÞE. Talið var að þær bankaábyrgðir, sem Þ hafði lagt fram, væru fullnægjandi og því ekki fallist á að ÞE ætti haldsrétt í skipinu. Þóttu því fyrir hendi skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför til að taka umráðakröfu Þ til greina, enda væru réttindi Þ það ljós að fyrir þeim hefðu verið færðar sönnur með gögnum sem aflað hefði verið eftir 83. gr. laganna. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur og aðför heimiluð. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 27. september 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að taka skipið Fossá ÞH-362, skipaskrárnúmer 2404, með öllu sem því fylgir, með beinni aðfarargerð úr umráðum sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og innsetningarbeiðni varnaraðila hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Þorgeir & Ellert hf., greiði varnaraðila, Þörungaverksmiðjunni hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 244/2006 | Ölvunarakstur Akstur sviptur ökurétti Sönnun | K var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Með vísan til sakaferils K var honum gert að sæta fangelsi í 60 daga og sviptur ökurétti ævilangt. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinson og Garðar Gíslason. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu ákærða. Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er reist á því að héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og að verulegir annmarkar hafi verið á mati hans á sönnunargildi munnlegs framburðar og öðrum sönnunargögnum. Ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Eins og sönnunargögnum er háttað þykir ekki tilefni til að hnekkja mati héraðsdóms að þessu leyti. Rakinn er í héraðsdómi framburður ákærða og vitna. Ekki hafa verið færð fram rök í málinu, sem veita líkur fyrir því að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar eða á öðrum sönnunargögnum kunni að vera rangt þannig að einhverju skipti um úrslit málsins. Ómerkingarkröfu ákærða er því hafnað. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, Kristján Þórir Kristjánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 177.510 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Bjarna S. Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 164.846 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. apríl 2006. Mál þetta, sem dómtekið var 15. mars sl., er höfðað með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði útgefinni 25. janúar sl., á hendur ákærða Kristjáni Þóri Kristjánssyni, kt. 191079-4699, Blómvangi 3, Hafnafirði, „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 26. desember 2005, um kl. 06:09 ekið bifreiðinni OE-555 undir áhrifum áfengis, með alkóhólmagn í blóði 0,96 o/oo og sviptur ökuréttindum austur Blómvang í Hafnarfirði að húsi nr. 3. Telst háttsemi þessi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1.mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og 48/1997. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, 23/1998 og 84/2004.“ Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög heimila. Þá er krafist að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Ásgeirssonar, hæstaréttarlögmanns. Við þingfestingu málsins þann 15. febrúar síðastliðinn neitaði ákærði sök. Í frumskýrslu lögreglunnar í Hafnarfirði, sem skráð var 29. desember 2005 segir að upphaf málsins megi rekja til þess að varðstjóri í lögreglunni í Hafnarfirði, Gylfi Sigurðsson, var á ferð á ómerktri bifreið lögreglunnar í Hafnarfirði um klukkan 06:00, aðfaranótt mánudagsins 26. desember 2005. Hann kvaðst hafa veitt athygli bifreiðinni OE-555 þar sem hún var kyrrstæð en í gangi við biðskyldu við gatnamót Lækjarkinnar og Lækjargötu. Sá hann að ökumaður, sem var snoðklipptur, var einn í bifreiðinni. Á sama tíma voru lögreglumennirnir Sverrir Guðfinnsson og Snorri Birgisson staddir á bensínstöð Esso við Lækjargötu á lögreglubifreið í öðrum erindagjörðum. Í þann mund er þeir voru að aka frá bensínstöðinni sáu lögreglumennirnir bifreiðina OE-555 aka af stað. Var ökumaður einn í bifreiðinni og var hann með mjög stuttklippt hár. Varðstjórinn veitti bifreiðinni eftirför þar sem hún ók inn á Lækjargötu og norður Reykjanesbraut, norður Fjarðarhraun, vestur Hjallahraun, þar sem hún snéri við og ók suður Reykjavíkurveg og Hraunbrún. Þar kvaðst varðstjórinn hafa misst sjónar af bifreiðinni. Tilkynnti varðstjóri lögreglumönnunum Sverri Guðfinnssyni og Snorra Birgissyni það og var þeim tjáð heimilisfang skráðs eiganda bifreiðarinnar OE 555 sem var Blómvangur 3. Á leið þangað, nánar tiltekið í Miðvangi sáu þeir bifreiðina OE-555 þar sem henni var beygt til hægri af Miðvangi og austur eftir Blómvangi. Lögreglan kvaðst hafa fylgt bifreiðinni eftir og hafi ekið örskammt á eftir henni er ökumaður hennar tók handbremsubeygju inn í bifreiðastæði við Blómvang 3. Í frumskýrslu lögreglu er skráð að þegar lögreglan hafi komið inn í innkeyrsluna hafi Snorri Birgisson lögreglumaður séð hvar ökumaður stöðvaði bifreiðina og hafi afturljós hennar verið tendruð. Sverrir Guðfinnsson lögreglumaðurinn fór út úr lögreglubifreiðinni og hafði tal af ökumanni bifreiðarinnar sem hafði stigið út úr bifreiðinni. Reyndist hann vera ákærði í máli þessu og er búsettur í kjallara í húsinu Blómavang 3. Lögreglumaðurinn kvaðst hafa þekkt ákærða af fyrri afskiptum lögreglunnar af ákærða og taldi lögreglumaðurinn að ákærði væri sviptur ökuréttindum sem reyndist rétt vera. Útlit ökumanns svaraði til þess manns er lögreglan sá undir stýri bifreiðarinnar þegar hún var við Lækjarkinn. Í frumskýrslu lögreglunnar kemur fram að ákærði hafi ekki tekið vel afskiptum lögreglunnar. Lagði áfengisþef af vitum ákærða. Hann var færður í lögreglubifreiðina, þar sem hann var handtekinn, grunaður um ölvunarakstur og akstur sviptur ökuréttindum. Ákærði neitaði að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Hann bar að annar maður hefði gert það en tilgreindi ekki nafn hans. Á lögreglustöð gekkst ákærði undir öndunarpróf í S-D2 mæli klukkan 06:16 og mældist alkóhólmagn í útöndunarlofti ákærða 1,50°/°°. Lagt var hald á kveikjuláslykla bifreiðar ákærða sem hann bar á sér. Fóru tveir lögreglumenn á vettvang og rannsökuðu bifreiðina OE 555. Fram kemur í frumskýrslu lögreglunnar að engar áfengisumbúðir hafi verið sjáanlegar, púströrið og bremsudiskar hafi verið heit viðkomu og bifreiðin hafi verið læst. Fram kemur í frumskýrslu lögreglunnar að tekin hafi verið varðstjóraskýrsla af ákærða, þar sem hann hafi borið að einhver hafi verið með bifreiðina að láni, sem hann hafi ekki vitað hver væri. Sjálfur hafi ákærði verið að sækja geisladiska í bifreiðina er lögreglan bar að. Tekið var blóðsýni úr ákærða klukkan 06:45 og þvagsýni klukkan 06:48 til þess að kanna alkóhólmagn í blóði og þvagi ákærða. Alkólhólmagn í blóði ákærði reyndist vera 0.96°/°° og í þvagi 1.31°/°°. Að því búnu var ákærði frjáls ferða sinna og var klukkan þá 06:50. Fyrir dómi bar ákærði að þessa umræddu nótt hafi frændi sinn komið “brennandi” upp planið á bifreiðinni OE-555. Sjálfur hafi hann “tölt upp tröppurnar” í því skyni að sækja geisladiska er voru í bifreiðinni. Frændi hans hafi stokkið út úr bifreiðinni og farið inn í íbúðina til þess að kasta þvagi. Ákærði kvaðst hafa verið að teygja sig inn í bifreiðina er lögreglan kallar á hann og bað hann að koma inn í lögreglubifreiðina. Ákærði kvaðst hafa sagt lögreglunni að hann hefði ekki verið að aka í umrætt sinn. Lögreglan hafi beðið hann að setjast inn í lögreglubifreiðina til þess að ræða málin frekar. Hann hafi orðið við þeirri beiðni og hafi lögreglan umsvifalaust ekið á brott og tilkynnt honum að hann væri grunaður um ölvunarakstur. Ákærði bar að hann hefði sagt lögreglunni að hann hefði lánað frænda sínum bifreiðina, en frændi hans hafi verið meðal veislugesta í skírnaveislu sonar hans á jóladag. Hafi frændi hans, A, verið að skila bílnum þegar lögreglan kom. Ákærði kvaðst ekki hafa tilgreint nafn frænda síns þegar hann var handtekinn, þar sem hann vildi ekki blanda frænda sínum inn í málið. Hins vegar hafi hann stuttu síðar farið með frænda sinn á lögreglustöð og sagt lögreglunni að þessi maður hefði ekið bifreiðinni í umrætt sinn. Minnti ákærða að lögreglumaðurinn hafi heitið Ægir. Lögreglan hafi ekki tekið skýrslu af A. Nánar inntur um það hvenær ákærði hafi farið á lögreglustöðina, tiltók ákærði að það hafi verið tveimur til fjórum vikum eftir atburðinn. Ákærði mótmælti málavaxtalýsingu lögreglu sem rangri eins og hún er skráð í frumskýrslu lögreglu og bar að bifreiðin hafi ekki verið í gangi er lögreglan ók inn á bifreiðastæðið. Vitnið A bar fyrir dómi að hafa fengið bifreiðina OE-555 lánaða hjá ákærða eftir að hafa verið í skírnarveislu hjá ákærða á jóladag. Vitnið hafi síðar áttað sig á því að hann hafi skilið verkfæri föður síns eftir í bifreið sinni hjá heimili ákærða og viljað ná í þau. Hafi hann því ákveðið að skila bíl ákærða um kl. 06:00 umræddan morgun. Hafi hann látið ákærða vita símleiðis að hann væri að koma og skila bílnum. Vitnið hafi síðan ekið einsamall frá heimili sínu á Berjavöllum heim til ákærða. Vitnið kvaðst hafa ekið sem leið lá eftir Ásbraut um Strandgötu, Fjarðargötu, Reykjavíkurveg, Hjallabraut, Miðvang og Blómvang. Vitnið bar að hann hefði allan tímann ekið rólega. Þegar hann hafi komið að Blómvangi 3 hafi ákærði komið á móti honum í miðjum stiganum að kjallaraíbúð þeirri sem ákærði kom út úr. Vitnið hafi farið inn til að kasta þvagi en þar hafi sambýliskona ákærða verið fyrir. Þegar vitnið hafi svo komið aftur út hafi ákærði verið farinn og hann ekki vitað um ferðir hans. Hafi vitnið hvorki orðið vart lögreglu þegar hann ók að heimili ákærða né við það að ákærði hefði farið með lögreglu af vettvangi. Vitnið bar að hann hefði verið með stutt, rakað hár á þeim tíma sem málið varðar. Þá kom fram af hálfu vitnisins að það hafi ekki talið það vera í sínum höndum að fara á lögreglustöð í þeim tilgangi gefa skýrslu sína vegna málsins fyrr en ákærði hafi beðið hann sérstaklega um það. Þegar þeir hafi svo farið á lögreglustöð í þeim tilgangi síðar hafi hins vegar ekki verið tekin af honum skýrsla vegna málsins. Vitnið B, sambýliskona ákærða, bar fyrir dómi að eftir skírnarveislu sem hafi verið á heimili hennar og ákærða þann 25. desember 2005 hafi A fengið bifreið ákærða að láni. A hafi skilað bílnum aftur um nóttina en þá hafi vitnið og ákærði verið búin að fá sér nokkra bjóra. Þegar A hafi komið með bílinn hafi ákærði hlaupið út og A síðan komið niður til að kasta þvagi og farið skömmu síðar. Ákærði hafi svo ekki komið aftur niður. Gat vitnið ekki lýst afstöðu bifreiðarinnar á vettvangi fyrir dómi og bar að hún hefði ekki orðið vör við komu lögreglu á staðinn. Ákærði hafi svo skýrt vitninu frá því hvað gerst hafði þegar hann hafi komið til baka um klukkustund síðar. Vitnið hafi hins vegar ekki talið þörf á því að hún færi á lögreglustöð til að gefa skýrslu vegna málsins. Vitnið Gylfi Sigurðsson, varðstjóri, bar á sama veg og skráð er í frumskýrslu lögreglu. Vitnið kvaðst hafa veitt bifreiðinni OE-555 eftirför þá leið sem hann greindi frá í frumskýrslu. Vitnið kvaðst hafa missti sjónar af bifreiðinni á Hraunbrún. Vitnið kvaðst hafa verið í sambandi við lögreglumenn sem voru í eftirliti og þegar þeir komu auga á bifreiðina í Miðvangi stuttu síðar, kvaðst vitnið hafa farið niður á lögreglustöð til þess að taka skýrslu af ökumanni bifreiðarinnar, þegar lögreglan myndi færa hann á lögreglustöð. Vitnið bar að ákærði hafi haldið því fram við skýrslutöku hjá lögreglu að engin hafi verið að aka bifreiðinni. Vitnið Sverrir Guðfinnsson, lögreglumaður bar fyrir dómi að hann og Snorri Birgisson, lögreglumaður, hafi verið á lögreglubifreið við eftirlitsstörf umrædda nótt. Varðstjóri hafi tilkynnt þeim að hann þyrfti aðstoð til þess að fylgjast með bifreiðinni OE-555, sem þá hafi verið stödd á gatnamótum Lækjarkinnar og Lækjargötu. Vitnið kvaðst hafa verið statt á bensínstöð Esso við Lækjargötu og hafi hann séð bifreiðina við framangreind gatnamót. Hafi ökumaður, sem var snoðklipptur, verið einn í bifreiðinni og kvaðst vitnið hafa séð er hann ók af stað. Vitnið gat hins vegar ekki staðfest að ökumaðurinn hafi verið ákærði. Þegar vitnið og Snorri hafi verið á leið að Blómvangi 3, hafi þeir séð bifreiðina við Miðvang og elt hana inn að Blómvangi 3, þar sem bifreiðinni hafi þá verið beygt handbremsubeygju inn í innkeyrslu hússins. Hafi lögreglubifreiðin ávallt fylgt fast á eftir bifreiðinni en vitnið þó misst sjónar af henni í örstutta stund þegar hún beygði inn innkeyrsluna, enda vitnið þá verið að gera sig klárt til að stökkva út úr henni. Hafi ákærði staðið við dyr bifreiðarinnar, sem ekki hafi verið í gangi, þegar vitnið hafi komið að henni. Bar vitnið að það hefði ekki séð ákærða stíga út úr bifreiðinni en að ákærði hefði verið með lykla hennar í vasanum. Bar vitnið að það hafi strax þekkt manninn sem ákærða. Vitnið kvaðst þá hafa fundið áfengislykt af ákærða og því boðið honum að fara í lögreglubifreiðina og tilkynnt honum að hann væri handtekinn. Vitnið hafi ekki séð aðra á vettvangi. Ákærði hafi borið á vettvangi að hafa ekki verið ökumaður bifreiðarinnar en tilgreindi ekki ökumann hennar. Vitnið Snorri Birgisson, lögreglumaður, bar fyrir dómi að hann hafi verið ásamt Sverri Guðfinnssyni, lögreglumanni, að aðstoða borgara við Strandgötu og hafi þeir verið að aka niður Lækjargötu þegar kallað hafi verið til þeirra í talstöð að kanna kyrrstæða bifreið á mótum Lækjarkinnar og Lækjargötu. Hafi þeir hins vegar ekki getað haft afskipti af bílnum þá þar sem þeir hafi enn verið að aðstoða borgarann. Hafi Gylfi Sigurðsson tilkynnt þeim að hann fylgdi eftir bifreiðinni á ómerktri lögreglubifreið en vitnið síðar fengið upplýsingar um hvar skráður eigandi bifreiðarinnar byggi að Blómvangi 3. Bar vitnið að lögreglumennirnir hefðu í kjölfarið séð bifreiðina aftur við Miðvang og þá veitt henni eftirför inn Blómvang en bifreiðin þá tekið handbremsubeygju inn á Blómvang 3. Hafi lögreglubifreiðin fylgt fast á eftir bifreiðinni eða verið í um 8-10 metra fjarlægð. Við það að bifreiðinni hafi verið beygt inn innkeyrsluna að Blómvangi 3 hafi vitnið hins vegar misst sjónar á henni örskamma stund. Hafi bifreiðin svo verið stöðvuð þegar lögreglubifreiðin hafi komið inn á stæðið. Vitnið bar að hann hafi séð ákærða fara út úr bifreiðinni og að enginn annar hefði verið á vettvangi eða í bifreiðinni. Í kjölfarið hafi Sverrir Guðfinnsson, lögreglumaður, farið og haft afskipti af ökumanni hennar. Þá bar vitnið að ákærði hefði haldið því fram að hann hefði ekki verið ökumaður bifreiðarinnar en hins vegar hefði ekki komið fram af hans hálfu að frændi hans hefði ekið henni. Hafi ákærði þá verið færður á lögreglustöð þar sem tekin hafi verið af honum skýrsla og honum tekin blóð- og þvagsýni. Vitnið Ægir Ellertsson, lögreglumaður, bar fyrir dómi að ákærði hefði komið á lögreglustöð í kringum 23. janúar og með honum A. Hafi ákærði þá haft orð á því að A hefði ekið þeirri bifreið sem mál þetta snýst um umrætt sinn. Ekki hafi þó verið rætt frekar við A þetta sinn. Vitnið bar að Fangelsismálastofnun hafi á þessum tíma verið að boða ákærða í afplánun vegna eldra máls og hafði áður synjað beiðni ákærða að fá að afplána fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu á þeirri forsendu að mál þetta væri enn ódæmt. Niðurstöður. Ákærði hefur bæði fyrir dómi og hjá lögreglu neitað sök. Ákærði bar á vettvangi að annar maður hefði ekið bifreiðinni án þess að tilgreina nafn hans. Ákærða var í lófa lagið að tilgreina nafn frænda síns sem þá var staddur á heimili hans að hans sögn fyrir dómi, en það gerði hann ekki og hefur ekki gefið á því neina skynsamlega skýringu. Þá er framburður ákærða líka ótrúverðugur í ljósi þess að hann sá ekki ástæðu til þess að tilgreina nafn meints ökumanns hjá lögreglu fyrr en 23. janúar 2006 eftir að hafa fengið boðunarbréf frá Fangelsismálastofunum að koma í afplánun vegna eldri dóms. Fangelsismálstofnun mun hafa hafnað því að ákærði afplánaði þá refsingu með samfélagsþjónustu, þar sem ákærði ætti ódæmt mál í kerfinu, samkvæmt framburði Ægis Ellertssonar, lögreglumanns fyrir dómi. Þá er framburður vitnisins A einnig metinn ótrúverðugur. Vitnið bar fyrir dómi að hann hefði fengið lánaðan bíl ákærða fyrr um kvöldið er hann yfirgaf skírnarveisluna, þrátt fyrir að hafa komið á bifreið er hann kvaðst hafa skilið eftir á bifreiðastæði fyrir utan heimili ákærða. Þá er það ótrúverðugt að ákveða að skila bifreiðinni heim til ákærða um klukkan sex að morgni annars í jólum, en þá kvaðst vitnið hafa verið á heimili sínu á Berjavöllum. Vitnið lýsti fyrir dómi þeirri leið er hann ók frá heimili sínu að heimili ákærða og liggur sú leið hvergi saman um þær götur er lögreglan veitti bifreið ákærða eftirför að undaskildu Miðvangi og Blómvangi. Eftir að Gylfi Sigurðsson, varðstjóri missir sjónar af bifreiðinni við Hraunbrún sjá lögreglumennirnir Sverri Guðfinnsson og Snorri Birgisson bifreiðina þar sem henni var ekið eftir Miðvangi. Lögreglumennirnir báru fyrir dómi að þeir hafi veitt bifreiðinni eftirför um Miðvang og Blómvang og fylgt henni fast eftir. Þeir kváðust hafa misst sjónar af bifreiðinni í örskamma stund er hún sveigði með handbremsubeygju inn í innkeyrsluna við Blómvang 3. Vitnið Snorri Birgisson bar fyrir dómi að bifreiðin hafi verið stöðvuð er þeir hafi ekið inn á bifreiðastæðið, en hann kvaðst hafa séð ákærða stíga út úr bifreiðinni. Enginn annar hafi verið á vettvangi. Vitnið Sverri Guðfinnsson lögreglumaður bar fyrir dómi að lögreglubifreiðin hafi fylgt bifreið ákærða fast eftir sem leið lá um Miðvang og Blómvang. Vitnið kvaðst hafa misst sjónar af bifreiðinni í örstutta stund er henni var ekið inn í innkeyrsluna við Blómvang 3. Vitnið kvaðst í sama mund hafa undirbúið sig til þess að stökkva út úr bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða standa við bifreiðina og hún hafi ekki verið í gangi. Ákærði hafi verið með kveikjuláslykla bifreiðarinnar í vasanum. Vitnið kvaðst ekki hafa séð aðra á vettvangi. Ennfremur bar vitnið að útlit ákærða samsvaraði til útlits ökumanns bifreiðarinnar, þegar henni var ekið af stað við gatnamót Lækjarkinnar og Lækjargötu. Þegar þetta er virt sem að framan er rakið, verður ekki vefengt með skynsamlegum rökum, að ákærði hafi ekið bifreiðinni OE-555, undir áhrifum áfengis í umrætt sinn. Telst því sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot það er í ákæru greinir og er það rétt fært til lagaákvæða. Verður hann því dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar, eins og í ákæru er krafist. Á árinu 1998 var ákæru frestað á hendur ákærða skilorðsbundið vegna þjófnaðar. Sama ár gekkst ákærði undir lögreglustjórasátt vegna umferðarlagabrots og var sviptur ökurétti í 2 mánuði. Á árinu 2000 hlaut ákærði með dómi skilorðbundið 4 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Á árinu 2002 hlaut ákærði dóm fyrir of hraðan akstur, 60.000 króna sekt og ökuréttarsviptingu í 3 mánuði. Á árinu 2003 hlaut ákærði dóm fyrir sviptingarakstur og of hraðan akstur, 145.000 króna sekt. Næst hlaut ákærði dóm þann 7. júlí 2004 fyrir of hraðan akstur, og fyrir að hafa ekki meðferðis ökuskírteini og ölvunarakstur. Var ákærða gerð sektarrefsing og sviptur ökurétti í 7 mánuði frá 8. október 2004. Þá hlaut ákærði dóm 3. mars 2005 fyrir of hraðan akstur og fyrir að hafa ekki ökuskírteini meðferðis. Var honum gerð sekt. Næst hlaut ákærði dóm 4. apríl 2005 fyrir ítrekaðan sviptingarakstur og var honum gerð sektarrefsing að fjárhæð 100.000 krónur. Ákærði hlaut dóm þann 23. september 2005 fyrir ítrekaðan sviptingarakstur öðru sinni og var gert að sæta fangelsi í 30 daga. Næst hlaut ákærði dóm 12. október 2005 fyrir ítrekaðan ölvunarakstur. Hlaut ákærði 160.000 króna sekt og var svipur ökurétti í 2 ár. Brot ákærða sem hann er nú fundinn sekur að er því ölvunarakstur ítrekað öðru sinni og sviptingarakstur ítrekað í þriðja sinn. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Ákærði er með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja. Dæma ber ákærða með vísan til 165. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að greiða áfallinn sakarkostnað 30.117 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Bjarna Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 164.846 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri kvað upp dóm þennan. D ó m s o r ð : Ákærði, Kristján Þórir Kristjánsson, sæti fangelsi í 60 daga. Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja. Ákærði greiði 30.117 krónur í sakarkostnað auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Bjarna Ásgeirssonar hrl. 164.846 krónur. |
Mál nr. 692/2014 | Kærumál Vistun barns Gjafsókn | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þarsem fallist var á kröfuFjölskyldu- ogvelferðarnefndar Bum að sonur A yrði vistaður utanheimilis hennar í 12 mánuði. | Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir ÞorgeirÖrlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttarmeð kæru sem móttekin var í héraðsdómi 20. október 2014, en barst Hæstarétti ásamtkærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. október2014, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sonur sóknaraðila skyldivistaður utan heimilis hennar í 12 mánuði. Kæruheimild er í1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallegaað hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að vistun drengsinsutan heimilis verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar ántillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en umgjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem greinir ídómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úrríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur. |
Mál nr. 158/1999 | Líkamsárás | B var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa ráðist að A og veitt honum hnefahögg á hnakka og í andlit með þeim afleiðingum að hann féll í götuna og hlaut skurði í andlit. Talið var sannað að B hefði brotið gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu staðfest og var refsing ákveðin með tilliti til 1. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga og B dæmdur til fangelsisrefsingar. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægari viðurlaga. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Með hliðsjón af sakarferli hans, sem greint er frá í héraðsdómi, verður að ákveða refsingu með tilliti til 1. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981. Að þessu gættu er refsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, sem verður þannig staðfestur. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Ákærði, Brynjar Einir Einarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. mars 1999. Mál þetta sem dómtekið var 9. febrúar sl. er höfðað fyrir dóminum með ákæru lögreglustjórans í Rangárvallasýslu útgefinni 7. desember 1998, á hendur Brynjari Eini Einarssyni, Engjaseli 79, Reykjavík, kt. 060275-4919 fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 19. júlí 1998, fyrir utan félagsheimilið Njálsbúð, Vestur-Landeyjum, ráðist að Aðalsteini Árdal Björnssyni, fæddum 28. maí 1978, og veitt honum hnefahögg á hnakka, með þeim afleiðingum að hann féll í götuna og hlaut skurði á varir og höku. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Sækjandi krefst þess að ákærði verði auk þess dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar þar með talinna saksóknarlauna í ríkissjóð. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði ákvörðuð svo væg viðurlög sem lög framast heimila. Þá gerir verjandinn kröfu um að honum verði tildæmd málsvarnarlaun. I. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Hvolsvelli eru málavextir þeir að aðfaranótt sunnudagsins 19. júlí 1998 voru lögreglumenn að störfum við félagsheimilið Njálsbúð, Vestur-Landeyjahreppi, en þar stóð þá yfir fjölmennur dansleikur. Róstur voru á planinu framan við húsið þar sem mikill fjöldi samkomugesta var saman kominn í góðu veðri. Um kl. 01:15 fann Rúnar Steingrímsson lögreglumaður Aðalstein Árdal Björnsson liggjandi í blóði sínu á planinu vestan við húsið. Á vettvangi gaf sig fram við lögreglu Björgvin Gíslason sem kvaðst hafa orðið vitni að því að Brynjar Einir Einarsson, ákærði í máli þessu, sló Aðalsteinaftan frá þannig að hann féll á planið. Samkvæmt vottorði Hrafns V. Friðrikssonar heilsugæslulæknis á Hvolsvelli kom Aðalsteinn Árdal Björnsson á Heilsugæslustöðina á Hvolsvelli um kl. 02:20 um nóttina í fylgd lögreglu. Áverkum í andliti hans er lýst þannig að hann sé bólginn á hægri kinn og á efri vör sé tættur skurður sem nái upp í nösina og á höku séu 2 upphöggnir skurðir og sprungur innan á vörum sem séu stokkbólgnar. Tennur virðist heilar en hann eigi erfitt með að opna munninn og bíta saman tönnunum vegna sársauka í kjálkum. Vottorðið getur ekki um áverka á hnakka. Ákærði, sem kveðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis í umrætt sinn, hefur viðurkennt að hafa slegið Aðalstein Árdal Björnsson eitt högg með krepptum hnefa á vinstri kjálka. Hann kveður ástæðuna fyrir því að hann sló Aðalstein vera þá að skömmu áður hafi Aðalsteinn kýlt til hans um leið og hann gekk fram hjá honum og kærustu hans. Hann hafi ekki svarað í sömu mynt, en farið á eftir Aðalsteini sem hafi þar skammt frá lent í áflogum. Hann hafi gengið upp að hlið Aðalsteins og slegið hann eitt högg, en síðan strax snúið sér undan og ekki séð hvort Aðalsteinn féll við. Hann hafi enga áverka séð á andliti Aðalsteins áður en hann sló hann. Vitnið Aðalsteinn Árdal Björnsson hefur greint frá því að hann muni atburðarásina umrætt sinn ekki mjög vel, en hann hafi verið ölvaður. Er frásögn hans af atvikum mjög óskýr. Í framburði hans kemur þó fram að hann hafi fyrst fengið þungt högg aftan á hnakkann og við það misst meðvitund og dottið. Þegar hann hafi verið að reyna að standa upp hafi hann fengið högg á hægri kinn. Hann hafi ekki vitað hver sló hann, en stúlka sem hann þekki hafi sagt honum að ákærði hafi gert það. Vitnið Björgvin Gíslason hefur greint frá því að hann hafi ekki verið undir áhrifum áfengis umrædda nótt. Hann hafi orðið vitni að því, að þegar strákar sem Aðalsteinn Árdal hafði verið að slást við voru að ganga í burtu, hafi ákærði komið aðvífandi og slegið hann eitt högg aftan frá í hnakkann þannig að hann rotaðist og féll fram fyrir sig og lenti með andlitið í götunni. Gatan hafi öll verið í glerbrotum og þegar hann hafi staðið upp hafi hann verið illa farinn í andlitinu og allur í blóði, en hann hafi enga áverka haft á andlitinu áður. Vitnið Gunnlaugur Dan Hafsteinsson hefur greint frá því að hann hafi orðið vitni að því þegar ákærði hafi komið aftan að Aðalsteini Árdal í umrætt sinn og veitt honum högg á hnakkann. Við höggið hafi Aðalsteinn Árdal fallið fram fyrir sig og lent með andlitið beint á malbikinu sem hafi allt verið í glerbrotum. Þegar hann hafi risið upp hafi hann verið alblóðugur í framan, en hann hafi ekki svo hann viti verið með áverka áður en hann datt. II. Ákærði hefur viðurkennt að hafa slegið Aðalstein Árdal eitt hnefahögg, en borið að það hafi verið á vinstri kjálka en ekki aftan á hnakka eins og honum er gefið að sök í ákæru. Með svo til samhljóða framburði vitnanna Björgvins Gíslasonar og Gunnlaugs Dan Hafsteinssonar verður að telja sannað að ákærði hafi veitt Aðalsteini hnefahöggið í hnakka eins og honum er gefið að sök í ákæru. Þá hafa sömu vitni borið að Aðalsteinn hafi við höggið fallið fram fyrir sig og með andlitið í götuna sem þakin var glerbrotum, en Aðalsteinn hefur borið að hann hafi misst meðvitund þegar hann fékk höggið í hnakkann. Verður því að telja sannað að Aðalsteinn hafi við höggið fallið fram fyrir sig og með andlitið í götuna. Vitnin hafa einnig borið að ákærði hafi verið alblóðugur í framan þegar hann stóð upp. Verður því að telja sannað að Aðalsteinn hafi við fallið hlotið þá áverka á andliti sem lýst er í ákæru og er í samræmi við læknisvottorð það sem frammi liggur í málinu, en vitnin sem og ákærði hafa borið að Aðalsteinn hafi ekki verið með áverka í andliti áður en ákærði sló hann. Samkvæmt framangreindu er sannað að ákærði hafi framið brot það sem honum er gefið að sök í ákæru og varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur áður sætt refsingu fyrir líkamsmeiðingar. Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann með dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 20. september 1994 var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi skilorðsbundið og sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann með dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 4. desember 1995 dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 217. og 219. gr. almennra hegningarlaga. En jafnframt var hann dæmdur fyrir brot á 1. mgr. 4., 2. mgr. 36., 2. mgr. 37. og 1. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Brotið gegn 217. gr. almennra hegningarlaga var framið fyrir uppkvaðningu dómsins frá 20. september 1994 og var því um hegningarauka að ræða að því leiti. Jafnframt var um að ræða skilorðsrof dómsins frá 20. september 1994 og var sá dómur því dæmdur með. Að auki hefur ákærði tvívegis hlotið refsingu fyrir umferðarlagabrot. Í fyrra skiptið samkvæmt sátt á árinu 1992 fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga og hið síðara með dómi Héraðsdóms Suðurlands 24. apríl 1996 fangelsi í 30 daga fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til sakarferils hans. En einnig þykir verða að líta til þess hvernig brotið var framið og að brotavilji ákærða var ákveðinn. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga. Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóðs, 30.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur. Þorgerður Erlendsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur tafist lítillega vegna embættisanna dómara. D ó m s o r ð: Ákærði, Brynjar Einir Einarsson, sæti fangelsi í 45 daga. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóðs, 30.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur. |
Mál nr. 417/2016 | Skaðabætur Vinnuslys Gjafsókn Líkamstjón Orsakatengsl Óhappatilvik | A krafðist skaðabóta úr ábyrgðartryggingu vegna tjóns sem hann varð fyrir í vinnu sinni þegar hann var að slá gras umhverfis glompu á golfvelli og rann til með þeim afleiðingum að hann og sláttuvélin fór ofan í glompuna og hlaut hann varanlega áverka á fingrum hægri handar er þeir lentu í ljá vélarinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt aðgæslu væru jafnan þörf við notkun vélknúins tækis af þeirri gerð sem A hafði notað við sláttinn bæri á hinn bóginn að líta til þess að sláttur með umræddu tæki væri ekki í eðli sínu flókin athöfn og slíkar vélar væru seldar almenningi án þess að krafist væri kunnáttu í notkun þeirra. Var talið að orsök slyssins yrði ekki rakin til atvika sem V hf. bæri ábyrgð á heldur óhappatilviks. Var V hf. því sýknað af kröfu A. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæmahæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson og IngveldurEinarsdóttir settur hæstaréttardómari.Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júní 2016. Hann krefst aðallegasýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann aðallegamálskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verðifelldur niður á báðum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðarfyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir því að þegar stefndi var 10.júlí 2012 að slá gras með „Flymo“ loftpúðasláttuvél umhverfis glompu ágolfvelli […], rann hann til með þeim afleiðingum að sláttuvélin fór ofan íglompuna og hvolfdi og stefndi, sem samhliða rann þar niður, hlaut varanlegaáverka á löngutöng og baugfingri hægri handar við það að fingurnir lentu í ljávélarinnar. Stefndi telur áfrýjanda bera ábyrgð á tjóni sínu á grundvelliskaðabótaábyrgðar ábyrgðartryggingartakans Golfklúbbs […] samkvæmt sakarregluskaðabótaréttar, sem og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Um skilyrðiþeirrar ábyrgðar vísar stefndi öðru fremur til þess að sú sláttuvél semGolfklúbburinn lét honum í té og nýtt var í umrætt sinn hafi ekki hentað tilverksins sem og að Golfklúbburinn hafi vanrækt að leiðbeina stefnda um verklagog þjálfun í meðferð hennar en hann hófstörf á vellinum 27. júní fyrr um sumarið. Að loknum munnlegum flutningi málsins fyrir Hæstarétti hafa málavextirskýrst enn frekar og ekki er lengur til staðar neinn sá ágreiningur um tildrögslyssins sem máli skiptir. Er því lagt til grundvallar að stefndi hafi runnið tilvið sláttinn í umrætt skipti með framangreindum afleiðingum.Á það er fallist með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni, að ekkert liggi fyrir annað en að umræddsláttuvél hafi á nefndum tíma virkað sem skyldi og að hún hafi verið ætluð tilþess að slá við halla allt að 45° en upplýst er að hallinn að glompunni hafi veriðallt að því svo mikill. Í málinu liggja jafnframt fyrir tölvubréf starfsmannaGolfklúbbs Reykjavíkur og Golfklúbbs Grindavíkur þar sem fram kom að sams konarvélar væru notaðar á völlum golfklúbbanna tveggja og notuð var á […] í umrættsinn. Hvað sem líður órökstuddri niðurstöðu Vinnueftirlitsins annars efnis í umsögnþess 5. september 2009 verður með hliðsjón af framangreindu ekki á það fallistað sláttuvélinni hafi verið áfátt eða að hún hafi ekki hentað til verksins.Óumdeilt er að í upphafi fékk stefndi ekki aðra fræðslu um notkunvélarinnar en að honum var sýnt hvernig hún virkaði. Þótt aðgæslu sé jafnanþörf við notkun vélknúins tækis af þessari gerð ber á hinn bóginn að líta tilþess að sláttur með svokallaðri „Flymo“ loftpúðasláttuvél er ekki í eðli sínuflókin athöfn og slíkar vélar eru á markaði seldar jafnt almenningi semfyrirtækjum án þess að krafist sé neinnar kunnáttu í notkun þeirra. Að þessuvék stefndi í framburði sínum fyrir héraðsdómi þegar hann sagði: „Það er ekkertvoðalega erfitt að vinna með þessi tæki“. Jafnframt er til þess að líta aðstefndi, sem var 31 árs, hafði á slysdegi starfað á golfvellinum í tvær vikurvið að „snyrta sandbunkarana og svoleiðis og sjá um að golfvöllurinn liti velút, nota sláttuvélarnar ef þess þurfti.“ Þá er ósannað að fótabúnaður stefndahafi átt þátt í slysinu. Það varð, svo sem fyrr greinir, vegna þess að hann féllvið og rann á eftir sláttuvélinni niður í glompuna. Af hálfu stefnda hefur ekkiverið rökstutt hvers eðlis þær leiðbeiningar gætu hafa verið sem hefðu getað afstýrtfalli hans í umrætt skipti. Auk annars skortir þannig á að sýnt hafi verið framá orsakasamband milli slyssins og ætlaðs skorts á leiðbeiningum til stefnda ummeðferð sláttuvélarinnar. Loks hefur stefndi ekki sýnt fram á það að af hálfu Golfklúbbsins hafi veriðbrotið gegn nánar greindum reglum laga nr.46/1980 um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum eða reglugerðum,settum á grundvelli þeirra laga, með þeim hætti að saknæmt geti talist.Samkvæmt öllu framangreindu verður orsökslyssins ekki rakin til atvika, sem áfrýjandi ber ábyrgð á, heldur óhappatilviks.Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.Rétt er að málskostnaður á báðum dómstigumfalli niður.Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndaverður staðfest, en um gjafsóknarkostnað hans hér fyrir dómi fer eins og ídómsorði greinir.Dómsorð:Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf.,er sýkn af kröfu stefnda, A.Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstaréttifellur niður.Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest.Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrirHæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 800.000krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur7. mars 2016. Mál þetta, sem vardómtekið 8. febrúar sl., var þingfest 10. febrúar 2015. Stefnandi er A, […]. Stefndi erVátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík. Stefnandi krefstþess að stefnda verði gert að greiða honum 4.121.570 krónur með 4,5% ársvöxtumaf 738.640 krónum frá 10. júlí 2012 til 1. janúar 2013, en af 4.121.570 krónumfrá þeim degi til 10. febrúar 2015, og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags,allt að frádregnum 509.490 krónum sem stefndi greiddi 29. desember 2014. Þákrefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts eins og málið væri eigigjafsóknarmál. Stefndi krefstaðallega sýknu af kröfu stefnanda en til vara lækkunar. Þá krefst hann í báðumtilvikum málskostnaðar. I Stefnandi varráðinn tímabundið til starfa á golfvellinum […] hjá Golfklúbbi […] frá 27. júní2012 til 31. mars 2013. Þann 10. júlí 2012 slasaðist stefnandi við störf sínþar sem hann var að slá gras á golfvellinum umhverfis glompu á 16. flöt með„Flymo“ loftpúðasláttuvél af gerðinni Husqvarna GX 560. Halli er á bakkanumniður að glompunni þar sem stefnandi var að slá, en málsaðila greinir á umhversu mikill hallinn sé. Stefnandi heldur því fram að hann sé 45° en stefnditelur hann 40°. Stefnandi stóð við efri brún hallans þegar hann rann til ígrasinu sem var blautt. Stefnandi telur að nýbúið hafi verið að vökva grasið,en stefndi kveður grasið ekki vera vökvað á þessum stað, heldur hafi það veriðblautt eftir rigningu. Við það að renna til missti stefnandi takið ásláttuvélinni sem rann við það ofan í glompuna og hvolfdi. Stefnandi rann aðsláttuvélinni þannig að fótur hans fór fyrst í ljá vélarinnar en ekki hlaustáverki af því. Því næst lentu tveir fingur stefnanda, langatöng og baugfingurhægri handar, í ljá vélarinnar. Fingur stefnandabrotnuðu á efri kjúkum og hékk efsti hluti fingranna aðeins á skinninu. Aukþess fór sin í löngutöng stefnanda í sundur. Stefnandi var strax eftir slysiðfluttur með sjúkrabíl á [Heilbrigðisstofnun] og var sendur þaðan áLandspítalann í Fossvogi þar sem hann gekkst undir aðgerð. Stefnandi lá inni áspítalanum yfir nótt og var í gifsi fyrst á eftir. Hann var síðan í varfærinnihreyfiþjálfun undir leiðsögn sjúkraþjálfara frá ágúst 2012 og síðar sjúkraþjálfunfram til júlí 2013. Stefnandi var óvinnufær vegna slyssins til áramóta2012/2013. Slys stefnanda vartilkynnt lögreglu og Vinnueftirlitinu. Lögreglan kom á vettvang eftir aðstefnandi hafði verið fluttur í burtu. Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 12.júlí 2012, ræddi lögreglan við stefnanda daginn eftir slysið. Er þar haft eftirhonum að hann hafi misstigið sig í grasinu sem hafi verið blautt eftir vökvun.Þá er þar haft eftir tveimur drengjum sem voru viðstaddir slysið að stefnandihafi runnið til og misst takið á vélinni svo að hún hafi runnið niður ísandglompuna og oltið á hliðina. Stefnandi hafi síðan runnið á eftir vélinni ogfarið með höndina í blaðið sem hafi enn verið að snúast. Samkvæmt umsögnVinnueftirlitsins, dags. 5. september 2012, voru aðstæður á slysstað erfiðarþar sem verið var að slá í miklum halla með loftpúðasláttuvél sem erfitt er aðstjórna í hallandi landslagi. Sláttuvélinni er lýst sem loftpúðavél af gerðinniFlymo með tveggja hestafla Briggs & Stratton vél. Öryggisrofi (handfang)hafi verið á vélinni en þar sem ljárinn stöðvist ekki um leið og handfanginu ersleppt, hafi það ekki nægt til að afstýra slysinu. Niðurstaða rannsóknarVinnueftirlitsins var að orsök slyssins mætti rekja til erfiðra aðstæðna þarsem slegið var í miklum halla með sláttuvél sem hentaði illa til verksins.Vinnueftirlitið gaf Golfklúbbnum fyrirmæli um úrbætur sem fólust í því að metaskyldi áhættuna við sláttuvinnu í hallandi landslagi og tryggja að aðeins værunotuð tæki sem hentuðu til þeirra verka. Stefnandi tilkynntistefnda um slysið 14. nóvember 2012, en Golfklúbbur […] var með tryggingar hjástefnda á slysdegi. Stefndi féllst á að slysið væri bótaskylt úrlaunþegatryggingu Golfklúbbs […]. Með bréfi, dags. 6. desember 2012, krafðiststefnandi einnig bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu Golfklúbbs […]. Stefndihafnaði skaðabótaábyrgð með bréfi, dags. 5. febrúar 2013. Stefnandi skautákvörðun stefnda til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem komst að þeirriniðurstöðu 14. mars 2014, í máli nr. 40/2014, að líkamstjón stefnanda skyldibætt úr ábyrgðartryggingu Golfklúbbs […] hjá stefnda. Með bréfi, dags. 26. mars2014, tilkynnti stefndi að hann hefði ákveðið að hlíta ekki úrskurðiúrskurðarnefndarinnar með vísan til heimildar 4. mgr. 7. gr. samþykkta fyrirúrskurðarnefndina. Málsaðilar óskuðusameiginlega eftir mati B læknis og C hæstaréttarlögmanns á heilsutjónistefnanda í september 2014. Niðurstöður matsins, dags. 8. október 2014, eru þærað heilsufar stefnanda í kjölfar slyssins hafi orðið stöðugt 1. janúar 2013,tímabundin óvinnufærni hafi verið 100% tímabilið 10. júlí til 31. desember2012, tímabil þjáninga hafi verið það sama og tímabil óvinnufærni, þar af meðrúmlegu í tvo daga. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins sé 3 stig ogvaranleg örorka 5%. Í kjölfar framangreindrarniðurstöðu matsmanna greiddi stefndi stefnanda bætur úr launþegatrygginguGolfklúbbs […], samtals 509.490 krónur vegna varanlegrar læknisfræðilegrarörorku (miska) og dagpeninga vegna óvinnufærni tímabilið 1. október til 31.desember 2012, samtals að fjárhæð 489.466 krónur. Dómendur og lögmennaðila gengu á vettvang við upphaf aðalmeðferðar. II Stefnandi reisirkröfu sína á því að tjón hans skuli bætt úr frjálsri ábyrgðartrygginguGolfklúbbs […] hjá stefnda, en Golfklúbburinn beri skaðabótaábyrgð á tjóni hansvegna slyssins 10. júlí 2012, m.a. á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar ogmeginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Stefnda beri því að greiða stefnandabætur samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfunni sé beint gegnstefnda á grundvelli heimildar 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 umvátryggingarsamninga. Um skaðabótaábyrgðGolfklúbbs […] vísar stefnandi fyrst og fremst til þess að sláttuvélin semhonum hafi verið fengin til að slá umhverfis glompuna á 16. flöt golfvallarinshafi ekki hentað til verksins. Samkvæmt umsögn Vinnueftirlitsins, dags. 5.september 2012, sé erfitt að stjórna þessari tegund af sláttuvél, Flymoloftpúðasláttuvél, í hallandi landslagi. Auk þess sé sláttuvélin lengi aðslökkva á sér þótt öryggishandfangi sé sleppt. Það valdi því að spaðarvélarinnar snúist áfram og geti valdið tjóni. Með því að stefnanda hafi ekkiverið fengið tæki sem hentaði til verksins hafi Golfklúbburinn brotið gegn 13.,21., 23. og 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi ávinnustöðum, en samkvæmt þeim ákvæðum ber atvinnurekanda að tryggja að gætt séfyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Golfklúbburinnhafi ekki farið eftir þessu þar sem stefnanda hafi verið fengin sláttuvél semhafi hentað illa til verksins sem hann hafi átt að vinna og hafi ekki veriðörugg. Þá skuli verkstjóri á vinnustað sjá til þess að búnaður sé góður ogöruggt skipulag sé ríkjandi og beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þessstarfssviðs sem hann stjórni séu fullnægjandi að því er varði aðbúnað,hollustuhætti og öryggi, sbr. 21. og 23. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu séljóst að verkstjóri Golfklúbbsins hafi ekki fylgt þessu. Hann hefði átt að sjátil þess að stefnandi fengi sláttuvél sem væri örugg og hentaði til verksins. Stefnandi teljiGolfklúbbinn og forsvarsmenn hans hafa brotið gegn reglum nr. 367/2006 umnotkun tækja, t.d. 5. og 8. gr., með því að fá honum ekki sláttuvél sem hentaðitil verksins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 46. gr. laga nr. 46/1980 beri að fylgjaviðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælumVinnueftirlits ríkisins, að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi hverskonar véla og tækja. Samkvæmt 5. gr. reglna nr. 367/2006 beri atvinnurekanda aðgera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum sé ætlaðað nota innan fyrirtækis hæfi því verki sem inna skal af hendi. Enn fremur beriatvinnurekanda, við val á tæki, að hafa til hliðsjónar þau sérstökuvinnuskilyrði, áhættu og aðstæður sem fyrir hendi eru innan vinnustaðar, þar ámeðal áhættu á vinnusvæði og þá áhættu sem notkun viðkomandi tækis hefur í förmeð sér. Ljóst sé, meðal annars af umsögn Vinnueftirlitsins, að sláttuvélinhafi ekki hentað til verksins sem stefnandi hafi átt að vinna. Þá hafiGolfklúbburinn og forsvarsmenn hans ekki haft mið af aðstæðum á golfvellinumþegar stefnanda hafi verið fengin þessi tiltekna sláttuvél til verksins. Golfklúbburinn berieinnig ábyrgð á því að hafa ekki veitt stefnanda ráðleggingar um heppileganbúnað eða fatnað við störf á golfvellinum. Stefnandi hafi þurft að slágolfvöllinn þegar hann hafi verið nývökvaður og þar með sleipur vegna bleytu.Það hefði því átt að ráðleggja honum að klæðast skóm með sérstaklega grófumsólum eða gripi. Til dæmis sé golf leikið í sérstökum golfskóm með gúmmígöddumtil þess að ná viðunandi gripi. Með því að veitastefnanda ekki viðeigandi ráðleggingar hafi Golfklúbburinn og forsvarsmenn hanseinnig brotið gegn 13., 14., 21., 23. og 37. gr. laga nr. 46/1980. Sérstaklega sé vísað til þess að samkvæmt 14. gr. skuliatvinnurekandi sjá til þess að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun íað framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Þá hafi einnigverið brotið gegn 7. og 8. gr. reglna nr. 367/2006. Samkvæmt síðarnefndaákvæðinu beri atvinnurekanda að sjá til þess að starfsmenn fái nauðsynlegakennslu og þjálfun við að framkvæma störf sín þannig að ekki stafi hætta af,m.a. þjálfun í viðbrögðum við hættu sem notkun tækis kunni að hafa í för meðsér. Einnig sé vísað til 25. gr. reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag ogframkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum þar sem kveðið sé á um aðatvinnurekandi skuli tryggja að hver starfsmaður fái nægilega þjálfun hvað varðiaðbúnað, öryggi og hollustuhætti, m.a. með upplýsingum og tilsögn sem sniðin séað vinnuaðstæðum hans og starfi um leið og hann er ráðinn til starfa. Stefnanditelji að hann hafi ekki fengið viðeigandi leiðbeiningar og þjálfun í samræmivið þessar reglur. Stefnandi hafisinnt starfi sínu í vinnuskóm með stáltá og gúmmísóla sem hann hafi áttsjálfur. Eftir á að hyggja telji stefnandi að þetta hafi ekki verið heppilegurfótabúnaður þar sem hann hafi ekki náð nægilega góðu gripi í grasinu.Búnaðurinn hafi þó komið í veg fyrir að stefnandi slasaðist einnig á fæti þegarfótur hans hafi runnið í sláttuvélina. Skór með góðu gripi hefðu hins vegarmögulega komið alveg í veg fyrir slysið. Golfklúbburinn hefði þ.a.l. átt aðráðleggja honum að vera í slíkum skóm við vinnu sína. Stefnandi hafi unnið mjögstutt hjá Golfklúbbnum og haft litla reynslu af störfum sem þessum. Því sé ekkihægt að gera kröfu til þess að hann hefði áttað sig á þessu sjálfur. HjáGolfklúbbnum sé aftur á móti mikil reynsla af rekstri golfvallarins og því hafiforsvarsmenn þar mátt gera sér fulla grein fyrir þessu. Stefnandi teljifullsannað að grasið hafi verið blautt þegar slysið hafi orðið. Í tilkynningutil Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. nóvember 2012, sem sé undirrituð ogstimpluð af hálfu Golfklúbbsins segi m.a. orðrétt: „Völlurinn hafði veriðvökvaður um nóttina auk þess sem það hafði rignt dálítið“. Fullyrðingar ogmálatilbúnaður stefnda hvað þetta varði sé því í andstöðu við fyrirliggjandigögn frá Golfklúbbnum. Fullyrðingu stefndaum að slysið megi eingöngu rekja til þess að stefnandi hafi misstigið sigumrætt sinn sé mótmælt. Afstaða stefnda virðist byggjast á ummælum ílögregluskýrslu sem séu höfð eftir stefnanda í gegnum síma þegar hann hafiverið nýútskrifaður af sjúkrahúsi eftir aðgerð vegna slyssins. Stefnandi hafiekki sagt þetta við lögregluna og hann hafi ekki staðfest skýrslu lögreglu.Ekki komi fram í öðrum gögnum að stefnandi hafi misstigið sig, sbr. t.d.tilkynningu til Vinnueftirlitsins, dags. 12. júlí 2012, þar sem segi aðstefnandi hafi runnið til. Slysinu sé lýst ítarlega í tilkynningu tilSjúkratrygginga Íslands, sem Golfklúbburinn hafi staðfest með undirritun sinni14. nóvember 2012, en þar segi að stefnandi hafi runnið í bleytu í grasinu. Þvísé ekki hægt að byggja á því að stefnandi hafi misstigið sig. Stefndi verði aðbera hallann af mögulegum sönnunarskorti, en það hafi staðið Golfklúbbnum nærað tryggja sér sönnun um þær staðreyndir sem deilt séu um í málinu. Stefnandi telji þóað það sé fullsannað með umsögn Vinnueftirlitsins, sem hafi skoðað aðstæður ávettvangi og sláttuvélina eftir slysið, að vélin hafi ekki hentað til verksinssem stefnandi hafi átt að vinna umrætt sinn. Stefnandi berisjálfur enga sök á því að slysið hafi orðið. Hann hafi enga reynslu haft afstörfum á golfvöllum, hafi unnið í stuttan tíma hjá Golfklúbbnum og hafi aðeinsfarið eftir þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem hann hafi fengið. Hann hafiheldur enga sérstaka reynslu eða þekkingu haft á sláttuvélum af þessari gerð.Samkvæmt 23. gr. a í skaðabótalögum sé ekki heimilt að skerða bótaréttstarfsmanns vegna meðábyrgðar í vinnuslysi nema hann hafi sýnt af sérstórkostlegt gáleysi eða ásetning. Það sé af og frá að stefnandi hafi sýnt afsér slíka háttsemi í aðdraganda slyssins og því sé óheimilt að skerða bótarétthans. Samkvæmt ölluofangreindu beri Golfklúbburinn skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvellisakarreglu skaðabótaréttar. Hvað ábyrgð á störfum verkstjóra varði sé einnigvísað til meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Tjón stefnanda vegna slyssinsþann 10. júlí 2012 sé þ.a.l. bótaskylt úr ábyrgðartryggingu Golfklúbbsins, sbr.skilmála stefnda nr. AA20, einkum 4. gr. Skaðabótakrafastefnanda byggist á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðum matsgerðarfrá 8. október 2014. Krafan sundurliðist á eftirfarandi hátt:. Tímabundið atvinnutjónskv. 2. gr. skbl. kr. 123.675.-2. Þjáningabætur skv. 3. gr.skbl. kr. 311.020.-3. Bætur vegna varanlegsmiska skv. 4. gr. skbl. kr. 303.945.-4. Bætur vegnavaranlegrar örorku skv. 5.-7. gr. skbl. kr. 3.382.930.-Samtals kr. 4.121.570.- 1) Krafa um bæturvegna tímabundins atvinnutjóns byggist á 2. gr. skaðabótalaga. Samkvæmtmatsgerð hafi stefnandi verið óvinnufær frá slysdegi 10. júlí til 31. desember2012. Tekjur hans hjá Golfklúbbi […] hafi verið samtals 228.800 krónur ámánuði, sbr. staðgreiðsluyfirlit 2012. Þótt ráðning stefnanda hafi veriðtímabundin séu allar líkur á að stefnandi hefði getað starfað þar áfram eðaa.m.k. getað aflað sér sambærilegra tekna. Tekjur á tímabili óvinnufærni hefðuþ.a.l. átt að vera 1.372.800 krónur (228.800 x 6 mánuðir). Rauntekjur stefnandaá tímabilinu hafi hins vegar aðeins verið 1.249.125 krónur að meðtöldumdagpeningum frá stefnda. Atvinnutjón stefnanda sé því mismunurinn á þessumtveimur fjárhæðum eða samtals 123.675 krónur (1.372.800 – 1.249.125). 2) Krafa umþjáningabætur byggist á 3. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt matsgerðinni hafitímabil þjáningabóta verið 10. júlí til 31. desember 2012, þar af rúmlega í tvodaga. Stefnandi hafi því verið veikur í samtals 174 daga. Þjáningabætur aðviðbættri hækkun samkvæmt lánskjaravísitölu samkvæmt 15. gr. laganna nemisamtals 3.290 krónum á dag þann tíma sem stefnandi hafi verið rúmliggjandi ogsamtals 1.770 krónum á dag þann tíma sem hann hafi verið veikur án þess að verarúmliggjandi. Með vísan til framangreinds krefjist stefnandi 311.020 króna íbætur fyrir þjáningar ((2 x 3.290)+(172 x 1.770)). 3) Varðandi kröfuum bætur vegna varanlegs miska sé vísað til 4. gr. skaðabótalaga. Samkvæmtmatsgerð sé miski 3 stig og krafan sé því 303.945 krónur (10.131.500 x 3%) meðvísan til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og aldurs stefnanda á slysdegi. 4) Krafa um bæturvegna varanlegrar örorku sé reist á 5.-7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt matsgerðsé varanleg örorka stefnanda, samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga, vegna slyssins 5%.Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degi er heilsufar hans í kjölfar slyssinsteljist stöðugt, 1. janúar 2013, sé margfeldisstuðull hans samkvæmt 6. gr.skaðabótalaga 12,294. Varðanditekjuviðmið til grundvallar útreikningi bóta fyrir varanlega örorku sé byggt áþví að 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga taki til stefnanda en ekki 1. mgr. samaákvæðis. Eins og framlögð skattframtöl beri með sér hafi stefnandi veriðatvinnulaus hluta árs 2009 og allt árið 2010 og 2011. Þetta séu þau tekjuár semmiða ætti við samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þar sem stefnandi hafiverið atvinnulaus á þeim tíma sé rétt að beita 2. mgr. 7. gr. Stefnandi hafiunnið hjá […] á árunum 2005 og 2006, hjá […] ehf. hluta árs 2007 og hjá […] hf.frá maí það ár og þar til hann hafi misst vinnuna í júní 2009. Hann hafi svohafið störf hjá Golfklúbbi […] skömmu fyrir slysið. Stefnandi hafi því sýnt aðhann hafi verið fær um að afla tekna fyrir slysið og atvinnuleysi hans hafiekki verið viðvarandi ástand. Aðstæður stefnanda hafi því sannanlega veriðóvenjulegar á viðmiðunarárunum í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Annarmælikvarði en meðaltekjur hans sl. þrjú ár fyrir slysið sé því réttari álíklegar framtíðartekjur hans. Stefnandi telji réttan mælikvarða verameðaltekjur verkamanna árið fyrir slysið. Hann hafi enda unnið verkamannastörfáður og þegar hann hafi lent í slysinu. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunnihafi meðaltekjur verkamanna árið 2011 verið samtals 388.000 krónur á mánuði eða4.656.000 krónur fyrir allt árið. Uppreiknaðar m.t.t. launavísitölu í samræmivið meginreglu 1. mgr. 7. gr., og að viðbættu 8% framlagi í lífeyrissjóð, nemiþessar viðmiðunartekjur 5.503.385 krónum. Bætur fyrir varanlega örorku verðiþví samtals 3.382.930 krónur (5.503.385 x 12,294 x 5%). III Stefndi byggirsýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki sannað málsatvik, íöðru lagi á því að um óhappatilvik hafi verið að ræða sem enginn geti boriðábyrgð á og í þriðja lagi á því að saknæm háttsemi stefnda sé ósönnuð.Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að eitthvað saknæmt af hálfuGolfklúbbs […] hafi valdið því að hann hafi misstigið sig við slátt ágolfvellinum þannig að bótaréttur hafi stofnast honum til handa úrábyrgðartryggingu Golfklúbbsins hjá stefnda. Í stefnu komi framað stefnandi hafi misst takið á sláttuvélinni sem þá hafi runnið ofan í glompuog hvolft, hann hafi síðan runnið að sláttuvélinni með þeim afleiðingum aðfyrst hafi annar fótur hans lent í ljá vélarinnar en síðan tveir fingur hægrihandar. Stefndi telji að vegna eiginleika sláttuvélarinnar geti atvikið ekkihafa orðið með þessum hætti. Á sláttuvélinni sé öryggishandfang sem haldið sé íþegar slegið er. Þegar handfanginu er sleppt stöðvist ljár sláttuvélarinnar.Ekki liggi annað fyrir en að öryggishandfangið hafi virkað sem skyldi.Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því hvernig slysið hafi viljað til. Þarsem hann hafi ekki sannað að atvik hafi verið með framangreindum hætti getiekki komið til álita að hann eigi bótarétt úr ábyrgðartryggingu Golfklúbbsinshjá stefnda. Stefndi byggisýknukröfu sína einnig á því að um óhappatilvik sé að ræða eða atvik semeingöngu megi rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Eins og fram komi ígögnum málsins hafi stefnandi misstigið sig umrætt sinn. Engin orsakatengsl séuþví á milli aðbúnaðar eða tækjabúnaðar og slyss stefnanda. Stefnandi hafi veriðað vinna tiltölulega einfalt verk þegar hann hafi misstigið sig, m.a. hafitveir unglingsstrákar unnið með honum. Þegar óhappið hafi átt sér stað hafistefnandi verið búinn að starfa hjá stefnda í um tvær vikur. Starf hans hafinær eingöngu falist í að slá golfvöllinn, m.a. með umræddri sláttuvél.Stefnandi hafi því verið vel kunnugur staðarháttum og sláttuvélinni og þekktverkið vel. Þá sé með ölluósannað að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með þeim hætti semstefnandi byggi á að því er varði tækjabúnað og aðbúnað. Stefnandi byggi á þvíað stefndi beri skaðabótaábyrgð á því að hann hafi misstigið sig við sláttinn.Ekki sé um að ræða að saknæm háttsemi einhvers starfsmanns Golfklúbbsins hafileitt til tjóns stefnanda heldur eingöngu eigin háttsemi stefnanda. Mögulegskaðabótaábyrgð Golfklúbbs […] verði því ekki reist á reglum skaðabótaréttar umvinnuveitandaábyrgð. Verkið semstefnandi hafi unnið umrætt sinn hafi verið einfalt. Stefnandi hefði meðeðlilegri aðgæslu auðveldlega getað komið í veg fyrir slysið. Ganga verði útfrá því að stefnandi hafi ekki verið að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðiþegar slysið hafi átt sér stað og hann hefði átt að þekkja eitthvað til virknisláttuvéla og hvers beri að varast við notkun þeirra. Samkvæmt 26. gr.laga nr. 46/1980 hvíli sú skylda á starfsmönnum að gæta sjálfir að eiginaðbúnaði og öryggi á vinnustöðum, auk þess sem þeim beri skylda til að tilkynnaum það sem þeir telja athugavert. Ef stefnandi hefði talið eitthvað athugavertvið sláttuvélina eða eitthvað annað tengt verkinu og framkvæmd þess hafi súskylda hvílt á honum að láta vita um það og leitast við að bæta úr því eins oghann hafi haft þekkingu og reynslu til. Ekki hafi þurft aðveita stefnanda mikla leiðsögn um hvernig framkvæma skyldi starfið þar sem umtiltölulega einfalt verk hafi verið að ræða. Stefnandi hafi þó fengiðleiðbeiningar frá vallarstjóra áður en hann hafi byrjað starfið, honum hafiverið kennt á sláttuvélina og öryggishandfangið og hvernig rétt væri að berasig að við sláttinn. Þá hafi honum verið boðnir sérstakir skór með stáltá ogfrekar grófum sóla sem veiti gott grip. Slíkur skóbúnaður henti best við sláttá golfvelli. Ekki skipti máli þótt golfskór séu útbúnir á annan hátt en það séekki vaninn að starfsmenn á golfvelli noti golfskó við vallarstörf.Ráðleggingar um skóbúnað hefðu ekki getað komið í veg fyrir óhappið. Þar semstefnandi hafi misstigið sig hefði annar skóbúnaður engu breytt. Þá hafistefnandi fengið ráðleggingar um skóbúnað og aðgang að hentugum skóm. Stefnandihafi hins vegar ákveðið að klæðast eigin skóm við vinnuna og verði að berahallann af því sjálfur hafi þeir ekki hentað til verksins. Stefndi geti þvíekki borið ábyrgð á skóbúnaði stefnanda umrætt sinn. Stefndi mótmæliniðurstöðu Vinnueftirlitsins um að sláttuvélin sem stefnandi hafi notað umrættsinn hafi ekki hentað til verksins. Engin rök sé að finna fyrir niðurstöðunniog ljóst að hún byggi ekki á vandlegri könnun á aðstæðum eða þekkingu á þvíhvernig gras er slegið við sandglompur og hvaða tæki séu notuð á golfvöllum.Stefndi telji að sláttuvélin hafi hentað vel fyrir það verk sem stefnandi hafiunnið, enda sé það venja að nota svona sláttuvél við sambærileg verk ágolfvöllum hér á landi. Um svokallaða loftpúðasláttuvél eða „Flymo“ hafi veriðað ræða. Í umsögn Vinnueftirlitsins komi fram að sláttuvélin hafi verið„loftpúðavél af gerðinni Flymo með tveggja hestafla Briggs & Stritton vél“.Golfklúbburinn hafi notað loftpúðasláttuvélar frá framleiðandanum Husqvarna fráárinu 2000. Af upplýsingum um slíkar sláttuvélar megi sjá að þær eru hannaðar tilþess að slá erfiða fleti, sérstaklega hallandi svæði um allt að 45°. Í umsögnVinnueftirlitsins komi fram að hallinn á bakkanum niður að glompunni sé á aðgiska 45°. Hið rétta sé að hallinn sé um 40°. Hvort sem miðað sé við 40° eða45° sé ljóst að sláttuvélin hafi hentað vel til verksins, enda hönnuð til þessað slá í halla. Ekki hafi verið mögulegt að nota aðra tegund af sláttuvél viðverkið. Þá séu sambærilegar sláttuvélar notaðar á öðrum golfvöllum landsins viðsambærilegar aðstæður. Stefndi hafni þvíalfarið að Golfklúbburinn hafi sýnt af sér saknæma háttsemi og brotið gegn þeimákvæðum laga, reglugerða og reglna sem stefnandi vitni til. Stefndi teljiverulega skorta á að nægileg grein sé gerð fyrir því hvaða skyldur séu brotnarog hvernig og hvað gera hefði átt í staðinn. Varðandi 13. og 37.gr. laga nr. 46/1980 bendi stefndi á að aðbúnaður hafi verið góður, sláttuvélinhafi hentað til verksins og stefnanda hafi staðið til boða öryggisskór. Þvíhafi verið gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í 14. gr.sömu laga sé vísað til kennslu og þjálfunar starfsmanna við framkvæmd starfaþeirra. Stefnandi hafi fengið leiðsögn um notkun sláttuvélarinnar og hvernighenni skyldi beitt við upphaf starfsins. Sláttur grass sé einfalt starf og þvíekki nauðsynlegt að veita viðamiklar leiðbeiningar. Þjálfun og kennsla hafiverið fullnægjandi. Í 21. og 46. gr. laganna komi fram að búnaður allur skulivera góður og tæki þannig úr garði gerð að gætt sé fyllsta öryggis og góðsaðbúnaðar og hollustuhátta. Sláttuvélin sem notuð hafi verið hafi hentað tilverksins og ekki sé á því byggt að hún hafi ekki virkað sem skyldi. Búnaðurinnhafi því verið fyllilega öruggur til verksins. Í 23. gr. laganna greini aðstarfsskilyrði skuli vera fullnægjandi hvað varði aðbúnað, hollustuhætti ogöryggi. Ástæða þess að stefnandi hafi slasast sé sú að hann hafi misstigið sigí grasi við sláttinn. Hann hafi notað sláttuvél sem hentaði til verksins semalmennt sé notuð á öðrum golfvöllum á Íslandi við sömu störf. Starfsskilyrðihans hafi því uppfyllt skilyrði laganna. Í 5. gr.reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja sé fjallað almennt um að tæki skulihæfa viðkomandi verki. Þessa hafi fyllilega verið gætt af hálfu Golfklúbbsinsenda hafi stefndi sýnt fram á að sláttuvélin hafi hentað til verksins. Þá hafistefnandi sjálfur ákveðið að nota eigin skó í staðinn fyrir að nýta sér þáöryggisskó sem vinnuveitandi hans hafi boðið upp á. Í 7. og 8. gr. sé fjallaðum upplýsingaskyldu vinnuveitanda um notkunarskilyrði tækja og þjálfun starfsmanna.Stefnandi hafi fengið kennslu í notkun sláttuvélarinnar en hún sé einföld ínotkun. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á hvernig aðrar leiðbeiningar hefðu getaðbreytt atburðarásinni. Leiðbeiningarnar hafi verið fullnægjandi fyrir einseinfalt starf og sláttur grass sé. Þá sé ljóst að slysið hafi ekki orðið vegnanotkunar sláttuvélarinnar heldur af þeirri ástæðu einni að stefnandi hafimisstigið sig og runnið í grasinu. Varðandi25. gr. reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs ávinnustöðum um þjálfun starfsmanna að því er varði aðbúnað, öryggi oghollustuhætti á vinnustað byggi stefndi á því að stefnandi hafi fengið nægilegaþjálfun þegar hann hóf störf hjá Golfklúbbi […], honum hafi verið kennt ásláttuvélina og hvernig hann skyldi bera sig að við verkið. Því hafi ekki veriðbrotið gegn ákvæðinu. Ekki verði séð að önnur tegund sláttuvélar eða frekariþjálfun stefnanda hefði getað haft áhrif á það hvort stefnandi hefði misstigiðsig eða runnið með öðrum hætti umrætt sinn. Stefnandi byggi sjálfur ekki á þvíað aðbúnaður sláttuvélarinnar hafi leitt til þess að hann hafi misstigið sigeða runnið á annan hátt. Engin orsakatengsl séu því á milli óhappsins ogtegundar sláttuvélarinnar eða þjálfunar á hana. Golfklúbburinn beri því engasök á óhappinu. Varakrafa stefndaum lækkun byggi annars vegar á því að útreikningar stefnanda á grundvelli 2.mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu rangir og hins vegar á því aðstefnandi verði að bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Stefndi telji aðvið útreikning stefnanda á tímabundnu tekjutapi skv. 2. gr. skaðabótalaga berieinnig að draga frá greiðslu að fjárhæð 39.515 krónur sem stefnandi hafi fengiðgreiddar frá Vinnumálastofnun í júlí 2012. Tímabundið tekjutap stefnanda hafiþannig verið 84.160 krónur. Stefndi fallist áþað með stefnanda að aðstæður hans hafi verið óvenjulegar og að almennurmælikvarði 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé því ekki réttur við mat áframtíðartekjum hans. Stefndi mótmæli hins vegar tekjuviðmiði stefnanda.Stefnandi hafi ekki verið í fastri vinnu þegar óhappið hafi orðið og hafieinungis verið ráðinn tímabundið til Golfklúbbsins í gegnum átakið „Vinnandivegur“ á vegum Vinnumálastofnunar. Stefnandi hafi áður verið áatvinnuleysisbótum frá júlí 2009, en þar áður starfað hjá […], fyrst í 100%starfi en síðan í 76% starfi. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafiaflað tekna sem hafi verið hærri en lágmarkslaun áður en óhappið hafi orðið,hann hafi verið 31 árs og samkvæmt upplýsingum í matsgerð hafi hann hug áfrekara námi. Ekkert liggi fyrir um að stefnandi hefði getað aflað sér hærritekna en lágmarkslauna hefði hann ekki lent í óhappinu. Stefndi telji því réttað miða við lágmarkslaun við útreikninginn. Lágmarkslaun, uppreiknuð meðverðbótum til stöðugleikapunkts, séu 2.902.000 krónur. Bætur fyrir varanlegaörorku ættu því að vera 2.902.000 krónur x 12,294 x 5% = 1.783.859 krónur og aðfrádregnum útgreiddum örorkubótum launþegatryggingar 509.490 krónur samtals1.274.369 krónur. Verði ekki fallistá að miða við lágmarkslaun beri að miða við meðallaun verkamanna, en ekkieingöngu meðallaun karla árið 2011, en annað brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.Meðallaun verkamanna árið 2011 hafi verið 366.000 krónur og árslaun því 366.000krónur x 12 = 4.392.000 krónur. Með verðbótum til stöðugleikapunkts, auk 8%framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð séu árslaunin því 5.191.337 krónur. Bæturstefnanda vegna varanlegrar örorku skv. 5.-8. gr. séu því: 5.191.337 krónur x12,294 x 5% = 3.191.114 krónur og að frádregnum útgreiddum örorkubótumlaunþegatryggingar að fjárhæð 509.490 krónur samtals 2.681.624 krónur. Þá telji stefndi aðstefnandi þurfi að bera hluta tjóns síns sjálfur. Notkun sláttuvéla við slátt ágrasi sé tiltölulega einfalt verk sem algengt sé að krakkar úr unglingavinnustundi. Það hafi verið ákvörðun stefnanda að notast ekki við þá skó semvinnuveitandi hans hafi boðið upp á, heldur eigin skó. Verði því að ætla aðaðgæsluleysi stefnanda sjálfs hafi, a.m.k. að hluta, verið ástæða þess að hannhafi slasast. Hann verði því að bera hluta tjóns síns vegna þessa endameðábyrgð hans slík að leiða eigi til skerðingar á bótarétti hans. IV Stefnandi slasaðist við störfsín fyrir Golfklúbb […] 10. júlí 2012 þar sem hann var að slá gras á golfvellivið talsverðan halla. Stefnandi rann til og missti takið á sláttuvélinni semhvolfdi og hann féll á hana með þeim afleiðingum að tveir fingur lentu í ljávélarinnar. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins hefur verið metinn 3 stigog varanleg örorka 5%. Stefndi telur ekki sannað að málsatvik hafi verið meðþeim hætti sem stefnandi heldur fram, um óhappatilvik hafi verið að ræða og aðsaknæm háttsemi af hálfu stefnda sé ósönnuð. Stefnandi er einn til frásagnarum slysið, en svo virðist sem engin vitni hafi verið að því hvernig það bar að.Stefnandi lýsti slysinu svo fyrir dómi að hann hefði verið við slátt ágolfvellinum og tveir ungir drengir hefðu verið með honum. Hann hefði tekiðeftir því að mjög bratt væri á þessum tiltekna stað og beðið drengina um aðbíða í bílnum á meðan hann slægi þar. Þegar hann hafi slegið neðst í hallanumhafi hann runnið til og sláttuvélin hafi dregið hann niður í sandgryfjuna.Sláttuvélin hafi stungið framendanum í sandinn og lyfst upp. Hann hafi runniðmeð hægri fótinn undir vélina. Hann hafi þá verið búinn að sleppa takinu áhandfanginu en ljárinn hafi enn snúist. Hann hafi ýtt sláttuvélinni til hliðarog hún endað á hliðinni. Hann hafi svo ætlað að reisa sig upp en þá rekiðfingurna í ljáinn. Stefnandi kvaðst ekki hafa misstigið sig umrætt sinn. Þaðhafi eingöngu verið orð lögreglumannsins sem hafi ritað lögregluskýrslu umatvikið en hann hafi ekki fallist á þetta orðalag. Stefnandi lýsti starfi sínuá golfvellinum svo að í því hafi falist að láta golfvöllinn líta vel út, m.a.með því að slá grasið ef þess þurfti. Hann hafi ekki verið búinn að slá áþessum stað á golfvellinum áður en slysið hafi átt sér stað. Hann hafi ekkihaft neina fyrri reynslu af garðslætti og honum hafi hvorki verið leiðbeint umnotkun sláttuvélarinnar né fenginn öryggisbúnaður. Vitnið D, framkvæmdarstjóriGolfklúbbs […], greindi frá því að honum hefði verið kunnugt um að stefnandihefði litla sem enga reynslu. Eftir því sem hann vissi best hefði stefnandifengið leiðbeiningar frá vallarstjóra um hvernig hann ætti að sinna starfinu ogum hlífðarbúnað. Vitnið kvað mikinn halla vera við nokkrar holur á golfvellinum,en ekki væri þó þörf fyrir framlengingarbúnað á sláttuvélina og því væri hannekki til. Hann taldi hallann þar sem slysið átti sér stað vera 45°. Hann sagðiáhættumat hafa verið gert fyrir golfvöllinn, en mundi ekki hvort það hefðiverið gert fyrir eða eftir slysið. E, fyrrverandi vallarstjóriGolfklúbbs […], kvað stefnanda hafa fengið upplýsingar um starfið og að honumhefði verið sýndur búnaðurinn. Aðstoðarmaður hans hafi séð um að setjastefnanda inn í starfið. Stefnanda hafi verið boðnir skór með stáltá sem hannhafi afþakkað þar sem hann ætti svipaða skó. Vitnið kvað sláttuvélina einfalttæki sem auðvelt væri að læra á. Stefnanda hefði verið sýnt hvernig tækiðvirkaði og svo „hent út á völl“. Stefnandi hafi slegið en tveir drengir hafiverið með honum og séð um að raka grasið sem stefnandi hafi slegið. Spurður umhvort sérstaklega hafi verið farið yfir hættur sem fylgdu notkunsláttuvélarinnar og notkun í halla kvað hann svo ekki hafa verið. Hann kvaðstekki kannast við áhættumat fyrir golfvöllinn. Slys stefnanda var tilkynntlögreglu samdægurs, sem aftur tilkynnti Vinnueftirlitinu um það sama dag. Erlögregla kom á vettvang var búið að flytja stefnanda inn í sjúkrabifreið.Lögreglan ræddi við tvo drengi á vettvangi sem sagðir voru vitni að slysinu, enþeir voru við störf með stefnanda. Er haft eftir þeim að stefnandi hafi runniðtil og misst takið á vélinni svo að hún hafi runnið niður í sandglompuna ogoltið á hliðina. Stefnandi hafi síðan runnið á eftir vélinni og farið meðhöndina í blaðið sem hafi enn verið að snúast. Þá er í skýrslunni haft eftirstefnanda að hann hafi misstigið sig í grasinu sem hafi verið blautt eftirvökvun. Í tilkynningu sem Golfklúbbur […]sendi Vinnueftirlitinu 12. júlí 2012 og er undirrituð af framkvæmdastjóra hanser slysinu lýst með þeim hætti að um hafi verið að ræða vinnu við slátt áglompu í smá halla. „Starfsmaður rennur til og lendir með hendi í slátturspaðavélarinnar.“ Vinnueftirlitið rannsakaði slysið og komst að þeirri niðurstöðu,eins og að framan er lýst, að orsök slyssins mætti rekja til erfiðra aðstæðnaþar sem slegið var í miklum halla með sláttuvél sem hentaði illa til verksins. Í málinu liggja einnig fyrirtilkynningar vegna slyssins til Sjúkratrygginga Íslands og til stefnda. Ítilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. nóvember 2012, semundirrituð er af bæði stefnanda og framkvæmdastjóra Golfklúbbs […] kemur framað stefnandi hafi verið að slá gras nálægt sandgryfju. Golfvöllurinn hafi veriðblautur þar sem hann hafi verið vökvaður um nóttina auk þess sem það hafi rigntdálítið. Stefnandi hafi skyndilega runnið í bleytu í grasinu og sláttuvélinhafi runnið niður í sandgryfjuna þar sem hún hafi sporðreists og stefnandi runniðniður á eftir. Hann hafi fyrst farið með hægri fótinn í spaða vélarinnar ogsíðan fingur hægri handar. Í ódagsettri tilkynningu stefnanda til stefnda vegnaslyss innanlands greinir hann með sama hætti frá bleytu á golfvellinum vegnavökvunar og rigningar. Hann hafi staðið nokkuð frá brúninni á sandgryfju ogslegið grasið er hann hafi skyndilega runnið í bleytunni þegar hann hafi ætlaðað færa sláttuvélina með þeim afleiðingum að vélin hafi farið niður í gryfjunaog hann runnið á eftir. Vélin hafi lyfst upp að aftan og hafi hægri fótur hansog síðan fingur farið í spaða vélarinnar. Í læknisvottorðum vegna slyssinser því lýst að stefnandi hafi runnið í bleytu, dottið eða fipast við sláttinn.Þá er slysinu lýst svo í matsgerð B læknis og C hæstaréttarlögmanns aðstefnandi hafi runnið til vegna bleytu. Stefndi telur ósannað að slysiðhafi orðið með þeim hætti sem stefnandi lýsir. Stefndi byggir á því aðstefnandi hafi misstigið sig og að um aðgæsluleysi hans hafi því verið að ræða.Eins og hér að framan er lýst kemur það einungis fram á einum stað í gögnummálsins, í lögregluskýrslu, dags. 12. júlí 2012, að stefnandi hafi misstigiðsig. Um er að ræða atriði sem lögreglumaður skráði eftir símtal við stefnandadaginn eftir slysið. Stefnandi hefur hafnað því að hafa lýst atvikinu meðþessum hætti og telur að lögreglumaðurinn hafi ákveðið að nota þetta orð.Framangreind skýrsla var ekki borin undir stefnanda. Með hliðsjón af framburðihans um þetta atriði og lýsingu á slysinu í öðrum gögnum málsins er ekki hægtað byggja á því að stefnandi hafi misstigið sig umrætt sinn. Engin sérstök rannsókn fór framá sláttuvélinni sem stefnandi notaði við slysið. Liggur ekki annað fyrir en aðhún hafi virkað sem skyldi. Á sláttuvélinni er öryggishandfang sem haldið er ímeðan slegið er. Ef handfanginu er sleppt stöðvast ljár sláttuvélarinnarfljótt, en ekki þegar í stað. Ljóst er að fótur stefnanda fór fyrst í ljáinn,en við vettvangsgöngu sýndi stefnandi skóinn sem hann var í við atvikið. Efstefnandi hefur þá verið búinn að sleppa öryggishandfanginu hefði ljárinn áttað stöðvast við þetta. Möguleg skýring á áframhaldandi snúningi er t.d. aðstefnandi hafi enn haldið í öryggishandfangið er hann rak fótinn í ljáinn. Samkvæmtupplýsingum um sláttuvélina sem notuð var og sams konar sláttuvélar eru þærmeðal annars ætlaðar til notkunar við halla allt að 45°. Stefndi vísar til þessað slíkar sláttuvélar hafi ávallt verið notaðar hjá honum við svipaðar aðstæðurog það sama gildi um aðra golfvelli. Ljóst er að ávallt er nokkur hætta samfaranotkun slíkt tækis. Við vettvangsgöngu sást vel að þar sem slys stefnanda varðer verulegur halli ofan í sandgryfjuna. Þá er einnig nokkur halli þar fyrirofan og því ljóst að stefnandi stóð ekki á jafnsléttu er slysið varð. Viðslíkar aðstæður er verulegrar aðgæslu þörf. Óumdeilt er að grasið í kringumsandgryfjuna var blautt, hver svo sem orsök þess var, en það gerði aðstæðurnarenn erfiðari. Stefnandi hafði einungis unnið ínokkra daga hjá Golfklúbbi […] er slysið varð. Hann kveðst enga þjálfun hafafengið í notkun sláttuvélarinnar. Eins og að framan er lýst taldiframkvæmdastjóri Golfklúbbsins að vallarstjóri hefði kennt stefnanda ásláttuvélina, en ljóst hafi verið að stefnandi hefði litla sem enga reynslu.Þáverandi vallarstjóri taldi hins vegar að aðstoðarmaður sinn hefði séð um aðfræða stefnanda um starfið. Sá aðstoðarmaður kom ekki fyrir dóminn.Vallarstjórinn lýsti því hins vegar að sláttuvélin væri einfalt tæki og ekki hafiverið mikil þörf á þjálfun. Þá taldi hann að ekki hafi verið sérstaklega fariðyfir hættur samfara notkun sláttuvélarinnar. Ekkert áhættumat var kynnt fyrirstefnanda. Stefnandi sýndi á vettvangihvernig hann bar sig að við sláttinn þegar slysið varð. Telja verður að komahefði mátt í veg fyrir slysið hefði stefnandi fengið leiðbeiningar um hvernigrétt væri að bera sig að þannig að hann hefði ekki verið í hættu á að lenda ásláttuvélinni missti hann tök á henni. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að stefnandihafi fengið fullnægjandi leiðbeiningar um notkun sláttuvélarinnar. Verður þvífallist á skaðabótaskyldu stefnda á líkamstjóni stefnanda vegna slyss hans 10.júlí 2012. Ekki þykja efni til að leggja hluta sakar á stefnanda. Ágreiningslaust er að aðstæðurstefnanda eru óvenjulegar og því skuli árslaun hans metin sérstaklega, sbr. 2.mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Aðila greinir hins vegar á um við hvaðaárslaun skuli miða. Stefnandi reisir kröfu sína á því að miða skuli við launverkamanna. Stefndi telur hins vegar að miða skuli við lágmarkslaun, en aðöðrum kosti meðallaun verkamanna sem miðist ekki eingöngu við karlmenn.Stefnandi, sem var 31 árs á slysdegi, hafði sinnt ýmsum verkamannsstörfum fyrirslysið. Þá hefur hann nýlega ráðið sig aftur til slíkra starfa. Hann hefurtakmarkaða almenna menntun og engin starfsréttindi. Matsmenn töldu stefnda getaunnið flest léttari störf án takmarkana en starfsgeta til erfiðari starfateldist hins vegar lítillega skert sem taka yrði tillit til í ljósi aldurs ogmenntunar. Að framangreindu virtu verður að telja að réttast sé að miðalíklegar framtíðartekjur stefnanda við meðallaun verkafólks, en ekki eru efnitil að greina á milli kynja í því sambandi. Verður fjárhæð bóta vegnavaranlegrar örorku því 3.191.114 krónur, en útreikningur á þeirri fjárhæð hefurekki sætt andmælum. Stefndi telur að draga skuli39.515 krónur, sem stefnandi fékk greiddar frá Vinnumálastofnun, frá tímabundnuatvinnutjóni stefnanda. Stefnandi var ráðinn til starfa hjá Golfklúbbi […] frá27. júní 2012 í gegnum átaksverkefni Vinnumálastofnunar sem kallaðist Vinnandivegur. Á því skjali sem stefndi vísar til um framangreinda greiðslu fráVinnumálastofnun koma fram greiðslur frá stofnuninni frá janúar til júlí 2012að fjárhæð rúmlega 170.000 krónur á mánuði nema 39.515 krónur í júlí. Ekkertkemur fram um hvers konar greiðslur er að ræða. Verður því ekki séð aðframangreind greiðsla skuli koma til frádráttar kröfu stefnanda. Í samræmi við allt framangreintverður fallist á kröfu stefnanda á hendur stefnda að fjárhæð 3.929.754 krónurmeð vöxtum eins og krafist er, allt að frádreginni innborgun stefnda 29.desember 2014. Í samræmi við þessa niðurstöðuverður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem renni í ríkissjóðog ákveðst 1.138.557 krónur. Gjafsóknarkostnaður stefnanda,þ. á m. málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.125.300 krónur, greiðist úrríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit tilvirðisaukaskatts. Dóm þennan kveða upphéraðsdómararnir Barbara Björnsdóttir og Ásmundur Helgason og GunnsteinnOlgeirsson garðyrkjufræðingur og yfirverkstjóri. DÓ M S O R Ð : Stefndi, VátryggingafélagÍslands hf., greiði stefnanda, A, 3.929.754 krónur með 4,5% ársvöxtum af 738.640krónum frá 10. júlí 2012 til 1. janúar 2013, en af 3.929.754 krónum frá þeimdegi til 10. febrúar 2015, og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt aðfrádregnum 509.490 krónum sem stefndi greiddi 29. desember 2014. Stefndi greiði 1.138.557 krónurí málskostnað sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaðurstefnanda, þ. á m. þóknun lögmanns hans, 1.125.300 krónur, greiðist úrríkissjóði. |
Mál nr. 508/1997 | Bifreið Skaðabætur Örorka Matsmenn Læknaráð | Á slasaðist í bifreiðaárekstri. Vátryggingarfélagið V viðurkenndi bótaskyldu sína, en ágreiningur var um hver varanleg örorka Á væri vegna slyssins. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið sent til læknaráðs til umsagnar. Þótt talið væri að læknaráði hefði verið rétt að leita umsagnar sérfræðinga í ljósi þess hversu umdeilt það var meðal lækna, hvort slysið hefði haft í för með sér framheilaskaða, þótti skortur á því ekki hafa það í för með sér að leggja bæri álit þess til hliðar. Til þess yrði litið eins og annarra gagna málsins. Að virtu áliti læknaráðs og öðrum gögnum málsins var talið að varanleg örorka Á vegna skertrar heilastarfsemi, sem rekja mætti til slyssins, væri hæfilega metin 10% og væri samanlögð örorka hans því 20%. Voru Á dæmdar skaðabætur fyrir varanlega örorku og miska úr hendi V í samræmi við þetta. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason. Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 17. desember 1997. Hann krefst þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 6.288.166 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr., sbr. 8. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá slysdegi 14. janúar 1991 til 25. desember 1992, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.021.296 krónum. Til vara krefst hann þess, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér lægri fjárhæð með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum áfrýjanda og málskostnaðar úr hans hendi fyrir Hæstarétti, en til vara krefst hann þess, að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. I. Eftir að héraðsdómur gekk var málið samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar 22. september 1998, að ósk áfrýjanda, sent til umsagnar læknaráðs. Var beðið um umsögn ráðsins á eftirfarandi: 1. Fellst læknaráð á, að áfrýjandi hafi hlotið framheilaskaða í slysi því, sem hann varð fyrir 14. janúar 1991? 2. Ef ekki, telur læknaráð að á áfrýjanda hafi orðið persónuleikabreytingar, sem séu afleiðingar slyssins? 3. Telur læknaráð enn, að varanleg læknisfræðileg örorka áfrýjanda vegna slyssins sé 10%? 4. Ef ekki, hver er þá varanleg læknisfræðileg örorka áfrýjanda vegna hins umrædda atburðar? Svar læknaráðs barst 25. maí 1999. Þar kemur fram, að ekki sé ágreiningur um, að áfrýjandi hafi haft veruleg einkenni frá stoðkerfi, og telur læknaráð, að varanleg læknisfræðileg örorka hans vegna þeirra einkenna sé hæfilega metin 10%. Fyrstu spurningunni svarar læknaráð játandi og gerir eftirfarandi athugasemdir um fyrstu og aðra spurningu: „Mat á skemmri- eða lengritíma afleiðingum lokaðs höfuðáverka er vandasamt og er oft háð talsverðum örðugleikum. Er þá m.a. átt við langvarandi afleiðingar heilahristings (post traumatic syndrome, post concussional syndrome) eða afleiðingar áverka á framheila (frontal lobe syndrome). Starfrænar truflanir eða eiginlegur skaði á framheila geta verið til staðar án þess að mælast með hefðbundnum rannsóknaraðferðum á miðtaugakerfi. Við slíkar aðstæður byggja sérfræðiálit því fyrst og fremst á klinisku mati og sértækum taugasálfræðilegum athugunum. Með hliðsjón af niðurstöðum athugana Þuríðar Jónsdóttur, taugasálfræðings, og framburði áfrýjanda, upplýsingum sem hafðar eru eftir eiginkonu hans og öðrum þeim upplýsingum sem fram koma í málsgögnum, telur læknaráð miklar líkur á því að áfrýjandi hafi við umrætt slys orðið fyrir skaða og/eða viðvarandi starfstruflunum í framheila. Læknaráð telur að örorka vegna þessara einkenna sé hæfilega metin 10%.“ Samkvæmt framanskráðu mat læknaráð varanlega læknisfræðilega örorku áfrýjanda samtals 20%. II. Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram snýst ágreiningur aðila um það, hver sé varanleg örorka áfrýjanda vegna afleiðinga umferðarslyss, sem áfrýjandi varð fyrir 14. janúar 1991, er fólksbifreið, sem hann ók, lenti í árekstri við sendibifreið. Stefndi hefur viðurkennt bótaskyldu sína. Hann hefur þegar innt af hendi þá bótafjárhæð, sem tiltekin var í dómsorði hins áfrýjaða dóms, ásamt vöxtum með greiðslu 22. desember 1997. Stefndi telur ekki unnt að leggja álit læknaráðs til grundvallar í málinu. Það byggi á taugasálfræðilegu mati dr. Þuríðar Jónsdóttur, sem sé miklum annmörkum háð. Mat dr. Þuríðar styðjist ekki við vefrænar rannsóknir á áfrýjanda heldur eingöngu viðtöl við hann og eiginkonu hans. Örorkumat Sigurjóns Stefánssonar læknis byggi einnig á framangreindu taugasálfræðilegu mati. Þá sé málsmeðferðin hjá læknaráði ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 14/1942 um læknaráð. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna eigi læknaráð jafnan að leita álits sérfróðra manna utan ráðsins um mál, sem eru utan við sérfræðisvið þeirra manna, er ráðið skipa, en það hafi ekki verið gert, þótt enginn læknaráðsmanna væri sérfræðingur í heilasköddun. Þá hafi hlutaðeigandi læknum ekki verið gefinn kostur á að rökstyðja vottorð sín, eins og kveðið sé á um í 2. mgr. 4. gr. laganna. III. Að framangreindu áliti læknaráðs stóðu Gunnlaugur Geirsson sérfræðingur í meinafræði, Hannes Pétursson sérfræðingur í geðlækningum og Jónas Magnússon sérfræðingur í skurðlækningum, sem skipuðu réttarmáladeild ráðsins, svo og Magnús Jóhannsson sérfræðingur í lyfjafræði, Sigurður Guðmundsson sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum og Þórður Harðarson sérfræðingur í hjartalækningum. Öll skjöl málsins lágu fyrir læknaráði, þar á meðal héraðsdómur og framburður matsmanna fyrir dómi. Eins og lýst er í héraðsdómi byggir mat taugasálfræðingsins á prófum, sem lögð voru fyrir áfrýjanda, viðtölum við hann og eiginkonu hans, en ekki á vefrænum rannsóknum. Það er annmarki á matinu, að ekki skyldu vera kannaðar nánar aðstæður áfrýjanda með viðtölum við starfsfélaga hans, vini og ættingja. Fyrir dómi sagði taugasálfræðingurinn, að vefræn skoðun á heila hefði lítið að segja í tilviki, sem hér um ræðir. Undir þetta tekur læknaráð og telur starfrænar truflanir eða skaða á framheila geta verið til staðar án þess að mælast með hefðbundnum rannsóknaraðferðum á miðtaugakerfi. Álit læknaráðs byggir ekki eingöngu á mati taugasálfræðingsins heldur einnig á upplýsingum, sem fram koma í málsgögnum. Það var álit dómkvaddra matsmanna Atla Þórs Ólasonar sérfræðings í bæklunarlækningum og Grétars Guðmundssonar sérfræðings í taugalækningum, að áfrýjandi hefði ekki skýr einkenni eða merki heilaskaða, en aftur á móti virtist vera um vissa truflun á æðra heilastarfi að ræða. Töldu þeir þá truflun að öllum líkindum stafa af þrálátum verkjum og vera þannig óbeint af völdum slyssins. Grétar Guðmundsson sagði fyrir dómi, að hinar vefrænu rannsóknir, sem gerðar hefðu verið á áfrýjanda, hefðu ekki sýnt merki um skemmd í framheilanum, en samkvæmt þeim upplýsingum, sem fram kæmu í taugasálfræðilega matinu, væri „nokkuð ljóst að hann er með truflun á starfsemi heila og þá er bara spurning um hvernig maður á að meta það“. Verður að telja, að læknaráð hafi tekið undir þetta að nokkru leyti í þeirri niðurstöðu sinni, að miklar líkur séu á því að áfrýjandi hafi við slysið orðið fyrir „skaða og/eða viðvarandi starfstruflunum í framheila“. Þótt rétt hefði verið fyrir læknaráð að leita umsagnar sérfræðinga í máli þessu í ljósi þess, hve umdeilt það er meðal lækna, verður ekki talið, að skortur á því hafi það í för með sér að leggja beri álit læknaráðs til hliðar. Til þess verður litið eins og annarra gagna málsins við úrlausn þess. IV. Við framangreint slys hlaut áfrýjandi höfuðhögg og hálshnykk og missti meðvitund um tíma. Af gögnum málsins er ljóst, að slysið hefur haft víðtækar afleiðingar fyrir áfrýjanda. Hann hefur stöðuga verki í hálsi, sem leiða niður í herðar og brjóstbak og upp í höfuðið. Áfrýjandi er með einkenni um skerta heilastarfsemi, hvort sem þau stafa af framheilaskaða eða af öðrum ástæðum. Læknaráð hefur talið, að varanleg örorka, sem rekja megi til þessa, sé hæfilega metin 10%, og eru ekki efni til að hnekkja því mati. Þykir því rétt að leggja til grundvallar, að samanlögð varanleg örorka áfrýjanda vegna slyssins sé 20%. V. Upphafleg dómkrafa áfrýjanda um bætur fyrir varanlega starfsorkuskerðingu er reist á líkindareikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 10. nóvember 1992 og var miðuð við 15% varanlega örorku. Í framhaldsstefnu var einnig stuðst við sama útreikning en þá var miðað við 25% varanlega örorku. Endanleg kröfugerð áfrýjanda er byggð á sama útreikningi að öðru leyti en því, að reiknað er með 4,5% framtíðarávöxtun í stað 6%. Stefndi lagði fram útreikning Jóns Erlings 24. febrúar 1997, þar sem miðað var við 10% varanlega örorku. Fallist er á það með áfrýjanda, að honum sé heimilt að halda sig við upphaflegan útreikning, sem miða ber við 20% varanlega örorku. Bætur til áfrýjanda vegna varanlegrar örorku þykja hæfilega ákveðnar 3.600.000 krónur að teknu tilliti til skattfrelsis bótanna og hagræðis af eingreiðslu. Krafa um bætur fyrir töpuð lífeyrisréttindi er tekin til greina með 289.333 krónum. Miskabætur þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Samkvæmt framansögðu ber stefnda að greiða áfrýjanda 3.739.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 14. janúar 1991 til 2. maí 1994, þegar mat dómkvaddra matsmanna um 10% örorku áfrýjanda var fengið, en frá þeim tíma greiðist dráttarvextir til greiðsludags. Til frádráttar komi 3.021.296 krónur, sem stefndi greiddi áfrýjanda 22. desember 1997. Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest. Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Ásmundi Smára Magnússyni, 3.739.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. janúar 1991 til 2. maí 1994, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.021.296 krónum. Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest. Stefndi greiði áfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 1998. Mál þetta, sem dómtekið var 28. október sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 20. janúar 1993 og framhaldsstefnu þingfestri 4. nóvember 1986 af Ásmundi Smára Magnússyni, Rauðási 9, Reykjavík gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. Dómkröfur. Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda kr. 6.288.166,00 með vöxtum samkvæmt 7. gr., sbr. 8. gr., vaxtalaga nr. 25/1987 frá slysdegi 14. janúar 1991 til 25. desember 1992, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að vöxtum verði bætt við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða lægri fjárhæð með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt gjaldskrá að viðbættum virðisaukaskatti. Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega að honum verði aðeins gert að greiða stefnanda kr. 2.150.000,00 með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. janúar 1991 til uppkvaðningardags endanlegs dóms í málinu en til vara að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar. Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins en til vara að málskostnaður verði felldur niður. Málavextir og gangur máls. Hinn 14. janúar 1991 varð árekstur með bifreiðunum R-78251 og R-1526 á mótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Við áreksturinn slasaðist stefnandi, en hann var ökumaður bifreiðarinnar R-78251. Stefndi viðurkennir bótaskyldu sína gagnvart stefnanda vegna slyssins en ágreiningur er um það hver varanleg örorka stefnanda sé vegna slyssins og þá um bótafjárhæð. Eftir slysið var stefnandi strax fluttur á slysadeild Borgarspítalans með skurð á hvirfli og óþægindi í hnakka, vinstri handlegg og hægri fótlegg. Röntgenmynd af höfði og hálsliðum leiddi ekki í ljós nein ákveðin áverkamerki. Ekki voru teikn um heila- mænu- eða taugaáverka. Vegna höfuðáverkans var stefnandi lagður inn í sólarhring en síðan var hann meðhöndlaður með hálskraga og hvíld vegna hálshnykksóþæginda. Í vottorði dr. Brynjólfs Mogensen dags. 30. maí segir, auk þess sem hér að framan er rakið, að stefnandi hafi verið farinn að vinna um miðjan mars, fengið aðeins þreytuverk í háls og herðar og takverk í hnakkagróf. Fór dagbatnandi. Þá segir jafnframt að ólíklegt sé að stefnandi komi til með að hljóta nokkurt varanlegt mein eftir slysið þó svo óþægindin geti setið nokkuð lengi í. Hinn 26. ágúst 1992 mat Björn Önundarson læknir örorku stefnanda. Í niðurstöðu hans segir m.a.: „Slasaði á nokkurn vanda til að fá höfuðverk við lítið álag og er þessi höfuðverkur einkum staðsettur í hnakka en leggur þegar verst lætur upp í hvirfil. Slasaði verður iðulega að leggjast fyrir og taka inn verkjalyf þegar höfuðverkur þessi er verstur. Hreyfingar í hálsliðum eru sárar, einkum snúningshreyfingar og aftursveigja. Fyrir kemur að dofi liggur úr vinstri holhönd og fram í vinstri litlafingur. Slasaði á bágt með að vinna upp fyrir sig en einnig á hann bágt með að vinna lotinn svo og að bera í höndum. Hann hefur einnig einkenni við að vinna lotinn frá brjósthluta hryggjar síns.“ Mat Björn tímabundna örorku stefnanda vegna slyssins 100% í fjórar vikur, 50% í sex vikur en varanlega örorku 15%. Á grundvelli örorkumats Björns Önundarsonar áætlaði Jón Erlingur Þorláksson tryggingastærðfræðingur meint vinnutekjutap stefnanda. Á grundvelli þess útreiknings krafðist stefnandi, hinn 22. nóvember 1992, bóta úr slysatryggingu ökumanns R-78251 hjá stefnda skv. 92. gr. laga nr. 50/1987. Stefndi var ekki tilbúinn til uppgjörs á nótum stefnanda með því að um væga örorku væri að ræða og ekkert fram komið um vinnutekjutap í raun. Stefndi hafi því lagt til í símbréfi 7. desember 1992 að uppgjöri yrði frestað uns þrjú ár væru frá slysi til staðreynslu á því hvort örorkan myndi í raun leiða til vinnutekjutaps en stefnandi vildi ekki fresta uppgjöri og var boðist til að bæta slysið með kr. 690.000. Hafði stefnandi fengið eingreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð kr. 350.333,- og átti einnig rétt á dagpeningum frá sama aðila. Stefnandi hafnaði báðum tillögum stefnda. Hinn 15. júní 1993 fór stefndi fram á að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir og óvilhallir menn til þess að skoða og meta heilsufarslegt ástand stefnanda og láta í té rökstutt álit um eftirfarandi: 1.Hvort Ásmundur Smári hafi af völdum slyss síns þann 14. janúar 1991 orðið til frambúðar fyrir raunverulegri skerðingu á getu til öflunar vinnutekna þegar litið er til starfs hans, menntunar, kunnáttu, starfsorku og þeirra kosta sem hann á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við eða hver sé fjárhagsleg örorka hans. 2Ef talið yrði að Ásmundur Smári hafi hlotið varanlega fjárhagslega örorku af völdum slyssins hver hún sé metin í hundraðshlutum. 3.Hvort fallast megi á örorkumat Björns Önundarsonar, læknis, út frá læknisfræðilegum sjónarmiðum og ef ekki hver sé hæfilega metin tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka Ásmundar Smára af völdum slyssins. Dómkvaddir voru þeir Ísak Hallgrímsson læknir og sérfræðingur í orku- og endurhæfingarlækningum og Þorgeir Örlygsson prófessor. Er matsgerð þeirra dags. 2. maí 1994. Í matinu kemur m.a. fram að stefnandi hafi jafnan verið heilsuhraustur og hann hafi hin seinni ár stundað fjallaferðir á jeppum með félögum sínum en úr því hafi þó dregið mjög eftir slysið. Hann er kvæntur og á tvö frísk börn með eiginkonu sinni. Eiginkonan er heimavinnandi húsmóðir. Eftir gagnfræðapróf fór matsþoli að vinna hjá Pósti og síma, þar sem hann starfaði á sumrin. Hann fór síðan í Póst- og símamannaskólann og lauk þaðan námi í símsmíði árið 1986 og hefur hann síðan starfað sem símsmíðameistari hjá Pósti og síma og felst starf hans í viðgerðum á símkerfum, símstöðvum og innanhússímkerfum. Er matið fór fram lýsti stefnandi óþægindum sínum á þann veg að hann væri með stífleika í hálsi báðum megin og eymsli aftur í hnakka. Hann finni fyrir taugakippum aftan til í höfði. Hann hafi haft höfuðverk meira og minna frá slysi. Á hann erfitt með að snúa höfðinu og finnur oft fyrir verkjum á milli herðablaða í hryggjarliðum og á hann þá erfitt með að sitja kyrr. Hann telur starf sitt ekki erfiðisvinnustarf í þeim skilningi að beita þurfi líkamanum til átaka í starfinu og því fylgi yfirleitt ekki óheppilegar stöður. Því henti starfið honum sæmilega miðað við heilsufar. Hann kveðst hafa dregið úr yfirvinnu eftir slysið enda sé hann yfirleitt úrvinda af þreytu í lok vinnudags, en svo hafi ekki verið áður. Í matinu eru málsatvik rakin nákvæmlega og sú læknisfræðilega meðferð er hann hlaut eftir slysið svo og niðurstöður skoðunar. Þá eru þar raktar hugleiðingar matsmanna svo og rökstuðningur fyrir niðurstöðu þeirra en hún er sú að tímabundin læknisfræðileg örorka telst vera 100% í átta vikur en varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda teljist vera 10%. Varanlega fjárhagslega örorku telja þeir hæfilega áætlaða að meðaltali 8% . Með úrskurði uppkveðnum 2. desember 1994 var fallist á þá beiðni stefnanda að leggja málið fyrir læknaráð. Var óskað rökstuddrar umsagnar læknaráðs um það hvort ráðið féllist á örorkumat Björns Önundarsonar og ef ekki hver væri þá læknisfræðileg örorka stefnanda. Niðurstaða læknaráðs dags. 22. febrúar 1995 var sú að ráðið væri sammála niðurstöðu réttarmáladeildar læknaráðs sem var sú að ekki var fallist á örorkumat Björns Önundarsonar en fallist var á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um varanlega læknisfræðilega örorku á þeim forsendum er komu fram í matsgerð þeirra. Með framhaldsstefnu þingfestri 4. nóvember 1996 jók stefnandi við kröfur sínar og lagði þá jafnframt fram taugasálfræðilegt mat dr. Þuríðar J. Jónsdóttur, klínísks taugasálfræðings frá því í desember 1995 svo og örorkumat Sigurjóns Stefánssonar, læknis og sérfræðings í geðlækningum og klínískri taugalífeðlisfræði dags. 19. september 1996. Í mati dr. Þuríðar J. Jónsdóttur eru raktar niðurstöður af prófum er lögð voru fyrir stefnanda. Í þessum prófum voru skoðuð atriði eins og einbeiting og hugrænn hraði, almenn vitræn geta, minni og mál. Í samantekt á taugasálfræðilegum niðurstöðum segir eftirfarandi: „Þrálátir og stöðugir verkir í baki og höfði í kjölfar slyss þess sem Ásmundur Smári varð fyrir í ársbyrjun 1991 hafa gert það að verkum að hann hefur allar götur síðan haft skerta starfsorku og úthald eða getu til þeirra tómstundaiðkana sem hann áður lagði stund á. Um þetta bera skýrslur lækna og frásögn Ásmundar Smára sjálfs og eiginkonu hans, Dagbjartar Steingrímsdóttur, vitni. Eiginkona Ásmundar lýsir miklum persónuleikabreytingum sem hún telur að hafi orðið á honum eftir slysið í formi „þyngsla, framtaksleysis, pirrings og skorts á sjálfstjórn og þolinmæði. Einnig telur hún minni hans hafa versnað. Segir hún hann oft ekki muna daginn eftir hluti sem þau höfðu rætt og ákvarðað um að kvöldi dagsins áður. Eiginkonan lýsir einnig hversu seinvirkur Ásmundur sé nú og hversu lengi hann sé að koma sér að „hlutunum“. Hefur hún talið að langvarandi kvalir hans séu hér orsakavaldar. Án þess að gert sé lítið úr sálrænum áhrifum langvarandi verkja og úthaldsleysis sem af þeim hlýst óhjákvæmilega, verð ég að benda á að lýsing eiginkonu Ásmundar er dæmigerð lýsing maka á framheilasködduðum einstaklingi. Brottfallseinkenni í formi þunglyndis, tregðu og framtaksleysis eru ásamt skorti á sjálfsstjórn og lækkuðum mótlætisþröskuldi þekkt einkenni bilateral orbitofrontal heilaskaða. Taugasálfræðileg einkenni Ásmundar Smára eru svo dæmigerð einkenni sem einstaklingar með slíkan skaða sýna. Vitræn tregða sem kom fram í því hversu seinn Ásmundur Smári var að taka við sér og byrja að leysa verkefnin, afmörkuð tjáningartregða, viðkvæmni fyrir truflunum og athyglisbrestur henni samfara og mynstur í minnisprófum styðja öll tilgátu um staðbundnar orbitomesial truflanir. Framheilinn er sökum staðsetningar sinnar í kúpunni einkum viðkvæmur fyrir misgengi, höggum og hnjaski. Nýjustu rannsóknir bandarískra og kanadískra vísindamanna benda til þess að einstaklingar sem jafnvel missa ekki meðvitund við slys geti hlotið talsverðan heilaskaða sem sé einkum bundinn við framheilann eða framheila og ennisgeira. Sökum þess hversu mikilvægu hlutverki framheilinn hefur að gegna fyrir allt heilastarf hefur skerðing á starfi hans óhjákvæmilega áhrif á alla þætti heilastarfsins meira eða minna. Sé notað líkingamál og heilanum líkt við tölvu er framheilinn stýrikerfið. Sé stýrikerfið ekki í lagi virka önnur forrit (önnur starfssvið heilans) ekki sem skyldi. Ég vil að lokum geta þess að vitnisburður og lýsing náinna aðstandenda er talin afar mikilvæg mælistika þegar leitast er við að meta afleiðingar höfuðmeiðsla. Niðurstöður margra rannsókna benda til þess að maki sé oft næmari á bæði vitræna skerðingu og geðræn einkenni og persónuleikabreytingar en sjúklingurinn sjálfur. Þó svo að einhverjir einstaklingar hafi tilhneigingu til að magna og ýkja einkenni sín í kjölfar slysa í hagsmunaskyni eru hinir líklega ekki færri sem gera lítið úr og vanmeta vitræna skerðingu sína. Ég tel líklegt að Ásmundur Smári tilheyri þeim hópi. Slíkt vanmat er þá hluti af pathologiu þeirra.“ Í örorkumati Sigurjóns Stefánssonar er rakin persónusaga stefnanda, slysatvik, sjúkrasaga, núverandi einkenni og niðurstöður skoðunar. Í samantekt og niðurstöðu segir eftirfarandi: „Fertugur maður sem varð fyrir höfuð- og hálsáverka í umferðarslysi þann 14. janúar 1991. Hann virðist hafa misst meðvitund við áreksturinn og var illa áttaður og mundi lítið þegar lögreglan kom á slysstað. Hann var fluttur á slysadeild Borgarspítalans þar sem meiðsli hans voru könnuð og þar sem hann dvaldi í einn sólarhring. Talið var að hann hafði (sic) fengið hálshnykksáverka og vægan heilahristing. Eftir slysið hefur hann haft veruleg einkenni frá hálsi sem leiða upp í höfuð og niður á milli herðablaða. Hefur erfiðlega gengið að draga úr einkennum þessum og hefur hann þurft að nota mikið af verkjalyfjum. Mikil neysla verkjalyfja virðist hafa leitt til magasárs og sprungins maga í júní 1996. Hans nánustu hafa tekið eftir skapgerðarbreytingum og minniserfiðleikum og bendir taugasálfræðilegt mat til truflunar á starfsemi framheila. Við skoðun koma fram mikil eymsli yfir hálsi, hnakka og herðum og mjög takmarkaðar hreyfingar í hálsi.“ Rúmlega fimm og hálft ár eru liðin frá því umrætt slys átti sér stað. Hinn slasaði hefur enn veruleg einkenni eftir hálshnykksáverka þann sem hann hlaut í slysinu. Síðastliðin ár hefur einnig farið að bera á skapgerðarbreytingum og minnisbreytingum sem benda til þess að hann hafi hlotið heilaskaða í slysinu og rennir taugasálfræðilegt mat stoðum undir þá skoðun. Tímabundin örorka 100% í fjórar vikur og 50% í sex vikur. Ég tel varanlega örorku hæfilega metna 25% (tuttugu og fimm af hundraði) sem skiptist þannig: 15% (fimmtán af hundraði) vegna einkenna frá hálsi. 10% (tíu af hundraði) eftir heilaáverka. Varanleg örorka 25% (tuttugu og fimm af hundraði)“ Með beiðni dags. 6. desember 1996 fór stefndi fram á að dómkvaddir yrðu matsmenn til þess að meta eftirfarandi atriði: 1.Hvort Ásmundur Smári sé með framheilaskaða af völdum heilaáverka og ef svo er, hvort sá heilaáverki hafi sannanlega hlotist í bílárekstrinum 14. janúar 1991? 2.Hver sé tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka Ásmundar Smára af völdum heilaáverka í bílárekstrinum 14. janúar 1991, ef um er að ræða. 3.Hver sé tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka Ásmundar Smára af völdum annarra áverka en heilaáverka í bílárekstrinum 14. janúar 1991. Til þess að framkvæma hið umbeðna mat voru dómkvaddir læknarnir Atli Þór Ólason dr. med., sérgrein bæklunarlækningar, og Grétar Guðmundsson, sérgrein taugalækningar. Er matsgerð þeirra dags. 12. febrúar 1997. Í matinu rekja læknarnir heimildir sínar, fyrra heilsufar stefnanda, afleiðingar umferðarslyssins 14. janúar 1991, nám og starf stefnanda, núverandi kvartanir og niðurstöður skoðunar. Þá er getið um rannsóknir gerðar í janúar 1997, segulómun af heila og SPECT rannsókn sem var eðlileg. Sjúkdómsgreining þeirra er hálstognun. Í samantekt og áliti þeirra í lok matsgerðarinnar segir eftirfarandi: „Fyrir umferðarslysið í janúar 1991 var Ásmundur Smári Magnússon við góða heilsu og einkennalaus frá hálsi og baki. Við umferðarslysið 14.01.1991 ók hann bifreið á allmikilli ferð inn í hlið stórrar sendibifreiðar. Við áreksturinn hlaut hann högg á höfuð og missti meðvitund í líklegast liðlega hálftíma. Hann var talinn hafa hlotið hálstognun og vægan heilahristing. Einkenni hálstognunar voru óþægindi í hálsi, herðum, brjósthrygg, milli herðablaða, með útleiðsluverk við áreynslu, upp í hnakka, hvirfil, um gagnaugu, að enni og bakvið augu. Ekki hafa komið fram merki um skemmd á bein- eða taugavef. Við skoðun undirritaðra eru hreyfingar í hálsi nokkuð skertar, veruleg eymsli eru í háls-, herða-, og brjósthryggjarvöðvum og yfir hryggtindum í hálsi og brjósthrygg. Skoðun taugakerfis var í meginatriðum eðlileg og engin merki fundust um vefrænan skaða. Ýmiss konar meðferð, bæði verkja- og bólgustillandi lyf, sprautur, sjúkraþjálfun og fleira, hefur ekki leitt til verulegs bata. Telja má að þessi einkenni Ásmundar verði viðvarandi og trufli hann hér eftir sem hingað til við störf sín og við áreynslu. Varanleg örorka er metin 10%. Við slysið hlaut Ásmundur höfuðhögg og var með 2-3ja cm grunnt sár á hvirfli sem var saumað og greri eðlilega. Hann missti meðvitund. Hann man síðast fyrir slysið að hafi verið að aka bifreiðinni við gatnamótin og telur sig muna að umferðarljós hafi skipt frá rauðu yfir á grænt þegar hann kom að þeim. Hann man aftur eftir sér á röntgendeild Borgarspítalans. Ásmundur var kominn á slysadeild Borgarspítalans 20 mínútum eftir slysið, þannig að hann gæti hafa verið á röntgendeild 1/2-1 klst. eftir slysið. Þar með kynni Ásmundur að hafa verið minnislaus í rúman hálftíma. Á slysadeild og eftir dvölina þar hafði hann ekki önnur einkenni um heilahristing, hvorki ógleði, uppköst, svima, höfuðverk eða annað. Hann hefur aldrei haft truflanir frá augum, eyrum eða nefi, skertu lyktarskyni eða bragðskyni. Í gögnum málsins er ekki minnst á minnistruflun, einbeitingarskort eða annað slíkt fyrr en í taugasálfræðilegu mati Þuríðar J. Jónssonar í desember 1995. Í því mati er talið að Ásmundur hafi orðið fyrir framheilaskaða og byggt á taugasálfræðiprófi og frásögn eiginkonu hans um þunglyndi, framtaksleysi, pirring, skort á sjálfsstjórn og þolinmæði. Það er álit matsmanna að Ásmundur hafi ekki skýr einkenni eða merki heilaskaða. Aftur á móti virðist um vissa truflun á æðra heilastarfi að ræða. Sú truflun er að mati undirritaðra að öllum líkindum af völdum þrálátra verkja og þannig óbeint af völdum slyssins. Þetta mat er mjög ákveðið stutt af eðlilegum myndrænum og starfrænum (segulómun og SPECT) rannsóknum af heila og þar með einnig af framheila. Einkenni Ásmundar skýrast vel af hálstognun.“ Það er niðurstaða matsmanna að Ásmundur Smári hafi ekki hlotið framheilaskaða af völdum heilaáverka og því hvorki um tímabundna né varanlega örorku að ræða af þeim völdum. Tímabundna og varanlega læknisfræðilega örorku sem stafar af hálstognun telja þeir vera 100% tímabundna örorku í 14 vikur en varanlega læknisfræðilega örorku telja þeir vera 10%. Málsástæður og lagarök stefnanda. Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi við slysið 14. janúar 1991 hlotið bæði tímabundna og varanlega örorku. Bifreið hans hafi verið tryggð ökumanns- og farþegatryggingu auk ábyrgðartryggingar hjá stefnda. Beri stefnda því að bæta honum tjón hans að fullu. Stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu sína en gert honum tilboð um bætur sem séu allt of lágar og ekki í samræmi við gildandi rétt. Krafa stefnanda sundurliðast þannig: Vegna varanlegrar örorku kr. 3.616.100,00 - 15% x 25% kr. 6.026.833,00 Töpuð lífeyrisréttindi kr. 217.000,00 - 15 x 25 = kr. 361.666,00 Miskabætur kr. 250.000,00 Til frádráttar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins kr. 350.333,00 Alls kr. 6.288.166,00 Stefnandi kveðst byggja kröfugerð sína á sama útreikningi og hin upphaflega dómkrafa sem miðuð var við 15% varanlega örorku. Í framhaldsstefnu sé einnig miðað við sama útreikning, en nú miðað við 25% varanlega örorku. Hin endanlega kröfugerð sé byggð á sama útreikningi en nú sé gengið út frá 4,5% framtíðarávöxtun í stað 6%. Stefnandi vísar til 91., 92. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 50/1987 og um miskabætur til 264. gr. laga nr. 19/1940 sem í gildi var er slysið varð. Auk þess vísar stefnandi til langrar dómvenju um ákvörðun bóta fyrir líkamstjón og ennfremur til langrar venju tryggingafélaga um uppgjör á slíkum tjónum. Málsástæður stefnda og lagarök. Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að ekki sé sannað að stefnandi hafi orðið fyrir heilaskaða í bílslysinu 14. janúar 1991 og sömuleiðis sé ósannað að varanleg örorka stefnanda vegna hálsáverkans í slysinu sé meiri en 10%. Er örorkumati Sigurjóns Stefánssonar, læknis, sérstaklega mótmælt sem röngu og of háu en ályktanir hans og Þuríðar Jónsdóttur, taugasálfræðings, um að stefnandi hafi orðið fyrir framheilaskaða af völdum bílslyssins 14. janúar séu ósannaðar. Samkvæmt vottorði slysadeildar Borgarspítalans á dskj. nr. 4 um áverka og ástand stefnanda eftir bíláreksturinn geti stefnandi ekki hafa orðið fyrir þungu höfuðhöggi og framheilaskaða í árekstrinum. Hafi stefnandi verið vel áttaður á stað og stund við komu á slysadeild um 20-30 mínútum eftir slysið, aðeins hafi verið grunnur smáskurður á hvirfli og engin teikn um heilaáverka. Röntgenmynd af höfði hafi heldur ekki leitt í ljós nein áverkamerki. Þá liggi engin læknisfræðileg gögn fyrir um einkenni hjá stefnanda er bent gætu til framheilaskaða fyrr en með taugasálfræðilegu mati Þuríðar Jónsdóttur fimm árum eftir áreksturinn. Sé mat Þuríðar ekki sönnun þess að stefnandi þjáist af framheilaskaða yfirleitt og því síður sönnun þess að sá skaði hafi hlotist af bílárekstrinum 14. janúar 1991. Fái ekki staðist að framheilaskaði eða einkenni um framheilaskaða af völdum höfuðhöggs komi ekki fram fyrr en fimm árum síðar. Þá geti menn orðið fyrir framheilaskaða af ýmsum öðrum orsökum en höfuðhöggi í tilteknum bílárekstri. Verði ekki séð að aðrar mögulegar orsakir hafi yfir höfuð verið kannaðar. Séu ósönnuð orsakatengsl milli umstefnds bíláreksturs og framheilaskaða hjá stefnanda, ef um framheilaskaða hjá honum sé að ræða. Samkvæmt mati dr. Þuríðar Jónsdóttur sé svörun stefnanda í flestum prófum eðlileg nema í Stroop- prófi. Þá hafi seinkað minni á yrt efni verið fyrir neðan meðallag og afmörkuð tjáningartregða fólgin í getuleysi til að telja upp orð sem hefjast á ákveðnum bókstaf. Einföld og tvískipt einbeiting, einbeitingarúthald, greindarprófanir og skammtímaminni hafi hins vegar verið eðlilegt og WAIS prófþættir um vitrænt starf framheilans hafi sýnt þá starfsemi í góðu lagi. Sé hið taugasálfræðilega mat sem hér liggi fyrir aðeins vísbending um hugsanlega framheilasköddun en ekki sönnun þess að hún sé til staðar eða hafi hlotist af tilteknu höfuðhöggi fyrir fimm árum. Loks sé ekkert að finna í örorkumati Sigurjóns Stefánssonar sem rökstyðji hækkun á varanlegri örorku vegna hálsáverka úr 10% í 15%, þvert ofan í örorkumat dómkvaddra matsmanna og álit læknaráðs. Verði og ekki séð að Sigurjón hafi haft þau gögn í höndum við mat sitt og ómerki það matsgerð hans. Til stuðnings varakröfu er í greinargerð í aðalsök á því byggt að við ákvörðun örorkutjóns eigi að gæta þess að örorka bætist ekki meðan hennar gæti ekki í skertum vinnutekjum. Þá beri að draga frá þann hluta bóta sem ella gengi til opinberra gjalda, en staðgreiðsluhlutfall sé nú 41,34% en bæturnar kæmu til skatts sem jaðartekjur ef þær væru skattskyldar. Gildi hið sama um lífeyrisréttindi og örorkubætur. Síðan beri að virða til lækkunar hagræði af eingreiðslu bótanna samkvæmt dómvenju. Þá beri loks að virða til lækkunar að miski sé innifalinn í örorkumötum. Kröfum um miskabætur er mótmælt sem of háum þegar jafnframt er krafist örorkubóta og þess gætt að miski er innifalinn í örorkumatinu. Vaxtakröfum er sérstaklega andmælt en bótakrafan beri, samkvæmt venju, sömu vexti og notaðir eru í tjónsútreikningi en ekki dráttarvexti frá fyrri tíma en uppsögudegi endanlegs dóms. Niðurstaða Við munnlegan flutning málsins lýsti lögmaður stefnanda því yfir að hann teldi matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Grétars Guðmundssonar ekki hafa sönnunargildi þar sem hann, sem lögmaður stefnanda, hefði ekki verið boðaður á matsfund og hefði því ekki getað gætt hagsmuna umbjóðanda síns við matið. Lögmaður stefnda andmælti þessu og lýsti því yfir að hann teldi mótmæli lögmanns stefnanda of seint fram komin og benti á að engin andmæli hefðu komið fram er matsgerðin var lögð fram í þinghaldi 3. mars sl. Mál þetta var tekið fyrir tvisvar sinnum eftir að framangreind matsgerð var lögð fram. Komu engin andmæli fram af hálfu stefnanda við þær fyrirtökur og ekki fyrr en við munnlegan flutning málsins. Ber að fallast á með stefnda að framangreind andmæli stefnanda séu of seint fram komin. Stefnandi byggir kröfur sínar á örorkumati Sigurjóns Stefánssonar læknis. Í niðurstöðu sinni um varanlega örorku stefnanda byggir Sigurjón á taugasálfræðilegu mati Þuríðar J. Jónsdóttur og kemst að þeirri niðurstöðu að skapgerðarbreytingar og minnisbreytingar bendi til að stefnandi hafi hlotið heilaskaða í slysinu. Eins og fram kemur í matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Grétars Guðmundssonar er það ekki fyrr en tæpum fimm árum eftir slysið að minnst er á minnistruflun, einbeitingarskort eða annað slíkt. Engin gögn hafa verið lögð fram um það að á þessu fimm ára tímabili hafi grunur vaknað um að stefnandi hafi hlotið heilaskaða við slysið. Ekkert hefur komið fram í málinu er sýnir fram á skerta getu stefnanda til þess að gegna starfi sínu, en ætla má að geta hans til þess að sinna svo flóknu starfi hefði skerst við heilaáverka. Eins og fram kemur í taugasálfræðilegu mati dr. Þuríðar J. Jónsdóttur lýsir eiginkona stefnanda miklum persónuleikabreytingum sem hún telur hafa orðið á honum eftir slysið í formi þyngsla, framtaksleysis, pirrings og skorts á sjálfstjórn og þolinmæði. Telur dr. Þuríður lýsingu eiginkonu stefnanda dæmigerða lýsingu maka á framheilasködduðum einstaklingi. Þekkt er að langvarandi erfiðleikar og sjúkdómar, t.d. langvarandi verkir, geta valdið viðvarandi streituástandi. Þunglyndi, pirringur, óþolinmæði og minnisskerðing eru þekkt einkenni langvarandi streitu. Þessar persónuleikabreytingar valda oft miklu álagi á þá sem standa einstaklingnum næst og þeir verða oft meira varir við þessar breytingar en einstaklingurinn sjálfur. Dómurinn fellst á það, sem fram kemur í framangreindri matsgerð, að umræddar breytingar megi rekja til langvarandi streitu og verkjaástands, enda hafa engin gögn verið lögð fram í málinu er sýna fram á skýr einkenni eða merki um heilaskaða hjá stefnanda. Þykir og styðja þessa niðurstöðu að umræddar persónuleikabreytingar virðast ekki koma fram fyrr en nokkrum árum eftir slysið og ekkert hefur komið fram um það í málinu að aðrir en hans nánustu hafi orðið varir við þessar breytingar. Samkvæmt framansögðu telur dómurinn ósannað að stefnandi hafi í slysinu 14. janúar 1991 hlotið framheilaskaða af völdum heilaáverka. Fallist er á þá niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, svo og niðurstöðu læknaráðs í málinu, að varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda vegna slyssins sé 10%. Í úrlausnum dómstóla um verðmæti tapaðra framtíðartekna vegna örorku hefur almennt verið litið til læknisfræðilegrar örorku og hún höfð til hliðsjónar við ákvörðun örorkubóta. Er svo gert í máli þessu. Stefnandi byggir kröfur sínar á upphaflegum tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar þar sem miðað er við að örorka stefnanda sé 15% varanleg örorka. Stefndi hefur hins vegar lagt fram útreikning Jóns Erlings, dags. 24. febrúar 1997, þar sem miðað er við 10% varanlega örorku. Með hliðsjón af framansögðu þykir því rétt, við ákvörðun bóta, að hafa þann tjónsútreikning til hliðsjónar. Til viðmiðunar í útreikningnum voru skattframtalstekjur stefnanda síðustu þrjú árin fyrir slys, en þar segir m.a.: „Samkvæmt tölvuútskrift skattstofu og ljósritum af skattframtölum Ásmundar voru vinnutekjur hans árin 1988-1990 eins og að neðan greinir og eru jafnframt sýndar tekjurnar eftir að þær hafa verið umreiknaðar vegna kaupbreytinga: Á framangreindum forsendum um tekjur miðað við, að tap vegna slyssins sé á hverjum tíma sami hundraðshluti tekna og hin tilgreinda örorka, fæst eftirfarandi áætlun: Höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps reiknast mér á slysdegi: Vegna tímabundinnar örorku kr.385.700 - varanlegrar örorku kr 3.279.700 Samtals kr. 3.665.400 Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætla ég 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku, kr. 196.800.-“ Fram kemur í tjónsútreikningi Jóns Erlings að við útreikning höfuðstólsverðmætis eru fram að útreikningsdegi 24. febrúar 1997 notaðir vextir og vaxtavextir af almennum sparisjóðsbókum í Landsbanka Íslands og eru vextir lagðir við um hver áramót og er þetta nánar rakið í skjalinu. Fram kemur jafnframt að eftir útreikningsdag eru notaðir 4,5% vextir og vaxtavextir. Þá segir að dánarlíkur fari eftir reynslu áranna 1976 til 1980 og líkur fyrir missi starfsorku í lifanda lífi eftir sænskri reynslu. Ekki er tekið tillit til skatta. Fyrir því er löng dómvenja að skattfrelsi bóta fyrir varanlega örorku og meint eingreiðsluhagræði þeirra hafi áhrif til lækkunar. Þegar tekið er tillit til þess, svo og greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins kr. 350.333,00 þykja bætur til handa stefnanda vegna varanlegrar örorku hæfilega ákveðnar kr. 2.100.000,00. Innifaldar í þeirri fjárhæð eru bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda. Ljóst þykir að stefnandi hefur við slysið 14. janúar 1991 orðið fyrir nokkrum miska. Með hliðsjón af sjúkrasögu hans þykja miskabætur honum til handa hæfilega ákveðnar kr. 200.000,00. Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á upphaflegum útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar dags. 10. nóvember 1992 að því undanskyldu að nú sé miðað við 4,5% framtíðarávöxtun í stað 6% áður. Þetta í sjálfu sér þykir ekki skipta máli varðandi kröfu um dráttarvexti. Hins vegar liggur fyrir að upphaflega, eða með bréfi til stefnda dags. 25. nóvember 1992, krefst stefnandi bóta vegna 15% varanlegrar örorku en eftir það og við meðferð málsins hefur farið fram mikil gagnaöflun af hálfu beggja aðila málsins, eins og fram kemur hér að framan, og byggist endanleg kröfugerð stefnanda á því að varanleg örorka stefnanda sé 25%. Með hliðsjón af þessu svo og niðurstöðu málsins þykir því verða að fallast á kröfu stefnda um að dæmd bótafjárhæð beri ekki dráttarvexti frá fyrri tíma en uppkvaðningu dóms en beri vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 fram að þeim degi. Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst kr. 370.000,00. Ekki er tekið tillit til virðisaukaskatts. Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Aroni Björnssyni heila- og taugaskurðlækni og Hjördísi Jónsdóttur endurhæfingarlækni. Dómsorð: Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Ásmundi Smára Magnússyni, kr. 2.300.000,00 með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. janúar 1991 til uppkvaðningar dóms þessa en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 370.000,00 í málskostnað. |
Mál nr. 497/2010 | Bifreið Manndráp af gáleysi Ölvunarakstur Akstur sviptur ökurétti Svipting ökuréttar | S var gefið að sök manndráp af gáleysi og umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og án aðgæslu, yfir á rangan vegarhelming miðað við akstursstefnu með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti þar í árekstri við aðra bifreið, sem kom úr gagnstæðri átt, og ökumaður þeirrar bifreiðar lést við áreksturinn. Var þetta talið varða við ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. S játaði sök, en í málinu var til úrlausnar ákvörðun um refsingar fyrir þau brot sem um ræddi. Við ákvörðun refsingar var tekið mið af því að með stórkostlega háskalegri háttsemi sinni hefði S valdið dauða annars manns, en S var bæði mjög ölvaður umrætt sinn og að auki sviptur ökurétti. Þá var einnig litið til sakaferils S, en hann hafði áður verið dæmdur fyrir að aka ölvaður og án ökuréttar. S hlaut sjálfur töluverða áverka við slysið. Þá fór hann í áfengismeðferð í ágúst 2009 sem samkvæmt gögnum málsins hefði með einu fráviki gengið vel. Að þessu öllu virtu var refsing S ákveðin fangelsi í níu mánuði, en að virtum sakaferli hans þóttu ekki efni til að binda refsinguna eða hluta hennar skilorði. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2010. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu og sviptingu ökuréttar ákærða en að refsing hans verði þyngd. Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Ákærða er í málinu gefið að sök manndráp af gáleysi og umferðarlagabrot með því að hafa 27. maí 2009 ekið bifreið norður Grindavíkurveg, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og án aðgæslu, yfir á rangan vegarhelming miðað við akstursstefnu með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti þar í árekstri við aðra bifreið, sem kom úr gagnstæðri átt, og ökumaður þeirrar bifreiðar lést við áreksturinn. Er þetta talið varða við ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum eins og nánar greinir í ákæru. Ákærði játar sök, en í málinu er til úrlausnar ákvörðun refsingar fyrir þau brot, sem um ræðir. Samkvæmt gögnum málsins var árekstur bifreiðanna mjög harður. Var Magnús Þór Jónsson, prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, fenginn til að rannsaka hraða bifreiðar ákærða, sem hann ætlaði að hafi verið 106 km á klukkustund „fyrir skrið“, en tók jafnframt mið af því að hraði bifreiðar ökumannsins sem lést hafi verið 90 km á klukkustund. Lögreglu barst tilkynning um slysið kl. 6:36 og kl. 8:20 sama morgun var blóð dregið úr ákærða. Niðurstaða alkóhólákvörðunar reyndist vera yfir 3 o/oo. Við ákvörðun refsingar ákærða verður tekið mið af því að með stórkostlega háskalegri háttsemi sinni olli hann dauða annars manns, en ákærði var bæði mjög ölvaður umrætt sinn og að auki sviptur ökurétti. Þá verður litið til sakaferils hans, en með dómi Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2008 var ákærði sektaður og sviptur ökurétti í 3 ár og 6 mánuði fyrir að aka ölvaður og án ökuréttar og fyrir sömu sakir var honum með viðurlagaákvörðun sama dómstóls 3. ágúst 2007 gert að greiða sekt og sviptur ökurétti í 2 ár. Þá var hann samkvæmt sakavottorði dæmdur á árinu 1998 fyrir ölvunarakstur og fleiri brot á umferðarlögum. Ákærði hlaut sjálfur töluverða áverka við slysið en hóf aftur störf sem skipverji á fiskiskipi um ári síðar þótt einhver fjarvera frá starfi hafi orðið eftir það vegna afleiðinga slyssins. Þá fór hann í áfengismeðferð í ágúst 2009 sem samkvæmt gögnum málsins hefur með einu fráviki gengið vel. Að gættu öllu, sem að framan greinir, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í níu mánuði. Að virtum sakaferli hans og atvikum málsins eru ekki efni til að binda refsinguna eða hluta hennar skilorði. Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Stefán Sæmundur Jónsson, sæti fangelsi í 9 mánuði. Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 277.182 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns B. Thorlacius hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur. Dómur HéraðsdómsReykjaness 16. júlí 2010. Mál þetta sem dómtekið var þann 12. júlí sl. er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum útgefinni 10. júní sl. á hendur Stefáni Sæmundi Jónssyni, kt. 160675-5789, Túngötu 5, Grindavík „fyrir manndráp af gáleysi og umferðarlagabrot með því að hafa mánudaginn 27. maí 2009 ekið bifreiðinni BB 778 norður Grindavíkurveg, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði yfir 3, án aðgæslu, yfir á rangan vegarhelming miðað við akstursstefnu með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti þar í árekstri við bifreiðina [...], sem kom úr gagnstæðri átt, og ökumaður þeirrar bifreiðar, A, lést við áreksturinn. Telst þetta varða við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Þess erkrafist að ákærði verði dæmdurtil refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærðiverði dæmdur til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101.gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44./1993 og 18 gr. laga nr. 66/2006.“ Ákærði hefurkrafist vægustu refsingar semlög leyfa. Ákærði hefur í þinghaldiþann 12. þ.m. játaðþær sakir sem hann erborinn í ákæru. Verður mál þettaþví dæmt samkvæmt heimildarákvæði 164.gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en með skýlausri játninguákærða, semsamrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað aðhann hafi gerst sekur um þá háttsemi semhonum er gefin að sök í ákæru og þar eru réttilegaheimfært til refsiákvæða. Hvorugur málsaðili hefurgert kröfu um að aðalmeðferð fari fram. Ákærði sem fæddur er 16. júní 1975 hefur þrívegis verið sviptur ökuréttifyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, nú síðast þann 2. október 2008 en þá var hann sviptur ökurétti 3 ár og 6 mánuði frá 4. febrúar 2009. Við ákvörðunrefsingar verður ekki framhjá þvílitið að ákærði sýndi af sér vítaverðaog stórháskalega háttsemi með þvíað aka bifreið sinni ölvaður meðþeim afleiðingum að hann varðmanni að bana. Þá er óumdeilt að ákærði hlautmjög alvarlega áverka við slysið.Fyrir liggur í dóminum læknisvottorð sem staðfestir að ákærði fór í áfengismeðferð á Vogi í ágúst 2009 og í eftirmeðferð í framhaldi af því auk þess sem lögð hafa veriðfram vottorð sem staðfesta aðákærði hefur lagt sig í líma við að nátökum á áfengisvanda sem hann hafðilengi átt við að stríðaog sótt AA fundi reglulega. Þykir refsingákærða hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi ogvegna alvarleika brotsins þykir skilorðsbinding að fullu ekki komatil greina en með vísan tilþess sem er getið þykirrétt að fjórirmánuðir af refsivistinni verði bundnir skilorði eins og nánargreinir í dómsorði. Þá skal ákærði svipturökurétti ævilangt. Samkvæmt 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti sækjanda 1.368.577 krónum, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Kristjáns B. Thorlacius hrl. sem þykja hæfilega ákveðin 127.500 krónur. Júlíus Magnússon fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum sótti málið. Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn. DÓMSORÐ: Ákærði, StefánSæmundur Jónsson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustufjögurra mánaða af refsingunniog sá hlutihennar falla niður að liðnumþremur árum frá uppsögu dómsþessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði er svipturökurétti ævilangt. Ákærði greiði 1.496.077 krónur í sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristjáns B. Thorlacius hrl. 127.500 krónur. |
Mál nr. 363/2009 | Kærumál Hald Kröfugerð | R framkvæmdi húsleit 3. júní 2009 á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2009 í húsnæði lögmannsstofunnar L og í tveimur fasteignum, annarrar í eigu H en hinnar í eigu sambýliskonu hans. Krafðist H viðurkenningar á því að húsleitirnar hefðu verið ólögmætar. Þá krafðist hann þess að R yrði gert að skila tafarlaust öllum gögnum sem hald hafði verið lagt á í áðurnefndum húsleitum, að R væri óheimilt að kynna sér þau og að R yrði gert að eyða öllum afritum af þeim sem kynnu að hafa verið vistuð á tölvum hans. H byggði ennfremur á því að hald hefði verið lagt á gögn í húsnæði L sem vörðuðu aðra viðskiptamenn stofunnar en H og fyrirtæki hans. Talið var að H gæti á grundvelli 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála borið undir dómstóla kröfu um að haldi væri aflétt. Fyrir lá að H væri grunaður um refsiverða háttsemi. Skilyrði fyrir því að leggja hald á gögn hjá H og lögmanni hans 3. júní 2009 hefðu því verið uppfyllt samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008. H hefði ekki við meðferð málsins gert sérstakar kröfur sem beint hefði verið að tilteknum gögnum sem hald var lagt á 3. júní 2009 umfram það sem hann teldi að hefði verið heimilað með dómsúrskurðinum 2. júní 2009, heldur látið við það sitja að beina kröfum sínum að öllum hinum haldlögðu gögnum. Það væri ekki hlutverk dómstóla að laga kröfur hans að málatilbúnaði hans að þessu leyti. Þá var talið að H gæti ekki átt aðild að kröfu um skil og meðferð á gögnum sem snertu viðskipti lögmanns hans við aðra viðskiptavini en H. Var hinn kærði úrskurður staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila, sem lutu að lögmæti aðgerða sóknaraðila við leit í húsnæði Logos lögmannsþjónustu slf. að Efstaleiti 5, Reykjavík og fasteignunum að Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11, Reykjavík, 3. júní 2009 og haldlagningu á gögnum þar. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfur hans, sem lýst er í hinum kærða úrskurði, verði teknar til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði gerði sóknaraðili húsleit í þeim þremur fasteigum, sem getur í kröfu varnaraðila, hinn 3. júní 2009 á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2009, þar sem sóknaraðila var heimilað að leita í fasteignunum og leggja hald á gögn. Var tekið fram í úrskurðarorðum að leitin væri gerð í því skyni að „finna og haldleggja skjalleg sönnunargögn sem og rafræn gögn sem aðgengileg eru á leitarstöðum hvar svo sem þau kunna að vera varðveitt, og haldleggja muni sem þar kunna að finnast og tengjast ætluðum sakarefnum.“ Forsendur úrskurðarins 2. júní 2009 eru nær allar teknar orðrétt upp í hinn kærða úrskurð. Þar er að mestu leyti um að ræða endursögn á beiðni sóknaraðila sem héraðsdómur féllst á í úrskurði sínum. Í hinum kærða úrskurði er einnig orðrétt tekið upp meginefni erindis varnaraðila 5. júní 2009 til héraðsdómsins. Koma þar fram sjónarmið hans að baki þeim kröfum sem hann gerir í þessu máli. Í 1. lið kröfugerðar sinnar gerir varnaraðili kröfu um „að húsleitir ... 3. júní 2009 á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur ... í húsnæði Logos lögmannsþjónustu slf., að Efstaleiti 5, Reykjavík og í fasteignunum að Fjölnisvegi 9 og Fjölnisvegi 11 í Reykjavík, hafi verið ólögmætar.“ Í þessu máli er ekki til endurskoðunar úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2009, sem að framan var lýst, enda varð hann ekki kærður til Hæstaréttar eftir að húsleit hafði farið fram, sbr. 3. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Af málatilbúnaði varnaraðila í þessu máli má skilja að hann telji að við húsleitirnar hafi verið lagt hald á fleiri gögn en úrskurðurinn 2. júní 2009 heimilaði. Með hliðsjón af þessu og orðalagi 2. 4. liðar í kröfugerð varnaraðila, þar sem kröfum er beint að meðferð þeirra gagna sem hald var lagt á 3. júní 2009, þykir mega skýra 1. kröfuliðinn svo að þar sé krafist viðurkenningar á að haldlagning sóknaraðila þennan dag hafi verið ólögmæt. Í kröfuliðum 2 - 4 gerir varnaraðili kröfur um að sóknaraðili skili öllum gögnum sem hald var lagt á, honum verði óheimilað að kynna sér þau og gert að eyða öllum afritum af þeim sem kunni að hafa verið vistuð á tölvum sóknaraðila. Kröfur sínar byggir varnaraðili annars vegar á því að rannsóknaraðgerðir lögreglu séu án nægilegs tilefnis. Hins vegar byggir hann á því að starfsmenn sóknaraðila hafi lagt hald á gögn „sem höfðu bersýnilega ekkert með rannsóknarefnin að gera“ og hafi þannig verið „farið út fyrir heimildir samkvæmt húsleitarúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. júní sl.“ Þá hefur hann einnig byggt á því að hald hafi verið lagt á gögn í húsnæði Logos lögmannsþjónustu slf., sem varði aðra viðskiptamenn stofunnar en varnaraðila og fyrirtæki hans. Telja verður að varnaraðili geti á grundvelli 3. mgr. 69. gr laga nr. 88/2008 borið undir dómstóla kröfu um að haldi sé aflétt, meðal annars á þeim grundvelli að hald hafi verið lagt á gögn umfram það sem heimilað hefur verið með dómsúrskurði. Fyrir liggur að varnaraðili er grunaður um refsiverða háttsemi, svo sem lýst er í hinum kærða úrskurði, þar sem teknar eru upp forsendur úrskurðarins 2. júní 2009. Skilyrði fyrir því að leggja hald á gögn hjá varnaraðila og lögmanni hans 3. júní 2009 voru því uppfyllt samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 svo sem nefndur úrskurður heimilaði. Varnaraðili hefur ekki við meðferð málsins gert sérstakar kröfur sem beint er að þeim gögnum sem hald var lagt á 3. júní 2009 umfram það sem hann telur að hafi verið heimilað með dómsúrskurðinum 2. júní 2009, heldur látið við það sitja að beina kröfum sínum að öllum hinum haldlögðu gögnum. Það er ekki hlutverk dómstóla að laga kröfur hans að málatilbúnaði hans að þessu leyti. Þá getur varnaraðili ekki átt aðild að kröfu um skil og meðferð á gögnum sem snerta viðskipti lögmanns hans við aðra viðskiptavini en varnaraðila. Þegar af þeim ástæðum sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 308/2009 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. júní 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum verði ekki gert að sæta einangrun. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna hans. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 812/2016 | Kærumál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur | G krafðist þess að ógilt yrðu leyfi Í sf. og H til reksturs söfnunarkassa með peningavinningum og peningahappdrættis. Þá krafðist hann skaðabóta vegna þess tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna slíks rekstrar. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, kom fram að G hefði hvorki gert viðhlítandi grein fyrir sameiginlegri aðild málsins til varnar né sameiginlegri ábyrgð allra stefndu á þeim skaðabótakröfum sem hafðar væru uppi í málinu. Var málinu því vísað frá dómi með vísan til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir MarkúsSigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru5. desember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður erúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2016 þar sem máli sóknaraðilagegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr.laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærðiúrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið tilefnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.Varnaraðilar krefjast staðfestingar hinskærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðarverður hann staðfestur.Sóknaraðila verður gert að greiðavarnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Sóknaraðili, Guðlaugur Jakob Karlsson,greiði í kærumálskostnað til varnaraðila Happdrættis Háskóla Íslands og HáskólaÍslands, hvorum fyrir sig 100.000 krónur, varnaraðila íslenska ríkisins, 100.000krónur, og varnaraðila Íslandsspila sf., Rauða kross Íslands, SÁÁ sjúkrastofnunarog Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, hverjum fyrir sig 50.000 krónur.Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2016.Mál þetta, sem höfðað var meðstefnu birtri 21., 22. og 23. mars sl., var tekið til úrskurðar 14. nóvembersl. að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu. Stefnandi erGuðlaugur Jakob Karlsson, Bræðraborgarstíg 24a, Reykjavík. Stefndu eru innanríkisráðherrafyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli í Reykjavík, Íslandsspil sf.,Smiðjuvegi 11a í Kópavogi, SÁÁ sjúkrastofnun, Efstaleiti 7 í Reykjavík, Rauðikross Íslands, Efstaleiti 9 í Reykjavík, Slysavarnarfélagið Landsbjörg,Skógarhlíð 14 í Reykjavík, Háskóli Íslands við Suðurgötu í Reykjavík ogHappdrætti Háskóla Íslands, Tjarnargötu 4 í Reykjavík. Í þessumþætti málsins krefjast stefndu frávísunar málsins auk málskostnaðar. Stefnandikrefst þess að kröfu stefndu um frávísun verði synjað auk þess sem honum verðiúrskurðaður málskostnaður.Yfirlit um efnishlið málsins Íefnisþætti málsins hefur stefnandi uppi eftirfarandi kröfur auk kröfu ummálskostnað:. Að ógilt verði með dómi leyfi stefndaÍslandsspila sf. til reksturs söfnunarkassa með peningavinningum sem stefndiíslenska ríkið veitti samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1994 um söfnunarkassa. 2. Að ógilt verði með dómi leyfi stefndaHáskóla Íslands, til reksturs peningahappdrættis undir heitinu Gullnáman(Gullregn), sem stefndi íslenska ríkið veitti samkvæmt 2. og 3. mgr. 1. gr.laga nr. 13/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 23/1986 og lög nr.77/1994. 3. Að öllum stefndu verði in solidum,gert að greiða skaðabætur að fjárhæð 22.608.305 krónur með vöxtum samkvæmt 1.mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegitil þess dags þegar mánuður er liðinn, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömulaga, frá þeim tíma til greiðsludags.4. Þá er þess krafist að öllum stefnduverði, in solidum, gert að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 76.800.000krónur.Málatilbúnaður stefnanda er ímeginatriðum reistur á því að stefnandi hafi um langt skeið verið haldinnspilafíkn sem stefnandi leggur áherslu á að líta beri á sem alvarlegangeðsjúkdóm. Hafi tekið að bera á fíkn hans þegar um 17 ára aldur en fíkn hanshafi einkum beinst að spilakössum eða spilavélum sem reknar séu annars vegar afstefndu Íslandsspilum sf. og hins vegar af Happdrætti Háskólans á grundvellileyfa eða heimilda innanríkisráðuneytisins. Telur stefnandi að stefndu hafibrotið á sér með starfrækslu og rekstri spilakassa sem hafi leitt hann tilfíknarinnar og valdið honum fjárhagslegu og ófjárhagslegu tjóni. Telurstefnandi að búið sé að „gera út á hans spilasjúkdóm með skipulögðum hætti íáratugi af hálfu stefndu, sem hafi þannig gert veikleika hans að féþúfu“. Stefnandilýsir grundvelli kröfugerðar sinnar þannig að með útgáfu leyfa stefndainnanríkisráðherra til spilakassastarfsemi og síðar setningar laga nr. 73/1994um söfnunarkassa, og laga nr. 13/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands, sbr. lögnr. 23/1986 og nr. 77/1994, sem heimiluðu rekstur spilakassa meðpeningavinningum, og með starfrækslu og rekstri spilakassa stefndu,Íslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands, hafi allir stefndusameiginlega brotið gegn 183. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, um bannvið fjárhættuspili, hvort heldur að gera sér fjárhættuspil að atvinnu eða þaðað koma öðrum til þátttöku í þeim. Allir stefndu verði að taka ábyrgð á gjörðumsínum að þessu leyti, stefndi innanríkisráðherra með útgáfu leyfa tilspilakassastarfsemi og nefndum lagasetningum og stefndu Íslandsspil sf. ogHáskóli Íslands, eða Happdrætti Háskóla Íslands, með starfrækslu og rekstrispilakassa um allt land sem hafi skapað þeim ómældar tekjur. Með framangreinduhafi stefndu fengið ómælt rekstrarfé og stefndi, íslenska ríkið, losnað að samaskapi við að veita fé til nefndra aðila, aðildarfélaga og málefna þeirra, alltá kostnað þeirra samborgara sem veikir eru fyrir spilakassastarfseminni og meðfullri vitund um þá hættu sem henni fylgir, fyrir þá og allan almenning. Í stefnu ergerð sérstök grein fyrir lögvörðum hagsmunum stefnanda af málinu. Vísarstefnandi þar einkum til þess að hagsmunir hans felist í því að hann hafi orðiðspilafíkn, sem sé viðurkenndur geðsjúkdómur, að bráð vegna ólögmætrarinnleiðingar á spilakassastarfsemi hér á landi á grundvelli framangreindrarlagasetningar og leyfa. Þannig sé hann í dag alvarlega veikur spilafíkill oghafi verið háður þeirri fíkn um árabil með hinum alvarlegustu afleiðingum fyrirandlega og líkamlega heilsu og velferð samfara stórfelldu fjárhagslegu tjóni.Sjúkdómur stefnanda hafi verið alls kostar fyrirsjáanlegur og raunar dæmigerðafleiðing þess að stofnað var til reksturs spilakassanna. Þá er því lýst í stefnuað stefnandi hafi jöfnum höndum nýtt spilakassa tveggja framangreindu stefnduog gerð nánari grein fyrir því á hvaða stöðum. Vísað er til þess að spilakassafrá báðum aðilum megi iðulega finna á sömu stöðum og megi þannig fullyrða aðstefndu hafi gagnkvæman hag hvor af annars starfsemi og eigi sameiginlegan hlutað þeirri áhættu sem með henni er stofnað til gagnvart fólki eins og stefnanda.Í ljósi þess sé óeðlilegt að ætlast til þess af stefnanda að hann geri fyllstugrein fyrir því hvaða tjón hans yrði rakið til hvors eiganda. Hins vegar lýsirstefnandi sig reiðubúinn að íhuga sundurliðun bótakröfu sinnar með tilliti tilaðildar að tjóni hans ef hinir stefndu færðu fram skynsamleg rök og haldbærgögn í þá átt. En að því gættu sé óhikað rétt að líta svo á að hinir stefnduspilakassaeigendur ásamt íslenska ríkinu séu samábyrgir að lögum fyrir tjónistefnanda bæði að formi og í reynd. Að því er varðar tjón stefnanda er vísaðtil reikningsyfirlita sem sýni að hann hafi til margra ára eytt og tapað tugummilljóna króna í spilakassastarfsemi stefndu. Um fyrstutvær kröfur stefnanda segir í stefnu að þær feli í sér „kröfu um viðurkenninguþess, að starfsemi hinna stefndu spilakassaeigenda og -rekenda sé í reyndólögmæt, og verði í framhaldinu lögð niður í þeirri mynd sem hún er. Ertilgangurinn sá að tryggja að hann og aðrir geti losnað úr viðjum spilafíknarog komið undir sig fótum á ný í fjárhagslegum og andlegum efnum og öðlasteðlilegt líf á borð við allan almenning í landinu.“ Telur stefnandi augljóst aðhann hafi lögvarða hagsmuni af því að leggja þessa kröfugerð fyrir dómstóla,ekki síst í ljósi þess fjártjóns og miska sem hann hafi orðið að þola á liðnumárum og treysti sér til að sýna fram á með eðlilegum hætti. Jafnframt sé þaðtilgangur málshöfðunarinnar að tryggja honum eðlilegar bætur fyrir þetta tjónsamkvæmt kröfunum í 3. og 4. lið stefnu. Í stefnukemur fram að málið sé höfðað í framhaldi af kærum stefnanda tillögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara vegna framangreindrarstarfsemi. Meðal gagna málsins er bréf ríkissaksóknara 18. ágúst 2014 þar semákvörðun lögreglustjórans um að vísa kærunni frá með vísan til 4. mgr. 52. gr.laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er staðfest.Helstu málsástæður og lagarök aðila í frávísunarþættimálsins Málsástæðurog lagarök stefndu fyrir frávísun málsins fara saman í öllum meginatriðum. Ífyrsta lagi er á því byggt að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af fyrstutveimur kröfum sínum. Hvað sem líði spilafíkn stefnanda hafi hann ekki lögvarðahagsmuni af því að fá felld úr gildi umrædd leyfi eða heimildir. Einnig ervísað til þess að þessar kröfur séu í reynd málsástæður fyrir fjárkröfumstefnanda og skorti hann einnig lögvarða hagsmuni af kröfunum af þeim sökum.Hvað varðar aðild eigenda stefnda Íslandsspila sf. til varnar er bent á reglurlaga nr. 50/2007 um að ábyrgð eigenda sameignarfélags sé einungis til vara. Sémálatilbúnaður stefnanda vanreifaður um það hvers vegna kröfum sé einnig beintað þessum stefndu sem eigendum hins stefnda sameignafélags. Stefndu teljaeinnig að málatilbúnaður stefnanda sé í heild sinni vanreifaður með tilliti tilaðildar hvers og eins stefndu. Þannig sé óljóst hvort og hvernig skilyrðum 1.mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sé fullnægt, en starfsemi stefnduÍslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands sé algerlega aðskilin. Þráttfyrir þetta sé kröfum ekki beint að hverjum stefndu fyrir sig heldur öllumstefndu sameiginlega. Stefndu byggja einnig kröfu sína um frávísun á því aðmálatilbúnaður stefnanda feli í reynd í sér beiðni um að dómurinn leggi mat áætlaða refsiverða háttsemi stefndu samkvæmt 183. gr. hegningarlaga. Ef fallistyrði á meginmálsástæðu stefnanda væri það því ígildi sakfellingar í refsimáli,en slíkt standist ekki gagnvart 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu vísaí þessu sambandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1.mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé óheimilt, þegar viðkomandi hefurannað hvort verið sýknaður eða endanleg ákvörðun tekin um að sækja hann ekkitil saka, að fella dóm sem felur í reynd í sér sakfellingu. Stefndu bendaeinnig á að fjárkröfur stefnanda séu vanreifaðar og studdar ónógum gögnum og íógildingarkröfum sé vísað til leyfa þótt engin formleg leyfi hafi verið gefinút heldur einungis stjórnvaldsfyrirmæli. Að síðustu telja stefndu aðmálatilbúnaður stefnanda sé í heild sinni óljós og feli í sér skrifleganmálflutning. Stefnandimótmælir öllum sjónarmiðum stefndu. Hann telur mál sitt í alla staði vel reifaðog skipulega upp sett þannig að ekkert fari á milli mála hvað sé átt við. Lengdog umfang málatilbúnaðar sé eðlilegt miðað við eðli málsins. Hann mótmælir þvíað dómur í málinu væri ígildi sakfellingar í refsimáli. Einungis sé vísað tilverknaðarlýsingar hegningarlaga til stuðnings því að háttsemi stefndu hafiverið ólögmæt. Þá telur hann að áður tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár ogmannréttindasáttmála Evrópu eigi aðeins við um einstaklinga en ekki félög ogstofnanir. Að því er varðar skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr.laga nr. 91/1991 vísar stefnandi til þess að starfsemi áðurlýstra tveggjarekstraraðila sé nátengd og nánast alveg eins og með sömu afleiðingum fyrirstefnanda. Allar dómkröfur séu því samtvinnaðar og samtengdar. Hann bendir á aðhér eigi sama atvikalýsing við, sömu röksemdir og sönnunargögn. Að því ervarðar tilvísun til leyfa í fyrstu tveimur dómkröfum vísar stefnandi til þessað engin sérstök leyfi hafi verið gefin út en það standi stefndu hins vegar nærað sýna leyfisbréf sín ef þeim er að skipta. Leyfin, sem vísað sé til íkröfugerðinni, felist því í viðkomandi heimildarlögum. Um lögvarða hagsmunisína og reifun á fjárkröfum vísar stefnandi til þeirra sjónarmiða sem fram komaí stefnu og áður greinir. NiðurstaðaMálatilbúnaðurstefnanda er í meginatriðum á því reistur að með rekstri stefnda, Íslandsspilasf., annars vegar, og stefnda, Happdrættis Háskóla Íslands, hins vegar, áspilavélum, á grundvelli heimilda eða leyfa sem útgefin eru af stefndainnanríkisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, hafi þessir aðilar „in solidumbrotið gegn 183. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um bann viðfjárhættuspili“. Fyrir liggur að heimildir téðra aðila til reksturs spilavélabyggjast á settum lögum sem sett voru eftir að tilvitnuð hegningarlög tókugildi. Að fengnum skýringum lögmanns stefnanda við munnlegan flutning umfrávísunarkröfu stefndu verður að álykta að byggt sé á því að setning laga nr.73/1994 um söfnunarkassa, og laga nr. 77/1994, sem breyttu lögum nr. 13/1973 umHappdrætti Háskóla Íslands, hafi ekki haggað við banni almennra hegningarlagavið því að gera fjárhættuspil að atvinnu eða koma öðrum til þátttöku í þeim.Leiði samræmisskýring þessara réttarheimilda þar af leiðandi til þess aðstefnda innanríkisráðherra hafi allt að einu brostið heimild að lögum til þessað heimila umrædda starfsemi. Séu leyfin ógild af þessum sökum og sú starfsemisem grundvallast á þeim því ólögmæt.Úrlausn umþessa meginmálsástæðu stefnanda, og þá lögskýringu sem hún byggist á, heyrirundir efnisþátt málsins. Þá verður ekki á það fallist með stefndu að dómur umþetta atriði jafngildi því að skorið sé úr um hvort stefndu hafi gerstbrotlegir við 183. gr. hegningarlaga þannig að jafngildi því að tekin séafstaða til sektar þeirra eða sýknu að þessu leyti. Enn fremur verður að lítasvo á að skaðabótakröfur stefnanda séu á því reistar að við þær aðstæður aðumræddar heimildir séu ólögmætar og ógildar feli rekstur umræddra stefndu áspilavélum í sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Því beri rekstraraðilar spilavélanna skaðabótaábyrgð,ásamt stefnda íslenska ríkinu, á því tjóni sem af þessu hafi leitt fyrirstefnanda. Þótt á það verði fallist að málatilbúnaður stefnanda sé ekki einsskýr og æskilegt væri um þennan grundvöll málsins er sá annmarki ekki svostórvægilegur að leiði til frávísunar málsins í heild sinni.ALjóst er að skaðabótakröfurstefnanda í þriðja og fjórða lið kröfugerðar hans eru á því reistar að umræddleyfi eða heimildir til reksturs spilavéla séu andstæðar lögum og þar meðógildar. Eru fyrstu tvær kröfur í kröfugerð stefnanda því einnig málsástæðurfyrir kröfum hans um bætur fyrir fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón. Samkvæmtítrekuðum fordæmum Hæstaréttar kann stefnanda að skorta sjálfstæða hagsmuni afþví að fá skorið úr um kröfu um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar þegar jafnframter byggt á ógildi ákvörðunar til stuðnings kröfu um bætur, sbr. t.d. dómHæstaréttar 30. janúar 1997 í máli nr. 290/1995. Af málatilbúnaði stefnandaverður þó ráðið að markmið hans með kröfum um ógildingu sé einnig að koma í vegfyrir áframhaldandi ólögmæta starfsemi téðra stefndu sem hann telur valda sértjóni. Þótt reifunstefnanda á sjálfstæðum hagsmunum hans af því að hafa uppi sérstakar kröfur umógildingu umræddra stjórnvaldsákvarðana sé ekki eins skýr og æskilegt værigetur þetta atriði þó aldrei leitt til frávísunar málsins í heild sinni. Sama áraunar einnig við um þá málsástæðu stefndu að stefnanda skorti, sökum stöðusinnar, lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi umræddra leyfa eðaheimilda stefndu, Íslandsspila sf. og Happdrættis Háskóla Íslands. Þá hefurfyrirsvarsmaður stefnda íslenska ríkisins ekki gert athugasemdir við það aðeinungis innanríkisráðherra hafi verið stefnt til varnar í málinu þótt fyrirliggi að þriðja og fjórða krafa stefnanda, ef á þær yrði fallist, fælu í sérskyldu til greiðslu peninga úr ríkissjóði sem er á forræði efnahags- ogfjármálaráðherra samkvæmt almennum reglum um fjárreiður ríkisins.BSvo sem áður greinir hefurstefnandi uppi fjórar kröfur sem hann beinir sameiginlega gegn öllum stefndu.Málatilbúnaður stefnanda ber hins vegar með sér að rekstraraðilar umræddraspilavéla séu einungis stefndu Íslandsspil sf. og Happdrætti Háskóla Íslandssem er sjálfstæð stofnun í eigu Háskóla Íslands, sbr. reglugerð nr. 348/1976.Liggur þannig fyrir að um er að ræða aðskilda lögaðila sem starfa á grundvellisjálfstæðra leyfa, eða heimilda stjórnvalda, sem hvor um sig grundvallast ásérstakri lagasetningu sem áður greinir. Í stefnu ervísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála því tilstuðnings að stefnanda sé heimilt að beina öllum kröfum sínum gegn stefndu íeinu og sama málinu. Í stefnu kemur fram að spilavélar stefndu, Íslandsspilasf. Happdrættis Háskóla Íslands, séu yfirleitt starfræktar á sömu stöðum og ásömu forsendum þannig að fullyrða megi að þessir stefndu hafi gagnkvæman hag afstarfsemi hvor annars. Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefndu skýrðilögmaður stefnanda að það væri fyrst og fremst á þessum grundvelli sem kröfurstefnanda ættu allar rætur að rekja til sömu aðstöðu í skilningi 1. mgr. 19.gr. laga nr. 91/1991. Einnig var vísað til þess að erfitt eða ómögulegt væri aðsundurgreina tjón stefnanda gagnvart umræddum tveimur rekstraraðilumspilavélanna.Að matidómsins er þrátt fyrir framangreindar skýringar stefnanda óhjákvæmilegt aðhorfa til þess að umrædd starfsemi er reist á sjálfstæðum heimildum tveggjamismunandi lögaðila sem stjórnvöld hafa veitt, eða staðfest, á grundvellisérstakra laga sem um þetta gilda. Þótt starfsemi þessara stefndu kunni að veraeðlislík fer ekki á milli mála að um er að ræða spilavélar sem merktar eru ogmarkaðssettar með ólíkum hætti og hafa að einhverju leyti mismunandieiginleika. Þá hefur því verið mótmælt fyrir dómi að um nokkurs konarsamrekstur vélanna sé að ræða eða stjórnunarleg tengsl milli téðra tveggjarekstraraðila og er því raunar ekki haldið fram af stefnanda. Verður því aðmiða við að hagnaður af vélunum, eða tap ef því er að skipta, falli til hvorssíns rekstraraðilans án þess að um nokkurs konar sameiginlega ábyrgð sé aðræða. Í þessu ljósi telur dómurinn að verulega skorti á skýringar stefnanda áþví hvers vegna umræddum rekstraraðilum er í málinu stefnt til að þola dómvegna ógildingar á leyfum hvors annars. Af sömu ástæðum er einnig óútskýrt ístefnu hvers vegna eigendum þessara rekstraraðila er stefnt með sama hætti. Í þriðja ogfjórða lið kröfugerðar sinnar krefst stefnandi skaðabóta að tilteknum fjárhæðumóskipt úr hendi allra stefndu. Í stefnu er þó hvergi gerð grein fyrir því áhvaða grundvelli stefndu bera sameiginlega ábyrgð á tjóni sem stefnandi rekurtil starfsemi hvors rekstraraðila fyrir sig. Er ekki unnt að játa stefnandaheimild til þess að lagfæra þennan annmarka undir meðferð málsins með nánarisundurliðun, öflun matsgerða eða kröfu um að bætur verði dæmdar hlutfallslegaað álitum úr hendi tiltekinna stefndu svo sem hreyft var við munnlegan flutningum frávísunarkröfu stefndu.Samkvæmtframangreindu er það álit dómsins að á skorti að stefnandi hafi í heild sinnigert viðhlítandi grein fyrir sameiginlegri aðild málsins til varnar, svo oggrundvelli sameiginlegrar ábyrgðar allra stefndu á skaðabótakröfum í þriðja ogfjórða lið kröfugerðar hans. Eru þessir annmarkar, sem ljóst er að ekki verðurúr bætt undir rekstri málsins, svo verulegir að telja verður að komi niður ámöguleikum stefndu til að taka til varna. Með vísan til e-liðar 1. mgr. 80. gr.laga nr. 91/1991 er óhjákvæmilegt að vísa málinu í heild sinni frá dómi afþessum sökum. Er þá ekki þörf á því að fjalla nánar um hvort téðarskaðabótakröfur stefnanda séu nægilega skýrar og studdar gögnum svo aðefnisdómur verði felldur á þær. Sama á við um þá tilhögun málatilbúnaðarstefnanda að beina öllum kröfum sínum einnig að eigendum stefndu Íslandsspilasf. og Happdrættis Háskóla Íslands.Með vísantil 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er skylt að úrskurða stefnanda til aðgreiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin svo sem nánar greinir íúrskurðarorði og hefur þá verið tekið tekið tillit til virðisaukaskatts.Af hálfustefndu, Íslandspila sf., SÁÁ sjúkrastofnunar, Rauða kross Íslands ogSlysavarnarfélagsins Landsbjargar, flutti málið Stefán A. Sveinsson hrl. Afhálfu stefndu, Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands, flutti málið HörðurHelgi Helgason hdl. Af hálfu stefnda, innanríkisráðherra fyrir hönd íslenskaríkisins, flutti málið Ólafur Helgi Árnason hrl. Af hálfu stefnanda fluttimálið Þórður Heimir Sveinsson hdl.SkúliMagnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.Úrskurðarorð:Máli þessuer vísað frá dómi.Stefnandi,Guðlaugur Jakob Karlsson, greiði stefndu, Íslandsspilum sf., SÁÁ sjúkrastofnun,Rauða krossi Íslands og Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, hverju fyrir sig 50.000krónur í málskostnað. Stefnandi greiði stefndu, Háskóla Íslands og HappdrættiHáskóla Íslands, hvoru fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað. Stefnandi greiðistefnda, innanríkisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, 50.000 krónur ímálskostnað. |
Mál nr. 197/2004 | Kærumál Nauðungarvistun | Með beiðni dagsettri 5. maí sl. hefur X farið fram á að felld verði úr gildi ákvörðun Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 5. maí sl. um það að hún skuli vistast nauðug á sjúkrahúsi. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2004, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 5. sama mánaðar um að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi frá þeim degi í 21. dag. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga, greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Evu B. Helgadóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 60.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. |
Mál nr. 120/2016 | Kærumál Vanreifun Frávísunarúrskurður staðfestur | Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli iG ehf. á hendur IWH ehf. var vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt málshöfðunarfrestur 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væri skammur og að ekkert væri því til fyrirstöðu að iG ehf. aflaði frekari sönnunargagna undir rekstri málsins, væri til þess að líta að við þingfestingu málsins hefðu engin gögn verið lögð fram af hálfu iG ehf. sem styddu kröfur hans, heldur væru kröfuliðir í stefnu eingöngu byggðir á eigin mati félagsins. Málatilbúnaður félagsins væri því svo verulega vanreifaður að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu frá héraðsdómi. | DómurHæstaréttar.Mál þettadæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson ogGuðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari. Sóknaraðiliskaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárustréttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. febrúar2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi.Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferðeinkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úrgildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðarí héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðilikrefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með dómiHæstaréttar 4. júní 2015 í máli nr. 731/2014 var meðal annars felld úr gildilögbannsgerð sýslumannsins í Reykjavík 1. nóvember 2013, þar sem lagt var bann viðþví að sóknaraðili þessa máls notaði og hagnýtti sér vörumerki varnaraðila.Sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna lögbannsins og höfðaði þvímál þetta til heimtu þess fjártjóns og miska sem hann telur lögbannið hafavaldið sér. Frestur til þess að höfða mál til heimtu bóta vegna lögbannsgerðar erþrír mánuðir frá því að þeim, sem bóta krefst, varð kunnugt um höfnun beiðni umgerðina, niðurstöðu staðfestingarmáls eða niðurfellingu gerðar af öðrum sökum,sbr. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Samkvæmt 1.mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda við þingfestingu máls að leggjafram stefnu og þau skjöl sem varða málatilbúnað hans eða hann byggir kröfursínar á. Í stefnu skal greina svo glöggt sem verða má málsástæður og ber aðlýsa þeim með gagnorðum og skýrum hætti svo að ekki fari milli mála hvertsakarefnið er, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga. Lagareglur þessar tryggjaað stefnda sé fært að taka efnislega afstöðu til krafna stefnanda og að dómarigeti lagt dóm á sakarefni málsins, sbr. 1. mgr. 96. gr. og 1. mgr. 99. gr. laganna.Þóttmálshöfðunarfrestur 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 sé skammur og ekkert séþví til fyrirstöðu eftir lögum nr. 91/1991 að sóknaraðili afli frekarisönnunargagna undir rekstri málsins, þar á meðal með því að afla samkvæmt IX.kafla laganna mats sérfróðs manns á því tjóni sem sóknaraðili telur sig hafaorðið fyrir, er til þess að líta að við þingfestingu þessa máls voru engin gögnlögð fram af hálfu sóknaraðila sem styðja kröfur hans, heldur eru kröfuliðir ístefnu eingöngu byggðir á eigin mati sóknaraðila. Málatilbúnaður sóknaraðila erþví svo vanreifaður að óhjákvæmilegt er að vísa málinu frá héraðsdómi. Samkvæmtþessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og ídómsorði greinir.Dómsorð:Hinnkærði úrskurður er staðfestur.Sóknaraðili,iGwater ehf., greiði varnaraðila, Icelandic Water Holdings ehf., 400.000 krónurí kærumálskostnað. Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1.febrúar 2016. Mál þetta,sem tekið var til úrskurðar 8. janúar sl., er höfðað með stefnu birtri 24.ágúst 2015. Stefnandier iGwater ehf., kt. [...], [...], Reykjavík, en stefndi er Icelandic WaterHoldings hf., kt. [...], [...], Ölfusi, Árnessýslu. Fyrirsvarsmaður stefnandaer Helen Ekonomidis, kt. [...], [...], 270 Mosfellsbæ, en fyrirsvarsmaðurstefnda er Jón Ólafsson, kt. [...], [...], London, NW8 6BX Englandi. Dómkröfurstefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum miska- ogskaðabætur að fjárhæð kr. 1.821.388.086,00 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6.gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi tilgreiðsludags. Til vara að stefndi verði dæmdur til greiðslu miska- og skaðabótaað annarri lægri fjárhæð að álitum með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. lagaum vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honummálskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Stefndineytir heimildar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7.gr. laga nr. 78/2015, og hefur einungis gert kröfu um að málinu verði vísað frádómi og lagt fram greinargerð um það, auk þess að stefnanda verði gert aðgreiða stefnda málskostnað í þessum þætti málsins að teknu tilliti tilvirðisaukaskatts, samkvæmt mati dómsins eða málskostnaðarreikningi. MálavextirSamkvæmtfram lögðum gögnum og málatilbúnaði aðila eru málavextir þeir að þann 2.september 2013 lagði stefndi fram eftirfarandi kröfur um lögbann hjá Sýslumanninumí Reykjavík:„1. Að lagt verði lögbann við notkun oghagnýtingu stefnanda á eftirtöldum vörumerkjum stefnda:A. „ICELAND GLACIER“ orðmerki, sbr.vörumerkjaskráningu nr. 674/2008.B. „ICELAND GLACIER“, orð- ogmyndmerki., sbr. vörumerkjaskráningu nr. 1175/2007.2. Að stefnanda verði gert að fjarlægjaaf heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allar vörur, merkingar,auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar sem vörumerki stefnda nr.1175/2007 og 674/2008 koma fyrir.“Þann29. október 2013 tók Sýslumaðurinn í Reykjavík svofellda ákvörðun:„Ákvörðunsýslumanns:Samkvæmt1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 má leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandiathöfn sanni gerðarbeiðandi eða geri sennilegt að athöfn sú sem krafist erlögbanns við brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans á þann veg aðréttindi hans fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði hannknúinn til að bíða dóms um þau. Skv. 1.tl. 3. mgr. greinarinnar verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður aðréttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðandatryggi þá nægilega.Meðvísan til framlagðra gagna og þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið í máliþessu telur sýslumaðurinn í Reykjavík að skilyrði framangreindrar 24. gr. laganr. 31/1990 séu uppfyllt og leggur lögbann við notkun og hagnýtingu gerðarþola,Iceland Glacier Wonders ehf. , kt. 540507-1390, á eftirtöldum vörumerkjumgerðarbeiðanda:a „ICELAND GLACIER“, orðmerki, sbr.vörumerkjaskráningu nr. 674/2008.b „ICELAND GLACIER“, orð- ogmyndmerki, sbr. vörumerkjaskráning nr. 1175/2007.Einniger gerðarþola gert að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum,allar vörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er, þarsem vörumerki gerðarbeiðanda nr. 1175/2007 og nr. 674/2008 koma fyrir, alltgegn því að gerðarbeiðandi leggi fram viðbótartryggingu sem endanlega erákveðin kr. 33.500.000, eigi síðar en kl. 11:30 föstudaginn 1. nóvember nk.“Kveðurstefnandi að í kjölfar lögbannsins hafi hann breytt nafni sínu úr IcelandGlacier Wonders ehf. í iGwater ehf.Stefndimun hafa lagt fram viðbótartrygginguna og höfðaði hann staðfestingarmál semþingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 14. nóvember 2013.DómurHéraðsdóms Reykjavíkur í málinu var kveðinn upp hinn 27. október 2014. Dómsorð Héraðsdóms Reykjavíkur hljóðaðiþannig:„Stefndi,Iceland Glacier Wonders ehf., skal vera sýkn af þeirri kröfu stefnanda,Icelandic Water Holdings hf., að viðurkennt verði með dómi að stefnda séóheimilt að nota og hagnýta sér vörumerkin ICELAND GLACIER orðmerki, sbr.vörumerkjaskráningu nr. 674/2008 og ICELAND GLACIER, orð- og myndmerki, sbr.vörumerkjaskráningu nr. 1175/2007.Stefndiskal vera sýkn af þeirri kröfu stefnanda að viðurkennd verði með dómi skyldastefnda til að fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allarvörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða form sem er þar semvörumerki nr. 1175/2007 og 674/2008 koma fyrir.Fellder úr gildi lögbannsgerð Sýslumannsins í Reykjavík, nr. L-24/2013, sem tekinvar fyrir á skrifstofu sýslumannsembættisins hinn 29. október 2013 og lokið var1. nóvember 2013, þar sem lagt var bann við notkun og hagnýtingu stefnda ávörumerkjunum ICELAND GLACIER orðmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 674/2008og ICELAND GLACIER, orð- og myndmerki, sbr. vörumerkjaskráningu nr. 1175/2007.Fellder úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík við lögbannsgerðina um aðstefndi skuli fjarlægja af heimasíðu sinni, starfsstöðvum og verslunum, allarvörur, merkingar, auglýsingar og tilkynningar í hvaða formi sem er þar semvörumerki nr. 1175/2007 og 674/2008 koma fyrir.Stefnandigreiði stefnda kr. 700.000 krónur í málskostnað.“Stefndiáfrýjaði málinu til Hæstaréttar Íslands og var dómur kveðinn í Hæstarétti upp4. júní 2015. Dómsorð Hæstaréttarhljóðaði þannig:„Stefndi,Iceland Glacier Wonders ehf., er sýkn af kröfum áfrýjanda, Icelandic WaterHoldings hf.Ákvæðihéraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.Áfrýjandigreiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti“Kveðurstefnandi að með síðastgreindum dómi hafi endanlega verið staðfest að lögbanniðhafi verið ólögmætt.Stefnandikveðst hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna lögbannsins enda hafi stefndi fylgtþví eftir af mikill hörku og haft að fyrra bragði samband við smásöluverslanirþær, er selt hafi framleiðslu stefnanda og aðra viðskiptavini.Kveðststefnandi hafa orðið að farga öllum birgðum sínum og eyðileggja. Eins hafiorðið að fjarlægja úr smásöluverslunum og veitingahúsum það sem búið hafi veriðað selja til þeirra aðila. Þá kveðst stefnandi hafa orðið fyrir verulegusölutjóni þar sem markaðsstarf og markaðir hafi eyðilagst.Kveðurstefnandi tjón sitt felast í tapaðri sölu, missi hagnaðar, umbúðatjóni, tapaðriframleiðslu, glötuðu markaðsefni og markaðsstarfi. Auk þess sem fyrirtæki stefnanda hafi orðiðfyrir verulegum álitshnekki vegna hins ólögmæta lögbanns, sem ekki enn sjáifyrir endann á. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi kveðst einkum byggjakröfur sínar á VII. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o. fl. nr. 31/1990. Í1. mgr. 42. gr. tilvitnaðra laga segi efnislega að gerðarbeiðandi, stefndi,skuli bæta gerðarþola, stefnanda, þann miska og fjártjón þar á meðal spjöll álánstrausti og viðskiptahagsmunum sem telja má að gerðin hafi valdið. Því séótvírætt að stefndi sé bótaskyldur fyrir öllu því tjóni, sem lögbannsbeiðnihans og lögbann það sem lagt var á að kröfu hans og staðið hafi frá 1. nóvember2013 til 4. júní 2015, hafi valdið stefnanda. Hið ólögmæta lögbann stefndahafi orðið til þess að meira og minna öll sú áralanga vinna sem hafi farið í aðsetja vatnsframleiðslu stefnanda á markað hafi verið fyrir bí. Í raun sé tjónstefnanda, sem nemi því að hefja allan þann starfa að nýju og freista þessjafnframt að bæta fyrir það tjón og þann álitshnekki sem stefnandi hafi orðiðfyrir í kjölfar hins ólögmæta lögbanns. Í raun sé um altjón á fyrirtækiog vinnu stefnanda að ræða enda hafi hann orðið að byrja allt sitt starf frágrunni undir nýju vörumerki og þegar lögbannið hafi loks verið dæmt ólögmætthafi stefnandi orðið að byrja aftur að kynna og markaðssetja sitt fyrravörumerki. Stefnandi kveðst hafa orðiðfyrir umtalsverðu sölutjóni, missi hagnaðar og álitshnekki á erlendum mörkuðumvegna hins ólögmæta lögbanns. Þar hafi stefnandi hvort tveggja orðið fyrirbeinu tjóni og jafnframt fyrir miklum framlegðarmissi. Dæma beri stefnanda bætur semgeri hann eins settan og lögbannið hefði aldrei verið sett. Því beri, við ákvörðun bóta, að taka tillittil þeirrar eðlilegu söluaukningar sem orðið hefði hjá stefnanda og miða við þásölu sem hann ætti að vera með í dag ef stefndi hefði ekki á ólögmætan háttskaðað starfsemi hans. Stefnandi kveður aðalkröfu sínavera svofellda:Bein útgjöld: Stefnandi hafi orðið fyrir verulegum beinum útgjöldum vegnalögbannsmáls stefnda, eftirfarandi staðfestingarmáls og svo áfrýjunar stefnda ástaðfestingarmálinu til Hæstaréttar. Þá hafi stefnandi fengið til liðs við sigsérfræðinga í vörumerkjalögum og fleira.Nemi þessi kostnaður stefnanda USD 150.000 eða kr. 15.960.000. Stefnandiáskilur sér rétt til að leggja fram gögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar á þessari fjárhæð,verði henni mótmælt. Vinna stefnanda:Stefnandi kveður fyrirsvarsmenn sína hafa þurft að eyða verulegum tíma vegnamálsvarnar í lögbannsmálinu og staðfestingarmálinu. Vinna þessi hafi veriðfólgin í fundum með lögmönnum, gagnaöflun og mörgu fleiru. Miðað við umfang ogmikilvægi málanna verði að leggja til grundvallar að fyrirsvarsmenn stefnandahafi eytt um það bil 20 tímum á viku í málaferlin frá því lögbannsbeiðnistefnda kom fram 2. september 2013 þar til greinargerð var skilað ístaðfestingarmálinu hinn 19. desember 2013 eða í um 16 vikur. Það geri samtals320 tímar sem fyrirsvarsmenn stefnanda hafi verið á launum hjá stefnanda en í vinnusem hafi eingöngu verið tilkomin vegna ólögmætrar lögbannsbeiðnar stefnda. Tjón stefnanda vegna þessa nemi kr. 15.000 áklst. Eða samtals kr. 4.800.000. Stefnandi áskilur sér rétt til að leggja framgögn og mat dómkvadds matsmanns tilsönnunar á þessari fjárhæð, verði henni mótmælt. Spjöll á lánstrausti:Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir verulegum spjöllum á lánstrausti vegna hinnaólögmætu aðgerða stefnda. Stefnandi hafi orðið að þola fjölmiðlaumfjöllun um aðhann væri að brjóta lög með starfsemi sinni, auk annarra aðgerða stefnda.Lögbann stefnda hafi leitt til þess að allar bankalínur stefnanda hafi lokastog stefnandi ekki fengið neina bankafyrirgreiðslu. Til þess að forða stefnandafrá gjaldþroti hafi eigendur og fyrirsvarsmenn stefnanda selt einbýlishús sittað Svöluhöfða 17, Mosfellsbæ og lagt andvirðið inn í stefnanda. Stefnandikveðst meta þetta tjón sitt á kr. 100.000.000 og áskilur sér rétt til að leggjafram gögn og mat dómkvadds matsmanns tilsönnunar á þessari fjárhæð, verði henni mótmælt. Spjöll á viðskiptahagsmunum:Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir verulegum spjöllum á viðskiptahagsmunum sínumvegna hinna ólögmætu aðgerða stefnda. Stefnandi hafi orðið að þolafjölmiðlaumfjöllun um að hann væri að brjóta lög með starfsemi sinni, auk þesssem stefndi hafi sett sig í beint samband við viðskiptamenn hans, bæði munnlegaog bréflega til að tilkynna þeim um meint lögbrot stefnanda. Kveðst stefnandimeta þetta tjón sitt á kr. 500.000.000 og áskilur sér rétt til að leggja framgögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar á þessari fjárhæð, verði hennimótmælt. Glötuð verðmæti:Stefnandi kveðst, vegna lögbanns stefnda, hafa orðið að farga öllum birgðumsínum, taka til baka og farga vörum sem seldar hafi verið í smásöluverslanir ogveitingahús, bæði hérlendis og erlendis. Þá hafi stefnandi orðið að farga mjögmiklu af umbúðum og auglýsingaefni sem hafi verið framleitt og greitt fyrir.Stefnandi kveðst meta tjón sitt vegna þessa þannig:Alls kr. 23.466.086.Kveðst stefnandi munu láta meta þetta tjón sitt verðiþessari fjárhæð mótmælt.Glatað markaðsstarf: Vegna breytinga á umbúðum utan um vörur stefnanda hafiglatast mjög mikið markaðstarf sem stefnandi hafi lagt í. Þá hafi stefnandi,meðan á lögbanni stóð, orðið að leggja í þá vinnu að hanna nýjar umbúðir, nýjavefsíðu, ný tölvupóstföng og hefja nýtt markaðsstarf til þess kynna vöru sínaupp á nýtt. Nú þegar lögbann stefnda hafi verið dæmt ólögmætt þurfi stefnandiað leggja aftur í kostnað og vinnu við að kynna fyrra vörumerki sitt aftur.Kveðst stefnandi meta þennan kostnað sinn á kr. 480.000.000 og áskilur sér rétttil að leggja fram gögn og mat dómkvaddsmatsmanns til sönnunar á þessari fjárhæð, verði henni mótmælt.Töpuð sala: Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir mjög miklu tjóni vegnatapaðrar sölu, bæði hérlendis og erlendis. Tjón stefnanda hafi orðið vegna þessað hann hafi orðið að taka til baka vörur sínar frá smásöluaðilum ogveitingahúsum eins og um væri að ræða ólögmæta framleiðslu. Salan hjá stefnanda hafi dottið mjög mikið niður,bæði vegna álitshnekkis, sem fyrirtæki hans hafi orðið fyrir og eins vegna þessað framleiðsluvörur hans í nýjum umbúðum hafi verið óþekktar og nýjar og selstþví mun lakar en þær fyrri sem stefnandi hafi lagt í mikla vinnu við aðmarkaðssetja og kynna. Kveðst stefnandi meta þetta tjón sitt kr. 547.162.000 ogáskilur sér rétt til að leggja fram gögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar á þessari fjárhæð,verði henni mótmælt.Miskabætur: Kveður stefnandi ljóst að tjón hans verði ekki að fullubætt þótt hann fái bættan útlagðan kostnað, vinnutap, spjöll á lánstrausti ogviðskiptahagsmunum, glötuð verðmæti, glatað markaðsstarf og tapaða sölu.Stefnandi hafi orðið fyrir verulegum álitshnekki vegna hins ólögmæta lögbanns,sem ekki sjái enn fyrir endann á. Álitshnekkir þessi skerði orðsporfyrirtækisins útávið og muni fyrirsjáanlega hafa veruleg áhrif á afkomu þess íframtíðinni bæði með minni sölu en orðið hefði ef stefndi hefði ekki farið út íhinar ólögmætu lögbannsaðgerðir sínar og eins með dýrara og erfiðaramarkaðsstarfi. Stefnandi kveðst meta miska sinn á kr. 150.000.000 og áskilursér rétt til að leggja fram gögn og mat dómkvadds matsmanns til sönnunar ámiskafjárhæðinni, verði henni mótmælt.Kveður stefnandi því að alls nemi tjón hans kr.1.821.388.086.Stefnandi kveður fjárhæðina byggja á eigin mati sínu, byggðuá gögnum hjá honum og þeim upplýsingum sem stefnandi hafi um sölu á vatni fráÍslandi þann tíma er lögbannið hafi staðið yfir. Kveðst stefnandi áskilja sérrétt til að láta dómkveðja matsmenn til að meta tjón sitt og breytastefnufjárhæð til samræmis við niðurstöður þeirra. Þá tekur stefnandi jafnframtfram að hann áskilji sér rétt til þess að láta dómkveðja matsmenn til þess aðmeta það tjón stefnanda vegna lögbanns stefnda, sem ekki verði sannað með öðrumgögnum.VarakrafaTil vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert aðgreiða stefnanda skaða- og miskabætur eftir álitum dómsins, skv. heimild í 1.mgr. 42. gr. l. nr. 31/1991 [sic.] um kyrrsetningu, lögbann o.fl., teljidómurinn að stefnanda hafi ekki tekist að sanna beint fjártjón sitt og fjárhæðmiskabóta, eða nái ekki með matsgerð að sanna það. Kveðst stefnandi þá byggja áþví að háttsemi stefnda hafi leitt til eiginlegrar rekstrarstöðvunar stefnandaog missis hagnaðar af þeim sökum og að í samræmi við venju og viðurkenndarkenningar hafi dómstólar heimild til að ákveða fjárhæð skaðabóta vegnarekstrarstöðvunar að álitum. Stefnandi telur ljóst, ef aðalkrafa nær ekki framað gagna, að líta verði til þess að líkur séu fyrir því að hann hafi orðiðfyrir tjóni af völdum stefnanda. Lögbannsgerðin hafi leitt til eiginlegrarrekstrarstöðvunar stefnanda. Tjón vegna rekstrarstöðvunar og missis hagnaðar afþeim sökum beri tjónvaldi að bæta eins og annað tjón. Slík rekstarstöðvun einsog stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að hann hafi fyrir tilverknað stefndaverið sviptur öllum möguleikum til að stunda starfsemi sína, þ.e. þau lögmætuviðskipti sem tilgangur stefnanda skv. samþykktum kveði á um, verði almennt aðteljast vera til þess fallin að valda tjóni fyrir missi hagnaðar og öðru tjónivegna tilfallandi kostnaðar við að halda lágmarks starfsemi á þeim tíma, einsog t.d. að halda bækur félagsins, gera ársreikninga, telja fram til skatts ogsérstaklega í þessu máli vinnu stefnanda við að halda uppi réttmætum kröfumfélagsins á hendur stefnda. Sé viðurkennt að það sé almennt afar erfitt að sýnafram á raunverulegt tjón þegar um rekstrarstöðvun og missi hagnaðar af þeimsökum sé að ræða. Sönnunarbyrði leggist því sérlega þungt á stefnanda ef honumverði ætlað að sýna með óyggjandi hætti fram á raunverulegan missi hagnaðar ogsýna fram á raunverulegan kostnað til þess að fá tjón sitt bætt. Þess vegnahafi dómstólar fallist á að dæma skaðabætur að álitum í slíkum málum og kveðurstefnandi að það eigi einmitt við í máli þessu hvað varðar varakröfu hans ogvísar til Hæstaréttardóma í málum nr. 1998 bls. 3398 og 1999 bls. 1709.Stefnandi telur að hann hafi gert það sennilegt að hann hafi orðið fyrir tjóni,eða a.m.k. leitt nægar líkur fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni, hannhafi gert grein fyrir því í hverju það tjón hans hafi falist og hver tengslþess séu við atvik málsins og að dóminum sé því heimilt að dæma honumskaðabætur úr hendi stefnda að álitum. Um lagarök kveðst stefnandi vísatil ákvæða laga um kyrrsetningu, lögbann o. fl. nr. 31/1990, einkum 42. gr.,laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og laga um meðferð einkamála nr.91/1991, en um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 ummeðferð einkamála.Málsástæður og lagarök stefndaStefndi kveðst mótmæla málatilbúnaði stefnanda í heild sinnisem röngum og ósönnuðum, þ.á m. málsástæðum og lýsingu stefnanda á málavöxtum.Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á að málatilbúnaðurstefnanda sé svo óskýr, órökstuddur og án stuðnings nokkurra sönnunargagna aðstefnda verði ekki gert að grípa til varna gegn honum. Úr þessu verði ekki bættundir rekstri málsins og því ljóst að vísa verði málinu frá dómi. Stefndi vísarm.a. til d.-, e.- og g. liðar 1. mgr. 80. gr., 1. mgr. 95. gr., 5. mgr. 101.gr. og 2. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi telurmálatilbúnað stefnanda brjóta í öllum aðalatriðum gegn meginreglum laga nr.91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað.Stefndi kveður stefnanda hvorki hafa gert grein fyrir meintutjóni sínu eða umfangi þess né heldur öllum grundvallarskilyrðumskaðabótaréttar, þ.m.t. meintri sök stefnda, tjóni stefnda [sic.],orsakatengslum þess við háttsemi stefnanda [sic.] og sennilegri afleiðingu. Stefnandi hafi ekki lagt fram neina útreikninga, sundurliðuneða gögn til grundvallar kröfum sínum. Hið eina sem liggi til grundvallar hinniháu dómkröfu stefnanda séu hans eigin fullyrðingar um að hann telji meint tjón sittnema svo og svo háum fjárhæðum. Ómögulegt sé fyrir stefnda að átta sig á hvaðaatvik og forsendur liggi að baki hverjum bótalið fyrir sig eða við hvaðamálsástæður stefnandi styðji kröfur sínar. Stefndi byggir á að útilokað sé aðgera sér grein fyrir með hvaða hætti stefnufjárhæðin sé fundin og sé hún engumgögnum studd.Stefndi kveður það vera á skjön við ákvæði laga nr. 91/1991að stefnandi fullyrði að hann eigi kröfu á hendur stefnda vegna beinna útgjaldasem nemi kr. 15.960.000,- sem hvorki sé sundurliðuð né studd gögnum. Stefndi kveður kröfu stefnanda um greiðslu bóta vegna vinnustefnanda kr. 4.800.000 hvorki vera sundurliðaða né studda neinum gögnum. Vísarstefndi til þess að í stefnu sé notað orðalag líkt og „verður að leggja tilgrundvallar að fyrirsvarsmenn stefnanda hafi eytt um það bil 20 tímum á viku ímálaferlin frá því að lögbannsbeiðni...“. Engar vinnuskýrslur eða önnur gögnliggi þó þessari fullyrðingu til grundvallar.Þá kveður stefndi að svo virðist sem að þessum tveimurkröfuliðum sé ætlað að taka til krafna sem Hæstiréttur hafi þegar fjallað um,en í dómi Hæstaréttar frá 4. júní 2015 hafi verið fallist á málskostnaðarkröfustefnanda í tengslum við rekstur lögbannsmálsins. Engin réttarfarskilyrði séufyrir því að bera sömu kröfu aftur upp í öðru máli í þeirri von um að fá framaðra niðurstöðu. Stefndi kveður kröfu stefnanda um greiðslu bóta vegnameintra spjalla á lánstrausti, vegna meintra spjalla á viðskiptahagsmunum,vegna meintra glataðra verðmæta, vegna meints glataðs markaðsstarfs, vegnameintrar tapaðrar sölu og vegna meints miska vera algjörlega órökstuddar, þarsem ítrekað segi í stefnu: „Stefnandi metur þetta tjón sitt...“. Allirbótaliðir málsins byggi þannig á eigin mati stefnanda án nokkurra sönnunargagnaþar um eða nánari rökstuðnings eða útskýringa. Stefndi bendir á að stefnandileggur einungis fram þrjú dómskjöl við þingfestingu málsins. Í fyrsta lagistefnu, í öðru lagi skjalaskrá og í þriðja lagi dóm Hæstaréttar í máli nr.731/2014. Framangreind dómskjöl séu þau einu gögn sem stefnandi byggimálatilbúnað sinn á en stefnandi geri ekki einu sinni tilraun til að leggjafram þau gögn sem hann styðji sitt einhliða mat sitt um meint tjón á. Þá verðiað telja að þessi kröfugerð stefnanda sé ósamrýmanleg dómi Hæstaréttar í málinr. 721/2014, þar sem krafa stefnda hafi verið tekin til greina og stefnandagert að afmá auðkennið „Iceland Glacier” í firmaheiti sínu að viðlögðumdagsektum. Stefndi kveðst mótmæla hverjum og einum lið bótakröfustefnanda sem og öllum samanteknum. Stefndi hafnar bótaskyldu sinni en telurbótakröfu stefnanda að auki svo óljósa og vanreifaða að stefnandi geti ekkifengið efnislega úrlausn um hana né verði stefnda gert að grípa til varna gegnslíkum málatilbúnaði, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi kveðurógerlegt að grípa til varna gegn málatilbúnaði stefnanda enda sé ómögulegt afefni stefnu og framlagðra gagna að gera sér grein fyrir á hverju málshöfðunstefnanda byggi.Meint bótaskylda stefnda verði ekki byggð á fullyrðingumstefnanda einum og með vísan til 95. gr. laga nr. 91/1991 sé ljóst að honumberi skylda til að leggja fram öll gögn kröfum sínum til stuðnings þegar viðþingfestingu máls. Það hafi stefndi ekki gert og sé málatilbúnaður hans þvívanreifaður og málsgrundvöll skorti. Stefndi mótmælir því að stefnandi getibætt úr slíkum grundvallar ágalla á málatilbúnaði á síðari stigum málsins endaværi stefnda þar með ókleift að grípa til varna í máli þessu með þeim hætti semlög gera ráð fyrir.Í íslensku réttarfari sé þess krafist að allar kröfur,málsástæður og gögn eigi að koma fram eins fljótt og mögulegt er, m.a. meðvísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi verði ekki látinn berahallann af því að stefnandi hafi ekki sannreynt tjón sitt með nokkru móti, eðasvo mikið sem lagt fram nokkur gögn sem eigi að styðja meint tjón hans.Stefnandi hafi þingfest mál sitt án þess að fullnægja ákvæði1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um framlagningu gagna ogskýringar málsástæðna sem liggi til grundvallar málatilbúnaði stefnanda.Stefndi bendir á að fái stefnandi það tækifæri að afla matsgerðar í máli þessuog leggja fram, þá hafi hann ekki aflað frekari gagna til stuðnings kröfugerðsinni heldur hafi hann fyrst þá aflað einu gagnanna sem málatilbúnaður hansbyggi á. Ljóst sé að slík matsgerð kæmi til með að raska málsgrundvellinum svoverulega að ekki yrði tækt að kröfur stefnanda fengju efnisdóm.Heimild IX. kafla laga nr. 91/1991 til að óska dómkvaddsmats undir rekstri máls sé til þess að aðilar máls geti aflað gagna umsérfræðileg atriði sem í ljós komi undir rekstri máls að færa þurfi sönnur á.Heimildin nái ekki til þess að bæta úr því sem illa hafi farið í málatilbúnaðistefnanda og bæta þannig upp fyrir skort á öllum gögnum við upphafmálsmeðferðar. Slík aðferðafræði stangist alfarið á við meginreglu 95. og 5.mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 og raski málsgrundvelli þeim sem stefnandi hafikosið að leggja upp með.Að sama skapi sé ljóst að stefndi gæti ekki komið aðandsvörum sínum með greinargerð heldur myndi slík matsgerð óhjákvæmilega raskajafnræði málsaðila. Stefndi hafi þann lögbundna rétt að fá tækifæri til aðkynna sér málatilbúnað stefnanda og eiga þess sanngjarnan kost að verjastkröfum hans hvað alla þætti hans varðar. Í þeim tilfellum sem aflað er matsgerðarundir rekstri máls sé gerð sú krafa að matsgerðin sé til styrkingar kröfum ogöðrum sönnunargögnum málsaðila. Í þessu máli liggi hins vegar engin gögn tilgrundvallar og sem útiloki stefnda þar með alfarið frá því að grípa til varna.Ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 geri þá kröfu aðmálsgrundvöllur sé strax í upphafi svo skýr og greinilega markaður að stefndigeti brugðist við með málefnalegum rökum. Augljóst sé að málatilbúnaðurstefnanda, sem byggi alfarið á eigin mati og getgátum stefnanda, geti ekkiuppfyllt þessi skilyrði. Væri stefnanda gert kleift að afla matsgerðar ágrundvelli málshöfðunar þessarar væri ekki aðeins ljóst að hann hefði þingfeststórkostlega vanreifaða kröfu heldur myndi hann undir rekstri málsinsgjörbreyta öllum málsgrundvelli án þess að stefnda yrði gert kleift að grípatil varna. Úr þessari vanreifun geti stefnandi því ekki bætt undir rekstrimálsins og þannig leitast við að bæta úr þeim annmörkum sem séu á málatilbúnaðihans.Þá kveður stefndi að varakrafa stefnanda um bætur að álitumbæti ekki fyrir hinn vanreifaða málatilbúnað. Sömu rök eigi við og um aðalkröfustefnanda að því er varði það að stefndi geti ekki gripið til varna gegnvarakröfu stefnanda þegar hann hafi ekki leitast við að styðja hana nokkrumgögnum. Stefndi telur jafnframt ljóst að enginn grundvöllur sé fyrir dómara tilað ákvarða slíka fjárhæð á grundvelli engra gagna sem sýnt geti fram á tilvisteða umfang meints tjóns stefnanda. Gera verði þá lágmarkskröfu til stefnanda aðhann leggi viðhlítandi grunn að sönnun um meint fjártjón sitt sem og umfangþess. Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda sé stefnda gert að skilagreinargerð áður en frekari gagnaöflun stefnanda fer fram. Gegn slíkummálatilbúnaði sé ljóst að jafnræði aðila sé raskað í öllum meginatriðum endaljóst að stefnda myndi ekki gefast tækifæri til að verjast kröfugerð stefnandaog þeim tölum og gögnum sem hún kynni að byggja á á síðari stigum málsins, yrðistefnanda veitt tækifæri til að leiðrétta hinn vanreifaða málatilbúnað. Að gerastefnanda kleift að fá efnisúrlausn krafna sinna í máli þessu gerði það aðverkum að stefnendur fengju hvatningu til að þingfesta vanreifuð mál, ánnokkurs rökstuðnings eða gagna til grundvallar kröfum sínum, í því skyni aðútiloka stefndu frá því að taka til efnisvarna á fullnægjandi máta. Leiði alltframangreint til þess að vísa verði kröfum stefnanda frá dómi.Kveður stefndi kröfu sína um frávísun styðjast við fjölmörgdómafordæmi. Að lokum bendir stefndi á að framangreindir annmarkar ámálatilbúnaði stefnanda geti leitt til frávísunar ex officio.Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991 um meðferðeinkamála, sérstaklega 1. mgr. 80. gr., 1. mgr. 95. gr., 5. mgr. 101. gr. og 2.mgr. 111. gr., ásamt 2. mgr. 99. gr. laganna. Um málskostnað vísar stefndi til1. mgr. 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála envegna greiðslu virðisaukaskatts til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.Forsendur og niðurstaða Í máli þessu gerir stefnandi háarfjárkröfur vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna lögbanns þess semað framan er lýst. Er samkvæmt kröfugerð hans um að ræða bæði fjárhagslegt ogófjárhagslegt tjón, en stefnandi krefst bæði skaðabóta og miskabóta. Stefnandihefur ekki lagt fram nein gögn um meint tjón sitt, en framlögð gögn hans erueins og áður segir stefna, skjalaskrá og afrit dóms Hæstaréttar ásamt dómiHéraðsdóms Reykjavíkur. Er þetta í ósamræmi við 1. mgr. 95. gr. laga nr.91/1991. Hefur stefnandi ekki gert kröfur um að leggja fram frekari tiltekingögn í málinu, hvorki fyrir né eftir að frávísunarkrafa stefnda kom fram, enáskilið sér rétt til þess í stefnu verði kröfum hans mótmælt. Stefnandiflokkar meint tjón sitt niður í nokkra flokka eins og að framan er lýst ogverður fjallað um kröfur hans í þeirri röð. Stefnandigerir kröfur um bætur vegna beinna útgjalda sem hann kveðst hafa orðið fyrirvegna lögbannsmálsins, staðfestingarmálsins og áfrýjunar á því. Kveðurstefnandi tjón sitt samkvæmt þessu nema kr. 15.960.000. Ekki er gerð fyrir þvíí hverju tjónið felst a.ö.l. en því að stefnandi kveðst hafa fengið til liðsvið sig sérfræðinga í vörumerkjalögum „og fleira“. Krafan er þannig algerlegavanreifuð og er dóminum ófært að taka afstöðu til hennar og stefnda jafnframtófært að verjast henni. Fullnægir stefnan að þessu leyti ekki ákvæðum e liðar1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki betur séð en að stefnandi séhér að setja fram kröfu vegna málskostnaðar sem hann hafi orðið fyrir íframangreindu máli, en um kröfu hans um málskostnað hefur þegar verið dæmt í þvímáli og gengur því þessi þáttur krafna stefnanda í málinu gegn ákvæðum 2. mgr.116. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandigerir kröfur um bætur vegna vinnu fyrirsvarsmanna stefnanda sem þeir hafi þurftað eyða tíma í vegna málsvarnar í lögbannsmálinu og staðfestingarmálinu. Kveðurstefnandi vera um að ræða 320 tíma sem hafi farið í vinnuna, sem er þó hvorkilýst frekar né heldur hvaða fólk sé þarna um að ræða. Verðleggur stefnandivinnustundina á kr. 15.000, án þess þó að gera nokkra grein fyrir þeirri fjárhæð.Styðst þetta ekki við nein gögn. Fullnægir þessi kröfuliður ekki ákvæðum eliðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki betur séð en aðstefnandi sé hér aftur að setja fram kröfu vegna málskostnaðar sem hann hafiorðið fyrir í framangreindu máli, en um kröfu hans um málskostnað hefur þegarverið dæmt í því máli og gengur því þessi þáttur krafna stefnanda í málinu gegnákvæðum 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandigerir kröfur um bætur vegna spjalla á lánstrausti, sem m.a. hafi orðið vegnaótilgreindrar fjölmiðlaumfjöllunar. Engin nánari grein er gerð fyrir þessu, enfram kemur að bankalínur hafi lokast og stefnandi ekki fengið neinabankafyrirgreiðslu. Þá kveður stefnandi að til að forða stefnanda gjaldþrotihafi eigendur og fyrirsvarsmenn stefnanda selt einbýlishús sitt og lagt inn ástefnanda. Ekki verður séð hvernig það getur tengst meintu tjóni stefnenda, eneigandi og fyrirsvarsmenn stefnanda eru ekki aðilar að þessu dómsmáli. Ermálatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmi við e lið 1. mgr.80. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandigerir kröfur um bætur vegna spjalla á viðskiptahagsmunum. Kveðst hann hafaorðið fyrir verulegum slíkum spjöllum, m.a. vegna ótilgreindrarfjölmiðlaumfjöllunar, en ekki er gerð nein nánari grein fyrir þessu. Ermálatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmi við e lið 1. mgr.80. gr. laga nr. 91/1991.Stefnandigerir kröfur um bætur vegna glataðra verðmæta, en hann kveðst hafa þurft aðfarga öllum sínum birgðum og vörum. Er ekki gerð sérstök grein fyrir þessu aðöðru leyti en því að í stefnu er tafla á enskri tungu, sem er í ósamræmi við 3.mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Er málatilbúnaður stefnanda varðandi þennankröfulið í ósamræmi við e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.Stefnandigerir kröfur um bætur vegna glataðs markaðsstarfs, sem hann kveður tilkomiðvegna breytinga á umbúðum utan um vörur sínar. Hafi þurft að leggja í mikinnkostnað við hönnun á nýjum umbúðum, vefsíðu og tölvupóstföngum, en jafnframtvið að hefja nýtt markaðsstarf. Þá þurfi hann nú að leggja í kostnað og vinnuvið að kynna vörumerki sitt, en ekki kemur neitt fram um það hvort sú vinnahafi farið fram eða hvort stofnað hafi verið til þess kostnaðar. Þá verður ekkibetur séð en að samsláttur verði hér við síðasta greindan kröfulið, en í töfluþeirri sem honum fylgir er liður með fyrirsögninni „DAMAGED MARKETING WORK“. Erað öðru leyti engin grein gerð fyrir þessu ætlaða tjóni og er málatilbúnaðurstefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmi við e lið 1. mgr. 80. gr. laganr. 91/1991.Stefnandigerir kröfur um bætur vegna tapaðrar sölu. Tjónið hafi orðið vegna þess aðstefnandi hafi orðið að taka til baka vörur sínar frá smásöluaðilum ogveitingahúsum og hafi salan dottið mjög niður. Ekki er gerð nein frekari greinfyrir þessu og er málatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmivið e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.Stefnandigerir kröfur um miskabætur og kveður í því sambandi að tjón hans verði ekki aðfullu bætt þó hann fái bætt allt það meinta tjón sem að ofan er lýst, en hannhafi orðið fyrir verulegum álitshnekki sem skerði orðspor fyrirtækisins og munihafa áhrif í framtíðinni. Er ekki gerð nein grein fyrir þessu meinta tjóni aðöðru leyti og er að auki óljóst hver er lagagrundvöllur þessarar kröfur oghvort stefnandi er að vísa til fjárhagslegs eða ófjárhagslegs tjóns, enstefnandi er lögaðili. Er að öðru leyti engin grein gerð fyrir þessu ætlaðatjóni og er málatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið í ósamræmi við elið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.Eruallar fjárhæðir í kröfu stefnanda órökstuddar með öllu og ógjörningur aðglöggva sig á því hvernig þær eru tilkomnar.Ersamkvæmt framansögðu óhjákvæmilegt að vísa aðalkröfu stefnanda frá dómi í heildsinni.Stefnandigerir kröfu um það til vara að honum verði dæmdar skaða- og miskabætur eftirálitum dómsins samkvæmt heimild í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990. Um þettavísar stefnandi til nefnds ákvæðis laga nr. 31/1990 og byggir á því að háttsemistefnda hafi leitt til rekstrarstöðvunar og missis hagnaðar af þeim sökum.Samkvæmt venju og viðurkenndum kenningum hafi dómstólar heimild til að ákveðaskaðabætur vegna rekstrarstöðvunar að álitum. Sé ljóst að ef aðalkrafa hans náiekki fram að ganga þá hafi verið leiddar líkur að því að hann hafi orðið fyrirtjóni af völdum stefnanda [sic.]. Viðurkennt sé að almennt sé afar erfitt aðsýna með óyggjandi hætti fram á raunverulegt tjón og missi hagnaðar viðrekstrarstöðvun. Sönnunarbyrði um tjónið leggist því sérlega þungt á stefnandaef honum sé ætlað að sýna með óyggjandi hætti fram á raunverulegan missihagnaðar og raunverulegan kostnað til að fá tjón sitt bætt. Verakann að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna lögbanns þess sem lagt var á aðkröfu stefnda í máli þessu. Í framangreindu ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga nr.31/1990 er heimild til að dæma bætur að álitum ef ljóst þykir að fjárhagslegttjón hafi orðið en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess. Í máli þessu hagar hinsvegar þannig til að stefnandi hefur gert afar takmarkaða grein fyrir meintutjóni sínu í stefnu og er öll umfjöllun um það takmörkuð og almennt orðuð. Erekkert að finna í stefnu eða framlögðum gögnum til að dómara, eða stefnda, megivera unnt að glöggva sig á umfangi meints tjóns stefnanda. Er þannig ekki viðneitt að styðjast fyrir dóminn til að dæma bætur að álitum í málinu. Er þannigvarakrafan sama marki brennd og aðalkrafan að því leyti að framsetning hennarog umfjöllun í stefnu svarar ekki kröfum e liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr.91/1991, en jafnframt eru engin gögn henni til stuðnings sbr. það sem áðursagði um þetta sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991. Er óhjákvæmilegt að vísavarakröfunni frá dómi af þessum sökum.Viðmunnlegan málflutning um frávísunarkröfu benti lögmaður stefnanda á það aðsamkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990 sé aðeins 3 mánaða frestur til aðhöfða mál til heimtu skaðabóta skv. 42. gr. laganna frá því þeim, sem bótakrefst, varð kunnugt um höfnun beiðni um gerðina, um niðurstöðustaðfestingarmáls eða um niðurfellingu gerðar af öðrum sökum. Hafi hann af þeimsökum ekki getað aflað matsgerðar til stuðnings kröfum stefnanda. Þetta geturhins vegar ekki breytt því að málatilbúnaður stefnanda verður allt að einu aðuppfylla kröfur 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og aðrar kröfur sem gerðar erutil málshöfðunar. Þá getur þetta ekki hindrað stefnanda í að leggja fram önnurgögn máli sínu til stuðnings. Jafnframt vísaði lögmaður stefnanda til dómsHæstaréttar í máli nr. 268/2011 um að heimilt geti verið að afla matsgerðarþrátt fyrir að frávísunarkrafa hafi komið fram. Vegna þessa er þess að geta aðjafnvel þó að stefnandi myndi afla matsgerðar til stuðnings kröfum sínum, þágetur það ekki orðið til þess að stefnan uppfylli frekar þær kröfur sem gerðareru til stefnu í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.Verðursamkvæmt framansögðu málinu vísað frá dómi.Rétter að stefnandi greiði stefnda málskostnað og er hann ákveðinn kr. 400.000 aðmeðtöldum virðisaukaskatti og að virtum stefnukröfum og umfangi málsins.Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.Ú r s k u r ð a r o r ð : Máliþessu er vísað frá dómi. Stefnandi,iGwater ehf., greiði stefnda, Icelandic Water Holdings hf., kr. 400.000 ímálskostnað. |
Mál nr. 102/2004 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Telja verður að rökstuddur grunur sé fyrir því að kærði, X, hafi átt hlut að brotum gegn 124. gr., 173. gr. a, 211. gr. og eða 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og að hætta geti verið á því að hann torveldi rannsókn málsins, sem enn er ólokið, svo sem með því að skjóta undan gögnum og hafa áhrif á vitni og eða samseka, ef hann fær að fara frjáls ferða sinna. Ber því samkvæmt a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að taka kröfu ríkislögreglustjóra til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu styttri tíma. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. mars 2004 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og þá til 10. mars 2004. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 138/2000 | Fasteignakaup Galli Afsláttur | K og S gerðu nokkrar breytingar á íbúð sem þau áttu. Við það myndaðist rauf í parket, sem var á gólfi íbúðarinnar, 1 m á lengd og 12,5 cm á breidd. Samskonar parket var sett í til þess að fylla raufina, en lagfæringin var sýnileg og áberandi. V og B keyptu íbúðina af K og S, eftir að hafa skoðað hana tvívegis. Eftir afhendingu íbúðarinnar risu deilur um það hvort að umrædd viðgerð hefði verið hulin V og B þegar þau skoðuðu íbúðina. Talið var að V og B hefðu hvorki sýnt fram á að skilyrði væru til að dæma S og K til að greiða skaðabætur á grundvelli meginreglu 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup né að þau væru skaðabótaskyld samkvæmt öðrum reglum. Þá var ekki talið að viðgerðinni á gólfinu rýrði notaðgildi íbúðarinnar, en talið var að í henni fælist sjónlýti, sem þó myndi minnka þegar viðurinn dökknaði. Var því talið að V og B bæri afsláttur að fjárhæð 100.000 krónur vegna þessa. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2000. Þau krefjast þess að gagnáfrýjendur greiði sér 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. maí 1999 til greiðsludags að frádreginni innborgun 11. apríl 2000 að fjárhæð 234.003 krónur, gegn útgáfu afsals fyrir fasteigninni Traðarbergi 21, Hafnarfirði, fjögurra herbergja íbúð á 1. hæð, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi 9. júní 2000. Þau krefjast þess nú aðallega „að aðaláfrýjendum verði gert að endurgreiða þeim kr. 53.000 með dráttarvöxtum ... frá 16. júní 1999 til greiðsludags.“ Til vara er þess krafist að niðurstaða hins áfrýjaða dóms verði staðfest um annað en málskostnað. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. I. Aðaláfrýjendur áttu fjögurra herbergja íbúð í fjöleignarhúsinu að Traðarbergi 21, Hafnarfirði. Eftir að þau eignuðust íbúðina bættu þau við einu barnaherbergi, sem átti að vera samkvæmt teikningu. Veggstúfur var á þessum stað, í skála við inngang í íbúðina, á ská út í skálann frá horninu á baðherberginu og súla upp í loftið, sem myndaði sjónvarpshol. Þau fjarlægðu þennan veggstúf til þess að setja beinan vegg í framhaldi af baðherberginu. Við þetta myndaðist rauf í parketið þar sem veggstúfurinn hafði staðið, skáhallt út frá veggnum, 1 m á lengd og 12,5 cm á breidd. Samskonar parket var sett í til þess að fylla raufina, og er málið risið af þessari lagfæringu á parketinu, sem er sýnileg og áberandi. Deila málsaðilar um það hvort hún hafi verið hulin gagnáfrýjendum þegar þau skoðuðu íbúðina. II. Aðaláfrýjendur hugðust stækka við sig og báðu fasteignasala að skoða íbúðina og meta, þar sem þau vildu vera tilbúin að selja og kaupa sér aðra. Á vormánuðum 1999 fundu þau sér hús til kaups og settu þá íbúðina í sölu hjá fasteignasölunni, sem hafði það hús til sölu, og hjá fasteignasalanum, sem þau höfðu fengið til að skoða íbúðina. Hann leit þá aftur á íbúðina að eigin sögn og lýsti fyrir héraðsdómi að þá hafði þriðja svefnherberginu verið bætt við, eins og fyrr var lýst, og veggstúfurinn fjarlægður. Kvaðst fasteignasalinn ekki minnast þess að hann hafi skoðað sárið í parketinu sérstaklega eða að það hafi beinlínis komið til tals við þá skoðun. Aðspurður af lögmanni gagnáfrýjenda hvort seljandinn hafi bent honum sérstaklega á þessa viðgerð svaraði hann því til að seljandinn hafi gert honum grein fyrir því að veggurinn hafi verið reistur og út frá því hafi hann mátt draga ákveðnar ályktanir, þó að hann hafi ekki gert það með því að setja það í söluyfirlitið. Aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að hafa séð þetta sár. Uppsett verð fyrir íbúðina var 10,8 milljónir króna. Væntanlegir kaupendur, þar á meðal gagnáfrýjendur, komu og skoðuðu íbúðina. Aðaláfrýjandinn Skúli bar fyrir héraðsdómi að þessi viðgerð á parketinu hafi verið mjög áberandi og að staðurinn hafi ekki verið hulinn húsgögnum. Hann hafi sjálfur sýnt íbúðina hjónum og annað þeirra hafi spurt hvað hafi komið fyrir þarna. Fyrir dómi lýsti hann framkvæmdum eins og hér að framan greinir. Aðaláfrýjandinn Katrín sýndi íbúðina einnig væntanlegum kaupendum og sagði hún gagnáfrýjendur hafa komið tvisvar að skoða. Aðspurð um sjónlýtið á parketinu sagði hún fyrir héraðsdómi að þetta hafi sést og ekki farið fram hjá nokkrum manni. Engin húsgögn hafi verið yfir þessum stað. Hún hafi sagt þeim, sem komu að skoða, frá því að þau hafi sett þarna vegg til þess að fá þriðja herbergið og jafnframt orðið að taka niður veggstubb, sem þarna var. Aðspurð hvort hún hafi bent gagnáfrýjendum sérstaklega á þetta svaraði hún neitandi, þau hafi ekki sýnt þessu frekari áhuga. Ítrekað aðspurð af lögmanni gagnáfrýjenda og héraðsdómara sagðist hún hafa sýnt íbúðina nokkuð oft og sagt það sama við alla, bent á að þau hafi orðið að setja þarna upp vegg og taka niður vegg. Gagnáfrýjandinn Bryndís bar fyrir héraðsdómi að seljandinn hefði engan veginn vakið athygli á þessari viðgerð á parketinu og þau hafi ekki séð hana, hún hefði verið hulin. Aðspurð kvaðst hún hugsa að hún hefði séð viðgerðina ef hún hefði ekki verið hulin, þar sem hún sé miklu ljósari en parketið að öðru leyti. Aðspurð sagði hún einnig að konan, sem sýndi íbúðina, hafi ekki látið vita að þarna hefði veggur verið tekinn niður. Þau hafi séð að parketið hafi verið orðið slitið eins og eðlilegt var eftir að hafa ekki verið lakkað í átta ár frá því húsið var reist. Gagnáfrýjandinn Víðir bar fyrir héraðsdómi að Katrín hefði sýnt þeim íbúðina í bæði skiptin, sem þau skoðuðu hana. Í fyrra skiptið hafi hún gengið með þeim um íbúðina milli herbergja og í seinna skiptið leyft þeim að ganga um og skoða. Hafi þau athugað parketið svo vel að þau hafi tekið eftir að komið var eðlilegt slit í það í eldhúsinu og í anddyrinu, en þau hafi ekki getað séð það, sem var falið bak við húsgögn eða manneskjur. Þau hafi tekið ákvörðun um að slípa parketið og metið það svo að aðeins þyrfti að pússa yfir slitfletina. Þau hafi fengið íbúðina afhenta að kvöldi föstudagsins 30. apríl, daginn sem ritað var undir kaupsamninginn, og strax næsta morgun hafi þau mætt til þess að pússa. Sérstaklega aðspurður af héraðsdómara um framburð aðaláfrýjandans Katrínar um að hún hafi vakið athygli á að þarna hafi verið veggstúfur, svaraði gagnáfrýjandi neitandi. Hann rámaði í að hún hefði sagt að þarna hefði verið slegið upp vegg en ekki rætt um að þarna hefði verið stúfur sem hefði staðið út frá veggnum. Aðaláfrýjendur lögðu fyrir Hæstarétt ljósmynd, sem þau kveða hafa verið tekna inni í íbúðinni meðan þau áttu hana. Af myndinni má ráða að húsgögn geti þá hafa hulið viðgerðina á parketinu að hluta en ekki að öllu leyti. Að virtu því, sem að framan er rakið, hefur gagnáfrýjendum hvorki tekist að sýna fram á að skilyrði séu til að dæma aðaláfrýjendur til að greiða skaðabætur á grundvelli meginreglu 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup né að þau séu skaðabótaskyld eftir öðrum réttarreglum. Verður því að leysa úr ágreiningi aðila á grundvelli reglna um afslátt af kaupverði. III. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti voru af hálfu aðaláfrýjenda lögð fram ný gögn, sem sýna að gagnáfrýjendur seldu íbúðina snemma árs 2000 fyrir 12.700.000 krónur. Var því jafnframt haldið fram, án þess að því væri mótmælt, að parketið á íbúðinni hafi þá verið óhreyft að öðru leyti en því að pússað hafi verið yfir það eftir kaupin 30. apríl 1999. Fram er komið að viðgerðin á parketinu er áberandi, bæði fyrir það að efnið er ljósara þar sem hún var gerð, og vegna handbragðsins á verkinu að öðru leyti. Af hálfu aðaláfrýjenda er haldið fram að efnið, sem notað var til að fylla upp í raufina í gólfinu, muni dökkna með tímanum og að því leyti muni það samlagast öðrum hlutum gólfsins. Hefur því ekki verið mótmælt sérstaklega. Fallist er á með aðaláfrýjendum að viðgerðin á gólfinu rýri ekki notagildi íbúðarinnar. Hins vegar er ljóst að hún felur í sér sjónlýti, sem þó mun minnka er viðurinn dökknar. Er tekið fram í matsgerð að viðgerðin sé á áberandi stað. Vilji eigandi ekki sætta sig við að hún sjáist er víst að þessi missmíð er til þess fallin að binda uppröðun innbús til þess að hún sé hulin, en ekki hefur verið rökstutt að slíkt sé sérstökum erfiðleikum háð, eins og aðstæður eru í íbúðinni. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, þykir hæfilegur afsláttur handa gagnáfrýjendum vera 100.000 krónur. Kemur sú fjárhæð til lækkunar kröfu aðaláfrýjenda, sem verður tekin til greina að öðru leyti. Gagnáfrýjendur skulu greiða aðaláfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði. Dómsorð: Gagnáfrýjendur, Bryndís Ragna Hákonardóttir og Víðir Kristófersson, greiði aðaláfrýjendum, Katrínu Guðbjartsdóttur og Skúla Skúlasyni, 400.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. maí 1999 til greiðsludags að frádregnum 234.003 krónum, sem greiddar voru 11. apríl 2000, gegn útgáfu afsals fyrir fjögurra herbergja íbúð á 1. hæð að Traðarbergi 21, Hafnarfirði. Gagnáfrýjendur greiði hvorum aðaláfrýjenda óskipt 150.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefnendur eru Katrín Guðbjartsdóttir kt. 171263-2399 og Skúli Skúlason, kt. 211264-4549, Kjóahrauni 9 Hafnarfirði en stefndu eru Víðir Kristófersson, kt. 291073-4339 og Bryndís Ragna Hákonardóttir, kt. 111069-5579, Traðarbergi 21, Hafnarfirði. Umboðsmaður stefnenda er hrl. Valgarður Sigurðsson, en umboðsmaður stefndu er hdl. Sigurður Kári Kristjánsson. Dómkröfur 1. Stefnendur krefjast þess að stefndu verði gert að greiða þeim kr. 500.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20.05.1999 til greiðsludags gegn útgáfu afsals fyrir fasteigninni Traðarberg 21, Hafnarfirði, 4ra herbergja íbúð á 1. hæð. Þá er krafist málskostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi og virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. 2. Stefndu gera þessar kröfur. A. Að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda. B. Til vara að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda að svo stöddu. C. Til þrautarvara að krafa stefnenda verði lækkuð verulega. Í öllum tilvikum er þess krafist að stefnendum verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu skv. framlögðum málskostnaðarreikningi. Málavextir. Þann 30. apríl 1999 var gerður kaupsamningur milli málsaðila um fasteignina Traðarberg 21, Hafnarfirði 4ra herberja íbúð á 1. hæð hússins. Umsamið kaupverð var kr. 10.600.000,- og annaðist fasteignasalan Ás sölu eignarinnar. Stefnendur málsins voru seljendur íbúðarinnar og afhentu þeir kaupendum, stefndu í málinu íbúðina til afnota 30. apríl s.l. Greiðslukjör voru þannig að stefndu skyldu greiða kr. 6.200.000,- með fasteignaveðbréfum, skiptanlegum fyrir húsbréf, kr. 1.300.000,- við undirritun samnings kr. 2.000.000,- við afhendingu íbúðar og kr. 1.100.000,- 20. maí 1999, eða kr. 10.960.234,- með kostnaði skv. uppgjöri. Stefndu greiddu á tilgreindum tímum framangreindar útborgunargreiðslur, en héldu eftir kr. 500.000,- af lokagreiðslu til að mæta kostnaði vegna galla á íbúðinni, sem þau kváðu hafa komið í ljós eftir að íbúðin var þeim afhent. Um var að ræða galla á gólfi íbúðarinnar sem var með þeim hætti að á einum stað á gólfi íbúðarinnar eða í skálanum við eitt svefnherbergjanna hafði verið gert við parketið. Þarna hafði verið áður skáveggur, sem myndaði sjónvarpskrók. Stefnendur höfðu látið taka þennan vegg niður og með því setja upp annan vegg nokkuð þvert á skávegginn, myndaði hann lokað rými sem varð við annað herbergi í húsinu. Undir skáveggnum hafði ekki verið parketlögn og var því eftir rauf þar sem skáveggurinn hafði verið og náði hún um 1 meter eða rúmlega það inn á skálagólfið frá þverveggnum. Í þessa rauf hafði verið fellt samskonar parketborð og þó að það sé nokkuð vel gert, er litamunur á nýju borðunum sem sett voru í raufina og á þeim eldri samskeytin sjást greinilega. Stefndu kveða þetta vera áberandi útlitsgalla á parketinu og telja þau það verulegt lýti á útliti fasteignarinnar, sem rýri verðgildi hennar. Stefndu sögðu að þegar þau hafi skoðað íbúðina hafi hún verið fullbúin húsgögnum stefnenda og stefnendur hafi ekki upplýst þau um það fyrir kaupin að parketinu væri verulega ábótavant og ástand þess ekki í samræmi við þær væntingar sem þau hafi mátt gera ráð fyrir við skoðun á íbúðinni. Strax eftir afhendingu íbúðarinnar kváðust stefndu hafa orðið vör við gallann á parketinu, enda þá búið að tæma hana af innanstokksmunum. Stefndu höfðu viljað fá afslátt af kaupverðinu eða skaðabætur vegna þessa galla, en um það náðist ekki samkomulag og var kr. 500.000,- af útborguninni haldið eftir vegna parketgallans þar til málið vegna hans yrði leyst. Stefndu höfðu boðið fasteignasalanum þessa greiðslu til geymslu meðan málið væri útkljáð, en fasteignasalinn benti þeim á að leggja fjárhæðina inn á bankabók merktri vegna Traðarbergs 21. Strax 21. maí s.l. var stefndu svo sent innheimtubréf vegna eftirstöðvanna og var svo stefna gefin út gegn stefndu 3. júní s.l. og málið þingfest 16. júní s.l. án þess að neinu marki væri tekið undir óskir stefndu um að samkomulag yrði gert um bætur né gafst þeim tóm til að láta sannreyna tjón sitt með mati sem yrði grundvöllur sáttatilrauna fyrir málshöfðun, en 16. ágúst s.l. var í málinu að kröfu stefnda dómkvaddur matsmaður, Magnús Þórðarson, byggingameistari, Furugerði 13, Reykjavík til að skoða og meta gallann á parketlagningunni í íbúðinni og var matsgerð hans sem dagsett var 25. október s.l. lögð fram í málinu 29. nóvember s.l. Sáttaumleitanir hér fyrir dómi urðu árangurslausar. Málsástæður og lagarök. 1. Stefnendur byggja kröfur sínar á því, að stefndu hafi vanefnt að greiða eftirstöðvar söluverðs íbúðar sinnar, skv. skýlausu ákvæði kaupsamningsins milli aðila 30. apríl s.l. Þá er byggt á almennum reglum kröfu og samningsréttar um rétt seljenda til þess að fá söluverð hins selda greitt. Um vaxtakröfur er vísað til III. kafla vaxtalaga sbr. 10. og 12. gr. og um málskostnaðarkröfur er vísað til 1. mgr. 130. gr. sbr. 129 gr. laga nr. 91/1991. 2. Stefndu byggja sýknukröfu sína á meginreglu kröfuréttarins og fasteignakauparéttarins um stöðvunarrétt (derenrionsret eða tilbakeholdsret). Telja stefndu að í ljósi parketgallans hafi þeim verið heimilt skv. íslenskum rétti, sem aðilum að gagnkvæmum samningi, að halda eftir eigin greiðslu vegna vanefnda viðsemjenda sinna, þ.e. stefnendum þessa máls, sem nemi þeim galla sem á parketi íbúðarinnar er. Af atvikum málsins megi ljóst vera að parket fasteignarinnar að Traðarbergi 21, Hafnarfirði hafi ekki verið í samræmi við þær væntingar sem stefndu máttu gera til þess við skoðun íbúðarinnar og hafi íbúðin því ekki haft þá kosti sem áskildir voru við skoðun hennar og stefndu hafi mátt gera ráð fyrir að hún hefði. Þar sem gallar íbúðarinnar hafi verið leyndir, þ.e. ekki sést við venjulega skoðun, urðu stefndu þeirra ekki varir við þá við skoðun, enda ekki verið upplýstir um gallana af hálfu stefnenda, þrátt fyrir að stefnendum hafi borið að upplýsa um slíka galla, skv. meginreglu fasteignakauparéttarins um upplýsingaskyldu seljenda við sölu á fasteignum. Telja verður að samkvæmt meginreglum íslensks fasteignakauparéttar verði stefnendur þessa máls að bera ábyrgð á því gagnvart stefndu að fasteignin uppfylli þær kröfur sem gera mátti til hennar og að hún hefði þá kosti sem áskildir hafi verið við skoðun. Þar sem fasteignin hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera mátti til hennar og jafnframt í ljósi þess að stefnendur hafi ekki sýnt nokkurn samningsvilja um afslátt eða greiðslu skaðabóta vegna gallans hafi stefndu verið rétt að beita þeim þvingunaraðgerðum sem stöðvunarréttur er skv. íslenskum rétti, og halda eftir greiðslu vegna vanefnda stefnenda. Í ljósi þess virðist stefndu einsýnt að sýkna beri stefndu af dómkröfum stefnenda. Varakröfu sinni til stuðnings vísa stefndu til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamál, en í því ákvæði laganna felst sú grundvallarregla, að ekki eigi að leggja kröfu fyrir dómstóla til að afla aðfararheimildar fyrir henni fyrr en það tímamark er komið, að það sé ljóst að hún verði ekki efnd á réttum tíma með frjálsum vilja þess, sem skyldan hvílir á. Þar sem ekki liggi fyrir hvort stefndu sé skylt að íslenskum rétti að greiða dómkröfur stefnenda að fullu telji stefndu fráleitt að hægt sé að fella yfir þeim endanlegan dóm um greiðsluskyldu, og því beri réttinum að sýkna þau að svo stöddu, þar til endanlega hefur verið leitt til lykta hverjar vanefndir stefnenda raunverulega voru við sölu á fasteigninni til stefndu. Telja stefndu þá niðurstöðu eðlilega og sanngjarna og til þess fallna að leysa mál þetta með þeim hætti sem réttmætur er. Ef svo ólíklega vildi til að dómkröfur stefnenda verði teknar til greina gera stefndu þá kröfu til þrautarvara að þær verði lækkaðar verulega. Stefndu telja einsýnt að þeim beri ekki skylda til að greiða fullt verð fyrir hina gölluðu eign. Slík niðurstaða væri í senn ósanngjörn og óeðlileg þar sem stefndu voru ekki upplýst um þá ágalla sem á fasteigninni voru við skoðun á henni áður en kaup áttu sér stað. Dómkröfu sinni til stuðnings vísa stefndu einkum til þeirra málsástæðna sem getið er hér að framan og jafnframt til meginreglna kröfuréttarins og fasteignakauparéttarins. Sýknukrafa stefndu byggi á meginreglum kröfuréttar og fasteignakauparéttar um stöðvunarrétt kaupanda vegna vanefnda seljanda þegar söluhlut sé áfátt. Jafnframt byggi sýknukrafa stefndu á meginreglum kröfuréttar og fasteignakauparéttar um áskilda kosti með lögjöfnun frá ákvæðum laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, einkum frá 2. mgr. 42. gr. laganna, og ennfremur á meginreglum fasteignakauparéttarins um upplýsingaskyldu seljenda við sölu á fasteignum. Varakrafa stefndu um sýknu að svo stöddu byggir á ákvæðum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 26. gr. laganna. Þrautarvara krarfa stefndu um lækkun á dómkröfum stefnenda byggir á meginreglum fasteignaréttarins og kröfuréttarins um afslátt eða skaðabætur vegna ágalla á söluhlut, með löggjöfum frá ákvæðum laga nr. 39/1922, um lausafjárkaup. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. þeirra. IV. Sönnunarfærsla. Í málinu gáfu málsaðilar aðilaskýrlsur og vitni báru Ingvar Guðmundsson, fasteignasali kt. 051158-2379, Stuðlabergi 20, Hafnarfirði og Magnús Þórðarson byggingarmeistari, kt. 070740-2069, Furugerði 13, Reykjavík. Vitnið Magnús staðfesti matsgerð sína, en það er mat þess, að ekki sé unnt að gera við gólfið þannig að ekkert sjáist og ekki sé möguleiki á að skipta eingöngu um parket á skálanum svo samtvinnuð séu gólfin. Það taldi, að ef gera hefði átt við parketið, hefðu þurft að vera til nokkur borð af upphaflega parketinu og nauðsynlegt hafi verið að um 1 m2 af nýju efni þar sem skemmdin var. Við svona viðgerð, sé nauðsynlegt að láta allar meginlínur halda sér og að klæða að nýju með sömu breidd á borðum og fyrir voru. Skemmdirnar séu á mjög áberandi stað og allur litamunur á efni komi berlega í ljós. Það var því mat vitnisins, að leggja þurfi nýtt parket á allt gólfið og mat hann kostnaðinn við það á kr. 352.400,- sem sundurliðast þannig: 1. Að rífa gamla parkettið af og fjarlægja . kr. 20.000,- 2. Að leggja nýtt parket, efni og vinna. ca. 54 m2 x 5600,-kr. 302.400,- 3. Óþægindi íbúa vegna þessa.kr. 30.000,- Við upphaf aðalmeðferðar var farið í vettvangsgöngu að Traðarbergi 21, Hafnarfirði með umboðsmönnum stefndu og Ingvari Guðmundssyni, fasteignasala og var parketið á gólfunum skoðað. Niðurstöður. Enginn vafi er um, að stefndu skulduðu stefnufjárhæðina sem hluta af lokagreiðslu á útborgunarverði fasteignarinnar. Mál þetta er fyrst og fremst rekið sem skuldamál af hálfu stefnenda og óvenju skjótt brugðið við til innheimtu og málshöfðunar. Hér er um að ræða gagnkvæman samning vegna fasteignakaupa og lítið tóm verið gefið til uppgjörs miðað við ætlaða vanefnd á samningnum af hálfu stefnenda. Úr ágreiningsefni aðila verður að leysa á grundvelli þessa kaupsamnings. Samkvæmt því sem að framan er rakið er nánast um það að ræða að stefndu hafi greitt kaupverð íbúðarinnar út í hönd og ekki veruleg lækkun á ásettu verði íbúðarinnar kr. 10.800.000,- miðað við þennan greiðslumáta, og verður ekki séð að við samþykkt á tilboði stefndu hafi mátt reikna með að mismunurinnn væri nægilegur til að mæta kostaði um úrbætur vegna hugsanlegra galla, enda ekki fram komið, að neitt hafi verið rætt um það. Vanskil stefndu námu um 4,7% af kaupverðinu og verður að líta á vanskilin í ljósi þess, að stefndu bjóða fulla greiðslu á gjalddaga útborgunar, en vildu fá til frádráttar bætur vegna gallans á parketinu og hefur komið fram að til sátta hafi stefndu getað fallist á kr. 100 -150.000,- í bætur, en ekki varð um það samkomulag. Venjulegt og eðlilegt hefði verið á þessu stigi fasteignaviðskiptanna að reynt hefði verið að fá með mati sérfróðs manns eða sérfróðra manna ákvarðaðar sanngjarnar bætur, og ganga frá uppgjöri á grundvelli þess mats. Ekki verður séð að veitt hafi verið neitt svigrúm til þessa og er það ekki fyrr en eftir höfðun máls þessa, að tök verða á því fyrir stefndu að fá dómkvadda matsmenn til þess að sannreyna gallann og kostnaðinn við að bæta úr honum, en af hálfu stefnenda var því mótmælt að matsgerðin fengi að komast að í málinu, þar eð stefndu hefðu ekki gert kröfu um að skuldajafnað yrði við kröfu stefnenda bótakröfu stefndu. Á þetta er ekki fallist. Álitaefnið er efndir á gagnkvæmum samningi milli málsaðila og eiga þeir jafnan rétt á að færa sönnun fyrir kröfum sem þeir leiða að honum og verður að líta á lækkunarkröfu stefndu sem skuldajöfnunarkröfu að þessu leyti og ljóst að hann hefur gagnkröfu er hann heldur eftir kr. 500.000,- af lokagreiðslu. Fram er komið að stefndu skoðuðu íbúðina tvisvar áður en gengið var frá kaupsamningi og sýndi, Katrín stefnandi í málinu íbúðina í bæði skiptin. Katrín kvaðst ekki hafa bent þeim sérstaklega á viðgerðina en tekið fram að rifinn hafi verið veggur þar sem áður var sjónvarpskrókur og í staðin útbúið herbergi. Stefndu kváðu Katrínu ekkert hafa minnst á þessa breytingu og það einungis komið fram að ekki hafi verið þvottaherbergi í þessari íbúð eins og í sambærilegum íbúðum hússins. Það hafði þvi ekkert verið rætt um viðgerðina eða galla á parketinu og kváðu stefndu hafa verið sófa við vegginn, þar sem skemmdin reyndist vera og sjónvarp verið framan við sófann og hafi einhver setið í sófanum og horft á sjónvarpið. Af skoðuninni við vettvangsgönguna og framburðinum í málinu er ljóst að ef ekkert er við vegginn, þar sem skemmdin er svo sem sófi eða teppi, þá sést mjög greinilega að fyllt hefur verið í raufina með parketi, sem er ljósara en það sem var fyrir og samskeytin milli innfellda parketsins og þess eldra er mjög skýr og þar sem raufin skagaði skáhallt fram á skálagólfið, er þetta verulegt lýti, þegar litið er yfir gólfið í heild og á mjög áberandi stað. Við þessar aðstæður hlytu stefndu að sjá skemdina við skoðun. Hins vegar er mjög auðvelt að hylja skemmdina, þar eð raufin var einungis um 1 meter á lengd, skáhalt frá veggnum. Í framburði Ingvars Guðmundssonar, fasteignasala kemur fram að það sá ekki þessa skemmd, er það skoðaði íbúðina eftir að hafa tekið hana í sölumeðferð og taldi skýringuna geta verið þá að við vegginn þar sem skemmdin er hafi verið sófi eða annar húsbúnaður. Skýring stefndu á þvi hvers vegna þau sáu ekki skemmdina er því tekin gild, en ekki er á hinn bóginn sannað að Katrín hafi skýrt þeim frá að veggur hafi áður skagað út í stofuna eða á annan hátt gefið þeim ástæðu til að skoða gólfið þarna sérstaklega. Það er mat réttarins, að útlitsgallinn á parketinu hafi miðað við hvar hann er getað haft áhrif á tilboðsverð stefndu eða hugsanlega valdið því, að ekki yrði gert tilboð. Stefnendum málsins var fullkunnugt um gallann eða viðgerðina og bar við skoðun að greina frá honum eða vera örugg um að væntanlegir kaupendur hefðu séð hann. Þau hafa því ekki gegnt upplýsingaskyldu sinni sem skyldi. Um er að ræða tiltölulega nýlegt húsnæði og máttu stefndu reikna með að ekki væru verulegar skemmdir á parketi eftir þennan tíma, eða að það hefði þurft viðgerðar við. Þau höfðu því ekki sérstaka ástæðu til ítarlegrar skoðunar á gólfinu. Það eru almennt áskildir kostir við svona nýleg hús, að parket sé svo til óskemmt. Það verður því fallist á það að stefnendur beri að greiða stefndu bætur vegna gallans samkvæmt 2. mgr. 42. kaupalaga nr. 39/1992 með lögjöfnun. Bótafjárhæðina verður að ákveða á grundvelli framlagðrar matsgerðar, en fallist er á það með matsmanni að núna verði ekki bætt úr gallanum öðruvísi en að skipta alveg um parket á öllu gólfinu á opna svæði íbúðarinnar sem er parketlagt, þ.e. eldhús, skáli og stofa. Samt þykir verða að taka tillit til þess, að þarna kemur nýtt parket í stað 9 ára gamals parkets, en ætla má eðlilegan endingartíma miðað við venjulega umgengni sé 40-50 ár og verða því dregnar frá matsfjárhæðinni 20% eða kr. 70.480,- en við bætist matskostnaður kr. 27.141,- og bætur því alls kr. 299.400,- og eiga því stefndu að greiða stefnendum alls kr. 200.600,-. Af þessu leiðir að ekki er unnt að taka sýknukröfur stefndu til greina, þar eð vanefnd stefnda reyndist minni metin til peninga en skuld stefndu við stefnendur. Í málinu verður að líta til þess hversu skammur tími líður frá því að íbúðin er afhent þar til stefndu skyldu greiða lokagreiðslu samkv. kaupsamningnum og verður vart með sanngirni ætlast til þess að stefndu staðreyni hver kostnaður við að bæta úr meintum galla á parketinu nemi með mati dómkvadds matsmanns fyrir gjalddaga lokagreiðslu. Það var strax ljóst, að ekki voru til samskonar parketborð og lögð voru í upphafi á gólfið og því afar líklegt að skipta yrði um allt parketið á gólfi stofu, skála og eldhúss, til að bæta úr gallanum á fullnægjandi hátt. Tiltölulega einfalt var því að áætla gróflega hvað kostað gæti að skipta um parket og einnig varð að gera ráð fyrir einhverjum kostnaði því samfara og við að staðreyna tjónið. Það er mat réttarins að stefndu hafi haldið eftir lágmarksupphæð miðað við fyrirsjáanlegan kostnað við að bæta úr tjóninu og stefnda hafi verið rétt að beita stöðvunarrétti um hluta af lokagreiðslunnar eins og þau gerðu. Ekki eru því efni til að dæma stefndu til að greiða vexti af kr. 500.000,- frá 20. maí 1999, enda sýndu þau þá að þau höfðu fulla getu til að greiða lokagreiðsluna þá að fullu, heldur greiði þau dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga af kr. 200.600,- frá 20. maí 1999 til greiðsludags. Þegar virt er hið óeðlilega litla svigrúm sem af hálfu stefnenda var veitt til að leysa málið á grundvelli vanefnda þeirra án málshöfðunar og fyrir liggur að stefndu voru tilbúin að ljúka málinu með sátt, gegn lægri bótum en hér eru dæmdar, þykir rétt að málskostnaður falli niður í málinu. Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari. Stefndu Víðir Kristófersson og Bryndís Ragna Hákonardóttir greiði stefnendum Katrínu Guðbjartsdóttur og Skúla Skúlasyni kr. 200.600,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. maí 1999 til greiðsludags.Málskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 84/2004 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. mars 2004 klukkan 16:00. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. mars 2004 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 739/2016 | Kærumál Nauðungarsala | A hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem því var hafnað að fella úr gildi ákvörðun sýslumanns um að stöðva nauðungarsölu á jörð í eigu Þ og S. A hf. hafði krafist þess að fasteignin yrði seld nauðungarsölu með vísan til veðskuldabréfs útgefnu af Þ og S þar sem eignarhluti Þ hefði verið settur að veði. Þ mótmælti kröfunni með vísan til kvittunar A hf. til S þar sem fram kæmi að hlutar lánsins í nánar tilgreindum erlendum myntum væru uppgreiddir. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt Þ hefði með engu móti lýst því hvernig greiðsla samkvæmt kvittuninni hefði verið innt af hendi hefði A hf. ekki freistað þess að hnekkja henni og gildi hennar með viðhlítandi sönnunarfærslu fyrir dómi. Væri slíkur vafi um réttindi Þ að ekki væri fært að nauðungarsala til fullnustu þeirra færi fram. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir GretaBaldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttarmeð kæru 27. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. nóvember samaár. Kærður erúrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. október 2016 þar sem hafnað var kröfusóknaraðila um að ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi, um að stöðvanauðungarsölu á jörðinni Bjarkarlandi í Rangárþingi eystra, yrði felld úrgildi. Kæruheimild er 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrirsýslumann að halda áfram nauðungarsölu á eigninni. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar og kærumálskostnaðar.ISvo sem greinir í hinum kærða úrskurðikrafðist sóknaraðili þess með beiðni 11. nóvember 2015 að sýslumaðurinn áSuðurlandi seldi jörðina Bjarkarland á nauðungarsölu, en jörðin er í eigu málsaðilaað jöfnum hlut. Krafan var reist á veðskuldabréfi útgefnu af varnaraðila ogSigrúnu Brynju Haraldsdóttur að fjárhæð 26.100.000 krónur að jöfnum hlutum ísvissneskum frönkum og japönskum jenum. Í bréfinu var tekið fram að tiltryggingar því setti varnaraðili að veði eignarhluta sinn í jörðinni. Þar sagðieinnig að leita mætti fullnustu kröfunnar með nauðungarsölu án undangengisdóms, sáttar eða fjárnáms samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991.Þegar krafa um nauðungarsöluna var tekinfyrir hjá sýslumanni 25. febrúar 2016 mætti varnaraðili og mótmælti að hún færifram. Voru andmæli hans meðal annars reist á því að krafan, sem leita áttifullnustu á með nauðungarsölunni, væri greidd. Því til stuðnings lagði varnaraðilifram bréf sóknaraðila 24. ágúst 2015 til fyrrgreindrar Sigrúnar sem baryfirskriftina „KVITTUN FYRIR GREIÐSLU“. Þar kom fram að 9. mars 2013 væruhlutar lánsins bæði í frönkum og jenum uppgreiddir með 35.000.892 krónum.Einnig var tekið fram að höfuðstóll í báðum myntum eftir greiðslu væri „0“. Aðósk sóknaraðila var gerðinni frestað til 3. mars 2016 svo honum gæfist færi áað taka afstöðu til andmæla varnaraðila. Við fyrirtöku málsins þann dag hafnaðisóknaraðili þeim og því til stuðnings vísaði hann til þess að ekki væri um aðræða kvittun heldur aðeins yfirlit úr tölvukerfi bankans sem sent hefði verið ítilefni af endurútreikningi lánsins á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001 umvexti og verðtryggingu, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 151/2010.Jafnframt lagði sóknaraðili fram afrit af bréfi sínu 6. nóvember 2015 tilSigrúnar sem hafði að geyma endurútreikninginn og var tekið fram að hann værimiðaður við 9. mars 2013. Samkvæmt honum lækkaði höfuðstóll kröfunnar úr75.006.121 krónu í 35.000.954 krónur. Sýslumaður frestaði gerðinni aftur og varhún næst tekin fyrir 15. mars 2016. Í þeirri fyrirtöku tók hann þá ákvörðun aðstöðva nauðungarsöluna á grundvelli 2. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991.Sóknaraðili mótmælti ákvörðuninni og lýsti því yfir að leitað yrði úrlausnarhéraðsdóms um hana.Með bréfi sóknaraðila 8. apríl 2016 varkrafist úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns eftir reglum XIII. kaflalaga nr. 90/1991. Úr þeirri kröfu var leyst með hinum kærða úrskurði.IISamkvæmt2. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991 skulu mótmæli af hálfu gerðarþola viðnauðungarsölu ekki stöðva hana nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gætaað sjálfsdáðum eða sýslumaður telur þau annars valda því að óvíst sé aðgerðarbeiðandi eigi rétt á að nauðungarsalan fari fram.Varnaraðili heldur því fram að sú fjárkrafasem nauðungarsölubeiðni sóknaraðila tekur til sé að fullu greidd og byggir þaðá kvittun sóknaraðila fyrir greiðslu 9. mars 2013 til meðskuldara aðveðskuldabréfinu, sem krafan er reist á. Þótt varnaraðili hafi með engu mótilýst því hvernig greiðsla samkvæmt kvittuninni var innt af hendi hefursóknaraðili ekki freistað þess að hnekkja henni og gildi hennar með viðhlítandisönnunarfærslu fyrir dómi. Að þessu virtu er slíkur vafi um réttindisóknaraðila að ekki er fært að nauðungarsala til fullnustu þeirra fari fram ogverður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar. Sóknaraðila er aftur ámóti kleift eftir almennum reglum að afla dóms um réttindi sín samkvæmtveðskuldabréfinu.Sóknaraðila verður gert að greiðavarnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er staðfestur.Sóknaraðili, Arion banki hf., greiði varnaraðila, ÞorvaldiHelgasyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað. Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 14. október 2016. Mál þetta, sem þingfestvar 4. maí 2016 og tekið til úrskurðar 16. september 2016, barst dóminum þann12. apríl 2016 með beiðni, dags. 8. apríl 2016. Sóknaraðili er Arion bankihf., kt. 581008-0150, en varnaraðili erÞorvaldur Helgason, kt. 020270-5199. Kröfur sóknaraðilaeru að ákvörðun Sýslumannsins áSuðurlandi um að stöðva frekari aðgerðir við nauðungarsölu á eigninniBjarkarland 163745, Rangárþingi eystra, lnr. 163745, gerðarþoli Þorvaldur Helgason,kt. 020270-5199, eða varnaraðili máls þessa, með vísan til 2. mgr. 22. gr. lagaum nauðungarsölu nr. 90/1991 (nsl.) verði felld úr gildi og lagt verði fyrirsýslumann að ákveða hvenær uppboð byrji á eigninni í samræmi við ákvæði 24. gr.sömu laga. Jafnframt er krafistmálskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðummálskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Kröfur varnaraðila eru aðákvörðun Sýslumannsins á Suðurlandi um stöðvun frekari aðgerða viðnauðungarsölu á eigninni Bjarkarland 163745, Rangárþingi eystra, lnr.163745, gerðarþoli Þorvaldur Helgason,kt. 020270-5199, verði staðfest. Jafnframt krefstvarnaraðili málskostnaður úr hendi sóknaraðila að skaðlausu samkvæmt síðarframlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.Málavextir Samkvæmt framlögðum gögnumog málatilbúnaði sóknaraðila eru málavextir eftirfarandi, en af hálfuvarnaraðila er málavöxtum ekki lýst sérstaklega og gerir hann ekki athugasemdirvið lýsingu sóknaraðila á málavöxtum nema að einu leyti og sem nánar verðurlýst hér að neðan. Með beiðni 11. nóvember2015 fór sóknaraðili fram á nauðungarsölu á eigninni Bjarkarland 163745,Rangárþingi eystra, lnr. 163745 á grundvelli veðskuldabréfs áhvílandi á 1.veðrétti samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.Veðskuldabréfið ber númerið 6303 (49795), er útgefið þann 16. október 2007 ogvar upphaflega í erlendum myntum, nánar tilekið 50% í CHF og 50% í JPY, eða aðjafnvirði ISK 26.100.000,-. Lánið hefur verið í vanskilum frá því 9. mars 2013. Nauðungarsölubeiðnin varmóttekin hjá Sýslumanninum á Suðurlandi þann 27. nóvember 2015 og fyrst tekinfyrir hjá embættinu þann 25. febrúar 2016 kl. 10:00 að undangenginni auglýsingusem birt var í Lögbirtingablaði. Við fyrirtökuna voru lögð fram mótmæli afhálfu varnaraðila þar sem þess var krafist að sóknaraðila yrði synjað umframgang gerðarinnar en til vara að henni yrði frestað, sbr. 2. mgr. 22. gr.laga nr. 90/1991. Byggði varnaraðili mótmælisín í fyrsta lagi á því að sú krafa sem nauðungarsölubeiðnin lýtur að hafiverið greidd og vísar því til stuðnings í fylgiskjal með mótmælum sínum sem berheitið „kvittun fyrir greiðslu“ og í öðru lagi á því að hann sé ábyrgðarmaðurað skuldinni og þar sem ekki hafi verið gert greiðslumat hlyti ábyrgðin aðteljast ógild. Eftir að varnaraðili hafðilagt fram mótmæli sín óskaði sóknaraðili eftir fresti til að taka afstöðu tilframkominna gagna og frestaði fulltrúi sýslumanns gerðinni til 3. mars 2016 kl.10:00. Þann dag var beiðnin tekin fyrirað nýju og lagði sóknaraðili fram athugasemdir sínar við mótmælum varnaraðilaásamt endurútreikningi og greiðslusögu lánsins. Mótmælti sóknaraðili því aðnauðungarsölubeiðninni yrði synjað um framgang og að veittir yrðu frekarifrestir samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/1991. Byggði sóknaraðili mótmæli sín á þvíað í fyrsta lagi væri lánið ekki uppgreitt og vísar því til stuðnings ífylgiskjal með athugasemdum sínum og í öðru lagi á því að sóknaraðila hafi ekkiverið skylt að framkvæma greiðslumat þar sem gerðarþoli sé ekki ábyrgðarmaður áláninu í skilningi laga heldur skuldari og veðsali. Eftir framlögð mótmæli viðsynjun gerðarinnar óskaði varnaraðili eftir fresti til að taka afstöðu tilathugasemda sóknaraðila og frestaði fulltrúi sýslumanns gerðinni á ný til 15.mars 2016 kl. 11:30. Þann dag var beiðnin tekin fyrir að nýju og lagðivarnaraðili þá fram bókun þar sem hann krefst þess að sýslumaður úrskurði um aðumrædd nauðungarsölubeiðni hafi fallið niður eða henni vísað frá með vísan tilþess er kom fram í fyrri athugasemdum. Sýslumaður tók þá ákvörðun að teknutilliti til framkominna mótmæla varnaraðila að stöðva frekari aðgerðir viðnauðungarsöluna með vísan til 2. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991. Sóknaraðilimótmælti ákvörðun sýslumanns og lýsti því yfir að hann myndi leita úrlausnarhéraðsdóms um hana, sbr. 3. mgr. 22. gr. síðastgreindra laga. Við þessa lýsingumálsatvika gerir varnaraðili athugasemdir að því varðar tilvísun til framlagðraathugasemda af hans hálfu við fyrirtöku málsins hjá Sýslumanni 3. mars 2016.Þær athugasemdir hafi sóknaraðili kosið að leggja ekki fyrir héraðsdóm afókunnum ástæðum en þar sé staðhæft að varnaraðila hafi verið „fullkunnugt“ umað lán nr. 6303 hafi ekki verið uppgreitt og því hafi hann „ekki verið í góðritrú“ að kvittun sóknaraðila, dags. 24. ágúst 2015, hafi verið fullnaðarkvittun.Þessum staðhæfingum kveðst varnaraðili mótmæla.Málsástæður sóknaraðila Sóknaraðili byggir á því að í 2.mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991 komi fram að ef ágreiningur verður við fyrirtökuskv. 21. gr. um hvort nauðungarsalan fari fram eða hvernig verði staðið aðhenni taki sýslumaður ákvörðun um ágreiningsefnið þegar í stað. Að jafnaðiskuli mótmæli af hendi gerðarþola eða þriðja manns ekki stöðva nauðungarsölunema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum eða sýslumaðurtelur þau annars valda því að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi rétt á aðnauðungarsalan fari fram. Í rökstuðningiSýslumannsins á Suðurlandi, sbr. endurrit úr nauðungarsölubók þann 17. mars2016, komi fram að sýslumaður ákveði að teknu tilliti til framkominna mótmælagerðarþola að stöðva frekari aðgerðir við nauðungarsöluna með vísan til 2. mgr.22. gr. laga nr. 90/1991. Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að skilyrðiheimildarinnar til að stöðva frekari aðgerðir séu ekki uppfyllt þar sem réttursóknaraðila sé skýr. Sóknaraðili sé með þinglýstan samning um veðrétt íeigninni fyrir tiltekinni peningakröfu og berum orðum sé tekið fram ísamningnum að nauðungarsala megi fara fram til fullnustu kröfunni ánundangengins dóms, sáttar eða fjárnáms, sbr. 8. tl. skilmála veðskuldabréfsins.Það sé ótvírætt að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila sé ekki uppgreidd ogað varnaraðili hafi ekki stöðu ábyrgðarmanns í málinu þar sem hann sétilgreindur sem skuldari og útgefandi veðskuldabréfsins. Nánar tiltekið komi fram ínauðungarsölubeiðni sóknaraðila að lánið hafi verið endur-reiknað í samræmi viðákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 18. gr., þarsem það hafi verið talið innihalda ólögmæta gengistryggingu.Endurútreikningurinn hafi verið framkvæmdur með hliðsjón af forsendum dómaHæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012. Varnaraðila hafi verið tilkynntum endurútreikninginn en láninu hafi í kjölfarið verið breytt í óverðtryggt lánmeð jöfnun afborgunum í íslenskum krónum til samræmis við ákvæði tilbráðabirgða X í sömu lögum. Við endurútreikninginnhafi myndast nýr höfuðstóll að fjárhæð kr. 35.000.954,- en það skjal semvarnaraðili vísi til í mótmælum sínum sem „kvittun fyrir greiðslu“ sé einungisútprentun úr tölvukerfi bankans sem hafi farið út þegar var verið að framkvæmabreytinguna á láninu yfir í íslenskt óverðtryggt lán, sbr. að framan. Skjaliðberi með sér að það sé verið að breyta láninu úr japönskum jenum og svissneskumfrönkum yfir í íslenskar krónur með greiðslu að fjárhæð kr. 35.000.892,- semmyndi nýjan höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Ekki hafi því verið umfullnaðarkvittun á láninu að ræða og varnaraðila hafi verið fullkunnugt um aðekki væri verið að greiða upp lánið á þeim tíma. Lánið hafi verið í vanskilumfrá því fyrir endurútreikninginn eða 9. mars 2016 og ekkert verið greitt inn áþað af hálfu varnaraðila á þeim tíma eða eftir og geti hann þ.a.l. ekki verið ígóðri trú um að umrædd „kvittun fyrir greiðslu“ hafi falið í sérfullnaðarkvittun eða uppgreiðslu á láninu án þess að það myndaðist nýrhöfuðstóll í íslenskum krónum sem varnaraðili stæði í skuld með gagnvartsóknaraðila. Um þetta vísar sóknaraðili m.a. til dóms Hæstaréttar í máli nr.207/2012. Er röksemdum varnaraðila um að gefin hafi verið út fullnaðarkvittunfyrir láninu í heild sinni hafnað og kveður sóknaraðili þær ekki standastskoðun. Sóknaraðili kveðurnauðungarsölubeiðni sína vera byggða á forsendum endurútreikningsins. Forsendursem varnaraðili hafi fengið tilkynningu um samhliða framangreindu skjali semberi heitið „kvittun fyrir greiðslu“ og sé höfuðstóll beiðninnar í samræmi viðþað. Að mati sóknaraðila fari því ekki milli mála fyrir hvaða peningakröfusóknaraðili krefjist fullnustu á. Sóknaraðili hafnar þvíeinnig að varnaraðili hafi stöðu ábyrgðarmanns í málinu og að sér hafi veriðskylt að framkvæma greiðslumat á skuldara, Sigrúnu Brynju Haraldsdóttur, viðútgáfu veðskuldabréfsins vegna þess. Varnaraðili sé tilgreindur sem skuldari áhinu umrædda veðskuldabréfi, þ.e. í efsta dálk bréfsins komi þar skýrt fram aðskuldari A sé Sigrún Brynja Haraldsdóttir og skuldari B sé Þorvaldur Helgason,varnaraðili máls þessa. Þar fyrir neðan segi svo: „skuldari viðurkennir meðundirritun sinni á skuldabréf þetta að skulda Kaupþing banka hf., kt.560882-0419, in solidum að jafnvirði íslenskra króna á kaupdegi.“ Til staðfestuundirriti varnaraðili málsins síðan nafn sitt sem skuldari og veðsali B ásamtskuldara og veðsala A í votta viðurvist. Það breyti á engan hátt þeirristöðu varnaraðila þó eignarhlutur Sigrúnar Brynju Haraldsdóttur hafi síðarverið leystur úr veðböndum samkvæmt veðbandslausn dags. 05.05.2009. Hannteljist áfram vera skuldari að láninu. Þá undirriti varnaraðili einnigskilmálabreytingu dags. 25. mars 2009 með nafni sínu sem útgefandi B að láninu.Sé hann því skuldari að láninu eða meðskuldari eins og fram komi ínauðungarsölubeiðninni, ásamt skuldara Sigrúnu Brynju Haraldsdóttur. Sé þvíalfarið hafnað af hálfu sóknaraðila að því megi jafna til þeirra sem taka á sigsjálfskuldarábyrgð á láni enda ekkert sem bendi til þess og varnaraðili hafiekki fært nein haldbær rök fyrir því. Með vísan tilframangreinds hafni sóknaraðili því að óvíst sé að hann eigi rétt á aðnauðungarsalan fari fram, réttur hans sé skýr og öll skilyrði laga umnauðungarsölu til staðar til að beiðni hans sé tekin til áframhaldandimeðferðar. Engin þau atvik hafi verið fyrir hendi sem ættu að valda því aðfulltrúi Sýslumannsins á Suðurlandi tæki þá ákvörðun um að stöðva frekari aðgerðirvið nauðungarsölu á eigninni Bjarkarland 163745, Rangárþingi eystra, lnr.163745. Málskostnaðarkrafasóknaraðila byggir á 129.–131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr.2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991. Um varnarþing vísar sóknaraðili til 4. mgr.3. gr. laga nr. 90/1991. Að öðru leyti vísar sóknaraðili til XIV. kafla laganr. 90/1991.Málsástæður varnaraðila Varnaraðili telur ákvörðunSýslumannsins á Suðurlandi rétta að lögum og hana beri að staðfesta. Eins ogfram komi í mótmælum varnaraðila við fyrirtöku gerðarinnar 25. febrúar 2016,hafi Sigrúnu Brynju Haraldsdóttur borist með rafrænum hætti skjal frásóknaraðila, dags. 24. ágúst 2015, og heiti skjalið „Kvittun fyrir greiðslu“.Þar sé tilgreint að kvittunin varði lán nr. 6303. Tilgreind greiðsludagsetningsé 9. mars 2013. Þá sé kennitala lántakanda tilgreind og sé hún sú sama ogkennitala Sigrúnar Brynju. Þá komi fram á kvittuninni að sá hluti láns nr.6303 sem hafi verið í japönskum jenum(50%) hafi verið uppgreiddur, sbr. orðalagið „Leggur er uppgreiddur“ og eins aðsá hluti lánsins sem hafi verið í svissneskum frönkum (50%) sé uppgreiddur. Séí báðum tilvikum tekið fram að eftirstöðvar höfuðstóls eftir greiðslu sé 0.Þessa kvittun hafi Sigrún Brynja sýnt varnaraðila og hafi hann fengið afrit afhenni. Hvergi sé getið umgreiðanda á kvittuninni og því síður að „einungis [sé um að ræða] útprentun úrtölvukerfi bankans sem fór út þegar verið var að framkvæma breytinguna á láninuyfir í íslenskt óverðtryggt lán.“ Þvert á móti sé kvittunin fyrirvaralaus ogskuldbindandi yfirlýsing af hálfu sóknaraðila að lán nr. 6303 sé uppgreitt. Sústaðhæfing að einungis sé um að ræða „útprentun úr tölvukerfi bankans ...“ fái á engan hátt staðist og því síður að útprentunin„hafi farið út þegar verið var að framkvæma breytinguna ....“ Verði ekki litiðá framangreinda skýringu öðru vísi en svo en að um sé að ræða máttlausa ogsíðari tíma tilraun til að fá héraðsdóm til að líta framhjá gildikvittunarinnar. Hafa beri sérstaklega í huga að „skýringin“ sé fyrst sett frameftir að varnaraðili hafi mótmælt framgangi nauðungarsölubeiðni hjá sýslumanni. Að auki beri í þessusambandi og við úrlausn málsins að hafa tvennt í huga. Annars vegar aðstöðumunaðila máls þessa og hins vegar þær skyldur sem hvíli á sóknaraðila semfjármálafyrirtæki. Að því er varðar fyrraatriðið sé aðstöðumunur málsaðila í því fólginn að sóknaraðili sé sérfróðuraðili á sviði fjármála. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 hvíliá honum ríkar skyldur til að haga starfsemi sinni með þeim hætti aðviðskiptavinir megi treysta lögmæti athafna hans eða athafnaleysis, sbr. m. a.1. gr. laganna. Varnaraðili sé hins vegar einstaklingur án sérþekkingar áfjármálaviðskiptum. Þennan aðstöðumun beri að skýra varnaraðila hag þegar metiðer gildi fyrirvaralausrar kvittunar á uppgreiðslu láns nr. 6303 sem send sé úteinhliða af hálfu sóknaraðila og hann hafi aldrei aðhafst nokkuð til aðafturkalla þá yfirlýsingu sem kvittunin feli í sér. Það tómlæti beri einnig aðskýra varnaraðila í hag. Varðandi síðara atriðið,þ. e. skyldur sóknaraðila sem fjármálafyrirtækis sé ástæða til að benda á tvöatriði: Innan vébanda sóknaraðilastarfi sérstök endurskoðunardeild, sbr. 16. gr. laga um fjármálafyrirtæki.Deildin annist innri endurskoðun sem sém. a. ætlað að tryggja að vinnuferlar, þ. á m. á sviði útlánamála, séu velskipulagðir og traustir. Eðli málsins samkvæmt hljóti að felast í þessulögbundna verkefni að gæta þess að fyrirvaralausar kvittanir - eða útprentanireins og sóknaraðili kjósi að kalla fyrirbærið - um uppgreiðslu lána streymiekki stjórnlaust út til viðskiptavina. Þegar slíkt gerist hafi vinnuferlar ograunar vinnubrögð innan fjármálafyrirtækis brugðist. Það sama eigi við þegarfjármálafyrirtækið láti undir höfuð leggjast að afturkalla kvittanir sé það áannað borð unnt að lögum. Sóknaraðili – geti hann sannað tjón sitt – verði afþessum sökum að bera tjón sitt sjálfur enda sé það einungis á valdi hans sjálfs(og Fjármálaeftirlitsins) að gæta að eigin vinnuferlum. Viðskiptavinir, þ. á m.varnaraðili, verði ekki gerðir ábyrgir fyrir mögulegu tjóni sóknaraðila vegnaatvika af þessu tagi sem stafi afásetningi eða stórfelldu gáleysi hans sjálfs. Þá vill varnaraðili vísatil 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki en þar komi fram að slík fyrirtæki, þ. ám. sóknaraðili, skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigðaviðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Á grundvelli 19. gr. hafiFjármálaeftirlitið sett reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðirviðskiptahættir hjá fjármálafyrirtækjum, sbr. reglur nr. 670/2013. Sé sérstök ástæða til að vekjaathygli á 5. gr. reglnanna en þar komi fram sú skylda fjármálafyrirtækis að búayfir öflugu innra eftirliti og setja sér innri reglur og/eða viðmið um lykilþættistarfseminnar með hliðsjón af eðli og umfangi hennar. Að auki sé sérstök ástæðatil að vísa til 9. gr. reglnanna en þar komi m. a. fram að í samskiptum viðviðskiptavini skuli fjármálafyrirtæki tryggja að upplýsingar um vöru eðaþjónustu séu hvorki misvísandi né blekkjandi. Við útsendingu fyrirvaralausrarkvittunar hafi sóknaraðili ekki fylgt þessum reglum. Af því leiði að meint tjónsitt verði hann að bera sjálfur. Þegar allt framangreint sévirt verði að telja að stöðvun sýslumanns á framgangi nauðungarsölubeiðninnarhafi verið rétt að lögum og beri að staðfesta hana. Varnaraðili telurmálsástæður og lagarök sóknaraðila varðandi gildi kvittunarinnar á engan háttfá staðist og væri bersýnilega ósanngjarnt í ljósi athafna og athafnaleysissóknaraðila að fella ákvörðun sýslumanns úr gildi, sbr. m. a. 36. gr. laga umsamningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 með síðari breytingum. Varnaraðili hafnar einnigmálsástæðum og lagarökum sóknaraðila þess efnis að ekki hafi verið skylt, þegarlán nr. 6303 var tekið og við við síðari skilmálabreytingar á því, þ. á m.veðbandslausn á eignarhluta Sigrúnar Brynju, að láta fara fram greiðslumat áhenni á grundvelli samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Eins og fram komi ímótmælum og síðari bókun varnaraðila við fyrirtökur málsins hjá sýslumannitelji varnaraðili að greiðslumat hefði átt að fara fram á varnaraðila þegarlán/skuldabréf nr. 6303 hafi upphaflega verið keypt af honum árið 2007. Beriþar sérstaklega að hafa í huga að hann veiti Sigrúnu Brynju Haraldsdóttur, semtilgreind sé sem skuldari A á bréfinu, veð í eign sinni sem séhelmingshluti jarðarinnar Bjarkarland íRangárþingi eystra. Með öðrum orðum hafi hann með sjálfsskuldarábyrgð sinnigagnvart sóknaraðila, ábyrgst að skuldari A myndi standa að baki þeirriskuldbindingu sem í láninu/skuldabréfinu hafi falist. Þetta fyrirkomulag sé íraun hið sama og sjálfsskuldarábyrgð samkvæmt íslenskum rétti enda merki slíkábyrgð að ábyrgðarmaður sé jafnsettur gagnvart kröfuhafa og skuldarinn sjálfur.Verði í þessu sambandi sérstaklega að líta til þess að það sé varnaraðili semleggi fram veð til tryggingar láninu/skuldabréfi nr. 60303. Þessi málsástæðavarnaraðila sé enn fremur studd af yfirlýsingu sóknaraðila sem fram komi íkröfu hans til Héraðsdóms Suðurlands, að sóknaraðili hafi leyst eignarhlutaskuldara A úr veðböndum samkvæmt veðbandslausn, sem sé dagsett 5. maí 2009.Ljóst sé að sú ákvörðun sóknaraðila hafi breytt innbyrðis stöðu skuldarasamkvæmt skuldabréfi nr. 6303 varnaraðila verulega í óhag í ljósi reynslunnar.Við þessa breytingu hafi sóknaraðila borið að framkvæma greiðslumat á skuldaraB sem ekki hafi verið gert í samræmi við áðurnefnt samkomulag um notkun ábyrgðaá skuldum einstaklinga. Megi í þessu sambandi einnig vísa til 10. gr. laga umneytendalán nr. 33/2013. Þá hafi sóknaraðili lýstþví yfir að láni/skuldabréfi nr. 6303, sem hafi upphaflega verið í jöfnumhlutföllum, sem japönsk jen og svissneskir frankar, hafi verið breytt íóverðtryggt lán til samræmis við ákvæði til bráðabirgða X í lögum um vexti ogverðtryggingu. Slíka breytingu á lánsskilmálum hafi sóknaraðila verið óheimiltað gera nema að fengnu samþykki skuldara/sjálfsskuldarábyrgðaraðila. Einhliðabreyting af hálfu skuldara [sic.] að þessu leyti á lánsskilmálum öðlist ekkigildi fyrr en að fengnu samþykki skuldara/sjálfsskuldarábyrgðaraðila. Þaðsamþykki hafi ekki verið veitt. Þá sé enn fremur ljóst aðallt frá útgáfudegi skuldabréfs nr. 6303 og þegar síðari skilmálabreytingarhafi farið fram, hvort sem þær hafi verið samþykktar af varnaraðila eða ekki,þá hafi sóknaraðila borið að kanna færni varnaraðila og skuldara A samkvæmtnefndu skuldabréfi til standa við þá skuldbindingu sem skuldabréfið hafi haftað geyma. Varnaraðili telji að við kaup sóknaraðila á nefndu skuldabréfi hafihonum mátt vera ljóst að bæði skuldbindingar hans sjálfs og skuldara A hafiverið svo miklar að hann gæti ekki staðið skil á þeim skuldbindingum og þeirriskuldbindingu sem hafi falist í nefndu skuldabréfi. Sóknaraðili hafi þannigbæði brotið gegn ákvæðum 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki og 36. gr. laga umsamningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vegna þessarar málsástæðu skorarvarnaraðili á sóknaraðila að leggja fram yfirlit um heildarskuldbindingarvarnaraðila gagnvart honum þegar lán nr. 6303 var veitt og við síðari skilmálabreytingarlánsins. Með vísan til allsframangreinds beri að hafna þeim málsástæðum og lagarökum sem sóknaraðili hafisett fram gagnvart málsástæðum og lagarökum varnaraðila þess efnis aðsjálfsskuldarábyrgð hans á láni/skuldabréfi nr. 6303 sé ógild. Að öðru leytivísi varnaraðila til málsástæðna og lagaraka sem fram komi í mótmælum hans ogbókun við fyrirtökur málsins hjá sýslumanni. Málskostnaðarkröfu sínabyggir varnaraðili á 129. – 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Forsendur og niðurstaða Sóknaraðili byggir mál sitt á 73.gr. laga nr. 90/1991, sem er í XIII. kafla laganna. Í 1. mgr. 73. gr. laganna segir að eftir þvísem mælt sé fyrir um í öðrum ákvæðum laganna megi leita úrlausnar héraðsdómarasamkvæmt fyrirmælum þess kafla um ágreining sem rís við nauðungarsölu. Í IV. kafla laga nr.90/1991 er fjallað um fyrstu aðgerðir við nauðungarsölu á fasteign. Í 22. gr.laganna er því lýst að sýslumaður skuli gæta þess af sjálfsdáðum að fyrirmælumlaganna hafi verið fylgt. Séu slíkir annmarkar getur sýslumaður stöðvað frekariaðgerðir eða frestað frekari aðgerðum. Í 2. mgr. 22. gr. kemur fram að verðiágreiningur við fyrirtöku skv. 21. gr. um hvort nauðungarsala fari fram eðahvernig að henni verði staðið taki sýslumaður ákvörðun um ágreiningsefnið þegarí stað. Að jafnaði skuli mótmæli gerðarþola eða þriðja manns ekki stöðvanauðungarsöluna nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta afsjálfsdáðum, eða sýslumaður telur þau annars valda því að óvíst sé aðgerðarbeiðandi eigi rétt á að nauðungarsalan fari fram. Taki sýslumaðurmótmælin ekki til greina stöðvi það ekki frekari aðgerðir að viðkomandi lýsiþví yfir að hann muni bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm skv. ákvæðumXIV. kafla laganna. Í 3. mgr. 22. gr. segir að fallist gerðarbeiðandi ekki áákvörðun sýslumanns skv. 1. eða 2. mgr. 22. gr. geti hann leitað úrlausnarhéraðsdóms um ákvörðunina eftir ákvæðum XIII. kafla laganna. Eins og að framan greinirbyggðu mótmæli varnaraðila við nauðungarsölu í fyrsta lagi á því að krafa sú,sem nauðungarsölubeiðni beindist að, væri greidd og vísaði um það til skjalsmeð fyrirsögninni “kvittun fyrir greiðslu” og hins vegar á því að varnaraðilisé ábyrgðarmaður á skuldinni og að ekki hafi verið gert greiðslumat. Á hinu upphaflega veðskuldabréfisem hefur verið lagt fram í málinu í afriti segir ekkert um að varnaraðili séábyrgðarmaður lánsins eða að skuldbinding hans gagnvart kröfuhafa sé á einhvernhátt vara ábyrgð eða annars konar en ábyrgð hins skuldarans. Segir einungis aðbáðir eru tilgreindir sem skuldarar, annars vegar varnaraðili sem skuldari B oghins vegar Sigrún Brynja Haraldsdóttir sem skuldari A. Er undirritun beggjatilgreind sem undirritun skuldara og veðsala. Verður hafnað röksemdumvarnaraðila um að hann hafi verið ábyrgðarmaður á láninu og að skuldbindinguhans megi jafna til sjálfsskuldarábyrgðar. Verður jafnframt hafnað málsástæðumhans um að þess vegna hefði átt að gera greiðslumat áður en varnaraðili tókst áhendur skuldbindingu sína. Eins og lýst er að framankveður sóknaraðili að kvittun sú sem að ofan er lýst hafi verið send út þá erláninu hafi verið breytt í lán í íslenskum krónum. Ekkert hefur þó verið lagtfram um þetta í málinu og er hið upphaflega skuldabréf hið eina í málinu enskv. því er skuldbindingin að jöfnu í svissneskum frönkum og japönskum jenum.Þá hefur líka verið lagt fram skjal með fyrirsögninni endurútreikningurerlendra lána, dagsett 6. nóvember 2015. Kvittun sú sem varnaraðili byggir á erhins vegar dagsett 24. ágúst 2015 og segir þar berum orðum að hinn japanskileggur sé uppgreiddur sem og hinn svissneski. Kemur ekki fram neitt umendurútreikning eða nýtt skuldabréf. Segir þvert á móti að eftirstöðvar eftirgreiðslu séu 0. Það er álit dómsins að þessu hafi varnaraðili mátt treysta enekkert liggur fyrir um hvort hann vissi eða mátti vita um það hvort hinnskuldarinn hefði greitt upp skuldina. Þá verður að líta svo á að varnaraðilihafi mátt treysta því að útsent bréf sóknaraðila, sem er fjármálafyrirtæki,væri efnislega rétt. Verður því að hafna kröfum sóknaraðila um að felld verðiúr gildi umþrætt ákvörðun sýslumanns og að lagt verði fyrir sýslumann að ákveðahvenær uppboð skuli byrja á eigninni. Rétt er að sóknaraðiligreiði varnaraðila kr. 400.000 í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit tilvirðisaukaskatts. Sigurður G. Gíslasonhéraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.Ú r s k u r ð a r o r ð : Kröfum sóknaraðila, Arion banka hf.,er hafnað. Sóknaraðiligreiði varnaraðila, Þorvaldi Helgasyni, kr. 400.000 í málskostnað. |
Mál nr. 491/2005 | Ávana- og fíkniefni Skilorð | G var sakfelldur í héraði fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft fíkniefni í vörslum sínum og selt slík efni í ágóðaskyni. Hann var einnig sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Var refsing hans ákveðin fangelsi í fimm mánuði og þar af fjórir mánuðir skilorðsbundnir. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu G var staðfest í Hæstarétti. Þegar litið var til sakaferils G, sem hafði í fjögur skipti frá árinu 2001 sætt viðurlögum fyrir fíkniefnalagabrot, var hins vegar talið rétt að fresta skilorðsbundið fullnustu tveggja mánaða af refsingu hans. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. nóvember 2005 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir sakargiftir, sem greinir í ákærum 13. janúar og 28. febrúar 2005, svo og í II., III. og IV. kafla ákæru 4. maí sama ár, en að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem I. kafli síðastnefndrar ákæru tekur til. Þess er og krafist að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og refsingu hans, fangelsi í fimm mánuði. Þegar litið er á hinn bóginn til sakaferils ákærða, sem í fjögur skipti hefur frá árinu 2001 sætt viðurlögum fyrir fíkniefnalagabrot, er rétt að fresta skilorðsbundið fullnustu tveggja mánaða af refsingu hans. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Gunnar Arnar Ásbjörnsson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu 2 mánaða af þeirri refsingu og hún falla niður að því leyti að liðnum 2 árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Vesturlands 13. september 2005. Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn á Akranesi með ákæru 13. janúar 2005 á hendur ákærða, Gunnari Arnari Ásbjörnssyni, kt. 180380-5749, Þverholti 5 í Reykjavík. Málið var dómtekið 30. ágúst sama ár. 1. Fimmtudaginn 28. október um kl. 22:23, ekið bifreiðinni PJ-853, sviptur ökurétti, vestur Akrafjallsveg, uns lögreglan stöðvaði aksturinn á Akrafjallsvegi skammt austan við Móa, Innri Akraneshreppi. Brot ákærða skv. 1. lið ákærunnar þykir varða við 1. mgr. 48. gr. sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sbr. 186. gr. laga nr. 82/1998. 2. Að kvöldi föstudagsins 12. nóvember, haft í vörslum sínum 3,13 g af amfetamíni, 8 töflur með fíkniefninu MDMA og 10,72 g af hassi í herbergi sínu að Vesturgötu 24, Akranesi, en lögreglan fann efnin við húsleit og lagði hald á þau. 3. Að kvöldi föstudagsins 10 desember, haft í vörslum sínum 8,86 g af amfetamíni, 9,87 g af hassi, 0,55 g af tóbaksblönduðu hassi og 1,35 g af kókaíni í herbergi sínu að Vesturgötu 24, Akranesi, en lögreglan fann efnin við húsleit og við leit á ákærða og lagði hald á þau. Brot ákærða skv. 2. og 3. tl. ákærunnar þykja varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. 166. gr. laga nr. 82/1998, sbr. lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar, nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 848/2002, sbr. auglýsingu um bann við vörslu og meðferð ávana- og fíkniefnis, nr. 232/2001. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þess er jafnframt krafist að ofangreind samtals 11,99 g af amfetamíni, 8 töflur með fíkniefninu MDMA, 20,59 g af hassi, 0,55 g af tóbaksblönduðu hassi og 1,35 grömmum af kókaíni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“ Málið er einnig höfðað með ákæru 28. febrúar 2005 en þar eru ákærða gefin að sök „eftirgreind fíkniefnalagabrot, framin á árinu 2005 á Akranesi, með því að hafa: I. Sunnudaginn 16. janúar haft í vörslum sínum 0,97 g af amfetamíni á bifreiðastæði við Vesturgötu 24 er lögreglumenn höfðu afskipti af honum en lögreglan fann efnið við leit á honum og lagði hald á það. II. Sunnudaginn 16. janúar haft í vörslum sínum 0,57 g af amfetamíni, 2,45 g af hassi og 0,81 g af tóbaksblönduðu kannabisefni í herbergi sínu að Vesturgötu 24 en lögreglan fann efnin við húsleit og lagði hald á þau í framhaldi af handtöku ákærða vegna brots skv. I. lið ákærunnar. III. Laugardaginn 22. janúar haft í vörslum sínum 1,86 g af kókaíni á móts við Vesturgötu 47 er lögreglumenn höfðu afskipti af honum en lögreglan fann efnið við leit á honum og lagði hald á það. IV. Laugadaginn 22. janúar haft í vörslum sínum 3,52 g af hassi í herbergi sínu að Vesturgötu 24 en lögreglan fann efnið við húsleit og lagði hald á þau í framhaldi af handtöku ákærða vegna brots skv. III. lið ákærunnar. Brot ákærða teljast varða við 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 75/1982 sbr. lög nr. 13/1985 sbr. 166. gr. laga nr. 82/1998 sbr. lög nr. 68/2001 og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni sbr. reglugerð nr. 848/2002 en III. liður ákærunnar varðar að auki við auglýsingu um bann við vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 232/2001. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þess er jafnframt krafist að ofangreind samtals 1,54 g af amfetamíni, 5,97 g af hassi, 0,81 g af tóbaksblönduðu kannabisefni og 1,86 g af kókaíni, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. “ Þá er málið höfðað með ákæru 4. maí 2005 en þar eru ákærða gefin að sök „eftirgreind fíkniefnabrot framin á Akranesi, með því að hafa: I. Á tímabilinu september 2004 og fram í miðjan janúar 2005 í ágóðaskyni selt neðangreindum og ónafngreindu fólki samtals 680 g af kannabisefnum, 45 töflur með fíkniefninu MDMA, 5 g af kókaíni og 27 g af amfetamíni. Hluta efnana seldi ákærði eins og nánar er tiltekið hér að neðan: 1. Laugardaginn 25. september 2004 selt A, kt. [...], 1 g af amfetamíni. 2. Laugardaginn 25. eða sunnudaginn 26. september 2004 selt B kt. [...] 3-5 g af kannabisefni. 3. Fimmtudaginn 14. október 2004 selt ónafngreindri stúlku 2 g af amfetamíni á kr. 8.000,-. 4. Föstudaginn 15. október 2004 selt C, kt. [...], 5 g af kannabisefni. 5. Laugardaginn 30. október 2004, að Vesturgötu 24, selt D, kt. [...], 6 töflur með fíkniefninu MDMA á kr. 13.000,-. 6. Sunnudaginn 31. október 2004 selt E, kt. [...], 1 g af amfetamíni og 5 g af kannabisefni. 7. Fimmtudaginn 4. nóvember 2004, við verslun Olís á Esjubraut, selt F, kt. [...], 5 g af kannabisefni á kr. 9.000,-. 8. Fimmtudaginn 4. nóvember 2004 selt G, kt. [...], 5 g af kannabisefni á kr. 9.000,-. 9. Mánudaginn 8. nóvember 2004 selt E, kt. [...], 1 g af amfetamíni á kr. 4.500,-. 10. Föstudaginn 12. nóvember 2004 selt H, kt. [...], 2 g af amfetamíni á kr. 10.000,-. 11. Laugardaginn 4. desember 2004 selt B, kt. [...], 5 g af kannabisefni. 12. Laugardaginn 11. desember 2004, fyrir utan Garðabraut [...], selt A, kt. [...] 2 g af amfetamíni. 13. Föstudaginn 24. desember 2004 selt I, kt. [...], 10 g af kannabisefni og 5 g af amfetamíni fyrir kr. 35.000,-. 14. Laugardaginn 8. janúar 2005 selt J, kt.[...], 1 g af kókaíni á kr. 15.000,-. II. Fimmtudaginn 3. febrúar 2005 haft í vörslum sínum allt að 1 g af amfetamíni í plastpoka í bifreiðinni ZU-955 þar sem henni var ekið í norðurátt í Hvalfjarðar-göngum en er lögreglumenn hugðust hafa afskipti af ákærði sturtaði hann efninu úr pokanum út um glugga bifreiðarinnar þannig að það dreifðist um akbrautina og á hlið bifreiðarinnar en lögreglan fann 0,02 g af efninu á akbrautinni og á hlið bifreiðarinnar og lagði hald á það. III. Fimmtudaginn 3. febrúar 2005 haft í vörslum sínum 2.82 g af kannabisefni og 0,62 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni í herbergi sínu að Vesturgötu 24 en lögreglan fann efnin við húsleit og lagði hald á þau í framhaldi af handtöku ákærða vegna brots skv. II. lið ákærunnar. IV. Laugardaginn 12. mars 2005 haft í sínum vörslum samtals 8,03 g af hassi að Vesturgötu 24 en 5,09 g af efninu kom hann fyrir í bifreiðinni OI-291 og 2,94 g af efninu í herbergi að Vesturgötu 24 en bæði bifreiðin og herbergið tilheyrði bróður ákærða, K, kt. [...]. Lögreglan fann efnin við leit í bifreiðinni og í húsleit að Vesturgötu 24 í framhaldi af handtöku K á Innnesvegi og lagði hald á þau. V. Brot ákærða skv. öllum liðum ákærunnar teljast varða við 2. gr. sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og sbr. 6. gr. laganna að því er varðar meðferð ákærða á hassinu og MDMA, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 75/1982 sbr. lög nr. 13/1985 sbr. 166. gr. laga nr. 82/1998 sbr. lög nr. 68/2001 og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu um bann við vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 232/2001 að því er varðar meðferð ákærða á kókaíni. VI. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þess er jafnframt krafist að ofangreind samtals 0,02 g af amfetamíni, 10,85 g af hassi, 0,62 g af tóbaksblönduðu hassi verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“ Af hálfu ákærða er gerð sú krafa að honum verði gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfi og sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. I. Ákæra 13. janúar 2005 Ákærði kom fyrir dóm 6. maí og 24. ágúst 2005 og játaði skýlaust að hafa framið öll þau brot sem greinir í þessari ákæru en játning hans er studd sakargögnum. Verður málið að þessu leyti dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða. Um málavexti er skírskotað til ákæru. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í þessari ákæru en brotin eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru. II. Ákærði kom fyrir dóm 6. maí og 24. ágúst 2005 og játaði skýlaust að hafa framið öll þau brot sem greinir í þessari ákæru en játning hans er studd sakargögnum. Verður málið að þessu leyti dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða. Um málavexti er skírskotað til ákæru. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í þessari ákæru en brotin eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru. III. Ákæra 4. maí 2005 A. Ákæruhlutar II-IV Ákærði kom fyrir dóm 6. maí og 24. ágúst 2005 og játaði skýlaust að hafa framið öll þau brot sem greinir í þessum hlutum ákærunnar. Er játning hans studd sakargögnum og verður málið að þessu leyti dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða. Um málavexti er skírskotað til ákæru. B. Ákæruhluti I 1. Haustið 2004 bárust lögreglunni á Akranesi upplýsingar um að ákærði stundaði fíkniefnasölu þar í bæ. Taldi lögregla einnig að þekktir fíkniefnaneytendur vendu komur sínar reglulega til ákærða, auk þess sem fram hefði komið við hlustun á síma L, bróður ákærða, að samvinna væri með þeim bræðrum um dreifingu fíkniefna undir forustu ákærða. Af þessu tilefni fór lögreglan fram á heimild dómsins til að hlusta síma ákærða og var fallist á þá beiðni með úrskurði dómsins frá 23. september 2004. Tók sú heimild til tímabilsins frá uppkvaðningu úrskurðarins til 15. nóvember sama ár. Með úrskurði dómsins þann dag var heimildin síðan framlengd til 15. janúar 2005. Með úrskurði dómsins 21. desember 2004 var heimild lögreglu til að hlusta síma ákærða framlengd til 15. mars 2005 en auk þess tók sú heimild til annars símanúmers sem ákærða var talin hafa í notkun. Fyrr í þessum dómi hefur ákærði verið sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot sem framin voru á tímabilinu 12. nóvember 2004 til 12. mars 2005. Þykir rétt samhengisins vegna að gera nokkra grein fyrir þeim brotum. Hinn 12. nóvember 2004 fór lögregla að heimili ákærða að Vesturgötu 24 á Akranesi til að framkvæma leit vegna gruns um að í kjallara hússins væru geymd fíkniefni. Á vettvangi hittist ákærði fyrir og vísaði lögreglu á 3,13 g af Amfetamíni, 8 töflur með fíkniefninu MDMA og 10,72 g af hassi. Í yfirheyrslu hjá lögreglu sama dag viðurkenndi ákærði að eiga efnin og sagði þau vera til eigin nota. Næst fór lögregla á heimili ákærða 10. desember 2004 til að leita að fíkniefnum. Í herbergi ákærða og á honum fundust í það sinn 8,86 g af amfetamíni, 9,87 g af hassi, 0,55 g af tóbaksblönduðu hassi og 1,35 g af kókaíni. Í kjölfarið var ákærði yfirheyrður og viðurkenndi hanna að eiga efnin, sem hann ætlaði til eigin nota. Hinn 16. janúar 2005 handtók lögregla ákærða fyrir utan heimili hans að Vesturgötu 24 vegna gruns um að hann væri með fíkniefni í sínum vörslum. Í umrætt sinn hafði ákærði á sér 0,97 g af amfetamíni en við húsleit á heimili hans fundust 0,57 g af amfetamíni, 2,45 g af hassi og 0,81 g af tóbaksblönduðu hassi. Ákærði var í kjölfarið yfirheyrður og kannaðist við að eiga efnin og sagði þau til eigin neyslu. Ákærði var næst handtekinn 22. janúar 2005 þegar lögreglumenn höfðu afskipti af honum þar sem hann var staddur á Vesturgötu. Reyndist ákærði hafa á sér 1,86 g af kókaíni en auk þess fundust við leit á heimili hans 3,52 g af hassi. Við yfirheyrslu hjá lögreglu játaði ákærði að eiga efnin, sem hann ætlaði til eigin neyslu. Hinn 3. febrúar 2005 stöðvaði lögregla akstur bifreiðarinnar ZU-955 þar sem henni var ekið norður Hvalfjarðargöng en ákærði var farþegi í bifreiðinni. Varð lögregla vör við að ákærði tæmdi innhald poka út um hliðarrúðu en um var að ræða um 1 g af amfetamíni. Í kjölfarið leitaði lögregla á heimili ákærða og fann 2,82 g af kannabisefni og 0,62 g af tóbaksblönduðu kannabisefni. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sama dag kannaðist ákærði við að eiga þau efni sem fundust hjá honum og meira til svo sem síðar verður nánar rakið. Þá fann lögregla 8,03 g af hassi í eigu ákærða við leit 12. mars 2005 á heimili hans og í bifreiðinni OI-291 í eigu bróður ákærða. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 8. apríl 2005 játaði ákærði að eiga þessi efni. 2. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 3. febrúar 2005 greindi ákæri frá því að hann hefði deginum áður farið til Reykjavíkur og keypt þar 6 „búta“ af hassi og 1 g af amfetamíni en hluti af þeim efnum höfðu fundist við leit hjá ákærða og þegar hann var staðinn af því að losa sig við efni út um hliðarrúðu á bifreið. Kvaðst ákærði hafa notað hluta af efnunum og gefið af þeim. Ákærði greindi frá því að hann hefði ekki selt neitt af ráði af fíkniefnum síðan um miðjan janúar 2005 vegna afskipta lögreglu en fram að því hefði hann selt um 20 „búta“ á viku. Nánar aðspurður sagðist ákærði hafa selt fíkniefni í meira eða minna mæli frá því um maí eða júní 2004. Um magn af seldum fíkniefnum sagði ákærði að það hefði verið breytilegt allt frá 20 g af hassi á viku upp í 50 g þegar mest var. Þó tók ákærði fram að hann hefði ekki selt efni í hverri einustu viku. Ákærði kvaðst ekki geta áætlað heildarmagn af seldum efnum en tók fram að í þrjú til fjögur skipti hefði salan farið upp í 50 g af hassi á viku. Um verðið sagði ákærði að hann hefði keypt hvert gramm á um 1.500 krónur en selt á 2.500 krónur. Aðspurður um önnur efni sagðist ákærði lítið hafa selt af amfetamíni. Taldi hann sig hafa haft það efni í tvær til þrjár helgar um 10 g í hvert sinn sem hann hefði selt fyrir utan 2-3 g sem hann hefði neytt sjálfur. Kom fram hjá ákærða að hann hefði selt grammið af amfetamín á um 3.500-5.000 krónur en fyrir hvert gramm hefði hann greitt 2.000-2.500 krónur. 3. Hér á eftir verða rakin þau samtöl í og úr farsíma ákærða sem lögregla hlustaði á og tók upp í þágu rannsóknar málsins. Samhliða verður einnig rakin frásögn ákærða um samtölin við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. febrúar 2005 og framburðir þeirra sem taldir voru viðmælendur ákærða fyrir dómi og hjá lögreglu. Frásögn ákærða fyrir dómi verður síðan rakin í kafla 5 hér að neðan. Samtal 25. september 2004 kl. 19.30. Í samtalinu er talið að ákærði og A ræði saman. Viðmælandinn segist vera allslaus uppi á Skaga og biður um greiða fram á mánudag. Er viðmælandinn þá spurður hvort hann eigi við „Slagið“ og er því játað. Einnig er sagt við viðmælandann fjögur og fimm og samþykkir hann það. Þá kemur fram í samtalinu að viðmælandinn hafi nýlega keypt sér bifreið á 2.000.000 krónur. Um þetta samtal sagði ákærði við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði verið að ræða við A, en honum kvaðst ákærði hafa lánað 1 g af amfetamíni. Nokkrum dögum eftir samtalið sagði ákærði að A hefði greitt sér 4.500 krónur fyrir efnið. Aðspurður sagðist ákærði ekki geta svarað því hve oft A hefði keypt af honum amfetamín frá september 2004. Vitnið A sagði fyrir dómi að hann myndi ekki eftir þessu samtali en taldi þó ekki útilokað að hann væri viðmælandinn. Þá kannaðist vitnið við að hafa keypt bifreið um þetta leyti fyrir 2.000.000 krónur. Aðspurður um hvað átt væri við með „slag“ sagði vitnið að það gæti átt við fíkniefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu 11. apríl 2005 fullyrti hins vegar A að hann hefði í umrætt sinn keypt 1 g af amfetamín af ákærða og fengið kaupverðið lánað í nokkra daga. Um skýringu á breyttum framburði sagði A að hann hefði verið ölvaður þegar samtalið átti að hafa farið fram. Samtal 26. september 2004 kl. 00.37. Í samtalinu er talið að ákærði og B ræði saman. Er viðmælandanum sagt að maður sé að koma að hitta hann en þá segir viðmælandinn að það þýði ekkert þar sem allt sé búið. Er viðmælandinn þá spurður: „Líka bútarnir ?“ Einnig er sagt við viðmælandann að það sé eins gott að hann sé með þetta „skrifað niður einhvers staðar“. Því næst segir viðmælandinn að hann geti ekki sótt meira. Undir lok samtalsins biður viðmælandinn um að maður að nafni Binni komi til sín með „eina kúlu“ en rödd sem talin er ákærða segir að það sé búið. Við yfirheyrslu hjá lögreglu um þetta samtal sagði ákærði að viðmælandinn hefði verið B og rætt væri um fíkniefni. Um hvað átt sé við þegar B segir í samtalinu að allt sé búið sagði ákærði að átt væri við 3-5 g af hassi sem hann hefði látið B hafa. Vitnið B kannaðist hvorki við rödd sína né að hafa átt þetta samtal við ákærða. Einnig gat vitnið ekki skýrt efni samtalsins nánar. Þá sagðist vitnið hafa verið í neyslu á þessu tímabili en tók fram að ákærði hefði ekki útvegað vitninu fíkniefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu 19. apríl 2005 sagði B hins vegar að fíkniefnaneysla hans á tímabilinu september 2004 til janúar 2005 hefði verið um 3 g af hassi á viku en megnið af efninu hefði hann keypt hjá ákærða. Samanlagt taldi B að hassmagnið sem hann keypti af ákærða á tímabilinu hafi verið að minnsta kosti 60 g. Þá sagðist B í nokkur skipti hafa notað amfetamín um helgar og á böllum en það efni hefði hann einnig fengið hjá ákærða. Fyrir dómi kannaðist ákærði ekki við þessa frásögn sína hjá lögreglu og tók fram að á þessum tíma hefði hann verið í mikilli neyslu. Að öðru leyti gat B ekki skýrt þetta misræmi. Samtal 4. október 2004 kl. 19.22. Í samtalinu er talið að ákærði og M ræði saman. Rödd sem talin er ákærða segir svo í samtalinu: „Það er níu frá þér og fjögur og fimm frá N.“ Sama rödd spyr síðan: „Var ekki kúla líka ?“ og „Var ekki boltar líka ?“ Viðmælandinn játar því og segir að það hafi bara verið hjá sér. Rödd sem talin er ákærða svarar þá: „Já, já auðvitað, auðvitað nú man ég hvað þetta er. Það er bara svona ... níu og fjögur og fimm.“ Því er síðan svarað játandi. Um þetta samtal sagði ákærði hjá lögreglu að rætt hefði verið um skuld M og N bróður hans vegna fíkniefnaviðskipta. Ákærði greindi frá því að N hefði skuldað honum fyrir 1 g af amfetamíni og M fyrir annað hvort 1 g af amfetamíni eða 2 e-töflur eða 2 g af amfetamíni og eina e-töflu. Símtal 14. október 2004 kl. 22.54. Samtalið er milli stúlku sem ekki eru vituð deili á og ákærða að því er talið er. Í samtalinu segir rödd sem talin er ákærða að hann geti örugglega „græjað eitthvað spítt fyrir ykkur ef þið viljið“. Viðmælandinn heyrist þá segja við nærstadda: „Hann á, [...] á spítt.“ og síðan spyr viðmælandinn: „Áttu ekki kúlur ?“ en því er svarað neitandi og sagt ekki fyrr en á morgun. Í samtalinu spyr viðmælandinn síðan: „Tvö grömm ?“ og er því svarað: „Það er bara átta“. Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að greina frá því hver viðmælandinn væri í samtalinu. Hins vegar sagði ákærði að í þessu tilviki hefði hann haft milligöngu með því að útvega 2 g af amfetamíni hjá manni sem var með honum í þetta tiltekna skipti. Fyrir efnið hefðu verið greiddar 8.000 krónur sem runnu óskipt til mannsins. Símtal 15. október 2005 kl. 00.15. Samtalið er milli karlmanns sem ekki eru sögð deili á og ákærða að því er talið er. Í samtalinu segir rödd sem talin er ákærða að hann sé á leiðinni upp úr göngunum og komi eftir smá. Síðan spyr sama rödd: „Heyrðu, hvað er það einn eða tveir eða þrír eða ?“ og er því svarað fimm og játað. Hjá lögreglu sagði ákærði að þetta samtal hefði verið við C sem hefði verið að biðja um 5 g af hassi til kaups. Kvaðst ákærði hafa selt C það magn af hassi. Símtal 28. október 2004 kl. 17.37. Samtalið er milli óþekkts karlmanns og ákærða að því er talið er. Í samtalinu er spyr sú rödd sem talin er ákærða hvort ekki sé í lagi að „kíkja á“ viðmælandann og „taka rúnt suður“. Viðmælandinn spyr þá hvort hann sé ekki í bænum en því er svarað: „Nei, nei, ég er að bara að bíða eftir jákvæðu svari frá þér“. Því er svarað þannig: „Ég á hérna 21 sem þú mátt fá sko“. Því svarar rödd ákærða að því er talið er með samþykki og að hann komi og taki það á eftir. Ákærði sagði hjá lögreglu að þetta samtal hefði verið milli hans og manns að nafni O sem byggi í Reykjavík. Kvaðst ákærði hafa keypt af honum 21 g af hassi í þetta sinn. Ákærði sagðist ekki muna hvað hann greiddi fyrir efnið. Símtal 30. október 2004 kl. 21.36. Í samtalinu er ákærði talin ræða við D. Í samtalinu spyr konan hvort sá sem hún ræði við muni eftir því sem þau voru að ræða í gær. Karlmaðurinn svarar þá: „Já þarna fótboltana“. Hann er síðan spurður hvort það sé ekki hægt áður en hann fari í bæinn. Því er svarað játandi og þá spyr konan: „Like six or so ?“ Því er svarað játandi en undir lok samtalsins spyr konan hvað hún eigi að koma með marga. Er þeirri spurningu svarað þannig: „Heyrðu ... Sex... hafðu það bara ... bara þrettán, þá verða það tvö og eitthvað eitt tvö eða eitthvað“. Konan spyrð þá hvort þau séu sátt við það og er því svarað játandi. Um þetta samtal sagði ákærði hjá lögreglu að hann hefði verið að ræða við D, vinkonu sína, en hún hefði verið að biðja hann um að selja sér e-töflur. Kvaðst ákærði hafa selt henni 6 töflur fyrir 13.000 krónur. Vitnið D taldi fyrir dómi að hún hefði í samtalinu verið að ræða við ákærða en tók fram að hún myndi lítið eftir þessu. Vitnið taldi mögulegt að umræðuefni samtalsins væru fíkniefni. Tók D fram að hún hefði verið í annarlegu ástandi þegar símtalið fór fram. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 12. apríl 2004 fullyrti vitnið hins vegar afdráttarlaust að samtalið fjallaði um kaup á 6 e-töflum og fyrir þær hefði vitnið greitt 13.000 krónur. Fyrir dómi treysti vitnið sér ekki til að staðfesta þann framburð. Símtal 31. október 2004 kl. 01.04. Í samtalinu eru ákærði og E taldir ræða saman. Í samtalinu kynnir viðmælandinn sig sem [...] og spyr að því hvort þetta hafi ekki allt gengið eins og í sögu. Því er játað en síðan spyr viðmælandinn: „Ert þú búinn að ná á hann ?“ Því er svarað játandi og síðan sagt: „Svo tölum við bara saman á mánudaginn“. Í kjölfarið spyr rödd sem talin er ákærða: „Vantar þig eitthvað brúnt með þessu ?“ Hefjast síðan umræður um hvort talað hafi verið um „brúnt“ eða „hvítt“. Að lokum er viðmælandinn spurður: „Þú varst að tala um brúnt þá ?“ og því er svarað: „Já fimm svoleiðis og eitt hinsegin“. Rödd sem talin er ákærða svarar þá: „Glæsilegt ég redda þessu“ og að lokum „Við heyrumst þá bara á mánudaginn“. Við yfirheyrslu hjá lögreglu greindi ákærði frá því að viðmælandi sinn í þessu samtali hefði verið E. Ákærði sagði að samtalið fjallaði um sölu á 5 g af hassi og 1 g af amfetamíni, sem hann hefði selt E. Vitnið E sagðist vita til þess fyrir dómi að ákærði hefði selt fíkniefni á Akranesi. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa keypt fíkniefna af ákærða. Þá sagðist vitnið hvorki þekkja rödd sína á upptöku af samtalinu né kannast við að hafa átt þetta samtal við ákærða. Hins vegar kannaðist vitnið við að ganga stundum undir nafninu [...]. Þá útilokaði vitnið ekki að samtalið snérist um fíkniefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu 12. apríl 2005 var framburður vitnisins á sömu lund. Símtal 4. nóvember 2004 kl. 17.43. Í samtalinu er talið að ákærði ræði við F. Viðmælandinn nefnir þann sem hann ræðir við [...] og spyr hvort hann vilji koma við hjá sér á vinnustað upp í Olíunesti. Því er játað og síðan spyr viðmælandinn: „Tvo ?“ Það er sagt minnsta mál og spyr þá viðmælandinn aftur: „Fimm ?“ Rödd sem talin er ákærða segir þá: „Þú færð fimm á níu“ og er því að lokum svarað „Tekið“. Hjá lögreglu sagði ákærði að þetta símtal hefði verið við F. Kvaðst ákærði í þetta tiltekna skipti hafa selt honum 5 g af hassi á 9.000 krónur. Vitnið F greindi frá því fyrir dómi að hann og ákærði væru að ræðast við í samtalinu og umræðuefnið hefði verið kaup á fíkniefnum. Kvaðst vitnið hafa keypt 5 g af hassi af ákærða fyrir 9.000 krónur en efnið sagðist vitnið hafa fengið afhent á heimili ákærða. Í skýrslutöku hjá lögreglu 11. apríl 2005 bar vitnið á sama veg að þessu leyti. Einnig sagði F hjá lögreglu að á tímabilinu október til nóvember 2004 hefði hann keypt um 4 g af amfetamíni og 20 „búta“ af hassi en fyrir þetta taldi vitnið sig hafa greitt um 40.000 til 50.000 krónur. Fyrir dómi staðfesti vitnið þennan framburð. Símtal 4. nóvember 2004 kl. 20.04. Í samtalinu eru ákærði og G taldir ræða saman. Viðmælandinn nefnir þann sem hann ræðir við [...] og spyr hvort hægt sé að komast í þetta hjá þér. Rödd sem talin er ákærða segir síðan að hann sé að fara út en spyr: „Hérna hvað ert þú að spá í mörgum ?“ Að lokum segir viðmælandinn að hann taki fimm á níu og því er svarað: „Er það ekki. Cool“ og „Bjalla bara í þig á eftir“. Ákærði sagði hjá lögreglu að hann hefði í þessu samtali verið að ræða við G. Greindi ákærði frá því að í þetta sinn hefði hann selt G 5 g af hassi á 9.000 krónur. Einnig sagði ákærði að G hefði nokkrum sinnum keypt af honum hass og þá alltaf 5 g í einu. Í allt hefði G keypt af honum fjögur til fimm skipti og því næmi magnið samtals 20-25 g. Vitnið G kannaðist við fyrir dómi að hann hefði verið að ræða við ákærða í samtalinu. Vitnið kaus hins vegar að tjá sig ekki um efni samtalsins að öðru leyti en því að verið gæti að umræðuefnið hefði verið hass. Í skýrslutöku hjá lögreglu 14. apríl 2005 sagði vitnið hins vegar að samtalið fjallaði um 5 g af hassi sem vitnið hefði keypt af ákærða fyrir 9.000 krónur og fengið afhent skömmu síðar sama dag. Einnig greindi vitnið frá því hjá lögreglu að hafa tvívegs á tímabilinu október til desember 2004 keypt hass af ákærða 1-3 g í hvert sinn en þann framburð hjá lögreglu staðfesti vitnið fyrir dómi. Undir lok yfirheyrslu fyrir dómi sagði vitnið að í öll þau þrjú skipti sem hann hefði haft samband við ákærða hefði hann fengið fíkniefni. Símtal 8. nóvember 2004 kl. 15.40. Samtalið er milli karlmanns sem ekki eru sögð deili á og ákærða að því talið er. Í samtalinu spyr viðmælandinn hvað þetta hafi aftur verið mikið og er því svarað: „Fjögur og fimm“. Viðmælandinn spyr síðan: „Hvað hérna ... og [...], borgaði hann þessi fimm þarna ?“. Því er svarað játandi og þá segir viðmælandinn: „Já, já. Spjalla ég bara við hann um það.“ Hjá lögreglu sagði ákærði viðmælanda sinn í þessu samtali hafa verið E sem keypt hefði 1 g af amfetamíni. Einnig sagði ákærði að fram kæmi í samtalinu að P hefði verið búinn að borga 5 g af hassi sem hann hefði fengið. Símtal 11. nóvember 2004 kl. 21.12. Samtalið er talið á milli ákærða og Q. Í upphafi er spurt eftir Gunnari og því svarað játandi en síðan kynnir viðmælandinn sig sem Q. Rödd sem talin er ákærða spyr þá: „Tvíburi“ en því er svarða: „Nei, hinn, [...]. Heyrðu ég talaði við ... ... hérna áttu nokkuð brúnt, eða ?“ Viðmælandinn spyr síðan hvað mikið fyrir eitt og er því svarað: „Ha, two bara“. Að lokum ákveða þeir sem ræða saman að hittast. Um þetta samtal sagði ákærði hjá lögreglu að það hefði verið við Q og kvaðst ákærði hafa selt Q 1 g af hassi. Vitnið Q gaf skýrslu fyrir dómi og neitaði að svara því hvort hann hefði keypt fíkniefni af ákærða. Vitnið sagði hins vegar vita til þess að ákærði hefði selt fíkniefni á Akranesi. Fyrir dómi staðfesti vitnið framburð sinn hjá lögreglu 11. apríl um að hann hefði ætlað að kaupa 1 g af hassi en ákærði hefði ekki getað útvegað efnið þegar á reyndi. Þá staðfesti Q að samtal hér að ofan væri milli hans og ákærða. Símtal 12. nóvember 2004 kl. 14.10. Í samtalinu er talið að ákærði og H ræði saman. Í upphafi samtalsins er ákærði ávarpaður Gunnar og viðmælandinn kynnir sig [...]. Að því búnu spyr viðmælandinn: „Ertu með eitthvað fyrir mig ?“ og er því svarað: „Já ef þú er með pening“. Því er játað og segist viðmælandinn vera með tíkall. Aðspurður hvað hann vilji svarar viðmælandinn: „Ég vil eitthvað gott sko, góðan skít“. Er hann þá spurður „Stuð ?“ og svarar: „Nei. Hraða“. Rödd sem talin er ákærða svarar þá: „Spítt“. Að því búnu ákveða þeir sem ræða saman að hittast eftir að viðmælandinn hefur komið við í banka. Símtal 12. nóvember 2004 kl. 14.18. Í samtalinu eru ákærði og H taldir ræða saman. Rödd sem talin er ákærða spyr: „Varstu að spá í einu eða tveimur eða þú...?“ og er því svarað: „Tveimur“. Því er játað og samtalinu síðan lokið. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagði ákærði að þessi tvö samtöl hefði hann átt við H og umræðuefnið hafi verið 2 g að amfetamíni, sem ákærði kvaðst hafa selt H fyrir 10.000 krónur. Símtal 29. nóvember 2004 kl. 18.37. Í símtalinu er talið að ákærði og H ræði saman. Í upphafi samtalsins segir viðmælandinn: „blessaður Gunni“. Í framhaldi af því fer viðmælandinn að ræða um málamiðlun og segir: „Um að borga þetta þá bara þú veist þessi fjögur sem tvö. Skilurðu ? Tvö og fimm þá stykkið bara því að þetta var ekki það gott.“ Um þetta er síðan þráttað í löngu máli en meðal annars segir rödd sem talin er ákærða: „Það er ekki mér að kenna að þið séuð að taka þetta hreint sko. Það eru allir aðrir hæstánægðir með þetta. Svínvirkar á mig.“ og „Ég var vakandi í tvo og hálfan sólahring“. Að lokum er rætt um 12.000 krónur sem málamiðlun og um greiðslu á þeirri fjárhæð. Ákærði greindi frá því um þetta samtal við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði lánað H og R 4 g af amfetamíni í tveimur hlutum sama kvöld, 2 g í hvort sinn. Þeir hefðu síðan orðið óánægðir með gæði efnisins og ekki viljað borga. Tók ákærði fram að ekki enn hefði verið borgað fyrir efnið. Símtal 4. desember 2004 kl. 00.13. Samtalið er talið milli ákærða og B. Í samtalinu segir rödd sem talin er ákærða: „Einn eða fimm eða ?“ og er því svarað: „Bara eins mikið og ... já helst.“ Því er játað og samtalinu þar með lokið. Hjá lögreglu sagði ákærði að viðmælandi hans í þessu samtali væri B. Hann hefði verið að biðja sig um 5 g af hassi og sagðist ákærði hafa látið hann fá það magn af efninu. Vitnið B kannaðist hvorki við rödd sína né að hafa átt þetta samtal við ákærða. Einnig kvaðst vitnið ekki átta sig á efni samtalsins. Símtal 4. desember 2004 kl. 0.19. Samtalið er milli karlmanns sem ekki eru vituð deili á og ákærða. Í samtalinu spyr rödd sem talin er ákærða: „Hvað viltu fá mörg ?“ og er því svarað „Tvö“. Þeir sem ræðast við ljúka síðan samtalinu með því að ákveða að ræða sama síðar en fram kemur að viðmælandinn sé á Mörkinni. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagðist ákærði ekki vera viss um hver væri viðmælandi hans í þessu samtali en taldi það vera S. Ákærði greindi frá því að viðmælandinn hefði verið að biðja um 2 g af amfetamíni en ákærði kvaðst ekki muna almennilega eftir þessu tilviki. Símtal 11. desember 2004 kl. 00.51. Í samtalinu er talið að ákærði og A ræði saman. Eftir að viðmælendur höfðu rætt um að berja mætti mann að nafni [...] segir rödd sem talin er ákærða: „Þar eru tvö til“. Því er svarað: „Heyrðu ætlarðu að láta mig hafa þau ?“. Eftir að því er játað ákveða viðmælendurnir að hittast. Um þetta samtal sagði ákærði hjá lögreglu að viðmælandi hans hefði verið A og umræðuefnið hefði verið 2 g af amfetamíni sem ákærði hefði afhent A. Vitnið A kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir þessu samtali eða geta skýrt það nánar. Í skýrslutöku hjá lögreglu fullyrti vitnið hins vegar að til hefði staðið að kaupa 2 g af kókaíni en efnið hefði hann ekki fengið þar sem lögregla hefði lagt hald á það hjá ákærða í kjölfar handtöku. Um skýringu á breyttum framburði sagði A að hann hefði verið ölvaður þegar samtalið átti að hafa farið fram. Símtal 18. desember 2004 kl. 16.47. Í samtalinu er talið að ákærði og Guðni Rúnar Skúlason ræði saman. Í samtalinu segir rödd sem talin er ákærða: „Og hérna bara henda í hann einu essi sko.“ Skömmu síða segir sama rödd: „Já, meinar þessu brúna“. Eftir það er rætt um krít og hvort megi lána. Í samtalinu segir einnig rödd talin ákærða: „Voru ekki þrír af þessu þú mátt fá þarna sko ... jú þú mátt alveg taka einn af .. einn svoleiðis“. Ákærði sagði hjá lögreglu um þetta samtal að viðmælandinn væri T. Um sölu á 1 g af amfetamíni hefði verið að ræða sem T hefði afhent ónefndum manni. Auk þess hefði T geymt fyrir ákærða 3 g af hassi ætluð til eigin neyslu og fyrir T og nafngreinda stúlku. Vitnið T taldi fyrir dómi að samtalið væri milli sín og ákærða. Að öðru leyti gat vitnið ekkert borið um samtalið. Símtal 23. desember 2004 kl. 18.44. Samtalið er talið á milli ákærða og I. Viðmælandinn spyr hvort sá sem hann ræðir við geti talað og er því játað. Einnig er vísað til fyrra samtals sem viðmælendur höfðu átt. Því næst spyr viðmælandinn: „Ok heyrðu mig vantar tíu brúna“ og er því svarað: „Minnsta mál“. Þá spyr viðmælandinn: „Og .. og ... hérna ss..ss..sss..sss ?“ Því er svarað: „Þetta er allt í lagi“ og þá segir viðmælandinn „Já þú veist hvað ég er að meina“. Eftir að því er játað ákveða þeir sem ræða saman að ræða saman síðar. Símtal 23. desember 2004 kl. 23.31. Talið er að ákærði og I ræða saman í samtalinu. Í upphafi ræða viðmælendur um að hittast en síðan spyr rödd sem talin er ákærða: „Var það ekki bara tíu ?“ og er því svarað: „Jú, tíu brún og hérna fimm hvít“. Eftir að viðmælandinn hefur rætt um að útvega peninga spyr rödd sem talin er ákærða: „Þú ert að ræða um ess hvítt ekki joð ?“ Viðmælandi virðist ekki skilja og er þá spurður „Kók ?“. Því er svo svarað: „Nei, ekki að tala um það“. Að lokum segir rödd sem talin er ákærða: „Nei, fínt. Já ég hringi í þig á eftir og græja þetta“. Hjá lögreglu sagði ákærði um þessi tvö samtöl að viðmælandi hans hefði verið I. Greindi ákærði frá því að I hefði keypt af honum 10 g af hassi og 5 g af amfetamíni. Ákærði kvaðst hafa selt efnin á 35.000 krónur af því þau hefðu verið pöntuð með fyrirvara. Að öðrum kosti hefði sama magn kostnað 40.500 krónur. Vitnið I taldi að umrædd samtöl væru milli hans og ákærða. Vitnið gat hins vegar ekki skýrt efni símtalanna en útilokaði ekki að þau snérust um fíkniefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði vitnið hins vegar að fyrra símtalið fjallaði um kaup á 10 g af hassi og 5 g af amfetamíni sem vitnið keypti af ákærða. Einnig greindi vitnið frá því að það hefði fengið efnin um nóttina eða daginn eftir. Vitnið gat takmarkað skýrt misræmi milli framburðar hjá lögreglu og fyrir dómi en tók þó fram að hann hefði sagt lögreglu að sér hefðu ekki verið afhent nein fíkniefni. Símtal 27. desember 2004 kl. 05.46. Í samtalinu er talið að ákærði og U ræði saman. Í upphafi spyr viðmælandinn: „Ég var að spá í áttu eitthvað eitt gramm eða eitthvað ?“ Rödd sem talin er ákærða svarar að hann geti örugglega grafið eitthvað upp og spyr síðan: „Ertu ekki að tala um örvandi ?“ Því er játað en síðar í samtalinu spyr viðmælandinn: „Í leiðinni áttu einhverjar svona sígarettur svona spes“ og er því játað. Undir lok samtalsins ákveða viðmælendurnir að hittast eftir klukkustund. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagði ákærði að þetta samtal hefði verið við U. Ákærði kvaðst hvorki muna eftir samtalinu né að hafa hitt U. Símtal 8. janúar 2004 kl. 00.27. Símtalið er talið á milli ákærða og J. Eftir að hafa heilsast spyr viðmælandinn: „Er það Gunni ?“ og er því svarað játandi. Kynnir viðmælandinn sig þá sem J og spyr síðar í samtalinu: „Kóla ?“ og er því játað. Viðmælandi spyr næst: „Hvaða prís ?“ og er því svarað 15. Undir lokin ákveða viðmælendur að ræða saman aftur. Um þetta samtal sagði ákærði við yfirheyrslu hjá lögreglu að viðmælandi hans hefði verið J, sem keypt hefði 1 g af kókaíni af ákærða á 15.000 krónur. Símtal 8. janúar 2005 kl. 19.48. Talið er að samtalið sé á milli ákærða og B. Í samtalinu er rætt um að eitthvað sé undir kodda viðmælandans sem [...] sæki síðar. Rödd sem talin er ákærða segir meðal annars í samtalinu: „Svo er mælitæki inni hjá [...]“ og „Þetta eru akkúrat fjögur og [...] leikur eitthvað við þetta“. Ákærði sagði um þetta samtal hjá lögreglu að viðmælandi hans hefði verið B. Ákærði sagðist hafa falið 4 g af amfetamíni undir koddanum hjá B og sagðist hafa verið að vísa honum á þau til að A gæti farið til B og sótt efnið. Ákærði sagði að A hefði síðan bætt einhverju út í efnið til að drýgja það þannig að magnið hefði verið um 6-8 g. Þó sagðist ákærði ekki muna nákvæmlega hvernig þetta var. Vitnið B kannaðist hvorki við rödd sína né að hafa átt þetta samtal við ákærða. Vitnið A kannaðist ekki við fyrir dómi að til hefði staðið að hann sækti 4 g af amfetamíni hjá B í umrætt sinn. Í skýrslu hjá lögreglu kannaðist vitnið þó við að hafa átt að sækja þetta efni hjá B en úr því hefði ekki orðið. Símtal 16. janúar 2005 kl. 01.15. Samtalið er talið á milli ákærða og V. Í upphafi samtalsins spyr viðmælandi: „Er þetta Gunnar ?“ og er því játað en síðan kynnir viðkomandi sig sem V. Eftir stutt spjall um sameiginlega kunningja spyr viðmælandinn: „Áttu eitthvað ?“ og er því svarað: „Ekkert brúnt sko“. Þá segir viðmælandinn: „Ekkert brúnt, nei, ég er að tala um einhverja hressingu sko“. Eftir að hafa rætt um Jólasveininn, Gonna og Ellu frænku segir viðmælandinn: „Ég var að spekúlera hvort að fá hjá þér eitt“ og er því svarað „Var það ekki bara hérna ... Speedo“. Því er játað og undir lok samtals ákveða viðmælendur að hafa aftur samband símleiðis. Hjá lögreglu sagði ákærði um þetta samtal að hann hefði ætlað að selja V 1 g af amfetamíni en hann hefði ekki fengið efnið sökum þess að ákærði hefði verið handtekinn með efnið á sér þegar hann var að fara að afhenda það. Vitnið V sagði fyrir dómi að símtalið væri milli hans og ákærða. Um efni samtalsins sagði vitnið að það fjallaði um amfetamín sem vitnið ætlaði að kaupa af ákærða. Hins vegar sagðist vitnið aldrei hafa fengið efnið í hendur en fyrr um daginn hafði ákærði verið handtekinn með 0,97 g af amfetamíni, svo sem nánar er rakið í ákæru 28. febrúar 2005. 4. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. febrúar 2005 var ákærði spurður nánar um sölu og dreifingu fíkniefna. Eftir að hafa hlustað á upptökur af þeim símtölum sem hér hafa verið rakin sagði ákærði að framburður hans hjá lögreglu 3. sama mánaðar væri líklega ekki alveg réttur. Taldi ákærði sig hafa vanáætlað selt magn fíkniefna og nær lagi að sala hans á hassi á tímabilinu júní til desember 2004 hefði verið 40 g á viku og stundum meira. Ákærða var bent á að frá september til loka desember 2004 væru rúmlega 17 vikur og miðað við það væri um að ræða sölu á 680 g af hassi. Kvaðst ákærði gera sér grein fyrir þessu og taldi sig hafa selt þetta magn á tímabilinu. Aðspurður um sölu á e-töflum sagði ákærði að hann hefði aðeins selt lítilræði af því efni eða að hámarki um 40-45 töflur á tímabilinu frá september 2004 til loka janúar 2005. Ákærði kvaðst stundum hafa keypt e-töflur fyrir vinahóp, sem hefði verið að taka þær inn saman. Kvaðst ákærði sárasjaldan hafa selt út fyrir þann hóp þannig að þetta hafi meira verið „redding“ fyrir vini ákærða. Um kókaín sagði ákærði að hann hefði fyrir jólin 2004 keypt efni sem dugað hafi í 15 slög, þ.e. 15 g af efninu. Kvaðst ákærði hafa verið tekin af lögreglu með 2 g hann sjálfur hefði notað 8 g en selt um 5 g. Við yfirheyrsluna var ákærða bent á að hann hefði í framburði sínum um hljóðrituð símtöl játað að hafa selt 27 g af amfetamín á tímabilinu september 2004 til loka desember 2004. Um þetta sagði ákærði að hann hefði hagað sölu á amfetamíni þannig að sumar helgar hefði hann selt svolítið og aðrar ekki neitt. Taldi ákærði sig hafa selt þessi 27 g og ef til vill eitthvað lítilræði til viðbótar. 5. Fyrir dómi þvertók ákærði fyrir að hafa á tímabilinu september 2004 til janúar 2005 selt í ágóðaskyni samtals 680 g af kannabisefnum, 45 töflur með fíkniefninu MDMA, 5 g af kókaíni og 27 g af amfetamíni. Ákærði tók fram að hann hefði á þessu tímabili ekki lagt stund á sölu fíkniefna heldur eingöngu í einhver skipti útvegað kunningjum hass og amfetamín samhliða kaupum til eigin neyslu. Hefðu þá aðrir fengið að fljóta með þegar hann sjálfur var að nálgast fíkniefni. Aðspurður um kókaín og e-töflur sagði ákærði að hann hefði hvorki selt slík efni né útvegað það fyrir aðra. Ákærði tók fram að hann áttaði sig ekki á hvert magn efnanna í heild hefði verið en það sem kæmi fram í ákæru væri fjarri öllu lagi. Ákærði sagðist hafa lent í slysi haustið 2004 og verið á bótum upp frá því. Á þessu tímabili hefði hann verið í mikilli neyslu fíkniefna og neytt kannabis frá 0,5 g upp í 2-3 g á dag. Annarra fíkniefna sagðist ákærði hins vegar ekki hafa neytt að staðaldri. Ákærði sagðist hafa fengið efnið á góðu verði og fjármagnað neyslu með eigin fé og bótum. Við aðalmeðferð málsins voru spilaðar fyrir ákærða upptökur af símtölum í og úr fjarsíma hans sem lögregla hlustaði á og tók upp í þágu rannsóknar málsins. Ákærði kvaðst ekki muna neitt af þessum samtölum eða kannast ekki við þær raddir sem teknar voru upp. Þó tók ákærði fram að hugsanlega væri um hann að ræða en hann ræki ekki minni til þess og neitaði sök. Aðspurður um hvor ákærði kannaðist við mann að nafni [...] í samtali 11. desember 2004, sem rætt var um að mætti berja, sagði ákærði að hann þekkti [...] sem hann hefði lengi átt í útistöðum við. Aðspurður um ástæður þess að ákærði hefði fyrir dómi breytt framburði sínum frá því hann gaf skýrslu hjá lögreglu 3. og 20. febrúar 2005 sagði ákærði að hann hefði verið beittur þingunum af lögreglu. Við fyrri skýrsluna hefðu lögreglumenn staðið öskrandi yfir ákærða og lagt honum orð í munn. Við þá skýrslutöku hefði ákærði ekki notið aðstoðar lögmanns, sem þó hefði komið undir lok skýrslutökunnar. Við síðari skýrslutökuna hefði ákærði eingöngu fengið að ræða stutta stund símleiðis við lögmann. Honum hefði jafnframt verið hótað gæsluvarðhaldi og því hefði hann játað á sig brotin eftir að hafa verið í haldi lögreglu í sex tíma. 6. Vitnið Jónas Hallgrímur Ottósson, varðstjóri, greindi frá því fyrir dómi að lögreglu hefðu borist upplýsingar um fíkniefnasölu ákærða og að hann seldi hass, kókaín, amfetamín og e-töflur. Í þágu rannsóknar málsins hefði sími ákærða verið hlustaður auk þess sem ítrekað hafi verið leitað á heimili ákærða. Vitnið sagði að lögregla hefði ekki orðið vör við að aðrir en ákærði notuðu þann síma sem lögregla hlustaði. Vitnið tók skýrslu af ákærða 20. febrúar 2005 og fullyrti að ekki hefði komið til umræðu að krafist yrði gæsluvarðhalds yfir ákærða eða að honum hefði á nokkurn hátt verið ógnað. Þvert á móti hefði ákærði verið samvinnuþýður og vel fyrir kallaður. Þá tók vitnið fram að ákærði hefði upphaflega ekki viljað ræða við lögmann en að ábendingu lögreglu hefði ákærði haft samband símleiðis við lögmann sem ákærði ráðfærði sig við. Loks sagði vitnið að ákærði sjálfur hefði áætlað vikulega sölu sína af hassi 40 g. Vitnið Viðar Stefánsson, lögreglufulltrúi, yfirheyrði ákærða 3. febrúar 2005 í kjölfar handtöku. Vitnið greindi frá því fyrir dómi að lögregla hefði fengið upplýsingar um að ákærði væri að koma frá Reykjavík með fíkniefni og því hefði hann verið handtekinn í Hvalfjarðargöngunum. Vitnið kvaðst ekki muna eftir ástandi ákærða en fullyrti að hann hefði ekki verið yfirheyrður ef hann hefði verið ófær um að gefa skýrslu. Þá sagði vitnið að ákærði hefði tjáð sig greiðlega. Aðspurður sagði Viðar að gæsluvarðhald hefði ekki komið til umræðu. Loks sagði vitnið að reynt hefði verið að hafa samband við lögmann ákærða án árangurs en vitnið sagðist hafa kallað til lögmann frá Akranesi. Einnig tók vitnið fram að framburður ákærða hefði ekki breyst eftir að hann ráðfærði sig við lögmann. Vitnið Jón Ólafsson, yfirlögregluþjónn, var viðstaddur yfirheyrslu yfir ákærða 3. febrúar 2005. Vitnið sagði fyrir dómi að ekki hefði náðst í lögmann ákærða en lögmaður hefði síðan verið kallaður til frá Akranesi eftir að ákærði fór að játa á sig sakargiftir. Vitnið fullyrti að gæsluvarðhald hefði ekki komið til umræðu við yfirheyrsluna. Um ástand ákærða við yfirheyrsluna sagði vitnið að ekkert hefði verið athugavert við það. Vitnið Arnar Geir Magnússon, varðstjóri, var viðstaddur yfirheyrsluna yfir ákærða 20. febrúar 2005 og sagði fyrir dómi að ákærði hefði verið samvinnufús og viljað gera hreint fyrir sínum dyrum. Þá hefði gæsluvarðhald ekki komið til umræðu. 7. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. febrúar 2005 játaði ákærði að hafa á tímabilinu júní til desember 2004 selt um 40 g af hassi á viku og stundum meira. Var ákærða þá bent á að frá september til loka desember væru rúmlega 17 vikur og miðað við það væri um að ræða 680 g af hassi. Kvaðst ákærði gera sér grein fyrir þessu og taldi sig hafa selt þetta magn á þessu tímabili. Aðspurður um e-töflur taldi ákærði sig að hámarki hafa selt 40-45 töflur. Þá játaði ákærði að hafa um jólin keypt 15 g af kókaíni, auk þess sem hann gekkst við sölu á 27 g af amfetamíni. Sá hluti ákæru sem hér er fjallað um er reistur á þessum framburði ákærða hjá lögreglu. Fyrir dómi hefur ákærði hins vegar dregið framburð sinn til baka og segir það magn sem tilgreint er í ákæru fjarri öllu lagi. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, skal dómur reistur á þeim sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Er þetta í samræmi við meginreglu opinbers réttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi. Með hliðsjón af þessu hefur skýrsla sakbornings hjá lögreglu almennt ekki sönnunargildi nema hún sé studd öðrum gögnum. Þegar ákærði tjáði sig hjá lögreglu 20. febrúar 2005 um magn seldra fíkniefna á tímabilinu september 2004 fram í miðjan janúar 2005 hafði hann hlýtt á upptökur lögreglu af 25 símtölum, sem talin voru snerta fíkniefnasölu ákærða. Þær upplýsingar sem þar komu fram voru þó ekki nema um óverulegan hluta af því efni sem ákærði kannaðist við að hafa selt hjá lögreglu. Að þessu gættu verður ekki annað ráðið efnislega af skýrslu ákærða en um hafi verið að ræða lauslegt mat hans á áætluðu magni af seldum fíkniefnum á lengra tímabili. Þá verður ekki litið hjá því að ákærði naut ekki aðstoðar verjanda og átti eingöngu kost á að ræða símleiðis við lögmann í upphafi skýrslutöku. Að réttu lagi gat framangreind skýrsla ákærða ekki gefið tilefni til annars en málið sætti ítarlegri rannsókn lögreglu, eins og gert var að nokkru leyti með því að yfirheyra þá sem taldir voru viðmælendur ákærða. Sú rannsókn rennir á hinn bóginn hvergi nægum stoðum undir allt það magn fíkniefna sem ákærði játaði að hafa selt og saksókn miðast við. Þá stoðar ekki fyrir ákæruvaldið, eins og hreyft var við aðalmeðferð málsins, að benda á aðrar upptökur af símtölum ákærða með upplýsingum um frekari sölu fíkniefna, en þessi sönnunargögn hafa ekki verið lögð fram í málinu. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið sannað að ákærði hafi selt það magn af fíkniefnum sem getur í upphafi ákæruhlutans og verður ákærði ekki sakfelldur fyrir það ákæruatriði. Eins og ákæra er úr garði gerð kemur hins vegar til úrlausnar hvort ákærði verði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök að hafa framið á Akranesi í 1.-14. tölul. I. hluta ákærunnar. Í 1. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa selt A 1 g af amfetamíni 25. september 2004. Í skýrslutökum hjá lögreglu voru ákærði og og A einróma í framburði sínum um að sá síðarnefndi hafi keypt 1 g af amfetamíni af ákærða og fengið efnið afhent gegn greiðslufresti. Kemur sá framburður að öllu leyti heim og saman við efni símtals sem snertir þennan tölulið ákæru. Þá verður breyttur framburður ákærða sem fyrir dómi talinn fyrirsláttur en þar mundi hann hvorki eftir einstökum samtölum sem lögregla tók upp undir rannsókn málsins né taldi sig þekkja rödd sína. Þá getur engu breytt í þessu tilliti þótt A hafi dregið nokkuð úr framburði sínum fyrir dómi en þar kannaðist hann við að hafa á þessum tíma keypt bifreið fyrir 2.000.000 krónur, eins og kom fram í samtalinu, auk þess sem hann taldi ekki útilokað að hann væri viðmælandinn. Samkvæmt þessu er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi selt A 1 g af amfetamíni fyrir 4.500 krónur. Ákærða er gefið að sök í 2. tölul. að hafa laugardaginn 25. eða sunnudaginn 26. september selt B 3-5 g af kannabisefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði ákærði að umræðuefnið í símtali við B, sem varðar þennan ákærulið, hafi verið 3-5 g af hassi sem ákærði hefði látið B fá. Þennan framburð eins og annan um I. hluta ákæru hefur ákærði dregið til baka. Fyrir dómi kannaðist B hvorki við rödd sína í símtalinu né að hafa átt þetta samtal við ákærða. Þá var B ekki yfirheyrður hjá lögreglu um það tilvik sem þessi töluliður ákærunnar tekur til heldur almennt um viðskipti hans og ákærða. Að þessu gættu fær frásögn ákærða hjá lögreglu ekki næga stoð í öðrum gögnum málsins gegn neitun hans fyrir dómi og verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið ákærunnar. Í 3. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa selt ónafngreindri stúlku 2 g af amfetamíni 14. október 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði ákærði að hann hefði í þessu tilviki haft milligöngu um að útvega þetta efni. Fyrir dómi dró ákærði framburð sinn til baka. Þá nýtur ekki við framburðar stúlkunnar sem ákærði á að hafa rætt við í símtali um þetta tilvik. Liggur því ekki fyrir hvort efnið var afhent í samræmi við það sem kom fram í símtalinu. Samkvæmt þessu þykir sök ákærða ekki hafin yfir skynsamlegan vafa og verður hann því sýknaður af þessum ákærulið. Ákærða er gefið að sök í 4. tölul. ákæru að hafa selt C 5 g af kannabisefni 15. október 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði að hann hefði í þessu tilviki selt C þetta mikið magn af kannabis. Fyrir dómi var sá framburður hins vegar dreginn til baka. Hvorki reyndist unnt að fá C til skýrslutöku hjá lögreglu eða fyrir dómi til að staðfesta símtal um þetta tilvik og að fyrirhuguð viðskipti hefðu gengið eftir. Að því virtu þykir frásögn ákærða hjá lögreglu ekki fá nægjanlega stoð í öðrum gögnum þannig að til álita komi að leggja hana til grundvallar gegn neitun ákærða fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið. Í 5. tölul. er ákærði sakaður um að hafa 30. október 2004 selt D 6 töflur með fíkniefninu MDMA á 13.000 krónur. Við skýrslugjöf hjá lögreglu viðurkenndu bæði ákærði og D að hún hefði keypt efnið af ákærða fyrir nefnda upphæð. Ákærði hefur fyrir dómi dregið þennan framburð til baka. Einnig hefur D hefur D dregið úr framburði sínum fyrir dómi en staðfesti þó að hún hefði átt símtal við ákærða þar sem fjallað var um þetta tilvik. Hvorki ákærði né D hafa getað skýrt með viðhlítandi hætti breyttan framburð sinn fyrir dómi en framburður þeirra hjá lögreglu kemur að öllu leyti heim og saman við efni samtalsins sem lögregla hlustaði á og tók upp. Að þessu virtu þykir sannað gegn neitun ákærða að hann hafi selt D 6 töflur af fíkniefninu MDMA fyrir 13.000 krónur. Í 6. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa 31. október 2004 selt E 1 g af amfetamíni og 5 g af kannabisefni. Í skýrslutöku hjá lögreglu játaði ákærði að hafa selt E þetta magn fíkniefna. Þann framburð hefur ákærði hins vegar dregið til baka fyrir dómi. Hvorki fyrir dómi né hjá lögreglu kannaðist E við að hafa verið viðmælandi ákærða í því símtali sem snýr að þessum ákærulið. Að þessu gættu liggur því ekki fyrir nánari lýsing á því hvort og hvenær fíkniefni voru afhent eins og ætla má að staðið hafi til miðað við fyrrgreint símtal sem lögregla tók upp. Samkvæmt þessu fær frásögn ákærða hjá lögreglu ekki næga stoð í öðrum gögnum málsins þannig að til álita komi að leggja hana til grundvallar gegn neitun ákærða fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið. Ákærða er í 7. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa 4. nóvember 2004 selt F 5 g af kannabis á 9.000 krónur. Hjá lögreglu játaði ákærði brotið en dróg framburð sinn til baka fyrir dómi. Fyrir dómi og hjá lögreglu kannaðist F við að hafa átt það samtal við ákærða sem snertir þennan ákærulið og gekkst við því að hafa keypt 9 g af hassi af ákærða fyrir 9.000 krónur. Kemur sá framburður að öllu leyti heim og saman við símtalið og frásögn ákærða að þessu leyti hjá lögreglu. Þykir því frásögn ákærða hjá lögreglu eiga sér næga stoð í öðru sem hefur komið fram við rannsókn málsins og verður hann gegn neitun sinni fyrir dómi fundinn sekur um þennan tölulið ákærunnar. Í 8. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa selt G 5 g af kannabis 4. nóvember 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu gekkst ákærði við að hafa selt G 5 g af kannabis en dró þann framburð sinn til baka fyrir dómi. Fyrir dómi og hjá lögreglu gekkst G við að hafa átt það símtal við ákærða sem snýr að þessum tölulið ákæru. Hjá lögreglu kannaðist G við að hafa í umrætt sinn keypt 5 g af hassi af ákærða á 9.000 krónur. Fyrir dómi dró G nokkuð úr framburði sínu en gekkst þó að lokum við því að hafa þrisvar keypt fíkniefni af ákærða og var á honum að skilja að þetta tilvik væri eitt þeirra. Samkvæmt þessu kemur frásögn ákærða hjá lögreglu að öllu leyti heim og saman við framburð G og símtal þar sem snertir þennan tölulið ákæru. Þykir sök ákærða því sönnuð og verður hann fundinn sekur um þetta brot þrátt fyrir neitun hans fyrir dómi. Í 9. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa 8. nóvember 2004 selt E 1 g af amfetamíni. Í skýrslutöku hjá lögreglu játaði ákærði brotið en dró framburð sinn til baka fyrir dómi. Hvorki fyrir dómi né hjá lögreglu kannaðist E við að hafa keypt fíkniefni af ákærða. Að þessu gættu og þar sem símtal það snertir þennan tölulið ákæru er óljóst verður ekki talið að frásögn ákærða hjá lögreglu fái næga stoð í öðrum gögnum málsins þannig að hún verði lögð til grundvallar gegn neitun ákærða fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið ákæru. Ákærða er gefið að sök í 10. tölul. ákæru að hafa selt H 2 g af amfetamíni 12. nóvember 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði að hann hefði í þessu tilviki selt H þetta mikið magn af amfetamín. Fyrir dómi var sá framburður hins vegar dreginn til baka. Hvorki reyndist unnt að fá H til skýrslutöku hjá lögreglu né að leiða hann fyrir dómi til að staðfesta símtöl um þetta tilvik og að fyrirhuguð viðskipti hefðu gengið eftir. Að því virtu þykir frásögn ákærða hjá lögreglu ekki fá nægjanlega stoð í öðrum gögnum þannig að til álita komi að leggja hana til grundvallar gegn neitun ákærða fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið. Í 11. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa selt B 5 g af kannabis 4. desember 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði brotið en dró þann framburðinn til baka fyrir dómi. Fyrir dómi kannaðist B hvorki við rödd sína í símtali sem snertir þennan tölulið ákærunnar né að hafa átt þetta samtal við ákærða. Þá var B ekki yfirheyrður hjá lögreglu um það tilvik sem þessi töluliður ákærunnar tekur til heldur almennt um viðskipti hans og ákærða. Að þessu gættu fær frásögn ákærða hjá lögreglu ekki næga stoð í öðrum gögnum málsins gegn neitun hans fyrir dómi og verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið ákærunnar. Ákærða er í 12. tölul. gefið að sök að hafa selt A 2 g af amfetamíni 11. desember 2004. Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði brotið en dró játningu sína til baka fyrir dómi. Fyrir dómi mundi A ekki eftir því símtali sem snertir þennan ákærulið. Hjá lögreglu fullyrti hann hins vegar að til hefði staðið að kaupa af ákærða 2 g af kókaíni en efnið hefði hann aldrei fengið þar sem það hefði verið haldlagt í kjölfar handtöku ákærða. Hvorki verður ráðið af fyrrgreindu símtali né framburði ákærða og vitnisins hjá lögreglu um hvaða efni var að ræða né heldur hvort það hafi verið afhent. Samkvæmt þessu er ekki sannað gegn neitun ákærða að hann hafi framið það brot sem honum er gefið að sök í þessum tölulið ákæru. Í 13. tölul. er ákærða gefið að sök að hafa 24. desember 2004 selt I 10 g af kannabis og 5 g amfetamíni fyrir 35.000 krónur. Í skýrslutöku hjá lögreglu greindi ákærði frá því að hann hefði selt I þetta magn af umræddum efnum fyrir tilgreinda fjárhæð. Fyrir dómi dró ákærði hins vegar þann framburð til baka. Vitnið I kannaðist við fyrir dómi að samtöl þau sem snerta þennan tölulið ákæru væru milli hans og ákærða og útilokaði hann ekki að efni símtalanna hefði snúist um fíkniefni. Hann neitaði aftur á móti að hafa keypt fíkniefni af ákærða. Hjá lögreglu greindi I hins vegar frá því að hann hefði keypt efnin af ákærða og fengið þau afhent. Hvorki ákærði né I hafa getað gefið skýringu á breyttum framburði sínum fyrir dómi. Þá var framburður I fyrir dómi í senn reikull og mótsagnarkenndur. Að þessu gættu þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar framburð ákærða hjá lögreglu sem er í samræmi við þau símtöl sem snerta þennan ákærulið og samhljóða framburði I hjá lögreglu. Samkvæmt þessu er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi framið það brot sem honum er gefið að sök í þessum tölulið ákæru. Ákærða er gefið að sök í 14. tölul. gefið að sök að hafa 8. janúar 2005 selt J 1 g af kókaíni á kr. 15.000 krónur. Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði þetta brot en dró játningu sína til baka fyrir dómi. Hvorki reyndist unnt að fá J til skýrslutöku hjá lögreglu né að leiða hann fyrir dómi til að staðfesta símtal um þetta tilvik og að fyrirhuguð viðskipti hefðu gengið eftir. Að því virtu þykir frásögn ákærða hjá lögreglu ekki fá nægjanlega stoð í öðrum gögnum þannig að til álita komi að leggja hana til grundvallar gegn neitun ákærða fyrir dómi. Verður ákærði því sýknaður af þessum tölulið. IV. Ákvörðun viðurlaga o.fl. Svo sem hér hefur verið rakið hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, og 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, nr. 233/2001. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann á árunum 1997 til 2004 gengist undir sjö sektargerðir lögreglustjóra og hlotið fjóra dóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Þar af eru þrír dómar vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni á árunum 2000 og 2001 og var ákærða í öllum þeim dómum gerð sekt samtals að fjárhæð 395.000 krónur. Síðasta færsla á sakavottorði ákærða er sektargerð lögreglustjóra 13. október 2004 vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni, en þá gekkst ákærði undir að greiða sekt að fjárhæð 43.000 krónur. Samkvæmt ákærum málsins hefur ákærði verið sakfelldur fyrir vörslur á 37,41 g af kannabis, 1,98 g af tóbaksblönduðu kannabis, 14,53 g af amfetamíni, 3,21 g af kókaíni og 8 töflum með fíkniefninu MDMA. Þá hefur ákærði verið sakfelldur fyrir sölu á 20 g af kannabis, 6 g af amfetamíni og 6 töflum með fíkniefninu MDMA. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að ákærði hefur þrívegis áður hlotið dóma fyrir fíkniefnabrot og í eitt skipti gengist undir lögreglustjórasátt vegna brots af því tagi. Þá hefur ákærði í málinu verið sakfelldur fyrir sölu fíkniefna, auk þess sem brot hans varða ýmsar tegundir fíkniefna. Að þessu virtu þykir refsing ákærða, sem tiltekin verður eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu 4 mánaða af refsingunni og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Með vísan til þeirra greina sem í ákærum greinir verður fallist á kröfu um upptöku á haldlögðum fíkniefnum, svo sem nánar er rakið í dómsorði. Ákærði greiði 300.000 krónur í sakarkostnað, sem nemur þóknun skipaðs verjanda hans Hilmars Ingimundarsonar, hrl., auk virðisaukaskatts. Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. D Ó M S O R Ð: Ákærði, Gunnar Arnar Ásbjörnsson, sæti fangelsi í 5 mánuði. Fresta skal fullnustu 4 mánaða af refsingunni og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Upptæk skal gera 37,41 g af kannabis, 1,98 g af tóbaksblönduðu kannabis, 13,55 g af amfetamíni, 3,21 g af kókaíni og 8 töflur með fíkniefninu MDMA. Ákærði greiði 300.000 krónur í sakarkostnað. |
Mál nr. 236/2006 | Kærumál Málskostnaðartrygging | Mál þetta var tekið til úrskurðar 21. apríl sl. Upphaflega höfðaði stefnandi málsins, 101 Fasteignafélag ehf. mál á hendur Stafna á milli ehf., Frakkastíg ehf. og Hverfisgötu 59 ehf. með stefnu birtri 11. janúar 2006. Í málinu er gerð krafa um viðurkenningu Héraðsdóms Reykjavíkur á því að í gildi sé bindandi kaupsamningur milli stefnanda og stefndu á nánar tilgreindum fasteignum í Reykjavík gegn greiðslu að fjárhæð 1.375.000.000 kr. Við þingfestingu þess máls gerðu stefndu kröfu um málskostnaðartryggingu með vísan til b-liðar 133. gr. laga nr. 91/1991. Í fyrirtöku málsins 25. janúar sl. varð samkomulag með aðilum, að stefnandi legði fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 5.000.000 kr. eigi síðar en 27. janúar sl. með bankabók sem afhent yrði dóminum. Það gekk eftir. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Hjördís Hákonardóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2006, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu að fjárhæð 2.000.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar til handa varnaraðilum í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn þeim og fleirum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu um málskostnaðartryggingu verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn Vatn og Land ehf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Málsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði. Ekki verður fallist á með héraðsdómara að röksemdir þær og sönnunargögn, sem varnaraðilar færðu fram í héraði og nánar er lýst í hinum kærða úrskurði, leiði að því fullnægjandi líkur að sóknaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Verða enda engar ályktanir dregnar um greiðslugetu sóknaraðila af samkomulagi, sem hann gerði við aðra stefndu í málinu um að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Hefur því ekki verið sýnt fram á að skilyrði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt þannig að sóknaraðila verði gert að leggja fram tryggingu. Verður kröfu varnaraðila því hafnað. Varnaraðilar verða dæmdir til að greiða kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hafnað er kröfum varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. og Vatns og lands ehf., um að sóknaraðila, 101 Fasteignafélagi ehf., verði gert að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðilum og fleirum. Varnaraðilar greiði í sameiningu sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 481/2005 | Kynferðisbrot | S var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa þröngvað A með ofbeldi til samræðis eða annarra kynferðismaka á þann hátt sem nánar var lýst í ákæru. Fjölskipaður héraðsdómur mat framburð A af atvikinu trúverðugan en taldi framburð S haldinn ólíkindablæ og sakfelldi hann fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa þröngvað A til annarra kynferðismaka en samræðis. Ekki þótti efni til að vefengja þetta mat og var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu og heimfærslu brots S til refsiákvæðis. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði auk þess sem ákvæði héraðsdóms um miskabætur til A að fjárhæð 700.000 krónur var staðfest. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. nóvember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 800.000 krónur í skaðabætur með vöxtum eins og í ákæru greinir. Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Fjölskipaður héraðsdómur hefur metið framburð A trúverðugan en telur framburð ákærða haldinn ólíkindablæ. Eru ekki efni til að vefengja það mat. Verður því með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis. Með vísan til eðlis brots ákærða sem og annarra atriða sem rakin eru í hinum áfrýjaða dómi er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Ákærði hefur ekki haft uppi varakröfu um lækkun bóta til handa brotaþola eða fært fram rök að slíkri niðurstöðu. Verður ákvæði héraðsdóms um ákvörðun miskabóta því staðfest. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður og staðfest. Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Sergio Gabriel Rodriguez Figueras, sæti fangelsi í 15 mánuði. Ákvæði héraðsdóms um miskabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 516.762 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2005. Mál þetta, sem dómtekið var 11. október sl., er höfðað með ákæruskjali útgefnu af ríkissaksóknara 10. júní 2005 á hendur Sergio Gabriel Rodriguez Figueras, [kt. og heimilisfang], fyrir nauðgun með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 23. júlí 2004, í X í Reykjavík, þröngvað A, [kt.], með ofbeldi til samræðis eða annarra kynferðismaka, með því að setja lim eða fingur í leggöng hennar. Þetta er talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta, en síðan dráttarvaxta, samkvæmt lögum nr. 38/2001. Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði. Föstudaginn 23. júlí 2004 kl. 04:20 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um að kynferðisbrot hafi verið framið að X í Reykjavík. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu tilkynnti B um brotið. Lögregla kom að X kl. 04:24. Hitti hún þar fyrir B, sem lýsti strax yfir að vinkonu sinni hafi verið nauðgað. Var B léttklædd með handklæði vafið um sig. Hafi hún upplýst að hún hafi farið með stúlkunni í sturtu eftir atburðinn. Er lögregla kom í íbúðina voru föt á gólfi og opið inn á baðherbergi. Er fært í skýrslu að greinilegt hafi verið að einhver hafi nýlega farið í sturtu. Inni í sturtuklefa hafi verið blaut föt. Frammi á gangi íbúðarinnar hafi lögregla rætt við A. Hafi hún verið í miklu uppnámi og óttaslegin en lögregla hafi reynt að róa hana niður. Frásögn A hafi verið nokkuð samhengislaus en hún hafi átt erfitt með að tjá sig um atburðinn. Skýrði hún lögreglu frá því að hún hafi verið að skemmta sér með vinkonum sínum á veitingastaðnum Kabital í Hafnarstræti 17 í Reykjavík. Þar hafi hún fyrst hitt ákærða, er hafi unnið á staðnum. Hafi A, vinkonur hennar og nokkrir drengir farið þaðan að X og haldið þar áfram að skemmta sér. Ákærði hafi orðið fólkinu samferða að X. Hafi hann verið að ,,reyna við” A öðru hvoru og ekki látið hana í friði. Hafi hún farið með honum inn í herbergi í íbúðinni að X og rætt við hann þar. Síðar hafi hún beðið vini sína um að vísa ákærða út úr íbúðinni þar sem hún hafi ekki viljað hafa hann þar lengur. Þegar ákærði hafi verið kominn út úr íbúðinni hafi hún farið fram á stigapall til að kveðja hann. Hafi hún setið á stigahandriði og rætt við ákærða, en þá hafi hann sagt við hana ,,að það væri illa gert af stelpu að fara svona með strák eins og sig”. Einnig hafi ákærði sagt ,,að hann hefði getað farið heim með hvaða stelpu sem hann vildi.” A hafi þá beðið ákærða um að fara. Hafi hún fært sig upp að vegg á stigapallinum en ákærði þá þrýst sér upp að henni við vegginn og orðið æstur. Því næst hafi hann haldið annarri hendi hennar upp að veggnum en tekið hina höndina á henni og sett ofan í buxur sínar. Hafi hann neytt hana til að koma við kynfæri sín. Síðan hafi hann tekið um buxnastreng hennar, rifið buxurnar og káfað á henni. Hafi A átt mjög erfitt með að segja frá atburðum á vettvangi og ekki getað tjáð sig frekar að svo stöddu. Eftir að hafa gengið úr skugga um að ekki yrði hreyft við vettvangi hafi verið óskað eftir aðstoð tækni- og rannsóknardeildar lögreglu. A hafi því næst farið í fylgd lögreglu á Neyðarmóttöku á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Stuttu eftir för A þangað hafi kærasta hennar borið að garði. Hafi hann einnig farið á neyðarmóttökuna. Er skráð í frumskýrslu frásögn vitnanna B, C og D af atburðum. Einnig var frásögn E færð í frumskýrslu lögreglu. Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um dvalarstað ákærða fór lögregla að Ásvallagötu 9 í Reykjavík. Ákærða var þar gerð grein fyrir því að hann væri grunaður um kynferðisbrot gagnvart A. Var fatnaður er ákærði bar að hann hafi verið í um nóttina haldlagður í þágu rannsóknar málsins. Í frumskýrslu er fært að ákærða hafi brugðið er honum hafi verið kynnt kæruefnið og hafi hann haft á orði að ,,þetta hafi verið heimskulegt af sér.” Ósk Ingvarsdóttir sérfræðingur í kvensjúkdómum hefur 23. júlí 2004 kl. 06.00 ritað skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á A. Í reit um frásögn sjúklings er fært að kynmök hafi átt sér stað um leggöng. Einnig hafi verið káfað á kynfærum og snerting átt sér stað með getnaðarlim. Jafnframt er fært í skýrsluna að A hafi barið í bað, skolað sig og skipt um föt eftir árásina. Um ástand við skoðun kemur fram að skoðunin hafi farið fram ríflega klukkustund eftir komu á neyðarmóttökuna og hafi A þá verið búin að jafna sig verulega og róast. Sjálf hafi hún sagst hafa verið í miklu sjokki þegar hún hafi komið á neyðarmóttökuna og verið hágrátandi, bæði hrædd og ofsareið. Hafi hún í fyrstu ekki getað greint frá atburðum skipulega en verið mjög greinargóð og trúverðug. Hafi hún verið útgrátin og setið í hnipri með mikla vöðvaspennu. Hún hafi verið allsgáð. Ekki hafi sjáanlegir áverkar verið á líkama, en eymsli hafi verið á öðrum handlegg þar sem A hafi sagt að árásarmaðurinn hafi tekið á sér. Tekin hafi verið sýni með DNA leit í huga með skafi undan nöglum og frá innri skapabörmum og leggöngum. Mánudaginn 26. júlí 2004 tók lögregla ljósmyndir af fötum sem A var í aðfaranótt föstudagsins 23. júlí 2004. Samkvæmt skýrslu tæknideildar, sem hefur að geyma ljósmyndir af fatnaði, var umræddur fatnaður tekinn á vettvangi í baðherbergi að X og var hann allur blautur nema buxur. Fram kemur að engar skemmdir hafi verið sjáanlegar á bol, sem hafi verið Orange stuttermabolur. Peysa hafi verið marglita, en á honum hafi mátt sjá gat. Buxur hafi verið svartar. Skemmdir hafi verið sjáanlegar þar sem rennilásinn sé. Svo virðist sem þær hafi rifnað við átök. Engar sjáanlegar skemmdir hafi verið á nærbuxum. Ákærði ritaði 23. júlí 2004 undir samþykki fyrir því að tekin væru sýnu af honum vegna réttarlæknisfræðilegrar skoðunar. Skoðunin hófst kl. 07:15 þann dag. Fram kemur í skýrslu læknis er rituð var af því tilefni að ákærði hafi verið rólegur og samvinnuþýður. Hafi hann verið dálítið spenntur og beygt af við og við. Ekki hafi hann verið ölvaður en þó hafi lagt af honum sterka áfengislykt frá fyrri degi. Engin áverkamerki hafi verið á hálsi eða bol. Þá hafi engin áverkamerki verið á handleggjum eða höndum nema einn gamall kringlóttur 5-krónustór marblettur á miðjum vinstri upphandlegg. Engin sjáanleg áverkamerki hafi verið fyrir neðan mitti eða á fótum. Tekin hafi verið blóðsýni til DNA rannsóknar, kynhár kembd og tekin samanburðarsýni, strok tekið af getnaðarlim, skafið undan neglum, auk þess sem blóðsýni hafi verið tekið til lyfja eða áfengismælingar. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu voru send til DNA rannsóknar hjá Rettsmedisinsk Institutt í Osló rannsóknargögn vegna málsins. Um hafi verið að ræða sýni er tekin hafi verið af ákærða og samanburðarsýni af A. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hafi engin lífsýni komið í ljós sem tengja hafi mátt ákærða og A. Ákærði gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu kl. 13.29 föstudaginn 23. júlí 2004. Kvaðst hann hafa verið á veitingastaðnum Kabital aðfaranótt föstudagsins 23. júlí. Hafi staðnum verið lokað um kl. 01.00 um nóttina. Þá hafi ákærði verið að aðstoða við að afgreiða á bar staðarins. A og aðrar stúlkur hafi þá verið á staðnum. Hafi ákærði rætt við stúlkurnar og innt þær eftir því hvar samkvæmi væri að finna. Hafi þær þá boðið ákærða í samkvæmi. Hafi hann orðið þeim samferða. Er komið hafi verið á staðinn hafi ákærði og A farið inn í herbergi til þess að tala saman. Mikill hávaði hafi verið í íbúðinni og hafi þau viljað ræða saman á kyrrlátari stað. Vinkona A hafi komið inn í herbergið til þeirra, dvalið þar smá stund og síðan yfirgefið herbergið. Eftir að vinkonan hafi farið hafi ákærði og A byrjað að kyssast. Síðar hafi hún sagt að hún vildi fara fram og taka þátt í samkvæminu. Ákærði hafi hins vegar viljað vera eftir í herberginu og hafi hann sofnað sökum þess að hann hafi verið þreyttur eftir vinnu. Í framhaldinu hafi hann sofnað. Eftir smá stund hafi stúlka sú er áður hafi komið inn í herbergið vakið ákærða. Hafi hún sagt honum að hann yrði að fara út úr íbúðinni. Hafi hún jafnframt sagt við A að hún gæti farið með ákærða. Hafi ákærði farið út úr íbúðinni og A fylgt honum fram á stigapall, en hún hafi ekki ætlað að fara með ákærða. Hafi þau byrjað að kyssast frammi á gangi eftir að hurð að íbúðinni hafi verið lokað. Hafi hún spurt ákærða að því hvort hann vildi að hún kæmi með ákærða og svæfi hjá honum. Hafi ákærði svarað því til að ef hún vildi koma með honum þá væri það í lagi. Hafi þau verið að kyssast og eftir smá stund hafi hún farið með hönd sína inn á ber kynfæri ákærða. Hafi ákærði gert slíkt hið sama við A. Þegar ákærði hafi sett hönd inn á kynfæri stúlkunnar hafi hann gengið áfram og hafi þau tvö endað upp við vegg á stigapallinum. Við það hafi ákærði skynjað að hún yrði hrædd en hún hafi sleppt ákærða. Kvaðst ákærði hafa talið að hún vildi ekki halda áfram. Hafi hann þá sleppt henni og gengið rakleitt út úr húsinu. Hafi ákærði ekkert sagt við hana á leið sinni út. Eftir það hafi ákærði gengið að heimili sínu að Ásvallagötu 9 þangað sem lögreglumenn hafi komið síðar um nóttina og handtekið ákærða. Ákærði kvaðst hafa drukkið nokkra bjóra um nóttina og lítilræði af öðru áfengi. Ekki hafi hann þó verið ölvaður og kvaðst hann muna allt sem gerst hafi um nóttina. Ekki kvaðst ákærði muna eftir að buxur A hafi rifnað við aðfarir þeirra. Ákærði kvaðst hvorki hafa tekið niður buxur A, né hafa farið með getnaðarlim sinn í kynfæri hennar. Er ákærði var inntur eftir því hvað hann hafi átt við með orðunum ,,stupid mistake” er hann hafi viðhaft við handtöku, kvaðst ákærði hafa átt við að það hafi verið mistök af sinni hálfu að hafa farið með A í samkvæmið. Þá var borið undir ákærða að hann hafi sagt við rannsóknarlögreglumenn á vettvangi ,,no sex, no penetration” og hann inntur eftir því hvað hann hafi átt við með þeim orðum. Kvaðst hann hafa verið að svara ásökunum um að hafa nauðgað A og sagt að hann hafi ekki haft kynmök við hana. Ákærði var á ný boðaður til yfirheyrslu hjá lögreglu 2. febrúar 2005. Kvaðst ákærði þá ekki vilja breyta sínum fyrri framburði. Kvað hann sig og A hafa byrjað að kyssast á stigapallinum eftir að þau hafi verið búin að ræða þar saman. Þegar hún hafi snert kynfæri ákærða innanklæða hafi ákærði farið að snerta hana. Hafi hann snert læri hennar og rass utanklæða. Hann hafi staðið í tröppu á stigapallinum fyrir neðan A. Við aðfarirnar hafi þau farið saman að veggnum þannig að A hafi snúið baki í vegginn. Hún hafi aftur snert kynfæri ákærða innanklæða og hafi ákærði þá snert kynfæri hennar innanklæða og sett fingur inn í leggöng hennar. Hafi A þá sagt að ákærði ætti ekki að snerta hana og hafi ákærði þá tekið hönd hennar í burtu og sjálfur hætt að snerta hana. A hafi þá sagt að hún vildi ekki gera neitt og hafi ákærði þá gengið út en A farið inn í íbúðina. Þau hafi ekkert rifist á stigapallinum og A enga mótspyrnu veitt. Ákærði kvaðst alfarið synja fyrir að hafa farið með getnaðarlim sinn í leggöng A. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið að vinna á veitingastaðnum Kabital aðfaranótt föstudagsins 23. júlí 2004. Kvað hann A hafa komið á barinn til að kaupa bjór er hún hafi viljað taka með sér heim. Hafi ákærði sagt henni að hann gæti ekki selt henni bjór þar sem það hafi verið orðið það áliðið að ekki hafi mátt selja áfengi lengur. Hafi hann leitað til yfirmanns staðarins um hvort hann mætti selja A bjór og fengið jákvætt svar við því. Hún hafi ætlað að greiða fyrir bjórinn með debetkorti í eigu annars aðila. Hafi ákærði gert henni það ljóst. Bjórinn hafi A síðan fengið, en um hafi verið að ræða einn kassa af bjór. Ákærði hafi þá spurt A hvort hún vissi um samkvæmi. Hafi hún þá bent honum á að það væri samkvæmi heima hjá henni sem hún og vinir hennar væru að fara í. Hafi hún spurt ákærða að því hvort hann vildi koma með. Hafi ákærði tekið vel í það. Eftir að ákærði, A og vinir hennar hafi farið út af staðnum hafi þau gengið að heimili hennar. Þau hafi rætt saman á leiðinni. Í samkvæminu hafi mjög hávær hljómlist verið leikin í stofunni. Hafi ákærði og A þá farið inn í herbergi í íbúðinni til að tala saman. Þar hafi þau verið dágóða stund og ein vinkona A komið inn til þeirra. Hafi ákærði spurt hana hver hún væri og hafi stúlkan sagt að hún væri meðleigjandi með A. Eftir að stúlkan hafi yfirgefið herbergið hafi ákærði og A verið þar áfram. Eitthvað hafi þau kysst hvort annað. A hafi setið á rúminu og lagst er þau hafi verið að kyssast. A hafi síðar viljað fara fram í samkvæmið en ákærði þá viljað vera eftir í herberginu þar sem hann hafi verið þreyttur. Honum hafi runnið í brjóst og vaknað við að stúlka úr samkvæminu hafi sagt honum að fara þar sem hún hafi viljað fara að sofa. Er ákærði hafi verið á leið út úr íbúðinni hafi A komið á eftir honum. Er þau hafi farið fram á stigapallinn hafi hurðin verið skilin eftir opin í hálfa gátt. Frammi á stigapallinum fyrir framan íbúðina hafi ákærði og A rætt saman og farið að kyssast. Þau hafi verið við stigann og farið upp að veggnum. Hafi A verið með bakið upp að veggnum, verið með hægri hönd á baki ákærða, sett þá vinstri niður í buxur ákærða og snert kynfæri hans. Hafi ákærði gert slíkt hið sama við A og hún látið sér það vel líka. Jafnframt hafi þau haldið áfram að kyssast. Ákærði hafi sett vinstri hönd sína á vegginn og fingur hægri handar í leggöng hennar. Annað hafi ákærði ekki gert. Eftir smá stund hafi A sagt ,,hættu”. Ákærði hafi spurt hana hvað væri að og hún þá sagt að hún vildi ekki meira. Ákærði hafi sagt allt í lagi og hafi ekkert rifrildi átt sér stað. Hafi hann snúið sér frá henni og gengið út úr húsinu. Kvaðst ákærði telja að A hafi ekki orðið hrædd en atferli hennar hafi meira verið eins og hún hafi skipt um skoðun. Ákærði kvað A hafa verið í svörtum buxum með blómamyndum. Ekki kvaðst ákærði hafa rennt niður buxum hennar. Þá hafi þær ekki rifnað við athafnir þeirra. Eftir að hafa yfirgefið íbúðina hafi ákærði farið rakleitt heim til sín. Ákærði kvaðst muna eftir orðaskiptum er hann hafi átt við þá lögreglumenn er hafi handtekið hann. Kvaðst hann hafa séð eftir því að hafa farið í samkvæmið og átt við það er hann hafi sagt ,,stupid mistake”. Þá kvaðst ákærði hafa viðhaft orðin ,,no sex, no penetration” við lögreglu. Þau orð hafi verið viðhöfð í kjölfar þess að lögregla hafi tilkynnt honum að A hafi kært hann fyrir nauðgun. A gaf skýrslu hjá lögreglu miðvikudaginn 28. júlí 2004. Kvaðst hún, ásamt vinkonum sínum þeim B, D og C, hafa farið að skemmta sér á veitingastaðnum Kabital. Þær hafi komið á staðinn um kl. 22.00 til 23.00 um kvöldið. Fljótlega eftir að þær hafi verið komnar þangað hafi þær farið að spjalla við þrjá drengi og ákærða. Síðar um nóttina hafi þau öll farið gangandi upp á X. Í samkvæmi þar hafi þau farið inn í stofu þar sem hópurinn hafi sest niður, rætt saman, hlustað á tónlist og drukkið bjór. Kvaðst A muna að B hafi orðið örg út í ákærða þar sem hann hafi farið inn í svefnherbergi hennar þar sem hann hafi lagt sig. Kvaðst A hafa verið í smá tíma inn í herberginu að ræða við ákærða. Hafi þær reynt að fá hann út úr herberginu en hann neitað og sagt að hann ætlaði að sofa þar. Stúlkurnar hafi síðan farið inn í herbergið og sagt ákærða að hann yrði að fara og hafi hann fyrir rest samþykkt það. Hafi hann farið fram á gang og A staðið við útidyrahurð íbúðarinnar. Hafi hún verið að ræða við ákærða er B hafi komið, verið frekar örg og sagt A að loka hurðinni til að kettlingar sem voru í íbúðinni færu ekki fram á gang. Hafi A þá farið fram á gang og lokað hurðinni. Hafi hún sest á handrið og hafi ákærði staðið fyrir framan hana. Þau hafi rætt eitthvað saman en henni fundist ákærði koma of nálægt sér. Hafi hún því fært sig og staðið á stigapallinum við stigann. Hafi hún ætlað að fara aftur inn í íbúðina þegar ákærði hafi tekið í hendi hennar og haldið henni, ýtt henni upp að vegg og látið báðar hendur hennar yfir höfuð hennar. Hafi hann notað báðar hendur sínar við það, síðan tekið um báða úlnliði með annarri hendinni og þannig haldið höndum hennar uppi. Hann hafi notað vinstri hönd til þessa en með þeirri hægri rennt niður rennilás á sínum buxum. Í framhaldinu hafi hann notað höndina til að renna niður rennilás á buxum A, sem hafi rifnað við það. Síðan hafi hann farið með höndina inn undir og ýtt frá nærbuxum A. Ákærði hafi því næst sett lim sinn í leggöng hennar. Hafi hún reynt að ýta ákærða frá sér en ekki getað það. Hafi hún loks náð að losa aðra höndina, sett hana á lim ákærða og náð að klípa í hann. Við það hafi ákærði hætt og farið í burtu. Hafi hún verið farin að gráta er hún hafi klipið í lim ákærða en hún hafi margsagt honum að hún ,,vildi þetta ekki”. Ákærði hafi ekki hlustað á A. Hafi henni fundist eins og hún hafi öskrað hátt þegar hún hafi sagt nei við ákærða en enginn hafi heyrt það. Eftir að ákærði hafi farið hafi A farið aftur inn í íbúðina. Inni í horni við innganginn hafi hún látið sig falla niður. C hafi þá komið og spurt A hvað hafi komið fyrir. Hafi A þá farið að hágráta og sagt henni frá því sem komið hafi fyrir. B og D hafi þá komið að A og hafi B farið með hana inn á baðherbergi íbúðarinnar. Fyrsta hugsun A hafi verið að komast í sturtu en hún hafi heyrt öskrað frammi á gangi að hún ætti ekki að fara í sturtu. Hún hafi samt farið í sturtu því henni hafi fundist hún eitthvað svo ógeðsleg. Eftir að hún hafi komið úr sturtunni hafi hún farið inn í stofu og verið þar er lögregla hafi komið á staðinn. Nánar spurð um samskipti sín og ákærða í svefnherbergi íbúðarinnar kvaðst A hafa staðið upp við vegg í herberginu á meðan ákærði hafi verið uppi í rúmi. Hurð að herberginu hafi verið opin. Hafi hún aldrei lagst í rúmið. Þá kvaðst A aldrei hafa kysst ákærða þetta kvöld. A kvaðst telja að ákærða hafi ekki orðið sáðfall við aðfarir sínar. Eftir atburðinn hafi henni liðið illa og hafi hún átt erfitt með að vera ein. Væri hún hrædd. Þá hafi hún verið í miklu uppnámi er lögregla hafi komið að X og myndi hún því lítið eftir þeim tíma. Hún hafi drukkið bjór þetta kvöld, trúlega einn eða tvo áður en hún hafi farið á veitingastaðinn Kabital og eina tvo bjóra á þeim stað. Eftir að komið hafi verið á X aftur hafi hún trúlega drukkið einn eða tvo bjóra. Fyrir dómi kvaðst A hafa farið á veitingastaðinn Kabital ásamt vinkonum sínum umrætt kvöld. Þar hafi D byrjað að ræða við ákærða. Ákveðið hafi verið að halda samkvæmi á X eftir að Kabital hafi verið yfirgefinn. Ákærði hafi slegist í för með hópnum. A hvað ekkert hafa verið á milli sín og ákærða, hvorki á veitingastaðnum né á X. Á X hafi hópurinn sest niður, drukkið áfengi og hlustað á tónlist. Ákærði hafi farið inn í herbergi B og hafi hann ætlað að fara að sofa. Kvaðst A hafa rætt við hann þar og um stund setið á rúmi í herberginu og hálf legið upp við rúmgaflinn. Ekki hafi hún lagst í rúmið við hlið ákærða, hvað þá hafa kysst hann. Þau hafi hins vegar rætt um hluti eins og bíla og vinnu ákærða. A kvað ákærða hafa gefið í skyn að hann vildi sofa hjá A og hafi hún því sagt B að hún yrði að koma ákærða fram. B hafi síðan sagt ákærða að fara. Hafi A staðið í hurð íbúðarinnar er ákærði hafi verið farinn fram á gang. Hún hafi hins vegar þurft að loka hurðinni til að kettlingar sem voru í íbúðinni færu ekki fram á gang. A hafi rætt við ákærða frammi á gangi og hafi hún verið upp við handrið á stigapalli. Hafi henni fundist ákærði óþægilega nærri sér og hafi hún því fært sig upp að vegg. Ákærði hafi þá tekið um hendur A og hafi hann haldið höndum hennar upp við vegg fyrir ofan höfuð með því að halda með annarri hönd um úlnliði hennar. Hafi A illa getað sparkað í ákærða en loks náð að rífa aðra hönd lausa. Ákærði hafi áður náð að renna niður buxnaklauf sinni og A. Auk þess hafi hann náð að ýta nærbuxum hennar frá. Kvaðst A ekki telja að getnaðarlimur hans hafi verið inni í leggöngum hennar en hann hafi a.m.k. verið fyrir innan föt hennar. Hún hafi náð að klípa um liminn. Hún hafi hins vegar fundið að eitthvað hafi farið inn í leggöng hennar. Kvaðst hún ítrekað aðspurð í raun ekki vita hvort það hafi verið limur hans eða fingur er hafi farið inn í leggöngin. Hún hafi ekki séð það en fundið fyrir einhverju. Eftir að hún hafi komið inn í íbúðina hafi hún farið í sturtu. Það hafi hún gert þrátt fyrir að henni hafi verið bent á að gera það ekki. Áður en hún hafi farið á neyðarmóttöku hafi hún hringt í kærasta sinn og greint honum frá því er fyrir hafi komið. Hann hafi komið upp á neyðarmóttökuna. A kvaðst ekki hafa tekið eftir að rennilás á buxum hennar hafi rifnað fyrr en eftir að hún hafi verið kominn aftur inn í íbúðina. Hann hafi ekki verið rifinn áður en til átaka hafi komið á milli hennar og ákærða. Eftir þessa atburði hafi henni liðið illa og hún verið í miklu uppnámi. Það hafi m.a. verið ástæðan fyrir því að hún hafi kært atburðinn 5 dögum eftir að hann hafi átt sér stað. Hafi hún tekið þunglyndislyf fyrir þessa atburði vegna fjölskylduvandamála en hún hafi tekið eina töflu af lyfi annan hvern dag. Eftir þá hafi hún þurft að bæta við skammtinn og tekið eina töflu daglega vegna kvíðakasta og streitu. Heimilislæknir A hafi bætt við skammtinn. Ekki hafi hún þorað að vera ein eftir þessa atburði og hafi hún fengið vinkonur sínar eða frænku til að koma heim til sín og gista. Einnig hafi hún gist hjá ömmu sinni eftir þessa atburði af sömu ástæðu. Aðspurð kvaðst A vera um 161 cm á hæð og um 46 kg að þyngd. C kvaðst hafa verið á X ásamt vinkonum sínum þeim A, D og B, auk þess sem E vinur D hafi verið á staðnum. Þau hafi drukkið bjór á X og síðan ákveðið að fara á veitingastaðinn Kabital, en þangað hafi þau komið um kl. 23.00. Þar hafi verið þéttsetið og hafi ákærði setið einn við borð. Hafi þau leitað eftir því við hann hvort þau mættu ekki sitja við sama borð. Það hafi hann samþykkt. D hafi farið að ræða við ákærða. Hafi hún og E síðar um nóttina farið aftur að X og hafi þau komið þangað á undan hópnum. B og A hafi hitt einhverja drengi og hafi þær boðið þeim í samkvæmi á X. Drengirnir hafi viljað hafa með sér bjór og hafi C spurt hvað kassi af bjór kostaði. Ákærði hafi þá setið við barinn. Hafi hann nefnt eitthvað verð. Ákærði hafi síðan farið að ræða við drengina og hafi sennilega einhver boðið honum með í samkvæmið. Kvaðst C hafa tekið eftir því að ákærði hafi gefið A einhvern sterkan drykk eða ,,skot” á veitingastaðnum. Á leiðinni á X hafi ákærði reynt að taka utan um A. Hafi það virkað ,,mjög saklaust” og hafi A ekki virst vilja það og kallað til C og beðið hana um að ganga með þeim. Hafi C virst sem A vildi ræða við ákærða, ekki meira. Er hópurinn hafi verið kominn á X hafi verið sest niður í stofunni. A og ákærði hafi farið inn í herbergi B og hafi C farið þangað inn. Er hún hafi farið inn í herbergið hafi A setið á rúminu en ákærði legið í því. Hafi C sagt þeim að koma fram en A sagt að þau væru að ræða saman. Hafi C farið oftar en einu sinni inn í herbergið og kvaðst hún muna að A hafi setið á rúminu en einu sinni hafi hún setið á rúminu upp við vegginn. Alltaf hafi verið bil á milli hennar og ákærða. Hafi verið eins og þau væru ,,á trúnó.” Er C gaf skýrslu hjá lögreglu bar hún að A hafi komið inn í stofu og spurt hvort stúlkurnar vildi ekki segja ákærða að fara því hann hafi sagt við hana að það væri skylda hans að sofa hjá henni. Hafi A virst finnast það ógeðslegt og hafi B þá farið inn í herbergið og sagt ákærða að fara. Er C gaf skýrslu fyrir dómi bar hún reyndar að henni hafi ekki fundist sem A hafi viljað losna við ákærða. C kvaðst farið inn í herbergið en þá hafi ákærði legið í rúminu og virst sofa. Hafi C þá farið inn í stofu til drengjanna til að segja þeim að fara líka því hún hafi ætlað að fara að sofa. Síðan hún spurt B hvar A væri en hún þá sagt henni að hún væri frammi á gangi að tala við ákærða. Hafi C verið inni í stofu þegar hún hafi heyrt D koma fram, en hún hafi verið farin að sofa. Hafi hún spurt A hvort ekki væri allt í lagi eða hvort eitthvað hafi komið fyrir. Hafi C þá séð A og hafi hún verið mjög rauðeygð og í miklu uppnámi. Er hún hafi litið framan í hana hafi ekki farið milli mála að eitthvað hafi komið fyrir hana. Hafi hún haldið um klofið á sér og er hún hafi sleppt hendinni hafi C séð að buxurnar hennar hafi verið rifnar. Hafi A sagt að hún yrði að fara í sturtu og ásamt B farið inn á bað. Hafi C heyrt B spyrja A hvað hafi komið fyrir og hafi A svarað ,,hann nauðgaði mér.” Hafi drengirnir í íbúðinni reynt að kalla til A til að benda henni á að fara ekki í sturtu. C og vinkonur hennar hafi þá beðið drengina um að yfirgefa íbúðina. Er A hafi komið fram hafi hún verið hágrátandi og í algjöru losti. B hafi hringt í lögreglu. Kvaðst C hafa rætt við A eftir þessa atburði. Hafi hún varið einhverjum tíma hjá vinkonum sínum þar sem hún hafi átt erfitt með að vera ein eftir atburðina. D kvað A hafa komið á heimili sitt að X um kl. 21.00 að kvöldi fimmtudagsins 22. júlí. Hafi þær, ásamt vinkonum þeirra þeim B og C, fengið sér bjór saman. Eftir það hafi hópurinn farið á veitingastaðinn Kabital. D, B, A, C og E hafi á veitingastaðnum sest til borðs með ákærða. Kvaðst hún hafa rætt við hann og hafi ákærði m.a. rætt um að hann hafi skilið við kærustu sína um ári áður. Hafi D síðan hætt að ræða við ákærða sem hafi yfirgefið borðið fljótlega. Kvaðst D ekkert hafa fylgst með honum eftir það. Hún hafi farið á undan vinkonum sínum heim og hafi hún verið komin þangað fyrir klukkan 01.00 um nóttina. Rúmum klukkutíma síðar hafi stelpurnar komið og með þeim þrír drengir og ákærði. Hafi B vakið D og hún farið fram í stofu til að ræða við samkvæmisgesti. Kvaðst D hafa séð ákærða og A ræða saman inni í herbergi. Hafi þau legið saman uppi í rúmi og legið ofan á sænginni. Ekki hafi hún séð þau kyssast. Hafi D ekkert hugleitt þau frekar og farið fram í stofu. A hafi síðan komið fram í stofu og beðið vinkonur sínar um að biðja ákærða að fara því hún þyrði það ekki. Hafi D staðið á fætur og ætlað að biðja ákærða um að fara en þá hafi B staðið á fætur og sagst ætla að gera það því hann væri í hennar herbergi. Á þeim tíma hafi D verið frammi í stofu ásamt tveim öðrum stúlkum og drengjunum. Hafi D ekki fylgst sérstaklega með því er B hafi beðið ákærða um að yfirgefa íbúðina, heldur hafi hún farið inn í sitt eigið herbergi til að fara að sofa. Hafi hún farið fram um 15 til 20 mínútum síðar þar sem hún hafi ætlað að sækja aukakodda. Þá hafi A staðið ein úti í horni rétt innan við útidyrahurðina og verið mjög skrítin. Hafi D gengið að henni og spurt hana hvað væri að en þá hafi hún séð að A var skjálfandi og eldrauð um augun. Hafi hún haldið um klofið á sér og ekkert sagt. Hafi D kallað á A en við það hafi þau er setið hafi í stofunni komið fram. Það eina er A hafi sagt hafi verið að hún yrði að fara í sturtu. A hafi hlaupið inn á bað og B farið á eftir henni. Þær hafi lokað hurðinni á eftir sér en drengirnir kallað á A og sagt henni að fara ekki í sturtu. Kvaðst D í raun ekki hafa vitað hvað hafi gerst en hafa séð er A hafi haldið um klofið á sér að buxurnar hennar hafi verið rifnar. Drengirnir hafi eftir það yfirgefið íbúðina en D og C sest inn í stofu. A og B hafi síðan komið fram af baðinu. Hafi D spurt hvort A hafi verið nauðgað og hafi B svarað því játandi. Því næst hafi B hringt á lögreglu. Er A hafi komið fram af baðinu hafi hún öll verið skjálfandi, mjög sérkennileg og rauðeygð. A hafi síðan hringt í kærasta sinn. D kvað A ekki hafa búið á X á þessum tíma, en hún hafi þá búið með dreng. Kvað hún A hafa komið í heimsókn á X á laugardeginum eftir atburðinn og hafi D orðið að ganga á móti henni þar sem A hafi ekki þorað að ganga ein að X eftir atburðinn. B kvað nokkrar stúlkur hafa hist heima hjá B á X, en um hafi verið að ræða hana, A, C og D. Einnig hafi vinur D verið í hópnum. Þar hafi þau rætt saman og drukkið bjór. Síðar hafi þau öll farið á veitingastaðinn Kabital. Er þangað kom hafi hópurinn sest niður við borð í horni staðarins. Ekki kvaðst B hafa veitt ákærða athygli þó svo hún hafi áður séð hann á staðnum þar sem hann hafi unnið þar. Á staðnum hafi hópurinn verið allt þar til honum hafi verið lokað og haldið á brott sennilega um kl. 01.30 um nóttina. Áður en haldið hafi verið af stað hafi A komið til B og sagt henni að einhverjir drengir ætluðu að kaupa bjór handa stúlkunum og hvort þeir mættu ekki slást í för með þeim. Einn drengjanna hafi verið ákærði. B kvaðst hafa samþykkt það. Í kjölfarið hafi hópurinn haldið gangandi að X. Er komið hafi verið þangað kvaðst B ásamt öðrum hafa sest niður inni í stofu. D hafi farið heim á undan öðrum og verið farin að sofa. Hún hafi þó komið fram. D og einhver drengur hafi farið að elda pastarétt en A og ákærði farið inn í svefnherbergi B. Eftir að þau hafi verið komin þangað inn hafi B farið inn í herbergið en herbergisdyrnar hafi verið lokaðar er hún hafi komið að. A hafi setið á rúminu en ákærði legið í því. Kvaðst B hafa spurt A að því hvort hún vildi ekki koma fram en A ekki viljað það heldur viljað halda áfram að ræða við ákærða. Eftir að B hafi farið fram hafi A hallað aftur hurðinni án þess þó að loka henni. Kvaðst B hafa séð að C hafi farið inn í herbergið til A og ákærða og opnað hurðina, auk þess sem B kvaðst hafa farið í tví- eða þrígang inn í herbergið. Kvaðst B hafa viljað að ákærði færi heim til sín en hún hafi ekki viljað hafa hann í rúminu sínu. Er B gaf skýrslu hjá lögreglu kvað hún að í þeim tilvikum er hún hafi komið í herbergið hafi A setið á rúminu en ákærði legið. Hún hafi einungis séð þau ræða saman. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvað B þau hafa legið saman í rúminu en ekki hafa látið vel hvort að öðru. Eitthvað hafi verið í gangi á milli þeirra. Er B hafi sagt ákærða að fara hafi hann staðið upp og farið út úr íbúðinni. A hafi farið á eftir honum fram á stigapallinn. Kvaðst B ekki hafa skipt sér frekar af því heldur hafa farið inn í stofu og sagt drengjunum að þeir skyldu einnig yfirgefa íbúðina þar sem hún vildi fara að sofa. Þau hafi engu að síður setið saman í stuttan tíma í stofunni. A hafi þá komið inn í íbúðina og hafi hún verið eitthvað skrýtin. Hafi hún hrists einhvernvegin og verið á henni skelfingarsvipur. Hún hafi sest niður og haldið um klofið á sér og sagt ,,hann nauðgaði mér” og síðan farið að gráta. Kvaðst B hafa spurt hana hvað hafi gerst og A þá sagt að ákærði hafi rifið niður um hana buxurnar, ýtt henni upp að veggnum og stungið getnaðarlimi sínum inn í hana. Hann hafi ekki látið af athæfi sínu fyrr en A hafi náð að klípa um liminn á honum, en við það hafi hann hætt og farið. Er A hafi greint B frá þessum atburðum hafi hún verið grátandi og í miklu uppnámi. Hún hafi öll skolfið og kvaðst B hafa lagt til að þær færu í sturtu. A hafi afklætt sig inni í sturtunni. Ekki kvaðst B hafa tekið eftir þeim fötum er A hafi verið í eða ástandi þeirra. A hafi grátið allan þann tíma er hún hafi verið í sturtunni Kvaðst B hafa reynt að róa hana niður. Einhver hafi hringt á lögregluna er í kjölfarið hafi komið á vettvang. B hafi farið með A á neyðarmóttökuna. B kvaðst hafa hitt ákærða næsta dag og þá á veitingastaðnum Kabital. Hann hafi horft á sig og hrist hausinn. Hafi hún þá farið til hans og hann sagt henni að hann væri búinn að vera hjá lögreglunni allan daginn. Ákærði hafi sagt að hann yrði að ræða við B áður en hún yfirgæfi staðinn. Hún hafi ákveðið að gera það ekki. B kvað sér hafa fundist ,,asnalegt” að A og ákærði væru saman inni í herberginu, þar sem A hafi ekkert þekkt hann. E kvaðst ekki hafa orðið var við samskipti á milli ákærða og A á veitingastaðnum Kabital. Hann hafi farið af veitingastaðnum ásamt D á undan öðrum samkvæmisgestum og sofnað áður en þeir hafi komið á X. Ekki hafi hann vaknað við þá atburði er mál þetta væri risið af fyrr en lögregla hafi knúið dyra seint um nóttina. A hafi þá verið farin upp á neyðarmóttöku. E kvaðst hafa hitt A á X á laugardagskvöldinu eftir atburði. A hafi ekkert rætt málið að fyrra bragði en er B hafi hringt í A það kvöld og greint frá því að hún hafi séð ákærða við vinnu á Kabital á laugardagskvöldinu hafi A farið að gráta. F, G og H kváðust hafa hitt A og vinkonur hennar á veitingastaðnum Kabital að kvöldi fimmtudagsins 22. júlí 2004. Þeim hafi verið boðið í samkvæmi á X. Þar hafi þeir verið inni í stofu á meðan á samkvæminu stóð en tekið eftir að ákærði og A hafi rætt talsvert saman inni í herbergi. Ákærði og A hafi síðan farið fram á stigapall fyrir framan íbúðina. Er A hafi komið aftur inn í íbúðina hafi hún sjáanlega verið í miklu uppnámi og sagt að sér hafi verið nauðgað. Hafi hún verið hágrátandi og brotnað niður. A hafi farið beint í sturtu og kvaðst H hafa kallað til hennar að fara ekki í sturtu. Drengirnir hafi í kjölfar þessa verið beðnir um að fara, en stúlkurnar í samkvæminu hafi verið í talsverðu uppnámi. F kvaðst hafa verið talsvert undir áhrifum áfengis þessa nótt. Lögreglumennirnir Guðmundur Ingi Rúnarsson, Ólafur Hjörtur Ólafsson og Ingólfur Bruun staðfestu þau rannsóknargögn er frá þeim stöfuðu. Kvaðst Guðmundur Ingi hafa fyrstur lögreglumanna farið á vettvang að X. Hafi hann rætt við A í stofu íbúðarinnar. Hún hafi verið í miklu uppnámi og átt mjög erfitt með að ræða við lögreglu þar sem hún hafi grátið mikið. Eftir einhverja stund hafi hún þó náð að lýsa því fyrir lögreglu hvað hafi gerst. Þá lýsingu hafi Guðmundur fært í frumskýrslu lögreglu með eins nákvæmum hætti og kostur hafi verið á. Lögregla hafi tekið þann fatnað er hafi tilheyrt A en hann hafi verið í baðherbergi. Fatnaðurinn hafi verið færður í tæknideild lögreglu. Ingólfur Bruun kvaðst hafa farið á neyðarmóttöku og haft þar tal af A. Öll þau atriði er hafi komið fram í málinu kvaðst Ingólfur hafa fært í frumskýrslu lögreglu. Kvaðst hann hafa ritað þau atriði í minnisbók og fært orðrétt inn í lögregluskýrslu það sem ákærði hafi sagt á vettvangi. Heiðdís Sigurðardóttir sálfræðingur staðfesti vottorð sitt frá 6. október 2005 varðandi A. Kvað hún A hafa átt við tiltekna tilfinningalega erfiðleika að stríða fyrir þennan atburð sem hafi tengst áfengiserfiðleikum á heimili hennar. Hafi farið að gæta þunglyndis hjá henni í kjölfar þess. Þeir erfiðleikar skýri þó með engu móti þau viðbrögð er hún hafi sýnt í kjölfar atburðanna aðfaranótt föstudagsins 23. júlí 2004. Hafi A í fyrstu illa munað atvik og hafi verið mjög áberandi hvernig hún hafi bælt minningar um atburðinn og ,,blokkerað” þær úti. Þau einkenni séu dæmigerð fyrir áföll er einstaklingar verði fyrir en þá detti minni út. Hafi henni fundist A vera samkvæm sjálfri sér og hún ekki vera í mótsögn við sjálfa sig eða tvísaga. Viðbrögð hennar samrýmist því að hún hafi orðið fyrir áfalli eða erfiðri lífsreynslu greint sinn. Þau einkenni er A hafi tekið upp í kjölfar atburða séu ekki einkenni þunglyndis. Niðurstaða: Frásögn ákærða og A ber saman um að þau hafi dvalið saman inni í herbergi B Sveinbjörnsdóttur að X í Reykjavík aðfaranótt föstudagsins 23. júlí 2004. Ákærði ber að þau hafi kysst hvort annað í herberginu, en fyrir það hefur A synjað. B og C hafa borið að þær hafi margsinnis farið inn í herbergið til ákærða og A og aldrei orðið varar við að þau væru að kyssast eða láta vel hvort að öðru. D kvaðst einnig hafa séð til þeirra í herberginu en bar að hún hafi ekki séð þau vera innileg hvort við annað. Þá er framburður ákærða og A á sama veg um að ákærði hafi yfirgefið íbúðina eftir að hafa verið vísað þaðan. Hafi A fylgt honum fram á stigapallinn. Eftir það eru ákærði og A ekki sammála um atvik. Ákærði hefur fullyrt að þau hafi kysst frammi á stigapallinum og í framhaldi af því hafi A farið með aðra hönd niður á kynfæri ákærða innanklæða. Ákærði hafi goldið líku líkt, farið með aðra hönd sína inn á kynfæri A og stungið fingri inn í leggöng hennar. Við þær athafnir hafi þau borið upp að vegg á stigapallinum. Ákærði hafi skynjað að hún vildi ekki taka frekari þátt í slíkum athöfnum og hafi hann þá án orðlenginga vikið sér frá henni og haldið rakleitt út úr íbúðinni. Kvaðst ákærði hvorki hafa rennt niður rennilás á buxum A né orðið var við að rennilás á buxum hennar hafi rifnað við atlot þeirra. A hefur á hinn bóginn borið að ákærði hafi skyndilega þrýst henni upp að vegg á stigapallinum, fært hendur hennar yfir höfuð og haldið þeim þar með því að halda með vinstri hönd um báða úlnliði hennar, notað hægri hönd til að renna niður rennilás á eigin buxum og því næst rennt niður rennilás á buxum hennar, fært nærbuxur hennar til hliðar og sett getnaðarlim sinn inn fyrir föt hennar. Hefur hún hér fyrir dómi ekki treyst sér til að fullyrða hvort ákærði hafi stungið getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar eða hvort hann hafi stungið fingri þar inn, en hún hafi ekki séð það. Í það minnsta hafi eitthvað stungist inn í leggöng hennar. Eftir að hún hafi náð að klípa í getnaðarlim ákærða hafi hann hætt og farið út úr húsinu. Rannsókn tæknideildar lögreglu hefur m.a. beinst að þeim fatnaði er A var í umrædda nótt. Sú rannsókn hefur leitt í ljós, svo ekki verður um villst, að buxur hennar hafa rifnað niður úr rennilásnum. Bera myndir með sér að rennilásinn hefur rifnað í sundur að neðanverðu, auk þess sem talsverð rifa hefur komið á buxur hennar fyrir neðan rennilásinn. Þykir einsýnt að beita hefur þurft talsverðu afli til að buxurnar gætu rifnað með þessum hætti. Fjölmörg vitni voru í íbúðinni að X. Bera þau öll að A hafi verið illa á sig komin er hún hafi komið inn í íbúðina. Hafa vitni lýst því þannig að hún hafi verið hágrátandi, í algjöru losti, miklu uppnámi, rauðeygð, skjálfandi, með skelfingarsvip og sjáanlega í miklu uppnámi. Þykir dóminum framburður A trúverðugur og einsýnt að hún hefur lent í erfiðri lífsreynslu að X. Þá þykir dóminum framburður ákærða haldinn ósennileikablæ. Fær framburður hans um að hann og A hafi verið að kyssast og láta vel hvort að öðru í herbergi íbúðarinnar ekki stoð í framburði neins þeirra fjölmörgu vitna er voru í samkvæminu. Í því ljósi og með vísan til þess að vitni hafa borið að A hafi ekki borið fullkomið traust til ákærða og óskað eftir því að honum yrði vísað út úr íbúðinni verður að telja þann framburð hans að A hafi að fyrra bragði sett hönd sína inn á ber kynfæri ákærða ósennilegan. Þá verður að telja það háttalag hans að yfirgefa stigapallinn án þess að hafa um það nein frekari orð sérkennilegt ef litið er til þess að hann ber að A og honum hafi verið ágætlega til vina og að þau hafi látið innilega hvort að öðru fáeinum sekúndum áður. Með hliðsjón af öllu þessu er það niðurstaða dómsins að framburður A verði lagður til grundvallar á þann hátt að ákærði hafi með ofbeldi þröngvað henni til annarra kynferðismaka en samræðis, með því að stinga fingur inn í leggöng hennar. Verður ákærði því sakfelldur fyrir fullframið brot gegn 194. gr. laga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992. Í september 2003 gekkst ákærði undir sátt hjá lögreglustjóranum í Reykjavík vegna brota á ákvæðum umferðarlaga um akstur undir áhrifum áfengis. Þá gekkst hann á ný undir sátt hjá lögreglustjóra 28. júlí 2004 vegna hraðaksturs. Að síðustu ber sakavottorð hans með sér að hann hafi gengist undir sátt hjá lögreglustjóra 29. október 2004 vegna hraðaksturs og aksturs án ökuréttinda. Brot ákærða í þessu máli er framið áður en ákærði gekkst undir sáttirnar á árinu 2004. Í því ljósi ber að ákvarða honum refsingu með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðislega misnotkun á líkama ungrar stúlku. Við mat á refsingu er til þess að líta að hún hlaut af atlögunni andlegt áfall, sem reynst hefur henni erfitt viðureignar og þungbært. Í ljósi eðlis brots ákærða og afleiðinga þess er refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Ása Ólafsdóttir héraðsdómslögmaður hefur krafist skaðabóta fyrir hönd A að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta. Í kröfunni er vísað til þess að brot ákærða hafi valdið A umtalsverðum miska. Hafi hún verið grandlaus um að hún væri í hættu stödd. Við komu á neyðarmóttöku hafi A verið í mjög miklu uppnámi og sýnt líkamleg kreppuviðbrögð. Hún hafi verið útgrátin og með mikla vöðvaspennu. Henni hafi liðið mjög illa í kjölfar atburðarins og leitað sér sérfræðiaðstoðar til að reyna að vinna úr afleiðingum brotsins. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt vottorði Heiðdísar Sigurðardóttur sálfræðings fór A í sex viðtöl til hennar. Athugun Heiðdísar hafi leitt í ljós tiltekin einkenni áfallaröskunar, en A endurupplifi atburðinn. Þá sýni hún endurtekin hliðrunarviðbrögð við áreitum er tengist áfallinu sem hún hafi orðið fyrir, en hún hafi reynt að forðast hugsanir, tilfinningar eða umræðu sem tengist atvikinu. Þá búi hún við viðvarandi einkenni aukinnar örvunar, t.d. vegna óvænts hljóðs eða snöggra hreyfinga. Deyfing á tilfinningum með neyslu, tilhneiging til að forðast hugsanir eða tilfinningar og umræður um atvikið eigi drýgstan þátt í að A hafi flosnað upp úr viðtölum. Hafi hún átt við tilfinningalega erfiðleika að stríða í einhver ár, en þau einkenni sem fram komi séu einkenni sem hafi komið fram eftir atburðinn, einkenni sem samræmist því að hún hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli. Með vísan til þess er hér að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að atlaga ákærða gagnvart A hafi valdið henni miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 700.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um. Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra um sakarkostnað ásamt tildæmdum málsvarnar- og réttargæslulaunum að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari. Símon Sigvaldason, Allan V. Magnússon og Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærði, Sergio Gabriel Rodriguez Figueras, sæti fangelsi í 18 mánuði. Ákærði greiði A, [kt.], 700.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júlí 2004 til 2. mars 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði 359.145 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 201.690 krónur og þóknun til réttargæslumanns brotaþola Ásu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns, 99.600 krónur. |
Mál nr. 717/2009 | Þjófnaður Umferðarlagabrot Ölvunarakstur Akstur án ökuréttar Ökuréttarsvipting Ítrekun | F var sakfelldur fyrir þjófnað með því að hafa brotist inn á skemmtistað og stolið þaðan sjö flöskum af sterku áfengi og svartri leðurtösku með 120 geisladiskum. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot með því að hafa í heimildarleysi tekið bifreið og ekið henni, undir áhrifum áfengis, sviptur ökurétti og án þess að hafa öðlast ökuréttindi, uns lögregla stöðvaði aksturinn. Voru brotin talin varða við 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk umferðarlaga nr. 50/1987. F átti talsverðan sakaferil að baki og hafði dómur frá 2006 ítrekunaráhrif á brot hans. Við ákvörðun refsingar var litið til sakaferils F og þess að hann hefði játað brot sín greiðlega og gripið til aðgerða til að vinna bug á áfengis- og vímuefnavanda sínum. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin 9 mánaða fangelsi. Að virtum sakaferli F voru engin efni til að skilorðsbinda refsinguna. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. nóvember 2009 og krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og höfð óskilorðsbundin, svo og að staðfest verði ævilöng svipting ökuréttar ákærða. Ákærði krefst þess aðallega að refsing verði milduð en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Farið var með mál þetta í héraði sem játningarmál samkvæmt 164. gr., sbr. 3. mgr. 183. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Eins og þar kemur fram á ákærði talsverðan sakaferil að baki og hefur hann frá árinu 1999 sex sinnum hlotið refsidóm fyrir ölvunarakstur, tvisvar fyrir að aka án þess að hafa öðlast ökuréttindi og fjórum sinnum fyrir akstur sviptur ökurétti, síðast 22. desember 2006. Með þeim dómi hlaut hann 14 mánaða fangelsi og var sviptur ökurétti ævilangt fyrir ölvun og réttindaleysi við akstur, en jafnframt var tekin upp og dæmd með 10 mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing til tveggja ára, sem hann hlaut með dómi 9. maí 2006 fyrir skjalafals. Þá hefur ákærði auk þess margsinnis verið dæmdur fyrir ýmis hegningarlagabrot, þar af tvisvar fyrir þjófnað, síðast 6. febrúar 2006, en með þeim dómi hlaut ákærði 9 mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundið. Brot ákærða, sem hér er fjallað um, voru framin 18. apríl 2009 og hefur dómurinn frá 6. febrúar 2006 ítrekunaráhrif á brot ákærða vegna hins óskilorðsbundna hluta dómsins. Með hliðsjón af sakaferli ákærða og vísan til forsendna héraðsdóms um refsingu hans er hún hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, en að virtum sakaferli hans eru engin efni til að skilorðsbinda refsinguna. Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærða og sakarkostnað verða staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Friðrik Halldór Kristjánsson, sæti fangelsi í 9 mánuði. Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærða og sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 228.264 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur. Dómur Héraðsdóms Austurlands 26. október 2009. Mál þetta, sem dómtekið var 20. október sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Seyðisfirði, útgefinni 28. september 2009, á hendur Friðriki Halldóri Kristjánssyni, kt. 010880-2979, Tjarnarbraut 17, Egilsstöðum, og Alfreði Karli Behrend, kt. 040486-2919, Bjarnahóli 2, Höfn í Hornafirði, „I. á hendur ákærðu báðum fyrir þjófnað, með því að hafa, í félagi, aðfaranótt laugardagsins 18. apríl 2009, brotist inn á skemmtistaðinn Thai thai, við Kaupvang 2 á Egilsstöðum, með því að brjóta rúðu í glugga á austurhlið hússins og stela þaðan 7 flöskum af sterku áfengi, samtals að verðmæti um 28.571 krónur og svartri leðurtösku með 120 stk. af geisladiskum. Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. II. á hendur ákærða Friðriki fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot á Fljótsdalshéraði, með því að hafa laugardagsmorguninn 18. apríl 2009, í heimildarleysi tekið bifreiðina NA-389 og ekið henni, undir áhrifum áfengis og án þess að hafa öðlast ökuréttindi, eftir Tjarnarbraut á Egilsstöðum, um Fagradalsbraut og til norðurs um Þjóðveg nr. 1, uns lögreglan stöðvaði aksturinn við Heiðarenda. Vínandamagn í blóði kærða mældist 1,65 nefnt sinn. Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og ákærði Friðrik verði auk þess dæmdur til sviptingar réttar til að öðlast ökuskírteini skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 5071987, sbr. breytingarlög.“ Með framhaldsákæru, sem lögð var fram við þingfestingu málsins 6. október sl., krafðist lögreglustjórinn á Seyðisfirði þess að II. lið ákæru málsins yrði breytt þannig að í stað orðanna „án þess að hafa öðlast ökuréttindi“ komi „sviptur ökurétti“. Þáttur ákærða, Friðriks Halldórs Kristjánssonar, var klofinn frá við þingfestingu málsins 6. október sl. og verður dæmt um þátt meðákærða sérstaklega á upphaflegu málsnúmeri, S-107/2009. Er hér einungis til umfjöllunar þáttur ákærða Friðriks Halldórs. Ákærði játaði brot sín skýlaust fyrir dóminum eins og þeim er lýst í framangreindri ákæru, með þeirri breytingu sem gerð var með framhaldsákærunni, og var málið því þegar tekið til dóms samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, eftir að ákærði sjálfur og fulltrúi ákæruvalds höfðu tjáð sig stuttlega um ákvörðun viðurlaga. Með játningu ákærða, sem fær fulla stoð í gögnum málsins, telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem lýst er í ákæru, með þeirri breytingu sem gerð var með framhaldsákærunni, og sem þar eru rétt heimfærð til refsiákvæða. Telur dómurinn skilyrði uppfyllt fyrir útgáfu framhaldsákærunnar, sbr. 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008, enda mátti ákærða, sem er sviptur ökurétti ævilangt, vera villan ljós. Ákærði á töluverðan sakaferil að baki. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði frá árinu 1999 sex sinnum fengið dóm fyrir ölvunarakstur og auk þess sex sinnum verið dæmdur fyrir að aka sviptur ökurétti frá árinu 2000. Auk þess hefur hann margoft verið dæmdur fyrir ýmis hegningarlagabrot, þar af þrisvar sinnum fyrir þjófnað og önnur auðgunarbrot, síðast með dómi 6. febrúar 2006, og tvisvar fyrir nytjastuld, síðast á árinu 2001. Síðast hlaut hann dóm 22. desember 2006 og var honum þá dæmd 14 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisrefsing, auk ævilangrar ökuréttarsviptingar, fyrir ölvunar- og sviptingarakstur, en þá var 10 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdómur sem ákærði hlaut 9. maí sama ár fyrir brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga tekinn upp og dæmdur með. Hefur ákærði lokið afplánun samkvæmt framangreindum dómum og var honum veitt reynslulausn af 170 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar í eitt ár 6. janúar 2008. Brot ákærða sem hann er nú sakfelldur fyrir er framið eftir 6. janúar 2009 og verður því ekki annað séð en að hann hafi staðist skilyrði reynslulausnar. Við ákvörðun refsingar ákærða vegna fyrri liðar ákærunnar hefur dómur frá 6. febrúar 2006 ítrekunaráhrif, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga. Þá er tekið mið af því að það brot hans var framið í félagi við annan mann, en aftur á móti verður ekki talið að það tjón sem af því hlaust hafi verið stórvægilegt. Með brotum sínum samkvæmt síðari lið ákærunnar hefur ákærði gerst sekur um nytjastuld og auk þess í 7. sinn gerst sekur um bæði ölvunar- og sviptingarakstur. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði hefur játað brot sín greiðlega hér fyrir dómi og að hann hefur gripið til aðgerða til að vinna bug á áfengis- og vímuefnavanda sínum. Þykir refsing ákærða með hliðsjón af framangreindu og í samræmi við ákvæði 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin 9 mánaða fangelsi. Ákærði upplýsti fyrir dómi að hann væri á leið á áfangaheimili á Akureyri til tveggja ára meðferðar og hygðist freista þess að ná tökum á lífi sínu, en hann upplýsti jafnframt að afbrot hans hafi í öllum tilvikum tengst áfengis- og vímuefnavanda hans. Liggur fyrir bréf Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi og tölvubréf deildarstjóra á áfangaheimili á Akureyri, sem staðfesta að ákærði hafi fengið pláss á áfangaheimilinu og undirritað endurhæfingarsamning, sem jafnframt liggur fyrir. Þykir því fram komið að ákærði hafi gripið til raunhæfra aðgerða til að ná tökum á lífi sínu. Þá liggur fyrir að ákærði stóðst skilyrði reynslulausnar og kom einnig fram hjá honum að það brot sem hann er nú sakfelldur fyrir hafi verið framið þegar hann hafði fallið eftir að hafa verið í áfengis- og vímuefnabindindi um nokkurt skeið. Í ljósi þess að ákærði hefur samkvæmt framansögðu sýnt vilja í verki til að vinna bug á vímuefnavanda sínum þykir dómnum unnt, þrátt fyrir sakaferil ákærða, að fresta fullnustu refsingar hans og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir liggur að ákærði virðist aldrei hafa öðlast ökuréttindi en hefur þrátt fyrir það margítrekað verið sviptur ökurétti vegna ölvunaraksturs. Þá hefur hann einnig margítrekað verið dæmdur fyrir akstur sviptur ökurétti. Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt með dómi 22. desember 2006. Þykir með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga rétt að ítreka ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða, en í ökuréttarsviptingu felst ekki aðeins svipting réttar samkvæmt ökuskírteini heldur einnig svipting réttar til að öðlast ökuskírteini, sbr. 5. mgr. 101. gr. sömu laga. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, sem samkvæmt yfirliti ákæruvalds nemur 26.461 krónu. Dómur þessi er kveðinn upp af Halldóri Björnssyni dómstjóra í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum, klukkan 15:30 mánudaginn 26. október 2009. Dómsorð: Ákærði, Friðrik Halldór Kristjánsson, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fullnustu refsingar hans er frestað og skal hún falla niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt. Ákærði greiði 26.461 krónur í sakarkostnað. |
Mál nr. 446/2008 | Kærumál Málskostnaður Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti | Máli Á gegn G, S o.fl. var vísað frá héraðsdómi en málskostnaður felldur niður. G og S kærðu úrskurðinn og kröfðust þess að Á yrði gert að greiða þeim málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Í lögum er ekki að finna sjálfstæða heimild til að kæra eingöngu ákvæði um málskostnað í úrskurði héraðsdómara nema svo standi á, sem um ræðir í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það lagaákvæði átti ekki við í máli þessu og stóð því engin heimild til kæru G og S. Var málinu því vísað frá Hæstarétti. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. júní 2008, þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðilum og fleirum var vísað frá dómi, en málskostnaður felldur niður. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Varnaraðili höfðaði mál þetta gegn sóknaraðilum og sex öðrum með stefnu 13. júní 2007. Sóknaraðilar ásamt einum þeirra, sem stefnt var þeim við hlið, gerðu þá aðalkröfu í héraði að málinu yrði vísað frá dómi. Með hinum kærða úrskurði vísaði héraðsdómari málinu frá dómi í heild. Samkvæmt j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms um frávísun máls. Eðli máls samkvæmt geta aðrir en sá, sem mál hefur höfðað, ekki haft lögvarða hagsmuni af því að kæra úrskurð þessa efnis, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 186/1998, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1793. Samkvæmt því hefði sóknaraðila brostið heimild til að kæra úrskurð héraðsdómara að því er varðar þá niðurstöðu að málinu skyldi vísað frá dómi, hvort sem væri til að fá henni hnekkt eða hana staðfesta. Í lögum er ekki að finna sjálfstæða heimild til að kæra eingöngu ákvæði um málskostnað í úrskurði héraðsdómara nema svo standi á, sem um ræðir í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Það lagaákvæði á ekki við í máli þessu og stendur því engin heimild til kæru sóknaraðila, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 26/2001, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 498. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá Hæstarétti. Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður fellur niður. |
Mál nr. 126/2007 | Kærumál Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. mars 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði fundust fíkniefni við leit tollgæslu í bifreið, sem hafði þá nýlega verið flutt inn til landsins frá Þýskalandi. Voru fíkniefnin fjarlægð og gerviefnum komið fyrir í staðinn. Liggur fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi ásamt öðrum manni fjarlægt úr bifreiðinni umrædd gerviefni. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 802/2017 | Lögmaður Skaðabætur Starfsábyrgðartrygging Sönnun | S fól lögmanni að annast um innheimtu bóta fyrir sína hönd vegna vinnuslyss sem hann lenti í á árinu 2005 og fór uppgjör bóta vegna slyssins fram á árinu 2009. S taldi að lögmaðurinn hefði sýnt af sér vanrækslu við gæslu hagsmuna sinna og krafðist bóta á grundvelli starfsábyrgðartryggingar lögmannsins hjá V hf. Byggði S annars vegar á því að lögmaðurinn hefði valdið sér tjóni með því að stofna til kostnaðar við öflun matsgerðar dómkvaddra manna sem ekki hefði fengist endurgreiddur. Hins vegar taldi S að tjón sitt mætti rekja til ætlaðs mismunar fjárhæðar þeirra bóta sem hann hafði fengið greiddar vegna slyssins og fjárhæðar þeirra bóta sem S taldi sig hafa átt tilkall til hefði lögmaðurinn haldið rétt á máli hans. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að hafna fjárkröfu S vegna þess kostnaðar sem hlaust af öflun matsgerðarinnar. Þá taldi rétturinn jafnframt að S hefði ekki tekist að sýna fram á að hann hefði orðið fyrir frekara tjóni en því sem bætt var með uppgjörinu 2009. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu V hf. af kröfum S því staðfest. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson ogKarl Axelsson og Hildur Briem héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. október2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 22. nóvember 2017 og áfrýjaðihann öðru sinni 19. desember það ár. Hann krefst þess að stefnda verði gert aðgreiða sér 5.285.444 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001um vexti og verðtryggingu af 493.900 krónum frá 13. mars 2008 til 10. mars2009, en af 5.285.444 krónum frá þeim degi til 9. maí 2015, en meðdráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en tilvara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðarfyrir Hæstarétti.Svo sem rakið er íhéraðsdómi lítur ágreiningur málsaðila að því hvort lögmaður, sem tryggður varstarfsábyrgðartryggingu hjá stefnda, og áfrýjandi hafði falið hagsmunagæslu afsinni hálfu vegna vinnuslyss 30. apríl 2005, hafi vanrækt þá þjónustu meðsaknæmum og ólögmætum hætti og valdið áfrýjanda af þeim sökum fjártjóni. Bótakrafa áfrýjanda af þessutilefni er tvíþætt. Er hún annars vegar á því reist að lögmaðurinn hafi valdiðáfrýjanda tjóni með því að stofna til útgjalda með öflun matsgerðar dómkvaddramanna en kostnaður við hana hafi ekki fengist endurgreiddur. Hins vegar teluráfrýjandi að tjón sitt megi rekja til ætlaðs mismunar fjárhæðar bóta sem hannfékk greiddar 11. mars 2009, frá viðkomandi tryggingarfélagi vegna afleiðingaslyssins 30. apríl 2005, og þeirrar fjárhæðar bóta sem hann telur sig hafa átttilkall til hefði lögmaðurinn haldið rétt á máli hans.Með vísan til forsenda hinsáfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að hafna fjárkröfu áfrýjanda vegnakostnaðar hans af öflun mats dómkvaddra manna. Hvað varðar síðari þátt bótakröfuáfrýjanda er til þess að líta að í málinu liggur fyrir yfirmatsgerð dómkvaddramanna, 27. febrúar 2009, um afleiðingar umrædds slyss áfrýjanda. Var hún lögðtil grundvallar fyrrnefndu uppgjöri bóta til áfrýjanda og hefur niðurstöðumhennar ekki verið hnekkt. Þá er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki verðifallist á með áfrýjanda að við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku hans afvöldum umrædds slyss hafi verið forsendur til þess að miða við árslaun semmetin yrðu sérstaklega vegna óvenjulegra aðstæðna, samkvæmt 2. mgr. 7. gr.skaðabótalaga nr. 50/1993. Bar þvert á móti, svo sem gert var í nefnduuppgjöri, að miða við meðalatvinnutekjur áfrýjanda síðustu þrjú almanaksárinfyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. sömu laga. Af þessu leiðir að áfrýjanda hefurekki tekist að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir neinu frekara tjóni en bættvar með uppgjöri því sem fram fór 11. mars 2009. Eru því engin efni til þess aðfjalla frekar um hugsanlega bótaskylda háttsemi umrædds lögmanns íhagsmunagæslu hans fyrir áfrýjanda og verður stefndi því þegar af þessari ástæðu sýknaður af þessum hluta bótakröfu áfrýjanda.Hinn áfrýjaði dómur verður samkvæmt þessu staðfestur, þar meðtalið um ákvörðun málskostnaðar.Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af rekstrimálsins fyrir Hæstarétti.Dómsorð:Héraðsdómur skal vera óraskaður.Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí2017.Mál þetta, sem varhöfðað með birtingu stefnu þann 3. maí 2016, var dómtekið 16. maí sl. Stefnandier Sigurður Steinar Jónsson, Drekavöllum 20 í Hafnarfirði og stefndi er Vörðurtryggingar hf., Borgartúni 26 í Reykjavík. Stefnandi krefst þess að stefndigreiði sér 5.285.444 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti ogverðtryggingu nr. 38/2001, af af 493.900 krónum frá 13. mars 2009 til 10. mars2009 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til 9. maí 2015 en með dráttarvöxtumskv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Stefndi krefst aðallega sýknu aföllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda en til varaað kröfur hans verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður. I.Stefnandi slasaðistvið vinnu sína hjá HB Granda hf. um borð í Venusi HF-519 þann 30. apríl 2005.Stefnandi tilkynnti slysið til Sjóvá-Almennra trygginga hf., sem vartryggingafélag vinnuveitanda hans, með tjóntilkynningu 7. september 2005. Kemurþar fram að slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnandi hafi fallið úr kojuog að hann sé algerlega óvinnufær um óákveðinn tíma. Þann 8. september sama ár veittistefnandi Steingrími Þormóðssyni hrl. fullt og ótakmarkað umboð til að gætahagsmuna sinna vegna áverka eftir slysið. Steingrímur átti í bréfaskiptum ogöðrum samskiptum við tryggingafélagið í september og október vegna málsstefnanda og með bréfi þess 23. október 2005 féllst félagið á að greiðastefnanda ósundurgreinda innborgun á tjónsbætur sem nam rétti hans tilþjáningabóta frá slysdegi til 1. október en frekari bótagreiðslum var hafnað aðsvo stöddu. Þann 7. nóvember afturkallaðistefnandi umboð Steingríms og fól Birni L. Bergssyni hrl. umboð til að gætahagsmuna sinna í málinu. Í bréfi til stefnanda 2. maí 2006 upplýsir Björn hannum að tímabært sé að leggja mat á afleiðingar slyssins enda hafði þá boristlæknisvottorð frá Stefáni Dalberg bæklunarlækni sem var meðferðarlæknirstefnanda. Tilkynnir hann stefnanda að hann sé í viðræðum við tryggingafélagiðum hvernig best sé að standa að því mati. Í tölvuskeyti 21. ágúst sama árupplýsir lögmaðurinn stefnanda og þáverandi sambýliskonu hans, Elínu HönnuJóndóttur, um að hann og tryggingafélagið hafi sammælst um að fá tilgreindamatsmenn, lækni og lögfræðing, til að leggja mat á afleiðingar slyssins. Þausvara skeytinu daginn eftir og kveðast ósátt við þá ákvörðun að umræddirmatmenn vinni verkið og kveða þá ekki hæfa til þess. Krefjast þau þess að tveirnánar tilgreindir læknar verði fengnir til að vinna matsgerð. Lögmaðurinnsvarar þessu skeyti og úrskýrir hefðbundinn gang matsvinnu í málum af þessutagi og stingur upp á því að stefnandi fái annan lögmann til að vinna fyrirsig, beri hann ekki fullt traust til vinnu lögmannsins. Þann 5. mars 2007tilkynnir stefnandi lögmanninum að hann hafi ákveðið að leita annað og meðumboði dagsettu 1. maí 2007 felur stefnandi Steingrími á ný að gæta hagsmunasinna og afturkallar um leið umboð Björns. Þann 14. desember 2007 erudómkvaddir tveir matsmenn til að meta tjón stefnanda. Í matsgerð þeirra frá 15.febrúar 2008 er niðurstaðan sú að stöðugleika skv. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaganr. 50/1993 hafi verið náð 30. október 2005, stefnandi hafi verið óvinnufær fráslysdegi til 1. júlí 2006, án þess að það hafi valdið honum fjártjóni ogtímabil þjáninga hafi verið það sama. Þá telja matsmenn varanlegan miska skv.4. gr. skaðabótalaga vera 25 stig og varanleg örorka skv. 5. gr. sömu laga sé30%. Lögmaðurinn sendir tryggingafélaginu bótakröfu á grundvelliframangreindrar matsgerðar með kröfubréfi dagsettu sama dag og matsgerðinni erskilað 15. febrúar 2008. Þar gerir hann kröfu um að fjárhæð bóta verði miðuðvið viðmiðunarlaun skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og að miðað verði við6.000.000 króna árslaun og vísar til þess að það launaviðmið byggi á launum stefnandafyrir sjósókn á árinu 2005. Krafan var ítrekuð með bréfi lögmannsins dags. 25.júní 2008. Að beiðni tryggingafélagsins varóskað eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna. Skiluðu þeir yfirmatsgerð 27. febrúar2009. Í millitíðinni aflaði lögmaður stefnanda vottorðs geðlæknis, varðandiandlegar afleiðingar slyssins og var það meðal gagna sem yfirmatsmenn höfðuundir höndum við mat sitt. Niðurstaða yfirmatsgerðar varðandi varanlegarafleiðingar slyssins var á þá leið að varanlegur miski stefnanda væri 20 stig ogvaranleg örorka 15%. Lögmaðurinn mótmælti niðurstöðu matsgerðar í bréfi tiltryggingafélagsins og sendi stefnanda jafnframt afrit af því bréfi ásamtyfirmatgerðinni. Bæði þessi bréf eru dagsett 10. febrúar 2009 en líkur eru á aðrétt dagsetning þeirra sé 10. mars það ár. Í bréfinu til tryggingafélagsins erhandskrifuð athugasemd þess efnis að launaviðmiðið fái ekki staðist. Í bréfinutil stefnanda biður hann stefnanda að hafa samband sem fyrst. Þann 10. mars 2009 senditryggingafélagið lögmanninum uppgjörstillögu félagsins sem byggði á niðurstöðuyfirmatsgerðar. Í tillögunni var miðað við uppreiknaðar meðaltekjur stefnandasl. þrjú ár fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Lögmaðurinnundirritaði fullnaðaruppgjör með fyrirvara sem m.a. hljóðar þannig: „samþykktmeð fyrir um bætur skv. undirmati [...].“ Daginn eftir sendir lögmaðurinn á nýbréf til tryggingafélagsins. Bréfið er dagsett 11. febrúar 2009 en ber með sérað hafa verið faxað til tryggingafélagsins þann 11. mars s.á. Í því bréfi lýsirlögmaðurinn því yfir að hann samþykki að taka við bótum með fyrirvara um„kröfur stefnanda skv. undirmati dómkvaddra matsmanna“. Segir jafnframt íbréfinu að niðurstaða yfirmatsmanna um miskastig sé ekki rökstudd meðfullnægjandi hætti. Í tölvuskeyti Gunnars Péturssonar, starfsmannstryggingafélagsins, sem sent var sama dag, innir hann lögmanninn eftir þvíhvort skilja megi hann þannig að fyrirvari hans einskorðist við þann mismun semsé á yfirmati og undirmati hvað varðar varanlegan miska og varanlega örorku enekki um árslaunaviðmiðið eða aðra uppgjörshluta. Ekki er að sjá af gögnummálsins að lögmaðurinn hafi svarað þessu skeyti. Greiðslur tryggingafélagins,samtals 3.997.436 krónur, voru inntar af hendi sama dag en félagið féllst ekkiá að greiða útlagaðan kostnað stefnanda vegna undirmatgerðarinnar. Með bréfi 14. mars 2009 sendilögmaðurinn stefnanda skilagreinar og reikninga vegna málsins ogyfirmatsgerðina og segir frá því að greiðslur séu inntar af hendi í samræmi viðhana. Jafnframt segir í bréfinu að tekið hafi verið við bótum með ákveðnumfyrirvara og biður lögmaðurinn stefnanda að vera í sambandi sem fyrst. Þáliggur fyrir í málinu bréf frá Steingrími til Elínar Hönnu, dagsett 15. febrúar2009, en efni þess ber með sér að það hafi verið skrifað eftir að framangreintbréf til stefnanda var sent og eftir að lögmaðurinn sendi tryggingafélaginubréf með faxi þann 11. mars s.á. Í því bréfi segir að ef fara á í mál sénauðsynlegt að fá skattframtöl til að biðja um gjafsókn. Þá kvartar hann yfirþví að ná aldrei í stefnanda og biður þau að koma saman til fundar við sig þarsem óþægilegt sé að ræða við stefnanda í gegnum millilið. Stefnandi neitar þvíað þetta bréf hafi borist Elínu Hönnu. Í ársbyrjun 2013 veitirstefnandi Elínu Hönnu umboð til að annast fyrir sína hönd sjóslysamál sem íumboðinu segir að Steingrímur Þormóðsson reki fyrir hönd stefnanda. Umboðið erdagsett 24. janúar 2013. Í bréfi frá Steingrími til Elínar Hönnu, sem dagsetter 6. apríl 2013, segir hann að málið eigi að vera opið til loka apríl 2015 oghann hafi verið að skoða möguleika á málaferlum og kröfugerð þar að lútandi.Tekur hann fram að sjálfsagt sé að fara í dómsmál en það sé kostnaðarsamt.Endar bréfið á því að lögmaðurinn segir nauðsynlegt að hittast og fara yfirmálið. Stefnandi staðhæfir að þetta bréf hafi aldrei borist Elínu Hönnu. Þann12. ágúst sama ár skrifar stefnandi lögmanninum og kveðst vilja gagna frálokauppgjöri við tryggingafélagið á grundvelli yfirmatsins, sem hann kveðst þóekki vera sáttur við. Óskar hann eftir því að lögmaðurinn afli þegar í staðtillögu að lokauppgjöri frá tryggingafélaginu og sendi stefnanda og kveðstsíðan munu láta lögmanninn vita hvort hann sé sáttur við tillöguna. Í framhaldiaf þessu skeyti sendir lögmaðurinn tryggingafélaginu bréf 14. ágúst s.á. ogóskar eftir upplýsingum um það hvort lokauppgjör hafi ekki þegar farið fram ogfær staðfestingu daginn eftir þess efnis að tryggingafélagið líti svo á aðmálinu sé lokið auk þess sem sennilegt sé að mati þess að frekari kröfur séufyrndar. Ekki verður séð af gögnum málsins að lögmaðurinn hafi sent stefnandaupplýsingar um þessi samskipti hans við tryggingafélagið en fyrir liggja afritmargra tölvuskeyta frá stefnanda til lögmannsins á tímabilinu september 2013til febrúar 2014 þar sem hann innir hann eftir svörum frá tryggingafélaginu. Ímaí 2014 sneri stefnandi sér til tryggingafélagsins og spurðist fyrir um máliðog fékk sömu svör og lögmaðurinn hafði fengið í ágúst 2013. Í bréfi sem lögmaðurinn ritar ogdagsett er 16. ágúst 2013 kveðst hann vera reiðubúinn að höfða mál fyrirstefnanda og vísar til samskipta sinna við Elínu Hönnu en óskar eftirinnágreiðslu á málið áður. Þá segir í sama bréfi að lögmaðurinn telji ekkilíkur á að stefnandi geti fengið gjafsókn í málinu og jafnframt að tvísýnt sé umað árangur náist í kröfu um árslaunaviðmið skv. 2. mgr. 7. gr.skaðabótalaganna. Stefnandi kveðst aldrei hafa fengið þetta bréf. Með umboði dags. 10. mars 2015veitti stefnandi Steini S. Finnbogasyni hdl. umboð til að fara með mál hansvegna slyssins árið 2005. Skömmu síðar krafði sá lögmaður tryggingafélagið umbætur til handa stefnanda fyrir varanlega örorku þar sem árslaun til ákvörðunarbóta yrðu metin sérstaklega með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Miðaðikrafa hans við meðaltekjur stefnanda á því tímabili árið 2006 sem hann var ífullu starfi. Tryggingafélagið hafnaði kröfu hans með tölvuskeyti 25. mars 2015og vísaði til þess að félagið teldi að fyrirvarinn sem gerður var við móttökubóta hefði ekki tekið til árslaunaviðmiðsins heldur einvörðungu lotið að mismuná milli undirmatsgerðar og yfirmatsgerðar að því er varðar varanlegan miska ogörorku. Auk þess taldi félagið að allar kröfur stefnanda hefðu fyrnst skv. 29.gr. þágildandi laga um vátryggingasamninga, nr. 20/1954, í síðasta lagi í árslok2012. Stefnandi telur sig hafa áttrétt til hærri bóta vegna tjóns af völdum slyssins í apríl 2005 og að ástæðaþess að sú krafa hafi ekki náð fram að gagna sé sú að lögmaður hans,Steingrímur Þormóðsson hrl., hafi sýnt af sér gáleysi við gæslu hagsmuna hans.Í máli þessu krefur hann stefnda um bætur á grundvelli starfsábyrgðartryggingarlögmannsins. Stefnandi, SteingrímurÞormóðsson hrl., Skorri Steingrímsson hdl. og Gunnar Pétursson hdl., lögmaðurSjóvá-Almennra trygginga hf., gáfu skýrslu fyrir dómi. Framburður þeirra errakinn í niðurstöðukafla dómsins eftir því sem tilefni er til.II.Stefnandi byggirkröfur sínar á því að Steingrímur Þormóðsson hrl. hafi valdið sér tjóni meðsaknæmri og ólögmætri háttsemi. Steingrímur hafi sýnt af sér gáleysi við gæsluhagsmuna stefnanda annars vegar við innheimtu fullra og réttra bóta vegnavinnuslyss hans og hins vegar við ranga ráðgjöf vegna kostnaðar af matsgerðdómkvaddra matsmanna. Steingrímur hafi ekki lagt sig fram um að gæta hagsmunastefnanda, hann hafi ekki rækt verkið, sem stefnandi hafi trúað honum fyrir, afalúð og ekki neytt allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna hans.Þjónusta Steingríms teljist því gölluð og hafi valdið stefnandi tjóni ogstefnandi eigi af þeim sökum rétt til skaðabóta. Þá hafi skort á hlutlausasérfræðiráðgjöf, heiðarleika og fagmennsku sem telja verði áskilið þegar umsérfræðing á tilteknu þjónustusviði sé að ræða. Stefnandi byggir fjárkröfursínar á hendur stefnda á vátryggingarábyrgð félagsins vegna starfsábyrgðartryggingarsem Steingrímur hafði í gildi hjá félaginu á þeim tíma sem hann veittistefnanda sérfræðiþjónustu. Sú bótaskylda háttsemi semstefnandi byggir á að Steingrímur hafi sýnt af sér og valdið honum tjóni felstí því að hafa vanrækt að sækja kröfu stefnanda um bætur miðað við árslaun skv.2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og honum hafði verið falið og hann fallist áað gera. Við uppgjör bóta hafi Steingrími borið að árita uppgjörið meðskilmerkilegum fyrirvara um rétt stefnanda til að krefjast fullra bóta, og aðvið útreikning þeirra yrðu árslaun metin sérstaklega skv. 2. mgr. 7. gr.skaðabótalaga, og gera starfsmanni tryggingafélagsins ljóst efni fyrirvaransþegar eftir því hafi verið leitað. Þá hafi honum borið að höfða dómsmál gegntryggingafélaginu í samræmi við þá kröfu sem hann hafði gert innan hæfilegstíma og áður en krafa stefnanda fyrndist auk þess sem honum hafi borið að veitastefnanda fullnægjandi upplýsingar um framvindu verksins og ástæður tafa. Stefnandi mótmælir því sem rönguog ósönnuðu að Steingrímur hafi metið stöðuna þannig að ekki hafi verið tilefnitil að meta árslaun sérstaklega skv. 2. mgr. 7. gr. Þá beri stefndisönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu að tryggingafélagið hefði ekki fallistá þá kröfu enda láðist Steingrími að færa rök fyrir kröfu um bætur á grundvelli2. mgr. 7. gr. í bótakröfu dags. 25. júní 2008. Lögmaðurinn hafi einnig vanræktað veita stefnanda fullnægjandi upplýsingar í málinu og hlutlægt álit áréttarstöðu sinni og því hafi stefnanda ekki gefist kostur á að taka upplýstaákvörðun um framhald málsins. Stefnandi mótmælir því sem rönguog ósönnuðu að Steingrímur hafi metið það svo að gjafsókn fengist ekki, að hannhafi upplýst stefnanda um að dómsmál yrði áhættusamt, að Steingrímur hafi fariðfram á innborgun á verkið áður en hafist yrði handa við málshöfðun og aðstefnandi hafi ekki haft frekara samband við Steingrím vegna mögulegrarmálshöfðunar. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum um að málið hafiverið í biðstöðu vegna athafnaleysis stefnanda enda sé það í engu samræmi viðgögn málsins sem benda eindregið til þess að stefnandi og umboðsmaður hans hafiítrekað reynt að fá upplýsingar um gang málsins frá Steingrími en erfitt hafireynst á fá samband við hann og ná fundi með honum. Gögn sýni skilmerkilega aðstefnandi og sambýliskona hans hafi aldrei verið upplýst um annað en aðfullnaðaruppgjör með fyrirvara hafi að mati lögmannsins eingöngu veriðinnborgun og lögmaðurinn væri að vinna að uppgjöri fullra bóta eftir þeirrikröfu sem hann gerði 25. júní 2008. Stefnandi byggir á því að vegnasérreglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð hvíli sönnunarbyrði á stefnda um aðlögmaðurinn hafi ekki sýnt af sér gáleysislega háttsemi og athafnaleysi viðhagsmunagæslu stefnanda enda liggur fyrir í gögnum málsins að Steingrímur hafitalið stefnanda eiga frekari bótarétt sem Steingrími hafði verið falið að sækjaen ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi tekið ákvörðun um að falla fráfrekari innheimtu á þeim bótarétti. Hefði Steingrímur haldið rétti stefnandatil laga þá hefði réttur hans til bóta samkvæmt árslaunaviðmiði 2. mgr. 7. gr.verið viðurkenndur hjá úrskurðarnefnd eða fyrir dómstólum og stefnandi þvífengið hærri bætur. Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvílir á stefnda samkvæmtsérreglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Fyrir slysið þann 30. apríl 2005hafi stefnandi haft fulla starfsorku. Atvinnusaga stefnanda á tímabilinu2000-2005 sýni að stefnandi hafi sóst eftir fullu starf eftir því sem honumhafi boðist en þess á milli hafi hann notið takmarkaðra tekna vegnaatvinnuleysis auk þess sem hann hafi á sama tímabili sinnt járnabindingum ánþess að staðgreiðsluyfirlit beri þess merki. Á árunum 2002 til 2004 hafi hannunnið fulla vinnu þegar honum hafi boðist það, þ.e. samtals í sex mánuði áþessum árum. Þess á milli hafi hann þegið atvinnuleysisbætur og haft tekjur semekki hafi verið gefnar upp til skatts. Þá liggi fyrir að stefnandi sé velmenntaður og búi yfir mikilli starfsreynslu. Í ljósi þessa og atvinnusögu hansfyrir og eftir viðmiðunartímabilið, sbr. 1. mgr. 7. gr., sé ljóst aðóvenjulegar aðstæður hafi verið uppi á því tímabili og skilyrði 2. mgr. til aðmeta tekjur hans sérstaklega hafi verið fyrir hendi. Með réttu hefðu bæturvegna varanlegrar örorku átt að miðast við árslaun sem byggðust á launumstefnanda hjá Íbúðalánasjóði á árunum 2002 til 2004 þá mánuði sem hann var ífullu starfi. Sé krafa hans í málinu miðuð við það. Til viðbótar komi 6%lífeyrissjóðsiðgjald og verðbætur miðað við launavísitölu októbermánaðar 2005.Viðmiðunarlaunatekjur verði þannig 3.921.302 kr. vegna ársins 2002, 4.391.499kr. vegna ársins 2003 og 3.570.795 kr. vegna ársins 2004. Samtals verði árslaunskv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga meðaltal þessara ára eða 3.961.199 kr. Viðútreikning kröfunnar sé miðað við að stuðullinn skv. 6. gr. skaðabótalaga sé10,533 en stefnandi hafi verið 40 ára og 73 daga gamall þegar stöðugleika varnáð þann 30. október 2005. Þá sé miðað við 15% varanlega örorku. Samkvæmt þessuséu réttar bætur til stefnanda 6.258.496 kr. (3.961.199 x 10,533 x 15%).Stefnandi hafi fengið greiddar 2.125.933 kr. vegna varanlegrar örorku og nemiþví fjárhæð vangreiddra bóta 4.132.563 kr. Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr.skaðabótalaga frá 30. október 2005 til 10. mars 2009, samtals 658.981 kr., ognemi því tjón stefnanda vegna þessa liðar 4.791.544 kr. Krafist er vaxta skv.8. gr.laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. mars 2009 til 9. maí2015, en þá hafi mánuður verið liðinn frá bótakröfu stefnanda, og sé krafistdráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Auk framangreindrar kröfu gerirstefnandi kröfu um að stefndi greiði honum 493.900 kr. með vöxtum skv. 8. gr.laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 13. mars 2008 til 9. maí 2015,en þá var mánuður liðinn frá bótakröfu stefnanda, og dráttarvaxta skv. 1. mgr.6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Þessi þáttur kröfu stefnandaer byggður á því að Steingrímur hafi sýnt af sér gáleysi þegar hann fór fram ádómkvaðningu matsmanna. Í fyrsta lagi hafi hann án samráðs við stefnandaafturkallað drög fyrri lögmanns að sameiginlegri matsbeiðni hans og tryggingafélagsins.Þá hafi hann veitt stefnanda ranga ráðgjöf þegar hann sagði stefnanda aðtryggingafélagið myndi endurgreiða honum kostnað af öflun matsgerðar dómkvaddramatsmanna. Hann hafi þannig brotið gegn skyldu sinni að veita stefnandahlutlægar upplýsingar um kostnað og hagkvæmni þess að afla matsgerðar meðdómkvaðningu matsmanna og þjónusta hans að þessu leyti verið gölluð í skilningilaga nr. 42/2000, um þjónustukaup. Kostnaðurinn af undirmatsgerðinni hafi ekkifengist endurgreiddur og tjón stefnanda sem af því hlaust hafi numið 493.900krónum sem stefnda beri að greiða stefnanda með vöxtum eins og rakið er aðframan. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að þetta tjón megi ekki rekjatil hinnar röngu ráðgjafar lögmannsins. III.Stefndi reisirsýknukröfu sína á því að hagsmunagæslu Steingríms Þormóðssonar hrl. fyrirstefnanda hafi í engu verið ábótavant, gögn málsins beri með sér að málið hafiverið rekið af festu og á eðlilegum hraða. Ósannað sé að Steingrímur Þormóðssonhafi sýnt af sér saknæma háttsemi auk þess sem tjón og orsakatengsl séuósönnuð. Þá mótmælir stefndi því að beita eigi ströngu sakarmati og öfugrisönnunarbyrði svo sem stefnandi byggi á. Stefndi byggir á því aðfyrirvarinn sem Steingrímur hafi gert þegar hann tók við bótum fyrir hönd stefnandahafi verið fullnægjandi. Í kröfubréfi lögmannsins frá 25. júní 2008 og í fyrrakröfubréfi hans frá 15. febrúar sama ár, sé krafist bóta miðað við 6.000.000króna árslaun og vísað til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna til stuðnings þeirrikröfu. Í fyrra bréfinu sé sú krafa sérstaklega rökstudd. Í báðum bréfunum ségerð bótakrafa á grundvelli undirmatsgerðar. Þessi krafa sé ítrekuð meðhandskrifaðri athugasemd á bréfi til Sjóvá, dags. 10. febrúar 2009, sem senthafi verið í kjölfar yfirmatsgerðar sem tryggingafélagið hafi aflað. Krafan séloks einnig rituð á uppgjörskvittun tryggingafélagsins. Stefnandi hafisérstaklega verið upplýstur um þessa fyrirvara, m.a. með bréfi lögmannsins frá14. mars 2009. Stefndi byggir á því aðtryggingafélagið hafi synjað kröfu um að miða bætur til stefnanda viðárslaunaviðmið skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Félagið hafi greitt bæturí samræmi við niðurstöðu yfirmatsgerðar og miðað bótauppgjör við meðallaunstefnanda þrjú síðustu ár fyrir slysdag, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna.Fyrirvarinn sem lögmaðurinn hafi gert þegar hann hafi tekið við bótunum hafivísað til framangreindra kröfubréfa hans en orðrétt standi „samþykkt meðfyrirvara um kröfu skv. undirmati“. Innan þessa fyrirvara rúmist mismunurinn áþeirri kröfu sem gerð var samkvæmt undirmati og þeirri greiðslu sem tekið hafiverið á móti, þ.m.t. mismunurinn sem felst í meðallaunum skv. 1. mgr. 7. gr.skaðabótalaga annars vegar og sérstökum viðmiðunarlaunum skv. 2. mgr. 7. gr.skaðabótalaga sem krafa hafi verið gerð um. Fyrirvarinn hafi verið fullnægjandiog viðbrögð eða túlkun tryggingafélagsins breyti engu þar um. Í öllu falli séþað ósannað að fyrirvarinn hafi verið ófullnægjandi og sönnunarbyrðin um þaðatriði hvíli á stefnanda. Jafnvel þótt fyrirvarinn teldistófullnægjandi sé ekki um saknæma háttsemi að ræða af hálfu lögmannsins. Honumhafi verið veitt heimild til að semja um og taka við greiðslu með umboði frástefnanda dagsettu 1. maí 2007 og hafi ekki þurft frekari heimild frá stefnandatil að inna það verk af hendi. Hvorki í umboðinu né öðrum gögnum sé að finnafyrirmæli frá stefnanda um að taka eigi við greiðslu með fyrirvara um að hafauppi frekari kröfur. Móttaka greiðslna án fyrirvara rúmist innan þess umboðssem stefnandi hafi veitt lögmanninum. Stefndi byggir einnig á því aðupplýsingagjöf og ráðgjöf Steingríms hafi verið fullnægjandi. Í kjölfaruppgjörs frá tryggingafélaginu árið 2009 hafi hann, bæði munnlega og skriflega,upplýst stefnanda og þáverandi sambýliskonu hans, Elínu Hönnu Jónsdóttur, semhafi alfarið séð um samskipti við lögmenn vegna málsins, um stöðu mála og sagtþeim að á brattann væri að sækja í dómsmáli varðandi kröfu um launaviðmið ágrundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Í kjölfar þessara samskipta hafiSteingrímur gert þeim ljóst að ef stefnandi hygðist sækja frekari rétt sinnætti hann að hafa samband við Steingrím. Það hafi stefnandi ekki gert fyrr enum áramót 2012-2013 þegar Elín Hanna, sem þá hafði slitið sambúð með stefnanda,hafi haft samband við Steingrím. Eftir að lögmaðurinn hafi gengið eftir því aðhún legði fram umboð frá stefnanda hafi hann upplýst hana munnlega um stöðumála og mögulegt framhald þess og ítrekað þær upplýsingar með bréfi dagsettu 6.apríl 2013. Þar segir m.a. ,,auðvitað er hægt að fara í mál en það erkostnaðarsamt, þ.e. leggja þarf í vinnu“. Þetta sé ítrekað í bréfi tilstefnanda sjálfs í kjölfar síðari fyrirspurnar hans 16. ágúst 2013. Sérstaklegasé því mótmælt að Steingrímur hafi vanrækt að gefa stefnanda hlutlægt álit ámálinu. Það gerði hann ítrekað svo sem að framan hefur verð greint frá, bæðimunnlega og skriflega. Þá komi fram í bréfaskiptum lögmannsins að hann farifram á að fá greitt inn á verkið áður en mál verði höfðað og það hafi hanneinnig gert munnlega á fyrri stigum. Sérstaklega sé þetta skýrt í áðurnefndubréfi til stefnanda frá 16. ágúst 2013. Staðhæfingum um annað sé mótmælt semröngum. Stefndi byggir jafnframt á þvíað lögmanninum hafi ekki verið heimilt að höfða mál fyrir dómi án þess að fábein fyrirmæli um slíkt. Umboð stefnanda hafi ekki náð til málshöfðunar.Ósannað sé að fyrirmæli um málshöfðun hafi borist frá stefnanda og beristefnandi hallann af skorti um sönnun hvað það atriði varðar. Skjalfest sé ogsannað að Steingrímur hafi upplýst stefnanda um að nauðsynlegt væri að greiðainn á verkið ef halda ætti áfram með málið fyrir dómi. Fyrir liggi að enginslík innborgun hafi borist lögmanninum. Hvorki stefnandi né sambýliskona hanshafi haft samband við lögmanninn í hartnær fjögur ár, frá miðju ári 2009 tiláramóta 2012-2013. Þá liggi að auki fyrir skrifleg yfirlýsing stefnanda frá 12.ágúst 2013 um að hann hafi ekki áhuga á frekari málarekstri. Ekkert í nefndubréfi hafi gefið Steingrími ástæðu til að höfða mál vegna launaviðmiðs án tafareða grípa til einhverra annarra aðgerða. Þvert á móti beri bréfið með sér aðstefnanda hafi verið ljóst að ekki væri hægt að aðhafast frekar nema með því aðfara fyrir dóm. Stefndi byggir á því að atvik oggögn þessa máls gefi enga vísbendingu um að líklegt hefði verið að árangur hefðináðst í málshöfðun á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og lögmaðurinnhafi réttilega bent stefnanda á það. Út frá atvinnusögu og menntun stefnandahafi úrslit málaferla í öllu falli verið tvísýn. Í þessu efni verði að líta tilþeirra dómafordæma varðandi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sem legið hafi fyrirárið 2009 þegar uppgjör til stefnanda hafi farið fram. Við þessar kringumstæðursé það ekki saknæm vanræksla lögmanns að halda ekki áfram málarekstri gagnvarttryggingafélaginu, eftir atvikum með málaferlum, án beinna fyrirmæla frástefnanda og samkomulags við hann um greiðslu fyrir þá þjónustu. Einu gildirhvort unnt hefði verið að fá gjafsókn eða ekki enda útiloki gjafsókn ekki aðkostnaður falli á stefnanda máls. Þá mótmælir stefndi því að mögulegkrafa stefnanda hafi fyrnst í síðasti lagi 1. janúar 2013. Það sé í öllu fallióljóst og ósannað og beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni. Stefndi mótmælir því aðSteingrímur hafi viðhaft saknæma háttsemi við dómkvaðningu undirmatsmanna semhafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Jafnframt sé því mótmælt bæði sem rönguog ósönnuðu að hann hafi einhliða afturkallað samkomulag fyrri lögmannsstefnanda við tryggingafélagið um öflun sameiginlegar matsgerðar. Bréfaskiptistefnanda og sambýliskonu hans til fyrri lögmanns stefnanda sýni að stefnandihafi ekki fellt sig við þá matsmenn sem samkomulag hafi náðst um að ynnuverkið. Staðhæfingar hans um að unnt hefði verið að ná samkomulagi viðtryggingafélagið um að nánar tilgreindir matsmenn ynnu verkið er ósönnuð ogólíkleg. Einnig megi ráða af bréfi sambýliskonu stefnanda til fyrri lögmannsstefnda að hann sjálfur hafi óskað eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn endasé það eina leiðin til að ráða vali á matsmönnum og ekki einu sinni öruggt að húnnægi. Í öllu falli er ófær sú leið sem fyrri lögmaður stefnanda hafi ætlað aðfara. Því sé mótmælt, bæði almennt og í ljósi atvika þessa máls, að dómkvaðningmatsmanna án samráðs við tryggingafélag feli í sér saknæma háttsemi lögmanns.Ýmsar réttmætar ástæður geti verið fyrir því að slík leið sé valin. Að jafnaðigreiðist slíkar matsgerðir af tryggingafélögum. Í þessu máli hafi hins vegarverið krafist yfirmats. Niðurstaða þess hafi orðið önnur en undirmats og sémeginskýringin á því sú að í ljós hafi komið ný gögn um eldri áverka stefnandasem höfðu áhrif á niðurstöðu matsmanna um orsakir varanlegs tjóns hans.Stefnandi hafi ekki upplýst um þetta atvik í upprunalegri slysatilkynningu oghvorki lögmaðurinn né undirmatsmenn höfðu vitneskju um þetta atvik. Þetta hafileitt til þess að tryggingafélagið hafi neitað að greiða fyrirundirmatsgerðina. Á því beri stefnandi sjálfur ábyrgð. Af grunnreglum skaðabótaréttarleiði, jafnvel þótt fallist verði á sök Steingríms, að stefnanda beri að sannahvaða tjón leiddi af þeirri saknæmu háttsemi. Slíkt sé ósannað í máli þessu.Ósannað sé að niðurstaða dómsmáls eða úrlausn ágreinings við tryggingafélagiðutan réttar hefði orðið sú sem stefnandi haldi fram. Grundvöllur fjárkröfu hansvegna varanlegs tjóns sé hæpinn og ósannað að hún hefði getað orðið grundvöllurkröfu sem tekin hefði verið til greina fyrir dómi. Miði hann kröfu sína viðlaun sem hann naut í ágúst og september á hverju ári þrjú síðustu árin fyrirslysdag, sem séu einu mánuðir þeirra ára sem hann hafi verið í fullri vinnu.Óútskýrt sé hvers vegna stefnandi hafi verið að mestu atvinnulaus í hina 39mánuðina og þarfnist það sérstakra skýringa í ljósi þess að stefnandi staðhæfiað hann hafi haft fulla starfsorku og sé vel menntaður. Miðað við þaudómafordæmi sem hafi legið fyrir hafi ekki verið ástæða til að ætla að vænlegtværi að byggja kröfu skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga á launum sem stefnandihafi aflað eftir slys, eða að slíkt hefði einhverju breytt. Sama eigi við umlaunatekjur sem ekki komi fram á skattframtölum. Sérstaklega mótmælir stefndiþví að atvinnusaga stefnanda á tímabilinu 2000-2005 beri þess merki að hannhafi sóst eftir fullu starfi. Sú staðhæfing sé ósönnuð og gögn málsins benditil hins gagnstæða. Loks mótmælir stefndivaxtakröfum stefnanda sem vanreifuðum auk þess sem ósannað sé að lagarök standitil að taka þær til greina. IV.Ágreiningur málsþessa lýtur að því hvort lögmaður, sem stefnandi fól að gæta hagsmuna sinna íbótamáli vegna vinnuslyss, hafi með mistökum og vanrækslu við hagsmunagæslunavaldið honum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Beinir stefnandi kröfusinni að stefnda sem seldi lögmanninum starfsábyrgðartryggingu á því tímabilisem umdeild þjónusta var veitt. Bótakrafa stefnanda nemur5.285.444 krónum. Hún er annars vegar reist á því að hann hafi orðið fyrirtjóni með því að hafa stofnað til útgjalda við öflun matsgerðar dómkvaddramatsmanna sem ekki hafi fengist endurgreidd. Stefnandi greiddi 493.900 krónurfyrir matsgerðina. Hins vegar krefst hann 4.791.544 króna bóta, sem hann kveðurvera mismun bóta sem hann fékk greiddar frá Sjóvá-Almennum tryggingum fyrirvaranlegt tjón af völdum vinnuslyssins og þeirra bóta sem hann hefði fengið fráfélaginu vegna sama tjóns ef lögmaðurinn hefði haldið rétt á máli hans. Hvað fyrri bótaliðinn varðar,kostnaðinn af matsgerðinni, má af gögnum málsins sjá að stefnandi naut um tímaaðstoðar annars lögmanns. Sá hafði í ágúst 2006 gengið frá samkomulagi viðtryggingafélagið um að afla matsgerðar nafngreindra matsmanna utan réttar. Stefnandifelldi sig ekki við að matsgerðar yrði aflað með þeim hætti og krafðist þess aðfengnir yrðu tveir aðrir nafngreindir matsmenn til verksins. Lögmaðurinnútskýrir í tölvuskeytum ítarlega fyrir stefnanda hvers vegna hann hafi leitaðeftir samkomulagi við tryggingafélagið um öflun sameiginlegrar matsgerðar og ogtil hvaða úrræða hægt sé að grípa verði niðurstaða matsins óásættanleg fyrirtjónþola. Nefnir hann í því sambandi að við þær aðstæður sé unnt að afla álitsörorkunefndar eða mats dómkvaddra matsmanna. Í kjölfar þessara samskiptaákveður stefnandi að afturkalla umboð sitt til lögmannsins og felur SteingrímiÞormóðssyni nokkru síðar að taka við málinu á ný með umboði sem dagsett er 1.maí 2007. Bréf stefnanda til fyrrilögmanns hans verða ekki skilin öðru vísi en svo að stefnandi sjálfur hafiverið andvígur því að afla sameiginlegrar matsgerðar með tryggingafélaginu. Íáðurnefndu tölvuskeyti til lögmannsins gerir hann skýra kröfu um að óhlutdrægirmatsmenn með tiltekna sérþekkingu verði fengir til að vinna matsgerðina ogkrefst þess að tveir nafngreindir menn verði fengnir til verksins. Í ljósiþessa er sú staðhæfing stefnanda að Steingrímur hafi upp á sitt eindæmi tekiðákvörðun um að óska eftir mati dómkvaddra matsmanna ótrúverðug eða að minnsta kostiósönnuð en engra gagna nýtur við um að beiðnin hafi verið afturkölluð meðformlegum hætti. Auk þess verður, í ljósi þeirra ítarlegu upplýsinga sem fyrrilögmaður stefnanda veitti honum í tölvupóstsamskiptum þeirra, að gera ráð fyrirað stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir því að til að verða við eindreginnikröfu hans um að velja sjálfur nafngreinda matsmenn með tilteknasérfræðiþekkingu væri torvelt að afla matsgerðar í samráði við tryggingafélagiðutan réttar. Ekki nýtur við gagna um þaðhvaða upplýsingar Steingrímur veitti stefnanda um kostnað af öflunmatgerðarinnar en fyrir liggur að tryggingafélagið féllst ekki á að greiðafyrir hana enda aflaði það síðar yfirmatsgerðar og byggði bótagreiðslur tilstefnanda á þeirri matsgerð. Sú staðhæfing stefnanda að Steingrímur hafifullyrt að kostnaður af öflun hennar fengist endurgreidd er ósönnuð. Verðurstefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti og er ekki fallist á að víkjaberi frá almennum sönnunarreglum í þessu tilviki jafnvel þótt deilt sé umsérfræðiábyrgð lögmanns. Í því efni ber að líta til þess að Steingrímur hafifullt umboð frá stefnanda til að vinna að málinu og ekki verður gerð sú krafatil lögmanna að þeir tryggi sér sönnun á öllum samskiptum við umbjóðanda sinneða því hvaða leiðbeiningar þeir veita þeim á sérhverju stigi málsins. Síðari kröfuliður stefnandalýtur að tjóni sem stefnandi byggir á að Steingrímur hafi valdið honum með þvíað halda ekki rétt á máli hans. Svo sem rakið er í atvikalýsingu dómsinsgreiddu Sjóvá-Almennar tryggingar stefnanda bætur á grundvelli niðurstöðuyfirmatsgerðar þar sem varanleg örorka hans var metin 15% og varanlegur miski20 stig. Stefnandi hafði á hinn bóginn sett fram kröfu á grundvelli niðurstöðuundirmatsgerðar sem mat varanlegt tjón stefnanda talsvert hærra. Þá lagðitryggingafélagið til grundvallar bótaútreikningi meðallaun stefnanda sl. þrjúárin fyrir slys svo sem meginreglan gerir ráð fyrir, sbr. 1. mgr. 7. gr.skaðabótalaganna, en stefnandi hafði áður krafist þess að árslaun yrðu metin sérstaklegaá grundvelli 2. mgr. sömu greinar og að miðað yrði við 6 milljóna krónaárslaun. Mistökin sem stefnandi byggir áað lögmaðurinn hafi gert felast aðallega í tvennu. Annars vegar hafi hann gertófullnægjandi fyrirvara við uppgjör tryggingafélagsins og með því komið í vegfyrir að unnt væri að krefja félagið um frekari bætur á síðari stigum. Hinsvegar hafi hann ekki gert reka að því að innheimta frekari bætur frátryggingafélaginu, á grundvelli annars og hærra árslaunaviðmiðs, annað hvortutan réttar eða með höfðun dómsmáls. Auk þessa telur stefnandi að lögmaðurinnhafi veitt honum ófullnægjandi upplýsingar og ráðgjöf. Svo sem að framan greinir tóklögmaðurinn við bótum fyrir hönd stefnanda með tilteknum fyrirvara sem hannhandskrifaði á fullnaðaruppgjör félagsins 11. mars 2009. Sá hluti fyrirvaranssem deilt er um hvort sé nægilega skýr er svohljóðandi: „Samþykkt með fyrirvaraum kröfu skv. undirmati [...].“ Sama orðalag kemur fram í bréfi lögmannsins semsent er tryggingafélaginu sama dag. Við mat á skýrleika fyrirvarans verður aðlíta til þess að áður hafði lögmaðurinn sent tryggingafélaginu kröfu um bætursem byggðust á mati á varanlegu tjóni eins og það var metið af undirmatsmönnumog jafnframt lagt til grundvallar kröfugerðinni að árslaun stefnanda yrðu metinsérstaklega. Í tveimur kröfubréfum, dagsettum 15. febrúar og 25. júní 2008, erbótakrafan sundurliðuð og miðað við árslaun upp á 6 milljónir króna auklífeyrissjóðsiðgjalds. Í fyrra bréfinu er tekið fram að sú fjárhæð byggist álaunum stefnanda fyrir sjómennsku á árinu 2005, sem hann stundaði hluta afárinu. Þá gerir lögmaðurinn athugasemd við launaviðmiðið sem tryggingafélagiðnotar í bréfi hans til félagsins 10. febrúar 2009. Jafnvel þótt unnt hefði verið aðorða fyrirvarann með skýrari hætti verður, með hliðsjón af framangreindumgögnum, að skilja fyrirvara lögmannsins á þann veg að hann lúti bæði aðörorkustigi og árslaunaviðmiði bótagreiðslunnar, enda er það í samræmi við þákröfugerð sem lögmaðurinn hafði ítrekað sett fram á þeim tíma þegar hann ritarumdeildan fyrirvara. Breytir engu í því efni þótt tryggingafélagið kunni aðhafa verið annarrar skoðunar á síðari stigum. Er því hafnað þeirri málsástæðustefnanda að lögmaðurinn hafi gert ófullnægjandi fyrirvara þegar hann tók viðbótum fyrir hans hönd. Í öðru lagi heldur stefnandi þvífram að lögmaðurinn hafi vanrækt skyldu sína til að halda rekstri málsins áframeftir að tryggingafélagið greiddi honum bætur og ekki veitt honum fullnægjandiupplýsingar og ráðgjöf um réttarstöðu sína. Er á því byggt að lögmaðurinn hafiekki fullreynt að ná samkomulagi við tryggingafélagið um bætur á grundvellihærra árslaunaviðmiðs og látið undir höfuð leggjast að höfða mál til heimtuhærri bóta. Engin gögn liggja fyrir semveita vísbendingu um að tryggingafélagið hefði fallist á kröfu stefnanda um aðmeta árslaun hans sérstaklega en lögmaðurinn hafði ítrekað sett fram slíkakröfu áður en félagið sendi honum uppgjörstillögu sína sem byggðist ámeðallaunum sl. þrjú ár fyrir slysið. Í þeirri tillögu birtist afstaðafélagsins til kröfu stefnanda. Staðhæfingar stefnanda um að unnt hefði verið aðfá þeirri afstöðu breytt eru ósannaðar og verður stefnandi að bera hallann afskorti á sönnun um það atriði. Ekki er fallist á það meðstefnanda að lögmanninum hafi borið að höfða dómsmál fyrir hans hönd án frekarifyrirmæla frá stefnanda þar að lútandi. Umboðið sem stefnandi veittilögmanninum 1. maí 2007 felur ekki í sér umboð til málshöfðunar enda verður aðtaka af tvímæli um það í umboðinu sjálfu eigi svo að vera. Í málinu er einnig deilt um þaðhvort lögmaðurinn hafi gert stefnanda fullnægjandi grein fyrir því að hannmyndi ekki höfða mál án frekari fyrirmæla og jafnframt að hann hafi óskað eftirinnborgun frá stefnanda vegna vinnu við málshöfðun. Í málinu liggur fyrir bréflögmannsins til stefnanda, dagsett 10. febrúar 2009, þar sem segir aðmeðfylgjandi bréfinu séu yfirmatsgerðin og athugasemdabréf lögmannsins tiltryggingafélagsins og því beint til stefnanda að hafa samband sem fyrst. Þá erbréf til Elínar Hönnu, sambýliskonu stefnanda, sem dagsett er 15. febrúar s.á.,þar sem segir að sama athugasemdabréf sé meðfylgjandi. Af því bréfi má ráða aðlögmaðurinn sé að skoða málssókn þar sem hann óskar eftir skattframtölumstefnanda sl. tvö ár vegna gjafsóknarbeiðni. Segir hann jafnframt að hann náiengu sambandi við stefnanda og óskar eftir því að þau, Elín Hanna og stefnandi,komi saman til fundar við sig. Allar líkur eru á að dagsetning þessara bréfa séröng með hliðsjón af því að yfirmatsgerðin, sem vísað er til í þeim, er dagsett27. febrúar sama ár. Þá er bréf frá lögmanninum til stefnanda dagsett 14. mars2009 þar sem hann upplýsir stefnanda um að hann hafi tekið á móti bótum meðákveðnum fyrirvara og biður hann að vera í sambandi sem fyrst. Engin gögn liggja fyrir um þaðhvað stefnanda og lögmanninum fór á milli eftir að þessi bréfaskipti fóru framog fram á árið 2012. Staðhæfing stefnanda um að Elínu Hönnu hafi aldrei boristframangreint bréf sem stílað er á hana verður hins vegar að teljast ósönnuð enElín Hanna er nú látin þannig að vitnisburðar hennar nýtur ekki við. Þá beragögn málsins með sér, andstætt því sem stefnandi bar fyrir dómi, að hún hafi aðstórum hluta annast samskipti fyrir hans hönd við þá lögmenn sem komu aðmálinu. Framburður stefnanda oglögmannsins fyrir dómi vörpuðu ekki frekara ljósi á samskipti þeirra á árunumsem í hönd fóru og gögn málsins bera ekki með sér að stefnandi hafi verið ísambandi við lögmanninn fyrr en rúmlega fjórum árum síðar eða 12. ágúst 2013.Þá skrifar hann honum bréf og kveðst vilja ganga frá lokauppgjöri viðtryggingafélagið á grundvelli yfirmatsgerðarinnar. Hvorki í þessu bréfi nénokkrum öðrum gögnum málsins er að finna vísbendingu um að stefnandi hafi faliðlögmanninum að höfða mál til heimtu frekari bóta. Verður því að mati dómsins aðtelja ósannað að lögmaðurinn hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu með því aðhefjast ekki handa um málshöfðun án frekari fyrirmæla þar að lútandi. Breytirþað ekki þessari niðurstöðu þótt fallast megi á það með stefnanda að nokkuðhafi skort á að vinnubrögð lögmannsins væru eins vönduð og gera má kröfu til.Þannig liggur fyrir að nokkur bréfa hans eru ranglega dagsett, ekki er alltafgetið viðtakenda né skýrlega greint frá því hvaða gögn fylgi þeim. Þá andmælirlögmaðurinn ekki staðhæfingum stefnanda um að hann kunni að hafa gleymt að mætaá fund og ef til vill ekki alltaf svarað skilaboðum. Á hinn bóginn er ósönnuðsú staðhæfing stefnanda að hann hafi svo árum skiptir árangurslaust reynt að náí lögmanninn en svo sem að framan greinir er engum gögnum til að dreifa semstyðja þá staðhæfingu. Hvað sem þessu líður verður eins og áður segir ekki hjáþví komist að telja ósannað að lögmaðurinn hafi fengið fyrirmæli um að hefjamálssókn og eins og atvikum er háttað verður stefnandi að bera hallann afskorti á sönnun um það atriði. Jafnvel þótt fallist yrði á þámálsástæðu stefnanda að lögmanninum hafi borið án frekari fyrirmæla að grípatil aðgerða til að knýja á um frekari bótagreiðslur til stefnanda þá er þaðjafnframt niðurstaða dómsins að stefnandi hafi hvorki fært fram sönnun þess aðhann hafi orðið fyrir tjóni né að tjónið nemi þeirri fjárhæð sem hann byggirbótakröfu sína á. Ekki er fallist á það með stefnanda að atvinnusaga hans áárunum fyrir slysið sýni að hann eigi rétt á því að því árslaun hans séu metinsérstaklega við útreikning bótafjárhæðar samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganr. 50/1993. Skilyrði þess að unnt sé að víkja frá því að miða bætur viðmeðallaun tjónþola síðastliðinna þriggja almanaksára fyrir slys, sbr. 1. mgr.sömu greinar, eru þau að aðstæður séu óvenjulegar á því tímabili og að þæraðstæður leiði til þess að annar mælikvarði sé réttari á líklegarframtíðartekjur tjónþola. Gögn málsins sem lúta aðatvinnusögu stefnanda eru yfirlit úr staðgreiðsluskrá fyrir árin 2001-2004 ogskattframtöl áranna 2007-2009, vegna tekna áranna 2006-2008. Þá er óumdeilt aðstefnandi hafi verið í vinnu í sjö mánuði á árinu 2000 en án atvinnu aðramánuði þess árs. Framangreind gögn bera ekki með sér að atvinnuþátttaka hans áárunum 2002-2004 hafi verið verulega frábrugðin árunum á undan. Þá verður ekkifram hjá því litið að bæði í stefnu og í skýrslu stefnanda fyrir dómi bar hannað hann hefði á viðmiðunarárunum unnið við járnabindingar, ýmist sem launþegieða í eigin rekstri, án þess að upplýsingar um þær tekjur komi fram í gögnumskattyfirvalda. Af þessum yfirlýsingum leiðir að ósannað er hverjarraunverulegar tekjur hans voru á viðmiðunartímabilinu og jafnframt verður ekkiaf skattframtali eða öðrum gögnum frá skattyfirvöldum dregin ályktun um hvorteða að hve miklu leyti greiðslur úr atvinnutryggingasjóði endurspegliraunverulegt atvinnuleysi hans á sama tíma. Því er ósannað að aðstæður hanshafi verið óvanalegar á viðmiðunartímabilinu svo sem áskilið er í 2. mgr. 7.gr. Þá er því jafnframt hafnað að laun stefnanda hjá Íbúðalánasjóði, fyrir þátvo mánuði á hverju viðmiðunaráranna sem hann starfaði þar, séu réttarimælikvarði á framtíðartekjur hans. Fyrir dómi upplýsti stefnandi að um hefðiverið að ræða vinnu í sumarafleysingum hjá stofnuninni. Ekki er fallist á aðlaun fyrir slíka vinnu geti eins og hér standi á verið grundvöllurbótaútreiknings skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Af framangreindu leiðirað ósannað er að stefnandi hafi orðið fyrir því tjóni sem bótakrafa hans er byggðá. Með ofangreindum rökstuðningiverður öllum kröfum stefnanda hafnað. Með hliðsjón af atvikum máls er rétt aðhvor aðili beri sinn málskostnað af málinu. IngibjörgÞorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115.gr. laga nr. 91/1991.DÓMSORÐStefndi, tryggingafélagið Vörður, ersýkn af kröfu stefnanda, Sigurðar Steinars Jónssonar. Málskostnaður fellurniður. |
Mál nr. 308/1998 | Þjófnaður Líkamsárás Hótanir Ávana- og fíkniefni Eignaspjöll Skaðabætur Skilorðsrof Eignaupptaka | K sætti fimm ákærum fyrir tvær meiriháttar líkamsárásir, hnífaburð og hótanir, eignaspjöll, vörslu fíkniefna ásamt fjölda innbrota. Talið var sannað, gegn andmælum K, að hann hefði gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga hvað varðaði aðra þá líkamsárás sem hann var ákærður fyrir. Þá var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr., 233. gr., 244. gr.,1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, lögum nr. 65/1975 um ávana- og fíkniefni og lögum nr. 46/1977 um skotvopn, sprengiefni og skotelda, á grundvelli játningar hans. K var dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og greiðslu skaðabóta. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Ríkissaksóknari skaut til Hæstaréttar dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní og 21. júlí 1998 með stefnum 28. júlí sama árs í samræmi við yfirlýsingar ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds. Málin voru sameinuð fyrir Hæstarétti og flutt í einu lagi. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing verði þyngd. Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af I. kafla ákæru 12. maí 1998, en að refsing verði að öðru leyti milduð. Hann krefst þess og að skaðabótakröfu Ragnars Más Alfreðssonar verði vísað frá dómi, en til vara að bætur verði lækkaðar. Með vísan til forsendna héraðsdómara er fallist á að nægilega sé sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem honum er gefin að sök í I. kafla ákæru 12. maí 1998. Eins og greint er í hinum áfrýjuðu dómum er ákærði ungur að árum, en hefur þó gerst sekur um margvísleg og fjölmörg brot á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Hann hefur og ítrekað rofið skilorð. Að þessu virtu og með skírskotun til forsendna hinna áfrýjuðu dóma þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi 2 ár. Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um skaðabætur til Ragnars Más Aðalsteinssonar, svo og ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað. Einnig ber að dæma ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákærði, Kristján Markús Sívarsson, sæti fangelsi 2 ár. Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 40.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 1998 Ár 1998, föstudaginn 26. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 486/1998: Ákæruvaldið gegn Kristjáni Markúsi Sívarssyni sem tekið var til dóms 9. júní sl. Málið er höfðað með þremur ákærum á hendur Kristjáni Markúsi Sívarssyni, kt, 231080-4499, Skeljagranda 4, Reykjavík, svo sem rakið verður: Með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 12. maí sl. er mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur ákærða „fyrir eftirtalin hegningarlagabrot: I. Fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 18. september 1997, við biðstöð SVR á Lækjartorgi í Reykjavík, slegið Ragnar Má Alfreðsson, kennitala 020479-5829, tvisvar sinnum hnefahögg í andlitið, fyrst inni í strætisvagni, sem var þar kyrrstæður og þessu næst eftir að hafa dregið hann út úr vagninum, slegið hann aftur í andlitið, með þeim afleiðingum að Ragnar Már nefbrotnaði með hliðrun yfir til vinstri og innkýlingu hægra megin, auk þess sem hann hlaut sár á gagnauga hægra megin og bólgnaði upp hægra megin á kjálka og gagnauga. Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981. II. Fyrir hótanir og hnífaburð á almannafæri, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 17. desember 1997, að Hafnarstræti 18 í Reykjavík, dregið upp hníf með 95 mm löngu hnífsblaði og strokið honum um læri Hermanns Páls Sigbjarnasonar, kennitala 110274-5649, en framferði ákærða var til þess fallið að vekja hjá Hermanni ótta um líf sitt og velferð. Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 34. gr. reglugerðar um skotvopn og skotfæri nr. 16, 1978, sbr. reglugerðir nr. 174, 1979 og 474, 1988, sbr. 34. gr. laga um skotvopn, sprengiefni og skotelda nr. 46, 1977. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að hnífur sá er lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins í ákærulið II. verði gerður upptækur, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga. Af hálfu Ragnars Más Alfreðssonar er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 419.520, auk lögmannsþóknunar og vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá tjónsdegi til dómsuppsögudags og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla s.l. frá þeim degi til greiðsludags.“ Með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 3. febrúar 1998 er mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur ákærða „fyrir eignaspjöll með því að hafa að kvöldi 19. nóvember 1997 hent steini í rúðu í vinstri framhurð bifreiðarinnar SZ-420, þar sem hún stóð á bifreiðastæði við Öldugötu 23 í Reykjavík, með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði og glerbrot dreifðust um alla bifreiðina. Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. alm. hgl. nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Í málinu gerir Hjörtur O. Aðalsteinsson, kt. 270252-2069, kröfu um að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 29.635,70.“ Loks er með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 19. maí sl. mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur ákærða „fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 7. mars 1998 haft í fórum sínum 0,3 g af amfetamíni og 1 g af hassi, þegar hann var handtekinn á bifreiðastæði við Tryggvagötu í Reykjavík. Þetta telst varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985 og 2. sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986, um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna, sbr. reglugerð nr. 177/1986 og auglýsingu nr. 84/1986. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á ofangreindum fíkniefnum sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986.“ Mál samkvæmt framangreindum ákærum voru sameinuð skv. heimild í 3. mgr. 23. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála á dómþingi 28. maí sl. I. kafli ákæru ákæru dagsett 12. maí 1998. Að kvöldi fimmtudagsins 18. september sl. var lögregla kvödd að Þingási 51, hér í borg, að beiðni Ragnars Más Alfreðssonar, kt. 020479-5829. Skýrði hann frá því að fyrr um kvöldið hefði hann orðið fyrir líkamsárás við biðstöð Strætisvagna Reykjavíkur á Lækjartorgi. Kvaðst hann hafa verið að ganga að strætisvagni við biðstöð á Lækjartorgi er piltur rakst utan í hann. Pilturinn hafi spurt hvort hann vildi vandræði, en hann gengið frá piltinum. Hafi pilturinn síðan elt hann að strætisvagninum og slegið hann fyrirvaralaust tvívegis í andlitið. Kvaðst Ragnar hafa komist undan árásarmanninum, sem hann þekkti ekki, og upp í strætisvagninn. Lýsti hann árásarmanninum þannig að hann væri 16-18 ára, u.þ.b. 173 cm hár, með ljóst aflitað hár, með bólur í andliti, í dökkblárri eða svartri peysu með tilteknu merki framaná og í bláum gallabuxum. Hafi hann sjáanlega verið undir miklum áfengisáhrifum. Sjá mátti áverka á nefi Ragnars og að það var lítið eitt bólgið. Við frumrannsókn lögreglu beindist grunur að öðrum pilti en ákærða sem þeim er veist hefði Ragnari og slegið hann, og fór svo að Ragnar lagði fram kæru á hendur þeim pilti 29. september sl. Var sá piltur yfirheyrður 5. nóvember sl. og neitaði staðfastlega að eiga aðild að árásinni. Þann 20. nóvember sl. féll Ragnar frá kærunni eftir að hafa séð ljósmynd úr myndasafni lögreglu af piltinum. Fimm dögum síðar skoðaði Ragnar u.þ.b. 600 myndir úr myndasafni lögreglu og tók hann út mynd nr. 10-2581 og kvað upp úr um að pilturinn á myndinni væri sá sem ráðist hefði á sig greint sinn. Er sú mynd af ákærða í máli þessu. Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 18. desember sl. Hann kvaðst hafa verið staddur á Lækjartorgi um kl. 23 fimmtudagskvöldið 18. september sl. og muna, þó ekki mjög vel, að hann hafi gengið þar utan í ungan mann. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hafi í framhaldi af því elt piltinn, kallað á eftir honum og ásakað hann um að hafa gengið utan í sig, en hann hafi örugglega gert það til að stríða stráknum. Inntur eftir hvort hann hafi farið á eftir piltinum inn í strætisvagn og slegið hann í andlitið, dregið hann út úr vagninum og barið hann aftur þannig að hann skall utan í fremri hurð vagnsins kvaðst ákærði ekki hafa farið inn í vagninn, en verið í dyrum hans og rifið í strákinn og kýlt hann, en myndi ekki hvar hann hefði kýlt hann. Kvaðst hann vera um 170 cm hár, vera með aflitað hár, eiga dökkbláa og svarta boli en ekki með þeirri áletrun sem kærandi nefndi. Beðinn að lýsa atburðinum umrætt kvöld kvaðst ákærði muna að hafa verið þarna og að hafa kýlt strákinn í strætisvagninum. Ákærði mætti aftur til skýrslugjafar hjá lögreglu 20. mars sl. Kvaðst hann nú vera þess fullviss að hann væri ekki árásarmaðurinn. Þegar fyrsta skýrslan var tekin af honum hafi hann ruglað saman málum. Hann kvaðst muna að hafa lent í útistöðum við einhvern strák við strætisvagn í Lækjargötu og að hafa slegið strákinn í hnakkann, en hann kannaðist ekki við þetta mál. Þá kvaðst ákærði hvorki eiga né hafa átt svarta peysu með þeirri áletrun sem kærandi nefnir og aldrei ganga í gallabuxum. Þriðju skýrslu sína gaf ákærði hjá lögreglu 2. apríl sl. Þar kvað hann aðalástæðu þess að hann væri viss um að Ragnar væri ekki sá sem hann sló vera þá að hann hafi ekki átt gallabuxur svo árum skiptir, í gallabuxum gangi hann aldrei og kannist ekki við peysu með þeirri áletrun sem kærandi nefnir. Inntur nánar eftir því atviki er hann lenti í útistöðum við strák í strætisvagni skýrði ákærði svo frá að hann hefði elt einhvern strák að strætisvagni og slegið hann í hnakkann. Hann hafi náð stráknum í strætisvagninum og kýlt hann einu sinni. Hann geti þó ekki tímasett atvikið. Strákurinn hafi verið u.þ.b. 18 ára, en nánar geti hann ekki lýst honum. Hann hafi verið að rífast við strákinn, því næst elt hann að strætisvagninum til þess að berja hann, en þá hafi strákurinn farið inn í strætisvagninn og hafi hann elt strákinn þangað. Kvað ákærði þetta hafa gerst á Lækjartorgi við Hafnarstræti 20 og hafi enginn skipt sér af slagsmálunum. Við meðferð málsins neitar ákærði sakargiftum. Hann hafi verið staddur á Lækjartorgi umrætt kvöld og vissi hver hefði slegið Ragnar Má, en vildi ekki skýra frá nafni hans. Frá þessu hafi hann ekki skýrt við lögreglurannsókn málsins þar sem hann vildi ekki segja til vinar síns. Kvaðst ákærði hafa verið staddur við biðstöð Strætisvagna Reykjavíkur þetta kvöld ásamt þessum félaga sínum en hann gæti eiginlega ekki greint frá því hvað gerðist; hann hafi hvorki tekið þátt í þessum slagsmálum að neinu ráði né horft á þau. Kvaðst hann aðeins hafa séð strákinn hlaupa eða öllu heldur flýja inn í strætisvagn og félaga ákærða á eftir honum, en ákærði beðið álengdar. Ákærði kvaðst hafa séð strákinn sem varð fyrir árásinni ganga utan í félaga sinn, jafnvel óvart, og við það hafi félagi hans reiðst. Þeir hafi farið að rífast þarna fyrir utan og kvaðst ákærði alltaf hafa haldið að félagi hans hefði slegið strákinn þar fyrst, en það væri greinilega ekki rétt því að strákurinn hafi svo hlaupið inn í strætisvagninn og félagi ákærða á eftir honum. Sjálfur kvaðst ákærði hafa orðið eftir, nánar tiltekið framan við nálægan leiktækjasal, meira myndi hann eiginlega ekki, en hann héldi þó að félagi sinn hefði komið einn út úr vagninum. Hann minni að þetta hafi gerst áður og því næst hafi hann hlaupið inn í vagninn. Einnig kunni að vera að hann hafi slegið strákinn áður en hann fór inn í vagninn og síðan aftur inni í honum; hann hafi ekki séð það. Þessi félagi hans héti Gunnar Þór Grétarsson og hafi þeir Gunnar verið saman í miðbænum umrætt kvöld. Kvaðst ákærði hafa verið búinn að neyta áfengis og verið undir áhrifum þess. Bent á að Ragnar Már lýsti árásarmanni sínum m.a. þannig að hann hafi verið íklæddur peysu með tilteknu merki framaná, kvaðst ákærði ekki muna hvernig hann var sjálfur klæddur, en hann ætti ekki peysu með þess konar merki. Gunnar Þór ætti aftur á móti þess konar peysu, svarta að lit. Ákærði kvaðst þó hvorki muna hvernig Gunnar var klæddur umrætt kvöld né hvort hann hefði verið í peysu með þessari tilteknu áletrun. Ákærði fullyrti að sjálfur hefði hann ekki verið íklæddur gallabuxum þetta kvöld og kvaðst ekki hafa klæðst slíkum buxum svo árum skipti. Ákærða var gerð grein fyrir að Ragnar Már hefði verið látinn yfirfara ljósmyndir í safni lögreglunnar og þá tekið út úr myndasafninu mynd af ákærða. Kvaðst hann enga skýringu hafa á því, hann væri saklaus af þessum verknaði og væri að sama skapi nokkuð viss um að þarna hefði Gunnar Þór verið að verki. Ákærða var bent á að Ragnar hefði einnig gefið lýsingu varðandi hæð piltsins. Hann kvaðst vera 170 cm hár, en vera kunni að hann hafi stækkað eitthvað frá því sl. haust. Gunnar væri 180 cm hár, þ.e. hugsanlega u.þ.b. 10 cm hærri en ákærði eða e.t.v eitthvað meira; í öllu falli væri allnokkur hæðarmunur á þeim. Ákærði var beðinn að útskýra hvernig á því stæði að í lögregluskýrslu sem tekin var af honum 18. desember sl. hafi hann, er hann var spurður um þetta atvik, kannast við að hafa lent í átökum þetta kvöld. Kvað ákærði það vera vegna þess að hann hafi ætlað að taka á sig sök fyrir Gunnar. Hafi Gunnar beðið sig um það, þó ekki beint. Ákærði sé vanur að taka svona nokkuð á sig vegna þess hann sé með svo mikið af málum á sér, enda hafi hann tekið á sig sök í nokkrum málum fyrir Gunnar. Ákærða var jafnframt bent á að í þessari sömu skýrslu segðist hann eiga gallabuxur. Inntur eftir hvort rangt væri eftir honum haft eða hvort hann hefði sagt ósatt svaraði ákærði að hann hafi aldrei sagt að hann ætti ekki gallabuxur, hann hafi sagt að hann gengi ekki í gallabuxum. Hann hafi á þessum tíma að líkindum átt tvennar gallabuxur, en ekki gengið í þeim. Fyrir kæmi að hann fengi lánuð föt af vinum sínum, þó aldrei Gunnari. Vitnið Ragnar Már Alfreðsson skýrði svo frá við meðferð málsins að greint sinn hafi það verið að koma frá vinnu sinni og ætlað að taka strætisvagn heim á leið. Er vitnið var að ganga að biðskýlinu hafi strákur rekist utan í það og farið að ræða við það. Kvaðst vitnið hafa gengið áleiðis að vagninum og verið að fara inn í hann þegar strákurinn byrjaði að toga í vitnið sem hafi reynt að losa sig og snúið sér undan. Þá hafi strákurinn komið fram fyrir vitnið og byrjað að ýta við vitninu og rífa kjaft. Mundi vitnið að strákurinn sagði: „Af því að þú ert stærri en ég heldurðu að ég geti ekki lamið þig?“ Vitnið hafi reynt að ganga að vagninum, en strákurinn haldið áfram að elta vitnið. Kvaðst vitnið hafa hlaupið að vagninum og strákurinn á eftir og þegar vitnið var komið inn í vagninn hafi hann slegið vitnið tvisvar sinnum í andlitið og togað vitnið út úr vagninum. Fyrst hafi hann slegið vitnið í nefið og síðan á kjálka með krepptum hnefa. Þegar strákurinn var búinn að draga vitnið út úr vagninum hafi hann kýlt vitnið einu sinni enn, nú á hægri kjálka með krepptum hnefa og við það hafi vitnið dottið á strætisvagninn. Kvaðst vitnið við svo búið hafa farið inn í vagninn. Vitnið kvaðst hafa verið statt fremst í vagninum, hjá vagnstjóranum, þegar árásarmaðurinn sló það og hafi eitthvað af farþegum verið í vagninum. Því næst hafi vitnið tekið sér far með vagninum heim á leið og liðið afar illa í nefinu. Er heim var komið hafi móðir vitnisins hringt í lögreglu og í framhaldi af komu lögreglu á heimili vitnisins hafi vitnið farið á slysadeild til að láta athuga með nefið. Þá hafi komið í ljós að vitnið var nefbrotið. Vitnið lýsti árásarmanninum svo að hann væri rauðhærður og lítið eitt minni en vitnið. Eftir fötunum kvaðst vitnið ekki muna svo gjörla, en sig minnti að hann hefði verið klæddur hermannabuxum og hettupeysu, dökkblárri að lit og minnti vitnið að framan á henni hafi staðið tiltekin áletrun. Hæð árásarmannsins hafi verið á að giska 170-172 cm, en vitnið kvaðst vera 178 cm hár. Um ljósmyndirnar sem vitnið skoðaði á lögreglustöð kvaðst vitnið þegar hafa verið þess fullvisst að sú mynd sem það dró út úr myndasafninu hafi verið af árásarmanninum, en um hafi verið að ræða nokkur hundruð ljósmyndir. Eftir að hafa séð mynd af Gunnari Þór Grétarssyni á lögreglustöð 30. nóvember sl. kvaðst vitnið að sama skapi hafa verið visst um að sá piltur hefði ekki verið sá sem réðist á hann. Buxurnar sem vitnið sagði árásarmanninn hafa verið íklæddan kvað það hafa verið grænar og brúnar hermannabuxur. Bent var á að í skýrslum vitnisins hjá lögreglu segði vitnið að árásarmaðurinn hefði verið í gallabuxum. Vitnið bar þá að það myndi ekki gjörla hvernig buxum árasarmaðurinn var í, það væri talsvert langt um liðið og hann myndi ekki gjörla hvort það hafi verið hermannabuxur eða gallabuxur, en hann hafi verið klæddur hettupeysu. Vitnið Gísli Óskarsson vagnstjóri skýrði svo frá við meðferð málsins að umrætt kvöld er vitnið var í þann veginn að leggja upp í ferð og var að afgreiða farþega hafi hann séð tvo pilta vera að slást fyrir utan vagninn. Raunar hafi vitnið aðeins séð annan þeirra berja, því hinn hafi ekki barið á móti. Vitnið hafi lokað vagndyrunum og verið búinn að ákveða að taka piltana ekki með, en síðan séð að pilturinn sem slegið hafði hinn piltinn gekk í átt frá vagninum, en sá sem hafði verið sleginn var eftir fyrir utan vagninn. Sá vitnið að sá piltur var alveg rólegur og ákvað því að leyfa honum að taka sér far með vagninum. Virtist vitninu sem pilturinn væri lítið eitt vankaður. Þegar vitnið hafði hleypt farþegunum inn í vagninn og piltarnir voru orðnir tveir eftir við innganginn í vagninn hafi vitnið lokað dyrum hans. Það sem vitnið sá af því sem fram fór hafi það séð úr ökumannssætinu. Í fyrstu hafi vitnið ekki velt því fyrir sér, enda verið að afgreiða farþegana. Hafi pilturinn eða þeir báðir verið komnir inn í vagninn hafi þeir a.m.k. ekki farið fram hjá vitninu til að borga. Nánar til tekið kvað vitnið annan piltinn hafa látið högg dynja á andliti hins piltsins og hafi þar verið verið um að ræða fleiri en eitt högg og hafi pilturinn sem fyrir höggunum varð verið verulega vankaður þegar hann kom inn í vagninn eftir árásina. Er vitnið var beðið að lýsa árásarmanninum nánar kvaðst vitnið hafa veitt honum fremur litla eftirtekt. Það myndi þó pilturinn hefði verið með mjög stutt hár eða snoðklipptur, og fremur samanrekinn. Varðandi klæðaburð hans kvaðst vitnið helst vera á því að hann hefði verið í gallajakka og gallabuxum, en kvaðst ekki muna hvort buxur og jakki voru ámóta að lit. Vitnið var tvívegis boðað á lögreglustöð til skýrslugjafar, í síðara skiptið til að skoða ljósmyndir. Skoðaði vitnið 15-18 andlitsmyndir og átti að kanna hvort það þekkti meintan árásarmann, en það hafi ekki gengið upp hjá sér, enda hafi það séð hann svo lítið og einnig hafi árásarmaðurinn snúið baki í vitnið er hann gekk inn Hafnarstræti og hvarf fyrir horn. Þegar vitnið var að skoða ljósmyndirnar hjá lögreglu hafi það ekki treyst sér til að taka einhvern ákveðinn út, en bent á þrjá sem það teldi einna helst koma til greina. Við þær andlistmyndir sem vitnið tiltók hafi það farið eftir vaxtarlaginu, þeir hafi verið samanreknir í andliti. Varðandi hæð meints árásarmanns kvað vitnið hann hafa verið í lægra lagi e.t.v. 165-167 cm á hæð. Þá kvaðst vitnið ekki hafa séð neina áverka á piltinum sem varð fyrir árásinni, en hann hafi haldið lengi um höfuðið, og verið mjög vankaður. Vitnið kvað átökin áreiðanlega ekki hafa byrjað fyrr en eftir að vitnið var komið inn í vagninn, enda hafi það ekki orðið vart við neitt þegar það var að fara inn í vagninn, en síðan hafi fólk byrjað að streyma inn í vagninn og þá hafi það séð að eitthvað hafi verið um að vera úti fyrir vagninum. Vel gæti verið að piltarnir hafi verið komnir inn fyrir dyr vagnsins á einhverju tímabili í átökunum; vitnið hafi a.m.k. ekki veitt því eftirtekt. Þeir hafi a.m.k. ekki verið komnir svo langt að þeir ættu eftir að greiða. Það gæti ekki sagt til um hvort þeir hafi verið komnir upp í tröppur. Það gæti meira en verið. Móðir ákærða kom einnig fyrir dóminn, einkum til að bera um klæðaburð og fataeign ákærða. Staðfesti hún að ákærði gengi aldrei í gallabuxum dags daglega, en hann ætti þó gallabuxur. Kvað hún ákærða yfirleitt alltaf ganga í taubuxum. Svokallaðar hermannabuxur væru til á heimilinu og hafi hún séð ákærða klæðast slíkum buxum; væru þær í eigu ákærða eða bróður hans. Þá kvað hún ákærða ekki eiga dökka hettupeysu í líkingu við þá sem lýst er í málinu. Í vottorði Reynis Björnssonar deildarlæknis á háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, dagsettu 22. janúar 1998, segir m.a. svo um meiðsli Ragnars Más: „Við skoðun á Slysadeild kom í ljós veruleg bólga og mar hægra megin á nefhrygg, sem virtist sveigja yfir til vinstri. Hann var með storkið blóð í hægri nös, engin eymsli í augabrúnum eða kinn. Það voru veruleg eymsli og bólga við þreifingu á kjálkanum hægra megin en ekki komið fram neitt mar. Hann gat opnað og lokað munni eðlilega. Á gagnauganu hægra megin var smá sár og einnig talsverð bólga. Þá var hann talsvert aumur við þreifingu á hálsvöðvum hægra megin. Það skal tekið fram að allir þessir áverkar voru nýir við skoðun.“ Síðar í vottorðinu segir: „Þann 22.09. 1997 kemur hann síðan á göngudeild Háls-, nef- og eyrnadeildar. Við komu er hann greinilega nefbrotinn og nefið virðist hafa gengið aðeins yfir til vinstri og er innkýlt hægra megin. Hann er deyfður og fór honum að líða illa í kjölfarið, það leið yfir hann og hann var dálítinn tíma að ná sér. Nefið var síðan rétt og náðist í ágæta legu og ekki fyrirhuguð frekari endurkoma á Háls-, nef- og eyrnadeild nema eftir þörfum. Þann 22.01. 1998 kemur Ragnar Már í skoðun á Háls-, nef- og eyrnadeild og kemur þá í ljós að legan á nefinu er ágæt, en það má sjá skekkju á því ennþá.“ Niðurstaða: Í máli þessu nýtur, auk skýrslna ákærða, einungis við skýrslna vitnanna Ragnars Más Alfreðssonar og Gísla Óskarssonar. Hefur vitnið Ragnar Már staðfastlega borið að ákærði sé sá sem veist hafi að honum að kvöldi 18. september sl. með þeim afleiðingum er í ákæru greinir. Ber í því sambandi að líta til þess að vitnið tók út mynd af ákærða í myndasafni lögreglu úr um 600 myndum á 17 mínútum og hér fyrir dóminum sá vitnið ákærða og kvaðst vera fullviss um að hann væri árásarmaður sinn. Vitnið Gísli gat hins vegar ekki með afdráttarlausum hætti, er honum voru þann 25. mars sl. sýndar 18 myndir úr myndasafni lögreglu, fullyrt að ákærði væri árásarmaðurinn. Hann tók þó út tvær myndir, aðra af ákærða, en hina af pilti sem svipar allnokkuð til ákærða. Vitnið sá ákærða einnig í dóminum, en treysti sér ekki til að fullyrða að þar færi maðurinn sem hann sá slá vitnið Ragnar hnefahögg í andlitið. Hann væri þó óneitanlega líkur honum. Ákærði neitar afdráttarlaust sök, en skýrslur hans við rannsókn og meðferð málsins hafa verið óstöðugar. Vísast þar um til þess sem að framan er rakið úr skýrslum hans hjá lögreglu og framburði hans fyrir dómi. Verður því, auk framburðar vitnisins Ragnars Más sem hefur verið staðfastur, að meta trúverðugleik framburðar ákærða annars vegar og vitnisins Ragnars Más hins vegar. Að öllu virtu telur dómurinn sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, einkum með skírskotun til framburðar vitnisins Ragnars Más sem einnig fær stoð í framburði vitnisins Gísla, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. kafla þessarar ákæru. Varðar atferli hans við 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Elvar Örn Unnsteinsson hrl. hefur f.h. Ragnars Más Alfreðssonar lagt fram bótakröfu í málinu að fjárhæð 419.520 krónur auk lögmannsþóknunar og krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt vöxum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá tjónsdegi til dómsuppsögudags og dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Sundurliðar hann kröfuna þannig: Lækniskostnaður skv. nótu 2.620 krónur, ónýt úlpa v/blóðs og rifin 16.900 krónur og miskabætur 400.000 krónur. Ákærði og lögráðamaður hans mótmæla kröfunni. Þar sem ákærði er sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök þykir hann einnig bera bótaábyrgð gagnvart brotaþola, Ragnari Má. Eru skaðabætur honum til handa hæfilega ákveðnar 100.000 krónur ásamt vöxum eins og greinir í dómsorði. Þá verður ákærði jafnframt dæmdur til að greiða brotaþola 20.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfu sinni. II. kafli ákæru dagsett 12. maí 1998 Með skýlausri játningu ákærða er sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í síðari kafla þessarar ákæru. Var framferði ákærða til þess fallið að vekja ótta hjá Hermanni Páli um líf sitt og velferð. Er háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákæru. Ákæra dagsett 3. mars 1998. Með skýlausri játningu ákærða er sannað að hann hafi gerst sekur um það atferli sem honum er gefið að sök í ákærunni og þar er rétt fært til refsiákvæðis. Með bréfi dagsettu 29. maí sl. féll Hjörtur O. Aðalsteinsson frá bótakröfunni. Ákæra dagsett 19. maí 1998. Með afdráttarlausri játningu ákærða er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessari ákæru og þar er rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur til þessa þrívegis hlotið dóm og einu sinni gengist undir sátt. Í september 1996 hlaut ákærði sekt og var sviptur ökurétti í tólf mánuði fyrir umferðarlagabrot. Í september 1997 var ákærði sakfelldur fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar, líkamsárás, brot gegn 2. mgr. 124. gr. almennra hegningarlaga og eignaspjöll. Ákvörðun um refsingu var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þann 3. mars sl. hlaut ákærði þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás. Loks hlaut ákærði þann 6. mars sl. 18 mánaða fangelsi, þar af 15 mánuði skilorðsbundna í þrjú ár, fyrir líkamsárásir. Refsingu þá sem ákærða verður nú gerð ber að tiltaka með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði. Eins og krafist er í II. kafla ákærunnar frá 12. maí sl. og samkvæmt lagaákvæðum þeim er þar greinir ber að gera upptækan til ríkissjóðs hníf þann sem lögregla lagði hald á við rannsókn þess máls. Þá ber, eins og krafist er í ákærunni frá 19. maí sl. og samkvæmt lagaákvæðum þeim er þar greinir, að gera upptæk til ríkissjóðs þau fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn þess máls. Loks ber samkvæmt 1. tl. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Kristján Markús Sívarsson, sæti fangelsi í 2 mánuði. Ákærði sæti upptöku til ríkissjóðs á hníf með 95 mm löngu hnífsblaði sem lögregla lagði hald á 17. desember 1997. Ákærði sæti einnig upptöku á 0,3 g af amfetamíni og 1 g af hassi sem lögregla lagði hald á 7. mars 1998. Ákærði greiði Ragnari Má Alfreðssyni 100.000 krónur ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. mars 1998 til 26. júní s.á., en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 20.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfunni. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð 50.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Stefánssonar héraðsdómslögmanns, 50.000 krónur. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 1998 Ár 1998, þriðjudaginn 21. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni settum héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 609/1998: Ákæruvaldið gegn Kristjáni Markúsi Sívarssyni og Stefáni Loga Sívarssyni, sem tekið var til dóms 9. júlí sl. Málið er höfðað með tveimur ákæruskjölum svo sem rakið verður: Með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 16. júní sl. er mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur Ágústi Ásbjörnssyni, kt. 121080-4789, Kristjáni Markúsi Sívarssyni, kt. 231080-4499, og Stefáni Loga Sívarssyni, kt. 101081-5599, öllum til heimilis að Skeljagranda 4, Reykjavík, „fyrir eftirgreind brot á almennum hegningarlögum framin í Reykjavík, nema annars sé getið, á tímabilinu frá 30. mars 23. maí 1998: I. Ákærðu Kristjáni Markúsi og Stefáni Loga er gefið að sök að hafa framið í félagi eftirgreinda þjófnaði: 1. Mánudaginn 6. apríl brotist inn í íbúð á 1. hæð til vinstri í fjölbýlishúsinu nr. 15 við Öldugranda og stolið munum verðmetnum á kr. 258.900 svo sem 2 rifflum, 2 skotbeltum með um 40 haglaskotum, myndbandstæki, 2 myndavélum, 3 ljósmyndalinsum, leifturljósi, 2 áfengisflöskum, tösku, gullhring og 2 úrum, öðru úr gulli. 2. Fimmtudagskvöldið 23. apríl brotist inn í Mýrarhúsaskóla við Nesveg á Seltjarnarnesi og stolið 2 myndbandstækjum og ferðageislaspilara samtals að verðmæti um kr. 67.000. 3. Þann 25. eða 26. apríl brotist inn í geymslu í fjölbýlishúsinu nr. 4 við Skeljagranda og stolið 4 bíldekkjum. 4. Í byrjun maí brotist inn í geymslu í síðastgreindu fjölbýlishúsi og stolið 4 bíldekkjum. 5. Sunnudaginn 10. maí brotist í félagi inn í bifreiðina ZS-038 við Tjarnarmýri 39, Seltjarnarnesi, og stolið úr henni sambyggðu útvarpi og geislaspilara. 6. Sama dag brotist inn í bifreiðina AR-067 í bifreiðageymslu við Tjarnarmýri 35 á Seltjarnarnesi og stolið úr henni sambyggðu útvarpi og geislaspilara að verðmæti um kr. 50.000. II. Ákærða Kristjáni Markúsi er gefið að sök: 1. Að hafa að morgni laugardagsins 28. mars farið inn í íbúð á 2. hæð í fjölbýlishúsinu nr. 3 við Skeljagranda og stolið snyrtitösku með um 6.000 krónum í reiðufé. 2. Á tímabilinu frá 11. 14. apríl brotist inn í Grandaskóla við Keilugranda í félagi við Þorberg Bergmann Halldórsson, kt. 090681-4949, og stolið 6 ferðageislaspilurum, tölvuprentara og myndbandstæki. 3. Að morgni sunnudagsins 3. maí brotist inn í íbúðarhúsið að Kolbeinsmýri 2 á Seltjarnarnesi og stolið myndbandsupptökutæki og myndavél. 4. Aðfaranótt sunnudagsins 10. maí stolið sambyggðu útvarpi og geislaspilara að verðmæti um kr. 18.000 úr bifreiðinni A-12563 á bifreiðastæði við Seilugranda 1. 5. Í síðastgreint skipti stolið stolið geislaspilara að verðmæti um kr. 19.000 úr bifreiðinni NV-488 við Seilugranda 1. III. Ákærðu Ágústi, Kristjáni Markúsi og Stefáni Loga er gefin að sök tilraun til þjófnaðar, með því að hafa, um miðnætti aðfaranótt föstudagsins 24. apríl, reynt í þjófnaðarskyni að brjótast inn í Vesturbæjarskólann við Sólvallagötu í Reykjavík, brotið þar rúðu í útihurð en horfið af vettvangi er þjófavarnarkerfi skólans fór í gang. Teljast framangreind brot ákærðu varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 20. gr. laganna, að því er varðar brot ákærðu í III. kafla. IV. Ákærða Stefáni Loga er gefin að sök líkamsárás, með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 9. apríl, slegið Gísla Þorberg Guðjónsson, kt. 010455-3329, með krepptum hnefa í andlitið fyrir framan útidyr sjúkrastöðvarinnar Vogs við Stórhöfða í Reykjavík, og nokkru síðar inni á stöðinni fellt Gísla Þorberg í gólfið og tekið hann hálstaki, með þeim afleiðingum að Gísli Þorbergur hlaut glóðarauga á vinstra auga, skurð á hægri kinn, bólgu vinstra megin við nefrót og gervitönn í efri gómi brotnaði. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981. Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Í málinu krefjast eftirgreindir skaðabóta: Bótakrafa er varðar ákærða Stefán Loga: Gísli Þorbergur Guðjónsson, kr. 400.000 í miskabætur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. apríl 1998 til 25. maí 1998 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, útlagðan kostnað að fjárhæð kr. 40.000 og kostnað vegna lögmannsaðstoðar auk álags er nemi virðisaukaskatti af þóknuninni. Bótakrafa er varðar ákærða Kristján Markús: Friðrik Sigurðsson, kt. 220557-7319, kr. 149.900 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 3. maí 1998 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags. Bótakröfur er varða ákærðu Kristján Markús og Stefán Loga: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. kt. 701288-1739, kr. 258.900 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 8. maí 1998 til greiðsludags. Pétur Reimarsson, kt. 090351-3709, kr. 100.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 10. maí til greiðsludags. Kristín Anna Ingólfsdóttir, kt. 140755-3389, kr. 20.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 10. maí til greiðsludags. Marteinn M. Jóhannsson, kt. 060945-3529, skólastjóri Mýrarhúsaskóla, kr. 66.900.“ Við þingfestingu málsins féll sækjandinn frá ákæru á hendur Ágústi Ásbjörnssyni. Með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 12. júní sl. er mælt fyrir um höfðun opinbers máls á hendur báðum ákærðu „fyrir eftirtalin hegningarlagabrot: I. Á hendur ákærða Stefáni Loga fyrir líkamsárás og gripdeild, með því að hafa laugardagskvöldið 18. október 1997, á Eiðistorgi, Seltjarnarnesi, slegið Hallgrím Svein Sævarsson, kennitala 210475-4949, nokkur högg í andlitið með þeim afleiðingum að Hallgrímur hlaut blóðnasir og skrámur í andlitið og kúlur og eymsli víða á höfði, og að árásinni lokinni að hafa tekið GSM-síma Hallgríms, sem hann hafði misst í átökunum og hlaupið með símann burtu. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 245. gr. almennra hegningarlaga. II. Á hendur báðum ákærðu fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 1. janúar 1998, við áramótabrennu að Ægissíðu í Reykjavík, í félagi ráðist á Bjarna G. Bjarnason, kennitala 020549-4089, og slegið hann með krepptum hnefa í andlit og líkama, auk þess að hafa sparkað margsinnis í andlit Bjarna. Við þessa árás hlaut Bjarni G. Bjarnason nefbrot sem rétta þurfti með aðgerð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, glóðaraugu báðum megin, mikla bólgu á kjálkum, hrufl og mar á augum og enni og sár á ennið, sem sauma þurfti saman með tveimur sporum. Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981. Af hálfu Bjarna G. Bjarnasonar er gerð krafa um það að ákærði verði dæmdur (svo) til að greiða honum bætur samtals að fjárhæð kr. 215.846.“ Mál samkvæmt framangreindum ákærum voru við þingfestingu sameinuð sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 19/1991. Ákæra dagsett 16. júní 1998. I. hluti ákæru. 1. liður. Ákærðu hafa viðurkennt að hafa mánudaginn 6. apríl sl. brotist inn í íbúð á 1. hæð til vinstri í fjölbýlishúsinu að Öldugranda 15, Reykjavík, og stolið tveimur rifflum, tveimur skotbeltum með um fjörutíu haglaskotum, myndbandstæki, tveimur myndavélum. þremur ljósmyndalinsum, leifturljósi tveimur áfengisflöskum og tösku. Báðir ákærðu neituðu að hafa stolið gullhring og kváðust einungis hafa stolið einu úri, gylltu. Við meðferð málsins féll sækjandinn frá ákæru fyrir þjófnað á einum gullhring og einu úri í þessum ákærulið. Með skýlausum játningum ákærðu er sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í 1. lið I. kafla ákæru eftir að fallið hefur verið frá ákæru fyrir þjófnað á einum gullhring og einu úri. Framanlýst háttsemi ákærðu er réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákærunni. 2. liður. Ákærðu hafa viðurkennt að hafa fimmtudagskvöldið 23. apríl sl. brotist inn í Mýrarhúsaskóla við Nesveg á Seltjarnarnesi og stolið tveimur myndbandstækjum. Báðir ákærðu neituðu að hafa stolið ferðageislaspilara. Við meðferð málsins féll sækjandinn frá ákæru fyrir þjófnað á ferðageislaspilaranum í þessum ákærulið. Með skýlausum játningum ákærðu er sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í 2. lið I. kafla ákæru eftir að fallið hefur verið frá ákæru fyrir þjófnað á ferðageislaspilara. Framanlýst háttsemi ákærðu er réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákærunni. 3. liður. Ákærðu hafa viðurkennt að hafa þann 25. eða 26. apríl sl. brotist inn í geymslu í fjölbýlishúsinu að Skeljagranda 4, Reykjavík, og stolið þar fjórum bíldekkjum. Með skýlausum játningum ákærðu er sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í 3. lið I. kafla ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæðis. 4. liður. Ákærðu hafa viðurkennt að hafa í byrjun maí sl. brotist inn í geymslu í síðastgreindu fjölbýlishúsi og stolið þar fjórum bíldekkjum. Með skýlausum játningum ákærðu er sannað að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í 4. lið I. kafla ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæðis. 5. og 6. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa, sunnudaginn 10. maí sl., í félagi við meðákærða Stefán Loga brotist inn í bifreiðina ZS-038 í bifreiðageymslu að Tjarnarmýri 39 á Seltjarnarnesi og stolið úr henni sambyggðu útvarpi og geislaspilara. Þá hefur ákærði Kristján Markús viðurkennt að hafa þennan sama dag í félagi við meðákærða Stefán Loga brotist inn í bifreiðina AR-067 í bifreiðageymslu að Tjarnarmýri 35 á Seltjarnarnesi og stolið úr henni sambyggðu útvarpi og geislaspilara. Við meðferð málsins tók ákærði Kristján Markús fram varðandi þessa tvo ákæruliði að hann hafi brotist einn inn í þessar bifreiðar, en meðákærði Stefán Logi hefði verið viðstaddur. Ákærði mundi ekki hvort þeir meðákærði ræddu um það fyrirfram að stela úr bifreiðunum. Þýfið hafi þeir falið við heimili sitt. Með skýlausum játningum ákærða Kristjáns Markúsar er sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 5. og 6. lið I. kafla ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæðis. Ákærði Stefán Logi hefur viðurkennt að hafa, sunnudaginn 10. maí sl., farið í innbrotsleiðangur ásamt meðákærða Kristjáni Markúsi í bifreiðageymslur við Tjarnarmýri á Seltjarnarnesi. Þar hafi meðákærði Kristján Markús brotist inn í bifreiðina ZS-038 og stolið úr henni sambyggðu útvarpi og geislaspilara, og einnig hafi hann brotist inn í bifreiðina AR-067 og stolið úr henni sambyggðu úrvarpi og geislaspilara. Önnur bifreiðin hafi verið jeppabifreið, en hin fólksbifreið. Ákærði kvað tilgang þeirra hafa verið að leita að geislaspilurum í bifreiðum til að selja. Kvaðst ákærði eingöngu hafa staðið hjá meðan meðákærði Kristján Markús var að brjótast inn í bifreiðarnar og athafna sig þar. Sjálfur hafi hann inn í hvoruga bifreiðina farið. Tæki þau sem stolið var úr bifreiðunum hafi þeir selt í sameiningu. Ákærði kvaðst ekki hafa ætlað að brjótast sjálfur inn í bifreiðarnar, en hann hafi vitað um fyrirætlanir meðákærða Kristjáns Markúsar í þeim efnum. Ákærði Stefán Logi hefur samkvæmt framansögðu skýlaust játað að hafa verið með meðákærða Kristjáni Markúsi í innbrotsleiðangri sunnudaginn 10. maí sl. í bifreiðageymslur við Tjarnarmýri á Seltjarnarnesi. Var honum fullkunnugt um að leiðangur þessi var farinn í þjófnaðarskyni. Enda þótt ákærði hafi ekki haft sig í frammi við að ná tækjunum úr bifreiðunum verður að telja hann sannan að sök um fullframin þjófnaðarbrot samkvæmt þessum ákæruliðum. Er sú háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru. II. hluti ákæru. 1. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa að morgni laugardagsins 28. mars sl. farið inn í íbúð á 2. hæð í fjölbýlishúsinu að Skeljagranda 3, Reykjavík, og stolið snyrtitösku með um 6.000 krónum í reiðufé. Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru. 2. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa á tímabilinu frá 11.-14. apríl sl. brotist inn í Grandaskóla við Keilugranda, Reykjavík, í félagi við Þorberg Bergmann Halldórsson, kt. 090681-4949, og stolið sex ferðageislaspilurum, tölvuprentara og myndbandsupptökuvél. Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru. 3. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa að morgni sunnudagsins 3. maí sl. brotist inn í íbúðarhúsið að Kolbeinsmýri 2, Seltjarnarnesi, og stolið myndbandsupptökutæki og myndavél. Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru. 4. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa aðfaranótt sunnudagsins 10. maí sl. stolið sambyggðu útvarpi og geislaspilara úr bifreiðinni A-12563 á bifreiðastæði við Seilugranda 1, Reykjavík. Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru. 5. liður. Ákærði Kristján Markús hefur viðurkennt að hafa aðfaranótt sunnudagsins 10. maí sl. stolið geislaspilara úr bifreiðinni NV-488 við Seilugranda 1, Reykjavík. Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru. III. hluti ákæru. Ákærðu Kristján Markús og Stefán Logi hafa viðurkennt að hafa um miðnætti aðfaranætur föstudagsins 24. apríl sl. reynt í þjófnaðarskyni að brjótast inn í Vesturbæjarskóla við Sólvallagötu, Reykjavík, brotið þar rúðu í útihurð, en horfið af vettvangi er þjófavarnarkerfi skólans fór í gang. Framanlýst háttsemi ákærðu er sönnuð með skýlausum játningum þeirra. Er þetta atferli ákærðu réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru. IV. hluti ákæru. Ákærði Stefán Logi hefur viðurkennt að hafa að kvöldi fimmtudagsins 9. apríl sl., slegið Gísla Þorberg Guðjónsson, kt. 010455-3329, með krepptum hnefa í andlitið fyrir framan útidyr sjúkrastöðvarinnar Vogs við Stórhöfða, Reykjavík, og nokkru síðar inni á stöðinni fellt Gísla Þorberg í gólfið og tekið hann hálstaki, með þeim afleiðingum að Gísli hlaut glóðarauga á vinstra auga, skurð á hægri i kinn, bólgu vinstra megin við nefrót og gervitönn í efra gómi brotnaði. Kveður ákærði ástæðu þess að hann réðist að Gísla vera þá að kærandi hafi hreytt í sig ónotum og kallað sig aumingja og ræfil og hann gæti bundið ákærða niður og rassskellt eins og litla stelpu. Í vottorði Sverris Jónssonar læknis á sjúkrastöðinni Vogi, dagsettu 10. apríl sl., um áverka kæranda segir svo: „Við skoðun er hann með glóðarauga á vinstra auga. Skurður á hægri kinn sem búið er að teypa vel saman. Er svolítið aumur í nefinu en ekki er hægt að finna neina nefskekkju, svolítið bólginn vinstra megin við nefrótina. Báðar nasir opnar. Engin merki um brot á andlitsbeinum. Er með falskar tennur og það er brotin ein tönn úr efri gómnum.“ Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru. Ákæra dagsett 12. júní 1998. I. hluti ákæru. Ákærði Stefán Logi hefur viðurkennt að hafa laugardagskvöldið 18. október 1997, á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi, slegið Hallgrím Svein Sævarsson, kt. 210475-4949, nokkur högg í andlitið með þeim afleiðingum að Hallgrímur hlaut blóðnasir og skrámur í andlitið og kúlur og eymsli víða á höfði, og að árásinni lokinni að hafa tekið GSM-síma Hallgríms sem hann hafði misst í átökunum og hlaupið með símann burtu. Kærandi leitaði til Heilsugæslustöðvarinnar á Seltjarnarnesi 24. október sl. Í vottorði Guðmundar Sigurðssonar læknis, dagsettu 10. febrúar sl., um áverka kæranda segir svo: „Við skoðun komu fram eftirfarandi áverkar: 1. Hrufl 6x1 cm. á hægri sköflungi. 2. Grunnt hrufl og mar framan á hægra hné. 3. 5x8 cm. mar innanvert á vinstra læri. 4. Ummerki e. glóðarauga vinstra megin. Ljósop eðlileg. Ekki að sjá merki um blæðingu inn í augað við speglun. 5. Kúlur og eymsli víða á höfði.“ Framanlýst háttsemi ákærða er sönnuð með skýlausri játningu hans. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru. II. hluti ákæru. Ákærði Kristján Markús hefur við rannsókn málsins viðurkennt að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 1. janúar sl. við áramótabrennu við Ægisíðu í Reykjavík, ráðist á mann og slegið hann með krepptum hnefa í andlit og líkama, auk þess að hafa sparkað margsinnis í andlit og líkama mannsins. Við meðferð málsins kvaðst ákærði ekki muna eftir atvikinu. Hann kvaðst þó muna að hafa lent í slagsmálum við áramótabrennuna við Ægisíðu 1. janúar sl. Kvað hann eftir yfirlestur skýrslu þeirrar sem tekin var af honum hjá lögreglu síðdegis sama dag, málsatvik ekki rifjast frekar upp fyrir sér. Ákærði kvaðst þó ekki draga í efa að skýrsla hans hjá lögreglu umræddan dag væri rétt eftir honum höfð. Í vottorði Ingibjargar Hinriksdóttur sérfræðings á Háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, dagsettu 21. apríl sl., um áverka kæranda segir svo: „Við skoðun við komu á Slysadeild er Bjarni allur blóðugur í andliti með skurð á enni. Marinn á kinn vi. megin. Brot er á nefi en önnur andlitsbrot greinast ekki. Á enninu er skurður ca. 1 1/2 cm. langur, var flagnaður svolítill flipi þar. Meðferð: Sár á enni saumað með 2 sporum. Þann 06.01. sér undirrituð hann á Háls- nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Við skoðun þá er hann marinn undir báðum augum, gulleitt mar, sár yfir nefbeini og mar þar. Einnig gulleitt mar yfir vinstra kjálka. Nef: Miðsnesið er skakkt og þrengir það fremri hluta nefsins. Finna ná brot á vinstra nefbeini. Í staðdeyfingu er nefbrotið rétt. Eftir það situr það ágætlega.“ Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir skýlaus játning ákærða Kristjáns Markúsar fyrir dómi á þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum kafla ákæru telur dómurinn að ekki sé varhugavert að telja sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er þar gefin að sök og er í samræmi við önnur gögn þessa þáttar málsins. Er þetta atferli ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru. Ákærði Stefán Logi kveður það rétt vera að aðfaranótt fimmtudagsins 1. janúar sl. hafi hann verið staddur við áramótabrennu við Ægisíðu í Reykjavík ásamt meðákærða Kristjáni Markúsi. Kveður ákærði meðákærða Kristján Markús hafa ráðist á mann þarna við brennuna og slegið hann með krepptum hnefa í andlit og líkama, en við þessi högg hafi maðurinn fallið til jarðar. Viðurkennir ákærði að eftir að maðurinn var fallinn hafi hann sparkað tvisvar sinnum í maga hans. Ákærði neitaði hins vegar að hafa slegið manninn með krepptum hnefa í andlit og líkama. Hann hafi eingöngu sparkað tvisvar sinnum í maga mannsins eftir að hann var fallinn. Ákærði viðurkenndi eftir yfirlestur skýrslu þeirrar sem tekin var af honum hjá lögreglu þann 1. janúar sl. að hann hafi einnig slegið manninn með krepptum hnefa í andlitið og hafi höggið lent á vinstri kjálka. Með játningu ákærða Stefáns Loga, sem ekki þykir ástæða til þess að vefengja, telst sannað að hann hafi slegið kæranda eitt högg með krepptum hnefa í andlitið, nánar tiltekið á vinstri kjálka hans, og efir að kærandi var fallinn til jarðar að hafa sparkað tvívegis í maga hans. Eins og játningu ákærða er farið verður þessi háttsemi hans metin honum til sakar samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981. Refsingar: Ákærði Kristján Markús hefur til þessa fjórum sinnum hlotið dóm og einu sinni gengist undir sátt. Í september 1996 hlaut ákærði sekt og var sviptur ökurétti í tólf mánuði fyrir umferðarlagabrot. Þann 24. september 1997 var ákærði sakfelldur fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar, líkamsárás, helgispjöll og eignaspjöll. Ákvörðun um refsingu var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þann 3. mars sl. var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir líkamsárás. Þann 6. mars sl. var ákærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi, þar af 15 mánuði skilorðsbundna í þrjú ár, fyrir líkamsárásir. Dómarnir frá 24. september 1997 og 3. mars sl. voru dæmdir upp og felldir inn í refsinguna. Loks var ákærði þann 26. júní sl. dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, hegningarauka, fyrir líkamsárásir, brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og lögum um skotvopn, sprengiefni og skotelda. Dómurinn frá 6. mars sl. var birtur ákærða Kristjáni Markúsi þann 16. mars sl. og afplánar hann nú óskilorðsbundinn hluta dómsins. Með brotum þeim sem ákærði framdi eftir þann dag hefur ákærði rofið skilorðshluta þess dóms. Er þar um að ræða öll brotin sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir skv. ákærunni frá 16. júní sl. Skilorðshluti þess dóms verður nú tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir þau brot sem hann hefur hér verið sakfelldur fyrir og þau brot sem honum var gerð refsing fyrir í þeim dómi. Refsingu ákærða ber að tiltaka með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, en auk þess verður höfð hliðsjón af því að ákærði var einungis 17 ára þegar hann framdi brotin. Að öllu þessu virtu er hún hæfilega ákveðin fangelsi í eitt ár og sjö mánuði. Ákærði Stefán Logi hefur til þessa hlotið þrjá dóma, en áður, þ.e. í október 1997 hlaut hann ákærufrestun, skilorðsbundna í tvö ár, fyrir líkamsárás og þjófnað. Þann 23. janúar sl. var ákærði sakfelldur fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot. Ákvörðun um refsingu var frestað, skilorðsbundið í tvö ár. Þann 3. mars sl. var ákærði sakfelldur fyrir líkamsárás. Ákvörðun um refsingu var frestað, skilorðsbundið í tvö ár. Loks var ákærði þann 6. maí sl. dæmdur í 75 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað. Dómarnir frá 23. janúar og 3. mars sl. voru dæmdir upp og felldir inn í refsinguna. Síðastgreindur dómur var birtur ákærða Stefáni Loga þann 3. júní sl. Dómur þessi verður nú dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir þau brot sem hann er nú sakfelldur fyrir og þau brot sem honum var gerð refsing fyrir með dóminum frá 6. maí sl. Við ákvörðun refsingar ber að hafa hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, en auk þess ber að líta til þess að ákærði var aðeins 16 ára er hann framdi brotin. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Eftir atvikum er rétt að ákveða að fresta skuli fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og að hún skuli falla niður að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði sætti gæsluvarðhaldi frá 13. maí til 24. júní sl., alls 42 daga. Að því er varðar hinn óskilorðsbundna hluta dómsins skal 42 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða koma til frádráttar refsingu að fullri dagatölu. Bótakröfur: Ákærði Stefán Logi hefur mótmælt bótakröfu Gísla Þorbergs Guðjónssonar sem gerð er grein fyrir í ákæru dagsettri 16. júní sl. Sundurliðast krafan þannig: Miskabætur 400.000 krónur og skemmdur tanngarður 40.000 krónur. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu kostnaðar við lögmannsaðstoð skv. mati dómsins. Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings kröfunni. Allt að einu þykja efni til að dæma kæranda miskabætur er þykja hæfilega ákveðnar 50.000 krónur ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærði einnig dæmdur til að greiða kæranda 15.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfunni. Ákærði Kristján Markús hefur mótmælt bótakröfu Friðriks Sigurðssonar sem höfð er uppi í málinu og gerð er grein fyrir í ákæru dagsettri 16. júní sl. Krefst hann þess að kröfunni verði vísað frá dómi, enda beri gögn þau sem fylgja kröfunni með sér að um nýja hluti sé að ræða. Ekkert liggur fyrir í málinu um aldur hinna stolnu muna. Þykir ekki verða hjá því komist að vísa kröfu þessari frá dómi. Ákærðu hafa mótmælt bótakröfu þeirri sem Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafa uppi í málinu á hendur þeim og gerð er grein fyrir í ákæru dagsettri 16. júní sl. Krefjast þeir þess að kröfunni verði vísað frá dómi sökum vanreifunar. Krafa þessi er ekki studd neinum viðhlítandi gögnum. Þykir ekki verða hjá því komist að vísa henni frá dómi. Í ákæru dagsettri 16. júní sl. er gerð grein fyrir að Pétur Reimarsson hafi uppi bótakröfu á hendur ákærðu. Formleg bótakrafa liggur ekki fyrir í málinu frá Pétri. Samkvæmt því verður svokallaðri bótakröfu Péturs Reimarssonar vísað frá dómi. Í ákæru dagsettri 16. júní sl. er gerð grein fyrir að Kristín Anna Ingólfsdóttir hafi uppi bótakröfu á hendur ákærðu. Formleg bótakrafa liggur ekki fyrir í málinu frá Kristínu Önnu. Samkvæmt því verður svokallaðri bótakröfu Kristínar Önnu Ingólfsdóttur vísað frá dómi. Ákærðu hafa mótmælt bótakröfu þeirri sem Marteinn M. Jóhannsson f.h. Mýrarhúsaskóla hefur uppi í málinu á hendur þeim og gerð er grein fyrir í ákæru dagsettri 16. júní sl. Krefjast þeir þess að kröfunni verði vísað frá dómi sökum vanreifunar. Krafa þessi er ekki studd neinum gögnum. Verður ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi. Ákærðu hafa mótmælt bótakröfu þeirri sem Bjarni G. Bjarnason hefur uppi í málinu á hendur þeim og gerð er grein fyrir í ákæru dagsettri 12. júní sl. Þrátt fyrir orðalag í niðurlagi ákæru verður að skilja kröfuna svo að hún beinist að ákærðu báðum. Krafan sundurliðast þannig: Miskabætur skv. 26. gr. laga nr. 50/1993 200.000 krónur og útlagður kostnaður 15.846 krónur. Vaxta er ekki krafist. Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings miskabótakröfunni. Allt að einu þykja efni til að dæma kæranda miskabætur er þykja hæfilega ákveðnar 100.000 krónur. Krafan um útlagðan kostnað er studd ítarlegum gögnum. Ber því að taka hana til greina eins og hún er fram sett. Þykja ekki efni til annars en dæma ákærðu óskipt til greiðslu bótanna. Sakarkostnaður: Samkvæmt 1. tl. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærðu til greiðslu sakarkostnaðar eins og nánar greinir í dómsorði. Eins og áður er að vikið er mál þetta einnig höfðað á hendur Ágústi Ásbjörnssyni, en við þingfestingu málsins var fallið frá ákæru á hendur honum. Skipaður verjandi hans, Örn Clausen hæstaréttarlögmaður, krafðist þess í þinghaldinu að dómurinn ákvarðaði honum hæfilega þóknun úr ríkissjóði fyrir verjandastarfann. Verður honum ákvörðuð þóknun fyrir starfa sinn eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Kristján Markús Sívarsson, sæti fangelsi í 1 ár og 7 mánuði. Ákærði, Stefán Logi Sívarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Fresta skal fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Gæsluvarðhald ákærða, samtals 42 dagar, komi til frádráttar refsingu skv. óskilorðsbundnum hluta dómsins. Ákærði Stefán Logi greiði Gísla Þorbergi Guðjónssyni 50.000 krónur ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 9. apríl 1998 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 15.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfunni. Ákærðu greiði óskipt Bjarna G. Bjarnasyni 115.846 krónur. Bótakröfum Friðriks Sigurðssonar, Sjóvár-Almennra trygginga hf., Péturs Reimarssonar, Kristínar Önnu Ingólfsdóttur, og Marteins M. Jóhannssonar f.h. Mýrarhúsaskóla, er vísað frá dómi. Þóknun Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, vegna verjandastarfa í þágu Ágústs Ásbjörnssonar, 20.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Allan annan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Stefánssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur, greiði ákærði Kristján Markús að hálfu og ákærði Stefán Logi að hálfu. |
Mál nr. 661/2012 | Kærumál Fjármálafyrirtæki Slitameðferð Réttindaröð Lífeyrisskuldbinding | Lífeyrissjóðurinn L lýsti kröfu við slit fjármálafyrirtækisins S hf. vegna lífeyrisskuldbindinga sem hvíldu á S hf. en krafan var til komin vegna ógjaldfallinna lífeyrishækkana samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Krafa L var hvorki reist á vinnusamningi né fól hún í sér beint endurgjald fyrir vinnu. Með vísan til þess auk almennra sjónarmiða við skýringu 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og samræmisskýringar við 4. tl. sömu greinar var því hafnað að krafa L væri forgangskrafa í skilningi 1. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til ýmissa sjónarmiða um skýringu 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 og 4. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 var því hafnað að krafa samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu ætti undir síðarnefnda ákvæðið. Var því ekki fallist á með L að krafa lífeyrissjóðsins yrði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit S hf. heldur væri hún almenn krafa sbr. 113. gr. sömu laga. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2012. Þar var hafnað kröfu sóknaraðila um að krafa hans gegn varnaraðila, nr. 126 í kröfuskrá, vegna lífeyrisskuldbindinga yrði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila. Var viðurkennt að þeirri kröfu skyldi við slitin skipað í skuldaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans á hendur varnaraðila verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar og dóma Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 326/2003, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár, bls. 2950, og 26. október 2012 í máli nr. 624/2012 verður hann staðfestur. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, greiði varnaraðila, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað. |
Mál nr. 410/2017 | Kærumál Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi | Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. | Dómur Hæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogasonog Karl Axelsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2017, sembarst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurðurHéraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2017, þar sem varnaraðila var gert að sætaáfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. júlí 2017 klukkan 16.Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilikrefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en tilvara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt gögnum málsins komu varnaraðili og Y að [...] í [...] síðdegis 7.júní 2017 í félagi við þrjá karla og eina konu. Eftir að brotaþoli hafði hentkústi í aðra þeirra bifreiða, sem komumenn voru á, sótti hann járnrör og fór aðbifreiðunum. Stigu þá varnaraðili og Y út og gengu að brotaþola. Tók varnaraðilijárnrörið af brotaþola, en við það féll hinn síðarnefndi í jörðina. Hélt Ybrotaþola þar í hálstaki í margar mínútur og sló hann ítrekað í andlitið. Varbrotaþoli úrskurður látinn klukkan 19.14 um kvöldið. Fram kom í bráðabirgðaniðurstöðu krufningar að þvinguð frambeygð staðabrotaþola í langan tíma hafi leitt til mikillar minnkunar öndunargetu, sem aðlokum leiddi til stöðutengdrar köfnunar og láts hans. Sagði í niðurstöðunni aðvið þessar kringumstæður væri hægt að líta á hálstakið sem aðalþáttinn „í þvísem leiddi til láts“ brotaþola.Að framansögðu virtu hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að varnaraðilisé undir sterkum grun um brot gegn 211. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennrahegningarlaga nr. 19/1940. Þar sem þessu frumskilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr.88/2008 er ekki fullnægt verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.Dómsorð:Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.ÚrskurðurHéraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2017.Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafistþess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X kt. [...] til að sæta gæsluvarðhaldiallt til föstudagsins 21. júlí nk. Í greinargerð lögreglu kemurfram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú meint manndráp þeirra Y og Xsem gefið sé að sök að hafa að kvöldi miðvikudagsins 7. júní sl., í félagi,ráðist með ofbeldi á A með þeim afleiðingum að A hafi látið lífið. Ífrumskýrslu lögreglu komi fram að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu að [...]í [...] laust eftir kvöldmat þann 7. júní sl. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi máttsjá hvar A lá á bakinu í götunni skammt frá heimili sínu. Brotaþoli hafi veriðmeðvitundarlaus, blóðugur og blár í andliti. Við hlið brotaþola hafi annarsvegar staðið X sem hafi verið að tala í símann og hinsvegar Y sem virst hafivera með tilburði til endurlífgunar. Hafi lögregla og í framhaldisjúkraflutningsmenn tekið við endurlífgun brotaþola en í kjölfarið hafi þeir Xog Y verið handteknir, grunaðir um stórfellda líkamsárás á brotaþola. Brotaþolihafi í framhaldi verið fluttur á slysadeild þar sem hann hafi verið úrskurðaðurlátinn. Fjórir aðilar til viðbótar hafi einnig verið handteknir skammt frávettvangi í tengslum við málið. Þann 8. júní hafi verið krafist gæsluvarðhalds á grundvellirannsóknarhagsmuna yfir þeim Y og X auk fjórmenninganna. Hafi Y og X sættgæsluvarðhaldi síðan þá en fjórmenningarnir hafi verið losaðir úrgæsluvarðhaldi 15. júní sl. Lögreglahafi síðustu tvær vikur rætt við fjölda aðila vegna málsins. Samkvæmt framburðiþeirra aðila hafi kærðu í félagi við fjórmenningana komið á tveimur bílum aðheimili brotaþola umrætt sinn. Sé því lýst að brotaþoli hafi komið út afheimili sínu til að ræða við fólkið og til átaka hafi komið milli brotaþola ogfólksins sem hafi endað með því að brotaþoli hafi sótt kúst inn í hesthús oghent í annan bílinn sem fólkið hafi komið á. Kærðu og fjórmenningarnir hafi þáfarið í bifreiðarnar og keyrt aðeins í burtu frá brotaþola. Brotaþoli hafi íframhaldi sótt járnrör sem hann hafi hlaupið í átt að bifreiðum fólksins með ogþá hafi kærðu báðir gengið til móts við brotaþola. X hafi tekið rörið afbrotaþola svo hann fell í jörðina og í framhaldi hafi Y haldið honum á maganumí jörðinni, slegið hann ítrekað í andlitið og haldið honum í hálstaki semsamkvæmt lýsingu vitna hafi varað í umtalsverðan tíma. Á meðan Y hafi slegið oghaldið brotaþola í tökum hafi X staðið hjá og að mati vitnis, sem fylgdist meðskammt frá, hvatt Y áfram. Sama vitni hafi lýst því að þegar vitnið hafi kallaðtil kærðu að láta af hegðun sinni hafi hvorugur þeirra brugðist við því ogatlagan gegn brotaþola haldið áfram þar til ljóst hafi verið að hann hefðimisst meðvitund. Sé því lýst af vitnum að svo hafi virst sem kærðu væru aðmynda brotaþola í kjölfar átakanna og hringja einhver símtöl. Vitni hafi síðanlýst því að skömmu áður en lögregla hafi komið á vettvang hafi kærðu sýnttilburði til endurlífgunar á brotaþola með því að blása í nokkur skipti í brotaþolaog ýtt á bringu hans með annarri hendi. Meðalgagna málsins liggi fyrir nokkur símtöl við neyðarlínuna þar sem tilkynnt sé umátök og ástand brotaþola umrætt sinn. Séu báðir kærðu meðal þeirra sem hringi íneyðarlínuna. Í símtali Y við neyðarlínuna tilkynni hann um að þörf sé ásjúkrabifreið að [...] vegna manns sem hafi verið keyrt á. Eftir samtalið viðstarfsmann neyðarlínunnar megi heyra hvar Y leggi símann frá sér og byrji aðhreyta ókvæðisorðum í brotaþola. Þáliggi fyrir snapchat upptökur bæði úr símum X og Y og megi þar sjá að báðirhafi þeir tekið upp myndband af brotaþola þar sem sjá megi hann liggjahreyfingarlausan, blóðugan og bláan í framan. Heyra megi á upptökunum að kærðutali á niðrandi hátt til brotaþola og sömuleiðis heyrist X segja að svona farifyrir þeim sem ráðist að sér. Kærðuneiti báðir sök og kannist ekki við hafa veist að brotaþola með ofbeldi líkt ogvitni hafa lýst. Kærðu lýsi því að hafa komið að heimili brotaþola til þess aðsækja þangað garðverkfæri sem hafi verið eign kærða Y. Brotaþoli hafi hinsvegarað ástæðulausi ráðist að þeim vopnaður kústskafti og skemmt bifreiðar þeirra ogí framhaldi hafi hann veist að þeim með járnröri sem kærðu hafi séð sig knúnatil að stöðva brotaþola með. Í framhaldi hafi þeir haldið brotaþola í tökum þartil þeim hafi verið ljóst að brotaþoli væri meðvitundarlaus en þá hafi þeirhafið endurlífgun á honum þar til lögreglan hafi komið á vettvang. Samkvæmtbráðabrigðarniðurstöðu krufningar og upplýsingum frá réttarmeinafræðingnum semhafi krufið brotaþola verði andlát brotaþola rakið til nokkurra samverkandiþátta enljóst sé að þvinguð frambeygð staða brotaþola í hálstaki í langan tíma leidditil mikillar minnkunar á öndunargetu sem að lokum leiddi til köfnunarbrotaþola. Megiþví líta áhálstakið sem vitni lýsi að kærði Y hafi haldið brotaþola í sem aðalþáttinn íandláti hans. Kærðu neiti báðir sök en ljóstsé að framburður þeirra sé ekki til samræmis við upptökur og myndbönd sem séumeðal rannsóknargagna og framburð vitna í málinu. Kærði liggi samkvæmtframansögðu undir sterkum grun um að hafa, í félagi við Y, veist að brotaþolameð ítrekuðum höggum og haldið honum í hálstaki þar til hann hafi misstmeðvitund og látist í kjölfarið. Brot kærða sé talið varða við 211. gr.almennra hegningarlaga og kunni því að varða 16 ára fangelsi eða allt aðævilöngu. Að mati lögreglustjóra sé um að ræða tilefnislausa og fólskulegalíkamsárás sem leitt hafi til dauða brotaþola. Af framangreindu og með tillititil almannahagsmuna sé það mat lögreglustjóra að brot kærða sé þess eðlis aðnauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus meðan mál hans er tilmeðferðar hjá lögreglu og dómstólum. Með vísan til framangreinds,framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála séþess krafist að krafan nái fram að ganga. Niðurstaða:Kærði hefur mótmæltkröfunni og krefst þess að henni verði hafnað. Samkvæmt því semfram kemur í greinargerð lögreglu og rannsóknargögnum málsins er á það fallistað kærði sé undir rökstuddum grun um alvarlegt brot sem varðað getur allt 10ára fangelsi eða lengri fangelsisvist. Af gögnum málsins nú verður þó ráðið aðhlutur kærða hafi líkast til verið minni heldur en meðkærða, en atlagan gæti þóflokkast undir samverknað eða að kærði hafi verið hlutdeildarmaður. Kærði hefurjátað við yfirheyrslu að hafa haldið brotaþola niðri í jörðinni og höndum hansfyrir aftan bak þangað til meðkærði tók við eins og það var orðað. Ráða má aðkærði aðhafðist ekkert á meðan meðkærði réðst á brotaþola. Þá er vitnisburður umað kærði hafi jafnvel hvatt meðkærða áfram við verknaðinn. Með vísan til þesssem fram kemur í kröfu lögreglunnar, sem og eðli og alvarleika þess brots semkærði er sakaður um er á það fallist að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti tilalmannahagsmuna. Að mati dómsins eru þannig uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr.laga nr. 88/2008 til þess að gera kærða að sæta gæsluvarðhaldi áfram eins og íúrskurðarorði greinir. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmritíma en krafist er. Að öllu framangreindu virtu verður krafa lögreglustjóransþví tekin til greina eins og hún er fram sett. LárentsínusKristjánsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.Ú R S K U R Ð A R O R Ð Kærði, X, kt. [...]skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. júlí nk. kl 16:00. |
Mál nr. 179/2001 | Kærumál Vanreifun Aðild Frávísunarúrskurður staðfestur | Ö ehf. krafðist þess að fá dóm á hendur E ehf. og S, óskráðu einkafirma. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins frá dómi sökum óljósrar dómkröfu Ö ehf., en henni virtist í raun vera beint að J og E, sem Ö ehf. taldi vera fyrirsvarsmenn S. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2001, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili Eyrarmúli ehf. hefur ekki látið málið til sín taka. Varnaraðili Skipamiðlunin Bátar og kvóti krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Jafnframt verði lögmaður sóknaraðila víttur fyrir óviðurkvæmileg ummæli um varnaraðila í stefnu. Þá er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, auk þess sem sóknaraðili og lögmaður hans verði sameiginlega dæmdir til að greiða álag á málskostnað í héraði. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Ekki eru efni til að verða við fyrrnefndri kröfu varnaraðila um vítur á hendur lögmanni sóknaraðila. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2001. I. Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um fram komna frávísunarkröfu, var höfðað fyrir dómþinginu af Örgjafanum ehf., kt. 500887-1419, Hlíðarsmára 8, Kópavogi, á hendur Eyrarmúla, kt. 701299-2999, Bugðulæk 5, Reykjavík og Skipamiðluninni Bátar og kvóti, Síðumúla 33, Reykjavík, með stefnu þingfestri 7. desember 2000. Dómkröfur stefnda, Skipamiðlunarinnar Bátar og kvóti eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu. Þá krefst stefndi málskostnaðar, hvort heldur málinu verði vísað frá dómi eða það dæmt efnislega. Þá krefst stefndi álags á málskostnað samkvæmt c lið 1. mgr. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, og að stefnandi og lögmaður hans verði in solidum úrskurðaðir eða dæmdir til þess að greiða álag á málskostnað, sbr. 2. mgr. og 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Þá er þess krafist að að Jónas Haraldsson, héraðsdómslögmaður, verði víttur fyrir ósæmileg ummæli um stefndu í stefnu. Ekki var sótt þing af hálfu stefnda, Eyrarmúla ehf. Eins og að framan greinir var mál þetta flutt um frávísunarkröfu stefnda, Báta og kvóta, og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér. Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp. II. Stefnandi rekur rafverkstæði. Umstefnd skuld er vegna reikninga stefnanda vegna vinnu við rafbúnað bátsins Sólborgar RE-22, dagsettum 14. apríl 2000, að fjárhæð 99.107 krónur og 26. apríl 2000, að fjárhæð 7.450 krónur. Kveður stefnandi starfsmann Skipamiðlunarinnar Bátar og kvóti, Síðumúla 33, Reykjavík, hafa óskað eftir vinnu hans við bátinn. Skipamiðlunin Bátar og kvóti hafi eignast bátinn, með afsali dagsettu 11. apríl 2000. Stefnandi kveðst hafa óskað eftir því við skipasöluna að hún greiddi umstefnda reikninga. Skipasalan hafi þá óskað eftir sundurliðun reikninganna. Kveður stefnandi skipamiðlunina hafa staðfest að hún hafi beðið um verkið, en kvartað við stefnanda undan umfangi þess og hvernig það hafi verið unnið. Síðar hafi skipamiðlunin vísað á kaupanda bátsins, Albert Pétursson, um greiðslu skuldarinnar, sem hafi einnig keypt fyrirtækið, Skipamiðlunina Bátar og kvóti, ásamt kennitölu þess. Fyrrgreindur Albert hafi hins vegar breytt nafninu í Eyrarmúli ehf., en haldið kennitölu skipamiðlunarinnar. Stefnandi kveður hins vegar forsvarmenn fyrirtækisins, Skipamiðlunin Bátar og kvóti ehf., ekki hafa hætt að nota nafn fyrirtækisins og reki enn fyrirtæki með sama nafni og á sama stað, en ekki sé vitað hver kennitala þess sé nú. III. Stefndi, Skipamiðlunin Bátar og kvóti, byggir kröfu sína um frávísun á því, að aðildarhæfi Skipamiðlunarinnar Bátar og kvóti sé í engu skýrt í stefnu. Þá sé ekki með neinum hætti gerð grein fyrir því hvernig aðild hvoru tveggja stefndu, Eggerts Jóhannssonar og Jóhannesar Eggertssonar f.h. Skipamiðlunarinnar Báta og kvóta og Eyrarmúla ehf., sé háttað, svo sem hvort um samlagsaðild eða samaðild sé að ræða, sbr. 18. og 19. gr. laga nr. 91/1991. Nefnd atrið varði ein og sér frávísun málsins. Einnig byggir stefndi, Skipamiðlunin Bátar og kvóti, á því að ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. e lið 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem lýsing á atvikum og málsástæðum í stefnu sé ekki nægilega skýr og mótsagnir séu milli málsatvika og málsástæðna stefnanda. Um lagarök vísar stefndi til 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um málskostnað án álags byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. |
Mál nr. 422/2016 | Kærumál Vistun barns Lögvarðir hagsmunir Frávísun frá Hæstarétti að hluta Gjafsókn | A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hennar um að úrskurður B, þar sem ákveðið var að synir hennar yrðu vistaðir utan heimilis í allt að tvo mánuði, yrði felldur úr gildi og tekin til greina krafa um að þeir yrðu vistaðir utan heimilis í fjóra mánuði. Kröfu A sem laut að ákvörðun B var vísað frá héraðsdómi þar sem sá tími var liðinn sem ákvörðunin tók til. Úrskurður héraðsdóms um vistun drengjanna utan heimilis í fjóra mánuði var hins vegar staðfestur. | DómurHæstaréttar.Mál þetta dæma hæstaréttardómararnirBenedikt Bogason, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttarmeð kæru 1. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 6. sama mánaðar. Kærðurer úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. maí 2016, þar sem hafnað var kröfusóknaraðila um að felldur yrði úr gildi úrskurður varnaraðila 21. mars sama ár,þess efnis að synir hennar yrðu vistaðir utan heimilis í allt að tvo mánuði ogtekin til greina krafa varnaraðila um aðdrengirnir yrðu vistaðir utan heimilis í fjóra mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr.64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærðiúrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillitstil gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðaúrskurðar.Hinn21. maí 2016 rann út sá tveggja mánaða tími sem kveðið var á um í úrskurðivarnaraðila 21. mars sama ár að gilda skyldi um vistun drengjanna utan heimilissóknaraðila. Af þeim sökum hefur hún ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fáúrskurðinn felldan úr gildi og verður þeirri kröfu því sjálfkrafa vísað fráHæstarétti.Í umræddum úrskurði varnaraðila eruítarlega rakin þau atriði sem varða samskipti sóknaraðila og sona hennar, erliggja til grundvallar tímabundinni vistun þeirra utan heimils samkvæmt heimildb. liðar 1. mgr. 27. gr. laga. nr. 80/2002, en samhliða uppkvaðninguúrskurðarins fól nefndin lögmanni sínum að gera um það kröfu fyrir dómi, sbr.1. mgr. 28. gr. laga. nr. 80/2002, að drengirnir yrðu vistaðir í alls fjóramánuði utan heimilis. Samkvæmt því sem fram kemur í úrskurðinum, sem og því semráða má af gögnum málsins um hæfi sóknaraðila, samskipti hennar við drengina oglíðan þeirra, er fullnægt tilvitnuðum skilyrðum b. liðar 1. mgr. 27. gr., sbr.1. mgr. 28. gr. laga. nr. 80/2002 til að drengirnir verði vistaðir utanheimilis í fjóra mánuði frá og með 21. mars 2016 að telja. Er þess þá jafnframtað gæta að nú fer fram mat á forsjárhæfni sóknaraðila. Verður því niðurstaðahins kærða úrskurðar staðfest eins og nánar greinir í dómsorði. Ákvæði hins kærða úrskurðar ummálskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Kærumálskostnaður fellur niður en umgjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð:Vísaðer frá Hæstarétti þeirri kröfu sóknaraðila, A, að úrskurður varnaraðila, B, 21.mars 2016 verði felldur úr gildi. Varnaraðila er heimilt að vista synisóknaraðila, C og D, utan heimilis í fjóra mánuði frá 21. mars 2016 að telja.Ákvæði hins kærða úrskurðar ummálskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.Kærumálskostnaðurfellur niður.Gjafsóknarkostnaðursóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talinmálflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur. Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. maí 2016.Sóknaraðilier A, kt. [...], til heimilis að [...],[...], en varnaraðili er B. Krafa sóknaraðila er að úrskurður B frá 21. mars 2016 umað bræðurnir C og D skuli vistaðir utan heimilis í allt að tvo mánuði verðifelldur úr gildi með úrskurði. Þá erkrafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu ásamt virðisaukaskattieins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Sóknaraðili hefur fengið gjafsóknarleyfií máli þessu. Með greinargerð framlagðri 29. apríl sl. krafðistvarnaraðili þess að úrskurður varnaraðila frá 21. mars sl. yrði staðfestur. Þáer þess krafist að drengirnir skuli vistaðir utan heimilis á vegum B í allt aðfjóra mánuði frá og með 21. mars sl., skv. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr.80/2002.Fór aðalmeðferð fram þann17. maí sl. Málavextir.Samkvæmt gögnum málsinsog framburði sóknaraðila flutti hún til Íslands frá Spáni á árinu [...] en tilSpánar flutti hún frá [...]. Giftist hún barnsföður drengsins C, sem fæddist [...],en þau skildu. Eignaðist sóknaraðili aftur dreng, D, [...]. Slitnaði upp úrsambúð hennar og barnsföður hennar. Sóknaraðili býr því ein með tveimurdrengjum sínum. Með úrskurði þann 21. mars 2016 ákvað varnaraðili að drengirnirskyldu vistaðir utan heimilis í tvo mánuði en frá 7. mars sl. voru þeirnauðungarvistaðir utan heimilis þar til úrskurður gekk þann 21. mars sl. Í tilkynningu frá B segir að barnsfaðir sóknaraðila,E, hafi beitt hana ofbeldi og að hún hafi dvalið í kvennaathvarfinu. Alls sex tilkynningar hafa boristvarnaraðila vegna C og tvær vegna beggja bræðranna, misalvarlegar. Fyrstatilkynning barst frá barnavernd Reykjavíkur þann 22. mars 2013. Önnur tilkynning barst þann 7. febrúar 2014 frá lögreglu en barnsfaðirsóknaraðila, E, sparkaði í útidyrahurð sóknaraðila og var með læti. Þriðja tilkynning barst undir nafnleynd þann 15. maí 2014. Tilkynnt varum mikinn barnsgrát frá íbúð sóknaraðila og sonar hennar og að barnsgráturheyrðist á öllum tímum dagsins. Í greinargerð vegna könnunar máls skv. 1. mgr.23. gr. barnaverndarlaga dags. 1. september 2014 kemur fram að talið sé aðsóknaraðili þurfi aðstoð í uppeldishlutverkinu og lagt var til að gerð yrðiáætlun um meðferð máls þar sem lögð yrði áhersla á að sækja um Áttuna, uppeldisráðgjöfog stuðningsfjölskyldu.Fjórðatilkynning barst frá lögreglu þann 2. september 2014 um ágreining milli aðilatengdan barninu en þar deildu föðuramma og föðurafi C, sem höfðu slitiðsamvistir, um það hver mætti passa drenginn. Hafði sóknaraðili beðið föðurömmudrengsins að gæta hans. Var umræddur ágreiningur á heimili föðurömmu drengsins.Sóknaraðilikom í viðtal hjá varnaraðila í október 2014 eftir að ítrekað var búið að reynaað ná í hana símleiðis til að boða hana í viðtal. Sóknaraðili sagðist ánægð ívinnunni sinni og að C hefði aðeins róast eftir að hann byrjaði á leikskólafyrir um mánuði. Sótt var um stuðningsúrræðið Áttuna og stuðningsfjölskyldu.Farið var yfir meðferðaráætlun sem starfsmaður þýddi fyrir sóknaraðila á enskuog skrifaði hún undir. Á þessum tíma var um níu mánaða bið eftir úrræðinu. Svarvið beiðni um upplýsingar frá leikskólanum Álfatúni barst þann 21. nóvember2014. Í bréfi kemur fram að líðan og aðbúnaður C sé almennt góður. Hann virðisttilbúinn að koma í leikskólann en það reynist oft erfitt fyrir móður að komahonum út úr leikskólanum þegar hann sé sóttur. Starfsfólk hafi jafnvel þurft aðaðstoða móður við að klæða drenginn í útiföt þegar hún hefur ekki ráðið viðhann. Ísamskiptum barnaverndarstarfsmanns við sérkennslustjóra kemur fram að miklirerfiðleikar séu í leikskólanum með samskipti C við önnur börn á leikskólanum. Cþurfi manninn á sig í öllum aðstæðum á leikskólanum þar sem hann sýni mjögneikvæða og „agressíva“ hegðun. C virðist ekki hafa mikinn „stoppara“ ísamskiptum sínum við önnur börn og fullorðna. Hann vaði yfir allt og alla ogláti hendur skipta. Í flestum tilfellum sé ekki hægt að greina sérstaka ástæðufyrir hinni neikvæðu hegðun. Fariðvar í vitjun á heimili sóknaraðila þann 5. maí 2015. Sóknaraðili hafi þá búið íbílskúr sem breytt hafði verið í íbúð. Húsnæðið hafi verið lítið og óvistlegt.Raki hafði sett mark sitt á veggi og að sögn sóknaraðila var húsnæðið kalt áveturna og bleyta kom í gólf á vissum stöðum. Fram hafi komið hjá sóknaraðilaað hún ætti von að sínu öðru barni í ágúst. Sóknaraðili var atvinnulaus áþessum tíma en hún missti starf sitt við hreingerningar. Hún hafi virkað döpurog áhyggjufull og sagst þurfa að flytja í nýtt húsnæði fljótlega. Á meðferðarfundiþann 7. maí 2015 hafi verið ákveðið að sækja um forgang fyrir fjölskylduna ífélagslegt leiguhúsnæði. Þann 4.september 2015 hafi starfsmaður barnaverndar farið í heimsókn á heimilifjölskyldunnar en sóknaraðili hafifengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæðií sumarbyrjun. Auk sóknaraðilahafi verið heima E, D, nýfæddur sonur þeirra, og föðuramma drengsins, F.Upplýst var að sóknaraðili og barnsfaðir hennar hefðu slitið sambandi. Svarvið beiðni um upplýsingar frá leikskólanum [...] hafi borist þann 6. október2015. Í bréfi komi fram að líðan C sé almennt góð. Hann virðist tilbúinn aðkoma á leikskólann en sóknaraðila reynist hins vegar oft mjög erfitt að komahonum út úr leikskólanum og leikskólagarðinum. Þá segir að Cþurfi manninn meðsér í öllum aðstæðum í leikskólanum. Hann sé mjög hvatvís og reyni oft aðstjórna með gráti eða öskrum. Hann eigi það til að sýna mjög neikvæða og„agressíva“ hegðun sem virðist ekki hafa neinn fyrirvara. Fram kemur í bréfi aðaf því sem starfsmenn leikskólans hafa orðið vitni að varðandi samskiptimæðginanna megi telja ljóst að móðir þurfi mikla fræðslu um uppeldismál og aga.C virðist vanur því að stjórna og móðir hans láti undan því til að komast út afskólalóðinni. F,fyrrverandi tengdamóðir sóknaraðila, hafi haft samband við starfsmannbarnaverndar símleiðis þann 6. október 2015. Segist hún hafa áhyggjur afströngum uppeldisaðferðum sóknaraðila og sagði hana nota aðferðir eins og höggá putta og hendur á C. Þá hafi sóknaraðili verið með ógnandi hegðun við C oghótað að meiða hann með herðatré. Að auki sé sóknaraðili afar köld við C ogfinnst F drengurinn vera afskiptur. Sóknaraðilihafi komið í viðtal þann 9. október 2015. Að hennar sögn gangi vel en hún segirþó erfiðlega ganga fjárhagslega. Hún sagði samskipti sín og E góð. Þegar rættvar við hana um stjórnun og yfirgang sagðist hún ekki kannast við það í þeirrasamskiptum. Rætt var um uppeldisaðferðir og menningarmun. Sóknaraðiliviðurkenndi að hafa beitt C harðræði; slegið á hönd hans og rassskellt. Sóknaraðilahafi verið bent á að slíkar uppeldisaðferðir væru bannaðar með lögum á Íslandi.Ætlaði hún að taka það til greina og beita öðrum aðferðum. Rætt var ummikilvægi þess að hvetja og efla börn með jákvæðu atferli og hlýrri umönnun ogað Áttan-uppeldisráðgjöf kæmi inni á heimilið á næstu vikum þar sem lögð yrðiáhersla á þessa þætti. Gerðhafi verið meðferðaráætlun með móður með gildistímann 23. október 2014 til 23.febrúar 2015 þar sem lögð hafi verið áhersla á að sækja umÁttuna-uppeldisráðgjöf og stuðningsfjölskyldu fyrir C. Í viðtali þann 23.október hafi sóknaraðili samþykkt þessi stuðningsúrræði og skrifað undirmeðferðaráætlun. Þann19. febrúar 2015 hafi sóknaraðili undirritað nýja meðferðaráætlun fyrirtímabilið 19. febrúar 2015 til 31. ágúst 2015 þar sem stuðningur barnaverndarverði Áttan-uppeldisráðgjöf og stuðningsfjölskylda. Sóknaraðili hafi undirritaðmeðferðaráætlun þann 4. september 2015 með gildistímann 4. september 2015 til4. desember 2015. Meðferðaráætlun sé í gildi sem sóknaraðili undirritaði þann8. desember 2015 með gildistímann 10. desember 2015 til 10. maí 2016. Tilkynningdags. 11. desember 2015 hafi borist frá lögreglu þar sem fram komi aðbarnaverndarnefnd hafi fengið tilkynningu um ofbeldi sóknaraðila í garð E,barnsföður hennar. E hafi verið farinn þegar lögreglan kom á staðinn en rættvar við hann í síma. Framburði þeirra beggja beri saman um að sóknaraðili hafilamið E ítrekað í höfuðið með síma. Í átökunum hafi sonur þeirra fallið úrbarnastól sem hann var í uppi í sófa. Sóknaraðili kom þann 14. desember 2015 á skrifstofuvarnaraðila og óskaði eftir viðtali. Hún sagðist hafa það betra nú en síðustuhelgi þegar lögreglan var kölluð til á heimilið. Sóknaraðili sagði að sér hafiliðið mjög illa yfir því sem gerðist og viðurkennt að hún hafi verið meðsjálfsvígshugsanir. Sóknaraðila hafi verið boðið að dvelja tímabundið ávistheimili barnaverndar ásamt sonum sínum til að skipta um umhverfi og safnaorku tímabundið. Hún hafi ætlað að hugsa um það. Hringthafi verið í sóknaraðila þann 15. desember 2015 þar sem hún mætti ekki í bókaðviðtal. Sóknaraðili varð frekar reið og sagðist hvorki vilja tala viðfélagsráðgjafa barnaverndar néstarfsmann Áttunnar. Hún sagðienn fremur að hún ætlaði ekki að láta barnavernd taka börnin af sér og hafnaðiallri aðstoð. Fariðvar í vitjun á heimilið þann 16. desember 2015. D hafi verið sofandi og satsóknaraðili í sófa inni í stofu og horfði á sjónvarpið. Mjög þungt hafi veriðyfir sóknaraðila og var hún fámál. Þann22. febrúar kom F, amma D, á skrifstofu barnaverndar og bað um viðtal viðfélagsráðgjafa. Henni hafi verið mikið niðri fyrir. F fullyrti að sóknaraðiliværi í miklu ójafnvægi og hefði allt á hornum sér. Hún sagðist aðstoðasóknaraðila þannig að hún gætti D meðan sóknaraðili væri í vinnunni, æki hennitil vinnu og sækti C í leikskólann. Samstarfsfundurvar 23. febrúar með félagsráðgjafa barnaverndar og starfsfólki Áttunnar semhafi með mál sóknaraðila að gera. Í ljós hafi komið áhyggjur af sóknaraðila ogandlegri líðan hennar. Svo virðist sem hún glími við mikla reiði og litlatilfinningastjórnun. Rætt var um möguleika á að fá tímabundið fóstur fyrirbörnin. Sjálf hafi hún ítrekað rætt um að senda syni sína frá sér til [...] eða[...]. Félagsráðgjafiheimsótti C á leikskólann þann 24. febrúar. C var nokkuð kátur og ófeiminn.Hann var upptekinn við að teikna og spjallaði heilmikið. C sé öflugur drengurog geti ekki setið kyrr nema í skamma stund. Hann hafi teiknað mömmu meðfýlusvip og sagt að mamma væri leið. Fram kom hjá C að: ,,Amma og D væru best íheimi og að enginn væri að flengja sig“. Félagsráðgjafi ræddi einnig við G og H,deildarstjóra á [...]. Fram kom að C væri að hefja greiningu hjá sálfræðingivegna hegðunar hans. Þann 7.mars sl. kom sjötta tilkynningin í málinu.Leikskólastjóri hafði sambandvegna áverka sem C kom með í leikskóla og sagði að sóknaraðili hefði veittsér. Félagsráðgjafi barnaverndar fórsamdægurs á leikskóla til að ræða við C. Hann greindi skýrt frá því að mammasín hefði lamið sig og því væri hann með klórfar í andliti. C lék móður sína ogsetti báðar hendur upp í loft, öskraði illilega og var ógnandi. Í kjölfarheimsóknar á leikskóla hafi verið haft samband við sóknaraðila og hún boðuð íviðtal hjá barnavernd. Sóknaraðili hafi strax orðið reið í upphafi viðtals,heilsaði ekki og neitaði að fá sér sæti. Hún hafi þverneitað fyrir að hafa lagthendur á C og að hann væri bara barn ogsegði eitthvað út í loftið. Hún sagði að klórfarið hafi komið í strætó og að Cværi alltaf að meiða sig. Hún hafi verið afar reið og strunsað æpandi úthótandi því að hún ætlaði að fremja sjálfsmorð. Ákveðiðhafi verið að beita neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002vegna gruns um líkamlegt ofbeldi. Félagsráðgjafar hafi farið í leikskólann [...]til að sækja C. Sóknaraðili hafi verið mætt fyrir utan leikskólann í mikluójafnvægi þegar félagsráðgjafar komu á vettvang. Hringt hafi verið á lögreglutil að fá aðstoð. Sóknaraðili sakaði félagsráðgjafa um kynþáttafordóma og svik.Farið var með bræðurna á Barnaspítalann til skoðunar. Sóknaraðili kom áskrifstofu barnaverndar og var leiðbeint með lögmannsaðstoð og boðinnviðtalstími morguninn eftir. Eftir heimsókn á spítala var farið með C ávistheimili og hafi D farið heim með ömmu sinni. Daginn eftir neyðarvistundrengjanna, 8. mars 2016, hafi verið hringt í móður þeirra þar sem hún mættiekki í boðað viðtal sem hún átti umræddan dag. Hún sagðist ekki sjá tilgang meðþví að mæta í viðtal, sagðist ætla að „drepa sig“ og lagði á. Skömmu síðarmætti sóknaraðili til viðtals. Þegar félagsráðgjafar reyndu að fara yfir stöðumála greip hún stöðugt fram í, talaði hátt og sýndi félagsráðgjöfum óvirðinguog dónaskap. Í viðtalinu greindi sóknaraðili frá því að C hefði fengið klórfariðí andlitið á leikskóla en deginum áður hafði hún greint frá því að C hefðifengið klórfarið í strætó. Lítið var hægt að ræða við sóknaraðila þar sem húnvar æst og snéri út úr því sem reynt var að ræða um. Hún hafi strunsað út oghótað að fremja sjálfsmorð. Ekki hafi verið mögulegt að ræða líðan barnanna ogumgengni í viðtalinu. Ilögmaður hafði samband við barnavernd þar sem sóknaraðili hafði leitað tilhennar. Var sammælst um að hafa fund miðvikudaginn 9. mars sl. Á fundinum spurðilögmaðurinn út í hegðun C og velti því upp hvort ekki væri heppilegt aðsóknaraðili myndi nýta sér aðstoð varnaraðila og svaraði hún því til að húnþyrfti ekki á slíkum lögmanni að halda sem stæði ekki með henni og afþakkaðihennar lögfræðiaðstoð þaðan í frá. Sóknaraðila var gerð grein fyrir hvað framundan væri, þ.e. málið yrði tekið fyrir á meðferðarfundi á fimmtudag 10. marssl. og ekki væri ólíklegt að bókunin myndi fela í sér forsjárhæfnismat ogvistun utan heimilis. Sóknaraðila var boðið að skrifa undir vistun til tveggjamánaða með umgengni en hún hafnaði því alfarið.Ílokaskýrslu Áttunnar, dagsettri11. mars 2016, kemur fram að erfiðlega hafi gengið að vinna meðsóknaraðila að þeim markmiðum sem sett voru í upphafi og að sóknaraðili hafitakmarkaða getu til að mæta tilfinningaþörfum sona sinna. Grunur væri umharkalegar uppeldisaðferðir og að sóknaraðili sýndi lítinn áhuga á að aukaforeldrahæfni sína. Sóknaraðili mun hafa greint starfsmanni Áttunnar frá því aðhún hafi skilið C einan eftir heima á meðan hún fór og verslaði í matinn.Ráðgjafi Áttunnar vann með sóknaraðila í átján vikur en ákvað síðan að lokamálinu vegna skorts á samstarfi og áhuga sóknaraðila. Því sé mótmælt sem framkomi í málavaxtalýsingu sóknaraðila að þetta úrræði hafi ekki verið fullreynt. Ískýrslu frá leikskóla sem barnavernd barst 11. mars 2016 kemur fram áhugaleysisóknaraðila á náminu sem fram fari í leikskólanum og hvernig C líði almennt á leikskólanum. Framkomi einnig að sóknaraðili fylgi sjaldnast C inn á deild og sé í litlumsamskiptum við starfsfólk. C fagni ekki móður sinni þegar hún komi að sækjahann. Sóknaraðili hafi ekki sýnt C blíðu þegar hún kemur á leikskóla og hefur Cnefnt við starfsfólk að móðir hans sé reið við hann. Þegar C sé sóttur áleikskóla sýni hann ekki áhuga á að fara heim. Þann 7. mars sl. hafi C komiðmeð áverka/djúpt klórfar á kinn og sagt að mamma sín hafi gert þetta við sigeða orðrétt úr skýrslu: „… mamma var að meiða mig … mamma var aðlemja mig …“ Jsálfræðingur hafi gert mat á hegðun og líðan Cr þegar hann var tveggja ára og11 mánaða, m.a. í þeim tilgangi að leiðbeina sóknaraðila og leikskóla. Þar komim.a. fram að Csé skýr drengur með vitsmunaþroska í meðallagi miðað viðjafnaldra. Hann virðist sterkari í íslensku en ensku sem sé þó hans móðurmál. Csé virkur í leikskólanum og sýni býsna mikla árásargirni í samskiptum sínum viðönnur börn. Vegna ungs aldurs sé hins vegar erfitt að fullyrða um framhaldþessara einkenna. C þurfi mikla aðstoð til að komast klakklaust í gegnumdaginn. Samkvæmt upplýsingum frá vistheimili sem C dvelji á gangi vel hjádrengnum og miklar framfarir hafi orðið hjá honum síðan hann kom fyrir sexvikum. Drengurinn sé í betra jafnvægi, sæki í snertingu og sýni síður neikvæðahegðun, þótt enn komi fyrir að hann meiði önnur börn á heimilinu, þá fari þaðminnkandi. Starfsmenn á leikskóla segi einnig að töluverð breyting sé á C fráþví sem var. Hann sé rólegri og í betra jafnvægi. Fariðvar yfir það með starfsfólki leikskóla og fósturfjölskyldu af hverju C var meðklórfar í andlitinu og er það talið hafa gerst í ágreiningi við annað barn ávistheimilinu sem einnig hafi verið með klórfar eftir C. Ákveðiðhafi verið á meðferðarfundi þann 31. mars að sóknaraðili hefði umgengni við Dtvisvar í viku en einu sinni í viku við C. Umgengnin sé undir eftirliti ogeftirlitsaðili eigi að leiðbeina móður í uppeldishlutverkinu. Sóknaraðili hafisamþykkt að undirgangast forsjárhæfnismat og muni K sálfræðingur framkvæmamatið. Umgengnisóknaraðila við börnin hafi ekki gengið mjög vel. Ákveðið hafi verið að færaumgengnina inn á heimili sóknaraðila en hún hafi áður farið fram á hlutlausumstað. Sóknaraðili hafi lokað sig af með Cinni í herbergi á heimili sínu. Þá hafi eftirlitsaðili orðið vitni að því aðsóknaraðili hafi beðið C um að segja að hann sé misnotaður á fósturheimilinu ogef hann komi heim með henni þá fari hún með hann í tívolí og gefi honumsælgæti. Sóknaraðilihafi skrifað undir meðferðaráætlun þann 25. apríl sl. þar sem hún skuldbindisig til að vera í samstarfi við starfsfólk varnaraðila og annað fagfólk semkomi að málinu, þ.m.t. eftirlitsaðila með umgengni, að virða umgengnistíma ogreglur í umgengni og að nýta hana á uppbyggilegan hátt með drengjunum. Skýrslur fyrir dómi.Sóknaraðili gaf skýrslufyrir dóminum og kvað fjölskyldu sína vera hamingjusama. Sóknaraðili færi áfætur tíu mínútur fyrir sjö á morgnana alla virka daga. Klukkan sjö vekti húneldri drenginn og setti hann í sturtu. Þau tækju strætó í leikskóla C og eftirþað færi sóknaraðili aftur heim með yngri drenginn. Þau fengju sér morgunmat,færu út að ganga og sá yngri sofnaði. Þau færu aftur heim og sóknaraðili sinntialmennum heimilisstörfum. Sóknaraðili eldaði alltaf áður en C kæmi heim úrleikskólanum. Sóknaraðili sækti C af leikskólanum klukkan hálffjögur á daginnog eftir það léki C sér og horfði á sjónvarp. Stundum fengi hún vini í heimsóknog þau léku öll saman. Oft færu þau í tívolí í Smáralindinni. C væri orkumikillsvo að sóknaraðili passaði að hann hefði nóg fyrir stafni svo að hann yrðiþreyttur fyrir svefninn. Um sexleytið setti hún drengina í sturtu og eftir að Cværi sofnaður færi hún og yngri drengurinn að sofa. Áður en C sofnaði skoðaðihann bækur eða færi í spjaldtölvuna. Aðspurð kvað sóknaraðili heimilisaðstoð hafa eyðilagtsvefnregluna á heimilinu. C hafi yfirleitt farið í rúmið um kl. hálfsjö til sjöen L hafi breytt þeirri reglu. L hafi farið fram á að sóknaraðili héldi Cvakandi þar til hún kæmi. Sóknaraðili kvað C hafa orðið órólegan við þetta oghafi sóknaraðili einu sinni fylgst með að C hafi farið sextán til tuttugusinnum fram og til baka úr herberginu áður en L kom. L hafi reynt að sannfærasóknaraðila um að uppeldisaðferðir hennar síðastliðin þrjú ár hafi veriðrangar. D hafi þá bara verið lítið barn og það hafi ekki haft áhrif á hann.Barnaverndarnefnd hafi byrjað að hafa afskipti af heimilinu eftir ágreiningsóknaraðila og fyrrverandi sambýlismanns hennar. Kvaðst sóknaraðili sjaldnasthafa skilið þau samskipti sem fóru fram á milli aðila sem komu á heimilið þarsem þau hafi alltaf talað íslensku. M, N og O ræði alltaf saman á íslensku.Kvað sóknaraðili barnsfeður sína ekki taka þátt í uppeldinu. C hitti föður sinnum einu sinni á ári en E, faðir D, væri oft inni á heimilinu og heimsæktisóknaraðila. Sóknaraðili kvaðst eiga fjölskyldu á [...] en hún eigi vini hérsem hún líti á sem sína fjölskyldu. Þau hittist oft og eigi góðar stundirsaman. Þá komi vinkona hennar oft og þau eldi mat saman. Aðspurð kvaðstsóknaraðili ekki hafa upplifað nein áföll á ævi sinni. Hún hafi veriðhamingjusamt barn og alist upp hjá ömmu sinni. Hún hafi flust frá [...] til [...]á [...] árið 2009 en fjölskylda hennar og vinir búi þar. Sóknaraðili hafi komiðtil Íslands árið 2012 af frjálsum og fúsum vilja. Mótmælti sóknaraðilifullyrðingum varnaraðila um að hún ætti áfallasögu. Kvað sóknaraðili að O hafiátt það til að hringja í sig og segja hana illa, hjartalausa og ekki gottforeldri. Þá kenndi O sóknaraðila um það sem úrskeiðis fór milli hennar ogbarnsföður hennar. Kvað sóknaraðili C vera glaðan á leikskólanum en hann hafislegið íslenskt barn og sóknaraðila verið kennt um. Hafi Cverið laminn þá hafiþað verið talið eðlilegt. Sóknaraðili kvaðst bara vilja fá börnin sín til baka,þau séu ringluð og verið sé að snúa börnunum gegn henni. C hafi t.d. sagtsóknaraðila eftir O að móðir hans væri ekki góð. Þá hafi hann sagt sér að maðurað nafni Jón lemdi sig en sóknaraðili viti ekki hver hann sé. Þá hafi hárið á Cverið klippt án þess að það væri borið undir sóknaraðila. D hafi verið veikurallan tímann í vistuninni og sóknaraðili ekki upplýst um það. Þá sjáisóknaraðili á C að hann óttast annað fólk. Sóknaraðili lýsti því að þau hafiverið í strætó og C hafi neitað að sitja. Strætóinn hafi skyndilega veriðstöðvaður og við það hafi C runnið til undir sætið fyrir framan. Sóknaraðilihafi reynt að grípa hann og við það hafi hann fengið klór á kinnina. C sé ekkierfitt barn en mjög orkumikill og hjálpsamur. Aðspurð um það hvernig gangi þegar sóknaraðili sæki C áleikskólann kvað sóknaraðili það yfirleitt hafa gengið vel en eftir að hanneignaðist yngri bróður hafi hann oft látið elta sig þegar hann sé sóttur. Aðspurð um tilkynningu frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkurum að faðir C hafi beitt sóknaraðila ofbeldi, kvað sóknaraðili það vera rétt enþað sé liðin tíð, þau hafi verið vinir síðan. Hún teldi þetta ekki flokkast semáfall í hennar lífi. Hann hafi verið drukkinn og þetta gerðist bara, hann hafibeðist fyrirgefningar á þessu. Sóknaraðili óskaði eftir því að gefa aftur skýrslu eftirað hafa hlustað á vitnisburð í málinu. Kvað hún margt ranghermt. Meðal annarsætti C mikið af leikföngum sem hann léki sér með. Ástæða þess að sóknaraðilibar ekki traust til Áttunnar var að O hafi talað við hana á neikvæðan hátt ogjafnvel uppnefnt sig. O hafi sagt hana vera hjartalausa og vonda viðfyrrverandi mann sinn. Þá kvað hún starfsmenn aldrei ræða við sig utan aðheilsa og kveðja. C vilji ekki fara burt af heimilinu eftir umgengni og hafigrátið. Hafi sóknaraðili rætt þetta við O en þar sé ekki hlustað á hana. Húnhafi því byrjað að taka upp á hljóðband allt sem eigi sér stað. Þá hafi veriðkvartað yfir því að sóknaraðili komi oft of seint í umgengni en það sé ekkirétt. Þá vilji sóknaraðili ekki að P, föðuramma D, tali við C þar sem það séhún sem hafi klagað hana til barnaverndar. Sóknaraðili sé frá [...] og það sérönnur menning þar. Vitnið R kom fyrir dóminn og kvaðst vera vinkonasóknaraðila og raunar líta á hana sem sína litlu systur og tilheyra sinnifjölskyldu. Þær hafi þekkst frá því að sóknaraðili kom til Íslands. Mikill samgangursé á milli heimilanna. Aðspurt um það hvort sóknaraðili væri strangur uppalandikvað vitnið þær báðar vera frá [...] og það sem Íslendingum sýndist verastrangt væri ekki strangt hjá þeim. Sem dæmi kvað vitnið það vera algengt íþeirra menningu að ef börn hlýði ekki þá sé sagt við þau að ef þau hætti ekkiþá verði þau rassskellt en þau láti hins vegar ekki verða af því. Vitnið kvaðsóknaraðila hafa sagt sér að starfsmenn frá B hafa komið á heimili sóknaraðilaog ráðlagt henni varðandi aðstoð. Vitnið S kom fyrir dóminn og kvaðst vera vinursóknaraðila og oft inni á heimili hennar. Kvað vitnið sóknaraðila vera gottforeldri. Vitnið kvað sóknaraðila ekki hafa skilið eldri drenginn eftir einanheima, hún hringi í sig þegar hana vanti gæslu fyrir börnin. Vitnið O, félagsráðgjafi hjá varnaraðila, kom fyrirdóminn og kvaðst hafa komið að málinu á vormánuðum 2013 en vitnið hafi fengiðmálið til sín í október 2014. Vitnið hafi hitt sóknaraðila fyrst þá. Þær hafiþá gert drög að meðferðaráætlun. Sóknaraðili hafi verið ein með C.Meðferðaráætlunin hafi verið stuðningur við móður, heimsókn á heimili hennar ogstuðningur á leikskóla. Um vorið 2015 hafi vitnið sótt um forgang á félagsleguleiguhúsnæði fyrir sóknaraðila þar sem hún hafi búið við óviðunandi aðstæður.Starfsmaður Áttunnar hafi komið um vorið að málinu og komið tvisvar sinnum áheimili sóknaraðila. Hafi listar til að meta þjónustuþörfina og aðstoð við Cverið lagðir fyrir sóknaraðila. Þá hafi einnig komið í ljós að sóknaraðili áttivon á nýju barni. Því var ákveðið að bíða með aðstoð þar sem nýtt barn var ívændum og flutningar hafi verið yfirvofandi. Mál sóknaraðila hafi því veriðsett í bið. Starfsmaður Áttunnar, L, hafi aftur komið inn á heimilið í október2015 og sinnt því fram í febrúar 2016. Vitnið kvað sóknaraðila eiga lítiðstuðningsnet hér á landi og sé það haft eftir sóknaraðila sjálfum. Hún hafi þóeignast eina vinkonu hér á landi. Aðspurt kvað vitnið aðstoð frá Áttunni veravinsælt úrræði og því biðlistar. Sótt hafi verið um aðstoð frá Áttuni í lokoktóber 2014 og inntökufundur verið í apríl 2015. Þrjár vitjanir hafi verið íkjölfar þess. Í upphafi hafi sóknaraðili verið fús til samvinnu en verið fámál.Útskýrt hafi verið fyrir sóknaraðila hvað fælist í aðstoðinni. Hafi sóknaraðilisamþykkt að fá þann stuðning. Um haustið 2015 hafi hegðun og framkomasóknaraðila breyst mikið en þá hafi slitnað upp úr sambandi hennar og seinnibarnsföður. Hún hafi verið uppfull reiði. Samband hafi verið haft við L,starfsmann Áttunnar, 11. desember sl. Hafi vitnið ásamt L og lögreglu farið áheimilið. Hafi sóknaraðili viðurkennt að hafa ráðist á E og blóðgað hann. Viðþað hafi yngri drengurinn dottið úr stól á gólfið og fengið kúlu á höfuðið.Drengirnir hafi báðir verið í miklu uppnámi og hafi verið farið með þá ábráðamóttöku til skoðunar. Þegar þau komu með drengina aftur heim hafi C beðiðstarfsmann bakvaktar að fara ekki. Í framhaldi af þessu hafi samskiptin viðsóknaraðila orðið erfiðari. Sóknaraðili hafi verið reið og full heiftar og sýnttilfinningalegt stjórnleysi. 7. mars sl. hafi verið hringt frá leikskóla Cvegna áverka á honum. Hringt hafi verið í sóknaraðila og hún látin vita. Hafihún orðið mjög reið og tryllst, sagt þeim að halda kjafti og hótað sjálfsvígi.Í framhaldi hafi barnavernd farið á leikskólann og rætt við C. Hann hafi sagtþeim að móðir hans hafi meitt sig. Drengurinn hafi leikið móður sína og sýnthana mjög reiða. Það hafi verið mjög skýrt hjá drengnum. Vitnið kvaðsóknaraðila hafa verið tvísaga um það hvernig áverkinn hafi komið, fyrst sagtað það hafi gerst á leikskóla en síðar haldið sig við söguna um að þetta hafigerst í strætisvagni. Aðspurt hvers vegna þetta tilvik hafi verið tekið svonaalvarlega kvað vitnið að horft hefði verið til atviksins í desember og þess aðsóknaraðili hafi sýnt mikinn óstöðugleika, mikla reiði, hótað við ömmu D aðskaða sig og börnin, slegið á hendur C og rassskellt hann en það hafisóknaraðili sagt vitninu sjálf. Hún hafi sýnt E og móður hans mikið stjórnleysiog bræði. Kvað vitnið C hafa farið á vistheimili þann 7. mars sl. og D hafiverið vistaður hjá föðurömmu hans. Sóknaraðili hafi haft reglulega umgengni viðdrengina frá þeim tíma en umgengnin hafi gengið erfiðlega. Sóknaraðili hafitalað niðrandi til C, sagt við hann að hann væri með rotnandi tennur, skítugur,segir hann ljúga að sér o.fl. Vitnið kvaðst hafa skynjað að sóknaraðili bæriekki mikið traust til þess svo að það hafi lagt til að annar félagsráðgjafitæki við málinu og hafi það verið gert. Sóknaraðili hafi nýlega skrifað undirnýja meðferðaráætlun þar sem hún gengst m.a undir forsjárhæfnismat.Eftirlitsaðilar fylgist með umgengninni. Annar þeirra, T, eigi að vinna meðforeldrahæfni en það hafi ekki gengið eins og vonast var til, sóknaraðili takiekki leiðbeiningum og hunsi hana. Ýmis stuðningsúrræði hafi verið reynd til aðaðstoða sóknaraðila í uppeldishlutverkinu. Sóknaraðili beiti harkalegumaðferðum í uppeldinu, en það hafi sóknaraðili tjáð vitninu sjálf. Hún hafirassskellt C og m.a. skilið hann eftir einan heima þegar sóknaraðili fór út aðversla. Sóknaraðili hafi engan áhuga sýnt á leikskólanum, ekki fylgt drengnuminn og virðist ekki hafa neinn áhuga á því sem þar fari fram. Drengurinn hafi oftekki viljað fara með sóknaraðila heim og sýnt og sagt frá því að mamma sé reið.Drengurinn hafi sýnt ofbeldishneigð á leikskólanum en eftir að hann varvistaður utan heimilis hafi dregið úr þeirri hegðun hans. Vitnið kvað sálfræðing hafa skilað skýrslu um andlegtatgervi C. Listi hafi verið lagður fyrir sóknaraðila um ástand C og hafiniðurstaða hennar og svör á listanum verið í ósamræmi við frásagnir hennar afhegðun C. Sóknaraðili líti ekki svo á að C eigi við nokkra hegðunarerfiðleikaað stríða. Ekki komi fram að C eigi við nein þroskafrávik að stríða en ekki sétímabært að kanna frekar með greiningar þar sem um mjög ungt barn sé að ræða. Chafi sýnt mikla ofbeldishegðun bæði á leikskólanum og vistheimilinu. Börn hafiverið hrædd við hann. Það hafi þó dregið mikið úr þessari hegðun eftir aðdrengurinn fór í fóstur en hún sé þó enn til staðar. Í leikskólanum hafidrengurinn þurft manninn með sér, hann sé öflugur og hafi veriðofbeldishneigður, vitnið hafi séð þá hegðun sjálft. Vitnið var spurt hvers vegnaþað hafi tekið svo langan tíma að veita sóknaraðila aðstoð frá Áttunni, eninntökufundur hafi verið 27. október 2014. Kvað vitnið aðstoðina frá Áttunnihafa verið samþykkta í október 2014 og starfsmaður hafi farið inn á heimilið íapríl 2015. Sóknaraðili hafi ekki verið þannig stödd að úrræðið myndi gagnasthenni en þau hafi ekki vitað þá að sóknaraðili hafi verið orðin ófrísk.Sóknaraðili hafi metið vanda sinn lítinn og það hafi verið samkomulag þeirra aðbyrja aðstoðina um haustið. Vitnið kvað það hafa verið skaðlegt fyrir drenginaað vera áfram í því ástandi sem var á heimilinu, móðirin í miklu ójafnvægi ogþeir beittir ofbeldi. Hún hafi hótað að skaða sig og börnin, hún hafiviðurkennt að hafa rassskellt börnin og hótað því að slá þau. Taldi vitnið þaðalvarlegt og að sóknaraðili þurfi hjálp til að geta sinnt börnum sínum. Vitniðkvaðst hafa sagt sig frá málinu þar sem það vissi að sóknaraðili bar ekkitraust til þess. Vitnið kvaðst hafa kannað hvort forsjárhæfnismat væri hafið ogfengið þær upplýsingar að matinu yrði flýtt eins og kostur er. Vitnið kvaðstaðspurt líta svo á að sóknaraðili ynni ekki með það að mynda tengsl við yngridrenginn. Það hafi hitt drenginn fyrir stuttu og hafi hann verið glaður ogkátur en hann sé vistaður hjá ömmu sinni. Manneskja sem sé uppfull af heift ogreiði eigi erfitt með að mynda heilbrigð tengsl. Á heimili sóknaraðila hafivitnið séð hana sitja svipbrigðalausa fyrir framan sjónvarp og drenginn sitjahjá í stól. Hún hafi líka komið með drenginn til vitnisins og hann hafi ekkivirkað ánægður. Þessi framkoma hafi einnig verið gagnvart öðru starfsfólkivarnaraðila. Vitnið kvað sóknaraðila hafa verið boðið að fara inn á vistheimilimeð börnin til að fá næði og aðstoð en hún hafi hafnað því. Þá hafi hún einnighafnað því að fá stuðningsfjölskyldu. Kvað vitnið samskipti starfsmannavarnaraðila og sóknaraðila fara fram á ensku. Í einstökum tilvikum hafi túlkurverið fenginn til að tryggja hundrað prósent að enginn misskilningur væri ensóknaraðili tali mjög góða ensku. Vitnið kvað C tala íslensku og málþroski hansværi góður og í samræmi við hans aldur. Hann hafi sagt frá því glaður í bragðiað enginn hafi verið að flengja sig auk þess sem hann hafi sagt vitninu að ammaog E væru best í heimi. Aðspurt hvort vitni væru að því að sóknaraðili hvíslaðiniðrandi ummælum í eyra C kvað vitnið svo vera. Vitnið kvað eftirlitsaðila hafakallað á sig síðastliðinn föstudag þar sem hann hafði grun um að sóknaraðiliværi hugsanlega lyfjuð en svo hafi ekki verið. Vitnið Uleikskólastjórikom fyrir dóminn og kvaðst hafa haft miklar áhyggjur af hegðun C þegar hannbyrjaði á leikskólann þar sem drengurinn hafi verið mjög hvatvís og sýntofbeldishegðun. Sóknaraðili hafi verið boðuð á fund en E, faðir yngridrengsins, mætt. Sóknaraðili hafi mætt síðar og sýnt lítinn áhuga ávandamálinu. Samspil þeirra mæðgina hafi verið frekar fáskiptið, ekki mikilhlýja og drengurinn leitast við að hlaupa undan móður sinni. Sóknaraðili spyrjilítið um það hvað hafi verið gert um daginn og það hafi komið fyrir að drengurinnhafi ekki verið sóttur eða sóttur of seint. Amma D, E og vinkona sóknaraðilahafi stundum komið að sækja drenginn. Ekki hafi verið gerð athugasemd viðumhirðu drengsins. Þann 7. mars sl. hafi drengurinn komið með sár á kinn oghann sagt starfsmönnum leikskólans að mamma hans hafi meitt sig. Í framhaldihafi verið haft samband við barnaverndarnefnd sem hafi komið og tekið barnið.Sóknaraðili hafi einnig komið á staðinn. Aðspurt um áhyggjur leikskólans íoktóber 2015, kvað vitnið drenginn hafa verið vondan við önnur börn, hann hafiráðist á þau fyrirvaralaust. Drengurinn sé sterkbyggður og hvatvís. Hann hafiverið ársgamall þegar hann byrjaði á deildinni og önnur börn á deildinni hafiverið hrædd við hann. Þá hafi vitnið óskað sérstaklega eftir aðstoð og ráðgjafavegna drengsins seinni hluta vetrar 2014/2015. Aðspurt hvort drengurinn getiverið með einhverja röskun, kvaðst vitnið aldrei á sínum ferli hafa séð svoungan dreng með slíka ofbeldishneigð, en það teldist varla flokkast undireinhverja þekkta röskun. Kvað vitnið drenginn hafa góðan orðaforða miðað viðaldur. Vitnið kvað starfsmenn sína hafa hlustað á drenginn segja frá því aðmamma hans hafi meitt hann og taldi vitnið drenginn búa yfir slíkum orðaforða.Aðspurt kvað vitnið hegðun C, bæði flóttahegðun og ofbeldi gegn öðrum börnum,hafa lagast á síðustu vikum. Önnur börn vilji nú leika við hann þar sem hansfyrstu viðbrögð séu ekki að beita hnefanum. Starfsmenn hafi rætt það að meiriró sé yfir drengnum og hann sé sæll að fara heim með fósturforeldri. Vitnið V kom fyrir dóminn og kvaðst hafa haft eftirlitmeð umgengni móður og drengja eftir að þeir voru vistaðir utan heimilis.Aðspurt hvernig sóknaraðili tæki á móti drengjunum, kvað vitnið að yfirleitthafi þurft að koma með drengina til hennar, hún hafi ekki komið á móti þeim nétekið þeim fagnandi. Eftir að umgengni er hafin, hafi sóknaraðili veriðhryssingsleg við D og ekki tekið C fagnandi. Hún komi honum í niðurlægjandiaðstæður, spyrji hann hvort hann sé ekki tannburstaður, hvort hann fari ísturtu og hvort ekki sé lesið fyrir hann. Ef hann svari játandi ásaki hún hannum að ljúga. Hún komi ekki með leikföng í umgengi eins og henni hafi veriðráðlagt. Fyrst hafi umgengnin farið fram í Tröð en síðan verið færð inn áheimili sóknaraðila. Þar hafi umgengni ekki gengið sem skyldi, sóknaraðili hafit.d. læst sig með drengina inni í herbergi í nokkurn tíma. Hún hafi opnað eftirsmástund en legið hátt rómur en róað sig fljótlega. Henni hafi verið bent á aðslíta yrði umgengninni ef hún færi ekki eftir reglum. Umgengnin hafi því veriðfærð yfir á Tröð aftur. Vitnið kvaðst hafa orðið vitni að því að þegar C kom íumgengni hafi sóknaraðili undið sér beint að honum í forstofunni, rifið upp umhann bolinn og buxurnar niður um hann ásamt því að taka af honum bleyju og hannþá staðið fyrir framan ókunna manneskju nakinn að neðan, sem vitnið kvaðst hafaupplifað sem niðurlægjandi fyrir hann. Hafi sóknaraðili spurt drenginn að þvíhvort einhver hafi verið að snerta hann á óviðeigandi hátt. Aðspurtum atvik frá 23. apríl sl., þegar drengirnir voru sóttir úr umgengni ogsóknaraðili hafi hreytt ónotum í fósturforeldra, kvað vitnið C hafa orðið mjöghræddan og vitnið staðið á milli vistforeldris og sóknaraðila. C hafi ríghaldiðí vitnið og verið hræddur. Erfiðlega hafi gengið hjá sóknaraðila í lok umgengniað klæða eldri drenginn í og því afhent vistforeldri úlpu C og þá hafi þettaatvik gerst. Vitnið hafi því beðið sóknaraðila um að fara, sem hún hafi gert aðlokum. Þá var atvik sem vitnið lýsir í skýrslu sinni, þar sem sóknaraðili varað greiða C, borið undir vitnið. Kvaðst vitnið hafa séð sóknaraðila greiða hár Csem hafi gengið mjög erfiðlega og hann grátið svo að munnvatn hafi lekið út úrhonum. Hafi sóknaraðili ekki hætt þrátt fyrir þetta fyrr en vitnið ætlaði aðganga á milli. Þá hafi sóknaraðili ekki komið með leikföng með sér fyrirdrengina í [...] en þar séu ekki leikföng. Tíminn fari hjá sóknaraðila mikið íað vera í símanum, sinna Facebook eða sýna drengjunum vídeó. Þá hafisóknaraðili komið sl. föstudag með tannbursta með sér og látið D hafa, auk þesssem hún hafi tannburstað hann, en hún hafi ekki sinnt því að taka leikföng meðsér fyrir drengina. Þá hafi hún látiðdrenginn fá tannburstann til að leika sér með og bætt tannkremi um tvisvar áhann fyrir drenginn. Vitnið kvað vistforeldri yngri drengsins hafa komið meðmat í umgengni fyrir drenginn en sóknaraðili hafi ekki viljað það og komiðsjálf með mat handa honum. Vitnið kvaðst aðspurt ekki finnast að samvistirsóknaraðila við drengina í umgengni hafi verið gæðastundir, kannski í eittskipti sem hún hafi merkt það. Drengirnir leiti ekki mikið til móður sinnar íumgengninni. Vitnið kvað sóknaraðila tala illa um vistforeldra í viðurvistdrengjanna. Þá hafi vitnið hlustað á sóknaraðila segja við C að hann ætti aðsegja þegar hann færi í umgengni til ömmu og afa að Þ sé vondur við hann,misnoti og lemji. Vitniðkvaðst hafa sett í skýrslu sína það sem hafi gerst í umgengni, hvorki dregiðsérstaklega fram neikvæða hluti né jákvæðari heldur bara það sem í raungerðist. Staðfesti vitnið skýrslur sínar fyrir dóminum. Vitnið kvað [...] veraóháðan stað á vegum B þar sem umgengni færi fram. Umgengni við D sé frá klukkanhálftíu til hálftólf á föstudögum, og við C á laugardögum frá klukkan eitt tilþrjú en D komi þá klukkan tvö og sé til klukkan þrjú svo að bræðurnir hittastþá í klukkutíma. Vitnið Ökom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið vistforeldri C frá 7. mars sl. Vitniðkvað C hafa verið mjög öran og í miklu ójafnvægi þegar hann kom fyrst í vist.Hann hafi einnig verið ofbeldishneigður. C hafi sagt frá því að móðir hans hafislegið hann þegar hann var óþægur. C hafi ráðist á önnur börn á heimilinu, sjö,níu og þrettán ára, þannig að þau hafi verið hrædd við hann þrátt fyrir að hannsé bara þriggja ára. Hann hafi ráðist á þau að þeim óvörum og án tilefnis ogeitt barnið sé með djúpt ör eftir eina atlöguna. Þessi hegðun hafi breystverulega. C hafi eitt sinn fengið rispu í andlitið og yngsta barn vitnisinshafi svarað því svo til að C hafi slegið sig fyrst. C hafi ekki viljað fara íumgengni við móður sína, hann vilji ekki út í bíl þegar umgengi á að fara framen segir: „Mamma er vond við mig, mamma er reið við mig.“ Þurft hafi að lokkahann til að fara með loforði um ís. Þá vilji hann ætíð fara með vitninu tilbaka eftir umgengni en hann sé mjög lítill í sér eftir umgengnina, gráti ogþurfi að vera í fanginu á vitninu. Vel gangi að fara með hann á leikskóla ogsækja hann en hann sé mjög glaður á leikskólanum. Vitnið kvað drenginn hafafarið til föðurömmu sinnar á [...] um páskana í umgengni og það hafi gengiðmjög vel. Vitnið kvað að þegar það sótti drenginn í umgengni daginn áður enhann fór til [...] hafi það heyrt sóknaraðila segja við drenginn: „Tell them atJon is abusing you and hitting you and not good to you.“ Þetta hafi veriðdaginn áður en C fór til [...] í umgengni við föðurömmu sína. Kvað vitniðsóknaraðila hafa vitað að eiginmaður vitnisins heiti Þ. Vitnið L,starfsmaður Áttunnar-uppeldisráðgjafar, kom fyrir dóminn og kvað hlutverk sittvera að úthluta málum og halda inntökufundi með foreldrum og yfirmannivitnisins. Þá sé farið yfir hlutverk Áttunnar, umbunarkerfi kynnt og farið yfiruppeldisaðferðir með foreldrinu. Þá sé hlutverk Áttunnar að styðja foreldra íhlutverki sínu og kenna þeim að setja börnunum mörk. Æ, starfsmaður Áttunnar,hafi verið með inntökufund í apríl 2015 en vitnið hafi fengið þær upplýsingarað sóknaraðili væri barnshafandi og flutningar stæðu fyrir dyrum og því taliðað stuðningur væri ekki heppilegur þegar sá óstöðugleiki væri fyrir hendi.Sóknaraðili hafi í upphafi sýnt mjög lítinn áhuga en verið kurteis og virstvilja samvinnu. Farið sé yfir lista með foreldrum, farið yfir verkefni dagsins;þegar þau vakna, klæða sig, morgunmatur og dagurinn rakinn þar til barnið er sofnaðá kvöldin. Þannig sé hægt að finna út hver mesti vandinn sé í uppeldinu.Svefntíminn hafi verið helsta vandamálið hjá sóknaraðila. Borin var undirvitnið frásögn sóknaraðila um að vitnið hafi eyðilagt fyrir sóknaraðila og Csvefntíma hans með því að seinka honum. Kvaðst vitnið ekki taka undir það, þaðhafi boðið sóknaraðila að fá umbunarkerfi fyrir C til að það væri auðveldara aðkoma honum í háttinn. Sóknaraðili hafi viðurkennt fyrir vitninu að hún setti Cinn í herbergi á kvöldin og hafi síðan lokað hurðinni á hann og drengurinngrátið sig í svefn. Vitnið hafi bent sóknaraðila á að það væri ekki eðlilegt ogboðist til að búa til umbunarkerfi fyrir hann, sem sóknaraðili hafi samþykkt.Kvað vitnið sóknaraðila síðan ekki hafa farið eftir kerfinu nema eitt kvöld ogsíðan ekki meira. Vitnið hafi komið til þeirra fyrstu tvö kvöldin til að hjálpatil við að nota kerfið en sóknaraðili hafi ekki verið að fara eftir kerfinu.Sóknaraðili hafi sagt vitninu að C færi venjulega í rúmið um hálfsjö. Vitniðhafi þá boðist til að koma á þeim tíma til að hjálpa til við háttatímann ensóknaraðili farið fram á það að vitnið kæmi seinna á kvöldin, um hálfátta eðaátta. Venjan væri sú að það væri haft samráð við foreldra um hvenær hentaði aðstarfsmaður kæmi inn á heimilið og réði foreldri því alveg. Vitnið kvaðst hafakomið í nokkur skipti inn á heimili sóknaraðila. Í fyrstu skiptin sem vitniðkom inn á heimili sóknaraðila hafi engin leikföng verið á heimilinu nema tværbækur sem hafi verið uppi í hillu og tvö púsluspil. Heimilið hafi verið hreinten frekar tómlegt. C hafi síðan fengið Lego í jólagjöf sem hann hafi glaðstmjög yfir. Erfitt hafi verið að eiga samræður við sóknaraðila. C hafi verið áleikskólanum á daginn þegar vitnið kom á heimilið en D verið heima. Fyrst hafiekki verið leikföng fyrir hann, en síðar hafi vitnið séð tvær hringlur. Íjanúar hafi verið kominn upp kassi með leikföngum. C hafi meira verið að sækjadót inn í eldhús, t.d. sóp sem hann sveiflaði í kringum sig. Hafi vitninufundist C frekar vera að ögra sóknaraðila en sóknaraðili sagt þetta veragestastæla í honum. Sóknaraðili hafi verið mikið með D í fanginu, sem sé gott,en hún hafi gefið drengnum brjóst og síðan hafi hún látið drenginn ropa en svohafi hún snúið barninu frá sér þannig að það horfði einnig á sjónvarpið meðsóknaraðila. Hafi vitnið farið yfir þetta með sóknaraðila og bent henni ánauðsyn þess að kjá við barnið og örva það. Sóknaraðili hafi sagt vitninu aðþað vildi ekki þessi afskipti og hafi m.a. hringt í vitnið og sagt við það aðþað vildi þessi samskipti ekki, henni fyndist að þau væru að plana eitthvað ábak við hana. Ljóst var að sóknaraðili treysti ekki neinum. Vitnið kvaðsóknaraðila hafa sagt sér það sjálf að hún hafi skilið C eftir einan heima ámeðan hún fór út í búð. Sóknaraðili hafi afsakað það með því að C væri góður ogekkert kæmi fyrir hann en hann hafi verið um tveggja og hálfs árs þegar þaðvar. Hafi vitnið rætt þetta sérstaklega við sóknaraðila og bent henni á að þósvo að hún teldi að ekkert gæti komið fyrir barnið þá gæti eitthvað komið fyrirsóknaraðila og þá væri barnið eitt heima. Hafi vitnið látið félagsráðgjafa vitaaf þessu. Hafi þetta verið rætt mjög alvarlega við sóknaraðila. Stöðufundurhafi verið haldinn í desember en vitnið hafi þá verið inni á heimilinu í tvær vikur.Hálfum mánuði síðar hafi sóknaraðili lokað á þau og ekkert viljað með afskiptiþeirra hafa. Afskipti hafi verið af heimilinu áfram í desember og yfir jólin ensóknaraðili þá verið mjög reið og reið út í barnsföður sinn en sóknaraðila hafifundist hann hafa svikið sig og ekkert vilja fyrir sig gera. Í desember hafiorðið átök á milli sóknaraðila og barnsföður hennar. Vitnið kvaðst hafa veriðmeð málið frá því í lok október 2015 og fram í lok febrúar 2016 en þá hafivinnan verið orðin mjög erfið. Sóknaraðila hafi greinilega liðið mjög illa ogvitnið m.a. spurt hana hvort hún ætti við þunglyndi að stríða en sóknaraðilineitað því. Sóknaraðili hafi verið búinn að lýsa því yfir að hún vildi ekkiafskipti af sér og treysti starfsfólkinu ekki svo að fullreynt var að leggjasóknaraðila liðsinni. Hún þurfi aðra og meiri aðstoð. Vitnið kvaðst aðspurtekki hafa séð sóknaraðila slá C en hún hafi upplifað að hann væri hræddur viðmóður sína. Vitnið kvaðst yfirleitt hafa komið inn á heimilið á morgnana og þaraf leiðandi ekki hitt C nema í um fimm skipti, fyrir utan eitt skipti íleikskólanum. Vitnið kvaðst hafa upplifað fallegt samband á milli ömmu D og C oghann gladdist yfir því að fá gesti á heimilið. Málsástæður oglagarök sóknaraðila.Sóknaraðili byggir kröfusína á því að lagastoð skorti varðandi úrskurð varnaraðila. Vísi sóknaraðiliþví til stuðnings til meginreglna barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 7. mgr. 4.gr. um meðalhóf, sem seti barnavernd þær skyldur á herðar að reyna ávallt aðbeita vægari úrræðum áður en öðrum og meiri íþyngjandi úrræðum sé beitt, sem ogþeirrar grundvallarreglu í barnarétti aðstjórnvöld skuli ávallt hafa hagsmuni barns að leiðarljósi þegar fjallað sé ummálefni þess. Telji sóknaraðili eðlilegra að reyna önnur og vægari úrræðifyrst. Þá segi í 1. mgr. 4. gr. að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megiað barni sé fyrir bestu. Sóknaraðili telji vistun barnanna utan heimilisandstæða hagsmunum þeirra. Yngri drengurinn sé m.a. á afar viðkvæmum aldri ognauðsynlegt sé fyrir drengina að vera hjá þeim sem hann þekkir best til aðtryggja að þeir nái að mynda örugg tengsl. Sóknaraðili byggir jafnframt á því að lagaskilyrðum umvistun barns utan heimilis skv. b-lið 27. gr. og 28. gr. laga nr. 80/2002 séekki fullnægt. Samkvæmt ákvæðinu sé áskilið að brýnir hagsmunir barns verði aðmæla með vistun utan heimilis. Ekki hafi verið sýnt fram á að svo sé. Áverkar áC eigi sér eðlilegar skýringar, hvort tveggja eftir ferðina í strætisvagninumsem og síðar eftir að vistun utan heimilis hófst og fráleitt sé að halda þvífram að sóknaraðili sé grunuð um að beita börn sín ofbeldi. Drengurinn séþriggja ára, sífellt á ferðinni og eðlilegt að það verði óhapp öðru hvoru. Þáhafi rannsóknarregla 41. gr. barnaverndarlaga ekki verið virt en þar segi aðbarnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður enákvörðun sé tekin í því. Í máli þessu liggi meira og minna fyrir nafnlausartilkynningar sem varnaraðili hafi í hvert skipti metið svo að sóknaraðiliþyrfti á uppeldisráðgjöf að halda sem hafi svo dregist að veita. Í ljósiofangreinds sé ljóst að engin lagaskilyrði séu fyrir þeim úrskurði sem sékærður. Málsástæður oglagarök varnaraðila.Varnaraðiligerir þá kröfu að úrskurður nefndarinnar frá 21. mars sl. um tveggja mánaðavistun sona sóknaraðila utan heimilis verði staðfestur en jafnframt aðvistunartíminn verði lengdur þannig að vistunin vari í fjóra mánuði frá 21.mars 2016 með vísan til 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Varnaraðili vísarkröfu sinni til stuðnings til málavaxta og gagna máls sem sýna að vaxandiáhyggjur hafi verið af aðstæðum drengjanna á heimili sóknaraðila, skaðlegumuppeldisaðferðum og geðrænni stöðu móður. Sóknaraðili sé að mati starfsmannavarnaraðila að glíma við geðræn einkenni sem hafi skert forsjárhæfnihennar. Eldri drengurinn hafi frá því aðhann hóf leikskóla haustið 2014, þá rúmlega eins árs, sýnt ofbeldisfullahegðun. Ofbeldishegðun hjá svo ungum börnum bendi til að þau búi við erfiðaraðstæður eða einhvers konar röskun, s.s. ADHD eða skort á aga. Varnaraðili vísi til þess að rannsóknir og fræðiritsegi að foreldra, sem glími sjálfir við andlega vanlíðan eða geðræn vandamál,skorti þrek og áræðni til að setja börnum sínum mörk. Sóknaraðili eigi að bakiáfallasögu, m.a. um ofbeldi af hendi fyrri barnsföður, og grunur sé um að húnsé fórnarlamb mansals. Sóknaraðili hafi ekki unnið úr áfallasögu sinni og ígegnum vinnslu málsins hafi borið á þunglyndi og sjálfsvígshótunum. Eftir fæðingu D hafi hún einnig sýnt að húneigi í vandræðum með reiðistjórnun og hafi m.a. ráðist á barnsföður sinn. Synirsóknaraðila hafi brýna hagsmuni af því að fá að kynnast umhverfi þar sem þeirþurfi ekki að þola líkamlegt ofbeldi og afskiptaleysi. Varnaraðili bendi á þvítil stuðnings að eldri drengurinn hafi sýnt framfarir hvað varði bæði líðan oghegðun síðan hann hafi verið tekin úr umsjá móður. Yngri drengurinn dvelji hjáföðurömmu sinni sem frá því í febrúar hafi annast um hann á daginn meðansóknaraðili sæki vinnu. Báðum drengjunum líði vel þar sem þeir dvelja og njótireglulegrar umgengni við sóknaraðila. Mikilvægt sé að sóknaraðili gangist undirforsjárhæfnismat svo að hægt sé að greina vandann og veita henni viðeigandistuðning. Þau stuðningsúrræði sem reynd hafi verið, einkum Áttan sem sé úrræðiþar sem tilsjón og uppeldisráðgjöf sé veitt inni á heimili fjölskyldunnar, hafiekki skilað árangri. Eldra barnið segi sóknaraðila hafa beitt sig ofbeldi ogsóknaraðili hafi sjálf viðurkennt að hafa beitt líkamlegum refsingum og skiliðdrenginn, sem nú er þriggja ára, einan eftir heima. Máli sóknaraðila hafi verið lokað eftir 18 vikna vinnu hjáÁttunni vegna skorts á samstarfsvilja sóknaraðila. Samkvæmt lokaskýrslu séárangur af vinnu ráðgjafa með sóknaraðila lítill sem enginn. Í skýrslunni segiað sóknaraðili hafi almennt átt í erfiðleikum með að fara eftir leiðbeiningumstarfsmanns Áttunnar. Ráðgjafi telji að vanlíðan sóknaraðila sé það mikil aðþað aftri henni frá því að vera sonum sínum stuðningur og fyrirmynd.Varnaraðili hafi brugðist við þessu með því að bjóða sóknaraðila sálfræðiviðtölog að annar eftirlitsaðili með umgengni hafi jafnframt það hlutverk aðleiðbeina sóknaraðila um jákvæðar uppeldisaðferðir og efla forsjárhæfni hennar.Þá sé því hafnað af hálfu varnaraðila að meðalhófshafi ekki verið gætt í beitingu úrræða barnaverndarlaga. Gerðar hafi veriðfjórar meðferðaráætlanir með sóknaraðila þar sem lögð hafi verið áhersla ástuðning við móður og aðstoð varðandi húsnæðismál og dagvistun.Áttan-uppeldisráðgjöf hafi verið sett inn í málið, regluleg viðtöl hafi veriðvið félagsráðgjafa og heimsóknir á heimilið. Þá hafi verið mikið samstarf millivarnaraðila og leikskóla C og farið fram sálfræðilegt mat. Farið sé fram á vistun utan heimilis í allt að fjóramánuði eða á meðan móðir undirgengst forsjárhæfnismat. Á meðan á vistun standisé áfram reynt að vinna að því að styrkja móður í uppeldishlutverkinu ensóknaraðili hafi til þessa ekki sýnt samstarfsvilja og sýnt starfsmönnum ogöðrum fagaðilum kuldalegt viðmót og ókurteisi. Skýrslur eftirlitsaðila meðumgengni gefi til kynna að einnig þurfi að vinna með tilfinningaleg tengslsóknaraðila við syni hennar. Synir sóknaraðila hafi um nokkurt skeið búið viðóviðunandi heimilisaðstæður. Við vinnslu máls hafi borið á skorti á innsæi hjásóknaraðila og áhugaleysi við að tileinka sér aðferðir til þess að ná utan umeldri drenginn sérstaklega. Varnaraðili vísi til þess að líkamlegri- ogandlegri heilsu drengjanna sem og þroska þeirra sé hætta búin í umsjásóknaraðila. Nauðsynlegt sé að taka þá út úr þessum aðstæðum og leggja mat áhegðun þeirra og líðan í stöðugu umhverfi. Varnaraðila beri samkvæmt barnaverndarlögumað tryggja börnum stöðugleika og öryggi í uppeldi og í þeim tilgangi skulieftir föngum grípa til þeirra vægustu úrræða sem unnt sé. Gögn málsins sýni aðþau almennu stuðningsúrræði sem beitt hafi verið hafi ekki skilað tilætluðumárangri og að aðstæður þeirra hafi farið stigversnandi. Nauðsynlegt sé að grípainn í aðstæður. Vistun utan heimilis sé að mati varnaraðila nauðsynlegt úrræðitil að tryggja öryggi og velferð barnanna. Með vísan til 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga séuhagsmunir barnanna hafðir í fyrirrúmi. Varnaraðili telji það ekki samrýmasthagsmunum barnanna að búa áfram við þær aðstæður sem þau hafa búið við hjásóknaraðila þar sem þau þurfi að þola ofbeldi og tilfinningalega vanrækslu.Réttur barna til þess að njóta viðunandi uppeldis og umönnunarskilyrða skulivega þyngra en forsjárréttur foreldra. Þessi regla sé grundvallarregla ííslenskum barnarétti og endurspeglist í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland séaðili að. Hinu opinbera sé skylt að veita börnum þá vernd sem mælt sé fyrir umí 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Íslands, barnaverndarlögum og samningiSameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Um lagaheimild er vísað til 28. gr.barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ekki er krafist málskostnaðar úr hendisóknaraðila. Forsendur og niðurstaða. Í hinum kærða úrskurði varnaraðila er niðurstaðan byggð á þeim gögnumsem þegar liggja fyrir í málinu. Til viðbótar hefur komið fram, eftir aðúrskurðurinn var kveðinn upp, hvernigsamskipti sóknaraðila við börnin í umgengni hafi verið og framburðurhennar og vitnafyrir dóminum. Staðfest er afframburði vitnanna M, L og O að sóknaraðili ber ekki traust til starfsmannabarnaverndar og mótast afstaða sóknaraðila til málsins nokkuð af því. Þástaðfesti sóknaraðili það fyrir dóminum að hún beri ekki traust til þeirrastarfsmanna sem hafa komið inn á heimili hennar með aðstoð og haft eftirlit meðumgengni frá 7. mars sl. Fyrir liggur aðsóknaraðili var samvinnufús til samstarfs með starfsmönnum barnaverndar og umnýtingu þeirra úrræða sem henni voru lögð til í upphafi afskipta barnaverndaraf henni eftir að tilkynningar fóru að berast til varnaraðila. Hins vegar sýnagögn málsins og framburður vitna að samstarfið hafi síðan daprast og hallar þará sóknaraðila. Ósannað er að áverkar sem drengurinn C var með er hann kom íleikskólann 7. mars sl. hafi verið vegna ásetnings sóknaraðila um að beitadrenginn ofbeldi en sóknaraðili hefur hins vegar staðfest að sá áverki sé afhennar völdum. Þrátt fyrir þennan vafa verður að láta barnið njóta vafans en drengurinnsagði frá því að móðir hans hefði slegið hann og verið vond. Þá dregur dómurinntrúverðugleika vitnisins L um að sóknaraðili hafi sagt henni frá því að húnhafi skilið drenginn C, þá rúmlega tveggja ára, eftir einan heima er hún fór aðversla, ekki í efa þrátt fyrir neitun móður um það. Styður það framburðvitnisins að það tilkynnti þessa frásögn sóknaraðila strax til félagsráðgjafasem bar eins fyrir dóminum. Þá hefur sá framburður vitna að sóknaraðili loki C,þá innan við þriggja ára, einan inni í herbergi til að fara að sofa og sinnihonum ekki þrátt fyrir grát, og hótað honum rassskellingum hlýddi hann ekki,ekki verið hrakinn. Frásagnir starfsmanna um samskipti og framkomu sóknaraðilavið drengina í umgengni bera einnig með sér að sóknaraðili eigi við einhverskonar andlega og tilfinningalega erfiðleika að stríða sem birtist í hegðunhennar gagnvart starfsmönnum varnaraðila og vistforeldrum svo og afskiptaleysigagnvart drengjunum. Þá telur dómurinn framburð um ofbeldishneigð C, sem fariðhefur dvínandi eftir að hann fór í fóstur, benda sterklega til þess að þaðstafi að einhverju leyti af þeirri fyrirmynd sem hann hefur hann á heimilinueða af uppeldisskilyrðum sem honum hafa verið búin hjá móður. Menningarmunur,sem sóknaraðili ber fyrir sig, samrýmist ekki þeim gildum sem Ísland er bundiðaf í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnalögum nr. 76/2003, sbr. 1. gr.laganna, og 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Er ljóst að sóknaraðili þarf aðstoð og hjálptil að styrkja sig í foreldra- og uppeldishlutverkinu og nýta sér þá þjónustusem henni stendur til boða í þeim tilgangi frá varnaraðila. Telur dómurinn aðhún þurfi aðlögunartíma til þess og geti m.a. nýtt sér rúma umgengni viðdrengina til að byggja upp traust og virðingu fyrir sjálfri sér sem og öðrum íþeim tilgangi að geta sinnt drengjum sínum í anda barnaverndar-og barnalaga ení 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 segir að börn eigi rétt á vernd ogumönnun og að þau skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Í 2.mgr. segir að allir sem hafi uppeldi og umönnun barna með höndum skuli sýnaþeim virðingu og umhyggju og óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eðaannarri vanvirðandi háttsemi. Þá segir ennfremur að foreldrum beri að sýnabörnum sínum umhyggju og nærfærin og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börnsín svo sem best henti hag og þörfum þeirra. Þeim beri að búa börnum sínumviðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Í 1. gr.barnalaga nr. 76/2003 segir að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njótaverndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og ánmismunar af nokkru tagi. Óheimilt sé að beita barn hvers kyns ofbeldi eðaannarri vanvirðandi háttsemi. Þá segir ennfremur í 2. mgr. að það sem barni séfyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um málefniþess og í 3. mgr. segir að barn eigi rétt á að láta skoðanir sínar í ljós íöllum málum sem það varði og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess ísamræmi við aldur og þroska. Af málavöxtum þessamáls telur dómurinn að mikið vanti uppá hjá sóknaraðila svo hún teljist hafauppfyllt þessi grundvallar og lögbundin réttindi barnanna en úr því megi bætameð samvinnu hennar við barnaverndaryfirvöld og þær stofnanir og aðila sem komaað umönnun og uppeldi barna hennar. Sóknaraðili byggir áþví að meðalhófs hafi ekki verið gætt í máli þessu og vægari úrræðum hafi máttbeita áður en kom til þess að vista drengina utan heimilis. Af því sem aðframan er rakið telur dómurinn að sóknaraðila hafi verið veittur allur sástuðningur sem hægt var að því marki sem hún þáði sjálf en slíkur stuðningur erávallt háður því að gagnaðilinn vilji nýta sér hann og sé samstarfsfús. Svo varekki af hálfu sóknaraðila og var því fullreynt áður en drengirnir voru teknirúr umsjá sóknaraðila. Drengir sóknaraðila voru vistaðir utanheimilis með úrskurði varnaraðila 21. mars sl. í tvo mánuði. Sá tími er liðinnog hefur sóknaraðili ekki lengur hagsmuni af því að sá úrskurður verði felldurúr gildi. Verður kröfu sóknaraðila að þessu leyti því hafnað. Varnaraðili gerir þákröfu í greinargerð sinni og fyrir dóminum að drengirnir verði vistaðir í tvománuði til viðbótar þannig að vistun þeirra utan heimilis vari samtals í fjóramánuði. Er því mótmælt af sóknaraðila. Eins og máli þessu er háttað og með vísan tilþess sem að framan er rakið telur dómurinn skilyrði vera til staðar til að takakröfu varnaraðila til greina þannig að drengirnir verði vistaðir utan heimilisí tvo mánuði frá og með uppkvaðningu úrskurðar þessa. Verði sá tími einnignotaður til að gera forsjárhæfnismat á sóknaraðila en beiðni þess efnis vargerð 5. apríl sl. Að auki telur dómurinn nauðsyn að sóknaraðili og drengirnirhafi rúma umgengni á tímabilinu til að styrkja tengsl þeirra og samskipti. Varnaraðili gerirekki kröfu um málskostnað. Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 18. apríl 2016, var sóknaraðilaveitt gjafsókn til að bera undirhéraðsdóm úrskurð varnaraðila fyrir héraðsdómi,sbr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 2. mgr. 126. gr. laga nr.91/1991 um meðferð einkamála.Allurgjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Helgu VöluHelgadóttur héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 572.880 krónur aðmeðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði. Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður uppúrskurð þennan.ÚrskurðarorðKröfu sóknaraðila um að úrskurður B frá 21. mars sl. um að bræðurnir Cog D skuli vistaðir utan heimilis í allt að tvo mánuði frá 21. mars sl. verðifelldur úr gildi er hafnað. Kröfu varnaraðila, Bum að drengirnir skuli vistaðir utan heimilis í fjóra mánuði frá og með 21.mars sl. er tekin til greina. Allur gjafsóknarkostnaðursóknaraðila, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Helgu Völu Helgadótturhéraðsdómslögmanns, 572.880 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úrríkissjóði. |
Mál nr. 530/2012 | Kærumál Innsetningargerð Börn | Mál þetta, sem barst héraðsdómi 3. maí 2012, var tekið til úrskurðar 17. júlí 2012. Gerðarbeiðandi er M, kt. og heimilisfang [...]. Gerðarþoli er K, kt. og heimilisfang [...]. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júlí 2012, sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 2. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. júlí 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að drengurinn A, yrði tekinn úr umráðum varnaraðila og afhentur sóknaraðila með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreind krafa hans tekin til greina. Þá krefst hann „málskostnaðar“. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað varnaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 300.000 krónur. |
Mál nr. 247/2014 | Kærumál Hæfi dómara | Staðfestur varúrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X o.fl. um að héraðsdómari vikisæti í máli sem borið var undir héraðsdóm í tilefni haldlagningar gagna í eiguX o.fl. | Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, EiríkurTómasson og Helgi I. Jónsson. Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2014, sembarst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærðurer úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2014, þar sem hafnað var kröfuvarnaraðila um að dómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr.192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess aðhinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast þeirkærumálskostnaðar. Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður dæmist ekki. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 116/2001 | Akstur sviptur ökurétti | G var sakfelldur fyrir að hafa ekið án ökuréttar. Hafði G áður hlotið þrettán dóma og eitt skipti gengist undir lögreglustjórasátt fyrir akstur án ökuréttar. Með hliðsjón af sakarferli hans var honum gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms. Ákærði krefst þess að refsing samkvæmt héraðsdómi verði milduð. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1994 þrettán sinnum hlotið dóm og eitt skipti gengist undir lögreglustjórasátt fyrir akstur án ökuréttar. Í tíu tilvikum hafði ákærði einnig gerst sekur um önnur umferðarlagabrot. Með tilliti til þessa sakaferils þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Guðni Heiðar Richter, sæti fangelsi í þrjá mánuði. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur. Ár 2001, þriðjudaginn 6. febrúar er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 56/2001: Ákæruvaldið gegn Guðna Heiðari Richter, en málið var dómtekið 25. janúar sl. á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991. Málið er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík 16. janúar sl. á hendur ákærða, Guðna Heiðari Richter, kt. 250477-5119, Skaftahlíð 20, Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni JP-040, að morgni laugardagsins 23. desember 2000, sviptur ökurétti frá Síðumúla í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Bæjarhálsi, við Hraunbæ. Þetta telst varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við önnur gögn málsins, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um það brot, sem honum er að sök gefið í ákæru og þar er rétt heimfært til refsiákvæða. Ákærði hefur hlotið 18 refsidóma frá árinu 1994, þar af 13 fyrir að aka sviptur ökurétti. Þann 7. febrúar 1996 var ákærði í fyrsta sinn sviptur ökurétti og þá í eitt ár frá 15. janúar 1996 vegna ölvunaraksturs. Þann 24. maí sama ár var hann á ný dæmdur vegna sama brots auk réttindaleysis vegna aksturs og var hann sviptur ökurétti í 1 ár frá 15. janúar 1997. Í desember 1997 var hann enn dæmdur fyrir sams konar brot og í maí árið áður og var nú sviptur ökurétti í 2 ár frá 15. janúar 1998. Í janúar 1998 var hann dæmdur til greiðslu 93.000 króna sektar fyrir að aka sviptur ökurétti. Ákærði var dæmdur á ný 20. febrúar 1998 í 30 daga varðhald og sviptur ökurétti í 3 ár frá 20. febrúar 1998, enn fyrir ölvun og akstur sviptur ökurétti. Í fimm tilvikanna var um hegningarauka að ræða og þess getið í dómunum að undanskildum dóminum frá 20. september 1999. Í þessum 8 dómum var ákærði sakfelldur fyrir að aka sviptur ökurétti í 17 skipti. Brot ákærða sem hér er til meðferðar var framið 23. desember, eða rúmum 5 vikum eftir að hann var dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir sams konar brot. Brot hans nú er hins vegar framið sex dögum áður en hann hlaut síðasta dóm, 23. desember sl., fyrir sams konar brot, en ákærða var þá ekki dæmd refsing þar sem um hegningarauka var að ræða við fimm mánaða dóminn. Ljóst er af þessu og sakavottorði ákærða að brotavilji ákærða er harður og hann hefur linnulítið ekið sviptur ökurétti frá þeim tíma er hann var fyrst sviptur ökurétti árið 1996. Með hliðsjón af framansögðu og vísað til 5. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Ákærði er dæmdur til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur. Sækjandi málsins var Sturla Þórðarson fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík. D ó m s o r ð: Ákærði, Guðni Heiðar Richter, sæti fangelsi í 6 mánuði. Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur. |
Mál nr. 100/2013 | Kærumál Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 | Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hennar, þó eigi lengur en til föstudagsins 8. mars 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Varnaraðili var ákærð 5. febrúar 2013 fyrir sex þjófnaðarbrot, nytjastuld og umferðarlagabrot. Í ákæru er fyrsta brotið sagt hafa verið framið í ágúst 2012 en önnur brot í nóvember og desember sama ár. Þá eru til rannsóknar hjá lögreglu nokkur mál til viðbótar þar sem varnaraðili er undir rökstuddum grun um þjófnaðarbrot, líkamsárás, brot gegn valdstjórninni og umferðarlagabrot á tímabilinu frá september 2012 til janúar 2013. Að auki er til þess að líta að varnaraðili var 7. desember 2011 dæmd til átta mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnaðarbrot. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. |
Mál nr. 224/2003 | Kærumál Barnavernd Vistun barns Gjafsókn | Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem barnaverndarnefnd var heimilað að vista A, son M og K, á meðferðarheimili. | Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2003, þar sem sóknaraðila var heimilað að vista A, son varnaraðilanna, á meðferðarheimili til 21. ágúst 2003. Kæruheimild er í 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að vista áðurnefnt barn utan heimilis varnaraðila allt til 21. janúar 2004. Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt á báðum dómstigum. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að sóknaraðila sé heimilt að vista áðurnefndan son varnaraðila á meðferðarheimili til 21. ágúst 2003. Fyrir héraðsdómi gerðu varnaraðilar meðal annars kröfu um að sóknaraðila yrði gert að greiða sér málskostnað. Til þeirrar kröfu var ekki tekin afstaða með hinum kærða úrskurði. Þrátt fyrir það eru ekki næg efni til að ómerkja úrskurðinn, heldur verður ákvörðun tekin með dómi þessum um málskostnað í héraði. Rétt er að hann falli niður ásamt kærumálskostnaði. Samkvæmt 61. gr., sbr. 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga áttu varnaraðilar rétt á gjafsókn vegna málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Varnaraðilar gættu þess ekki fyrir héraðsdómi að leita á grundvelli þessarar heimildar eftir því að dómsmálaráðherra veitti þeim gjafsókn eftir almennum reglum XX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem nauðsyn bar til, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 27. september 2001 í máli nr. 102/2001. Úr því hefur á hinn bóginn verið bætt undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti með því að dómsmálaráðherra hefur nú veitt varnaraðilum gjafsókn á báðum dómstigum. Fer um gjafsóknarkostnað varnaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, en þess er að gæta að þau hafa ekki leitað hér fyrir dómi eftir endurskoðun á ákvörðun málflutningsþóknunar lögmannsins, sem fór með málið fyrir þau í héraði. Í þinghaldi í héraði 2. maí 2003 skipaði héraðsdómari Örn Clausen hæstaréttarlögmann til að gegna starfi talsmanns áðurnefnds sonar varnaraðila undir rekstri málsins. Ekki var stoð í ákvæðum barnaverndarlaga fyrir þessari skipun, sem héraðsdómari studdi í senn við lögjöfnun frá 3. mgr. 25. gr. þeirra laga og 5. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992. Samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns, sem dómari getur skipað barni til að gæta hagsmuna þess við rekstur forsjármáls. Þótt lögjöfnun frá þessum ákvæðum geti ekki réttilega átt við í máli sem þessu, er óhjákvæmilegt úr því sem komið er að kostnaður af starfi talsmannsins verði greiddur úr ríkissjóði, svo sem ráðgert er í áðurnefndri 5. mgr. 34. gr. barnalaga. Verður fjárhæð þóknunarinnar, sem héraðsdómari ákvað handa talsmanninum með hinum kærða úrskurði, látin standa óröskuð, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur að því er varðar heimild sóknaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, til að vista A á meðferðarheimili allt til 21. ágúst 2003. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, M og K, í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra fyrir héraðsdómi, 70.000 krónur, og lögmanns þeirra fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur. Þóknun talsmanns A, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, vegna meðferð málsins fyrir héraðsdómi, 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. |